Tag Archive for: Húshólmi

Kleifarvatn

„Svo er talið, að Ögmundarhraun hafi runnið (eða brunnið, eins og Snorri goði mundi hafa orðað það) um miðja 14. öld.

Austurengjahver

Austurengjahver.

Um stað þann, sem nú er kallaður Húshólmi, þar sem er miklu eldra hraun undir gróðrinum en Ögmundarhraun er, hefur hraunstraumurinn klofnað. Hefur önnur álman runnið fyrir vestan hólma þennan, en hin fyrir austan hann og báðar beint í sæ út. Rétt austan við vestari hrauntunguna eru bæjarrústir nokkrar, og er auðsætt, að eitthvað af húsunum hefur orðið undir hraunstraumnum.

Húshólmi

Vísan á Húshólmastíg.

Er og almennt álitið, að þarna hafi bærinn Krýsuvík upphaflega staðið, enda lítt hugsanlegt, að bænum hafi verið valið víkurnafnið, ef hann hefði frá öndverðu verið þar, sem hann nú er, nálega hálfa fimm kílómetra frá sjó, enda ekki um neina vík neins staðar að ræða. Bæjarrústir þessar eru og enn þann dag í dag jafnan nefndar gamla Krýsuvík eða Krýsuvík hin forna. Suður og suðvestur af bæjarrústum þessum verður lægð nokkur í hraunstrauminn, og álíta sumir, að einmitt þar hafi víkin sjálf verið, sú er bærinn dró nafn sitt af rétt vestan við Húshólmann við Húshólmafjöruna. Kirkjuflöt heitir og rétt hjá rústunum.

Húshólmi

Húshólmi – minjar.

Ráðleggja mætti þeim, sem skoða vildu tóftarbrot þessi og vinna sé það á sem auðveldastan hátt, að fara í bifreið úr Grindavík austur fyrir Ögmundarhraun, (akstur eins og vegurinn er nú), ganga síðan suður með austurjarðri hraunsins, þar til komið er að stíg þeim, sem liggur yfir eystri hraunálmuna út í Húshólmann, þar til komið er að bæjarrústunum. Mun ganga þessi vara eina klukkustund, þótt ekki sé allrösklega farið.

Kleifarvatn

Kleifarvatn.

Svo sem mörgum er kunnugt liggur Kleifarvatn í klauf þeirri, sem verður millum Sveifluháls og Vatnshlíðarinnar, og þegar komið er sunnan við vatnið, virðist sem fjöll þessi nái saman við norðurenda vatnsins. Hyggja því sumir, að vatnið dragi nafn sitt af klofa þessum. Um háttsemi þessa stóra stöðuvatns og misvöxt þess hafa ýmsir mætir menn skrifað margt og mikið nú á síðari árum, og skal því ekki farið út í þá sálma hér, enda ekki leikmönnum hent að leggja þar orð í belg.

Víti

Víti.

Sá hluti af Krýsuvíkurengjunum, sem lægst liggur og næst vatninu að sunnan, heitir Nýjaland (hið inna og fremra). Misvöxtur vatnsins veldur því, að engjasvæði þessi liggja oft svo árum skiptir í senn undir ágangi Kleifarvatns, en mjór malarhryggur, sem gengur til vesturs frá norðurenda Hvammholtsins, skiptir Nýjalandinu í tvennt, hið innra og fremra, og kallast tangi sá Rif.

Nýjaland

Nýjaland.

Vestan við Fremralandið og við vesturenda Rifsins rennur lækur sá, er nefnist Ós inn á Innralandið og í vatnið sjálft. Á Ósinn upptök sín að mestu á Vesturengjunum og í Seltúnshverfunum, en smálindir koma þó í hann af Austurengi, úr Hvömmunum og Lambafellum.

Nýjaland

Nýjaland – tóft.

Svo er landslagi háttað, að Fremralandið var miklu lengur slægt en hið innra, og nam sá tími einatt nokkrum sumrum. Mátti í góðu grasári heyja um sex hundruð hestburði á hvoru Nýjalandi, þegar vatnið var svo þorrið, að unnt var að slá þau bæði.

Ekki er það fátítt, að stararstráin á Nýjalandi verði rúmlega álnarhá, því að oftast nær flæðir Ósinn yfir að vetrarengi, hvað sem vexti Kleifarvatns líður.

Kleifarvatn

Kleifarvatn – hverir.

Hverir eru í vatninu, og sjást reykir nokkrir leggja upp úr því í logni, en á vetrum eru þar jafnan vakir. Sjaldan leggur vatnið fyrir vetrarsólstöður.
Þegar lítið var í vatninu, var jafnan “farið með því”, þá er sækja þurfti til Hafnarfjarðar. Lá sú leið eftir allri vesturströnd vatnsins, milli þess og Sveifluháls, þar sem seinna var gerður akvegur. Er sá vegur greiðfærari miklu og talsvert skemmri en sá að fara Ketilsstíg og síðan “með hlíðunum”.

Á korti herforingjaráðsins er nafnið Ketilstígur sett fram með Sveifluhálsi að norðvestan, en það er ekki nákvæmt, því að Ketilsstígur heitir aðeins sá hluti þeirrar leiðar, sem liggur upp á Sveifluháls að Norðanverðu, og er stígur þessi innan í gömlum gíg, sem kallast Ketill.

Ketilsstígur

Ketilsstígur.

Austur og suðaustur af Arnarfelli er mýrarfláki, stór nokkuð, sem kallast Bleiksmýri, og var þar mikill áfangastaður á þeim tímum, sem þeir Árnesingar og Rangæingar fóru skreiðarferðir til verstöðvanna á Reykjanesskaga. Mátti einatt sjá marga tugi eða jafnvel nokkur hundruð hesta á Bleiksmýri í einu og fjöldi tjalda, þegar hæst stóðu lestaferðirnar. Mun og mörgum hestinum hafa þótt gott að koma í Bleiksmýri úr hagleysinu og vatnsskortinum á Reykjanesskaganum. Var og ekki óalgengt að menn lægju þar einn og tvo daga til þess að hestar þeirra fengju sem besta fylli sína, áður en lengra var haldið.

Víða í hraununum á Reykjanesskaga, eins og reyndar víðar á landi hér, getur að líta nokkuð djúpa götutroðninga í hraunhellunum eftir margra alda umferð. Má þar um segja: “Enn þá sjást í hellum hófaförin“.”

Ögmundarstígur

Ögmundarstígur.

Í Ögmundarhrauni mynduðust holur með þröskuldum á milli, og var hver hola um eitt fet í þvermál og hnédjúp hestum, og í rigningatíð stóðu holur þessar fullar af vatni. Fyrir nokkrum áratugum var gerð vegabót nokkur í Ögmundarhrauni, og holur þessar fylltar upp. Í gamalli og alþekktri vísu segir svo:
Eru í hrauni Ögmundar
ótal margir þröskuldar,
fáka meiða fæturna
og fyrir oss brjóta skeifurnar.

Fáni

Flaggað við Eiríksvörðu á Arnarfelli.

Það mun mega teljast hæpið hvort örnefnið Gullbringa sé sýnt á alveg réttum stað á korti herforingjaráðsins, þar sem það er sett á hæð eina, 308 metra háa, sunnarlega í Vatnshlíðinni. Þeir, sem kunnugir eru á þessum slóðum, hafa jafnan kallað Gullbringu lyngbrekku þá, sem er vestan í Vatnshlíðinni og nær niður undir austurströnd Kleifarvatns. Ýmsir telja, að sýslan dragi nafn sitt af þessari brekku. Mætti í því sambandi benda á það, að ekki eru þeir allir fyrirferðarmiklir staðirnir á Íslandi, sem heilar sýslur draga nafn sitt af.

Stóra-Eldborg

Stóra-Eldborg vestast undir Geitahlíð.

Þrjá til fjóra kílómetra austur frá bænum í Krýsuvík er Eldborgin, og svipar henni að mörgu leyti til nöfnu sinnar í Hnappadalssýslu – þeirrar, sem Hendersen gerði víðfræga með teikningu sinni. Skarð það, er verður millum Eldborgar og Geitahlíðar, heitir Deildarháls, og liggur alfaravegurinn yfir hann.
Dr. Þorvaldur Thoroddsen taldi gíginn í Eldborg vera 500 fet að ummáli að ofan og 105 á dýpt, en hæð fellsins telur hann 172 fet. Meinaði hann þar eflaust hæð Eldborgarinnar yfir jarðlendinu umhverfis hana, því að á korti herforingjaráðsins er hæð hennar yfir sjávarmáli talin 180 metrar.

Æsubúðir

Æsubúðir.

Efst í Geitahlíð er og gígur mikill, en hann er eldri en síðasta jökulöld, eins og reyndar hlíðin öll er. Barma gígs þessa ber hærra en aðra hluta Geitahlíðar, er heita Æsubúðir. Niður af Æsubúðum, en sunnan í Geitahlíð, verður hvammur sá, er kallast Hvítskeggshvammur eða Hvítskeifshvammur, og er til prentuð þjóðsaga um þessi örnefni, en eigi er sú sögn allsennileg.
Skammt fyrir austan Deildarháls og hvamm þennan eru Kerlingar (sagan um Krýs og Herdísi), Bálkahellir (lítt eða ekki kannaður), Gvendarhellir (bóndi í Krýsuvíkurhverfinu, Guðmundur að nafni, hýsti fé sitt í þessum helli þá er harðindi gengu, líklega á fyrri hluta 19. aldar), og Kerið á Keflavík (uppi á 6 metra háum hamri ofan við Keflavík er op, Kerið, niður í flæðamál).

Austurengjahver

Austurengjahver.

