Tag Archive for: Grindavík

Selur

Ari Gíslason skráði örnefni á Ísólfsskála í Grindavík. Heimildarmaður hans var Guðmundur Guðmundsson, bóndi, Ísólfsskála.

Ísólfsskáli

Ísólfsskáli – uppdráttur ÓSÁ.

Þá skráði Loftur Jónsson örnefni á Ísólfsskála. Framangreind örnefni hafa verið færð inna á meðfylgjandi loftmynd.

Fyrir botni Hraunsvíkur er fjallið Festi. Í áberandi stuðlabergsgangi austarlega í fjallinu eru landamerki Ísólfsskála og Hrauns. Heitir þar Festin. Þaðan eru merkin í móbergsstrýtur og hnúka norðan undir Festi. Þar eru tákn um landamerkin klöppuð á hellu norðan við veginn. Þeir heita Móklettar.

Ísólfsskáli er næst austasta jörð í Grindavíkurhreppi og sú austasta, sem er í byggð 1954. Bærinn stendur niður við sjó, sunnan við allháa hæð, sem heitir Slaga. Bærinn stendur austan við Hraunsvík, niður við sjó framan við Bjalla, hamrahæð suðvestur af Slögu.

Isólfsskáli

Ísólfsskáli – bærinn og útihús.

Verður fyrst byrjað með sjó austast og haldið vestur eftir. Nokkuð fyrir austan bæinn á Ísólfsskála, sem svarar klukkutíma gang, gengur tangi fram í sjóinn. Hann heitir Selatangar. Þar eru merkin móti Krýsuvík í klett, sem heitir Dágon. Áður voru þeir tveir, og deildu menn um, hver væri sá rétti. Nú er annar hruninn og óþekkjanlegur [reyndar eru báðir þeirra horfnir nú]. En þrætueplið var ekki stærra en það, að hvalur gat rétt fest sig þar…

Ísólfsskáli

Ísólfsskáli – örnefni.

Hraun

Ari Gíslason skráði örnefni á Hrauni við Grindavík.

Hraun

Signingasteinn (skírnarsteinn) við Hraun.

Heimildarmenn hans voru Gísli Hafliðason, bóndi, Hrauni og ennfremur um hluta af landinu, Guðmundur Guðmundsson bóndi á Ísólfsskála.
Auk þess skráði Loftur Jónsson örnefni á jörðinni Hrauni. Haun í Grindavík á land að Ísólfsskála og Krýsuvík að austan, Vatnsleysuströnd að norðan og Þórkötlustöðum að vestan. Bærinn stendur við sjó utarlega við Hraunsvík að vestanverðu.
Hér eru einungis sett inn örnefni  með ströndinni m.v. örnefnalýsingarnar, en land Hrauns nær m.a. upp að Núpshlíðarhálsi…

Hraun

Hraun – örnefni.

Hóp

Ari Gíslason skráði örnefni í Hópslandi eftir feðgunum á Hópi í Grindavík.

Grindavík

Neðri-Hópsvarðan.

Hóp í Grindavík er næsta jörð vestan við Þorkötlustaðahverfi. Bærinn stendur niður við sjó, við Hópið, sem hann dregur nafn af. Sagt er, að hann hafi upphaflega verið nefndur Hof, og er hér gömul goðatóft til. Sagt er, að Hofsnafnið finnist og í gömlum heimildum. Ekki hef eg kannað það. Þó hef eg flett upp einum slíkum stað, en þar er bærinn nefndur Hóp. Þjóðvegurinn liggur rétt ofan við túnið. Landið er því sneið af Þorkötlustaðanesinu og svo spildan samhliða landi Þorkötlustaða norður til Skógfells. Mikið af landinu er eldbrunnið, en gróið upp aftur á allstórum svæðum. Lón það, sem bærinn stendur upp frá og dregur nafn af, heitir Hóp. Nú eru þar hafnarmannvirki Grindvíkinga…

Hóp

Hóp – örnefni.

