Tag Archive for: Húshólmi

Húshólmi

Gengið var um Ögmundarstíg, sem reyndar Hlínarvegur hefur verið lagður yfir, framhjá Ögmundardys, niður með Latsfjalli og um stíg suðaustur inn í Ögmundarhraun, áleiðis að Óbrennishólma, en þangað var ferðinni heitið. Staldrað var við í Óbrennishólma, kíkt á garðinn, sem hraunið (1151) stöðvaðist við, óskilgreinda tóft og fjárborgina fornu.

Brúnavörður

Brúnavörður.

Þá var haldið um stíg yfir hraunlænu yfir á annan forgengilegri að Brúnavörðum. Frá þeim var stefnan tekin að Húshólma. Að hluta til er sá stígur flóraður eftir handrbragð sonar Krýsuvíkur-Gvendar o.fl. frá því um miðja 19. öld. Minjarnar í Húshólma; Kirkjulág, Kirkjuflöt og víðar voru skoðaðar og ályktaðaðar. Þá voru hinir fornu garðar í hólmanum skoðaðir. Að endiningu var stígurinn ofan við ströndina fetaður austur fyrir hraunkantinn og þaðan gengið að upphafsstað.
Í þjóðsögunni um Ögmundarstíg, sem Brynjúlfur Jónsson frá Minna-Núpi tók saman um aldarmótin 1900 segir m.a.:
„Krýsuvík var fyrst byggð niður við sjó fyrir utan Krýsuvíkurberg en lagðist svo af að eldur kom upp í fjöllunum þar norður frá og runnu hraunkvíslar hér og þar fram milli hálsanna. Hin austasta var einna mest. Smalamaður frá Krýsuvík var kippkorn frá bænum með féð. Hann sá glóandi hraunleðjuna brjótast með feikna hraða ofan úr skarðinu upp frá bænum og fleygjast út yfir láglendið. Hann sá sér enga von til undankomu og beið með fjárhópinn þess er að höndum kæmi og fól sig guði; því hefir þetta skeð í kristni. Eldflóðið fór allt í kringum hann og sakaði hvorki hann né féð nema eina á. Það heitir síðan Óbrennishólmi er hann var.

Húshólmi

Fjárborg í Húshólma.

Hraunið hljóp um allt láglendið og fram í sjó en túnið í Krýsuvík stóð óskaddað og bærinn. En nálega var ófært þangað þegar hraunið var storknað. Þá var bærinn fluttur þangað sem Krýsuvík er nú, það er ofar og austnorðar. Þegar eldgangurinn var afstaðinn og hraunin storknuð, fóru menn að leggja veg til Grindavíkur yfir þau og urðu öll rudd að þessu austasta fráteknu. Það var svo stórgert og hart að það var óvinnandi og varð ekki veginum komið á.
Ögmundur var berserkur. Er hann sagður hafa lagt veginn yfir hraunið en verið drepinn að verki loknu. Grjóthrúga er þar við götuna sem kallað er leiði Ögmundar. Vegurinn gegnum hraunið er djúpur og mjór og víða brotinn eða höggvinn gegnum stór hraunstykki en víða þrepóttur í botninn sem hin gamla staka segir:

Eru í hrauni Ögmundar
ótal margir þröskuldar,
fáka meiða fæturnar
og fyrir oss brjóta skeifurnar.

Húshólmi

Húshólmastígur um Ögmundarhraun.

Síðan hefir hraunið heitið Ögmundarhraun. Þar sem áður var bærinn Krýsuvík, heitir nú Húshólmi. Þar er vatnsskortur oftast. Litlar menjar kvað sjást þar af tóftum, en þó nokkrar.“
Stefnan var tekin á Ögmundarstíg í Ögmundarhrauni. Ætlunin var að skoða dys Ögmundar og halda síðan um Ögmundarhraun. Gamla gatan sést grópuð í harða hraunhelluna skammt austan hraunkantsins. Þá er Ögmundarstígur hinn forni nú einungis greinilegur á stuttum kafla við austurjaðar hraunsins. Hann liggur þar í vinkilbeygju og er dysin í beygjunni. Miðja vegu á Hlínarvegi má, ef vel er að gáð, sjá hinn gamla stíg grópaða í klöppina. Ofaníburður vegarins hefur fokið á brott og gamli stígurinn komið í ljós á nokkurra metra kafla. Jón Guðmundsson frá Ísólfsskála, einn þeirra er tók þátt í lagningu Hlínarvegar, sagði reyndar í viðtali við FERLIR að þeir hefðu lagt veginn ofan á Ögmundarstíg og ef yfirborð hans væri fjarlægt mætti vel greina stíginn þar sem hann var víða svo djúpt grópaður í klöppina að gengið hafði verið niður úr henni. Þess vegna hafi framangreind vísa verið kveðin.

Húshólmi

Brúnavörðustígur.

Gengið var frá Ísólfsskálavegi til suðurs austan við Latfjall. Grábrúnn refur fylgdist með göngufólkinu, en hann hafði þó meiri áhuga á fílnum í fjallinu.
Gengið er yfir úfið mosahraun og inn á stíg er liggur áfram til suðausturs austan við Latstöglin. Þar er stutt hraunhaft, sem fara þarf yfir á stíg, og þá blasir Óbrennishólmi við. Gengið var til austurs norðan hólmans, að hinu forna garðlagi, sem þar er og hraunið hafði runnið að árið 1151.
Á hæð í sunnanverðum hólmanum er nokkuð stór fjárborg (8-9 m að innanmáli). Líklegra er þó að þarna hafi verið virki þeirra er fyrst námu land við hina fornu Krýsuvík. Enn sést vel móta fyrir hringnum. Erfitt er að mynda hringinn vegna afstöðu hans á hólnum, auk þess sem hann er orðinn að mestu jarðlægur. Skammt austan hennar, nær hraunkantinum, er önnur minni fjárborg. Einnig gæti þarna hafa verið um topphlaðið hús að ræða að forni fyrirmynd. Sunnan tóttarinnar er rétt eða gerði inni í hraunkraga. Hlaðið er framan við kragann, en þær hleðslur virðast vera nýrri en t.d. fjárborgirnar. Efst í hólmanum norðaustanverðum (fara þarf yfir mosahraun á kafla) er hlaðinn garður, sem hraunið hefur stöðvast við. Vel sést móta fyrir hleðslunum á nokkrum stöðum.
Garðurinn endar í króg skammt neðar. Þar gæti einnig hafa verið fjárbyrgi og að neðsta hleðslan sé hluti þess.
Vestan við stóru fjárborgina liggur gróinn og nokkuð jarðlægur garður undan hraunkantinum, upp með dragi og áfram upp í hólmann. Hér virðist vera um mjög fornan garð að ræða. Hann eyðist nokkru ofar, en þó má enn sjá móta fyrir honum ofan við miðjan hólmann, en þá hefur hann breytt lítillega um stefnu skammt, neðan við eldri hraunkant í miðjum hólmanum. Garðurinn virðist vera með samskonar lagi og garðarnir í Húshólma.

Ögmundarstígur

Ögmundarstígur.

Ögmundarhraun, sem umlykur Óbrennishólma, kom úr gígaröðum austan í Vesturhálsi (Núpshlíðarhálsi). Það hefur runnið til suðurs á milli Latfjalls og Krýsuvíkur-Mælifells – allt niður í sjó – og gjörbreytt ströndinni. Hefur hraunið runnið yfir bæ, eða bæi, og önnur mannvirki sem þarna voru. Óbrennishólmi og Húshólmi hafa þá væntanlega staðið hátt í landinu, en hraunið runnið með hlíðum og lægðum. Eldra hraunið inni í Óbrennishólma og Húshólma hefu runnið áður en Ögmundarhraun rann. Virðist það hafa komið úr gígaröð suðaustur af Krýsuvíkur-Mælifelli. Jón Jónsson, jarðfræðingur, sagði einn gíginn þar, einn þann merkilegasta hér á landi, en sá hefur nú að mestu verið eyðilagður vegna efnistöku.
Sagnir eru til um að á þessu svæði hafi verið blómleg byggð áður en Ögmundarhraun rann um 1150. Ströndin hafi verið lík og nú er á Selatöngum, neðan við Húshólma og við Skála. Þar hafi verið góð lending og kjörstaða, bæði til lands og sjávar.
Brynjúlfur lýsir Húshólma í grein er birtist í Árbók hins ísl. fornleifafélags 1903: “Krýsuvík hefir til forna staðið niðurundir sjó fyrir vestan endann á Krýsuvíkurbjargi. Nafnið Krýsuvík bendir á það. Engum hefir dottið í hug að kenna bæinn við vík, ef hann hefði fyrst verið settur þar sem hann er nú. En þar sem hann stóð fyrst hefir þetta átt við og svo hefir nafnið haldist er hann var fluttur. Hraunflóð það, sem á sínum stað er nefnt Ögmundarhraun, hefir eyðilagt hinn forna bæ. Sjást þess glögg merki. Þá er hraunflóðið er komið ofan fyrir hálsana, breiðir það sig um undirlendið vestur að Ísólfsskála, sem nú er austasti bær í Grindavík. Er þar hvergi auður blettur nema aðeins tveir hólmar austantil í hrauninu. Heitir hinn vestari Óbrennishólmi. Hann er kippkorn frá sjó, austantil niðurundir múla þeim í hálsinum, sem Núpshlíð heitir. Eystri hólminn heitir Húshólmi. Hann er niður við sjó skammt fyrir vestan bergið. Er hraunkvíslin fyrir austan hann tiltölulega mjó. En runnið hefir hún fram í sjó fyrir austan hann, og það hefir aðalflóðið einnig gjört fyrir vestan hann, hafa svo runnið saman í fjörunni fyrir framan hann, og sést sjávarkamburinn innanvið hraunið á nokkrum parti neðst í hólmanum. Að ofanverðu er hólminn hærri. Þar virðist hafa verið hæð, sem hraunið hefir flotið fram á og klofnað um. Svo lækkar hann allt í einu, en breikkar þó um leið austur á við, en að vestan gengur hraunið þar heldur inn í hann. Þar undir hraunjarðrinum kemur forn túngarður, er liggur kringum allstórt svæði, en hverfur aftur í hraunið niðurfrá eigi langt frá vesturenda sjávarkambsins, sem nú var getið.

Óbrennishólmi

Garðar í Óbrennishólma.

Annar garður kemur undan hraunjarðrinum nokkru neðar en hinn og stenfnir í suðaustur. Hann beygist suður á við og gengur gegnum hinn fyrri garð skammt fyrir ofan sjávarkambinn. Er þar hlið á hinum fyrra. Svo heldur þessi síðartaldi áfram að sjávarkambinum og hverfur þar. En þar sem gata sé rudd gegnum kambinn, líklega sjávargata; er eigi allbrimsamt og mun hafa verið útræði.
Fyrir neðan þennan síðartalda garð verður afhallandi brekka ofan að neðri hraunjarðrinum. Liggur þriðji garðurinn þar ofan frá neðra garðinum og neðra hraunjarðrinum og hverfur undir hann. Þannig sér hér á 4 aðskilfar girðingar, er allar hverfa að meiru eða minna leyti undir hraun. Engin tóft sést í neinni þessari girðingu, svo að, ef sín girðing hefir tilheyrt hverju býli, þá eru tóftir þeirra býla hrauni byrgðar. Vestur úr útsuður horni hólmans gengur graslág milli tveggja hraunjarða. Er hún eigi breiðari en svo, að eigi má ríða 2 hestum samsíða. Þegar samt er komið vestur í hraunið, kvíslast hún í tvær lágar. Þær heita kirkjulágar. Þar eru rústir. Verður fyrst fyrir tóft, sem snýr frá sutri til vesturs, nál. 4 fðm. Löng og 2 fðm. Breið. Dyr eru á vesturenda, jafnvíðar og tóftin sjálf. Mun þar hafa verið bil fyrir. Norðanmegin við þessa tóft, tæplega 2 fðm. Frá henni, er garður, sem beygist austur fyrir hana og hverfur þar undir hraunið, en að vestan endan hann í tóftarvegg. Er sú tóft fyrir fyrir dyrum hinnar, nálægt jafnstór henni og liggur frá norðri til suðurs. Dyr hennar hverfa undir hraunjarðarinn að sunnanverðu.

Latfjall

Latfjall – gengið í Óbrennishólma.

Vestan við hana dýpkar lágin að mun, en þar er ekki víðari en svari tóftarvídd. Sé það tóft, hefir þar líklega verið kjallari, en hleðslan er hrunin. Frá norðausturhorni þvertóftarinnar gengur garður eftir norðurláginni, fyrst beint í norður nál. 12 fðm., svo beint í vestur nær eins langt og hverfur svo í hraunið. Utanmeð þessum garði er svo sem gangrúm hraunlaust, og er það norðurkvísl Kirkjuláganna. Lútur út fyrir, að hér hafi hraunið sigið að með hægð frá báðum hliðum. Svo sem 40 fðm. Norðar í hrauninu er auður vesturhluti rústar, sem auðsjáanlega er bæjarrúst. Hefir hún verið þrískipt. Miðtóftin snýr frá norðri til suðurs og hefir dyr á suðurenda og aðrar á vesturveggnum, inn í vesturtóftina. Inn af miðtóftinni virðist og hús hafa verið, sem er hrauni hulið allt að kalla. Miðtóftin nál. 2 ½ fðm. Löng og 1 ½ fðm. víð. Vesturtóftin er jafnvíð og hin er löng, nfl. 2 ½ fðm., en nál. 5 fðm. á lengd. Hún er merkileg að því, aðmeð báðum veggjum, eftir henni endilangri, er 1 al. Breið set eða rúmstæði og markar glöggt fyrir veggjunum þar utanvið. Austasta tóftin er nær öll hrauni hulin. Þó sýnist sem útidyr hafi verið á henni fyrir austan útidyr miðtóftarinnar. Hvergi er hraunlaus blettur kirngum þessa rúst, og ekki verður komist að henni nema á hrauni.
Nafnið Kirkjulágar bendir á, að hér hafi kirkjustaðurinn Krýsuvík verið. Getur vel verið, að tóftin í syðri láginni, sem fyrst var talin, sé einmitt kirkjutóftin. Hefir heimabærinn þá víst verið þar líka. Rústin uppi í hrauninu er þó ekki eftir smákot. Hygg eg að heimabæir hafi verið tveir, Efribær og Fremribær, og kirkjan hafi verið hjá Fermri-bænum. Eftir afstöðu að dæma, hafa girðingarnar, sem fyr getur, eigi verið tún þessara bæja, heldur annara afbýla, sem þá eru hulin hrauni. Og hver veit hve mörg býli þar kunna að vera horfin?”

Húshólmi

Skáli í Húshólma.

Gengið var um stíg niður úr Óbrennishólma og Brúnunum síðan fylgt til suðausturs uns komið var að svonefndum Brúnavörðum. Þær eru tvær, mið af sjó, sennilega á Mælifell. Skammt ofan varðanna liggur handgerður stígur. Talið er að hann hafi verið gerður af syni Krýsuvíkur-Gvendar um miðja 19. öld ásamt nokkrum öðrum frá Krýsuvík. Þeir hafa byjað verkið við Kirkjulágar vestan við Húshólma og farið langleiðina að Brúnum, en þó ekki alla leið. Eitthvað hefur komið í veg fyrir að þeir kláruðu verkið. Stígurinn er fallega flóraður og greinilega vandað til verks. Líklegt má telja að þarna hafi átt að leggja stíg yfir á götuna undir Brúnunum og áfram yfir að Selatöngum, í stað stígs er stjórinn hafði tekið og lá rétt ofan við ströndina austan Húshólma, en hraunið þar er mjög erfitt yfirferðar.
Troðinn slóði liggur frá Brúnavörðum austur í hraunið og ef tekið er mið af vörðum og ummmerkjum má vel feta hann að stígsendanum. Á honum er gatan síðan greið í Húshólma.
Byrjað var á að skoða skálatóftirnar ofan við Kirkjulágar, síðan kirkjutóftina, garðana og mögulegan grafreit. Alls er um að ræða þrjár skálatóftir við Húshólma, auk kirkjutóftarinnar. Rifjuð var upp saga Húshólma jafnframt því sem reynt að gera sér í hugarlund hvernig umhorfs hafi verið þarna um það leiti er fólk settist þar að, við grunna vík – Krýsuvík, en krýsa er einmitt gamalt orð fyrir grunna skoru (í ask) eða vík.
Haldið var út úr hólmanum til austurs eftir strandstíg með útsýni yfir að Krýsuvíkurbjargi. Á leiðinni var rifjuð upp sagan af Tyrkjunum er komu þar að og héldu í átt að Krýsuvíkurkirkju, þar sem þeir mættu Eiríki galdrapresti frá Vogsósum og þar með örlögum sínum.
Í tölum talið var gangan tæpir 12 km. Gengið var í u.þ.b. þrjár klst, en leiðsögn og -lestur um svæðið tók nálægt tveimur klst.
Frábært veður.

Heimildir m.a.:
-Brynjúlfur Jónsson – Lýsing… (1902).
-Úr Árbók Hins ísl. fornleifafélags 1903 – Brynjúlfur Jónsson.

Húshólmi

Vegvísir Húshólma.

 

Húshólmi

Gengið var inn í Ögmundarhraun neðan við Krýsuvíkur-Mælifell. Þar liggur gata niður í gegnum slétta hraunlænu milli úfinna apalhryggja, alveg niður í Húshólma. Tvö stutt höft eru á stígnum þar sem fara þarf í gegnum úfið hraun. Ætlunin var að skoða Mælifellsgrenin, grenjaskyttubyrgin, arnarhreiðrið í Ögmundarhrauni og garðlag, sem nýlega var komið auga á inni í Húshólma.

Mælifellsgreni

Skjól refaskyttu við Mælifellsgreni.