Leirhverin mikil í Krýsuvík, sá er myndaðist við sprengjugosið, er þar varð haustið 1924 og olli landskjálftum nokkrum víða um Surðurland, er þar, sem áður var vatnshver lítill og hét Austurengjahver. Virðist svo, að leirhverinn megi og vel halda sama nafninu. Fúlipollur er næstum á miðjum Vesturengjum, og er hann eitthvert stærsta hverastæðið, sem til er í Krýsuvík, virðist ekki þurfa að velkja það lengi fyrir sér, að endur fyrir löngu hafi þarna orðið sprengigos líkt því, er varð þá, er Austurnegjahver endurmagnaðist, haustið 1924. Auðsætt er, að hverinn er á hrörnunarskeiði. Ýms merki virðast og benda til þess, að Austurnegjahver muni ekki heldur verða neinn Ókólnir.

Arnarfellstjörn

Arnarfellstjörn.

Ekki skal hér rætt um breinnisteininn í Krýsuvík né þann í Brennisteinsfjöllunum, enda eru Brennisteinsfjöllin austan sýslumarkanna og því í Herdísarvíkurlandi.
Þess hefur orðið vart, að sumir menn halda, að örnefnið Víti sé hver, en svo er eigi. Víti er hraunfoss, sem fallið hefur vestur af hálendisbrún þeirri, sem verður norður af Geitahlíð, og er hraunfoss þessi sennilega á svipuðum aldri og Ögmundarhraun. Hann er nú storknaður fyrir löngu og allur gróinn þykkum grámosa.

Dysjar

Dysjar Herdísar, Krýsu og smalans í Kerlingadal.

Eiríksvarða á Arnarfelli er vel þekkt úr þjóðsögum, sem segja, að séra Eríkur Magnússon, hinn fjölkunnugi Vogsósaklerkur, hafi hlaðið hana og mælt svo um, að aldrei skyldu Tyrkir koma í Krýsuvík meðan varðan stæði uppi. Nú er varðan hrunin, næstum í grunn, en Bandaríkjamenn komu í Krýsuvík, þegar seta þeirra í landinu hófst.
Vestan í Geitahlíð og skammt fyrir neðan fjallsbrúnina sjálfa leggur jafnan á vetrum þykka fönn, langa en ekki breiða. Er fönn þessi sjaldan horfin með öllu fyrr en um Jónsmessu, og dregur hún nafn sitt af því.
Krýsuvík hefu lengi verið talin einhver mesta útigöngujörð fyrir sauðfé á landi hér, einkum þó þeirra jarða, sem ekki hafa fjörubeit, og ekki var það ótítt að sumt féð þar lærði aldrei átið.

Húshólmi

Húshólmi – einn hinna fornu garða.

Vægar jarðhræringar voru ekki sjaldgæfar í Krýsuvíkurhverfinu og voru þær kallaðar hverakippir þar.
Mótak er þar sums staðar í mýrunum, en ekki þykir mórinn þar góður til eldsneytis. Er hann allur mjög blandinn hveraleir, svo að af sumum kögglunum leggur brennisteinslyktina, þegar þeim er brennt.
Fremur þykir vera þokusamt í Þrýsuvík og lengi hefu verið við brugðið, hversu myrk þokan geti orðið þar. Er það haft eftir manni nokkrum, að eitt sinn hafi hann verið á ferð um Sveifluháls í svo miklu myrkviðri, að hann hafi séð þokuna sitja í olnbogabótinni á sér. Rigningasamt í meira lagi þykir og vera þar, svo einatt er þurrviðri í næstu byggðarlögum, þótt rigning sé í Krýsuvík.

-Úr sunnudagsblaði Tímans 2. júlí 1967 – Stefán Stefánsson.

Gullbringa

Gullbringa.

Húshólmi

Gengið var um Ögmundarstíg undir Krýsuvíkur-Mælifelli og áleiðis yfir Ögmundarhraun milli þess og Latsfjalls.

Ögmundardys

Ögmundardys.

Staðnæmst var við dys Ögmundar, sem er þarna í austurjarðri hraunsins. Þar er eini hluti hins gamla Ögmundarstígs, sem enn er óbreyttur. Öðrum köflum stígsins í gegnum hraunið hefur verið breytt eftir því sem ökutækin hafa tekið breytingum. Þannig var hann endurruddur að nýju í byrjun fjórða áratugs 20. aldar er hann var gerður ökufær á kostnað Hlínar Johnsens í Krýsuvík. Stígurinn ber þess merki, enda orðinn bæði nokkuð beinn og breiður. Nýi akvegurinn liggur svo til samhliða honum skammt sunnar í hrauninu.

Ögmundarstígur

Ögmundarstígur.

Dysin er skírskotun til þjóðsögunnar um Ögmund og áhuga hans á að eignast dóttur Krýsuvíkurbónda (aðrir segja Njarðvíkurbónda). Bóndi samþykkti eftirgjöfina gegn því að Ögmundur ruddi stíg yfir hraunið á tilskyldum tíma. Ögmundur hófst handa að vestanverðu, en þegar hann kom austur yfir hraunið sat bóndi fyrir honum, drap hann þar í lægð og dysjaði. Þar er nú Ögmundardys. Enn má sjá hlöðnu dysina við stígkantinn.
Ögmundarhraun er undir Núpshlíðarhálsi, milli Krýsuvíkur og Ísólfsskála. Vesturhluti þess er af öðrum uppruna en austurhlutinn. Hraunið er rakið til gígaraðar austan í hálsinum, þar sem meginhraunið rann á milli Latsfjalls og Mælifells í Krýsuvík alla leið í sjó fram og langleiðina austur að Krýsuvíkurbergi. Hraunið er talið hafa runnið um 1151 eða svipuðum tíma og Kapelluhraunið.

Latur

Latur. Latsfjall ofar.

Ögmundarstíg var fylgt yfir að Latsfjalli og síðan gengið suður með því að austanverðu, niður Latstöglin. Franskur ferðamaður, sem leið hafði átt gangandi um Krýsuvíkurveg, slóst með í förina, en hann var á leið til hins mikla og margfræga menningarbæjar Grindavíkur. Þegar hann frétti af fyrirhugaðri göngu FERLIRs vildi hann ólmur slást með í för. Eftir gönguna sagðist hann varla trúa því enn að landið byggi yfir slíkum töfrum sem raun ber vitni. Var honum tjáð að lykillinn að þessum töfrum væri í höndum bæjarstjóra Grindavíkurbæjar.

Sængurkonuhellir

Sængurkonuhellir.

Sunnan við Lat var komið við í sæluhúsi í hraunskúta. Hlaðið er fyrir munnann. Op er á skútanum og hlaðið umhverfis það að ofanverðu. Þarna leituðu ferðalangar skjóls á leiðum þeirra milli Krýsuvíkur og Grindavíkur fyrrum.
Stígur liggur ofan sæluhússins áleiðis í og neðan við Óbrennishólma. Stígurinn heldur áfram til austurs sunnan hólmans, en að þessu sinni var götu fylgt inn í hólmann og staðnæmst þar við stóra forna fjárborg á hæð í honum sunnanverðum. Í lægð vestan við borgina mótar fyrir fornu garðlagi frá norðri til suðurs. Austar er tóft, annað hvort af minni fjárborg er hringlaga topphlöðnu húsi. Hár hraunkanturinn er skammt austan hennar.

Óbrennishólmi

Garður í Óbrennishólma.

Haldið var upp í hólmann og skoðaðir garðar þeir er hraunið hafði staðnæmst við. Greinilega sést hvar þunnfljótandi hraunið hefur runnið yfir hlaðinn garð. Grjótið í honum er úr grágrýti en ekki hraungrýti, sem er allt umhverfis. Líkast til er þarna um tvö hraun, mismunandi gömul, að ræða. Garðurinn hefur verið hlaðinn á eldra hraunið, en það yngra runnið að honum. Grjótið í garðinum er svipað og á holtinu hjá stóru fjárborginni og í borginni sjálfri.

Óbrennishólmi

Skjól eða fjárborg ofan Óbrennishólma.

Ofar í hrauninu er hlaðið hringlaga gerði, líklega nýrra, enda úr hraungrýti. Þá er hlaðið gerði og garður út frá því neðst og syðst í hólmanum. Hann virðist vera nýrri, enda hlaðinn að hraunkantinum, en hraunið ekki yfir honum líkt og efra.

Gengið var austur yfir úfið hraunið áleiðis að Húshólma. Af efstu brún þess er fallegt útsýni yfir hólmann og nærliggjandi hraun. Þaðan sést vel hvernig skipting hraunsins hefur verið, annars vegar þynnfljótandi og hins vegar úfið og seigt. Óbrennishólmi og Húshólmi hafa að öllum líkindum verið hæðir í fyrrum landslaginu og því staðið upp úr þegar hraunin runnu.

Brúnavörður

Brúnavörður.

Í suðri sést vel í Brúnavörður, en við þær liggur stígur frá suðurbrún úfna hraunsins áleiðis í Húshólma. Stígurinn er flóraður á kafla.
Bæjarrústirnar í Húshólma eru að hluta þaktar hrauni en þar sér líka móta fyrir túngörðum, sem enda undir hrauni. Efst í Húshólmanum er eldri hraunbreiða frá gígaröð suðaustan Mælifells.
Skiptar skoðanir eru um aldur Ögmundarhrauns en nýjustu niðurstöður benda til þess að það hafi runnið 1151. Myndast hafa nokkrir landhólmar í hraunrennslið og kallast þessir hólmar óbrennishólmar.

Húshólmi

Húshólmi – minjasvæðið. Kirkjulágar efst.