Húsatóptir

Ari Gíslason skráðði upphaflega örnefni Húsatópta í Grindavík samkvæmt upplýsingum Guðsteins Einarssonar hreppstjóra, Grindavík, og sóknarlýsingu frá 1840.

Húsatóftir

Húsatóftir um 1960.

Seinna bar Kristján Eiríksson lýsinguna undir bræður Guðsteins og samdi drög að endurskoðaðri lýsingu. Auk þess gerði hann skrá yfir spurningar, sem enn var ósvarað. Þessar spurningar voru seinna sendar bræðrunum, og vorið 1980 bárust svör við þeim, undirrituð af Einari Kr., Jóni og Þórhalli Einarssonum. Svörin voru að lokum felld inn í lýsingu Kristjáns…

Húsatóftir

Húsatóftir – minjar og örnefni – ÓSÁ.

Staður

Stofn lýsingar um „Örnefni í Staðarlandi“ í Grindavík, sem séra Gísli Brynjólfsson skráði og eru á bls. 25-34 í bók hans: Mannfólk mikilla sæva – Staðhverfingabók. Einnig eru fleiri upplýsingar fengnar úr þeirri bók.

Staður

Staður árið 1925.

Heimildir Gísla hafa verið frásagnir kunnugra manna og örnefnalýsing Staðar eftir Ara Gíslason, þótt ekki geti Gísli þess. Lýsing Ara er geymd á Örnefnastofnun og er einnig höfð hliðsjón af henni við gerð þessarar lýsingar. Heimildarmenn Ara voru: Gamalíel Jónsson, bóndi á Stað (d. 1964), Guðsteinn Einarsson, hreppstjóri í Grindavík og Þorsteinn Bjarnason frá Háholti.

Báðar framangreindar lýsingar voru bornar undir þá Sigurð V. Guðmundsson (S. V. G. ) og Árna Vilmundsson (Á. V. ) á Örnefnastofnun 15. janúar 1977. Þeir gerðu miklar athugasemdir við lýsingarnar og juku við upplýsingum, þótt ekki fjölguðu þeir nöfnum verulega. – Sigurður Víglundur

Stóra-Gerði

Stóra-Gerði í Staðarhverfi.

Guðmundsson er fæddur á Þingeyri við Dýrafjörð 22. júní 1910. Hann kom að Stað sumarið 1914 og ólst þar upp til nítján ára aldurs. Sigurður býr nú í Efstasundi 27, Rvík.

Árni Vilmundsson er fæddur 22. janúar 1914 á Löndum í Staðarhverfi og er þar til tuttugu og fimm ára aldurs. Hann býr nú í Smáratúni 11, Keflavík.

Hér er stuðst við lýsingu Gísla, en aukið inn í hana og leiðrétt samkvæmt frásögn heimildarmanna minna, án þess að þess sé getið sérstaklega. Sums staðar hefur og verið fellt úr frásögn, þar sem vafi þótti leika á sannleiksgildi og nákvæmni.

Staðarhverfi

Staðarbrunnurinn hefur nú verið endurhlaðinn.

Þá ber að geta þess, að stuðzt hefur verið við Jarðabók Árna Magnússonar og Lýsingu Grindavíkursóknar 1840-41 eftir síra Geir Bachmann, en hún er prentuð í Landnámi Ingólfs III. Fyrir framan sjálfa lýsinguna er orðrétt afrit af landamerkjabréfi Staðar frá 1890.

Kristján Eiríksson skráði lýsingu þessa á Örnefnastofnun í janúar 1977.

Athugasemd: Rétt er að geta þess að lokum, að í bókinni „Frá Suðurnesjum“ er grein eftir Guðstein Einarsson, sem heitir „Frá Valahnúk til Seljabótar.“ Ekki hefur verið stuðst við þá grein hér að framan, en í henni er getið um einstaka örnefni, sem ekki kemur fram í þessari lýsingu…

Staðarhverfi

Staðarhverfi – örnefni.

