Árbær

Á uppdrætti með örnefnum í nágrenni Grafarholts og Korpúlfsstaða, sem unnin var árið 1963 af Steindóri Björnssyni í Gröf, að beiðni Þorvarðar Árnasonar, eins framámanns í Golfklúbbi Reykjavíkur, sést örnefnið „Árbæjarborg“ skammt ofan (norðan) við bæjarhúsin í Árbæ. Ofan og vestan við hana er örnefnið „Borgarmýri“.

Árbær

Árbær – túnakort 1916. Tóftin er nr. 262-2.

Örnefnið „Árbæjarborg“ er ekki að finna í takmarkaðri örnefnalýsingu af Árbæ, en í örnefnalýsingu Grafarholt eftir Björn Bjarnarson segir; „Borgarmýri, mest öll í Árb. landi, kennd við Árbæjarborg“.
Á uppdrættinum er Árbæjarborg staðsett þar sem í fornleifaskráningu fyrir Árbæ frá árinu 2017 segir; „Hænsnahús – tóft, 1900-1950. Á túnakorti Árbæjar eru merkt inn tvö hús um 60 m fyrir norðvestan Árbæinn. Nú eru þetta rústir. Hús þessi voru úr torfi og grjóti og sneru langveggjum saman. Nyrðra húsið var um 2×4 m að stærð, en syðra húsið 10x 6m. Dyr snéru í vestur á báðum húsunum en gluggi var í þilinu fyrir ofan dyrnar á nyrðra húsinu.“ Árbæjarborgar er ekki getið í fornleifaskráningunni.

Árbær

Árbær – borgin var þar sem útihúsin v.m. eru á myndinni frá 1948.

Um Árbæ segir í fornleifaskráningunni:
„Austur af Ártúni var jörðin Árbær, en bæjarhúsin eru nú innan safnsvæðis Árbæjarsafns. Hluti núverandi byggðar í Ártúnsholti og neðrihluti Árbæjarhverfis eru byggðir í landi Árbæjar, en jörðin lá upp með Elliðaánum og tilheyrðu Blásteinshólmi og Árbæjarhólmi henni.
Elsta heimild um Árbæ er í skjali frá 31. júlí 1464. Þar votta Steinmóður ábóti í Viðey og Jón Narfason að Ólöf ríka Loptsdóttir hafi látið Gerrek gullsmið í Hafnarfirði fá silfur sem greiðslu fyrir jarðir Guðmundar Arasonar, sem hún og hennar maður Björn Þorleifsson höfðu keypt af konungi en Gerrekur átti að koma silfrinu til konungs fyrir þeirra hönd.

Árbær

Árbær 1911.

Saga Árbæjar er hins vegar mun eldri en þekktar heimildir gefa til kynna því árið 2016 leiddu fornleifarannsóknir á bæjarstæðinu í ljós að þar var búið á 11. öld og jafnvel þeirri tíundu. Leiða má að því líkur að það sama eigi við um búsetu á öðrum þeim jörðum sem hér eru til umfjöllunar.
Síðustu ábúendur í Árbæ voru hjónin Margrét Pétursdóttir og Eyleifur Einarsson sem bjuggu þar frá 1881 og dóttir þeirra Kristjana, sem tók við búinu árið 1935 og bjó þar til 1948, en þá fór bærinn í eyði. Í tíð Margrétar og Eyleifs var fjölsótt greiðasala í Árbæ, með svipuðu móti og verið hafði í Ártúni.

Árbær

Árbæjarborg?

Eins og áður segir keypti bæjarstjórn Reykjavíkur jörðina ásamt Ártúni og fleiri jörðum árið 1906 vegna fyrirhugaðra vatnsveituframkvæmda og árið 1929 voru jarðirnar Ártún og Árbær báðar lagðar undir lögsagnarumdæmi Reykjavíkur.“

Líklegt má telja að örnefnið „Árbæjarborg“ sé miklu mun eldra en „hænsnahúsið“ eða önnur útihús þar, þ.e. að það/þau hafi síðar verið byggt upp úr borginni. Gamla nafnið hafi verið látið halda sér enda ástæðan fyrir nálægum örnefnum, s.s. „Borgarmýri“ og „Borgarholt“.

Árbær

Árbær og nágrenni. Uppdráttur með örnefnum í nágrenni Grafarholts og Korpúlfsstaða, sem unnin var árið 1963 af Steindóri Björnssyni í Gröf, að beiðni Þorvarðar Árnasonar, eins framámanns í Golfklúbbi Reykjavíkur. Uppdrátturinn hékk lengi í klúbbhúsinu í Grafarholti en er nú geymdur á Korpúlfsstöðum. Höfundur er óþekktur.

Uppmæling tóftanna ofan Árbæjar líkist óneytanlega að mörgu leyti útliti fjárborgar að grunni til.

Heimildir:
-Byggðakönnun; Borgarhluti 7 – Árbær, Reykjavík 2017, bls. 12 og 81.
-Uppdráttur með örnefnum í nágrenni Grafarholts og Korpúlfsstaða (1963).
-Örnefnalýsing Björns Bjarnarsonar um Grafarholt.

Árbær

Árbæjarborg?

Flensborg

Eftirfarandi ávarp Ingvars Gíslasonar, menntamálaráðherra, er hann flutti á afmælishátíð Flensborgarskóla, gat að lesa í Lesborg Morgunblaðsins árið 1982 undir fyrirsögninni „Fyrsti kennaraskóli landsins„:

Flensborgarskóli„Í dag er mikill hátíðisdagur í Flensborgarskóla. Liðin eru á þessu ári 100 ár frá stofnun hans, og þess er nú minnst á veglegan hátt við skólaslit. Flensborgarskóli er því með allra elstu skólum í landinu og á sér hina merkustu sögu.
Ég vil leyfa mér að benda áheyrendum á að kynna sér sögu Flensborgarskóla í 100 ár og persónusögu þeirra mikilhæfu manna, sem mestu hafa ráðið um störf skólans þetta tímabil. Það er menntandi út af fyrir sig að kynnast mönnum og málefnum tengdum Flensborgarskóla. Í ljós mun koma að áhrif skólans á þróun almennra skólamála í landinu og þjóðlífið að sínu leyti, eru mikil og eftirtektarverð.
FlensborgarskóliFlensborgarskóli skipar virðulegan sess í skólasögu Íslendinga og það svo, að sumt í starfi hans hefur skipt sköpum í sögu íslenskra skólamála. 100 ár eru að vísu langur tími, og margt hlýtur að gerast á heilli öld í þjóðarævi. En síðustu 100 ár skera sig úr öðrum öldum Íslandssögunnar vegna hinna miklu og öru breytinga sem orðið hafa á þjóðarhögum. Þetta á ekki síst við um skólamál.
Varla er hægt að segja að verulegar umræður um stofnun almennra skóla komi til fyrr en um og eftir miðja 19. öld, eða jafnvel síðar, og framkvæmdir í þeim efnum voru býsna hægfara lengi framan af. Eiginlegur vöxtur skólakerfisins gerist reyndar ekki fyrr en á þessari öld og þá á nokkrum síðustu áratugum öðrum fremur. Svo stutt er saga almennra skóla á Íslandi.
FlensborgFlensborgarskólinn ruddi nýjar brautir í skólamálum á sinni tíð ásamt Möðruvallaskóla, sem stofnaður var um svipað leyti á Norðurlandi. Þessir tveir skólar eru fyrstu gagnfræðaskólar landsins þar sem unglingum voru kenndar almennar námsgreinar eftir að barnafræðslu var lokið. Miðað við skólamenntunaraðstöðu í landinu á þeirri tíð var það ekkert lítilræði fyrir menn að stunda nám í Flensborg eða á Möðruvöllum, enda voru gagnfræðingar frá þessum skólum taldir til menntamanna og voru eftirsóttir til vandasamra starfa og félagsmálaforystu. Því var það að á fyrri hluta þessarar aldar mátti finna í hópi forystumanna í landinu fjölmarga Flensborgara. Þannig síuðust áhrifin frá skólanum víða um þjóðlífið. Og reyndin er sú að Flensborgarskólinn var lengst af kunnur sem merkur gagnfræðaskóli á gamla vísu, sem skólinn var að meginstefnu allt frá stofnun 1882 fram til þess að honum var breytt í fjölbrautaskóla árið 1975, samkvæmt sérstökum samningi við menntamálaráðuneytið. Reyndar hafði skólinn nokkru áður stofnað framhaldsdeildir og stefnt að því að búa nemendur undir stúdentspróf.

Flensborg

Stefán Júlíusson.

Fyrsti kennaraskóli landsins
En vafalaust er þó sá þáttur Flensborgarsögu merkastur og minnisstæðastur, að Flensborgarskólinn er fyrsti kennaraskóli á Íslandi. Á þessu vori eru 90 ár síðan Flensborgarskóli brautskráði fyrstu sérþjálfuðu kennarana á Íslandi samkvæmt sérstakri reglugerð um kennaranámskeið, sem skólanum hafði verið sett. Frá 1896—1908 starfaði föst kennaradeild við Flensborgarskóla, og hún var ekki lögð niður fyrr en Kennaraskóli íslands tók til starfa 1908. Eftir það gegndi Flensborgarskóli áfram aðalhlutverki sínu sem gagnfræðaskóli í Hafnarfirði, sem þó var sóttur af nemendum víða að af landinu og hafði algera sérstöðu áratugum saman ásamt Gagnfræðaskólanum á Akureyri, sem nú er menntaskóli.
Það er varla hægt að segja sögu Flensborgarskóla í færri orðum en ég hef gert, og mannanöfn hef ég ekki nefnt  í þessari frásögn. Því má þó ekki gleyma að þessi skóli var stofnaður af merkum mönnum, og honum hafa ætíð stjórnað mikilhæfir skólamenn, og hér hafa starfað ágætir kennarar mann fram af manni. Ég vil leyfa mér að þakka öllum — lifandi og látnum — sem unnið hafa Flensborgarskóla, og innt af hendi ágæt störf á þessu aldarskeiði. Nöfn þeirra eru geymd en ekki gleymd.

Þórarinn Böðvarsson

Þórarinn Böðvarsson.

Ekki má þó láta ógetið stofnenda skólans, sr. Þórarins Böðvarssonar í Görðum og konu hans, Þórunnar Jónsdóttur. Þau voru að vísu stórefnafólk, en við skulum minnast þess að þau létu stofna Flensborgarskóla sem einkaskóla og sjálfseignarstofnun og gáfu skólahús og allstóra bújörð með öllum húsum til skólahaldsins. Það er vandasamt nú að meta þessa gjöf til fjár þannig að nútímamenn skilji hvers virði hún var peningum, en engin smágjöf var þetta, heldur stórgjöf til menningarmála, sem varla á sinn líka. Einnig vil ég minnast fyrsta skólastjórans, Jóns Þórarinssonar, sem reyndar var sonur stofnenda, en Jón Þórarinsson var fyrir margra hluta sakir tímamótamaður í sögu íslenskra fræðslumála. Barátta hans á Alþingi og virk forganga hans fyrir kennaramenntun mun lengi halda minningu hans lifandi. Auk þess varð hann síðar æðsti embættismaður yfir almennum fræðslumálum í landinu og mikill áhrifamaður í þeim efnum.

Í fararbroddi enn í dag
Þannig getum við rakið sögu Flensborgarskóla og þeirra sem við hann hafa starfað og hljótum að sannfærast um að skólinn hefur verið farsæl stofnun og gegnt hlutverki sínum með ágætum alla tíð. Það er vissulega gott að eiga góða fortíð. Það hlýtur að vera skólanum styrkur og hvatning. En ég vil þó umfram allt minnast skólans eins og hann er í dag og þakka núverandi skólameistara og kennurum og nemendum fyrir það sem Flensborgarskóli er á líðandi stund. Skóli á að vera lifandi stofnun handa lifandi fólki. Og það veit ég að Flensborgarskólinn er.
Skólinn gerist e.t.v. gamall að stofni til, orðinn 100 ára, en hann er ekki rykfallinn og enginn safngripur. Flensborgarskólinn tekur þátt í framsæknu skólastarfi af lífi og sál og hefur tekið að sér ný hlutverk af áhuga og einurð. Miklar breytingar hafa verið að gerast í skólanum síðustu 10 ár, og það hefur einmitt komið í hlut núverandi skólameistara að fylgja þeim eftir. Flyt ég honum og samstarfsmönnum hans þakkir og árnaóaróskir.
Ég óska Flensborgarskóla innilega til hamingju með 100 ára afmælið.“

Stefán Júlíusson skrifaði um sögu Flensborgarskólans í jólablað Alþýðublaðs Hafnarfjarðar árið 1962:

„Þegar ég var að alast upp í Hafnarfirði, vitnuðu mörg örnefni í bænum um starfsemi erlendra manna á liðnum öldum. Þar var Hellyersstöð, Brydehús, Hansensbúð, Haddensbryggja, Linnetsstígur, Proppélóð. Sum þessara örnefna voru ný, önnur aldagömul, enda mátti svo heita, að Hafnarfjörður væri vettvangur erlendra kaupsýslu- og útgerðarmanna frá því um aldamótin 1400 og fram á þriðja tug þessarar aldar.

Flest þessi nöfn eru nú horfin, eða að hverfa. Enn hef ég þó ekki nefnt það útlenda heitið, sem einna oftast var á vörum fólks, og raunar var landskunnugt, en það er Flensborg. Og þetta heiti mun ekki hverfa úr sögunni, þótt önnur erlend nöfn týni nú óðum tölunni, því að gagnfræðaskólinn í bænum hefur nú borið þetta nafn í átta áratugi, og engar líkur eru fyrir því, að þar verði breyting á gerð. Enda er svo ráð fyrir gert í ráðuneytisbréfi frá árinu 1932, að skólinn skuli framvegis heita Flensborgarskóli, eins og hann hafði þá verið kallaður í hálfa öld.

Flensborg

Flensborgarhöfnin 1909.

Það er naumast nema von, að ég velti því fyrir sér, hvers vegna Hafnfirðingar telja það sjálfsagt og eðlilegt, að framhaldsskóli þeirra ber þetta gamla, danska nafn. Eins mætti líka spyrja: Hvernig stendur á þessu nafni í bænum, og hvers vegna hefur það unnið sér slíkan þegnrétt í hugum bæjarbúa og landsmanna allra? Skólar á Íslandi bera yfirleitt ekki erlend nöfn, og fremur hefur verið hamlað gegn því á undanförnum áratugum, að opinberar stofnanir beri útlend heiti. Flensborgarar settu ávallt allmikinn svip á bæinn , þegar ég var að alast upp, og í fyrstu þótti mér þetta auðkennisheiti skólafólksins þar dálítið furðulegt. En þegar ég var sjálfur orðinn nemandi í skólanum, hefði ég ekki annað viljað kallast en Flensborgari, þótt við skólafélagarnir værum stundum kallaðir Flensarar í háðungarskyni, ef einhver þóttist eiga okkur grátt að gjalda.
Flensborg í Hafnarfirði dregur nafn sitt af jósku borginni Flensborg, en hún stendur sunnarlega á Jótlandi, í Slésvíkurhéraði, sem ásamt Holtsetalandi var löngum þrætuepli Dana og Þjóðverja. Nú eru landamærin rétt norðan við borgina, og mun hún vera nokkru stærri en Reykjavík. Frá þessari suðurjózku borg komu kaupmenn   til Hafnarfjarðar fyrir um það bil eitt hundrað og áttatíu árum og reistu sér síðar verslunarhús fyrir botni fjarðarins, þar sem hann gengur lengst inn í landið að sunnanverðu.
FlensborgEkki verður fyllilega séð af gögnum, hvaða ár þetta var, en líkur mæla með því, að þeir hafi byggt árið 1794. Tóku þeir lóðina á leigu af konungi. Var hinn nýi verslunarstaður kallaður eftir heimaborg þeirra, og festist nafnið fljótt við staðinn. Var þetta allmikið landsvæði, enda þurfti töluvert olnbogarými fyrir verslun á þeirri tíð. Seinna keypti verslunin svo landareignina.
í Flensborg var verslað til ársins 1875, og voru margir verslunarstjórar á þeim átta til níu áratugum, sem þar var verslað, ýmist danskir eða íslenskir. Afkomendur þeirra sumra urðu merkir menn í íslensku þjóðlífi. Má meðal þeirra nefna Thorgrímsen verslunarstjóra á Eyrarbakka og Morten Nansen skólastjóra í Reykjavík, sem báðir voru fæddir í Flensborg í Hafnarfirði. Gísli J. Johnsen stórkaupmaður mun vera afkomandi Flensborgarkaupmanna.
En árið 1876 urðu mikil þáttaskil í sögu Flensborgar. Það voru þessi þáttaskil, sem urðu því valdandi, að nafnið lifir til þessa dags og mun halda áfram að lifa um ókomin ár. Þá keypti íslenskur maður Flensborgareignina, ekki í því augnamiði að reka þar áfram verslun, heldur til þess að setja þar á stofn barnaskóla fyrir Garðaprestakall á Álftanesi. Þetta var harla merkilegt tiltæki af kaupandanum, í rauninni einstakt framtak, því að á þeirri tíð var enn næsta lítið hugsað fyrir alþýðumenntun og barnafræðslu með föstu sniði.
Sá, sem keypti Flensborgareignina í þessum tilgangi fyrir áttatíu og sex árum, var prófasturinn í Görðum, sr. Þórarinn Böðvarsson. Seljendur voru Knudtzonfeðgar, sem lengi höfðu verið athafnasamir kaupmenn í Hafnarfirði, enda var ætt þeirra kunn kaupsýsluætt í Danmörku. Ári síðar en kaupin voru gerð, stofnuðu þau prófastshjónin í Görðum skólasetur í Flensborg og gáfu til þess miklar eignir, svo skólinn gæti orðið sjálfseignarstofnun, er stæði sem mest á eigin fótum. Skólann stofnuðu þau til minningar um son sinn, Böðvar, er andaðist árið 1869, 19 ára gamall, þá nemandi í lærða skólanum í Reykjavík. Var Böðvar bráðefnilegur piltur, góður námsmaður og hvers manns hugljúfi. Gjafabréf þeirra prófastshjóna er á þessa leið:

Flensborg

Ómar Smári Ármannson, Inspector Scholae í Flensborg 1875-’76, með Páli Þorleifssyni, húsverði. Axel, Sigurður og Gunni Einars í bakgrunni.

