Tag Archive for: náttúra

Þingvellir

Pálmi Hannesson, rektor Menntaskólans í Reykjavík, skrifaði um „Sköpun Þingvalla“ í Alþingishátíðarrit Fálkans árið 1930:

Pálmi Hannesson

Pálmi Hannesson; 3. janúar 1898 – 22. nóvember 1956.

„Alt er breytingum háð. Vísindin kenna oss, að enginn hlutur sje að öllu hinn sami i dag og hann var í gœr. Og árin sem líða láta eftir sig drjúg ummerki á öllu, sem er, löndum og liföndum. Sumt þroskast, annað hrörnar, en alt hreytist, skapast og glatast. Þannig fer mannanna sonum. Þannig fer og um jörðina: fjöll og dali, stein og stál.

Á hverju vori velta árnar fram kolmórauðar af sandi og leir, sem þœr bera úr fjöllum fram og alt út á sæ. Skriður falla. Vindur gnýr fjöll, og hafið sverfur strendur. Römm öfl orka á jörðina og leitast við að rífa hana niður, og ef þau væru ein í leik, mundu þau um síðir jafna hin hæstu fjöll við sæ, því að þó að fjöllin sjeu mikil og traustleg eru þeim þó takmörk sett, en tímanum engin. En jarðeldar hlaða upp eldfjöll og veita hrauni á hraun ofan. Löndin lyftast og síga, hrukkast beyglast og brotna fyrir hinum duldu öflum í djúpi jarðarinnar. Þannig orka tvenn öfl á jörðina og eiga í sífelldu stríði. Önnur rifa niður. Hin hlaða upp. Önnur „vega upp tindana“. Hin jafna þá við sæ. Landslag og staðhættir, fjöll og dalir, lönd og álfur, alt er þetta til orðið fyrir starf og stríð þessara afla, og alt er þetta að breytast sífeldlega.

Þingvellir

Frá Þingvöllum.

Jörðin er ekki fullsköpuð og verður það aldrei. Jörðin er að skapast. Í hverju einasta landi jarðarinnar berjast þessi öfl, en hvergi sækjast þau fastar en hjer á landi. Hjer er jörðin að skapast fyrir augum vorum.

— Þingvellir og landið umhverfis þá sýnir glögglega þetta mikilfenglega sköpunarstarf náttúrunnar. Náttúrunnar, sem reisir og rífur, elur og tortímir. Hvernig hefir þetta listaverk náttúrunnar orðið til? Lítið á Þingvallavatn og Þingvallahraun, Súlurnar, Skjaldbreið, Hrafnabjörg, Tindaskaga, Kálfstinda og Henglafjöllin. Hvernig og hvenær hefir alt þetta skapast? —

Þingvellir

Frá Þingvöllum.

Jeg skal nú í örstuttum dráttum segja sögu Þingvalla, eins og fræðimenn ætla að hún sje, eftir þeim meginrúnum, sem náttúran sjálf hefir reist á hinum fornhelga stað, en rjett er þess að geta, að margar þeirra rúna eru enn óráðnar og bíða komandi fræðimanna og komandi kynslóða, þeirra sem meira girnast að vita um sögu lands síns en sú sem nú lifir eða lifað hafa frá því að Snorri goði spurði á Alþingi forðum. „Hvat reidduzt goðin þá, er hjer hrann hraunit, er nú stöndu vér á?“

Og saga mín hefst fyrir tugum þúsunda ára, á hinni miklu jökulöld.

Þingvellir

Frá Þingvöllum.

Yfir öllu landinu liggur bláhvít jökulbreiða, svo að hvergi sjer á dökkvan díl, nema í svartar hamrahyrnur út til stranda. Á þessum tíma eru eldgos tíð, einkum inni í landinu. Aska, gjall og hraunslettur berast út á jökulbreiðuna, sökkva til botns og hlaðast saman undir jökulfarginu. Þannig ætla menn, að hin mikla móbergsbreiða um mitt landið hafi skapast. Svo líða þúsundir ára. Eldur og ís skapa landið og móta, en enginn kann frá þeim undrum að greina, sem verða í þeirri viðureign. Seint á þessum tíma taka mikil eldfjöll að stinga kollunum upp úr jökulbreiðunni. Þau hlaðast upp og hækka og spúa eldi og eimyrju yfir hinn hvíta jökul. Þannig skapast Henglafjöllin, Súlur og Ármannsfell, Hrafnabjörg, Kálfstindar og Tindaskagi. — Og enn líða ár og aldir. — Jökulbreiðan tekur að þverra.

Þingvellir

Frá Þingvöllum.

Hægt og hægt víkur jökullinn til baka, og geysimikill skriðjökull liggur fram um Þingvalladalinn, milli eldfjallanna, sem gnæfa við himinn á báðar hendur. Og loks er landið örísa, og Þingvalladalurinn breiðir faðminn móti hinum fyrstu frjóum, sem sunnanblærinn ber inn yfir hið frumvaxta, örlöglausa land.

Og þannig líða þúsundir ára. Gróðurinn grær í hinum þöglu, ónumdu dölum, og eldgos eru tíð. Á þessum tíma hlaðast upp hinar miklu grágrýtisdyngjur: Mosfellsheiði og Lyngdalsheiði.

