Í „Fornleifar í landi Nesjavalla og Ölfusvatns„, Fornleifastofnun Íslands 1997, er m.a. fjallað um Ölfusvatn og Nesjavelli. Hér verður sagan rakin sem og nefndir nokkrir áhugaverðir staðir þeim tengdum:
Fyrri fornleifaathuganir á Ölfusvatni
Ölfusvatn – bæjarhóll.
„Ekki hafa verið gerðar neinar fornleifaathuganir í landi Nesjavalla svo vitað sé fyrr en sumarið 1997 en tæpar þrjár aldir eru síðan menn fóru að veita fornleifum á Ölfusvatni athygli. Í skýrslu um heimildakönnun um fornleifar á Hengilssvæðinu er gefið yfirlit um fornleifaathuganir sem gerðar hafa verið á svæðinu en hér verður fjallað um Ölfusvatn sérstaklega.
Í lýsingu sinni á Háldans Jónssonar á Ölfushreppi frá 1703 getur hann um Grímkelsgerði og Grímkelsleiði á Ölfusvatni en lýsir þeim ekki nánar (SSÁ, 234-50). Árið 1817 sendi konungleg nefnd um varðveislu fornminja bréf til allra sóknarpresta á Íslandi og bað þá að skrifa skýrslur um fornleifar og gamla gripi í sínum sóknum.
Ölfusvatn – túnakort 1918.
Presturinn á Þingvöllum, Páll Þorláksson (1748-1821) svaraði nefndinni um hæl með allítarlegri skýrslu. Á Ölfusvatni getur hann um hoftóft sem ennú sjáist gjörla til og að það sé talið hofið sem Grímkell brenndi. Sunnan við hofið segir hann frá stóru gerði með þúfu í sem kallað sé Grímkelsleiði. Einnig getur hann um kirkjugarð og stein sem standi í sáluhliði sem talinn sé frá pápískri öld og haldi sumir að hann hafi staðið fyrir kirkjudyrum með vígðu vatni en aðrir að hann hafi verið skírnarfontur. Þessar lýsingar koma ágætlega heim við aðstæður í dag. Hofkofinn, fjárhús sem byggt var á hoftóftinni um miðja 19. öld, er þó heldur vestar en norðar af Grímkelsgerði sem nú er kallað og ekki er hægt að sjá af lýsingu Páls hvar kirkjugarðurinn hefur verið eða bollasteinninn (FF, 219-20).
Ölfusvatn – uppdráttur/G.Ó.
Tuttugu árum síðar sendi Hið íslenska bókmenntafélag út spurningalista til sóknarpresta og var þar m.a. spurt um merkar fornminjar, þar á meðal dómhringa. Með því hugtaki var yfirleitt átt við hringlaga torfgarða þar sem dómar áttu að hafa farið fram en presturinn á Þingvöllum, Símon Beck, hefur ekki skilið það þannig heldur lýsir hann sem dómhring steini einum á Ölfusvatni sem menn sögðu vera blótbolla. Það er sýnilega sami steinninn og hafði verið talinn skírnarfontur af forvera Símonar því hann telur bollann hestklyf (50 kg) að þyngd og bollann taka 4-5 merkur (1-1,25 l) (SSÁ, 190). Á þessum stutta tíma hafði afstaða manna til fortíðarinnar breyst á afgerandi hátt: Það sem áður voru óáhugaverðar leifar úr pápísku voru nú orðnar merkar minjar sem endurvörpuðu ljóma glæstrar fortíðar á staðnaðan samtímann. Ekki getur Símon um aðrar fornminjar í landi Ölfusvatns.
Ölfusvatn – hoftóft.
Á áttunda áratug 19. aldar reið danski fornfræðingurinn Kristian Kålund um landið og skoðaði íslenska sögustaði. Hann kom við á Ölfusvatni til að skoða menjar um Grímkel goða. Kålund lýsir blótsteininum, gerðinu, leiðinu og hoftóftinni sem hann kallar Hofhól og greinir frá því að fjárhús hafði þá verið byggt á tóftunum. Honum var raunar sagt að blótsteinarnir hefðu verið tveir og að sá sem hefði staðið framan við kirkjuna og hefði verið stærri væri nú kominn í hleðslu í húsgrunni. Hinum steininum lýsir hann sem ferköntuðum með skál ofaní, sem sé um eitt fet í þvermál (um 30 cm). Sá steinn var þá heima við bæinn og er sennilega sá sami og er þar nú. Kålund fannst lítið til koma um blótsteinakenninguna og taldi skýringu Páls líklegri að steinninn eða steinarnir hefðu verið skírnarfontar (KK II, 89).
Ölfusvatn – tóft.
Skömmu síðar, eða 1880 var Sigurður Vigfússon við rannsóknir á alþingisstaðnum á Þingvöllum en fór einnig um nágrannasveitirnar og skoðaði minjastaði sem tengdust sögu þinghaldsins eða frásögnum Íslendingasagna. Sigurður segir frá sömu stöðum og Kålund og hefur litlu við frásögn hans að bæta utan að hann fékk að vita að stærri blótsteinninn væri í hleðslu í kjallara og einnig var honum sagt að þriðji steinninn hefði verið til, minni en hinir en hann væri nú týndur. Öfugt við Kålund var Sigurður ekki í vafa um að steinarnir hefðu verið notaður við heiðið helgihald og einnig taldi hann að staðsetning Grímkelsleiðis kæmi alveg heim við frásögn Harðar sögu um að Grímkell hefði verið jarðaður suður frá garði (Árbók 1880-81, 19-20).
Brynjúlfur Jónsson frá Minna-Núpi (Kålund).
1898 var arftaki Sigurðar sem könnuður Fornleifafélagsins, Brynjúlfur Jónsson frá Minna-Núpi á ferð í Grafningi. Hann lýsir alveg sömu stöðum og Kålund og Sigurður og eru lýsingar hans öllu nákvæmari um stærð og lögun en bæta að öðru leyti engu við. Hann lýsir blótsteininum í hlaðinu en getur ekki um hinn eða hina sem Kålund og Sigurði hafði verið sagt frá (Árbók 1899, 2-3).
Eftir að Brynjúlfur hætti ferðum sínum skömmu eftir aldamótin 1900 dró mjög úr fornleifaathugun á Íslandi, en nýr þjóðminjavörður, Matthías Þórðarson, ferðaðist ekki um landið eins og forgöngumenn hans heldur sat lengstum í Reykjavík og hugði að safngripum. Matthías friðlýsti þó fjölda minjastaða á Íslandi í kringum 1930 og fór þar mest eftir skýrslum þeirra Kålunds, Sigurðar og Brynjúlfs. Meðal þeirra voru Grímkelsleiði í túninu á Ölfusvatni en einnig steinn með áletruðu ártali ‘1736’ í túninu aftan við bæinn. Steins þessa er ekki getið í fornleifaskýrslum og hlýtur Matthías að hafa skoðað hann sjálfur. Einnig er haft eftir Sæmundi Gíslasyni bónda á Ölfuvatni að Matthíasi hafi ekki þótt tóftaleifarnar undir Hofhúsinu sannfærandi og talið að hofið væri sunnan við túnið þar sem er tóft sem annars hefur verið talin vera af fjárborg. Þetta mun vera ástæðan fyrir að Hofhúsið var ekki friðlýst en Matthías lét friða nær allar slíkar tóftir sem hann vissi um. Ekki er vitað hvenær hann kom að Ölfusvatni en dauðaleit hefur ekki verið gerð í dagbókum hans.
P.E. Kristian Kålund – 1844 – 1919.
Skipuleg fornleifakönnun hefur ekki farið fram á Ölfusvatni fyrr en sumarið 1997 en 1958 skoðaði Kristján Eldjárn nokkrar tóftir á svæðinu og gróf m.a. í svokallaðar Grímkelstóftir fyrir neðan túnið í Króki. Markmið þessarar athugunar var að fá staðfestingu á sögn Harðar sögu um býlið Grímkelsstaði þar sem Grímkell bjó áður en hann flutti bæ sinn að Ölfusvatni. Egill Guðmundsson á Króki sýndi Kristjáni tóftir á fleiri stöðum, m.a. í Álftalautum og sést þar í einni tóftinni að grafin hefur verið lítil ferköntuð hola sem sennilega er eftir Kristján.
Árið 1989 stóð til að leggja veg heim að Ölfusvatni, vestan árinnar og var bent á að fyrirhugað vegarstæði færi í gegnum rúst af fjárborg sunnan við túnið. Guðmundur Ólafsson gerði vettvangsathugun sama ár og var ákveðið að færa veginn svo hann spillti ekki tóftinni. Guðmundur lýsti fjárborginni og gerði lauslegan uppdrátt af bæjarstæðinu á Ölfusvatni.
1847. Skálholtsstólsjörð. Kirkjustaður fram á 16. öld og átti kirkjan hálft heimaland og Sandey. Jarðarinnar er getið í Harðarsögu og Sturlungu (1243). Í eyði síðan 1947. Sagt er að Arnarbæli í Ölfusi hafi átti skógarítak í Þverárdal. Eign Hitaveitu Reykjavíkur en sneið vestan af jörðinni er sumarbústaðarland í einkaeign. Hagavík og Krókur eru gamlar hjáleigur frá Ölfusvatni en auk þeirra áttu Nesjar sókn til Ölfusvatns.
Matthías Þórðarson – 1877- 1961.
1918: Tún 5,3 ha, að mestu slétt. Matjurtagarðar 582 m2. Þverárdalur út við Hengil er mýrlendur að hluta; skiptast síðan á melar með valllendis- og mosagrónum dölum og dalverpum en brekkur eru víða klæddar nokkrum tegundum lyngs og víðis.
Kringlumýri er slægjuland þar sem veitt hefur verið á. Stóribaugur er nef í ánni sem hún hljóp yfir í vetrarleysingum og þótti hey þaðan vera töðu ígildi. Skógarkjarr nokkurt er vestan í Ölfusvatnsfjalli, Líkatjarnarhálsi, Sandfelli að austan og svonefndum Ölfusvatnshólum. Veiði er í Þingvallavatni 1 1/2 km frá bænum. Mótak er norður af túninu.≅ SB III, 264. Túnið er nú komið í sinu og mosa. Bæjarmýrin norðan við það er farin að teygja sig inn fyrir túngarðinn í átt að bæjarhólnum. Túnið hefur verið að stórum hluta slétt, en stórþýfi er hér og þar, einkanlega NA af bæjarhól. Hér og þar í túninu, einkum SV-til í því eru stakar litlar þúfur eða hrúgur sem eru möl og aur úr fjallinu sem mokað hefur verið saman. Túnið virðist sáralítið hafa verið stækkað frá því túnakortið var gert, mest til NA. Þar er helst að sjá að það hafi verið ræktað upp á mel, því að þar sem því sleppir til austurs taka strax við svotil gróðurlausir melar. Norðan við túnið er hinsvegar mýri. Sigurður Hannesson telur að túnið hafi ekkert verið stækkað eftir 1918 og að þaksléttur í brekkunum ofan og vestan við bæinn hafi verið yngstu túnaukarnir. Túnið á Ölfusvatni var fyrsta túnið í Grafningi sem girt var með vír, skömmu eftir aldamótin 1900. Ölfusvatn þótti góð jörð til beitar og fyrir veiðar en erfið um slægjur.“
Í „Fornleifakönnun vegna endurbóta og lagningu bundins slitlags á Grafningsvegi efri„, Náttúrustofa Vestfjarða 2018 er einnig fjallað um Ölfusvatn og Nesjavelli:
Ölfusvatn
Ölfusvatn – fjárborg.
„Ölfusvatns er getið í Harðarsögu og í Sturlungu. „Grímkell bjó fyrst suður að fjöllum skammt frá Ölfusvatni. Þar er nú kallað á Grímkelsstöðum og eru nú sauðahús… Hann færði bú sitt… til Ölfusvatns, því að honum þóttu þar betri landkostir“ er talin hafa búið fyrst á Grímkelsstöðum og flust síðar til innar jarðarinnar. Á Grímkelsstöðum eru og alla tíð verið stórbýli í Grafningi þar sem höfðingjar og valdamenn hafa búið. Það bjó árið 1243 Símon Kútur sem hafið verið fylgdarmaður Gissurar Þorvalssonar og hafði barist með honum í Örlygsstaðabardaga og í Reykholti við aftöku Snorra Sturlusonar.
Flest bendir til þess að Ölfusvatn hafi verið aðalbýlið á miðöldum í Grafningi þar hefur líklega verið kirkja frá kristnitöku. Í Jarðabók Árna og Páls segir „So segja menn hjer hafi að fornu kirkja verið, sjást enn nú merki kirkjugarðs og leiða, og er þar nú skemmuhús, sem kirkjan skyldi staðið hafa. Enginn man hjer hafi tíðir fluttar verið“.
Gamlasel
Gamlasel.
Krosshóll og Selhóll norðan við Gamlasel tilheyra báðir Ölfusvatnshólum. Milli Klettagrófar og Gamlasels er brött brekka með dálitlum skriðum, sem nær alveg niður að ánni og hár bakki neðst. Eftir þessum bakka lágu suðurferðargöturnar og voru kallaðar Tæpur. Fyrir vestan Tæpur norðan árinnar er Gamlasel undir Selhól. – Gamlasel er undir Selhólnum að sunnan. Þar er hvammur með tóftum.≅ segir í örnefnalýsingu. Selið er stök tóft í breiðum hvammi sunnan undir Selhóli um 70 m vestan við Ölfusvatnsá. Merkt gönguleið upp á Ölkelduháls liggur hjá tóftinni. Í hlíðarótum, í breiðum hvammi sem er u.þ.b. 100×100 m, með smáþýfðum grasmóa innantil en lyngmóa nær ánni. Víðikjarr er í hlíðinni innan við tóftina.
1706: Selstaða er í eigin landi.≅ 1838: […] margar eru [selstöður] so nærri, að litlum hagamun sýnist numið geta. Ein var samt tekin upp í fyrra frá Ölvesvatni og aftur brúkuð í sumar; mun það því ekki hafa skaði þókt.≅ SSÁ, 182. Það er sennilega Nýjasel sem rætt er um í sóknalýsingunni.
Sels frá Ölfusvatni er getið í Sturlungu er Björn Dufgusson og menn hans leituðu þar uppi Þorstein Guðnason, sem eignað var banasár Snorra Sturlusonar, og handhjuggu hann utan við selið – Sturl, 491.
Seltóftin er með grjót í veggjum en þeir eru mjög hlaupnir í þúfur. Dyr á syðri langvegg, vestarlega. Um 75 m SA við seltóftina er um 30 m langur hóll, sem snýr N-S, með lyngmóa og grjóti upp úr hér og þar. Í N-enda gæti verið lítil tóft m. grjóti í veggjum, mjög breiðum, og dyrum til A.
Nýjasel
Nýjasel.
Suðaustur af Mælifelli, við ána þar sem Gljúfrin enda, er Nýjasel og Seltungur meðfram ánni. – Nýjasel er austan undir Mælifelli, fyrir suðvestan Löngugróf. [Selið] var líka frá Ölfusvatni.
Seltungur […] eru þar skammt frá. Þær liggja meðfram Ölfusvatnsánni, bugður út í ána. Fyrir selinu sést ennþá. segir í örnefnalýsingu. Selið er austanmegin í dalverpi, sem snýr N-S og gengur til N frá Þverá þar sem hún tekur stóran sveig til A, SA við Mælifell. Tóftin er um 200 m norðan við ána og sést ekki frá henni. Undir lítt grónu holti, í brekkurótum. Í dalverpinu er blaut mýri og tjarnir. Fjær eru mosaþembur og flagmóar og enn fjær berir sandar. Norðan við selið meðfram Þverá, allt niður um Ölfusvatnsárgljúfur er mosi ráðandi gróður, en ofanvið, á Selflötum og allt upp undir Ölkelduháls eru víða grösugir móar og grashvammar sem mátt hefur slá. Í örnefnskrá segir ennfremur um Seltungur meðfram ánni: Þar hefur verið ágætt haglendi og nóg vatn í ánni. Ég hef heyrt, að þarna hafi einu sinni verið mikill skógur víða. Nú er þetta allt horfið. Þarna mun hafa verið skógarítak frá Arnarbæli í Ölfusi fyrr á öldum. … Suður og suðvestur af Mælifelli eru Mælifellsflatir [vestur af selinu]. Um 1938 og áður voru þessar flatir stórar (margir hektarar). Nú er þar aðeins smáflöt eftir. Þarna hefur verið og er enn mikill uppblástur víða.
1838: […] margar eru [selstöður] so nærri, að litlum hagamun sýnist numið geta. Ein var samt tekin upp í fyrra frá Ölvesvatni og aftur brúkuð í sumar; mun það því ekki hafa skaði þókt. SSÁ, 182. Það er sennilega Nýjasel sem hér er rætt um. Rof er í N-vegg á tveimur stöðum. Tóftin snýr N-S og er skipt í 3 hólf. Anna Þórðardóttir f. 17.9.1819 var síðasta selstúlkan í Nýjaseli og jafnframt í Grafningi en selið lagðist af um miðja 19. öld.
Kirkja
Ölfusvatn – upplýsingaskilti.
1706: „So segja menn að hjer hafi að fornu kirkja verið, sjást enn nú merki kirkjugarðs og leiða, og er þar nú skemmuhús, sem kirkjan skyldi staðið hafa. Enginn man hjer hafi tíðir fluttar verið“.
1817: Á Ölvisvatni í Grafningi hefur í fyrri daga Kyrkia verid, og sér þar ennú til Kyrkiugards, þar hefur svo leinge menn til vita stadid Steirn í Sáluhlide, sem mælt er vera mune frá Pápískri Öld, og géta sumir til ad hann mune stadid hafa fyrir Kyrkiudyrum med vígdu Vatne ….
Ekki er nú vitað hvar kirkjan stóð, en hafi hún verið heima við bæinn, eins og líklegt er og ætla má af því að húsinu var breytt í skemmu, þá er sennilegast að hún hafi verið annaðhvort fast sunnan við bæjarhólinn þar sem nú er um 20×20 m rústabunga samtengd honum eða þar sem Hofhúsið stendur nú. Á fyrrnefnda staðnum er hnitið tekið. Þar sést ekkert tóftarlag eða garðsmynd en á síðarnefnda staðnum sést bogadregin garðhverfa austan við fjárhúsið 003, sem gæti verið af kringlóttum garði, um 20 m í þvermál. Í túni. Mælingar eiga við fyrri staðinn, sem áfastur er við bæjarhólinn.
Máldagar kirkjunnar á Ölfusvatni:
Ölfusvatn – loftmynd.
[1180]: Þessi er kirkio maldage at vatne. at þar liggr til sandey oll. oc .xij. hundroþ alna i vatz lande oc i hagavikr lande. oc scal eigi selia lond þesse nema með ollom gæþom. þeim er fylgia. at leyfe biscops þess er i scala hollte er Þar fylgir oc kyr ein. oc scal gefa einnar kyr nyt fra þvi er sio vicna fasta komr. hvern drottens dag. vnz liþr hvita daga. oc mario messo of fosto. oc olafs messo. oc vppstigningardag. oc hvern drottens dag vpp fra olafs messo til vetrar. at vatne scal vera seto prestr. oc syngia þar allar heimilis tiþer. oc .ij. daga rumhelga i viko. oc alla þa daga er messa er til gor. hvern dag messa of iola fosto. oc annan hvarn dag .ij. messor of langa fosto. vigilia hvern dag rumhelgan of langa fosto. syngia .ij. messor fosto dag i imbro dogom of haust oc of vetr. kirkia a kluckur .iij. tiolld vm huerfis I kirkio. alltara klæþe .iij. prestz messo fot full. kertastikur .ij. gloþa ker. oc gloþa jarn. roþo kross. lyse kolo [skirnar sar. oc silfr kalekr*; DI I 270 [* b.v. í AM 263. c. 1200: Kirknaskrá Páls, DI XII, 8
1397: a halft heimaland. Sandey. Kirkiurid [!, kirkiuvid í einu handr.] portio Ecclesiæ vmm .xij. är firirfarandi .c. oc .x. aurar fiell nidur oll firir kirkiu vppgiaurd. DI IV, 94-95
1491×1512: Byskups Stephans maldagi. kirkian a Olversvatni. a heimaland halft. Sandey. kirkiurid. kirkian a nv viij kvgilldi. þar liggur til eirn bær. kirkjan lasin. hana á Skalhollt. DI VI, 47
1553-54: Olvesvatn. kirkian a Olverzvatne ä heimaland halft. Saudey. kirkiuvid. kirkian a nv viij kugillde. þar liggur til eirn bær. kirckia lasin. hana ä Skalhollt. DI XII, 662
1575: CXCIII. Aulvesvatn kirkian ä Aulvesvatne ä hälfft heimaland. Saudeij. kirkiuvid. Jtem kaleik og gomul messuklæde. thangad liggia Nesiar og krokur. DI XV, 644
Hofhús
Ölfusvatn – Hoftóft.
Í fornleifaskýrslu Páls Þorlákssonar prests á Þingvöllum til konunglegu fornleifanefndarinnar 1817segir að enn sjáist gjörla til hoftóftarinnar á Ölvisvatni: ΑI Sudurátt af Hoftoft er ennú sér giörla til á Ölvisvatni … Eins og ádur er um gétid vottar þar til Hoftoptar í nordur af svokolludu Grímkels leide er vera skal þad sama Hof, sem Grímkell brende, og getur um í Holmveria Sogu. Rústernar edur Hríngurinn er nú ummáls 30 Fadmar og standa þar vída Steinar uppur.