„Síðan forsjóninni fyrir 8 árum síðan þóknaðist að svipta okkur hjónin okkar elskaða syni Böðvari, hefur það verið ósk okkar að heiðra minningu þessa okkar ógleymanlega sonar með því að gefa nokkurn hluta af eignum okkar til einhvers þess fyrirtækis, sem eflt gæti menntun og góða siði meðal almennings í föðurlandi okkar, og höfum við í þessum tilgangi afsalað og gefið til stofnunar alþýðuskóla þær fasteignir, er nú skal greina:

1. Húseign okkar í Flensborg í Hafnarfirði með þar tilheyrandi túni og annarri lóð, eins og hún er afsöluð með afsalsbréfi hins fyrra eiganda, stórkaupmanns P. C. Knudtzons, dags. 17. júlímán. f.á.
2. Eignarjörð okkar, heimajörðina Hvaleyri í Álftaneshreppi í Gullbringusýslu, 18.3 hndr. að dýrleika eftir nýju mati, með tilheyrandi húsum.

Um þessa gjöf lýsum við yfir þeim vilja okkar, að hún verði höfð til stofnunar alþýðuskóla, að þessi skóli verði fyrst og fremst barnaskóli fyrir Garðaprestakall á Álftanesi.

Flensborg

Stjórn Nemendafélags Flensborgarskóla 1975-’76. Þarna má sjá marga þjóðþekkta einstaklinga. Ómar Smári Ármannsson, í fremstu röð fyrir miðju, var annar Insperctor Scholea eftir stofnun Menntadeildar skólans. Ingvar Viktorsson var fulltrúi skólans.

-að hún verði höfð til stofnunar alþýðuskóla,
-að þessi skóli verði fyrst og fremst barnaskóli fyrir Garðaprestakall á Álftanesi.
-að hann þar næst, eftir því sem efni og kringumstæður leyfa, jafnframt verði almennur menntunarskóli, þar sem kostur sé á að afla sér þeirrar þekkingar, sem álíta má nauðsynleg hverjum alþýðumanni, er á að geta kallast vel að sér.

Flensborg

Inga Blandon, kennari, og Ólafur Þ. kristjánsson, skólastjóri. [ljósm: Guðm. Böðvars.]

Enn fremur er það vilji okkar, að skólinn og skólaeignirnar séu undir stjórn þriggja manna nefndar, er stiftsyfirvöldin yfir Íslandi skipi, en að stiftsyfirvöldin hafi yfirumsjón með skólanum og gæti þess, að efnum hans sé varið samkvæmt tilgangi gjafarinnar, svo og, að stiftsyfirvöldin eftir tillögum skólanefndarinnar setji reglugerð fyrir skólann um allt fyrirkomulag hans og stjórn. Fyrir því afsölum við hér með frá okkur og okkar erfingjum í hinu umrædda augnamiði ofannefnda húseign og jörð, og eru eignir þessar upp frá þessu fullkomlega heimilar til allra umráða og afnota handa slíkri skólastofnun, sem að ofan er um getið, en verða undir okkar umsjón þangað til skólanefnd hefur verið skipuð og hún getur tekið við umráðum yfir þeim; Görðum, 10. ágúst 1877 – Þórarinn Böðvarsson / Þórunn Jónsdóttir.“

FlensborgVerslunarhúsið í Flensborg, sem nú varð skóli, var mikil bygging og traustlega byggt. Það var reist upp úr 1812, en þá brann fyrsta verslunarhúsið í Flensborg. Byggingin var næstum 20 m löng og 9 m breið, með háu risi, sem sneitt var við báðar burstir. Byggingarlistin var dönsk, og má enn sjá mikil hús af þessari gerð frá valdadögum Dana á ýmsum stöðum hér á landi. Ekki þurfti að nota allt húsið til kennslu, enda hafði það bæði verið íbúð verslunarstjórans, skrifstofur og búð. Varð Flensborg nú um skeið sýslumannssetur, eða fram undir áratug, til ársins 1887. Barnaskólinn var til húsa í norðaustur-endanum, sýsluskrifstofan í hinum endanum, en sýslumaður bjó uppi.

Flensborg

Kristján Bersi Ólafsson, kennari og skólastjóri. [ljósm: Guðm. Böðvars.]

Vísir að fastri barnakennslu hafði komist á fót í Hafnarfirði nokkru áður, þótt mjór væri, svo að telja má, að í bænum hafi verið föst barnakennsla í um það bil 90 ár. Þorsteinn Egilsson cand. theol., sonur Sveinbjarnar Egilsson rektors og tengdasonur sr. Þórarins í Görðum, byrjaði að kenna börnum tveim árum áður en skólinn í Flensborg tók til starfa. Hann var einnig fyrsti kennari þar.

Áður en lengra er haldið, er rétt að gera hér grein fyrir því, hversu mikil sú gjöf var, sem prófastshjónin í Görðum gáfu til skólahaldsins. Húsið sjálft var metið á 10.000 kr., geymsluhús á 450 kr., þriggja dagslátta tún og kálgarðar á 750 kr. Heimajörðin á Hvaleyri, sem skyldi renna stoðunum undir skólahaldið, var metin á 2.200 kr. Nokkrum árum seinna bætti svo sr. Þórarinn við strandlengjunni með fram Flensborgarlóðinni, sem hann keypti í þeim tilgangi og metin var á 1000 kr.

Flensborg

Flensborgarskóli á Hamrinum í smíðum.

Auk þess gaf hann þá skólanum ágóða af óseldum eintökum af Lestrarbók handa alþýðu, sem hann hafði gefið út þjóðhátíðarárið 1874. Alþýðubókin var hið merkasta rit og vitnar mætavel um hug sr. Þórarins til alþýðumenntunar, áður en hann stofnaði skólann í Flensborg. Til marks um það, hve Alþýðubókin var mikill aufúsugestur á heimilum víða um land, má geta þess, að þegar skáldið Örn Arnarson var beðið að yrkja vígsluljóð, er nýja Flensborgarskólahúsið á Hamrinum var tekið í notkun haustið 1937, lét hann svo ummælt, er hann varð við þessum tilmælum, að sér væri ljúft að minnast útgefanda Alþýðubókarinnar. Ekki er nú vitað, hve mikið hefur runnið til skólans fyrir bókina, en gjöf þeirra prófastshjóna hefur alltaf numið allt að 15 þús. kr. Varla munu tök á því að umreikna þessa fjárhæð nákvæmlega í núgildandi peninga, en víst er, að gjöfin hefði skipt milljónum í dag, þótt ekki væri að öllu leyti reiknað með breyttum aðstæðum.

Flensborg

Halldór Ólafsson, kennari. [ljósm: Guðm. Böðvars]

Barnaskóli var í Flensborg í átján ár, eða til ársins 1895. En þremur árum eftir að skólinn tók til starfa, kom hinn nýstofnaði Bessastaðahreppur á fót hjá sér skóla þar úti á nesinu. Grímur skáld Thomsen á Bessastöðum mun hafa átt frumkvæðið að þessari skólastofnun. Var því fleygt, að hann hefði að öðrum þræði gert það til að skaprauna nágranna sínum, sr. Þórarni í Görðum, og draga frá skólanum í Flensborg. Hann hafði frá upphafi fengið nokkurn opinberan styrk, en nú hlaut skólinn úti á nesinu að fá hluta af honum. Þótt grunnt væri á því góða með þeim prófastinum í Görðum og skáldinu á Bessastöðum, og þeir eltu stundum grátt silfur saman, þarf þessi skólastofnun úti á nesinu ekki að hafa verið af þeim toga spunnin, því að óneitanlega var erfitt fyrir börn framan af nesi að sækja skóla inn í Hafnarfjörð.

Flensborg

Flensborg -Albert Anker 1896.

En hvort sem þessir úfar með þeim stórmennunum hafa valdið eða ekki, varð þessi skólastofnun úti á nesinu meðal annars til þess, að sr. Þórarinn tók að hyggja að skólanum í Flensborg á nýjan leik. Og þessi athugun leiddi til þess, að þau prófastshjónin í Görðum breyttu gjafabréfi sínu árið 1882 og stofnuðu gagnfræðaskólann í Flensborg. Þá bættu þau líka við gjöfina, eins og áður var rakið. Og nú gátu þau hjónin lagt skólanum til meira en hús, land og fé: Nú varð sonur þeirra, Jón, skólastjóri hins nýja gagnfræðaskóla. Hafði hann með námi erlendis beinlínis búið sig undir skólastjórnina. Það var einstætt á þeirri tíð.

Flensborg

Einar Bollason, kennari. [ljósm: Guðm. Böðvars.]

Sr. Þórarinn Böðvarsson var mikill umsýslu- og búmaður og kunni vel að sjá fótum sínum forráð á veraldlega vísu. Með því að láta Jón son sinn búa sig undir skólastjórn í Flensborg, sló hann tvær flugur í einu höggi: Hann sá syni sínum fyrir framtíðaratvinnu, og hann tryggði óskabarni sínu, skólanum í Flensborg, trausta og farsæla stjórn gegnum brim og boða í upphafi siglingar. Ekki þarf að fara í grafgötur um það, að hagsýni sr. Þórarins hefur ekki síður miðað að því, að skólastofnun þeirra hjóna færi ekki forgörðum, þótt þeirra missti við. Ekki hefur hann lagt sig minna fram um þetta, eftir að hann fann andann frá skáldinu á Bessastöðum og öðrum öfundarmönnum. Hann hefur treyst syni sínum vel til starfans, og þar reyndist hann sannspár og giftudrjúgur, því að Jón Þórarinsson hafði erft traustleika og raunhyggju föður síns í ríkum mæli. Auk þess var hann mikill skólamaður og frumkvöðull í þeim efnum, svo að engin ráð voru ráðin í skólamálum um hans daga nema hann kæmi þar til, enda varð hann fyrsti fræðslumálastjórinn árið 1908. Þeir feðgar mótuðu þannig í sameiningu starfsemi skólans í Flensborg á byrjunarskeiði hans, en sr. Þórarinn sat að sjálfsögðu í skólanefndinni til dauðadags árið 1895.

Flensborg

Jón Thor Haraldsson, kennari. [ljósm: Guðm. Böðvars.]

Miklar breytingar urðu í Flensborg, eftir að gagnfræðaskólinn var stofnaður þar árið 1882 og Jón Þórarinsson tekinn við skólastjórn. Húsið var stækkað með því að setja tvo kvisti þvert yfir það, og var það íbúð skólastjóra æ síðan, meðan húsið stóð. Þegar sýslumannssetrið var flutt þaðan árið 1887, var sett þar á stofn heimavist. Nokkru síðar var allmikill tómstundaskáli byggður norðan við húsið, þar sem skólapiltar iðkuðu leika og smíði, en seinna var bókasafn skólans, Skinfaxi, þar til húsa. Um skeið störfuðu þrír skólar í Flensborg, barnaskóli, gagnfræðaskóli og kennaraskóli. Kennaradeildin var sett á stofn tíu árum eftir að gagnfræðaskólinn tók til starfa. Var hún fyrst 6 vikna vornámskeið að gagnfræðaprófi loknu, en gagnfræðaskólinn var þá tveggja vetra skóli. En árið 1896 varð hún eins konar 3. bekkur og starfaði í 7 1/2 mánuð árlega. Þetta var fyrsti kennaraskóli á Íslandi, og eru því á þessu ári 70 ár liðin frá því að reglubundin kennsla undir kennarastarf hófst hér á landi. Þessi fyrsti kennaraskóli komst á fót fyrir áhuga, dugnað og framsýni Jóns Þórarinssonar skólastjóra. En ekki væri sanngjarnt að geta þar að engu samverkamanns hans, Jóhannesar Sigfússonar kennara í Flensborg, sem studdi hann með ráðum og dáð í þessum framkvæmdum, enda var hann hinn merkasti skólamaður.

Flensborg

Hallgrímur Hróðmarsson, kennari. [ljósm: Guðm. Böðvars.]

Árið 1906 var byggt sérstakt skólahús á Flensborgarlóðinni, snertispöl norðan við gamla húsið. Þetta nýja skólahús var einlyft, 18 m langt og 9 m breitt; í því voru 3 kennslustofur, góður gangur og kennaraherbergi. Þetta hús entist skólanum í rúm 30 ár. Við þessa byggingu rýmkaðist mjög um heimavistina í gamla húsinu, svo að nú rúmaði hún 28 pilta, en áður komust þar fyrir helmingi færri. Eins og alkunnugt er, voru fyrstu almennu fræðslulögin sett hér á landi árið 1907. Ekkert sýnir betur gengi Flensborgarskólans um þessar mundir en það, að þegar kom til að framkvæma þessi lög (árið eftir), urðu kennarar frá Flensborg til að hafa þar á hendi forustuna. Skólastjórinn, Jón Þórarinsson, gekk inn í hið nýja embætti fræðslumálastjóra, og annar kennari þaðan, sr. Magnús Helgason, varð skólastjóri nýstofnaðs kennaraskóla í Reykjavík. Hann hafði komið að skólanum árið 1904, þegar Jóhannes Sigfússon varð yfirkennari við menntaskólann, en raunar hafði hann verið kennari þar fyrsta vetur gagnfræðaskólans, áður en hann gerðist prestur.
FlensborgÞriðji kennarinn í Flensborg, Ögmundur Sigurðsson, hefði vel mátt fá stöðu við kennaraskólann nýja, enda sótti hann um stöðu þar. Hann hafði gerst kennari í Flensborg árið 1896 og hafði jafnan á hendi æfingakennslu í kennaradeildinni, enda var hann óumdeilanlega í fremstu röð skólamanna landsins. En Ögmundur fékk ekki stöðu við kennaraskólann, hann varð skólastjóri í Flensborg. Vafalaust hefur það þótt of mikil blóðtaka fyrir Flensborg að missa alla þrjá aðalkennarana í einu, og má fara nærri um það, að Jóni Þórarinssyni hefur ekki getist að því. Ögmundur Sigurðsson var svo skólastjóri í Flensborg í 23 ár við mikinn og góðan orðstír. Í hans tíð, eða árið 1912, varð skólinn þriggja vetra skóli, og það var hann fram á síðasta áratug. Nú er hann fjögurra vetra skóli, eins og aðrir gagnfræðaskólar í kaupstöðum.
Lengi var það áhugamál skólastjóra og kennara í Flensborg, að nemendur með góðu gagnfræðaprófi þaðan hefðu rétt til að setjast í lærdómsdeild menntaskólans. Það varð þó aldrei. Til þess þurftu þeir viðbótarnám og að heyja inntökupróf í 4. bekk menntaskólans. Ýmsir nemendur úr Flensborg fóru þó þessa leið sama vor og þeir tóku  gagnfræðapróf þaðan. Nú hefur landsprófið leyst þennan vanda.

Flensborg

Þórarinn Andrewsson, kennari, með stærðfræðina á hreinu. [ljósm: Guðm. Böðvars.]

Ég var í Flensborg á árunum 1929—32. Þessi ár voru mikil breytinga- og umbrotaár í sögu skólans. Eftir fyrsta vetur minn í skólanum skemmdist gamla Flensborgarhúsið svo 1 eldi, að ekki þóttu tiltök að gera við það. Var þá rifið það, sem eftir stóð. Þá stóð eftir á sjávarbakkanum gamla skólahúsið frá 1906, lág bygging og hnípin, gisin og úr sér gengin á margan hátt, svo að gjörla mátti sjá endalokin. Samt varð hún að endast í sjö ár enn. Eftir brunann hætti Ögmundur Sigurðsson skólastjórn, sjötugur að aldri, og heimavistin lagðist að sjálfsögðu niður. Fullur hugur var í forráðamönnum skólans að fá ungan og ötulan skólastjóra til að taka við starfi hins kunna skólamanns. Það tókst líka. Sr. Sveinbjörn Högnason varð skólastjóri haustið 1930, þá rúmlega þrítugur. En hann var aðeins einn vetur. Sóknarbörn hans austur í Rangárþingi vildu ekki missa hann, og hvarf hann þá austur aftur. Hef ég varla séð meira eftir öðrum manni úr starfi. Þá tók Lárus Bjarnason við skólastjórn, en hann hafði komið að skólanum með sr. Sveinbirni. Stýrði hann skólanum í tíu ár.

Þorvaldur Jakobsson

sr. Þorvaldur Jakobsson.

Við gagnfræðingarnir, sem brautskráðumst frá Flensborg á hálfrar aldar afmæli skólans, árið 1932, höfðum því þrjá skólastjóra, og önnur kennaraskipti voru einnig mikil. Hellubjargið í kennaraliðinu á þessum umbrotaárum var sr. Þorvaldur Jakobsson, sem kenndi íslensku og stærðfræði, merkur ágætiskennari. Á þessum árum sagði heimskreppan til sín í skólahaldi sem öðru. Við vorum tuttugu og fjögur, sem hófum nám í 1. bekk, en aðeins tíu runnu skeiðið til enda, hin höfðu helst úr lestinni. Samt brautskráðumst við þrettán gagnfræðingar þetta vor; þrír höfðu bæst í hópinn á leiðinni. En aðalbreytingin var þó sú, að á þessum árum komu til framkvæmda ný lög um gagnfræðaskóla í landinu. Skyldu þeir kostaðir af opinberu fé í öllum kaupstöðum landsins.

Á þessum árum breyttist Flensborgarskólinn því úr sjálfseignarstofnun í ríkisskóla. Reglugerð fyrir ríkisskólann var einmitt sett árið 1932, á hálfrar aldar afmæli skólans, og setti ráðuneytið þá ný ákvæði um gjöf prófastshjónanna í Görðum, sem ekki þurfti lengur að standa undir skólanum í Flensborg.

