Gengið var um Krýsuvíkurtorfuna.
Krýsuvík – örnefni.
Í Krýsuvíkurlandi eru tóftir 17 bæja, en að þessu sinni voru 12 þeirra, er stóðu næst höfuðbólinu, skoðaðar, þ.e. Krýsuvíkur, Norðurkots, Snorrakots, Hnauss (Hnausa) er einnig var nefnt Garðshorn, Gestsstaða, Fells, Litla-Nýjabæjar, Stóra-Nýjabæjar, Lækjar, Arnarfells, Suðurkots og Vesturkots. Mönnum hefur greint á um staðsetningu Hnausa. Í örnefnalýsingu GS segir að Hnaus hafi verið lengra út í mýrinni norðan Norðurkots og Snorrakots, við stíg frá enda Norðurkotstraða. Skv. því hefur Snorrakot verið tómthús, reyndar örindiskot. Í örnefnalýsingu AG er Snorrakot staðsett norðaustan Norðurkots. Hnaus er ekki að finna á korti með aðalskiplagi Hafnarfjarðar í Krýsuvík. Líklegt má telja að þar sem merkt er Snorrakot á korti hafi Hnaus og Garðshorn verið, enda eru örnefni þar sem benda til þess, s.s. Hnausblettur og Garðshornsblettur í mýrinni austan við Norðurkot. Hnausgarður var annað nafn á Norðurkotstúngarði. Snorrakot hefur þá verið þar sem það er merkt á kort, í sömu tóftum og hin kotin fyrrnefndu. Líklega hafa þau verið stuttan tíma í ábúð hverju sinni og þá tekið mið af byggingargerð og útliti, staðsetningu þar sem garðurinn víxlast og húsráðanda þess tíma. Tóft efst við milligarð Norðurkots hefur væntanlega tilheyrt Snorrakoti.
Tóftir Garðshorns.
Í manntalinu árið 1845 eru 8 bæir í byggð í Krýsuvíkursókn. Árið 1822, höfðu bæst við nýbýlið Lækur og hjáleigurnar Vigdísarvellir og Bali. Að Læk bjó Halldór Magnússon og Margrét Þorleifsdóttir ásamt tveimur börnum og móður húsbóndans.
Hinir löngu og miklu túngarðar í Krýsuvík eru flestir beinir og nýrri en hinir eldri og minni og krókóttari garðar, s.s. frá Norðurkoti, Snorrakoti og næst Læk. Gamli túngarður er heitið á innri túngarðinum í Krýsuvík. Svipaður garður er umhverfis Læk. Umhverfis hann eru einnig beinni, hærri og lengri garðar. Bendir það til þess að nýbýlið hafi verið reist upp úr eldra býli sem sjá má leifar af í miðju túninu. Burst horfði þar mót suðri og beggja vegna voru jafn stór torfhýsi er notuð hafa verið til annars síðar. Fjárhústóft er austast í túngarðshorninu.
Utar og niður með bjargi stóðu Fitjar og Eyri, ofar og vestar voru Vigdísarvellir og Bali og ofar í landnorður var Kaldrani.
Í örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar fyrir Krýsuvík segir m.a. um bæjartorfuna: „Höfundur þessarar örnefnalýsingar er Gísli Sigurðsson lögregluvarðstjóri í Hafnarfirði. Aðalheildarmaður var Ólafur Þorvaldsson og Krýsuvíkurbræður, synir Guðmundar í Krýsuvík, aðallega tveir; voru fluttir til Hafnarfjarðar, annar bjó á Holtsgötu ?, en hinn í Þorgeirstúni. Skráin var unnin á milli 1960–70.
Krýsuvík [er] fornt höfuðból í Grindavíkurhreppi. Nú í eyði. Kirkjustaður, annektia ýmist frá Strönd í Selvogi eða Stað í Grindavík.
Landamerki jarðarinnar eru: Að austan gegnt Herdísarvík þessi: Seljabót við sjó. Þaðan beina línu í Sýslustein á Herdísarvíkurhrauni. Þaðan um Lyngskjöld miðjan. Þaðan í Stein á Fjalli. Þaðan í Brennisteinsfjöll í Kistufell. Þaðan í Litla Kóngsfell, sem er gamall gígur, suður frá Grindarskörðum.
