Gengið var frá Draugatjörn, framhjá Kolviðarhól, upp Hellisskarð, litið á Búastein, haldið eftir Gamla veginum um Hellisheiði og áfram áleiðis niður Kambana. Austarlega á Hellisheiði eru gatnamót Skógarvegar (Skógarmannagötu) er liggur til suðurs um Stóradal og Háaleiti áleiðis niður að Hjalla í Ölfusi.
Hellukofinn.
Hellisheiði er heiðin sunnan Henglafjalla. Hellisheiði er mjög eldbrunnin en víða er mosagróður og lyng á hrauninu. Er talið að yngsta hraunið hafi runnið við eldgos á 6 km langri gossprungu um árið 1000. Heiðin hefur öldum saman verið mjög fjölfarin. Hin forna leið var kölluð Gamli vegurinn, en hún lá á öðrum stað en nú er farið. Að austan lá hún upp Kamba, yfir Hurðarás og þaðan sjónhendingu á Hellisskarð fyrir ofan Kolviðarhól. Síðan lá leiðin niður af heiðinni um Hellisskarð, þaðan um Bolavelli vestur með Húsmúla, um norðanvert Svínahraun hjá Lyklafelli og var oft komið í byggð hjá Elliðakoti í Mosfellssveit.
Hellisheiði – gömul gata.
Leiðin liggur um klappir vestan til á heiðinni og er gatan þar víða mörkuð allt að 20 sm djúp í stálhart hraungrjótið. Þessi leið var öll vörðuð og standa margar vörðurnar vel enn í dag. Þekkt er Biskupsvarða sem stóð á klapparhól vestarlega á heiðinni. Vörðunnar er getið í heimild frá 1703 og mun hún hafa verið ævaforn og mikið mannvirki, krosshlaðin svo að hafa mætti skjól við hana í öllum áttum. Hún stóð fram á 19. öld. Nálægt 1830 var byggður sæluhúskofi á sömu klöppinni og var grjótið úr Biskupsvörðu notað í hann.
Kofinn stendur enn, nefndur Hellukofi enda eingöngu byggður úr hellum. Er fullri vegghæð er náð dregst hleðslan saman og myndar þakið en efst er stór hella sem lokar opinu. Kofinn tók 4-5 menn. Hellukofinn var friðaður 1. janúar 1990. Þórður Erlendsson bóndi á Tannastöðum, d: 1872, reisti Hellukofann en hann var víst „snillingur í öllum handtökum“. Gamli þjóðvegurinn sker núverandi þjóðveg en stór hluti af þessari gömlu leið er enn vörðuð. Enn má sjá djúp för í jörðinni, um hraunklappirnar nálægt kofanum, því að á sumum stöðum hefur umferðin markað allt að 20 sm djúp för.
Austurvegurinn 1900.
Á árunum 1879-1880 var lagður upphlaðinn vegur upp Kamba og vestur Hellisheiði, nálægt hinni fornu þjóðleið, en á árunum 1895-1896 var lagður vagnfær vegur yfir Hellisheiði, nokkru vestar en eldri leiðir, niður í Hveradali og vestur fyrir Reykjafell en ekki niður Hellisskarð.
Gangan hófst við réttina sunnan við Draugatjörn, sunnan Húsmúla. Önnur rétt er þar skammt suðaustar, fast við gamla þjóðveginn upp að Kolviðarhól. Áður en haldið var inn á gömlu þjóðleiðna, sem liggur að Hellisskarði, var komið við í sæluhústóft austan við tjörnina.
Gata um Hellisheiði.
Árið 1703 var hún talin nauðsynleg á vetrartímanum til innivistar. “Er og lofsvert, að þetta sælhús skuli ei niður fallið (1793)”. Hann var ætlaður þeim, sem ferðast þarna á vetrardegi, og kallaðist sæluhús. Margir hafa dáið í þessum kofa, því oft hafa þeir ekki fundið hann fyrr en þeir voru örmagna af hungri og kulda. Í örnefnalýsingu segir að í ekkert hús var að venda [á leiðinni yfir Hellisheiði] nema smákofa, er var í Svínahraunstöglum, sem ganga út á Norðurvellina. Kofi þessi var illa ræmdur fyrir draugagang, og mynduðust meðal manna hinar fáránlegustu sögur um kofa þennan.
Draugatjörn – sæluhúsið.
Árið 1845 var nú kofinn í Svínahrauni fluttur upp á Kolviðarhól. Hafði nýtt sæluhús verið byggt á Kolviðarhóli 1844. Ýmsar sagnir eru um menn sem hafa tekist á við drauga í kofa þessum, t.d. um Grím á Nesjavöllum en hann var á ferð þar um 1820 og kljáðist við afturgöngur þriggja manna sem höfðu orðið þar úti nokkrum árum áður. Þar kemur fram að bálki hafi verið í suðurenda kofans.
Kolviðarhóll 1910.
Stuttur gangur er eftir gömlu götunni að Kolviðarhól. Áður var farið yfir læk úr Mógili í Húshólma og framhjá síðarnefndu réttinni, áfram eftir suðaustanverðum Bolavöllum og að hólnum. Bú var fyrst reist á Kolviðarhóli 1883. Um vorið settist þar að Jón bóndi frá Stærribæ í Grímsnesi. Byggði hann sér bæ framan í hólnum. Kolviðarhóll er 4-5 m hár, gróinn, melhóll við norðurenda á lágum rana eða ási sem gengur norður úr Reykjafelli, beint neðan (vestan) við Hellisskarð. Ekkert vatnsból er sýnilegt en hefur væntanlega verið í brunni.
Húsmúlarétt.
Undirstöður síðustu húsanna á Kolviðarhóli sjást enn vel og hafa sumar verið steyptar en aðrar eru úr tilhöggnum sandsteini, sem víða má finna í Reykjafelli beint ofan við hólinn. Framan í nyrðri hluta hólsins (norðan við bæjarstæðið) hefur verið hlaðinn pallur úr hraungrýti og er hann mjög heillegur að sunnanverðu og að vestan en norðurhornið er hálfhrunið. Lítill heimagrafreitur er þarna með steyptum veggjum. Árið 1910 voru tvö hús á Hólnum, timburhús og steinhús, þar að auki næg búpeningshús. Einu útihúsaleifarnar sem nú sjást er steypuhrúgald austan í norðanverðum hólnum. Þjóðsaga segir að “almenn sögn segi, að í þessum hól sé heygður Kolfinnur, sem nefndur er í Kjalnesinga sögu.”
Gengið um Hellisskarð.
Haldið var upp Hellisskarð. Í frásögn árið 1703 segir að „upp í hnúknum fyrir norðan fyrrnefnt Hellisskarð er sá stóri steinn einstakur, er Búasteinn kallast, við hvörn stein varðist Búi Esjufóstri, sem saga hans til vísar.“ Um það bil í miðri heiðarbrekkunni til vinstri, nokkuð hundruð fet uppi er stór teningslaga steinn; Búasteinn. Er hann settur í samband við frásögn Kjalnesinga. Stór þverhníptur sandsteinsklettur og er aðeins gengt upp á hann að ofan (austan). Talsvert rof er í kringum steininn af vatnsflaumi en einnig af mannaferð.
Ofan við Hellisskarðið eru gatnamót. Til norðausturs liggur leið er gekk undir nafninu “milli hrauns og hlíða”, um Skarðsmýri og upp á gömlu þjóðleiðina til norðurs frá Hveragerði.
Þegar komið er upp á heiðina úr Hellisskarði, verður fyrir samfelld hraunbreiða, og er aðeins eitt einstigi yfir hana.
Húsmúlarétt.
Hraunið er að mestu flatar og sléttar hellur, en grjót og melar hér og hvar. Svo mætti virðast, sem einstigi þetta væri höggvið af manna höndum í hraunstorkuna, því þar er svo beint og reglulegt. Víða mælist það allt að 1/2 feti, og má af því marka, hve geysigamall þessi vegur er og fjölfarinn. Rásin er misgreinileg. Samfellda kafla má rekja lengst um 50 metra en yfirleitt mun styttra en á milli liggur leiðin sumstaðar um djúpar rásir þar sem grjóti hefur verið rutt úr veginum en víðar gufar slóðin alveg upp á milli. Á nokkrum stöðum má greina að slóðin er tvö- eða jafnvel þreföld.
Hellisheiði – vörður.
Austur frá Reykjafelli (Stóru-Reykjafell) eru Hellurnar, eru þær sléttar klappir, liggja yfir þær djúpar götur eftir hestafætur. Sanna göturnar að yfir þessar sléttu klappir hefur umferð verið allt frá fyrstu byggð hér á landi.“ segir í örnefnalýsingu. Allt frá því að komið er upp úr Hellisskarði er hálfbert helluhraun austur að miðri heiðinni eða þangað til að fer að halla austur í Ölfus. Fleiri vörður eru og við veginn til leiðarvísis. Á Hellisheiði eru yfir 100 vörður. Vegir hafa legið yfir Hellisheiði frá ómunatíð. Gata lá upp Kamba, yfir Hurðará og í stefnu á Gíga ofan við Hellisskarð. Í klöppum á þeirri leið eru víða djúpar götur, gengnar á liðnum öldum.
Eiríksbrú á Hellsiheiði.
Síðar var lagður upphlaðinn vegur, kenndur við Eirík í Grjóta, sömu leið.”Það mun hafa verið nálægt 1880-1881, að Eiríkur Ásmundsson í Grjóta lagði steinilagðan veg um Kamba, yfir allar hæðir og lautir, svo að hann yrði þráðbeinn. Vegna brattans víðast hvar og þess, að ekkert var borið ofan í veg þennan, var hann sjaldan eða aldrei farinn.
Framhald vegar Eiríks í Grjóta um Svínahraun, lagður 1877-78, lá upp um Hellisskarð fyrir ofan Kolviðarhól. Þar er enn efst í skarðinu lítt hrunin hleðslan í vegköntunum. Vegirnir voru lagðir á þann hátt, að þeir útilokuðu þann möguleika að menn hæfu vagnferðir eftir þeim. Til þess var brattinn í Hellisskarði og Kömbunum of mikill og einnig vantaði akfæran veg frá Reykjavík upp að Svínahrauni. Við þetta ástand sat að mestu fram yfir 1890.
Búasteinn neðan Hellisskarðs.
