Haakon Shetelig skrifaði í Árbók Hins íslenska fornleifafélags árið 1938 um „Íslenskar dysjar“ og fornleifar frá víkingaöld:
„Eftir frásögn Ara fróða var landið numið á árunum sextíu frá 870—930. Verða færð ýms rök að því, að tímatalið er ábyggilegt um þetta að öllu verulegu leyti, að fyrstu landnámin áttu sér stað á árunum 870—80, en að útflutningurinn varð mestur frá því um 900, og að árið 930, er kjörinn var hinn fyrsti lögsögumaður, er hið eðlilega lokaár landnámsaldarinnar. Íslendingar voru þá og nokkuð eftir það Ásatrúar, og fylgdu hinum fornu, heiðnu greftrunarsiðum, unz kristni var lögtekin á Alþingi árið 1000. Heiðnar dysjaleifar á Íslandi geta því ekki, nema að eins sem undantekningar, verið eldri en frá því um 900 og alls ekki neinar verið neitt að ráði yngri en frá því um 1000.
Norskir fornfræðingar veittu því snemma athygli, að svo var þessu farið, og að nokkur stuðningur gæti orðið að því við niðurskipun norskra funda frá víkingaöldinni eftir aldri þeirra, og þetta atriði heldur ennþá fullu gildi sínu að sínu leyti, þótt vjer höfum nú á annan hátt öðlazt möguleika til nákvæmari tímatalsákvarðana um hinar ýmsu gerðir forngripa frá víkingaöldinni í Noregi. En fornleifafundirnir á Íslandi eru samt sem áður alveg sjerstaklega athyglisverðir frá almennu norrænu sjónarmiði sjeð einnig. Það er óvenjusjaldgæft, að vjer höfum tækifæri til að athuga ákveðinn flokk fornleifafunda með svo vissum tímatakmörkunum og jafnframt innan jafn fastákveðinna landamæra. Forngripirnir sjálfir og sömuleiðis það samband, sem þeir eru í við aðrar fornleifar í fundunum, geta veitt hjer mjög merkilegan fróðleik (það er ekki til neitt fornfræðilegt heildar yfirlit yfir fornleifafundi frá víkingaöld á Íslandi. Ingvald Undset gerði í bók sinni, Norske Oldsager i fremmede Museer, bls. 53, skrá yfir íslenzkar fornminjar í þjóðminjasafninu í Kaupmannahöfn (1878). Kr. Kálund gerði fullkomna skrá yfir dysjar og dysjaminjar i ritgerð sinni, Islands Fortidslævninger, í Aarb. f. n. Oldkh., 1882, og er sú skrá góður grundvöllur. Við það bættust svo einkum rannsóknir Daniels Bruuns 1898, sbr. Geografisk Tidsskrift XV, Kh. 1900, og framhald í Geogr. Tidsskr. XVII, Kh. 1904, og loks ritgerðin Dalvik-Fundet í Aarb. f. n. Oldkh. 1910. — Kálund skýrir svo frá, að 30—40 dysjafundir frá heiðni á Íslandi hafi verið kunnir 1882. Nú munu þeir varla vera fleiri en 100).
Að sjálfsögðu eru til fjöldamargar dysjar frá heiðni á Íslandi, miklu fleiri en ætla mætti, er litið er yfir það safn af fornleifum, sem nú verður sjeð í safninu í Reykjavík. Þess skal getið hjer, að reglubundnar rannsóknir með uppgrefti hafa þa að eins verið framkvæmdar, er ástæður voru til, og mjög hógværlega farið í þær, og hins er einnig að minnast, að jarðræktin á Íslandi er ekki innifalin í því, að brjóta land og plægja akur, störf, sem í Noregi verða mjög drjúgum til þess að leiða í dagsins ljós fornleifar úr dysjum frá löngu liðnum tímum. Á Íslandi finnast fornminjar helzt við heimaverk af hendingu, þegar grafið er fyrir undirstöðum nýrra húsa. Annars finnast hinar fornu dysjar þar venjulega fyrir eins konar fyrirbrigði í náttúrunni, sem er sjerkennilegt fyrir Ísland; það er þannig, að grassvörðurinn rifnar upp í roki og síðan blæs jarðvegurinn neðanundir smám saman burt með vindinum; beinaleifar og fornminjar koma þá fram til sýnis á yfirborðinu á eðlilegan hátt. Mjer hefir skilizt, að með reglubundnum rannsóknum mætti áreiðanlega gera ráð fyrir því, að auka mætti allmikið á tölu kunnra, íslenzkra dysjafunda frá víkingaöldinni og fylla enn betur yfirlitið yfir þær dysjaminjar og þær dysjar frá heiðni, sem til eru. Þetta síðast nefnda, um dysjarnar, er ekki hvað minnst áríðandi fyrir fornfræðilegar rannsóknir landsins, þar eð því fer vafalaust f jarri, að í öllum gröfum eða dysjum hafi verið fólgnar fornminjar með hinum framliðnu.
Greftrunarsiðirnir á Íslandi hafa yfirleitt verið óbrotnir, og dysjar, sem hafi verið verulega auðugar að fornminjum, hafa verið fásjeðar í samanburði við það, sem hefir átt sjer stað í Noregi. Sá var siður á íslandi, hinn sami og vestanfjalls í Noregi, að menn voru dysjaðir heima við bæina, innan landamæra ættmenna sinna, en ekki í grafreitum, sameiginlegum fyrir stóran söfnuð.
Að ytra útliti eru dysjarnar frá heiðni ætíð óálitlegar. Grafirnar eru luktar litlum grjóthrúgum og grasþökum, og eru nefndar dysjar á Íslandi, en oft eru slíkar dysjar að eins lágar, steinlagðar hvirfingar, sem eru naumast hærri en svæðið umhverfis; eða grafirnar geta verið blátt áfram grafnar niður í jarðveginn undir flötu yfirborði Sams konar fyrirkomulag með öllum mögulegum tilbreytingum er einnig alþekkt í Noregi, en það, sem er sjerkennilegt fyrir Ísland, er, að þar sjást engin minningarmörk, sem mikið ber á, engir stórir haugar, svo sem vjer getum að líta hvarvetna um land allt í Noregi frá víkingaöldinni, — suma furðulega mikla. Íslendingar hafa í því tilliti verið alveg lausir við allan metnað, og má segja, að hin einfalda, hógværlega gerð á dysjunum sje einkennandi þáttur í þessu nýja þjóðfjelagi þeirra allan fyrsta hlutann af lýðveldistímabilinu.