Grindavík

Ari Gíslason skráði örnefni í Járngerðarstaðahverfi í Grindavík. Þar segir m.a.: „Næst utan við Hóp er Járngerðarstaðahverfi. Upplýsingar um örnefni eru frá Þorsteini Bjarnasyni frá Háholti, Ingibjörgu Jónsdóttur kennara, systur hans, Sæmundi Tómassyni frá Járngerðarstöðum, Spítalastíg 3 í Reykjavík, Guðsteini Einarssyni hreppstjóra í Grindavík o.fl.

Grindavík

Járngerðarstaðir fyrrum.

Jörðin nær frá sjó og upp til fjalls eins og önnur býli hér. Stendur bærinn niðri við sjó og eru þar nokkur önnur býli sem hafa sameignlegt land nema túnblettina.

Býlin hafa verið þessi: Járngerðarstaðir voru höfuðbýlið en kotabæir þessir: Vallarhús, Kvíhús, Rafnshús, Akurhús, Gjáhús (Suður-Gjáhús heita nú Vík en Norður-Gjáhús tilheyra Garðhúsum), Krosshús, Garðhús, Völlur (byggður úr Kvíhúsum), Hóll og Langi. Sjóbúðir eru nefndar 1703: Gullekra, Krubba og Litlu-Gjáhús.

Grindavík

Grindavík.

Guðsteinn Einarsson las yfir hluta af handriti Ara Gíslasonar og gerði athugasemdir við það í apríl 1967. Sæmundur Tómasson las það einnig allt yfir og bætti ýmsu við og lagfærði. Auk þess ritaði hann meðfylgjandi viðbætur eftir að gengið hafði verið frá aðalskránni.“…

Járngerðarstaðahverfi

Járngerðarstaðahverfi – örnefni.

Hópsnesviti

Loftur Jónsson skráði örnefni í Þórkötlustaðahverfi í Greindavík 1976 samkv. viðtali við systkinin í Buðlungu, Guðbjörgu Eyjólfsdóttur og Jón Eyjólfsson. Þau eru fædd þar og uppalin. Yfirfarið af Árna Guðmundssyni, Teigi, og Jóni Daníelssyni, Garðbæ.

Loftur JónssonÍ örnefnalýsingunni fyrir Þórkötlustaðahverfi segir m.a.: „Suður úr Reykjanesskaganum gengur allmikið nes. Að vestanverðu við nes þetta er Járngerðarstaðavík en að austan er Hraunsvík. Nes þetta er allt þakið hrauni og sumt bendir til að hraun það sé að minnsta kosti að einhverju leyti runnið eftir landnámsöld (sbr. Árb. Fornlfél. 1903, 47). Að austanverðu heitir nesið Þórkötlustaðanes og er það í landi Þórkötlustaða en að vestan heitir það Hópsnes og er sá hluti í landi Hóps. Í daglegu tali er það eingöngu nefnt Nesið.

Áframhald af landi Þórkötlustaða nær inn á Reykjanesskagann og er fremur mjótt en langt. Mest allt landið er þakið hrauni. Bæirnir standa austast í landareigninni innan við nesið og niður við sjóinn.

Þórkötlustaðahverfi

Frá Þórkötlustaðahverfi.

Örnefni og kennileiti í landi Þórkötlustaða eru sem hér segir: Vestan við vita sem er í nesinu og heitir Hópsviti er vatnsgjá niður við sjávarkampinn. Þar beint niður undan í flæðarmálinu er stór steinn. Hann heitir Markasteinn og skilur hann lönd Þórkötlustaða og Hóps. Í hann eru klöppuð tákn L.M. um landamerki…„.

Meðfylgjandi er loftmynd af örnefnunum.

Þórkötlustaðahverfi

Þórkötlustaðahverfi – örnefni.

Arnarfell

Gengið var að Arnarfellsréttinni, sem er í hvarfi í lægðarrana skammt austan við veginn niður að Selöldu. Hlaðin varða er vestan við réttina. Hún er í línu við vörðu á hæð allnokkru austar og aðra á hæð allnokkru vestar.