Á herforingjaráðskorti frá 1909 liggur norðurendi Lágaskarðsleiðar útaf Hellisheiðarvegi undir neðstu brekkum Reykjafells og yfir hraunhólana neðan við Hveradalaflöt. Á kortinu kvíslast leiðin við Lönguhlíð og liggur ein slóð til Breiðabólstaðar en önnur til Hrauns. Um grasi grónar hlíðar og slétt helluhraun, mosagróið, mjög greiðfær leið. Vegurinn er lengstaf aðeins kindastígur en nokkur vörðutyppi eru í sjálfu skarðinu (á helluhrauninu) og gætu sum þeirra verið gömul. Á nokkrum stöðum má ímynda sér að hestaumferð hafi gert för í hraunhelluna, en hvergi er það skýrt. Þessi leið mun nú ganga undir nafninu Lákastígur. Steindór Sigurðsson lýsir Lágaskarðsleið í Árbók Ferðafélagsins 1936.
Ölfusvatnslaugar.
Margrét útilegumaður hafðist við í Nesjalaugum eða Ölfusvatnslaugum, en síðan í ýmsum stöðum nálægt þjóðveginum á Hellisheiði og stal þar af ferðamönnum. Um þá lýsingu má lesa annars staðar á vefsíðunni.
Varða við Lákastíg.
Þegar gengin hafði verið 2/3 af leiðinni um Gamla veg var komið að gatnamótum Skógarvegar. Í örnefnaslýsingu segir að “á þessum fjallgarði, er fyrir norðan þessa byggð sveitarinnar liggur, eru þrír vegir vestur á Suðurnes, nefnilega Ólafsskarð, Lágaskarð og Sanddalavegur, hvorir allir saman koma í einn veg á vestanverðu fjallinu, þá byggðarlönd taka til Suðurnesjajarða. Sanddalir eru neðan og suðaustan við Lágaskarð og mætti ætla að um sömu leið væri að ræða, en hér mun sennilega verið átt við leið „frá Hjallahverfi um Kálfabergsstíg, Káfadali, Hálsa, Vegarbrekkur, Lakadal, Stóradal, á þjóðveg í Hveradölum.” Skógarvegur liggur hins vegar til suðurs af Hellisheiðavegi og niður að Hjalla um Stóradal og Háaleiti suðaustan undir Skálafelli (verður genginn síðar).
Skógargatan.
Í örnefnalýsingu 1703 segir að “upp á Hverahlíð er Skálafell, með vatnsstæði. Á þessu felli var skáli Ingólfs Arnarssonar, fyrsta landnámamanns, hvar af þetta fell hefur sitt nafn dregið, sem Landnáma á víkur. Skógarmannavegurinn austan Skálafells er frá þeim tíma, er Hjallamenn sóttu skógarnytjar í Nesjaskóg í Grafningi. Einnig nefnd Suðurferðagata, milli Háaleita, við Hlíðarhorn, – á þjóðveginn á Hellisheiði vestan við Loftið (40 km steininn).” Nefndur steinn er við Skógarveginn, eða Skógarmannaveginn, skammt sunnan núverandi þjóðvegar.
Frá þessum gömu gatnamótum sést vel niður að Kömbum sem og yfir Ölfusið allt – í góðu skyggni.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 33 mín.
Heimild m.a.:
-Bæjarbókasafn Ölfuss.
Reykjafellsrétt í Dauðadal.
Dvergur í Fögrukinn
FERLIR fékk eftirfarandi frásögn senda:
„Sæll,
ég mátti til með að deila með ykkur reynslu minni af huldufólki eftir að hafa kíkt á síðuna ykkar. Er ég var c.a. 10 ára gamall bjó ég í Fögrukinn 2 [í Hafnarfirði], rétt fyrir neðan Hamarinn. Ég gleymi aldrei morgninum þegar ég sá, að ég held búálf, í stofunni heima. Stóð ég stjarfur við dyrnar á herberginu minu í nokkrar klukkustundir og fylgdist með álfinum. Ég vakti bróður minn sem var í herberginu með mér, en hann sá hann ekki. Hann virtist ekki vita af mér.
Ég man nákvæmlega hvernig hann leit út; var mjög vel til fara í grænum jakkafötum, stuttar skálmar, tréklossum, svart yfirvaraskegg og hár, með grænan oddmjóan hatt, c.a. 1,2 til 1,5 m á hæð.
Gaman væri að heyra fleiri sambærilegar sögur – ef til eru.
Kv.Páll.“
Hamarinn í Hafnarfirði.
Sogin I
Í Trölladyngju eru hverir og ummyndun á skák sem nær austan frá Djúpavatni vestur á Oddafell. Hveravirknin fer minnkandi, en í Sogunum má enn sjá virka hveri. Sprengigígar og miklir gjallgígar eru í gossprungum þar sem þær liggja yfir ofannefnda skák.
Í Sogum.
Ummyndun er mest í Sogunum þar sem stórt svæði er ummyndað af klessuleir. Vestan í hálsinum frá Sogunum suður á móts við Hverinn eina er móbergið einnig ummyndað en hvergi nærri eins og í Sogunum. Þar eru stórir sprengigígar frá ísöld og vatn í sumum. Djúpavatn er myndað á sama hátt. Kalkhrúður finnst á tveimur stöðum. Hitarák með gufuhverum liggur frá Trölladyngju um Eldborg norður í Lambafell, bundin nánast við eina sprungu.
Í Trölladyngju eru tvær borholur, önnur við hverasprunguna norðan undir henni, hin á hverasvæðinu vestan undir hálsinum. Báðar sjá um 260 °C hita ofarlega, síðan hitalækkun, en dýpri holan endar í 320 °C hita á rúmlega tveggja km dýpi.
Í Sogum.
Í skýrslu Skipulagsstofnunar um háhitasvæðið við Trölladyngju frá því mars 2003 segir m.a. að rannsóknarborholur séu staðsettar innan friðlýsts svæðis, Reykjanesfólkvangi, auk þess sem Keilis- og Höskuldarvallasvæðið er á náttúruminjaskrá. „Um viðkvæm verndarsvæði er að ræða og hætta er á að hverskonar framkvæmdir og rask muni rýra verndargildi þess og skerða notagildi þess til útivistar og náttúruskoðunar“, segir jafnframt í skýrslunni.
Skipulagsstofnun bendir á að ýmsar athuganir, sem gerðar hafi verið, séu ófullnægjandi og auk þess hafi ekki verið tekið mið af ýmsum fyrirliggjandi upplýsingum. Fornleifafræðingur hafi ekki gaumgæft svæðið m.t.t. fornminja og gildi svæðisins hafi ekki verið metið með hliðsjón af útivist og náttúrufegurð. Vonandi er framangreint ekki dæmigert fyrir vinnubrögð Hitaveitu Suðurnesja, sem jafnan hefur tengt nafn sitt við slagorðið „Í sátt við umhverfið“.
Sogasvæðið er með fallegri útivistarsvæðum landsins.
Heimild m.a.:
-Bréf Stefáns Thors og Hólmfríðar Sigurðardóttur f.h. Skipulagstofnunar til Hitaveitu Suðurnesja dags. 16. maí 2003.
Sogin. Grænadyngja fjær.
Miðrekar – Brúnavörður – Húshólmi – (G)Núpshlíðarhorn
Gengið var frá Lati niður Ögmundarhraun til suðurs og síðan hrauninu fylgt upp til norðausturs að Húshólma. Reynt var að finna hina gömlu sjávargötu inn í hólmann, að Hólmasundi. Þá var gengið upp Húshólma og sem leið lá upp Ögmundarhraun áleiðis að Núpshlíðarhorni. Hér verður ekki rakin leiðin í gegnum Húshólmann og minjarnar þar, enda hefur það verið gert í FERLIR-046, 128, 217, 300, 286, 545, 634 og 715, auk þess sem þeim verður lýst mun nákvæmar síðar.
Sængurkonurhellir, Víkurhellir, í Ögmundarhrauni sunnan Lats.
Miðrekar eru austan Selatanga. Eystri Látrar eru á millum. Fyrir sunnan Lat eru hraunskipti með nokkuð háum hraunhrygg. Stígnum austur yfir hraunið frá þjóðveginum var fylgt að skilunum og beygt þar til suðurs. Eftir stutta göngu var komið að sæluhúsinu, sem þar er. Sá síðasti, sem skyldi við húsið, hefur lagt hurðarhelluna settlega við dyraopið þar sem hún var notuð hinsta sinni. Nú. u.þ.b. 100 árum síðar, er þessi hella ásamt öðru, sem þarna er, friðar skv. þjóðminjalögum, án þess að friðunaröflin hafi hina minnstu hugmynd um tilvistina. Eflaust hafa margir haft skjól þarna í skútanum í gegnum tíðina. Gott hefur verið að geta hallað sér í skjólið og á öruggum stað í svartnættinu þegar allra veðra var von. Frá skútanum er u.þ.b. klukkustundar gangur að Ísólfsskála og u.þ.b. tveggja klukkustunda gangur til Krýsuvíkur.
Hraunkarl í Ögmundarhrauni.
Haldið var áfram niður með hraunkantinum og stefnan tekin á háa vörðu neðarlega í hrauninu. Hún stendur þar ein og yfirgefin, án fylgdarvarða. En vörður voru ekki hlaðnar að ástæðulausar hér áður fyrr, allra síst svo háar og myndarlegar. Þegar farið var að grennslast um hverju hún sætti kom í ljós að austan við hana eru greni (Miðrekagrenin) og byrgi grenjaskyttna. Grónir bollar eru í hrauninu austan og ofan við vörðuna. Grenjaopin eru merkt og hlaðin eru skjól fyrir skyttur. Meira að segja var óbrotin brennivínsflaska í einu byrgjanna. Hún var látin liggja á sínum stað, líkt og FERLIRs er háttur.
Hraunkarl.
Stefnan var tekin upp hraunið til norðausturs. Eftir nokkra göngu um þykkt mosahraun var komið að listaverkagarði náttúraflanna. Þar, á tiltölulega litlu svæði, virtust náttúruöflin hafa staldrað við á leið sinni með hraunið til sjávar, svona til að leika sér stutta stund, a.m.k. m.v. jarðfræðimælikvarðann. Þegar staldrað var við og augun látin líða yfir hraunsvæðið birtist hvert listaverkið á fætur öðru. Það skal tekið fram, til að fyrirbyggja misskilning, að brennivínsflaskan, sem skilin hafði verið eftir í byrginu, var tóm er að var komið. Eflaust gæti hver og einn túlkað hraunlistaverkin á sinn hátt – líkt og gengur og gerist með listaverk mannanna.
Enn var stigið skrefið og stenan tekin á Brúnavörður á hraunhæð framundan. Vörðurnar eru tvær og voru mið af sjó.
Brúnavörður.
Hins vegar eru þær einnig ágæt mið fyrir fótgangendur á landi því handan þeirra tekur við manngerður stígur áleiðis inn í Húshólma. Segir sagan að syndir (hann átti reyndar ekki nema einn) hafi flórað stíginn til ferðalaga. En í stað þess að taka þennan auðveldasta stíg inn í Húshólma var ákveðið, svo sem upphafega var stefnt til, að ganga niður með hraunkantinum til suðausturs í von um að finna framhald þess stígs, sem þar liggur, inn í Húshólma. Þegar komið var niður að ströndinni hvarf stígurinn.
