Tag Archive for: Krýsuvík

Krýsuvík

Í Þjóðviljanum 1955 skrifar Elías Guðmundsson „Minningar frá Krýsuvík – Skúla Árnasonar, héraðslæknis minnzt“:

Skúli Árnason

„Fyrrverandi héraðslæknis, Skúla Árnasonar, er lézt að heimili dóttur sinnar og tengdasonar hér í bænum 17. sept. sl., var getið í blöðum bæjarins um og eftir útför hans í stuttum eftirmælagreinum, skráðum af menntamönnum er þekktu hann persónulega. Í greinum þessum er Skúla lýst sem lærdómsmanni og lækni, einnig að nokkru sem bónda og dýravini, er fór sömu mjúku líknarhöndunum um manninn og málleysingjann, lá aldrei á liði sínu en gerði ætíð sitt bezta. Af því að svo undarlega vill nú til að engin af þessum Skúlagreinum á neitt skylt við venjulegt líkræðulof né eftirmælaöfgar, eins og öllum kunnugum er ljóst þá hlýtur sú spurning óhjákvæmilega að vakna, hvað þar var, sem gerði Skúla þannig. Svona góðan, svona sannan og raunverulega mikinn mann. Ég fullyrði að það var ekki presturinn sem kenndi honum undir skóla, ekki menntaskólinn hér í Reykjavík né læknaskólinn og ekki heldur sú stofnun er hann hlaut framhaldskennslu í erlendis og hef ég þó ekki neina löngun tii að kasta hinni minnstu rýrð á neinn af þessum fjórum framangreindu aðilum. Heiðurinn og þökkina fyrir það hvernig Skúli var ber engum öðrum en foreldrum hans og heimili þeirra. Þar dvaldi hann öll sín bernsku- og uppvaxtarár. Þarna mótaðist maðurinn.
Krýsuvík
Hús og heimili foreldranna voru meðal annars hans búnaðarskóli, eins og verkin sönnuðu síðar meir og sýndu ríkulega ávexti af.
Þegar litið er um öxl 60-80 ár aftur í tímann, til bernsku-, unglings- og námsára Skúla læknis er það tvennt sem ekki verður hjá komizt að athuga, en það er hinn stórfenglegi búferlaflutningur sýslumannsins Árna Gíslasonar, föður Skúla, frá Kirkjubæjarklaustri á Síðu í Skaftafellssýslu, til Krýsuvíkur í Gullbringusýslu, og svo hið dæmafáa illæri, fjárfellir og þar af leiðandi hvers konar hörmungar er þá gengu yfir landið árum saman.

Klofningar

Klofningar í Krýsuvíkurhrauni.

Búferlaflutningur Árna Gíslasonar frá Klaustri að Krýsuvík fór fram á tveim árum, 1879 og 1880. Fyrra vorið, þ.e. 1879, fluttist nokkuð af heimilisfólkinu, aflaði heyja og fleira um sumarið, en svo um haustið var féð rekið, 1265 fjár, á stað að austan en eitthvað týndi það nú tölunni á leiðinni sem von var til, því margar og illar eru torfærur á þeirri löngu leið. Þá voru ekki brýrnar komnar. Næsta vor, þ.e. 1880, fluttist svo það sem eftir var af fólkinu, stórgripir allir og búslóð. Síðastur frá Klaustri og í einskonar sérfylkingu fór sýslumaður sjálfur ásamt þáverandi síðari konu sinni, Elínu Árnadóttur ættaðri frá Dyrhólum í Mýrdal, og þeim tveim börnum þeirra er til fullorðinsára komust, Ragnheiði og Skúla, en þau voru bæði fermd saman í Prestbakkakirkju á Síðu rétt áður en lagt var af stað að austan.

Krýsuvík

Krýsuvík, Arnarfell t.v. og Bæjarfell t.h.

Þáttur nýfermda drengsins, Skúla, í þessu ferðalagi var sá að hann rak stóðhross föður síns, eitthvað innan við tuttugu að tölu, flest ung. Þó voru í þessum hópi tvær nokkuð gamlar hryssur, báðar fylfullar og verður þeirra að nokkru getið síðar. Þrátt fyrir dugnað sinn og kappgirni virðist roskni sýslumaðurinn hafa tekið þetta ferðalag vestur um Suðurlandsundirlendið fremur rólega. Gistingastaði hans alla hirði ég ekki að telja, en skal þó geta þriggja þeirra, en á þeim hverjum um sig sat hann einn dag um kyrt, hvíldi fólk sitt og hesta og gisti tvær nætur.

Geitahlíð

Geitahlíð.

Á vali þessara gististaða má sjá það að hann hefur einkum gist frændur og venzlafólk, en ekki valið sérstaklega úr þá staði er mesta höfðu björg í búi.
Þeir þrír staðir er Árni dvaldi á daglangt á vesturleiðinni voru þessir: Dyrhólar í Mýrdal, æskuheimili frú Elínar, Breiðabólstaður í Fljótshlíð, hjá séra Skúla bróður sínum, en þriðji og síðasti gististaðurinn var kot eitt vestarlega og neðan til í Flóanum, í grennd við Eyrarbakka, nafn á því man ég ekki, en þar bjó frændkona hans fátæk. Í þeim litla flutningi er Árni hafði með sér í þessari ferð, er var lítið annað en nauðsynlegt nesti var kistill einn er hann geymdi í peninga sína. Kistilinn, sem vitanlega var læstur, opnaði hann einu sinni í ferðinni, en það var áður en hann fór úr kotinu frá fátæku frændkonunni. Ekki opnaði hann kistilinn svo mikið að neinn sæi ofan í hann, en þó nógu mikið til þess að hann kom hægri hendi sinni inn undir lokið, en undan lokinu kom svo hnefinn fullur af silfurpeningum, þeim er þá giltu hér sem gjaldmiðill. Þetta lagði hann á borðið hjá fátæku frænkunni að skilnaði, mælt í hnefum en ekki talið.

Stóra-Eldborg

Stóra-Eldborg ofan Klofninga.

Annarri fátækri frændkonu, systurdóttur sinni, þarna í Eyrarbakkanágrenninu, þurfti Árni að líta eftir um leið og hann fór vestur um. Gjafir til hennar veit ég ekki um, en af henni tók hann sex ára gamlan dreng með sér til Krýsuvíkur, ól hann upp og kom til manns. Piltur þessi var Stefán Stefánsson og var á fullorðinsárum oft nefndur túlkur. Á þessari löngu ferð Árna Gíslasonar og fjölskyldu hans, var lokaáfanginn að sjálfsögðu hin 16 km langa bæjarleið, sem er á milli Herdísarvíkur og Krýsuvíkur. Að sjálfsögðu eru landamerkin milli þessara jarða þarna á milli bæjanna og eru þau um leið sýslumörkin á milli Árnessýslu að austan en Gullbringusýslu að vestan.
Þegar komið er spölkorn vestur fyrir sýslumörkin, þ.e. inn í Krýsuvíkurland, þá er fyrsta verulega gróna landið á þeirri leið svonefndir Klofningar, en þar fækkaði tveimur í hrossarekstrinum hjá Árna. Fylfullu hryssurnar voru orðnar æði þunglamalegar svo hann skildi þær eftir þar í Klofningunum, næsta dag fór hann svo og vitjaði þeirra, var þá sitt folaldið komið hjá hvorri.
Þegar nú að þarna var komið til hins fyrirheitna lands, Krýsuvíkur, virðist svo sem Árni hafi fundið einhverja þörf hjá sér til þess að beina huga konu sinna og barna að öðru en heimilisástæðunum og búskaparafkomunni og er mér sagt að hann hafi þá kastað fram eftirfarandi stöku: Vorið blíða lífgar lýð lengist óðum dagur. Gyllir fríða Geitarhlíð geislinn sólar fagur.
Geitarhlíð heitir fjall eitt fagurt, skammt til austurs frá Krýsuvík, sem hér er um kveðið. Hvort vísan er ort fyrsta kvöld Árna í Krýsuvík, veit ég ekki með vissu, en hitt er víst að hún er ort á vorkvöldi í Krýsuvík og að Árni er höfundurinn.

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja var einföld timburkirkja í Krýsuvík. Hún var byggð árið 1857, endurbyggð árið 1964 og fór þá í vörslu þjóðminjavarðar og komst við það á lista yfir friðuð hús. Altaristafla kirkjunar var málverk eftir Svein Björnsson, listmálara.
Krýsuvíkurkirkja var notuð sem sóknarkirkja allt fram undir 1910. Hún var aflögð 1917 og notuð til íbúðar frá 1929, en síðan aftur breytt í kirkju 1963-64 fyrir tilstuðlan Björns Jóhannessonar, fyrrverandi forseta bæjarstjórnar í Hafnarfirði, en Hafnarfjarðarbær færði Þjóðminjasafninu húsið til varðveislu haustið 1964.
Kirkja mun hafa risið í Krýsuvík í upphafi kristni hér á landi í Kirkjulág í Húshólma áður en Ögmundarhaun rann um miðja 12. öld. Eftir þann atburð var kirkjan færð ofar í landið. Kirkjuna sem brann smíðaði Beinteinn Stefánsson hjáleigubóndi í Krýsuvík úr rekatrjám 1857. Byggð lagðist af í Krýsuvík í byrjun síðustu aldar og 1929 var Krýsuvíkurkirkja aflögð sem helgidómur. Magnús Ólafsson, sem síðastur bjó í Krýsuvíkurbænum, dvaldist í kirkjunni um árabil sem góður hirðir er gætti kinda.
Viðamiklar viðgerðir hófust árið 1986 og hún þá færð til upprunalegrar gerðar. Útveggir voru með tjargaðri listasúð og bárujárn á þaki. Engir gamlir kirkjumunir höfðu varðveist og voru kirkjubekkir, altari og prédikunarstóll af nýlegri og einfaldri gerð.
Hún brann til kaldra kola aðfaranótt 2. janúar 2010.

Árni Gíslason var skemmtilegur tækifærisvísnahöfundur. Stökur hans oft svipmiklar. Kímnigáfu var Árni gæddur og henni góðri. Þann eiginleika tók Skúli í arf. Báðir fóru þeir feðgar vel með skophneigð sína.
Það er hverjum manni auðskilið mál að búferlaflutningur Árna Gíslasonar hlaut óhjákvæmilega að draga á eftir sér marga illa dilka. Fyrst og fremst það að flytja mikinn fjölda sauðfjár úr góðu sauðfjárplássi í annað miklu lakara, en það hefur engum manni tekizt án þess að verða fyrir stórtjóni, þegar svo þar ofan á bætist það ólán að þurfa fyrstu árin að mæta einhverjum þeim verstu harðinda- og fellisvetrum sem komið hafa. Svo var nú bráðapestin á einu leitinu, mjög mögnuð orðin hér um suðurkjálkann þá og hið óhagvana fé að austan mjög næmt fyrir henni. Þá má geta tófubitvargsins er þá var svo magnaður hér um Reykjanesskagann að slíks eru engin dæmi. Fyrsta vorið sem Árni átti fé sitt í Krýsuvík fundust tíu tófugreni í Krýsuvíkurlandareign og er þó ekki trúlegt að öll kurl hafi komið til grafar, svo margar eru holurnar í Krýsuvíkurhraununum…
Þegar við Skúli heitinn læknir ræddum um þessa tíma og þá erfiðleika er við var að stríða, heyrðist mér ævinlega á honum að hann hefði talið tófupláguna versta. Til skilningsauka á þessum málum vil ég greina hér frá tveimur atvikum er Skúli sagði mér frá persónulegum viðskiptum sínum við tófur.

Klofningar

Klofningar – greni.

Þetta umtalaða vor er fjölskyldan flutti til Krýsuvíkur, skeði það að áliðnu vori að Skúli var að smala í áðurnefndum Klofningum, en er leið hans lá yfir laut eina grasigróna verður hann var tófuyrðlinga nokkurra í grasinu þar í lautinni. Það varð fangaráð Skúla að hann fór úr utanyfirbuxunum, batt með snærisspottum utanum skálmarnar neðst, tíndi svo yrðlingana, sem reyndust vera 9 talsins, upp í buxurnar og labbaði svo með feng þennan á bakinu heim að Krýsuvík.
Þegar Skúli kemur í hlaðið mætir hann Guðmundi Hannessyni bónda á Ísólfsskála, er þá var að koma neðan af svokallaðri Skriðu, frá því að vinna gren þar.
Guðmundur þessi var orðlögð ágætisskytta, en er hann hafði heyrt sögu Skúla úr Klofningunum, varð hann æfareiður honum fyrir það að hafa tekið yrðlingana. Taldi Guðmundur það tiltæki Skúla geta valdið því að hann næði ekki tófunni. En hvað um það, þrátt fyrir reiði Guðmundar leggja þeir báðir af stað austur eins og leið liggur, allt þar til er þeir finna hina áður umgetnu laut, þar sem Skúli fann yrðlingana. En er þeir félagar höfðu hreiðrað um sig og legið um klukkutíma í hraungjótu einni að austanverðu við lautina, sjá þeir allt í einu tvær tófur á hraunbrúninni vestan lautarinnar, en þá varð Guðmundi að orði: „Þurftu þær nú að koma báðar í einu, bölvaðar“. Lét hann samt fjúka þarna á þær og báðar lágu.

Kleifarvatn

Kleifarvatn.

Annað atvik, sem ég vil geta gerðist 6-7 árum síðar; var Skúli þá kominn í Latínuskólann en dvaldi að venju heima í Krýsuvík í jólafríinu.
Var það þá venja hans utan sjálfra hátíðisdaganna, þegar veður leyfði það, að ganga með byssu um Krýsuvíkurland, skjóta rjúpur og eitra fyrir tófuna. Í einum slíkum leiðangri var það eitt sinn að hann rakst á för eftir eina kind rétt hjá Kleifarvatni. Snjóföl var svo að vel sáust förin og rakti Skúli þau vestur með Sveifluhálsinum sunnanverðum, allt vestur í svonefnda Seltóu þar sér hann kindina er reyndist þá vera einn af sauðum föður hans. En þannig var þá ástatt með þennan sauð að tófa ein hafði að miklu leyti hringað sig utan um hálsinn á honum og var að sjúga úr honum blóðið. Að hrista tófuna af sér hafði sauðnum ekki tekizt. Þegar nú að Skúli kemur þarna á vettvang þá verður það úrræði hans að skjóta tófuna þarna á hálsinum á sauðnum og þá auðvitað kindina um leið. Útigenginn, ljónstyggur fjallasauðurinn kunni ekki betra ráð að þýðast.

Krýsuvík 1887

Krýsuvík 1887.

