Bollar

Gengið var um Selvogsgötu (Suðurfararleið) um Grindarskörð austan Stórabolla með það fyrir augum að skoða Bollana ofan Skarðanna, þ.e. Stórabolla, Tvíbolla (miðbolla) og Syðstubolla (Þríbolla). Þoka setti dulúðlegan svip á umhverfi eldvarpanna efst í Skörðunum.
bollar-2„Grindaskörðin blasa við sjónum manna frá Innnesjum. Í þeim eru nokkrir gígar, stundum nefndir Grindaskarðahnúkar, en heita samt sínum nöfnum. Austastur er Stóribolli, þá Tvíbollar, en vestastir eru Þríbollar (Syðstubollar). Skarðið milli Tvíbolla og Þríbolla heitir Kerlingarskarð og þar upp liggur gata. Vestan undir Tvíbollum, austan við götuna, er smá slakki. þar eru nokkrar snapir fyrir hesta og segir Ólafur þorvaldsson í fyrrnefndri grein, að lausríðandi menn hafi oft farið þar af baki, einkum á austurleið. þarna munu vera einhverjar leifar af húsarúst. Ólafur gerir þá grein fyrir henni að W.G.Spencer Paterson forstjóri brennisteinsvinnslunnar hafi látið byggja umhleðslustöð í þessum slakka. Brennisteinninn var selfluttur þannig “ að lest að austan fór ekki lengra en ofan fyrir skarðið í hvilft þá, sem hér er nefnd, og sú sem frá Hafnarfirði kom, stansaði einnig þarna. Svo var skipt um farangur, þannig að önnur lestin tók bagga hinnar og fór sína leið aftur til baka“.
Bollar-loftmynd„Framundan eru sex hnúkar sem nefnast Grindaskarðshnúkar eða Bollar og milli þeirra eru Grindaskörð. Austast er Stóri Bolli, sem reyndar er talinn vera hið eina sanna Kóngsfell, en framan í bollanum er gígur sem er líkur bolla í lögun. Þetta er gamalt fiskimið sem sjómenn miðuðu út um aldir og tóku þá gjarnan stefnuna um Helgafell. Næst koma Tvíbollar, einnig nefndir Miðbollar, en vestan þeirra er Kerlingaskarð þar sem Selvogsgatan liggur um. Vestast eru berghnúkar sem nefnast Syðstubollar eða Þríbollar. Leiðin liggur eftir varðaðri leið upp í skörðin um Kerlingaskarðsstíg og þegar komið er upp á brúnina er hægt að velja nokkrar leiðir.“
Bollar-3Stórabollahraun kom úr Stóribolla. Um er að ræða dyngjuhraun. Annað nafn á hrauninu neðanverðu er Skúlatúnshraun. Það mun vera um 2000 ára gamalt, en gæti þí verið yngra, jafnvel einungis svolítið eldra en Tvíbollarhraun. Tvíbollahraun kom úr Tvíbollum, Grindarskörðum um 875.
Þrú öskulög eru jafnan notuð á þessu svæði til að greina aldur nútímahraunanna eftir landnám.
• Landnámslagið 870–880 er eitt mikilvægasta öskulagið á Íslandi, en það mun hafa fallið skömmu eftir að land byggðist og hefur dreifst víða. Öskulagið er talið vera komið frá Torfajökuls- og Veiðivatnasvæðinu árið 870–880 og er tvílitt, með ljósan neðri hluta og dökkan efri hluta (Guðrún Larsen 1984; Karl Grönvold o.fl. 1995; Zielinski o.fl. 1997). Landnámslagið finnst víða og er grundvöllur margra aldursákvarðana á hraunum.
Oskulog• Miðaldalagið er dökkgrátt öskulag komið frá gosi við Reykjanes 1226–27 og er nokkuð auðgreint á svæðinu þar sem það er ívið grófkornóttara en önnur dökk öskulög þar. Þetta er mikilvægt öskulag á Reykjanesskaga og var því fyrst lýst af Gunnari Ólafssyni sem nefnir þrjú möguleg gos ábyrg fyrir gjóskunni (Gunnar Ólafsson 1983) en síðari athuganir benda til að gosið hafi verið 1226–27 (Haukur Jóhannesson og Sigmundur Einarsson 1988; Hafliði Hafliðason o.fl. 1992; Magnús Á. Sigurgeirsson 1995).
• Katla-1500 er yngsta öskulagið sem stundum sést efst í sniðum í Brennisteinsfjöllum. Það skiptir litlu máli varðandi eldvirkni á svæðinu því gos hafa ekki orðið eftir að Miðaldalagið féll árið 1226. Lagið styrkir hinsvegar tilvist og greiningu annarra laga, en er yfirleitt þunnt og ræfilslegt þar sem það sést (Guðrún Larsen 1978; Hafliði Hafliðason o.fl. 1992).
Bollar-4Á brún Lönguhlíðar eru tveir stórir dyngjugígar frá síðustu ísöld og sá þriðji austan við Stórabolla. Þessir gígar eru skýrir og fallegir og er verndargildi þeirra hátt. Svona svæðum nálægt þéttbýli fækkar sífellt og með auknum ferðamannastraumi verða þau æ áhugaverðari og verðmætari þeim sem vilja njóta útivistar og kyrrðar náttúrunnar.“
Í Tvíbollahrauni eru nokkrir hellar, s.s.
Spenastofuhellir. Hann er um 200 metra langur og í honum margslungnar og sérkennilegar hraunmyndanir. Völundarhúsið hefur sex hellismunna og teygir arma sína víða eins og völundarhúsum er tamt. Mikil litadýrð og ýmis storknunarform hraunsins gleðja augað. Hellirinn er um 200 metra langur.
Spenastofuhellir-21Nyrðri-Lautarhellir hefur fjóra hellismunna og í honum skiptast á heillegir kaflar og nokkuð hrundir. Víðast er hægt að ganga uppréttur. Í heild er hellirinn um 150 metrar að lengd. Syðri-Lautarhellir er um 170 metra langur og í honum er að finna fjölmargar áhugaverðar hraunmyndanir.
Í Stórabollahrauni er m.a. Leiðarendi. Hann er um 900 metra langur og hin mesta draumaveröld. Hellirinn gengur til beggja átta út frá niðurfalli og tengjast leiðirnar þannig að hellirinn liggur í hring.

Frábært veður. Gangan tók 4 klst og 4 mín.

Heimildir m.a.:
-Tómas Einarsson.
-Helgi Torfason, Náttúrufræðistofnun Íslands. Magnús Á. Sigurgeirsson, Geislavörnum ríkisins – Brennisteinsfjöll, Rannsóknir á jarðfræði svæðisins, 2002.
-Björn Hróarsson.

Bollar

Bollar framundan.

