Selalda

Selalda er ofan við Heiðnaberg, sem er hluti Krýsuvíkurbergs. Víkin framan við Heiðnaberg heitir Hælsvík. Hæðin að austanverðu heitir Rauðskriða. Undir henni, við Hælsvík, var Ræningjastígur, fær leið upp á bjargið. Hann er nú horfinn með öllu. Ræningjastígur er nefndur eftir ræningjum þeim er Eiríkur á Vogsósum, prestur í Krýsuvík, atti saman sunnan við Kirkjuna. Þar er nú Ræningjadys.

Eyri

Eyri – tóftir.

Tveir bæir voru undir Selöldu, Fitjar og Eyri. Eyri fór í eyði 1775 og Fitjar um 1867. Fitjar er sunnan Stráka og Eyri við uppþornaðan lækjarfarveg nokkru austar. Tóttirnar sjást enn vel á ofanverðum bakkanum. Sunnan við bæjartóttirnar eru tvær borgir. Sú efri er minni, en utan í þeirri neðri hefur verið gerður stekkur og jafnvel hús. Litlu austar eru tóttir sels, greinilega mjög gamlar. Talið er að þar hafi verið sel frá Krýsuvík, líkt og var á Selsvöllum um tíma, á Vigdísarvöllum, á Seltúni og í Húshólma.

Krýsuvíkursel

Krýsuvíkursel við Selöldu.

Af því segir þjóðsagan af ræningjunum, selsstúlkunum og smalanum er flúði upp að Krýsuvíkurbæjunum, kom að kirkjunni þar sem séra Eiríkur var við messu og móttökum hans við ræningjana. Enduðu þau með því að ræningjarnir drápu hvern annan að áeggjan séra Eiríks, sem sagði það guðsmildi að ekki væri sunnudagur því annars hefði hann mælt svo um að þeir ekki bara dræpu hvern annan, heldur og ætu. Ræningjadys sunnan Krýsuvíkurkirju er til marks um atburðinn.

Selalda

Selalda – fjárhús.

Undir Strák á Selöldu eru fallega hlaðin fjárhús. Vestan við tóttir Fitja eru tóttir tveggja fjárhúsa og vestan þeirra er enn heilleg steinbrú yfir Vestarilæk.
Undir Krýsuvíkurbjargi, Hælsvík og lengra út með var löngum fiskisælt, en þar er engin lending. Lendingin hefur líklega verið í Hólmastað eða gömlu Krýsuvík í Húshólma, en eftir að Ögmundarhraun rann um 1150 tók hana af og gert var út frá Selatöngum. Krýsuvíkingar stunduðu einnig útróðra frá Herdísarvík um aldir – með hléum.

Fitjar-21

Fitjar.

Tugþúsundir sjófuglapara verpa í Krýsuvíkurbjargi, aðallega rita og svartfugl. Svo mikið fékkst af svartsfuglseggjum á vorin að þau voru flutt á mörgum hestum heim til bæjanna. Sömu sögu er að segja af bergfuglinum sem gaf af sér bæði fiður og kjöt.

-ÓSÁ tók saman.

Selalda

Krýsuvíkursel í Selöldu. Uppdráttur ÓSÁ.

Hreindýr

Í Dýraverndaranum 1972 er stutt grein eftir Sólmund Einarsson, sjávarlíffræðing, um „Hreindýr„:

Sólmundur Einarsson

Sólmundur Einarsson.

„Hreindýr (Rangifer tarandus L.) eru hjartarættar og þau eru einu hjartardýrin þar sem bæði kynin hafa horn. Hjá báðum kynjum byrja hornin að vaxa á fyrsta lífsári og eru fullvaxin er dýrið nær 15 mánaða aldri. Á öðru ári fella kvendýrin hornin að burði loknum, eða frá miðjum apríl til maíloka. Hinir ungu tarfar fella hornin í febrúar—marz, en hinir eldri eigi fyrr en í nóvember. Annars gerist þetta á hverju ári og er ótrúlegt hve fljótt hornin vaxa.
Hreindýrin eru hópdýr og eru saman í misstórum flokkum eftir árstímum. T.d. leita tarfarnir frá hjörðinni á sumrin en sameinast henni svo aftur á haustin um fengitímann. Þá byrja einnig innbyrðis slagsmál milli tarfanna um kvenhyllina og geta þau oft orðið æði ofsafengin og leitt til dauða beggja, ef þeir festast saman á hornunum, sem á þessum tíma eru stór og alsett greinum. Meðan eldri tarfarnir slást þannig, geta þeir yngri komizt að kvígunum og lagt grundvöll að komandi kynslóð.
HreindýrÚtbreiðsla hreindýranna er oftast bundin heimskautahéruðum, en þó hafa þau frá alda öðli fundizt á Hardangervidda í Suður-Noregi, og þar hafa fundizt merkar leifar steinaldarmanna, sem sýna, að hreindýr hafa verið aðalfæða þeirra og allt þeirra líf hefur raunverulega byggzt á þessari þarfaskepnu. Í því sambandi hafa fundizt víða dýragryfjur, sem dýrin voru rekin niður í og þeim síðan slátrað. Staða þessara gryfja sýnir, að jafnvel á þessum tímum hefur mannskepnan kynnt sér háttu dýranna og hagað veiðum sínum þar eftir. Lappar, sem búa í nyrztu héruðum Noregs, Svíþjóðar, Rússlands og Finnlands, fá allt af þessum dýrum, bæði fæði og skæði, þótt nú á tímum sé hreindýrahald á þessum slóðum meira rekið sem aukaatvinnugrein.

Hreindýr

Hreindýr við Miðfell.

Á þeirri forsendu, að hreindýr gætu orðið okkur Íslendingum að sama gagni, voru þau flutt hingað til lands seint á 18. öld eða 1771. Komu þau hingað frá Söröy í Norður-Noregi og var þeim fyrst sleppt hér sunnanlands og síðan á norðausturlandi. Á Reykjanesi þrifust þau vel og döfnuðu og juku kyn sitt og var aðalheimkynni þeirra Bláfjöll. En saga hreindýranna á Íslandi hefur verið raunasaga frá upphafi og er hún glöggt dæmi um skilningsleysi manna á þessum fallegu dýrum og þeirra háttum. Fór svo að lokum, að þeim var hreinlega útrýmt með gegndarlausri veiði alls staðar nema þar, sem menn komust ekki að þeim, eða uppi á öræfum.

Húshellir

Hleðslur í Húshelli. Skjól hreindýraveiðimanna?

Tóku þá nokkrir hagsýnir menn sig til og fengu þau friðuð, þrátt fyrir mikla andstöðu margra alþingismanna, sem vildu þau feig og álitu þau hinn mesta skaðvald. Var það ekki seinna vænna, þar eð stofninn var í lágmarki, en nú er svo komið, að þeim hefur fjölgað aftur og prýða í æ ríkara mæli okkar áður lífssnauðu öræfi. En alltaf koma upp raddir, sem vilja hreindýrin feig, og sí og æ berast háværar kröfur þeirra bænda af austursvæðinu, sem vilja hreindýrin burt úr landi sínu. Bera þeir það fyrir sig, að þau eyði þarlendum gróðri og keppi við sauðkindina um fæðuöflun. Samkvæmt rannsóknum, sem gerðar hafa verið þess efnis bæði hér og erlendis, t.d. í Noregi, hefur reyndin orðið önnur, og er sú fæðusamkeppni fremur lítil.“

Heimild:
-Dýraverndarinn, 3. tbl. 01.09.1972, Hreindýr – Sólmundur Einarsson, bls. 49-51.

Hreindýr

Hreindýr.

Kaldársel

Út frá Kaldráseli eru margar greiðfærar og skemmtilegar gönguleiðir.

Kaldarsel-22

Kaldársel – fjárborg.

Til dæmis er hægt að leggja af stað frá húsi K.F.U.M. og K., ganga til suðurs að Kaldá, þar sem hún rennur neðan við húsið, og yfir göngubrú, sem þar er á henni. Kaldá rennur á mótum tveggja hrauna. Annað rann úr suðri, en hitt rann úr Búrfelli löngu fyrr, eða fyrir u.þ.b. 4700 árum, norðaustur af Kaldárseli.

Gjár

Gjárnar.

Gjárnar norðan Kaldársels eru mótaðar af því mikla hraunrennsli. Að sunnanverðu, á hægri hönd þegar farið er yfir, má enn sjá tótt á árbakkanum. Eftir stutta göngu að girðingu framundan er komið inn á hluta gömlu Krýsuvíkurleiðarinnar. Hún er augljós í Kaldárhrauninu og auðvelt að fylgja henni í átt að Kaldárselshnjúkum. Við hnjúkana greindist Krýsuvíkurvegurinn, annar lá upp fyrir Undirhlíðar, Dalaleiðin, og hinn út með Hlíðunum.

Kaldársel

Kaldársel – tilgáta ÓSÁ.

Gamli bærinn í Kaldárseli stóð á túnblettinum, sem núverandi hús stendur á, þ.e. á móts við miðju þess er snýr að árbakkanum. Útihúsin voru þar sem flaggstöngin er nú (árið 2011). Áður tilheyrði landið Garðakirkju og hafði hún þar í seli fram til ársins 1836. Frá árinu 1873 hafði Hvaleyri þar leigusel. Sel Garða og Álftnesinga voru flest í Selgjá vestan Búrfellsgjár; 11 (12) talsins.

Selgjá

Tóft í Selgjá.

