Reykjanesskaginn, líkt og aðrir landshlutar, er þéttsetinn draugum frá fyrri tíð – löngu látnu fólki. Hér er getið nokkurra þeirra er hafa verið hvað mest áberandi. Vissulega eru til fjölmargir aðrir, sem ástæða hefði verið að geta, en þeir hafa verið hlédrægari – hingað til að minnsta kosti.
–Arnarfellslabbi var strákhvelpingur með svartkollótta húfu sem gerði ferðamönnum glettingar og lamaði fé. Í Arnarfelli skammt frá Krýsuvík var draugur sá er Arnarfellslabbi var nefndur. Sagan segir: „Var hann svo kallaður af því að þeir er skyggnir voru gátu að líta strákhvelping með svartkollótta húfu staglaða með hvítu lopbandi koma ofan úr fellinu og á labbi þar umhverfis til og frá um Krýsivíkurmýrar, en þar var almennur áfangastaður og lágu menn þar með lestir, flestir nálægt Arnarfelli.“ Svæðisblað Hraunbúa á skátamótum í Krýsuvík heitir Labbi eftir nefndum Arnarfellslabba.
Þjóðsagan segir að „Labbi gjörði ferðamönnum þar ýmsar glettingar. Svipti hann stundum tjaldi ofan af mönnum eða hann þeytti farangri þeirra út í allar áttir eða fældi burt hestana úr haganum og helti suma. Fór enginn maður þann veg eða lagðist þar í áfanga svo að hann hefði ekki heyrt Labba getið. Hann hafði og helt og lamað fé og færleika fyrir Krýsivíkingum og þótti þeim hann sér ærið amasamur í nágrenni, en gátu þó ekki að gjört. Smalamaður Krýsuvíkurbóndans hafði og orðið bráðdauður og var það eignað Labba.
Samkvæmt konunglegri tilskipun 1772 skar Björn sem aðrir bændur allt sitt sauðfé. Ætlaði hann nú að róa vetrarvertíðina og réði hann sér far suður í Garði. Býst hann nú í ákveðinn tíma með öðrum vermönnum; voru þeir nótt í Krýsuvík. Bóndi kenndi Björn þegar því þeir voru kunningjar. „Mörg ár held ég nú liðin síðan þú hefur róið út Björn minn,“ segir bóndi; „get ég að sauðleysið valdi því að þú ferð nú að róa.“
„Rétt getur þú til,“ segir Björn, „sveltur sauðlaust bú. Ég hef ekki róið síðan ég fór að búa, enda hef ég nú orðið litla lyst til sjóróðra.“
„Kaup vilda ég eiga við þig,“ segir bóndi; „vilda ég biðja þig að fyrirkoma Arnarfellslabba, en ég býst til að taka við færunum þínum og róa þér svo hlut.“ Þeir sömdu nú þetta með sér; reri bóndi honum hlut um vetrinn og fiskaði vel, en Björn varð eftir í Krýsuvík. Fer hann nú að hitta Labba og er ekki sagt frá viðskiptum þeirra; hitt er ljóst að Björn kom Labba fyrir og varð aldrei framar vart við hann.“
–Ármann í Ármannsfelli var vitur risablendingur á landnámsöld sem vitrast hefur síðari alda fólki í sögu Ármanns í Ármannsfelli segir að fyrrum hafi bærinn Eiríksstaðir staðið við fjallið og hét bóndinn Eiríkur. „Hann var auðugur maður og kvongaður og átti mörg börn, bæði syni og dætur“. Þar var „byggð mikil, þó nú sé af fallin fyrir óveðráttu og sandfjúki, samt sjást þar tæfur margar“. Sé eitthvert sannleikskorn í þessum sögum, sjást nú engin ummerki um byggð á þessum slóðum svo mér sé kunnugt. En frá nágrenni Skjaldbreiðs kemur enn „sandfjúk“ í „óveðráttu“, sem allir þekkja sem heima eiga í þingvallasveit og nálægum byggðum.
Sagnir herma að í Ármannsfelli hafi búið þurs nokkur er Ármann hét sem hafi haft það m.a. að starfa að skipuleggja kappglímur milli kynbræðra sinna og blendinga (hálftöll?) á Hofmannaflöt undir Meyjarsæti. Þessar uppákomur hafa nú verið aflagðar fyrir allnokkru.
