Tag Archive for: Grindavík

Gvendarhellir

 Arngrímur hefir maður heitið Bjarnason, Arngrímssonar hins lærða. Skólagenginn var hann, staðarráðsmaður í Skálholti og síðast lögréttumaður. Hann bjó í Krýsivík frá 1717 til dánardægurs, 9. ágúst 1724.
Arngrímur frá Læk í Krýsuvík hafði fyrir aldamótin 1700 fé sitt í helli í Klofningum í Krýsuvíkurhrauni.

Arngrímshellir

Arngrímshellir.

„Vestanundir Krýsuvíkurhrauni er stór hellir, og bezta hagaland í kring, í og með hrauninu, samt víðar út um heiðina, svo alltíð má beita fé undir vind, af hverri átt, sem hann er. Hellir þessi er langt frá bæjum; er því erfitt að nota hann í vetrarharðindum. Fyrir hér um bil 100 árum, eður má ske nokkuð meir, var bóndi í Krýsuvík, að nafni Arngrímur, mig minnir: Jónsson. Hann tíundaði jafnan 50 hndr. Hann hafði fé sitt við hellir þennan. Hann skyldi hafa átt 99 ær grákollóttar. Systir hans átti eina á, eins lita, og hætti hann ei fyr að fala hana af systur sinni en hún yfirlét honum ána, sárnauðug. Sama veturinn, seint, gjörði áhlaupsbil, sem stóð 6 dægur.

Eystri-Bergsendi

Horft vestur yfir krýsuvíkurbjarg frá Eystri-Bergsenda.

Hrakti þá allt hans fé fram af Krýsuvíkurbergi, hér og þar til dauðs og algjörlegs taps, því sjórinn tók við fyrir neðan bergið, en vindurinn rak til hafs. — Í hengisfönninni framan í bergbrúninni stóð Grákolla alein, er hann fékk hjá systur sinni, þegar hann eftir bylinn fór að leita að fénu. Tekur hann ána þá og reynir í þrígang að kasta henni fram af berginu, en gat aldrei kastað henni svo langt, að hún færi niðurfyrir, en jafnótt og hún losnaði í hvert sinni við hendur hans, brölti hún upp að hnjám honum. Loksins gaf hann frá sér, og skal hafa sagt löngu seinna, að útaf á þessari hefði hann eignazt 100 fjár. — Þetta hefi ég að sögusögn og gef það ei út sem áreiðanlegan sannleik. — Ævilok Arngríms urðu þau, að steinn datt á hann úr Krýsuvíkurbergi og murði hann í sundur, og 2 manneskjur aðrar. Þetta er víst.

Arngrimshellir-231

Í Arngrímshelli (Gvendarhellir).

Árið 1827 kom gamall bóndi til Krýsuvíkursóknar, Guðmundur Bjarnason, byggði nýbýlið Læk, aldeilis að stofni, átti margt fé, hélt því við áðurnefndan hellir, en þar honum þótti langt að hirða það þar, byggði hann þar annan bæ, dásnotran sem hinn, með glergluggum, sængurhúsi, af- og alþiljuðu, með 2 rúmum; í hinum karminum geymsluhús. Byggði hann hús þetta framan við hellirsdyrnar og rak féð gegnum göngin útúr og inní hellirinn. Hlóð af honum með þvervegg, bjó til lambastíu með öðrum; gaf þeim þar, þá henta þótti; bjó til jötur úr tilfengnum hellum allt í kring í stærri parti hellirsins; gaf þar fullorðna fénu í innistöðum (sem verið mun hafa allt að 200m eftir ágetskun manna). Flutti þangað talsvert hey og smiðju sína, og mun hafa starfað þetta að mestu, ef ei öllu leyti, aleinn, á einu ári. Þarna var hann 10 vetur samfellt yfir kindum sínum, aleinn, en á sumrum heima. Loks gafst hann upp, yfir sjötugt, og sagðist hafa verið smali síðan hann hafði 6 ár á baki.“

Gvendarhellir

Í Gvendarhelli (Arngrímshelli).

Í Blöndu VI 187 segir um þennan sama helli að Guðmundur nokkur hafi gætt á vetrum fjár síns við helli einn í Klofningahrauni, Gvendarhelli, og hélt því mjög til beitar. Framan við hellinn byggði hann skemmu með opi á miðju og sést hún enn þá. Rétt inn af skemmunni afgirti hann skáp úr hellinum og geymdi þar lömbin, ef illt var veður og þörf var á að gefa þeim. Þar hafði hann og rúm sitt, er hann hlóð upp úr grjóti og þakti svo með gæruskinnum, er hann lá á. Út frá hellinum var veðursæld mikil og hagar fyrir sauðfé svo góðir að aldrei brugðust. Guðmundur var þarna um 1830.

Gvendarhellir

Í Gvendarhelli (Arngrímshelli).

Hellirinn hefur fengið að vera nokkurn veginn í friði. Í honum má enn sjá hleðslur fyrir munna, tóft við meginopið, flórað gólfið að hluta, hlaðna stíu og fyrirhleðslur. Stígur liggur frá hellinum vestur yfir hraunið, áleiðis til Krýsuvíkur. Neðar er greið leið niður í Keflavík (Kirkjubás), en þangað sóttu Krýsvíkingar löngum rekavið.

Heimildir:
-Árbók Hins íslenska fornleifafélags, 43. árg., 1930-1931, bls. 76
-Blanda VI 187

Arngrímshellir

Í Arngrímshelli (Gvendarhelli).

Hrútargjá

Hríðarbylur var þegar lagt var af stað í fylgd jeppamanna á stórum dekkjum um Djúpavatnsveg að Hrútargjárdyngju.

Húshellir

Við Húshelli.

Ætlunin var að skoða Húshelli og Maístjörnuna, tvo af fallegri hellunum hér á landi. Talsverður snjór var á veginum sem og mikill skafrenningur til að byrja með. Reyndar sást enginn vegur. Ekið var þar um sem vegstæðið hafði verið síðast þegar vottaði fyrir því. Þurftu jeppamennirnir að hafa mikið fyrir því að komast hvert hið stysta fet því fyrir sérhver tvö áfram þurfti að aka eitt aftur á bak; eitthvað sem fótgangendur áttu ekki vana til, nema kannski í bröttustu skriðum.

Annars er betra að nefna ökutæki þessi meirivagna, en ökumennina jeppa, sbr. seppa, serpa eða lappa. Þaðan gæti verið, við seinni tíma skýringar, komið orðatiltækið “menn að meiri”. Við slíkar aðstæðir jeppast þeir áfram, beintengjast bæði vél og vagni – verða hluti af farartækinu – allt verður að einni samstæðu. Minnivagnar eru þá hinir dæmigerðu fólksbílar. Annars skiptir stærð ökutækisins engu máli. Það eina, sem skiptir máli, er hvaða augum eigandinn lítur á það og hverju það getur áorkað að hans áeggjan.

Húshellir

Í Húshelli.