Enn sjást þar tóttir selja með hraunbarminum beggja vegna, einkum að sunnanverðu, svo og fallegir fjárhellar, bæði í gjánni og efst í Urriðavatnshrauni.
Hafnarfjarðarbær keypti árið 1912 allmikinn hluta af Garðakirkjulandi, Kaldársel þar með.
Elsta heimild um Kaldársel er í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1703. Þar segir að Hvaleyri eigi selstöð þar sem heitir Hvaleyrarsel suður af Hvaleyrarvatni í Selshöfða, auk selstöðvar í Kaldárseli. Aðrir munu ekki hafa nýtt það sel. Þegar Hvaleyrarbóndi hætti selförum að Kaldárseli lagðist selstöð þar niður með öllu, annað hvort 1865 eða 1866.
Í húsvitjunarbók Garðaprestakalls má sjá að árið 1867 er kominn ábúandi í Kaldársel.
Kaldarsel-uppdrattur-VHann hét Jón Jónsson, en hann var þar stutt. Eftir það lagðist búskapur niður um nokkur ár. Árið 1876 kom þangað Þorsteinn Þorsteinsson eða Þorsteinn í Selinu, eins og hann var jafnan nefndur. Enn er efst í Heiðmörkinni fallegur fjárhellir, Þorsteinshellir, sem lengi var talinn týndur. Þorsteinn var nokkuð sérkennilegur í háttum. Á hans tíma voru í Kaldárseli nokkar byggingar, matjurtargarður [nú fremst ofan árinnar], sem lá frá bænum niður að ánni mót suðri og vörslugarður. Bæjarhús voru lítil en snoturlega byggð. Í því var baðstofa, búr, eldhús og bæjardyr. Tætturnar voru allar vel hlaðnar úr sléttum og þykkum hraunhellum, en hvergi mold eða torf á milli, svo sem venja var.
Jón Guðmundsson á Setbergi keypti húsin í Kaldárseli sem og kindur. Þau voru öll rifin, nema baðstofan, sem stóð uppi fram undir aldamót.
Hún Thorsteinshellirvar einkum notuð sem sæluhús fyrir fjármenn Setbergsbænda, sem þá heldu fé sínu, einkum sauðum, víðs vegar þar í högum. Einnig var gott fyrir Krýsvíkinga að hafa þarna afdrep á ferðum sínum. Haustleitarmenn Grindvíkinga leituðu alla leið að Kaldá og höfðu náttstað í Kaldárseli. Þá var mikil umferð útlendra ferðamanna til Krýsuvíkur, einkum til að skoða hinar nýyfirgefnu brennisteinsnámur, sem þar voru. Þeir gistu margir í Kaldárseli. Baðstofan bar þess merki. Í sperrur og súð voru skorin ófá mannanöfn af ýmsum þjóðernum.
Að liðnum aldamótum 1900 var ekkert hús lengur í Kaldárseli. Ferðum útlendinga fækkaði, Krýsvíkingar týndu ört tölunni, fjallleitir Grindjána styttust og hið stóra Setbergsheimili tvístraðist. Og fénaðurinn hvarf úr högunum.

Fremstihöfði

Hálfhlaðið fjárhús undir Fremstahöfða.

Árin 1906-1908 fékk Kristmundur Þorláksson Kaldársel til afnota, síðar stórbóndi í Stakkavík. Hann kom upp smáheyhlöðu í Kaldárseli fyrir sínar 50 kindur með því að byggja yfir hina gömlu baðstofutótt, sem þá stóð enn ófallinn. Þá byggði hann þar lambahús. Ekki hafði hann not af gömlu tóttunum að öðru leyti en því að hann gat nýtt úr þeim hraunhellurnar, sem hann gerði af miklum dugnaði.
Kristmundur lá við í Hafnarfirði, en fór fótgangandi um veturinn beitarhúsaveginn í Kaldársel í myrkri kvölds og morgna. Ærnar hafði hann við gömlu hellana, sem eru skammt norður af Selinu.

Kaldársel

Kaldársel – fjárhellar.

Lömbin voru í húsi, en músin vildi leggjast á þau. Kristmundur flutti loks fé sitt í Hvassahraun þar sem honum bauðst vist. Hann var því síðasti bóndinn í Kaldárseli.
Framundan eru Kaldárhnjúkar Syðri. Hlíðin á vinstri hönd og hraunið á þá hægri. Eftir stutta göngu er gengið framhjá Kúadal, en talið er að selssmalinn hafi rölt kvölds og morgna um þessa sömu götutroðninga með kýr úr og í haga. Vestan Kúadals taka Undirhlíðarnar við. Gengið er framhjá Kýrskarði og áfram útfyrir Múla á hægri hönd. Þar á horninu er hellisskúti er nefnist Árnahellir, kenndur við Árna Gíslason í Brekkubæ í Hafnarfirði.

Ingvar Gunnarsson

Minningarsteinn um Ingvar Gunnarsson.

Með Hlíðunum eru tré, sem plantað var af Skógræktarfélagi Hafnarfjarðar, sum fyrir áratugum síðan. Þar er minnisvarði um fyrsta formann Skógfræktarfélagsins, Ingvar Gunnarsson. Afturhlíðar Undirhlíða heita Bakhlíðar eða Gvendarselshæð. Þar er Gvendarsel vestan í hlíðinni. Sjást tóttir selsins og hlaðinn stekkur framan þess.

 

Gvendarsel.

Gvendarsel.

Framundan undir Hlíðunum, sem áður nefndust Gvendarselshlíðar, eru Kerin. Þau eru fallegir tvíburagígar. Hægt er að ganga upp í efri gíginn úr þeim neðri um gat á milli þeirra, en þar uppi er tilvalinn, skjólgóður áningastaður.
Kaldarsel-24Þegar FERLIR var nýlega á gangi um svæðið var ákveðið að staldra við og gaumgæfa það betur en fyrr. Komu þá í ljós tvírýma mannvirki og tvö stök hús skammt frá; sennilega eldhús og geymsla. Afstaða minjanna minnti á dæmigerða tímabundna selstöðu. Svo virðist sem svæði það er geymir fjárskjólshellana hafi verið notað sem slíkt. Gæti það hafa hugsanlega hafa verið í tíð Þorsteins, Krýsuvíkur-Gvendar eða Kristmundar frá Stakkavík. Hin ókláruðu hús austan undir Fremstahöfða gætu hafa tengst tímabundinni dvöl fjárbónda á nefndum stað.
Hvað sem öllum vangaveltum líður er þarna um að ræða sérstaklega ahugaverðan stað með hliðsjón af fyrri búskaparháttum á svæðinu.

-ÓSÁ tók saman.

Kaldársel

Kaldárssel – uppdráttur ÓSÁ.

Grindavík

Í Tímanum 1972 er fjallað um „Útvegsbæinn á hraunströndinni undir Þorbirni„:

Grindavík„Svo finnst ritað á fornar bækur að Molda-Gnúpur og hans kyn hafi endur fyrir löngu reist byggð í Grindavík. Þeir frændur bjuggu við geitfé, enda heitir Geitahlíð ei mjög fjarri þessum slóðum, og er sú sögn um son Gnúps, Hafur-Björn, að hafur einn, sem ekki var úr byggðum manna, heldur hergbúa eða huldufólks, hafi komið í geitur hans um fengitímann. Eftir það tímguðust þær með ólíkindum og undruðust menn stórum búsæld Grindavíkurhóndans.
Þessari sögu get ég vel trúað, ekki siður en Helgi á Hrafnkelsstöðum, og hef ég það einkanlega til sannindamerkis, að enginn skagi landsins er jafnhrjóstrugur og Reykjanesskagi og snauður að grænum gróðri. En geitfé gengur fast að mat sínum, þar sem það er margt, og hef ég að minnsta kosti fyrir satt, að þess finnist dæmi í veraldarsögunni, að það hafi sorfið í grjót niður stærri skaga en það horn Íslands, sem spyrnir fæti suðvestur í hafið.

Geitahlíð

Geitahlíð.

Það getur að minnsta kosti hugsazt, að það hafi verið dálítið tvíeggjuð lukka, ef Björn heitinn Gnúpsson hefur átt svo miklar geitahjarðir, sem fornir sagnritarar gefa í skyn. Og einhvern veginn býður mér i grun, að kvikfjárbúskapur hafi ekki verið sá þátturinn, sem bezt hentaði á Suðurnesjum eða mest var í sómanum i Grindavík á liðnum öldum, og orð Jóns á Laxamýri hef ég fyrir því, að sauðfjárræktin þar syðra hafi verið heldur bágborin yfirleitt talsvert fram á þessa öld. Henni mun hafa verið þannig háttað, að sauðfé fullkomnaði það verk, sem geiturnar kunna að hafa hafið, enda ekki auðhlaupið að því að finna slægjur á Reykjanesskaga, svo að safna mætti heyi í garð til vetrarins. Auk þess var torfengið eldsneyti í fjölmennum verstöövum, þar sem enginn var svörður né heldur tað, svo að þurrka varð þang og þöngla í eldinn og rífa lyngtætlur á meðan þær fundust.

Gerði sig digran, en féll samt
GrindavíkLíf Grindavíkur hefur þess vegna fyrst og fremst verið sjórinn — miðin framundan hraunströndinni, þar sem matfiskurinn gekk svo grunnt, þegar vel lét, að stundum máttu heita fá áratog fram á fiskislóðir. Það eru sjálfsagt vænar kasir, sem búið er að draga á Klofi um Kónga og Húsum um Hnúðana, svo að ekki séu nefnd þau mið, sem utar liggja.
Og sagan um fiskinn á Grindavíkurmiðum er löng saga. Bretum og Þjóðverjum var mætavel kunnugt um fiskidrátt karlanna í Grindavík á kaþólskri tíð og litu þá skreið þeirra miklu girndarauga, svo að af spruttu bardagar og manndráp.

Grindavík

Leifar virkis Jóns breiða.

Á Járngerðarstöðum gerði til dæmis Englendingur einn sér virki, þegar i harðbakkann sló. Sá hét Jón breiði, og af því má ráða, að ekki er ný bóla, að Englendingar geri sig digra, þegar fiskurinn okkar er annars vegar. Hann neitaði líka að greiða hirðstjóranum toll, ekki fús á að láta sér neitt úr greipum ganga af því, sem hann hafði hremmt, og þess vegna gerði hirðstjórinn honum aðför með tilstyrk Þjóðverja, er væntanlega hafa fengið eitthvað fyrir snúð sinn, og þar féll Jón breiði eins og Gordon í Khartum mörgum öldum seinna.

Fógeti og kaupmaður flugust á um pundara

Grindavík

Járngerðarstaðir fyrrum.

Grindavík varð ein helzta verstöð Skálholtsstaðar, er fram liðu stundir, og þangað sigldi Ögmundur Pálsson, þegar gott var orðið í sjóinn á vorin á biskupsjaktinni, sem hann hafði látið smíða í Vatnsfirði, svo að hann gæti séð með eigin augum, að ekkert væri undan dregið af því, sem heilög kirkja átti að hreppa af fiskmetinu. Í Grindavík var Marteinn Einarsson á vegum Mammons, kaupmaður á snærum Englendinga, áður en Kristján kóngur og lútherskan lögðu biskupskápuna á axlir honum og settu á hann mítrið.