Arnarfellsrétt

Arnarfellsrétt.

Þarna gæti hafa verið gömul leið yfir Krýsuvíkurheiðina sunnan Krýsuvíkurbæjanna, framhjá Arnarfellsvatni og með stefnu á Stóru-Eldborg. Ofan við Arnarfellsréttina sést yfir að Krýsuvíkurréttinni sunnan undir Bæjarfelli. Sú fyrrnefnda hefur verið allstór, með mörgum dilkum og almenningi. Réttin er vel hlaðin og hefur staðist tímans tönn, sennilega vegna þess að hún hefur fengið að vera nokkurn veginn í friði fyrir ágangi.

Krýsuvík

Bærinn Arnarfell í Krýsuvík.

Gengið var upp með Vestari-læk, áleiðis að Arnarfelli. Tóft bæjarins sést í gróinni hlíðinni sunnan í fjallinu, innan vörslugarðsins, er umlukti Krýsuvíkurtorfuna. Garðurinn liggur til austurs og vesturs neðan við bæjarstæðið og síðan þvert upp í fjallið austan þess. Þegar komið er inn á túnið vestan við bæjarstæðið má sjá móta fyrir allnokkrum eldri tóftum í hlíðinni. Þarna virðist vera um allnokkurt minjasvæði að ræða, sem fróðlegt væri t.d. að skoða með jarðsjá (viðnámsmælingu).

Arnarfell

Brunnur við Arnarfell.

Sagan segir að Þórir haustmyrkur hafi byggt Selvog og Krýsuvík. Jafnframt að hann hafi búið í Hlíð við Hlíðarvatn. Ekki er þó með öllu útilokað að þarna kunni að leynast bæjarstæði eða tóftir frá löngu fyrrum tíma. Bæjartóft Beinteins undir Arnarfelli, sú “nýjasta” er vel gróin. Beinteinn Stefánsson var hagur maður sem byggði Krýsuvíkurkirkju 1857. Af honum segir og í umfjöllun um viðureign hans og Tanga-Tómasar á Selatöngum. Átökin enduðu með því að Beinteinn þurfti að fara fótgangandi berfættur frá Töngunum og heim að Arnarfelli. Þurfti hann að liggja fyrir næstu daga á eftir.

Arnarfell

Arnarfell – bæjartóftir.

Fimm rými hafa verið í bænum. Burstir virðast hafa verið tvær stærri og tvær minni að framan og baðstofa fyrir innan. Gerði hefur verið bakatil við bæinn. Hola er í jörðinni sunnan undir tóftunum. Ekki er gott að segja til um hvort þar gæti hafa verið brunnur. Stutt er í Vestari-læk frá bænum.
Uppi á vestruöxl Arnerfells eru tvær tóftir, önnur undir klettum. Hún virðist hafa verið sauðakofi með gerði fyrir framan, en ofan við hann er heilleg tóft af útihúsi.
Efst á Arnarfelli er Eiríksvarða, kennd við séra Eirík Magnússon (1638-1716) frá Vogsósum, en fræg er sagan af viðureign hans og Tyrkjanna er komu áleiðis upp að Krýsuvíkurkirkju frá Selöldu á sunnudegi þegar Eiríkur var að messa þar. Eiríkur brá skjótt við og atti þeim saman svo þeir drápu hvorir annan. Eru þeir dysjaðir í Ræningjadys utan í Ræningjahól. Mótar enn fyrir dysinni sunnan við veginn sunnan kirkjunnar. Nýdautt lamb lá skammt vestan við Arnarnesbæinn.

Arnarfell

Arnarfell – tilgáta.

