Tag Archive for: Selatangar

Brúnavörður

Selatangar eru forn verstöð, sennilegast notuð þegar á miðöldum. Hraunið, Ögmundarhraun, er frá því um 1150, en það ár lagði það gamla Krýsuvíkurbæinn í Húshólma, sem er litlu austar, í eyði og færði garða og mannnvirki í og við Óbrennishólma í kaf. Þó má sjá þar móta fyrir hlöðnum vegg, sem hraunið hefur stöðvast við, fjárskýli, jarðlægu garðlagi og fjárborg (virki?).

Á Selatöngum

Verkhús á Selatöngum.

Frá Selatöngum var róið frá Krýsuvík, Skálholti og Ísólfsskála. Talið að a.m.k. 80 manns hafi hafst þar við í verum. Síðast var verið á Selatöngum um 1880, en róið var þaðan frá Skála og selveiðar voru stundaðar allnokkur ár eftir það. Þá var oft lent þar síðar ef lending var ófær annars staðar meðan róið var á opnum skipum, s.s. frá Þórkötlustöðum, Hrauni og víða. Við Dágon neðst á Töngunum eru landamerki Ísólfsskála og Krýsuvíkur. Um minjarnar og minjasögu Selatanga er m.a. fjallað í nýútkomnu riti Ferðamálafélags Grindavíkur „Merkar minjar í umdæmi Grindavíkur- Seltangar. Auk þess hefur Ferðamálafélagið gefið út ritið „Merkar minjar í umdæmi Grindavíkur – Húshólmi„,

Selatangar

Selatangar – refagildra.

Á og við Selatanga sjást miklar rústir seinni tíma verbúða hlöðnum úr hraungrýti svo og rústir af fiskbyrgjum þar sem hertur fiskur var geymdur. Sjórinn hefur afmáð elstu minjarnar. Á görðunum, sem víða sjást, var einnig hertur fiskur þegar veður gaf. Sums staðar er hlaðið fyrir hraunhella og þeir notaðir sem byrgi. Vestan við Seltanga er sagður hellir sem notaður var til smíða í landlegum. Einnig má sjá hlaðnar refagildrur frá síðustu öld.

Selatangar

Selatangar- Tanga-Tómas með FERLIRSfélögum.

Á Selatöngum var afturgangan Tanga-Tómas, sjórekinn spánskur sjómaður, svo hatröm að ekki þýddi að skjóta á hana silfurhnöppum sem yfirleitt dugðu helzt á drauga, en frekast dugðu lambaspörð. Auk Tanga-Tómasar eru margir aðrir draugar á ferli á Seltöngum og í nágrenni þeirra, einkum þegar skyggja tekur. Síðast þegar FERLIRsfélagar voru á ferð á Selatöngum birtist þeim einmitt Tanga-Tómas með eftirminnilegum hætti, auk þess sem hann kom einum félaganum að óvörum þegar verið var að skoða refagildrurnar í annarri ferð þangað. Fræg er og sagan af Arnarfellsbónda og átökum hans við drauginn seint á 19. öld.

Brúnavörður

Brúnavörður.

Á Miðrekum eru líka sagnir um anda, reyndar annarskonar, og greinir mönnum á um eðli hans. Sumir segja að þar hafi þeir rekist á vín-anda, en aðrir heilagan anda. Hvort vínandinn hafi orðið að heilögum anda, eða öfugt, á leiðinni er erfitt að segja til um. Austan Miðreka eru Brúnavörður. Frá þeim liggur stígur yfir hraunið inn í Húshólma.

Selatangar

Sögunarkór í Katlahrauni

Í Húshólma eru fornar minjar búsetu. Landnámsöskulagið frá um 872 er þar í garðpælu, en í hólmanum og í hrauninu vestan hans má m.a. sjá rústir, garða og hleðslur. Sumir vilja halda því fram að þarna hafi búið fólk löngu á undan komu norrænna manna til landsins.

Húshólmi

Húshólmi – minjasvæðið. Kirkjulágar efst.

Minjarnar í og við Húshólma hafa ekki verið rannsakað að ráði, en ljóst er að Ögmundarhraunið rann yfir landið um 1150, kaffærði byggðina, færði ströndina utar og lokaði víkum og lónum við ströndina, þ.á.m. gömlu Krýsuvík, en „krys“ nefndist áður fyrr vík eða skora. Lágbarið fyrrum grágrýtið ofan við Hólmasundið bendir til þess ströndin hafi þarna fyrrum legið vel við sjó.

Húshólmi

Húshólmi – hin gamla Krýsuvík – uppdráttur ÓSÁ.

Í Húshólma er m.a. forn langur bogadreginn garður, skáli, kirkja, kirkjugarður, hústótt, fjárborg, selstaða (stekkur og hús), sjóbúð (notuð síðast 1913), hlaðin refagildra, rétt o.fl. Það hefur verið öðruvísi um að litast á þessu landssvæði við upphaf byggðar.
Gangan tók 4 klst og 6 mín. Frábært veður.

Selatangar

Selatangar – uppdráttur ÓSÁ.

Selatangar

Gestur Guðfinnsson skrifaði eftirfarandi um „Ögmundarhraun og Selatanga“ í Morgunblaðið árið 1970:
selatangar-230„Einhvers staðar segir í gömlum fræðum, að í Selatöngum sé „brimhöfn mikil.“ Þama var þó um langt skeið allmikil verstöð og sóttur sjór á árabátum framundir síðustu aldamót eða nánar tiltekið til 1880 eða þar um bil.
Verbúðalíf og sjósókn í Selatöngum hefur fráleitt verið neitt sældarbrauð, maður þarf ekki annað en koma á staðinn, ganga þar dálítið um og virða fyrir sér búðartóttirnar, lendinguna og skerjaklasann úti fyrir ströndinni, til að sannfærast um það.
En áður en lengra er farið út í lýsingu á verbúðalífi og sjósókn í Selatöngum, skulum við virða lítillega fyrir okkur umhverfið, landssvæðið á milli Krýsuvíkur og Grindavíkur, og gera okkur grein fyrir því í stór um dráttum. Það er að vísu ekki sérlega margbrotið, þótt bæjarleiðin sé nokkuð löng. Þetta svæði er landareign tveggja jarða, Krýsuvíkur og Ísólfsskála, og hefur Krýsuvík verið miklu stærri jörð en Ísólfsskáli, landareign hennar nær langt austur fyrir Eldborg eða að svokölluðum Sýslusteini, en þar er allt í senn: landamerki, hreppamörk og sýslumörk. Sömuleiðis langt til norðurs, hverasvæðið sunnan undir Sveifluhálsi, sem allir þekkja, tilheyrði t.d. Krýsuvík. Landareign Ísólfsskála nær hins vegar frá Nípum á Festarfjalli og austur að Selatöngum, en þar eru landamerki þessara tveggja jarða. Var þá miðað við hraunstand uppi í kampinum á Selatöngum, sem hét því undarlega nafni Dágon, en má nú heita alveg úr sögunni.
seltangar-231Verulegur hluti af þessu landi, svæðinu milli Krýsuvíkur og Ísólfsskála, er samfelld hraunbreiða. Aðallega er um tvö hraun að ræða, misjafnlega gömul og ekki runnin frá sömu eldstöðvum. Annars vegar hraunið austur frá fsólfsskála, sem ekkert heildarheiti virðist hafa, a.m.k. á kortum. Það nær á móts við Selatanga og er augsýnilega eldra en hraunið þar fyrir austan. Hins vegar hraunið í Krýsuvíkurlandi, yngra hraunið, en það heitir einu nafni Ögmundarhraun og er talið hafa runnið á 13. eða 14. öld. Dálítið ofan við veginn, sem liggur milli Krýsuvíkur og Grindavíkur, þar sem heita Almenningar, getur að líta nokkra ósköp sakleysislega gjallhóla, eins konar rauðukúlur, sem fara ljómandi vel í landslaginu og gleðja gestsaugað. Þessar meinleysislegu kúlur eða hólar eru eldvörpin, sem ögmundarhraun hefur komið úr á smum tíma. Traðirnar, sem hraunið hefur myndað um leið og það rann, eru skýrar og greinilegar, og mokstursjötnarnir hafa látið bæði traðirnar og hólana í friði hingað til, svo er fyrir að þakka. Ég held, að við ættum að biðja guð og Náttúruverndarráð að sjá til þess, að þeim yrði einnig þyrmt í framtíðinni, jarðfræðin og sagan mæla eindregið með því, hvor á sinn hátt, þó að við sleppum öllum fagurfræðilegum vangaveltum. Þetta hefur verið mikið gos, gígarnir sem eru um 100 að tölu, eru á sprungusvæði milli Núphlíðarháls og Sveifluháls.

selatangar-232

Þaðan hefur ógurlegt hraunflóð runnið niður á jafnsléttuna, breiðzt síðan út til beggja handa og lagt undir sig svo að segja hvern blett og skika lands allt í sjó fram. Þetta er yfirleitt apalhraun, úfið og tröllslegt, einkum víða meðfram ströndinni, og hroðalega ógreiðfært yfirferðar. Það eru litlar sem engar heimildir til um hvernig umhorfs var á þessu svæði áður en Ögmundarhraun rann. Þó er vitað með vissu, að þarna var a.m.k. einn bær, Krýsuvík, sem stóð niður við sjóinn, líklega upp undan samnefndri vík, sem hraunið hefur að nokkru leyti afmáð og fyllt og er nú kölluð Hælsvík. í Krýsuvík var kirkja. Gosið hefur efalaust skotið fólkmu í Krýsuvík illilega skelk í bringu og ekki að ástæðulausu. Ekki hefur verið nema um 5 km vegalengd frá eldstöðvunum heim að bænum í Krýsuvík og landinu hallar þangað, þótt lítið sé að vísu eftir að kemur niður á selatangar-233láglendið. Enda fór líka svo, að Krýsuvík lenti í hraunflóðinu, færði hraunið sum húsin í kaf, en staðnæmdist annars staðar við húsveggina. Sér ennþá greinilega fyrir húsarústunum austast í hrauninu, þar sem nú heitir Húshólmi og Óbrennishólmi, m.a. sést þar fyrir aflöngu tóttarbroti, sem talið er að gæti verið rúst kirkjunnar.
Til er örstutt saga af þessum atburðum, upphafi gossins og hvernig smalamaður á að hafa bjargað sér og fénu undan hraunflóðinu. Sagan er skráð í Þjóðsögum Jóns Árnasonar og læt ég hana fylgja hér með, þó að hún hafi sjálfsagt farið margra á milli og kannski brenglazt eitthvað á langri leið í meðförunum, en hún er á þessa leið: „Krýsuvík var fyrst byggð niður við sjó fyrir utan Krýsuvíkurberg, en lagðist svo af að eldur kom upp í fjöllunum þar norður frá og runnu hraunkvíslar hér og þar fram milli hálsanna.