Miklu máli skiptir þó að búa meirivagnanna nægilega stórum dekkjum, bæði til þess að hægt sé að hleypa úr þeim notuðu lofti og til að bæta í þau nýju þegar komið er í ómengað umhverfið. Allt er þetta spurning um heilsusamlegt og náttúrulegt líferni, bæði fyrir mann og meirivagn.
FERLIRsfólkið tók lífið með stóískri ró meðan jepparnir lifðu sig inn í tækið og tæknina, það naut umhverfisins – lágrenningsins og órjúfanlegt samspils fannar og fjalla. Það tók fram stellið, hellti kaffi í bolla, hallaði sér aftur, nartaði í nestið og skiptist á upplýsingum. Jepparnir voru á meðan ýmist að festa eða losa, úti eða inni, slíta tóg eða hleypa út notuðu lofti. En þrátt fyrir fyrirhöfnina virtust jepparnir alls ekki síður hafa gaman að því sem þeir voru að gera.

Húshellir

Í Húshelli.

Þegar komið var á áfangastað brast skyndilega á hið ákjósanlegasta gönguveður, eins og lofað hafði verið – sól og stilla. Gengið var niður með dyngjunni austanverðri og til norðurs milli gjáa hennar og Sandfells. Stefnan var tekin á Fjallið eina. Þegar komið var út fyrir dyngjuna var stefnan tekin til norðvesturs. Snjór hafði fokið í öll op og sprungur, en ekkert þeirra gat leynst fyrir GPS-tækinu.

Jepparnir voru orðnir þreyttir eftir u.þ.b. 17 mín. langa göngu, enda á ómynstruðum skóm og í ofurkuldasamfestingum í hitanum.

Maístjarnan

Op Maístjörnunnar.

Minnsti maðurinn, sem átti stærsta meirivagninn, hafði líka gengið nokkrum sinnum upp úr skónum sínum á leiðinni. Reyndust þeir alltof stórir – til gönu a.m.k. Svo heppilega vildi til að annar jeppi var í skóm nokkrum númerum of litlum. Hann hafði fjárfest í nr. 38, sömu stærð og dekkinn voru í tommum undir meirivagninum hans. Munurinn var bara sá að ekki var hægt að rýmka skóna með loftdælingu. Hann hafði talið þetta númer henta honum best við þessar aðstæður, líkt og dekkin, en féllst nú á, að fenginni reynslu, að skipta á sínum skóm við minni manninn á stærri skónum. Að því búnu var hægt að hefjast handa við að moka hópinn niður í jörðina.

Maístjarnan

Í Maístjörnunni.

Eftir stutt stund var leiðin inn í hellana greið. Þegar inn var komið voru jepparnir á heimavelli – útsýnið þar var mun skárra en í svartasta hríðarkófi upp á jökli. Þeir voru góðir í að þrengja sér um torfærur, þrengsli og hliðarrásir, en áttu erfitt með að taka því þegar hverfa þurfi frá vegna hruns eða allt varð ófært framundan. Og fyrst skoðunin gekk svo vel sem raun ber vitni var ákveðið að kíkja einnig í Aðventuna. Öllum þessum hellum er lýst í öðrum FERLIRslýsingum svo það verður eigi gert hér.
Í ferðinni kom berlega ljós hversu jepparnir geta verið margbrotnir, enda komu fáir þeirra alveg óbrotnir til baka. Þurfti að styðja suma, en aðrir voru bara látnir liggja – eftir að bíllyklarnir höfðu verið teknir af þeim. Þeir verða sóttir næsta vor.
Frábært veður. Gangan tók 34 mín, en skoðunin heldur lengri tíma.

Maístjarnan

Í Maístjörnunni.

Jónsbúð

Gengið var frá Arnarfelli í Krýsuvík til austurs yfir Krýsuvíkurheiði. Farið var yfir gróið þýfi, stigið yfir Eystrilæk og ekki staðnæmst fyrir en við stóra tóft efst á heiðinni; Jónsvörðuhús eða Jónsbúð, eins og hún er stundum nefnd. Þá var haldið yfir að öðru húsi skammt sunnar, þar sem heiðin tekur að halla undan áleiðis niður að Krýsuvíkurbjargi. Það hús er hlaðið og er nokkuð heillegt.

Jónsbúð

Jónsbúð á Krýsuvíkurheiði.

Ætlunin var m.a. að skoða svæðið austan Arnarfells, en eins og kunnugt er staðnæmdust skreiðarlestirnar á leiðinni austur frá Grindavík við Arnarvatn suðaustan við fellið. Stóra tóftin efst á Krýsuvíkurheiði var fjárhús eða sauðakofi. Ekki er vitað hvernig nafnið á hana, Jónsbúð eða Jónsvörðuhús, er til komið. Elstu menn segjast hafa heyrt af því að þar hafi Magnús, síðasti íbúinn í Krýsuvík, setið yfir sauðum á yngri árum er hann var þar í vist hjá sýslumanninum.

Skammt suðaustar, þegar fer að halla undan á heiðinni til suðurs er heillegt hlaðið skjól og auk þess og vandlega hlaðið hús þar skammt sunnar.

Krýsuvíkurheiði

Tóft í Krýsuvíkurheiði.

Dyr vísa til suðurs. Ekki er vitað til hvers það var notað. Þó er ekki óraunhæft að ætla að þar hafi Magnús, eða einhver annar á undan honum, haft afdrep. Líklegast er að þarna hafi verið afdrep manna. Stigið er ofan í það af þröskuldi og hefur gluggi verið á norðurstafni. Útsýni er þarna yfir neðanverða heiðina, Litlahraun þar sem fyrir eru allnokkrar minjar, s.s. fjárskjól, hústóft, rétt o.fl. og niður að Sundvörðunni á Krýsuvíkurbjargi.
Þarna gæti líka hafa verið útstöð Arnarfellsbónda hér áður fyrr eða hús hlaðið af refaskyttum, sem voru við veiðar ofan við bjargið.

Stóri-Nýibær

Stóri-Nýibær um 1930.

Nú eru allir bæirnir í Krýsuvík í eyði. Stóri-Nýibær lagðist seinast í eyði. En þó er ekki svo langt síðan að svæðið varð mannlaust þarna. Einn maður varð eftir, þegar allir aðrir flýðu af hólmi. Með órjúfandi tryggð við staðinn gafst hann aldrei upp, heldur þraukaði þar fjarri mannabyggðum aleinn, ósveigjanlegur og hiklaus og barist þar áfram með hinni ódrepandi íslensku seiglu. Þessi maður var nefndur Magnús Ólafsson.
Magnús er upp alinn í Hafnarfirði, en 18 ára gamall fór hann til Árna sýslumanns Gíslasonar í Krýsuvík. Er sagt að hann færi þangað nauðugur. Árni hafði útgerð í Herdísarvík og er að heyra á Magnúsi að hann hafi kviðið fyrir því að verða sendur þangað.

Magnús Ólafsson

Magnús Ólafsson í Krýsuvík.

