Krýsuvík – yfirlit I
Krýsuvík er ein fegursta náttúruperla Íslands og fjölbreytt litadýrð náttúrunnar á hverasvæðinu við Seltún hefur heillað margan ferðamanninn, auk listamanna. Stórbrotið landslag Krýsuvíkur er vel fallið til útivistar og náttúruskoðunar. Hér ber einna hæst sprengigíginn Grænavatn, leirhverina við Seltún og Kleifarvatn að ógleymdum Sveifluhálsi og síðast en ekki síst Krýsuvíkurbjarg, stórbrotinn útvörður svæðisins niður við ströndina. Margar gamlar gönguleiðir liggja út frá Krýsuvík, sem áhugavert er að huga nánar að.
Lifandi náttúra
Kynngikraftur náttúrunnar blasir við augum í Krýsuvík. Höfuðskepnurnar eldur, vatn, loft og jörð hafa mótað umhverfið í aldanna rás. Gufustrókar stíga til himins, sjóðandi leirhverir leika taktfasta sinfóníu, hverahvammar skarta grænum, gulum og rauðleitum litum sem skipta um svipmót eftir veðrinu. Náttúruöflin eira engu í glímunni við gróðurinn, vatnsrof leikur stórt hlutverk þegar það rignir og ísa leysir. Vindurinn flettir þekjunni burtu og feykir jarðvegi á haf út þar sem öldur ólmast við klettaströnd og mola standbergið hvíldarlaust. Þetta er íslensk náttúra í öllu sínu veldi.
Litrík hverasvæði
Helstu hverasvæði Krýsuvíkur eru Seltún, Hverahvammur, Hverahlíð, Austurengjar, suðurhluti Kleifarvatns og Sveifla undir Hettutindi, sem Sveifluháls heitir eftir. Við Seltún er Svunta og stór leirhver sem myndaðist þegar Drottningarhola sprakk haustið 1999. Fúlipollur er austan þjóðvegar og enn austar er Engjahver sem magnaðist við mikinn hverakipp 1924. Hann er líka nefndur Stórihver og svæðið umhverfis hann Austurengjahverir.
Land í mótun
Virka gosbeltið sem liggur eftir Reykjanesskaga er milli landreksflekanna sem kenndir eru við Evrópu og Ameríku. Elsti hlutinn eru Lönguhlíðarfjöll norðaustan Kleifarvatns sem sýna merki tveggja kuldaskeiða og tveggja hlýskeiða. Sveifluháls er móbergshryggur sem myndast hefur við gos undir íshellu á kuldaskeiði. Sunnan Krýsuvíkurhverfis milli Geitahlíðar og Sveifluháls eru nokkur lög af grágrýtishraunum, sum þakin jökulbergi, en efst ber mest á mó og mýrlendi. Jarðlögin sjást vel í Krýsuvíkurbergi. Rauðskriða á Krýsuvíkurheiði og Trygghólar eru leifar gamalla eldgíga sem hraun hafa runnið frá. Fyrir vestan og austan Krýsuvík eru yngri hraun, Litlahraun, Krýsuvíkurhraun og Ögmundarhraun sem eiga upptök sín í Brennisteinsfjöllum, gígum við Eldborgir sunnan Geitahlíðar og í gossprungum í Móhálsadal.
Sprengigígar kallast á
Landslag í Krýsuvík er mótað af umbrotum og jarðeldum. Grænavatn, Gestsstaðavatn og Augun eru sprengigígar sem myndast hafa við sprengigos á ýmsum tímum. Grænavatn er stærst um 46 m djúpt. Vatnið fær lit sinn af hveraþörungum og kristöllum sem draga grænan lit sólarinnar í sig. Gestsstaðavatn heitir eftir fornu býli sem fór í eyði á miðöldum. Beggja vegna þjóðvegarins eru lítil gígvötn sem kallast Augun.
Krýs og Herdís deila um landamerki
Þjóðsagan hermir að Krýsuvík sé nefnd eftir Krýs sem bjó í Krýsuvík. Hún átti í deilum um landamerki við grannkonu sína, Herdísi í Herdísarvík. Báðar töldu sig órétti beittar og ákváðu að skera úr í deilumáli sínu í eitt skipti fyrir öll. Sammæltust þær um að leggja af stað frá bæjum sínum við sólarupprás og ákveða mörk landa sinna þar sem þær mættust. Þegar þær hittust á Deildarhálsi taldi Krýs að Herdís hefði lagt fyrr af stað en um var samið. Tóku þær að biðja hvor annarri óbæna ásamt jörðum þeirra. Herdís lagði það á Krýsuvík að allur silungur í Kleifarvatni skyldi verða að loðsilungi en Krýs mælti svo fyrir um að ein eða fleiri skipshafnir skyldu drukkna í Herdísarvíkurtjörn. Sagan um þessa landaþrætu kerlinganna hefur lifað meðal Krýsvíkinga í ýmsum myndum og sýnir kynngimagn Krýsuvíkur.