Flensborg

Arnaldur Árnason, kennari, ábúðarfullur. [ljósm: Guðm. Böðvars.]

Þegar héraðs- og gagnfræðaskólar tóku að rísa upp víðs vegar um landið, varð Flensborgarskólinn að sjálfsögðu í æ ríkari mæli skóli fyrir Hafnarfjörð, en áður höfðu löngum sótt hann nemendur víðs vegar að, enda voru gagnfræðaskólar lengi aðeins tveir á landinu. Forráðamenn skólans vildu þó gera sitt til að halda við gamalli skipan, og þegar nýtt skólahús var reist á Hamrinum, var höfð í því heimavist. En tímarnir voru óumdeilanlega breyttir; heimavistin lagðist fljótlega niður. Bæjarbúum fjölgaði líka ört á þessum árum. Ekki kom til greina að byggja aftur upp á gamla staðnum niðri í fjörunni fyrir botni fjarðarins. Aukið athafnalíf og nýtt skipulag kaupstaðarins hlaut að krefjast Flensborgarlóðarinnar gömlu til annarra hluta. Nú stendur íshús Hafnarfjarðar þar, sem skólahúsið stóð, og Strandgata og Hvaleyrarbraut greinast þar, sem Flensborgartúnið var áður.

Flensborg

Bjarni Jónsson, kennari. [ljósm: Guðm. Böðvarsson].

Lárus Bjarnason var skólastjóri, þegar skólinn flutti í hina veglegu byggingu uppi á Hamrinum árið 1937. Hann var skólastjóri til ársins 1941 en þá tók Benedikt Tómasson skólayfirlæknir við skólastjórn. Var hann til ársins 1955, að núverandi skólastjóri, Ólafur Þ. Kristjánsson, tók við. Þannig hafa aðeins sex skólastjórar verið í Flensborg þau áttatíu ár, sem gagnfræðaskólinn hefur starfað; þar með talinn sr. Sveinbjörn Högnason, sem aðeins var eitt ár.

Nú kynni einhver að spyrja: Hvað varð þá um gjöf þeirra prófastshjóna í Görðum, þegar ekki var lengur grundvöllur fyrir sjálfseignarskólann Flensborg. Því er til að svara, að gjafasjóður sr. Þórarins og frú Þórunnar er enn til, og enn er hann í tengslum við skólann. En í reglugerðinni frá 1932, sem ég gat um fyrr, er þetta ákvæði: „Aldrei má verja fé sjóðsins til útgjalda, sem greiða skal lögum samkvæmt af opinberu fé.“ Þótt ákvæðið sé að sjálfsögðu réttmætt, er hlutverki sjóðsins þannig óneitanlega þröngur stakkur skorinn. Þó hafa nemendur skólans oft notið fjárframlaga úr sjóðnum á undanförnum árum, bæði til gagns og ánægju. Bæjarfógeti og bæjarstjóri í Hafnarfirði hafa á hendi stjórn sjóðsins, ásamt einum stjórnskipuðum fulltrúa, sem nú er skólastjórinn í Flensborg. Árið 1956 keypti Hafnarfjarðarbær eignarlendir sjóðsins með mjög hagstæðum kjörum. Og alla tíð hefur bærinn notið ríkulega gjafar þeirra prófastshjóna, og stendur Hafnarfjarðarkaupstaður því í ævarandi þakkar- og fjárhagsskuld við Flensborgarskólann. Gjafasjóðurinn er nú rúmar 2 milljónir króna.

Flensborg

Úr félagslífi Flensborgarskóla 1975-’76.  Tryggvi Harðarson, Daníel Hálfdánarson o.fl. fylgjast með félaga sínum Halldóri Árna Sveinssyni.

Af því, sem ég hef nú rakið, má það ljóst vera, að Flensborgarnafnið á gagnfræðaskólanum í Hafnarfirði er eins konar minnistákn um höfðingslund prófastshjónanna í Görðum og þann merka skóla, sem þau stofnuðu til minningar um son sinn. En jafnframt er í nafninu bundin minning um hinn soninn, sem svo farsællega stýrði skólanum fyrsta aldarfjórðunginn og gerði garðinn frægan. Þótt nafnið hljómi allútlenskulega, er það samt norrænt að uppruna.

Flensborg

Flensborgarskóli 2021.

Borgin á Jótlandi hét upprunalega Fleinsárborg, virkið við Fleinsá. Mannsnafnið Fleinn mun hafa verið til á Norðurlöndum í fornöld, í líkingu við nafnið Geir. En vel gat áin líka dregið nafn sitt af vopni, sem þar hefur týnst eða fundist. Fleinsárborg hefur síðan breyst í Flensborg, og Fleinsborg í Flensborg.
Ég get þessa hér í lokin til gamans fyrir þá, sem áhuga hafa á nafngiftum og nafnbreytingum. Mestu máli skiptir þó hitt, að í átta áratugi hefur í skjóli Flensborgarnafnsins gerst í Hafnarfirði hin merkasta saga, sem er snar þáttur af þjóðarsögunni sjálfri. Vonandi verður svo áfram um alla framtíð.
(Grein þessi er útvarpserindi, flutt s. l. sumar. Heimildir: Saga Hafnarfjarðar, Minningarrit Flensborgarskóla, skólaskýrslur o. fl. S.J.)“

Heimildir:
-Lesbók Morgunblaðsins – 23. tölublað (03.07.1982), Ingvar Gíslason, menntamálaráðherra; „Fyrsti kennaraskóli landsins“, bls. 2.
-Alþýðublað Hafnarfjarðar – Jólablað 1962 (15.12.1962), Stefán Júlíusson, Flensborg í Hafnarfirði, bls.8-10.

Flensborg

Flensborg.


Gísli Sigurðsson skrifaði um „dauða Runólfs Runólfssonar í Kólgu“ (Klapparkoti) í Faxa árið 1965:

Gísli Guðmundsson„Alla nítjándu öldina og að minnsta kosti fyrsta tug þessarar aldar sóttu menn af öllum Suðurnesjum verzlun sína til Keflavíkur. Ekki var það fyrr en eftir 1910, sem farið var að vinna að vegabótum þar um slóðir, þannig að gera vegi akfæra. Áður voru aðeins ruddir götuslóðar, og fóru menn á milli fótgangandi á vetrum, en á hestum á sumrum, þeir sem höfðu þá yfir slíkum þægindum að ráða. En yfirleitt munu svonefndir tómthúsmenn, sem mikið var af á Suðurnesjum, ekki hafa átt annars kost en ganga í kaupstaðinn og bera á bakinu nauðsynjar sínar, ef þeir fengu þá nokkra fyrirgreiðslu erinda sinna, því oft kom það fyrir, ef fátækir áttu í hlut, að Keflavíkurkaupmennirnir létu þá bíða allan daginn eftir áheyrn, og svo loks, er þeir veittu mönnum viðtal, var það ef til vill aðeins til þess að neita bænum þeirra. Var þá ekki um annað að ræða en halda heim með þau málalok.
Nærri má geta, að ekki hafa það verið neinar skemmtigöngur að fara tómhentur heimleiðis og vita af heimilinu bjargarlitlu og þar að auki að leggja upp úr kaupstaðnum undir myrkur á haustdegi, svangur og kaldur, eftir að hafa beðið milli vonar og ótta um úrslit erindis síns, enda fór alloft svo, að þeir, sem heima biðu, urðu fyrir sárum sorgum, er heimilisfaðirinn kom eigi heim, því ferð hans hafði lokið einhvers staðar á heiðunum á Suðurnesjum. Geyma heiðarnar þar áreiðanlega margar sorgarsögur um hinztu stundir þessara göngumanna, er þeir háðu baráttu sína við hryggð og gremju yfir erindislokunum í kaupstaðnum og hungur og þreytu eftir að hafa gengið villtir vegar, ef til vill mikinn hluta nætur, áður en þeir settust niður til að taka sér örlitla hvíld. En hvíldin sú varð oft hin síðasta, því svo var þá af þeim dregið, að þeir gátu eigi veitt viðnám svefninum, sem þá vildi ásækja þá, og sofnuðu því svefninum langa. Og kannske lagði svo nóttin til líkblæjuna með því að láta fönnina leggjast yfir allt, og gat þá liðið alllangur tími, þar til hinn týndi maður varð fundinn.

Dauðsmannsvarða

Efri-Dauðsmannvarða við Sandgerðisveg.

Ein slík raunasaga verður nú sögð hér. Hún hefir þó á sér verulegan þjóðsagnablæ, sem skapazt hefir í sambandi við þjóðtrú þeirra tíma, en þá vildu menn stundum kenna slys slík sem að framan er lýst illum fylgjum, er villtu um menn og voru stundum svo magnaðar, að þær veittu mönnum árásir, er drógu þá til dauða.
Stundum kom það fyrir, að menn urðu varir við ýmis dýr, komin úr sjó, og veittu þau fólki eftirför og stundum árásir. Nokkur sannleikur mun vera í sumum sögum, er greina frá slíkum viðureignum, en oftast munu þær frásagnir hafa lagazt svo í meðferð manna, að erfitt verður að greina það frá, sem satt kann að vera, enda gæti verið vafamá!, hvort rétt væri að fara út í slíka greiningu, þó tiltækilegt þætti.
Það er þá upphaf sögunnar, að árið 1879 bjó maður að nafni Runólfur Runólfsson í þurrabúðarkoti einu, sem í daglegu tali var alltaf nefnt Kólga, en hét réttu nafni Klapparkot á Miðnesi og mun upphaflega hafa verið kofi byggður til að salta í fisk, en síðan tekinn til íbúðar, því að þess voru nokkur dæmi. Þetta ár er Runólfur sagður vera orðinn ekkjumaður, 52 ára að aldri. Bjó hann með bústýru, Kristínu Sigurðardóttur, er þá var 24 ára gömul. Hjá þeim dvaldist og sonur Runólfs, Bjarni að nafni. Kristín bústýra var dóttir Sigurðar Kortssonar af svonefndri Írafellsætt, en það herma sagnir, að sú ætt hafi átt fylgju þá, sem nefnd hefir verið Írafells-Móri, og á fylgja sú að hafa gert fólki ýmislegt til óþurftar og jafnvel skaða.

Sandgerði

Sandgerði og nágrenni. Herforingjaráðskort 1903.

Hinn 16. nóvember 1879 fór Runólfur í Kólgu til Keflavíkur, og segir ekkert af þeirri ferð hans fyrr en á vökunni um kvöldið, að hann á heimleið sinni úr Keflavík kom að Landakoti, en sá bær er í Sandgerðishverfi. Ekki er þess getið, hvort hann hafði nokkurn farangur meðferðis. Gekk hann til baðstofu og þáði beina, eins og títt var á bæjum, er gesti bar að garði. Bóndi í Landakoti var þá Þórarinn Pálsson skáld, síðast að Hofi í Garði. Er Runólfur fór af stað frá Landakoti, er sagt að hann hafi beðið Þórarin bónda að lána sér vatnastöng, er hann átti. Hugðist Runólfur nota stöngina að vopni, „því að mér fannst,“ segir hann, „einhver skrattinn vera að glettast við mig, er ég gekk norður Löndin.“ Svo nefndust flatir, er lágu milli Sandgerðis og Bæjarskers, þar sem nú er Suðurgata í Sandgerði. Vegslóði lá yfir heiðina úr Keflavík að Bæjarskerjum, og var svo gengið yfir Löndin af þeim, sem heima áttu innar á nesinu. Þórarinn segir Runólfi stafinn velkominn, en bauð að fylgja honum á leið, þar eð hann taldi, að Runólfur væri drukkinn. Hann afþakkaði fylgd Þórarins, þar sem hann átti örskammt heim, eða aðeins yfir Sandgerðistúnið og eftir malarkambi milli Flankastaða og Sandgerðis, þá túnið á Flankastöðum og malarkamb, sem náði þaðan og heim að bæ hans. Báðir þessir malarkambar liggja milli sjávar og tjarna, sem eru fyrir ofan þá, en þeir eru hvor um sig 200—300 metrar á lengd. Öll leiðin, sem ófarin var frá Landakoti, var um 15 mínútna ganga.

Sandgerði

Sandgerði – loftmynd 2023.

Varð það úr, að Runólfur fór einn frá Landakoti, og er það hið síðasta, sem menn vita um hann lifandi. Er hann kom eigi heim um kveldið og nóttina, var hafin leit daginn eftir. Veður hafði verið vont um nóttina, rok og rigning ásamt náttmyrkrinu. Ekki leið á löngu, þar til leitarmenn fundu merki þess í þarahrönn, sem var í flæðarmáli fyrir neðan malarkamb þann, er liggur suður frá Flankastaðatúni, að þar hefði viðureign nokkur átt sér stað, og það mjög hörð, því þarinn var mjög troðinn á nokkru svæði. Gengu menn brátt úr skugga um, að þar hefði Runólfur í Kólgu háð harða glímu um líf sitt við einhverja óvætti og beðið lægra hlut, því þar lágu partar af líkama hans, sem virtist hafa verið allur tættur sundur. Sumir líkamshlutar hans fundust suður í svonefndu Bakkakotsviki, sem er sandvik sunnan undir túninu í Sandgerði.

Sandgerði

Sandgerði – Landakot; loftmynd 2023.

Saga gekk um það, að kvöldið, sem Runólfur kom að Landakoti, hafi það borið við á bæ einum þar í nágrenni, er fólk var í þann veg að ganga til náða, að þá hafi maður komið þar á baðstofuglugga með miklum asa og beðið um að opna fyrir sér í guðs nafni, því að djöfullinn sjálfur væri á hælum sér. Fólk allt á bænum hafði orðið mjög óttaslegið við þetta ávarp á glugganum og mun þess vegna ekki hafa brugðið strax við að ganga til dyra. En þar skipti engum togum, því að, er maðurinn hafði gert vart við sig á þennan hátt, urðu ryskingar þar í gluggatóftinni, og heyrðist fólkinu, sem inni var, að maðurinn væri dreginn frá glugganum. Var það álit manna, að þar mundi Runólfur verið hafa, og hefir þá verið búinn að eiga í höggi við ófögnuð þennan allt kvöldið, frá því hann fór frá Landakoti. Sumir töldu, að þarna hefði Írafells-Móri unnið eitt af sínum ódáðaverkum. Aðrir, og miklu fleiri, álitu aftur á móti, að maðurinn hefði orðið fyrir árás af sjávardýri.
Hér lýkur þessari frásögn. Er hún skráð hér eins og ég heyrði hana sagða af mönnum, sem komnir voru til fullorðinsára, þegar atburður þessi gerðist, svo að þannig hefir sagan gengið meðal fólks.
ÚtskálakirkjaÍ prestsþjónustubók Útskálaprestakalls er dánardagur Runólfs skráður 16. október 1879, og fylgir þessi athugasemd, sem sýnist varpa nokkru ljósi yfir hin raunverulegu ævilok hans: „Runólfur Runólfsson, Klapparkoti, 52 ára, varð úti voveiflega á heimleið úr Keflavík í slagveðri af rigningu og stormi, allskammt frá bæ sínum um miðja nótt. Meint, að hann hrakizt hafi niður í fjöru fyrir sunnan Flankastaðatúngarð, hvar sjór hafi tekið hann, því bein hans fundust löngu seinna, sundurlimuð, og fatnaður.“ Grafinn er hann, samkvæmt sömu prestsþjónustubók, 8. jan. 1880 eða 12 vikum frá dánardegi.
(Saga þessi er áður prentuð í sjöunda hefti af Íslenzkum sagnaþáttum og þjóðsögum, eftir dr. Guðna Jónsson).“

Sjá meira um Runólf HÉR og HÉR.

Heimild:
-Faxi – 10. tölublað (01.12.1965), Gísli Guðmundsson, „Dauði Runólfs í Kólgu“, bls. 225-226.

Dauðsmannsvarða

Dauðsmannvarða við Sandgerðisveg.

Fitjakot

Fitjakot var upphaflega fornt býli í Kjalarnesþingi. Í „Fornleifaskráningu vegna deiliskipulags Vesturlandsvegar frá Leirvogsá að Hvalfirði“ árið 2018 er m.a. fjallað um kotbýlið undir fyrirsögninni „Fitjakot, saga, minjar og örnefni„:

Fitjakot

Fitjakot í Kjalarneshreppi – túnakort 1916.

„Fitjakot er á norðanverðum bökkum Leirvogsár. Jörðin á mörk á móti Varmadal að austan en Víðinesi og Álfsnesi að vestan. Gamli bærinn í Fitjakoti stóð á Brunnhól um 70 metra suðaustan við núverandi íbúðarhús. Síðast stóð þar timburhús sem reist var um 1930 og þá lá þjóðvegurinn um hlaðið. Núverandi íbúðarhús, sem var byggt 1950, stendur aðeins vestar, á Húsaflötum, en þar voru áður fjárhús. Þar var Kaupfélag Kjalarnesþings stofnað 15. október 1950 og var þar fyrst til húsa.

Fitjakot

Fitjakot – MWL.

Athafnamennirnir Sturlubræður áttu Fitjakot um tíma og notuðu jörðina til sumarbeitar.
Fitjakot var áður nefnt Fitjar og var í eigu Viðeyjarklausturs 1395. Jörðin kemur fram undir eldra nafninu Fitjar, í skrá um kvikfé og leigumála á jörðum Viðeyjarklausturs 1395, en yngra nafninu Fitjakot í fógetareikningum frá 1548 til 1551.

Jörðin var ein af jörðum Viðeyjarkirkju 1686 metin á 15 hundruð en á 10 hundruð 1695.

Fitjakot

Fitjakot – óskráðar minjar.

