Arnarfell
Gengið var upp bröttustu hlið Arnarfells – svona í æfingarskyni.

Arnarfell

Arnarfell í Krýsuvík.

Arnarfell í Krýsuvík er 198 m yfir sjó (um 100 metra hátt). Bæjarfell, næsta fell að vestan er svolítið hærra, eða 218 m.y.s.
Arnarfellin eru nokkur á landinu öllu. Frægasta Arnarfellið, hingað til a.m.k., er sennilega það, sem stendur við Þingvallarvatn.
Fellið er eitt þeirra er ber dýraheiti, s.s. Geitafell, Grísafell, Hafursfell, Hestfjall, Hrútafjöll, Rjúpnafell og Sauðafell. Vitað er um a.m.k. sjö önnur örnefni á Reykjanesskaganum er borið hafa Arnarnafnið, s.s. Arnarnýpa og Arnarvatn á Sveifluhálsi, Arnarsetrið ofan við Grindavík, Arnarklettur við Snorrastaðatjarnir, Arnarhreiður í Ögmundarhrauni, Arnarklettur í Vatnsleysuvík og Arnstapi í Arnstapahrauni (Afstapahrauni).

Arnarfell

Arnarfell.

Arnarfell er með lögulegri fjöllum eða fellum á skaganum. Eystri nýpan á fellinu, grasi gróin, er fornt arnarhreiður. Vestari nýpan hýsir Eiríksvörðu. Sunnan undir fellinu eru tóftir gamla Arnarfellsbæjarins þar sem m.a. Beinteinn Stefánsson bjó ásamt fjölskyldu sinni. Beinteinn var hagleikssmiður og smíðaði m.a. núverandi Krýsuvíkurkirkju árið 1857, þótt hún hafi nokkrum sinnum verið endurbyggð síðan. Fræg er og sagan af viðureign Beinsteins við Tanga-Tómas, drauginn á Selatöngum. Beinteinn slapp frá honum við illan leik og þurfti að fara fótgangandi berfættur yfir hraunið á leið sinni heim að Arnarfelli. Þar lá hann rúmfastur nokkra dagana á eftir.

Arnarfell

Arnarfell – brunnur.

Auk tófta bæjarins má sjá móta fyrir vörslugarði Krýsuvíkurlandsins austan og sunnan við túngarðinn og nær hann til vesturs upp í hlíðar Bæjarfalls, skammt sunnan við fjárhelli, sem þar er. Hlaðin brú er yfir Vestari-Læk og skammt suðvestar er heilleg Arnarfellsréttin. Vörður liggja frá bænum niður á Trygghólana og þaðan niður að Heiðnabergi, framhjá tóftum hins gamla Krýsuvíkusels og bæjarins Eyri, sem stóð þar á fyrrverandi árbakka Eystri-Lækjar, sem nú hefur breytt um farveg. Tóftir sjö bæja eru á Krýsuvíkurtorfunni auk sjö annarra utan hennar, ásamt tilheyrandi mannvirkjum og minjum.

Arnarfellstjörn

Arnarfellsvatn.

Suðaustan við bæinn er Arnarfellsvatn (Bleiksmýrartjörn). Bleiksmýrin er austan fellsins, en hún var ræst út um miðja 20. öld. Á vatnið sækja allflestir sjófuglarnir í Krýsuvíkurbjargi og má oft sá flokka fugla fljúga fram og til baka milli bergsins og vatnsins. Vatnið er einnig áningarstaður fargesta, s.s. helsingja, á leið til Grænlands og Kanada. Tóftir eru vestan við vatnið, en við það eru grasi grónir balar. Að vatninu liggja gamlar þjóðleiðir yfir Krýsuvíkurheiði, enda var vatnið mikilvægur áningarstaður skreiðarflutningamanna á leið þeirra frá verstöðvunum við Suðurströnd Reykjanessins og sveitanna fyrir austan. Gömul varða er t.d. við eina götuna norðvestan við vatnið, skammt undan fellinu. Hlaðið byrgi, sennilega eftir refaskyttu, er rétt suðvestan við vörðuna.

Arnarfell

Flaggað á Arnarfellsvörðu.

Mikið er af mófugli á heiðinni undan Arnarfelli, auk þess sem hrafninn verpir í norðanverðu fellinu.
Í suðurhlíðum fellsins eru tóftir útihúsanna frá bænum. Sú efsta er ekki langt frá vestari toppi fellsins. Á honum trjónir Eiríksvarða. Hún var hlaðin eftir að séra Eiríkur frá Vogsósum, prestur í Krýsuvík, mætti Tyrkjum þeim, er komið höfðu upp Ræningarstíg í Heiðnabergi um miðjan júnímánuð 1627, vegið að tveimur stúlkum í Krýsuvíkurseli ofan við bergið og haldið síðan hiklaust áfram á eftir smala, sem varð var við þá, áleiðis að bæjunum undir Krýsuvíkurfellunum. Eiríkur mælti svo um að Tyrkirnir skyldu vega hvorn annan og gerðu þeir það. Þeir voru síðan dysjaðir í Ræningjadys undir Ræningjahól, sunnan við kirkjuna. Sagan segir að séra Eiríki hafi haft á orði að ef ekki hefði verið sunnudagur og hann ekki í prestsklæðum hefði hann og mælt svo fyrir að Tyrkirnir ætu hvorn annan lifandi.

Arnarfell

Krýsuvíkurkirkja – horft af Arnarfelli.

Í kirkjugarðinum við Krýsuvíkurkirkju er m.a. grafinn hinn ástsæli málari og lögreglumaður Sveinn Björnsson. Hann var einn þeirra manna í seinni tíð er kunni að meta Krýsuvíkursvæðið að verðleikum, enda birtist það oftlega í myndum hans.
Norðan við Arnarfell er hlaðinn stekkur og nafnfrægur skúti upp í norðausturhlíðum þess. Nú er ætlunin að taka Hollywoodkvikmynd við Arnarfell. Líkja á eftir stríðsátökum á eyjunni Iwo Jima í Kyrrahafi. Grafa á sprengigíga allt að 16 m í þvermál með tilheyrandi raski. Svíða á eina hlið fjallsins svo það virðist rjúkandi rúst á eftir.

Krýsuvík

Krýsuvík – uppdráttur ÓSÁ.

Ekki er vitað til þess að heilstæð fornleifaskráning hafi farið fram í Krýsuvík. Skráning, sem fram fór árið 1998, verður að teljast ófullnægjandi. Samt virðist Fornleifavernd ríkisins þess umkominn að geta gefið örugga umsögn án tillits til hugsanlegrar minjaeyðingar á svæðinu. Umhverfisstofnun virðist geta gefið heimild til gróðureyðingar og umhverfisröskunar við Arnarfell þrátt fyrir að stofnunina virðist skorta lagaákvæði því til stuðnings. Landgræðsla ríkisins virðist geta af léttúð talið sig geta lagfært hugsanlegar gróðurskemmdir og landsspjöll á a.m.k. 5 árum. Leitað hefur verið að skynsamlegum rökum í umræddum umsögnum, en þær enn ekki fundist.
Bæjarsjóður Hafnarfjarðar fær greiðslu fyrir afnot af svæðinu og umhverfisspjöllin, skv. upplýsingum frá starfsmanni bæjarins. Spurningin er; hvaða áhrif mun það hafa á skynsamlega ákvörðunartöku bæjarfulltrúa?

Arnarfell

Arnarfell – tilgáta.

Krýsuvík, sem heilstæð eining; umhverfi, náttúra, menning, saga og veðurfar, er í rauninni einstök náttúruperla. Það vita a.m.k. þeir, sem því hafa kynnst. Kyrrsetufólkið, með fullri virðingu fyrir því, kemur aldrei til með að geta kynnst neinu í líkingu við það. Samt virðist það vera fólkið, sem ráðskast á með framtíð þessa dýrmæta svæðis.
Stefán Stefánsson, leiðsögumaður, mælti svo fyrir um að ösku hans skyldi dreift yfir Kleifarvatn að honum látnum. Sú ákvörðun var tekin vegna hrifningar hans á Krýsuvíkursvæðinu. Öskunni var dreift af Ytri-Höfða, sem síðan þá hefur hafnan verið nefndur „Stefánshöfði“.
Gangan tók 12 mín. Frábært veður.

Stefánshöfði

Ytri-Stapi; Stefánshöfði.

Í „Íslenskar þjóðsögur og ævintýri“ er sagt frá brunni að Hofi á Kjalarnesi: “
Á Hofi a Kjalarnesi er brunn-2æfagamall dómstaður og blótstaður. Þar er brunnur einn, sem aldrei er byrgður, og sem ekki má heldur byrgja. Sá er sögn um brunn þenna, að á meðan hann se opinn, varist hvert barn brunninn, og jafnvel úngbörnin snúi frá honum og kræki lángar leiðir út fyrir hann. En ef brunnurinn er byrgður, sé þess víst að vænta að eitthvert barn detti í hann, og drukkni. Mörg dæmi þykjast menn vita til þessa. (Eptir Dr. Mauiers Isl. Volkss. 180. bls.)“.

Heimild:
-Íslenskar þjóðsögur og ævintýri 1862, bls. 661.

Hof

Hof á Kjalarnesi og nágrenni – loftmynd.

 

Dauðadalahellar

Tvíbollahraun og Hellnahraun yngra runnu úr Bollunum í Grindarskörðum um 950 e. Kr. Í hraununum norðvestan við Markraka eru Dauðadalahellar, fallegar og margflóknar hraunrásir. Þarna gætu hafa runnið fyrstu hraunin á Íslandi eftir að búseta hófst og hellar þess þá fyrstu hellar sem mynduðust hér á landi á sögulegum tíma.

Op á einum Dauðadalahellinum

Í hraununum eru allmargir hellar. Nú var ætlunin að skoða Elginn undir Miðbolla, Balahelli undir Markraka og kíkja niður í gat, sem FERLIR fann fyrir þremur árum, en þá vannst ekki tími til að kanna það nánar.
Eins og áður er getið varð eldgosið um það leyti er fyrstu landnámsmennirnir vour að setjast að hér á landi. „Meginhraunflóðið var til norðurs, hraunelfan klofnaði um hæðina austan við Dauðadali. Mjó álma úr því rann milli hennar og Lönguhlíðar og breiddist nokkuð út þar vestur af, en meginhraunflóðið féll norður af Helgafelli og norður með því að suðvestan. Tvíbollahraun er allt að 18 ferkílómetrar að flatarmáli.“ Þó gæti hraunið verið eitthvað minna því rannsóknir hafa sýnt að hluti hraunsins er þakið landnámsöskulaginu svo það gæti verið svolítið eldra.