Rauðhóll

Rauðhólarnir á Reykjanesskaganum eru nokkrir. Má þar t.d. nefna fallegan strýtumyndaðan hól, sem var (og leifarnar sjást enn af) sunnan undir Hvaleyrarholti.
Þetta var lítill hóll, úr Rauðhóll neðst til vinstri - hrauntröðin til norðursrauðu hraungjalli og með grunna gígskál. Um er að ræða gervigíg. Varðandi aldur þessa Rauðhóls er ekki hægt að segja nákvæmlega en hann hlýtur að vera eldri en hraunið sem hefur runnið upp að honum sem er Hellnahraun yngra og talið hafa runnið fyrir 1000 árum. Efni úr hólnum var tekið til vegagerðar og gryfjan síðan notuð sem sorphaugur. Nú stendur gígurinn þarna sem gapandi sár við eina fjölförnustu þjóðleið landsins. Ferðamenn á leið til og frá Hafnarfirði er leið eiga um Reykjanesbrautina sjá nú þessa óhrjálegu gryfju í stað hins formfagra Rauðhóls.
Undir Rauðhól í landi Stóru-Vatnsleysu við suðurjaðar Afstapahrauns var haft í seli, sem heitir Rauðhólssel. Hóllinn, mosavaxin að mestu, hefur fengið að ver að vera í friði, en bræður hans honum að norðanverðu hefur verið raskað verulega því efni úr þeim var ekið undir veg.
Rauðhóll er einnig áberandi gjallgígur suðvestan Bláa Lónsins. Hann er stærstur þriggja gíga í Illahrauni, sem mun hafa runnið um 1226.
Nafni hans skammt vestan við sunnanverð Eldvörp er aðalgígurinn (og raunar sá eini, sem enn sést) er rúmlega 2000 ára. Hraunið úr honum myndaði svonefnt Klofningshraun.
Þá má nefna Rauðhóla við Suðurlandsveg skammt norðaustan Elliðavatns. Þeir eru leifar gervigígaþyrpingar (u.þ.b. 4600 ára) í Elliðaárhrauni. Hólaþyrpingin eru nú verulega afmynduð vegna efnistöku. Hún hefur nú verið friðuð.
Allir Rauðhólarnir eru (voru) náttúruverðmæti, en nú hafa verið unnar skemmdir á þremur þeirra, svo miklar að ekki verður úr bætt. Hér er ætlunin að beina athyglinni fyrst og fremst að sjötta Rauðhólnum, vestan við Vatnskarðið í Sveifluhálsi, skammt frá gatnamótum Djúpavatnsvegar. Hann er dæmigerður fyrir ómetanlegt jarðfræðifyrirbæri, sem fyrir skammsýni mannanna hefur verið raskað varanlega. Gígopinu sjálfu var ekki einu sinni þyrmt þótt ásóknin hafi fyrst og fremst verið í gjallið í jöðrum hólsins og niður með þeim, en síður í harðan gostappann. Þegar eldgos eru skoðuð þarf að byrja neðst af eðlilegum ástæðum; það sem fyrst kemur upp, þ.e. askan og gjallið, lenda fyrst á jörðinni umhverfis. Síðan rennur hraun yfir og kleprar setjast á gígbrúnir. Rauðhóll er í raun hluti af 25 km langri gígaröð er gaus 1151, þ.e. á sögulegum tíma. Úr honum rann meginhraun Nýjahrauns, einnig nefnt Bruninn og Kapelluhraun, utan í og yfir sléttan Óbrinnishólabrunnann í norðri og síðan til norðvesturs ofan á því og misgömlum Hellnahraunum Rauðhóll - ein og hann lítur út í dag(Tvíbollahraunum) til sjávar. Þegar glóandi kvikan hefur byrjað að streyma frá gígnum bræddi hún leið undir og út úr gígnum þar sem hraunið streymdi áfram undan hallanum í mikilli hrauntröð áleiðis til sjávar. Hrauntröðin er að mestu heil ofan Bláfjallavegar og norðan Krýsuvíkurvegar, en sunnan vegarins skammt frá upptökunum hefur henni verið raskað verulega. Á sama tíma og þetta gerðist runnu miklir hrauntaumar úr gígaröðinni til norðvesturs utan í Dyngjurana og myndaði Afstapahraun og til suðurs úr gígaröð utan í austanverðum Núpshlíðarhálsi og myndaði Ögmundarhraun.
Slétt Hellnahraunið norðan Kapelluhrauns að vestan er ekki eitt hraun heldur a.m.k. tvö; Hellnahraun eldra (Skúlatúnshraun) er slétt helluhraun og er talið hafa runnið fyrir 2000 árum. Það kom úr Brennisteinsfjallakerfinu, líklega frá Stórabolla í Grindaskörðum og stíflaði meðal annars Hvaleyrarvatn. Hraunið myndar ströndina milli Straumsvíkur og Hvaleyrarholts. Hellnahraun yngra kemur eins og Hellnahraunið eldra úr Brennisteinsfjallakerfinu og er talið hafa runnið fyrir 1000 árum. Hraunið kom frá Tvíbollum í Grindaskörðum og er sléttara og þynnra. Haukahúsið stendur á þessu hrauni. Þetta hraun hefur valdið því að Ástjörnin varð til.
Námuraskið við RauðhólÓbrinnishólahraunið rann hins vegar um 190 árum f.Kr. – um vorið. Það er blandhraun, en Kapelluhraunið er að mestu úfið apalhraun, nú þakið hraungambra.
Þess má geta að Kristintökuhraunið er frá svipuðum tíma og Hellnahraunið yngra og úr sömu hrinu. Hraunið sem álverið við Straumsvík stendur á Kapelluhrauni, eða Nýjahraun, og er yngsta hraunið á svæðinu í kringum Hafnarfjörð. Kapellunafngiftin kom til vegna bænahúss, sem reist var í hrauninu við gömlu Alfaraleiðina yfir Brunann, sennilega á 15. eða 16. öld. Staðurinn kom við sögu eftirmála af aftöku Jóns Arasonar, Hólabiskups, í Skálholti árið 1551 er sótt var að gerningsmönnunum í Kirkjubóli á Rosmhvalanesi og þeir handsamaðir og síðan stjaksettir við kapelluna – öðrum til viðvörunar. Þannig má segja að Rauðhóll hafi með sæmilegu sanni fætt af sér tilefni þeirra afleiðinga, sem síðar urðu – sögulega séð.
Árið 1950 rannsakaði Kristján Eldjárn kapellu á nálægum slóðum og fannst þar m.a. lítið líkneski af heilagri Barböru sem er verndardýrlingur ferðamanna. Hún var góð til áheita gegn hvers konar eldsgangi. Einnig var hún verndardýrlingur stórskotaliðsmanna, slökkviliðs- manna, námumanna, verkfræðinga og jarðfræðinga. Vuið rannsóknina kom í ljós hlaðið ferkantað hús, sem hafði verið reft, með dyr mót vestri. Hann hafði grafið upp samskonar bænahús á Hraunssandi rétt við Ísólfsskálaveg austan við Grindavík. Það hús var verpt sandi að lokinni rannsókn, en tóftin í Vinna við álverið fyrir 1970Kapelluhrauni, var skilin eftir óvarin, enda inni í miðju hrauni við gamla aflagða þjóðleið. Þegar Keflavíkurvegurinn var endurlagður og ofanvarinn steypu á sjöunda áratug 20. aldar og álverið byggt á þremur árum og vígt í maí 1970 hafði öllu hinu sjónumræðna hraunssvæði ofan við verksmiðjuna verið raskað óþekkjanlega til lengri framtíðar litið. Eftir var skilin hraunleif, sem geymdi forna grunnmynd kapellunnar. Þjáðir af samviskubiti tóku nokkrir sig taki og ákváðu að endurhlaða bænahúsið á þeim stað, sem það hafði staðið. Svo óhöndullega vildi til að úr varð líkan fjárborgar – öllu óskylt við upprunann. Einhverra hluta vegna er þessi rúst á fornminjaskrá. Það eina, sem telja má bæði upprunanlegt og eðlilegt er gólfið og u.þ.b. 10 metra kafli af gömlu Alfaraleiðinni sunnan við mannvirkið.
Kapelluhraun er ákaflega fallegt, en úfið og mosagróið. Hörmung er þó að sjá hvernig karganum hefur verið rutt af yfirborði þess á stórum svæðum. Á og utan í lágum hraunhólum inni í hrauninu er mannvistarleifar á nokkrum stöðum, s.s. hlaðið byrgi á hraunhól, hlaðið skjól í hraunklofa og annað utan í hraunvegg. Minjar þessar eru skammt ofan við gömlu Alfaraleiðina milli Hafnarfjarðar og Útnesja. Þá má, ef vel er að gáð, enn sjá leifarkafla fyrsta akvegarins yfir Brunann nokkru austan Alfaraleiðarinnar.
Svo virðist sem kjörnir forsvarsmenn er ákvarða námuleyfi séu með öllu ómeðvitaðir um gildi þeirra til annarra nota. Mikil skammsýni virðist ráða afstöðu þeirra. Hvernig væri t.a.m. ásýnd landsins nú ef Rauðhóll undir Vatnsskarði eða Óröskuð eldborg á Reykjanesskaga - staðsetningunni er haldið leyndri til að koma í veg fyrir röskunEldborg undir Trölladyngju hefðu í dag verið ósnert? Í hvað munu ferðamenn framtíðarinnar leita eftir eina öld – þegar önnur lönd heimsins verða meira og minna þéttsetin, afrúnuð og rúin náttúrulegu landslagi? Svarið er augljóst; þeir munu þá sem fyrr leita að vísan til ósnortinnar náttúru, umhverfis sem mun geta útskýrt uppruna sköpunarverksins og vakið aðdáun neytandans. Myndbreytingar alls þess eftirsóknarverða, til lengri framtíðar litið, er enn til á Reykjanesskaganum – þrátt fyrir að sumar þeirra hafi þegar verið eyðilagðar.
Aftur að upphafinu. Rauðhóll er nú líkt og Eldborg undir Trölladyngju – minnismerki um gjalltökusvæði, sem af skammsýni ættu að verða öðrum áminning um hvar hin raunverulegu verðmæti liggja – til lengri framtíðar litið.
Rauðhóll er í umdæmi Hafnarfjarðar. Eins og umhverfið er nú væri tilvalið að staðsetja þarna malartypp, bæði með það fyrir augum að lagfæra ásýnd landsins og til að fylla upp í skurði og minnka þannig slysahættu, sem er veruleg. Handan Krýsuvíkurvegar blasir við enn ein afleiðing eyðileggingar á náttúruverðmætum – malarnáma á mest áberandi stað milli Vatnsskarðs og Markrakagils. (Á öðrum stað á vefsíðunni er fjallað um ákjósanlegri námusvæði – án röskunnar á varanlegum náttúruverðmætum.