Húshólmi er þeirra stærstur. Í honum eru varðveittar húsarústir, og er talið að þar hafi Krýsuvík hin forna staðið. Í Kirkjulágum, smáhólmum skammt vestan við Húshólma, eru húsarústir og er ein þeirra talin vera af kirkju og nafnið dregið af því. Leifar einnar byggingarinnar eru nær horfnar en hraunið sem runnið hefur umhverfis hana stendur eftir og mótar útlínur hennar. Er það nær einstakt í heiminum að fornleifar hafi varðveist með slíkum hætti, mótaðar inn í storknaðan hraunstraum.

Húshólmi

Húshólmi – skáli.

Þegar komi er að rústunum í Húshólma, eða öllu heldur í hrauninu skammt vestan við hólmann, má fyrst sjá minjar skála, sem hraunið hefur runnið umhverfis og brennt torfveggina. Eftir stendur stoðholuröð. Í þeim hafa verið stoðir, sem haldið hafa þakinu uppi. Sést vel hvernig hraunið hefur brennt timburverkið svo eftir standa holurnar í hrauninu, í miðri tóftinni. Áhrifaríkt.

Húshólmi

Húshólmi – veggur og tóftir.

Sunnan við þennan skála er annar heillegri. Snýr hann eins og sá efri. Lag hans sést vel, lítillega sveigðir veggir og þverhýsi við austurnendann. Hleðslurnar sjást vel. Grjótið er grágrýti, ólíkt hraungrýtinu umhverfis. Norðaustar móta fyrir tveimur tóftum sem hraunið hefur runnið umhverfis og brennt.

Húshólmi

Skálatóft í Ögmumdarhrauni við Húshólma.

Sunnan við þessar tóftir er bogadreginn veggur, alllangur. Innnan hans er tóft, líklega þriðji skálinn. Garðstubbur er vestan hans og annar bogadreginn út frá honum að austanverðu. Innan hans er skeifulaga tóft. Þar er hin forna kirkja við Kirkjuflöt. Í henni eru m.a. hleðslur úr sjóbörðu grágrýti. Auðvelt er að draga þá ályktun að tóftir húsa í Húshólma, sem enn sjást, hafi verið byggð niður við sjóinn. Þarna gæti hafa verið (og hefur að öllum líkindum verið) vík inn í landið (Krýsuvík, Krossvík eða annað líkt – annars er merking Krýsuvíkur sú að deildur hafi staðið þar, annað hvort um víkina eða annað) og góð lending. Eftir að hraunin runnu hafi þau fyllt upp í víkina.

Húshólmi

Húshólmi – Kirkjustígur.

Kirkjustígurinn liggur til austurs, yfir í Húshólma. Þar mótar fyrir hringlaga mannvirki, nokkuð stóru. Segir sagan að þarna hafi verið forn grafreitur. Lítið sem ekkert hefur verið grafið í Húshólma. Bæði er það vegna þess að talsverður gangur er þangað, auk þess er hætt við að niðurstaðan kunni að breyta í einhverju sögunni um búsetu manna hið fyrsta hér á landi.
Garður liggur frá hraunkantinum, og reyndar inn í hann einnig, nokkuð ofar (móts við efsta skálann) og til suðausturs, en sveigir síðan til suðurs og aftur að hraunkantinum mun sunnar. Á hann liggur beinn þvergarður, skammt sunnan við hringalaga gerðið. Allt hafa þetta verið mikil mannvirki á sínum tíma. Ytri garðurinn er að mestu úr torfi, en þvergarðurinn hefur verið hlaðinn úr grjóti að hluta. Sést það vel miðsvæðis.

Húshólmi

Húshólmi – garður.

Samkvæmt rannsóknum er aldur garðsins a.m.k. frá því að landnámsöskulagið lagðist yfir landið því sjá má það í pælunni við garðinn. Líklegt má telja að landnámsmenn þarna hafi fyrst byggt hús og nauðsynlega garða, en síðan tekið til við gerð stærri og fjarlægari mannvirki. Ekki er ólíklegt að hraunið hafi runnið yfir fleiri byggingar, sem hafa staðið þarna lægra. Minjarnar í Óbrennishólma, sem þó eru í nokkurri fjarlægð, og minjarnar í Húshólma, bera með sér að þarna hafi verið talsverð byggð. Fjárborgin í Óbrennishólma virðist hafa verið nokkuð há, auk þess sem ummál hennar er með því meira sem gerist í fjárborgum á Reykjanesi. FERLIR hefur þegar skoðað tæplega áttatíu slíkar. Þá er jarðlægi garðurinn í Óbrennishólma svipaður görðunum í Húshólma.

Húshólmi

Húshólmi – sjóbúð ofan Hólmasunds.

Syðst í Húshólmanum er tóft, skammt ofan við rekastíginn. Líklega tengist hún rekavinnslu í hólmanum. Neðan undir honum er Hólmasundið.
Efst í Húshólma er forn fjárborg og minjar selsstöðu, s.s. stekkur og kví. Þar er og hlaðið byrgi refaskyttu við eitt grenjanna. Stígur liggur út úr Húshólma efst í honum, en hann er sagður hafa verið gerður vegna þess að kirkjan í hólmanum hafi verið notuð eftir að hraunið rann. Aðrir benda á að hann kynni að vera tilkominn vegna selstöðunnar eða annarrar nýtingar, sem verið hefur í Húshólma í gegnum tíðina.

Húshólmi

Útsýni yfir Krýsvíkurbjarg af sjávarstígnum.

Gengið var austur eftir stíg syðst í Húshólma, neðan undir gamla berginu og með stórkostlegt útsýni yfir að Krýsuvíkurbergi. Ofan bergins á þessu svæði vottar einnig fyrir garðlögum innan óbrennishólma.
Með austurjaðri Ögmundarhrauns er hlaðið stórt gerði, líklega fyrir hesta. Ofar, upp undir Borgarhól, er hlaðin fjárborg.
Veður var frábært – sól og hiti. Gangan tók 4 klst og 4 mín.

Heimildir:
-Brynjólfur Jónsson. „Rannsókn í Gullbringusýslu og Árnessýslu sumarið 1902.“ Árbók Hins íslenska fornleifafélags 1903. Rvk.
-Haukur Jóhannesson og Sigmundur Einarsson. „Krísuvíkur eldar I. Aldur Ögmundarhrauns og miðaldalagsins.“ Jökull 38, 1988
-http://www.nat.is/travelguide/ahugav_st_ogmundarhraun.htm
-http://www.fornleifavernd.is/2/Fridlystar_fornleifar/Reykjanes%20og%20Reykjavik/husholmi.htm

Ögmundardys

Ögmundardys austast við Ögmundarstíg.

/https://ferlir.is/husholmi/

Húshólmastígur

Gengið frá frá hálsinum ofan við Latfjall, norðvestur yfir Tófubruna. Sést móta fyrir gamla veginum (Hlínarveginum) skammt sunnar. Ofar eru fallegir, litskrúðgir klepra- og gjallgígar. Þeir eru hluti gígaraðar, sem liggur autan með austanverðum Vesturhálsi (Núpshlíðarhálsi).

Stóri-Hamradalur

Stóri-Hamradalur.

Ögmundarhraun mun hafa komið úr gígaröðinni, sem nær alllangt til norðurs. Eftir stutta áframhaldandi göngu var komið að háum misgengisveggjum Stóra Hamradals undir hálsinum. Undir veggnum, sunnarlega, er gömul hlaðin rétt. Jón Guðmundsson frá Ísólfsskála sagði að hún hafi jafnan verið notuð við rúningar.
Ögmundarhraun er neðan við Latfjall. Hraunið er runnið frá norðurhluta gígaraðar austan Núpshlíðarhálsi og hefur meginhraunflóðið fallið Latsfjalls og Krýsuvíkur-Mælifells og allt suður í sjó og langleiðina austur undir Krýsuvíkurbergs. Vesturhluti þess er af öðrum uppruna en austurhlutinn. Hraunið er rakið til gígaraðar austan í hálsinum, alla leið í sjó fram og langleiðina austur að Krýsuvíkurbergi. Líklega rann þetta hraun á 11. öld eða svipuðum tíma og Kapelluhraunið gegnt Ísal og a.m.k. einn bær og önnur mannvirki grófust undir því.

Húshólmi

Skálatóft í Húshólma í Gömlu-Krýsuvík.

Bæjarrústirnar í Húshólma eru að hluta þaktar hrauni en þar sér líka fyrir túngörðum, sem enda undir hrauni. Efst í Húshólmanum er eldri hraunbreiða frá gígaröð suðaustan Mælifells. Óbrennishólmi er norðvestan Húshólma. Þar sjást leifar grjóthleðslu, sem er að mestu undir hrauni, auk tveggja hruninna fjárborga. Selatangar, sem voru mikil útgerðarstöð eins og rústir mannabústaða og fiskbyrgja gefa til kynna, eru í vestanverðu Ögmundarhrauni.

Ögmundarhraun

Hraunkarl í Ögmundarhrauni.

Sögulegur tími á Íslandi nær frá landnámsöld til okkar daga, þ.e.a.s. í yfir 1100 ár. Ein meiri háttar goshrina hefur átt sér stað á Reykjanesskaganum á þeim tíma. Þeirri hrinu má skipta í þrjú aðalgos.
Það elsta eru: Bláfjallaeldar. Það hófst um árið 950 og stóð fram yfir árið 1000 í þessu gosi myndaðist feiknarmikið hraun.
Miðgosið er nefnt Krýsuvíkureldar. Aðalgos þeirra var árið 1151 en minniháttar gos varð 1188. Í því fyrra opnaðist um 25 km löng gosspunga og rann hraunið til sjávar bæði sunnan og norðan megin á Reykjanesskaganum. Að sunnan heitir hraunið Ögmundarhraun en að norðan Kapelluhraun. Þá tók af stórbýlið Krísuvík sem stóð niður á sjávarbakka. Hraunið rann allt um kring kirkjuna á staðnum.

