Tag Archive for: Hafnarfjörður

Skúlatún

Gengið var að Skúlatúni frá Bláfjallavegi. Þangað er innan um tíu mínútna gangur. Stígur liggur úr suðri að suðurhorni hólsins, en Skúlatún er stór gróin hæð umlukin helluhrauni. Sléttur stígurinn liggur með austurhlið hólsins og áfram áleiðis að Helgafelli. Annar eldri stígur liggur til norðvesturs frá hólnum. Hann er mjög þúfóttur og ómögulegt að greina hvort þarna hafa verið mannvirki eða ekki.

Skúlatún

Skúlatún.

Hins vegar segir Brynjúlfur Jónsson, þjóðminjavörður, að hann hafi greint marka fyrir heimtröð við suðvesturhorn hólsins og stíg við hann norðanverðan. Þrátt fyrir að ekki sæust mannvirki í hólnum í ferð hans þarna skömmu eftir aldarmótin 1900 taldi hann lítinn vafa vera á því að í honum kynnu að leynast leifar einhverra mannvirkja frá fornri tíð. Hvar sem stungið var í hólinn var alls staðar mold undir. Hann er mjög miðsvæðis þegar horft er til tótta í Helgadal annars vegar og hugsanlegra tótta í Fagradal eða nágrenni hins vegar. Þess má geta að í ferð FERLIRs um suðaustanverðan Leirdalshnúk á sínum tíma fundust minjar við vatnsstæði sem þar eru utan í höfðanum.

Skúlatún

Skúlatún – Helgafell fjær.

Gengið var í rúman hring um hólinn og leitað hugsanlegra fjárskjóla eða hella. Við þá göngu fannst fremur lítið gat á stórum hraunhól. Dýpið var u.þ.b. ein og hálf mannhæð, en fyrir vana menn ætti leiðin að vera nokkuð greið niður. Greinilegt er að opið er komið til vegna uppstreymis, en ekki hruns, eins og önnur göt í hrauninu. Leiðin niður var tvílagskipt. Niðri var um vatn, um fet á dýpt. Þegar vatnið draup úr loftinu mátti heyra bergmál þar niðri. Hlaðið var lítil varða við opið svo kíkja megi niður í það við tækifæri þannig hægt verði að gaumgæfa hvað þar er að finna. Opið er í um fimm mínútna gang frá veginum, en alls ekki auðfundið.
Frábært veður.

Skúlatún

Skúlatún – Helgafell fjær.

Grindarskörð

Eftirfarandi fyrirspurn barst FERLIR um Bollana ofan Grindarskarða.
„Mig langar til að forvitnast um hvað þið (Ferlir.is) nefnið bollana í Grindaskörðum. Ég hef vanist Stóribolli, Miðbollar og Syðstibolli. Einnig séð: StSelvogsgata-21óribolli, Miðbollar og Syðstubollar. Syðribollar væri þó fremur réttnefni því að aðeins einn bolli getur verið syðstur. Ennfremur að einungis Stóribolli sé nafngreindur sem slíkur en aðrir „bollar“ kallaðir Grindaskarðahnjúkar. Þar að auki segir Jón Jónsson að næstu bollar við Stórabolla heiti Tvíbollar og aðeins gígurinn í þeim stóra eigi að bera nafnið Stórabolli – ekki fellið sjálft. Það er þó væntanlega búið að vinna sér hefð og skilgreinist sem hluti fyrir heild.“
Framangreint er reyndar allt rétt – svo langt sem það nær. Öll nöfnin hafa heyrst og verið skráð af ýmsum, einkum í seinni tíð.
Áður fyrr var einungis tala um Bollana og/eða Grindaskarðshnúka, sem reyndar er rangnefni því Grindaskörð eru utar (norðan við Stóra bolla), en Kerlingarskarð þar sem nefndir Grindarskarðshnúkar eru. Reyndar hafa menn kallað Kerlingarskarðið Grindarskörð í seinni tíð.

Midbollar

Á landakortum eru tilgreindir Stóribolli, Miðbollar og Syðstubollar. Stóribolli er greinilegur úr fjarlægð sem og Miðbollar. Um er að ræða nokkra gíga utan í aðalgígnum (Miðbolla), einum þeim fallegasta á brúninni. Um Syðstubolla gildir annað því þeir sjást ekki neðan frá. Þeir eru minni og rétt innan (ofan) við Grindarskarðshnúka. Þeir koma í ljós þegar komið er upp á brúnina, vestan við Hlíðarveginn og beygt er til vesturs, að ofanverðum Draugahlíðum. Grindarskarðshnúkarnir eru hins vegar tindarnir vestan Kerlingarskarðs og eru ekki gígar. Um þá liggur leið (styttingur) ofan frá námusvæðinu í Brennisteinsfjöllum.
Í einni lýsingunni segir: „Á leiðinni upp í skarðið blasir Stóri bolli, Tvíbolli og Þríbolli við, en eru einu nafni nefndir Bollar eða Grindaskarðshnúkar.“ Hér er talað um Tvíbolla og Þríbolla, auk Stóla bolla. Hægt væri að tala um, líkt og Jón gerði, Tvíbolla vestan Stórabolla. Miðbolli og Syðstubollar eru þó aðskilin gígasvæði, bæði með nokkrum gígum (3-5). Kóngsfellið (sunnan Miðbolla) er hluti af þessum gígum og mætti því vel teljast til Bollanna. Þar hittust fjárkóngar Grindvíkinga, Hafnfirðinga (Seltjerninga) og Ölfusmanna við upphaf leita á haustin.
Midbollar-2Gísli Sigurðsson lýsti Selvogsgötunni og örnefnum á henni á sínum tíma. Hann talar um bollana þrjá. Þá lýsti Ólafur Þorvaldsson leiðinni, en fer skarðsvillt. Konráð í Selvogi lýsir Suðurfaraleiðinni (en svo nefndu Selvogsmenn Selvogsgötuna). Þegar herflugvél fórst þarna ofan við á stríðsárunum var slysstaðurinn tilgreindur Bollar. Þorkell Kristmundsson frá Stakkavík (síðar Brunnastöðum), sem fór þarna oft um talaði einungis um Bollana. Annars fór hann, og bræður hans, Múlann (Fagradalsmúla). Sama nafni nefndi Eggert bróðir hans hábrúnina. (Greiðfærasta leiðin milli Stakkavíkur og Hafnarfjarðar er um Múlann, Breiðdalshraunið, Eldborgina og um Stakkavíkurstíg ofan Selsstígs (munar tveimur tímum). Hún er jafnframt sú fallegasta).
Svona til smábúbótar; Selvogsgatan lá um Grindarskörð (austan við Stórabolla). Þá var einnig farið um Kerlingarskarðið, en einungis fótgangandi eða með lausbeislað. Undir Kerlingarskarði eru tóftir húss námumanna í Brennisteinsfjöllum. Þegar Hlíðarvegurinn var varðaður með stefnu á Kerlingarskarðið tók fólk hann sem Selvogsgötuna. Þá leið hafa leiðsögumenn farið með heilu hópa og talið sig vera á Selvogsgötunni. Selvogsgatan liggur hins vegar frá Stórabolla niður með Litla-Kóngsfelli og um Hvalsskarð, Hlíðardal, Strandardal og áfram niður um Strandarhæð. Hún er vel greinileg, en vörður eru flestar fallnar, nema kannski gatnamótavörður á tveimur stöðum (Heiðarvegur og afleggjari yfir á Hlíðarveg).

