Þótt í dag liggi malbikaður vegur út að Reykjanesvita, bæði frá Grindavík og Höfnum, er alls ekki svo langt síðan að þangað var gerður akvegur.
Áður lá reið- og samliggjandi vagnvegur frá Kalmannstjörn allnokkuð ofan Hafnarbergs út á Reykjanes, en það var ekki fyrr en á árunum 1926-1928 að ruddur var vegur frá Reykjanesvita að Stað við Grindavík. Eftirfarandi má t.d. sjá í Alþýðublaðinu árið 1926 undir fyrirsögninni „Vegarbætur“:
„Umhverfis Reykjanessvita eru, eins og mörgum er kunnugt, mestmegnis hraun og sandar. Götutroðningarnir þangað úr Grindavík og Höfnum hafa og lengi lélegir verið. Nú hefir Ólafi Sveinssyni vitaverði tekist að fá 500 kr. af fjallvegafé til að ryðja veg til Grindavíkur, og hafa orðið ótrúlega mikil not af þeim krónum í höndum hans. Hann hefir í sumar gert akfæran veg eftir sandinum austur á móts við vík þá, er Mölvík heitir. Var þar áður talin hálfnuð leið að Stað í Grindavík, en ruddi kaflinn er nú allmiklu styttri, því að hann er ólíku beinni en gamla gatan og liggur miklu lengra frá sjó. Því er honum og óhætt fyrir sjávarágangi, þar sem sjór flæðir í hafróti á köflum yfir gömlu götuna.
Þó hefir ólafur enn eigi notað nema 300 kr., en býst við að koma brautinni nokkuð austur í Grindavíkurhraunið fyrir þær 200 kr., sem eftir eru, — austur fyrir svo nefnda Hróabása. Er ólíkt að ferðast ríðandi eftir rudda kaflanum eða hinum, sem óruddur er, ellegar gömlu götunni – vestur frá Mölvík, svo sem þeir, er ferðast þar um, geta komist að raun um. Þeir, sem fara út á Reykjanes nú næstu daga Grindavíkurleiðina, ættu að skygnast. eftir brautinni þegar aðalhrauninu lýkur. Hún er lengra upp til heiðarinnar en gamla gatan, en blasir við í nokkrum fjarska. Er hestum fært þangað upp eftir frá Mölvíkinni, ef gætni er við höfð, þó að ógreitt sé, eins og víða á þeim slóðum, og ekki verra en sums staðar eftir gömlu götunni.
Ólafur býst við, að geta gert veg að Stað í Grindavík, svo að fær sé bifreiðum, fyrir 2 þúsund krónur, þ. e. 1500 kr. í viðbót við þá fjárveitingu, sem þegar er fengin. Væri það mikið hagræði ferðamönnum, sem fara til Reykjaness, og þeir eru talsvert margir, að komast alla Ieiðina í bifreið í stað þess að verða að ganga langa leið eða fá hesta og ferðast á þeim eftir ógreiðum hrauntroðningi. Sá hlutinn, sem hær er Grindavík, er næstum óslitið hraun, og því er seinlegra og erfiðara að ryðja þar braut en eftir sandinum, þó að miklu grjóti hafi orðið að ryðja þar burtu; en Ólafur Sveinsson hefir sýnt, að honum er trúandi bæði fyrir verkinu og peningunum. Alt of seinlegt er að draga vegarbótina í fjögur ár, með einna 500 kr. fjárveitingu á ári. Þær 1500 kr., sem eftir eru, þurfa að fást að vori, svo að brautin verði fær alla leiðina haustið 1927.
Það eitt er hagkvæmt í þessu máli. — Enn fremur hefir Ólafur Sveinsson gert akfæra braut frá vitavarðarhúsinu út að svo nefndum Kerlingarbási, sem er nálægt sjávarklettinum Karli —, og niður í básinn, og lagað þar svo til við sjóinn, að þar má lenda báti. Hygst hann að nota básinn fyrir vör. Annar lendingarstaður, sem áður hefir verið lagður vegur að, — á Kistu —, er miklu lengra burtu, og einnig hagar svo til, að Ól. Sv. býst við, að oft megi lenda á öðrum þeim stað, þótt ófært sé á hinum.“
Í Lesbók Morgunblaðsins 1960 er einnig fjallað um framangreinda vegagerð: „Við göngum upp á hæð fyrir ofan bæinn og horfum til hafs. Það brimar fyrir Stað þótt logn sé undan Grindavík. — Við okkur blasir nokkurra kílómetra löng strandlengja, suðurströnd Reykjanesskagans…. Við erum að leggja upp í leiðangur eftir tröllaveginum út að vita…
Erindið hingað var meðal annars að kanna veginn út að vita, og jafnframt að njóta leiðsögu hins örnefnafróða Staðarbónda, sem jafnframt kann öðrum fremur að segja sögu sjóslysanna hér um slóðir, því hann hefur um áratugi verið ekki aðeins áhorfandi harmleikanna, heldur líka og oftar virkur þátttakandi í baráttunni milli manns og hafs um líf einstaklinganna. Manni [Gamalíal Jónsson] er nefnilega fæddur í Reykjanesvita sama árið, sem kveikt var á nýja vitanum. Það mun hafa verið árið 1908. Faðir hans var þriðji vitavörðurinn á Reykjanesi og gegndi þeim starfa um tuttugu ár. Á þessari strönd sleit Manni barnsskónum og stælti manndómsþrek sitt.
Þorvaldur Thoroddsen var á ferð hér á þessum slóðum árið 1883, og segir hann í ferðabók sinni: „Af Reykjanesi fórum við 11. ágúst inn í Grindavík. Þar er enginn vegur, en eintóm hraun yfir að fara. Alls staðar liggur hér mesti urmull af rekatrjám í fjörunni, og heyrir það allt undir kirkjuna að Stað í Grindavík.“ Síðan eru liðnir röskir þrír aldarfjórðungar, og hálfgerð vegleysa er þetta enn.
…Nú er að hyggja að öðru og þá fyrst og fremst veginum til vitans. Vegalengdin frá Grindavík út á Reykjanes, að vita, mun vera um 10 kílómetrar. Frá Stað til Reykjaness er í sæmilegu gangfæri tveggja tíma gangur. Sá, sem gerði þann veg, sem nú er notazt við, var Ólafur Sveinsson, vitavörður á Reykjanesi. Var það á árunum 1926—’28. Bar hann að mestu grjótið í veginn. Ólafur er sagður hafa verið mikill atorkumaður. Veginn lagði hann til þess að komast með hestvagn til Grindavíkur og auðvelda sér þannig aðdrættina. Það mun hafa verið haustið 1928, sem fyrsti bíllinn fór út í Mölvík. Lengra komst hann ekki. „Vitasjóður lagði svo eitthvað í veginn á hverju hausti, en þetta var svo lítið, að það var svona viku tíma á ári, sem unnið var fyrir tillag hans“, bætir Staðarbóndinn við.
Lagt er í torleiðið á tveggja drifa bíl, og við höldum áfram að spyrja um veginn, hvort nokkurn tíma hlaði snjó á hann að ráði. Ekki er það talið vera og oftast hægt að komast hann. þótt fenni. Það er á tveim stöðum, sem hættast er við snjóþyngslum. „Það er hérna austur undir Stað í gjá,“ segir Manni, „en þar mætti breyta veginum, leggja hann uppi á barðinu í stað þess að fara ofan í gjána, og svo er það Lynghólahraunið sem er farartálmi.
En það ætti ekki að vera mikið að ryðja það með þessum stórvirku tækjum. Þetta er ekki nema örstuttur spotti,“ bætir hann við.
Framundan er nú óbyggð eyðimörk, allt út að vita. Þetta er ábyggilega ein mesta grjótkista landsins. Við rétt sníglumst áfram. Umhverfis er bara hraun og hraun og aftur hraun. Ekkert lífsmark, enginn fugl, enginn hrafn og ekki einu sinni tófa. En jafnvel í þessari auðn ríkir máttur vanans, því að hinn ágæti bílstjóri kveikir á stefnuljósi, þegar hann skrönglast fyrir hraunbeygjurnar. Eina kennimerkið eftir nokkuð kvikt eru spor í snjónum í vegarhvörfunum, en þau spor eru bara eftir Manna og hundana hans… Bíllinn tekur geisilegan hnykk. Það hefur verið þarna gjóta í vegarhvarfi, sem bílstjórinn hafði ekki komið auga á, því varð hann að snarbeygja. Það var auk þess runnið svo úr veginum, að önnur vegbrúnin var gersamlega horfin og skriðin í burtu. Ég spyr, hvort ekki hafi neitt verið unnið að lagfæringu vegarins í haust. „Það var ekið í hann einn dag á leiðinni út til mín,“ svarar Manni stuttaralega.
