Hafnarförður

Gísli Sigurðsson lýsti „Eldstríði Hafnfirðinga“ í Þjóðviljanum 1960:

Gísli Sigurðsson„Fyrr á tímum háðu Hafnfirðingar baráttu við eldinn, slíka að henni verður ekki betur lýst er með orðum mannsins er bezt hefur kynnt sér það mál: ,,Það var heimsstríð”. Maður er nefndur Gísli Sigurðsson, lögregluþjónn í Hafnarfirði. Í tíu ár hefur hann varið hverri frístund til þess að grafa úr gleymsku og forða frá glötun fjölmörgu úr sögu Hafnarfjarðar, sem ella heíði glatazt. Hann segir hér húsmæðrum er nú kveikja ljós og eld með snertingu við rafmagnshnapp (og fá vonandi enn fleiri slíka hnappa og aukna sjálfvirkni í eldhúsin) frá eldstríði formæðra þeirra.“

Gísli Sigurðssson„Sögufélag mun ekkert vera til í Hafnarfirði (en örfáir Hafnfirðingar í Sögufélagi Ísfirðinga), en saga Hafnarfjarðar kom út á aldarfjórðungsafmæli Haínarfjarðar sem kaupstaður árið 1933. Kjartan Ólafsson flutti tillögu í bæjarstjórninni um ritun slíkrar sögu og Sigurður Skúlason magister var ráðinn til verksins og fékk hann ekki nema tvö ár til þessa verks og því ekki að vænta að hann gæti grafið allt upp.
Gísli Sigurðsson lögregluþjónn hefur eytt til þess öllum frístundum sínum í tíu ár að safna til varðveizlu ýmsu er bregður ljósi yfir lífsbaráttu og störf fólksins á þessum stað. Hvort Hafnfirðingar meta þetta starf að verðleikum fyrr en löngu eftir að Gísli er genginn og grafinn skal ósagt látið, en seinni tíma menn verða honum þakklátir. Fyrir tilviljun komst ég á snoðir um þessar rannsóknir Gisla og spurði hann því nánar um málið.
Gísli Sigurðsson— Ert þú innfæddur Hafnfirðingur, Gísli?
— Nei, ég kom hingað 1911, stráklingur með foreldrum mínum, en fram að þeim tíma voru þau vinnuhjú austur í sveit.
—En samt ert það þú sem reynir að varðveita þætti úr sögu Hafnarfjarðar. Er langt síðan þú byrjaðir á því?
— Það var á miðju sumri 1950 að ég byrjaði á þessu, en síðan hef ég notað allar frístundir í þessu augnamiði.
— Hvernig hefur þú unnið að þessu?
— Ég hef bæði safnað munnlegum heimildum gamals fólks í bænum og einnig farið í gegnum ógrynni af prentuðum heimildum. Ég hef fengið um hálft annað hundrað viðtala við gamla Hafnfirðinga, lýsingu á 50 gömlum húsum og um hundrað gamalla bæja, torfbæja og timburbæja. Ég hef einnig fengið nokkrar lýsingar á lóðum, annars var lóðaskipunin gamla fremur lítið breytt fram til þess að ég kom til Hafnarfjarðar. Nokkuð hef ég fengið af þjóðsögum, en það er ekki mjög mikið af þeim hérna.
Gísli Sigurðsson— Hvernig þjóðsögur eru það?
— Huldufólkssögur helzt, en þó eru til nokkurs konar draugasögur, — og nú brosir Gísli kankvíslega um leið og hann heldur áfram: eins og t.d. þegar Ólöf gamla hálfhrakti hann Geira bróður útúr Undirhamarsbænum á gamlárskvöld 1926. Það mun vera ein yngsta fyrirburðasagan hér í bæ.
Gamlir menn sögðu mér að þetta hefði – ekkert verið og röktu flest slíkt til missýninga. Í þessum viðtölum við gamla Hafnfirðinga hef ég komizt töluvert inn í lífsbaráttu fólksins, t.d. eldiviðaröflun, — það var heimsstríð að hafa í eldinn.
— Já, segðu mér eitthvað frá því stríði.
— Flestir urðu að taka upp mó inni í Hraunsholtsmýri og bera móinn á sjálfum sér suður í Hafnarfjörð. Þar af eru nöfn „Hvíldarklettanna“ við veginn í hrauninu komin. Nú er búið að brjóta þá alla niður í veginn nema einn. Þar settist fólk til að hvíla sig undir mópokunum.

Rekafjara

Rekafjara.

Svo var verið að hirða þöngla og allskonar rek í fjörunni. Þá fóru menn líka í hrísmó upp um allt og rifu hrís og mosa svo til landauðnar horfði. En það var líka til fólk sem ekki þurfti að standa í þessu stríði. Kaupmennirnir keyptu t.d. flestir um 40 hesta af mó árlega og létu flytja að sér. Þeir sem áttu skip fóru fyrir Álftanes á haustin og fluttu móinn sjóleiðis. Þeir urðu að velja sér sérstaklega gott veður því bátarnir voru svo hlaðnir. Þeir settu spýtur upp með borðstokkunum og þverslár þar á milli og þannig urðu bátarnir háfermdir. Stundum þurftu þeir því að hleypa upp á Álftanes á heimleiðinni til þess að forða mönnum og bátum frá því að sökkva.

Nauthóll

Nauthóll 1903 – túnakort.
Mógrafir norðan við bæinn.

— Var allur mór sóttur í þessa mýri?
— Nei, nokkuð fékkst af mó í Firðinum sjálfum og Hafnfirðingar fóru líka alla leið inn í Nauthólsvík til þess að taka upp mó þar. Á þrem stöðum hér í Hafnarfirði var aðallega hægt að fá mó. Það var í Hamarskotsmýrinni meðfram læknum, Sjávarmýrinni, þar sem skipasmíðastöðin Dröfn er nú, þar var mórinn 18 stungur. Þegar dráttarbrautin var byggð þar var tveggja mannhæða rof niður á móhellu. Og í mýrinni hjá Brandsbæ var einnig mór, þar var hann 6 stungur. ,— í Sjávarmýrinni náði mórinn talsvert niður fyrir sjávarmál og upp í hallann hjá Kaldárstígnum gamla, þar man ég eftir mógröfum.
— Já, Kaldá, það varð nokkur saga af henni.

Kaldadý

Kaldadý var aftan við þennan skúr við Suðurgötu.

— Já, gamla Kaldá er löngu horfin, en þar var reist fyrsta gosdrykkjaverksmiðja á Íslandi. Jón Þórarinsson skólastjóri lét byggja hana og hún mun hafa starfað í 20 ár, en þegar hann seldi tók Milljónafélagið við.
— Milljónafélagið sem Thor Jensen tapaði minninu hjá?
— Nei, þetta var annað milljónafélag. Pétur J. Thorsteinsson o.fl. voru með það, en þetta milljónafélag fór einnig á hausinn. Jensen missti minnið svo gersamlega hjá hinu milljónafélaginu að hann gat með engu móti rámað í það að hann hefði átt heima í gamla Sivertsenhúsinu í Hafnarfirði í 1 eða 2 ár!

Skerseyri

Sjávargata Skerseyrar að Skerseyrarvör.

En svo við höldum áfram að tala um móinn þá fékkst sjávararmór vestur í Skerseyri. Ef fjörumölinni var mokað ofan af mátti ná bar í mó um fjöru. (Enn ein sönnun þess hve Suðurnesin hafa sigið). Og vestur í Víðistöðum var víst einhver móvera, en undir Viðistaðahvosinni er móhella — Víðistaðir eru eyja niðri í hrauninu sem það hefur runnið í kringum.
— Það hefur verið erfitt stríð að halda eldinum lifandi.
— Já, t.d. þegar faðir Jóns Einarssonar verkstjóra fór í róðra kl. 2—3 á næturnar fór kona hans jafnsnemma til að sækja mosa í eldinn suður í Bruna, — það mun vera um 5 km gangur hvora leið. Þær fóru í flokkum kerlingarnar og báru sinn tunnupokann hver af mosa til baka.

Gjár

Gjár við Kaldársel.

Í hrísmó upp í Kaldársel var 7 km leið. Fólk fór það aðallega á næturnar, því eiginlega var það bannað — margbannað. Það var stuldur, en einhverju varð fólkið að brenna.
Einar minn í Gestshúsum — nú er hann orðinn 90 ára — hefur sagt mér, heldur Gísli áfram, að þegar hann var 8 ára var hann látinn bera út mó úr kesti inni í Hraunholtsmýri á móti mömmu sinni.

Hraunsholt

Hraunsholtsselsstígur.

Þegar litlu fingurnir höfðu ekki lengur afl til að halda um börukjálkana var sett snæri um kjálkana og aftur yfir háls drengsins, og þannig var hann látinn halda áfram unz síðasti hnausinn var kominn til þerris, – Þá andvarpaði móðir hans (sem hafði eldiviðarleysi komandi vetrar í huga); Það vildi ég að kominn væri annar köstur! — En þrátt fyrir þetta er hann nú orðinn níræður, blessaður karlinn. Þeir sem höfðu útgerð létu þurrka hvern hrygg og hvern haus til að hafa í eldinn. Jón Einarsson verkstjóri sagði mér að þegar hann og bræður hans voru strákar voru þeir látnir bera allt slíkt frá útgerð föður síns upp í Einarsgerði (var þar sem Herkastalinn var byggður við Austurgötuna) en þar höfðu verið hlaðnir garðar til að þurrka á.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður – málverk JE.

Þorskhausar voru hertir til matar en hausar annarra fiska og hryggir til elds. — Hlóðirnar í Hjörtskoti standa enn, en Hjörtskot mun vera eini gamli bærinn sem enn stendur að mestu í svipuðu formi og fyrr, nema sett sefur verið á hann járn. Eldhúsið og hlóðirnar standa enn.
Vestur a Skerseyri er enn til sundurborin gömul eldhústóft. Hún er um 21,4×2 álnir að flatarmáli.
—Og bæirnir sjálfir lélegir?

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður – málverk JÞ.

— Já, gömlu bæirnir voru margir af vanefnum byggðir. T.d. var bærinn sem Kristinn Auðunsson (kunnur forfaðir margra ágætismanna) þannig að það kom varla svo dropi úr lofti að ekki hripaði inn í bæinn. Það blæs og hripar gegnum veggi sem hlaðnir eru úr hraungrýti (hraðstorknu gosgrjóti) og því var hafður svelgur í gólfinu í mörgum þeirra bæja sem voru með moldargólfi. Þótt þekjan væri úr tvöfaldri snyddu lak í gegnum hana því grasrót tekin í hrauni er allt annað en mýrartorf.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður – málverk HÁ.

Bæirnir voru viðaðir með skarsúð og þar utanyfir var reiðingssúð. Sumstaðar voru settir listar á samskeytin og tjargað yfir, en annarstaðar var snyddu hlaðið utaná til skjóls.
Bæirnir munu flestir hafa enzt illa. Þórnýjar- og Pétursbær voru t.d. báðir byggðir um 1890 en báðir tæplega mannabústaðir um aldamót. Bæir sem gerðir voru af slíkum vanefnum munu yfirleitt ekki hafa enzt nema í 10 ár.
— En hvernig var með vatnið — annað en lekann?

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður – Lækurinn.

