Tag Archive for: Grindavík

Eldvörp

Gengið var um Sundvörðuhraun, svonefnd „Tyrkjabyrgi“ og skútar sem eignaðir hafa verið útilegumönnum og m.a. „brauðofninn“ skoðaður, auk þess sem ætlunin var að gaumgæfa svæðið betur m.t.t. mögulegra minja eða ummerkja eftir veru fólks á svæðinu fyrrum.

Eldvörp

Mannvistarleifar í skúta í Eldvörpum.

Við leit í nágrenni „útilegumannahellis“, sem FERLIR fann fyrir ári, kom í ljós einn merkilegur fornleifafundurinn á Reykjanesskaganum; tvo heilleg hlaðin hús. Þá fannst hlaðið byrgi. Út frá því var hlaðinn garður. Allt var þetta þakið mosa og því erfitt að koma auga á það. Líklegt má telja að enn eigi eftir að finnast fornar minjar í hraununum ofan við Grindavík.
Haldið var stað frá borholinu í Eldvörpum. Þegar leggja átti í Brauðstíginn austan borholusvæðisins kom í ljós hlaðið lítið byrgi. Þakið hafði fallið niður. Út frá því var hlaðinn lágur garður. Hér gæti verið um leiðigarð fyrir tófu að ræða út frá bergvegg því þarna var lengi vel auðunnið greni. Byrið gæti því hafa verið skjól fyrir refaskyttu.

Eldvörp

Óraskað byrgi í Eldvörpum.

Þá var komið niður í „Tyrkjabyrgin svonefndu undir hraunbrún og inni í einum krika Sundvörðuhrauns. Í krikanum og upp á hraunöxlinni að sunnanverðu eru um tugur hlaðinna byrgja. Þau fundust fyrir tilviljun veturinn 1872 og elstu lýsingu á þeim er að finna í Ferðabók Þorvaldar Thoroddsen en hann skoðaði þær árið 1883. Gerður var uppdráttur af svæðinu.
Sumir segja að byrgi þessi hafi verið aðsetur útilegumanna, en aðrir segja að í þeim hafi fólk dulist um sinn eftir að Tyrkirnir komu til Grindavíkur 1627. Byrgin eru fremur lítil, aflöng og þröng. Eitt kringlótt byrgi er uppi á hraunbrúninni og önnur þar hjá. Ummerki eru eftir mannvistir í skútum talsvert vestar í Eldvörpum. Hlaðin refagildra er framan við syðstu byrgin.
Ef einhver eða einhverjir hafa viljað dyljast þarna um sinn væri það tiltölulega auðvelt. Fyrir ókunnuga er mjög erfitt að finna staðinn, auk þess sem hann fellur vel inn í landslagið. Þótt mosinn hafi sest á byrgin og hraunið í kring er líklegt að þau hafi engu að síður fallið vel inn í landslagsmyndina þá og þegar þau voru gerð.

Eldvörp

Byrgi í Eldvörpum.

Eftir að hafa skoðað mörg byrgi á nokkrum stöðum á Reykjanesskaganum, s.s. ofan við Húsatóttir, í Strýthólahrauni, í Slokahrauni, austan við Ísólfsskála, á Selatöngum, við Herdísarvík og við gömlu Hafnabæina er að sjá sem margt sé líkt með þeim. Svipað lag er á þessum byrgjum og t.d. í Slokahrauni og við Herdísarvík. Því er ekki útilokað að byrgin undir Sundvörðuhrauni hafi um tíma verið ætlað eða þjónað þeim tilgangi að varsla þurrkaðan fisk eða annan varning frá hreppsstjórasetrinu Húsatóttum. Eitt helsta verkefni hreppsstjórans var fátækrahjálp og samtrygging ef eitthvað bar út af. Þarna gæti því hafa verið forðabúr hreppsins. Refagildran við byrgin, sem að öllum líkindum er jafngömul þeim, segir þó sína sögu. Ekki er víst að byrgin hafi verið mikið notuð. Líklega hefur staðsetningin þótt óhentug.

Eldvörp

Garður í Eldvörpum.

Byrgin í Sundvörðuhrauni fengu enn nýjan merkingamöguleika síðar í ferðinni. Ekki er ástæða er til að draga úr tilgátum manna um aðra notkun og tilgang, sbr. framangreint, enda má telja líklegt að fólk hafi dvalið, eða hafi ætlað að dvelja þarna í skjóli hraunsins, ekki síst í ljósi þess að mannvistarleifar hafa fundist þar á öðrum stöðum í nágrenninu.
Þá var haldið suðaustur eftir Brauðstígnum og honum fylgt að girðingu. Gengið var til suðurs með girðingunni, en með henni liggur slóði. Syðst við girðingarhornið var vent til austurs, inn í hrauni. Á loftmynd, sem skoðuð hafði verið, sást þar gróin lægð inni í hrauninu. Grunur var um að þar væri komið svonefnt Sauðabæli, sem getið er um á sumum kortum og í örnefnaskrá. Svæðið er algerlega utan gönguleiða og sennilega hafa fáir komið þarna inn í úfið og ógreiðfært hraunið í fjölda ára. Um er þó að ræða fallegt og aðgengilegt svæði. Í því er skjól fyrir öllum áttum. Stígur liggur upp í krikann og er hlaðið fyrir haft þar sem það er þrengst neðarlega í honum. Bendir það til þess að svæðið hafi einhvern tímann verið notað til einhvers og að öllum líkindum hefur það verið meira grasi gróið fyrrum, en nú er mosinn óðum að taka yfirhöndina. Að öllum líkindum er þarna um svonefndan Miðkrókakrika að ræða. Sauðbælin bíða því opinberunar.

Eldvörp

Gengið um Eldvörp.

Gengið var áfram til vesturs upp úfið og mosavaxið hraunið. Mosinn var frosinn svo ganngan var tiltölulega létt. Sunnan hraunrandarinnar liggur Prestastígurinn, gömlu þjóðleið milli Grindavíkur og Hafna. Á henni er m.a. gengið yfir fallega brúaða Hrafnagjá og eftir vel varðaðri götunni. Í úfnu hrauninu sást af og til móta fyrir stíg, sem einhvern tímann hefur verið farin.
Þegar komið var upp í Eldvarpagígaröðina var stefnan tekin til norðurs með henni vestanverðri uns komið var á svæðið þar sem hinn svonefndi „útilegumannahellir“ fannst fyrir ári.
Jarðlægur einir teygði úr sér í brekku. Nóg er af honum í Eldvörpum. Einnig tófugras í hraunæðum og jarðföllum. Klepragíganir mynda svo til beina röð gíga og eru þeir hverjir öðrum stórbrotnari og fegurri. Þegar stigið er niður í hraunið undir gígunum brotnar það undan fótum, sem sýnir hversu lítið hefur verið farið um svæðið. Að mörgu leyti er það bæði ósnortið og óskoðað. Fallegar hraunæðar eru þarna víða sem og djúp jarðföll.
Í efri rás hellisins er steinum raðað skipulega eins og þar hafi verið mynduð tvö fleti. Sjálf rásin var mjög aðgengileg og náði upp hraunið um 15 metra. Hliðarrás er í henni, en hún var ekki skoðuð. Falleg rás. Niðri var góð hraunbóla og inni í henni mun meiri hleðslur. Hlaðið hafði verið fyrir op og framan við það var skeifulaga hleðsla. Bólan var um 6 metrar þannig að þessi rás er yfir 20 metrar. Fulltrúi hellamanna skreið yfir fyrirhleðsluna. Þar er löng rás. Bein eru í rásinni. Eftir u.þ.b. 30 metra skiptist hún í tvennt og liggja báðir angar niður á við. Samtals er sá hluti rásarinnar, sem kannaður hefur verið, um 50 metrar. Endarnir eru enn ókannaðir.

Eldvörp

Við byrgin í Sundvörðuhrauni.

Rætt var um að eflaust mætti finna fleiri mannvistarleifar á þessu svæði ef vel væri að gáð og hugsanlega komast að því til hvers og hvenær staðirnir voru notaðir. Ferðamálafulltrúi Grindavíkur, sem var með í ferð, glöggskyggn, stóð um stund og horfði yfir svæðið, leit upp og síðan niður. Þá gerðist það. Svo til undir fótum hans voru tvö heilleg hlaðin byrgi (hús) lík þeim sem eru í Sundvörðuhrauni. Þessi byrgi eru hins vegar alveg heil, mosavaxin að utan, og þunnar hraunhellur, sem notaðar hafa verið í þak, lágu á gólfi þeirra. Engin ummerki voru eftir mannaferðir í nágrenninu. Þarna gerðist það, sem gerist svo oft í FERLIRsferðum; tilgangi ferðarinnar var náð. Enn ein skrautfjöðurin í hatt Grindvíkinga og enn einn útivistarskoðunarmöguleikinn á Reykjanesskaganum hafa litið dagsins ljós. En fundurinn gefur einnig tilefni til íhugunar. Víðar kunna slíkar minjar að leynast og því þarf að fara varlega um svæðið með stórvirkar vinnuvélar.
Þegar Sundvörðuhraunsbyrgin uppgötvuðust árið 1872 þótti það merkilegt. Þessi fundur er litlu minna merkilegur, nú 134 árum síðar. Eftirleiðis verða þessi byrgi nefnd Eldvarpabyrgin. Yngsta Eldvarpahraunið í sunnanverðum Eldvörpum er frá því á 13. öld og er þetta að öllum líkindum í því. Um tilurð byrgjanna hafa „sérfræðingar“ etið hver upp eftir öðrum, en í þeim efnum er ekki allt sem sýnist.

Loks var haldið yfir að “útilegumannahelli” vestan við borholuna í Eldvörpum. Hann er örstutt frá borholunni í hrauninu. Þegar Hitaveita Suðurnesja lét bora eftir gufu þarna sumarið 1982 brotnaði hraunið undan jarðýtu sem vann við frágang í kringum holuna. Í ljós kom hellir með geinilegum mannvistarleifum, beinum og hleðslum. Ekki er vitað hver eða hverjir höfðust þarna við. Hellirinn er alllangur eða 25-30 m en hvergi hærri en 1,5 m og víðast hvar mun lægri eða 40-50 sentímetrar. Til eru gamlar sagnir af Staðhverfingum er nýttu Eldvörpin til brauðgerðar. Bæði er að þarna hefur verið miklu mun meiri hiti fyrrum auk þess sem stígurinn í gegnum hraunið að þessum hluta Eldvarpa heitir Brauðstígur. Ummerki inni í hellinum benda og til brauðgerðar.
Loftlínumöstur Hitaveitu Suðurnesja rýrðu mjög annars hið stórbrotna útsýni frá Eldvörpunum til vesturs og norðurs.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín.

Í Tyrkjabyrjunum

Áð við Tyrkjabyrgin.

Gunnuhver

Þegar afspurnir voru hafðar af miklum og skyndilegum breytingum á hverasvæðinu á Reykjanesi þótti FERLIR ástæða til að fara á vettvang og skoða málið nánar.
Hverasvæðið við GunnuhverNýr hver, stór og mikill, ca. 8×8, spúandi drullu upp í ca. 4m hæð, er kominn upp skammt austan við gamla Gunnuhver. Leirsletturnar ganga einnig öðru hvoru hærra í loft upp og nokkuð út frá hvernum.
Trúlega er Gunna gamla ekki dauð eftir allt saman. Nýir hverir hafa myndast á veginum og er hann nú lokaður þess vegna. Hveragufur sjást upp hálfar hlíðar Skálafells. Spurningar, sem eftir standa, eru a.m.k. tvær; er þetta eitthvað óvenjulegt m.v. forsögu svæðisins og ef svo er, hvaða fyrirboða er hér um að ræða? Og hvaða prestur er nú á takteinum, sambærilegur við séra Eirík sem réð við málið fyrrum?
Hér er um að ræða hverasvæði skammt austan Reykjanessvita. Malarvegur að því frá vitaveginum og áfram upp á þjóðveginn til Grindavíkur. Af mörgum hverum á svæðinu hefur einn verið áberandi stærstur. Sá nefnist Gunna eða Gunnuhver og er í kísilhóli sunnarlega á svæðinu. Þjóðsaga er um nafn hversins: Guðrún hét grimm fordæða sem gekk aftur og „lék menn grátt, reið húsum og fældi fénað“. Þar kom að leitað var til kunnáttusams prests til að koma draugnum fyrir. Hann fékk draugnum bandhnykil og lét hann halda í endann á bandinu. Þegar hnykillinn rann neyddist draugsi til að elta því hann gat ekki sleppt. Hnykillinn rann í hverinn og draugurinn Gunna á eftir.

Hverasvæðið við Gunnuhver

Síðan hefur ekki orðið vart við Gunnu. Þjóðsagan segir að presturinn hafi verið fyrrnefndur sr. Eiríkur Magnússon í Vogsósum (1638-1716), uppnefndur Vogsósagráni og sagður fjölkunnugur.
Í Þjóðsögum Jóns Árnasonar er sagan svona: „Fyrrum bjó maður einn á Kirkjubóli á Suðurnesjum, er Vilhjálmur hét. Á dögum hans skyldi hafa verið þar í koti hjá kona sú er Guðrún hét og var Önundardóttir. Hún átti að gjalda Vilhjálmi skuld að Kirkjubóli, en hafði það ekki, er gjalda skyldi. Er þá sagt, að Vilhjálmur hafi tekið pottinn hennar í skuldina.
Litlu síðar kom Gunna heim að Kirkjubóli og bað um að drekka. Fólk sá, að henni var brugðið, og var henni fært helgað messuvín. Hún spyr, hvern þremilinn hún eigi að gjöra við þetta. Dembdi hún því niður, en greip vatnsfötu og slokaði svo mikið, að fólk undraðist stórum. Gekk hún síðan heim. Maður sá, er hjá henni var, hafði róið þennan dag.
En er hann kom heim, var Gunna dauð í bæli sínu. Var Hverasvæðiðþá smíðað utan um hana og líkið fært til Útskálakirkju. En er þeir, sem báru líkið, komu miðja leið, þótti þeim kistan furðulétt. Þó var ekki athugað um það meira.
En þegar verið var að taka gröfina, er sagt, að Gunna hafi sést á milli þangkastanna á Útskálum og sagt: „Ekki þarf djúpt að grafa, ekki á lengi að liggja.“
Eftir þetta lagðist sá orðrómur á, að mjög reimt væri á Skaganum.
Nokkru síðar var Vilhjálmur við samkvæmi á Útskálum. Var hann þar fram eftir kvöldinu og vildi þá heim. En þar eð þessi orðrómur lá á, var honum boðin fylgd. En hann var hugmaður og þá kenndur nokkuð og þá því ekki fylgdina, en kom ekki heim um kvöldið. Daginn eftir fannst hann í Hrossalág, illa útleikinn.

