Tag Archive for: saga

Garðaflatir

Í Gráskinnu hinni meiri lýsir Friðrik Bjarnason Garðaflötum. Hann segir að svo sé sagt “að Garðar og Garðakirkja hafi einu sinni verið á Garðaflötum, sem eru skammt fyrir innan Hafnarfjörð, en hafi veri flutt, þegar hraunið rann á.

Garðaflatir

FERLIRsfélagar ofan við tóft á Garðaflötum.

Sagan segir, að fólkið í Görðum hafi flúið undan hrauninu með ljós í hendi, en svo hafi verið um mælt, að kirkjuna skyldi reisa þar, sem ljósið slokknaði, en það var þar, sem nú er kirkjan og Garðastaður”.
Einnig segir: “Maður nokkur var eitt sinn við slátt á Garðaflötum. Þúfurnar, sem hann var að slá, sýndist honum líkjast leiðum í kirkjugarði. Ein þúfan var stærst, og hugsaði hann með sér, að gaman væri nú að vita, hver lægi undir þessu leiði. Syfjar hann þá bráðlega og getur ekki varist svefni. Hann dreymir, að maður tígulegur kemur til hans og segir: “Fyrst þig langar til að vita, hver hér liggur, hét sá Þórður og var prestur hér. Síðasta verk hans var að jarðsyngja sjö manneskjur”. Sú tilgáta fylgir sögunni, að þetta hafi verið í svartadauða. Ýmis merki má sjá, en þann dag í dag, að byggð hafi verið á Garðaflötum; þar eru garðahleðslur miklar, og víða sjást húsarústir og sumar mjög stórar um sig. Hlaðinn brunnur kvað og hafa sést þar til skamms tíma”.

Garðaflatir

Garðaflatir – minjar – ÓSÁ.

Auk sagnanna er vitað að Garðar höfðu í seli í og við Búrfellsgjá, í Helgadal, Kaldárseli og í Selgjá. Þá voru Garðavellir notaðir til skemmtana á meðan Gjáarréttin var og hét. Þær skemmtanir þóttu stundum keyra úr hófi fram og frá þeim er t.d. komið orðið “gjálífi”.

Engar rústir hafa sést á Garðaflötum um langan aldur. Þeirra er heldur ekki getið í örnefnalýsingu Garðabæjar. Og ekki er vitað til þess að nokkur núlifandi hafi skráð fund eða haft orð á hvar tóftir kynnu þar að leynast.

Garðaflatir

Garðaflatir – hluti af minjunum.

FERLIR var nýlega á ferð á Garðaflötum. Með framangreinda sögu að leiðarljósi var ákveðið að leita svæðið og kanna hvort þar væru einhverjar minjar að finna. Vetrarsólin var lágt á lofti þótt um miðjan dag væri. Við leit fundust a.m.k. fimm tóttir, þar af ein mjög stór, sem og garður umleikis. Stærsta tófin er syðst, norðan hennar virðist vera gerði og garður út frá því. Innar eru minni tóftir.
Fundurinn gefur sögunni byr undir báða vængi. Nú þarf bara að kanna svæðið betur og aldursgreina minjarnar.

Garðaflatir

Garðaflatir – uppdráttur ÓSÁ.

Jarðfræði

Eftirfarandi upplýsingar eru fengnar af Wikipedia, frjálsa alfræðiritinu:

Forsöguleg gos;
-fyrir um 16 000 000 árum – elsta berg sem þekkt er á Íslandi myndaðist í hraungosi.
-200.000 ára – elsta berg á Reykjanesi – Rosmhvalanes og Stapi.
-um 1000 f.Kr. – Katla. Tvö öskulög á Suðurlandi og Reykjanesskaga.
-um 250 e.Kr. – Snæfellsjökull

Gos á sögulegum tíma;

Eldborg

Eldborg í Kristnitökuhrauni.

-um 900 – Afstapahraun.

-934 – Katla og Eldgjá. Mikið hraunflóð úr Eldgjá rann yfir Álftaver, Meðalland og Landbrot. Sennilega sá jarðeldur, sem Molda-Gnúpur og hans fólk hrökklaðist undan skv. Landnámu. Landnáma segir einnig frá myndun Sólheimasands í miklu hlaupi Jökulsár.

-999 eða 1000 – Svínahraun.

-1151 – Krýsuvíkureldar. Gos í Trölladyngju; Ögmundarhraun og Kapelluhraun renna.

-1188 – ? Rjúpnadyngjuhraun og Mávahlíðahraun runnu.

-1210-11 – undan Reykjanesi. Eldey myndaðist.

-1223 – undan Reykjanesi, staðsetning óviss.

-1225 – undan Reykjanesi, staðsetning óviss.

Jarðfræðikort

Jarðfræðikort af Reykjanesskaga.

-1226-27 – nokkur gos á Reykjanesi. Þeim eru eignuð Yngra Stampahraun, Tjaldstaðagjárhraun, Klofningahraun, Eldvarpahraun, Illahraun og Arnarseturshraun. Sandvetur af völdum mikils öskugoss við Reykjanestá og féll svokallað Miðaldalag. Harðindi og mikið mannfall í kjölfarið.

-1231 – undan Reykjanesi, staðsetning óviss.

-1238 – undan Reykjanesi, staðsetning óviss.

-1240 – undan Reykjanesi, staðsetning óviss.

-1340 – Brennisteinsfjöll.

-1422 – undan Reykjanesi. Eyja myndast og stendur í nokkur ár.

-1582 – við Eldey.

-1783 – á Reykjaneshrygg suðvestur af Eldey. Nýey reis úr sjó en hvarf fljótt aftur.

-1879 – Geirfuglasker .

-1884 – nálægt Eldey. Óljósar heimildir.

-1926 – við Eldey. Ólga í sjónum í nokkrar klst.

Sjá meira undir „Eldgosaannáll Íslands“ á vefslóðinni:
-//is.wikipedia.org/wiki/Eldgosaann%C3%A1ll_%C3%8Dslands“

Jarðfræði

Jarðfræðikort ÍSOR af Reykjanesskaga.

Landnáma

Á Vísindavef HÍ má lesa eftirfarandi skrif Sverris Jakobssonar um aldur Landnámu:

Sverrir Jakobsson

Sverrir Jakobsson.

Landnámu má nota bæði sem frásögn og sem leif. Hún er leif um það að Íslendingar voru byrjaðir að skrifa um landnámið á 12. öld. Hún sýnir okkur einnig hvernig þeir skrifuðu um það og hvað þeim fannst mikilvægt að segja frá í sambandi við það. Þá er varðveislusaga Landnámu til vitnis um áframhaldandi áhuga Íslendinga á landnámi á síðari öldum, þegar hinar og þessar gerðir Landnámu urðu til.
Sem frásögn er hún ekki eins áreiðanleg heimild, því að hún lýsir atburðum sem gerðust um 200 árum áður en Landnáma var fyrst fest á blað. Ef miðað er við varðveittar gerðir Landnámu getur munurinn numið allt að 400 árum. Margt í þeirri Landnámu sem við þekkjum er endursögn úr Íslendingasögum, en svokölluð frum-Landnáma er líklega eldri en elstu Íslendingasögur. Fræðimenn eru ekki sammála um heimildargildi frásagnarinnar af landnáminu, hvort hún sé safn goðsagna eða rétt í meginatriðum. Fáum dettur þó í hug að trúa öllu því sem sagt er frá í Landnámu.

Landnáma

Landnáma.

Ekki er ólíklegt að Landnáma hafi verið notuð sem heimild þegar á 12. öld þegar norskir konungasagnaritarar segja frá fundi Íslands í verkunum Historia de antiquitate regum Norwagiensium og Historia Norwegiæ, sem samin voru á latínu. Þó verður ekki sannað með vissu að þeir hafi stuðst við skrifaða Landnámugerð. Á 13. öld vitum við um Landnámugerð eftir Styrmi Kárason (d. 1245), príor í Viðey, sem nú er glötuð. Elstu gerðir ritsins sem enn eru varðveittar eru fyrst ritaðar um 1300. Ein er eftir Sturlu lögmann Þórðarson (1214-1284), önnur eftir Hauk lögmann Erlendsson (d. 1334) og sú þriðja eftir Snorra lögmann Markússon (d. 1313) eða einhvern náskyldan honum.

Landnáma

Landnáma.

Áhugi á landnáminu lifði áfram á Íslandi. Um 1600 styðst Arngrímur Jónsson lærði (1568-1648) við Landnámu í ritum sínum um Íslandssögu, sem hann samdi á latínu fyrir erlendan markað. Þá skrifuðu Björn Jónsson á Skarðsá (1574-1655) og Þórður Jónsson í Hítardal (1609-1670) upp Landnámu og eru handrit þeirra mikilvæg heimild um samband ólíkra gerða ritsins.
Landnáma var fyrst prentuð í Skálholti 1688 og stóð Þórður biskup Þorláksson (1636-1697) fyrir því. Á 20. öld gerðu Finnur Jónsson (1858-1934), prófessor í Kaupmannahöfn, og Jakob Benediktsson (1907-1999), forstöðumaður Orðabókar Háskólans, vísindalegar útgáfur af öllum handritum sögunnar sem síðan er stuðst við. Þá gaf Jakob út Landnámu á vegum Hins íslenska fornritafélags 1968 (Íslenzk fornrit I. Íslendingabók, Landnámabók) og má nota þá útgáfu til að kynna sér ritið og álitamál tengd því nánar en frá er sagt hér.

Landnáma

Landnáma.

Að lokum má nefna að þegar haldið var upp á 1000 ára afmæli Íslands árið 1874 var ártalið reiknað með hliðsjón af Landnámu. Íslendingabók Ara fróða segir hins vegar ekki að fundur Íslands hafi orðið árið 874. Landnáma er því enn talin grundvallarheimild um hvenær halda skuli upp á afmæli Íslandsbyggðar.“

Heimild:
-https://www.visindavefur.is/svar.php?id=837

Landnáma

Landnáma.

Gullbringa

Gullbringusýsla sem slík á sér merka, en margflókna, sögu. Hér verður reynt að gera henni svolítil skil.

Í bókinni Landnám Ingólfs II eftir Magnús Grímsson er þess getið að Gullbringusýsla sé kennd við fornkonuna Gullbryngu og munnmæli herma að hún hafi átt kornakra í Sáðgerði (Sandgerði).
HjartaGullbringusýsla er fyrst nefnd í skjali frá árinu 1535 og náði hún yfir hluta hins forna Kjalarnesþings. Gullbringa er sýnd á herforingjaráðskortum sem hæðarbunga við suðaustanvert Kleifarvatn (308 m). Stefán Stefánsson sem kallaður var „gæd“ (af „guide“) taldi það þó hæpið, þar sem kunnugir menn á þessum slóðum hefðu jafnan kallað lyngbrekku þá sem er vestan í Vatnshlíðinni Gullbringu og nær hún niður undir austurströnd vatnsins.
Vilhjálmur Hinrik Ívarsson í Merkinesi sagði að grasbrekkur frá Hlíðarhorni vestra og austur að Hvannahrauni (Hvammahrauni) væru nefndar Gullbringur (Örnefnaskrá í Örnefnastofnun).
Jón Ólafsson úr Grunnavík taldi að nafnið Gullbringa nærri Geitahlíð væri frá Dönum komið sem hafi talið það fallegt og viðeigandi þar sem staðurinn lá nærri sýslumörkum við Árnessýslu. (Kristian Kålund: Íslenzkir sögustaðir I:51). Álitið er að staðurinn hafi fyrrum verið blómlegri en síðar hefur orðið vegna uppblásturs.

Krýsuvíkurberg

Krýsuvíkurberg – hér fellur Mígandi fram af berginu í skorunni nær.

Ekki virðast beinar heimildir um þinghald í eða við Gullbringu og er því margt á huldu um þessa nafngift. Gullbringur eru í Mosfellsheiði, en sýslunafnið getur ekki átt við þær þar sem þær eru ekki í sýslunni. Örnefnið Gullbringa eða -bringur er til víðar á landinu og virðist merkingin vera ‘gróðursælt land’.
Á ferðum FERLIRs um svæðið hefur bæði mátt sjá suðurbak Gullbringu „gullhúðað“ í hádegissólinni á vetrum og hlíðina ofan hennar „gullbikaða“ í kvöldsólinni á sumrin.

Skv. Járnsíðu (1271) og Jónsbók (1281) var landinu skipt í 12 þing (umdæmi) Suðurnes voru í Kjalarnesþingi.
Gullbringusýslu er fyrst getið 1535 og Kjósarsýslu er fyrst getið 1637. Mörk milli sýslnanna voru lengst af við Elliðaár.
Gullbringu- og Kjósarsýsla voru sameinaðar með konunglegri tilskipun 19. mars 1754.
Skv. tilskipun 28. júní 1781 voru Landfógeta falin fjármál og löggæsla í Gullbringusýslu.
Með konungsúrskurði 9. maí 1806 voru fjármál og löggæsla færð frá Landfógeta til héraðsdómara í Gullbringusýslu, sem fór þá með öll sýsluvöld.

Hnúkar

Í Hnúkum.

Reykjavík varð að sérstöku lögsagnarumdæmi með konungsúrskurði 15. apríl 1803 og þar skipaður sérstakur bæjarfógeti.
Árið 1874 var bæjarfógetaembættið í Reykjavík sameinað sýslumannsembættinu í Gullbringu- og Kjósarsýslu.
Árið 1878 var bæjarfógeti skipaður í Reykjavík og embættin aðskilin. Reykvíkingar undu sambúðinni illa og 16. ágúst 1878 voru embættin aðskilin á ný og sérstakur bæjarfógeti skipaður í Reykjavík. Allt land Reykjavíkur var áður í Seltjarnarneshreppi. Með lögum 1923 stækkaði Reykjavík með yfirtöku jarða í Mosfellshreppi.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður – herforingjaráðsuppdráttur 1903.

Árin 1878 til 1908 varð bæjarfógetinn í Hafnarfirði og sýslumaður Gullbringu- og Kjósarsýslu. Landshöfðingi samþykkti að skipta Álftaneshreppi 17. september 1878 í tvo hreppa, Bessastaðahrepp og Garðahrepp. Hafnfirðingar undu þessu illa og vildu vera sér og eftir 30 ára baráttu varð Hafnarfjörður kaupstaður 1. júní 1908.

Þann 3.10.1903 var samþykkt á Alþingi að Gullbringu- og Kjósarsýslu myndi verða skipt upp í tvö sýslufélög. Annað er hin forna Kjósarsýsla og Seltjarnarneshreppur. Hitt er Bessastaðahreppur, Garðahreppur, Vatnsleysustrandarhreppur, Njarðvíkurhreppur, Rosmhvalaneshreppur, Miðneshreppur, Hafnarhreppur, og Grindavíkurhreppur. Eitt sýslumannsembætti, með aðsetur í Hafnarfirði, fór með málefni beggja sýslna. Með lögunum voru mörk milli sýslnanna flutt frá Elliðaám að hreppamörkum Seltjarnarneshrepps þar sem þau lágu þá að mörkum Garða- og Bessastaðahrepps.

Kristján X

Kristján X.

Árið 1938 var skipaður lögreglustjóri í Keflavíkur. Með lögum 16/1934, undirskrifuð í Amalíuborg 25. janúar 1934 af Christian R. (Kristján tíundi (R.=Rex (konungur)) var ákveðið að skipa lögreglustjóra í Keflavíkurhreppi og skyldi hann einnig fara með dómsvald í lögreglumálum, innheimtu opinberra gjalda, fógetavald og hreppstjórastörf í Keflavíkurhreppi. Embættinu var komið á laggirnar 1. janúar 1938 og Alfreð Gíslason var skipaður lögreglustjóri, reyndar frá 31. desember 1937. Fram að þeim tíma hafði sýslumaður Gullbringusýslu með aðsetri í Hafnarfirði stjórnað löggæslumálum í Keflavík. Embættinu fylgdi ekki dómsvald einungis framkvæmdavald.
Þegar Keflavík varð kaupstaður 1. apríl 1949 var Alfreð skipaður bæjarfógeti í Keflavík og gegndi því starfi til 19. apríl 1961 þegar hann fékk lausn frá starfi og varð bæjarstjóri í Keflavík frá 8. júní 1961. Eggert Jónsson f. 22. maí 1919, sem verið hafði bæjarstjóri var skipaður bæjarfógeti í Keflavík frá 1. júlí 1961 og gegndi því starfi til dauðadags en hann lést ungur maður 18. júlí 1962. Alfreð var þá aftur skipaður bæjarfógeti í Keflavík frá 5. september 1962.
Festisfjall1. apríl 1949 fær Keflavíkurhreppur kaupstaðarréttindi og lögreglustjórinn verður jafnframt bæjarfógeti í Keflavík. Auk lögreglumála og dómsvalds í þeim fer hann nú með önnur dóms- og umboðsstörf í Keflavík.
Með bráðabirgðalögum sem sett voru 19. janúar 1954 var embætti Lögreglustjórans á Keflavíkurflugvelli komið á fót. Þann 8. apríl 1954 voru samþykkt lög á Alþingi um lögreglustjóraembættið og tóku þau þegar gildi. Umdæmið var samningssvæði þau á Reykjanesi, sem varnarsamningur Íslands og Bandaríkjanna tók til og eru eign ríkisins. Lögreglustjórinn fór með sömu störf og sýslumenn og bæjarfógetar.

Seltjarnarneshreppi var skipt 1948 í Seltjarnarneshrepp og Kópavogshrepp. Kópavogur varð kaupstaður 1955 og fór undan sýslunni. Sigurgeir Jónsson var skipaður bæjarfógeti í Kópavogi 11. ágúst 1955.

Vatnagarður

Hraun og Vatnagarður.

Alfreð var síðan skipaður sýslumaður í Gullbringusýslu frá 1. jan. 1974 og bæjarfógeti í Grindavík frá 10. apríl 1974. Hann fékk lausn frá embætti 8. júlí 1975 frá og með 1. október 1975. Þann 22. ágúst 1975 var Jón Eysteinsson f. 10. janúar 1937 skipaður bæjarfógeti í Keflavík og Grindavík og sýslumaður í Gullbringusýslu frá 1. október 1975 að telja og síðan bæjarfógeti í Njarðvík frá 1. maí 1976.

Seltjarnarneshreppur og Garðahreppur urðu kaupstaðir 1974. Bæjarfógetinn í Hafnarfirði varð jafnframt bæjarfógeti í þessum kaupstöðum. Í Kjósarsýslu voru Garðahreppur, Bessastaðahreppur, Seltjarnarneshreppur, Mosfellshreppur, Kjalarneshreppur og Kjósarhreppur. Bæjarfógetinn í Hafnarfirði varð jafnframt sýslumaður í Kjósarsýslu.
Fyrir forgöngu Geirs Gunnarssonar og Karls G. Sigurbergssonar urðu til sérstök lögsagnarumdæmi á Suðurnesjum og voru lög þess efnis samþykkt á Alþingi 24. apríl 1973 og tóku gildi 1. janúar 1974.

Í Gullbringusýslu voru Grindavíkurhreppur, Hafnarhreppur, Miðneshreppur, Gerðahreppur, Njarðvíkurhreppur og Vatnsleysustrandarhreppur.

Gálgahraun

Gálgahraun – skófir.

Bæjarfógetinn í Keflavík varð jafnframt Sýslumaður í Gullbringusýslu.
Grindavík hlaut kaupstaðarréttindi 10. apríl 1974.
Árið 1976 var bæjarfógetinn í Grindavík, Keflavík og Njarðvík jafnframt sýslumaður Gullbringusýslu.
Njarðvík fékk kaupstaðarréttindi 1. janúar 1976. Bæjarfógetinn í Keflavík varð jafnframt bæjarfógeti í Grindavík og Njarðvík.

Við aðskilnað dómsvalds og framkvæmdavalds í héraði 1. júlí 1992 var Jón skipaður sýslumaður í Keflavík en lögsagnarumdæmið er það sama og var. Þennan dag tóku gildi lög um aðskilnað dómsvalds og umboðsvalds í héraði nr. 92/1989. Hugtakið bæjarfógeti féll niður og sýslumenn voru kenndir við staði.

Bæjarfógetinn í Keflavík, Njarðvík og Grindavík og sýslumaður Gullbringusýslu heitir nú Sýslumaðurinn í Keflavík. Lögreglustjórinn á Keflavíkurflugvelli verður Sýslumaðurinn á Keflavíkurflugvelli. Sýslumaðurinn í Hafnarfirði, Garðakaupstað og Seltjarneskaupstað og Sýslumaður Kjósarsýslu verður Sýslumaðurinn í Hafnarfirði.

Hugtakið Gullbringusýsla er ekki lengur notað og má segja að þetta aldagamla heiti stjórnsýsluumdæmis sýslumanna leggist af með lögum um aðskilnað dómsvalds og umboðsvalds í héraði.

Heimild m.a.:
-Eyþór Þórðarson, Stjórnsýsla í Gullbringusýslu, birtist í Árbók Suðurnesja 1984-85.
-http://visindavefur.hi.is/svar.asp?id=2182

Gullbringa

Gullbringa.

Húshólmi

Gengið var inn í Húshólma um Húshólmastíg (1.1 km). Með í för var m.a. hinn mæti Grindvíkingur Dagbjartur Einarsson. Skoðað var aðhald austast í hólmanum, stekkur eða rétt og brunnur sem og hugsanlegar seltóftir. Þá var litið á grenið nyrst sem og skotbyrgi refaskyttunar, auk gróins gerðis í hraunkrika. Allt eru þetta nýlegri minjar í hólmanum, en engu að síður minjar manna, sem þar voru í ákveðnum erindagjörðum, hvort sem var að sitja yfir ám eða liggja fyrir ref.

Húshólmi

Húshólmastígur um Ögmundarhraun.

Skammt vestar er forn fjárborg. Hún var skoðuð. Gengið var að fornum garði er legið hefur þvert yfir hólmann, en hefur nú látið verulega á sjá. Garðurinn er heillegastur að norðvestanverðu, næst hraunkantinum. Þá var gengið að bogadregnum garði skammt sunnar. Honum var fylgt inn í hraunið uns komið af að hinu fornu minjum ofan við Kirkjulág. Um er að ræða tvo skála. Hraunið frá 1151 hefur umlukið þann nyrðri. Í honum sjást stoðholur eftir miðju tóftar, jafnvel tvöföld. Svo virðist sem hraunið hafi einni brennt torfið utan af tveimur eða þremur hringlaga byggingum skammt suðaustan hans.
Meginskálinn virðist vera með sveigðum veggjum. Dyraop er mót suðri, en við austurenda hans er bygging. Dyraop er þar einnig mót suðri.
Í Kirkjuláginni eru garðar, tóft áætlaðrar kirkju sem og hugsanlegur skáli vestan hennar. Torfhlaðnir bogadregnir veggir eru norðan og austan hennar. Þeir umlykja og kirkjutóftina.