Jafn tilbreytingarlaus var greftrunin sjálf. Líkin voru ætíð jörðuð óbrennd, svo sem einnig átti sjer stað, með mjög fáum undantekningum, í norrænu víkingabyggðunum á brezku eyjunum. Er hjer þannig enn um verulega frábrugðinn sið að ræða frá því, sem venja var til í Noregi; þar hölluðust menn mjög víða að líkbrennum alla tíð meðan heiðnir jarðarfararsiðir voru yfirleitt hafðir um hönd. Þeir, sem fengizt hafa við rannsóknir í fornfræði Íslands, hafa jafnan bent á þetta, hversu frábrugðnir greftrunarsiðirnir á Íslandi hafa verið, og hafa menn helzt viljað leita ástæðunnar í því, hve erfitt hafi verið að afla brenniviðar á Íslandi. Ekki er sú ályktun alveg sannfærandi. Í þann tíð var trjágróður allmiklu meiri á landinu en á síðustu tímum. Vjer sjáum t. a. m., að rauðablástur var stundaður mjög mikið, en til þeirrar iðju þarf mikinn við. Það er því ekki líklegt, að Íslendingar hafi látið af líkbrennum, vegna þess, að þeir hafi viljað fara sparsamlega með skógarviðinn, hefði þessi siður, að brenna líkin, stuðzt við viðurkennda, siðferðislega kröfu, sem menn væru skyldugir að gegna fyrir hina framliðnu. öllu heldur verður að dæma um greftrunarsiðina á Íslandi með tilliti til þess, hversu til var hagað í þeim efnum í víkingabyggðunum á Skotlandi og Írlandi; þar var greftrun án líkbrennslu svo að kalla undantekningarlaus, svo sem þegar hefir verið tekið fram. Á Íslandi var því fylgt þeim sið í þessu, sem þegar var kominn á fyrir löngu í nýlendunum vestan hafs, og það sennilega helzt fyrir áhrif frá kristninni, og fluttist þaðan með vestrænum landnámsmönnum, svo sem eðlilegt má þykja.
Gröfin sjálf er hin einfaldasta að gerð, hvort heldur hún hefir verið gerð að öllu leyti neðan jarðar eða lukt með dys ofan jarðar, og oft sett umhverfis hana röð af steinum, en ekki haft neitt verulegt grafarhólf. Ekki verður bent á það, að fylgt hafi verið neinni fastri reglu um það, hversu grafir manna skyldu snúa eftir áttum. Líkið er oft þannig í gröfinni, að rjett hefir verið úr því; en þess kvað einnig vera ábyggileg dæmi á Íslandi, að líkin hafi verið jörðuð sitjandi. Skipsgrafir eru undantekningar; þótt þær þekkist.“
Heimild:
-Árbók Hins íslenska fornleifafélags, 46. árg. 1937-1938, bls. 5-6.
Þórkötlusdys.
Dýrfinnuhellir II
Dýrfinnuhellir er skammt ofan við Grindavík, örskammt frá Skipsstígnum norðvestan við Lágafell. Þótt staðurinn sé nú flestum gleymdur lifði hann lengi vel í hugum Grindvíkinga, líkt og nokkrir aðrir staðir ofan við Plássið er tengdust komu „Tyrkjanna“.
Skjól vegavinnumanna við Skipsstíg.
Þeir komu til Grindavíkur, skyndilega og öllum að óvörum, í byrjun sumars 1627, fyrir 379 árum síðan. Lífið hjá Grindavíkurbændum og búaliði gekk allt sinn vanagang. Vorverkunum var lokið og fé hafði verið fært til selja. Útvegsbændurnir voru vanir báts- og skipaferðum enda Grindavík þá einn helsti útgerðar- og verslunarstaður landsins. Þess vegna er kannski ekki svo víst að sigling Tyrkjaskipsins (sumir segja tveggja skipa), sem nálgaðist snemmmorguns þann 20. júní, hafi vakið svo mikla athygli, venju fremur. Grindvíkingar áttu ekki von á neinu nema góðu úr þeirri áttinni.
Tyrkirnir hertóku danskt kaupfar og nokkra úr áhöfninni, stökktu danska kaupmanninum og hans fólki á flótta, rændu verlsunina og réðust til atlögu við fólkið á Járngerðarstöðum.“Tyrkjunum“ þrjátíu lá mikið á því þeir töldu að kaupmaðurinn gæti snúið aftur með liðsafla. Þeir drógu húsmóðurina til skips, tóku syni hennar og bróður, særðu tvo aðra bræður hennar er reyndu að verjast, losuðu sig við aldraðan og laslegan bóndann í fjöruborðinu, en drógu 8 aðra Grindvíkinga og þrjá Dani til skips. Loks rændu þeir verðmætum úr Járngerðarstabænum og sigldu síðan hraðbyri til hafs. Utan við Grindavík náðu þeir vestfirsku kaupfari sem og áhöfn þess.
Tómas Þorvaldsson, hinn sagnafróði og mæti Grindvíkingur, segir frá þessum atburði í æviminningum sínum, útg. 1986. Um Dýrfinnuhelli segir hann: „Hellir einn, allstór, vestan við gamla veginn til Keflavíkur, norðan Lágafells, heitir Dýrfinnuhellir og sagan segir að kona með þessu nafni hafi falið sig þar þangað til ræningjarnir voru farnir“.
Í Dýrfinnuhelli.
Á meðan „Tyrkir“ rændu Járngerðarstaði flúðu Grindvíkingar upp í hraunið ofan við byggðina og dvöldu þar uns hættan var liðin hjá – sumir lengur – og lengra. Einhverjir þeirra eru sagðir hafa dvalið í helli suðvestan við Húsafjall, en sá hellir átti eftirleiðis að geta hýst um 100 Grindvíkinga ef til þess kæmi að „Tyrkirnir“ kæmu aftur. Sá hellir er nú hálffullur af sandi, sem fokið hefur af Vatnsheiðinni. Auk þess eru byrgi, sem sjá má bæði í Sundvörðuhrauni og í Eldvörpum sögð tengjast þessum sögulega atburði, ekki einungis í sögu Grindavíkur, heldur og í Íslandssögunni allri.
Dýrfinnuhellir er hið ágætasta skjól. Sjá má bein af lambi í hellinum. Skammt frá eru fleiri skjól, sem falið hafa getað fleiri Grindvíkinga með góðu móti. Þar skammt frá er m.a. skjól vegagerðarmanna, sem unnu að endurnýjun Skipsstígs á þeim kafla skömmu eftir aldarmótin 1900. Elsti „Grindavíkurvegurinn“, sem liggur um núverandi vegstæði var hins vegar lagður á árunum 1914-1918. Sá vegarkafli var síðan endurnýjaður nokkrum sinnum, nú síðast var hann lagður malbiki. Hið fyrsta sinni reistu vegagerðarmenn nokkur mannvirki á u.þ.b. 500 metra millibili við vegstæðið, sem brotið var í hraunið með handafli og örfáum verkfærum. Milli 32 til 40 Grindvíkingar fengu þó laun fyrir það erfiði, enda greiddu þeir helminginn mót landsstjórninni. Enn má á a.m.k. 12 stöðum sjá leifar þessara minja við veginn, en öðrum hefur verið eitt í ógáti með stórvirkum vinnuvélum. Sennilega er þó hér um einar merkustu minjar fyrrum vegagerðar á landinu, þ.e.a.s. þær sem eftir eru.
Ljóst er að víða við Grindavík leynast merkilegar minjar er gefa sögum bæjarins áþreifanlegari sín en sögurnar einar gefa tilefni til.
Ekki segir hvar nefnd Dýrfinna hafi búið í Járngerðarstaðahverfi.
Heimild:
-Tómas Þorvaldsson – æviminningar – 1986, bls. 22.
-Saga Grindavíkur.
-Sigurður Gíslason – Hrauni.
Varða við Skipsstíg.