“Mér hefur aldrei verið um sjóinn gefið”, sagði hann eitt sinn í viðtali við Árna Óla, “en ég var snemma hneigður til fjárgeymslu, og það starf fékk ég. Þá var ég ánægður.”
Ábúendur komu og hurfu, margs konar breytingar urðu, en alltaf var Magnús kyrr í hverfinu. Var hann á bæjunum sitt á hvað. Að undanteknu einu ári, sem hann var á Setbergi í Hafnarfirði, og einum vetri, sem hann var þar í kaupstaðnum, hefur hann stöðugt verið í Krýsuvík. Og þegar allir voru flúnir þaðan, settist hann að í kirkjunni. Höfðu verið rifnir úr henni bekkir, altari og prédikunarstóll, loft sett yfir kórinn og hann þiljaður af. Enn fremur hafði verið afþiljuð ofurlítil kompa í framkirkjunni fyrir geymslu.
Menn hugsa sér kirkjur oft nokkuð stórar, en þessi var bæði fornfáleg og lítil. Hún var úr timbri og ekki manngegnt undir bita. Ekkert tróð mun í veggjum og gólfið sigið og gisið. Og hvernig sem á er litið er þetta heldur ömurleg vistarvera. Það hefur því þurft óvenju mikið sálarþrek til þess að geta hírst þarna aleinn árum saman, langt frá öllum mannabyggðum. En það sá ekki á Magnúsi að hann hafði gugnað neitt við einveruna. Þó fór svo að lokum að einnig Magnús varð að yfirgefa sveitina. Síðan hefur sauðkindin ráðið þar ríkjum eða allt fram til þess. Nú er svo komið að einnig hún verður að víkja af svæðinu og verða færð í sérstakt beitahólf á og vestan við Núpshlíðarháls.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 2 mín.

Krýsuvíkurheiði

Hús á Krýsuvíkurheiði.

Þórkötlustaðarétt

Núverandi Þórkötlustaðarétt í Þórkötlustaðahverfi var hlaðin af Grindavíkurbændum um aldamótin 1900. Grjótið var að að einhverju leyti tekið úr Vatnsheiðinni, auk þess sem kom upp úr túnsléttun í hverfinu og úr hraunhellunni umhverfis réttina. Hún var síðan endurbætt skömmu fyrir árið 2000. Réttin hefur ávallt þótt góð til síns brúks.

Þórkötlustaðarétt

Þórkötlustaðarétt – loftmynd 1954.

Fyrrum var fé Grindvíkinga vel á fjórða þúsund á vetrarfóðrum. Féð af fjalli fyllti safnhólfið sem og alla dilka. Urðu bændur að rýma af og til úr dilkunum svo þeir gætu dregið allt sitt fé. Þegar gerðið kom til ofan við réttina greiddist heldur úr þrengslunum.

Þórkötlustaðarétt

Þórkötlustaðarétt 1954 – uppdráttur ÓSÁ.

Áður var lögréttin í Krýsuvík, suðvestur undan Arnarfelli (Arnarfellsréttin). Hætt var að nota hana um 1950. Þangað til varð að reka úrdrátt frá Þórkötlustaðarétt upp í Krýsuvík og var afgangsféð selt þar.

Réttin suðaustan við Bæjarfellið var vorrétt. Þá voru rúningsréttir t.d. á Vigdísarvöllum og í Stóra-Hamradal, sem enn sjást leifar af.

Borgarhraunsrétt

Borgarhraunsrétt – uppdráttur ÓSÁ.

Í Borgarhraunsrétt var réttað frá því fyrir aldamótin 1800.

Sigurður Gíslason á Hrauni í Grindavík lýsti smalamennskum í Grindavíkurhreppi (10. nóvember 2004):
„Eftir að seljabúskap lauk voru lagðir til 20 menn í vorsmalamennsku í Krýsuvík, sem tók minnst þrjá daga og allt upp í viku. Fyrst hafi verið smalað á Vigdísarvöllum, Selsvalla- og Sveiflubergshálsar og Selsvellir teknir með frá Núpshlíðarhálsi, Dyngjurnar, Höskuldarvellir inn á Norðlingaháls þegar Höskuldarvellir voru með í smölun. Oft hafi komið tveir til þrír menn af Ströndinni (þ. e. Vatnsleysuströnd). Daginn eftir, ef vel hafði gengið, voru tjöldin flutt vestur yfir Selsvallaháls, menn dreift sér í smölun frá Sogum vestur með Drif<f>felli, sunnan undir Keili, farið um Hemphól, vestasti maður farið fram Dalahraun og Beinavörðuhraun, þaðan um Bleikshól og þaðan austur að Borgarrétt. Í suður frá Sogum verið farið fram fyrir Hraunssel, syðsti maður sunnan við Méltunnuklif og Skála-Mælifell og réttað í Borgarhraunsrétt.

Þórkötlustaðarétt

Þórkötlustaðarétt 2020 – uppdráttur ÓSÁ.

Haustsmölun hafi verið í 22. viku sumars. Á laugardegi var smalað í Krýsuvík og féð rekið til Þorkötlustaðaréttar á sunnudegi en þann dag smalað Hraunsland frá Selsvallahálsi og Ísólfsskála- og Þorkötlustaðalönd. Fjórir menn hafi farið að vestan um Skógfellin og Kálffellsheiði, innsti maður farið inn á Hemphól og beðið eftir þeim, sem komu að austan. Tuttugu manna hópur fór ríðandi inn Selsvelli, inn í Sog, í Kerið, þá riðið inn með Trölladyngju, þar var skipt. Fimm menn látnir smala Dyngjurnar, austasti maður fór fyrir austan Fíflavallafjall og gat þurft að fara austur að Hofmannaflöt ef fé sást þar. Aðrir fóru vestur yfir Oddafell að Keili og vestasti maður hitti þann, sem beið við Hemphól. Þaðan var haldið suður um Kálffell, Aura, Dalahraun og Beinavarðahraun [í lýsingunni er ýmist talað um Beinavörðu- eða Beinavarðahraun] fram Vatnsheiði til réttar. Austasti maður fór um Óbrennuhólma og þaðan um Miðreka og út um Selatanga, Mölvík til Ísólfsskála og áfram til réttar. Fé hafi verið smalað til rúnings fram til ársins 1991 og menn haft stóð á fjalli, Ísólfsskálabóndi fram til 1990.“

Þórkötlustaðarrétt

Gamla Þórkötlustaðarréttin við Efra-Land.

Áður en Þórkötlustaðaréttin kom til réttuðu Þórkötlustaðabændur þar sem nú er grjótgarður vestast innan girðingar Efra-Lands, þ.e. þar í norðvesturhorninu, sem nú er. Þar var Gamla réttin. Í henni var enginn dilkur, einungis gerði. Sjá má leifar hennar ef vel er að gáð. Réttin var mun stærri en ætla mætti, en grjót var tekið úr henni og notað í garðana, sem sjá má ofan við Efra-Land.”

Þórkötlustaðir

Þórkölustaðir – meintur skáli.