Ögmundarhraun er hraunbreiða fyrir vestan Krýsuvík suður af Núpshlíðarhálsi. Það er vestasti hluti þeirrar hraunbreiðu, sem á uppdráttum er nefnt Ögmundarhraun, en er þó af öðrum toga spunnið. Það nær vestur undir Ísólfsskála; Skollahraun, stundum nefnt Höfðahraun, því það rann úr gígnum Höfða (2000-3000 ára gamalt). Annað hraunlag rann úr Moshól þar skammt austar. Ögmundarhraun er runnið 1151 frá norðurhluta gígaraðar austan Núpshlíðarhálsi og hefur meginhraunflóðið fallið Latsfjalls og Krýsuvíkur-Mælifells og allt suður í sjó og langleiðina austur undir Krýsuvíkurbergs. Það er úfið á köflum, en þó má finna í því mjög aðgengilegar lænur, sem auðvelt er að fylgja um hraunið. Grámosinn (gamburmosinn) er ráðandi í hrauninu. Sumsstaðar er hann svo þykkur að það getur verið erfiðleikum háð fyrir óvana að ösla hann upp á leggi. Þess vegna koma hinir gömlu stígar í góðar þarfir.
Mælifellsgrenin eru á tveimur stöðum; efra og neðra. Við efri grenin er hlaðið byrgi fyrir refaskyttuna. Varða er skammt austan við grenin og önnur enn austar. Milli hennar og lítillar vörðu á austustu hraunbrúninni ofan við stórt gróið gerði í hraunkantinum er hálffallin varða. Gróinn stígur liggur frá brúninni yfir að grenjunum. Við neðri grenin eru fleiri byrgi, en minni. Þar er einnig áberandi varða. Grenin eru í nokkuð sléttu helluhrauni.
Haldið var áfram niður stíginn uns komið var að fornu arnarvarpi; Arnarþúfu. Hreiðrið, sem er gróið, stendur á háum ílöngum hraunhól. Frá því hefur verið gott útsýni yfir svo til allt hraunið milli Lats og Borgarhóls. A.m.k. fimm þekkt arnarvörp eru þekkt á Reykjanesi. Líklegt má telja að örninn leiti í þau á ný ef og þegar hann snýr aftur á Reykjanesskagann.

Arnarþúfa

Arnarþúfa á Arnarhól í Ögmundarhrauni.

Þegar komið var niður hraunbrúnirnar ofan við Húshólma virtist stígurinn hverfa framundan, en hann beygir í um 90° til austurs, yfir hraunhaft og inn í lítinn gróinn hólma ofan við Húshólma. Úr hinum liggur gróinn stígur inn í norðvestanverðan hólmann.
Kíkt var á garðana stóru í Húshólma og reynt að meta afstöðu þeirra hvort til annars. Þá var syðri garðinum fylgt til suðausturs. Út frá honum til austurs liggur garður í stóran sveig upp í hólmann. Gróðureyðingin í hólmanum hefur skemmt hann að hluta og svo virðist sem hún sæki enn freklegar að því sem eftir er.
Sjá má móta fyrir hleðslunum á nokkrum stöðum. Þá er hann enn gróinn á kafla. Garður þessi liggur í sveig upp í hólmann, til norðurs og beygir síðan til norðvesturs, að efri garðinum, sem þar kemur undan hrauninu að vestanverðu. Þarna er kominn garðurinn, sem Brynjúlfur Jónsson frá Minna-Núpi, dró á uppdrátt sinn og birti í Árbók Hins íslenska fornleifafélags árið 1901. Brynjúlfur dró garðinn syðst í gegnum þann syðri, en allt bendir til þess að garðurinn hafi einungis legið að honum. Þarna hefur verið að ræða nokkuð mikla hleðslu á kafla, þ.e. næst hinni gömlu strönd, en ofar hefur garðurinn að mestu verið úr torfi. Hann hverfur að hluta norðaustast í hólmanum þar sem gróðureyðingin er mest á milli gróðurtorfa og b

endir það einkum til þess að þar hafi garðurinn verið að langmestu leyti úr torfi.

Húshólmastígur

Gatan frá Mælifelli í Húshólma.

Nú loksins hefur skapast grundvöllur til að ljúka uppdráttardrögum af minjasvæðinu í og við Húshólma. Uppdrátturinn mun birtast í væntanlegum bæklingi Ferðamálafélags Grindavíkur um Húshólma, sögu hans og minjum.
Húshólminn var gaumgæfður enn frekar. Ljóst er að í honum kunna enn að leynast ófundnar minjar. Mikilvægt er að fara yfir hann vel og vandlega með tilliti til þessa. Vel á minnst; þjófurinn sem tók stunguskólfuna með sér úr hólmanum nú í vor losnar vonandi ekki við hikstann.
Mosahraunssvæðið norðvestan við Húshólma var skoðað. Stígur liggur inn í hringlaga slétt mosavaxið svæði, en óvíst er hvort eða til hvers það mun hafa verið notað. Upp frá því liggur gata norður í hraunið, áleiðis að fyrrnefndu götunni í gegnum slétt hraunið ofantil.

Húshólmi

Gengið í Húshólma.

Ögmundarhraun er ekki gersneytt dýralífi þótt rollan hafi fært sig inn í afmarkað beitarhólf austan þess. Talsvert var af rjúpu í hrauninu og skolli var heldur ekki langt undan.
Gengið var upp hraunið vestan Húshólma með Krýsuvíkur-Mælifell í forgrunni. Kíkt var aftur á arnarhreiðrið forna og komið aftur við í neðri Mælifellsgrenjunum, svona til að kanna með hugsanleg afdrep grenjaskyttunnar. Þar við eru nokkrir reglulegir skútar og ekki er ólíklegt að þar hafi menn getað hvílst á með á yfirlegunni stóð.
Þegar gengið er um svæði sem að framan greinir og skoðaðir eru tilgreindir staðir er ekki laust við að viðkomandi fyllist stolti og ánægju yfir því að hafa vilja til og getu að komast þangað. Allt of margir eru því marki brenndir að sitja heima, reykja sínar sigarrettur, drekka sitt kaffi og hafa ekki dug í sér til að komast spönn frá rassi – nema kannski í bíl.
Á forleiðinni hafði Krýsuvíkurréttin undir sunnanverðu Bæjarfelli verið skoðuð, en í bakaleiðinni var komið við í Méltunnuklifi og Festarfjall barið augum frá Hraunssandi.

 

/https://ferlir.is/ogmundarhraun-brunavordur-stigur-husholmi-minjar/

Húshólmi

Haldið var sem leið lá í gegnum Grindavík með stefnu á Húshólma í Ögmundarhrauni. Staðurinn er einstakur í sinni röð; fornar tóftir, garðar, borg, grafreitur og fleira frá upphafi Íslandsbyggðar. Upplifunin við að heimsækja

Húshólmi

Gengið í Húshólma.

Húshólma er slík að sérhver, sem það gerir, gleymir henni ekki svo glatt. Þarna er t.d. forn skáli, sem Ögmundarhraun umlukti um 1151, tveir aðrir skálar, sem hraunið hlífði að öllu leyti og að hluta, tóft kirkju að talið er, mikil garðlög og hringlaga gerði á svonefndri Kirkjuflöt.
Með í för voru m.a. Sigríður Anna Þórðardóttir, umhverfisráðherra, og hinn fornfálegi og jafnframt frábæri söngvari Rúnar Júlíusson, auk Alberts Albertssonar, aðstoðarforstjóra Hitaveitu Suðurnesja. Sigríður, sem Matti Matt kallaði á sínum tíma „hina landlausu“ í byrjun stjórnmálaferils hennar á Reykjanesi, gerði sig vel heimankomna á Skaganum og ljóst er að hún er komin til vera. Rúnar söng nokkur lög eftir hann, bæði gömul og glæný af nýjum geisladisk, sem hann var að gefa út, sextugur maðurinn.
Þá hélt bæjarstjóri Grindvíkinga, Ólafur Örn Ólafsson, tölu þar sem hann minnti þátttakendur á eignarhald Húshólmans, möguleika Reykjanessvæðisins og áhuga þeirra á nýtingu þess til framtíðar.
Fram hafði komið í forystugrein Fréttablaðsins þennan dag að sá stórkostlegi árangur hafði náðst að loka allt sauðfé á fæti inni í afmörkuðu beitarhólfi og stóra skrefið framundan væri að nýta það sem eftir væri til útivistar og ferðamennsku, en ljóst væri að það gæfi stórkostlega möguleika í þeim efnum af mörgum ástæðum.
Gengið var eftir Húshólmastíg inn í hólmann, staðnæmst við austasta garðinn, sem hlaðinn er að mestu úr torfi. Þó má sjá á kafla neðstu steinröðina er notuð var til að leggja línu garðsins.
Vestast rann hraunið að garðinum og haffærði hann. Næsti garður er skammt suðvestar; einnig torfgarður. Þar má sjá hvernig hraunið

Húshólmi

Boðið upp á veitingar – kaffi og kleinur.

hefur brennt hluta garðsins og skilið eftir far eftir hann. Vestan við Húshólmann sjálfan eru fyrrnefndar tóftir. Vel má ímynda sér hvernig umhorfs hefur verið þarna áður en hraunið rann. Falleg vík, væntanlega hin forna Krýsuvík, hefur legið þarna inn í landið, langleiðina upp á hinum gömlu sjávarhömrum suðaustan í Núpshlíðarhálsi. Byggðin, sem minjarnar eru frá, hefur staðið ofan við víkina, sennilega nokkuð ofarlega. Hraunið hefur runnið yfir talsverðan hluta byggðarinnar, en þyrmt því sem eftir stendur. Nú standa þær eftir sem áþreifanleg ábending um skoðun. Þær tala til þess er þarna stendur og biðja um að lesin verði úr þeim þau skilaboð sem þær fela í sér. Minjarnar vilja segja sögu þeirra tíma, upplýsa um til hvers þær voru notaðar og hugsanlega hvaða fólk bjó þar og hrærðist. Hraunið hefði ekki hlíft þessum minjum til einskis.

Minjarnar í Óbrennishólma þarna skammt vestar geta sagt sömu sögu, eða a.m.k. styrkt þá sögu sem Húshólminn hefur að segja.
Í hvert sinn sem komið er í Húshólma ber alltaf „nýtt“ fyrir augu. Að þessu sinni opinberaðist enn einn garðurinn, sem gaumgæfa þarf. Það kostar a.m.k. þá fyrirhöfn að breyta þarf fyrra uppkasti af svæðinu og gera nýtt.

Húshólmi

Ferðanefndin með ráðherra.

Þegar flogið var yfir Húshólmasvæðið fyrir skömmu mátti vel sjá hvernig garðarnir hafa legið. Flugið gaf ágætt yfirlit af svæðinu. Nú er verið að vinna úr þeim gögnum.
Þjófur hefur verið á ferli í Húshólma. FERLIR skildi þar fyrir stuttu eftir netta stunguskóflu undir barði, en nú er hún horfin. Líklega hefur sá, sem hana tók, ekki áttað sig á því að skóflan var þarna og átti að nýtast öðrum en honum.
Hvað um það – skoðun Húshólmans heldur áfram og án efa eiga eftir, við nánari leit, að koma í ljós enn fleiri minjar, sem vert verður að rannsaka – síðar meir.
Þegar staðnæmst var í hólmanum mátti, ef vel var að gáð, sjá Tanga-Tómas spranga um á hraunás vestan hans, í átt að Selatöngum.
Í hraunskjóli suðaustast í Húshólma var gengið fram á dúklagt borð. Á borðinu var rjúkandi kaffi og nýbakað meðlæti að þjóðlegum sið.
Í bakaleiðinni var komið við í Saltfisksetri Íslands í Grindavík þar sem var tekið á móti þátttakendum. Loks flutti Albert tölu um þróun og árangur Hitaveitunnar, en enn er ekki séð fyrir endann á þeim möguleikum, sem þar bjóðast.
Ferðin var farin á vegum MSS.

Húshólmi

Húshólmi – skáli.

 

Húshólmi

Eftirfarandi „Tillögur liggja fyrir um frekari rannsóknir, verndun og aðgengi að minjasvæðinu í Húshólma“ í Ögmundarhrauni sem og nærliggjandi svæðum:

Þörf á ítarlegri rannsóknum

Húshólmi

Húshólmi – skilti.

Mikilvægur þáttur fornleifaverndar er varðveisla minja, rannsóknir og varðveisla upplýsinga. Mikilvægt er fyrir þjóðina að vernda minjar; hlúa að menningararfi hennar.
Skv. Þjóðminjalögum lætur Fornleifavernd, eftir föngum, skrá allar þekktar fornleifar. Skv. reglugerð um þjóðminjavörslu annast Fornleifavernd einnig rannsóknir, skráningu og kynningu fornleifa.
Mikilvægt er að vettvangsskoða og skrá vandlega allar fornleifar á Húshólmasvæðinu sem og á aðliggjandi svæðum. Þá þarf að gera áætlun um frekari rannsóknir á svæðinu, bæði út frá mögulegum aldri minjanna og hraunsins sem og samhengi þeirra. Þá þarf að rannsaka sérstaklega alla garða, tóftir og meintan grafreit með hliðsjón af tilurð, meintum íbúum og öðru menningar- og búsetusamhengi svæðisins í heild. Ekki er ólíklegt að niðurstaðan geti haft áhrif á hina stöðluðu mynd af landnámi hér á landi. Það er jafnframt ein helsta skýringin á því hvers vegna ekki hafa þegar verið hafnar skipulegar rannsóknir á svæðinu.

Húshólmi

Gengið í Húshólma um Húshólmastíg.

Rannsóknir, s.s. fornleifaskráning, hafa farið fram í og við Húshólma, samanber m.a. framangreindar athuganir Brynjúlfs, rannsóknir Sigurðar Þórarinssonar, Jóns Jónssonar og Hauks og Sigmundar og skráning Bjarna F. Einarssonar vegna fyrirhugaðs Suðurstrandarvegar.
Í fornleifaskráningu Bjarna kemur m.a. fram að fjárborgin í Húshólma sé eldri en frá 1226, garðar eru sagðir eldri en 1550 sem og tóftir við hólmann. [Líklega er hér ekki um fjárborg að ræða heldur virki í samhengi minjasvæðisins í heild].
Til fróðleiks má geta þess að í fornleifaskýrslunni er Húshólmastígur t.d. sagður vera Ögmundarstígur og vörður austan Ísólfsskála sagðar vera við gömlu þjóðleiðina, en þær voru hlaðnar til gamans af syni Guðmundar á Ísólfsskála og vinnumanni á bænum á fyrstu áratugum 20. aldar (sbr. umsögn bróður þeirra). Þær nefnast Bergur og Brandur.

Brandur

Vörðurnar Brandur og Bergur.

Suðurstrandarvegur hefur á undanförnum árum fengið talsverða athygli, en nokkrar rannsóknir hafa farið fram á svæði er lútað hefur að fyrirhugaðri legu hans, m.a. í gegnum Ögmundarhraun. Um tíma var ein hugmynd að leggja veginn í gegnum ofanverðan Húshólma. Skiptar skoðanir voru um ágæti þess m.t.t. verndunarsjónarmiða minjanna.
Bjarni gerði athugasemdir við umsagnir umsagnaraðila v/Suðurstrandarvegar í mars 2001. Í þeim kemur m.a. fram að “getið hefur verið um fyrirhugaða lagningu Suðurstrandarvegar þar sem hann liggur m.a. í gegnum Ögmundarhraun. Aðilar gáfu út umsagnir um legu vegarins, m.a. með tilliti til fornleifa. Í athugasemdum kom m.a. fram:
Fornleifafræðistofan hefur fengið til athugunar umsagnir fjögurra aðila um tillögu að matsáætlun Suðurstrandarvegar.

Húshólmi

Húshólmastígur um Ögmundarhraun.

Allar eru ábendingarnar sem fram koma góðar og eru umsagnaraðilar sammála þegar svo ber undir. Þó er einn staður sem umsagnaraðilar eru ekki sammála um, en það er Húshólmi í Ögmundarhrauni í landi Grindavíkur. Þjóðminjasafn, Hafnarfjarðarbær og Landmótun leggja til að hinn fyrirhugaði vegur verði færður upp fyrir hólmann, en Grindavík mælir með því að hann verði lagður í gegnum hann.
Rökin með færslunni upp fyrir Húshólma eru þau að um samfellt minjasvæði frá Húshólma, Fitjum og að Selöldu sé að ræða og að færsla vegarins komi betur út vegna tengingar við Ísólfsskálaveg, þ.e.a.s. aðkomu að Krýsuvíkurhverfi að sunnan (Landmótun og Hafnarfjarðarbær).

Húshólmi

Gengið í Húshólma.

Þjóðminjasafnið bendir á að vegurinn muni skera í sundur Húshólma og fjórar fornleifar lenda ofan vegar. Væntanlega er gengið út frá sömu forsendum og Hafnarfjarðarbær og Landmótun gera, þ.e.a.s. að um samfellt minjasvæði sé að ræða, allavega í sjálfum Húshólmanum.
Rök Grindavíkur með því að hafa veginn í gegnum Húshólma voru nokkur: Þau eru; öryggisatriði varðandi hugsanlegan sjávarháska, öryggi gagnvart snjóalögum og skemmti- og fagurfræðilegt gildi vegna ferðamanna (Grindavík). Einnig er bent á að leiðin muni liggja nærri fornminjum og áhugaverðum stöðum sem ekki hafa notið sín eins og verðugt væri hingað til. Er hér átt við þá staðreynd að minjarnar í Húshólma eru afar óaðgengilegar. Þjóðminjasafnið tekur undir þetta sjónarmið en mælir þó gegn legunni. Því ber að álykta að eina röksemdin fyrir færslu vegarins norður fyrir Húshólma sé samfellt minjasvæði.”
Bjarni telur hins vegar að Húshólmi og Selalda eigi fátt annað sameiginlegt en að á þeim séu fornleifar. Hinar fornu rústir í Húshólma séu mun eldri en rústirnar við Selöldu og af allt öðrum toga. Einnig megi benda á að svæðin séu í sitt hvoru sveitarfélaginu og að þau hafi ólíkar skoðanir til umgengis og verndunar minjanna á þeim. Bjarni telur að Húshólminn sjálfur sé merkilegt fyrirbæri, en það sé allt önnur saga.

Húshólmi

Gengið í Húshólma.

“Skráning fornminja er einn þáttur rannsókna. Í Húshólma þarf að skrá allar fornminjar, hvort sem um er að ræða tóftirnar vestan hólmans, garða, fjárborg, rétt/stekk, gerði, refabyrgi, tóft ofan við Hólmasund, gerði vestan í Ögmundarhrauni, stíga og annað er tengst gæti og skapað heilstæða mynd af minjasvæðinu. Færa þarf upplýsingarnar inn á aðgengilega kortagrunna, merkja minjar, gera ráðstafanir til að varðveita þær, gera ráð fyrir reglubundnu eftirliti eða vöktun á svæðinu, koma á góðu samstarfi við framkvæmda- og hagsmunaaðila tengdum svæðinu, þátttöku almennings og áhugafólks, upplýsingamiðlun og fjármagn til þeirra aðgerða og ráðstafana er lagðar verða til.”
Í grein á vefsíðu Fornleifafræðistofnunar segir Bjarni m.a. að “samband náttúru og menningar hefur verið manneskjunni hugleikið allt frá tímum Forn-grikkja. Menn sáu snemma sambandið á milli menningar og umhverfis og vægi náttúrunnar í örlögum mannsins.