Þingvellir

Fyrsti vísirinn að Þingvallavatni kom fram fyrir 12.000 árum. Þá lá jökultunga í Þingvallalægðinni og jökullón myndaðist syðst í henni, upp við Grafningsfjöllin. Þingvallavatn varð síðan til þegar jökullinn hopaði enn lengra norður og vatn frá honum safnaðist í lægðina. 
Fyrir um 10.000 árum er jökullinn hafði nálgast núverandi stöðu, hófust mikil dyngjugos. Þá myndaðist Skjaldbreiður ein fallegasta dyngja landsins.
Um svipað leyti gaus í dyngju sunnan við Hrafnabjörg sem Þingvallahraun rann frá og myndaði eldborgagígaröð.

Svo tekur loftslagið að kólna að nýju. Jöklarnir vaxa inni í landinu ár frá ári og öld eftir öld. Þungur jökulstraumur sígur fram um Þingvalladalinn og stökkvir burt öllum lifanda. Loks er Ísland jökli hulið að nýju, og skriðjöklar ná á alla vegu út á sjó. Það er hin síðari jökulöld.

Á þeim tíma mótast Þingvalladalurinn að nýju undir hinum þunga, sverfandi ísstraumi. Og eldfjöllin á báðar hendur dalsins eru hulin fönnum og skriðjöklum, sem gnaga þau og móta.

Þannig líða langar aldir. — En eftir þennan fimbulvetur kemur vor, eins og eftir hinn fyrri. Jökullinn verður að hopa fyrir hinum hlýnandi þey.

Og aftur verður Ísland örísa upp að hæstu hálendum. Nú er landið umhverfis Þingvelli tekið að líkjast því sem nú er, en þar er enginn Skjaldbreiður, ekkert hraun, ekkert vatn. Dalurinn er hulinn bláum jökulsöndum, og um hann liðast mógráar jökulsár. Þá er Suðurland alt sævi hulið og Ingólfsfjall er höfði, sem öldur úthafsins næða á, en norðan við það liggur fjörður langt upp í Grafning.

Og aftur tekur gróðurinn að nema landið. Hægt og hægt lokast hann inn yfir auðnirnar, sem jökulinn ljet eftir sig. —

Þá hefjast eldgos langt inn í Þingvalladalnum. Hraunið brýst upp á jafnsljettu og hvert gosið rekur annað, uns ávöl hæð tekur að hefjast fyrir miðjum dalnum. Hún hækkar og gýs, gýs eintómu hrauni. Og hraunflóðin renna lengra og lengra inn til jökla og út um hinn „breiða heiðardal“. Þannig skapast Skjaldbreiður.

Síðan, þegar Skjaldbreiður er hættur að gjósa, opnast geysimikil eldsprunga uppi á bak við Hrafnabjörg og Tindaskaga. Þaðan falla þungir hraunstraumar niður með Hrafnabjörgum beggja vegna og út yfir dalinn, yfir hraunin frá Skjaldbreið. Þaðan eru hraunin komin, sem þekja Þingvöll.

Þingvellir

Úr Eldborgum sunnan Hrafnabjargar rann hraun vítt um Þingvallasvæðið.
Talið er að gosin sem mynduðu dyngjurnar hafi staðið í áratugi. Hraunin tóku fyrir yfirborðsrennsli jökulvatns suður Þingvallalægðina. Allt vatn norðan frá hvarf í hraunið og kom undan því sem tært lindarvatn.
Hraun úr dyngjunni sunnan við Hrafnabjörg rann langt út í Þingvallavatn og lokaði fyrir afrennsli þess við Sogshorn svo vatnsborðið hækkaði um 15 metra en jafnframt minnkaði vatnið mikið því hraunið fyllti það að stórum hluta.
Hraunið sléttaði í svip yfir Þingvallalægðina en landsig og sprunguhreyfingar héldu áfram og gjárnar endurnýjuðust og má nú virða fyrir sér innri gerð hraunsins í gjáveggjunum.

Nú líður og bíður. Gráðurinn breiðist yfir landið, og skógurinn lekur að nema hið nýja hraun. Svo byrjar landsigið. Undirstaðan undir Þingvalladalnum bilar, og hún sígur og sigur, uns hlíðar dalsins bresta og botninn allur fellur niður. Þannig skapast Þingvallavatn. Vera má raunar, að vatn hafi áður verið nyrst í dalnum, en við þessar hyllingar hefir það dýpkað og stækkað geysilega. Þá skapast Almannagjá, Hrafnagjá og aðrar gjár á Þingvöllum. Þá skapast og Jórukleif og aðrir brotbarmar beggja vegna við vatnið. Enginn veit með neinni vissu um það, hversu þessar byltingar hafa gerst nje ástæður þeirra. Leiða menn að því ýmsar getur, sem ekki verða greindar hjer. Líklegt má þó telja, að þetta mikla landsig hafi gerst á löngum tíma, og má vera, að því sje ekki lokið enn. Víst er, að árið 1789 seig Þingvallasljettan um eina alin, og getur verið, að svo hafi oftar orðið.

Þegar hjer er komið sögu, eru Þingvellir að mestu orðnir eins og þeir eru nú. Skógurinn breiðist jafnt og þjett yfir hraunið og hlíðarnar, blágrænn að lit.