Sumarið 1894 er ég var 10 ára gamall dvaldi ég í Krýsuvík, en þá um vorið lauk Skúli læknanámi og kom vitanlega að þyí loknu heim að Krýsuvík. Dagur einn snemma í ágústmánuði er mér minnisstæður frá því sumri. Það var verið að breiða nokkuð hrakta há á svonefndum Ræningjahóli í sunnanverðu túninu um tíuleytið árdegis, sást þá koma ríðandi maður á rauðum hesti, allmikill í sæti, að austan. Þegar til kom þá reyndist þetta að vera hinn góðkunni myndarbóndi Þórður á Vogsósum og hafði hann með að fara bréf frá Magnúsi Stephensen landshöfðingja, hvar Skúli var beðinn um að taka að sér þjónustu læknisembættis í Grímsneshéraði í Árnessýslu. Við þessari beiðni varð Skúli og lagði af stað austur að tveim dögum liðnum. Ég kann naumast að lýsa því hver áhrif þetta „Skúla-mál“ hafði á Krýsuvíkurheimilið. Allir söknuðu Skúla og hryggðust við burtför hans, en glöddust þó af því hve fljótt hann fékk þarna álitlegt embætti. Söknuður þess að missa Skúla var heimilisfólkinu bættur með því að lesa því að minnsta kosti kafla úr bréfum hans, er bárust að austan, ég held með hverri ferð sem féll.
Krýsuvík 1998Þegar þess er gætt að frú Elín Árnadóttir, móðir Skúla, var ein sú allra bezta kona sem ég hefi þekkt, og Árni Gíslason, faðir hans, sá maður sem hann var og ég hefi lítilsháttar reynt að lýsa hér, þegar þess er ennfremur gætt að Skúli erfði í ríkum mæli alla beztu kosti beggja foreldranna, þá hlaut vel að fara.
Ég hefi engan gamlan mann þekkt sem hefur átt kost á að vera umvafinn jafn mörgum og ástríkum kærleiksföðmum og Skúli læknir.“ – Elías Guðmundsson.

Í Íslenskum æviskrám segir um Árna Gíslason; sýslumaður í Krýsuvík, 1820–1898, sonur Gísla í Vesturhópshólum og bróðir sr. Skúla á Breiðabólstað. Sýslumaður í Skaftafellssýslum 1852-1879 en bjó síðast í Krýsuvík 1880 til dauðadags. Hafði um tíma hæsta lausafjártíund allra búandi manna á Íslandi. Talinn dugandi embættismaður og vinsæll í héraði, einkennilegur í lund og háttum, gamansamur og hagmæltur.

Heimild:
-Þjóðviljinn, 5. tbl. 08.01.1955, Minningar frá Krýsuvík – Skúla Árnasonar, héraðslæknis minnzt, – Elías Guðmundsson, bls. 7 og 8.
-Ísl. æviskrár I, bls. 44.

Krýsuvík

Krýsuvík 1881.

Kristinn Benediktsson

Í Víkurfréttum 1994 er stutt grein eftir blaðamanninn og ljósmyndarann Kristinn Benediktsson undir fyrirsögninni „Reykjanes; sækum það heim„:

Saga svæðisins

Krýsuvík

Krýsuvík 1810.

„Allur Reykjanesfólkvangur er í hinu upprunalega landnámi Ingólfs Arnasonar, en brátt komu aðrir til sem segir í Landnámu.
Þórir Haustmyrkur nam þá Krýsuvík ásamt Selvogi. Gamli bærinn þar sem nú heitir Húshólmi í Ögmundarhrauni, sem eftir síðustu rannsóknum dæmist hafa runnið á fyrri helmingi 11. aldar. Þá hefur verið hörfað með bæjarhúsin uppundir Bæjarfellið þar sem þau stóðu öldum saman og þar stendur kirkjan enn. Bæjarrústir eru í Húshólma og rústir gamalla fjárborga í Óbrennishólma nokkru vestar í hrauninu.

Húshólmi

Skálatóft í Húshólma í Gömlu-Krýsuvík.

Krýsuvík var höfuðból og kirkjustaður og fylgdu henni margar hjáleigur. Alls eru til heimildir um 13 býli í Krýsuvíkurlandi að höfuðbólinu meðtöldu.
Þetta var byggðahverfi og kirkjusókn um aldir. Krýsuvík var mikil jörð, beitiland mikið og heyskapur góður, að minnsta kosti þegar ekki var mikið í Kleifarvatni, sem átti það til að standa hátt í kvos sinni árum saman en lækka síðan, allt eftir áhrifum úrkomunnar- því afrennsli hélst jafnt og það eingöngu neðanjarðar. Hlunnindi voru mikil og telur jarðabók Arna Magnússonar og Páls J. Vídalín skóg til kolagerðar fyrir ábúendur, móskurð, fjörugrös sem ábúendum nægi, eggjatekju og fuglaveiði í bergi, selveiði, rekavon í betra lagi og sölvatekju nokkra og útræði fyrir heimamenn á Selatöngum. Selstöður eru taldar tvær, önnur til fjalla en hin niður við sjó.

Krýsuvíkurleið

Gamli Krýsuvíkurvegurinn.

Krýsuvík var öldum saman í alfaraleið. Þar lágu leiðir milli Suðurlands og Suðurnesja og Grindavíkur, um Móhálsa (Vigdísarvelli) og Selvelli á Suðurnes og Ketilsstíg (Sveifluháls norðan Arnarvatns) inn til kaupstaðanna við Faxaflóa. Þarna fóru m.a. miklir vöruflutningar fram, skreið og landafurðir.
Á Bleiksmýri austur af Arnarfelli var fastur áningastaður lestanna. Farið var um Deildaháls ofan Eldborgarinnar undir Geitahlíð, sem merki sjást um enn í dag. Svo fór þó að Krýsuvík gerðist afskekkt. Ný viðhorf komu til í samgöngum, búskap og sjávarútvegi og býlin fóru í eyði hvert af öðru. Nú er Krýsuvík aftur í þjóðbraut síðan akvegur var lagður þar um á árunum 1934-40 og 1944-48. Hafnarfjarðarbær keypti hluta af landi Krýsuvíkur 1941. Í vesturhlíðum Vesturháls (Núpshlíðarháls) og vestan undir honum og Trölladyngju liggja lönd Grindvíkinga og Vatnsleysustrandamanna.

Hraunssel

Hraunssel – uppdráttur ÓSÁ.

Þetta voru afréttalönd og löngum notuð til selstöðu. Í Þrengslum var sel frá Hrauni í Grindavík og á Selvöllum voru sel frá öðrum bæjum í Grindavík. Í Sogunum vestast voru sel frá Kálfatjörn og Bakka t.d. Sogasel og stóðu þau í Sogaselsgíg. Á þessum slóðum eru stærstu samfelld gróðurlönd á Reykjanesi svo sem Selvellir í fólkvanginum og Höskuldarveilir, sem liggja við vesturjaðar fólkvangsins. Norður frá löndum Vatnsleysustrandamanna og Krýsuvíkur tóku við afréttarlönd Álftaneshrepps, Undirhlíðar og landið umhverfis Helgafell norður undir Víðistaðahlíð.
Sjá má af heimildum, að á þessu landi hefur mikill skógur vaxið og af honum hafðar miklar nytjar og óspart á hann gengið, hann höggvinn og rifinn til kolagerðar og eldiviðar, ofan af honum slegið á vetrum til fóðurs og beitar.

Geldingadalir

Geldingadalir í Krýsuvíkum.

Þarna gekk búpeningur mjög sumar og vetur og hellar hafðir til fjárgeymslu og skjóls fjármönnum á vetrum, þegar henta þótti. Heyskapur var lítill á þessum slóðum. Varð því að bjargast á vetrarbeitinni og kom það hart niður á þessu landi. Ekki bætti það úr skák að hrískvöð var á öllum jörðum á Reykjanesi til Bessastaða og Viðeyjar og gekk svo, þangað til svo nærri var gengið að breyta varð hrískvöðinni í fiskikvöð.
Í dag eru helstu akvegir um fólkvanginn Krýsuvíkurvegur úr Vatnsskarði suður í Krýsuvík og áfram austur í Selvog, Nesvegur, sem er þjóðvegurinn milli Krýsuvíkur og Grindavíkur og Bláfjallavegur af Krýsuvíkurvegi við Óbrynnishóla og norður á Suðurlandsveg. Fyrir nokkrum árum var lagður vegur fær fólksbílum að Djúpavatni og áfram suður um Vigdísarvelli og á Nesveg, og opnast þannig hringleið um suðurhluta svæðisins. Af þessum akvegum má komast á fjölbreyttar gönguleiðir í fólkvangnum.“- KB

Heimild:
-Víkurfréttir, 28. tbl. 14.07.1994, Reykjanes; sækjum það heim, Kristinn Benediktsson, bls 11.

Ketilsstígur

Ketilsstígur.

Krýsuvík

Í „Fornleifaskrá Hafnarfjarðar árið 2021“ segir frá Krýsuvík:

Krýsuvík
KrýsuvíkElstu heimildir um Krýsuvík má finna í Hauksbók Landnámu, þar sagði að Þórir haustmyrkur hafi numið Selvog og Krýsuvík.
Þarna er þó verið að tala um Gömlu-Krýsuvík sem líklega hefur staðið í Húshólma en þar má sjá fornar tóftir innan um hraunið sem rann yfir þær um 1151.
Ein kenningin er að eftir að Ögmundarhraun rann yfir Gömlu-Krýsuvík hafi bærinn verið fluttur þar sem Krýsuvíkurkirkja stendur enn í dag, inn á land Gestsstaða, sem var þá í eigu Krýsuvíkurkirkju. Við það hafi nytjar Gestsstaða rýrnað eftir því sem Krýsuvík þurfti meira land undir sinn búskap og Gestsstaðir á endanum lagst í eyði.
Næst var minnst á Krýsuvík í kirknaskrá Páls biskups Jónssonar, sem er frá því um 1200, og sagt að kirkja hafi verið í Krýsuvík.
Krýsuvík var einnig nefnd í máldögum Viðeyjarklausturs árin 1234 og 1284 í sambandi við hvalreka, ef hvalreka varð vart í Krýsuvík ætti að festa hvalinn þannig að hann ræki ekki aftur út og senda orð um rekan til Viðeyjar innan þriggja daga.
Í rekaskrá Strandakirkju 1275 var sagt: „fra mijgander grof og til bergs enda eiga strendur allan reka ad helminge vid stadenn j krijsevijk: Sa ger mældage æ herdijsarvijkur fiorum ad stadur j skalhollte a halfann vidreka. allan annan enn auxar talgu vid j millum Selstada oc hellis firer austan riett til marks vid strandar land.
Stadur j skalhollte og herdijsarvijk eigu iiij vættar huals og skal vega enu fiordu med brioske og beine: enn þridiung i öllum ef meire kiemur. Enn strandarmenn tuo hlute.
Skalhollt oc krijsevijk æ halfann allann reka under fuglberge vi strandar land.
Millum wogs og hellis´strandur land iiij vætter en ef meire er þa æ skalhollt oc krijsevijk flordung j öllum hval.
Enn firer austan wog til vindass æ stadur j skalhollte oc krijsevijk halfan tolftung i hual ef meire er enn iiij vætter enn ecke ellegar.“
Svo sagði í máldaga Maríukirkju í Krýsuvík: „Maríu kirja í Krýsuvík á heimaland allt. Herdísarvík. ix. mæla land á Þórkötlustöðum. Hálfan hvalreka í Raunnesi millum Rangagjögurs og marks við Bedstædinga [Bessastaðamenn] og eingja grasnautn með. Þrjá hluta hvals enn Viðeyingar fjórðung. Enn frá migandi gröf til kirkju fjöru eiga staðir í Skáholti og Krýsuvík helming hvals og viðar og alla grasnautn. Krýsuvík á allan reka á kirkjufjöru. Enn frá kirkjufjöru og til marks við Herdísarvík hálfan hval og viðreka og alla grasnautn.

Krýsuvíkurkirkja

Enn í Herdísarvík á staðurinn í Skálholti helming viðar við Krýsuvík. Þriðjung hvalreka eigu staðir báðir saman til marks við Strandarmenn. Enn fjórðung hvals við Strandamenn til Vogs. Hálfan tólftung hvals á Krýsuvík í Strandar hluta. Ein messuklæði, kaleik, klukkur, ij bjöllur, ij glodarkier, altaraklæði, iij kross steindur, sacrarium, munnlaug, paxspjald, vij kýr, xvj ær og xx iij hross. Kúgildi viijc, j metfie, iij merkur vax, c vadmála, item iiij ær.“
Í bréfi dagsettu 13. maí 1367, sem voru vitnisburðir Þorbjarnar Högnasonar um máldaga og eignir Strandarkirkju í Selvogi, var einnig talað um hvalreka sem var í eigu Krýsuvíkur og Skálholts.35 Og í máldaga Þorlákskirkju á Skeggjastöðum á Ströndum frá sama ári var sagt að Maríukirkja í Krýsuvík ætti heima land allt „herdijsarvijk, ix mæaland á þorkotlustodum.“
1397 reiknaðist kirkjunnar góss í Krýsuvík „að auk fornra máldaga, vc, portio vmm, ij, är hälf, viiij alin.“37 Einnig var sagt í máldaga Viðeyjarklausturs árið 1413 að staðurinn í Viðey ætti fjórðung í hvalreka í Krýsuvík.

Krýsuvík

Krýsuvík – uppdráttur.

Í máldaga Maríukirkju í Krýsuvík frá 1477 var sagt að kirkjan ætti heimaland allt Herdísarvík, ix mæla land á Þórkötlustöðum, hálfan hvalreka í Raunnesi milli Rangagjögurs og mark við Bessastaðamenn, svo voru eigur kirkjunnar taldar upp.39 Í bréfi frá 1479, sem var vitnisburður Arngerðar Halldórsdóttur um ítök upp í Vatnsleysu á Vatnsleysuströnd, var sagt að kirkjan í Krýsuvík ætti þar j x hrundruð í jörðinni.
1487 var svo gerður vitnisburður um reka Viðeyjarklausturs á Krýsuvíkurfjörum og var hann svipaður og áður.
Í máldaga Kaldaðarneskirkju í Flóa frá 1491-1518 sagði að viðarhögg í Geldingasteini, fjöru í Keflavík að helmingi við Krýsuvíkurstað að öllum reka. Sauðhöfn í Krýsuvík og húsrúm manna í að geyma þar sauðfé.42 Biskup var svo fenginn til að meta kirkjuna í Krýsuvík árið 1496 og virtist honum kirkjan x hundruðir og staðin allan með hjáleiguhúsum innan garða xv hundruðir. Árið 1525 sagði Ögmundur biskup að Viðeyjarklaustur skyldi eignast þann part í Vatnsleysulandi sem Krýsuvíkurkirkja hafði átt.

Krýsuvík

Krýsuvík 1881.

Í bréfabók Gizurar frá 1539 stóð að vitrir menn hafi sagt að sigla skyldi í suðvestur undan Krýsuvíkurbergi til að komast til Nýjalands. Ekki er víst hvaða land er átt við en ein kenning er að Nýjaland hafi verið partur af austurströnd Grænlands.
Í máldaga Kaldaðarneskirkju í Flóa 1553-54 var sagt það sama og í máldaganum 1491-1518, og máldagi Maríukirkju í Krýsuvík 1553-54 var mjög svipaður máldaganum 1477.
Árið 1563 var sóknarkirkjan í Krýsuvík lögð niður af hirðstjóra eftir beiðni Gísla biskups Jónssonar: „Það meðkennumst ég Páll Stígsson kongleg Maiestatis Bidalningzmann yfir öllu Íslandi, að á Bessastöðum um haustið mánudaginn næstan fyrir Michaelsmessu, kom fyrir mig herra Gísli Jónsson Superintendes Skálholts Sticktis. Spurði mig ráða og tillagna hver nauðsyn mér þætti á þeirri kirkju sem haldin hafði verið í Krýsuvík. Þá tók ég með mér þessa heiðurs dánimenn Jón Bjarnason, Loft Narfason og Jón Loftsson prestmenn. Item Orm bónda Jónsson Gísla, Sveinsson og Níels skrifar Ólafsson. Þótti mér með þessum fyrrnefndum dánimönnum í fyrstu engin þörf eða nauðsyn vera eður verið hafa að í þessari nefndri Krýsuvík alkirkja væri. Því það má enginn sóknarkirkja kallast sem engin samkunda til liggur. Því leist oss svo best fara og sannlega staðfestum að þessi

Krýsuvík

Krýsuvík – uppdráttur ÓSÁ.