Húshólmi

Fornmaður í Húshólma.

Manneskjan hefur lagað sig að ólíkustu aðstæðum. Því nær sem dregur nútímanum þeim mun stórtækari er mótun hennar á umhverfinu. Maðurinn hefur tekið meira úr umhverfinu en hann skilar til þess og til frambúðar getur það aðeins þýtt einn hlut ef ekki verður að gáð: stórslys. Og í þessu sambandi á ég ekki aðeins við hið náttúrulega eins og hráefni ýmisskonar, ég á einnig við leifar eftir gengnar kynslóðir en þær eru jafn mikilvægur hluti af umhverfinu og vatnið, grösin og bergið. Umhverfi samanstendur nefnilega bæði af náttúrulegum og menningarlegum þáttum. Hin mikla og nauðsynlega umræða sem tengist umhverfismálum og virðist fara vaxandi hér á landi, hefur því miður nær einvörðungu snúist um hið fyrrnefnda. Nú er tími til kominn að gefa hinu síðarnefnda gaum.
Hinn menningarlegi þáttur umhverfisins er rústir og önnur verksummerki manna, örnefni og ýmsir staðir sem tengjast trú manna, sérstökum atburðum eða verkmenningu þjóðarinnar. Slíkt umhverfi í félagi við hið náttúrulega köllum við menningarlandslag. Menningarlandslagið er mikilvægt fyrir sjálfsvitund einstaklinganna. Það eru minningar sem tengjast forfeðrunum, þeim sjálfum og sögunni. Þeir eru hluti af menningarlandslaginu.
HúshólmiÞegar fé er ráðstafað er mikilvægt að hafa framangreida þætti í huga. Afleiðingarnar gætu komið fram síðar, þegar of seint verður að bregðast við fyrrum mögulegri varðveislu framangreindra menningarminja. Þegar á heildina er litið er það bæði lífríki einstakra staða og mannvistarleifarnar sem gera þessa þjóð að því sem hún er.
Menningararfurinn er ekki aðeins fólginn í handritunum okkar, tungunni eða því sem söfnin geyma. Hann er að verulegu leyti einnig fólginn í rústunum sem finnast út um allt land. Í þeim er fólgin saga, sem hvergi er geymd annarsstaðar. þær eru lykillinn að skilningi okkar á gripunum, sem horfið hafa úr sínu eðlilega umhverfi inn á söfnin og sumar rústanna geta einar varpað ljósi á líf alþýðunnar og hlutskipti hennar í lífsbaráttunni. Íslensk þjóð varð þjóð á meðal þjóða í húsum, sem nú eru rústir einar. Rústirnar skipta okkur því nákvæmlega jafn miklu máli og rústir annarra þjóða skipta þær, þó svo að þær séu ekki jafn miklar að vexti og ekki úr jafn varanlegum efnum og rústir margra annarra þjóða. Minnimáttarkennd okkar Íslendinga í þessum efnum er athyglisverð, en hún stafar fyrst og fremst af vankunnáttu okkar um þessi mál og þeirri staðreynd að við höfum ekki skilið þýðingu rústanna fyrir þjóðarímyndina. Hvort sem okkur líkar það betur eða verr, voru þessar rústir hluti af tilverunni og veruleikanum og þess vegna eru þær mikilvægar fyrir þjóðina, sögu hennar og ímynd. Ef hún eyðir þeim, eyðir hún hluta af sjálfri sér. Mikilvægi rústanna nær að auki út fyrir landsteinana og má t.d. benda á þá staðreynd að erlendis hefur plógurinn meira eða minna afmáð híbýli bænda frá víkingaöld. Hér á landi tíðkuðust aðrir búskaparhættir, sem hlífðu þessum tegundum rústa. Þær varpa því ljósi á hlutskipti manneskjunnar í norrænum veruleika.

Húshólmi

Húshólmi – stekkur.

Grundvallaratriði í minjavernd af því tagi sem rætt hefur verið um hér að framan, og reyndar minjavörslu allri, er að vita hvað til er svo að hægt sé að marka einhverja skynsamlega stefnu um verndunarmál. Tækið til þess heitir fornleifaskráning.
Minjavernd er umhverfisvernd. Við skiljum ekki umhverfið til fulls ef við skiljum ekki áhrif genginna kynslóða á það.”
Mikilvægt er aðhafa í huga að þótt minjar á nálægum svæðum séu ekki að vera frá sama tíma eða jafnvel minjar innan tiltekins svæðis, geta þær sem heild eftir sem áður verið jafn merkilegar. Þær geta lýst og endusagt búsetu-, atvinnu- og nýtingarsögu svæðisins til lengri tíma.

Selatangar

Selatangar – verkhús.

Á Selatöngum er t.d. saga vermennsku og sjósóknar, fiskverkunar og mannlífs í veri, í Húshólma eru væntanlega frumbúsetuminjar og nýting svæðisins til fjárhalds og undir Selöldu er m.a. saga seljabúskapar og væntanlega búskapar á síðari öldum. Allt getur þetta vel spilað saman og bæði stuðlað að fjölbreyttri nýtingu og áhrifaríkri upplýsingagjöf til handa áhugasömu fólki.

Hvað á að rannsaka?
Minjavernd verður að byggja á vettvangsathugunum en benda má á nokkur atriðið sem vert er að hafa í huga við áætlanagerð, skipulag og varðveislu svæða.
Langmest af fornleifum er að finna á gömlum bæjarstæðum sem oftar en ekki er enn búið á. Mikilvægt er að reynt verði að takmarka framkvæmdir á slíkum stöðum og fylgjast vel með því raski sem nauðsynlegt er. Brýnt er að komið verði í veg fyrir eyðileggingu slíkra minja. Auk vegagerðar og línulagna stafar fornleifum nú helst hætta af skógrækt og aukinni sumarbústaðabyggð auk þess sem nýbyggingar og framkvæmdir á þétt-býliskjörnum. Minjunum í Húshólma og nágrenni stafar þó ekki ógn af síðastnefndu þáttunum.

Húshólmi

Fjárborgin í Húshólma.

Í Húshólma hafa minjarnar varðveist svo vel sem raun ber vitni vegna þess að þær hafa verið tiltölulega óaðgengilegar inni í hrauni og jafnvel þótt áhugasamt fólk hafi reynt að finna þær hefur því fundist það erfitt. Sama á við um minjarnar í Óbrennishólma. Aðrar minjar á svæðinu, þ.e. Selatangar að vestanverðu, hafa um allnokkurt skeið verið aðgengilegar fólki, en þrátt fyrir hversu nærtækar þær hafa verið, hefur furðu mörgum reynst erfitt að finna þær. Verminjunum þar hefur helst stafað hætt af ágangi sjávar, enda má sjá mikinn mun á minjunum er standa næst sjónum frá því einungis fyrir nokkrum árum síðan. M.a. hefur sjórinn nýlega brotið niður hluta eins heillega verkshússins af þremur. Eftir standa tvö, en þau gætu einnig hæglega farið forgörðum í einhverjum stórsjónum einn vondan veðurdag. Að austanverðu stafar minjunum undir Selöldu ekki ógn af fólki vegna þess hve fáir vita af tilvist þeirra. Þar eru jarðvegseyðingaröflin hins vegar ógnandi skaðvaldur. Um þau verður rætt nánar síðar í verkefninu.

Húshólmi

Húshólmi – skilti.

Allar framngreinar minjar eru hvorki aðgengilegar eða einu sinni sýnilegar, en full ástæða væri til að koma upplýsingum um þær á framfæri við ferðamenn og almenning og auka þannig útivistargildi svæðisins að hluta eða í heild. Þegar skipulögð eru útivistarsvæði, þá er sjálfsagt að reyna að nýta þær auðlindir sem fyrir eru og fornleifastaðir geta verið afar spennandi og upplýsandi fyrir skólafólk eða ferðamenn, jafnt innlenda sem útlenda, að skoða. Til þess að það sé hægt þarf ekki annað en að skrá staðinn á vettvangi, merkja hann svo fólk viti hvert að eigi að fara og gera upplýsingar um hlutverk og gildi minjanna aðgengilegt á einn eða annan hátt, t.d. með prentuðum bæklingum eða skiltum á staðnum. Fyrir ferðaþjónustuna, og þá um leið viðkomandi byggðarlag, eru menningarleifar líkt og í Húshólma og nágrenni, mikil verðmæti.
Eins og fram kemur í kaflanum hér að framan er mikilvægt að skrá vandlega allar fornleifar á Húshólmasvæðinu sem og á aðliggjandi svæðum. Þá þarf að gera áætlun um frekari rannsóknir á svæðinu, bæði með hliðsjón af aldri minjanna og hraunsins. Rannsaka þarf garða, tóftir og grafreit með hliðsjón af aldri, tilurð og hugsanlegum menningar- og búsetuminjum.

Gildi minjanna í Húshólma

Húshólmi

Forn garður í Húshólma.

Eins og fram kemur í athugasemdum Bjarna F. Einarssonar er Húshólmi merkilegt fyrirbæri. Sama viðhorf endurspeglast í athugunum Brynjúlfs Jónssonar og annarra, sem skrifað hafa um minjarnar í hólmanum eða rannsakað þær m.t.t. aldurs.
Mikilvægt er að vernda minjar og umhverfi Húshólma. Ljóst er að aldur minjanna er hár og telja má fullvíst að Ögmundarhraun, er færði hluta þeirra í kaf og hlífði öðrum, rann á sögulegum tíma. Það gefur hrauninu ákveðið gildi, auk þess sem einstakt má telja að hægt sé að ganga að minjum við slíkar aðstæður.
Segja má að minjarnar í Húshólma feli í sér flest þau gildi er gjaldgeng eru í minjavernd. Þau hafa mikið gildi fyrir land og þjóð, hvort sem um er að ræða ímyndargildi fyrir landssvæðið og fólkið, tengslagildi við sögu og uppruna, vísindalegt gildi vegna takmarkaðra fyrirliggjandi upplýsinga og hugsanlegra möguleika þeirra á að varpa ljósi á fyrrum óljósa hluti með rannsóknum, upplifunargildi fyrir áhugasamt fólk, fagurfræðilegt gildi vegna aðstæðna á svæðinu þar sem eru samspil hrauns er runnið hefur á sögulegum tíma og minja, sem til eru komnar eftir að fólk settist fyrst að hér á landi, upplýsingagildi er felst í að miðla þekkingu sem aflað hefur verið á fræðilegum grundvelli og ekki síst nota- og fjárhagslegt gildi fyrir ferðaþjónustuna hér á landi. Fjallað verður nánar um síðastnefnda gildi sérstaklega.
Minjar eru áþreifanlegur og efnislegur tengill við fortíðina umfram sem bækur eða frásagnir gera. Þær eru tákn fortíðar, geta gefið upplýsingar um liðna sögu, miðla þekkingu milli kynslóða og eru í raun tengill nútímafólks við forfeður þess.
Í bréfi Kristins Magnússonar, fornleifafræðings, f.h. Þjóðminjasafns Íslands 23. júlí 2003 varðandi Suðurstrandarveginn milli Grindavíkur og Þorlákshafnar í framhaldi af vettvangsskoðun í Húshólma er m.a. fjallað um fyrrgreindar athugsemdir Bjarna um Húshólma og skilyrði veglagningar í gegnum hólmann.

Húshólmi

Húshólmi – leifar af fornum garði.

“Þjóðminjasafnið telur að til að hægt sé að fallast á lagningu vegarins gegnum Húshókma þurfi aðgera bílastæði við veginn. Mæla þarf rústirnar á svæðinu upp og búa til upplýsingaspjöld á bílastæðinu þar sem almenningur getur fræðst um það sem þar er að sjá. Leggja þarfs tíga ums væðið þannig að umferð um það sé stýrt. Búa þarf til umbúnað um rústirnar sjálfar þannig að þeim stafi ekki hætta af umferð gangandi fólks um svæðið en jafnframt þannig að tilfinningin fyrir mikilfengleika rústanna í hrauninu glatist ekki. Til athugunar er að efna til samkeppni um frágang svæðisins. Huga þyrfti að samtarfi við Þjóðminjasafnið, Vegagerðina, Grindavíkurbæ, Náttúru-vernd ríkisins og e.t.v. fleiri aðila í þessu sambandi. Samningur milli þessara aðila og framkvæmdaáætlun verður að liggja fyrir áður en hafist verður handa við vegaframkvæmdirnar og framkvæmdir við frágang svæðisins verða að haldast í hendur við vegagerðina og vera lokið áður en almennri umferð verður hleypt áveginn. Tryggja þarf viðhald þeirra mannvirkja sem þarna verða reist í framtíðinni og eftirlit með fornleifunum. Ráða þarf umsjónarmann yfir sumartímann sem hefði með höndum leiðsögn eftirlit á svæðinu. Einungis með þessum skilmálum getur Þjóðminjasafn Íslands fallist á að vegur verði lagður í gegnum Húshólma. Ef ekki er hægt að tryggja varðveislu minjanna á svæðinu með slíkum aðgerðum telur safnið að eina leiðin til að forða þeim frá skemmdum sé að viðhalda erfiðu aðgengi að svæðinu með því að leggja veginn norðan Húshólmans.”
Við gerð tillagna, sem hér eru lagðar fram um aðgengi aðminjasvæðinu í Húshólma, var m.a. tekið mið af framangreindum skilyrðum Kristins f.h. Þjóðminjasafnsins, en þær eiga jafnvel við í öllum meginatriðum þótt Suðurstrandarvegur verði lagður ofan við Húshólma.

Ráðstafanir til að koma í veg fyrir yfirstandandi eyðingu minja í Húshólma

Húshólmi

Húshólmavarðan.

Í dag er helsta ógnin við hluta fornleifanna jarðvegsrof í Húshólma. Þegar hafa langir hlutar torfgarða fokið burt og ljóst er að þeir munu hverfa að mestu í framtíðinni verði ekkert aðgert. Landgræsla ríkisins, sem staðið hefur fyrir uppgræðslu og áburðargjöf í Krýsuvíkurheiði austan við Ögmundarhraun, hefur haft áhuga á að græða upp sárin í Húshólma. Mikilvægt er að ákveðið verið sem fyrst hvernig að þeim málum skuli staðið svo minjar í hólmanum beri ekki meiri skaða af.
Landgræðsla ríkisins hefur samið við Landhelgisgæsluna um flutning á fræi og áburði inn í Húshólma. Síðan er ætlunin að leita eftir sjálfboðaliðum á vori komanda til að sá í sárin, sem þegar hafa myndast í hólmanum og stöðva þannig frekari gróðureyðingu.
Einnig er mikilvægt að huga að Óbrennishólma því þar hefur gróðureyðingin bæði sótt að fjárborginni stóru, tóft skammt austan hennar sem og jarðlægum garði er liggur upp með fjárborginni að vestanverðu.
Þá eru minjarnar undir austanverðri Selöldu einnig í mikilli hættu vegna jarðvegseyðingar. Tvær fjárborgir eru nú á rofabörðum, forn tóft stendur á gömlum lækjarfarvegi og veður, vindar og vatn sækja að jarðlægum tóftum skammt austan hennar.
Minjar á Selatöngum eru í hættu vegna ágangs sjávar. Sjórinn hefur t.d. nýlega brotið niður hluta af annars heillegu verkhúsi er stendur hvað næst sjónum. Líklega mun sjórinn smám saman taka til sín flestar minjanna á Selatöngum líkt og hann hefur gert víðast hvar með ströndum Reykjanesskagans í gegnum tíðina.

Aðgangur að minjunum – tillögur

Húshólmi

Húshólmi – meintur grafreitur.

Mikilvægt er að gefa fólki kost á að skoða minjarnar í Húshólma. Það þarf bæði að gera með ákveðnum takmörkunum, en jafnframt á þann hátt að það auki gildi og áhrif heimsóknarinnar. Í Húshólma eru bæði menningarminjar og náttúruminjar. Hvorutveggja eru greinanlegar minjar og þær þarf að gera aðgengilegar. Í tillögum hópsins hefur verið reynt að samræma þau sjónarmið er lúta að friðun og verndun annars vegar og aðgengi almennings að fornminjum hins vegar. M.a. voru eftirfarandi upplýsingar frá Fornleifavernd ríksins hafðar í huga: “Það að vekja athygli á stað eða minjum og gefa hvorutveggja gildi er besta varðveisluaðferðin.”

Á að tengja Húshólmasvæðið við önnur svæði – af hverju og hvernig?

Óbrennishólmi

Óbrennishólmi; fjárborg eða virki!?

Önnur nálæg svæði er tiltölulega auðvelt að tengja Húshólmasvæðinu. Um er að ræða Óbrennishólma annars vegar og Selatanga í vestri og Selöldu í austri hins vegar. Í tillögum hópsins er ekki gert ráð fyrir bættu aðgengi í Óbrennishólma með beinum hætti, að sinni að minnsta kosti. Aftur á móti er lögð áhersla á að tengja saman hin svæðin þrjú með sjávargötu eða -stíg. Bæði myndi það auka möguleika og gildi svæðisins til skoðunar og útivistar og um leið gefa áhugasömu fólki kost á að kynnast samfelldari sögu og atvinnuháttum á suðurströnd Reykjanesskagans í fögru umhverfi, en óvíða er t.d. fallegra útsýni með ströndum landsins, auk þess sem hraunin eru jafn gott skjól fyrir vindum og snjór leysir þar tiltölulega snemma þá sjaldan sem snjóar þar eitthvað að ráði.
Göngugatan myndi, skv. tillögunni, liggja með ströndinni frá Heiðnabergi út á Selatanga, um 6.5 km leið (sjá með-fylgjandi upp-drátt). Það tæki að meðaltali u.þ.b. klukku-stund að ganga þá leið. Upp frá götunni væru lagðir göngu-stígar, sem reyndar er mjög auðvelt (þyrfti einungis að merkja með stikum eða hælum) frá 1. Heiðnabergi við Hælsvík upp að tóftum Eyrar og Krýsuvíkursels og vestur með sunnanverðri Selöldu, að Fitjum, þar sem gert er ráð fyrir bílastæði, 2. upp Húshólma að minjasvæðinu (einnig auðvelt með hraunkantinum að vestanverðu) og 3. um Selatanga, en þar er göngustígur fyrir upp á bílastæðið ofan og vestan við minjasvæðið. Gera þyrfti ráð fyrir göngustíg inn í Ketilinn í Katlahrauni, skammt vestan Seltanga. Þar er skjólgóður og fagur áningarstaður, auk merkilegra jarðfræðifyrirbæra, ekki ólík Dimmuborgum við Mývatn.