Í Dauðadalahellum

Elgurinn er einn hellanna í Tvíbollahrauni. Um hann segir Björn Hróarsson, hellafræðingur, í stórvirki sínu „Íslenskir hellar“: „Þann 16. ágúst 2002 héldu hellamenn með FERLIRs-mönnum upp eftir Selvogsgötunni frá Bláfjallavegi í átt að Grindarskörðum. Komið var við í helli sem nefndur hefur verið Elgurinn. Um er að ræða jarðfall í sléttu hrauni en hæðin þó ekki meiri en svo að auðvelt er að klifra bæði niður og upp. Rás liggur um 20 metra til norðurs. Fremst eru nokkuð fallegar hraunmyndanir. Á botni rásarinnar er brúnt hraun, en rásin er annars dökkleit. Út úr austurveggnum er steinn sem lítur út eins og elgshaus. Af honum er nafn hellisins dregið. Til suðurs er hellirinn um 50 metra langur. Fremst er fallega brúnt gólfið og myndanir í lofti. Í afhelli til austurs frá suðurrásinni er glæsilegur hraunlækur. Elgurinn er í heild nærri 100 metra langur.“
Í DauðadalahellumUm Balahelli í Dauðadölum segir Björn: „Balahellir gengur til norðurs út frá dálitlu niðurfalli sem lítur út eins og fallegur grasbali. Fallegar storkumyndanir eru á gólfi hellisins um 20 metrum fyrir innan munnann. Hellirinn er annars flókinn og langt í frá fullkannaður.“
Fyrrnefndu hellarnir, Elgurinn og Balahellir eru undur Bollunum. Nú sást vel hvernig hraunstraumurinn hefur runnið niður hlíðina úr gígunum. Stóri-Bolli er nyrstur. Hann er vestan undir grágrýtishnúk, sem virðist hafa verið samnefndur. Í hrauntaumnum sést hvar þakið hefur fallið á mikilli hraunrás á nokkurm stöðum. Hliðstæða mynd má sjá neðan við Mið-Bolla. Sá gígur stendur efst á brúninni og er formfagur mjög. Syðsti-Bolli er líkt og Stóri-Bolli, utan í einum hnúknum; Kerlingarhnúk. Kerlingarskarð liggur upp með honum norðanverðum. Minnsti hraunstrumurinn virðist hafa komið úr syðsta bollanum. Segja má með nokkrum sanni að hraunið ætti að heita Þríbollahraun að teknu tilliti til fjölda bollanna.

Í Dauðadalahellum

Hellarnir þarna eru í hraunrásum hinna tveggja.
Eftir að hafa skoðað Elginn og Balahelli var haldið niður mosahraunið með stefnu á Helgafell. Hraunið vestan Bláfjallavegar er sléttara og auðveldara yfirferðar. Við norðurenda Markraka eru flóknar hraunrásir þar sem hraunstraumurinn hefur runnið niður hallanda Dauðadala. Stærsti hellirinn þarna heitir Flóki og ber nafn með rentu. Saman nefnast hellarnir Dauðadalahellar.
Í þessum rásum eru ótrúleg litadýrð og jarðskrúð á körflum. Rásirnar eru misgreiðfærar, en ótrúlega skemmtilegar umgengis. Flóki er reyndar einn flóknasti hellir landsins svo inn í hann ætti enginn að fara, sem ekki er velvanur hellaferðum.
Í rásunum var hæfilega svalt, en uppi á yfirborðinu bakaði steikjandi sólskinið allt sem hún náði til. Það er óneitanlega betra að taka myndir í hellunum við slíkar aðstæður – því þá er engin gufan til að hindra framsýnið.
Frábært veður. Gangan tók
3 klst og 3 mín.

Heimildir m.a.:
-Íslenskir hellar – Björn Hróarsson – 2006, bls. 191 og 199.

Flóki

Flóki.