Við ræðum vegarspursmálið fram og aftur, nauðsyn vegarbótar, og Manni lýsir, með hvaða hætti skuli framkvæma hana, og honum farast orð eitthvað á þessa leið: „Það mesta, sem þarf að laga, er bara að aka ofan í veginn frá Reykjanesi og austur á Bása. Það er búið að aka ofan í að Hveravöllum, og það þarf að halda því áfram frá Hveravöllum austur á Bása. Svo er eins og kílómeterslengd, sem þarf að gera eitthvað meira við. Það eru sléttar klappir og vont að aka þær. Það þarf annað hvort að taka þar horn af og láta stórýtu vaða yfir hraunhornið ofar en vegurinn er og austur yfir Lynghólahraunið, en úr því þarf ekkert annað en aka ofan í það. Það er ódýrast.“ Ég finn, að Manna liggur þessi vegagerð mjög á hjarta, svo ég geng hreint til verks og spyr: „Og þú heldur sem sagt, að það hefði getað munað mannslífum, ef þessi vegur hefði verið gerður?“
Brosmilt andlit Staðarbóndans verður mjög alvörugefið, og það kemur djúp hrukka milli augnanna og aðrar skáhallt upp af hvoru auga, er hann segir með þunga: „Já. Það er ábyggilegt, að ef það hefði verið brim, þegar Jón Baldvinsson fórst, þá hefði það getað munað miklu að vera kominn hálftíma eða klukkutíma fyrr út eftir. Í stað þess að við vorum, ég man ekki með vissu, víst eitthvað á þriðja klukkutíma á vörubíl… Eins var það með Clam, þá urðum við líka að aka þessa vegleysu með fullan bíl af fólki. Vörubílarnir urðu að taka ytri barðana af sér til þess að komast áfram. Allt tafði þetta. Við urðum líka að bíða til þess að hafa nógan liðsafla, ef ýta þyrfti bílunum. Ég er alveg viss um, að þetta hefur allt tekið eina þrjá klukkutíma. Það hefði verið munur að geta stokkið strax, nokkrir menn, með slysavarnartækin og skotizt út eftir á góðum vegi.
Þeir fórust 27 á Clam eins og þú veizt,“ bætir hann við.
„Já. Ég gæti sagt þér eitt og annað af sjóslysunum hérna fyrr og síðar. Það hefur oft munað mjóu, og þó ekki alltaf nógu. Fyrsta sjóslysið, sem ég man eftir, var 1916. Þeim hafði borizt á í Katrínarvíkinni. „Resolut“ hét það víst skipið. Einn synti í land með spotta, og hinir voru dregnir á eftir. — Þrímöstruð skúta, saltskip, strandaði skömmu síðar við Þorkötlustaðanesið. — Svo var það franski togarinn Cap Fagnet, sem fór upp á Hraunsfjörum í marz 1931, og þá var í fyrsta sinn skotið af línubyssu við björgunarstarf. Hann hét Guðmundur Erlendsson, sem skaut. Sjálfur drukknaði hann fáum árum síðar í róðri á trillu, en þarna björguðust 38 menn af franska togaranum. Svo strandaði Skúli fógeti hér á Staðarmölum… Eitt árið strandaði færeysk skúta á Ræningjaskeri framan við endann á Staðarhrauni og öll áhöfnin fórst. Þá var það Clamslysið. Það var hinum megin á nesinu, rétt innan við litla vitann. Ég kom með þeim fyrstu þarna að. Skipið hefur ekki verið nema svona 30 faðma frá landi. Hann var suðlægur, nokkurt brim. Þeir fóru í bátana, svo liggur hann niðri og svo slepptu þeir og ætluðu sér að róa upp að landinu, en þá er straumur þarna í röstinni svo mikill, að hann kastaði þeim og bara hvolfdi bátunum strax.
Við sáum það, þegar við vorum að koma að, við Björn heitinn, sem var skipstjóri á Grindvíking, Hann fór með mér. Það var komið fljótlega með tvo skipbrotsmenn á jeppa. Ég fór að Reykjanesi til þess að hjálpa konu vitavarðarins með þá. Bar þá inn og skar utan af þeim fötin. Það var svo mikil bakkerolía í þeim, að þau voru alveg límd við skrokkinn. Þetta voru Kínverjar. Þegar ég kom með hnífinn og risti utan af, greip hann ofsahræðsla, og hann veinaði upp, því að hann hefur víst haldið, að ég ætlaði að gera á sér kviðristu. Frúin helt, að Kínverjinn væri að geispa golunni, enda hafði hann ekki meiri mátt en svo, að ég gat haldið honum með annarri hendi í klofinu, á meðan eg risti utan af honum tuskurnar. Þeir lifnuðu svo við.“
Og Gamaliel Jónsson bóndi á Stað lýkur máli sínu með að segja: „Ég tel það hreinan glæp, að ekki skuli vera lagður þarna góður vegur. Hvert eitt mannslíf, sem bjargast, borgar þann veg að fullu.“
Þetta sagði hann bóndinn á Stað, sem í áratugi hefur skimað til hafs, þegar stormarnir æða fyrir suðurströndinni og jötuneflt brimrótið molar björgin á Reykjanesi… Við skulum nefna þenna veg, sem lagður verður frá Oddsvita að Reykjanesvita, og fyrst og fremst á að hafa þann tilgang að bjarga mönnum úr sjávarháska: „Oddsbraut“, í minningu hins mikla brautryðjanda slysavarnanna á Íslandi, séra Odds Gíslasonar að Stað í Grindavík.“
Frábært veður. Gangan tók 6 klst og 6 mín.
Heimild:
-Alþýðublaðið, 20. ágúst 1926, bls. 2.
-Lesbók Morgunblaðsins, Birgir Kjaran: „Svipast um á Suðurnesjum“, 8. maí 1960, bls. 245-249.
Reykjanesviti.
Járngerðarstaðir – verbúð
Eftirfarandi lýsing á verbúð að Járngerðarstöðum í Grindavík birtist í sjómannablaðinu Ægi árið 1985:
Járngerðarstaðir – teikning dr. Bjarna Sæmundssonar 12. apríl 1895.
„Líklegt er að verbúðir hafi í öndverðu verið sömu gerðar víðast hvar á landinu, og gerð þeirra hélst svo til óbreytt allt fram undir síðustu aldamót. Teikning sú sem hér er, er af verbúð sem var á Járngerðarstöðum um aldamótin síðustu. Verbúðin var ca. 20 m2 (5,6×3,6). Veggir voru tvöfaldir, annað lagið var grjót en hitt torfstrengir, á milli var troðið mold. Þak var úr torfi, tvöfalt, í sumum búðum var haft þrefalt lag, mold var í gólfi. Svefnbálkar voru með hliðum þrír hvorum megin, í þeim var grjót og urðu vermenn því að finna eitthvað mýkra og var ýmist til notað hey, skeljasandur, lyng eða þang. Eldstæði voru í hverri verbúð, en oft voru erfiðleikar með eldivið, einnig var vatn víða takmarkað. Vermenn höfðu með sér kost að heiman, smjör og annað feitmeti, einnig sýru eða sýrublöndu. Soðningu höfðu þeir og oftast kaffi, en lítið var um kjöt, helst voru það rifrildi er nýttust best í súpu. Kommatur var af skornum skammti, sérstaklega hjá þeim er voru fjarri kaupstað. Ekki er þetta þó algild lýsing um mataræði, og undantekningamar æði margar. Yfirleitt var reynt að búa vel að vermönnum hvað varðar mat, og bjuggu þeir vart við lakari kost en margur annar er ekkert átti nema vinnuaflið.“
Heimild:
-Ægir, 78. árg. 1985, 6. tbl. bls. 341-342.
Grindavík – verbúð við Járngerðarstaði; uppdráttur.
Berghraun – Mönguketill
Ætlunin var að ganga um Berghraun og skoða syðstu gíga Eldvarpa, m.a. Mönguketil.
Gígar þessir eru eldri en Eldvarpahraunin umhverfis. Þeir gætu þó hafa myndast fyrr í sömu goshrinu, en kólnað áður en hraunin hættu að renna úr stærri gígunum nokkru ofar. Hraunin runnu í Reykjaneseldum á tímabilinu 1210-1240. Þau mynda m.a. Staðaberg en vestast í því er fallegur brimketill sem af sumum er nefndur Oddnýjarlaug. Í Berghrauni er fyrrnefndur Mönguketill, einstakt eldvarp. Tófugreni er í Möngukatli. Ekki var útilokað að grjótgildrur kynnu að leynast í hrauninu.
Eldvarpahraunið (það yngsta) kemur frá syðsta hluta Eldvarpanna og niður til sjávar á Staðarbergi á milli Klofningahrauns að vestanverðu og Sundvörðuhrauns að austanverðu. Neðst, austan þess að austanverðu, er Lynghólshraun, nokkuð gróið. Í örnefnalýsingu fyrir Stað segir að „Lynghólahraun er breitt og víðáttumikið. Dregur það nafn af Lynghólum, sem eru ávalar, líttgrónar hraunbungur, rétt ofan við gamla veginn – en hann liggur spölkorn fyrir neðan bílveginn“. Enn eitt hraunið, „Básahraun er á hægri hönd, ofan við Hróabása.“ Í Básum, skammt ofan við bergið, má m.a. finna eina af fallegri hlöðnu refagildrum á Reykjanesskaganum sem og aðra skammt ofar, í vörðu.
Áður en lagt var af stað hafði verið haft samband við Kristján Sæmundsson, jarðfræðing, sem gengið hefur mikið um þetta hraunssvæði sem og önnur á Reykjanesskaganum. Kristján sagði m.a.: „Klofningahraunið er rúmlega 2000 ára.
Aðalgígurinn í því (og raunar sá eini) er Rauðhóll. Tvö stór jarðföll eru suðvestan við hann. Eldvarpagígaröðin (frá 13. öld) er 400-500 m austan við Rauðhól. Hraun úr henni nær að hólnum austan og norðan megin. Það er hleðsla í gígnum (í Rauðhól) þegar kemur dálítið inn í hann sunnan frá. Gat ekki séð til hvers hún hefði verið, sennilega þó skýli.