Méltunnan
Í Safni til sögu Íslands og íslenskra bókmennta að fornu og nýju árið 1856 er m.a. getið um eignaskipti á jörðunum Görðum og Vífilsstöðum:
„Annis 1557 og 1558 var Knútur samt hér höfuðsmaður, og á þessu síðara ári út gaf hann á Bessastöðum, dag 4. júlí, Eggerti lögmanni Hannessyni bréf fyrirSnæfellsness- og Ísafjarðarsýslum. Og á sama ári og degi keypti hann, kóngsins vegna, Garða kirkjujörð Hlið á Álptanesi af séra Lopti Narfasyni, fyrir jörðina Vífilsstaði í Garðakirkju sókn, og skyldu prestarnir fá í kaupbætir eina mjöltunnu af kóngsins mjöli á Bessastöðum, og hélzt það við til þess óvild féll inn með höfuðsmanninum Einvold Kruse og séra Jóni Krákssyni, prófasti og presti að Görðum. Síðan hafa Garðaprestar farið hennar á mis.“
Heimild:
-Safn til sögu Íslands og íslenskra bókmennta að fornu og nýju. Hið íslenska bókmenntafjelag 1856, bls. 702.
Hlið (Hlíð).
Hvalvatn – Skinnhúfuhöfði – Arnesarhellir
Leiðin umhverfis Hvalvatn liggur með vatnsborðinu, er auðveld yfirferðar og veitir bæði fróðleik og skemmtun.
Tveir litlir hellar eru á þeirri leið. Sá minni er í Skinnhúfuhöfða við vatnið austanvert. Segir þjóðsagan að þar hafi tröllkonan Skinnhúfa búið, en um afreksverk hennar fara engar sögur. Norð-austan úr miðju Hvalfelli gengur klettahöfði fram að vatninu. Í honum er Arnesarhellir, sem kenndur er við Arnes nokkurn Pálsson sem átti heima í sveitunum við Hvalfjörð á árunum um og eftir 1750. Hann var bendlaður við þjófnað og hermdu sagnir að hann hefði lagst út og m.a. dvalið um stund í þessum helli. Hvað satt kann að vera í þessu efni skal ósagt látið, því Arnes mun hafa verið einn til frásagnar um búsetu sína þar. Sagt er að síðar hafi fundist í hellinum leifar gamalla beina, hlaðinnbálkur og hornkambur. Í bókinni Útilegumenn og auðar tóttir segir höfundurinn Ólafur Briem svo: „Á Jónsmessudag 1951 fór ég ásamt nokkrum mönnum öðrum að skoða hellinn. Neðst í klettahöfða, alveg niðri við vatnið, er gjögur, og inn úr því í meira en mannshæð gengur hellirinn, og suður úr honum, hægra megin við hellisopið gengur afhellir. Aðalhellirinn er um 6×6 m að flatarmáli og 2 til 3 m á hæð. Afhellirinn er um 5 m á lengd og um 2 m á breidd og er manngengur inn til miðs, en lækkar inn við botninn. Í hellinum voru hér og þar smá beinabrot, bæði úrkindum og stórgripum, en engin heilleg bein. Meðal beinanna var eitt, sem greinilega var tálgað í odd. Mest var af beinaleifum við mynni afhellisins, rétt innan við hellisopið. Ekki gátum við séð leifar af bálki né öðrum mannvirkjum. Varla getur leikið vafi á því, að maður hafi einhvern tíma hafzt við í helli þessum.“
Heimildir m.a.:
-www.fi.is
Hofin og goðin
Í „Íslandssögu handa börnum„, eftir Jónas Jónsson frá árinu 1915, segir m.a. frá hofum og goðum:
„Hofin — Svo nefndust guðahús Ásatrúarmanna. Sum voru aðalhof, sem heilar sveitir áttu sókn að; það voru miklar byggingar. Önnur voru heimilishof, er einstakir menn bygðu á bæjum sínum og höfðu til eigin afnota. Þau voru náttúrlega miklu minni en aðalhofin. Venjulega voru hofin bygð úr grjóti og torfi, með torfþaki, en þiljuð að innan eins og góð bæjarhús. Hverju hofi var skift í tvent: aðalhofið og goðastúkuna. Milli þeirra var þykkur veggur úr grjóti og torfi, og engar dyr á. Líklega hefir þéssi skilveggur ekki náð alveg upp að þaki, og mátt sjá yfir hann milli hofhlutanna. (Eyrbyggja 4-6. Fljótsdæla 110-112),
Goðastúkan — Hún var hið allrahelgasta í hofinu, og lítil i samanburði við aðalhofið. Framan við skilvegginn var dálítill stallur; á honum stóðu goðamyndirnar. Í miðju var það goðið, sem mest var virt, og hin út frá til beggja hliða. Á miðju gólfi var stallur, eins og altari, stundum einn stór steinn, en líklega oftar hlaðinn steinstöpull og hella lögð ofan á. Á stallinum lá helgur hringur, sem eiðar voru unnir við. Þann hring mátti goðinn bera á armlegg sér við hátíðleg tækifæri. Ennfremur stóð á stallinum dálítill bolli úr steini eða málmi. Hann hét hlautbolli. Í bollann var látið nokkuð af blóði fórnardýranna, en mestum hluta þess var helt niður utanhofs.
Goðin — Fornmenn gerðu myndir af guðunum, til að geta betur skilið eðli þeirra og átt skifti við þá. Goðamyndirnar voru gerðar úr tré, oftast á stærð við menska menn. Goðin voru klædd í góð föt, og prýdd með ýmsu skrauti úr gulli og silfri. Goðunum var sýnd hin mesta lotning, eins og þau væru sjálfir guðirnir. Enginn mátti ganga um goðastúkuna nema hofpresturinn, goðinn, eða vildarmenn hans, sem hann leyfði að koma þangað með sér. (Vatnsd. 43).
Veislusalurinn – Aðalhofið var veglegt hús, oft stærra en meðalkirkja, Nýlega hefir verið grafið í gamlar hofrústir á Hofstððum við Mývatn. Það hafði verið 36 m. á lengd og um 7 m. á breidd. Hofin þurftu að vera svona stór, af því að sóknarmenn komu þar saman nokkrum sinnum á ári við einskonar guðsþjónustu. Þá sátu gestirnir að veislu í aðalhofinu, eða veislusalnum. Hann var mjög svipaður stofu á höfðinglegu heimili: Útveggir þiljaðir, og stundum tjaldaðir að innan, pallar meðfram veggjunum, öndvegissúlur við sæti goðans, fastir bekkir til beggja handa; borð sett upp á pallskörina og þar framreiddur ágætur veislukostur. Á gólfinu miðju brunnu langeldar.“
Heimild:
-Íslandssaga handa börnum, Jónas Jónsson 1915, bls. 45-46.
Hof á Kjalarnesi og nágrenni – loftmynd.
Krýsuvíkur Guðmundur (Krýsuvíkur-Gvendur)
Eftirfarandi frásögn birtist í Blöndu, fróðleikur gamall og nýr, sem Sögufélagið gaf út á árunum 1921-1923.
“Guðmundur hét maður og var Bjarnason, ættaður úr Breiðafirði. Hann felldi ástarhug til stúlku einnar, er hann fékk ekki að eiga, og fór þá suður á land og létti eigi fyrri en suður kom í Gullbringusýslu, en þar hafðist hann við alla æfi upp frá því á ýmsum stöðum, lengst af í Krýsuvíkursókn.
