Hafnarfjörður – ágæti

Kaldársel

Hafnarfjörður á einkar fallega og fjölbreytilega landskosti.

Hafnarfjörður

Vitinn við Vitastíg.

Í bænum sjálfum eru bæði sögulegir staðir og minjar, sem varðveittar hafa verið, bæði meðvitað og ómeðvitað. Má í því sambandi nefna letursteinana á Hvaleyrarhöfða, garðana ofan við Langeyri, fiskireitinn uppi á Hrauni, stekkinn í Stekkjarhrauni, fjárskjólið utan í Gráhellu í Gráhelluhrauni og fjárborgina á Höfða við Kaldársel. Hins vegar er fjölmargt, sem ganga þarf í, segja frá á aðgengilegum stað, kortleggja og merkja síðan á vettvangi. Að hluta til hefur það verið gert í Hraununum við Straum, en óvíða annars staðar. Í hrauninu ofan við Hraunbæina eru nokkur sel, s.s. Fornasel, Gjásel, Straumssel, Óttarstaðasel, Lónakotssel og Brennisel með tilheyrandi mannvirkjum, hlöðnum fjárhellum, stekkjum, kvíum, gerðum og nátthögum. Stígar liggja að öllum þessarra mannvirkja og þau eru í mjög stuttu og aðgengilegu göngufæri frá byggð. Þannig er ekki nema u.þ.b. 20 mínútna gangur í Straumssel. Með Óttarstaðaselsstíg eru t.d. nokkur mjög falleg fjárskjól, en öll ómerkt. Við Hvaleyrarvatn er Hvaleyrarsel og í Kaldárseli var Kaldársel. Enn má sjá móta fyrir tóttum selsins.

Stórhöfði

Stórhöfði – fjárskjól.

Mannvirki eru allt í kringum Hvaleyrarvatn og svo er einnig um Kaldársel, s.s. fjárborgin, fjárhellarnir, nátthaginn og gerðin. Gamla vatnsleiðslan er dæmi um mannvirki, sem áhugavert er að skoða.
Þá eru hellarnir nálægt Helgadal ekki síðri, s.s. 90 metra hellirinn, 100 metra hellirinn, Fosshellir og Rauðshellir. Mikið er gengið um svæðið nálægt Valahnjúkum, s.s. í Valaból, og um Helgafell. Á því svæði eru einnig mjög áhugaverðar jarðmyndanir, ekki síst sunnan Helgafells.

Kaldársel

Kaldársel – fjárhellir.

Gvendarsel er í Gvendarselshæð, en gígarnir utan í hæðinni eru líklega með áhuguverðustu skoðunarstöðum áhugafólks um jarðfræði. Fallegur fjárhellir er í Óbrennishólum, en hann mun væntanlega fljótlega hverfa undir malarnámið verði ekkert að gert. Mikilvægt er að merkja gömlu Selvogsgötuna frá tilteknum upphafsstað, s.s. í Lækjarbotnum við gömlu stífluna. Svæðið norðan og sunnan Sléttuhlíðar býður upp á mikla möguleika, en þar eru m.a. Kershellir, Hvatshellir, Ketshellir og fjárhellar Setbergssels og Hamarkotssels. Við Krýsuvíkurveginn er stutt í Hrauntunguna, en þar er fallega hlaðið fjárskjól í jarðfalli, og Þorbjarnarstaðafjárborgina. Sveifluhálsinn er útivistarmöguleiki út af fyrir sig, sem ástæða er að mæla með. Margir þekkja möguleikana í kringum Kleifarvatn og Hveradal.

Seltún

Seltúnsselið sést á þessari mynd Sigfúsar Eymundssonar frá 1884 – myndin er tekin frá Lambafelli að Seltúni.

Þar var sel frá Krýsuvík. Þá er orðið aðkallandi að merkja staði í Krýsuvík, s.s gömlu bæina í kringum Bæjarfellið, t.d. Snorrakot, Norðurkot, Læk, Litla-Nýjabæ, Stóra-Nýjabæ, Suðurkot, Arnarfell, og niður við Selöldu. Arngrímshellir er í Krýsuvíkurhrauni, en frá honum er sagt í þjóðsögunni um Grákollu. Þar skammt frá er Bálkahellir og Krýsuvíkurhellir neðar. Dysjar Herdísar og Krýsu eru undir Stóru-Eldborg og dys Ögmundar er í Ögmundarhrauni. Minjarnar í Húshólma og Óbrennishólma eru líklega með þeim merkilegustu hérlendis. Í Húshóma má sjá leifar eftir fornan skála, gömlu Krýsuvíkurkirkju, gamals bæjar, forns garðs, sjóbúð, stekk og gerði, sem hraunið hefur runnið að. Í Óbrennishólma eru tvær fjárborgir, líklega með þeim elstu á landinu, auk garðlags, sem hraunið hefur runnið að, og leifar af fornum garði.

