Þórukot

Þórukot var bær á holtinu ofan Litla-Hamars skammt frá Mýrarhúsum og Holti, norðan Ófriðarstaða (Jófríðarstaða). Norðan Þórukots var myndarlegur grjótgarður er afmarkaði umdæmið. Bærinn stóð skammt vestar þar sem [fyrrverandi] leikskóli austan St. Jósepsspítala var [áður en hann var rifinn].

Þórukot

Þórukot (Klapparholt) 1926 og lóð, sem gefin var st. Jósepssystrum.

Þjóðsaga var skráð á landi Þórukots. Tengist hún svonefndri „Þóruklöpp“, sem var innan nefnds túngarðs og var nefnd eftir síðasta ábúanda kotsins.
Sagan segir að hún hafi selt St. Jósefssystrum jörðina undir spítalann með því skilyrði að ekki yrði hróflað við klöppinni sem er í bakgarði spítalans. Þóra mun hafa sagt við nunnurnar að „í klöppinni byggi álfkona sem hafði verið góður nágranni alla tíð“ og hafa nunnurnar virt þessa ósk hennar þar sem mannvirkin voru reist allt í kring um klöppina án þess að hróflað væri við henni.

Önnur þjóðsaga tengist Jófríðarstaðahól, þar skammt sunnar, en hún segir frá manni sem klauf stein á hólnum til þess að nýta í kjallara á húsi sem hann byggði á árunum 1912-14. Þetta mun hann hafa gert þrátt fyrir að hafa heyrt sögur af álfabústaði í hólnum. Eftir þetta elti ógæfa manninn og á dóttir hans að hafa látist skömmu síðar.

Þórukot

Þórukot – uppdráttur settur ofan á loftmynd frá 2022.

Enn sést hluti grjótgarðs Þórukots, sem hlaðinn var á öðrum áratug síðustu aldar. Sumir hafa talið garðinn þann vera a.m.k. frá tímum siðaskipta og þar af leiðandi elstan slíkra í Hafnarfirði.

Garður þessi gæti vel verið sá elsti í Hafnarfirði, þótt ungur sé (gæti ekki verið heillegri), enda hafa bæjarbúar verið iðnir við að endurnýta allt tilfallandi grjót í gegnum tíðina og bæjaryfirvöld hafa á sama tíma verið sérstaklega dugleg við að horfa framhjá öllu því sem gamalt getur talist. Skv. fornleifaskráningu Byggðasafnsins 2020 er garðurinn þessi frá Þórukoti er stóð þarna skammt frá; sagður í fornleifaskráningu vera frá 1900-1950. Gamli túngarður Ófriðarstaða (Jófríðarstaða) skv. túnakorti náði langleiðina þangað niður eftir. Hamarskot var skammt norðaustar. Bærinn Holt var í millum. Holtsgata dregur nafn sitt af bænum. Þarna var landamerkjagarður fyrrum. Sá garður er horfinn undir nýja byggð fyrir löngu.

Þórukot

Þórukot – garður.

Ekki er með öllu hægt að útiloka að einhverjir steinar úr görðum á þessum slóðum, hvort sem þeir hafi verið hlaðnir í veggi um siðaskiptin eða jafnvel umhverfis einstaka kot í upphafi byggðarinnar millum Akurgerðis að austanverðu og Hvaleyrar að vestanverðu, hafi ratað í garðinn þann arna. Þó verður að telja ólíklegt að grjótið hafi verið borið í þá um langan veg. Steinarnir í garðinum eru margir allstórir. Ýtir það undir þau rök að hann hafi verið hlaðinn eftir að viðhlítandi tækjabúnaður hafi verið orðinn til.

Þóruklöpp

Þóruklöpp.

Hafa ber í huga að Jófríðarstaðir voru fyrrum jörð út frá Hvaleyri. Ófriðarstaðir (Jófríðastaðir) eru því mun yngri sbr. https://ferlir.is/sitthvad-um-fjordinn-magnus-mar-larusson/. Ef leita ætti að elstu garðleifunum í „Hafnarfirði“ (hafa ber í huga að bærinn fékk kaupstaðarréttindi 1908) væri nær að leita að eldri minjum á Hvaleyri og nágrenni. Þar hafa golfarar því miður farið offari við að afmá einstakar minjar frá fyrri tíð, líkt og bæjaryfirvöld hafa reyndar gert í gegnum tíðina.
Jón og ÞóraMikilvægt er að gefa fólki kost á að deila um „hluti“ sem þessa, sem í raun skipta engu máli í samhengi hlutanna. Merkilegustu fornleifar byggðalagsins hafa, því miður, síðustu árin, legið óbættar hjá garði.

Í bók Magnúsar Jónssonar, „Bær í byrjun aldar“ segir m.a.: „Hér verður einnig minnst á á önnur hjón sem voru á þessum stað? [Holti] stuttan tíma og máttu þá þröngt sáttir sitja. Það voru hjónin Jón Ólafsson og Þóra Elísabet Þorsteinsdóttir. Þau höfðu gifst 1892 og voru nýflutt til Hafnarfjarðar frá Svalbarða á Álftanesi. Bæði voru þau fædd í því byggðarlagi, hann á Gamla-Hliði 1864 og hún í Haugshúsum 1863?

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður – kynning í Fréttablaðinu 31. mars 2023, bls. 4 (kynningarblað).

Þau voru með einkabarn sitt Sigríði, en hana misstu þau 1908. Þessi hjón komu sér upp bæ sem þau vildu nefna Klapparholt, en aðrir létu Holts-nafnið nægja. Sá bær er nú bílgeymsla st. Jósepssystra í Hafnarfirði. Jón Ólafsson dó 1916, en Þóra 1954.“

Vonir standa til að Hafnarfjarðarbær muni leggja sig fram um að varðveita eitthvað af framangreindum minjum er enn sjást, enda hafa bæjaryfirvöld gefið sig sérstaklega út fyrir að vilja „varðveita menningarminjar“ í bænum, sbr. Fréttablaðið 31, mars 2023, bls 4 (kynningarblað).

Heimild:
-Fornleifaskrá Hafnarfjarðar III, Suðurbær 2020, bls. 16 og 27.
-Bær í byrjun aldar, Magnús Jónsson, 1967, bls. 14.
-https://frettabladid.overcastcdn.com/documents/230331.pdf

Þóruklöpp

Þóruklöpp.

Krýsuvíkurkirkja

Í Sunnudagsblaði Tímans árið 1969 var rætt við Þórarinn Einarsson á Höfða á Vatnsleysuströnd undir fyrirsögninni „Daglegt brauð, sem drottinn gefur„. Í viðtalinu segir Þórarinn m.a. frá Árna Gíslasyni, sýslumanni í Krýsuvík, og Oddi V. Gíslasyni, presti á Stað í Grindavík:

Þórarinn Einarsson„Að þessu sinni tökum við tali gamlan mann suður með sjó. Hann hefur lengst ævi sinnar sótt deildan verð í greipar Ægis, hið daglega brauð, sem drottinn gefur sjómanninum — brauðið, sem við hinir viljum eignast hlutdeild í og Íslendingar fá vart nægju sína af.
En ekki hefur bátur vaggað honum á bárum allar ævistundir, og þess vegna berst talið að mörgu öðru en sjómennsku og fiskidrætti.
Hann kiprar dálítið augun og hleypir í brýnnar, þar sem hann situr andspænis okkur, líkt og hann hefur oft gert, þegar rýnt var í sortann, allkeikur og hressilegur, þó að mörg séu árin, sem hann á að baki sér. Þórarinn heitir hann, Einarsson, og á heima á Höfða á Vatnsleysuströnd.
— Hvar fæddist þú, Þórarinn?
— Ég fæddist í Stóra-Nýjabæ í Krýsuvík árið 1884. Þetta er hálfníræður maður, sem þið eigið tal við. Faðir minn, Einar Einarsson, bjó í Stóra-Nýjabæ, og þá voru í Krýsuvík fjórtán bæir, þar sem nú er enginn. Sá, sem öllu réði þar á bernskuárum mínum — það var Árni sýslumaður Gíslason.
— Var hann búinn að vera þar lengi?

Þórarinn Einarsson

Þórarinn Einarsson og Guðrún Þorvaldsdóttir Höfða ca. 1940.

— Nei, hann kom að austan nokkrum árum áður en ég fæddist. Hann var sýslumaður Skaftfellinga í tæp þrjátíu ár og bjó þá á Kirkjubæjarklaustri. En svo brá hann á nýtt ráð, sextugur maður.
Hann keypti Krýsuvík og Herdísarvík og gerðist sjálfur bóndi í Krýsuvík. Ég man vel eftir Árna. Hann var lítill vexti, rauðbirkinn og með kragaskegg og enskt kaskeiti aftan á hausnum. Það hefur komið í staðinn fyrir sýslumannshúfuna, sem hann lengi var búinn að bera.
— Hann var mikill fjárbóndi, minnir mig, að ég hafi heyrt?
— Það mátti nú segja — hann var um tíma fjárflesti bóndi á öllu landinu. Hann rak tólf hundruð fjár af Klaustrinu, þegar hann fluttist til Krýsuvíkur. En ekki komu nema sex hundruð fullorðnar kindur til skila fyrsta haustið sem hann var í Krýsuvík. Það leitaði austur aftur, féð, vildi komast í átthagana. Ég hef heyrt, að sex kindur kæmust alla leið austur að Klaustri. En leiðin er löng og vatnsföll mörg, og það fórst víst margt eða lenti í villum.

Stóri-Nýibær

Nýibær í Krýsuvík.

— Hvernig líkaði valdsmanninum bóndastaðan?
— Hann var nú ekki neinn venjulegur bóndi. Þeir voru vanir að ráða, sýslumennirnir í þá daga, og Árni var ráðríkur. Hann gat orðið bráðvondur, og þá rauk hann út eða burt frá þeim, sem hann reiddist við. En eftir nokkrar mínútur kom hann aftur, og þá var honum runnin reiðin. Hann var hjúum sínum ákaflega góður húsbóndi og hafði sama fólkið svo árum skipti. Skammaði það aldrei — rauk bara út.
— Lét hann mikið að sér kveða í byggðarlaginu?