Þegar Jarðabók Árna og Páls var gerð 1704 var jörðin í eigu konungs en dýrleiki óviss. Ábúandi var einn. Kvaðir voru meðal annars um mannslán á vertíð. Hægt var að fóðra þar fimm kýr og tíu lömb. Torfrista, stunga og mótak til eldiviðar var sæmilegt. Leirvogsá var bæði til gagns og ógagns. Þar var hægt að veiða bæði lax og silung en hún spillti engjum og braut af túni. Stórviðri brutu stundum hey og hús.18 Þegar Jarðatal Johnsens var gert 1847 var Fitjakot í eigu konungs metið á 10 hundruð.19 Árið 1855 var jörðin konungseign metin á 10 hundruð.
FitjakotSamkvæmt manntölum frá 1703 var einn ábúandi í Fitjakoti nema 1850 voru þeir tveir.“

Í örnefnalýsingu segir um Fitjakot:
„Jörð í Kjalarneshreppi, næsta jörð fyrir suðvestan Varmadal. Upplýsingar eru frá Jóni Jónssyni Varmadal og eitthvað annars staðar frá. Merkin móti Varmadal eru úr Skrauta, sem er neðsti hylurinn í Leirvogsá, um Fitjakotsmel, sem er milli bæjar og upp undir þjóðveg, þaðan í Markagróf og áfram í Flóalæk. Flóalækur kemur saman í flóunum suður frá Völlum og rennur hér áfram. Rétt vestan merkjanna er á honum gamalt ferðamannavað, sem heitir Helluvað. Síðan eru merkin eftir læknum norður í Kollafjörð.
Að vestan móti Víðinesi og Álfsnesi eru merkin Selja-, eða heldur Selalækur ofan úr mýrum og niður í sjó, þar sem hann fellur í Leirvog.

Fitjakot

Fitjakot – óskráðar minjar.

Neðan við Fitjakotsmel nær bæ heitir Fitjakotskrókur, og vestan við bæ heitir Vesturmýri, sem nær að Selalæk, sem fyrr getur. Beint vestur af túni er holt eins og í miðju landi, sem heitir Vörðuholt. Upp frá bæ er holt, sem heitir Fitjakotsholt. Þar upp af er Mjóimelur, og mýri þar vestur af heitir Mjóamýri milli Álfsness og Fitjakots. Norður af Mjóumýri er Blásteinsholt, sem er suðvestur af Naustanesi. Kúalág nær niður að á. Vestan við hana tekur við Krókur, og þar vestur af er Mjóamýri.“

Fitjakot

Fitjakot – óskráðar minjar.

Í Vöku 1929 er grein eftir Ólaf Lárusson; „Úr byggasögu Íslands„. Þar segir m.a. um kotbýlin fyrrum:

„Af 926 býlum með slíku nafni og með kotnafni, sem Jón Johnsen nefnir í jarðatali sínu, telur hann 649, eða 73,6%, vera hjáleigur. En, eins og áður var getið, telur Johnsen hjáleigurnar of fáar, enda hefir mér talizt til, að af jörðum, sem þessi nöfn hafa, i Rangárvalla-, Árnes-, Gullbringu- og Kjósarsýslum séu nálægt 90% taldar vera hjáleigur í jarðabók Árna Magnússonar. Þessi tala tekur af öll tvímæli um það, að nöfn þessi hafa fyrst og fremst verið valin handa hjáleigunum.

Fitjakot

Fitjakot – MWL.

En jafnvel þessi tala er of lág. Sum lögbýlin, er þessi nöfn bera, munu eflaust vera fornar hjáleigur, sem hækkað hafa i tigninni og orðið lögbýli. Í annan stað kemur það nokkuð víða í ljós, að lögbýli, sem heita hjáleigunafni, hafa áður borið annað nafn. Sérstaklega er þetta algengt um lögbýlin, sem heita kot-nöfnum.
Um mjög mörg þeirra verður það séð með vissu, að þau hafa áður haft annað nafn. Kot-nafnið hafa þau fengið tiltölulega seint, venjulega sem viðbót við hið fyrra nafn sitt. Eru nokkur glögg dæmi þessa hér í nágrenni Reykjavíkur.

Fitjakot

Fitjakot – óskráðar minjar.

Býlin Hvammkot í Kópavogi (sem á síðari árum hefir verið nafnt Fífuhvammur), Hagakot hjá Vífilsstöðum, Óskot og Helliskot (Elliðakot) í Mosfellssveit og Fitjakot í Kjalarneshreppi eru öll gömul lögbýli. Þau voru öll eign Viðeyjarklausturs. Í skrá um leigumála á jörðum klaustursins frá 1395 eru býli þessi nefnd Hvammur, Hagi, Ós, Hellar (þá í eyði) og Fitjar. Í fógetareikningum kringum 1550 eru þau þeirra, er þá voru byggð, ýmist nefnd þessum nöfnum, eða kotnafninu. Fitjar eru nefndar því nafni í reikningum 1547- 1548, en Fitjakot i reikningum næstu ára á eftir.

Kópavogur

Upplýsingaskilti við Fífuhvamm (Hvamm) í Kópavogi.

Hvammur er nefndur því nafni i reikningunum 1547. Allt eru þetta gömul lögbýli. Stundum var nafnbreytingin þó ennþá stórkostlegri. Staðir urðu að kotum. Að lögbýli bera hjáleigunöfn sannar þó eigi, að þau nöfn séu gömul. Hitt, að sýnt verður, að mörg þessara býla hafa fengið nöfn þessi tiltölulega seint, er vottur þess, að hjáleigunöfnin tilheyri yfirleitt yngra stigi í byggingarsögu landsins, og það bendir aftur til þess, að hjáleigurnar séu flestar byggðar nokkuð seint. En hvernig stendur á þessum nafnbreytinguin lögbýlanna? Ég hygg, að þær hafi oftast stafað af því, að býlin hafa lagzt í auðn í bili. Einkum á þetta við um kot-nöfnin. Það hefir verið tíðkað í alþýðumáli, að nefna rústir „kot“, jafnvel rústir af fyrrum býlum.“

Í fornleifaskráningum í Víðinesi og athafnasvæði Sorpu hefur hvergi verið getið þar um augljósar minjar, sem verðugar eru nánari skoðunnar, þ.á.m. minjar í tengslum við örnefnið „Seljalækur“…

Heimildir:
-Fornleifaskráning vegna deiliskipulags Vesturlandsvegar frá Leirvogsá að Hvalfirði, Reykjavík 2018, bls. 9.
-Vaka, 3. tbl. 01.02.1929, Ólafur Lárusson, Úr byggasögu Íslands, bls. 361-363.

Fitjakot

Álfsnes – herforingjakort 1903. Hér eru merktar nokkrar fornleifar, sem ekki hafa ratað inn í fornleifaskráningar.

Reykjavík

Á uppdrætti, sem fylgir örnefnalýsingu fyrir Grafarholt og Korpúlfsstaði má sjá gamlar þjóðleiðir frá og til Reykjavíkur að norðan og austan, þ.e. „Norður- og Vesturlandsveg fyrir aldamótin 1900“, „Þingvallaveg hinn forna“ og „Austurveg hinn forna„.

Vesturlandsvegur

Þjóðleið sem lá fyrir norðan Bústaði yfir vaðið í Árhólmana sunnan við Búrfoss, sunnan við Innréttingarhúsin í Árhólmanum yfir Ártúnsvað og áfram sunnan við túngarðinn og upp Reiðskarðið. Leiðin er teiknuð á kort Björns Gunnlaugssonar frá árinu 1831.

Í „Byggðakönnun 7 fyrir Árbæ“ frá árinu 2017 m.a lesa eftirfarandi um „fornar leiðir og greiðasölu„:
„Elsta þjóðleiðin til og frá Reykjavík lá frá Skólavörðuholti um Öskjuhlíð og áfram austur Bústaðaholt á þeim slóðum þar sem Bústaðavegur er nú. Frá Bústöðum lá leiðin austur yfir vaðið á vestari kvísl Elliðaánna, um Árhólmann sunnan við Drekkjarhyl og rústirnar af húsum Innréttinganna og yfir eystri kvísl Elliðaánna á Ártúnsvaði, rétt austan við þar sem Toppstöðin er í dag og framundan bæjarhól Ártúns. Á meðan Ártún var í þjóðleið var rekin þar greiðasala. Þaðan lá leiðin að Árbæ um Reiðskarð en þar var skarð í gömlu ísaldaráreyrina og því greiðast að fara þar upp.
VesturlandsvegurLeið þessi var aðalvegurinn austur úr bænum þar til byggðar voru tvær brýr yfir Elliðaárnar árið 1883 og nýr vegur var lagður í framhaldi af Laugavegi norður fyrir Grensás og í gegnum Sogamýri, sem ýmist var nefndur Suðurlandsvegur eða Suðurlandsbraut (núverandi Suðurlandsbraut). Fyrir austan brýrnar færðist vegstæðið norðar og eftir það var Ártún ekki í sömu alfaraleið og áður og greiðasala lagðist af þar. Um svipað leyti hófu ábúendur í Árbæ rekstur greiðasölu, eins og áður er nefnt, sem var rekin þar fram undir 1940.

Elliðaár

Hluti úr korti eftir Sigurð málara 1869. Vaðið á Elliðaánum er merkt inn á kort eftir Sigurð málara frá árinu 1869 og hefur verið þekkt þá. Í örnefnaskrá segir „Almenningsvöð eru neðstu vöðin á ánum [Elliðaánum].“  

Um 1900 var búið að gera vagnveg frá Elliðaárbrúm að Árbæ og áfram austur. Þessi vegur (gamli Suðurlandsvegur) er þar sem gatan Rofabær er nú. Vegurinn hélt síðan áfram til austurs framhjá Rauðavatni og að Geithálsi.
Áður lá vegurinn hjá Rauðavatni aðeins sunnar, samanber kort sem til er af svæðinu frá 1902 en þar eru merktir nokkrir gamlir slóðar. „Gamli vegurinn“ er sennilega elsti slóðinn sem lá á milli Árbæjar og Hólms yfir Klapparholtsmóa og er líklega elsti forveri Suðurlandsvegar. Enginn örugg merki eru sjáanleg eftir hann nema hugsanlega nyrst við núverandi Norðlingabraut. Annar slóði lá suðvestur frá Rauðavatni inn Margrófina og inn að Norðlingaholti.
Þessi vegur var forveri Breiðholtsbrautar og er nyrsti hluti hans nú notaður sem reiðvegur. Þá lá slóði yfir Klapparholtsmóa og Klapparholtsvað vestan við býlið Klapparholt yfir að Elliðavatni. Inn á kortið er einnig teiknaður vagnavegurinn meðfram Rauðavatni eða fyrsti Suðurlandsvegurinn“.
Norður- og Vesturlandsvegur lá fyrrum yfir Elliðaár frá Bústöðum að Ártúni. Þar beygði vegurinn upp á brúninar og niður að botni Grafarvogs, upp með vestanverðum Keldum að Korpúlfsstöðum að vaði ofan ósa Blikdalsár.

Vesturlandsvegur

Vegirnir gömlu ofan Reykjavíkur er fjallað er um – færðir inn á nútíma loftmynd.

Þingvallavegur hinn forni og Austurvegur lágu yfir vaðið á Elliðaánum, upp ásinn að Árbæ að Selási. Þar skyldu leiðir. Fyrri vegurinn lá áfram um holtið að Bullaugum, áfram hvylftina ofan Grafarholt (þar sem nú er golfvöllur), upp að Reynisvatni, upp með því til austurs að norðanverðu með Langavatni, niður að austanverðu Hafravatni, upp með Búrfellskoti að Selvatni og áfram inn Seljadal. Síðari vegurinn fór suður fyrir Selásinn og áfram i gegnum Rauðhólanna. Þar skyldiu leiðir; önnur lá upp að Elliðakoti og áfram til austurs að norðanverðu Lyklafelli, hin upp Lækjarbotna um Bolöldur og upp með norðanverðu Svínahrauni. Þar mættust vegirnir til áframhalds upp Hellisskarð og yfir Hellisheiði.

Heimildir:
-Byggðakönnun, Borgarhluti 7 – Árbær; Reykjavík 2017, bls. 17-19.
-Ártúnshöfði – Fornleifaskrá; Reykjavík 2021.

Bullaugu

Uppdráttur með örnefnum (1963)
Uppdráttur með örnefnum í nágrenni Grafarholts og Korpúlfsstaða, sem unnin var árið 1963 af Steindóri Björnssyni í Gröf, að beiðni Þorvarðar Árnasonar, eins framámanns í Golfklúbbi Reykjavíkur. Uppdrátturinn hékk lengi í klúbbhúsinu í Grafarholti en er nú geymdur á Korpúlfsstöðum. Höfundur er óþekktur.

Vatnsverndarsvæði

Skrifað var um „Bullaugu“ í Morgunblaðið 3. mars árið 1962:

Bullaugu
„Þegar ljóst var, að ekki væri með auðveldu móti hægt að virkja vatnið í hrauninu hjá Jaðri, var fenginn jarðbor til borunar í Grafarlandi á landi því, sem Golfklúbbur Reykjavíkur hefur fengið úthlutað undir golfvöll.

Bullaugu

Bullaugu og nágrenni – loftmynd.

Ástæðurnar til þess, að boranir hófust þarna voru nokkrar m.a.:
1. Rannsóknir Jóns Jónssonar bentu til þess, að mikið jarðsig lægi um golfvallarlandið með tiltölulega opnum sprungum sitt hvoru megin við sigið.
2. Jón Þorláksson, fyrrv. borgarstjóri, benti árið 1907 á lindir í Grafarlandi. Hvaða fjarlægð er leyfileg milli borholanna er ekki vitað, en það mun koma í ljós við frekari rannsóknir á svæðinu.
c. Gerlarannsóknir á vatninu bæði úr lindunum og fyrrnefndu holunni var það góð, að Sigurður Pétursson gerlafræðingur lét þá athugasemd fylgja, að „vatnið væri óvenju gerilsnautt“. Efnagreining á sama vatni sýndi engin skaðleg efni og er vatnið svipað og Gvendabrunnavatnið, þó aðeins steinefnaríkara.

AÐRAR FRAMKVÆMDIR
BullauguVerði horfið að því ráði að virkja vatnið við Bullaugu verða aðrar framkvæmdir vatnsveitunnar vitaskuld við það miðaðar. Og er líklegt, að framkvæmdum yrði í stórum dráttum hagað sem hér segir á árinu 1962:
1. Haldið verður áfram og lokið við lagningu 24 þuml. aðalæðar í Kringlumýrarbraut frá gamla Sogavegi suður að Vallarleiti (Hamrahlíð). Nú þegar er meginhluta pípulagnar lokið á þessum kafla, en tengingum á brunnum verður lokið næsta sumar.
2. Lögn að geymi á Litlu Hlíð frá mótum Vallarleitis. Á korti því, sem hér fylgir, má sjá, hverjar eru þær vatnsveituframkvæmdir, sem fyrirhugaðar eru á næstu 2—3 árum. Á þessu ári verður lögð 32″ aðalæð meðfram Miklubraut, frá Kringlumýrarbraut austur fyrir Grensásveg og byggður vatnsgeymir á Litlu Hlíð. Á árinu 1963 verður svo sú æð tengd við aðra 32″ aðalæðina við Sogaveginn inni við Skeiðvöllinn. Og fyrir árslok 1963 á að vera búið að leggja æð frá hinu nýja vatnsbóli, Bullaugum í Grafarlandi, í þessar aðalæðar Oodds Th. Sigurðssonar, vatnsveitustjóra og leitaði hjá honum nánari upplýsinga um þessi mál, og fara þær hér á eftir.
Bullaugu
Eina vatnsból Reykvíkinga nú er Gvendarbrunnar, en núverandi rennsli þaðan er 700 1/sek. Það er fyrir alllöngu orðið ljóst, að á þeim er ekki hægt að byggja meiri aukningu, sem er þó óumflýjanleg. Þess vegna hefur á undanförnum 2 árum verið unnið við rannsóknir á lindum og vatnsbólum, sem til greina komu. Hefur vatnsveitan haft Jón Jónsson jarðfræðing í þjónustu sinni við þessar rannsóknir, en hann hefur rannsakað allt svæðið frá Kaldá norður að Úlfarsfelli og gert sprungukort aif svæðinu.
BullauguNiðurstaðan af þessum athugunum er sú, að til greina kem ur að virkja ýmsar lindir, sem allar hafa þó þann annmarka, að þær eru nokkuð langt frá núverandi aðalæðum nema svæðið í Grafarlandi. Þessi kortlagning jarðsprungnanna er sá grunnur, sem öll vatnsleit mun byggjast á í framtíðinni, og hlýtur að verða unnið áfram að tilraunaborunum, svo að kortleggja megi grunnvatnsrennsli heiðarlandsins fyrir austan borgina. Við rannsóknir á virkjunarmöguleikum á svæðinu milli Jaðars og Gvendarbrunna kom í ljós, að þar er mjög mikið vatnsmagn, og runnu á þurrkatímabilinu á s.l. sumri t.d. að minnsta kosti 500 1/sek. af mjög góðu drykkjarvatni undan hrauninu á þessu svæði út í Kirkjuhólmatjörn. Niðurstöður þeirra rannsókna, sem þarna fóru fram voru þær, að virkjun á þessum stað yrði mjög kostnaðarsöm, og er það skoðun mín, að fresta eigi framkvæmdum þarna í nokkur ár, þar sem boranirnar (sem hann nefnir Bullaugu) á þessum stað og telur þær koma til greina sem vatnsból fyrir Reykjavík, en hvarf frá þeim og valdi Gvendarbrunna vegna óhagstæðari hæðarlegu Bullaugnalindanna, en nú skiptir það atriði ekki lengur máli.
3. Golfvöllurinn verður væntanlega tekinn í notkun árið 1963, og af þeim sökum var æskilegt að fá vissu fyrir vatnsöflunarmöguleikum svæðisins í tíma og samræma aðgerðir V.R. gerð brautanna eftir föngum.

MJÖG GOTT VATN

Bullaugu

Uppdráttur (hluti) af nágrenni Grafarholts
Uppdráttur frá 1963 sem sýnir örnefni á Grafarholtslandinu og nágrenni þess.