1877: Α… på Ölvesvatn … havde [Grimkell] et gudehus, der i sagaen kaldes Torgerd hörgabruds hov, men som dog også ses at have indeholdt billeder af de andre guder. … Spor af dette gudehus Fornleifar í landi Nesjavalla og Ölfusvatns 35 men syd for gården er i tunet en lav höj Hovhol (Hofhóll) hvorpå der står et fårehus, der af stædet bærer navnet Hofhús; her skal gudehuset have stået.
SV 1880: ΑÚti á túninu spottakorn fyrir útsunnan bæinn er fjárhús, sem stendr á flötum hól, bygt fyrir hér um bil 30 árum; það heitir nú Hofhús. Steinar höfðu verið teknir þar upp úr í húsið, og þó vóru steinar eftir niðri; þar sást fyrir vegg eða hleðslu, enn nú verðr ekki í neitt ráðið, síðan húsið var bygt.
Ölfusvatn – kort 1908.
1898: Eitt af fjárhúsum þeim, er standa í túninu á Ölfusvatni, er kallað Hofhús. Þar á hofið Grímkels að hafa staðið, og er sem upphækkun undir húsinu.
Hofkofi er gömul fjárhústóft, rétt norðan við Grímkelsdys. Munnmælasögur segja að þar hafi verið hof í heiðni. Matthías Þóðarson taldi líklegra, að það mynda hafa verið í hól utan (vestan) við túnið, er ber í Tindgil. Sæmundur Gíslason telur að þarna hafi verið gömul fjárborg. segir í örnefnalýsingu.
1989: Fjárhústóft var í túninu suður af gamla bæjarstæðinu, allhár hóll. Þar heitir Hofkofi, og er að sögn staðurinn þar sem hof á að hafa staðið til forna. Tóftin er um 40 m sunnan við S-enda bæjarhólsins (sbr. 002). Hún stendur hátt á rústabungu sem er u.þ.b. 20 m í þvermál og um 1 m há. Í túni. Fjárhústóftin er einföld, með dyr á norðurgafli, en undir henni eru eldri rústir og sést í þær austan við tóftina. Þar er allöng bogadregin þúfa sem gæti verið garðbrot og má með góðum vilja fylgja því suður fyrir tóftina. Af horni bogans má ráð að hringveggur sá hefði verið um 20 m í þvermál og kemur það vel heim við lýsingu sr. Páls á ummálinu, 56,4 m sem svarar til 18 m í þvermál.
Grímkelsleiði
Ölfusvatn – Grímkellsleiði.
Friðlýstar minjar. Í fornleifaskýrslu Páls Þorkelssonar prests á Þingvöllum til konunglegu fornleifanefndarinnar 1817 segir: I Sudrátt af Hoftoft er ennú sér gjörla til á Ölvisvatni mótar til Gérdis nockurs, og er í því hérumbil 4 Fadma laung Þúfa frá nordre til sudurs, er menn kalla nú Grímkéls leide.
1877: ΑStraks neden for (sydöst for) hovhuset er en ved sporene af et gammelt grastörvsgærde indhævet del af tunet kaldet Grimkelsgærde (Grímkelsgerði), her findes I den vestlige udkant tæt ved huset en stor aflang tue, Grimkelslejde (Grímkelsleiði), hvor altså Grimkel skulde være begravet.
Í frásögn Sigurðar Vigfússonar í Árbók 1880-81 segir: … fyrir neðan [Hofhús] skamt í landsuðr, er svo kallað Grímkelsgerði með fornum garði digrum, vallgrónum; gerðið er stórt sem kýrvöllr. Rétt við garðinn inni í gerðinu skamt frá Hofhúsinu … er þúfa stór í túninu, sem kölluð er Grímkelsþúfa; hún er 28 feta löng, enn 8 fet á breidd, snýr í norðr og suðr, og mjórri í norðrendann, afbrugðin öðrum þúfum þar í nánd. Þetta stendr heima við Harðar sögu Grímkelssonar … : ok var hann jarðaðr suðr frá garði.
Ölfusvatn – fjárborg.
1898: Grímkelsgerði heitir forn girðing þar austur á túninu, hér um bil 1 dagslátta að stærð. Suðvestast í henni er sýnt leiði Grímkels. Það er þúfa mikil, nær 5 fðm. löng og nær 1 fðm. á breidd við suðurendann, en mjó í norðurendann, og um 2 al. á hæð.
Grímkelsgerði er í suðvestur frá bænum í um 130 metra fjarlægð. Sjást þar ógreinilegar minjar hringlaga torfgarðs. Grímskelsleiði (dys) er stór þúfa nyrzt í Grímkelsgerði. Var dysin friðlýst af Matthíasi Þórðarsyni fornminjaverði, segir í örnefnalýsingu.
Guðmundur Ólafsson fornleifafræðingur hefur eftir heimildamanni í skýrslu um fornleifar á Ölfusvatni 1989 að leiði Grímkels hefði verið þekkt áður fyrr, en nú vissu líklega fáir eða engir um það.
Þúfan er um 1 m innan (A) við garð Grímkelsgerðis þar sem það er lengst til vesturs, um 30 m ASA við Hofhúsið. Þar sem þúfan er rennur gerðið undir/samanvið veginn. Í túni. Þúfan er aflöng frá norðri til suðurs, mjókkar og lækkar til norðurs, en er hæst og breiðut syðst. Þar sem hún er hæst sést í fjóra litla steina, sem gæti verið raðað af mannahöndum en þeir eru heldur lausir í mosanum og gætu verið nýlega komnir þangað.
Blótsteinn/skírnarfontur
Í fornleifaskýrslu Páls Þorlákssonar prests á Þingvöllum til kongunglegu fornleifanefndarinnar 1817 segir: Á Ölvisvatni í Grafningi hefur í fyrri daga Kyrkia verid, og sér þar ennú til kyrkiugards, þar hefur svo leinge menn til vita stadid Steirn í Sáluhlide, sem mælt er vera mune frá Pápískri Öld, og géta sumir til ad hann mune stadid hafa fyrir Kirkiudyrum med vígdu Vatne adrir ad hann hafe verid brukadur fyrir Skyrnarfont. – Steinninn er á Hæd 1 al dönsk med 5 köntum herum 9 þuml. breidum – í ödrum enda hans er bolli kringlóttur 9 1/2 þuml: vídur og 4 þuml. djúpur.
1839: Búðartóftir eru hér nógar í kring og dómhringir 2r, að eg hygg, annar á Ölvesvatni, er nokkrir meina, að séu gamlir blótbollar. Þeir eru nærfellt hestklyf á þyngd, en það hola í þeim (concavum) hygg eg taki hér um 4 eða 5 merkur, og er það laglega holað, en utar eru þeir allt ólögulegri.
1877: Hjemme ved gården ligger en ikke höj firkantet stenblok, hvori der findes en fadformig fordybning, omtrent fod I tværmål, en anden lignende, men större, skal for öjeblikket være benyttet som grundsten I en af gårdens vægge; om den sidste siger man, at den I sin tid har stået foran den der daværende kirke. Men I övrigt kaldes de her som andetsteds Αblotstene (blótsteinar) og antages at have hört til de gamle gudehuse og været benyttede ved offringene.
Ölfusvatn – blótsteinn.
Sigurður Vigfússon skrifar um blótsteininn 1880-81: Steinn einn er þar í bænum, sem er kringlóttr og nokkuð flatr, hér um bil 2 fet að þvermáli; ofan í hann er bolli krínglóttr, sem er auðsjáanlega höggvinn með nokkrun veginn þvergníptum börmum og nokkurn veginn sléttum botni, og er 10 þuml. að þvermáli og 3 að dýpt. Annar steinn er þar og til, sem eg gat þó ekki séð, þar eð hann mun vera í kjallara undir timbrhúsi í undirstöðu neðantil, enn að honum gat eg ekki komizt, þvíað kjallarinn var fullr af ýmsum hlutum. Þessi steinn er sagðr sýnu betri en hinn fyrri, hann er stærri, hérumbil knéhár eða meira og með dýpra bolla ofaní; ferskeyttr er hann sagðr og líkastr því, sem hann væri sagaðr af enda á ferstrendu tré. Einn var enn til áðr; hann var minnstr og líkastr þessum fyrtalda, enn finst nú ekki. Eg beiddi húsfreyjuna eða ekkjuna, sem þar býr, að reyna að ná þessum steini, sem sagðr er vera í kjallaranum, og geyma þá báða vandlega, þar sem þeir gætu verið til sýnis, og tók hún vel undir það.
BJ 1898: Bollasteinn er á hlaðinu á Ölfusvatni. Hann er úr doleríti og er rúml. 1 al. á hæð, 3 kvart. í þvermál á annan veg en 2 1/2 kv. á hinn. Bollinn nær 9 þuml. á vídd og 5 þuml. á dýpt. Hann er auðsjáanlega mannaverk.≅ Hlautsteinn með bolla stendur í hlaðinu á Ölfusvatni. Sæmundur segir, að steinninn hafi um tíma verið notaður í hleðslu í bæjarhúsavegg. (Steinn þessi kann að vera úr hofi Þorgerðar hörgabrúðar, er var að Ölfusvatni í heiðni, svo sem getið er í sögu Harðar Hólmverjakappa Grímkelssonar.
Steinninn er nú friðlýstur og hefur varðveitzt vel.[…]). segir í örnefnalýsingu. Það er ekki þessi steinn heldur annar sem er friðaður. Steinn þessi er nú jarðfastur í hlaðinu, 14 m norðan við heimreið, 2 m austan við framhlið bæjarhúsanna eins og hún hefur verið, í kanti sem verið hefur á hlaðinu ofan við kálgarðinn. Í bæjarhlaði, nú grasi grónu. Steinninn er jarðfastur og haggast ekki. Hann virðist hafa óreglulega lögun en eins og hann er nú hallar efri hlið hans til SA. Að ofan að sjá er hann því sem næst trapisu-lagaður. Skálin er í breiðari endanum og er svotil alveg hringlaga, 24 cm í þvermál og 12 cm djúp. Í barmi skálarinnar er nú rauf. Hún var gerð af sumarpilti á Ölfusvatni á þessari öld.
Letursteinn
Ölfusvatn – letursteinn.
Friðlýstar minjar. Jarðfastur grágrýtissteinn með áletruninni VES+1736 er í túninu suðaustan við gamla fjárhústóft, nærri hulinn jarðvegi, segir í örnefnalýsingu Steinninn er aðeins norðar en beint vestur af heimreiðinni sem gengur þvert yfir bæjarhólinn. Hann er alveg í brekkurótum, um 3 m S við allmikla grjóthrúgu sem einnig er í brekkurótunum neðan við fjárhústóftina. Í brekkurótum í túni. Steinninn er nær alveg hulinn sinu og mosa.
Nesjavellir
Nýbýli, fyrst byggt 1819. Nesjavellir áttu skógarítak í Nesjalandi í Jórukleif en Nesjar áttu engjaítök í Botnadal og Vegghamrahólum. NV mörk við Nesja hafa verið á reiki og hafa Nesjar átt selstöðu og afbýli hjá engjaítökum sínum innan þess lands sem nú telst til Nesjavalla.
Nesjavellir 2020.
Eftir frásögn Odds heitins Snorrasonar eru Nesjavellir byggðir úr Nesjalandi 1817. [Þorleifur Guðmundsson bóndi á Nesjum byggði] neðst á Völlunum, og norðast næst hrauninu. Stóð bærinn þar, þangað til Grímur, sonur hans, flutti bæinn nærri efst á Vellina. – Rústirnar rétt við veginn, þ.e. aðalakveginn suður Grafning, segir Guðmundur ekki hafa verið nefndar neinu sérstöku nafni, en álítur, að Nesjavallabærinn hafi fyrst verið byggður þar […]. – Eftir því sem sögur herma hefur fyrsti Nesjavallabærinn staðið nyrzt á Völlunum við hraunjaðarinn, en verið fluttur síðar syðst á vellina, þar sem vatnsból var betra. Á árunum kringum 1940, að mig minnir, reif Jón Sigurðsson bóndi þennan bæ og byggði íbúarhús og útihús nokkru sunnar, þar sem hærra var, sennilega vegna flóðahættu, segir í örnefnalýsingu. Tóftirnar eru 3 og er ein vestast, norðan við þjóðveginn í beygjunni þar sem hann kemur niður úr Selskarði, en hinar tvær eru um 30 m austar, sunnan við veginn og eru um 10 m á mili þeirra. Miðtóftin er stærst og er hún á svolitlum hraunhól. Á mörkum hrauns og túns. Sunnan við eru sléttir grasvellir en strax norðan við tekur hraunkantruinn við. Tóftirnar standa undir hólaröð (framhald Selkletta til S) er er neðsti hjallinn í fjalllendinu sem gengur til norðurs úr Henglinum.
Nesjavellir – tóftir.
Tóftirnar hafa greinilega verið í notkun löngu eftir að bæjarstæðið var flutt suður á vellina, og voru þar beitarhús fram á þessa öld. Bárujárn er í heygryfijunni í miðtóftinni. Vestasta tóftin hefur skemmst lítillega af vegarlagningunni en verði gerðar umbætur á veginum er ljóst að þesar minjar eru í uppnámi. Austasta tóftin snýr A-V og hefur dyr á A-gafli. Hún er 9×5 að utan en 5,5×2 að innan. Hleðsluhæð er 1,3 m og er mest 8 umför. Þykkt veggj er 1,5-2 m. Tóftin er á svolitlum hól en sunnan við hana og áfastur henni er heygarður, 18×10 að utanmáli og 13×8 að innan. Hleðsluhæð er 1 m og mest 4 umför. Þykkt veggja 0,7-1 m. Vestast í heygarðinum er lítill pallur sem gæti verið tóft. Sunnan við heygarðinn er mýrarblettur sem gæti hafa verið vatnsból er búið var á þessum stað. Miðtóftin er greinilega fjárhús frá því um aldamótin eða síðar. Það er 12×10 m að utan og er fjárhúsið sjálft 7×7 m að innan en heygryfjan við enda þess 7×3 m að innan.
Nesjavellir – fjárhús.
Í fjárhúsinu, sem er austar og hefur tvær dyr á austurgafli, eru 2 garðar, um 1 m á þykkt báðir. Þykkt veggja er um 1,5 m og hleðsluhæð 1,2 m. Heygryfjan er talsvert dýpri og þar er hleðsluhæð rúmlega 2 m og mest 12 umför. Þykkt veggja 1,5-2 m. Áfastur þessu húsi að vestan er heygarður, 15×10 m að utan og mjókkar til vesturs þannig að V-gaflinn er aðeins 6 m. Garðurinn er grjóthlaðinn, um 1 m á þykkt og stendur um 0,5 m hátt.
Vestasta tóftin, norðan við þjóðveginn, snýr SA-NV og hefur dyr á SA gafli. Hún er 12×6 m að utan og 8×2,5 að innan. Hleðsluhæð er 0,8 m og þykkt veggja 1,5-2 m. Smáskúti er í hraunhólnum sem miðtóftin er byggð á og hefur verið hlaðið fyrir gjótuna, norðn við heygarðinn, noraðn við vírgirðingu sem liggur þétt meðfram mið- og austustu tóft.
Norðaustur af Stekkjarklett eru Selklettar. segir í örnefnalýsingu. Klettarnir taka nafn sitt af seli, annaðhvort selinu (Gamlastekk) vestan við þá eða þá seli sem hefur verið á þessum stað áður en bærinn var reistur 1819. Selstöður á jörðin [Nesjar] í sínu eigin landi, kallaðar Kleifarsel, Klængssel og Vallasel. segir í JÁM II, 378. Líklegt verður að telja að Vallasel hafi verið á þessum stað.
Nesjavellir 1937.
Eftir frásögn Odds heitins Snorrasonar eru Nesjavellir byggðir úr Nesjalandi 1817. [Þorleifur Guðmundsson bóndi á Nesjum byggði] neðst á Völlunum, og norðast næst hrauninu. Stóð bærinn þar, þangað til Grímur, sonur hans, flutti bæinn nærri efst á Vellina. Þar var nóg vatn að fá. Árið 1942 (?) var bærinn enn fluttur, þangað sem hann stendur nú. – Eftir því sem sögur herma hefur fyrsti Nesjavallabærinn staðið nyrzt á Völlunum við hraunjaðarinn, en verið fluttur síðar syðst á vellina, þar sem vatnsból var betra. Á árunum kringum 1940, að mig minnir, reif Jón Sigurðsson bóndi þennan bæ og byggði íbúarhús og útihús nokkru sunnar, þar sem hærra var, sennilega vegna flóðahættu. segir í örnefnalýsingum. Bæjrhóllinn er í túninu, um 200 m N við núverandi bæjarstæði og rúmlega 100 m NV við Nesbúð.
Í kringum hólinn er iðjgrænt tún á sléttum völlum en hóllinn sjálfur er ósléttari og í sinu. Sunnan við hólinn eru rásir í túninu beggja vegna við hann þar sem vatn hefur runnið áður. Hóllinn snýr A-V og er hæstur að austan. Ábúendur á Nesjavöllum eiga málverk sem sýnir gamla bæinn að sunnan. Hann snéri stöfnum í A og voru bæjardyr syðst í röðinni. Aftan við bæinn og laus frá honum (á.a.g.10 m) var heyhlaða. Austan í hólnum er 8×8 m ferhyrnd hvompa og er sennilega þar sem síðasti bærinn stóð. Af túnakorti frá 1918 hefur bærinn hinsvegar þá snúið A-V, verið mjó lengja eftir bæjarhólnnum endilöngum og kálgarður verið norðan við hann og tveir smákofar utan í honum.
Gamlistekkur
Nesjavellir – Gamlistekkur.
Norður af Skútabrekkum er Litluvellir. Þar norður af er Hjallatorfa. Þar austur af eru Stekkjarhöfðar og Gamlistekkur suðaustan við undir Stekkjarkletti, þar sem nú eru beitarhús. Norðaustur af Stekkjarklett eru Selklettar. – Gamlistekkur var notaður til að stía á vorin. Guðmundur telur, að 80 ár (miðað við 1970) muni liðin frá því, að hætt var að færa frá. – Norðvestur af Völlunum er Vallarskarðið milli Stekkjarhöfða og Selkletta. Þar liggur Grafningsvegurinn í gegnum.≅ Stekkur frá Nesjum var í Selklifi í Nesjavallalandi, frá gamalli tíð. – Selklettar eru nokkuð hár hraunkambur, sem nær frá Vallarskarði og að Selklifi, sem er norðaustast í Selskarðinu. segir í örnefnalýsingum.
Nesjavllir – túnakort 1918.
Ekki er augljóst við hvaða stað þessar lýsingar eiga og ekki er á þeim fullt innbyrðis samræmi, en þó mun ótvírætt að þetta mun allt vera sami stekkurinn og koma ekki aðrar tóftir til greina en selið í Selskarði. Vegarslóði sem nú endar hjá Gjánni og Þorsteinsvík liggur um Selskarð frá þjóðveginum, skammt norðan við vegamót Grafningsvegar og Nesjavallavegar. Þegar ekið hefur verið eftir þessum slóða um 200-300 m opnast þröngur dalur eða skarð sem nær norður að hraunbreiðunni. Syðst er allbrött brekka sem slóðinn liggur niður eftir og eru tóftirnar niðri í hvosinni, austan við slóðann. Þær eru tvær og eru um 60 m á milli þeirra og er þar stórgrýtisskriða, gróin. Tóftirnar eru í botni lítils dals, undir háum klettum. Vestan við stærri og syðri tóftina er dalbotninn allbreiður og er þar lítil starartjörn. Dalurinn er annars grasi vaxinn hið neðra.
Kleifarsel.
Syðri tóftin er sennilega rétt, hún er 13×6 m að innanmáli, ferhyrnd og byggð utan í gróna skriðu undir Sleklettum. Hún er opin í vesturendann og því ekki annað en tveir 13 m langir, 1-1,5 m breiðir og 0,8 m háir grjótveggir með 6 m millibili. Nyrðri tóftin er líka grjóthlaðin og byggð utan í skriðurunna hlíðina. Hún er 6×6 m að utan, veggir 1,5-2 m þykkir og hleðslur 0,8 m háar, mest 3 umför. Í botni tóftarinnar er bárujárn sem gæti bent til að hún hafi verið í notkun fram á þessa öld. Norðaustur af Stekkjarklett eru Selklettar. segir í örnefnalýsingu – Ö-Nesjavellira, 2. Klettarnir taka nafn sitt af seli, annaðhvort af seli sem hefur verið nyrst á völlunum, þar sem bærinn Nesjavellir var reistur 1819, eða þá þessu seli. Selstöður á jörðin [Nesjar] í sínu eigin landi, kallaðar Kleifarsel, Klængssel og Vallasel. segir í JÁM. Hugsanlegt er að þessi staður sé sami og Klængssel sem annars er ekki vitað um staðsetningu á, en Kleifarsel var undir Jórukleif og Vallasel er væntanlega sami staður og Nesjavallabærinn var fyrst byggður á.
Klængsel.
Á þessum stað hefur því fyrst verið sel, síðan stekkur á 19. öld og síðast beitarhús sem staðið hafa fram á 20. öld. Hinn möguleikinn á staðsetningu Gamlastekkjar er að hann hafi verið á sama stað og bæjarstæðið/selstaðan/beitarhúsin og bendir helst til þess að hann á að hafa verið Αsuðaustan undir Stekkjarkletti sem getur ekki átt við þessar tóftir en er mögulega villa fyrir Αsuðvestan undir. Á gönguleiðakorti eru þessar tóftir merktar sem ‘Kleifarsel’ en það er rangt, því Kleifarsel er í Nesjalandi undir Jórukleif.
[Þrátt fyrir kort af minjum á Nesjavöllum kemur Gamlistekkur ekki fram þar, þrátt fyrir að liggi nálægt öðrum minjum á svæðinu.]
Þjófahellir
Þjófahellir í Grafningi.