Brúnavörður

Brúnavörður að baki.

Vestan hennar er stígur er liggur að Brúnavörðunum, á hraunkantinum að suðvestanverðu. Hann er flóraður að hluta. Sagt er að sonur Guðmundar Bjarnasonar frá Krýsuvík hafi lagt stíginn, en áður hafi forn stígur úr Húshólma legið að Selatöngum sjávarmegin, en hann lagst af við áganginn.
Þar er fornt garðlag, forn fjárborg sem og hugsanlega tóft topphlaðins húss. Ofar og norðar í hólmanum er hlaðinn veggur er hraunið hafði stöðvast við fyrrnefnt ár. Skammt ofar í hrauninu er nýrra hringlaga skjól.
Húshólmastígur hefur greinilega verið mikið notaður í gegnum tíðina því óvíða má sjá markað í jarðfast grjót, en víðast hvar hefur grjóti verið kastað úr götunni og myndar smærra grjót undirlagið. Hann er auðveldur umferðar. Þegar komið er í Hólmann er við enda hans fyrirhleðsla til að varna því að fé leitaði eftir stígnum og út úr Hólmanum.

Húshólmi

Húshólmi – stekkur.

Í líklegum brunni ofarlega í hólmanum virðast vera hleðslur. Þar skammt frá er réttin eða stekkurinn, auk annarra ógreinilegra mannvirkja, s.s. lítil tóft og hlaðið hringgerði.
Megingarðarnir í Húshólma eru gerðir úr torfi. Undirlagið var steinhlaðið. Þvergarður um Kirkjuflötina virðist þó hafa verið hlaðinn með grjóti.
Efst er þvergarður til austurs og vesturs. Hraunið hefur runnið yfir hann vestast. Annar garður liggur skammt sunnar til suðausturs og í boga til suðvesturs. Á hann er þvergarðurinn. Innan hans að norðanverðu er skeifulaga gerði. Það sést best þegar sólin er tiltölulega lágt á lofti. Heitir þar Kirkjuflöt.
Á meginminjasvæðinu í hrauninu vestan Húshólma virðast vera þrír, skálar, kirkjutóft og garðar. Í nyrsta skálanum er stoðholuröð, sennilega tvöföld, miðskálinn er heillegur af útlitslínum að dæma og sá syðsti er þvert á þá efri. Austan við hann er kirkjutóftin, í svokallaðri kirkjulág. Til austurs frá henni inn í Húshólma liggur kirkjugatan.

Húshólmi

Beinteinsbúð í Húshólma.

Tóft (Beinteinsbúð) er skammt ofan rekagötuna niður að Hólamsundi. Hún gæti verið frá verið Krýsuvíkurbænda við útfræði þar árið 1917. Annars gerðu þeir fyrrum út frá Selatöngum. Húshólmastígur og stígurinn að Brúnavörðunum sem og stígurinn upp með vestanverðu Ögmundarhrauni gæti verið gömul vergata þeirra, en þá hefur Húshólminn verið á 1/3 leiðarinnar og þeir þá átt um 2/3 hennar eftir. Ekki er með öllu útilokað að einhverri tóftinni við Húshólma hafi enn verið haldið við sem skjóli á þeirri leið, t.d. kirkjutóftinni.
Frá því að fyrst var farið að búa í Krýsuvík, sem nú er, og fram á síðstu ár (ritað 1951), hafa alltaf verið þar menn, sem vissu að í Húshólma hefur endur fyrir löngu verið byggð, og hún ekki alllítil, svo sem sjá má af húsarústum og öðrum ummerkjum, sem eru þar enn í dag. Húshólmi – eða staður sá, sem svo hefur verið nefndur um langan aldur, er austast í Ögmundarhrauni, er það óbrenndur heiðalandsblettur, um 25-30 ha að stærð.

Húshólmi

Húshólmi – skáli.

Hinum sýnilegu minjum í Húshólma, sem vitna það í þögn sinni, en þó svo glöggt, að ekki verður um villst, að það hafi fólk búið endur fyrir löngu, hefur hraunflóðið þyrmt, þegar það beljaði þarna fram ís jó, yfir stórt og sennilega fagurt land og gott ásamt byggð, sem enginn veit, hve mannmörg hefur verið. – Þegar staðnæmst er við þessar fornu húsarústir, þá hlýtur hver hugsandi maður að fyllast undrun yfir þeirri algjöru þögn, sem svo rækilega hefur fram á þennan dag hvílt yfir þeim atburðum, sem hér hafa gerst.
Eggert Ólafsson segir í ferðabók sinni um jarðelda í Trölladyngju: “Að minnsta kosti er það víst, að krýsvíkingar kunna að segja frá ægilegum jarðeldi, er brann í fjöllum þessum í fornöld. Eldflóðið féll í sjó niður og eyddi nokkrum bæjum á því svæði, sem nú heitir Ögmundarhraun. Meðal þeirra var kirkjustaður, sem Hólmastaður hét, og sjást þar enn minjar kirkjugarðsins og húsatóftanna.”

Húshólmi

Skáli við Húshólma.

Þorvaldur Thoroddsen segir í ferðabók sinni um rústirnar í Húshólma: “Ein sú lengsta er 49 fet, en breidd hennar sést ei fyrir hrauni.” Og ennfremur segir hann: “Þessar tóttir, sem hraunið hefur runnið yfir, eru full sönnun fyrir því, að það hefur myndast síðan land byggðist, þótt hvergi finnist þess getið í sögum eða annálum.” Einnig getur Þorvaldur um allmarga garða, sem sjáist þar enn. Hann segir um Ögmundarhraun, að Jónas Hallgrímsson hafi giskað á, að það hafi runnið í kringum 1340, “án þess þó að færa heimildir fyrir því”.
Brynjúlfur Jónsson frá Minna-Núpi skrifar í Árbók Hins ísl. fornleifafélags 1903 um Húshólma og fornminjarnar þar. Þar getur hann garða og húsarústa á svipaðan hátt og Þorvaldur Thoroddsen. Í greins inni kemst Brynjúlfur þannig að orði á einum stað: “Krýsuvík hefur til forna staðið niður undir sjó, fyrir vestan endann á Krýsuvíkurbjargi. Nafnið Krýsuvík bendir til þess.” Brynjúlfur er sá eini af þessum þremur fræðimönnum, sem minnist á og telur víst, að Krýsuvík hafi verið upphafalega þar, sem nú er Húshólmi.

Húshólmi

Húshólmi – stoðhola.

Það, sem einkum styður þá kenningu, að Krýsuvíkin hafi í upphafi staðið við sjó, er aðallega þetta: Nafn byggðarinnar – Krýsuvík, eins og Brynjúlfur Jónsson bendir á, því að lítt hugsanlegt er, hafi byggðin staðið frá landnámi þar, sem nú er, að hún hefði þá fengið þetta nafn, því að þar er ekki um neina vík að ræða, ekki einasta að byggðin sé það nærri Kleifarvatni, að nafnið gæti þaðan verið komið. Í öðru lagi eru það hinar miklu húsarústir og önnur verksummerki í Húshólma, með nöfnum svo sem Kirkjuflöt og Kirkjulág. Nöfn þessi benda til, að þar hafi kirkja verið, en aldrei mun getið nema einnar kirkju í Krýsuvík, og er að ég hygg fyrst getið í máldaga 1275, en prests getið þar snemma á 14. öld. Mun þetta hvort tveggja áður en Ögmundarhraun myndaðist.

Húshólmi

Í Húshólma.

Nú mun vera vaknaður nokkur áhugi fyrir hinum fornu rústum í Húshólma. Vonandi tekst áður en langur tími líður að lyfta þeim huliðshjálmi, sem fram að þessu hefur hvílt yfir leifum þessara fornu byggðar, þessum leifum, sem segja má, að neitað hafi að láta ægivald elds og hrauns undiroka sig, til þess að síðar, þegar við værum þess umkomin, gætum lesið sögu þessara byggðar og að einhverju leyti sögu þess fólks, sem þarna lifði og starfaði – og “sat meðan sætt var”.

Strjálir munu róðrar hafa verið frá Húshólma síðustu aldirnar. Þó munu menn stöku sinnum hafa lent þar bátum sínum, einkum á seinni árum, til þess að sækja timbur og annað það, sem á land hefur þar skolað, því rekasælt er í Hólmanum í góðum rekárum.

Húshólmi

Húshólmi – skáli.

Eins hefur það borið við, að sjóhraktir menn hafa náð þar landi. Þannig tók þar land um eða laust fyrir 1920, skipshöfn af selveiðiksipinu “Kóp”, sem sökk út af Krýsuvíkurbjargi á leið til Austurlands með saltfarm.
Skipshöfnin barði skipsbátnum í norðanbáli og kulda vestur með landi, en landtaka víst vart hugsanleg fyrr en í Húshólma, enda norðanáttin besta áttin þar. Þeir lentu í Húshólma heilum bát sinum, settu hann undan sjó, gengu svo – einhverjir eða allir – til Krýsuvíkur, því að allir komust þeir þangað og fengu þar og í Stóra-Nýjabæ, sem voru einu bæirnir í byggð þá.
Þær viðtökur og viðurgerning, sem Íslendingar eru svo þekktir fyrir þegar svo stendur á, ekki einasta hérlendis, heldur og allvíða erlendis.

Húshólmi

Húshólmi – garður.

Vitað er það, að Krýsvíkingar höfðu á síðari öldum útræði nokkurt, en þeir reru ekki út úr Húshólma, heldur frá Selatöngum, sem liggja fjær en tvennar vegalengdir í Húshólma, og hefur þetta vitanlega orsakað af því einu, að eins og þá var komið, mun ófært hafa verið talið útræði úr Húshólma, en gott frá Selatöngum að öðru leyti en því, að vatnslaust má telja þar, en oftast nægt vatn í Húshólmanum.
Svo var það sumarið 1917, að bændur í Krýsuvík tóku að hugsa til fiskiróðra út frá Húshólma. Ekki var hér um stórútgerð að ræða, enda ætlaði eigandinn að taka á sig tapið, ef eitthvert yrði, svo sem þeir munu enn gera, sem sjósókn stunda á opnum fleytum. Í Krýsuvík bjó þá Þorvarður Þorvarðarason, með systur sinni Hallbjörgu. Í Stóra-Nýjabæ bjó Guðmundur Jónsson.
Gata lá frá Krýsuvík niður í Húshólma og í gegnum Ögmundarhraun, áleiðis yfir á Selatanga.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín.

Heimildir m.a.:
-Ólafur Þorvaldsson – Harðsporar 1951.
-Ferðabók Eggerts Ólafssonar.
-Ferðabók Þorvaldar Toroddsens, I, bls. 186.

Húshólmi

Húshólmi – uppdráttur ÓSÁ.

 

Húshólmi

Brynjúlfur Jónsson frá Minna-Núpi safnaði og ritaði m.a. um gömlu Krýsuvík, Húshólma og Ögmundarhraun. Skrifin birtust í „Úr Tillaga til alþýðlegra fornfræða“ (bls. 101-102), sem Menningar- og fræðslusamband alþýðu gaf út 1953. Þau eru eftirfarandi:

Húshólmi

Húshólmi – fjárborg.

“Krýsuvík var fyrst byggð niður við sjó fyrir utan Krýsuvíkurberg, en lagðist svo af, að eldur kom upp í fjöllunum þar norður frá og runnu hraunkvíslar hér og þar fram á milli hálsanna. Hin austasta var einna mest. Smalamaður frá krýsuvík var kippkorn frá bænum með féð. Hann sá glóandi hraunleðjuna brjótast með feikna hraða ofan úr skarðinu upp frá bænum og fleygjast út yfir láglendið. Hann sá sér enga von til undankomu og beið með fjárhópinn þess, er að höndum kæmi, og fal sig guði: því hefir þetta skeð í kristni. Eldflóðið fór allt í kringum hann, og sakaði hvorki hann né féð nema eina á, segja sumir. Það heitir síðan Óbrennishólmi, er hann var.

Óbrennishólmi

Óbrennishólmi – fjárborg/virki.

Hraunið hljóp um allt láglendið og fram í sjó, en túnið í Krýsuvík stóð óskaddað og bærinn, en nálega var ófært þangað, þegar hraunið var storknað. Þá var bærinn fluttur þangað, sem Krýsuvík er nú, það er ofar og austnorðar. Þegar eldgangurinn var afstaðinn og hraunin storknuð, fóru menn að leggja veg til Grindavíkur yfir þau, og urðu öll rudd að þessu austasta fráteknu. Það var svo stórgert og hart, að það var óvinnandi, og varð ekki veginum komið á.

Ögmundardys

Ögmundardys austast við Ögmundarstíg.

Ögmundur hét maður. Hann var berserkur, illur viðskiptis og flakkaði um land og gjörði mörgum mönnum óskunda. Hann kom að Krýsuvík og bað dóttur bónda. Bóndi þorði ekki að neita og lofaði honum dóttur sinni, ef hann legði veg yfir hraunið. Hann gekk að því og fór til, byrjaði að vestan, en bóndi stóð við hraunbrúnina að austan. Ögmundur hamaðist og hjó rösklega veginn yfir hraunið, en þegar hann kom austur yfir og var búinn, dasaðist hann. Þá hjó bóndi hann banahögg og dysjaði hann þar. Grjóthrúga er þar við götuna, sem kallað er leiði Ögmundar, en stendur á kletti. Vegurinn gegnum hraunið er djúpur og mjór og víða brotinn eða höggvinn gegnum stór björg (hraunstykki), en víða þrepóttur í botninn, sem hin gamla gata segir (ort á seinni tímum):

Húshólmi

Húshólmi og Óbrennishólmi – loftmynd.

Eru í hrauni Ögmundar
ótal margir þröskuldar
fáka meiða fæturnar
og fyrir oss brjóta skeifurnar.

Síðan hefir hraunið heitið Ögmundarhraun. Þar, sem áður var bærinn Krýsuvík, heitir nú Húshólmi. Þar er vatnsskortur oftast. Litlar menjar kvað sjást þar af tóftum, en þó nokkrar.“

Rétt er að geta þess að Jón Guðmundsson frá Ísólfsskála, sem var með vegarvinnumönnum við gerð Hlínarvegar um 1932, sagði í viðtali 2002 að vegurinn hafi að mestu verið lagður ofan í Ögmundarstíg. Þar hafi þá verið djúp för í klöppunum eftir ferðalanga fyrri alda. Sums staðar hafi hellan brotnað vegna þess hve þunn hún hafi verið orðin og undir verið djúpar holur.

-Úr Tillaga til alþýðlegra fornfræða (bls. 101-102) – Brynjúlfur Jónsson – Menningar- og fræðslusamband alþýðu 1953.

Husholmi-25

Áð í Húshólma.

https://ferlir.is/husholmi-i/https://ferlir.is/husholmi/

Garðar

Í Fornleifaskráningu Garðabæjar 2009 er fjallað um  Garðabæ – fornleifar og áhugaverða staði:

Fornleifar og byggð
Syðst í landi Garðabæjar eru eldfjöll og hraunbreiður, en norðar og nær sjó eru grónir vellir og mýrarflákar inn á milli hraunkarga og klapparholta. Tvö friðlönd teygja sig inn fyrir bæjarmörkin að sunnanverðu, Heiðmörk og Reykjanesfólkvangur.

Vífilsstaðavatn

Við Vífilsstaðavatn.

Innan Garðabæjar eru tvö vötn og einnig renna þar tveir lækir. Vífilsstaðavatn er austan undir Vífilsstaðahlíð og Urriðavatn (Urriðakotsvatn) er á milli Urriðakots og Setbergs. Úr Vífilsstaðavatni rennur Hraunsholtslækur og úr Vatnsmýri rennur Arnarneslækur og falla þeir báðir til sjávar í Arnarnesvogi. Inn í strönd Garðabæjar skerast vogar og víkur, þar sem áður fyrr voru víða ágætis varir. Landbrot hefur átt sér stað í Garðabæ, þó í mun minna mæli en t.d. á Seltjarnarnesi.

Kringlóttagjá

Í Kringlóttugjá sunnan Búrfells.

Landslag og umhverfi í Garðabæ hefur tekið miklum breytingum á síðustu áratugum eftir að þéttbýli fór að myndast. Mest þéttbýli er milli Hafnarfjarðar og Kópavogs og svo allt frá Arnarnesi norður að Hraunsholti og Vífilsstöðum. Nokkuð hefur verið um þéttbýlismyndun í landi Urriðakots þar sem byggð rís nú á Urriðaholti þar sem heimatún bæjarins var áður. Verslunarkjarni hefur einnig risið þar norður af við götuna Kauptún. Jafnframt er golfvöllur á stórum hluta Urriðakotsjarðarinnar. Óbyggð svæði innan Garðabæjar einkennast mest af hraunbreiðum, víða miklum körgum, en í Garðahverfi má enn finna talsvert af túnum og graslendi.88 Hér á eftir verður fjallað um helstu minjaflokka sem skráðir voru í Garðabæ, einkenni þeirra og ástand.

Bæjarhólar, bæjarstæði og býli

Arnarnes

Litla-Arnarnes- bæjarstæði.

Bæjarhólar myndast þar sem bæir hafa staðið á sama stað um aldir. Hólarnir verða til úr gólflögum sem hafa hlaðist upp í tímans rás, byggingarefni, torfi og grjóti og öskuhaugum. Í bæjarhólum er helst að leita upplýsinga um húsakost, fæðu og almenn lífsskilyrði til forna og þar eru mestar líkur á að finnist merkir gripir. Bæjarhólar eru því mikilvægir minjastaðir en jafnframt eru þeir sá minjaflokkur sem einna verst hefur farið í uppbyggingu í landbúnaði, sem og þéttbýli, á þessari öld.

Helgadalur

Helgadalur – tóftir.

Samantektin hér að ofan byggir á upplýsingum úr bókinni Garðabær – byggð milli hrauns og hlíða.
Alls eru til heimildir um 52 bæjarstæði og bæjarhóla í landi Garðabæjar. Flest eru bæjarstæðin í hinu þéttbýla Garðahverfi og er þar oft um að ræða kot og þurrabúðir sem voru í byggð í takmarkaðan tíma og þar sem þykk mannvistarlög hafa hugsanlega ekki náð að hlaðast upp. Þó skal hafa þann fyrirvara í huga að upplýsingum um minjar í Garðahverfi er í sumum tilvikum ábótavant, þar sem upplýsingar um útlit og ástand minjastaða voru oft lauslegar í skráningu Ragnheiðar Traustadóttur og Rúnu K. Tetzschner frá 2005.

Urriðakot

Urriðakot – bæjarstæði.

Bæjarhóla með miklum mannvistarleifum er einna helst að finna þar sem bæir lögbýla og hjáleiga Garða hafa staðið öldum saman. Næsta víst má telja að mannvistarleifar sem ná aftur til landnáms megi finna við Garða. Í Urriðakoti, Arnarnesi, Hraunsholti og Selskarði eru vel sýnilegir bæjarhólar. Á bæjarhól Urriðakots eru leifar síðasta bæjarins frá miðri síðustu öld, en Urriðakot fór í eyði 1958. Rústirnar eru grafnar ofan í bæjarhólinn, sem er nokkuð hár og breiður og hafa raskað að nokkru leyti þeim mannvistarleifum sem þar hvíla, en þó er öruggt að í honum er enn að finna fornar mannvistarleifar sem stafar hætta af fyrirhuguðum framkvæmdum á Urriðaholti. Á Arnarnesi er bæjarhóll Arnarneskots vel sýnilegur. Hóllinn er þýfður og ójafn og 13×13 m að stærð, þó fornleifarnar kunni að ná yfir stærra svæði undir sverði. Hóllinn er hæstur um 1,3 m á hæð.

Urriðakot 1958

Urriðakot – loftmynd 1958.

Bær Hraunsholts hefur að líkindum lengi verið á sama stað og þar er enn stór bæjarhóll. Erfitt er að átta sig fyllilega á ummáli bæjarhólsins sökum framkvæmda á og í kringum hann, en hóllinn er að líkindum um 40×40 m að stærð. Nokkuð mikið af 20. aldar keramikbrotum eru á hólnum og eru þau án efa ættuð úr róti sökum framkvæmda á og við hólinn. Á hólnum sáust einnig brunnin bein og tennur úr nautgripum sem gætu verið ættuð úr nálægum öskuhaugi. Síðasta íbúðarhúsið á Selskarði var steypt og grunnur þess grafinn ofan í bæjarhólinn. Syðsti hluti steyptra undirstaðanna sjást enn, en nyrðri og meiri hluti grunnsins er hinsvegar horfin því gríðarmikil hola, um 25×20 m að stærð, hefur verið grafin ofan í bæjarhólinn. Hliðar holunnar eru grónar en sjá má að hleðslugrjót hefur oltið úr sárinu.
Bærinn hefur staðið á náttúrulegri upphækkun en mannvistarlög eru varla undir 1 m á þykkt.

Vífilsstaðir

Vífilsstaðir – loftmynd 1954. Hér sést gamla bæjarstæðið.

Bæjarhóll Vífilsstaða hefur verið sléttaður og er því horfinn, þó vafalaust megi enn finna einhverjar mannvistarleifar undir sverði. Bæjarhóll Arnarnesbæjarins hefur einnig verið sléttaður, en nokkrar mjög lágar aflíðandi bungur eru enn á flötinni og gætu þær verið leifar þess efnis sem rutt var þegar bæjarhólinn var sléttaður (sem var líklega þegar farið var að byggja á Arnarnesinu á sjöunda áratugnum).

Garðabær

Garðabær; Hofstaðir – loftmynd 1954.