Að norðan gegnt upprekstrarlandi Álftaneshrepps hins forna: Litla Kóngsfell, þaðan um Lönguhlíðarfjall í Markraka á Undirhlíðum, þaðan í Markhelluhól. Þá gegnt Vatnsleysustrandar-hreppi og Grindavíkurhreppi: Markhelluhóll, þaðan um Dyngjufjöll og vestur Núpshlíðarháls í Dágon, klettadrang við Selatanga.
Krýsuvíkurbærinn stóð á svo nefndum Bæjarhól hallaði honum niður til suðurs og var þar Hlaðbrekkan. Suð-austan við bæinn stóð Kirkjan í Kirkjugarðinum. Hallaði hér einnig niður frá Kirkjunni, bæði sunnan við að framan og austan til bak við, Kirkjubrekkan. Krýsuvíkurtúnið var eiginlega allstórt. Í lægð undan Hlaðbrekkunni, voru í eina tíð þrjár stórar þúfur, sem nú hafa verið sléttaðar út. Nefndar Ræningjadysjar, þar áttu þrír Tyrkir að hafa verið vegnir og dysjaðir.
Ræningjahóll er hryggur sem gengur vestur túnið allt að garði. Suður af honum var Suðurtún eða Suðurkotstún, en neðst í stóð Suðurkotsbærinn. Vestast í túni þessu, heitir Kinn. Lækjartún lá niður undan Brekkunum. Austurtún lá austan traðanna. Vesturtún lá vestast í túninu norðan við hrygginn. Þar var í eina tíð Vesturkot, og því nefnt Vesturkotstún. Norðurtúnið var stærsti hluti túnsins, lá bak við bæinn, vestan hans og norðan. Lægð var eftir túninu endilöngu, nefndist Dalur. En upp frá honum Brekkan. Hesthúskofatótt var vestarlega í henni. Þar vestar var Hellisbrekkan. Uppundir klettunum var Lambahellir eða Bæjarfellshellir. Traðirnar láu frá austurvegg bæjarins bak við Kirkjugarðinn og síðan til suðurs og niður að Læknum. Norðurtúnið lá allt að Norðurkoti, sem virðist hafa verið eitt af aðalhjáleigunum.
Norðurkot í Krýsuvík 1892.
Eiginlega stóð Norðurkotsbærinn utan túns. Norðurkotstraðir lágu úr túninu heim að bænum og framhjá honum. Norðurkotsrústirnar, eru gleggstu rústirnar sem enn eru sjáanlegar í Krýsuvíkurhverfinu. Úr tröðunum liggur stígur yfir að Snorrakoti rétt norðan við Norðurkot og lengra út á mýrinni er Garðshorn, sem einnig var nefnt Hnaus. Túnblettir fylgdu þessum bæjum. Norðurkotstún, Garðshornsblettur og Hnausblettur.
Krýsuvíktúngarðar voru mikil mannvirki. Reiknast um 5 kílómetrar að lengd. Hafi þeir verið 1½ metri á hæð 1½ metri þykkir að neðan og 0,50 metr. að ofan, mætti gera sér í hugarlund hve mikið hefur farið í þá og þá gera sér ljóst þetta mikla verk.
Austurtúngarður lá ofan úr Felli hjá Norðurkoti og niður að Læk Krýsuvíkurlæk. Suðurgarðurinn eða Lækjargarðurinn nyrðri lá austan frá Garðshorni með fram öllum læknum að norðanverðu. Austur undan kirkjunni var Traðarhliðið og þar Vaðið. Austan við það var Vatnsbólið, en neðan Uppistaðan og þar var Millan má enn sjá lítið eitt af Millutóttinni. Traðargarðarnir voru miklir og standa enn. Traðargarðurinn eystri og Traðargarðurinn vestri Traðargarðurinn syðri lá sunnan lækjarins. Austan frá Hnaus. Sunnan Vaðsins var Lækur Lækjarbærinn. Má enn sjá nokkuð vel rústir hans. Hér vestan við láu Þvergarðar tveir. Þvergarðurinn eystri og Þvergarðurinn vestri og allbreitt svæði milli þeirra. Nefndist Milli garða.