Hafur-Björn Molda-Gnúpsson er sagður, ef marka má þjóðsöguna, hafa átt gnægð fjár, enda “efnaðist hann mjög af fé” eftir draumfarirnar með landvættinum og tilkomu geithafursins í hjörð hans (þess vegna er allt fé Grindvíkinga öðruvísi en annað fé landsmanna), og bræður hans fiskuðu aldrei sem fyrr. Auðguðust þeir bræður bæði af gæðum lands og sjávar.
Ekki þarf að leita að fjárrétt Hafur-Björns og bræðra því annað hvort hafa þeir ekki þurft að rétta eða sú rétt gæti löngu verið komin undir hraun því ekki eru ófá hraunin við Grindavík, sem runnið hafa eftir að ætt Molda-Gnúps bjó þar eftir árið 934. Fyrstu heimildir um byggð í Þórkötlustaðahverfi er um miðja 13. öld, en þá höfðu hraunin ofan núverandi byggðar runnið og kólnað að mestu. Við norðvesturhúshornið á núverandi Þórkötlustöðum (Miðbæjar) eru tóftir fornaldarskála að mati Brynjúlfs Jónssonar frá Minna-Núpi (skrifað 1903). Hann skyldi þó aldrei vera eldri, og það jafnvel mun eldri, en gosið ofan við Grindavík árið 1226. Minjarnar, ef vel er að gáð og ef tilgáta Brynjúlfs er rétt, gætu þess vegna verið frá upphafi landnáms í Grindavík.

Samantekt; ÓSÁ fyrir ferlir.is

Heimild m.a.:
-Úrskurður Óbyggðanefndar – mál nr. 1/2004; Grindavík og Vatnsleysuströnd.

Þórkötlustaðarétt

Þórkötlustaðarétt.

Prestastígur

Ólafur Sigurgeirsson skrifaði á mbl.is. árið 1999 stutta grein; „Gengið um gömlu þjóðleiðina milli Hafna og Grindavíkur„.

Ketill Ketilsson

Ketill Ketilsson í Höfnum.

„Gengið verður um gömlu þjóðleiðina milli Hafna og Grindavíkur. Hafnir voru fyrr á öldum, segir Ólafur Sigurgeirsson, blómlegur útgerðarstaður. FÍ efnir á sunnudaginn, 18. apríl, til gönguferðar um gömlu þjóðleiðina milli Hafna og Grindavíkur. Þegar leiðin er farin úr Höfnum liggur hún frá Kalmanstjörn um Hafnarsand fyrir norðan Presthól og um Kinn þar sem farið er ofan í sigdalinn upp af Stóru- Sandvík, þaðan hjá Haugum og yfir Haugsvörðugjá og síðan með rótum Sandfellshæðar og fylgir gatan þar hraunjaðri Eldvarpahraunsins. Þar verður á vegi okkar nýlegur vegarslóði sem er tilkominn vegna lagningar ljósleiðarans mikla. Þegar kemur á móts við Rauðhól er farið yfir hraunhaft að hólnum og síðan hjá Eldvörpum og yfir Hrafnagjá að Húsatóftum í Staðarhverfi. Öll þessi leið er vel vörðuð og ber þess merki að þar hefur verið fjölfarið um aldir, víða sést hvar umferðin hefir markað alldjúpar götur í hraunið og lausagrjót hefir verið tínt úr götunni og lagt til hliðar. Þetta var aðalleið vermanna af Suðurlandi sem sóttu sjó frá Höfnum og af Rosmhvalanesi, þar hafa skreiðarlestir verið á ferð.

Prestastígur

Prestastígur.

Eins hafa Grindvíkingar lagt leið sína þar um á þeim tíma sem þeir þurftu að sækja verslun til Básenda, þótt þeir hafi einnig farið sjóleiðina, en á sautjándu og átjándu öld urðu þeir að sæta því í nokkra áratugi að sækja verslun þangað, sökum þess að kaupmenn treystu sér ekki til að sigla til Grindavíkur vegna skipsskaða sem urðu þar á fyrri hluta sautjándu aldar. Þá hefur Sigvaldi Sæmundsson póstur verið þarna á ferð, á leið sinni milli Básenda og Grindavíkur, en hann var fyrsti póstur sem ráðinn var með skriflegum samningi til póstferða árið 1785. Hafnir voru fyrr á öldum blómlegur útgerðarstaður og var þar stundaður umfangsmikill búskapur bæði til lands og sjávar. Vermenn fjölmenntu þangað á vertíðum og eru sagnir til um stórfellda útgerð Ketils Ketilssonar í Kotvogi, en hann gerði út þrjú skip, á árunum 1870­1880, og voru þá um 50 sjómenn á hans vegum auk 22 annarra heimilismanna.

Hvalsneskirkja

Hvalsneskirkja.

Ketill var meðal auðugustu manna landsins á sínum tíma, hann byggði steinkirkju þá á Hvalsnesi sem enn stendur, en Ketill átti meðal annars alla Hvalsnestorfuna og Járngerðarstaði í Grindavík. Landkostum hefur á síðari öldum hrakað mjög í Höfnum vegna sandágangs og margir bæir farið í eyði af þeim sökum, þar á meðal Haugsendar sem snemma fóru í eyði, en Haugsendar voru á milli Kirkjuvogs og Merkiness, voru tún þar mikil, vegleg húsaskipan og myndarlega búið. Sagnir um mannlíf þar lifa í gömlum húsgangi: Á Haugsendum er húsavist sem höldar lofa. Þar hefur margur glaður gist, og gleymt að sofa. Ég hefi stundum heyrt þessa fornu þjóðleið nefnda Prestastíg en hvergi hefi ég fundið það nafn í þeim bókum sem ég hefi séð. Þó má geta þess að með prestakallalögum frá 1907 var Kirkjuvogssókn í Höfnum lögð til Staðarprestakalls í Grindavík og hefur því Staðarprestur oft átt erindi um þessa fornu leið þar til Staðarprestsetur var lagt af 1928 og Kirkjuvogskirkja lögð til Grindavíkurprests. Geir Bachmann lýsir þeim þjóðleiðum sem frá Grindavík liggja í sóknarlýsingu frá 1840. Hann nefnir með nafni fyrstu þrjá aðalvegi yfir hraunin en segir svo: „Sá fjórði og síðasti vegur sem úr sókninni liggur og alþjóðarvegur má kallast liggur upp frá Húsatóttum í útnorður ofan í Hafnirnar og er hann sá eini sem héðan farinn verður þangað.“ Þetta er eini vegurinn frá Grindavík sem Geir nefnir ekki með nafni.“

Heimild:
-Mbl.is, 17. apríl 1999.

Prestastígur

Gengið um Prestastíg.

Grindavík

Eftirfarandi frásögn um „Grindavík“ birtist í Alþýðublaðinu 22. mars árið 1964:

„Sunnan á Reykjanesskaganum er Nestota, tvínefnd, heitir Hópsnes vestan megin og Þórkötlunes austan megin“.

Þórkötlustaðanes

Minjar í Þórkötlustaðanesi – uppdráttur ÓSÁ.

Framangreind er þörf ábending því Hópsnesið nær að Svartakletti u.þ.b. 60 metrum vestan við vitann skv. örnefna- og landamerkjalýsingum á Þórkötlustaðarnesi, með stefnu í Sundhnúk. Þórkötlustaðanesið er skv. framangreindu allt austanvert Nesið með línu í öxl Húsafjalls ofan Hrauns. Höfuðstöðvar 4X4 eru t.d. nyrst á Þórkötlustaðanesi, í óskiptu landi Þórkötlustaðabænda.
Í Náttúrufræðingnum 1973 skrifar Jón Jónsson um sama efni: „Gígaröðin í Sundhnúkum gaus fyrir 2400 árum, en þá varð Þórkötlustaðanes til og Grindavík skapaðist.