Grindarskörð

Grindaskörð og Bollar. Helgafell nær.

Smalaskáli

Í örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar fyrir Óttarsstaði kemur fram heitið „smalahús“. FERLIR fannst áhugavert að kanna hvort tilvist þess mannvirkis væri enn í frásögu færandi. Áður hafði verið leitað að Grænhólsskúta og Smalaskálahelli á svipuðum slóðum og hvorutveggja staðsett.

Smalaskáli

Smalaskáli.

Í örnefnalýsingunni segir:
„Þeir eru ofan við Vatnagarðana, sem fyrr voru nefndir. Neðan þeirra er lægð með vatni í, sem heitir Leirlág. Niður og austur af henni, niður við sjó, er Miðaftansvarða. Svo er austur af Sjónarhól flöt, glögg hæð, sem heitir Jakobsvarða. Þar austar er svo önnur, sem heitir Goltrarhóll. Ofan við Jakobsvörðu, upp undir vegi, neðan Smalaskála, er Smalaskálahellir. Þar austar, rétt neðan vegar, er Nónhólakerið fyrrnefnda, sem er skammt frá Rauðamel. Niður af Goltrarhól er Sigðarhóll, og austur af honum er svo hóll, sem heitir Spói.
SmalaskálafjárskjólNú er að fara upp fyrir þjóðveginn. Þar er ofan við gamla veginn hátt hraunholt, sem heitir Smalaskáli. Á því, á gjárbarmi, eru leifar eftir smalahús. Í þennan hól austanverðan er ker. Smalaskálahæðir heitir hæðin hér í kring.“
Í annarri örnefnalýsingu fyrir Óttarsstaði segir að Smalaskálaskjól sé við Fjárborgargötuna (sjá meira HÉR), neðan við þjóðveginn. Hér er átt við gamla malarþjóðveginn, sem notaður var allt fram á sjöunda áratug síðustu aldar. Fjárborgargatan frá Óttarsstöðum lá til suðausturs upp að Fjárborginni vestan við Smalaskálahæð.
Þegar Fjárborgargatan var gengin neðan frá Jakobsvörðu áleiðis upp að Smalaskálahæð kom fljótlega í ljós lítil en fallega hlaðin varða á bergbarmi. Skammt ofar var komið að stóru jarðfalli, grösugu. Grasið var enn gult sem að vori, nema lægðin framan við hellisop. Framan við opið voru leifar af hleðslu. Líklegt má telja að þarna sé Smalaskálaskjól. Smalaskálinn fyrrnefndi er skammt ofar, ofan við þjóðveginn.

Smalaskáli

Smalaskáli.

 

Hrauntungustígur

Gengið var eftir Hrauntungustíg frá Krýsuvíkurvegi að malargryfjunum, sem eru á sunnan vegarins, á milli hans og Hrauntungu. Eini sýnilegi hluti stígsins, sem ekki hefur enn verið eyðilagður, er um 300 metra langur. Hann sést greinilega í tiltölulega sléttu hrauninu og síðan upp hraunbakka við gryfjurnar.

Hrautungustígur

Hrauntungustígur.

Efst á bakkanum er varða, en við hana hefur stígurinn verið tekinn í sundur. Hann sést síðan handan við gryfjurnar þar sem hann kemur inn í Hrauntunguna. Tungan er stór gróin tóa inni í nýrra mosahrauni. Þegar stígnum er fylgt inn í gegnum tunguna má sjá vörðu upp á hraunhól á vinstri hönd. Handan við hólinn er jarðfall. Í jarðfallinu er stór birkihrísla. Við norðurjaðar þess er stór fyrirhleðsla með opi á. Innan við opið er smalaskjól (Hrauntunguskjól). Þegar komið er út úr Hrauntungunni að vestanverðu er stutt upp í Kolbeinshæðaskjólin og þaðan upp í Straumssel.

Hrauntungustígur

Hrauntungustígur austan Hrútfells.

Þá var Stórhöfðastíg fylgt í gegnum Dyngnahraun við Stórhöfðahraun. Eins og við Hrauntungustíginn hefur Stórhöfðastígurinn af skammsýni verið hreinsaður upp að hluta þar sem eru stórar malargryfjur. Ef gryfjurnar hefðu verið örlítið norðar hefði stígurinn sloppið. Við norðausturjaðar þeirra er stór hraunklettur. Stígurinn liggur niður með klettinum og liðast síðan um hraunið í átt að suðurhorni Stórhöfða. Stígurinn hefur einhvern tímann verið ruddur hluta leiðarinnar og þannig gerður akfær inn í hraunið. Ruðningurinn endar við háan flatan hraunstand. Frá honum til norðurs sést gamli Stórhöfðastígurinn vel þar sem liggur að línuvegi, sem liggur þvert á hann. Þegar komið er yfir línuveginn liggur stígurinn um nokkuð slétt helluhraun alveg að höfðanum. Á leiðinni eru nokkur lítil jarðföll og stór hraunskúti, en engir hellar. Stórhöfðastígurinn á þessum kafla er nú einungis heill á u.þ.b. 500 metra kafla. Sunnan við Krýsuvíkurveginn liggur hann upp og suður í hraunið með stefnu í vörðu á hraunhól. Stígurinn er óljós á nokkrum kafla í grónu hrauninu, en þegar komið er ofar í það verður hann aftur greinilegur. Hann er varðaður á hluta leiðarinnar, en þar sem hann liggur í áttina og ofan við Fjallið eina er stígurinn vel greinilegur. Hann liggur síðan upp með Húshelli, framhjá Hellinum eina (Steinbogahelli) og áfram suður með vestanverðri Hrútargjárdyngju og upp á Ketilsstíg.
Frábært veður.

Kolbeinshæðaskjól

Kolbeinsstaðaskjól.

Krýsuvík

Þegar Krýsuvíkurtorfan var skoðuð komu m.a. í ljós tóftir 12 bæja frá fyrri tíð. Þeir hafa ekki allir verið í ábúð á sama tíma, en undir það síðasta, í byrjun síðustu aldar og rétt framundir hana miðja, voru þó a.m.k. 6 bæir í ábúð. Síðast lagðist Vegghamarbúskapur af 1938 á Stóra-Nýjabæ. Leifar þess bæjar, Litla-Nýjabæjar og Krýsuvíkurbæjarins voru loks jafnaðar við jörðu með jarðýtu skömmu fyrir 1960.
Þótt mannvistarleifar Krýsuvíkursvæðisins séu allmerkilegar eru jarðminjarnar allt umhverfis það engu að síður. Sem dæmi má nefna jarðhitasvæðin í Baðstofu og Hveradal, í Seltúnsgili og á Austurengjum. Þá má telja svæðið austan Stóra-Nýjabæjar, eins aðgengilegt en jafnframt fáfarið og það er, sælgætiskassi útivistarunnenda, með Rauðöldu, Vegghamar og Víti sem bragðbæti.
Þegar FERLIR var að skoða bæjarsvæðin rákust augu í forna tóft á Bæjarfellshálsi. Tóftin er grjóthlaðin, um 6.00×4.80m. Op er mót suðri. Yfir henni liggur mosi og lyng. Hleðslur eru greinilegar. Að sjá virðist hún vera mjög gömul. Í fyrstu mætti ætla að þarna hefði verið fjárborg, en lögun hennar sem og hleðsla í vesturenda benda til annarra nota. Þessarar fornleifar er hvorki getið í fornleifaskráningu fyrir Krýsuvík né fornleifaskráningu fyrir Suðurstrandarveg, sem á að liggja þarna skammt frá.