Ofurlítill túnkragi Lækjartún lá kringum bæinn. Lækur var byggður upp nýr af nálinni kringum 1830. Hét sá Guðmundur er það gerði. Gekk ætíð undir nafninu Hellna-Guðmundur. Hellna-Gvendur. Kringum Millutóttina var Milluflötin. Vesturtúngarðar voru eiginlega tveir Innri Túngarður eða Gamli Túngarður lá í hlykkjum og krókum niður vestast í Hellisbrekkunni. Allt út á hólinn sunnan Vesturkots. Vesturtúngarðurinn yngri lá aftur á móti ofan úr klettum Bæjarfells ofanvert við Lambahellir, hlaðinn af grjóti efst. En af torfuhnausum er neðar kom og beint suður. Við Lækinn þar sem hann rann út úr túninu komu Lækjargarðarnir í hann. Áfram lá garðurinn allt austur um Arnarfell, fell er rís upp suð-vestur frá Krýsuvíkurbæ. Og upp í skriður fellsins og er þar hlaðinn af grjóti. Á garðinum miðjum undan Arnarfellsbæ er Arnarfellstúngarðshliðið. Við vesturrana fellsins liggur Vesturgarður Arnarfellstúns upp spölkorn í fellið. Arnarfellsbærinn stóð í miðju túni og má enn sjá rústir hans. Kringum hann var Neðratúnið.
Upp þaðan lá slóði í Efratúnið (74), sem var í slakka vestan í fellinu. Þar var Fjárhúsrúst og í klettunum þar upp af var Arnarfellshellir eða Kristínarhellir. Saga er til sem skýrir nafn þetta. Kristín hét vinnukona í Krýsuvík. Hún lagði hug á vinnumann á bænum, en hann vildi ekki þýðast hana. Varð hún hugsjúk af þessu og hvarf. Var hennar leitað en hún fannst ekki. Eftir nokkurn tíma kom hún svo heim og sagðist hafa dvalið í helli þessum. Hellirinn liggur upp í móti og er í honum steinn, sem er hið besta sæti. Uppi á Arnarfelli er Arnarfellsvarða eða Tyrkjavarða. Sagt er að hún hafi verið hlaðin nokkru eftir Tyrkjaránið. Eru þar ummæli á, að meðan hún stendur muni tyrkir ekki koma og ræna Krýsuvíkurstað. Fram undan, eða vestur undan Fellinu er Stekkjarmýri og suður frá henni Arnarfellstjörn og örfokaland þar umhverfis. Austan í fellinu nær miðju er garður. Af grjóti í fellinu, en af torfi er út kemur á mýrina.
Arnarfellsgarður. Hann tengist þvergarðinum vestri og því myndast þarna gerði eða afgirt beitarland. Var þarna kúabeit, enda kallaður Kúablettur. Í bletti þessum var lítil tjörn, nefndist Spegillinn. Þarna var einnig allgóð mójörð, og Mógrafir.
Bæjarfell er ekki stórt, en setur þó svip á umhverfið. Stekkjarstígur lá úr Norðurkotströðum austan í fellinu að garði þar, sem nefndur var Vitlausi Garður. Þegar hlaðnir höfðu verið allir hinir garðarnir og byrjað var á þessum, þótti hjáleigubændum í Krýsuvík nóg komið af görðum og töldu þessa garðhleðslu því hina mestu vitleysu. Þar af er nafnið komið. Stígurinn liggur í gegnum Vitlausagarðshlið. Og áfram með fellinu, að stórum steini Hafliða. En við stein þennan var Hafliðastekkur. Stígur þessi var einnig nefndur Kirkjustígur, því hann fór kirkjufólkið frá Vigdísarvöllum og Bala, þegar það fór Hettuveg.
