Klifhæð

FERLIR hefur áður skoðað fornar leiðir upp frá Elliðakoti að Hellisskarði, bæði norðan og sunnan Lyklafells,sem og Dyraveg að Nesjavöllu.
Við þá skoðun kom í ljós augljós vörðuð leið frá Lyklafelli að VarðaDraugatjörn nokkru sunnar en gamla reiðleiðin lá að Húsmúla og með honum sunnanverðum áleiðis að Hellisskarði. Þessi leið mun hafa verið vetrarleið frá Hellisskarði og áleiðis að Lyklafelli. Suðaustan þess greindist leiðin; annars vegar áfram að fellinu þar sem hægt var að velja um a.m.k. tvær hinna framangreindu leiða niður að Elliðakoti og hins vegar leið um Bolavelli áleiðis niður í Lækjarbotna þar sem hún sameinaðist annarri leið ofan úr Ólafsskarði. Sú leið lá um Sandskeið, Jósepsdal og greinist efra við Leiti; annars vegar ofan við hraunkantinn að Geitafelli og áfram niður í Ölfus og hins vegar yfir hraunið niður með Sandfelli og um vestanverð Krossfjöll að Breiðabólstað í Ölfusi. Neðan við Sandskeið (Neðri-Fóelluvötn) eru tóftir af sæluhúsi á klapparhól.
GatanHér er athyglinni beint að leiðinni um Lækjarbotna, Lakheiði og Bolöldur áleiðis að Draugatjörn. Ofan við Lækjarbotna er fyrrnefnd Lakheiði. Austar eru Fossvellir. Um þá rennur Fossvallaá ofan af Vatnavöllum. Forn leið lá fyrrum um Lækjarbotna og áfram um Bolöldur frá Ölduhorni til norðausturs áleiðis að Lyklafelli. Þessi leið var vörðuð að hluta á 19. öld suðvestan Húsmúla að Draugatjörn. Þaðan lá leiðin áfram um vellina að Kolviðarhóli og í Hellisskarð þar sem hún sameinaðist Hellisheiðarvegi. Einn FERLIRsfélaga (nú er svo komið að allnokkrir félaganna eru orðnir þrautþjálfaðir og þar með sjálfbærir), Jón Svanþórsson og félagar hans, hafa að undanförnu gengið þessar leiðir, hnitað inn vörður og önnur mannvirki og lagt mat á aðstæður. Auk þess hefur Jón tekið fjölda mynda og sent á vefsíðuna. Hér er afrakstur einnar slíkrar ferðar.
Varða„Sendi þér nokkrar myndir sem ég tók á sunnudaginn. Þær eru af letursteini ofan við Fossvelli (vegendi 1887). Stóra varðan á brúninni er Landmælingavarða frá 1959. Gata ofan Lögbergs. Grunnar húsana á Lögbergi og hleðslur fyrir ofan þær (frá stríðsárunum?). Einnig eru síðustu myndirnar þaðan af djúpri rás sem E.J.Stardal heldur að sé eftir hesthófa (Árbók FÍ Þættir um Nágrenni Reykjavíkur 1985 bls 139.): „Við Lækjarbotna sunnan við Nátthagavatn stóð lengi vel veitingahús sem nefndist Lögberg. Ofan við húsið í Lækjarbotnum lá þjóðgatan yfir og utan í klapparhól þar sem hófar lestarhesta liðinna alda hafa barið sex til átta þumlunga djúpa slóð niður í stálhart bergið. –
Ummerki þessi eru örskammt norðan við núverandi hraðbraut Suðurlandsvegar.“
MannvirkiSvo eru myndir frá göngu minni frá veginum undir Húsmúla í vörðuleiðina. (Tókst að finna tvær vörður til að loka því.)
Athyglivert er að lesa í Árbók FÍ 1936 bls.87:  „Landið stígur nú snögglega og allt verður hrjóstugra. Ofan við brúnina eru Fossvellir og Fossvallaklif þar fyrir ofan. Í klifinu er steinn með ártalinu 1887 sem sýnir hvenær vegurinn var lagður.“ Auk þess: „Mosfellsveit er nú lokað land fyrir göngumenn, því dómsmálaráðuneytið hefir fyrir nokkrum árum staðfest samþykkt sem leggur allt að 1000 kr.sekt við því, að ganga þar utan vega „án leyfis landráðanda“ Gildir það jafnt uppi á heiði sem niðri í byggð og jafnt á sumri sem vetri.“
Ég kem svo og tala betur við þig og læt þig hafa hitin á vörðurnar og annað er fyrir augu bar.
Frábært veður.

Kveðja.
Jón Sv.“

Heimildir m.a.:
-Árbók FÍ 1936 bls.87
-Árbók FÍ Þættir um Nágrenni Reykjavíkur 1985 bls 139.

Lækjarbotnar

Á ferð um Lækjarbotna 1905.