Tóft á Bæjarfellshálsi

Þá er tóftarinnar ekki getið í örnefnalýsingum fyrir Krýsuvík. Þar segir einungis: „Vestan Krýsuvíkurtúngarðs framan í Bæjarhálsi eða Bæjarfellshálsi er Krýsuvíkurrétt, þar var rekið að á vorin. Hér vestur undan fellinu er svo nefnd Krýsuvíkurheiði eða Vesturheiði.“
Tóft þessi er allgreinileg. Telja verður líklegt að á Krýsuvíkursvæðinu kunni að leynast ófáar fornleifar, sem enn hafa ekki verið skráðar.
Aðrar mannvistarleifar, mun yngri, eru sunnar í Krýsuvíkurheiðinni vestri.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 2 mín.

Heimildir m.a.:
-Gísli Sigurðsson, örnefnalýsing fyrir Krýsuvík.

Húshólmi

Útsýni yfir Krýsvíkurbjarg af sjávarstígnum við vestari Bergsenda.

 

Hetta

Gengið var upp á Sveifluháls eftir Ketilsstíg frá Seltúni, framhjá Arnarvatni með Arnargnípu á hægri hönd og að Ketilsstígsvörðu ofan við Ketilinn á vestanverðum hálsinum. Þaðan var þokkalegt útsýni yfir Móhálsadalinn, yfir að Hrútafelli, Fíflvallafjalli og Mávahlíðum. Vindurinn reyndist steindauður – stafalogn – svo hlíðarnar spegluðust í vatninu.

Arnarvatn

Arnarvatn.

Þá var stefnan tekin til suðurs eftir svonefndri Sveiflugötu (-stíg), en hann mun hafa leið frá Ketilsstíg, suður með vestanverðu Arnarvatni og upp fyrir Hettu, þar sem Hettuvegur liggur frá Vigdísarvöllum yfir hálsinn til Krýsuvíkurbæjanna. Vel mótar fyrir Hettuveginum í hæðunum norðan Bleikingsdals, en síðan verður hann jarðlægur eftir að hækka tekur. Á þessu svæði eru sandásar, leirhlíðar og jarðskrið svo eðlilegt er að þar sjáist stígurinn ekki. Hins vegar sést hann enn vel á kafla neðst og á einum stað hátt í suðvestanverðri Hettu þar sem hann gengur inn á Sveifluna.

Ketilsstígur

Ketilsstígur.

Í fjallsás þar sem sést til sjávar, drangar girða og lind í lautu streymir, breyttist einn þátttakenda í hempuklæddan boðbera vorsins og flutti ljóðið „Fylgd“ eftir Guðmund Böðvarsson þar sem minnt er á hver eigi landið og hver tilheyri landinu. Átti vel við í upphafi sumars.
Gengið var niður af Sveifluhálsi að austanverðu skammt sunnan við Sveifluna og staðnæmst við Krýsu, margflókna styttu í líki listaverks, utan í hálsinum. Þaðan var gengið niður að Gestsstöðum, hinum forna bæ Krýsuvíkur. Loks var stefnan tekin á tóttir bæjarins Fells sunnan Grænavatns og gengið að Engjahver (Austurengjahver), sem skartaði sinni miklu litadýrð sem aldrei fyrr.
Til baka var gengið vestur yfir Vesturengjar sunnan Litla-Lambafells og hringnum lokað á Seltúni.
Gangan tók 3 og ½ klst í logni og stillu.

Hetturstígur

Hettustígur.

Krýsuvík

Í örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar fyrir Krýsuvík getur hann m.a. um nokkur örnefni og minjar þeim tengdum, s.s. tóftir bæjar er nefndur er Hnaus (Garðshorn), Nýjabæjarétt, Spegilinn og Vitlausa Garð. Ákveðið var að skoða alla staðina m.v. fyrirliggjandi lýsingar. Á göngunni kom ýmislegt annað áhugavert í ljós.
NyjabaejarettÍ örnefnalýsingunni segir: „Austur með læknum lá Krýsuvíkurstígur og yfir hann upp í Grásteinsmýri. Þar voru Litlabrú og Stórabrú, lítilfjörlegar vegabætur um mýrina. Gatan lá svo vestanhalt við Grástein og undir Hrossaklettum um Móholt og Réttarholt og hjá Grjóthól og við Grjóthálsrétt sem nefndist Nýjabæjarrétt sem var hringhlaðin eins og fjárborg. Aðeins sér móta fyrir henni rétt við veginn. Hér norður af er túnbali að sjá. Hér stóð Nýibær litli eða Litli-Nýibær á Bæjarhólnum í miðju Litla-Nýjabæjartúni. Nú sér ekki lengur marka fyrir Litla-Nýjabæjartúngörðum. Suður frá Grjóthólsrétt stóð Stóri-Nýibær eða Nýibær stóri á Nýjabæjarhól eða Stóra-Nýjabæjarhól því sem næst í miðju Stóra-Nýjabæjartúni. Nýjabæjartraðir lágu heim vestan frá Grjóthól. Nýjabæjartúngarðar lágu að túninu að norðan, Norðurtúngarður að Traðarhliðinu. Vesturtúngarður frá Traðarhliðinu og allt vestur og niður um túnið, að Suðurtúngarði.“

Hnaus

Hnausar í Krýsuvík.