— Það var líka stríð að hafa neyzluvatn á hraunbæjunum. Allt vatn var sótt í lækinn, hvar sem menn bjuggu í hrauninu. Þar sem Selvogsgatan er nú uppi á Hamrinum var lind, nefnd ,,Góðhola“ og sóttu Hamarsbúar þangað vatn sitt. Dý var þar sem Kaldá var byggð og þangað sóttu sunnanbyggjar vatn. En allir sem áttu heima fyrir vestan Læk sóttu vatn í Lækinn. María Kristjánsdóttis sagði mér frá því að þegar hún var 8 ára, lítið vaxin og pasturslítil, var hún send vestan frá Sveinshúsi (nú Merkurgata 3) suður í Læk með tvær vatnsfötur. Hún fyllti þær í Læknum og rogaðist með þær vestur eftir, en þegar þangað var komið var oft harla lítið eftir í fötunum, því föturnar voru stórar en stelpan lítil og var því alla leiðina að reka þær í og hella niður og utaní sjálfa sig. Konur fóru einnig með þvottinn í Lækinn.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður – Lækurinn.

Læknar sem hingað komu höfðu orð á bví að hér væri þvotturinn hvítari en í Reykjavík, sem mun hafa stafað af því að þegar þvegið var í Laugunum þurfti að bera þvottinn langa leið í bæinn, en hér var hann líka skolaður úr köldu rennandi vatni. — Já, neyzluvatnið var sótt í sama lækinn og þvegið var í.
— Þú segist hafa fengið lýsingu á 100 bæjum, — og þá líka hvar þeir stóðu?
— Já, mér hefur tekizt að fá töluvert af upplýsingum um bæina og byggðahverfin og töluvert um fólkið sem í þeim bjó.“

Heimild:
-Þjóðviljinn, 85. tbl. 10.04.1960, Eldstríð Hafnfirðinga, Gísli Sigurðsson, bls. 6-7 og 10.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður – Lækurinn.

Langeyri

Eftirfarandi grein Stefáns Júlíussonar undir fyrirsögninni „Gengið vestur með sjó“ birtist í Fjarðarfréttum árið 1984:

Stefán Júlíusson

Stefán Júlíusson (1915 – 2002).

„Fyrir nokkru komu ritstjórar Fjarðarfrétta að máli við mig og spurðu hvort ég vildi ekki taka saman fyrir blaðið pistil sem kallast gæti „Byggðin í hrauninu“. Vísuðu þeir til þess að á námskeiði sem haldið var á síðasta vori um Hafnarfjörð, og raunar var kallað Byggðin í hrauninu, sagði ég frá ýmsum atvikum og staðháttum á bernsku- og æskudögum mínum í vesturbænum og út með sjónum.
Fyrir 12 árum kom út eftir mig bók sem ber heitið Byggðin í hrauninu og eru í henni minningaþættir frá uppvaxtarárum mínum í hraunkotabyggðinni fyrir vestan bæinn. Varð það að samkomulagi milli mín og ritstjóranna að við færum vestur meö sjónum, tækjum nokkrar myndir og síðan tvinnuðum við saman kafla úr bókinni og frásagnir út frá myndunum.

Fjarðarpósturinn

Fjarðarpósturinn – forssíða í des 1984.

Laugardaginn 10. nóvember fórum við svo í myndatökureisu og hér birtist afraksturinn af þessari samvinnu. Við vorum sammála um að styðjast að mestu leyti við lokakaflann í Byggðinni í hrauninu en í honum lýsi ég göngu um fornar slóðir vestur með sjónum.
Á fyrstu tveimur myndunum erum við stödd á Krosseyrarmölum eða rétt vestan við Svendborg. Um þessi örnefni segir svo í Byggðinni: „Margar ferðir átti ég hérna gegnum Svendborg á bernskuárum minum. Þegar ég man fyrst eftir var þetta athafnasvæði Booklessbræðra, hinna bresku togaraeigenda sem höfðu umfangsmikla útgerðarstarfsemi í Hafnarfirði í meira en áratug en urðu gjaldþrotaárið 1922. Sá atvinnurekstur átti ekki hvað minnstan þátt í því að auka aðstreymi fólks til bæjarins á þessum árum. — Enn taka Hafnfirðingar sér í munn nafnið Svendborg þótt fæstir viti nú orðið hvernig nafnið er til komið. En nafngiftin lýsir kímni Hafnfirðinga á þeirri tíð, ef til vill blandaðri ofurlítilli meinfýsi eins og stundum verður vart hjá Íslendingum.

Hafnarfjörður

Svendborg 1912.

Árið 1903 fluttist kaupmaður austan frá Norðfirði til Hafnarfjarðar. Hann hét Sveinn Sigfússon. Hóf hann þegar að reisa verslunar- og útgerðarstöð hjá Fiskakletti við Krosseyrarmalir og var stórhuga í fyrirætlunum. En örendið entist ekki sem hugur og á sama ári selur Sveinn Augusti Flygenring lóðaréttindi og byggingarog flyst til Reykjavíkur. En nafngiftarmennirnir eru komnir til skjalanna: Svendborg skyldi staðurinn heita og auðvitað upp á dönsku! Það er oft furðulegt hvað uppnefni geta orðið að lífseigum örnefnum.
HafnarfjörðurEn Svendborg er stærsta útgerðarstöðin í, Hafnarfirði í hartnær þrjá áratugi og á mikinn þátt í vexti bæjarins. Hún gengur að vísu allmjög kaupum og sölum fram til ársins 1910 en næstu tvo áratugina eru eigendur aðeins tveir, og þeir engir aukvisar, Booklessbræður til ársins 1923 en síðan Hellyersbræður. En árið 1929 líður þessi mikla útgerðarstöð undir lok og síðan hefur tímans tönn verið að naga hin margvíslegu mannvirki á eigninni.

Hafnarfjörður

Sundhöllin og nágrenni.

Nú eru Krosseyrarmalir að mestu horfnar undir Vesturgötu og Herjólfsgötu svo að naumast sést eftir af þeim tangur eða tetur nema í bláfjörunni. Áður var hér annasamt athafnasvæði og á sólrikum sumardögum var jörð öll hvít af saltfiski. Útgerðarstöðvar í Hafnarfirði voru yfirleitt reistar á fjörumölunum en nú eru þær allar horfnar undir götur og byggingar nema Langeyrarmalir að nokkru.

Hafnarfjörður

Bungalwið.

Fátt vitnar nú um athafnasemi hinna ensku útgerðarmanna en þó stendur bungaló Bookless hér ennþá, hábreskt hús sem enn er búið í og sker sig úr öðrum byggingum að stíl og útliti. Lítið eitt ofan við það stendur annað enskbyggt íbúðarhús. Þar bjó Hellyer þegar ég var innan við fermingu. Í því húsi var ráðskona á þeirri tíð ung og glæsileg stúlka, Matthildur Sigurðardóttir að nafni. Um hríð bar ég þangað daglega mjólk utan úr Víðistöðum.

Hafnarfjörður

Skarð í kletta.

Ráðskonan vék þá stundum mjólkurpóstinum unga ávöxtum og öðru fáséðu munngæti og var það vel þegið. Þá gafst tækifæri að gægjast inn fyrir dyrastafinn, inn ( stofur búnar ævintýralegum húsgögnum. Húsgögn sem nú eru nefnd því nafni voru í fáum húsum í Hafnarfirði á bernskudögum mínum. Auðvitað voru þau kölluð mublur, og vafalaust mætti telja á fingrum sér þau hús í Hafnarfirði í þá tíð þar sem eiginlegar mublur voru í stofum. Ein stórkostlegasta breytingin sem orðið hefur á Íslandi á síðustu áratugum er án efa húsgagnaeign landsmanna.

Hafnarfjörður

Járnbrautir voru algengar á fiskreitum Hafnarfjarðar.

Hér er skarð í klettarana sem skar Krosseyrarmalir í sundur og teygir sig langt í sjó fram. Nú er hér breið og slétt gata en þegar ég átti oftast leið hér um var hér lengsta járnbraut bæjarins. Þá voru járnbrautir á öllum fiskverkunarstöðvum og sömuleiðis á hafskipabryggjunni. En járnbrautin í Svendborg var langlengst, áreiðanlega hartnær kílómetri. Hún lá milli fiskhúsanna við höfnina og svokallaðs Verkamannareits á móts við Víðistaði. Þessi fiskreitur fékk nafn sitt af því að VMF Hlíf beitti sér fyrir reitarlagningunni í atvinnubótaskyni á öðrum áratugnum en síðan seldu verkamennirnir útgerðinni reitinn fullbúinn.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður.

Vegur var lagður undir járnbrautarteinana milli malar og reits. Var hann að sjálfsögðu örmjór því að ekki var nema 70-80 sentimetrar milli teinanna á þessum brautum en allhár á köflum og halli var talsverður. Reiturinn lá miklu hærra en mölin. Fiskkerrurnar sem gengu á þessum brautum voru ekki ýkjastórar, pallurinn svona einn til tveir metrar á breidd og tveir til þrír metrar á lengd. En þegar þær komu brunandi niður brautina á fleygiferð, hvort sem þær voru hlaðnar þurrfiski eða tómar, var mikil hætta á ferðum og eins gott fyrir vegfarendur að forða sér.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður – saltfiskverkun.

Mikill hvinur heyrðist langar leiðir þegar hraði var kominn á kerrurnar hvort sem þær voru fullar eða tómar, svo mjög söng í teinum og hjólum. Hrópað var hástöfum viðvörunarkall uppi á reitnum áður en kerrunum var sleppt. Allmjög dró úr hraðanum þegar kerrurnar komu niður á jafnsléttu en þó entist brunið alla leið inn í hús. Var þetta ódýr kraftur. Hesti var beitt fyrir kerrurnar fullar af blautfiski upp á reitinn og eins fyrir langa lest af tómum kerrum við innkeyrslu.
Gamla Svendborgarjárnbrautin var endurreist á stríðsárunum síðari, þegar hafnargarðurinn vestari var reistur. Þá var brautin notuð til grjótflutninga í garðinn. Nú er hún löngu horfin og breið gata, Flókagata, komin í staðinn.

Hafnarfjörður

Klettar við Krosseyrarmalir.

Þegar ég átti leið hér um á árunum innan við fermingu var á sumrin krökkt af fáklæddum börnum á þessum slóðum. Þá var sund kennt í sjónum við Krosseyrarmalir og klettana fyrir vestan þær. Fyrstu sundkennarar sem ég man eftir voru þeir Jakob Sigurðsson kaupmaður og Grímur Andrésson bílstjóri. Og hérna við klettótta ströndina og í malarvikinu sunnan við Gatklettinn sem þá var byrjaði Hallsteinn Hinriksson að kenna sund eftir að hann fluttist til Hafnarfjarðar árið 1929.

Hafnarfjörður

Sundkennsla neðan við gatklettinn.

Þá skiptu sundnemendur hundruðum og var oft farið í sjóinn tvisvar á dag. Nú er hrunið ofan af Gatkletti, eitt mesta holræsi bæjarins liggur hér út í sjóinn, breið Herjólfsgatan hefur lagt undir sig möl og hraun, og við hana stendur sundhöllin þar sem nú er kennt og synt í upphituðu vatni. — Þróun og sögu má lesa hér við sérhvert fótmál.“
Á þriðju og fjórðu mynd erum við stödd við ströndina í nánd við Sundhöllina og vitnum í bókina: ,,Á þessum slóðum þar sem sundhöllin stendur nú við breiða og slétta Herjólfsgötuna var hraunströndin einna úfnust og stórhrikalegust á bernskudögum mínum.

Hafnarfjörður

Hallsteinn Hinriksson leiðbeinir við sundiðkun.

Hér var Draugaklifið svokallaða. Há strandberg stóðu hér í sjó frammi, þung og staðfestuleg björg, en á milli þeirra skárust dökk og brimhefluð vík inn í hraunstorkuna. Þar súgaði sjór og gnauðaði við minnstu kviku og þegar stórstreymt var gekk hvítt löður yfir kletta og klif og kastaðist upp á gangstíginn. Þá var brautin harla mjó og ógreiðfær, malir, gjótur og klif. Í snjóum á veturna þegar svellalög voru og vestanáhlaup var þetta ekki greiðfarin leið. En í kyrrum og blíðu sumarsins bauð hún fólki heim.
Ekki grunaði okkur hraunbúana á þeirri tíð að svo skammt yrði hér í breiða götu og húsaröð meðfram henni alla leið út á Malir. Nú er ekkert svipað því sem áður var þegar ég geng hér eftir götunni.