–Bessastaðamóri var afturganga Péturs Sunnlendings. Var á Bessastöðum fram á daga Gríms Thomsens skálds.
–Engeyjarmóri – ein af mörgum birtingarmyndum Írafellsmóra (sjá hér aftar). Hann fylgdi Kristni Magnússyni og öðrum Engeyingum á 19. öld.
–Geithálsdraugur var afturganga Jóns sem dó á Geithálsi í Mosfellssveit 1834. Lotlegur með enska húfu. Tók sér oft far með bílum.
–Guðmundur í Kópavogi var þekktur draugur á 19. öld sem tekur ofan höfuðið þegar hann kveður og hneigir sig með haus undir hendi, líkt og Stapadraugurinn.
–Hafnarláki var draugur við Hafnir á Reykjanesi.
–Heiðarhúsadraugur við Garð var maurapúki sem lagði bæinn Heiðarhús í auðn.
Í Þjóðsögum Jón Árnasonar segir: „Það er í munnmælum haft að Heiðarhús sem eru spölkorn fyrir ofan Inngarðinn hafi í fornöld verið mesti stórbær svo að þar væru þrjátíu hurðir á hjörum, en hafi aflagt fyrir reimleika sakir. Var sá draugur nefndur Heiðarhúsadraugur. Skyldi einn þar búandi maurapúki peningaauðugur hafa gengið aftur til skildinganna. Þókti þar ekki viðvært lengi fram eftir jafnvel þó þar séu tún hin beztu. Sigurður og Svanhildur kona hans bjuggu í Heiðarhúsum um 1805. Svanhildur var talin forneskjukerling. Sigurður reri þar í Garðinum sem fleiri og kom oft seint heim á kvöldin frá sjónum. Einu sinni seint um kvöld er Svanhildur sat inni, en Sigurður var ekki kominn frá sjónum, var kallað á gluggann hjá henni: „Ég vil mitt.“ Þá svaraði hún: „Taktu þitt og farð’ í burtu.“ Svo fóru leikar að þeim þókti þar svo óskemmtilegt að þau fóru þaðan.“
–Hverfisdraugar eru einnig nefndir Stíflishóladraugar og voru á Álftanesi.
„Styflisholadraugar (eptir Dr. Grimi Thomsen.). Þeir voru margir saman í einu fèlagi, skiptu ser niður à bœi à Àlptanesi og gengu Ijósum logum svo enginu hafði frið. Þeir voru kallaðir Hverfisdraugar. Þetta var seint à 18. öd og þá var sera Guölaugr prestur i Görðum, og hann kunni margt fyrir sèr. Nú fegar bændur voru orðnir ráðalausir meö þessa ásókn, þá fóru þeir til sera Guðlaugs, og beiddu bann aö hjálpa. „Mikið er àð vita,“ segir prestur,,.að þið skuliö ekki bafa komið fyrr; það er nú oröið of seint, þeir eru nú orðnir of magnaöir, eg get ekki sett þá niður.“ Þó fór hann af staö og fékkst lengi við draugana, og gat komið þeim að Stýflishólum, en lengra kom hann þeim ekki,því hvar sem bann leitaði ofar var eitthvað fyrir. Hann markaði því reit umhverfis hólana, sem þeir aldrei komust út yfir og skildi svo við. Síðan eru þeir kallaðir Stýflishóladraugar, og hefir lengi veri þar reimt, og einhver vandræði fyrir flesta sem fara þar framhjá, en nú eru þeir farnir àð dofna; því þeir eru orðnir svo gamlir.“
–Hvítingur var háseti sem rak nakinn við Vogastapa og var grafinn á Kálfatjörn en gekk þegar aftur og sést víða um Vatnsleysuströnd.
–Höfðadraugur var heimsfrægur húsdraugur í Höfða í Reykjavík.
–Jáson hét fáráður piltur á Stafneshverfi sem dó hálfþrítugur. Hann var síðar vakinn upp og réðist þá að eljara sínum.
„Jáson hét unglingspiltur einn, heldur fáráðlingur með stóru skarði í efri vörinni og öðru minna í neðri vörinni; var samtíðis Snorra Jónssyni meðhjálpara og hreppstjóra á Lónshúsum. Jáson var bróðir Þorbergs bónda á Stafnesi. Þessi Jáson andaðist og var grafinn að Hvalsnesskirkju.