Hofstaðabærinn sem nú stendur er byggður 1923 og er tvílyft steinhús með kjallara. Ekki er greinilegur bæjarhóll á svæðinu því umhverfið er vel sléttað. Sennilega eru þó talsvert miklar búsetuminjar í kringum Hofstaði, bæði á lóðinni sem og undir malbiki fjær frá húsinu. Fullvíst er að búseta hefur verið á Hofsstöðum allt frá fyrstu tíð, en víkingaaldarskáli var grafinn upp skammt frá núverandi Hofstaðabæ.
Bæjarhóll Setbergs er utan marka Garðabæjar og er því ekki til umræðu hér þó hluti af jörðinni hafi verið skráður.
Talsvert landbrot á sér stað í Garðahverfi sem hefur haft slæmar afleiðingar fyrir fornminjar. T.a.m. eru bæjarstæði Austur og Vestur Dysja að brotna ofan í sjó. Jafnframt eru sagnir til um að Nýibær hafi áður fyrr staðið á

Bakki

Bakkirof á sjávarbakka.

Nýjabæjarskeri, sem er nú umlukið sjó. Annars hafa bæjarhólar og bæjarstæði í Garðahverfi að þó nokkru leyti orðið fyrir barðinu á túnasléttun og seinni tíma byggingum. Þó eru sjáanlegar tóftir, hleðslur eða hólar á Garðhúsum, Hóli, Sjávargötu, Garðabúð, Katrínarkoti, Köldukinn, á ónefndu býli norðan Köldukinnar , Arndísarkoti og síðast en ekki síst stendur Króksbærinn enn og er opinn fyrir almenning. Mikil og þétt búseta hefur verið í Garðahverfi öldum saman og því er næsta víst að miklar mannvistarleifar leynast þar víða undir sverði, þó svo að í sumum tilvikum verði þeirra ekki vart á yfirborði.
Ljóst er að miklar mannvistarleifar leynast enn undir sverði á lögbýlum og hjáleigum í Garðabæ. Bærinn er í fremur örum vexti og því mikilvægt að ítreka að engar framkvæmdir sé ráðgerðar á bæjarhólum og bæjarstæðum nema í samstarfi við Fornleifavernd ríkisins og þá með tilheyrandi mótvægisaðgerðum.

Útihús í og við heimatún

Urriðakotshraun

Fjárhústóft Guðmundar í Urriðakotshrauni.

Eins og algengt var á Íslandi voru skepnuhús á skráningarsvæðinu dreifð um tún bæja til að dreifa áburði. Hlutfall útihúsa á nokkrum býlum í Garðahverfi var þó, eins og gefur að skilja, nokkuð lægra en á hreinum landbúnaðarsvæðum. Þess í stað voru fleiri staðir tengdir sjósókn.

Garðabær

Garðabær – loftmynd 1954.

Alls voru skráð 67 útihús innantúns í landi Garðabæjar og eru þá meðtalin öll þau útihús sem þekkt eru á hjáleigum og smábýlum. Verður þetta hlutfall að teljast fremur lágt ef haft er í huga að 19 jarðir eru skráðar innan marka Garðabæjar. Tún Setbergs er þó mestmegnis í landi Hafnarfjarðar og lendir einungis eitt útihús Garðabæjarmegin. Engin útihús eru þekkt frá Hagakoti þar sem ekkert túnakort er til af jörðinni og ekkert útihús er merkt hjá Ráðagerði á túnakorti Garðahverfis. Þó er ljóst að skepnuhús hefur verið áfast íbúðarhúsinu í Ráðagerði. Alls eru 54 útihús skráð sem hafa óþekkt hlutverk og eru þessi hús oftast skráð af túnakortum.
Innan Garðabæjar eru þekktar heimildir um sex fjárhús og eitt lambhús. Tóftir fjárhúsa og lambhúsa eru í túni Urriðakots, heimildir eru um tvö fjárhús í túni Hofsstaða (nú komin undir byggð), heimildir eru um fjárhús á Miðengi og Hausastöðum og tóftir fjárhúsa sjást enn í túni Hausastaðakots.

Garðahverfi

Bakki – útihús, tóftir að baki.

Tvö fjós eru skráð, bæði í Garðahverfi. Heimild er um fjós á Miðengi, en tóft fjóss er að finna á Dysjum. Heimildir voru tiltækar um þrennar kvíar við heimatún í Garðabæ en hvergi sáust leifar þeirra. Örnefnið Kvíaflöt er við tún Urriðakots, á Hraunsholti var heimild um kvíar og sömu sögu að segja af Nýjabæ.

Smiðjuhóll

Smiðjuhóll við Arnarnes.

Leifar tveggja hesthúsa eru þekktar, annarsvegar innan byggðar Garðabæjar og hinsvegar í Garðahverfi. Í Hraunsholti er tóft hesthúss sem hlaðin er úr torfi og grjóti og standa veggir hennar enn nokkuð heilir, hæstir um 1,5 m að innanverðu, en tóftinni stafar hætta af trjágróðri sem vex allt í kring. Skammt frá Katrínarkoti í Garðahverfi er svo lítil þúst og hleðsluleifar sem taldar eru af hesthúsi.

Arnarnes

Arnarnes – loftmynd 1954.

Í Garðabæ er eitt örnefni sem bendir til smiðju innantúns, en að það er Smiðjuhóll í túni Arnarness, sem nú er búið að slétta úr.
Ljóst er að víða í Garðabæ geta leynst leifar útihúsa undir sverði innan túna eldri bæja. Þar sem Garðahverfi varð snemma nokkuð þéttbýlt og svæðið hefur byggst hratt upp undanfarna áratugi, var eldri húsum víða rutt út og vitneskja um þau hefur í mörgum tilfellum týnst niður á skömmum tíma. Vel er hugsanlegt að slíkar leifar hafi þegar verið alveg eyðilagðar við byggingu íbúðarhúsa og annarra þéttbýlismannvirkja en rétt er að ítreka að varlega skal fara í allt umrót, sérstaklega innan heimatúna eldri bæja.

Mannvirki tengd sauðfjárrækt (utan heimatúna)

Selgjá

Selgjá – uppdráttur ÓSÁ.

Nokkuð stór hluti skráðra fornleifa í landi Garðabæjar tengjast sauðfjárbúskap og er marga slíka staði að finna utan túns og í úthögum. Markverðasti staðurinn er að líkindum svokölluð Selgjá sem var friðlýst af Kristjáni Eldjárn árið 1964, en í örnefnaskrá segir að Álftnesingar hafi haft þar í Seli allt fram á 18. öld. Selgjá er hrauntröð frá Búrfelli og náttúrulegt aðhald með fjöldi fjárbyrgja. Hún er framhald Búrfellsgjáar, sem nær alla leið að Búrfelli, en er sá hluti hrauntraðarinnar sem liggur norður frá Hrafnagjá og skiptist milli lands Urriðakots og Garðakirkjulands.

Selgjá

Selgjá.

Selgjá er fremur grunn og víða um 120 m breið og er hún slétt og gróin í botninn. Í norðurenda Selgjár er Selgjárhellir, náttúrulegur hraunhellir sem hlaðið hefur verið fyrir og þannig nýttur sem fjárskýli. Suður frá Selgjárhelli, bæði fast við hellinn og allt að 750 m frá honum meðfram austur og vestur hliðum gjárinnar, eru skráð 19 mannvirki sem tengjast seljabúskap, tóftir, garðlög og hleðslur við hella. Selgjá er heildstætt og stórt minjasvæði innan marka höfuðborgarsvæðisins sem mikilvægt er að varðveita. Skammt norðan við Selgjá eru aðrir staðir sem einnig voru friðlýstir 1964, Sauðahellir efri og svokallaðir Norðurhellar og má líta á þessa hella sem hluta af heild með Selgjánni. Sauðahellirinn er sérstaklega merkilegur, en op hans er hlaðið upp með mjög fallegum, yfirbyggðum inngangi sem hægt er að standa í hálf uppréttur og sem liggur niður að tveim náttúrulegum hellum, sínum á hvora hönd. Sauðahellir og Norðurhellar voru eflaust nýttir við seljabúskap líkt og rústirnar í Selgjá.

Setbergssel

Setbergssel – fjárhellir.

Sex önnur sel eru skráð innan Garðabæjar. Fyrst er að nefna Kjöthelli, einnig nefndur Selhellir, sem var selstaða Setbergs frá fornu fari. Elsta heimildin um Kjöthelli er landaskiptabréf dagsett 6. júní 1523. Í jarðabók Árna og Páls eru hagar sagðir þar góðir. Kjöthellir er um 20 m langur og opinn í báða enda, lofthæð er ríflega 2 m og breidd um 4 m. Um miðbik hellisins er hlaðið skilrúm sem skiptir honum í tvennt. Skilrúmið kann að benda til að hellirinn hafi verið nýttur af tveim jörðum, þá Hamarskoti og Setbergi og hefur nyrðri helmingurinn að líkindum tilheyrt Setbergi. Hleðslur eru við hellisopin og er meira lagt í þá nyrðri en þar eru hlaðin, bogadregin göng sem liggja að opinu. Hlaðið hefur verið þak yfir innganginn að hluta með hraunhellum, þó það sé nú að nokkru leyti hrunið.

Setbergssel

Kjötshellir.

Í næsta nágrenni Kjöthellis er tóft sem að líkindum tengist Selstöðunni. Um 70 m frá henni er hlaðið aðhald í náttúrulegri lægð. Hátt í 200 m vestur af Kjöthelli er Kershellir sem er nokkuð stór hraunhellir sem hugsanlega var einnig nýttur sem selstaða. Inni í honum er hleðsla sem er nokkuð ógreinileg vegna hruns úr lofti. Önnur selstaða er á mörkum Setbergs og Hamarskots við svokallaða Gráhellu í Gráhelluhrauni. Mannvirkið er hlaðið upp að klettinum Gráhellu, sem myndar suðurvegg þess, og samanstendur af einni tóft og hlöðnum grjótgarði fast austan við hana. Lítill skúti gengur suður úr enda tóftarinnar inn í Gráhellu. Bogadregið garðlag úr hraungrýti gengur frá norðausturhorni tóftarinnar og sveigir til suðurs að Gráhellu sem hefur mögulega verið aðhald fyrir sauðfé eða heystæði.

Vífilsstaðasel

Vífilsstaðasel.

Í landamerkjalýsingu í örnefnaskrá kemur fyrir örnefnið Seljahlíð sem er betur þekkt sem Sandahlíð. Örnefnið Seljahlíð bendir til að þar hafi einhvern tíma verið sel. Þar fundust hins vegar engar tóftir né mannvirki á vettvangi. Næst er að nefna tóftir Vífilsstaðasels sem eru að finna upp á Vífilsstaðahlíð skammt frá mastri 29 í Ísallínu. Í landi Hraunsholts var svokallað Hraunsholtssel að finna sunnan við Hádegishól. Nú er búið að ryðja hraunið sunnan Hádegishóls undir byggð. Til selsins sást hins vegar enn árið 1987. Loks er sel skráð undir Görðum sem er að finna á svokölluðum Garðaflötum í Garðakirkjulandi skammt frá Búrfelli, en nafn þess er ekki lengur þekkt. Um 5 m frá henni er mögulega rúst annars mannvirkis sem er afar sigið.

Búrfellsgjáarrétt

Búrfellsgjáarrétt.

Samtals voru skráðar 23 réttir í landi Garðabæjar sem skiptast á sjö jarðir og þar af sjást sautján enn á yfirborði. Flestar eru réttirnar skráðar í landi Urriðakots. Þar sést til fimm rétta en heimildir eru til um aðrar þrjár sem nú eru horfnar. Skammt sunnan túns var rúst réttar sem hét Grjótréttin eða Grjótréttin eystri en ekki sést lengur til hennar og má vera að grjót úr henni hafi verið nýtt í nálægar byggingar en nokkuð er um mannvirki úr seinni heimstyrjöld í næsta nágrenni. Grjótréttin vestri var skammt vestan túngarðs og er hún einnig horfin. Svokölluð Hraunrétt var við hraunbrúnina við Vetrarmýri en er horfin, mögulega undir stórverslanir IKEA og Byko við Kauptún. Fast austan við túngarð Urriðakots er lítil rétt hlaðin úr grjóti. Réttartangi skagar út í Urriðakotsvatn og um 30 m vestur af honum á Hrauntanga er hlaðin kró upp við hraunhellu sem er innan Lambhagagarðs en óvíst er hvort króin er samtíða honum. Króin er hlaðin úr hraungrýti og er sigin og fornleg. Við austanverða hraunbrúnina við Vesturmýri, um 200 m suður af Byko við Kauptún 6 eru leifar réttar sem er byggð við náttúrulega hraunbrún og skarð í hrauninu.

Urriðakot

Urriðakot – Stekkjatúnsrétt.

Stekkjartúnsrétt er í litlu viki í hraunkarganum fast austan í golfvelli. Hægt er að greina leifar eins hólfs og garðbrots sem gengur út frá því, en réttin er mikið röskuð.
Leifar annarrar réttar eru einnig fast við sama golfvöll, um 220 m suðaustar. Af þeirri rétt má greina eitt hólf auk garðlags. Innan í hólfinu er lítill hellisskúti. Lítið, grjóthlaðið aðhald er einnig í hraunkarganum sem markar vesturbrún Flatahrauns, um 110 m suðaustur af rétt. Í landi Vífilsstaða voru réttir á svokölluðum Réttarflötum um 200 m norðaustur af Maríuhellum en þær eru nú horfnar undir malbikað bílastæði. Í Hagakoti fundust leifar tveggja rétta við vettvangsathugun og voru báðar við jaðar Hafnarfjarðarhrauns. Sú fyrri er mynduð úr þrem vikum inn í hraunjaðarinn að norðanverðu sem er lokað fyrir með signum garðlögum, einu fyrir hvert vik. Öll garðlögin eru hlaðin úr hraungrýti, grónu skófum og mosa.

Hagakot

Hagakot – Hagakotshellir.

Hitt aðhaldið í Hagakoti er einnig við norðurjaðar Hafnarfjarðarhrauns. Það er eitt hólf, hlaðið úr meðalstóru hraungrýti. Fjórar réttir eru skráðar í Hraunsholti og er ein þeirra að líkindum horfin undir byggð og einungis þekkt úr ritheimildum. Gatan Langalína liggur eftir endilöngum tanga sem heitir Réttartangi eða Aðrekstrartangi og eru miklar líkur á þar hafi verið að finna hlaðna rétt en þétt byggð er nú á svæðinu. Hinar réttirnar eru í eða við Hafnarfjarðarhraun og sjást enn. Rétt er norðarlega í Hafnarfjarðarhrauni, um 90 austur af Hraunhólum 19. Veggir réttarinnar eru nokkuð tilgengnir og signir. Annað minna aðhald er að finna í lægð í hrauninu skammt frá. Lægðin er gróin í botninn og er þar að finna litla, hlaðna tóft úr hraungrýti og torfi sem fellur vel inn í umhverfið. Tveir litlir hellar opnast einnig inn af lægðinni og eru þeir afar stórgrýttir á botninum, en engin mannvirki fundust við þá.

Búrfellsgjá

Búrfellsgjá – hellir efst í gjánni.

Fjórða réttin í Hraunsholti er við norðurjaðar Hafnafjarðarhrauns og kallast Stöðulgjóta. Stöðulgjóta var heimarétt sem tók um 30-40 kindur.92 Aðhaldið er eitt hólf og er hlaðið úr hraungrýti, en suður- og vesturveggir aðhaldsins eru úfið hraun sem norður- og austurveggir eru hlaðnir upp að. Í Garðakirkjulandi nyrst í Búrfellsgjá er að finna fallegar minjar, Gjárétt, skammt sunnan við Hrafnagjá.

Flatahraunsrétt

Flatahraunsrétt.

Gjárrétt var hlaðin 1840 og var fjárskilarétt Álftaneshrepps til 1922, en réttað var í henni að einhverju marki allt til 1940. Til suðausturs frá réttinni liggur nokkuð sigið garðlag að öðru aðhaldi við vesturbarm Búrfellsgjáar sem nýtir náttúrulega hraunveggi að norðan, vestan og sunnan, en austurveggurinn er hlaðinn úr hraungrýti. Innst í aðhaldinu er svo hlaðið byrgi við náttúrulegan hraunvegginn. Alls er rústasvæðið, réttin, garðlagið og aðhaldið, rúmlega 50 x 50 m að stærð. Skráðar voru sex réttir í Garðahverfi. Ein þeirra var á Bakka og var hún ferhyrnd og hlaðin úr hraungrýti, en hinar eru á Görðum. Um 220 m norður af hjalli nokkrum sem stendur við Balakletta er lítil rétt hlaðin úr hraungrýti.
Réttin er eitt hólf en frá því liggur garðbrot til norðurs. Fast suður af þessari rétt er önnur lægð í Flatahrauni sem myndar aðra rétt. Þar mynda náttúrulegir hraunveggir ásamt hleðslum réttarstæðið. Skammt suðvestur og nær sjó er gerði hlaðið úr hraungrýti.

Garðastekkur

Garðastekkur, tóftin lengst til vinstri, og Garðarrétt.

Garðastekk er svo að finna sunnan undir hraunbrúninni á móts við Garðaholtsveg. Garðastekkur er hlaðin utan í hraunkantinn og skiptist í fjögur hlaðin hólf en milli þeirra og hraunsins myndast einnig tvö hólf til viðbótar. Þá sjást leifar af fimmta hólfinu nyrst og í krika vestan við stekkinn er grasi gróin tóft. Að lokum má nefna að til er heimild um svokallaða Hraunrétt sem ekki sést lengur til.
Einn nátthagi eða vörslugarður, Lambhagagarður, er hér skráður með Setbergi, þó hann teygi sig einnig að hálfu inn á land Urriðakots. Hann liggur þvert á landamerkjagirðingu milli Setbergs og Urriðakots sem skiptir Hrauntanga milli jarðanna tveggja. Hann er signari og ógreinilegri í Setbergslandi en í Urriðakoti, en þar er hann einna best varðveittur syðst á um 10 m kafla sem liggur að Urriðakotsvatni.

Setberg

Setberg – fjárhústóft í Fjárhúsholti.

Sjö beitarhús eru skráð í landi Garðabæjar, á fjórum jörðum og sjást leifar þeirra allra. Í Setbergi eru skráð tvenn beitarhús sem lenda Garðabæjarmegin. Beitarhús er á svæði sem kallast Hústún. Beitarhúsið er í vestanverðri Setbergshlíð og hlaðið úr grágrýti.

Oddsmýri

Oddsmýri – beitarhús.

Oddnýjarfjárhús eru í vestanverðum Oddnýjardal, undir austanverðum Norðlingahálsi. Þetta er tvískipt tóft, fjárhús og hlaða, sem grafin er inn í brekku. Hlaðan er grjóthlaðin en fjárhúsið úr múrsteinum með grjóthlöðnum sökkli. Eitt beitarhús er skráð í landi Hraunsholts og kallast Hvammurinn eða Hvammsfjárhús. Tóftin er um 80 m vestur af brú yfir Hraunsholtslæk sem er framhald göngustígs frá Lindarflöt. Aðhald var VSV við tóftina er þar er lægð í hrauninu. Tvenn beitarhús er einnig að finna í landi Urriðakots. Annað þeirra var byggt af Guðmundi Jónssyni bónda við hraunkraga sem myndar vesturbrún Flatahrauns. Beitarhúsið er hlaðið úr hraungrýti sem hefur verið tilhöggið í múrsteinslaga kubba. Hitt beitarhúsið er Fjárhústóftin syðri sem er um 470 m NV af Selgjárhelli. Beitarhúsið er hlaðið við náttúrulegt bjarg sem myndar að hluta til suðurvegg hennar. Á Vífilsstöðum eru tvenn beitarhús og er annað þeirra fremur illgreinanlegt. Hitt beitarhúsið, Vífilstaðabeitarhús er hlaðið úr hraunhellum sem sumar hverjar hafa verið höggnar til.

Urriðakot

Fjárhústóft í Urriðakotshrauni.

Í landi Garðabæjar eru skráð níu fjárskýli en tvö þeirra hefur verið fjallað um framar í skýrslunni í tengslum við selstöðu. Það eru Selgjárhellir og Sauðahellir í landi Urriðakots. Hin fjárskýlin sjö eru á tveimur jörðum. Á Vífilsstöðum eru skráð þrjú fjárskýli, þar af tveir hellar. Sauðahellirinn nyrðri er lítill og náttúrulegur hellir. Hlaðnir kampar eru beggja vegna við hellismunann en þar var sauðum gefið á gadd og heyið borið frá bæ.

Maríuhellar

Maríuhellar.

Maríuhellar eða Vífilsstaðahellar eru á mörkum Vífilsstaða og Urriðakots. Þetta eru tveir hellar sem voru að öllum líkindum einn hellir í fyrndinni en hrun úr loftinu skipti honum í tvennt. Um 25 m eru á milli munna hellanna, sá nyrðri tilheyrði Vífilsstöðum en hinn Urriðakoti. Fjárborgin, er um 3 m austur af Vífilsstaðabeitarhúsi. Fjárborgin var aldrei fullbyggð, átti að vera hringlaga og opnast til norðausturs. Í landi Garða eru skráð fjögur fjárskýli. Búrfellshellir er sunnarlega í Búrfellsgjá. Munni hellisins er 5-6 m breiður og snýr til suðurs. Hleðsla er fyrir honum og dyr á henni miðri. Fjárborg er á hraunbrún Gálgahrauns, beint andspænis Görðum. Undirstöðurnar eru einungis eftir. Heimildir eru einnig um Fjárborgir í landi Garða sem voru á svæði sem kallast Gjá og fyrir neðan þær voru hellar sem kölluðust Selhellar.

Urriðakot

Urriðakot – stekkjarrétt við Stekkjartún.

Alls eru sex stekkir skráðir í landi Garðabæjar en þeir hafa verið fleiri. Í landi Urriðakots eru raskaðar leifar stekks. Hann er í viki sem gengur í vesturbrún Flatahrauns fast vestan við golfvöll. Það eina sem er eftir af stekknum er um 5 m langt garðbrot. Á Vífilsstöðum eru varðveittir tveir stekkir og sést til þeirra beggja.
Finnsstekkur er undir suðvestur horni Smalaholts. Máríuvellir eða Stekkatún er lítil flöt í hraunjaðri Flatahrauns, fast uppi við Vífilsstaðahlíð. Þar er stekkjartóft. Í Hraunholti er stekkur er kallast Stekkurinn. Hann er í svokallaðri Stekkjarlaut. Þetta eru líklega leifar stekksins en töluverðar framkvæmdir hafa verið í og umhverfis lautina og stekknum mögulega raskað. Bakkastekkur er í landi Bakka, á svokölluðu Bakkastekksnefi. Stekkurinn er hringlaga og hlið er á honum austanverðum. Þaðan til austurs liggur aðhaldshleðsla. Í landi Hofstaða er heimild um stekk sem kallaðist Stekkurinn. Hann var við mýrarjaðar austan bæjar, þar sem nú er þétt byggð.