Æðakollur

Æðakollur á svamli.

Þarna syndir þó æðarkolla með fjölskyldu sína úti fyrir gamla Gatklettinum og hátignarlegur blikinn setur svip á umhverfið sem fyrr. Fuglalíf var hér fjölskrúðugra áður en ég gleðst þó af að sjá þessa heimakæru fjölskyldu; hún tengir horfna tíð við göngu mína hér í dag.“
Þá erum við komin að Langeyri. Á Langeyri versluðu danir áður fyrr eins og sést á gömlum kortum af Hafnarfirði. Þar mun hafa verið þurrkaður fiskur á eyrinni eða mölinni um aldir.

Hafnarfjörður

Langeyri.

Eins og alkunnugt er voru þessar eyrar eða malir snemma athafnasvæði fiskverkunar, fyrst erlendra kaupmanna og útgerðarmanna og síðan hinna innlendu. Þar risu útgerðarstöðvar enda voru þessar malir kjörnar til að þurrka á saltfiskinn: Hamarskotsmöl, Krosseyrarmalirog Langeyrarmalir.

Hafnarfjörður

Lifrabræðslan á Langeyri.

Byggðin í hrauninu hefur þetta að segja um staðhætti á fimmtu og sjöttu mynd: ,,Ég staðnæmist neðan við Langeyri sem enn stingur í stúf við húsaröðina meðfram götunni, byggingar eru frá fyrri tíð, lóðin miklu stærri, grasblettir, kálgarðar og gróðurreitir, og girðingin umhverfis minnir á handtök fyrir daga skipulags, reglugerða og samþykkta. Á uppvaxtarárum mínum var Langeyri það hraunkotið sem næst var bænum og þótti allnokkur leið hingað út eftir.

Hafnarfjörður

Lifrabræðslan.

Neðan við götuna eru leifar af steyptri þlötu á sjávarbakkanum. Þetta eru menjar lifrarbræðslustöðvar sem hér var reist af Augusti Flygenring um síðustu aldamót þegar hann nam land undir fyrstu fiskverkun sína á Langeyrarmölum. Hér voru talsverðar rústir þegar ég man fyrst eftir þótt lifrarþræðslan væri liðin undir lok, steinsteyptar tóttir og þrær. Sérstaklega er mér þó minnisstæður heljarmikill þottur eða þottker sem trónaði hér í rústunum. Þetta var kjörinn leikstaður, ekki síst í feluleik og ámóta athöfnum og áttum við krakkarnir hér mörg spor, ærsli og óp.“

Hafnarfjörður

Varða við Eyrarhraun.

Um sjöundu mynd mætti margt segja. Herjólfsgatan liggur hér að Mölunum. Brunarústir eru þar sem gamla vaskhúsið stóð. En á öllum fiskverkunarstöðvum fyrr á tímum, þegar lífið var saltfiskur, þurfti vaskhús eða vaskahús þar sem fiskurinn var þveginn, þurrkhús ef sumarveðrið brást og geymsluhús undirsalt, blautfisk og þurran fisk. Oft voru þó blautfiskstaflar úti áður en fiskurinn var þveginn. T.h. á 7. mynd voru þurrkhús og fiskgeymsluhús, þar sem frystihús var seinna reist. T.v. teygir Rauðhúsnef sig út í sjóinn en upp af því var sagt að verið hefði rautt verslunarhús danskra kaupmanna. Þar átti eitthvað voveiflegt að hafa gerst því þar var talið reimt þótt hvergi væri þó annar eins draugagangur og í Svendborg á sinni tíð.

Langeyri

Varða við fyrrverandi Eyrarhraun.

En vitnum nú í Byggðina út frá 7. mynd: ..Langeyrarmalir voru lengstar malanna og þar reisti August Flygenring fiskverkunarstöð um síðustu aldamót þegar hann hafði hætt skipstjórn og gerðist aðsópsmikill athafnamaður í Hafnarfirði. Áður á öldum höfðu danskir kaupmenn haft aðsetur á Langeyri en það var löngu liðin saga þegar hér var komið. August Flygenring átti ekki Malirnar mjög lengi og þegar við fluttumst að Eyrarhrauni voru þær komnar í eigu hlutafélagsins Höfrungs sem gerði út lítinn happatogara, Rán að nafni, og fékk auk aflans að honum dálítið af fiski til verkunar annars staðar að. Malirnar voru ekki stór fiskverkunarstöð á uppvaxtarárum mínum en þó veittu þær töluverða atvinnu. Lá í hlutarins eðli að fólkið í hraunkotunum þarna í kring ynni á Mölunum eftir því sem ástæður leyfðu.

Hafnarfjörður

Eyrarhraun um 1940.

Og við saltfiskþurrkunina á sumrin fengu krakkarnir sína fyrstu atvinnu. Segja má að þau börn og unglingar í Hafnarfirði sem ekki voru svo gæfusöm að komast í sveit á sumrin væru alin upp á fiskreitunum. Við breiðslu og samantekningu saltfisksins fengu allir vinnu sem vettlingi gátu valdið, svo mörg voru handtökin við þessa atvinnugrein. Var algengt að börn frá sjö ára aldri kæmust í breiðslu og fengju kaup fyrir. Þannig komst ég átta ára kettlingur í vinnu á Mölunum þegar þurrkur var og fékk að mig minir 25 aura um tímann. Þóttumst við rollingarnir þá heldur menn með mönnum þegar við vorum teknir í vinnu fyrir kaup.

Hafnarfjörður

Stefán við vörðu Eyrarhrauns.

Starfsræksla mun aldrei hafa stöðvast hér alveg síðan stöðin var reist um aldamótin. Steypta planið milli fiskhúsanna er líkt því sem áður var og hér áttum við kotakrakkarnir mörg spor í skemmtilegum leikjum. Þetta plan var forréttindi okkar og friðland; fáir áttu sér svo kjörinn og afmarkaðan leikvöll á þeirri tíð, sléttan og steyptan, hvort sem var í risaleik, boltaleikjum allskonar, hlaupum eða parís, sem við kölluðum hoppuleik. Oft voru plankar og búkkarskildir eftir einhvers staðar utan dyra við fiskhúsin og þá var auðvelt að bera þá inn á planið til að rambelta á þeim.

Hafnarfjörður

Braggar ofan Langeyrar um 1940.

Þá þekktu Hafnfirðingar ekki annað orð yfir að vega salt en að rambelta. Að vega salt lærðist seinna af bókum. Enn kalla börn í Hafnarfirði leikinn að rambelta og það gleður mig alltaf þegar ég heyri orðið. — Einu sinni ætlaði ég að kalla eina skáldsöguna mína Rambeltu, — mér fannst nafn hæfa efni, — en útgefandi vildi ekki hætta á þetta hafnfirska heiti.
Við hraunkotabörnin sem lékum okkur hérna á planinu á Mölunum vorum oft fram undir tuttugu, auk aðkomu krakka, en aldrei man ég til að neitt væri skemmt hér af ásettu ráði.

Hafnarfjörður

Langeyri.

Fyrir kom að vísu að rúða brotnaði en þá sögðum við ævinlega til þess og Guðmundur verkstjóri Jónasson lét það þá gott heita. Hann var mikill vinur okkar hraunbúanna og amaðist aldrei við leikjum okkar.“
Á áttundu og níundu mynd erum við stödd hjá bernskuheimili mínu Eyrarhrauni sem í raun varð hvati þess að ég skrifaði Byggðina í hrauninu.
Þetta var sérstakt umhverfi og um margt voru þetta heillandi heimkynni á þeirri tíð. Burstin á gamla bænum á Eyrarbraut sést enn t.h. á 8. mynd en annars er allt breytt. Á 9. mynd stend ég fyrir neðan tignarlega vörðu sem steypt var á háum kletti rétt neðan við bæinn á Eyrarhrauni. Fyrir neðan vörðuna var mikill kálgarður sem verkstjórinn á Mölunum nytjaði.

Hafnarfjörður

August Flyering (1865 – 1932).

Önnur álíka varða var steypt á kletti ofan við Rauðhúsnef, við skýli Slysavarnafélagsins. Á þeirri vörðu er stórt A greypt í steypuna en á þeirri á myndinni stendur stórt F. Þannig markaði August Flygenring sitt land af þegar hann settist að á Mölunum með starfrækslu sína upp úr aldamótunum.
Grasskvompurnar milli klettanna á þessum myndum voru allar slegnar á minni tíð þarna enda ræktaðar með ærinni fyrirhöfn af frumbyggjunum á hraunkotunum. Skemmurnar t.v. á 9. mynd voru reistar þegar skreiðarverkunin kom til sögunnar en þær standa á gömlum, lögðum reit frá Mölunum.
En vitnum nú til bókarinnar: „Eyrarhraun stendur í úfnu hrauni, þar sem kraumandi eldkvika og kaldur sjór hafa endur fyrir löngu farið hamförum í tröllslegum leik uns eldur og brim sættust á hina hrikalegu storku. Vatn og veðrun öld fram af öld milduðu svip storkunnar smátt og smátt en þó hefur þetta verið tröllaskeið uns gróðurinn tók að næla sig í sprungur og lesa sig eftir grunnum moldargeirum í lautum og klettum. Þá tók landslagið að mildast og hýrnaði síðan meira og meira við hvert hlýindaskeið. Þetta hraun rann árþúsundum fyrir Íslandsbyggð.
EyrarhraunEins og áður getur, stendur Eyrarhraun rétt ofan við fiskverkunarstöðina Malirnar sem dregur nafn sitt af gerð fjöruborðsins á þessum slóðum eða Langeyrarmölum. Fjaran er þarna á löngum kafla allhár malarkambur, gerður af hnefastórum og þaðan af minni fínsorfnum steinvölum sem vestanbrimið hefur malað, fægt og fágað um aldaraðir. Fjaran á austurströnd Hafnarfjarðar var víðast hvar svona fínsorfin, ljósleit möl, völurnar misstórar og margvíslegar að gerð en yfirborð þeirra slétt og fægt.
Bernskuheimili mitt, Eyrarhraun, stendur enn á sínum gamla stað ofan við Malirnar. En þar er nú allt breytt frá því sem áður var, bæði húsakynni og umhverfi.

Langeyri

Langeyri og nágrenni – örnefni.

Tjörnin fyrir neðan kotið sem áður setti mikinn svip á landslagið er nú uppfyllt að mestu, aðeins smápollur eftir og bílvegur er kominn heim að dyrum. Mörg íbúðarhús, skúrar og skemmur og kumbaldar hafa nú verið reist í nágrenni Eyrarhrauns. Heimahagarnir breytast með hverju ári.
Ég held áfram vestur fjöruna. Mig furðar, hvað hún er orðin óhrein, spýtnabrak og úrgangsreki um alla möl. Áður á tíð var tjáviðurinn kirfilega hirtur í eldinn. Þá þótti dýrt að kaupa eldivið og því var allt notað sem tiltækt varð, hver rekaspýta og jafnvel stundum þangið úr fjörunni. Þangið var einnig notað til áburðar.

Hafnarfjörður

Stefán við garða.