Þá bjó sá maður í Glaumbæ í Stafneshverfinu er Þórarinn hét. Síra Gestur var þá prestur á Hvalsnesi. Hann kom út úr bænum um vökuna og sér hvar tveir menn eru að glíma í kirkjugarðinum.
Prestur gengur þangað og sér hvað um er að vera; er þar Þórarinn og Jáson nærri því búinn að drepa hann. Gestur prestur bjargaði Þórarni og kom Jásyni frá honum.
Þórarinn hafði vakið Jáson upp og sent hann eftir peningum; var hann þá aftur kominn. Sagt er að síra Gestur muni hafa tekið til sín meginið af peningunum.
Þórarinn bjó í Glaumbæ eftir þetta og hét Ingibjörg kona hans. Oft féll hann niður með froðufalli þegar hann var inni, vakandi sem sofandi, en áður en hann fekk köstin sá Ingibjörg altíð skyggja fyri gluggann, en aldrei fekk hann þau er hann var á gangi.
Ingibjörg var ættuð úr Norðurlandi. Ólafur gamli Gestsson í Landeyjum var sonur síra Gests.“
–Mangi er sami og Mýrardraugurinn við Vatnsenda í Kópavogi, kom upp í tíð Benedikts Sveinssonar á Elliðavatni.
„Við efri mörk Elliðaársdal er bærinn Elliðavatn. Á seinni hluta 19. aldar bjó þar Benedikt Sveinsson, alþingismaður og faðir Einars skálds. Dag einn snemma á góu (þ.e. í febrúar) tylltu tveir vinnumenn hans sér niður í beitarhúsum með brennivínskút. Hétu þeir Guðmundur og Erlendur. Hafði sá fynefndi komið með kútinn fyrr um daginn en ætlaði að staldra stutt við því hann var á leið til vers. Í hópinn slóst maður er nefndist Magnús Jónsson og var frá Lækjarbotnum. Magnús hafði á yngri árum fengist nokkuð við nám, meðal annars í frakkneskri tungu. Var hann allmikið fyrir sopann, enda talaði hann um að hollvættir hefðu stefnt sér á staðinn þegar honum var boðið að taka þá í drykkjunni.
Kúturinn gekk nú á milli mannanna í mesta bróðerni, en eftir um tveggja stunda útisetu ákváðu þeir að halda á brott. Allmikið var þá eftir af víni í kútnum og gaf Guðmundur það Erlendi. Síðan skildu leiðir. Erlendur gett frá kútnum í beitarhúsunum og brá sér sóðan að bænum Vatnsenda sem var þar skammt frá. Síðar um daginn ætlaði hann að vitja kútsins enn fann hann ekki. Þegar farið var að svipast nánar eftir kútnum fannst hann spölkorn frá beitarhúsunum og hafði þá verið tæmdur. Ekki var fengist frekar um það, enda rökkvað og veðurútlit tekið mjög að ljókka. Nokkrum dögum seinna fannst Magnús frá Lækjarbotnum helfrosinn í mýri um hundrað faðma frá beitarhúsunum og voru hrafnar lagstir á náinn. Líkið var flutt til Reykjavíkur og krufið. En lögreglurannsókn fór ekki fram því að víst þótti að Magnús hefði orðið úti vegna drykkjunnar. Hefði kúturinn freistað hans svo mjög eftir að leiðir þremenninganna skildu að hann hefði snúið aftur og tæmt úr honum.
Magnús var nú jarðsettur í gamla kirkjugarðinum við Aðalstræti. En þá þegar var hann byrjaður að ganga aftur bæði á Elliðavatnsbænum og við beitarhúsin. Hélst draugagangurinn veturinn út og færðist heldur í aukana. Hafði fólk stundum ekki svefnfrið eina einustu nótt vikum saman fyrir söng og drykkjurausi á frönsku, höggum og hurðaskellum. Einnig gerði hann ýmsan annan óskunda og sligaði meðal annars tvö hross sem haldið höfðu til við beitarhúsin. Margir urðu varir við hann en af heimilismönnum sótti hann mest að Erlendi, öðrum vinnumannanna sem drukkið hafði með honum. Erlendur var fjármaður og hafði ekki þótt kjarklítill en draugurinn stríddi honum svo mjög að hann neitaði nú að gefa á fjárhúsin nema meðan sól var hæst á lofti. Um vorið hrökklaðist hann endanlega burt.