Strandarkirkja

Eftirfarandi upplýsingar um Strandarkirkju var tekinn saman af Gunnari Markússyni árið 1991:
„Dr. Jón Helgason, biskup, ritaði grein í Lesbók Mbl. 17. janúar 1926 og nefndi hana Um Strönd og Strandakirkju.
Tæpum tveim árum síðar, eða 2. október 1927 kom svo í sama riti greinin: „Erindi um Strandakirkju“ eftir séra Ólaf Ólafsson, sem þar hóf prestskap sinn.-
Séra Helgi Sveinsson, sem einnig þjónaði Strandarkirkju, skrifaði í 18. árgang Kirkjuritsins grein, sem hann nefndi „Engilsvík“.
Strandarkirkja-901Allir koma þessir þjónar kirkjunnar inn á tilurð Strandarkirkju, en hver með sínum hætti.
Séra Helgi endursegir söguna um skipbrotsmennina, sem engillinn leiddi í örugga höfn, en gerir enga tilraun til þess að tímasetja hana.
Séra Ólafur segir í sinni grein: „Strandarkirkja er orðin ævagömul. Hinn rétta aldur hennar þekkir enginn, sumir ætla hana byggða við upphaf kristninnar hér á landi, á dögum Gissurar hvíta, en aðrir á dögum Staða-Árna, en enginn veit neitt með vissu. Ég hallast lang mest að þeirri gömlu þjóðsögu, að hún sé upphaflega og það snemma á tímum til orðin fyrir áheit manna í sjávarháska, áheitendurnir komust á land og björguðust á Strandarsundi, rétt fyrir vestan það er nefnilega hin alkunna Engilsvík. Ég styrktist í þessari trú við þá staðreynd að nú á okkar dögum hefur heil skipshöfn bjargast úr sjávarháska einmitt á þessum svæðum. Síðan eru um 30 ár.“
Dr. Jón hefur mál sitt á vísu eftir Grím Thomsen þar sem hann telur Gissur hvíta hafa reist fyrstu Strandarkirkjuna. Síðan segir biskupinn: „Hefi ég ekki annarsstaðar, það ég man, rekið mig á þá sögn að Gissur hvíti hafi fyrstu gert kirkju á Strönd í Selvogi. Vitanlega er ekkert því til fyrirstöðu að þetta sé rétt hermt þó söguleg rök vanti fyrir því.“
Nokkru síðan í sömu grein segir hann: „Hið sannasta, sem sagt verður um uppruna Strandarkirkju er að vér vitum ekkert um hann með vissu. Má vel vera að hún hafi verið reist þegar í fyrstu kristni og eins má vel vera, að hún hafi ekki verið reist fyrr en í tíð Árna biskups á síðari hluta 13. aldar.
Allir hafa þessir heiðursmenn ausið af sama gnægtarbrunni um sögu Selvogs og Strandarkirkju, en það eru vísur eftir séra Jón Vestmann, er prestur var í Selvogsþingum 1811-42 og inngangsritgerð við þær eftir dr. Jón Þorkelsson, þjóðskjalavörð, en það eru bestu heimildirnar, sem mér eru kunnar um þessi efni.
Herdís Andrésdóttir kvað: „Kirkjan suður á sandinum –  situr ein og hljóð.  En stormurinn kveður þar – sinn kalda vetraróð.“
En hver setti hana þarna, hvenær og hversvegna?
Eða væri e.t.v. hyggilegra að huga fyrst að því hverjir þeirra, sem nefndir hafa verið til þessarar sögu, komi alls ekki til greina?
F
yrstan í þeim flokki, vil ég nefna Gissur hvíta.
Strandarkirkja-902Mér telst svo til, að í Íslendingasögum, Biskupasögum, Sturlungu, Heimskringlu og Flateyjarbók sé talað um hana á samtals rúmelga 100 blaðsíðum án þess að ég finni nokkuð, sem bendi til þessarar kirkjubyggingar og ég er algjörlega ósammála þeim rökum dr. Jóns Helgasonar, biskups, að það sé alveg jafngóð sagnfræði þótt enginn flugufótur finnist fyrir þeim kenningum, sem hún setur fram.
Þá er það Árni biskup Þorláksson (Staða-Árni, 1269-98). Er líklegt að hann hafi lent í því hafvolki, að þar sé að leita upphafsins að Strandarkirkju – og er sennilegt, að hann og landeigandinn á Strönd hafi staðið saman að byggingu þessarar kirkju?
Fyrri spurningunni er hægt að svara hiklaust neitandi því að í sögu hans segir: „Eftir það er Árni biskup hafði skilið við virðulegan herra Jón erkibiskup…….. sigldu þeir í haf, og greiddist þeirra ferð vel og ekki allskjótt. Komu þeir skipi sínu í Eyjafjörð.“
En hver var þá eigandi Strandar á þessum tíma og hvernig var samkomulag hans og biskups?
“ Á dögum Árna biskups Þorlákssonar………. átti Erlendur sterki Ólafsson (d. 1312), Strönd, Nes, og sjálfsagt fleiri jarðir í Selvogi. Biskup og hann stóðu mjög öndverðir í staðamálum og eru lítil líkindi til að Erlendur hafi farið „með fulltingi“ Árna biskups að reisa kirkju frá stofni á Strönd enda má sjá það á vitnisburði Þorbjarnar Högnasonar útgefnum á Strönd 13. maí 1367 að kirkja muni hafa verið sett þar fyrir löngu.“
Það má raunar segja, að Erlendur lögmaður hafi verið höfuð andstæðingur Árna biskups í staðamálum. Honum nægði meira að segja ekki að berjast við biskup hér innan lands heldur lagði á sig ferð til Noregs til þess að geta á þinginu í Niðarósi 1282 greitt atkvæði með útlegðardómi yfir Jóni erkibiskupi – vígsluföður Árna biskups.
M
ér finnst það meira en furðulegt ef þessir erkifjendur í staðamálum hefðu getað sameinast um að gera nýja kirkju á jörð Erlends og það með þeim glæsibrag, að á aðeins 5-6 árum var hún orðin ein af ríkustu kirkjum landsins.
„Elsta „Strendur-máldaga“ er nú þekkist hafa menn heimfært til tíma Árna biskups Þorlákssonar eða hér um bil 1275…….. og er Strönd þá svo stórauðug að rekum að hún togast á við Hjallamenn, Krýsvíkinga og sjálfan Skálholtsstól.“
Nú er það staðreynd að „kirkjan suður á sandinum situr ein og hljóð“ svo einhver hlýtur að hafa byggt hana og einhverntíma. En hver og hvenær?
Árni Óla er einn þeirra, sem skrifað hafa um Strandarkirkju. Eftir að hafa rætt nokkuð um upphaf hennar segir hann: „En sé nú gert ráð fyrir því að Strandarkirkja hafi verið reist áður en Árni varð biskup og ennfremur hitt, að munnmælasagan hermi rétt að það hafi verið biskup, sem heitið gerði um kirkjubygginguna. Þá gæti skeð að það hefði verið Þorlákur biskup helgi.“
strandarkirkja-904Þarna hygg ég að naglinn hafi verið hittur beint á höfuðið. En af hverju Þorlákur biskup Þórhallsson öðrum biskupum fremur?
Til þess að svara þeirri spurningu þarf að leggja nokkra lykkju á leið sína – eða er það ef til vill bein lína að settu marki?
Það þarf ekki að horfa lengi á Íslandskort til þess að sjá, að hafnir eru ekki höfuðprýði Suðurlandsins. Hinu má svo ekki gleyma, að eldsumbrot, jökulhlaup, hafís og hafrót hafa í aldanna rás gnauðað þar á ströndinni og því er ekki ólíklegt að það hafi í raun og veru verið allt önnur strönd, sem blasti við augum þeirra fóstbræðra Ingólfs og Hjörleifs er þeir komu af hafi, en sú sem við horfum á í dag.
Það skal látið liggja á milli hluta hér hvort Hjörleifur sigldi inn fjörð til þess að taka land við Hjörleifshöfða.
Á hitt skal aftur á móti bent að „Rangá mun hafa verið hafskipahöfn í tíð Sæmundar fróða“ og að „Rangá og Holtsósar eru dæmi um hafnir, sem lögðust niður.“
Svo er það Strandarsund í Selvogi, „Strandarsund, sem er suður og austur af kirkjunni, hefur sjálfsagt frá ómunatíð, allt þar til það tók að fylla af sandi á síðari öldum, verið einhver öruggast lendingarhöfn fyrir öllu Suðurlandi. Segja kunnugir menn, að enn sé oft kyrrt á Strandarsundi þó að allur Selvogssjór sé í einnu veltu. Er það gamalt mál, að aldrei berist skipi á á Strandarsundi „rétt förnu“….. Ýmsar sagnir hafa gengið um sundið. Sögðu sumir að jafnan væri lag á Strandarsundi á nóni dags.“
En hvað er þá orðið um Strandarsund?
Í ágúst 1706 voru þeir Jarðabókarmenn í Selvogi og var þá sagt að jörðin „Strönd“ sé fyrir 10 árum í auðn komin. Einnig segir: „Heimræði hefur hér verið ár um kring, sem nú er fordjarfað síðan hafís rak hér inn í sundið, svo þaðan í frá er ófært nema í blíðviðrum og láleysu.“
Hvað var það, sem gerðist þarna í Selvogi á árunum 1694-96 og varð þess valdandi að í fardögum ´96 flýr síðasti maðurinn stórbýlið Strönd? Hvað fordjarfaði svo Strandarsund, að þar er síðan ólendandi nema í besta og blíðasta veðri?
Í Fitjaannnál segir um árið 1695: „Kom hafís fyrir norðan á jólum einnin fyrir Austfirði og seint á einmánuði fyrir Eyrarbakka og í Þorlákshöfn, svo þar varð ekki á sjó komist um nokkra daga, færðist svo vestur fyrir Reykjanes og öll Suðurnes. Þann 19. apríl rak hann inn fyrir Garð og svo meir og meir, Akranes, Mýrar og undir Snæfellsjökul.“
Það þarf varla nokkur að velkjast í vafa um að hafís, sem náði að fylla nær alla firði við Faxaflóa hefir í leiðinni mokað svo rækilega upp í mynni Strandarsunds, að það hefir verið létt verk fyrir foksandinn, sem þegar var farinn að granda túnum sveitarinnar, að fylla upp afganginn.
En hvað kemur þetta Þorláki Þórhallssyni við?
Strandarkirkja-905Nákvæmlega ekki neitt ef svo hefði ekki viljað til að faðir hans var Þórhallur FARMAÐUR.
Það mætti furðulegt heita ef skammdegiskvöldin á Hlíðarenda hefðu ekki einhverntíma verið stytt með sögum og samræðum um ferðir húsbóndans og jafn skrýtið gæti það talist ef aldrei hefði borið á góma þar á bæ, að úti í Selvogi væri höfn þar sem hægt væri að lenda a.m.k. tvisvar á dag nánast hvernig sem viðraði.
Munnmælin herma að Strandarsund hafi ávallt verið fært á nóni. Það fær ekki staðist, en hitt gæti meira en verið, að sundið hefði oftast verið fært á öðrum hvorum liggjandanum eða á hálfföllnum sjó.
En einu gildir hvort munnmælin hafa hallvikað hér strangasta sannleika eitthvað lítillega eða ekki, Þorláki hlýtur að hafa verið ljóst strax í bernsku, að á einum stað á Suðurlandi mátti taka land í svo til hvernig veðri sem var, bara ef rétt var að verki staðið.
Þá er það sagan um hann Árna, sem fór til Noregs til þess að sækja húsavið. Þar hygg ég að þjóðsagan hafi ofið skemmtilega voð þar sem uppistaðan er frásögn yngri gerðar Þorlákssögu af heimför biskupsins úr vígsluför sinni til Noregs, en fegurðarskynið eitt látið ráð hvar ívafið var tekið.
Besta gerð þeirrar sögu, sem ég hefi séð er skráð af Konráði Bjarnasyni, fræðimanni frá Þorkelsgerði í Selvogi, en hann hefir söguna eftir Guðrúnu Jónsdóttur, sem gift var Árna Árnasyni, uppeldissyni Kristínar Jónsdóttur Vestmanns.
Bæði Þorlákssaga og þjóðsagan geta um skip, sem býst frá Noregi hlaðið húsaviði og í báðum endar ferðin í óveðri við Íslandsstrendur og mestur hluti viðarins tapast fyrir borð áður en landi er náð, en það tekst giftusamlega eftir að viss heit hafa verið gerð.
En hver var svo hlutur farmannssonarins í landtökunni í byrjun ágúst 1178. Hver var hlutur þessa skarpgáfaða en ráðríka manns, sem áreiðanlega þekkti Suðurland frá Vatnajökli og vestur úr eins og fingurna á sér? Hafði grillt svo í land að hann vissi upp á hár hvar hann var staddur? Hvers vegna vildi hann ekki heita fyrr en rutt var af skipinu öllu því, sem hann við brottför hafði talið ofhleðslu? Var það vegna þess að honum fannst að skipstjórnarmenn hefðu gott af refsingu fyrir mótþróa við biskupinn eða var það af þeirri einföldu ástæðu að hann vissi að svo hlaðið, sem skipið var, mundi það aldrei fljóta inn Strandarsund?

Strandarkirkja

Strandarkirkja 1930.

Þannig má leika sér að spurningum næstum í það óendanlega. En svör við þeim finnst engin. Á hinu tel ég ekki leika nokkurn vafa, að það voru gömul ráð Þórhalls farmanns, sem komu syni hans heilum í höfn úr vígsluförinni og urðu um leið til þess að hin fyrsta Strandarkirkja var byggð. Ég er heldur ekki í neinum vafa um að það er helgi Þorláks og áheit á hann, sem valda því að um öld eftir að hann lét reisa kirkju að Strönd var hún þegar orðin ein af ríkustu kirkjum landsins.
Og það er fleira en hugdettur minar, sem styða þá kenningu, að margnefnd kirkja hafi verið byggð á dögum heilags Þoláks því að kirknatal Páls biskups Jónssonar enda upptalningu sína á kirkjum í Árnesþingi með kirkjunni á Strönd í Selvogi.
Auðvitað er mér fulljóst , að frumritið af þeirri skrá er ekki til og ekki er hægt að útiloka að einhverjum vini Strandarkirkju, sem var að afrita skrána hafi þótt svo sjálfsagt, að hennar nafn stæði þar, að hann hafi bætt því við, en ég tel þann möguleika miklum mun minni en þann, að Erlendur lögmaður Ólafsson hafi farið að aðstoða Staða-Árna við að ná einu af tekjuhæstu óðulum sínum undir kirkjuna.“ 

Tekið saman af Gunnari Markússyni í september 1991.
(sjá olfus.is)

Strandarkirkja

Kirkjan á Strönd.

Krýsuvík

Krýsuvík, oft einnig ritað Krísuvík en Krýsuvík virðist vera eldra, er fornt höfuðból sunnan við Kleifarvatn sem lagðist í eyði á síðustu öld og er nú í eigu Hafnarfjarðarbæjar.
Krysuvik-381Krýsuvík er ein fegursta náttúruperla Íslands. Þar er stórbrotið landslag sem mótað er af umbrotum og jarðeldum, og er það vel fallið til útivistar og náttúruskoðunar. Áhugavert er að skoða sprengigíginn Grænavatn, leirhverina við Seltún og Kleifarvatn. Og síðast en ekki síst Krýsuvíkurbjarg sem er fuglabjarg niðri við ströndina, þar verpa um 57.000 sjófuglapör aðallega rita og svartfugl. Þar verpir einnig nokkuð af fýl, toppskarfi og silfurmáfi. Í Krýsuvík er mikið um gamlar gönguleiðir sem áhugavert er að skoða. 

Jarðhitasvæði Krýsuvíkur
Helstu hverasvæði Krýsuvíkur eru Seltún, Hverahvammur, Hverhlíð, Austurengjar, suðurhluti Kleifarvatns og Sveifla undir Hettutindi. Þar má sjá gufustróka sem stíga til himins og sjóðandi leirhveri má sjá í Seltúni og Hverahvammar sem skarta grænum, gulum og rauðleitum litum sem skipta um svipmót eftir veðrinu.
Krýsuvíkursvæðið nær yfir jarðhitasvæðin á Austurengjum, Krýsuvík, í Köldunámum, Trölladyngju og við Sandfell og eru hverasvæðin mjög ólík.