Sunnarlega í Selklettum er Þjófahellir, með hleðslum. – Hellisskúti er í Selklettum og heitir Þjófahellir. Mátti þar hafa 30-40 sauði. Ekki var haft þar neitt hey handa sauðunum. Nokkuð hefur fallið úr bjarginu síðar. segir í örnefnalýsingum. Norðan við Selskarð er strýtulagaður hraunhóll og norðan við hann annað skarð, heldur hærra og þrengra. Í því er Þjófahellir. um 200 m norðan við Grafningsveginn, efst í skarðinu hátt yfir hrauninu sem breiðir úr sér austan við Selkletta. Gengið er í hellinn úr austri.
Hátt í hraunhólum, gróður annar en mosi er lítill í kring. Hellirinn nýr A-V og er opinn í báða enda. Minna opið er að vestan og hefur verið hlaðið nær alveg fyrir það. Að austan er lítill ketill frama við opið og hefur verið hlaðinn veggur langsum eftir katlinum, þannig að gengið hefur verið eftir mjóum gangi niður í hellinn en til hliðar hefur verið svolítið hólf sem hugsanlega hefði getað verið notað sem lambakró við fráfærur. Hellirinn sjálfur er mjög reglulegur, um 3 m á breidd, 10 m á lengd og 1,8-2,4 m undir loft. Gólfið í honum er slétt. Lítillega hefur hrunið úr vestari hleðslunni inn í hellinn og mikið úr langveggnum í eytri katlinum niður í ganginn.“
Heimildir:
-Fornleifar í landi Nesjavalla og Ölfusvatns, Fornleifastofnun Íslands 1997.
-Fornleifakönnun vegna endurbóta og lagningu bundins slitlags á Grafningsvegi efri, Náttúrustofa Vestfjarða, 2018.
Nesjavellir – skráðar minjar. Gamlistekkur (rauður hringur).
Morð við Skötufoss
Í Lesbók Morgunblaðsins árið 1995 birtist eftirfarandi grein eftir Helga M. Sigurðsson um „Morð við Skötufoss„:
„Gömlu bæjarhúsin í Árbæ, býlinu þar sem minjasafn Reykjavíkur nú stendur, þykja fara vel þar sem þau lúra á hæðarbrún með gróin þök og þunglamalega, hæfilega skakka grjót veggi. Þegar gestir líta þau augum á björtum sumardegi dettur víst fáum í hug að þar hafi ríkt annað en friðsæld og kærleikur í aldanna rás, kannski í bland við örlítil vanefni á köflum. Fólska og illvirki virðast víðs fjarri. Samt sem áður komst bærinn í annála fyrir mannvíg sem þar var bruggað, ástríðumorð, og þótti einhver óhugnanlegasti atburður þess tíma. Áður en vikið er að morðinu sjálfu verður farið nokkrum orðum um baksviðið.
Líklegt er að búskapur hafi byrjað í Elliðaárdal fljótlega eftir landnám, bæði vegna gróðursældar og hlunnindanna sem fólust í laxveiðinni. Árbær er þó ekki nefndur í heimildum fyrr en á 15. öld og var þá hjáleiga í eigu Viðeyjarklausturs. Hafði hann líkast til verið færður klaustrinu gefandanum til sáluhjálpar. Konungsjörð varð bærinn síðan við siðaskiptin, 1550. Fyrstu glöggu myndina af Árbæ og búendum hans er að finna í jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá árinu 1704. Vill svo til að þá bjó þar hið ógæfusama fólk, sem kom við sögu fyrrgreinds mannvígs. Lýsing á Árbæ og kvöðum sem honum fylgdu ber ekki með sér að hann hafi verið eftirsóknarverður til búsetu. Meðal annars segir orðrétt í jarðabókinni: „Tún meinlega grýtt og þýfð. Engi mjög lítið . . . Torfskurður til húsagjörðar nægur, en til eldiviðar tekur hann mjög að þverra.“ Samt sem áður var tvíbýli í Árbæ. Annar ábúandinn hafði þrjár kýr, kvígu og tvo hesta. Hinn ábúandinn hafði einnig þrjár kýr, naut, kálf og einn hest. Hvorugur þeirra hafði sauðfé. Af bæjarhúsum eru lýsingar litlar, en þó ljóst að húsin sem nú eru í Árbæ eru líkust höll miðað við það sem þá var.
Álögur á búendur voru þungar þrátt fyrir að ekki virtist af miklu að taka. Kaþólska kirkjan hafði þótt óvægin í skattpíningu á leiguliðum sínum, en verri reyndust þó konungsmenn á Bessastöðum. Landskuld, þ.e. leiga af jörðinni sjálfri, var greidd með fé á fæti eða fiski. Af bústofninum, sem einnig var konungseign, greiddist leiga í smjöri. Ofan á þetta bættust umtalsverðar vinnukvaðir: Við sjóróðra frá Örfirisey, veiðar í Elliðaánum, heyskap í Viðey, mótekju, hrístekju og fleira. Einnig bar landsetum að lána hross til ýmissa verka. Konungur hafði slegið eign sinni á laxveiði í Elliðaánum og lágu þung viðurlög við veiðiþjófnaði þar.
Á þesum tíma, árið 1704, bjó að hálfum Árbæ maður er Sæmundur hét, Þórarinsson, 41 árs gamall, grímsneskur að ætt. Kona hans hét Steinunn Guðmundsdóttir, 43 ára, og var Sæmundur þriðji eiginmaður hennar. Hjá þeim voru þrjú börn hennar af fyrra hjónabandi. Á móts við þau bjuggu Sigurður Arason, 26 ára gamall, ókvæntur, og móðir hans. Um fólk þetta er mjög lítið vitað annað en það sem varðar ytri hagi. Og vafalaust hafði það hugann að mestu leyti við að framfleyta sér frá degi til dags. Þó er ljóst að sterkar tilfinningar leyndust undir yfirborðinu, því að kærleikar miklir urðu með þeim Sigurði og Steinunni. Fór svo að hún eggjaði hann til að fyrirkoma bónda sínum með einhverju móti. Heimildir greina hins vegar ekki frá því hvað rak hana til slíks örþrifaráðs.
Sunnudagskvöld eitt í septembermánuði fóru þeir Sigurður og Sæmundur til veiða í Elliðaánum. Ekki verður betur séð en þeir hafi gert það í heimildarleysi, sbr. eignarhald konungs á ánni og veiðibann sem fyrr greinir. Er tvímenningarnir voru staddir við Skötufoss, neðarlega í ánum, gekk Sigurður aftan að Sæmundi, sló til hans með einhverju barefli og hratt honum fram í hylinn. Við yfirheyrslu síðar sagðist hann einungis hafa ýtt Sæmundi fram af fossinum með svonefndu dútré, sem er lítil tréfjöl, og hefur sjálfsagt með því viljað draga úr óhugnaði verknaðarins.
Daginn eftir að þetta gerðist lét Sigurður þau boð ganga til sveitunga sinna að Sæmundur væri saknað. Söfnuðust menn saman til leitar og fannst lík Sæmundar fljótlega í ánni. En hann var ekki bólginn eins og þeir er drukkna og þótti sýnt að hann hefði dáið á þurru landi. Líkið var nú grafið og leið síðan nokkur stund.
Smám saman kom upp orðrómur um að Sigurður væri annaðhvort valdur að dauða Sæmundar eða byggi yfir vitneskju um afdrif hans. Var nú gengið á hann og er hótað var að grafa upp líkið gekkst hann við morðinu. Var þá einnig gengið á Steinunni og viðurkenndi hún þátttöku sína eftir nokkrar umtölur yfirvaldsins. Athyglisvert er hve auðvelt virtist að fá játningu þeirra því að hún jafngilti líflátsdómi. Játning Sigurðar rennir stoðum undir að hann hafi verið verkfæri í höndum Steinunnar og iðrast gerða sinna. Einnig ber að hafa í huga að á þessum tíma var fólk guðhrætt í orðsins fyllstu merkingu og trúði á elda vítis. Þau voru tekin af lífi í Kópavogi skömmu síðar. Sigurður var höggvinn en Steinunni drekkt. „Fengu þau bæði góða iðran og skildu vel við“ segir í Vallaannál.
Ekki er ljóst hvar þau Sigurður og Steinunn voru grafin. Árið 1938 gerðist það hins vegar að vegagerðarmenn rákust á dys við Kópavog, örskammt fyrir austan Hafnarfjarðarveg, þar sem voru tvö lík. Var annað þeirra síðhært, en hitt höfuðlaust.“
Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins 21. október 1995, bls. 11.
Skötutjörn.
Fornleifar – gripafræði
Gripafræðin er stærsta einstaka fræðasviðið innan fornleifafræðinnar. Sviðið er reyndar það umfangsmikið að enginn getur verið sérfræðingur í öllum gripum allra landa á öllum tímabilum sögunnar, jafnvel innan einstakra svæða. Þess vegna er sérhæfing í faginu nauðsynleg. Það er hægt að verða sérfræðingur í sverðum, bátum, lyklum, hringprjónum og kunna almenn skil á hvað telst til fornra gripa, en sérfræðingur í perlum hér á landi getur átt erfitt með að vera sérfræðingur t.d. í kínverskum perlum allra tímabila.
En hvað er Gripur? Það er hlutur sem maðurinn hefur sett mark sitt á. Venjulega er gripum skipt i þrennt; a) artifact, gripi gerða af mönnum (sem hægt er að flytja með sér með góðu móti), s.s. skrautgripi, verkfæri og áhöld, b) ecofact, mannvistaleifar, s.s. bein, svarf eða aðrar leifar manna, og c) mannvirki, stærri gripir, sem ekki er hægt að flytja með góðu móti, s.s. stærri styttur, hús o.þ.h. Sumt gæti „fallið á milli laga“, s.s. gjall, sem reyndar er flokkað sem „artifact“, en gæti þess vegna verið „ecofact“.
Eitt af því mikilvægasta við gripafræðina eru „context“ eða samhengið. Það að vita samhengi gripa við umhverfi sitt gefur þeim margfallt vægi. Gripur á borði, slitinn frá umhverfi sínu, segir þess vegna lítið, eða jafnvel ekki neitt. Gripur, sem finnst á vettvangi uppgraftar með öðrum gripum, getur sagt heilmikla sögu, lýst menningu, samfélagi, notkun og jafnvel tilurð hans. Þetta skiptir miklu máli í gripafræðinni og ætti að verða fólki, sem finnur óhreyfðan grip að staldra við og íhuga stöðu sína. Þannig gat „sjóbúðarsteinninn“ í tjörninni í Herdísarvík gefið ýmislegt til kynna um „context“ hans við mannlífið þar fyrrum, en hann mun ekki gera það í stofuhillu þess sem fjarlægði hann þaðan (árið 2005). „Gripur án samhengis er lítils virði“.
Gullstytta er vermætari en þyngd hennar í gulli – á vettvangi þar sem hún finnst. Þar er hún afsprengi tiltekinnar menningar og dæmi um verk hönnuðarins. Á borði safnara er hún verðmæt í gulli. Þannig getur gildismat gripa breyst einungis við tilfærslu. „Sjóræningjar“ stunda listaverkauppgröft víða um heim. Í vanþróaðri löndum fá þeir t.d. leyfi stjórnvalda til að grafa „formlega“ á tilteknum stað með þátttöku heimamanna, en á sama tíma eru þeir að grafa „handan við hæðina“ í leit að verðmætum, sem einungis er ætlunin að selja hæstbjóðendum. Það er þó ekki einungis í fornleifafræðinni sem tvískinnungurinn ríkir. Sama birtingarform má sjá víðar í samfélaginu.
Með fornleifum er reynt að enduskapa söguna, menningu eða samfélag. Þess vegna er svo mikilvægt að skrá jafnan alla „contexta“ af nákvæmni og lýsa þeim vel. Skráningar Daniels Brunn voru t.a.m. mjög nákvæmar miðað við skráningar flestra annarra fyrrum. Það var ekki fyrr en um 1990 að fornleifafræðingar fóru að skrá gripi, sem fundust, bæði af nákvæmni og með samræmdum hætti. Fyrrum var vandinn sá að fallegri, heillegri og áhugaverðari gripir voru skráðir, en aðrir síður. Í dag er hægt að skrá samhengi gripa á vettvangi með ýmsum hætti, en mikilvægt er að halda sama skráningarfyrirkomulagi í gegnum allan uppgröftin, ekki síst fyrir þá, sem á eftir koma. Hins vegar hefur verið, er og verður alltaf spurning hvað eigi að skrá og hvað ekki. Líklegt má telja að sumt af því sem ekki er skráð í dag, s.s. skeljar, gætu þó orðið áhugavert rannsóknarefni sérfræðinga í framtíðinni.
Stigsmunur er að rannsaka forsöguleg og söguleg tímabil. Í fyrrnefndum tímabilum skipta gripirnir öllu, en í hinum síðarnefndu er engu að síður mikilvægt að þekkja hinar skráðu heimildir, sem lagðar hafa verið til grundvallar. Þótt form og notkun áhalda hafi lítið breyst um langan tíma hafa ný orðið til. Hvenær það varð er nauðsynlegt að vita.
Á skömmum tíma hafa orðið tengslarof með kynslóðum. Ef bóndi, uppi um 1920, hefði staðið á bæjarhól þar sem uppgröftur ætti sér stað, gæti hann nafngreint svo til alla gripi, sem þar birtust. Annar bóndi, árið 2005, ætti erfitt með að nefna slíka gripi með nafni.
Sérhver hlutur báts hét eitthvað. Sérhver hlutur rokksins hét eitthvað. Í fornleifauppgrefi er líklegt að hvorutveggja komi ekki upp í heilu lagi, heldur í hlutum. Þess vegna er svo mikilvægt að þekkja hvað hver hlutur hét – eða a.m.k. bera kennsl á hann sem hluta úr þeim tiltekna grip.
Sérhver hlutur hafði hlutverk. Hnífur var t.d. notaður til margvíslegra verka, s.s. búrhnífur, eldhúshnífur eða skurðarhnífur. Á sama hátt gat steinn með gati verið notaður sem kljásteinn, hurðaloka eða þyngdarsteinn. Finnist margir steinar saman er líklegt að þarf sé um kljásteina að ræða. Allt þetta þarf að hafa í huga í „contextum“ þegar gripir finnast á vettvangi.
Ferli gripa er mikilvægt, allt frá uppgraftarstað til safns. Mörg slys hafa orðið á þessari löngu leið. Nægilegt er að ógætinn starfsmaður leggi t.d. kljástein ofan á glerperlu. Þess vegna er svo mikilvægt að gefa öllu góðan gaum, skrá allt vandvirknislega í „contextum“, staðsetningum, hnitakerfum og y og X, auk þess sem skrá þarf allar þekktar upplýsingar s.s. fundarnúmer og fjölda gripa. Margir gripir á sama stað, t.d. leikerkjabrot eða naglar, fá venjulega eitt fundarnúmer, og því er nauðsynlegt að lýsa því öllu mjög vel.
Á fundarstað þarf að huga að „lyftingu“ gripa sem og væntanlegri forvörslu þeirra. Leður þarf t.a.m. skjótari meðhöndlun en bein. Fara þarf vel yfir einstaka gripi, þvo þá (ef það á við – hér kemur að hinu margminnistæða tannburstanotkunartímabili í fornleifafræðinni), og athuga hvort gripir eru rétt flokkaðir eða skráðir.
Þá er komið að því að skrá gripi í gagnagrunn, s.s. eftir númeri, tegund, efni, þyngd, lýsingu o.s.frv. Hægt er að flokka gripi með fleiri en einni aðferð, en mikilvægust er hin kerfisbundna samræmda flokkun á einum og sama uppgraftastaðnum. Við uppgröftin á Bessastöðum, sem tók langan tíma og fara þurfti í gegnum nokkur mannvistarlög, var t.d. notuð fleiri en ein skráningaraðferð. Það er og getur verið slæmt fyrir þá sem á eftir koma.
Ljósmyndun gripa er nauðsynleg sem og teikning af mikilsverðari gripum. Skýrsluskrif eru yfirleitt lokahnikkurinn á hverjum uppgrefti, en stundum getur þurft að bíða með birtingu lokaniðurstaðana því senda getur þurft einstaka gripi til sérfræðinga, t.a.m. jarðfræðinga, málmfræðinga, plöntufræðinga eða annarra, og þá getur lokaniðurstaðan tekið allnokkurn tíma.
Túlkun gripa er eitt mikilvægasta verkefni fornleifafræðingsins. Í því sambandi þarf að hafa margt í huga, en mikilvægt er að fara varlega í allar yfirlýsingar, þ.e. „dempa lýsingar“ á túlkun þeirra. Hin „vísindalega“ aðferð er mikilvæg í þessu sambandi. Benda má á að hér getur reyndar verið um einn veikasta hlekk fornleifafræðinnar, en jafnframt einn þann vandmeðfarnasta. Hin „vísindalega“ varfærni getur á stundum hamlað mögulegri framþróun og umleitun, en hún er eftir sem áður nauðsynleg.
Við túlkun gripa þarf að huga að og spyrja að samhenginu (contextum) sem fyrr sagði (hvar, tími og rúm), með hverju fannst gripurinn, var hann innlendur, erlendur eða aðfluttur, skýrir fundarstaðurinn ástand og tilvist hans, hver eru viðskiptatengslin, skrautið, menningarlegt samhengi, tengsl við þjóðhætti (etnógrafíska nálgun), samanburð á milli staða/svæða, varðveislu (absence = vantar, presence = það sem sést), endurspeglun samtímans (geta sagt til um starfsemi á staðnum, s.s. hvort um var að ræða skála, eldhús eða smiðju í fortíð og nútíð, en ekki framtíð), aukningu eða rýrnun, svæðisbundna tilvist, typologiu (tísku, gerðfræði) og félagslegs- efnahagslegs- eða menningarlegs munar.
Hafa ber í huga að jafnan er mikilvægt, til að fá raunhæfa niðurstöðu, að hafa til grundvallar einstökum rannsóknum samanburð við einstaka staði innan svæðis eða á milli einstakra svæða.
Hér er einungis drepið á það allra helsta sem gripafræðin innan fornleifafræðinnar þarf að hafa að leiðarljósi þegar einstaka gripur er annars vegar. Framangreint er því einungis yfirlit (innsýn), en ekki fullkomin lýsing á fræðigreininni.
Heimild:
Framangreint er að meginefni til fengið úr kennslustund GG í fornleifafræði við HÍ árið 2006.
Fornleifar undir Bessastaðastofu.
Ísólfsskálahraun – gat
Erling Einarsson, áhugasamastur Grindvíkinga að leita að áður ófundnu, helst stöðum, sem enginn hefur áður stigið niður fæti, rakst nýlega á lítið, nýmyndað, gat í sléttu hrauni skammt austan Ísólfsskála. Það þarf góða sjón, athyglisgáfu og kunnugleika til að geta greint svo lítið gat í víðfeðminu. Hann var reyndar með FERLIRshúfu umrætt sinn – og af Skálafólkinu [r]unninn.
Í einni FERLIRsferðinni fyrir skemmstu var m.a. hugað að gatinu. Það er í þunnri hraunhellu eldra hraunsins, sem þarna er. Nýrra hraunið hefur verið nefnt Skollahraun, en Skálinn er á því eldra, líklega frá fyrra hlýskeiði. Það hraun mætti þess vegna nefna Ísólfsskálahraun, sbr. Krýsuvíkurhraun og Herdísarvíkurhraun austar.
Nú var ferðinni sérstaklega beint að þessu gati, sem var um fet í ummál. Þegar priki var stungið niður nam það botn á u.þ.b. metersdýpi, en hvergi var fyrirstöðu að finna innar. Gaf það von um umferðarvæna rás.
Eftir að hafa stækkað gatið nægilega með járnkarli til þess að maður gæti komist niður hófst könnun undirheima Skálans. Hafa ber í huga að áður hafa áhugaverðir og sérstakir hellar fundist í námunda við Ísólfsskála. Einn þeirra var um tíma í túninu austur af gamla bænum, sunnan þess nýja, en fyllt var í opið undir lok síðustu aldar. Erling telur sig þó vita hvar það er og gæti gengið að því ef á þyrfi að halda. Mokstur og annað jarðrask þyrfti þó eðlilega samþykkis viðkomandi. Þá er stutt að minnast hellis þess, sem kom í ljós við gerð nýja Ísólfsskálavegar (Suðurstrandarvegar – það virðist alltaf þurfa að nefna örnefnin eitthvað annað þegar nýtingin verður önnur, sbr. orðið Háaleiti þar sem nú er Keflavíkurflugvöllur [Kevlavik International airport eða Reykjavik airport eins og gefið er í skyn víða í útlenskum flughöfnum.
En það þarf þó ekki alltaf útlendinga til]. Örnefnið Háaleiti var þar sem núverandi íbúðarbyggð á vallarsvæðinu er nú. Á Háleiti var Kalka, sem síðar fór undir flugvöllinn. „Útlenskir“ Íslendingar, sem annað hvort hafa ekki kynnt sér örnefnin, sem fyrir voru, á svæðinu, nenna því ekki eða hafa ekki áhuga á því, datt í fyrstu í hug hug að nefna svæðið Sólarhæðir, sbr. þegar Selbrekku var breitt í Sólbrekku norðan Seltjarnar (sem reyndar hét Selvatn). Nýjasta tilraunin er að nefna Háaleitissvæðið Vallarheiði, sem á þá væntanlega að mynna á notkun þess fyrir breytingu. Segja má að þarna sé Keflvíkingum, mörgum hverjum, vel lýst, sem og viðhorfi þeirra til sögu og menningar svæðisins.