 

Brennisteinsfjöll

Árni Óla fjallaði m.a. um „Brennisteinsfjöll“ í skrifum sínum í Lesbók Morgunblaðsins 1946:
„Frá Kaldárseli er hæfileg gönguför upp í Brennisteinsfjöil. Er það aflangur fjallahryggur uppi á BrennisteinsfjollLönguhlíð. Í austurhlíð þeirra eru óteljandi gígar og standa mjög þjett, og frá þeim hafa hraunfossar steypst niður hlíðina. Breiða hraunin síðan úr sjer yfir mikla sljettu, sem er þar á milli og Bláfjalla og Heiðarinnar há, en sljettu þessari hallar suður að brúnum fyrir ofan Stakkavík í Selvogi og Herdísarvík, og halda menn að hraaufossarnir sem steypst hafa þar fram af hengifluginu, sje komnir úr gígunum í Brennisteinsfjöllum. Mundi það hafa verið hrikaleg sjón, ef einhver hefði verið til að horfa á, er glóandi hraunið kastaðist í stórum fossum fram af bjargabrún.
BrennisteinsnamurUpp úr hrauninu í austurhlíð Brennisteinsfjalla, koma gufur sums staðar og litlir brennisteinsblettir eru utan í rönd þess. Á því hafa menn þóst vita að þarna væri brennisteinsnámur og hafa svo gefið fjöllunum nafn af því. Sumarið 1851 ferðaðist Jón Hjaltalín landlæknir nokkuð hjer um land til að rannsaka brennisteinsnámur, þar á meðal námurnar í Krýsuvík. Frjetti hann þá um þessar námur uppi í Brennisteinsfjöllum, og fór að spyrjast fyrir um það hvar þau væri, en svörin voru mjög sitt á hvað, sagði einn þetta annar hitt. Var það ekki fyr en að áliðnu sumri, að hann fann mann úr Selvogi, sem kvaðst þekkja fjöll þessi. Bauðst hann til að fylgja Jóni þangað, og lögðu þeir á stað í það ferðalag skömmu fyrir veturnætur. Fann Jón þarna fjórar námur og leist mjög vel á 3 þeirra. Þær eru í Krýsuvíkurlandi. Sjö árum seinna (1858) keypti Englendingur nokkur, J. W. Busbhy að nafni þessar námur og Krýsuvíkurnámurnar fyrir milligöngu dr. Jóns Hjaltalíns.

Brennisteinsnamur

Eftir kaupbrjefinu máttu Englendingar taka allan brennistein í Herdísarvíkur og Krýsuvíkur landareignum svo og allar málmtegundir, er þar kynni að finnast, og ýmis önnur rjettindi voru þeim áskilin. Seljendur voru þeir síra Sig. B Sivertsen á Útskálum og Sveinn Eiríksson í Krýsuvík og var söluverðið 1400 dalir. Var nú stofnað námuhlutafjelag í Englandi og hafið brennisteinsnám. En fjelagið tapaði og gengu hlutabrjefin kaupum og sölum, og óvíst hvar þau eru nú niður komin. En í Brennisteinsfjöllum má enn sjá verksummerki eftir brennisteinsnámið. Á dálítilli grasflöt við læk eru rústir húsanna, sem Englendingar reistu og skamt þar fyrir sunnan eru námurnar.

Kerlingarskard

Hefir ekki verið neinn hægðarleikur að vinna þær, því að þær eru undir hrauninu. Hafa Englendingar brotið þar stórar skvompur í hraunið, urðu að brjóta um tveggja mannhæða þykkt blágrýtishraunið til þess að komast að brennisteininum, því að hann hefir sest í glufur og hraunholur niður undir jörð. Hitinn í gufuholunum þarna er talinn vera 26—78 gráður. Hefir gufan soðið og etið hraunið í sundur allavega og umbreytt því, svo að þar hafa myndast krystallar og marglitir steinar, sem gaman er að eiga.
Leiðin frá Kaldárseli upp í Brennisteinsfjöll liggur um Kerlingarskarð, sem er rjett fyrir sunnan Grindaskarðaveginn. Eru þar á brúninni margir gígar og úr þeim hafa komið hraunin fyrir neðan Langahlíð. Einn af stærstu gígunum á þessum slóðum er Kistufell. Er af því víð og mikil útsýn. Gígurinn er mikill um sig og um 70 metra á dýpt. Vestan við Kistufell er viðsjált hraun. Eru þar sums staðar hringlaga gígop, þverhnýpt niður og svo djúp, að jökull er í botni þeirra.“

Heimild:
-Árni Óla, Lesbók Morgunblaðsins, 28. tbl. 1946, Á næstu grösum III, Um hraun og hálsa, bls. 351-352

Brennisteinsfjöll

Brennisteinsfjöll – ofn.

Sundhnúkur

Gengið var frá Sýlingsfelli að Selshálsi ofan Grindavíkur með viðkomu í Hópsseli. Þá voru skoðaðar tóttir í brekkukvos norðan selsins, sem gætu verið hluti selsins.

Hagafell

Gálgaklettar í Hagafelli.