Fornminjar
Í landi Krýsuvíkur eru víða merkar fornleifar og búsetuminjar. Elstar eru Gestsstaðarústirnar, sennilega frá fyrri hluta miðalda. Mestar eru fornleifarnar í Krýsuvíkurhverfi undir Bæjarfelli þar sem höfuðbólið og flestar hjáleigurnar voru. Nútímavæðing hefur lítið komið við sögu og jörðin haldist nánast óbreytt frá fyrri tíð, en snemma á sjöunda áratugnum varð sögulegt slys á bæjarhólnum. Krýsuvíkurbærinn, sem stóð vestan kirkjunnar, var þá kominn að falli og voru stórvirkar vinnuvélar notaðar til að ryðja hólinn og slétta út minjar um þennan merka bæ. Neðan hólsins og allt í kringum hann eru gömlu túnin með túngörðum sínum ósnertum að mestu, tóftir gömlu kotanna og fleiri merkar fornminjar.
Dulúð regnsins
Það getur verið mjög votviðrasamt í Krýsuvík því þar gætir fyrst áhrifa frá lægðum sem nálgast landið úr suðvestri. Umhleypingar eru algengir með tilheyrandi úrkomu en í norð- og austlægum áttum má gera ráð fyrir þurrviðri í Krýsuvík. Þá skartar staðurinn sínu fegursta, en einnig getur dulúðin sem fylgir þokulofti og skýjuðu veðurfari búið yfir ólýsanlegri fegurð.
Einföld bændakirkja
Krýsuvíkurkirkju er fyrst getið í kirkjuskrá Páls Jónssonar Skálholtsbiskups um 1200. Margt bendir til að kirkja hafi risið í Krýsuvík á fyrstu áratugum kristni, en núverandi kirkju byggði Beinteinn Stefánsson á Arnarfelli 1857. Þetta er lítið guðshús einfaldrar gerðar, án turns, og eina húsið sem enn stendur á bæjarhólnum. Kirkjan var aflögð sem helgidómur og rúin öllum verðmætum 1929. Eftir það notaði einbúinn Magnús Ólafsson, síðasti íbúi Krýsuvíkur, hana sem íbúðarhús til 1945. Endurbygging kirkjunnar hófst 1957 og var hún endurvígð 31. maí 1964 og færð Þjóðminjasafninu til eignar. Árið 1997 var Sveinn Björnsson listmálari jarðsettur í kirkjugarðinum en þá voru liðin 80 ár frá síðustu greftrun þar. Á vorin er haldin messa í kirkjunni og altaristafla eftir Svein hengd þar upp, en tekin niður við messu á haustin og færð til vetrarvistar í Hafnarfjarðarkirkju.
Fuglalíf og eggjataka
Um 57.000 sjófuglapör verpa í Krýsuvíkurbergi, aðallega rita og svartfugl, sem skiptist í álkur, langvíur og stuttnefjur. Einnig verpir þar nokkuð af fýl, toppskarfi og silfurmáfi. Fyrrum var eggjataka mikil og máttu kotamenn taka tiltekið magn af fugli og eggjum úr berginu. Svo mikið fékkst af svartfuglseggjum á vorin að þau voru flutt á mörgum hestum heim til bæjanna. Sömu sögu var að segja af bergfuglinum sem gaf af sér kjöt og fiður. Á Krýsuvíkurheiði og í nágrenni Bæjarfells verpir mófugl, spói, heiðlóa, snjótittlingur og fleiri tegundir. Arnarfell og Arnarfellsstjörn eru kunn kennileiti á Krýsuvíkurheiði og á miðjum Sveifluhálsi eru Arnarvatn og Arnarnípa. Þessi nöfn vísa til þess að ernir hafi orpið á þessum stöðum í eina tíð.
Mannrækt í Krýsuvíkurskóla
Um miðjan áttunda áratuginn hófust miklar byggingaframkvæmdir á mel sunnan Gestsstaðavatns, en þar var ætlunin að reisa skóla fyrir unglinga sem þurftu á sérúrræðum að halda. Áður en byggingunni var lokið var fallið frá hugmyndinni og stóð húsið autt um margra ára skeið þar til Krýsuvíkursamtökin fengu það til afnota. Hafa þau rekið þar meðferðarheimili, uppeldis- og fræðslustofnun fyrir fíkniefnaneytendur.