Eldey

Eldey.

Þriðja gosið voru svonefndir Reykjaneseldar sem urðu á árabilinu 1210 til 1240. Það gos var yst á skaganum og hluti umbrotanna var í sjó. Þá reis upp eyja sem heitir Eldey í fárra sjómílna fjarlægð frá stöndinni.
Aðalgosið var árið 1226 við Reykjanestána, að mestu í sjó. Mikil aska kom upp og dreifðist hún undan suðvestanvindi yfir Reykjanesskagann. Sést öskulagið víða greinilega í jarðvegssniðum. Í kjölfarið jókst mjög jarðvegseyðing á Reykjanesskaga.
Flest hraunin á Reykjanesskaga hafa runnið fyrir landnámstíð. Þó geta annálar þess nokkrum sinnum, að eldur hafi verið uppi í Trölladyngjum, svo sem 1151, 1188, 1340, 1360, 1389-90 og 1510. Um gosið 1340 segir Gísli biskup Oddsson, að þá „spjó Trölladyngja úr sér allt til hafs við sjávarsveit þá, er kölluð er Selvogur”. Margir hafa dregið í efa, að þetta geti verið rétt, því að hraun úr Trölladyngju hafi ekki getað runnið niður í Selvog, þar sem há fjöll sé á milli.

Trölladyngja

Trölladyngja.

Þessir menn hafa rígbundið sig við örnefnin Trölladyngju og Selvog, eins og þau eru nú notuð, en gá ekki að því, að þau voru yfirgripsmeiri forðum. Þá var allur Vesturháls nefndur Trölladyngja, en „í Selvogi” mun hafa verið kölluð ströndin þaðan og vestur að Selatöngum. Þetta var upphaflega eitt landnám.

Þórir haustmyrkur nam þetta svæði allt, setti Hegg son sinn niður í Vogi (sem nú kallast Selvogur), en bjó sjálfur í Krýsuvík. Bær hans mun hafa staðið þar sem nú heitir Húshólmi niðri undir Hælsvík. Þennan bæ tók Ögmundarhraun af þegar það rann fram, og í óbrennishólmanum Húshólma má enn sjá veggi og bæjarrústir koma fram undan hrauninu. Er það full sönnun þess, að hraunið hafi runnið eftir landnámstíð og tekið þarna af bæ, sem oft er nefndur „gamla Krýsuvík”.

Húshólmi

Kirkjulág.

Í hólmanum er á einum stað nefnd Kirkjulág og bendir til þess að þarna hafi verið kirkja. Þar er og glöggur garður um 900 fet á lengd. Eftir þetta hraunflóð halda menn að bærinn hafi verið fluttur upp til fjallanna, þar sem hann stóð síðan og kallaðist Krýsuvík.
Talið er að Ögmundarhraun sé komið úr nær 100 eldgígum hjá suðurendanum á Núpshlíðarhálsi. Bæði Jónas Hallgrímsson og Þorvaldur Thoroddsen hafa komizt að þeirri niðurstöðu, að hraun þetta hafi runnið 1340. Er því hér um að ræða sama hraunið sem Gísli biskup Oddsson segir að „runnið hafi til hafs við sjávarsveit þá, er kallast Selvogur”. Verður þá allt auðskilið. Selvogsnafnið hefir náð yfir alla ströndina í landnámi Þóris haustmyrkurs.

Ögmundardys

Jón Guðmundsson frá Skála við Ögmundardys.

Þekkt er sagan af Ögmundi, viðskipti hans við bónda og gatnagerð um hraunið. Dys hans má sjá við austurjarðar þess.

Efni m.a. af:
http://hs.is/frettaveitan/greinar.asp?grein=360

Ögmundarhraun

Ögmundarhraun – loftmynd.

Húshólmi

FERLIR fór páskaferðina í Húshólma.

Húshólmi

Húshólmi – skilti við austurenda Húshólmastígs.

Gengið var niður eftir slóða með austurjarðri Ögmundarhrauns fá bifreiðastæðinu neðan við Suðurstrandarveg. Algengast er að fólk, sem ætlar í „göngu“ ætli sér að ganga frá A til B, þ.e. frá upphafsstað og til baka. Hafa ber í huga að þessa á millum er fjölmargt áhugavert að gaumgæfa.
Rétt við stæðið er hringlaga gróið gerði utan í hraunkantinum, líklega rúningsrétt. Gata liggur upp vestanverða Krýsuvíkurheiði að fjárborginni á Borgarhólum. Hún er skammt sunnan gömlu Krýsuvíkurgötunnar milli Grindavíkur og Krýsuvíkur.
Vestanverð Krýsuvíkurheiðin er nú víða orðin gróðurlítil á milli fjalla og fjöru. Heyra mátti lóu af og til.

Húshólmi

Húshólmastígur frá Bergsendum vestari.

Haldið var áfram í átt til sjávar, framhjá vegvísi við Húshólmastíg, niður á Bergsenda vestari. Þar sést greinilegur stígur í gróningum um nýja hraunið (Ögmundarhraun (Húshólmabruni) frá 1151) vestan við gamla bergið. Nýtt hraunið hafði runnið fram af eldra bergi. Það sést greinilega á allnokkrum kafla skammt vestar. Hægt er að ganga áfram, hvort sem er neðan við það eða ofan. Vestar hækkar nýja hraunið, en ágætur stígur liggur upp og yfir það. Vestast og efst á brúninni er varða. Frá henni er ágætt útsýni til allra átta, hvort sem er um að ræða austur að Krýsuvíkurbergi eða til vesturs yfir að Hólmasundi (Miðrekum). Neðar eru Svörtuloft (Selhella) þar sem hafið hamast stöðugt á endimörkum nýja hraunsins. Ofar í hrauninu er hóll. Hann lætur ekki mikið yfir sér, en ef nánar er að gáð er á honum hlaðin varða; mið frá sjó. Mið sem þessi eru algeng með ströndinni.

Húshólmi

Sjávarstígurinn – gamla bergið framundan.

Þarna er ágætt að staldra við og virða fyrir sér önefnin með ströndinni, að teknu tillitil lýsinga Gísla Sigurðssonar og Ara Gíslasonar.
Vestasta hornið á Krýsvíkurbergi heitir Bergsendi, sem fyrr sagði. Vestan við Bergsenda eru Bergsendarekar undir gamla landfasta berginu, sem áður sagði, og Miðrekar ofan Hólmasunds. Ofan Sundsins er Húshólmi og Óbrennishólmi vestar. Á Húshólma sjást leifar af mannvirkjum, sem ætlunin var að skoða. Þar vottar vel fyrir garðlögum, sem eru leifar af túngörðum.

Ef við værum stödd á suðurbrún nýja hraunsins (vestast á sjónaröndinni frá vörðunni) vestan Húshólma, segir Gísli: „Ef haldið er niður með austurbrún Ögmundarhrauns, er komið nær miðju þar sem tvær vörður standa á brúninni (Brúnavörður).
Milli þessara varða liggur ruddur stígur þvert yfir hraunið. Kallast Húshólmastígur efri. Á vesturbrún hraunsins hefur verið hlaðið fyrir stíginn.

Húshólmi

Gamla bergið neðan Húshólmaburna.

Hér er komið í Húshólma einhvern merkasta stað á Suðurnesjum. Húshólmi er allstórt svæði og gróinn að mestu. Húshólmabruni nefnist hraunið austan hans eða Húshólmahraun neðst liggur Húshólmastígurinn neðri yfir það. Við jaðar þann sem er vestan við Húshólma eru miklir fornir garðar, Húshólmagarðar, sem ættu að sína að hér hafi miklir vallargarðar verið.

Húshólmi

Neðan við gamla Krýsuvíkurberg í Ögmundarhrauni.

Með vesturjaðrinum liggur stígur og er þá komið að rúst, sem sumir nefna Kirkjurúst þar í kring er Kirkjuflöt, sem aðrir nefna Kirkjulág. Nokkru neðar á að hafa verið brunnur, Húshólmabrunnur og þar Brunnlág. Frá Kirkjuflöt liggur ógreinilegur slóði upp í hraunið. Liggur hann að Húshólmarústunum. Hérna er um fjórar rústir að ræða. Tvær neðst og snúa frá suð-austri til norð-vestur og sú þriðja þvert á þær. Þar í var grafið og komið niður á viðarkolahrúgu. Taldist því að hér hafi verið smiðja.

Nokkru ofar er svo stærsta rústin og í henni holur, sem álítast að séu eftir stoðir, sem brunnið hafa þegar hraunið rann inn í hús þessi. Hraunhella er í gólfi allra húsanna. Af sumum mönnum er þarna talað um Gömlu Krýsuvík. Frá Kirkjuflöt liggur götuslóði vestur og upp á hraunið. Hefur verið flóraður með hellum og átti að liggja til Selatanga. Stígur þessi varð aldrei fullger (þ.e. stígurinn að Brúnavörður).“

Þá er stokkið í lýsingunni til austurs, að endimörkum Krýsuvíkurlands: „Strandlengjan fyrir Krýsuvíkurlandi er alllöng. Margt er þar örnefna.

Húshólmi

Tóftir í Kirkjulág vestan Húshólma.

Seljabót er austast. Þar eru jarða- hreppa- og sýslumörk. Vestar tekur svo við Krýsuvíkurbjarg. Það liggur milli Gjárinnar eystri og Gjárinnar vestri og er þar á margt örnefna. Strandarberg er austasti hluti þess og nær frá Bergsenda að [Eystri]Læk á Bergi. Þá tekur við Krýsuvíkurberg (þ.e. útsýnið frá vörðunni til austurs). Þá er komið á Skriðuás og þá er Skriða mikill gosöskustapi. Austan Skriðuáss er Kotaberg að Vondasigi.