Sunnar eru gígar sem tilheyra Eldvarpagosinu (frá 13. öld) og austan við þá er stakur eldri gígur, nokkuð gróinn, sem stendur upp úr Eldvarpahrauninu. Annar álíka stór er norðaustar, með gróðurtorfu innanvert, í hávestur frá borholum Íslandslax, svo sem 500 m frá. Sá þriðji, er langminnstur suðvestan við þann fyrrnefnda (suðvestastur í röðinni).
Milli hans og þeirra eru 200-300 m. Ég er ekki alveg viss um aldur þessara gíga, fannst þeir myndu vera eldri en Rauðhóll. Það þarf samt að athuga betur. Þarna við gígana heitir einhvers staðar Mönguketill. Klofningar munu vera allhá brún, mjög sundurklofin, í Klofningahrauni. Þar heitir einhvers staðar Dringull. Gott væri ef hægt væri að staðsetja þessi örnefni og þá líka Bíldarholt sem á að vera 0,8-1 km suðvestur frá Rauðhól. Þessi örnefni fékk ég hjá Ólafi Gamalíelssyni skömmu áður en hann lést.“
Þarna kemur fyrir örnefnið Mönguketill og að hann geti verið suðvestan við neðstu gígana.
Möngusel og Mönguselsgjá eru til efst í Hafnasandi, nálægt svonefndum Nauthólum. Selið er í hraunskál, opinni til norðurs. Ofan hennar er Mönguselsgjá. Spurningin er hvort þarna kunni að vera einhver tengsl?
Þegar gengið var um Staðahraun virtist það ótrúlega greiðfært. Vörður voru á stangli; bæði markavörður og vörður á grenjum. Austar var Lynghólshraunið úfið og uppbrotið; vestar var Klofningahraunið stórbrotið og sendið.
Áður en lagt var af stað var rætt við Helga Gamalíelsson. Hann sagði Mönguketil auðfundinn. Vegslóði lægi upp í hann. Um km frá honum til austurs væru Klifsgrenin svonefndu, Efra- og Neðra. Hinum megin í Eldvarpahrauninu, að vestanverðu, væru á annan tug grena. Neðar í hrauninu væru örnefni sem hétu Einbúi og Kerling, en hann væri ekki viss um hvort væri hvað.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 2 mín.
Heimildir m.a.:
-Örnefnalýsing fyrir Stað.
-Kristján Sæmundsson.
-Helgi Gamalíelsson.
Mönguketill – kort.
Útvegsbændur
Eftirfarandi er úr erindi dr. Ole Lindquist – „Fornnorrænn réttur sjávarjarða til auðlinda við strendur Íslands.“ Hann hóf sagnfræðirannsóknir á þessu sviði fyrir allmörgum árum sem lauk með doktorsritgerð hans 1994.
Inngangur – Um óðalsskipulagið og lénsskipulagið.
„Það er nú orðið 7- 8 ár síðan að ég rannsakaði nokkuð ítarlega strandréttinn og meginreglur hans á öllu norræna svæðinu til forna, auk Englands og Skotlands. Það var reyndar hluti af stærra verkefni. Þá komst ég að nýjum niðurstöðum varðandi þróun þessara mála, m.a. á norska og íslenzka strandréttinum, þróunarskeiði þeirra og innbyrðis tengslum og setti fram kenningu um uppruna og meginreglur norræna strandréttarins. Reyndar er ég hissa á hversu lítið þetta áhugaverða efni hefur verið rannsakað.
Þetta ágripskennda erindi mun ég takmarka við tímabilið 800-1300. Það er fundarmönnum kunnugra en frá þurfa að segja að lög íslenzka þjóðveldisins (Grágás) um þessu efni voru tekin beint upp í Jónsbók (1281) og eru í meginatriðum enn í gildi, eins að reglurnar endurspeglast í venjubundnu orðalagi máldaga, afsalsbréfa og jarðalýsinga þegar um einstakar jarðir er að ræða.
Þegar Norðurlandabúar hófu landbúnað og tóku upp fasta búsetu (eftir 4.000 f.Kr.) urðu býlið og ættin grundvöllur samfélagsgerðarinnar allrar. Undir þessum kringumstæðum þróaðist óðalsskipulagið sem felur í sér alhliða og ótakmarkaða sjálfseign (allodial-réttur, allodium), án skírskotunar til nokkurs yfirboðara. (Þrengri merking orðsins óðalsréttur, um arf óskipts aðalbóls til elzta sonar og innlausnarrétt [brigð], kemur ekki við sögu hér). Eina takmörkunin gæti verið vegna ítaka annarra. Menn gátu eignast ítök með kaupum eða samkvæmt hefð, þ.e. óumdeild og samfelld notkun í ákveðinn árafjölda. Hefðhelgaður réttur til ákveðinna veiðistöðva og hlunninda í almenningi er líka hluti af þessari réttarskipan.
Á fyrstu öldum eftir Krists burð mynduðust höfðingjadæmi og síðan minni konungsdæmi. Höfðingjar og konungar Norðurlandabúa áttu sín eigin óðu1, hirð og fylgismenn meðal bænda. Þetta norræna konungsvald byggði á persónulegu sambandi konungs og bænda og kom ekkert eignarskipuninna við.
Karl mikli.
Önnur réttarskipan, lénsrétturinn, þróaðist í Suður- og Vestur-Evrópu eftir fall Vest-rómverska ríkisins (um 400 e.Kr.). Megin hugmynd hennar var að konungurinn væri skipaður af guði og ætti ríki sitt allt, ráðstafaði öllum löndum og gæðum innan þess og stjórnaði þegnunum. Býli og hlunnindi hvers konar þáðu menn einungis að láni, beint eða óbeint úr hendi konungs, samkvæmt leyfisbréfi og gegn afgjaldi eða þjónustu. Við vanefnd og dauða kom til endurúthlutunar. Konungur áskildi sér þar að auki oft einkarétt eða forkaupsrétt til ákveðinanna gagna og gæða.
Um og upp úr árinu 800 var lénsrétturinn orðinn ráðandi í Suður, Mið- og Vestur – Evrópu og lénsskipulagið í örri þróun í ríki Karls mikla, konungur Franka, sem krýndur var keisari árið 800. Árið 804 sigraði hann Saxa og náði stórveldi hans þá norður að Danavirki. Á þessum tíma ruddi lénsrétturinn sér einnig til rúms á Englandi þótt ekki þróaðist lénsskipulagið af krafti þar fyrr en á 10. og 11. öld.
Með því að kanna samspil meginreglna óðalsréttarins annars vegar og lénsréttarins hins vegar er hægt að greina sögu og eðli íslenzku strandréttarskipunarinnar. Það skal tekið fram að síðari tíma fræðimenn telja að innheimta almenns skatts til konungs af landeign samrýmist fyllilega óðalsskipulaginu.
Í hverju var „ofríki Haralds konungs hárfagra“ fólgið?
Hvað er í raun og veru fólgið í þessum frásögnum um það, að Haraldur hárfagri hafi eignazt óðul öll og land allt í fylkjum þeim er hann lagði undir sig? Og eins um að Torf-Einar jarl hafi eignaðist öll óðul í Orkneyjum?
Um þetta hafa verið settar fram tvær megin kenningar:
Danavirki
Annars vegar að Haraldur hárfagri hafi framkvæmt forngermanska hugmynd um að konungur ætti land og þegna (sbr. ÍF 26, 1979: lxiv) sem flestir fræðimenn álíta staðleysu og er ég sömu skoðunar; Hins vegar að um væri að ræða nýja skatta er mönnum hafi þótt illt að una við og væri líkt og að þeir væru sviptir eign sinni (sbr. Sigurðu Nordal, 1933, ÍF 2, 1979: 1 lf). Sigurður Nordal (ÍF 2, 1979: 12) var varkár í túlkun sinni þegar hann sagði (1933): „En enginn vafi leikur á, að höfundur Egils sögu og Snorri hafa skilið orðin á þann veg, að konungur hafi slegið eign sinni á allt land, og verður ekki rengt, að það haft getað átt sér stað.“
Bjarni Aðalbjarnarson (ÍF 26, 1979: lxiv) var afdráttarlausari (1941): „En ólíklegt er, að Haraldur hafi gert ráðstafanir, sem brotið hafi bág við almennar hugmyndir um það, hvað konungi væri heimilt. Flestir fræðimenn hafa gert ráð fyrir, að Haraldur hafi í rauninni lagt á skatt, sem menn hafi ályktað af, að hann þættist eiga óðul öll.“
Ég verð að lýsa mig ósammála túlkun Bjarna Aðalbjarnarsonar. Ekki skil ég hvaðan honum kom sú sannfæring að Haraldur hárfagri hafi verið slíkur séntilmaður að hann mundi ekki hafa farið út fyrir þau mörk sem óðalsskipulagið setti konungsvaldinu þegar við vitum að aðrir konungar og höfðingjar annar staðar í Evrópu síðan í lok 8. aldar gengu hvað ákafast fram einmitt í þeim efnum.
Óðalsskipulag breyttist ekki allt í einu í lénsskipulag heldur var grafið undan því með mörgum einstökum aðgerðum konungsvaldsins í anda lénsréttarins. Yfirleitt vörðust óðalsbændur öldum saman, en konungur og vaxandi aðall, sem eftir kristnitöku nutu liðveizlu kirkjunnar, komu þeim oftast á hné, í mismiklu mæli þó í hverju landi um sig miðað við aðstæður. En þar er Ísland alger undantekning.
Ég fæ ekki betur séð en að frásagnir fornritanna sem ganga lengst, fái staðizt miðað við upplýsingar sem réttarskipanin á strandsvæðum í Noregi og á Íslandi veita okkur og skulum við nú skoða þau mál.