Haldið var upp, til suðurs og austurs að Gálgaklettum. Um er að ræða hrikalega kletta undir háum sléttum klettavegg norðan Hagafells. Segir þjóðsagan að þar hafi yfirvaldið hengt nokkra ræningja skýrslulaust eftir að þeir náðust við heitar laugar undir Þorbjarnafelli, en þeir höfðu haldið til í Þjófagjá í fellinu og herjað þaðan á íbúa þorpsins. Óþarfi er að birta mynd af klettunum. Bæði eru þeir auðfundnir og auk þess er mikilvægt að leyfa ímyndunaraflinu að njóta sín á stað sem þessum. Þarna er fallegt um að litast – útsýni yfir á Vatnaheiði og að Fagradalsfjalli.

Stapinn

Hlaðið byrgi á Stapanum.

Þá var haldið að hlöðnu byrgi á Stapanum ofan og austan við Brekku. Stapagatan var gengin spölkorn, en síðan vikið af henni og gengið ofan Stapabrúnar. Ætlunin var að leita að Kolbeinsvörðu og hugað að letursteini (1774), sem í henni á að vera. Gengið var að Kolbeinsskor og síðan frá henni áleiðis að Stapakoti. Allar vörður voru skoðaðar á leiðinni, bæði neðst á brúninni sem og aðrar ofar. Nokkrar vörður eða vörðubrot eru við Stapagötuna, sem einnig voru skoðaðar – en allt kom fyrir ekki. Letursteinninn er enn ófundinn. Austan við Stapakot eru
miklar hleðslur, garðar og hús, auk tótta gamla bæjarins sunnan þeirra. Þá má enn greina fallega heimreið bæjarins með hleðslum beggja vegna.
Í leiðinni var litið á hringlóttan hlaðinn fót vörðu á heiðinni, sem gæti vel verið landamerkjavarða. Uplýsingar höfðu borist um að hún væri svonefnd Kolbeinsvarða, en þar fannst enginn letursteinn heldur. Mjög er gróið umhverfis fótinn.
Frábært veður.

Gálgaklettar

Gálgaklettar í Hagafelli.

Húshólmi

Umræður eru hafnar um vernd einstæðra fornleifa í Húshólma í Ögmundarhrauni. Vísbendingar hafa fundist um að þar séu torfgarðar frá því fyrir norrænt landnám á Íslandi. Helgi Bjarnason skoðaði svæðið og kynnti sér athuganir og skrif vísindamanna.

husholmi-224Ákveðið hefur verið að Fornleifavernd ríkisins og Grindavíkurbær setji á stofn vinnuhóp til að gera tillögur um bætt aðgengi og vernd fornminja og umhverfis þeirra í Húshólma í Ögmundarhrauni vestan Krýsuvíkur. Þar eru einstakar fornminjar, meðal annars torfgarður sem gæti verið með elstu mannvirkjum sem fundist hafa á landinu, minjar sem lítið hafa verið rannsakaðar en hætta er talin á að spillist ef þær verða aðgengilegri fyrir ferðafólk með lagningu nýs.
Í Ögmundarhrauni eru tveir óbrennishólmar, það er að segja tveir litlir blettir sem hraunið hefur runnið í kringum, Húshólmi og Óbrennishólmi. Í þeim eru leifar að minnsta kosti eins bæjar, kirkju og annarra bygginga og fornir garðar sem liggja undir hraunið á nokkrum stöðum. Þá eru á Selatöngum, vestast í hrauninu, minjar um sjósókn fyrri alda. Landslag í hrauninu stórbrotið, þar er meðal annars mikið af hrauntjörnum og hellum.Umhverfisstofnun hefur lagt til í drögum að náttúruverndaráætlun sem nú er til umfjöllunar hjá stjórnvöldum að svæðið verði verndað sem náttúruvætti.

Kenningar um Gömlu-Krýsuvík

husholmi-225

Í Húshólma má sjá rústir húsa og forna garða sem hraunið hefur runnið yfir að hluta á tólftu öld. Brynjólfur Jónsson, fræðimaður á Minna-Núpi, gerði þar athuganir 1902 og lýsti þeim í skýrslu í Árbók Fornleifafélagsins 1903. Þar eins og víðar er gengið út frá því að Krýsuvík hafi til forna staðið niðurundir sjó fyrir vestan Krýsuvíkurberg, það er að segja þar sem nú er nefnt Húshólmi eða Gamla-Krýsuvík. Víkurheitið í bæjarnafninu bendi til þess, enda hefði engum dottið í hug að kenna bæinn við vík ef hann hefði fyrst verið settur þar sem hann hefur staðið síðustu aldirnar. Hraunflóðið hafi eyðilegt hinn forna bæ en nafnið haldist eftir að hann var fluttur.