Húshólmi

Horft til austurs að Krýsuvíkurbergi.

Framan í Skriðu er Ræningjastígur og er gengur með varúð niður í fjöru. Þar sem Skriða snýr við vesturátt er neðarlega á móbergshellunni svo nefnd Hermannshilla. Upp Ræningjastíg áttu Tyrkir að hafa komist 1627 er þeir rændu hér við land. Lundapallur er hér vestan í Skriðu. Hann er einnig kallaður Lundatorfa. Skriðunef tala menn um að hér hafi verið nefnt. Einstigið liggur hér niður skriðurnar niður á Hermannshillu, sem er hér niður undir fjöru, en þó verður að síga af henni niður í fjöruna. Vestan Skriðu tekur við Heiðnaberg eða Heinaberg og nær allt að Fitjalæk, sem hér fellur niður og fram af berginu, og nefnist hér Mígandagróf og fossinn Mígandi.

Húshólmi

Varða, mið, á hraunhól í Húshólmsbruna.

Kirkjufjara er undir Heinabergi, en þar fyrir vestan tekur við Betstæðingafjara og nær allt vestur að Hæl, Bergsenda vestri eða Gjánni vestri. Af Hælnum hefur víkin hér fyrir framan fengið nafn allt frá Skriðu vestur að Selatöngum og nefnist því Hælsvík [og heiðin þar ofar Hælsvíkurheiði]. Hér tekur við Húshólmabruni og Húshólmakampar hér framaf. (Hafa ber í huga að örnefnin hafa tekið breytingum frá einum tíma til annars. Nýting landsins virðist jafnan hafa skipt þar sköpum.)

Húshólmi

Hólmasund – fyrrum lending Krýsuvíkurbænda.

Þegar kemur fyrir Húshólma eru kamparnir tveir. Hinn eldri er síðan fyrir að hraunið rann, en sá fremri er kominn eftir að hraunið rann. Vestan við Hæl eru Hvalbásar og þar fyrir vestan Húshólmalending [Hólmasund], þar lentu Krýsvíkingar í lágdeifu og köstuðu fiski á land til eldis fólki sínu heima í Krýsuvíkurhverfi.

Húshólmi

Húshólmi – Hólmasundsstígur fremst.

Mávaflár eru hér vestur af og þá koma Þjófabásar, Þjófabás eystri, Þjófabásanef og Þjófabás vestri. Þá taka við Miðrekar, Miðrekar eystri og Miðrekar vestri [neðan við Óbrennishólma]. Hraunið upp af Miðrekum öllum nefnist Títuprjónahraun. Vestarlega við Miðreka er Selhella og hrauninu upp af er Grendalur og Grenið. Rétt áður en komið er að Selatanga verða fyrir út í sjónum Látrin, Selalátrin, Látrin eystri og Látrin vestri. Þá eru Selatangar.“

Húshólmi

Vatnsstæði og gerði neðst í Húshólma.

Ari Gíslason segir um svæðið frá Hælsvík (austan Bergsenda vestari) að Selatöngum: „Nú skulum við færa okkur um set og taka fyrir vestari hluta Krýsuvíkurlands. Síðast vorum við staddir niðri við sjó hjá Hælsvík. Vestan hennar er steinn fram í sjó, sem heitir Þyrsklingasteinn. Þar tekur við mjó hraunbreiða fram að sjó og víða hamrar. Næst vestan við Vestri-Bergsenda taka við svonefnd Svörtuloft. Eftir að þeim sleppir, taka við Miðrekarnir, sem fyrr var getið. Austarlega í Ögmundarhrauni eru tveir básar í hraunbrúninni við sjóinn, og heita þeir Rauðibás og Bolabás. Ekki eru þeir stórir og fjaran í þeim ekki meir en fáeinir metrar. Þegar kemur vestur fyrir Miðrekana og landinu fer að sveigja til norðurs, taka við Selatangar.“

Húshólmi

Verbúðartóft syðst í Húshólma.

Þar sem staðið er við vörðuna efst á suðurbrún Ögmundarhrauns (Húshólmabruna) má í góðu veðri sjá til Skriðu í austri og að Selatöngum í vestri. Mávaflár, Þjófabásar og Miðrekarnir í Títuprjónahrauni, allt að þeim vestari, eru torfærir. Þegar horft er yfir Húshólma sést vel hvar hraunið hefur runnið niður með Skála-Mælifelli að vestan og austur fyrir Krýsuvíkur-Mælifell að austan.

Gísli segir: „Ögmundarhraun verður að teljast mikið hraun. Það á upptök sín í sprungu, sem jarðfræðingar nefna Ögmundarsprungu. Hún er þrískift. Austursprunga Miðsprunga og Vestursprunga.

Vigdísarvellir

Fjárskjól í Austursprungunni við Vigdísarvelli.

Austursprungan á upptök sín inn á dal rétt vestan Vigdísarvalla og eru þar nokkrir gígar. Í einum þeirra er Fjárhellir, er þar hlaðið fyrir munnann og dyr á en garði frá munnanum inn eftir hellinum. Hraun úr þessari sprungu hefur runnið fram milli Mælifells og Urðarfells og sunnanundir Latsfjalli sem einnig nefnist Lasafjall. Gegnum hraun þetta, milli fyrrnefndra fjalla, lá Ögmundarstígur.

Sængurkonuhellir

Sængurkonurhellir, Víkurhellir, í Ögmundarhrauni sunnan Lats.

Úr miðsprungunni hefur einnig runnið allmikið hraun. Hefur það runnið bæði sunnan og norðan Urðarfells. Þar eru örnefni eins og Almenningur og var þar í eina tíð nokkur skógarló. Þar nokkru vestar eru Tóubrunar. Úr Vestursprungunni hefur runnið mikið hraun. Allt hefur það runnið norðan Latsfjalls. Núpshlíðarsprunga mætti sprunga þessi heita, því hún liggur fram um syðsta hluta Núpshlíðar fram á Skalla. Í hrauni þessu er Sængurkonuhellir eða Víkurhellir. Þar á kona að hafa alið barn á ferð milli Grindavíkur og Krýsuvíkur. Suður af Latsfjalli eru Latsfjallstögl og þar fram af Latur móbergshnúkur lítill með grastorfu Latstorfu. Hraunið hefur runnið hér með miklum gassa, það sést af hrauntröðum og rásum þeim sem liggja frá gígunum. Hraunið hér í slakkanum og gígarnir nefnast Katlahraun og Katlar. Neðan við Núpshlíð við hraunið liggur Núpshlíðarstígur fjárgata. Nú liggur eftir hrauni þessu akvegurinn frá Krýsuvík til Grindavíkur.

Óbrennishólmi

Óbrennishólmi; fjárborg eða virki!?

Frá Latstöglum liggur stígur, Óbrynnishólmastígur niður hraunið niður Óbrynnishólma allstórt svæði sem hraun hefur runnið kringum, en ekki þakið. Hér gefur að líta landslag það, sem verið hefur áður en hraunið rann. Móar og hvammar eða lægðir og hæðir og grýtt holt. Austast og efst í hólma þessum er Óbrynnishólmarúst. Litlu neðar er Fjárborgin litla og Fjárborgin stóra. Þær eru 6×7 metr. og 20×20 að stærð. Héðan liggur svo Óbrynnishólmastígur niður á Ögmundarhraun.“ Í Óbrynnihólma eru leifar topphlaðins húss og hlaðnir garðar, sem nýja hraunið hefur staðnæmst við. „Fjárborgin stóra“ hefur að öllum líkindum verið hlaðið virki. Það er efst á hól. Frá honum hefur verið ústýni yfir svo til allan hafflötinn til suðurs. Gróinn garður er og í Óbrynnishólma er gefur til kynna að öll ströndin ofan Gömlu Krýsuvíkur, víkurinnar sem nýja hraunið fyllti, hafi fyrrum verið í samfelldri byggð.

Húshólmi

Húshólmi – skálatóft.

Gengið var niður af hraunbrúninni. Þar er hlaðinn veggur, skjól refaskyttu. Sjá má slóðir eftir refi í grasinu með hraunbrúninni. Austan við Hólmasundsstíginn eru vatnsból og hlaðið lítið gerði. Skil gömlu strandarinnar og þeirrar nýju eru þarna augljós. Í hólmanum, beint ofan við stíginn, er rúst sjóbúðar. Hún var síðast notuð árið 1913 af Krýsuvíkurbændum, en þeir reru um tíma við erfið skilyrði frá Hólmasundi. Skammt ofar og vestar sést hvar gamall hlaðinn (nú gróinn) túngarður liggur undir nýju hraunbrúnina. Garðurinn liggur í boga upp hólmann til norðurs og norðvesturs þar sem hann fer undir hraunið efra. Innan þessa garðs er annar hlaðinn garður sem og þvergarður. Sunnan þvergarðsins er sporöskjulaga stórt gróið gerði; mjög líklega forn grafreitur. Enn ofar, úti í hrauninu vestan hólmans eru fyrrnefndar Kirkjulágar og skálatóftir, sem hraunið hefur runnið að, en ekki náð að kaffæra.

Húshólmi

Húshólmi – hlaðinn garður við Húshólmastíg.

Ofar í Húshólma er forn fjárborg, sennilega frá tímaskeiði minjanna. Enn ofar er hlaðin, mosagróin refagildra, einnig stekkur utan í grónum hraunkanti sem og minjar selshúsa. Greni er þar skammt vestar sem og skeifulaga hlaðið byrgi refaskyttu. Hringlaga byrgi (smalaskjól) er og á hraunbrúninni norðvestan stekksins.