selatangar-238

Hin austasta var einna mest. Smalamaður frá Krýsuvík var kippkorn frá bænum með féð. Hann sá glóandi hraunleðjuna brjótast með feikna hraða ofan úr skarðinu upp frá bænum og fleygjast út yfir láglendið. Hann sá sér enga von til undankomu og beið með fjárhópinn þess er að höndum kæmi og fal sig guði; því hefir þetta skeð í kristni. Eldflóðið fór allt í kringum hann og sakaði hvorki hann né féð nema eina á, segja sumir. Það heitir síðan Óbrennishólmi er hann var. Hraunið hljóp um allt láglendið og fram í sjó, en túnið í Krýsuvík stóð óskaddað og bærinn, en nálega var ófært þangað þegar hraunið var storknað. Þá var bærinn fluttur þangað sem Krýsuvík er nú, það er ofar og austnorðar. Þegar eldgangurinn var afstað inn og hraunin storknuð fóru menn að leggja veg til Grindavíkur yfír þau, og urðu öll rudd að þessu austasta fráteknu.

Selatangar-239

Það var svo stórgert og hart að það var óvinnandi og varð ekki veginum komið á.“ Eins og kemur fram í þessari skemmtilegu munnmælasögu var bærinn byggður á nýjum stað eftir gosið, þar sem hann stóð til skamms tíma eða þangað til Krýsuvík fór í eyði, sömuleiðis kirkjan.
Leiðin úr Krýsuvík til Grindavíkur og í Selatanga var heldur ógreiðfær eftir gosið, ekki sízt með hesta. í kvæði frá 15. öld er þess getið, að karl einn fór yfir Ögmundarhraun og missti kapal sinn í hraungjá, hann varð fastur og gekk af einn hófurinn, en karl hét á hinn helga kross í Kaldaðarnesi, sem þá var til margra hluta nytsamlegur. Við það losnaði kapallinn og hófurinn greri aftur við. Nokkuð gömul mun líka eftirfarandi vísa, sem líklega er ort af einhverjum ferðalang, er átt hefur leið um hraunið og þótt það illt yfirferðar: Eru í hrauni Ögmundar ótal margir þröskuldar fáka meiða fæturnar og fyrir oss brjóta skeifurnar.

selatangar-241

Til er saga um hvernig vegur var ruddur yfir Ögmundarhraun. Sú saga minnir nokkuð á söguna í Eyrbyggju um Berserkjagötu, nema hvað berserkurinn í þessari sögu heitir Ögmundur, og af því á nafnið á hrauninu að vera dregið.
En víkjum nú aftur að Selatöngum og verbúðalífinu og sjósókninni þar. Selatangar eru í Krýsuvíkurlandi, vestast í Ögmundarhrauni og veiðistöðin þar talin á vegum ábúandans í Krýsuvík. Sjálfsagt hafa þó ýmsir aðrir en Krýsvíkingar róið þaðan, hvern ig svo sem samningum um það hefur verið háttað. T.d. er getið um, að þaðan hafi gengið biskupsskip frá Skálholti. Líkur eru til, að þaðan hafi verið róið þegar snemma á öldum, þótt af því fari ekki miklar sögur.
Í gömlum sóknarlýsingum er þess getið, að árið 1780 hafi róið þaðan 1 áttæringur, 1 sexæringur og 2 feræringar, og réru á þeim 13 heimamenn úr Krýsuvík og 16 austanmenn. Var veiði þeirra samanlagt 4580 fiskar.
selatangar-241En oft hafa þó útróðramennirnir í Selatöngum sjálfsagt verið fleiri. Til þess bendir m.a. sjómannavísa úr Selatöngum, sem sá merki fræðasafnari, sr. Jón Thorarensen, birti í Rauðskinnu á sínum tíma, en hann hefur leit að uppi og haldið til haga ýmsum fróðleik um verstöðina í Selatöngum. Vísunni fylgir sú saga, að ungur strákur hafi krækt sér í skipsrúm í Selatöngum með því að taka að sér að koma fyrir öllum nöfnum sjómannanna í einni vísu eða þulu. Mér telst svo til, að nöfn 82 sjómanna komi fyrir í vísunni, og þar af eru hvorki meira né minna en 23 Jóraar, og má mikið vera ef þar hefur ekki einhvern tíma verið ruglazt á mönnum.
Mikið er af gömlum búðartóttum í Selatöngum. Það eru vistar verur þeirra sem þarna höfðust við, þakið er að vísu af þeim og hurðirnar týndar og tröllum gefnar, en að öðru leyti eru þær hinar stæðilegustu, enda vel hlaðnar. En heldur virðast þetta hafa verið kaldranialagar og þrömgiar vistarverur, veggir úr hraungrjóti, einungis grjótbálkar til að liggja á, gólfpláss ekki teljandi og upphitun að sjálfsögðu engin. Og öðrum þægindum hefur ekki heldur verið til að dreifa.

Katlahraun-239

Sums staðar var hlaðið fyrir op á hellum eða hraunskútum og plássið notað til ýmissa þarfa, svo sem smíða eða mölunar og kallað samkvæmt því: Mölunarkór, Sögunarkór o.s.frv. Þá er þarna á töngunum mikið af görðum og fiskbyrgjum, þar sem fiskur var hertur eða verkaður á annan hátt. Talsverður trjáreki er þarna og notuðu vermenn rekaviðinn óspart til smíða í landlegum, sem munu hafa verið nokkuð algengar, vegna þess hvað brimasamt er við lendingarstaðinn. En fjaran og trjárekinn er líka mikið dundursefni flestum þeim sem nú heimsækja staðinn. Þarna rekst maður stundum á allt upp í tíu fimmtán álna tré, að maður nú ekki tali um rótarhnyðjurnar, sem margur kannski fær ágirnd á, kippir upp af götu sinni, og hefur heim með sér, enda missir víst enginn æruna fyrir slíkt nú orðið.
Katlahraun-231En það er fleira skoðunarvert þarna en hin gömlu mannvirki útróðrarmannanna og trjárekinn í fjörunni. Hraunið vestan við tangana er t.d. gríðarlega tröllslegt og stórbrotið meðdjúpum grasi grónum kvosum og skvompum og hraunhryggjum á milli. Það heitir Katlahraun. Þar er býsna gaman að eyða tímanum stund úr degi. Enn er reyndar margt ósagt um Selatanga, sem vert hefði verið að drepa á, t d. reimleikana og verbúðadrauginn Tanga-Tómas, en rúmið leyfir ekki lengra mál. Þegar landkrabbar eins og sá sem þetta ritar koma í forna verstöð eins og Selatanga horfa þeir náttúrlega blindum augum á marga hluti og skilja hvorki upp né niður í þeirri tilveru, sem þar var einu sinni, en nú er liðin undir lok. Það skjóta ýmsar spurningar upp kollinum, sem vafizt geta fyrir þeim, sem aldrei hefur migið í saltan sjó eða ýtt báti úr vör, hvað þá tekið brimlendingu á stað eins og Selatöngum.“

Heimild:
Morgunblaðið 16 maí 1970, bls. 8-9.

Selatangar

Selatangar varða við rekagötuna vestari að Ísólfsskála.

Ísólfsskáli

Í tilefni af 30 ára kaupstaðarafmæli Grindavíkur var áhugasömum bæjarbúum boðið í göngu- og fræðsluferð að Selatöngum. Tilgangurinn var auk þess að kynna nýútkominn bækling Ferðamálafélags Grindavíkur um Selatanga.

Selatangar

Selatangar – þurrkbyrgi.

Um 90 manns þáðu boðið. Í stuttu máli var ferðin mjög vel heppnuð.
Gengið var um Selatanga, skoðaður brunnurinn, búðirnar, verkunarhúsin, þurrkbyrgin, garðarnir og smiðjan, kíkt á Dágon, litið í Ketilinn í Katlahrauni og skoðaðar refagildrur. Loks gekk bróðurparturinn af hópnum vestur eftir Vestari Tangagötunni (Ísólfsskálagötu) yfir að Skála þar sem boðið var upp á kaffi og meðlæti.
Gangan þangað tók 41 mínútu.
Þátttakendur voru bæði jákvæðir og áhugasamir, sýndu göngudug, nutu sólarinnar og hreina loftsins, virtu fyrir sér minjarnar og nutu sögunnar uns ýmist var gengið eða ekið að Ísólfsskála þar sem þáð var kaffi og meðlæti, sem fyrr sagði.
Frábært veður með frábæru fólki. Gangan tók 4 klst og 4 mín.

Selatangar

Bæklingur Ferðamálafélags Grindavíkur um Selatanga.

Selatangar

Á Selatöngum eru minjar gamallar verstöðvar. Núverandi minjar eru líkast til u.þ.b. tveggja alda gamlar, en eflaust hafa þær tekið breytingum frá því að verstöðin var fyrst notuð sem slík.

Á Töngunum

Á Selatöngum.

Á Selatöngum má enn sjá tóftir tveggja búða (Vestari búð og Austari búð) auk þess sem sést móta fyrir útlínum fleiri, verkunarhús þar sem gert var fyrst að fiskinum, þurrkbyrgi, þurrkgarða, þurrkreiti, brunn, smiðju, skúta með fyrirhleðslum, hesthúsi, Nótarhelli (þar sem dregið var fyrir sel), Mölunarkór, Sögunarkór og Smíðahelli, auk gamalla gatna og hlaðinna refagildra. Vestan við Seltanga er hið merkilega náttúrufyrirbrigði „Ketillinn“ í Katlahrauni og fjárskjól þeirra Vigdísarvallamanna (hlaðið skömmu eftir aldarmótin 1900).

Selatangar

Selatangar – rekagatan um Katlahraun.