Jæja, aftur að hellinum við nýja Ísólfsskálaveginn. Þar rak gröfumaður arminn niður úr þunnri skel og við blasti hyldýpi. Í ljós koma geymur, sem hafði myndast eftir að ísstykki er bráðnað hafði úr jökli, sennilega frá því í lok síðustu ísaldar. Áður hafði stykkið umverpst ösku og gjósku og því ekki náð að bráðna fyrr en ofur hægt og á löngum tíma. Það var ekki fyrr en gröfumaðurinn mætti á svæðið að það opinberaðist,
Ofar er Slaga. Í henni eru elstu ummerki bergmyndunar á Reykjanesskaganum, jökurispuð innskot frá fyrri hlýskeiðum.
Og þá aftur að litla opinu í Ísólfsskálahrauni. Þegar stigið hafði verið fyrsta sinni niður á hellisgólfið reyndi myrkrið að villa sýn. Þetta var lítið skref, en stórt í sögu FERLIRs. Sigur myrkursins þarna um 20 alda skeið stóðst ekki opinberunina. Í ljós kom tómarúm í umlykjandi hrauninu. Það var þó ekki komið af engu því augljóst var að þarna hafði glóandi kvika streymt um við myndun hraunsins eftir að yfirborð þess hafði náð að storkna. Þegar fóðuröflunin fór þverrandi rann innkoman hægt áfram undan hallanum uns hún stöðvaðist við hlið samafurðum hennar, undir og yfir. Þótt „hellirinn“ sé ekki stór á hraunhellamælikvarða landsins er hann að mörgu leyti „læsilegri“ en margir stærri bræður hans. Og vegna þess hversu loftið er þunnt má víða sjá rætur ofanágróðursins liggja niður úr loftinu. Að vísu liggur þröng rás úr hellinum til suðvesturs, en ekki var aðstaða til að fylgja henni eftir að þessu sinni.
Erfitt var um myndatökur þarna niðri vegna móðu er fyllti hellinn bæði fljótt og vel, enda væntanlega kærkomin tilbreytni.
Frábært veður.
Ísólfsskáli.
Hans Hedtoft ferst
Í Morgunblaðinu árið 1959 er sagt frá bjarghring úr Hans Hedtoft er rak í Grindavík, en farið hafði farist við Grænland fyrr á árinu:
„Aðfaranótt miðvikudags rak bjarghring úr danska Grænlandsfarinu Hans Hedtoft á land í Grindavík. Mun ekkert annað hafa fundizt svo öruggt sé úr Grænlandsfarinu, sem fórst með farþegum og allri áhöfn [95 manns] SA af Hvarfi á Grænlandi 31. janúar sl. vetur. Er bjarghringurinn óskemmdur og greinilega merktur Hans Hedtoft, Köbenhavn. Er Magnús Hafliðason bóndi á Hrauni, sem er austasti bær í Þórkötlustaðahverfi í Grindavík, kom út á miðvikudagsmorgun og niður á tún, sá hann hvar glampaði á eitthvað hvítt úti í fjörunni. Um nóttina hafði verið mikið rok á suðaustan og brim, en um morguninn var komið logn. Gekk hann út með fjörunni og fann óskemmdan bjarghring uppi í malarkambinum.
Tók hann hring inn heim með sér og um kvöldið hafði hann orð á því við Árna Eiríksson, bílstjóra á áætlunarbíl Grindvíkinga, að hann hefði fundið hring merktan Köbenhavn. Árni athugaði hringinn nánar og sá að hann var af Hans Hedtofi. Er hann kom til Reykjavíkur í gær, gerði hann Henry Hálfdánarsyni, framkvæmdastjóra Slysavarnafélags-ins aðvart. Hringdi Henry til Magnúsar bónda og bað hann um að halda á hringnum með sér er hann kæmi næst í bæinn. Sennilega leystur frá skipinu eins og áður er getið, sér nær ekkert á bjarghringnum þó hann hafi hrakizt i sjó í 9 mánuði. Svolitlar skellur eru komnar í rauða litinn, en áletrunin er alveg óskemmd og greinileg. Á tveimur stöðum er eins og eitthvað hafi höggvizt í hringinn og aðeins er að byrja að koma skeljungur á kaðalinn, sem er alveg heill. Enginn spotti er i hringnum og tóið hvergi slitið, svo engu er líkara en að hringurinn hafi verið leystur af skipinu, en ekki slitnað frá því.
Fréttamaður Mbl. átti í gær tal við Magnús bónda á Hrauni. Hann er 68 ára gamall, fæddur og uppalinn á Hrauni og því oft búinn að ganga f jöruna neðan við bæinn. Sagði hann að þar ræki oft ýmislegt, einkum hefði borizt mikið dót á land þar á stríðsárunum, enda væri þetta fyrir opnu hafi. Sagði Magnús að þarna ræki oft brot úr bjarghringum, en þeir ‘væru oftast of illa farnir til að þekkjast.
Við hliðina á hringnum af Hans Hedtoft lá einmitt eitt slíkt brot.
Bjarghringir eru ákaflega léttir og telur Magnús líklegt að hringurinn af Hans Hedtoft hafi borizt fyrir vindi, fyrst suðurum undan norðanáttinni í vetur. þá upp undir Suðurlandið í vestanáttinni og loks hafi honum skolað upp í Grindavík undan suðaustanrokinu, sem staðið hefur nú um langan tíma. Annars er ómögulegt að segja hvað svona léttir, fljótandi hlutir geta flækst, sagði Magnús að lokum.“
Bjarghringurinn nú er varðveittur í kapellunni í Qaqortog eða Julianehåb á Grænlandi.
Heimild:
-Morgunblaðið 9. október 1959, bls. 24.
Hans Hedtoft.
Ölfusvatn – Nesjavellir
Í „Fornleifar í landi Nesjavalla og Ölfusvatns„, Fornleifastofnun Íslands 1997, er m.a. fjallað um Ölfusvatn og Nesjavelli. Hér verður sagan rakin sem og nefndir nokkrir áhugaverðir staðir þeim tengdum:
Fyrri fornleifaathuganir á Ölfusvatni
Ölfusvatn – bæjarhóll.
„Ekki hafa verið gerðar neinar fornleifaathuganir í landi Nesjavalla svo vitað sé fyrr en sumarið 1997 en tæpar þrjár aldir eru síðan menn fóru að veita fornleifum á Ölfusvatni athygli. Í skýrslu um heimildakönnun um fornleifar á Hengilssvæðinu er gefið yfirlit um fornleifaathuganir sem gerðar hafa verið á svæðinu en hér verður fjallað um Ölfusvatn sérstaklega.
Í lýsingu sinni á Háldans Jónssonar á Ölfushreppi frá 1703 getur hann um Grímkelsgerði og Grímkelsleiði á Ölfusvatni en lýsir þeim ekki nánar (SSÁ, 234-50). Árið 1817 sendi konungleg nefnd um varðveislu fornminja bréf til allra sóknarpresta á Íslandi og bað þá að skrifa skýrslur um fornleifar og gamla gripi í sínum sóknum.
Ölfusvatn – túnakort 1918.
Presturinn á Þingvöllum, Páll Þorláksson (1748-1821) svaraði nefndinni um hæl með allítarlegri skýrslu. Á Ölfusvatni getur hann um hoftóft sem ennú sjáist gjörla til og að það sé talið hofið sem Grímkell brenndi. Sunnan við hofið segir hann frá stóru gerði með þúfu í sem kallað sé Grímkelsleiði. Einnig getur hann um kirkjugarð og stein sem standi í sáluhliði sem talinn sé frá pápískri öld og haldi sumir að hann hafi staðið fyrir kirkjudyrum með vígðu vatni en aðrir að hann hafi verið skírnarfontur. Þessar lýsingar koma ágætlega heim við aðstæður í dag. Hofkofinn, fjárhús sem byggt var á hoftóftinni um miðja 19. öld, er þó heldur vestar en norðar af Grímkelsgerði sem nú er kallað og ekki er hægt að sjá af lýsingu Páls hvar kirkjugarðurinn hefur verið eða bollasteinninn (FF, 219-20).
Ölfusvatn – uppdráttur/G.Ó.
Tuttugu árum síðar sendi Hið íslenska bókmenntafélag út spurningalista til sóknarpresta og var þar m.a. spurt um merkar fornminjar, þar á meðal dómhringa. Með því hugtaki var yfirleitt átt við hringlaga torfgarða þar sem dómar áttu að hafa farið fram en presturinn á Þingvöllum, Símon Beck, hefur ekki skilið það þannig heldur lýsir hann sem dómhring steini einum á Ölfusvatni sem menn sögðu vera blótbolla. Það er sýnilega sami steinninn og hafði verið talinn skírnarfontur af forvera Símonar því hann telur bollann hestklyf (50 kg) að þyngd og bollann taka 4-5 merkur (1-1,25 l) (SSÁ, 190). Á þessum stutta tíma hafði afstaða manna til fortíðarinnar breyst á afgerandi hátt: Það sem áður voru óáhugaverðar leifar úr pápísku voru nú orðnar merkar minjar sem endurvörpuðu ljóma glæstrar fortíðar á staðnaðan samtímann. Ekki getur Símon um aðrar fornminjar í landi Ölfusvatns.
Ölfusvatn – hoftóft.
Á áttunda áratug 19. aldar reið danski fornfræðingurinn Kristian Kålund um landið og skoðaði íslenska sögustaði. Hann kom við á Ölfusvatni til að skoða menjar um Grímkel goða. Kålund lýsir blótsteininum, gerðinu, leiðinu og hoftóftinni sem hann kallar Hofhól og greinir frá því að fjárhús hafði þá verið byggt á tóftunum. Honum var raunar sagt að blótsteinarnir hefðu verið tveir og að sá sem hefði staðið framan við kirkjuna og hefði verið stærri væri nú kominn í hleðslu í húsgrunni. Hinum steininum lýsir hann sem ferköntuðum með skál ofaní, sem sé um eitt fet í þvermál (um 30 cm). Sá steinn var þá heima við bæinn og er sennilega sá sami og er þar nú. Kålund fannst lítið til koma um blótsteinakenninguna og taldi skýringu Páls líklegri að steinninn eða steinarnir hefðu verið skírnarfontar (KK II, 89).
Ölfusvatn – tóft.
Skömmu síðar, eða 1880 var Sigurður Vigfússon við rannsóknir á alþingisstaðnum á Þingvöllum en fór einnig um nágrannasveitirnar og skoðaði minjastaði sem tengdust sögu þinghaldsins eða frásögnum Íslendingasagna. Sigurður segir frá sömu stöðum og Kålund og hefur litlu við frásögn hans að bæta utan að hann fékk að vita að stærri blótsteinninn væri í hleðslu í kjallara og einnig var honum sagt að þriðji steinninn hefði verið til, minni en hinir en hann væri nú týndur. Öfugt við Kålund var Sigurður ekki í vafa um að steinarnir hefðu verið notaður við heiðið helgihald og einnig taldi hann að staðsetning Grímkelsleiðis kæmi alveg heim við frásögn Harðar sögu um að Grímkell hefði verið jarðaður suður frá garði (Árbók 1880-81, 19-20).
Brynjúlfur Jónsson frá Minna-Núpi (Kålund).
1898 var arftaki Sigurðar sem könnuður Fornleifafélagsins, Brynjúlfur Jónsson frá Minna-Núpi á ferð í Grafningi. Hann lýsir alveg sömu stöðum og Kålund og Sigurður og eru lýsingar hans öllu nákvæmari um stærð og lögun en bæta að öðru leyti engu við. Hann lýsir blótsteininum í hlaðinu en getur ekki um hinn eða hina sem Kålund og Sigurði hafði verið sagt frá (Árbók 1899, 2-3).
Eftir að Brynjúlfur hætti ferðum sínum skömmu eftir aldamótin 1900 dró mjög úr fornleifaathugun á Íslandi, en nýr þjóðminjavörður, Matthías Þórðarson, ferðaðist ekki um landið eins og forgöngumenn hans heldur sat lengstum í Reykjavík og hugði að safngripum. Matthías friðlýsti þó fjölda minjastaða á Íslandi í kringum 1930 og fór þar mest eftir skýrslum þeirra Kålunds, Sigurðar og Brynjúlfs. Meðal þeirra voru Grímkelsleiði í túninu á Ölfusvatni en einnig steinn með áletruðu ártali ‘1736’ í túninu aftan við bæinn. Steins þessa er ekki getið í fornleifaskýrslum og hlýtur Matthías að hafa skoðað hann sjálfur. Einnig er haft eftir Sæmundi Gíslasyni bónda á Ölfuvatni að Matthíasi hafi ekki þótt tóftaleifarnar undir Hofhúsinu sannfærandi og talið að hofið væri sunnan við túnið þar sem er tóft sem annars hefur verið talin vera af fjárborg. Þetta mun vera ástæðan fyrir að Hofhúsið var ekki friðlýst en Matthías lét friða nær allar slíkar tóftir sem hann vissi um. Ekki er vitað hvenær hann kom að Ölfusvatni en dauðaleit hefur ekki verið gerð í dagbókum hans.
P.E. Kristian Kålund – 1844 – 1919.
Skipuleg fornleifakönnun hefur ekki farið fram á Ölfusvatni fyrr en sumarið 1997 en 1958 skoðaði Kristján Eldjárn nokkrar tóftir á svæðinu og gróf m.a. í svokallaðar Grímkelstóftir fyrir neðan túnið í Króki. Markmið þessarar athugunar var að fá staðfestingu á sögn Harðar sögu um býlið Grímkelsstaði þar sem Grímkell bjó áður en hann flutti bæ sinn að Ölfusvatni. Egill Guðmundsson á Króki sýndi Kristjáni tóftir á fleiri stöðum, m.a. í Álftalautum og sést þar í einni tóftinni að grafin hefur verið lítil ferköntuð hola sem sennilega er eftir Kristján.
Árið 1989 stóð til að leggja veg heim að Ölfusvatni, vestan árinnar og var bent á að fyrirhugað vegarstæði færi í gegnum rúst af fjárborg sunnan við túnið. Guðmundur Ólafsson gerði vettvangsathugun sama ár og var ákveðið að færa veginn svo hann spillti ekki tóftinni. Guðmundur lýsti fjárborginni og gerði lauslegan uppdrátt af bæjarstæðinu á Ölfusvatni.
1847. Skálholtsstólsjörð. Kirkjustaður fram á 16. öld og átti kirkjan hálft heimaland og Sandey. Jarðarinnar er getið í Harðarsögu og Sturlungu (1243). Í eyði síðan 1947. Sagt er að Arnarbæli í Ölfusi hafi átti skógarítak í Þverárdal. Eign Hitaveitu Reykjavíkur en sneið vestan af jörðinni er sumarbústaðarland í einkaeign. Hagavík og Krókur eru gamlar hjáleigur frá Ölfusvatni en auk þeirra áttu Nesjar sókn til Ölfusvatns.
Matthías Þórðarson – 1877- 1961.
1918: Tún 5,3 ha, að mestu slétt. Matjurtagarðar 582 m2. Þverárdalur út við Hengil er mýrlendur að hluta; skiptast síðan á melar með valllendis- og mosagrónum dölum og dalverpum en brekkur eru víða klæddar nokkrum tegundum lyngs og víðis.
Kringlumýri er slægjuland þar sem veitt hefur verið á. Stóribaugur er nef í ánni sem hún hljóp yfir í vetrarleysingum og þótti hey þaðan vera töðu ígildi. Skógarkjarr nokkurt er vestan í Ölfusvatnsfjalli, Líkatjarnarhálsi, Sandfelli að austan og svonefndum Ölfusvatnshólum. Veiði er í Þingvallavatni 1 1/2 km frá bænum. Mótak er norður af túninu.≅ SB III, 264. Túnið er nú komið í sinu og mosa. Bæjarmýrin norðan við það er farin að teygja sig inn fyrir túngarðinn í átt að bæjarhólnum. Túnið hefur verið að stórum hluta slétt, en stórþýfi er hér og þar, einkanlega NA af bæjarhól. Hér og þar í túninu, einkum SV-til í því eru stakar litlar þúfur eða hrúgur sem eru möl og aur úr fjallinu sem mokað hefur verið saman. Túnið virðist sáralítið hafa verið stækkað frá því túnakortið var gert, mest til NA. Þar er helst að sjá að það hafi verið ræktað upp á mel, því að þar sem því sleppir til austurs taka strax við svotil gróðurlausir melar. Norðan við túnið er hinsvegar mýri. Sigurður Hannesson telur að túnið hafi ekkert verið stækkað eftir 1918 og að þaksléttur í brekkunum ofan og vestan við bæinn hafi verið yngstu túnaukarnir. Túnið á Ölfusvatni var fyrsta túnið í Grafningi sem girt var með vír, skömmu eftir aldamótin 1900. Ölfusvatn þótti góð jörð til beitar og fyrir veiðar en erfið um slægjur.“
Í „Fornleifakönnun vegna endurbóta og lagningu bundins slitlags á Grafningsvegi efri„, Náttúrustofa Vestfjarða 2018 er einnig fjallað um Ölfusvatn og Nesjavelli:
Ölfusvatn
Ölfusvatn – fjárborg.
„Ölfusvatns er getið í Harðarsögu og í Sturlungu. „Grímkell bjó fyrst suður að fjöllum skammt frá Ölfusvatni. Þar er nú kallað á Grímkelsstöðum og eru nú sauðahús… Hann færði bú sitt… til Ölfusvatns, því að honum þóttu þar betri landkostir“ er talin hafa búið fyrst á Grímkelsstöðum og flust síðar til innar jarðarinnar. Á Grímkelsstöðum eru og alla tíð verið stórbýli í Grafningi þar sem höfðingjar og valdamenn hafa búið. Það bjó árið 1243 Símon Kútur sem hafið verið fylgdarmaður Gissurar Þorvalssonar og hafði barist með honum í Örlygsstaðabardaga og í Reykholti við aftöku Snorra Sturlusonar.
Flest bendir til þess að Ölfusvatn hafi verið aðalbýlið á miðöldum í Grafningi þar hefur líklega verið kirkja frá kristnitöku. Í Jarðabók Árna og Páls segir „So segja menn hjer hafi að fornu kirkja verið, sjást enn nú merki kirkjugarðs og leiða, og er þar nú skemmuhús, sem kirkjan skyldi staðið hafa. Enginn man hjer hafi tíðir fluttar verið“.
Gamlasel
Gamlasel.
Krosshóll og Selhóll norðan við Gamlasel tilheyra báðir Ölfusvatnshólum. Milli Klettagrófar og Gamlasels er brött brekka með dálitlum skriðum, sem nær alveg niður að ánni og hár bakki neðst. Eftir þessum bakka lágu suðurferðargöturnar og voru kallaðar Tæpur. Fyrir vestan Tæpur norðan árinnar er Gamlasel undir Selhól. – Gamlasel er undir Selhólnum að sunnan. Þar er hvammur með tóftum.≅ segir í örnefnalýsingu. Selið er stök tóft í breiðum hvammi sunnan undir Selhóli um 70 m vestan við Ölfusvatnsá. Merkt gönguleið upp á Ölkelduháls liggur hjá tóftinni. Í hlíðarótum, í breiðum hvammi sem er u.þ.b. 100×100 m, með smáþýfðum grasmóa innantil en lyngmóa nær ánni. Víðikjarr er í hlíðinni innan við tóftina.
1706: Selstaða er í eigin landi.≅ 1838: […] margar eru [selstöður] so nærri, að litlum hagamun sýnist numið geta. Ein var samt tekin upp í fyrra frá Ölvesvatni og aftur brúkuð í sumar; mun það því ekki hafa skaði þókt.≅ SSÁ, 182. Það er sennilega Nýjasel sem rætt er um í sóknalýsingunni.
Sels frá Ölfusvatni er getið í Sturlungu er Björn Dufgusson og menn hans leituðu þar uppi Þorstein Guðnason, sem eignað var banasár Snorra Sturlusonar, og handhjuggu hann utan við selið – Sturl, 491.
Seltóftin er með grjót í veggjum en þeir eru mjög hlaupnir í þúfur. Dyr á syðri langvegg, vestarlega. Um 75 m SA við seltóftina er um 30 m langur hóll, sem snýr N-S, með lyngmóa og grjóti upp úr hér og þar. Í N-enda gæti verið lítil tóft m. grjóti í veggjum, mjög breiðum, og dyrum til A.
Nýjasel
Nýjasel.
Suðaustur af Mælifelli, við ána þar sem Gljúfrin enda, er Nýjasel og Seltungur meðfram ánni. – Nýjasel er austan undir Mælifelli, fyrir suðvestan Löngugróf. [Selið] var líka frá Ölfusvatni.
Seltungur […] eru þar skammt frá. Þær liggja meðfram Ölfusvatnsánni, bugður út í ána. Fyrir selinu sést ennþá. segir í örnefnalýsingu. Selið er austanmegin í dalverpi, sem snýr N-S og gengur til N frá Þverá þar sem hún tekur stóran sveig til A, SA við Mælifell. Tóftin er um 200 m norðan við ána og sést ekki frá henni. Undir lítt grónu holti, í brekkurótum. Í dalverpinu er blaut mýri og tjarnir. Fjær eru mosaþembur og flagmóar og enn fjær berir sandar. Norðan við selið meðfram Þverá, allt niður um Ölfusvatnsárgljúfur er mosi ráðandi gróður, en ofanvið, á Selflötum og allt upp undir Ölkelduháls eru víða grösugir móar og grashvammar sem mátt hefur slá. Í örnefnskrá segir ennfremur um Seltungur meðfram ánni: Þar hefur verið ágætt haglendi og nóg vatn í ánni. Ég hef heyrt, að þarna hafi einu sinni verið mikill skógur víða. Nú er þetta allt horfið. Þarna mun hafa verið skógarítak frá Arnarbæli í Ölfusi fyrr á öldum. … Suður og suðvestur af Mælifelli eru Mælifellsflatir [vestur af selinu]. Um 1938 og áður voru þessar flatir stórar (margir hektarar). Nú er þar aðeins smáflöt eftir. Þarna hefur verið og er enn mikill uppblástur víða.