Krýsuvík

Í Krýsuvík 1887. Árni Gíslason lengst t.h.

— Hann vildi láta alla í Krýsuvíkurhverfi sitja og standa eins og honum þóknaðist. Hann átti þetta allt — þetta voru eintómar hjáleigur, sem fylgdu heimajörðinni, höfuðbólinu. Körlunum þótti sem þeir hefðu ekki sama frelsi og áður, enda fór fljótt að fækka í sveitinni eftir að hann kom. Faðir minn hafði verið formaður hjá séra Oddi Gíslasyni á Stað í Grindavík áður en Árni kom, en nú varð hann að gerast formaður hjá honum. Hann skyldaði karlana til þess að róa hjá sér. Já — hann átti þetta allt saman.
— Hafði hann mikinn sjávarútveg?
— Mig minnir, að hann gerði út þrjú skip, og þau lét hann ganga frá Herdísarvík. Þá voru gerð út sex skip þaðan, svo að þar var þó dálítil verstöð. Sex skipshafnir — það var ekki svo lítill hópur.

Stóri-Nýibær

Stóri-Nýibær.

— Reri faðir þinn víða?
— Það var nú einkum í Grindavík. Í nokkur ár var hann hjá séra Kristjáni Eldjárn, afa forsetans okkar — hann var prestur á Stað í sjö eða átta ár. Það var vinsæll maður og skemmtilegur. Hann var ungur og glaðvær, þegar hann var í Grindavík, og ókvæntur — mig minnir, að hann hefði systur sína hjá sér ráðskonu. Frá Stað fór hann svo að Tjörn í Svarfaðardal, og þar ílentist hann. Séra Oddur tók við af honum, og hjá honum var pabbi formaður nokkrar vertíðir eins og ég sagði ykkur áðan.
— Var séra Oddur ekki formaður sjálfur?

Krýsuvík

Krýsuvík 1936 – Ásgeir L. Jónsson.

— Hann reri tvær vertíðir með pabba, en seinna var hann sjálfur formaður. Hann sótti sjóinn, þó að hann væri prestur, eins og margir Grindavíkurprestar hafa gert. Og hann gerði út skip og báta. Frostaveturinn mikla, 1881, gaddagóuna svokallaða, var séra Oddur á bát með pabba. Eitt sinn sem oftar voru þeir á færum á sundinu fyrir utan Grindavík. Fiskurinn var ör, sílfiskur, en frostið hart og nokkur gjóla. Bátinn ísaði, svo að hann var orðinn allsokkinn. Þá vildi pabbi hætta að draga, en séra Oddur var ekki á því. „Daglegt brauð, sem drottinn gefur, Einar minn“, sagði hann. Frá því vildi hann ekki hlaupast fyrr en í fulla hnefana. Þó varð úr, að þeir hættu, og henti þá séra Oddur fiskinum, sem hann var með á önglinum. En ekki mátti tæpara standa, því að báturinn sökk, þegar þeir komu í vörina.
— Og þetta var forvígismaður slysavarna á sjó á Íslandi?

Krýsuvík

Legsteinn Árna Gíslasonar að baki Krýsuvíkurkirkju.

— Já, þetta var forvígismaður slysavarna á sjó á Íslandi. Og forvígismaður um margt. Hann hafði farið til Englands og átt þangað mörg erindi. Hann vildi læra enska tungu og komast í kynni við ensk kristniboðsfélög, og þar kynntist hann líka slysavörnum og lærði að gufubræða lifur. Með því bætti hann lýsisverkunina. Og svo fór hann að vinna að slysavörnum og ferðaðist í því skyni um landið, talaði við sjómenn, gaf út bæklinga um slysavarnir, meira að segja blað, sem hét Sæbjörg. Til þess naut hann styrks frá Alþingi — mig minnir að hann fengi þrjú hundruð krónur á ári. —

Oddur V. Gíslason

Oddur V. Gíslason.

Já, séra Oddi voru hugleiknir sjómennirnir, enda áttu sóknarbörn hans í Grindavík alla afkomu sína undir sjónum og hann sjálfur sjómaður. Og nógu voru sjóslysin mörg og átakanleg til þess, að eitthvað væri reynt að sporna við þeim.
— Bárufleygur — var það ekki eitt af því, sem Oddur vildi láta menn nota?
— Jú, bárufleyginn fékk hann frá Noregi. Það var belgur eða poki með lýsi eða olíu til þess að lægja úfinn sjó. Hann kostaði átta krónur, ef mér bregzt ekki minni.“

Þórarinn Einarsson fæddist 12. apríl 1884 og dó 7. apríl 1980.
Árni Gíslason, sýslumaður, ljóðskáld og skrifari fæddist 14. september 1820 og dó 26. júní 1898.
Árni kvað þetta t.d. einhvern tíma á búskaparárum sínum í Krýsuvík;

Vorið blíða lífgar lýð,
lengist óðum dagur.
Gyllir fríða Geitahlíð
geislinn sólar fagur.

Oddur Vigfús Gíslason, guðfræðingur, sjómaður og baráttumaður fæddist 8. apríl 1836 og dó 10. janúar 1911.

Heimild:
-Tíminn Sunnudagsblað, 10. tbl. 16.03.1969, Daglegt brauð, sem drottinn gefur, rætt við Þórarinn Einarsson á Höfða á Vatnsleysuströnd, bls. 228-232.

Krýsuvík

Krýsuvík um 1880.

Krýsuvík

Í MS-ritgerð Helgu Stefánsdóttur, „Krýsuvík – á móti sólu„, frá Landbúnaðarháskóla Íslands er m.a. fjallað um sögu Krýsuvíkur:

Krýsuvík

Krýsuvík 1887.

„Gjóskulagarannsóknir sýna að Krýsuvík hefur verið í byggð allt frá landnámsöld. Samkvæmt Landnámu var jörðin hluti af landnámi Þóris haustmyrkurs
Vígbjóðssonar. Krýsuvíkurjörðin var snemma talin til stórbýla vegna mikilla landgæða, sjávarfangs og hlunninda, t.d. eggjatekju, trjáreka og bjargfuglatekju í Krýsuvíkurbergi. Um miðja 19. öld var Krýsuvík talin 31 1/3 hundruð að verðleika.

Heimildir eru um allt að 18 hjáleigur og kot í landi Krýsuvíkur, þó voru þau ekki öll í byggð á sama tíma.

Krýsuvík

Krýsuvík um 1900 – Howell.

Lengst af voru í byggð Suður- og Norðurkot, Stóri Nýibær 1 og 2, Litli Nýibær, Vigdísarvellir, Bali og Lækur. Heimabær Krýsuvíkur stóð á allháum hól er rís upp úr sléttlendinu skammt sunnan við Bæjarfell. Þangað var bæjarstæðið flutt um miðja 12. öld í kjölfar Krýsuvíkurelda en hraunið lagði undir sig mikinn hluta af undirlendi heimajarðarinnar.

Í Krýsuvík er fyrst getið um prestskylda alkirkju árið 1203. Krýsuvíkurkirkja átti mikil rekaítök, bæði hval- og trjáreka. Kirkja var reist árið 1857 og var hún endurbyggð og endurvígð árið 1964.

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja 1936. Fyrir utan kirkjuna standa þrír menn og einn drengur. Annar frá vinstri er Magnús Ólafsson einsetumaður í Krýsuvík. Kirkjan var afhelguð árið 1929 og þess vegna nýtt sem íbúðarhús þegar myndin var tekin – Ásgeir L. Jónsson.

Árið 2010 brann síðan kirkjan til kaldra kola en um þessar mundir er unnið að endurgerð hennar. Krýsuvík var heil kirkjusókn og eitt mesta höfuðból landsins.

Um aldamótin 1900 bjuggu um 90% landsmanna í dreifbýli en 100 árum seinna bjó samsvarandi hlutfall Íslendinga á þéttbýlisstöðum með 200 íbúum eða fleiri. Í lok 19. aldar hófust miklir flutningar úr dreifbýli til þéttbýlisstaða við innanverðan Faxaflóa og síðan hefur byggð í Reykjavík og nágrenni vaxið hraðar en íbúafjöldi landsins. Krýsuvík fór ekki varhluta af þessari þróun og fækkaði þar mjög í byrjun 20. aldar.

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja 1940.

Síðasti bóndinn í Krýsuvík var Magnús Ólafsson (1872-1950). Hann hóf búskap á eyðihjáleigunni Suðurkoti árið 1920 ásamt konu sinni Þóru Þorvarðardóttur (1884-1957). Þau bjuggu í gamla heimabænum í Krýsuvík þar til Þóra flutti til Hafnarfjarðar með börn þeirra svo þau gætu gengið í skóla. Magnús bjó áfram í Krýsuvík í 10 ár en eftir það dvaldi hann þar á sumrin og síðustu sumrin, eftir afhelgun kirkjunnar árið 1929, hafðist hann við í kirkjunni. Hann flutti alfarið burt vegna veikinda árið 1945.
Árið 1937 tók ríkið land Krýsuvíkur og Stóra Nýjabæjar eignarnámi. Árið 1941 var gengið frá kaupum Hafnarfjarðarbæjar á jörðunum Krýsuvík
og Stóra-Nýjabæ. Þetta landsvæði sem er um 43 ferkílómetrar að stærð var innlimað í lögsagnarumdæmi Hafnarfjarðar árið 1946.

Magnús Ólafsson

Magnús Ólafsson í Krýsuvík.

Árið 1945-1960 stóð Hafnarfjarðarbær fyrir búrekstri í Krýsuvík, túnrækt og smíði gróður- og gripahúsa. Nærri Grænavatni var byggð garðyrkjustöð, bústaður fyrir starfsmenn og íbúðarhús fyrir bústjóra kúabúsins. Frá 1949-1952 var íbúðarhúsið setið af bústjóra en frá 1953-1964 hýsti það stjórnendur vinnuskóla drengja sem Hafnarfjarðarbær rak í Krýsuvík. Síðan stóð húsið autt þar til Sveinn Björnsson (1925-1997), yfirlögregluþjónn og listamaður í Hafnarfirði, fékk húsið til afnota sem vinnustofu. Frá andláti hans hefur húsið verið varðveitt í minningu Sveins. Opnuð var sýningaraðstaða í húsinu árið 2000.

