Í skýrslu Bjarna F. Einarssonar; „Krýsuvík – Fornleifar og umhverfi“, frá árinu 1998 segir m.a. frá fyrstu heimildum um Krýsuvík, auk þess sem skýrslunni fylgir skrá um einstakar fornleifar tilheyrandi svæðinu. Hér verður rifjaður upp sögulegi kafli skýrslunnar:
Fyrstu heimildir um Krýsuvík
Bjarni F. Einarsson.
„Krýsuvíkur er fyrst getið í Landnámu, en þar stendur: „Þórir haustmyrkr nam Selvág ok Krýsuvík, en Heggr son hans bjó at Vági. Böðmóðr, annarr son hans, var faðir Þórarins, föður Súganda, föður Þorvarðar, föður Þórhildar, móður Sigurðar Þorgrímssonar. Molda-Gnúpssynir byggðu Grindavík, sem fyrr er ritat“. (Landnáma 1968:392).
At Vági er sennilega Vogur í Selvogi, sem síðar hét Vogshús og enn síðar Vogsósar. Um staðsetningu Vága eru þó talsverðar efasemdir (Guðni Jónsson 1936-40:14).
Í kirknaskrá Páls biskups Jónssonar, sem mun vera frá því um 1200, er kirkju í Krýsuvík getið (Í.F. Bd. XII, bls. 9).
Keflavík í Krýsuvík – einnig nefnd Kirkjufjara. Þangað átti Skálholtskirkja og síðar Strandarkirkja um tíma rekaítök undir berginu til forna og eftir siðaskiptin kirkjur á norðanverðum Reykjanesskaga, s.s. Viðey og Garðakirkja. Í Keflavík var jafnan nægt rekaviðs.
Árin 1234 og 1284 er Krýsuvík nefnd í máldaga Maríu kirkju og staðar í Viðey í sambandi við hvalreka. Þar stendur: „en sa maðr er byr j Krysvvik skal skylldr at festa hvalinn sva at eigi taki sør vt. oc gera orð til Viðeyiar fyri þriðiv.sol“. (Í.F. Bd. I, bls. 507).
Ábúandi átti sem sagt að sjá til þess að hval ræki ekki aftur út og gera Viðeyjarmönnum viðvart innan þriggja daga.
Elsti máldagi Maríukirkju í Krýsuvík er frá því um 1275. Sá máldagi er í stórum dráttum eins og máldagi frá 1307, en sá síðari þó fyllri.
Við Mölvíkurtjörn austan Herdísarvíkur. Þangað sótti Skálholtsstóll og Strandarkirkja löngum reka með vísan til fornra heimilda.
Í Rekaskrá Strandarkirkju frá um 1275 stendur: „skalhollt oc krijsevijk aa halfann allann reka under fuglberge vid strandar land. millum wogs oc hellis aa strendur land iiij vætter enn ef meire er þa aa skalhollt oc krijsvijk fiordung j øllum hual. Enn fyrer austann wog til vindass aa stadur j skaalhollte oc krijsevijk halfan tolftung i hual ef meire er enn iiij vætter. en ecke ellegar“. (Í. F. Bd. II, bls. 124-25).
Krýsuvíkur er síðan getið á mörgum stöðum í Fornbréfasafni og yfirleitt í sambandi við hvalreka, rekavið og grasnytjar. Hafa þessi hlunnindi því verið eftirsóknarverð frá ómunatíð (sjá nánar góða greinargerð um Krýsuvíkurkirkju í fornum heimildum í Sveinbjörn Rafnsson 1982).
Húshólmi – uppdráttur Brynjúlfs Jónssonar.
Árið 1818 sendi séra Jón Vestmann (1769-1859), sem var prestur í Selvogi árin 1811-1842, bréf til hinnar konunglegu nefndar, Commissionen for oldsagers opbevaring, vegna fyrirspurna nefndarinnar um fornleifar í landinu. Í bréfinu tíundar Jón þær fornleifar sem hann þekkir og telur þess verðar að minnast á. Engar nefnir hann fornleifarnar í landi Krýsuvíkur sem nú er, en í Ögmundarhrauni segir hann svo frá fornleifum: „Hús-Hólmi nidur vid sióin í sama Hrauni; hefur þar verid mikil Bygd, ádur brann, sem sést af Húsa Tópta-Brotum, ad hvórium Hraunid géngid hefur, ad nordan –vestan -sunnan, – og næstum saman ad Austan-verdu; er þar 1t Tóptar-Form 12 Feta breidt, og 24 Feta Lángt, innan nidur fallinna Veggia Rústa; Húsid hefur snúid líkt og Kyrkiur vorar, meinast gamalt Goda-Hof; fundid hafa Menn þar nockud smávegis af Eyrtægi; þar er tvisett Túngards form med 20 fadma Milli-bili, hvar nú er Ling Mói; enn Graslendi innan ynnri Gards, austanverdt vid Hraunid“. (Frásögur um fornaldarleifar 1983:227).
Uppdráttur af Húshólma frá fyrri tíð – (Haukur og Sigmundur).
Forsaga byggðar í Krýsuvík er að margra mati í hólmanum í Ögmundarhrauni sem getið er í svarbréfi Jóns prests hér að framan. Munu rústirnar þar gjarnan vera kallaðar Gamla Krýsuvík (Stefánsson 1967 (b)) eða Krýsuvík hin forna (Brynjólfur Jónsson 1903:48-50. Stefán Stefánsson (b) 1967:556. Haukur Jóhannesson og Sigmundur Einarsson 1988:84).
Athyglisvert er að Jón Vestmann segir ekki orð um þessi munnmæli í lýsingunni hér að ofan. Hann nefnir þau hins vegar í annarri lýsingu sinni árið 1840 og segir að; „Meina menn, að Krýsuvík hafi þar verið, áður hraunið hljóp þar yfir,… (Sýslu- og sóknarlýsingar 1979:214). Enn í dag sjást talsverðar rústir í Húshólma og Kirkjulágum þar skammt hjá.
Húshólmi – garður – uppdráttur – (Haukur og Sigmundur).
Um aldur Ögmundarhrauns eru talsvert skiptar skoðanir. Elst er það talið geta verið frá öndverðri 11. öld. Byggist sú tilgáta á geislakolsgreiningum. Aðrir telja hraunið runnið seint á tímabilinu 1558-1563 Einnig hefur verið talið að hraunið hafi runnið 1340. Síðustu niðurstöðurnar benda til þess að hraunið hafi runnið árið 1151 (Jón Jónsson 1982:196. Sveinbjörn Rafnsson 1982:422. Haukur Jóhannesson og Sigmundur Einarsson 1988:71). Upptök hraunsins eru í Trölladyngju, nyrsta hluta Núpshlíðarháls.
Eins og áður hefur komið fram er elsta heimild um kirkju í Krýsuvík í kirknaskrá
Húshólmi – meint kirkjutóft í Kirkjulág.
Páls biskups Jónssonar frá því um 1200 og nokkrum sinnum er kirkjunnar getið í 13. aldar heimildum. Ef Ögmundarhraun er rétt aldursgreint til ársins 1151 hljóta skrárnar að eiga við kirkju þá er stóð undir Bæjarfellinu, á núverandi stað. Þó hefur því verið haldið fram að kirkja hafi áfram staðið fram á 16. öld, úti í Ögmundarhrauni (Haukur Jóhannesson og Sigmundur Einarsson 1988:83-84).
Ekki eru rústirnar í Ögmundarhrauni þær einu sem kallaðar hafa verið Krýsuvík hin forna. Um Gestsstaði hefur einnig verið sagt að þeir hafi áður heitið Krýsuvík (Brynjólfur Jónsson 1903:50. Örnefnaskrá (a)).
Gestsstaðir í Krýsuvík, skálatóft sunnan Gestsstaðavatns.
Elsta heimildin um Gestsstaði er Jarðarbók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns sem skráð var árið 1703. Þar segir: „Gestsstader skal hafa jörð heitið nálægt Krýsivík undir Móhálsum austanverðum, þar allnærri sem nú liggur almenníngsvegur. Sjer þar enn nú bæði fyrir túngarði og tóftum. En völlur er allur uppblásinn og kominn í mýri, mosa og hrjóstur, so ómögulegt er jörðina aftur að byggja. Þar með liggur hún aldeilis í Krýsivíkurlandi og kann ekki fyrir utan skaða Krýsivíkur landsnytjar að hafa. Hefur og so lánga tima í eyði legið, að engi veit til nær hún hafi bygð verið“. (1923-24:7).
Gestsstaðir – uppdráttur – ÓSÁ.
Um Gestsstaði segir Brynjólfur Jónsson svo: „Gestsstaðir heitir eyðibær, norðvestur frá Krýsuvík, þar sem hún er nú. Hann hefir staðið sunnanundir dálítilli hæð, sem gengur austur úr Sveifluhálsi. Sér þar enn fyrir tóftum, og hefir þar verið stórbýli á sínum tíma. Bæjartóftin er 10 fðm. löng frá austri til vesturs, hefir engan miðgafl, og mun hafa verið þiljuð sundur. Dyr sjást ógjörla, en á suðurhliðinni hafa þær verið, því hvorki eru þær á endunum né norðurhliðinni. Skamt austar er fjóstóft, 6 fðm löng, og heygarður eigi lítill. Túnið hefir og verið mikið og umgirt, en nú er það víða komið í sand af árennsli.
Gestsstaðir – eystri tóftin og garður.
– Þau ummæli heyrði eg í Grindavík fyrir 40 árum, að Krýsuvík hefði í fyrstu heitið Gestsstaðir og staðið vestur við hálsinn. Nú þykist eg skilja sannleikann í þeim. Jörðin Gestsstaðir hefir verið eign Krýsuvíkurkirkju. Hefir bærinn og kirkjan því verið flutt í Gestsstaðaland eftir eldinn. En við það hafa Gestsstaðir verið sviftir nytjum, og meir og meir þrengt að þeim unz þeir lögðust í eyði“. (1903:50).
Húshólmi – skálar. Hafa ber í huga að skv. lýsingunum skoðaði Bjarni einungis Húshólma „úr lofti“. Stundum skiptir samhengi hlutanna í nánd máli?
Tel ég munnmælin um Krýsuvík hina fornu í Ögmundarhrauni og við Gestsstaði vera seinni tíma útskýringar til að varpa einhverju ljósi á rústir sem voru mönnum annars með öllu óþekktar og óskiljanlegar. Benda má á að Svartadauða, sem geisaði árið 1402, hefur verið kennt um eyðingu margra óþekktra eyðibýla hér á landi, en aldrei hefur sambandið verið staðfest, öðru nær. Þau eyðibýli, sem rannsökuð hafa verið og heimildir eru til um að hafi farið í eyði vegna Svartadauða, eru öll mun eldri en plágan.
Krýsuvík – örnefnakort Ólafs Þorvaldssonar.
Túlkun Brynjólfs um eyðingu Gestsstaða er tilgáta en ekki staðreynd. Ekki er víst að neitt samband sé á milli eyðingar Gestsstaða og Krýsuvíkurbæjarins, heldur hafi staðreyndir skolað til og munnmæli og ímyndanir blandast saman svo úr varð þjóðsaga um Krýsuvík hina fornu. Hluti af þessum munnmælum er frásögn í Ferðabók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar frá 1772 um hraunflóð sem eyddi kirkjustað sem hét Hólmastaður, en það er elsta lýsingin á rústunum í Ögmundarhrauni. Átti það að hafa gerst tveimur öldum fyrir heimsókn þeirra Eggerts og Bjarna. Í þeirri frásögn er hvergi minnst á sambandið við Krýsuvík.
Húshólmi – uppdráttur ÓSÁ.
Í dagbókum þeirra félaga frá 31. maí 1755 segir svo frá rústunum: „… taget bort Nogle bajer som her til forne har Staaet, og der i bland Eet Kirke Stæd som heed Holma Stadur med Kirken og alting, dog Seer man endnu paa Een liden plet der er bleven til overs lidet Stykke af (sem det meenes) Kirke gaarden og faae Stykker af Husevæggene“. (Í Sveinbjörn Rafnsson 1982:420).
Krýsuvíkurbærinn um 1789. Bæjarfellið rís yfir bænum og Vestarilækur liðast undir bæjarhólnum. Hér má gera sér einhverja grein fyrir kirkjugarðinum. Framarlega á myndinni, niður við lækinn, virðast vera kálgarðar. Á þessum slóðum er garðbrot í dag, sem gæti verið hluti af kálgarðinum. Á þessum slóðum fundust einnig rúst og stífla sem giskað er á að gætu verið leifar af brennisteinsstöðinni sem stóð við bæinn árin 1755-63. Kálgarðurinn gæti hafa verið settur niður við þær rústir. Horft til NNA. Myndin er úr bókinni Íslandsleiðangur Stanleys 1789. Ferðabók. Reykjavík 1979,
bls. 268.
Kannski hét jörðin í Ögmundarhrauni Hólmur í fyrstunni, síðan Hólmastaður þegar kirkja var reist á staðnum. Fornleifafræðirannsókn gæti skorið úr um þessi mál, en þangað til verður ekki hægt að segja hvað sé rétt og hvað ekki.
Árið 1563 er aðeins ein hjáleiga við Krýsuvík (Sveinbjörn Rafnsson 1982:421-22). Ekki er þess getið hver hún var.
Í manntali árið 1703 eru hjáleigurnar orðnar sex að tölu, en ekki er nafna þeirra getið (Manntal á Íslandi árið 1703:3). Í Jarðabók frá sama ári segir að hjáleigurnar séu fimm, en tvíbýli á einni þeirra, Nýjabæ. Hjáleigurnar voru Suður hjáleiga (Suðurkot), Norður-hjáleiga (Norðurkot), Nyie Bær, Litle Nyie Bær og Austur hús (Jarðabók 1923-24:4-7). Austurhús gæti verið við [Stóra] Nýjabæ, en þegar þar var tvíbýli voru húsin kölluð Austurbærinn og Vesturbærinn (Stefán Stefánsson 1967 (a)). Skúli Magnússon landfógeti segir að árið 1703 hafi hjáleigurnar verið sjö (Landnám Ingólfs 1935:109). Ekki er nafna þeirra getið.