Gjáhóll

Gjáhóll og Gjáhólsgjá.

Gígaröð þessi er um 8 km löng og á þeirri sprungugrein hefur áður gosið“. Athyglisverðasta náttúrumyndunin á Nesinu er Gjáin (Gjáhólsgjá). Búið er að fylla hana upp með sorpi Grindvíkinga norðan Gjáhóls. Í Gjánni við hólinn var bækistöð hersins á stríðsárunum. Sunnan hólsins er Gjáin, hin forna hrauntraöð, óröskuð. Hún endar við Vatnsgjána á landamerkum Þórkötlustaða og Hóps. Um Gjána liggur nú merktur slóði.
Bara svona til svolítils fróðleiks fyrir fáfróða.

Þórkötlustaðanes

Þórkötlustaðanes/Hópsnes – uppdráttur ÓSÁ.

Árnastígur

 Gengið var upp Árnastíg frá Húsatóftum og beygt inna á Brauðstíg skammt sunnan Sundvörðuhrauns. Stígnum var fylgt framhjá “Tyrkjabyrgjunum” svonefndu undir hraunkantinum, og yfir hraunið að Eldvörpum þar til komið var að helli í Eldvörpum. Þar er jafnvel talið að Grindvíkingar hafi bakað sitt braut fyrr á öldum. Mannvistarleifar eru í hellinum.

Brauðstígur

Brauðstígur.

Elstu heimildir um brauðgerð á Norðurlöndum komu í ljós við fornleifauppgröft á Austur-Gautlandi árið 1908. Brauðgerð og neysla virðist hafa verið fremur lítil á Íslandi langt fram á 18.öld ef treysta má heimildum eða réttara sagt heimildarskorti því að lítið er getið um slíkt. Korninnflutningur eða kornrækt virðist ekki hafa verið mikil, en það korn sem fékkst var notað til grautargerðar, ölgerðar og brauðgerðar að vissu marki. Það er líklegt að verkþekking og áhöld, sem snéru að meðferð korns til brauðgerðar, ölgerðar og grautargerðar, hafi flust með norskum landnámsmönnum til Íslands. í Noregi var hefð fyrir brauðgerð á landnámstíð og því ekki óvarlegt að ætla að slík hefð hefði skapast hér á landi þótt litlar heimildir séu til um slíkt. Brauðtegundir er ekkert vitað um en í Noregi voru bakaðar linar kökur og brauðhleifar sem voru með þykkar rendum og hvilft í miðju.

Eldvörp

Í Brauðhelli.

Brauðgerð er ein elsta iðja sem til er. Til eru heimildir um brauðgerð fyrir um 5000 árum síðan, bæði í hinni gömlu Babylon og einnig í Kína. Trúlega hefur þó brauðgerð hafist miklu fyrr eða tiltölulega skömmu eftir að menn fóru að nota korn fyrir fæðu, en það mun hafa gerst á mismunandi tíma á ýmsum stöðum á jörðinni.

Á átjándu öld mun fyrst hafa verið farið að gera lyft brauð hér á landi. Þau voru kölluð pottbrauð. Ekki voru til bakaraofnar á Íslandi eins og fyrr sagði en þess í stað notaðir járnpottar sem hvolft var yfir brauðið. Eins og við flatbrauðsgerð, var heit glóðin að lokinni eldamennsku sléttuð vel að ofan, járnplata lögð á og þar ofan á brauðið. Ofan á allt saman var svo hvolft stórum potti. Síðan var skarað að glóð upp með og ofan á pottinn og breidd yfir aska, moð eða afrak. Brauðið var látið seyðast í sex til tólf tíma. Einnig var pottbrauð bakað þannig að pottur var smurður innan með góðri feiti og deiginu þjappað þar í, hlemmur settur á eða öðrum potti hvolft yfir. Potturinn var grafinn ofan í glóðina, glóð sett upp með og yfir og byrgt vel með ösku.

Hveragerði

Rúslahver / Önnuhver í Hveragerði.

Víkingar munu hafa bakað þrennskonar brauð, þ.e. grófir brauðhleifar bakaðir í ösku, þunnar byggmjölskökur bakaðar á grjóthellu og höfðingjabrauð-hveitikökur bakaðar á skaftpönnu. Á Íslandi á 18. og 19. öld voru engir ofnar til að baka brauð í og því var hverahitinn kærkominn búbót. Hverabrauð eru þekkt hér á landi um allnokkrun tíma. Í stað þess að láta brauðið bakast í potti umvafinn hlóðarösku var hverahitinn notaður til bakstursins.
Brauðstígurinn er vel greinilegur og hefur greinilega verið mikið genginn. Hann liggur út frá Árnastíg skammt sunnan við suðvesturhorn Sundvörðuhrauns. Stígamótin eru merkt með vörðu og frá henni sést Brauðstígurinn liggja inn í hraunið til vesturs. Honum var fylgt framhjá þyrpingu lítilla byrgja í kvos undir hraunkantinum, en ekki er með fullu ljóst hvaða hlutverki þeim var ætlað.

Tyrkjabyrgi

„Tyrkjabyrgi“.

Menn hafa furðað sig á því hversu lítil þau eru, hvert fyrir sig. Sumir segja að þau hafi átt að notast ef Tyrkirnir létu sjá sig á ný við Grindavík, aðrir að þar gætu útilegumenn hafa búið. Enn ein kenningin er sú að þarna gætu Grindvíkingar hafa bakað sín brauð fyrrum, enda yfirborðsjarðhitinn þá verið mun virkari en nú er. Ljóst er að hann hefur farið dvínandi í Eldvörpum og því skyldi hann ekki hafa gert það annars staðar á svæðinu?

Brauðstígur

Gengið um Brauðstíg í Eldvörpum.

Brauðstígnum var fylgt áfram inn á Sundvörðuhraunið og yfir að Eldvörpum. Þar var farið í helli, sem fyrir eru hleðslur í. Enn er nokkur hiti í hellinum, en þó ólíkt því sem var fyrir einungis nokkrum árum síðan. Þá sást varla handaskil fyrir gufu, en nú fer lítið fyrir henni. Ekki er ólíklegt að ætla að þarna hafi Grindvíkingar (Staðhverfingar) bakað sín brauð fyrrum.
Til baka var gengið út á Prestastíg og honum fylgt niður að Húsatóftum.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín.

Heimild m.a.:
-http://www.akmus.is/frodleiksmolar.htm

Árnastígur

Mót Árnastígs og Skipsstígs.

Herdísarvíkursel

Gengið var frá Herdísarvíkurvegi neðan við Sýslustein suður í Seljabót, með ströndinni til vesturs yfir í Keflavík og síðan upp (norður) Klofninga í Krýsuvíkurhrauni, upp á þjóðveginn og gamla þjóðleiðin síðan gengin til baka að Sýslusteini.

Sýslusteinn

Sýslusteinn.