Þarna voru svo boraðar 2 holur og varð árangur þeirra borana sá, að úr annarri holunni fást 120 1/sek., og úr hinni 70 1/sek., en núverandi sjálfsrennsli úr Bullaugum er samkvæmt laus legri mælingu a. m. k. 200 1/sek. Að svo komnu er of snemmt að fullyrða nokkuð um vatnsmagn það, sem unnt á að vera að vinna á þessum stað, en þó virðist ástæða til nokkurrar bjartsýni, og eru ástæðurnar til þess helztar:
a. Eftir athugunum Jóns Jónssonar á borsvarfinu virðist vera komið niður á sandsteinslag neðan við 20 m dýpi í fyrrnefndu holunni, og náði það í ca. 29 m dýpi. Við borun í Rauðhólum í sl. viku fannst svipað sandsteinslag á milli 12 og 22 m dýpi.
Þessi atriði benda til þess, að undir Hólms- og Reynisvatnsheiði sé sandsteinslag, sem ber grunnvatn til sjávar og virkar jafnframt sem mikið vatnsforðabúr, sem dæla má úr.
b. Sprungulengdin yfir dalverpið er um 600 m á lengd, og á því að leyfa dælingu úr nokkrum borholum samtímis.
3. Bygging vatnsgeymis á Litlu Hlíð, sumarið 1962.
4. Lögn 32″ (800 mm’) aðalæðar meðfram Miklubrautinni frá Kringlumýrarbraut austur fyrir Grensásveg. Efni í þessa lögn er að mestu komið til landsins og undirbúningsvinna til útboðs að verða lokið.
5. Bygging dælustöðvarhúss við Stóragerði.
6. Lögn 16″ aðalæðar í Rauðarárstíg milli Háteigsvegar og Laugavegar. Verk þetta er nú hafið og því lýkur væntanlega fyrir vorið.

HEILDARKOSTNAÐURINN 33,2 MILLJ. KR.

Bullaugu

Bullaugu.

Heildarkostnaðurinn við þessar framkvæmdir og virkjun Bullaugna yrði samkvæmt kostnaðaráætlun, sem gerð hefur verið um 33,2 millj. kr., en sjálf getur vatnsveitan lagt til þeirra 17,2 millj. kr. á árunum 1962—’63, svo að afla þyrfti 16 millj. kr. láns, ef ljúka á þessum framkvæmdum á næstu 2 árum. Ef ráðizt yrði út í framkrvæmdir þessar án lánsfjár tælki virkjun Bullaugna hins vegar ekki skemmri tíma en 5—6 ár, en ef fresta ætti framkvæmdum svo lengi mundi það vafalaust hafa í för með sér alvarlegan vatnsskort fyrir þá bæjarhluta, sem hæst standa. Það er þess vegna skoðun mín, að varhugavert sé að draga virkjun Bullaugna lengur en til ársloka 1963 og í lengsta lagi til ársloka 1964.“

Rétt er að geta þess að ekki varð að vatnsöflun fyrir Reykvíkinga úr Bullaugum.

Sjá meira um neysluvatnið HÉR og HÉR.

Heimild:
-https://timarit.is/page/1341853#page/n7/mode/2up

Bullaugu

Uppdráttur með örnefnum (1963)
Uppdráttur með örnefnum í nágrenni Grafarholts og Korpúlfsstaða, sem unnin var árið 1963 af Steindóri Björnssyni í Gröf, að beiðni Þorvarðar Árnasonar, eins framámanns í Golfklúbbi Reykjavíkur. Uppdrátturinn hékk lengi í klúbbhúsinu í Grafarholti en er nú geymdur á Korpúlfsstöðum. Höfundur er óþekktur.

Atlagerðistangaviti

Eftirfarandi var skrifað um Vatnsleysuströnd (Narfakot, Halldórsstaði, Hlöðunes og Atlagerðistangavita) í Morgunblaðið árið 1970:

Gerðistangaviti

Atlagerðistangaviti.

„Þetta var á einum hinna frosthýru daga í fyrri viku, þegar loftið var tært, eilítið skæni á pollum eftir nóttina, en sól á suðurhveli, og þeim ekkert að vanbúnaði, sem langaði í hressandi helgargöngu um íslenzka náttúru; hún er söm við sig, sami yndisleikinn, hvort sem er kalt eða svalt, eða hlýjan leikur um mannfólkið sem kemur blóðinu óneitanlega á meiri hreyfingu, en kuldinn.

Vatnsleysuströnd - Hlöðuneshverfi

Vatnsleysuströnd – Hlöðuneshverfi.

Förinni var heitið suður á Vatnsleysuströnd, til þeirrar strandar, sem Spegillinn í eina tíð, ætlaði að innlima í Reykjavík á þeim árunum sem vatn skorti í höfuðborginni. Greið er förin, þegar Hafnarfirði sleppir, suður Kapellu hraun, framhjá Straumi, og áfram allar götur eftir Hvassahrauni, sem í raun réttri heitir Afstapahraun, og sunnan við það erum við þá einu sinni enn komin i Kúagerði. Raunar er Kúagerði merkur staður í samgöngusögu þjóðarinnar. Það var eini staðurinn, þar sem hœgt var að brynna hestum í ósöltu vatni á þessum hraun fláka á Innnesjunum, og kom slíkt í góðar þarfir, bæði þeim ríðandi og gangandi. Í vesturjaðri þess var lítil graslaut með smátjörn í, fast við veginn á vinstri hönd. Heitir lautin Kúagerði, og var mikill án ingarstaður, jafnvel í heiðnum sið. Ég hef það fyrir satt, og sagði mér það maður, ættaður frá Hvassahrauni, sem var einu sinni stofufélagi minn á Vífilsstöðum, að kaffið hefði alltaf verið salt á þeim bæ, og þó var Kúagerði örskotsspöl í burtu.

Hlöðunes

Hlöðunes.

Síðan lagður var akfær vegur frá Keflavík til Reykjavíkur, hefur það oftast verið siður, að menn hefðu ekki tíma til að stanza og var þó meiri ástæða áður, en núna, þegar þetta hlemmiskeið liggur milli staða, — en í þetta skiptið, síðast liðinn sunnudag, gerðum við okkur dagamun, sveigðum til hægri út á gamla veginn, framhjá Vatnsleysunum, þar sem hann Þorvaldur okkar kæri ræktar svín, framhjá Flekkuvík, hinni frægu, þar sem Jónasi Hallgrímssyni var ekki i eina tíð betur treyst en svo um land að fara til að grafa í Flekkuleiði, að hann fékk rautt ljós. Jónas varð þá að útvega leyfi til rannsóknarinnar hjá séra Pétri Jónssyni á Kálfatjörn, en Páll Vigfússon bóndi i Flekkuvík var lengi tregur, því að Jónas segir: „Ég hét þeim að láta Flekku kyrra, ef ég fyndi hana, og kvaðst gera þetta í virðingarskyni, svo sem oft hefði verið gert við helga menn.“

Hlöðunes

Hlöðunes – túnakort 1919.

Og áfram allar götur framhjá Kálfatjörn, en þeim stóra stað tilheyrði fjárborgin mikla, Staðarborg, sem er vel sýnileg frá þessum gamla þjóðvegi, þar austar og ofar í hrauninu. Í þetta sinn er ákveðið að heimsækja Gerðistangavita, sem löngum hefur lýst bátum og skipum, sem meðfram Vatnsleysuströnd sigla. Hlutverk hans er nú orðið svipur hjá sjón, en fallegt er engu að síður niður við vitann. Og þótt Gerðistangaviti hafi nú að mestu lokið sínu dygga hlutverki, hefur hann áreiðanlega bjargað mörgum sjómanninum heilum í höfn, lýst þeim, sem þráir höfn.

Hlöðunes

Miðhús.

Við ökum út af veginum við Halldórsstaði, litlu býli, og leggjum bílnum okkar við hliðina á þriggja metra djúpum, hlöðnum brunni, sem er enn við lýði á þessari vatnslausu strönd, en þó sennilega núna aðeins handa svínum í kaldri kró.
Í suðvestri blasir við okkur annað býli Narfakot. Vafalaust hafa báðir þessir bæir verið fyrrum eins konar hjáleigur aðalbæjarins, Hlöðvisness. Heitir hann í dag Hlöðunes, og er í eyði.

Þetta var stór staður, og kenndur við þann, er þar byggði fyrstur manna. Þar í túninu á þessi Hlöðvir að vera heygður og heitir þar enn Hlöðvishaugur.

Hlöðunes

Hlöðunes – tóftir.

En áður en við höldum niður í fjöruna við Gerðistangavita, skulum við aðeins staldra við nafnið Narfakot. Það er nefnilega komið inn í Íslandssöguna á mjög merkan hátt. Meira að segja líka inn í bókmenntirnar. Áður fyrri, þegar Danir ráku hér „velferðarríki“ sitt með möðkuðu mjöli og fleiru tilheyrandi til sálubóta, skorti allt, jafnvel snæri til að hengja sig, hvað þá, að hægt væri að nota til veiðiskapar, var það einnig bannað með „majestets“ skipun, að verzla við annan kaupmann, en þann, sem staðsettur var í manns eigin „Krummavík“.

Hlöðunes

Tóftir Hlöðversness.

Gerðust margir brotlegir, meðal annarra bláfátækur bóndi á hjáleigu frá Brunnastöðum á Vatnsleysuströnd, sem hét Hólmfastur Guðmundsson. Fór með 13 fiska til kaupmannsins í Keflavík að auki 2 knippi af hertum sundmögum og lagði þar inn, þegar honum bar að Guðs og manna lögum og hans hátign ar Danakóngs, að leggja þetta allt inn hjá Knúti Stormi, kaupmanni í Hafnarfirði. Fyrir þetta var Hólmfastur dæmdur til að kaghýðast á Kálfatjarnarþingi, 27. júlí 1699. Með því að áðurnefndur Stormur vildi ekki taka skektu hans upp í sektina. Þótt Hólmfastur fengi nokkru síðar bæði uppreisn æru og skaðabætur, hefur Laxness gert hann ódauðlegan og komið honum inn í ísl. bókmenntir sem samfanga Jóns Hreggviðssonar í dýflissunni á Bessastöðum og segir nú frá því.

Hlöðunes

Brunnur við Halldórsstaði.

Jón Hreggviðsson hafði spurt Hólmfast: „Var þér ekki útlátalaust að leggja fiskana inn í því umdæmi þar sem þér er skipað að verzla af mínum allra náðugasta herra?“
„Og þetta átti að koma fyrir mig, Hólmfast Guðmundsson.“

„Þú hefðir betur hengt þig í spottanum,“ sagði Jón Hreggviðsson. „Hvenær hefur heyrzt í fornum bókum, að danskir hafi dæmt til hýðingar mann með mínu nafni í landi hans sjálfs hér á Íslandi?“
„Það er heiður að vera höggvinn. Jafnvel lítill karl verður maður af því að vera höggvinn. Lítill karl getur farið með vísu um leið og hann er leiddur undir öxina. Aftur á móti verður hver maður lítill á því að vera hýddur,“ sagði Hólmfastur.

Halldórsstaðir

Halldórsstaðir – tóftir.

En því minnumst við á Hólmfast hér, að meðal mannanna, sem dæmdu hann vegna þessa „glæps“, sem við góðu heilli í dag, gætum sett tvö upphrópunarmerki við, sem háðsmerki, vegna þess, að við í dag búum við frjálsa verzlun, — voru einmitt tveir menn frá þessu Narfakoti, sem við okkur blasir í suðvestri, þeir Bjarni og Brynjólfur Þórólfsson, sem þá bjuggu þar.

Og nú látum við gamla sögu lönd og leið, göngum framhjá gömlum hvalbeinum, sem áður voru notuð fyrir hlunna og beint niður í fjöruna hjá vitanum.

Halldórsstaðir

Halldórsstaðir.

Á vegi okkar verða gamlar verbúðir, hlaðnar úr hraungrýti, bátur liggur ofarlega í landi, og við hugsum með okkur,: „Það er ekki hægt að setja hann út, nema á flóði.“ Raunin varð önnur, þetta reyndist hin ákjósanlegasta vör sunnan við Gerðistangann. Einkennilegt var smágert þangið, þegar komið var fram undir sjó. Við þekktum það ekki, en fallegt var þar álitum. Einstakur æðarbliki styggðist og flaug á braut. Annars urðum við ekki vör við fugla. Skorkvikindi skriðu að venju undir þarabrúski, en það hæfir ekki þessari miklu strönd að minnast á slík kvikindi.

Hlöðunes

Hlöðversleiði. Narfakot í baksýn. Helgi Davíðsson í Vogum (84 ára) er manna fróðastur um Ásláksstaði og nágrenni, en hann ólst þar upp og bjó þar lengi framan af.

Þarna á ströndinni er margt að sjá, bæði lifandi og dautt. Vel má vera, að það vindi á þessari strönd, en samt sem áður held ég, að hún geymi í fórum sínum svo mikla fjársjóði, að erfitt reynist að gera þá upp. Fjöruferð meðfram þessari úfnu strönd, meðfram skerjunum, meðfram vörunum, er að minnsta kosti þeirra peninga virði, sem maður verður að greiða samvizku sama manninum í tollskýlinu við Straum, þegar aftur er haldið heim. Ég lofa þvi, að ég skal síðar skrifa meir og betur um Vatnsleysuströnd, og áður en mig varði, rann bíllinn inn í óða umferðina á Hafnarfjarðarveginum, þar sem vegir liggja til allra átta og flestra óþekktra, en ég vona samt heim til mín. – Fr.S.“

Heimild:
-Morgunblaðið, Fr.S.; Úti á víðavangi, 255. tölublað (08.11.1970), bls. 6.

Hlöðunes

Tóftir Bjarghóls v.m. Atlagerðistangi h.m. „Hlöðuneshverfi á Vatnsleysuströnd tilheyrðu eftir taldir bæir. Hlöðunes, Halldórsstaðir, Narfakot, Miðhús, Bjarghóll, Nýlenda, Holt var rétt hjá Hlöðunesi og á Töngunum Gerði og Atlagerði.“ Klöpp var einnig afbýli sem fór í eyði fyrir aldamótin 1900. Jörðin einnig nefnd Hlöðversnes. Þar var tvíbýli og seinni bærinn nefndur Hlöðversneskot, Gilsbakki og Vesturkot.

Oddfellow - skjöldur

Guðfinna Ragnarsdóttir skrifaði um „Laugarnesið“ í rit Ættfræðingafélagsins árið 2017:

Guðfinna Ragnarsdóttir

Guðfinna Ragnarsdóttir.

„Það lætur ekki mikið yfir sér Laugarnesið, þessi snubbótti tangi sem teygir sig til norðvesturs út í flóann í átt að Engeynni. En þar leynist bæði löng og merk saga, saga kvenna og karla, saga atburða og örlaga, saga biskupa og valda, saga mennta og menningar, saga stríðs og átaka, saga hernáms og fátæktar, saga sjúkdóma og erfiðleika, saga lista og listamanna og inn á
milli, þótt ekki fari hátt, saga alþýðunnar, sem háði þar sitt stríð öld fram af öld. Ströndin við Laugarnesið er einnig einstök náttúruparadís. Þar er eina ósnortna fjaran sem eftir er á norðurströnd Reykjavíkur frá Örfirisey að Grafarvogi. Þar móka selir á steinum, tjaldurinn hoppar í fjörunni, krían gargar og mávurinn sveimar yfir hafsbrúninni í leit að æti. Í norðrinu rísa Esjan og Skarðsheiðin og vinalegt Akrafjallið teygir sig til vesturs.
Reykjavík - jarðir Hún var víðlend, jörðin Laugarnes, þegar hún var og hét. Svo víðlend að hún tók yfir meirihluta þess svæðis sem Reykjavík stendur á í dag. Sjálfsagt hefur það verið Ingólfur okkar Arnarson og hans lið sem fyrst bjó á þessu svæði. Það er gaman að eiga eina ljósa mynd af þessum frumbyggjum Reykjavíkur, og þar með Laugarness, mynd sem sýnir okkur sonarson Ingólfs, Þorkel mána, sem lét á banadægri bera sig út í sólskinið og fól sál sína þeim guði sem hefði skapað sólina, og var hann þó maður heiðinn. Þormóður, sonur Þorkels, varð svo allsherjargoði þegar kristni kom á Ísland. Þeir Þorkell og Þorgeir Ljósvetningagoði lögsögumaður voru þremenningar, en ömmur þeirra voru systur, dætur Hrólfs rauðskeggs.
Það er líka gaman að geta þess að laugarnar góðu sem komu við sögu nafngiftar Reykjavíkur gáfu einnig ótal öðrum örnefnum svæðisins nafn: Laugarnes, Laugamýri, Laugaholt, Laugalækur og einnig seinni tíma nöfn eins og Laugarás og Laugardalur.

Jarðabókin

Laugarnes

Laugarnes og Laugarnesstofa.

Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín veitir góða lýsingu á Laugarnesi sem og öðrum jörðum á Íslandi í byrjun 18. aldar. Jörðin er 20 hundruð að dýrleika, kirkjukúgildi 3 og leigukúgildi 3. Kvikfénaður 4 kýr, 2 kvígur mylkar, 1 kálfur, 16 ær, 15 sauðir veturgamlir, 4 lömb, 2 hestar, 2 hross. Fóðrast kunna 6 kýr. Heimilismenn 7. Torfrista, stunga og móskurður nægilegt í heimalandi. Rekavon lítil. Hrognkelsaveiði má vera, ef iðkuð væri með neti. Túnið spillist stórlega af vatnsgangi. Engjar litlar, spillast af vatni. Vatnsból erfitt. Heimræði er hér varla að kalla; þó er það um vor og haust, þegar fiskur gengur grunnt inn á fjörðinn. En um vertíð, ef heima skal lenda, er langræði meira en hófi sætir, og fyrir þá grein hefir jörðin um langar stundir átt og brúkað skipauppsátur og verbúð.