Krýsuvíkurkirkja aflagðist enn lægi til Strandar kirkju bæði tolla og tíundir og alla aðra rentu svo sem aðrir almenningsbæir skyldugir eru sínum sóknarkirkjum að veita. Enn umboðsmenn dómkirkjunnar í Skálholti skyldu Krýsuvík byggja til fulls landgildis og aftekta Skálholts dómkirkju vegna. Svo og líka Herdísarvík og annað það fleira sem þessum Krýsuvíkur stað hefur fylgt. Enn sökum þess að þessi oftnefnda Krýsuvík liggur nokkuð í fjarska að vegalengd til Strandarkirkju þá þótti oss vel fara þó í Krýsuvík stæði lítið húskorn Guðs vegna og þess heimilisfólks sem þar kann að vera sjúkt eða gamalt: Og herra Gísli skyldi nokkur kúgildi til leggja svo að Guðs orðs þjénari mætti þar huld nætur saka hafa þá hann þar kæmi eða þyrfti að koma Guðlegrar hjarðar að vitja. Skyldi þetta vort álit og gjörningur óbregðanlega standa hér eftir.“

Selalda

Krýsuvíkursel í Selöldu og bærinn Eyri – uppdráttur ÓSÁ.

1627 áttu hin svokölluðu Tyrkjarán sér stað. Eiga þeir að hafa komið á land í Krýsuvík og sagt var frá því í Þjóðsögum Jóns Árnasonar hvernig séra Eiríkur í Vogósum, sem sagður var göldróttur, hrakti þá í burt: „Annað sinn komu Tyrkjar undir Krýsuvíkurberg og gengu upp þar sem síðar heitir Ræningjastígur. Þá var sel hjá Selöldu og fóru Tyrkjar þangað, drápu matseljuna, en eltu smalann heim að Krýsuvík. Það var sunnudagur og var Eiríkur prestur að messa í Krýsuvíkurkirkju. Segja sumir að hann væri fyrir altarinu, en hitt mun sannara að hann væri í ræðustól er smalinn kom hlaupandi inn og mælti hátt: „Tyrkjar komu og drápu matseljuna og eltu mig hingað.“ Prestur mælti: „Viljið þið ekki lofa mér að ganga fram í dyrnar góðir menn?“ Menn játtu því. Eiríkur gengur fram í dyr og lítur út og sér Tyrkja koma á túninu. Hann mælti til þeirra: „Farið nú ekki lengra! Drepið þarna hvur annan! Væri annar dagur eða ég öðruvís búinn, mundu þið éta hvur annan.“ Þar börðust þeir og drápust niður, og heitir þar síðan Orrustuhóll eða Ræningjahóll er þeir börðust, en Ræningjaþúfur þar sem þeir eru dysjaðir. Þar eftir hlóð Eiríkur vörðu á Arnarfelli og mælti fyrir henni sem hinni að meðan hún stæði skyldu Tyrkjar aldrei granda Krýsuvík. Sú varða stendur enn nú (1859).“

Eyri

Tóftir Eyris undir Selöldu.

Eitt sel var skráð í suðaustur hlíðum Selöldunnar, ekki skal fullyrt um að Tyrkir hafi drepið þar matseljuna en þjóðsagan virðist staðfesta selið. Einnig stendur Eiríksvarða enn á Arnarfelli, þó hún hefur verið bætt á seinni tíð.
Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1703 var Krýsuvík sögð kirkjustaður og var hún annekteruð til Selvogsþinga. Jarðardýrleikinn var óviss og eigandinn dómkirkjan í Skálholti. Landskuldin var i hundraðir þrjátíu álnir og borgaðist með fiski ef hann var til, annars með peningum eða landaurum upp á danskan taxta. Ábúandi átti rekavið frjálsan til uppbóta á húsum nema ef um stór tré var að ræða, þá tók dómkirkjan í Skálholti helminginn. Þá sagði Jarðabókin einnig frá sex hjáleigum, Nýjabæ, Litla Nýjabæ, Norðurhjáleigu (seinna Norðurkot), Suðurhjáleigu (seinna Suðurkot) Austurhús og Vesturhús.
Eggert Ólafsson og Bjarni Pálsson voru á ferð um Krýsuvík á árunum 1752 – 1757 og sögðu að Krýsuvík væri kunn á Íslandi og meira að segja erlendis vegna brennisteinsins sem hafði verið safnað þar til útflutnings og gerðu þeir greinagóða lýsingu á hverasvæðinu í Seltúni.

Selalda

Selalda – uppdráttur ÓSÁ.

Henry Holland kom til Krýsuvíkur árið 1810 og lýsti staðarhaldi þar sem heldur slæmri upplifun: „Til Krýsuvíkur komum við kl. 5. Þetta er ömurlegur staður, sex eða átta kofar standa þar á víð og dreif á ósléttu svæði við ræturnar á stakri hæð. Stolt og prjál staðarins er timburkirkja, 18 fet á lengd og 8 á breidd, en hæðin er 5 fet og 8 þumlungar undir bita. Við höfðum ráðgerðt að búa í kirkjunni, meðan við dveldumst í Krýsuvík, og í því skyni fengum við kirkjulykilinn léðan. En við höfðum naumast litið inn í hana, er við hurfum frá því ráði. Svo mátti heita, að þar kæmu saman öll þau ógeðugheit, sem framast væri að hugsa sér, skítur, myrkur og óþefur af fiski á öllum mögulegum herzlustigum o.s.frv. Gólfið var óslétt, að við hefðum naumast getað skorað tjaldsængina okkar þar, og ofan á allt annað var svo hið litla gólfrými fyllt með kössum, timbri og alls konar skrani.“
Árið 1818 svaraði séra Jón Vestmann, prestur í Selvogi, bréfi konunglegu nefndarinnar, Commissionen for oldsagers opbevaring, sem hafði sent fyrirspurn um fornleifar í landinu. Þar skrifar hann um þær fornminjar sem hann þekkir en nefnir engar í núverandi landi Krýsuvíkur.

Húshólmi

Skálatóft í Húshólma í Gömlu-Krýsuvík.

Þó minnist hann á fornminjar í Ögmundarhrauni: „Húshólmi niður við sjóinn í hama hrauni; hefur þar verið mikil byggð áður en brann, sem sést af húsa tófta brotum, að hvar um hraunið gengið hefur, að norðan – vestan – sunnan, og næstum saman að austan-verðu; er þar 1 tóftarform 12 feta breitt, og 24 feta langt, innan niður fallinna veggja rústa; húsið hefur snúið líkt og kirkjur vorar, meinast gamalt goða-hof; fundið hafa menn þar nokkuð smávegis af Eyrtægi; þar er tvísett túngarðs form með 20 faðma millibili, hvar nú er lyng mói; enn graslendi innan innri garðs, austanvert við hraunið.“

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja hin nýja.

Krýsuvíkurkirkja brann til grunna eftir íkveikju þann 2. janúar 2010 og í framhaldi á því fór fram fornleifarannsókn á kirkjugrunninum vegna undirbúnings fyrir nýju kirkjuna sem Iðnskólinn í Hafnarfirði smíðaði og stendur sú kirkja þar í dag.

FERLIR saknar minja og heimilda í skráningunni, annarra en getið er um í tilvitnuðum og sumum hverjum gölluðum eldri skýrslum Byggðasafns Hafnarfjarðar um fornleifar í Hafnarfirði.

Heimild:
-Fornleifaskrá Hafnarfjarðar árið 2021 – Krýsuvík. https://byggdasafnid.is/wp-content/uploads/2021/10/Fornleifaskra%CC%81-Hafnarfjardar-XII-Kry%CC%81suvi%CC%81k.pdf

Selalda

Selalda – Strákar; fjárskjól.

Reykjanesskagi

Í Morgunblaðinu 1984 er viðtal við Einar Sigurðsson í Ertu um  „Skrímsli í Kleifarvatni„:

Einar Sigurðsson

Einar Sigurðsson í Ertu.

„Ég sé enga ástæðu til þess að Kleifarvatnsskrímslinu sé minni sómi sýndur en Lagarfljótsorminum og tel að hér í Hafnarfirði þurfi að gera átak í þessum skrímslamálum hið fyrsta. Hvers vegna skyldi Kleifarvatnsskrímslið sætta sig við að það sé látið liggja milli hluta þegar alltaf er verið að hampa Lagarfljótsorminum? Ég skrapp norður á Egilsstaði á dögunum og þá sá ég að það var komin flannastór mósaíkmynd af Lagarfijótsorminum á einn útvegg Kaupfélags Héraðsbúa. Svona ættu Hafnfirðingar líka að hirða um sitt skrímsli og láta af að vanvirða það með þögn og þumbaraskap.“
Viðmælandi okkar er enginn annar en Einar frá Ertu og umræðuefnið skrímslið í Kleifarvatni í Krýsuvík. Einar Sigurðsson heitir hann fullu nafni, er múrarameistari og hefur um langt skeið búið í Hafnarfirði. Hann hefur hins vegar lengst af kennt sig við bæinn Ertu í Selvogi þar sem hann sleit barnskónum. Áhugi Einars fyrir Kleifarvatnsskrímslinu á sér langan aldur. Föðurbróðir hans bjó í Krýsuvík og var nokkur samgangur milli bernskuheimilis Einars, í Selvogi, og Krýsuvíkur. Þegar Krýsuvíkurfólkið kom í heimsókn að Ertu var það alltaf spurt: „Hafiði nokkuð séð skrímslið?“ og virtist enginn efast um tilvist Kleifarvatnsskrímslisins.
Síðan Hafnarfjörður eignaðist Kleifarvatn álitur Einar að vegur skrímslisins hafi farið minnkandi og hafi Hafnfirðingar alls ekki gert nógu mikið til að halda merki þess á lofti. Einar vann í eitt ár að byggingu skólahússins sem reist var í Krýsuvík og þekkir þar vel til.

Skrímsli í hefndarhug

Skrímsli

Þekkt skrímsli á uppdráttum fyrri tíma.

Hann telur jafnvel að skrímslið hafi spillt fyrir framkvæmdum í Krýsuvík oftar en einu sinni, og sé þar að finna skýringu þess hve flestum fyrirtækjum hefur gengið illa þar á liðnum árum. Ég byrja á því að spyrja Einar hvort hann trúi því virkilega að það sé skrímsli í Kleifarvatni.
Mér hefur verið sagt að þetta skrímsli sé til og sé ekki neina ástæðu til að vera með efasemdir, sagði Einar. Það er nefnilega þannig með skrímsli að þau eru til þangað til einhver afsannar þau eða útskýrir þau vísindalega. Og þannig verður Kleifarvatnsskrímslið til þangað til einhver afsannar það eða útskýrir það.
— En hefurðu séð skrímslið?
Nei, en það afsannar ekkert. Ég fór einu sinni í ferð til Sovétríkjanna en þó sá ég ekki Bréfsnef — og samt getur vel verið að hann hafi verið til og kannski hefur hann séð mig. Eins er þetta með skrímslið — kannski sér það okkur þó við höfum ekki auga fyrir því.
— En er þá ekki alveg nóg fyrir skrímslið að vera til, þarf nokkuð að vera að dedúa í kringum það sérstaklega?

Kaldrani

Kleifarvatn.

– Já, Kleifarvatnsskrímslið á alveg sama rétt á viðurkenningu og Lagarfljótsormurinn. Og það er engum blöðum um það að fletta að Hafnfirðingar bera ábyrgð á skrímslinu — Hafnarfjarðarbær keypti Krýsuvík árið 1941 og þá hefur skrímslið auðvitað fylgt með í kaupunum. Það er ekki lítill búhnykkur að komast yfir slíka skepnu — máttarvöldin hér í Hafnarfirði hafa bara alls ekki gert sér ljóst hversu mikið gagn má hafa af skrímslinu og þeir hafa ekki sýnt því þá virðingu sem það á skilið.
Það þykir mikill skaði ef fiskur hverfur úr vatni eða á, en það er miklu meira áfall að tapa skrímsli — það er reyndar alveg óbætanlegt tjón að missa skrímsli, skal ég segja þér, því það verður ekki endurnýjað.
— Meinarðu þá að Hafnfirðingar gætu hugsanlega komið skrímslinu í peninga?
Það er ekki nokkru vafi á því, ef maður hefur það í huga hvernig aðstæðurnar eru við Kleifarvatn, landslagið meina ég. Þarna er „mánalandslag“ og hverir, og þegar skrímslið í vatninu bætist við gefur augaleið að þarna er tilvalinn ferðamannastaður. Það mætti með öðrum orðum trekkja upp ferðamannastraum með skrímslinu.

Miklir möguleikar með skrímslið

Sveinshús

Bústjórahúsið í Krýsuvík, nú Sveinshús.

Hafnfirðingar gætu jafnvel haft full not af Krýsuvíkurskólanum — honum mætti breyta í ferðamannahótel fyrir þá sem kæmu til að forvitnast um skrímslið. Það mætti leigja út sjónauka og selja ferðamönnunum teikningar og bækur með skrímslinu. Það mætti hafa upp úr þessu stóra peninga! Ferðaskrifstofurnar ættu að taka skrímslið upp á sína arma og auglýsa það erlendis — þá myndi ekki standa á ferðamannastraumnum hingað.
Þetta hafa Skotarnir gert með þessu Loch Ness-skrímli sínu, sem í alla staði er þó miklu ómerkilegra en Kleifarvatnsskrímslið — það hefur aldrei sést í sólbaði og það eru ekki til neinar merkilegar sögur um það. Það fer ekki á milli mála að Hafnfirðingar gætu haft stóra peninga upp úr skrímslinu — þess vegna verður að viðurkenna það hið bráðasta og sjá til þess að það drepist ekki út.
— Heldurðu sumsé að skrímslið sé óánægt með þetta ræktarleysi Hafnfirðinga og hyggi jafnvel á hefndir?

Krýsuvík

Krýsuvíkurbúið. Bústjórahúsið h.m.

Já, ég er ekki fjarri því. Það er að vísu ekki auðvelt að gera útaf við skrímsli en það – er hægt að þegja þau í hel, eða nærri því. Maður getur hugsað sér að skrímslið sé óánægt með þá þögn sem um það hefur verið og hafi verið að hefna sín á Hafnfirðingum með því að láta flest mistakast sem gert hefur verið í Krýsuvík. Það er a.m.k. ekki einleikið hvernig allt hefur gengið fyrir sig þar. Hugsaðu þér bara kúabúið sem þar var reist á sínum tíma með miklum tilkostnaði — það hafa aldrei komið kýr í fjósið og bústjórinn flutti aldrei inn í einbýlishúsið sem reist var handa honum.

Krýsuvík

Fjósið í Krýsuvík.

Þarna var reistur einhver stærsti skóli landsins en hann hefur aldrei verið brúkaður til neins. Þarna er kirkja sem varla hefur verið messað í, o.s.frv. Það hefur fátt heppnast sem átt hefur að gera í Krýsuvík.
Nei, þarna hlýtur eitthvað dularfullt að hafa gripið inní og skrímslið hefur fulla ástæðu til að vera óánægt, því Hafnfirðingar hafa aldrei sýnt því neinn sóma.
— Veistu til að einhver hafi orðið var við þetta skrímsli?
Já, hér áður fyrr sýndu menn því tilskylda virðingu og það má muna fífil sinn fegri. Í ferðabók þeirra Eggerts og Bjarna segir um Kleifarvatnsskrímslið árið 1749 á þessa leið:

Skrímslið í sólbaði

Kleifarvatn

Kleifarvatn.