Nýir hverir

Var hann fluttur í bænahús á Kirkjubóli og fengnir tveir menn til að vaka yfir honum. Nær miðri nóttu komu þeir inn og fengust ekki til að fara út aftur. Aðra nótt voru aðrir tveir fengnir. Þeir vöktu að vísu þá nótt út, en fengust ekki til þess lengur. Var þá fenginn til þess presturinn frá Útskálum, og hafi hann sagt það þá örðugustu nótt, sem hann hefði lifað. Síðan var líkið Vilhjálms jarðað, og bar þá ekki á neinu.
En reimleikinn ágerðist eftir það, og sáu allir Gunnu bersýnilega. Reið hún húsum og fældi fénað. Síðan voru fengnir tveir menn hinir ötulustu og sendir til síra Eiríks í Vogsósum og hann beðinn hjálpar. Hann tók þeim stutt og veitti afsvör, unz þeir fengu honum átta potta kút af brennivíni, er þeir höfðu með sér. Hýrnaði hann þá í svari og fékk þeim síðan hnýti og seðil með tveimur hnútum og bað fá Gunnu. Þeir gerðu sem fyrir þá var lagt, og tók Gunna við og leysti af hnútana og leit á.
Er sagt, að henni hafi orðið þetta að orði: „Á andskotanum átti ég von, en ekki á Vogsósakarlinum. En ekki tjáir við að standa.“
Hafi hún látið hnýtið renna fyrir, en elt það, þar til hún kom að hver, sem er á Reykjanesi. Hafi hún hlaupið þar sífellt í kring, uns hnýtið var endað, og þá stungist ofan í hverinn, og heitir þar síðan Gunnuhver.“
Gunnuhver hefur legið í dvala um nokkurt skeið. Hverasvæðið skoðaðHverasvæðið sjálft er þó um einn ferkílómetri að flatarmáli og nær aðeins yfir hluta af háhitasvæðinu. Á hverasvæðinu eru margir leir- og gufuhverir og gufu leggur um allt svæðið. Fallegar útfellingar eftir brennistein er að finna á svæðinu og er litadýrð svæðisins mikil. Hverasvæðið sjálft er síbreytilegt og leirhverir og gufuhverir koma og fara. Vitað er að svæðið allt var mun virkara einungis fyrir áratug síðan. Þar, skammt uppi í hlíðum Skálafells, fæddist m.a. Litli Geysir (eða 1918) skömmu eftir aldamótin 1900 og lifði þar um tíma – en dó síðan. Á unglingsárum sínum gaus hann allt að 20 metra háum vatnsstrókum með ennþá hærri gufutaumum.
Tóftir við Gunnuhver eru eftir búsetu Høyers og veru hans á Reykjanesi. Høyer var danskur garðyrkjumaður. Fæddur var hann einhvers staðar í hinum fyrrum rússnesku Eystrasalts-héruðum Prússlands, og sá þess stað í óvenjulegri málakunnáttu. Hann fluttist til Íslands á 3. áratugnum og kom sér upp garðyrkjubýli í Hveradölum við hverina þar hjá sem nú er Skíðaskálinn. Kona hans var lettnesk. Þau fengu ekki frið í Hveradölum og fluttu sig þá Leirhverút á Reykjanes.
Þar komu þau sér fyrir á spildu úr landi Staðar, reistu hús og dvöldu með litlum syni sínum 3 eða 4 síðustu árin fyrir stríð, en hurfu þá til Kaupmannahafnar. Nýbýli þeirra hét Hveravellir. Grunnur íbúðarhússins sést enn sunnan í Kísilhólnum, rétt við veginn út að vita. (Kísilhóll er hóllinn suðvestan við Gunnuhver). Vegna volgrar jarðarinnar þurfti ekki aðra hitun.
Reglulega hefur gosið á Stampasprungureinunum, sem þarna eru, síðast á 18. öld. Það gos náði þó ekki landi. Væntanlega er hér ekki um fyrirboða goss að ræða, heldur breytinga á undirliggjandi þrýstingi við tilkomu nýrrar Reykjanesvirkjunnar. Hitauppstreymið færist til þegar aðstæður breytast – eða er breytt. Þekkt náttúrulegt fyrirbæri þessa varð t.a.m. eftir jarðskjálfana árið 2000. Þá lækkaði vatnsyfirborð Kleifarvatns með þeim afleiðingum að hverir í Hverahlíð kólnuðu, en aðrir næst lækkandi vatnsyfirborðinu komu í ljós. Nú, með hækkandi vatnsyfirborði, hefur þetta breyst á nýjan leik. Í rauninni þarf ekki meira til.
Hver við KleifarvatnÁ síðasta ári (2007) úthlutaði Ferðamálastofa FSS og Grindavíkurbæ eina milljón króna til að laga aðgengi að Gunnuhver. Miðað við undanfarin hverahlaup á svæðinu er ólíklegt að varanleg mannvirki er aukið geta aðgengi og öryggi ferðamanna á svæðinu verði að veruleika á næstu árum, að minnsta kosti.

Sjá meira um breytingarnar á Gunnuhver á mbl.is daginn eftir, eða þann 3. mars 2008.

Heimildir m.a.:
-Hjónin að Sólbergi í Vogum.
-Jón Árnason I 563.

Gunnuhver

Gunnuhver.

Grindavík

Jökull Jakobsson gengur með Einari Kr. Einarssyni um Staðarhverfi í Grindavík. Annar þáttur. Frá 21.janúar 1973:

Stadur 202„Og við höldum áfram spölkorn í vestur og erum nú komin heim á stórbýli. Hér er heldur lífvænlegra því hér eru gardínur fyrir gluggum og  málning á húsum. Fyrir framan húsið er kirkjugarður, sennilega kirkjugarður Grindvíkinga, grænn og grösugur með trékrossum og legsteinum og kirkjuport í miðjum garði. Hér er sérstaklega falleg fjallasýn til austurs. Fjöllin fyrir ofan og austan Grindavík blasir við og Grindavík sjálf. Þetta mun vera hinn forni kirkjustaður þótt kirkjan sé horfin.“

Grindavík

Grindavík – Staður 1927.

„Já, við erum staddir á Stað. Og ef það er rétt að Staður hafi einhvern tímann verið í miðri sveit hlýtur það að vera langt síðan. Nú er Staður í enda sveitarinnar. Hvergi sjást hér fyrir vestan neinar minjar um neina byggð. Hér hafa margir klerkar setið og brauðið gott. Jörðin er stór, beitarlandið mikið og rekasælt með afbrigðum því Staður á reka og jörð allt vestur að Reykjanesvita, að Valahnúk.
Þjóðkunnastur presta á Stað er áreiðanlega séra Oddur V. Gíslason. Hann var hér fyrir aldarmótin prestur í nokkur ár. Eins og allir vita lét hann slysavarnarmál til sín taka. Hann bar fyrir brjósti löngun til þess að verða að gangi við sjávarsíðuna. Hann horfði upp á sjóslys og horfði upp á þau og hann lá ekki á liði sínu til að þeim gæti fækkað. Sérstaklega lagði hann áherslu á bárufleyginn. Þetta tæki þrautreyndi Oddur hér í Grindavík. Eitt man ég eitt fyrir víst á tíma árabátanna hér í Grindavík þá fóru þeir ekki á sjóinn á vertíðinni án þess að hafa með sér í það minnsta lýsi á brúsa þeir sem ekki höfðu með sér bárufleyginn. Það var sannarlega ekki óalgengt þegar þeir komu að hálfófærum sundunum þá helltu þeir lýsi í sjóinn svo þeir gátu bjargað sér til lands á næsta lagi.

Oddur. Gíslason

Séra Oddur V. Gíslason.

Séra Oddur vildi láta stofna Bjargráðanefndir í hverri sýslu, en draumur hans rættist ekki. Árið 1894 var hann orðinn þreyttur maður og afréð að flytja búferlum frá Íslandi. Ómegðin og fátæktin var orðin mikil. Séra Oddur fluttirst til Kanada og varð prestur í Nýja-Íslandi. Þar tók hann fyrir að læra læknisfræði og lauk prófi í þeirri grein. Oddur er frægur fyrir sitt brúðarrán. Hann vildi kenna Íslendingum að nýta lifrina. Einhvern tímann stunadi hann lifrabræðslu í Höfnum. Þá var þar Vilhjálmur Hákonarsona, stórbóndi. Hann átti tvær dætur, Þær hétu Steinunn og Anna. Heimasæturnar í Kirkjuvogi þóttu glæsilegur kvenkostur. Oddur og Anna féllu hugi saman. Það kom að því að Oddur fór á fund Vilhjálms, en fékk ekki Önnu. Oddi þótti á þeim árum gott að dreypa á víni og var ekki vænlegur kostur. Oddur sætti sig ekki við þetta, en hrökklaðist frá Höfnum og eitt er víst að hann var kominn til Reykjavíkur. Svo var það að hann tekur sig upp frá Reykjavík og fer gangandi til Njarðvíkur. Þá var ekki vegur. Menn urðu að fara gangandi þar sem þeir fóru. Þar átti hann góðan vin, Björn í Þórukoti. Hann fann hann að máli og sagði honum hvernig meyjarmálin stóðu og bað hann hjálpar. Björn var til í það og lánaði Oddi hesta og fylgdarmenn. Oddur hafði áður með brögðum komið bréfi til heimasætunnar að hún skyldi búast við honum þetta kvöld eða þessa nótt að hún skyldi koma með honum til Reykjavíkur. Hún mætti um nóttina með föggur sína í poka og tilbúin til reisunnar. Hún steig á bak og þau riðu mikinn til Njarðvíkur og komu þangað með morgninum. Þá hafði Björn í Þórukoti tilbúinn sexæring og hann skyldi flytja þau til Reykjavíkur.

Grindavík

Grindavík – minnismerki; Oddur V. Gíslason.

Morguninn eftir sendi Vilhjálmur menn á eftir Önnu en þegar þeir komu til Njarðvíkur var Oddur og Anna að stíga um borð í bátinn. Þegar þeir komu niður í fjöru hafði Oddur ýtt frá og bað menn í landi að skila góðri kveðju til Vilhjálms. Þau komust heim til Reykjavíkur og skömmu síðar voru þau gefin saman í hjónaband og er ekki getið um annað en Vilhjálmur hafi síðar orðið ánægður með tengdasoninn.

Síðar varð séra Oddur prestur hér í Grindavík. Hann var víst nokkuð ölkær á tímabili. Sögur fóru af því. T.d. segir frá því að séra Oddur átti að jarða húsfreyju í Þórkötlustaðahverfi. Á leiðinni frá Stað mætti hann Lárusi Pálssyni hómapata sem þá átti heima á Ströndinni. Þeir voru góðir kunningjar. Þeir hittust einhvers staðar fyrir ofan Hóp. Tóku þeir tal saman og annar hvor átti ýmislegt í hnakktöskunni auk hempunnar og lyfjanna. Nema þeir urðu mjög góðglaðir. Þegar þeir stigu á bak aftur vildi svo til að þeir fóru á bak hvors annars hesti.
Þó segir sagan að annar hesturinn hafi verið grá en hinn brúnn. Þegar Presturinn kom austur í Þórkötlustaðahverfi brá honum við því þar var lyfjaskrína læknisins. Húskveðjan var því í heldur styttra lagi, en svo var kistan borin alla leið út að Stað, tveggja til þriggja stunda leið, og mun presturinn víst hafa jafnað sig á þeim tíma.

Staður

Staður í Staðarhverfi 1960.

Eitt sinn kom vinnumaður heim með miklu írafári og sagði frá því að koníakstunna hefði rekið hér út á Mölinni. Það lyftist strax brúnin á presti. Tveir vinnumenn voru sendir til að sækja tunnuna. Það leið á daginn og þeir komu ekki aftur. Þá sendi prestur aðra tvo og þriðja vinnumann sinn og einn ábúandann úr Gerðinu, Þorgeir Björnsson, og þeir skyldu nú leita að mönnunum og tunnunni. Þegar þeir komu í túnfótinn, þar var hlið, og þar fundu þeir annan vinnumanninn þar sem hann lá þversum yfir hliðsgrindina og hinn fundu þeir liggjandi við tunnuna. Tunnan var flutt heim og drukkið var talsvert í Staðarhverfinu næstu daga.
Þess er sjaldnar getið að Oddur var síðar bindindismaður og þá alveg sérstaklega ákveðinn og passaði það vel, enda hefði hann ekki gert það sem hann gerði vel.
Þegar Oddur fór utan urðu a.m.k. tvö börn hans hérna áfram. Annað þeirra var Steinunn, kona Ólafs ketilssonar á Kalmanstjörn en þeirra sonur er Oddur Ólafsson sem öðrum fremur gerði Reykjalund að því sem hann er í dag.

Staðarhverfi

Staðarhverfi.

Eftir Odd var séra Kristján Eldjárn prestur á Stað. Sonur hans var Þórarinn á Tjörn í Svarfaðadal, faðir forsetans sem nú er, Kristjáns Eldjárns. Næstur held ég að séra Gunnar Brynjólfsson verði prestur á Stað, á eftir honum Brynjólfur Magnússon og síðan Jón Árni Sigurðsson sá sem situr hér sóknarprestur í dag, að vísu ekki lengur á Stað því prestbústaður hefur verið byggður í Járngerðarstaðahverfinu.
Sóknarkirkjan var aftur á móti flutt frá Stað 1909 eða ’10 og austur í Járngerðarstaðahverfi. Hún var alveg á byggðarenda hér úti á Stað, og þótt hér áður fyrri hafi e.t.v. ekki þótt langt frá Hrauni og út á Stað vegna áhuga að sækja kirkju, en fólk fór að finna fyrir því upp úr 1930 að leiðin var löng í kirkjuna, alla leið út að Stað.
Annars hafði séra Þórarinn Böðvarson byggt kirkju um miðja 19. öldina og var það fyrsta timburkirjan sem byggð hafði verið í Grindavík. Þangað til hafði verið torfkirkja í Grindavík. Í dag er nú aðeins klukknaport hér í kirkjugarðinum af byggingum, annað ekki.“
„Dýralífið virðist hér mjög fjölskrúðugt, krían flýgur hjá með síli í nefni og úti á víkinni var hvalur að velta sér. Eitthvað er hér fleira um tóftir og húsarústir hér við Stað. Hér úti á tanganum sést í grónar tóftir.“

Grindavík

Grindavíkurkirkja.

„Já, það er hérna töluvert um rústir í túnfætinu. Og ef við bregðum okkur niður á tangann þá var þar býli fram allt til líkast til 1918. Fyrir og fram yfir aldarmótin bjuggu hér þrjú systkin. Ein systirin hét Sigríður og Vernharður og Þorgeir bræður hennar. Ekkert þeirra giftist. Það var óvenjulegt með þeirra systkin að Sigríður réði öllu með fjármálin. Þorgeir þótti duglegur að bera. Hann hvíldi sig v´st oftast þannig að hann beygði sig alveg í rétt horn. Versta baggan sem hann taldi sig hafa borið var kommóða frá Stað og austur í Járngerðarstaðahverfið. Heimasætan var að yfirgefa sitt foreldraheimili og kommóðan var full af glertaui. Það þótti ekki ataka því að tæma kistuna því Þorgeir átti að bera. Annar maður var fenginn Þorgeiri til fylgdar sem átti að skipta við hann að bera. Sá tók kistuna fyrr á bak sér og komst 200-300 metra metra austur fyrir Staðarhúsið. Þar lagði hann kommóðuna frá sér, fór heim og sagðist ekki snerta á þessu meira. Þórgeir tók þá kistuna á bak sér og bara hana út í Járngerðarstaðahverfi.
Þorgeir var umtalaður maður að honum þótti gott í staupinu og var það eina gleði mannsins.

Skúta

Skúta.

Sárgrætilegasta stund lífs Þorgeirs var sú að eitt sinn strandaði frönsk fiskiskúta á Tóftardal. Hún var vel útbúin af koníak og aðrar víntegundir. Karlarnir sem björguðu skútunni fengu víst vel í staupinu, þeir höfðu borið heim vínið í sjóbróknum sínum og sjóhöttunum. Þorgeir, sem aldrei hafði orðið misdægurt, lá veikur þessa daga.
Það var líkast til 1918 að Sigríður var dáin og þeir bræður voru komnir af fótum fram. Þá gerðust þeir próventumenn ekkju Ólafs bróður þeirra sem bjó hér í Móakoti, en Ólöf og Ólafur í Móakoti voru foreldrar Guðmundar R úr Grindavíkinni sem margir kannast við. Þegar hún Sigríður var dáin skyldu gömlu mennirnir fara til þeirra, skila þeim efnum sínum, þ.e. reitunum, því heimilið var vel efnað. Það var selt að dánarbúið hafi verið selt á 60 þús. krónur og það voru miklir peningar í þá daga.