Gengið var einn góðan sumardag árið 2002 um Selatanga með Jóni Guðmundssyni frá Ísólfsskála, sem hann man eftir minjunum eins og þær voru þegar hluti verstöðvarinnar var enn í notkun. Hann lá þar með föður sínum í Vestustu búðinni árið 1926 er Skálabóndi gerði enn út frá Töngunum. Jón minntist þess að reki hafi verið reiddur þaðan að Ísólfsskála eftir vestari Rekagötunni, sem liggur í gegnum Ketilinn og áleiðis heim að Skála. Leiðin er vörðuð að hluta, en víða sjást förin eftir hófa og fætur liðinna alda í klöppinni. Austari Rekagatan liggur til norðurs vestan vestari Látra. Rekagötunar voru einnig nefndar Tangagötur. Tækifærið var notað og svæðið rissað upp eftir lýsingu Jóns.

Selatangar

Á Selatöngum.

Jón sýndi m.a. Smíðahellinn, Sögunarkórinn, Nótahellinn, refagildrurnar, brunninn, smiðjuna, búðirnar, fiskvinnslubyrgin, þurrkbyrgin, þurrkgarðana, smiðjuna, skútana, lendinguna, Dágon (landamerkjastein Ísólfsskála og Krýsuvíkur, en verstöðin er að mestu innan landamerkja síðarnefndu jarðarinnar), skiptivöllinn o.fl. Ljóst er að ströndin hefur tekið miklum stakkaskiptum á síðustu áratugum og þarf að horfa á og meta aðstæður með tilliti til þess. Sjórinn hefur nú að mestu brotið skiptivöllinn sem og Dágon.

Selatangar

Selatangar – refagildra.

Jón taldi almennan misskilning ríkja um hlaðna fjárbyrgið norðan við Ketilinn. Sumir telja það mjög fornt, en það hefði í rauninni verið hlaðið af föðurbróður hans frá Vigdísarvöllum skömmu eftir aldarmótin 1900 vegna þess að fé þeirra Vígdísarvallamanna hefði tíðum leitað í fjöruna og þeir þá átt í erfiðleikum með að reka það hina löngu leið til baka. Því hafi skútinn verið hafður þarna til skjóls.

Selatangar

Fjárskjól í Katlahrauni.

Hraunsnes

Gengið var um fisbyrgin og minjarnar á Selatanga, skoðaðar sjóbúðirnar, Brunnurinn, Smiðjan, Skjólin, Dágon o.fl. Minnt var á Tanga-Tómas og rifjuð upp sagan af viðureign hans og Arnarfellsbónda. Síðan var gengið að refagildrunum ofan við Nótahelli, um Ketilinn í Katlahrauni og yfir í fjárbyrgi Vígdísarvallamanna (Ísólfsskálamanna).

Selatangar

Verkhús á Selatöngum.

Frá því var gengið í fjórðungssveig yfir að Vestari lestargötunni (Rekagötunni) frá Selatöngum yfir að Ísólfsskála. Erling Einarsson (Skálaafkomandi, sem var með í för) sagðist hafa heyrt að gatan hefði verið nefnd Selatangagata frá Ísólfsskála, en Ísólfsskálagata frá Selatöngum. Gatan er vörðuð þegar komið er upp úr Katlinum. Framundan er greinileg klofin varða. Síðan sést móta fyrir götunni uns komið er að Mölvík. Þá hverfur hún að mestu í sandi, en ef sýnilegum litlum vörðum er fylgt neðan við hraunkantinn kemur gatan fljótlega aftur í ljós. Hún heldur síðan áfram inn á hraunið og áfram áleiðis að Skála. En við hraunkantinn var beygt til vinstri að þessu sinni, niður í Hraunsnes. Þar eru fallegar bergmyndanir, klettadrangar og vatnsstorknir hraunveggir. Gengið var eftir ruddri götu til vesturs. Áður en komið var að enda hennar í vestanverðum hraunkantinum var enn beygt til vinstri, að hinum miklu þurrkgörðum og – byrgjum ofan við Gvendarklappir. Þar var fiskur verkaður vel fram á 20. öldina.
Kaffi og meðlæti var þegið á Ísólfsskála að lokinni göngu.
Því miður gekk skipulagið ekki alveg upp að þessu sinni. Áætlað hafði verið, auk landgöngunnar, hvalaganga og afturganga, en sú fyrrnefnda fór framhjá í kafi, þrátt fyrir þrotlausar æfingar, og sú síðarnefnda sofnaði í einu byrgjanna í góða veðrinu þannig að þátttakendur urðu ekki varir við hana að þessu sinni.
Veður var með ágætum – þægileg gjóla og sól.

Selatangar

Selatangar – uppdráttur ÓSÁ.

Selatangar

„Atvinnuvegirnir [í Krýsuvík] er eins og áður er sagt landbúnaður, eggja- og fuglatekja, auk þess sjávarafli nokkur. Þá var útræði á Selatöngum. Gekk þá eitt — áttróið — „skip þar úr Krýsuvík, og var á þvi skipi formaður Einar frá Stóra-Nýjabæ, og mun það síðasta skip, er þaðan hefir gengið, en sú sögn fylgir, að útræði frá Selatöngum hafi lagst niður vegna reimleika.

selatangar-992

Einhvers staðar í gömlum fræðum, að í Selatöngum sé „brimhöfn mikil.“ Þarna var þó um langt skeið allmikil verstöð og sóttur sjór á árabátum fram undir síðustu aldamót eða nánar tiltekið til 1880 eða þar um bil. Verbúðalíf og sjósókn í Selatöngum hefur fráleitt verið neitt sældarbrauð, maður þarf ekki annað en koma á staðinn, ganga þar dálítið um og virða fyrir sér búðartóttirnar, lendinguna og skerjaklasann úti fyrir ströndinni, til að sannfærast um það.“

„Krýsuvík var fyrst byggð niður við sjó fyrir utan Krýsuvíkurberg, en lagðist svo af að eldur kom upp í fjöllunum þar norður frá og runnu hraunkvísl ar hér og þar fram milli hálsanna. Hin austasta var einna mest. Smalamaður frá Krýsuvík var kippkorn frá bænum með féð. Hann sá glóandi hraunleðjuna brjótast með feikna hraða ofan úr skarðinu upp frá bænum og fleygjast út yfir láglendið. Hann sá sér enga von til undankomu og beið með fjárhópinn þess er að höndum kæmi og fal sig guði; því hefir þetta skeð í kristni. Eldflóðið fór allt í kringum hann og sakaði hvorki hann né féð nema eina á, segja sumir. Það heitir síðan óbrennishólmi er hann var. Hraunið hljóp um allt láglendið og fram í sjó, en túnið í Krýsuvík stóð óskaddað og bærinn, en nálega var ófært þangað þegar hraun ið var storknað. Þá var bærinn fluttur þangað sem Krýsuvík er nú, það er ofar og austnorðar. Þegar eldgangurinn var afstaðinn og hraunin storknuð fóru menn að leggja veg til Grindavíkur yfír þau, og urðu öll rudd að þessu austasta fráteknu. Það var svo stórgert og hart að það var óvinnandi og varð ekki veginum komið á.“ Eins og kemur fram í þessari skemmtilegu munnmælasögu var bærinn byggður á nýjum stað eftir gosið, þar sem hann stóð til skamms tíma eða þangað til Krýsuvík fór í eyði, sömuleiðis kirkjan.
Leiðin úr Krýsuvík til Grindavíkur og í Selatanga var heldur ógreiðfær eftir gosið, ekki sízt með hesta. Í kvæði frá 15. öld er þess getið, að karl einn fór yfir Ögmundarhraun og missti kapal sinn í hraungjá, hann varð fastur og gekk af einn hófurinn, en karl hét á hinn helga kross í Kaldaðarnesi, sem þá var til margra hluta nytsamlegur. Við það losnaði kapallinn og hófurinn greri aftur við.
ogmundarstigur-991Til er saga um hvernig vegur var ruddur yfir Ögmundarhraun. Sú saga minnir nokkuð á söguna í Eyrbyggju um Berserkjagötu, nema hvað berserk urinn í þessari sögu heitir Ögmundur, og af því á nafnið á hrauninu að vera dregið.
En víkjum nú aftur að Selatöngum og verbúðalífinu og sjósókninni þar. Selatangar eru í Krýsuvíkurlandi, vestast í Ögmundarhrauni og veiðistöðin þar talin á vegum ábúandans í Krýsuvík. Sjálfsagt hafa þó ýmsir aðrir en Krýsvíkingar róið þaðan, hvernig svo sem samningum um það hefur verið háttað. T.d. er getið um, að þaðan hafi gengið biskupsskip frá Skálholti. Líkur eru til, að þaðan hafi verið róið þegar snemma á öldum, þótt af því fari ekki miklar sögur.
Í gömlum sóknarlýsingum er þess getið, að árið 1780 hafi róið þaðan 1 áttæringur, 1 sexæringur og 2 feræringar, og réru á þeim 13 heimamenn úr Krýsuvík og 16 austanmenn. Var veiði þeirra samanlagt 4580 fiskar. En oft hafa þó útróðramennirnir í Selatöngum sjálfsagt verið fleiri. Til þess bendir m.a. sjómannavísa úr Selatöngum, sem sá merki fræðasafnari, sr. Jón Thorarensen, birti í Rauðskinnu á sínum tíma, en hann hefur leit að uppi og haldið til haga ýmsum fróðleik um verstöðina í Selatöngum. Vísunni fylgir sú saga, að ungur strákur hafi krækt sér í skipsrúm í Selatöngum með því að taka að sér að koma fyrir öllum nöfnum sjómannanna í einni vísu eða þulu.
Mér telst svo til, að nöfn 82 sjómanna selatangar-993komi fyrir í vísunni, og þar af eru hvorki meira né minna en 23 Jónar, og má mikið vera ef þar hefur ekki einhvern tíma verið ruglazt á mönnum.