Brúnavörður að baki.
Varð það seginn saga, svo sem algengt er með sjávarstíga, að Ægir hefur þegar brotið þá undir sig. Auðvelt er að gera sér í hugarlund hvernig sjórinn hefur smám saman brotið af ströndinni, enda sjálf ekki bætt við sig neinu s.l. 850 árin.
Gengið var ofan við ströndina í gegnum hraunið, sem reyndar var ekki neinum kveifiskötum ætlað. En með þolinmæði og þjálfun varð komist í gegnum stórbrotið hraunið og alla leið inn í Húshólma. Ekki var að þessu sinni litið á hinar merki minjar í hólmanum heldur strikið tekið upp til norðurs í gegnum hann, framhjá selstöðuminjunum og áfram áleiðis upp í gegnum Ögmundarhraunið.
Húshólmi – stekkur.
Á þeirri leið, sem er bæði löng og erfið, var gengið framhjá Mælifellsgrenjunum. Við þau eru einnig hleðslur eftir grenjaskyttur. Ofar var Mælifell (Krýsuvíkur-Mælifell). Gengið var inn á gamla Ögmundarstíginn, framhjá Ögmunardys og veginum, sem endurruddur hefur verið nokkrum sinnum, fylgt yfir Ögmundarhraun til vesturs. Haldið var áfram upp og yfir Latsfjall að norðanverðu og síðan gengið niður Tófurbuna og gömlu götunni fylgt að Núpshlíð þar sem hún var síðan rakin niður með fjallsrótunum. Gengið var áfram til vesturs sunnan hlíðarendans.
Núpshlíðarhorn.
Núpshlíðarhornið var framundan. Hlíðin hét áður Gnúpshlíð og hálsinn inn af Gnúpshlíðarháls. Þegar horft var á hlíðina, aðstæður ígrundaðar sem fyrrum voru og rifuð var upp sagan af Molda-Gnúpi Hrólfssyni, var ekki órótt um að þarna, sem minjarnar í Húshólma voru, gæti sá maður hugsanlega hafa haft samastað. Einn þátttakenda setti fram þá kenningu að nefndur Molda-Gnúpur, sá sem hálsinn er nefndur eftir, hafi búið þar undir. Hann er í Landnámu sagður hafa sest að í Grindavík eftir að hafa orðið fyrri því óláni í Álftaveri að flóð úr Mýrdalsjökli frá Eldgjárgosinu mikla 934-938 hljóp á land hans og lagði í eyði.
Ögmundardys austast við Ögmundarstíg.
Hann fór þá í Mýrdalinn og var þar einn vetur, en þar var þá fullnumið og hann hraktist eftir deilur við þá, sem fyrir voru, áfram vestur á bóginn, allt til Grindavíkur, eins og Landnáma segir. “Allt til Grindavíkur” gæti þýtt áleiðis til Grindavíkur, enda Grindavík ekki til þá í upphafinu. Eflaust og áreiðanlega hafa aðstæður verið allt aðrar en nú eru undir Núpshlíðarhálsi. Bær og bæir gætu hafa verið byggðir, garðar hlaðnir, borgir (fjárborgir) reistar og búskap komið á fót. Viðurnefnið Molda gæti Gnúpur hafa fengið vegna elju sinnar við að nýta moldina og það sem í henni var, grjót og torf, enda virðast hafa verið nóg af görðunum undir Ögmundarhrauni. Hins vegar bjó faðir hans, Hrólfur höggvandi, á Norðmæri, þar sem hét Moldatún. Bróðir Molda-Gnúps var Vémundur, en „þeir voru vígamenn miklir og járnsmiðir“, eins og segir í Landnámu.
Húshólmi – skáli.
U.þ.b. 210 árum síðar, eftir fjórar kynslóðir og mikla uppbyggingu á gjöfulum stað, tók jörð skyndilega að skjálfa nótt eina og hraun að renna. Fólkið flýði sem fætur toguðu og skyldi eftir allt, sem það átti. Enn var ekki farið að skrifa sögu Íslendinga eða landnáms þeirra og alls ekki þess fólks sem almúgi hét. Sá, sem skrifaði fyrst um frægð og frama, með hliðsjón af landsins yfiráðarétti, gerði það í ákveðnum tilgangi, enda tilgangslaus skrif þá ofar dýrum feldi.
Þetta var nú einu sinni hugsun um möguleika – ekki staðreynd.
Gnúpshlíðin var fögur á að líta.
Frábært veður. Gangan tók 4 klst og 44 mín.
Brúnavörður að baki.
Uppsalir – Kumblhóll – Álfhóll
Ætlunin var að fara um dulheima Sandgerðis og m.a. leita uppi og skoða Álfhól (á hólnum eru rústir), tóftir Uppsala (þar er sagt að hafi verið 18 hurðir á járnum), Oddstóft, Gulllág, Kríuvörðu, Sigurðarvörðu, Kumblhól (gæti verið haugur). Kumblhóll og Álfhóll voru báðir álagablettir, og eru margar sögur til af óhöppum þeirra, sem þeim raska. Oddstóft er kennd við Odd Jónsson í Landakoti. Hann hafði þar fé. Á Kumlhól hefur lengi hvílt sterk helgi. Álfhóll var talinn bústaður álfa og fullyrt var að þar hrektist aldrei hey. Gvendartóft er skammt frá Oddstóft, ofar í heiðinni, og var hún kennd við Guðmund í Tjarnarkoti.
Lagt var af stað Frá Efra-Sandgerði, elsta húsinu í bænum, byggt 1883. Viðirnir eru m.a. úr Jamestownstrandinu.
Reynir Sveinsson fylgdi FERLIR um svæðið. Hann er fæddur og uppalinn í Sandgerði, skammt frá Álfhól, og þekkir hvern krók og kima – og alla sem í hvorutveggja hafa dvalið.
„Okkur krökkunum var sagt að hrófla ekki við neinu í og við hólinn“, sagði Reynir er komið var á vettvang. „Þess var gætt að raska engu hér. Þó ætlaði fólk, tengt frystihúsarekstri hér neðar, að byggja hús á hólnum. Byrjað var að grafa fyrir húsinu, en þá urðu fjölskyldumeðlimir hver á fætur öðrum fyrir lasleika. Þá var hætt við að byggja á hólnum.“
Álfhóll er skammt sunnan við Brekkustíg. Sú gata heitir einnig Tjarnargata. Mætast þær niðri í brekku, sem var, en Sandgerðistjörnin lá þar inn í landið. Brött brekka var Brekkustígsmegin. Gatan var síðan hækkuð upp og brekkunni eitt. Tvínafnskipt gatan hefur þó haldist enn þann dag í dag.
Í Sandgerðistjörninni er Veitan. Hún er stararengi. Það var slegið fyrrum. Austan við tjörnina var Sandgerðisskólinn, en hann var rifinn. Eftir að skólinn hætti að þjóna hlutverki sínu sem slíkur var þarna lítið býli, nefnt Tjörn. Sandgerðistjörnin var fyrrum einnig nefnd Skólatjörn. Eitt elsta húsið í Sandgerði, Efra-Sandgerði, stendur nú suðvestan við Sandgerðistjörnina. Vestan við húsið er Kettlingatjörn. Nafnið taldi Reynir vera komið af því að þar hafi kettlingum verið drekkt.
En fyrst svolítið almennt um Sandgerði – Sandgerðisvík skerst inn í vestanvert Rosmhvalanes. Víkin afmarkast að sunnan og vestan af skerjaklasa sem nefnist einu nafni Bæjarskerseyri. Landið umhverfis Sandgerði er láglendi og að austan er Miðnesheiði, víða grýtt og gróðurlítil. Minjar eftir mikinn uppblástur sjást víða, stór rofabörð, sem sýna að fyrrum var jarðvegur mun meiri í heiðinni en nú er. Nú er sauðfjárhald að mestu afnumið en landið friðað. Norðan Sandgerðis eru Flankastaðir. Þar myndaðist snemma byggðarhverfi. En með vaxandi byggð hefur Sandgerði náð þangað og er nú skammt á milli hverfa. Að sunnan liggur land Bæjarskerja að Sandgerði. Seinustu árin hefur byggðin í Sandgerði teygt sig þangað og nú eru þessi gömlu hverfi sambyggð. Sjávarströndin er lág, víða sendin og mjög skerjótt. Sandfok herjaði áður á byggðina og eyðilagði oft fisk sem breiddur var til þurrkunar. En á árunum 1930-1950 var gert stórátak í baráttunni gegn sandfokinu og það heft með melgresi. Landbrot hefur verið geysimikið á Miðnesi. Sést það á hinu mikla útfirri meðfram landinu, t.d. fram undan Kirkjubóli skammt norðan Flankastaða.
Um 1935 var steyptur mikill sjóvarnargarður fyrir landi Sandgerðis. Bærinn Sandgerði stóð við litla tjörn norðan til í hverfinu sem myndaðist snemma upp af Sandgerðisvörinni. Er tjörnin kennd við bæinn og heitir Sandgerðistjörn. Á seinni hluta 20. aldar var byggt stórt timburhús í stað gamla Sandgerðisbæjarins. Stendur húsið enn á tjarnarbakkanum, sem fyrr er getið. Þar bjó Sveinbjörn Þórðarson og seinna sonur hans, Einar. En þeir feðgar voru eigendur Sandgerðis.
Mikið kargaþýfi er á Álfhól. Erfitt var að sannreyna hvort þar kynni að vera tóft. Hins vegar mótaði fyrir tóft eða tóftum á næsta hól, suðvestanvert. Líklegt má telja að þar kunni að vera fyrrnefndur Kumblhóll.
Í örnefnalýsingu Ara Gíslasonar eftir Berent Magnússyni, Krókskoti, og Magnúsi Þórarinssyni, segir m.a.: „Í Sandgerðistúni útnorður frá Krókskoti suður af Sandgerðisbæ er stór hóll, grasi vaxinn, sem heitir Álfhóll.