Staður

Staður í Grindavík. Hafnarkort Dana frá einokunartímanum á 17. öld.

Þá fór að styttast í því, að aðrir en þeir, sem kóngleg náð útvaldi, fengjust við verzlun á Íslandi, hvort heldur var í Grindavík eða annars staðar, og hafi karlarnir ekki áður kunnað að standa álútir með pottlokið sitt milli handanna, þá hafa þeir lært það þá. Ég get ímyndað mér, að þeir hafi fast að því fallið í stafi af forundran eftir hálfra aldar kynni af danska verzlunarvaldinu, þegar sá dagur rann, að Skúli fógeti reið grýttar slóðir suður í Grindavík og flaugst á við sjálfan kaupmanninn út af sviknum pundara hans í verzlunarhúsunum.

Margir fóru upp, en fáir út aftur

Grindavík

Grindavík fyrrum.

Þó að ég verði að gera ráð fyrir því, að Grindvíkingum gömlu hafi verið einn kostur nauðugur að gera sig bljúga andspænis kaupmanninum, hefur ósmá verið sú seigla, sem í þeim bjó, og mikil mannlifssaga væri öll þeirra sjósókn, ef einhvers staðar væri á vísan að róa, þar sem hún er. En það er eins með varsímann, sem bátarnir draga á sjávarflötinn, og það, sem í sand er skrifað: Það er horfið áður en við er litið. Eftir er aðeins það, sem má láta sig gruna eða óra fyrir. Í gulnuðum annálum má lesa örfáar línur um þennan eða hinn skipstapann, stökum sinnum jafnvel drepið á björgun úr þeim lífsháska, er vonlaust virtist að sleppa frá. En þögnin og gleymskan hylja sögur um mikinn garpskap og mikið æðruleysi hinna gengnu kynslóða i Staðahverfi, Járngerðarstaðahverfi og Þórkötlustaðahverfi — gömlu byggðarlögunum þrem í Grindavík.

Grindavík

Grindavík – bátar við bryggju.

Öll skipin, sem hafa skolazt upp að ströndinni, hvort heldur gömul og úr sér gengin eða svo ný, að þau höfðu flutt afla að landi, segja líka sína sögu um það, hversu víðsjárverður þessi staður var, jafnvel þeim, sem stærri fleytum réðu en Grindvíkingar sjálfir. Flökunum, sem brimið hefur tvístrað um hrauntangana, ægir þar saman af mörgum þjóðernum — enskum, frönskum og dönskum og guð má vita hvað: Fiskiskip frá Vidalínsútgerðinni og Duus, spekúlantsskip frá Eyþóri Felixsyni, franskarskútur frá Normandí, togarar frá Hull og Grimsby — hver getur talið það allt eða tíundað þau mannslíf, sem þar hafa slokknað.
Jú — við getum nefnt Karl Nilsson, veiðiþjófinn og óþokkann, sem drekkti mönnunum á Dýrafirði um aldamótin— hann lauk líka ævidögum sínum á þessum slóðum.

Grimmur leikur og djúp sár

Brim

Grindavíkurbrim.

Þó að örlög Karls Nilssonar hafi tæpast verið sárt hörmuð hérlendis, eftir það sem á undan var gengið, hafa margir, sem í landi sátu, hlotið mikil og djúp sár, sem seint greru, af völdum þeirra dætra Ægis, sem þreytt hafa grimman leik við þessa háskalegu strönd. Og af öllum þeim skipum, sem þarna hafa borizt upp, eru þau færri en fingur annarrar handar, er komizt hafa aftur á flot. En dæmi eru þess, að í svo rismiklum sjó hafi vélvana bátur lent, að bylgja bar hann yfir öll sker og grynningar langt upp á malarkamp, þar sem hann stóð á þurru við útsogið, svo að ganga mátti úr honum þurrum fótum.

Þórkötlustaðanes

Þórkötlustaðanes – brak.

Á slíkum stað má nærri geta, að oft hefur þurft að hlynna að sjóhröktum mönnum, sem naumlega sluppu af strandi — hjúkra þeim, fæða þá og klæða. Væru þeir margir klæðvana, var einna helzt að leita til Einars á Garðhúsum, eftir að mektardagar hans runnu upp. Þá urðu franskir strandmenn kannski að sætta sig við ívið færri flíkur en hentaði vexti þeirra, því að Fransarar á skútunum gömlu voru ekki nein tröll og talsvert smávaxnari en þeir, sem fatnaðar þörfnuðust í Grindavík endranær.

Það var á elleftu stundu
GrindavíkVið drápum aðeins á þá alla sögu, sem orðið hefur i Grindavík, án þess að hennar sjái nú stað. Þessi mikla og aflasæla verstöð var þannig sett, að þar var furðulega lengi mjög örðugt um vik um útgerð. Grindavík var að vísu lengi kaupstaður og Járngerðarstaðavíkin löggiltur verzlunarstaður. En þar flutu ekki í varir nema lítil róðrarskip, og þó vandfarið inn. Það var fyrst 1928 eða 1929, að þar var bryggja gerð milli tveggja vara. Þá fyrst féll það niður, að sjómennirnir bæru aflann sinn á bakinu upp úr bátunum, nýkomnir úr róðri.
GrindavíkVinnuhagræðingin komst á það stig, að kasta mátti fiskinum upp á bryggjuna og aka honum þaðan á handvögnum. En eftir sem áður urðu menn að bjarga bátum sínum undan sjó eftir hvern róður, setja þá sem kallað var, því að enginn vissi, nema sjór tæki að stæra áður en við var litið, og þá voru bátarnir í voða.
Úti fyrir Hópinu var rifið, og var svo grunnt á því, að yfir það flutu ei nema litlir bátar. En er skipastóllinn fór að taka stórbreytingu í öðrum verstöðvum, vofði sú hætta yfir Grindavík, að fólk færi að flýja þaðan á staði, þar sem lífið var léttara. Það var fyrst 1939, að byrjað var á því að gera vísi að bátaleið inn í Hópið.

Grindavík

Grindavík – Grafið inn í Hópið 1939.

Reynt var að dýpka svonefndan Miðós — með handverkfærum. Eftir það gátu tíu til fimmtán lesta bátar flotið inn á flóði. Árið 1945 var loks heldur betur tekið að beita tækninni: Dýpkunarskip kom til starfa, og það var ruddur gegnum rifið þrjátíu metra breiður skurður, sjö eða átta feta djúpur. Það var á elleftu stundu, því að óþreyja var komin í margan Grindvíkinginn við allt það, sem þar var við að stríða við sjósóknina.
Síðan hafa mikil tíðindi gerzt. Það er komin höfn í Grindavík og mikill og góður bátafloti, og þar er líf og önn og vöxtur — þúsund manna bær, sem leggur mikið í þjóðarbúið, og mun á komandi tíð bjóða upp á fjölbreyttari störf en hingað til, þótt sjórinn og aflinn verði jafnan undirstaðan.

Vísindamaðurinn og Gunna í kongungshúsinu

Grindavík

Til skamms tima hefur fátt manna úr Grindavík gengið þá braut, sem kölluð hefur menntavegur. Þaðan var þó Bjarni Sæmundsson, fiskifræðingurinn okkar fyrsti, og fleiri Grindvíkingar af gömlu kynslóðinni hafa orðið mörgum kunnir, þótt ekki hefðu þeir lært svo mjög til bókar. Mér dettur i hug hún Gunna gamla i Konungshúsinu, eins og við kölluðum hana hér fyrr meir — veitingakonan, sem átti langa sögu á Þingvöllum, erfingi hússins, sem reist var handa kónginum árið 1907. Öðrum finnst kannski, að heldur hefði átt að nefna aðra en hana, svona við hliðina á vísindamanninum Bjarna Sæmundssyni.

Sjóslysaskilti

Sjóslysaskilti á Þórkötlustaðanesi.

En gamla konan á líka sín ítök, þar sem hún liggur undir grænni torfu, svo margir drukku hjá henni kaffisopa. Það hefðu svo verið hæg heimantökin að tíunda einhvern harðfengan skipstjóra og veiðikló.
Ef við víkjum að listum í sambandi í Grindavík þá er skemmst að minnast nýja félagsheimilisins, sem Ragnar Kjartansson myndhöggvari hefur skreytt myndum í tengslum við hlutverk staðarins í þjóðlífinu og málverka Péturs Friðriks Sigurðssonar af gömlu húsunum, bátunum og höfninni.

Getið tveggja guðsmanna með góðan orðstír

Grindavík

Grindavík – innsiglingin.

Ekki má ljúka þessu spjalli, án þess að geta svo sem tveggja presta, sem lifðu og störfuðu á meðal Grindvíkinga, alllöngu áður en nýi tíminn hélt þar innreið sína. Þar var séra Kristján Eldjárn prestur um skeið, og var í minnum hafður sökum þess meðal annars, að hann taldi sig ekki ofgóðan til þess að skemmta sóknarbörnum sínum, þegar það átti við. Hann var maður, sem hafði margt dottið í hug — jafnvel ekki grunlaust um, að hann hafi eitthvað fitlað við smíði einhvers konar frumstæðrar flugvélar á æskuárum, og suður í Grindavík brá hann því fyrir sig að leika persónur úr Skugga-Sveini. Hann náði i skottið á þeim tima, er fyrirmenn áttu korða, og sjálfur eignaðist hann þvílíkan grip.

Staðarhverfi

Korði séra Kristjáns. (Úr Staðhverfingabók).

Korðar hafa að líkindum verið lítið notaðir í Grindavík síðan gengið var af Jóni breiða dauðum, nema hvað Tyrkir hafa eflaust brugðið þess kona vopni. En af því er saga, að sér Kristján greip einu sinni til korða síns. Það bar til að steypireyður á flótta undan háhyrningatorfu hljóp á land í Grindavík. Presturinn tók sér þá korðann i hönd og stytti þjáningarstundir skepnunnar, sem brauzt um í fjörunni, með því að reka hann á kaf undir bægslið.

Grindavík

Árabátur neðan verbúðar.