Draugurinn var fyrst nefndur Mangi. Eftir að Erlendur fór sást hann mest við beitarhúsin og í mýrinni þar sem hann varð úti. Var þá farið að nefna hann Mýrardraug.“
–Sefrínar hétu tveir danskir draugar sem gengu aftur eftir aftökur íslenskra á dönum á Suðurnesjum í lok siðaskipta.
–Selsmóri var einnig nefndur Þorgarður, var sakamaður sem gekk aftur og fylgdi fólki frá Seli á Seltjarnarnesi.
–Stapadraugurinn er einn magnaðasti draugur Suðurnesja. Heldur sig jafnan á Vogastapa og sést þar á Reykjanesbrautinni.
Lífseig er sögnin um Stapadraugurinn svonefnda. Birtist hann snöggklæddur. Telja menn að þar fari Jón Úlfhildarson sem kenndur er við Grjótá í Reykjavík. Aðrir aðhyllast þá skoðun að Stapadraugurinn sé Kristján Sveinsson frá Keflavík, Stjáni blái.
Margir telja sig hafa séð mann á ferðinni á Stapanum með höfuðið undir hendinni. Jón Dan rithöfundur frá Brunnastöðum hefur greint frá reimleikum á þessum slóðum í bókinni Atburðirnir á Stapa. Nokkrar útgáfur eru til af frásögnum af Stapadraugnum.
–Stýflishóladraugar voru á Álftanesi seint á 18. öld, seinna nefndir Stíflishóladraugar enda komið fyrir þar.
–Sviðholtsdraugur, en svo var Selsmóri eða Þorgarður nefndur þegar hann fylgdi Bjarna skólaráðsmanni í Sviðholti.
–Tanga Tómas varð úti á Selatöngum eftir að hafa verið úthýst í Krýsuvík. Sótti einkum að Beinteini í Arnarfelli.
„Tómas hét maður, er eitt sinn kom að Krýsuvík og baðst þar gistingar en honum var úthýst. Fór Tómas þá þaðan, en varð úti á Selatanga. Tómas gekk aftur og var draugurinn jafnan nefndur Tanga-Tómas. Margir urðu fyrir aðsókn hans en einkum Beinteinn úr Hraunum suður, enda var hann oft við selaskot á tanganum. Stundum skaut Beinteinn silfurhnöppum á drauginn en það hreif ekkert. Aftur fældist hann í svipinn, þá er skotið var á hann lambaspörðum. Oft fylgdi draugurinn Beinteini heim og varð honum helzt til friðar að láta konu sína sofa fyrir framan sig, því að þá komst draugurinn ekki að honum.
Einhverju sinni var draugurinn kominn inn í bæinn á undan Beinteini. Hann krossaði fyrir dyrnar, eins og þá var siður til, til þess að varna draugnum að komast inn, en þetta varð til þess í þetta skipti að draugurinn komst ekki út. Hann var með gustmesta móti um nóttina og var stundum bjart í baðstofunni af eldglæringum.“
„Á Selatöngum var fyrrum verstöð og útræði mikið. Gengu þaðan m.a. biskupsskip frá Skálholti. Þar sér enn allmikið af gömlum búðartóftum og görðum, er fiskur og þorskhausar voru fyrrum hengdir á til herzlu. Hjá Selatöngum eru hraunhellar margir, en flestir litlir. Var hlaðið fyrir opið á sumum þeirra til hálfs og notuðu sjómenn þá til ýmissa hluta. Í einum höfðu þeir kvörn sína og kölluðu þeir þann helli Mölunarkór, í öðrum söguðu þeir og kölluðu hann því Sögunarkór o.s.frv. Reki var mikill á Selatöngum og færðu sjómenn sér það í nyt; smíðuðu þeir ýmsa gripi úr rekaviðnum, þá er landlegur voru, en þær voru ekki ótíðar, því að brimasamt var þar og því sjaldan róið á stundum.