Hnignandi gróður
Gróðri hefur farið mjög aftur í Krýsuvík á síðustu öldum. Talið er að jörðin hafi verið kjarri vaxin milli fjöru og fjalls af birkiskógi og víðikjarri, áður en Ögmundarhraun brann. Í jarðabók Páls Vídalín og Árna Magnússonar 1703 er sagt að skógur til kolagerðar nægi ábúendum. Skógurinn eyddist að mestu á harðindaskeiði sem gekk yfir landið í lok 19. aldar. Þá hófst landeyðing með miklum uppblæstri og vatnsrofi í landi Krýsuvíkur. Sauðfjár- og hrossabeit hafði einnig afdrifarík áhrif. Á Sveifluhálsi eru fáeinir grasbalar sem gefa til kynna að þar hafi verið mun grónara í eina tíð. Svæðið sunnan Kleifarvatns einkennist af miklu mýrlendi, slægjulandinu Vesturengjum og Austurengjum. Austan Arnarfells er Bleiksmýri og sunnan Trygghóla er Trygghólamýri.
Ritháttur Krýsuvíkur
Þegar gamlar sagnir frá Krýsuvík eru skoðaðar kemur glögglega fram að nafn víkurinnar er ætíð ritað með ý en ekki í eins og oft sést í seinni tíð. Örnefnið Krýsuvík er trúlega dregið af orðinu Crux sem merkir kross og hefur Krossvíkin hugsanlega verið við sjóinn nærri Húshólma í Ögmundarhrauni þar sem munnmæli herma að fyrsti bærinn hafi staðið. Mesta fuglabjarg Reykjaness Krýsuvíkurberg, mesta fuglabjarg Reykjaness, er um 7 km langt frá Bergendum við Keflavík í austri til Heiðnabergs vestan Hælsvíkur og 40 hektarar að flatarmáli. Bergið er um 50 m hátt á löngum kafla en Strandaberg, austasti hlutinn, er um 70 m hátt.
Rauðskriða er áberandi kennileiti á vesturhluta bergsins en neðan hennar var einstigið Ræningjastígur sem var eina gönguleiðin niður í fjöru. Meðan enn var farið á sölvafjöru var jafnan farið af sjó því bergið var ekki árennilegt öðrum en sigmönnum. Ræningjastígur var samt fær þeim sem treystu sér til að feta hann en nú er hann ófær með öllu.
Höfuðból og hjáleigur
Krýsuvík var heil kirkjusókn og eitt mesta höfuðból landsins með mörgum hjáleigum. Munnmæli herma að byggðin hafi upphaflega verið í Húshólma, óbrennishólma í austanverðu Ögmundarhrauni. Þar er altént mjög fornt bæjarstæði sem kallað er Hólmastaður í eldri heimildum. Hjáleigur voru að jafnaði fimm til átta talsins en í gömlum heimildum er getið um 13 býli. Á heimajörðinni voru Suðurkot, Norðurkot, Snorrakot, Stóri-Nýibær, Litli-Nýibær, Arnarfell og nýbýlið Lækur. Fjær voru kotin Vigdísarvellir, Bali, Fitjar og Fell. Kaldrani stóð við suðvesturenda Kleifarvatns og Gestsstaðir sunnan Krýsuvíkurskóla.
Fiskisæld undir berginu
Sjósókn var alla tíð mikilvæg fyrir afkomu Krýsvíkinga. Undir Krýsuvíkurbergi, Hælsvík og lengra út með var löngum fiskisælt en þar er engin lending. Líklega hefur góð lending verið í Hólmastað eða gömlu Krýsuvík, en eftir að Ögmundarhraun rann tók hana af og eftir það var gert út frá Selatöngum. Biskupsskip frá Skálholti, skip útvegsbænda í Árnes- og Rangárþingum og sjávarbænda í Hraunum gengu frá Selatöngum með leyfi Krýsuvíkurbónda. Krýsvíkingar stunduðu einnig útróðra frá Herdísarvík um aldir.
Kynlegt er Kleifarvatn
Kleifarvatn er 10 ferkílómetrar að flatarmáli og stærsta stöðuvatn á Reykjanesskaga. Það er á milli Sveifluháls í vestri og Vatnshlíðar í austri. Aðrennsli í vatnið er takmarkað og ekkert frárennsli er sjáanlegt ofanjarðar. Vatnsborðið fylgir grunnvatnsyfirborði svæðisins sem sveiflast um allt að 4 m á tugum ára. Félagar úr Stangveiðifélagi Hafnarfjarðar fluttu bleikjuseiði í Kleifarvatn um 1960 og dafnar fiskurinn bærilega í vatninu. Áður fyrr þóttust menn verða varir við kynjaveru líka stórum ormi í vatninu.
Sjá meira undir Krýsuvík – yfirlit HÉR og HÉR.
Heimild:
-visithafnarfjordur.is