Enginn veit hversu mörg hús eða býli lentu undir hrauninu. Fornir garðar sjást fara undir hraunið og leifar nokkurra bygginga. Merkustu rústirnar eru í svonefndum Kirkjulágum sem eru smáhólmar skammt vestan við Húshólma. Þar eru rústir bæjarhúsa. Í efri láginni hefur hraunið runnið upp að byggingunum og að hluta til yfir þær. Í einu tilfelli eru leifar byggingar nær horfnar en hraunið sem runnið hefur umhverfis hana stendur eftir og mótar útlínur hennar. Í neðri láginni er meðal annars ein tóft sem hraunið hefur ekki náð að renna yfir og eru kenningar uppi um að þar hafi verið kirkja, eins og örnefnin Kirkjulágar og Kirkjuflöt benda til. Brynjólfur Jónsson taldi að þetta benti til að hér hafi kirkjustaðurinn Krýsuvík verið.

husholmi-229Bjarni F. Einarsson, fornleifafræðingur hjá Fornleifafræði-stofunni, segir í skýrslu um fornleifar og umhverfi Krísuvíkur að kenningar um Krýsuvík hina fornu í Ögmundarhrauni séu munnmæli en ekki staðreyndir, telur að þær geti verið seinni tíma útskýringar til að varpa einhverju ljósi á rústir sem voru mönnum annars með öllu óþekktar og óskiljanlegar. Fornleifarannsókn gæti skorið úr um þessi mál en þangað til verði ekki hægt að segja hvað sé rétt og hvað ekki.

Garðar frá því fyrir landnám
Skiptar skoðanir hafa verið um aldur Ögmundarhrauns. Niðurstöður rannsókna sem jarðfræðingarnir Haukur Jóhannesson og Sigmundur Einarsson gerðu þar og sögðu frá í Jökli 1988 benda til þess að hraunið hafi runnið úr Trölladyngju árið 1151. Samkvæmt því hefur þessi bær, eða væntanlega bæir, farið í eyði fyrir 850 árum. Hins vegar eru til einhverjar heimildir um að kirkjan hafi verið notuð lengur, eða til 1563. Nafnið Hólmastaður er talið benda til að þarna hafi verið kirkja eftir að Húshólminn fékk nafn og þá síðar en hraunið rann. Haukur og Sigmundur nefna í þessu sambandi að eftir að gamla Krýsuvík fylltist af hrauni, en sjá má hluta af gamla sjávarkambinum framan við Húshólma, hafi ábúendur í Krísuvík neyðst til að gera út frá Selatöngum og þá hafi kirkjan í Húshólma einmitt verið miðsvæðis í landi jarðarinnar.

Bjarni F. Einarsson varpar hins vegar fram þeirri tilgátu að nafnið Hólmastaður sé þannig tilkomið að jörðin í Ögmundarhrauni hafi í fyrstunni heitið Hólmur og síðan Hólmastaður þegar kirkja var reist á staðnum.

Minjarnar í Húshólma hafa lítið verið rannsakaðar af fornleifafræðingum. Haukur og Sigmundur grófu eitt snið í gegnum einn torfgarðinn í Húshólma og reyndust niðurstöður athugunar þeirra forvitnilegar. Þær benda til þess að öskulagið sem kennt er við landnám og er talið frá því um eða fyrir 900 hafi fallið eftir að garðurinn var hlaðinn. Samkvæmt því er torfgarðurinn frá því fyrir norrænt landnám og eitt af elstu mannvirkjum sem fundist hafa á Íslandi.

husholmi-227

Greinilegt er að hraunflóðið hefur runnið yfir garðana því þeir liggja undir hraun á nokkrum stöðum. Ómar Smári Ármannsson, sem gengið hefur mikið um þetta svæði eins og allan Reykjanesskagann með gönguhópi, og teiknað það upp segir greinilegt að garðar í Óbrennishólma, sem er nokkru ofar í hrauninu og vestar, séu greinilega hluti af sama garðakerfi. Samkvæmt því hafa garðarnir náð yfir stórt svæði sem hraunið hefur hulið að mestu fyrir meira en átta öldum. Ómar og ferðafélagar hans hafa fundið og skráð tóftir á þessu svæði sem ekki var vitað um áður.

Mikilvægt að rannsaka og vernda
Ólafur Örn Ólafsson, bæjarstjóri í Grindavík, segir ýmislegt benda til að í Húshólma séu einhverjar mikilvægustu fornleifar sem til eru á Íslandi. Nauðsynlegt sé að rannsaka svæðið nánar og aldursgreina minjarnar, sérstaklega að athuga hvort garðarnir séu virkilega frá því fyrir landnám norrænna manna.

husholmi-228

Vegagerðin leggur til að Suðurstrandarvegur verði lagður yfir Ögmundarhraun, nokkru neðan við núverandi veg. Við það færist umferðin nær Húshólma og þótt vegurinn skerði hann ekki óttast sumir að aukinn ágangur ferðafólks í kjölfar betra aðgengis kunni að spilla fornleifum og viðkvæmu umhverfi þeirra. Ólafur Örn segir nauðsynlegt að huga að vernd svæðisins og ganga þannig frá að það verði ekki fyrir skemmdum.

Kristín Huld Sigurðardóttir, forstöðumaður Fornleifaverndar ríkisins, tekur í sama streng. Hún segir að rústirnar í Húshólma og hrauninu séu einstakar. Við rannsóknir verði séð til þess að rústirnar haldist. Hún segir að Fornleifavernd hafi mikinn áhuga á að vernda þetta svæði, það sé á forgangslista hjá stofnuninni. Nú sé fyrirhugað að setja á stofn starfshóp með fulltrúum Fornleifaverndar og Grindavíkurbæjar til að gera tillögur um bætt aðgengi og vernd svæðisins.