Laugarnes

Laugarnes og Engey voru fyrstu jarðirnar sem fóru undan landnámi Ingólfs, en það mun hafa verið innan við öld eftir landnám. Einhvern tíma fyrir 1575 byggðust svo jarðirnar Bústaðir og Kleppur út úr Laugarnesjörðinni. Kleppsjörðin stóð nokkru sunnan við núverandi Kleppsspítala. Jörðinni fylgdu miklar kvaðir og búskapur var erfiður. Í jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns segir að túnin fordjarfist stórlega af sjávargangi og á 18. öld varð að flytja Kleppsbæinn vegna sjávargangs. Bústaðir, sem sneru mót suðri og sól, voru mun betri jörð, enda oft tvíbýlt
þar.

Laugarnes

Reykjavíkurkort frá 1944. Sjá má Fúlalæk ofan Fúlutjarnar.

Fúlilækur
Það var hinn frægi Fúlilækur sem myndaði vesturlandamæri Laugarnesjarðarinnar. Hann kom upp í Kringlumýrinni, rann til norðurs niður holtið, breiddi sem snöggvast úr sér í Fúlutjörninni niður við ströndina, rétt áður en hann liðaðist gegnum fjörukambinn og sameinaðist sjávaröldunum. Hann er nú löngu horfinn undir malbik Kringlumýrarbrautarinnar.
LaugarnesHann var hinn versti farartálmi þegar hann var vatnsmikill, og fræg er sagan um vinnukonuna sem drukknaði í honum með þvottinn sinn á bakinu.
Frá upptökum Fúlalækjar lágu landamærin síðan til suðurs, alla leið í klettinn Hanganda innst í Fossvoginum.AusturlandamæriLaugarnesjarðarinnar hafa fram eftir öldum verið Elliðaárnar, enda átti kirkjan ítök í laxveiðinni þar öld fram af öld.
Það saxast svo hægt og bítandi af landnámi Ingólfs og á 13. öldinni eru fimm jarðir á Seltjarnarnesinu: Nes, Vík, Laugarnes, Kleppur og Gufunes. Frægasti ábúandi Laugarness var Hallgerður langbrók sem bjó þar eftir víg Glúms, manns síns. Sagnir eru um að hún hafi látist þar og sé grafin þar og sé leiði hennar jafngrænt vetur sem sumar. Ekki fundust þó við eftirgrennslan nein merki Hallgerðar.

Kirkjan

Laugarnes

Laugarnes.

Það er svo kirkjunni og kirkjuskjölunum að þakka að við getum rakið sögu Laugarness allt til okkar daga. Öldum saman var Laugarnes, ásamt Engey, í eigu sömu ættarinnar, s.k. Möðruvallaættar. Það er í Kirknatali Páls Jónssonar Skálholtsbiskups frá því um 1200 sem fyrst er getið kirkju í Laugarnesi.
Saga Laugarneskirkjunnar, líkt og saga flestra annarra guðshúsa þessa lands, endurspeglar bágborið ástand og afkomu þjóðarinnar, sjúkdóma, hallæri, eldgos og aðra óáran sem yfir þjóðina dundi. 1234 á kirkjan rétt á fjórðungi allra laxa í Elliðaánum, Viðeyingar annað eins og Reykvíkingar afganginn. Þetta voru mikil hlunnindi, sem áttu eftir að reytast af kirkjunni í aldanna rás. Sömuleiðis kúgildin. Árið 1379 á kirkjan tíu hundruð í metfé, tvenn messuklæði, þrenn altarisklæði, einn kaleik, tvær kertastikur, kantarakápu, tvær klukkur stórar, glóðarker, sacarium, mundlaug og kross. Þá á hún einnig fjórðung reka á móts við Nes, Engey og Laugarnes „utan Seltjörn og Laugar“. 1575 er altarisklæðið sagt gamalt og því tjáslað saman, hökullinn er gamall, kaleikurinn ærulaus, metaskálar tómar, og járnkarlinn sem á að pota Laugarnesingum sex fet niður, á köldum frostavetrum, er lítill.

Kúgildin
Laugarnes
Brynjólfur biskup Sveinsson vísiterar í Laugarnesi 1642. Þá er þar einn hökull gamall og altarisklæðið á flækingi ásamt sloppi gömlum og slitnum. Kúgildin, sem upphaflega voru tíu, eru nú aðeins þrjú. Þetta þykir biskupnum miður og lætur nótera það í Kirkjustólinn. Nítján árum seinna þegar biskupinn leggur leið sína aftur í Laugarnesið eru þau enn ófundin! 1659 þegar ný kirkja var reist í Laugarnesi var ekki úr miklu að moða, því allar jarðir sem kirkjunni tilheyrðu voru í konungseign, nema Laugarnesið, og voru því undanþegnar tíundargjöldum.

Laugarnes

Laugarnesspítali.

Þegar Brynjólfur vísiterar Laugarnesið í hinsta sinn, árið 1670, er nýja kirkjan illa farin af fúa, kúgildin enn á flandri og auk þess vantar kistu eina gamla. En menn hafa sjálfsagt haft annað að gera á þeim hörmungatímum sem þá gengu yfir þjóðina en eltast við horfin kúgildi og fúnar kistur. En það sem verra er, nú er laxveiðin endanlega gengin úr greipum þeirra Laugarnesmanna og Bessastaðamenn búnir að kasta eign sinni á þessi fornu hlunnindi.
1703 sýnir manntalið okkur að 27 manns eru í Laugarnesi og jörðin enn í einkaeign. 1725 reis af grunni ný og vönduð kirkja og þá dró einnig til tíðinda í eignamálunum. Kirkjan, sem hafði verið í eigu sömu ættar öld fram af öld, etv. allt frá landnámi, komst nú í annarra eigu. Sjálfur biskupinn, Jón Árnason, tók jörðina upp í skuld. Við tóku mörg góð ár, en 1758 þegar Finnur Skálholtsbiskup kemur í sína fyrstu vísitasíu, er kirkjan að falli komin.

Bænabríkin
LaugarnesKirkjan átti þó sína velgjörðarmenn en það voru Eggert Ólafsson og Bjarni Pálsson sem höfðu átt athvarf í kirkjunni þegar þeir dvöldu hjá Skúla fógeta í Viðey, sem þá var orðin kirkjulaus. Þeir gáfu Laugarneskirkjunni forláta altaristöflu eða bænabrík. Á hana er letrað: Til maklegrar skylduendurminningar er þessi tafla gefin heilagri Maríukirkju að Laugarnesi af þeim B. og E. 1757. Þessi altaristafla, sem síðar lenti í kirkjunni að Stað í Grindavík, er eini gripurinn sem varðveist hefur úr gömlu Laugarneskirkjunni. Hún er nú varðveitt á Þjóðminjasafninu.
Þegar Laugarneskirkjan seig saman undan feysknum fjölum sínum árið 1794, voru horfnar sjö af þeim kirkjum sem röðuðu sér með Sundunum fyrir siðaskiptin. Aðeins voru eftir kirkjurnar í Vík, Viðey og Gufunesi.Allt frá miðöldum til loka 18. aldar höfðu kirkjuklukkur Laugarneskirkju kallað fólk á tíu bæjum til messu, en það voru bæirnir Laugarnes, Kleppur, Rauðará, Bústaðir, Breiðholt, Digranes, Hvammkot, Kópavogur, Vatn og Hólmur. Þær hafa mátt hljóma hátt og skært, kirkjuklukkurnar, svo kallið bærist.

Kirkjusandur

Kirkjusandur og Laugarnes um 1920.

Ein ástæða þess að Laugarneskirkjan var lögð niður var að á sama tíma reis af grunni í hjarta bæjarins, á gamla Reykjavíkurtúninu, á Austurvelli, ný og vegleg dómkirkja sem var vígð 1796. Laugarneskirkjan var þá sameinuð Dómkirkjusókninni í Reykjavík. Eins og söfnuðinum var vísað á önnur mið, dreifðust hinar fátæklegu eigur kirkjunnar út um borg og bý. Kirkjuklukkurnar, sem hringt höfðu til tíða og messugjörða öldum saman, voru seldar hæstbjóðanda, og hvar þær svo að lokum hringdu sig inn í eilífðina veit enginn lengur. En á tímum allsleysis var fleira verðmætt en kirkjugripirnir. Hver fjöl, jafnvel þótt fúin væri og lasburða, var seld hæstbjóðanda á uppboði. Þannig keypti Brynjólfur Einarsson lögréttumaður af Kjalarnesi Laugarneskirkjuna, eins og hún lagði sig, á 17 ríkisdali og 56 skildinga. Það segir margt um ástand timbursins í kirkjunni að á sama tíma var timbrið úr Neskirkju selt á 125 ríkisdali!

Hannes

Laugarnes

Það var svo eftir jarðskjálftana miklu 1784 sem menn fóru að hugsa sér til hreyfings með biskupssetur, því Skálholtsstaður var í rúst. Reykjavík hafði þá öðlast kaupstaðarréttindi og til stóð að flytja bæði biskupssetrið og Skálholtsskólann til Reykjavíkur, auk Alþingis. Innan lóðamarka kaupstaðarins voru þá 39 hús og 167 íbúar. Hannes Finnsson Skálholtsbiskup kom að skipulagningu hins nýja biskupsseturs. Hann var bæði mjög efnaður og framsýnn maður og hann gerði sér lítið fyrir og keypti Skálholtið og fékk konungsleyfi til að sitja þar áfram í sinni biskupstíð.
Laugarnesið hafði hann erft árið 1787 eftir fjarskylda frænku sína, Elínu Hákonardóttur, og hafði því ekkert á móti því að biskupssetrið yrði þar. Ekkert varð þó úr flutningi biskupsstólsins og sat Hannes í Skálholti til dauðadags árið 1796. Hann hafði þá verið sjö ár í hjónabandi með seinni konu sinni, Valgerði Jónsdóttur. Á þeim var 32 ára aldursmunur. Hún var 18 ára og hann fimmtugur þegar þau gengu í hjónaband.
Hún varð því ekkja 25 ára gömul. Þau Hannes voru frændsystkin, skyld að öðrum og þriðja. Valgerður fæddist 1771 á Seljalandi undir VesturEyjafjöllum. Foreldrar hennar voru efnafólk og faðirinn sýslumaður. Fyrri kona Hannesar var Þórunn, dóttir Ólafs Stephensens stiftamtmanns í Viðey, en hún var aðeins 16 ára er þau Hannes giftust. Hana missti hann rúmlega tvítuga.

Hannes Finnsson

Hannes Finnsson, biskup.

Þau Hannes og Valgerður eignuðust fjögur börn sem öll komust upp. Eldri dóttur sína skírðu þau Þórunni, eftir fyrri konu Hannesar. Hún giftist Bjarna Thorsteinssyni amtmanni og þeirra sonur var Steingrímur Thorsteinsson skáld og rektor. Engan hefði grunað að Þórunn Hannesdóttir, síðasta biskupsdóttirin í Skálholti, ætti eftir að verða tengdamóðir bláfátækrar stúlku, barnabarns Eiríks Hjörtssonar, ungs bónda í Laugarnesbænum, sem um aldamótin 1800 stóð þar í kirkjugarðinum yfir moldum konu sinnar og ungrar dóttur á helköldum vetrardegi. Slík blöndun æðri og lægri stétta var nánast óhugsandi.
Þessi fátæka, unga stúlka hét Guðríður Eiríksdóttir og var frá Stöðlakoti við Bókhlöðustíg. Hún átti eftir að verða seinni kona Steingríms Thorsteinssonar og eiga með honum fimm mannvænleg börn.

Voldug og rík
Valgerður biskupsfrú var systir Jóns Johnsen lögsagnara á Stóra-Ármóti, en hann var umboðsmaður konungsjarða í Árnessýslu. Hún naut hans vel í viðskiptum sínum þegar hún eftir lát Hannesar sankaði að sér jörðum, enda varð hún ein efnaðasta og voldugasta kona landsins. Ólafur Stephensen stiftamtmaður, fyrrverandi tengdafaðir Hannesar manns hennar, var henni einnig afar hollur ráðgjafi. Í tíu ára ekkjudómi sínum eftir lát Hannesar eignaðist hún 22 jarðir og rekaítök á tíu rekafjörum austan úr Öræfum og vestur á Strandir. Hún reisti einnig kirkju í Skálholti og var sú kirkja kölluð Valgerðarkirkja. Allt þetta sýnir að hér var enginn meðalmaður á ferð.

LaugarnesSteingrímur Jónsson, seinni maður Valgerðar, var fræði- og lærdómsmaður. Hann hafði verið skrifari Hannesar biskups í Skálholti, en Hannes átti mikið safn gamalla rita. Steingrímur var mikill gáfumaður og einstakur námsmaður, hann lauk embættisprófi í guðfræði við háskólann í Kaupmannahöfn með ágætiseinkunn sumarið 1803. Hann var fyrsti rektor Bessastaðaskóla, prestur og prófastur í Odda og loks biskup yfir Íslandi. Foreldrar hans voru Jón Jónsson, prófastur á Mýrum í Álftaveri, síðar í Holti undir Eyjafjöllum, og kona hans, Helga Steingrímsdóttir. Hún var systir eldklerksins Jóns Steingrímssonar.
Steingrímur biskup átti mikið safn handrita og bóka og var stórvirkur rithöfundur. Hann var frábærlega vel að sér í sögu landsins og einn lærðasti maður Íslands um sína daga. Jón Sigurðsson forseti var biskups skrifari hjá þeim hjónunum í Laugarnesi árin 1831-32, eftir að hann varð stúdent. Steingrímur biskup var einn helsti ættfræðingur landsins. Ættartölubækur hans í ellefu bindum, flestar með hans eigin hendi, eru stórmerkileg rit. Í Laugarnesi var geymt mesta safn íslenskra handrita sem þá var til í landinu. Bókaog handritasafn Steingríms varð síðar uppistaða Landsbókasafnsins.

Biskupsstofan

Laugarnes

Laugarnes – Biskupsstofa.

Þau Valgerður og Steingrímur giftu sig árið 1806, og árið 1809, þegar Valgerður er 38 ára, fæðist einkasonurinn Hannes Johnsen Steingrímsson, síðar kaupmaður í Reykjavík, heitinn eftir Hannesi biskupi.

Steingrímur tók við biskupsembættinu 14. júní 1825. Þau fluttust þó ekki inn í Laugarnes fyrr en vorið 1826, þegar biskupsstofan var tilbúin. Þá vantaði, segir sagan, enn bæði glugga og hurðir í húsið. Þar bjuggu þau þar til Steingrímur lést 14. júní 1845.

Lauharnes

Laugarnes 1952.

Hinn nýi biskupsbústaður var jafnan nefndur Laugarnesstofan, Biskupsstofan í Laugarnesi eða aðeins Stofan. Það var mikið hús, eitt fárra steinhúsa á landinu, en ekki var það að sama skapi vandað, þótt konungurinn styrkti byggingu þess.
Steingrímur gerði samning 7. apríl 1825 við danskan múrara frá Kaupmannahöfn um smíði stofunnar. Sá hét Fredrik August Maltezow. Vinnulaun hans áttu að vera tveir ríkisdalir á dag, auk fæðis, ókeypis ferð og fæði til Íslands og heim aftur, nægilegt öl daglega, og peli af brennivíni, bæði á leiðinni og allan vinnutímann. Stofan var hlaðin úr múrsteini, með helluþaki, en
mikið af því fauk í ofviðri 1848. Kvistur var á stofunni með svonefndu skútaþaki, og segja fróðir menn að hafi verið fyrsti kvistur á húsi hér á landi. Það kom brátt í ljós að margir gallar voru á Biskupsstofunni og hélt hún hvorki vindum né vatni. 1839 seldi Steingrímur bænum jörðina, en um það hafði áður verið samið. Valgerður lést 1856 hjá Sigríði dóttur sinni og manni hennar Árna Helgasyni prófasti í Görðum á Álftanesi. Hún hafði þá verið ellefu ár í ekkjustandi.

30 ár
Laugarnes
Næsti biskup í Laugarnesi var dómkirkjupresturinn í Reykjavík, Helgi Guðmundsson Thordersen. Ragnheiður, kona Hannesar ráðherra Hafstein, var sonardóttir hans. Helgi biskup undi ekki í Laugarnesi nema í 10 ár. Undir eins og hann varð biskup, sótti hann um að mega búa í Reykjavík, en ekki í Laugarnesi, en honum var neitað um það. Hann flutti ekki úr Laugarnesi fyrr en árið 1856, en þá hafði Laugarnes verið biskupssetur í rétt 30 ár.

Laugarnes

Laugarnes – upplýsingaskilti.

Biskupsstofan mun hafa staðið vestan til á nesinu, rétt suður af Listasafni Sigurjóns. Hún var rifin til grunna, þegar Holdsveikraspítalinn var reistur árið 1898. Hún var síðast notuð handa frönskum, bólusjúkum sjúklingum. Til að koma í veg fyrir útbreiðslu sjúkdómsins var Stofan gerð að bólusóttarsjúkrahúsi. Franskur sjómaður, segir sagan, deyr úr bólu „á bóluspítalanum“ (Biskupsstofunni) að Laugarnesi 2. apríl 1872, og er greftaður daginn eftir í Laugarneskirkjugarði. Það mun vera síðasta gröfin sem tekin er í þeim gamla garði í Laugarnesinu. Árið áður hafði annar franskur sjómaður látist úr bólu 23. apríl, einnig hann var jarðaður strax daginn eftir.