Gengið var yfir að Arnarfellsvatni. Mikið var í vatninu, en það er allstórt og háir bakkar sumstaðar umhverfis það. Gömul gróin gata liggur niður að því að vestanverðu. Skammt sunnar, vestan við vatnið, mótar fyrir tóft ofan við bakkann og jarðlægri hleðlsu. Þegar staðið er sunnanvert við vatnið er auðvelt að hugsa til vermanna á langri göngu, sem margir máttu gera sér það að góðu að tjalda í mýrinni eða við hana á leið sinni til og frá veri þegar ekki var hægt að hýsa fleiri ferðalanga í Krýsuvíkurkotunum. Enn er vel gróið sunnan við vatnið og vel má sjá hversu gróðuþekjan hefur verið þykk áður en hið mikla jarðvegsrof varð.

Trygghólar

Varða á Trygghólum.

Haldið var áleiðis niður heiðina með stefnu á Trygghóla. Um miðja vegu var komið að mannvistarleifum á hól. Mikil jarðvegseyðing er þarna svo erfitt er að álykta hvað þetta getur hafa verið.
Gömul og heilleg varða er á Mið-Trygghól. Gengið var niður með austurenda Selöldu og síðan til vesturs sunnan hennar. Þá var komið að tóftum er taldar eu hafa verið hið gamla Krýsuvíkursel. Tóftin er mjög gróin. Einungis sést móta fyrir einu húsi, en annað virðist vera sunnar og eitthvert mannvirki, jarðlægt, virðist hafa verið á gróinni hæð skammt austar. Á milli þeirra liggur gömul gata niður að tófum bæjarins Eyri, sem er skammt sunnan við selið. Sagan segir að ræningjarnir hafi komið upp svonefndan Ræningjastíg í Heiðnabergi og gengið upp í selið þar sem tvær selmatsstúlkur hafi verið fyrir. Drápu þeir stúlkurnar, en smali, sem sá til þeirra, hljóp allt hvað af tók upp að Krýsuvíkurbænum þar sem fólkið var við fyrrnefnda messu, og sagði frá. Lok sögunnar er rakin hér að framan þegar ræningjarnir mættu galdraprestinum.

Eyri

Eyri – tóftir.

Eyri er nú á gömlum lækjarbakka, allnokkrar tóftir. Vatnið hefur grafið þarna allnokkurn farveg, en er nú horfið með öllu. Þær líkjast 17. og 18. aldar bæ. Líklegt má telja að bærinn hafi byggst upp úr selstöðunni. Sunnan lækjarfarvegarins eru tvær borgir á hólum. Utan í þeirri vestari er löng tóft, lambakró að því er virðist. Austast í henni hefur verið lítið hús. Utan í borginni að sunnanverðu er hlaðinn garður.

Eyri

Eyri og Krýsuvíkursel – uppdráttur ÓSÁ.

Gengið var niður að Heiðnabergi. Sjór var ládauður og lygnt svo fuglinn hafði tyllt sér á steinana undir bjarginu og þingaði. Enn sést móta fyrir efri hluta Ræningjastígsins í bjarginu, en sjórinn hefur brotið niðri hluta hans svo nú er ekki lengur hægt að komast hann ala leið niður undir bjargið.
Annað nýdautt lamb lá ofan við bjargið. Gengið var að Strákum á Selöldu. Hlaðið fjárhús er þar undir reisilegum kletti og eru veggir þess nokkuð heillegir. Undir hið síðasta mun það hafa verið nýtt sem fjárhús frá Krýsuvík. Fígúrunar á móbergshryggnum á vestanverðri Selöldu gefa ímyndunaraflinu byr undir báða vængi, auk þess sem litadýrðin þar í björtu veðri, eins og nú var, er fáu lík.

Krýsuvík

Strákar í Selöldu.

Skoðaðar voru tóftir bæjarins Fitja sunnan og vestast undir Selöldu. Vestan bæjarhúsanna eru tóftir tveggja útihúsa. Garður er aftan við bæinn og túnin hafa verið þarna allnokkur. Vestan við útihúsin rennur Vestari-lækur. Á gömlum farvegi hans er hlaðin gömul brú. Farvegi lækjarins var fylgt frá brúnni til norðurs. Þá sást vel hversu oft hann hefur skipt um stöðu frá einum tíma til annars. Eystri-lækur rennur nú niður svo til miðja Krýsuvíkurheiði og steypist þar fram af bjargbrúninni, en ekki er ólíklegt að hann hafi áður runnið niður gil það er lækurinn við Eyri hefur myndað á löngum tíma. Vestari-lækur er margbreytilegur og mjög litskrúðugur á köflum.

