Meginmarkmiðið var að leita uppi selstöður frá Litla-Botni og Stóra-Botni í Hvalfirði og skoða fornbýlið Holukot.
FERLIR hafði áður leitað eftir upplýsingum hjá fornleifaskráningaraðila svæðisins, en engin svör bárust, enda varla til þess að ætlast því skráningin sem slík virtist einstaklega fáfrómleg.
Upplýsingar fengust hjá Steinþóri Jónssyni (fæddur á Stóra-Botni og bjó þar til 1982 er búskapur lagðist af) um selstöðurnar í dalnum. Hann hafði reyndar ekki séð þær báðar þrátt fyrir að hafa margleitað svæðið við smalamennsku. Fyrra selið sagði hann þó vera „vestast og ofarlega í Selflóa við Selá undir Selfjalli og hið síðara við Sellæk uppi á fjalli, allnokkru austar, innan girðingar“.
Ætlunin var m.a. að rekja Tæpastíg frá Litla-Botni, að Litla-Botnsseli. Hann ku hafa legið upp um stallana ofan bæjarins og upp með Selánni, sagður vel greinilegur.
Undir Skúta í Skútalæk ofan Litla-Botns, virðist vera tóft á falllegum stað ofan og neðan við háa fossa. Þar er og lítið gerði. Varða er ofan við hana. Frá henni liggur selstígurinn upp í selið – eins og ávallt gerist upp í allar aðrar selstöður.
Ætlunin var að reyna að rekja selsstíginn svo sem mögulegt var. Örnefnin bentu sterklega til þess að þarna hafi verið selstaða.
Áður en haldið var upp Tæpastíg millum Selfjalls og Háfells var gengið suður yfir Botnsá nokkru suðvestan við Litla-Botn, að tóftum Holukots. Í fornleifaskráningu fyrir Hvalfjarðarstrandarhrepp er getið um minjarnar.
Þar segir: „Í Jarðabók Árna og Páls 1706 segir: „Holukot, öðru nafni í Holum, hefur verið að fornu bygt ból að almenningstali; eru girðíngaleifar því til vitnis. Enginn minnist nær það hafi í auðn lagst, hitt vita menn, að Stóribotn hefur lángt yfir hundrað ár haft og brúkað allar landsnytjar…“ „Nokkur hluti af fjallinu hér fyrir utan er nefnt Holufjall. Þar niðri á láglendinu er gamalt eyðibýli, komið í eyði fyrir 1600, og hefur heitið Holukot“, segir í örnefnaskrá.
Sunnan Stóru-Botnsár, um 930 m austur af Hlaðhamri og um 380 m suðsuðaustur af aflagðri steyptri brú yfir Botnsá, er gróðursetningarreitur grenitrjáa. Slíkir reitir eru tveir sunnan ár, í hlíðarrótum Múlafjalls. Sá reitur sem hér er til umræðu er heldur neðar (norðar) og austar en hinn. Tóftirnar eru neðst og austast í þessum neðri gróðurreit. Á milli Botnsár og brattrar hlíðar Múlafjalls, sem snýr mót norðri, er ekki mikið undirlendi. Neðst (nyrst) við ána er land slétt og mýrlent á ytri (vestari) hluta flatlendisins og talsverður birkiskógur. Eftir því sem ofar dregur í hlíðina verður gróður þurrari og strjálli. Þar sem tóftirnar eru, á milli hlíðar og mýrar, hefur verið birkilaust rjóður, um 100 m í þvermál. Í seinni tíð hefur verið plantað grenitrjám í rjóðrið, m.a. ofan í tóftirnar.
Láréttur stallur er í hlíðina þar sem Holukot er, um 20 m N-S (inn í hlíðina) og um 40 m A-V. Rjóðrið er allt stórþýft og grasi- og sinugróið. Ekki er eiginlega tóftarlögun að sjá en á einum stað er samhangandi þúfnaklasi sem myndar – L -, sennilega garðlag, 2 m N-S og 3 m A-V og er mesta hæð um 0,9 m. Skammt þar frá sér í nokkuð stóran stein standa upp úr sverðinum. Fyrir neðan fyrrnefndan stall má greina hugsanlega upphleðslu. Um 30 m austan við stærstu þúfurnar rennur lítill lækur en þeir eru sjaldséðir í hlíðum Múlafjalls þótt mýrlendi sé nokkuð víða. Stika hefur verið rekin niður á minjastaðnum. Uppgefin lengd og breidd svæðis er harla ónákvæm því bæði er að hleðslur eru mjög sokknar í jörðu og eins er þéttur greniskógur á staðnum.“
Og þá var haldið af stað upp Háafell áleiðis í Selflóa. Ofan Litla-Botns var komið að grónu gerði. Sáust þar hleðslur og tóft sunnan við þær og innan bogadregins garðs. Skammt ofar var ílöng tóft (5x10m), greinilega mjög gömul. Hleðslur voru grónar. Þverhleðsla markaði 1/3 rýmisins. Þarna gæti hafa verið hof til forna. Ofar í hlíðinni er gróið svæði er gætu falið fornar tóftir.
Þegar komið var upp á Öxlina beygði stígurinn upp hlíðina. Á þeim kafla er hann harla óljós vegna skriða og vatns. Ofar sést hann hins vegar mjög vel.
Í fornleifaskráningunni segir m.a. um Tæpastíg: „Selstöðu á jörðin í sínu eigin landi, er hún lángt frá, og sá vegur af, sem til selsins lá, so nú má ófært kalla á háskalegum gljúfurs barmi, so nú er sá kostur frá jörðunni.“, segir í jarðabók Árna og Páls. „Milli Háafells og Selfjalls er Kiðadalur, þar sem Stekkjará rennur eftir í gili. Innan við miðjan dal rennur Stekkjaráin fast að Háafellinu. Þar lá engjavegurinn efst á gilsbrúninni og var kölluð Tæpugata.“, segir í örnefnaskrá.
Tæpugata er 1,5 km norður af bæ og fast austan við Stekkjargilið, þar sem það er næst Háafelli.
Litla-Botnssel – selstígurinn.
Vesturhlið Háafells er brött niður að Stekkjará þótt sumsstaðar séu nokkuð sléttir bollar á milli hlíðar og gils. Hlíðin er hálfgróinn melur, mest mosi sem er rofinn á köflum. Leiðin, nokkuð greinilegur slóði á köflum en hverfur stundum, liggur upp á klettamúla alveg við gilið (austan við á) sem er þverhníptur.
Leiðin liggur þó ekki vestast á múlanum, ekki fast við hengiflugið, en hlýtur þó að vera ónotalegt að fara með klyfjað hross eftir götunni þótt gangandi manni standi ekki stuggur af leiðinni. Á um 40 m kafla, heiman við múlann, hefur gatan spillst þar sem runnið hefur úr hlíðinni. Þær engjar sem talað er um í örnefnaskrá eru talsvert norður í heiði, sunnan og vestan við Krókatjarnir en þær eru rétt rúman 4,5 km norðnorðaustur af bæ.“
Áberandi skástígur er ofan við Skútalæk. Ofar er há varða. Enn ofar (t.h.) er varða á hrygg. Allt eru þetta vísbendingar um Litla-Botnssel. Þrátt fyrir það var ákveðið að leita alla flóana þarna efra – og þeir eru sko margir og langir.
Í örnefnalýsingu fyrir Litla-Botn er getið um eftirfarandi örnefni: Selá, Selfjall, Selfjallsdrög, Selfjallsenni, Selfjallsflói, Selfjallshali, Selfjallsnípa, Selflói og Selgilsdrög. Þá segir í lýsingunni um svæðið efst við Selána: “Hæðirnar sunnan Sóleyjarflóa og að Skútalæk heita Hallbjarnarköst. Austan þeirra eru tvö flóasund samliggjandi, mosahæð skilur þau í sundur. Það vestra heitir Selflói. Efst í honum eru rústir af seli. Sér þar greinilega fyrir tveimur kofarústum og smágerði. Upp af rústunum er laut, er nær næstum að Sóleyjarflóa. Norður af Selfjallinu heyrði ég talað um, að hefði verið annað sel, en ekki veit ég, hvar það var, og sér þess nú engin merki.”
Þá segir jafnframt í lýsingunni, sem Jón Þorkelsson skráði: „Dalurinn milli Selfjalls og Grjóthlíðar vestan Brunnár heitir Brunnárdalur, nær hann frá Útstöllum að Brunnárbotnum. Brunná kemur úr Brunnártjörn, rennur fyrst um sléttlendi, en móts við norðurendann á Selfjalli – kallaður Selfjallshali – hefur áin grafið allmikið gljúfur, þar sem hún rennur ofan í Brunnárdalinn. Það heitir Brunnárgljúfur. Frá Selfjallshala liggur hæðarbrún vestan í há-Selfjalli, kallað Langakast, nær það alla leið að Skorningi sunnan í há-Selfjalli. Milli Selfjalls og Digravörðuhryggs (svo í hdr.) er Selfjallsflói og austar Selgilsdrög, en þar á Stekkjará upptök sín. Fyrir ofan Innstallana vestan Stekkjarár, móts við Tæpugötu, er klapparhnúkur, sem heitir Kiðadalshnúkur.
Norður af Brunnártjörn eru Fálkagilstjarnir á mörkum Litla-Botns og Fitja. Austan þessara tjarna er allhár melhryggur, víða mosavaxinn, sem heitir Digravörðuhryggur, þar sem hann er hæstur, eru tvær vörður, kallast þær Digravörður (svo í hdr.). Austan við hrygginn eru tvær tjarnir, (Stóra-) Krókatjörn, sem Litla-Botnsá kemur úr – út í hana ganga tvö nes, sem næstum skera í hana sundur – og sunnar Djúpatjörn, sem lækur rennur úr í Krókatjörn. Heyjað var með þessum læk, svo og í flóanum sunnan og vestan við Krókatjörn.
Neðarlega, austan við Digravörðuhrygg, er hvilft í heiðina, sem heitir Sóleyjarflói. Mikið er af holtasóley vestan og ofan við flóann, en norður af honum er holt, sem heitir Sóleyjarhæð. Lækur rennur úr Sóleyjarflóa niður í Selgilsdrög og í Stekkjará, sem heitir Friðfinnsskurður.“
Annars heita örnefnin ofan við Selfjall eftirfarandi: „Selfjall – ofan þess Bunnártjörn og enn ofar Fálkagilsgjarnir. Austar, mitt á milli, er Einstakatjörn. Krókatjarnir eru norðaustar og Skúlagilstjörn norðan hennar. Úr þeim kemur Litla-Bornsá. Selá kemur úr Selflóa. Í hana rennur Krókalækur úr Svartakrók. Austar er Háafell og Víðhamrafjall austar, áður en kemur að Hvalfelli. Þar á millum fellur Botnsá.“
Þegar komið var upp og víðfeðmið barið augum var fáum farið að lítast á blikuna. En ekki varð aftur snúið. Verkefnið var jú að finna selstöðurnar. Að vísu var hér komið út fyrir Landnám Ingólfs, en þar sem bæirnir eru á mörkunum var þrátt fyrir það ákveðið að freysta þess að leita selstöðurnar uppi.
Þegar FERLIR gekk fyrir nokkru til austurs upp með Botnsánni áleiðis að Hvalvatni var gengið yfir Glymsflóann. Þegar gengið var yfir Sellækinn við girðingu, sem þar er, var komið að kargaþýfi ofan við þar sem lækurinn kemur í ána. Þarna virtust vera tættur, en þær voru ekki gaumgæfðar sérstaklega í þeirri ferð. Steinþór Jónsson í Stóra-Botni sagðist aðspurður einungis kannast við tóftir sels frá Litla-Botni „uppi á fjalli, austan Selár“. Áður hafði verið gengið um Botnsdal og minjar skoðaðar. En þegar upp var komið var erfitt að ákveða hvar skyldi bera niður svo helst skyldi – hver flóinn upp og út af öðrum, sem fyrr sagði, og erfitt að rekja þá vegna þess að hvarvetna báru mosavaxnar klapparhæðir á milli.