Ekki er víst, hve nær Guðmundur kom fyrst suður, en í Krýsuvíkursókn mun hann hafa komið árið 1927. Þar byggði hann nýbýlið Læk frá stofni [sem enn má sjá leifar af austan við Vestari læk]. Einnig bjó hann í Garðshorni í nokkur ár. Á vetrum gætti hann fjár síns við helli einn í Klofningahrauni, Gvendarhelli, og hélt því mjög til beitar. Framan við hellinn byggði hann skemmu með opi á miðju, og sést hún enn þá. Rétt inn af skemmunni afgirti hann skáp úr hellinum og geymdi þar lömbin, ef illt var veður og þörf var á að gefa þeim. Þar hafði hann rúm sitt, er hann hlóð upp úr grjóti og þakti svo með gæruskinnum, er hann lá á (um Guðmund sbr. einnig Lýsing Selvogsþinga 1840 eftir síra Jón Vestamann (Landnám Ingólfs III, 99-100)).
Út frá hellinum var veðursæl mikil og hagar fyrir sauðfé svo góðir, að aldrei brugðust.
Eitt sinn, er Guðmundur var í hellinum, kom til hans maður, að nafni Einar og var Sæmundsson, úr Biskupstungum, sem var að fara í verð til Grindavíkur. Guðmundur tók vel á móti Einari og veitti honum hangikjöt og brennivín. Einari leizt vel á fénaðinn og þótti vel um gengið í skemmu hans og helli. – Um þessar mundir flutti Einar að Stóra-Nýjabæ í Krýsuvík, og voru þeir Guðmudnur því nágrannar lengi síðan.
Þegar Guðmundur bjó í Garðshorni, færði hann frá ám sínum á vori hverju og flutti lömbin eftir fráfærur inn í Lambatanga við Kleifarvatn. Eitt sinn eftir fráfærurnar sluppu ærnar í þoku og komust inn undir Lambatanga, þar sem lömbin voru. Þau heyrðu þá jarminn í ánum og fóru öll, 50 að tölu, út í vatnið og drápust þar öll og rak þau síðan upp úr vatninu. Guðmundur reiddi lambskrokkana heim í Garðshorn, rak í þau fótinn, þar sem þau lágu á túninu og sagði: “Þar fóru þið að fara hægara, nú ræð ég við ykkur.”
Bærinn Lækur í Krýsuvík – Garðshorn nær.
Það er enn sagt af Guðmundir, þegar hann bjó í Garðshorni, að hann batt ullina, óþvegna, í bagga og flutti hana þannig til kaupstaðar.
Úr Krýsuvíkurhverfi mun Guðmundur hafa farið inn í Garðahrepp, líklega að Setbergi, því öllum ber saman um það, að hann hafi haldizt við í Gjáarrétt með fé sitt, og sér enn merki þess. Einnig var hann um tíma með féð uppi á Bakhlíðum, og sér þar votta fyrir byrgi, sem við hann er kennt, Gvendarbyrgi. Og enn er þess að geta, að Guðmundur var um stundarsakir í Straumsseli í Hraunum, þá líklega búlaus. Þaðan seldi hann sauðu sína í Bessastaðaskóla.
Guðmundur Bjarnason var talinn sérkennilegur í mörgu; einrænn og dulur í skapi, en kjarkmaður og einbeittur, skýr í hugsun og þrekmikill, og sumir töldu hann fjölkunnugan.
Hér kemur að lokum saga, sem sögð er af Guðmundi. Kona nokkur hélzt við í Ólafsskarði og á Svínahraunsvegi og stundum í Jósefsdal; þar sást bæli hennar til skamms tíma, segja sumir. Hún var mannskæð og réðst á ferðamenn, er um veginn fóru og rænti þá, því er þeir höfðu meðferðis. Þessu framferði kunnu menn illa, og af því að nauðsyn þótti til að ráða hana af dögum, en enginn vildi reyna, var Guðmundur Bjarnason fenginn og fór hann við annan mann upp að Ólafsskarði. En er þangað kom, legst Guðmundur í leyni, en lætur fylgdarmanninn halda áfram eftir veginum, þar sem illkvendið var vant að hafast við. Að litlum tíma liðnum kom kerking, ræðst á manninn, en þá kom Guðmundur honum til hjálpar, vegur að henni, og varð það henar bani. Aðri segja, að Guðmundur hafi ekki drepið flagðkonuna, en í þess stað afhent hana yfirvöldum.“
Heimild:
-Blanda VI, Sögufélagið 1921-1923, bls. 187-189.
https://ferlir.is/krysuvikur-gudmundur/
Um 100 refagildrur á Reykjanesskaga
FERLIR hefur skráð 93 grjóthlaðnar refagildrur á Reykjanesskaga; í fyrrum landnámi Ingólfs. Flestar eru þessar gildrur fornar og eiga í grunnin rætur að rekja til þess fólks er fyrst byggði landið. Gildrurnar lögðust að mestu af eftir að byssan kom til sögunnar. Upp frá því voru hlaðin skjól fyrir refaskyttur víðs vegar í hraunum, holtum og hæðum, svonefnd skotbyrgi. Ummerki þeirra má sjá víða enn í dag. Oft var um að ræða fáfarnar hleðslur til skjóls í nágrenni við greni, en einnig lögðu menn á sig að hlaða vegleg byrgi því oftar en ekki lágu grenjaskyttur úti á grenjum svo dögum skipti.
Refagildrur – yfirlit.
Í Sunnudagsblaði Þjóðviljans árið 1944, er „Refagildru á Látrum“ lýst. Hún segir meira en nokkuð annað um hvernig veiðitæknin var frá upphafi vega:“Líklega hafa flest ykkar haldið að verið væri að ljúga að ykkur þegar þið lásuð á forsíðunni að myndin þar væri af refagildru! Þegar ég kom fyrst að Látrum og Ásgeir vitavörður sýndi mannvirki þetta, sem er eigi fjarri Bjargtöngum, varð mér fyrst á að efast um að skýring hans væri rétt. Enda þótt Ásgeir virðist í hópi þeirra manna sem aldrei ljúga vísvitandi gat skýring hans verið röng, en hann talaði um það sem gamla og sjálfsagða vitneskju og staðreynd, að þannig hefðu refagildrur verið áður fyrrum. Á sl. sumri mun hann hafa stungið því að mér að lýsing á slíkum gildrum væri í Atla. Atli er raunar okkar fyrsta búnaðarfræði. sem sr. Björn Halldórsson skrifaði 1777, einmitt í þessu byggðarlagi — í Sauðlauksdal. og var bókin prentuð í Hrappsey 1780. Og því fór ég að blaða í Atla, sem er skrifaður í formi góðra ráða gamals bónda til manns sem vill byrja búskap. Þar stendur m.a.:
„ . . . Allra minnst kostar þig, að gjöra þér tófugildru, viðlíka og þú getur séð hana uppá brúninni hér fyrir ofan bæinn, en hún er gjörð eftir forskrift nokkurs gamals prests, sem gaf mér hana, og með því sá umbúnaður er nú flestum ókenndur hér í grenndinni vil ég segja þér hana. Hún er þessi:
1) Gildran sé hlaðin á hellu eða grjótgrundvelli, sem tóft eða kvíar, nokkuð lengri og hærri en tófa kann að vera, en svo þröng að tófa geti ekki snúið sér þar inni.
Refagildra Í Skollahrauni við Ísólfsskála.