Grænavatn

Grænavatn.

Hveravirknin er samfelldust í Hveradölum og við Seltún með gufuhverum og leirhverum. Á þessum stað er mikið um brennisteinshveri og er hæsti hiti í borholum um 230°c en ekki hefur verið borað dýpra en 1200m.
Á Austurengjum er jarðhitinn aðallega á einni rák sem nær norður í Kleifarvatns. Á þessari hitarák eru sprengigígjar sem gosið hafa gjalli. Stærsti gígurinn er um 100 m í þvermál og er staðsettur norðaustur af Stóra-Lambafelli. Við Kleifarvatn er ein 600 m djúp borhola og þar er hæsti hitinn um 160°c.

Trölladyngja

Trölladyngja – háhitasvæði.

Hveravirknin í Trölladyngju er frekar dauf. Þar eru tveir hverir, gufur með brennisteini, hverasprengigígur og hitaskellur í Oddafelli. Á gossprungunum eru miklir gall- og sprengigígjar. Mesta jarðvegsbreytingin er í Sogum þar sem mikið af svæðinu eru ummyndað í klessuleir, þar eru líka miklir sprengigígjar allt frá fornöld og er ennþá í dag vatn í sumum. Tvær borholur eru í Trölladyngju, báðar um 260°c heitar ofarlega en önnur kólnar eftir því sem neðar er farið. Dýpri holan endar í 320°c á rúmlega tveggja km dýpi.

Uppruni nafnsins
krysuvik-282Sagt er frá í þjóðsögu að Krýsuvík sé nefnd eftir Krýs sem bjó í Krýsuvík. Hún átti í deilum um landmerki við nágrannakonu sína, Herdísi í Herdísarvík. Þær töldu sig báðar vera beittar órétti og ákváðu að skera úr í deilimáli sínu í eitt skipti fyrir öll. Þær komu saman um að leggja af stað frá bæjum sínum við sólarupprás og ákveða mörk landa sinna þar sem þær mættust. Þegar þær mættust síðan á Deildarhálsi taldi Krýs að Herdís hefði lagt fyrr af stað en samið var um. Þær tóku að biðja hvor annarri óbæna ásamt jörðum þeirra. Herdís lagði á Krýsuvík að allur silingur í Kleifarvatni skyldi verða að loðsilungi en Krýs mælti svo fyrir að ein eða fleiri skipshafnir skyldu drukkna í Herdísarvíkurtjörn. Þessi saga um landaþrætu kerlinganna hefur lifað meðal Krýsvíkinga í hinum ýmsu myndum.

Heimild:
-wikipedia.org

Krýsuvík

Krýsuvík – tóftir Hnausa.

 

https://ferlir.is/krysuvik-magnus-olafsson/h

ttps://ferlir.is/skokugil-krysuvikurv-gamli-hlinarvegur-meltunnuklif-ogmundarstigur/

Krýsuvíkurbjarg

Krýsuvíkurbjarg er bjarg sem rís úr sjó í Krýsuvíkurhrauni á sunnanverðum Reykjanesskaga.
Bjargið er Krysuvikurbjarg-301langstærsta fuglabjarg skagans. Þar verpa um 60.000 fuglapör, mest rita en líka langvía, álka, stuttnefja og fýll, og eitthvað af lunda, toppskarf, silfurmáf og teistu. Áður fyrr var algengt að menn sigu í bjargið eftir eggjum og 1724 fórust þar þrír menn sem urðu fyrir grjóthruni. Efst á bjarginu er viti sem var reistur árið 1965. Við bjargið hafa orðið nokkrir skipsskaðar, eins og þegar Steindór GK strandaði þar 1991 og Þorsteinn GK 1998. Í báðum þessum tilvikum varð mannbjörg.
„Það er eftirtektarvert, að þúsundir manna skuli á hverju sumri aka eftir Krýsuvíkurveginum, án þess að vita það, að hálftíma gang frá þessum vegi er eitt af mestu náttúruundrum landsins.
Fyrir neðan Eldborg, austan við Krýsuvík er fjárrétt, en þaðan liggur vegslóði í suðaustur, í átt til Krysuvikurbjarg-405strandarinnar nokkuð niður eftir. — Frá þjóðveginum og niður á Krýsuvíkurbjarg er aðeins hálftíma hægur gangur. Þarna koma menn að austurenda bergsins, þar sem komast má niður að sjó og sjá bergið opnast. Um varptímann er þarna ótrúlegt ævintýraland, hundruð þúsunda af lunda, álku og langvíu verpa þarna á sillum og skútum í berginu. Fuglinn er spakur á þessum slóðum, svo víða má komast næstum því að efstu hreiðrunum, enda má heita að bjargið hafi verið í friðun allt að því hálfa öld. Bjargið er hátt og tilbreytingamikið. Höfðar og snasir skaga fram, en milli þeirra beygja hamravíkur sig inn.
Beint niður af hinni fornu Krýsuvík er lítil eyja framan við bergið, er nefnist Fuglasteinn, og það er næsta ótrúlegt hvílík mergð fugla getur þar rúmast. — Um fjöru koma flasir og klappir sumstaðar upp. Þar má sjá skarfa í stórhópum baða vængum, til að þurrka þá. Frá hinni fornu Krýsuvík, þar sem kirkjuhrófið stendur eitt eftir, má líka ganga niður í bjarg, og liggur skemmsta leiðin milli tveggja hóla, sem sjá má niðri á sléttunni, sú ferð er klukkustundargangur. Við vesturenda bjargsins eru Selatangar, forn veiðistöð, en þangað er stundargangur frá austustu byggð í Grindavík. Verstöðin í Selatöngum lagðist niður af mögnuðum draugagangi. — Fróðir menn telja að þar hafi verið sjódraugar á ferð.
Krysuvik-980Ferðafélag Íslands þarf þegar á næsta vori að hefjast handa og hlutast til um að nefndur vegslóði, frá Eldborg og niður að bjargi, verði gerður greiðfærari og skilti sett við veginn til þess að vísa ókunnugum á rétta leið.
Svo mátti heita, að Krýsuvík væri í eyði um langan tíma. Síðasti bóndinn bjó þar rausnarbúi frá 1907—1914. En jörðin var fólksfrek til fullrar nýtingar. Sérstakur bjargmaður var sóttur austur í Mýrdal á hverju vori. Gerði hann ekkert annað en stunda bjargið, safna eggjum framan af sumri, en síðan veiða fugl. Vann hann þar einn á daginn, en var á kvöldin sóttur niður á bjarg, eggjakassar og -fuglakippur dregnar upp á vaði og reiddar heim. — Á hverjum stað er síga varð í bjargið, hringaði sigmaðurinn enda vaðsins á bjargbrúnina og kastaði nokkrum steinvölum yfir, rakti síðan vaðinn fram af brúninni og las sig niður. Þessar steinahrúgur liggja þarna enn og eru þær ótrúlega léttar. — Eggjatekjan fór allt upp í tíu þúsund á vori. Voru þau þvegin og aðgætt og reidd á klökkum til Hafnarfjarðar og seld á 10 aura stykkið.
Efri leiðin frá Krýsuvík, eftir Ketilsstíg sunnan við hverina, yfir Sveifluháls til Hafnarfjarðar, var þá um það bil 8 tíma lestargangur. Mikill straumur erlendra ferðamanna lagði á þessum árum leið sína til Krýsuvíkur og niður á bjarg, og ekki dró það úr, að Krýsuvíkurheimilið var annálað fyrir gestrisni og höfðingsskap.“
Sv. Þ.

Heimild:
-wikipedia.org
-Vísir, Undir Krýsuvíkurbjargi, 24. janúar 1962, bls. 9 og 10.

Krýsuvíkurberg

Krýsuvíkurbjarg (h.m.) og -berg (v.m.) við fossinn af Eystri-Læk.

 

Allar leiðir liggja til Grindavíkur„, sagði leiðsögumaðurinn, sem hvað gjörla þekkti landið sitt; Ísland.
Framangreint var gjarnan mælt í upphafi vetrarvertíðar fyrrum.
i landÍ Lesbók Mbl. þann 1. okt. árið 1955 lýsti séra Gísli Brynjólfsson Hópinu í Grindavík: „En sú kom tíðin, að Hópið í Grindavík varð Grindvíkingum til annarra og meiri nytja heldur en hrognkelsaveiða
. Nú má segja að Hópið sé lífæð plássins, undirstaða tilverunnar á þessum uppgangsstað. Nú er Hópið ein sú bezta höfn á landinu þar sem stærstu fiskiskip geta farið hindrunarlaust út og inn. Í staðinn fyrir opna og erfiða brimlendingu smárra báta – er nú öruggt lægi stórra skipa, sem leggjast upp að bryggjum og bólverkum, þar sem er öll hin fullkomnasta aðstaða til útgerðar.
Þessi bylting í útgerðaraðstöðunni hefur valdið miklum breytingum í „byggðaþróun“ Grindavíkur.“
Vetrarvertíðin fyrrum stóð frá kyndilmessu, 2. febrúar, til 11. maí. Þá var mikil hofn„umferð“ árabáta um verstöðvarnar hvarvetna. Á vetrarvertíð í dag, árið 2010, er hún reyndar engu minni. Meðfylgjandi myndir eru teknar í Hópinu á sunnudagsfebrúar-mánuði þegar línubátarnir voru að koma að, hver á fætur öðrum. Segja má að bátar þessir haldi uppi merki fornvertíðanna, enda mikilvægið síst minna en áður var, hvort sem horft er á afkomu íbúanna eða þjóðarbúsins alls.
Ef tíminn hefði staðið í stað myndi afla þessara báta hafa verið seilað í land úr vörunum; Fornuvör, Suðurvör, Norðurvör, Skökk og Staðarvör, skipt og verkaður á staðnum. En þar sem tíminn hafði færst fram til nútíma var aflanum nú skipað í land í körum með krönum frá bryggju, lyftarar notaðir til að forfærslu og hann ísaður og færður í hús. Bryggjugjöld þarf að greiða skv. gjaldskrá. Svo góð er tæknin og svo góðar hafa gæftir verið, að í stað ótakmarkaðrar handfæraveiðinnar fyrrum, koma aflatakmarkanir nú – löngu fyrir hin gömlu vertíðarlok.
Grindavík