Hinn presturinn, sem við getum ekki gengið fram hjá, var séra Oddur Gíslason frumherji í björgunarmálum á Íslandi og bindindishetja að auki á mikilli drykkjuöld, þegar brennivín var bæði ódýrt og auðfengið. Hann leitaðist við að kenna mönnum að nota bárufleyg í sjávarháska, láta lýsi eða olíu lægja öldurnar. Hann gaf af fátækt sinni út tímaritið Sæbjörgu i eitt ár, og mun tímariti ekki hafa verið stjórnað úr Grindavik í annan tíma, og hann lagði sig fram um að kenna sund. Sjálfur hafði hann bjargað sér og dreng, er með honum var, á sundi úr bráðum háska, er báti hvolfdi undir þeim.

Oddur. Gíslason

Séra Oddur V. Gíslason.

Því er ekki að leyna, að meðal Grindvíkinga hafa verið þeir, sem þótti dropinn góður, og er þar til marks, að einu sinni fór harðmannlegur sægarpur að hágráta, þegar hreppstjórinn velti um einu víntunnunni, sem borizt hafði að landi ósködduð úr strönduðu skipi, og er þó þeim, er þreyta ævi langan leik við hafið, sízt öðrum táragjarnara að jafnaði. Bindindisboðskapur séra Odds kann þess vegna að hafa fallið í grýtta jörð hjá sumum í sókninni. Hvenær gerir boðskapur það ekki? En séra Oddi var svo farið, að hann var maður síns fólks, sjálfur sjómaður, og formaður af bezta tagi, og jafnvígur, hvort sem hann var í skinnklæðum á miðum úti í rismiklum sjó eða hempu í kirkju sinni eöa annars staðar í ræðustóli. Og um hann lék frægðarljómi sökum þess, að hann hafði ungur rænt sér brúði úr húsum þess og höndum, sem ríkastur var og mestur fyrir sér meðal margra ráðríkra útvegsbænda á Suðurnesjum.

Sitthvað úr náttúrunnar ríki

Grindavík

Grindavík – höfnin.

Við höfum látið móðan mása og hlupið úr einu i annað. Og þó er næsta fátt sagt. Það er að svo mörgu að hyggja í Grindavík. Þar eru vatnsgjár, sem álar ganga í neðanjarðar, og þar vex þistill á bletti, og segir þjóðsagan, að hann hafi komið upp af blóði manns, sem Tyrkir drápu. Fuglum, sem annars eru sjaldséðir hérlendis, bregður oft fyrir í Grindavík. Einkum bar nokkuð oft við, að hegrar sæjust þar, og áttu þeir að minnsta kosti fyrr á árum fast náttból undir hraunjaðri utanvert við túnið á Járngerðarstöðum. Þetta eru sem sagt fuglar, sem hafa reiðu á sínu.

Grindavík

Grindavík – Í Norðurvör.

Ekki síður bregður þar fyrir mörgu sérkennilegu og fágætu úr sjónum. Þannig er það í minnum haft, að rétt fyrir aldamótin skaut Helgi i Húsatóftum rostung með framhlaðning. Þeim þótti vont af honum kjötið, Grindvíkingum, en húðin var aftur á móti hreinasta þing í reipi. Það voru þess konar reipi, er nefndust svarðreipi áður fyrr. Þorradag nokkrum árum fyrr rak upp svo mikið af karfa, að fjaran var öll rauð yfir að líta.
Þá var ekki búið að skarka með botnvörpur um allan sjó. En meðal sjaldgæfra fiska, sem rekið hafa þar syðra, má nefna gljáháf 1917, tunglfisk 1931 og umfram allt Bretahveðni, sem er svo sjaldgæfur, að það ætti að halda uppi á daginn, þegar hann fannst, 7. marz 1905, ekki síður en afmæli kóngsins á meðan sú persóna var og hét.
En svona nokkuð þýðir ekki að þylja, því að það myndi æra óstöðugan. Það er ekki seinna vænna að slá punkti aftan við.“ — JH.

Heimild:
-Tíminn, 248. tbl. 29.10.1972, Útvegsbærinn á hraunströndinni undir Þorbirni, JB, bls. 10-11.

Grindavík

Grindavík.

Grindavík

Engar áreiðanlegar vísbendingar liggja fyrir um bæjarstæði Moldar-Gnúps, þess landnámsmanns er nam land, skv. Landnámu, í Grindavík. Ef vel er að gáð má þó sjá nokkrar vísbendingar þess efnis, einkum er varða afkomendur hans er byggðu þar sem nú er Grindavík. Bent verður á þær hér – þangað til eitthvað annað bitastæðara kemur í ljós.

Húshólmi

Í Húshólma í Ögmundarhrauni.

[G]núpshlíð, [G]núpshlíðarendi og [G]núpshlíðarháls heitir fjallendi norðan Húshólma og Óbrennishólma í Ögmundarhrauni, þar sem nefnt er „Gamla-Krýsuvík. Ekki er með öllu fyrir það skotið að Molda-Gnúpur hafi búið við ströndina í Krýsuvík. Hraunið er síðar umlukti bæjarstæðið rann um 1151, eða u.þ.b. hundrað árum eftir að hann kom til „Grindavíkur“ að sögn Landnámu. Hafa ber í huga að Krýsuvík er í landi Grindavíkur.

Hópsnes

Hópsnes – kort.

Við nákvæmari leitir að bæjarstæði Molar-Gnúps færumst alltaf nær og nær. Ljóst er að maðurinn átti a.m.k. þrjá sonu á lífi; frumvarpið Gnúp, (Hafur) Björn og Þórð (Leggjanda). Þorsteinn er einnig nefndur til sögunnar. Hver og einn þeirra valdi sér bæjarstæði nálægt föður sínum. Vitað er að fjögur býli voru þá og þegar á fjórum stöðum í og við Grindavík; á Húsatóttum, á Járngerðarstöðum, á Hópi og á Þórkötlustöðum. Flestir hallast að því að Hafur-Björn hafi búið á Hofi (Hópi) enda álitlegt höfuðbýli frá fornu fari. Haugur og bæjarhóll, sem þar voru lengi fram eftir öldum, voru því miður ruddir þegar núverandi hús voru byggð.

Járngerðarstaðir

Járngerðarstaðir 2020.

Járngerðarstaðir voru með beitaraðstöðu á Baðsvöllum, miðbærinn (Hóp) var með selstöðu við Svartsengi og austurbærinn (Þórkötlustaðir) í Fagradal. Húsatóttir (Staður) voru með beitaraðstöðu inn við Þórðarfell. Síðar sameinuðust Grindavíkurbæirnir, vegna óhóflegs beitarálags, um selstöður á Selsvöllum. Tóftir gömlu sameiginlegu selstöður bæjanna eru á austanverðum Völlunum. Selstöðurnar lögðust þarna af um tíma, líklega vegna óvæntra náttúrlegra aðstæðna, en voru síðan teknar upp að nýju í byrjun 19. aldar. Selstöður lögðust síðan af á Grindavíkurbæjunum sem og annars staðar í fyrrum landnámi Ingólfs undir lok aldarinnar.

Ef (G)Núpshlíðarhálsinn heitir eftir Gnúpi er líklegt að hann hafi búið í Húshólma, fyrrum Krýsuvík.
Af landfræðilegum líkum má draga þá ályktun að Hafur-Björn hafi búið á Hópi (Hofi).

Hóp

Hóp – minjar gamla bæjarins, þ.á.m. hofstóft.

Goðhús var á Hópi (Hofi). Þar er enn (2012) til gamall platti uppi á vegg í stofu með niðjatali Hafur-Björns.
Við forkönnun á framangreindum stöðum kemur og einn annars staður til greina. Hann hefur enn ekki áður verið skoðaður líklegur sem slíkur.

-ÓSÁ tók saman.

Grindavík

Hóp – uppdráttur ÓSÁ.

Krýsuvík

Krýsuvíkursvæðið er eitt fallegasta og fjölbreytilegasta útivistarsvæði hér á landi. Margir útlendingar, sem fara þar í gegn á leið úr ferðum sínum á Gullfoss og Geysi, minnast þeirrar ferðar lengur, en flest annað sem bar fyrir augu þeirra um landið.

Eyri

Eyri – tóftir.

Boðið er upp á sérstakt, tilkomumikið og fjölbreytt landslag, hlaðið sögulegum minjum frá upphafi landnáms. Bæjarfell er nokkurs konar miðdepill þess. Út frá fellinu liggja allar leiðir, enda flestir Krýsuvíkurbæjanna á síðari öldum undir rótum þess. Ákjósanlegt er að staldra við á hæsta tindi fellsins, sem er einkar auðveldur uppgöngu, og virða fyrir sér svæðið allt í kring…

Norðurkot

Norðurkot í Krýsuvík 1892. Snorrakot t.h.

Austan Bæjarfells eru tóttir bæjanna Snorrakots, Norðurkots, Lækjar, Suðurkots og Krýsuvíkurbæjarins á hólnum við Krýsuvíkurkirkjuna.

Krýsuvík

Krýsuvík 1936 – Ásgeir L. Jónsson.

Honum var því miður rutt um koll um og eftir 1960. Enn má vel sjá húsaskipan og bæjarlag þeirra þriggja fyrstnefndu. Snorrakot liggur nyrst bæjanna, utan garðs. Heimagarðurinn er beint fyrir framan bæinn og fallegir torfgarðar út frá honum. Inni á túninu er stór tótt Norðurkots og þar hefur einnig verið garður framan við bæinn. Við heimtröðina að norðan er tótt alveg við hana og önnur upp í brekkunni skammt sunnar. Svipað bæjarlag hefur verið á Læk, en þar eru þó enn fleiri tóttir, sem vert er að skoða. Á Vestarilæk, sem liðast til suðurs á milli kirkjunnar og Lækjar var eitt sinn kornmylla. Vestan við lækinn er Ræningjadys við Ræningjahól og ofar á hólnum er gamli bæjarhóll Suðurkots. Þessa kennileita er getið í sögunni af Tyrkjunum og séra Eiríki Vogsósapresti. Norðan við Snorrakot var Litli-Nýibær og Stóri-Nýibær þaðan til austurs, handan þjóðvegarins. Enn má sjá bæjarhólinn í túninu.

Selalda

Fjárskjól undir Strák í Selöldu.

