Ármannsfell

„Gagnheiði heitir nú millum Ármannsfells og Súlna, uppblásin sandheiði; hún er nefnd við för Órækju í Skálholt vIIþ., 158 k., I.b., bls. 396. Það lítr helzt út fyrir, að þessi leið vegr millum Ármannsfells og Súlna hafi verið farinn, þegar koma skyldi sunnarlega í Þingvallasveitina eða þegar farið var fyrir sunnan Þingvallavatn; annarstaðar er eigi Gagnheiði nefnd.

Armannsfell-221

Þessi örnefni eru öll nefnd í röð eftir í Sturld. við þingreið Þorgils Oddasonar og hafa þau öll sama nafn enn: Víðikjörr, Háls (þ.e. Tröllaháls), Sandvatn, Klyftir, (Sandklyftir) Ármannsfell, Sleðaás. Sumir hafa haldið og halda enn, að Sleðaás sé sama og Tröllaháls. Á Íslandskortinu eftir Björn Gunnlaugsson er Sleðaás settur ofan til við Tröllaháls, og Sveinn Pálsson talar um í Dagbók sinni 1772, að Sleðaás sé einnig þar (sbr. Kålund I, bls. 151), enn þetta getur með engu móti verið rétt, sögurnar sanna það. Sleðaás heitir enn í dag ásklifið, sem gengur suður úr Ármannsfelli fyrir ofan grænu brekkuna, sem kallaður er Bás, og Sleðaáshraun heitir þar niður undan. Grettissaga Kh. 1853 nefnir Sleðaás, bls. 31, þar sem höfðingjarnir áðu, er þeir riðu af þingi, og Grettir hóf steininn, er sagan segir að liggi þar í grasinu. Enginn slíkur steinn er þar nú, sem líklegur er til að vera Grettistak, og enginn hefir neitt vitað um hann með vissu um langan tíma. Grettissaga tekur, bls. 76, betur af tvímælin með Sleðaás: „Hann (Þórhallr) gekk upp undir Sleðaás ok suðr með fjalli því, er Ármannsfell heitir; þá sá hann, vel verið, og að hann hafi legið austur undir Hrafnabjörg. Enn nafnið Sviðningi er nú týnt, sem Ölkofraþáttur talar um að heitið hafi síðan, þar sem skógarnir brunnu.“

Sleðaás

Sleðaás – Steinanir við Sleðaás (Matthías Þórðarson).

Í Árbók Hins íslenska fornleifafélags árið 1910 segir hins vegar um hinn sama stein: „IX. Grettishaf (á Innra-Sleöaási ?) – Svo segir í Grettissögu, k. 16: »En er þeir riðu af þingi, höfðingjarnir, áðu þeir uppi undir Sleðaási, áðr en þeir skildu. Þá hóf Grettir stein þann, er þar liggur í grasinu ok nú heitir Grettishaf. Þá gengu til margir menn að sjá steininn, ok þótti þeiin mikil furða at svá ungr maðr skyldi hefja svá mikit bjarg«. Sleðaás hét þegar á Sturlungatíð klettaraninn suður úr Ármannsfelli. En blágrýtisbjargið, sem liggur vestanundir honum, segja kunnugir menn að fallið hafi úr brún hans fyrir ekki mjög löngu. Það bjarg getur þá ekki hafa verið tekið fyrir »Grettishaf«. En í Syðri-Víðikerum, fyrir innan Tröllaháls, er enn stærra ísaldarbjarg, sem hjátrúin hefir kallað »Grettishaf « eða »Grettistak«, og til að koma þessu í samhljóðan við söguna hefir Tröllaháls ósjálfrátt verið gjörður Sleðaási. Ólíklegt er nú samt, að það sé bjargið í Víðikerum, sem söguritarinn hefir í huga. Og að minsta kosti eru menn nú horfnir frá þeirri fjarstæðu. Mun nú almennast haldið að frásögn Grettlu um »Grettishaf« sé ekki annað en tilefnislaus þjóðsaga. Tilefnislaus mun hún samt ekki vera. Mér er, meira að segja, nær að halda, að eg hafi séð hið réttnefnda Grettishaf. En það er ekki neitt heljarbjarg. Og það er ekki á þeim Sleðaási, sem Sturlunga nefnir. Það er á rana þeim sem gengur norðaustur úr Ármannsfelli fyrir innan Sandkluftavatn (nú Sandvatn), en fyrir sunnan Tröllaháls.

Sleðaás

Grettistak við Sleðaás.

Það er vel getandi til, að þessi rani hafi heitið Innri-Sleðaás fyrrum: Það má næstum kalla hann sleðamyndaðan. Sagt er, að vegurinn hafi áður legið um vestari kluftina og fyrir vestan vatnið. Þar fór eg eitt sinn, því þá var vatnið svo fullt af leysingavatni, að ekki varð komist fyrir austan það. Á leiðinni inn með vatninu að vestan blasir raninn við manni. Sá eg, að dálítil strýta stóð upp úr honum á einum stað, hélt eg fyrst að þar sæti örn, en sá, er nær dró, að svo var ekki. Sunnan í rananum er fögur grasbrekka og hefir vel mátt ægja þar hestum, er þessi leið var farin. Þar áði eg hesti mínum og gekk upp á ranann þar, sem eg hafði séð strýtuna. Þar er þursabergsklöpp og á henni tveir blágrýtishnullungar. Er annar næstum teningsmyndaður, en hinn óreglulega eggmyndaður, og er sá settur ofan á hinn þannig, að mjórri endinn veit upp.
Kom mér í hug, að það kynni Grettir að hafa gjört. Virtist mér steinninn hæfilega stór til þess. Nú í sumar (1910) virti eg steinana betur fyrir mér. Leizt mér svo á, að tveim óvöldum mundi fullfengið að hefja hinn efri stein af jafnsléttu og setja hann upp á hinn steininn. En fyrir einn mann, og hann aðeins 15 ára, mætti það telja furðulegt þrekvirki. Sé nú þetta steinninn, sem Grettir hóf, þá mun söguritarinn ekki hafa séð hann sjálfur, því um þennan stein verður ekki sagt, að hann »liggi í grasinu«. Og af orðalagi söguritarans virðist mega ráða, að hann hafi hugsað sér steininn nokkuð stærri en þessi er. Þessi steinn gat þó borið nafn, sem örnefni (»Grettishaf«), meðan vegurinn lá vestanmegin vatnsins, því þá blasti hann lengi við tilsýndar — hann er svo settur. Af veginum fyrir austan vatnið sést hann þar á mót ekki, hefir því gleymst eftir að vestri leiðin var lögð niður. Það gat líka orðið til þess, að Sleðaássnafnið var fært upp á Tröllaháls. Og það lá enn beinna við, ef það er rétt til getið, að raninn, sem steinninn er á, hafi heitið svo. Hann er svo nærri Tröllahálsi.“
„Í sögnum í Grettlu segir um stein þennan: „- Stundum víkja munnmælasögurnar meir frá bóksögunni. Grettis saga getur reyndar nokkurra steina ákaflega stórra sem Grettir hafi reynt afl sitt á, tekið upp, látið undir þá aðra steina og sett þá þar ofan á; er það kallað að setja eða hefja stein á hlóðir. Einn þeirra er á Sleðaási á Kaldadalsvegi fyrir ofan Þingvallasveit, annar á Hrútafjarðarhálsi og hinn þriðji í Hítardal; eru þeir hver um sig kallaðir Grettishaf.“

Heimildir:
-Árbók Hins íslenska fornleifafélags 1880, bls. 41-42.
-Árbók Hins íslenska fornleifafélags, 25. árg, 1910, bls. 39-40.
-Snerpa.is – gretla…

Sleðaás

Steinn við Sleðaás (Matthías Þórðason).

Keflavík

Ætlunin var að ganga til suðurs um Fjárskjólshraun undir Geitarhlíð við Krýsuvík með viðkomu í Fjárskjólshraunshelli og Fjárskjólshraunsfjárskjólinu, sem hraunið mun draga nafn sitt af, en halda síðan niður í hina skjólgóðu Keflavík og berja gatklettinn augum. Á loftmynd mátti sjá djúpan gíg norðaustan við Keflavíkina. Austan hennar virðist vera hrauntjörn. Svo var að sjá að hún væri í stefnu neðanvert við enda Bálkahellis, sem gat gefið enn eina von um óvænta aðkomu.