Mikið er af gömlum búðartótt um í Selatöngum. Það eru vistar verur þeirra sem þarna höfðust við, þakið er að vísu af þeim og hurðirnar týndar og tröllum gefnar, en að öðru leyti eru þær hinar stæðilegustu, enda vel hlaðnar. En heldur virðast þetta hafa verið kaldranalagar og þröngar vistarverur, veggirnir úr hraungrjóti, einungis grjótbálkar til að liggja á, gólfpláss ekki teljandi og upphitun að sjálfsögðu engin. Og öðrum þægindum hefur ekki heldur verið til að dreifa. Sums staðar var hlaðið fyrir op á hellum eða hraunskútum og plássið notað til ýmissa þarfa, svo sem smíða eða mölunar og kallað samkvæmt þvi: Mölunarkór, Sögunarkór o.s.frv. Þá er þarna á töngunum mikið af görðum og fiskbyrgjum, þar sem fiskur var hertur eða verkaður á annan hátt. Talsverður trjáreki er þarna og notuðu vermenn rekaviðinn óspart til smíða í landlegum, sem munu hafa verið nokkuð algengar, vegna þess hvað brimasamt er við lendingarstaðinn. En fjaran og trjárekinn er líka mikið dundursefni flestum þeim sem nú heimsækja staðinn. Þarna rekst maður stundum á allt upp í tíu fimmtán álna tré, að maður nú ekki tali um rótarhnyðjurnar, sem margur kannski fær ágirnd á, kippir upp af götu sinni, og hefur heim með sér, enda missir víst enginn æruna fyrir slíkt nú orðið.“
Minjarnar, sem nú sjást á Selatöngum eru frá 19. öld því stórflóð og óveður í janúar 1799 eyddi verbúðunum, sem þar voru fyrir. Síðast var róið frá Selatöngum í byrjun 20. aldar og þá frá Ísólfsskála. Tangarnir voru eftir það nytjaðir frá sama bæ, bæði til þaratöku og reka.

Heimild:
-Morgunblaðið 16. maí 1970, bls. 8-9.
-Alþýðublaðið 7. apríl 1935, bls. 3.

Selatangar

Gengið um Selatanga.

Selatangar

Eftirfarandi fróðleik um „Verbúðarlífið á Selatöngum“ birtist í Dagblaðinu-Vísi 1983:
Selatangar-553„Rústir sjóbúða er að finna víðsvegar við strendur Íslands. Þessar búðir eru merkar fornleifar sem minna fólk á þá tíð þegar landsmenn sóttu til veiða á opnum bátum, oft við erfiðar og hættulegar aðstæður.
Hinar eiginlegu sjóbúðir — líka nefndar útver — voru reistar á þeim stöðum þar sem stutt var á miðin og heppilegt að sitja fyrir fiskgöngum á vissum tímum árs.
Misjafnlega margir bátar voru saman komnir á hverjum stað og voru áhafnir þeirra þar um kyrrt meðan á veiðum stóð enda höfðu þær þar ýmist hlaðnar verbúðir eða tjöld. Sjósókn úr þessum útræðum var þjóðinni ákaflega mikilvæg á fyrri öldum enda bætti hún hag hennar til muna frá því sem var þegar landsmenn höfðu varla úr öðru að moða en afurðum búfjárins.
Mikilvægi búðanna sést kannski best þegar talan hundrað fimmtíu og fjórir er nefnd, en hún segir einmitt til um þann fjölda útvera sem talið er að hafi verið reist við strendur landsins.
Ein heillegasta og best varðveitta sjóbúðin frá fyrri tíð er vafalitið útverið Selatangar á sunnanverðum Reykjanesskaga. Það er að finna — með öllum sínum fornlega blæ — þar sem Ögmundarhraun liggur út í sjó milli Hælsvíkur og Hraunsvíkur. Selatangar eru langt utan alfaraleiðar og er reyndar nokkuð erfitt að komast að útverinu landleiðina. Þessi einangrun búðanna hefur sennilega átt mestan þátt í því hvað þær hafa varðveist lengi og vel og hvað þær eru í rauninni ósnortnar af því sem heitir nútími. Hér á eftir verður lítillega skrifað um sögu útræðisins við Selatanga og almennt um verbúðamennsku landsmanna á fyrri öldum.

Sjötíu og þrjú mannanöfn í eina þulu fyrir mötu
Selatangar-564Selatangar voru syðsta verstöðin í Gullbringusýslu. Þaðan var einkum útræði Krýsuvíkurbæjar, en bænum Krýsuvík (sem er í um átta kílómetra fjarlægð frá Selatöngum) fylgdu lengi nokkrar hjáleigur. Til er gömul og allmerkileg þula sem telur sjötíu og þrjá menn við róðra frá útverinu. Ástæða fyrir þeim kveðskap er sögð vera sú að strákur einn hafi orðið mötustuttur í verinu. Buðust þá hásetar á skipum þeim sem þar reru að gefa honum mötu til vertíðarloka, ef hann kæmi nöfnum þeirra allra í eina þulu. Og strákur brá fyrir sig stílvopninu og orti:

Tuttugu og þrjá Jóna telja má,
tvo Árna, Þorkel, Svein.
Guðmunda fimm og Þorstein,
þá Þorvald, Gunnlaug, Freystein.
Einara tvo, Ingimund, Rafn,
Eyvind, tvo Þórða þar.
Vilhjálmur Gesti verður jafn
Vernharður, tveir Bjarnar,
Gissura tvo, Gísla, Runólf,
Grím, Ketil, Stíg, Egil.
Erlenda þrjá, Bernharð, Brynjólf,
Björn og Hildibrand til.
Magnúsar tveir og Markúsar
með þeim Hannes, tveir Sigurðar.
Loftur, Hallvarður, Hálfdán, senn
þar sezt hann Narfa hjá.
Á Selatöngum sjóróðramenn sjálfur Guð annist þá.

Draugurinn Tangar-Tómas gerir mönnum lífið leitt
Selatangar-555Á síðara hluta nítjándu aldar bjó í Stóra-Nýjabæ í Krýsuvík maður sá, er Einar Sæmundsson hét. Hann átti mörg börn, og er eftirfarandi saga frá Selatöngum höfð eftir tveimur sonum hans, Einar og Guðmundi. Einar, f aðir þeirra, var allt að þrjátíu vertíðum formaður á Selatöngum. Var í mæli að reimt hefði verið á Selatöngum og var draugsi sá í daglegu tali nefndur Tangar-Tómas. Hann gerði búðarmönnum ýmsar smáglettur en var þó ekki mjög hamramur. Þá bjó á Arnarfelli í Krýsuvík maður sá er Beinteinn hét. Var talið að Tómas væri einna fylgispakastur við hann. Var Beinteinn þessi fullhugi mikill, smiður góður og skytta og hræddist fátt. Var þetta orðtak hans: „Þá voru hendur fyrir á gamla Beinteini.“
Einu sinni varð Beinteinn heylítill og flutti hann sig þá niður á Selatanga með fé sitt til fjörubeitar. Var hann þarna um tíma og hafðist við í einni sjóbúðinni þar. Kvöld eitt, er Beinteinn kemur frá fénu, kveikir hann ljós og tekur tóbak og sker sér í nefið.
Selatangar-556Tík ein fylgdi honum jafnan við féð, og var hún inni hjá honum. Veit Beinteinn þá ekki fyrr en ljósið er slökkt og tíkinni hent framan í hann. Þreif hann þá byssuna og skaut út úr dyrunum. Sótti draugsi þá svo að Beinteini, að hann hélst loks ekki við í sjóbúðinni og varð að hrökklast út i illviðrið og fara heim til sín um nóttina. Hafði Beinteinn skaröxi í hendi, og hvar sem gatan var þröng á leiðinni heim um nóttina, þá kom draugsi þar á móti honum og reyndi að hefta för hans, en undir morgun komst Beinteinn þó heim, en var þó mjög þrekaður.
Um önnur viðskipti Beinteins og Tangar-Tómasar á Selatöngum er ekki vitað, svo að sögur fari af.

„Þarna er hann Tómas þá núna“
Selatangar-558En nokkru eftir þetta bar svo við, að tveir áðurnefndir synir Einars bónda í Stóra-Nýjabæ fóru niður á Selatanga á jólaföstunni og hugðu aö líta til kinda og ganga á reka; og jafnframt ætluðu þeir að vita, hvort þeir sæju ekki dýr, því að annar þeirra var skytta góð. Þeir komu síðla dags niður eftir og sáu ekkert markvert. Fóru þeir þá inn í eina sjóbúðina og ætluðu að liggja þar fram eftir nóttunni, en fara á fætur með birtu og ganga þá á fjöru og vita hvort nokkuð hefði rekið um nóttina. Bálkar voru í búðinni fyrir Hraunsnes-551fjögur rúm, hlaðnir úr grjóti, eins og venja var í öllum sjóbúðum, og fjöl eða borð fyrir framan. Lögðust þeir í innri rúmbálkinn að vestanverðu og lágu þannig, að Einar svaf við gaflhlaðið, en Guðmundur andfætis.
Þá er þeir höfðu lagst niður, töluðu þeir saman dálitla stund, og segir þá Guðmundur meðal annars: „Skyldi þá Tómas vera hér nokkurs staðar?“ Kvað Einar það líklegt vera. Fella þeir svo talið og ætla að sofna. En er þeir hafa legið litla stund, þá heyra þeir, að ofan af ytra bálkinum við höfuð Guðmundar stekkur eitthvað. Var það líkast því sem stór hundur hefði stokkið niður á gólfið. Voru þeir þó hundlausir, er þeir komu þangað og búðin lokuð. Segir þá annar bræðranna: „Þarna er hann þá núna,“ en í sömu svipan er kastað tómu kvarteli, sem hafði staðið á ytra bálkinum hinum megin, inn í gaflhlað beint yfir höfuð Einari. Sofnuðu þeir bræður ekki um nóttina, en fóru á fætur. Ekki lét draugsi neitt frekara til sín heyra.
Því eru þessar gömlu draugasögur rifjaðar upp hér, að Tangar-Tómas ku hafa hrættæði marga verbúðarmenn við Selatanga þann tíma sem þaðan var útræði. Má gera sér í hugarlund hvernig lífið hefur verið í búðunum, draug þessum samfara, og er næsta víst að það hefur verið viðburðaríkt, og jafnvel hættulegt þá er Tómas var í sem mestum ham.