Nokkur svæði hafa verið hverfisvernduð vegna náttúruminja, þ.e. ströndin, Selalda, Sveifluháls, Seltún, Gestsstaðavatn, Grænavatn og Augað, Vesturengjar, strönd Kleifarvatns og Austurengjar. Eldborg við Litlahraun, sem er að mestu í Grindavík, er friðlýst sem náttúruvættur.

Þóra Þorvarðardóttir

Þóra Þorvarðardóttir.

Árið 1975 gerðu erlendir sérfræðingar samanburð á 10 stöðum á Íslandi sem líklegir þóttu fyrir staðarval fyrir hugsanlega uppbyggingu ferðaþjónustu. Í niðurstöðum var tekið sérstaklega fram að í Krýsuvík væri stórkostleg náttúra og staðhættir til uppbyggingar á fjölþættri ferðaþjónustu.
Krýsuvíkurskóli var reistur um miðjan áttunda áratuginn til að sinna unglingum sem þyrftu sérúrræði en ekkert varð af þeirri starfsemi. Húsið stóð autt til 1986 þegar Krýsuvíkursamtökin fengu það til afnota. Þar er rekið meðferðarheimili fyrir fíkniefnaneytendur.

Árið 1935 var Suðurstrandavegur lagður um Krýsuvík og árið 1945 var lagður vegur með Kleifarvatni. Árið 2012 var Suðurstrandarvegur endurgerður og hefur hann bætt mjög samgöngur á svæðinu (Aðalskipulag Hafnarfjarðar 2013-2025, 2014).

Krýsuvík

Krýsuvík – Suðurkot; tilgáta.

Árið 2016 samþykkti Hafnarfjarðarbær umsókn Gróðurs fyrir fólk í landnámi Ingólfs um stofnun vistvangs í Krýsuvík. Vistvangurinn tók til starfa sumarið 2016 þegar hafin var uppgræðsla á örfoka melum og gróðursetning trjáa. Svæðið er um 300 ha.“

Heimild:
– MS–ritgerð; Krýsuvík – á móti sólu, Helga Stefánsdóttir, Landbúnaðarháskóli Íslands okt. 2018.

Krýsuvík

Krýsuvík – uppdráttur ÓSÁ.

Krýsuvík

Í  Alþýðublaðinu 1963 mátt m.a. lesa eftirfarandi um Vinnuskólann í Krýsuvík:

Krýsuvík

„Starfsmaður“ Vinnuskólans við vinnu í gróðurhúsi.

„Barnaverndarnefnd Hafnarfjarðar rekur á vegum Hafnarfjarðarbæjar Vinnuskóla í Krýsuvík og hefur gert það um 12 ára skeið. Alþýðublaðið skrapp upp í Krýsuvík í gær og heimsótti þar 55 drengi, sem eru þar á vinnuskólanum.
Vinnuskólinn í Krýsuvík byrjaði að þessu sinni hinn 18. júní síðastliðinn, en það er nokkru seinna en venja hefur verið. Ýmsar framkvæmdir og lagfæringar á staðnum ollu þessari töf.
Í sumar munu dveljast þarna tveir hópar drengja, hvor hópur í 25 daga. í fyrri hópnum, sem fór í vinnuskólann hinn 18. júní voru 55 röskir drengir á aldrinum 9 til 12 ára. Nú er þeirra tími á skólanum að verða útrunninn og fer þá annar álíka stór hópur upp í Krýsuvík til vinnu og leikja.

Krýsuvík

Starfsfólk Vinnuskólas í Krýsuvík. Rúnar er lengst til vinstri og Sævar lengst til hægri. Fróðlegt væri að fá nöfnin á annars myndarlegt starfsliðið.

Forstöðumaður vinnuskólans í Krýsuvík í sumar er Rúnar Brynjólfsson kennari og skátaforingi, en undanfarin fjögur ár hefur Haukur Helgason, skólastjóri, annast forstöðu skólans. Rúnar var starfsmaður skólans í fyrrasumar og kynntist þá háttum og starfsreglum hans, og taldi hann það hafa orðið sér til ómetanlegs gagns. Sævar Örn Jónsson heitir aðstoðarmaður Rúnars og skipuleggja þeir hvern dag og annast stjórn á drengjunum við hin daglegu störf. Sigurrós Skarphéðinsdóttir, kennari, er ráðskona skólans og hefur þrjár stúlkur sér til aðstoðar.

Stóriskógarhvammur

Piltar úr Vinnuskólanum í Krýsuvík í Stóraskógarhvammi ásamt Hauki Helgasyni.

Verkefni drengjanna eru hin margvíslegustu svo sem garða — og gróðurhúsavinna, trjárækt, vegavinna, ýmis fegrun og snyrting á umhverfinu og margt fleira, auk þess sem þeir hirða herbergi sín sjálfir, hjálpa til í eldhúsi og aðstoða við fleiri innanhússstörf. Vinnuskólinn hefur gróðursett yfir 100 þúsund trjáplöntur í Undirhliðum undanfarin ár.
KrýsuvíkDrengjunum er skipt í 10 flokka og er einn þeirra flokksstjóri fyrir hverjum flokki. —
Svo er verkefnum skipt á miili flokkanna. Vinnutíminn er um 4 klukkustundir á dag, og sagði Rúnar að drengirnir ynnu yfirleitt vel þennan tíma, meðan þeir voru að verki. Og kaup hafa drengirnir fyrir vinnu sína. Við, hin fullorðnu, myndum sennilega ekki vera ánægð með það fyrir okkur, en drengirnir eru ánægðir með sín daglaun, sem eru allt frá tveimur krónum og upp í 4.50 krónur. Upphæð launa fer ekki eftir aldri, heldur dugnaði.

Krýsuvík

Drengir í Krýsuvík við sundlaugagerð sunnan Bleikhóls.

Herbergin, sem drengirnir búa í eru fimm og er keppni milli herbergjanna, hvaða herbergi líti bezt út. Á hverju kvöldi ganga Rúnar og Sævar um herbergin og gefa fyrir, hvernig gengið hefur verið um það um daginn. Hæst eru gefin 10 stig. Þegar herbergið hefur náð samtals 100 stigum fær það verðlaunaskjal úr skinni, sem hengt er upp á einn vegginn í herberginu.
Seinasta kvöldið, sem hver hópur dvelst á skólanum, er athugað, hvaða herbergi hafi hlotið flest stig fyrir umgengnina allan tímann. Það herbergið, sem hlýtur hæstu stigatölu fær stóra og myndarlega rjómatertu í verðlaun og skipta íbúar herbergisins henni milli sín. Í gærkveldi, þegar úrslit voru birt í herbergjakeppninni, vildi svo til, að öll herbergin voru jöfn að stigum Þetta þýddi hvorki meira né minna en það, að fimm glæsilegar rjómatertur voru veittar í verðlaun og 55 drengir ljómandi af ánægju tóku hraustlega til matar síns.

Krýsuvík

Sundlaugin undir Bleikhól.

Þegar hver hópur kveður Vinnuskólann í Krýsuvík er skólanum slitið við hátíðlega athöfn og hver drengur fær í hendur einkunnabók frá skólanum, þar sem gefin er umsögn um vinnu, reglusemi, hreinlæti drengsins og framkomu hans við félaga sína. Í einkunnum eru fjórir möguleikar, prýðilegt, ágætt, gott og sæmilegt.
Einhver spyr kannski: Til hvers er þessi vinnuskóli? —
Svarið við þessu er skráð oftan á einkunnarbækur Vinnuskólans í Krýsuvík en þar stendur: „Vinnuskólinn vill leitast við að efla þroska nemenda sinna bæði í leik og starfi, kenna þeim gildi vinnunnar, vísa þeim leið til sjálfsbjargar og um leið efla félagsþroska þeirra”.

Krýsuvík

Krýsuvík – starfsmannahúsið. Í því dvöldu þátttakendur Vinnuskólans.

Að lokum skulum við athuga hvernig hver dagur er í stórum dráttum skipulagður í Vinnuskólanum í Krýsuvík. Fótaferð hefst klukkan 8 að morgni og morgunverður er snæddur klukkan 9. Klukkan 9.15 er fáninn dreginu að húni og síðan er unnið til hádegis. Þá er matur og hvíld. Klukkan 13.30 er aftur tekið til við vinnuna og unnið til klukkan 15.

Krýsuvík

Vinnan í gróðurhúsunum.

Svo er „kaffi” klukkan 15.30 og síðan leikir, íþróttir, gönguferðir og fleira. Kvöldverður er klukkan 19. Eftir kvöldmat er fáninn dreginn niður. Annað hvert kvöld er kvikmyndasýning, en hitt kvöldið fara fram margskonar íþróttir og keppnir. Klukkan 21.30 fá drengirnir „kvöldkaffið” sitt. Háttatími er klukkan 22. Þá er gengið í öll herbergin, umsjónarmennirnir fara með faðir vorið með drengjunum og bjóða góða nótt.
Drengirnir hverfa inn í draumalöndin, en framundan bíður þeirra heillandi og skemmtilegur dagur.“

Heimild:
-Alþýðublaðið 44. árg., laugardagur 13. júlí 1963, bls. 5.
-Alþýðublað Hafnarfjarðar 16. maí 1962, bls. 5.

Krýsuvík

Texti í Alþýðublaði Hafnarfjarðar 16. maí 1962, bls. 5, um Vinnuskólann.

Krýsuvík

Í Alþýðublaði Hafnarfjarðar árið 1949 mátti lesa eftirfarandi um framkvæmdir bæjarins í Krýsuvík:

Krýsuvíkurvegur

Krýsuvíkurvegurinn 1961 (yfir Vatnsskarð).