Húshólmi

Húshólmastígur.

Þar sem gengið er upp úr hólmanum að austanverðu (Húshólmastígur) er hlaðinn þvergarður, sennilega frá þeim tíma er Húshólmi hefur um skeið verið notaður fyrir selstöðu, allnokkru eftir að nýja hraunið hafði kólnað. Húshólmastígur ber þess merki að allnokkur umferð hafi verið um hann um alllangan tíma, enda greiðfær með afbrigðum.

Gangan tók 1. klst og 36 mín. Frábært veður.

Heimildir:
-Örnefnalýsing Gísla Sigurðssonar fyrir Krýsuvík.
-Örnefnalýsing Ara Gíslasonar fyrir Krýsuvík.

Húshólmi

Húshólmastígur.

Brúnavörður

Ætlunin var að berja þetta fágæta og jafnframt dýrmæta svæði auga og skoða hinar merkilegum minjar á því. Nú er ljóst að vegstæði svonefnds Suðurstrandarvegar mun ekki liggja yfir hólmann, eins og ein tillagan af þremur kvað á um.

Húshólmi

Húshólmi – uppdráttur ÓSÁ.

Með í för var m.a. hinn áhugasami bæjarstjóri Grindvíkinga, Ólafur Örn Ólafsson, auk fleiri fjölfróðra samsveitunga hans. Farið var niður með austurjarði Ögmundarhrauns, litið á gróið gerði utan í hrauninu og síðan haldið yfir í hólmann eftir Húshólmastíg. Skoðaðar voru hleðslur í norðausturhluta hólmans þar sem fé hefur haldið til haga, gróið gerði og forn fjárborg. Þá var gengið að efsta garðinum, sem nær yfir hólmann frá vestri til austurs. Reyndar er garðurinn rofinn á miðkaflanum, en hann hefur að mestur verið úr torfi. Þá var haldið að neðri garðinum, sem liggur í boga úr suðri til norðurs og beygir síðan til vestur inn undir hraunið. Sjá má í enda hans undir hrauninu þar sem það hefur brennt hann á kafla. Haldið var inn í hraunið til vesturs af Kirkjuflöt, fornum grafreit, og að hinum fornu minjum, gamla Krýsuvíkurbænum og tóttunum þar í kring, görðum og hinum forna skála, auk þess sem komið verður við í hinni fornu Krýsvíkurkirkju eða hofi, en minjarnar eru a.m.k. frá því fyrir rennsli Ögmundarhrauns, sem rann 1151. Jafnvel er talið að minjarnar kunni að vera eldri en norrænt landnám hér á landi.

Húshólmi

Húshólmi – fjárborg.

Að minnsta kosti er hér um að ræða einar „verðmætustu“ fornleifar hér á landi. Í skálanum mátti til dæmis sjá holur eftir miðstoðir (stoðarholur). Bent var á hinn flóraða Brúnavörðustíg og síðan gengið út á Kirkjulágina, skoðaður þvergarður þar sem og jarðlægt gerði vestast í henni. Loks var litið á sjóbúðina syðst í hólmanum, á rekagötuna niður að Hólmasundi og síðan gengin sjávargatan út úr hólmanum til austurs. Við hana eru einnig fornar minjar í gróðurvin inn í hrauninu. Neðar eru Þyrsklingasteinar og sjá má í hluta gamla bjargsins þar sem nýja hraunið hefur runnið fram af og allt um kring.
Frábært veður.

Húshólmi

Skálatóft í Húshólma.https://ferlir.is/husholmi-7/

Húshólmi

Gengið var niður með austanverðu Ögmundarhrauni. Talið er að hraunið hafi runnið 1150. Nokkurn veginn miðja vegu að Húshólmastíg er nokkuð stórt bogadregið gerði utan í hraunkantinum. Óvíst er hversu gamalt þetta er, en líklega hefur það verið notað sem hestagerði.

Húshólmi

Húshólmi – uppdráttur ÓSÁ.

Gengið var 1.1 km inn eftir Húshólmastíg. Stígurinn er bæði breiður og vel ruddur. Komið er niður í rana á norðaustanverðum hólmanum. Þegar gengið er niður má sjá h beggja meginn stígsins, líklega til að varna fé uppgöngu. Þegar gengið er niður ranann er komið að hleðslum yfir stíginn og skammt þar frá er stekkur hægra megin við hraunkantinn, nokkuð stór. Vestan við stekkinn má sjá nokkrar tóttir. Þær gætu hafa verið sel frá Krýsuvík, en lega þeirra er í samræmi við legu flestra annarra selja á Reykjanesi, í skjóli fyrir austanáttinni. Neðan við tóttirnar má víða sjá vatnsbolla. Handan við hraunhornið hægra megin er skotbyrgi refaskyttu, andspænis greni í nokkurra metra fjarlægð til austurs. Steinn er ofan við opið. Enn innar, upp í krika að norðanverðu, má sjá móta fyrir mjög gömlu garði – í boga út frá gróinni hrauntotu.

Húshólmi

Húshólmi – fjárborg.

Hóll í suðri er gömul fjárborg. Haldið er framhjá henni, niður með hraunkantinum og er þá komið að gömlu garði er liggur upp í hólmann, undan hrauninu. Sjá má slitrur af honum ofar í hólmanum, í beinu framhaldi, ef vel er að gáð. Spölkorn neðar liggur annar stór garður neðanfrá hólmanum og hverfur undir hraunið. Sjá má framhald garðsins fyrir innan hraunkantinn. Sunnan garðsendans liggur stígur til vesturs inn í hraunið. Honum er fylgt spölkorn uns komið er að vörðu. Þar neðan við eru tóttir gamla Krýsuvíkurbæjarins, vel greinilegar. Vestan við þær sjást aðrar tóttir og norðan þeirra er forn bátlaga skáli, sem hraunið hefur runnið upp að allt um kring. Ef farið er ofan í skálina og flötum steinum lyft má sjá hvar miðsperrurnar, sem héldu uppi loftinu, voru. Ganga þarf frá öllu aftur eins og það var.

Husholmi-24

Skálatóft í Húshólma.

Umhverfis má sjá fleiri göt í hrauninu eftir að það rann að öðrum húsum, flestum líklega topphlöðnum, sem bendir til þess að tóttirnar séu mjög gamlar. Sýnatökur í hólmanum staðfesta reyndar að svo sé, eða allt frá um og fyrir 870. Stígur liggur áfram til vesturs að Óbrennishólma. Þar eru a.m.k. tvær fjárborgir, önnur mjög stór, og hlaðinn garður, sem hraunið hefur runnið að og stöðvast. Þá er þar einni langur garður langleiðina upp hólmann, sem enn sést móta fyrir. Óbrennishólma verður líst annars staðar.

Húshólmi

Húshólmi – stekkur.

Fylgt er stíg til norðurs, að gömlu Krýsuvíkurkirkju. Vestan við hana er greinilegur garður. Liggur hann í boga að kirkjutóttinni og virðist hafa umlukið hana. Innan garðsins virðast vera tóttir af skála. Vestan hans liggur stígur til suðvesturs inn í hraunið, í áttina að brúnavörðum. Þessi stígur var ruddur af sonum Krýsuvíkur-Gvendar, og er mjög fallegur á köflum. Hann nær þó ekki alla leiðina yfir hraunbrúnina, heldur endar skammt norðaustan við hæð þá, sem vörðurnar eru á. Þá er reyndar skammt eftir ofan af hraunbrúninni yfir á sléttan stíg er liggur upp með hraunkantinum að Óbrennishólma og áfram að og fyrir Lat.

Húshólmi

Húshólmi – stígur að Brúnavörðum.

Genginn var kirkjustígurinn aftan við kirkjuna inn í hólmann. Þá var komið í Kirkjulágina, sem mun vera forn grafreitur, sem á eftir að kanna nánar, eins og reyndar svo til allar tóttirnar í Húshólma. Sunnan Kirkjuláginnar liggur enn einn garðurinn undan hraunkantinum að vestanverðum og upp að garðinum, sem lýst var áðan. Sá garður liggur áfram niður hólmann og hverfur undir hraunkantinn syðst í honum.
Syðst í hólmanum er tótt. Hún er hluti sjóbúðar, sem síðast var notuð 1913. Rekagatan, Hólmastígur, liggur niður að sjónum neðan hennar.
Annar stígur liggur suðaustan í Húshólma, svo til alveg niður við ströndina. Hann var genginn til baka. Þá var gengið ofan við Seltanga og komið við á grónu svæði ofan þeirra. Þar sést móta fyrir garði eða görðum undan hrauninu.
Húshólmi

Í Húshólma.https://ferlir.is/husholmi-7/

Húshólmi

Fornminjadagurinn var genginn í garð. Lagt var af stað úr bænum í roki og rigningu, en þegar komið var að Húshólmanum í Krýsuvík brosti sólin sínu blíðasta og veðrið gat ekki verið betra.

Húshólmi

FERLIRsfélagar í Húshólma.

Sumir taka ávallt mið af veðrinu út um stofugluggann, en aðrir hafa lært að veður á einum stað er ekki endilega sama veðrið og annars staðar.

Í Húshólma tók Magnús, fornleifafræðingur, Kristinsson á móti FERLIRsförum og gekk með þeim um hólmann. Skoðuð var m.a. fjárborgin, Kirkjuflötin, sem sem er gamall kirkjugarður, líklega frá 10. og 11. öld. Þá var gengið eftir bæjargarðinum, sem bendir til að stórbýli hafi verið á svæðinu áður en Ögmundarhraun rann þar yfir landið árið 1151. Jón Jónsson, jarðfræðingur, telur hins vegar að hraunið hafi runnið árið 1005 (C14 945 ± 85).