1838: […] margar eru [selstöður] so nærri, að litlum hagamun sýnist numið geta. Ein var samt tekin upp í fyrra frá Ölvesvatni og aftur brúkuð í sumar; mun það því ekki hafa skaði þókt. SSÁ, 182. Það er sennilega Nýjasel sem hér er rætt um. Rof er í N-vegg á tveimur stöðum. Tóftin snýr N-S og er skipt í 3 hólf. Anna Þórðardóttir f. 17.9.1819 var síðasta selstúlkan í Nýjaseli og jafnframt í Grafningi en selið lagðist af um miðja 19. öld.
Kirkja
Ölfusvatn – upplýsingaskilti.
1706: „So segja menn að hjer hafi að fornu kirkja verið, sjást enn nú merki kirkjugarðs og leiða, og er þar nú skemmuhús, sem kirkjan skyldi staðið hafa. Enginn man hjer hafi tíðir fluttar verið“.
1817: Á Ölvisvatni í Grafningi hefur í fyrri daga Kyrkia verid, og sér þar ennú til Kyrkiugards, þar hefur svo leinge menn til vita stadid Steirn í Sáluhlide, sem mælt er vera mune frá Pápískri Öld, og géta sumir til ad hann mune stadid hafa fyrir Kyrkiudyrum med vígdu Vatne ….
Ekki er nú vitað hvar kirkjan stóð, en hafi hún verið heima við bæinn, eins og líklegt er og ætla má af því að húsinu var breytt í skemmu, þá er sennilegast að hún hafi verið annaðhvort fast sunnan við bæjarhólinn þar sem nú er um 20×20 m rústabunga samtengd honum eða þar sem Hofhúsið stendur nú. Á fyrrnefnda staðnum er hnitið tekið. Þar sést ekkert tóftarlag eða garðsmynd en á síðarnefnda staðnum sést bogadregin garðhverfa austan við fjárhúsið 003, sem gæti verið af kringlóttum garði, um 20 m í þvermál. Í túni. Mælingar eiga við fyrri staðinn, sem áfastur er við bæjarhólinn.
Máldagar kirkjunnar á Ölfusvatni:
Ölfusvatn – loftmynd.
[1180]: Þessi er kirkio maldage at vatne. at þar liggr til sandey oll. oc .xij. hundroþ alna i vatz lande oc i hagavikr lande. oc scal eigi selia lond þesse nema með ollom gæþom. þeim er fylgia. at leyfe biscops þess er i scala hollte er Þar fylgir oc kyr ein. oc scal gefa einnar kyr nyt fra þvi er sio vicna fasta komr. hvern drottens dag. vnz liþr hvita daga. oc mario messo of fosto. oc olafs messo. oc vppstigningardag. oc hvern drottens dag vpp fra olafs messo til vetrar. at vatne scal vera seto prestr. oc syngia þar allar heimilis tiþer. oc .ij. daga rumhelga i viko. oc alla þa daga er messa er til gor. hvern dag messa of iola fosto. oc annan hvarn dag .ij. messor of langa fosto. vigilia hvern dag rumhelgan of langa fosto. syngia .ij. messor fosto dag i imbro dogom of haust oc of vetr. kirkia a kluckur .iij. tiolld vm huerfis I kirkio. alltara klæþe .iij. prestz messo fot full. kertastikur .ij. gloþa ker. oc gloþa jarn. roþo kross. lyse kolo [skirnar sar. oc silfr kalekr*; DI I 270 [* b.v. í AM 263. c. 1200: Kirknaskrá Páls, DI XII, 8
1397: a halft heimaland. Sandey. Kirkiurid [!, kirkiuvid í einu handr.] portio Ecclesiæ vmm .xij. är firirfarandi .c. oc .x. aurar fiell nidur oll firir kirkiu vppgiaurd. DI IV, 94-95
1491×1512: Byskups Stephans maldagi. kirkian a Olversvatni. a heimaland halft. Sandey. kirkiurid. kirkian a nv viij kvgilldi. þar liggur til eirn bær. kirkjan lasin. hana á Skalhollt. DI VI, 47
1553-54: Olvesvatn. kirkian a Olverzvatne ä heimaland halft. Saudey. kirkiuvid. kirkian a nv viij kugillde. þar liggur til eirn bær. kirckia lasin. hana ä Skalhollt. DI XII, 662
1575: CXCIII. Aulvesvatn kirkian ä Aulvesvatne ä hälfft heimaland. Saudeij. kirkiuvid. Jtem kaleik og gomul messuklæde. thangad liggia Nesiar og krokur. DI XV, 644
Hofhús
Ölfusvatn – Hoftóft.
Í fornleifaskýrslu Páls Þorlákssonar prests á Þingvöllum til konunglegu fornleifanefndarinnar 1817segir að enn sjáist gjörla til hoftóftarinnar á Ölvisvatni: ΑI Sudurátt af Hoftoft er ennú sér giörla til á Ölvisvatni … Eins og ádur er um gétid vottar þar til Hoftoptar í nordur af svokolludu Grímkels leide er vera skal þad sama Hof, sem Grímkell brende, og getur um í Holmveria Sogu. Rústernar edur Hríngurinn er nú ummáls 30 Fadmar og standa þar vída Steinar uppur.
1877: Α… på Ölvesvatn … havde [Grimkell] et gudehus, der i sagaen kaldes Torgerd hörgabruds hov, men som dog også ses at have indeholdt billeder af de andre guder. … Spor af dette gudehus Fornleifar í landi Nesjavalla og Ölfusvatns 35 men syd for gården er i tunet en lav höj Hovhol (Hofhóll) hvorpå der står et fårehus, der af stædet bærer navnet Hofhús; her skal gudehuset have stået.
SV 1880: ΑÚti á túninu spottakorn fyrir útsunnan bæinn er fjárhús, sem stendr á flötum hól, bygt fyrir hér um bil 30 árum; það heitir nú Hofhús. Steinar höfðu verið teknir þar upp úr í húsið, og þó vóru steinar eftir niðri; þar sást fyrir vegg eða hleðslu, enn nú verðr ekki í neitt ráðið, síðan húsið var bygt.
Ölfusvatn – kort 1908.
1898: Eitt af fjárhúsum þeim, er standa í túninu á Ölfusvatni, er kallað Hofhús. Þar á hofið Grímkels að hafa staðið, og er sem upphækkun undir húsinu.
Hofkofi er gömul fjárhústóft, rétt norðan við Grímkelsdys. Munnmælasögur segja að þar hafi verið hof í heiðni. Matthías Þóðarson taldi líklegra, að það mynda hafa verið í hól utan (vestan) við túnið, er ber í Tindgil. Sæmundur Gíslason telur að þarna hafi verið gömul fjárborg. segir í örnefnalýsingu.
1989: Fjárhústóft var í túninu suður af gamla bæjarstæðinu, allhár hóll. Þar heitir Hofkofi, og er að sögn staðurinn þar sem hof á að hafa staðið til forna. Tóftin er um 40 m sunnan við S-enda bæjarhólsins (sbr. 002). Hún stendur hátt á rústabungu sem er u.þ.b. 20 m í þvermál og um 1 m há. Í túni. Fjárhústóftin er einföld, með dyr á norðurgafli, en undir henni eru eldri rústir og sést í þær austan við tóftina. Þar er allöng bogadregin þúfa sem gæti verið garðbrot og má með góðum vilja fylgja því suður fyrir tóftina. Af horni bogans má ráð að hringveggur sá hefði verið um 20 m í þvermál og kemur það vel heim við lýsingu sr. Páls á ummálinu, 56,4 m sem svarar til 18 m í þvermál.
Grímkelsleiði
Ölfusvatn – Grímkellsleiði.
Friðlýstar minjar. Í fornleifaskýrslu Páls Þorkelssonar prests á Þingvöllum til konunglegu fornleifanefndarinnar 1817 segir: I Sudrátt af Hoftoft er ennú sér gjörla til á Ölvisvatni mótar til Gérdis nockurs, og er í því hérumbil 4 Fadma laung Þúfa frá nordre til sudurs, er menn kalla nú Grímkéls leide.
1877: ΑStraks neden for (sydöst for) hovhuset er en ved sporene af et gammelt grastörvsgærde indhævet del af tunet kaldet Grimkelsgærde (Grímkelsgerði), her findes I den vestlige udkant tæt ved huset en stor aflang tue, Grimkelslejde (Grímkelsleiði), hvor altså Grimkel skulde være begravet.
Í frásögn Sigurðar Vigfússonar í Árbók 1880-81 segir: … fyrir neðan [Hofhús] skamt í landsuðr, er svo kallað Grímkelsgerði með fornum garði digrum, vallgrónum; gerðið er stórt sem kýrvöllr. Rétt við garðinn inni í gerðinu skamt frá Hofhúsinu … er þúfa stór í túninu, sem kölluð er Grímkelsþúfa; hún er 28 feta löng, enn 8 fet á breidd, snýr í norðr og suðr, og mjórri í norðrendann, afbrugðin öðrum þúfum þar í nánd. Þetta stendr heima við Harðar sögu Grímkelssonar … : ok var hann jarðaðr suðr frá garði.
Ölfusvatn – fjárborg.
1898: Grímkelsgerði heitir forn girðing þar austur á túninu, hér um bil 1 dagslátta að stærð. Suðvestast í henni er sýnt leiði Grímkels. Það er þúfa mikil, nær 5 fðm. löng og nær 1 fðm. á breidd við suðurendann, en mjó í norðurendann, og um 2 al. á hæð.
Grímkelsgerði er í suðvestur frá bænum í um 130 metra fjarlægð. Sjást þar ógreinilegar minjar hringlaga torfgarðs. Grímskelsleiði (dys) er stór þúfa nyrzt í Grímkelsgerði. Var dysin friðlýst af Matthíasi Þórðarsyni fornminjaverði, segir í örnefnalýsingu.
Guðmundur Ólafsson fornleifafræðingur hefur eftir heimildamanni í skýrslu um fornleifar á Ölfusvatni 1989 að leiði Grímkels hefði verið þekkt áður fyrr, en nú vissu líklega fáir eða engir um það.
Þúfan er um 1 m innan (A) við garð Grímkelsgerðis þar sem það er lengst til vesturs, um 30 m ASA við Hofhúsið. Þar sem þúfan er rennur gerðið undir/samanvið veginn. Í túni. Þúfan er aflöng frá norðri til suðurs, mjókkar og lækkar til norðurs, en er hæst og breiðut syðst. Þar sem hún er hæst sést í fjóra litla steina, sem gæti verið raðað af mannahöndum en þeir eru heldur lausir í mosanum og gætu verið nýlega komnir þangað.
Blótsteinn/skírnarfontur
Í fornleifaskýrslu Páls Þorlákssonar prests á Þingvöllum til kongunglegu fornleifanefndarinnar 1817 segir: Á Ölvisvatni í Grafningi hefur í fyrri daga Kyrkia verid, og sér þar ennú til kyrkiugards, þar hefur svo leinge menn til vita stadid Steirn í Sáluhlide, sem mælt er vera mune frá Pápískri Öld, og géta sumir til ad hann mune stadid hafa fyrir Kirkiudyrum med vígdu Vatne adrir ad hann hafe verid brukadur fyrir Skyrnarfont. – Steinninn er á Hæd 1 al dönsk med 5 köntum herum 9 þuml. breidum – í ödrum enda hans er bolli kringlóttur 9 1/2 þuml: vídur og 4 þuml. djúpur.
1839: Búðartóftir eru hér nógar í kring og dómhringir 2r, að eg hygg, annar á Ölvesvatni, er nokkrir meina, að séu gamlir blótbollar. Þeir eru nærfellt hestklyf á þyngd, en það hola í þeim (concavum) hygg eg taki hér um 4 eða 5 merkur, og er það laglega holað, en utar eru þeir allt ólögulegri.
1877: Hjemme ved gården ligger en ikke höj firkantet stenblok, hvori der findes en fadformig fordybning, omtrent fod I tværmål, en anden lignende, men större, skal for öjeblikket være benyttet som grundsten I en af gårdens vægge; om den sidste siger man, at den I sin tid har stået foran den der daværende kirke. Men I övrigt kaldes de her som andetsteds Αblotstene (blótsteinar) og antages at have hört til de gamle gudehuse og været benyttede ved offringene.
Ölfusvatn – blótsteinn.
Sigurður Vigfússon skrifar um blótsteininn 1880-81: Steinn einn er þar í bænum, sem er kringlóttr og nokkuð flatr, hér um bil 2 fet að þvermáli; ofan í hann er bolli krínglóttr, sem er auðsjáanlega höggvinn með nokkrun veginn þvergníptum börmum og nokkurn veginn sléttum botni, og er 10 þuml. að þvermáli og 3 að dýpt. Annar steinn er þar og til, sem eg gat þó ekki séð, þar eð hann mun vera í kjallara undir timbrhúsi í undirstöðu neðantil, enn að honum gat eg ekki komizt, þvíað kjallarinn var fullr af ýmsum hlutum. Þessi steinn er sagðr sýnu betri en hinn fyrri, hann er stærri, hérumbil knéhár eða meira og með dýpra bolla ofaní; ferskeyttr er hann sagðr og líkastr því, sem hann væri sagaðr af enda á ferstrendu tré. Einn var enn til áðr; hann var minnstr og líkastr þessum fyrtalda, enn finst nú ekki. Eg beiddi húsfreyjuna eða ekkjuna, sem þar býr, að reyna að ná þessum steini, sem sagðr er vera í kjallaranum, og geyma þá báða vandlega, þar sem þeir gætu verið til sýnis, og tók hún vel undir það.
BJ 1898: Bollasteinn er á hlaðinu á Ölfusvatni. Hann er úr doleríti og er rúml. 1 al. á hæð, 3 kvart. í þvermál á annan veg en 2 1/2 kv. á hinn. Bollinn nær 9 þuml. á vídd og 5 þuml. á dýpt. Hann er auðsjáanlega mannaverk.≅ Hlautsteinn með bolla stendur í hlaðinu á Ölfusvatni. Sæmundur segir, að steinninn hafi um tíma verið notaður í hleðslu í bæjarhúsavegg. (Steinn þessi kann að vera úr hofi Þorgerðar hörgabrúðar, er var að Ölfusvatni í heiðni, svo sem getið er í sögu Harðar Hólmverjakappa Grímkelssonar.
Steinninn er nú friðlýstur og hefur varðveitzt vel.[…]). segir í örnefnalýsingu. Það er ekki þessi steinn heldur annar sem er friðaður. Steinn þessi er nú jarðfastur í hlaðinu, 14 m norðan við heimreið, 2 m austan við framhlið bæjarhúsanna eins og hún hefur verið, í kanti sem verið hefur á hlaðinu ofan við kálgarðinn. Í bæjarhlaði, nú grasi grónu. Steinninn er jarðfastur og haggast ekki. Hann virðist hafa óreglulega lögun en eins og hann er nú hallar efri hlið hans til SA. Að ofan að sjá er hann því sem næst trapisu-lagaður. Skálin er í breiðari endanum og er svotil alveg hringlaga, 24 cm í þvermál og 12 cm djúp. Í barmi skálarinnar er nú rauf. Hún var gerð af sumarpilti á Ölfusvatni á þessari öld.
Letursteinn
Ölfusvatn – letursteinn.
Friðlýstar minjar. Jarðfastur grágrýtissteinn með áletruninni VES+1736 er í túninu suðaustan við gamla fjárhústóft, nærri hulinn jarðvegi, segir í örnefnalýsingu Steinninn er aðeins norðar en beint vestur af heimreiðinni sem gengur þvert yfir bæjarhólinn. Hann er alveg í brekkurótum, um 3 m S við allmikla grjóthrúgu sem einnig er í brekkurótunum neðan við fjárhústóftina. Í brekkurótum í túni. Steinninn er nær alveg hulinn sinu og mosa.
Nesjavellir
Nýbýli, fyrst byggt 1819. Nesjavellir áttu skógarítak í Nesjalandi í Jórukleif en Nesjar áttu engjaítök í Botnadal og Vegghamrahólum. NV mörk við Nesja hafa verið á reiki og hafa Nesjar átt selstöðu og afbýli hjá engjaítökum sínum innan þess lands sem nú telst til Nesjavalla.
Nesjavellir 2020.
Eftir frásögn Odds heitins Snorrasonar eru Nesjavellir byggðir úr Nesjalandi 1817. [Þorleifur Guðmundsson bóndi á Nesjum byggði] neðst á Völlunum, og norðast næst hrauninu. Stóð bærinn þar, þangað til Grímur, sonur hans, flutti bæinn nærri efst á Vellina. – Rústirnar rétt við veginn, þ.e. aðalakveginn suður Grafning, segir Guðmundur ekki hafa verið nefndar neinu sérstöku nafni, en álítur, að Nesjavallabærinn hafi fyrst verið byggður þar […]. – Eftir því sem sögur herma hefur fyrsti Nesjavallabærinn staðið nyrzt á Völlunum við hraunjaðarinn, en verið fluttur síðar syðst á vellina, þar sem vatnsból var betra. Á árunum kringum 1940, að mig minnir, reif Jón Sigurðsson bóndi þennan bæ og byggði íbúarhús og útihús nokkru sunnar, þar sem hærra var, sennilega vegna flóðahættu, segir í örnefnalýsingu. Tóftirnar eru 3 og er ein vestast, norðan við þjóðveginn í beygjunni þar sem hann kemur niður úr Selskarði, en hinar tvær eru um 30 m austar, sunnan við veginn og eru um 10 m á mili þeirra. Miðtóftin er stærst og er hún á svolitlum hraunhól. Á mörkum hrauns og túns. Sunnan við eru sléttir grasvellir en strax norðan við tekur hraunkantruinn við. Tóftirnar standa undir hólaröð (framhald Selkletta til S) er er neðsti hjallinn í fjalllendinu sem gengur til norðurs úr Henglinum.
Nesjavellir – tóftir.
Tóftirnar hafa greinilega verið í notkun löngu eftir að bæjarstæðið var flutt suður á vellina, og voru þar beitarhús fram á þessa öld. Bárujárn er í heygryfijunni í miðtóftinni. Vestasta tóftin hefur skemmst lítillega af vegarlagningunni en verði gerðar umbætur á veginum er ljóst að þesar minjar eru í uppnámi. Austasta tóftin snýr A-V og hefur dyr á A-gafli. Hún er 9×5 að utan en 5,5×2 að innan. Hleðsluhæð er 1,3 m og er mest 8 umför. Þykkt veggj er 1,5-2 m. Tóftin er á svolitlum hól en sunnan við hana og áfastur henni er heygarður, 18×10 að utanmáli og 13×8 að innan. Hleðsluhæð er 1 m og mest 4 umför. Þykkt veggja 0,7-1 m. Vestast í heygarðinum er lítill pallur sem gæti verið tóft. Sunnan við heygarðinn er mýrarblettur sem gæti hafa verið vatnsból er búið var á þessum stað. Miðtóftin er greinilega fjárhús frá því um aldamótin eða síðar. Það er 12×10 m að utan og er fjárhúsið sjálft 7×7 m að innan en heygryfjan við enda þess 7×3 m að innan.
Nesjavellir – fjárhús.
Í fjárhúsinu, sem er austar og hefur tvær dyr á austurgafli, eru 2 garðar, um 1 m á þykkt báðir. Þykkt veggja er um 1,5 m og hleðsluhæð 1,2 m. Heygryfjan er talsvert dýpri og þar er hleðsluhæð rúmlega 2 m og mest 12 umför. Þykkt veggja 1,5-2 m. Áfastur þessu húsi að vestan er heygarður, 15×10 m að utan og mjókkar til vesturs þannig að V-gaflinn er aðeins 6 m. Garðurinn er grjóthlaðinn, um 1 m á þykkt og stendur um 0,5 m hátt.
Vestasta tóftin, norðan við þjóðveginn, snýr SA-NV og hefur dyr á SA gafli. Hún er 12×6 m að utan og 8×2,5 að innan. Hleðsluhæð er 0,8 m og þykkt veggja 1,5-2 m. Smáskúti er í hraunhólnum sem miðtóftin er byggð á og hefur verið hlaðið fyrir gjótuna, norðn við heygarðinn, noraðn við vírgirðingu sem liggur þétt meðfram mið- og austustu tóft.
Norðaustur af Stekkjarklett eru Selklettar. segir í örnefnalýsingu. Klettarnir taka nafn sitt af seli, annaðhvort selinu (Gamlastekk) vestan við þá eða þá seli sem hefur verið á þessum stað áður en bærinn var reistur 1819. Selstöður á jörðin [Nesjar] í sínu eigin landi, kallaðar Kleifarsel, Klængssel og Vallasel. segir í JÁM II, 378. Líklegt verður að telja að Vallasel hafi verið á þessum stað.
Nesjavellir 1937.
Eftir frásögn Odds heitins Snorrasonar eru Nesjavellir byggðir úr Nesjalandi 1817. [Þorleifur Guðmundsson bóndi á Nesjum byggði] neðst á Völlunum, og norðast næst hrauninu. Stóð bærinn þar, þangað til Grímur, sonur hans, flutti bæinn nærri efst á Vellina. Þar var nóg vatn að fá. Árið 1942 (?) var bærinn enn fluttur, þangað sem hann stendur nú. – Eftir því sem sögur herma hefur fyrsti Nesjavallabærinn staðið nyrzt á Völlunum við hraunjaðarinn, en verið fluttur síðar syðst á vellina, þar sem vatnsból var betra. Á árunum kringum 1940, að mig minnir, reif Jón Sigurðsson bóndi þennan bæ og byggði íbúarhús og útihús nokkru sunnar, þar sem hærra var, sennilega vegna flóðahættu. segir í örnefnalýsingum. Bæjrhóllinn er í túninu, um 200 m N við núverandi bæjarstæði og rúmlega 100 m NV við Nesbúð.