Ólafur Örn segir hugsanlegt að gera betri göngustíga að svæðinu, afmarka það og setja upp útsýnispalla með skiltum með þeim upplýsingum sem nú þegar liggja fyrir. Vonandi verði síðar hægt að bæta við þær með frekari rannsóknum.“

Heimild:
-Mbl.is, 31. júlí 2003

Húshólmi

Húshólmi – yfirlit.

Dísurétt

Haldið var að Kleifarvöllum og haldið á Kleifarvallarskarð. Þar nokkuð ofan við brúnina eru þrír skútar, Pínir, Sveltir og Músarhellir. Frábært útsýni var þarna yfir Vogsósa og Selvog. Sjá mátti t.d. Fornagarð (Strandargarð) mjög greinilega þar sem hann liðaðist um sandinn sunnan Vogsósa, en garðurinn er talinn eitt elsta uppistandandi mannvirki landsins.

Áni

Áni.

Gengið var með Katlahlíð yfir að Katlahrauni, þvert á Hlíðargil. Þar er Dísurétt í hraunkvos, fallega hlaðin og hefur haldið sér nokkuð vel frá árinu 1938. Erfitt er þó að finna réttina vegna legu hennar í hrauninu. Frá henni er ágætt útsýni upp Strandardal og yfir víðan Hliðardalinn vestan Svörtubjarga. Dísurétt var nefnd eftir stúlkubarni er fæddist í Torfabæ 2. október 1937 og síðar var skírð Eydís Eyðþórsdóttir. Hún lést í Reykjavík 2. apríl 2010. Faðir hennar var Eyþór Þórðarson í Torfabæ.

Eiríksvarða

Eiríksvarða á Svörtubjörgum.

Upp af Strandardal er Kálfsgil þar sem Eiríkur prestur á Vogsósum er sagður hafa grafið mestu galdrabók allra tíma, Gullskinnu. Haldið var að Eiríksvörðu efst á Svörtubjörgum, en hana er Eiríkur sagður hafa látið hlaða og mælt síðan svo fyrir um að á meðan varðan stæði væri Selvogur hólpinn fyrir Tyrkjanum. Hugað var að Sælubúnu, lind á milli Svörtubjarga og Urðarfells og síðan gengin refaslóð niður fyrir björgin og staldrað við í Staðarseli, fallegu fráfæruseli efst undir björgunum. Þaðan er fallegt útsýni niður með Svörtubjörgum, Katlahlíðum og Herdísarvíkurfjalli.

Hlíðarborg

Hlíðarborg.

Eftir að hafa skoðað selið vel og vandlega var gengið niður með björgunum í rjómalogni og hita. Klifrað var upp í Stígshella vestast og efst í Svörtubjörgum, en framundan (neðan) þeim eru brattar grasbrekkur og síðan einstigi vestur með hellunum og áfram upp á vesturbrún fjallsins. Þaðan var haldið að Hlíðarborg og hún skoðuð. Um er að ræða mjög fallega fjárborg á fallegum stað, vestur undir háum klofnum hraunhól. Byggt hefur verið hús í borginni, en allt er þetta upp gróið.

Valgarðsborg

Valgeirsborg í Hlíðarseli.

Valgeirsborg er skammt sunnar, en vestan hennar eru tóftir, sennilega selstöðu. Ekki er vitað til þess að þessar minjar hafi verið færðar á fornleifaskrá. Frá Hlíðarborg var gengið að Ána og skoðaðar hleðslurnar fyrir hellismunnanum og síðan hellirinn sjálfur.
Litið var til með Vogsósaseli ofan við Vatnsdal. Að því búnu var gengið að Vogsósaborgum, þremur mjög heillegum fjárborgum á hól austan Hlíðarvatns.
Þetta er skemtileg gönguleið og margt að skoða.
Frábært veður – sól, hlýtt og lygnt.

Borgirnar þrjár

Borgirnar þrjár ofan Vogsósa.

Skjaldarmerki

Í dagblaðinu 24Stundir þann 26. sept. s.l. var stutt viðtal við séra Þórhall Heimisson um trúarleg tákn, einkum þau er lúta að skjaldarmerki Íslands, undir yfirskriftinni „Ruglingur með uppruna skjaldarmerkisins – Leiðrétting kurteislega afþökkuð“.
Þórhallur„Ég sendi þeim mjög kurteislega ábendingu um að þetta væri kannski ekki alveg rétt á vefnum. Ég fékk mjög kurteislegt þakkarbréf en svo hafa þeir ekkert gert við það,“ segir sr. Þórhallur Heimisson en hann reyndi, án árangurs, að benda forsætisráðuneytinu á þá pínlegu staðreynd að á vef ráðuneytisins er ekki greint alveg rétt frá uppruna íslenska skjaldarmerkisins.
Á vef ráðuneytisins er uppruni skjaldarmerkisins, nánar tiltekið landvættanna, rakinn til Heimskringlu en Þórhallur segir að upprunann sé að finna mun fyrr.“
Þá segir hann auk þess í viðtalinu: „Beint kemur þetta úr opinberunarbókinni. Þetta eru ævagömul tákn,“ segir hann og bætir við að þessi tákn, landvættirnar, sé hægt að rekja enn lengra aftur, allt til Babýlon og Súmeranna, 2-3000 árum fyrir Krist. Eins og sjá má þá hefur Þórhallur býsna yfirgripsmikla þekkingu á hvers konar táknum. „Ég er búinn að taka saman fullt af kristnum táknum, sem eru allt í kringum okkur og fólk er búið að gleyma hvað þau þýða.“