Á Kleifarvatni hefur lengi legið það orð, að þar sé ormur svartur á lengd við stórhveli af meðalstærð, og þykjast ýmsir hafa séð hann, þótt ekki sé hans vandi að vera uppi nema stutta stund í einu. Nú fyrir skemmstu bar það við, að fólk, sem var á engjum sunnan við vatnið í sólskini og kyrrviðri, sá þetta skrímsli betur en nokkur hefur áður talið sig sjá það, því að það skreiddist, að sögn fólksins, upp á sandrif, sem gengur út í vatnið. Bakaði það sig þar í sólskininu í meira en hálfa eykt, en hvarf síðan aftur í vatnið.

Kleifarvatn

Kleifarvatn – Indiáninn.

Engjafólkið varð svo skelkað, að enginn í hópnum þorði að nálgast ófreskjuna. Lá við, að það hlypi í ofboði frá amboðum sínum í besta þerri, en með því að ófreskjan bærði ekki á sér, eftir að hún var komin upp á eyrina, harkaði það af sér. Þó var það þvílíkri skelfingu lostið, að enginn getur lýst því að neinu gagni, hvernig þessi kynjavera hagaði sér.
— Veist þú um einhvern sem telur sig hafa orðið varan við skrímslið nýverið?

Grétar Þorleifsson

Grétar Þorleifsson, formaður byggingariðnaðarmanna í Hafnarfirði.

Ég þekki mann sem segist hafa séð skrímslið — hann heitir Grétar Þorleifsson og er formaður Félags byggingariðnaðarmanna í Hafnarfirði. Hann var þarna við Kleifarvatnið að degi til og sá þá einkennilegar hræringar í vatninu og einhverja stóra skepnu, að honum sýndist. En ef til vill hefur það verið skrímslið eða það sem fólk í gamla daga kallaði skrímsli. Hann er vel kunnugur þarna við vatnið en hefur enga haldbæra skýringu á þessu — nema þá að þarna hafi skrímslið verið á ferð.
Annars er margt dularfullt við Kleifarvatn, skal ég segja þér. Enginn veit t.d. hvers vegna hækkar og lækkar í vatninu til skiptis á tuttugu ára fresti. Jarðvísindamenn hafa rannsakað þetta árum saman en ekki fundið viðhlítandi skýringu.
En mér hefur sjálfum dottið í hug að ef til vill mætti skýra þetta með skrímslinu — það hækkar auðvitað í vatninu þegar skrímslið er í því, rétt eins og gerist í baðkeri.

Göng frá Kleifarvatni til Snæfellsness

Kleifarvatn

Kleifarvatn.

Ég hef líka heyrt að til séu gamlar sagnir um göng sem liggi úr Kleifarvatni alla leið til Snæfellsness. Það er hugsanlegt að skrímslið noti þessi göng og sé stundum á Snæfellsnesi. Hafnfirðingar mega þá vara sig á að Snæfellingar taki sig ekki til og ræni af þeim skrímslinu, með því að hæna það að sér.
— En er þetta nú ekki heldur ótrúlegt með göngin?
Jú, það getur svo sem vel verið og ég er ekki að biðja neinn að trúa þessu. Ég er orðinn langþreyttur á að halda mig við raunveruleikann — því er einhvern veginn þannig varið að það trúir mér enginn ef ég geri það. Trúir þú því t.d. þegar ég segi að Hafnfirðingur sem ég þekki hafi skriðið eins og ormur alla leið frá Hafnarfirði upp í Kaldársel og aftur til baka afturábak, um 10 kílómetra leið?
-Nei!

Kleifarvatn

Við Kleifarvatn.

Þetta er nú satt engu að síður. Hann skreið alla leiðina í pípum. Hann var að yfirfara samskeytin. Það þarf enginn að trúa þessu frekar en hann vill — það trúa manni fæstir þegar maður segir satt. Trúirðu því að ég fer til Reykjavíkur til þess að viðra hundinn minn, hér í Hafnarfirði má hann ekki vera til frekar en skrímslið. Þetta er nefnilega grínistaþjóðfélag sem við lifum í, það hef ég alltaf sagt. Jafnvel þó maður sé ráðherra má maður ekki eiga hund — en svo er alltaf verið að tala um frelsi. En hvar er svo þetta frelsi?
Um daginn heyrði ég að talað var um ófrjálsar kartöflur í útvarpinu — úr því að það eru til ófrjálsar kartöflur hljóta líka að vera til frjálsar kartöflur. Þessar frjálsu kartöflur eru áreiðanlega það eina sem er frjálst hér á landi, ef þær eru þá til. En ætli það séu íslenskar kartöflur, þessar frjálsu kartöflur, — það hljóta að vera góðar kartöflur sem eru frjálsar. – bó.

Heimild:
-Morgunblaðið, 142, tbl. 24.06.1984, Skrímsli í Kleifarvatni – rætt við Einar Sigurðsson frá Ertu, bls. 66-67.

Kleifarvatn

Kleifarvatn.

Krýsuvíkurbjarg

Í Morgunblaðinu 1951 skrifar Kjartan Sveinsson minningarorð um Ingibjörgu Sigurðardóttur. Ingibjörg bjó ásamt eiginmanni sínum, Jóni Magnússyni, í Krýsuvík á árunum 1907-1914. Of sjaldan hefur kvennanna fyrrum verið minnst með svo sanngjörnum hætti.
Hér á eftir verður í framhaldinu endurbirtar lýsingar tveggja manna á ferðum þeirra um Krýsuvíkurberg (-bjarg) eftir miðja síðustu öld. Lýsingarnar þarf að skoða á takmörkuðum áhuga á huldum minjum fyrri tíða, en þess meiri á sögnum og upplifun ferðalangsins á náttúru svæðisins.

Krýsuvík

Krýsuvíkurbærinn 1909. Bæjarfell fjær.

„Góð kona er horfin úr þessum bæ, frú Ingibjörg Sigurðardóttir. Hún var í heiminn borin 13. mars 1877 að Esjubergi á Kjalarnesi.
Ingibjörg var elsta barn foreldra sinna og var vart meir en unglingur að árum, þegar lífið lagði á hana hinar fyrstu kvaðir. Móðir hennar missti heilsu á besta aldri og lá oft rúmföst og þjáð síðustu sex árin er hún lifði, Og kom því aðallega í hlut Ingibjargar að stunda hana og jafnframt að standa fyrir búi föður síns. Ingibjörgu vannst þó tími til skólagöngu í hinum íslenska kvennaskóla.
Árið 1903 þann 31. maí giftist hún Jóni Magnússyni, ættuðum frá Syðra-Langholti, sem nú er nær 87 ára að aldri. Hófu þau þá búskap á eignarjörð sinni, Reykjum í Mosfellssveit. Árið 1907 fluttu þau búferlum til Krýsuvíkur og bjuggu þar til 1914 að þau fluttu alfarin til Reykjavíkur. Þeim varð sex barna auðið og eru fjögur þeirra á lífi.

Krýsuvík

Krýsuvíkurbærinn um 1910.

Krýsuvík var stór jörð og erfið. Þá var um átta stunda lestagangur til Reykjavíkur og yfir fjall að fara, en nú má aka þessa leið á 2—3 stundarfjórðungum. Þau hjón ráku þarna búskap með hinum mesta myndarbrag, og jafnvel hið erfiða Krýsuvíkurbjarg var nytjað hvert vor. Þar við bættist að fjöldi ferðamanna erlendra og innlendra sótti staðinn heim, þó sú leið væri hvorki greiðfær nje góðviðrasöm, að mestu hraun og öræfi. Og mitt í þessari auðn reis Krýsuvík sem hof íslenskrar gestrisni, enda kom það sjer betur, því þarna var ekki um aðra gististaði að ræða.
Það beit sig í mig atvik frá tímum, sem eru löngu liðnir. Jeg var staddur hjá tveim kunningjum mínum í gamla skálanum á Þingvöllum og hjá þeim sat síðskeggjaður þýskur háskólakennari. Hann var að teigja ýmsar ferðaminningar sínar frá Íslandi.

Krýsuvík

Krýsuvík 1923.

Eitt sinn hafði hann á leið frá Heklu, komið til Krýsuvíkur í haustmyrkri og óveðri og „Þá var jeg bæði þreyttur og svangur“, bætti hann við. Það kom bókstaflega einhver andakt yfir þetta gamla andlit þegar hann minntist á móttökurnar þar. Svona var landkynning þeirra tíma. Mjer varð það ljósara en áður, vegna hvers þessi útlendingur hafði tekið slíka tryggð við land og þjóð.
En í Krýsuvík átti frú Ingibjörg marga ónæðisama nótt við að hlynna að þreyttum ferðamönnum, jafnframt því sem hin venjulegu skyldustörf kölluðu að morgni. — Þannig var öllum tekið, sem til Krýsuvíkur komu, með djörfung og hjartahlýju, hvort heldur gesturinn var þýskur fræðaþulur, íslenskt skáld, enskur náttúrufræðingur eða göngumóður fjárleitarmaður úr Grindavík.

Krýsuvík

Krýsuvíkurkirkja brann á nýársnótt 2910. Legsteinn Árna Gíslasonar, sýslumanns.

Einn skugga bar á líf þessara hjóna í Krýsuvík. Þar misstu þau ungan dreng, einkar efnilegan, og var hann þeim harmdauði alla tíð. Hann var jarðsettur hjá leiði Árna sýslumanns við austurgafl á kirkjuhrófi því, sem enn stendur þar uppi. Og jeg held jeg megi segja, að þegar frú Ingibjörg flutti alfarin frá Krýsuvík, þá hafi hugur hennar orðið eftir hjá þessari þúfu. Hún kvartaði aldrei yfir missi þessa drengs, hún kvartaði aldrei yfir neinu.
Það var jafnan hljótt um þessa konu. Hún kunni kyrrðinni best, því þar var hvorki hugað nje spurt til launa. Heimilið, stundum mannmargt og ávallt gestkvæmt, var fyrst og fremst hennar starfssvið. Að því vann hún vakin og sofin meðan kraftar entust hvern dag allan ársins hring, með stöðugri umhyggju með öllum og öllu, sem lifði og lífsanda dró. Jeg skildi það aldrei til fulls hvernig henni vannst tími til allra sinna starfa og að rækja þau jafnvel og raun varð á, ekki síst uppeldi barna sinna.
Jeg skal hreinskilningslega játa, að það er sannfæring mín, að Ingibjörg Sigurðardóttir hafi skipað sess með hinum bestu konum þessa lands, bæði fyr og síðar, þeim sem hafa hlúð að nýgræðingnum í þessu landi, líknað og lýst í kringum sig á alla vegu og byggt upp þessa þjóð í meir en þúsund ár. – Í því ljósi hverfur þessi kona, ástsæl og jafnan mikils metin af öllum sem henni kynntust, vanmetin af engum nema þá helst af sjálfri sjer.“ – Kjartan Sveinsson.

Í Vísi 1962 er eftirfarandi lýsing Sv. Þ.; Undir Krýsuvíkurbergi:

Eldborgarrétt

Gamla Krýsuvíkurréttin (Eldborgarrétt).

„Góður vinur minn, stangaveiðimaður oo náttúruskoðari mikill bauð mér í ágústmánuði. Í sumar er leið í stutta skemmtiferð suður á Krýsuvíkurbjarg. Ég þykist vita, að þú hafir aldrei komið fram á bergið, en þar er margt merkilegt að sjá, sagði hann. Eg myndi vilja opna Krýsuvíkurbjarg, sem ferðamannaatraksjón, bætti hann við. Það er rétt að blaðamenn veki á þessu athygli, ef þeir telja þetta mál til sín taka, athuguðu allar hliðar þess vandlega.
Ég kem á bílnum á eftir og við skulum skjótast, því nú er veðrið svo gott. Og að lítilli stundu liðinni voru við lagðir af stað. Það bar margt á góma í þessari ferð suður á bjargið. Vinur minn, kom með marga athyglisverðar ábendingar um þetta mál og hann nam stöku sinni staðar við sögu sögusviðsins, á langri göngu okkar þennan sólfagra dag.
Um daginn fór ég að rifja þetta ferðalag upp aftur. Það er eftirtektarvert, að þúsundir manna skuli á hverju sumri aka eftir Krýsuvíkurveginum, án þess að vita það, að hálftímagang frá þessum vegi er eitt af mestu náttúruundrum landsins.

Eystri-Bergsendi

Horft vestur yfir krýsuvíkurbjarg frá Eystri-Bergsenda.

Fyrir neðan Eldborg, austan við Krýsuvík er fjárrétt, en þaðan liggur vegslóði í suðaustur, í átt til strandarinnar nokkuð niður eftir. — Frá þjóðveginum og niður á Krýsuvíkurbjarg er aðeins hálftíma hægur gangur.
Þarna koma menn að austurenda bergsins, þar sem komast má niður að sjó og sjá bergið opnast. Um varptímann er þarna ótrúlegt ævintýraland, hundruð þúsunda af lunda, álku og langvíu verpa þarna á sillum og skútum í berginu. Fuglinn er spakur á þessum slóðum, svo víða má komast næstum því að efstu hreiðrunum, enda má heita að bjargið hafi verið í friðun allt að því hálfa öld. Bjargið er hátt og tilbreytingamikið. Höfðar og snasir skaga fram, en milli þeirra beygja hamravíkur sig inn.

skarfur

Skafur neðan Krýsuvíkurbjargs.

Beint niður af hinni fornu Krýsuvík er lítil eyja framan við bergið, er nefnist Fuglasteinn, og það er næsta ótrúlegt hvílík mergð fugla getur þar rúmast. — Um fjöru koma flasir og klappir sumstaðar upp. Þar má sjá skarfa í stórhópum baða vængum, til að þurrka þá.
Frá hinni fornu Krýsuvík, þar sem kirkjuhrófið stendur eitt eftir, má líka ganga niður í bjarg, og liggur skemmsta leiðin milli tveggja hóla, sem sjá má niðri á sléttunni, sú ferð er klukkustundargangur.
Við vesturenda bjargsins eru Selatangar, forn veiðistöð, en þangað er stundargangur frá austustu byggð í Grindavík. Verstöðin í Selatöngum lagðist niður af mögnuðum draugagangi. — Fróðir menn telja að þar hafi verið sjódraugar á ferð.
Krýsuvíkurbjarg
Ferðafélag Íslands þarf þegar á næsta vori að hefjast handa og hlutast til um að nefndur vegslóði, frá Eldborg og niður að bjargi, verði gerður greiðfærari og skilti sett við veginn til þess að vísa ókunnugum á rétta leið.
Svo mátti heita, að Krýsuvík væri í eyði um langan tíma. Síðasti bóndinn bjó þar rausnarbúi frá 1907—1914. En jörðin var fólksfrek til fullrar nýtingar. Sérstakur bjargmaður var sóttur austur í Mýrdal á hverju vori. Gerði hann ekkert annað en stunda bjargið, safna eggjum framan af sumri, en síðan veiða fugl. Vann hann þar einn á daginn, en var á kvöldin sóttur niður á bjarg, eggjakassar og fuglakippur dregnar upp á vaði og reiddar heim. — Á hverjum stað er síga varð í bjargið, hringaði sigmaðurinn enda vaðsins á bjargbrúnina og kastaði nokkrum steinvölum yfir, rakti síðan vaðinn fram af brúninni og las sig niður. Þessar steinahrúgur liggja þarna enn og eru þær ótrúlega léttar. —

Krýsuvíkurbjarg

Sigið í Krýsuvíkurbjarg 1983.