Norður af er túnbali að sjá. Hér stóð Nýibær litli eða Litli-Nýibær á Bæjarhólnum í miðju Litla-Nýjabæjartúni. Nú sér ekki lengur marka fyrir Litla-Nýjabæjartúngörðum. Suður frá Grjóthólsrétt stóð Stóri-Nýibær eða Nýibær stóri á Nýjabæjarhól eða Stóra-Nýjabæjarhól því sem næst í miðju Stóra-Nýjabæjartúni. Nýjabæjartraðir láu heim vestan frá Grjóthól. Nýjabæjartúngarðar láu að túninu að norðan, Norðurtúngarður að Traðarhliðinu. Vesturtúngarður frá Traðarhliðinu og allt vestur og niður um túnið, að Suðurtúngarði. Að austan var Nýjabæjarlækur. Hann átti upptök sín spölkorn fyrir ofan túnið í Dýjakrókum.
Í Norðurtúninu var fjárhús, nefndist Járnhús var fyrsta útihúsið, sem þakið var klætt með járni. Kring um það var Járnhúsflöt. „
Í örnefnalýsingu Ara Gíslasonar segir m.a.: „Krýsuvík var um langan aldur sérstök kirkjusókn með hjáleigum sínum, þar til nú fyrir nokkrum árum. Sé Stór-Nýibær talinn tvíbýlisjörð, eins og mun hafa verið fram undir síðustu aldamót, og sé því ennfremur trúað, að byggð hafi verið á Kaldrana, þá hafa hjáleigurnar verið fjórtán og heitið svo:
Stóri-Nýibær (Austurbær): 1703 nefndur einn Nýibær. 1816: nefndur svo. 1847: eins.
Litli-Nýibær (Vesturbær): 1816: nefndur svo. 1847: eins.
Litli-Nýibær: 1703 nefndur svo. 1816: nefndur svo. 1847: eins.
Norðurkot: 1703: Norðurhjáleiga. 1816: nefnt svo. 1847: eins.
Suðurkot: 1703: Suðurhjáleiga. 1816: nefnt svo. 1847: eins.
Lækur: 1703: ekki nefnt. 1816: ekki nefnt. 1847: eins.
Snorrakot: 1703: ekki nefnt. 1816: ekki nefnt. 1847: ekki nefnt.
Hnaus: 1703: ekki nefnt. 1816: ekki nefnt. 1847: ekki nefnt.
Arnarfell: 1703: ekki nefnt. 1816: ekki nefnt. 1847: ekki nefnt.
Fitjar: 1703: ekki nefnt. 1816: ekki nefnt. 1847: ekki nefnt.
Gestsstaðir : 1703: nefnt í eyði. 1816: ekki nefnt. 1847: ekki nefnt.
Vigdísarvellir: 1703: ekki nefnt. 1816: ekki nefnt. 1847: nefnt.
Bali: 1703: ekki nefnt. 1816: ekki nefnt. 1847: nefnt.
Kaldrani: 1703: ekki nefnt. 1816: ekki nefnt. 1847: ekki nefnt.
Krýsuvík – túnakort 1918 lagt ofan á loftmynd. ÓSÁ
Verður nú reynt að staðsetja býli þessi bæði við það, sem komið er og mun koma síðar. Krýsuvík hefur nú staðið um langan aldur norðvestur frá Arnarfelli, undir austanverðu Bæjarfelli, sem er norðvestur frá Arnarfelli og nokkru hærra. Nyrzt í heimatúni var svo Norðurkot, Snorrakot og Hnaus. Tvö hin síðastnefndu hafa verið smábýli í Norðurkotstúni, og má benda á það, að norðausturhorn túnsins heitir Snorrakotstún; smálækur skilur það frá aðaltúninu. Syðst í túninu var Suðurkot, og austan við bæjarlækinn var svo býlið Lækur. Landnorður frá Krýsuvík eru svo bæirnir Stóri- og Litli-Nýibær.“
Frábært veður, þrátt fyrir þoku (sem er bara eðlilegur veðurþáttur í Krýsuvík). Gangan tók 3 klst og 3 mín.
Heimildir m.a.:
-Örnefnalýsing Ara Gíslasonar fyrir Krýsuvík.
-Örnefnalýsing Gísla Siguðrssonar fyrir Krýsuvík.
Horft til Krýsuvíkur úr Hveradal.