Staðarhverfi

Staðarhverfi – loftmynd 1954.

Þessum peningum skiluðu svo gömlu mennirnir til ekkju bróður síns í Móakoti og áttu að verða próventumenn hjá henni en um þær mundir fluttist hún með sonum sínum til Reykjavíkur. Þeir fóru nú ekki með henni þangað, Vernharður dó skömmu síðar hér heima, en þá skyldi Þorgeir að fara til hennar til Reykjavíkur, en kom gangandi til baka á öðrum eða þriðja degi og hafði á orði að á því í hundsrassi vildi hann ekki vera því þar gæti maður ekki einu sinni pissað úti.
Hérna í túnfætinum var Kvíadalur, ég man líka eftir byggð þar. Eyjólfur og Vilborg bjuggu þar. Eyjólfur þessi var Oddsson. Faðir hans var formaður á bát í Járngerðarstaðahverfi. Hann drukknaði þar í góðu veðri. Það var talið að hann hafi hlaðið skipið í sjó. Með honum fórst t.d. Einar faði ömmu minnar, Margrétar, og bróðir Margrétar.

Staðarhverfi

Staðarhverfi – uppdráttur – ÓSÁ.

Hérna eru rústir. Í hólnum fyrir neðan af Löndum. Það er nú ekkert en gamalt tómtús. Ég man eftir þegar það var byggt upp. Hér á Staðarbringnum voru hvorki minna en þrjú býli, fjögur býli, þrjú sem öll hétu Bergskot og eitt sem hét Nýibær. Það var svon fram undir 1915-’20 að fólk var í sumum þessara húsa. Þetta voru bara tómthús og höfðu bara sjávarnytjar, en lítið not af jörð. Höfðu þó nokkrar kindur sem áttu heima hér í þessum tómthúsum. Aftur á móti Móakot og Staðargerði voru hjáleigur og höfðu töluverða grasnyt. Vilmundur á Löndum kom hér upp mörgum brnum og bjó við mikla ómegð. Allt þetta fólk er flutt til Reykjavíkur og Keflavíkur. Eitt barnabarna hans er t.d. Þórunn Magnúsdóttir leikkona.

Staðarhverfi

Gengið um Staðarhverfi.

Alltaf höfðum við gaman af sögunni um hann Sigga á Löndum. Það vildi nefnilega þannig til að rak víntunna hér úti á Mölunum, Móakotsmölum. Presturinn á Stað, Brynjólfur Magnússon, gerði boð um þetta heim til hrepsstjórans, pabba sáluga, og hann skipaði svo fyrir að tunnan skyldi flutt heim að Löndum til varðveislu. Þar var hún læst inni í skemmu sem var að nokkru leiti byggð af rimlum, milligerði og tunnan flutt inn í það allra helgasta, en annars karn þar fyrir utan. Þá var farið í símann og sýslumanni tilkynnt um rekann. Hann gerði ráðstafnir til að láta rannsaka innihaldið og komst að því að eitthvað örlítið væri það blandað sjó, þetta væri annars hreinn spíritus, og væri ekki hæft til meðalanotkunar og innihaldinu skyldi hellt niður. Það liðu nú nokkrir dagar. Meðan þetta var í bígerð hvers skyldu afdrif tunnunnar skeði þetta. Sigurður, sem var vinnumaður hjá Vilmundi þótti ákaflega gott í staupinu. Það voru hans ánægjustundir. Einhvern tíman var það að bóndinn í Móakoti kom heim til Vilmundar og sagði honum að eitthvað þótti skrýtið atferli hans Sigurðar núna í dag, hann hefði séð hann þarna austur í Tóftunum og hann þá verið hvítur eins og enginn og sætglaður raftfullur.

Staður

Staðarhverfi.

Svo það er farið að athuga þetta og mönnum dettur strax tunnan í hug og farið að athuga þetta. Þegar komið var þarna að þá sést að brotið hafði verið gat í milligerðina og skriðið þar inn til tunnunnar og sposnerinn náð úr og síðan hafi verið notað lítið glas bundinn spotti við það og nagli til að sökkva glasinu niður um sponsgatið og náð víninu upp. Þetta hafði Sigurður gert, dundað við þetta. Eitthvað hafi hann orðið valtur og ekki tókst betur til að hann valt ofan í hveititunnu á leiðinni út.
Nú barst út að víninu skyldi hellt niður. Pabbi sá um að allt skyldi fara vel fram.Þegar henni var velt þarna út þá mættu þeir þessir karlar, Siggi á Löndum og Sveinn Hall sem bjó á Vindheimum í Staðarhverfi. Hann var mjög vínhneigður maður. Þeir fylgdu tunnunni til hinstu stundar og vínið var látið leka niður í sandinn. Pabbi gaf hvorum karli sína krús, en þeir tárfellu þegar þeir sáu vínið leka þarna niður.“
Sjá meira HÉR.

Heimild:
-Einar Einarsson – Gatan mín II, 21. jan. 1973.

Grindavík

Grindavík.

Grindavíkurhöfn

Jökull Jakobsson gengur með Einari Kr. Einarssyni um Staðarhverfi í Grindavík. Fjórði þáttur. Frá 3.febrúar 1973.

Grindavík fyrrum.

Grindavík fyrrum.

„Þú hefur rakið fyrir okkur, Einar, helstu stórviðburði hér í byggðalaginu sem þú mannst eftir, þá sem ollu aldarhvörfum, síma, útvarpi, vegakerfinu og öðru. En ef við víkjum nú að daglegri önn fólksins hér. Þar sem við erum staddir horfum við yfir víkina. Þar er heldur tómlegt um að lítast þessa stundina. Örlar varla á steini, eins og þeir segja hérna í Grindavík. Einhvern tímann hefur sjálfsagt verið líflegra um að litast hér ef við horfum aftur í tímann?“
„Já, það er sléttur sær hérna í dag og ef við horfum hérna yfir Víkurnar örlar hvergi við stein og alls staðar hægt að lenda, en því verður ekki neitað að sjórinn hefur gefið mikið, Grindvíkingum og þjóðinni allri, en hann hefur líka heimt sína fórnir, sína tolla. Og hér á þessu svæði hafa örlög ráðist á mjög skammri stundu.

Björgunartæki

Fyrsta fluglínubyssan.

Það breyttust mikið aðstæðurnar eftir að Slysavarnarfélag Íslands kom til sögunnar og með þeim tækjum sem það bjó björgunarsveitunum með því það var oft mjög erfitt að ná sambandi úr landi við strandmenninna. Björgunarsveitin Þorbjörn var stofnuð 29. janúar 1928 og u.þ.b. fjórum mánuðum seinna þá gekk hún undir sína eldvígslu því þá bjargaði hún af frönskum togara sem strandaði hér austur af Hrauni að ég held 38 mönnum. Það gekk ákaflega fljótt og vel og örskömmum tíma eftir að síðasti maðurinn var dreginn í land dróst skipið út af skerinu níður í mikið dýpi og sást varla á það meira.
Nú þegar við lítum hérna niður í víkina fyrir framan okkur og vestur með landinu þá hefur þessi strönd margar sögur að geyma og sumar þungar. Mér dettur t.d. í hug þegar færeyska skútan Anna fra Tofte fórst hér. Það var 4. apríl 1924. Þá voru menn hér á gangi hér við sjóinn og urðu varir við rekald í fjörunni, spýtnabrak, tuskur, flattan fisk og það leyndi sér ekki að skip hafði farist. Og þegar að nánar var að gætt fundust strax hér lík þetta fyrsta kvöld. Og hér nokkru vestar með ströndinni þar var svo úti í brimgarðinu skipsflak sem reyndist vera af færeyskri skútu, sem hét Anna frá Tofte í Færeyjum.

Börgunarsveit

Merki Björgunarsveitar Þorbjarnar.

Þarna fórust allir mennirnir, nóttina áður, án þess að nokkur hefði hugmynd um. Næstu daga var gengið á fjörur og þeir dánu fluttir til byggða eftir því sem þá rak. Það var ákaflega þungt yfir þessa daga. Og svo fór að gefa á sjóinn aftur næstu daga og menn tóku upp sína fyrri hætti og tóku að róa á sjónn. Ég man eftir því einn morgun þá vakti pabbi sálugi mig og sagði mér að ég yrði að fara út með fjörum og leita hvort finndust ekki fleiri lík. Sjálfur þyrfti hann að fara austur í Járngerðarstaðahverfi í síma. Ég færðist undan þessu. Eg var ungur og var ekki í sjálfu sér ekki laus við líkhræðslu, sem margir voru á þeim árum. Hann sagði að þetta yrði að ske áður en færi að falla að. Það þýddi þá ekki annað að hlýða. Þórhallur bróðir minn skyldi fara með mér, hann var yngri en ég. Nú svo fórum við af stað og gengum hér út með kampana og vorum komnir út undir strandið og ég var farinn að hlakka yfir því að líklega skyldum við engan finna í þessari ferð. En þá allt í einu var mér litið neðst niður í fjöruna í stórgrýttum kampi. Þar stóð mannsfótur, nakinn mannsfótur, upp úr klettunum.

Hans Hedtoft

Magnús Hafliðason á Hrauni með björgunarhring Hans Hedtoft.

Ég sá að ekki var um annað að ræða en að reyna að koma hinum dána upp undan sjó, fórum þarna niður eftir. Þá lá líkið þarna í djúpri holu, fóturinn stóð aðeins upp úr eins og hann væri að veifa okkur að koma og bjarga sér. Eftir töluverða erfiðleika náðum við hinum dauða upp úr gjótunni. Hann var fatalaus, hafði verið stór maður, feitur, var alveg heill, en það var svöðusár á enninu. Nú, við höfðum varla orku til að koma honum undan sjónum. Loksins tókst okkur það þannig að ég stóð klofvega yfir honum og spennti greipar undir bak hans og þannig gat ég dröslað honum áfram, en Þórhallur hélt undir fæturnar. Svo þetta gekk vel og á meðan á þessu stóð fann ég ekki neitt til geigs. Þegar upp á fjöruborðið lögðum við hann til eins og við höfðum vit á og nú var mér horfin öll hræðsla, sneri við honum baki og ætlaði að halda áfram út með fjörunni. En um leið og ég sneri við honum þá greip mig ótti og ég tók strikið upp frá fjörunni, upp í heiði og beint heim. Og fram eftir sumri fór ég ekki meira þarna úteftir á þessar slóðir. Svona var geigur í ungum og þungt yfir öllum þegar svona ömurleg strönd áttu sér stað.

Grindavíkurhöfn

Frá Grindavíkurhöfn.

Nú, hér í nefinu fyrir framan okkur strandaði 1924, það var sama árið, fjórum mánuðum fyrr en Anna fra Tofte strandaði, þýskur togari í þessu nefi. „Sludup“ hét hann. Hann var koma beint frá Þýskalandi og var að fara á fiskimiðin. Þetta var hans fyrsta landkenning að hann sigldi hér á fullri ferð á háflóði upp í malarkambinn þarna. hann var léttur, það voru aðeins kol og salt í honum. Að vísu voru þá flugbjarglínutækin ekki til. En þegar fór bara að bresta út var togarinn á þurru. Og ég man það að skipsmenn renndu út stiga og gengu þurrum fótum í land. Og lá vel á öllum. Þessi togari flutti hins vegar Staðhverfingum og Grindvíkingum mikið af kolum og ýmsu fleiru og þetta strand var í sjálfu sér ekki neitt harmað því að það meiddist enginn, og skipsmennirnir virtust mjög ánægðir þegar þeir komu í land því það var svo farið með þá austur í Járngerðarstaðahverfið…“
„Skipstjórinn líka kannski?“
„Og skipstjórinn, ja, það sá maður ekki annað.

Björgunarsveit

Björgunarskiptið Oddur V. Gíslason.

Skipstjórinn líka, segir þú. Mér er skipstjórinn dálítið minnisstæður. Hann var ákaflega feitur maður, mjög feitur maður. Og vegna þess að kampurinn er nú dálítið ósléttur þá varð að brúa leiðina yfir kampinn með timburbrú til að koma honum upp á græn grös. Og skipstjórinn líka, segir þú. Það var nefnilega haft á orði hér í Grindavík, að þegar hann var að yfirgefa landið og var u.þ.b. kominn um borð í Reykjavík í skip sem átti að flytja hann til Englands þá hafði hann haldið ræðu og rómaði þar með stórkostlegum orðum hve afburðafórnfýsi og kjark Grindvíkingar hefðu sýnt við að bjarga þeim í land við þessar kringumstæður, en Grindvíkingar muna ekki eftir því að auðveldara hefði verið um mannbjörg úr standi en í þessu tilviki því eins og ég sagði áðan, það var rennt út stiga og þeir gengu á ilskóm í land.

Skúli fógeti

Skúli fógeti á strandsstað.

En það voru nú ekki öll ströndin sem voru svona þægileg. 1933 var hér hörmulegt, aðeins hér utan við háan malarkambinn, heitir Alnbogi. Þar standaði Skúli fógeti. Af honum var bjargað 24 mönnum en 13 fórust. Það stóð þannig á að um nóttina var mjög vont veður, kafaldsbylur, það sást ekki út úr augunum og snjóaði mikið og hvassviðri. Það var eftir lágnætti var kallað í Loftskeytastöðina í Reykjavík, frá Skúla fógeta, að hann væri strandaður og hann gaf út staðinn nálægt Grindavík, en ekki nánar. Það urðu einhverjar tafir að ná til Grindavíkur um síma, en þó tókst það von bráðar. Strax lagði þó samt af stað vegnara þessar tafa björgunarsveit frá Reykjavík, en hún komst mjög skammt á leið vegna illvirðist og þess hvað snjórinn var orðinn mikill. Von bráðar náðist svo í björgunarsveitina Þorbjörn í Grindavík og hún var nú fljót að tygja sig, fór af stað hér út með fjörum, en sendi samt til vonar og vara tvo menn hér austur með fjörum ef kynni að vera að skipið hafi strandað austan við þorpið.

Jón Baldvinsson

Togarinn Jón Baldvinsson RE 208 á strandsstað undir Krossavíkurbergi.

Þeir urðu að sjálfsögðu að bera tækin. Veðrið var mjög slæmt og snjórinn mikill. Það tafðist fyrir þeim nokkuð að finna hið strandaða skip. Þeir voru komnir hér útundan Staðarberg, snéru þar við aftur og komu þá von bráðar á strandstaðinn, en þá var klukkan víst að ganga fimm um morguninn. Aðkoman þarna var ákaflega ömurleg. Það var hátt í sjó og miðjan af skipunu var alveg í kafi og brúin var að mestu leyti í kafi, en hópur manna stóð upp af kvalbaknum og tveir menn höfðu komist í „afturlamtinn“. Björgunarsveitin kom svo fyrir sínum tækjum og ég held að það hafi verið í öðru skoti sem lukkaðist að ná sambandi við þá sem á hvalbaknum voru og á mjög skömmum tíma tókst að bjarga þeim öllum til lands. Þá voru 13 menn dánir. Það er víst staðreynd að það dó enginn eftir að björgunarsveitin kom á vettvang. Og þeir sem komust á hvalbakinn björguðust allir. Hinir fóru á kaf með skipinu. Þeim var minnistætt sem að stóðu að þessari björgun að hvað eftir annað gengu holskeflur yfir hvalbakinn á Skúla fógeta og á eftir sáu þeir stundum mann og mann hanga utan á hvalbaknum en alltaf tókst þeim sjálfum og félögum þeirra að tosa þeim aftur inn yfir grindurnar. Nú, þá voru þeir eftir þessir tveir á „afurvanftinum“, afturmastrinu, þá varð að bíða við eftir að féll meira út og þá tókst þeim tveimur, af miklum dugnaði, að komsat millum stórsjóanna fram á hvalbakinn og þá var þeim bjargað fljótlega er þeir voru komnir þangað.