Heimild m.a.
http://www.flensborg.is/sisi/hafnarfj/RAUDHOLL.HTM

Hraunhólar

Hraunhólar undir Vatnsskarði.

Fagridalur

Gengið var um undirlendi Lönguhlíðar að Fagradalsmúla og hann „sniðgenginn“. Ofan hans var haldið eftir utanverði brún hlíðarinnar að Mýgandagróf og síðan niður Kerlingargilið innanvert við Lönguhlíðarhornið. Frá vörðu á efstu brún Lönguhlíðar er æði víðsýnt um vestan- og norðanverðan Reykjanesskagann. Ekki er ólíkt um að litast þaðan og að horfa yfir loftmynd af svæðinu – nema hvað þarna er allt í þrívídd.

Kerlingarskarð

Þegar gengið var um undirlendið fyrrnefnda baðaði Langahlíðin sig ríkumlega í kvöldsólinni. Í þeirri mynd komu allir gilskorningar greinilega í ljós, en ekki síður hinar miklu hvanngrænu gróðurtorfur undir henni. Vel má sjá hvernig gróðureyðingin ofan Leirdalshöfða hefur smám saman sótt að torfunum. Einungis þær hörðustu, sem notið hafa hvað mestan áburð sauðfjárins fyrrum, hafa náð að þrauka áganginn. Grasið ræður þar ríkjum, en mosinn hefur sótt á í hlíðunum. Víða bera þó melarnir að handan vott um sigur eyðingaraflanna, sem stöðugt sækja á. Og ekki hefur mannskepnan látið sitt eftir liggja til liðsinnis eyðingaröflunum. Hún hefur ekið sem slík á jeppum og torfærutækjum um viðkvæmt svæðið svo víða má bæði sjá melarákir í mosa og vatnsrásir í annars sléttum grasflötum. Ber hvorutveggja merki um ótrúlegt virðingarleysi fyrir umhverfinu og náttúrunni, en er jafnframt bæði vottur og minnisvarði um algert hugsunarleysi viðkomandi. Vatn og vindar, frost og þurrkar hafa lagst á eitt við að útvíkka áganginn. Svæðið er því vont dæmi fyrir mannfólkið um það hvernig ekki á að haga sér.
Neðar er Tvíbolllahraunið, úfið apalhraun, klætt þykkum gamburmosa. Hraunið er ~950 ára. Yngra Hellnahraunið er undir því, en það kom úr sömu uppsprettum skömmu áður. Eins og nafnið gefur til kynna er þar um helluhraun að ræða.

Eldra Hellnahraunið, sem einnig kom úr gígum Grindarskarða er u.þ.b. 1000 árum eldra. Stundum er erfitt að sjá greinileg skil á hraununum, en með þolinmæði má þó gera það. Hellnahraunin ná alveg niður að sjó milli Hvaleyrar og Straums, en eldra hraunið mun hafa lokað af kvosir þær er nú mynda Hvaleyrarvatn og Ástjörn. Yngra hraunið bætti um betur.
Í kvöldsólinni, eftir rigningardag, sást vel hvernig grænn mosinn í Tvíbollahrauni og annars rembandi gróðurlandnemar í Hellnahraununum hafa reynt og náð að klæða hraunin, hver með sínu lagi. Fáir nýgræðingar eru enn sem komið er í Tvíbollahrauni, en margir í eldra Hellnahrauninu. Af því má sjá hvernig hraunin ná að gróa upp með tímanum. Í Almenningi má t.a.m. sjá hraun er runnu úr Hrútargjárdyngju fyrir u.þ.b. 5000 árum. Að var og er nú að nýju að mestu kjarri vaxið. Hins vegar er Nýjahraun (Kapelluhraun), sem rann árið 1151, enn nær eingöngu þakið mosa, líkt og Tvíbollahraunið.

Fagradalsmúli

Fjárgötur liggja með hlíðum Lönguhlíðar. Tvær slíkar liggja áfram upp Fagradalsmúlann að norðvestanverðu. Þær eru tiltölulega auðveldar uppgöngu. Leitað var eftir hugsanlegri leið Stakkavíkurbræðra á leið þeirra um Múlann til og frá Hafnarfirði, en erfitt var að ákvarða hann af nákvæmni. Þó má ætla að þeir hafi farið greiðfærustu leiðina upp og niður hlíðina, þ.e. utan við gilskorning, sem þar er.
Þegar upp á Fagradalsmúla er komið er ljóst að leiðin hefur verið greið ofan hans, allt að eldborgum vestan Kistu. Um slétt helluhraun er að ræða alla leiðina, mosalaust. Sunnan eldborganna tekur við mosahraun, en í því er stígur um tvo óbrennishólma. Enn neðar liggur stígur um slétt hraun að Nátthagaskarði eða með brúnum Stakkavíkurfjalls að Selstígnum neðan Stakkavíkursels. Mun þessi leið hafa verið um tveimur kukkustundum styttri en sú hefðbundna um Selvogsgötu eða Hlíðarveg. Þeir, sem gengið hafa þessa leið, geta staðfest það, enda hvergi um torfæru að fara, nema til endanna þar sem hæðirnar hafa tafið fyrir. Þessi leið var einkum farin að vetrarlagi og þá af kunnugum.

Þegar komið var upp á austurbrún Fagradalsmúla var haldið til austurs með ofanverðri brúninni. Í fjarska sást til vörðu. Frá henni var hið stórbrotnasta útsýni er fyrr var lýst. Sjá mátti þaðan hálsana, Sveifluháls (Austurháls) og Núpshlíðarháls (Vesturháls) frá upphafi til enda, Keili, Trölladyngju, Grindavíkurfjöllin sem og Rosmhvalanesið allt. Þaðan var hið ágætasta útsýni er gaf ásjáandanum „heilsusamlega“ heildarmynd af svæðinu, án þess að þurfa að horfa upp á eyðilegginguna neðanverða í smáatriðum. Þess vegna var fegurðin allsráðandi. Meira að segja skemmdarverk Hitaveitu eða Orkuveitu náðu ekki athyglinni við slíka yfirsýn.
Gengið var áfram til austurs uns komið var að Mýgandagróf. Um er að ræða sigdæld eða jökulsorfna geil í innanverða hlíðina. Ekki verður langs að bíða (nokkrar aldir kannski) uns dældin mun líta út líkt og aðrar geilir eða skörð í „núverandi“ Lönguhlíð. Einungis vantar herslumuninn til að framanvert haftið, milli þess og brúnarinnar, rofni og myndi myndarlegt gil til frambúðar. Geilin er bara það djúp að nægilegt magn vatns hefur enn ekki náð að safnast þar saman með tilheyrandi rofi. Mikil litadýrð er þarna í bökkum og börmum; svo margir óteljandi grænir litir að jafnvel Framsóknarflokkurinn sálumleitandi gæti fyllst stolti við slíka sjón – og er þá mikið sagt er umhverfi og náttúra eru annarsvegar.
Telja má víst að Gísli Sigurðsson, fyrrum lögregluvarðstjóri, göngugarpur, örnefnaskrásetjari og fróðleiksfíkill um Reykjanesskagann hafi gefið þessum stað nafn það sem á hann hefur fests. Lýsingarhöfundi er minnisstæð mynd af Gísla, sem tekinn var efst í Grindarskörðum, einmitt á þessari leið, þar sem hann sat á hraunhól kæddur hlírabol, stígvélum og alklæðnaði þar á millum. Þar virtist „landshöfðinginn“ vera í essinu sínu, enda vænlegheit bæði framundan og að baki.