Frásagnir fornritanna um framferði Haralds hárfagra og Torf-Einars.
Í lok 9. aldar lagði Haraldur hárfagri (dáinn um 932) hvert fylkið á eftir öðru í Noregi undir ríki sitt. Í nokkrum íslenzkum fornritum er vikið að því með eftirfarandi orðalagi: „Haraldur konungur eignaðist í hverju fylki óðul öll og land, byggt og óbyggt, og jafnvel sjóinn og vötnin og skyldu allit búendur vera hans leiglendingar, svo þeir, er á mörkina ortu, og saltkarlarnir og allir veiðimenn bæði á sjó og landi, þá voru allir þeir honum lýðskyldir. En af þessari áþján flýðu margir menn af landi á brott, og byggðust þá margar auðnir víða bæði austur í Jamtaland og Helsingjaland og Vesturlönd, Suðureyjar, Dyflinnar skíði, Írland, Norðmandí á Vallandi, Katanes á Skotlandi, Orkneyjar og Hjaltland, Færeyjar. Og í þann tíma fannst Ísland.“ (Egils saga, 4. kap., Íslendingasögur 1, 1968: 8) – [ÍF 2, 1979: 1 lf].
„Þá er Haraldr konungr herjaði land ok átti orrostur, þá eignaðisk han svá vendiliga allt land ok oll óðul – bæði byggðir ok, sætr ok úteyjar eignaðisk hann, svá markir allar ok alla auðn landsins. Váru allir búendr hans leigumenn ok landbúar.“ (Ór Óláfs sogu ins helga inni sérstoku, 1. kap, ÍF 27, 1979: 424).
„Þá er Haraldr konungr friðaði landit ok átti margar orrostur, eignaðist hann vandliga allt land ok öll óðul, bæði byggðir og ok óbyggðir, sætr ok úteyjar ok allar merkr ok auðn landsins. Váru allir bændr ok landbúar hans leigumenn.“ (Flateyjarbók, 3. kap, 1, 1944: 41).
„Haraldur konungun setti þann rétt, allt þar er hann vann ríki undir sig, að hann eignaðist óðul öll og lét alla búendur gjalda sér landskyldir, bæði ríka og óríka.“ (Haralds saga hárfagra, 6. kap., Heimskringla 1, 1991: 59).
Eftir orustunni í Hafursfirði (á tímabilinu 870-875, e.t.v. árið 885): … „Hér eptir siðaðisk landit, guldusk skattar et öfra sem et ýtra.“ (Fagurskinna. Noregs konunga tal, 3. kap., ÍF 29, 1984: 70).
„Hákon [Aðalsteinsfóstri Haraldsson, um árið 933] … beiddi bændur að gefa sér konungsnafn og það með að veita sér fylgd og styrk til að halda konungdóminum en þar í mót bauð hann þeim að gera alla bændur óðalborna og gefa þeim óðu1 sín er á bjuggu.“ (Hákonar saga góða, 1. kap., Heimskringla 1, 1991: 95).
Um árið 900 var Einar Rögnvaldsson, Torf-Einar, sem Haraldur hárfagri gaf jarlsnafn, með svipaða tilburði í Orkneyjum:
„Haraldr konungr lagði gjald á eyjarnar ok bað þá gjalda sex tigu marka gulls. Einarr jarl bauzk til at halda einn upp gjaldinu og eignask óðu1 þeira öll, en bændr vildu þat, því at inir auðgu hugðusk leysa mundu óðul sín, en hinir snauðu höfðu ekki fé til. Einarr greiddi upp gjaldit, og var þat lengi síðan, at jarlar áttu óðul oll, áður Sigurðr jarl gaf upp Orkneyingum óðul sín.“ (Orkneyinga saga, 8. kap., ÍF 34, 1980: 16).
Þrengt að norræna óðalsskipulaginu í Noregi og á Íslandi.
Í Noregi leiddu hugmyndir lénsréttar m.a. til þess að – vógrék og – hvalir yfir ákveðinni stærð á óðalslandi voru teknir frá sjávarjörðum og lagði undir konung; eins voru – rekamark og netlög `sameinuð’, almenningurinn stækkaður og mörk hans færð inn að `marbakka’ (= siglingardýpi ~ 2 m dýpi). (Skv. lénsrétti var almenningurinn eign konungs, hér hefur konungsvaldið verið að búa í haginn fyrir að taka fleira undir sig þar, sbr. `nýbýlisrétturinn’ í almenningum á landi).
Þessi þróun hófst að mínu mati þegar í lok 9. alda og munu íslenzku fornritin segja rétt frá þeim atburðum.
Túlkun mín er því að landnámsmen á Íslandi hafi strax um 900-930 sett á fót þá óðalsskipan í víðustu merkingu er forfeður þeirra höfðu búað við í Noregi.
Hér á landi fór lénsréttar fyrst fyrir alvöru að gæta á 17. öld þegar þegar konungskröfur til vógreka (og fálka) var fylgt eftir af krafti, eins þegar konungsvaldið á 18. öld fór að veita leyfi til fiskveiða við strendur landsins á grundvelli (yngra) rómaréttar.
Stefna íslenzka ríkisvaldsins síðustu áratugi hefur tvímælalaust leitt til skerðingar réttinda strandjarða miðað við hina fornu óðalsskipan. Mér sýnist því að hér sé verið að endurtaka tilraun Haralds hárfagra í Noregi frá því að um árið 900.
Heimildir m.a.:
-ttp://www.rala.is/sjavarjardir/sidurnar/greinar_stofnfundur.html
Þingvallavegurinn II
Í Vísi árið 1928 er fjallað um fyrirhugaðan „Nýjan Þingvallaveg“: „Eins og kunnugt er, hefir verið ákveðið að leggja nýjan veg yfir Mosfellsheiði fyrir 1930.
— Var byrjað á vegagerð þessari í vor og mun svo til ætlast, að henni verði lokið að hausti. Hefst hinn nýi vegur við túníð á Hraðastöðum eða efst í Mosfellsdalnum, en þangað var áður búið að leggja akbraut. Hefir að vísu verið kvartað um, að akbrautin upp Mosfellsdal væri svo mjó, að bifreiðir gæti tæplega mæst á henni, en sennilega verður hún breikkuð, áður en hinn nýi Þingvallavegur verður tekinn til notkunar. Hin nýja akbraut liggur norðanvert við túnið á Hraðastöðum og þaðan upp hjá svo nefndu Jónsseli, norðan Leirvogsvatns og sunnan Sauðafells. Þaðan er sagt að hún eigi að liggja austur um lágheiði og muni ætlað að sameinast gömlu brautinni nálægt Þrívörðum eða nokkuru austar. Kunnugir menn á þessum slóðum telja, að heppilegra mundi, að brautin lægi norðan Vilborgarkeldu alla leið austur úr og sameinaðist ekki gömlu brautinni fyrri en á milli Torfdals og Móakotsár. Má og vel vera, að sú verði niðurstaðan, er nánari rannsókn hefir fram farið á vegarstæðinu. Þessi nýja leið verður miklu skemtilegri en hinn gamli Mosfellsheiðarvegur, og vafalaust verður nýi vegurinn lengur fær bifreiðum framan af vetri.
En hætt er við, að þessir tveir vegir verði hvergi nærri nægilegir meðan stendur á Alþingishátíðinni 1930. Þess ber að gæta, að vegurinn verður aðeins einn alllangan spöl leiðarinnar, ef til vill alla leið frá Þrívörðum og niður á Þingvöll. En sá vegarspotti er mjór og hefir verið slæmur umferðar alla tíð, þó að alt af er verið að gera við hann. Hann er svo mjór, að bifreiðir geta rétt smogið hver fram hjá annari og þyrfti því allur að breikka, ef vel væri. En það mundi kosta allmikið fé og hins vegar ekki brýn nauðsyn, að hann sé breiðari vegna venjulegrar umferðar. En verði vegurinn ekki breikkaður og honum ætlað að taka við allri bifreiðaumferð til Þingvalla sumarið 1930, má búast við, að þar verði nokkuð þröngt umferðar og seinfarið þjóðhátíðardagana.
— Mundi tæplega mega við það una. Er vonandi, að þessi nauðsynlega samgöngubót verði komin í framkvæmd fyrir Alþingishátíðina.“
Heimild:
-Vísir 29. júlí 1928, bls. 2.
Km-steinn við Þingvallaveg.
Hraunsholtshraun
Búrfellshraun kemur úr gígnum Búrfelli sem er um það bil 7 km austan við Hafnarfjörð. Búrfell tilheyrir eldstöðvakerfi kennt við Krýsuvík.
Búrfell er hringlaga gígur úr hraunkleprum. Gígurinn er 179 metrar yfir sjó þar sem hann er hæstur og 140 metrar að þvermáli milli barmanna. Dýptin hefur mælst 58 metrar frá hæsta og 26 metrar frá lægsta barmi. Mismunurinn á barmi gígsins stafar af misgengi sem átti sér stað eftir að eldvarpið hlóðst upp.
Búrfell gaus einu sinni, það var flæðigos og framleiðslan var fyrst og fremst Búrfellshraun. Meginuppistaðan í eldvarpinu eru kleprar, þeir eru lagskiptir og hallar lögunum bratt niður í gíginn. Rofist hefur ofan og utan úr Búrfelli og hefur myndast hvasst egg á toppi fjallsins sem er úr lausri gosmöl.