Krýsuvíkurhraun

Krýsuvíkurhraun.

Til baka var ætlunin að ganga um Klofninga með viðkomu í Bjálkahelli og hinum þjóðsagnakennda Arngrímshelli (Gvendarhelli).
Hraunssvæðið/-in, sem hér um ræðir, hafa freistað fárra, enda á fárra vitorði öll merkilegheitin er berja má augum. Ekki eiungis er svæðið sérstak (séríslenskt) heldur felur það í sér minjar og sögur liðinna alda – ef grannt er skoðað. Eru hvorutveggja ágæt dæmi um hvernig landsmenn nýttu sér efni og aðstæður til að þrauka til núlifandi kynslóða. Hversu lítillátt fólk kann að vera nú til dags verður þetta afrek forfeðra og -mæðra okkar að teljast einhverrar viðurkenningar verðar. Þessi ferð var m.a. liður í slíkri viðurkenningu – síðasti hefðbundi göngudagurinn fyrir jólahátíðina 2007. Hafa ber þó í huga að „jólin“ sem slík hafa gjarnan verið ígildi hátíðar eða veislu af fleiru en einu tilefni.
Ferðin var líka kjörið tækifæri til að léttast svolítið fyrir væntanlegt þungmeti jólahátíðarinnar og líta fyrstu geisla hækkandi sólar augum.
Þegar gengið er um hraunssvæðið kemur fljótt í ljós að afurðirnar, sem myndað hefur það, eru nokkrar. Miðjan er bæði tiltölulega slétt og gróin. Þar er eldra hraunið, sem myndar undirstöður annarra hrauna, en flest eiga þau uppruna sinn í Stór og Litlu-Eldborg, auk gíga ofan Sláttudals í Geitahlíð.

Fjárskjólshraun

Fjárskjólið í Fjárskjólshrauni.

Þegar komið var niður niður í Fjárskjólshraun var gengið að opi Fjárskjólshraunshellis, sem þar leynist í grónu jarðfalli. Erfitt er að koma auga á það í víðfeðmninu. Það sést ekki nema staðið sé á brún þess. Niðri er komið í skúta undir berghellunni, en með því að fara til vinstri var komið niður í rúmgóða mannhæðaháa hraunrás. Rásin var alveg heil. Hún er lág í fyrstu, en breið, og um 100 metra löng og endar í fallegum hraungúlp, sem hefur runnið þarna niður í rásina og storknað. Svo virðist sem gúlpurinn hafi bæði þrengt sér upp úr gólfinu og komið út úr veggnum að ofan. Sérkennilegt jarðfræðifyrirbrigði. Gólfið er alveg slétt. Rásin lækkar á tveimur stöðum, en hægt er að ganga hálfboginn þar um. Breidd rásarinnar er um 6 metrar og jafnvel meira á köflum. Neðst er op til hægri. Þegar komið er inn fyrir hana tekur við lágur salur. Rás liggur inn úr honum, tvískipt. Þessi rás er um 40 metra löng. Í heild er hellirinn því um 140 metra langur. Litlir dropsteinar sáust, en að öðru leyti virðist vera lítið um skraut í hellinnum. Flögur eru utan á veggnumá einum stað, líkt og í Leiðarenda. Neðst, þar sem hliðarrásin er, er mikill hraungúlpur, líkur þeim, sem er efst í hellinum. Þetta er fallegur hellir og vel þess virði að skoða hann. Hellir, sem ekki er hægt að skemma og því tilvalinn fyrir áhugafólk.

Gatkletturinn

Leitað var að opum bæði ofan og neðan við jarðfallið. Neðan við það er annað jarðfall, sennilega hluti af sömu rás. Farið var þar inn og reyndist vera um gamalt greni að ræða. Þarna eru nokkur gömul greni á tiltölulega afmörkuðu svæði.
Gengið var áfram niður Fjárskjólshraunið. Sunnan undir lágum hraunhól eru mjög fornar grónar hleðslur fyrir fjárskjóli í hrauninu. Þetta eru í raun miklar hleðslur fyrir rúmgóðum skúta, en vel sést móta fyrir hlöðnum innganginum, sem er alllangur. Hellirinn sjálfur hefur hýst hátt í hundrað kindur. Fyrirhleðslur eru inni í hellinum á þremur stöðum. Mold er í gólfi. Við fyrirhleðsluna, vinstra megin við innganginn er inn er komið hefur verið hleðsla er líkist bæli eða klefa. Þar gæti hugsanlega hafa verið skjól fyrir þann eða þá er sátu yfir ánum í hrauninu. Ekki er ósennilegt að fjárskjólið sé það er hraunið hefur dregið nafn sitt af – Fjárskjólshraun. Ofan við fjárskjólið var vörðubrot.
Þegar fjárskjólið var skoðað betur mátti sjá mjóa fæðurásina innst í því miðju. Hlaðið hafði verið litlum steinum til að varna því að fé færi þar inn. Þar sem gólfið var bæði blaut og þakið mold var ekki ráðlegt að skríða þar inn til að athuga með framhaldið. Þessi hellir hefur orðið til líkt og Strandarhellir og Bjargarhellir í Strandarhæð. Glóandi hraunkvika í lokaðri rás hefur mætt fyrirstöðu um stund, en vegna þrýstings hefur hún hlaðist upp og þakið storknað áður en hún fann sér leið áfram og tæmdi rýmið.

Keflavík

Bergið við Keflavík.

Samkvæmt loftmynd átti að vera gígur nokkru suðvestar. Þrátt fyrir nokkra leit fannst opið ekki, en þess verður leitað aftur síðar.
Á leiðinni niður í Keflavík mátti sjá Skyggnisþúfu nokkru austar. Hún er þar sem hraunið ofan við Krýsuvíkurberg ber hæst mót Herdísarvík. Á þúfunni er varða, Skilaboðavarða. Í hana voru sett boð, sem menn vildu að bærust á milli bæjanna.

Bálkahellir

Í Bálkahelli.

Af bjargbrúninni austan við Keflavík blasti við mikill gatklettur, sem skagar út frá því. Brimið lék sér við hann, auk þess sem sólargeislar þessa stysta dags ársins spegluðu sig í haffletinum.
Hraunkaflinn ofan við Keflavíkina er allúfinn. Engu líkara er að þarna hafi verið grunnir pollar ofan á eldra bergi, en þegar hraunið rann þar yfir ýfðist kvikan og safnaðist í hrauka. Fjárgata liggur í gegnum hraunið ofan við bergið. Skammt áður en komið er í Keflavík mátti sjá gróna götu liggja annars vegar upp hraunið og hins vegar áfram að ofanverðri víkinni, sem einnig var nefnd Kirkjufjara.
Keflum hafði verið safnað í hrauk uppi á bjargbrúninni.

Í Bálkahelli

Í Bálkahelli.

Í Kirkjufjöru í Keflavík má sjá hluta af gamla Krýsuvíkurbjargi og fagurt útsýni er úr víkinni austur eftir berginu. Víkin dregur nafn sitt af keflunum, sem nóg virðist vera af, auk plastbelgja. Gatkletturinn sést vel frá víkinni þar sem hann stendur út af berginu að austanverðu. Svonefndir Geldingasteinar eru efst á bjargbrúninni, gulir af fuglaglæðu og öðrum grófari féttum. Vestan þeirra lækkar nýrra hraunið og stallast. (Sjá meira undir Keflavík).
Þá var haldið til baka upp og yfir grófa hraunkaflann. Ofan hans tekur gróna hraunsvæðið við, auðvelt yfirferðar. Stefnan var tekin á Bálkahelli.
Engar sagnir eru til af Bálkahelli aðrar en þær að hann er nefndur nafni sínu í sögunni um Grákollu. Hellirinn fannst þegar einn FERLIRsfélaginn segja má datt niður um eitt snjóþakið opið. Niðri reyndist vera um 250 metra langur hellir, vel manngengur, tvískiptur og dulúðlegur. Dropasteinar á gólfum og hraunstrá í loftum. Hraunbálkar eru með veggjum innan við efsta og stærsta opið. Hellirinn er um 450 metra langur.
Neðsti hluti Bálkahellis er hvað heillegastur. Í henni lækkað rásin nokkuð en hækkar að nýju uns gólf og loft koma alveg saman. Þarna undir vegg eru tvö stór hraundríli. Farið var til baka og niður aðalgönginn. Þau beygja fyrst til hægri og síðan aftur til vinstri. Þessi göng eru um 200 metra löng og ekkert hrun nema svolítið fyrst.