Við Kistufell

Frá Mýgandagróf var haldið heldur innlendis uns komið var að vörðu ofan Kerlingargils. Neðan hennar og ofan gilsins er kvos, lituð hvanngrænum mosatóum. Þarna, efst í gilinu, mun hafa farist flugvél á seinni hluta 20. aldar. Hún var hlaðin bílavarahlutum og munu áhugasamir lengi vel lagt leið sína upp í gilið til að leita að hentugum varahlutum. Í dag má sjá þar enn einstaka álhlut og smábrak úr vélinni, einkum við neðanvert gilið.
Ofan frá séð er gilið tilkomumikið og fallegt útsýni er þaðan óneitanlega yfir fyrrnefnd hraun, Skúlatún, Helgafell, Kaldársel og höfuðborgarsvæðið allt. Niðurgangan er mun auðveldari en uppgangan, en FERLIR hefur nokkrum sinnum áður gengið um Kerlingargil á leið sinni upp í Kistufell í Brennisteinsfjöllum.
Þegar komið var neðar í gilið ber „gamlan“ hraunhól við sjónarrönd austan þess. Hóll þessi stendur bæði út og upp úr hlíðinni. Þótt fáfróðir hafi jafnan borið því við aðspurðir að litlir hólar eða hæðir gætu varla heitið mikið verðskuldar þessi hóll nafn með rentum. Hann fær hér með nafnið „Uppleggur“, enda ekki hjá því komist að fara upp með honum á leið um gilið.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 22 mín.

Langahlíð

Langahlíð.

Hraunsnes

Gengið var um fisbyrgin og minjarnar á Selatanga, skoðaðar sjóbúðirnar, Brunnurinn, Smiðjan, Skjólin, Dágon o.fl. Minnt var á Tanga-Tómas og rifjuð upp sagan af viðureign hans og Arnarfellsbónda. Síðan var gengið að refagildrunum ofan við Nótahelli, um Ketilinn í Katlahrauni og yfir í fjárbyrgi Vígdísarvallamanna (Ísólfsskálamanna).

Selatangar

Verkhús á Selatöngum.

Frá því var gengið í fjórðungssveig yfir að Vestari lestargötunni (Rekagötunni) frá Selatöngum yfir að Ísólfsskála. Erling Einarsson (Skálaafkomandi, sem var með í för) sagðist hafa heyrt að gatan hefði verið nefnd Selatangagata frá Ísólfsskála, en Ísólfsskálagata frá Selatöngum. Gatan er vörðuð þegar komið er upp úr Katlinum. Framundan er greinileg klofin varða. Síðan sést móta fyrir götunni uns komið er að Mölvík. Þá hverfur hún að mestu í sandi, en ef sýnilegum litlum vörðum er fylgt neðan við hraunkantinn kemur gatan fljótlega aftur í ljós. Hún heldur síðan áfram inn á hraunið og áfram áleiðis að Skála. En við hraunkantinn var beygt til vinstri að þessu sinni, niður í Hraunsnes. Þar eru fallegar bergmyndanir, klettadrangar og vatnsstorknir hraunveggir. Gengið var eftir ruddri götu til vesturs. Áður en komið var að enda hennar í vestanverðum hraunkantinum var enn beygt til vinstri, að hinum miklu þurrkgörðum og – byrgjum ofan við Gvendarklappir. Þar var fiskur verkaður vel fram á 20. öldina.
Kaffi og meðlæti var þegið á Ísólfsskála að lokinni göngu.
Því miður gekk skipulagið ekki alveg upp að þessu sinni. Áætlað hafði verið, auk landgöngunnar, hvalaganga og afturganga, en sú fyrrnefnda fór framhjá í kafi, þrátt fyrir þrotlausar æfingar, og sú síðarnefnda sofnaði í einu byrgjanna í góða veðrinu þannig að þátttakendur urðu ekki varir við hana að þessu sinni.
Veður var með ágætum – þægileg gjóla og sól.

Selatangar

Selatangar – uppdráttur ÓSÁ.

Hjallaborg

Bæirnir í Hjallahverfi standa undir Hjallahlíðinni (Kinninni) og út frá henni, og er Hjalli í miðju hverfinu. Hjallahverfi og Bakki kallast til samans Hjallatorfa, með sameiginleg landamerki útávið. Þar sem lönd jarðanna liggja mjög óreglulega, er erfitt að segja hvaða örnefni tilheyra hverri jörð.

Hjallaborg

Hjallaborg.

Gengið var frá Hjalla. Við kirkjustaðinn Hjalla er að sjálfsögðu kirkja; Hjallakirkja. Hún var byggð og vígð 1928 um haustið.
Katólskar kirkjur voru helgaðar Ólafi helga Noregskonungi. Hjallakirkja var útkirkja frá Arnarbæli og frá Hveragerði. Húsameistari var Þorleifur Eyjólfsson og yfirsmiður Kristinn Vigfússon. Kirkjan er steinsteypt, fyrsta steinsteypta kirkjan austanfjalls. Norðan undir kirkjugarðinum er lítið hesthús, sem heitir Granahesthús, um 10 m frá honum. Það var notað fyrir uppáhaldsreiðhesta Hjallabóndans. Stallurinn í því er ein hella, um 20 sm þykk, fullur metri á hæð og um 2 metrar á lengd, nær inn í báða hliðarveggi hússins. Sögn er, að kona sem bjó á Hjalla, hafi reitt hellu þessa fyrir framan sig á hestinum Grana ofan af Hjallafjalli. Aldrei mátti gera við Granahesthús. Fórust skepnur voveiflega, væri það gert. Nú er Granahesthús hrunið en veggir standa að mestu. Túnið norður frá Granahesthúsi upp að Þorgrímsstaðatúni heitir Granaflöt. Ofan við það liggur Þorgrímsstaðastígur (Krikastígur)upp stallinn.
Bæir á Hjallatorfunni voru t.a.m. Krókur (Hjalla-Krókur), norðaustur frá Hjalla. Móakot var austan við Hjalla en sunnan við Krók. Gerðakot er sunnan þjóðvegarins og austan lækjarins. Lækur er vestan Bæjarlækjar, vestur frá Hjalla. Austast í Lækjartúni var Rjómabú um allmörg ár á fyrsta fjórðungi 20. aldar. Það var venjulega nefnt Hjallarjómabú. Það stóð nákvæmlega þar sem nú er vegurinn, brúin yfir lækinn.
Goðhóll hét lítill hóll, grasigróinn, vestan Lækjartúns, ofan við gömlu götuna. Hann var allur tekinn sem efni í veginn. Bjarnastaðir eru upp við Hjallafjall þar sem það er hæst, norður frá Læk.

Lækjarborg

Lækjarborg.