Sunnan undir brekku sunnan Gestsstaðavatns, neðan við Krýsuvíkurskóla, eru tóttir Gestsstaða, næstelsta bæjarins í Krýsuvík. Þær eru tvær. Önnur tóttin virðist hafa verið gripahús, en hin íbúðarhús. Austan utan í Sveifluhúsi skammt suðvestar er enn ein tóttin og virðist hún hafa verið hluti Gestsstaða. Frá hlíðinni ofan við bæjartóttirnar sést til sex vatna; Gestsstaðavatns næst í norðri og Kleifarvatns fjær, Grænavatns í austri, Augnanna sitt hvoru megin við þjóðveginn í suðaustri og Sefsins skammt sunnan af þeim. Tóttir bæjarins Fells er í hvammi í brekkunni sunnan Grænavatns og tóttir elsta bæjarins, Kaldrana er við suðvestanvert Kleifarvatn, rétt austan við þjóðveginn.

Krýsuvík

Krýsuvík – fjósið.

Gamla fjósið í Krýsuvík, norðan Grænavatns, stendur nú autt og yfirgefið, en áður var það tengt stórum draumum um mjólkandi rauðar kýr á básum. Bústjórahúsið norðan við Gestsstaðavatn varð síðar vinnustaður Sveins Björnssonar, málara, en er nú Sveinssafn að honum gengnum. Krýsuvíkursamtökin njóta góðs af stærri húsakosti, bæði í gamla húsinu og í því nýja sunnan við vatnið. Vinnuskólinn naut aðstöðu í Krýsuvík á síðari hluta sjötta áratugarins og fyrri hluta þess sjöunda, en þá undu ungir piltar frá Hafnarfirði sér þar vel sumarlangt.

Krýsuvík

Krýsuvík – Lækur.

Gróðurhúsin vestan við húsin voru þá í notkun og mikið um að vera. Piltarnir stunduðu vinnu á afkastahvetjandi launakerfi hálfan daginn, en voru í annan tíma við leiki og gönguferðir um nágrennið. Á kvöldin voru haldnar kvöldvökur og kvikmyndasýningar. Vinnan var m.a. fólgin í skúringum, hreingerningum, matargerð, borðlagningu, uppvaski, umhirðu húsa og nágrennis, girðingum, heyskap, rakstri, málningu, gróðursetningu og vegagerð. Nýjar reglugerðir gerðu síðar þessa mannbætandi og uppbyggjandi starfsemi Vinnuskólans því miður ómögulega í framkvæmd.

Arnarfell

Bærinn Arnarfell undir Arnarfelli í Krýsuvík.

Í hlíðum sunnanverðs Arnarfells eru tóttir Arnarfellsbæjarins. Suðvestan hennar er Arnarfellsréttin, hlaðin stór rétt í lægð í átt að Selöldu. Sunnan fellsins er Arnarfellsvatnið.

Talið er að Krýsuvíkurbændur hafi haft í seli, bæði til fjalla og fjöru. Krýsuvík hafði í seli um tíma á Vigdísarvöllum og á Seltúni í Hveradal, undir Hatti. Framan við Hveradal er timburþil, einu minjar gamla brennisteinsnámsins. Lækurinn var stíflaður á nokkrum stöðum upp að námunum og brennisteinninn skolaður í hólfunum.

Húshólmi

Húshólmi – skálar.

Einnig er gamalt sel sunnan undir austanverðri Selöldu. Þar eru líka tóttir bæjarins Eyri, rétt ofan við uppþornaðan lækjarfarveg, og tvö fjárskjól skammt sunnar. Annað er minna og virðist mun eldra en það stærra. Vestar eru svo tóttir bæjarins Fitja. Ofan við þær er heillegar hleðslur fjárhúss undir háum móbergsskletti á Strákum.

Krýsuvík

Krýsuvík – Hafliðastakkur norðan Bæjarfells. Uppdráttur: ÓSÁ.

Sunnan við Bæjarfell er hlaðin rétt og norðan við fellið er hlaðin stekkur, Hafliðastekkur. Austar í hlíðinni er stór tótt og enn austar gamall stekkur. Varnargarður liggur upp úr engjunum í miðja hlíð fellsins. Hefur hann bæði átt að varna því að fé færi inn á túnin og auk þess stýra vatnsstreyminu um engi og mýrar. Aðrir varnar- og vörslugarðar liggja frá Bæjarfelli, bæði norðan Norðurkots og beggja megin Lækjar að Arnarfelli. Annar langur garður liggur á milli sunnanverðs Bæjarfells í Arnarfell neðan við bæinn og upp í öxina austan hans. Eldri garður er innan við þann garð og virðist hafa legið á milli Bæjarfells og Arnarfells, skammt ofan við Suðurkot. Í vestanverðu Bæjarfelli er fjárhellir og hlaðið fyrir opið að hluta. Skátar notuðu hellir þennan oft til gistinga áður en skáli þeirra að Skýjaborgum kom til. Austan í Arnarfelli er hlaðinn stekkur og upp í því er Dísuhellir.

Kleifarvatn

Kleifarvatn.

Utar á Krýsuvíkurheiði er hlaðið hús, Jónsbúð. Skammt suðaustan þess, þar sem heiðin hallar til suðurs, er annað fallega hlaðið hús. Neðar, skammt ofan við austanvert bjargið er tótt utan í hraunhól í Litlahrauni og skammt sunnan við hann er hlaðið fyrir fjárskjól í skúta. Utan við Bergsenda er Krýsuvíkurhellir. Sést frá honum yfir að Skilaboðavörðu þar sem hún stendur hæst skammt austan og ofan við Keflavík. Endimörk Krýsuvíkurlands í suðaustri er í Seljabót. Í henni er hlaðið gerði. Uppi í Klofningum er Arngrímshellir, öðru nafni Gvendarhellir. Við hann gerðist þjóðsagan af Grákollu og Arngrími bónda. Fyrir framan fjárhellinn er tótt og inni í honum eru hleðslur.

Gvendarhellir

Í Gvendarhelli.

Skammt austan við hellinn er Bálkahellir, falleg hraunrás. Efst í jaðri Fjárskjólshrauns, neðan Geitahlíðar, er hlaðið hús, sem sést vel frá þjóðveginum skammt vestan Sýslusteins. Vestar, við gömlu leiðina upp Kerlingadal á leið um Deildarháls ofan Eldborgar, eru dysjar Herdísar og Krýsu, þeirrar er deildu um land og nytjar og getið er um í þjóðsögunni. Ofar Eldborgar er Hvítskeggshvammur þar sem sagt er að skipið Hvítskeggur hafi verið bundið við festar í bjarginu. Neðan Eldborgar, í formfallegri hraunrás, er gamla Krýsuvíkurréttin. Vegghamrar eru upp með vestanverðri Geitahlíð og innan þeirra eru Kálfadalir. Niður í syðri dalinn hefur runnið tilkomumikil hrauná. Norðanverður dalurinn er grasi gróin og svo er einnig nyrðri dalurinn. Norðan við Kálfadali er Gullbringa og gamla þjóðleiðin yfir Hvammahraun upp á Vatnshlíð og niður í Fagradal í Lönguhlíðum. Í hrauninu eru hellar, sem vert er að skoða.

Óbrennishólmi

Óbrennishólmi; fjárborg eða virki!?

Mikil hraun hafa runnið um svæðið á sögulegum tíma. Má þar bæði nefna Krýsuvíkurhraun og Ögmundarhraun.
Í Ögmundarhrauni er Húshólmi. Í honum eru margar minjar og sumar þeirra mjög gamlar. Þar er t.d. hluti af stekk þegar komið er niður úr Húshólmastígnum og enn vestar er gömul fjárborg.

Húshólmi

Húshólmi – hin gamla Krýsuvík – uppdráttur ÓSÁ.

Sunnar er svo vörslugarður og grafreitur, tóttir af sjóbúð eða íveruhúsi og inni í hrauninu eru tóttir gömlu Krýsuvíkurkirkju og Gömlu-Krýsuvíkur. Þar rétt hjá eru leifar skála, sem hraunið hefur runnið allt í kringum. Ekki er óraunhæft að ætla að í Húshólma kunni að leynast minjar frá því fyrir norrænt landnám hér á landi. Austan undir Ögmundarhrauni er gömul rétt utan í hraunkantinum. Gamall stígur liggur suðvestur úr Húshólma, í átt að Brúnavörðum.
Í Óbrennishólma eru tvær fjárborgir, önnur stærri og eldri. Þar ofarlega í hólmanum er veggur, sem hraunið, er rann um 1150, hefur runnið að og stöðvast. Neðst í suðaustanverðum hólmanum er nýrri hleðsla í hraunjaðrinum. Enn vestar í hrauninu, sunnan Lats, er fallega hlaðið fyrir skúta, sem líklega hefur verið sæluhús eða skjól vegavinnumanna á sínum tíma. Enn vestar eru svo Selatangar, en mörk Krýsuvíkur teigja sig að Dágon, klettastandi, sem þar er niður við sjó. Fjölbreytni Selatanga og saga eru efni í sjálfstæða frásögn.

Ögmundardys

Ögmundardys austast við Ögmundarstíg.

Í austurjaðri Ögmundarhrauns, upp undir Mælifelli, er dys Ögmundar er segir frá í sögunni um þursinn er vildi giftast dóttir (Njarðvíkurbónda) Krýsuvíkurbónda. Gamli vegurinn liggur þaðan í gegnum hraunið, yfir að Latfjalli. Norðan þess er Stóri-Hamradalur. Undir vegg hans er gömul rúningsrétt.

Vigdísarvellir

Fjárskjól í Ögmundarhrauni.

Í gýgunum, sem Ögmundarhraun rann úr, er falleg hleðsla fyrir fjárhelli og ofar eru Vigdísarvellir undir Bæjarfelli í Núpshlíðarhálsi. Þar voru tveir bæir og má vel sjá tóttir þeirra beggja.

Bæjarfellsrétt.

Krýsuvíkurrétt (Bæjarfellsrétt) í Krýsuvík.

Frá Völlunum liggur Hettustígur austur yfir á Sveifluháls þar sem hann mætir Sveifluvegi frá Ketilsstíg og áfram niður að Gestsstöðum í Krýsuvík um Sveiflu. Drumbsdalavegur liggur yfir Bleikingsdal og áfram austur yfir sunnanverðan Sveifluháls við Drumb.

Drumbdalastígur

Drumbdalastígur.