Húshólmi

Húshólmi – skáli.

Tiltölulega auðvelt er að leggja göngugötu þessa leið með ströndinni, en á köflum verður að vinna gerð hennar á höndum. Sléttlent er frá Hælsvík að austurjaðri Ögmundarhrauns, að mestu mólendi. Ekki er lagt til að fylgt verði gamla Húshólmastígnu í gegnum austan-vert Ögmundarhraun því hann þarf að fá að vera áfram eins og hann er. Um austanvert Ögmundarhraun ofan við ströndina er stígur fyrir og því ætti að vera auðvelt að fylgja honum með tilheyrandi lagfæringum. T.d. þyrfti að bera ofan í hann fínni grús. Í gegnum Húshólma er auðvelt að leggja stíg ofan við sjávarkambinn, með gömlu strandlínunni. Þá tekur við annar af tveimur erfiðari hlutum leiðarinnar m.t.t. stígagerðar. Hægt væri að fara yfir þennan kafla eftir fyrirliggjandi stíg frá minjasvæðinu austan Húshólma, að Brúnavörðum, en hér er hins vegar lagt til að sjávargatan fylgi sem mest ströndinni. Kaflann yfir hraunhaftið vestan Húshólma þarf að handgera, sem fyrr segir. Reynsla er komin á slíka stígagerð í Dimmuborgum á vegum Landgræðslu ríkisins. Samkvæmt upplýsingum frá henni er kostnaður við slíka stígagerð um 100.000 kr. á hverja 100 metra. Vinnan er unnin af sjálfboðaliðum undir leiðsögn sérfræðings. Efni og aðdrættir eru keyptir. Fulltrúi Landgræðslunnar taldi í samtali mjög líklegt að hún gæti orðið þeim, sem leggja vildi stíg þessa leið, innan handar við útvegun sjálfboðaliða og leiðsögn. Í Dimmuborgum er gert ráð fyrir að stígur sé það breiður að a.m.k. tveir geti gengið hann samhliða.
Kaflinn áfram að Selatöngum um Miðreka er misgreiðfær yfirferðar, ágætur á köflum en erfiðari utan þeirra. Þannig er síðasti kaflinn að Selatöngum austanverðum, að Eystri-Látrum, ógreiðfær og þyrfti að sæta sama lagi við stígagerðina og við vestanverðan Húshólma, þ.e. sýna útsjónasemi og taka mið af landslaginu við lagninguna. Á þessum kafla eru m.a. fallegar hraunmyndanir, auk möguleika á greiðfæri gönguleið upp í Óbrennishólma.

Húshólmi

Húshólmi – stoðholur.

Staðsetning bílastæða við minjasvæði er mikilvæg út frá verndunarsjónarmiðum. Því lengra sem er fyrir folk að ganga því færri leggja ferðina á sig. Ástæða er, a.m.k. fyrst um sinn, að takmarka fjölda fólks að minjasvæðinu í Húshólma. Þess vegna er lagt til að bílastæðið við Húshólma verði upp við Suðurstrandarveginn og að fólk þurfi að ganga þaðan niður að minjasvæðinu. Gert e

r ráð fyrir að lengd stígsins geti orðið, miðað við núverandi tillögu að vegstæði, um 2 km. Húshólmastígurinn er 1.1. km. Það tæki því fólk um 20 mín. að ganga stíginn frá bílastæðinu að minjasvæðinu (40 mín fram og til baka). Það er vipuð vegarlengd og upp og niður Laugaveginn.

Hafa þarf samráð við Hafnarfjarðarbæ við samræmingu og vegna ráðstafna með hliðsjón af tillögunum þar sem Selöldusvæðið er undir forsjá bæjarfélagsins, sbr. afsal landbúnaðarráðherra á landi úr Krýsuvíkur til Hafnarfjarðarbæjar 20. febrúar 1941. Þá hafa fulltrúar Hafnarfjarðarbæjar sínt minni áhuga á nýtingu Krýsuvíkur til útvistar en t.a.m. fulltrúar Grindavíkurbæjar á nýtingu Húshólma og Selatanga, en þeir hafa nýlega m.a. stuðlað að útgáfu bæklings um minjar, sögu og sagnir á síðarnefnda staðnum (2004). Fyrirhuguð er útgáfa á sambærilegum bæklingi um Húshólma. Hvorutveggja er liður í glæða áhuga fólks á svæðunum og auðvelda því jafnframt að gera sér grein fyrir einstökum minjum sem og aðstæðum.

Gildi Húshólma fyrir ferðaþjónustuna

Húshólmi

Húshólmi – skálatóft.

Gildi Húshólma og nærliggjandi svæða, sem og reyndar alls Reykjanesskagans, fyrir ferðaþjónustu á svæðinu er ótvírætt. Í Húshólma eru merkar minjar og fólk hefur áhuga á merkum minjum. Í könnunum ámeðal ferðamanna, sem heimsækja Ísland sem og á meðal innlendra ferðamanna, kemur yfirleitt berlega í ljós að þeir hafa mestan áhuga á náttúrunni og sögulegum menningaminjum. Á Reykjanesskagnum hafa gönguferðir átt auknum vinsældum að fagna. Hingað til hefur skaginn verið stórlega vanmetinn m.t.t. ferðamennsku. Athyglinni hefur verið beint að mjög fáum stöðum, s.s. Bláa lóninu og Reykjanesvita svo einhverjir séu nefndir. Á svæðinu eru hins vegar ótal minjar er tengjast sögu, mannlífi og lífsbaráttu fólks frá upphafi byggðar hér á landi. Má þar nefna t.d. dysjar, tóftir bæja, selja og tengdra mannvirkja, s.s. stekkja, rétta, fjárborga og fjárskjóla, gamlar þjóðleiðir djúpt markaðar í klöppina, vörður er tengjast sögum og sögnum, þjóðsagnatengdir staðir, staðir tengdir þjóðsögum, götur og vegir er lýsa þróun vegagerðar, vitagerð frá upphafi, hús er enduspegla gerð þeirra og notkun um aldir, mannvistaleifar í hellum og skjólum, hlaðnar refagildrur er lýsa veiðiaðferðum og þannig mætti lengi telja. Þá er ónefnd óviðjafnanleg náttúrufegurð og fjölbreytni jarðsögunnar.

Húshólmi

Upplýsingaskilti í Húshólma.

Þegar litið er á hið afmarkaða svæði suðurstrandarinnar, sem hér hefur verið til umfjöllunar, verður því varla neitað að það hefur mikla möguleika upp á að bjóða. Hægt er að bæta aðgengið að ákveðum aðgerðum afstöðnum. Tillögur hópsins kveða á um hverja þær eru á þegar tilnefndum svæðu.
Ein af forsendum ferðaþjónustunnar er aðgengi. Mikilvægt er þó að staðsetja bílastæði með hliðsjón af sjónarmiðum um nauðsyn verndunar. Þannig gera tillögur hópsins ráð fyrir staðsetningu bílastæði fólks, er vill heimsækja Húshólma, upp við Suðurstrandarveginn og síðan gerð göngugötu frá því niður að minjasvæðinu við hólmann. Þar er gert ráð fyrir stýringu fólks með merkingum, stígum og jafnvel lágum girðingum. Gert er ráð fyrir að umgengi fólks verði takmarkað og minjunum sjálfum hlíft, sbr. meðfylgjandi uppdrátt.
Ekki er ástæða til að óttast yfirgengilegan ágang fólks á Seltaöngum og Selöldu og því er lagt til að bílastæðin verði staðsett nær minjasvæðunum. Það er og gert til að göngufólk, er nýtir sér sjávargötuna til skoðunar, eigi auðveldara með að nálgast hana til endanna.

Upplýsingar um minjarnar

Húshólmi

Húshólmi – stoðholur.

Á hverjum stað þurfa að koma fram réttar og hnitmiðaðar upplýsingarnar um aðgengilegar og sýnilegar minjar á viðkomandi svæði. Í Húshólma, og jafnvel víðar, á eftir að framkvæma rannsóknir og sjálfsagt er að leyfa fólki að fylgjast með framgangi þeirra með ákveðinni upplýsingagjöf til hliðar við megin upplýsingatöflurnar. Á töfluna við Húshólmarústirnar er sjálfsagt að geta um hvers vegna fjarlægð frá bílastæðinu að minjunum er eins löng og raun ber vitni, þ.e. út fráverndunarsjónarmiðum. Það myndi jafnframt vera ábending til fólks að umgangast minjarnar með meiri varúð og virðingu. Upplýsingagjöf, ábendingar og vel afmarkaðir stígar geta stuðlað að verndun minja ef rétt er að málum staðið. Reynslan sýnir að langflestir fara eftir leiðbeiningum og fylgja stýringum þar sem þær eru fyrir hendi. Þannig þarf að hafa í huga að nota upplýsingarnar á viðkomandi stöðum bæði til fróðleiks og sem leiðbeinandi tilmæli um umgengni, mikilvægi fornleifa og ábyrgð almennings á verndun þeirra, sbr. gildandi ákvæði laga þar að lútandi.

Gerð og útlit skilta
Mikilvægt er að samræma útlit og upplýsingagjöf á svæðunum.
Í tilllögunum er gert ráð fyrir bílastæðum við Selatanga, við Suðurstrandarveg ofan við Húshólma og vestan við Selöldu. Merkja þarf bílastæðin og aðliggjandi göngustíga að minjasvæðunum. Við aðkomuna að minjasvæðunum sjálfum þurfa að vera upplýsingatöflur með ítarlegri upplýsingum, s.s. v/leiðir og stíga, uppdráttum og áhugaverðum söguskýringum.

Óbrennishómi

Óbrennishólmi – fjárborg eða virki.

Þá þarf að merkja einstakar minjar með minni skiltum eða merkingum þannig að fólki sé ljóst hvaða minjar það er að skoða á hverjum stað. Auk þessa þarf vegvísa við sjávargötuna, t.d. er lagt er af stað frá tilteknum stað og komið er að tilteknum stað. Á þurfa að kom afram vegarlengdir á milli staðanna. Þá þurfa að vera leiðarvísar á einstaka stað, s.s. þar sem hægt er að ganga frá stígnum upp í Óbrennishólma. Ekki er að svo komnu máli gert ráð fyrir sérstakri upplýsingatöflu þar.
Ferðamálasamtök Suðurnesja hefur gert áætlun um merkingar leiða og minjasvæða á Suðurnesjum. Samkvæmt upplýsingum þeirra kostar uppsett upplýsingatafla um 250.000 króna. Grindavíkurbær hefur jafnframt lagt fram drög að skipulegum merkingum á minjum í umdæmi bæjarins. Eins og fram kom í upphafi er mikilvægt að samræma uppsettar merkingar og upplýsingatöflur á Reykjanesskaganum og reyndar helst um land allt.

Fá styrktaraðila

Óbrennishólmi

Í Óbrennishólma.

Leita þarf til styrktaraðila til að fjármagna gerð skilta og jafnvel göngustígagerð. Að fenginni reynslu er mjög líklegt að áhugasamir aðilar; fyrirtæki, stofnanir, félög og aðrir, muni sýna verkefninu áhuga, auk þess hægt ætti aðvera að sækja styrki tilverkefnisins frá sjóðum Ferðamálaráðs, Poskasjóði sem og fleiri hálf-opinberum og opinberum aðilum, auk þess líklegt megi telja að Grindavík myndi leggja einhverja fjármuni til verksins.
Ljóst er að Landgræðsla ríksins er reiðubúin að veita aðstoð og faglega ráðgjöf ef eftir því verður leitað. Án efna gildir slíkt hið sama um aðrar stofnanir samfélagsins, s.s. Fornleifavernd ríksins, Þjóðminjasafn Íslands, Byggðasafn hafnarfjarðar o.fl.

Mikilvægt er að ákveðinn aðili, ef af verður, haldi utan um verkefnið, annist framkvæmd þess og hafi samráð við alla þá hlutaðeigandi aðila er stuðlað geta að framgangi þess, samræmt og lagt til góð ráð eða stuðning. Ferðamálafulltrúi Grindavíkur væri tilvalinn til verksins eða annar, sem bæjarfélagið fengi til þess, í samstarfi við forstöðumann Byggðasafns Hafnarfjarðar.

Vöktun – Eftirlit

Óbrennishólmi

Tóft í Óbrennishólma.

Í lögum er kveðið á um að allir beri í raun ábyrgð á forlleifunum og varðveislu þeirra. Fornleifavernd ríkisins hefur lagalega umboðið varðandi ákvörðunartöku á varðsveislu, rannsóknir, meðhöndlun eða nýtingu minja.
Rétt er að taka undir skilyrði Kristins Magnússonar, fornleifafræðings, Ráða þarf umsjónarmann yfir sumartímann, sem hefði með höndum leiðsögn eftirlit með minjum á svæðinu. Gera þarf áætlun um viðhald og varðveislu þeirra.
Reyndar væri tilvalið að knýja á um að Fornleifavernd ríkisins fengi umbeðið stöðugildi minjavarðar á Reykjanesi. Sá aðili gæti annast framangreint eftirlit með þessum svæðum sem og öðrum á skaganum. Reyndar er líkt orðið löngu tímabært.

Framkvæmdaráætlun

Óbrennisbruni

Forn garður í Óbrennisbruna.

Við tillögugerð þessa hefur það verið haft að leiðarljósi að lágmarka kostnað við gerð aðstöðu, en gera hin merkilegu minjasvæði eftir sem áður sem aðgengilegust almenningi, þó með ákveðin verndunarsjónarmið að markmiði.
Þessar tillögur er auðveldlega hægt að framkvæma í áföngum m.v. hvert svæði fyrir sig eða hvert á fætur öðru.
Lagt er til að þeim verði komið í framkvæmd samhliða lagningu fyrirhugaðs Suðurstrandarvegar og verði lokið áður en umferð verður hleypt á hinn nýja veg, sbr. fyrrnefndar tillögur Magnúsar Kristinssonar, fornleifafræðings.

Lokaorð

ísólfs

Gengið um Selatanga.

Í bók sinni Harðsporar lýsir Ólafur Þorvaldsson, sem manna best þekkti til Krýsuvíkur á síðari árum og hafði skoðað minjarnar og velt fyrir sér mögulegu fyrrum mannlífi í Húshólma og veltir vöngum yfir fyrri athugunum. “Vonandi tekst betur til, þegar þeir menn, sem þeim málum ráða, ganga á landamæri nútíðar og fortíðar í Húshólma, til þess að skera úr og ákveða, eftir þeim gögnum, sem þar kunna fram að koma, aldur og annað, sem máli skiptir, varðandi hina fornu byggð, sem þar hefur áður verið og lengi hefur legið óbætt hjá garði – að sá vettvangsdómur, sem þeir þar upp kveða, megi verða svo skýlaus og ákveðinn, að framtíðin þurfi ekki lengur um það efni að deila. Hér mun verða óvenjulegt efni til úrlausnar.”

Skilyrði fornleifauppgrafta í sumum nágrannalandanna er jafnan þau að í upphafi verði gert ráð fyrir hvernig eigi að lokum að gera almenningi kleift að skoða afraksturinn með aðgengilegum hætti. Má nefna Hjaltland og Orkneyjar sem dæmi. Einföld skýrsla á óskiljanlegu máli er ekki látin duga. Strax í byrjun er gert ráð fyrir að uppgröfturinn skili einhverju nýtanlegu – einhverju upplýsandi. Til þess þarf að gera slíkt svæði bæði aðgengilegt og áhugavert með stígagerð, merkingum og skiltum með helstu niðurstöðum. Með því að byggja upp þannig fyrirkomulag hér á landi myndi sýnileiki sögunnar, tengsl þjóðar við fortíð sína, verða markviss og áhrifin á menntastofnanir og ferðaþjónustuna myndu margfaldast frá því sem verið hefur.