Eggjatekjan fór allt upp í tíu þúsund á vori. Voru þau þvegin og aðgætt og reidd á klökkum til Hafnarfjarðar og seld á 10 aura stykkið. Eri leiðin frá Krýsuvík, eftir Ketilsstíg sunnan við hverina, yfir Sveifluháls til Hafnarfjarðar, var þá um það bil 8 tíma lestargangur.
Mikill straumur erlendra ferðamanna lagði á þessum árum leið sína til Krýsuvíkur og niður á bjarg, og ekki dró það úr, að Krýsuvíkurheimilið var annálað fyrir gestrisni og höfðingsskap.“ – Sv. Þ.

Í Morgunblaðinu 1982 er lýsing Tómasar Einarssonar „Á ferð um Krýsuvíkurbjarg„:

Litla-Hraun

Krýsuvíkursel í Litla-Hrauni ofan Krýsuvíkurbjargs.

„Mörgum þykir gaman að ganga með sjó til að fylgjast með hreyfingum úthafsöldunnar. Heyra öldugjálfrið við fjörusteininn eða hlusta á brimniðinn og sjá öldufaldana þeytast hátt í loft upp eftir fangabrögðin við hina brimsorfnu kletta. Við slíkar sýnir er unnt að dvelja löngum stundum. Þeim fylgir einhver seiðandi kraftur sem iætur fáa ósnortna, sem hafinu kynnast á annað borð.
Í nágrenni höfuðborgarinnar er víða unnt að kynnast hafinu á þennan hátt en samt er óhætt að fullyrða að sá staður er vandfundinn þar sem leikur þess er stórkostlegri en undir Krýsuvíkurbjargi. Í þessum pistli leggjum við leið okkar á þær slóðir.

Krýsuvíkurheiði

Jónsbúð á krýsuvíkurheiði. Geitahlíð fjær.

Fyrir sunnan byggðina í Krýsuvík er landið flatt og greiðfært yfirferðar. Það nefnist Krýsuvíkurheiði og liggur hún milli Ögmundarhrauns að vestan og Krýsuvíkurhrauns að austan. Syðsti hluti heiðarinnar nær fram að sjó. Þar endar hún í þverhníptu bjargi sem víða er allt að 40 m hátt.

Krýsuvíkurheiði

Athvarf í Krýsuvíkurheiði.

Við yfirgefum bílinn hjá gamalli fjárrétt, sem er neðan við veginn gegnt Geitahlíð og tökum stefnuna niður á bjarg. Réttarsvæðið er athyglisvert, því frá Stóru-Eldborg, sem er þar fyrir ofan, liggur eldtröð niður fyrir veg. Í enda traðarinnar hefur þessi rétt verið gerð og mynda traðarbarmarnir réttarveggina að nokkru leyti. Við höfum Krýsuvíkurhraunið á vinstri hönd. Þí.ð hefur komið frá eldvörpunum sunnan undir Geitahlíð, bæði Stóru- og Litlu-Eldborg og mun vera nokkur þúsund ára gamalt. Það hefur runnið í sjó fram við Keflavík og þar fyrir austan og myndað landauka í seinni tíð.

Krýsuvíkurbjarg

Krýsuvíkurbjarg – loftmynd.

Þegar komið er fram á bjargbrún tökum við stefnuna til hægri og höldum vestur eftir. Brún bjargsins er grasi gróin og mjög greiðfær yfirferðar. Ætti gangan því að sækjast greitt, en hætt er við að hún verði nokkuð tafsöm, því það er svo ótal margt sem vekur forvitni og krefst nánari skoðunar. Fyrri hluta sumars er bjargið kvikt af fugli og bera syllurnar þess glögg merki. Þar er svartfuglinn mest áberandi og svo ritan. Þá er þröng á þingi og þegar garg þessara bjargbúa blandast við sjávarniðinn hljómar svo sannarlega stef úr „Íslandslagi“. En lögun og gerð bjargsins er ekki síður athyglisverð því þar liggur hvert grágrýtislagið ofan á öðru og gefa þau glöggt til kynna gerð þess og myndun. En það hefur gerst fyrir mörg þúsund árum.

Eystri-lækur

Eystri-lækur.

Margir halda að vatn sé ekki að finna á bjarginu, en það er rangt, því brátt verður Eystri-lækur á leið okkar. Hann á upptök sín í Bleiksmýri austan undir Arnarfelli og fellur fram af bjargbrúninni beint ofan í sjó í fallegum, lóðréttum fossi. Er sá foss sannarlega augnayndi.

Krýsuvíkurbjarg

Við vitann á Krýsuvíkurbjargi.

Nokkru vestan við lækinn komum við að litlum vita er stendur frammi við bjargbrún. Þar er tilvalið að setjast niður um stund og fá sér bita af nestinu, því drjúgur spölur er enn eftir af göngunni.
En svo breytir bjargið um svip. Hin lagskiptu berglög hverfa um stund en slétt berg með rauðum gjalllögum á milli tekur við. Þetta er suðurhluti Skriðunnar, en svo nefnist smáhæð sem gengur fram að sjó nokkru fyrir vestan vitann.
Skriðan er forn eldstöð, sem hafaldan hefur sorfið og fægt þeim megin er að sjónum snýr. Og þar á einum stað er unnt að ganga alla leið niður í fjöru. Er þá farið skáhallt eftir syllum utan í bjarginu. Nefnist þessi gata Ræningjastígur. Segir þjóðsagan að forðum daga hafi Tyrkir komið þar að landi og gengið upp á brún eftir þessum stíg. Síðan sóttu þeir heim að Krýsuvíkurbæ og hugðust vinna þar á fólki og ræna. En svo vel vildi til, að galdraklerkurinn kunni, séra Eiríkur í Vogsósum var þar staddur. Er hann sá þennan voða nálgast beitti hann kunnáttu sinni með þeim afleiðingum, að Tyrkirnir réðust hver á annan og drápust þeir þar allir. Nú liggur kaðall niður stíginn þeim til styrktar er hyggja á fjöruferð.

Krýsuvíkurbjarg

Krýsuvíkurbjarg – horft frá Skriðunni til vesturs.

Vestan við Skriðuna er Hælsvík og þar fyrir ofan er Selalda og Strákar. Selalda er eldstöð eins og Skriðan, en Strákar eru veðraðir bergdrangar sérkennilegir að gerð. Á sléttum bala vestan undir Strákum eru rústir af eyðibýlinu Fitjum. Standa veggir þess furðu vel og er fróðlegt að virða þar fyrir sér húsaskipan á kotbýli fyrri tíma.

Krýsuvíkurvegur

Krýsuvíkurvegurinn 1961.

Við Fitjar lýkur þessari leiðarlýsingu. Að vísu er bjargið vestan Hælsvíkur skoðunarvert og ekki myndi það spilla að skreppa að Húshólmanum í Ögmundarhrauni og virða fyrir sér rústirnar af býlinu sem þar var einu sinni en mun hafa eyðst þegar Ögmunarhraun brann. En fyrir ókunnuga er það nokkrum erfiðleikum háð að finna rústirnar og svo lengir krókurinn þangað gönguna allmikið. Því er best að snúa við hjá Fitjum og ganga frá Strákum beinustu leið yfir Krýsuvíkurheiðina að bílnum er bíður hjá gömlu réttinni neðan undir Stóru-Eldborg.
Þangað verður svo komið aftur eftir 5—6 klst. rólega gönguferð.“ – Tómas Einarsson.

Krýsuvíkurberg

Krýsuvíkurberg (Hælsvík/Heiðnaberg).

Reyndar vantar talsvert upp á að Krýsuvíkurbjargi (-bergi) sé gerð tæmandi skil í framangreindum lýsingum. Mögulega stafar það af ókunnugleik hlutaðeigandi eða takmörkuðu ritplássi. Vestan við Eystri-Bergsenda, austasta hluta Krýsuvíkurbjargs, er t.d. Litla-Hraun. Í því er að finna minjar sels frá Krýsuvík, réttar, fjárhúss og athvarfs þar sem stundaðar hafa verið bæði refa- og fuglaveiðar. Ofar í heiðinni er Jónsbúð, fjárhús frá bænum.

Selalda

Minjar við Selöldu; Krýsuvíkursel og bærinn Eyri – Uppdráttur ÓSÁ.

Ofan Skriðu eru minjar Eyris, bæjar frá 17. öld, og hið gamla Krýsuvíkursel er segir frá í þjóðsögum af Tyrkjum er komu upp frá Heiðnabergi (Hælsvík) – svo fátt eitt annað sé nefnt.

Heimildir:
-Morgunblaðið, 80. tbl. 11.04.1951, Ingibjörg Sigurðardóttir – minningarorð, Kjartan Sveinsson, bls. 2 og 7.
-Vísir, 18. tbl. 21.01.1962, Undir Krýsuvíkurbergi, Sv. Þ., bls. 9 og 10.
-Morgunblaðið, 182. tbl. 21.08.1982, Á ferð um Krýsuvíkurbjarg, Tómas Einarsson, bls. 31.

Krýsuvíkurbjarg

Krýsuvíkurbjarg – horft frá Bergsenda vestari til austurs. Reynir Sveinsson skreytir forgrunninn.

Gapi

Í Árbók Hins íslenska fornleifafélags 1930 er hluti „Úr lýsingu Strandarkirkju- og Krýsuvíkursókna eftir séra Jón Vestmann, 1840“ undir fyrirsögninni „Skýrslur um hella, teknar úr sóknalýsingum presta, frá þvi um 1840“. Þar fjallar Jón um fjárhellana ofan Selvogs, í Selvogsheiði (Strandarhæð), Sængurkonuhelli í Herdísarvíkurhrauni og fjárskjólin í Krýsuvíkurhrauni austan Krýsuvíkur:

Sængurkonuhellir

Sængurkonuhellir í Herdísarvíkurhrauni.

„Herdísarvíkurhraun kemur úr Brennisteinsfjöllunum , engir eru þar hellirar eður stórgjár; — þó er þar 1 hellir, kallaður Sængurkonuhellir, því kvenpersóna hafði einhvern tíma alið þar barn; þessi hellir er annars ekki stór.

Strandarhellir

Strandarhellir.

Í Selvogsheiði eru 3 hellrar: a. Strandarhellir, rúmar 200 fjár. b. Bjargarhellir, álíka stór. c. Gapi, tekur um 60 kindur. d. Vestan undir Krýsuvíkurhrauni er stór hellir, og bezta hagaland í kring, í og með hrauninu, samt víðar út um heiðina, svo alltíð má beita fé undir vind, af hverri átt, sem hann er. Hellir þessi er langt frá bæjum; er því erfitt að nota hann í vetrarharðindum. Fyrir hér um bil 100 árum, eður má ske nokkuð meir, var bóndi í Krýsuvík, að nafni Arngrímur, mig minnir: Jónsson. Hann tíundaði jafnan 50 hndr. Hann hafði fé sitt við hellir þennan. Hann skyldi hafa átt 99 ær grákollóttar. Systir hans átti eina á, eins lita, og hætti hann ei fyr að fala hana af systur sinni en hún yfirlét honum ána, sárnauðug. Sama veturinn, seint, gjörði áhlaupsbil, sem stóð 6 dægur. Hrakti þá allt hans fé fram af Krýsuvíkurbergi, hér og þar til dauðs og algjörlegs taps, því sjórinn tók við fyrir neðan bergið, en vindurinn rak til hafs. —

Gvendarhellir

Gvendarhellir – Hús Krýsuvíkur-Gvendar framan við hellismunnann.

Í hengisfönninni framaní bergbrúninni stóð Grákolla alein, er hann fékk hjá systur sinni, þegar hann eftir bylinn fór að leita að fénu. Tekur hann ána þá og reynir í þrígang að kasta henni framaf berginu, en gat aldrei kastað henni svo langt, að hún færi niðurfyrir, en jafnótt og hún losnaði í hvert sinni við hendur hans, brölti hún upp að hnjám honum. Loksins gaf hann frá sér, og skal hafa sagt löngu seinna, að útaf á þessari hefði hann eignazt 100 fjár. — Þetta hefi ég að sögusögn og gef það ei út sem áreiðanlegan sannleik. —

Gvendarhellir

Í Arngrímshelli (Gvendarhelli).

Ævilok Arngríms urðu þau, að steinn datt á hann úr Krýsuvíkurbergi og murði hann í sundur, og 2 manneskjur aðrar. Þetta er víst.
Árið 1827 kom gamall bóndi til Krýsuvíkursóknar, Guðmundur Bjarnason, byggði nýbýlið Læk, aldeilis að stofni, átti margt fé, hélt því við áðurnefndan hellir, en þar honum þótti langt að hirða það þar, byggði hann þar annan bæ, dásnotran sem hinn, með glergluggum, sængurhúsi, af- og al-þiljuðu, með 2 rúmum; í hinum karminum geymsluhús. Byggði hann hús þetta framan við hellirsdyrnar og rak féð gegnum göngin útúr og inní hellirinn. Hlóð af honum með þvervegg. Bjó til lambastíu með öðrum; gaf þeim þar, þá henta þótti; bjó til jötur úr tilfengnum hellum allt í kring í stærri parti hellirsins; gaf þar fullorðna fénu í innistöðum (sem verið mun hafa allt að 200m eftir ágetskun manna). Flutti þangað talsvert hey og smiðju sína, og mun hafa starfað þetta að mestu, ef ei öllu leyti, aleinn, á einu ári. Þarna var hann 10 vetur samfellt yfir kindum sínum, aleinn, en á sumrum heima. Loks gafst hann upp, yfir sjötugt, og sagðist hafa verið smali síðan hann hafði 6 ár á baki.“

Fjárskjólshraun

Fjárskjólið í Fjárskjólshrauni.

Einhverra hluta vegna gat Jón Vestmann ekki um fjárskjólið góða skammt suðaustan við nefndan helli Arngríms og Guðmundar í Fjárskjólshrauni. Ekki er útilokað, vegna þess hversu stutt er á milli fjárskjólanna, að það austara hafi verið athvarf Arngríms, enda mun nær Krýsuvíkurbergi og aðgengilegra að því þaðan og aðgengi að berginu auðveldara. Inni í fjárskjólinu ú Fjárskjólshrauni er hlaðið athvarf fyrir smala, sem nú hefur að nokkru fallið saman.

Heimild:
-Árbók Hins íslenska fornleifafélags 01.01.1930, Skýrslur um hella, teknar úr sóknalýsingum presta, frá þvi um 1840 – Úr lýsingu Strandarkirkju- og Krýsuvíkursókna eftir séra Jón Vestmann 1840, bls. 76.

Fjárskjólshraun

Í Fjárskjólshraunsskjóli í Fjárskjólshrauni.

Ketilsstígur

Í Árbók Hins íslenska fornleifafélags 1943 fjallar Ólafur Þorvaldsson um „Fornar slóðir milli Krýsuvíkur og Hafnarfjarðar„, þ.á.m.a. Ketilsstíg:

„Ég ætla nú að lýsa að nokkru vegum, götum og stígum, sem liggja milli Hafnarfjarðar og Krýsuvíkur og oftast voru farnir. Að sjálfsögðu sleppi ég hér þeim nýja Krýsuvíkurvegi, sem nú er að mestu fullger. Þó á hann þegar nokkra sögu, en hún er annars eðlis og skal ekki rakin hér.

Undirhlíðavegur

Krýsuvíkurleiðir

Krýsuvík – gamlar götur (ÓÞ).