Í fornleifaskráning-unni fyrir Hvalfjarðarstrandar-hrepp árið 2003 er m.a. fjallað selstöðuna frá Litla-Botni: „Selflói gæti ýmist verið töluvert í suðvestur af Krókatjörnum eða í austnorðaustur af tjörnunum, eftir því hvernig örnefnaskrá er skilin. Sumarið 2003 var leitað að selrústum sem ekki fundust. Krókatjarnir eru um 4,5 km norðnorðaustur af bæ. Heiðaland, mosi, grjótholt á milli og mýrarflóar. Eins og fyrr segir, fundust engar tóftir við fornleifaskráningu sumarið 2003.
Litla-Botnssel – uppdráttur ÓSÁ.
Svæðið í kringum og sunnan við Krókatjarnir og Einstökutjörn er töluvert gróið á milli mel- og klapparholta. Mýrarflóar eru víða með ásum og gott
með vatn. Á því svæði var leitað en á hinu svæðinu, austnorðaustan Krókatjarna, sem er vel gróið á kafla, var ekki leitað. Ástæðan er að Digruvörðuhryggur, sem er eitt helsta kennileitið samkvæmt örnefnaskrá, er töluvert norðan við hreppamörk.“
Litla-Botnssel fannst inn í flóa sem Skútalækur kemur úr. Líklegt má telja að örnefni hafi eitthvað skolast til þarna í heiðinni, enda mikil bleyta hvarvetna. Sóleyjarflói er austan við Selflóa, en Krókatjarnir allnokkru norðaustar.
Litla-Botnssel.
Tveir flóar eru vestan við selflóa og er Selfjallsflói vestastur. Flóinn á milli Selfjallsflóa og Selflóa hefur án efa verið heyjaður fyrrum, enda benda ummerki til þess. Götur eru þarna svo til um alla heiði.
Selið er þrjú rými; tvö samliggjandi rými (240x240cm) og það þriðja fram til og til hliðar (litlu minna –sennilega eldhúsið). Hlaðið gerði er vestan við selstöðuna, hleðslur sjást vel, en eru grónar líkt og selhúsin.
Hæð veggja er um 40cm og má glögglega enn sjá innganga.
Vörðurnar í heiðinni utan við flóana benda til þess að hafa verið leiðarmerki þeirra er dvöldust í selinu og heyjuðu þarna uppi í flóunum.
Þá var haldið drjúga vegarlengd áleiðis yfir að Sellæk í leit að Stóra-Botnsseli – yfir flóa og hryggi. Í Jarðabók Árna Magnússonar segir: „Selstöður á jörðin lángt upp á fjalli erfiðar, þar sem heita Glimseyrar og Hrísháls.“ Í örnefnaskrá kemur fram: „Selrústirnar við Sellæk eru efst í oddanum, þar sem Sellækur rennur í Botnsá að austanverðu við lækinn og sjást vel enn. Ekki er mér kunnugt, hvenær síðast var þar haft í seli.“, segir í örnefnaskrá.
Í fornleifaskráningunni segir: „Um 600 m austan við Sellæk og rétt vestan við ónefndan lækjarfarveg er tóft. Farvegirnir tveir mynda einskonar odda sem mjókkar til norðurs. Tóftin er ofarlega í þessum odda. Slétta 3 km norðaustur af bæ. Gróið svæði, mikið til mosi og gras. Svæðið er harla slétt en nokkuð grýtt. Lítið annað að er sjá en ílanga dokk, um 6,5 m A-V og um 5 m N-S. Dokkin er um 0,5 m djúp. Vegghleðslur mjög ógreinilegar en þó glittir í nokkra steina upp úr sverðinum. Op er í vestur. Hugsanlega hafa verið 2 hólf því bálkur er í miðju, N-S, en er þó ekki mjög greinilegur.“
Stóra-Botnssel.
Þegar FERLIR kom yfir að Sellæk var gengið svo til beint á Stóra-Botnssel. Það er um 100-200 metra suðvestan við framangreinda lýsingu á meintu seli. Í selinu er eitt meginrými og snýr gafli mót austri. Veggir eru grónir. Svo virðist sem selhúsið hafi verið byggt upp úr eldri selstöðu því það virðist yngra. Ekki mótar fyrir opum á rýmum norðan við selhúsið. Hæð veggja er um 1.0m. Þaðan er frábært útsýni inn með norðanverðu Hvalvatni. Selstígurinn var rakinn til baka niður að Stóra-Botni.
Frábært veður. Gangan tók 6 klst og 6 mín.
Heimildir m.a.:
-Steinþór Jónsson frá Stóra-Botni.
-Fonrleifaskráning í Hvalfjarðarstrandarhreppi 2003.
-Örnefnalýsingar fyrir Stóra-Botn og Litla-Botn.
Stóra-Botnssel – selsstígurinn. Stóra-Botnssel er handan árinnar, við Sellækinn.
Grindavík – sögu- og minjakort
Árið 2011 gaf Ferðamálafélag Grindavíkur út ritið „Grindavík – sögu og minjakort„. Á baksíðu þess segir:
Grindavík; saga- og minjakort, forsíða.
„Hér er um að ræða samantekt minjakorta, sem sett hafa verið upp víðsvegar í bænum á undanförnum árum, unnin af Ómari Smára Ármannssyni fyrir Grindavíkurbæ með styrk frá Pokasjóði og Menningarráði Suðurnesja. Áður hefur Ferðamálafélag Grindavíkur gefið út samantekt um Húshólma og Selatanga í sama ritflokki. Það er von útgefanda að efnið, Sögu- og minjarkort Grindavíkur, sem hér er sett fram myndrænt og í texta, muni nýtast íbúum bæjarins, ferðamönnum og nemendum bæjarins við vinnslu námsefnis. Ritið er tilvalið til að taka með sér á göngu um sögusvið hinnar gömlu Grindavíkur, hvort sem um er að ræða í Þórkötlustaða-, Járngerðarstaða- eða Staðarhverfi. Rakin er þróun og saga hverfanna frá upphafi til nútíma. Sagt er frá einstökum minjum því tengdu jafnframt sem þær eru staðsettar á handgerð kortin.
Leitendur geta þannig auðveldlega fengið innsýn í mannlífið í Grindavík í gegnum aldirnar og notið í leiðinni hins fagra umhverfis Grindavíkur.
Minjar í Þórkötlustaðanesi – uppdráttur ÓSÁ. Uppdrátturinn er ekki í ritinu, líkt og svo margir aðrir, enn óbirtir. Pétur í Höfn lýsir örnefnum og minjum í Þórkötlustaðanesi. Beitnaskúrar einstakra báta um 1930 eru númeraðir m.v. staðsetningu.
Þótt kortin takmarkist að mestu við hið gamla sögusvið byggðarinnar er fjölmargt að finna utan þeirra, s.s. minjar, jarðsaga og – mótun, gróður, dýralíf og nýbreytni í menningu og ferðaþjónustu á svæðinu.“
Ritið er birt hér á vefsíðunni, bæði vegna það er nú uppselt og litlar líkur á það verði endurútgefið.
Hér má sjá efni ritsins – Grindavíkurkort.
Staðarhverfi – örnefni og minjar; uppdráttur ÓSÁ.
Flókaklöpp
Eftirfarandi skrif um „Flókaklöppina“ á Hvaleyri er eftir Sveinbjörn Rafnsson og birtist í „Árbók Hins íslenska fornleifafélags„, 71. árg., 1974, bls. 75-93 – „Bergristur á Hvaleyri„:
Um fyrri rannsóknir Hvaleyrarrista.
Flókasteinn á Hvaleyri
Margir hafa ritað um og rannsakað Hvaleyrarristurnar og mun þess nú getið að nokkru. Jónas Hallgrímsson skáld mun líklega fyrstur manna hafa rannsakað steinana fornfræðilega í júní 1841. Frásögn Jónasar einkennist af sannri gleði uppgötvarans og kveðst hann hafa fundið „paa en af disse Blokke, den regelmæssigste og smukkeste, flere gamle Runer“, í skýrslu sinni til Finns Magnússonar. Þegar Jónas frétti fyrst af ristum þessum fór tvennum sögum af þeim; sögðu sumir þarna vera rúnir en sumir farmannanöfn.
Hvaleyri – Flókaklöpp og nágrenni.
Taldi Jónas farmannanöfnin höggvin með latínustöfum ofan í rúnateiknin á steininum með flestar risturnar, Slær hann þeirri hugdettu fram, þó með nokkrum hálfkæringi, að Hrafna-Flóki og skipshöfn hans hafi rist nöfn sín rúnaletri á steininn. Jónas virðist einkum hafa gert sér grillur út af þremur atriðum, öllum vandmeðförnum og villandi, þegar hann slær þessu fram.
Jónas virðist álíta að unnt sé að lesa með vissu úr fangamörkum steinsins eiginleg nöfn eigenda þeirra. Jónas hefur á veglegri teikningu af Flókasteini sínum sleppt ýmsu, bæði ártölum og skrauti, eins og hann getur um með þessum orðum: „De mange nyere Navne, som blot tjente til að vansire og forvirre Tegningen, er med Flid udeladte.“Nú víkur sögunni suður til Kaupmannahafnar.
Ljóst að Finnur hefur haldið Flókasteinshugmynd Jónasar að fleiri vinum sínum í Höfn. Hefur Thorsen skrifað á minnismiða hjá sér eftirfarandi: „En Sten siges at være fundet paa Isl. 1841 om landnám.“ Árni Helgason í Görðum er hinn næsti sem getur Hvaleyrarrista Segist hann í lýsingu sinni á Garðaprestakalli 1842 hafa skoðað þær; „mörg nöfn gat ég þar lesið, sem voru alþekkt nöfn danskra og þýzkra, og eru þessi nöfn líklega skrifuð þar af sjómönnum framandi þjóða, helzt meðan kaupstaðurinn var þeim megin við fjörðinn ; sumstaðar er hvað skrifað ofan í annað. Mögulegt er að þeir sem betur eru læsir geti þar fundið rúnir.“ Hér er orðrómurinn um farmannaristur kominn enn á ný enda skammt milli lýsinga. Líklegt er að beint eða óbeint samband sé milli lýsinga þeirra Árna og Jónasar. Magnús Grímsson var nemandi í Bessastaðaskóla árið 1845. Var þá þegar farinn að vakna með honum áhugi á forn- og þjóðfræði og „dirfist“ hann í februar sama ár til að skrifa Finni Magnússyni og spyrjast fyrir um rúnir. Var það upphaf nokkurra bréfaskipta.
Flókaklöpp.
Síðar á sama ári skrifar Magnús Finni aftur og segir þar m. a.: „Á Hvaleyri við Hafnarfjörð er steinn mikill sem Jónas sál. kvað hafa skoðað. Á honum eru bandrúnir margar, og hef ég tíðum reynt mig á að lesa úr þeim.“ Enn segir Magnús: „sýnist mér ei ólíkt að hér væru nöfn Herjólfs og Þórólfs smjörs, sem getið er í Landn. 3. kap.