Arngrímshellir

Í Arngríms- / Gvendarhelli.

Hellirinn er mjög breiður og þarna á gólfum eru fjölmargir dropasteinar og hraunstrá hanga í loftum. Fara þarf varlega um göngin. Hraunnálar eru í lofti. Þessi hluti hellisins hefur varðveist mjög vel og full ástæða til að fara þarna mjög varlega. Um er að ræða einn fallegasta helli á Reykjanesi. Neðst beygir hann enn til hægri og þrengist síðan. Í þrengslunum tekur við samfelld dropasteinabreiða.
Skoðað var að nýju upp rásina í neðsta jarðfallinu. Hún er víð og há uns hún lækkar og þrengist. Loks koma gólf og loft saman. Þessi hluti er um 40 metrar. Þá var haldið niður í miðrásina, á móti þeirri, sem skoðuð var áður. Hún lokast loks í þrengslum, en mikið er um fallega dropasteina og hraunnálar. Alls er þessi hluti hellisins um 100 metrar.

Hleðsla við op Gvendarhellis/Arngrímshellis

Op Gvendar- / Arngrímshellis.

Loks var gengið upp úr miðjarðfallinu og upp aðalhellinn. Hann er víður og hár. Skammt fyrir ofan opið skiptist hellirinn í tvennt og hægt að fara umhverfis tvær breiðar hraunsúlur, en meginrásin er til hægri. Ekki er hægt að villast í Bálkahelli.  Haldið var áfram upp rásina og yfir hrun, sem þar er ofarlega. Þá sést í efsta opið og bálkana beggja vegna, en af þeim mun hellirinn draga nafn sitt. Samtals er Bálkahellir um 450 metra langur, sem fyrr sagði, fyrst hár og víður, en nokkuð hrun, síðan hraunsúlur og syllur, dropsteinar og hraunstrá. Neðsti hluti hans þó sýnum fallegastur.

Bálkahellir

Í Bálkahelli.

Að lokum var Arngrímshellir (Gvendarhellir) skoðaður, en frásagnir eru til um hellinn er hann var notaður sem fjárhellir á 17., 18. og 19. öld. Gamlar sagnir eru til af því. Hleðslur eru fyrir opum og er tótt framan við stærsta opið, það nyrsta. Inni í hellinum eru allmiklar hleðslur. Hellirinn er bjartur og auðvelt að skoða sig um þar inni, jafnvel ljóslaus.
Sagan segir að Arngrímur frá Læk í Krýsuvík hafði fyrir aldamótin 1700 fé sitt í helli í Klofningum í Krýsuvíkurhrauni. Við hellisopið byggði hann lítið fallegt hús úr rekaviði. Var það talið sérstaklega til frásagnar að rúðugler var í gluggum hússins. Fénu beitti Arngrímur í Klofningana sem og í fjöruna, sem þó er all stórbrotin neðan þeirra. Í hrauninu skammt ofan brúnar gamla bergsins má einnig sjá mannvistarleifar í helli. Arngrímur hélt 99 ær og eina að auki frá systur sinni. Sú kind var grákollótt og nefnd Grákolla. Um jólaleytið gerði mikið óveður á þessum slóðum og hraktist féð fram af berginu. Arngrímur gafst upp á að reyna að bjarga fénu. Grákolla barðist þó gegn óveðrinu og reyndi Arngrímur þrívegis að kasta henni fram af bjarginu eftir hinu fénu. Jafnoft tókst henni að krafla sig upp aftur í snjónum og ákvað Arngrímur þá að láta þar við sitja. Komust þau bæði við illan leik í hellinn. Síðan er sagt að allt fé Krýsuvíkurbænda hafi verið af nefndri Grákollu komið.
Eftir aldamótin var Arngrímur við sölvatöku í berginu undan Klofningum er jarðskjálfti reið yfir Suðurland. Féll bjarg á hann og lét hann lífið. Annar maður, sem með honum var, slapp og varð til frásagnar. Sá stökk undan fellunni í sjóinn og gat bjargað sér.

Gvendarhellir

Tóft við Gvendar- / Arngrímshelli.

Enn er hægt að greina tóftina af húsi Arngríms við hellisopið, sem og hleðslur inni í honum. Engar sagnir eru hins vegar til af Bálkahelli, sem er þar austar í hrauninu, önnur en sú, sem um getur í þessari frásögn af Grákollu. Er hann sagður þar skammt frá og að nafn sitt dragi hellirinn af bálkum innan við opið.
Í Blöndu VI 187 segir um þennan sama helli að Guðmundur nokkur hafi gætt á vetrum fjár síns við helli einn í Klofningahrauni, Gvendarhelli, og hélt því mjög til beitar. Framan við hellinn byggði hann skemmu með opi á miðju og sést hún enn þá. Rétt inn af skemmunni afgirti hann skáp úr hellinum og geymdi þar lömbin, ef illt var veður og þörf var á að gefa þeim. Þar hafði hann og rúm sitt, er hann hlóð upp úr grjóti og þakti svo með gæruskinnum, er hann lá á. Út frá hellinum var veðursæld mikil og hagar fyrir sauðfé svo góðir að aldrei brugðust. Guðmundur var þarna um 1830.
Hellirinn hefur fengið að vera nokkurn veginn í friði. Í honum má enn sjá hleðslur fyrir munna, tóft við meginopið, flórað gólfið að hluta, hlaðna stíu og fyrirhleðslur. Stígur liggur frá hellinum vestur yfir hraunið, áleiðis til Krýsuvíkur.
Ekki er vitað nákvæmlega um aldur þessara hrauna. Samkv. upplýsingum Kristjáns Sæmundssonar, jarðfræðings, er hraunið úr úr Stóru-Eldborg frá fyrri hluta nútíma, þ.e. töluvert eldra en 5000-6000 ára. Hitt úr Litlu-Eldborg er yngra. Það gæti verið kringum 5000-6000 ára.
Frábært veður. Gangan tók 4 klst og 4 mín.

Arngrímshellir

Í Arngrímshelli.

 

Þrínúkar

Farið var í hellana í Þríhnúkahrauni og Húsfellsbruna upp úr Þjófakrikum undir hlíðunum vestan við Eyra.

Þríhnúkar

Í Þríhnúkum.

Eyra er lítill gígur utan í hlíðinni. Hellarnir eru þarna í sléttu helluhrauni, en Húsfellsbruni hefur runnið yfir þá að hluta þannig að a.m.k. tveir hellanna liggja undir hann.

Haldið var upp hlíðina og þá komið að fallegum litskrúðugum uppstreymisgíg á brúninni. Frá því sést vel í Þríhnúka nokkru sunnar. Austar eru miklar hrauntraðir, sem ætlunin var að skoða í bakaleiðinni. Gengið var því beint á hæstu hæð, sem hefur að geyma hinn þekkta Þríhnúkahelli.

Þríhnúkagígur

Þríhnúkagígur – op.

Þríhnúkar eru þrjú eldvörp ásamt hraunum á lögsagnarmörkum Kópavogs og Garðabæjar í Bláfjallafólkvangi. Þríhnúkar eru meðal sérstæðustu eldstöðva á Íslandi. Tveir austari hnúkarnir eru eldgígar frá nútíma, en þriðji gígurinn og sá vestasti er úr móbergi frá ísöld. Í austasta gígnum, Þríhnúkagíg, sem er innan Kópavogslands, er geysistór, tómur gígketill, um 120 m djúpur. Þetta er dýpsti lóðrétti hraunhellirinn á Íslandi sem vitað er um og jafnvel þótt víðar væri leitað. Á gígbotninum tekur við um 115 m langur hellir með 50° halla. Gígketillinn er einstaklega fallegur, botnsléttur og litadýr. Gott útsýni er frá Þríhnúkum til allra átta.