Húshólmi

Kirkjulág.

Í Kirkjuláginni var skoðuð tótt gömlu Krýsuvíkurkirkju, hleðslurnar þar sem og bæjartóttirinar ofar í hrauninu. Þá var skoðaður skáli, sem hraunið hafði runnið að og í kringum, en hann síðar fallið saman. Við það myndaðist jarðfall og upp úr því stóðu burðarsúlurnar. Enn má sjá holur þeirra í tóttinni.
Á bakaleiðinni var skoðaður stekkur og fleiri minjar með hraunröndinni að norðanverðu. Gamlar sagnir eru um selstöðu Krýsuvíkurbæjanna í Húshólma fyrr á öldum.
Utan við hólmann er gamalt gerði í hraunkantinum.

Húshólmi

Húshólmi – minjasvæðið. Kirkjulágar efst.

Magnús var vel heima í sögu og umhverfi Húshólma. Hann lýsti fyrir þátttakendum því sem fyrir augu bar, kynnti möguleika svæðisins út frá fornminjalegu tilliti og leiddi hópinn frá einu minjasvæðinu yfir í annað.
Þjóðminjasafnið mætti gera meira af því að upplýsa áhugasamt fólk um einstök minjasvæði, en ástæða er til að þakka fyir þetta framlag þess, sem var hið mætasta.

Heimild m.a.:
-J.J. ´81.

Húshólmi

Upplýsingaskilti í Húshólma.

Óbrennishólmi

FERLIR leitaði tófta næstelsta upplandsbæjar Krýsuvíkur, Gestsstaða. Elsti bærinn mun vera, að því er talið er, Kaldrani við suðvesturhorn Kleifarvatns.

Gestsstaðir

Tóftir Gestsstaða í Krýsuvík – austan hálsa…

Þrjár heimildir eru um hvar tóttir Gestsstaða kunni að vera að finna. Sú yngsta segir að bærinn hafi verið undir Píningsbrekkum norðaustur af gróðurhúsunum sunnan Hettu, en engin ummerki eru á þeim slóðum. Hinum eldri heimildum tveimur ber saman, þótt orðaðar séu á mismunandi vegu. Þær kveða á um að bærinn hafi verið sunnan undir brekkunum sunnan Gestsstaðavatns, nálægt núverandi skólahúsi. Mikið landrof hefur orðið á svæðinu, en undir brekkunum eru tóftir bæjarins, á a.m.k. þremur stöðum. Megintóftirnar eru neðan við brekkurnar og er merki um Friðlýsar fornminjar í annarri þeirra. Þriðja tóftarsvæðið er uppi í Sveifluhálsi ekki langt frá. Þar er stök tóft og hleðslur ekki fjarri. Vel má sjá móta fyrir húsunum undir Gestsstaðavatnsbrekkunum. Þarna hafa verið nokkuð stór hús, en óvíst er um aldur þeirra.

Sængurkonuhellir

Sængurkonurhellir sunnan Lats.

Tilgangur ferðarinnar var einnig að skoða minjar í Óbrennishólma í Ögmundarhrauni í landi Grindavíkur. Á leiðinni var komið við í hlöðnu sæluhúsi undir Lat. Steinhella, sem notuð hefur verið sem hurð, var enn á sínum stað – til hliðar við dyraopið.
Í svo til beina stefnu á húsið eru merki um tillöguna að svonefndum Suðurstrandavegi í gegnum hraunið. Ef sú tillaga (sem fyrir liggur er þetta er skrifað) verður að veruleika mun vegurinn fara yfir húsið.

Gestsstaðir

Gestsstaðir – tóft utan í Sveifluhálsi.

Í Óbrennishólma var hinn forni garður skoðaður, stóra fjárborgin, sem hefur verið sú stærsta á Reykjanesi, minni fjárborgin skammt austar og ofar nýlegrar kvíar í hraunkantinum sem og forna garðhleðslan, sem hraunið hefur stöðvast við á leið sinni til sjávar. Óbrennishólmi auk Húshólma þarna skammt austar eru sennilega merkustu fornminjasvæði á landinu og jafnvel kunna að leynast þar fornminjar, sem breytt geta vitneskju manna um landnám á þessu landi, sem síðar var nefnt Ísland. Fyrirhugað er nú (gæti breyst) að leggja breiða hraðbraut í gegnum Hólmana með ófyrirséðum afleiðingum því svæðin hafa þrátt fyrir allt verið mjög lítið rannsökuð. Til að mynda er hvergi til vitneskja á einum stað um allar minjarnar, sem vitað er um í hólmunum.

Norðurkot

Norðurkot í Krýsuvík.

Í Húshólma, sem síðar verður skoðaður nánar, er þó vitað um fornu kirkjuna, sem talið er að hafi verið notuð eftir að Ögmundarhraun rann árið 1151, forna skálann, reyndar tvo eða þrjá, sem hraunið umlukti og enn má sjá leifar af, Kirkjuflötina, sem talið er að sé forn grafreitur, Kirkjulágina og forna garðinn, sem liggur á ská í gegnum hólmann, þvergarðinn og fjárborgina í honum ofanverðum – svo til í vegastæði fyrirhugaðs Suðurstrandavegar. Hins vegar liggur ekki fyrir vitneskja um tóttir syðst í hólmanum, sennilega tengt útræði á Seltöngum, en svo eru tangarnir nefndir utan hans við Hólmasundið.

Norðurkot

Norðurkot í Krýsuvík 1892.

Selatangar eru vestar á ströndinni þar sem verið hefur verstöð undir Katlahrauni og enn má sjá miklar leifar af. Þá liggur hvorki fyrir vitneskja um sýnilegar tóttir sels (stekks) efst í Húshólma né hringlaga garðlags austan undir Ögmundarhrauni þar sem Húshólmastígur liggur inn í Hraunið. Einnig mótar fyrir sporöskjulaga gerði í Kirkjuflötinni, sem gæti verið tóft, jafnvel kirkjunnar, sem menn hafa gefið sér að sé innar í hrauninu og fyrr var nefnd. Annars staðar í hrauninu má einnig sjá hleðslur fornra garða. Og án efa, ef svæðið yrði rannsakað betur, kæmu í ljós mun fleiri minjar, en þegar er vitað um að þar kunni að leynast.
Húshólmi og Óbrennishólmi eru því án efa einir af áhugaverðustu stöðum með tilliti til fornminja og sögu landsins.
Frábært veður.

Óbrennishólmi

Tóft í Óbrennishólma.

/https://ferlir.is/husholmi-ogmundarhraun/

Húshólmi

“Krýsuvík hefir til forna staðið niðurundir sjó fyrir vestan endann á Krýsuvíkurbjargi.

Húshólmi

Húshólmi – skáli.

Nafnið Krýsuvík bendir á það. Engum hefir dottið í hug að kenna bæinn við vík, ef hann hefði fyrst verið settur þar sem hann er nú. En þar sem hann stóð fyrst hefir þetta átt við og svo hefir nafnið haldist er hann var fluttur. Hraunflóð það, sem á sínum stað er nefnt Ögmundarhraun, hefir eyðilagt hinn forna bæ. Sjást þess glögg merki. Þá er hraunflóðið er komið ofan fyrir hálsana, breiðir það sig um undirlendið vestur að Ísólfsskála, sem nú er austasti bær í Grindavík. Er þar hvergi auður blettur nema aðeins tveir hólmar austantil í hrauninu. Heitir hinn vestari Óbrennishólmi. Hann er kippkorn frá sjó, austantil niðurundir múla þeim í hálsinum, sem Núpshlíð heitir.

Húshólmi

Húshólmi – minjasvæðið. Kirkjulágar efst.

Eystri hólminn heitir Húshólmi. Hann er niður við sjó skammt fyrir vestan bergið. Er hraunkvíslin fyrir austan hann tiltölulega mjó. En runnið hefir hún fram í sjó fyrir austan hann, og það hefir aðalflóðið einnig gjört fyrir vestan hann, hafa svo runnið saman í fjörunni fyrir framan hann, og sést sjávarkamburinn innanvið hraunið á nokkrum parti neðst í hólmanum. Að ofanverðu er hólminn hærri. Þar virðist hafa verið hæð, sem hraunið hefir flotið fram á og klofnað um. Svo lækkar hann allt í einu, en breikkar þó um leið austur á við, en að vestan gengur hraunið þar heldur inn í hann. Þar undir hraunjarðrinum kemur forn túngarður, er liggur kringum allstórt svæði, en hverfur aftur í hraunið niðurfrá eigi langt frá vesturenda sjávarkambsins, sem nú var getið.

Húshólmi

Húshólmi – uppdráttur Brynjúlfs Jónssonar.

Annar garður kemur undan hraunjarðrinum nokkru neðar en hinn og stenfnir í suðaustur. Hann beygist suður á við og gengur gegnum hinn fyrri garð skammt fyrir ofan sjávarkambinn. Er þar hlið á hinum fyrra. Svo heldur þessi síðartaldi áfram að sjávarkambinum og hverfur þar. En þar sem gata sé rudd gegnum kambinn, líklega sjávargata; er eigi allbrimsamt og mun hafa verið útræði. Fyrir neðan þennan síðartalda garð verður afhallandi brekka ofan að neðri hraunjarðrinum. Liggur þriðji garðurinn þar ofan frá neðra garðinum og neðra hraunjarðrinum og hverfur undir hann.

Húshólmi

Húshólmi – garður.