Eitt hið síðasta eldgos, sem orðið hefir á þessum slóðum, hefir veitt miklum hraunstraumi suðvestur af Hrafnabjargahálsi suður með Miðfelli og alt suðvestur að Dráttarhlíð, sem liggur neðan við Þingvallavatn. Þetta hraun hefir stíflað Þingvallavatn og hækkað það um nokkra metra, og má sjá þess merki viða. Siðan hefir Sogið grafið sjer nýjan farveg með fram hraunröndinni og lækkað vatnsborðið að sama skapi sem farvegurinn dýpkaði. Þessu starfi heldur það áfram enn í dag, og er trúlegt, að það hafi grynnkað vatnið um 1 metra eða meira á síðustu þúsund árum.

Þingvellir

Þjófahraun rann fyrir um 3000 árum úr gígum norðar Hrafnabjarga
Fyrir rúmum 3000 árum opnaðist 8 km löng gossprunga norðaustan við Hrafnabjörg og myndaði Þjófahraun. Hraunið breiddist út austan við Tindaskaga en álma úr því rann vestur af norðan við Hrafnabjörg
Seinast gaus í Þingvallalægðinni fyrir 2000 árum. Gossprungan sem þá opnaðist er norðaustan við Hengil. Þá rann Nesjahraun í Grafningi og öskugígurinn Sandey reis upp af botni Þingvallavatns.
Eldvirkni hefur nú legið niðri á Þingvallasvæðinu í meir en 2000 ár, en ljóst er að einhverntímann í framtíðinni munu hraun aftur renna.

Þannig er sköpunarsaga Þingvalla i stuttum dráttum alt til þessa tíma, að landið bygðist. Þegar hinir fyrstu landnámsmenn litu yfir Þingvalladalinn, blasti við augum þeirra fögur sýn og svipmikil. Hraunin öll og hlíðarnar voru skógi vaxnar, og yfir blágrænan skóginn og hið mikla vatn gnæfðu fjöllin við himin. Þeir nefndu hjeraðið Bláskóga og vatnið Ölfusvatn Engan þeirra hefir grunað, að þetta svæði yrði hið örlögríkasta í sögu þjóðarinnar, að þessi friðsami fjalladalur yrði sjónarsvið hinna mestu, hinna bestu og hinna verstu atburða i lífi niðja þeirra.

Síðan á Landnámsöld hafa ýmsar breytingar orðið á Þingvöllum. Skógurinn er að mestu horfinn. Þar sem forfeðurnir reistu búðir sinar er nú mýri, og sumt af þingstaðnum er horfið í vatn. Þúsund ár eru sem augnablik í æfi landsins, en enn leitast landsigið við að sökkva Þingvöllum og Sogið að veita af þeim vatni.

Hvað verða muni, veit enginn. Ef til vill sökkva Þingvellir í vatn. Ef til vill á jökullinn eftir að síga yfir landið að nýju. En eitt er víst. Alt breytist.“ – Pálmi Hannesson.

Meðfylgjandi myndir frá Þingvöllum fylgdu skrifum Pálma.

Pálmi lauk gagnfræðapróf á Akureyri 1915, stúdentsprófi frá MR 1918. M.Sc.-prófi í dýrafræði Hafnarháskóla 1926, en las auk þess grasafræði, jarðfræði, eðlisfræði og efnafræði. Kennari við Gagnfræðaskólann á Akureyri 1926–1929. Rektor Menntaskólans í Reykjavík frá 1929 til æviloka. Hann hafði því aflað sér víðtæka þekkingu á viðfangsefninu. (Nauðsynlegt var að bæta hinu síðastnefnda við til fróðleiks svo myndir og skýringartextar pössuðu við umfjöllunina.)

Heimild:
-Fálkinn, 25.-26. tbl. 26.06.1930, Sköpun Þingvalla, Pálmi Hannesson, bls. 14.
-https://www.thingvellir.is/fraedsla/nattura/jardsagan/

Þingvellir

Þingvellir – jarðfræðikort ISOR 2022.

Náttúra

Þegar skoðaðar eru eldri umfjöllun um náttúruvernd og hún borin saman við raunveruleika líðandi stundar kemur margt forvitnilegt í ljós – en ekki allt jafn uppbyggilegt.