2) Í gafli miðjum standi tréhæll afsleppur neðanverðu.
3) Síðan er byggt yfir þessa tóft með grjóti svo það hlað hafi hæð sjálfrar jarðarinnar.
4) Innar við gaflinn skal vera svo mikið op, að þar verði bæði náð inn til að egna og líka að veiðin megi þar út takast ef á þarf að halda.
Selatangar – refagildra.
5) Strengur með lykkju á endanum, smokkaður á hælinn liggur svo uppúr þessu opi, yfir áminnstu grjóthlaði, allt til dyra: þar er krossbundin hella (eða með gati) í hans öðrum enda, sem til ætlað er að niður detti, og því skal grjóthlaðið vera svo þykkt, sem hæð hellunnar verður að vera.
6) Fyrir framan dyrnar standi fallega kantaðir steinar sinn hvoru megin, svo langt frá að hellan hafi nóga þröm eða pláss til að falla í millum þeirra og gildruveggjanna, en fyrir ofan lykkjuna á hælnum hangir agnbiti á annarri lykkju, svo til ætlað er að tófa kippi strengnum fram af undir eins og agninu.
Refagildra á Staðarbergi.
7) Þegar gildran er tvídyruð þá er sín hella við hvorn enda, eins og fyrr segir um þá eindyruðu, en agnhællinn í miðjum vegg annarhvorrar langhliðar – og á honum báðir hellustrengirnir.
8) Líklegt er að tófur séu óvarari við þá tvídyruðu. Loksins er agnið með grjóti byrgt, og allt látið verða sem líkast náttúrlegu grjótholti.“
Eftir þennan lestur verður vart um það deilt að skýring þeirra Látramanna, um hæla strengi og fallhellu, hafi hvorki verði staðlaus þjóðsaga né hugarórar, heldur gömul raunhæf vitneskja.
Ósagt skal látið hvort annað mannvirki þessarar tegundar fyrirfinnist óhrunið á landinu, en sé svo væri gaman að vita það.“
Heimild:
-Sunnudagsblað Þjóðviljans, 5. tbl. 16.02.1944, Refagildran á Látrum, bls. 53.
Refagildra – umfjöllun í Reykjavíkurpóstinum 1847; Fréttir, bls. 27-28.
Botnsdalur
Innst í Hvalfirði er Botnsvogur og inn af honum gengur Botnsdalur. Hann er stuttur, gróðursæll og skjólgóður. Tvö býli eru í dalnum, Litli-Botn og Stóri-Botn. Fyrir botni dalsins gnæfir Hvalfellið (852 m) en eftir honum liðast Botnsáin, tær og sakleysisleg og fellur í voginn. Hún kemur úr Hvalvatni, sem er austan við Hvalfell.
Endur fyrir löngu, er ísaldarjökullinn þakti landið og skriðjöklar hans surfu berggrunninn, myndaðist Hvalfjörðurinn og dalir þeir, sem að honum liggja. Á þeim tímum var eldvirkni landsins ekki minni en nú og mynduðust þá og mótuðust mörg þeirra fjalla, sem við þekkjum svo vel. Jökullinn hafði sorfið Botnsdalurinn lengri en hann er nú, en svo hófst eldgos undir jöklinum. Fjall hlóðst upp í miðjum dal og þegar jökullinn hvarf stóð það eftir. Bak við það var djúp dæld, sem síðar fylltist af vatni.
Fjallið heitir Hvalfell, vatnið Hvalvatn og úr því rennur Botnsá. Hún fellur vestur með Hvalvatni að norðanverðu og beygir svo til suðurs. Þar hefur hún grafið djúpt gljúfur í gljúp jarðlögin í hlíðar dalsins. Þessi gljúfur eru ein hin mestu og hrikalegustu í landinu. Þau eru stutt og dýpst, þar sem áin fellur fram af dalbrúninni í einum fossi. Hann heitir Glymur og er um 200 m hár. Glymsbrekkur eru með stefnu á vesturhorn Hvalfellsins. Fyrrum var fjölfarin leið um þessar slóðir úr Botnsdal yfir í Skorradal, en hún lagðist af með breyttum samgöngutækjum.
Beinkambur með hinu forna lagi, okar 2 með þynnum 2 á milli og standa eirnaglar 2 í gegn: okarnir eru 5,9 og 6,1 cm. að l. og 7-10 mm. að br. Br. kambsins er 3,5 cm. Þynnurnar eru báðar saman 4,5 cm. að lengd: er önnur endaþynna, nær ótent. Rákir 2 eru til prýðis eptir okunum langsetis. Virðist óslitinn og er vafasamt, hvort verið hafi nokkru sinni að gagni eða orðið fullgjör: er mjög óvandaður. Mun vera gamall, en alls ófúinn: líkur kömbum frá miðöldunum. Fanst í litlum helli norðan í Hvalfelli, sunnan við Hvalvatn: mun það vera Skinnhúfuhellir ( sbr. Árm.s, og Árb. 1881, 41). Eru bein mörg í hellinum og í hrúgu í brekku fyrir framan hann. Hefir hér að líkindum verið útilegumannabæli í fyrndinni.
Þótt Hvalvatnið sé ekki stórt að flatarmáli, geymir það mikinn vatnsforða því mesta dýpi þess er 160 m. Leiðin umhverfis Hvalvatn liggur með vatnsborðinu, er auðveld yfirferðar. Tveir litlir hellar eru á þeirri leið. Sá minni er í Skinnhúfuhöfða við vatnið austanvert. Segir þjóðsagan að þar hafi tröllkonan Skinnhúfa búið, en um afreksverk hennar fara engar sögur. Norðaustan úr miðju Hvalfelli gengur klettahöfði fram að vatninu.Â Í honum er lítill og lélegur hellisskúti. Þar eru sýnilegar minjar um mannvistir því hlaðinn hefur verið grjótbálkur í hellinum og eitthvað hefur fundist af dýrabeinum á gólfinu. Hellirinn nefnist Arnesarhellir og er kenndur við Arnes Pálsson sem uppi var á síðari hluta 18. aldar og var alræmdur þjófur. Er talið að hann hafi dvalið þar veturlangt í felum.
Hvalinn, sem öll þessi örnefni eru kennd við, er að finna í Þjóðsögum Jóns Árnasonar. Í suttu máli er hún á þá leið að maður í álögum varð að hval og lá hann úti fyrir Hvalfirði, grandaði bátum og drekkti skipshöfnunum. Synir prestsins í Saurbæ á Hvalfjarðarströnd drukknuðu af völdum hvalsins. Presturinn vissi lengra en nef hans náði. Með töfrabrögðum gat hann seitt hvalinn inn fjörðinn, upp Botnsá, upp gljúfrin miklu og inn í vatn. Þar sprakk skepnan. Fannst beinagrind hvalsins þar síðar. Við þennan hval er fjörðurinn, fellið og vatnið kennt.
Leggjabrjótur – Biskupskelda.
Hin gamla þjóðleið frá Botnsdal í Hvalfirði til þingvalla er nefnd eftir Leggjabrjóti, illfærum urðarhálsi, sem liggur þvert á leið og var fyrrum hinn versti farartálmi. En eldra nafn á leiðinni var Botnsheiði. Leiðin er nú vörðuð að mestum hluta og ætti það að vera til styrktar í þoku og dimmviðri, Vegalengd er 12-13 km og
ca. 5-6 klst ganga ef farið er í rólegheitum.