Girðing er á sýslumörkum Ánessýslu og Gullbringusýslu. Þjóðvegurinn liggur í gegnum girðinguna. Ofan við þjóðveginn er stór rúnaður kleprasteinn; Sýslusteinn. Um hann liggja sýslumörkin úr Seljabót og upp í Kóngsfell. Í þjóðsögunni um Herdísi og Krýsu og landamerkjadeilur þeirra segir að “svo fór um landamerkin sem Krýsa vildi og heitir nú kletturinn Sýslusteinn”.
Gengið var niður hraunið með girðingunni. Að austanverðu heitir hraunið Herdísarvíkurhraun, en Krýsuvíkurhraun að vestanverðu. Í raun eru ekki skörp skil á hraununum, auk þess sem um mörg hraun er að ræða, hvert á og utan í öðru.
Eftir u.þ.b. 20 mín gang er komið niður fyrir neðsta hraunkantinn. Á vinstri hönd, undir honum, eru tóftir Herdísarvíkursels.

Herdísarvíkursel

Herdísarvíkursel.

Í örnefnalýsingu fyrir Herdísarvík segir að “allar gamlar menningarminjar á jörðinni Herdísarvík, svo sem fiskigarðar verbúðir, tættur af íveruhúsum, peningshúsum og öðrum útihúsum, þar á meðal seljarústir í Seljabót voru friðlýstar af Þór Magnússyni 7.9.1976.” Skammt frá hraunkantinum eru fleiri tóftir, s.s. stekkur og hús. Vatnsstæðið er skammt vestar.
Sjávarmegin við selið er eldra hraun, slétt og greiðfært. Í því eru nokkrir skútar og merkt greni. Seljabótin er í grónum krika undir nýrra hrauni og Seljabótanef þar framan við að vestanverðu. Í gömlum sögnum segir að Krýsuvíkurhellir hafi verið við Seljabót.

Seljabót

Seljabót undir Seljabótarnefi – gerði.

Landamerkin eru um Seljabótanefið. Þar er merkjastaur. Eini hellirinn á svæðinu er lágur skúti vel austan markanna, í Herdísarvíkurlandi. Ofan við hann er manngerður gróinn hraunhóll. Hafi hellirinn verið í berginu er hann löngu horfinn, enda sér sjórinn um að brjóta það markvisst niður. Líklegra er að þarna hafi einhver villst á Seljabót og Bergsendum í Krýsuvíkurlandi. Við þá er hellir með mannvistarleifum. Hann nær bæði inn í gamla bergið og er ofan við það.

Seljabót

Gerði í Seljabót.

Gerði eða rétt er í Seljabótinni. Orðið “bót” virðist vera til allvíða um land, en í mismunandi merkingum eftir því hvar er. Það getur bæði þýtt ‘hvilft, dalbotn’ og ‘vík, smávogur’, skylt orðinu bugt, sbr. Þórkötlustaðabót. Stundum er það notað um fiskimið, en sennilega er orðið hér notað um hvilftina þar sem gerðið er.
Af fiðrinu að dæma virðist refurinn una hag sínum vel þarna. Af Seljabótanefi er fagurt útsýni austur með Herdísarvíkurbjargi.

Keflavík

Í Keflavík.

Gengið var til vesturs ofan við bjargið, áleiðis að Keflavík. Umhverfið er stórbrotið. Skammt austan við Keflavík er stór “svelgur” og gatklettur. Hvorutveggja eru ágætt dæmi um hvernig sjórinn hefur náð að brjóta sig í inn undir bergið og upp úr því, en skilið eftir stöpul líkt og eyju utan við það. Síðan mun hann smám saman leika sér að því að brjóta hana niður líkt og aðra hluta bergsins.
Gatklettur er austan við Keflavík. Niður í víkina er stígur, en þangað hefur rekaviður án efa verið sóttur fyrrum. Nóg er af keflunum í víkinni. Í henni er og gott skjól. Utan við hana er lágbarið stórgrýti, gott dæmi um bergmola sem sjórinn hefur “tuggið” og hnoðað smám saman og í langan tíma, en síðan kastað á land. Hluti af mun eldra bergi er þarna í og við víkina. Geldingar heita glæðuklæddir steinar vestan og ofan við Keflavík. Þeir standa á þessu gamla bergi, sem nýrra hraun, er nú myndar bergvegginn, hefur runnið að og útvíkkað landið.

Gvendarhellir

Gvendarhellir/Arngrímshellir – tóft.

Gengið var upp Klofninga í Krýsuvíkurhrauni með viðkomu í Arngrímshelli (Gvendarhelli) á leiðinni upp á þjóðveginn og til baka eftir gömlu þjóðleiðinni milli Krýsuvíkur og Herdísarvíkur. Hún liggur að mestu skammt ofan núverandi vegar.
Í þjóðsögunni um Herdísi og Krýsu segir að “Krýsa bjó í Krýsuvík, en Herdís á Herdísarvík. Þær deildu um landamerki milli sín. Vildi Krýsa eiga Geitahlíð alla og væru landamerki í stóran stein er stendur í hrauninu fyrir austan hlíðarhornið. Herdís vildi eiga út á Deildarháls. Hann er nokkuð vestar en undir miðri Geitahlíð og hefir spúð eldi því í honum er gígur ekki alllítill, og úr honum hefir runnið hraun það er Klofningur heitir eða Klofningar.“
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 33 mín.

Heimild m.a.:
-Ásgeir Bl. Magnússon: Íslensk orðsifjabók. Rvk. 1989.

Herdísarvíkurbjarg

Gatklettur í Herdísarvíkurbjargi.

Járngerðarstaðir

Sr. Gísli Brynjólfsson skrifaði um „Grindavíkurhverfin“ í Lesbók Morgunblaðsins árið 1967:
„Fljótlega eftir að fólk tók sér bólfestu í Grindavík, hafa þar byggst einar sex sjálfstæðar jarðir auk Ísólfsskála, sem er drjúgan spöl austan við aðalbyggðina.
thorkotlustadahverfi-229Í rekaskrá Skálholtsstaðar frá 1270 er getið bæði um Járngerðarstaði og Þorkötlustaði. Í landi þriggja þessara jarða hafa svo verið reistar hjáleigur, grasbýli og tómthús, með mjög takmarkaðar landsnytjar enda afkoman svo að segja að öllu leyti byggð á sjónum. Hefur fjöldi þeirra sjálfsagt verið nokkuð misjafn, þeim hefur fjölgað þegar vel fiskaðist, en fækkað svo aftur á móti á aflaleysisárum. Þess vegna mynduðust fljótt 3 hverfi í Grindavík og var nokkurt jafnvægi í byggðinni fram á síðustu ár eins og eftirfarandi tölur sýna:

Þórkötlustaðir

Þórkötlustaðabæirnir um 1960.