Upp frá Enni liggur gata í sneiðingum upp á brúnina. Hún heitir Krikastígur. Ofan Krikastígs, uppi á brúninni er allstórt móabarð sem heitir Göngumói. Annar stígur, Bjarnastaðastígur liggur upp á brúnina vestan túnsins. Frá Stekkatúni liggur gata upp brekkuna og vestur með klettunum í fjallsbrúninni, en beygir þá upp á brún, gegnum lægð sem heitir Lágaskarð, en neðantil heitir gatan Kúastígur. Það er hægasta gatan upp á fjallsbrúnina, og sú eina sem hestfær var.
Þorgrímsstaðir stóðu austur frá Bjarnastöðum, fyrir botni Bæjarlækjar. Þar í brekkurótunum, austan og ofan bæjarins er húslaga steinn sem heitir Álfakirkja. Neðan við hana eru þrjár þúfur sem heita Biskupaleiði. Þar hvíla huldufólksbiskupar. Aldrei má slá Biskupaleiðin né slétta þau út.
Gengið var upp svonefnt Þorgrímsstaðagil. Rudd gata liggur upp Kinnina og heitir hún Kinnarstígur. Vestan hans er lítill hellisskúti; Baunahellir. Þar ræktuðu ungir menn baunir á öðrum tug 20. aldar. Nú eru allar byggingar afmáðar á Þorgrímsstöðum, og túnum skipt milli Gerðakots og Bjarnastaða.
Ofar, á Hjallafjalli (Neðrafjalli) er Langimói. Hjallaborg er á Neðrafjalli. Ofar er Efrafjall. Þarna skiptast á melar og móabörð, og frekar fátt um örnefni. Upp frá Króksstíg eru Suðurferðarmóar upp að Efrafjalli, fyrir vestan Hest. Þar eru grasbrekkur og lautir í brúninni fyrir vestan Leynira (þeir eru taldir með Bakka), og heita Suðurferðabrekka. Gatan þar upp brekkuna kallast Kálberstígur. Þannig var nafnið víst oftast borið fram, en mun eiga að vera Kálfsbergsstígur, kenndur við Kálfsberg, lítinn klettastapa þar í brúninni.
Neðrafjall hefur nú orðið gróðureyðingunni að bráð, einkum vestari hluti þess. Nú er reynt að planta þar skógi á stóru svæði ofan við Hjallabæina.

Hraunssel

Selsstígur Hraunssels.

Nafnið Kálfsberg er tekið eftir riti Hálfdánar Jónssonar lögréttumanns frá 1703. Það getur ekki átt við nokkurn annan stað en klett þennan eða stapa. Vestan við Suðurferðabrekku. er Brattabrekka, með kletta í brún og hærri en brúnin austar og vestar. Rétt neðan við vesturenda Bröttubrekku er dálítil hæð, sem heitir Háaleiti. Þar hafði Jón Helgason bóndi á Hjalla, síðar kaupmaður í Reykjavík, sauðahús fram yfir aldamótin 1900. Miklar hleðslur eru í rústunum (stundum nefndar Hjallaborg). Stórt gerði er norðaustan við það. Veggir hafa verið tvíhlaðnir.
Ofar (norðnorðaustar), í Lækjarmóum er Hjallasel. Þar eru rústir sels og stekks. Selsleifar eru og enn norðvestar og ofar í heiðinni (sjá aðra FERLIRslýsingu).
Rétt vestan við Lækjarmóa er lítil hæð sem heitir Guðnýjarhæð. Þar er sagt að Guðný smali hafi alið barn. Suðaustan hennar sést Lækjarborgin vel í gróðureyddu landslaginu.
Fjallsendaborg er vestar, undir Kerlingabergi. Selstígur liggur upp með því vestanverðu, áleiðis að Hraunseli, sem þar er í hraunkantinum skammt norðaustan við Raufarhólshelli.

Hjallaborg

Hjallaborg – uppdráttur ÓSÁ.

Spölkorn fyrir vestan Borgarstíg er stór varða uppi á brúninni. Heitir hún Sólarstígsvarða. Aðeins vestan við hana er krókótt, en áberandi, kindagata upp á brúnina. Hún heitir Sólarstígur. Neðan undir Sólarstígsvörðu er stór, stakur steinn niðri á jafnsléttu. Hann heitir Sólarsteinn og er landamerkjahornmark milli Hjallatorfu og Grímslækja.
Skammt fyrir vestan Sólarstíg er gata upp á brúnina, framan í nefi nokkru, og heitir Grímslækjarstígur. Í stórum, algrónum hvammi litlu vestar er enn gata og heitir Hraunsstígur. Skammt fyrir vestan Hraunsstíg er gil. Þar kemur Bolasteinsrás fram af brúninni. Á grænni flöt vestan við rásina er stór steinn sem heitir Bolasteinn. Þar segir sagan að kona hafi bjargast upp undan mannýgum bola. Og þegar boli vildi ekki hafa sig burt, gat hún hellt úr nálhúsi sínu upp í hann. Þá fór hann að lina aðsóknina. Upp af Bolasteini er grasbrekka, og hellisskúti ofan hennar, en klettar í brúninni. Brekkan heitir Hellisbrekka. Framan í nefi vestan við Hellisbrekku er gata upp á brúnina. Hún heitir Steinkustígur. Þar blæs af, svo hægt er að reka þar fé, þó aðrar götur séu ófærar af snjó. Gata liggur út með hlíðinni frá Hjallahverfi út á Hlíðarbæi. Hún heitir Tíðagata (stikuð með rauðum hælum), og er í mörkum Hjallatorfu út að Hlíðarbæjalandi.
Gengið var niður af Neðrafjalli um Hraunsstíg ofan við Bolastein og Tíðargötunni síðan fylgt að upphafsstað.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 2 mín.

Hjallasel

Hjallasel – uppdráttur ÓSÁ.

Fagridalur

Orðrómurinn átti við rök að styðjast – það eru tóftir í Fagradal eftir allt saman.

Fagridalur

Tóft í Fagradal.

Haldið var á skyrtunni inn Fagradal, yfir ás vestan hans og síðan niður í dalinn þar sem var vel gróinn botninn var grandskoðaður. Gamla þjóðleiðin til Krýsuvíkur liggur þvert yfir ofanverðan botninn, skammt neðan við neðstu hraunbrúnina er fyllir ofan- og vestanverðan dalinn og síðan upp með henni austanverðri og upp úr dalnum austan við Vatnshlíðarhornið.
Dalurinn er það gróinn að ótrúlegt væri ef hann hefði ekki verið nýttur fyrr á öldum. Misgamlar og umfangsmiklar skriður hafa hlaupið niður brattar hlíðarnar, en gróðurtorfurnar standa að mestu óraskaðar þrátt fyrir mikla landeyðingu framan við dalinn og í dölunum í kring, s.s. í Breiðdal, Slysadal og Leirdal. Stórt vatn er framan við Fagradalsmúla, en það þornar í þurrkatíð á sumrum. Annað stórt vatn er sunnan við Leirdalshnúk, en norðan við það, sunnan undir hnúknum, vottar fyrir fornri tótt, sennilega garði. Ekkert vatn var í Breiðdalnum svo vel mátti sjá gróðurtorfurnar í honum innan um leirflögin. Í norðanverðum Breiðdalnum eru hleðslur sem virðast hafa verið hlaðnir garðar, en eru nú að mestu jarðlægir. Hvorugir staðirnir hafa verið skráðir sem slíkir og tóftirnar því enn á fárra vitorði.

Fagridalur

Hrútur í Fagradal.