Fyrst skal hér lýst þeim vegi, sem mest var farinn og aðallega, þegar farið var með hesta. Vegur sá var tekinn úr Hafnarfirði öðru hvoru megin Hamarskotshamars, upp yfir Öldur, þar sem nú er kirkjugarður Hafnfirðinga, upp í Lækjarbotna, með Gráhelluhrauni sunnanverðu, upp að Gjám, sem er hraunbelti frá því móts við Fremstahöfða, upp í Kaldársel. Þar var venjulega aðeins staldrað við, hestar látnir drekka, þegar farið var yfir ána, því að oftast var ekki um annað vatn að ræða, fyrr en til Krýsuvíkur var komið.
Frá Kaldárseli lá leiðin yfir smáhraunbelti, unz komið var að Undirhlíðum. Lá vegurinn suður með þeim, víða allsæmilegur, moldar- og melgötur. Vegurinn liggur yfir eitt hraunhaft, norðarlega með Undirhlíðum, kringum eldvörp þau, sem Ker heita, og hefur hraun streymt þar upp undan hlíðinni á vinstri hönd, þegar suður er farið.
Syðst með Undirhlíðum, eða nokkru sunnar en Stórihríshvammur, er farið yfir mel úr rauðu gjalli, og heitir sá melur Vatnsskarðsháls, þaðan er stutt í Vatnsskarð, þar sem hinn nýi vegur liggur nú úr hrauninu upp á hálsinn. Í Vatnsskarði var talin hálfnuð leiðin milli Hafnarfjarðar og Krýsuvíkur. Venjulega var áð þar snöggvast, lagað á hestunum, gert að, sem kallað var, stundum kippt ofan, einkum ef lest var ekki þung.

Vatnsskarð

Vatnsskarð og Undirhlíðar – kort.

Þegar lagt er upp úr Vatnsskarði, taka við hinir svonefndu Hálsar, réttu nafni Sveifluháls, og má segja, að suður með hálsinum sé góður vegur. Sem næst þriggja stundarfjórðunga lestagang frá Vatnsskarði skerst dálítil melalda fram úr hálsinum, og heitir þar Norðlingaháls. Nokkru þar sunnar sjást í hálsinum leifar af brennisteinshverum, og heitir það svæði Köldunámur. Þar litlu sunnar tekur við stór grasflöt, sem Hofmannaflöt heitir. Við suðurenda hennar rís upp úr hálsinum hæsti tindur Sveifluháls, sem Miðdagshnjúkur heitir. Veit ég ekki, hvernig það nafn er til orðið, — en gamalt er það. Ef um dagsmörk er að ræða í því sambandi, getur það ekki komið frá Krýsuvík. Fremur gæti það átt við frá Hvaleyri eða Ási eða annars staðar í grennd Hafnarfjarðar. Þegar Hofmannaflöt sleppir, er skammt ófarið að Ketilsstíg, þar sem vegurinn liggur upp yfir hálsinn. Stór steinn er á hægri hönd og á honum dálítil varða, og er það leiðarmerki um það, að þeir, sem til Krýsuvíkur ætluðu, tækju stíginn upp í hálsinn, en héldu ekki lengra suður með, því að sá vegur lá til Vigdísarvalla og enda alla leið suður fyrir háls, og er syðsti útvörður þessa langa og tindótta háls, fagurt, keilulagað fell, — Mælifell.

Ketilsstígur

Ketilsstígur norðan Ketils.

Þegar Ketilsstígur er tekinn, liggur vegurinn fyrst upp allbratt klettahögg, en þegar upp á það er komið, liggur Ketillinn svo að segja fyrir fótum manns. Ketillinn er kringlóttur, djúpur dalur eða skálinn og ofan í hálsinn. Grasflöt er í botni Ketilsins, sem er svo djúpur, að botn hans mun vera jafn undirlendinu fyrir neðan Hálsinn.

Ketilsstígur

Ketillinn. Fíflvallafjall , Grænadyngja og Hrútafell fjær

Vestur- og norðvesturbrún Ketilsins er þunnur móbergshringur, en norður-, austur- og suðurhliðar eru hálsinn sjálfur upp á brún, og er hæð hans þar um 350 m. Ketilsstígur liggur því í fullan hálfhring um Ketilinn, hærra og hærra, þar til á brún kemur. Láta mun nærri, að verið sé 30—4 5 mín. upp stíginn með lest, enda sama þótt lausir hestar væru, því að flestir teymdu hesta sína upp stíginn.

Ketilsstígur

Ketilsstígur

Ketilsstígur er tvímælalaust erfiðasti kaflinn á þessari hér umræddu leið. Slæmt þótti, ef laga þurfti á hestum í stígnum, og búast mátti við, ef baggi hrökk af klakk, hvort heldur var á uppleið eða ofan, að hann þá, ef svo var lagaður, ylti langt niður, því að utan stígsins, sem heita má snarbrattur, eru mest sléttar skriður ofan í Ketilbotn. Ketilsstígur er mjög erfiður klyfjahestum og sízt betri niður að fara en upp. Þegar upp á brún kemur, sést, að hálsinn er klofinn nokkuð langt norður, allt norður að Miðdagshnjúk, og eru í þeirri klauf sanddalir, sem Folaldadalir heita. Af vestari brún hálsins liggur vegurinn spölkorn eftir sléttum mel til suðausturs, og blasir þar við hæsta nípa á austurbrún hálsins og heitir Arnarnípa. Litlu sunnar er komið að dálitlu stöðuvatni, sem Arnarvatn heitir. Eftir það fer að halla niður af hálsinum að sunnan, og er nú ekki eins bratt og að vestan, þar til komið er fram á síðari brekkuna, sem er brött, en stutt. Þegar brekkunni sleppir, er komið í grashvamm, sem Seltún heitir.

Ketilsstígur

Ketilsstígur.

[Framangreind lýsing er verulega ýkt. Ekkert snarbretti er á þessari leið og er hún mjög auðveld göngufólki upp á hálsinn.]
Allur er hálsinn uppi, norðan vegar, gróðurlaus, en sunnan vegar er sæmilegur gróður. Allhár og umfangsmikill hnjúkur er sunnan vegarins, þegar austur af er farið, og heitir sá Hattur. Víðsýnt er af vesturbrún Sveifluháls, þaðan sér yfir allan Faxaflóa, allt til Snæfellsness, en af austurbrún blasir Atlantshafið við, sunnan Reykjaness.

Arnarvatn

Arnarvatn við Ketilsstíg.

Þegar í Seltún kemur, er talið, að komið sé til Krýsuvíkur, þó er um einnar stundar lestagangur heim að Krýsuvík. Í Seltúni eru nokkrir leirhverir, og kraumar í sumum græn leðja, aðrir eru dauðir.
Úr Seltúnshvamminum er farið yfir alldjúpt gil, Selgil. Á sumrum seytlar þar vatn í botni, en á vetrum getur það orðið ófært með hesta sökum fannar, sem í það skeflir, þar eð gilið er djúpt og krappt.
Sunnan gilsins er Seltúnsbarð, og stóðu þar fram yfir aldamót síðustu tvö allstór timburhús, sem enskt félag, er rak brennisteinsnám þar og í Brennisteinsfjöllum á síðari hluta nítjándu aldar, reisti þar.
Nú eru þessi hús löngu horfin. Af Seltúnsbarði er haldið yfir svonefnda Vaðla. Eftir það taka við melar, og liggur vegurinn þar á vesturbakka Grænavatns. Nokkru norðvestar er Gestsstaðavatn, umlukt háum melum, og sést ekki af veginum. Þegar Grænavatni sleppir, er örstuttur spölur suður á móts við Nýjabæina, Stóri-Nýibær til vinstri, Litli-Nýibær til hægri, og þar með komið í Krýsuvíkurhverfi. Milli Nýjabæjanna og heimajarðarinnar Krýsuvíkur er um 12 mín. gangur. Tún heimajarðarinnar liggur sunnan undir og uppi í Bæjarfelli, en bæjarhús, kirkjan og kirkjugarðurinn standa á hól eða hrygg sunnarlega á túninu.

Ketilsstígur

Ketilsstígur.

Hér hefur verið lýst að nokkru aðalveginum milli Krýsuvíkur og Hafnarfjarðar, sem, eins og fyrr segir, var oftast farinn og aðalleið á sumrin, þegar farið var lausríðandi eða með lest, og var þessi leið talin um 8 klst. lestagangur.

Seltún

Brennisteinsnámuvinnslusvæðið við Seltún.

Þá mun ég hér að nokkru lýsa tveimur stígum, sem vestar liggja og aðallega voru farnir af gangandi mönnum, svo og ef farið var með fáa hesta að vetrarlagi, bæði af því að þessar leiðir lágu mun beinna við til Hafnarfjarðar eða frá, svo líka eftir því, hvernig snjór lá, ef mikill var. Ef snjó setti niður af austri eða norðaustri, t.d. meðan menn höfðu viðdvöl í kaupstaðnum, var venjulega snjóléttara á þessum leiðum en með Undirhlíðum og Hálsum. Hins vegar gat síðartalda leiðin verið snjóminni, ef mikið snjóaði af suðvestri. Þetta þekktu menn af langri reynslu. Annars voru vetrarferðir fátíðar með hesta milli Krýsuvíkur og Hafnarfjarðar. Þó kom fyrir, að farið var fyrir jólin, aðallega þá með rjúpur til að selja, svo og stöku sinnum á útmánuðum. Venjulega fóru menn vetrarferðir, ef farnar voru, gangandi, og ýmist báru menn þá eSa drógu á sleSa þaS, sem með var verið. Stillt var svo til, að tungl væri í vexti og færi og veðurútlit sem ákjósanlegast. Margir voru þá mjög veðurglöggir, og var þar eftir ýmsu að fara, sem löng reynsla, ásamt skarpri eftirtekt kenndi mönnum.

Stórhöfðastígur
Þegar ferðamenn fóru Stórhöfðastíg, var farið frá Hafnarfirði upp hjá Jófríðarstöðum, um hlaðið í Ási, oft gist þar, ef menn t. d. komu frá Reykjavík. Frá Ási var farið suður úr Skarði, yfir Bleiksteinsháls, suður yfir Selhraun, vestan undir Stórhöfða, nokkurn spöl suðaustur með honum, lagt á hraunið frá suðrhorni hans, fyrst um gamalt klappahraun, þar til komið var á nýrra brunabelti, sem á sínum tíma hefur runnið ofan á gamla hraunið.

Stórhöfðastígur

Stórhöfðastígur.

Gegnum nýja brunann liggur stígur eða gata, sem enginn veit, hvenær ruddur hefur verið, annars með öllu ófær hestum. Í nýja brunanum, spölkorn austur af stígnum, eru tveir dálitlir blettir eða hólmar, sem bruninn hefur ekki náð að renna yfir. Hólmar þessir heita Snókalönd. Ekki ber þau hærra en umhverfið og sjást því ekki lengra til, og helzt ekki fyrr en að er komið. Hestfær götuslóð liggur norður í Snókalönd, nokkru austar en þar, sem Stórhöfðastígurinn kemur suður úr brunanum.

Snókalönd

Snókalönd.

Ekki eru Snókalöndin jafnstór, það vestra nokkru stærra, og slóð á milli. Hvað liggur til grundvallar þessu nafni, veit víst enginn lengur, en á tvennt mætti benda. Í fyrra lagi, að þarna hafi vaxið villihvönn, snókahvönn — geitla. Í öðru lagi, að blettir þessir, sem hafa verið miklu gróðurríkari en umhverfið, hafi fengið nafn sem land af töngum þeim og hornum, sem hinn ójafni brunakantur myndar þarna í grennd, og gæti því þýtt „Krókalönd“. Í orðabók Blöndals segir, að snókur sé angi eða útskiki út frá öðru stærra. Gætu því tangar þeir, sem út úr brunanum ganga, verið stofn að þessu nafni. Þó finnst mér fyrri tilgátan sennilegri. Líkur benda til, að þarna hafi verið nokkur skógur og máske verið gert þar til kola fyrrum.
Gatan út í Snókalöndin bendir á nokkra umferð þangað. Sökum fjarlægðar þessa staðar frá alfaraleið óttast ég, að svo geti farið, að hann gleymist og nafnið týnist, þar sem þeir, er mest fóru þar um og héldu með því við mörgum örnefnum, voru fjármenn og smalar, en þeim fækkar óðum um þessar slóðir sem víðar.

Snókalönd

Gata í Snókalönd.

Af þessum örsókum get ég hér þessara litlu hólma með hinu fágæta og fallega nafni. Þess má geta, að gren er í vestara Snókalandinu — Snókalandagren.
Þegar suður úr brunanum kemur, liggur stígurinn upp með suðvesturbrún hans, og fylgir maður brunanum, þar til komið er móts við Vatnsskarð í Undirhlíðum, sem farið er þá að nálgast.

Stórhöfðastígur

Stórhöfðastígur – Fremstihöfði og Helgafell fjær.

Úr því liggur stígurinn meira til suðurs, þar til komið er að Fjallinu eina. Er það fremur lágt, hrygglaga fjall með klettaborg á suðurenda. Austan undir því liggur stígurinn, og er þá Sandfell á vinstri hönd allnærri. Er nú stutt þar til komið er á Undirhlíðaveginn, skammt suður af Sandfellsklofa.
Stórhöfðastíg fóru stundum lausríðandi menn frá Krýsuvík til Hafnarfjarðar. Fóru þá sem leið lá inn með hálsum, þar sem sú leið er allgóður reiðvegur, þar til kom á móts við, þar sem Stórhöfðastígurinn lá vestur á milli Fjallsins eina og Sandfells. Sá stígur var stundum tekinn, því að við það féll úr mikill krókur, inn með Undirhlíðum um Kaldársel, en hitt bein lína til Hafnarfjarðar. Þó að Stórhöfðastígurinn sé frekar slitróttur, var gott að láta hestinn njóta hægu ferðarinnar, en jafnsnemma komið til Hafnarfjarðar eða fyrr, þrátt fyrir stirðari veg.

Hrauntungustígur

Hrauntungustígur

Hrauntungustígur.

Þeir, sem ætluðu sér Hrauntungustíg frá Hafnaríirði til Krýsuvíkur, fóru um Jófríðarstaði að Ási, þaðan um bkarð vestan Ásfjallsaxlar, yfir hraunhaft milli Grísaness og Hamraness, undir vesturenda þess, austur að stórum steini flötum ofan, sem er þar stakur á jafnsléttu. Frá honum er farið suður á gamalt helluhraun um 10 mínútur, þá tekur við Nýibruni eða Háibruni, sem runnið hefur ofan á eldra hraunið. Gegnum brunann er, eins og á Stórhöfðastíg, rudd allgreiðfær gata, sennilega gerð á svipuðum tíma og Stórhöfðastígur, en hver það hefur látið gera, veit víst enginn, en nijög gamlar eru þessar vegabætur, og eru þær sennilega fyrstu vegabætur, sem gerðar hafa verið til Krýsuvíkur. Þó kann að vera, að stígurinn gegnum Ögmundarhraun, sem fyrr getur, sé eldri, og þá sennilega þær fyrstu. Gegnum Háabrunann er sem næst 20 mín. gangur með lest, og þegar á suðurbrún hans kemur, ganga til beggja handa suður úr brunanum tvær brunatungur, sem stígurinn liggur suður á milli, og ná þessar tungur spölkorn suður á svokallaðan Almenning, sem er nú búfjárhagar Hraunajarðanna, en hefur fyrr á öldum, eins og nafnið bendir til, verið frjáls til afnota fleiri en Hraunabændum, t. d. til kolagerðar, og sjást þar enn allvíða leifar gamalla kolagrafa. Af brunatungum þessum tel ég víst, að stígurinn hafi nafn fengið, Hrauntungustígur.

Hrauntungustígur

Hrauntungustígur.