Herdísarvík

Herdísarvík í Selvogi er vestasta jörð og samnefnd vík í Árnessýslu í landi Sveitarfélagsins Ölfuss.
Herdisarvik-334Einar Benediktsson skáld bjó í Herdísarvík í um áratug en nú er jörðin í eyði. Hús skálsins, sem hann reisti þar, er núna í eigu Háskóla Íslands. Hamrar Herdísarvíkurfjalls eru 329 m háir og gnæfa upp yfir víkinni til norðurs. Herdísarvík er eyðilegur staður en þar er fjölskrúðugt dýralíf.
Jörðin Herdísarvík státar af þúsund ára búsetu en nú stendur þar lítið annað en hús Einars Benediktssonar sem hann reisti eftir að hann flutti á jörðina. Hlaðnir túngarða og veggir frá fyrri tíð eru þar á jörðinni og hluti af þeim er húsið sem Einar bjó í þegar hann fluttist fyrst í Herdísarvík. Ólafur Þorvaldsson, þingvörður, var bóndi að Herdísarvík um tíma. Hann var gildur bóndi, átti til dæmis þúsund fjár á fjalli seinasta árið sem hann bjó í Herdísarvík. Það var fardagaárið 1932 – 1933. Landsdrottinn Ólafs þar var Einar sem fluttist þangað 1932 og var því samtímis Ólafi í eitt ár. Einar bjó í Herdísarvík þar til hann lést árið 1940.
Herdisarvik-335Einar Benediktsson fluttist til Herdísarvíkur með Hlín Johnson sem annaðist hann þar þegar ellin tók að herja á Einar. Þegar Einar lést arfleiddi hann Háskóla Íslands að jörðinni, húsinu og bókasafni sínu. Herdísarvík er 4.218 ha land sem hefur verið friðlýst og á lista yfir friðlýst svæði á Íslandi frá árinu 1988.[1]
Árið 1952 var fé sett til höfuðs Herdísarvíkur-Surtlu sem varð frægasta og dýrasta sauðkind landsins. Kind þessi var í eigu Hlínar Johnson og sú síðasta í þúsund ára sauðfjárstofni Grunur um mæðiveiki olli því að fella varð allt fé á suðurlandi. Fjölda manna Herdisarvik-356leitaði að Surtlu í langan tíma áður en hún náðist.
Einhverjir töldu að Surtla hefði ekki getað verið sýkt vegna þess þreks sem hún sýndi í eltingaleiknum sem stóð yfir í meira en eitt ár. Í dag prýðir hauskúpa Surtlu vegg í Tilraunastöðinni á Keldum til minningar og sem fulltrúi þessa harðgera sauðkindastofns.
Víkin ber nafn sitt af munnmælasögu af Herdísi tröllskessu sem var systir Krýsu og segir sagan að ófriðurinn á milli þeirra hafi bitnað á landgæðum sveitanna í kringum Krýsuvík og Herdísarvík.
Í Herdísarvík var áður bær á flöt við tjarnarbakkann og var viðarverkið í bænum unnið úr rekaviði úr fjörunni, Bærinn var svo nálægt sjó að stundum flæddi inn í bæinn. Það gerðist veturinn 1925. Þá gerði storm af hafi í stórstraum. Flóðið kom inn í bæinn og varð fólkið að flýja upp í hlöðu uppi á túninu sem stóð hærra en bærinn. Það eru tvö tún í Herdísarvík og fékkst af þeim 179 hestar af heyi í meðalári á fyrstu áratugum tuttugustu aldar.
Herdisarvik-367Í Herdísarvík eru fornleifar frá þeim tímum er útgerð var stunduð þar í stórum stíl. Þar eru leifar sjóbúða og óteljandi hraungarða hlaðnir af mannahöndum sem voru þurrkreitir þar sem fiskurinn var hertur. Herdísarvík þótti gott fiskver og var róið út á víkina og fékkst oft góður afli. Seinna var farið að róa í Selvogssjó. Fiskgöngur koma þarna oftast nær beint af hafi. Eftir sumarmál fór fiskur á svonefndar „Forir“ og aflaðist oft vel þar í vertíðarlok. Útgerð lagðist að mestu af í Herdísarvík um tíma en fyrir aldamótin 1900 hófst útgerð þar aftur og veturinn 1896 gengu þaðan átta skip. Þá var farið að salta allan fisk. Nýjar sjóbúðir risu. Þá var róið þarna á tíæringum.

Heimildir m.a.:
-Gísli Sigurðsson. Seiður lands og sagna III; Áfangastaðir Suðvestanlands. Skrudda. Reykjavík (2004): bls. 8.
-Árni Óla. Landið er fagurt og frítt. Bókfellsútgáfan. Reykjavík(1944): bls. 59-64.

Herdísarvík

Herdísarvík – sjóbúðir.

Straumssel

Ratleikur Hafnarfjarðar verður fljótlega lagður út – fjórtánda árið í röð, að undanskyldu árinu 2009. Í ár verður leikurinn helgaður steinhleðslum. Upphafsmaður hans var Pétur Sigurðsson, útivistarkappi. Hann kynntist svipuðum leik á ferð sinni um Noreg. Jónatan Garðarsson, hinn fjölfróði um inn- og uppsveitir Hafnarfjarðar, hefur lagt leikinn undanfarin ár ásamt Guðna Gíslasyni.
Frá upphafi hefur markmiðið með leiknum verið að efla áhuga almennings á útivist og vekja athygli á þeim fjölmörgu náttúruperlum sem bíða handan við bæjardyrnar. Leikurinn hefur verið í stöðugri þróun og nú á 12 ára afmælinu er boðið upp á breytilega styrktarflokka. Það ættu því allir að geta fundið verkefni við sitt hæfi.
Fjárhústóft og gerði við GráhelluNánar verður fjallað um ratleikinn er nær dregur miðjum júní n.k.
Hér á eftir má sjá upplýsingar um einstaka staði er getið var um í ratleiknum 2007, myndir og frekari umfjöllun um þá.

Gráhella

1. Gráhella er klettaborg í austanverðu Gráhelluhrauni. Um hana sunnanverða liggja landamerki Setbergs. Tóft er norðvestan undir hellunni. Friðþófur Einarsson, bóndi á Setbergi, segir líklegt að tóftin hafi fyrrum verið fjárhús að hluta, annað hvort frá Setbergi eða kotbýlunum við Stekkjarhraun. Staðurinn nýtur hverfisverndar. Ekkert rask má eiga sér stað innan 50 metra frá klettinum.

Kershellir

Kershellir

Kershellir.

2. Að sögn Friðþófs á Setbergi er Kershellir nafnið á fyrrum selshelli Setbergsmanna. Afi hans, Jóhannes Reykdal, notaði hellinn sem fjárhús eftir aldarmótin 1900 uns hann byggði fjárhús uppi á Húsatúni þar skammt frá. Þegar hætt var að nota Húsatúnsfjárhúsið var féð fært í nýrra hús í Fjárhúsholti, skammt austan við bæinn á Setbergi. Ofan við Kershelli er Hvatshellir í stóru jarðfalli. Hann opnaðist í jarðskjálfta á 19. öld.
Kershellir, sem er á landamerkjum. Hann er tvískiptur; nyrðri helmingurinn tilheyrði Setbergi og sá syðri Hamarskoti. Hellirinn hefur stundum verið nefndur Ketshellir.
Hellirinn mun fyrst hafa verið skoðaður 1906 af fjórum piltum; Helga Jónassyni, Matthíasi Ólafssyni, Sigurbirni Þorkelssyni og Skafta Davíðssyni, sem allir voru félagar í Ungmennafélaginu Hvöt. Nafnið Kershellir hefur í seinni tíð færst yfir á Hvatshelli.
Klifsholt
Útsýni frá Klifsholti - Búrfell3. Í auglýsingu um Reykjanesfólkvang segir m.a. um mörkin: „Lína dregin.. á mörkum Garðahrepps og Hafnarfjarðar við Kershelli. Þaðan eftir þeim mörkum inn fyrir sumarbústaðahverfi í Sléttuhlíð á hæð er Klifsholt heitir, þaðan beint í Steinshús, sem er glöggt og gamalt eyktamark.“ Frá Klifsholti er einstaklega falleg fjallasýn, allt frá Vífilsfelli í norðaustri og að Fagradalsfjalli í suðvestri.

Steinhús
Steinhús4. Steinhús er náttúrulegt „hús“ á landamerkjum. Í eiginhandarbréfi séra Árna Helgasonar í Görðum til sýslumanns, dags. í Görðum 1848, segir m.a.: „Á sydri hraunbrúnina hjá Nordurhellrum og so sudur eptir Smillubúdar hraunsjadri og I midjan Kjötshellir og so hraunid allt fram ad Steinhusinu, og so beint ur steinhusinu og upp sydri Kaldárbotna; þadan, og allt Helgafell, I Markraka, úr Markraka og í Daudadali úr Daudadölum og í Strandartorfu, úr Strandartorfu rettsýnis í Húsfell, so úr Husfelli og I Hnífhól úr Hnífhól og heim í Arnarbæli“.
Steinhús er holur gasuppstreymishóll á hraunrás í Gjáahrauni. Í hraunrásinni má m.a. finna Kaðalhelli.

Ingvarslundur

Ingvarslundur

Minnisvarði í Ingvarslundi.

5. Í Undirhlíðum er minnisvarði um fyrsta formann Skógfræktarfélagsins, Ingvar Gunnarsson. Sumarið 1930 plantaði Ingvar fyrstu barrtrjánum þarna ofarlega í Litla-Skógarhvammi, kjarri vöxnum unaðsreit í Undirhlíðum. Vorið 1934 var hvammurinn girtur og skólabörn og drengir í Vinnuskólanum í Krýsuvík bættust síðar í hóp trjáræktenda. Lundurinn hefur einnig verið nefndur Skólalundur.