Holdsveikraspítalinn

Oddfellow - skjöldur

Skjöldur Holdsveikraspítalans í Laugarnesi.  Við vígslu Laugarnesspítala 27. ágúst 1898 festi Dr. Petrus Beyer þetta skilti yfir dyrum spítalans með þremur nöglum og viðhafði um leið eftirfarandi formála: „Ég rek fyrsta naglann í vináttunar nafni, því að hús þetta er sprottið af vinarþeli því, er hin danska þjóð ber til hinna íslensku bræðra sinna. Drottinn veit það, að sama hugarþel verði jafnan ríkjandi meðal þessara bræðraþjóða meðan heimurinn stendur. Ég rek annan naglann í kærleikans nafni með því að hús þetta, sem sprottið er af bróðurkærleiksþeli því, er allir menn eiga að vera gagnteknir af, á að vera hæli þar sem vináttuþel þróast, líknarhendur hjúkra sjúkum og allir eiga að leitast við að inna kærleiksverk af hendi. Ég rek þriðja naglann í sannleikans nafni, af því að þetta hús á að vera sannur vottur um hið innilega samband, sem er milli íslensku og hinnar dönsku þjóðar, og af því að hin íslenska þjóð á einnig að geta séð á þessu verki, sem hér hefur verið af hendi innt, að hin danska þjóð er sannur vinur hennar, því sá er vinur, sem í raun reynist.“ Bretar hernámu Ísland 9.maí 1940, og skömmu eftir hernámið fóru þeir að svipast um eftir húsnæði er þeir gætu fengið til afnota hér á landi. Voru þá mjög fáir sjúklingar eftir á Laugarnesspítalanum og samþykkti ríkisstjórnin að láta flytja þá á Kópavogshælið, sem áður hafði verið notað fyrir berklasjúklinga og leigja Bretum Laugarnesspítala. Var þeim flutningum lokið um haustið 1940 og fékk þá breski herinn húsið til afnota. En hinn 8. apríl 1943 barst sú harmafregn um bæinn eins og eldur um sinu að kviknað væri í Laugarnesspítala. Brann húsið þá til kaldra kola á svipstundu og varð ekki við neitt ráðið og var því mikill sjónarsviptir fyrir bæinn. Skilti þessu varð svo bjargað úr brunarústum og ber það þess glöggt merki að hafa gengið í gegnum mikla eldraun. Og er vel viðeigandi að hafa það sem grip NR. 1 í minjasafni Oddfellowa.

Holdsveikraspítalinn var gjöf dönsku þjóðarinnar til Íslendinga að frumkvæði dönsku Oddfellowreglunnar. Hann var reistur í nafni vináttu, kærleika og sannleika og vígður 27. júlí 1898. Byggingin var úr timbri á tveim hæðum um 2000 m² að stærð. Spítalinn var þá stærsta hús sem hafði verið reist á Íslandi. Hann var starfræktur til ársins 1940, er hann var fluttur í Kópavog. Spítalinn var gerður fyrir 60 sjúkrarúm, en talið er að um aldamótin 1900 hafi verið um 237 holdsveikir menn á Íslandi. Þegar holdsveikum fækkaði var hluti byggingarinnar tekinn til annarra nota.
LaugarnesÞegar spítalinn var fluttur lagði breski herinn bygginguna undir sig og síðar sá bandaríski. Spítalinn brann til kaldra kola 7. apríl árið 1943. Einu menjarnar um brunann er skjöldur sem festur var yfir aðalinngangi spítalans. Hann er varðveittur hjá Oddfellowreglunni.

Hjáleigurnar
Fjórar hjáleigur fylgdu lengi Laugarnesi: Norðurkot, Suðurkot, Barnhóll og nafnlaus hjáleiga austan við bæinn. Suðurkot var niður við sjóinn, beint vestur af síðasta bæjarstæðinu, Suðurkotsvörin er nokkru sunnan við Suðurkotið. Suðurkot var einnig kallað Naustakot. Norðurkot var norðvestur af síðasta bæjarstæðinu og Norðurkotsvörin þar rétt austan við. Norðurkot var einnig kallað Sjávarhólar. Hverri hjáleigu fylgdi 1 kúgildi. Landskuld eftir hvert þeirra var 40 álnir. Allar þessar hjáleigur voru enn byggðar 1801, en 1835 eru þær komnar í eyði og munu ekki hafa byggst eftir það.
Við manntalið 1762 er tvíbýli í Laugarnesi og heimilisfólk alls 14 á báðum búum. Árið 1784 er enn tvíbýli í Laugarnesi. Heimilismenn eru þá 15 alls. Við manntalið 1801 er þar einnig tvíbýli og heimilisfólk alls 17. 1847 er Laugarnes sem fyrr talið 20 hundruð að dýrleika, en 1861 var það 31,3 hundruð. Síðasti torfbærinn í Laugarnesi var rifinn 1885. Hann mun hafa staðið þar sem gamla kirkjan var, eða litlu ofar. Enn sér greinilega móta fyrir kirkjugarðinum.

Sameigendur
LaugarnesEftir að biskup flutti frá Laugarnesi 1856 var Laugarnesjörðin seld félaginu „Sameigendur Lauganess“ en það réði til sín ábúanda sem sá um að reka jörðina, leigja hagagöngu og selja hey til skepnueigenda í Reykjavík auk þess að selja mó úr Laugamýri og Kirkjumýri. Jörðin varð síðan eign Reykjavíkurbæjar 1885.
Síðustu ábúendur Laugarnesjarðarinnar voru hjónin Þorgrímur Jónsson söðlasmiður og Ingibjörg Kristjánsdóttir sem fluttu að Laugarnesi 1915 með stóran barnahóp. Þau sáu um rekstur á jörðinni og leigu á hagabeit fyrir bæjabúa. 1948 flutti Sigurður Ólafsson söngvari og kona hans Inga Valfríður Einarsdóttir frá Miðdal, systir Guðmundar listmálara og myndhöggvara, í Laugarnes, og bjuggu þar á fjórða áratug ásamt börnunum sínum sex og frægu, ljósu hrossunum sínum, þar á meðal hinni landsfrægu Glettu. Yngri dóttir Sigurðar og Ingu er Þuríður söngkona og listmálari.
Með tímanum færðist borgarbyggðin austur á bóginn, erfðafestulöndum var úthlutað og Laugarnesjörðin var tekin undir íbúðabyggð. Á stríðsárunum voru einnig mörg hús flutt í Laugarneshverfið þegar flugvöllurinn var byggður í Skerjafirði.

Kampurinn
Laugarnes
Á stríðsárunum var reist stórt braggahverfi á Laugarnestanganum, kallað Laugarneskampur. Árið 1941 tók síðan bandaríska setuliðið við Laugarneskampi, sem hýsti þá aðallega sjúkradeildir hersins auk skála hjúkrunarkvenna, yfirmanna og annarra hermanna. Kampurinn samanstóð af 100 bröggum og öðrum byggingum.
Þegar umsvif bandaríska hersins drógust saman um 1945, var kampurinn nýttur sem íbúðarhúsnæði fyrir Íslendinga. Á árunum 1951-1957 voru íbúar flestir í kampinum eða um 300 manns. Þessi byggð setti um tíma mikinn svip á Laugarnesið en er nú horfin með öllu. Í einum bragganna bjó Sigurjón Ólafsson myndhöggvari með fjölskyldu sinni. Þar var byggt listasafn sem ber nafn hans. Síðasti bragginn í Laugarnesi var rifinn árið 1980.
Í dag er búið í fjórum húsum á svæðinu. Einn íbúanna er Birgitta Spur, ekkja Sigurjóns Ólafssonar. Hún er fædd á Fjóni og nam höggmyndalist við Konunglegu listaakademíuna í Kaupmannhöfn.
Við hlið Listasafnsins býr Hrafn Gunnlaugsson kvikmyndagerðarmaður og í þriðja húsinu, sem stendur enn sunnar á nesinu býr listakonan Kogga, Kolbrún Björgólfsdóttir, en eiginmaður hennar var Magnús Ólafur Kjartansson myndlistarmaður.Laugarnes

Saga Laugarnessins er orðin löng, saga þessa grágrýtistanga sem forðum myndaðist við eldgos í Mosfellsheiðinni eins og allur berggrunnur borgarinnar og eyjarnar allar. Þar birtist okkur saga þjóðarinnar í hnotskurn öld fram af öld. Kirkjugarðurinn, eina mannanna verkið sem enn sér glöggt stað aftan úr öldum, geymir íbúa þessarar jarðar í að minnsta kosti 800 ár. En allt er breytingum háð. Engir bátar liggja lengur í vörunum, söngur Sigurðar er þagnaður, líkt og hófatak Glettu, en listverk Sigurjóns prýða nesið þar sem aldan skellur á ströndinni, blíð og stríð, líkt og hún hefur gert frá ómuna tíð.“

Heimild:
-Fréttabréf Ættfræðifélagsins – 2. tölublað (01.04.2017), Guðfinna Ragnarsdóttir; Laugarnesið, bls. 3-8.

Laugarnes

Lauganes – minnismerkið um Holdsveikispítalans.

Eldgos

Reykjanesskaginn er yngsti hluti Íslands en mjög eldbrunninn; um 2.000 ferkm að flatarmáli. 5-6 eldstöðvakerfi eru talin vera á skaganum eftir því hvort Hengilskerfið er talið með eða ekki.  Hér er það ekki talið með því landfræðilega er miðja Hengilskerfisins fyrir utan [sjálfan] Reykjanesskagann og að auki er Hengillinn mjög ólíkur öðrum eldstöðvakerfum á skaganum.

Jarðfræði
„Þessi fimm kerfi eru nátengd og það virðist gjarnan gjósa í þeim flestum í sömu hrinunum.  Þau eru 1. Reykjaneskerfið sem er vestast á skaganum, 2. Svartsengi sem er norður af Grindavík,  3. Fagradalsfjall sem er litlu austar, 4. Krýsuvíkurkerfið, kennt við Krýsuvík, 5. Brennisteinsfjallakerfið sem einnig er kennt við Bláfjöll.

Flekaskil

Flekaskilin um Ísland.

Reykjanesskaginn tilheyrir hinu svonefnda Vestara gosbelti sem nær frá Reykjanesi og norður fyrir Langjökul.  það belti er ekki eins virkt og Suðurlands- og Eystra gosbeltið en þó ganga yfir kröftugar  rek- og goshrinur á Reykjanesskaganum á 800-1000 ára fresti.  Síðast gekk slíkt tímabil yfir á árunum 950-1240 og þar áður fyrir um 1800-2500 árum.

Fagradalsfjall - Jarðfræði
Öll fimm kerfin eiga það sameiginlegt að í þeim eru ekki megineldstöðvar og í þeim öllum kemur eingöngu upp basalt. Gosin eru gjarnan sprungugos og magn gosefna í hverju gosi að jafnaði lítið eða innan við hálfur rúmkílómetri. Þó eru undantekningar frá þessu eins og nokkrar stórar dyngjur á skaganum sýna vel.

Flekaskil

Flekaskil Norður-Atlantshafshryggjarins.

Mikil eldvirkni hefur verið á Reykjanesskaga á nútíma og yfir þúsund ferkílómetrar lands huldir nýju hrauni auk landauka í sjó. Gjall- og klepragígaraðir eru algengustu eldstöðvarnar en að auki eru fjölmargar dyngjur á skaganum.  Þær hafa þó flestar myndast á fyrrihluta nútíma, reyndar allar taldar yfir 4500 ára gamlar og myndun þeirra tengist væntalega hröðu landrisi eftir hvarf ísaldarjökulsins á skaganum. Gossprungur á skaganum á nútíma eru hátt í 200 talsins sem sýnir vel hve virkur skaginn hefur verið þrátt fyrir að engin staðfest gos hafi orðið síðan á 13. öld. Jarðskjálftar eru tíðir á skaganum og jarðhitavirkni mikil.

Eldstöðvakerfi raða sér svo til suðvesturs frá Reykjanesskaganum og vitað er um allmörg neðansjávargos á Reykjaneshrygg síðustu aldir. Öflugt gos varð suður af Eldeyjarboða árið 1783. Þá myndaðist eyja sem hvarf þó stuttu síðar vegna ágangs sjávar. Á 19. öld er vitað um 3 gos á þessum slóðum og á 20. öldinni varð nokkrum sinnum vart við ólgu í sjó og gjóskuþústir sem líklega hafa verið af völdum lítilla neðansjávargosa.

Reykjaneskerfið

Reykajnesskagi

Reykjanesskagi – örnefni.

Vestasta eldstöðvakerfið á skaganum er Reykjaneskerfið. Nær það nokkurnveginn frá Reykjanestá að Grindavík og þaðan í norðaustur yfir skagann. Það nær einnig einhverja kílómetra í suðvestur á sjávarbotni og hafa margsinnis orði gos í sjó í kerfinu.

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi – jarðfræðikort; nútímahraun.

Mikil goshrina gekk yfir kerfið á árunum 1211-1240.  Hófst þessi hrina með gosi í sjá skammt frá landi en síðan urðu allmörg gos á næstu árum á svipuðum slóðum, þ.e. í sjó skammt undan landi. Eitt hefur verið áberandi mest, árið 1226 og skilur eftir sig gjóskulag sem hefur nýst vel í gjóskulagarannsóknum á Suðvesturlandi. Heimildir eru fyrir þessu gosi í Oddaverjaannál og er þar talað um “Sandfallsvetur á Íslandi”. Gos urðu svo uppi á landi á næstu árum.  Þessi gos eru nefnd einu  nafni Reykjaneseldar. Síðan þá hefur kerfið ekki bært á sér frekar en önnur eldstöðvakerfi á skaganum hvað gos varðar en jarðskjálftar eru þar tíðir.

Reykjanesskagi - jarðfræði
Svartsengi

Svartsengiskerfið, kennt við samnefnt háhitasvæði, var áður flokkað með Reykjaneskerfinu en þó þau séu um flest lík og nálægt hvort öðru þá eru þau flokkuð sem tvö aðskild kerfi nú. Þau fylgjast hinsvegar að hvað gos varðar og gýs í þeim báðum á svipuðum tíma. Þá rennur syðsti hluti kerfisins saman við Reykjaneskerfið vestan við Grindavík.

Reykjaneskagi - jarðfræði

Jarðfræðikort af Reykjanesskaga. Dyngjurnar eru gular.

Allmargar dyngjur eru í kerfinu sem er um 7 km. breytt og amk. 30 km. langt. Gossvæðin eru þó í suðurhluta kerfisins.

Goshrina varð í kerfinu fyrir um 2000-2400 árum og rann þá m.a. svokallað Sundhnúkahraun ofan við Grindavík. Hluti Grindavíkur stendur á þessu hrauni.

Einnig gaus í kerfinu samhliða Reykjaneseldum í kringum árið 1226. Virðast þá hafa orðið í það minnsta þrjú gos, fremur lítil þó. Illahraun sem orkuverið í Svartsengi stendur á og er við Bláa Lónið rann í einu þessara gosa.

Reykjanesskagi - örnefni

Reykjanesskagi – örnefni.

Fagradalsfjall

Fagradalsfjall

Fagradalsfjall og nágrenni – kort.

Kerfið heitir eftir samnefndu fjalli á milli Svartsengis- og Krýsuvíkurkerfanna. Þetta er lítið kerfi og ólíkt hinum eldstöðvakerfunum á Reykjanesskaganum er það fremur lítt virkt hvað gos varðar, líklega hefur ekki orðið þar gos í um 6000 ár. Jarðskjálftar eru hinsvegar tíðir á svæðinu.

Krýsuvíkurkerfið

Ögmundarhraun

Ögmundarhraun – yfirlit.

Kerfið var áður nefnt Trölladyngjukerfið eftir samnefndri dyngju í kerfinu. Réttara þykir þó að kenna það við helsta kennileiti kerfisins og  það svæði í því þar sem er að finna vísi að megineldstöð.

Það er sennilega ekki ofsögum sagt að segja að Krýsuvíkurkerfið sé eitt hættulegasta eldstöðvakerfi landsins vegna nálægðar þess við höfuðborgarsvæðið. Nyrstu gossprungurnar eru rétt suðvestur af Hafnarfirði og hraun hefur amk. á tveimur stöðum runnið til sjávar örskammt vestan Hafnarfjarðar eftir landnám.

Um árið 1150 – 1180 urðu veruleg eldsumbrot í kerfinu og opnuðust nokkrar gossprungur í þeirri hrinu. Hafa þessi eldgos verið nefnd Krýsuvíkureldar. Hraun runnu þá til sjávar báðu megin við Reykjanesskagann. Þá varð  gos við Sveifluháls um 1180. Ekki virðist hinsvegar hafa gosið í kerfinu í Reykjaneseldunum á 13. öld þegar mikil goshrina gekk yfir vestar á Reykjanesskaganum.

Brennisteinsfjallakerfið
Reykjanesskagi - jarðfræðiSyðsti hluti kerfisins er við Krýsuvíkurbjarg og það teygir sig svo í norðaustur yfir Bláfjöll og inn á Mosfellsheiði. Líkt og í flestum eldstöðvakerfunum á skaganum urðu allmikil umbrot í kerfinu skömmu eftir landnám og reyndar öllu fyrr í Brennisteinsfjallakerfinu.  Nokkur gos urðu líklega í tveimur megingoshrinum á svæðinu frá Bláfjöllum að Hellisheiði. Þessi gos urðu rétt fyrir og rétt eftir árþúsundin. Þekktast er gosið sem Kristnitökuhraunið rann í árið 1000.

Framtíðarhorfur á Reykjanesskaga

Eldgos

Eldgos ofan Grindavíkur 2023.

Það verður ekki undan því komist að fjalla örlítið um hve hættulega nálægt byggð eldstöðvakerfin á Reykjanesskaganum eru. Eldvirknin er lotubundin og gengur yfir á um 800-1000 ára fresti og stendur þá yfir í nokkur hundruð ár. Nú eru nálægt 780 ár frá síðustu staðfestu gosum á skaganum og alveg ljóst að frekar fyrr en síðar munu verða eldgos og það sennilega nokkuð mörg á skaganum.

Eldgos

Eldgos í Fagradalsfjalli 2021.

Þessi gos eru ekki afkastamikil en þau eru mörg hver hraungos og geta eldsuppkomur orðið mjög nálægt byggð. Sérstaklega verður að telja hluta Hafnarfjarðar á hættusvæði hvað þetta varðar og einnig Grindavík. Það er því sérlega mikilvægt að fylgjast vel með öllum jarðskorpuhreyfingum á skaganum til að auka líkurnar á að hægt sé að segja til um gos með einhverjum fyrirvara og gera nauðsynlegar varúðarráðstafanir.“

Heimild:
http://eldgos.is/reykjanesskagi/

Gunnuhver

Gunnuhver.