Selalda

Haliðin brú á Vestari-læk við Fitjar.

Þegar gengið var um Selölduveginn var komið að rústum og undirstöðum bragga eða byggingar, sem þar hefur verið á síðustu öld. Fróðlegt væri að fá upplýsingar um hvaða tilgangi hann hefur þjónað á þessu svæði.
Frábært veður – bjart, hlýtt og stillt. Gangan tók 4 klst og 12 mín.
Tækifærið var notað og Arnarfellstóftirnar rissaðar upp.

Arnarfell

Arnarfell – uppdráttur ÓSÁ.

Skálafell

Ábending hafði komið um hleðslu austan við gíginn á Skálafelli úti á Reykjanesi.

Skálafell

Skálafell.

Frá rótum gígsins suðaustan megin eru um 20 m að jarðfalli og hleðslan er austast í því, upp undir brún, fremur vönduð ca 2×2 m, einhvers konar vaktstaður. Önnur grjóthlaðin tótt, hringlaga, ætti að vera austar í hrauninu. Ætlunin er að leita að og skoða þessar minjar.
Gengið var frá borholusvæði, sem slóði liggur að skammt suðaustan við Gunnuhver. Skálafellsgígurinn blasti við í norðvestri. Haldið var upp melana á milli hraunhóla í átt að gígnum. Austan við gíginn sást nefnd hrauntröð. Liggur hún til austurs frá gígnum, áleiðis að miklu misgengi nokkru austar. Fremst er allnokkurt grunnt jarðfall. Austast í því er hleðslan.

Skálafell

Skálafell – byrgi.

Svo virðist sem þetta geti verið skjól refaskyttu. Ef staðið er við skjólið og horft til suðurs má sjá svo til allt ofanvert Krossavíkurbjargið og gróðursvæðið þar. Þegar gengið var þar s.l. vor, frá litla vitanum á Tánni áleiðis að Skálafelli, var komið að a.m.k. þremur merktum grenjum. Líklega tengist skjól þetta grenjavinnslunni.
Gullkollurinn teigði sig upp úr sandinum og reyndi að baða sig í sólskininu.

Gengið var upp á gígbarminn, að Skálabarmshellisopinu. Við opið er skrifað orðið “Örelda”, “Grelda” eða eitthvað álíka, sem upplýsingar vantar enn um. Áletrunin er í steypu, sem mökuð hefur verið á klöppina. Gæti verið frá tímum vitabygginganna á Valahnúkum, á Vatnsfelli (Bæjarfelli) eða á Tánni.

Höyer

Búsetuminjar við Gunnuhver.

Hugað var að hringlaga hleðslunni, sem vera átti austar í hrauninu, en hún bar ekki fyrir augu að þessu sinni. Farið verður aftur um svæðið við hentugleika og þá skoðað svæðið með hrauntröðinni, misgengið og yfir að Háleyjarbungu.
Í bakaleiðinni var litið á tóftir útihúsa, grunn húss og garða við Gunnuhver, þar sem Hoyer hafði bú, stundaði ræktun og gerði m.a. blómapotta úr leir, á fyrri hluta 20. aldar (sjá í annarri FERLIRslýsingu).
Frábært veður – sól og lygna. Gangan tók 34 mín.

Skálafell

Gígur Skálafells – flugmynd.

Selvogsgata

Gengið var frá Bláfjallavegi suður Selvogsgötu áleiðis upp Kerlingarskarð.

Selvogsgata

Kerlingarskarð framundan.