Ef t.d. spurt er; hver er staða okkar mannanna gagnvart náttúrunni? er ljóst að við höfum verið að greina okkur frá henni í æ ríkari mæli. Hér er hins vegar um talsverðan misskilning að ræða því við erum hluti náttúrunnar. Sá er nefnilega sannleikurinn að „þekking leiðir af sér virðingu og að virðing leiðir af sér verðmæti“.
Í dag er helsta auðlind ferðaþjónustunnar náttúra landsins! Íslendingar setja jafnan náttúrufegurð ofarlega þegar þeir svara spurningum um hvað hafi dregið þá á ákveðna staði. Háspennilínur virðast hins vegar ekki höfða til þeirra sérstaklega. Ótal kannanir hafa einnig sýnt að ósnert náttúra landsins er eitt helsta aðdráttarafl erlendra gesta. Þeir eru ekki að leita sérstaklega eftir því að fá að berja háspennumöstur augum. Ekki síst í ljósi þessa er mikilvægt að hlúa vel að þessari auðlind – mun betur en gert hefur verið.
Sem einfalt og auðskiljanlegt dæmi um hversu hugtakið náttúra er margþætt má nefna tölur frá Reykjanesi er sýna að um þriðjungur ferðamanna skoðar fugla á ferðum sínum. Engin sérstök þjónusta er þó í tengslum við fuglaskoðun, önnur en hjá Fræðasetrinu í Sandgerði. En það er ekki bara nóg að segja ferðamönnum að hér séu fuglar heldur þarf líka að benda þeim á þá.
Auk þess þarf að fræða þá um atriði varðandi líffræði fuglanna, viðveru, komu og brottför. Það er ekki svo ósjaldan sem FERLIRsfólk hefur á göngum sínum rekist á ráðvillt fuglaskoðunarfólk að reyna að sinna áhugamálum sínum. Svo er og um marga aðra þætti þessara viðfangsefna.
Samfylkingin setti fram rammaáætlun um náttúruvernd fyrir síðustu alþingiskosningar (þegar flokkurinn var í minnihluta), svonefnt „Fagra Ísland„. Um var að ræða tillögur til að styrkja stöðu náttúru- og umhverfisverndar á Íslandi. Á grundvelli þessarar stefnu lagði Samfylkingin jafnframt fram frumvarp til laga á Alþingi í byrjun þings 2006.
Orðrétt segir í stefnuplagginu: „Samfylkingin vill styrkja stöðu náttúru- og umhverfisverndar á Íslandi. Því leggur flokkurinn til markvissar aðgerðir sem byggjast á forsendum sjálfbærrar þróunar og skýrri framtíðarsýn. Samfylkingin telur að nú sé sérstaklega mikilvægt að rétta hlut náttúruverndar á Íslandi gagnvart hagsmunum stóriðju, sem hefur notið algers forgangs í atvinnustefnu ríkisstjórnarinnar undanfarinn áratug. Íslensk náttúra hefur farið halloka í þeim leik – nú þarf að skapa nýjar leikreglur í samræmi við verðmæti náttúrunnar og tilfinningar þjóðarinnar til landsins.
Jafnaðarmenn telja að náttúra Íslands sé sameign þjóðarinnar sem hverri kynslóð hafi verið fengin til skynsamlegrar nýtingar. Okkur, sem nú lifum, er skylt að afhenda næstu kynslóðum náttúru landsins jafnverðmæta og við fengum hana í hendur.
Frá ÖlkelduhálsiNáttúra Íslands er ekki aðeins rík af auðlindum í hefðbundnum skilningi heldur eru öræfi landsins, fljót, fossar, jöklar, hverir og dalir í óendanlegum litbrigðum sínum og fjölbreytileika verðmæt auðlind í sjálfu sér. Verndun náttúrunnar er ein tegund nýtingar og oft sú sem á endanum skilar mestum verðmætum. Náttúra Íslands er einn meginþátturinn í ímynd landsins. Það skiptir miklu að sú ímynd bíði ekki hnekki. Hitt er þó enn mikilvægara: Tengsl okkar við landið og náttúru þess.
Tímabært er að Íslendingar skipti um gír, tryggi jafnræði atvinnugreina og byggi skipulega upp atvinnulíf framtíðarinnar þar sem náttúrugæði landsins eru nýtt með sjálfbærum hætti. Samfylkingin leggur til að við núverandi aðstæður verði frekari stóriðjuáformum slegið á frest. Nú þarf áhersla á hátækni- og þekkingariðnað að haldast í hendur við nýsköpun í ferðaþjónustu og hefðbundnu atvinnugreinunum, sjávarútvegi og landbúnaði.
Samfylkingin vill: 1. Tryggja rétt náttúruverndar í skipulagi og við landnýtingu. Gera „Rammaáætlun um náttúruvernd“ sem nái til allra náttúrusvæða landsins. Þar komi fram tillögur um skipan verndarsvæða og áætlun um það hvernig verndun þeirra skuli háttað. Tryggðar verði fjárveitingar til helstu grunnrannsókna á náttúrufari landsins á næstu misserum þannig að áætlunin geti legið fyrir á komandi kjörtímabili. Að ákvörðunum um frekari stóriðjuframkvæmdir verði frestað þangað til fyrir liggur nauðsynleg heildarsýn yfir verðmæt náttúrusvæði Íslands og verndun þeirra hefur verið tryggð. Að heimild til að veita rannsóknar- og nýtingarleyfi vegna virkjunaráforma verði færð úr höndum iðnaðarráðherra til Alþingis á meðan unnið er að gerð áætlunarinnar. 2. Tryggja nú þegar verndun ákveðinna svæða. Stækka Vatnajökulsþjóðgarð þannig að hann feli í sér Langasjó og allt vatnasvið Jökulsár á Fjöllum.
Stækka friðlandið í Þjórsárverum í samræmi við tillögu umhverfisstofnunar og í samráði við heimamenn. Tryggja friðun Skjálfandafljóts, ReynisréttJökulánna í Skagafirði, Torfajökulssvæðisins, Kerlingarfjalla, Brennisteinsfjalla og Grændals. 3. Gera langtímaáætlun um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda. 4. Auka áhrif almennings og réttarstöðu í umfjöllun um umhverfismál. Að félagasamtök á umhverfissviði njóti sérstakra framlaga frá ríki og sveitarstjórnum til að afla sérfræðiaðstoðar við athugasemdir og umsagnir um skipulags- og umhverfismál. Að taka upp ráðgefandi eða bindandi atkvæðagreiðslur, á lands-, héraðs- eða sveitarvísu, um ýmsa kosti í umhverfismálum og náttúruvernd, og tryggja viðunandi jafnræði milli fylgismanna kostanna.“
Öllu framangreindu fylgdi síðan sérstök greinargerð: „1. Tryggja rétt náttúruverndar í skipulagi og við landnýtingu. Náttúra Íslands á í vök að verjast. Lagastoð náttúruverndar er veikburða, mikilvægum rannsóknum á verðmætum náttúrusvæðum er ábótavant, umsjón með rannsóknum er að verulegu leyti í höndum orkuyfirvalda og -fyrirtækja, og heildarsýn skortir. Við þessar aðstæður er hætta á því að þjóðin glati um alla framtíð verðmætum náttúruperlum sem ekki eru einasta mikilvægar í sjálfu sér heldur einnig fyrir menninguna, sjálfsmynd þjóðarinnar og ímynd landsins.
Arnarvatn Íslendingar nútímans eru jafnt og þétt að vakna til vitundar um þann arf sem felst í náttúrugæðum landsins, ekki síst hinum lítt snortnu en viðkvæmu öræfum. Hver kynslóð ber ábyrgð á því að skila þessum arfi til hinnar næstu en láta ekki stundarhagsmuni bera sig af leið. Nýting náttúrugæða verður að vera sjálfbær, og rétt er að líta á ýmis stig verndar sem eina tegund nýtingar. Það er mikilvægt hlutverk stjórnvalda og almennings á hverjum tíma að varðveita fágæt náttúrusvæði Íslands en einblína ekki á þau not sem hafa má af náttúrunni í þágu orkufreks iðnaðar.