Framangreint er unnið af Ómari Smára Ármannssyni – og er til í aðgengilegu ritgerðarformi, sem hann gaf Grindavíkurbæ – bænum að kostnaðarlausu á sínum tíma…

Heimildir m.a.:
-Bjarni F. Einarsson: Krýsuvík. Fornleifar og umhverfi – Fornleifastofan – 1998.
-Bjarni Einarsson – byggt á grein hans “Minjavernd er umhverfisvernd” á vefslóðinni http://www.mmedia.is/~bjarnif/frame.htm
-Bjarni F. Einarsson: Fornleifaskráning vegna mats á umhverfisáhrifum fyrirhugaðs Suðurstrandarvegar frá Þorlákshöfn að Grindavík. Lokaskýrsla – Reykjavík 2003.
-Bjarni F. Einarsson: Athugasemdir við umsagnir umsagnaraðila v/Suðurstrandarvegar – 2. mars 2001.
-Brynjúlfur Jónsson: Rannsókn í Gullbringusýslu og Árnessýslu sumarið 1902. Árbók hins íslenska fornleifafélags 1903 (bls. 48-50 og myndasíða IX) – Reykjavík 1903.
-Brynjúlfur Jónsson: Tillag til alþýðlegra fornfræða (bls. 101-102). Menningar og fræðasamband alþýðu – 1953.
-Eggert Ólafsson og Bjarni Pálsson: Ferðabók 1752-1757 – Reykjavík 1987.
-Einar Gunnlaugsson: Hraun á Krýsuvíkursvæði. B.S.-ritgerð við verkfræði- og raunvísindadeild Háskóla Íslands, bls. 79 – 1973.
-Gísli Oddsson: Annalium in Islandia Farrago and De Mirabilibus Islandiae,, Islandica 10: 1-84.
-Gísli Sigurðsson: Gönguleiðir út frá Krýsuvík. Landslag og leiðir – útvarpserindi, ódagsett.
-Gísli Þorkelsson: Setbergsannáll. Í: Annálar 1400-1800 (annals Islandici Posteriorum Sæculorum), 4. bindi 1-215 – Reykjavík 1940-’48.
-Gráskinna hin meiri: Tyrkjarán í Krýsuvík, bls. 257.
-Guðrún Gísladóttir: Environmental Characterisation and Change in South-western Iceland, bls. 111-124 – doktorsritgerð 1998.
-Haukur Jóhannesson og Sigmundur Einarsson: Krýsuvíkureldar I. Aldur Ögmundarhrauns og miðaldalagsins. Jökull no. 38, (bls. 71-85) – 1988.
-Jón Vestmann: Sóknarlýsing 1840
-Jónas Hallgrímson: Bréf og dagbækur, bls. 366– Reykjavík 1989.
-Kristinn Magnússon: Suðurstrandarvegur milli Grindarvíkur og Þorlákshafnar. Húshólmi – Garðabæ 23. júlí 2001.
-Krýsuvík: Örnefnalýsing – Örnefnastofnun, ódagsett.
-Landbúnaðarráðherra: Afsal af hluta af Krýsuvíkurlandi til Hafnarfjarðarbæjar – 20. febrúar 1941.
-Menningarminjar í Grindavíkurhreppi: Svæðisskráning, Orri Vésteinsson – 2001.
-Náttúruvernadrráð – Skrá um náttúruminjar á Suðvesturlandi – Tillaga um Ögmundarhraun – 1998.
-Jón Jónsson: Um Ögmundarhraun og aldur þess, bls. 193-197 – Reykjavík 1982.
-Ólafur E. Einarsson: Hamfarir í Húshólma – Morgunblaðið 4. september 1989.
-Ólafur E. Einarsson: Höfuðbólið Krýsuvík og fjórtán hjáleigur þess – Lesbók Mbl. 7. mars 1987.
-Ólafur Olavíus: Ferðabók 1775-1777 – Reykjavík 1965
-Ólafur Þorvaldsson: Krýsuvíkurkirkja að fornu og nýju – Alþýðublað Hafnarfjarðar, jólablað 1961.
-Ólafur Þorvaldsson: Harðsporar, bls. 115-120 – Reykjavík 1951.
-Reglugerðð um þjóðminjavörslu: 23. gr. – 1998.
-Stefán Stefánsson: Krýsuvík og Krýsuvíkurland, fyrri hluti – Sunnudagsblað Timans 25. júní 1967.
-Stefán Stefánsson: Krýsuvík og Krýsuvíkurland, seinni hluti – Sunnudagsblað Tímans 2. júlí 1967.
-Sveinn Pálsson: Ferðabók, dagbækur og ritgerðir 1791-1797, bls. 659-660 – Reykjavík 1983.
-Sveinbjörn Rafnsson: Frásögur um fornaldarleifar 1817-1823. Fyrri hluti (bls. 227). Stofnun Árna Magnússonar – Reykjavík 1983.
-Sveinbjörn Rafnsson: Um aldur Ögmundarhrauns. Eldur í norðri. Afmælisrit helgað Sigurði Þórarinssyni sjötugum 8. janúar 1982 (bls. 415-424) – Sögufélag, Reykjavík 1982.
-Tómas Tómasson: Eldsumbrot á Reykjanesi, Faxi 8, 3. tbl, bls. 10, 4. tbl. bls. 6-7 og 5. tbl. bls. 3-4 – 1982.
-Vegagerð ríkisins: Suðurstrandarvegur. Mat á umhverfisáhrifum – 2001.
-Þorleifur Einarsson: Jarðfræði Reykjavíkur og nágrennis – Reykjavík 1974.
-Þorvaldur Thoroddsen: Ferðabók 1883, bls. 180 – Reykjavík 1925.
-Þjóðminjalög: 11. grein – 2001

Aðrar heimildir:
-http://www.nat.is/travelguide/ahugav_st_ogmundarhraun.htm
-http://www.fornleifavernd

Stoðhola

Eldvörp

Vefurinn „VisitReykjanes“ gaf út „göngukort„; Reykjanes-HikingMap, sem leiðbeina átti áhugasömu fólki um útivist að dásemdum Reykjanesskagans. Kortið og upplýsingarnar eru sæmilegar til síns brúks:

1. Arnarsetur

Arnarseturshraun

Arnarseturshraun – hrauntjörn.

Fremur stutt gossprunga (2 km) með gjall- og klepragígum. Hraun frá henni (um 20 ferkm) er stórskorið og þar eru hraunhellar og ummerki um mannvistir. Eldgosið er úr seinni hluta rek- og goshrinunnar Reykjaneseldar á árabilinu 1210-1240.

2. Brennisteinsfjöll

Brennisteinsfjöll

Brennisteinsfjöll – Kistufellsgígur.

Stór þyrping móbergsfjalla frá síðari hluta ísaldar. Efst er hraundyngjan Kistufell. Fjöllin eru skorin nokkrum gossprungum með nútíma gígaröðum en þó ekki yngri en landnám. Háhitasvæði er norðan í fjöllunum. Þar var numinn brennisteinn nálægt 1880.

3. Djúpavatn/Spákonuvatn/Arnarvatn

Djúpavatn

Djúpavatn.

Þrjú stöðvötn í móbergshryggjunum Vesturhálsi og Sveifluhálsi, að mestu með grunnvatni. Djúpavatn er við samnefnda ökuleið, að hluta eldgígur. Spákonuvatn við Sogin er sprengigígur, eins og Arnarvatn við göngustíg yfir Sveifluháls.

4. Eldborg við Höskuldarvelli

Eldborg

Eldborg undir Trölladyngju.

Norðvestur af Höskuldarvöllum, sléttu graslendi við rætur Grænudyngju og Trölladyngju, rís stór gjall- og klepragígur, eldri en landnám. Gígurinn er skemmdur eftir efnisnám. Jarðhitagufur stíga upp við gíginn.

5. Eldborg við Geitahlíð

Eldborg

Eldborg undir Geitahlíð.

Forsöguleg gossprunga skerst inn móbergsstapann Geitafell með fimm gígum. Eldborg er þeirra langstærstur og brattastur, úr gjalli en einkum kleprum. Austur úr honum liggur myndarlegur hraunfarvegur, hrauntröð.

6. Eldvörp

Eldvörp

Í Eldvörpum.

Um 10 km löng gígaröð í skástígum hlutum úr gos- og rekhrinunniReykjaneseldum 1210-1240, ásamt um 20 ferkm hrauni. Jarðhiti er á yfirborði við miðbik raðarinnar og ein rannsóknarborhola. Mannvistarleifar eru hér og var við Eldvörp.

7. Grænadyngja/Trölladyngja

Trölladyngja

Trölladyngja á Reykjanesskaga.

Brött móbergsfjöll vestan við Sog. Ungar gossprungur umlykja þau og háhitasvæði eru þar nálæg. Apalhraun runnu frá gosstöðvum suður til sjávar við Reykjanesbraut, t.d. Afstapahraun.

8. Hafnarberg

Hafnarberg

Hafnarberg.

Há og löng sjávarbjörg, að mestu úr hraunlögum, sunnan við gömlu verstöðina Hafnir. Nokkrar tegundir sjávarfugla verpa í þverhnípinu. Merkt og vinsæl gönguleið liggur þangað frá vegi að Reykjanesi.

9. Háleyjarbunga

Háleyjarbunga

Háleyjarbunga.

Lítil og flöt hraundyngja með stórum toppgíg, 20-25 m djúpum, eftir flæðigos. Hún er 9.000 ára gömul eða eldri, og úr frumstæðri basalttegund úr möttli sem nefnist pikrít. Grænir ólivínkristallar eru áberandi.

10. Hrafnagjá

Hrafnagjá

Hrafnagjá.

Siggengi á togsprungu, 12 km langt og allt að 30 m hátt. Það er lengsta brotalínan af þeirri gerð á Reykjanesskaga og sést af Reykjanesbraut. Gjáin er hluti dæmigerðs sigdals skammt frá Vogum.

11. Hrólfsvík

Hrólfsvík

Hrólfsvík.

Lítil vík, þekkt sem fundarstaður hraunmola með hnyðlingum, þ.e. grófgerðum djúpbergsmolum úr gabbróinnskoti. Hraunið er af óvissum aldri og uppruna.

12. Hrútagjáardyngja

Hrútargjárdyngja

Hrútargjárdyngja.

Hraundyngja, 6.000-6.500 ára, ásamt 80- 100 ferkm hrauni; alls rúmir 3 rúmkílómetrar. Hún er með stórum toppgíg og skorin djúpum gjám sem kunna að vera merki um ris vegna kvikuinnskota.

13. Hvassahraunskatlar

Hvassahrauns

Hvassahraunskatlar.

Hraundrýli í hrauni úr Hrútagjárdyngju. Þau myndast jafnan við öflugt gasútstreymi nálægt eldgíg en í þessu tilviki um 10 km frá dyngjuhvirflinum.

14. Katlahraun

Katlahraun

Í Katlahrauni.

Hraun sem rann í sjó fram fyrir um 2.000 árum, hlóðst upp við ströndina vegna fyrirstöðu. Stór, hringlaga hrauntjörn myndaðist en tæmdist eftir að hlutar hennar höfðu storknað. Eftir standa margvíslegar hraunmyndanir.

15. Kerlingarbás

Önglabrjótsnef

Berggangur í Kerlingarbás.

Leifar þriggja stórra gjóskugíga, 800 til 2.000 ára gamalla. Ofan á þeim liggja hraunlög, það efsta úr Yngri Stampagígum, úr Reykjaneseldum, eins og tvö yngstu gjóskulögin. Berggangar skera gjóskuna.

16. Lambafellsgjá

Lambafellsgjá

Í Lambafellsgjá.

Lambafell myndaðist sennilega á næst síðasta jökulskeiði. Toghreyfingar vegna plötuskriðs hafa klofið fellið. Í norðri opnast 150 m löng og 50 m djúp gjá en aðeins 3-6 m breið, með veggjum úr bólstrabergi. Gjáin er vel fær.

17. Méltunnuklif

Méltunnuklif

Méltunnuklif.

Lágt klettabelti með ólíkum jarðlögum, móbergi (palagónít túffi), gamalli jökulurð, millilögum, hraunlögum og einum roffleti; samtals ágætt yfirlit yfir helstu þætti í myndunarsögu Reykjanesskagans.

18. Rosmhvalanes

Rosmhvalanes

Á Rosmhvalanesi.

Stórt flatlendi með elstu jarðlögum Reykjanesskagans. Yfirborðslögin eru úr dyngjuhraunum, mjög jökulsorfnum. Myndunartíminn er talin vera tvö síðustu hlýskeið ísaldar sem gengu yfir fyrir 120.000 (Eem) til 240.000 árum (Saale).

19. Sandfellshæð

Sandfellshæð

Sandfellshæð.

Ein stærsta hraundyngja Reykjanesskagans. Hraunbreiðan úr henni nær vel yfir 100 ferkm. Toppgígurinn er stór en grunnur. Eldstöðin er um 14.000 ára en þá stóð sjór 30 m lægra en nú.

20. Skálafell

Skálafell

Skálafell á Reykjanesi.


Samsett eldstöð sem hlóðst upp fyrir 3.000 til 8.000 árum í fáeinum eldgosum. Efst er reglulegur gjall- og klepragígur. Misgegngi í grendinni mynda austurjaðar Reykjaneseldstöðvakerfisins og gos- og rekbeltisins á Suðvesturlandi.

21. Sog

Sog

Í Sogum.

Fáein vatnssorfin gil og lágir hryggir suðvestan við Trölladyngju mynda sundursoðið, myndbreytt og litríkt svæði eftir virka háhitahveri. Þar er töluvert um gufuaugu, vatnshveri og leirhveri.

22. Stampar

Stampar

Gígar í Yngra- Stampahrauni.

Tvær samsíða gossprungur með fjölda gjall- og klepragíga á Reykjanesi, nálægt Reykjanesvirkjun. Eldri gígarnir og hraun eru 1.800 til 2.000 ára en hinir urðu til í Reykjaneseldum, langri gos- og rekhrinu 1210-1240, ásamt 4,6 ferkm hrauni.

23. Sundhnúkaröð

Sundhnúkar

Sundhnúkar.

Gígaröð sem reis á gossprungu fyrir um 2.300 árum. Hraun frá henni rann til sjávar, m.a. þar sem nú er Grindavík. Þar voru ágætar bátalendingar í lóni sem smám saman þróaðist til góðrar hafnar og þéttbýlisins.

24. Sveifluháls

Sveifluháls

Á Sveifluhálsi.

Einn af lengstu og stærstu móberghryggjum jarðvangsins. Hann geymir góðan þverskurð af ásýndum móbergsmyndunar; lagskipt móberg (túff), þursaberg (breksju) og bólstraberg. Allt ber þetta vitni um átök kviku, jökulíss og vatns.

25. Þráinsskjöldur

Þráinsskjöldur

Þráinsskjöldur – gígurinn.

Stór og flöt hraundyngja, vel sjáanleg af Reykjanesbraut. Hún liggur langan veg yfir helluhraun hennar. Það er yfir 130 ferkm að flatarmáli og rúmmál gosmyndunarinnar a.m.k. 5,2 rúmkm. Dyngjan er talin um 14.000 ára gömul.

26. Ögmundarhraun

Ögmundarhraun

Ögmundarhraun – dys Ögmundar.

Stór hraunbreiða frá 1151. Hún er syðsti hluti nokkru yngri hrauna úr rek- og goshrinunni Krýsuvíkureldum (1151-1180). Gossprungan nær sundurslitin um 25 km til norðausturs. Ögmundur var sagður berserkur sem lagði veg um hraunið.

27. Brimketill

Brimketill

Brimketill – Oddnýjarlaug.

Lítil náttúrulaug í rofdæld með sjó, án jarðhitavirkni, við ströndina vestan við Grindavík. Þarna á skessan Oddný að hafa setið á góðum stundum.

28. Brú milli heimsálfa

Brú milli heimsálfa

Brú milli heimsálfa.

Táknræn göngubrú liggur yfir togsprungu sem rekja má til gliðnunar jarðskorpu vegna plötu-(fleka-)reks um Mið-Atlantshafshrygginn. Meðalrekhraðinn er um 2 cm/ár en hreyfingarnar verða í hrinum með mislöngu bili.

29. Eldey

Eldey

Eldey.

Eldey reis úr sjó í gjóskugosi og er gerð úr lagskiptu móbergi, 77 m há, um 15 km frá landi úti á Reykjaneshrygg sem er hluti Mið-Atlanshafshryggjarins. Aldur hennar er óþekktur. Um 18.000 súlupör halda sig á 0,3 ferkm flötu landi.

30. Gunnuhver

Gunnuhver

Gunnuhver.

Þyrping ólgandi leir- og gufuhvera á Reykjanesi. Þeir breytast með tíma. Þyrpingin varð til að nokkru eftir jarðskjálftahrinu 1967. Heitið vitnar um sögu af illræmdum draug, Gunnu, sem sökkt var með blekkingum ofan í hver.

31. Festarfjall/Hraunsvík

Festarfjall

Festarfjall og Hraunsvík.

Móbergsfjall eftir eldgos undir jökli, sennilega á síðasta jökulskeiði ísaldar. Sjávararof hefur afhjúpar háan þverskurð af móbergi, brotabergi og bóstrabergi ásamt aðfærslugangi kviku. Hann er sagður vera silfurfesti tröllskessu.

32. Hópsnes

Grindavík

Grindavík – Hópsnes- og Þórkötlustaðanes.

Lítið nes við Grindavíkurbæ, myndað við hraunrennsli frá gígaröð kenndri við Sundhnúk. Hraunið á hlut í góðum hafnarskilyrðum við bæinn.

33. Húshólmi

Húshólmi

Húshólmi – skáli.

Óbrinnishólmi (kipuka), land sem Ögundarhraun náði ekki af kaffæra árið 1151. Þar getur að líta rústir býlis og kirkju, auk hlaðinna veggja. Hluti húsanna og mest allt ræktarland hvarf í hraunið.

34. Keilir/Keilisbörn

Keilir

Keilir.

Keilulaga móbergsfjall tengt við lágan hrygg, Keilisbörn. Gosmyndunin kom undan ísaldarjökli á sínum tíma. Keilir er einkennisfjall Reykjanesskagans, vegna lögunar, og það er gamalt mið af sjó.

35. Kleifarvatn

Kleifarvatn

Kleifarvatn.

Stærsta stöðuvatn Reykjanesskagans, 9,1 ferkm og 97 m djúpt. Það fyllir í dæld milli Brennisteinsfjalla og móbergshryggjarins Sveifluhálss. Smálækir renna í það en aðeins grunnvatn úr því. Sagt er að þar búi svartur
risaormur.

36. Mannvistarleifar við Eldvörp

Eldvörp

Eldvörp – byrgi.

Ýmsar mannvistarleifar er af finna í Eldvarpahrauni; þrjá þjóðstíga milli byggða og þyrpingu kofa úr hraungrýti. Óvíst er um tilgang þeirra en varla unnt að samþykkja sögusagnir um útilegumenn.

37. Ósar

Ósar

Ósar.

Vogur með mörgum skerjum og hólmum við Hafnir. Í þorpinu er uppgrafnar rústir af norrænni eða keltnskri útstöð. Ósar eru verndarsvæði vegna fuglalífs og áhugaverðs sjávarvistkerfis.

38. Pattersonflugvöllur

Patterssonsvöllur

Lífsstöðugrjót við Patterssonsvöll.

Undir gömlum flugvelli er að finna þjappað sjávarset með lítið steingerðum skeljum. Algengasta tegundin er sandmiga (smyslingur), 20.000 –
22.000 ára gamlar leifar vistkerfis frá því skömmu fyrir hámark síðasta jökulskeiðs.

39. Selatangar

Selatangar

Selatangar – sjóbúðir.

Lágir hrauntangar með rústum af verbúðum, að mestu úr hraungrýti. Auk þeirra eru þar fiskibyrgi, bæði til að þurrka fisk og geyma. Verstöðin var notuð frá því á miðöldum allt til 1884.

40. Snorrastaðatjarnir/Háibjalli

Snorrastaðatjarnir

Snorrastaðasel við Snorrastaðatjarnir.

Háibjalli er 10 m hátt siggengi næst Snorrastaðatjörnum. Þarna er gróskumikið og vinsælt útvistarsvæði, og farfuglar hvílast þar á leið sinni.

41. Sogasel

Soagsel

Sogasel í Sogaselsgíg.

Rústir af seli (sumarkofa þar sem fólk hafi auga með sauðfé á beit); skammt frá Grænudyngju og Sogum. Selið er sérstætt vegna þess að það var byggt inni í stórum gjallgíg.

42. Svartsengi

Svartsengi

Háhitasvæðið í Svartsengi.

Eitt af helstu háhitasvæðum á Reykjanesskaga. Þar er framleitt rafafl á landsnetið og heitt vatn til byggða á skaganum. Afrennsli frá virkjuninni er notað í Bláa lónið en auðlindagarðurinn er fyrirtaks dæmi um heildræna nýtingu jarðvarma.

43. Valahnúkar/Valabjargargjá/Valahnúksmöl

Valahnúkur

Valahnúkar og Valahnúkamöl.

Hér mætast þurrlendið og Mið-Atlantshafshryggurinn. Valahnúkur er rofið móbergsfell með bólstrabergi og þursabergi. Valabjargargjá er stórt siggengi og Valahnúksmöl, úr hnullungum, girðir fyrir lítinn sigdal austan við Valahnúk.