Af þessum sökum voru fjörurnar hreinar á bernskudögum mínum enda mikill ævintýraheimur okkar barnanna. Fjaran er ungum börnum mikið rannsóknarefni. Þar er aldrei kyrrstaða, heldur sífelld breyting og umskipti. Í aðfalli nemur aldan sér æ meira land en í útfallinu stækkar fjöruborðið með hverju sogi. Allt vekur þetta undrun og íhugun. Og í hrauninu ofan við malarkambinn eru tjarnir sem einnig taka sífelldum breytingum. Sumar tæmast alveg við fjöru og þá minna þær á stóra, hola skemmd í jaxli. Brúnn þaragróðurinn og dökkt grjótið stinga í stúf við gras, mosaog fléttur í grónu hrauninu. En þegar að fellur,og vatnið teygir sig upp á grasgeira og blómskreytta kletta, eru þessar tjarnir eins og vökul augu og auka á fegurð hrauns og strandar.

Hafnarfjörður

Við Brúsastaði.

Þegar flóð er í tjörnunum er hér kyrrð og ró og samstilling, eins og land og sjór hafi samið frið um eilífð. En einstaka tjörn er svo djúp að úr henni fellur aldrei. Þar búa kynjaskepnur og furðufiskar að sögn. Því er oft stansað og dokað við á bakkanum ef vera kynni að þessi kynjadýr sýndu sig.“
Víða voru stórar lóðir eða landareignir hraunkotanna afgirtar með hlöðnum grjótgörðum. Þessir löngu og miklu garðar voru talandi tákn um aml og erfiði þess fólks sem fyrst reisti kotin og hafði nógan tíma til að rífa upp grjótið og hlaða garðana á löngum vinnuleysistímabilum árlega.

Hafnarfjörður

Brúsastaðir.

Hér stend ég við eitt garðbrotið á 10. mynd, rétt til að minna á hvað þetta fólk lagði á sig við að koma sér upp sjálfstæðum býlum þarna úti í úfnu hrauninu. Á 11. mynd sést hvernig klettanefin teygja sig út í sjóinn, eins og Rauðhúsnefið, en á milli þeirra voru malir og friðsælar fjörur.
Og á fjórtándu myndinni erum við komin vestur að bæjarmörkum. Myndin er tekin milli Brúsastaða og Skerseyrar og sér vestur til Garðahverfis en Balaklettur skagar í sjó fram. Bæjarmörkin eru nálægt miðri mynd.

Langeyri

Langeyri – vestari varðan, merkt A (Ágústi Flygering).

Þessi fjara fyrir neðan Skerseyri er sem næst því að vera ósnortin og líkist því að mestu þeim fjörum sem voru leikvöllur okkar krakkanna fyrr á tíð. Ofan við þessa fjöru þar sem Skerseyrin stóð áður á Sjóminjasafnið að fá aðsetur í framtíðinni. En gefum nú Byggðinni í hrauninu orðið að lokum og ljúkum þannig þessari gönguferð okkar vestur með sjónum: „Ég held áfram út með sjónum. Byggð er orðin meiri á Brúsastöðum en ströndin fyrir neðan bæinn er sú sama, sæbarin klettabákn og grófgerð fjörumöl til beggja handa. En Skerseyri er löngu komin í eyði, — það hraunkotið sem fjærst var kaupstaðnum, alveg út undir mörkum bæjarlandsins og Garðahverfis.

Hafnarfjörður

Malarbæir vestanverðir.

Fimm voru kotin í byggð í bernsku minni: Langeyri, Eyrarhraun, Litlibær (seinna Fagrihvammur), Brúsastaðir og Skerseyri. Afskekktast var á Skerseyri en útsýni er þar mikið og fagurt, út til hafs og inn til bæjar og vítt til allra átta. Kotið stóð á háum, allstórum bala, en tröllaukið hraun á þrjá vegu og brimsorfinn, stórgrýttur fjörukambur fyrir neðan. Þetta var frumstætt og tignarlegt bæjarstæði. Nú er komið húsakraðak fyrir ofan Skerseyrarland og eykur ekki á fegurð hraunsins. Þessa stórkostlegu hraunspildu þyrfti sannariega að friða.

Hafnarfjörður

Fjaran vestan Skerseyrar.

Rétt ofan og utan við Skerseyri er Hraunhvammur. Hann taldist í rauninni ekki til hinna eiginlegu hraunkota á uppvaxtarárum mínum þótt umhverfið væri hið sama og ástæður landnemans þar væru þær sömu og annarra frumbyggja í hraunbyggðinni. Um tíma var talið álitamál hvort kotið væri innan landamerkja Hafnarfjarðarkaupstaðar eða utan. Sá sem reisti bæinn mun hafa staðið í þeirri meiningu að hann væri að byggja í landi bæjarins. Að minnsta kosti taldi fjölskylda mín sig ekki flytja úr Hafnarfirði þann vetur sem hún átti heima í Hraunhvammi.

Bali

Balavarða (landamerkjavarða) millum Garðabæjar og Hafnarfjarðar.

En þegar landamerki voru betur könnuð og gengið til botns í málinu kom í ljós að Hraunhvammur reyndist vera Garðahreppsmegin við mörkin. Kotið var því hálfgerður bastarður í hraunbyggðinni og litum við krakkarnir naumast á það sem ekta hraunkot eftir að það var úrskurðað í Garðahreppi. Hraunkotin skyldu vera skrifuð við Hafnarfjörð á bréfum en við töldum okkkur hreinræktaða Hafnfirðinga. Tókum við það óstinnt upp þegar fólk af ókunnleika vildi koma okkur í bland við Garðhverfinga lengra út með sjónum. Við vildum engir hálfrefir vera í þeim efnum.“

Hraunhvammur

Hraunhvammur.

Brúsastaðir voru næstvestasta hraunkotið. Á tólftu og þrettándu mynd sést hvernig þar er umhorfs núna. Á þrettándu mynd stöndum við Guðmundur Sveinsson ritstjóri hjá gömlum fiskhjalli og garðbroti, talandi táknum gamla tímans. Að baki sér i Hrafnistu þar sem margir gamlir Hafnfirðingar dveljast síðustu æviárin. Mér finnst þeir vart geta kosið sértignarlegra og stórbrotnara umhverfi.
Þegar Ágúst Guðmundsson var að undirbúa gerð kvikmyndar eftir handriti mínu Saga úr stríðinu völdu þeir Snorri Sveinn Friðriksson leiksviðshönnuður Brúsastaði sem heimili drengsins sem söguna segir.“

Heimild:
-Fjarðarfréttir, 2. tbl. 01.12.1984, Stefán Júlíuson, Gengið vestur með sjó, bls. 40-43.

Skerseyri

Tóftir Skerseyrar.

Urriðakot

Sólveg Eyjólfsdóttir sagði í grein í Fjarðarfréttum frá „Fjölskyldunni í Urriðakoti“ árið 1984:
„Þegar farið er um svokallaðan Flóttamannaveg sér vel heim að Urriðakoti við Urriðakotsvatn. Bæjarstæðið er uppi í hlíð og fyrir vestan er vatnið spegilslétt. Þarna fléttast saman fegurð landslags og vatns.

Jórunn Guðmundsdóttir

Jórunn Guðmundsdóttir (1917-1995).

Útsýni er frjálst og fagurt mjög, — þaðan sér um allt Garðahverfið, Álftanesið, Bessastaði og alla leið á Snæfellsjökul. Einn fagran dag á liðnu hausti var ég stödd á þessum slóðum og rölti heim að gamla bæjarstæðinu í Urriðakoti. Ég minnist löngu liðinna daga er ég fékk að fara með móður minni í heimsókn til Sigurbjargar frænku, en hún var afasystir mín.
Á leiðinni heim urðu á vegi mínum tveir úr ritstjórn þessa blaðs og barst talið að Urriðakoti og því mannlífi sem þar var fyrr á árum. Niðurstaðan varð sú að gaman væri að fræðast nánar um Urriðakot og fjölskylduna er þar bjó.
Það varð því úr að ég gekk á fund systranna Guðbjargar og Jórunnar Guðmundsdætra frá Urriðakoti, sem fúslega lýstu ýmsu er varðaði daglegt líf þeirra á uppvaxtarárunum.
Í þessum bæ bjuggu hjónin Guðmundur Jónson, fæddur 26. jan. 1866 og Sigurbjörg Jónsdóttir, fædd 26. febrúar 1865. Foreldrar Guðmundar voru Jón Þórðarson og kona hans Jórunn Magnúsdóttir er bjuggu í Urriðakoti og var Guðmundur fæddur þar og uppalinn.
Guðmundur JónssonForeldrar Sigurbjargar voru Jón Guðmundsson og seinni kona hans Vilborg Jónsdóttir, sem búsett voru á Hvaleyri við Hafnarfjörð, en þar fæddist Sigurbjörg. Þegar hún var á öðru ári fluttist fjölskyldan að Setbergi við Hafnarfjörð og þar sleit Sigurbjörg barnsskónum í hópi margra systkina.
Jón og Vilborg á Setbergi sátu jörð sína um allmörg ár með miklum myndarbrag á þeirra tíma mælikvarða. Jón á Setbergi var tvígiftur. Hann missti sína fyrri konu sem hét Guðrún Egilsdóttir. Jón á Setbergi átti 19 börn og eru niðjar hans fjölmargir. Er „Setbergsætt“ þekkt víða um land.
Sigurbjörg og Guðmundur byrjuðu sinn búskap í félagi við foreldra hans. Bústofninn var hálf kýr og 13 ær, sem þætti víst heldur lítið í dag. En þau voru hagsýn og búnaðist vel. Þar kom að kýrnar urðu fjórar og stundum fimm og sauðfé á annað hundraðið auk nokkurra hesta.
Sigurbjörg JónsdóttirUrriðakot var ekki stór jörð, en því betur nýtt. T.d. var fergi, grastegund sem slegin var í vatninu, gefin kúnum, en ekki mátti gefa það hestum. „Það fer í fæturna á þeim,“ var sagt. Við sláttinn í vatninu höfðu menn eins konar þrúgur á fótunum. Svo var einnig heyjað í Dýjamýri, fyrir neðan túnið, en það er eina dýjamýrin á Reykjanesskaga.
Mjólkin var seld til Hafnarfjarðar og flutt á hestvagni. Þegar því varð ekki við komið þá á hestum og alltaf farið heim til hvers kaupanda með mjólkina.
Oft var erfitt með færðina á vetrinum og tók oft langan tíma að komast niður í Fjörð. Leiðin lá suður með Hádegisholti og vestur fyrir Setbergshamar en kom svo á Setbergsveg rétt hjá Baggalá. 1930 kemur svo vegur fyrir vestan vatnið. Þá styttist leiðin um helming. Þá var farið yfir Hrauntangann og yfir Setbergstúnið og fram hjá „Galdraprestaþúfunni.“

Urriðakot

Urriðakotsvegur um Vesturmýri að Setbergi.

Gefum nú Jórunni orðið: „Ég var alltaf myrkfælin hjá „þúfunni“ þegar ég var ein á ferð. Faðir okkar fékk leyfi hjá Jóhannesi Reykdal, bónda á Setbergi, til að leggja veg yfir túnið og lagði faðir okkar veginn sjálfur. Meðal daglegra starfa okkar var að fara upp í Sauðahelli hjá Kol í Víðistaðahlíð. Þar áttum við kindur. Heyið bárum við í pokum á bakinu og gáfum fénu á gaddinn.
Svo var það vatnsburðurinn. Vatnsbólið var fyrir neðan túnið. Allt vatn til heimilisins og einnig handa kúnum bárum við í þar til gerðum fötum og mátti aldrei nota þær til annars. Þetta var oft erfitt verk því allbrött er brekkan frá vatnsbólinu upp að bænum.

Urriðakot

Urriðakot – brunnur.