Fólkið varð að sækja sjóinn sér til bjargar
Selatanga-559En hugum nú nánar að því hvernig vistin var fyrir verbúðarmenn í þessum sjóbúðum. Fyrst skal vikið að nauðsyn verferða fyrir þjóðina á næstliðnum öldum.
„Án stuðnings frá sjónum gat bændaþjóðfélagið ekki þrifist,“ segir Lúðvik Kristjánsson í þeirri gagnmerku bók sinni „Íslenskir sjávarþættir“. Verður hér á eftir stuðst nokkuð við umfjöllun hans um þetta efni.
Lúðvík heldur áfram: „Fiskmeti hefur um allar aldir verið mikilvægur þáttur í mataræði landsmanna, en þó öllu mestur meðan það kom að miklu leyti í staðinn fyrir kornvöru. Fjöldi bújarða var kostarýr og þess vegna engin tök á að hafa þar svo stóra áhöfn, að hægt væri að framfleyta meðalfjölskyldu. Kotabúskapur leiddi af sér mikinn straum manna í verstöðvar víðs vegar um land, en þó einkum á Suður- og Vesturlandi. Ef kotbóndinn fékk enga björg úr sjó, skorti hann ekki einungis fisk til heimaneyslu, heldur jafnframt gjaldgengan varning til greiðslu á erlendum vörum.
Selatangar-559Bændur á sæmilegum jörðum gátu fengið fisk í vöruskiptum og látið búvöru fyrir erlenda varninginn. En bústærðin fór eftir heyfengnum, sem ekki gat orðið mikill nema með töluverðum mannafla, því þúfnakargið var seinslegið. Bændur þurftu því, ef vel átti að heyjast, að hafa marga vinnumenn, en fyrir þá voru ekki nægileg störf við búin á vetrum, og þess vegna voru þeir þá margir sendir til sjávar. Fólkið í sveitunum hafði því náin kynni af lífi og starfi manna í verstöðvum. Margan ungling fýsti að komast úr einangrun dalabæjanna i margmenni við sjóinn og taka þátt í ævintýrum tengdum fiskveiðunum. Jafnskjótt og þeir komust í útversár, eins og Skaftfellingar orðuðu það, voru þeir víða, sökum brýnnar þarfar sendir til róðra í aðra landsfjórðunga.“

Vertíðin tók allt að sextán vikur
Upp úr nýári var farið að huga að færum manna, sem ætluðu í ver, en margir þeirra áttu langa og erfiða ferð fyrir höndum og burtveru ekki skemmri en fjórtán til sextán vikur. Vetrarvertíðin stóð að jafnaði á þessum árum frá þriðja febrúar til tólfta maí. Einyrkjar urðu að fela konu og börnum bústörfin og jafnvel allar voryrkjur. Þessi tvískipti barningur var eina leiðin til þess að bjarga fé og fólki fram á græn grös, en sem þó lánaðist misjafnlega. Stundum átti bóndinn ekki afturkvæmt eða aflinn brást og í annan tíma var horfellir sökum ónógra heyja og harðinda. En þótt fólk þekkti ekki til þess konar ófara nema af frásögnum var skuggi þeirra þó víða í augsýn, ekki síst um það leyti sem menn voru að leggja upp í verferð um heiðar og fjöll, meðan enn var stuttur dagur og allra veðra von.
Vermenn urðu að hafa með sér nesti, sem nægði til ferðarinnar, því oft var borin von að þeir gætu fengið beina á þeim bæjum sem þeir gistu. Sjálfsagt þótti að skera ekki nestið við nögl, því að þess voru dæmi að greiðsla fyrir gistingu kom sér best í matarbita.

selatangar-560

Vitaskuld voru heimili misjafnlega fær um að gera vermenn vel út með mat, en venja var að velja það besta sem til var. Nestið var einkum hangið sauðkjöt, brauð, smjör og kæfa. Það var haft í belg, svonefndum klakksekk. Viðbit til ferðarinnar var haft í dallskrínum. Dagana áður en ákveðið var að leggja upp voru vinir og nánustu venslamenn kvaddir. Áður en ferðin hófst létu margir lesa húslestur, einkum ef sjálfur heimilisfaðirinn var að kveðja. Þegar komið var út á hlað, tóku menn ofan, fóru með Faðir vorið og signdu sig. Að því búnu var gengið til hvers og eins á heimilinu og honum boðnar góðar stundir með kossi. Síðan hófst verferðin.

Ýmiss konar hjátrú tengd burtför vermanna
Selatangar-561Ýmiss konar hjátrú var tengd burtför vermanna. Engu af fötum þeirra, sem skilin voru eftir heima, mátti hreyfa við eða bleyta fyrr en eftir fullar þrjár vikur frá burtför. Það gat valdið drukknun þeirra. Þegar svo fötin voru þvegin, varð að velja bjart og gott veður til þerris. Þé mundi oft fötunum um í þvottinum. Það gat valdið villu á sjó. Rúm sjómanna skyldu óhreyfð í þrjár nætur eftir brottför, annars var óttast um afturkomu þeirra. Skó, sem urðu eftir heima, átti að hengja upp í eldhúsi og þurrka þar þó ónýtir væru. Þá þótti góðs viti, ef gestur kom stuttu eftir að vermenn kvöddu, helst sama daginn. Þá var talið víst að þeir ættu afturkvæmt, en brugðið gat til beggja vona ef enginn gestur lét sjá sig. Menn höfðu illan bifur á því, ef fyrsti gesturinn, sem kom þegar vermennirnir voru nýfarnir, var kona. Svona má lengi halda áfram með alla þá hjátrú sem fylgdi vermennskunni.

Byggingarlag sjóbúðanna og önnur hýsi við verin
Selatangar-563Svo sem gefur að skilja hafa menn þurft að gera sér einhvers konar skýli til þess að liggja í jafnsnemma og farið var að stunda útræði. Um þetta eru þó nánast engar heimildir í fornritunum. Í Fljótsdælasögu er þó getið um skála sem vafalaust hefur verið vermannaskáli og er Skálanes norðan Njarðvíkur kennt við hann. Í Grágás er svo getið um fiskibúð og fiskiskála. Önnur heiti á hýsi vermanna í útveri voru: sjóbúð, sjómannabúð, verbúð og vermannabúð, en ekkert af þessum nöfnum kemur þó fyrir í gömlum heimildum. Þá eru einnig til orðin búðarhús, búðarkofi og legukofi. Af þessum heitum voru sjóbúð og verbúð algengust. Líklegt er að verbúðir hafi í öndverðu verið sömu gerðar víðast hvar á landinu, en þegar kemur fram á nítjándu öldina verða þær dálítið mismunandi. Og þar eð við erum stödd í verbúðinni á Selatöngum í þessari grein, þá er eðlilegt að grein verði gerð fyrir helsta byggingarlaginu þar um slóðir.

Sjobud-562

Á Selatöngum sér enn fyrir tóftum nokkurra verbúða. Ein verbúðanna er þó heillegust. Dyr hafa verið á gaflinum sem snýr til sjávar. Inn af þeim hafa verið rösklega þriggja álna löng göng og er þá komið þar í búðina sem bálkarnir hafa verið en bilið milli þeirra er um einn metri. Bálkarnir eru næstum fjórir metrar á lengd en dálítið misbreiðir, annar nálega hálfur annar metri en hinn um einn metri, og kann það að stafa af missigi. Búð þessi hefur rúmað átta menn. Í framhaldi af rýminu á milli bálkanna eru rúmlega metra löng göng yfir í lítið hýsi sem hefur verið eldhús, um tveir metrar á breidd.

Selatangar-552

Hlóðirnar hafa verið hægra megin þegar inn er komið og sjást enn glögglega. Vafalaust hefur verið reykháf ur upp úr eldhusinu, en tilgáta er að tveir skjáir hafi verið beggja vegna á þekjunni. Slíkir hafa íverustaðir vermanna verið á Selatöngum. Fyrir utan þessar búðir á Selatöngum, sem að líkum voru allnokkrar að tölu, sjást einnig rústir ýmissa annarra bygginga, svo sem þeirra sem notaðar hafa verið undir áhöld og mat. Svo er þar víða hlaðna garða að finna en þeir voru notaðir til að þurrka þorskhausa meðal annars.
Þá eru hjá Selatöngum allmargir hraunhellar, en flestir litlir. Var hlaðið fyrir opin á sumum þeirra til hálfs, og notuðu sjómenn þá til ýmissa hluta. Í einum þeirra höfðu þeir kvöm sína og kölluðu þeir þann helli Mölunarkór.

Selatangar-565

Í öðrum söguðu þeir rekaviðinn sem barst að ströndum, og sá hellir var því kallaður Sögunarkór. Í framhaldi af þessu má geta að reki var mikill á Selatöngum á meðan útræði var þaðan, og færðu sjómenn sér það í nyt; smíðuðu þeir ýmsa gripi úr rekaviðnum, þá er landlegur voru, en þær voru ekki ótíðar, því að brimasamt var þar og því sjaldan róið á stundum.

„því flóin vildi sækja í rúm manna með slíku undirlagi“
Sjobud-555En víkjum aftur að för vermannanna til sjóbúðanna. Jafnskjótt og þeir komu í verið inntu þeir formann sinn eftir hvar hver þeirra ætti að liggja og hvaða rúmlagsmann hver ætti aö hafa. Að því búnu var farið að laga til í bálkinum eða rúminu og koma fyrir skrínum og öðru lauslegu.
Var það kallað búðun eða að búða sig. Að því hjálpuðust rúmlagsmenn — lagsmenn eða lagsar. Þar sem rúmstæðin voru bálkar varð að fá eitthvað til mýktar ofan á grjótið. Víða var haft hey. Á Suðurnesjum var gömul hefð að skipseigandi legði það til í fyrsta skipti sem sest var að í nýrri verbúð. En á bálkana voru ennfremur látnir hefilspænir og marhálmur. Í Grindavík bar það við að skeljasandur var látinn ofan á grjótið og þar ofan á þang eða marhálmur, en þó kusu menn fremur lyng vegna þess að fló vildi sækja í þangið og hálminn. Ofan á lyngið, þangið eða heyið lögðu sumir fyrst strigapoka eða jafnvel gæruskinn og þar ySjobud-556fir rekkjuvoð.
Flestir höfðu brekán sem yfirbreiðslu og þá stundum tvö. Síðasta verkið við að búða sig var að koma mötuskrínunum fyrir í bálkinum. Var önnur höfð í bríkarstað, en hin í höfðalagsstað. Einstaka maður hafði með sér skrifpúlt og var það haft upp við vegg fyrir miðjum bálki. Einnig bar við að hilla var fest á vegginn og þar geymt ýmislegt smávegis, til dæmis tálguhnífar, nafrar, hornspænir og því um líkt.
Skinnklæði, hvort sem þau voru þurr eða blaut, jafnvel nýlega mökuð með lifur, héngu á stoðum milli bálkanna. Verbúðarskyldur voru nokkrar og skipaði formaður fyrir í byrjun vertíðar hvernig þeim skyldi háttað. Rúmlagsmenn áttu einn dag í senn að sjá um að sækja vatn, hita kaffi og sópa búðina.
Þeir seSjobud-557m sváfu næst fyrir innan bálk formannsins byrjuðu og síðan koll af kolli sólarsinnis. Þá bar vermönnum að afla eldiviðar og sjé um matseldun og sama manni var falið að annast blöndukútinn, þar sem drykkur var hafður með á sjó. Kirna úr tré með trégjörð var í búðinni og tók um tuttugu potta. Hún var sameiginlegt næturgagn allra búðarmanna og stóð á miðju gólfi um nætur — kölluð kerald eða kjásarhald, oftast þó síöara heitinu. Það var skylda hvers búðarmanns að sjá um kjásarhaldið eina viku á vertíðinni. Hann varð að losa það og þrífa daglega og sjá um að það væri á sínum stað á kvöldin, og væri ekki til vansa, þó einhver kæmi ókunnuguri búðina.