„Krýsuvíkin á að verða það haldreipi, sem Bæjarútgerðin gat ekki orðið fyrir 10—15 árum. Þegar Alþýðuflokkurinn á Alþingi 1935, tók að beita sér fyrir lagningu Suðurlandsbrautar um Krýsuvík til þess að fá snjóléttan vetrarveg milli Árnessýslu og Reykjavíkur, opnuðust möguleikar fyrir Hafnarfjörð, að færa sér í nyt auðsuppsprettur Krýsuvíkur.
Í Krýsuvík mun hafa verið byggð frá landnámstíð og allt fram á okkar daga. Samkvæmt manntali 1855 voru þá í Krýsuvíkursókn 12 býli með 72 manns, er þar höfðu sitt framfæri. Síðari hluta 19. aldar fækkaði svo þessum býlum ört, og byggð mun hafa lagst þar alveg af um 1935.
Oft mun hafa verið vel búið í Krýsuvík, enda sauðland gott og ræktunarmöguleikar miklir. Hins vegar munu erfiðar samgöngur, eða réttara sagt samgönguleysi, hafa valdið mestu um það, að byggðin lagðist niður. Með tilkomu hins nýja vegar var aftur þessari hindrun rutt úr vegi. En allir muna hvernig íhaldið snerist við þeirri vegarbót. Um fáa vegi á Íslandi mun hafa verið rifist meira.

Kleifarvatn

Kleifarvatn – vegurinn undir Hellunni.

Morgunblaðið eyddi fjölda dálka rúmi, viku eftir viku, og mánuð eftir mánuð til að reyna að færa líkur að því að þessi vegagerð væri vitleysa. Og jafnvel eftir að vegagerðinni var að mestu lokið, s.l. vetur, þegar vegurinn bjargaði mjólkurflutningunum um tveggja til þriggja mánaða skeið, barði blaðið enn hausnum við steininn og fullyrti að vegurinn væri til einskis gagns. — Þetta er nú íhald, sem segir sex. Látum vera að það berjist á móti nýmælum, það er mál útaf fyrir sig, en að neita staðreyndum, það er erfiðara, og þó harkaði Morgunblaðið af sér að gera það líka.
Hafnfirðingar nutu góðs af vegarlagningu þessari á margan hátt. Í fyrsta lagi nutu þeir góðs af því, eins og Reykjavík, að hægt var að halda sambandi þessu opnu, þegar allir aðrir vegir austur voru lokaðir. Í öðru lagi nutu þeir, á erfiðum tíma, mikillar atvinnu við lagningu vegarins. Í þriðja lagi opnaði vegurinn þeim leiðina til Krýsuvíkur.

Krýsuvík

Krýsuvík – starfsmannahúsið.

Næsta sporið var að eignast landið. Emil Jónsson bar fram á Alþingi 1935 frumvarp um eignarnám á þessu landi öllu, sem náði samþykki, þó ekki eins og upphaflega var til ætlast, heldur var það nokkuð rýrt í meðferð þingsins, en Hafnarfjarðarbær eignaðist þó allt ræktanlegt land milli Sveifluháls og Geitarhlíðar, og milli Kleifarvatns og sjávar, sem er geysilegt landflæmi, fyrir lítið verð eða innan við 50 þús. kr. með rétti til að nytja allan jarðhita í landi jarðarinnar. Það má óhætt fullyrða, að þessi kaup, á jörð og hitaréttindum, eru einhver þau hagkvæmustu, sem Hafnarfjarðarbær hefir nokkurntíma gert, miðað við allar aðstæður og miðað t.d. við verðið á jarðhitaréttindum þeim, sem Reykjavíkurbær hefir keypt í Mosfellssveit, og mikið lán að þessu skyldi vera lokið fyrir verðhækkun ófriðaráranna.

Krýsuvík

Krýsuvík – bústjórahúsið.

Um leið og landið var keypt, var einnig frá því gengið, að það yrði innlimað í lögsagnarumdæmi Hafnarfjarðar, svo að útsvör manna sem í Krýsuvík eiga heima, renna nú til Hafnarfjarðarbæjar, en ekki til Grindavíkurhrepps, en landið tilheyrði áður þeim hreppi. —
Sömuleiðis er með þessu tryggt að öll starfsemi bæjarins á þessu landi nú og í framtíðinni, verður ekki útsvarsskyld til annarra.

Nú leið og beið, því ekki var hægt að hafast að, fyrr en vegurinn var fullgerður suður fyrir Kleifarvatn, en þá hófust líka þegar framkvæmdir í allstórum stíl. Árið 1945 og ’46 var allt landið girt. Um sama leyti var hafist handa um undirbúning gróðurhúsabygginga og hús byggingar fyrir starfsfólk. Þessu verki var lokið um síðastliðin áramót eða uppúr þeim, og fyrstu gróðurhúsin voru tekin til notkunar í marzmánuði síðastliðnum.

Krýsuvík

Krýsuvík.

Eru gróðurhús þessi um 600 fermetrar að flatarmáli. Í sumar hefir svo verið unnið að því að stækka þau, bæta 1000 fermetrum við. Undirstöður og veggir, fyrir þessar viðbótarbyggingar, er nú fullsteypt. Járnsmíðin á að vera í fullum gangi, og gler og annað efni hefir verið fengið til byggingarinnar. íbúðarhús gróðurstöðvarinnar er stórt og vandað. Þar er, á aðalhæð, íbúð fyrir garðyrkjustj. og aðstoðarmann hans, tvær íbúðir Á neðri hæð er 1 íbúð og nokkur íbúðarherbergi að auki. Á þar með að vera séð fyrir húsnæði fyrir garðyrkjustöðina fyrst um sinn.

Hitaveita, vatnsveita og vegir, hefir einnig verið gert í sambandi við stöðina. Þessar framkvæmdir allar í sambandi við garðyrkjustöðina munu nú kosta samtals um 1,4 milj. kr. — Eins og áður er getið tók garðyrkjustöðin til starfa í marz s.l. og hefir því í ár starfað í 8—9 mán. og aðeins með 600 fermetra hús.

Krýsuvík

Krýsuvík 1962- fjósið (HH).

Reksturinn hefir gengið vel, þegar tekið er til greina, að hér er aðeins um byrjun að ræða, í smáum stíl, og ekki allt árið. Afurðir munu þegar vera seldar fyrir 60—70 þús. kr.
Á næsta ári verður væntanlega hægt að taka til afnota viðbótarbyggingarnar og þrefaldast þá nálega gólfflötur gróðurhúsanna.
Garðyrkja á jarðhitasvæðum er talinn hinn arðvænlegasti rekstur hér á landi og er ekki vafi á að hún muni verða einn af hyrningarsteinunum undir búrekstrinum í Krýsuvík. Ekki má telja ólíklegt að innan fárra ára geti garðyrkjubúið selt afurðir fyrir um 300—400 þús. kr. á ári miðað við svipað verðlag og nú er.
Framkvæmdastjóri garðyrkjubúsins er Óskar Sveinsson. Hefir hann sagt fyrir um gerð gróðurhúsanna og stjórnað verkinu frá upphafi með áhuga og dugnaði.

Krýsuvík

Krýsuvik – gróðurhúsin.

Ráðgert er að stofna til búreksturs til mjólkurframleiðslu í Krýsuvík með ca. 100 mjólkandi kúm, til að byrja með. Síðar verði kúnum fjölgað fljótlega upp í 300, og meira síðar. Með 300 kúm í Krýsuvík, og þeirri mjólkurframleiðslu, sem nú er í bænum og næsta nágrenni hans má gera ráð fyrir að hægt verði að fullnægja mjólkurþörf bæjarins fyrst um sinn. Væri með því stigið mikið heillaspor fyrir bæjarbúa, að geta ávalt fengið nýja mjólk og góða, í stað þeirrar, sem nú er flutt hingað um langan veg og vægast sagt er misjöfn að gæðum.

Krýsuvík

Borað á hlaðinu í Krýsuvík um 1950.

Framkvæmdir þessar hófust árið 1946. Jarðræktarframkvæmdirnar hafa verið fólgnar í skurðgrefti til að þurka landið. Gerðir hafa verið bæði stórir opnir skurðir og lokræsi. Land hefir einnig verið brotið til ræktunar, svo tugum hektara skiptir. Vegir hafa verið gerðir. Vatnsveita lögð. Tveir votheysturnar byggðir. Fjós er í byggingu og sömuleiðis íbúðarhús fyrir bústjóra.
Keyptar hafa verið vélar til jarðræktar, flutninga o.fl. Segja má að allt þetta sé komið svo vel á veg, að sá dagur sé ekki langt undan að rekstur búsins geti hafist. Það sem enn vantar fyrst og fremst, er íbúðarhús fyrir starfsfólk, að fullgera fjós og bústjórahús og að kaupa gripi.

Krýsuvík

Krýsuvík – fjósið 2022.

Bústjóri var ráðinn fyrir þrem ár um Jens Hólmgeirsson, og hefir hann undirbúið framkvæmdir og stjórnað þeim. Hann hefir lagt í það mikið verk að öllu verði sem haganlegast fyrir komið.

Krýsuvík

Krýsuvík – leikmynd True Detective í fjósinu 2023.

Auk staðgóðrar þekkingar og mikillar reynslu frá bústjóraárum sínum á Ísafirði, hefir hann gjörkynnt sér allar upplýsingar sem fram hafa komið hin síðustu ár á þessu sviði, — og þær eru margar, — og í samráði við fróðustu menn valið þær, það sem ætla má að geti orðið Krýsuvíkurbúinu að mestu gagni. Er því ekki vafi á að þegar það tekur til starfa verður það í fremstu röð hvað fyrirkomulag og tækni alla snertir.

Krýsuvík

Krýsuvík 2022.

Kostnaður við framkvæmdir allar snertandi kúabúið, mun nú vera orðinn um 1 millj. kr., ræktunarkostnaður, bvggingarkostnaður og vélakaup, en þar af hafa vélar verið keyptar fyrir um 300 þús. kr. Bæjarútgerðin hefir greitt allan þennan kostnað, en hún lagði fram eins og kunnugt er 1,25 millj. kr. til kúabússtofnunarinnar.“

Heimild:
-Alþýðublaðið, VIII. árg. Hafnarfirði 10. des. 1949, 8. tölublað, bls. 1-3.

Krýsuvík

Fjósið og turnarnir í Krýsuvík 2023. Bústjóra- og Starfsmannahúsið ofar. Hveradalur t.h.