Á síðara hluta 19. aldar bjó í Stóra-Nýjabæ í Krýsuvík maður sá, er Einar hét. Hann átti mörg börn, og er saga þessi höfð eftir tveim sonum hans, Einari og Guðmundi. Einar, faðir þeirra, var allt að 30 vertíðum formaður á Selatöngum. Var í mæli, að reimt hefði verið á Selatöngum, og var draugsi sá í daglegu tali nefndur Tanga-Tómas. Hann gerði búðarmönnum ýmsar smáglettur, en var þó ekki mjög hamramur. Þá bjó á Arnarfelli í Krýsuvík maður sá, er Beinteinn hét. Var talið að Tómas væri einna fylgispakastur við hann. Var Beinteinn þessi fullhugi mikill, smiður góður og skytta og hræddist fátt. Var þetta orðtak hans:
„Þá voru hendur fyrir á gamla Beinteini“.
Einu sinni varð Beinteinn heylítill, og flutti hann sig þá niður á Selatanga með fé sitt til fjörubeitar. Var hann þarna um tíma og hafðist við í sjóbúð, er notuð var á vetrum. Kvöld eitt er Beinteinn kemur frá fénu, kveikir hann ljós og tekur tóbak og sker sér í nefið.
Tík ein fylgdi honum jafnan við féð og var hún inni hjá honum. Veit Beinteinn þá ekki fyrr en ljósið er slökkt og tíkinni hent framan í hann. Þreif hann þá byssuna og skaut út úr dyrunum. Sótti draugsi þá svo mjög að Beinteini að hann hélzt loks ekki við í sjóbúðinni og varð að hröklast út í illviðrið og fara heim til sín um nóttina. Hafði Beinteinn skaröxi í hendi og hvar sem gatan var þröng á leiðinni heim um nóttina, þá kom draugsi þar á móti honum og reyndi að hefta för hans, en undir morgun komst Beinteinn heim og var þá mjög þrekaður. Um viðskipti draugsa og Beinteins er ekki fleira kunnugt, svo að sögur fari af. Þess má geta, að þá er Beinteinn var spurður, hvað hann héldi, að um draugsa yrði, er sjóbúðin yrði rifin, þá svaraði hann: „Og hann fylgir staurunum, lagsi“.
Nokkru eftir þetta bar svo við, að tveir áður nefndir synir Einars bónda í Stóra-Nýjabæ fóru niður á Selatanga á jólaföstunni og hugðu að líta til kinda og ganga á reka; jafnframt ætluðu þeir að vita, hvort þeir sæju ekki dýr, því að annar þeirra var skytta góð.
Þeir komu síðla dags niður eftir og sáu ekkert markvert; fóru þeir inn í þá einu búð sem eftir var þar þá og ætluðu að liggja þar fram eftir nóttinni, en fara á fætur með birtu og ganga þá á fjöru og vita, hvort nokkuð hefði rekið um nóttina.
Bálkar voru í búðinni fyrir fjögur rúm, hlaðnir úr grjóti, eins og venja var í öllum sjóbúðum og fjöl eða borð fyrir framan. Lögðust þeir í innri rúmbálkinn að vestanverðu og lágu þannig að Einar svaf við gaflhlaðið en Guðmundur andfætis. Þá er þeir höfðu lagzt niður, töluðu þeir saman dálitla stund og segir þá Guðmundur meðal annars:
„Skyldi þá Tómas vera hér nokkurs staðar?“
Kvað Einar það líklegt vera. Fella þeir svo talið og ætlað að sofna en er þeir hafa legið litla stund heyra þeir að ofan af ytra bálkinum við höfuð Guðmundar stekkur eitthvað. Var það líkast því sem stór hundur hefði stokkið niður á gólfið; voru þeir þó hundlausir er þeir komu þangað, og búðin lokuð. Segir þá annar bræðranna:
„Þarna er hann þá núna“, en í sömu svipan er kastað tómu kvarteli sem hafði staðið á ytra bálkinum hinum megin, inn í gaflhlað beint yfir höfuð Einari. Sofnuðu þeir bræður ekki um nóttina, en fóru á fætur. Ekki lét draugsi neitt frekara til sín heyra. Eftir 1880 lagðist útræði niður frá Selatöngum. Um það leyti var seinasta sjóbúðin rifin, og hafa menn eigi hafzt þar við síðan.“
–Tindastaðaflyksa var hundtík flegin aftur fyrir miðju, sem send var Halldóri bónda á Tindstöðum í Kjós seint á 18. öld.
–Írafellsmóri var jafnan kenndur við bæinn Írafell í Kjós.