Túngarðar

Arnarnes

Arnarnesbærinn 1958 – loftmynd.

Eins og gefur að skilja, þegar haft er í huga að í landi Garðabæjar er nú risið þéttbýli, er lítið eftir af ósnortnum túnum. Ekki er ólíklegt að túngarðar hafi á einhverjum tíma verið umhverfis heimatún flestra ef ekki allra bæja og býla innan núverandi marka Garðabæjar, í það minnsta þeirra sem áttu á annað borð einhverja túnskika umhverfis bæina. Leifar túngarða hafa varðveist á flestum jörðum.
Innan Garðabæjar eru leifar túngarða að finna á Setbergi, Urriðakoti, Vífilsstöðum, Arnarnesi, Hraunsholti og Garðahverfi. Ástand Setbergstúngarðs er misjafnt en þeir hlutar sem eru best varðveittir eru norðarlega, meðfram austurjaðri túnsins í landi Garðabæjar. Vesturpartur garðsins sem er í landi Hafnarfjarðar er kominn undir byggð.

Urriðakot

Urriðakot – Túnakort 1918.

Urriðkotstúngarður er vel varðveittur og afmarkar sama svæði og sýnt er á túnakorti frá 1918. Hæstur er Urriðakotstúngarður um 1 m en víða er hann öllu signari. Miklar líkur eru á að uppbygging byggðar á Urriðaholti komi til með að raska garðinum en minnt er á að honum má ekki raska nema að fengnu leyfi Fornleifaverndar ríkisins. Þannig er Garðastekkur skráður sem rétt vegna þess að hlutverk hans breyttist í tímans rás.

Vífilsstaðir

Vífilsstaðir – gamli bærinn.

Vífilsstaðatúngarður er að mestu horfinn en þó má finna slitrur af honum meðfram austurjaðri gamla túnsins, mestmegnis eru það grjótnibbur í reglulegri röð en allra nyrst er enn torf í garðinum. Leifar tveggja túngarða er enn að finna á Arnarnesi. Annars vegar Arnarnestúngarð sem er vel greinilegur á óbyggðum lóðum Mávaness 3 og 5 en afgangur hans er kominn undir byggð eða sléttaður. Hinsvegar er túngarður Litla Arnarness sem er um 11 m austur af bæjarhól Litla-Arnarness og er suðvesturendi um 40 m ANA af Súlunesi 33. Túngarður Litla Arnarness er sigin og greinist sem gróin aflöng bunga í þýfinu og sem röð af meðalstóru grjóti. Vísbending um að garðurinn sé að líkindum nokkuð gamall er að hann er klipptur þvert af gamalli leið. Að auki var í landi Arnarness svonefnt Gerði sem var kofatóft og garðbrot á grænum bletti og er jafnvel talið að þar kunni að hafa verið akurreitur áður fyrr. Fornleifarnar eru nú horfnar undir byggð á Arnarnesholti, en árið 2006 fór fram björgunaruppgröftur á minjunum en niðurstöður hans eru óbirtar.

Hraunsholt

Hraunsholt – Túnakort 1918.

Hraunsholtstúngarður hefur að mestu leyti verið sléttaður en er þó greinanlegur um 150 m austur af bæjarhól sem grjótfyllt „renna” í jörðinni og er stærsta grjótið allt að 0,5 m að ummáli. Til eru heimildir um fimm aðra túngarða innan núverandi byggðarmarka Garðabæjar sem ekki eru sjáanlegir ofan svarðar lengur. Þar af eru tveir í landi Hraunsholts sem búið er að slétta úr,

Hraunsholt

Hraunsholtsselsstígur.

Garðlagið gamla og Gerðisgarður sem báðir voru að líkindum nærri þeim túngarði sem enn sést til.
Túngarðar Hofsstaða, Hagakots og Selskarðs með öllu horfnir undir byggð eða verið raskað með öðrum hætti. Ekkert túnakort er til af Hagakoti og því er ekki hægt að staðsetja Hagakotstúngarð í þéttri byggð Flatahverfisins en samkvæmt Sigurlaugu Gísladóttur á Hofstöðum eru talsverðar líkur á að leifar Hofstaðatúngarðsins leynist undir sverði á grónum sléttuðum fleti suðaustan við Tónlistarskóla Garðbæjar og norðvestan við Hofslund, þar sem enn er óbyggt svæði.
Talsverðar leifar túngarða er að finna í Garðahverfi. Veglegasta garðlagið er Garðatúngarður. Í fornleifaskráningu Ragnheiðar Traustadóttur og Rúnu Tetzschner frá 2003 segir: „Talað var um Austurgarð austur frá Garðahliði en Vesturgarð vestur frá því. […] Austan Dysja var kallaður Dysjatúngarður.

Garðar

Garðar – túngarður – Hlíð utar.

Fornleifaskráning fór fram árið 1984 og fundust þá hlutar Vesturgarðsins. Ofan Garða er hann varðveittur frá Garðhúsum til Háteigs og birtist síðan aftur á um 70 m kafla ofan Hlíðar en endar við girðingarhorn við heimkeyrslu Grjóta.
[…]. Ætla má að allir íbúar Garðahverfis hafi sameinast um byggingu þessa mikla túngarðs undir stjórn séra Markúsar enda hefur þeim líklega borið skylda til. Eins og fram kemur voru þarna eldri garðlög fyrir en mannvirkjagerð af þessu tagi hefur tíðkast frá fornu fari.” Garðatúngarður hefur girt af mest allt Garðahverfið, þ.e. tún Garða og hjáleiga. Vestur af Garðatúngarði voru hlaðnir margir minni garðar sem hólfuðu niður tún einstakra býla og eru þau garðlög mörg hver jafnframt sjóvarnargarðar er verja tún, enda talsvert landbrot á þessum slóðum og eru þeir hlutar sem liggja að strönd meiri mannvirki.

Önnur garðlög og gerði

Garðaholt

Garðaholt – túngarður. Hlíð framundan.

Auk túngarða og sjóvarnargarða voru skráð 36 garðlög í landi Garðabæjar. Af þeim sjást um 30 á yfirborði. Einn gamall kirkjugarður er þekktur innan marka bæjarins, Garðakirkjugarður en umhverfis hann er grjóthlaðinn garður. Elstu minningarmörkin sem fundist hafa í garðinum eru frá 17. öld, en víst er að kirkja hefur staðið á Görðum allt frá fyrstu tíð. Tveir landamerkjagarðar voru skráðir á vettvangi.

Urriðakot

Urriðakot – kvíar.

Annar garðurinn, skilur milli Setbergs og Urriðakots og liggur um 750 m til NNV frá Urriðakotsvatni. Hann er siginn og hefur seinna meir verið bættur með gaddavírsgirðingu sem nú er fallin. Hinn landamerkjagarðurinn er skráður í landi Urriðakots og skildi milli þeirrar jarðar annarsvegar og landa Hagakots, Vífilsstaða, Hraunsholts og Setbergs hinsvegar. Garðlagið kallast í daglegu tali Fjárréttargirðing og hefur því jafnframt þjónað sem vörslugarður. Samkvæmt Svani Pálssyni heimildamanni er Fjárréttargirðingin horfin undir byggð og malbik að nokkrum hluta, en þó má enn rekja garðlagið um 800 m í Hafnarfjarðarhrauni. Annar vörslugarður er skráður í landi Garðabæjar og er hann einnig að finna í landi Urriðakots, nánar til tekið frá rétt, yfir Flatahraun og liggur hann í að Vífilsstaðahlíð. Mögulega er um að ræða aðrekstrargarð í réttina.

Talsvert ítarlegar heimildir eru um kálgarða í Garðabæ og kemur þar helst til að þeir eru gjarnan merktir inn á túnakort sem teiknuð voru af flestum túnum á svæðinu árið 1918. Margir þessara kálgarða eru sjálfsagt ekki mjög fornir en þó má gera ráð fyrir að elstu garðarnir geti jafnvel verið frá fyrstu árum kálræktar á Íslandi. Samtals eru skráðir 24 kálgarðar í landi Garðabæjar, flestir upp af áðurnefndum túnakortum og eru leifar 15 garða enn sjáanlegar. Í Urriðakoti, skammt vestan við bæjarhúsin, sjást leifar kálgarðs sem er merktur er á túnakort. Kálgarðurinn er alls um 30×30 m stór.

Vífilsstaðir

Vífilsstaðir – Túnakort 1918.

Á Vífilsstöðum sést enn kálgarður sem sýndur er á túnakorti fast sunnan og austan við gamla bæinn. Garðurinn er grjóthlaðinn og einungis sést móta fyrir leifum tveggja veggja, suður og austur. Á túnakorti Hofsstaða eru sýndir tveir kartöflugarðar sem báðir eru nú horfnir undir byggð. Annar kartöflugarðurinn var áður þar sem nú er bakgarður og sólpallur við síðasta bæjarhús Hofsstaða, sem stendur enn. Hinn kartöflugarðurinn var kallaður Kristjánsgarður og var þar sem nú er leikskólinn Kirkjuból. Á túnakorti Arnarness eru sýndir tveir kálgarðar fast við bæjarhúsin. Þeir eru báðir horfnir en bæjarhóll Arnarness og túnið allt var sléttað þegar byggð var skipulögð á nesinu. Í Hraunsholti voru samkvæmt túnakorti þrír kálgarðar árið 1918 og sést einn þeirra enn. Garðbrot er um 5 m suðvestan við bakgarð Hraunsholtsvegar 2 og er þar sami garður og sýndur er á túnakorti um 80 m vestur af bæjarhúsi Hraunsholts. Hinir tveir kálgarðarnir sem sýndir eru á túnakorti Hraunsholts eru nú horfnir, annar var um 10 m suður af bæ en hinn var um 20 ASA af bæ. Nú eru leifar seinni tíma girðingar á þessum slóðum, fúnir timburstaurar og vír.

Dysjar

Dysjar, Bakki, Pálshús – Túnakort 1918.

Engar heimildir eru til um kálgarð í Hagakoti vegna þess að ekkert túnakort er til af þeirri jörð og er nú þétt byggð þar sem túnið var áður. Nokkrir kálgarðar eru hinsvegar skráðir í Garðahverfi. Á Dysjum eru tveir kálgarðar sýndir á túnakorti og sést enn til annars. Túnakortið sýnir kálgarð umhverfis bæjarhús Dysja og er hann enn greinilegur, hlaðinn úr torfi og grjóti. Hinn garðurinn var við útihús sem einnig er horfið og sýnir túnakortið garðinn fast við traðir norður af bæjarhúsunum. Túnakort Bakka sýnir kálgarð fast við sjávarbakkann framan við bæjarhúsin, enn hann hefur að líkindum horfið í sjó og sést ekki lengur. Á Görðum eru skráðir tveir samfastir kálgarðar umhverfis bæjarstæði Hóls og voru þeir nýttir áfram eftir að Hóll lagðist í eyði og voru kallaðir Hólsgarðar. Búið er að jafna þá við jörðu og var hleðslugrjótinu ýtt upp í allmikla hrúgu sem enn mun vera sýnileg. Austan og sunnan við Ráðagerðisbæinn er kartöflugarður, hlaðinn úr grjóti, sem jafnframt er sýndur á túnakorti 1918.

Garðahverfi

Garðatúngarður,

Túnakort Miðengis sýnir tvo kálgarða suður af bæjarhúsunum. Vestari garðurinn heitir Fjósgarður en sá eystri Framgarður, báðir voru garðarnir grjóthlaðnir. Í Hlíð voru skráðir fjórir kálgarðar sem allir eru sýndir á túnakorti. Kringum bæjarhúsin í Hlíð var kálgarður sem var samansettur af fimm hólfum.

Garðar

Garðar um 1900.

Við fornleifaskráningu 1984 fannst hluti garðsins sem var þá mjög lág og yfirgróin hleðsla. Þurrabúðin Gata var í landi Hlíðar og við býlið var grjóthlaðin kálgarður sem nú er horfinn. Önnur þurrabúð í landi Hlíðar var Holt og umhverfis hana var kálgarður sem kallaðist Holtsgerði. Holtsgerði er ferhyrndur garður um 32 x 30 m að ummáli. Skammt frá Holtsgerði er Illugagerði sem einnig var ræktað frá Holti, en það gerði Illugi Brynjólfsson ábúðandi á Holti um aldamótin 1900. Illugagerði er grjóthlaðið og fannst við fornleifaskráningu 1984. Í Móakoti var kálgarður við bæjarhúsin sem sýndur er á túnakorti. Grjóthlaðnar leifar kálgarðsins eru beint vestur af bæjartóft Móakots. Á Hausastöðum eru heimildir um kálgarð af túnakorti sunnan bæjarhúsanna, en ekki sést til garðsins lengur. Túnakort Hausastaðakots sýnir kálgarða umhverfis bæjarhúsin og var þeim viðhaldið eftir að býlið fór í eyði. Kálgarðsleifarnar eru raunar greinilegustu leifarnar á bæjarstæði Hausastaðakots. Á túnakort Selskarðs eru teiknaðir tveir kálgarðar. Annar kálgarðurinn er austan við bæjarhúsin en hinn var að öllum líkindum þar sem fornleif er nú að finna.

Garðar

Garðar – Túnakort 1918.

Í landi Garðabæjar eru skráð 11 garðlög með óþekkt hlutverk, flest þeirra eru gerði.
Í landi Setbergs er lítið garðbrot á svokölluðum Hrauntanga við Urriðakotsvatn. Garðlagið er rúmlega 20 m langt og snýr nokkurn veginn austur-vestur. Garðlagið er afar sigið og gæti verið gamalt.

Vífilsstaðir

Vífilsstaðir – beitarhús.

Á Vífilsstöðum er garðlag í úfnu og hálfgrónu hrauni um 5-10 m vestan við Vífilsstaðabeitarhús. Garðlagið er illa hlaðið og virðist grjótinu hafa verið staflað í lengju og í botni gjárinnar endar það í ólögulegri hrúgu en er lögulegra upp suður gjábarminn. Mögulegt er að hey hafi verið gefið undir garðinum. Í landi Hraunsholts er að finna eitt garðbrot með óþekkt hlutverk. Átta þessara garðlaga eru síðan í Garðahverfi. Í landi Pálshúsa er garðlag sem sýnt er á túnakorti frá 1918. Það er sýnt sem ferhyrndur garður með hlöðnum veggjum austan Pálshúsabæjar. Garðlag er í landi Nýjabæjar og sést að hluta. Á Görðum eru fimm garðlög sem ekki hafa skýrt hlutverk. Eitt þeirra er og er sýnt á túnakorti frá 1918. Þessi niðursokkni grjóthlaðni garður fannst líklega við fornleifaskráningu 1984. Annað garðlag er á túnakorti 1918 og sýnt sem tveir samfastir garðar í stæði hjáleigunnar Sjávargötu. Samkvæmt fornleifaskráningu frá 1984 er þetta ferhyrndur grjóthlaðinn garður, annar annar minni grjótgarður gengur úr honum í átt til sjávar en endar við girðingu milli Garða og Miðengis. Þriðja garðlagið er teiknað á túnakort frá 1918 og sést enn. Fjórða garðlagið er einnig á túnakorti frá 1918 og er það grjóthlaðið gerði með stefnuna norðvestur-suðaustur. Fimmta garðlagið í landi Garða er Hallargerði.

Sjóminjar

Álftanes

Álftanes – sjóbúð.

Minjar tengdar sjósókn voru einna algengastar minja í Garðahverfi og þarf það e.t.v. ekki að koma á óvart þegar blómleg sjósókn þar í gegnum aldirnar er höfð í huga. Samtals voru skráðar 54 fornleifar tengdar sjósókn í Garðabæ, þar af voru 47 þeirra í Garðahverfi.

Hlið

Hlið – Álftanesi.

Af þessum fornleifum hefur þegar verið fjallað um 11 sjóvarnargarða en hér að neðan fylgir umfjöllun um aðrar minjar í þessum flokki.
Algengastar sjóminja í Garðabæ eru varir. Samtals voru skráðar 15 varir/lendingar, á átta lögbýlum í Garðahverfi. Nánast allar varirnar eru nú horfnar að mestu eða öllu leyti. Varirnar voru misgóðar og sumar þeirra þurfti að hreinsa reglulega þar sem stórgrýti vildi safnast í þær samkvæmt örnefnaskrá. Mögulega hafa einhverjar þeirra verið náttúrulegar.
Dysjabryggja er náttúrulegur tangi sem lent var við. Hið sama má segja um Bakkabryggju, Miðengisbryggju og Hausastaðabryggju.
Heimildir eru þekktar um uppsátur á níu stöðum í Garðabæ. Líklegt má telja að einhver uppsátranna hafi horfið í sjó en töluvert landbrot á sér stað í Garðahverfi. Á Arnarnesi og Hraunsholti hafa tvenn uppsátur hins vegar horfið undir byggð.

Brúsastaðir

Brúsastaðir – uppsátur.

Sjö naust á sex lögbýlum voru skráð í Garðabæ, öll í Garðahverfi. Í sex tilfellum bera ritaðar heimildir einungis tilvist þeirra vitni og öll ummerki þeirra eru horfin. Í Lambhúsatjörn er vík við norðvesturhorn Gálgahrauns og þar er hleðsla sem líklega eru leifar nausts.

Norðurnes

Norðurnes – sjóbúð.

Þrjár sjóbúðir voru skráðar í Garðabæ og eru þær allar í Garðahverfi. Ummerki um tvær þeirra sjást ekki á yfirborði en Katrínarkotsbúð sést enn og er í landi Hausastaða. Tóftir hennar eru rétt við sjóvarnargarð, nánar tiltekið á svokölluðum Guðrúnarvelli. Þekktar eru heimildir um tvær verbúðir, báðar í landi Hausastaða. Í Jarðabók Árna og Páls er getið um verbúð sem notuð var af Selskarði. Þegar bókin var gerð hafi verbúðin verið notuð í um 30 ár. Staðsetning hennar er óþekkt. Örnefnið Búðarós ber hinni verbúðinni vitni. Nafnið er líklega dregið af verbúð en engar sannanir fyrir tilvist hennar hafa komið í ljós á þessum slóðum. Fleiri minjar um sjósókn en þær sem hér hafa verið upptaldar er að finna í Garðabæ.

Hleinar

Hleinar – hjallur. Hvaleyri framundan og Keilir.

Heimild um einn hjalla er þekkt innan bæjarmarkanna. Hann var í landi Bakka en farin í sjó þegar skráning var gerð þar árið 2003. Árið 1870 var Garðaviti reistur sem mið af sjó fyrir fiskibáta. Áður en vitinn var reistur, var þar fyrir torfvarða og kveikt á lugt til leiðarvísis. Vitinn stóð á háholtinu, fyrir ofan Háteig og var notaður fram til 1912. Á stríðsárunum var vitinn notaður sem skotbyrgi af Bretum en húsið síðan selt. Tóft er byggð utan í klappir alveg við sjávarmál.

Garðahverfi

Garðaviti.

Tóftin er hlaðin úr grjóti og styrkt með sementi og telja má líklegt að hlutverk hennar tengist sjósókn. Heimild um hvalstöð, í landi Garða, er að finna í örnefnaskrá Hafnarfjarðar. Þar kemur fram að hvalstöð hafi verið á Rauðnefstanga en ekki kemur fram á hvaða tíma hún var í notkun en hún lagðist af vegna slyss sem þar varð. Á svæðinu sjást nú um sjö grjóthlaðnar tóftir með görðum á milli. Áttunda tóftin er enn undir þaki með timburstoðum. Leifar lýsisbræðslu eru skráðar í landi Dysja sem norskur maður á að hafa sett upp. Ekki kemur fram á hvaða tíma þetta var gert. Þarna sjást nú tvær tóftir, grjóthlaðin grunnur með grófri steinsteypu og minni tóft norðan við hann.

Arnarnes

Arnarnessker.

Heimild um þangtekju er að finna í landi Arnarness. Þar kemur fram í rituðum heimildum að þang hafi verið tekið á Arnarnesskeri. Það er tangi sem er alþakinn fersku þangi og fer í kaf á flóði. Í Hraunholti er varðveitt hleðsla sem líkist helst hálfmána í laginu. Hleðslan er um 10 m frá sjó, sokkin og bogadregin. Önnur minni hleðsla lokar þeirri stærri að hluta og myndar grjótfyllta rennu. Þetta eru mögulega leifar uppsáturs, herslugarðs eða jafnvel verbúðar.
Þá eru upptaldar þær minjar um sjósókn sem skráðar voru í Garðabæ. Eins og með marga aðra minjaflokka má minna á að ekki er ólíklegt að fleiri minjar leynist undir sverði, í þessu tilfelli við sjávarsíðuna. Rétt er að ítreka að fara þarf varlega í frekari framkvæmdir við sjávarsíðuna.

Leiðir

Fógetagata

Fógetagata.

Alls voru skráðar 120 leiðir, brýr og vöð í Garðabæ. Mikið af heimildum er til um leiðir á svæðinu og munar þar helst um bókina Örnefni og leiðir í landi Garðabæjar sem og örnefnaskrár lögbýlanna.

Garðavegur

Garðavegur og gamla sjávargatan að Görðum.

Alls voru skráðar fimm leiðir í Garðabæ sem voru e.k. þjóðleiðir. Þær eru sýndar á korti Björns Gunnlaugssonar frá 1844 en það var endurbætt í bókinni Örnefni og leiðir í landi Garðabæjar.
Í fyrsta lagi er að nefna alfaraleið frá Álftanesi til Reykjavíkur og Seltjarnarness og kallaðist Álftanesgata eða Fógetagata. Gatan lá frá Álftanesi um Gálgahraun og er nyrst alfaraleiðanna og skráð á þremur lögbýlum í Garðabæ. Gatan sést m.a. á yfir 200 m löngum kafla skammt austan við Súlunes 26 í landi Arnarness. Önnur alfaraleið lá sunnar og var skráð á fimm stöðum í Garðabæ, en einungis sést til hennar á einum þeirra. Leiðin gekk undir nöfnunum Alfaraleiðin og Gömlu Fjarðargötur og lá frá Elliðavatni norðan við Vífilsstaðavatn að Hraunholtslækjarvaði. Það hélt hún áfram um Engidalsnef að svokölluðum Vegamótum, en þar komu saman nokkrar leiðir sem sjást á kortum bókinni Örnefni og leiðir í landi Garðabæjar.