Garðhús

Garðhús.

Svona gekk það til með Skúla fógeta, en það kom öllum saman um, sem þarna voru á strandstað, að ýmsir af hásetunum á Skúla hafi sýnt alveg afburða þrek og dug að bjarga sér og félögum sínum úr þessum háska – og ég hef heyrt, og það mun vera rétt, að meðan þeir dokuðu við eftir að þeir kæmust þessir tveir úr afturmastrinu, að þá hafi tveir af þeim sem búið var að bjarga í land heimtað að þeir væru dregnir út aftur um borð með heitt kaffi handa þeim og aðstoða ef þá þeir væru orðnir mjög miður sín þegar að því að þeir ættu að fara í björgunarstól. Þetta var Skúli fógeti.
Ef við förum svo hér áfram, nokkuð vestar, vestur fyrir Háleyjar, þá strandaði þar botnvörpungurinn Jón Baldvinsson. Það var 31. mars 1955. Þar var 42 mönnum bjargað. Björgunarsveitin, eins og hún hefur alltaf verið, mjög fljót á vettvang. Og enda þótt bera þurfti tækin alllanga leið þá var þar margt manna sem fylgdi þeim að það gekk greiðlega og aðstaða til að bjarga af Jóni Baldvinssyni var góð því hann hafði farið þarna upp undir berg.

Krossavíkur

Krossavíkur.

Fyrir neðan þetta berg var stórgrýtisurð, hins vegar var veltubrim og stórsjóir lömdu þarna á skipinu og gengu mikið yfir það. En á örskömmum tíma tókst að draga alla þessa 42 menn í land og það var gott, að það gekk greiðlega, því þótt Jón Baldvinsson væri ákaflega traust og gott skip og sjóunum heppnaðist ekki að brjóta það niður á lítilli stundu að þá voru brimskaflarnir búnir að velta togaranum um hvolf örskömmu stundu eftir að mennirnir voru komnir í land og það var áreiðanlegt að flugbjörgunartækin komu þarna að góðu haldi því ekki er að vita hvernig gengi tækist að koma línu fyrir borð m.v. þau tækis sem þá voru fyri hendi.
Nú, við skulum færa okkur aðeins vestar, og þó aðeins vestur fyrir Litlavitan, þar strandaði olíuskip, Clam held að ég hafi heitið, líklega eitthvert stærsta skip sem strandað hefur hér á Íslandi, það var um 10.000 tonn að stærð. Það var nú búið að lenda í einhverjum ævintýrum inn á Reykjavíkurhöfn, hafði slitnað þar upp og rekið að landi. Það voru fengnir dráttarbátar, einn eða fleiri, ég held frá frá Englandi, og það náðist á flot aftur og síðan skyldi draga það frá Reykjavík til Englands.

Clam

Clam á strandsstað.

Það var komið hérna fyrir Reykjanesið í svona suðvestan brælu, ekki slæmu veðri, en svona töluverðri brælu, þá slitnaði dráttartaugin og það rak að landi. Strax var kallað á Slysavarnarfélag Íslands og það tilkynni björgunarsveitinni hvað var um að vera og hún lagði af stað hingað út á Reykjanes, en ilu heilli þá strandaði skipið nokkrum mínútum áður en hana bar að. Það strandaði undan lágu bergi og það voru auðvitað töluverðir sjóir sem skullu þar á því og svo óheppilega tókst til að það þurstu strax menn í tvo björgunarbáta. Okkur var sagt að yfirmenn skipsins hefðu lagt alveg brátt bann við því að þeir færu í björgunarbátana en þeir hefðu ekkert ráðið við það. En þegar bátarnir voru orðnir fullir, þessir tveir, nokkurn veginn samtímis, þá hvoldi þeim þarna í sjónum, en á sjónum var mikil olíubrák (það var búið að dæla olíu sjóinn), og þeir drukknuðu þarna allir sem í bátanna komust nema þrír eða fjórir menn sem sjórinn kastaði upp í bergsillurnar eða urðina þarna fyrir neðan og eftir einum þeirra varð að síga.

Clam

Frá björgun áhfnar Clams.

Nú, í sömu mund bar svo björgunarsveitina þarna að, í sama mund bara hana að, og þá fengust þeir ekki meira, skipsmenn að fara í báta og siðan var þeim bjargað mjög fljótlega. Aðstaðan gat ekki verið betri. Þetta stóra skip, þilfarið á því bar jafnhátt berginu, því bergið þarna var mjög átt, og ekki nema 30-40 metrar á milli. Og svo voru þeir teknir í land. Það voru Englendingar og Kínverjar á þessu skipi og mér var sagt að jafnmargir sem fórust af hvoru þjóðerni. Þarna var 24 mönnum bjargað, ég held af 54. Þetta tókst ákaflega hörmulega til að það skyldi ekki öllum verið bjargað því að svo einkennilega vildi til að þetta skip brotnaði svo seint og bar svo hátt yfir sjó að það hefði verið hægt að lifa góðu lífi þarna um borð í skipinu allt fram vorið og og fram á næsta haust, en nú sést ekkert meira til þessa skips.
Nú, svo man ég eftir, á þessu tímabili, þremur mótorbátum sem strandað hafa á þessu svæði, bara á þessari 10-12 km strandlínu. Ég man eftir mótorbát úr Hafnarfirði, Búðarklettur hét hann. Hann strandaði þarna í vondu veðri. Skipverjarnir björguðust, en það höfðu verið með honum tveir farþegar, veit ekki hvernig á ferðum þeirra stóð – þeir fórust.

Staður

Staður.

Öðlingur, lítil bátur af Stokkseyri. Hann rak þarna upp, en var mannlaus. Hann hafði verið yfirgefinn undan Stokkseyri í vondu veðri. Hann rak svo mannlaus hérna með ströndinni og hann brotnaði undir Hrafnkelstaðabergi. Nú, bátur úr Vestmannaeyjum, hann var að veiðum grunnt undan Háleyjum og það kviknaði í bátnum. Þeir gátu ekki slökkt eldinn og þeir gátu stímað honum upp í land og það björguðust allir á honum.
Síðasta opna skipið sem fórst héðan úr Staðarhverfinu. Það var vetrarvertíðin 1915. Það var tvíróið þennan dag. Vestan bræla, gekk á með éljum. Og þessi bátur fór út með seinni róðum til að leggja þorskanet. Menn sáu til hans þar sem hann var undir seglum. Nokkru seinna gerði hvasst vestan él – og hann sást ekki meira. Það hefur verið víst verið 11 manna áhöfn með þessu bát. Þar fórust þrír bræður, synir Árna Jónssonar sem bjó hér í Staðarhverfinu þá.

Grindavík

Grindavík – bátur í innsiglingunni.

Nú, hér hafa, eins og gefur að skilja, þegar maður horfir út á þessa eyðulegu hafnlausu strönd, að þá hafi oft orðið hrakningar, erfiðleikar, í gamla daga þegar einungis var hægt að treysta á árar og segl, kannski var róðið í góðu veðri. Það gat brimað hér á nokkrum mínútum, þannig að það var algerlega ófært var að komast í gegnum sundin… Það gat orðið erfitt – jafnvel upp á líf og dauða. Þótt landtaka væri jafnan góð hér í norðanáttum gat brimað hér á nokkrum mínútum… Eins og gefur að skilja, þegar maður horfir yfir þessa hafnlausu strönd, þegar treysta þarf á árar og segl, kannski var róið á góðu veðri, að brimað var hér á nokkrum mínútum og ófært þannig að komast í gegnum sundin. Þá gat verið hér erfitt.
Norðanáttir, þótt, landtaka væri jafnan góð hér í norðanáttum, gátu orðið hrakningsveður mikil. „Man eg hrakningsveður mikil 1916. Þá reru hér allir í mjög góðu veðri, rennisléttum sjó og hægur andvara af norðan en þá skall á norðanveður eins og hendi væri veifað. Og ég held að einn bátur úr Grindavík, hverfunum þremur, hafi náð heimahöfn.

Grindavík

Grindavík – innsiglingin í Hópið.

Hinir lentu allir í hrakningum og náðu landi hingað og þangað í þessum víkum, nema fjórir. Þá hrakti vestur fyrir Litlavita og þá tók röstin við þeim og stórviðri af norðan og það er nú ekki efnilegt þegar þannig er komið. Þá vildi þannig til að austan við Reykjanesið var staddur kútter úr Reykjavík. Ester hét þessi skúta. Skipstjóri á henni var Guðbjartur Ólafsson sem síðar var forseti Slysavarnarfélags Íslands í mörg ár. þegar veðrið skall á var hann staddur hér austan við röstuina og þótti ekki árennilegt að leggja í hana því hann var búinn að fiska mikið og dokaði eitthvað við. Hann var var við og sá þá sem hraktir voru og hann bjargaði þeim öllum, fjórum skipshöfnum, yfir 40 manns og ég held að það hafi verið mikið afrek því sjálft skipið var ekki nema 100 tonn. Næstu dagar voru erfiðir hjá Grindvíkingum, en fjórum dögum síðar sigldi skútan Ester inn á víkina og skilaði öllum af sér heilum og frískum. Ég efast um að nokkur maður hafi af Grindvíkingum verið blessaður meira en þessi skipstjóri.“
„Þessi sífellda nálægð við dauðann og baráttan fyrir daglegu brauði hefur sett mark sitt á lífsviðhorf fólksins og hugsunarhátt.“

Grindavík

Grindavík – minnismerki; Von.

„Það er ekki ólíklegt. Sérstaklega held ég að þetta hafi verið erfit fyrir kvenfólkið, fyrir mæðurnar. Ég held að þetta hafi horft öðruvísi við frá bæjardyrum sjómannsins, sem sótti sjóinn. Hafið laðar, hafið heillar og hraustir menn hafa geð til þess að stýra í stóru, en ég held að þetta hafi oft verið erfitt fyrir mæðurnar sérstaklega sem horfðu á eftir sonum sínum út á sjóinn við þessar aðstæður sem hér voru. Það er ekki hægt að neita því að það var mikið umkomuleysi í skammdeginu að róa á árabáti úr vör út á hafið og hlýtur að hafa valdið þeim áhyggjum sem gerðu sér grein fyrir hvað öll sund gátu lokast fljótlega. Þegar útlitið var sem erfiðast þá héldu þessar konur sig ekki innan um aðra, fóru einförum, en háðu sína baráttu við sinn drottinn. Nú hafa aðstæður breyst til hins betra,  stórkostlega. Bátarnir eru orðnir stórir, þetta eru sjóborgir, og ef farið er með gát þá sýnist manni mikið öryggi vera á ferðinni. Þeir stærstu eru vel út búnir og geta tekið land hvar sem er, þetta eru orðin hafskip og aðbúnaður um borð er allt annar, menn hafa heitan mat, eldhús, sjónvarp og heitt bað svo mikil breyting er orðin á.
Héðan eru nú allir lifandi menn horfnir. Síðasti ábúandinn hér var Gamalíal Jónsson. Hann dó 1964. 


Heimild:
-Jökull Jakobsson gengur með Einari Kr. Einarssyni um Staðarhverfi í Grindavík. Fjórði þáttur. Frá 3. febrúar 1973.

Grindavík

Grindavík 1963.

 