Krýsuvík

Í Morgunblaðinu 1953 er m.a. fjallað um votheysturnana tvo í Krýsuvík:

Krýsuvík„Til þess að standa nokkuð gegn því misræmi, sem orðið var á skráðu gengi erlendrar myntar og verðlaginu hér á landi, var talið nauðsynlegt að taka upp stranga skömmtun á hverjum hlut. Gjaldeyrisskorturinn var ekki orðinn viðráðanlegur og eftirspurnin eftir gjaldeyri og erlendum vörum var gífurlegur. Það, sem þurfti að taka upp skömmtun á m.a. voru vörur til bygginga og var það fjárhagsráð, sem hafði öll völd um það, hvort menn fengu að byggja sér íbúð eða ekki, sem og aðra fjárfestingu. Virtist þar oft ráða meiru hverjir fengu slík fjárfestingarleyfi, dugnaður manna við að tala máli sínu, heldur en þörf manna fyrir að fá leyfin.
Má segja að það sé e.t.v. ekki óeðlilegt, þar sem útilokað er fyrir menn sem sitja inni á skrifstofu að gera sér fulla grein fyrir hlutunum og kanna hvað rétt er hverju sinni.

Krýsuvík

Fjósið í Krýsuvík 2023.

Hafnfirðingar þekkja það mæta vel, þegar óverðugir hafa hlotið hinn dýrmæta gjaldeyri til fjárfestingar. Er þar glöggt dæmi sú geysimikla fjárfesting, sem orðin er í Krýsuvík vegna fyrirhugaðs búreksturs þar. Öll sú fjárfesting hefur ekki orðið til annars en byrða og armæðu fyrir bæjarbúa, og svo vegna þess, að Hafnarfjarðarbær hefur getað beitt aðstöðu sinni til að fá slík leyfi, hefur og dugandi mönnum verið neitað, sem nú hefðu verið farnir að ávaxta sitt pund til hagsældar fyrir sig og þjóðarbúið.

Krýsuvík

Krýsuvík – fjósið (2022) notað fyrir kvikmyndatöku.

Eins og fólk, sem fer um Krýsuvík, hefur séð, þá standa þar votheysturnar miklir, að vísu ekki nema steinhólkarnir, því að lengra er ekki smíðinni komið. Þeir eru tveir að tölu og voru þeir steyptir upp á árinu 1949, svona rétt fyrir bæjarstjórnarkosningarnar. Á meðfylgjandi mynd sjást turnarnir og fjósbygging í smíðum, en síðan hefur hún verið gerð fokheld. Í reikningum bæjarsjóðs Hafnarfjarðar sést að turnar þessir kosta ekki undir 55 þús. kr. og er það að vísu lítið fé af öllu þvi, sem búið er að eyða í Krýsuvíkurframkvæmdirnar, en þó verða þessar kr. til að þyngja baggana á bæjarbúum.

Krýsuvík

Fjósið og turnarnir í Krýsuvík 2023.

Þegar Hafnarfjarðarbær fékk leyfi fyrir votheysturnunum sínum, þá var frá því sagt í fréttum, að veitt hefðu verið fjárfestingarleyfi til að byggja 10 votheysturna á öllu landinu og af þeim fóru tvö leyfi í Krýsuvík, þar sem hvorki var búið að rækta gras til að láta í þá, né heldur var nokkur skepna til að fóðra og er hvorugt fyrir hendi ennþá, nálega fjórum árum síðar. Fer ekki hjá því, að margur hugsi sem svo, að það hefði verið nær að láta eitthvað af þeim á annað hundrað bændum, sem sóttu um fjárfestingarleyfi til slíkra bygginga, en var synjað, hafa þessi tvö leyfi, því þeir munu bæði hafa haft grasið til að láta í turnana og skepnur til að fóðra á því.“ – P
Nú, árið 2023, er fjósið í Krýsuvík að falli komið; norðurveggurinn fallinn út og þakið að mestu. Ef ekkert verður að gert munu leifar fjóssins fjúka út um nágrennið með tilheyrandi sóðaskap.

Krýsuvík

Krýsuvík – hluta af teikningu af fjósinu. Hér er gert ráð fyrir einum votheysturni.

Heimild:
-Morgunblaðið, þriðjudagur 31. marz 1953, bls. 6.

Festarfjall

Hraunsvík og Festarfjall eru náttúruminjar í umdæmi Grindavíkur.

Festarfjall

Festarfjall og Hraunsvík.

Gengið var niður í Hraunsvík Undir Festi, eins og það er kallað, þ.e. að ganga Hraunssandinn (Ægissandinn) undir Festarfjalli (Festisfjalli) með Hraunsvíkinni. Einstigi er niður með berginu, en tiltölulega auðvelt er að komast niður (og reyndar upp aftur). Ofan fjörunnar, austan Hrólfsvíkur, er hátt berg og síðan Festarfjallið, sem sjórinn hefur nú sorfið til hálfs. Í gegnum fjallið gengur bergveggur og er hann sagður vera festi tröllskessu. Festarfjall er 190 metra hátt. Við austurenda þess er Lambastapi og síðan Ísólfsskáli. Ekki á að vera hægt að ganga þurrum fótum með ströndinni undir fellinu yfir að Ísólfsskála, en þó er til saga um að kona þar búandi hafi gert það a.m.k. einu sinni og þótti það mikið afrek.

Hraunsvík

Hraunsvík til vesturs.

Að þessu sinni var sjórinn svo til ládauður, en hann getur verið ansi viðskotaillur þarna niðri og fljótur að skella sér upp og bleyta óvænt í göngufólki. Dæmi eru um að hann hafi hellt sér yfir börn, sem hætt hafa sér of nærri, en enn er ekki vitað um að óhapp hafi hlotist af. Hár malarbakki er við sjávarmál og því varhugavert að hætta sér of nærri, enda Ægir óræðinn og jafnvel óvæginn á stundum. Þá þarf að gæta þess vel að fara ekki austur fyrir hlein, sem þar skagar út vestast undir Festarfjalli, í aðflæði. Þar undir Festarfjalli er m.a. stór hellir og annar minni. Í stærri hellinum verpir teista, hinn knái svarti fugl, tugum saman. Fýll og rita verpa utan í bjarginu. Ungarnir stóðu sperrtir á syllunum og biðu eftir að verða flugstórir.

Dúnknahellir

Duknahellir.

Vestar í berginu er m.a. Dunknahellir. Hann er nú að koma fram aftur eftir að sjórinn hafði fyllt hann af sandi og möl. Op er á honum uppi í berginu, en um það er ekki hægt að komast svo auðveldlega. Hins vegar er hægt að fara inn í hellinn undir bergið og er þá komið inn í sæmilega rúmgóðan og háan skúta. Opið er uppi undir lofti – mót austri.

Eftirfarandi frásögn er í ritinu “Frá Suðurnesjum – frásagnir frá liðinni tíð” eftir Guðstein Einarsson og ber hún heitið “Frá Valahnúk til Seljabótar”:
“Í kringum 1890 fannst þarna rekin á hvolfi frönsk fiskiskúta. Erfitt var að gera sér grein fyrir, hvort áhöfn hefði farist með skipi þessu. En með því að engan mann hafði rekið úr því, var frekar hallast að því, að skip þetta hafi verið yfirgefið, en skipshöfninni bjargað af öðru skipi, áður en það rak upp.

DunkshellirÍ þennan tíma var gert út frá Ísólfsskála. Þeir bræður, Hjálmar og Brandur Guðmundssynir frá Ísólfsskála, voru þar formenn, með sinn bátinn hvor. Dag nokkurn á vertíðinni voru þeir á sjó austur í Hælsvík. Þar var þá mikið af frönskum fiskiskútum. Ein skúta var þar, sem þeir veittu sérstaka athygli, vegna þess hve segl hennar voru mislit, líkast því sem þau væru bætt. Seinni part þessa dags gekk svo í hvassa s.a. átt með slyddubyl. Þeir bræður héldu til lands, þegar verðrið fór að versna. Um kvöldið eða nóttina gekk síðan í hvassa s.v. átt. Morguninn eftir, þegar þeir á Ísólfsskála komu niður að sjónum þar, tóku þeir eftir miklu rakaldi þar úti fyrir og eitthvað var í fjörunni. Það var þegar giskað á, að skip hefði strandað vestur á Hraunssandi eða þar í kring og var fljótlega sent af stað að líta eftir þessu.

Hraunsvík

Hraunsvík til austurs.

Á leiðinni frá Ísólfsskála og út að Hrauni er mikið af þverhníptum háum klettum meðfram sjónum og sums staðar illt að sjá greinilega niður í fjöruna, enda komust leitarmenn alla leið út að Hrauni, án þess að finna nokkuð. Frá Hrauni var svo snúið við aftur sömu leið og bættust þaðan menn við í leitina.

Þegar upp að Dunkshelli kom, fannst svo þetta strand, sem áður er getið. Og þeir Ísólfsskálamenn töldu sig þekkja þar aftur frönsku skútuna með bættu seglin, sem þeir sáu í Hælsvík deginum áður. Engan hefi ég hitt, sem kann nánar að segja frá strandi þessu, en nú hefir verið gert.

Dunkshellir

Horft upp um op á Dunkshelli.

Fyrir innan Dunkshelli byrjar Hraunssandur og er hann í boga fyrir botni Hraunsvíkurinnar, hátt berg rís alls staðar upp af Hraunssandi, og aðeins á einum stað er hægt að komast niður á sandinn, þar sem klettarnir eru lægstir. Alveg fyrir botni Hraunsvíkur, þegar ströndin byrjar að beygja út að austanverðu, rís Festarfjall upp af sandinum.
Í Festi eru Vestri-Nípa og Eystri-Nípa, sem eru mörk milli Hrauns og Ísólfsskála, og frá Eystri-Nípu heitir sandurinn Skálasandur. Munnmæli eru um að í skerjum, sem heita Selasker og eru fram undan Eystri-Nípu, hafi í fyrndinni verið festiboltar fyrir skip og að þarna hafi þá verið skipalega. En miklar breytingar hafa orðið á landslagi þarna, hafi það nokkru sinni verið, því yfirleitt á öllum sandinum er sjaldan svo kyrrt, að hægt sé að lenda þar.