Krýsuvíkurbærinn um 1789, séð frá NNA. Sennilega er Norðurkot neðst á myndinni t.v. Þar virðist vera hringlaga túngarður með nokkrum húsum fyrir innan. Arnarfellið sést t.v. og Bæjarfellið t.h. Myndin er úr sömu heimild og næsta mynd á undan.
Árið 1781 er eitt höfuðból í Krýsuvík og sjö hjáleigur. Segir í heimild frá þessum tíma að áður hafi verið tvíbýli í Krýsuvík. (Landnám Ingólfs 1935:109).
Í manntali frá árinu 1801 eru hjáleigurnar við Krúsuvík fjórar (fimm sé reiknað með tveimur á Stóra Nýjabæ). Þær eru Suður- og Norðurkot, Stóre Niebær 1. og 2. og Litle-Niebær. (Manntal 1978:320-21).
Nokkrum árum síðar, eða í manntali 1816 eru hjáleigurnar þær sömu og árið 1801. (Manntal 1953:375).
Árið 1840 eru hjáleigurnar orðnar sex talsins og allar nafngreindar. Þær eru Suður- og Norðurkot, Stóri- og Litli Nýibær, Lækur, og Vigdísarvellir. (Sýslu- og sóknalýsingar 1979:219). Sennilega var tvíbýli á Stóra Nýjabæ, sem gerir hjáleigurnar í raun sjö.
Fell – tóftir.
Í manntali frá árinu 1845 eru hjáleigurnar taldar upp sjö talsins. Þær eru Suður- og Norðurkot, Stóri Nýibær 1 og 2 Litli Nýibær, Vigdísarvellir og Bali. (Manntal 1982:346-47).
Í jarðartali Johnsens frá árinu 1847 eru hjáleigurnar einnig taldar vera sjö. Þær eru Suður- og Norðurkot, Stóri- og Litli Nýibær, Vigdísarvellir, Bali og Lækur. Lögbýlið Krýsuvík virðist vera tvíbýli. (Johnsen 1847:84). Ekki kemur fram hvort Stóri Nýibær hafi verið tvíbýli eða ekki. Af þessu má ráða að sumar hjáleigurnar hafa verið í ábúð meira og minna frá árinu 1703, jafnvel lengur. Aðrar koma og fara, en samtals verða þær aldrei fleiri en sjö talsins til ársins 1847.
Eyri – bæjartóftir.
Sumar hjáleigur virðast vera svo stutt, eða seint, í ábúð að þeirra er ekki getið í jarðabókum né manntali. Þær eru Fitjar, Fell, Eyri (fór í eyði 1775. (Örnefndaskrá (b)), Arnarfell (sama og Fell?), Hafliðastekkur, Snorrakot, Snartakot(?) og Hnaus. Einhverjar þessara hjáleiga gátu verið tómthús, svo sem Snorrakot, Snartakot og Hnaus. Um önnur býli, sem vel gátu verið lögbýli, er nánast ekkert vitað, svo sem Gestsstaði og Kaldrana, en þau geta verið býsna forn.
Kaldrani í Krýsuvík.
Um staðsetningu Fells og Eyrar er næsta lítið vitað. Get ég mér þess til að Eyri hafi verið sunnan í Selöldunni, og Fell rétt hjá Grænavatni (sé það ekki hið sama og Arnarfell). Um Snartakot, Snorrakot og Hnaus er vitað að þau stóðu í túni eða túnjaðri Krýsuvíkur.
Talið er að býlið Kaldrani hafi staðið skammt SV af Kleifarvatni og voru garðar sýnilegir þar um aldamótin síðustu. Segir Brynjólfur Jónsson svo frá staðháttum: „Sést þar 34 fpm. langur túngarðsspotti úr stórgrýti og lítil grasflöt fyrir ofan, suðaustan í sléttum melhól. Uppi á hólnum er dálítil dreif af hleðslugrjóti, sem virðist vera flutt þangað af mönnum. Gæti það verið leifar af bænum. Því garðspottinn sýnir það, að þar hafa menn búið á sínum tíma“. (1903:50).
Seltún – minjar brennisteinsvinnslunnar.
Ekki fundust ummerki þau sem getið er hér að ofan við vettvangskönnun, nema ef átt sé við garðstúf. Ekki er það þó líklegt. Sennilega eru allar minjar um býlið komnar undir sand/vikur.
Árið 1753 var fyrsta brennisteinshreinsunarstöð landsins reist við námurnar í Krýsuvík (við Seltún?). Skömmu síðar, eða árið 1755, var stöðin flutt að Krýsuvíkurbænum og var þar a.m.k. til ársins 1763. (Landnám Ingólfs 1935:111). Hvar nákvæmlega þessi stöð stóð eftir flutninginn er ekki vitað í dag, en varla hefur hún verið mjög nálægt bæjarhúsunum sjálfum. Giska ég á að hún kynni að hafa staðið niður við lækinn þar sem stífla og rúst eru staðsett.
Brennisteinsnámuvinnslusvæðið við Seltún.
Stöðin gæti fyrst hafa verið þar sem kallast Brennisteinshúsarústir (Örnefnaskrá (a)), eða Brennisteinshúsatættur (Örnefnaskrá (b)), framan við Seltúnið á Seltúnsbarði, sunnan Selgilsins. Öruggar minjar um stöðina fundust ekki við vettvangsathugun, en einu minjarnar sem fundust við Seltúnið, auk selsins, voru grunnur að einhverju húsi sem gæti hafa verið undir stöðvarhúsinu. Sá grunnur gæti þó verið mun yngri.
Fornleifarnar
Krýsuvík – uppdráttur Bjarna F. Einarssonar.
Engar fornleifarannsóknir hafa verið gerðar á fornleifum á könnunarsvæðinu, svo mér sé kunnugt um. Í Húshólma í Ögmundarhrauni hafa jarðlög verið könnuð af jarðfræðingum og fimm geislakols-aldursgreiningar verið gerðar þar og í næsta nágrenni. Fornleifarnar í hrauninu munu hafa verið teiknaðar upp af fornleifafræðingi, en þær teikningar ekki verið birtar. Niðurstöður geislakolsgreininganna voru að byggð hafi verið á staðnum á 11. öld. (Haukur Jóhannesson o.fl. 1988:79). Torfgarður í Húshólma var sömuleiðis kannaður af jarðfræðingum og því haldið fram að hann hafi verið eldri en landnámsgjóskan svokallaða, en hún féll árið 871 eða 872. (Sami 1988:83). Því bendir ýmislegt til þess að mjög fornar fornleifar sé að finna í Ögmundarhrauni, en hvernig þær tengjast fornleifum í Krýsuvík er ekki ljóst.
Krýsuvík seinni tíma – uppdráttur ÓSÁ.
Ekki hafa allar gamlar þjóðleiðir verið skráðar sérstaklega og stafar það af því að þegar engin ummerki um slíkar leiðir finnast er þeim sleppt. Dæmi um slíkar leiðir má sjá á korti í bók Guðrúnar Gísladóttur (1998, m.a. kort 14) og korti í grein Ólafs Þorvaldssonar (1949:86). Þessar leiðir voru t.d. Engjafjallsvegur, Austurengjavegur og vegur um Bleiksmýri, sunnan við Arnarfell og suður úr. Önnur leið lá norðan við Arnarfellið og austur úr. Ekki ber kortunum alveg saman um nákvæma legu þessara og annarra leiða, enda ekki víst að menn hafi í raun séð leiðirnar almennilega, þegar þeir settu þær inn á kort.
Brennisteinsámur eru ekki skráðar hér og er ástæðan fyrst og fremst sú að undirritaðan skortir þekkingu á að lesa námurnar út í landslaginu og bróðurpartur þeirra er utan við könnunarsvæðið.
Krýsuvík – tóftir brennisteinsnámsins í Hveradal.
En aftur má benda á Guðrúnu Gísladóttur og að auki skýrslu Ole Henchels í ferðabók Ólafs Olaviusar (1965). Í þeirri skýrslu er kort af námusvæðunum og virðast flest allar námurnar þar vera fyrir utan könnunarsvæðið.“
Krýsuvíkurkirkja.
Frá því að framangreind skýrsla varð gerð hefur mikið vatn runnið til sjávar…
Auðveldlega væri hægt að gera verulegar athugasemdir við framangreinda „fornleifaskráningu“, en það er ekki markmiðið með þessari fróðleiksupplýsingu.
Benda má þó á eitt að lokum – Krýsuvík er skrifað í texta með „ý“ en ekki „í“, enda má benda til fornra tilvitnaðra textaskrifa í meðfylgjandi lýsingum því til staðfestingar – sjá HÉR.
Arnarfell – uppdráttur ÓSÁ.
Breiðabólstaður – Litlaland
Í örnefnaskrá fyrir Litlaland í Ölfusi segir m.a. um Draugshelli:
Litlalandsborg.
„Rétt ofan við Vörðuás, við markagirðinguna milli Breiðabólsstaðar og Litlalands, er lítill hóll og í honum lítill hellir, sem heitir Draugshellir. Um hann er skráð saga í Þjóðsögu Jóns Árnasonar, útg. 1955, um pilt sem lézt þar fyrir 200 árum. Hann var jarðsettur að Hjallakirkju, en þoldi ekki í jörðu, gekk því aftur, settist að í hellinum og gerði ferðamönnum glettingar.“
Vel gekk að finna hólinn ofan við þjóðveginn. Vestan við hann er ílöng dæld í túnið. Í enda hennar má sjá hleðslur. Sagt er að hellisopinu hafi verið lokað til að koma í veg fyrir að fé færi sér þar að voða. Síðan hafi gróið yfir það. Beðið er eftir því að fá fjölvitran mann úr Þorlákshöfn á vettvang, en hann gæti mögulega munað hvar opið er að finna með nokkurri nákvæmni.
Ingjaldsborg.
Gengið var upp Ásinn. Í honum er stór gróin hvilft. Vestast í henni mótar fyrir tóft, líklega stekk. Þarna gætu því verið fleiri mannvirki ef vel er leitað. Annars er Ásinn nokkuð blásinn, en sjá má einstaka gróinn bala eða hlíðardrag.
„Ofan Ássins og vestur frá Ólafsvörðuðum eru á hlíðarbrúninni vörður tvær, sem ber við loft frá Breiðabólsstað. Þær heita Bræðraborg. Þær eru nú hálfhrundar.“ Á grónu hæðardragi neðan við vörðurnar er hlaðinn rétt eða borg, Bræðraborg. Vestar og ofar á Ásnum er Ingjaldsborg.
„Um 3 – 4 hundruð metrum vestar [en Bræðraborg] á brúninni er mikil rústaþyrping, og vel gróið kringum þær. Þar eru rústir af nokkrum hringhlöðnum fjárborgum og einu 100-sauðahúsi. Steindór Egilsson byggði það 1912. Þetta heitir Ingjaldsborg.“
Bræðraborg.
Enn má sjá a.m.k. tvær heillegar borgir, en fjárhúsið er vestast, ílangt og stórt. Hleðslurnar við innganginn mót suðri hafa haldið sér nokkuð vel miðað við aldur.
Gengið var vestur og niður með Ásnum, að Hlíðarendafjalli. Undir hömrum ofan við Litlaland eru miklar tóftir. Svo er að sjá að í miðjum hól, sem þar er, geti verið fjárborg (hér nefnd Litlalandsborg). Sunnan hennar, mót innganginum, er hústóft. Borgin hefur verið hlaðinn, sennilega upp úr gömu bæjarstæði.
Skammt vestar, undir svonefndri Sölvhellu, er allstór klettur sem heitir Hulduklettur. Þar er sagt að huldufólk hafi búið – og býr eflaust enn. Kletturinn er dæmigerður huldufólkssteinn undir háum fallegum hamravegg.
Breiðabólstaðaborg.
Austan við Hulduklett á Bæjarbrunnurinn að hafa verið.
„Á Litlalandslæk er brú fram undan bæjarstæðinu gamla og grjótborin braut yfir mýrina. Brúin heitir Steinbogi.“
Þá var haldið að Breiðabólstaðaborg skammt austan Hlíðardals, í Hraunsheiði. “Borgin er hár stórgrýtishóll, með rúst. Hann heitir Breiðabólsstaðarborg, oft nefndur Breiðaborg.“ Rúst þessi hefur einhvern tímann verið hringlaga fjárborg, en er nú allgróin þótt enn megi vel sjá fyrir hleðslum.
Veður var frábært – sól og lygna. Gangan tók 2 klst og 2 mín.
Heimild:
http://www.bokasafn.is/byggdasafn/fornleifaskra/fornleifaskra.htm
Örnefnaskrá – Orri Vésteinsson og Hildur Gestsdóttir
Breiðabólstaðaborg.
Mosfellsheiðin metin að verðleikum
Á vefsíðu FÍ 2019 er m.a. viðtal við Magréti Sveinbjörnsdóttur í tilefni af útgáfu Árbókar ferðafélagsins um „Mosfellsheiði – landslag, leiðir og saga„;
Árbók FÍ 2019.
„Eitt af því sem setur ímyndunaraflið af stað hjá mér þegar ég geng um Mosfellsheiði eru rústir sæluhúsanna sem þar er að finna. Eftir að hafa lesið frásagnir af hrakningum á ferðalögum og draugagangi í sæluhúsum er auðvelt að sjá fyrir sér dramatískar senur frá ferðalögum fyrri alda þegar fólk varð að komast af án GPS, GSM og goretex!“ Þetta segir Margrét Sveinbjörnsdóttir, menningarmiðlari frá Heiðarbæ og vefritstjóri á skrifstofu Alþingis. Hún er einn þriggja höfunda Árbókar Ferðafélags Íslands 2019, en bókin nýja hefur einmitt Mosfellsheiðina í háskerpu, landslag, leiðir og sögu.
Ferðafélag Íslands gaf út sína fyrstu árbók árið 1928 en hún hefur komið út árlega í óslitinni röð og er einstæður bókaflokkur um landið okkar og náttúru.
Mosfellsheiði – kort.
Mosfellsheiði er víðlent heiðarflæmi sem rís hæst 410 metra yfir sjávarmál í Borgarhólum sem eru kulnuð eldstöð. „Eldvirkni hefur verið víðar á háheiðinni enda er hún að stórum hluta þakin grónum hraunum,“ segir Margrét. „Víðfeðmir melar og móar, grashvammar og tjarnir setja einnig sterkan svip á heiðina. Fuglalíf er þar nokkuð fjölskrúðugt og ber þar mest á mófuglum. Endur og álftir verpa við heiðartjarnir og rjúpur og hrafnar sjást víða á sveimi.“
Höfundar Árbókar FÍ 2019; Jón Svanþórsson, Margrét Sveinbjörnsdóttir og Bjarki Bjarnason.