Aftur heim til Krýsuvíkurbæjar. „Traðirnar láu frá austurvegg bæjarins bak við Kirkjugarðinn og síðan til suðurs og niður að Læknum. Norðurtúnið lá allt að Norðurkoti, sem virðist hafa verið eitt af aðalhjáleigunum. Eiginlega stóð Norðurkotsbærinn utan túns. Norðurkotstraðir láu úr túninu heim að bænum og framhjá honum. Norðurkotsrústirnar, eru gleggstu rústirnar sem enn eru sjáanlegar í Krýsuvíkurhverfinu. Úr tröðunum liggur stígur yfir að Snorrakoti rétt norðan við Norðurkot og lengra út á mýrinni er Garðshorn, sem einnig var nefnt Hnaus. Túnblettir fylgdu þessum bæjum. Norðurkotstún, Garðshornsblettur og Hnausblettur.“
SpegillinnKrýsuvíktúngarðar voru mikil mannvirki. Reiknast um 5 kílómetrar að lengd. Hafi þeir verið 1½ metri á hæð 1½ metri þykkir að neðan og 0,50 metr. að ofan, mætti gera sér í hugarlund hve mikið hefur farið í þá og þá gera sér ljóst þetta mikla verk. „Austurtúngarður lá ofan úr Felli hjá Norðurkoti og niður að Læk, Krýsuvíkurlæk. Suðurgarðurinn eða Lækjargarðurinn nyrðri lá austan frá Garðshorni með fram öllum læknum að norðanverðu. Austur undan kirkjunni var Traðarhliðið og þar Vaðið. Austan við það var Vatnsbólið, en neðan Uppistaðan og þar var Millan má enn sjá lítið eitt af Millutóttinni. Traðargarðarnir voru miklir og standa enn. Traðargarðurinn eystri og Traðargarðurinn vestri, Traðargarðurinn syðri lá sunnan lækjarins. Austan frá Hnaus. Sunnan Vaðsins var Lækur Lækjarbærinn.
Uppi á Arnarfelli er Arnarfellsvarða eða Tyrkjavarða. Sagt er að hún hafi verið hlaðin nokkru eftir Tyrkjaránið. Eru þar ummæli á, að meðan hún stendur muni tyrkir ekki koma og ræna Krýsuvíkurstað. Fram undan, eða vestur undan Fellinu er Stekkjarmýri og suður frá henni Arnarfellstjörn og örfokaland þar umhverfis. Austan í fellinu nær miðju er garður. Af grjóti í fellinu, en af torfi er út kemur á mýrina, Arnarfellsgarður. Hann tengist þvergarðinum vestri og því myndast þarna gerði eða afgirt beitarland. Var þarna kúabeit, enda kallaður Kúablettur. Í bletti þessum var lítil tjörn, nefndist Spegillinn. Þarna var einnig allgóð mójörð, og Mógrafir.
KrysuvikurgardarBæjarfell er ekki stórt, en setur þó svip á umhverfið. Stekkjarstígur lá úr Norðurkotströðum austan í fellinu að garði þar, sem nefndur var Vitlausi Garður. Þegar hlaðnir höfðu verið allir hinir garðarnir og byrjað var á þessum, þótti hjáleigubændum í Krýsuvík nóg komið af görðum og töldu þessa garðhleðslu því hina mestu vitleysu. Þar af er nafnið komið. Stígurinn liggur í gegnum Vitlausagarðshlið.“
Hnaus er ekki að finna á korti með aðalskiplagi Hafnarfjarðar í Krýsuvík. Líklegt mætti telja að leifar eftir kotið væri annað hvort að finna í mýrinni suðvestan við Grjóthól (Réttarhól) eða austan túnbletts austan Norðurkots (austan núverandi vegar) á svipuðum slóðum og Lækur er nú. Þar er horn á eldri garði er komu saman garðar Snorrakots og Lækjar. Lækjar er ekki getið í manntali 1802.
UppistaðanÍ manntalinu árið 1845 eru 8 bæir í byggð í Krýsuvíkursókn. Árið 1822, höfðu bæst við nýbýlið Lækur og hjáleigurnar Vigdísarvellir og Bali. Að Læk bjó Halldór Magnússon og Margrét Þorleifsdóttir ásamt tveimur börnum og móður húsbóndans.
Hinir löngu og miklu túngarðar í Krýsuvík eru flestir beinir og nýrri en hinir eldri og minni og krókóttari garðar, s.s. frá Norðurkoti, Snorrakoti og næst Læk. Umhverfis Læk eru einnig beinni, hærri og lengri garðar. Bendir það til þess að nýbýlið hafi verið reist upp úr eldra býli, Hnausum. Ef vel er að gáð má sjá eldra bæjarstæði í miðju eldri garðsins. Burst horfði mót suðri og beggja vegna voru jafn stór torfhýsi er notuð hafa verið til annarra nota síðar. Fjárhústóft er austast í túngarðshorninu. Sunnan þess er heykumlsgarður. Þar gæti hafa áður verið lítið kot; Garðshorn.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 2 mín.

Heimild:
-Gísli Sigurðsson – örnefnalýsing fyrir Krýsuvík.

Krýsuvík

Krýsuvík – uppdráttur ÓSÁ.

Krýsuvík

Í Aðalskipulagi Hafnarfjarðar 2005-2025 fyrir Krýsuvík segir m.a.:
Krysuvik-8„Krýsuvík var heil kirkjusókn og eitt mesta höfuðból landsins með mörgum hjáleigum. Munnmæli herma að byggðin hafi upphaflega verið í Húshólma, óbrennishólma í sunnan verðu Ögmundarhrauni. Þar er mjög fornt bæjarstæði sem kallað er Hólmastaður í eldri heimildum. Hjáleigur voru að jafnaði fimm til átta talsins en í gömlum heimildum er getið um 13 býli. Á heimajörðinni voru Suðurkot, Norðurkot, Snorrakot, Stóri-Nýibær, Litli-Nýibær, Arnarfell og nýbýlið Lækur. Fjær voru kotin Vigdísarvellir, Bali, Fitjar og Fell. Kaldrani stóð við suðvesturenda Kleifarvatns og Gestsstaðir sunnan Krýsuvíkurskóla.
Krýsuvíkurkirkja
KrysuvikurkirkjaKrýsuvíkurkirkju er fyrst getið í kirkjuskrá Páls Jónssonar Skálholtsbiskups um 1200. Margt bendir til að kirkja hafi risið í Krýsuvík á fyrstu áratugum kristni, en núverandi kirkju byggði Beinteinn Stefánsson á Arnarfelli 1857. Þetta er lítið guðshús einfaldrar gerðar, án turns, og eina húsið sem enn stendur á bæjarhólnum. Kirkjan var aflögð sem helgidómur og rúin öllum verðmætum 1929. Eftir það notaði einbúinn Magnús Ólafsson, síðasti íbúi Krýsuvíkur, hana sem íbúðarhús til 1945. Endurbygging kirkjunnar hófst 1957 og var hún endurvígð 31. maí 1964 og færð Þjóðminjasafninu til eignar. Árið 1997 var Sveinn Björnsson listmálari jarðsettur í kirkjugarðinum en þá voru liðin 80 ár frá síðustu greftrun þar. Á vorin er haldin messa í kirkjunni og altaristafla eftir Svein hengd þar upp, en tekin niður við messu á haustin og færð til vetrarvistar í Hafnarfjarðarkirkju.

Krýsuvík kemst í eigu Hafnarfjarðarbæjar
Magnus olafssonUm 1930 var erfitt að stunda búskap í kringum Hafnarfjörð, bæjarbúar voru sjálfum sér ekki nógir um neyslumjólk og beitiland vantaði fyrir sauðfé. Ekki fékkst aukið ræktarland úr Garðakirkjulandi og var þá farið að svipast um eftir öðrum jörðum nærri bænum. Krýsuvík þótti álitlegust og ritaði bæjarstjórn Hafnarfjarðar Einari Benediktssyni bréf í janúar 1933 og spurðist fyrir um hvort jarðeignir hans í Krýsuvík eða Herdísarvík væru fáanlegar til kaups. Tveimur árum síðar átti bærinn kost á að kaupa Krýsuvík fyrir 50.000 krónur og tók jörðina á leigu á fardögum 1935 til eins árs, með það í huga að kaupa hana síðan með gögnum og gæðum. Með lögum nr. 11, 1. febrúar 1936 var ríkissjóði heimilað að taka eignarnámi lönd í lögsagnarumdæmi Hafnarfjarðar og lönd sem liggja að Hafnarfirði. Eftir það upphófst mikið málaþras um væntanleg kaup bæjarins á jörðum Krýsuvíkur og Stóra-Nýjabæjar og afnotaréttinn. Gekk á þessu í nokkur ár þar til lögunum var breytt og tóku lög nr. 101, gildi 14. maí
1940.
Krysuvik-2Þar sagði að Gullbringusýsla skyldi fá í sinn hlut lítt ræktanlegt beitiland jarðanna Krýsuvíkur og Stóra-Nýjabæjar til sumarbeitar fyrir sauðfé samkvæmt skiptagerð frá 1. maí 1939, en Hafnarfjarðarkaupstaður fengi jarðirnar að öðru leyti með öllum gögnum og hlunnindum, sem þeim fylgdu og fylgja bæri, að undanteknum námuréttindum. Hinn 20. febrúar 1941 gaf Dóms- og kirkjumálaráðuneytið út afsal fyrir Krýsuvík til Hafnarfjarðar.