Eftir að suður úr Hrauntungum kemur, er óglögg, sums staðar jafnvel engin gata, og verður því sjónhending að ráða, enda torfærulaust yfir kjarri vaxið lágahraun, en allt á fótinn. Þegar kemur dálítið upp í Almenninginn, fer maður nálægt gömlu selstæði, sem Gjásel heitir, og er þar venjulega vatn. Sennilega hefur þar verið haft í seli frá Þorbjarnarstöðum eða Stóra-Lambhaga í Hraunum.

Fornasel

Fornasel – vatnsstæði.

Nokkru austar er annað selstæði, sem Fornasel heitir. Þegar suður á há-Almenning kemur og útsýnið víkkar til suðurs, sést hár klettahryggur í suðvestur, og eru það Sauðabrekkur. Norður af þeim er farið yfir víða og djúpa gjá, á jarðbrú, Sauðabrekkugjá, eftir það er komið á svonefnda Mosa, sem er flatt grámosahraun, og er gata þar allglögg. Þá er hár brunahryggur, sem liggur frá norðri til suðurs á vinstri hönd og heitir Hrútagjá, Hrútadalir þar suður af. Þegar Mosum sleppir, hefur maður Mávahlíðarhnjúk og Mávahlíðar skammt sunnar á hægri hönd.
Móti Mávahlíðum syðst er komið í Hrúthólma; er það langur, en fremur þunnur melhryggur, nokkuð gróinn neðan, öllum megin, smávin í þessari brunaeyðimörk. Þegar úr Hrúthólma er farið, taka við sléttar hraunhellur, ágætar yfirferðar. Sunnarlega á þessum hellum er stakt móbergsfell, Hrútafell. Þegar á móts við það kemur, en það er nokkuð til hægri við stíginn, er stutt þar til komið er á sumarveg Krýsuvíkur, skammt norðan Ketilsstígs.
Þessi leið, sem hér hefur lýst verið að nokkru, var að heita má eingöngu farin af gangandi mönnum, og stundum ráku Krýsvíkingar fé til förgunar þessa leið. Sömuleiðis kom fyrir, að hún var farin af Herdísarvíkurmönnum, svo og Selvogsbúum, þegar þeir ráku fé í kaupstað, ef snjór var fallinn á fjallið og Kerlingarskarð, sem annars var þeirra aðalleið til Hafnarfjarðar og Reykjavíkur.
Hér hefur þá nokkuð ýtarlega verið gerð tilraun til að lýsa þeim þremur höfuðleiðum, sem lágu milli Hafnarfjarðar og Krýsuvíkur, frá því þar varð fyrst byggð, fram á síðustu ár.

Hrútfell

Hrútfell.

Að lokum vil ég svo geta að nokkru fjórðu leiðarinnar, sem kom fyrir, að Krýsvíkingar fóru, ef með hesta voru fyrir néðan, þ.e. í Hafnarfirði, og dreif niður svo miklum snjó, að hinum leiðunum var engri treyst. Þá gat þessi leið verið fær. Leið þessi lá frá byggð í Hraunum sunnan Hafnarfjarðar.

Rauðamelsstígur

Rauðamelsstígur.

Þegar menn fóru þessa leið, var venjulega farið út af Suðurnesjaveginum, norðan Rauðamels, skammt sunnan Óttarsstaða, um Óttarsstaðasel, vestan undir Skógarnefjum, sunnan Einihlíða, en norðan Lambafells, fram hjá afar stórum klettum, sem eru einstæðir á sléttum mosaflákum og Bögguklettar heita, þaðan yfir brunatagl, sem liggur upp að norðurhálsi Trölladyngju, upp slóða yfir hálsinn, síðan yfir helluhraun slétt norðan Hörðuvalla, sem er nokkurt undirlendi mót norðri, milli Trölladyngju og Grænudyngju. Þá er komið að fjalli, sem Fíflavallafjall heitir, og farið nokkuð suður með því að austan, þar til komið er undir Stórusteinabrekku, þaðan liggur stígurinn yfir slétt helluhraun norðan Hrútafells, unz komið er á stíginn upp úr Hrúthólma, sem er á Hrauntungustígsleið, sem áður getur.
Önnur leið upp úr Hraunum lá nokkru norðar, — eða upp frá Þorbjarnarstöðum, venjulega norðan Draughólshrauns, um Straumsel, norðan Gömluþúfu, sem er hár og umfangsmikill klettur upp úr hæstu hæð Hraunaskógar (Almennings). Þegar upp fyrir Gömluþúfu kom, mátti fara hvort menn vildu heldur, austan eða vestan Sauðabrekkna, og var komið á Hrauntungustíg norðan Mávahlíða. Þessi leið var helzt farin af Hraunamönnum, er svo voru almennt kallaðir, sem fóru aðallega til fjárleita haust og vor til Krýsuvíkur, svo og af Krýsvíkingum, þegar fyrir kom, að þeir sóttu sjóföng til Hraunabænda, því að meðan Hraunajarðir voru almennt í byggð sem bændabýli, sem var fram yfir síðustu aldamót, — enda tvær jarðir enn —, var þaðan mikil sjósókn.

Hellan

Krýsuvíkurvegur um Helluna.

Áður en við yfirgefum þessar slóðir að fullu, skulum við nú, þegar við hverfum frá Krýsuvík að þessu sinni, fara leið, sem við höfum ekki áður farið. Þessi leið er hin svonefnda Vatns- eða Dalaleið. Nú vill svo til, að nokkur kafli hins nýja vegar frá Hafnarfirði til Krýsuvíkur liggur með Kleifarvatni að vestan, svo að nú gefst fleiri mönnum kostur á að fara þessa leið en áður var.

Hellan

Hellan vestan Kleifarvatns.

Þessi leið mun ekki hafa talizt til höfuðleiða milli Krýsuvíkur og Hafnarfjarðar, enda sjaldan farin, og þá helzt á vetrum. Þó tel ég hana ekki með öllu ómerkilega, og ber fleira til en eitt. Það er þá fyrst, að þessi leið er stytzta og beinasta lestaleiðin milli Krýsuvíkur og Hafnarfjarðar. Hún er greiðasta og hægasta leiðin. Hún liggur í sérkennilegu og fögru umhverfi. Hún var nokkrum annmörkum háð, — og hún gat verið hættuleg.
Þessa leið var ekki hægt að fara, jafnvel svo árum skipti, nema ísar væru tryggir, og lágu til þess tvær meginástæður. Annars vegar réðu hér um vetrarhörkur, hins vegar náttúrufyrirbæri, sem enn eru óskýrð, svo að fullsannað sé. Hér kom fram sem oftar, að ekki fóru ávallt saman óskir ferðamannsins og lögmál náttúrunnar. Til þess að hægt væri að fara þessa leið með hesta að vetri til, varð Kleifarvatn að vera á hestís. Reynslu voru menn búnir að fá fyrir því, að Kleifarvatni var ekki að treysta á ís með hesta fyrr en eftir vetrarsólhvörf.
Meginorsök þess, hve vatnið leggur seint, er vafalaust sú, að allmikill hiti er í botni þess, sér í lagi að sunnanverðu, og hafa, þegar vatnið er lítið, verið talin þar milli 10 og 20 hveraaugu, sem spýta sjóðheitri gufu upp í vatnið og í loft upp, þegar út af þeim fjarar. Hvað sem um skoðanir manna og reynslu í þessu efni er að segja, er hitt víst, að frosthörkur voru venjulega meiri og stóðu oft lengur, eftir að kom fram yfir miðjan vetur. Hins vegar var vorís ekki treyst, þótt þykkur væri.“

Heimild:
-Árbók Hins íslenska fornleifafélags 01.01.1943, Fornar slóðir milli Krýsuvíkur og Hafnarfjarðar – Ólafur Þorvaldsson, bls. 83-87.

Arnarvatn

Arnarvatn við Ketilsstíg.

Móbergskúla

Jón Jónsson, jarðfræðingur, fjallar um „Sérkennilegar móbergskúlur“ í Náttúrufræðingnum árið 1987:

Jón Jónsson

Jón Jónsson, jarðfræðingur.

„Meðan ég var að vinna að jarðfræðikorti yfir Reykjanesskaga, það mun hafa verið 1963, veitti ég athygli sérkennilegum kúlum í móbergi í Bæjarfelli í Krýsuvík, og er þeim lýst í ritinu Jarðfræðikorti af Reykjanesskaga (Jón Jónsson 1978) svo sem hér segir: „Við lítið ból norðan í háfellinu koma fyrir harla sérkennilegir kúlur í móberginu. Þær eru úr móbergsglerkornum og hvað það snertir eins og túffið í kringum þær, en hafa veðrast út sem reglulegir boltar oft um 15—25 sm í þvermál. Sumar eru nú holar innan og virðist það vera vegna veðrunar. Það er því skelin um þessar kúlur, sem stenst veðrunina betur en bæði túffið í kring og eins inni í kúlunni sjálfri. Myndun sem þessa hef ég séð á einum stað öðrum, en það er í Syðri-Stapa við Kleifarvatn.“
Frá því að þetta var skrifað hef ég fundið samskonar myndanir á tveim öðrum stöðum og eru báðir í Mýrdal. Besta dæmið, sem ég nú þekki um svona myndanir er að finna í hömrunum austan við Skiphelli í Mýrdal örskammt frá þjóðvegi 1. Þar gefur að líta þverskurð af fornri eldstöð. í greinakorni um jarðfræðiathuganir í Mýrdalsfjöllum er þessa getið með þessum orðum: (Jón Jónsson 1985):

Móbergskúla

Móbergskúla.

„Mjög sérkennilegar móbergskúlur koma á kafla fyrir í þessari gosmyndum. Þær eru eingöngu úr móbergsglerkornum og í ýmsum stærðum, frá því að vera 2—3 sm í þvermál og allt upp í 40-50 sm. Kúlurnar eru ýmist á strjálingi inni í svartri ösku og vikri eða í svo þéttum hópum að þær ná því að vera 60-80% af berginu.
Flestar eru þær á stærð við tennisbolta en aðrar á stærð við fótbolta eða enn stærri. Einkum koma þær fyrir í þykku lagi úr svörtum vikri og gjalli og þá ásamt venjulegum hraunkúlum (bombum) sumum stórum.“
Nokkrar svona kúlur hef ég fundið í þeirri sérstæðu myndun, sem nefnist Lambaskörð og er í Kerlingardalsheiði. Gamli akvegurinn liggur um þetta svæði niður að brúnni, sem eitt sinn var á Múlakvísl í sundinu milli Selfjalls og Léreftshöfuðs.
Ekki skal hér um þá myndun fjallað, en þess aðeins getið að þar koma svona móbergkúlur líka fyrir. Í dagbók minni frá þeim athugunum er eftirfarandi að lesa: „Ofan til í þessu túffi eru móbergskúlur eins og þær, sem ég hef áður séð í Bæjarfelli og Syðri Höfða í Krýsuvík, en einnig við Skiphelli. Þær eru hér mjög mismunandi stórar, þær stærstu um 30-40 sm í þvermál aðrar á stærð við fótbolta og minni. Ekki mynda þær reglulegt lag en koma fyrir á víð og dreif í berginu.“
Ekki er auðráðið í hvað var þess valdandi að þessar kúlur urðu til. Þær eru einfaldlega öskuboltar, sem orðið hafa til við það að blautt eða hæfilega rakt öskulag rúllaðist upp. Svo laust er það allt í sér að það hlýtur að hafa farið rólega fram, en hvað kom því af stað?

Móbergskúlur

Móbergskúlur.

Nýlega gerðar smásjárathuganir á þessum kúlum hafa ekki gefið mikið nýtt. Þær sýna ofur venjulegt móberg. Inni í glerkornunum eru feldspat- og pýroxen kristallar ásamt einstaka ólívíni. Eini sýnilegi munurinn á þessu efni er sá að í einstaka tilfellum er megin hluti kúlunnar úr tiltölulega grófum glerkornum, en yst er lag úr mjög fínu efni, sem einnig samanstendur af smáum glerögnum og einstaka kristöllum. í þessu fína efni er myndbreyting (palagonitisering) verulega meira áberandi en í því grófa. Kornin liggja í ákveðna stefnu og mynda þannig húð utan um grófara efnið. Þannig líkist þetta því fyrirbæri sem sjá má í svo nefndum öskubaunum (písólítum) (Sbr. Tómas Tryggvason 1955). Sérstaklega upplýsandi hvað þetta varðar er ljósmyndin á bls. 105. Það skal tekið fram að aðeins í einu tilviki hef ég, svo óyggjandi sé, fundið svona tilhögun glerkornanna í þessum kúlum.“

Móbergskúlur

Móbergskúla á Sveifluhálsi.

Haraldur Sigurðsson fjallar um móbergskúlurnar á bloggsíðu sinni; vulkan.blog.is:

„Ef móbergskúlur myndast eftir gos, en ekki í gosinu, eins og Jón Jónsson taldi, þá verðum við að leita annara skýringa varðandi uppruna þeirra. Kúlur eru algengt fyrirbæri í setlögum um allan heim, og eru oftast nefndar concretions eða setkúlur, en þær eru algjörlega óþekktar í setlögum af gjóskubergi, eins og móberginu á Íslandi — þar til nú. Slíkar kúlur myndast í setlögum vegna þess að límefni byrjar að myndast á milli sandkorna á einhverjum púnkti í setinu og límefnið berst út í allar áttir, til að mynda setkúlu. Þetta virðist vera tilfellið í íslensku móbergskúlunum, en ennþá vitum við ekki hvað límefnið er.

Móbergskúlur

Móbergskúlur í Innri-Stapa í Krýsuvík.

Lang sennilegast er að það sé palagónít, sem er leirsteind eða míneral sem myndast þegar basalt gler byrjar að myndbreytast yfir í móberg, en sú myndbreyting veldur því að gjóska rennur saman í hart berg. Surtsey kenndi okkur að sú hörðnun getur gerst furðu hratt, eða á einum áratug eða svo.“

Heimildir:
-Náttúrufræðingurinn, 1.-2. tbl. 01.07.1987, Sérkennilegar móbergskúlur – Jón Jónsson, bls. 34-35.
-Haraldur Sigurðsson – https://vulkan.blog.is/blog/vulkan/entry/951989/

Móbergskúlur

Móbergskúlur (HS).

Krýsuvík

Viðurkenndar prófgráður hafa jafnan verið metnar til verðleika þegar sótt er um störf.

Krýsuvík

Krýsuvík – Vinnuskólinn (HH).

Höfundur lauk m.a. barnskólaprófi, gagnfræðiprófi, menntaskólaprófi, stúdentsprófi, prófi frá Lögregluskóla ríkisins, prófi frá stjórnunarskóla FBI í Bandaríkjunum og prófi í fornleifafræði við Háskóla Íslands, auk ótal prófgráða eftir hin og þessi námskeið í gegnum tíðina. Var auk þess í bæjarstjórn Hafnarfjarðar, nefndarmaður í ótal nefndum og formaður nokkurra.

Krýsuvík

Vinnuskóladrengir við vinnu í fjósinu í Krýsuvík (HH).

Sú „prófgráða“, sem þó hefur nýst honum hvað best í gegnum tíðina, er reynslan frá Vinnuskólanum í Krýsuvík. Þá var hann á aldrinum 8-11 ára. Að vísu var enginn „útskrifaður“ frá skólanum þeim arna með prófgráðu, en í lok hverrar annar fengu flestir þátttakendur viðurkenningarskjöl, sem hvert og eitt var verðskuldað og ígildi prófgráðu.