Á þessum hól eru rústir. Þetta er allmikið suður af Sandgerðisbæ. Þar upp af eru Uppsalir. Þar er sagt að hafi verið 18 hurðir á járnum. Þar voru rústir, sem nú hefur verið byggt á. Það er norðaustur frá Krókskoti. Þar er nú verið að byggja upp af Uppsölum, ofan við grænan hól, sem heitir Oddstóft. Þar suður af er gil eða melur, sem heitir Gulllág, líkast því að það sé farvegur eftir vatn og hafi runnið í sjó sunnan við Krókskot. Þar upp af, en ofan grjóthola, er varða, sem heitir Kríuvarða. Upp af henni er töluverður dalur með vatni í á vetrum og heitir Leirdalur. Þar upp af hækkar landið, og er hér uppi nefnt Brúnir. Þar er stór hóll, sem heitir Grænhóll, grasi vaxinn og urð í kring. Þar austur af er melur, er liggur frá norðri til suðurs alla leið frá Digruvörðu og ofan undir Garð. Þessi melur heitir Langimelur. Hann er á mörkum móti Leirunni.“
Halldóra Ingibjörnsdóttir bar lýsingu Ara Gíslasonar undir Berent Magnússon í Krókskoti og Árna Jónsson á Flankastöðum. Skráði hún eftir þeim athugasemdir, sem hér fara á eftir, lítt breyttar: „Sigurðarvörðu hlóð Sigurður Magnússon frá Krókskoti, er hann var að smala fé (segir Berent bróðir hans).
Ekki er líklegt, að neinn hafi verið heygður í Kumblhól.
Ekki er vitað, hvenær hætt var að nota Stekki. Nú sjást engin merki þeirra.
Kumblhóll og Álfhóll voru báðir álagablettir, og eru margar sögur til af óhöppum þeirra, sem þeim raska.
Oddstóft er kennd við Odd Jónsson í Landakoti. Hann hafði þar fé.
Gulllág sagðist Berent ekki muna eftir í sínu ungdæmi og taldi þetta nýlegt nafn. En Halldóra man aldrei eftir, að þessi grunni dalur væri kallaður annað en Gulllág. Þar voru fiskreitir, þegar hún var að alast upp.
Kría verpir nálægt Kríuvörðu.“
Loftur Altice Þorsteinsson ritaði örnefnalýsingu árið 1996: „Kumlhól getur hæglega verið kuml. Á hólnum hefur lengi hvílt sterk helgi. Stekki var hætt að nota fyrir 1900, Álfhóll var talinn bústaður álfa og fullyrt var að þar hrektist aldrei hey. Gvendartóft er skammt frá Oddstóft, ofar í heiðinni, og var hún kennd við Guðmund í Tjarnarkoti.“
Að sögn Reynis mun þrællinn Uppsali hafa verið fyrsti ábúandinn í Sandgerði og hefur hann búið að Uppsölum. Á bak við hús Reynis við Bjarmaland má sjá leifar Uppsala; litla tóft og aðra jarðlæga norðar, auk garða.
Skammt ofar má sjá leifar af Oddnýjartóft í garði eins hússins efst við Bjarmaland. Suðaustar eru tóftir; Gvendartóft. Um er að ræða tvö hús og ferkantað gerði að norðaustanverðu. Líklegt er að þarna hafi verið lítið kot um tíma. Myndarlegt vatnsstæði er suðvestan við tóftirnar. Ofar er varða, líklega landamerki. Hún gæti þess vegna hafa heitið Kríuvarða.
Í Gullág eru heillegir fiskreitir; stakkstæði, frá Miðnesi. Segja má með nokkrum sanni að of lítið hefur verið gert úr áþreifanlegum minjum í og við Sandgerði með hliðjón af sögu byggðalagsins um aldir.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín. Að henni lokinni bauð Reynir þátttakendum til stofu, bauð upp á kaffi og meðlæti, og fræddi þá um staðhætti og fólkið í Sandgerði fyrr á tímum.
Heimildir:
-Örnefnalýsingar fyrir Sandgerði.
-Reynir Sveinsson.
Efra-Sandgerði.
Krossbrekka – Kampstekkur – Einbúi
Stefnan var tekin á Bæjarsker. Með í för var Reynir Sveinsson frá Sandgerði, en hann þekkir vel til staðhátta á svæðinu. Ætlunin var að reyna að leita uppi og staðsetja nokkur örnefni, s.s. Krossbrekkur.
Stefnan var tekin á Bæjarsker. Með í för var Reynir Sveinsson frá Sandgerði, en hann þekkir vel til staðhátta á svæðinu. Ætlunin var að reyna að leita uppi og staðsetja nokkur örnefni, s.s. Krossbrekkur, Kampstekk og Einbúa. Við leitina kom ýmislegt óvænt í ljós. T.a.m. uppgötvaðist áður óþekkt selstaða, auk þess sem örnefndin Krossbrekka (-ur) og Kirkjuklöpp virðast gefa til kynna kirkju fyrrum á Bæjarskerjum.
Kampstekkur, sem er skammt ofan við Stafnesveg sunnan Setbergs, hefur einnig verið nefndur Kambstekkur. Um er að ræða jarðlægar grónar tóftir, sem þó má enn sjá lögun á.. Kampstekkur hefur einnig verið nefndur Kambstekkur.
Í Gráskinnu I er getið um Krossbrekku: „Þegar Þórunn Gísladóttir yfirsetukona var 14 ára, var hún hjá foreldrum sínum á Býjaskerjum á Miðnesi. Í túninu þar var klettur nokkur sem kallaður var Krossbrekka. Var það trú manna að þar byggi huldufólk. Til marks um það má segja að bóndinn á næsta bæ, Bárugerði, þóttist eigi sjaldan sjá konu bregða fyrir uppi hjá klettinum. Sýndist honum kona sín vera að hirða þar þvott; en þegar til kom, reyndist það missýning. Kýr þeirra hjóna, sem var hæluð upp við klettinn, var eigi sjaldan þurrmjólkuð að kvöldi og vissi enginn nokkurar líkur til að það væri af manna völdum. Gat er vestan á klettinum og hugðu menn það dyr vera. Þórunn og systkini hennar voru oft um þessar mundir á órökuðum kópskinnsskóm. Einn morgun, er hún vaknar, saknar hún annars skós síns og þótti skaði, því að hann var nýr. Leitað var að skónum en hann fannst eigi; var það kennt vanhirðu Þórunnar að hún hefði látið hunda nema skóinn burt en hana minnti statt og stöðugt að hún hefði bundið skóna saman og hengt þá við rúmstokkinn um kvöldið.
En þessa sömu nótt og skórinn hvarf dreymdi Þórunni að til hennar kæmu tvær stúlkur á hennar reki. Báðu þær hana að koma út með sér. Hún þóttist klæða sig og binda upp á sig skóna og fara með þeim. Þegar út kemur biðja þær hana að koma með sér upp að Krossbrekku. Leiða þær hana síðan að gati því er nefnt hefur verið og var á klettinum og biðja hana að koma inn, það liggi mikið við.
Þórunn er treg til þess, því að hún hafði verið hrædd á klettinum. En svo fer að hún lætur til leiðast. Dettur henni þá í hug að hún hefði heyrt að vissara væri, þegar gengið er inn til huldufólks að skilja eftir eitthvað af sér utan dyra. Þykir henni því að hún leysi af sér annan skóinn og skilji hann eftir fyrir utan klettinn. Þegar inn kemur sér hún að þar liggur kona á gólfi. Fer hún höndum um hana og innan skamms verður konan léttari. Að því búnu mælti konan: „Nú máttu fara; ég ætla ekki að borga þér þetta neitt því að ekki er víst að hverju gagni þér kæmi það en vísast er að þér heppnist vel að hjálpa konum.“
Reyndar komi tveir staðir til greina sem Krossbrekkur, annars vegar óll í túninu sem fyrr sagði og hins vegar gróinn brekka í túnjaðrinum suðaustanverðum. Þar eru tvær tóftir, útihús. Ósennilegt er að reist hafi verið mannvirki í brekkunni vegna álaganna, sem á henni hvíldu. Því kom fyrrnefndi staðurinn umfram hinn betur til greina og var hóllinn staðsettur þar.
Í örnefnalýsingu fyrir Bæjarsker segir m.a. um Kampastekk og Einbúa: „Þá er Bæjarsker II. Það er nyrðri bærinn. Er þá bezt að byrja neðst, og er þar Undirlendi, framhald af því, sem fyrr var getið. Upp af því er laut niður í túni, sem heitir Forarlág. Þá er Garðalág.
Norðan við Bárugerðismerkin heim að tjörn eru Rústir. Þetta eru fjárhús eða bæjarrústir. Þar er tjörn, sem heitir Vesturbæjartjörn. Austur af bænum er laut, sem heitir Lögrétta, og þar austur af er Önnugerði, sem er garður, sem einhver hefur haft. Þar austur af er Austurtún. Norðan við það er Krossbrekka. Norðan undir fjárhúsum suðaustan við tjörnina vestan við fjárhúsin er Beinrófa. Ofan við túnið upp að vegi eru klappir, sem heita Byrgi.
Norðan túns er nafnlaus sandur, nema eitt sker í sandinum heitir Brynkasker. Svo er Bárugerði, sem er stytt úr Báreksgerði. Ofan við túnið er kúagerði. Þar eru klettahólar við túngirðinguna, Hesthúshóll og Grásleppuhóll. Norðan við Báruhól eru tvö nýbýli, Vinaminni og Reynistaður. Innar er nýbýlið Sólbakki. Þetta svæði var nefnt Hálönd og nær inn að merkjum og upp að vegi.
Nú er að flytja sig upp fyrir veginn. Fast niður við veg rétt norðan við merkin er Kampastekkur. Þar upp af eru lautir og skorningar, sem nefndir eru Gil. Ofan þeirra er klettahóll, sem nefndur er Einbúi og ekki er vert að snerta við.“
Skammt vestan við Einbúa mátti sjá leifar af fjárborg á lágum hól. Sunnan við Einbúa er Leirdalur. Norðvestan við Einbúa er gróinn stekkur. Á hólnum er gróin varða, sennilega Neðrivarða. Ofar í heiðinni er Efrivarða, að öllum líkindum selvarðan, enda kom í ljós seltættur suðvestan undir Einbúa. Varðan ber við himinn efst á brúnum og sést vel frá Bæjarskerjum. Hins vegar fellur Neðrivarðan inn í brúnirnar og er mun erfiðara að sjá hana frá bænum.
Gengið yfir að Álaborginni og önnur selstaða frá Bæjarskerjum skoðuð nánar.
Heimildir:
-Gráskinna I, 181, Sigfús VIII 251.
-Örnefnalýsing fyrir Bæjarsker.
Sandgerðisbærinn.
Kershellir – Hvatshellir I
Að sögn Friðþófs Einarssonar, bónda á Setbergi, er Kershellir nafnið á fyrrum selshelli Setbergsmanna. Að sögn móður hans, Elísabetar Reykdal, notaði afi Friðþjófs, Jóhannes Reykdal, hellinn sem fjárhús eftir aldarmótin 1900 uns hann byggði hús undir féð uppi á Húsatúni þar skammt frá.
Kershellir.