„Kort hét maður og var Þorvarðarson, bróðir síra Odds á Reynivöllum (1786-1804). Hann var nefndarmaður og gildur bóndi. Hann bjó lengst á Möðruvöllum í Kjós, en fluttist síðast að Flekkudal og dó þar 1821. Kort var tvíkvæntur. Hét fyrri kona hans Ingibjörg, en hin síðari Þórdís Jónsdóttir. Ingibjörg var ættuð að norðan. Margir höfðu orðið til að biðja hennar áður en Kort, en hún synjaði öllum. Fyrri biðlarnir þóttust því sárt leiknir, er Kort fékk hennar, þótt hann væri þeim flestum fremri um marga hluti. Þeim svall svo þetta um hjarta, að þeir keyptu af galdramanni nyrðra að senda Kort og konu hans sendingu. Galdramaður valdi til þess drenghnokka einn, er sagan segir, að hafi orðið úti milli bæja. En galdramaðurinn vakti hann upp volgan eða ekki með öllu dauðan og sendi hann þeim Kort á Möðruvöllum og mælti svo um, að draugurinn skyldi fylgja þeim hjónum og niðjum þeirra í níunda lið og vinna þeim margt til meins.
Þeir menn, sem hafa séð Móra, og þeir eru ekki fáir, hafa lýst honum svo, að hann sé í grárri brók að neðan og mórauðri úlpu fyrir bolfat, með svartan hatt, barðastóran, á hausnum, og er skarð eða geil stór inn í barðið upp undan vinstra auga. Af úlpunni dregur hann nafn, og því er hann Móri kallaður. Ummæli galdramannsins þykja hafa ræst helst of vel, því þegar Móri kom suður, lagðist hann að á Möðruvöllum, sem ætlað var, og gjörði þeim hjónum margar skráveifur með ýmsu móti, bæði í fénaðardrápi og matskemmdum. En engin eru dæmi til þess, að Móri hafi beinlínis drepið menn, hvorki fyrr né síðar. – Það var einu sinni, að þau Kort ólu kálfa tvo einn vetur. Þá báða elti Móri fram af hömrum sumarið eftir, og fundust þeir þar dauðir fyrir neðan. Annað var það, að Kort átti meri eina. Hún gekk eitt sumarið með folaldi í heimahögum á Möðruvöllum. Seint um sumarið sáu menn, að folaldið hljóp, sem það vari ært orðið, allt í kringum stein og datt síðan niður. En er til var komið, lá folaldið dautt, hafði það fest endaþarminn á steininnum og rakið svo úr sér garnirnar og dotiið síðan niður dautt. Þetta var kennt Móra.
Með því Móri ekki átti að hafa verið með öllu dauður, er hann var vakinn upp, þurfti hann eins og allir slíkir draugar mat sinn fullan. Varð því að skammta honum ekki síður en hverjum heimilismanni, bæði á Möðruvöllum og eins eftir það hann fór að leggjast að á Írafelli og fylgja Magnúsi Kortssyni, og var maturinn, sem honum var ætlaður, ávallt settur á afvikinn stað.
Þessu hafði Móri áorkað með því, að hann húðskemmdi allt í búrinu á Möðruvöllum fyrir Ingibjörgu. Sat hann þar stundum uppi á búrbitunum og gutlaði í mjólkurtrogunum með löppunum eða steypti þeim niður, sletti skyri, bæði á hana sjálfa og upp um alla rafta, eða fleygði torfi og grjóti ofan í matinn, hvar sem stóð, og spillti honum með því. Af þessu tók Ingibjörg það til ráðs, að hún fór að skammta honum fullnaðarmat í bæði mál. Við það lét hann mikið af matskemmdum. Einhverju sinni bar þó svo við, að gleymzt hafði að skammta Móra að kvöldi dags. En um morguninn, er komið var í búrið, sáu menn, hvar hann sat, og hafði sína löppina niðri í hvorri skyrtunnu, en húkti á báðum tunnubörmunum. Gjörði hann þá bæði að gutla í skyrinu með löppunum og sletta því með krumlunum. Eftir það var varazt að gleyma að skammta honum.