Búrfellshraun er innan marka Garðabæjar og Hafnarfjarðarbæjar. Tveir megin hraunstraumar hafa komið frá Búrfelli. Það sem aðgreinir þessar kvíslir er Helgadalshraun. Búrfellið gengur undir ýmsum nöfnum eftir því hvar það er. Sá hraunstraumur sem er Hafnarfjarðarmegin hefur eftirfarandi nöfn: Næst Búrfelli er Smyrlabúðahraun (kennt við fuglinn smyril sem gerði sér hreiður þarna), Gráhelluhraun, Lækjarbotnahraun, Stekkjarhraun, Sjávarhraun, Arnarhraun og vestar heitir það Flatarhraun. Garðabæjarmegin er fyrst Garðahraun, Urriðakotshraun, Vífilstaðahraun, Hraunholtshraun, Gálgahraun og Balahraun.
Hraunið er stórbrotið apalhraun og meðalþykkt þess er ekki undir 20 metrum. Samkvæmt aldursákvörðun á mó sem kom í ljós hjá Bala á Álftanesi er það um 7240±130 C14 ára. Stærð þess er 18 km2.
Þegar gengið var um Hraunsholtshraun mátti bæði sjá mannvistarleifar eftir girðingar og ekki síst fyrirhugaða járnbrautarlagningu milli Hafnarfjarðar og Reykjavíkur. Flatahraun er skammt norðvestar, en er sjaldan getið í upptalningu hraunnefna Búrfellshrauns.
Búrfellshraunin.
Bragginn á Krýsuvíkurheiði
Þegar FERLIR-357 gekk slóðann áleiðis niður að Selöldu sást móta fyrir undirstöðum bragga skammt vestan hans. Svör lágu ekki á lausu um tilvist byggingar á þessum stað.
Leifar braggans á Krýsuvíkurheiði.
Ólafur Kr. Guðmundsson, fyrrv. aðstoðaryfirlögregluþjónn í Hafnarfirði, var þarna á ferð á hestum með föður sínum og bróður árið 1942. Komu þeir við hjá Magnúsi í Krýsuvíkurkirkju, sem benti þeim á fimm Ameríkana er höfðust við í bragga ofan við Selöldu. Höfðu þeir þann starfa að fylgjast með skipaferðum með ströndinni.
Þeir feðgar, sem voru á ferðalagi um Skagann, höfðu komið við hjá vini þeirra Guðmundi í Nesi í Grindavík og fengið hjá honum tvær landaflöskur. Daginn eftir fóru þeir til Hlínar í Herdísarvík. Á leiðinni heim komu þeir við hjá Magnúsi í Krýsuvík, sem benti þeim á útlendingana í heiðinni.
Ameríkönunum var gefin önnur landaflaskan við komuna. Í staðinn fylltu þeir hnakktöskur aðkomumanna með appelsínum, en slíkt höfðu þeir ekki séð fyrr. Eftir að hafa drukkið úr flöskunni varð tilefni til að gefa þeim hina flöskuna einnig. Var þá tekið til við að steikja beikon, en það mun hafa verið fyrsta sinni er það bar á góma aðkomumanna. Varð ferðin einstaklega minnistæð þeim bræðrum.
Enn sést móta fyrir hleðslum utan um fyrrum bragga sem og ryðgaðar járnlektur á heiðinni þar sem hana ber hæst ofan við Selöldu, fast vestan við slóðina. Þaðan er ágætt útsýni yfir hafið svo langt sem augað eygir, allt til Eldeyjar í vestri. Vestari hluti Selöldunnar skyggir þó á að hluta. Þarna er einnig mjög gott útsýni til austurs og vesturs um Krýsuvíkurheiðina sem og upp til bæja og fjalla.
Magnús Ólafsson hafði nauðugur verið sendur í vist 18 ára gamall til Árna sýslumanns Gíslasonar, í kringum 1895. Ætlunin var að senda Magnús í verbúiðir sem að Árni sýslumaður átti í Herdísarvík. Enn Magnúsi var ekki um sjóin gefið og vonaðist eftir starfi í Krýsuvík, betur fór en áhorfðist og fékk Magnús fjárhirðastöðu í Krýsuvík á Nýjabæ. Enn má sjá nokkur mannvirki í Krýsuvíkurheiði, sem tengjast veru Magnúsar í Krýsuvík.
Magnús var síðasti ábúandinn í Krýsuvík. Stóri Nýibær hafði lagst síðastur í eyði í Krýsuvík árið 1938, en eftir það varð þó ekki alveg mannlaust þarna. Einn maður, fyrrnefnur, varð eftir og bjó í kirkjunni í Krýsuvík þegar allir höfðu flúið af hólmi. Með órjúfandi tryggð við staðinn gafst hann aldrei upp þraukaði fjarri mannabyggðum aleinn og ósveigjanlegur og barðist þar áfram uns yfir lauk.
Krýsuvíkurbærinn og kirkjan.
Mælifell – Þórhallur Vilmundarson
Þórhallur Vilmundarson fjallar um „Mælifell“ í Lesbók Morgunblaðsins árið 1994:
Á Íslandi eru að minnsta kosti tólf Mælifell sem öll eiga sameiginlegt að vera keilulaga og því auðþekkjanleg í landslaginu. Ferðamenn hafa því löngum nýtt þau til að rata og fyrr á öldum voru þau mikilvæg eyktarmerki.
„Flestir Íslendingar munu kannast við eitthvert hinna mörgu Mælifella hér á landi, og eflaust hafa margir velt fyrir sér uppruna nafnsins og merkingu. Í þessari grein verður reynt að glíma við gátuna um Mælifellin. Hvernig er nafnið „Mælifell“ til komið, og hvað merkir það? Þórhallur Vilmundarson prófessor, forstöðumaður Örnefnastofnunar, leitar svara við þeim spurningum.
Skoðanir ferðamanna á Mælifellunum
Þórhallur Vilmundarson.
Eggert Ólafsson (1726-68) segir í ferðabók sinni um Mælifell: „Mælifell heita nokkur fjöll hingað og þangað á landinu, og hafa þau auk þess annað nafn. Þau standa ætíð einstök, eru mjög há með hvössum tindi og auðkennd af ferðamönnum úr mikilli fjarlægð, og koma þau því oft að haldi sem leiðarvísar.“
Sveinn Pálsson læknir (1762-1840) tekur undir þau ummæli Eggerts, að ferðamenn noti Mælifell til ýmislegrar leiðsagnar („til adskillig Veivisning“), en þar sem nafnið sé leitt af so. mæla, muni landnámsmenn hafa nefnt þau svo til að greina milli byggðarlaga eða landareigna.
Margeir Jónsson taldi Mælifell í Skagafirði vera eyktamark, „því að í öllu norðurhjeraði Skagafjarðar er enn, og hefir verið, svo lengi sem elztu menn muna, talið hádegi, þegar sól ber um Mælifell(shnjúk).“ Finnur Jónsson spyr einnig, hvort Mælifell sé eyktamark.
Ekki getur sú skýring átt við um öll Mælifell. Christian Matras telur, að færeysku fjallanöfnin Malinstindur í Vogum og Malinsfjall á Viðey séu af sama toga og Mælifell á Íslandi og hyggur fyrri liðinn Malins- helzt hafa breytzt úr Mælifells-. Hann vitnar til skýringar Margeirs og segir, að Malinstindur í Vogum geti ekki verið eyktamark, þar sem það sé í norðaustur frá byggðinni í Sandavogi. Matras spyr, hvort nöfnin muni ekki dregin af lögun. Bæði færeysku fjöllin séu pýramídalaga og hið sama virðist a. m. k. eiga við um eitt íslenzku nafnanna. Ef svo væri, mætti e.t.v. hugsa sér, að mælir hafi verið orð um mælitæki eða mæliker ákveðinnar lögunar.
Samkvæmt orðabók Fritzners merkir mælir að fornu ‘holt mælitæki fyrir þurrar vörur’, þ. e. einkum kornmælir. Asgaut Steinnes segir hins vegar, að mælikeröld hafi venjulega verið sívöl og jafnvíð að ofan og neðan. Hann segir enn fremur, að orðið mæle hafi verið haft um kornmæli.
Reislulóðið
Hins vegar má benda á, að einn hluti mælitækis var einatt keilulaga og gat þannig minnt á mörg Mælifellin. Það var lóð á reizlu (pundara), þ.e. vog með löngu skafti og einu lóði með hring eða gati efst, til þess að unnt væri að binda lóðið við skaftið, og var lóðið fært fram og aftur eftir skaftinu. Slíkar vogir voru mjög notaðar allt frá Rómverjatímum til að vega hinar verðminni vörur, þar sem reizlan var fljótvirk og auðveld í meðförum, en hins vegar ekki eins nákvæm og skálavog.
Reizlulóðið var einatt keilulaga (sjá mynd), og mætti þá hér vera komið mælitækið, sem Matras gat sér til, að lægi að baki nafninu. Ágætt sýnishorn reizlu með reizlulóði fannst árið 1936 í verkfærakistu smiðs í mýri á Gotlandi, og er kistan talin frá því seint á víkingaöld eða frá fyrri hluta 11. aldar. Reizlulóð voru þekkt og notuð hér á landi að fornu. Árið 1985 fannst við fornleifauppgröft að Stóru-Borg undir Eyjafjöllum ávalur upptypptur grágrýtishnullungur með gati ofan til.