Þegar hætt var að nota Húsatúnsfjárhúsið var féð fært í nýrra hús í Fjárhúsholti, skammt austan við bæinn á Setbergi. Ofan við Kershelli er Hvatshellir í stóru jarðfalli. Hann opnaðist í jarðskjálfta á 19. öld. Nafnið Kershellir hefur í seinni tíð færst yfir á Hvatshelli.
Kershellir, sem er á landamerkjum, er tvískiptur; nyrðri helmingur hans tilheyrði Setbergi og sá syðri Hamarskoti.
Hvatshellir gengur suður úr niðurfalli sunnan Suðurhlíðar milli Setbergshlíðar og Slétturhlíðar og er stór varða á vesturbrún þess. Um töluverða hvelfingur er að ræða, um 40 metra langa, 10 metra breiða og um tveggja metra háa. Eftir að komið er niður í hellinn sjást göng upp með niðurfallinu. Þar er afhellir álíka langur og aðalhellirinn, en þrengri.
Í Hvatshelli.
Heildarleng hellisins er um 100 metrar. Hellirinn fannst sumarið 1906 og varð forsíðufrétt í blaðinu Þjóðhvelli (1906), en þar segir:
„Fjórir piltar, ungir og röskir: Helgi Jónasson, Matthías Ólafsson, Sigurbjörn Þorkelsson (allir þrír starfsmenn Edinborgarverslunar hér í bænum) og Skafti Davíðsson trésmiður, höfðu myndað með sér félag í vor, er heitir Hvatur, í því augnamiði, að temja sér göngulag og styrkja með því líkamann. Hafa þeir því á sunnudögum gengið upp í landið til að njóta fríska loftsins og fegurðar náttúrunnar. Í einum slíkum leiðangri fyrir skömmu, fundu þeir hellir einn uppi í Hafnarfjarðarhrauni, stóran og fallegan – miklu stærri en helli þann í Þingvallahrauni, er kenndur er við enska manninn, Hall Caine, af því að hann fann hann ekki.-
Þennan nýfundna hellir hafa piltarnir skírt Hvatshelli, eftir félagi sínu, og var vel til fundið. – Lengd hellis þessa, frá enda í enda, kvað vera 300 fet; afhellar eru margir út úr aðalhellinum, hver inn af öðrum, og kvað innsti hellirinn vera þeirra lang-fallegastur. Hvelfing hans er t.d. snilldarvel löguð. Merki þess þykjast menn sjá, að menn hafi komið í hellir þennan áður fyrir löngu.
Árangur af þessari ferð piltanna hefur orðið merkilegur mjög, og hlýtur að vera þeim og öðrum til gleði, – eiga þeir þökk skilið fyrir fundinn. – Að minnsta kosti hefði slíkur fundur sem þessi þótt matur hér í Víkinni, hefði finnandinn verið einhver nafnkenndur útlendingur eða Lord eða eitthvað því um líkt og verið innundir hjá ritstjóranum.“
Fjárhúsið í Húsatúni.
Seljabúskapur á Suðurnesjum
Hér veður fjallað um „Seljabúskap á Suðurnesjum„. Upplýsingarnar eru fengnar úr skýrslu Óbyggðanefndar frá árin 2004 um úrskurði Grindavíkur- og Vatnsleysustrandarlands.
Selsvellir – tóftir.
Í lýsingu Skúla Magnússonar á Gullbringu- og Kjósarsýslu árið 1781 er í XI. kafla fjallað um hverja kirkjusókn fyrir sig og m.a. fjallað um tölu og ásigkomulag bújarða. Um Krýsuvík segir m.a.: „Bær þessi er tvær mílur frá lendingarstað sínum og telst því fremur sveitajörð en sjávar. Landrými er mikið; … Jörðin er vel fallin til sauðfjárræktar og til mikils sauðfjárbótabús með yfir 1000 sauðfjár.
Um Staðarsókn í Grindavík segir Skúli Magnússon árið 1781: „Þarna eru býlin fast með ströndinni, og liggur ekkert engi eða slægjuland undir þau nema túnin ein, sem er eigi unnt að auka, … En 2 mílur í norðaustur frá byggðarlaginu, inni á milli fjallanna, eru góðir hagar. Hafa menn þar selstöður. En eigi eru þar skilyrði fyrir nýbýli“.
Kirkjuvogssel.
Skúli Magnússon tekur fram um Kirkjuvogssókn árið 1781 að selstöður séu 1 1/2 mílu norðaustur frá bæjunum, en engar selstöður séu í Hvalsness- og Útskálasóknum. Hins vegar eru taldar selstöður í Njarðvíkursókn. Um Kálfatjarnarsókn segir Skúli: „Frá flestum bæjum eru selstöður uppi til fjalla. Í sókninni er hvergi hagfelldur staður til nýbýla, en eitthvert hið bezta land til sauðfjárræktar, það er ég hefi séð á Íslandi, á fjögra mílna svæði samhliða bæjunum. Á breiddina nær það svæði 2 mílur frá sjónum upp að háfjöllunum, sem greina Gullbringusýslu frá Árnesssýslu. Þannig tekur svæði þetta yfir 8. fermílur“.
Geir Bachmann, prestur á Stað í Grindavík, samdi sóknalýsingu Staðarsóknar í Grindavík árin 1840-1841. Þar segir hann eftirfarandi um selstöðu Staðar: „Eftir jarðabókinni 1760 á Staður selstöðu á Selsvöllum, þó það nú sýnist orðið almennings selstaða úr allri Grindavík“.
Selsvellir – tóftir.
Geir fjallar síðar nánar um selstöður í Staðarsókn í svari við 31. spurningu sóknarlýsinganna (selstöðum): „Þess er áður getið, að Staður eigi selstöðu á Selsvöllum. Selsvellir eru héðan í landnorður upp í fellum, og er Keilir, þegar í sel þetta er komið, rétt í útnorður. Stendur selið í Strandarmannalandi eður fyrir norðan Grindavíkur landamerki. Þar er all-grösugt, en bízt fljótt upp, því allir bæir í sókninni nema Hraun hafa þar í seli, og þó að engu goldið Staðarprestinum. Vilja menn hér gjöra þessa selstöðu almenning, og þyrfti þó ei að vera. Litlu vestar en Selsvellir er selstaða frá Hrauni; hér er árlega haft í seli frá bæ þessum, og eru landamerkin milli seljanna í svo kölluðum Þrengslum. Flestir bæir í Grindavík hafa haft í seli einhver staðar til fjalla; er mér sagt, að vatnsleysi olli því, að allar þær eru afræktar og getur vel verið sannleiki. Sú mun og orsök, að allir hafa þyrpzt á Selsvelli, því þar er dálítill rennandi lækur rétt við selið. … 32. Ekkert er hér afréttarland; allt fé ungt og og gamalt, lömb og sauðir er rekið í selið og þar smalað á hverju máli; lömbin eru kefluð. Þó eru réttir í Stóru-Vogum, sóttar af Ströndinni, Rosmhvalaness-, Hafna- og Grindavíkurhreppum“.
Baðsvallasel.
Síðar átti Geir eftir að kvarta undan ágengni nágranna sinna í sellandi eins og kemur fram í grein Guðrúnar Ólafsdóttur Sel og selstöður í Grindavíkurhreppi sem birtist í afmælisrit Ólafs Hanssonar Söguslóðir árið 1979. Þar segir: „Til enn frekari áréttingar um mikilvægi þessara hlunninda [þ.e. selstöðu Grindvíkinga] má tilfæra bréf frá árinu 1844 frá sr. Geir Bachmann til biskups, þar sem hann kvartar yfir því, að allir nágrannar sínir noti selstöðuna á Selsvöllum án þess að greiða honum leigu fyrir, þótt hún sé sannanlega eign prestssetursins samkvæmt jarðabókinni 1760“. Telur hann, að bændurnir hafi komist upp á að nota selstöðuna, þegar fyrirrennarar hans í prestsembættinu hafi verið svo fénaðarfáir, að þeim hafi ekki þótt svara kostnaði og fyrirhöfn, að viðhalda selhúsum og hafa fólk yfir litlum fénaði og þess vegna leyft öðrum afnot af henni gegn leigu, sem síðan hafi fallið niður vegna hirðuleysis. Nú sé svo komið, að fyrir utan hann, sem hafi byrjað að nota selið 1837, þ. e. tveimur árum eftir að hann fékk brauðið, eigi sex búendur þar selhús og hafi þar allan sinn fénað og taki auk þess sumir fénað af öðrum til göngu og hirðingar. Telur hann, að sumarið áður hafi að minnsta kosti 500 fjár, ungt og gamalt, og 30 nautgripir auk inntökupenings gengið á völlunum og geti menn getið sér þess nærri, að þvílíkur urmull af kúm og kindum geri „ærið usla og jarðnag í beitilands þrengslum”. Vegna hagleysis verði að reka allan fénað, sem tíðum sé kominn í selhagana löngu fyrir fráfærur í 7. viku sumars, heim á miðjum selvinnutímanum, …
Njarðvíkursel.
Pétur Jónsson, prestur á Kálfatjörn, fjallar lítið um selstöður í lýsingu Njarðvíkur- og Kálfatjarnarsóknar árið 1840. Hann nefnir selstöðu frá Innri-Njarðvík, sem verið hafi við veginn frá Vogum að Grindavík, en síðar segir Pétur um Hvassahraun: „Hér hefir verið selstaða fyrrum eins og á öllum Strandarhrepps lögbýlum, en öll af lögð á seinni tímum; þau hafa öll eður flest vatnslaus verið og staðið hér um í miðri heiði, milli fjalls og fjöru“.
Árni Óla blaðamaður samdi bók sem fjallar um Vatnsleysuströnd og Voga, Strönd og Vogar, og kom út árið 1961. Árni víkur þar á tveimur stöðum að seljum á svæðinu en getur ekki heimilda nema hann vitnar í seinna skiptið til frásagnar Benjamíns Halldórssonar: „Um alla heiðina eru rústir af gömlum seljum, … Flekkuvíkursel lagðist ekki niður fyrr en um 1870, en þá höfðu öll hin selin verið lögð niður fyrir löngu“. …
Hér verða nú taldar seljarústirnar í Vogaheiði og Strandarheiði, og er aðallega stuðzt við frásögn Benjamíns Halldórssonar og lýsingar hans á staðháttum.
1. Selhólar heita skammt fyrir ofan. Voga. …
2. Nýjasel er við Snorrastaðatjarnir ofanverðar. …
3. Þórusel er skammt austur af Vogum. …
Arahnúkasel.
4. Arahnúkssel er hjá Stóru-Aragjá … og er þangað röskur hálfrar stundar gangur frá Vogum. Í Arahnúksseli eru glöggar seltóftir og allstórt seltún þar umhverfis, … Túnið var seinast slegið 1917.