Framkvæmdir og rekstur
KrysuvikÁrið 1935 var ákveðið að leggja Suðurlandsbraut um Krýsuvík til að fá snjóléttan vetrarveg milli Árnessýslu og Reykjavíkur. Árið 1945 var lagningu vegar fyrir Kleifarvatn lokið og árið eftir hófst borun eftir jarðhita í Krýsuvík.
Gróðurhús voru reist og tekin í notkun í mars 1949 ásamt húsi fyrir starfsfólk. Tveimur árum síðar hófst bygging bústjórahúss og 130 gripa fjóss sem aldrei var lokið því 1950 var framkvæmdafé á þrotum. Þá hafði ræst úr mjólkurskorti bæjarbúa með bættum samgöngum við Suðurland. Framkvæmdir hófust að nýju í Krýsuvík 1954 er 15 hektarar voru teknir í fulla ræktun. Keypt voru 100 gimbralömb og flest varð féð um 650 áður en þessum rekstri var hætt nokkrum árum síðar. Gróðrarstöðin og búskapurinn gengu ekki vel og illa hélst á starfsfólki. Var búrekstri af hálfu bæjarins hætt í Krýsuvík 1960. Eftir það voru húsin leigð til einstaklinga sem ráku þar ýmiskonar starfsemi, þar á meðal gróðurhús, svínabú og refabú svo fátt eitt sé talið.

Vinnuskóli
VinnuskolinnÁrið 1953 kom Hafnarfjarðarbær á fót vinnuskóla í Krýsuvík fyrir drengi á aldrinum 10-13 ára. Dvöldust um 40-50 drengir í Krýsuvík frá júníbyrjun til ágústloka, en komu heim til sín aðra hverja helgi. Bjuggu þeir í íbúðarhúsi því sem reist hafði verið fyrir starfsfólk gróðrarstöðvarinnar. Drengirnir stunduðu ýmis störf meðan á sumardvölinni stóð, fóru í leiki, stunduðu íþróttir og fóru í gönguferðir um nágrennið. Árið 1960 var tekið við drengjum frá 8-12 ára og dvölinni skipt upp í tvö fimm vikna holl. Voru rúmlega 50 piltar í hvoru holli og var nú meiri áhersla lögð á léttari störf og leiki ýmiskonar. Lauk þessari starfsemi árið 1964.

Bústjórahúsið verður Sveinshús
Bústjórahúsið var reist árið 1948 fyrir Jens Hólmgeirsson sem átti að stjórna kúabúinu í Krýsuvík. Hann flutti aldrei í húsið og aldrei kom til þess að kýr yrðu bundnar á bása í fjósinu. Árið 1952 sagði Jens stöðu sinni lausri og eftir það var húsið notað í stuttan tíma fyrir stjórnendur vinnuskólans í Krýsuvík. Árin liðu, húsið grotnaði niður og var mjög illa farið þegar Sveinn Björnsson listmálari fékk það til afnota 1974. Hann gerði húsið upp, flutti þangað málaratrönur, pensla, liti og húsbúnað og kom sér upp vistlegri vinnustofu.
SveinssafnSveinn hafði tekið þátt í að reisa þaksperrurnar á fjósinu í Krýsuvík á sínum tíma og þekkti því staðhætti. Þarna starfaði hann að list sinni þar til hann lést 1997. Húsið ber þess merki að þar hefur listamaður verið að störfum. Sveinn skreytti loft, veggi og hurðir hússins og lagði tröppurnar litskrúðugum teppabútum. Nú kallast bláa húsið með rauða þakinu ekki lengur Bústjórahúsið heldur Sveinshús eftir listmálaranum og rannsóknarlögreglumanninum Sveini Björnssyni,
sem sá til þess að húsið endaði ekki sem gapandi tóft, heldur öðlaðist virðulegan sess sem listasetur.

Skátar
Skátar í Hraunbúum reistu skátaskála við Hverahlíð við suðurenda Kleifarvatns 1945-46. Þennan skála nýttu skátar á sumrin og veturna um langt árabil. Á áttunda áratugnum fengu skátarnir afnot af hluta heimatúns Krýsuvíkurjarðarinnar og komu sér þar upp aðstöðu. Reistu þeir lítinn skála í gömlu fjárhústóftinni og sléttuðu túnið. Á þessum stað halda Hraunbúar árlegt vormót sitt á hvítasunnunni.

Krýsuvíkurskóli
KrysuvikurskoliUm miðjan áttunda áratuginn hófust miklar byggingaframkvæmdir á mel sunnan Gestsstaðavatns, en þar var ætlunin að reisa skóla fyrir unglinga sem þyrftu á sérúrræðum að halda. Áður en byggingunni var lokið var fallið frá hugmyndinni og stóð húsið autt um margra ára skeið eða þar til Krýsuvíkursamtökin fengu það til afnota 1986. Hafa þau rekið þar meðferðarheimili, uppeldis- og fræðslustofnun fyrir fíkniefnaneytendur. Á heimilinu dvelja að jafnaði 20 Íslendingar og Svíar í einu og eru þar frá sex mánuðum upp í tvö og hálft ár. Máttur náttúrunnar er augljós í Krýsuvík og styður við hugmyndfræðina sem notuð er við meðferðina.“

Heimild:
-Aðalskipulag Hafnarfjarðar 2005-2025 fyrir Krýsuvík, 20. janúar 2006, lagfært 20. mars 2006, greinargerð 2.

Krýsuvík

Fjósið í Krýsuvík.

Krýsuvíkurkirkja

Eftirfarandi grein skrifaði Hrafnkell Ásgeirsson í Morgunblaðið eftir að hafa setið messu í Krýsuvíkurkirkju árið 2000. Innihaldið gefur ágætar upplýsingar af sögu svæðisins. Á fyrri hluta tuttugustu aldar lagðist kirkjusókn í Krýsuvík niður og var kirkjan afhelguð á árinu 1929. Hrafnkell Ásgeirsson segir hér frá messu í Krýsuvíkurkirkju.