Vífilsstaðir

Vífilsstaðir – Suðurtraðir.

Í landi Vífilsstaða lá gatan um Vífilsstaðamela, á svipuðum stað og malbikaður vegur er nú. Líklegt er að gömlu göturnar liggi þar undir. Gatan lá úr Krossgötum, ofanvert við Hagakotstúnið en þar er hún horfin undir byggð í Flata- og Lundahverfi.

Garðahverfi

Engidalsvegur um Flatahraun aftan Fjarðarkaupa.

Hluti af Gömlu Fjarðargötum sjást á milli lóða í Hraunshólum 6-8. Steyptur göngustígur sem liggur frá Stekkjarflöt að Hraunshólum var lagður yfir götuna. Alfaravegur lá af Gömlu Fjarðargötu norður með túngarði og yfir Hraunsholtslæk að Háubrekku sem var vinsæll áningarstaður ferðamanna. Þessi hluti leiðarinnar er horfinn undir byggð. Alfaravegur 2 lá einnig af Gömlu Fjarðargötum, milli hraunbrúnar og túngarðs að fyrrnefndum Krossgötum. Þessi hluti leiðarinnar er einnig horfin undir byggð. Þriðja alfaraleiðin í landi Garðabæjar er Hafnarfjarðarvegur sem var lagður á árunum 1897-1898. Hann lá frá Reykjavík til Hafnarfjarðar og er ennþá í notkun. Innan marka Garðabæjar lá Hafnarfjarðarvegur úr Engidal niður að Arnarneslækjarbrún. Líklegt er að malbikað hafi verið yfir gömlu göturnar við vegaframkvæmdir.

Selvogsgata

Selvogsgata.

Fjórða alfaraleiðin er Selvogsgata sem lá úr Hafnarfirði um Grindaskarð til Selvogs. Í landi Garðabæjar sést til götunnar fast vestur undir Setbergshlíð innan lögbýlisins Setbergs. Leiðin er að mestu leyti utan merkja Garðabæjar.
Að síðustu ber að að nefna Álftanesveg sem lá frá Suðurtraðahliði á Hraunsholtstúni, með hraunbrúninni í Engidal. Vegurinn lá frá Hafnarfjarðarvegi og sameinaðist Álftanesgötu í landi Garða. Árið 1910 var þetta vagnleið og notuð til flutninga. Gatan er ekki sýnd á korti Björns Gunnlaugssonar frá 1844 og því líklega yngri.

Vífilsstaðir

Vífilsstaðir – Jónshellnastígur.

Af skráðum leiðum í Garðabæ voru 21 heimreiðar/traðir, þ.e. slóðar sem lágu frá túnjaðri að bæjarstæðum. Flestar heimreiðanna voru skráðar upp af túnakortum frá 1918 og örnefnalýsingum og eru nú horfnar, en leifar einna traða sjást enn. Á Vífilsstöðum eru greinilegar leifar af upphlöðnum tröðum sem lágu frá bæ og niður að læk. Traðirnar sjást enn á kafla norðan lækjarins. Mikið af leiðum eru skráðar innan lögbýla, m.a. brunngötur og leiðir að selum. Heimildir eru til um 36 slíkar leiðir. Það sést til fimm þessara leiða í dag. Í Urriðakoti sést til einnar leiðar, Grásteinsstígs. Gatan er rudd gegnum hraun frá golfveli og hlykkjast áfram talsverðan spöl. Innan merkja Vífilsstaða sést til þriggja leiða.

Jónshellar

Í Jónshellum.

Jónshellnastígur hlykkjast í gegnum hraunbreiðu frá gamla bæjarstæðinu að Jónshellum. Það sést til Vífilsstaðaselsstígs þar sem hann liggur frá Ljósukollslág og upp holtið að selinu. Þessi leið er að hluta til hin sama og Gjáréttargötur. Að síðustu sést Grunnavatnsstígur sem lá frá vatnsósnum, inn með Vífilsstaðahlíð og upp Grunnavatnsskarð. Leiðin sést á um 500 m bili vestan í Grunnavatnsskarði en er fremur ógreinileg. Í landi Garða er ein leið, Garðagata. Gatan lá frá Görðum í Garðastekk og sést til gatnanna um 100 m norðan við hann. Annar slóði liggur frá stekknum til norðausturs og sameinast Álftanesgötu og er það líklega Álftanesstígur sem m.a. er sýndur er á korti á bls. 64 í Örnefni og leiðir í landi Garðabæjar.

Arnarnes

Gamla þjóðleiðin frá Kópavogi yfir Arnarnesháls. Litla-Arnarnes t.v.

Gera má ráð fyrir því að frá flestum býlum við strönd í Garðabæ og öllu Garðahverfi hafi legið gata að sjó. Heimildir eru hins vegar aðeins þekktar um 10 slíkar leiðir og eru þær allar í Garðahverfi. Í öllum tilvikum sjást leiðirnar á túnakorti Garðahverfis frá 1918. Líklegt má telja að leiðir að sjó hafi einnig verið í Arnarnesi og Hraunsholti þó ekki hafi varðveist heimildir um þær.
Skráðar voru þrjár leiðir að kirkju innan Garðabæjar. Stórakróksgata eða Kirkjustígur lá frá Urriðakoti og að Garðakirkju en ekki sést lengur til götunnar. Leiðin lá norðaustur við Stórakrókshól og þaðan yfir hraunið að Garðakirkju.

Garðahverfi

Gata að Hlíð.

Í landi Garða eru skráðar tvær kirkjuleiðir. Dysjabrú lá frá Mónefi yfir Dysjamýri. Þetta vegbrot átti að auðvelda leið að kirkju meðan Hafnfirðingar áttu kirkjusókn að Görðum. Gálgahraunsstígurinn syðri tók við þar sem Dysjabrú endaði. Þessi leið var að öllu jafnaði farin að kirkju en Kirkjustígur í miklum leysingum99.
Í Garðabæ eru einnig 13 leiðir sem ekki er hægt að flokka í ofangreinda flokka (þ.e. í alfararleiðir/heimreiðar/sjávargötur/götur til staða innan jarða eða kirkjuleiðir). Gott dæmi er Dýrtíðarvinnuvegur sem liggur þráðbeinn yfir hluta Hafnarfjarðarhrauns. Hann var lagður árið 1918 undir járnbraut. Vegurinn var aldrei kláraður og sést það vel þar sem norðaustur hluti hans endar. Þar er búið að ryðja hraunið en eftir að bera grjót í hann. Leið sem liggur yfir Hafnarfjarðarhraun var skráð í Hagakoti. Hún hefst rétt við brúnna yfir Hagakotslæk niður af Lindarflöt 16 og 28. Leiðin endar við Suðurhraun 12 innan merkja Hafnarfjarðar. Þar stefnir hún á gamlar götur sem varðveist hafa bak við Fjarðarkaup og hugsanlega sameinast þeim.

Hagakotsstígur

Hagakotsstígur.

Vífilsstaðagata var á Arnarneshæð en er líklega horfin vegna framkvæmda á svæðinu.100 Gatan hefur, eins og nafnið gefur til kynna, líklega legið frá Vífilsstöðum og tengst Álftanesgötu í landi Arnarness. Vífilsstaðavegur hinn nýji var lagður árið 1908 á milli Hafnafjarðarvegar og Vífilsstaða. Vegurinn er enn í notkun en hefur verið hækkaður og malbikaður. Gjáréttargata lá frá Urriðakoti og upp á Urriðakotsháls. Hún er nú að mestu leyti undir nýrri vegi en afar greinileg þegar komið er í Selgjá. Gjáréttarstígur eða Hraunsholtsstígur lá frá Hraunsholti að Urriðakoti og í Gjáréttir. Stígurinn sést enn hlykkjast áfram í gegnum Hafnarfjarðarhraun.

Járnbrautarvegur

Járnbrautarvegur í Hafnarfjarðarhrauni, milli Hafnarfjarðar og Garðabæjar.

Dýrtíðarvinnuvegur liggur t.d. þvert á stíginn. Krossgötur voru á mel í horni Flatahrauns en þar er nú slétt grasflöt milli Stekkjaflatar og Hraunholtslækjar. Þar komu saman a.m.k. sex leiðir sem heimildir geta um. Í landi Garða var skráður vegur sem er upphlaðinn að hluta. Vegurinn liggur til austurs frá hleðslu en ekki er tekið fram hversu langur vegurinn er eða hvert hann virðist stefna. Mýrarbrú var í landi Hraunsholts en heimildum ber ekki saman um staðsetningu hennar. Gatan er annað hvort sögð hafa verið í Austurmýri eða Lágumýri en á hvorugum staðnum sást til gatnanna. Leiðir milli lögbýla eru þrjár í Garðabæ þó vafalaust hafi aðrar götur einnig verið notaðar í þeim tilgangi. Hagakotsstígur lá frá Hagakoti að Urriðaholti en nefndist Urriðakotsstígur þar. Hagakotsstígur hófst við stiklur sem var vað á Hagakotslæk. Stígurinn hlykkjast yfir Hafnafjarðarhraun og sést vel til hans í landi Hagakots.
Gjáréttarstígur Álftnesinga, einnig kallaður moldargötur, var í landi Urriðaholts og tók við af Hagakotsstíg ef haldið var inn með norðurhlíð Urriðaholtshlíðar að Maríuhellum. Á þessum slóðum er nú malarborinn jeppaslóði en nokkuð rask hefur orðið á leiðinni vegna bygginga við Kauptún.

Engidalsgata

Engidalsgatan gamla.

Innan Garðabæjar voru skráð 12 vöð og sjö brýr, en meirihluti þeirra er nú horfin. Þessar minjar voru dreifðar um skráningarsvæðið en flestar eru utan Garðahverfis.
Að samanlögðu má skipta gatnakerfi Garðabæjar í þrennt. Þetta eru alfaraleiðir, leiðir innan bæja og svokallaðir tengivegir. Að sunnan og austan hafa legið alfaraleiðir og síðar frá Reykjavík. Frá þessum götum hafa svo legið heimreiðar að flestum bæjum og býlum. Auk þeirra voru víða styttri slóðar innan landareigna, oftast t.d. frá bæ og að sjó. Nauðsynlegt er einnig að skoða Garðahverfið sem eina heild, þar var gatnakerfi á milli lögbýla enda óvenju þéttbýlt þar. Lögbýlin eru öll innan Garðatúngarðs og aðeins hægt að fara inn um nokkur hlið á honum. Segja má að þar sé komin smækkuð mynd af leiðakerfi utan hverfisins, þar eru alfaraleiðir, smærri tengivegir og leiðir milli
bæja.

Vatnsból

Urriðakot

Urriðakot – vatnsþró.

Í Garðabæ voru skráð 27 vatnsból á 15 jörðum. Sjálfsagt hafa vatnsból verið víðar utan Garðahverfis þó staðsetning þeirra sé nú týnd. Lítið er um uppsprettur og læki í Garðahverfi og líklegt að heimildir um vatnsból séu þar nokkuð tæmandi.
Vatnsveita var í Urriðakoti og sjást merki hennar ennþá. Vatnsveitan samanstendur af hlöðnum brunni í mýrarjaðri, rétt utan túns. Frá honum lá Brunnrásin eftir mýrinni og út í Urriðakotsvatn. Brunnrásin sést ennþá og fallin grjóthleðsla sem gæti hafa verið brunnur. Í Urriðakoti er jafnframt heimild um annan brunn í Selgjá.
Á Vífilsstöðum var steyptur vatnsgeymir í hlíð upp frá ósi Vífilsstaðavatns og vatn þaðan var leitt í Vífilstaðahælið. Vatnsból Garðabæjar er í Dýjakrókum en þar í mýrinni eru ótal uppsprettur. Ekki er ljóst hvort að vatn hafi verið tekið þaðan áður en vatnsbólið var byggt. Önnur heimild er um vatnsból í læknum niður undan bæ á Vífilsstöðum.
Auk áðurgreindra vatnsbóla var brunnur í Hagakoti, Hofstaðabrunnur og Lindin voru í landi Hofstaða, Arnarnesbrunnur og Gvendarbrunnur í Arnarnesi og í Hagakoti voru Hraunholtsvatnsbólið og Hraunholtsbrunnurinn en ekki sést til þeirra nú.
Í Garðahverfi voru fimm brunnar skráðir. Á Görðum er Garðalind sem var aðalvatnsból Garðahverfisins alls. Í Garðalind er rennandi vatn og voru tröppur niður að vatninu. Vatnsgjáin er náttúrulegt vatnsból í botni Búrfellsgjáar. Það var notað sem vatnsból Gjáréttar og tröppur hlaðnar niður að vatninu. Í Móakoti er hlaðinn brunnur tæpa 20 m norðaustan við bæ. Katrínarkotsbrunnur er í landi Hausastaða og var grafinn í túnið eftir að hætt var að nota Hausastaðabrunn . Brunnurinn er hlaðinn og voru hlaðnar tröppur niður að honum. Grjótabrunnur er í landi Hausastaðakots, norður frá Grjóta. Þetta er hlaðinn brunnur sem fylltur hefur verið upp. Í Garðahverfi eru heimildir um níu aðra brunna sem ekki sést til. Þetta eru Dysjabrunnur, Pálshúsabrunnur, Nýjabæjarbrunnur, Króksbrunnur, Garðhúsabrunnur, tveir brunnar austan Háteigsbæjar, Miðengisbrunn, Karkur og Hausakotsbrunn.

Herminjar

Garðaholt

Camp Gardar Tilloi.

Í Garðabæ voru á hernámsárunum fjögur braggahverfi og eru þau sýnd á korti í bókinni Ísland í hershöndum. Þau voru Tilloi og Garðar sem voru við Garða, Slingsby hill í Hranholti og Russel á Urriðaholti. Ólíkt flestum öðrum þéttbýlisstöðum hér á landi þar sem umsvif hersins voru mikil urðu ekki til íslensk braggahverfi í Garðabæ eftir stríðslok.

Camp Russel

Camp Russel – bíóbraggi.

Nú er einungis eitt þeirra varðveitt, Camp Russel í Urriðaholti. Slingsby Hill, við Hraunholt, er horfið undir byggð en ekki er vitað hvað varð um braggahverfin við Garða. Hætt er við að staðsetning slíkra minjastaða, sem alveg eru horfnir af yfirborði og sáust e.t.v. aðeins um stutt skeið, týnist fljótt niður þéttbýli. Þrátt fyrir að braggabyggðin hafi fljótt horfið í Garðabæ leynast herminjar enn víða og voru samtals skráðar 18 slíkar minjar á níu bæjum.
Í Setbergi eru varðveittir tveir minjastaðir sem tengjast mannvirkjum seinni heimsstyrjaldar. Á Flóðhjalla þar sem hann rís hæstur eru leifar vígis frá Bretum sem ætlað var til varnar mögulegri innrás Þjóðverja í Hafnarfirði. Mannvirkin samanstanda af garðlagi og tveimur greinilegum tóftum innan þess. Mögulega hafa verið fleiri mannvirki innan garðlagsins en þau sjást ekki greinilega. Á náttúrulegan stein innan garðlagsins hefur verið klappað ártalið 1940 og fangamörkin J.E. Bolan og D.S..

Camp Russel

Camp Russel – kort.

Skotbyrgi er á norðausturbrún Setbergshamars, um 60 m frá steinsteyptum landamerkjasteini. Skotbyrgið er grjóthlaðið, nánast hringlaga og hrunið að mestu.
Í Urriðakoti er varðveitt steypt vatnsból frá hernum austur af Dýjamýri. Jafnframt eru heimildir sem greina frá því að tvö skotbyrgi hafi verið í landi Urriðakots. Enn eru samt ótaldar umfangsmestu minjarnar á Urriðakotsholti sem og Garðabæ öllum. Þetta eru leifar Camp Russell og þar má greina fjölmarga húsgrunna og aðrar minjar. Í skýrslu Ragnheiðar Traustadóttur og Rúnu K. Tetzschner frá 2005 eru kort sem sýna staðsetningu minja á svæðinu og eru þær um 40 talsins.

Hnoðraholt

Hnoðraholt – skotbyrgi.

Á Vífilsstöðum hafa varðveist tvö skotbyrgi. Á svokölluðu Hnoðraholti er steinsteypt, hálfniðurgrafið skotbyrgi. Gott útsýni er frá því, einkum til norðurs og austurs. Hitt skotbyrgið er í norðurenda Vífilsstaðahlíðar, um 50 m vestan við vörðu sem í seinni tíð gengur undir nafninu Gunnhildur og er líklega dregið af enska orðinu „Gunhill”. Skotbyrgið er niðurgrafið og er veggur hlaðinn úr hraungrýti umhverfis innganginn.
Ógreinilegar leifar skotbyrgis eru að finna í landi Arnarness. Skotbyrgið er um 100 m sunnan við Arnarnesbrúnna og sést sem gróin upphækkun í grýttu og blásnu umhverfi. Heimild um annað skotbyrgi í landi Arnarness í svokölluðum skotmóa sem er á mörkum Kópavogs og Garðabæjar en ekkert sést til þess nú.

Hafnarfjörður

Langeyri – leifar bragga.

Í Hraunholti eru leifar tveggja mannvirkja úr síðari heimsstyrjöld. Annað þeirra er skotbyrgi. Það er um 7 m suðvestur af botni Lækjarfitjar og enn undir þaki. Byrgið er steinsteypt, niðurgrafið og þarf að fara niður nokkrar tröppur til að komast inn en það hefur nú verið fyllt af rusli. Herminjar með óþekkt hlutverk eru um 10 m SSV af brú yfir Hraunholtslæk. Þetta er steyptur grunnur sem er nánast ferkantaður. Hér er mögulega um tvö mannvirki að ræða. Þar sem leifar braggahverfisins eru líklega horfnar undir byggð eru þetta einu minjarnar sjáanlegar á yfirborði um veru hersins á lögbýlinu.
Í landi Bakka er getið um tvö loftvarnarbyrgi í örnefnaskrá sem séu að fara í sjó. Í fornleifaskráningu frá 1984 segir að tóft hafi verið byggð ofan í eitt þeirra en þau hafi verið mörg með skotgröfum á milli. Líklega sést ekkert til þeirra lengur.

Langeyri

Langeyri og nágrenni – örnefni.

Á Görðum eru ummerki um tvær herminjar. Þrír steyptir grunnar, líklega undirstöður undir bragga, eru sitthvoru megin við Herjólfsgötu, þar sem hún mætir Herjólfsvegi og Garðabraut. Þessar leifar kunna að vera það eina sem eftir er af braggahverfinu sem var á svæðinu og fyrr var minnst á. Tvö samtengd skotbyrgi eru ofan Garðakirkju, beint útfrá útsýnisskífu. Þau eru steinsteypt, ferhyrnd og á milli þeirra hlykkjast skotgröf sem sést enn vel. Jafnframt var aðal loftvarnarbyrgi Breta efst á Garðholtsenda en þar er nú hús og ekkert sér til herminja. Í Hausastaðakoti eru tvö mannvirki tengd hernaði. Annað þeirra er byggt ofan í tóft sem sýnd er á túnakorti frá 1918. Lögun mannvirkisins og tóftarinnar eru óljós. Hitt mannvirkið eru þrjár sambyggðar tóftir. Þær eru á spildu sem merkt er á túnakort frá 1918 sem eign Hausastaðakots. Tóftirnar eru byggðar inn í hól og líklega verið skotbyrgi.

Urriðaholt

Langeyri – herminjar.

Elliðavatnsvegur eða Flóttavegur var lagður af Bretum á stríðsárunum. Vegurinn liggur á milli Hafnafjarðar og Suðurlandsvegar. Leiðin er skráð á tveimur stöðum í landi Vífilsstaða og lá frá Urriðaholti, um Vífilsstaðaland, Rjúpnadal og ofan Vatnsenda við Rauðavatn. Þessi leið er enn notuð og hefur verið malbikuð. Lagning þessa vegar hefur hins vegar líklega raskað eldri götum sem fyrir voru á svæðinu.
Ljóst er að umfang og staðsetning herminja í Garðabæ býður vel uppá að kynna þennan hluta sögu sveitarfélagsins fyrir almenningi og gera minjarnar aðgengilegar. Ekki er ólíklegt að fleiri minjar um hersetu séu að finna innan merkja Garðabæjar þó mikið hafi án efa horfið í þéttbýlið.

Verndun og kynning minja á skráningarsvæðinu

Garðahverfi

Garðahverfi – örnefni.

Eins og kemur fram í kafla um fornleifaskráningu þá teljast minjar í heimatúnum bæja sem eru enn í byggð sem og minjar innan bæjarmarka þéttbýlis að jafnaði í hættu. Því töldust flestar þær fornleifar sem skráðar voru í Garðabæ í hættu vegna ábúðar, þ.e. vegna nábýlis við þéttbýli enda hafa ýmsar framkvæmdir við vegi, byggingar og annað það umrót sem fylgir þéttbýli skemmt fjölmargar fornleifar í Garðabæ síðustu áratugi. Einnig töldust fjölmargar fornleifar vera í stórhættu á skráningarsvæðinu. Það er í flestum tilvikum tilkomið vegna fyrirhugaðra framkvæmda annars vegar og landbrots sem verður við sjávarsíðuna hins vegar. Þrátt fyrir góðan vilja yfirvalda í Garðabæ til þess að rannsaka og varðveita fornleifar hafa talsvert margir minjastaðir horfið af yfirborði innan bæjarmarkanna frá því að fornleifaskráning fór fyrst fram árið 1984. Í eldri skráningum er því oft getið um minjastaði sem þá sáust á yfirborði en síðan verið skemmdir. Það er því rétt að ítreka að til að gagn sé í fornleifaskráningu sem þessari þarf hún að vera nýtt í skipulagsgerð og ef vel á að vera, kynnt framkvæmdaaðilum, bæjarstarfsmönnum og almenningi.

Garðahverfi

Garðahverfi – bæir, garðar og götur.