Sunnan við gígana er hraunbóla með hurð fyrir, en skammt norðvestan við hana er fallegt uppstreymisop. Gengið var austan við sunnanverða Þríhnúka, að mikilli hrauntröð, sem þar er. Fyrst var fyrir djúp gjá. Í hana verður ekki farið nema á bandi. Fróðlegt væri að vita hvað hún hefur að geyma.

Þríhnúkar

Skilti við Þríhnúka.

Hraunhaft er austan gjárinnar, en síðan tekur við opin hrauntröð er sveigist til norðurs undan hallanum og fram af brúninni þar sem áður var komið upp. Í tröðinni eru brýr og brúnir. Nyrst utan í rásinni, áður en hún fer fram af hlíðinni, er fallegur hellir.
Blanka logn og hiti. Gangan tók 2 klst og 2 mín.

Heimild m.a.
-http://www.kopavogur.is/displayer.asp?cat_id=418

Eyra

Eyra.

Strompahellar

Stefnan var tekin á Bláfjöll, nánar tilekið Strompasvæðið. Strompahraunið er auðugt af hellum, s.s. Langahelli, Djúpahelli, Tanngarðshelli, Krókudílahelli, Rótahelli, Ranghala, Rósahelli, Bátahelli, Goðahelli og fleirum, sem munu koma við sögu síðar í FERLIRslýsingum af þessu svæði. Nú var ætlunin hins vegar einungis að skoða svæðið kíkja í Langahelli.

Langihellir

Í Langahelli.

Á leiðinni um Bláfjallaveginn var ákveðið að kíkja í Dauðadalahellana undir Markraka. Þar er Flóki einna lengstur og margflóknastur, eins og nafnið ber með sér. Ekki er ráðlegt að fara niður og inn í hann nema með öðrum og þá eftir að hafa gert ákveðnar ráðstafanir áður því auðvelt er fyrir ókunnuga að villast í hellinum. Aðrir smáhellar eru þarna í hrauninu, sem vert að að skoða.

Stromparnir í Strompahrauni eru fallegir smágígar, mosavaxnir. Neðan þeirra er hraunið holuga. Langihellir er um 700 metra langur í heildina. Hann er vestan við Djúpahelli.

Strompahellar

Í Strompahellum.

Meginhellirinn er um 300 metra langur. Ekkert hrun er í honum og því auðveldur í umgengni. Haldið var upp hraunrásina. Á tveimur stöðum skín dagsbirtan inn, en síðan tekur við langur gangur þar sem hellirinn lækkar nokkuð. Innar hækkar hann aftur og skiptist hann þá í tvær megináttir. Þessar rásir ligga um mjög sveran hraunstöpul. Þegar inn fyrir er komið sést falleg hraunsúla. Utan í henni, á stalli, eru allmörg hraunkerti. Hraunkerti eru einnig á gólfum. Skammt þarna fyrir innan er útgangur upp úr hraunrásinni. Nyrsti hluti Langahellis nefnist Goðahellir. Áður hafa verið margir dropasteinar í efri hluta hellisins, en nú er búið að brjóta þá flesta.
Vegna þess hve botninn er sléttur og engu hruni fyrir að dreifa í hellnum, sem telst kostur, er auðvelt að fara um hann með krakka.

Heimildir m.a.:
-Hraunhellar á Íslandi eftir Björn Hróarsson

Bláfjallahellar

Bláfjallahellar – uppdráttur ÓSÁ.

Óttarsstaðasel

Gengið var frá Óttarsstaðafjárborginni, öðru nafni Kristrúnarborg, skammt sunnan við Reykjanesbraut ofan við Lónakot, og inn á Alfararleið. Landamerki Óttarsstaða og Lónakots eru þarna skammt vestar. Fjárborgin er stundum nefnd Kristrúnarborg eftir Kristrúnu Sveinsdóttur frá Óttarsstöðum, sem hlóð hana ásamt vinnumanni sínum, Guðmundi Sveinssyni, um 1870.

Óttarsstaðaborg

Óttarsstaðaborg.

Austan við fjárborgina eru hraunhæðir, Smalaskálahæðir. Syðst í því er stórt og mikilfenglegt jarðfall, Smalaskálaker, með rauðamelsgúl í miðjunni. Í því er útilistaverk; lítið hús með ranghverfu. Hreinn Friðfinsson, myndlistamaður, reisti það 1974 og nefndi Slunkaríki (það er nú horfið (eftir stendur ótilgreint útlitsverk á sama stað)).
Leiðinni var fylgt skamma leið til vesturs uns komið var að Lónakotsselsstíg. Honum var fylgt upp að Lónakotsseli, en áður en komið var að selinu var gengið vestur með norðanverðum hraunhólunum og skoðað þar í kring. Gengið var að vörðunni efst á hólnum ofan við selið. Stendur hún við fallega sprungu á Skorási. Myndar hvorutveggja myndræna umgjörð um Keili ef horft er þaðan til suðurs.

Lónakotssel

Lónakotssel.

Norðaustan undir hólnum kúra tóttir selsins, fjórar talsins. Suðaustan þeirra er fallegur stekkur og annar skammt norðar, handan lágrar hæðar. Opið vatnsstæði er skammt sunnar, en það þornar örugglega í þurrkum. Vestan við selið er stórt jarðfall. Í því er fallega hlaðinn stekkur og fjárskúti, nefndur kvenmannsnafni.
Um 20 mínútna gangur er í austur yfir í Óttarsstaðasel. Há varða sunnan þess segir til um stefnuna. Rétt áður en komið er að selinu, skammt sunnan vörðunnar, er fallega hlaðið fjárskjól.

Óttarsstaðasel

Óttarsstaðasel.

Handan hraunhólsins birtist selið. Sunnan þess er hlaðinn stekkur. Vestan þess er skúti í jarðfalli, en þangað hefur líklega verið sótt vatn ef vatnsstæðið sunnan selsins þornaði. Það er þó bæði stórt og vatnsgott. Suðaustan selsins eru miklar hleðslur. Innan þeirra er nátthagi. Sunnan selsins eru hlaðið fyrir fjárskjól. Sennilega heitir þar Rauðhólsskúti, en fjárskjólið vestan selsins Þúfhólskjóls. Engar merkingar eru þarna frekar en í hinum seljunum 139 á Reykjanesi. Skammt norðan við Rauðhólsskúta er nátthagi með hlaðið gerði fyrir hraunlægð.

Óttarsstaðasel

Óttarsstaðasel – nátthagi.

Óttarsstaðaselsstígur liggur til norðurs beint við tóttina. Eftir að hafa gengið spölkorn eftir henni er komið í hvamm. Sunnan í honum eru hleðslur fyrir fjárskjóli, Norðurskúti. Ef stígunum er fylgt áfram til norðurs birtist fljótlega há varða á vinstri hönd, skammt vestan stígsins. Undir henni er Sveinshellir í jarðfalli, falleg hleðsla á tveimur stöðum. Fyrir opinu er birkihrísla svo erfitt er að greina opið á sumartíma. Þegar farið er í gegnum hraunið áfram til norðurs er komið að grófu hrauni í svonefndum Bekkjum. Er yfir það er komið tekur við gróð hraun. Framundan eru hraunhólar. Í einum þeirra er Sigurðarhellir (Bekkjaskúti), stórfallegt fjárskjól utan í jarðfalli. Einstigi liggur að opinu í gegnum hraunklofa.

Brennisel

Brennisel.

Ef gengið er norður og niður úr jarðfallinu birtist varða framundan. Norður undir henni er Brennisel, heil falleg hleðsla og framan við hana er tótt í jarðfalli. Hún sést ekki yfir sumartímann þar sem hrísið þekur hana svo til alveg. Fast austan við stóru hleðsluna er önnur hleðsla fyrir fjárskjóli. Enn norðar er mjög gömul hleðsla utan í hraunhól. Þetta virðist vera enn eldra kolasel.