Gjár
Hleðsla fyrir helli í Gjánum6. Gjár eru milli Klifsholts og Fremstahöfða. Uppruni hraunsins er í Búrfellsgíg, 1-2 km fjær. Hraunið er talið vera í kringum 7200 ára. Það er bæði innan marka Garðabæjar og Hafnarfjarðarbæjar. Tveir megin hraunstraumar hafa komið frá Búrfelli. Sá hraunstraumur sem er Hafnarfjarðarmegin hefur eftirfarandi nöfn; Smyrlabúðahraun, Gráhelluhraun, Lækjarbotnahraun, Stekkjarhraun, Sjávarhraun, Arnarhraun og Flatarhraun. Garðabæjarmegin er Garðahraun, Urriðakotshraun, Vífilstaðahraun, Hraunholtshraun, Gálgahraun og Balahraun. Í Gjáahrauni eru fallegar grónar hrauntraðir og stuttar rásir.

Arnarklettar

Arnarklettar

Arnarklettar.

7. Kapellu- og Óbrinnishólahraun (-bruni) eru með þeim yngstu í Hafnarfirði og skilja sig greinilega frá öðrum þar sem þau eru að miklum hluta úfin kargahraun með samfelldri mosaþembu. Óbrinnishólabruni rann 190 f. Kr. og Kapelluhraun (Nýjahraun/Bruninn) rann 1151 e.Kr. Hraunsvæðið suðaustan við Stórhöfða hefur stundum verið nefnt Arnarklettabruni í Stórhöfðahrauni. Upp úr því rísa þrír klettastandar; Arnarklettar.

Selhóll
Selhóll8. Sunnan við Hvaleyrarvatn eru m.a. leifar stekkjar. Skammt sunnan hans er klofið hraunhveli í annars sléttu Hellnahrauninu. Sunnan í hólnum eru tvö op; tófugreni.
Hraunhvel myndast vegna þrýstingsáhrifa sem verða sökum mismunandi rennslishraða á milli hálfstorknaðs yfirborðs og hraunkviku undir. Hólar og hæðir í helluhraunum geta líka stafað af því að djúpir hraunstraumar kaffærðu hóla og hæðir sem fyrir voru í landslaginu. Mishæðirnar koma svo aftur í ljós þegar kvikan rennur undan storknaðri hraunskáninni í lok gossins og storkin kvikan sígur.

Litluborgir

Hraunsúlur í Litluborgum

9. Litluborgir eru fallegar hraunborgir austan Helgafells. Þar eru í Tvíbollahrauni tveir gervigígar og aðrar fallegar jarðmyndanir, sem hafa myndast við það að hraun hefur runnið út í stöðuvatn. Svipuð jarðfræðifyrirbæri má þó sjá í Dimmuborgum og í Katlahrauni við Selatanga. Svæðið hefur stundu verið nefnt Minni-Dimmuborgir eða Hraungerði.
Ástæða er til að benda fólki á viðkvæman mosagróðurinn í Litluborgum. Hann er fljótur að sporast út ef illa er um gengið. Ástæða er til að fara hérna með gát og gæta varfarnaðar og tillitsemi í hvívetna.

Dauðadalahellar

Flóki

Í Dauðadalahellum.

10. Tvíbollahrauns og Hellnahraun yngra runnu um 950 e. Kr. Í hraununum norðvestan við Markraka eru Dauðadalahellar, fallegar og jafnvel flóknar hraunrásir. Þarna gætu hafa runnið fyrstu hraunin á Íslandi eftir að búseta hófst og hellar þess þá fyrstu hellar sem mynduðust hér á landi á sögulegum tíma.

Útvörður Helgafells

Helgafell

Riddarinn á Helgafelli.

11. Segja má að móberg sé eitt af aðalsmerkjum íslenskrar jarðfræði. Helgafell er ágætt dæmi um slíka myndun. Móberg myndast þegar eldgos verður undir jökli eða í vatni. Við það að gosefnin komast í snertingu við vatn eða ís kólna þau með slíku offorsi að þau hreinlega splundrast og úr verður fínkorna gjóska. Hraðkæld gjóskan hleðst svo upp í hrauka eða hryggi, eftir því hvort eldgosið er um eitt afmarkað gosop eða sprungu. Móbergið myndast svo þegar gjóskan tekur að ummyndast fyrir tilstuðlan hita. Við ummyndunina límist gjóskan saman og myndar áberandi brúnleitt móberg með ávöl veðrunarform.

Aukahola
Horft niður í Aukaholu

12. Landið stendur á Reykjaneshryggnum, sem er úthafshryggur, á mótum tveggja jarðskorpufleka, Evrasíuflekans í austri og Ameríkuflekans í vestri. Flekana rekur um 1 cm í hvora átt á ári að meðaltali. Ummerki þessa mátti sjá í misgengisgjá, mikilli sprungu vestan Undirhlíða. Þegar gos varð í Óbrinnishólum og í sprungurein undir hlíðunum náði þunnfljótandi kvikan að fylla gjána að mestu. Þó má enn sjá niður í djúpa gjána þar sem Aukahola er (12 m djúp) og Aðalhola (17 m djúp) um 900 m sunnar.
Lesa má meira um Aukaholu og Aðalholu í stórvirkinu „Íslenskir hellar“ eftir Björn Hróarsson, bls. 157.

Markhelluhóll
Markhelluhóll13. Á Markastein (Markhelluhól/-Markhellu) eru klappaðir bókstafir;  “ÓTTA” – “STR” – „KRYSU“. Áletrunin á að undirstrika landamerki jarðanna Óttarsstaða, Straums og Krýsuvíkur. Landamerkjabréf milli Óttarstaða og Hvassahrauns, sem var ritað 1890 og undirritað vegna Óttarstaða, Hvassahrauns og Krýsuvíkur, kveður hins vegar á um að Markhelluhóll hafi verið rétt suðvestan við Búðarvatnsstæðið, sem er þarna norðvestan við fyrrgreinda Markhellu. Segja má því að áletrunin á Markhellu hafi ekki alltaf verið þrætulaus, ekki frekar en önnur landamerki.

Straumsselshellar syðri
Straumsselshellar syðri14. Í Straums(sels)hellum-syðri er allgott fjárskjól, og hafði Tjörvi, sem um tíma bjó í Straumsseli, þarna fé um sinn. Við syðri hellana er Gerðið, sem notað var til samrekstrar. Straumselshellar-syðri eru rúmgóður fjárhellir og vel  manngengur. Hlaðið er fyrir munnann, en hellisopið er innan við fallega hlaðið gerði í hraunbala. Það var um tíma notað sem rétt. Ofan við gerðið að norðanverðu er hlaðið byrgi eftir refaskyttu. Grjótið var tekið úr réttarveggnum og hlaðið sem skjól um miðja 20. öld.

Straumssel

 

Straumssel

Straumssel.

15. Straumssel er merkur staður. Það hefur upphaflega verið sel frá Straumi, en selið þróaðist síðan í bæ, eitt fárra af u.þ.b. 250 seljum á Reykjanesskaganum, sem þess heiðurs urðu aðnjótandi. Tóftirnar bera þess líka merki. Þær eru stærri og rúmbetri en í öðrum seljum á svæðinu. Garðar eru allt í  kringum túnin og er fallega hlaðinn stekkur sunnan við tóftirnar. Vatnsstæði er í jarðfalli norðan við þær.
Í Straumsseli var búið stundum á 19. öld. Síðast á árunum 1890-1895. Bæjarhúsin eyddust af bruna og hefur ekki verið búið þar síðan.

Sveinshellir
Sveinshellir16. Við Skógargötuna, rétt suður af Bekkjahrauninu, er hellir, sem nefndur er Sveinshellir. Ekki er vitað um tilefni nafnsins. Hellirinn er nokkuð rúmgóður, en sést ekki, fyrr en að er komið, því að opin er þröngt og fyrir munnann er vaxin birkihrísla mikil. Hellirinn er hvergi manngengur. Myndarleg varða, sem nefnd er Sveinsvarða, er á klapparbrún yfir hellisopinu.

Brenniselshellrar

Brennisel

Brennisel.

17. Í Brenniselshæðum eru tveir fjárskútar í kvos, kallaðir Brenniselshellrar. Annar er með mikla fyrirhleðslu og var yfirreftur. Hinn er litlu norðaustar og er hlaðið við opið. Í kvosinni eru hríslur. Undir þeim er tóft; brennisel. Hérna virðist hafa verið aðstaða til kolagerðar. Slík aðstaða hlýtur að hafa verið víða frá Hraunbæjunum því mikil hrístekja og skógarhögg hefur átt sér stað í grónum hraununum og uppi í Almenningum.

Smalaskálaskjól
Smalaskálafjárskjólið18. Norðvestan undir Smalaskálahæð er Smalaskálaskúti, hellir, sem fé lá inni í. Þar var skógarhrísla stór, sem óx fyrir hellismunnann. Hér má sjá dæmigert fjárskjól í Hraununum; hlaðið fyrir skúta, venjulega í skjóli fyrir austanáttinni, og síðan reft yfir. Nú er þakið fallið, en eftir standa hleðslurnar á skjólgóðum stað.

Réttarklettar

Réttarklettar

Rétt við Réttarkletta.

19. Vestan Lónakot hefur legið vagnfær gata, framhjá Nípu og að Réttarklettum, fallegum stökum klettastrýtum. Milli þeirra eru allvel grónar flatir og réttartættur, garðar og skjól. Fjárskjól eru skammt frá. Talið er að þarna hafi fyrrum verið bær, sem nefndur var Svínakot.

Óttarsstaðarétt

Óttarsstaðaréttin

20. Túnið á Óttarsstöðum var allstórt og var því deilt milli bæjanna í Vesturbæjartún og Austurbæjartún. Umhverfis Óttarsstaðabæina er eina umtalsverða og samfellda graslendið í Hraunum, enda var byggðin þéttust þar. Enn standa margir túngarðar og veggir óhaggaðir í Hraununum. Eru þeir hlaðnir af Guðmundi Sveinssyni frá Óttarsstöðum, sem var mikill hleðslumaður. Við Klofa, suðvestan undir Miðmundarhæð, vestan við Vestari-Óttarsstaði, er Óttarsstaðaréttin, heilleg heimarétt á skjólgóðum stað. Í henni er m.a. með lambakró.

Þorbjarnarstaðaborg

Þorbjarnastaðaborg

Þorbjarnastaðaborg.