Margrét reit árbókina nýju í félagi við þá Bjarka Bjarnason, rithöfund og smala á Hvirfli í Mosfellsdal en hann er einnig forseti bæjarstjórnar Mosfellsbæjar, og Jón Svanþórsson, rannsóknarlögreglumann og göngugarp í göngu- og útivistarfélaginu Ferlir. Þeir þekkja báðir mjög vel til á heiðinni eins og Margrét. Bjarki hefur ritað ýmislegt um sögu og náttúru Mosfellssveitar, þar á meðal heiðarinnar.
„Við Bjarki slitum barnsskónum hvort sínu megin heiðarinnar og höfum löngum smalað þar fé,“ segir Margrét, „farið þar í göngu- og reiðtúra og þekkjum vel til örnefna og sögu svæðisins.“
Mosfellsheiði 1914 – kort; Jón Svanþórsson.
Hún bætir því við að Jón hafi á undanförnum árum gengið fjölmargar leiðir á heiðinni, rakið sig eftir vörðum og hnitsett þær sem skiptir verulegu máli varðandi það að tryggja ferðalög á nútímavísu. „Hann hefur talið um 800 vörður á heiðinni frá Þingvallavegi í norðri að Engidalsá vestan við Hengil í suðri. Langflestar þeirra standa við gamlar þjóðleiðir, þar af eru 100 vörður við Gamla Þingvallaveginn.“
„Í bókinni höfum við Bjarki og Jón lagt áherslu á að á heiðinni sé að finna leiðir við allra hæfi, það er einfalt og aðgengilegt að komast að flestum þeirra og í þeim tilgangi lýsum við nokkrum lykilstöðum, þar sem lagt er upp í ferðirnar og auðvelt er að skilja bíla eftir,“ segir Margrét.
Nýjar leiðir – troðnar leiðir – týndar leiðir
Þingvallavegur dagsins í dag.
Þótt Mosfellsheiði blasi nú við fleirum en nokkru sinni – með býsna vinsælan akveg til Þingvalla, þá eru höfundar engu síður á því að heiðin sé vel falin útivistarperla í næsta nágrenni við höfuðborgarsvæðið. Það er nú líka oft þannig að það þarf að horfa ögn betur á umhverfið en unnt er á rösklega hundrað kílómetra hraða til að uppgötva það sem allir í raun sjá – en enginn tekur eftir.
Um Mosfellsheiði liggja fjölmargar leiðir frá ýmsum tímaskeiðum Íslandssögunnar og hún er kjörinn vettvangur fyrir byrjendur jafnt sem lengra komna.
Gamli Þingvallavegurinn – ræsi og varða framundan.
„Ekki spilla síðan fyrir þær fjölmörgu sögur sem tengjast heiðinni og ferðum um hana frá fyrri tíð, en vegna þess að yfir Mosfellsheiði liggja leiðir til Þingvalla kemur heiðin við sögu í ferðalýsingum flestra þeirra erlendu ferðabókahöfunda sem hingað komu á fyrri öldum. Margir þeirra lýstu heiðinni sem endalausu flæmi af grjóti og þótti hún heldur tilbreytingalaus – en aðrir nutu kyrrðarinnar og þótti víðáttan heillandi,“ segir Margrét.
Kaffi Heiðablómið og Borgarhólar
Heiðarblómið.
Yfirleitt er það nú þannig að þeir sem þekkja vel til í víðfeðmu landi eiga sér yfirleitt einhvern uppáhaldsstað, leynda perlu. „Sá staður á heiðinni sem kemur þeim sem ekki hafa komið þangað áður hvað mest á óvart eru Borgarhólarnir, gömul eldstöð úr grágrýti. Þar eru grösugir hvammar innan um lága kletta, gott útsýni, ljómandi gott skjól og alveg örugglega fyrirtakshljómburður. Þar langar mig að halda útitónleika með kórnum mínum, Söngfjelaginu, hver veit nema það verði einhvern tíma að veruleika,“ segir Margrét.
Skammt frá Borgarhólum var snemma á síðustu öld kaffihús uppi á miðri heiði við Háamel. Kaffi Heiðablómið hét þetta kaffihús sem var merkisberi nýrrar samgöngubyltingar og fól í sér bjartsýni á hreyfingu fólks milli staða. Það var danskur veitingamaður, Hartvig Nielsen að nafni, sem hóf þar veitingasölu sumarið 1913.
Tóftir Heiðarblómsins.
„Hann var greinilega markaðsmaður, því hann valdi húsinu stað mitt á milli tveggja alfaraleiða; hinnar gömlu Seljadalsleiðar og nýja Þingvallavegarins sem svo var nefndur á þeim tíma,“ segir Margrét. Það er nú þannig að ekkert er eins forgengilegt og tískan og tíminn gerir það nýja óvenjuhratt að því gamla enda gengur nú Nýi Þingvallavegurinn undir nafninu Gamli Þingvallavegurinn.
„Reksturinn lifði því miður ekki lengi, aðeins eitt sumar eða tvö. Rústirnar eru hins vegar ennþá vel sýnilegar. Ég myndi gefa mikið fyrir að geta ferðast rúm hundrað ár aftur í tímann og fengið mér þar hressingu!“
Bæklingurinn sem breytist í heila árbók
Mosfellsheiðarleiðir.
Þegar vikið er að tilurð bókarinnar segir Margrét að upphaflega hugmyndin hafi verið sú að gefa út veglegt gönguleiðakort eða -bækling.
„Sú hugmynd hafði reyndar kviknað á tveimur stöðum á svipuðum tíma; í spjalli okkar Bjarka og Jóhannesar bróður míns, bónda á Heiðarbæ, í smalamennskum á heiðinni og í gönguferðum Jóns og Ómars Smára Ármannssonar í útivistarfélaginu Ferlir,“ segir Margrét.
„Síðan vildi svo vel til að leiðir lágu saman, einhverju sinni hringdi Jón í Bjarka til að spyrja hann um örnefni á heiðinni og upp úr því spjalli fórum við að ræða að snjallt gæti verið að leggja saman krafta okkar. Síðan eru liðin allmörg ár – ýmist á göngu þvers og kruss um heiðina, þar sem við höfum rakið okkur eftir misgreinilegum slóðum og vörðubrotum, eða heima yfir hinum ýmsu heimildum og kortum, á spjalli við staðkunnuga og þannig mætti lengi telja.“
Mosfellsheiði – gamla sæluhúsið við gömlu Seljadalsleiðina.
Margrét segir að hugmyndin hafi smám saman vaxið og þar hafi komið að þau sömdu við Ferðafélagið um útgáfu á gönguleiðabók með sögulegum innskotum og nokkuð ítarlegum inngangsköflum um jarðfræði, náttúru, vörður, vegagerð og sæluhús.
„Þegar við vorum að því komin að skila handritinu vorið 2017 varpaði framkvæmdastjórinn Páll Guðmundsson fram þeirri hugmynd að bæta í og skrifa heila árbók, sem kæmi út vorið 2019. Við þurftum nú aðeins að hugsa okkur um, ekki síst vegna þess að það þýddi að útgáfan myndi dragast um tvö ár – en auðvitað var þetta líka mikill heiður, því það hlaut að þýða að Ferðafélagið hefði trú á verkefninu.“
Sæluhúsið við „Gamla-Þingvallaveginn“.
Margrét, Bjarki og Jón voru þakklát traustinu og grófu meira í fortíðina og bættu á garðann. „Inngangskaflarnir voru auknir og endurbættir allverulega og fleiri köflum bætt við, þar til útkoman varð fullburða handrit að árbók.“
Margrét segir að seinni hluti handritsins, ítarlegar lýsingar á 23 leiðum með kortum, myndum og hnitum, hafi síðan orðið að bókinni Mosfellsheiðarleiðir sem komi út í kjölfar árbókarinnar. „Þó að megináherslan þar sé á lýsingar gönguleiða er leiðunum einnig lýst með tilliti til þeirra sem kjósa að fara ríðandi, hjólandi eða jafnvel á skíðum yfir heiðina.“
Ljósmyndir segja meira en mörg orð
Jón Svamþórsson í Gamla sæluhúsinu við Seljadalsleið 2014.
Gríðarlega fallegar ljósmyndir prýða nýju árbókina og segja þær meira en mörg orð. „Við vorum svo ljónheppin að fá til liðs við okkur ljósmyndarana Sigurjón Pétursson og Þóru Hrönn Njálsdóttur, sem hafa farið ótalmargar ferðir á heiðina til að ná réttu myndunum, í réttri birtu og frá réttu sjónarhorni,“ segir Margrét. „Sumum myndunum þurfti vissulega að hafa meira fyrir en öðrum, eins og til dæmis myndunum sem þau náðu loks eftir margar ferðir að greni í jaðri heiðarinnar; af tófu og yrðlingum.“
Jón Svanþórsson hafði ferðast um Heiðina um langt skeið með það að markmiði að staðsetja þar örnfni og minjar, auk þess sem hann hafði lagt mikla vinnu í að rekja hinar fornu leiðir um Heiðina.
Mosfellsheiði – Þrívörður.
„Í Árbókinni er einnig nokkuð mikið af eldri, sögulegum myndum, sem höfundar hafa aflað á ljósmyndasöfnum og víðar. „Þá höfum við notið sérfræðiþekkingar og áratugareynslu Guðmundar Ó. Ingvarssonar, sem sá um kortagerð fyrir báðar bækurnar. Ritstjórinn Gísli Már Gíslason braut um árbókina og hönnuðurinn Björg Vilhjálmsdóttir mun hanna gönguleiðabókina. Við höfum með öðrum orðum notið þess að hafa valinn mann í hverju rúmi.“
Öll heimsins vandamál leyst á góðri göngu
Mælisteinn við gömlu Þingvallaleiðina.
„Ég átta mig betur og betur á því eftir því sem árin líða hversu mikilvæg óspillt náttúra er – og hvað útivera í náttúrunni gefur mér mikinn kraft og hugarró,“ segir Margrét um ást sína á ferðalögum á tveimur jafnfljótum. „Ég slaka óvíða jafn vel á og á göngu. Svo getur maður líka leyst öll heimsins vandamál á göngu, ýmist í samræðum við góða göngufélaga eða einn með sjálfum sér,“ segir rithöfundurinn.
„Það skiptir öllu máli að við verndum þá einstöku náttúru sem við erum svo lánsöm að hafa aðgang að hér á Íslandi – með hóflegri og skynsamlegri nýtingu, þannig að við skilum jörðinni í sama og helst betra ástandi til komandi kynslóða.“
Heimild:
-https://www.fi.is/is/frettir/mognud-mosfellsheidi-i-arbok-ferdafelagsins
-Mosfellsheiði í Árbók Ferðafélagsins, 30.04.2019.
Uppgefinn bíll á gamla Þingvallaveginum.
Töfrar Mosfellsheiðar
Eftirfarandi umfjöllum um „Töfra Mosfellsheiðar“ birtist í Morgunblaðinu árið 2021:
Mosfellsheiði – kort.
„Mosfellsheiði er víðlent heiðarflæmi á suðvesturhorni landsins. Má með nokkurri einföldun segja að Þingvallavegur og Suðurlandsvegur rammi heiðina inn að norðan- og sunnanverðu, hún nái að íbúðarbyggð í Mosfellsbæ að vestanverðu og langleiðina að Þingvallavatni í austri.
Mosfellsheiði-kort 1908.
Heiðin er innan lögsögumarka sex sveitarfélaga. Þau eru Mosfellsbær, Reykjavíkurborg, Bláskógabyggð, Grímsnes- og Grafningshreppur, Sveitarfélagið Ölfus og Kópavogsbær. Eignarhaldið er ýmist á hendi sveitarfélaganna sjálfra eða einstakra bújarða en nafn heiðarinnar vísar til prestssetursins á Mosfelli í Mosfellsdal sem átti vesturhluta heiðarinnar til ársins 1933 þegar íslenska ríkið festi kaup á þeim hluta. Mosfellsheiði rís hæst 410 m y.s. í Borgarhóum sem eru kulnuð eldstöð. Eldvirkni hefur verið víðar á háheiðinni enda er hún að stórum hluta þakin grónum hraunum. Víðfeðmir melar og móar, grashvammar og tjarnir setja einnig sterkan svip á náttúru heiðarinnar.
Mosfellsheiðarleiðir.
Fyrir tveimur árum kom út gönguleiðaritið Mosfellsheiðarleiðir sem Ferðafélag Íslands gaf út. Í ritinu eru lýsingar á samtals 23 leiðum. Tólf þeirra eru gamar þjóðleiðir, sex hringleiðir og fimm línuvegir.
Nokkrir lykilstaðir eru á Mosfellsheiði og frá þeim liggja síðan áhugaverðar gönguleiðir.
Bringur
Bringur – bærinn; loftmynd 1954.
Ekið er austur Mosfellsdal í átt til Þingvalla. Beygt er til hægri af Þingvallavegi ofan við Gljúfrastein og síðan farið eftir allgrófum malarvegi um 900 metra leið að eyðijörðinni Bringum, þar sem hægt er að leggja bílum. Náttúrufegurð er mikil í Bringum, útsýni til hafs og mannvistarleifar frá þeim tíma þegar búseta var þar.
Náttúran og sagan voru aðalástæður þess að hluti af Bringnajörðinni var gerður að fólkvangi árið 2014. Hægt er að ganga hringleið um fólkvanginn eftir göngustíg sem liggur frá bílstæðinu, fyrst niður að Köldukvísl, þar sem getur að líta tóftir Helgusels, síðan upp með ánni að Helgufossi og loks í norðurátt að bæjarrústum ofarlega í túninu og til baka á bílastæðið. Sú ganga tekur um 40 mínútur. Þeir sem kjósa lengri ferðir geta valið um sjö leiðir sem eiga upphaf sitt hér.
Skeggjastaðir
Skeggjastaðir og Hrafnhólar.