Grindavík

Eftirfarandi grein Sæmundar Tómassonar, Æskuminningar [frá Grindavík], birtist í Lesbók Mbl 26.  mars 1961:
“Þegar ellin sækir að, mun flestum svo fara, að minningar fá æskuárum og æskustöðvum verða áleitnar. Og þá gera menn ósjálfrátt samanburð á því sem var og er, daglegum störfum og lífsvenjum, og undrast þær Norðurvörinbreytingar, sem orðið hafa á öllum sviðum.
Mér hefir þá stundum komið til hugar, að gaman hefði verið að eiga kvikmyndir af þjóðháttum og vinnubrögðum, eins og þetta var um aldamót. Og vegna þess að ég  var alinn upp í verstöð og brimlendingastað, verður mér frekast hugsað til þess hve mikilsvert hefði verið að eiga góðar kvikmyndir af sjóferðum á þeim árum, ýtingum og lendingum þegar illt var í sjó. Á ég bágt með að trúa öðru en að æskunni nú á dögum hefði þótt spennandi að horfa á slíkar myndir á tjaldi. En þó var enn stórkostlegr að horfa á raunveruleikann sjálfan, eins og við strákarnir fengum að gera. Þá voru leikslokin oft tvísýn og skammt á milli lífs og dauða, og þetta nam huga okkar enn fastar vegna þess að þarna áttu í hlut nánustu ættingjar okkar og  vinir.
Ég var alinn upp á Járngerðarstöðum (eystri bænum) í Grindavík og æskuminningar mínar eru aðallega bundnar við fiskveiðar og róðra í misjöfnum veðrum á vetrarvertíð. Þarna var sjór sóttur á opnum skipum og oft teflt djarft. En náttúruöflin voru líka oft víðsjál og á skammri stund gat skipast veður í lofti. Bar það stundum við þegar skip voru á sjó í logni, að sjór breyttist skyndilega, öldurnar stækkuðu mjög ört, og þá gat farið svo er skipin komu undir land, að þá braut á öllum grynningum. Var þá kallað að allir boðar voru uppi. En albrima var kallað þegar brotin lokuðu öllum leiðum.
Grindvískur sjómaðurÞá var oft alvara á ferðum, er mörg skip voru á sjó. Þyrptust þá flestir ungir og gamlir niður að lendingunni og horfðu með kvíða og eftirvæntingu á skipin, sem nálguðust sundið. Þau urðu að bíða eftir lagi nokkuð langt frá landi. Talið var að lag kæmi helzt eftir stærstu brotin, og þá var lagt á sundið, ef það þótti fært. Stundum var þá helt lýsi í sjóinn til að kyrra hann, og þótti það oft gott bjargráð. Þegar lagt var á sundið urðu menn að leggjast á árar af allri orku og þá var um að gera að allir væru samtaka og engin mistök ætti sér stað, því að hér var um líf og dauða að kefla. Var þessi róður því oft kallaður lífróður, en stundum líka brimróður.
Þegar komið var inn úr sundinu á svokallað lón eða legu, gátu menn kastað mestu mæðinni. Stundum urðu þeir þó að bíða lengi lags inn í sjálfa vörina, eða lendinguna. Þegar hátt var í sjó og mikið brim, var þarna oft mikil hætta á ferðum og mátti engu skeika. Vörin var ekki annað en klettakvos, klappir og grjót á báðar hendur.
Ef eitthvert skip hafði ekki róið um daginn, komu skipverjar af því, skinnklæddir niður í vör til að taka á móti fyrsta bátnum. Stóðu þeir þar í sjónum í tveimur fylkingum, og renndi síðan skipið inn á milli þeirra. Árar voru lagðar inn í skipið, formaður beitti stjakanum til þess að skipið snerist ekki flatt við sjónum. Og svo gripu sterkar hendur um bæði borð og drógu skipið upp í fjöru þar til það var úr allri hættu. Mátti þá sjá mörg traust og örugg handtök, enda voru þessir menn volkinu vanir og vissu hvað í húfi var. Þarna háði maðurinn nokkurs konar kappleik við hin villtu náttúruöfl, og fyrir unga drengi var þetta áhrifamikil sjón, því að þeir vissu hvað í veði var. En ótrúlega sjaldan urðu slys í þessari miklu brimstöð.
Mér finnst rétt að skjóta hér inn fáorðri lýsingu á húsakynnum heima. Fyrst var á baðstofan, þar sem heimafólk svaf. Þar voru 10 rúm, sex í suðurenda og fjögur í norðurenda. Milli skilrúmanna þar var eitt stafgólf og þar var uppgangurinn. Beint á móti dyrum var stórt borð, kallað kaffiborð. Þar var drukkið morgunkaffi á vertiðum. Svo voru tvö hús úr timbri, annað allstórt á þeirra tíma mælikvarða, og í því allstór stofa og gestaherbergi. Svo var sjóbúð, alltaf kölluð “Búðin”. Veggir hennar voru hlaðnir úr grjóti og reft á þá, en á áreftinu var tvöfallt þak. Með báðum veggjum voru grjótbálkar. Það voru rúm sjómannanna og ekkert timbur í þeim nema rúmstokkar og milligerðir. Hvert rúm var ætlað tveimur Stígurmönnum og voru þeir kallaðirlagsmenn. Enn voru þarna útihús, svo sem smiðja, og nokkrir torfkofar.
Þegar ég var að alast upp voru gerðar út frá okkur tvær fleytur og stundum þrjár; voru það þá tveir áttæringar og eitt sexmannafar. Á þessi skip þurfti 30 menn, og voru því margir aðkomumenn á vetrum, líklega um tuttugu. Voru þeir úr ýmsum áttu, en flestir úr Árnes- og Rangárvallasýslum. Í “Búðinni” voru sex rúm og þar voru alltaf 12 menn. Handa hinum voru gerð bráðabirgðarúm í hinum húsunum.
Oftast höfðu sjómenn sjóklæði sín heima og voru þau geymd í sérstökum torfkofa, þar sem þau gátu ekki frosið á nóttum, því oft voru mikil frost framan af vertíð. Þessi sjóklæði voru saumuð úr skinnum, ýmist úr sauðskinnum, kálfskinnum eða há, og voru því kölluð skinnkæði. Þau voru sjóhattur, stakkur og brók, og svo voru skór úr sútuðu leðri, sem mest líktist sólarleðri. Skinnklæðin voru smurð með þorskalýsi, eða lifur núið í þau, svo að þau þyldu betur bleytu. Þetta gátu verið beztu flíkur, og þeir sem kunnu að klæðast þeim rétt, þoldu vel bæði sjólvolk og kulda. Í þessi sjóklæði fóru menn oft á morgnana heima og gengu í þeim til skips, en sjávargatan hjá okkur var um hálfur kílómetri.
Við skulum hugsa okkur að við séum komin til Grindavíkur á vertíðinni 1898, eða fyrir 63 árum. Og svo skal ég reyna að lýsa fyrir ykkur einum degi þar. Það er ekki neinn ákveðinn dagur, heldur einn af mörgum, því að hið sama gerðist þar dag eftir dag og ár eftir ár á sama tíma. En ég tek dæmið frá vetrarvertíð, því að hún var aðalbjargræðistíminn og þá var mest um að vera. Þá var þar og fjölmennast, vegna þess hve margir vour vertíðarmenn; þeir voru ýmist kallaðir Norðanmenn eða Austanmenn, eftir því hvaðan þeir voru, eða aðeins sjómenn.
Vertíðin er nýlega byrjuð. Þá var allatf notuð ýsulóð (sem nú er kölluð lína). Var hún beitt að kvöldi, en róið þegar með birtu á morgnana. Þá voru ekki til nein ljósatæki, er bátar gátu notað, svo að þeir urðu að haga sér eftir dagskímunni, en alltaf var lagt á sjóinn áður en fullljóst var.
Það var oft þessa morgna, að við krakkar vöknuðum við mikinn umgang, því að allt var á ferð og flugi í baðstofunni er heimamenn voru að búast á sjóinn. Svo Frá Grindavíkbættist það við, að flestir aðkomusjómenn komu úr útihúsum til baðstofu, stundum skinnklæddir, til þess að fá sér kaffi eða mjólkurbland. Það hafði einhver vinnukonan hitað. Ekki var neitt með þessari hressingu annað en kandísmoli. Aldrei man ég eftir því að sjómennirnir fengi matarbita á morgnana, enda munu þeir ekki hafa verið matlystugir svo snemma dags.
Þessi hamagangur stóð þó ekki lengi. Allir flýttu sér sem mest þeir máttu. Það þótti mannsbragur að því að vera fljótur til skips, og seinlátir menn voru all staðar illa liðnir. Við vorum þá heima þrír strákar 10-12 ára að aldri. Langaði okkur jafnan til þess að fara með piltunum austur að sjó, sem svo var kallað, einkum ef við höfðum heyrt þá minnast á við kaffiborðið, að nú mundi verða “lá”. Þá héldu okkur engin bönd, og upp úr rúmunum rukum við og eltum þá, til þess að horfa á þegar ýtt var á flot í “lá”. Þegar flóð var að morgni og alda í sjónum, brotnaði hún við landið og gengu þá tíðum ólög inn í vörina. Það var kallað “lá”.
Í vörinniÞegar skipi hjá okkur var hrundið til sjávar, var skuturinn jafnan látinn ganga á undan. Þegar “lá” var, þá var skipið sett fram á fremsta hlunn, algveg við sjó, og þurfti þá stundum að bíða eftir lagi. Formaðurinn fór þá upp í skipið aftast og stóð þar með 12-14 feta langa stöng, sem kölluð var stjaki. Var broddur í einda stjakans og notaði formaður stjakann ef rétta þurfti skipið þegar ýtt var. Öllum árum var stungið niður í “sog”, það er við kjöl, og risu þær svo frá borði. Hver maður stóð við sinn keip, og árin í keipnum.
Nú var beðið með eftirvæntingu þangað til hið stóra augnablik kom, að formaður “kallaði lagið”. Sagði hann þá oft: “Áfram nú, blessaðir”, eða einhverja aðra hvatningu til hásetanna. Þá máttu engin mistök verða, ef vel átti að takast ýtingin, halda skipinu á réttum kili og fylgja því, en komast þó upp í það sem fysrt, maður á móti manni og allar árar í sjó á svipstundu. Seinastir fóru fremstu mennirnir upp í, þeir voru kallaðir framámenn. Svo varð að róa lífróður til þess að vera ekki fyrir næsta ólagi.
Það kom fyrir, þegar ýtt var í “lá”, að ýmis smámistök áttu sér stað, einkum í vertíðarbyrjun, meðan menn voru óvanir og ekki samæfðir. Þar var alltaf brýnt fyrir óvönum mönnum, að þeir mætti alls ekki sleppa hönd af skipinu, og kæmist þeir ekki upp í það, þá að halda sér sem fastast í það og dragast út með því þangað til það væri úr hættu. Þetta vildi koma fyrir, að menn kæmist ekki upp í skipið, stundum tveir eða þrír. Og svo drógust þeir með skipinu út á legu, og þar voru þeir innbyrtir. Það þótti alltaf leiðinlegt til afspurnar að láta innbryða sig. En við strákaranir skemmtum okkur kostulega Frá Grindavíkvið að horfa á mennina dragast með bátnum og síðan innbyrta. Þetta skeði ekki eftir að sjómennirnir fóru að æfast, en þeim var hættast við þessu, sem ekki höfðu róið í Grindavík áður, eða voru óvanir brimlendingum.
Þótt okkur strákunum þætti þetta kátleg sjón, sem við vildum sízt af missa, máttum við þó ekki eyða alltof löngum tíma niðri hjá vörinni, því að við höfðum líka skyldustörfum að gegna, þótt ungir værum. Við áttum að annast skepnurnar, hross og lömb, sem voru í húsi. Fyrst urðum við að gefa lömbunum og því næst láta hrossin út og reka þau niður í fjöru. Þar var oftast þari og hann rifu þau i sig. Við urðum að tína saman þara þarna í fjörunni og bera hann heim í hesthúsin og láta hann í stallana. Stundum var hann svo grófgerður að við urðum að brytja hann með hníf. Þar næst urðum við að sækja niður í fjöru gödduð bein, dálka og litla þorskhausa, berja  vel og láta í stallana með þaranum, og dreifa svo örlitlu af heyi ofan á. Þetta átu hrossin á nóttunni.
Þegar við höfðum lokið þessum störfum var oft liðið svo á daginn að skipin voru að koma að. Þá varð nú að hlaupa niður í fjöru til þess að vita hvort okkart menn væru komnir. Fórum við þá með skóna þeirra handa þeim, því að þegar þeir skinnklæddust heima, skildu þeir skóna sína alltaf eftir. Oft fórum við með drukk handa þeim í fötu, það var sýrublanda, einkum ef norðanátt var og sýnt að þeir hefði fengið barning, því að þá komu þeir móðir og sveittir að landi og þótti hressandi að fá sýrublöndu að drekka.
Stundum urðum við að bíða eftir okkar mönnum, en þegar þeir voru lentir og við höfðum haft tal af einhverjum þeirra, helzt formanninum, og spurt um það sem við þurftum að vita, þá urðum við að taka sprettinn heim og láta vita að þeir væru komnir að. Og spurningarnar sem við vissum að við þurftum þá að svara, voru alltaf þessar: Hvað fiskuðu þeir mikið? Hvað seiluðu margir? Þarf að senda þeim kaffi og bita? Kom þeir heim að borða? Um allt þetta höfðum við orðið að þýfga formanninn áður til þess að geta gefið fullnægjandi skýrslu heima.
Spruningin um hve margir seiðluðu var algeng vegna þess að menn vissu að af hverri seil komu 4-5 í hlut. Það minnsta var að einn seilaði, en stundum átta, ef skipið var fullt af fiski. Og þegar það heyrðist að 8 hefðu seilað, þá komust allir á loft, bæði ungir og gamlir.
Frá GrindavíkÞað kom varla fyrir snemma á vertíð, að tvíróið var, en eftir að sílfiskur var kominn, var oft tvíróið og stundum þríróið. Þá notuðu menn eingöngu handfæri, því að net voru þá ekki notuð sunnan við Reykjanes. Það gerðist ekki fyr en upp úr aldramótum, og í mjög smáum stíl í fyrstu.
Að þessu sinni átti ekki að tvíróa, og piltarnir ætluðu allir að koma heim til matar þegar þeir höfðu komið skipinu í naust, borið upp fiskinn og skift honum. Að máltíð lokinni fóru þeir svo allir niður að sjó aftur til þess að gera að fiskinum og beita lóðina fyrir næsta dag. Þessu var venjulega lokið áður en myrkið datt á. Eftir það áttu sjómennirnir frí og máttu hvíla sig og spjalla saman.
Um líkt leyti höfðum við strákarnir lokið skyldustörfum okkar, gefið lömbunum seinni gjöf og komið hestunum í hús, ásamt ýmsum fleiri snúningum. Eftir það máttum við leika okkur.
Á föstunni voru Passíusálmarnir sungnir á hverju kvöldi og lesin hugvekja. Voru sjómennirnri þá oft við í baðstofunni. Þó var það stundum, ef þeir komu seint af sjónum, að þeir fóru beina leið inn í “Búð”. Þá fengu þeir léðar bækur heima, og svo las einhver upphátt Passíusálm og hugvekju, áður en gengið væri til náða eftir langan og oft heillaríkan vinnudag.
Nú er öldin önnur. Nú ganga sjómennirnir í Grindavík á báta sínu við bryggju, og þegar þeir koma að, leggjast þeir við bryggju og ganga þurrum fótum af skip á land. Nú er, sem betur fer, ekki um að ræða hættulegar ýtingar og lendingar, og á öllum vinnubrögðum er reginmunur frá því sem áður var.
Hvern skyldi hafa órað fyrir því í Grindavík um aldarmótin, að slík gjörbylting mundi verða á næsta mannsaldri?“

Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins, sunnudagur 26. mars 1961 – Sæmundur Tómasson – Æskuminningar.Flagghúsið-21Grindavik

Þórkötlustaðahverfi

Kirkjan í Grindavík var á Stað í Staðarhverfi fram til 1909. Þá var hún flutt yfir í Járngerðarstaðar-hverfi þar sem hún hefur verið síðan – að vísu á tveimur stöðum.
KirkjugatanKirkjugatan frá Hrauni og Þórkötlustaða-hverfi lá yfir norðanvert Þórkötlustaða-nesið, um Gjána og framhjá Vatnsstæðinu að Rifsósi, eiðinu er lokaði Hópið af að utanverðu. Síðar, á fjórða áratug 20. aldar og síðar, var opnað inn í Hópið, rásin breikkuð og dýpkuð og eiðið þar með fjarlægt að mestu. Jafnan var gengið um ósinn væri hann fær. Sú leið var styttri. Kirkjuhóll (Kirkjuhólar) voru á norðaustanverðri Gjárbrúninni á leiðinni frá Þórkötlustöðum framhjá Hópi að Járngerðarstaðarhverfi. Nokkru sunnar er Gjáhóll, sunnan götunnar, og sést hann enn – gróinn í kollinn. Á fyrstu árum 20. aldar byrjuðu Hópsmenn að opna ósinn inn í Hópið, bæði til að koma bátum sínum í betra skjól og einnig til að stytta sjávargötuna. Hópsvörin var áður utan við rifið og sést hún að hluta til þrátt fyrir miklar framkvæmdir við varnargarða á umliðnum árum. Í lok fjórða áratugarins var hafist handa við að grafa ósinn enn frekar og opna öðrum bátum leið inn á leguna í Hópinu – þar sem núverandi höfn er nú. Kirkjugatan yfir Nesið, eins og sýnt er á meðfylgjandi mynd, lagðist því af í byrjun síðustu aldar. Ummerkin um hana sáust þó lengi á eftir, m.a. á meðfylgjandi ljósmynd frá 1942. Garðarnir á myndinni eru seinni tíma matjurtargarðar Þórkötlustaðarbúa.
Þórkötlustaðanesið 1942Gjáin er hrauntröð frá því að hraunið, sem myndaði Þórkötlustaða-nesið-/Hópsnesið, rann fyrir nálægt 2400 árum. Hún er að mestu heil að sunnanverðu, en á norðanverðu Nesinu hefur hún verið fyllt. Loftmynd, sem tekin var árið 1942 sýnir braggabyggð í þeim hluta rásarinnar, en hann var síðar notaður fyrir ruslahaug og þá fylltur. Segja má að þar hafi Grindvíkingar sagt amen eftir efninu. Kirkjugatan hafði þá verið aflögð, en ruslahaugar komnir í götustæðið. Eldsneytisgeymar (Esso) eru skammt norðvestar. Sunnan þeirra lá gatan yfir hæðina.
Gatan sést enn á stuttum kafla sunnan undir hraunbakka á norðaustanverðu Nesinu þar sem hún liggur vestur yfir það. Hlaðið er um kálgarða utan í kantinum. Innan hans eru tveir aðrir minni garðar. Austari garðurinn hefur verið settur ofan í götuna. Vestan hans lá gatan upp geil í hæð og sést hún enn þar sem hún lá upp lága hæðarbrún. Handan þess hefur svæðinu verið raskað, bæði með sorphaugunum, mannvirkjunum og sáningum. Þegar komið er upp á brúnina sést gatan enn þar sem hún lá niður mosahraunið í átt að Vatnsstæðinu og framhjá því, með stefnu að ósnum fyrrverandi. Handan þess taka við hlaðnir garðar, malarvegur og meira rask við Síkin. Sunnan þeirra voru sjóbúðir Hópsmanna. Enn má sjá kofatóftir við Síkin.
Eftir að kirkjan var endurreist í Járngerðarstaðahverfi styttist kirkjugata Hrauns- og Þórkötlustaðahverfisbúa verulega.
Hópsnesið - gatanÁ fyrrnefnda staðnum var rekið myndarbýli á 19. öld. Um 30 manns voru þar í heimili. Til samanburðar voru 32 í heimili á Járngerðarstaðabæjunum tveimur árið 1901. Þórkötlustaðabæirnir þrír voru einnig mannmargir, en auk þeirra voru jafnan þrír aðrir bæir í hverfinu frá því í byrjun 19. aldar; Einland, Klöpp og Buðlunga. Íbúar voru að jafnaði um 30 talsins. Auk þessara bæja sótti fólkið á Ísólfsskála (Ýsuskála) kirkju á Stað og síðar Járn-gerðarstöðum. Allt hefur þetta fólk fetað kirkjugötuna meira og minna reglulega yfir Nesið, sem enn sést – að hluta. Prestarnir, Kristján Eldjárn Þórarinsson, Geir Bachmann og Oddur Gíslason, virðast hafa haft það aðdráttarafl í þá tíð er dugði til að draga þreytta fætur austlægra Grindvíkinga alla leið vestur yfir Nesbrúnina – og þurfti þá mikið til.
Grindvíkingar hafa ávallt verið trúrækið fólk, enda fylgir trúin sjómennskunni. Gamla gatan, sem hér hefur verið lýst, bar þess líka merki. Á loftmyndinni, sem tekin var árið 1942, sem fyrr sagði, sést kirkjugatan mjög vel þar sem hún liggur á ská þvert yfir hana. Myndin er því miklu mun merkilegri en ella. Leiðin lagðist af með tilkomu akvegarins skammt norðar og nú má berja augum. FERLIR gekk leiðina fyrir skömmu og skoðaði sérstaklega þá hluta hennar er enn sjást. Ljósmyndir voru teknar og það markverðasta skráð.
Brátt mun þessi gamla kirkjugata heyra sögunni til – eins og svo margt annað.