Kristian Kálund getur Hvaleyrar í drögum að staðsögulýsingu Íslands. Segir hann að þar séu á nokkrum flötum klöppum „endel latinske forbogstaver og árstallene 1628 og 1777, samt nogle binderuner og lignende.“ Segir Kálund að almennt sé haldið að verslunarmenn, sjómenn og aðrir, sem leið hafi átt þar hjá, hafi gert risturnar. Er Kálund hinn fyrsti sem talar berum orðum um og tilfærir á prenti ártöl á Hvaleyrarsteinum.
Flókaklöpp – áletrun.
Sigurður Skúlason minnist á tvo fyrri rannsakendur, þá Jónas Hallgrímsson og Árna Helgason. Telur Sigurður réttilega tilgátur Jónasar um aldur og uppruna markanna á hæsta steininum mjög fjarri sanni. Þó hafi Jónas haft rétt fyrir sér í því að rúnateiknin séu eldri en bókstafirnir og ártölin á steininum. Fremur er Sigurði í nöp við notkun Árna Helgasonar á orðinu „nöfn“ um fangamörk á steininum. Rétt er í því sambandi að minnast þess að fangamörk voru áður fyrr notuð í stað nafnsundirskriftar, ekki síst af lítt læsum eða pennavönum mönnum, svo að orðalag séra Árna þarf ekki að vera mjög undarlegt. Þá telur Sigurður það „vafalaust“ að útlendingar, sjómenn og kaupsýslumenn, hafi gert sumar risturnar, en ekkert sé því til fyrirstöðu að íslendingar hafi gert einhverjar þeirra. Er þó sönnu nær að ekkert er vafalaust í þessu efni. Loks álítur Sigurður rétt að tímasetja risturnar til 17. og 18. aldar og ef til vill til 16. aldar.
Flókaklöppin 2021.
Anders Bæksted ritar um Hvaleyrarristur í verk sitt um íslenskar rúnaristur. Fremur lítið er á lýsingu hans að græða þótt ágæt ritaskrá fylgi. Telur hann risturnar vera frá 17. og 18. öld. Með Jónasi Hallgrímssyni hefjast rannsóknir Hvaleyrarrista árið 1841. Áhuginn er þá einkum bundinn við teikn lík rúnum, að öðrum ristum er lítt hugað. Blendingur sagna úr samtíðinni, heit þjóðernisrómantísk trú á fornritin ásamt frjóu ímyndunarafli móta einkum viðhorfin fram eftir 19. öldinni. Með Kálund á síðari hluta aldarinnar er ártölunum á steinunum loks veitt nokkur athygli og striki slegið yfir fyrri grillur um risturnar. Þegar Sigurður Skúlason ritar lýsingu sína á Hvaleyrarsteinum beinist öll athyglin að ártölum ristanna, að öðrum ristum er lítt hugað. Sigurður álítur risturnar einkum frá 17. og 18. öld.
Flókaklöpp – áletrun.
Ártöl steinanna eru hin mikilvægustu til tímasetningar á ristunum, ef þau eru ófölsuð. Helstu líkur til þess að ártölin séu frá þeim tíma sem þau nefna eru þrenns konar. Í fyrsta lagi er staðsetning ristanna á hæsta steininum. Þar eru teiknin og ártölin svo óreglulega staðsett að ekki eru líkur til að þau hafi verið sett á sama tíma. Óregluleg dreifing í rúmi bendir til óreglulegrar dreifingar í tíma; slíkt kemur heim við hin mismunandi ártöl og mælir þannig gegn fölsun. Í öðru lagi hafa menn á dögum Jónasar Hallgrímssonar (1841) ekki verið sammála um uppruna ristanna; yngsta ártalið á steinunum er 1781 og eru þá sextíu ár milli þess og sagnanna sem Jónas hefur, en það er nógur tími til þess að velkja munnlega sögu svo að mörg verði afbrigði hennar. Þá eru ýmis auðkenni ristanna, einkum þó að ártölin umlykja fangamörk sem eru gerðþróunarlega mismunandi en gerðir þeirra sýna nokkra fylgni við ártölin.
Flókaklöpp – áletrun.
Það er kunn fornfræði að mismunandi gerðir hluta og teikna benda til mismunandi tíma (typologi). Hér á eftir verður drepið á nokkur atriði varðandi þróun marka og fangamarka á Íslandi og stöðu Hvaleyrarrista í þeirri þróun. Þróun íslenskra marka og fangamarka er menningarsögulegt efni sem að vissu leyti er tengt innsiglafræði og fornbréfafræði. Einnig er það tengt réttarsögu með fornum lagagreinum um mörk og einkunnir. Breytingar á gerð og notkun marka og fangamarka eru háðar víðtækum samfélagslegum breytingum og um efnið verður því ekki fjallað nema mjög yfirborðskennt í grein sem þessari. Áður en lengra er haldið er rétt að minnast ögn á nokkur orð og merkingar þeirra. Orðið fangamark má skýra með orðum Jóns Sigurðssonar þótt merking þess sé ef til vill nokkru víðtækari en hann segir: „Þesskonar mark, sem vottar um eign einstaks manns á hlutnum eða einræði yfir honum er kallað fángamark.“
Flókaklöpp – áletrun.
Samanburðarefni við Hvaleyrarheimildina er sennilega mikið að vöxtum þótt enn sé það lítið rannsakað. Heimildin um þróun íslenskra fangamarka á Hvaleyri mun eiga sér margar hliðstæður til samanburðar á Íslandi. Þá hefur verið drepið á söfnun og skrif um mörk, fangamörk og búmerki á Íslandi og annars staðar. „Búmerki“ hafa sennilega borist til Íslands með fyrstu mannabyggð. Fornar lagagreinar benda til mikilvægi marka á Íslandi. Stuðst hefur verið við ritgerð Jóns Sigurðssonar „Um mark, fángamark (búmerki) á Íslandi“ og komist að þeirri niðurstöðu að hið takmarkaða fangamarkasafn á Hvaleyri komi vel heim og saman við frásögn Jóns af gerð fangamarka í innsiglum. Þá hefur þeirri tilgátu verið varpað fram að þverrandi notkun búmerkja standi í einhverju sambandi við vaxandi lestrar- og skriftarkunnáttu almennings og lagakröfur um skriflega jarðaleigusamninga í byrjun 18. aldar.
Heimild:
-Tímarit Árbók Hins íslenzka fornleifafélags 71. árg., 1974, bls. 75-93 – Bergristur á Hvaleyri, höfundur Sveinbjörn Rafnsson (1944).
Carlotta og „græna stöffið“
Sögulegt ferðalag hófst með tölvupósti eitt síðdegið; „Hér er einstaklingur, Þjóðverji, sem þarfnast leiðsagnar upp í Brennisteinsfjöll – í hellinn Ferlir. Getur þú bjargað því? Ég þekki engan, sem þekkir hann betur en þú.“
Efst í Kerlingarskarði.
Ég var nú ekki beinlínis að leiðsegja fólki þrátt fyrir að hafa gengið svæðið fram og aftur og auk þess lokið námi í svæðaleiðsögn á Reykjanesskaganum á vegum FSS.
En hvað gerir maður ekki fyrir vini sína. Svarið var: „Já, en þú þarft að sjá um innheimtu og tryggingar“. Sendandinn var Björn Hróarsson hjá Iceland Extreme, þaulreyndur í faginu (að ég hélt).
Sótti einstaklinginn, Carlottu, á hótel sitt í Reykjavík á umsömdum tíma. Með okkur í för var dyggur aðstoðarmaður, Alda; þaulkunnug í Brennisteinsfjöllum.
Í ljós kom að Carlotta hafði keypt ferð í Fjöllin í tilefni af fimmtugsafmæli sínu. Draumur hennar var að sjá „græna stöffið“ í hellinum Ferlir. Hún hafði séð stöffið á myndum og langaði að berja það eigin augum. Sjálf væri hún leiðsögumaður og hefði um stund átt íslenskan kærasta (sem var reyndar aukaatriði).
Spurð hvort hún treysti sér í a.m.k. 10 tíma göngu svaraði hún: „Að sjálfsögðu. Tju, hvað heldur’u að ég sé? Ég hef meira úthald en það.“
„Græna stöffið er mun óaðgengilegra en þú heldur“, svaraði ég, „og það er og verður þitt vandamál þegar þangað kemur“.
Á leið í Brennisteinsfjöll.
Ekið var á tveimur bílum á Suðurstrandarveg, öðrum lagt við veginn neðan við Lyngskjöld og hinum ekið til baka að Bláfjallavegi og lagt neðan Kerlingarskarðs. Þaðan héldum við þrjú áleiðis upp skarðið, ég studdur af göngustafnum „Staðföstum“ og Carlotta með bakpoka um axlir. Þegar komið var inn fyrir Kistufell skall á niðdimm þoka. Tekin var nestispása í skjóli undir stórbrotnum börmum gígsins.
Þokan var jafndimm sem fyrr. Að fenginni reynslu var ákveðið að feta sig blindandi áfram um kunnar lægðir Kistuhraunsins til suðurs uns ákveðið var að setjast niður um stund. Carlotta spurði hvort við værum villt.
Gígurinn í Brennisteinsfjöllum.
Svarið var: „Nei, við þurfum einungis að bíða hér stutta stund. Að baki okkar er hár gígur. Hann ekki sést núna, en þegar rofar til sjáum við hann og finnum við leiðina að hellinum Ferli.“ Við höfðum gengið í þrjár klukkustundir.
Ekki var að sökum að spyrja; þokunni létti. Við sátum undir gígnum umtalaða.
Stefnan var tekin niður að hellisopinu. Þegar inn var komið tók Calotta upp vasaljós og myndaði innvolsið á Iphone og spurði: „Hvar er græna stöffið?“
Við horfðum á hana – og síðan hvort á annað. Hún virtist ólíkleg til árangursríks klifurs eða skriðs um þröngar rásirnar.
Ferlir – Carlotta skoðar sig um í hellinum.
„Græna stöffið er innan við rás á efri hæð hellisins. Til þess að komast þangað þarftu að klifra þangað upp og skríða síðan um þrönga rás uns hún opnast í neðanverðum gangi. Innan við hann er uppgangur. Í honum er stöffið.“
Eftir svolitla umhugsun kvaðst Carlotta hvorki treysta sér í klifrið né í skriðið. Samkomulag náðist loks um að Alda tæki með sér tölvuna hennar, klifraði upp í rásina og næði á hana eftirsóknarverðum myndum. Þetta gekk eftir með tilheyrandi biðtíma, enda ferðalagið um ofanverð göngin allt annað en auðvelt. „Græna stöffið“ er lítill marglitur hraunfoss innst í einni rásinni, sem fyrr sagði. Nýbráðið bergið hafði náð að storkna þar áður en upprunalegu litir þess blönduðust og mynduðu hinn venjulega súpugráa hraunlit. Fyrirbærið er í rauninni einstakt á heimsvísu og vel þess virði að leggja á sig ferðalag til að berja það augum – treysti fólk sér til þess. Eitt er þó að rata inn og annað að finna leiðina til baka um ranghalana!
Hellisopið.
Þegar út úr hellinum var komið var um tvær leiðir að velja; að ganga til baka upp þokukenndar hlíðar Brennisteinsfjalla eða niður með augljósum hlíðum Vörðufells og Sandfells um Lyngskjöld að Suðurstrandarvegi.
Ákveðið var að halda áfram niður á við til suðurs. Eftir stutta göngu sagðist Carlotta ekki geta gengið lengra. Hún væri komin með gamalreyndan verk í mjöðm. Hún hefði fengið slíkan verk áður og þá fengið viðeigandi lyf er virkaði, en það gleymdist á hótelherberginu.
Leiðin að „græna stöffinu“.