Erfitt að treina matarbirgðirnar fram á vertíðarlok
Selatangar-notahellirHin eiginlega mata, öðrum nöfnum vermata, vertíðarmata, skrínukostur, eða það sem nú yrði kallaö nesti, var feitmeti (smjör, tólg, hnoðaöur mör) og kjöt (kæfa). En auk mötunnar fengu vermenn rúg (brauð og kökur), harðfisk, sýru og siðar kaffi, kaffibæti og sykur. öll þessi matföng voru kölluð útgerð eða útvigt, og hinn fastákveðni skammtur, sem var mismunandi eftir því hvar var á landinu, nefndist lögútgerð. Hún var ýmist miðuð við heila vertíð, mánuð, þrjár vikur, hálfan mánuð eða einungis viku. Eins og gefur að skilja þegar nesti er annars vegar, þá áttu vermenn misjafnlega erfitt með að treina sér skammtinn fram eftir vertíð. Þetta átti til dæmis við um smjörið, sem allir voru sólgnir í á þessum tíma en var dýrt. Eftirfarandi vísa var ort í sjóbúð þegar einn vermaður á miðri vertíð var svo til kominn í þrot með Seltangar-563smjörskammtinn:
Átta merkur á hann Jón
eftir í skrínu sinni,
má það heita mikið tjón,
á miðri vertíðinni.
Önnur vísa er þekkt um svip að efni: Smérið bráðast þrýtur þá þar til ráð má enginn sjá mör skal hrjáður hefnast á hitt fyrst áður þrot réð fá. Til er skemmtilegt orðatiltæki — tilorðið í verbúð — um það hlutskipti manna að verða uppiskroppa með smiör áður en vertíð lauk. Það voru Sunnlendingar sem höfðu þetta orðatiltæki að orði, en þeir sögðu um þá sem voru orðnir smjörlausir, að þeir þyrftu að „skyrpa á bitann“.
Sá sem kom vanbúinn af mötu í verið, var jafnan kallaður mötulítill, en sá sem var kominn í mötuþrot fyrir lok, mötustuttur. Þegar saxast tók á mötuna var sagt að komnar væru messur eða Maríumessur í skrínurnar, og olli það sumum vermönnum hugarangri sem einn þeirra lýsir þannig:
Selatangar-557Mín er útgerð orðin rýr
eykur sút því mæðan knýr
niðurlútur hjari óhýr
harmi þrútinn máls óskýr.
Kann ég ljúka upp kofforti
kámur strjúka af botni
áfram rjúka í ráðleysi
reiður brúka illyrði.
Og með þessum gagnorðu vísum um eymd höfundar í verbúðinni lýkur þessari lýsingu á verbúðum og verbúðarlífi á fyrri öldum.“

-SER tók saman. (Helstu heimildir: Íslenskir sjávarhættir II eftir Lúðvík Kristjánsson, Rauðskinna 1. bindi, safn frásagna eftir Jón Thorarensen, ýmis munnmæli og fleira).

Heimild:
-Dagblaðið-Vísir/Helgarblað, 136. tbl, 18. júní 1983, Verbúðarlífið á Selatöngum, bls. 2-5.

Selatangar

Selatangar – uppdráttur ÓSÁ.

Selatangar

„Rústir sjóbúða er að flnna víðsvegar við strendur Íslands. Þessar búðir eru merkar fornleifar sem mlnna fólk á þá tíð þegar landsmenn sóttu til velða á opnum bátum, oft við erfiðar og hættulegar aðstæður.
sjobud-991Hinar eiginlegu sjóbúðir — líka nefndar útver — voru reistar á þeim stöðum þar sem stutt var á miðin og heppilegt að sitja fyrir fiskgöngum á vissum tímum árs.

Misjafnlega margir bátar voru saman komnir á hverjum stað og voru áhafnir þeirra þar um kyrrt meðan á veiðum stóð enda höfðu þær þar ýmist hlaðnar verbúðir eða tjöld. Sjósókn úr þessum útræðum var þjóðinni ákaflega mikilvæg á fyrri öldum enda bætti hún hag hennar til muna frá því sem var þegar landsmenn höfðu varla úr öðru að moða en afurðum búfjárins.
Mikilvægi búðanna sést kannski best þegar talan hundrað fimmtíu og fjórir er nefnd, en hún segir einmitt til um þann f jölda útvera sem talið er að hafi verið reist við strendur landsins. Ein heillegasta og best varðveitta sjóbúðin frá fyrri tíð er vafalítið útverið Selatangar á sunnanverðum Reykjanesskaga. Það er að finna — með öllum sínum fornlega blæ — þar sem ögmundarhraun liggur út í sjó milli Hælsvíkur og Hraunsvíkur. Selatangar eru langt utan alfaraleiðar og er reyndar nokkuð erfitt að komast að útverinu landleiðina. Þessi einangrun búðanna hefur sennilega átt mestan þátt i þvi hvað þær hafa varðveist lengi og vel og hvað þær eru í rauninni ósnortnar af því sem heitir nútími.

selatangar-992

Ef draga má ályktanir af því, að skoðanir fil. dr. Sveinbjarnar Rafnssonar séu réttar eða nálægt sanni, má ætla að útróðrar frá Selatöngum hafi hafist seint á 15. öld eða nálægt aldamótunum 1600. Má þá slá því föstu að stöðugt útræði hafi verið þaðan um nærfellt þriggja alda skeið. Ekki er nokkur leið að sannreyna með nokkurri nákvæmni hvenær sjóróðrar hafi hafist þaðan. Aftur á móti er fullkomin heimild fyrir því, að þeir hafi verið stundaðir þaðan allar götur fram til ársins 1884.
Í bók Ólafs Þorvaldssonar Harðsporum segir: „Útræði mun hafa að mestu lagst niður á Selatöngum á síðari hluta nítjándu aldar og munu síðustu útgerðarmenn þar hafa verið þeir Beinteinn smiður í Arnarfelli og Sveinn ríki á Læk“. Þórarinn Einarsson frá Höfða á Vatnsleysuströnd skýrði Lúðvíki Kristjánssyni frá því á sínum tíma, að faðir hans, Einar, hafi verið þar við sjóróðra og að seinasta vertíð hans hafi verið 1884, en að þar með hafi líka sjóróðrar frá Selatöngum lagst niður. Einar faðir Þórarins fæddist og ólst upp í Nýjabæ í Krýsuvík og koma að sjálfsögðu tengslin við sjóróðrana þaðan.“
„Heimajörðin sjálf og allar hjáleigurnar, nema Vigdísarvellir og Bali, voru í daglegu tali kallað Krýsuvíkurhverfi, en þessar tvær hjáleigur voru suðaustan andir Núphlíðarhálsi, sem oft er nefndur Vesturháls, og skilur Sveifluháls þær frá aðalhverfinu, en þar um slóðir var Sveifluháls einatt kallaður Austurháls, eða aðeins Hálsinn.
Í jarðabók sinni telja þeir Árni Magnússon og Páll Vídalín, að árið 1703 hafi sjö af hjáleigunum verið byggðar og er þá tvíbýli í Stóra-Nýjabæ. Þá geta þeir og þess, að Krýsuvíkin sé eign dómkirkjunnar í Skálholti og að kirkjan í Krýsuvík sé annexía frá Selvogsþingum. Telja þeir, að 41 sála sé í söfnuðinum en þess má geta hér, að um miðbik 19. aldar var sjötíu manns í Krýsuvíkursókn. Ef treysta má því, að þeim Páli og Árna hafi verið rétt skýrt frá sauðfjáreign þeirra Krýsvíkinganna, Þá hefur hún verið næsta lítilfjörleg á slíkri afbragðs hagagöngujörð. Hrossafjöldi er og mjög af skornum skamti, en mjólkurkýr telja þeir vera tuttugu og tvær.
Sem hlunnindi telja þeir fuglatekju og eggver, einnig nefna þeir sölvafjöru og sé „sérhverjum hjáleigumanni takmarkað pláts til sölvatekju.“ Þá geta þeir þess, að á Selatöngum sé útræði fyrir hverfisbúa, „en lending þar þó merkilega slæm“.

selatangar-993

En þrátt fyrir þessa „merkilega slæmu“ lendingu, mun þó útræði á Selatöngum hafa haldizt fram um 1870, að minnsta kosti alltaf öðru hverju. Til er gömul þula, þar sem taldir eru með nöfnum vermenn á Selatöngum og er þetta upphaf: „Tuttugu og þrjá Jóna telja má.“ En endar svo: „Á Selatöngum sjóróðramenn, sjálfur guð annist þá.“
Á Selatöngum hafðist við um eitt skeið hinn nafnkunni Tangadraugur (Tanga-Tumi, sem talinn var hversdagslega fremur meinlítill, en þá er á hann rann jötunmóður, gat hann orðið svo fyrirferðarmikill að hann „fyllti út í fjallaskörðin“, að því er Beinteini gamla í Arnarfelli sagðist frá. Ekki munu aðrar hjáleigur en þær sex, sem hér eru fyrst taldar, hafa átt rétt til fuglatekju í bjarginu, og þó að eins í þeim hluta þess, sem kallaður er Kotaberg. Er það miðhluti bjargsins austan heimabergsins, en vestan Strandarbergs. Þó leyfðist hverri hjáleigu ekki að taka fleiri egg en hundrað og fimmtíu og ekki að veiða meir en þrjú hundruð fugla (svartfugl, álku og lunda. Ekki fylgdu heldur engjar öðrum hjáleigum en þessum sex og hafði hver þeirra nokkrar skákir, ýmist á Vesturengjum eða Austurengjum. Á flestum þessara býla mátti fóðra. tvær kýr, hesta eftir þörfum, en um sauðfjáreign munu engin ákvæði hafa verið né þótt þurfa. Þegar Nýjulöndin (hið innra og fremra) lágu ekki undir vatni úr Kleifarvatni, áttu og þessar sex hjáleigur (en ekki aðrar tilkall til heyskapar þar. Átti þar höfuðbólið helming, en hver hjáleiga einn tólfta hluta. í góðu grasári gat hver hjáleiga fengið í sinn hlut af hvoru Nýjalandi um fimmtíu hestburði af nautgæfu heyi.