Botnsdalurinn er stuttur, kjarrivaxinn dalur upp af Botnsvogi. Ísaldarjökullinn myndaði dalinn, svo og Hvalfjörð og alla þá dali og skorninga, sem að honum liggja. Í Landnámabók segir svo:
„Maður hét Ávangur írskur að kyni. Hann byggði fyrst í Botni. þar var þá svo stór skógur, að hann gerði þar af hafskip og hlóð þar sem nú heitir Hlaðhamar“ .
Klettahöfði við veginn, innst í voginum að sunnanverðu ber þetta nafn nú. Tveir bæir voru í dalnum Neðri eða Litlibotn og Efri eða Stóribotn. Á Neðrabotni bjó Geir fóstbróðir Harðar Grímkelssonar, sem frá eftir í Harðarsögu. þar bjó um tíma á fyrri hluta þessarar aldar Beinteinn? Hann átti nokkur börn og voru flest þeirra þekkt fyrir skáldgáfu sína. Má þar m.a. nefna Pétur, Halldóru og Sveinbjörn sem síðar var allsherjargoði Ásatrúarmanna.
Litli-Botn – Howell 1900.
Annað skáld Jón Magnússon ólst einnig upp á Litlabotni. Upphaflega var Botnsdalur mun lengri, en síðla á ísöld, fyrir u.þ.b. 0.8 milljón arum, var gos undir jökli í miðjum dal og myndaðist þá Hvalfellið, sem rís fyrir enda dalsins (848 m y.s.). Í þessu gosi lokaðist fyrir dalbotninn og í kvosinni myndaðist Hvalvatn.
Í Stóra-Botni var vinsæll áningarstaður ferðamanna, meðan þjóðleiðin lá um Leggjabrjót til Þingvalla. Þar fæddist og ólst upp Jón Helgason rithöfundur og blaðamaður. Botnsá fellur fyrir neðan túnið og þar er göngubrú á henni. Þaðan liggur gamla gatan skáhallt upp brekkurnar í áttina að Botnssúlum.
Botnsdalur og nágrenni – kort.
Búskap var hætt á jörðinni laust eftir 1970. Hóf þá eigandi jarðarinnar ræktun barrtrjáa, sem blasa við augum í hlíðinni sunnan ár.
Hvalskarðsá kemur úr Hvalskarði, sem er á milli Hvalfells og Botnssúlna og fellur í Botnsá. Farvegur árinnar myndar smá fossa á leið sinni ofan hlíðina. Á einum eða tveimur stöðum í gilinu seytlar fram volgt vatn, gott til fótabaða.
Af Sandhrygg breiðir Múlafjallið úr sér til útnorðurs og sést þaðan niður í Botnsdal. Hins vegar er hér beint niður undan hin forna leið niður í Brynjudal, leiðin um Brennigil, og er það auðfarin leið gegnum kjarrið. Önnur leið er litlu norðar, það er leiðin upp með Laugalæk, sem dregur nafn sitt af heitri (33 gráður) laug ofarlega í hlíðinni. Þar má sjá verksummerki eftir framkvæmdir hugvitsmannsins Lúthers Lárussonar, sem bjó á Ingunnarstöðum fyrr á þessari öld. Selstaða var í Botnsdal.
Þessar tvær leiðir voru auðveldustu leiðirnar, þegar farið var yfir Hrísháls niður í Botnsdal, yfir Leggjarbrjót til Þingvalla eða yfir Hvalskarð suður með suðurströnd Hvalvatns og áfram til austurs. Hvalskarð er norðan við Sandhrygg, það er milli Hvalfells (852 m) að norðan og Háusúlu (1023 m) að sunnan.
Hvalvatn – Hvalfell fjær.
Norðan við Hvalfell rennur hins vegar Botnsá úr Hvalvatni. Hún er á sýslumörkum milli Kjósarsýslu og Borgarfjarðarsýslu og jafnframt skilur hún milli Hvalfjarðarstrandarhrepps og Kjósarhrepps. Mörkin liggja síðan um mitt Hvalvatn og síðan um Háusúlu og rétt norðan við Biskupskeldu og um Mirkavatn yfir Kjöl og í Sýsluhólma í Laxá í Kjós.
Skógrækt hófst í landi Stórabotns á vegum eiganda jarðarinnar kringum 1965 og var plantað á þrem árum á annað hundrað þúsund trjáplöntum af ýmsum tegundum. Skógrækt ríkisins sá um framkvæmdina. Þá varð hlé á plöntun þar til árið 1980 er aftur var hafist handa og var á næstu árum plantað um 30 þúsund plöntum á vegum eigenda jarðarinnar. Öll hlíðin sunnan árinnar er í landi Stórabotns. Búskapur lagðist niður í Stórabotni 1982.
Heimildir m.a.:
-http://www.fi.is
-http://www.kjos.is
-MBL, 9. ágúst 1981.
Hvalvatn – flugmynd.
Málmleitartæki til fornleifaleitar
Í frétt á mbl.is þann 4. nóv. 2009 mátti lesa eftirfarandi frétt af manni er „Fann fjársjóð frá járnöld“ (á Norðurlöndunum er járnöldin talin ná frá 5. öld f.Kr. til upphafs víkingaaldar um miðja 8. öld e.Kr. (mismunandi þó eftir landssvæðum og óafmörkuð tímaskil):
„Skoti sem ákvað að prófa málmleitartæki, fann í sinni fyrstu tilraun með tækið, fjársjóð frá járnöld. Umræddur fjársjóður, samanstendur af fjórum hálsmenum úr gulli og er sagður vera milljón punda virði, ríflega 200 milljóna íslenskra króna. Hálsmenin eru talin vera frá um fyrstu til þriðju öld fyrir Krist og eru merkasti fundur frá járnöld í Skotlandi.
David Booth sem fann fjársjóðinn í september segist í viðtalið við BBC í Skotlandi, hafa orðið agndofa við fundinn. „Ég gerði mér grein fyrir að þetta væru verðmætir og sjaldgæfir hlutir og þetta var það fyrsta sem ég hafði nokkurn tíma fundið, þannig að þetta var alveg ótrúlegt. Ég bara lagði bílnum, náði í málmleitartækið, valdi í hvaða átt ég vildi fara og um sjö skrefum seinna fann ég þetta. Þetta var það fyrsta sem ég fann.“
Booth segist hafa gert sér grein fyrir að hann hefði fundið gamla skartgripi, hann hefði bara ekki áttað sig á hversu gamlir þeir væru.
Skartgripirnir hafa nú verið afhjúpaðir í Þjóðminjasafni Skotlands í Edinborg. Samkvæmt skoskum lögum getur konungdæmið eitt gert kröfu til fornleifafunda í Skotlandi. Finnandi verður að tilkynna um slíkan fund til yfirvalda og á ekkert tilkall til fundarins. Verið er að meta fjársjóðinn og getur Booth átt von á fundarlaunum, jafnháum matinu.“
Í íslenskum Þjóðminjalögum, 2001 nr. 107 31. maí, segir í 16. gr.: „Óheimil er notkun málmleitartækja eða annars tækjabúnaðar við leit að forngripum í jörðu nema með sérstöku leyfi þjóðminjavarðar“. Ákvæðið lýsir ákveðinni þröngsýni og því þarf að sjálfsögðu að breyta sbr. framangreinda frétt.