Bekkjaskúti

Bekkjaskúti.

Ef hins vegar er gengið til norðausturs út á Óttarstaðaselsstíginn er komið að gatnamótum ef hann er genginn spölkorn til norðurs. Við þau eru tvær vörður. Liggur stígurinn til suðsuðvesturs upp landið og er varðaður áfram, a.m.k. upp í Skógarnef. Þarna er líklega kominn svonefnd Skógargata (eða Skógarnefsgata), en Óttarsstaðaselsstígur hefur stundum verið nefndur Skógargata og einnig Rauðamelsstígur. Stígurinn liggur að Óttarsstaðafjárborginni. Honum var fylgt að upphafsreit.

Óttarsstaðaborg

Óttarsstaðaborg.

Selalda

Gengið var frá Krýsuvíkurréttinni eftir vegslóðanum niður að Selöldu. Um er að ræða greiðfæra og ákjósanlega leið fyrir alla aldurshópa. Framundan horfið Selaldan við, móbergshryggur sem vatn og vindar hafa sorfið til að ofanverðu og myndað þar alls kyns fígúrur. Rjúpa situr efst á steini, steinrunnin, fálki steypir sér niður og tröll horfa hreyfingarlaus á.

Selalda

Selalda – berggangur.

Vestarilækur rennur þarna niður með vestanverðri Selöldu, liðast um tún bæjarins Fitja og steypist síðan fram af Krýsuvíkurbergi vestan Heiðnabergs. Vestan við túnkantinn, yfir lækinn, er gömul hlaðin brú. Garðar eru með túnunum að norðanverðu og tóftir bæjarins eru bæði miklar og heillagar. Saga Fitja er rakin í annarri FERLIRslýsingu.
Gengið var upp að Strákum, stórum klettum á vestanverðri Selöldu. Undir þeim er fallega hlaðið og heillegt fjárhús. Frá því er ágætt útsýni eftir Selöldunni til austurs og neðanmóa. Haldið var á ný niður á slóðann og hann rakin niður á bjargbrúnina. Heiðnabergið gefur Vestfjarðarbjörgunum lítið eftir í góðu veðri. Í því austanverðu sést enn hluti Ræningastígsins, en stutt er síðan að sjórinn braut af neðsta hluta hans.

Selalda

Selalda – Strákar.

Áður var hægt að ganga þarna niður og undir bjargið. Líklegt er að stígnum hafi að nokkru verið haldið við þegar búið var ofan við bjargið svo hægt væri að komast niður og sækja reka, sem þar lendir, og önnur hlunnindi.

Eyri

Krýsuvíkursel við Eyri undir Selöldu.

Annars dregur stígurinn nafn sitt af Tyrkjunum, sem eiga að hafa komið að bjarginu, haldið upp stíginn og komið að selsmatsstúlkum í Krýsuvíkurseli þar fyrir ofan. Smali sá til þeirra og flúðu heim að Krýsuvíkurkirkju þar sem séra Eiríkur í Vogsósum á að hafa verið við messugjörð. Hann afgreiddi síðan ræningjana er þá bar að garði og eiga þeir að hafa verið dysjaðir í Ræningjadys í Ræningjahól vestan við kirkjuna.

Eyri

Eyri – uppdráttur ÓSÁ.

Gengið var upp að tóftum bæjarins Eyri, þær skoðaðar sem og fjárborgirnar tvær sunnan þeirra og loks haldið upp að tóftum Krýsuvíkursels austast í Selöldunni, áður en gengið var upp heiðina með viðkomu í Arnarfellsrétt.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín.

Fitjar

Fitjar.

Langihryggur

Gengið var um Hrútadali og austur Drykkjarsteinsdal norðan Slögu.

Langihryggur

Brak í Langahrygg (hefur nú verið fjarlægt af misvitrum).

Fylgt var gömlu leiðinni frá Ísólfsskála, framhjá grettistaki og inn á Hlínarveginn. Kíkt var í Drykkjarsteininn, sem Símon Dalaskáld orti um á sínum tíma og getið er um í annarri FERLIRslýsingu. Skárnar voru stútfullar af tæru regnvatni.
Haldið var áfram upp með Bratthálsi og Lyngbrekkur og stefnan tekin á Langahrygg. Gengið var upp gil, sem þar er. Ofan þess er flak af bandarískri flugvél er þar fórst með 12 manna áhöfn. Allir létust. Í gilinu er einnig talsvert brak, m.a. hreyfill.
Einn áhafnameðlima var liðsforingi í landhernum sem var með sem farþegi. Flugvélin var tveggja hreyfla flugbátur af gerðinni PBM-1 Mariner (flugsveit: VP-74) og var að koma aftur til Skerjafjarðar eftir fylgd með skipalest SV af landinu. Vélin flaug á fjallið í dimmviðri þann 2. nóvember 1941. Ennþá má glögglega sjá hvernig flugvélin hefur lent efst í brúninni, tæst í sundur, brunnið að hluta og vindur og vatn síðan séð um að hrekja það sem eftir varð smám saman niður á við.

Fagradalsfjall

Fagradalsfjall.

Gengið var inn með efstu hlíðum hryggsins að Stóra Hrút. Stóri Hrútur er fallega formað fjall otan í austanverðu Fagradalsfjalli. Vestar er sendinn slétta, en norðar sér niður í Merardali. Handan þeirra er Kistufell, einnig fallega formað. Landslagið þarna er stórbrotið og ekki var verra að veðrið gat ekki verið betra. Undir Stóra Hrút eru hraunbombur, sem hafa orðið til er hraunkúlur runnið seigfljótandi niður hlíðar fjallsins í frumbernsku.
Gengið var í “dyraop” Geldingadals þarna skammt vestar. Dalurinn er gróinn í botninn að hluta, en moldarleirur mynda fallegt mynstur í litaskrúði hans norðanverðan. Hraunhóll er í nær miðjum dalnum. Gróið er í kringum hann. Sagan segir að Ísólfur gamli á Skála hafi mælt svo fyrir um að þarna skyldi hann dysjaður eftir sinn dag “því þar vildi hann vera er sauðir hans undu hag sínum svo vel”. Segir það nokkuð um gildi sauðanna og virðinguna fyrir þeim fyrrum.

Dalssel

Dalssel.

Þá var haldið á fótinn, upp Fagradalsfjall og áleiðis upp á Langhól, hæsta hluta fjallsins. Slóð eftir tæki hersins, sem fóru á slysstað á sínum tíma, sjást enn í fjallinu. Hæsta bungan er í 385 m.h.y.s. Efst á henni er landmælingastöpull. Þaðan er fallegt útsýni yfir Þráinsskjöldinn, Keili, Strandarheiði og Vogaheiði.

Gengið var niður af fjallinu að norðanverðu. Þar er einn af fallegri gígum landsins. Hann er þverskorinn, þ.e. hægt er að horfa inn í hann, þar sem hann liggur utan í fjallshlíðinni.

Fagradalsfjall

Fagradalsfjall – þverskorinn gígur ofan Fagradals.

Gígurinn er um 70 metra hár og tignarlegur eftir því. Vel er hægt að sjá þarna hvernig eldgígar hafa orðið til. Þessi hefur opnast til norðurs og hraunið þá runnið út úr honum þar, en skilið gígrásina eftir ófyllta.
Lækjarfarvegi var fylgt niður með norðanverðu fjallinu til vesturs þangað til komið var að Dalsseli. Tóftirnar eru á vestanverðum bakkanum, en lækurinn hefur smám saman verið að narta bakkann undan selinu. Neðar eru Nauthólaflatir. Greiður gangur er eftir þeim niður að Mosadali og áfram niður á Skógfellaveg. Að þessu sinni var hins vegar gengið til vesturs um Fagradal og með fjallinu, framhjá Kastinu og Görninni, um Borgarhraun og að upphafsstað.
Fagradalsfjall er heimur út af fyrir sig. Bæði fjölmargt að skoða og svo er útsýnið óvíða fegurra á Reykjanesskaganum.
Frábært veður. Gangan tók 5 klst og 5 mín.

Dalssel

Í Dalsseli.