Heimild:
-24Stundir, föstudagur 26. september 2008, bls. 38.

Skjaldarmerki

Skjaldarmerki í ferðabók Ebenezers Hendersons um Ísland árin 1815-1816.

Loftlínur

Hér eru myndir af fyrirhugaðri „línuleið“ (rauða línan) þversum og kursum yfir Reykjanesskagann – í þágu álversframkvæmda…
Fjölmiðlar hafa, líkt og orkufyrirtækin og stjórnvöld, þagað þunnu hljóði um það sem framundan er…

…OG ÞETTA ER BARA BYRJUNIN ÞVÍ EFTIR ERU ALLAR AÐRAR
FRAMKVÆMDIR Á SVÆÐINU SEM OG TILHEYRANDI RÖRALAGNIR…

Helgafell

Gengið var um Skammaskarð frá Norður-Reykjum í Reykjadal og inn í Skammadal milli Æsustaðafjalls og Reykjafells. Ætlunin var að skoða minjar, sem þar áttu að vera – og fundist höfðu á loftmynd.
kofarÍ Skammadal hafa sprottið kartöflugarðar og skúraþyrping á fyrrum ræktarsvæði. Stóri-hóll er hægra (vestan) megin þegar komið er upp, á norðurbrúninni. Litli-hóll er skammt sunnan hans. Þegar staðið er upp á þeim og horft yfir þyrpinguna má sjá þar sambærileg svæði og víða annars staðar í Evrópu; grænt og gróið með afmörkuðum reitum, tré og truntur á beit og ekki var hitastigið (í lok septembermánaðar) til að spilla stemmningunni – 18°C.
Norðan og undir Stóra-hól er Víghóll (Vígahóll), sem af sumum hefur verið nefndur Kvíahóll. Hann er neðan skarðs milli Stóra-hóls og Helgafells (Stóri-hóll er norðaustasti hluti Helgafells). Þegar skarðið er gengið til suðurs með austanverðu fellinu er komið að góðum gróningum í Helgafellslandi þrátt fyrir lág hamrabelti þar á millum. Í einni slíkri, mót suðri, er nokkuð stór gróin tóft, þrískipt að sjá. Suðvestan tóftarinnar er gróin mýrarlæna og handan hennar lítill lækur. Þá taka við þúfóttir gróningar og síðan melhlíðar að efstu húsunum austan Helgafells.

Tóft

Tóftin, sem er ca. 6.0×3.0 m að stærð, er í gróinni hlíð og ber með sér að hún hafi gegnt hlutverki beitarhúss. Það snýr suðvestur/norðaustur með framgafl mót suðvestri. Tvö önnur rými, minni, virðast hafa verið beggja vegna við hana ofanverða. Þá má sjá, líkt og lítið gerði, eða jafnvel stekk, norðaustan við hana. Af því mætti hæglega draga þá ályktun að þarna hefði verið selstaða fyrrum. En það passar hvorki við staðsetninguna né hlutfallslega stærð rýmanna ef tekið er mið af öðrum seljum á þessu landssvæði. Hæð á veggjum, sem eru standandi grónir, er um 0.6 m.
Þegar húsfreyjan að Helgafelli var spurð um tóft þessa eftir gönguna, kvaðst hún ekki kannast við hana. Afi hennar hafi búið að Helgafelli á undan henni, en hann hefði ekki minnst á hana.
Gömul gata virðist hafa legið að beitarhúsinu frá Helgafelli. Þegar hlíðinni er fylgt koma hleðslur við götuna í ljós á a.m.k. tveimur stöðum.
Daniel Bruun og Jón Jónasson frá Hrafnagili skilgreindu beitarhús á sínum tíma á eftirfarandi hátt: „Beitarhús eru fjárhús sem standa í úthögum fjarri bœjum, hugsuð til útbeitar á vetrum. Oft er erfitt að greina hvort um er að rœða beitarhús eða sel, en sel-byggingar voru oft notaðar sem beitarhús á vetrum. Beitarhús voru oft reist á gömlum bœjarstœðum og jafnvel stekkjarstœðum.“