44. Þorbjarnarfell

Þorbjarnarfell

Þorbjarnarfell (Þorbjörn).

Stakt móbergsfjall norður af Grindavík. Misgengi þvera það og mynda grunnan sigdal. Hluti hans kallast Þjófagjá eftir 15 misyndismönnum sem þar eiga að hafa dvalist.

45. Básendar

Básendar

Básendar – húsgrunnur.

Gríðarmikil fárvirðri, við háflóð, olli versta sjávarflóði í manna minnum á Suðvesturlandi árið 1799. Heitið, Básendaflóð, er komið af lítilli verslunar- og verstöð. Þar breyttist ströndin til mikilla muna og byggðin eyddist að
mestu.

46. Drykkjarsteinn

Drykkjarsteinn

Drykkjarsteinn.

Stór steinn við þjóðleiðina milli Krýsuvíkur og Grindavíkur. Í honum eru þrjár holur. Sagnir herma að ein sé fyrir hunda, önnur fyrir menn og sú þriðja handa hestum. Ferðalangar áttu að geta treyst á að komast þarna í drykkjarvatn.

47. Garðskagaviti

Garðskagaviti

Garðskagaviti.

Eldri vitinn er reistur 1897 en hinn var byggður 1944. Áður hafði stóra varða verið hlaðin á skagatánni og 1884 var sett í hana ljósker. Svæðið er mikilvægt fyrir farfugla.

48. Gálgaklettar

Gálgaklettar

Gálgaklettar í Hagafelli.

Efst á Þorbjarnarfelli við Grindavík eru háir móbergsklettar með þessu heiti. Þjóðsaga hermir að þar hafi staðbundnir þjófar verið teknir af lífi.

49. Hvalsneskirkja

Hvalsneskirkja

Hvalsneskirkja.

Vel viðhaldin kirkja og kirkjugarður frá árinu 1887. Kirkjan er byggð úr tilhögnu grágrýtishrauni (basalti) sem fengið var í nágrenninu. Hluti innviða
eru úr rekatimbri. Systurkirjkuna er að finna í Njarðvík.

50. Reykjanesviti

Reykjanesviti

Reykjanesviti.

Vitinn er elsti viti í fullri notkun á landinu, frá 1908. Lengst af var þar vitavörður og bóndi að störfum og má sjá ummerki eftir búskap víða í nágrenninu. Nú er vitanum að mestu fjarstýrt.

51. Skagagarðurinn

Skagagarður

Skagagarðurinn.

Leifar af mjög löngum og háum garði síðan á fyrri hluta Þjóðveldisaldar (870-1000). Hann var byggður úr tofi og grjóti til að aðskilja húsdýr, tún og akra. Garðurinn er mjög siginn og hefur víða horfið með öllu.

52. Staðarborg

Staðarborg

Staðarborg.

Hringlaga fjárgeymsla en án þaks. Hún er rúmlega 2 m há, 8 m í þvermál og 35 m að ummáli og vandlega hlaðin úr flötu hraungrýti. Aldurinn er óþekktur en talinn í nokkrum öldum.

53. Vigdísarvellir

Vigdísarvellir

Vigdísarvellir – Krýsuvíkur-Mælifell fjær.

Víðir, flatir grasvellir við rætur móbergshryggja. Þar sjást rústir tveggja smábýla sem minna á forna búskaparhætti á hálendi. Yngri bærinn var yfirgefinn eftir harða jarðskjálfta 1905.

54. Vogur í Höfnum

Hafnir

Skálinn í Höfnum.

Rústir elstu byggðar á Reykjanesskaga. Aldursgreind til 9. aldar. Þarna eru hefðbundinn skáli og smáhýsi. Ef til vill er um að ræða útstöð landkönnuða, svipaða byggingum norrænna manna á Nýfundnalandi.

55. Þórshöfn

Þórshöfn

Áletrun á klöpp við Þórshöfn.

Einn helsti 15. og 16. aldar verslunarstaður Þjóðverja á Íslandi. Á 18. öld tóku skip að nýta höfnina að nýju, en smám saman varð þar fáfarnara eftir því sem höfnin í Sandgerði batnaði.

Heimild:
-https://www.visitreykjanes.is/static/files/pdf/Reykjanes_HikingMap.pdf

Göngukort

Göngukortið.

Húshólmi

Gengið var inn í Húshólma um Húshólmastíg (1.1 km). Með í för var m.a. hinn mæti Grindvíkingur Dagbjartur Einarsson. Skoðað var aðhald austast í hólmanum, stekkur eða rétt og brunnur sem og hugsanlegar seltóftir. Þá var litið á grenið nyrst sem og skotbyrgi refaskyttunar, auk gróins gerðis í hraunkrika. Allt eru þetta nýlegri minjar í hólmanum, en engu að síður minjar manna, sem þar voru í ákveðnum erindagjörðum, hvort sem var að sitja yfir ám eða liggja fyrir ref.

Húshólmi

Húshólmastígur um Ögmundarhraun.

Skammt vestar er forn fjárborg. Hún var skoðuð. Gengið var að fornum garði er legið hefur þvert yfir hólmann, en hefur nú látið verulega á sjá. Garðurinn er heillegastur að norðvestanverðu, næst hraunkantinum. Þá var gengið að bogadregnum garði skammt sunnar. Honum var fylgt inn í hraunið uns komið af að hinu fornu minjum ofan við Kirkjulág. Um er að ræða tvo skála. Hraunið frá 1151 hefur umlukið þann nyrðri. Í honum sjást stoðholur eftir miðju tóftar, jafnvel tvöföld. Svo virðist sem hraunið hafi einni brennt torfið utan af tveimur eða þremur hringlaga byggingum skammt suðaustan hans.
Meginskálinn virðist vera með sveigðum veggjum. Dyraop er mót suðri, en við austurenda hans er bygging. Dyraop er þar einnig mót suðri.
Í Kirkjuláginni eru garðar, tóft áætlaðrar kirkju sem og hugsanlegur skáli vestan hennar. Torfhlaðnir bogadregnir veggir eru norðan og austan hennar. Þeir umlykja og kirkjutóftina.

Brúnavörður

Brúnavörður að baki.

Vestan hennar er stígur er liggur að Brúnavörðunum, á hraunkantinum að suðvestanverðu. Hann er flóraður að hluta. Sagt er að sonur Guðmundar Bjarnasonar frá Krýsuvík hafi lagt stíginn, en áður hafi forn stígur úr Húshólma legið að Selatöngum sjávarmegin, en hann lagst af við áganginn.
Þar er fornt garðlag, forn fjárborg sem og hugsanlega tóft topphlaðins húss. Ofar og norðar í hólmanum er hlaðinn veggur er hraunið hafði stöðvast við fyrrnefnt ár. Skammt ofar í hrauninu er nýrra hringlaga skjól.
Húshólmastígur hefur greinilega verið mikið notaður í gegnum tíðina því óvíða má sjá markað í jarðfast grjót, en víðast hvar hefur grjóti verið kastað úr götunni og myndar smærra grjót undirlagið. Hann er auðveldur umferðar. Þegar komið er í Hólmann er við enda hans fyrirhleðsla til að varna því að fé leitaði eftir stígnum og út úr Hólmanum.

Húshólmi

Húshólmi – stekkur.

Í líklegum brunni ofarlega í hólmanum virðast vera hleðslur. Þar skammt frá er réttin eða stekkurinn, auk annarra ógreinilegra mannvirkja, s.s. lítil tóft og hlaðið hringgerði.
Megingarðarnir í Húshólma eru gerðir úr torfi. Undirlagið var steinhlaðið. Þvergarður um Kirkjuflötina virðist þó hafa verið hlaðinn með grjóti.
Efst er þvergarður til austurs og vesturs. Hraunið hefur runnið yfir hann vestast. Annar garður liggur skammt sunnar til suðausturs og í boga til suðvesturs. Á hann er þvergarðurinn. Innan hans að norðanverðu er skeifulaga gerði. Það sést best þegar sólin er tiltölulega lágt á lofti. Heitir þar Kirkjuflöt.
Á meginminjasvæðinu í hrauninu vestan Húshólma virðast vera þrír, skálar, kirkjutóft og garðar. Í nyrsta skálanum er stoðholuröð, sennilega tvöföld, miðskálinn er heillegur af útlitslínum að dæma og sá syðsti er þvert á þá efri. Austan við hann er kirkjutóftin, í svokallaðri kirkjulág. Til austurs frá henni inn í Húshólma liggur kirkjugatan.

Húshólmi

Beinteinsbúð í Húshólma.

Tóft (Beinteinsbúð) er skammt ofan rekagötuna niður að Hólamsundi. Hún gæti verið frá verið Krýsuvíkurbænda við útfræði þar árið 1917. Annars gerðu þeir fyrrum út frá Selatöngum. Húshólmastígur og stígurinn að Brúnavörðunum sem og stígurinn upp með vestanverðu Ögmundarhrauni gæti verið gömul vergata þeirra, en þá hefur Húshólminn verið á 1/3 leiðarinnar og þeir þá átt um 2/3 hennar eftir. Ekki er með öllu útilokað að einhverri tóftinni við Húshólma hafi enn verið haldið við sem skjóli á þeirri leið, t.d. kirkjutóftinni.
Frá því að fyrst var farið að búa í Krýsuvík, sem nú er, og fram á síðstu ár (ritað 1951), hafa alltaf verið þar menn, sem vissu að í Húshólma hefur endur fyrir löngu verið byggð, og hún ekki alllítil, svo sem sjá má af húsarústum og öðrum ummerkjum, sem eru þar enn í dag. Húshólmi – eða staður sá, sem svo hefur verið nefndur um langan aldur, er austast í Ögmundarhrauni, er það óbrenndur heiðalandsblettur, um 25-30 ha að stærð.

Húshólmi

Húshólmi – skáli.

Hinum sýnilegu minjum í Húshólma, sem vitna það í þögn sinni, en þó svo glöggt, að ekki verður um villst, að það hafi fólk búið endur fyrir löngu, hefur hraunflóðið þyrmt, þegar það beljaði þarna fram ís jó, yfir stórt og sennilega fagurt land og gott ásamt byggð, sem enginn veit, hve mannmörg hefur verið. – Þegar staðnæmst er við þessar fornu húsarústir, þá hlýtur hver hugsandi maður að fyllast undrun yfir þeirri algjöru þögn, sem svo rækilega hefur fram á þennan dag hvílt yfir þeim atburðum, sem hér hafa gerst.
Eggert Ólafsson segir í ferðabók sinni um jarðelda í Trölladyngju: “Að minnsta kosti er það víst, að krýsvíkingar kunna að segja frá ægilegum jarðeldi, er brann í fjöllum þessum í fornöld. Eldflóðið féll í sjó niður og eyddi nokkrum bæjum á því svæði, sem nú heitir Ögmundarhraun. Meðal þeirra var kirkjustaður, sem Hólmastaður hét, og sjást þar enn minjar kirkjugarðsins og húsatóftanna.”

Húshólmi

Skáli við Húshólma.

Þorvaldur Thoroddsen segir í ferðabók sinni um rústirnar í Húshólma: “Ein sú lengsta er 49 fet, en breidd hennar sést ei fyrir hrauni.” Og ennfremur segir hann: “Þessar tóttir, sem hraunið hefur runnið yfir, eru full sönnun fyrir því, að það hefur myndast síðan land byggðist, þótt hvergi finnist þess getið í sögum eða annálum.” Einnig getur Þorvaldur um allmarga garða, sem sjáist þar enn. Hann segir um Ögmundarhraun, að Jónas Hallgrímsson hafi giskað á, að það hafi runnið í kringum 1340, “án þess þó að færa heimildir fyrir því”.
Brynjúlfur Jónsson frá Minna-Núpi skrifar í Árbók Hins ísl. fornleifafélags 1903 um Húshólma og fornminjarnar þar. Þar getur hann garða og húsarústa á svipaðan hátt og Þorvaldur Thoroddsen. Í greins inni kemst Brynjúlfur þannig að orði á einum stað: “Krýsuvík hefur til forna staðið niður undir sjó, fyrir vestan endann á Krýsuvíkurbjargi. Nafnið Krýsuvík bendir til þess.” Brynjúlfur er sá eini af þessum þremur fræðimönnum, sem minnist á og telur víst, að Krýsuvík hafi verið upphafalega þar, sem nú er Húshólmi.

Húshólmi

Húshólmi – stoðhola.

Það, sem einkum styður þá kenningu, að Krýsuvíkin hafi í upphafi staðið við sjó, er aðallega þetta: Nafn byggðarinnar – Krýsuvík, eins og Brynjúlfur Jónsson bendir á, því að lítt hugsanlegt er, hafi byggðin staðið frá landnámi þar, sem nú er, að hún hefði þá fengið þetta nafn, því að þar er ekki um neina vík að ræða, ekki einasta að byggðin sé það nærri Kleifarvatni, að nafnið gæti þaðan verið komið. Í öðru lagi eru það hinar miklu húsarústir og önnur verksummerki í Húshólma, með nöfnum svo sem Kirkjuflöt og Kirkjulág. Nöfn þessi benda til, að þar hafi kirkja verið, en aldrei mun getið nema einnar kirkju í Krýsuvík, og er að ég hygg fyrst getið í máldaga 1275, en prests getið þar snemma á 14. öld. Mun þetta hvort tveggja áður en Ögmundarhraun myndaðist.

Húshólmi

Í Húshólma.

Nú mun vera vaknaður nokkur áhugi fyrir hinum fornu rústum í Húshólma. Vonandi tekst áður en langur tími líður að lyfta þeim huliðshjálmi, sem fram að þessu hefur hvílt yfir leifum þessara fornu byggðar, þessum leifum, sem segja má, að neitað hafi að láta ægivald elds og hrauns undiroka sig, til þess að síðar, þegar við værum þess umkomin, gætum lesið sögu þessara byggðar og að einhverju leyti sögu þess fólks, sem þarna lifði og starfaði – og “sat meðan sætt var”.

Strjálir munu róðrar hafa verið frá Húshólma síðustu aldirnar. Þó munu menn stöku sinnum hafa lent þar bátum sínum, einkum á seinni árum, til þess að sækja timbur og annað það, sem á land hefur þar skolað, því rekasælt er í Hólmanum í góðum rekárum.

Húshólmi

Húshólmi – skáli.

Eins hefur það borið við, að sjóhraktir menn hafa náð þar landi. Þannig tók þar land um eða laust fyrir 1920, skipshöfn af selveiðiksipinu “Kóp”, sem sökk út af Krýsuvíkurbjargi á leið til Austurlands með saltfarm.
Skipshöfnin barði skipsbátnum í norðanbáli og kulda vestur með landi, en landtaka víst vart hugsanleg fyrr en í Húshólma, enda norðanáttin besta áttin þar. Þeir lentu í Húshólma heilum bát sinum, settu hann undan sjó, gengu svo – einhverjir eða allir – til Krýsuvíkur, því að allir komust þeir þangað og fengu þar og í Stóra-Nýjabæ, sem voru einu bæirnir í byggð þá.
Þær viðtökur og viðurgerning, sem Íslendingar eru svo þekktir fyrir þegar svo stendur á, ekki einasta hérlendis, heldur og allvíða erlendis.

Húshólmi

Húshólmi – garður.

Vitað er það, að Krýsvíkingar höfðu á síðari öldum útræði nokkurt, en þeir reru ekki út úr Húshólma, heldur frá Selatöngum, sem liggja fjær en tvennar vegalengdir í Húshólma, og hefur þetta vitanlega orsakað af því einu, að eins og þá var komið, mun ófært hafa verið talið útræði úr Húshólma, en gott frá Selatöngum að öðru leyti en því, að vatnslaust má telja þar, en oftast nægt vatn í Húshólmanum.
Svo var það sumarið 1917, að bændur í Krýsuvík tóku að hugsa til fiskiróðra út frá Húshólma. Ekki var hér um stórútgerð að ræða, enda ætlaði eigandinn að taka á sig tapið, ef eitthvert yrði, svo sem þeir munu enn gera, sem sjósókn stunda á opnum fleytum. Í Krýsuvík bjó þá Þorvarður Þorvarðarason, með systur sinni Hallbjörgu. Í Stóra-Nýjabæ bjó Guðmundur Jónsson.
Gata lá frá Krýsuvík niður í Húshólma og í gegnum Ögmundarhraun, áleiðis yfir á Selatanga.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín.

Heimildir m.a.:
-Ólafur Þorvaldsson – Harðsporar 1951.
-Ferðabók Eggerts Ólafssonar.
-Ferðabók Þorvaldar Toroddsens, I, bls. 186.

Húshólmi

Húshólmi – uppdráttur ÓSÁ.

 

Húshólmi

„Austan við Grindavík, í miðju Ögmundarhrauni skammt austan Selatanga, er að finna afar merkilegar fornminjar, svonefndan Húshólma, þar sem glögglega má sjá fornar rústir, hús og garða en talið er að þær geti verið frá fyrstu tíð landnáms. Líklega hefur þar verið búseta fram á miðja 12. öld. Litlar sem engar rannsóknir hafa verið gerðar á rústunum en þær eru friðlýstar.