Heimildir m.a.:
-Loftur Jónsson.
-Ljósm./rétth.: Sævar Jóhannesson.

Þórkötlustaðahverfi

Kirkjugatan.

 

Krýsuvík

Árni Óla, blaðamaður, grúskari og samhengishugsuður, skrifaði eftirfarandi um „Krýsuvík“ í Lesbók Morgunblaðsins árið 1932:
Krýsuvík - höfuðbólið - 1910„Krýsuvík er landnámsjörð. Þar nam Þórir haustmyrkur land. Þá hefir byggðin sennilega verið vestar en nú er, eða þar sem kölluð er gamla Krýsuvík. Eru bæjarrústir þar í hrauni og sandi sem nú er óbyggilegt. Um skeið var Krýsuvík höfuðból með mörgum hjáleigum. Nú er lítið orðið eftir af fornri frægð.
Þegar fara skal hjeðan til Krýsuvíkur er nú um tvær leiðir að velja. Önnur er sú, að fara í bifreið til Grindavíkur. Þaðan er ruddur bílvegur austur að Ísólfsskála og bílar hafa klöngrast alla leið þaðan til Krýsuvíkur. en slæmur mun vegurinn víða vera, aðalega vegna lausagrjóts. Þeir sem fara þessa leið mega því búast við því að verða að ganga milli Ísólfsskála og Krýsuvíkur.
Hin leiðin, sem farin hefir verið frá öndverðu liggur frá Hafnarfirði, um Kaldársel og síðan „undir hlíðum“, sem af því hafa dregið nafn og kallast nú Undirhlíðar. Hefjast þær rjett fyrir vestan Helgafell og ná saman við Sveifluháls, en hann teygir sig alla leið suður undir sjó á milli Ísólfsskála og Krýsuvíkur. – Fremst er hnúkur, sem heitir Mælifell, og er hann tilsýndar að norðan mjög svipaður Keili.
Krýsuvík - höfuðbólið - 1887Vegurinn meðfram hlíðunum er sljettur og liggur milli hrauns og hlíða alla leið. Mætti þar ryðja góðan bílveg. Undirhlíðar eru fallegar og stinga mjög í stúf við grátt og grettið hraunið. Þær eru talsvert grónar og skjógarkjarr í þeim virðast og mikið af þröstum í skóginum. Ómar hinn dillandi söngur þeirra hátt og lágt í hlíðunum.
Fyrst í stað er útsýn lítil, en þegar kemur suður með Sveifluhálsi er úti í hrauninu Fjallið eina (223 m) og þá Hrúthólmi (200 m). Hjá Sandfelli er nokkur brekka upp Sandfellsklofa upp á Norðlingaháls og blasa þá við í hrauninu Mávahlíðar (237 m) og hálf svipill fjöll þar fyrir vestan, Trölladyngja (393 m) og Grænadyngja (390 m). Vegurinn heitir Ketilsstígur og dregur nafn af kvos nokkurri eða skál, vestarlega í Sveifluhálsi, og heitir hún Ketill. Þar liggur leiðin yfir hálsinn til Krýsuvíkur, Er hálsinn allhár og er sagt að fallegt og einkennilegt sje að sjá af honum yfir Kleifarvatn og Krýsuvíkursveit. Nú eru menn að vísu hættir að fara þessa leið, heldur er farið milli Undirhlíða og Sveifluháls yfir Vatnsskarð upp að norðurbotni Kleifarvatns og svo suður með því að vestan.
Krýsuvík - höfuðbólið - 1910Þriðja leiðin, sem ókunnugir ættu að vara sig á, liggur frá Katlinum suðvestur með hlíðum að Vigdísarvöllum. Þar voru áður tveir bæir. Stóðu þeir á völlum nokkrum í krika milli Vigdísarháls (230 m) og Núpshlíðarháls (354 m). Annar bærinn hefir nú lengi verið í eyði og hinn um nokkur ár. Þeir töldust til Krýsuvíkursóknar, þótt þeir væru vestan Sveifluháls. Þar er gríðarstórt tún og nær eggsljett, en nú er kominn mikill mosi í það af órækt. Það hefir verið girt af með voldugum túngarði og er hann víða stæðilegur enn. Eftir húsatóftum að dæma, hefir þarna verið stórt bú. En uppi úr nokkru af rústunum hefir verið bygð fjarrjett.
Í Krýsuvík er nú í rauninni aðeins einn bær bygður, Nýibær. Sjálft höfuðbólið Krýsuvík er að vísu í ábúð, en það er hreinasta rányrkja.

Nýibær í Krýsuvík 1932

Bærinn hefir staðið í eyði á vetrum og er nú orðinn svo hrörlegur, að ekki er hægt að búa í honum lengur. Hjálpast þar að viðhaldsleysi og rottugangur mikill. Hafa rotturnar grafið allan bæinn sundur. Kirkja var þarna fyrrum, en hún var lögð niður fyrir fjórum árum. Stendur þó húsið enn, ofurlítill kumbaldi úr timbri. Og nú ætlar ábúandi að búa í henni í sumar, hefir rifið úr henni bekki, altari og prjedikunarstól og hefir bekkina fyrir rúmbríkur. – Túnið er komið í megna órækt og hefir ekki verið slegið síðast liðin sumur. Er það því ekki nema tímaspurnsmál hvenær Krýsuvík leggst algerlega í eyði, því að hvorki eigandi nje ábúandi munu hafa hug á því að bygja upp staðinn. Og þegar húsin eru fallin, getur enginn hafst þar við.
Í Stóra-Nýjabæ er bygging fremur ljeleg, en þó hefir ábúandi bygt þar baðstofu og mikið af peningshúsum. Hann hefir nú búið þarna í 37 ár samfleytt og komið þar upp 17 mannvænlegum börnum, 10 dætrum og 7 sonum.
Þegar hann kom að Nýjabæ voru 8 bændur í Krýsuvíkurhverfinu og var þá Krýsuvík enn höfuðból. En nú er sem sagt allar jarðirnar komnar í eyði nema Nýibær. Jeg spurðu hann hvernig á þessu stæði og sagði hann að jörðinni hefði hrakað stórum síðan hann kom þangað, og Kleifarvatn ætti sinn drjúga þátt í því.
KleifarvatnKleifarvatn er hinn mesti kenjagripur, vex ýmist eða lækkar stórkostlega, án þess að menn viti glöggar orsakir til þess. Í mestu leysingum á vorin sjer varla neinn mun á því að það hækki, en svo vex það máske smám saman ár frá ári, og svo kemur aftur tímabil að alt af minnkar í því. Fyrir allmörgum árum var ágætt flæðiengi sunnan við vatnið. Fengust af því 500 hestar af stör og um 100 hestar af eltingu á bökkunum. en svo tók Kleifarvatn að vaxa, flæddi yfir alt þetta engi og lá á því samfleytt 8 ár. Þá var vatnið svo mikið að ekki varð komist með fram því öðru vísu en hleypa á sund fyrir forvaða. Fyrir nokkrum árum tók vatnið svo að lækka og hefir lækkað ár frá ári. Þar sem hið góða starengi var áður, er nú ægisandur og rýkur úr honum yfir engjarnar, sem eftir eru efst í dalnum, og spillast þær af því ár frá ári. Nú er svo lítið í Kleifarvatni að stórt fjöruborð er undir forvöðum þeim þar sem áður va á sund. Lambatangi, sem áður var eyja langt úti á vatni, er nú landfastur fyrir löngu. Þar verptu áður álftir á hverju ári, en nú hafa þær ekki frið þar lengur og hafa flutt sig búferlum að Arnarvatni, sem er uppi á Sveifluhálsi, rjett hjá veginum frá Katli og er 278 metra yfir sjávarflöt. – Í botni Kleifarvatns eru margir heitir hverir, og eru nú tveir þeirra komnir upp úr því að sunnan. Í fyrra var Hver í Krýsuvíkhitinn í vatninu mældur og reyndist 9-20 stig. Er það því útvalinn sundstaður, og eflaust stærsta sundlaug hjer á landi. en vegna hitans í vatninu er talið að silungur geti ekki þrifist þar, þótt lífskilyrði sje að öðru leyti góð fyrir hann. Áður fyrri var þó silungur í vatninu, að því er Eggert Ólafsson segir í ferðabók sinni, en nú sjest þar ekki branda, og hefir ekki sjest langa lengi. Silungurinn hefir orðið aldauða, og má vera að það stafi af því að hverir hafi komið upp í vatninu og orðið silungunum að bana. En þrátt fyrir það þótt Kleifarvatn sje svona hlýtt, leggur það landa milli á vetrum og þarf ekki ýkja mikið frost í logni til þess að helluís komi á þa og hefir oft verið farið með hesta yfir það á ísi, þvert og endilangt.

Arnarfellsrétt í Krýsuvík

Annað, sem bóndinn á Nýjabæ taldi jörðinni til foráttu, er sívaxandi ágangur sauðfjár og hesta. Streymir þangað fje úr Grindavík, Höfnum, Stafnesi og víðar og stóð af Ströndinni. Á seinni árum hefir sauðfjárrækt aukist mjög í Grindavík, en þar eru engir hagar og streymir fjeð því þegar á vorin á Krýsuvíkurheiði og eru oft þúsundir fjár þar í heimalandinu. – Girðingar eru engar til þess að bægja þessum stefnivarg frá og má heita ógerlegt að verja tún og engjar. Fjeð gengur þarna umhirðilaust alt vorið og þar bera ærnar. Þegar fram á sumar kemur, eru gerðir út fjölda margir menn til þess að smala fjenu saman og marka lömb. Er alt safnið rekið í stóra rjett og veit enginn hvað hann á af lömbum, hve margar ærnar eru tvílembdar, hver margar lambgtur eða geldar. Í rjettinni eru ærnar látnar helga sjer lömbin meðan til vinst, eða meðan nokkur skepna jarmar. Lömbin eru jafnóðum mörkuð og ærnar helga sjer þau, en alt af vera margir ómerkingar eftir, eigi færri en 60 í fyrra. Eins og nærri má geta er ullin farin að trosna á rollunum og í þrengslunum og troðningnum í rjettinni slitnar hún svo af þeim, að alt rjettargólfið er eins og einn ullarbingur að kvöldi og vaða menn þar ullina eins og lausamjöll. Þannig gengur nú sauðfjárræktin á þeim stað, en auðvitað yrði Grindavíkur og Hafnamenn í vandræðum með sitt fje, ef Krýsuvíkurland væri afgirt.
KrýsuvíkurréttKrýsuvík hefir verið ágæt sauðajörð, enda hafa bændur lifað þar aðallega á sauðfjárrækt, því að tún hafa verið fremur lítil og ljeleg. Í Nýjabæ var alt túnið ákaflega stórþýft þegar núverandi ábúandi kom þngað. Var það líkast því sem há upphlaðin leiði væri hvert við annað. Nú hefir mestur hluti túnsins verið sljettaður og er í góðri rækt, svo að bóndi getur haft þar þrjár kýr. Auk þess hegir hann komið þar ipp góðum matjurtargörðum, en þeir þektust ekki, er hann kom þangað. Fær hann nú árlega um 20 tunnur af kartöflum og nokkuð af rófum. Þrífast kartölfur þar vel og er þó enginn hiti í jörð þar sem garðarnir eru.
Hlunnindi eru lítil; trjáreki er þó nokkur, og eggja og fuglatekja í Krýsuvíkhrubergi, en síga verður eftir hverju eggi og hverjum fugli. Í Geststaðavatni, sem er þar uppi í heiðinni, er dálítil silungsveiði. Var silungurinn fluttur þangað fyrir mörgum árum að ráði Bjarna Sæmundssonar og hefir hann þrifist þar vel.
Það hefði einhvern tíma verið kallað gott bú hjá bóndanum í Nýjabæ, 3 kýr, 14 hross og rúmlega 400 fjár framgengið. En hvað er gott bú nú?
Hverasvæði við Seltún - brennisteinsnámusvæðið-Jeg hefi reynt að halda í horfinu, segir hann, og búið hér ekki gengið saman. en nú er svo komið, að það er einskis virði, nema að eins það, sem fæst af því til heimilisins. Í haust sem leið fekk jeg 200 krónur fyrir jafnmargar kindur og lögðu sig á 1100 krónur á stríðsarunum. Ull og gærur telur maður ekki lengur. Fyrir 10 pd. sauðargæru fekk jeg t.d. að eins kr. 1.50 í haust. –
Eins og áður er sagt er gott sauðland í Krýsuvík og verður því að treysta mest á sauðfjárrækt. Útbeit er ágæt, þótt engin sje fjörubeit, en fjeð þarf nákvæmrar hirðingar og verður maður alt af að fylgja því á vetrum. Er það nokkur furða þótt menn trjenist upp á því, þegar þeir sjá að til einskis er barist? Eina vonion er að úr rætist um sölu sauðfjárafurða, og þess má ekki lengi bíða, ef fjöldi sauðfjárbænda á ekki að hverfa frá búskapnum og jarðirnar að leggjast í eyði, í viðbót við þann eyðijarðafjölda sem fyrir er.