Dunkshellir

Horft út um Dunkshelli.

Upp úr 1890 hafði frönsk fiskiskúta siglt upp á Hraunssand og orðið þar til. Það var í besta veðri, svo margir bátar úr Þórkötlustaðahverfinu voru á sjó. Eftir hádegi kom “fransari” siglandi á þær slóðir, sem bátarnir héldu sig helst á, og virtist vilja hafa tal af þeim, því hann sigldi að hverjum bátnum eftir annan, og þeir héldu það vera skipstjórann sem var með köll og bendingar, en enginn á bátunum skildi, hvað hann vildi. Eftir að hafa siglt þannig á milli bátanna nokkra stund tók hann stefnu beint upp á Hraunssand og þar í strand. Magnús Hafliðason bóndi á Hrauni segist muna það, að faðir sinn, Hafliði Magnússon, sem lengi bjó á Hrauni, hafi oft minnst þess franska skips eða siglingu þess, þennan dag. Hann hafði verið í landi um daginn, en bátarnir voru svo nærri landi, að fljótlega var tekið eftir því, þegar franska skipið fór að sigla á milli þeirra, hvers af öðrum.

Festarfjall

Festarfjall – sjávarhellir.

Það þótti strax eftirtektarvert, því venja var að þegar “fransari” sigldi að báti, sem oft hafði komið fyrir, þá var erindið að biðja þá fyrir bréf í póst, eða að hafa viðskipti. Sérstaklega höfðu þeir frönsku sóst eftir sjóvettlingum. Allt, sem þeir keyptu, var aðallega borgað í kexi. Einstaka sinnum var gefið í staupinu, svo karlarnir höfðu stundum komið góðglaðir í land, berhentir en með kex, og það þótti alltaf góð hlutabót. Þeir frönsku þurftu því að jafnaði ekki að sigla milli margra báta til að fá afgreiðslu.  Þess vegna var farið að veita siglingunni athygli, þegar svo skipið tók stefnu til lands. Beið heimafólk á Hrauni þess með eftirvæntingu, hvað skipið ætlaðist fyrir. En þegar svo að siglingin hvarf fyrir hamranefið, sem lengst skagar fram sunnan við Hraunssand, þar sem Dunkshellir er, var séð hvert stefndi.

Festarfjall

Festarfjall – sjávarhellir.

Hafliði fékk orð fyrir að vera léttur á sér og fljótur á fæti allt fram á elliár, en það hafði hann sagt, að aldrei muni hann hafa verið fljótari uppá Hraunssand en í þetta skipti. En þótt hann væri fljótur, var skipið strandað og landsjórinn búinn að setja það þversum í fjöruna. Öllu verðmæti hafði verið bjargað úr skipi þessu og það svo liðast sundur þarna í fjörunni.
Magnús Hafliðason segir og, að Hraunssandur sé oft á mikilli hreyfingu, þannig að sjórinn hreinsi stundum allan sand af einum staðnum og flytji á annan, svo klappirnar verði berar, þar sem sandurinn hverfur. Í einu slíku umróti segir hann að gríðarstórt akkeri hafi sést í klöppunum, en sandurinn hafi hulið það svo fljótt aftur, en ekki hafi unnist tími til að ná því, svo að það týndist aftur. En akkeri þetta telur hann víst að sé af þessu franska skipi.”

Festarfjall

„Festin“ í Festarfjalli neðst.

Í fjörunni vestan við Dunkshelli var dauðrekinn hvalur. Erfitt var að geta sér til um tegundina, en ólyktin gæti hafa sagt kunnugum eitthvað.
Myndanirnar í berginu og fjallinu eru tilkomumiklar; bólstarberg, setlög og þétt grágrýti í bland. Festarfjall dregur nafn sitt af grágrýtisganginum. Þessi gangur á að hafa verið gerður að silfurfesti tröllkerlingar í þjóðsögunni.
Austarlega í Grindavík, hér um bil miðja vegu milli bæjanna Hrauns og Ísólfsskála, er þverhnípt fell fram við sjóinn, sem heitir Festarfjall. Neðan undir felli þessu er hátt blágrýtisstandberg og ægisandur undir sem ganga má þurrum fótum með lágum sjó. Frá Hrauni blasir við í miðju berginu grá rák sem gengur þráðbeint upp í gegnum bergið og nefnist Festin.

Kristján Sæmundsson

Kristján Sæmundsson, jarðfræðingur, skoðar berggang undir Lyngfelli.

Sagan segir að rák þessi sé silfurfesti sem tröllkona ein hafi einhvern tíma í fyrndinni hengt fram af berginu með þeim ummælum að þá er dóttir bóndans á Hrauni, sú sem bæri nafn hennar, gengi þar neðan undir þá skyldi festin detta niður og verða eign stúlkunnar.

Því miður lét tröllkonan ekki nafns síns getið svo að ekki hefir verið auðvelt að láta heita eftir henni, enda hangir festin óhreyfð enn í dag.
Ofan við Hraunssandinn var á sjöunda og áttunda áratug tuttugustu aldar mikið malar- og sandnám (Ægissandur h/f). Enn má sjá þar ummerki eftir sílóin. Þaðan var vegur niður á Hraunssand, sem „peiloder“ var ekið um með aftanívagn. Hann var þannig gerður að hann gat mokað sandinum og mölinni upp í sig sjálfur. Óhemjumagn af efni var þannig fært upp úr fjörunni í námuna. Margir Grindjánar höfðu atvinnu af þessum malar- og sandflutningum, sem nú hafa lagst af.

Heimild um þjóðsöguna er í RAUÐSKINNU I 45 og grindavik.is.

Festarfjall

Sjávarhellir í Festarfjalli.

Arnarsetur

Gengið var um Arnarseturshraun undir leiðsögn Björns Hróarssonar, hellafræðings. Fyrst var farið í Dolluna, sem rétt við gamla Grindavíkurveginn við bílastæðið á Gíghæð.

Dollan

Dollan.

Dollan opnaðist er þakið féll niður undan vörubíl þegar verið var að vinna við nýja veginn, en þá var svæðið þarna notað sem athafnasvæði verktakans. Opið er svo til alveg vestan til í svæðinu. Dýptin á fast er um mannhæð og hallar undir á alla vegu. Þarna þyrfti að vera góður stigi fyrir ferðafólk því hellirinn er aðgengilegur svona nálægt vegi. Fyrst þyrfti þó að hreinsa upp drasl, sem safnast hefur neðan við opið. Björn skellti sér niður og skoðaði hellinn. Hann nær umm 30 metra upp á við til austurs og einnig til vesturs og uppfyllir því öll skilyrði til að geta flokkast sem góður hellir.

Næst var gengið áfram niður hraunið og hraunrásinni fylgt til vesturs. Eftir u.þ.b. 500 metra endar rásin og við tekur hellir. Hann liggur í hægri boga og endar eftir u.þ.b. 50 metra. Þar er stórt op í gólfinu og sést niður á neðri hæðina. Mannhæða hátt er niður. Eftir að haf rutt niður grjóti til að búa til lendingarpall var hoppað niður. Þar liggur víð og góð rás til austurs, undir gólfið sem áður var gengið.

Dollan

Í Dollunni.

Gólfið í rásinni er alveg hreint og slétt. Þessi hluti endaði eftir u.þ.b. 50 metra. Þar inni var bréfmiði á vegg, en letrið var ólæsilegt. Þó mátti greina dagsetningu og ártalið 1992. Þá var haldið til vesturs. Eftir um 30 metra var komið út í jarðfall. Úr því hélt rásin áfram um 20 metra uns komið var út úr henni á ný. Miðað við lýsingu á Hellinum Kubb gæti þetta vel verið hann. GPS-punktur af hellinum sýndi staðsetningu u.þ.b. 20 metrum norðar, en þrátt fyrir leit þar fannst ekkert op. Miðað við nýjan GPS-punkt, sem tekin var þar, gæti hér verið um misvísun að ræða. Um Kubb segir m.a. í lýsingu: “Kubbur er sennilega í sama hellakerfi og Dollan. Kubbur er á tveimur hæðum”.

Kubbur

Kubbur.

Annað op fannst skammt austan við þann stað, næstum mannhæða djúpt. Björn hoppaði þar ofan í. Þarna reyndist vera hellir í sömu stefnu og hinir hellarnir, u.þ.b. 30 metra langur. Þessi hellir hefur ekki verið nefndur, en fær hér vinnuheitið Naddur í merkingunni nálægur. Erfitt er að koma auga á holuna nema ganga svo til beint á hana.

Hnappur

Hnappur – opið.

Ekki lágu fyrir GPS-punkt á Hnapp, en um hann er til eftirfarandi lýsing: “Hann er með skemmtilegri hellum, sem hægt er að komast í. Hann er ekki mjög langur, en hefur upp á margt að bjóða. Inngangurinn er í gegnum þröngt gasútstreymisop. Strax þegar niður er komið er hægt að fara á efri eða neðri hæð. Efri hæðin lokast fljótt, en neðri hæðin liggur góðan spöl inn þar til komið er að hraunfossi. Fyrir innan fossinn lækkar gólfið verulega. Þá er maður staddur í miðjum hellinum í stórumsal. Út frá þessum sal liggja rásir í margar áttir og ein þeirra liggur í hring”. Fróðlegt væri að fá nánari staðsetningu eða leiðarlýsingu á Hnapp. (Síðar kom í ljós að Þorvaldur Örn, kennari í Vogum, hefði farið með félaga sínum Geirdal, í Arnarseturshraun og þá farið niður í Hnapp. Hefðu þeir m.a. rissað hellinn upp og nefnt hann Geirdal).

Hnappur

Í Hnappnum.