5. Gamla-Vogasel er austast í svonefndu Vogaholti. Þar eru greinilegar seltóftir og nokkuð stórt seltún…
6. Dalsel er í Fagradal við samnefnt fjall. Þar hafa sézt seltóftir til skamms tíma, en Fagridalur er nú uppblásinn fyrir löngu. Dalselið mun hafa verið notað frá Grindavík (Járngerðarstöðum). …
7. Gjásel er um 3/4 klukkustundargang frá Brunnastöðum. Þar eru glöggar seltóftir, en lítið seltún. …
8. Brunnastaðasel er austur af Gamla-Vogaseli. Mitt á milli þessara selja er Markhóll, sem skiptir löndum milli Voga og Brunnastaða. Þarna eru margar og allglöggar seltóftir og allstórt seltún, en ekkert vatn. Þangað mun vera um klukkustundar gangur frá Brunnastöðum. …
Hlöðunessel.
9. Hlöðunessel er austur af Brunnastaðaseli. Þar eru litlar og ógreinilegar seltóftir og lítið seltún. …
10. Knarranessel er norðaustur af Hlöðunesseli, um stundar gang frá Knarrarnesi. … Þarna er stórt seltún og allmikið vatn í nokkuð stóru leirflagi. Í miklum þurrkum hefir vatn þetta þornað, og svo var fyrir 1920, en þá var grafin niður í leirflagið nokkuð djúp hola. Komu menn þar niður á mó, er reyndist góður eldiviður, en mósvæðið takmarkast á alla vegu af hraunklöppum og var mórinn því fljótt upp urinn. …
11. Auðnasel er austur af Knarrarnesseli. Þar eru margar greinilegar seltóftir og allstórt seltún. …
12. Kolgrafaholt heitir um hálfrar stundar gang frá Þórustöðum. … [Árni Óla segir engar seltóftir sjást þarna en virðist giska á að þarna sé selstaða Þórustaða, Fornuselshæðir, sem Jarðabók Árna og Páls nefnir].
Flekkavíkursel.
13. Flekkuvíkursel eru um 1/2 stundar gang frá Flekkuvík. Þar eru glöggar seltóftir, en ekki margar. Eru þær við berghamar hjá Hrafnagjá, … Í Flekkuvíkurseli er lítið seltún, en nokkrar grasi grónar flatir austur og vestur frá selinu, …
14. Rauðhólssel átti Stóra-Vatnsleysa. Það er við hraunjaðarinn, sem liggur frá Kúagerði, en vestur af Snókafelli, sem er úti í hrauninu. Í Rauðhólsseli eru glöggar seltóftir og allstórt seltún, …
15. Oddafell heitir milli Keilis og Trölladyngju. Þar átti Minni-Vatnsleysa selstöðu. …
16. Sogasel. Það er uppi í Vesturhálsi og í landi Stóru Vatnsleysu, en þar höfðu Kálfatjörn og Bakki selstöðu. Er þangað um 2 1/2 klukkustundar gangur frá Kálfatjörn. …
Sogasel.
17. Hvassahraunssel var vestast í Almenningum. …
Í áðurnefndri grein Guðrúnar Ólafsdóttur frá 1979 er gert ráð fyrir að selstöður, sem Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns nefnir og jarðir í Grindavíkurhreppi nýttu, hafi verið innan marka hreppsins. Miðar Guðrún við kort Landmælinga Íslands, blað 27, Reykjavík, útgefið 1977, og blað 29, Krýsuvík, gefið út 1969. Stangast það á við umsögn Geirs Bachmanns í sóknalýsingunni 1840-1841, sem segir Selsvelli í Strandamannalandi, og greinargerð Sesselju Guðmundsdóttur, sem oft hefur verið vitnað til hér að framan.
Guðrún telur hugsanlegt að ásókn Grindvíkinga í selstöðuna á Selsvöllum megi að einhverju leyti skýra með því að þeir höfðu ekki lengur haft innhlaup í selstöðurnar í Krýsuvíkurlandi eins og var á 18. öld. Þrjú nýbýli hafi risið í Krýsuvíkurlandi á 19. öld, öll í fyrri seljalöndum. Vigdísarvellir og Bali á Vigdísarvöllum og Fitjar í svonefndri Selöldu [sem er utan kröfusvæðis]. Telur hún ólíklegt að Krýsuvíkurbændur hafi leigt út selstöður eftir að þessi býli byggðust.
Þórkötlustaðasel við Vigdísarvelli – uppdráttur ÓSÁ.
Guðrún Ólafsdóttir reynir að tímasetja hvenær selfarir í Grindavíkurhreppi hafi hætt og vitnar til bókar Gísla Brynjólfssonar, „Mannfólk mikilla sæva – Staðhverfingabók” (útgefinni 1973) og Ferðabókar Þorvalds Thoroddsens (útgefinni 1913), en Þorvaldur kom að Hraunseli, Selsvöllum, Baðsvöllum og Vigdísarvöllum árið 1883. Samkvæmt því hefðu selfarir hætt milli 1850 og 1883. En í þjóðháttasöfnun árið 1976, hefði Magnús Hafliðason frá Hrauni (fæddur 1891) sagt foreldra sína haft í seli í Hraunseli og talið að því hefði verið hætt um 1890.
Svo virðist sem Grindvíkingar hafi enn haft í seli um 1870 ef dæma má af bréfum hreppstjóra Vatnsleysustrandarhrepps 15. og 21. janúar 1870, sem telur mann, sem sýslumaður segir búsettan á Vigdísarvöllum, heimilisfastan á Vatnsleysuströnd, þó að hann flytji sig og fé sitt um sumartímann á Vigdísarvelli, líkt og þegar Grindavíkurmenn hafi í seli á Selsvöllum.
Heimild:
–Úrskurður Óbyggðanefndar 2004 – Grindavík og Vatnsleysuströnd.
Knarrarnessel – stekkur.
Tóur – Tóarstígur – Hrísatóarstígur
Að þessu sinni var Hrístóarstígurinn skoðaður. Áður hafði Tóarsstígurinn verið genginn.
„Austan og neðan við Gráhellu komum við á Tóasstíg. Tóarstíg eða Tóustíg en hann liggur upp í Tórnar eða Tóurnar eins og málvenja er núorðiðþ Stígurinn var eyðilagður að mestu þegar efni í Reykjanesbrautina var tekið en hluti hans sést þó vel enn þá rétt neðst þar sem hraunið er enn óraskað. Stígurinn kemur svo aftur í ljós fyrir ofan ruðningana.
Tórnar eru nokkrir óbrennishólmar sem ganga í gegnum mitt hraunið til suðsuðausturs. Gróursvæðin hafa líklega heitið Tór, samanber grastó (et.) eða grastór (ft.), en nafnið afbakast í tímans rás. Orðmyndin „Tóin“ verður notuð hér en ekki „Tóan“ en báðar myndirnar koma fyrir í heimildum.
Tórnar eru aðgreindar í Tó eitt, Tó tvö, Tó þrjú, Tó fjögur, Hrístó og Seltó en tvö síðustu nöfnin ná yfir efsta hluta Tónna sem er nokkuð víðáttumikil.
Í Tónnum er fallegur gróður, s.s. brönugrös, blágresi, birkikjarr, víðibrúskar og ýmsar lyngtegundir. Tó eitt var að mestu eyðilögð þegar Reykjanasbrautin var upphaflega byggð en þó sér hennar enn aðeins stað við norðurenda efnistökusvæðisins. Tó tvö er fallegust nú og í hana göngum við um djúpan og vel markaðan Tóastíg í austurátt þar sem efnistökuruðning-ingnum lýkur. Hlaðnir hraungarðar eru sitt hvorum megin við stíginn þar sem hann liggur niður í tóna og ganga þeir upp í hraunið til beggja átta. Hluti varnargarðsins fór undir ýtutönn við breikkun Reykjanesbrautar. Nú má áhugafólk um söguminjar þakka fyrir að hliðinu sjálfu varð bjargað með snarræði eins náttúrverndarsinnans sem var þarna á vappi þegar jarðýtustjórinn var við það að rústa minjunum – e.t.v. í ógáti.
Mjög líklega hefur töluvert lyng til eldileviðar verið rifið í Tónum og grjótgarðarnir þá verið notaðir til þess að veita „hríshestunum“ aðhald, einnig er mögulegt að þar hafi verið setið yfir fé þó svo að þar sjáist engin smalabyrgi. Í Tó tvö eru þrjú tófugreni.
Nyrst í Tó tvö eru lynglautir umkringdar háum hraunkanti og þar finnum við lítið mosagróið grjótbyrgi sem Vatnsleysubræður hlóðu sé til gamans upp úr 1940. Á byrginu sést glöggt hvað mosinn er fljótur að nema land. Um efsta hluta Tóar tvö liggur línuvegurinn.
Tó þrjú er minni en Tó tvö og þar vex meira kjarr í hraunjöðrunum en í neðri tónum. Nyrst í þessari tó er jarðfall sem heitir Tóarker en þar var gott fjárskjól.
Uppi í hrauninu norðaustur af Tó þrjú sjáum við nokkuð háan ílangan og grasi vaxinn hraunhól sem heitir Snókhóll.
Efsta tóin ber í nokkrum heimildum tvö nöfn; neðri hlutinn heitir Hrísató en efri hlutinn Seltó. Í Hrísató er Hrísatóargreni. Líklega dregur tóin nafn af því að þangað hafi verið sóttur eldiviður.
Út úr Hrístó til suðvesturs liggur Hrísatóarstígur. Stígurinn liggur úr tónni og suðvestur yfir hraunið en það er erfitt að koma auga á hann þar þó svo að við upphaf hans sé varða. Það er hægara að finna stíginn af Afstapahraunsjaðrinum vestanverðan og ganga hann síðan til norðausturs.
Rauðhóllsel.
Þegar ekið er upp Höskuldarvallaveginn er á einum stað, nokkuð ofarlega en þó fyrir neðan Rauðhól, vik inn í hraunkantinn sem nær alveg að veginum og þar er upphaf Hrísatóarstígs mjög greinileg. Menn hafa getið sér til um að líklega hafi búpeningur úr Rauðhólsseli verið rekinn þarna um til beitar í Seltó og af því dragi tóin nafn sitt. Sú tilgáta er afara ólíkleg því langur og torfær vegur er úr selinu í tóna og lítið gagn af því að hafa í seli ef ekki voru hagar á stanum.
Trúlega hefur stígurinn frekar verið notaður af mönnum með hesta til þess að sækja eldivið í tórnar og þá e.t.v. eldivið til notkunar í Rauðhólsseli. ein gæti verið að menn af Ströndinni hafio komið upp Þórustaðastíg, farið út af honum norðan Keilis og yfir á Hrístóarstíg til eldiviðartöku í Tóunum. Annar stígur sem hér verður kallaður Seltóarstígur (trúlega eingöngu kindargata) liggur úr Seltó og yir Afstapahraunið austanvert en þar er hraunið mjóst og auðveldast yfirferðar ef ekki er farið með snjó.