Háleyjar

Reynt var enn á ný við “Íslandsklukkuna” í Háleyjahlein undir Háleyjabungu. Háleyjarnar höfðu fyrr sýnt sig bera nafn með rentu. Þegar einn félaganna hafði fetað sig út á eina þeirra í nokkurri stillu tók sig allt í einu upp reið holskefla og skellti sér yfir klettana. Náði hann að beygja sig niður og halda sér uns álagið slotaði, enda maðurinn vanur Skálastrandastórsjóum og með eðlislæg viðbrögð í blóðinu. Þá var hann með FERLIRshúfuna á kollinum, en án hennar hefði getað farið illa.

Háleyjar

Háleyjahlein.

Stórstraumsfjaran dugði þó ekki til að þessu sinni. Ægir vildi ekki sleppa klukkunni. Lét hann bæði himinháar öldur af suðvestan og lúmsklæðandi undiröldu verja hana töku. Braut á skerjum og eyjum, hvítfyssandi særokið fyllti loftið og hellt var úr lárréttum regnhretum þess á milli. Sólin gægðist þó í gegnum sortann að baki liði sínu og var ekki laust við að hún glotti út í annað í öllum látunum, ekki ólíkt og Óli Jó. fyrrum.
Minkur, sem hafði verið að synda í rótinu, neitaði að færa sig. Hann náði að klóra sig upp á stein skammt undan landi og var þaðan vitni að leitinni á milli þess sem Ægir færði hann í kaf. Utar í Háleyjabungu mátti sjá andlit á þurs í berginu. Það var augsýnilega staðið vörð um klukkuna.

Háleyjar

Varða ofan Háleyja.

Einn FERLIRsfélaganna, húfulaus, ætlaði að sýnast djarfari en aðrir, kraflaði sig niður að sjóröndinni, en sleipt þangið slengdi honum um koll. Varð hann aumur allan hringinn eftir, en óstórbrotinn þó.
Helgi Gamalíasson hafði séð þessa klukku af og til síðan hann var smápatti – síðast fyrir 9 árum er hann var þarna á minkaveiðum í fjörunni sem svo oft áður.

Um tíu metra kafli við ströndina kom til greina svo auðvelt ætti að vera að finna hana – þegar færi gefst. Enda á op klukkunnar að vera hátt í 60 cm í þvermál og hæðin eftir því. Klukkan lá, að sögn, á hliðinni síðast þegar hún sást og sneri opið þá mót vestri. Hún á að vera í kvos á milli stórra steina á alla vegu.

Háleyjar

Háleyjar – tóft.

Enginn veit hvaða klukka þetta er eða hvaðan hún er kominn. Úr því verður ekki skorið fyrr en tekist hefur að koma henni á þurrt. Talið er líklegt að Skálholtssbiskup hafi gert út frá Háleyjabungu um tíma, a.m.k. látið sveina sína liggja þar við, með von um reka. Hvort þeir hafi reynt að “egna” fyrir skip með ljósum í myrkri og vondum veðrum skal ósagt látið.
FERLIR varð frá að hverfa að þessu sinni, en er þó þrátt fyrir það skrefi nær takmarkinu. “Farin ferð skilar sínu, en ófarin engu”, segir jú máltækið. Og svo tekur það alltaf svolítinn tíma að sefa náttúruöflin.
Frábært veður – a.m.k. voru litbrigðin eftirminnileg.

Háleyjabunga

Háleyjabunga – gígur.

Vetrarsólhvörf

Eftirfarandi fróðleikur um „Jólin – hátíð ljóssins„, birtist í jólablaði Fjarðarfrétta 2022:

Fjarðarfréttir boða yður mikinn fögnuð – Á morgun eru vetrarsólstöður, hin forna hátíð, er boðar upprisu ljóssins.

Jól eru ein stærsta hátíð kristinna manna. Þeir halda þessa hátíð í minningu fæðingar Jesú, sonar Maríu meyjar. Í kristinni trú er Jesús sonur Guðs (Drottins), Kristur (hinn smurði), Messías, sem spámennirnir sögðu fyrir að koma myndi. Jól eru haldin um gjörvallan hinn kristna heim og víða annars staðar þar sem kristni er jafnvel í miklum minnihluta. Hátíðin er ekki á sama tíma alls staðar. Hjá mótmælendum og rómversk kaþólskum eru jól haldin á jóladag, þann 25. desember, og sumir þeirra hafa heilagt frá klukkan 18 á aðfangadag jóla, en það gera alls ekki allar kristnar þjóðir. Í austurkirkjunni (grísk kaþólsku og orþódox) eru jólin haldin um það bil hálfum mánuði síðar.

Sólarupprás

Sólarupprás við Kálfartjarnarkirkju.

Í Biblíunni er hvergi getið á hvaða tíma árs Jesús fæddist. Uppruni jólahalds er rakinn til sólhvarfahátíða heiðinna manna, sem fögnuðu endurkomu sólarinnar sem lífsgjafa (hér á landi um 21. desember). Kristnir menn ákvörðuðu síðar að Jesú hefði fæðst um þetta leyti árs og settu jólin á svipaðan tíma og sólhvarfahátíðin var áður. Með því náðist málamiðlun; heiðnir glötuðu ekki miðsvetrarhátíðinni þótt þeir skiptu um trú.
Margar sagnir sanna, að forfeður vorir hafa haldið hátíð mikla um miðsvetrarskeið, og kallað jól. En upphaflega mun þó nafnið jól eigi hafa táknað hátíð, heldur hefur það verið mánaðarnafn eða missera. Gotar í Austur-Evrópu nefndu nóvember fyrri mánuð jóla og desember annan. Hjá Engil-Söxum hétu mánuðirnir desember og janúar dól. Og í fornnorrænu hét einn mánuður ársins (frá því í nóvember og fram að jólum) ýlir, og er það nafn dregið af jól.

Sólarupprisa

Sólarupprisa.

Flestir telja að sólhvarfahátíð, Jólin, sem haldin eru helg þann 25. desember, séu komin í stað jóla heiðingjanna.
Fyrst í stað hélt kirkjan afmælishátíð Krists hinn 6. janúar, en á 4. öld var þessu breytt, vegna þess, að kristnir menn héldu alltaf upp á hin heiðnu jól eða tóku þátt í fögnuðinum vegna þess að sólin hækkaði aftur göngu sína á himnafestingunni. Og þessi breyting var réttlætt með því, að sólhvörfin væri afmælishátíð hinnar einu sönnu sólar; Krists.
Allt frá því, er kristni var lögtekin hér á landi, munu jólin hafa verið mesta trúarhátíð kirkjuársins. Hefir þar eflaust valdið nokkru um, að fyrir voru áður, í heiðni, hátíðir og siðir, að nokkru trúarlegs eðlis, til þess að fagna hækkandi sól. Menn glöddust yfir því að myrkasti tími ársins var liðinn, dagur smálengdist og sól hækkaði á lofti.

Sólarupprisa

Upprisa sólarinnar.

Alltaf var unnið mikið á sveitaheimilum í gamla daga, en aldrei þó eins og á Jólaföstunni. Það þurfti mörgu að koma í verk fyrir jólin og lögðu sumir saman næstum nótt og dag.
Skömmu fyrir jólin var farið í kaupstað með prjónlesið og var mönnum í mun að koma sem mestu á markaðinn. Bændur komu heim með kaffi, sykur og fleira, sem heimilin þörfnuðust til hátíðarbrigða.
Öldum saman hafa jólin, hér á landi, verið dýrlegasta hátíð ársins. Samkvæmt gamla tímatalinu voru sólhvörf 25. desember. Prokópis segir að á sjöttu öld séu íbúar Thule í norðrinu í myrkri, um vetur – í 40 daga. Þegar 35 þeirra eru liðnir, sendu þeir menn upp á fjallatinda að vita hvort sjái til sólar. Ef þeir sjá til hennar, byrjaði veislufögnuður hjá öllum. Þá var fæðingardagur Krists enn ókunnur á þeim slóðum.