Nú voru góð ráð rándýr. Tveir möguleikar voru í boði; annars vegar að kalla til þyrlu Landhelgisgæslunnar eða halda áfram á fæti.
Ég byrjaði á að taka bakpokann af Carlottu. Sá virtist óvenju þungur. Kíkti í pokann. Í ljós kom m.a. stórt vasaljós og tugir þungra rafhlaða, sem hún hafði fengið í fararteski hjá ferðaþjónustunni. Ákvað að axla pokann á annarri og styðja Carlottu með hinni, fetandi sporið í rólegheitunum með hana kvartandi áleiðis niður að Lyngskyldi. Carlotta var nokkrum sinni komin að því að gefast endanlega upp. Þykkur mosinn í hæðum og lægðum var torfær og allt annað en auðveldur yfirferðar. Við settumst því niður með jöfnu millibili. Alda ákvað að taka þungan bakpokann á bakið og halda ein áfram áleiðis niður að bílnum utar við Suðurstrandarveginn og færa hann mun nær þeim stað á veginum sem okkar var að vænta.
Hluti regnbogans.
Ég bauð Carlottu göngustafinn Staðfast til stuðnings. Hún var í fyrstu treg til en þáði loks boðið og studdi sig dyggilega við hann í framhaldinu. Saman tókst okkur þannig, fet fyrir fet, að komast yfir mosahraunið og niður að Lyngskyldi. Ofan af brúninni sást til sjávar á annars bjartri sumarnóttunni. Handan við ströndina lék marglitur regnbogi alls kyns listir í næturskímunni.
Carlotta sat um stund þegjandi yfir dásemdinni, stóð síðan upp á báðum fótum og sagði þetta vera óútskýranlegt tákn um að hún væri hólpin. Almættið hefði brosað til hennar.
Við komust niður af Lyngskyldi 12 klukkustundum eftir að við lögðum á Kerlingarskarðið handan fjallanna.
Bæði vasaljósi og öllum rafhlöðunum var skilað á skrifstofu ferðaþjónustunnar tveimur dögum síðar. Björn var ekki við. Aldrei hefur verið rukkað fyrir ómakið. – ÓSÁ
„Græna stöffið“.
Blómsturvellir í landi Húsatófta
Í „Staðhverfingabók“ Gísla Brynjólfssonar segir m.a. um „Blómsturvelli„, fyrrum þurrabúð við Hústóptir í Grindavík:
Staðhverfingabók.
„Til forna var hjáleiga frá Stað, nefnd Blómsturvellir. Þegar úttekt var gerð á Grindavíkurhöndlun árið 1783, átti þar heima Jón nokkur Knútsson, en ekki er af honum önnur vitneskja en sú, að hann skuldaði versluninni 3 ríkisdali og 64 1/2 skilding. Og Blómsturvellir þeir fóru í eyði um aldamótin 1800 vegna sandágangs. Svo liðu rúmlega hundrað ár.
Þá gerðist það, að reist var þurrabúð með þessu fallega nafni í landi Húsatófta. Hún er fyrst nefnd í manntali árið 1914. Þá eru þeir einir taldir þar til heimilis bræðurnir Ólafur og Árni, synir Vilborgar og Árna á Húsatóftum. Þeir drukknuðu báðir með Magnúsi bróður sínum þann 8. apríl 1915.
Næsta ár er enginn talinn eiga heima á Blómsturvöllum.
En árið eftir, 1916, flytjast þau hjónin, ágústa systir þeirra bræðra og Pétur Jónsson frá Hópi, Grindavík, í þessa þurrabúð ásamt sínu sínum Kristni, þá á öðru ári. Þau hófu búskap að Hæðarenda í Járngerðarstaðahverfi, fluttust skömmu síðar í Akrakot, en komu nú þaðan út í Hverfi, eins og kallað var, og tóku Blómsturvellina á leigu.
En með afsalsbréfum, dagsettum 17. nóvember 1917, gefur Árni Jónsson á Vindheimum dóttur sinni, Ágústu, Blómsturvallalóðina, 900 ferfaðma – en selur Pétri húsið, sem á henni stendur fyrir 810 krónur.
Næstu árin er Pétur formaður á áraskipi, sem hann gerir út á vetrarvertíð. Hann fluttist með fjölskyldu sína til Keflavíkur árið 1922.
Stóð húsið autt um skeið, en var síðan rifið og efniviður þess fluttur sjóleiðina með mótorbát til Keflavíkur. En ekki varð ur, að húsið yrði endurbyggt þar.
Eftir það er ekki talin byggð á Blómsturvöllum, í fagurnefndu þurrabúð úr landi Húsatófta.“
Pétur Kristinsson.
Pétur Kristinsson er afkomandi Blómstursvallafólksins. Hann sendi vefsíðunni eftirfarandi fróðleik:
„Blómsturvellir: 17. teigur á Hústóftavelli – Saga af mannfólki mikilla sæva:
Eyðibýlið Blómsturvellir í Staðarhverfi í Grindavík, 3116 fm lóð með um 100 ára gömlum hlöðnum húsgrunni. Land þetta hef ég leigt Golfklúbbi Grindavíkur og er þar nú rauður 17. teigur Hústóftavallar.
Á þriðjudaginn, 16. júlí 2013, fórum við Sonja ásamt vinahjónum okkar, Ingibjörgu og Óla, á Húsatóftavöll til að leika þar golf – og við Sonja þar í fyrsta sinn í þeim erindagjörðum.
Í móttökunni í golfskálanum kynnti ég mig sem Pétur frá Blómsturvöllum – og var það eins og um var samið; ég boðinn velkominn til leiks ásamt gestum mínum. Hitti ég þar fyrir Harald varformann Golfklúbbsins og gat ég frætt hann nokkuð um lands- og atvinnuhætti þar á staðnum á fyrri hluta síðustu aldar.
Húsatóftir fyrrum – efri bærinn (Austurbærinn). Teikning Kristinn Reyr.
Hófst nú leikurinn á 1. teig þar sem fyrstu 9. teigarnir og brautirnar raða sér uppeftir og inneftir hrauninu, snyrtilega aðlagaðir hrauninu. Þó þessi ferð ætti að heita golfleikur þá fór fljótlega á stað annar leikur í höfðinu á mér: Minningar. Hér höfðu forfeður mínir í föðurætt lifað og starfað. Þarna á Húsatóftum stóð ég væntanlega á tóftum húsa langafa míns og ömmu, Árna Jónsonar (f. 1850) og Vilborgar Guðmundsdóttur (f. 1852), sem fluttu að Húsatóftum árið 1907 með sjö börnum sínum, 13-25 ára, en þau fluttu frá Krýsuvík þar sem þau höfðu búið sjö árin þar á undan og verið með allt að þúsund fjár þar. Þar áður höfðu þau búið að Sperðli í Landeyjum þar sem Ágústa amma mín fæddist (f.1891) og systkini hennar.
Krýsuvík – Suðurkot um 1900; tilgáta.
Það sem lokkaði langafa í Staðarhverfið frá rolluskjátunum í Krýsuvík var útræðið þaðan; útgerðin heillaði – og nóg var af sonunum til að gera út – en það varð langafa og ömmu dýrkeypt.
Golfið hélt áfram með góðum tilþrifum á stundum og minningarnar hlóðust inn sem truflaði einbeitinguna í sveiflunni – en hvað með það: Var ég ekki á ættargrund og þarf maður alltaf að fara í gegnum lífið sem þota hugsandi aldrei um úr hverskonar efnivið maður er sorfinn ?
Þannig að ég lét hugann áfram reika samhliða sveiflunni.
Í Arfavík, á 13. og 14. braut, þar sem brimaldan brotnar var útræði mikið og sjórinn stundaður af miklu kappi í tíð langafa. Þarna stóð hún langamma mín þann 8. apríl 1915 og horfði út í gráðið þar sem veðrið gekk upp smám saman og él setti niður um kring. Þar úti á sjó átti hún þrjá syni sem allir fórust þar ásamt sjö öðrum bátsverjum á tíæringi.
Hann faðir minn, Kristinn Reyr, orti þessi þrjú síðari erindi um frændur sína, þá Magnús, Árna og Ólaf:
„Þann apríldag.
…..Og enginn sá
hvað afa mínum
innifyrir bjó
þann apríldag
– er átti hann
syni tvo á landi
og syni þrjá
í sjó.“
Kristinn Pétursson Reyr.
Já, svona er sagan hjá mannfólki mikilla sæva. Maður nánast lítur í sand við þessum örlögum forfeðra sinna.
En eins manns dauði er annars brauð: Þegar á 17. teig er komið hefst saga afa og ömmu, þeirra Ágústu Árnadóttur og Péturs Jónssonar (f. 1889) frá Hópi í Grindavík. Langafi hafði útmælt lóð, 1914, fyrir syni sína, þá Ólaf og Árna sem drukknuðu. Við fráfall þeirra gefur langafi ömmu lóð þessa, Blómsturvellir, þar sem þau hefja búskap með pabba, þá á öðru ári, árið 1916. Við lát ömmu, 1969, eignast ég svo Blómsturvelli. Þarna stóð ég nær hundrað árum seinna með golfkylfu í hönd á ættaróðalinu, húsatóftum, hlöðnum kjallara sem enn stendur að hluta og þar útundan hlaðinn grjótgarður sem afmarkaði kálgarðinn við húsið sem afi reisti á húsgrunninum, 4,60 x 5,20 metrar, krossþiljað þar sem gengið var inn í eldhús úr útiskúr, 3,30 x 3,30.
Blómsturvellir, teikning Kristins Reyrs.
Úr eldhúsinu var gengið í hring í herbergin þrjú. Þessi húskynni voru því alls um 34 fermetrar auk eldiviða- og matvælakjallara og rislofts sem skinnklæði voru geymd. Á vetravertíðum bættust fjölskyldunni nokkrir vermenn – þá nefndir útgerðamenn – og urðu þá tveir að deila með sér sömu rekkju. Ekki veit ég hvernig henni Sonju minni myndi líka þess háttar búskaparlag nú!
Af 17. teig sló ég með fjarkanum mínum vænt högg og er ég viss um að pabbi, afi og amma hafi verið þar með mér í liði.
Húsatóftir – loftmynd.
Húsatóftavöll kvaddi ég svo að sinni, glaður og hreykinn í senn að vera kominn í heimahaga forfeðrana. Á Húsatóftavöll kem ég aftur – og beztu þakkir til Golfklúbbsins þar.
Blómsturvellir, útskorið í kápu á gestabók eftir teikningu pabba. Einnig er þar merki Staðhverfingarfélagsins – einnig áður útskorið af honum.
Staðhverfingarfélagið gaf pabba gestabókina á sjötugsafmælinu hans.
Vindheimar við Húsatóftir, teikning eftir Kristinn Reyr.
En þar er ekki sagan öll – því næstu hundrað árin fléttast svo saga þessara forvera minna og okkar systur minnar, Eddu, í Reykjavík, á Grettisgötu 49, sem lauk í janúar 2013 með því að það ættaróðal var selt:
Eftir hið mikla sjóslys og sonamissi er langafa og langömmu brugðið; þau höfðu árið 1911 útmælt sér lóð úr Húsatóftalandi, ein þriðja úr sínum parti sem þau nefndu Vindheima þar sem þau höfðu væntanlega ætlað að njóta efri áranna umvafin börnum sínum allt í kring og með útræðið til fengsælla fiskimiða við bæjardyrnar.
Grettisgata 49.