Haldið var upp að vegavinnubyrgjunum austan Grindavíkurvegar og áfram upp fyrir þau. Þar eru hellar í hraunrás. Rásin er fallin niður á tveimur stöðum og er efri hlutinn öllu lengri, eða um 50 metra langur. Hann endar í hafti, sem aðskilur hann og efsta hluta hinnar miklu hraunrásar úr Arnarsetursgígnum. Í heildina er þessi hallahluti um 100 metrar á lengd. Þeir fá vinnuheitið Gegnumgangur. Á bökkum rásarinnar eru margar stórar og fallegar hraunæðar.
Loks var gengið niður í Dátahelli. Hann nefnist svo vegna þess að í honum fannst beinagrind er talin er hafa verið af amerískum hermanni er týndist í hrauninu að vetrarlagi allmörgum árum áður. Við skoðun reyndist hellirinn vera um 40 metra langur.
Veður var frábært – bjart og hlýtt miðað við árstíma.

Allar staðsetningar voru samviskusamlega skráðar, en þegar heim var komið uppgötvaðist að blaðið með öllum tölunum hafði gleymst við Dátahelli.

UPDATE:

Arnarseturshellir

Arnarseturshellir.

Farið var aftur í Arnarseturshraun og GPS-punktar endurteknir. Við það fannst hellir, er nefndur hefur verið Skjóli sem og Kubbur að öllum líkindum.
Farið er inn í Skjóla, sem er nokkuð norðan við Nadda, inn í hraunbólu. Inn úr henni liggja rásir bæði til norðurs og suðurs. Ýmislegt bendir til að þetta séu yfirborðsrásir, en þarna örskammt frá er allnokkurt jarðfall er bendir til að þar undir hafi runnið talsvert hraun. Skjóli var ekki kannaður að þessu sinni, einungis framan við rásirnar er liggja inn.
Á leiðinni til baka var aftur hugað að hraunhól, sem lítil varða stendur á, og skoðaður hafði verið daginn áður. Hóllinn er skammt vestan við Dolluna. Í honum eru tvö gasuppstreymisop. Eystra opið er þröngt, en liggur inn til norðurs og víttkar síðan og hallar niður á við. Þarna gæti vel verið um opið á Hnapp að ræða. Fötin gáfu ekki tækifæri til að elta rásina lengra niður að þessu sinni, en þarna er svolítið skrið til að byrja með.
Ferðin var notuð til að gera uppdrátt af svæðinu og merkja þar inn á alla hellana níu. Skilið var eftir autt pláss fyrir enn ófundna hella þarna.
Frábært veður.

Geirdalur

Geirdalur – uppdráttur.

Seljadalur

Ætlunin var að skoða Kambsrétt undir Kambhól, ganga austur Seljadal og reyna að finna og skoða Nesselið, sem þar á að vera í þverdal í norðanverðum dalnum. Á gömlu korti er selið staðsett ofarlega í þverdalnum.

Kambsrétt

Kambsrétt.

Guðjón Jensson, margfróður Mosfellingur, hafði haft spurnir af ferðinni á vefsíðunni og sendi væntanlegum þátttakendum eftirfarandi upplýsingar um Kambsréttina:
“Þessi dalur hefur verið í sérstöku uppáhaldi hjá mér enda ýmislegt að skoða þó ýmsu hafi verið raskað. Þarna í Dalnum var sel frá Viðeyjarklaustri og eg hef verið mikið að velta fyrir mér gegnum tíðina hvar það hafi verið. Klaustrið var rænt skömmu fyrir miðja 16. öld. Síðasti kaþólski biskupinn í Skálholti, Ögmundur Pálsson, endurreisti klaustrið og lagði lykkju á leið sína á flóttanum þaðan er hann frétti að kóngsmenn hyggðust ná honum. Ögmundur kom við í Viðeyjarseli, sjálfsagt til að líta eftir hvort allt væri ekki í besta standi. Hann var handsamaður nokkru síðar af Hjalla í Ölfusi sem kunnugt er. Viðey nánast hverfur úr sögunni næstu tvær aldirnar. Ég hef leyft mér að draga eftirfarandi ályktun:
Undir Viðeyjarklaustur voru 132 jarðir sem kóngsmenn sölsuðu undir sig við siðskipti. Allar þessar jarðir voru leigðar út og var mikið kapp á að fá sem hæsta leigu út úr bændum, leiguafgjöld auk þess sem lagt var á karlana ýmsar óbærilegar kvaðir í þágu Bessastaðamanna. Nú varð ekki lengur jafn mikil þörf hjá leiguliðanum og kotungaanum í Viðey að koma lítilfjörlegum búsmala sínum frá sér og allar götur upp í Seljadal. Þar haslaði hins vegar bóndinn í Nesi, sbr. Nessel og í Örnefnalýsingu Þormóðsdals er sagt að þar í Dalnum hafi verið selför frá Gufunesi.

Nessel

Nessel.

Eftir að starfsemin í Viðey leggst af, er þörfin á hinum miklu umsvifum klaustursins um vestanverða Mosfellsheiðina engin. Kóngsmenn hafa látið afskiptalaust þó bændur, leiguliðarnir byggðu sér fjárrétt úr grjótinu og einhver þægindi þarna í Dalnum, enda hefði það aftur betri möguleika að standa í skilum með afgjald jarðanna.
Mér finnst liggja fremur ljóst fyrir, að Viðeyjarsel hafi fyrrum verið þar sem nú eru rústirnar af Kambsréttinni. Þar er t.d. mjög stutt í rennandi vatn en seljabúskapur byggðist á greiðum aðgangi að góðu vatni til að tryggja gæði afurðanna.

Nessel

Dýjamosi við Nessel.

Í skriðunni skammt innan við Kambsréttina og undir Seljadalsbrúninni tjáði Jón á Reykjum mér fyrir löngu að þar væri tóugreni að finna. Aldrei hefi ég verið svo lánsamur að rekast á afkomanda frumbyggjans knáa á Íslandi, refinn í Dalnum en oft rekist á spor hans á vetrum á Heiðinni. Hins vegar hef eg talið mig hafa fundið stundum stæka lykt hingað og þangað um Dalinn enda merkir refurinn sér óðal sitt vel og vandlega.
Fyrir innan Kambsrétt á móts við Nessel eru fornar brýr yfir mýrina. Sögn er um að hún hafi verið gerð í tilefni konungskomunnar 1874 en að öllum líkindum er hún mun eldri enda lág hin forna þjóðleið eftir Seljadalnum endilangum frá
fornu fari, frá Reykjavík og austur á Þingvöll. Svo er auðvitað ekki langt úr leið að skoða stuðlabergið í grjótnámunni sem vonandi fær nú að standa en miklu stærra og fegurra stuðlabergstál var brotið niður hérna um árið. Það þarf að láta verktakann ganga vel frá þessu námi þegar starfsemin hættir”.

Nessel

Nessel – uppdráttur ÓSÁ.

Sesselja Guðmundsdóttir hafði gengið í Nessel og skoðað það. Hún sendi þá eftirfarandi lýsingu: “Nesselið er eitt flottasta ef ekki flottasta selstæði sem ég hef séð. Var spöl fyrir innan það litla sem ég fann í gær, þ.e. nær Grímarsfellinu, inn í dalbotni sem snýr í suður, lokaður af af hálsum á þrjá kanta, kaldavermsl í bæjarhlaðinu, góður bæjarhóll og líklega stór hringlaga stekkur aðeins austan við, ekki þó fullvíst er svo vallgróinn. Stekkurinn óvenjustór, minnir frekar á fjárborg. Mannvirkin þarna að mestu úr torfi enda varla grjót að fá.”
Gengið var frá vegi norðan Silungatjarnar og eftir slóða áleiðis að Kambhól. Hóllinn er kambslaga og sést mjög vel. Handan hans er Seljadalur. Norðan við hólinn er Huldurhóll og sést hann einnig mjög vel. Á honum er varða. Hólar þessir eru greinilega úr stuðlabergi, en slík náma (sú sem Guðjón minntist á) er í hlíðinni ofan við Hulduhól. Gengið var upp í námuna og stuðlabergsmyndanirnar skoðaðar í návígi. Stuðlarnir voru ýmist láréttir eða lóðréttir í berginu.
Ástæða þess að stuðlar eru hornréttir á kólnunarflöt er sú að jafnhitafletirnir færast inn í efnið samsíða kólnunarfletinum, þannig að lagið sem brestur (til dæmis 500°C kólnunarflöturinn) er samsíða kólnunarfletinum, en sexhyrndu sprungurnar sem myndast eru hornréttar á hann.

Nessel-230

Nessel – grunnuppdráttur ÓSÁ.

Þá var gengið á Hulduhól og síðan niður með honum. Þá blasti Kambsréttin við. Hún hefur verið nokkuð stór og fallega hlaðin. Réttin var lögrétt Mosfellinga, en lagðist af upp úr 1850. Þá var réttin flutt í Árnakróka austan við Selvatn. Þar var hún til aldarmóta 1900 eða þangað til hún var flutt að Hafravatni. Þar er hlaðinn rétt austan við vatnið, fast við þjóðveginn.
Vegslóði gengur í gegnum miðja Kambsréttina. Hlaðinn er vegkantur með slóðanum og sennilega hefur grjótið verið tekið úr réttinni. Í raun er réttin sunnan undir Hulduhól, en Kambhóllinn blasir við skammt frá í suðvestri. Seljadalsáin rennur ljúf til vesturs sunnan hans. Ofan vegar eru tveir stórir dilkar, en neðan vegar er meginhluti réttarinnar. Vel sýnilegt er almenningur og dilkur, en neðan þeirra mótar fyrir gerði. Vestan almenningsins er lítill heillegur dilkur og vestan hans mótar fyrir gerði sem og hólfi sunnan þess. Líklegt er að þarna hafi verið mannvirki áður en réttin var hlaðin og ályktun Guðjóns um sel á þessum stað gæti hugsanlega staðist miðað við jarlægu minjarnar, sem þarna eru við réttina, einkum sunnan hennar og vestan. Teknir voru GPS-punktar og réttin rissuð upp.
Kíkt var á urðina ofan við réttina, en líklegt er að skolli hafi ekki komið þangað um nokkurt skeið.

Nærsel

Nærsel – uppdráttur ÓSÁ.