Krýsuvíkurheiði

Athvarf í Krýsuvíkurheiði.

Undir Selöldu eru tóttir Krýsuvíkursels og bæjanna Eyri og Fitja. Í Strákum er hlaðið fjárhús. Á Krýsuvíkurheiði er Jónsbúð og fallega hlaðið sæluhús sunnan í henni. Fjárborg er vestan í Borgarholti og Hafliðastekkur utan í Bæjarfelli. Gestsstaðir eru líklega næst elstur bæja í Krýsuvík, utan Kaldrana. Merkja þarf tóttir Gestsstaða, sem eru undir hæðunum sunnan við Krýsuvíkurskóla. Aukþess er forn tótt utan í Sveifluhálsi nokkru sunnar.

Kaldrani

Kaldrani í Krýsuvík.

Flestir aka framhjá tóttum Kaldrana, án þess að veita þeim gaum, en þær liggja undir hæðinni austan við gatnamótin að Hverahlíð. Fjölmargir stígar og gamlar þjóðleiðir liggja um þetta svæði, s.s. Drumbsdalavegur yfir að Vigdísarvöllum, Sveifluvegur, Hettuvegur og Ketilsstígur, Vatnshlíðarstígur um Hvammahraun og Austurvegur um Deildarháls að Herdísarvík. Þá eru leiðir um Almenninga ekki síðri, auk Markhelluhóls og Búðarvatnsstæðisins. Í Sauðarbrekkum eru mjög fallegir gjallgígar og er einn þeirra holur að innan. Hann hefur að öllum líkindum verið notaður sem íverustaður um tíma. Ofar, á Hrútardyngjusvæðinu, eru á annan tug langra manngengna hraunhella, sem eru sértaklega fallegir, en vandmeðfarnir.

Alfaraleið

Alfaraleiðin við gatnamót Lónakotsselsstígs.

Að sumu þarf að gera gangskör að, s.s. að finna og merkja Góðholu og Kaldadý, vegna upphafs vatnsveituframkvæmda í bænum. Hingað til hefur skógrækt þótt merkisfyrirbæri og óþarfi er að gera lítið úr henni. En hins vegar er mikilvægt að gæta þess að skógræktin skemmi ekki minjar og gönguleiðir, eins og farið er að bera á. Þá þarf að huga að merkilegum svæðum, en sum þeirra hafa verið skemmd að undanförnu. Nýjasta dæmið er Alliansreiturinn við Hrafnistu. Honum var mokað á brott á hluta úr degi fyrir skömmu. Vert er að minnast Hraunsréttarinnar, sem var fjarlægð á svo til einum degi. Svo var einnig með eystri fjárborgina í Kaldárseli. Hrauntungusel er í jaðri iðnaðarsvæðisins við Molduhraun. Búið er að moka hluta að því í burtu, en eftir stendur hluti tóttar utan í Hádegishól.

Alfararleiðin á milli Innesja og Útnesja var með þeim fjölfarnari á öldum áður. Hún er sæmilega vörðuð í dag frá Þorbjarnarstöðum og vestur um Hvassahraun (Rjúpnadalshraun) og ennþá vel greinileg. Hins vegar er með hana eins og svo margt annað. Tiltölulega fáir vita um tilvist hennar. Svo er einnig með veginn undir járnbrautina, sem stóð til að leggja yfir Garðahraun. Gamla þjóðleiðin um Engidal á bak við Fjarðarkaup er einnig að glatast, en hún er enn vel greinileg.
Hafnarfjörður hefur alla burði til að gera sögu sína, minjar og möguleika opinbera bæjarbúum og öðru áhugasömu fólki.

Rauðshellir

Í Rauðshelli.

https://ferlir.is/hafnarfjordur-2/https://ferlir.is/hafnarfjordur-verslun-og-utgerd/

Ás