Vorið 1919 flytjast þau til Reykjavíkur og kaupa hús á Grettisgötu 49. Þar búa þau fyrst en síðan í Björnshúsi á Grímsstaðaholti. Þar stundaði langafi grásleppuveiðar ásamt afadrengjum sínum og ók aflanum á hestvagni til sölu í bænum en einnig notaði hann hestvagninn til vöru- og búslóðaflutninga fyrir aðra í bænum. Vorið 1931 bregða þau svo búi sökum hrumleika. Langafi fór til Vilmundar sonar síns á Löndum í Staðarhverfi og lézt þar um haustið en langamma fluttist til Ágústu-ömmu á Grettisgötu 49 og andaðist þar í hárri elli 1940. Ágústa-amma lézt 1969, en hjá henni bjó ég oft í lengri og skemmri tíma á mínum uppvaxtarárum. Eftir lát ömmu tók Edda systir mín við búsforæðum á Grettisgötunni. Segja má að Grettisgata 49 hafi í tæp hundrað ár (1917-2013) verið griðastaður fjölskyldu minnar frá langafa og langömmu, ömmu, pabba, okkur Eddu systur, börnum okkar og barnabarnabörnum Eddu – eða í sjö ættliði samtals. Blessuð sé minning Grettisgötu 49. – Ritað hefur Pétur Kristinsson frá Blómsturvöllum.
Húsatóftir – örnefni og minjar; ÓSÁ.
Heimilda var leitað í Staðhverfingabók. Kristinn Reyr og Sigurður V. Guðmundsson komu ásamt Gísla Brynjólfssyni að ritun og hönnun bókarinnar ásamt fleirum.
Hér kemur svo skýringin á því af hverju langafi og hans fjölskylda fluttu frá Sperðli :
Fleiri blaðsíður eru í myndasafni mínu frá 3. sept 2015 og svo bókin sjálf á Bókasafninu í Hveragerði.
Tilurð þessara upplýsinga er að á árunum 2012-14, kynntist ég Stefáni Ólafssyni sem starfar hjá Fasteignum Ríkisins og Framkvæmdasýslunni vegna landamerkjadeilna við Kristinn Björnsson í Grindavík, sem á landskika þarna, en Stefán er frá Eystra Hóli, næsta bæ við Sperðil, og benti hann mér á bókina.
Blómsturvellir mínir eru númer 23 á meðfylgandi uppdrætti:
Þessi landamerkjadeila varð til þess að Fasteignir Ríkisins ákváðu við uppmælingu umdeildra landskika að „rúna af“ um 600 FM og bæta við Blómsturvallarland. Þökk sé Ríkinu fyrir það!“
Heimildir m.a.:
-Mannfólk mikilla sæva – Staðhverfingabók; Gísli Brynjólfsson, 1975, bls. 97-99.
-Pétur Kristinsson.
Staðarhverfi – örnefni og minjar; uppdráttur ÓSÁ. Blómsturvellir eru nr. 23 á uppdrættinum.
Árbær fer í eyði
Í Lesbók Morgunblaðsins 1948 má lesa; „Árbær fer í eyði„:
Árbær 1948.
„Seinasti ábúandinn á Árbæ í Mosfellssveit, Kristjana Eyleifsdóttir fluttist þaðan í vor og nú er jörðin í eyði.
Sennilega verður hún ekki bygð aftur.
Húsin munu verða rifin og þar með hverfur úr sögunni seinasti bærinn bygður í íslenskum stíl, hjer í nágrenni Reykjavíkur. — Eigi er kunnugt hvenær Árbær bygðist fyrst, en hann var ein af jörðum Viðeyjarklausturs og komst undir konung við siðaskiftin og talin meðal konungsjarða í fógetareikningum 1547—1552. Ditlev Thomsen eldri keypti jörðina af konungi (ásamt veiðrjetti í Elliðaánum), seldi hana aftur Mr. Payne, en af honum keypti Reykjavíkurbær jörðina 1906.
Bæjarhúsin að Árbæ eru einu hús safnsins sem eru á sínum upprunalega stað. Hluti bæjarhúsanna er hlaðinn úr torfi og grjóti en yngri hluti þeirra er úr timbri. Búseta að Árbæ lagðist af árið 1948, þegar síðasti ábúandinn flutti í burtu. Nýlegar fornleifarannsóknir gefa vísbendingu um að búseta, annað hvort föst eða tímabundin, hafi verið á þessum stað síðan á 10. öld. Síðustu ábúendur Árbæjar voru hjónin Eyleifur Einarsson og Margrét Pétursdóttir en þau fluttu þangað árið 1881, ásamt þremur dætrum Kristjönu, Elínu og Guðrúnu. Elín lést af slysförum 19 ára gömul en Kristjana flutti frá Árbæ 1948. Árbæjarsafn var að formi til stofnað 1957.
— Ólafur Lárusson prófessor hefur dregið líkur að því, að jörðin hafi upphaflega heitið Á, eða Á hin efri og Ártún þá Á hin neðri. En um nafnbreytinguna segir hann: „Neðri jörðin hefur farið í eyði um tíma. Þar hefur um hríð ekki verið nein bygð, en túnið var eftir, og það kann að hafa verið nytjað, ef til vill frá efri jörðinni. Á efra býlinu var áfram bygð. Fólk hætti þá að tala um Á efri og Á neðri. Það talaði um BÆINN á Á, og Árbæ, efra býlið þar sem bærinn stóð og búið var. Það talaði um TÚNIÐ á Á, Ártún, neðri jörðina, þar sem ekki var lengur bær, en túnið eitt var eftir. Árbæjarnafnið festist við efra býlið, og þegar neðra býlið bygðist aftur, þá helt það tún-nafninu og var kallað Ártún.“ —
Um skeið var Árbær gistingarstaður austanmanna þegar þeir voru í kaupstaðarferðum, og var þar þá seldur greiði. Um þær mundir var það alvanalegt að Reykvíkingar færi þangað skemtiferðir á sunnudögum. Og einu sinni hélt Verslunarmannafjel. Reykjavíkur þar hátíð sína 2. ágúst. En eftir að bílarnir komu var Árbær alt of nærri Reykjavík til þess að vera gististaður og nú um mörg ár hafa menn þeyst þar framhjá án þess að koma við. En margir eldri menn, bæði í Reykjavík og austanfjalls, eiga góðar minningar þaðan. Nú er þar aðeins einn maður, sem lítur eftir húsum og túninu.“
Bærinn Árbær var síðar gerður að minjasafni Reykjavíkur.
Sagan segir að Ingólfur Arnarson hafi verið fyrstur manna til að setjast að í Reykjavík. Augljóst er að Reykjavík var gjöfult land en það var ekki sjálfgefið að hér yrði höfuðstaður landsins. Hér eru hins vegar góð fiskimið og góðar náttúrulegar hafnir. Skúli fógeti Magnússon fékk svo land frá konungi undir Innréttingarnar til að, meðal annars, vinna klæði úr ull. Upp frá því jókst byggð smátt og smátt og þegar Reykjavík fékk kaupstaðarréttindi, 18. ágúst 1786, eftir lok einokunarverslunarinnar, var í raun ekki aftur snúið. Með þessum réttindum fékk bærinn byggingalóðir og leyfi til að opna verslanir og verkstæði. Stjórnarstofnanir fóru einnig að safnast til Reykjavíkur, biskupsstóll og Latínuskólinn voru einnig fluttir til Reykjavíkur. Það var svo ekki fyrr en 1962 sem Reykjavík varð opinberlega að borg, þó að borgarstjóratitillinn hafi verið notaður frá 1907.
Gamli-Kirkjuvogur
Brynjúlfur Jónsson ritaði m.a. um Gamla-Kirkjuvog í Árbók Hins íslenska fornleifafélags árið 1903 undir fyrirsögninni “ Rannsókn í Gullbringusýslu og Árnessýslu sumarið 1902″:
„Kirkjuvogur hefir til forna staðið langt inn með Ósunum að norðanverðu. Ósarnir eru sem dálítill fjörður, sem gengur til austurs inn úr Hafnavík. Innst skiftist hann í smá-voga, og kallast þeir Ósabotnar. Er löng bæjarleið frá Þórshöfn inn að Kirkjuvogi forna. Þar sem bærinn var, er rústabunga mikil. Þar er alt nú blásið hraun, þó er rústin að nokkru leyti grasgróin. Er eigi hægt sð sjá grein á húsaskipun og eigi sést með vissu hvar kirkjan hefir verið. En kunnugir menn vita það, því mannabein hafa fundist þar, er kirkjugarðurinn blés upp. Voru þau flutt að Kirkjuvogi. Var það nálægt aldamótunum 1800, að bein voru síðast flutt þaðan, en sagt er að nokkuð hafi verið flutt áður, smátt og smátt.
Hafnir fyrrum.
Kotvogur stóð þó þar, sem hann er enn, sunnanmegin við Ósana. En kirkjusókn átti hann að Kirkjuvogi og allir bæir fyrir innan Kalmanstjörn. En þaðan, og frá þeim bæjum, er sunnar voru, var kirkja sótt að Kirkjuhöfn. Til Kirkjuvogs sóttu líka Suðurnesjabæirnir: Fuglavík, Melaberg, Hvalsnes og Stafnes, ásamt hjáleigum. Stóð það fram að 1370, er Oddgeir biskup vigði kirkju á Hvalsnesi. Enn átti Innri-Njarðvík sókn að Kirkjuvogi: hélzt það, þó Kirkjuvogur væri fluttur suður fyrir Ósa, og þangað til 1760, er Ólafur biskup Gíslason, vígði kirkju í Njarðvík. Fremur er það fátt, sem menn vita um Kirkjuvog hinn forna.
Ósabotnar – kort; ÓSÁ.
Þess er getið í Árbókum Espólíns II. 68. að 1467 seldi Ólafur biskup Rögnvaldsson Eyjúlfi Arnfinnssyni »Voga« í Rosmhvalsnesshreppi fyrir 5 jarðir á Vestfjörðum. Nú er enginn bær í Rosmhvalsnesshreppi, er heitir »í Vogum«. Mun hér því átt við Kirkjuvog hinn forna og ef til vill Kotvog með, eða þó öllu heldur Djúpavog, sem mun hafa verið hjáleiga frá Kirkjuvogi og staðið við Osabotnana. Svo segir í landamerkjabréfi frá 1270: »En lyngrifamörk skilur gata sú, er liggur fyrir innan Torfmýrar og upp á Háfaleiti til vörðu þeirrar, er stendur á leitinu þar, sem hæst er milli Kirkjuvogs, Njarðvíkur og Djúpavogs. En rekamörk millum Djúpavogs, Starness og Hvalsness skilur gróf sú, er verður fyrir innan klettana til hægri handar, er riðið er frá Kirkjuvogi.
Brunnur við Djúpavog.
Hér virðist »Djúpivogur« vera bæjarnafn. Og það getur ekki verið annað nafn á Kirkjuvogi, þar eð hann er líka nefndur í sömu málsgreininni. Nokkru fyrir innan Kirkjuvog hinn forna gengur gróf mikil frá Ósabotnunum þvert til norðurs. Gengur sjór nokkuð inneftir henni, og heitir þar enn Djúpivogur…, Þar litlu innar ætti bærinn, Djúpivogur, að hafa verið. Merki sjást ekki til þess; en það er ekki að márka. Sjór hefir mjög gengið á land í Ósunum, og getur bæjarstæðið verið brotið af.
Þó hefir það ekki verið sjávargangur, heldur sandfok, sem eytt hefir Kirkjuvogi hinum forna. Hvenær það var, vita menn ógjörla.