Komið er yfir hálsinn skammt sunnan við Skugga, klettaborg austan Sveifluhálsar og síðan fylgt gömlu götunni beggja vegna þjóðvegarins að Bæjarfelli. Gatan sést enn vel, en vörðurnar við hana eru víðast hvar fallnar. Þó sést móta fyrir brú á götunni á einum stað sunnan vegarins. Skammt vestan við Borgarhól er enn ein fjárborgin.

Seltún

Seltún.

Falleg hverasvæði eru víða í Krýsuvíkurlandi. Má í því sambandi nefna hverasvæðið við Seltún, í Hveradal, upp undir Hettu og einnig svæðið vestan fjallið, á milli þess og Arnarvatns á Sveifluhálsi.

Austurengjahver

Austurengjahver.

Í austurjarðri Krýsuvíkur er fjölbreytt göngusvæði, s.s. að Austurengjahver, Lambafellin og yfir að Hverahlíð þar sem skáli Hraunbúa er sunnan við Kleifarvatn. Fjölbreytnin á ekki síður við um Sveifluhálsinn, sem er einka fjölbreytilegur. Ef ganga á hann allan frá Einbúa eða Borgarhól að Vatnsskarði tekur það um 6 klst, en það er líka vel þess virði á góðum degi.

Eins og sjá má er Krýsuvíkursvæðið hið fjölbreytilegasta til útivistar. Hægt að er að ganga bæði stuttar og langar leiðir og mjög auðvelt er fyrir alla að finna þar eitthvað við sitt hæfi.

-ÓSÁ tók saman.

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja.

Brennisteinsfjöll

Brennistaeinsjallasvæðið“ hefur nú verið friðlýst. Því ber að fagna.
Verndarsvæðið er 123 ferkílómetrar að stærð og liggur í 400-500 metra hæð milli Kleifarvatns og Heiðarinnar há. Um er að ræða stærsta óbyggða víðerni sem eftir er í nágrenni höfuðborgarsvæðisins þar sem finna má ósnortnar gosminjar og minjar um brennisteinsnám en einnig kjarri vaxið svæði við Herdísarvík.

Brennisteinsfjöll

Brennisteinsnámurnar í Brennisteinsfjöllum.

Í eldstöðvakerfi Brennisteinsfjalla er að finna skýrt afmarkaða gos- og sprungurein en einnig dyngjur og er Kistufell þeirra mest. Brennisteinsnám var stundað á svæðinu í nokkur ár milli 1876 og 1883 og sjást ummerki þess enn í hrauninu.

Kista

Kista í Brennisteinsfjöllum – samtal.

Með friðlýsingunni er háhitasvæði Brennisteinsfjalla verndað gegn orkuvinnslu yfir 50MW í varmaafli. Friðlýsingin nær ekki til annarra þátta en orkuvinnslu.

Brennisteinsfjöll

Útsýni yfir Reykjanesskagann til vesturs frá Bollum.

Húshólmi
Í Hauksbók Landnámu og Sturlubók Landnámu er kveðið á um að Steinunn gamla hafi fengið Rosmhvalanesið í kaup við Ingólf frænda sinn. Hún bjó í Hólmi. Herjólfur Bárðason fékk land hjá Ingólfi milli Vogs og Reykjaness og er talið að hann hafi haft bú í Gamla-Kirkjuvogi við Ósabotna utanverða.
Gufuskálar

Brunnur við Gufuskála, skammt frá skálatóft.

Lönd Steinunnar og Herjólfs lágu því saman við Ósabotna. Land Steinunnar náði að Hvassahrauni, en hún gaf frænda sínum Eyvindi land á milli þess og Kvíguvogsbjarga þar sem líklega hefur verið miðað við Innri-Skoru. Eyvindur bjó í Kvíguvogum. Hann skipti síðan á því landi við Hrolleif Einarsson á landi í Þingvallasveit þar sem hann bjó að Heiðarbæ, en flutti síðan að Bæjarskerjum á Romshvalanesi. Ásbjörn Özurarson fékk land frá Hvassahrauni að Álftanesi og Þórður skeggi fékk land norðan við Ingólf þar sem nú er Mosfellsveit. Herjólfur fékk land frá Kotvogi að Reykjanestá, en Molda-Gnúpur þaðan að Selatöngum. Austar var Þórir haustmyrkur (Krýsuvík) og Álfur Egzki austan Selvogs að Ölfusárósum.

Í nýrri bók Trausta Valssonar “Skipulag byggðar á Íslandi” er kort af skiptingu landnámsins, auk korta af verleiðum og helstu samgönguleiðum á SV-landi skv. korti frá 1849.
Valahnúkar

Á Reykjanesskaganum eru nokkrir alræmdir draugar, s.s. Stapadraugurinn, Arnarfells-Labbi og Tanga-Tómas á Selatöngum. Einnig hefur borið á annars konar draugum á svæðinu, jafnvel mennskum:

Draugshellir

Draugshellir í Valahnúk.

1. Mógrafa-Móri. Hefur sést við mógrafir. Segir sagan að hann hann hafi ætlað að ná sér í mó hjá öðrum, fallið í gröfina og ekki komist upp aftur fyrr en að sér gengnum. Nú situr hann fyrir þeim, sem leið eiga um mógrafasvæðið.
2. Landamerkja-Labbi. Sagt er að sá, sem færir til landamerkjavörðu, dæmi þar með sjálfan sig til að rogast með grjót í vörður allar nætur til eilífðarnóns. Dæmi eru um nokkra slíka á Reykjanesi. Ekki er þó vitað til þess að þeir hafi gert öðrum en sjálfum sér mein.
3. Hella-Hedda. Einn af fáum kvendraugunum. Á það til, líkt og Tanga-Tómas á Selatöngum, að grípa í hæla fólks er á leið um dimma hella, einkum þar sem fallegar hraunmyndanir er að finna, slökkva á ljósum þess eða gera því aðra grikki. Nokkur dæmi er um að fólk hafi lent í verulegum erfiðleikum með að rata út aftur eftir aðfarir hennar.
4. Írafells-Móri. Írafells-Móri var alþekktur hér í Reykjavík á seinna hluta 19. aldar. Var talið að hann fylgdi Mörtu Þórðardóttur skóara í Vigfúsarkoti. Annars fylgdi hann líka Engeyingum og var því oft nefndur Engeyjarmóri. Þeir feðgar Kristinn Magnússon og Pétur kölluðu hann frænda sinn, en gættu þess að hann kæmist ekki út í eyna.

Tröll.

Valahnúkar

Tröll á Valahnúkum.

Tröll eru á mörkum þess vitsmunalega. Þau standa fjær manninum en t.d. álfar og huldufólk.
Sagnir eru um tröll á Reykjanesi. Nokkrar klettamyndanir og örnefni staðfesta sagnir um að sum þeirra hafi orðið þar að steinum, s.s. á Valahnjúk ofan við Valaból. Sögn er og til um að dautt tröll hafi fundist fyrir alllöngu síðan, en ekki er vitað hvað varð um „jarðneskar“ leifar þess. Ekki er útilokað með öllu að enn kunni að finnast dauð tröll á svæðinu. Sum svæðin eru það lítið könnuð.
Örnefni á Reykjanesi benda til trölla, s.s. Trölladyngja og skessukatlar. Sumsstaðar má sjá steinrunnin tröll á varðbergi, s.s. á Sveifluhálsi og í Hlíðarskarði. Grýla og Leppalúði gista milli jólalangt í hellum á nesinu, Skessa bjó í Festarfjalli og til tröllabarna sást lengi vel í Krýsuvík.

HÉR má sjá meira um drauga á Reykjanesskaganum.

Tröll

Tröllin vaka yfir hraununum.

Stakkavík

Eggert Kristmundsson er fæddur 17. febrúar 1919.
Þann 28. febrúar s.l. (2009) var farið í fylgd hans í Herdísarvík og í Stakkavík með viðkomu í Breiðabás. Eggert var þá nýorðinn 85 ára, en ótrúlega hress eftir aldri. Í ferðinni lýsti Eggert staðháttum og sagði sögur af fólki og atburðum. Tækifærið var notað og Stakkavíkursvæðið rissað upp eftir lýsingu Eggerts. Þar lýsti hann m.a. Gálgaklettum, Álfakirkjunni, smalabyrgjum, hlöðnum kálgarðsveggjum, íbúðarhúsinu, staðsetningu gamla bæjarins, sem nú er á hólma út í Hlíðarvatni, sýn á huldufólk og fleiru, sem fyrir augu bar. Eftirfarandi frásögn er skráð eftir honum í ferðinni:

Eggert

Eggert Kristmundsson.

Eggert fæddist í Stakkavík og er því manna fróðastur núlifandi manna um svæðið. Hann fluttist þaðan árið 1943 að Efri-Brunnastöðum í Vatnsleysustrandahreppi.
Á leiðinni gat Eggert þess í innskoti að hann hafði heyrt að sá sem hlóð Staðarborgina ofan við Kálfatjörn hafi fengið einn tóbaksbita fyrir verkið. Bitinn kostaði þá 2 krónur.
Eggert lærði að lesa hjá Önnu, dóttur Ólafs Þorvaldssonar í gamla bænum í Herdísarvík. Hann sagði Ólaf hafa verið mjög skemmtilegan mann, sem sagði mjög vel frá og las afburða vel upp úr bókum. Eggert var í skóla í Selvogi í einn vetur en svo kom kennari annað slagið heim í Stakkavík. Hann var fermdur í Strandakirkju.
Eggert var um 10 ára þegar hann villtist í Breiðabáshelli, en þangað var förinni m.a. heitið. FERLIR hefur um nokkurt skeið leitað opsins, en sjávarkamburinn hefur nú hulið með öllu.
Eggerts minntist ummæla útgerðarmanns í Selvogi varðandi föður þeirra: “Þótt ég þyrfti að bera Kristmund út í bátinn þá verður hann minn háseti”. Kristmundur þótti mjög fiskinn. Hann var líka var mikill söngmaður. Það var Guðni í Þorkelsgerði einnig.
Eggert minntist þess að Gísli Scheving, móðurbróðir Eggerts, hafi komið um Stakkavíkurveg með grammafón á bakinu frá Hafnarfirði árið 1925 ásamt 30 sauðum. Grammófónninn þótti mikið undur.