Leiðin að Skeggjastöðum liggur til norðurs af Þingvallavegi efst í Mosfellsdal, á móts við bæinn Seljabrekku. Eftir að hafa ekið 2,2 km í norðurátt komum við að Skeggjastöðum sem var landnámsjörðin í Mosfellssveit eins og fram kemur í Landnámu: „Þórðr skeggi hét maðr. Hann var sonr Hrapps Bjarnarsonar bunu. Þórðr átti Vilborgu Ósvaldsdóttur. Helga hét dóttir þeira. Hana átti Ketilbjörn inn gamli. Þórðr fór til Íslands ok nam land með ráði Ingólfs í hans landnámi á milli Úlfarsár ok Leiruvágs. Hann bjó á Skeggjastöðum. Frá Þórði er margt stórmenni komit á Íslandi.“ Með þennan fróðleiksmola úr Landnámu í veganesti hefjum við för okkar um Stardalsleið.
Vilborgarkelda
Vilborgarkelda – kort.
Vilborgarkelda, oft kölluð Keldan, er blautlent og grasi gróið landsvæði í 220 metra hæð yfir sjávarmáli, austarlega á Mosfellsheiði. Þeir sem hyggjast fara þangað og koma akandi yfir Mosfellsheiði eftir Þingvallavegi beygja til hægri inn á Grafningsveg og síðan fljótlega aftur til hægri við Gíslhól, á móts við gámasvæði sem þar er. Þá erum við komin á Þingvallaveginn frá árinu 1930 sem liggur hér ofan á Gamla Þingvallaveginum frá 1896. Farið er um Harðavöll, Ferðamannahorn og Þorgerðarflöt. Eftir 2,8 km akstur komum við í Vilborgarkeldu.
Draugatjörn
Draugatjörn og Draugatjarnarrétt.
Leiðin að Draugatjörn liggur frá Suðurlandsvegi fyrst í áttina að Hellisheiðarvirkjun, fram hjá stöðvarhúsinu og síðan til vinstri, inn á gamla þjóðveginn sem lagður var frá Reykjavík og austur yfir Hellisheiði á árunum 1876-1878 og var þjóðbrautin austur fyrir Fjall til ársins 1958.
Á mótum nýja og gamla vegarins er við hæfi að staldra við og horfa heim að Kolviðarhóli og jafnvel að aka þangað um leið og við rifjum upp þá tíma þegar staðurinn var í alfaraleið og gestkvæmt var á Hólnum.
Búasteinn.
Grasi gróin veggjabrot minna á blómlegt mannlíf og merka sögu á horfinni öld og skammt frá bæjarhólnum má sjá stóran, stakan klett. Þetta er Búasteinn, nefndur eftir Búa Andríðssyni í Kjalnesingasögu en samkvæmt henni banaði hann Kolfinni og mönnum hans á þessum slóðum.
Eftir þennan krók á vit sögunnar ökum við stuttan spöl eftir veginum í vesturátt, fram hjá Húsmúlarétt sem var byggð árið 1967 og endurbyggð 2006. Loks er beygt til hægri á vegamótum og fljótlega komum við að læstu hliði á veginum. Þar leggjum við bílnum.
Lyklafell
Lyklafell.
Við Lyklafell á sunnanverðri Mosfellsheiði eru hreppamörk, sýslumörk og vegamót margra leiða sem áður voru fjölfarnar. Lyklafell var því sannkallaður lykilstaður og gæti það verið skýring á nafninu, þótt þjóðsögur hafi tengt það við lykla Skálholtsstaðar. Sunnan við fellið eru Vatnavellir við Fóelluvötn sem voru algengur náttstaður ferðamanna á fyrri tíð.
Uppþornuð tjörn vestan Lyklafells við vestari austurleiðina.
Hægt er að aka í áttina að Lyklafelli eftir vegi sem liggur með fram Búrfellslínu 3. Beygt er af Suðurlandsvegi til norðurs inn á línuveginn en vegna aðgreiningar akstursleiða á Suðurlandsvegi er aðeins hægt að aka inn á hann þegar komið er úr austri. Þeir sem eru á austurleið þurfa því að aka að Bláfjallavegi, snúa þar við og aka til baka smáspöl í áttina að Reykjavík þar til beygt er til hægri inn á línuveginn. Hafa skal allan varann á, því að þarna þrengist þjóðvegurinn í eina akrein í hvora átt og þar er engin vegöxl.
Línuvegurinn liggur norður yfir Fossvallaá um Vatnahæð að vegamótum við dælustöð. Þar er beygt til hægri og ekið í áttina að fjallinu eftir vegi sem lagður var vegna lagningar á heitavatnsleiðslu. Þegar við komum að öðrum vegamótum beygjum við til vinstri inn á línuveg og komum fljótlega á stórt plan þar sem gott er að leggja bílum.
Elliðakot
Elliðakot.
Elliðakot er fornt býli í sunnanverðri Mosfellssveit. Það hét fyrst Hellar og síðan Helliskot fram á síðari hluta 19. aldar. Bærinn fór í eyði um miðja síðustu öld en fyrrum var Elliðakot þekktur áningarstaður ferðamanna af Suðurlandi sem gistu þar gjarnan áður en þeir lögðu í síðasta áfangann til Reykjavíkur. Þeir sem koma akandi úr Reykjavík og hyggjast fara að Elliðakoti beygja af Suðurlandsvegi (nr. 1) til vinstri skammt austan við býlið Gunnarshólma. Við vegamótin er skilti með bæjarnafninu Elliðakot. Ekið er yfir brú á Hólmsá og gegnum sumarhúsahverfi og þá komum við fljótlega að rústum Elliðakots þar sem við leggjum bílnum og höldum af stað, gangandi eða ríðandi.
Djúpidalur
Djúpidalur.
Stysta leiðin frá Reykjavík í Djúpadal liggur um Suðurlandsveg og síðan er beygt inn á Hafravatnsveg. Eftir 4,6 km akstur eftir þeim vegi er komið að gatnamótum. Á vinstri hönd liggur vegur að Hafravatni en við höldum áfram inn á Nesjavallaleið. Okkur ber fljótlega upp á Rjúpnaás þar sem við beygjum til hægri inn á sumarbústaðaveg og leggjum bílnum þar á litlu stæði. Hér blasir Djúpidalur við okkur en hann var fyrrum vinsæll áningarstaður hestamanna. Þar var haldin mikil veisla til heiðurs Friðriki VIII. konungi og föruneyti hans þegar hann ferðaðist til Þingvalla sumarið 1907.
Seljadalur
Seljadalur.
Til að komast að lykilstaðnum Seljadal er beygt af Hafravatnsvegi inn á veg sem liggur að bænum Þormóðsdal. Á hægri hönd niðar Seljadalsá en snemma á 20. öld var grafið eftir gulli við ána með litlum árangri. Leið okkar liggur fram hjá Þormóðsdal og áfram að stórri grjótnámu þar sem unnið hefur verið efni í malbik. Þar beygjum við til hægri og komum fljótlega á malarplan sem er ágætt bíla stæði. Þar tökum við fram gönguskóna, fjallahjólið eða leggjum hnakk á hest.“
Heimild:
-Ferðalög – Ferðalög innanlands; Töfrar Mosfellsheiðar, Morgunblaðið 20.2.2021.
-https://www.mbl.is/ferdalog/frettir/2021/02/20/tofrar_mosfellsheidarleidar/
Gamli Seljadalsvegur um Kambsrétt.
Selatangar – saga
Á Selatöngum var fyrrum verstöð og útræði mikið. Gengu þaðan m.a. biskupsskip frá Skálholti. Þar sér enn allmikið af gömlum búðartóftum og görðum, er fiskur og þorskhausar voru fyrrum hengdir á til herzlu.
Í Katlahrauni – Sögunarkór.
Hjá Selatöngum eru hraunhellar margir, en flestir litlir. Var hlaðið fyrir opið á sumum þeirra til hálfs og notuðu sjómenn þá til ýmissa hluta. Í einum höfðu þeir kvörn sína og kölluðu þeir þann helli Mölunarkór, í öðrum söguðu þeir og kölluðu hann því Sögunarkór o.s.frv. Reki var mikill á Selatöngum og færðu sjómenn sér það í nyt; smíðuðu þeir ýmsa gripi úr rekaviðnum, þá er landlegur voru, en þær voru ekki ótíðar, því að brimasamt var þar og því sjaldan róið á stundum.
Selatangar – verbúð.
Á síðara hluta 19. aldar bjó í Stóra-Nýjabæ í Krýsuvík maður sá, er Einar hét. Hann átti mörg börn, og er saga þessi höfð eftir tveim sonum hans, Einari og Guðmundi. Einar, faðir þeirra, var allt að 30 vertíðum formaður á Selatöngum. Var í mæli, að reimt hefði verið á Selatöngum, og var draugsi sá í daglegu tali nefndur Tanga-Tómas. Hann gerði búðarmönnum ýmsar smáglettur, en var þó ekki mjög hamramur. Þá bjó á Arnarfelli í Krýsuvík maður sá, er Beinteinn hét. Var talið að Tómas væri einna fylgispakastur við hann. Var Beinteinn þessi fullhugi mikill, smiður góður og skytta og hræddist fátt. Var þetta orðtak hans: „Þá voru hendur fyrir á gamla Beinteini“.
Einu sinni varð Beinteinn heylítill, og flutti hann sig þá niður á Selatanga með fé sitt til fjörubeitar. Var hann þarna um tíma og hafðist við í sjóbúð, er notuð var á vetrum.
Gengið um Selatanga.
Kvöld eitt er Beinteinn kemur frá fénu, kveikir hann ljós og tekur tóbak og sker sér í nefið.
Tík ein fylgdi honum jafnan við féð og var hún inni hjá honum. Veit Beinteinn þá ekki fyrr en ljósið er slökkt og tíkinni hent framan í hann. Þreif hann þá byssuna og skaut út úr dyrunum. Sótti draugsi þá svo mjög að Beinteini að hann hélzt loks ekki við í sjóbúðinni og varð að hröklast út í illviðrið og fara heim til sín um nóttina. Hafði Beinteinn skaröxi í hendi og hvar sem gatan var þröng á leiðinni heim um nóttina, þá kom draugsi þar á móti honum og reyndi að hefta för hans, en undir morgun komst Beinteinn heim og var þá mjög þrekaður. Um viðskipti draugsa og Beinteins er ekki fleira kunnugt, svo að sögur fari af. Þess má geta, að þá er Beinteinn var spurður, hvað hann héldi, að um draugsa yrði, er sjóbúðin yrði rifin, þá svaraði hann: „Og hann fylgir staurunum, lagsi“.
Selatangar – fiskbyrgi.
Nokkru eftir þetta bar svo við, að tveir áður nefndir synir Einars bónda í Stóra-Nýjabæ fóru niður á Selatanga á jólaföstunni og hugðu að líta til kinda og ganga á reka; jafnframt ætluðu þeir að vita, hvort þeir sæju ekki dýr, því að annar þeirra var skytta góð.
Þeir komu síðla dags niður eftir og sáu ekkert markvert; fóru þeir inn í þá einu búð sem eftir var þar þá og ætluðu að liggja þar fram eftir nóttinni, en fara á fætur með birtu og ganga þá á fjöru og vita, hvort nokkuð hefði rekið um nóttina.
Selatangar – sjóbúð og fiskbyrgi.
Bálkar voru í búðinni fyrir fjögur rúm, hlaðnir úr grjóti, eins og venja var í öllum sjóbúðum og fjöl eða borð fyrir framan. Lögðust þeir í innri rúmbálkinn að vestanverðu og lágu þannig að Einar svaf við gaflhlaðið en Guðmundur andfætis. Þá er þeir höfðu lagzt niður, töluðu þeir saman dálitla stund og segir þá Guðmundur meðal annars:
„Skyldi þá Tómas vera hér nokkurs staðar?“
Kvað Einar það líklegt vera. Fella þeir svo talið og ætlað að sofna en er þeir hafa legið litla stund heyra þeir að ofan af ytra bálkinum við höfuð Guðmundar stekkur eitthvað. Var það líkast því sem stór hundur hefði stokkið niður á gólfið; voru þeir þó hundlausir er þeir komu þangað, og búðin lokuð. Segir þá annar bræðranna:
Tanga-Tómas á Selatöngum með FERLIRsfélögum.
„Þarna er hann þá núna“, en í sömu svipan er kastað tómu kvarteli sem hafði staðið á ytra bálkinum hinum megin, inn í gaflhlað beint yfir höfuð Einari. Sofnuðu þeir bræður ekki um nóttina, en fóru á fætur. Ekki lét draugsi neitt frekara til sín heyra. Eftir 1880 lagðist útræði niður frá Selatöngum. Um það leyti var seinasta sjóbúðin rifin, og hafa menn eigi hafzt þar við síðan.
Rauðskinna I 41
Fengið af:
http://bokasafn.rnb.is/default.asp?cat_id=233
Selatangar – uppdráttur
Ögmundarhraun – saga II
Krýsuvík var fyrst byggð niður við sjó fyrir utan Krýsuvíkurberg en lagðist svo af að eldur kom upp í fjöllunum þar norður frá og runnu hraunkvíslar hér og þar fram milli hálsanna.
Ögmundarhraun – Latfjall fjær.
Hin austasta var einna mest. Smalamaður frá Krýsuvík var kippkorn frá bænum með féð. Hann sá glóandi hraunleðjuna brjótast með feikna hraða ofan úr skarðinu upp frá bænum og fleygjast út yfir láglendið. Hann sá sér enga von til undankomu og beið með fjárhópinn þess er að höndum kæmi og fól sig guði; því hefir þetta skeð í kristni. Eldflóðið fór allt í kringum hann og sakaði hvorki hann né féð nema eina á. Það heitir síðan Óbrennishólmi er hann var.
Hraunið hljóp um allt láglendið og fram í sjó en túnið í Krýsuvík stóð óskaddað og bærinn. En nálega var ófært þangað þegar hraunið var storknað. Þá var bærinn fluttur þangað sem Krýsuvík er nú, það er ofar og austnorðar. Þegar eldgangurinn var afstaðinn og hraunin storknuð, fóru menn að leggja veg til Grindavíkur yfir þau og urðu öll rudd að þessu austasta fráteknu. Það var svo stórgert og hart að það var óvinnandi og varð ekki veginum komið á.
Ögmundarstígur.
