Pálmi Hannesson, rektor Menntaskólans í Reykjavík, skrifaði um „Sköpun Þingvalla“ í Alþingishátíðarrit Fálkans árið 1930:
„Alt er breytingum háð. Vísindin kenna oss, að enginn hlutur sje að öllu hinn sami i dag og hann var í gœr. Og árin sem líða láta eftir sig drjúg ummerki á öllu, sem er, löndum og liföndum. Sumt þroskast, annað hrörnar, en alt hreytist, skapast og glatast. Þannig fer mannanna sonum. Þannig fer og um jörðina: fjöll og dali, stein og stál.
Á hverju vori velta árnar fram kolmórauðar af sandi og leir, sem þœr bera úr fjöllum fram og alt út á sæ. Skriður falla. Vindur gnýr fjöll, og hafið sverfur strendur. Römm öfl orka á jörðina og leitast við að rífa hana niður, og ef þau væru ein í leik, mundu þau um síðir jafna hin hæstu fjöll við sæ, því að þó að fjöllin sjeu mikil og traustleg eru þeim þó takmörk sett, en tímanum engin. En jarðeldar hlaða upp eldfjöll og veita hrauni á hraun ofan. Löndin lyftast og síga, hrukkast beyglast og brotna fyrir hinum duldu öflum í djúpi jarðarinnar. Þannig orka tvenn öfl á jörðina og eiga í sífelldu stríði. Önnur rifa niður. Hin hlaða upp. Önnur „vega upp tindana“. Hin jafna þá við sæ. Landslag og staðhættir, fjöll og dalir, lönd og álfur, alt er þetta til orðið fyrir starf og stríð þessara afla, og alt er þetta að breytast sífeldlega.
Jörðin er ekki fullsköpuð og verður það aldrei. Jörðin er að skapast. Í hverju einasta landi jarðarinnar berjast þessi öfl, en hvergi sækjast þau fastar en hjer á landi. Hjer er jörðin að skapast fyrir augum vorum.
— Þingvellir og landið umhverfis þá sýnir glögglega þetta mikilfenglega sköpunarstarf náttúrunnar. Náttúrunnar, sem reisir og rífur, elur og tortímir. Hvernig hefir þetta listaverk náttúrunnar orðið til? Lítið á Þingvallavatn og Þingvallahraun, Súlurnar, Skjaldbreið, Hrafnabjörg, Tindaskaga, Kálfstinda og Henglafjöllin. Hvernig og hvenær hefir alt þetta skapast? —
Jeg skal nú í örstuttum dráttum segja sögu Þingvalla, eins og fræðimenn ætla að hún sje, eftir þeim meginrúnum, sem náttúran sjálf hefir reist á hinum fornhelga stað, en rjett er þess að geta, að margar þeirra rúna eru enn óráðnar og bíða komandi fræðimanna og komandi kynslóða, þeirra sem meira girnast að vita um sögu lands síns en sú sem nú lifir eða lifað hafa frá því að Snorri goði spurði á Alþingi forðum. „Hvat reidduzt goðin þá, er hjer hrann hraunit, er nú stöndu vér á?“
Og saga mín hefst fyrir tugum þúsunda ára, á hinni miklu jökulöld.
Yfir öllu landinu liggur bláhvít jökulbreiða, svo að hvergi sjer á dökkvan díl, nema í svartar hamrahyrnur út til stranda. Á þessum tíma eru eldgos tíð, einkum inni í landinu. Aska, gjall og hraunslettur berast út á jökulbreiðuna, sökkva til botns og hlaðast saman undir jökulfarginu. Þannig ætla menn, að hin mikla móbergsbreiða um mitt landið hafi skapast. Svo líða þúsundir ára. Eldur og ís skapa landið og móta, en enginn kann frá þeim undrum að greina, sem verða í þeirri viðureign. Seint á þessum tíma taka mikil eldfjöll að stinga kollunum upp úr jökulbreiðunni. Þau hlaðast upp og hækka og spúa eldi og eimyrju yfir hinn hvíta jökul. Þannig skapast Henglafjöllin, Súlur og Ármannsfell, Hrafnabjörg, Kálfstindar og Tindaskagi. — Og enn líða ár og aldir. — Jökulbreiðan tekur að þverra.