Í manntalinu 1703 er getið um 2 tugi lausamanna og marga, sem voru á sveitarframfæri. Auk þeirra, sem áttu lögheimili í plássinu safnaðist svo til Grindavíkur mikill fjöldi útróðrarmanna á vertíðinni eins og gerist enn í dag. Frá Grindavík reru skip Skálholtsstóls eins og úr fleiri verstöðvum, enda átti Skálholtskirkja allar jarðirnar nema Húsatættur. Sú jörð var konungseign. Árni Magnússon getur þess, að frá Þorkötlustöðum rói áttrætt skip Skálholtsstaðar, annað frá Hópi og 3—4 frá Járngerðarstöðum, en á Hrauni lagðist útgerð stólsins niður eftir að „skipið forgekk“ árið 1700. Þann vetur voru veður ofsaleg, segir Espólín, — urðu skiptapar miklir, fleiri en 20 á Suðurnesjum og í Gullbringusýslu. Á þeim týndist hálft annað hundrað manna og 129 af þeim á föstudaginn seinastan í Góu, á einni eykt. Þá hafa verið daprir dagar í Grindavík.
Þegar rituð verður saga Grindavíkur, kemur eflaust sitthvað í leitirnar, sem bregður ljósi á tilveruna í þessari verstöð, þótt lítt hafi hún sjálfsagt verið frábrugðin því sem tíðkaðist í sambærilegum plássum annars staðar. Einni slíkri mynd af landinu og lífinu í Grindavik er brugðið upp í Ferðabók Mackenzie’s er hann kemur þangað á ferð sinni um Suðurnes í ágúst 1810.
stadur-229Honum sýnist landið auðar og ömurlegar eyðimerkur hrauna og sanda, þar sem hvergi sér stingandi strá. Hvergi bregður fyrir neinu, sem gleður augað eða léttir lundina. Loks nálgast þeir byggðina, nokkra kofa á ströndinni. Út úr þeim kemur fólkið — karlar, konur og krakkar, skriðu út úr þessum hreysum eins og maurar úr þúfum. Það glápir á gestina í forundran „enda vorum við fyrstu útlendingarnir á þessum slóðum. Mackenzie hafði meðmælabréf til Mr. Jóns Jónssonar. Spurðu þeir uppi mann með því nafni og fengu honum bréfið. Mr. Jón er síðhærður gráskeggur og þegar hann er búinn að setja upp gleraugun og fer að lesa bréfið, minnir hann helzt á yfirbiskup í rétttrúnaðarkirkjunni.
— En þetta er ekki sá rétti Jón heldur er þeim vísað á annan Jón, — eina mílu í burtu. Þegar þangað var komið, var sá Jón ekki heima, en birtist samt von bráðar og bauð þeim í bæinn, sem þeim var mjög á móti skapi að þiggja og notuðu fyrsta tækifæri til að komast aftur út undir bert loft.

Staður

Staður í Staðarhverfi um 1960.

Kringum tjald þeirra félaga safnaðist fólkið — um 30 manns á öllum aldri, gerðist all-nærgöngult, að því er þeim fannst, og fór ekki fyrr en komið var fram á nótt og regnið og rokið rak það heim. Sökum óþrifnaðar og af ótta við sjúkdóma, vildu þeir ferðalangarnir hafa sem minnst saman við íbúana að sælda.
Það er allt annað en glæsileg mynd, sem þessi erlendi ferðalangur dregur upp af Grindvíkingum, háttum þeirra og híbýlum. Ekki er ótrúlegt, að hann hefði gefið þeim annan og betri vitnisburð, hefði hann kynnzt þeim í starfi þeirra og stríði við Ægi, sjósókn þeirra og siglingum, farið með þeim í einn róður þegar mátulega golaði, kynnst útsjón og áræði farsælla formanna og dugmikilla háseta. Enginn maður í atvinnulífi Íslendinga hefur verið jafn mikilsvirtur og góður, aflasæll formaður. Hann hafði enn meiri völd og virðingu skipshafnar sinnar heldur en húsbóndi á sveitabæ naut hjá hjúum sínum, enda aðstaðan að sumu leyti önnur, þar sem líf hásetanna var ósjaldan í hendi hans.
Hraun-229Hraun var eitt fjölmennasta heimilið í Grindavík á þessum árum. Voru þar 17 manns heimilisfastir. Þar bjó Jón hreppstjóri og dannebrogsmaður Jónsson, 78 ára, frá Járngerðarstöðum. Hann var tvígiftur. Fyrri kona hans var Sigríður Jónsdóttir frá Ásólfsstöðum í Eystrihrepp. Var hún 15 árum eldri heldur en bóndi hennar. Þau voru barnlaus. Sigríður dó á jóladaginn 1839 „af innvortis sjúkdómi“. Næstu tvö árin var Kristin systir Jóns fyrir búi hans, en 1841 fluttist til hans 25 ára gömul stúlka austan undan Eyjafjöllum, Guðbjörg Gísladóttir, fædd á Lambafelli 10. marz 1815. Fyrsta ár sitt á Hrauni var Guðbjörg talin þar vinnukona, því næst bústýra, en haustið 1842 þ. 7. október, Járngerðarstaðarhverfi. gaf sr. Geir Backmann þau Jón hreppstjóra saman í Staðarkirkju. Þá var brúðguminn 54 ára, en brúðurin 27 ára.

Hraun

Hraun í Grindavík um 2000.

Þau Hraunshjón eignuðust þrjú börn: Jón, dó vikugamall, Sigríður, fædd 29. janúar 1851. Hún giftist Hafliða Magnússyni. Bjuggu þau á Hrauni og eignuðast mörg börn. Guðbjörg, fædd 30. jan. 1859, giftist Gísla Hermannssyni frá Buðlungu. Þau bjuggu einnig á Hrauni. Jón á Hrauni var hinn merkasti maður. Bær hans var hinn allra reisulegasti í sókninni, segir sr. Geir í sóknarlýsingu sinni. Hann lét byggja þrjú mikil timburhús, slétta túnið og byggja um það grjótgarð mikinn, grafa afardjúpan brunn, sem úr fékkst all-gott vatn, en vatnsskortur var einn aðalókostur jarðarinnar. Sá var annar, að þaðan var ekki útræði á vetrum og höfðu Hraunsmenn uppsátur á Þorkötlustaðanesi. „En nú er velnefndur hreppstjóri að láta búa til vör fyrir sunnan túnið, vinnur þar að með mikilli atorku og víst þó töluverðum kostnaði að hverju sem verður“ (sóknarlýsing). Hann andaðist á Hrauni, tæplega sjötugur 3. maí 1894.“

Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins 15. október 1967, bls. 10-11 og 13.

Grindavík

Grindavík 1963.

Eldborg

Gengið var upp á Stóru-Eldborg undir Geitahlíð, niður hrauntröð suðaustur úr megingígnum, beygt að Litlu-Eldborg, horft niður um gígopið og síðan gengið niður mikla hrauntröð til suðurs í Krýsuvíkurhraun.

Eldborgarrétt

Gamla Krýsuvíkurréttin (Eldborgarrétt).

Eftir að hafa fylgt tröðinni nokkurn spöl, var gengið yfir hraunið til austurs og síðan norðurs, uns komið var í aðra stóra hrauntröð úr gígunum. Hún var gengin upp að rótum. Svæði þetta er einstaklega áhugavert út frá jarðfræðilegum sjónarmiðum, en ekki síst náttúrulegum því í hrauninu hafa fest rætur hinar margvíslegustu plöntur, auk gamburmosans. Hraunin hafa jafnan verið nefnd undir samheitinu Krýsuvíkurhraun, en í rauninni er um nokkur aðskilin hraun að ræða, sem hvert hefur runnið yfir annað, að hluta til eða í heild.