21. Á austanverðri hraunbrún Kapelluhrauns (Nýjahrauns/Brunans) við Brundtorfur er Fjárborgin, eða Þorbjarnarstaðafjárborgin. Hún stendur enn nokkuð heilleg. Innanmál hennar um 7 m. Fjárborgin var hlaðin af börnum Þorbjarnarstaðahjónanna um aldamótin 1900. Greinilegt er að borgin hefur átt að verða topphlaðinn líkt og Djúpudalaborgin ofan við Selvog, en Þorkell, bóndi á Þorbjarnastöðum, var einmitt frá Guðnabæ í Selvogi.

Strýtur

Strýtur í Kapelluhrauni við Stórhöfðastíg

22. Kapelluhraun, eða Nýjahraun, eins og það var nefnt, mun hafa runnið um 1150. Það er mun grónara hraun en Hrútagjárdyngjuhraun vestan þess, sem er um 4000-5000 ára gamalt. Þar sem Stórhöfðastígur liggur til suðausturs upp með hraunskilunum má sjá fallegar hraunmyndanir á vinstri hönd. Ekki mun vera til opinbert nafn á þessum strýtum. Undirliggjandi þrýstingu storknandi hraunkvikunnar hefur reist hér storknaða hraunfleka lóðrétt upp í loftið og standa þeir nú sem eitt helsta kennileitið á þessari fornu þjóðleið milli Hafnarfjarðar og Krýsuvíkur.

Háuhnúkar

Háuhnúkar

Háuhnúkar.

23. Háuhnúkar, móbergsstapar, eru hæstu ásar Undirhlíða suðvestan Markrakagils og skammt frá Vatnsskarði, allt að 263 metra háir. Bergtegundir veðrast mjög mishratt. Þegar móbergið sem kemst í snertingu við gufuhvolfið veðrast það auðveldlega. Vindur og vatn eru mikilvægir þættir veðrunar. Glögg ummerki þessa má glögglega sjá hér í Háunúkum.

Óbrinnishólaker

Fjárskjól í Óbrinnishólakeri

24. Óbrinnishólaker er í Óbrinnishólabruna. Hraunið rann um 190 f. Kr. Þar er myndarleg mosavaxin hrauntjörn. Í honum er Óbrinnishólahellir. Hellirinn er í gjárbarminum að sunnanverðu, sunnan syðri Óbrinnishólanna. Hlaðið er gerði fyrir framan munnan, en rásin er opin inn að öðru leyti. Hún er um 15 metrar, björt og rúmgóð. Gólfið er flórað fremst, en innanvert gólfið er nokkuð slétt. Hellirinn rúmaði nokkra tugi fjár og var notað af Hvaleyrarbændum, sem nýttu sér vetrarbeitina utan í Stak og Undirhlíðum öldum saman.

Smyrlabúð

Smyrlabúð

Smyrlabúð.

25. Hérna var gamla lestamannaleiðin um Selvogsgötu (Suðurferðaveg) um aldir og allt fram undir 1940 á meðan henni var haldið við ruðningi sem sýsluvegi. Allnokkru norðar Selvogsgötu rís upp allhár bergkambur sem ber nafnið Smyrlabúðir. Hleðslur má sjá við hraunkantinn að baki Sléttuhlíðar, þar sem gatan liggur þrengst milli hans og hlíðarinnar. Ekki er ólíklegt að Selvogsbúar á leið sinni í Hafnarfjörð hafi staldrað þarna við, slegið upp tjöldum og dvalið yfir nótt til að komast árla í kaupstaðinn. Gerðið gæti hafa verið fyrir hesta eða fé.
Hafa ber í huga að enn er ýmislegt á huldu um tilurð örnefnisins „Smyrlabúðar“.

Garðaflatir
Tóft við Garðaflatir26. Í Gráskinnu er sagt að “Garðar og Garðakirkja hafi einu sinni verið á Garðaflötum, sem eru skammt fyrir sunnan Hafnarfjörð, en hafi verið flutt þegar hraunið rann. Sagan segir að fólkið í Görðum hafi flúið undan hrauninu með ljós í hendi, en svo hafi verið um mælt, að kirkjuna skyldi reisa þar, sem ljósið slokknaði, en það var þar, sem nú er kirkjan og Garðastaður.“ Tóftir við Garðaflatir eru greinilega mjög gamlar, jafnvel jarðlægar. Þeirra er ekki getið í örnefnaskráningu Garðabæjar.

Fosshellir

Fosshellir

Í Fosshelli.

27. Fosshellir er innan við jarðfall í sömu hraunrás og Rauðshellir og Hundraðmetrahellir milli Helgadals og Búrfellsgýgs, spölkorn ofar (austar). Um tíma var Rauðshellir nefndur Pólverjahellir, að sögn eftir pólskri áhöfn báts, sem dvaldist um tíma í Hafnarfjarðarhöfn, en fengu ekki inni í bænum. Nafnið mun hins vegar vera komið vegna þess að börnin í Pólunum í Reykjavík fóru þangað í sumarferðir og höfðu gaman af.

Gígur

Helgafell

Nyrsti gígurinn í gígröð Ögmundarhrauns vestan Helgafells.

28. Úr gíg hér norðaustan Undirhlíða hefur runnið hraun sem Jón Jónsson, jarðfræðingur, nefnir Gvendarselshraun. Í eldgosinu á tólftu öld rann örþunnt hraun úr Gvendarselsgígum að Helgafelli og niður í Kaldárbotna og þaðan niður fyrir Kaldársel og nam þar staðar. Þetta hraun hefur verið mjög heitt og þunnfljótandi því að það fyllti í allar lægðir. Gýgur þessi nyrst í 25 km langri gígaröð. Hann stendur stakur og er ákjósanlegur til að sjá og fræðast um tilurð klepramyndunar í dæmigerðum gosgíg.
Sumir vilja hafa einfalt „í“ í gígur, en því er til að svara að gígur er og verður alltaf gígur. þ.e. gap. 

Fróðleiksmolarnir eru fengnir víðsvegar af vefsíðunni – www.ferlir.is. Þar er og að finna ýtarlegri fróðleik um staðina.

Horft um gat á gýgnum - Kaldárbotnar fjær - höfundurinn

 

Leiti

Jón Jónsson, jarðfræðingur, skrifaði grein í Náttúrufræðinginn árið 1971 um „Hraun í nágrenni Reykjavíkur – Leitarhraun„. Hér er greinin birt að hluta:

Jón Jónsson

Jón Jónsson.

Allmörg hraun eru í nágrenni Reykjavíkur, en aðeins eitt þeirra hefur þó náð inn fyrir núverandi borgartakmörk. Þetta hraun hefur runnið niður eftir farvegi Elliðaánna og út í Elliðavog, þar sem það endaði í flötum tanga. Á þessum slóðum gengur hraunið undir nafninu Elliðaárhraun, en hefur annars ýms nöfn á ýmsum stöðum, eins og títt er. Jarðfræðilega er heppilegt að kenna hraun við eldvarpið eða eldvörpin, sem það er komið úr, sé þess kostur. Að sjálfsögðu felur slíkt ekki í sér að gömul og þekkt örnefni í hrauninu skuli felld niður. Þetta er aðeins til hægðarauka að nota eitt og sama nafn um sama hraunið. Nafnið er þá aðeins notað sem jarðfræðilegt hugtak, ekki sem nýtt örnefni.

Fyrstu rannsóknir
Leitarhraun
Ekki er mér kunnugt um, að neinar rannsóknir hafi verið gerðar á því, hvaðan hraun þetta er komið, fyrr en sumarið 1954, að við Tómas Tryggvason unnum að gerð jarðfræðikorts þess af Reykjavík og nágrenni, sem út kom 1958 (Tryggvason og Jónsson 1958).
Það kom þá í minn hlut að kortleggja suðurhluta svæðisins, og þá rakti ég þetta hraun alla leið austur fyrir austurtakmörk kortsins. Áður hafði mér verið sagt, að það væri komið sunnan af svæðinu við Kóngsfell. Þorvaldur Thoroddsen hefur auðsjáanlega gert sér gxein fyrir að hraun hafi runnið ofan frá Bláfjöllum niður hjallana og niður að Rauðhólum, en hann telur líklegast að Elliðaárhraunið sé úr Rauðhólum komið (Ferðabók I, bls. 123—124, Rvík 1958).

Fossvallaklif

Fossvallaklif.

Einn hluti þessa hrauns hefur öðrum fremur vakið athygli vísindamanna fyrir löngu, en það eru Rauðhólar við Elliðavatn. Þeir hafa verið rækilega skoðaðir af ýmsum, þó ekki væru menn á eitt sáttir varðandi uppruna þeirra. Voru þeir ýmist taldir raunverulegir eldgígir eða gervigígir, án þess að gerð væri grein fyrir á hverju niðurstaðan væri byggð. Einn af þeim fyrstu, sem skoðaði Rauðhóla, var Frakkinn Eugéne Robert, sem var jarðfræðingur í leiðangri Paul Gaimards 1835—1836. Telur hann hólana gervigígi, en getur ekki um, hvaðan hraunið sé komið. Skýring hans virðist þó hafa fallið í gleymsku í meira en 100 ár. Síðan hafa margir um þetta mál fjallað, og skoðanir verið skiptar, hvað snertir uppruna hólanna.
Þegar Þorleifur Einarsson (1960) vann að jarðfræðirannsóknum á Hellisheiði og á svæðinu austan við Bláfjöll, athugaði hann forna eldstöð suðaustan undir Bláfjöllum, skammt sunnan við Ólafsskarð. Þessir gígir nefnast Leitin, og komst Þorleifur að þeirri niðurstöðu, að þar væru upptök hraunsins og nefndi það því Leitahraun.

Leið hraunsins rakin

Leitarhraun

Leitarhraun – uppdráttur.

Ekki verður Leitahraun hér rakið lengra en austur að Draugahlíðum, en þaðan má rekja það óslitið alla leið út í Elliðavog. Það hefur fallið í þröngum fossum niður af Bolaöldum og Vatnaöldum, sem hvort tveggja eru misgengishjallar, en breiðst nokkuð út þar á milli, og niður á Sandskeið. Ekki verður séð, hvað langt það nær þar til suðurs, því sandlög hylja það, en líklegt virðist, að það sé undir svifflugvellinum a.m.k. Sandlög þessi eru framburður úr gili, sem liggur suður með Bláfjöllum að vestan. Tvö önnur hraun hafa og komið þar sunnan að og er hið eldra þeirra nyrzt líka hulið sandlögum úr þessu sama gili.