Gömlu þjóðleiðinni var fylgt yfir Fagradalinn. Í stað þess að fylgja jeppaslóða um dalinn var gömlu leiðinni fylgt norður með honum austanverðum. Löngu liðinn hrútur liggur utan leiðar, sbr. meðfylgjandi mynd. Framundan virtist vera tóft á hól. Þegar betur var að gáð kom í ljós að tóftirnar gætu verið tvær. Í raun er þetta eðlilegasti staðurinn til að byggja t.d. sel ef dalurinn hefur verið nýttur til slíkra nota. Meðfærilegt grjót hafði greinilega verið fært úr nálægri skriðu. Mótar fyrir húsi, eða húsum á hólnum. Þrátt fyrir leit var ekki önnur mannvirki að sjá þarna lálægt. Vatnið er þó í seilingarfjarlægð. Ofan við það er vel gróið. Stígnum var fylgt áfram austur með hlíðinni ofan vatnsins uns sást niður í Tvíbollahraun. Þaðan er gott útsýni yfir í Breiðdal, Leirdal og allt að Helgafelli. Þrátt fyrir landeyðinguna, sem nú er orðin, var þarna fagurt yfir að líta.
Gengið var niður að vatninu og síðan áfram niður í Breiðdal, vestur með Breiðdalshöfða og að upphafsstað.
Gangan tók u.þ.b. 1 og ½ klst. Veður var frábært – bjart, hiti og lygna.

Fagridalur

Tóftir í Fagradal.

 

FERLIR fær margar póstsendingar; ábendingar og fyrirspurnir, bæði frá áhugafólki um minjar og sögu sem og öðrum er einfaldlega vilja njóta alls fróðleiksins (texta og ljósmynda) á vefsíðunni.

FERLIR

FERLIR – húfa, sem þaulsetnir þátttakendur fengu sem viðurkenningarvott.

Hér er ein ágæt ábending er lítur að tæknihliðinni: „Reynir heiti ég og hef nú nokkrum sinnum sent þér póst í leit að upplýsingum. Ég les nú flest allar færslurnar og langar að koma með smá innskot. Myndirnar sem að fylgja textunum eru oft ansi áhugaverðar og langar manni að skoða þær nánar. Það væri gaman að geta smellt á myndirnar til að geta stækkað þær svolítið til að geta séð þær nánar. Bara svona smá vinsamleg ábending….“
FERLIR sendi vefþjónustufulltrúanum ábendinguna með eftirfarandi fyrirspurn: „Spurning hvort þetta er eitthvað, sem hægt er að framkvæma?“
Svar kom um hæl: „Þetta er ekkert mál, tekur okkur um 1 tíma í vinnu að gera þetta.“
Niðurstaðan: Ef smellt er á myndina hér að ofan má sjá árangurinn. Einnig eru myndasíður (Myndir) búnar þessum möguleika.

Rebbi

Myndanir í Rebba.

Arnarfell

Kvikmyndataka „Flags of our fathers“ hófst við Arnarfell föstudaginn 25. ágúst (2005). Þá var búið að svíða gróður í norðausturlíð fellsins með samþykki Hafnarfjarðarbæjar og Landgræðslu ríkisins.

Stóra-Eldborg

FERLIRsfélgar – Stóra-Eldborg að baki.

Ætlunin var m.a. að ganga um svæðið, en auk þess að skoða vörðurnar við Ræningjastíginn, Arnarfellsréttina, Trygghólana, Bleiksmýrartjörnina, Vegghamra, Stórahver, Lambafellin og vestanvert Kleifarvatn að Syðristapa.
Þegar leggja átti af stað við Vestari-Læk sunnan við Ræningjahól kom að maður á bíl, sem kvaðst vera að vakta svæðið vegna kvikmyndatökunnar. Engum væri heimilt að fara um svæðið meðan á tökum stæði. Maðurinn virtist meina það sem hann sagði.
FERLIR kynnti sig til sögunnar. Vörðurinn varð skrítinn í framan og sagði: „Þið megið alls ekki ganga um svæðið“.
„En við munum ganga um svæðið. Hvað ætlar þú að gera í því?“, var svarið.
„Ha, ekkert, held ég,“ svaraði vörðurinn. Honum leyst greinilega ekkert á að hindra göngu hópsins.“ Hann tók upp síma og hringdi. Félagi hans birtist von bráðar. Saman stóðu þeir og horfðu á eftir hópnum liðast suður heiðina.

Arnarfellsrétt

Arnarfellsrétt í Krýsuvík.

Staðnæmst var við vörðu suðaustan við Bæjarfell. Önnur varða var skammt sunnar. Enn önnur varða var allnokkru sunnar. Milli þeirra er Arnarfellsréttin, heilleg að mestu. Réttin var aðalskilaréttin á svæðinu fyrir 1950. Fram að þeim tíma réttuðu t.d. Grindvíkingar þar, en eftirleiðis í Þórkötlustaðarétt. Síðan færðist skilaréttin yfir í Eldborgarrétt skammt austar.
Gengið var niður að Trygghólum og þar vent til austurs og síðan til norðurs. Upp í gegnum heiðina ganga a.m.k. tveir grónir dalir, að hluta. Annar er þó betur gróinn. Hann kemur að sunnanverðri Bleiksmýrartjörn (Arnarfellsvatni). Þarna var fyrrum áningarstaður skreiðarlestarmanna á leið að og úr verum. Enn markar fyrir götum í námunda við vatnið. Þá markar fyrir tóftum vestan við vatnið.

Arnarfell

Varða við þjóðleið skammt frá Arnarfelli.

Þá var gengið til norðurs um austurenda Arnarfells. Þar var greinilega mikið í gangi. Dátar með alvæpni stóðu í litlum hópum, tökulið, aðstoðarlið, þjónustulið og liðamótalið gekk fram og til baka um svæðið. Smíðuð höfðu verið byrgi í fjallið og kaðall stengdur á brúnum. Suðausturhlíð fjallsins hafði verið klaufalega sviðin með gaslampa. Fyrir göngufólkinu virtist fólkið þarna vera sem lítil börn í tilbúnum ímyndunarleik. En mikið virtist til haft og mörgu til tjaldað. Skammt norðar, við þjóðvegsbrúnina, voru ótal hjólhýsi, tjöld og annar búnaður; þ.e. mikið umleikis fyrir lítið og margt af því ómerkilegt í annars merkilegu umhverfinu.
Enginn virtist gefa göngufólkinu gaum, þrátt fyrir yfirlýsta gæslu. Bæði innendir og erlendir urðu á vegi hópsins. (Myndir bíða birtingar). Nýjum bugðóttum vegslóða var fylgt til norðurs, haldið yfir þjóðveginn og áfram áleiðis upp í Vegghamra.
Fallegur rauðamölsgúlpur er ofan vegarins. Rauðamölshólar eru vstan við Vegghamrana. Þegar komið var yfir þá blasti við leikmynd. Þarna var tekin ein af fyrstu íslensku leiknu kvikmyndunum er gerðist á Tunglinu. Umhverfið er einstakt og vonandi verður það aldrei selt til eyðileggingar líkt og hluti Arnarfellsins.

Gullbringa

Gullbringa.

Ofar taka við sanddalir. Vestan þeirra eru Austurengar og Austurnegjahver, stundum nefndur Stórihver. Hann er einn stærsti vatnshver landsins. Stíg var fylgt frá honum áleiðis að Hverahlíð austan Lambafellanna. Frá Hverahlíð, þar sem fyrir er skáli Hraunbúa, var gengið vestur með sunnanverðu Kleifarvatni og síðan norður með því vestanverðu, yfir svonefnt Nýjaland. Áðru hefur verið sagt frá skrímsli við vatnið nálægt Lambatanga. Vestan hans má sjá tóftir Kaldrana, eins elsta bæjar í Krýsuvík. Þar eru nú friðlýstar tóftir.
Strönd vatnsins var fylgt yfir á Syðristapa, þar sem göngunni lauk.
Aðrennsli í vatnið á yfirborði er nokkrir smá lækir að sunnanverðu. Auk þess rennur úr hlíðunum í kring í rigningu og er snjó leysir á vorin. Kleifarvatn er afrennslislaust á yfirborði og gert hefur verið ráð fyrir að vatnsborðið falli saman við grunnvatnsflötinn í umhverfinu og sé háð sömu sveiflum og hann. Kleifarvatn hefur verið notað sem úrkomumælir á Suðvesturlandi.
Kleifarvatn er þekkt fyrir að vaxa og minnka til skiptis og er munur hæsta flóðfars og lægstu vatnshæðar um 4 metrar. Vatnsborðið sveiflast með úrkomu- og þurrkatímabilum en þó hafa orðið sneggri breytingar samhliða jarðskjálftum t.d. 1663 og 2000.