Í kringum hólinn er iðjgrænt tún á sléttum völlum en hóllinn sjálfur er ósléttari og í sinu. Sunnan við hólinn eru rásir í túninu beggja vegna við hann þar sem vatn hefur runnið áður. Hóllinn snýr A-V og er hæstur að austan. Ábúendur á Nesjavöllum eiga málverk sem sýnir gamla bæinn að sunnan. Hann snéri stöfnum í A og voru bæjardyr syðst í röðinni. Aftan við bæinn og laus frá honum (á.a.g.10 m) var heyhlaða. Austan í hólnum er 8×8 m ferhyrnd hvompa og er sennilega þar sem síðasti bærinn stóð. Af túnakorti frá 1918 hefur bærinn hinsvegar þá snúið A-V, verið mjó lengja eftir bæjarhólnnum endilöngum og kálgarður verið norðan við hann og tveir smákofar utan í honum.
Gamlistekkur
Nesjavellir – Gamlistekkur.
Norður af Skútabrekkum er Litluvellir. Þar norður af er Hjallatorfa. Þar austur af eru Stekkjarhöfðar og Gamlistekkur suðaustan við undir Stekkjarkletti, þar sem nú eru beitarhús. Norðaustur af Stekkjarklett eru Selklettar. – Gamlistekkur var notaður til að stía á vorin. Guðmundur telur, að 80 ár (miðað við 1970) muni liðin frá því, að hætt var að færa frá. – Norðvestur af Völlunum er Vallarskarðið milli Stekkjarhöfða og Selkletta. Þar liggur Grafningsvegurinn í gegnum.≅ Stekkur frá Nesjum var í Selklifi í Nesjavallalandi, frá gamalli tíð. – Selklettar eru nokkuð hár hraunkambur, sem nær frá Vallarskarði og að Selklifi, sem er norðaustast í Selskarðinu. segir í örnefnalýsingum.
Nesjavllir – túnakort 1918.
Ekki er augljóst við hvaða stað þessar lýsingar eiga og ekki er á þeim fullt innbyrðis samræmi, en þó mun ótvírætt að þetta mun allt vera sami stekkurinn og koma ekki aðrar tóftir til greina en selið í Selskarði. Vegarslóði sem nú endar hjá Gjánni og Þorsteinsvík liggur um Selskarð frá þjóðveginum, skammt norðan við vegamót Grafningsvegar og Nesjavallavegar. Þegar ekið hefur verið eftir þessum slóða um 200-300 m opnast þröngur dalur eða skarð sem nær norður að hraunbreiðunni. Syðst er allbrött brekka sem slóðinn liggur niður eftir og eru tóftirnar niðri í hvosinni, austan við slóðann. Þær eru tvær og eru um 60 m á milli þeirra og er þar stórgrýtisskriða, gróin. Tóftirnar eru í botni lítils dals, undir háum klettum. Vestan við stærri og syðri tóftina er dalbotninn allbreiður og er þar lítil starartjörn. Dalurinn er annars grasi vaxinn hið neðra.
Kleifarsel.
Syðri tóftin er sennilega rétt, hún er 13×6 m að innanmáli, ferhyrnd og byggð utan í gróna skriðu undir Sleklettum. Hún er opin í vesturendann og því ekki annað en tveir 13 m langir, 1-1,5 m breiðir og 0,8 m háir grjótveggir með 6 m millibili. Nyrðri tóftin er líka grjóthlaðin og byggð utan í skriðurunna hlíðina. Hún er 6×6 m að utan, veggir 1,5-2 m þykkir og hleðslur 0,8 m háar, mest 3 umför. Í botni tóftarinnar er bárujárn sem gæti bent til að hún hafi verið í notkun fram á þessa öld. Norðaustur af Stekkjarklett eru Selklettar. segir í örnefnalýsingu – Ö-Nesjavellira, 2. Klettarnir taka nafn sitt af seli, annaðhvort af seli sem hefur verið nyrst á völlunum, þar sem bærinn Nesjavellir var reistur 1819, eða þá þessu seli. Selstöður á jörðin [Nesjar] í sínu eigin landi, kallaðar Kleifarsel, Klængssel og Vallasel. segir í JÁM. Hugsanlegt er að þessi staður sé sami og Klængssel sem annars er ekki vitað um staðsetningu á, en Kleifarsel var undir Jórukleif og Vallasel er væntanlega sami staður og Nesjavallabærinn var fyrst byggður á.
Klængsel.
Á þessum stað hefur því fyrst verið sel, síðan stekkur á 19. öld og síðast beitarhús sem staðið hafa fram á 20. öld. Hinn möguleikinn á staðsetningu Gamlastekkjar er að hann hafi verið á sama stað og bæjarstæðið/selstaðan/beitarhúsin og bendir helst til þess að hann á að hafa verið Αsuðaustan undir Stekkjarkletti sem getur ekki átt við þessar tóftir en er mögulega villa fyrir Αsuðvestan undir. Á gönguleiðakorti eru þessar tóftir merktar sem ‘Kleifarsel’ en það er rangt, því Kleifarsel er í Nesjalandi undir Jórukleif.
[Þrátt fyrir kort af minjum á Nesjavöllum kemur Gamlistekkur ekki fram þar, þrátt fyrir að liggi nálægt öðrum minjum á svæðinu.]
Þjófahellir
Þjófahellir í Grafningi.
Sunnarlega í Selklettum er Þjófahellir, með hleðslum. – Hellisskúti er í Selklettum og heitir Þjófahellir. Mátti þar hafa 30-40 sauði. Ekki var haft þar neitt hey handa sauðunum. Nokkuð hefur fallið úr bjarginu síðar. segir í örnefnalýsingum. Norðan við Selskarð er strýtulagaður hraunhóll og norðan við hann annað skarð, heldur hærra og þrengra. Í því er Þjófahellir. um 200 m norðan við Grafningsveginn, efst í skarðinu hátt yfir hrauninu sem breiðir úr sér austan við Selkletta. Gengið er í hellinn úr austri.
Hátt í hraunhólum, gróður annar en mosi er lítill í kring. Hellirinn nýr A-V og er opinn í báða enda. Minna opið er að vestan og hefur verið hlaðið nær alveg fyrir það. Að austan er lítill ketill frama við opið og hefur verið hlaðinn veggur langsum eftir katlinum, þannig að gengið hefur verið eftir mjóum gangi niður í hellinn en til hliðar hefur verið svolítið hólf sem hugsanlega hefði getað verið notað sem lambakró við fráfærur. Hellirinn sjálfur er mjög reglulegur, um 3 m á breidd, 10 m á lengd og 1,8-2,4 m undir loft. Gólfið í honum er slétt. Lítillega hefur hrunið úr vestari hleðslunni inn í hellinn og mikið úr langveggnum í eytri katlinum niður í ganginn.“
Heimildir:
-Fornleifar í landi Nesjavalla og Ölfusvatns, Fornleifastofnun Íslands 1997.
-Fornleifakönnun vegna endurbóta og lagningu bundins slitlags á Grafningsvegi efri, Náttúrustofa Vestfjarða, 2018.
Nesjavellir – skráðar minjar. Gamlistekkur (rauður hringur).
Nesjavellir – Vallasel
Hér verður fjallað um Nesjavelli. Nesjavellir voru byggðir upp úr seli, „Vallaseli„, frá Nesjum. Auk Vallasels verður einnig getið um önnur sel frá Nesjum; Kleifarsel og Klængssel.
Í „Nokkur örnefni á Nesjavöllum“ eftir Guðmund Jóhannsson, skrifað sept. 1949, sem Sigurður Jónsson hreppstjóri á Torfastöðum skráði, segir: „Þar austur af eru Stekkjarhöfðar og Gamlistekkur suðaustan við undir Stekkjarklett, þar sem nú eru beitarhús. Norðaustur af Stekkjarklett eru Selklettar. Norður af Selklettum eru Mosarnir.“ Gamlistekkur ku hafa verið í Vallaseli, en staðsetningar örnefna á svæðinu á nútíma loftmyndum virðast eitthvað hafa skolast til. Þannig eru Selklettar sagðir þar sem óbrennishóll er í Nesjahruni, Selskarð þar norðan við og Selhöfði á millum. Öll eru þessi örnefni mun sunnar en af er látið.
Jóhann Hannesson skráði Nesjavelli eftir Guðmundi Jóhannssyni 1970. Guðmundur dó árið 1974:
Nesjavellir – tóftir.
„Í norðurátt frá bænum og völlunum eru Selklettar. Fyrir vestan [austan] þá er Gamlistekkur. Rústirnar rétt við veginn, þ.e. aðalakveginn suður Grafning, segir Guðmundur ekki hafa verið nefndar neinu sérstöku nafni, en álítur, að Nesjavallabærinn hafi fyrst verið byggður þar, en síðar fluttur vestur á vellina, sökum vatnsleysis á vetrum. Um sel frá Nesjavöllum vissi Guðmundur ekki, en áleit, að nöfnin Selbrekkur og Selklettar í landi Nesjavalla bendi til, að þar hafi fyrrum verið sel frá Nesjum. Þó man hann ekki eftir selsrústum.
Gamlistekkur var notaður til að stía á vorin. Guðmundur telur, að 80 ár (miðað við 1970) muni liðin frá því, að hætt var að færa frá. Segir hann, að faðir hans, Jóhann Grímsson, f. 5. jan. 1843, d. 3.júní 1926, hafi fyrstur manna í Grafningi lagt fráfærur niður.
FERLIRsfélagar í Þjófahelli.
Hellisskúti er í Selklettum og heitir Þjófahellir. Mátti þar hafa 30-40 sauði. Ekki var haft þar neitt hey handa sauðunum. Nokkuð hefir fallið úr berginu síðar.“
Í ónákvæmri skráningu „Fornleifa í Grafningi, Nesjum„, (Fornleifastofnun Íslands 1998), er fjallað um Nesjavelli:
Nesjar 1986.
„Fyrst getið 1539 en þá gaf Erlendur lögmaður Þorvarðsson dóttur sinni Margréti Nesjavelli. 1567 hafði Erlendur Þorvarðsson látið Guðmund Steingrímsson fá Nesjar en Jón Marteinsson lætur Guðmund fá Dragháls í staðinn.
Í máldaga Ölfusvatnskirkju frá 1570 eða síðar segir að nesjar og Krókur eigi þangað kirkjusókn. Presturinn, Jón Marteinssonar (Einarssonar biskups) átti Þorbjörgu Erlendsdóttur lögmanns.
1819 var nýbýlið Nesjavellir byggt út úr landi Nesja og fylgdi því efri og eystri hluti jarðarinnar. „Nesjar eru efsti bær í Grafningi. Stendur bærinn á vestasta nesinu af þremur nesjum sem ganga út í Þingvallavatn, milli Þorsteinsvíkur og Hestvíkur.““
Í skráningu „Fornleifa í landi Nesja og Ölfusvatns„, (Fornleifastofnun Íslands 1997), segir:
Nesjavellir – bæjarstæði/sel
Nesjavellir – Jóhann Grímsson, Katrín Guðmundsdóttir.
„Eftir frásögn Odds heitins Snorrasonar eru Nesjavellir byggðir úr Nesjalandi 1817. [Þorleifur Guðmundsson bóndi á Nesjum byggði] neðst á Völlunum, og norðast næst hrauninu. Stóð bærinn þar, þangað til Grímur, sonur hans, flutti bæinn nærri efst á Vellina. – Rústirnar rétt við veginn, þ.e. aðalakveginn suður Grafning, segir Guðmundur ekki hafa verið nefndar neinu sérstöku nafni, en álítur, að Nesjavallabærinn hafi fyrst verið byggður þar […]. – Eftir því sem sögur herma hefur fyrsti Nesjavallabærinn staðið nyrzt á Völlunum við hraunjaðarinn, en verið fluttur síðar syðst á vellina, þar sem vatnsból var betra. Á árunum kringum 1940, að mig minnir, reif Jón Sigurðsson bóndi þennan bæ og byggði íbúarhús og útihús nokkru sunnar, þar sem hærra var, sennilega vegna flóðahættu, segir í örnefnalýsingu.
Nesjavellir – tóftir.
Tóftirnar eru 3 og er ein vestast, norðan við þjóðveginn í beygjunni þar sem hann kemur niður úr Selskarði, en hinar tvær eru um 30 m austar, sunnan við veginn og eru um 10 m á mili þeirra. Miðtóftin er stærst og er hún á svolitlum hraunhól. Á mörkum hrauns og túns. Sunnan við eru sléttir grasvellir en strax norðan við tekur hraunkantruinn við. Tóftirnar standa undir hólaröð (framhald Selkletta til S) er er neðsti hjallinn í fjalllendinu sem gengur til norðurs úr Henglinum.
Nesjavellir – túnakort 1918.
Tóftirnar hafa greinilega verið í notkun löngu eftir að bæjarstæðið var flutt suður á vellina, og voru þar beitarhús fram á þessa öld. Bárujárn er í heygryfjunni í miðtóftinni. Vestasta tóftin hefur skemmst lítillega af vegarlagningunni en verði gerðar umbætur á veginum er ljóst að þesar minjar eru í uppnámi. Austasta tóftin snýr A-V og hefur dyr á A-gafli. Hún er 9×5 að utan en 5,5×2 að innan. Hleðsluhæð er 1,3 m og er mest 8 umför. Þykkt veggj er 1,5-2 m. Tóftin er á svolitlum hól en sunnan við hana og áfastur henni er heygarður, 18×10 að utanmáli og 13×8 að innan. Hleðsluhæð er 1 m og mest 4 umför. Þykkt veggja 0,7-1 m. Vestast í heygarðinum er lítill pallur sem gæti verið tóft.
Sunnan við heygarðinn er mýrarblettur sem gæti hafa verið vatnsból er búið var á þessum stað. Miðtóftin er greinilega fjárhús frá því um aldamótin eða síðar. Það er 12×10 m að utan og er fjárhúsið sjálft 7×7 m að innan en heygryfjan við enda þess 7×3 m að innan. Í fjárhúsinu, sem er austar og hefur tvær dyr á austurgafli, eru 2 garðar, um 1 m á þykkt báðir. Þykkt veggja er um 1,5 m og hleðsluhæð 1,2 m. Heygryfjan er talsvert dýpri og þar er hleðsluhæð rúmlega 2 m og mest 12 umför. Þykkt veggja 1,5-2 m. Áfastur þessu húsi að vestan er heygarður, 15×10 m að utan og mjókkar til vesturs þannig að V-gaflinn er aðeins 6 m. Garðurinn er grjóthlaðinn, um 1 m á þykkt og stendur um 0,5 m hátt.
Vestasta tóftin, norðan við þjóðveginn, snýr SA-NV og hefur dyr á SA gafli. Hún er 12×6 m að utan og 8×2,5 að innan. Hleðsluhæð er 0,8 m og þykkt veggja 1,5-2 m. Smáskúti er í hraunhólnum sem miðtóftin er byggð á og hefur verið hlaðið fyrir gjótuna, norðn við heygarðinn, norðan við vírgirðingu sem liggur þétt meðfram mið- og austustu tóft.
Norðaustur af Stekkjarklett eru Selklettar, segir í örnefnalýsingu. Klettarnir taka nafn sitt af seli, annaðhvort selinu (Gamlastekk) vestan við þá eða þá seli sem hefur verið á þessum stað áður en bærinn var reistur 1819. Selstöður á jörðin [Nesjar] í sínu eigin landi, kallaðar Kleifarsel, Klængssel og Vallasel, segir í JÁM II, 378. Líklegt verður að telja að Vallasel hafi verið á þessum stað.“
Nesjavellir 1937.
Ábúendur á Nesjavöllum eiga málverk sem sýnir gamla bæinn að sunnan. Hann snéri stöfnum í A og voru bæjardyr syðst í röðinni. Aftan við bæinn og laus frá honum (á.a.g.10 m) var heyhlaða. Austan í hólnum er 8×8 m ferhyrnd hvompa og er sennilega þar sem síðasti bærinn stóð. Af túnakorti frá 1918 hefur bærinn hinsvegar þá snúið A-V, verið mjó lengja eftir bæjarhólnum endilöngum og kálgarður verið norðan við hann og tveir smákofar utan í honum. Í kringum hólinn er iðjagrænt tún á sléttum völlum en hóllinn sjálfur er ósléttari og í sinu. Sunnan við hólinn eru rásir í túninu beggja vegna við hann þar sem vatn hefur runnið áður. Hóllinn snýr A-V og er hæstur að austan.
Gamlistekkur
Nesjavellir – Gamlistekkur.
„Norður af Skútabrekkum er Litluvellir. Þar norður af er Hjallatorfa. Þar austur af eru Stekkjarhöfðar og Gamlistekkur suðaustan við undir Stekkjarkletti, þar sem nú eru beitarhús. Norðaustur af Stekkjarklett eru Selklettar. – Gamlistekkur var notaður til að stía á vorin.
Guðmundur telur, að 80 ár (miðað við 1970) muni liðin frá því, að hætt var að færa frá. – Norðvestur af Völlunum er Vallarskarðið milli Stekkjarhöfða og Selkletta. Þar liggur Grafningsvegurinn í gegnum. Stekkur frá Nesjum var í Selklifi í Nesjavallalandi, frá gamalli tíð. – Selklettar eru nokkuð hár hraunkambur, sem nær frá Vallarskarði og að Selklifi, sem er norðaustast í Selskarðinu, segir í örnefnalýsingum.“
Gamlistekkur er ekki skráður í fornleifaskráningar af svæðinu. Hann er undir hraunbakka skammt norðan við tóftarsvæðið.
Klængssel
Klængsel.
„Selstöðu á jörðin í sinu eigin landi, kallaðar Kleifarsel, Klængssel og Vallasel [sma og Nesjavellir]. Ekki er vitað hvar það var“.
Í „Endurskoðun fornleifaskráningar í Grímsnesi og Grafningi“, (Fornleifastofnun Íslands 2018), segir um Kleifarsel (lýsingin er ófullkomin, enda fundu skráningaraðilar aldrei selstöðuna, sem er á lyngbala upp undir hlíð Kleifardals):
Kleifarsel.
1706: „Selstöður á jörðin í sínu eigin landi, kallaðar Kleifarsel, Klængssel og Vallasel [sama og Nesjavellir].“ segir í jarðabók Árna og Páls. Ekki vitað hvar Kleifarsel var. „Kleifardalur austan undir Jórutindi […] “ segir í sóknarlýsingu frá 1840 um eyðbýli og er þess getið að þar sartóft (eða seltóft), 9 fðm. löng og 2 1/2 fðm. breið, hefir dyr út úr suðvesturhorni. Við efri enda hennar var sem sæi á tóftarbrún, sem gæti verið hlöðutóft.[…] Hafi hér verið býli, þá hefi það verið hjáleiga frá Steinröðarstöðum (?) og síðar orðið, ásamt þeim, hjáleiga frá Nesjum.“ Þetta eru friðlýstar minjar. Í Friðlýsingarskrá stendur: „Fornar rústir í vatnsbrekku á Setbergsbölum og í Kleifardal. Sbr. Árb. 1899: 5. Skjal undirritað af MÞ 05.05.1927. Þinglýst 07.09.1927.“ Ekkert friðlýsingarskilti er á staðnum enda ekki vitað með vissu hvar býlið var staðsett. Kleifardalur gengur inn til suðvesturs um það bil 1 km suðaustan við þjóðveg 360, í Jórugilinu.“
Heimildir:
-Nokkur örnefni á Nesjavöllum eftir Guðmund Jóhannsson, skrifað sept. 1949. Sigurður Jónsson hreppstjóri á Torfastöðum skráði.
-Fornleifar í Grafningi, Nesjar, Fornleifastofnun Íslands 1998.
-Fornleifar í landi Nesja og Ölfusvatns, Fornleifastofnun Íslands 1997.
-Endurskoðun fornleifaskráningar í Grímsnesi og Grafningi, Fornleifastofnun Íslands 2018.
Nesjavellir – skráðar minjar. Gamlistekkur (rauður hringur).
Fjalla-Eyvindar – nú og fyrrum
Margt hefur verið sagt um Fjalla-Eyvind, mesta og einstakasta útilegumann Íslands, sem ekki getur staðist – og er þó af nógu að taka. Á vefsíðu segir m.a.: “Í Engidal er hellir sem er talinn vera ævaforn útilegumannabústaður.
Talið er að Eyvindur Jónsson (Fjalla-Eyvindur) og Margrét Símonardóttir hafi hafst við í þessum helli í seinni útlegð þeirra, vorið 1678.” Jafnframt fylgdir lýsingunni að Eyvindur og Margrét hafi verið handtekinn og færð á Þingvöll.
Þessi fullyrðing passar engan veginn. Fjalla-Eyvindur var að vísu Jónsson en eiginkona hans hét Halla Jónsdóttir. Engar sannanlegar sagnir eru um að Halla hafi hafst við í Henglinum, hvað þá Eyvindur, a.m.k. ekki Fjalla-Eyvindur, því hann fæddist ekki fyrr en árið 1714. Þá voru þau hjón aldrei færð á Þingvöll þrátt fyrir að hafa einu sinni fengið dóm. Þau sluppu jafnan úr klóm yfirvalda er vildu hefta frelsi þeirra.