Eldborg

Stóra-Eldborg.

Á hraunakortum af Krýsuvíkurhrauninu en ljóst er að mjög margir hraunstraumar eru settir undir örnefnið Krýsuvíkurhraun. Sjá má hvernig hraunstraumar hafa runnið niður hlíðarnar, s.s. í Sláttudal, en ofan við þær eru einstaklega fallegir eldgígar, sem fáir hafa barið augum. Þeir eru í góðu göngufæri frá Herdísarvíkurveginum, t.d. upp frá Sláttudal eða upp frá Sýslusteini skammt austar.

Eldborgir eru venjulega túlkaðar í eintölu og eru undir Geitahlíð. Stóra-Eldborg er t.a.m. nokkrir gígar þótt einn þeirra sé sýnum myndarlegastur og reistastur.

Stóra-Eldborg

Stóra-Eldborg.

Þegar staðið er upp á suðuröxl Geitahlíðar sjást gígarnir mjög vel sem og hraunið niður undir þeim. Þetta eru formfagrir gjallgígar á suðvesturenda gígaraðar, sem skildi eftir hraun alla leið til sjávar. Hraunið frá Litlu-Eldborg er talsvert minna. Norðausturhluti gígaraðarinnar sést vel frá Æsubúðum.

Geitahlíð, sem fóstrar eldborgirnar á öxlum sínum, er grágrýtisdyngja. Í suðurhlíðum, ofan við Stóru-Eldborg, er Hvítskeggshvammur, en Æsubúðir efst á hlíðinni.

Æsubúðir

Æsubúðir.

Við þær er gígur fjallsins, alldjúpur. Hvítskeggsvammi og Æsubúðum tengist þjóðsaga af kaupmönnum, sem í búðunum höfðu verslunarstað fyrrum. Við Hvítskeggshvamm bundu þeir skip sín og “mátti til langs tíma sjá festarkeng þar í klöppunum”. Líklegt er að þá hafi ströndin náð upp að fjöllunum, s.s. Herdísarvíkurfjalli, sem telja má líklegt. Ströndin neðan við fjallgarðinn er nýrra hraun, sem runnið hefur neðan af björgunum og fyllt upp og mótað landið neðan við þau. Ofan Stóru-Eldborgar liggur gamla þjóðleiðin milli Krýsuvíkur og Herdísarvíkur, um Deildarháls og Kerlingadal, þar fyrir eru dysjar Herdísar og Krýsu.
Eldborgir undir Geitahlíð eru hluti af gjallgígaröð. Stóra-Eldborg er meðal fegurstu gíga Suðvesturlands. Þær voru friðlýstar 1987, sbr. Stj.tíð. B, nr. 622/1987. Þar s egir m.a. um friðlýsinguna:

Stóra Eldborg

Stóra Eldborg.

”Samkvæmt heimild í 22. gr laga nr. 47/1971, um náttúruvernd, hafa [Umhverfisstofnunar] og náttúruverndarnefnd Grindavíkur ákveðið að friðlýsa sem náttúruvætti Stóru – Eldborg og Litlu – Eldborg undir Geitahlíð, Grindavík, ásamt næsta nágrenni. Mörk hins friðlýsta svæðis eru eftirfarandi:
Að norðan fylgja þau mörkum hrauns og hlíðar, 200 m austur fyrir nyrstu gíga í gígaröð Litlu – Eldborgar. Þaðan hugsast bein lína í austurhorn hrauntraðar frá Litlu – Eldborg um 225 m sunnan borgarinnar. Síðan bein lína í vestnorðvestur að þjóðvegi, eftir honum að vesturjaðri hraunsins frá Stóru – Eldborg. Að vestan fylgja mörkin hraunjaðrinum.

Herdís og Krýsa

Dysjar Herdísar og Krýsu.

Eftirfarandi reglur gilda um svæðið:
Gjalltaka og mannvirkjagerð er óheimil, svo og hvers konar jarðrask, sem breytir eða veldur skemmdum á útliti gíganna. Skylt er vegfarendum að sýna varúð, svo að ekki spillist gróður eða aðrar minjar á hinu friðlýsta svæði umhverfis eldstöðvarnar.”
Eldborg myndast þegar þunnfljótandi kvika kemur upp um kringlótt gosop í fremur stuttum gosum og án kvikustrókavirkni (flæðigos). Umhverfis gosopið hlaðast upp brattir gígveggir úr hraunslettum. Hraunið frá þeim er ýmist hellu- eða apalhraun. Dæmi: Eldborg á Mýrum og þessar eldborgir í Krýsuvík.

Eldborg

Hraun við Eldborgir – kort Jóns Jónssonar.

Hraungos eða flæðigos nefnast þau gos sem nær eingöngu mynda hraun. Slík gos mynda ýmist eldborgir eða dyngjur. Eldborgir myndast við eitt, fremur stutt, flæðigos þegar þunnfljótandi gasrík hraunkvika flæðir upp um eldrás sem verður pípulaga er líður á gosið. Kvikan kraumar í gígskálinni og sýður upp úr henni með nokkru millibili. Við það flæðir kvikan yfir barmana og hlaðast þannig upp mjög reglulegir gígveggir úr nokkurra cm þykkum hraunskánum. Gígveggirnir eru brattir ofan til (40°- 60°) og mynda efst þunna egg og eru þeir aðaleinkenni eldborganna. Eldborgir eru mjög sjaldgæfar utan Íslands.

Þrátt fyrir friðlýsinguna hefur Litlu-Eldborg verið raskað með efnistöku. Svæðið sunnan Stóru-Eldborgar er í sárum eftir stórvirkar vinnuvélar og skammsýni mannanna. Þegar stigið er upp á leifarnar af gígopinu blasir það við, alldjúpt. Stiga eða band þarf til að komast niður. Barmarnir eru allsléttir.

Eldborgarhraun

Eldborgarhraunin.

Gengið var niður stóra hrauntröð vestast í Krýsuvíkurhrauni. Hraunin nefnast því einu nafni, sem fyrr sagði, en hraunið frá Litlu-Eldborg hefur runnið yfir hraunið frá Stóru-Eldborg og er síðarnefnda hraunið því eldra hraun. Annars greinir menn oft um aldur hrauna. Þannig hefur Ögmundarhraun t.d. verið sagt vera frá 1151, en þó hefur að verið aldursgreint frá árinu 1005 með geislakolsmælingum (C14 945 ± 85 ).
Ekki er nákvæmlega vitað um aldur hraunanna. Ofar eru þau úfin, en gróin á milli og eftir því sem neðar og austar dregur. Þau hafa runnið fram af gömlu bjargbrúninni, sem sést neðan við svonefnda Klofninga. Ofan brúnarinnar er t.d. Krýsuvíkurhellir og Bálkahellir ofar. Fleiri hellar og rásir eru í hrauninu, en það hefur verið lítt kannað.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 22 mín.

Litla-Eldborg

Leifar gígs Litlu-Eldborgar.