Tóft

Í Orðasafni fornleifafræðinnar (sjá http://www.instarch.is) eru beitarhús (hk.) skýrð á eftirfarandi hátt: „Fjárhús utan túns, oft fjarri bæ, sem miðar að því að nýta útbeit eða fjörubeit. Hugtakið er oft notað í ft. og var talað um „að hafa fé á beitarhúsum“. Annað hugtak sem stundum er notað yfir beitarhús er „hagahús“. [enska] Sheephouse in the outfield.
Ef tekið er dæmi um fornleifar eins og beitarhús, þar sem kindur voru hafðar yfir veturinn og þeim beitt á landið (kjarrið eða sinuna), þá eru beitarhúsin leifar ákveðinna búskaparhátta sem eru löngu horfnir. Þessum húsum var gjarnan komið fyrir nálægt landamerkjum á milli bæja svo að kindurnar gætu skroppið yfir til nágrannans og náð þar í eina og eina tuggu svona rétt til að létta bónda sínum byrðina. Því eru beitarhús jafnframt nokkurskonar vitnisburður um tilfinningu manna gagnvart lögunum og kannski eilítið gagnvart hvor öðrum.
Þótt þetta flestum ómeðvitaða beitarhús undir suðurhlíðum Helgafells í Mosfellsbæ geti í hugum þeirra sem það hafa aldrei barið augum hvorki talist merkilegt né viðlitsins vert þá er það engu að síður verðugur fulltrúi þeirra fyrrum búskaparhátta er að því laut – og það í verðandi þéttbýli, ef byggingaáætlanir svæðisins verða að veruleika. Og þeir voru ekki svo litlir þegar á heildina er litið.
Frábært veður.

Heimildir m.a.:
-www.instarch.i.

Skammaskarð

Skammaskarð.