Á Sveifluhálsi

Við gerð „Rammaáætlunar um náttúruvernd“ verður nauðsynlegra grunngagna aflað til að hægt sé að leggja mat á verndargildi náttúrusvæða á landinu öllu. Í áætluninni verður náttúrusvæðum landsins skipt í þrjá meginflokka eftir verndargildi. Í fyrsta lagi eru svæði þar sem talið er að vernd sé nauðsynlegur nýtingarkostur. Slík svæði þarf að friða með lögum. Þennan flokk má kalla virka vernd en slík svæði verður kappkostað að nýta sem þjóðgarða og verndarsvæði eftir því sem við verður komið. Annar flokkur náttúrusvæða nýtur sérstakrar verndar, sem kalla mætti biðvernd. Það eru svæði sem þarf að rannsaka betur og/eða talið er að komi til greina til annarrar nýtingar, að heild eða hluta. Þriðji flokkurinn nýtur lágmarksverndar núverandi lagaramma en þau svæði verða „opin“ fyrir ýmissi annarri nýtingu en verndarnotum. Tilhögunin sem hér er lýst er ekki ólík vatnsfallalögum Norðmanna.
„Rammaáætlun um náttúruvernd“ byggist að grunni til á sömu aðferðafræði og Náttúruverndaráætlun og Rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma, nema að ósnortin víðerni þurfa að fá aukið vægi þar sem nokkuð hefur skort á að sú sérstaða íslenskrar náttúru hafi notið sín þegar mat hefur verið lagt á verndargildi.
Framkvæmdir í náttúru landsins eru oft og tíðum óafturkræfar. Það er verndun hins vegar ekki og því er „Rammaáætlun um náttúruvernd“ ætlað að vera stefnumótandi grundvallarskjal við gerð hugsanlegs landsskipulags og aðalskipulags á sveitastjórnarstigi. Markmið hennar er að ná sátt um þau svæði sem njóta skulu verndar en um leið skýrast línur um möguleg framkvæmdasvæði. „Rammaáætlun um náttúruvernd“ mætti að mestu ljúka á fáeinum árum.
Gömul þjóðleið - SkógfellavegurRammaáætlun um náttúruvernd verður mikilvægt framlag til þjóðarsáttar um verndun og nýtingu íslenskrar náttúru. Því er nauðsynlegt að þangað til niðurstöður áætlunarinnar liggja fyrir verði leyfi til virkjanarannsókna og -nýtingar háð samþykki Alþingis.
Engar efnahagslegar aðstæður kalla á stóriðju á næstu árum. Þvert á móti mæla óháðir sérfræðingar (sbr. nýlega skýrslu OECD) með því að dregið verði úr þensluhvetjandi framkvæmdum á næstunni til þess að stuðla að jafnvægi í íslensku efnahagslífi og tryggja stöðugleika til hagsbóta fyrir almenning. Því leggur Samfylkingin til að öllum ákvörðunum um frekari stóriðjuframkvæmdir verði frestað þar til fyrir liggur nauðsynleg heildarsýn yfir verðmæt náttúrusvæði Íslands og verndun þeirra hefur verið tryggð. Nú þarf áhersla á hátækni- og þekkingariðnað að haldast í hendur við nýsköpun í ferðaþjónustu og hefðbundnu atvinnugreinunum, sjávarútvegi og landbúnaði.
2. Tryggja nú þegar verndun ákveðinna svæða. Vegna samkeppni á raforkumarkaði sækist fjöldi aðila nú eftir rannsókna- og nýtingarleyfum. Á borði iðnaðarráðherra liggja umsóknir um rannsóknarleyfi á 13 svæðum, sem mörg hver eru afar verðmæt frá náttúruverndarsjónarmiði og mörg hver lítt rannsökuð með tilliti til verndargildis. Þetta á til að mynda við um ýmis fegurstu háhitasvæði landsins, þar á meðal Brennisteinsfjöll, Torfajökulssvæðið og Kerlingarfjöll.
Samið og sent út frá Hallveigarstíg 1, 101 Reykjavík, sími: 414-2200, fax: 414-2201,
samfylking@samfylking.is
Svo mörg voru þau vonglæsilegu orð fyrir síðustu kosningar – áður en Samfylkingin myndaði meirihluta með öðrum af fyrrum léttnáttúruvænu meirihlutaflokkunum.
Fortíðin skiptir máli!