Taka skal fram til fróðleiks að steinöld var forveri bronsaldar, sem var forveri járnaldar. Steinöldin skiptist í fornsteinöld (~1.4 milljón – 10.000 ár síðan), miðsteinöld (~22.000 – 5.000 ár síðan) og nýsteinöld (~8.500 – 3.000 ár síðan).
Járnöld gekk síðan í garð um miðja 8. öld, en þó hafa fundist hér á landi gripir úr bronsi, s.s. bagall er fannst á Þingvöllum 1957 (sjá mynd hér að ofan) og er til sýnis á Þjóðminjasafninu. Bagallinn, sem er með áberandi einkennum Úrness- og Hringaríkisstíls, er talinn vera frá því á 11. öld.
(Þess ber að geta að einn FERLIRsfélaganna stundar um þessar mundir nám í „Fornleifafræði Norðurlanda“ við Háskóla Íslands.)
Heimild m.a.:
-Árbók Hins íslenska fornleifafélags 1970 – Kristján Eldjárn – Bagall frá Þingvöllum, bls. 5-28.
Málmleitartæki.
Dysjar – Haakon Shetelig
Haakon Shetelig skrifaði í Árbók Hins íslenska fornleifafélags árið 1938 um „Íslenskar dysjar“ og fornleifar frá víkingaöld:
„Eftir frásögn Ara fróða var landið numið á árunum sextíu frá 870—930. Verða færð ýms rök að því, að tímatalið er ábyggilegt um þetta að öllu verulegu leyti, að fyrstu landnámin áttu sér stað á árunum 870—80, en að útflutningurinn varð mestur frá því um 900, og að árið 930, er kjörinn var hinn fyrsti lögsögumaður, er hið eðlilega lokaár landnámsaldarinnar. Íslendingar voru þá og nokkuð eftir það Ásatrúar, og fylgdu hinum fornu, heiðnu greftrunarsiðum, unz kristni var lögtekin á Alþingi árið 1000. Heiðnar dysjaleifar á Íslandi geta því ekki, nema að eins sem undantekningar, verið eldri en frá því um 900 og alls ekki neinar verið neitt að ráði yngri en frá því um 1000.
Norskir fornfræðingar veittu því snemma athygli, að svo var þessu farið, og að nokkur stuðningur gæti orðið að því við niðurskipun norskra funda frá víkingaöldinni eftir aldri þeirra, og þetta atriði heldur ennþá fullu gildi sínu að sínu leyti, þótt vjer höfum nú á annan hátt öðlazt möguleika til nákvæmari tímatalsákvarðana um hinar ýmsu gerðir forngripa frá víkingaöldinni í Noregi. En fornleifafundirnir á Íslandi eru samt sem áður alveg sjerstaklega athyglisverðir frá almennu norrænu sjónarmiði sjeð einnig. Það er óvenjusjaldgæft, að vjer höfum tækifæri til að athuga ákveðinn flokk fornleifafunda með svo vissum tímatakmörkunum og jafnframt innan jafn fastákveðinna landamæra. Forngripirnir sjálfir og sömuleiðis það samband, sem þeir eru í við aðrar fornleifar í fundunum, geta veitt hjer mjög merkilegan fróðleik (það er ekki til neitt fornfræðilegt heildar yfirlit yfir fornleifafundi frá víkingaöld á Íslandi. Ingvald Undset gerði í bók sinni, Norske Oldsager i fremmede Museer, bls. 53, skrá yfir íslenzkar fornminjar í þjóðminjasafninu í Kaupmannahöfn (1878). Kr. Kálund gerði fullkomna skrá yfir dysjar og dysjaminjar i ritgerð sinni, Islands Fortidslævninger, í Aarb. f. n. Oldkh., 1882, og er sú skrá góður grundvöllur. Við það bættust svo einkum rannsóknir Daniels Bruuns 1898, sbr. Geografisk Tidsskrift XV, Kh. 1900, og framhald í Geogr. Tidsskr. XVII, Kh. 1904, og loks ritgerðin Dalvik-Fundet í Aarb. f. n. Oldkh. 1910. — Kálund skýrir svo frá, að 30—40 dysjafundir frá heiðni á Íslandi hafi verið kunnir 1882. Nú munu þeir varla vera fleiri en 100).
Að sjálfsögðu eru til fjöldamargar dysjar frá heiðni á Íslandi, miklu fleiri en ætla mætti, er litið er yfir það safn af fornleifum, sem nú verður sjeð í safninu í Reykjavík. Þess skal getið hjer, að reglubundnar rannsóknir með uppgrefti hafa þa að eins verið framkvæmdar, er ástæður voru til, og mjög hógværlega farið í þær, og hins er einnig að minnast, að jarðræktin á Íslandi er ekki innifalin í því, að brjóta land og plægja akur, störf, sem í Noregi verða mjög drjúgum til þess að leiða í dagsins ljós fornleifar úr dysjum frá löngu liðnum tímum. Á Íslandi finnast fornminjar helzt við heimaverk af hendingu, þegar grafið er fyrir undirstöðum nýrra húsa. Annars finnast hinar fornu dysjar þar venjulega fyrir eins konar fyrirbrigði í náttúrunni, sem er sjerkennilegt fyrir Ísland; það er þannig, að grassvörðurinn rifnar upp í roki og síðan blæs jarðvegurinn neðanundir smám saman burt með vindinum; beinaleifar og fornminjar koma þá fram til sýnis á yfirborðinu á eðlilegan hátt. Mjer hefir skilizt, að með reglubundnum rannsóknum mætti áreiðanlega gera ráð fyrir því, að auka mætti allmikið á tölu kunnra, íslenzkra dysjafunda frá víkingaöldinni og fylla enn betur yfirlitið yfir þær dysjaminjar og þær dysjar frá heiðni, sem til eru. Þetta síðast nefnda, um dysjarnar, er ekki hvað minnst áríðandi fyrir fornfræðilegar rannsóknir landsins, þar eð því fer vafalaust f jarri, að í öllum gröfum eða dysjum hafi verið fólgnar fornminjar með hinum framliðnu.
Greftrunarsiðirnir á Íslandi hafa yfirleitt verið óbrotnir, og dysjar, sem hafi verið verulega auðugar að fornminjum, hafa verið fásjeðar í samanburði við það, sem hefir átt sjer stað í Noregi. Sá var siður á íslandi, hinn sami og vestanfjalls í Noregi, að menn voru dysjaðir heima við bæina, innan landamæra ættmenna sinna, en ekki í grafreitum, sameiginlegum fyrir stóran söfnuð.
Að ytra útliti eru dysjarnar frá heiðni ætíð óálitlegar. Grafirnar eru luktar litlum grjóthrúgum og grasþökum, og eru nefndar dysjar á Íslandi, en oft eru slíkar dysjar að eins lágar, steinlagðar hvirfingar, sem eru naumast hærri en svæðið umhverfis; eða grafirnar geta verið blátt áfram grafnar niður í jarðveginn undir flötu yfirborði Sams konar fyrirkomulag með öllum mögulegum tilbreytingum er einnig alþekkt í Noregi, en það, sem er sjerkennilegt fyrir Ísland, er, að þar sjást engin minningarmörk, sem mikið ber á, engir stórir haugar, svo sem vjer getum að líta hvarvetna um land allt í Noregi frá víkingaöldinni, — suma furðulega mikla. Íslendingar hafa í því tilliti verið alveg lausir við allan metnað, og má segja, að hin einfalda, hógværlega gerð á dysjunum sje einkennandi þáttur í þessu nýja þjóðfjelagi þeirra allan fyrsta hlutann af lýðveldistímabilinu.