Eyvindur Jónsson fæddist að Hlíð í Hrunamannhreppi árið 1714, sem fyrr sagði. Hann lést á Hrafnsfjarðareyri um 1780, á áttræðisaldri (1785 mun þó nær sanni). Halla mun hafa látist skömmu síðar, eða fyrr segja sumar heimildir. Þau munu grafin við Staðarkirkju, sumir segja þá að Eyvindur hafi verið grafinn við bæ sinn að Hrafnsfjarðareyri. Engar sönnur hafa verið færðar á það. Hins vegar er ljóst að hann var gerður útlægur í u.þ.b. 40 ár fyrir litlar sem engar sakir. Ef “glæpamannaframleiðendur” hafa verið til hér á landi voru þeir uppi á 18. öldinni þegar margir voru gerðir að þjófum af óljósi tilefni, jafnvel orðrómi einum saman. Ástæðurnar voru oft aðrar en opinberaðar voru. Yfirvaldið elti þá miskunnarlaust uppi og refsaði með grimmilegum hætti, án þess að vörnum væri við komið. Þetta tímaskeið í Íslandssögunni einkenndist af miklum kuldum og meðfylgjandi hungri alþýðunnar. Þúsundir landsmanna dóu úr kulda, aðrir féllu úr hor. Margir reyndu að bjarga lífi sínu með því að nálgast nauðsynlegar bjargir, s.s. sauði eða hross annarra, við litla samúð þeirra er áttu – og áttu þeir þó nóg af öllu.
Ismar og stefnur hafa jafnan verið í réttu hlutfalli við viðhorf yfirvaldsins. Þegar fólk hefur verið brennimerkt, smánað, sent í þrælkunarvinnu eða líflátið af litlum tilefnum, breytist viðhorfið smám saman, ekki síst vegna krafna um úrbætur er dugað gætu betur. Útlaginn Fjalla-Eyvindur, mestur fjallamanna og fróðastur landsmanna um öræfi landsins áður en yfir lauk, skaðaði aldrei nokkurn mann þótt hann hafi tekið og matreitt sauði þeirra er gert höfðu á hlut hans. Útlaginn bjó yfir geysilegum fróðleik um aðstæður, möguleika og hentugustu leiðir um hálendið á tímum er þær þóttu nauðsynlegar. Skilningsleysi yfirvalda og stafblinda lagabókstafsins komu í veg fyrir mikilvægar framfarir sárþjáðar þjóðar á þeim tíma.
Eyvindur, sem ávallt komst undan ásókn yfirvaldsins, mátti ekki frekar en aðrir mannlegir við stórbrotnustu náttúruöflunum, ösku og eimyrðu, og fór með eiginkonu sína frá Hvannalindum árið 1783 að Hrafnsfjarðareyri þar sem hann bjó aldraður í skjóli skilningsgóðra manna síðustu æviár sín, á bæ, sem hann hafði sjálfur reist upp úr eyðibýli um 1755, á fyrstu búskaparárum þeirra hjóna.
Sagan um Höllu þar sem hún á að hafa verið handtekinn og höfð í tukthúsinu í Reykjavík, núverandi stjórnarráði Íslands, er ýkjusaga. “Um haustið var einhvern dag sólskin og fagurt veður með hægri kælu. Sat Halla þá úti undir bæjarvegg og hafði orð á því “að fagurt væri á fjöllunum núna”. Nóttina eftir hvarf hún og fannst ekki aftur. En nokkrum árum seinna fannst konulík uppi í Henglafjöllum og tveir sauðir hjá, er hún hafði krækt undir styttuband sitt.” Þessi saga er sögð í bréfi séra Skúla Gíslasonar prests að Breiðabólstað í Fljótshlíð 1860 til Jóns Árnasonar þjóðsagnasafnara. Önnur svipuð er frá Suðurlandi, þar sem Halla dvaldi um skeið í umsjá fólks og náði sér eftir lasleika. Fræg er sagan er Eyvindur bjargaði henni úr höndum yfirvaldsins eftir þaulsetna eftirför. Hvarf hann með Höllu út í dimma þoku er sveipaði þau frelsishjúp.
Framangreindar sögur er einungis fáar af þeim útilegumannahjónum. Svo mikill ótti var við útilegumenn á 18. og 19 öld að jafnvel hinir huguðustu menn þorðu vart liðsfáir og óvopnaðir yfir hálendið. Flestir töldu útilegumenn vera á hverju strái og mikluðu vandann eftir því. Þó var ekki öðru fólki til að dreifa á þessu svæði, utan Arnesar og Abrahams, er dvöldu með þeim tímabundið. Báðir náðust og fengu hegningu.
Jafnan er þess getið í annálum að þeir, sem sóttu hvað harðast að Eyvindi og Höllu, fengu makleg málagjöld. Sýslumaður í Hreppum, er fastast sótti að þeim, missi 80 fjár, jafn margt og Eyvindur hafði skilið ummerki eftir á Hveravöllum, og sýslumaður er náði að handsama þau fyrir vestan, hrökklaðist frá embætti stuttu síðar. Eyvindur virðst hafa valið úr gangnafénu það er tilheyrði þeim er gerðu honum erfitt fyrir, en lét fé annarra í friði.
Eyvindur og Halla eignuðust a.m.k. 3 börn, auk þess em Halla hafði eignast son með fyrrum bónda sínum, er hafði látist. Ólöfu, og e.t.v. fleiri börn, þurftu þau að yfirgefa að Hrafnsfjarðareyri er þau hjónin þurftu skyndilega að hverfa þaðan. Guðrún fylgdi þeim á fjöll, en var síðar 12 ára gamalli komið í fóstur til vilvaldarmanna á Vestfjörðum. Hún var eina barnið, sem hafði alist upp meðal útilegumanna hér á landi. Saga hennar er og að mörgu leyti merkileg. Eitt barnanna lést skömmu eftir fæðingu, sennilega úr kulda eða hungri. Gömlu hjónin bjuggu síðustu árin sín í skjóli Ólafar að Hrafnsfjarðareyri, en þá hafði hún byggt þar upp býli ásamt eiginmanni sínum, Guðmundi Olíferssyni.
Saga Fjalla-Eyvindar lýsir miklum kærleika um grundvallaratriði, sterkum ættartengslum og harðneskju yfirvalda, en um leið alþýðlegri samúð með ofsóttum lítilmagnanum. Spyrja má – hvað hefur í rauninni breyst í þeim efnum á tæplega þriggja alda skeiði í sögu þessarar þjóðar. Svarið gæti verið margþvælt, allt eftir því hver væri spurður, en niðurstaðan er og mun verða ein – ekkert.
Af framangreindu má sjá að yfirvöld geta með meðvituðu viðhorfi og ígrundaðri eftirfylgju, ráðið miklu um fararheill fólks til lengri framtíðar. Meðvitunarleysið virðist hins vegar hafa verið mikið um allt of langt skeið – jafnvel allt til þessa dags.
Heimildir m.a.:
-Guðmundur Guðni Guðmundsson – Saga Fjalla-Eyvindar.
Gjábakkahellir – vetur
Haldið var í Gjábakkahelli – um vetur. Snjóalög voru það mikil að það tók 3 klst og 3 mín. að moka frá opinu og koma þátttakendum niður í fordyrið. Biðin kom ekki að sök því haft var ofan af fyrir þeim með leikjum á meðan.
Gjábakkahellir milli Þingvalla og Laugarvatns hefur óneitanleg tengsl við Reykjanesskagann. Björn Hróarsson segir eftirfarandi í stórvirki sínu „Íslenskir hellar“ um Gjábakkahelli: „Gjábakkahellir hefur einnig verið nefndur Helguhellir og Stelpuhellir. Björn Th. Björnsson (1984) segir Stelpuhelli upprunalegasta nafnið. Nú má hins vegar fullyrða að nafngiftin Gjábakkahellir hafi náð yfirhöndinni og hin nöfnin fallið í gleymsku.
Hellirinn liggur undir veginn milli Gjábakka og Laugarvatns um tvo kílómetra frá eyðibýlinu Gjábakka. Hellirinn er opinn í báða enda og er neðra opið rétt neðan vegarins og merkt með lítilli vörðu. Efra opið opnast í dálitla laut nokkru ofan við veginn. Meginlína hellisins er um 310 metrar en heildarlengdi hans er um 364 metrar.
Hellirinn er töluvert hruninn en hefur samt margt að bjóða hellaförum, til dæmis er þar allajafna töluvert um ísmyndanir. Þá eru þar separ, totur, spenar, storkuborð og ýmsar aðrar hraunmyndanir sem gleðja augað. Á einum stað er hellirinn á tveimur hæðum og á kafla mmá velja tvær leiðir áfram. Önnur lokast þó fljótt svo enginn ætti að villast, í það minnsta kosti hvorli lengi né illa.
Hellirinn hefur verið þekktur lengi. Matthías Þórðarson þjóðminjavörður skoðaði hann árið 1919. Til er þjóðsaga sem segir að stúlka frá Gjábakka hafi farið í hellinn og aldrei komið út aftur eða þá að hún hafi komið upp úti á Reykjanesi og þá hafi skór hennar verið fullir af gullsandi. Þjóðsagan skýrir nafngiftina Stelpuhellir. Gjábakkahellir var kortlagður af Eichbauer, E. og Fritsch, E. þann 27. júní 1985.“
Gjábakkahellir uppgötvaðist fyrst er verið var að leggja Kóngsveginn svonefnda fyrir heimsókn Friðriks VIII Danakóngs árið 1907. Á þeim tíma voru einungis um 30 þekktir hraunhellar á landinu. Í dag eru þeir um 500 talsins.
Segja má með sanni að hraunhellarnir séu hinir einu sönnu undir- og undraheimar Íslands. Þar er myrkrið svartara og tíminn afstæðari en annarstaðar. Góð leiðsögn og búnaður gera hverjum sem er kleift að upplifa þessa undraveröld óháð veðri eða dagsbirtu. Vanir hellaleiðsögumenn ábyrgjast jafnan gott „veður“ í hellaferðum á Reykjanesskaganum allt fram til ársins 2750!
Gjábakkahellir er hluti af geysimikilli hrauná sem rann neðanjarðar í síðasta gosi á Þingvöllum. Hellirinn er stór en nokkuð seinfarinn, enda eina ástæðan, sem þörf er á að fylgja, er að flýta sér hægt.
Ónefndur starfsmannastjóri sem fór í þessa ferð með fyrirtæki sínu sagði að fyrri ferð um Gjábakkahelli með starfsfélögum sínum kæmi oft upp í hugann þegar unnið væri að krefjandi verkefnum hjá fyrirtækinu. „Fyrst við réðum við Gjábakkahelli, -þá förum við nú létt með þetta…” varð honum að orði.
Þrátt fyrir að hitastigið úti hafi verið -2°C var hitastigið í hellinum um 5°C. Við hellaskoðun er mest um vert að hafa augun bæði límd við gólfið, en huga að hverju skrefi, og gæta þess að reka höfuðið ekki upp undir. Ferðin í gegnum hellinn að þessu sinni tók u.þ.b. eina klukkustund.
Gjábakkahellir er þó töluvert hruninn þannig að það var um mikið stórgrýti að fara með tilheyrandi klifri og klöngri. Og ekki bætti úr skák að fyrstu um 70 – 100 metrana voru allir steinarnir og veggirnir þaktir blautum ís og því verulega erfitt að fóta sig. Eftir um 2/3 af leiðinni skiptist hellirinn í þrjú op hvert ofan á öðru. Á miðhæðinni er bara lítill skúti sem endar með gatiniður á neðstu hæðina. Efsta hæðin nær svipað langt inn, en þar var líka hægt að fara til baka út með veggnum þar til komið er að þröngu gati og þaðan niður á „svalir“. Um 6 metra fall er niður af „svölunum“ svo það er vissara að fara varlega. Skríða þarf til baka. Þegar farið var að nálgast hinn endan á hellinum fór aftur að kólna svo hálkan fór aftur að gera vart við sig. En síðustu 30 metrana gat að líta mjög fallegar ísmyndanir og grílukerti. Opið í þessum enda er stórt og mikið og því auðvelt að finnan þennan munna.
Eins og fyrr sagði var upphaflegi vegurinn um Lyngdalsheiði lagður fyrir komu Friðriks VIII Danakóng sumarið 1907 og þess vegna í eina tíð kallaður Kóngsvegur. Þó hann sé í dag kallaður Lyngdalsvegur eða Lyngdalsheiðarvegur þá er það rangnefni. Hann liggur nefnilega fyrir norðan Lyngdalsheiði, um Gjábakkahraun og um Reyðarhraun. Hvað um það – hér var um alvöru hellaferð að ræða, en ekki þrasferð um örnefni og tilefni þeirra.
Frábært veður. Hér má sjá örsutt myndbrot úr ferðinni. Hafa ber jafnan í huga að „náttúran er ævintýri“.
Heimildir m.a.:
-Hraunhellar á Íslandi. Björn Hróarsson. Mál og Menning. 1991.
-Björn Hróarsson – Íslenskir hellar -2006, bls. 347
-Á ferð um landið. Björn Hróarsson. Mál og Menning. 1994.
-Uppsveitir Árnessýslu, Kort.
-Á ferð um Ísland. Nesútgáfan. 1997.
-Árbók Ferðafélags Íslands 1961.
-Íslandsmetabók Arnar og Örlygs. Steinar J. Lúðvíksson. 1983.
Mannskaðinn mikli á Mosfellsheiði
Í Nýjum vikutíðindum árið 1969 er sagt frá „Munnskaðanum mikla á Mosfellsheiði“ í marsmánuði árið 1957:
„Einhver hin átakanlegasta og slysalegasta ferð í verið. sem um getur, var farin fyrir rúmum hundrað árum, í öndverðum marzmánuði 1857, er fjórtán útróðramenn úr Biskupstungum og Laugardal í Árnessýlu börðust við dauðann á Mosfellsheiði í blindbyl og frosti.
Segir nú ekki af ferðum þeirra félaga fyrr en kemur utarlega í svonefnda Vilborgarkeldu. Sjá þeir þá draga upp ský yfir Esjunni. Litlu síðar fór að hvessa, og að vörmu spori var skollin á þá grimmasta norðanhríð. Jafnframt herti frostið óðfluga, svo að hálfblaut föt þeirra manna, er gist höfðu á Þingvöllum, stokkgödduðu, og torvelduðu þeim mjög að komast áfram. Réðust þeir nú um, hvað til bragðs skyldi taka. Vildu sumir snúa aftur og leita bæja. Aðrir töldu það óráð, og þótti lítil von til að finna bæi í Þingvallasveit, þar sem þeir eru strjálir, en dauðinn vís ef þeir villtust út á vatnið eða í hraunið. Þótti þeim meiri von að takast mætti að finna sæluhús kofa þann, sem var á svo nefndum Moldbrekkum, austan til á miðri Mosfellsheiði. Gætu þeir látið þar fyrir berast, meðan verst væri veðrið. Ef það brygðist, myndu þeir að öllum líkindum finna Mosfellsdalinn. Mundi hríðin þar vægari og meiri von, að þeir hittu þar einhvern bæinn. Var þetta ráð tekið og halda þeir nú áfram vestur heiðina. Hríðin var svo svört, að ekkert sá frá sér, og sterkviðrið og frostharkan að sama skapi. Fuku höfuðfötin af sumum, og var engin kostur að elta þau. Gekk ferðin afar seint, bæði vegna ófærðar, veðurs og eigi sízt þess, hve klæðin frusu að þeim og gerðu þeim stirt um ganginn. Þegar á leið daginn, tóku þeir mjög að þreytast og sumir að gefast upp. Hinir, er færari voru, reyndu að hjálpa þeim eftir megni. Egill frá Hjálmstöðum hafði gengið fyrir um hríð. Þótti félögum hans sem hann mundi hafa haldið of mikið í veðrið og stefna of norðanlega. Ekki fundu þeir sæluhússkofann, enda sá vart út úr augum fyrir hríðinni. Þar á heiðinni er klif nokkurt, er verða átti á leið þeirra. Það urðu þeir eigi varir við. Kom þeim nú saman um, að snúa meira undan veðrinu, svo sem þeir hugðu stefnu vera á Mosfellsdalinn.
Þótti þeim sem helzta lífsvonin væri sú, úr því sem komið var, að reyna að ná til bæjar í Gullbringum, en þangað var enn löng leið fyrir höndum. Gengu þeir nú enn um hríð, unz fimm voru svo þrotnir, að enginn var þess kostur, að þeir mættu lengra komast. Flestir hinna voru og mjög þjakaðir orðnir. Vildu sumir halda áfram og láta þá hvern þar eftir, er hann mátti eigi lengra komast.
Þó varð það úr, að þeir ákváðu að láta allir fyrir berast um nóttina, þar sem þeir voru komnir. Var þó ekki álitlegt til þess að hugsa, því að þarna var ekkert afdrep, allt slétt af jökli og veðrið svo ofsalegt, að ekki var stætt. Þeir, sem mest voru af sér gengnir, fleygðu sér þegar niður á hjarnið, en hinir stóðu uppi yfir þeim. Sumir reyndu að pjakka með stöfum sínum holu niður í harðfennið, til að reyna að fá eitthvert skýli, lögðust svo þar niður og létu skefla yfir sig. Þá félaga tók nú suma mjög að kala. Klakahúð var komin yfir andlit þeirra og öll föt voru stokkfreðin. Á Agli bónda á Hjálmstöðum var allt andlitið orðið hvítt af kali. —
Leið svo fram um dagsetur. Stóðu þá enn nokkrir uppi. Þá heyrðu þeir yngsta manninn í hópnum, Þorstein frá Kervatnsstöðum, reka upp hljóð þrisvar, og hneig hann niður við hið síðasta.
„Hörmulegt er að heyra,“ mælti Kristján.
„Ef þú getur ekki að gert,“ mælti Pétur, „þá er bezt að þegja.“
Gerði nú myrkt af nótt, svo að enginn sá annan. Þar kom, að enginn stóð uppi, nema Einar og Pétur. Sömdu þeir það þá með sér, að þeir skyldu aldrei niður leggjast, meðan þeir mættu uppi standa. Áttu þeir nóg að vinna að verjast sterkviðrinu, að eigi hrekti þá burt frá hinum. Þeir voru þá báðir ókalnir enn. Ekkert sást fyrir náttmyrkri og snjódrífu. Öðru hvoru heyrðust hljóð frá félögum þeirra, er lágu þar umhverfis í skaflinum, huldir í snjónum. Þá er langt var liðið á nótt, heyrði Pétur að kallað var í snjónum fyrir fótum honum og beðið í guðs nafni að rífa snjóinn, því að sér lægi við köfnun. Pétur þreifaði fyrir sér og fann þar Þorstein frá Kervatnsstöðum örendan. Hafði hann hnigið ofan á höfuðin á þeim Bjarna og Ísak. Voru þeir báðir á lífi, en máttu sig hvergi hræra, vegna líksins, sem lá yfir þeim, og svo voru þeir frosnir niður við hjarnið. Pétur snaraði burt líkinu, og tóku þeir Einar svo báðir að losa þá Bjarna og Ísak. Vöknuðu nú fleiri í skaflinum, er niður höfðu lagzt, en fæstir máttu upp standa, svo voru þeir frosnir. Hafði snjórinn þiðnað lítið undir þeim, er þeir lögðust niður, en frosið síðan við klæði þeirra. Þegar þeir heyrðu, að einhverjir voru uppi standandi, kölluðu þeir á þá og báðu þá hjálpar. Þeir Pétur tóku þá hvern af öðrum og svo hjálpaði hver, sem á fætur komst eftir megni. Guðmundur frá Hjálmsstöðum hafði lítt eða ekkert sofið. Hafði hann á sér þá hreyfingu, sem hann mátti, til að halda á sér hita. Heyrði hann nú angistaróp í snjónum hið næsta sér, og fór að huga frekar að því. Var það mágur hans, Egill Jónsson frá Hjálmstöðum. Var hann fastur í fönninni, berhöfðaður og berhentur á annarri hendinni. Eftir mikla erfiðismuni tókst Guðmundi að ná honum á fætur, batt tveimur vasaklútum um höfuð honum, en reyndi að koma hendinni í buxnavasann.
Var hún þá stálgödduð og ósveigjanleg og kvaðst hann ekkert finna til hennar. Enn heyrði Guðmundur hrópað nálægt sér. Var það Þiðrik Þórðarson frá Útey. Var hann einnig fastur í fönninni og búinn að fá brjóstkrampa, sem hann átti vanda til. Að lokum tókst Guðmundi að ná honum á fætur. Héldu þeir, sem eitthvað gátu, áfram að losa hina úr skaflinum, en það var torsótt mjög. Urðu þeir að beita höndum einum, því að eigi var þorandi að neyta stafbroddanna, þar sem bæði var niðamyrkur og handastjórn tekin að fatast, er flestir voru kalnir og varla hægt að ráða sér fyrir ofviðrinu. Sveinn frá Stirtlu hafði pikkað laust í hjarnið og lagzt þar niður aflangur. Var lengi strítt við að losa hann, og tókst að lokum. Var hann lítt kalinn eða ekki. Örðugast var að losa þá, er lagzt höfðu endilangir, en hægar þá, er lagzt höfðu krepptir. Í þessari svipan kól þá báða, Pétur og Einar, mjög á höndum og fótum.
Að lyktum voru allir komnir á fætur, nema Þorsteinn. Gátu sumir þó naumast staðið, og voru að detta niður öðru hvoru, en hinir hressari reistu þá upp aftur og reyndu að styðja þá. Undir dögun slotaði veðrinu lítið eitt. Töluðu þeir félagar þá saman, og mælti enginn æðruorð.
Þegar hálfbjart var orðið af degi gerði þann feiknasvip, og herti svo frostið, að langt bar af því, er verið hafði. Skullu þeir þá niður hver af öðrum, en nokkrir þeir, sem færastir voru, leituðust við að reisa þá á fætur aftur. Til marks um frosthörkuna er það, að á Pétri var orðin svo þykk klakaskán yfir öll andlitinu, að hann gat eigi brotið hana frá. Var hvergi gat á, nema fyrir öðru munnvikinu, og frosið allt saman hár og skegg og klæði. Bað hann þá Kristján að brjóta klakann og lagðist niður á bakið. Kristján pikkaði með staf sínum rauf fyrir enninu. Þreif Pétur þar í og reif frá allt saman. Svo var veðrið nú mikið og frostið, að þeim félögum fannst sem stæðu þeir alveg berir og hröktust þeir undan veðrinu í hvössustu hryðjunum. Gekk á þessu um hríð, unz Jón frá Ketilvöllum, Þiðrik, Ísak og Egill hnigu niður í höndum félaga sinna. Var naumast hægt að merkja, hvort þeir væru með lífsmarki eða þegar örendir.