Í Seltó er tilraunarborhola sem gerð var á uppbyggingartíma fiskeldir í Stóru-Vatnssleysu [1986] og að henni liggur vegruðningur. Vegurinn að borholunni gengur út úr Höskuldarvallavegi aðeins fyrir ofan Hrístóarstíg en fyrir neðan Rauðhól. Svo til beint austur af borholunni er upphaf Seltóarstígs til austurs úr tónni. Nálægt Seltó eru tvö Seltóargreni. Seltóarhraun er slétt og nokkuð víði vaxin hraunspilda sunnan Seltóar. [Í Seltó hefur verið komið fyrir jarðskjálftamælitækjum.]
Upp af Tónum förum við um fjölbreytilegt en á köflum illfær hraun allt að Snókafelli sem er lágt fell upp undir Sóleyjarkrika og Höskuldarvöllum.“
Ruðningurinn var genginn til baka úr Seltó yfir á Höskuldarvallaveg.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 1 mín.
Heimild:
-Sesselja Guðmundsdóttir, Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi, b.s 104-106.
Stígur um Hrístóur í Afstapahrauni.
Draugatjörn – Kolviðarhóll – Hellisskarð – Búasteinn – Hellisheiði
Gengið var frá Draugatjörn, framhjá Kolviðarhól, upp Hellisskarð, litið á Búastein, haldið eftir Gamla veginum um Hellisheiði og áfram áleiðis niður Kambana. Austarlega á Hellisheiði eru gatnamót Skógarvegar (Skógarmannagötu) er liggur til suðurs um Stóradal og Háaleiti áleiðis niður að Hjalla í Ölfusi.
Hellukofinn.
Hellisheiði er heiðin sunnan Henglafjalla. Hellisheiði er mjög eldbrunnin en víða er mosagróður og lyng á hrauninu. Er talið að yngsta hraunið hafi runnið við eldgos á 6 km langri gossprungu um árið 1000. Heiðin hefur öldum saman verið mjög fjölfarin. Hin forna leið var kölluð Gamli vegurinn, en hún lá á öðrum stað en nú er farið. Að austan lá hún upp Kamba, yfir Hurðarás og þaðan sjónhendingu á Hellisskarð fyrir ofan Kolviðarhól. Síðan lá leiðin niður af heiðinni um Hellisskarð, þaðan um Bolavelli vestur með Húsmúla, um norðanvert Svínahraun hjá Lyklafelli og var oft komið í byggð hjá Elliðakoti í Mosfellssveit.
Hellisheiði – gömul gata.
Leiðin liggur um klappir vestan til á heiðinni og er gatan þar víða mörkuð allt að 20 sm djúp í stálhart hraungrjótið. Þessi leið var öll vörðuð og standa margar vörðurnar vel enn í dag. Þekkt er Biskupsvarða sem stóð á klapparhól vestarlega á heiðinni. Vörðunnar er getið í heimild frá 1703 og mun hún hafa verið ævaforn og mikið mannvirki, krosshlaðin svo að hafa mætti skjól við hana í öllum áttum. Hún stóð fram á 19. öld. Nálægt 1830 var byggður sæluhúskofi á sömu klöppinni og var grjótið úr Biskupsvörðu notað í hann.
Kofinn stendur enn, nefndur Hellukofi enda eingöngu byggður úr hellum. Er fullri vegghæð er náð dregst hleðslan saman og myndar þakið en efst er stór hella sem lokar opinu. Kofinn tók 4-5 menn. Hellukofinn var friðaður 1. janúar 1990. Þórður Erlendsson bóndi á Tannastöðum, d: 1872, reisti Hellukofann en hann var víst „snillingur í öllum handtökum“. Gamli þjóðvegurinn sker núverandi þjóðveg en stór hluti af þessari gömlu leið er enn vörðuð. Enn má sjá djúp för í jörðinni, um hraunklappirnar nálægt kofanum, því að á sumum stöðum hefur umferðin markað allt að 20 sm djúp för.
Austurvegurinn 1900.
Á árunum 1879-1880 var lagður upphlaðinn vegur upp Kamba og vestur Hellisheiði, nálægt hinni fornu þjóðleið, en á árunum 1895-1896 var lagður vagnfær vegur yfir Hellisheiði, nokkru vestar en eldri leiðir, niður í Hveradali og vestur fyrir Reykjafell en ekki niður Hellisskarð.
Gangan hófst við réttina sunnan við Draugatjörn, sunnan Húsmúla. Önnur rétt er þar skammt suðaustar, fast við gamla þjóðveginn upp að Kolviðarhól. Áður en haldið var inn á gömlu þjóðleiðna, sem liggur að Hellisskarði, var komið við í sæluhústóft austan við tjörnina.
Gata um Hellisheiði.
Árið 1703 var hún talin nauðsynleg á vetrartímanum til innivistar. “Er og lofsvert, að þetta sælhús skuli ei niður fallið (1793)”. Hann var ætlaður þeim, sem ferðast þarna á vetrardegi, og kallaðist sæluhús. Margir hafa dáið í þessum kofa, því oft hafa þeir ekki fundið hann fyrr en þeir voru örmagna af hungri og kulda. Í örnefnalýsingu segir að í ekkert hús var að venda [á leiðinni yfir Hellisheiði] nema smákofa, er var í Svínahraunstöglum, sem ganga út á Norðurvellina. Kofi þessi var illa ræmdur fyrir draugagang, og mynduðust meðal manna hinar fáránlegustu sögur um kofa þennan.
Draugatjörn – sæluhúsið.
Árið 1845 var nú kofinn í Svínahrauni fluttur upp á Kolviðarhól. Hafði nýtt sæluhús verið byggt á Kolviðarhóli 1844. Ýmsar sagnir eru um menn sem hafa tekist á við drauga í kofa þessum, t.d. um Grím á Nesjavöllum en hann var á ferð þar um 1820 og kljáðist við afturgöngur þriggja manna sem höfðu orðið þar úti nokkrum árum áður. Þar kemur fram að bálki hafi verið í suðurenda kofans.
Kolviðarhóll 1910.
Stuttur gangur er eftir gömlu götunni að Kolviðarhól. Áður var farið yfir læk úr Mógili í Húshólma og framhjá síðarnefndu réttinni, áfram eftir suðaustanverðum Bolavöllum og að hólnum. Bú var fyrst reist á Kolviðarhóli 1883. Um vorið settist þar að Jón bóndi frá Stærribæ í Grímsnesi. Byggði hann sér bæ framan í hólnum. Kolviðarhóll er 4-5 m hár, gróinn, melhóll við norðurenda á lágum rana eða ási sem gengur norður úr Reykjafelli, beint neðan (vestan) við Hellisskarð. Ekkert vatnsból er sýnilegt en hefur væntanlega verið í brunni.
Húsmúlarétt.
Undirstöður síðustu húsanna á Kolviðarhóli sjást enn vel og hafa sumar verið steyptar en aðrar eru úr tilhöggnum sandsteini, sem víða má finna í Reykjafelli beint ofan við hólinn. Framan í nyrðri hluta hólsins (norðan við bæjarstæðið) hefur verið hlaðinn pallur úr hraungrýti og er hann mjög heillegur að sunnanverðu og að vestan en norðurhornið er hálfhrunið. Lítill heimagrafreitur er þarna með steyptum veggjum. Árið 1910 voru tvö hús á Hólnum, timburhús og steinhús, þar að auki næg búpeningshús. Einu útihúsaleifarnar sem nú sjást er steypuhrúgald austan í norðanverðum hólnum. Þjóðsaga segir að “almenn sögn segi, að í þessum hól sé heygður Kolfinnur, sem nefndur er í Kjalnesinga sögu.”
Gengið um Hellisskarð.
Haldið var upp Hellisskarð. Í frásögn árið 1703 segir að „upp í hnúknum fyrir norðan fyrrnefnt Hellisskarð er sá stóri steinn einstakur, er Búasteinn kallast, við hvörn stein varðist Búi Esjufóstri, sem saga hans til vísar.“ Um það bil í miðri heiðarbrekkunni til vinstri, nokkuð hundruð fet uppi er stór teningslaga steinn; Búasteinn. Er hann settur í samband við frásögn Kjalnesinga. Stór þverhníptur sandsteinsklettur og er aðeins gengt upp á hann að ofan (austan). Talsvert rof er í kringum steininn af vatnsflaumi en einnig af mannaferð.
Ofan við Hellisskarðið eru gatnamót. Til norðausturs liggur leið er gekk undir nafninu “milli hrauns og hlíða”, um Skarðsmýri og upp á gömlu þjóðleiðina til norðurs frá Hveragerði.
Þegar komið er upp á heiðina úr Hellisskarði, verður fyrir samfelld hraunbreiða, og er aðeins eitt einstigi yfir hana.
Húsmúlarétt.
Hraunið er að mestu flatar og sléttar hellur, en grjót og melar hér og hvar. Svo mætti virðast, sem einstigi þetta væri höggvið af manna höndum í hraunstorkuna, því þar er svo beint og reglulegt. Víða mælist það allt að 1/2 feti, og má af því marka, hve geysigamall þessi vegur er og fjölfarinn. Rásin er misgreinileg. Samfellda kafla má rekja lengst um 50 metra en yfirleitt mun styttra en á milli liggur leiðin sumstaðar um djúpar rásir þar sem grjóti hefur verið rutt úr veginum en víðar gufar slóðin alveg upp á milli. Á nokkrum stöðum má greina að slóðin er tvö- eða jafnvel þreföld.
Hellisheiði – vörður.
Austur frá Reykjafelli (Stóru-Reykjafell) eru Hellurnar, eru þær sléttar klappir, liggja yfir þær djúpar götur eftir hestafætur. Sanna göturnar að yfir þessar sléttu klappir hefur umferð verið allt frá fyrstu byggð hér á landi.“ segir í örnefnalýsingu. Allt frá því að komið er upp úr Hellisskarði er hálfbert helluhraun austur að miðri heiðinni eða þangað til að fer að halla austur í Ölfus. Fleiri vörður eru og við veginn til leiðarvísis. Á Hellisheiði eru yfir 100 vörður. Vegir hafa legið yfir Hellisheiði frá ómunatíð. Gata lá upp Kamba, yfir Hurðará og í stefnu á Gíga ofan við Hellisskarð. Í klöppum á þeirri leið eru víða djúpar götur, gengnar á liðnum öldum.
Eiríksbrú á Hellsiheiði.