En 1926 var sett upp dæla og byggður geymir uppi á bænum svo vatnið var sjálfrennandi inn í bæinn og einnig í fjósið. Þetta var mikill Iéttir þrátt fyrir að dælan væri mjög þung, svo helst þurfti tvo til að „drífa“ hana“.
„Jú það var margt sem þurfti að sinna, m.a. um fráfærurnar“ heldur Guðbjörg áfram. „Kvíarnar voru á Hrauntanganum — seinast var fært frá 1918.
Hér fyrrum var allgóð silungsveiði í vatninu, en veiðin hvarf er Jóhannes Reykdal byggði rafstöð (hina fyrstu á landinu) og kom upp stíflu sem varnaði því að silungur kæmist í vatnið.

Urriðavatn

Urriðavatn 2024.

Við hlökkuðum alltaf til berjaferðanna. Aðal berjalandið var í Vífilsstaðahlíð, sem alltaf var mjög berjarík. Á vetrum vorum við systkinin mikið á skíðum og skautum. Skautasvell var og er oft mjög gott á Urriðakotsvatni. Fyrstu skautarnir okkar voru hrossaleggir og fyrstu skíðin tunnustafir og við þetta skemmtum við okkur alveg konunglega. Um alllangt skeið hafði Skautafélag Hafnarfjarðar skautaæfingar á Urriðakotsvatni, þar sem félagsmenn lýstu upp skautasvellið með gaslugtum.

Urriðakot

Urriðakot.

Oft var ferðagrammófónn hafður meðferðis og spilaðir marsar og göngulög og skautað í takt við músíkina. Þetta var ákaflega vinsælt og fjöldinn allur af fólki á öllum aldri lagði leið sína til Urriðakotsvatns kvöld eftir kvöld til að njóta þessarar hollu íþróttar.“
Og við gefum systrunum orðið áfram: „Við minnumst skólaáranna alltaf með mikilli gleði. Eldri systkinin sóttu skóla út á Garðaholt en yngri systkinin í Hafnarfjörð. Alltaf var gengið til og frá skóla. Guðlaugur, bróðir okkar, var síðastur systkinanna fermdur í Görðum. Katrín var fermd í Fríkirkjunni í Hafnarfirði 1913 og öll yngri systkinin voru einnig fermd í Fríkirkjunni.“

Urriðakot

Urriðakot – letursteinn. Guðmundur faðir Jórunnar hóf búskap í Urriðakoti árið 1887 á móti föður sínum, Jóni Þorvarðssyni, sem hafði búið á jörðinni frá 1846. Guðmundur lét af búskap árið 1942 og skorti því ekki nema fjögur ár í heila öld að jörðin væri setin af þeim feðgum. Áletrunin Jth 1846 vísar væntanlega til Jóns.

Sigurbjörg og Guðmundur eignuðust 12 börn. Misstu þau tvö í frumbernsku en 10 komust upp. Auk sinna eigin barna ólu þau upp að nokkru dótturson sinn Guðmund Björnsson augnlœkni, nú prófessor við Háskóla Íslands. Guðrún dóttir þeirra ólst upp hjá föðursystur sinni, Guðrúnu Jónsdóttur og manni hennar, Þorsteini Guðmundssyni, er seinast bjuggu að Strandgötu 27 í Hafnarfirði. Það mun ekki ofsagt að Sigurbjörg og Guðmundur voru njótendur gæfu og gleði með sinn stóra barnahóp sem öll hlutu farsælar gáfur í vöggugjöf — komust vel til manns og urðu dugandi og velmetnir borgarar.
Það var vinalegt að líta til þessa býlis meðan allt var þar í blóma, allt iðandi af lífi og athafnasemi. Nú má segja að allt sofi þar Þyrnirósasvefni.
Og í dag segi ég: Vakna þú mín Þyrnirós og hvíslaðu í eyra þess er vill heyra: Væri þessi staður ekki ákjósanlegur Fólkvangur fyrir Hafnarfirðinga þeirra?“

Heimild:
-Fjarðarfréttir, 2. tbl. 01.12.1984, Sólveig Eyjólfsdóttir: Fjölskyldan frá Urriðakoti, bls. 24-25.
Urriðakot

Fornistekkur

Til er áhugasamt fólk sem hefur gaman að skoða útgefnar fornleifaskráningar á Reykjanesskaganum, þ.e. þær skráningar sem yfirleitt eru gerðar opinberar.

Vetrarblóm

Vetrarblóm – fyrstu ummerki vorsins.

Fæstar skráninganna þykja ágætar, en margar eru vægast sagt hjákátlegar – þegar betur er að gáð. Sumar eru og beinlínis rangar, annars vegar að teknu tilliti til opinberra gagna og hins vegar með hliðsjón af ummerkjum á vettvangi að dæma.

Dæmi um ágæta skráningu er fornleifaskráning um Eldvörpin á vegum stjórnenda HS-Orku annars vegar og hins vegar hjá hinum þröngsýnu ráðamönnum Keflavíkurflugvallar.

Hvassahraun

Hvassahraunsstekkur II – uppdráttur ÓSÁ.

Þetta sama fólk hefur stundum verið að velta fyrir sér hvert hlutverk Fornleifarstofnunar Íslands er í að ákvarða áreiðanleika slíkra skráninga? Dæmi er um að stofnunin hafi hunsað framkvæmd mikilvægra fornleifaskráninga þrátt fyrir lögformleg tilmæli þess efnis. Auk þess hefur stofnunin látið hjá líðast að taka á misbrestum á ákvæðum gildandi laga í einstökum tilvikum. Sveitarfélög hafa jafnvel komist upp með að eyðileggja í óleyfi skráðar fornleifar, án áminningar. Þrátt fyrir allt framangreint hefur stofnunin tekið að sér að skrá fornleifar utanaðkominna í sérstaka opna „Minjavefsjá„. Inn í skrána hafa bæði slæðst alls kyns villur og mjög erfitt er fyrir áhugasamt fólk að nálgast og staðsetja einstakar minjar út frá „sjánni“.

Eldvörp

Eldvörp – fornleifaskráning.

Þegar skráningin fyrir Hvassahraun var t.d. skoðuð kom í ljós að á skráningarsvæðinu ættu t.d. að vera (skv. örnefnalýsingum) tveir heimastekkir, annar í Stekkjarnesi (Stekkjarnefi) og annar í Stekkjardal. Skv. fornleifaskráningu svæðisins fannst sá síðarnefndi ekki. Stekkurinn í Stekkjarnesi (Stekkjarnefi) er augljós ef örnefnalýsingar eru skoðaðar. Og þegar betur er að gáð, þrátt fyrir allt, má vel greina minjar stekksins neðst í Stekkjardal, fast ofan við sjávarkampinn.
Framangreint er einungis eitt tilgreint tilvik af fjölmörgum. Ef tíunda ætti þau öll myndi vefsíðan ein ekki duga til. Þess ber að gæta að sá er þetta skrifar fékk einkunnina 10.0 í fornleifaskráningu við nám í fornleifafræði við Háskóla Íslands á sínum tíma.

Framangreind umfjöllun er fyrst og fremst vinsamleg áminning um mikilvægi þess að vanda þarf vinnubrögð við fornleifaskráningar í hvívetna. Þær virðast kannski ekki skipta miklu máli þá og þegar þær eru gerðar, að teknu tilliti til kostnaðar hverju sinni, en þær munu vissulega gera það sem um munar er fram líða stundir…

Flekkuvíkurstekkur

Flekkuvíkurstekkur I – uppdráttur ÓSÁ.

Hvassahraun

Í „Aðalskráningu fornleifa í Sveitarfélaginu Vogum – Áfangaskýrsla III“ segir um Hvassahraunsstekk í Stekkjarnesi (Stekkjarnefi):

Hvassahraun

Hvassahraun – varða ofan stekksins í Stekkjarnesi. Gerði og skúti á miðri mynd.

„Innraland er allt svæðið kallað frá túngarði í Hvassahrauni að landamerkjum móti Lónakoti. Stekkjarnes gengur út í sjó austan túngarðsins, einnig kallað Stekkjarnef. Þar, var álitið, að hefði verið stekkur. Þar upp af er svo Stekkjardalur og er þar Stekkur,“ segir í örnefnaskrá.
„Svo er næst við sjó Stekkjarnef þar er rúst eftir Stekk þar er og Stekkjardalur, niður við sjóinn, stór dalur og byrgi, þar er Stekkjarhóll klofinn grashóll,“ segir í örnefnalýsingu AG. Ekki er annað að skilja af þessum lýsingum að Stekkjarnef/-nes og Stekkjardalur séu á svipuðum slóðum. Það er því líklegt að báðir þessir staðir dragi nafn sitt af Stekk sem þekktur er í Stekkjardal.

Hvassahraun

Hvassahraun – stekkur í Stekkjarnesi.

Ekki fannst nema einn stekkur á þessu svæði og er hann í Stekkjardal, allstóru og flatlendu viki inn í hraunið sunnan við grýttan sjávarkampinn, um 760 m norðan við bæ. Auk stekkjartóftar er gerði og hleðsla framan við skúta í dalnum og ungleg varða er austan við stekkinn. Flatlent og smáþýft er í Stekkjardal. Grjót berst á land í sjógangi.
Minjarnar eru á svæði sem er um 28×10 m að stærð og snýr norðaustur-suðvestur. Í norðausturenda þess er ungleg varða.
Hún er uppi á hraunhól um 15 m austan við stekkjartóft. Hún er um 0,5 m í þvermál og á hæð. Í henni sjást 4 umför en hleðslan er óvönduð.

Hvassahraun

Hvassahraunssstekkur í Stekkjarnesi – Uppdráttur ÓSÁ.

Stekkjartóftin er austast í Stekkjardalnum, vestan undir hraunvegg. Tóftin er mjög sigin og grjóthleðslur jarðlægar en hún er tvískipt. Tóftin er um 5×4 m að stærð og snýr norðvestur-suðaustur. Hólf I er í norðvesturhluta tóftarinnar. Það er um 3×1 m að innanmáli og snýr norðaustur-suðvestur. Hólf II er í suðausturenda tóftarinnar. Það er einnig um 3×1 m að innanmáli og snýr eins og hólf I. Op er á báðum hólfum til suðvesturs. Mesta hæð veggja er 0,2 mog er hvergi steinn yfir steini. Gerði B er um 15 m suðvestan við tóft A. Það er einfalt og virðist vera grjóthlaðið. Gerðið er sporöskjulagaog er um 9×7 m að stærð, snýr VSV-ANA. Skýrir veggir eru til norðurs en ógreinilegir til suðurs þar sem hlaðið ermeðfram hraunvegg. Ekki er skýrt op á gerðinu en þaðkann að hafa verið í norðvesturhorni. Hleðslur í gerðinu eru að mestu hrundar en eru 0,2-0,3 m á hæð og mest sjást 2 umför.

Hvassahraun

Hvassahraun – stekkur í Stekkjardal.

Grjót sem sjórinn ber á land er komið fast að gerðinu. Hlutverk gerðisins er óljóst en líklega er það „byrgið“ sem nefnt er í örnefnaskrá AG. Fast vestan við gerðið er skúti. Op hans er um 10 m á lengd. Hlaðið er fyrir skútann að mestu leyti. Sumt af grjótinu í opinu hefur hrunið og svo hefur verið hlaðið ofan á hrunið. Mest sjást 2-3 umför hleðslu.

Hvassahraun

Hvassahraun – fyrirhleðsla við skúta í Stekkjarnefi.

Mögulega hefur norðurhluti skútans verið nýttur sem fjárskjól þar sem gólf er tiltölulega slétt og hæst er til lofts. Ekki er að sjá að skýrt op sé inn í hann og samband gerðis og skúta er óljóst.“

Sem fyrr segir kemur fram í örnefnaskráningu Ara Gíslasonar fyrir Hvassahraun að svo er næst við sjó Stekkjarnef, þar er rúst eftir Stekk. Þar er og Stekkjardalur niður við sjóinn, stór dalur og byrgi, þar er Stekkjarhóll, klofinn grashóll.“

Í örnefnaskráningu Gísla Sigurðssonar og Guðmundar Sigurðssonar segir:

Hvassahraun

Hvassahraun – stekkur í Stekkjardal.