Arnarfell-991

Vigdísarvellir og Bali höfðu sínar eigin engjar og nærtækar. Er og um nokkuð langan veg og einkar torsóttan að sækja þaðan á Krísuvíkurengjar.
Langt mun nú síðan Gestsstaðir voru byggðir, en vel má það vera, að ábúandinn þar hafi átt útslægjur, bæði í Rauðhólsmýri og Hveradölum. Árni Magnússon getur þessarar hjáleigu í riti þeirra Páls lögmanns, en lauslega nokkuð.
Snorrakot og Hnaus hafa verið smábýli ein eða næstum því tómthús. Hið svokallaða Snorrakotstún er aðeins horn af Norðurkotstúni og skilur túnin smálækur einn. Getur horn þetta vart gefið meira af sér en þrjá eða fjóra töðukapla, þegar bezt lætur.
Í Arnarfelli mun hafa verið búið fram um eða fram yfir 1870, en túnið þar var jafnan slegið frá höfuðbólinu fram undir 1390. Þá er túnið var í rækt, var talið, að það gæfi af sér eitt kýrfóður. Má og vel vera, að ábúandi Arnarfells hafi fengið leyfi til að heyja eitthvað á mýrum þeim, sem kringum fellið eru (Stekkjarmýri, Bleiksmýri og Kúabletti).
Á Fitum vorn nokkuð stæðilegar bæjartóftir fram yfir siðastliðin aldamót. Þar var og, safngryfja, sem óvíða sást merki til annars staðar i hverfinu. Túnstæði er nokkuð vítt á Fitum og útslægjur hefði mátt hafá þaðan á Efri-Fitum, Lundatorfu eða í Selbrekkum. Eigi var og heldur langur heybandsvegur þaðan á Trygghólamýrina.“
Arnar is 125Þegar gengið er um fjöru Selatanga má víða sjá brak úr báti. Um er að ræða brak úr Arnar ÍS 125, sem fórst þar fyrir utan í nóvembermánuði árið 1986. Um atvikið er m.a. fjallað í Ægi árið 1987: „Arnar ÍS 125 fór í línuróður frá Sandgerði um miðnætti aðfararnótt sunnudagsins 23. nóvember 1986.
Skipverjar, er voru tveir, töluðu við sjómenn á öðrum bátum um nóttina, síðast klukkan rúmlega 8 á laugardags-morguninn. Þeir voru þá skammt frá Selatöngum á sunnanverðu Reykjanesi. Annar sjómannanna var á svokallaðri baujuvakt og er ekki vitað annað en að þá hafi allt verið í lagi. Daginn eftir, sunnudaginn 23. nóvember, gengu tvær rjúpnaskyttur frá Hafnarfirði fram á björgunarbát í fjörunni við Selatanga og var „Arnar“ strandaður á grynningum um 100 metra frá björgunarbátnum. Kom í ljós að „Arnar“ hafði farið upp á grynningar og laskast töluvert á þeim og stöðvast um 40-50 metra frá fjöruborðinu. „Arnar“ var þá þegar mikið brotinn, stjórnborðssíðan var t.d. alveg farin úr honum ásamt hálfu dekkinu og stórt gat var einnig á bakborðssíðunni. Björgunarbátur „Arnars“ var uppblásinn en mannlaus.
Björgunarsveitin Þorbjörn í Grindavík var kölluð út til leitar og þyrla Landhelgisgæslunnar TF-Sif kom einnig fljótlega á vettvang. Skipuleg leit hófst síðan mánudaginn 24. nóvember, en hún bar engan árangur.
Með „Arnari“ fórust: Jón Eðvaldsson, skipstjóri, Suðurgötu 28, Sandgerði, fæddur 20. janúar 1933, kvæntur og lætur eftir sig þrjú uppkomin börn og Jóhannes Pálsson, Suðurgötu 16, Sandgerði, fæddur 31. maí 1952, kvæntur og lætur eftir sig þrjú ung börn.“

Heimild:
-DV. 18. júní 1983, bls. 2.
-Lesbók Morgunblaðsins 25. nóvember 1989, bls. 9.
-Tíminn Sunnudagsblað 25, júní 1967, bls. 543 og 550.
-Ægir, 80. árg. 1987, 2. tbl., bls. 82.

Selatangar

Frá Selatöngum.

Selatangar

„Tilefni þessara lína er grein Gunnars Benediktssonar í Morgunblaðinu 7.6. sl. þar sem hann fjallar vel og ítarlega um Hettuveg á Sveifluhálsi (gamla þjóðleið).
Selatangar-511Fyrir útivistarfólk og þá sem áhuga hafa á grónum götum eru svona greinagóðar lýsingar mikill fengur og ómetanlegur.
Á milli Krýsuvíkur og Grindavíkur er gömul verstöð, Selatangar. Um nokkurt skeið hef ég velt því fyrir mér hvaða leiða austanmenn (t.d. frá Skálholti) fóru á Selatanga. Efalaust hafa einhverjir „sögu- og náttúruflækingar“ rambað á þessa götu fyrir löngu en ég fann hana fyrir stuttu og varð montin af. Þeir sem hafa komið í Húshólma (Gömlu-Krýsuvík) sem er neðan og suðvestan Krýsuvíkur ganga um djúpa hraungötu frá austri til þessa að kqmast í hólmann sem umlukinn er Ögmundarhrauni.
Við fyrstu vangaveltur um verleiðina að austan á Selatanga kom mér í hug að menn hlytu að Selatangar-512hafa farið í gegn um Húshólmann og svo áfram vesturúr. Eitt vorið þvældist ég um allt hraunið milli þessara tveggja staða og fann ekki smugu fyrir hests- né mannsfót (mátti þakka fyrir að halda mínum heilum).
Um daginn brölti ég svo upp á Núphlíðina (suðurenda Núphlíðarhálsins – Vesturhálsins) og góndi stíft niður yfir hraunið. Beint niður af Núphlíðinni er hraunkantur (skil tveggja hrauna). Eystra hraunið er grófara en það vestara. Ég sá götuslóða um allt og einnig niður með umræddum kanti, vísast bara rollugötur, og þó… Þarna fann ég loks gömlu austangötuna á Selatanga. Hún liggur frá Núphlíðinni, þar sem fólkvangsvarðan stendur, og niður með hraunkantinum. Víða er hún grópuð í klappirnar eftir hestahófa.
selatangar-506Þegar komið er niðurundir tangana sveigir hún til vesturs og endar á sandslettu í viki austan undir bílastæðinu. Gangan tekur 15-20 mín. Vestanleiðin á Selatanga er augljós, en hún liggur frá Ísólfsskála um hraunið og beint í verið.
Frá Núphlíðinni til austurs liggur svo þjóðleiðin fast með hlíðinni, þ.e. milli hrauns og hlíðar, og yfir hraunið þar sem styst er að Latstöglum. Þar er vegprestur sem segir: Óbrennishólmar – Latur. Gatan fylgir svo töglunum að norðvestan, liggur næst yfir hálsinn við Latafjall og rennur þar spottakorn saman við úverandi bílveg. Austan við Latafjall er hún svo auðrakin um Ögmundarhraun eftirvörðum og ofan við núverandi veg.“

-SESSELJA GUÐMUNDSDÓTTIR,
áhugamaður um grónar götur,
Mosfellsbæ.

Heimild:
-Morgunblaðið, Selatangar – „Týnda leiðin“, Sesselja Guðmundsdóttir, 13. júlí 1998, bls. 47.

Selatangar

Selatangar – refagildra.

Selatangar

„Ekki er ein báran stök úti fyrir Selatöngum frekar en Landeyjasandi. Boðarnir skálma í í lest upp að klettaströndinni, svartri og úfinni, sem virðist allt annað en árennilegur lendingar staður, jafnvel í tiltölulega hóglátu sjóveðri. Hvað skyldi þá í sunnlenzkum veðraham og foráttubrimi, þegar úthafsaldan brotnar þarna á töngunum af fullum krafti og þunga.
Enda segir einhvers staðar í Selatangar-221gömlum fræðum, að í Selatöngum sé „brimhöfn mikil.“ Þarna var þó um langt skeið allmikil verstöð og sóttur sjór á árabátum fram undir síðustu aldamót eða nánar tiltekið til 1880 eða þar um bil. Verbúðalíf og sjósókn í Selatöngum hefur fráleitt verið neitt sældarbrauð, maður þarf ekki annað en koma á staðinn, ganga þar dálítið um og virða fyrir sér búðartóttirnar, lendinguna og skerjaklasann úti fyrir ströndinni, til að sannfærast um það.

En áður en lengra er farið út í lýsingu á verbúðalífi og sjósókn í Selatöngum, skulum við virða lítillega fyrir okkur umhverfið, landssvæðið á milli Krýsuvíkur og Grindavíkur, og gera okkur grein fyrir því í stórum dráttum. Það er að vísu ekki sérlega margbrotið, þótt bæjarleiðin sé nokkuð löng. Þetta svæði er landareign tveggja jarða, Krýsuvíkur og Ísólfsskála, og hefur Krýsuvík verið miklu stærri jörð en Ísólfsskáli, landareign hennar nær langt austur fyrir Eldborg eða að svokölluðum Sýslusteini, en þar er allt í senn: landamerki, hreppamörk og sýslumörk. Sömuleiðia langt til norðurs, hverasvæðið sunnan undir Sveifluhálsi, sem allir þekkja, tilheyrði t.d. Krýsuvík.