Námusvæðið

Fyrir mörgum árum starfræktu Englendingar brennisteinsnámur í Krýsuvíkurhjeraði. Bygðu þeir þar nokkur stór hús og sjer enn móta fyrir því hvar þau hafa staðið. En þetta fyrirtæki fór á höfuðið og hafði verið eytt til þess miljónum. Brennisteinninn gekk til þurðar þessi árin og nú erfitt að finna mikið af hreinum brennisteini, þar sem námurnar voru. En leifar mannvirkjanna eru þar þögull vitnisburður um mishepnað erlent fyrirtæki hjer á landi. Að minstu leyti mun þó fje það, sem námafjelagið tapaði, hafa runnið í vasa Íslendinga. Íslenskir verkamenn fengu eina krónu á dag vor og haust en hálfa krónu um sláttinn, og hestleiga mun hafa verið 1-2 krónur á dag. (Brennisteinninn var allur fluttur á hestum til Hafnarfjarðar).
Ferðamenn, sem fara til Krýsuvíkur, ætti að skoða Kleifarvatn, brennisteinsnámurnar og þó fyrst og fremst stóra leirhverinn, sem kom upp árið 1925. Hver sá er skamt ofan við Nýjabæ, norðan í svokölluðum Tindhól, og er skamt rá veginum. Þarna var áður dálítil velgja í jarðveginum, en enginn hver.
Svo var það einn morgun að fólkið í Nýjabæ vaknaði við vindan draum – svo snarpan jarðskjálfta, að það kastaðist til í rúmunum, en brak og brestir voru í hverju bandi, eins og kofarnir ætluðu niður að ríða. Jarðskjálfti þessi stafaði af því að hinn nýi hver braust út. Varð það með svo geisilegum krafti að stór spilda sprakk úr hæðinni og þeyttist langar leiður, en sjóðandi leðja úr hverjum vall alla leið noðrur að Kleifarvatni og tók alveg af læk, sem engjafólk var vant að sækja drykkjarbatn í. Gríðarstór steinn, sem var uppi á melnum, fleygðist langar leiðir í burtu og stendur nú nokkuð frá hvernum sem talandi tákn þessara hamfara náttúrunnar.
Austurengjahver ofan við NýjabæHver þessi mun tvímælalaust vera stærsti og hrikalegasti leirhver í heimi. Englendingur nokkurð, sem skoðað hafði brennisteinshverina í Ítallíu og Nýja Sjálandi, varð alveg höggdofa og mállaus af undrun, er hann sá þennan hver. Enda mun flestum fara likt er þeir sjá hann, að þeir verða orðlausir af undrun og hryllingi, því að hann er ægilegur, og krafturinn svo óskaplegur, að enginn getur gert sjer í hugarlund nema sá, er sjer hann. Hverinn mun lílkega vera um 8-10 m. í þvermál og þarna þeytast óaflátlega upp ótal leðjustrókar, mannhæðar eða tveggja mannhæða háir. Leðjan byltist þannig og gýs í æðisgegnum hamförum, en gufumörkkurinn er svo þjettur, að ekki sjer í sjálfan hverinn, nema vindur sje og gufuna legi frá. Þegar logn er stígur gufumökkurinn svo hátt í loft upp, að hann sjest hjeðan frá Reykjavík yfir fjöllin. Uppi í melnum, ofan við sjálfan hverinn, eru gufuhverir nokkrir, og þeytist gufan þar út af svo miklum krafti að líkast er þegar skip „blása af“ sem ákafast, og er hvinurinn svo mikill að vart má heyra mannsins mál. Er melurinn sundur soðinn af gufunni og þessum óskaplega hita. Fyrir neðan hverinn eru þrír eða fjórir aðrir hverir. Sá næsti er stærstur, hringmyndaður og sljettur á yfirborðim nema hvað alt af kraumar í honum og með nokkuru millibili skvettist upp úr honum dálítið gos á einum stað, eons og hann sje að reka út úr sjer tunguna framan í áhorfanda.

Leifar frá brennisteinsvinnslunni við Seltún

Einn ef hverum þessum er ákfalega heitur og hvín látlaust í honum, en ekki er gott að komast að honum.
Síðan þessi mikli hver myndaðist, hafa menn tekið eftir því, að hverirnir í fjöllunum beggja vegna hafa kólnað að mun og sumir þegar orðið kaldir.
Það er engin leið að giska á hver ægikraftur leysist þarna úr læðingi og eyðist engum til gagns. Ágiskanir geta orðið fjarstæða á hvora sveifina sem er, en trúa myndi jeg, væri mjer sagt það, að kraftur þessi mundi nægja til þess að framleiða nóg rafmagn handa Suðurlandi, svo vítt, sem giskað er á að afl Sogsfossanna muni nægja.
Væri góður bílvegur til Krýsuvíkur, er enginn efi á því að útlendir ferðamenn mundu streyma þangað hópum saman til þess að skoða hver þenna, enda mun varla upp á meiri náttúrundur að bjóða hjer á landi.“
Frásögn þessi er ekki síst athyglisverð í ljósi umræðna um sveiflukennt vatnsborð Kleifarvatns, ágang búfjár í Krýsuvík og virkjunarmöguleika á svæðinu.

Eiríkur Tómasson frá Járngerðarstöðum í Grindavík skrifaði „Athugsasemdir“ við ofangreinda grein í Morgunblaðið þannn 30.08.1932:

Árni Óla„Í Lesbók Morgunblaðsins, frá 26. júní s.l., er ritgerð um Krýsuvík eftir Árna Óla. Þar er sumt sagt á þann hátt að valdið getur misskilningi hjá þeim, sem hjer eru ókunnugir, ef engin athugasemd fylgir, hygg jeg það stafi af því að höfundurinn taki heimildarmanninn helst til bókstaflega.
Hið fyrsta, sem jeg hygg rangt með farið er það, að mjer vitanlega hefir enginn bíll farið enn milli ísólfsskála og Krýsuvíkur, en frá Hafnarfirði fór bíll í fyrrasumar þangað.
Það í umræddri grein, sem jeg vil aðallega gera athugasemdir við eru ummæli þau, er höfundurinn hefir eftir Nýjabæjarbóndanum um Grindvíkinga og sauðfje þeirra. Það, sem fyrst skal tekið fram er það, að sauðfje í Grindavík mun ekki hafa fjölgað á síðustu árum.
Þá er það ekki rjett, að Grindavík eigi ekkert beitiland. Það er að vísu ekki mikill gróður í því eftir stærðinni að dæma, en hið sama má segja um Krýsuvíkurland, það er víða ærið hrjóstugt þó gróður sje þar meiri en í Grindavíkurlandi. — Grindavíkurland er geysistórt. Það nær vestan frá Valahnúkamöl á Reykjanesi, liggja landamörkin þaðan um Sýrfell, Stapafell, Kálffell, Vatnskatla í Fagradalsvatnsfelli og Sogasel, þaðan suður Núpshlíðarháls og að sjó í Seltöngum. Að dæma alt þetta svæði haglaust, er vægast sagt þarflausar ýkjur, enda gengur þar margt af fje Grindvíkinga og sjest það best er smalað er til rjetta á haustin, fæst þá góður samanburður á því fje, sem kemur úr Grindavikurlandi og því er frá Krýsuvík kemur, og er það alltaf lítill hluti heildarinnar samanborið við heimasafnið. En þetta er þar að auki mál, er fyrir allmörgum árum hefir náðst samkomulag um, þar sem Grindvíkingar borga árlega hagatoll til ábúandans í Krýsuvík og auk þess leggja þeir til milli 20 og 30 menn við fjársöfnun í Krýsuvíkurlandi til rjetta á hverju hausti.
Eiríkur TómassonÞað, sem sagt er um smölun á vorin er sumt hreinasta bull, t.d. það, að menn viti ekki hve margar ær þeirra eru geldar eða búnar að missa. Það er að vísu satt, að menn vita það ekki fyr en í rjettirnar kemur, en þá er vönum fjármönnum auðvelt að ganga úr skugga um hvort ær eru með lambi eða ekki; hitt er oft að menn vita ekki hvaða ær eru með einu eða tveimur lömbum, en aðferðir til ap komast að því, og oft heppnast, þekkja vanir fjármenn, að minsta kosti þar, sem fje gengur saman úr fleiri sveitum um sauðburðinn.
Jeg tel það mjög vafasamt að Nýjabæjarmenn hafi nokkurn tíma hirt um að telja lömb þau, er afgangs verða þar við aðrekstra á vorin, en hafi þeir talið þau í fyrra og þá reynst að vera 60, þá mun það vera óvenju margt, en svo ber þess að gæta að nokkuð af móðurlausum lömbum kemst til mæðra sinna eftir að öllu fjenu hefir verið sleppt í hvert sinn.
Það verður ekki annað sjeð en öllu þessu fje sje safnað á vorin í einn rekstur, sem allur sje rekinn í eina geysistóra rjett, en svo er ekki. Á hverju vori smala Grindvíkingar tvisvar Krýsuvíkurland með Nýjabæjarmönnum, með nokkru millibili. Í hvorri ferð er rekið að, til rúnings og mörkunar, á fjórum stöðum, svo lambatalan deilist á 8 aðrekstra og þar af leiðir að meiri líkur eru til að fleiri af lömbunum hitti mæður sínar, heldur en ef um eina rjett og einn aðrekstur væri að ræða.
Um ullina í „rjettinni“ ef það að segja, að hún er að vísu nokkur, en ekki meiri en annars staðar þar, sem jeg hefi komið undir svipuðum skilyrðum. Það, að „rjettar“-gólfið sje eins og „ullarbyngur“, og menn vaði ullina eins og lausamjöll“ eru þær ýkjur, sem sverja sig í ættina til heimildarmannsins. Annars þarf hann ekki að taka það sárt þó aðkomufje skilji eitthvað af ull eftir í „rjettinni“, því það mundi með öllu reiðilaust, af eigendum þeirra lagða, þó hann hirti þá og hagnýtti sjer.

Stóri-Nýibær

Stóri-Nýibær í Krýsuvík.

Þeir, sem lesa umrædda grein munu vænta þess að Nýjabæjarmenn forðuðust af fremsta megni að ómerkingar þeirra og fje í ull lenti í þessum vandræðarjettum, t.d. með því að ganga til ánna nm sauðburðinn og marka lömbin og hirða ullina jafnóðum og ær eru rýjandi. Þetta virðist vel framkvæmanlegt, í fyrsta lagi af því, að mestur hlutinn af ám þeirra gengur um sauðburðinn á engjunum og syðrihluta SveifluháJs, sem er skamt frá bænum og ekki víðáttumikið og í öðru lagi eru þar venjulega heima 4 eða 5 karlmenn og drengir til að smala, en þeir, sem þessum málum eru kunnugir vita, að lömb þeirra koma venjulega langflest ómörkuð til rjetta og fje þeirra leggur til sinn skerf af ull í „bynginn“ á rjettargólfið.
Að mínu áliti er það hvorki ágangur Kleifarvatns nje aðkomufjenaðar, sem aðallega hefir lagt Krýsuvík í eyði, að svo miklu leyti sem orðið er, þó hvort tveggja hafi átt nokkurn þátt í því. Aðalorsökin hygg jeg sje hve jörðin er mannfrek og erfitt til aðdrátta, en á síðari árum hafa það reynst verstu gallar á jörðum.“ – Eiríkur Tómasson, Járngerðarstöðum.

Heimild:
-Árni Óla – Krýsuvík – Lesbók Morgunblaðsins sunnudaginn 26. júní 1932.
-Morgunblaðið, 199. tbl. 30.08.1932, Athugasemdir, Eiríkur Tómasson – Járngerðarstöðum, bls. 2.

Krýsuvík

Grein Árna Óla um Krýsuvík í Lesbók Morgunblaðsins 1932.

Grindavík

Lífið í Grindavík haustið 1944 virðist hafa verið bæði sælt og friðsamt. Í bók Agnars Þórðarsonar, Í leiftri daganna, sem kom út hjá Máli og Menningu árið 2000 segir frá bréfi sem Gunnlaugur Scheving, listmálari, skrifaði Agnari frá Grindavík haustið 1944, þegar Agnar lá á Vífilsstaðahæli. Í bréfinu, sem er bráðskemmtilegt, segir m.a. eftirfarandi frá menningarlífinu í Grindavík:
Hraun við Grindavík„Ég hef verið hér lengst af hjá Sigvalda Kaldalóns og loks nokkra daga á Hrauni hjá Gísla. Fyrir nokkru síðan komu hér stórkarlar úr Reykjavík, biskupinn (ég sá hann ekki), Páll Ísólfsson og Eggert Stefánsson. Þeir komu að Hrauni, ég var þá þar. Stemningin var stórkostleg. Jetnir voru þorskhausar með smjeri. Eggert varð snortinn af hápatríótískri harðfiskrómantík. -Þetta er Íssland-. Á fínasta hóteli í París er ekki hægt að fá þorskhaus -ekki heldur í Búdapest eða London. Aðeins Íssland á þorskhaus -aðeins Íssland á þessa Aaa-rómu (hakan út í loftið). Þessa dásamlegu þjóðlegu stemningu, þennan yndislega há-ísslenska þorskhausaintelligens og harðfiskvísindi Guðmundar Finnbogasonar -þar var tekið í nefið. Sveitasæla, smjerskaka. -Yndislegt.
Ein af myndum GunnlaugsSvo komu sögur af þorskhausalestarferðum í gamla daga. -(Dásamlegt-dásamlegt). Ekkert gat stöðvað svona lest nema þegar einhver hryssan eignast folald- (Nú hver andskotinn) -Þá var skal ég segja ykkur stansað í einn dag -svo var folaldið bundið inn á milli, og síðan haldið á stað. (Dááásamlegt) Hugsið ykkur -þorskhausar á ferð gegnum hraun, gegnum endalausan brunasand -og svo glænýtt folald inn á milli. Þetta er Ísland -framtíð þjóðarinnar og listarinnar er að fólkið skilji þetta, gútjeri þessa stemningu.
Blessaðir jetið þið meira smjer, meiri þorskhaus. -Yndislegt.
Á eftir þorskhausunum kom kaffi með nýbakaðri köku -nýtt smjer -allskonar bakkelsi. -Ný stemning. Þessi ísslenska flatbrauðsstemning -með endurminningar um gamlar hlóðir í sveitinni -þegar maður var smali. -Ha -ekkert land í veröldinni á slíkan flatbrauðskúltúr og Ísland. Það er eins og að svífa til himins á vængjum morgunroðans. -Yndislegt.
Að síðustu var veislunni slitið. Innileg handabönd með hristingi. Stundin var búin og horfin út í eilífðina. Bíllinn hikstaði á hlaðinu og svo var haldið af stað.
Ég hef sem sagt haft það gott og skemmtilegt. Engin dagblöð -ekkert útvarp -það er jarðnesk sæla nú á dögum. Fréttir hef ég engar að segja þér. Ég bið þig að heilsa öllum heima og svo Gunnlaugi  -ég kveð þig svo með ósk um góðan bata.
Þinn einl. – Gunnlaugur“

Hvort fæði það, sem boðið var upp á í Grindavík á þessum tíma, var eitthvað annað og meira en þorskhausar skal ósagt látið – en ljóst er að jafnan var listafólki og öðru aðkomufólki vel boðið þar á bæjum á þeim tímum – sem endranær.

Heimild:
-Agnar Þórðarson – Í leiftri daganna – Mál og menning 2000, bls. 79-80.
(Haukur Ólafsson – FERLIRsfélagi – framsendi frá London).

Grindavík

Grindavík – loftmynd.

Jónsbásar

Gengið var frá dys Járngerðar á Járngerðarstöðum, um virki Jóhanns breiða ofan við Stórubót, um Junkaragerði Grindvíkinga, að Jónsbás þar sem Anlaby, fórst í janúar árið 1902, yfir í Arfadal, upp í Baðstofu og um Blettahraun til baka. Hér var um að ræða eina af tímamótaferðum FERLIRs, þá 800. að tölu um Reykjanesskagann. Venjulega eru tilteknir staðir heiðraðir í slíkum tímamótaferðum. Að þessu sinni, sem og stundum fyrr, varð Grindavík fyrir valinu.