Hægt og hægt víkur jökullinn til baka, og geysimikill skriðjökull liggur fram um Þingvalladalinn, milli eldfjallanna, sem gnæfa við himinn á báðar hendur. Og loks er landið örísa, og Þingvalladalurinn breiðir faðminn móti hinum fyrstu frjóum, sem sunnanblærinn ber inn yfir hið frumvaxta, örlöglausa land.
Og þannig líða þúsundir ára. Gróðurinn grær í hinum þöglu, ónumdu dölum, og eldgos eru tíð. Á þessum tíma hlaðast upp hinar miklu grágrýtisdyngjur: Mosfellsheiði og Lyngdalsheiði.
Svo tekur loftslagið að kólna að nýju. Jöklarnir vaxa inni í landinu ár frá ári og öld eftir öld. Þungur jökulstraumur sígur fram um Þingvalladalinn og stökkvir burt öllum lifanda. Loks er Ísland jökli hulið að nýju, og skriðjöklar ná á alla vegu út á sjó. Það er hin síðari jökulöld.
Á þeim tíma mótast Þingvalladalurinn að nýju undir hinum þunga, sverfandi ísstraumi. Og eldfjöllin á báðar hendur dalsins eru hulin fönnum og skriðjöklum, sem gnaga þau og móta.
Þannig líða langar aldir. — En eftir þennan fimbulvetur kemur vor, eins og eftir hinn fyrri. Jökullinn verður að hopa fyrir hinum hlýnandi þey.
Og aftur verður Ísland örísa upp að hæstu hálendum. Nú er landið umhverfis Þingvelli tekið að líkjast því sem nú er, en þar er enginn Skjaldbreiður, ekkert hraun, ekkert vatn. Dalurinn er hulinn bláum jökulsöndum, og um hann liðast mógráar jökulsár. Þá er Suðurland alt sævi hulið og Ingólfsfjall er höfði, sem öldur úthafsins næða á, en norðan við það liggur fjörður langt upp í Grafning.
Og aftur tekur gróðurinn að nema landið. Hægt og hægt lokast hann inn yfir auðnirnar, sem jökulinn ljet eftir sig. —
Þá hefjast eldgos langt inn í Þingvalladalnum. Hraunið brýst upp á jafnsljettu og hvert gosið rekur annað, uns ávöl hæð tekur að hefjast fyrir miðjum dalnum. Hún hækkar og gýs, gýs eintómu hrauni. Og hraunflóðin renna lengra og lengra inn til jökla og út um hinn „breiða heiðardal“. Þannig skapast Skjaldbreiður.
Síðan, þegar Skjaldbreiður er hættur að gjósa, opnast geysimikil eldsprunga uppi á bak við Hrafnabjörg og Tindaskaga. Þaðan falla þungir hraunstraumar niður með Hrafnabjörgum beggja vegna og út yfir dalinn, yfir hraunin frá Skjaldbreið. Þaðan eru hraunin komin, sem þekja Þingvöll.
Nú líður og bíður. Gráðurinn breiðist yfir landið, og skógurinn lekur að nema hið nýja hraun. Svo byrjar landsigið. Undirstaðan undir Þingvalladalnum bilar, og hún sígur og sigur, uns hlíðar dalsins bresta og botninn allur fellur niður. Þannig skapast Þingvallavatn. Vera má raunar, að vatn hafi áður verið nyrst í dalnum, en við þessar hyllingar hefir það dýpkað og stækkað geysilega. Þá skapast Almannagjá, Hrafnagjá og aðrar gjár á Þingvöllum. Þá skapast og Jórukleif og aðrir brotbarmar beggja vegna við vatnið. Enginn veit með neinni vissu um það, hversu þessar byltingar hafa gerst nje ástæður þeirra. Leiða menn að því ýmsar getur, sem ekki verða greindar hjer. Líklegt má þó telja, að þetta mikla landsig hafi gerst á löngum tíma, og má vera, að því sje ekki lokið enn. Víst er, að árið 1789 seig Þingvallasljettan um eina alin, og getur verið, að svo hafi oftar orðið.