Ögmundur var berserkur. Er hann sagður hafa lagt veginn yfir hraunið en verið drepinn að verki loknu. Grjóthrúga er þar við götuna sem kallað er leiði Ögmundar. Vegurinn gegnum hraunið er djúpur og mjór og víða brotinn eða höggvinn gegnum stór hraunstykki en víða þrepóttur í botninn sem hin gamla staka segir:
Eru í hrauni Ögmundar
ótal margir þröskuldar,
fáka meiða fæturnar
og fyrir oss brjóta skeifurnar.
Síðan hefir hraunið heitið Ögmundarhraun. Þar sem áður var bærinn Krýsuvík, heitir nú Húshólmi. Þar er vatnsskortur oftast. Litlar menjar kvað sjást þar af tóftum, en þó nokkrar.
Fengið af:
-http://bokasafn.rnb.is/default.asp?cat_id=292
Ögmundardys austast við Ögmundarstíg.
Krýsuvík – Fornleifar og umhverfi; Bjarni F. Einarsson
Í skýrslu Bjarna F. Einarssonar; „Krýsuvík – Fornleifar og umhverfi“, frá árinu 1998 segir m.a. frá fyrstu heimildum um Krýsuvík, auk þess sem skýrslunni fylgir skrá um einstakar fornleifar tilheyrandi svæðinu. Hér verður rifjaður upp sögulegi kafli skýrslunnar:
Fyrstu heimildir um Krýsuvík
Bjarni F. Einarsson.
„Krýsuvíkur er fyrst getið í Landnámu, en þar stendur: „Þórir haustmyrkr nam Selvág ok Krýsuvík, en Heggr son hans bjó at Vági. Böðmóðr, annarr son hans, var faðir Þórarins, föður Súganda, föður Þorvarðar, föður Þórhildar, móður Sigurðar Þorgrímssonar. Molda-Gnúpssynir byggðu Grindavík, sem fyrr er ritat“. (Landnáma 1968:392).
At Vági er sennilega Vogur í Selvogi, sem síðar hét Vogshús og enn síðar Vogsósar. Um staðsetningu Vága eru þó talsverðar efasemdir (Guðni Jónsson 1936-40:14).
Í kirknaskrá Páls biskups Jónssonar, sem mun vera frá því um 1200, er kirkju í Krýsuvík getið (Í.F. Bd. XII, bls. 9).
Keflavík í Krýsuvík – einnig nefnd Kirkjufjara. Þangað átti Skálholtskirkja og síðar Strandarkirkja um tíma rekaítök undir berginu til forna og eftir siðaskiptin kirkjur á norðanverðum Reykjanesskaga, s.s. Viðey og Garðakirkja. Í Keflavík var jafnan nægt rekaviðs.
Árin 1234 og 1284 er Krýsuvík nefnd í máldaga Maríu kirkju og staðar í Viðey í sambandi við hvalreka. Þar stendur: „en sa maðr er byr j Krysvvik skal skylldr at festa hvalinn sva at eigi taki sør vt. oc gera orð til Viðeyiar fyri þriðiv.sol“. (Í.F. Bd. I, bls. 507).
Ábúandi átti sem sagt að sjá til þess að hval ræki ekki aftur út og gera Viðeyjarmönnum viðvart innan þriggja daga.
Elsti máldagi Maríukirkju í Krýsuvík er frá því um 1275. Sá máldagi er í stórum dráttum eins og máldagi frá 1307, en sá síðari þó fyllri.
Við Mölvíkurtjörn austan Herdísarvíkur. Þangað sótti Skálholtsstóll og Strandarkirkja löngum reka með vísan til fornra heimilda.
Í Rekaskrá Strandarkirkju frá um 1275 stendur: „skalhollt oc krijsevijk aa halfann allann reka under fuglberge vid strandar land. millum wogs oc hellis aa strendur land iiij vætter enn ef meire er þa aa skalhollt oc krijsvijk fiordung j øllum hual. Enn fyrer austann wog til vindass aa stadur j skaalhollte oc krijsevijk halfan tolftung i hual ef meire er enn iiij vætter. en ecke ellegar“. (Í. F. Bd. II, bls. 124-25).
Krýsuvíkur er síðan getið á mörgum stöðum í Fornbréfasafni og yfirleitt í sambandi við hvalreka, rekavið og grasnytjar. Hafa þessi hlunnindi því verið eftirsóknarverð frá ómunatíð (sjá nánar góða greinargerð um Krýsuvíkurkirkju í fornum heimildum í Sveinbjörn Rafnsson 1982).
Húshólmi – uppdráttur Brynjúlfs Jónssonar.
Árið 1818 sendi séra Jón Vestmann (1769-1859), sem var prestur í Selvogi árin 1811-1842, bréf til hinnar konunglegu nefndar, Commissionen for oldsagers opbevaring, vegna fyrirspurna nefndarinnar um fornleifar í landinu. Í bréfinu tíundar Jón þær fornleifar sem hann þekkir og telur þess verðar að minnast á. Engar nefnir hann fornleifarnar í landi Krýsuvíkur sem nú er, en í Ögmundarhrauni segir hann svo frá fornleifum: „Hús-Hólmi nidur vid sióin í sama Hrauni; hefur þar verid mikil Bygd, ádur brann, sem sést af Húsa Tópta-Brotum, ad hvórium Hraunid géngid hefur, ad nordan –vestan -sunnan, – og næstum saman ad Austan-verdu; er þar 1t Tóptar-Form 12 Feta breidt, og 24 Feta Lángt, innan nidur fallinna Veggia Rústa; Húsid hefur snúid líkt og Kyrkiur vorar, meinast gamalt Goda-Hof; fundid hafa Menn þar nockud smávegis af Eyrtægi; þar er tvisett Túngards form med 20 fadma Milli-bili, hvar nú er Ling Mói; enn Graslendi innan ynnri Gards, austanverdt vid Hraunid“. (Frásögur um fornaldarleifar 1983:227).
Uppdráttur af Húshólma frá fyrri tíð – (Haukur og Sigmundur).
Forsaga byggðar í Krýsuvík er að margra mati í hólmanum í Ögmundarhrauni sem getið er í svarbréfi Jóns prests hér að framan. Munu rústirnar þar gjarnan vera kallaðar Gamla Krýsuvík (Stefánsson 1967 (b)) eða Krýsuvík hin forna (Brynjólfur Jónsson 1903:48-50. Stefán Stefánsson (b) 1967:556. Haukur Jóhannesson og Sigmundur Einarsson 1988:84).
Athyglisvert er að Jón Vestmann segir ekki orð um þessi munnmæli í lýsingunni hér að ofan. Hann nefnir þau hins vegar í annarri lýsingu sinni árið 1840 og segir að; „Meina menn, að Krýsuvík hafi þar verið, áður hraunið hljóp þar yfir,… (Sýslu- og sóknarlýsingar 1979:214). Enn í dag sjást talsverðar rústir í Húshólma og Kirkjulágum þar skammt hjá.
Húshólmi – garður – uppdráttur – (Haukur og Sigmundur).
Um aldur Ögmundarhrauns eru talsvert skiptar skoðanir. Elst er það talið geta verið frá öndverðri 11. öld. Byggist sú tilgáta á geislakolsgreiningum. Aðrir telja hraunið runnið seint á tímabilinu 1558-1563 Einnig hefur verið talið að hraunið hafi runnið 1340. Síðustu niðurstöðurnar benda til þess að hraunið hafi runnið árið 1151 (Jón Jónsson 1982:196. Sveinbjörn Rafnsson 1982:422. Haukur Jóhannesson og Sigmundur Einarsson 1988:71). Upptök hraunsins eru í Trölladyngju, nyrsta hluta Núpshlíðarháls.
Eins og áður hefur komið fram er elsta heimild um kirkju í Krýsuvík í kirknaskrá
Húshólmi – meint kirkjutóft í Kirkjulág.
Páls biskups Jónssonar frá því um 1200 og nokkrum sinnum er kirkjunnar getið í 13. aldar heimildum. Ef Ögmundarhraun er rétt aldursgreint til ársins 1151 hljóta skrárnar að eiga við kirkju þá er stóð undir Bæjarfellinu, á núverandi stað. Þó hefur því verið haldið fram að kirkja hafi áfram staðið fram á 16. öld, úti í Ögmundarhrauni (Haukur Jóhannesson og Sigmundur Einarsson 1988:83-84).
Ekki eru rústirnar í Ögmundarhrauni þær einu sem kallaðar hafa verið Krýsuvík hin forna. Um Gestsstaði hefur einnig verið sagt að þeir hafi áður heitið Krýsuvík (Brynjólfur Jónsson 1903:50. Örnefnaskrá (a)).
Gestsstaðir í Krýsuvík, skálatóft sunnan Gestsstaðavatns.
Elsta heimildin um Gestsstaði er Jarðarbók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns sem skráð var árið 1703. Þar segir: „Gestsstader skal hafa jörð heitið nálægt Krýsivík undir Móhálsum austanverðum, þar allnærri sem nú liggur almenníngsvegur. Sjer þar enn nú bæði fyrir túngarði og tóftum. En völlur er allur uppblásinn og kominn í mýri, mosa og hrjóstur, so ómögulegt er jörðina aftur að byggja. Þar með liggur hún aldeilis í Krýsivíkurlandi og kann ekki fyrir utan skaða Krýsivíkur landsnytjar að hafa. Hefur og so lánga tima í eyði legið, að engi veit til nær hún hafi bygð verið“. (1923-24:7).
Gestsstaðir – uppdráttur – ÓSÁ.
Um Gestsstaði segir Brynjólfur Jónsson svo: „Gestsstaðir heitir eyðibær, norðvestur frá Krýsuvík, þar sem hún er nú. Hann hefir staðið sunnanundir dálítilli hæð, sem gengur austur úr Sveifluhálsi. Sér þar enn fyrir tóftum, og hefir þar verið stórbýli á sínum tíma. Bæjartóftin er 10 fðm. löng frá austri til vesturs, hefir engan miðgafl, og mun hafa verið þiljuð sundur. Dyr sjást ógjörla, en á suðurhliðinni hafa þær verið, því hvorki eru þær á endunum né norðurhliðinni. Skamt austar er fjóstóft, 6 fðm löng, og heygarður eigi lítill. Túnið hefir og verið mikið og umgirt, en nú er það víða komið í sand af árennsli.
Gestsstaðir – eystri tóftin og garður.
– Þau ummæli heyrði eg í Grindavík fyrir 40 árum, að Krýsuvík hefði í fyrstu heitið Gestsstaðir og staðið vestur við hálsinn. Nú þykist eg skilja sannleikann í þeim. Jörðin Gestsstaðir hefir verið eign Krýsuvíkurkirkju. Hefir bærinn og kirkjan því verið flutt í Gestsstaðaland eftir eldinn. En við það hafa Gestsstaðir verið sviftir nytjum, og meir og meir þrengt að þeim unz þeir lögðust í eyði“. (1903:50).
Húshólmi – skálar. Hafa ber í huga að skv. lýsingunum skoðaði Bjarni einungis Húshólma „úr lofti“. Stundum skiptir samhengi hlutanna í nánd máli?
Tel ég munnmælin um Krýsuvík hina fornu í Ögmundarhrauni og við Gestsstaði vera seinni tíma útskýringar til að varpa einhverju ljósi á rústir sem voru mönnum annars með öllu óþekktar og óskiljanlegar. Benda má á að Svartadauða, sem geisaði árið 1402, hefur verið kennt um eyðingu margra óþekktra eyðibýla hér á landi, en aldrei hefur sambandið verið staðfest, öðru nær. Þau eyðibýli, sem rannsökuð hafa verið og heimildir eru til um að hafi farið í eyði vegna Svartadauða, eru öll mun eldri en plágan.
Krýsuvík – örnefnakort Ólafs Þorvaldssonar.
Túlkun Brynjólfs um eyðingu Gestsstaða er tilgáta en ekki staðreynd. Ekki er víst að neitt samband sé á milli eyðingar Gestsstaða og Krýsuvíkurbæjarins, heldur hafi staðreyndir skolað til og munnmæli og ímyndanir blandast saman svo úr varð þjóðsaga um Krýsuvík hina fornu. Hluti af þessum munnmælum er frásögn í Ferðabók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar frá 1772 um hraunflóð sem eyddi kirkjustað sem hét Hólmastaður, en það er elsta lýsingin á rústunum í Ögmundarhrauni. Átti það að hafa gerst tveimur öldum fyrir heimsókn þeirra Eggerts og Bjarna. Í þeirri frásögn er hvergi minnst á sambandið við Krýsuvík.
Húshólmi – uppdráttur ÓSÁ.
Í dagbókum þeirra félaga frá 31. maí 1755 segir svo frá rústunum: „… taget bort Nogle bajer som her til forne har Staaet, og der i bland Eet Kirke Stæd som heed Holma Stadur med Kirken og alting, dog Seer man endnu paa Een liden plet der er bleven til overs lidet Stykke af (sem det meenes) Kirke gaarden og faae Stykker af Husevæggene“. (Í Sveinbjörn Rafnsson 1982:420).
Krýsuvíkurbærinn um 1789. Bæjarfellið rís yfir bænum og Vestarilækur liðast undir bæjarhólnum. Hér má gera sér einhverja grein fyrir kirkjugarðinum. Framarlega á myndinni, niður við lækinn, virðast vera kálgarðar. Á þessum slóðum er garðbrot í dag, sem gæti verið hluti af kálgarðinum. Á þessum slóðum fundust einnig rúst og stífla sem giskað er á að gætu verið leifar af brennisteinsstöðinni sem stóð við bæinn árin 1755-63. Kálgarðurinn gæti hafa verið settur niður við þær rústir. Horft til NNA. Myndin er úr bókinni Íslandsleiðangur Stanleys 1789. Ferðabók. Reykjavík 1979,
bls. 268.
Kannski hét jörðin í Ögmundarhrauni Hólmur í fyrstunni, síðan Hólmastaður þegar kirkja var reist á staðnum. Fornleifafræðirannsókn gæti skorið úr um þessi mál, en þangað til verður ekki hægt að segja hvað sé rétt og hvað ekki.
Árið 1563 er aðeins ein hjáleiga við Krýsuvík (Sveinbjörn Rafnsson 1982:421-22). Ekki er þess getið hver hún var.