Gullbringa

Gullbringa.

Kleifarvatn liggur í djúpri dæld milli tveggja móbergshryggja í sprungustefnu landsins NA-SV Við vatnsborðshæð 140 m y.s. er meðaldýpi þess 29,1 m, flatarmál Kleifarvatns 10 km2 og rúmmál þess er 290 Gl. Nú er vatnsborðshæðin 136,3 m y.s., flatarmálið er um 8 km2 og rúmmál þess hefur minnkað niður í um 255 Gl.
Kleifarvatn er þriðja stærsta stöðuvatn á Suðurlandi,um 10 km2 og eitt af dýpstu vötnum landsins 97m. Fyrir einhverjum árum síðan voru silungsseiði látin í vatnið og dafnar fiskurinn ágætlega í því.
Vatnsbotn Kleifarvatns hefur þéttst í áranna rás með leir og öðru seti. Lekt vatnsbotnsins var því minni en jarðlaganna í kring og því stóð vatnsborðið hærra en grunnvatnið. Þegar sprungur opnast í botni Kleifarvatns þá breytist lekt þ.e. viðnám jarðlaganna og vatnið hripar niður um sprungurnar. Smám saman nær Kleifarvatn á ný jafnvægi við grunnvatnið í kring. Hversu lengi og hversu mikið mun það halda áfram að lækka áður en jafnvægi næst á ný?
Kleifarvatn er stærsta vatnið á Reykjanesskaga. Það hefur ekkert frárennsli. Silungsseiði af bleikjustofni úr Hlíðarvatni í Selvogi voru sett í vatnið á sjötta áratugnum og þau hafa dafnað vel, sem fyrr sagði.

Bæjarfellsrétt.

Krýsuvíkurrétt (Bæjarfellsrétt) í Krýsuvík.

Gullbringusýsla er fyrst nefnd í skjali frá árinu 1535 og náði hún yfir hluta hins forna Kjalarnesþings. Gullbringa er sýnd á herforingjaráðskortum sem hæðarbunga við suðaustanvert Kleifarvatn (308 m). Stefán Stefánsson sem kallaður var „gæd“ (af „guide“) taldi það þó hæpið, þar sem kunnugir menn á þessum slóðum hefðu jafnan kallað lyngbrekku þá sem er vestan í Vatnshlíðinni Gullbringu og nær hún niður undir austurströnd vatnsins.
Vilhjálmur Hinrik Ívarsson í Merkinesi sagði að grasbrekkur frá Hlíðarhorni vestra og austur að Hvannahrauni væru nefndar Gullbringur (Örnefnaskrá í Örnefnastofnun).
Jón Ólafsson úr Grunnavík taldi að nafnið Gullbringa nærri Geitahlíð væri frá Dönum komið sem hafi talið það fallegt og viðeigandi þar sem staðurinn lá nærri sýslumörkum við Árnessýslu. (Kristian Kålund: Íslenzkir sögustaðir I:51).

Gullbringa

Gullbringa að baki.

Álitið er að staðurinn hafi fyrrum verið blómlegri en síðar hefur orðið vegna uppblásturs.
Ekki virðast beinar heimildir um þinghald í eða við Gullbringu og er því margt á huldu um þessa nafngift. Gullbringur eru í Mosfellsheiði, en sýslunafnið getur ekki átt við þær þar sem þær eru ekki í sýslunni. Örnefnið Gullbringa eða -bringur er til víðar á landinu og virðist merkingin vera ‘gróðursælt land’.
Ævintýranleg ferð. Veður var frábært, lygna og sól. (4:04)

Heimild m.a.:
-http://visindavefur.hi.is/
-http://www.os.is/vatnam/kleifarvatn/kleifjfi/frame.htm

Arnarfell

Byssubyrgi í Arnarfelli.

Maístjarnan
Ætlunin var að ganga inn á hellasvæðið norðvestan í Hrútagjárdyngju og skoða Steinbogahelli (Hellinn eina), Húshelli og Maístjörnuna. Skv. upplýsingum Björns Hróarssonar, hellafræðings, eru a.m.k. þrjú op á síðastnefnda hellinum. Innviðir þess hluta, sem ekki hefur verið skoðaður fyrr, ku gefa hinum lítt eftir – og er þá mikið sagt.
Í HúshelliÍ stórvirkinu „Íslenskir hellar“ fjallar Björn Hróarsson m.a. um Maístjörnuna sem og aðra hella á Hrútagjárdyngjusvæðinu: „Hrútagjárdyngja (215 m.y.s.) er mikil dyngja með hvirfil sunnan Sandfells, sunnan við Fjallið eina. Umhverfis hið eiginlega gígsvæði er mikil gjá sem nefnist Hrútagjá og eftir henni var dyngjan nefnd Hrútagjárdyngja. Hraunið er um 80 ferkílómetrar og umfangið er 2-3 rúmkílómetrar. Hraun frá dyngjunni hafa runnið að Hvaleyrarholti, vestur að Vatnsleysuvík, austur að Undirhlíðum og niður í Sandfellsklofa (Jón Jónsson, 1978). Til suðurs hafa einnig runnið hraun frá dyngjunni, nú að mestu þakin yngri hraunum.
Eldvarpið er sérstakt og hafa margir velt vöngum yfir myndunarsögunni.“
Nokkrir hellar eru við norðanverða dyngjuna. Má þar t.d. nefna Hellirinn eina (Steinbogahelli), Litla-Rauð, Ranann, Húshelli, Maístjörnuna, Neyðarútgöngudyrahelli og Híðið. Í Híðunu er að finna stjórfenglegustu dropsteina landsins. Auk þessa er þarna á hellasvæðinu t.d. ónefndur u.þ.b. 500 metra langur „stórskemmtilegur“ hraunhellir.
Augað í MaístjörnunniUm Hellinn eina segir Björn m.a.: „Hellirinn gengur inn frá stóru niðurfalli eða hrauntröð og er  steinbogi yfir niðurfalið. Hellirinn sem er um 170 metra langur er manngengur lengst af en verulega lækkar til lofts innst. Sérkennilegir spenar eru við hellsimunnann og þar skammt innan við eru dropsteinar og hraunstrá. Í hellinum eru þó hvergi margir né stórir dropsteinar en töluvert um hraunstrá. Nokkrar miklar sprungur skerast þvert á hellinn og þær stærstu um 30 cm á breidd og mynda jafnvel litla afhella. Aðeins hefur hrunið við sprungurnar sem annars hafa skemmt hellinn furðu lítið. ekki er vitað um annan hraunrásarhelli hér á landi sem er skorinn af jafn mörgum og stórum sprungum. Hraunspýja hefur flætt inn í hellinn eftir myndun hans og storknun hins upprunalega gólfs. Nálægt miðjum hellinum endar þessi pýja í hraunkanti eða tungu. Slík fyrirbæri eru sjáldgæf í hraunhellum. Innarlega í Hellinum eina eru falleg bogadreginn göng. Þau eru skrýdd mikilli litadýrð.“
Dropsteinar í MaístjörnunniUm Maístjörnuna segir Björn: „Maístjörnuna fundur þeir Júlíus Guðmundsson og Einar Júlíusson 1. maí 1991. Hellirinn sem er um 480 metra langur er mjög margskiptur og teygir arma sína víða. Nokkuð er um dropsteina og hraunstrá. Skraut þetta er ekki stórvaxið ern er á víð og dreif um hellinn. Illa er innangengt í efri hluta hellisins en þangað liggja þröng göng inn úr hrauntröð. Þar er nokkuð um skraut en hellirinn margskiptur og þar kvíslast fjölmargar minni rásir sem ævintýranlegt er að fara um. Erfitt er að lýsa Maístjörnunni með orðum… Um er að ræða einn af skemmtilegri hellum á Íslandi.“
Þegar gengið var um Hrútagjárdyngjuna og hrauntröðinni miklu fylgt inn á hellasvæðið mátti lesa úr landslaginu þá ógnarkrafta er þarna hafa ráðið ríkjum fyrir u.þ.b. 4500 árum, þ.e. alllöngu fyrir okkar daga. Gígopið er nokkru sunnar. Svo er að sjá sem upphleypt dyngjuskálin hafi geymt kvikufóðrið um skeið, en síðan hafi það náð að bræða sér leið úr úr henni til norðurs. Gífurlegt kvikumagn hefur runnið úr skálinni og þá m.a. myndað hraunrásir er geyma fyrrnefnda hella – neðanjarðarár hraunkvikunnar. Hluti þunnfljótandi kvikunnar hefur síðan runnið til baka að gígopinu þegar gosinu létti og fyllt það að mestu. Þó má vel sjá móta fyrir því ef vel er að gáð.
Byrjað var á því að skoða Steinbogahelli. Inngangurinn er tilkomumikill og myndrænn. Þar sem steinboginn liggur yfir rásina eru gróningar undir. Auðvelt var að fylgja rásinni niður og síða inn undir yfirborðið. Við tók klöngur yfir hrun og fimurfærin fótabrögð. Innferðin var þó vel þess virði því alltaf bar eitthvað áhugavert fyrir augu.