Þegar hjer er komið sögu, eru Þingvellir að mestu orðnir eins og þeir eru nú. Skógurinn breiðist jafnt og þjett yfir hraunið og hlíðarnar, blágrænn að lit.
Eitt hið síðasta eldgos, sem orðið hefir á þessum slóðum, hefir veitt miklum hraunstraumi suðvestur af Hrafnabjargahálsi suður með Miðfelli og alt suðvestur að Dráttarhlíð, sem liggur neðan við Þingvallavatn. Þetta hraun hefir stíflað Þingvallavatn og hækkað það um nokkra metra, og má sjá þess merki viða. Siðan hefir Sogið grafið sjer nýjan farveg með fram hraunröndinni og lækkað vatnsborðið að sama skapi sem farvegurinn dýpkaði. Þessu starfi heldur það áfram enn í dag, og er trúlegt, að það hafi grynnkað vatnið um 1 metra eða meira á síðustu þúsund árum.
Þannig er sköpunarsaga Þingvalla i stuttum dráttum alt til þessa tíma, að landið bygðist. Þegar hinir fyrstu landnámsmenn litu yfir Þingvalladalinn, blasti við augum þeirra fögur sýn og svipmikil. Hraunin öll og hlíðarnar voru skógi vaxnar, og yfir blágrænan skóginn og hið mikla vatn gnæfðu fjöllin við himin. Þeir nefndu hjeraðið Bláskóga og vatnið Ölfusvatn Engan þeirra hefir grunað, að þetta svæði yrði hið örlögríkasta í sögu þjóðarinnar, að þessi friðsami fjalladalur yrði sjónarsvið hinna mestu, hinna bestu og hinna verstu atburða i lífi niðja þeirra.
Síðan á Landnámsöld hafa ýmsar breytingar orðið á Þingvöllum. Skógurinn er að mestu horfinn. Þar sem forfeðurnir reistu búðir sinar er nú mýri, og sumt af þingstaðnum er horfið í vatn. Þúsund ár eru sem augnablik í æfi landsins, en enn leitast landsigið við að sökkva Þingvöllum og Sogið að veita af þeim vatni.
Hvað verða muni, veit enginn. Ef til vill sökkva Þingvellir í vatn. Ef til vill á jökullinn eftir að síga yfir landið að nýju. En eitt er víst. Alt breytist.“ – Pálmi Hannesson.
Meðfylgjandi myndir frá Þingvöllum fylgdu skrifum Pálma.
Pálmi lauk gagnfræðapróf á Akureyri 1915, stúdentsprófi frá MR 1918. M.Sc.-prófi í dýrafræði Hafnarháskóla 1926, en las auk þess grasafræði, jarðfræði, eðlisfræði og efnafræði. Kennari við Gagnfræðaskólann á Akureyri 1926–1929. Rektor Menntaskólans í Reykjavík frá 1929 til æviloka. Hann hafði því aflað sér víðtæka þekkingu á viðfangsefninu. (Nauðsynlegt var að bæta hinu síðastnefnda við til fróðleiks svo myndir og skýringartextar pössuðu við umfjöllunina.)
Heimild:
-Fálkinn, 25.-26. tbl. 26.06.1930, Sköpun Þingvalla, Pálmi Hannesson, bls. 14.
-https://www.thingvellir.is/fraedsla/nattura/jardsagan/