Þannig sér hér á 4 aðskildar girðingar, er allar hverfa að meiru eða minna leyti undir hraun. Engin tóft sést í neinni þessari girðingu, svo að, ef sín girðing hefir tilheyrt hverju býli, þá eru tóftir þeirra býla hrauni byrgðar. Vestur úr útsuður horni hólmans gengur graslág milli tveggja hraunjarða. Er hún eigi breiðari en svo, að eigi má ríða 2 hestum samsíða. Þegar samt er komið vestur í hraunið, kvíslast hún í tvær lágar. Þær heita kirkjulágar. Þar eru rústir. Verður fyrst fyrir tóft, sem snýr frá sutri til vesturs, nál. 4 fðm. Löng og 2 fðm. Breið. Dyr eru á vesturenda, jafnvíðar og tóftin sjálf. Mun þar hafa verið bil fyrir. Norðanmegin við þessa tóft, tæplega 2 fðm. Frá henni, er garður, sem beygist austur fyrir hana og hverfur þar undir hraunið, en að vestan endan hann í tóftarvegg. Er sú tóft fyrir fyrir dyrum hinnar, nálægt jafnstór henni og liggur frá norðri til suðurs. Dyr hennar hverfa undir hraunjarðarinn að sunnanverðu.

Húshólmi

Húshólmi – stoðhola.

Vestanvið hana dýpkar lágin að mun, en þar er ekki víðari en svari tóftarvídd. Sé það tóft, hefir þar líklega verið kjallari, en hleðslan er hrunin. Frá norðausturhorni þvertóftarinnar gengur garður eftir norðurláginni, fyrst beint í norður nál. 12 fðm., svo beint í vestur nær eins langt og hverfur svo í hraunið. Utanmeð þessum garði er svo sem gangrúm hraunlaust, og er það norðurkvísl Kirkjuláganna. Lútur út fyrir, að hér hafi hraunið sigið að með hægð frá báðum hliðum. Svo sem 40 fðm. Norðar í hrauninu er auður vesturhluti rústar, sem auðsjáanlega er bæjarrúst. Hefir hún verið þrískipt. Miðtóftin snýr frá norðri til suðurs og hefir dyr á suðurenda og aðrar á vesturveggnum, inn í vesturtóftina. Inn af miðtóftinni virðist og hús hafa verið, sem er hrauni hulið allt að kalla. Miðtóftin nál. 2 ½ fðm. Löng og 1 ½ fðm. víð.

Húshólmi

Húshólmi – skáli.

Vesturtóftin er jafnvíð og hin er löng, nfl. 2 ½ fðm., en nál. 5 fðm. á lengd. Hún er merkileg að því, aðmeð báðum veggjum, eftir henni endilangri, er 1 al. Breið set eða rúmstæði og markar glöggt fyrir veggjunum þar utanvið. Austasta tóftin er nær öll hrauni hulin. Þó sýnist sem útidyr hafi verið á henni fyrir austan útidyr miðtóftarinnar. Hvergi er hraunlaus blettur kirngum þessa rúst, og ekki verður komist að henni nema á hrauni.
Nafnið Kirkjulágar bendir á, að hér hafi kirkjustaðurinn Krýsuvík verið. Getur vel verið, að tóftin í syðri láginni, sem fyrst var talin, sé einmitt kirkjutóftin. Hefir heimabærinn þá víst verið þar líka.

Húshólmi

Húshólmi – tóftir í Ögmundarhrauni.

Rústin uppi í hrauninu er þó ekki eftir smákot. Hygg eg að heimabæir hafi verið tveir, Efribær og Fremribær, og kirkjan hafi verið hjá Fermri-bænum. Eftir afstöðu að dæma, hafa girðingarnar, sem fyr getur, eigi verið tún þessara bæja, heldur annara afbýla, sem þá eru hulin hrauni. Og hver veit hve mörg býli þar kunna að vera horfin?”

– Úr Árbók Hins ísl. fornleifafélags 1903. Þar lýsir Brynjúlfur Jónsson frá Minna-Núpi Húshólma eftir að hafa skoðað staðinn sumarið 1902.

Húshólmi

Húshólmi – uppdráttur ÓSÁ.

Húshólmi

Ætlunin var að berja þetta fágæta og jafnframt dýrmæta svæði auga og skoða hinar merkilegum minjar á því. Nú er ljóst að vegstæði svonefnds Suðurstrandarvegar mun ekki liggja yfir Hólmann, eins og ein möguleg tillagan af þremur kvað á um. Átti það m.a. að liggja yfir fjárborgina, sem síðar verður nefnd. Vegir eru mikilvægir nútíðinni, en hinar áþreifanlegu minjar eru verðmæti framtíðarinnar

Húshólmi

Gerði við hraunkant Ögmundarhrauns.

Með í för var m.a. áhugasamur bæjarstjóri Grindvíkinga, Ólafur Örn Ólafsson, auk fleiri fjölfróðra samsveitunga hans. Farið var niður með austurjarði Ögmundarhrauns og litið á gróið skeifulaga gerði utan í hrauninu. Gæti verið aðhald fyrir fé er varslað var í Hólmanumum tíma, sbr. stelstöðuminjarnar, sem þar eru, og verið í tengslum við fjárborgina á Borgarholti. Hún gæti einnig hafa verið notuð fyrir hesta við rekaflutninga úr Hólmanum, sbr. tóftina við rekagötuna niðru að Hólamsundi.
Ofar og inn í hrauninu er varða. Við hana eru Mælifellsgrenin svonefndu sem og hlaðið byrgi refaskyttu.

Húshólmi

Húshólmastígur.

Haldið var yfir í Hólmann vestur eftir Húshólmastígnum. Um er að ræða góðan stíg, u.þ.b. 1.2 km, í gegnum hraunhaftið. Nokkrar sagnir eru til um tilurð hans. Sumir hafa jafnvel ruglast á honum og svonefndum Ögmundarstíg í gegnum Ögmundarhraun á móts við og Mælifellið. Þar, við austurjarðar hraunsins, er Ögmundardys og tengist sögunni af Ögmundi og vegagerð hans fyrir bóndann í Krýsuvík (aðrar sögur segja í Njarðvíkum). Aðrar sagnir kveða á um að stígurinn sé svo áberandi vegna þess að kirkjan í Hólmanum hafi verið nýtt eftir að hraunið kólnaði. Hraunþyrmingin hafi skapað verulega átrúnað á hana. Enn aðrir, þ.e. þeir raunsærri, segja að hún sé svo gróin og aðgengileg vegna selstöðunnar, sem Hólminn var nýttur til um aldir.

Húshólmi

Húshólmi – minjasvæðið. Kirkjulágar efst.

Þegar komið var niður í Hólmann er þar fyrir hlaðinn vörslugarður. Nokkru innan hans er hleðslur í norðurhluta Hólmans þar sem fé hefur haldið til haga; tvískiptur stekkur, gróið gerði og forn fjárborg, auk tveggja grenja. Við annað þeirra er hlaðið byrgi refaskyttu.
Þá var gengið að efsta garðinum, sem nær yfir Hólmann frá vestri til austurs. Reyndar er garðurinn rofinn á miðkaflanum, en hann hefur að mestur verið úr torfi. Haldið var að neðri garðinum, sem liggur í boga úr suðri til norðurs og beygir síðan til vesturs inn undir hraunið. Sjá má í enda hans undir hrauninu þar sem það hefur brennt torfið á kafla. Í pælunni af garðinum er landnámsöskulagið.

Húshólmi

Skáli við Húshólma.

Haldið var inn í hraunið til vesturs af Kirkjuflöt, fornum grafreit, og að hinum fornu minjum, gamla Krýsuvíkurbænum og tóttunum þar í kring, görðum og hinum forna skála. Útlínur skálans eru sveigðir líkt og gerðist með fornaldaskála. Um er að ræða heit hús með rými til endans. Þá tekur við tóft og hleðslur við enda hans. Ofar eru sérkennilegir hraunkatlar er benda til hringlaga húsa er hraunið hefur runnið að og brennt. Norðvestan þeirra er bátslaga tóft, sem hraunið hefur brennt. Í miðju þess er röð af stoðarholum.
Komið var við í hinni fornu Krýsvíkurkirkju eða hofi, en minjarnar eru a.m.k. taldar frá því fyrir rennsli Ögmundarhrauns, sem talið er hafa runnið árið 1151 (skömmu áður en Kapelluhraunið rann). Jafnvel er talið að minjarnar kunni að vera jafngamalt eða eldri en norrænt landnám hér á landi. Hér er um nær órannsakað svæði að ræða frá hendi fornleifafræðinnar.

Brúnavörður

Brúnavörður að baki.

Þátttakendum var bent var á hinn flóraða Brúnavörðustíg, sem liggur til suðvestur í átt að Brúnavörðum, yfir hraunhaftið og inn á götu er liggur með brún þess upp í og með Óbrennishólma. Talið er að sonur Krýsuvíkur-Gvendar, og menn með honum, hafi rutt og flórað stíginn á kafla.

Húshólmi

Húshólmi – kirkjutóft.

Gengið var frá kirkjutóftinni út á Kirkjulágina, skoðaður hlaðinn þvergarður sem og jarðlægt hringlaga gerði vestast í henni. Loks var litið á sjóbúðartóftina syðst í Hólmanum (gæti líka hafa verið afdrep fyrir þá er drógu að sér reka) og á rekagötuna niður að Hólmasundi.

Krýsuvíkurberg

Krýsuvíkurberg – útsýni af sjávargötunni.

Loks var sjávargatan gengin út úr hólmanum til austurs. Við hana eru einnig fornar minjar í gróðurvin inn í hrauninu. Neðar eru Þyrsklingasteinar og sjá má í hluta gamla bjargsins þar sem nýja hraunið hefur runnið fram af og allt um kring. Frá þessumstað er mjög fagurt útsýni austur eftir Krýsuvíkurbjargi.
Gangan tók u.þ.b. 3 klst.

Húshólmi

Húshólmi – uppdráttur ÓSÁ.