Garðabær í heild sinni býður upp á fjölmarga möguleika í minjavernd og kynningu á minjum. Svæðin ofan byggðar s.s. Heiðmörk, Búrfellsgjá og Selgjá eru vinsæl útivistarsvæði og þar eru víða skipulagðar gönguleiðir og -stígar. Einnig hafa verið gerð kort yfir helstu hlaupa- og gönguleiðir innan bæjarins og sýnt hvar upplýsingaskilti og útsýnisskífur eru staðsett. Þetta er mjög gott framtak en betur má ef duga skal. Eflaust mætti setja fleiri skilti með upplýsingum um minjar t.d. í Selgjá. Innan Garðabæjar er einnig fjöldi herminja sem mætti nýta til kynningar fyrir almenning sem og minjar um sjósókn í Garðahverfi. Á vegum bæjarins var unnið að því að gera niðurstöður rannsókna á Hofsstöðum sýnilegar og í þeim tilgangi reistir gagnvirkir upplýsingaskjáir og útlínur tóftanna byggðar upp. Framtakið er gott og gerir minjarnar mun aðgengilegri fyrir bæði almenning og ferðamenn sem leggja leið sýna til bæjarins. Gagn væri einnig að því að reisa upplýsingaskilti á vettvangi annarra fornleifarannsókna á svæðinu og koma þannig upplýsingum til almennings sem á leið um svæðið hvað var verið að rannsaka.

Garðabær

Garðabær – bæjarmerkið.

Þrátt fyrir að þéttbýlt hafi verið í Garðabæ um áratugi er þar enn að finna talsvert af fornleifum. Einhverjar leifar sjást enn í tæpum helmingi minjastaða sem þar eru þekktir. Allar þær fornleifar sem skráðar voru í Garðabæ hafa varðveislu- og minjagildi en þær sem eru yngri en 100 ára hafa ekki jafna stöðu á við hinar samkvæmt ramma laganna. Þessar fornleifar eru þó engu að síður mikilvægt að varðveita og má í því samhengi minna á skemmtilegar herminjar víða á svæðinu.

Selgjárhellir

Norðurhellar.

Innan merkja Garðabæjar er að finna þrjár friðlýstar fornminjar. Allar voru þær friðlýstar af Kristjáni Eldjárn árið 1964. Þetta eru Gjárétt, Selgjá og Norðurhellar.
Gjárrétt er í enda Búrfellsgjár og er merkilegur minnisvarði um fjárbúskap í Garðahreppi. Þar var fjárskilarétt hreppsins á 19. og 20. öld en rétttin var hlaðin árið 1840. Í réttinni sést vel hvernig menn hafa nýtt sér til fullnustu náttúruna við byggingu réttarinnar. Aðhald tengist Gjárétt með garðlagi en nýtir náttúrulega hraunveggi úr öllum áttum nema til austurs. Hraunbrúnin slútir yfir vesturhluta aðhaldsins og myndar þannig grunnan helli eða byrgi í vesturhluta þess.

Selgjá

Selgjá er framhald Búrfellsgjár og er þar að finna fjölmargar tóftir, sumar í landi Urriðakots en flestar í landi Garða. Litið var á Selgjá sem eitt samfellt minjassvæði vegna þess hversu landfræðilega afmörkuð hún er. Því var hún öll skráð undir einu númeri og fellur í þessari skráningu undir númer Urriðakots. Í gjánni eru samtals 33 tóftir í 11 sambyggingum sem flestar eru byggðar upp að brúnum gjárinnar. Þetta eru m.a. stekkir, hleðslur, garðlög, hellar og sel. Staðurinn er án efa einn allra merkilegasti minjastaður Garðabæjar enda mannvirkin minnisvarði um sauðfjárbúskap og ómetanleg heimild um selstöðu allt fram á 18. öld.

Selgjá

Selgjá – fjárskjól.

Selgjárhellir markar nyrsta hluta Selgjár.
Norðurhellar voru friðlýstir ásamt Selgjá. Selstæðið vestan í Selgjánni gekk undir nafninu Norðurhellar. Þeir eru skammt norðan við Selgjá og ættu Selgjárhellir og Sauðahellir efri að teljast með þeim, enda hlutar af sama hellakerfi. Alls fundust á svæðinu átta hellar fyrir utan þá fyrrnefndu.
Fjöldi annarra athyglisverðra minjastaða er að finna í Garðabæ og hér verða nefndir nokkrir minjastaðir- og –flokkar sem teljast, fyrir einhverra hluta sakir sérstaklega áhugaverðir.

1. Sauðahellir efri/syðri er örskammt norðvestur af Selgjárhelli. Hann tilheyrir víðáttu miklu hellakerfi, en margir þeirra voru notaðir sem fjárskýli og hlaðið framan við op þeirra. Sauðahellir er mestur þeirra en við hellisopið hefur verið hlaðið upp J-laga inngangi og þannig myndast um 3 m langur gangur með 3-4 þrepum sem liggja niður í hellana. Við enda gagnanna greinist hellirinn í tvo minni hella. Hellirinn sýnir vel hvernig náttúran var nýtt til búskapar og hefur mikið varðveislu- og kynningargildi.

Selgjá

Selgjárhellir. Einnig nefndur Þorsteinshellir.

2. Kjöthellir og umhverfi hans eru þekkt selstaða frá því á fyrri hluta 16. aldar. Tvær tóftir eru í næsta nágrenni við hellinn og telja verður líklegt að þær tengist selstöðunni. Annar hellir, Kershellir er í tæplega 200 m fjarlægð og líklega einnig verið sel. Hann er stærri en Kjöthellir og tveir hellar ganga inn af honum. Í báðum þessum hellum hafa verið hleðslur sem skiptu þeim í tvennt. Minjarnar eru sérstakar, fornar og áhugaverðar og hafa því sérlega gott varðveislu- og kynningargildi.

Flóðahjalli

Tóftin á Flóðahjalla.

3. Stríðsminjar upp á Flóðahjalla og víðar. Eins og fram kemur í kaflanum um herminjar leynast þær víða. Ástand þeirra er í heildina séð nokkuð gott en töluvert af þeim hefur þó vafalaust glatast. Þær herminjar sem eftir standa hafa því flestar varðveislugildi og jafnframt gott kynningargildi. Sem dæmi um svæði sem mætti kynna almenningi eru víðtækar minjar á Urriðaholti og aðrar sértækar minjar í góðu ástandi annars staðar líkt og vígið á Flóðhjalla.

Garðalind

Garðalind.

4. Garðalind. Aðgengi að ferskvatni er eitt af þeim höfuðatriðum sem landnámsmenn þurftu að hafa í huga þegar þeir settu niður bæjarstæði. Gera má ráð fyrir að oftast hafi menn reynt að setja bæi niður við lækjarsprænur eða fersk vötn en þar sem slíku er ekki fyrir að hafa skiptu brunnar höfuðmáli. Í Garðabæ sést vel hvernig bæir hafa verið staðsettir í nálægð við vatn en einnig eru brunnar við sjávarsíðuna. Allt Garðahverfið sótti vatn í einhverju magni í Garðalind. Umhverfi lindarinnar er greinilega manngert og reynt að gera aðgengi auðvelt með tröppum og steini til skjóls. Brunnurinn hefur gott varðveislu- og kynningargildi.

5. Litla Arnarnes og umhverfi þess er dæmi um svæði sem er nokkuð óraskað innan þéttbýlisins. Bæjarhóllinn er að öllum líkindum óraskaður, um 13x3m og mest um 1,5 m á hæð. Ekki er vitað neitt um aldur kotsins en það var ekki í byggð þegar Jarðabók Árna og Páls var skrifuð 1703. Túngarður kotsins er varðveittur að hluta og er hann m.a. skorin af götu sem bendir til þess að hann sé nokkuð forn.

Arnarnes

Litla-Arnarnes- bæjarstæði.

Í næsta nágrenni við bæjarhól kotsins eru einnig þrjár dysjar, m.a. Þorgautsdys. Þar á að vera dys sakamanns er líflátinn var á Kópavogsþingi. Líklegt má telja að fleiri minjar séu undir sverði á svæðinu það hefur því í heild mikið
varðveislu- og rannsóknargildi.

Hausastaðir

Hausastaðir – minnismerki um Hausastaðaskóla.

6. Hausastaðaskóli og húsagarður umhverfis hann eru minjar skóla, þess fyrsta hérlendis fyrir fátæk alþýðubörn. Til beggja þessara minja sést enn. Skólinn var rekinn á árunum 1791-1812 og átti að hýsa 12 börn af báðum kynjum í heimavist. Þar fór fram kennsla í lestri og guðsorði ásamt garðrækt og fleiri greinum. Áþreifanleg ummerki skólahalds varðveitast sjaldan sem gerir þessar minjar enn merkilegri. Hausastaðaskóli hefur því mikið varðveislu-, og rannsóknargildi auk þess sem sögulegt gildi hans er talsvert. Svæðið býður upp á mikla möguleika til fræðslu fyrir almenning.

Garðahverfi

Garðatúngarður.

7. Garðatúngarður sem og Garðahverfið allt er einn af merkilegustu minjastöðum Garðabæjar. Garðatúngarður liggur þvert fyrir ofan Garðahverfið ásamt því að aðgreina byggðina frá nytjalandi. Garðatúngarður var hlaðinn á seinni hluta 18. aldar og þá voru fjarlægðir aðrir garðar sem voru þar fyrir. Það voru líklega varnargarðar um akurreiti. Garðahverfi er einstakt dæmi um menningarlandslag sem sýnir byggðaþróun allt frá landnámi til okkar tíma.

Garðahverfi

Katrínarkot.

Býlin þar eru svo þétt að tala mætti um vísi að litlu þorpi sem girt var af með garðlögum. Varnargarður lá meðfram sjávarsíðunni og hlið á honum niður að naustum og vörum. Hlið voru á Garðatúngarði og leiðir til býlanna lágu þar í gegnum og stjórnuðu samgöngum um hverfið. Staðurinn hefur í heild sinni mikið varðveislu- og rannsóknargildi sem auðvelt að er kynna almenningi. Þar eru m.a. merkilegar minjar um búsetu, sjósókn, búskap, samgöngur og skólahald. Á svæðinu mætti kynna fleiri minjastaði en nú er gert með tiltölulega litlum tilkostnaði, t.d. með því að setja upp skilti á helstu bæjarstæðum og öðrum áhugaverðum stöðum ásamt því að skipuleggja og merkja gönguleiðir.

8. Hofhóll. Hóllinn er grasivaxinn öskuhaugur, líklega frá Hofstöðum. Jónas Hallgrímsson gróf í hólinn á 19. öld og sagði þetta vera öskuhaug. Hóllinn er á opnu, grænu svæði sem haldist hefur óraskað innan þéttbýlisins hingað til. Hóllinn hefur varðveislu- og rannsóknargildi enda eini minjastaður sinnar tegundar sem þekktur er innan Garðabæjar.

Hausastaðir

Hausastaðir. Bæjarstæði Hausastaða og Katrínarkots.

9. Katrínarkotsbúð er sjóbúð og ein af fáum áþreifanlegum minjum sem varðveist hafa um sjósókn í Garðabæ. Einungis ritaðar heimildir og túnakort bera flestum hinna minjastaðanna vitni. Tóftir Katrínarkotsbúðar eru nálægt sjó og eru á svokölluðum Guðrúnarvelli í landi Hausastaða. Tóftirnar hafa mikið varðveislu- og rannsóknargildi.

Garðahverfi

Móakot – bæjarhóll.

10. Bæjarhólar og bæjarstæði. Þrátt fyrir þéttbýli í Garðabæ hafa varðveist fjölmörg bæjarstæði og –hólar á svæðinu. Þeim hefur ekki verið raskað að ráði og eru slíkir staðir einna mikilvægustu minjastaðirnir. Í allt voru skráðir rúmlega 50 bæjarhólar eða býli og sjást bæjarhólar um 40 þeirra ennþá. Þeir geyma mikinn fróðleik um fortíðina sem er ómetanlegt fyrir sögu Garðabæjar og þróun byggðar þar. Þessir staðir hafa því allir mikið varðveislu- og rannsóknar- og kynningargildi.

Heimild:
-Fornleifaskráning í Garðabæ 2009.

Garðar

Garðar og nágrenni – örnefni. ÓSÁ.

Vatnsendahæð

Sendistöðin á Vatnsendahæð“ hefur verið aflögð og rekstri Útvarpsins hætt. Stöðin var upphaflega byggð árið 1929 og tók til starfa 20. desember 1930.

Guðjón Samúelsson

Guðjón Samúelsson.

Guðjón Samúelsson, húsameistari ríkisins, teiknaði húsið, sem nú er áætlað að rífa til að rýma til fyrir nýrri byggð á hæðinni.
FERLIRsfélagi tók vettvangshús á Sigurði Harðasyni, rafeindavirkja. Hann sýndi þann búnað, sem þar er enn til staðar og lýsti því sem fyrir augu bar, enda þrælkunnugur öllum tækjabúnaði og staðháttum sem og rekstri hússins. Húsið sjálft er margbrotið. Þar var íbúð stöðvarstjórans og kjallari þar sem m.a. annað starfsfólk bjó í kojum í neyðartilvikum. Gert var ráð fyrir öllum mögulegum skakkaföllum; varatækjalampar t.d. tilbúnir upphitaðir til notkunar í sérstökum gerðum ef út af myndi bregða svo sem minnsta röskun yrði á útsendingum o.s.frv.

Vatnsendahæð

Útvarpshúsið á Vatnsendahæð – teiknað af Guðjóni Samúelssyni.

Hér á eftir verður fjallað svolítið um þetta merkilega hús og margþætta starfsemina þar í gegnum tíðina. Ljósmyndarnar voru margar hverjar teknar í framangreindri húsvitjun.

Í Morgunblaðinu 15. sept. 2020 segir í fyrirsögn; Lýsa áhyggjum af framtíð Útvarpshússins:

„Húsið verður rifið, það er ekkert flóknara en það. Húsið er enda ónýtt, það lekur og þetta er asbestbygging,“ segir Þórhallur Ólafsson, framkvæmdastjóri Neyðarlínunnar, um fornfrægt hús sem kennt er við Ríkisútvarpið og stendur á Vatnsendahæð.

Vatnsendahæð

Vatnsendahæð – langbylgjustöðin.

Neyðarlínan tók nýverið við mannvirkjum á Vatnsendahæð eftir að sendibúnaður RÚV þar var fluttur á Úlfarsfell. Húsið er nú í eigu ríkisins en óvissa hefur skapast um framtíð þess eftir að hlutverki þess lauk. Þórhallur segir aðspurður í samtali við Morgunblaðið að GSM-sendir verði áfram á svæðinu en stefnt sé að því að stóru fjarskiptamöstrin verði tekin niður á næsta ári. Ekki séu áform um nýtingu hússins. Kópavogsbær áformar íbúabyggð á svæðinu á næstu árum.

Vatnsendahæð

Langbylgjustöðin á Vatnsendahæð – inngangur.

Útvarpsstöð Íslands var reist á árunum 1929-1930 eftir uppdráttum Guðjóns Samúelssonar húsameistara ríkisins og hefur alla tíð hýst tæknibúnað útvarpsins, að því er fram kemur í fundargerð húsafriðunarnefndar um stöðu mála þar sem áhyggjum af stöðu mála er lýst.

„Húsið tengist stofnun og sögu Ríkisútvarpsins auk þess að vera áberandi kennileiti á höfuðborgarsvæðinu. Í kjölfar fyrirspurnar til Neyðarlínunnar um framtíðarnot hússins fóru fulltrúar Minjastofnunar í vettvangsskoðun þann 11. ágúst sl. Unnið er að því að fjarlægja úr húsinu tæki og muni sem eru í eigu RÚV og hafa verið geymdir þar undanfarin ár. Er sú vinna gerð í samráði við Þjóðminjasafnið. Viðræður eru hafnar milli ríkisins og Kópavogsbæjar um framtíðarnýtingu Vatnsendahæðar undir íbúðarbyggð. Húsafriðunarnefnd tekur undir sjónarmið Minjastofnunar um sögulegt gildi útvarpshússins á Vatnsendahæð og mikilvægi þess að varðveita það og ætla því verðugan stað í nýju skipulagi,“ segir í fundargerð húsafriðunarnefndar.

Í Verslunartíðindum 1935 er fjallað um „Talsamband við útlönd„:

Vatnsendahæð„Þann 1. ágúst s. 1. var opnað talsímasamband það við útlönd, sem hefur verið í undirbúningi all-lengi undanfarið. Hófst sú athöfn á því, að fyrst var opnað sambandið við Danmörku og síðan við England, en samband við önnur lönd verður fyrst um sinn aðeins hægt að fá gegnum þessar dönsku og ensku stöðvar.
Talsímaopnunin fór fram með talsvert hátíðlegum blæ og var allmörgum gæstum boðið að vera viðstöddum við þetta tækifæri.
Þessi nýja talsímastöð, sem vandað hefur verið til eftir föngum, er tvískift. Er sendistöðin á Vatnsendahæðinni, en móttökustöðin í Gufunesi, en þaðan liggja jarðsímar til landsímastöðvarinnar hjer í bænum.
Eftir því, sem ráða mátti af þeim opinberu samtölum, er áttu sjer stað, er stöðin var opnuð, er sambandið í besta lagi og voru samtölin svo skýr og greinileg, sem best varð á kosið.“

Í Útvarpstíðindum árið 1938 fjallar Gunnlaugur Briem, verkfræðingur um „Stækkun útvarpsstöðvarinnar„:

Vatnsendahæð„Útvarpsstöðin á Vatnsendahæð tók til starfa 21. des. 1930. Afl hennar var þá 16 kílówött í loftneti og öldulengdin 1200 metrar. Alþjóðaráðstefna í Prag 1929 hafði úthlutað þeirri öldulengd til Íslands. Útvarpið heyrðist þá um allt landið.
Í fjárlögum 1935 veitti Alþingi ríkisstjórninni heimild til þess að láta auka og endurbæta senditæki útvarpsins svo, að þau fullnægðu þörfum landsmanna. Þessi heimild var svo endurtekin í fjárlögum, síðari ára.
Fyrri hluta árs 1937 ákvað ríkisstjórnin að leysa málið þannig, að afl útvarpsstöðvarinnar skyldi aukið upp í 100 kv.“

Vatnsendahæð

Vatnsendahæð – viðtæki.

Í fyrstu voru útvarpsviðtæki mjög dýr hér á landi og ekki á allra færi að eignast slík tæki. Venjulegt viðtæki kostaði ca. kr. 150, en þá voru daglaun verkamanns u.þ.b. 1 króna. Brugðið var á það ráð að framleiða einfaldari tæki hérlendis undir ýmsum nöfnum eftir styrkleika, s.s. Suðri, Austri o.fl.

Í Fálkanum 1938 segir af „Vígslu útvarpsstöðvarinnar„:

Vatnsendahæð
„Fyrir alla útvarpsunnendur er það mikið gleðiefni að íslenska útvarpsstöðin hefir verið stækkuð úr 16 kilówöttum í 100 kw. Með þessari stækkun er hún komin í tölu sterkustu útvarpsstöðva á Norðuröndum. Stærstar eru Motala í Svíþjóð og Lahti í Finnlandi en svo kemur útvarpsstöðin íslenska sem þriðja i röðinni ásamt tveim stöðvum í Suður-Svíþjóð, sem eru að verða fullgerðar. — Sterkasta útvarpsstöð í heimi er í Moskva (500 kw.)
Vígsla hinnar nýju stöðvar fór fram með allmikilli viðhöfn síðastliðinn mánudag að viðstöddum krónprinshjónunum, ráðherrum, sendiherrum erlendra ríkja og fleiri virðingamönnum. Sjáf vígsluathöfnin fór fram í hinum stóra útvarpssal og voru þar um eitt hundrað gestir. — Útvarpsstjóri og kona hans tóku á móti krónprinshjónunum og afhenti kona útvarpsstjóra Ingrid krónprinsessu blómvönd.
Þegar klukkuna vantaði tvær mínútur í tvö stóð krónprinsessan upp úr sæti sínu í salnum og veitti raforkunni á hinar nýju vjelar með því að þrýsta á hnapp einn. Gestirnir sem staddir voru í útvarpssalnum heyrðu stöðina fara í gang, því að gjallarhorn í salnum höfðu verið sett i samband við hljóðnema í sjálfri sendistöðinni á Vatnsendahæð. Nú kviknaði á rauðu ljósi, en það var merki þess að stöðin var í fullkomnu lagi.
VatnsendahæðFriðrik krónprins gekk nú að hljóðnemanum er var komið fyrir i stúku út frá útvarpssalnum og lýsti yfir því að hin nýja sendistöð væri opnuð. Hann notaði tækifærið að þakka Íslendingum hinar ágætu viðtökur, sem krónprinshjónin hefðu fengið á ferð sinni um landið.
Talaði krónprinsinn á íslensku og þótti honum vel takast, Er krónprinsinn hafði lokið máli sínu hjeldu þeir stuttar ræður Hermann Jónasson forsætisráðherra og Jónas Þorbergsson útvarpsstjóri. En að lokum söng útvarpskórinn undir stjórn Páls Ísólfssonar þjóðsöng Íslendinga. Þar með var dagskrá lokið. Á eftir fóru fram veitingar í útvarpssal, en því næst var ekið með gestina upp að útvarpsstöð á Vatnsendahæð.
Sjerstök útsending á stuttbylgjum fyrir danska hlustendur átti sjer stað af allri athöfninni. Var henni endurvarpað frá danskri útvarpsstöð. Var athöfnin tekin upp á plötur og endurtekin í danska útvarpinu um kvöldið. —
Hin nýja stöð kemur til með að hafa geysimikla þýðingu fyrir allar útsendingar til annara landa, þar eð hún er svo sterk að minni vandkvæði verða framvegis á því að heyra Ísland í nálægum löndum. Auk þess veitir hún íslenskum hlustendum er fjærst búa tryggingu fyrir því að þeir þurfa ekki að fara á mis við dagskrá sakir þess hve útvarpsstöðin sje veik.
Og þegar endurvarpsstöðin, sem nú er verið að byggja á Eiðum á Austurlandi er komin upp, þá ætti Austfirðingum að vera borgið, en þeir hafa ekki notið útvarpsins sem skyldi enn sem komið er.
Sendistöðin nýja mun hafa kostað um 700 þúsund krónur og endurvarpsstöðin á Eiðum 100—200 þúsund krónur væntanlega, svo að ekki verður annað sagt en hin litla íslenska þjóð fórni miklu fje til endurbóta á útvarpsstöð sinni. Mr. Thomas verkfræðingur frá Marconi-fjelaginu sá um uppsetningu stöðvarinnar og hófst verkið um miðjan síðastl. vetur.“

Í Útvarpstíðindum 1939 fjallar Jón Eyþórsson, veðurfræðingur, „Um veðurfregnir„:

Vatnsendahæð„Útvarpið flytur veðurfregnir þrisvar á hverjum degi, sem virkur er, en tvisvar á helgum dögum. Fluttningurinn tekur 20—25 mín. á, dag, en til samans yfir árið verða þetta hart nær 150 útvarpsklst.
Af þessu er auðsætt, að veðurfregnir eru talsverður liður í dagskrá útvarpsins, enda þótt útvarpið beri enga ábyrgð á þeim efnislega.
Við Íslendingar höfum skuldbundið okkur til þess að senda héðan veðurfregnir frá 5 stöðum 3—4 sinnum á dag. Þær eru sendar frá stuttbylgjustöðinni á Vatnsendahæð og síðan endursendar frá aflmiklum loftskeytastöðvum í Englandi, Þýzkalandi og víðar.“

Í Sjómannadagsblaðinu 1941 fjallar Friðk Halldórsson um „Drauminn sem rættist„:

„Útvarp&starfsemi hófst hér á landi árið 1926 er h.f. Útvarp undir forustu Ottó B. Arnars loftskeytafræðings, reisti útvarpsstöð sína í Reykjavík. Stöð þessi, sem að vísu var ófullkomin og orkulítil, aðeins 0,5 KW í loftnet, varð þó ástsæl meðal landsmanna þann tíma, sem hún starfaði, en vegna fjárskorts og annara örðugleika lagðist starfsemi hennar niður eftir tveggja ára tímabil.
Á Akureyri var reist um svipað leyti 5 KW útvarpsstöð fyrir atbeina Arthur Gook trúboða.
Höfðu áhugamenn í Bretlandi aflað samskota til stöðvarkaupanna og annazt að öllu leyti uppsetningu hennar. Raunveruleg útvarpsstarfsemi hófst aldrei frá þeirri stöð.