Járngerðardys

Dys Járngerðar – áður en malbikað var hana.

Grindavík er merkilegur bær – þar er hægt að dvelja löngum stundum við að skoða merkilega staði og endurupplifa gagnmerka atburði í gegnum aldirnar.
Landnámsmaður í Grindavík var Molda-Gnúpur Hrólfsson. Þar hafa orðið merkisatburðir Íslandssögunnar, s.s. Tyrkjaránið og Grindavíkurstríðið. Auk þess endurspeglar Grindavík atvinnu- og búsetusögu landsins frá upphafi til núdagsins. Og andrúmsloftið er hvergi ferskara.
Vitneskja um upphaf byggðar takmarkast við frásögn Landnámu af Molda-Gnúpi og sonum hans. Lítið sem ekkert er vitað um byggðina næstu þrjár aldirnar eftir landnám. Ekki er vitað nákvæmlega hvar landnámsmennirnir byggðu sér bú. Þó er líklegt að það hafi verið í námunda við Hópið en síðar risu þar bæirnir Hóp, Þórkötlustaðir og Járngerðarstaðir. Hverfin er eitt af því sem einkenndi gerð og þróun byggðar í Grindavík fram á þessa öld. Þessi hverfi heita Þórkötlustaðahverfi sem er austast, Járngerðarstaðarhverfi í miðið og Staðarhverfi vestast.

Hóp

Hóp; fornar minjar – uppdráttur ÓSÁ.

Ekki er vitað um aldur og upphaf hverfanna þriggja og heldur ekki af hverju þau byggðust nákvæmlega þarna. En gera má ráð fyrir því að þau hafi byrjað að myndast á 10. eða 11. öld. Ekki er ólíklegt að staðsetning hverfanna hafi ráðist af graslendi á þessum stöðum. En það sem hefur líka haft mikið að segja er aðstaða til sjósóknar. Flest bendir til þess að skömmu eftir 1200 hafi byggðin verið búin að taka á sig þá mynd sem hún bar allt fram á öndverða 20. öld.
Þegar 19. öldin gekk í garð var byggðin í Grindavík svipuð og hún hafði verið fyrr á öldum. Flestir bjuggu í hverfunum þremur og bjuggu flestir í Járngerðarstaðarhverfi, 59 manns, en mun færri í hinum hverfunum. Á árunum 1840 og 1841 voru aðeins 7 aðalbýli í sókninni og 13 hjáleigur. Aðalbýlin voru þessi, talin vestan frá, Staður, Húsatóftir, Járngerðarstaðir, Hóp, Þórkötlustaðir, Hraun og Ísólfsskáli. Strax um aldamótin 1800 var þegar kominn vísir að þéttbýli í Járngerðarstaðahverfi. Það samanstóð af tveimur býlum sem þar voru auk hjáleiganna sem byggðar voru í landi jarðarinnar.

Gerðisvellir

Gerðisvellir – leifar virkis Jóhanns breiða.

Á 19. öld hélt byggðin áfram að vaxa í Járngerðarstaðahverfi og varð miðstöð byggðar í Grindavík. Líklegt má telja að ef kirkja hefði verið í Járngerðarstaðahverfi á þessum tíma hefði byggðin jafnvel verið mun þéttari, en kirkjan og kirkjugarðurinn var í Staðarhverfi. En þann 26. september 1909 var vígð ný kirkja í Járngerðarstaðahverfi og kostaði hún 4.475 krónum.
Byggð í Staðarhverfi var nokkuð stöðug á árunum 1801 – 1920 en lagðist svo alveg af fljótlega eftir 1920. Byggð í Þórkötlustaðahverfi og Járngerðarstaðahverfi var nokkuð jöfn fram til ársins 1910. Hverfin héldust nokkuð í hendur varðandi fólksfjölda en á fyrri hluta 20. aldarinnar dróst þó nokkuð í sundur með hverfunum. Að lokum var svo komið að Þórkötlustaðahverfi var orðið nokkurs konar úthverfi við hlið meginbyggðarinnar. En þó svo byggðin hafi verið þetta mikil á Járngerðarstöðum var lýsing Geirs Bachmann á henni ekki mjög fögur:

Járngerðarstaðir

Járngerðarstaðir – uppdráttur ÓSÁ.

„Eigi er fagurt á Járngerðarstöðum, því þó þar ei sé ýkja illa húsað. Þá stendur bærinn og allt hverfi þetta nema Krosshús niður í dæld eða dalverpi. og er þaðan hvergi víðsýnt.”
En þó ekki hafi verið fagurt á að líta á Járngerðarstöðum fjölgaði þar nokkuð ört og hlaut Grindavík kaupstaðarréttindi árið 1974. Og áfram fjölgaði heimilum í Járngerðarstaðahverfinu og nú búa í Grindavík um 2500 manns, þar af búa u.þ.b. 50 í Þórkötlustaðahverfi.
Gangan byrjaði við leiði Járngerðar, sem er nú að mestu undir veginum við Hlið. Þegar komið var að dysinni lá þar utan í henni stór, svartur, fjörgamalt hunslíki. Fylgdi það hópnum síðan eftir, en þegar komið var til baka hvarf það jafnskjótt og það birtist.

Járngerðardys

Tómas Þorvaldsson við dys Járngerðar.

Eitt horn dysjarinnar stendur þó út undan veginum. Skv. gamalli lýsingu var dysin hæst að suðvestanverðu, en hallaði undan til austurs (undir veginn). Hornið er svona til að minna á fyrrum tilvist þjóðsögunnar á þessum stað. Sú gamla hefur sannarlega mátt muna tímanna tvenna. En nú er Járngerður notuð sem hraðahindrun fyrir sjálfrennireiðar. Áður fyrr var borin miklu mun meiri virðing fyrir henni, bæði lifandi og látinni. Virðingin að henni lifandi var svo sterkt að rituð var þjóðsaga um hana þar sem hún er leggur á Járngerðarstaðasundið að þar skyldu tuttugu skip farast eftir að hafa horft upp á eiginmann sinn drukkna á sund

inu. Virðingin að henni látinni var að hún skuli hafa verið dysjuð við gömlu sjávargötuna frá Járngerðastöðum er lá niður í Fornuvör, aðalvör hverfisins.

Stóra-bót

Stóra-Bót; leifar virkisins.

Þá leið gengu sjómenn til skips, stöldruðu við og dvöldu jafnan við dysina og fóru með bænir svo áhrínisorð Járngerðar myndu ekki duga til. a.m.k. hvað þá snerti. En eins og gamli maðurinn sagði; „virðingin fyrir hinu liðna, er mótast af framkomnum lifandi kynslóðar, virðist verulegum takmörkunum háð.“
Lönguklettar voru tiltölulega langt klettabelti úr frá skerjóttri ströndinni við Flúðir. Þanghóll er þar áberandi og mun þangi hafa verið safnað á hann í fyrri tíð, á meðan það var enn notað til eldiviðar.
Neðan við kampinn má sjá Stokkavör, Akurhúsakamp, Kvíahúsakamp, Fornuvör, Sjálfkvíarklöpp og Draugalón.
Við Litlubót er Stakibakki, Hvítisandur, Kampur og Eystri- og Ytri-Hestaklettur. Fjörunar eru nefndar Flúðir einu nafni, sem fyrr segir, og vestast á þeim eru þrjú örnefi; Stakabakkagrjót, Önnulónstangi og Flúðagjá.
Alls eru Flúðirnar tæpur kílómetri á lengd, en þar hafa þó orðið einna flest strönd á einum stað á þessum slóðum. Í desember 1899 strandaði þar norsk flutningaskip, sem Rapit hét, og árið eftir togari Vídalínsútgerðarinnar, Engines. Mannbjörg varð í bæði skiptin.

Gerðavellir

Garður í Junkaragerði ofan við Stóru-Bót.

Í janúarmánuði 1911 strandaði svo breski togarinn Varonil á Flúðunum, og var það strand í senn sorglegt og grátbroslegt. Strandið sjálft virðist hafa orðið með þeim hætti, að skipið “togaði í land”, en talið var, að varpan væri úti, er það kenndi grunns. Þá gerðu skipverjar sömu mistök og landar þeirra á Clan fjórum áratugum síðar, settu út björgunarbáta og drukknuðu þeir þrí menn, sem í þá komust. Aðrir skipverjar afréðu þá að vera um kyrrt í skipinu, og var þeim bjargað morguninn eftir.
Næsta strand á Flúðunum varð 4. apríl 1926, er togarinn Ása strandaði þar á heimleið úr sinni fyrstu veiðiför, og tíu árum síðar, 6. september 1936, strandaði enski línuveiðarinn Tracadiro á svipuðum slóðum. Mannbjörg varð í bæði skiptin. Í fjöru má vel sjá vélina og ketilinn úr Ásu neðan og austan við Stórubót. Nú var hvoru tveggja t.a.m. vel sýnilegt.

Ofan við Stórubót er Rásin, en um hana fellur sjór upp í Gerðavallabrunna á stórstraumi.

Járngerðarstaðir

Járngerðarstaðir og Gerðavellir – uppdráttur ÓSÁ.

Upp af Stórubót, á Hellum, má enn sjá ógreinilegar leifar af virki Englendingsins Jóhanns breiða þar sem atlaga Grindavíkurstríðsins svonefnda fór fram í júnímánuði 1532. Varð sá atburður til að marka þáttaskil í verslunarsögu landsins sem og skapa skörp átök milli öflugustu þjóða Evrópu á þeim tíma.
Lítið eitt vestar, þar sem heita Gerðisvellir, eru rústir af vegghleðlsum. Frá þeim er frásögn í einni af þjóðsögunum þar sem Junkarar eiga að hafa hafst við og Grindvíkingar eldað við þá grátt silfur lengi vel. Garðar gerðisins sjást vel sem og móta fyrir tóftum innan þess.
Hásteinar eru vestan við Hásteina. Austar eru Hellan og þá Malarendar. Stórhóll er á Hellunni. Miðbótarklettur er sker utan við Malaraenda. Hóllinn Skyggnir er vestann við Bótina. Á honum er Skyggnisrétt.

Skyggnisrétt

Skyggnisrétt. Rásin og Grindavík fjær.

Sandvík er fremur skerjótt og lón á milli skerjanna. Þar strandaði Resolut í austanstormi og brimi í október 1917, sen skipverjar björguðust allir og komu gangandi heim að Járngerðarstöðum morgunin eftir.
Katrínarvík er vestan við Markhól. Það er eitt örfárra örnefna á gervallri strandlengjunni frá Valahnúk í vestri til Seljabótar í austri, sem dregið er af mannsnafni, sem ekki er vitað, af hvaða Katrínu víkin tekur nafn.
Markhóll er áberandi við ströndina áður en komið er að Jónsbás og Jónsbásaklettum. Á milli eru Hvalvík og Hvalvíkurklettar. Markhóll er landamerki Húsatótta og Járngerðarstaða og skilur um leið Staðarhverfi og Járngerðarstaðahverfi. Ofan og austan við Markhól er gamla gatan út að Staðarhverfi vel greinileg. A.m.k. ein heil varða er við leiðina, en hægt er að fylgja henni frá vestanverðum Gerðavallabrunnum og áleiðis út að Arfadal.
Á klettóttri ströndinni má sjá Jónsbásakletta, Karfabása og Vörðunes, sem er austan við Vörðunestanga. Á Jónsbásaklettum strandaði breski togarinn Anlaby snemma í janúar 1902, og fórust allir, sem á honum voru, 11 manns. Skipstjóri á Anlaby var Svíinn Carl Nilson, og var þetta fyrsta ferð hans til Íslands að aflokinni fangelsisvist, sem honum var gert að afplána fyrir aðförðina frægu að Hannesi Hafstein og mönnum hans á Dýrafirði árið 1899 þar sem þrír Íslendingar létust.
Klettarnir við Jónsbás skörtuðu bleikum, gulum, brúnum og fjólubláum lit í bland við græna. Stórbrotin umgjörð við fagurblátt hafið og svarta klettana.
Af Anlabystrandinu spunnust margar sögur í Grindavík, og benda flestir til þess, að atburðurinn hafi þótt í meira lagi vofveiflegur. Segir sagan m.a. að stígvél hafi fundist ofan fjörunnar er benti til þess að einhver hafi komist lífs af, en þoka var kvöldið áður og varð hún til þess að Staðarmenn gengu ekki rekann þá eins og venjulega. Vildu sumir þess vegna kenna sér um að hafa ekki bjargað mannslífum það sinnið.

Jónsbás

Jónsbásaklettar.

Víkin neðan við Húsatóftir heitir Arfadalur, en kölluð Dalur í daglegu tali. Nafngiftin gefur til kynna, hverjum augum menn hafa litið þann gróður, sem þarna þreifst. Víkin, sem gengur inn í landið á milli Vörðunestanga og Gerðistanga, heitir að rétu Arfadalsvík, en var oftast nefnd Staðarvik og leiðin inn í hana Staðarsund. Um sundið fóru kaupskip þau, er til Grindavíkur sigldu á fyrri tíð, og lögðust þá við festar vestan til á Arfadalsvík.
Garðafjara er í Arfadalsvík. Þar útan við eru tvö sker, sem Flæðiklettar heita. Þar þurfti mjög að gæta að sauðfé, þá stórstreymt var, því flæðihætta var mikil og náði féð sjaldnast að synda til lands. Á Flæðiklettum var rostungur eitt sinn veiddur seint á 19. öld, og um 1890 strandaði þar franska skútan Bris. Var það strand mörgum Grindvíkingi minnisstætt vegna koníaksbirgða, sem í skipinu voru. Sumir vildu þegja þunnu hljóði um þann þátt málsins, en aðrir æmtu þegar á var minnst.
Gengið var upp í Baðstofu, gjá ofarlega við Húsatóftir.
Þá var Blettahraunið gengið til austurs, til baka að Járngerðarstaðarhverfi.

Heimild m.a.:
-Saga Grindavíkur – Jón Þ. Þór – 1994.
-http://nemendur.khi.is/svavagna/Ritgerd%20um%20Grindavik.htm

Járngerðarstaðir

Járngerðarstaðir og Gerðavellir – uppdráttur ÓSÁ.

Járngerðarstaðir
Grindavíkurbær og Saltfisksetur Íslands hafa gefið út  Örnefna- og minjakort fyrir einstök svæði bæjarins með stuðningi Pokasjóðs. Þegar hafa komið út kort fyrir Járngerðarstaðahverfi (sögusvið Tyrkjaránsins Kort1627), Þórkötlustaðahverfi, Þórkötlustaðanes, Staðarhverfi og Hóp. Unnið er að sambærilegum kortum fyrir Hraun og Stórubót (sögusvið Grindavíkurstríðsins 1532).
Kortin eru unnin með hliðsjón af örnefnalýsingum sem og bestu upplýsingum elstu núlifandi manna og kvenna í Grindavík. Á þeim er getið um helstu örnefni á svæðunum og reynt að draga upp allar sýnilegar minjar frá fyrri tíð. Þá hefur verið reynt að endurvekja eldri minjar, sem nú eru horfnar.
Útgefnum kortum hefur verið komið fyrir á sérstökum upplýsingaskiltum á sérhverjum stað. Þar er fjallað nánar um búsetu- og atvinnusöguna og tengsl minjanna og örnefnanna við hvorutveggja.
Kortin fást í Saltfisksetri Íslands.

Grinndavík

Grindavík – sögu og minjakort.