Að neðan er steinninn lítið eitt ávalur og stæði því ekki stöðugur nema fyrir það, að upp í botninn miðjan gengur lítil hvilft eða skál, og getur steinninn hvílt á börmum hennar. Steinninn er 15,4 sm á hæð, 11,9 sm á breidd neðan til (þar sem hann er breiðastur) á annan veginn, en 13,7 sm á hinn, og vegur um 4 kg. Telur Mjöll Snæsdóttir fornleifafræðingur steininn sennilega vera reizlulóð og samkvæmt fundarstað trúlega frá 13.-14. öld.
Þegar hugað er að lögun Mælifellanna, kemur í ljós, að það er ekki aðeins Mælifellshnjúkur í Skagafirði, sem er keilulagaður, heldur einnig t.d. Mælifell hjá Þeistareykjum, í Álftafirði eystra, við Fjallabaksveg syðri og í Mýrdal. Sum eru keilulöguð frá einni hlið, en ekki annarri, t.d. Mælifell í Eyjafirði og Skála-Mælifell. Önnur eru ekki reglulegar keilur, en þó typpt, svo sem Mælifell í Staðarsveit og Mælifell í Grafningi, sem reyndar er með þremur hnúkum, einum þó hæstum. Sum Mælifellin em allhvassar keilur og minna þannig á rómverska og gotlenzka reizlulóðið, svo sem Mælifell í Álftafirði eystra, en önnur eru ávalari og minna á reizlulóðið frá StóruBorg, t.d. Mælifellin á Reykjanesskaga.
Hins vegar verður ekki talið líklegt, að hér sé um venjuleg líkingarnöfn dregin af lögun að ræða, í þessu tilviki leidd af no. mælir í merkingunni ‘mælitæki, mæliker’, eins og Chr. Matras talar um. Ef svo væri, ættu fellin að heita Mælisfell, þ.e. forliðurinn ætti að vera eignarfallsmynd nafnorðsins, en ekki sagnorðsstofn með bandstaf (Mælifell), en eignarfallsmyndin kemur mér vitanlega ekki fyrir í hinum mikla fjölda Mælifells-nafna, sbr. hins vegar t.d. Kyllisfell í Grafningi. Í annan stað er ekki vitað til þess, að umrætt lóð hafi verið nefnt mælir, þó að það sé hugsanlegt, en reyndar er það orð þekkt í merkingunni ‘mæliker’, sem fyrr segir.
Hvað merkir Mælifell?
Mælifell á Mælifellssandi.
Lausnin á þessari gátu kann að vera sú, að Mælifellin hafi verið upptyppt fjöll, sem hafa mátti – og höfð voru – til mælingar eða viðmiðunar, enda ljóst, að fjöll með löngu og breiðu baki henta síður til slíkra nota. Nafnmyndin Mælifell er einmitt hliðstæð samnöfnum eins og mæliker, mælistika, þ. e. ‘ker eða stika, sem notuð er til mælingar’ og Mælifell samkvæmt því ‘fell, sem notað er til mælingar’.
Krýsuvíkur-Mælifell.
Kveikjan að því að nota upptyppt og keilulaga fell á þennan hátt má hafa verið fyrrnefnt keilulaga reizlulóð, sem kann að hafa verið nefnt mælisteinn eða öðru mæli-nafni. Mælifellin hafi því ekki aðeins getað verið almennir vegvísar ferðamönnum, eins og Eggert Ólafsson segir þau vera, heldur hafi þau verið notuð í fleiri en einni merkingu: 1) ‘fjall, sem helmingar tiltekna ferðamannaleið’; 2) ‘fjall, sem er miðja vega í fjallaröð, dal eða á öðru tilteknu svæði, svo sem afrétti’ (og þá líkrar merkingar og Meðalfell og Miðfell); 3) ‘fjall sem mælir og helmingar sólargang’ (sbr. áðurnefnd ummæli Margeirs Jónssonar um, að Mælifell(shnjúkur) í Skagafirði sé hádegismark).
Þar sem Ísland er eldfjallaland, er hér enginn hörgull á upptypptum fjöllum (eldfjallakeilum), og mun það ástæða þess, að svo mörg Mælifell eru á Íslandi. Hins vegar er aðeins eitt Mælifell (Mælefjellet) í Noregi, svo að ég viti.
Lítum nú á Mælifellin á Reykjanesskaga:
Skála-Mælifell og Krýsuvíkur-Mælifell
Katlahraun – Skála-Mælifell fjær.
Á Reykjanesskaga helminga tvö Mælifell hér um bil hvort sinn vegarhluta milli Ísólfsskála og Krýsuvíkur: Skála-Mælifell eða Mælifell vestra (174 m) helmingar um 4 1/2 km leið milli Ísólfsskála og Núpshlíðarháls og Krýsuvíkur-Mælifell eða Mælifell eystra (225 m) helmingar um 7 1/2 km leið milli Núpshlíðarháls og Krýsuvíkur (eftir eld).
Mælifell í Grafningi
Skála-Mælifell – mælistöpull.
Mælifell í Grafningi er vestan við Ölfusvatnsárgljúfur, en meðfram því liggur leiðin frá bænum Ölfusvatni upp í botn Þverárdals undir Hengli. Guðmundur Jóhannesson, fyrrum bóndi í Króki í Grafningi (f. 1897), segir, að Ölfusvatnsmenn hafi smalað vestan Ölfusvatnsár og Þverár fram í Þverárdalsbotn. Mælifell er mjög miðja vega á þessari u.þ.b. 10 km leið frá Ölfusvatni upp undir Hengil. Að sögn Guðmundar var þessi sama Þverárdalsleið einnig kaupstaðarleið manna frá Ölfusvatni og Króki. Var þá farið áfram yfir Ölkelduháls, Bitru og Hengladali og „Milli hrauns og hlíða“ á þjóðveginn á Hellisheiði ofan við Kolviðarhól.“
Að lokum
Krýsuvíkur-Mælifell – mælistöpull.
Hafa ber í huga að hinir „djúpvitru“ leita ekki alltaf augljósustu skýringanna. Á Mælifellunum á Reykjanesskaga eru mælistöplar, ætlaðir til að mæla rek og ris landsins, auk þess sem þeir hafa verið notaðir sem „fastir“ mælipunktar, sem aðrir slíkir eru útsettir. Dönsku mælingamennirnir, sem voru á ferð um landið í byrjun 20. aldar notuðu gjarnan fasta punkta í mælingum sínum og því ekki að nýta tiltekin áberandi kennileiti til slíks. A.m.k. voru Íslandskort þeirra tiltölulega nákvæm á þeirra tíma mælikvarða. Þá ber að nefna að flest, ef ekki öll, Mælifellsnöfnin eru nýleg í heimildum. Mælifell á Mælifellssandi hét t.d. Meyjarstrútur fyrrum. Mælifellanna er ekki getið í fornum skrifum.
Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins, 21. tbl. 04.06.1994, Mælifell – Þórhallur Vilmundarson, bls. 5-7.
Krýsuvíkur-Mælifell – merki Landmælinga Íslands á mælistöpli.
Krýsuvík – kvikusöfnun
Ætlunin var að skoða svæðið frá Hvömmum að Austurengjahver sem og Nýjaland norðan Stóra-Lambafells.
Þar undir er forn gígur, nú umorpin leir, mold og möl úr nálægum hlíðum, auk þess sem bæði Seltúnslækur og Austurengjalækur hafa fyllt hann jarðvegi. Undir gígnum er kvikuhólf, sem virðist vera að lyfta Krýsuvíkurlandinu smám saman með tilheyrandi jarðhræringum. Á efri mörkum hólfsins má sjá ummerkin; hverina sunnan Kleifarvatns, Austurengjahver, sprengigígana við Grænavatn og Seltúnshverina.
Í örnefnalýsingu Ara Gíslasonar fyrir Krýsuvík segir m.a. um þetta svæði: „Þá er Höfði [syðst á Austurengjum] og Höfðamýri og Kringlumýri. Allt er þetta á Austurengjunum, sem fyrr eru nefndar. Sá hluti engjanna, sem næst liggur vatninu að sunnan, heitir Nýjaland, og skiptist það í Innra-Nýjaland og Fremra-Nýjaland. Misvöxtur vatnsins veldur því, að engjastykki þessi liggja stundum undir vatni, svo árum skiptir. Það, sem skiptir þeim í Fremra- og Innra-Nýjaland, er malarhryggur mjór, sem liggur til vesturs frá norðurenda Hvammholts. En holt það er við suðurenda vatns austanverðan. Meðfram vatninu vestan holtsins eru svo Hvammar, engjastykki. Fremra-landið er miklu lengur slægt en hitt.
Fyrrnefndur malarhryggur er nefndur Rif. Vestan við Fremra-landið og við vesturenda Rifsins rennur lækur sá, sem nefndur er Ós, inn á Innra-landið og svo í vatnið sjálft. Lækur þessi á upptök sín að mestu í Vestur-Engjum og Seltúnshverum, er síðar getur. En smálindir koma þó í hann af Austur-Engjum úr Hvömmum og Lambafellum.“
Gott var að líta yfir dyngjusvæðið til norðurs af Stóra-Lambafelli. Varðan á fellinu var hrunin.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín.
Heimildir m.a.:
-Örnefnalýsing AG fyrir Krýsuvík.
-Kristján Sæmundsson, jarðfræðingur.
Austurengjahver.
Reykjanesviti – frá Grindavík
Þótt í dag liggi malbikaður vegur út að Reykjanesvita, bæði frá Grindavík og Höfnum, er alls ekki svo langt síðan að þangað var gerður akvegur.