Dagon-221

Landareign Ísólfsskála nær hins vegar frá Nípum á Festarfjalli og austur að Selatöngum, en þar eru landamerki þessara tveggja jarða. Var þá miðað við hraunstand uppi í kampinum á Selatöngum, sem hét því undarlega nafni Dágon, en má nú heita alveg úr sögunni. Verulegur hluti af þessu landi, svæðinu milli Krýsuvíkur og Ísólfsskála, er samfelld hraunbreiða. Aðallega er um tvö hraun að ræða, misjafnlega gömul og ekki runnin frá sömu eldstöðvum. Annars vegar hraunið austur frá Ísólfsskála, sem ekkert heildarheiti virðist hafa, a.m.k. á kortum. Það nær á móts við Selatanga og er augsýnilega eldra en hraunið þar fyrir austan. Hins vegar hraunið í Krýsuvíkurlandi, yngra hraunið, en það heitir einu nafni Ögmundarhraun og er talið hafa runnið á 13. eða 14. öld. Dálítið ofan við veginn, sem liggur milli Krýsuvíkur og Grindavíkur, þar sem heita Almenningar, getur að líta nokkra ósköp sakleysislega gjallhóla, eins konar rauðukúlur, sem fara ljómandi vel í landslaginu og gleðja gestsaugað. Þessar meinleysislegu kúlur eða hólar eru eldvörpin, sem Ögmundarhraun hefur komið úr á smum tíma. Traðirnar, sem hraunið hefur myndað um leið og það rann, eru skýrar og greinilegar, og mokstursjötnarnir hafa látið bæði traðirnar og hólana í friði hingað til, svo er fyrir að þakka. Ég held, að við ættum að biðja guð og Náttúruverndarráð að sjá til þess, að þeim yrði einnig þyrmt í framtíðinni, jarðfræðin og sagan mæla eindregið með því, hvor á sinn hátt, þó að við sleppum öllum fagurfræðilegum vangaveltum.
husholmi-221Þetta hefur verið mikið gos, gígarnir sem eru um 100 að tölu, eru á sprungusvæði milli Núphlíðarháls og Sveifluháls. Þaðan hefur ógurlegt hraunflóð runnið niður á jafnsléttuna, breiðzt síðan út til beggja handa og lagt undir sig svo að segja hvern blett og skika lands allt í sjó fram. Þetta er yfirleitt apalhraun, úfið og tröllslegt, einkum víða meðfram ströndinni, og hroðalega ógreiðfært yfirferðar.
Það eru litlar sem engar heimildir til um hvernig umhorfs var á þessu svæði áður en Ögmundarhraun rann. Þó er vitað með vissu, að þarna var a.m.k. einn bær, Krýsuvík, sem stóð niður við sjóinn, líklega upp undan samnefndri vík, sem hraunið hefur að nokkru leyti afmáð og fyllt og er nú kölluð Hælsvík. Í Krýsuvík var kirkja.
Gosið hefur efalaust skotið fólkinu í Krýsuvík illilega skelk í bringu og ekki að ástæðulausu. Ekki hefur verið nema um 5 km vegalengd frá eldstöðvunum heim að bænum í Krýsuvík og landinu hallar þangað, þótt lítið sé að vísu eftir að kemur niður á láglendið. Enda fór líka svo, að Krýsuvík lenti í hraunflóðinu, færði hraunið sum húsin í kaf, en staðnæmdist annars staðar við húsveggina. Sér ennþá greinilega fyrir húsarústunum austast í hrauninu, þar sem nú heitir Húshólmi og Óbrennishólmi, m.a. sést þar fyrir aflöngu tóttarbroti, sem talið er að gæti verið rúst kirkjunnar.
obrennisholmi-221Til er örstutt saga af þessum atburðum, upphafi gossins og hvernig smalamaður á að hafa bjargað sér og fénu undan hraunflóðinu. Sagan er skráð í Þjóðsögum Jóns Árnasonar og læt ég hana fylgja hér með, þó að hún hafi sjálfsagt farið margra á milli og kannski brenglazt eitthvað á langri leið í meðförunum, en hún er á þessa leið: „Krýsuvík var fyrst byggð niður við sjó fyrir utan Krýsuvíkurberg, en lagðist svo af að eldur kom upp í fjöllunum þar norður frá og runnu hraunkvísl ar hér og þar fram milli hálsanna. Hin austasta var einna mest. Smalamaður frá Krýsuvík var kippkorn frá bænum með féð. Hann sá glóandi hraunleðjuna brjótast með feikna hraða ofan úr skarðinu upp frá bænum og fleygjast út yfir láglendið. Hann sá sér enga von til undankomu og beið með fjárhópinn þess er að höndum kæmi og fal sig guði; því hefir þetta skeð í kristni. Eldflóðið fór allt í kringum hann og sakaði hvorki hann né féð nema eina á, segja sumir. Það heitir síðan Óbrennishólmi er hann var. Hraunið hljóp um allt láglendið og fram í sjó, en túnið í Krýsuvík stóð óskaddað og bærinn, en nálega var ófært þangað þegar hraunið var storknað. Þá var bærinn fluttur þangað sem Krýsuvík er nú, það er ofar og austnorðar. Þegar eldgangurinn var afstaðinn og hraunin storknuð fóru menn að leggja veg til Grindavíkur yfir þau, og urðu öll rudd að þessu austasta fráteknu. Það var svo stórgert og hart að það var óvinnandi og varð ekki veginum komið á.“
ogmundarstigur-221Eins og kemur fram í þessari skemmtilegu munnmælasögu var bærinn byggður á nýjum stað eftir gosið, þar sem hann stóð til skamms tíma eða þangað til Krýsuvík fór í eyði, sömuleiðis kirkjan.
Leiðin úr Krýsuvík til Grindavíkur og í Selatanga var heldur ógreiðfær eftir gosið, ekki sízt með hesta. í kvæði frá 15. öld er þess getið, að karl einn fór yfir Ögmundarhraun og missti kapal sinn í hraungjá, hann varð fastur og gekk af einn hófurinn, en karl hét á hinn helga kross í Kaldaðarnesi, serkjagötu, nema hvað berserkurinn í þessari sögu heitir Ögmundur, og af því á nafnið á hrauninu að vera dregið.
En víkjum nú aftur að Selatöngum og verbúðalífinu og sjósókninni þar. Selatangar eru í Krýsuvíkurlandi, vestast í Ögmundarhrauni og veiðistöðin þar talin á vegum ábúandans í Krýsuvík. Sjálfsagt hafa þó ýmsir aðrir en Krýsvíkingar róið þaðan, hvern ig svo sem samningum um það hefur verið háttað. T.d. er getið um, að þaðan hafi gengið biskupsskip frá Skálholti. Líkur eru til, að þaðan hafi verið róið þegar snemma á öldum, þótt af því fari ekki miklar sögur.
Í gömlum sóknarlýsingum er þess getið, að árið 1780 hafi róið þaðan 1 áttæringur, 1 sexæringur og 2 feræringar, og réru á þeim 13 heimamenn úr Krýsuvík og 16 austanmenn. Var veiði þeirra samanlagt 4580 fiskar.
selatangar-222En oft hafa þó útróðramennirnir í Selatöngum sjálfsagt verið fleiri. Til þess bendir m.a. sjómannavísa úr Selatöngum, sem sá merki fræðasafnari, sr. Jón Thorarensen, birti í Rauðskinnu á sínum tíma, en hann hefur leit að uppi og haldið til haga ýmsum fróðleik um verstöðina í Selatöngum. Vísunni fylgir sú saga, að ungur strákur hafi krækt sér í skipsrúm í Selatöngum með því að taka að sér að koma fyrir öllum nöfnum sjómannanna í einni vísu eða þulu. Mér telst svo til, að nöfn 82 sjómanna komi fyrir í vísunni, og þar af eru hvorki meira né minna en 23 Jónar, og má mikið vera ef þar hefur ekki einhvern tíma verið ruglazt á mönnum.
Mikið er af gömlum búðartóttum í Selatöngum. Það eru vistarverur þeirra sem þarna höfðust við, þakið er að vísu af þeim og hurðirnar týndar og tröllum gefnar, en að öðru leyti eru þær hinar stæðilegustu, enda vel hlaðnar. En heldur virðast þetta hafa verið kaldranalegar og þröngar vistarverur, veggirnir úr hraungrjóti, einungis grjótbálkar til að liggja á, gólfpláss ekki teljandi og upphitun að sjálfsögðu engin. Og öðrum þægindum hefur ekki heldur verið til að dreifa. Sums staðar var hlaðið fyrir op á hellum eða hraunskútum og plássið notað til ýmissa þarfa, svo sem smíða eða mölunar og kallað samkvæmt því: Mölunarkór, Sögunarkór o.s.frv.
Þá er þarna á töngunum mikið af görðum og fiskbyrgjum, þar sem fiskur var hertur eða verkaður á annan hátt. Talsverður trjáreki selatangar-223er þarna og notuðu vermenn rekaviðinn óspart til smíða í landlegum, sem munu hafa verið nokkuð algengar, vegna þess hvað brimasamt er við lendingarstaðinn. En fjaran og trjárekinn er líka mikið dundursefni flestum þeim sem nú heimsækja staðinn. Þarna rekst maður stundum á allt upp í tíu fimmtán álna tré, að maður nú ekki tali um rótarhnyðjurnar, sem margur kannski fær ágirnd á, kippir upp af götu sinni, og hefur heim með sér, enda missir víst enginn æruna fyrir slíkt nú orðið.
En það er fleira skoðunarvert þarna en hin gömlu mannvirki útróðrarmannanna og trjárekinn í fjörunni. Hraunið vestan við tangana er t.d. gríðarlega tröllslegt og stórbrotið meðdjúpum grasi grónum kvosum og skvompum og hraunhryggjum á milli. Það heitir Katlahraun.
Þar er býsna gaman að eyða tímanum stund úr degi. Enn er reyndar margt ósagt um Selatanga, sem vert hefði verið að drepa á, t d. reimleikana og verbúðadrauginn Tanga-Tómas, en rúmið leyfir ekki lengra mál.“

Heimild:
-Morgunblaðið, Gestur Guðfinnsson, 16.  maí 1970, bls. 8-9.

Selatangar

Selatangar – uppdráttur ÓSÁ.