Auk viðurkenninganna fengu hlutaðeigendur laun fyrir vinnuframlag sitt. Jafnan þurfti sérhver að vinna hálfan dag á launum. Vinnuframlag hvers og eins var metið frá degi til dags, allt frá 25 aurum til einnar krónu. Verðbólgan lék Vinnuskólann illa, líkt og aðra slíka vinnustaði. Á síðasta ári Vinnuskólans voru hæstu daglaunin 5. kr.
Eftir hádegismat var farið í gönguferðir um nágrennið, landlagið metið og útskýrt.

Krýsuvík

Drengir í Krýsuvík við sundlaugagerð sunnan Bleikhóls.

Ratleikir eða aðrir slíkir voru um helgar. Þá var hópnum gjarnan skipt upp í hópa, sem hver og einn fékk það verkefni að stefna að ákveðnu marki. Oftar en ekki kom til átaka milli hópanna. Sérhver fékk „lífteygju“ á upphandlegg – ef hún varð slitin var viðkomandi úr leik.
Kofar voru byggðir í gilinu við Hettulækinn, sundlaug grafin sunnan Bleikhóls og silungsveiðar stundaðar í Kleifarvatni, gengið upp að Arnarvatni á Sveifluhálsi eða inn að Víti í Kálfadölum.
Einhverja daga, virka sem og um helgar, þurfti hver og einn að aðstoða í eldhúsi; skræla kartöflur, leggja á borð og vaska upp. Þar voru daglaunin best. Boðið var upp á morgunmat (hafragraut og mjólk), hádegismat (bjúgur, fiskibollur o.s.frv.), kvöldmat (sem ég man nú ekki hver var) og kvöldkaffi. Miðdegiskaffið (mjólk á glerflösku og brauðsneið) tókum við jafnan með okkur í gönguferðirnar um nágrennið.
Aukreitis þurfti sérhver að búa um sitt rúm, skúra herbergisgólf og ganga, þvo sinn þvott, hengja upp og strauja hann síðan með rúmfjölunum, sem fólust undir rúmdýnunni.

Krýsuvík

Drengir í Vinnuskólanum við Seltún. Drottningarholan í bakgrunni – HH.

Í fríum var leikið með tindáta í gólfskotstöðu á grámáluðu steingólfinu, lesið, spilað á mylluleik eða þátt tekin í úthugsuðum íþróttaviðburðum, s.s. fótboltamótum á milli herbergjanna, 1-5. Allan tímann voru foreldranir víðs fjarri.
Að kvöldi dags var kvöldvaka; kvikmyndasýning. Þá var setið með krosslagða fætur í röð á kjallaraganginum og horft á „Síðasta móhikanann“ eða einhverja aðra spennandi dásemd. Í framhaldinu var kvöldkaffi; kakó og kex. Áður en gengið var til náða var farið sameiginlega með „faðir vorið“.
Allt starfsfólk Vinnuskólans stóð sig frábærlega – ekki bara í einu heldur og öllu. Í seinni tíð hefur gjarnan verið kvartað yfir meðferð barna á meðferðarheimilum ríkis og sveitafélaga, en því var alls ekki til að dreifa í Krýsuvík. Skólastjórar og skátaforingjar frá Hafnarfirði höfðu forgöngu með skólanum. Má þar t.d. nefna Helga Jónasson, Hauk Helgason, Ólaf Proppe, Hörð Zóphaníesson, Birgi Friðleifsson, Rúnar Brynjólfsson o.fl.

Í Alþýðublaði Hafnarfjarðar 1962 er grein um Vinnuskólan í Krýsuvík undir fyrirsögninni „Unglingavinnan í Krýsuvík sómi Hafnarfjarðar“:

Unglingavinnan

Grein um Vinnuskólann í Alþýðublaði Hafnarfjarðar 1962.

„Undir forystu Álþýðuflokksins stofnaði bærinn sumarvinnuskóla í Krýsuvík fyrir 10 árum. Forstöðumaður vinnuskólans er Haukur Helgason, skólastjóri Öldutúnsskólans, og hefur hann unnið þar mjög gott starf ungum borgurum þessa bæjarfélags til heilla. Þar eru drengir bæði látnir vinna og leika sér. Þeir læra ýmis hagnýt vinnubrögð, eru undir góðum aga og er kennt að meta gildi vinnunnar. Þeim er einnig veitt tilsögn í leikjum, svo sem knattspyrnu. Drengirnir eru á aldrinum 8—12 ára. Þá er ótalin sú þjónusta, sem þetta er fyrir heimilin, sú hvíld, sem mæðurnar njóta á meðan synir þeirra eru við holl störf upp í Krýsuvík. Ekki má gleyma því heldur, hve drengirnir hafa miklu betra af því að vera við vinnu og leiki í Krýsuvík, en að vera að leika sér allan liðlangan daginn í göturykinu.
Vinnuskólinn var stofnaður fyrir 10 árum. Hafnarfjörður var fyrsta íslenzka bæjarfélagið, sem hóf rekstur vinnuskóla í þessari mynd, en síðan hafa fleiri bæjarfélög fylgt fordæmi Hafnarfjarðar.

Krýsuvík

Upphaf vinnudags utan við starfsmannahúsið í Krýsuvík.

Aðsókn að vinnuskólanum hefur verið mjög góð, og hafa færri drengir komizt en viljað hafa. Fyrir 3 árum voru 80 drengir í vinnuskólanum, en nú síðastliðið sumar 120.
Þess má geta, að í stærsta kaupstað landsins, Reykjavík, þar sem íhaldið hefur haft meirihluta í bæjarstjórn um tugi ára, mun engan vinnuskóla vera að finna hliðstæðan vinnuskólanum í Krýsuvík. En ætti Reykjavík að standa hlutfallslega jafnt Hafnarfirði í þessum málum, þyrfti hún að reka um 1200 barna vinnuskóla. Hamar hefur skiljanlega okki frætt Hafnfirðinga um þetta.
Vegna þess, hve vinnuskóli fyrir drengi hefur reynzt vel, hefur Alþýðuflokkurinn ákveðið, að láta einnig hefja rekstur vinnuskóla fyrir stúlkur nú á næsta kjörtímabili, fái hann umboð frá kjósendum til að stjórna bænum.“

Krýsuvík

Vinna í gróðurhúsunum.

Vinnuskólinn í Krýsuvík var aflagður vegna ómerkilegra þrætur stjórnmálamanna bæjarins, einkum að hálfu sjálfstæðismanna, og tilkomu nýrrar heilbrigðisreglugerðar af hálfu ríksins, sem gerði honum ómögulegt að halda áfram hinni merkilegu starfsemi við þær aðstæður, sem þá var boðið upp á í Krýsuvík – illu heilli.

Hér má lesa Krýsuvíkursönginn, sem jafnan var upphafinn við hátíðleg tilefni. Höfundurinn er Hörður Zóp.

Vasklega að verki göngum
vinir með gleðisöngvum
karlmennskan lokkar löngum
lífsglaðan hug.
Kempur í kampasveit
í Krýsuvík vinnum heitt,
að duga og treysta vort drenglyndi og heit
Ræktum og byggjum, bætum,
brosandi þrautum mætum,
vorinu þrátt við þrætum,
þeytum á bug….

Sjá meira um Vinnuskólann  HÉR og HÉR.

Heimild m.a.:
-Alþýðublað Hafnarfjarðar, 10. tbl. 16.05.1962, Unglingavinnan í Krýsuvík sómi Hafnarfjarðar, bls. 5.

Krýsuvík

Krýsuvík – Vinnuskólinn 2020.

Stóra-Eldborg

Þorvaldur Thoroddsen skrifaði um „Ferðir um Suðurland sumarið 1883„. Skrifin birtust m.a. í Andvara 1884:

„Frá Geitahlíðarenda og vestur að Ögmundarhrauni er hraunlaus kafli og er það fásjeð á Reykjanesi. Þetta hraunlausa svæði nær frá Kleyfarvatni suður í sjó milli Sveifluháls og Lönguhlíðarfjallanna, en undir eins og Sveifluháls sleppur, taka við eilíf brunahraun. Í Geitahlíð, sem er suðvesturhlutinn af Lönguhlíð, eru dóleríthamrar efst, en móberg undir; svo er jarðmyndunin frá Herdísarvík norður að Grindaskörðum.

Grænavatn

Grænavatn.

Nyrzt í dældinni milli Lönguhlíðar og Sveifluháls er Kleifarvatn; fram með því liggur vegur úr Hafnarfirði, en nú var eigi hægt að fara hann, því svo mikill vöxtur var í vatninu. Menn hafa tekið eptir því, að Kleifarvatn vex og þverrar á víxl, og vex jafnvel mest, þegar þurrkar ganga — að því er menn segja — hvernig sem því er nú varið; í því er engin veiði, engin branda nema hornsíli. Sunnar, nálægt Krýsuvík, eru tvö mjög einkennileg vötn, Grænavatn og Geststaðavatn, litlu fyrir neðan námurnar; þau eru bæði kringlótt og mjög djúp; sagt er, að sextugu færi hafi verið rennt í Grænavatn og eigi náð botni. Vötn þessi eru á flötum melum og melgarður eða melbryggja hringinn í kringum þau. Skálar eða katlar líkir þessum, en minni og vatnslausir, eru þar í kring.

Krýsuvík

Krýsuvík – Baðstofa framundan; Krýsuvíkurnámurnar sunnan Seltúns.

Krýsuvíkurnámur eru utan í Sveifluhálsi, norður af Krýsuvík, og dálítið fyrir neðan hann. Móberg er í hálsinum öllum, og brennisteinsblettir og sundursoðinn leir allvíða í honum; en mest kveður þó að því við Krýsuvík. Hinar súru gufur koma upp um sprungur í móberginu; í giljum og vatnsræsum, er ganga niður í fjailið, hefir jarðvegurinn við það soðnað allur í sundur; móbergið er orðið að marglitum leir og gegnumofið af brennisteinssúrum steinsamböndum.

Baðstofa

Hverasvæðið norðan Baðstofu í Krýsuvík.

Víða eru þar stórir, bullandi leirkatlar, sem alltaf sýður í; fremur lítið er þar samt um brennistein, og miklu minna en í námurnar fyrir norðan í Þingeyjarsýslu. Móbergið er víða upplitað og orðið hvítleitt af gufunum, en hraunmolarnir úr því liggja lausir kolsvartir ofan á, af því að soðnað hefir í kringum þá. Undarlegt þykir mjer, ef það getur borgað sig að vinna þær. Ensku fjelögin, sem hafa námurnar, og ætla sjer að taka þar brennistein, kopar og buris, eru byggð í lausu lopti á hlutabrjefum. Englendingur nokkur, J. W. Busby, keypti fyrst Krýsuvíkurnámur 1858 fyrir milligöngu Dr. Jóns Hjaltalíns; sjera S. B. Sivertsen og Sveinn Eiríksson bóndi í Krýsuvík seldu fyrir 1400 dali; eptir kaupbrjefinu mega Englendingar taka allan brennistein í Krýsuvíkurtorfu og Herdísarvíkurlandi, ásamt öllum málmiðartegundum, or þar kynni að finnast; auk þess hafa þeir ýms rjettindi önnur. Síðan hafa námurnar farið hendi úr hendi og verið seld í þeim hlutabrjef.

Frá Krýsuvík fórum við snöggva ferð upp í Trölladyngju, sem jeg þá skoðari miklu nákvæmar seinna um sumarið, og síðan niður að Kaldárseli. Vegurinn liggur um Ketilstíg, síðan norður með Sveifluhálsi að vestan og svo fram með Undirhlíðum.

Ketilsstígur

Ketilsstígur – í hlíðinni hægra megin við Ketilinn.

Sveifluháls er allur úr móbergi, og á honum ótal tindar og hnúkar; hvergi hefir gosið í þessum hálsi, og engin eru þar eldmerki, nema mjög gamlir gígir við suðurenda hálsins nálægt Mælifelli. Hálsinn er víða sundursoðinn af súrum eldfjallagufum, og þeir hafa, ef til vill, einmitt þess vegna engin gos komið, af því að gufurnar höfðu þar stöðuga útrás; annars eru öll fjöllin og dalirnir í kring sundurrótaðir af jarðeldum og eintómar gígaraðir fram með hverri hlíð. Undirhlíðar eru nokkurs konar áframhald af Sveifluhálsi, eða þó öllu heldur hjalli, er gengur út undan norðurenda hans, og halda þær áfram norður fyrir Helgafell.

Gvendarselshæðargígar

Nyrstu Gvendarselshæðargígarnir norðvestan Helgafells.

Fram með Undirhlíðum eru margar gígaraðir, og eru sumir eldgígirnir upp á rönd þeirra rjett við Helgafell. Frá gígum þessum hafa mikil hraun runnið. Undir miðjum hlíðunum eru mjög nýlegir gígir; þeir hafa hlaðizt upp úr uppblásnum hraunsteinum, sem er tyldrað hverjum ofan á annan, og eru þeir því fjarska brattir. Aðalgígurinn er 70 fet á hæð og hefir 40—50° halla út á við. Úr pessum gígum hefir Kapelluhraun runnið niður í sjó sunnan við Hafnarfjörð. Þetta hraun hefir eflaust runnið síðan land byggðist; útlit þess bendir til þess, og í fornum bókum er það kallað Nýja-hraun, þannig t. d. í Kjalnesingasögu, og í íslenzkum annálum er sagt frá því, að skip hafi brotnað 1343 við Nýja-hraun fyrir utan Hafnarfjörð.

Kapelluhraun

Kapelluhraun norðanvert – eldvörp og gamlar sprungur.

Kapelluhraun hefir runnið niður með hlíðunum fyrir neðan Kaldársel niður að Stórhöfða, en beygir þar frá þeim til vesturs og norðurs. Sumir eldgígarnir og hraunstraumarnir við Helgafell eru mjög nýlegir. Á einum stað sá jeg þar mjög einkennilegan, sjerstakan hraunblett; hraunið hafði runnið út úr smáholum utan í litlu melbarði og fossað niður í smálækjum eins og uppsprettur; engir gígir höfðu samt myndazt, eins og vant er að vera við hraun, heldur hafði hraunleðjan beinlíns ollið á nokkrum stöðum út úr sprungu í melbarðinu; sprungan sjest eigi, en opin eru í vanalega stefnu, eins og aðrir gígir þar í nánd, frá norðaustri til suðvesturs; kringum uppvörpin er dálítil hrúga af hraunsteinum og svo hraunpípur niður úr; hraunbletturinn, sem komið hefir úr opum þessum, er mjög lítill, á að gizka 300 faðma langur og 10—20 faðma breiður.

Búrfellsgjá

Búrfellsgjá.

Ásarnir, sem ganga niður undir Hvaleyri, eru nokkurs konar álma út úr Undirhlíðum og skilur hún Kapelluhraun frá Hafnarfjarðarhrauni. Hafnarfjarðarhraun er mjög gamalt; það virðist hafa komið úr stórum gömlum gíg norður af Helgafelli og vestur af Húsfelli, en síðan hefir landið milli þess gígs og Setbergshlíðaenda sokkið, og sjest vel í gjábarminum vestri allt norður undir Elliðavatn. Önnur gjá hefst rjett fyrir vestan Húsfell og gengur í suðvestur með Helgafelli suður um hraun þau, er komin eru frá Grindaskörðum; hún heitir Gullkistugjá; yfir hana verður eigi komizt nema á einstöku stað.“

Heimild:
-Andvari, 1. tbl. 01.01.1884, Ferðir um Suðurland sumarið 1883, Þorvaldur Thoroddsen, bls. 25-28.

Gullkistugjá

Gullkistugjá.