Í manntali árið 1703 eru hjáleigurnar orðnar sex að tölu, en ekki er nafna þeirra getið (Manntal á Íslandi árið 1703:3). Í Jarðabók frá sama ári segir að hjáleigurnar séu fimm, en tvíbýli á einni þeirra, Nýjabæ. Hjáleigurnar voru Suður hjáleiga (Suðurkot), Norður-hjáleiga (Norðurkot), Nyie Bær, Litle Nyie Bær og Austur hús (Jarðabók 1923-24:4-7). Austurhús gæti verið við [Stóra] Nýjabæ, en þegar þar var tvíbýli voru húsin kölluð Austurbærinn og Vesturbærinn (Stefán Stefánsson 1967 (a)). Skúli Magnússon landfógeti segir að árið 1703 hafi hjáleigurnar verið sjö (Landnám Ingólfs 1935:109). Ekki er nafna þeirra getið.
Krýsuvíkurbærinn um 1789, séð frá NNA. Sennilega er Norðurkot neðst á myndinni t.v. Þar virðist vera hringlaga túngarður með nokkrum húsum fyrir innan. Arnarfellið sést t.v. og Bæjarfellið t.h. Myndin er úr sömu heimild og næsta mynd á undan.
Árið 1781 er eitt höfuðból í Krýsuvík og sjö hjáleigur. Segir í heimild frá þessum tíma að áður hafi verið tvíbýli í Krýsuvík. (Landnám Ingólfs 1935:109).
Í manntali frá árinu 1801 eru hjáleigurnar við Krúsuvík fjórar (fimm sé reiknað með tveimur á Stóra Nýjabæ). Þær eru Suður- og Norðurkot, Stóre Niebær 1. og 2. og Litle-Niebær. (Manntal 1978:320-21).
Nokkrum árum síðar, eða í manntali 1816 eru hjáleigurnar þær sömu og árið 1801. (Manntal 1953:375).
Árið 1840 eru hjáleigurnar orðnar sex talsins og allar nafngreindar. Þær eru Suður- og Norðurkot, Stóri- og Litli Nýibær, Lækur, og Vigdísarvellir. (Sýslu- og sóknalýsingar 1979:219). Sennilega var tvíbýli á Stóra Nýjabæ, sem gerir hjáleigurnar í raun sjö.
Fell – tóftir.
Í manntali frá árinu 1845 eru hjáleigurnar taldar upp sjö talsins. Þær eru Suður- og Norðurkot, Stóri Nýibær 1 og 2 Litli Nýibær, Vigdísarvellir og Bali. (Manntal 1982:346-47).
Í jarðartali Johnsens frá árinu 1847 eru hjáleigurnar einnig taldar vera sjö. Þær eru Suður- og Norðurkot, Stóri- og Litli Nýibær, Vigdísarvellir, Bali og Lækur. Lögbýlið Krýsuvík virðist vera tvíbýli. (Johnsen 1847:84). Ekki kemur fram hvort Stóri Nýibær hafi verið tvíbýli eða ekki. Af þessu má ráða að sumar hjáleigurnar hafa verið í ábúð meira og minna frá árinu 1703, jafnvel lengur. Aðrar koma og fara, en samtals verða þær aldrei fleiri en sjö talsins til ársins 1847.
Eyri – bæjartóftir.
Sumar hjáleigur virðast vera svo stutt, eða seint, í ábúð að þeirra er ekki getið í jarðabókum né manntali. Þær eru Fitjar, Fell, Eyri (fór í eyði 1775. (Örnefndaskrá (b)), Arnarfell (sama og Fell?), Hafliðastekkur, Snorrakot, Snartakot(?) og Hnaus. Einhverjar þessara hjáleiga gátu verið tómthús, svo sem Snorrakot, Snartakot og Hnaus. Um önnur býli, sem vel gátu verið lögbýli, er nánast ekkert vitað, svo sem Gestsstaði og Kaldrana, en þau geta verið býsna forn.
Kaldrani í Krýsuvík.
Um staðsetningu Fells og Eyrar er næsta lítið vitað. Get ég mér þess til að Eyri hafi verið sunnan í Selöldunni, og Fell rétt hjá Grænavatni (sé það ekki hið sama og Arnarfell). Um Snartakot, Snorrakot og Hnaus er vitað að þau stóðu í túni eða túnjaðri Krýsuvíkur.
Talið er að býlið Kaldrani hafi staðið skammt SV af Kleifarvatni og voru garðar sýnilegir þar um aldamótin síðustu. Segir Brynjólfur Jónsson svo frá staðháttum: „Sést þar 34 fpm. langur túngarðsspotti úr stórgrýti og lítil grasflöt fyrir ofan, suðaustan í sléttum melhól. Uppi á hólnum er dálítil dreif af hleðslugrjóti, sem virðist vera flutt þangað af mönnum. Gæti það verið leifar af bænum. Því garðspottinn sýnir það, að þar hafa menn búið á sínum tíma“. (1903:50).
Seltún – minjar brennisteinsvinnslunnar.
Ekki fundust ummerki þau sem getið er hér að ofan við vettvangskönnun, nema ef átt sé við garðstúf. Ekki er það þó líklegt. Sennilega eru allar minjar um býlið komnar undir sand/vikur.
Árið 1753 var fyrsta brennisteinshreinsunarstöð landsins reist við námurnar í Krýsuvík (við Seltún?). Skömmu síðar, eða árið 1755, var stöðin flutt að Krýsuvíkurbænum og var þar a.m.k. til ársins 1763. (Landnám Ingólfs 1935:111). Hvar nákvæmlega þessi stöð stóð eftir flutninginn er ekki vitað í dag, en varla hefur hún verið mjög nálægt bæjarhúsunum sjálfum. Giska ég á að hún kynni að hafa staðið niður við lækinn þar sem stífla og rúst eru staðsett.
Brennisteinsnámuvinnslusvæðið við Seltún.
Stöðin gæti fyrst hafa verið þar sem kallast Brennisteinshúsarústir (Örnefnaskrá (a)), eða Brennisteinshúsatættur (Örnefnaskrá (b)), framan við Seltúnið á Seltúnsbarði, sunnan Selgilsins. Öruggar minjar um stöðina fundust ekki við vettvangsathugun, en einu minjarnar sem fundust við Seltúnið, auk selsins, voru grunnur að einhverju húsi sem gæti hafa verið undir stöðvarhúsinu. Sá grunnur gæti þó verið mun yngri.
Fornleifarnar
Krýsuvík – uppdráttur Bjarna F. Einarssonar.
Engar fornleifarannsóknir hafa verið gerðar á fornleifum á könnunarsvæðinu, svo mér sé kunnugt um. Í Húshólma í Ögmundarhrauni hafa jarðlög verið könnuð af jarðfræðingum og fimm geislakols-aldursgreiningar verið gerðar þar og í næsta nágrenni. Fornleifarnar í hrauninu munu hafa verið teiknaðar upp af fornleifafræðingi, en þær teikningar ekki verið birtar. Niðurstöður geislakolsgreininganna voru að byggð hafi verið á staðnum á 11. öld. (Haukur Jóhannesson o.fl. 1988:79). Torfgarður í Húshólma var sömuleiðis kannaður af jarðfræðingum og því haldið fram að hann hafi verið eldri en landnámsgjóskan svokallaða, en hún féll árið 871 eða 872. (Sami 1988:83). Því bendir ýmislegt til þess að mjög fornar fornleifar sé að finna í Ögmundarhrauni, en hvernig þær tengjast fornleifum í Krýsuvík er ekki ljóst.
Krýsuvík seinni tíma – uppdráttur ÓSÁ.
Ekki hafa allar gamlar þjóðleiðir verið skráðar sérstaklega og stafar það af því að þegar engin ummerki um slíkar leiðir finnast er þeim sleppt. Dæmi um slíkar leiðir má sjá á korti í bók Guðrúnar Gísladóttur (1998, m.a. kort 14) og korti í grein Ólafs Þorvaldssonar (1949:86). Þessar leiðir voru t.d. Engjafjallsvegur, Austurengjavegur og vegur um Bleiksmýri, sunnan við Arnarfell og suður úr. Önnur leið lá norðan við Arnarfellið og austur úr. Ekki ber kortunum alveg saman um nákvæma legu þessara og annarra leiða, enda ekki víst að menn hafi í raun séð leiðirnar almennilega, þegar þeir settu þær inn á kort.
Brennisteinsámur eru ekki skráðar hér og er ástæðan fyrst og fremst sú að undirritaðan skortir þekkingu á að lesa námurnar út í landslaginu og bróðurpartur þeirra er utan við könnunarsvæðið.
Krýsuvík – tóftir brennisteinsnámsins í Hveradal.
En aftur má benda á Guðrúnu Gísladóttur og að auki skýrslu Ole Henchels í ferðabók Ólafs Olaviusar (1965). Í þeirri skýrslu er kort af námusvæðunum og virðast flest allar námurnar þar vera fyrir utan könnunarsvæðið.“
Krýsuvíkurkirkja.
Frá því að framangreind skýrsla varð gerð hefur mikið vatn runnið til sjávar…
Auðveldlega væri hægt að gera verulegar athugasemdir við framangreinda „fornleifaskráningu“, en það er ekki markmiðið með þessari fróðleiksupplýsingu.
Benda má þó á eitt að lokum – Krýsuvík er skrifað í texta með „ý“ en ekki „í“, enda má benda til fornra tilvitnaðra textaskrifa í meðfylgjandi lýsingum því til staðfestingar – sjá HÉR.
Arnarfell – uppdráttur ÓSÁ.
Gíslavarða – saga
Skammt fyrir austan Staðarberg í Grindavík er sker eitt hér um bil landfast sem heitir Ræningjasker.
Gíslavarða.
Nafnið á það að hafa fengið af því að einhvern tíma á 17. öld kom ræningjaskip að landi í Grindavík og lentu ræningjarnir í skerinu og gengu þaðan á land. Þá var prestur á Stað er Gísli var nefndur og var talinn fjölkunnugur. Þá er byggðarmenn urðu varir við ferð ræningjanna, fóru þeir sem skjótast á fund prests og sögðu honum tíðindin. Brá prestur skjótt við og fór á móti ræningjunum og stökkti þeim á flótta þó að sagan segir ekki með hverjum hætti. Hlóð hann síðan vörðu til minja um þennan atburð spölkorn fyrir ofan prestssetrið og lét svo um mælt að meðan nokkur steinn væri óhruninn í vörðunni, skyldu ræningjar ekki granda Grindavík. Varðan nefndist Gíslavarða.
Sú saga hefur jafnan fylgt vörðunni, sem af sumum er nefnd Tyrkjavarða, að henni megi ekki raska.
Rauðskinna I 44
Staðarhverfi – uppdráttur – ÓSÁ.
Reykjanesið skelfur – svolítið
Jarðfræði Reykjaness.
Jarðskjálftahrinan við Fagradalsfjall á Reykjanesskaga heldur áfram. Eftir að hrinan náði hámarki í gær milli klukkan 14 og 16 minnkaði virknin fram til kl. 21 en þá jókst virknin aftur og náði hámarki á milli klukkan 2 og 3 í nótt. Á tímabilinu milli klukkan 1 og 4 í nótt mældust að jafnaði fleiri en 1 skjálfti á mínútu, að sögn Veðurstofunnar. Í morgun á milli klukkan 9 og 10 var virknin komin niður í 8 mælda skjálfta á klukkutíma, en eftir 10 virðist virknin vera að aukast aftur.“Við þetta má bæta að Fagradalsfjall er á einni af misgengisreinunum er ganga í gegnum Reykjanesskagann. Hver rein er virk í um 300 ár, en virknin liggur síðan niðri þess á milli.
Stampagígaröðin.
Langar gígaraðir hafa myndast á reinunum, s.s. Stamparnir (4 gos), Eldvörpin, Sundhnúkarnir, Eldborgirnar, Vesturásagígaröðin, Brennisteinsfjöllin o.fl. Reinarnar eru að gliðna (um 1 cm að jafnaði á ári) og má t.d. sjá þess glögg merki í heiðinni ofan við Voga og einnig á Þingvöllum. Jörðin lyftist og hnígur. Gjárnar og misgengin bera þess einnig augljós merki. Misgengin má t.d. sjá þvert í gegnum Þorbjarnarfellið og á Hábjalla í Vogum, í sunnanverðu Helgafelli og víðar. Undirbergið (jarðskorpan) flýtur stöðugt niður í möttulinn á flekaskilum og verður að kviku, sem leitar á ný upp á yfirborðið. Möttulstrókur undir Vatnajökli heldur t.a.m. Íslandi á floti og viðheldur því. Þetta er lögmál jarðarinnar og gerist allt saman á lengri tíma en lifandi maður fær skynjað. Upphafið að sköpun alheimsins, eins og við þekkjum hann, er talið hafa átt sér stað með Miklahvelli fyrir 17 milljörðum ára. Síðan hefur þróunin haldið áfram og svo mun verða meðan tíminn verður til.
Fagradalsfjall og nágrenni – örnefni skv. herforingjaráðskorti 1906.
Nyrst í Fagradalsfjalli er fallegur þverskorinn gígur. Víða í því eru ummerki eftir eldsumbrot og jarðskorpuhreyfingar. Stóri Hrútur og Kistufell er ágæt dæmi um umbrotin. Fjallið sjálft er geysilegur massi, sem mikla krafta þarf til að færa til. En þegar það gerist verða óneitanlega nokkur læti er vekja athygli, a.m.k. þeirra sem ekki hafa fengið tækifæri til að stíga ölduna. Umhverfis Fagradalsfjall eru fallegir eldgígar, s.s. Sundhnúkarnir og Vatnsheiðin, sem er gömul dyngja. Grindavík stendur t.d. á hrauni, sem kom upp úr þessum gígum fyrir nokkur þúsund árum. Þannig hefur mannfólkið hagnýtt sér þær hagstæðu aðstæður er sjóútrunnið hraunið hefur skapað með ströndum svæðisins. Fegurð þess er einstök (þá eru ekki talin með svæði, sem maðurinn hefur aflagað, t.d. með efnistöku); fallegir hraungígar, langar hrauntraðir, hellar og rásir, skjól fyrir gróður, dýr og menn, fjöll og dalir.
Gígurinn nyrst í Fagradalsfjalli.