Krýsuvík

Krýsuvík er ein fegursta náttúruperla Íslands og fjölbreytt litadýrð náttúrunnar á hverasvæðinu við Seltún hefur heillað margan ferðamanninn, auk listamanna. Stórbrotið landslag Krýsuvíkur er vel fallið til útivistar og náttúruskoðunar. Hér ber einna hæst sprengigíginn Grænavatn, leirhverina við Seltún og Kleifarvatn að ógleymdum Sveifluhálsi og síðast en ekki síst Krýsuvíkurbjarg, stórbrotinn útvörður svæðisins niður við ströndina. Margar gamlar gönguleiðir liggja út frá Krýsuvík, sem áhugavert er að huga nánar að.

Lifandi náttúra
HverKynngikraftur náttúrunnar blasir við augum í Krýsuvík. Höfuðskepnurnar eldur, vatn, loft og jörð hafa mótað umhverfið í aldanna rás. Gufustrókar stíga til himins, sjóðandi leirhverir leika taktfasta sinfóníu, hverahvammar skarta grænum, gulum og rauðleitum litum sem skipta um svipmót eftir veðrinu. Náttúruöflin eira engu í glímunni við gróðurinn, vatnsrof leikur stórt hlutverk þegar það rignir og ísa leysir. Vindurinn flettir þekjunni burtu og feykir jarðvegi á haf út þar sem öldur ólmast við klettaströnd og mola standbergið hvíldarlaust. Þetta er íslensk náttúra í öllu sínu veldi.

Litrík hverasvæði
BaðstofaHelstu hverasvæði Krýsuvíkur eru Seltún, Hverahvammur, Hverahlíð,  Austurengjar, suðurhluti Kleifarvatns og Sveifla undir Hettutindi, sem Sveifluháls heitir eftir. Við Seltún er Svunta og stór leirhver sem myndaðist þegar Drottningarhola sprakk haustið 1999. Fúlipollur er austan þjóðvegar og enn austar er Engjahver sem magnaðist við mikinn hverakipp 1924. Hann er líka nefndur Stórihver og svæðið umhverfis hann Austurengjahverir.

Land í mótun
Land í mótunVirka gosbeltið sem liggur eftir Reykjanesskaga er milli landreksflekanna sem kenndir eru við Evrópu og Ameríku. Elsti hlutinn eru Lönguhlíðarfjöll norðaustan Kleifarvatns sem sýna merki tveggja kuldaskeiða og tveggja hlýskeiða. Sveifluháls er móbergshryggur sem myndast hefur við gos undir íshellu á kuldaskeiði. Sunnan Krýsuvíkurhverfis milli Geitahlíðar og Sveifluháls eru nokkur lög af grágrýtishraunum, sum þakin jökulbergi, en efst ber mest á mó og mýrlendi. Jarðlögin sjást vel í Krýsuvíkurbergi. Rauðskriða á Krýsuvíkurheiði og Trygghólar eru leifar gamalla eldgíga sem hraun hafa runnið frá. Fyrir vestan og austan Krýsuvík eru yngri hraun, Litlahraun, Krýsuvíkurhraun og Ögmundarhraun sem eiga upptök sín í Brennisteinsfjöllum, gígum við Eldborgir sunnan Geitahlíðar og í gossprungum í Móhálsadal.

Sprengigígar kallast á
GrænavatnLandslag í Krýsuvík er mótað af umbrotum og jarðeldum. Grænavatn, Gestsstaðavatn og Augun eru sprengigígar sem myndast hafa við sprengigos á ýmsum tímum. Grænavatn er stærst um 46 m djúpt. Vatnið fær lit sinn af hveraþörungum og kristöllum sem draga grænan lit sólarinnar í sig. Gestsstaðavatn heitir eftir fornu býli sem fór í eyði á miðöldum. Beggja vegna þjóðvegarins eru lítil gígvötn sem kallast Augun.