Eggert

Eggert.

Á leiðinni austur sagði Eggert frá för hans og Gísla bróður hans ásamt 12 ára strák úr Hafnarfirði og föður þeirra með fé frá Krýsuvík áleiðis til Hafnarfjarðar. Þetta var sennilega árið 1935. Þeir hefðu farið frá Stóra-Nýjabæ í góðu veðri, en þegar þeir fóru um Ketilsstíg á Hálsinum versnaði veðrið til muna. Þeir komu þó fénu yfir, en urðu að berjast með það, 35 sauði og 15 lömb í veðrin og villtust. Þeir römbuðu á för sín aftur yfir Ketilstíginn og röktu hann til baka. Þá náði snjórinn í kvið á hestunum. Þeir hörfðu verið 17 tíma í förinni, kaldir og hraktir. Þeir gistu í Stóra-Nýjabæ á leiðinni til baka, voru þar um nóttina.

Nýibær

Stóri-Nýibær í Krýsuvík.

Morguninn eftir þurftu þeir að fara í blautu fötin aftur því þau höfðu ekki náð að þorna um nóttina. Daginn eftir fóru þeir svo með féð til Hafnarfjarðar.
Guðmundur í Stóra-Nýjabæ, sem þótti skemmtilegur í tilsvörum, var eitt sinn spurður um Guðmund nafna hans Guðmundsson á Hrauni, síðar Skála. Hann svaraði: “Hann hefur það gott, hann sofnaði í 40 ár og leitaði gæfunnar, en nú er hann búinn að finna hana, blessaður”. Guðmundur var þá að dunda við að brugga landa.
Guðmundur fór í útgerð og komst hún fyrir í einni tunnu (net og annað). Fór þá Guðmundur í Nýjabæ heim og náði í 1200 krónur, sem hann lánaði til útgerðarinnar.
Fylgdist með þegar verið var á byggja húsið í Herdísarvík. Það var hvítt á litinn.
Einar Ben. var glæsilegur maður þegar hann kom að Herdísarvík, en hann var eins og vofa undir það síðasta. Margir kunningar hans komu í heimsókn og helltu hann fullan. Reyndar hafði Hlín leyfi til að brugga á þeim tíma.

Herdísarvík

Herdísarvík.

Krakkarnir voru spenntir fyrir að sjá þjóðskáldið fyrsta sinni og fóru því með nýrekna grásleppu sem tilefni heim í Herdísarvík. Hlín tók á móti þeim og sagði við Einar: Þetta eru börnin hans Kristmundar í Stakkavík. “O, ætli ég þekki ekki hann Kristmund, hann var skrifari hjá mér í Ameríku”, svaraði Einar þá. Einu sinni mætti Einar þeim með hvítan vasaklút og sagði: “Þetta er það eina sem ég á”. Í annað sinn, þegar Hlín hafði látið elta Einar að Fálkageiraskarði þar sem hann var á leið í “sorann í Reykjavík” og færa til baka, varð Einari að orði: “Hér er ég fangi milli tveggja svartra fjallla og sé aðeins upp í himininn”.

Um drápið á Surtlu sagði Eggert: “Það var nýðingsverk að fella Surtlu. Það var ekkert að henni eins og sést hvernig hún komst ítrekað undan. Ég elti hana, ásamt fleirum, frá Seljabótarnefi og upp fyrir bæinn í Herdísarvík. Lambið, sem var með henni, sprakk á hlaupunum og við náðum því, en Surtla slapp. Surtla var tvílembingur og ég átti hitt lambið”.

Hlín Johnson

Hlín Johnson í Herdísarvík.

“Hlín var einstaklega dugleg og krafðist þess sama af öðrum. Hún var hetja, fögur kona, há og þétt á velli og lagði sig fram við að styðja Einar. Það sem Hlín gerði fyrir Einar hefur verið óþakklátt og henni hefur ekki verið nægilegur sómi sýndur fyrir allt sem hún gerði fyrir hann”.
Bruggið var í tunnu (tunnum) fyrir utan húsið.
Stundum skiptust þau Hlín og Kristmundur á olíu eftir því hvort átti.
Fólk kom í Herdísarvík, bara til að forvitnast, stundum á rútum. Einu sinni var Hlín sofandi en Eggert í heyskap þegar fjöldi manns kom og óð yfir slægjunna og skoðaði inn í öll hús. Þegar Hlín vaknaði spurði hún fólkið hver hefði boðið því þangað.

Herrdísarvík

Herdísarvík – Hlín og Einar ásamt vinnufólki.

Hlín fór í fjósið í buxum úr strigapokum. Hún hafði tvo hesta, leirljósan og brúnan. Brúni hesturinn var gamall vagnhestur. Sá leirljósi var mikill reiðhestur. Jón Eldon, sonur hennar, átti hann. Hlín vildi ekki eta hestanna og því var farið með þá að Grænuflöt undir Herdísarvíkurfjalli þar sem þeir Jón, Eggert og fleiri grófu niður tvær mannhæðarháar grafir, þar sem voru hægt var að ganga inn í, og þar skutu þeir hestanna, Jón þann leirljósa, en Eggert þann brúna. Eggert tók nærri sér að þurfa að gera þetta því hann hafði unnið mikið með þessum hestum, en hann sagðist alltaf hafa hlýtt Hlín. Hún hefði beðið hann um að annast þetta.
Hlín fékk fé sitt frá Sigurði á Hlíðarenda en það var ættað úr Borgarfirðinum.

Stakkavík

Íbúðarhúsið í Stakkavík.

Sementið í Stakkavíkurbæinn var flutt með Hermóði frá Eyrabakka út í Selvog og þaðan á hestum heim. Náð var í sand í poka út á Víðisand og möl norður fyrir Hlíðarvatn. Víðisandur (Viðarsandur) var stundum nefndur Púkasandur og þá eftir sögum af galdraprestinum. Allt borið á bakinu upp á bæjarhólinn og voru 17 menn við verkið.
Eggert og fleiri náðu í borðviðinn í Stakkavíkurbæinn til Hafnarfjarðar. “Þetta var djöfullegur flutningur”. Borðin stóðu langt upp af makka hestanna og þetta var alltaf að slitna niður. Borðin styttust um 1. fet við að dragast eftir klöppunum.

Krýsuvíkurvegur

Gamli-Krýsvíkurvegurinn austan Skála-Mælifells.

Ganga frá Stakkavík að Hrauni í Grindavík tók 7 tíma, 6 tímar yfir fjallið til Hafnarfjarðar, en 10 tíma ef Krýsuvíkurleiðin var farin. Níu tímar voru til Grindavíkur. Þessa leið þurfti Hlín að fara í fyrstu ef hana vantaði mjólk. Stakkavíkurvegur var alltaf notaður nema þegar snjór var kominn á fjallið, þá var farið um Krýsuvík og Ketilsstíg. Notað var orðatiltækið „að fara Skörðin“ þegar farinn var Stakkavíkurvegur og Grindarskörð. Þegar fjölskyldan flutti frá Stakkavík á Höfuðdaginn árið 1943 var t.d. farið Skörðin á fjórum hestum með restina af búslóðinni. Hitt hafði verið flutt á undan.

Á vetrum fór þeir bræður upp Nátthagaskarð með stefnu á Eldborg, fóru sunnan við hana og síðan niður Fagradalsmúla. Þetta var stysta leið til Hafnarfjarðar með rjúpur. Veiddu yfirleitt um 400 rjúpur að hausti og seldu þær til Hafnarfjarðar á 45 aura stykkið.

Herdísarvík

Herdísarvík.

Þegar farið var upp Selstíg var fyrst komið að Grænubrekkum og Selbrekkum, Seltúninu, (austar). Ofan við þær er gamla Stakkavíkurselið, “en það var farið í eyði löngu áður en ég man eftir”. Dýjabrekkur liggja fjærst brúninni, ca. miðja vegu að Ásunum. Þær eru augljósar því í þeim er lítill dalur fullur af dýi.
Hættulegt gat verið að fara yfir ósinn (Vogsósinn). Í útfalli, þegar sjór gekk inn í vatnið, var mikill straumur út úr því.
Var einu sinni að fara yfir ósinn á hesti á vaði (Ingjaldsvaði). Þar er malarbotn, en sandbleyta ef farið er út af vaðinu. Hesturinn lenti í sandbleytunni og lagðist á hliðina. Þessu átti Eggert ekki von á. Hesturinn synti á hliðinni og Eggert hélt sér á honum og þannig bárust þeir niður ósinn. Það verður honum til lífs að ná taki í þaraþöngli og gat hann þannig kraflað sig í land. Hesturinn kom að landi annars staðar.

Herdísarvík

Herdísarvík – loftmynd.

Silungurinn úr Herdísarvíkurtjörninni var allt að fimm pund að þyngd og sá besti sem Eggert hefur smakkað.
Man ekki eftir að hafa séð drauga, en eina sýn sá hann 10 ára, sem hann gleymir aldrei. Í hvammi norðvestan við húsið, skammt austan við hrútakofann (sjá uppdrátt) sá hann einu sinni tvo stráka. Gísli var þá með honum. Ekki vissi hann til að aðrir strákar ættu að vera þarna. Þeir voru klæddir í stuttar hnébuxur, með grænar húfur með tíglamynstri og háa reimaða skó. Spjald var aftan á peysunum. Hann kallaði í Gísla og horfði augnablik af þeim, en þegar hann leit til þeirra aftur voru þeir horfnir. Hann hafi alltaf verið sannfærður um að þar hafi huldufólksstrákar verið á ferð. Sá þá aldrei aftur. Betur klæddir en allt sem hann hafði áður séð.

Stakkavík

Í Stakkavík.

Eggert sló eitt sinn álagahól við Suðurkot í Vogum. Hafði verið bannað að slá hólinn. Hafði líka slegið of ofarlega þegar honum var varnað að halda áfram. Í framhaldi af því blindaðist önnur kvígan á Efri-Brunnastöðum og drapst síðan. Vildu menn meina að það hafi orðið vegna þessa atburðar.
Var einu sinni í níu klukkutíma aftur á vörubílspalli á tveggja manna Fordbíl frá Hveragerði að Kolviðarhól. Hann hélt á sér hita með því að moka snjó frá bílnum ásamt bílstjóranum. Þrír aðrir sem voru með á bílnum fóru af og voru þremur tímum á undan að Kolviðarhóli.
Kristmundur keypti bát til að nota á Hlíðarvatni og var hann fluttur með vörubifreið frá Reykjavík og til Vogsósa. Eggert var þá unglingur og var hafður aftur á palli ásamt saltfiski og öðru. Báturinn var með fjórum árum, langur og mjór. Þeir settu í hann “GOJA” vél 1.5. hestöfl. Hann gekk lengi mjög vel. Engar grynningar voru í vatninu, nema þar sem tjarnirnar eru. Yfirleitt um þriggja faðma dýpi í vatninu.