Þrátt fyrir að einstaka hraun sé umfangsmikið, s.s. Skógfellshraun og Arnarseturshraun, að ekki sé talað um Sandfellshæðina (sem reyndar er dyngja) þá hafa flest gosin á svæðinu gefið af sér lítil og nett hraun – og fagra gíga.
Jarðskjálftar á svæðinu geta gefið þrennt til kynna; 1. bólgan hjaðnar og ekkert sérstakt gerist, 2. gliðnun verður með tilheyrandi lokaskjálfta eða 3. hraun rennur úr jörðu.
Hæfilegar áhyggjur af hugsanlegu gosi eru sjálfsagðar, en ólíklegt er að það raski byggð miðað við legu hæða á þessu svæði (færi þó eftir hvar það kæmi upp).
Í Fagradal.
Hraungos í eða í námunda við Fagradalsfjall myndi stefna til sjávar austan Grindavíkur (eða í versta falli áleiðis niður í Voga). Meiri áhyggjur þyrfti að hafa af því að birgðir verslana bæjarins myndu þrjóta þegar túrhestarnir kæmu í bæinn í löngum röðum með það fyrir augum að reyna að komast sem næst hraunstraumnum. Þá þurfa yfirvöld að vera snör í snúningum og setja upp alkunn varúðarskilti á völdum stöðum – „Ekki snetra“.
Rétt er að minna á að öll gos á Reykjanesi síðustu aldirnar hafa orðið úti fyrir ströndum þess.
FERLIR er búinn að skrá og mynda allar minjar nálægt Fagradalsfjalli svo til verða heimildir um það sem var – ef svo illa færi.
Frábært veður.
Stóri-Hrútur í Fagradalsfjalli. Nú er umhverfið þar breytt.
Selalda – Fitjar – Eyri – Krýsuvíkursel
Farið var niður að Selöldu ofan Krýsuvíkurbergs. Bæjarstæðið sem og nálægar útihúsatóftir voru skoðaðar. Bærinn fór í eyði 1876 eftir hafa verið tiltölulega stutt í ábúð.
Fitjar og Fitjatúnin undir Selöldu.
Ari Gíslason skrifaði örnefnalýsingu um svæðið eftir Þorsteini Bjarnasyni frá Háholti. Þar segir m.a.: „Sunnan Arnarfells tekur við Krýsuvíkurheiði og austarlega á henni eru tveir hólar, Trygghólar, en sunnan þeirra Trygghólamýri.
Selalda – Strákar.
Suðvestur af Trygghólum er önnur hæð heldur hærri og nær sjó, upp af Hælsvíkinni fyrrnefndu, og heitir hún Selalda. Vestan í henni eru steinstrókar, sem heita Strákar. Vestan undir Strákum er Fitjatún. Hér upp af víkinni er svæði, sem nefnt er Hælsheiði. Þar um rennur Vestri-Lækurinn og í víkina vestanverða eða vestan hennar, og þess má einnig geta hér, að við Hæl er svonefnt Heiðnaberg í bjarginu.“
Fitjar – bæjartóftir.
Fitja er ekki minnst í jarðabókinni 1703. Ekki heldur í manntalinu 1816 eða í sóknarlýsingu 1847. Svo virðist sem bærinn hafi einungis verið í byggð í 15-20 ár.
Í örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar fyrir Krýsuvík segir m.a.: „Arnarfelli hefur að nokkru verið lýst. Undir nyrðra horni þess hafði í fyrri tíð verið mikill áningarstaður skreiðarferðamanna. Þar er Áningarflöt, tjaldstæðið. Sunnan fellsins er Bleiksmýri og hlutar Austurlækurinn hana sundur.
Jónsvarðan eystri.
Alllangt neðan við Arnarfellstjörn eru Trygghólar tveir, fram á Heiðinni. Trygghóll efri, og Trygghóll fremri. Framundan þeim er Trygghólsmýri. Þarna eru og Jónsvörður, Jónsvarðan vestri og Jónsvarðan eystri.
Hér framundan til vesturs er tvær öldur að sjá. Sú nyrðri heitir Selalda. Á henni er Selölduvarða. Fram undan Selöldu er Seljadalur. Vestur eftir honum er farvegur Seljalækur. Beggja megin lækjarfarvegsins eru nokkrar tættur Seljanna.“ Hér ruglar Gísli saman annars vegar selstöðunni, sem honum virðist vera ókunnug, og bæjartóftum Eyrar, sem eru beggja vegna uppþornaðs árfarvegar.
Tóftir Krýsuvíkursels.
„En hér var haft í seli frá Krýsuvíkurbæjunum á fyrri tíð. Krýsuvíkursel voru það kölluð. Vestur af Selöldu eru móbergstindar, nefnast Strákar. Vestarlega í þeim hefur verið skúti, nefndist Strákahellir. Þarna hefur verið hlaðið myndarlegt fjárskýli og hefur í eina tíð verið reft yfir það og nefndist þá Strákafjárhús. Vestan við er melholt og niður undan því er einn Krýsuvíkurbærinn og nefndist Fitjar.
Selalda – berggangur.
Kringum bæinn er Fitjatún og nyrst í því Fitjafjárhús. Vesturlækur rennur hér ofan af heiðinni í Vesturlækjarfossi, en þar fyrir neðan tekur hann nafnbreytingu, nefnist Fitjalækur. Rennur meðfram túninu og niður um Efri-Fitjar. Austur af læknum eru Fitjamóar og þar lengra austur Neðri-Fitjar. Seljabrekka blasir hér við upp undir Seljum. En Seljalækurinn hefur grafið sér farveg allt fram á berg. Fitjagata lá austur og inn um lægð norðan undir Strákum og er komið var að Selöldu, þá lá hún upp í Heiðina upp á fyrr nefndan Húsmel. Vestan við Fitjalækinn liggur nú Bílaslóðin allt niður á berg og vestur að hraunbrúninni. Austan og sunnan Austurlækjar er Bleiksmýrin. Fram af henni niður og austur allt að hrauninu liggur svo Krýsuvíkuheiðin eystri eða Austurheiðin. Fátt er hér örnefna.
Vestan Skriðu tekur við Heiðnaberg eða Heinaberg og nær allt að Fitjalæk, sem hér fellur niður og fram af berginu, og nefnist hér Mígandagróf og Fossinn Mígandi. Kirkjufjara er undir Heinabergi, en þar fyrir vestan tekur við Betstæðingafjara og nær allt vestur að Hæl, Bergsenda vestri eða Gjánni vestri. Af Hælnum hefur víkin hér fyrir framan fengið nafn allt frá Skriðu vestur að Selatöngum og nefnist því Hælsvík.“
Eyri – uppdráttur ÓSÁ.
Eyri fór í eyði 1775. Bærinn hefur að öllum líkindum verið í ábúð stuttan tíma. Um hefur verið að ræða kotbúskap, sennilega byggðan upp úr Krýsuvíkurselinu þar skammt ofar. Tóftir selsins eru greinilega mjög gamlar, líklega frá því frá miðöldum og fyrr. Stekkur selsins er uppi í hlíðinni norðan þess. Hann finnst ekki í fornleifaskráningum. Augljóst er að svæðið hefur verið miklu mun grónara fyrrum en nú má sjá. Gata liggur upp frá Eyri til austurs, framhjá selinu og með Trygghólum áleiðis til Krýsuvíkur. Bærinn Eyri var byggður á lækjarbakka. Mjög líklega hefur Vestur- eða Austur-Lækur runnið fyrrum niður með Trygghólum, beygt þar til vesturs sunnan Selöldu og síðan til suðurs um Seldal niður á bergið. Augljóst er lækurinn sá hefur breytt um farveg, jafnvel oftar en tvisvar, því Fitjatúnið sem og allt undirlendi Selöldu er að þakka fyrrum árburði hans um aldir. Trúlega er þarna um Vestur-Læk að ræða.
Tækifærið var notað til að rissa upp bæjartóftirnar og meðfylgjandi mannvirki á Eyri sem og selstöðuna ofan hennar.
Fitjar.
Í „Fornleifaskrá Hafnarfjarðar XII – Krýsuvík, 2021, segir m.a: „Lítið er vitað um ábúð á Fitjum og mjög fáar heimildir til sem segja frá jörðinni, sem var
hjáleiga frá Krýsuvík. Árið 1867 var samt jörðin farin í eyði en í Þjóðólfi 27. febrúar 1867 var getið um dómsmál fyrir yfirdóminum þar sem þrír ábúendur í Krýsuvík sóttu gegn Gísla Jónssyni bónda á Býaskerjum árið 1866. Gísli á að hafa beitt fé sínu við Fitjar í óþökk ábúenda Krýsuvíkur og þar er ljóst að ekki var búið á Fitjum það árið. Eina manntalið þar sem Fitjar eru nefndar var gert árið 1850 og þá voru skráðir 7 þar til heimilis.“
Fitjar (Neðri-Fitjar) – útihús.
Þá segir í skráningunni: „Sömu sögu er að segja um tóftirnar við Neðri Fitjar, ekki er til mikið af heimildum um þann bæ. Í örnefnaskrá Gísla Sigurðssonar var sagt: „Vesturlækur rennur hér ofan af heiðinni í Vesturlækjarfossi, en þar fyrir neðan tekur hann nafnbreytingu, nefnist Fitjalækur. Rennur meðfram túninu og niður um Efri-Fitjar.
Austur af læknum eru Fitjamóar og þar lengra austur Neðri-Fitjar.“ Hér er um mislestur að ræða. Bærinn „Neðri-Fitjar“ hafa aldrei verið til. Fitjatúnið var nefnt Efri-Fitjar heima við bæ og Neðri-Fitjar nær berginu. Þar eru leifar útihúss við lækinn miðsvæðis.
Brú að Fitjum á Vestari-Læk.
Bjarni F. Einarsson leiddi að því líkum í skráningu hans, „Krýsuvík – Fornleifar og umhverfi 1998„, að tóftir [austan Selöldu] séu leifar bæjarins Eyri en í örnefnaskrá Þorsteins Bjarnasonar frá Háholti sagði að Eyri hafi verið innan við Hafnarberg og farið í eyði 1775. Þá hafa mögulegar seljarústir sem eru um 50m norðvestan við tóftirnar líklega verið einhverskonar forveri býlisins og gætu þær verið mjög gamlar, enda eru þær mjög fornlegar að sjá. Minjarnar við Eyri eru í stórhættu vegna landeyðingar en þær standa við uppþornaðan árfarveg og hressilega er farið að blása uppúr rofabörðunum, t.a.m. er eitt hólf horfið af aðaltóftinni í bæjarstæðinu.“ Reyndar eru tóftirnar í mjög lítilli hættu; bæði er svæðið að gróa upp auk þess sem nefndur lækjarfarvegur eru uppþornaður fyrir löngu.
Strákar – fjárhús frá Fitjum.
Í „Fornleifaskráning í Grindavík, 2004“ segir um minjar á Fitjum: „Fitjatún hefur fyrr verið nefnt, vestur við lækinn, vestur af Selöldu. Þar eru stæðilegar bæjartóttir, mikið túnstæði, og þar voru leifar eftir safngryfju, sem er óvanalegt á þeim árum.“ segir í örnefnaskrá. Fitjatún er syðst við veginn sem liggur af Grindavíkurvegi að Krýsuvíkurbergi. Vegurinn sveigir þar til austurs yfir Vestri lækinn og liggur austur um túnið. Bæjartóftirnar eru austast í túninu, fast vestan við veginn. Túnið er ekki stórt en gróið og slétt. Umhverfis það eru blásnir, ógrónir melar. Austan við túnið rís Selaldan, hálfgróinn malarás, sem teygir sig til austurs. Svæðið allt er um 30X70 m að stærð og eru þar þrjár tóftir og túngarður.
Fitjar – útihús.
Þegar veginum er fylgt þar sem hann sveigir austur um túnið er fyrst komið að tveimur samliggjandi útihúsatóftum í norðausturhorni túnsins. Sú vestri er stæðilegri, um 6X5 m að stærð úr torfi og grjóti. Eystri tóftin er mjög sigin en mikið grjót er í henni. Hún er 8X4,5 m að stærð. Báðar hafa op á suðurvegg. Hleðsluhæð er um 0,6 m í vestari tóftinni en um 0,3 m í þeirri eystri.
Fitjar – bæjartóftir.
Um 50 m fyrir sunnan útihúsatóftirnar eru bæjartóftirnar, fast vestan vegarins. Þær eru mjög stæðilegar, allar hlaðnar úr torfi og grjóti. Hleðsluhæð er mest um 1 m og umför grjóts allt að fimm. Tóftirnar snúa mót vestri og eru þrjú op á þeirri hlið. Þær eru um 11X13 m og greinast í fimm hólf. Fast sunnan þeirra er gróin dæld, e.t.v. safngryfjan sem nefnd er í örnefnalýsingunni. Úr norðaustur- og suðausturhorni tóftanna liggja garðbrot til austurs, en rofna af veginum sem þarna liggur til suðurs. Hugsanlega hafa þau myndað hólf eða garð austan við bæinn. Siginn og gróinn grjóthlaðinn túngarður liggur frá bæjartóftunum norður að útihúsunum, um 50 m.“
Krýsuvíkursel.
Um tóftirnar við Selhól austan Selöldur segir [Jarðabókin 1703]: „Selstöður tvær á jörðin, aðra til fjalls en aðra nálægt sjó, báðar merkilega góðar. Og mega þær nýta hjáleigumenn og bóndi“, segir í Jarðabók Árna og Páls.
Í örnefnaskrá er staðnum lýst svona: „[Strákar] eru vestast á Selöldu, en á Selöldu austarlega er Selhóll, og austastir eru Trygghólarnir.“ Fitjatún er syðst við veginn sem liggur af Grindavíkurvegi að Krýsuvíkurbergi. Vegurinn sveigir þar til austurs yfir Vestri lækinn og liggur austur um túnið. Austan við túnið rís Selalda, hálfgróinn malarás, sem teygir sig til austurs að Trygghólum, tveimur ógrónum melhólum.
Selalda – Strákar.
Vestast á Selöldu eru Strákar, dökkir og úfnir hraundrangar sem sjást bera við himin frá Grindavíkurvegi. Sunnan við Selöldu er annar malarás nefndur Skriða og á milli þeirra er gróið lægðardrag. Í lægðardraginu, sunnan undir Selöldunni austanverðri, þar sem landið hækkar til austurs, eru seltóftir í þýfðu lægðardragi sem hækkar til austurs.“ Tóftirnar eru ógreinilegar, en þó mótar fyrir meginhúsi vestast, stakri tóft austar og annarri suðvestast.