Jarðabók Á. M. telur hann hafa verið í eyði meir en 120 ár þá er hún var rituð. Hefir það því eigi verið síðar en á 16. öld, en getur vel haía verið fyr. Það liggur nærri að ætla, að þá hafi sami maður átt bæði Kirkjuvog og Kotvog, er hann flutti Kirkjuvog heim á tún í Kotvogi. Bendir það til þess, að Kotvogur hafi frá upphafi verið talinn hjáleiga frá Kirkjuvogi, þó Ósarnir væri á milli. Þess er getið, að Kirkjuvogskirkja átti 1/2 Geirfuglasker. — Kirkjubólskirkja og Hvalsnesskirkja áttu 1/4 hvor.
Enn má geta þess, til merkis um það hve landið hefir brotnað, að í Ósunum var ey mikil, milli Kotvogs og Kirkjuvogs forna, og var hún slægjuland.
Einbúi – landamerki.
Nú í seinni tíð hefir hún bæði blásið upp og sjór brotið hana, því flóð falla mjög svo yfir klappir þær, sem undir jarðveginum láu. Þar fann Vilhjálmur sál. Hákonarson, á yngri árum sínum, skeifu, er kom fram undan 3 al. háum bakka. Hún var miklu stærri en skeifur eru nú á dögum. En þá var forngripasafnið enn ekki stofnað. Var ekkert hirt um skeifuna og er hún glötuð fyrir löngu.“
Magnús Grímsson skrifaði um Gmla-Kirkjuvog í „Fornminjar um Reykjanessskaga“: „Ósar heitir sá vogur sá hinn mikli, sem hér gengur til austurs inn í landið. Norðan megin við Ósana, gagnvart Kirkjuvogi, er kölluð Preststorfa, því þar er presturinn vanur að fá flutning yfir að Kirkjuvog, þegar hann fer þá leiðina. Litlu innar í Ósnum er einstakur hólmi dálítill, sem heitir Einbúi. Þar á eru rústir af sjómannabúðum, sem líklega hafa verið þar frá Vogi, sem síðar verður getið. Út í einbúa má nú ganga þurrum fótum um fjöruna. Skotbakki er þá næst kallaða þar inn með, og er hann upp undan Kirkjuvogsey, sem er grasi vaxin og eigi mjög lítil,framarlega í Ósunum. Annars kalla men, að ósarnir byrji ei utar en við sker þau, sem liggja norður undan Kirkjuvogstúni, austanverðu. Af hverju nafnið Skotbakki er dregið, gat ég ekki fengið neina sögu um. Þar er flutningur yfir um Ósa, þá ekki er fær hin leiðin vegna brims.
Þegar inn kemur með Ósunum, svo eigi er nema snertu korn að botnum þeirra, verður fyrir nes eitt lítið. Gengur sinn smávogur eða vík upp með því hvoru megin, og er hin eystri víkin nokkuð stærri en hin vestari. Upp undan nesi þessu hefir staðið bæ á hól einum, og eru þar húsarústir miklar. Þær eru nú fullar orðnar af sandi túnið allt upp blásið. Túnið hefur verið stórt mjög, og frá bænum, allskammt þaðan í landsuður, eru rústir, sem líklega eru kirkjurústir. Hefir kirkjan verðið hér um bil 5 faðma löng og 3 faðmar breið. Til kirkjugarðsins sést til og frá, en mjög óglöggt, svo ekki verður hann mældur.
Kirkjugarðurinn er alveg upp blásinn; engin sjást þar mannabein og engir legsteinar. Niður á nesinu og með eystri voginum eru stórkostlegar rústir, líklega sjóbúðir, vergögn og þess háttar. Allar eru þær úr grjóti og mikið mannvirki á. Þar hafa verið 5 eða 6 varir ruddar út í hin eystra voginn. Af rústunum fram á nesinu eru 3 mestar, allar hér um bil kringlóttar, en stutt bil á milli. Það hafa menn fyrir satt, að hér hafi einhvern tíma, ekki fyrir mörgum árum, sézt kjalfar í hellu við voginn, og ætti það vera vottur þess, hversu mjög hér hefði verð sóttur sjór. Nú eru Ósarnir og vogar þessi varla gengir íslenzkum skipum fyrir útgrynni og sandrifjum.
Einbúi.
Er ei ólíklegt, að frá bæ þessum hafi útræði verið haft í Einbúa, sem fyrr er getið. Vogurinn austan til við nesið heitir Vogur eða Djúpivogur, og bærinn hét í Vogi. Kirkjan hefir verið flutt þaðan að Kirkjuvogi, þar sem nú er hún, fyrir sunnan Ósana. Með kostnaði og fyrirhöfn mætti grafa upp bæinn í Vogi, og væri það máske gjöranda til þess að sjá byggingarlag og húsaskipun, sem þá hefir verið; því þetta hefir auðsjáanlega verið stórbær á sinni tíð. Á seinni tímum hafa sumir kallað rústir þessar Gamla-Kirkjuvog, og má vera, að nafnið Vogur hafi breyzt í Kirkjuvogur, áður en kirkjan var flutt þaðan.
Inn úr Ósunum ganga ýmsir smávogar: Seljavogur, Kýrvogur, Skollavogur og Brunnvogur, en Djúpavog kalla þeir nú nyrzta horn þeirra. Ekki vita menn neitt merkilegt um örnefni þessi.“
Sjá meira um Gamla Kirkjuvog HÉR, HÉR og HÉR.
Sjá MYNDIR.
Heimild:
-Árbók Hins íslenska fornleifafélags, 18. árg. 1903, Rannsókn í Gullbringusýslu og Árnessýslu sumarið 1902, eftir Brynjólf Jónsson, bls. 41-42
-Magnús Grímsson. Fornminjar um Reykjanessskaga. Landnám Ingólfs. Reykjavík 1935-36. Bls. 257-258. Magnús Grímsson, fæddist 3. júní 1825, dó 18. janúar 1860.
Skálar og selstöður
Búsetuminjar hinna fyrstu landnámsmanna (-kvenna) hér á landi og þó einkum á Reykjanesskaganum, í landnámi Ingólfs Arnarssonar, er víða að finna.
Hér er athyglinni fyrst og fremst beint að fyrstu skálabyggingunum.
Eins og kunnugt er hefur dæmigerður fornaldarskáli verið grafinn upp að 2/3 hlutum í Höfnum (Vogur). Þar mun þó ekki hafa verið um að ræða búsetu norrænna manna heldur (skv. upplýsingum Bjarna Einarssonar, fornleifafræðings) tímabundna búsetu Evrópumanna (ca. 770-880) er vildu nýta hér náttúruauðlindir, s.s. rostungstennur, hvali o.fl., áður en hið eiginlega bókfærða landnám norrænna manna hófst (~874). Ekki er þó útilokað að skáli þessi hafi einfaldlega verið útstöð frá Gamla-Kirkjuvogi, landnámsbænum handan við Ósa.
Ein merkilegasta uppgötvun seinni ára um bústaði og „afleiður“ þeirra, þ.e. selstöðurnar og staðsetningu þeirra sem og nýtingu fyrstu landnemanna er að finna í fornleifauppgrefti í Urriðakoti við Urriða(kots)vatn í landi Garðabæjar undir handleiðslu Ragnheiðar Traustadóttur, fornleifafræðings. Þar fundust m.a. við uppgröft í gróinni brekku minjar kúasels frá landnámstíð; fjós og hliðstæð vinnsluhús sem og nokkrar kynslóðir fjárselja með dæmi- gerðum þrískiptum byggingum, þ.e. baðstofu, búri og eldhúsi. Skammt frá eru, auk Urriðavatns, góðar uppsprettur og næg beit í mýrum. Hvorutveggja var forsenda slíkra mannvirkja, auk skjólsins fyrir ríkjandi rigningarátt.
FERLIR hefur (með dyggri aðstoð) staðsett og skoðað rúmlega 400 selstöður í fyrrum landnámi Ingólfs. Um þriðjungs þeirra er getið í gömlum heimildum, s.s. jarðabókum, sóknarlýsingum, ferðabókum og samantektum, þriðjungur hefur fundist við leit að teknu tilliti til örnefna í örnefnalýsingum og á landakortum og þriðjungur hefur fundist við leitir á tilteknum svæðum út frá líkindum á mögulegum selstöðum vegna landskosta. Tvö seljanna eru að öllum líkindum fyrir landnám norrænna manna.
Fyrir Urriðakotsuppgröftin höfðu selstöðurnar í fyrrum landnámi Ingólfs jafnan verið meint fjársel, en eftir að fjósið og skáli því tengdu höfðu verið grafin upp í Urriðakoti varð ljóst að endurskoða þurfti nokkrar selstöður m.t.t. fyrirliggjandi niðurstaðna. Augljóst mátti ætla að t.d. selstöðutóftir í Helgadal, í Kringlumýri, undir Bringum, við Selvatn og víðar á svæðinu hefðu selstöðurnar að geyma forn kúasel. Þær selstöður virðast gefa vísbendingu um þróun þeirra frá upphafi byggðar. Svo er að sjá að hinar fyrstu selstöður hafi tekið mið af búpeningi þess tíma sem og ríkidæmi viðkomandi landnámsmanna.
Helgadalur – tóft.
Þær voru bæði stærri og tilkomumeiri en síðar varð; lítill skáli var reistur á staðnum, fjós byggt sem og samstæðar byggingar til vinnslu afurðanna. Gerði voru hlaðin og svæðið nýtt a.m.k. hálft árið til nytja. Síðar virðast þessar mikilfenglegu selstöður annað hvort, vegna breyttra aðstæðna, hafa orðið óþarfar og gleymst og/eða fjársel verið byggð upp úr þeim sökum breytinga á samsetningu búpenings. Í fjárseljum var húsakostur rýrari. Staðsetning þeirra gerði minni kröfur til aðgengis að vatni og beit. Húsin voru jafnan þrjú; baðstofa, búr og eldhús, gjarnan hliðsett. Byggingarnar voru óreglulegar og virðast hafa tekið mið af heimabænum á hverjum tíma. Þannig voru þær óreglulegar og misstórar í fyrstu en urðu síðan reglulegri (þ.e. mynduðu samfellda röð). Enn sem fyrr virðast selstöðurnar hafa tekið mið af ríkidæmi einstakra bænda.
Í Landnámu og ýmsum sögnum er jafna skráð í framhaldi fornaldar heimilda um búsetu forfeðra vorra. Við skoðun og leit á nokkrum þeirra fundust áður óskoðaðar minjar. Má þar t.d. nefna Hof á Kjalarnesi, Stykkisvelli og Múla í Brynjudal, sbr. eftirfarandi skáningar í Landnámu: Í 11. kafla Landnámu segir t.d.: „Helgi bjóla, son Ketils flatnefs, fór til Íslands úr Suðureyjum. Hann var með Ingólfi hinn fyrsta vetur og nam með hans ráði Kjalarnes allt milli Mógilsár og Mýdalsár; hann bjó að Hofi. Hans son var Víga-Hrappur og Kollsveinn, faðir Eyvindar hjalta, föður Kollsveins, föður Þorgerðar, móður Þóru, móður Ögmundar, föður Jóns byskups hins helga.“
Í 14. kafla segir: „Hvamm-Þórir nam land á milli Laxár og Fossár og bjó í Hvammi.
Þórir deildi við Ref hinn gamla um kú þá, er Brynja hét; við hana er dalurinn kenndur. Hún gekk þar úti með fjóra tigu nauta, og voru öll frá henni komin. Þeir Refur og Þórir börðust hjá Þórishólum; þar féll Þórir og átta menn hans.
Þorsteinn, son Sölmundar Þórólfssonar smjörs, nam land milli Botnsár og Fossár, Brynjudal allan. Hann átti Þorbjörgu kötlu, dóttur Helga skarfs; þeirra son var Refur hinn gamli, er Bryndælir eru frá komnir.