Áður lá reið- og samliggjandi vagnvegur frá Kalmannstjörn allnokkuð ofan Hafnarbergs út á Reykjanes, en það var ekki fyrr en á árunum 1926-1928 að ruddur var vegur frá Reykjanesvita að Stað við Grindavík. Eftirfarandi má t.d. sjá í Alþýðublaðinu árið 1926 undir fyrirsögninni „Vegarbætur“:
„Umhverfis Reykjanessvita eru, eins og mörgum er kunnugt, mestmegnis hraun og sandar. Götutroðningarnir þangað úr Grindavík og Höfnum hafa og lengi lélegir verið. Nú hefir Ólafi Sveinssyni vitaverði tekist að fá 500 kr. af fjallvegafé til að ryðja veg til Grindavíkur, og hafa orðið ótrúlega mikil not af þeim krónum í höndum hans. Hann hefir í sumar gert akfæran veg eftir sandinum austur á móts við vík þá, er Mölvík heitir. Var þar áður talin hálfnuð leið að Stað í Grindavík, en ruddi kaflinn er nú allmiklu styttri, því að hann er ólíku beinni en gamla gatan og liggur miklu lengra frá sjó. Því er honum og óhætt fyrir sjávarágangi, þar sem sjór flæðir í hafróti á köflum yfir gömlu götuna.
Þó hefir ólafur enn eigi notað nema 300 kr., en býst við að koma brautinni nokkuð austur í Grindavíkurhraunið fyrir þær 200 kr., sem eftir eru, — austur fyrir svo nefnda Hróabása. Er ólíkt að ferðast ríðandi eftir rudda kaflanum eða hinum, sem óruddur er, ellegar gömlu götunni – vestur frá Mölvík, svo sem þeir, er ferðast þar um, geta komist að raun um. Þeir, sem fara út á Reykjanes nú næstu daga Grindavíkurleiðina, ættu að skygnast. eftir brautinni þegar aðalhrauninu lýkur. Hún er lengra upp til heiðarinnar en gamla gatan, en blasir við í nokkrum fjarska. Er hestum fært þangað upp eftir frá Mölvíkinni, ef gætni er við höfð, þó að ógreitt sé, eins og víða á þeim slóðum, og ekki verra en sums staðar eftir gömlu götunni.
Ólafur býst við, að geta gert veg að Stað í Grindavík, svo að fær sé bifreiðum, fyrir 2 þúsund krónur, þ. e. 1500 kr. í viðbót við þá fjárveitingu, sem þegar er fengin. Væri það mikið hagræði ferðamönnum, sem fara til Reykjaness, og þeir eru talsvert margir, að komast alla Ieiðina í bifreið í stað þess að verða að ganga langa leið eða fá hesta og ferðast á þeim eftir ógreiðum hrauntroðningi. Sá hlutinn, sem hær er Grindavík, er næstum óslitið hraun, og því er seinlegra og erfiðara að ryðja þar braut en eftir sandinum, þó að miklu grjóti hafi orðið að ryðja þar burtu; en Ólafur Sveinsson hefir sýnt, að honum er trúandi bæði fyrir verkinu og peningunum. Alt of seinlegt er að draga vegarbótina í fjögur ár, með einna 500 kr. fjárveitingu á ári. Þær 1500 kr., sem eftir eru, þurfa að fást að vori, svo að brautin verði fær alla leiðina haustið 1927.
Það eitt er hagkvæmt í þessu máli. — Enn fremur hefir Ólafur Sveinsson gert akfæra braut frá vitavarðarhúsinu út að svo nefndum Kerlingarbási, sem er nálægt sjávarklettinum Karli —, og niður í básinn, og lagað þar svo til við sjóinn, að þar má lenda báti. Hygst hann að nota básinn fyrir vör. Annar lendingarstaður, sem áður hefir verið lagður vegur að, — á Kistu —, er miklu lengra burtu, og einnig hagar svo til, að Ól. Sv. býst við, að oft megi lenda á öðrum þeim stað, þótt ófært sé á hinum.“
Í Lesbók Morgunblaðsins 1960 er einnig fjallað um framangreinda vegagerð: „Við göngum upp á hæð fyrir ofan bæinn og horfum til hafs. Það brimar fyrir Stað þótt logn sé undan Grindavík. — Við okkur blasir nokkurra kílómetra löng strandlengja, suðurströnd Reykjanesskagans…. Við erum að leggja upp í leiðangur eftir tröllaveginum út að vita…
Erindið hingað var meðal annars að kanna veginn út að vita, og jafnframt að njóta leiðsögu hins örnefnafróða Staðarbónda, sem jafnframt kann öðrum fremur að segja sögu sjóslysanna hér um slóðir, því hann hefur um áratugi verið ekki aðeins áhorfandi harmleikanna, heldur líka og oftar virkur þátttakandi í baráttunni milli manns og hafs um líf einstaklinganna. Manni [Gamalíal Jónsson] er nefnilega fæddur í Reykjanesvita sama árið, sem kveikt var á nýja vitanum. Það mun hafa verið árið 1908. Faðir hans var þriðji vitavörðurinn á Reykjanesi og gegndi þeim starfa um tuttugu ár. Á þessari strönd sleit Manni barnsskónum og stælti manndómsþrek sitt.
Þorvaldur Thoroddsen var á ferð hér á þessum slóðum árið 1883, og segir hann í ferðabók sinni: „Af Reykjanesi fórum við 11. ágúst inn í Grindavík. Þar er enginn vegur, en eintóm hraun yfir að fara. Alls staðar liggur hér mesti urmull af rekatrjám í fjörunni, og heyrir það allt undir kirkjuna að Stað í Grindavík.“ Síðan eru liðnir röskir þrír aldarfjórðungar, og hálfgerð vegleysa er þetta enn.
…Nú er að hyggja að öðru og þá fyrst og fremst veginum til vitans. Vegalengdin frá Grindavík út á Reykjanes, að vita, mun vera um 10 kílómetrar. Frá Stað til Reykjaness er í sæmilegu gangfæri tveggja tíma gangur. Sá, sem gerði þann veg, sem nú er notazt við, var Ólafur Sveinsson, vitavörður á Reykjanesi. Var það á árunum 1926—’28. Bar hann að mestu grjótið í veginn. Ólafur er sagður hafa verið mikill atorkumaður. Veginn lagði hann til þess að komast með hestvagn til Grindavíkur og auðvelda sér þannig aðdrættina. Það mun hafa verið haustið 1928, sem fyrsti bíllinn fór út í Mölvík. Lengra komst hann ekki. „Vitasjóður lagði svo eitthvað í veginn á hverju hausti, en þetta var svo lítið, að það var svona viku tíma á ári, sem unnið var fyrir tillag hans“, bætir Staðarbóndinn við.
Lagt er í torleiðið á tveggja drifa bíl, og við höldum áfram að spyrja um veginn, hvort nokkurn tíma hlaði snjó á hann að ráði. Ekki er það talið vera og oftast hægt að komast hann. þótt fenni. Það er á tveim stöðum, sem hættast er við snjóþyngslum. „Það er hérna austur undir Stað í gjá,“ segir Manni, „en þar mætti breyta veginum, leggja hann uppi á barðinu í stað þess að fara ofan í gjána, og svo er það Lynghólahraunið sem er farartálmi.
En það ætti ekki að vera mikið að ryðja það með þessum stórvirku tækjum. Þetta er ekki nema örstuttur spotti,“ bætir hann við.
Framundan er nú óbyggð eyðimörk, allt út að vita. Þetta er ábyggilega ein mesta grjótkista landsins. Við rétt sníglumst áfram. Umhverfis er bara hraun og hraun og aftur hraun. Ekkert lífsmark, enginn fugl, enginn hrafn og ekki einu sinni tófa. En jafnvel í þessari auðn ríkir máttur vanans, því að hinn ágæti bílstjóri kveikir á stefnuljósi, þegar hann skrönglast fyrir hraunbeygjurnar. Eina kennimerkið eftir nokkuð kvikt eru spor í snjónum í vegarhvörfunum, en þau spor eru bara eftir Manna og hundana hans… Bíllinn tekur geisilegan hnykk. Það hefur verið þarna gjóta í vegarhvarfi, sem bílstjórinn hafði ekki komið auga á, því varð hann að snarbeygja. Það var auk þess runnið svo úr veginum, að önnur vegbrúnin var gersamlega horfin og skriðin í burtu. Ég spyr, hvort ekki hafi neitt verið unnið að lagfæringu vegarins í haust. „Það var ekið í hann einn dag á leiðinni út til mín,“ svarar Manni stuttaralega.
Við ræðum vegarspursmálið fram og aftur, nauðsyn vegarbótar, og Manni lýsir, með hvaða hætti skuli framkvæma hana, og honum farast orð eitthvað á þessa leið: „Það mesta, sem þarf að laga, er bara að aka ofan í veginn frá Reykjanesi og austur á Bása. Það er búið að aka ofan í að Hveravöllum, og það þarf að halda því áfram frá Hveravöllum austur á Bása. Svo er eins og kílómeterslengd, sem þarf að gera eitthvað meira við. Það eru sléttar klappir og vont að aka þær. Það þarf annað hvort að taka þar horn af og láta stórýtu vaða yfir hraunhornið ofar en vegurinn er og austur yfir Lynghólahraunið, en úr því þarf ekkert annað en aka ofan í það. Það er ódýrast.“ Ég finn, að Manna liggur þessi vegagerð mjög á hjarta, svo ég geng hreint til verks og spyr: „Og þú heldur sem sagt, að það hefði getað munað mannslífum, ef þessi vegur hefði verið gerður?“
Brosmilt andlit Staðarbóndans verður mjög alvörugefið, og það kemur djúp hrukka milli augnanna og aðrar skáhallt upp af hvoru auga, er hann segir með þunga: „Já. Það er ábyggilegt, að ef það hefði verið brim, þegar Jón Baldvinsson fórst, þá hefði það getað munað miklu að vera kominn hálftíma eða klukkutíma fyrr út eftir. Í stað þess að við vorum, ég man ekki með vissu, víst eitthvað á þriðja klukkutíma á vörubíl… Eins var það með Clam, þá urðum við líka að aka þessa vegleysu með fullan bíl af fólki. Vörubílarnir urðu að taka ytri barðana af sér til þess að komast áfram. Allt tafði þetta. Við urðum líka að bíða til þess að hafa nógan liðsafla, ef ýta þyrfti bílunum. Ég er alveg viss um, að þetta hefur allt tekið eina þrjá klukkutíma. Það hefði verið munur að geta stokkið strax, nokkrir menn, með slysavarnartækin og skotizt út eftir á góðum vegi.