En það var ekki maturinn einn, sem Móri þurfti. Hann þóttist líka þurfa að hvílast eins og hver annar, og því er sagt, að eftir að hann fór að fylgja Magnúsi Kortssyni á Írafelli, hafi hann jafnan orðið að láta rúmflet standa autt handa honum gegnt rúmi sínu, og dugði engum öðrum en Móra að liggja í því.
Það var eitt sinn um réttaleytið, að margt fólk var komið að Írafelli og hafði fengið þar næturgisting. Seinna um kvöldið kom þangað drengur einn og beiddist húsa. Magnús kvað honum húsin heimil, en hvergi gæti hann lofað honum að liggja nema á gólfinu eða ef hann vildi annars kostar liggja í fletinu á móti rúminu sínu, og það þáði drengur með þökkum. Þegar hann leggst fyrir um kvöldið, sofnar hann brátt. En þegar hann er nýsofnaður, fer óttalega upp á hann, svo að korrar í honum. Hrekkur hann svo upp, og getur ekki sofnað væran blund alla nóttina fyrir einhverri ásókn. Daginn eftir var vont veður, svo gestirnir komust ekki í burtu, og voru svo á Írafelli nóttina eftir. En um kvöldið tóku drengir nokkrir sig til, sem áttu heima á Írafelli og þekktu Móra og höfðu oft verið í skítkasti við hann, og festu hnífa allt í kring um rúmfletið, svo oddarnir stóðu alls staðar upp af stokknum. Þá nótt svaf drengurinn vært, og þökkuðu menn það því, að Móri hefði ekki vogað að honum fyrir hnífsoddunum.
Eftir fráfall Korts heitins (1821) fylgdi Móri fyrst elzta syni hans, Magnúsi, er þar bjó lengi á Írafelli, sem áður er sagt, og af því Móri var þar lengst viðloða, var hann kallaður Írafellsmóri, og það nafn hefur síðan við hann haldizt.“
–Útskáladraugurinn var afturganga efnaðs próventukarls á Útskálum. Draugurinn sást seinast glenna sig í sáluhliði Útskála.
–Viðeyjarmóri er hollenskur uppvakningur sem Ólafur Stephensen ætlaði að nota til þjófnaðar hjá kóngi. Gengur á tréklossum.
-Vogadraugur er afturganga manns sem úthýst var að Stóru-Vogum á Vatnsleysuströnd. Var kveðinn niður í sjóbúðinni Tuðru í Vogum.
–Þorgarður, einnig nefndur Þorgarður, var sakamaður sem gekk aftur og fylgdi fólki frá Seli á Seltjarnarnesi.
„Að Bústöðum bjuggu hjón nokkur og var hjá þeim vinnumaður er Þorgarður hét. Var haft í flimti að konan héldi við Þorgarð framhjá manni sínum. Einnig þótti örla á því að bóndi þyrfti að sinna óvaldari verkum á bænum og var úti yfir fé í illviðrum er Þorgarður sat heima. En eitt vetrarkvöld í byl kom bóndi ekki heim, og heldur ekki um nóttina eftir. Næsta morgun var farið að leita hans og fannst hann í Elliðaánum með áverka af manns völdum er menn ætluðu að hefði dregið hann til dauða. Nú var réttað í málinu og bárust böndin að Þorgarði. Var hann fundinn sekur um morð á bóndanum þrátt fyrir að hann neitaði þverlega. Átti hann, samkvæmt sögunni, þess kost að greiða ærnar fébætur eða vera tekinn af lífi ella. Hann fór til manns er Jón hét og bjó að Seli á Seltjarnarnesi og bað hann að leysa út líf sitt. Jón var talinn vel í efnum og eftir allmiklar fortölur tók hann málaleitinni vel. En húsfreyja hans var henni hins vegar mjög andsnúin. Fékk Þorgarður enga aðstoð og var tekin af lífi. Gekk hann aftur og sótti einkum að Selshjónunum. Var hann fyrir það kallaður Sels-Móri. Síðar var hann ættarfylgja. Var hann talinn vera valdur að margvíslegri ógæfu afkomenda þeirra hjóna, veikindum, brjálun og mannslátum.“
–Stafnesdraugur var alræmdur. Landeyingurinn Jón í brókinni dó úr kvefpest suður á Stafnesi og gekk aftur bæði þar og heima í Landeyjum.
Heimildir m.a.:
-draugasetur.is
-Rauðskinna.
-Þjóðsögur Jóns Árnasonar.