Helgadalur

Gengið var um Helgadal og upp í Katlagil í norðvestanverðu Grímannsfelli. Ætlunin var að skoða minjar sem eiga að vera þar upp í gilinu.
HelgadalurKatlagil er suðaustan í Dalnum. Katlagilslækur rennur niður gilið. Hann lét lítið yfir sér að þessu sinni, en af ummerkjum ofar í gilinu að dæma má telja líklegt að hann geti vaxið verulega í leysingum. Gilið neðanvert er ófært gangandi fólki, en auðvelt er að fylgja brúnunum beggja vegna til að komast upp eftir því. Ofar eru sléttur og leiðin greið. Flatafell er norðan við gilið og Kolhóll að sunnan. Austan er Stórhóll á Grimmansfelli.
Tilefnið að þessu sinni var þó einungis að skoða gilið neðanvert því þar á norðanverðum bakkanum áttu að vera rétt og lambabyrgi.
Réttin er enn á sínum stað, trektlaga og fallega hlaðinn utan í brekku. Sunnan við hana er hlaðið lítið gerði. Í fyrstu mætti ætla að þarna hafi verið stekkur, en líklegt má telja að réttin hafi einnig verið notuð sem slík, eins algengt var fyrrum. Réttin hefur jafnan verið nefnd Helgadalsrétt.
Skammt ofar (suðaustar) og hærra á norðurbakkanum er grói byrgi, sem nefnt hefur verið lambabyrgi. Erfitt er að greina útlínur þess, en líklega hefur það verið ferkantað.
Þjóðminjasafnið hefur skráð fornleifar í Mosfellsbæ. Í aðalskipulagi Mosfellsbæjar má sjá að um 604 fornleifar séu þekktar eða heimildir eru um.
Helgadalur Helstu fornleifar hafa verið merktar inn á þemakort aðalskipulagsins en allar fornleifarnar eru skráðar inn í skráningarkerfið „Sarp” hjá Þjóðminjasafni Íslands. „Þær fornleifar sem unnt hefur verið að staðsetja hafa einnig verið merktar inn á hnitsetta loftmynd af Mosfellsbæ sem varðveitt er hjá tæknideild Mosfellsbæjar. Við skipulagningu svæða og undirbúning framkvæmda skal tekið mið af fornleifaskráningu samkvæmt þessum gögnum. Athuga ber að ekki er víst að fornleifar séu horfnar þótt þær sjáist ekki á yfirborði.“
Í aðalskipulaginu er þess jafnframt getið að „um skógræktarsvæði gildir að öðru leyti eftirfarandi: a. Skógræktaráætlanir skulu vera í samræmi við skipulagsáætlanir og taka mið af þeim verndarákvæðum sem þar eru sett fram, s.s. vegna hverfisverndar, svæða á náttúruminjaskrá, friðlýstra svæða skv. náttúruverndarlögum og friðlýstra fornminja skv. þjóðminjalögum. b. Taka skal tillit til þekktra fornminja. Skógrækt skal ekki fara nær friðlýstum fornminjum og öðrum merkum minjum en 20 m.“
Skólasel Laugarnesskóla, Katlagil, er í Helgudal í Mosfellsbæ. Á vef skólans má sjá að þangað fari nemendur skólans og kennarar í dagsferðir að hausti og á vorin. Árlega gróðursetja nemendur um 500 – 1000 trjáplöntur þar. Auk þess tengjast allar ferðir í Katlagil kennslu í umhverfismennt í skólanum.
Sögu „selsins“ er getið á vefnum. „Jón Sigurðsson, þáverandi skólastjóri, mun strax á öðru ári skólans 1936 – 37 hafa hreyft við þeirri hugmynd að koma upp skólaseli í nágrenni bæjarins fyrir börn og kennara við Laugarnesskóla.
Ekki verður séð að nokkuð hafi gerst í málinu fyrr en 1943. Þá var efnt til merkjasölu í skólanum og komu inn um 7000 krónur. Með þeirri upphæð var stofnaður Selsjóður Laugarnesskóla.
Helgadalur Skólahverfi Laugarnesskóla var afar víðlent á þessum árum. Það náði frá Höfðatúni að vestan og allt að Korúlfsstöðum og Lögbergi að austan. Af þessum sökum þurfti mikinn akstur skólabarna og sérstakan skólabíl. Sú hugmynd kom upp í Kennarafélagi Laugarnesskóla að það tæki að sér skólaaksturinn og hagnaður af þessu framtaki færi til þess að kaupa land og byggja skólasel.
Á fundi sem haldinn var í Kennarafélaginu 2. des 1944 var rætt um kaup á 24 sæta bíl fyrir félagið. Kosin var þriggja manna nefnd til að annast kaup á bíl sem menn höfðu augastað á, útvegun lánsfjár er Kennarafélagið ábyrgðist og sjá um rekstur bílsins á næsta ári. Ráðinn var vagnstjóri og honum veitt leyfi til að gerast meðeigandi bílsins gegn ákveðnu gjaldi, 5000 krónum.
Nefndin gekk frá kaupum á bílnum og var hann tekinn í notkun stuttu síðar sem skólabíll. Nokkrir kennarar við skólann lánuðu fé til viðbótar við það sem til var í Selsjóði. Rekstur bílsins gekk ágætlega svo að í árslok 1946 var hann að fullu greiddur.
Á fundi í Kennarafélaginu 13. maí 1946 var kosin 7 manna nefnd til að svipast um og velja stað fyrir væntanlegt sel. Leið svo fram til árins 1949, þ.s. leitin bar ekki árangur. Þá fékk stjórn Kennarafélagsins tilboð frá Hauki Jónssyni frá Helgadal í Mosfellssveit um kaup á hluta úr þeirri jörð. Stjórn félagsins brá strax við, skoðaði landdið og sýndist það mjög ákjósanlegt. Það var um 10 dagsláttu tún, allt rennislétt og mikið ræktanlegt land að auki. Lélegur sumarbústaður fylgdi.
Esja Stjórn félagsins bauð öllum félagsmönnum, sem hún náði í, til ferðar upp að Helgadal til að skoða landið. Eftir þá ferð var svo haldinn fundur í félaginu 3. júlí 1949. Þar bar stjórnin fram eftirfarandi tillögu: „Fundur í Kennarafélagi Laugarnesskóla samþykkir að ganga að ganga að tilboði Hauks Jónssonar um kaup á hlut úr jörðinni í Helgadal í Mosfellssveit. Fundurinn felur stjórn félagsins að ganga frá kaupunum.“ Tillagan var samþykkt einróma. Næstu daga var gengið frá kaupunum og 8. ágúst sama ár fór lokagreiðsla fram. Kaupverð landsins var 45 þúsund krónur og að viðbættum öðrum kostnaði varð það alls 45.629 krónur.
Sumarið 1955 hófust byggingaframkvæmdir við skólaselið. Bjarni Jónsson kennari teiknaði húsið. Framkvæmdir gengu hægar en vonast var til. Tvennt tafði einkum verkið. Fyrst að gröftur fyrir söklum var mikill því jarðvegur var lausari en ráð var fyrir gert og hitt að tíðarfar var mjög úrfellasamt.
Verkamenn bjuggu í tjöldum og tveimur sumarbústöðum er voru þarna í túnjaðrinum. En þó að vistin væri stundum nokkuð hráslagaleg vegna rigninganna undu menn glaðir við starfið og létu oft fjúka í kviðlingum.
Næsta sumar var húsið múrað að innan og fleira smávegis gert. Sumarið 1957 var Magnús Einarsson kennari ráðinn til vinnu við húsið. Hann bjó ásamt fjölskyldu sinni í rishæðinni um sumarið og voru það fyrstu íbúar Selsins. Lokafrágangur hússins fór svo fram 1958 og 20. september var húsið vígt.“
Nú er þarna mikill og víðfeðmur skógur umleikis, sem nær allt að Katlagilslæk. Umhverfið hefur greinilega verið gert með natni möguleika námsferða í huga. Glóbrystingur söng sitt fagra stef og rjúpan taldi sig örugga í jaðri skógarins.
Tekið hefur verið að nokkru tillit til framangreindra ákvæða um 20 metra „nálgunarbann“ á skóg í nágrenni fornleifa því trén eru ekki alveg ofan í réttinni, en þau eru hins vegar komin fast að lambabyrginu.
Frábært veður.

Heimild m.a.:
-Aðalskipulag Mosfellsbæjar 2002-2024.
-http://nepal.vefurinn.is/Nepal_Skrar/Skra_0000558.PDF
-http://www.skolatorg.is/kerfi/laugarnesskoli

Katlagil