Landnám á Reykjanesskaga.
Nú eru taldir þeir menn, er búið hafa í landnámi Ingólfs, vestur frá honum. Maður hét Ávangur, írskur að kyni; hann byggði fyrst í Botni. Þar var þá svo stór skógur, að hann gerði þar af hafskip. Hans son var Þorleifur, faðir Þuríðar, er átti Þormóður Þjóstarsson á Álftanesi og Iðunnar Molda-Gnúpsdóttur. Sonur Þormóðar var Börkur, faðir Þórðar, föður Auðunar í Brautarholti.
Kolgrímur hinn gamli, son Hrólfs hersis, nam land út frá Botnsá til Kalmansár og bjó á Ferstiklu.
Hann átti Gunnvöru, dóttur Hróðgeirs hins spaka. Þeirra börn voru þau Þórhalli, faðir Kolgríms, föður Steins, föður Kvists, er Kvistlingar eru frá komnir. Bergþóra var dóttir Kolgríms hins gamla, er átti Refur í Brynjudal.“
Gullvellir í Brynjudal.
Og í 47. kafla: „Helgi skarfur var faðir Þorbjargar kötlu, er átti Þorsteinn Sölmundarson, þeirra synir Refur í Brynjudal og Þórður, faðir Illuga, föður Hróðnýjar, er Þorgrímur sviði átti. Þórdís hét önnur dóttir Helga skarfs, er átti Þorsteinn Ásbjarnarson úr Kirkjubæ austari. Þeirra son var Surtur, faðir Sighvats lögsögumanns.“
Ljóst er, jafnvel að teknu tilli til þessara skrifa, og jafnvel þrátt fyrir þau, að bæði er mikilvægt og nauðsynlegt er að halda utan um, skrá og rannsaka þær merku fornleifar er að framan getur – komandi kynslóðum til gagns og frekari nýtingar til lengri framtíðar. Fornleifarnar, arfleifð forfeðranna, eru bæði staðfesting á tilvist þeirra og búskaparháttum, allt frá landnámi til vorra daga, hvort sem um er að ræða fyrrnefndar selstöður sem og öll önnur mannanna verk.
Heimildir m.a.:
-Landnáma.
-Kjalnesingasaga.
-Lúther á Þrándarstöðum.
Holukot – Stóra-Botnssel – Litla-Botnssel
Meginmarkmiðið var að leita uppi selstöður frá Litla-Botni og Stóra-Botni í Hvalfirði og skoða fornbýlið Holukot.
FERLIR hafði áður leitað eftir upplýsingum hjá fornleifaskráningaraðila svæðisins, en engin svör bárust, enda varla til þess að ætlast því skráningin sem slík virtist einstaklega fáfrómleg.
Upplýsingar fengust hjá Steinþóri Jónssyni (fæddur á Stóra-Botni og bjó þar til 1982 er búskapur lagðist af) um selstöðurnar í dalnum. Hann hafði reyndar ekki séð þær báðar þrátt fyrir að hafa margleitað svæðið við smalamennsku. Fyrra selið sagði hann þó vera „vestast og ofarlega í Selflóa við Selá undir Selfjalli og hið síðara við Sellæk uppi á fjalli, allnokkru austar, innan girðingar“.
Ætlunin var m.a. að rekja Tæpastíg frá Litla-Botni, að Litla-Botnsseli. Hann ku hafa legið upp um stallana ofan bæjarins og upp með Selánni, sagður vel greinilegur.
Undir Skúta í Skútalæk ofan Litla-Botns, virðist vera tóft á falllegum stað ofan og neðan við háa fossa. Þar er og lítið gerði. Varða er ofan við hana. Frá henni liggur selstígurinn upp í selið – eins og ávallt gerist upp í allar aðrar selstöður.
Ætlunin var að reyna að rekja selsstíginn svo sem mögulegt var. Örnefnin bentu sterklega til þess að þarna hafi verið selstaða.
Áður en haldið var upp Tæpastíg millum Selfjalls og Háfells var gengið suður yfir Botnsá nokkru suðvestan við Litla-Botn, að tóftum Holukots. Í fornleifaskráningu fyrir Hvalfjarðarstrandarhrepp er getið um minjarnar.
Þar segir: „Í Jarðabók Árna og Páls 1706 segir: „Holukot, öðru nafni í Holum, hefur verið að fornu bygt ból að almenningstali; eru girðíngaleifar því til vitnis. Enginn minnist nær það hafi í auðn lagst, hitt vita menn, að Stóribotn hefur lángt yfir hundrað ár haft og brúkað allar landsnytjar…“ „Nokkur hluti af fjallinu hér fyrir utan er nefnt Holufjall. Þar niðri á láglendinu er gamalt eyðibýli, komið í eyði fyrir 1600, og hefur heitið Holukot“, segir í örnefnaskrá.
Sunnan Stóru-Botnsár, um 930 m austur af Hlaðhamri og um 380 m suðsuðaustur af aflagðri steyptri brú yfir Botnsá, er gróðursetningarreitur grenitrjáa. Slíkir reitir eru tveir sunnan ár, í hlíðarrótum Múlafjalls. Sá reitur sem hér er til umræðu er heldur neðar (norðar) og austar en hinn. Tóftirnar eru neðst og austast í þessum neðri gróðurreit. Á milli Botnsár og brattrar hlíðar Múlafjalls, sem snýr mót norðri, er ekki mikið undirlendi. Neðst (nyrst) við ána er land slétt og mýrlent á ytri (vestari) hluta flatlendisins og talsverður birkiskógur. Eftir því sem ofar dregur í hlíðina verður gróður þurrari og strjálli. Þar sem tóftirnar eru, á milli hlíðar og mýrar, hefur verið birkilaust rjóður, um 100 m í þvermál. Í seinni tíð hefur verið plantað grenitrjám í rjóðrið, m.a. ofan í tóftirnar.
Láréttur stallur er í hlíðina þar sem Holukot er, um 20 m N-S (inn í hlíðina) og um 40 m A-V. Rjóðrið er allt stórþýft og grasi- og sinugróið. Ekki er eiginlega tóftarlögun að sjá en á einum stað er samhangandi þúfnaklasi sem myndar – L -, sennilega garðlag, 2 m N-S og 3 m A-V og er mesta hæð um 0,9 m. Skammt þar frá sér í nokkuð stóran stein standa upp úr sverðinum. Fyrir neðan fyrrnefndan stall má greina hugsanlega upphleðslu. Um 30 m austan við stærstu þúfurnar rennur lítill lækur en þeir eru sjaldséðir í hlíðum Múlafjalls þótt mýrlendi sé nokkuð víða. Stika hefur verið rekin niður á minjastaðnum. Uppgefin lengd og breidd svæðis er harla ónákvæm því bæði er að hleðslur eru mjög sokknar í jörðu og eins er þéttur greniskógur á staðnum.“
Og þá var haldið af stað upp Háafell áleiðis í Selflóa. Ofan Litla-Botns var komið að grónu gerði. Sáust þar hleðslur og tóft sunnan við þær og innan bogadregins garðs. Skammt ofar var ílöng tóft (5x10m), greinilega mjög gömul. Hleðslur voru grónar. Þverhleðsla markaði 1/3 rýmisins. Þarna gæti hafa verið hof til forna. Ofar í hlíðinni er gróið svæði er gætu falið fornar tóftir.
Þegar komið var upp á Öxlina beygði stígurinn upp hlíðina. Á þeim kafla er hann harla óljós vegna skriða og vatns. Ofar sést hann hins vegar mjög vel.
Í fornleifaskráningunni segir m.a. um Tæpastíg: „Selstöðu á jörðin í sínu eigin landi, er hún lángt frá, og sá vegur af, sem til selsins lá, so nú má ófært kalla á háskalegum gljúfurs barmi, so nú er sá kostur frá jörðunni.“, segir í jarðabók Árna og Páls. „Milli Háafells og Selfjalls er Kiðadalur, þar sem Stekkjará rennur eftir í gili. Innan við miðjan dal rennur Stekkjaráin fast að Háafellinu. Þar lá engjavegurinn efst á gilsbrúninni og var kölluð Tæpugata.“, segir í örnefnaskrá.
Tæpugata er 1,5 km norður af bæ og fast austan við Stekkjargilið, þar sem það er næst Háafelli.
Litla-Botnssel – selstígurinn.
Vesturhlið Háafells er brött niður að Stekkjará þótt sumsstaðar séu nokkuð sléttir bollar á milli hlíðar og gils. Hlíðin er hálfgróinn melur, mest mosi sem er rofinn á köflum. Leiðin, nokkuð greinilegur slóði á köflum en hverfur stundum, liggur upp á klettamúla alveg við gilið (austan við á) sem er þverhníptur.
Leiðin liggur þó ekki vestast á múlanum, ekki fast við hengiflugið, en hlýtur þó að vera ónotalegt að fara með klyfjað hross eftir götunni þótt gangandi manni standi ekki stuggur af leiðinni. Á um 40 m kafla, heiman við múlann, hefur gatan spillst þar sem runnið hefur úr hlíðinni. Þær engjar sem talað er um í örnefnaskrá eru talsvert norður í heiði, sunnan og vestan við Krókatjarnir en þær eru rétt rúman 4,5 km norðnorðaustur af bæ.“
Áberandi skástígur er ofan við Skútalæk. Ofar er há varða. Enn ofar (t.h.) er varða á hrygg. Allt eru þetta vísbendingar um Litla-Botnssel. Þrátt fyrir það var ákveðið að leita alla flóana þarna efra – og þeir eru sko margir og langir.
Í örnefnalýsingu fyrir Litla-Botn er getið um eftirfarandi örnefni: Selá, Selfjall, Selfjallsdrög, Selfjallsenni, Selfjallsflói, Selfjallshali, Selfjallsnípa, Selflói og Selgilsdrög. Þá segir í lýsingunni um svæðið efst við Selána: “Hæðirnar sunnan Sóleyjarflóa og að Skútalæk heita Hallbjarnarköst. Austan þeirra eru tvö flóasund samliggjandi, mosahæð skilur þau í sundur. Það vestra heitir Selflói. Efst í honum eru rústir af seli. Sér þar greinilega fyrir tveimur kofarústum og smágerði. Upp af rústunum er laut, er nær næstum að Sóleyjarflóa. Norður af Selfjallinu heyrði ég talað um, að hefði verið annað sel, en ekki veit ég, hvar það var, og sér þess nú engin merki.”
Þá segir jafnframt í lýsingunni, sem Jón Þorkelsson skráði: „Dalurinn milli Selfjalls og Grjóthlíðar vestan Brunnár heitir Brunnárdalur, nær hann frá Útstöllum að Brunnárbotnum. Brunná kemur úr Brunnártjörn, rennur fyrst um sléttlendi, en móts við norðurendann á Selfjalli – kallaður Selfjallshali – hefur áin grafið allmikið gljúfur, þar sem hún rennur ofan í Brunnárdalinn. Það heitir Brunnárgljúfur. Frá Selfjallshala liggur hæðarbrún vestan í há-Selfjalli, kallað Langakast, nær það alla leið að Skorningi sunnan í há-Selfjalli. Milli Selfjalls og Digravörðuhryggs (svo í hdr.) er Selfjallsflói og austar Selgilsdrög, en þar á Stekkjará upptök sín. Fyrir ofan Innstallana vestan Stekkjarár, móts við Tæpugötu, er klapparhnúkur, sem heitir Kiðadalshnúkur.