Þá var gengið inn með norðanverðum Seljadal. Dalurinn er sléttur og grasvænn. Hamraveggur lokar honum að sunnanverðu og Hrafnagil að austanverðu. Upp úr dalnum að norðanverðu gengur grösugur dalur. Framarlega í honum var komið að steinsteyptri stíflu í vænlegum læk. Svo virðist sem einhverjir hafi verið að reyna að stífla lækinn með það fyrir augum að fá þaðan gott vatn, en gefist upp við framkvæmdina. Í “stjórnhúsi” eru pípur og kranar.
Gengið var upp dalinn til norðnorðausturs, þvert á lækinn. Reyndar kemur lítill lækur ofan úr dalnum og sameinast þeim, sem fyrr var nefndur. Efst í grónum dal undir grónum grasbrekkum er Nessel, rétt merkt á hið gamla kort, sem haft var meðferðis. Selið er í skóli fyrir flestum áttum, enda hreyfðist ekki strá við það. Tóftin er þrjú rými, mjög greinileg. Lækur rennur sunnan við hana, en handan lækisins virðist vera eldri tóft. Hún gæti einnig hafa verið stekkurinn frá selinu, sbr. lýsingu Sesselju. Selið er á mjög fallegum stað og vel þess virði að ganga inn Seljadalinn og upp í selið. Þetta er u.þ.b. klukkustunda gangur frá Silungatjörn. Teknir voru GPS-punktar og selið rissað upp.

Nessel-231

Nessel – tilgáta ÓSÁ.

Gengið var upp fyrir selið og austur með brúnum Grímmannsfells (Grímarsfells), svo til alveg inn að Hrafnagili. Þaðan er útsýni stórbrotið yfir umhverfið í fjærsuðri. Sjá mátti þar allan fjallahringinn frá Stapafelli (Súlum) að Skeggja.
Í flagi neðan við selið mátti sjá flaghnoðra er gaf honum lit. Ofar var þvílíkt fagurgrænn litur á mosanum undan kaldavermslauppsprettunum að hjarta sérhvers framsóknarmanns myndi fyllast svo móðurlegri samkennd með landinu (að einum undanskyldum að vísu) að hugleiðingar um aðra mögulega nýtingu myndu gleymast með öllu.
Gengið var til baka niður að Nesseli og síðan til baka slóðann norðan við Seljadalsána. Þótt hún sé jafnan ekki mjög vatnsmikil er hún breið á köflum.
Stórkostlegt veður – sól, stilla og hiti. Gangan tók 2 klst og 22 mín.

Kambsrétt

Kambsrétt – uppdráttur ÓSÁ.

Árnakrókur

Ætlunin var að steðsetja Víkursel, Litlasel, Árnakrók og Stórasel austan við Selvatn.

Reykjavíkursel

Reykjavíkursel við Selvatn.

Árnakrókur er lögrétt Mosfellinga frá því um 1850 til 1900 uns hún fluttist í Hafravatnsrétt. Stórasel gæti hafa verið sel frá Elliðakoti (Helliskoti), en landamerki Elliðakots og Miðdals eru við lækjarsprænu, Sellæk, austast í Selvatni. Kort gefa misvísandi mynd af stöðu seljanna, en haft var hliðsjón af korti frá því um 1940, sem mun vera öllu réttar en seinni tíma kort af slíkum minjum. Þannig eru seljunum stundum víxlað á kortum og uppdráttum. Líklega hefur Stórasel verið norðar og Litlasel við Litluselsvík, sem er þar skammt sunnar við austanvert vatnið. Á báðum þessum stöðum eru nú sumarhús.
Gengið var austur með norðanverðu vatninu, að sumarbústað, sem þar er. Bústaður, Selbúð, er þar skammt vestar. Þegar komið var að bústaðnum tók á móti þátttakendum elskuleg hjón. Árni Kristinsson hafði orð fyrir þeim. Hann varð bæði hissa og glaður því enginn hafði fyrr sýnt neinn áhuga á rústum þessum. Hann taldi að hinar gömlu rústir væru skammt norðan við bústaðinn, á bakka Sellækjar. Sóttar voru loftmyndir, kort og aðrar upplýsingar, en kortin voru að vísu svolítið misvísandi. Sýndi Árni m.a. grein úr “Hesturinn okkar, 30. árg. 2. og 3. tbl. 1989”, en í þeirri umfjöllun er lýst staðháttum, örnefnum og minjum á þessu svæði.

Árnakrókur

Árnakrókur.

Frúin, sem uppalin er á þessum slóðum, taldi sig og muna eftir tóftum austan við Árnakróka, í grösugri hlíð þar á mót suðvestri. Gæti verið forvitnilegt að skoða síðar. Boðið var bæði upp á vatn og meðlæti, en hvoru tveggja var afþakkað að þessu sinni. Markmiðið var að skoða nærtækar minjar.
Árni vísaði á minjarnar skammt norðan við sumarhúsið. Þar var að sjá mjög gamlar rústir. Sjá mátti þó móta fyrir þremur rýmum. Árni sagðist hafa heyrt að rústir þessar gætu hugsanlega hafa verið af seli frá gamla Víkurbænum. Af einhverju hefur Selvatn a.m.k. verið nefnt eftir. Aðstaðan þarna er hin ákjósanlegasta, í skjóli fyrir suðaustanáttinni, nægt vatn og nægir bithagar, skammt neðan við Mosfellsheiði. Sellækur rennur hjá rústunum og ofan við þær er Selásinn. Líklegt þykir að bæði hafi verið hærra í vatninu á öldum fyrrum og auk þess hafi gróðurfar við vatnið breyst í aldanna rás.

Árnakrókur

Hleðslur í Árnakrók.

Í máldögum 1397 og 1505 er ekki getið um Víkursel. Ekki er þó ástæða til að álykta að seljabúskapur hafi legið niðri á því tímabili, því máldagarnir eru mjög fáorðir um búskaparefni.
Víkursel kom við sögu atburða sem gerðust nálægt aldamótum 1600 og vörðuðu tildrög hjúskapar. Séra Gísli Einarsson (f. 1570, d. 1660), hálfbróðir Odds biskups, “fékk lítilmótlega giftingu, átti mörg börn, en erfitt bú og hjónaband”. Kona hans var Þórey Narfadóttir (ein heimild nefnir hana Þórnýju) bónda í Reykjavík. Frá því er greint að Gísli, þá óvígður, hafi átt leið um Mosfellsheiði og náttað í Víkurseli. Var Þórey í selinu, en smalamaður fór heim um nóttina og tilkynnti Narfa bónda mannkomuna. Hann brá við skjótt og var kominn snemma næsta morgun til selsins að óvörum komumanni, gekk hart fram og neyddi Gísla til að taka Þóreyju að sér og ekta hana. Klemens Jónsson, skrásetjari Reykjavíkursögu 1929, dró þá ályktun af frásögn þessari að selið hafi verið undir Mosfellsheiði.
Víkursel hefur í seinni tíð verið staðsett í Öskjuhlíð. Elsta heimildin sem með vissu greinir frá því að Víkursel hafi verið í Öskjuhlíð er Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 1703. Selsins er getið á eftirfarandi hátt: “Selstaða er jörðinni [REYKJAVÍK] eignuð þar sem heitir Víkursel undir Undirhlíðum; sumir kalla það gamla Víkursel; þar hefur jörðin brúkað hrís til eldiviðar fyrir selsins nauðsyn”.
Höfðinn ofan við selið við Seltjörn heitir Hríshöfði.

Árnakrókur

Árnakrókur.

Þá var gengið í Árnakrók. Um er að ræða lögrétt Mosfellinga frá því um 1850 til 1900 uns réttin færðist að Hafravatni. Árnakrókur er skammt austan við Selvatnið og hin merkilegasta mannvirku. Réttin er nokkuð heilleg og vel má sjá í henni almenning og dilka. Dilkarnir hafa verið 11 að tölu auk, tveggja minni. Þeir eru mismunandi stórir. Tækifærið var notað og GPS-punktar teknir og réttin rissuð upp.
Haldið var niður að svonefndu Stóraseli. Stór sheffer-hundur stökk að þátttakendum, sem fyrr voru hvergi bangnir. Enda kom í ljós að kjarkur hins stóra hunds var ekki meiri en hjá meðal hænu.
Gunnar Kristjánsson tók vel á móti þátttakendum. Hann kvaðst vera uppalinn á Gunnarshólma og þekkja nokkuð vel til á landssvæðinu. Elliðakot hafi undir það síðasta heyrt undir Gunnarshólma. Það hafi verið landmikil jörð og hafi landamerki þess náð allt að lækjarsprænunni austan í Selvatnið neðan við Litlasel og upp á Sandskeið. Helmingur Selvatnsins (austurhlutinn) hefði tilheyrt þessu landi.

Hænur

Hænur við Stórasel.

Stórasel gæti því hugsanlega hafa verið sel frá Elliðakoti (Helliskoti). Handan (að norðanverðu) væri land Miðdals og Miðdalsheiði ofar. Landamerkin lægju svo til í gegnum mitt hjónarúm sumarhússins sunnan Litlasel. Gunnar er þarna með íslenskar hænur og sígalandi hana. Hann sagðist ekki muna eftir tóftum hins gamla Stórasels á þessum stað. Sjálfur hefði hann byggt sumarhús sitt (sem reyndar, líkt og mörg önnur “sumarhús” við vötnin á heiðinni eru heilsársbústaðir) upp úr gömum bústað. Líklegt megi telja að Stórasel hafi verið þarna á sléttu í hlíðinni, á þeim stað, sem bústaðurinn er nú. Svipast var um eftir hugsanlegum tóftum, en engar sáust. Lækur er sunnan bústaðarins og grassvæði neðst með honum. Af ummerkjum að dæma gæti selið hafa verið á hæðardraginu þar sem bústaðurinn er nú.
Við Selvatn býr bæði áhugasamt og frótt fólk um fyrri nytjar.
Ætlunin er að skoða svæðið austan við Selvatn og hugsanlegar tilteknar tóftir, sem þar eiga að vera utan í hlíðardragi. Í hlíðinni skammt frá á að vaxa stór og fallegur einir.
Frábært veður – sól og hiti. Gangan tík 1 klst og 11 mín.

Sjá nánari umfjöllun um svæðið í “Hesturinn okkar, 30. árg. 2. og 3. tbl. 1989”.

Árnakrókur

Árnakrókur – uppdráttur ÓSÁ.