Sólarupprisa

Upprisan…

„Kristur er sólin, sem sigrar myrkrið“, endurhljómar í kristnum ritum. Völdu menn honum loks fæðingardag, „þegar sólin ber sigur á myrkrinu og færir oss hita og ljós. Armeníumenn, sem tóku kristni einna fyrstir af öllum þjóðum, halda enn jólin 6. janúar, þ.e. á þrettánda.“
Páll Vídalín skrifaði um jól og heiðni: „Jól er mun eldra orð í norrænu máli en kristnin sjálf. Orðið þýðir veisla og er dregið af orðinu sól. Kom það síðar í stað veturnáttablóts heiðingjanna.“
En hvað svo sem öllum vangaveltum og söguskýringum líður – Gleðileg jól með hækkandi sól.“

Ómar Smári Ármannsson tók saman.

Heimildir m.a.:

Vertarsólhvörf

Vetrarsólhvörfum fagnað að jólasið.

– Fornir jólasiðir; grein í Lesbók Morgunblaðsins 1925.
– Jól og heiðni; grein í Lesbók Morgunblaðsins 1931.
– Heiðin jól og kristin jól; grein í Lesbók Morgunblaðsins 1949.
– Ljóssins hátíð fyrir 75-80 árum; grein í Lesbók Morgunblaðsins 1957.
– Jólin og heiðnar venjur; grein í Lesbók Morgunblaðsins 1957.
– Jól á fyrri tíð; grein í Lesbók Morgunblaðsins 1962.

Heimild:
-Fjarðarfréttir 20. des 2022, Jólin – Hátíð ljóssins, bls. 25.

Vetrarsólhvörf

Vetrarsólhvörf á Sveifluhálsi. Sólin (jólin) í hendi höfundar 21. desember. Kleifarvatn fjær.

Reykjavík

„UPPHAFLEGA var Reykjavík stærsta jörð, sem nokkru sinni hefir verið á Íslandi. Land hennar náði yfir Kjósarsýslu, Gullbringusýslu og fjóra hreppa. Árnessýslu, Þingvallasveit, Grafning, Ölfus og Selvogshrepp.
landnam-401En brátt saxast á land þetta, því að Ingólfur var óspar á að miðla öðrum af landnámi sínu. Eru taldir 18 landnámsmenn, er hann fékk lönd, og er þá svo komið að land Reykjavíkur nær ekki yfir meira en Seltjarnarneshrepp og vestasta hluta Mosfellssveitar. Og enn skerðist þetta land, því að sjálfstæðar jarðir rísa þar upp snemma, svo sem Nes við Seltjörn og Laugarnes. Örlyndi Ingólfs, sem kemur fram í því hvernig hann brytjar niður landnám sitt, verður trauðlega skýrt á annan veg en þann, að hann hafi ætlað sjer og afkomendum sínum að vera höfðingjar í þessu landi. En höfðingi gat enginn orðið nema sá, er hafði mannaforráð. Og að þeir feðgar hafi haft mannaforráð um alt landnámið, sjest á því er Þorsteinn Ingólfsson stofnar Kjalarnesþing.
Reykjavík var enn góð jörð, þrátt fyrir alt, og höfuðból hefir hún verið fyrstu aldirnar. Hafa þar um ráðið hin miklu hlunnindi hennar, svo sem selalátur í Örfirisey, trjáreki, æðarvarp í eyunum, laxveiði i Elliðaánum. Þá hafa og verið hjer ágæt fiskimið og fiskur oft gengið inn í Sundin.
Þess vegna hefir jörðin getað framfleytt fjölda Austurvollur-401fólks og þess vegna rísa stöðugt upp nýjar jarðir í landi hennar, þangað til svo er komið, að þetta höfuðból er orðið að kotjörð, hlunnindin hafa lent hjá öðrum eða farið forgörðum, og svo verður Danakonungur eigandi jarðarinnar. Niðurlægingarsagan er löng og ömurleg.
Og þegar konungur gefur svo verksmiðjunum heimajörðina, þá er það ekki annað en kvosin, þar sem Miðbærinn stendur nú. REYKJAVÍK var þá jörð í Seltjarnarneshreppi. En árið 1803 er hún gerð að sjerstöku lögsagnarumdæmi og fær sjerstakan bæarfógeta. Lögsagnarumdæmið var miklu stærra en verslunarlóðin, því að innan þess voru Þingholt, Stöðlakot, Skálholtskot, Melshús. Melkot, Götuhús og Grjótaþorpið, og brátt bættist Landakot við.
Þrátt fyrir þetta helst enn sambandið við Seltjarnarnes að nokkru ]eyti, því að fátækramálin voru sameiginleg og voru til þess alveg sjerstakar ástæður.
Reykjavik-402Þegar eftir að verksmiðjurnar voru reistar hjer, og þó einkum eftir að verslunin var gefin frjáls og Reykjavík fekk kaupstaðar rjettindi, fór fólk að flykkjast þangað í atvinnuleit og margir settust þar að og komu sjer upp tómthúsbýlum, eða hinum svonefndu kotum.“
„SVO segir í Landnámabók: „Þá er Ingolfur sá Ísland, skaut hann fyrir borð öndvegissúlum sínum til heilla; hann mælti svo fyrir, að hann skyldi þar byggja, er súlurnar kæmi á land. Ingolfur tók þar land er nú heitir Ingolfshöfði . . . Vífill og Karli hjetu þrælar Ingolfs; þá sendi hann vestur með sjó að leita öndvegissúlna sinna . . . Fundu þeir öndvegissúlur hans við Arnarhvál fyrir neðan heiði . . . Ingolfur tók sjer bústað þar sem öndvegissúlur hans höfðu á land komið. Hann bjó í Reykjarvík“.
Arnarhóll hjet seinna bær hjer og stóð þar sem nú er líkneski Ingólfs Arnarsonar. Hefur nafnið fest við hólinn, þar sem líkneskið stendur og er hReykjavik-405ann nú í daglegu tali nefndur Arnarhóll. En eigi er alveg víst að það sje sá Arnarhóll, sem Landnáma talar um. Norðan við þennan hól var áður annar hóll, sem skagaði eins og höfði út í sjóinn, og var mýrarslakki á milli þeirra. Þessi hóll eða höfði var einnig nefndur Arnarhóll, og höfum vjer fyrir satt að það hafi verið sá Arnarhóll er Landnáma nefnir og þar hafi öndvegissúlur Ingolfs borið að landi. En þegar bærinn, sem við hann var kendur, var byggður á hólnum fyrir sunnan, þá hafi nöfnin ruglast og að minnsta kosti hefur höfðinn stundum verið nefndur Arnarhólsklettur. Það eru líkur til þess að Arnarhóll hafi nokkuð snemma orðið sjálfstæð jörð. Er hennar fyrst getið 1534 og er það ár gefin Viðeyjarklaustri (af Hrafni Guðmundssyni). Kemst hún svo undir konung ásamt öðrum eignum klaustursins. Árið 1764 var bygt tukthús í Arnarhólslandi (nú Stjórnarráðshúsið) og var afgjald jarðarinnar í fyrstu lagt til þess. Seinna fekk ráðsmaður tukthússins leigulausa ábúð á jörðinni og enn seinna var jörðin fengin stiptamtmanni til, afnota og síðar landshöfðingja.
ÞegArnarholl-401ar fyrsta útmæling kaupstaðarlóðar Reykjavíkur fór fram (1787) er þar með talin „spilda af Arnarhólslandi fyrir norðan og norðaustan Arnarhólstraðir“. En með nýrri útmælingu, sem fór fram 1792, er þessari spildu sleppt og var hún því ekki lögð undir kaupstaðinn, eins og fyrst var til ætlast. Um þær mundir er Reykjavík fekk kaupstaðarrjettindi var bærinn Arnarhóll orðinn mesta hreysi og hrörnaði stöðugt þangað til Hoppe stiptamtmaður ljet rífa húsin árið 1828 og sljetta yfir rústirnar.
Lækurinn skifti löndum Arnarhóls og Víkur frá sjó og sennilega þar suður undir sem Mentaskólinn er nú. Var lækurinn þá stundum nefndur Arnarhólslækur neðst. Frá læknum lágu svo landamerkin skáhalt norðaustur að Rauðarárvík.“
„Fyrri hluta ársins 2001 var gerður uppgröftur á hluta af hinu gamla bæjarstæði Reykjavíkur, nánar tiltekið á lóðunum 14, 16 og 18 við Aðalstræti.