„Innraland er allt svæðið kallað frá túngarði í Hvassahrauni að landamerkjum móti Lónakoti. Stekkjarnes gengur út í sjó austan túngarðsins, einnig kallað Stekkjarnef. Þar, var álitið, að hefði verið stekkur. Þar upp af er svo Stekkjardalur og er þar Stekkur. Þar upp af er Stekkjarhóll og á honum Stekkjarhólsvarða.“

Stekksins í „Stekkjardal“ er ekki getið sem slíks í fornleifaskráningunni, einungs stekksins í Stekkjarnesi (Stekkjarnefi), sem sagður er vera í Stekkjardal. Hins vegar er getið um „gerði/kálgarð“ neðst í dalnum, líkt og segir í örnefnalýsingum, sbr. „Grjóthlaðið gerði er um 100 m norðvestan og 380 m NNV við bæ. Líklega afmarkaði gerðið kálgarð. Gerðið er nærri sjó, í grasi vöxnum, hólóttum móa.

Hvassahraun

Hvassahraunsstekkur II – uppdráttur ÓSÁ.

Gerðið er um 18×13 m að stærð og snýr norðvestur-suðaustur, mjókkar lítillega til norðvesturs. Veggjahleðslur eru hrundar og eru 1-1,5 m á breidd og hæstar 0,5 m. Mest sjást 2-3 umför hleðslu. Tréstaurar eru hér og hvar í grjótinu og hefur verið girðing ofan á grjóthleðslunni. Ekki sést skýrt op á gerðinu.“

U.þ.b. 20 metrum norðan við „gerðið/kálgarðinn“ mótar fyrir ferhyrndum hleðslum á gróðurbleðli, rétt ofan við núverandi grjótuppkastaðan fjörukampinn. Um er að ræða tvö hólf í aflöngu gerði, 2x 6x12m með op móti suðri. Einungis sést móta fyrir einu umfari, en skýrastir eru veggirnir að austan og norðanverðu. Hér er greinilega um leifar af stekk að ræða, enda stemmir hann við lýsingar í framangreindum örnefnaskrám. Minjarinnar er ekki getið í fornleifaskráningunni.

Hvassahraun

Hvassahraun – stekkur í Stekkjardal.

Stekkir voru yfirleitt tvískiptir, hlaðnir úr grjóti og eða torfi; eins konar rétt með viðbyggðri „lambakró“. Í þeim var ám og lömbum haldið fráskildum þegar leið á vorið á meðan á mjöltum stóð sem og næturlangt. Áður fyrr voru ær mjólkaðar jöfnum höndum í stekkjum nálægt bæ sem og í seljum, en í lok 19. aldar færðust þau búverk nánast alveg heim að bæ uns stekkjartíðin lagðist alveg af skömmu eftir aldamótin 1900.

Þó var enn um sinn fært frá heima á bæ, enda þá víðast hvar hafin bygging sérstakra fjárhúsa, uns rekið var á afrétt.

Hvassahraun

Hvassahraun – matjurtargarður.

Eftir það stækkuðu heimastekkir til mikilla muna í takt við fjölgun fjárins, urðu líkari tvískiptum réttum. Þessir stekkir, eftir að þeir lögðust af sem slíkir, voru gjarnan síðar notaðir sem matjurtargarðar. Þessi virðist hins vegar ekki hafa verið notaður sem slíkur. Hins vegar eru þrír stórir matjurtargarðar með grjóthlöðnum veggjum umhverfis skammt ofar í dalnum.

Heimildir:
-Aðalskráning fornleifa í Sveitarfélaginu Vogum – Áfangaskýrsla III, Fornleifastofnun Íslands, Reykjavík 2016.
-Örnefnalýsing fyrir Hvassahraun – Ari Gíslason.
-Örnefnalýsing fyrir Hvassahraun – Gísli Sigurðsson og Guðmundur Sigurðsson.

Hvassahraun

Hvassahraun – uppdráttur ÓSÁ.

Mundastekkur

Fornir stekkir, flestir nánast jarðlægir, virðast yfirleitt ekki vera áhugaverðar mannvistarleifar. En við nánari skoðun kemur annað í ljós. Þeir voru jú fyrrum órjúfanlegur hluti af búskaparsögunni.

Flekkuvíkurstekkur

Flekkuvíkurstekkur I – uppdráttur ÓSÁ.

Stekkir voru yfirleitt tvískiptir, hlaðnir úr grjóti og eða torfi, eins konar rétt með viðbyggðri „lambakró“. Í þeim var ám og lömbum haldið fráskildum þegar leið á vorið á meðan á mjöltum stóð sem og næturlangt.

Áður fyrr voru ær mjólkaðar jöfnum höndum í stekkjum nálægt bæ sem og í seljum, en í lok 19. aldar færðust þau búverk nánast alveg heim að bæ uns stekkjartíðin lagðist alveg af skömmu eftir aldamótin 1900. Þó var enn um sinn fært frá heima á bæ, enda þá víðast hvar hafin bygging sérstakra fjárhúsa, uns rekið var á afrétt. Eftir það stækkuðu heimastekkir til mikilla muna í takt við fjölgun fjárins, urðu líkari tvískiptum réttum. Þessir stekkir, eftir að þeir lögðust af sem slíkir, voru gjarnan síðar notaðir sem matjurtargarðar. Þannig má segja að vegghleðslurnar hafi þjónað tvenns konar hlutverki, fyrst að halda fénu innan og síðar utan þeirra.

Fornistekkur

Fornistekkur – uppdráttur ÓSÁ.

Bæði ummerki benda til og vitað er að stekkurinn var jafnan tvennskonar bygging. Rétt eða innrekstrar byrgi og kró eða lítið hús með þaki. Þar sem lömbin voru byrgð inni, þegar þeim var stíað frá ánum. Stekkurinn hefur jafnan verið valinn staður í skjólsælum hvömmum eða undir hólum, þó jafnan snertispöl frá bæ. Sælst var til að stutt væri í vatn frá stekknum, lækur eða árspræna.

Í seljunum var stekkurinn oftast tvískiptur, en í nærstekkir voru ýmist tví- eða þrískiptir.

Heimristekkur

Heimristekkur – uppdráttur ÓSÁ.

Ástæðan fyrir þriðja hólfinu er sennilega stækkun á lambakrónni á einhverjum tímapunkti, enda fjölgaði fé eftir því sem leið á. Þessi hólf eru jafnan hliðsett. Í sumum stekkjum er leiðigarður og jafnvel lítil „rétt“.

Tæplega kemur til mála að lambakróin hafi verið notuð sem fjárhús til þess var hún of langt í burt og of lítil. Þar sem svo hagaði til hefur vafalaust einhver ræktun myndast kringum stekkinn, og þá slegið þar, en um aðra ræktun hefur varla verið að ræða.
Dæmi eru um að stekkir ekki fjarri bæ hafi um stund verið notaðir sem „heimasel“, einkum eftir að selstöðurnar í heiðinni lögðust af og fólki fækkaði til sveita. Við þá stekki má gjarnan sjá hliðstæða tóft þar sem afurðirnar voru geymdar tímabundið milli flutninga. Þá eru og dæmi um að fjárborgum hafi um tíma verið breytt í stekki.

Borgarkotsstekkur

Borgarkotsstekkur – uppdráttur ÓSÁ.

Í Stekkjatíð var lömbunum stíað frá mæðrum sínum í viku til hálfan mánuð, byrjað var í miðjum júní og undir mánaðarmótin voru lömbin tekin frá mæðrum sínum fyrir fullt og allt. Talað var um að fara á stekkinn eða fara ofan á stekk. Lambféð var rekið á stekk um 9 leitið á kvöldin. Ærnar voru reknar inn í stekkinn og lömbin færð inn í stíuna. Síðan var ánum hleypt út og þær voru næturlangt í kringum stekkinn, þær höfðu að éta þar og fóru hvergi meðan þær heyrðu í lömbunum.

Færikvíar

Færikvíar.

Lömbin fengu broddmjólkina úr ánum og þegar byrjað var að stía var mjólkin orðin nógu góð til að hægt væri að nota hana í hvað sem var, enda var hún nýtt á svipaðan hátt og kvíamjólkin. Lömbin voru yfirleitt ekki mörkuð yngri en viku gömul en eftir það voru þau mörkuð, hvar sem náðist í þau. Börnum var oft gefið fráfærulamb á stekk en sjaldnast smalanum.

FERLIRsfélagar skoðuðu 22 þekkta stekki frá bæjum á Vatnsleysuströnd, milli strandar og Reykjanesbrautar.

Litlistekkur

Litlistekkur – uppdráttur ÓSÁ.

Þeir eru mislangt frá bæ, en þó aldrei lengra en svo að í þá væri ca. tuttugu mínútna gangur – stekkjargangur.

Stekkirnir eru misjafnir að gerð og lögun og hefur hvorutveggja væntanlega bæði markast af byggingaefni og aðstæðum á vettvangi. Stærð þeirra gefur til kynna fjölda mögulegs fjár frá viðkomandi bæ. Staðsetningin er nánast ávallt innan landareignar eða á mörkum.

Mannvirkin bera glögg merki fyrri búskaparhátta og eru því merkilegar fornleifar, ekki síst í heildar búskaparlandslagi hlutaðeigandi bæjar sem og alls sveitarfélagsins.

Miðmundarstekkur

Miðmundarstekkur.

Grindavík

Áttunda eldgosið við Sundhnúksgígaröðina ofan Grindavíkur hófst 1. apríl 2025 kl. 09:43 að undangenginni jarðskjálftahrinu. Áður höfðu þrjú gos brotist út í eldstöðvakerfinu sem kennt er við Fagradalsfjall. Ritstjóri FERLIRs hafði reyndar, fyrir tveimur mánuðum, spáð málamyndareldgosi nefndan þriðjudag og þar með skammvinnum goslokum í framhaldinu.

Grindavík

Grindavík – eldgos 1. apríl 2025.

Gos hófst að þessu sinni af annars litlum krafti á sprungurein við Sundhnúk að austanverðu sunnan Hagafells í norðri og inn á Stamphólshraun í suðvestri þar sem eitthvert hraunflæði náði á kafla inn undir varnargarðinn skammt ofan við bæinn. Stamhólsgjáin liggur jú þarna, ásamt þremur öðrum samliggjandi, niður undir austanvert Járngerðarstaðarhverfi…

Fyrstu fréttir af hraunrennslinu bendir til þess að hraunstraumurinn renni í vestur og liggi sunnanvert austan við Sundhnúk, sem fyrr sagði. Tiltölulega lítill hraunstraumur sést í átt að Grindavík og hefur hann leitað lengra til suðvesturs en áður hefur verið – í átt að hraunspýju, sem kom upp í sjötta eldgosinu þegar tvö hús efst í Hópshverfinu urðu hrauni að bráð.

Grindavík

Grindavík – eldgos 1. apríl 2025.

Gosmökkurinn er lítill, auk þess sem gosmagnið virðist minna en í öðrum undanfarið. Væntanlega mun því draga úr gosinu fljótlega.

Þetta er ellefta hrinan í röð eldgosa á sama sveimi síðan 2021, þ.e. auk þeirra þriggja fyrstu er áttu uppruna sinn í Fagradalsfjalli skammt norðaustar – hæfilega fjarri byggð. Líklega er samt sem áður um eitt og sama gosið að ræða – með hléum?

Grindavík

Grindavík – eldgos 1. apríl 2025.