Jafn tilbreytingarlaus var greftrunin sjálf. Líkin voru ætíð jörðuð óbrennd, svo sem einnig átti sjer stað, með mjög fáum undantekningum, í norrænu víkingabyggðunum á brezku eyjunum. Er hjer þannig enn um verulega frábrugðinn sið að ræða frá því, sem venja var til í Noregi; þar hölluðust menn mjög víða að líkbrennum alla tíð meðan heiðnir jarðarfararsiðir voru yfirleitt hafðir um hönd. Þeir, sem fengizt hafa við rannsóknir í fornfræði Íslands, hafa jafnan bent á þetta, hversu frábrugðnir greftrunarsiðirnir á Íslandi hafa verið, og hafa menn helzt viljað leita ástæðunnar í því, hve erfitt hafi verið að afla brenniviðar á Íslandi. Ekki er sú ályktun alveg sannfærandi. Í þann tíð var trjágróður allmiklu meiri á landinu en á síðustu tímum. Vjer sjáum t. a. m., að rauðablástur var stundaður mjög mikið, en til þeirrar iðju þarf mikinn við. Það er því ekki líklegt, að Íslendingar hafi látið af líkbrennum, vegna þess, að þeir hafi viljað fara sparsamlega með skógarviðinn, hefði þessi siður, að brenna líkin, stuðzt við viðurkennda, siðferðislega kröfu, sem menn væru skyldugir að gegna fyrir hina framliðnu. öllu heldur verður að dæma um greftrunarsiðina á Íslandi með tilliti til þess, hversu til var hagað í þeim efnum í víkingabyggðunum á Skotlandi og Írlandi; þar var greftrun án líkbrennslu svo að kalla undantekningarlaus, svo sem þegar hefir verið tekið fram. Á Íslandi var því fylgt þeim sið í þessu, sem þegar var kominn á fyrir löngu í nýlendunum vestan hafs, og það sennilega helzt fyrir áhrif frá kristninni, og fluttist þaðan með vestrænum landnámsmönnum, svo sem eðlilegt má þykja.
Gröfin sjálf er hin einfaldasta að gerð, hvort heldur hún hefir verið gerð að öllu leyti neðan jarðar eða lukt með dys ofan jarðar, og oft sett umhverfis hana röð af steinum, en ekki haft neitt verulegt grafarhólf. Ekki verður bent á það, að fylgt hafi verið neinni fastri reglu um það, hversu grafir manna skyldu snúa eftir áttum. Líkið er oft þannig í gröfinni, að rjett hefir verið úr því; en þess kvað einnig vera ábyggileg dæmi á Íslandi, að líkin hafi verið jörðuð sitjandi. Skipsgrafir eru undantekningar; þótt þær þekkist.“
Heimild:
-Árbók Hins íslenska fornleifafélags, 46. árg. 1937-1938, bls. 5-6.
Þórkötlusdys.
Bjarnastaðaleðurblakan
Í Náttúrufræðingnum árið 1958 má lesa eftirfarandi eftir Finn Guðmundsson eftir að leðublaka hafði verið fönguð við Bjarnastaði í Selvogi árið áður:
„Laust fyrir kl. 6 síðdegis þriðjudaginn 8. þ. m. (okt. 1957) var Helgi Guðnason, Þorkelsgerði í Selvogi, að hyggja að fé sínu, og lá leið hans þá um túnin hjá Bjarnastöðum, en sá bær er nokkru austar í Selvogi en Þorkelsgerði. Gekk Helgi þá fram á kvikindi eitt allófrýnilegt, sem lá í grasinu fyrir fótum hans. Þar sem Helgi bar ekki kennsl á dýr þetta, hélt hann rakleitt heim að Bjarnastöðum og gerði Sigurlaugi bónda Jónssyni á Bjarnastöðum aðvart um meinvætt þenna. Brá Sigurlaugur skjótt við og hélt á vettvang og tókst honum að handsama dýrið. Varð honum þegar ljóst, að þetta var leðurblaka, og bar hann hana inn í bæ og setti í fötu með heyi og strengdi dúk yfir. Síðdegis næsta dag tilkynnti Sigurlaugur mér símleiðis um fund þenna, og á fimmtudaginn hélt ég suður í Selvog til að sækja dýrið. Það hafði í fyrstu verið blautt og alldasað, en hresstist brátt, og þegar ég kom að Bjarnastöðum síðdegis á fimmtu daginn og fór að athuga dýrið, flaug það upp úr fötunni og flaug stundarkorn fram og aftur um stofuna á Bjarnastöðum, áður en okkur tókst að ná því aftur.
Nánari athugun hefur leitt í ljós, að þetta er amerísk leðurblökutegund. Hið vísindalega heiti hennar er Lasiurus cinereus, en enska (ameríska) heiti hennar er Hoary Bat. Háralitur dýrsins er gulbrúnn, en hárin eru hvít eða hvítgrá í oddinn, og dýrið sýnist því vera hélugrátt. Af þessu er enska nafn tegundarinnar dregið, en hoary þýðir hélugrár eða hæruskotinn. Mætti því kalla tegund þessa hrímblöku á íslenzku. Hrímblakan er fremur stór leðurblökutegund eða á stærð við stærstu leðurblökur Evrópu. Lengd Selvogsblökunnar mældist 13.6 cm (þar af halinn 6.1 cm) og vængjahafið 38.5 cm. Hrímblakan er norræn tegund, sem í Ameríku ei algengust í Kanada og norðurríkjum Bandaríkjanna. Hún er fardýr, sem leitar suður á bóginn á veturna, jafnvel suður til Mexíkó. Þetta er ekki í fyrsta skipti, sem leðurblaka hefur náðst hér á landi. Um miðjan október 1943 var leðurblaka handsömuð á Hvoli í Mýrdal, og önnur náðist við höfnina í Reykjavík í ágúst 1944 (sbr. Náttúrufr., 1943, bls. 153, og 1944, bls. 143). Í bæði skiptin var um amerískar tegundir að ræða, og sú sem náðist í Mýrdalnum var sömu tegundar og Selvogsblakan. Líklegt hefur verið talið, að leðurblökur geti ekki borizt hingað nema með skipum (eða flugvélum?), og leðurblakan, sem náðist við höfnina í Reykjavík, hefur eflaust komið hingað með þeim hætti. Hins vegar er ekki með öllu hægt að fortaka, að jafn stór og flugþolin fardýr og hrímblakan geti hrakizt hingað undan veðrum eins og margir amerískir hrakningsfuglar, sem hér hafa komið fram. Næstu daga áður en Selvogsblakan fannst var veðurfar líka með þeim hætti, að nærri liggur að ætla, að slíkt hafi getað átt sér stað. – Finnur Guðmundsson.“
Heimild:
-Náttúrufræðingurinn, 27. árg. 1957-1958, 3. tbl. bls. 143-144.
Bjarnastaðir í Selvogi.