Norður af Brunnártjörn eru Fálkagilstjarnir á mörkum Litla-Botns og Fitja. Austan þessara tjarna er allhár melhryggur, víða mosavaxinn, sem heitir Digravörðuhryggur, þar sem hann er hæstur, eru tvær vörður, kallast þær Digravörður (svo í hdr.). Austan við hrygginn eru tvær tjarnir, (Stóra-) Krókatjörn, sem Litla-Botnsá kemur úr – út í hana ganga tvö nes, sem næstum skera í hana sundur – og sunnar Djúpatjörn, sem lækur rennur úr í Krókatjörn. Heyjað var með þessum læk, svo og í flóanum sunnan og vestan við Krókatjörn.
Neðarlega, austan við Digravörðuhrygg, er hvilft í heiðina, sem heitir Sóleyjarflói. Mikið er af holtasóley vestan og ofan við flóann, en norður af honum er holt, sem heitir Sóleyjarhæð. Lækur rennur úr Sóleyjarflóa niður í Selgilsdrög og í Stekkjará, sem heitir Friðfinnsskurður.“
Annars heita örnefnin ofan við Selfjall eftirfarandi: „Selfjall – ofan þess Bunnártjörn og enn ofar Fálkagilsgjarnir. Austar, mitt á milli, er Einstakatjörn. Krókatjarnir eru norðaustar og Skúlagilstjörn norðan hennar. Úr þeim kemur Litla-Bornsá. Selá kemur úr Selflóa. Í hana rennur Krókalækur úr Svartakrók. Austar er Háafell og Víðhamrafjall austar, áður en kemur að Hvalfelli. Þar á millum fellur Botnsá.“
Þegar komið var upp og víðfeðmið barið augum var fáum farið að lítast á blikuna. En ekki varð aftur snúið. Verkefnið var jú að finna selstöðurnar. Að vísu var hér komið út fyrir Landnám Ingólfs, en þar sem bæirnir eru á mörkunum var þrátt fyrir það ákveðið að freysta þess að leita selstöðurnar uppi.
Þegar FERLIR gekk fyrir nokkru til austurs upp með Botnsánni áleiðis að Hvalvatni var gengið yfir Glymsflóann. Þegar gengið var yfir Sellækinn við girðingu, sem þar er, var komið að kargaþýfi ofan við þar sem lækurinn kemur í ána. Þarna virtust vera tættur, en þær voru ekki gaumgæfðar sérstaklega í þeirri ferð. Steinþór Jónsson í Stóra-Botni sagðist aðspurður einungis kannast við tóftir sels frá Litla-Botni „uppi á fjalli, austan Selár“. Áður hafði verið gengið um Botnsdal og minjar skoðaðar. En þegar upp var komið var erfitt að ákveða hvar skyldi bera niður svo helst skyldi – hver flóinn upp og út af öðrum, sem fyrr sagði, og erfitt að rekja þá vegna þess að hvarvetna báru mosavaxnar klapparhæðir á milli.
Í fornleifaskráning-unni fyrir Hvalfjarðarstrandar-hrepp árið 2003 er m.a. fjallað selstöðuna frá Litla-Botni: „Selflói gæti ýmist verið töluvert í suðvestur af Krókatjörnum eða í austnorðaustur af tjörnunum, eftir því hvernig örnefnaskrá er skilin. Sumarið 2003 var leitað að selrústum sem ekki fundust. Krókatjarnir eru um 4,5 km norðnorðaustur af bæ. Heiðaland, mosi, grjótholt á milli og mýrarflóar. Eins og fyrr segir, fundust engar tóftir við fornleifaskráningu sumarið 2003.
Litla-Botnssel – uppdráttur ÓSÁ.
Svæðið í kringum og sunnan við Krókatjarnir og Einstökutjörn er töluvert gróið á milli mel- og klapparholta. Mýrarflóar eru víða með ásum og gott
með vatn. Á því svæði var leitað en á hinu svæðinu, austnorðaustan Krókatjarna, sem er vel gróið á kafla, var ekki leitað. Ástæðan er að Digruvörðuhryggur, sem er eitt helsta kennileitið samkvæmt örnefnaskrá, er töluvert norðan við hreppamörk.“
Litla-Botnssel fannst inn í flóa sem Skútalækur kemur úr. Líklegt má telja að örnefni hafi eitthvað skolast til þarna í heiðinni, enda mikil bleyta hvarvetna. Sóleyjarflói er austan við Selflóa, en Krókatjarnir allnokkru norðaustar.
Litla-Botnssel.
Tveir flóar eru vestan við selflóa og er Selfjallsflói vestastur. Flóinn á milli Selfjallsflóa og Selflóa hefur án efa verið heyjaður fyrrum, enda benda ummerki til þess. Götur eru þarna svo til um alla heiði.
Selið er þrjú rými; tvö samliggjandi rými (240x240cm) og það þriðja fram til og til hliðar (litlu minna –sennilega eldhúsið). Hlaðið gerði er vestan við selstöðuna, hleðslur sjást vel, en eru grónar líkt og selhúsin.
Hæð veggja er um 40cm og má glögglega enn sjá innganga.
Vörðurnar í heiðinni utan við flóana benda til þess að hafa verið leiðarmerki þeirra er dvöldust í selinu og heyjuðu þarna uppi í flóunum.
Þá var haldið drjúga vegarlengd áleiðis yfir að Sellæk í leit að Stóra-Botnsseli – yfir flóa og hryggi. Í Jarðabók Árna Magnússonar segir: „Selstöður á jörðin lángt upp á fjalli erfiðar, þar sem heita Glimseyrar og Hrísháls.“ Í örnefnaskrá kemur fram: „Selrústirnar við Sellæk eru efst í oddanum, þar sem Sellækur rennur í Botnsá að austanverðu við lækinn og sjást vel enn. Ekki er mér kunnugt, hvenær síðast var þar haft í seli.“, segir í örnefnaskrá.
Í fornleifaskráningunni segir: „Um 600 m austan við Sellæk og rétt vestan við ónefndan lækjarfarveg er tóft. Farvegirnir tveir mynda einskonar odda sem mjókkar til norðurs. Tóftin er ofarlega í þessum odda. Slétta 3 km norðaustur af bæ. Gróið svæði, mikið til mosi og gras. Svæðið er harla slétt en nokkuð grýtt. Lítið annað að er sjá en ílanga dokk, um 6,5 m A-V og um 5 m N-S. Dokkin er um 0,5 m djúp. Vegghleðslur mjög ógreinilegar en þó glittir í nokkra steina upp úr sverðinum. Op er í vestur. Hugsanlega hafa verið 2 hólf því bálkur er í miðju, N-S, en er þó ekki mjög greinilegur.“
Stóra-Botnssel.
Þegar FERLIR kom yfir að Sellæk var gengið svo til beint á Stóra-Botnssel. Það er um 100-200 metra suðvestan við framangreinda lýsingu á meintu seli. Í selinu er eitt meginrými og snýr gafli mót austri. Veggir eru grónir. Svo virðist sem selhúsið hafi verið byggt upp úr eldri selstöðu því það virðist yngra. Ekki mótar fyrir opum á rýmum norðan við selhúsið. Hæð veggja er um 1.0m. Þaðan er frábært útsýni inn með norðanverðu Hvalvatni. Selstígurinn var rakinn til baka niður að Stóra-Botni.
Frábært veður. Gangan tók 6 klst og 6 mín.
Heimildir m.a.:
-Steinþór Jónsson frá Stóra-Botni.
-Fonrleifaskráning í Hvalfjarðarstrandarhreppi 2003.
-Örnefnalýsingar fyrir Stóra-Botn og Litla-Botn.
Stóra-Botnssel – selsstígurinn. Stóra-Botnssel er handan árinnar, við Sellækinn.
Húshólmi – merkilegur staður í umdæmi Grindavíkur
Árið 2005 gaf Ferðamálafélag Grindavíkur út ritið „Húshólmi – merkilegur staður í umdæmi Grindavíkur„.
Húshólmi – rit.
Á baksíðu ritsins segir: „Samantekt þessi er unnin af Ómari Smára Ármannssyni fyrir Ferðamálafélag Grindavíkur. Nefndin gaf út samantekt um Selatanga á 30 ára afmæli kaupstaðarins í Grindavík 10. apríl 2004. Hún stefnir að því að gefa út samantektir um fleiri merkilega staði í umdæmi Grindavíkur, s.s. Selöldu, Þórkötlustaðahverfi , Þórkötlustaðanes, Járngerðarstaðahverfi, Staðarhverfi, ströndina, Baðsvelli og Selsvelli svo eitthvað sé nefnt.
Það er von nefndarinnar að efnið, sem hingað til hefur verið dreift og hér er sett fram í samfelldan texta, auk göngulýsinga af svæðinu, myndum og uppdráttum, muni nýtast áhugasömu fólki, bæði til fróðleiks og gagns á vettvangi, en æ fleiri gera sér nú ferð í Húshólma til að skoða minjarnar og fá innsýn í hugsanlegan heim fólksins, sem þar bjó áður en Ögmundarhraun rann og færði byggðina í kaf að mestu. Þá kemur fleira fólk til Grindavíkur í þeim tilgangi að skoða forna staði, kynnast sögu fleirra og njóta fagurs umhverfis.
Í Húshólma.
Í samantektinni er m.a. reynt að lýsa aðstæðum, staðháttum, minjunum, tengingu við nálægar minjar sem og umhverfið. Í ritinu er uppdráttur af Húshólma og minjunum, sem í honum eru“.
Ritið er nú upselt og ólíklegt er að það verði endurútgefið. Lesendur FERLIRs geta hins vegar skoðað innihaldið á vefsíðunni – sjá Húshólmi – rit.
Húshólmi – uppdráttur ÓSÁ.
Selatangar – merkilegur staður í umdæmi Grindavíkur
Árið 2004 gaf Ferðamálafélag Grindavíkur út ritið „Selatangar – merkilegur staður í umdæmi Grindavíkur“.
Selatangar – rit.
Á baksíðu ritsins segir: „Samantekt þessi er unnin af Ómari Smára Ármannssyni fyrir Ferðamálafélag Grindavíkur í tilefni af 30 ára afmæli kaupstaðarins 10. apríl 2004. Nefndin stefnir að því að gefa út samantektir um fleiri merkilega staði í umdæmi Grindavíkur, s.s. Selöldu, Húshólma og Óbrennishólma, Þórkötlustaðanes, Þórkötlustaðarhverfi, Járngerðarstaðarhverfi, Staðarhverfi, ströndina, Baðsvelli og Selsvelli svo eitthvað sé nefnt.
Það er von nefndarinnar að efnið, sem hér er sett fram í texta, myndum og uppdráttum, muni nýtast áhugasömu fólki bæði til fróðleiks og gagns á vettvangi, en æ fl eiri gera sér nú ferð á Selatanga til að skoða minjarnar og fá innsýn í verbúðarlífið þar fyrr á öldum. Þá kemur fleira fólk til Grindavíkur í þeim tilgangi að skoða forna staði, kynnast sögu þeirra og njóta fagurs umhverfis.
Gengið um Selatanga.
Í samantektinni er m.a. handbragðinu lýst, skiplagi, nýtingu, hinu daglega lífi sjómanna, götunum og rekanum, auk þess sem getið er um hinar merkilegu refagildrur við Tangana og Ketilinn í Katlahrauni, hinu stórbrotna jarðfræðifyrirbrigði.
Í ritinu er uppdráttur af svæðinu.“
Ritið er nú upselt og ólíklegt er að það verði endurútgefið. Lesendur FERLIRs geta hins vegar skoðað innihaldið á vefsíðunni – sjá Selatangar – rit.
Selatangar – uppdráttur ÓSÁ.