Fyrsta eldgosalotan ofan Grindavíkur var 18. desember 2023, önnur 14. janúar 2024, þriðja 8. febrúar 2024, fjórða 16. mars 2024, fimmta 29. maí, sjötta 22. ágúst, áttunda 20. nóv. og loks þetta níunda 1. apríl 2025 sem fyrr sagði. Fyrstu goshrinurnar þrjár voru skammvinnar, vöruðu einungis í rúman sólarhring, sú fjórða varði í u.þ.b. tvo mánuði – lauk þann 9. maí sama ár, eftir 54 daga dugnað og sú fimmta tuttugu dögum síðar, eða þann 29. maí. Stærsta goshrinan að magni til varð hins vegar 22. ágúst.

Grindavík

Grindavík – eldgos 1. apríl 2025.

Líklegt er að þessi hrina verði skammlífari, í tíma talið, og þau fyrri. Eitt er þó víst – von er á nýju áhugaverðu landslagi ofan Grindavíkur með nýjum ófyrirséðum framtíðarmöguleikum. Kvikuvirknin virðist skv. mælingum hafa teigt sig lengra til norðurs og er nú mest ofan Voga, sem kemur reyndar ekki á óvart að teknu tilliti til landshátta; gífurlegs landsigs millum Þráinsskjaldardyngjunnar og Hrafnagjár.

Gosið er nokkurn veginn á sömu slóðum og fyrri gos á þekktri sprungurein er liggur áleiðis að Kálffelli. Það ætti að þykja heppileg staðsetning m.t.t. byggðarinnar í Grindavík og að merkilegri megininnviðum standi tiltölulega lítil ógn af gosinu, utan hættu á niðurgrafinni vatnsæð Njarðvíkurlínu, háspennulínum og bílastæðum Bláa lónsins, sem eru utan varnargarða.

Grindavík

Grindavík – eldgos 1. apríl 2025.

Eldgosið að þessu sinni, líkt og hin fyrri, undirstrikar hversu litla þekkingu jarðfræðingar og jarðeðlisfræðingar virðast hafa á náttúrufyrirbærum sem þessum. T. d. virðast Þorvaldur Þórðarson, prófessor í eldfjallafræði og bergfræði, við Háskóla Íslands, og Magnús Tumi Guðmundsson, jarðfræðingur og prófessor í jarðeðlisfræði í Háskóla Íslands, jafn forgengilegir og áður þegar á aðdragandann reynir.
Náttúruöflin eru jú ólíkindatól. Þótt þetta eldgos hafi virst óálitlegt tilsýndar, líkt og hin fyrri, við fyrsti sýn, getur það boðið upp á nýja og spennandi tækifæri.

Grindavík

Grindavík – eldgos 1. apríl 2025.

Spurningin er bara, fyrir okkur hin, að reyna að hugsa til lengri framtíðar og nýta það sem í boði verður. Við stjórnum ekki jarðaröflunum, en við getum nýtt okkur þau þegar svo ber undir, líkt og mannkynið hefur gert í árþúsundir.

Jörðin, og þar með umhverfið, hefur verið að breytast allt frá því að hún varð til. Slíkar breytingar, smærri sem stærri, munu eiga sér stað á meðan Jörðin lifir, en reynslan hefur sýnt að þær munu eftir sem áður koma okkur, núlifandi, alltaf jafn mikið á óvart.

Grindavík

Grindavík – jarðeldarnir 1. apríl 2025.

Sem betur fer verða jarðeldarnir ofan Grindavíkur að teljast léttvægir að teknu tilliti til atburða sögunnar.

Eld­gosinu lauk um kl. 16.45 sama dag. Gosið stóð þar með aðeins yfir í um sex klukku­tíma og rek­ur því lest­ina hvað varðar lengd ein­stakra elds­um­brota í þeirri gos­hrinu sem hófst í mars fyr­ir fjór­um árum, þrátt fyrir glaðklakkanlegar lýsingar „hinna mætustu“ vísindamanna.

Hermann Ólafsson

Hermann Ólafsson – Hemmi í Stakkavík.

Og svo virðist sem einhverjir óveraldavanir björgunarsveitarliðar sem og sérsveitarmenn hafi farið á taugum af litlu tilefni í aðdraganda gossins þegar nýlega sjötug refaskytta lyfti góðlátlega haglabyssu upp úr annars veraldlegum vönum farangri sínum. Hafa ber í huga að á þessum árstíma snýst, líkt og fyrrum, hugur Hemma fyrst og fremst um að tryggja æðarvarpið á Stað fyrir ásókn árviss Vargsins. Þetta vita innfæddir, en „vígasveitir“ Ríkislögreglustjóra bera hins vegar ekkert skynbragð á rauntilvist tilverunnar. Þeirra skammsýni snýst einungis um byssur og meinta „bófa“ í afar þröngum skilningi fjölbreytileikans.

Þórkötlustaðarétt

Hermann í Stakkavík, bóndi á Stað, og Birgir á Hópi í Þórkötlustaðarrétt.

Umrædd refaskytta, Hermann Ólafsson, eða „Hemmi í Stakkavík“, er innfæddur Grindvíkur, sonur Ólafs Gamalíassonar á Stað. Hermann hefur verið ein helsta burðarásin í atvinnuuppbyggingu Grindavíkur um áratuga skeið, og hvers manns huglúfi. Hann hefur jafnhliða stuðlað, a.m.k. hingað til, að uppbyggingu og viðhaldi björgunarsveitar bæjarins. Ólíklegt er að framhald verði á því í kjölfar framangreinds. Ef lögreglan á Suðurnesjum (Grindavík tilheyrir reyndar ekki Suðurnesjum) á eitthvað sökótt við nefndan Hermann væri það helst vegna áratuga gamals óupplýsts „sakamáls“, „Stóra Kjöthvarfisins“ í bænum, sem nú er reyndar löngu fyrrt…

Sjá MYNDIR úr eldgosunum átta við Sundhnúk sem og hrinunum í Geldingadölum og Meradölum.

Grindavík

Grindavík – eldgos 1. apríl 2025.

Færikvíar

Í ritingu „Búsæld og barningur – svipir og sagnir IV„, skrifar Jónas B. Bjarnason ( 1866-1965) um „Fráfærur og pössun á ám, þegar ég var smali fyrir 80 árum„:

Jóns B. Bjarnason

Jónas B. Bjarnason (1866 – 1965).

„Í inngangi að sögu Búnaðarfélags Svínavatns- og Bólstaðarhlíðarhreppa hef ég lítils háttar minnzt á fráfærur og pössun á ám, en ég hef orðið þess var, að ungt fólk veit naumast nú, hvað við er átt með orðinu fráfærur. Vil ég því reyna að lýsa þeim nokkru nánar.
Flestir hleyptu til, þ. e. byrjuðu að leiða hrúta til ánna, á þeim tíma vetrar, að þær byrjuðu að bera fyrstu daga eftir fjórðu sumarhelgi. Einstöku bændur bundu sig með það eingöngu við sólarganginn og byrjuðu að hleypa til á vetrarsólstöðum.
Ef vel voraði og snemma kom gróður, torguðu sum lömbin ekki allri mjólkinni úr mæðrum sínum, og þurfti þá að mjólka þær ær. Höfðu því fjárgæzlumenn með sér ílát til að mjólka í og komu heim með mjólkina. Voru stundum búnar til ábrystir úr broddinum.
Þegar ærnar voru bornar, voru þær passaðar og gengið til þeirra daglega, og í 9. sumarvikunni var venjulega farið að stía, sem svo var kallað, en það var þannig gjört, að lambærnar voru reknar á kvöldin inn í stekkinn, en stekkur var nefnd fjárrétt sú, sem notuð var fyrir lambféð að vorinu.
Búsæld og BarningurStekkurinn var víðast töluverðan spöl frá túninu, en í góðu haglendi. Hann var þannig byggður, að í enda hans eða einu horni var lítil kró með háurn veggjum og góðri hurð í dyrum, og var hún nefnd lambakró. Þegar ærnar voru komnar á stekkinn, voru lömbin tekin og látin í lambakróna, en ánum hleypt út og látnar eiga sig til morguns.
Snemma næsta morgun var svo farið á stekkinn, ærnar reknar inn í hann og mjólkað úr þeim. Fyrstu morgnana var lítið mjólkað úr þeim, en eftir 2—3 daga voru þær þurrmjólkaðar. Þó var nokkur mjólk skilin eftir í þeim ánum, sem áttu yngstu lömbin. Var svo ánum og lömbunum hleypt út saman. Þessi mjöltun var gjörð í tvennum tilgangi, fyrst og fremst til að fá mjólkina til manneldis og í öðru lagi til þess að venja lömbin við að halda sig að haganum, svo að þeim brygði minna við, þegar þau voru algjörlega tekin frá ánum.

Hálssel

Hálssel – stekkur.

Eftir 10. sumarhelgi, seint eða snemma í þeirri viku eftir því sem veður og aðrar aðstæður leyfðu, var svo fært frá, en það var þannig gjört, að í stað þess að reka ærnar inn í stekkinn að morgninum voru þær reknar í kvíar heima við tún og mjólkaðar þar. Voru þær svo reknar í haga sem lengst frá stekknum og staðið þar yfir þeim til kvölds. Voru þær þá reknar heim til mjalta í kvíunum.
Kvíarnar voru venjulega hlaðnar úr torfi og grjóti og munu hafa verið rúmlega tveggja metra breiðar, en lengdin eftir þörfum miðað við ærtöluna. Þegar svo ærnar röðuðu sér með báðum hliðveggjum, gátu mjaltakonurnar aðeins gengið fyrir aftan þær á milli raðanna.

Kví

Mjaltarstúlkur í kví.

Mjaltakonan setti svo mjólkurfötuna niður aftan við ána, sem hún ætlaði að mjólka, smeygði svo vinstri hendi milli afturfóta ærinnar fram fyrir júgrið og hélt því aftur og mjólkaði svo með hægri hendinni þannig, að hún kreppti þumalfingur í lófann, tók svo spenann milli vísifingurs og þumalfingurshnúans og strauk svo mjólkina þannig úr spenanum.
Fyrstu árin, sem ég man eftir, voru ærnar tvímjólkaðar á hverju máli, en eftir nokkur ár var því hætt og þá aðeins einmjólkað, en meiri áherzla lögð á að mjólka vel.
Þessar hlöðnu kvíar þurfti að moka daglega. Sumir voru þá farnir að nota færikvíar, er svo voru nefndar. Voru þær búnar til úr grindum, sem gjörðar voru úr borðrenningum. Voru þá notaðar hér um bil tveggja metra langar grindur í gaflana, en lengri grindur til hliðanna og tala þeirra eftir þörfum eftir ærtölunni.

Kví

Kvíar.

Voru grindur þessar bundnar saman á endaokunum. Voru þær reistar upp á þurrum og sléttum bala og venjulega færðar til eftir hverja mjöltun. Ef grasvegur var þar, sem þessar kvíar voru notaðar, spratt þar vel. Venjulega voru þær settar á tún, þegar búið var að slá og hirða heyið, og þurfti þar ekki annan áburð. Notkun færikvía fyrir 100 ær yfir sumarið gátu gefið kýrfóður-töðuauka.
Daginn, sem fært var frá, þegar ærnar voru komnar í haga sem lengst í burtu, var lömbunum hleypt út úr stekknum og þau venjulega pössuð þar 2—4 daga og hýst þar á nóttunni. Hví næst voru þau rekin til afréttar.
Stöku menn ráku lömbin með jarmi, þ. e. ráku þau til afréttar strax sama dag og þau voru tekin frá ánum, en þau lömb voru óspakari í högum og flæktust víðar. Það þótti mikils um vert, að kvíaærnar væru vel passaðar. Var það kallað að sitja hjá, og sá, sem það gjörði, var kallaður smali. Það mátti ekki halda ánum of þétt saman. Var það kallað að hnappsitja. Það mátti heldur ekki láta þær dreifa svo mikið úr sér, ajð smalinn vissi ekki jafnan, hvað þeim leið.