Hrafnkell

„Á HVÍTASUNNUDAG, 11. júní sl., sóttum við hjónin messu í Krýsuvíkurkirkju. Hér var um að ræða upphaf árþúsundaverkefnis Hafnarfjarðarbæjar. Prestur var síra Gunnþór Ingason, prestur í Hafnarfjarðarkirkju.
Presturinn skýrði frá því að skv. ákvörðun þjóðminjavarðar hefði verið fest upp mynd í kirkjunni af Birni Jóhannessyni, velgjörðarmanni kirkjunnar, eins og komið verður að hér á eftir og hengd yrði upp eftir vetrarsetu altaristafla, máluð af Sveini heitnum Björnssyni, listmálara og rannsóknarlögreglumanni í Hafnarfirði. Þá hefði kirkjunni verið afhent frá móðurkirkjunni í Hafnarfirði biblía, skrautrituð af Ingólfi P. Steinssyni, tengdasyni Björns Jóhannessonar.
Kirkjan var þéttsetin enda ekki stór. Þegar ég leit yfir hópinn gerði ég mér grein fyrir að stór hluti kirkjugesta voru afkomendur síðustu ábúenda í Stóra-Nýjabæ í Krýsuvík, hjónanna Kristínar Bjarnadóttur og Guðmundar Jónssonar. Þau voru mikið dugnaðarfólk, eignuðust 18 börn, eitt lést í æsku en öll hin 17 komust til manns. Eiginmaðurinn tók sjálfur á móti mörgum barnanna í fæðingu enda ekki um marga íbúa að ræða í sveitinni. Þegar þau brugðu búi á fyrri hluta síðustu aldar fluttust þau til Hafnarfjarðar og flest barna þeirra fluttust einnig til Hafnarfjarðar.
Stori-NyibaerÁ mínum yngri árum vann ég með nokkrum sona þeirra hjóna í fiski. Þetta voru dugnaðarmenn sem höfðu frá ýmsu að segja. Ég var í barnaskóla og Flensborg með nokkrum barnabörnum þeirra hjóna og þetta var hörkunámsfólk.
Kirkjan var byggð árið 1857, smiður var Beinteinn Stefánsson, afi Sigurbents heitins Gíslasonar, byggingarmeistara í Hafnarfirði, sem bjó lengst af við Suðurgötuna, en sá endurbyggði kirkjuna. Á fyrri hluta tuttugustu aldar lagðist kirkjusókn í Krýsuvík niður og var kirkjan afhelguð á árinu 1929.
Þegar ég sat í kirkjunni kom mér í hug að eftir afhelgun kirkjunnar notaði Magnús Ólafsson í Hafnarfirði, faðir byggingarmeistaranna Ólafs og Þorvarðar Magnússona, kirkjuhúsið sem íverustað. Ekki var þar mikið rými fyrir sex manna fjölskyldu.
Krysuvikurkirkja-3Björn Jóhannesson, bæjarfulltrúi og forseti bæjarstjórnar, var mikill hugsjónamaður. Hann helgaði líf sitt verkalýðs- og bæjarmálum í Hafnarfirði. Hann hafði næmt auga fyrir því sem ekki mátti farga og var reiðubúinn að leggja sinn skerf fjárhagslega til þess þótt hann hafi aldrei verið neinn efnamaður.
Ég nefni þar aðeins tvö dæmi: Varða hafði lengi staðið á Ásfjalli og sást hún vel frá Hafnarfirði. Einhverra hluta vegna hafði varðan fallið. Beitti hann sér fyrir því að smala saman hópi manna til þess að leggja fram fé til að endurhlaða vörðuna og fékk síðan hagleiksmann til verksins. Björn sagði að það vantaði stórt í ásýnd bæjarins þegar varðan væri ekki til staðar.
Á sjötta áratug síðustu aldar fékk Björn heimild bæjaryfirvalda í Hafnarfirði til þess að endurbyggja kirkjuna í Krýsuvík en Krýsuvík var þá orðin eign Hafnarfjarðarbæjar. Kostaði hann sjálfur endurbyggingu hennar og réð smiðinn Sigurbent Gíslason, mikinn völundarsmið, til verksins.
Krysuvikurkirkja-6Fórst Sigurbent verkið vel úr hendi eins og vænta mátti. Kirkjan var síðan endurvígð 31. maí 1964 af þáverandi biskupi, Sigurbirni Einarssyni, að viðstöddu fjölmenni og var þá um leið afhent þjóðminjaverði til varðveislu.
Að lokinni messu neyttu kirkjugestir súpu í Krýsuvíkurskóla þar sem nú er unnið merkt og fórnfúst starf.
Vinnustofa Sveins heitins Björnssonar listmálara í Krýsuvík var þennan dag opnuð almenningi. Kirkjugestir skoðuðu vinnustofu Sveins undir leiðsögn sona hans. Sveinn lést árið 1997 og var grafinn í kirkjugarðinum í Krýsuvík.
Það var friðsæl og hátíðleg stund á hvítasunnudag í kirkjunni í Krýsuvík.“

Heimild:
-Hrafnkell Ásgeirsson, mbl.is, Laugardaginn 1. júlí, 2000.

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja endurgerð.

Krýsuvík

Gengið var um Krýsuvíkurtorfuna.

Krýsvík

Krýsuvík – örnefni.

Í Krýsuvíkurlandi eru tóftir 17 bæja, en að þessu sinni voru 12 þeirra, er stóðu næst höfuðbólinu, skoðaðar, þ.e. Krýsuvíkur, Norðurkots, Snorrakots, Hnauss (Hnausa) er einnig var nefnt Garðshorn, Gestsstaða, Fells, Litla-Nýjabæjar, Stóra-Nýjabæjar, Lækjar, Arnarfells, Suðurkots og Vesturkots. Mönnum hefur greint á um staðsetningu Hnausa. Í örnefnalýsingu GS segir að Hnaus hafi verið lengra út í mýrinni norðan Norðurkots og Snorrakots, við stíg frá enda Norðurkotstraða. Skv. því hefur Snorrakot verið tómthús, reyndar örindiskot. Í örnefnalýsingu AG er Snorrakot staðsett norðaustan Norðurkots. Hnaus er ekki að finna á korti með aðalskiplagi Hafnarfjarðar í Krýsuvík. Líklegt má telja að þar sem merkt er Snorrakot á korti hafi Hnaus og Garðshorn verið, enda eru örnefni þar sem benda til þess, s.s. Hnausblettur og Garðshornsblettur í mýrinni austan við Norðurkot. Hnausgarður var annað nafn á Norðurkotstúngarði. Snorrakot hefur þá verið þar sem það er merkt á kort, í sömu tóftum og hin kotin fyrrnefndu. Líklega hafa þau verið stuttan tíma í ábúð hverju sinni og þá tekið mið af byggingargerð og útliti, staðsetningu þar sem garðurinn víxlast og húsráðanda þess tíma. Tóft efst við milligarð Norðurkots hefur væntanlega tilheyrt Snorrakoti.

Garðshorn

Tóftir Garðshorns.