Eyri – bæjartóftir.
Í örnefnalýsingunni er seltóftunum og bæjartóftum Eyrar ruglað saman. Þar segir. „Tóftirnar eru fjórar og sést á milli þeirra allra. Sú nyrsta er alveg í rótum Selöldu, fast austan við stakan móbergsklett í hlíð hennar. Tóftin (A) er mjög gróin og sigin og er ekkert grjót í henni. Hún er um 5X3 m að stærð, og snýr í austur vestur. Op er á vesturvegg hennar.
Eyri – bæjartóftir.
Um 80 m sunnan við tóftina er önnur tóft (B), bæjartóft og mun greinilegri. Hún er á norðurbarmi grjótgjár sem liggur í austur vestur og er líklega uppþornaður árfarvegur. Tóftin er um 10X7 m á stærð, snýr mót suðri og eru tvö op á þeirri hlið. Tóftin er hlaðin úr torfi og grjóti og greinist í þrjú hólf. Hleðslur eru signar og er hæð þeirra mest um 0,5 m. Um 8 m austan við tóftina er lítil hringlaga tóft eða dæld. Hún er um 2,5 m í þvermál og aðeins einn steinn sýnilegur í henni. Sumir vilja meina að þetta séu tóftir bæjar sem þarna var og nefndist Eyri.
Eyri – uppdráttur ÓSÁ.
Um 50 m sunnan við tóft (B), á dálitlum hól sunnan við grjótgjánna er enn ein tóft (C). Hún er hringlaga um 4 m í þvermál, líklega fjárborg. Tóftin hefur verið grjóthlaðin en hleðslur eru nú alveg fallnar. Op hefur líklega verið til vesturs. Um 80 m suðvestan við tóft (C) er síðan tóftaþyrping (D). Tóftirnar eru þrjár og eru á háum hól og sjást því greinilega. Allar eru úr torfi og grjóti, signar og grónar, hleðsluhæð mest um 0,5 m. Sú nyrsta er tvískipt, um 8X5,5 m að stærð og snýr í norður suður. Op er á norðurhlið. Um 1 m fyrir sunnan tóftina er dæld, sem virðist vera manngerð.
Hún er um 9 m löng frá norðri til suðurs og um 0,6 m á dýpt. Eitthvað er af grjóti í börmum hennar, en engar greinilegar hleðslur. Um 1 m sunnan við dældina er síðan sporöskjulaga tóft, um 5X7 m að stærð. Op er á suðurvegg.“
Selalda – berggangur.
Krýsuvíkurbjarg (-berg) er aðallega byggt upp af hraunlögum (grágrýti) og gjalllög Skriðunnar ljá berginu rauðan blæ. Skriðan og Selalda eru eldstöðvar sem gosið hafa í sjó og byggt upp eyjar úr gosmöl (virki og ösku) og hraunlögum. Grágrýtsihraunin hafa síðan tengt eyjar við fastalandið og kaffært þær að mestu. Strákar er ung móbergsmyndun vestan Selöldu. Hraunlögin í syllum Krýsuvíkurbergs eru sennilega komin frá Æsubúðum í Geitahlíð og eru frá síðasta hlýskeiði eða eldri en 120.000 ára. Vestari hluti Selöldu er móbergsmyndun, líkt og eystri hlutinn. Grágrýtisberggangar liggja um ölduna alla; dæmigerðir fyrir gos undir jökli.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst. og 10 mín.
Heimildir:
-Örnefnalýsing Gísla Sigurðssonar fyrir Krýsuvík.
-Örnefnalýsing Ara Gíslasonar fyrir Krýsuvík (Þorsteinn Bjarnason frá Háholti).
-Fornleifaskrá Hafnarfjarðar XII, Krýsuvík – 2021.
-Fornleifaskráning í Grindavík, 3. áfangi – 2004.
-Krýsuvík – Fornleifar og umhverfi, Bjarni F. Einarsson, 1998.
Krýsuvíkurbjarg (-berg). Þar sem Eystri-Lækur rennur fram af berginu (bjarginu) skiptir bjargið (bergið) um nafn skv. örnefnalýsingum. Austan lækjarins heitir bergið „Krýsuvíkurbjarg“, en vestan hans heitir bjargið „Krýsuvíkurberg“. Fossinn er nafnlaus, en mætti gjarnan heita „Skiptifoss“ eða „“Skiftifoss“.
Krýsuvíkurhraun – Eldborgarhraun – Fjárskjólshraun
Gengið var um Krýsvíkur- og Fjárskjólshraun vestan Herdísarvíkurhrauns.
Krýsuvíkurhraun – herforingjaráðskort.
Krýsuvíkurhraun neðan Eldborganna, Litlu- og Stóru-Eldborg, hefur margra hrauna nefnur. Í örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar má lesa eftirfarandi:
„Hér blasir Eldborgin við, Stóra-Eldborg. Milli hennar og Geitahlíðar er skarð, nefnt Deildarháls. Þegar komið er fram úr skarðinu blasir við Hvítskeggshvammur er skerst inn og upp í Geitahlíðina. Þá blasir við hraunbunga með smá strýtum á. Þarna eru Dysjarnar. Þarna mættust þær eitt sinn þær maddömurnar. Krýsa úr Krýsuvík og Herdís úr Herdísarvík með smölum sínum og hundum þeirra. Deildu þær um beit, veiði í Kleifarvatni og fleira. Urðu báðar reiðar. Drap þá Dísa smalamann Krýsu. Krýsa drap þegar í stað hinn smalann. Þá sló í svo harða brýnu milli þeirra og heitingar, að báðar létur þarna líf sitt og hundarnir.
Dysjar Krýsu, Herdísar og smalans neðst.
Síðan eru þarna Kerlingadysjar, Smaladysjar og Hundadysjar, Krýsudys og Dísudys. Neðan við bunguna er Kerlingahvammur. Síðan heldur leiðin áfram um Geitahlíðardal, austur milli hrauns og hlíðar. Þegar austar kemur með hlíðinni er Sláttudalur skarð upp í henni. Upp hann liggur Sláttudalsstígur. Af Breiðgötum syðst lá stígur niður með Vesturbrún hraunsins, sem runnið hefur frá Eldborgunum. Eldborg stóru, sem áður er á minnst, og Eldborg litlu, sem er aðeins neðar og liggur Akvegurinn milli þeirra. Krýsuvíkurhraun kallast allt hraunið, en niður af Eldborgunum er Klofningur eða Klofningshraun. Milli Eldborganna er reyndar talað um Eldborgahraun. Neðst á Klofningi er Kletturinn og þar rétt hjá er Klettsgreni.
Hellnastígur milli Bergsenda og Keflavíkur.
Stígurinn sem liggur af Breiðgötum nefnist Bergsendastígur. Neðan við Klett spölkorn liggur stígur upp á hraunið og austur um það, nefnist Hellnastígur. Í austur frá honum þar sem hann beygir niður og í suðurátt blasir við Hellnahæð, og á henni Hellnahæðarvarða. Þar spölkorn neðar á sléttu klapparhrauni eru hellar. Gvendarhellir er þeirra merkastur, tekur móti 200 fjár. Hellir þessi var áður nefndur Arngrímshellir eftir samnefndum manni frá Læk í Krýsuvík. Hann lést er sylla undir berginu féll á hann um 1700. Arngrímur kemur við sögu í þjóðsögunni um Grákollu (Mókollu). Frá fjárskjólinu liggur stígur til vesturs um Klofningahraun og áfram að Krýsuvík framhjá Jónsbúð. Annar stígur liggur til norðurs um Eldborgarhraun að Eldborgunum sunnanverðum.
Í Gvendarhelli / Arngrímshelli.
Nokkru neðar er svo Bjálkahellir, og austur frá þessum hellum er svo Krýsuvíkurhellir og enn austar er Fjárskjólshellir í Fjárskjólshrauni.
Guðmundur sá er byggði Lækjarbæinn hafði fé sitt í Gvendarhelli. Hann byggði sér skýli allgott við Hellismunnann. Að sunnan var íbúðarkompa hans, en að ofan var geymsla. Þar á milli var gangur, þar um fór féð í hellirinn. Við þetta bjó Guðmundur nokkra vetur: Þótti honum langt að fara að fé daglega heima frá Læk austur í hraunið.
Fjárskjólshraunshellir (Krýsuvíkur(hrauns)hellir.
Klettstrýta er hér ekki langt frá Hellunum, nefnist hún Arnarsetur. Héðan er skammt niður í Keflavík. Austur af Fjárskjólshrauni er Háahraun. Í því er Háahraunsskógur. Þar var gert til kola frá Krýsuvík. Tvær hraunnybbur eru þarna á hrauninu, nefnast, önnur Skyggnisþúfa, hin Hraunþúfa. Er þá komið á Austurbrún hraunsins.
Í austur frá Krýsuvík blasir við fallegt fjall, heitir Geitahlíð. Uppi á fjalli þessu eru þúfur. Nefnast Ásubúðir eða Æsubúðir. Hlíð sú er í norður snýr, nefnist Hálaugshlíð. Nyrst í vesturhlíðum fjallsins eru klettabelti, nefnast Veggir. Suður og upp frá eru Skálarnar, Neðri-Skál og Efri-Skál.
Breiðivegur (Breiðgötur).
Þá er upp frá Breiðgötum austast Geitahlíðarhorn vestra og nær allt inn að Hvítskeggshvammi. Herdísarvíkurvegur nefnist vegurinn og liggur um dalkvos milli hrauns og hlíðar, nefnist Geitahlíðardalur. Hér upp á brún hlíðarinnar er klettastallur, nefnist Hnúka. Um Sláttudal hefur Sláttudalshraun runnið. Skammt hér austar er Geitahlíðarhorn eystra. Hér tekur við úfið hraun, er nefnist allt Herdísarvíkurhraun. Á hæstu bungu þess er Sýslusteinn. Þar eru jarða-, hreppa- og sýslumörk. Alfaraleiðin lá upp með horninu og ofar en vegurinn liggur nú út á hraunið. Neðan við Sýslustein er Vondaklif, Illaklif eða Háaklif. Úr Sýslusteini liggur línan í Skjöld öðru nafni Lyngskjöld sem er breið bunga vestast í Herdísarvíkurfjalli. Úr Lyngskildi miðjum lá L.M. línan um Lyngskjaldarbruna uppi á fjalli og um Stein á Fjalli, eins og segir í gömlum bréfum.“
Í Bálkahelli.
Í örnefnalýsingu Ara Gíslasonar um sama svæði segir: „Skreppum nú austur á merki, austur að Seljabótarnefi, og höldum þaðan vestureftir. Vestan við nefið heita Seljabótarflatir. Vestur og upp frá þeim er allmikið hraunsvæði, sem heitir einu nafni Krýsuvíkurhraun. Norður af því uppi við veg, sitt hvoru megin hans, er svo Litla-Eldborg og Stóra-Eldborg. Líkjast þær nokkuð að lögun Eldborg í Hítardal, en frá Eldborgum og heim að bæ í Krýsuvík eru 3-4 km, og mundi þá haldið í vestur. Í Krýsuvíkurhrauni eru gróðurblettir, góðir sauðhagar, þar sem heitir Eystri-Klofningar upp af Seljabót, en Vestri-Klofningar eru upp af Keflavík, er síðar getur. Í Klofningum eru tveir hellar. Annar er Gvendarhellir, sem ber nafn Guðmundar nokkurs Bjarnasonar, er bjó þar einn á vetrum með sauðfé sitt um 1840. Hellir þessi er víðáttumikill og lágur. Bálkahellir heitir hinn. Hann er lítt kannaður, en nafn sitt hefur hann af því, að þegar litið er inn í hann, virðist sem bálkur sé með hvorum vegg, eins og í fjárhúsi. Nálægt Seljabót er svo einn hellir enn, sem heitir Krýsuvíkur[hrauns]hellir. En í Klofningum er Klettagren.
Lyngskjöldur – þrætugrenið við Steininn.
Beint upp af Stóru-Eldborg og austur af bæ er allhátt fell, sem heitir Geitahlíð. Milli Eldborgar og Geitahlíðar er Eldborgarskarð, en litlu austar er Deildarháls; um hann lá vegurinn áður. Beint upp af Stóru-Eldborg er hvammur, sem Krýsvíkingar kalla Hvítskeggshvamm, en annarstaðar heitir Hvítserkshvammur eða jafnvel Hvítskeifuhvammur. Hvítskeggshvammur er hann nefndur í Landfr. s. Ísl II, 312, þar sem sagt er frá því, að þar hafi fundizt fleiri lækningajurtir en á nokkrum öðrum stað. Austan við hvamminn og hálsinn eru þrjú dys, austust er Herdís, svo er Krýs og loks Smalinn. Er hann ofan götunnar, en þær neðan; má um þetta lesa í þjóðs. J. Á. En eitthvað hafa merki færzt til síðan, ef þetta hefur verið á merkjum áður fyrr. Austast í Geitahlíð er dalur, er liggur inn í hlíðina, og heitir hann Sláttudalur.
Keflavík.
Nú bregðum við okkur aftur til sjávar. Vestarlega undir Krýsuvíkurhrauni gengur inn vík ekki kröpp, sem heitir Keflavík. Vestan við víkina fer landið aftur að ganga meira til suðurs. Tekur þar við berg, sem heitir einu nafni Krýsuvíkurbjarg.“
Í skráningunum segir ýmist: „Í Klofningum Krýsuvíkurhrauns er Gvendarhellir (Arngrímshellir) vestastur, þá Bálkahellir skammt austar, þá Krýsuvíkurhellir og Fjárskjólshraunshellir þaðan til suðausturs neðar í hrauninu“ eða „Krýsuvíkurhellir er austur af Bálkahelli, nær Seljabót“. Þar er einmitt „Fjárskjólshelli“ að finna. Nefndur „Krýsuvíkurhellir er því annað hvort neðra op (miðop) Bálkahellis (ofan við opið er gömul varða) eða annað nafn á „Fjárskjólshelli“.
Frábært veður. Gangan tók 3. klst og 3. mín.
Krýsuvíkurhraun – herforingjaráðskot.