Smali

Smali og mjaltarstúlka við færikvíar.

Á sumum bæjum var það fullorðinn maður, karl eða kona, sem sat hjá ánum. Þegar ég var krakki, var í nágrenni við mig roskinn maður, sem alla ævi sína hafði setið hjá ám að sumrinu, og ég vissi ekki tii, að honum væri ætlað annað verk árið um kring en að passa ærnar, þótt hann kunni stöku sinnum að hafa gripið í önnur störf, sérstaklega að haustinu, þegar góð var tíð. Allvíðast voru þó krakkar eða unglingar látnir sitja hjá ánum. Var þá venjulega einhver fullorðinn maður með þeim fyrstu dagana til að leiðbeina þeim við starfið.

Smalaskáli

Smalabyrgi.

Sumarið 1875 sat ég fyrst hjá kvíaám, og sat ég hjá þeim á næturnar. Ág var þá á 9. árinu, og kveið ég fyrir því starfi, en leiddist það ekki til muna, þegar á reyndi. Ég var líka nokkuð vanur við næturvökur, því að ég hafði vakað yfir túninu þá um vorið. Tún voru þá alls staðar ógirt, og þurfti því að vaka allt vorið til að verja þau ágangi búfjár.
Ærnar voru passaðar og nytkaðar þar þetta sumar. Var ánum haldið að nóttunni í nærliggjandi högum, en á daginn voru notaðir hagar, sem fjær lágu. Fyrstu næturnar var fullorðinn maður með mér til að sýna mér, hvar og hvernig ég skyldi halda ánum til haga, og benda mér á, eftir hverju ég ætti að fara með heimrekstur á morgnana, því að þá voru ekki úr í hvers manns vasa.

Nátthagi

Nátthagi.

Eins og áður getur, voru næturhagarnir nálægt selinu, svo að sjá mátti þangað heim, þegar bjart var. Þegar leið undir morgun fyrstu nóttina, sem við sátum hjá ánum, sagði þessi leiðbeinandi minn: „Nú skulum við hafa glöggar gætur á, hvað gjörist heima í selinu.“
Nokkru seinna sáum við, að fór að rjúka upp úr eldhússtrompinum í selinu. Þegar rokið hafði þar góða stund, hætti að rjúka, og sáum við ekki rjúka neitt nokkra stund, en svo gaus aftur upp mikil reykur. Sagði þá þessi félagi minn, að við skyldum fara að rölta í kringum ærnar og reka þær heim, og sagði mér jafnframt, að eftir þessu mætti ég fara, því að ég mætti fara að reka heim, þegar færi að rjúka í annað sinn í selinu, stúlkurnar mundu þá tilbúnar að mjólka.

Fé

Fjárhópur.

Seinnipart sumars, þegar dimma tók nótt, var hætt að vaka yfir ánum á nóttunni, en þeim hleypt á haga litla stund eftir kvöldmjaltir, svo reknar lieim á túnkragann kringum selið og bældar þar, þ. e. staðið í kringum þær, þar til þær lögðust.
Vakti svo selráðskonan mig, þegar hún fór á fætur. Smalaði ég þá ánum. Voru þær þá venjulega ekki komnar lengra en á sínar venjulegu næturstöðvar.
Sumarið 1876 sat ég hjá ánum á daginn og hélt þeim þá í högum, sem fjær lágu, svo að ekki sá heim að selinu. Varð ég þá að áætla tímann, hvenær hæfilegt væri að reka heim að kvöldinu. Gekk mér það vel, ef til sólar sást. Annars fór ég mikið eftir því, hvernig ærnar höguðu sér.

Sel

Sel.

Sumarið 1877 var hætt að hafa í selinu, en ærnar nytkaðar heima. Ég sat þá enn hjá. Var þá mjög langt í hagana, því að sömu hagar voru notaðir og áður frá selinu. Þá voru 18 hross á heimilinu að meðtöldum hestum kaupamanns. Ég reið þá alltaf heim á kvöldin og hafði hrossið inni yfir nóttina, skipti svo um hross, þegar ég kom í hagann að morgni. Af því að hrossin voru þetta mörg, þurfti ég ekki að nota sama hrossið nema einn dag í hverjum hálfum mánuði.
Þegar hætt var að hafa í selinu, voru strax notaðar færikvíar. Voru ærnar látnar liggja í þeim yfir lágnættið. Var þá bætt að kvöldinu grindum í kvíarnar og þær hafðar kringlóttar, svo að sem rýmst væri fyrir ærnar að liggja.

Selsmatselja

Selsmatselja – Daniel Bruun.

Jafnan voru þær grindur, sem bætt var í að kvöldinu, strigaklæddar utan og þær látnar snúa í veðrið, ef nokkur gola var, svo að dálítið skjól væri fyrir ærnar að liggja.

Þannig sat ég hjá kvíaám, þar til ég var 14 ára, og hef ég ekkert frekar um það að segja nema það, að þegar hætt var að hafa ærnar í selinu á sumrin, var selið leigt húsmennskufólki, sem hafði nokkrar ær, og passaði ég þær með heimaánum, tók þær með mér á morgnana og skildi þær úr á kvöldin, þegar ég fór heim. Heimaærnar voru venjulega 100—110, og eftir að selið var leigt, voru þar 30—40 ær í kvíum.

Þá skal ég lítils háttar minnast á meðferð mjólkurinnar. Þegar mjöltum var lokið á hverju máli, voru mjólkurföturnar bornar heim að bænum og farið með þær í mjólkurhúsið, sem þurfti að vera kalt, en þó loftgott. Var mjólkin þá síuð og síðan hellt í mjólkurtrogin, sem stóðu í röðum á hillum neðarlega á veggjum mjólkurhússins. Var þetta kallað að setja mjólkina.

Mjólkurbytta

Mjólkurbytta.

Var hún venjulega látin standa í trogunum í þrjú dægur. Bezt man ég eftir þessu, meðan ærnar voru hafðar í selinu. Selráðskonan fór á fætur kl. 5 á morgnana. Þegar hún kom ofan, kveikti hún upp eld og setti upp pott með vatni í. Var það kallað búverkavatn. Því næst fór hún í mjólkurhúsið og tók þar trogin, sem staðið höfðu með mjólkinni í þrjú dægur. Strauk hún með fingri rjómann frá trogbörmunum í einu horni trogsins, lagði svo lófa annarrar handar yfir það horn trogsins, hallaði því svo lítið eitt, svo að undanrennan rann úr því í fötu, er hún hafði undir, en hélt við rjómann með lófanum, svo að hann færi ekki með undanrennunni, strauk svo rjómann úr troginu niður í strokkinn. Var þetta kallað að renna.

Mjólkurtrog

Mjólkurtog.

Þegar ég man fyrst eftir, voru eingöngu notuð þessi mjólkurtrog, en nokkru seinna var farið að nota kringlóttar trébyttur, sem voru 5—6 þumlunga djúpar. Var þá gat á einum stafnum niður við botn og tappi hafður í því. Þótti miklu þægilegra að renna úr þeim en trogunum, því að ekki þurfti annað en taka tappann úr og halla svo byttunni, þar til undanrennan var runnin úr og ekki eftir nema rjóminn. Þegar svo ráðskonan hafði rennt úr öllum trogunum, sem renna átti það málið, og látið rjómann í strokkinn, strokkaði hún hann, tók smjörið úr honum og hnoðaði vel úr því alla mjólk, lét það síðan í kalt vatn og hnoðaði það upp aftur og bjó til úr því sköku.

Mjólkurfata

Mjólkurfata.

Sömu störf við mjólkina vann selráðskonan einnig á kvöldin, en byrjaði á þeim einni klukkustund seinna en á morgnana. Voru svo smjörskökurnar geymdar á köldum stað, þar til komið var svo mikið, að hæfilegt þótti til að hnoða það upp aftur og búa um það í sérstöku íláti til geymslu.
Þegar selráðskonan hafði tekið af strokknum, fór hún í eldhúsið og tók búverkavatnið, sem þá var sjóðheitt, þvoði úr því trogin og strokkinn. Þau ílát voru svo þurrkuð við eldsglóð eða úti, ef glatt var sólskin. Því næst lagði hún að aftur í hlóðunum og setti upp stóran pott, sem kallaður var flóningarpottur, lét svo í hann undanrennuna og hitaði hana, þar til hún sauð.

Trékolla

Trékolla.

Var henni þá hellt í stóra trékollu og látin kólna, þar til hún þótti hæfilega volg. Var þá látið saman við hana hleypilyf og þétti, hrært lítið eitt í henni, var svo látinn hlemmur yfir og breitt yfir. Var þetta kallað að gera upp. Eftir hæfilega langan tíma var svo tekið ofan af kollunni. Var þá mjólkin hlaupin, og var þá nefnd ósíað skyr. Þegar það hafði staðið hæfilega lengi í kollunni, var það látið á skyrsíuna, sem var gisið léreft eða fínn, gisinn strigi, strengt á trégrind, sem látin var yfir stóra tunnu. Síaðist þá mysan ofan í tunnuna. Þegar hæfilega þótti síað, var skyrið tekið af grindinni og því safnað í tunnur eða sái. Mysunni var einnig safnað í tunnur. Venjulega var mysu safnað í eina tunnu og hún geymd til vors og var þá nefnd sýra. Var henni blandað í vatn og höfð til drykkjar yfir vorið og sumarið.

Súrtunna

Súrtunna.

Að öðru leyti var mysunni safnað í tunnur og höfð til að súrsa í slátur yfir veturinn. Sú sýra var oft notuð að vetrinum saman við drykkjarvatn handa folöldum og lömbum.
Mikið var borðað af nýju skyri á sumrin. Þó voru alltaf til að haustinu mörg ílát full af skyri, sem haft var í hræring saman við graut allan veturinn og oft allt sumarið líka, því að sumum þótti betra súrt skyr en nýtt í hræring.
Stöku sinnum var mjólkin ekki gerð upp, heldur hleypt og gerður úr henni ostur, bæði mjólkurostur og mysuostur. Mjólkurosturinn var látinn í gisinn poka og létt farg látið á hann. Þessi ostur var svo borðaður nýr í stað brauðs með smjöri og mysuosti.
Stundum á meðan verið var í göngum og á milli rétta, var mjólkin ekki sett, heldur látin strax í pott yfir eld og soðin lítið eitt. Varð hún þá eins og súpa. Var það kallað sauðaþykkni. Var það borðað heitt, og þótti mörgum það góður matur.

Rjómatrog

Rjómatrog.

Hvað ærnar hafi mjólkað mikið yfir sumarið, get ég ekki sagt um með vissu. Þó má gjöra sér nokkra hugmynd um það eftir því, sem ég man frá þeim tíma. Seinasta sumarið, sem ærnar voru hafðar í selinu, átti selráðskonan, sem var í húsmennsku hjá foreldrum mínum, fjórar ær, sem voru í kvíunurn. Nytkaði hún þær sérstaklega og safnaði mjólkinni í tunnu, sem mun hafa verið rétt lagartunna (120 potta). Ætti því hver ær að hafa mjólkað eitthvað yfir 30 potta að meðaltali yfir sumarið.“ –Ritað á sumardaginn fyrsta 1955.

Heimild:
-Búsæld og barningur – svipir og sagnir IV, Jónas B. Bjarnason, „Um fráfærur og pössun á ám, þegar ég var smali fyrir 80 árum“, Húnvetningafélagið 1955, bls. 53-62.

Færikvíar

Færikvíar.