Í manntalinu árið 1845 eru 8 bæir í byggð í Krýsuvíkursókn. Árið 1822, höfðu bæst við nýbýlið Lækur og hjáleigurnar Vigdísarvellir og Bali. Að Læk bjó Halldór Magnússon og Margrét Þorleifsdóttir ásamt tveimur börnum og móður húsbóndans.
Hinir löngu og miklu túngarðar í Krýsuvík eru flestir beinir og nýrri en hinir eldri og minni og krókóttari garðar, s.s. frá Norðurkoti, Snorrakoti og næst Læk. Gamli túngarður er heitið á innri túngarðinum í Krýsuvík. Svipaður garður er umhverfis Læk. Umhverfis hann eru einnig beinni, hærri og lengri garðar. Bendir það til þess að nýbýlið hafi verið reist upp úr eldra býli sem sjá má leifar af í miðju túninu. Burst horfði þar mót suðri og beggja vegna voru jafn stór torfhýsi er notuð hafa verið til annars síðar. Fjárhústóft er austast í túngarðshorninu.
Utar og niður með bjargi stóðu Fitjar og Eyri, ofar og vestar voru Vigdísarvellir og Bali og ofar í Krysuvik 1887landnorður var Kaldrani.
Í örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar fyrir Krýsuvík segir m.a. um bæjartorfuna: „Höfundur þessarar örnefnalýsingar er Gísli Sigurðsson lögregluvarðstjóri í Hafnarfirði. Aðalheildarmaður var Ólafur Þorvaldsson og Krýsuvíkurbræður, synir Guðmundar í Krýsuvík, aðallega tveir; voru fluttir til Hafnarfjarðar, annar bjó á Holtsgötu ?, en hinn í Þorgeirstúni. Skráin var unnin á milli 1960–70.
Krýsuvík [er] fornt höfuðból í Grindavíkurhreppi. Nú í eyði. Kirkjustaður, annektia ýmist frá Strönd í Selvogi eða Stað í Grindavík.
Landamerki jarðarinnar eru: Að austan gegnt Herdísarvík þessi: Seljabót við sjó. Þaðan beina línu í Sýslustein á Herdísarvíkurhrauni. Þaðan um Lyngskjöld miðjan. Þaðan í Stein á Fjalli. Þaðan í Brennisteinsfjöll í Kistufell. Þaðan í Litla Kóngsfell, sem er gamall gígur, suður frá Grindarskörðum.
Að norðan gegnt upprekstrarlandi Álftaneshrepps hins forna: Litla Kóngsfell, þaðan Krysuvik 1910um Lönguhlíðarfjall í Markraka á Undirhlíðum, þaðan í Markhelluhól. Þá gegnt Vatnsleysustrandar-hreppi og Grindavíkurhreppi: Markhelluhóll, þaðan um Dyngjufjöll og vestur Núpshlíðarháls í Dágon, klettadrang við Selatanga.
Krýsuvíkurbærinn stóð á svo nefndum Bæjarhól hallaði honum niður til suðurs og var þar Hlaðbrekkan. Suð-austan við bæinn stóð Kirkjan í Kirkjugarðinum. Hallaði hér einnig niður frá Kirkjunni, bæði sunnan við að framan og austan til bak við, Kirkjubrekkan. Krýsuvíkurtúnið var eiginlega allstórt. Í lægð undan Hlaðbrekkunni, voru í eina tíð þrjár stórar þúfur, sem nú hafa verið sléttaðar út. Nefndar Ræningjadysjar, þar áttu þrír Tyrkir að hafa verið vegnir og dysjaðir.

Krysuvik - vadid

Ræningjahóll er hryggur sem gengur vestur túnið allt að garði. Suður af honum var Suðurtún eða Suðurkotstún, en neðst í stóð Suðurkotsbærinn. Vestast í túni þessu, heitir Kinn. Lækjartún lá niður undan Brekkunum. Austurtún lá austan traðanna. Vesturtún lá vestast í túninu norðan við hrygginn. Þar var í eina tíð Vesturkot, og því nefnt Vesturkotstún. Norðurtúnið var stærsti hluti túnsins, lá bak við bæinn, vestan hans og norðan. Lægð var eftir túninu endilöngu, nefndist Dalur. En upp frá honum Brekkan. Hesthúskofatótt var vestarlega í henni. Þar vestar var Hellisbrekkan. Uppundir klettunum var Lambahellir eða Bæjarfellshellir. Traðirnar láu frá austurvegg bæjarins bak við Kirkjugarðinn og síðan til suðurs og niður að Læknum. Norðurtúnið lá allt að Norðurkoti, sem virðist hafa verið eitt af aðalhjáleigunum.

Norðurkot

Norðurkot í Krýsuvík 1892.

Eiginlega stóð Norðurkotsbærinn utan túns. Norðurkotstraðir lágu úr túninu heim að bænum og framhjá honum. Norðurkotsrústirnar, eru gleggstu rústirnar sem enn eru sjáanlegar í Krýsuvíkurhverfinu. Úr tröðunum liggur stígur yfir að Snorrakoti rétt norðan við Norðurkot og lengra út á mýrinni er Garðshorn, sem einnig var nefnt Hnaus. Túnblettir fylgdu þessum bæjum. Norðurkotstún, Garðshornsblettur og Hnausblettur.
Krýsuvíktúngarðar voru mikil mannvirki. Reiknast um 5 kílómetrar að lengd. Hafi þeir verið 1½ metri á hæð 1½ metri þykkir að neðan og 0,50 metr. að ofan, mætti gera sér í hugarlund hve mikið hefur farið í þá og þá gera sér ljóst þetta mikla verk.

Krysuvik - Laekur

Austurtúngarður lá ofan úr Felli hjá Norðurkoti og niður að Læk Krýsuvíkurlæk. Suðurgarðurinn eða Lækjargarðurinn nyrðri lá austan frá Garðshorni með fram öllum læknum að norðanverðu. Austur undan kirkjunni var Traðarhliðið og þar Vaðið. Austan við það var Vatnsbólið, en neðan Uppistaðan og þar var Millan má enn sjá lítið eitt af Millutóttinni. Traðargarðarnir voru miklir og standa enn. Traðargarðurinn eystri og Traðargarðurinn vestri Traðargarðurinn syðri lá sunnan lækjarins. Austan frá Hnaus. Sunnan Vaðsins var Lækur Lækjarbærinn. Má enn sjá nokkuð vel rústir hans. Hér vestan við láu Þvergarðar tveir. Þvergarðurinn eystri og Þvergarðurinn vestri og allbreitt svæði milli þeirra. Nefndist Milli garða.
Ofurlítill túnkragi Lækjartún lá kringum bæinn. Lækur var byggður upp nýr af nálinni kringum 1830. Hét sá Krysuvik - nordurkotGuðmundur er það gerði. Gekk ætíð undir nafninu Hellna-Guðmundur. Hellna-Gvendur. Kringum Millutóttina var Milluflötin. Vesturtúngarðar voru eiginlega tveir Innri Túngarður eða Gamli Túngarður lá í hlykkjum og krókum niður vestast í Hellisbrekkunni. Allt út á hólinn sunnan Vesturkots. Vesturtúngarðurinn yngri lá aftur á móti ofan úr klettum Bæjarfells ofanvert við Lambahellir, hlaðinn af grjóti efst. En af torfuhnausum er neðar kom og beint suður. Við Lækinn þar sem hann rann út úr túninu komu Lækjargarðarnir í hann. Áfram lá garðurinn allt austur um Arnarfell, fell er rís upp suð-vestur frá Krýsuvíkurbæ. Og upp í skriður fellsins og er þar hlaðinn af grjóti. Á garðinum miðjum undan Arnarfellsbæ er Arnarfellstúngarðshliðið. Við vesturrana fellsins liggur Vesturgarður Arnarfellstúns upp spölkorn í fellið. Arnarfellsbærinn stóð í miðju túni og má enn sjá rústir hans. Kringum hann var Neðratúnið.