Herdísarvík

Herdísarvík – vegavinna 1948.

Vörðurnar, beggja vegna vegarins skammt vestan Herdísarvíkur, eru þar sem vegavinnumenn með jarðýturnar mættust með vegina að austan og vestan. Í Herdísarvíkurtjörn var besti silungur, sem hann hefur borðað. Hann kom upphaflega úr Hlíðarvatni. Man eftir gamla bænum í Herdísavík. Drakk þar kaffi hjá Ólafi Þorvaldssyni. Skemmtilegasti maður sem hann hafi hitt. Fór mikið á rjúpur og í annan veiðiskap. Ólafur fór nauðugur frá Herdísavík. Garðanir austan bæjar Herdísarvíkur, voru hlaðnir af vermönnum. Þórarinn Árnason, sonur Árna í Krýsuvík, lét vermenn hlaða þá í landlegum. Þeir græddu einnig upp hraunið með slori. Þannig er Gerðið meira og minna grætt upp – með slóginu.

Herdísarvík

Herdísarvík – sjóbúðir.

“Gerðið er illa farið af sjávargangi. Gísli móðurbróðir minn nýtti sér næst austustu sjóbúðina um tíma. 70 hestar heys fengust af Gerðinu. Þórarinn lét líklegast hlaða fjárhúsin; Langsum og Þversum, semþar eru. Húsin tóku um 400 fjár. Þá var fé haldið í Breiðabáshelli (300-400 fjár). Alltaf var ákveðin hræðsla um að sjórinn flæddi inn í hellinn. Skiparéttin var í krikanum þar sem fjárréttin varð síðar (sjá uppdrátt).
Fálkageiraskarð er skammt austan Lyngskjaldar. Einar Júlíusson, vinnumaður, náði nafna sínum, Einari Ben. í skarðinu er hann var á leið í sorann fyrir sunnan. Einar hélt þá fram að hann væri “fangi á milli svartra fjalla”.
Benti á Hulduþúfuhól sunnan vegar austan Herdísarvíkur, hægra megin við gömlu götuna. Saga er tengd honum. Gísli hafði einhverju sinni heyrt söng innan úr hólnum. Eftir það var hann nefndur Hulduhóll.

Stakkavík

Bátahró í Stakkavík.

Þegar ekið er niður í Stakkavík eru fiskgarðar á hægri hönd sem og tveir hlaðnir kálgarðsveggir. Klettur, klofinn er hægra megin við veginn, neðan eystri kálgarðsins. Þar er sem heitir Gálgaklettar. Eggert sagði sögn segja að þar hafi menn verið hengdir fyrrum. Sjá má tóftir gamla bæjarins í austasta hólnum út í vatninu neðan við núverandi bæjarstæði. Eftir að hækkaði í vatninu þurfti að færa bæinn upp á hólinn, sem rústir hans eru nú. Vestan við hann er jarðhús, sem Guðni í Þorkelsgerði byggði, og við hlið þess gamalt fjárhús, sem var notað til að baða fé. Hrútakofi er ofan og utan garðs. Í Austurnesi eru tvö beitarhús. þau tóku 170 og 200 fjár. Eystra húsið var stærra. Rétt er á Réttarnesi og þar, ofan við Botnavík, eru smalabyrgi.

Stakkavíkursel

Selstígurinn – Hlíðarvatn fjær.

Eggert sagði að fyrrum hafi verið farið með hesta upp Selskarð. Þegar komið var niður með þá þurfti að setja rófubönd undir stertina og tók þá jafnan í.
Mjög varasamt var að fara norður fyrir vatnið þar sem þar voru miklar skriður. Hægt var að fara með fé og á hestum með því að vera upp í fjallinu, upp undir klettabeltinu.
Kleifarvallaskarð er austan Selstígs, austar er Urðarskarð og þá Hlíðarskarð.
Hlíðareyja fylgdi Stakkavík, austarlega á Hlíðarvatni. Hún var dagslátta.

Eggert keypti fyrst byssu 13 ára í Veiðivöruversluninni í Reykjavík, haglabyssu. Kostaði þá 75 kr. Dró 80 faðma. Mesti kostagripur. Hann hafði farið ásamt bróður sínum í Veiðivöruverslun Reykjavíkur, en fékk ekki afgreiðslu. Gistu þeir hjá Þórði Eyjólfssyni, fyrrum bónda á Vogsósum, sem þá var fullorðinn. Gekk hann við fallegan staf með glerhandfangi.

Stakkavík

Stakkavík og Hlíðarvatn – örnefni.

Eftir fýluferðina í búðina og mikil vonbrigði fór Þórður með þeim og keypti byssuna. Á heimleiðinni stillti Þórður göngustanum upp á veggi og garða og sýndi drengjunum hvernig ætti að fara að og þeir öpuðu eftir með byssunni. Vegfarendur urðu undrandi og gerðu athugasemdir. Þá sagði Þórður: „Þeir fara sér ekki að voða ef þeir kunna með hana að fara“. Skeptið, sem var mjög fallegt, tapaðist af byssunni þegar Jón Eldon, reyndi að kraka önd að landi sem hann hafði skotið við Herdísarvíkina. Seinna var svo smíðað nýtt skepti.

Stakkavíkurborg

Stakkavíkurborg.

Sveinn Halldórsson í Bjargi í Selvogi var þúsundþjalasmiður. Hann gerði við m.a. útvarpstæki. Gísli fór með útvarpstæki til viðgerðar hjá Sveini. Þegar hann gékk til baka til Stakkavíkur og var að fara um Víðisand heyrði hann að honum var veitt eftirför. Hann byrjaði að hlaupa og það sem var á eftir honum fylgdi á eftir og skrjáfaði í því eins og skeljum. Hann var alveg skelfingu lostinn og hljóp eins hratt og hann gat. Hann komst undan en allir lamparnir voru brotnir í tækinu eftir hlaupin.

Nes

Nes í Selvogi.

Mikill draugagangur var jafnan í Nesi í Selvogi. Bóndi, sem bjó á undan Guðmundi í Nesi, Þorbjörn Guðmundsson, tók alltaf steina úr gamla kirkjugarðinum þegar hann vantaði byggingarefni. Þetta hefndist honum fyrir, eins og dæmin sanna og sagnir geta um.
Guðmundur í Nesi var best gefni bóndi sem hann þekkti. Hann reisti girðingu sem náði frá Selvogsvita, upp á Geitarfell og niður á Þrívörður. Skildi eftir 2. fet af landinu utan girðingar og setti 200 sauði á beit utan girðingarinnar við lítinn fögnuð annarra bænda.

Stakkavík

Gálgar í Stakkavík.

Magnús í Krýsuvík hélt fé í fjárhúsinu á Krýsuvíkurheiði. Hann hélt einnig fé í Litlahrauni (sjá uppdrátt). Þegar Magnús hafði drepið fé sitt og flust til Hafnarfjarðar gekk hann á hverjum degi upp á Jófríðastaðahól, settist á hann og horfði síðan daglangt í áttina til Krýsuvíkur. Sonur Magnúsar í Krýsuvík gaf honum nokkur lömb (kindur) þegar hann sá söknuðinn hjá föðurnum. Magnús flutti þá aftur til Krýsuvíkur með lömbin, en fjölskyldan varð eftir í Hafnarfirði.
Landamerki Krýsuvíkur og Herdísarvíkur er milli dysja Herdísar og Krýsu. Hann hafi alldrei heyrt annað nefnt. Sýslumörkin eru hins vegar við Sýslustein með stefnu í Seljabót.
Beitarhúsin í Stakkavík voru í Höfðanum. Þaðan var féð rekið til beitar á vetrum niður í fjöru í landi Vogsósa (Löngusker) og setið yfir þeim í tvo tíma. Ferðin fram og aftur í Löngusker tók fjórar klst, ferðin alls um sex klst. Skipt var á fjörubeitinni og venjulegri beit við Vogsósabóndann.
Smalar sváfu stundum í hellinum undir Hellunni við Kleifarvatn.

Stakkavikurborg

Stakkavíkurborg.

Stakkavíkurfjárborgin er við Borgarhóla. Hún gat hýst 70 kindur. Eggert vissi ekki hver byggði borgina, en hún er nokkuð gömul og óvenju heilleg. Álfakirkja sú, sem jafnan er nefnd svo í ritum og er sögð vera austan við borgina, er í rauninni mun austar, svolítið austan fjárhússtóftanna neðan Selstígs.
Í ferðinni var Eggert greinilega á heimaslóðum. Hann þekkti sérhvern stað með nafni, tiltók örnefni og sagði sögur af liðnum atburðum. Honum er þökkuð samfylgdin þennan fagra dag febrúarmánaðar.

Brunnastaðir

Stakkavíkurbræður.

Eggert lést 12. janúar 2010 á Dvalarheimilinu Garðvangi, Garði.
Foreldrar Eggerts voru Kristmundur Þorláksson, f. 17. nóv. 1882, og Lára Elín Scheving Gísladóttir, f. 6. sept. 1889. Systkini Eggerts eru sjö: Gísli Scheving, f. 15. jan. 1918, Valgeir Scheving, f. 18. apr. 1921, látinn, Elín Kristín, f. 13. apr. 1923, Anna Sigríður, f. 12. maí 1924, Þorkell, f. 12. sept. 1925, látinn, Hallgrímur, f. 1. júlí 1928, og Lárus Ellert, f. 3. jan. 1931, látinn.

Hér má sjá og heyra viðtal, sem Jóhann Davíðsson tók við Eggert árið 2004.

-Ómar Smári Ármannsson, Jóhann Davíðsson og Sesselja Guðmundsdóttir skráðu.

Stakkavík

Stakkavík – uppdráttur ÓSÁ.