Maístjarnan

Í Húshelli var gengið að „húsinu“ og það ljósmyndað á bak og fyrir. Hraunbólan og tengdar rásir höfðu svo oft verið skoðaðar og metnar að ekki var á bætandi. Fyrir nýinnkomna er „bólan“ þó alltaf jafn áhugaverð, ekki síst „forsöguleg“ beinin, sem hún hefur að geyma.
Áður en haldið var niður í meginop Maístjörnunnar var skoðað niður í tvö önnur nálæg op, suðaustan og norðaustan við það. Fyrrnefnda opið er í jarðfalli. Þegar komið var niður gafst einungis lítið svigrúm til athafna. Síðarnefnda opið er í gróinni hraunrás. Þar inni bíður góðgæti þeim er vilja og nenna að leita. Eftir að hafa fetað rásina inn var komið að þverrás. Þar fyrir innan lá rás til beggja handa. Hún greinist svo í aðrar fleiri. Rásirnar eru þröngar og erfitt að ljósmynda þar nema við kjöraðstæður (þurrt og afslappað).
Þá var haldið inn í meginhluta Maístjörnunnar. Þegar komið var niður í torfundið jarðfallið og Augað barið augum var um tvær leiðir að velja (reyndar þrjár því hægt var að fara til baka).
Þegar inn í rásina innan við Augað var komið var stefnan tekin til vinstri, í gegnum dropsteinabreiðu. Feta þurfti rásina varlega því þarna var allt að mestu óskemmt. Um var að ræða eina myndrænustu dropsteinabreiðu er um getur (ef frá eru taldar slíkar í Híðinu þarna skammt frá og í Árnahelli í Ölfusi).

Náttúruhraunmyndun í Maístjörnu

Þegar inn í þverrás var komið tók við silfurleit ásýnd á veggjum. Um er að ræða útfellingar liðinna árþúsunda, sem ástæðulaust var að fara höndum um. Á gólfi var rauðleit hraunspýja. Þessi hluti hellisins greinist í nokkrar stuttar fallegar rásir. Fyrir ókunnuga mætti ætla að þarna væri völundarhús, en kunnugir feta þær af ákveðni. Ef skoðað er í gólf og veggi má víða sjá fallegar gosnýmyndanir með miklu litskrúði.
Haldið var til baka um dropsteinabreiðuna og framhjá Auganu. Þá greindist rásin í tvennt. Sú vinstri virtist áhugaverðari, en hún þrengdist fljótlega og varð ófær. Sú hægri leiddi leitendur áfram niður í rauðleitan hraunsal. Miðja vegu var farið yfir lægri þverrás. Þegar komið var til baka var þverrásin fetuð til vinstri. Rásin lækkaði smám saman og loks kom að því að leggjast varð á fjóra fætur og skríða þurfti áfram á hvössum harðsteinsnibbum.
Erfiðið og áþjánin skilaði þóÂ tilætluðum árangri því loks var komist að upphafsreit – í jarðfallinu utan við Augað.
Frábært veður. Ferðin tók 3 klst og 3 mín.

Heimild m.a.:
-Björn Hróarsson – Íslenskir hellar I – 2006.

Maístjarnan

Saltfisksetrið

Saltfisksetur Íslands er staðsett í Grindavík, í einungis 32 mín.akstri frá höfuðborgarsvæðinu (21 mín frá alþjóðaflugvellinum í Sandgerði) – rétt bakhandan Bláa lónsins.

SaltfisksetriðÞegar leið á 18. öldina, og þilskip tóku að leysa áraskipin af hólmi, varð saltfiskur aðalútflutningsvara Íslendinga. Fram að því höfðu vaðmál og skreið verið undirstaða utanríkisverslunar. Með tilkomu togaranna varð saltfiskverkun í raun að stóriðju og saltfiskur hefur æ síðan skipt verulegu máli fyrir afkomu þjóðarbúsins. Grindvíkingar hafa löngu verið drjúgir við að saltfiskinn og sýningum sögu verkunar og sölu á salfiski og þýðingu hans fyrir þjóðarbúið í gegn um tíðina á því vel heima í þessu ágæta sjávarplássi við suðurströndina.

Sýningin ætti að geta orðið forvitnileg fyrir erlenda ferðamenn, fróðleg fyrir skólafólk, sem getur hér kynnt sér mikilvægasta atvinnuveginn, og ánægjuleg fyrir hinn almenna Íslending sem fer í helgarbíltúr (eða bara frídagabíltúr) með fjölskylduna. Hún ætti einnig að geta orðið liður í að draga upp og efla sjálfsmynd bæjarins og fólksins sem þar býr.

Aðstæður hafa hagað því þannig að ekkert byggðasafn er staðsett í Grindavík. Saltfisksetrið kemur því stað safns og mun án efa verða miðpunktur margvíslegrar menningarstarfsemi heimamanna og að auki aðdráttarafl og upplýsingarmiðstöð fyrir ferðamenn sem sækja staðinn heim.

Í SaltfisketrinuGerður var verksamningur milli Ístaks h/f og Saltfisksetursins um byggingu sýningarskála. Sýningarskálinn er 650 m2 að grunnfleti og sýningarsvæði á tveimur gólfum alls 510 m2. Gert er ráð fyrir að húsið verði tilbúið í September 2002 og kostnaðarverð samkvæmt verksamningi er um 106,5 milljónir króna. Grindavíkurbær mun verða leiðandi aðili við framkvæmd verkefnisins í samstarfi við stofnendur Saltfisksetursins og aðra styrktaraðila. Hönnuðir sýningarskálans eru Yrki s/f arkitektar Ásdís H. Ágústdóttir og Sólveig Berg Björnsdóttir.

Í framhaldi að þessu var gerður samningur við Björn G. Björnsson sýningarhönnuð um hönnun og uppsetningu sýningarinnar. Saga saltfisksins verður sögð með stórum myndum, hnitmiðuðum texta og fáum en lýsandi munum. Gínur koma í staðinn fyrir fólk í leikmyndinni. Tæknin kemur við sögu þar sem notast er við sjónvörp á gólfum, sýningartjald á vegg, 32” sjónvarp og DVD spilarar tengdir við. Mörkuð er ákveðin leið í gegnum sýninguna og sagan þannig rakin í tímaröð.

Í dag má segja að Saltfisksetur Íslands sé einn áhugaverðasti áfangastaður ferðamanna hér á landi, hvort sem um er að ræða innlenda eða erlenda. Ljúflega er tekið á móti hverjum og einum, en auk þess að leiða hann um söguslóðir saltfiskjarins er sá hinn sami og fræddur um nálægar sögu- og minjaslóðir sem og aðra áhugaverða staði í nágrenni Grindavíkur – og þeir eru margir.

Heimild m.a.:
-http://www.saltfisksetur.is/

 Keflavík

Saltfiskvinnsla í Keflavík.