Krysuvik - vitlausi gardur

Upp þaðan lá slóði í Efratúnið (74), sem var í slakka vestan í fellinu. Þar var Fjárhúsrúst og í klettunum þar upp af var Arnarfellshellir eða Kristínarhellir. Saga er til sem skýrir nafn þetta. Kristín hét vinnukona í Krýsuvík. Hún lagði hug á vinnumann á bænum, en hann vildi ekki þýðast hana. Varð hún hugsjúk af þessu og hvarf. Var hennar leitað en hún fannst ekki. Eftir nokkurn tíma kom hún svo heim og sagðist hafa dvalið í helli þessum. Hellirinn liggur upp í móti og er í honum steinn, sem er hið besta sæti. Uppi á Arnarfelli er Arnarfellsvarða eða Tyrkjavarða. Sagt er að hún hafi verið hlaðin nokkru eftir Tyrkjaránið. Eru þar ummæli á, að meðan hún stendur muni tyrkir ekki koma og ræna Krýsuvíkurstað. Fram undan, eða vestur undan Fellinu er Stekkjarmýri og suður frá henni Arnarfellstjörn og örfokaland þar umhverfis. Austan í fellinu nær miðju er garður. Af grjóti í fellinu, en af torfi er út kemur á mýrina.

Stinuhellir

Arnarfellsgarður. Hann tengist þvergarðinum vestri og því myndast þarna gerði eða afgirt beitarland. Var þarna kúabeit, enda kallaður Kúablettur. Í bletti þessum var lítil tjörn, nefndist Spegillinn. Þarna var einnig allgóð mójörð, og Mógrafir.
Bæjarfell er ekki stórt, en setur þó svip á umhverfið. Stekkjarstígur lá úr Norðurkotströðum austan í fellinu að garði þar, sem nefndur var Vitlausi Garður. Þegar hlaðnir höfðu verið allir hinir garðarnir og byrjað var á þessum, þótti hjáleigubændum í Krýsuvík nóg komið af görðum og töldu þessa garðhleðslu því hina mestu vitleysu. Þar af er nafnið komið. Stígurinn liggur í gegnum Vitlausagarðshlið. Og áfram með fellinu, að stórum steini Hafliða. En við stein þennan var Hafliðastekkur. Stígur þessi var einnig nefndur Kirkjustígur, því hann fór kirkjufólkið frá Vigdísarvöllum og Bala, þegar það fór Hettuveg.

Stori-Nyibaer

Norður af er túnbali að sjá. Hér stóð Nýibær litli eða Litli-Nýibær á Bæjarhólnum í miðju Litla-Nýjabæjartúni. Nú sér ekki lengur marka fyrir Litla-Nýjabæjartúngörðum. Suður frá Grjóthólsrétt stóð Stóri-Nýibær eða Nýibær stóri á Nýjabæjarhól eða Stóra-Nýjabæjarhól því sem næst í miðju Stóra-Nýjabæjartúni. Nýjabæjartraðir láu heim vestan frá Grjóthól. Nýjabæjartúngarðar láu að túninu að norðan, Norðurtúngarður að Traðarhliðinu. Vesturtúngarður frá Traðarhliðinu og allt vestur og niður um túnið, að Suðurtúngarði. Að austan var Nýjabæjarlækur. Hann átti upptök sín spölkorn fyrir ofan túnið í Dýjakrókum.

Krysuvik - Tradir

Í Norðurtúninu var fjárhús, nefndist Járnhús var fyrsta útihúsið, sem þakið var klætt með járni. Kring um það var Járnhúsflöt. „

Í örnefnalýsingu Ara Gíslasonar segir m.a.: „Krýsuvík var um langan aldur sérstök kirkjusókn með hjáleigum sínum, þar til nú fyrir nokkrum árum. Sé Stór-Nýibær talinn tvíbýlisjörð, eins og mun hafa verið fram undir síðustu aldamót, og sé því ennfremur trúað, að byggð hafi verið á Kaldrana, þá hafa hjáleigurnar verið fjórtán og heitið svo:

Stóri-Nýibær (Austurbær): 1703 nefndur einn Nýibær. 1816: nefndur svo. 1847: eins.
Litli-Nýibær (Vesturbær): 1816: nefndur svo. 1847: eins.
Litli-Nýibær: 1703 nefndur svo. 1816: nefndur svo. 1847: eins.
Krysuvik 2010Norðurkot: 1703: Norðurhjáleiga. 1816: nefnt svo. 1847: eins.
Suðurkot: 1703: Suðurhjáleiga. 1816: nefnt svo. 1847: eins.
Lækur: 1703: ekki nefnt. 1816: ekki nefnt. 1847: eins.
Snorrakot: 1703: ekki nefnt. 1816: ekki nefnt. 1847: ekki nefnt.
Hnaus: 1703: ekki nefnt. 1816: ekki nefnt. 1847: ekki nefnt.
Arnarfell: 1703: ekki nefnt. 1816: ekki nefnt. 1847: ekki nefnt.
Fitjar: 1703: ekki nefnt. 1816: ekki nefnt. 1847: ekki nefnt.
Gestsstaðir : 1703: nefnt í eyði. 1816: ekki nefnt. 1847: ekki nefnt.
Vigdísarvellir: 1703: ekki nefnt. 1816: ekki nefnt. 1847: nefnt.
Bali: 1703: ekki nefnt. 1816: ekki nefnt. 1847: nefnt.
Kaldrani: 1703: ekki nefnt. 1816: ekki nefnt. 1847: ekki nefnt.

Krýsuvík

Krýsuvík – túnakort 1918 lagt ofan á loftmynd. ÓSÁ

Verður nú reynt að staðsetja býli þessi bæði við það, sem komið er og mun koma síðar. Krýsuvík hefur nú staðið um langan aldur norðvestur frá Arnarfelli, undir austanverðu Bæjarfelli, sem er norðvestur frá Arnarfelli og nokkru hærra. Nyrzt í heimatúni var svo Norðurkot, Snorrakot og Hnaus. Tvö hin síðastnefndu hafa verið smábýli í Norðurkotstúni, og má benda á það, að norðausturhorn túnsins heitir Snorrakotstún; smálækur skilur það frá aðaltúninu. Syðst í túninu var Suðurkot, og austan við bæjarlækinn var svo býlið Lækur. Landnorður frá Krýsuvík eru svo bæirnir Stóri- og Litli-Nýibær.“
Frábært veður, þrátt fyrir þoku (sem er bara eðlilegur veðurþáttur í Krýsuvík). Gangan tók 3 klst og 3 mín.

Heimildir m.a.:
-Örnefnalýsing Ara Gíslasonar fyrir Krýsuvík.
-Örnefnalýsing Gísla Siguðrssonar fyrir Krýsuvík.

Krýsuvík

Horft til Krýsuvíkur úr Hveradal.