Tröllabörn

Tröllabörn.

Mót þess hrauns og Leitahraunsins eru hulin og því ekki vitað, hvort er eldra. Norðurtakmörk Leitahrauns eru hins vegar nokkuð ljós á þessum slóðum. Það hefur fiætt um sléttuna alla norður með Vatnaási langleiðina norður að Stangarhól og Litla-Lyklafelli. Frá Sandskeiði hefur hraunið svo runnið áfram vestur eftir og myndar víðáttumikla og hallalitla hraunsléttu norðvestur af Fóelluvötnum. Er þessi hraunslétta á kortinu nefnd Mosar. Þegar hraunflóðið var búið að fylla þessa lægð hæðanna á milli, hefur það á ný fallið um þrönga farvegi, þar sem það er sums staðar aðeins fáir metrar á breidd og breiðist ekki út svo teljandi sé, fyrr en það kemur á sléttan flöt, Fossvelli, austan við Lækjarbotna. Þar breiðist það nokkuð út á ný, en suðurtakmörk þess eru hulin yngra hrauni, sem komið hefur sunnan að um skarðið milli Sandfells og Selfjalls. Það hraun endar í hárri brún rétt norðan við beygjuna á þjóðveginum, þar sem hann liggur upp úr Lækjarbotnum. Mun brekka sú heita Fossvallaklif.

Tröllabörn

Tröllabörn – gervigígar.

Hraunið, sem þarna endar og er svo áberandi, hef ég nefnt Hólmshraun II. Augljóst er af því, sem hér er sagt, að Hólmshraun II er yngra en Leitahraun. Fram af áður nefndri brún hefur Leitahraun fallið út á sléttar grágrýtisklappir rétt norðvestur af gamla gististaðnum Lögbegi. Þar er hraunið sums staðar aðeins 0,6—0,75 m þykkt (1. mynd). Má af því marka, hversu þunnfljótandi hraunið hefur verið. Í þessu sambandi má geta þess, að ég lít svo á, að hér hafi verið um dyngjugos að ræða, og að líta beri á Leitin sem dyngju. Á áðurnefndum stað klofnar hraunið í tvær kvíslar, fellur meginkvíslin vestur, en hin norður með Fossvallaklifi og þekur þá sléttu, sem nú nefnist Nátthagamýri, en við norðurrönd hennar er grunn tjörn, Nátthagavatn. Þarna hafa í hrauninu myndazt nokkrir gervigígir, lágir og lítt áberandi. Hafa þarna verið tjarnir, þegar hraunið rann, og bólstraberg hefur myndazt þar. Megin hraunstraumurinn hélt áfram vestur og breiddist út um sléttlendið vestan við Lækjarbotna hæða á milli. Norðurtakmörkin eru víðast hvar greinileg, en suðurtakmörkin víðast hulin yngri hraunum og er svo allt vestur að Gvendarbrunnum. Þessi hraun eru Hólmshraunin og eru þau fimm að tölu.

Hómsborg

Hólmsborg í Hólmshrauni II.

Skammt vestan við Lækjarbotna koma fyrir gervigígir í hrauninu, eru þar nokkrir mjög snotrir katlar úr hraunkleprum báðum megin við þjóðveginn. Þeir eru nefndir Tröllabörn. Hraunsléttan er svo nær mishæðalaus, þar til kemur nokkuð vestur fyrir Geitháls, en þar eru nokkrir gervigígir við norðurrönd hraunsins í röð, sem nær vestur undir Hólm. Lítið eitt vestar hefur hraun sunnan að runnið því sem næst þvert yfir Leitahraun. Liggur vesturrönd þess hrauns fast að Gvendarbrunnum. Hraun þetta er mjög þunnt. Það hef ég nefnt Hólmshraun I og er það elzt þeirra hrauna. Þau eru komin af svæðinu við Kóngsfell.
Rauðhólar
Nokkru vestar eru svo Rauðhólar eða réttara sagt, það sem eftir er af þeim. Hefur hraunið þar án efa runnið út í vatn og því hafa gervigígarnir myndazt. Fyrir vestan Rauðhóla er hraunið slétt og takmarkar Elliðavatn að norðan og austan, þ.e.a.s. eins og vatnið var áður en Elliðaárnar voru virkjaðar. Það hefur svo runnið um þröngt sund norðan við Skyggni. Myndast svo enn ein hraunsléttan í því og nær hún norður með Selási að vestan. Nyrzt á því svæði þrengist enn á ný um hraunið, og er það mjög mjótt, þar sem vatnsveitubrúin nú er. Svo beygir það vestur, fellur fram af allhárri brún vestan við Árbæjarstíflu, beygir loks til norðurs og endar í flötum tanga í Elliðavogi, nálægt því 300 m norðan við þjóðveginn. Hefur það þá runnið því sem næst 28 km leið frá eldvarpinu.

Rauðhólar

Rauðhólar

Rauðhólar.

Heita má að hin forna fegurð og töfrablær Rauðhólanna sé nú horfinn, og ekki var með öllu ástæðulaust að lítil stúlka, sem fór þar um fyrir nokkrum árum, spurði, hvort þetta væru Rauðholur. Þar standa nú eftir gjall- og hraunstabbar, sem þó eru harla fróðlegir. Oft hef ég komið í þessa sundurrifnu Rauðhóla, en sjaldan farið þaðan án þess að hafa séð eitthvað nýtt.
Það eru tiltölulega fáir staðir til, þar sem skoða má innviðu gervigíga og er nokkurs virði að hafa slíkan stað nálægt höfuðborginni og hinum ört vaxandi háskóla. Ekki þarf að efa, að hraunið hefur þarna runnið út í vatn, og að það er megin orsök myndunar gervigíganna. Hitaveita Reykjavíkur lét bora rannsóknarholu í Rauðhólum 1962. Var þá borað í gegnum Leitahraun, sem á þessum stað reyndist um 7 m þykkt. Undir því var fyrst leirlag um 1 m þykkt, þar eftir jökulurð og loks grágrýti. Ekki náðist sýnishorn af þessum leir, en líklegt þykir mér, að um kísilgúr hafi verið að ræða og sé það botnset hins forna vatns. Þykk lög af því efni eru bæði í Elliðavatni og Vífilsstaðavatni og eru raunar í flestum ef ekki öllum stöðuvötnum hérlendis, þar sem hraun liggja að.

Rauðhólar

Í Rauðhólum.

Víða má í gjallstáli Rauðhóla sjá gulnaðan, stundum rauðbrenndan leir, bæði innan í brotnum hraunkúlum og sem laus stykki í gjallinu. Þetta er kísilgúr, sem án efa á rætur að rekja til vatnsins, sem hraunið forðum rann út í og fyllti. Svona má og sjá í gervigígum víða um land, t.d. í Landbroti, við Mývatn og í Aðaldal. Þetta eru ferskvatnsmyndanir.
Fróðlegt er að sjá þarna göng eftir gas, vafalaust að mestu leyti vatnsgufu, og hversu þau eru frábrugðin gasgöngum í eldstöðvum. Í eldstöðinni eru gasgöngin brynjuð innan af hraunglerungi, semer endurbrætt hraun. Slíkt ætti að jafnaði síður að koma fyrir í gervigígum, enda þótt það sé sennilega til. Gæti þetta verið nokkur hjálp við að greina gervigíg frá eldstöð.

Útlit hraunsins og innri gerð

Elliðaárdalur

Elliðaárdalur.

Leitahraun er dæmigert helluhraun. Það hefur verið afar þunnfljótandi, runnið næstum eins og vatn, og vafalaust verið mjög heitt, þegar það rann. Dæmi, sem sanna þetta, má víða sjá í hrauninu. Áður er á það drepið, hvað þunnt það er, þar sem það hefur runnið út á grágrýtisklöppina við Lækjarbotna. Á nokkrum stöðum þar fyrir austan, þar sem vatn hefur grafið inn undir hraunröndina, má sjá hvernig það hefur runnið utan um grágrýtisbjörg og fyllt svo að segja hverja smugu. Loks má geta þess, að nokkuð er um hella í þessu hrauni, þó ekki séu þeir stórir í þeim hluta þess, sem hér um ræðir. Nokkrir eru austur á Vatnaöldum, rétt norðan við gamla þjóðveginn.

Aldur hraunsins

Gvendarbrunnar

Gvendarbrunnar og Elliðavatn fjær.

Það eru nú bráðum 20 ár síðan fyrst var gerð aldursákvörðun á mó, sem Jóhannes Áskelsson (1953) fann undir Leitahrauni rétt ofan við brúna yfir Elliðaár. Samkvæmt C1 4 aldursákvörðun reyndist mórinn 5300 ± 340 ár.
Sumarið 1965 lagði Vatnsveita Reykjavíkur nýja vatnsæð til borgarinnar. Var þá sprengdur skurður í gegnum Leitahraun suður og vestur af Elliðaárstöðinni. Við norðurjaðar hraunsins nær beint suður a£ stöðvarhúsunum var hraunstorkan svo þunn, að hún brotnaði undan þungri jarðýtu. Kom þá í ljós, að undir hrauninu var mýri, sem vaxin hefur verið birkikjarri áður en hraunið rann. Mátti þarna tína búta af birkihríslum, sem nú voru orðnar að viðarkolum. Þótti mér rétt að nota þetta efni til nýrrar aldursákvörðunar, og var hún framkvæmd af dr. Ingrid U. Olsson á rannsóknarstofu háskólans í Uppsala í Svíþjóð (U-632). Sú aldursákvörðun sýndi, að gróðurleifarnar eru 4630 ± 90 ára, þ.e. töluvert yngri en samkvæmt fyrri aldursákvörðun. Hefur hraunið því runnið um 2680 árum fyrir okkar tímatal eða á þeim sömu árum og egypzkir verkamenn strituðu við byggingu hins mikla Cheops pýramída á Egyptalandi austur.“

Heimild:
-Náttúrufræðingurinn, 2. tbl. 01.11.1971, Hraun í nágrenni Reykjavíkur – Leitarhraun – Jón Jónsson, bls. 49-63.

Leitarhraun

Leitarhraun – kort.