Eiðar

Eiðar – langbygljumastur.

Árið 1930 byrjaði Ríkisútvarpið starfsemi sína, með nýrri og fullkominni stöð, er var reist á Vatnsendahæð við Reykjavík. Afl stöðvarinnar var upphaflega aðeins 17 KW., en var aukið árið 1938 upp í 100 KW, Samtímis var reist að Eiðum endurvarpsstöð fyrir Austfirðinga, vegna truflana, er gætt hafði hjá þeim frá erlendum útvarpsstöðvum.
Með starfsemi Ríkisútvarpsins hefst nýr þáttur í menningarsögu okkar Íslendinga og hefur útvarpsstarfsemin síðan tekið hröðum framförum hér á landi. Útvarpshlustendur eru nú orðnir rúml. 18.200 á landinu og er Ísland í þeim efnum 9. landið í heiminum, í hlutfalli við fólksfjölda, miðað við árslok 1939.
Árið 1935 var að lokum stigið úrslitaskrefið í sambandsmálum okkar við umheiminn, er talsambandið var opnað við útlönd yfir stuttbylgjustöðina að Vatnsenda.
Með þeim atburði má segja, að ræst hafi fullkomlega þær vonir, sem litli fregnmiðinn frá Rauðarárstöðinni hafði vakið hjá þjóðinni fyrir 30 árum síðan.“

Jónas Þorbergsson

Jónas Þorbergsson (1885-1968).
Fyrsti útvarpsstjóri Ríkisútvarpsins 1930–1953.

Í Útvarpstíðindum 1948 er birt úrdráttur úr ræðu útvarpsstjóra, „Íslendingar að verða fremstir meðal þjóðanna um útvarpsafnot„:

„Í upphafi máls síns gaf útvarpsstjóri stutta lýsingu á vexti stofnunarinnar. Gat hann þess, að haustið 1930, þegar fyrstu dagskrár útvarpsins voru færðar, hefðu talizt vera 450 útvarpsnotendur í landinu. En talan hækkaði fljótt og ört fyrstu árin, og er 1935 orðin rösk 12 þúsundir. Árið 1940 voru útvarpsnotendur orðnir rösklega 1-8 þúsund, 1943 voru þeir orðnir 26 þúsund og við árslok 1946 er tala útvarpsnotenda komin upp í 32 þúsund.
Á styrjaldarárunum seldi Ríkisútvarpið setuliðsherjum Bandaríkjanna nokkur afnot stöðvartækjanna á þeim tíma dags, sem þau voru ekki notuð vegna íslenzkrar dagskrár. Af þessu áskotnaðist nokkurt fé, og var þeim tekjum varið til stofnunar hins svonefnda framkvæmdasjóðs útvarpsins, sem stofnaður var 1944.“

Í Útvarpstíðindum 1949 eru upplýsingar frá skrifstofu útvarpsstjóra, „Endurbætur og aukningar á sendistöðvum Ríkisútvarpsins„:

Vatnsendahð

Vatnsendahæð – hluti tækjabúnaðrins.

„Vegna kaupa á varasendi til Vatnsendastöðvarinnar verður ekki hjá því komist að stækka stöðvarhúsið og umbæta það að öðru leyti. Hefir fjárhagsráð þegar veitt fjárfestingarleyfi til þessara framkvæmda, og standa vonir til að þær geti hafist í sumar, ef aðrar ástæður leyfa.“

Magnús Jóhannsson skrifaði í Iðnaðarmál 1956 um „Fræðslumyndir og segulhljóðritun“. Magnús var útvarpsvirkjameistari og stöðvarvörður við Útvarpsstöðina á Vatnsendahæð á árunum 1933—43.

Í Íslendingaþáttum Tímans 09.03.1974 er minningargrein um Dagfinn Sveinbjörnsson:

Dagfinnur

Dagfinnur Sveinbjörnsson.

„Dagfinnur vann ásamt Englendingum að uppsetningu útvarpsstöðvarinnar á Vatnsendahæð, og var við það þar til því verki lauk. Síðan gegndi hann yfirmagnarastarfinu við útvarpsstöðina í 3 1/2 áratug, þar til hann lét af því starfi fyrir aldurs sakir.“

Í Fálkanum 1951 segir; „Nýr útvarpssendir tekin í notkun„.

„Meðal ýmissa stórtíðinda, sem gerðust á þjóðhátiðardaginn, síðastl. sunnudag, er sérstaklega vert að geta þess, að þann dag var tekinn í notkun nýr sendir á ríkisútvarpsstöðinni á Vatnsendahœð. Með því er stórlega aukið öryggið á tryggum rekstri stöðvarinnar. Því að gamli sendirinn, sem notaður hefir verið alla tíð síðan Vatnsendastöðin tók til starfa, var orðinn úr sér genginn og bilanir ekki fátíðar.
Á föstudaginn var bauð yfirverkfræðingur Ríkisútvarpsins, Gunnlaugur Briem, blaðamönnum og útvarpsráði upp að Vatnsendahæð til þess að skoða hinn nýja sendi. Hann er frá Marconifélaginu, eins og sá gamli, sem notaður hefir verið síðan 21. des. 1930. Miklar framfarir hafa orðið í útvarpstækninni síðan þá, og nýi sendirinn er bókstaflega „allra nýjasta nýtt“ í þessari grein, því að hann er sá fyrsti af sinni gerð, sem Marconifélagið setur upp.
Sendirinn er 4 kw. sterkari en sá gamli, en þó svo miku fyrirferðarminni, að hann tekur ekki nema tæpan helming af rúmi gamla sendirsins. Meginmunurinn er sá, að hinn nýi er loftkældur en sá gamli var vatnskældur. Er mikið rekstursörggi og sparnaður að henni.En auk þess eru margar endurbætur á þessum sendi, ekki síst í þá átt að bæta tóngæðin.
Vatnsendahæð
Tveir menn frá Marconifélaginu hafa annast uppsetningu og prófun hins nýja sendis. Fyrst var hann prófaður í verksmiðjunni í tvo mánuði og siðan hafa prófanir farið fram á honum á Vatnsenda álíka langan tíma. Meðal annars var hann látinn starfa samfleytt i 24 tíma fyrir nokkru, einkum til þess að ganga úr skugga um hvort loftkælikerfið stæðist slíkt „Maraþonhlaup“. Hafa verkfræðingarnir A. T. Dunk og Stuart S. Spraggs annast allar þessar prófanir einkum sá síðarnefndi, sem hefir „fylkt“ sendinum síðan fyrstu prófanirnar byrjuðu í Chelmsford.
Árið 1930 kostaði útvarpsstöðin á Vatnsenda — hús og vélar — um 750.000 krónur. Það er til dæmis um „tæringu“ krónunnar, að nýi sendirinn kostar um 1,4 milljón krónur, en í þeim eru að vísu innifaldar um 300.000 krónur í tolla! Nú verður gagnger viðgerð og endurnýjun látin fara fram á gamla sendinum. Hún mun taka nokkra mánuði og síðan verður hann notaður til vara, ef eitthvað kynni að bjáta á með hinn. Öryggið fyrir útvarpsrekstrinum er þannig orðið hið besta, og Vatnsendastöðin mun framvegis jafnan getað skilað öllu því, sem í hana er látið.“

Í Degi 1960 er rætt við elsta starfsmann Útvarpsins, Davíð Árnason:

DavíðHvenær tók svo Ríkisútvarpið til starfa?
Í október 1930 byrjuðu tilraunaútsendingar frá stöðinni á Vatnsendahæð, en 20. desember um kvöldið, var stöðin hátíðlega opnuð og lýst yfir að Ríkisútvarpið væri tekið til starfa.
Manstu fyrstu dagskrána?
Já, hún er nú hérna, segir stöðvarstjórinn og réttir mér blað með fyrstu dagskránni. Hún var á þessa leið sunnudaginn 21. desember 1930.
Kl. 11,00: Messa í Dómkirkjunni (séra Friðrik Hallgrímsson).
Kl. 14,00: Messa í Fríkirkjunni (séra Árni Sigurðsson).
Kl. 16,10:  Barnasögur (frú Martha Kalman).
Kl. 19,25:  Grammofónn.
KI. 19,30: Veðurfregnir.
Kl.  19,40: Upplestur (Jón Pálsson).
Kl.  20,00: Tímamerki. Orgelleikur (Páll Ísólfsson).
Kl.  20,30: Erindi: Útvarpið og bækurnar (Sig. Nordal).
Kl.  20,50: Ýmislegt.
Kl.  21,00: Fréttir.
Kl.  21,10: Hfjóðfærasláttur (Þórarinn Guðmundsson fiðla, Emil Thoroddsen slagharpa). Leikin verða íslenzk þjóðlög eftir Sveinbjörn Sveinbjörnsson.

En nú í vetur var sunnudagur, 20. desember. Hófst útvarp kl. 9,10 og var samfellt til kl. 23,30.
En þú varst á Eiðum. Hvenær fluttirðu þangað?
Árið 1938. Þá voru miklar framkvæmdir hjá Útvarpinu. — Stöðin á Vatnsendahæð, sem byggð var með 16 kw. orku í loftneti, var stækkuð í 100 kw.“

Á Mbl.is 09.03.2001 segir frá gömlum draug; „Nýting var í samræmi við eignarnámsheimild“:

Vatnsendahæð

Vatnsendahæð – loftmynd.

„Hæstiréttur hefur sýknað Landssíma Íslands hf. af kröfum um að fellt yrði út gildi eignarnám á spildu úr landi jarðarinnar Vatnsenda í Kópavogi, sem fram fór árið 1947.

Erfingjar þáverandi jarðareiganda töldu að fullnægjandi lagaheimild hefði skort fyrir eignarnáminu, en jafnvel þótt hún hefði verið fyrir hendi bæri að ógilda eignarnámið þar sem fyrirhuguð nýting á jörðinni hefði ekki gengið eftir.
Ríkissjóður keypti land af bóndanum á Vatnsenda, fyrst árið 1929 og síðar stærri hlut, og var þar reist langbylgjustöð útvarpsins. Árið 1947 var stærri spilda úr jörðinni tekin eignarnámi og á sama tíma voru einnig teknar eignarnámi spildur úr Fífuhvammslandi og landi Vífilsstaða, sem báðar lágu að Rjúpnahæð. Alls var land Landssímans innan lögsagnarumdæmis Kópavogs þá tæpir 160 hektarar.

Vatnsendi

Vatnsendi.

Árið 1997 falaðist Kópavogskaupstaður eftir samningum við Landssímann um kaup á landi hans á Rjúpnahæð og Vatnsendahæð. Landssíminn hafnaði kauptilboði í landareignina, en í framhaldi af því voru teknar upp viðræður, að frumkvæði Kópavogskaupstaðar, um að hluti landsins yrði tekinn undir skipulagt íbúðarsvæði og voru tilnefndir þrír mats­menn til að gefa álit á verðmæti landsins, ef til skipulagðrar byggðar kæmi. Tók matið til um það bil 100 hektara lands, en eingöngu að hluta til þess lands úr jörð Vatnsenda sem tekið var eignarnámi árið 1947. Samkvæmt matsgerðinni frá 1998 var verðmæti landsvæðisins alls metið 315 milljónir króna miðað við staðgreiðslu.

Vatnsendi

Vatnsendahæð – loftskeytastöðin.

Núverandi eigandi Vatnsenda hélt því fram að ef yrði af sölu á spildunni til Kópavogsbæjar undir íbúðarbyggð væru brostnar forsendur fyrir eignarnáminu, því það hefði verið framkvæmt á þeirri forsendu og með þeim skilyrðum að nota skyldi landið eingöngu í sambandi við lagningu og rekstur fjarskiptavirkja ríkisins. Sala landsins með margföldum hagnaði miðað við eignarnámsbætur fæli í sér grófa misnotkun á eignarnámsheimildinni.

Fyrir héraðsdómi kom fram, að Landssíminn hefði ekki áhuga á að selja landið til Kópavogsbæjar. Hins vegar gerði fyrirtækið sér grein fyrir að heimildir skipulagslaga geti leitt til þess að landið kunni að verða tekið eignarnámi án samþykkis fyrirtækisins, enda óhjákvæmilegt um síðir að þrengt verði að starfsemi þess á Rjúpnahæð og Vatnsendahæð með einhvers konar íbúðarbyggð.

Skilyrðislaus eignayfirfærsla

Vatnsendi

Vatnsendahæð – loftskeytastöðin.

Hæstiréttur bendir á í dómi sínum að í afsalinu frá 1947 komi fram að umræddri landspildu sé afsalað eignarnema, að eignarnámsbætur hafi verið greiddar og að eignarnemi sé þar með lýstur fullkominn eigandi spildunnar. „Með eignarnáminu, eftirfarandi afsali og greiðslu eignarnámsbóta fór fram skilyrðislaus eignayfirfærsla á því landi sem hér um ræðir. Telja verður að sýnt hafi verið nægilega fram á að landið hafi eftir það verið tekið til notkunar í eðlilegu samræmi við tilgang eignarnámsins undir fjarskiptamannvirki eða sem verndar- og öryggissvæði þeim tengt. Verður því ekki fallist á með áfrýjanda að landið hafi ekki verið nýtt til þeirra þarfa, sem ákvörðun um eignarnám var réttlætt með. Eignarnámsþola verður ekki veittur réttur til að endurheimta eignarnumið land nema á grundvelli lagaheimildar eða vegna sérstakra aðstæðna,“ segir Hæstiréttur og bætir við að þar sem hvorugs njóti við í þessu máli séu ekki efni til að verða við kröfu um að Landssímanum verði gert að afhenda og afsala landeigendanum spildunni.“

Í Vísi 1965 segir af aðdraganda að komu Sjónvarps Útvarpsins; „Sjónvarpið sendir út„:

Vatnsendahæð

Vatnsendahæð – dyrahúnn frá fyrstu tíð.

„Í dag verður ef til vill gerð fyrsta tilraun með útsendingu kyrrstæðrar myndar frá lánssendi íslenzka sjónvarpsins á Vatnsendahæð. Er þessi kyrrstæða mynd, sem er misbreiðar línur og misdökkir fletir, til þess ætluð að sjá hvort útsending þessi næst á þau tæki sem í notkun eru í landinu.
Sent verður út á rás númer 11 samkv. Evrópukerfi en reglulegur útsendingartími hefur enn ekki verið ákveðinn.“

Í Dagblaðinu Vísi 1982 er umfjöllun um Vatnsendahæðarstöðina eftir rúmlega hálfrar aldar notkun; „Ný Langbylgjustöð kostar 100 milljónir„.

Vatnsendahæð

Vatnsendahæð.

„Ný langbylgjustöð fyrir Ríkisútvarpið kostar 100 milljónir króna. Menntamálaráðherra mun beita sér fyrir því að framkvæmdir við hana hefjist á næsta ári. Ætíar hann að leita fulltings Alþingis og fjárstuðnings úr ríkissjóði.

Gufuskálar

Gufuskálar – langbylgjumastur.

Gamla langbylgjustöðin á Vatnsendahæð er orðin 50 ára gömul og tæknimönnum þykja það mestu undur, að möstur hennar skuli enn hanga uppi.
Þetta kom fram i svari menntamálaráðherra, Ingvars Gíslasonar, á Alþingi. Í gær, þegar hann svaraði fyrirspurn Þorvaldar Garðars Kristjánssonar um málið. Í máli beggja, svo og Eiðs Guðnasonar, bar á miklum ugg vegna hins hrörlega ástands mastranna á Vatnsendahæð. Var vitnað i skýrslur sérfræðinga frá 1978, þar sem talið var furðulegt að möstrin stæðu og því lýst að þau gætu hvenær sem væri fallið í snörpum vindi.
Fyrirspyrjandi og Eiður Guðnason lögðu áherzlu á að ef möstur gömlu stöðvarinnar féllu, myndi taka ófyrirsjáanlegan tíma að koma aftur á langbylgjusendingum. En það myndi svipta marga landsmenn og sjómenn útvarpsnotum á meðan.
Ráðherrann kvað það sína skoðun, að enda þótt FM stöðvar þjónuðu æ stærri hluta landsins, dygði það ekki og langbylgjustöð yrði ómissandi til öryggis í útsendingum útvarps, ekki sízt til sjómanna. Þess vegna teidi hann að ríkissjóður ætti að koma til skjalanna og létta Ríkisútvarpinu byggingu nýrrar langbylgjustöðvar. Tók Eiður undir það, en Þorvaldur Garðar kvað litlu skipta hvaðan fé kæmi, það kæmi að lokum úr vösum skattborgaranna.
Aðalatriðið væri að koma nýju stöðinni upp áður en áföll dyndu yfir.“ – HERB

Í Tímanum 1983 er umfjöllun; „Vatnsendastöðin sífellt hrörlegri„:

Langbylgjustödin áfram fjarlægur draumur – Vatnsendastöðin sífellt hrörlegri

Vatnsendahæð

Vatnsendahæð – ljósdarofar.

„Þetta er eitt af þeim þarfaverkum sem bíða síns tíma,“ sagði Hörður Vilhjálmsson fjármálastjóri Ríkisútvarpsins þegar Tíminn spurði hann hvað miðaði með byggingu nýrrar langbylgjustöðvar fyrir útvarpið austan fjalls, sem hugmyndir hafa lengi verið uppi um.

Útvarp

Marconi sendirinn frá 1951 á Vatnsendahæð.

„Til að koma á fót þessari stöð þarf gífurlegt fjármagn og við höfum ekki séð hana sem viðráðanlegt verkefni ennþá.
Það hafa farið fram nokkrar undirbúningsrannsóknir, en meira hefur ekki gerst í málinu. Hins vegar er þetta ákaflega brýnt verkefni og sameiginleg þörf sem á það kallar frá mörgu tilliti.
Fyrst er að nefna að þetta myndi opna útsendingarleið ef FM kerfið brygðist, en það byggir eins og kunnugt er á nokkurs konar þrepaflutningi frá einum sendi til annars um landið. Langbylgjustöð yrði hins vegar svo langdræg að hún myndi nýtast öllum landsmönnum ef FM og örbylgjukerfið færi út. Þannig er hún mjög mikilvæg vegna öryggismála þjóðarinnar og eins vegna miðanna í kringum landið.“
Hvernig er ástandið á langbylgjustöðinni á Vatnsenda?
„Stöðin þar var reist árið 1929 og nú hefur ekkert verið gert fyrir hana í mörg ár. Möstrin halda áfram að ryðga og eru orðin mjög illa farin af ryði. Þetta felur í sér vissa áhættu. En ein ástæðan fyrir því að viðhald á möstrunum er í algeru lágmarki er kannske sú að menn eru alltaf að gæla við hugmyndir um nýja langbylgjustöð“. – -JGK

Í Dagblaðinu Vísi 1991 er fyrirsögnin; „Sá mastrið liggja lárétt í loftinu„:

Annað stórmastrið á Vatnsenda féll til jarðar – dæmt til falls fyrir 20 árum

Vatnesndahæð
„Mér var litið upp á Vatnsendahæðina skömmu eftir hádegi og skyndilega sá ég annað stórmastrið feykjast af undirstöðunni og liggja eins og lárétt í loftinu. Síðan endastakkst það með miklum látum er það féll til jarðar. Þetta var ansi tilkomumikil sjón,“ sgði Guðjón Hilmar Jónsson, íbúi við Yrsufell; í samtali við DV. Annað stórmastrið, langbylgjumastrið á Vatnsenda, féll til jarðar í verstu rokunum eftir hádegi í gær. Féll mastrið klukkan 13.20. Stóð aðeins neðsti hluti þess eftir og stögin í hann.

Vatnsendi

Vatnsendahæð 1967.