Hush

Þær litlu rannsóknir sem þar hafa verið gerðar benda til þess að þorpið geti verið með elstu þekktu mannvistarleifum á landinu.
„Sennilega eru þetta almerkilegstu fornminjar á landinu. Ég hef reynt að vekja athygli Fornleifaverndar ríkisins á þessu. En þeir virðast álíta að fornminjar séu best geymdar niðurgrafnar. Þetta er stórmerkilegt svæði, að sjá garðana og tóttir gömlu kirkjunnar sem líklega hefur staðið þarna fram á 15. öld. Bærinn fór í eyði um 1150 og þetta hlýtur að vera einstakt tækifæri fyrir fornleifafræðinga að geta flétt ofan sögunni frá miðri 12. öld og niður,“ segir Ólafur Örn Ólafsson, bæjarstjóri í Grindavík í samtali við Víkurfréttir. Aðspurður telur hann fjárskort helst hafa hamlað því að ráðist yrði í fornleifauppgröft í Húshólma auk þess sem önnur svæði hafi verið ofar á forgangslistanum. „En þetta hlýtur að teljast afskaplega forvitnilegt svæði. Það veit enginn hversu stór hluti þorpsins fór undir hraunið,“ segir Ólafur.
HusholmTalið er að hraunið hafi runnið yfir allnokkra byggð en skyldi eftir óbrennishólma í miðju hraunrennslinu. Í dag má sjá þar leyfar nokkurra húsa og hefur eitt þeira líklega verið kirkjan en örnefnið Kirkjulág bendir eindregið til þess. Sjá má hleðslur fornra garða, fjárborgar, lítillar réttar eða stekks og fleira.
Ómar Smári Ármannson hefur tekið saman ýmsar heimildir um þetta svæði sem lesa má um á vefnum ferlir.is. Hann telur ekki ólíklegt að rannsóknir á Húshólma „gætu haft áhrif á hina stöðluðu ímynd af landnámi hér á landi,“ eins og hann kemst að orði í einum pistla sinna. „Það er jafnframt ein helsta skýringin á því hvers vegna ekki hafa þegar verið hafnar skipulegar rannsóknir á svæðinu,“ segir Ómar Smári ennfremur.
Svæðið hefur oft verið nefnt Gamla Krýsuvík en elstu skráðar heimildir um minjarnar eru frá byrjun 17. aldar. Í Óbrennishólma, sem er skammt norðvestar í Ögmundarhrauni eru einnig minjar stórrar fjárborgar, tóft og garðar sem hraunið stöðvaðist við.
Á þessum loftmyndum Oddgeir Karlssonar sést glögglega hvernig hraunið hefur runnið allt í kringum kirkjustæðið forna. Engin veit í rauninni hversu stór byggðin var og hve mikið af henni fór undir hraunið. Né heldur hvaða fólk bjó þarna. Sagan bíður eftir því að vera rannsökuð.“
Við þetta má bæta að gerðar hafa verið skýrslur um svæðið sem og tillögur um rannsóknir, aðgengi, merkingar og upplýsingar á vettvangi – fyrir daufum eyrum hingað til a.m.k.

Heimild:
http://www.grindavik.is/v/5049

Húshólmi

Skálatóft í Húshólma.

Húshólmi

Gengið var eftir stíg austur Ögmundarhraun frá Lat, neðan Óbrennishólma og inn í Húshólma eftir stíg frá Brúnavörðum ofan við Miðreka. Stígurinn hefur verið flóraður á köflum. Hann kemur inn í Húshólma við minjarnar, sem eru þar vestan við hólmann. Haukur Jóhannesson og Sigmundur Einarsson skrifuðu um „Krýsuvíkurelda – Aldur Ögmundarhrauns og miðaldalagsins“ í Jökul árið 1988:

Óbrennishólmi

Óbrennishólmi; fjárborg eða virki!?

Minjasvæðið er allstórt. Mótar þar fyrir skálum og sveigðum garðlögum, auk fjárborgar og löngum görðum inni í hólmanum. Aldur þessarra minja hafa verið á reiki. Hafa menn helst reynt að greina aldur hraunsins, sem færði þær í kaf að mestu og þannig reynt að finna út aldur þeirra. Í frásögnum frá því á 18. öld er hraunið talið vera frá því á 16. öld eða 14. öld. Nýlegri rannsóknir telja það geta hafa runnið í kringum 1000 og enn aðrar kveða á um 1150 eða 1180. Hvað sem öllu líður er ljóst að Ögmundarhraun er ekki einungis eitt hraun, það er nokkur hraun, sem hafa runnið á mismunandi tímum. Vegna takmarkaðra rannsókna er ekki gott að kveða á um hvort stutt hafi verið á millum þeirra eður ei.
Þarna við rústirnar var rifjuð upp rannsókn þeirra Hauks og Sigmunds á þeim síðla hausts 1987. Í grein þeirra í Jökli er fjallað um aldur Ögmundarhrauns og miðaldalagsins. Aldur hraunsins var kannaður í ljósi öskulaga sem eru undir því og ofan á. Eitt þessara öskulaga er svonefnt miðaldalag, en sterk rök eru leidd að að aldri þess og uppruna.

Óbrennishólmi

Óbrennishólmi – garður.

Einnig voru geislakolsaldursgreiningar leiðréttar með nýjustu aðferðum, sem þá tíðkuðust. Þessar athuganir voru bornar saman við ritheimildir og töldu þeir félagar sig geta ákvarðað aldur Ögmundarhrauns upp á ár. Í lokin fjalla þeir um aldursákvörðun hins forna torfgarðs í Húshólma, sem reyndist vera eitt af elstu mannvirkjum er fundist hafa á Íslandi.
“Nokkuð hefur verið ritað um aldur Ögmundarhrauns á Reykjanesi á undanförnum árum og hefur sitt sýnst hverjum. Jón Jónsson (1982,1983) og Sigurður Þórarinsson (1974) hafa á grundvelli geislakoslaldursgreininga og afstöðu hraunsins til mannvistarleifa í Krýsuvík dregið þá ályktun, að það hafi brunnið á öndverðri 11. öld. Sveinbjörn Rafnsson (1982) hefur kannað sögulegar heimildir um hraunið og kirkjustaðinn í Krýsuvík og álítur hann, að hraunið hafi runnið seint á tímabilinu 1558-1563.

Skreiðarlest

Skreiðarlest í Ögmundarhrauni fyrrum.

Þorvaldur Thoroddsen (1925) áleit að Ögmundarhraun gæti hafa runnið 1340 og Jónas Hallgrímsson (útg. 1934-37) var sömu skoðunar. Tómas Tómasson (1948) og Einar Gunnlaugsson (1973) hafa rakið heimildir um eldgos á Krýsuvíkursvæðinu en taka ekki afstöðu til aldurs Ögmundarhrauns. Ástæða þess, að áhugi hefur verið meiri fyrir könnun Ögmundarhrauns en annarra hrauna á Reykjanesi er sú, að það hefur runnið yfir bæ og önnur mannvirki s.s. fjárrétt og torf- og grjótgarða, sem sjást í hraunjaðrinum.
Gjóskulög sem nefnt hefur verið miðladalagið hjálpar til við ákvörðun á aldri Ögmundarhrauns og skal fyrst reynt að varpa ljósi á aldur þess. Miðaldalagið er eina gjóskulagið frá miðöldum auk landnámslagsins sem finnst í jarðvegssniðum á svæðinu. Í þessari grein verður skýrst frá niðurstöðum rannsókna sem gerðar voru.

Húshólmi

Húshólmi – skáli.

Ögmundarhraun er komið upp í eldstöðvarkerfi sem oftast hefur verið kennt við Krýsuvík, en stundum við Trölladyngju. Eldstöðvakerfið einkennist aðallega af gígaröðum og gapandi gjám og sprungum. Sprungureinin er víðast um og innan við 5 km breið og nær 50 km löng. Hún nær frá Ísólfsskála í suðvestri, norðaustur um Núpshlíðarháls og Sveifluháls og áfram um Undirhlíðar og Helgafell fyrir ofan Hafnarfjörð. Við Helgafell endar gosvirknin að mestu, en sprungurnar ná lengra til norðausturs yfir Heiðmörk, Elliðavatn og Rauðavatn og enda í Mosfellssveit.

Ögmundarhraun

Ögmundarhraun – refakyttubyrgi. Krýsuvíkur-Mælifell fjær.

Eldgosið hefur einkennst af umbrotahrinum, af gliðnun lands og kvikuhlaupum með hléum á millum. Síðustu eldsumbrot í Trölladyngju- og Krýsuvíkurkerfinu mætti nefna Krýsuvíkurelda því þá eyddist bærinn í Krýsuvík. Hraunin hafa að mestu fyllt Móhálsadal milli Núpshlíðarháls og Sveifluháls, og runnið til sjávar í suðri. Nyrst í Móhálsadal slitnar gígaröðin á 7 km kafla en tekur sig aftur upp norðan við Vatnsskarð og liggur þaðan meðfram Undirhlíðum allt norður á móts við Helgafell. Hraun frá þessum hluta gígaraðarinnar (Kapelluhraun o.fl.) hafa runnið til sjávar milli Hvaleyrarholts og Straumsvíkur. Um þau verður fjallað í annarri lýsingu. Jón Jónsson hefur áður haldið því fram að að Ögmundarhraun, Kapelluhraum og Gvendarselshraun hafi runnið í sömu goshrinu.

Húshólmi

Húshólmi – stoðhola.

Í Ögmundarhrauni er Húshólmi stærstur óbrennishólma, sem þar eru. Hann er austast og neðst í hrauninu. Nokkru vestar er Óbrennishólmi. Rústir eru í báðum þessum hólmum. Merkastar eru rústirnar í svenefndum Kirkjulágum, sem eru smáhólmar skammt vestan við Húshólma. Þeim hefur Brynjúlfur Jónnson (1903) lýst. Þar eru greinilegar rústir af bæjarhúsum sem hlaðin hafa verið að mestu úr lábörðu grjóti. Í efri láginni hefur hraunið runnið upp að byggingum og að hluta yfir þær. Í neðri láginni er m.a. ein tóft sem hraunið hefur ekki náð að renna yfir og hefur verið talið líklegt að þar hafi verið kirkja eins og örnefnin Kirkjulágar og Kirkjuflöt benda til. Hús þetta virðist hafa verið brúkað eftir að hraunið rann sem sést af því hve miklu greinilegri og hærri tóftin er heldur en þær sem hraunið hefur lagst upp að. Húsið hefur dyr í vestur og snýr eins og kirkjur hafa gert um aldir.

Ögmundarhraun

Hraunkarl í Ögmundarhrauni.

Þar sem segir frá Krýsuvík í dagbók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar (31. mars 1755) og einnig í hinni prentuðu ferðabók þeirra (Eggert Ólafsson, 1772) er þess getið að hraunflóð hafi eytt kirkjustað sem Hólmastaður hét. Það átti að sögn heimamanna í Krýsuvík að hafa gerst tveim öldum áður en Eggert og Bjarni komu þar. Nafnið Hólmastaður bendir til að staðurinn dragi nafn af Húshólma en það nafn hefur hann vart fengið fyrr en eftir að Ögmundarhraun rann.
Landslag við bæjarrústirnar bendir til að bærinn hafi staðið nærri sjó, sennilega við austanverða vík, sem hefur verið hin eiginlega Krýsuvík, en hún hefur fyllst af hrauni í Krýsuvíkureldum. Í sjávarkampinn hafa menn sótt grjót í byggingar á hinu forna bæjarstæði í Krýsuvík.

Húshólmi

Húshólmi – garður.

Í Húshólma eru tveir garðar, sem hverfa inn undir hraunið. Efri garðurinn liggur þvert yfir hólmann og hefur að mestu verið hlaðinn þvert yfir hólmann og hefur að mestu verið hlaðinn úr torfi en þó sést í grjót á stöku stað. Allnokkur hluti hans er nú blásinn. Neðri garðurinn liggur í sveig vestast í hólmanum og er mun meira grjót í honum en þeim efri. Þessi garður mun marka það stykki sem nefnt var Kirkjuflöt. Efst í Húshólma er lítil fjárborg forn og niðri við gamla fjörukampinn er lítil hústóft.
Í Óbrennishólma eru tvö mannvirki. Annað er fjárborg sunnan til í hólmanum en hitt eru leifar af fjárrétt nyrst í honum og hefur Ögmundarhraun runnið að nokkru yfir og inn í hana (Jón Jónsson, 1982).
Gata liggur í Húshólma austan frá. Hún er greinilega rudd og 2-3 m á breidd og allgreiðfær. Augljóst er af ummerkjum að þessi vegagerð er ekki frá síðustu tímum.
Til að kanna aldur Ögmundarhrauns voru mæld nokkur gjóskulagasnið, bæði í jaðra hraunsins og utan þess. Á þessu svæði eru nokkur gjóskulög af þekktuma ldri.

Landnámslagið

Landnámslagið í gjóskulagi.

Þekktaskta gjóskulagið á þessum slóðum er svonefnt landnámslag. Lagið er venjulega tvílitt, neðri hlutinn er ljós og erfi hlutinn dökkur. Lagið hefur greinilega fokið til og því að líkindum fallið að vetri til. Þessi litaskipti hafa verið álitin marka upphaf búsetu í landinu (Þorleifur Einarsson, 1974). Lagið hefur verið notað til að ákvarða hvaða hraun á Reykjanesi hafa brunnið eftir að land byggðist (sbr. Jón Jónsson, 1983).
Annað nokkuð þekkt gjóskulag á Reykjanesskaga er svonefnt miðaldalag. Reynt hefur verið að heimfæra það upp á eldgos sem getið er um í rituðum heimildum. Upptök öskulagsins eru í sjó við Reykjanestána. Leifar gígsins eru Karlinn, stakur drangur skammt undan landi, en hluti af gígbarminum er skammt norðbestur af Valahnúk og hefur yngra Stampahraunið runnið upp að honum.

Húshólmi

Skáli við Húshólma.

Til eru fimm geislakolsaldursgreiningar, sem tengjast Ögmundarhrauni. Árið 1974 tók Þorleifur Einarsson tvö koluð sýni úr eldstæði í rústunum í Krikjulágum (efri láginni) í Húshólma og lét aldursgreina þau. Niðurstaðan var 980+/-60 og 960+/-170. Sýnið ætti því að vera frá því um 1027 e.Kr. Jón Jónsson (1982) lét gera þrjár aldursgreiningar árið 1979 á koluðum gróðuleifum undan hrauninu. Niðurstöður mælinganna voru ártölin 1050, 1095, 1125, 1141 og 1148.
Fátt er um sögulegar heimildir um eldgos á Reykjanesskaga á þessum tíma og eru þær allknappar. Frá 1151 er getið um gos í Konungsannál, bs. 115, Oddaverjaannál, bls. 474 og Annál Flateyjarbókar, bls. 301. Árið 1188 segir frá gosi í Trölladyngju í Skálholtsannál, bls. 180. Talið er að miðaldaöskulagið geti verið frá 1226/27.

Jarðfræði

Hraun á sögulegum tíma.

Sigurður Þórarinsson (1965) birti kort af Íslandi þar sem merkt eru inn gos á sögulegum tíma og þar telur hann eldgos í Trölladyngju á Reykjanesi vera 1151, 1188 og 1360, en telur þó síðastnefnda áratalið óvisst.
Þegar gögn eru skoðuð hníga ýmis rök að því að Ögmundarhraun hafi runnið á 12. öld og engin ástæða er til að véfengja frásagnir annála af gosi 1151. Eldgosið sem varð 1188 gæti hafa verið á svipuðum slóðum og hluti af sömu goshrinu. Þar sem svo langt hefur liðið milli goshrina þá er hugsanlegt að seinna gosið hafi verið mun minna.

Húsólmi

Húshólmi – uppdráttur.

Til eru lýsingar Herberts kapelláns í Clairvaux í Frakklandi á hraunrennsli í sjó á Íslandi. Rit hans, Liber miraculorum (Bók um furður) er skrifið 1178-80. Þar lýsir hann hrauni, sem rann í sjó fram á Íslandi á 12. öld og þá fyrir 1188. Þar sem hraunrennsli í sjó á þessum tíma er aðeins þekkt frá Krýsuvíkureldum renna skrif kapellánsins frekari stoðum undir þá skoðun að Ögmundarhraun hafi runnið 1151.
Grafið var eitt snið í gegnum efri garðinn í Húshólma og reyndist það forvitnilegt. Garðurinn er mjög vel varðveittur. Pælan, sem stungin hefurverið með garðinum beggja vegna til efnistöku, sést greinilega af litaskiptum í jarðvegi og er hún um 10-15 cm djúp í sniðinu. Neðst í pælunni norðan megin við garðinn var dreif af landnámslaginu en hún lá ekki inn undir garðinn svo það hefur fallið eftir að hann var hlaðinn.
Miðaldalagið liggur upp að garðinum beggja vegna. Hann er því hlaðinn fyrir 900, en þegar miðaldalagið féll um 1226/27 var verulega fokið að honum.

Húshólmi

Húshólmi – garður – uppdráttur

Einnig var grafið snið við fjárborgina efst í Húshólma og þar lá miðaldalagið upp að vegghleðslunni og er hún því allnokkru eldri en öskulagið.”
Samkvæmt framangreindum rannsóknum virðist sá hluti Ögmundarhrauns, sem umlukti rústirnar í Húshólma hafa runnið 1151. Garðurinn, sem rannsakaður var, virðist hafa verið hlaðinn fyrir 900. Það er því fullljóst að þarna er um mjög fornar minjar að ræða.“
Ekki er vitað til þess að rústirnar sjálfar hafi verið rannsakaðar, en þegar það verður gert mun án efa sitthvað forvitnilegt koma í ljós. Hugsanlega vakna þá fleiri spurningar en hægt verður að svara með góðu móti.
Skoðaðar voru seljaminjar nyrst í Húshólma, en að því búnu var gengið áfram út úr hólmanum eftir stígnum austan hans og norður með austanverðum hraunkanti Ögmundarhrauns. Utan í hrauninu er hringlaga gróið gerði.
Frábært veður. Gangan tók 4 klst og 4 mín.

Heimildir:
-Krýsuvíkureldar I – Aldur Ögmundarhrauns og miðaldalagsins – Haukur Jóhannesson og Sigmundur Einarsson – Jökull nr. 38 1988 bls 71-85.

Húshólmi

Húshólmi – uppdráttur ÓSÁ.

Húshólmi

Gengið var suður með austurjarðri Ögmundarhrauns. Ætlunin var að ganga Húshólmastíginn inn í Húshólma og skoða hraunin umhverfis hólmann. Á leiðinni var rifjuð upp frásögn Brynjúlfs Jónssonar frá Minna-Núpi um gömlu Krýsuvík, Húshólma og Ögmundarhraun. Skrifin birtust í Úr Tillaga til alþýðlegra fornfræða (bls. 101-102), sem Menningar- og fræðslusamband alþýðu gaf út 1953. Þau eru eftirfarandi:

Húshólmi

Húshólmi – skáli.

“Krýsuvík var fyrst byggð niður við sjó fyrir utan Krýsuvíkurberg, en lagðist svo af, að eldur kom upp í fjöllunum þar norður frá og runnu hraunkvíslar hér og þar fram á milli hálsanna. Hin austasta var einna mest. Smalamaður frá krýsuvík var kippkorn frá bænum með féð. Hann sá glóandi hraunleðjuna brjótast með feikna hraða ofan úr skarðinu upp frá bænum og fleygjast út yfir láglendið. Hann sá sér enga von til undankomu og beið með fjárhópinn þess, er að höndum kæmi, og fal sig guði: því hefir þetta skeð í kristni. Eldflóðið fór allt í kringum hann, og sakaði hvorki hann né féð nema eina á, segja sumir. Það heitir síðan Óbrennishólmi, er hann var. Hraunið hljóp um allt láglendið og fram í sjó, en túnið í Krýsuvík stóð óskaddað og bærinn, en nálega var ófært þangað, þegar hraunið var storknað. Þá var bærinn fluttur þangað, sem Krýsuvík er nú, það er ofar og austnorðar. Þegar eldgangurinn var afstaðinn og hraunin storknuð, fóru menn að leggja veg til Grindavíkur yfir þau, og urðu öll rudd að þessu austasta fráteknu. Það var svo stórgert og hart, að það var óvinnandi, og varð ekki veginum komið á.