Reykjavik-406

Til uppgraftarins var stofnað vegna fyrirhugaðra byggingaframkvæmda. Vitað var að á þessum stað væri að vænta fornra mannvistarleifa og því þótti nauðsynlegt að rannsaka staðinn fyrst með uppgrefti. Minjarnar sem fundust voru aðallega frá tveimur tímabilum. Annars vegar voru þar töluverðar minjar bygginga frá tímum Innréttinganna á 18. öld og hins vegar óvenjulega heilleg tóft af skála frá 10. öld.
Ýmisleg vitneskja hefur smátt og smátt verið dregin saman um hið forna bæjarstæði Reykjavíkur. Sigurður Guðmundsson málari taldi líklegast að elsti bærinn hefði staðið á lóðinni Grjótagötu 4. Þar hafði staðið torflhús kallað „Skálinn“ og voru sagnir um að hann hefði verið þar lengi. Soffia Fischer þekkti sögn um að bærinn hefði verið á Arnarhóli, en Guðbjörg Jóhannsdóttir að „bærinn gamli hefði verið þar, sem gamli klúbbur stóð“4 eða við suðurenda Aðalstrætis. Kristian Kálund ályktaði að hinn gamli Reykjavíkurbær hefði verið annað hvort norðan eða sunnan við kirkjugarðinn, en Eiríkur Briem taldi að bærinn hefði verið „vestan við Aðalstræti sunnanvert milli Túngötu og Bröttugötu“. Ólafur Lárusson taldi ólíklegt að sagnir þær er sögðu bæjarstæðið á Arnarhóli fengju staðist. Klemens Jónsson taldi líklegast að bærinn hefði frá upphafi staðið sunnan Grjótagötu, „rjett vestan við Aðalstræti, þar sem nú eru húsin 14 og 16″.

Adalstraeti-450

Þegar grafið var fyrir húsinu Tjarnargötu 3A 1904 var komið niður á mannvistarminjar, sem lýst er sem öskuhaug og rennu úr grjóti. Við gröft fyrir hitaveitustokk vestanmegin í Tjarnargötu nyrst, einhvern tíma milli 1940 og 1950, sáust einnig ummerki fornra mannaverka á um 1 m dýpi, hellustétt og svört moldarlög. Ekki er að sjá að menn hafi veitt fornum mannvistarleifum athygli þegar grafið var fyrir húsi Hjálpræðishersins í Kirkjustræti 2, 1916, og ekki heldur þegar steinhúsið í Suðurgötu 3 var reist 1923. En árið 1943 var gerður kjallari að húsabaki við Suðurgötu 3 og var þá komið niður á ræsi úr steinum, sem lá frá austri til vesturs á meira en 2 m dýpi. Þegar grafið var fyrir stóru steinhúsi á lóðinni Tjarnargötu 4 árið 1944 reyndust vera þar miklar leifar eftir eldri byggð. Ekki fór fram regluleg fornleifarannsókn á þeim tíma, en þó eru til töluverðar upplýsingar um það sem sjá mátti í grunninum. Sunnarlega í grunninum mátti sjá „allmikið af hleðslugrjóti djúpt í jörðu“, og virtust leifar af vegg. Þarna var líka ferhyrndur hellukassi, líklega eldstæði, grafinn niður í malarlag það sem er undir miðbænum. Þar fyrir norðan mátti sjá gólfleifar.
Árið 1962 voru mannvistarleifar á þessum slóðum kannaðar með því að bora könnunarholur og taka upp jarðvegskjarna. Hér um bil allsstaðar þar sem borað var fundust einhverjar leifar eftir mannvist. Grjót fannst víða, en lítið er um það á þessum slóðum af náttúrunnar völdum. Í fleiri en einni af könnunarholunum mátti sjá gjóskulag það sem kallað hefur verið landnámslagið á töluverðu dýpi. Nokkru norðan við húsið Aðalstræti 16 varð í einni holunni vart við lag sem talið var gólfskán á u.þ.b. 2 m dýpi undir yfirborði.
Árið 1971 var ráðist í viðamiklar fornleifarannsóknir í miðbæ Reykjavíkur. Verkið stóð yfir sumurin 1971-1975. Grafið var á fjórum auðum lóðum í miðbænum, Aðalstræti 14 og 18 og hluta lóðanna Suðurgötu 3-5. Í ljós kom að á öllum þessum lóðum voru byggingaleifar frá ýmsum tímum. Á lóðinni Aðalstræti 18 voru leifar byggingar úr torfi nánast beint ofan á mölinni. Í þeirri byggingu var eldstæði í gólfi og var því talið að það væri íveruhús.

Adalstraeti-407

Veggir hússins voru mjög sundurskornir af undirstöðum yngri bygginga, en nyrsti hluti þess var ekki grafinn upp enda lá hann undir húsið Aðalstræti 16. Ekki var hægt að tímasetja torfbyggingu þessa nákvæmlega. Þegar uppgröfturinn fór fram lá ekki fyrir nákvæm tímasetning á gjóskunni, en talið að hún hefði fallið nálægt 900. Gjóskulagið hefur nú verið tímasett til 871+/-2.
Elstu mannvistarleifarnar sem vart varð á lóðinni Aðalstræti 14 þegar uppgröftur þessi fór fram var veggbútur sem sjá mátti í sniði við Grjótagötu. Þessi veggur var úr torfi sem ekki innihélt landnámslagið svonefnda. Aftur á móti sást landnámslagið liggja að veggnum, og taldi Else Nordahl það sýna að veggur þessi væri eldri en landnámslagið og því eldri en allar aðrar minjar sem kannaðar voru við þessa rannsókn.
Árið 1983 var gerð rannsókn á lóðinni Suðurgötu 7. Komið niður á gólflag.Viðarkol úr gólfi hússins voru aldursgreind til 10. aldar.
Elstu byggingarleifar sem fundust við rannsókn 2001 voru nyrst á lóðinni Aðalstræti 14, næst Grjótagötu. Þar mátti sjá leifar torfveggjar, og var þetta sami veggstúfur og sést hafði við fyrri rannsókn á þessum stað. Mátti álykta að þessi veggur hafi verið reistur áður en landnámslagið féll og öskulagið lagðist yfir.
Á lóðunum Aðalstræti 14-16 voru grafnar upp rústir af skála frá víkingaöld. Skáli þessi var töluvert vel varðveittur. Skáli þessi er best varðveitta byggingin frá víkingaöld sem fundist hefur í Reykjavík. Í skálanum miðjum er stórt eldstæði úr grjóti. Á skálanum eru tvennar dyr, sem virðast hafa verið á honum frá upphafi.
landnamsbaerinnVitað er um aðrar víkingaaldarbyggingar á þessum slóðum í miðbæ Reykjavíkur. Þó ekki séu öll kurl komin til grafar er greinilegt að þær byggingar sem við vitum um á bæjarstæði Reykjavíkur á víkingaöld hafa staðið í röð frá norðri til suðurs, frekar en í þyrpingu. Líklegt er að landslag ráði miklu um þetta og byggingarnar hafi verið reistar undir brekkunni, en fleira getur hafa komið til. Fyrstu kynslóðir Reykvíkinga hafa til dæmis haft þeim mun frjálsari hendur um val á byggingarstað að engin eldri byggð var fyrir sem taka þurfti tillit til, ólíkt því sem gerðist í öðrum löndum norrænna manna.“

Heimildir:
-Lesbók Morgunblaðsins, Árni Óla – Skilnaðir Reykjavíkur og Seltjarnarneshrepps, 28. janúar 1951, bls. 45-48.
-Lesbók Morgunblaðsins, Árni Óla – Víggirðingar Reykjavíkur, 8. febrúar 1948, bls. 61-64.
-Árbók Hins íslenska forleifafélags, Howell M. Roberts, Mjöll Snæsdóttir, Natascha Mehler og Orri Vésteinsson – Skáli frá víkingaöld í Reykjavík, 96. árg. 2000-2001, bls. 219-232.

Arnarhóll

Arnarhóll – býli 1787.