Þeir fórust 27 á Clam eins og þú veizt,“ bætir hann við.
„Já. Ég gæti sagt þér eitt og annað af sjóslysunum hérna fyrr og síðar. Það hefur oft munað mjóu, og þó ekki alltaf nógu. Fyrsta sjóslysið, sem ég man eftir, var 1916. Þeim hafði borizt á í Katrínarvíkinni. „Resolut“ hét það víst skipið. Einn synti í land með spotta, og hinir voru dregnir á eftir. — Þrímöstruð skúta, saltskip, strandaði skömmu síðar við Þorkötlustaðanesið. — Svo var það franski togarinn Cap Fagnet, sem fór upp á Hraunsfjörum í marz 1931, og þá var í fyrsta sinn skotið af línubyssu við björgunarstarf. Hann hét Guðmundur Erlendsson, sem skaut. Sjálfur drukknaði hann fáum árum síðar í róðri á trillu, en þarna björguðust 38 menn af franska togaranum. Svo strandaði Skúli fógeti hér á Staðarmölum… Eitt árið strandaði færeysk skúta á Ræningjaskeri framan við endann á Staðarhrauni og öll áhöfnin fórst. Þá var það Clamslysið. Það var hinum megin á nesinu, rétt innan við litla vitann. Ég kom með þeim fyrstu þarna að. Skipið hefur ekki verið nema svona 30 faðma frá landi. Hann var suðlægur, nokkurt brim. Þeir fóru í bátana, svo liggur hann niðri og svo slepptu þeir og ætluðu sér að róa upp að landinu, en þá er straumur þarna í röstinni svo mikill, að hann kastaði þeim og bara hvolfdi bátunum strax.
Við sáum það, þegar við vorum að koma að, við Björn heitinn, sem var skipstjóri á Grindvíking, Hann fór með mér. Það var komið fljótlega með tvo skipbrotsmenn á jeppa. Ég fór að Reykjanesi til þess að hjálpa konu vitavarðarins með þá. Bar þá inn og skar utan af þeim fötin. Það var svo mikil bakkerolía í þeim, að þau voru alveg límd við skrokkinn. Þetta voru Kínverjar. Þegar ég kom með hnífinn og risti utan af, greip hann ofsahræðsla, og hann veinaði upp, því að hann hefur víst haldið, að ég ætlaði að gera á sér kviðristu. Frúin helt, að Kínverjinn væri að geispa golunni, enda hafði hann ekki meiri mátt en svo, að ég gat haldið honum með annarri hendi í klofinu, á meðan eg risti utan af honum tuskurnar. Þeir lifnuðu svo við.“
Og Gamaliel Jónsson bóndi á Stað lýkur máli sínu með að segja: „Ég tel það hreinan glæp, að ekki skuli vera lagður þarna góður vegur. Hvert eitt mannslíf, sem bjargast, borgar þann veg að fullu.“
Þetta sagði hann bóndinn á Stað, sem í áratugi hefur skimað til hafs, þegar stormarnir æða fyrir suðurströndinni og jötuneflt brimrótið molar björgin á Reykjanesi… Við skulum nefna þenna veg, sem lagður verður frá Oddsvita að Reykjanesvita, og fyrst og fremst á að hafa þann tilgang að bjarga mönnum úr sjávarháska: „Oddsbraut“, í minningu hins mikla brautryðjanda slysavarnanna á Íslandi, séra Odds Gíslasonar að Stað í Grindavík.“
Frábært veður. Gangan tók 6 klst og 6 mín.
Heimild:
-Alþýðublaðið, 20. ágúst 1926, bls. 2.
-Lesbók Morgunblaðsins, Birgir Kjaran: „Svipast um á Suðurnesjum“, 8. maí 1960, bls. 245-249.
Reykjanesviti.
Vilborgarkeldan og vegamálin
Svarthöfði skrifaði í Vísi árið 1981 um Nýja og Gamla Þingvallvegina undir fyrirsögninni „Vilborgarkeldan og vegamálin„:
„Þótt enn sé snemmt og sumardagurinn fyrsti ekki alveg kominn, bauð tíðarfarið upp á margvíslegar ferðir um páskana. Flestir munu hafa lagt leið sína um nágrenni Stór-Reykjavíkursvæðisins og látið sig hafa það að aka nokkurn óþarfa í bíl, þótt bensínið sé dýrt. Dýrara á það eftir að verða. Nú er olíutunnan í 32 dollurum, en talið er að hún verði komin í áttatíu dollara árið 1985. Þá mætti ætla að bensínlítrinn hér verði um fimmtán hundruð krónur gamlar. Þýðir lítið í slíku árferði að tala um sparneytna bíla einfaldlega vegna þess að bensin verður ekki kaupandi, hvorki á þau tæki, sem eyða tíu lítrum á hundraðið eða tæki sem eyða tuttugu lítrum.
Miðað við slíka þróun má ætla að svonefnd helgidagakeyrsla falli niður að mestu nema á móti komi mikil lagfæring vega, sem sparar í raun mikið bensín. Þó eru góðir vegir ekki nema hluti af lausn vandans, en engu að síður sú lausn sem við ráðum yfir. Um verðlag á bensíni ráðum við hins vegar engu. Fólk sem býr í þéttbýli og vinnur langan vinnudag, eins og dæmið um rúmlega milljón króna verkamannalaun sýnir, þarf að eiga þess kost að komast út í náttúruna um helgar. Úr þessari þörf hefur verið leyst með ökuferðum austur yfir fjall, eins og það er kallað, kaffidrykkja í Eden og Þingvallahringnum.
Um hundrað þúsund manns búa á þéttbýlissvæðinu við Faxaflóa, og mikill hluti þess mannsafnaðar telur eitt helsta útivistarsvæði sitt vera á Þingvöllum og þar í grennd. Aftur á móti bendir vegalagning til Þingvalla ekki til þess að þar hafi hundrað þúsund manns hagsmuna að gæta. Lengi vel hefur það verið svo, að fé til Þingvallavegar hefur verið falið í vegafé til Suðurlands alls, og hafa þá svonefndir „nauðsynjavegir“ verið látnir ganga fyrir. Þess vegna hefur í raun aldrei verið unnið neitt að ráði að lagfæringum á Þingvallavegi nema fyrir Þjóðhátíðir, og hefur það þó orðið að hávaðamáli í hvert sinn. Fyrir Alþingishátíðina 1930 var gerð tilraun til að leggja nýjan veg alla leið til Þingvalla. Nýi vegurinn náði eftir það að Vilborgarkeldu. Síðan hefur ekki verið bætt við hann.
Vilborgarkelda er mýrardrag austast í Mosfellsheiði áður en stefna er tekin beint niður af heiðinni. Á þeirri beygju mættust gamli Mosfellsheiðarvegur og nýi vegurinn 1930. Fyrir þjóðhátíðina 1974 náðu framkvæmdir á Þingvallaleið ekki austur fyrir Vilborgarkeldu heldur, þótt unnið væri að lagfæringu vega á Þingvallasvæðinu sjálfu. Þannig er Vilborgarkelda orðið eitt helsta kennileiti íslenskra vegamála í dag, og að þvl er virðist hreint óyfirstíganleg kelda. Ætti raunar að reisa af henni lóðrétt minnismerki, svona eins og „acupuncture“ kríuna um hann Ragnar í Mundakoti, sem reist var við Eyrarbakka á dögunum. Ekki er við þvi að búast að Þingvallavegur komist í lag áður en bensínlítrinn fer í fimmtán hundruð krónur. Þó gæti það skeð ef bæjarfélög á þéttbýlissvæðum við Faxaflóa gripu inn i málið og segðu sem svo: Þingvellir eru okkar útivistarsvæði og þess vegna leggjum við í sameiningu varanlegan veg þangað, þó gegn því skilyrði að ríkið leggi varanlegan veg frá Þingvöllum og um Sog niður á Grímsnesveg. Þannig mætti með sameiginlegu átaki flýta fyrir vegarlagningu á þessari vinsælu og fjölförnu sumarleið, og komast fram úr Vilborgarkeldunni, þar sem framkvæmdir hafa setið fastar síðan sumarið 1930.
Enginn veit lengur hver þessi Vilborg [Þorgerður] hefur verið. En þetta hefur að líkindum verið ein herjans kerling, fyrst kelda hennar hefur orðið slíkur farartálmi á leiðinni austur á gamla þingstaðinn. – Svarthöfði.“
Heimild:
-Vísir 21. apríl 1981, bls. 31.
Mílusteinn við gömlu Þingvallaleiðina.