Við götuna, þegar komið er svo til miðja vegu upp í skarðið, eru nokkrir hellar, hér nefndir Hallahellar eftir einum þáttttakenda, sem var hvað áhugasamastur um leitina. Einn þeirra (vinstra megin við götuna) er í sæmilegu jarðfalli og gengið inn í hann til suðurs. Þegar inn er komið liggja rásir bæði til hægri og vinstri. Hægri rásin opnast út en sú vinstri lokast fljótlega. Í loftinu er einstaklega fallegt rósamynstur. Innar eru myndarlegir separ (Spenastofuhellir). Skammt norðar er mjög stórt jarðfall, sem band þarf til að komast niður í. Það hefur ekki verið kannað, svo vitað sé.

Spenastofuhellir

Í Spenastofuhelli.

Rúst af búðum brennisteinsnámumanna er norðan til undir Kerlingarskarði. Efst í skarðinu (vinstra megin) er drykkjarsteinn, sem ferðalangar hafa löngum stólað á að væri vatn í. Svo reyndist vera að þessu sinni. Fokið hafði í skálina og var tækifærið notað og hreinsað upp úr henni. Drykkjarsteinn átti einnig að hafa verið í Grindarskörðum, en hann virðist hafa verið fjarlægður.
Gengið var til vesturs ofan við Bolla, framhjá fallegum hraungígum, inn eftir tiltölulega sléttum helluhraunsdal og áleiðis að Kistufelli. Staðnæmst var við Kistufellsgíginn og litið yfir hann, en gígurinn er einn sá fallegasti og stórbrotnasti hér á landi. Vestan við gíginn eru nokkur stór jarðföll og í þeim hellahvelfingar. Í sumum þeirra er jökull á botninum og í jöklinum pollar eftir vatnsdropa. Þegar droparnir falla í pollanna mynda þeir taktbundna hljómkviðu í geimunum.

Kerlingarskarð

Tóft brennisteinsvinnslumanna undir Kerlingarskarði.

Haldið var undan hlíðum, niður í brennisteinsnámurnar í Brennisteinsfjöllum. Ofan þeirra er tóft af búðum námumanna. Sést vel móta fyrir henni. Neðar er námusvæðið. Þar má sjá hvar brennisteinninn var tekinn úr kjarnaholum, en gjall og grjót forfært og sturtað í hauga. Sjá má móta fyrir götum við haugana, sem og nokkrum múrsteinum frá námuvinnslunni. Undir bakka er hægt að sjá einn ofninn, ef vel er að gáð.
Gengið var niður með suðurenda Draugahlíða. Þar fyrir ofan er gígur, sem mikið úfið hraun hefur runnið úr áleiðis niður í Stakkavík.

Selvogsgata

Selvogsgata ofan Bolla og Kóngsfells.

Selvogsgatan var gengin upp að Kóngsfelli, en frá því má sjá a.m.k. tvö önnur fell með sama nafni, þ.e. Stóra-Kóngsfell austar (Kóngsfell) og Litla-Kóngsfell sunnar. Stóra-Kóngsfell er á mörkum þriggja sýslna og er sagt að þar í skjóli gígsins hafi fjárkóngar hist fyrrum og ráðið ráðum sínum.

Stóribolli

Stóribolli – gígurinn.

Til baka var gengið austur og norður með Mið-Bolla og fyrir Stóra-Bolla og niður Grindarskörðin. Á sumum kortum er gamla gatan sýnd liggja milli Bollanna. Mið-Bolli er með fallegustu eldgígum á landinu. Reyndar er allt Brennisteinsfjallasvæðið mikið ævintýraland fyrir áhugafólk um útivist, jarðfræði og stórbrotið ósnert umhverfi. Varða er efst á hálsinum og síðan nokkrar á stangli á leið niður mosahlíðina. Þegar niður er komið má sjá vörðubrot og gömlu götuna markaða á kafla áleiðis að Selvogsgötunni þar sem hún liggur yfir Bláfjallaveginn og áfram áleiðis niður í Mygludali.
Veður var frábært. Gangan tók 5 klst og 2 mín.

Námuhvammur

Tóftin í Námuhvammi oafn við brennisteinsnámurnar.