Ögmundardys

Ögmundardys austast við Ögmundarstíg.

Ögmundur hét maður. Hann var berserkur, illur viðskiptis og flakkaði um land og gjörði mörgum mönnum óskunda. Hann kom að Krýsuvík og bað dóttur bónda. Bóndi þorði ekki að neita og lofaði honum dóttur sinni, ef hann legði veg yfir hraunið. Hann gekk að því og fór til, byrjaði að vestan, en bóndi stóð við hraunbrúnina að austan. Ögmundur hamaðist og hjó rösklega veginn yfir hraunið, en þegar hann kom austur yfir og var búinn, dasaðist hann. Þá hjó bóndi hann banahögg og dysjaði hann þar. Grjóthrúga er þar við götuna, sem kallað er leiði Ögmundar, en stendur á kletti. Vegurinn gengnum hraunið er djúpur og mjór og víða brotinn eða höggvinn gegnum stór björg (hraunstykki), en víða þrepóttur í botninn, sem hin gamla gata segir (ort á seinni tímum):

Húshólmi

Húshólmi og Óbrennishraun.

Eru í hrauni Ögmundar
ótal margir þröskuldar
fáka meiða fæturnar
og fyrir oss brjóta skeifurnar.

Síðan hefir hraunið heitið Ögmundarhraun. Þar, sem áður var bærinn Krýsuvík, heitir nú Húshólmi. Þar er vatnsskortur oftast. Litlar menjar kvað sjást þar af tóftum, en þó nokkrar.“

Rétt er að geta þess að Jón Guðmundsson frá Ísólfsskála, sem var með vegarvinnumönnum við gerð Hlínarvegar um 1932, sagði í viðtali 2002 að vegurinn hafi að mestu verið lagður ofan í Ögmundarstíg. Þar hafi þá verið djúp för í klöppunum eftir ferðalanga fyrri alda. Sums staðar hafi hellan brotnað vegna þess hve þunn hún hafi verið orðin og undir verið djúpar holur.

Ögmundarhraun

Ögmundarhraun – yfirlit.

Ögmundarhraun er greinilega nokkur hraun. Elsta hraunið er efst og austast í Húshólma, næsta er umhverfis hólmann, en í þeim eru m.a. rústirnar, sem nefndar eru í frásögninni og enn annað, nýrra, er vestar. Þá eru hraun, sem sjá má utan við Óbrennishólma, ótengd, enda koma þau úr öðrum gígum, skammt vestar og norðar. Eldra hraun má sjá efst og vestast í Óbrennishólma en hraunin umhverfis. Forvitnilegt væri að láta rannsaka þetta svæði og kortleggja með meiri nákvæmni en gert hefur verið. Jón Jónsson, jarðfræðingur, gerði merkilega rannsókn á öllum Reykjanesskagnum, en þá taldi hann Ögmundarhraun geta hafa runnið um 1005. Ljóst er að um nokkur hraun er að ræða. Ef til villa hafa sum þeirra runnið á svipuðum tíma úr mismunandi gígum, en önnur eru greinilega bæði eldri og yngri.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 33 mín.

Húshólmi

Húshólmi – uppdráttur ÓSÁ.

Húshólmi

Gengið var eftir stíg austur Ögmundarhraun frá Lat, neðan Óbrennishólma og inn í Húshólma eftir stíg frá Brúnavörðum ofan við Miðreka. Stígurinn hefur verið flóraður á köflum. Hann kemur inn í Húshólma við minjarnar, sem eru þar vestan við hólmann.

Húshólmi

Húshólmi í Ögmundarhrauni.

Minjasvæðið er allstórt. Mótar þar fyrir skálum og sveigðum garðlögum, auk fjárborgar og löngum görðum inni í hólmanum. Aldur þessarra minja hafa verið á reiki. Hafa menn helst reynt að greina aldur hraunsins, sem færði þær í kaf að mestu og þannig reynt að finna út aldur þeirra. Í frásögnum frá því á 18. öld er hraunið talið vera frá því á 16. öld eða 14. öld. Nýlegri rannsóknir telja það geta hafa runnið í kringum 1000 og enn aðrar kveða á um 1150 eða 1180. Hvað sem öllu líður er ljóst að Ögmundarhraun er ekki einungis eitt hraun, það er nokkur hraun, sem hafa runnið á mismunandi tímum. Vegna takmarkaðra rannsókna er ekki gott að kveða á um hvort stutt hafi verið á millum þeirra eður ei.

Óbrennishólmi

Óbrennishólmi – garður.

Þarna við rústirnar var rifjuð upp rannsókn þeirra Hauks Jóhannessonar og Sigmunds Einarssonar á þeim síðla hausts 1987. Niðurstaða rannsóknarinnar birtist m.a. í Jökli nr. 88 árið 1988. Í greininni er fjallað um aldur Ögmundarhrauns og miðaldalagsins. Aldur hraunsins var kannaður í ljósi öskulaga sem eru undir því og ofan á. Eitt þessara öskulaga er svonefnt miðaldalag, en sterk rök eru leidd að að aldri þess og uppruna.

Einnig voru geislakolsaldursgreiningar leiðréttar með nýjustu aðferðum, sem þá tíðkuðust. Þessar athuganir voru bornar saman við ritheimildir og töldu þeir félagar sig geta ákvarðað aldur Ögmundarhrauns upp á ár. Í lokin fjalla þeir um aldursákvörðun hins forna torfgarðs í Húshólma, sem reyndist vera eitt af elstu mannvirkjum er fundist hafa á Íslandi.

Húshólmi

Húshólmi – uppdráttur Brynjúlfs Jónssonar.

“Nokkuð hefur verið ritað um aldur Ögmundarhrauns á Reykjanesi á undanförnum árum og hefur sitt sýnst hverjum. Jón Jónsson (1982,1983) og Sigurður Þórarinsson (1974) hafa á grundvelli geislakoslaldursgreininga og afstöðu hraunsins til mannvistarleifa í Krýsuvík dregið þá ályktun, að það hafi brunnið á öndverðri 11. öld. Sveinbjörn Rafnsson (1982) hefur kannað sögulegar heimildir um hraunið og kirkjustaðinn í Krýsuvík og álítur hann, að hraunið hafi runnið seint á tímabilinu 1558-1563. Þorvaldur Thoroddsen (1925) áleit að Ögmundarhraun gæti hafa runnið 1340 og Jónas Hallgrímsson (útg. 1934-37) var sömu skoðunar. Tómas Tómasson (1948) og Einar Gunnlaugsson (1973) hafa rakið heimildir um eldgos á Krýsuvíkursvæðinu en taka ekki afstöðu til aldurs Ögmundarhrauns. Ástæða þess, að áhugi hefur verið meiri fyrir könnun Ögmundarhrauns en annarra hrauna á Reykjanesi er sú, að það hefur runnið yfir bæ og önnur mannvirki s.s. fjárrétt og torf- og grjótgarða, sem sjást í hraunjaðrinum.
Gjóskulög sem nefnt hefur verið miðladalagið hjálpar til við ákvörðun á aldri Ögmundarhrauns og skal fyrst reynt að varpa ljósi á aldur þess. Miðaldalagið er eina gjóskulagið frá miðöldum auk landnámslagsins sem finnst í jarðvegssniðum á svæðinu. Í þessari grein verður skýrst frá niðurstöðum rannsókna sem gerðar voru.

Húshólmi

Húshólmi – skáli.

Ögmundarhraun er komið upp í eldstöðvarkerfi sem oftast hefur verið kennt við Krýsuvík, en stundum við Trölladyngju. Eldstöðvakerfið einkennist aðallega af gígaröðum og gapandi gjám og sprungum. Sprungureinin er víðast um og innan við 5 km breið og nær 50 km löng. Hún nær frá Ísólfsskála í suðvestri, norðaustur um Núpshlíðarháls og Sveifluháls og áfram um Undirhlíðar og Helgafell fyrir ofan Hafnarfjörð. Við Helgafell endar gosvirknin að mestu, en sprungurnar ná lengra til norðausturs yfir Heiðmörk, Elliðavatn og Rauðavatn og enda í Mosfellssveit.

Ögmundarhraun

Ögmundarhraun – yfirlit.

Eldgosið hefur einkennst af umbrotahrinum, af gliðnun lands og kvikuhlaupum með hléum á millum. Síðustu eldsumbrot í Trölladyngju- og Krýsuvíkurkerfinu mætti nefna Krýsuvíkurelda því þá eyddist bærinn í Krýsuvík. Hraunin hafa að mestu fyllt Móhálsadal milli Núpshlíðarháls og Sveifluháls, og runnið til sjávar í suðri. Nyrst í Móhálsadal slitnar gígaröðin á 7 km kafla en tekur sig aftur upp norðan við Vatnsskarð og liggur þaðan meðfram Undirhlíðum allt norður á móts við Helgafell. Hraun frá þessum hluta gígaraðarinnar (Kapelluhraun o.fl.) hafa runnið til sjávar milli Hvaleyrarholts og Straumsvíkur. Um þau verður fjallað í annarri lýsingu. Jón Jónsson hefur áður haldið því fram að að Ögmundarhraun, Kapelluhraum og Gvendarselshraun hafi runnið í sömu goshrinu.

Húshólmi

Húshólmi – stoðhola.

Í Ögmundarhrauni er Húshólmi stærstur óbrennishólma, sem þar eru. Hann er austast og neðst í hrauninu. Nokkru vestar er Óbrennishólmi. Rústir eru í báðum þessum hólmum. Merkastar eru rústirnar í svonefndum Kirkjulágum, sem eru smáhólmar skammt vestan við Húshólma. Þeim hefur Brynjúlfur Jónsson (1903) lýst. Þar eru greinilegar rústir af bæjarhúsum sem hlaðin hafa verið að mestu úr lábörðu grjóti. Í efri láginni hefur hraunið runnið upp að byggingum og að hluta yfir þær. Í neðri láginni er m.a. ein tóft sem hraunið hefur ekki náð að renna yfir og hefur verið talið líklegt að þar hafi verið kirkja eins og örnefnin Kirkjulágar og Kirkjuflöt benda til. Hús þetta virðist hafa verið brúkað eftir að hraunið rann sem sést af því hve miklu greinilegri og hærri tóftin er heldur en þær sem hraunið hefur lagst upp að.

Húshólmi

Húshólmi – Kirkjulágar.

Húsið hefur dyr í vestur og snýr eins og kirkjur hafa gert um aldir.
Þar sem segir frá Krýsuvík í dagbók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar (31. mars 1755) og einnig í hinni prentuðu ferðabók þeirra (Eggert Ólafsson, 1772) er þess getið að hraunflóð hafi eytt kirkjustað sem Hólmastaður hét. Það átti að sögn heimamanna í Krýsuvík að hafa gerst tveim öldum áður en Eggert og Bjarni komu þar. Nafnið Hólmastaður bendir til að staðurinn dragi nafn af Húshólma en það nafn hefur hann vart fengið fyrr en eftir að Ögmundarhraun rann.

Húshólmi

Garður í Húshólma.

Landslag við bæjarrústirnar bendir til að bærinn hafi staðið nærri sjó, sennilega við austanverða vík, sem hefur verið hin eiginlega Krýsuvík, en hún hefur fyllst af hrauni í Krýsuvíkureldum. Í sjávarkampinn hafa menn sótt grjót í byggingar á hinu forna bæjarstæði í Krýsuvík.

Í Húshólma eru tveir garðar, sem hverfa inn undir hraunið. Efri garðurinn liggur þvert yfir hólmann og hefur að mestu verið hlaðinn þvert yfir hólmann og hefur að mestu verið hlaðinn úr torfi en þó sést í grjót á stöku stað. Allnokkur hluti hans er nú blásinn. Neðri garðurinn liggur í sveig vestast í hólmanum og er mun meira grjót í honum en þeim efri. Þessi garður mun marka það stykki sem nefnt var Kirkjuflöt. Efst í Húshólma er lítil fjárborg forn og niðri við gamla fjörukampinn er lítil hústóft.
Í Óbrennishólma eru tvö mannvirki. Annað er fjárborg sunnan til í hólmanum en hitt eru leifar af fjárrétt nyrst í honum og hefur Ögmundarhraun runnið að nokkru yfir og inn í hana (Jón Jónsson, 1982).

Húshólmi

Húshólmastígur um Ögmundarhraun.

Gata liggur í Húshólma austan frá. Hún er greinilega rudd og 2-3 m á breidd og allgreiðfær. Augljóst er af ummerkjum að þessi vegagerð er ekki frá síðustu tímum.
Til að kanna aldur Ögmundarhrauns voru mæld nokkur gjóskulagasnið, bæði í jaðra hraunsins og utan þess. Á þessu svæði eru nokkur gjóskulög af þekktuma ldri.
Þekktaskta gjóskulagið á þessums lóðum er svonefnt landnámslag. Lagið er venjulega tvílitt, neðri hlutinn er ljós og erfi hlutinn dökkur. Lagið hefur greinilega fokið til og því að líkindum fallið að vetri til. Þessi litaskipti hafa verið álitin marka upphaf búsetu í landinu (Þorleifur Einarsson, 1974). Lagið hefur verið notað til að ákvarða hvaða hraun á Reykjanesi hafa brunnið eftir að land byggðist (sbr. Jón Jónsson, 1983).

Húshólmi

Skáli við Húshólma.

Annað nokkuð þekkt gjóskulag á Reykjanesskaga er svonefnt miðaldalag. Reynt hefur verið að heimfæra það upp á eldgos sem getið er um í rituðum heimildum. Upptök öskulagsins eru í sjó við Reykjanestána. Leifar gígsins eru Karlinn, stakur drangur skammt undan landi, en hluti af gígbarminum er skammt norðbestur af Valahnúk og hefur yngra Stampahraunið runnið upp að honum.

Til eru fimm geislakolsaldursgreiningar, sem tengjast Ögmundarhrauni. Árið 1974 tók Þorleifur Einarsson tvö koluð sýni úr eldstæði í rústunum í Krikjulágum (efri láginni) í Húshólma og lét aldursgreina þau. Niðurstaðan var 980+/-60 og 960+/-170. Sýnið ætti því að vera frá því um 1027 e.Kr. Jón Jónsson (1982) lét gera þrjár aldursgreiningar árið 1979 á koluðum gróðuleifum undan hrauninu. Niðurstöður mælinganna voru ártölin 1050, 1095, 1125, 1141 og 1148.
Fátt er um sögulegar heimildir um eldgos á Reykjanesskaga á þessum tíma og eru þær allknappar. Frá 1151 er getið um gos í Konungsannál, bs. 115, Oddaverjaannál, bls. 474 og Annál Flateyjarbókar, bls. 301. Árið 1188 segir frá gosi í Trölladyngju í Skálholtsannál, bls. 180. Miðaldaöskulagið er talið geta verið frá 1226/27.

Húsólmi

Húshólmi – uppdráttur.

Sigurður Þórarinsson (1965) birti kort af Íslandi þar sem merkt eru inn gos á sögulegum tíma og þar telur hann eldgos í Trölladyngju á Reykjanesi vera 1151, 1188 og 1360, en telur þó síðastnefnda áratalið óvisst.
Þegar gögn eru skoðuð hníga ýmis rök að því að Ögmundarhraun hafi runnið á 12. öld og engin ástæða er til að véfengja frásagnir annála af gosi 1151. Eldgosið sem varð 1188 gæti hafa verið á svipuðum slóðum og hluti af sömu goshrinu. Þar sem svo langt hefur liðið milli goshrina þá er hugsanlegt að seinna gosið hafi verið mun minna.
Til eru lýsingar Herberts kapelláns í Clairvaux í Frakklandi á hraunrennsli í sjó á Íslandi. Rit hans, Liber miraculorum (Bók um furður) er skrifið 1178-80. Þar lýsir hann hrauni, sem rann í sjó fram á Íslandi á 12. öld og þá fyrir 1188. Þar sem hraunrennsli í sjó á þessum tíma er aðeins þekkt frá Krýsuvíkureldum renna skrif kapellánsins frekari stoðum undir þá skoðun að Ögmundarhraun hafi runnið 1151.
Grafið var eitt snið í gegnum efri garðinn í Húshólma og reyndist það forvitnilegt. Garðurinn er mjög vel varðveittur. Pælan, sem stungin hefurverið með garðinum beggja vegna til efnistöku, sést greinilega af litaskiptum í jarðvegi og er hún um 10-15 cm djúp í sniðinu. Neðst í pælunni norðan megin við garðinn var dreif af landnámslaginu en hún lá ekki inn undir garðinn svo það hefur fallið eftir að hann var hlaðinn.

Húshólmi

Húshólmi – garður – uppdráttur

Miðaldalagið liggur upp að garðinum beggja vegna. Hann er því hlaðinn fyrir 900, en þegar miðaldalagið féll um 1226/27 var verulega fokið að honum.
Einnig var grafið snið við fjárborgina efst í Húshólma og þar lá miðaldalagið upp að vegghleðslunni og er hún því allnokkru eldri en öskulagið.”
Samkvæmt framangreindum rannsóknum virðist sá hluti Ögmundarhrauns, sem umlukti rústirnar í Húshólma hafa runnið 1151. Garðurinn, sem rannsakaður var, virðist hafa verið hlaðinn fyrir 900. Það er því fullljóst að þarna er um mjög fornar minjar að ræða.“
Ekki er vitað til þess að rústirnar sjálfar hafi verið rannsakaðar, en þegar það verður gert mun án efa sitthvað forvitnilegt koma í ljós. Hugsanlega vakna þá fleiri spurningar en hægt verður að svara með góðu móti.
Skoðaðar voru seljaminjar nyrst í Húshólma, en að því búnu var gengið áfram út úr hólmanum eftir stígnum austan hans og norður með austanverðum hraunkanti Ögmundarhrauns. Utan í hrauninu er hringlaga gróið gerði.
Frábært veður. Gangan tók 4 klst og 4 mín.

Heimildir:
-Krýsuvíkureldar I – Aldur Ögmundarhrauns og miðaldalagsins – Haukur Jóhannesson og Sigmundur Einarsson – Jökull nr. 38 1988 bls 71-85.

Húshólmi

Húshólmi – uppdráttur ÓSÁ.