Krýs og Herdís deila um landamerki
DysjarÞjóðsagan hermir að Krýsuvík sé nefnd eftir Krýs sem bjó í Krýsuvík. Hún átti í deilum um landamerki við grannkonu sína, Herdísi í Herdísarvík. Báðar töldu sig órétti beittar og ákváðu að skera úr í deilumáli sínu í eitt skipti fyrir öll. Sammæltust þær um að leggja af stað frá bæjum sínum við sólarupprás og ákveða mörk landa sinna  þar sem þær mættust. Þegar þær hittust á Deildarhálsi taldi Krýs að Herdís hefði lagt fyrr af stað en um var samið. Tóku þær að biðja hvor annarri óbæna ásamt jörðum þeirra. Herdís lagði það á Krýsuvík að allur silungur í Kleifarvatni skyldi verða að loðsilungi en Krýs mælti svo fyrir um að ein eða fleiri skipshafnir skyldu drukkna í Herdísarvíkurtjörn. Sagan um þessa landaþrætu kerlinganna hefur lifað meðal Krýsvíkinga í ýmsum myndum og sýnir kynngimagn Krýsuvíkur.

Fornminjar
TóftÍ landi Krýsuvíkur eru víða merkar fornleifar og búsetuminjar. Elstar eru Gestsstaðarústirnar, sennilega frá fyrri hluta miðalda. Mestar eru fornleifarnar í Krýsuvíkurhverfi undir Bæjarfelli þar sem höfuðbólið og flestar hjáleigurnar voru. Nútímavæðing hefur lítið komið við sögu og jörðin haldist nánast óbreytt frá fyrri tíð, en snemma á sjöunda áratugnum varð sögulegt slys á bæjarhólnum. Krýsuvíkurbærinn, sem stóð vestan kirkjunnar, var þá kominn að falli og voru stórvirkar vinnuvélar notaðar til að ryðja hólinn og slétta út minjar um þennan merka bæ. Neðan hólsins og allt í kringum hann eru gömlu túnin með túngörðum sínum ósnertum að mestu, tóftir gömlu kotanna og fleiri merkar fornminjar.

Dulúð regnsins
Það getur verið mjög votviðrasamt í Krýsuvík því þar gætir fyrst áhrifa frá lægðum sem nálgast landið úr suðvestri. Umhleypingar eru algengir með tilheyrandi úrkomu en í norð- og austlægum áttum má gera ráð fyrir þurrviðri í Krýsuvík. Þá skartar staðurinn sínu fegursta, en einnig getur dulúðin sem fylgir þokulofti og skýjuðu veðurfari búið yfir ólýsanlegri fegurð.

Einföld bændakirkja
KrýsuvíkurkirkjaKrýsuvíkurkirkju er fyrst getið í kirkjuskrá Páls Jónssonar Skálholtsbiskups um 1200. Margt bendir til að kirkja hafi risið í Krýsuvík á fyrstu áratugum kristni, en núverandi kirkju byggði Beinteinn Stefánsson á Arnarfelli 1857. Þetta er lítið guðshús einfaldrar gerðar, án turns, og eina húsið sem enn stendur á bæjarhólnum. Kirkjan var aflögð sem helgidómur og rúin öllum verðmætum 1929. Eftir það notaði einbúinn Magnús Ólafsson, síðasti íbúi Krýsuvíkur, hana sem íbúðarhús til 1945. Endurbygging kirkjunnar hófst 1957 og var hún endurvígð 31. maí 1964 og færð Þjóðminjasafninu til eignar. Árið 1997 var Sveinn Björnsson listmálari jarðsettur í kirkjugarðinum en þá voru liðin 80 ár frá síðustu greftrun þar. Á vorin er haldin messa í kirkjunni og altaristafla eftir Svein hengd þar upp, en tekin niður við messu á haustin og færð til vetrarvistar í Hafnarfjarðarkirkju.

Fuglalíf og eggjataka
KrýsuvíkurbjargUm 57.000 sjófuglapör verpa í Krýsuvíkurbergi, aðallega rita og svartfugl, sem skiptist í álkur, langvíur og stuttnefjur. Einnig verpir þar nokkuð af fýl, toppskarfi og silfurmáfi. Fyrrum var eggjataka mikil og máttu kotamenn taka tiltekið magn af fugli og eggjum úr berginu. Svo mikið fékkst af svartfuglseggjum á vorin að þau voru flutt á mörgum hestum heim til bæjanna. Sömu sögu var að segja af bergfuglinum sem gaf af sér kjöt og fiður. Á Krýsuvíkurheiði og í nágrenni Bæjarfells verpir mófugl, spói, heiðlóa, snjótittlingur og fleiri tegundir. Arnarfell og Arnarfellsstjörn eru kunn kennileiti á Krýsuvíkurheiði og á miðjum Sveifluhálsi eru Arnarvatn og Arnarnípa. Þessi nöfn vísa til þess að ernir hafi orpið á þessum stöðum í eina tíð.

Mannrækt í Krýsuvíkurskóla
KrýsuvíkurskóliUm miðjan áttunda áratuginn hófust miklar byggingaframkvæmdir á mel sunnan Gestsstaðavatns, en þar var ætlunin að reisa skóla fyrir unglinga sem þurftu á sérúrræðum að halda. Áður en byggingunni var lokið var fallið frá hugmyndinni og stóð húsið autt um margra ára skeið þar til Krýsuvíkursamtökin fengu það til afnota. Hafa þau rekið þar meðferðarheimili, uppeldis- og fræðslustofnun fyrir fíkniefnaneytendur.