Laugarnes

Búseta hófst í Laugarnesi skömmu eftir landnám. Samkvæmt Jarðabókinni frá 1703 voru þá í Laugarnesi fjórar hjáleigur og íbúar 28. Búskapur var þá mestur hjá bóndanum í sjálfu Laugarnesi en í kotunum var hokurbúskapur. Tvö hjáleigukotanna stóðu hvort við sína vörina, Norðurkotsvör og Suðurkotsvör. Norðurkot var áður kallað Sjávarhólar en Suðurkot, sem    var nær Kirkjusandi, var kallað Naustakot. Bóndinn þar var formaður á báti Laugarnesbóndans. Þriðja hjáleigan, Barnhóll, stóð við samnefndan hól.
LaugarnesFjórða hjáleigan var á hlaðinu hjá Laugarnesbænum. Laugarnesstofa var byggð árið 1825 sem embættisbústaður biskups. Þá var hjáleigubúskapur í Laugarnesi lagður af. Meðan stofan var heimili biskups bjuggu um 20 manns þar. Eftir að biskup flutti frá Laugarnesi 1856 var Laugarnesjörðin seld félaginu ,,Sameigendur Lauganess“ en það réði til sín ábúanda sem sá um að reka jörðina, leigja hagagöngu og selja hey til skepnueigenda í Reykjavík auk þess að selja mó úr Laugamýri og Kirkjumýri. Jörðin varð síðan eign Reykjavíkurbæjar 1885. Rekstur jarðarinnar var með svipuðu móti og áður, en þá bjuggu á jörðinni Jón Þórðarson og kona hans Þorbjörg Gunnlaugsdóttir. Hann stundaði miklar jarðarbætur, slétti tún og hlóð upp mikla túngarða. Auk þess byggði hann nýtt íbúðarhús. Síðustu ábúendur Laugarnes jarðarinnar voru hjónin Þorgrímur Jónsson og Ingibjörg Kristjánsdóttir sem fluttu að Lauganesi 1915 með stóran barnahóp. Þau sáu um rekstur á jörðinni og leigu á hagabeit fyrir bæjabúa. Með tímanum færðist borgarbyggðin smám saman austur á bóginn og Laugarnesjörðin var tekin undir íbúðabyggð.
Eftir að Laugarneskampi  var breytt í íbúðabyggð  bjuggu þar mest um 300 manns á árunum 1952-1957. Laugarnesbærinn var rifinn 1987.

Laugarneskampur

Í Laugarneskampi um 1950.

Breski herinn gekk á landi í Reykjavík þann 10. maí 1940. Hann lagði undir sig ýmsar byggingar fyrir starfsemi sína auk þess sem reistar voru tjaldbúðir víðsvegar um bæinn. Síðar voru reistir hermannaskálar eða svokallaðir braggar á vegum hernámsliðsins. Í Reykjavík risu um 80 braggahverfi sem hýstu um 12.000 hermenn.
LaugarnesEitt þeirra var vestast á Laugarnesi, Laugarneskampur. Árið 1941 tók síðan bandaríska seturliðið við Laugarneskampi sem hýsti þá aðallega sjúkradeildir hersins auk skála hjúkrunarkvenna, yfirmanna og annarra hermanna. Kampurinn samanstóð af 100 bröggum og öðrum byggingum. Þegar umsvif bandaríska hersins drógust saman um 1945, var kampurinn nýttur sem íbúðarhúsnæði fyrir Íslendinga. Á árunum 1951-1957 voru íbúar flestir í kampinum eða um 300 manns. Þessi byggð setti um tíma mikinn svip á Laugarnesið en er nú horfin með öllu. Í einum bragganna bjó Sigurjón Ólafsson myndhöggvari með fjölskyldu sinni. Þar var byggt listasafn sem ber nafn hans.

Í Árbók Hins íslenska fornleifafélags 1996 skrifar Margrét Hallgrímsdóttir um Laugarnesið:

Laugarnes

Laugarnes – MWL.

„Stóran hluta af menningarsögu okkar má finna í mannvistarleifum og örnefnum. Byggð hefur verið í Reykjavík frá því land var numið og eru skráðar fornleifar í Reykjavík hátt á annað hundrað. Vitað er um mun fleiri minjastaði og má þar sérstaklega nefna eyjarnar í Kollafirði. Tvisvar hefur verið gerð fornleifaskrá yfir minjar borgarinnar og síðast 1994-1995. Um þessar mundir er unnið að annarri endurskoðun skrárinnar.
Fornleifaskrá Reykjavíkur hefur legið til grundvallar minjavörslu höfuðborgarinnar og í nýútkomnu Aðalskipulagi Reykjavíkur er sérstök áhersla lögð á varðveislu menningarminja í Reykjavík, húsa og fornleifa.

Laugarnes

Laugarnes – spítalinn.

Laugarnes sem hér er átt við, er sjálf táin þar sem bærinn Laugarnes stóð fyrrum og listasafn Sigurjóns Olafssonar stendur nú. Afmarkast þetta svæði af tollvörugeymslum við Héðinsgötu í vestri, og Sæbraut í suðri og hafinu, Kollafirðinum. Strandlengjan með nánasta umhveríi á þessu svæði er sú eina í borgarlandinu og á Seltjarnarnesinu hinu forna, norðanmegin, sem enn er ósnortin og upprunaleg. Er Laugarnesið á náttúruminjaskrá og strandlengjan friðlýst. Gróðurfar, sérlega umhverfis mýrina hjá Norðurkoti, og á holtinu norðaustan við hana, er með því fjölbreyttasta sem til er innan borgarmarkanna.
LaugarnesÚtsýni frá Laugarnesinu er fagurt og fuglalíf fjölbreytt og því möguleikar á áhugaverðri útivist fyrir almenning þar sem fer saman fjölbreytt og óspillt náttúra og minjar.
Elstu öruggu heimildir ritaðar um mannavist í Laugarnesi eru í kirknaskrá Páls biskups Jónssonar í Skálholti, sem talin er frá því um 1200.
Kirkjan í Laugarnesi var lögð niður árið 1794, þegar sóknin var sameinuð dómkirkjusókninni í Reykjavík. Rústir kirkjunnar og kirkjugarðsins eru friðlýstar.
Gera má ráð fyrir að búskapur í Laugarnesi sé jafn gamall byggð í landinu, eða allt að því. Bæjarhóll Laugarnesbæjarins er stór og eru varðveittar þar rústir langvarandi búsetu.
Í  Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1703 eru þrjár hjáleigur nefndar frá Laugarnesi. Eru þær Barnhóll, Norðurkot og Suðurkot. Í manntali frá sama ári eru hins vegar fjórar hjáleigur taldar til, og eru þær; Barnhóll, Naustakot (Norðurkot), Á Fitinni (Suðurkot) og Á hlaðinu. Sú síðast talda mun hafa verið heima við bæinn. Rústirnar eru enn greinilegar. Sama er að segja um varirnar Norðurkotsvör (Norðurvör) og Suðurkotsvör (Suðurvör). Síðustu bæjarhúsin voru rifm árið 1987, en eiginlegur búskapur hafði lagst af allnokkru fyrr.
LaugarnesTil gamans má geta þess að Laugarness er getið í Njálu, en á landnámsöld mun Ragi sonur Ólafs hjalta hafa eignast Laugarnesið, en hann mun hafa numið land fast á hæla Skalla-Gríms. Eftir því sem Njáls saga hermir hefur Laugarnes því orðið sjálfstæð jörð nokkrum áratugum eftir að land byggðist. Þar segir að Þórarinn Ragabróðir, sem var lögsögumaður eftir Hrafn Hængsson, hafi búið í Laugarnesi. Þórarinn fór með lögsögu 950-969. Mágkona Þórarins, Hallgerður Höskuldsdóttir, betur þekkt undir viðurnefninu langbrók, er sögð hafa búið í Laugarnesi og þaðan lagt upp í ferð til Þingvalla þar sem hún er sögð hafa hitt fyrir Gunnar á Hlíðarenda.“ Munnmæli herma að hún hafi flust aftur í Laugarnes eftir víg Gunnars og borið þar beinin, sbr. örnefnið Hallgerðarleiði. Legstaður hennar er talinn hafa verið í hinum friðlýsta Laugarneskirkjugarði eða utan hans við gatnamót Laugarnesvegar og Kleppsvegar. Þegar unnið var að gatnagerð á þessu svæði var hóllinn fjarlægður og kom þá í ljós að hann var leifar rauðablásturs.

Laugarnes

Laugarnesstofa um 1830.

Á Laugarnesi eru þó ekki eingöngu varðveittar minjar búskapar. Árið 1787 er Hannes biskup Finnson talinn eigandi Laugarness og að honum látnum giftist ekkja hans séra Steingrími Jónssyni, er síðar varð biskup. Við það eignaðist hann Laugarnes. Árið 1824 fékk Steingrímur því framgengt að veitt var álitleg fjárhæð til að byggja embættisbústað handa honum. Voru til þess fengnir danskir iðnaðarmenn, sem fengu öl eftir þörfum og pela af brennivíni á dag til að ljúka verkinu. Húsið var hið veglegasta að útliti, en þó sagt bæði illa byggt og lekt. Laugarnesstofa var svipuð Viðeyjarstofu að útliti, en minni og með stórum kvisti á framhlið.
Árið 1838 keypti konungur Laugarnes af biskupi og var tilgangurinn m.a. að hafa þar biskupssetur til frambúðar. En næsti biskup á staðnum, Helgi Thordersen, kvartaði undan staðnum og benti á að farartálmar á leið hans til Reykjavíkur væru slíkir, að ekki væri forsvaranlegt að búa á staðnum. Fluttist hann á brott árið 1856 og lauk þá sögu biskupa í Laugarnesi. Stofan stóð þó eftir, en var auðveld bráð eyðingaraflanna og var stuttu síðar „heríileg að sjá, flestir gluggar brottnir, og ótérlegt inn að líta.“
LaugarnesSíðasta hlutverk Stofunnar var hlutverk sjúkrahúss, en 1871 voru geymdir þar nokkrir bóluveikir franskir sjómenn og báru nokkrir þeirra beinin í Laugarnesi. Stofan var rifm þegar danskir Oddfellowar gáfu Íslendingum holdsveikraspítala, sem var fullbyggður árið 1898. Spítalinn var stórt timburhús eins sjá má á gömlum ljósmyndum, sem teknar voru frá Kirkjusandi. Líklegt má telja að spítalinn hafi verið stærsta hús landsins á þeim tíma. Húsið var tvílyft me ð stuttum álmum til endanna. Laugarnesspítali stóð á flötinni austan við Listasafn Sigurjóns Ólafssonar og sneri framhlið í suður. Starfaði spítalinn í hartnær hálfa öld.
Árið 1940 lagði breski herinn hald á spítalann. Mikið hverfi bragga reis þar allt í kring á þeim slóðum sem listasafnið nú er. Spítalinn brann árið 1943 er hann var í notkun breska setuliðsins.

Laugarnes

Laugarnes – Holdsveikraspítalinn.

Engin greinileg merki sjást lengur um þessar byggingar, en fullvíst má telja að jörðin geymi síðustu leifar þessa tímabils í sögu Laugarness þótt þar hafi orðið nokkurt rask vegna braggabyggðar stríðsáranna. Sigurjón Ólafsson myndhöggvari (d. 1982) fékk til umráða einn herskála í Laugarnesi árið 1945 og setti þar upp vinnustofu sína. Það var grunnurinn að Listasafni Sigurjóns Ólafssonar, sem stofnað var árið 1984

Minjavarsla Laugarness
LaugarnesLaugarnesið einkennist enn af hinu gamla og óspillta svipmóti og er strandlengjan að mestu ósnortin. Ibúðarbyggð er nokkur á nesinu og hefur hlotist nokkurt rask af því. Laugarnes er á náttúruminjaskrá og er fjaran á Laugarnestanga friðlýst. Gróður í mýrlendinu umhverfis Norðurkotsvörina og á holtinu norðaustan við hana er meðal þess fjölbreyttasta sem finnst á Reykjavíkursvæðinu. Utsýni frá Laugarnesi er mjög fagurt og fjölbreytilegt. Auk hinna ómetanlegu náttúru sem þarna er að finna hefur Laugarnesið þó sérstöðu vegna sögu þess og minja.
Þarna er talið að stundaður hafi verið búskapur allt frá 10. öld og fram á níunda tug þessarar aldar. Bændur heyjuðu tún, beittu búsmala og réru til fiskjar. Norðurkotsvörin er einstök og ein fárra slíkra sem varðveist hafa í borgarlandinu. Laugarnesbændur nýttu fjörur og annað það sem náttúran færði þeim til nytja. Laugarnes er því dæmi um vel varðveitt menningarlandslag þar sem sögulegar minjar haldast í hendur við náttúru og umhverfi.
LaugarnesBæjarhóllinn og kirkjugarðurinn í Laugarnesi eru friðlýst svæði vegna sérstaks minjagildis. Friðaðar fornminjar teljast til þjóðminja, sem sérstaka þýðingu hafa fyrir menningarsögu íslendinga og skal slíkum friðlýstum minjum fylgja 20 metra friðhelgað svæði út frá ystu sýnilegu mörkum fornleifanna. Kirkjugarðurinn er ferhyrndur og sést enn móta fyrir sáluhliði á vesturvegg hans. Þar má greina rúst síðustu torfkirkjunnar í miðjum kirkjugarðinum. Hún var lögð niður árið 1794 þegar Laugarnessókn var lögð undir Dómkirkjuna í Reykjavík. Kirkjan hefur verið torfkirkja með timburstafhi og hefur snúið frá austri til vesturs í samræmi við kirkjulög.

Laugarnes

Laugarnes – upplýsingaskilti.

Enn má sjá dæmigert gamalt tún með beðasléttum frá því um aldamót vestan bæjarhólsins. Beðaslétturnar má telja vel varðveittar og eru heimildir fyrir slíkum beðasléttum allt frá víkingaöld í nágrannalöndum okkar. Einnig sést móta fyrir leifum hjáleigukotanna í Laugarnesi og er mikilvægt að lögð verði áhersla á varðveislu þeirra í tengslum við sjálft bæjarstæði Laugarnesbæjarins.
Auk þeirra rústa, sem getið er í fornleifaskrá, má nefna rúst beint vestur af grunni Laugarnesstofu (kölluð Spítalahóll hér á eftir) og aðra norðvestur af Norðurkoti. Síðarnefnda rústin er leifar skotbyrgis frá setuliðinu.

Niðurstaða og tillaga að varðveislu
Laugarnes
Reykjavík er menningarlandslag í heild sinni. Þar eru fornleifar á annað hundrað stöðum. Þar á meðal eru merk svæði, sem hafa sérstakt gildi fyrir menningarsögu Islendinga. Slík svæði hafa verið skilgreind sem menningarlandslag eða búsetulandslag. Laugarnes er dæmi um heilsteypt búsetulandslag með sérstakt varðveislugildi. Í minjavörslu Reykjavíkur hefur oft reynst flókið að standa vörð um þá heild sem þar er varðveitt. Í Laugarnesi má rekja söguna til aldamótanna 1200 og sennilega lengra aftur. Saga Laugarnessins snertir byggðasögu landsins, kirkjusögu, sjúkrahúsasögu, sögu Reykjavíkur og sögu hernáms á Islandi.

Laugarnes

Laugarnes og Kirkjusandur.

Á tánni var ekki aðeins lögbýlið Laugarnes, þar voru einnig hjáleigur, og kotið Suðurkot um tíma og þar var kotið Norðurkot, sennilega bæði stærra í sniðum og með lengri búsetu. Auk býlanna var kirkja og kirkjugarður í Laugarnesi um aldir og á síðustu öld risu þar biskupssetur og spítali. Minjar þessara mannvirkja eru varðveittar enn. Á nesinu er fjölbreytt náttúra, bæði dýra og gróðurs, og þar er ein af fáum ósnertum fjörum Reykjavíkur. Bæði fjaran og bæjarhóll Laugarness eru friðuð. Sérstakt náttúrufar og fagurt útsýni tilheyrir hinu forna sögubóli Laugarness. Hjáleigurústirnar, Norður- og Suðurkotsvör, túnið með beðasléttunum og fjaran eru mikilvægir hlutar eins elsta bæjarstæðis á íslandi, rétt eins og hinar friðlýstu minjar bæjarhólsins og kirkjugarðsins.

LaugarnesÞessi atriði eru öll hluti af samspili, sem gerir Laugarnesið að heilsteyptu menningarlandslagi. Ómetanlegt er að slíkar heildir varðveitist innan höfuðborgar og því mikilvægt að ásjóna Laugarness raskist ekki. Er það mat undirritaðrar að stuðla beri að varðveislu Laugarness, sem heilsteypts búsetulandslags vegna ómetanlegs samspils náttúru og sögulegra minja. Laugarnesið hefur sérstöðu í menningarsögu Reykjavíkur. Því ber að varðveita það í núverandi mynd, sem næst ósnortið þótt snyrta þurfi svæði og bæta merkingar. Er það minjavörslu svæðisins til framdráttar að gera svæðið að aðgengilegu útivistarsvæði fyrir almenning þar sem minjar ekki síður en náttúra gefa svæðinu gildi. Það eykur virðingu og áhuga fólks á gildi slíkra svæða. Þannig yrði Laugarnestáin gerð að útivistarsvæði fyrir almenning, þar sem minjarnar í samspili við náttúru og útsýni fengju notið sín.“

Heimild:
-Árbók Hins íslenzka fornleifafélags 1996 – Margrét Hallgrímsdóttir, „Menningarlandslagið Reykjavík og búsetulagið Laugarnes“, bls. 141-148.

Laugarnes

Laugarnesstofa.