Mastrið var reist fyrir 1930 og því orðið rúmlega 60 ára gamalt. Að sögn Eyjólfs Valdimarssonar, framkvæmdastjóra tæknideildar Ríkisútvarpsins, voru menn í mörg ár búnir að búast við falli Vatnsendamastranna. Fyrir 20 árum varaði verkfræðiskrifstofa alvarlega við ástandi þeirra og lagði til að þau yrðu tekin niöur. Uppfylltu möstrin engan veginn kröfur um styrkleika og burðarþol. Með mastrinu er langbylgjustöð Ríkisútvarpsins óvirk þannig að á afskekktum stöðum og úti á sjó, þar sem eingöngu er notuð langbylgja, heyrist Ríkisútvarpið ekki lengur.
„Við munum kanna uppsetningu bráðabirgðasendis strax í dag en hann mun ekki senda út með sama styrkleika. Þá munum við senda út á stuttbylgju, þeirri sömu og fréttasendingar til útlanda hafa farið um. Langbylgjusendirinn á Eiðum er enn virkur og sinnir Austurlandi áfram.“
Eyjólfur sagði að bygging nýrrar langbylgjustöðvar tæki 2-3 ár og yrði hún sennilega reist austur í Flóa. Hann sagði Vatnsenda löngu úreltan stað fyrir langbylgjustöð og hefði aldrei staðið til að byggja þar nýja stöð.“ -hlh

Í Morgunblaðinu 1991 er fjallað um „Langbylgjustöðina á Vatnsendahæð„:

Vatnsendahæð„Talið er að það muni kosta um fimm til fimmtán milljónir að gera við langbylgjustöð Ríkisútvarpsins á Vatnsendahæð til bráðabirgða. Ákveðið hefur verið að byggja nýja langbylgjustöð á næstu árum.
Svavar Gestsson menntamálaráðherra lagði í gær fyrir ríkisstjórnina hugmyndir um hvað gera þurfi til að koma langbylgjusendinum í samt lag.

Undirbúa þarf kostnaðaráætlun
vegna byggingar nýrrar langbylgjustöðvar. Fara þarf yfir forsendur lánsfjárlaga fyrir árið 1991, en þar er gert ráð fyrir því að fella niður fastan tekjustofn sem Ríkisútvarpið hafði til 1986, og sjá til þess að þessar tekjur gangi aftur til Ríkisútvarpsins í stað ríkissjóðs. Einnig er áætlað að grípa til ákveðinna bráðabirgðaráðstafana á Vatnsendahæð á meðan beðið er eftir að endanleg úrlausn fáist, en það er talið taka nokkur ár.
Svavar sagði að ekki hefði verið kannað hvort hagkvæmara væri að leigja rás í gervihnetti og útvarpa þannig á langbylgju. „Ég held að þjóðir sem eru mjög gervihnattavæddar séu allar með langbylgjumöstur af þessu tagi þannig að ég hygg að það verði ekki hjá því komist að reisa nýja langbylgjustöð,“ sagði menntamálaráðherra.

Býður hættunni heim“ – segir starfsmaður „Skyldunnar
Hrun langbylgjustöðvarinnar hefur skapað erfiðleika enda ná örbylgjusendingar útvarpsins (FM) ekki út á miðin. Að sögn Arna Sigurbjðrnssonar, starfsmanns Tilkynningaskyldunnar, er ástandið slæmt, þótt sjómenn geti nálgast veðurfregnir með öðrum hætti. Erfitt væri að lýsa eftir bátum sem ekki gefa upplýsingar til Tilkynningaskyldunnar.
„Ástandið er ekki alvarlegt núna enda meirihluti flotans í landi,“ sagði Árni. Hann sagði að ástandið gæti orðið alvarlegt ef skyndilega gerði óveður. „Þetta býður hættunni heim og það er að sjálfsögðu nauðsynlegt að koma upp langbylgjustöð,“ sagði Árni.

Gunnlaugar H. Jónsson skrifar grein í Morgunblaðið 1991 undir fyrirsögninni „Langbylgjusendir, fortíð eða framtíð„:

Vatnsendahæð

Hús langbylgjunnar á Vatnsendahæð.

„Rúm sextíu ár eru liðin síðan íslenska þjóðin réðst í það stórvirki að reisa langbylgjustöð á Vatnsendahæð austan Reykjavíkur. Það var upþhafið að þeirri fjölmiðlabyltingu sem við nú upplifum.
Í áratugi var „Útvarp Reykjavík“ (nú rás 1) eini ljósvakafjölmiðill Íslendinga og mörg kvöld sátu landsmenn sem límdir við viðtækin og hlustuðu á upplestur á sögum eins og „Bör Börson“ eða á spennandi framhaldsleikrit, svo sem „Með kveðju frá Gregory“.
En nú er öldin önnur. Landsmenn geta flestir valið úr einni eða fleiri FM-steríó-rásum, einni eða tveim sjónvarpsrásum og sumir hafa gervihnattamóttakara, sem tekur á móti tugum sjónvarpsrása. Fæstir hafa þeir hlustað á langbylgju á viðtækinu sínu svo árum skiptir. Raunar er vafamál að þeir eigi viðtæki með langbylgju. Síðustu tíu árin hef ég keypt stereó-viðtæki í bílinn, útvarpsvekjara í svefnherbergið, stereó-græjur í stofuna og lítið útvarp í eldhúsið, auk þeirra viðtækja sem börnin hafa eignast. Öll eiga þessi viðtæki það samgeiginlegt að það er engin langbylgja á þeim.
VatnsendahæðÉg vaknaði því upp við vondan draum þegar ég uppgötvaði að helsta öryggistæki landsmanna, langbylgjusendirinn á Vatnsendahæð, sem hafði verið helsta skemmtun mín í æsku, var hrunið. Þá skildi ég að ég hafði stofnað mér og mínum í verulega hættu árum saman með því að kaupa ávallt viðtæki án langbylgju. Eina huggun mín er sú að í gamla bílnum er enn viðtæki með langbylgju. Sá bíll er hins vegar ávallt skilinn eftir heima því einu stöðvarnar sem hægt er að hlusta á í þeim bíl eru „gamla gufan“ og „kaninn“.
Þegar Íslendingar reistu langlínusendinn á sínum tíma voru þeir að fjárfesta í framtíðinni, sendirinn hefur dugað í rúm sextíu ár, enda þótt mikilvægi hans fari ört minnkandi. Spurning dagsins er hvort 700-1.000 milljóna fjárfesting í nýjum landbylgjusendi er fjárfest

Öryggistækni fortíðarinnar eða framtíðarinnar
Á þeimn 20 árum sem rætt hefur verið um að endurnýja langlínusendinn hefur fjarskiptatækni breyst ótrúlega mikið hér á landi. Í stað koparvíra á staurum og langbylgjusenda, sem fluttu lágtíðni rafsegulbylgjur, hafa komið ljósleiðarar í jörðu og gervihnattasendar. Þessi nýja tækni bíður upp á margfalda flutningsgetu, sem öll nýrri viðtæki eru gerð til að nýta með steró-hljómi og/eða sjónvarpi. Það er skoðun mín að enda þótt enn megi finna framleiðendur sem geta framleitt langbylgjusenda þá sé þess ekki langt að bíða að almenningur í landinu geti ekki hlustað á langbylgjuna vegna þess að viðtækin sem seld eru í heiminum í dag eru almennt ekki gerð fyrir langbylgju. Hvers virði er almannavarnakerfi sem almenningur hlustar ekki á?

VatnsendahæðÍ Dagblaðinu Vísi 6. febrúar var birt viðtal við skipstjóra á millilandaskipi þar sem fram kom að eftir að langbylgjan datt út hafi stórbatnað skilyrði til þess að hlusta á veðurfregnir, sem sé nú útvarpað á stuttbylgju. Bandaríkjamenn eru mjög áhugasamir um öryggi og almannavarnir og búa í landi sem er nær 100 sinnum stærra en Ísland. Þeir hafa valið að nota svo til eingöngu miðbylgju og FM-bylgju til útvarpssendinga, enda er vandfundið viðtæki í því landi sem hefur langbylgju.
Áður en íslenska þjóðin leggur fram 1.000 milljónir, eða sem samsvarar milljón á hvert skip í flotanum, ættu Íslendingar að staldra við og íhuga hvernig öryggi í fjarskiptum verður best tryggt næstu 60 árin. (Þetta samsvarar 16.000 kr. á hverja vísitölufjölskyldu og má fá fyrir þann pening vandað stereó-viðtæki með FM-bylgju, miðbylgju og stuttbylgju, sem blaðamenn nota á ferðalögum til að hlusta á stuttbylgjusendingar úr öllum heimshornum.) Á næstunni verður lokið við að hringtengja ljósleiðara um landið.

Vatnsendahæð

Vatnsendahæð – fornleifar…

Þróun á sjálfvirku tilkynningakerfi fyrir skip er að ljúka. Næsta skref er að koma því upp hringinn í kringum landið ef það er tæknilega og fjárhagslega hagkvæmt. Mörg skip hafa aðstöðu til að taka á móti upplýsingum, þar á meðal veðurkortum og GPS-staðsetningum frá gervihnöttum.

Útvarp

LW Vatnsendi 1965 – stjórnborð.

Fyrir 1.000 milljónir má gera mikið í öryggismálum þjóðarinnar bæði til sjós og lands og til að styrkja ljósleiðara- og FM- og sjónvarpsdreifikerfið. Hægt væri að koma upp stuttbylgju- eða miðbylgjusendi á hverju landshorni (kannski í tengslum við radarstöðvarnar.)
Í guðana bænum landar, ekki taka ákvörðun daginn eftir fall langlínumasturs, sem enginn hefur nennt að halda við í 20 ár með þeim afleiðingum að ein festing ryðgar í sundur niðri við jörð. Það má vera að alþingismenn hafi móral yfir því að hafa á undanförnum árum haft fé af ríkisútvarpinu, og vilji nú bæta úr fyrir kosningar. Hafi Alþingi nú úr digrum sjóðum að spila, skulum við nýta þá peninga í þágu framtíðarinnar, þannig að þeir komi að sem bestum notum, að bestu manna yfirsýn, næstu 60 árin. Leggjumst undir feld í þrjá daga að minnsta kosti og tökum ákvörðun að íhuguðu máli.“ – Höfundur er eðlisfræðingur og rekstrarhagfræðingur, starfar hjá Háskóla Íslands.

Nokkur atriði úr sögu Útvarpsins:

1928 Lög um heimild handa ríkisstjórninni til einkarekstrar á útvarpi.
1929 Fyrsta útvarpsráð skipað.
1930 Jónas Þorbergsson skipaður útvarpsstjóri. Ný lög um útvarp ríkisins.
Settur upp langbylgjusendir á Vatnsendahæð við reykjavík (16 kW), og dagskrársending Ríkisútvarpsins hafin.
1931 Ríkisutvarpið flytur úr Hafnarstræti 10 í Reykjavík í hús Landssímans við Austurvöll.
1934 Ný útvarpslög.
1938 Tekinn í notkun nýr sendir á Vatnsendahæð (langbylgja – 100 kW).

Vatnsendahæð

Stálþráðsupptæki útvarpsins á Vatnsendahæð.

1947 Ríkisútvarpið eignast stálþráðatæki, sem breytti mjög aðstöðu til upptöku útvarpsefnis.
1950 Enn gagngerðari varð þó breytingin þegar segulbandstækin komu til sögunnar 1950.
1952 Hafði endurvarp frá sendi á Hornarfirði (miðb. 1 kW).
1953 Vilhjálmur Þ. Gíslason skipaður útvarpsstjóri.
1958 FM-útsendingar hafnar frá Vatnsendahæð.

Vatnsendahæð

Landssímahúsið við Austurvöll.

1959 Ríkisútvarpið flytur úr húsi Landssímans í hús Rannsóknarstofnunnar sjávarútvegsins að Skúlagötu 4 í Reykjavík.
1964 Ríkisútvarpinu falið að hefja undirbúning að íslensku sjónvarpi.
1965 Nýr langbylgjusendir (100 kW) settur upp á Vatnsendahæð.
1966 Ríkisútvarpið kaupir meginhluta húseignarinnar Laugavegur 176 í Reykjavík fyrir sjónvarpsrekstur. Hafin útsending sjónvarpsdagskrár (30.09.).
1970 Stofnaður Framkvæmdarsjórður Ríkisútvarpsins.
1971 Ný útvarpslög.
1974 Birt ný almenn reglugerð um Ríkisútvarpið.
1975 Útvarpslögunum breytt.
1977 Hafnar útsendingar í lit.
1978 Gengið frá samningum um lóð fyrir útvarpshús við Efstaleiti.
1980 Hafnar víðómsútsendingar í útvarpi.
1981 Fyrsta fréttasending Sjónvarpsins um gervitungl.
1982 Fyrsta móttaka knattspyrnuleiks í gegnum gerfitungl.
1985 Markús Örn Antonsson skipaður útvarpsstjóri.
1986 Ný reglugerð sett um Ríkisútvarpið.

Vatnsendahæð

Útvarpshúsið við Efstaleiti.

1987 Útvarpið flytur í eigið húsnæði í Efstaleiti 1.
1991 Heimir Steinsson skiðapur útvarpsstjóri.
1994 FM-sendum Útvarps og Sjónvarps fjölgað til muna.

Nánast allt framangreint, utan skipan útvarpstjóra, hefði sennilega aldrei orðið að veruleika nema fyrir tilstuðlan langbylgjustöðvarinnar á Vatnsendahæð?

Vatnsendahæð

Vatnsendahæð – loftmynd.

Rekstri langbylgjustöðvarinnar á Vatnsendahæð hefur nú verið hætt. Hluti starfseminnar hefur verið flutt í aðra senda, s.s. á Úlfarsfelli, en meginstarfsemin verður áfram rekin á Gufuskálum. Um afdrif fyrirliggjandi uppsafnaðs tækjabúnaðar er óljós. Ýmis söfn munu þó njóta góðs af, s.s. Herminjasafnið í Hvalfirði, Minjasafnið á Skógum, Þjóðminjasafnið og safn Rafniðnaðarsambandsins. Þá mun leik- og kvikmyndageirinn njóta góðs af ýmsum heimilistækjabúnaði, sem safnað hefur verið í gegnum tíðina.
Húsnæðið á Vatnsendahæð er ekki eins illa farið og Þórhallur Ólafsson, forstjóri Neyðarlínunnar, vill vera láta. Vandað var til byggingarinnar í upphafi og hún er alls ekki asbestbygging. Hliðarbyggingar; geymslur og skúrar, voru reyndar byggðar af vanefnum.
Húsnæðið geymir ekki einungis sögulegar minjar, sem ástæða er til að varðveita. Það er í raun vitnisburður um þróun samfélagsins frá nýlegri fortíð til nútíðar. Vonandi verður byggingunni fundið nýtt og viðeigandi hlutverk í framtíðinni er endurspeglar merkilega sögu þess í íslensku samhengi.

Heimildir:
-Mbl.is 09.03. 2001 – https://www.mbl.is/frettir/innlent/2001/03/09/nyting_var_i_samraemi_vid_eignarnamsheimild/
-Dagblaðið Vísir, 81. tbl. 07.04.1982, Ný Langbylgjustöð kostar 100 milljónir, bls. 3.
-Morgunblaðið, 30. tbl. 06.02.1991, Langbylgjustöðin á Vatnsendahæð, bls. 18.
-Dagblaðið Vísir, 29. tbl. 04.02.1991, Sá mastrið liggja lárétt í loftinu, bls. 33.
-Morgunblaðið, 42. tbl. 20.02.1991, Langbylgjusendir, fortíð eða framtíð. Gunnlaugur H. Jónsson, bls. 34.
-Tíminn, 119. tbl. 27.05.1983, Vatnsendastöðin sílefflt hrörlegri, bls. 2.
-Vísir, 293. tbl 22.12.1965, Sjónvarpið sendir út, bls. 16.
-Fálkinn, 31. tbl. 06.08.1938, Vígsla útvarpsstöðvarinnar, bls. 14
-Fálkinn, 24. tbl. 22.06.1951, Nýr útvarpssendir tekin í notkun, bls. 2.
-Íslendingaþærrir Tímans, 9. tbl. 09.03.1974, Dagfinnur Sveinbjörnsson, bls. 10.
-Útvarpstíðindi, 4. tbl. 07.11.1938, Stækkun útvarpsstöðvarinnar, Gunnlaugur Briem, verkfræðingur, bls. 56-57.
-Verslunartíðindi, 7. tbl. 01.07.1935, Talsamband við útlönd, bls. 76-77.
-Útvarpstíðindi, 21. tbl. 06.03.1939, Um veðurfregnir, Jón Eyþórsson, veðurfræðingur, bls. 320-321.
-Útvarpstíðindi, 1. tbl. 12.01.1948, Íslendingar að verða fremstir meðal þjóðanna um útvarpsafnot, Úrdráttur úr ræðu útvarpsstjóra, bls. 5-6.
-Útvarpstíðindi, 10. tbl. 13.06.1949, Endurbætur og aukningar á sendistöðvum Ríkisútvarpsins, Frá skrifstofu útvarpsstjóra, bls. 220.
-Sjómannadagsblaðið, 1. tbl. 08.06.1941, Draumurinn sem rættist, Friðrik Halldórsson, bls. 30.
-Iðnaðarmál, 1. tbl. 01.01.1956, Fræðslumyndir og segulhljóðritun, Magnús Jóhannsson, bls. 6.
-Dagur, 14. tbl. 23.03.1960, Rætt við elsta starfsmann Útvarpsins, Davíð Árnason, bls. 2.
-Morgunblaðið 15.09.2020, Lýsa áhyggjum af framtíð Útvarpshússins.

Vatnsendahæð

Vatnsendahæð – einn af sendunum…

Ferlir

2007 – 12. maí (fyrsta daginn eftir lokadag – upprifjun);

Strandarhæð

Strandarhæð – Árnavarða.

FERLIR-001: Helgafell. Fyrsta FERLIRsferðin. Þátttakendur mættu og voru við öllu búnir. Takmarkið var að komast fyrstu ferðina – allt til enda. Þegar öllum lúnum, og sumum mjög þreyttum, hafði tekist það, loksins, var markmiðið sett á a.m.k. eitt hundrað ferðir um Reykjanesskagann með það fyrir augum að skoða hann svo til allan – næstu mánuðina.

FERLIR-100 – ákveðið var að fara a.m.k. eitt hundrað FERLIRsferðir til viðbótar um Reykjanesskagann því ljóst var nú að mikið var enn óskoðað. Orðið þreyta var ekki lengur til í orðaforðanum. Öllum var nú meðvitað um að því meiri vitneskja sem fékkst því minna töldu þeir sig vita um svæðið.

Eldvörp

Í Eldvörpum.

FERLIR-200 – ákveðið að reyna að halda áfram og freysta þess að komast yfir sem flestar minjar og sögulega staði á Reykjanesi áður en skósólarnir væru allir. Svolítill styrkur fékkst frá Menningarmálanefnd Hafnarfjarðar til að skrá og ljósmynda minjar og minjastaði á Reykjanesi. Gerðar voru exel-skrár yfir helstu tegundir minja og gps-punktar þeirra skráðir. (Gps-tæki var fengið að láni hjá Jóni Svanþórssyni, ljósmyndavél hjá ónafngreindu fólki og ljósmyndarinn hverju sinni kostaði framköllun).

FERLIR-300 – í ljós hafði komið að af ótrúlega miklu var af að taka. Listinn yfir óskoðuð svæði og áður fundnar, en týndar, og líklegar ófundnar minjar lengdist óðfluga. Ákveðið var að ganga a.m.k. eitt hundrað ferðir til viðbótar og reyna að “tæma” svæðið “ af „skráningarskyldum“ minjum.

Njarðvík

Njarðvík – brunnur.

FERLIR-400 – skráning minja hafði gengi vel og ótrúlega margar minjar og minjastaðir fundist við “leitir” á einstökum svæðum. Til að varðveita samhengið var og ákveðið að rissa upp helstu minjasvæðin til varðveislu og sem hugsanleg gögn til varanlegri framtíðar. Í fyrstu umferð voru teiknuð upp um 100 svæði. Uppdrættirnir hafa verið varðveittir í Reykjanesskinnu, sem verður, um sinn a.m.k., einungis til í einu órafrænu eintaki.

FERLIR-500 – þátt fyrir að búið væri að ganga og fara yfir einstök svæði og skoða, leita og skilgreina, komu enn í ljós minjar, sem ekki hafði verið vitað um áður, s.s. garðar, refagildrur, gamla leiðir, borgir, fjárskjól, brunnar, vatnsstæði o.fl. Ákveðið var að halda áfram enn um sinn, en láta síðan staðar numið við FERLIR-600.

Njarðvíkursel

Innri-Njarðvíkursel.

FERLIR-600 – ljóst var að ekki yrði komist yfir allt svæðið með það fyrir augum að skrá allt, sem þar væri að finna. Ákveðið var að fresta ferð nr. 600, fara beint í nr. 601, en beina athyglinni fyrst og fremst að áhugaverðustu svæðunum, s.s. í umdæmi Grindavíkur og Hafnarfjarðar, en önnur sveitarfélög á svæðinu hafa ekki sýnt fornum minjum sínum jafn mikinn áhuga og þau. Fyrir lá að hér var um mikil verðmæti til framtíðar að ræða. Áhugi á umhverfi, útivist og hreyfingu fóru greinilega stigvaxandi.

FERLIR-700 – minjar og saga eru ekki einu auðævi Reykjanesskagans. Jarðfræði, umhverfi, dýralíf, flóra sem og annað er lítur að áhugaverðum útivistarmöguleikum á svæðinu er í rauninni ótæmandi ef vel er að gáð.

Grindavíkurvegur

Byrgi vegavinnumanna við Grindavíkurveg.

Svæðið nýtur nálægðar um 2/3 hluta þjóðarinnar, en þrátt fyrir það er það eitt hið vannýttasta á landinu. Mikill áhugi hefur verið á að reyn að „opinbera“ minjar, minjasvæði og forn mannvirki á Reykjanesi og gera þær aðgengilegar áhugsömu fólki. Í byrjun árs 2004 var afráðið að sækja um styrk úr Þjóðhátíðarsjóði, sem er í vörslu Seðlabanka Íslands, með það fyrir augum að leggja drög að slíkri „opinberun“, hvort sem væri með rafrænum hætti eða blaðrænum. Þann 9. júní 2004 barst tilkynning frá sjóðsstjórninni um að FERLIR hafi verið veittur umbeðinn styrkur. Nú verður ekki aftur snúið. Stefnt var að opinberri og birtingu uppsafnaðra upplýsinga og fróðleiks (sem birtist nú lesendum hér á vefsíðunni).

Og enn er haldið áfram – á meðan að einhverju er að stefna. Síðasta FERLIRsferðin var nr. 2000. Nú er stefnt að því að ferðirnar um Reykjanesskagann, fyrrum landnám Ingólfs, verði a.m.k. 3999 talsins…

Ferlir

Ferlir á ferð í Selvogi.