Hnignandi gróður

Í Krýsuvík

Gróðri hefur farið mjög aftur í Krýsuvík á síðustu öldum. Talið er að jörðin hafi verið kjarri vaxin milli fjöru og fjalls af birkiskógi og víðikjarri, áður en Ögmundarhraun brann. Í jarðabók Páls Vídalín og Árna Magnússonar 1703 er sagt að skógur til kolagerðar nægi ábúendum. Skógurinn eyddist að mestu á harðindaskeiði sem gekk yfir landið í lok 19. aldar. Þá hófst landeyðing með miklum uppblæstri og vatnsrofi í landi Krýsuvíkur. Sauðfjár- og hrossabeit hafði einnig afdrifarík áhrif. Á Sveifluhálsi eru fáeinir grasbalar sem gefa til kynna að þar hafi verið mun grónara í eina tíð. Svæðið sunnan Kleifarvatns einkennist af miklu mýrlendi, slægjulandinu Vesturengjum og Austurengjum. Austan Arnarfells er Bleiksmýri og sunnan Trygghóla er Trygghólamýri.

Ritháttur Krýsuvíkur
TóftirÞegar gamlar sagnir frá Krýsuvík eru skoðaðar kemur glögglega fram að nafn víkurinnar er ætíð ritað með ý en ekki í eins og oft sést í seinni tíð. Örnefnið Krýsuvík er trúlega dregið af orðinu Crux sem merkir kross og hefur Krossvíkin hugsanlega verið við sjóinn nærri Húshólma í Ögmundarhrauni þar sem munnmæli herma að fyrsti bærinn hafi staðið. Mesta fuglabjarg Reykjaness Krýsuvíkurberg, mesta fuglabjarg Reykjaness, er um 7 km langt frá Bergendum við Keflavík í austri til Heiðnabergs vestan Hælsvíkur og 40 hektarar að flatarmáli. Bergið er um 50 m hátt á löngum kafla en Strandaberg, austasti hlutinn, er um 70 m hátt.
Rauðskriða er áberandi kennileiti á vesturhluta bergsins en neðan hennar var einstigið Ræningjastígur sem var eina gönguleiðin niður í fjöru. Meðan enn var farið á sölvafjöru var jafnan farið af sjó því bergið var ekki árennilegt öðrum en sigmönnum. Ræningjastígur var samt fær þeim sem treystu sér til að feta hann en nú er hann ófær með öllu.

Höfuðból og hjáleigur
KrýsuvíkurbjargKrýsuvík var heil kirkjusókn og eitt mesta höfuðból landsins með mörgum hjáleigum. Munnmæli herma að byggðin hafi upphaflega verið í Húshólma, óbrennishólma í austanverðu Ögmundarhrauni.  Þar er altént mjög fornt bæjarstæði sem kallað er Hólmastaður í eldri heimildum. Hjáleigur voru að jafnaði fimm til átta talsins en í gömlum heimildum er getið um 13 býli. Á heimajörðinni voru Suðurkot, Norðurkot, Snorrakot, Stóri-Nýibær, Litli-Nýibær, Arnarfell og nýbýlið Lækur. Fjær voru kotin Vigdísarvellir, Bali, Fitjar og Fell. Kaldrani stóð við suðvesturenda Kleifarvatns og Gestsstaðir sunnan Krýsuvíkurskóla.

Fiskisæld undir berginu
Sjósókn var alla tíð mikilvæg fyrir afkomu Krýsvíkinga. Undir Krýsuvíkurbergi, Hælsvík og lengra út með var löngum fiskisælt en þar er engin lending. Líklega hefur góð lending verið í Hólmastað eða gömlu Krýsuvík, en eftir að Ögmundarhraun rann tók hana af og eftir það var gert út frá Selatöngum. Biskupsskip frá Skálholti, skip útvegsbænda í Árnes- og Rangárþingum og sjávarbænda í Hraunum gengu frá Selatöngum með leyfi Krýsuvíkurbónda.  Krýsvíkingar stunduðu einnig útróðra frá Herdísarvík um aldir.

Kynlegt er Kleifarvatn
Krýsuvík 1810Kleifarvatn er 10 ferkílómetrar að flatarmáli og stærsta stöðuvatn á Reykjanesskaga. Það er á milli Sveifluháls í vestri og Vatnshlíðar í austri. Aðrennsli í vatnið er takmarkað og ekkert frárennsli er sjáanlegt ofanjarðar. Vatnsborðið fylgir grunnvatnsyfirborði svæðisins sem sveiflast um allt að 4 m á tugum ára. Félagar úr Stangveiðifélagi Hafnarfjarðar fluttu bleikjuseiði í Kleifarvatn um 1960 og dafnar fiskurinn bærilega í vatninu. Áður fyrr þóttust menn verða varir við kynjaveru líka stórum ormi í vatninu.

Sjá meira undir Krýsuvík – yfirlit HÉR og HÉR.

Heimild:
-visithafnarfjordur.is

Krýsuvík

Krýsuvík.