Harðasta hrynan hafði staðið um það bil klukkustund. Hefði hún staðið aðra klukkustund í viðbót, má fullvíst telja, að enginn hefði komizt lífs af. Veðrið dró niður um það leyti, sem albjart var orðið. Var þó enn rok og hörkubylur. Sáu þeir þó á milli hryðjanna höggva fyrir toppnum á Grímmannsfelli. Voru þeir rétt fyrir neðan Leirvogsvatn, heldur nær Stardal en Bringunum, og höfðu lítið sem ekkert farið afvega.
Þeim, sem eftir stóðu, níu samtals, kom nú saman um að halda af stað og leita byggða. Skildu þeir eftir poka sína alla og stafi. Er þeir höfðu skamma stund gengið, kallaði Guðmundur frá Múla til Péturs og bað hann að leiða sig. Gerði Pétur svo. Brátt fann hann, að sér mundi verða það of þungt einum. Kallaði hann þá til Einars og bað hann að leiða Guðmund með sér. Einar var fús til þess. Í sama bili þraut Gísla Jónsson. Reyndu þeir Pétur að hjálpa honum áfram, en varð nú seinfarið, er þeir urðu að draga tvo aðra máttfara með sér, enda misstu þeir í þessum svifum sjónar á félögum sínum öðrum.
Frá þeim er það að segja, að þeir héldu saman allir fimm og komust um miðjan morgun ofan að bænum Gullbringu, til Jóhannesar Lund, er þar bjó. Voru þeir þá svo aðfram komnir, að enginn þeirra var fær um að standa upp hjálparlaust, þegar þeir settust eða duttu.
Jóhannes bóndi og fólk hans tók þeim hið bezta, og fengu þeir þegar þá aðhlynningu og hjúkrun, sem framast voru föng á. Svo voru þeir rænulausir, að þeir gátu ekki um þá félaga sína, sem á eftir voru, fyrr en eftir drjúga stund, er einhver heimamanna var að aumka þá, hve bágt þeir ættu. Rankaði þá einn þeirra við og sagði: „Bágt eigum við, en bágara eiga þeir, sem eru á eftir.“
Þegar húsbóndinn heyrði þetta, bjóst hann þegar að leita þeirra, er á eftir væru, og var það jafnsnemma og upp stytti hríðinni.
Í Gullbringum bjó fátækt fólk. Voru þar lítilfjörleg húsakynni og knappt um bjargræði og eldivið. Hinir hröktu menn fengu þegar kaffi og nýmjólk, voru færðir úr vosklæðum og að þeim hlynnt eftir fremsta megni. Síðan fóru þeir niður í vatnsílát með hendur og fætur, og voru í vatninu fram eftir degi.
Nú er að segja frá þeim Pétri og Einari, er þeir voru viðskila orðnir við alla félaga sína, nema þá tvo, er þeir leiddu. Höfðu þeir Guðmund á milli sín, en Gísli hélt sér í þá. Héldu þeir svo fram ferðinni langa hríð. Lítt skiptust þeir orðum við félagar, nema einu sinni segir Guðmundur: „Ætlarðu að yfirgefa mig, Pétur?“
„Nei, aldrei!“ svaraði í því kipptist Guðmundur við svo hart að hann ýtti þeim frá sér. Það voru dauðateygjurnar, er hann tók fyrsta andvarpið. Báru þeir hann þó enn góða stund á milli sín, unz þeir skildu, að það kom fyrir ekki.
Þá var stytt upp hríðinni, og var það eins snögglega og hún hafði skollið á. Létu þeir nú lík Guðmundar eftir, og er þeir höfðu skamma stund farið, sýndust þeim koma þrír menn á móti sér. Það var Jóhannes bóndi í Gullbringum einn saman, er kominn var að leita þeirra. Stefndu þeir þá fyrir austan endann á Grímmannsfelli, er Jóhannes kom að þeim. Komust þeir nú allir heim með honum, en svo voru þeir máttfarnir, að Jóhannes varð að lyfta undir þá, til þess að þeir kæmust upp baðstofutröppurnar. Var Pétur verst farinn. Þegar þeir voru komnir inn á baðstofugólfið var spurt, hvort þeir vildu kaffi.
Pétur svaraði: „Því ætli ég vilji ekki kaffi.“
Hann stóð á gólfinu, meðan hann drakk úr bollanum og meðan bóndi náði af honum fötunum. Hann talaði allt af ráði, en stutt og reiðilega, en sjálfur vissi hann ekki af sér, frá því að hann kom inn, til þess er stund leið frá.
Það var litlu fyrir hádegi, er þeir þremenningarnir komu til bæja. Voru nú sóttir menn og hestar til að flytja mennina á bæi, þar sem hægt var að hjúkra þeim. Voru sex þeirra fluttir þaðan. Bjarni og Guðmundur þóttu eigi flutningsfærir, og voru kyrrir um nóttina í Gullbringum.
Daginn eftir voru þeir fluttir niður í byggð. Allir voru þeir meira og minna kalnir, en urðu allir græddir að lokum, þótt sumir yrðu aldrei örkumlalausir. Einar lá lengi með óráði, en varð þó heill að lokum. Pétur var mest kalinn og lá mjög lengi í sárum og varð aldrei jafngóður.
Samhliða þessum flutning um voru þrír menn með duglega hesta sendir svo skjótt sem verða mátti til að leita hinna látnu og farangursins. Fundu þeir brátt lík Guðmundar frá Múla skammt frá Smalaskála nokkrum.
Því næst fundu þeir Ísak allmiklu norðar. Var hann enn með lífsmarki, þá er að var komið. Fluttu þeir hann strax að Stardal, því að þangað var skemmst, en hann dó á leiðinni. Byggðamenn sneru síðan aftur upp á heiðina og fundu brátt farangurinn og hina mennina fjóra sunnan til við Leirvogsvatn, hjá svonefndum Lómatjarnarlæk. Höfðu þeir lagzt rétt við lækinn og sumir þeirra legið í vatni úr læknum. Jón frá Ketilvöllum var þá enn með lífsmarki. Fluttu þeir hann að Stardal, en hann dó einnig á leiðinni.
Líkin voru öll lögð í snjó og vakað yfir þeim, en ekki leyndist líf með neinu þeirra. Voru líkin flutt til greftrunar að Mosfelli, en kistur gerðar að þeim í Rvík. Pétur kvaðst leggja til líkklæði utan um vin sinn og félaga, Guðmund frá Múla, og það gerði hann. —
Nokkru síðar dreymdi hann að Guðmundur komi til sín. Þóttist hann spyrja, hvernig honum liði — og fá þetta svar:
„Ekki vel. Mér er svo kalt.“
Frétti Pétur síðar, að líkklæðin höfðu orðið eftir í Reykjavík í ógáti, og þótti þá draumurinn benda til þess.“
Heimild:
-Ný vikutíðindi, 10. árg., 39. tbl, 1969, bls. 4, 5, 6 og 7.
Varða ofan Illaklifs.
Grindavík – brot úr sögu II
„Sjósókn úr Grindavík hefur verið með svipuðum hætti allar aldir siðan tekið var að róa þaðan. Bátar, veiðar, vinnubrögð og aðferðir við útgerðina hafa haldist lítið breytt allt fram á þessa öld. Enn eru uppi meðal okkar menn sem muna hinn gamla tíma árabátanna í Grindavík.
Í heimildum frá miðöldum (12.-15 öld) er Grindavík ein þeirra verstöðva sem oftast er nefnd sunnan Reykjaness, ásamt Þorlákshöfn og Vestmannaeyjum. Á 15. og 16. öld höfðu erlendir kaupmenn mikil umsvif þar, fyrst Englendingar og síðar Þjóðverjar. Englendingar ráku sjálfir fiskveiðar úr landi og hafa áreiðanlega ráðið til sín íslenska sjómenn. Eftir að þeir voru hraktir frá stöðvum sínum hér, tóku Hamborgarar og Brimarar að reka héðan útgerð, en létu þó heita að innfæddir ættu bátana, því valdsmenn hér bönnuðu útlendingum að eiga fiskiskip. Innlend jarðeigendastétt og konungsvaldið danska tóku síðan höndum saman og ruddu allri samkeppni erlendra kaupmanna burt úr íslenskum sjávarútvegi, og úr því varð engin breyting á atvinnuháttum hér, fram á 19. öld. Víst er að oft hefur mikið verið um að vera í Grindavík þegar Englendingar og Þjóðverjar ráku útgerð og fiskverkun þar. Margir hafa sótt vinnu þar og kannski tekið sér far með duggum þeirra til Bristol og Hamborgar.
Fátt eitt er vitað um mannlíf í blómlegum verstöðvum frá þessum tíma. Eftir 1700 eru heimildir fjölskrúðugri og má af þeim fá nokkuð skýra mynd af útgerðarháttum fram til okkar daga.
Heimræði var frá öllum bæjum í sveitinni, en lendingar misjafnar. í Jarðabókinni góðu er lendingin við Ísólfsskála sögð „bág og brimsöm“ en „voveifleg“ við Hraun. Annars staðar hefur hún verið betri. Mest útræði var frá Járngerðarstöðum, enda var það dýrasta jörðin í leigu. Uppsátur var hvergi á landinu metið sérstaklega til eigna nema í Grindavík, segir Lúðvík Kristjánsson í íslenskum sjávarháttum, 2. bindi. Við mat á leigu jarðanna 1753 var uppsátrið metið á 15 hundruð við Járngerðarstaði, en fjögur og þrjú hundruð við Þórkötlustaði og Hóp. En lendingarnar gátu farið illa sem aðrar eignir. Þannig er sagt að um 1760 hafi sjórinn verið farinn að brjóta svo upp vörina við Járngerðarstaði að bóndinn þar tók sig til ásamt sjómönnum sínum og ruddi fyrir nýrri lendingu. Varð þar uppsátur fyrir fimm skip. Ábúandinn fékk þó ekki landskuld sína lækkaða um einn einasta fisk, segir í gömlum bréfum, og þótti súrt í broti.
Auk útgerðar heimabænda, gerðu jarðeigendur út skip frá jörðum sínum. Árið 1702 átti Skálholtsstóll þrjú til fjögur skip við Jámgerðarstaði og áttæringa við ísólfsskála, Þórkötlustaði og Hóp. Þá hafði einnig róið frá Hrauni áttæringur stólsins, en hann brautárið 1700. Með öllum þessum skipum átti biskupsstóllinn verbúðir og vergögn. Á Stað átti kirkjan sjálf fjögur skip, sem landseti varð að gera út. Frá Húsatóttum gekk „eitt kóngs skip áttært“ og fylgdi því einnig verbúð og vergögn. Fyrir utan þessa útgerð voru svo inntökuskip, skip í eigu annarra en heimamanna eða jarðeigenda, sem greiddu leigu fyrir aðstöðu sína, sem nefnd var undirgift. Áhafnir þeirra fengu stundum gistingu og mat á bæjunum, eða þær leigðu búðir í landi jarðanna. í Jarðabókinni frá 1702 er getið inntökuskipa við Járngerðarstaði og Stað. Fram kemur að útgerð hefur verið meiri í Grindavík fyrir 1700, en gæftaleysi setti þá að um nokkur ár.
Skálholtsútgerð var aukin mjög í tíð Brynjólfs Sveinssonar sem var biskup 1639-1675. Hann lét byggja nýja búð á Járngerðarstöðum fyrir þriðja og fjórða skip stólsins þar, og hann setti skip og byggði búðir á Ísólfsskála, Hrauni og Hópi, þar sem stóllinn hafði ekki gert út skip áður. Skólahald og búrekstur á biskupsstólnum í Skálholti átti mikið undir útgerðinni.
Auk Grindavíkur voru helstu verstöðvar hans á Akranesi og í Þorlákshöfn. Um 1690 átti stóllinn um 350 skipsáróðurskvaðir, eða mannslán á Suðurlandi og í Borgarfirði. Þegar aflabrestur varð kom það niður á Skálholti svo sem Lúðvík Kristjánsson hefur lýst í tímaritinu Sögu frá 1971. Eftir 1686 varð meiri og minni aflabrestur um allt land, allt til 1704. í mars árið 1698 varð að fella niður skólahald í Skálholti, vegnafiskiskorts, og 1690 og 1 701 varð að sækja fisk á Snæfellsnes og í Tálknafjörð vegna aflabrests sunnanlands.
Fjöldi skipa í Grindavík var mjögbreytilegur eftir högum íbúa og fiskigengd. Á vertíðinni 1703 voru 26 skip, og hefur það verið fátt vegna undangenginnar ördeyðu. Þá höfðu ein þrjú skip farist á einum marsdegi árið 1700 og með þeim 26 menn. Seinna á öldinni fjölgaði bátum aftur. Þeir eru sagðir 75 árið 1776, og eru þá trúlega allar fleytur taldar með. Árið 1780 segir Skúli MagnússonaðGrindvíkingareigi átta áttæringa, þrettán sexæringa og sex feræringa, en Skálholtsstóll einn teinæring og ellefu áttæringa. Samtals gerir það 39 báta á vertíðinni. Næstum hundrað árum seinna, um 1870, voru níu tí- og tólfæringar og þrír bátar gerðir út í sveitinni, en um þrjátíu skip, flest áttæringar, veturinn 1896.
Margt aðkomumanna var í Grindavík um vetrarvertíðina, svo sem enn tíðkast. Flestir vermanna komu austan úr sveitum Árnes- og Rangárvallasýslna. Voru þeir uppistaðan í áhöfnum stólsskipanna. Árið 1780 reru 2 heimamenn og 131 austanmaður á skipum Skálholts, en 50 heimamenn og 160 austanmenn á heimabátum Grindvíkinga.
Samanlagt gerir það 291 vermenn á verrtíðinni, en íbúar voru þá 201 í sókninni. Tíu árum áður voru vermenn taldir 419, og hefur það verið með mesta móti. Grindavík var með mestu verstöðvum á landinu á árum áður, rétt eins og nú.
Á 14. öld varð skreið aðalútflutningsvara landsmanna og fiskveiðar munu hafa eflst mjög. Þar var Grindavík engin undantekning.
Framan af var skreiðarverslunin í höndum norskra kaupmanna og miðstöð hennar var í Bergen.
Þegar kom fram á 15. öld urðu Englendingar sífellt umsvifameiri á fiskimiðunum hér við land og í helstu verstöðvum. Í kjölfar þeirra fylgdu þýskir Hansakaupmenn sem brátt náðu yfirhöndinni í skreiðarversluninni af Norðmönnum. Hörð samkeppni ríkti milli Englendinga og annarra kaupmanna um íslensku skreiðina, og sló oft í brýnu með þeim.
Þegar kemur fram á 16. öld bundust valdsmenn innanlands og Hansakaupmenn samtökum um að reka Englendinga burt héðan. Þess má geta að umboðsstjórn konungs var um þetta leyti oftast í höndum þýskra manna.
Englendingar höfðu aðalbækistöðvar sínar í Hafnarfirði, en voru hraktir þaðan 1518. Eftir það varð Grindavík þeirra aðalhöfn, en ekki sátu þeir lengi á friðarstóli þar. Englendingar stunduðu hér miklar fiskveiðar úr landi, og höfðu því fjölda innlendra manna í sinni þjónustu – eða allt þar til þeir voru hraktir af landi brott 1539.
Árið 1640 hættu kaupmenn að sigla á Grindavík og tóku upp kaupskap á Básendum ís taðinn. Hefur þetta sjálfsagt verið vegna þess að ekki var óalgengt aðs kipum hlekktist á í höfninni og eitt sinn, skömmu eftir tilkomu einokunarinnar mun skip hafa farist þar. Grindvíkingar kvörtuðu sáran undan missi verlsunarinnar, enda var það þeim til mikil óhagræðis að þurfa að flytja afurðir og verslunarvörur sínar til og frá Básendum. Þá varð þetta til að fæla frá utanhéraðsmenn sem gerðu út á vertíðina. Þar var svo eftir að Brynjólfur Sveinsson biskup beitti sér í málinu að Grindavíkurhöfn var tekin upp aftur 1664.
Var höfnin nú flutt í Staðarhverfi. Hélst verslun þar allt til 1745 að hún varafturfelld niður, og þurftu Grindvíkingar síðan að flytja vörur sínar á Básenda enn á ný. Var því nú borið við að höfnin væri að fyllast af sandi svo skipin tækju niðri. Til að bæta mönnum upp óþægindin var Grindvíkingum heitið flutningsgjaldi fyrir vörur sem þeir legðu inn hjá Básendakaupmanni. Þrátt fyrir það voru þeir óánægðir með þetta ástand og stóð oft í stappi út af flutningsgjaldinu. Eftir 1745 var engin föst verslun í Grindavík í einaoghálfaöld. Sagt er að kaupmannshúsin færu í sjóinn í miklu flóði 1799. Þá brotnuðu einnig verslunarhúsin á Básendum í þessu sama flóði og féll verslun niður þar.
Grindavík var ætíð með minnstu verslunarhöfnum á einokunartímanum. Hún var þó eftirsótt vegna fisksins sem þaðan kom. Jón Aðils segir í bók sinni um einokunarverslunina að Grindavík og Básendar saman hefðu verið leigð fyrir 743 ríkisdali á ári 1684, en leigan hækkað í 1150 ríkisdali 1689. Hafnirnar voru þá boðnar hæstbjóðendum.
Kaupsvæði verslunarinnar náði aðeins um hreppinn, Grindavík og Krýsuvík, en öðru hvoru var verslun sótt þangað úr Höfnum, Selvogi og Ölfusi, meðan slíkt leyfðist á einokunartímanum.
Útflutningur verslunarinnar var þó meiri en búast mátti við af fámennu byggðarlagi, vegna mikillar útgerðar og fjölda vermanna á vetrum.
Stærri hluti aflans í Grindavík fór til innanlandsneyslu en annars staðar, sökum fjölda vermanna úr austursýslunum sem fluttu hlut sinn heim, og einnig vegna hinnar miklu útgerðar Skálholtsstóls.
Nítjánda öldin var öld kyrrstöðu í Grindavík, og hélst svo allt fram undir 1930. Grindvíkingar héldu áfram að stunda sjóinn og róa til fiskjar á hefðbundinn hátt. Léleg hafnarskilyrði ollu því að þilskipaútgerð var aldrei reynd á staðnum, og vélbátar tíðkuðust þar ekki fyrr en milli 1920 og 1930. Hreppsbúum fjölgaði þó hægt og bítandi og þéttbýli styrktist í Grindavík. Raunar var þéttbýli í Grindavík á þrem stöðum. Það voru hverfin þrjú: Staðarhverfi, Járngerðarstaðahverfi og Þórkötlustaðahverfi.
Þar við má bæta Krýsuvík og hjáleigum hennar sem hinu fjórða, en þar efldist byggð um miðja síðustu ö l d , en hnignaði fljótt aftur á þeirri tuttugustu.
Byggð var löngum mest kringum Járngerðarstaði, og árið 1890 bjuggu þar 145 manns, en 94 í Þórkötlustaðahverfi og 63 í Staðarhverfi. Þegar fjölgaði í byggðinni, styrktist hún í öllum hverfunum.
Landbúnaður efldist nokkuð á nítjándu öld og fram eftir þeirri tuttugustu með túnræktun. Bústofninn stækkaði allt fram undir 1940, en tók þá aftur að minnka .
Um 19. öld gilti hið sama og allar aðrar aldir í Grindavík, eins og sóknarpresturinn sagði í sóknarlýsingu frá 1840: „Bjargræðisvegur sóknarmanna er sjávarafli; hann er og allrösklega stundaður“.
Grindvíkingar sóttu verslun til Keflavíkur alla nítjándu öld. Urðu þeir að bera vörur sínar á bakinu í og úr kaupstað, því fæstir áttu hesta. Þrjár leiðir lágu upp úr Grindavík og í kaupstað, ein úr hverju hverfi. Árið 1918 var lagður akvegur til Grindavíkur út frá veginum milli Reykjavíkur og Keflavíkur, og þótti að mikil samgöngubót.
Fyrsta bryggjan í Grindavík var byggð í Járngerðarstaðahverfi 1919. Síðan kom bryggja í Þórkötlustaðanes 1930 og þrem árum seinna í Staðarhverfi. Bryggjurnar bættu alla aðstöðu við löndun afla og vöruflutninga til ogfrá staðnum.
Segja má að eftir tveggja alda stöðnun frá því kaupmenn lokuðu búðum sínum 1745, hafi Grindavík aftur opnað dyrnar að framtíðinni. Byggðin hefur teygt sig upp frá höfninni í Hópinu, út frá gömlu byggðinni í Jámgerðarstaðahverfi. Hins vegar lagðist útgerð niður í Staðar- og Þórkötlustaðahverfum, og byggðinni þar hnignaði um leið. Staðarhverfi fór í eyði 1964, en byggðin við Þórkötlustaði staðnaði, og líkist nú einna helst stóru byggðasafni frá fjórða áratugnum. Þannig fylgir búsetan örlögum atvinnuháttanna.
Grindavík hlaut kaupstaðarétindi árið 1974.“
Heimild:
-Ægir, 78. árg. 1985, 6. tbl. bls. 301-308.
Frá Járngerðarstaðahverfi.
https://ferlir.is/grindavik-innsiglingin/https://ferlir.is/grindavikurvegir/