Síðar var lagður upphlaðinn vegur, kenndur við Eirík í Grjóta, sömu leið.”Það mun hafa verið nálægt 1880-1881, að Eiríkur Ásmundsson í Grjóta lagði steinilagðan veg um Kamba, yfir allar hæðir og lautir, svo að hann yrði þráðbeinn. Vegna brattans víðast hvar og þess, að ekkert var borið ofan í veg þennan, var hann sjaldan eða aldrei farinn.
Framhald vegar Eiríks í Grjóta um Svínahraun, lagður 1877-78, lá upp um Hellisskarð fyrir ofan Kolviðarhól. Þar er enn efst í skarðinu lítt hrunin hleðslan í vegköntunum. Vegirnir voru lagðir á þann hátt, að þeir útilokuðu þann möguleika að menn hæfu vagnferðir eftir þeim. Til þess var brattinn í Hellisskarði og Kömbunum of mikill og einnig vantaði akfæran veg frá Reykjavík upp að Svínahrauni. Við þetta ástand sat að mestu fram yfir 1890.
Búasteinn neðan Hellisskarðs.
Á herforingjaráðskorti frá 1909 liggur norðurendi Lágaskarðsleiðar útaf Hellisheiðarvegi undir neðstu brekkum Reykjafells og yfir hraunhólana neðan við Hveradalaflöt. Á kortinu kvíslast leiðin við Lönguhlíð og liggur ein slóð til Breiðabólstaðar en önnur til Hrauns. Um grasi grónar hlíðar og slétt helluhraun, mosagróið, mjög greiðfær leið. Vegurinn er lengstaf aðeins kindastígur en nokkur vörðutyppi eru í sjálfu skarðinu (á helluhrauninu) og gætu sum þeirra verið gömul. Á nokkrum stöðum má ímynda sér að hestaumferð hafi gert för í hraunhelluna, en hvergi er það skýrt. Þessi leið mun nú ganga undir nafninu Lákastígur. Steindór Sigurðsson lýsir Lágaskarðsleið í Árbók Ferðafélagsins 1936.
Ölfusvatnslaugar.
Margrét útilegumaður hafðist við í Nesjalaugum eða Ölfusvatnslaugum, en síðan í ýmsum stöðum nálægt þjóðveginum á Hellisheiði og stal þar af ferðamönnum. Um þá lýsingu má lesa annars staðar á vefsíðunni.
Varða við Lákastíg.
Þegar gengin hafði verið 2/3 af leiðinni um Gamla veg var komið að gatnamótum Skógarvegar. Í örnefnaslýsingu segir að “á þessum fjallgarði, er fyrir norðan þessa byggð sveitarinnar liggur, eru þrír vegir vestur á Suðurnes, nefnilega Ólafsskarð, Lágaskarð og Sanddalavegur, hvorir allir saman koma í einn veg á vestanverðu fjallinu, þá byggðarlönd taka til Suðurnesjajarða. Sanddalir eru neðan og suðaustan við Lágaskarð og mætti ætla að um sömu leið væri að ræða, en hér mun sennilega verið átt við leið „frá Hjallahverfi um Kálfabergsstíg, Káfadali, Hálsa, Vegarbrekkur, Lakadal, Stóradal, á þjóðveg í Hveradölum.” Skógarvegur liggur hins vegar til suðurs af Hellisheiðavegi og niður að Hjalla um Stóradal og Háaleiti suðaustan undir Skálafelli (verður genginn síðar).
Skógargatan.
Í örnefnalýsingu 1703 segir að “upp á Hverahlíð er Skálafell, með vatnsstæði. Á þessu felli var skáli Ingólfs Arnarssonar, fyrsta landnámamanns, hvar af þetta fell hefur sitt nafn dregið, sem Landnáma á víkur. Skógarmannavegurinn austan Skálafells er frá þeim tíma, er Hjallamenn sóttu skógarnytjar í Nesjaskóg í Grafningi. Einnig nefnd Suðurferðagata, milli Háaleita, við Hlíðarhorn, – á þjóðveginn á Hellisheiði vestan við Loftið (40 km steininn).” Nefndur steinn er við Skógarveginn, eða Skógarmannaveginn, skammt sunnan núverandi þjóðvegar.
Frá þessum gömu gatnamótum sést vel niður að Kömbum sem og yfir Ölfusið allt – í góðu skyggni.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 33 mín.
Heimild m.a.:
-Bæjarbókasafn Ölfuss.
Reykjafellsrétt í Dauðadal.
Reykjanesskaginn – óþrjótandi möguleikar
Saltfisksetur Íslands í Grindavík var stofnað haustið 2002 og hefur á þeim stutta tíma náð að marka sér stöðu sem einn af helstu ferðamannastöðum Reykjaness.
Mikill vaxtarbroddur er í ferðamennsku á svæðinu að sögn Óskars Sævarssonar. Hann er og hefur verið forstöðumaður Saltfisksetursins, (síblundandi sjómaður frá fyrri tíð), göngugarpur, leitarmaður fjár að hausti, félagi í björgunarsveitinni Þorbirni, stjórnarmaður í Ferðamálasamtökum Suðurnesja og nefndarmaður í Menningarráði Suðurnesja, áhugamaður um menningu og minjar á Reykjanesskaganum, frumköðull að örnefnaskiltagerð í Grindavík, jeppafræðingur og samhæfingarsinni um áhrifaríkt samspil náttúru og sögu. Óskar telur að ferðaþjónustumöguleikarnir á Suðurnesjum séu nær óþrjótandi.
„Það hefur verið nokkur aukning hjá okkur undanfarið og sem dæmi var síðastliðinn febrúar okkar besti febrúarmánuður frá upphafi,“ segir Óskar, en á síðasta ári sóttu 12.000 gestir setrið heim. [Eru þá ótaldir hinir fjölmörgu er leið áttu um svæðið, gjörsneiddir meðvitund um hvað það kynni að geta boðið því upp á að öðru leyti).
[Athyglinni var hins vegar að þessu sinni (árið 2006) aðallega beint að vinnustað Óskar; Saltfisksetrinu]. Fjölbreytt starfsemi er í Saltfisksetrinu, en fyrir utan sýninguna „Saltfiskur í sögu þjóðar“, sem hefur verið uppi frá upphafi er í setrinu glæsilegur listsýningasalur þar sem nokkrir frægustu listamenn þjóðarinnar hafa sýnt verk sín. Vinsældirnar hafa heldur ekki látið á sér standa og sækja nú um 400 manns hverja sýningu að jafnaði. Óskar segir sýningarsalinn í mikilli sókn sem slíkan, en hann er nú fullbókaður fram á næsta ár.Þar hafa, auk sýninganna, verið haldnir fyrirlestar og kynningar ýmiss konar, t.a.m. sérstök sagnakvöld um minjar og menningu svæðisins.
„Mesta traffíkin hjá okkur þessa dagana er í hópferðunum, en þá koma til okkar fólk frá vinnustöðum eða félögum. Ferðin hefst gjarna í hellaferð í nágrenninu, fólkið kemur svo hingað í Saltfisksetrið þar sem er boðið upp á rauðvín og saltfiskbollur eftir sérstakri uppskrift,“ segir Óskar, en eftir þá dagskrá er farið á veitingastað í Grindavík til að snæða og eftir það á pöbbarölt.
Áætlanir eru þó uppi um að í nánustu framtíð verði í Saltfisksetrinu allsherjarferðamannamiðstöð. Lykillinn að því er í fyrsta lagi að bæta aðstöðu í setrinu, en strax næsta sumar er gert ráð fyrir að opna kaffiteríu sem hefur bráðvantað til að geta annað eftirspurn. „Svo erum við líka að byrja með aðra nýjung en það er svokölluð hljóðleiðsögn. Þá fá erlendir ferðamenn geislaspilara með heyrnartólum með sér sem leiðir þá um sögusýninguna og segir frá því sem fyrir augu ber á tungumáli áhorfandans. Þetta fyrirkomulag hefur þegar gefið mjög góða raun.“
Sá ferðamannahópur sem hefur vaxið hvað örast á síðustu árum er farþegar skemmtiferðaskipa, en Óskar hefur lagt mikla áherslu á að fá slíka viðskiptavini á Reykjanesskagann. „Það skiptir öllu máli að markaðssetja svæðið rétt og bjóða upp á eitthvað einstakt. Við höfum til dæmis verið að vinna í því að koma á fót jeppaferðum um Reykjanesið, en það verður að sjálfsögðu skipulagt með umhverfisvernd í huga,“ segir Óskar og er full alvara þar sem hann metur hið ósnortna svæði Reykjaness mikils.
Óskar hefur gengið um nesið þvert og endilangt frá því hann var drengur og þekkir þar til Oskar en flestir. Hann var einmitt í göngu fyrir skemmstu ásamt ferðahópnum FERLIR þegar hann rak skyndilega augun í áður óþekktar mannvistaleyfar sem stendur til að rannsaka og aldursgreina. Um var að ræða hlaðin hús í Eldvörpum, mjög líkum þeim er uppgötvaðar voru í Sundvörðuhrauni á 19. öld – og þóttu einstaklegur fundur á þeim tíma.
Óskari er heitt í hamsi þegar talið berst að umgengni fólks á Reykjanesi, sem hann segir að mætti bæta verulega. „Það eru ótrúlega margir útlendingar sem hafa farið um svæðið sem minnast á slíkt. Það er varla eitt skilti sem ekki er útskotið svo að maður minnist ekki á gróðurskemmdirnar. Jeppaslóðirnar og förin eftir torfæruhjólin eru skelfileg. Það má ekki skilja sem svo að ég vilji láta banna hjólin og jeppana með öllu, en við verðum að vinna saman að því að finna öllum stað. Það gengur ekki að bjóða fólki að skoða náttúru sem er búið að fara svona með.“
Möguleikar Reykjaness í ferðamannaiðnaðinum eru nær óþrjótandi og með bættum samgöngum telur Óskar að svæðið eigi enn eftir að eflast. „Tilkoma Kynnisferða hér á svæðinu hefur stóraukið tíðni rútuferða frá Reykjavík. Það er að vísu óvíst með framhaldið á því þar sem fyrirtækið er til sölu, en við erum bjartsýn.“
Þá hafa Ferðamálasamtökin staðið fyrir miklu átaki í að merkja gönguleiðir á svæðinu og er nú búið að stika 5 af u.þ.b. 20 leiðum leiðum. Auk þess er búið að setja upp eitt af 6 stórum gönguleiðaskiltum við Sólarvéið í Grindavík.
Vonir Óskars og fleiri ferðaþjónustaðila á svæðinu standa til þess að fá nánara samstarf við Bláa lónið, fjölsóttasta og best kynnta ferðamannastað landsins. „Það væri mikil lyftistöng fyrir Grindavík sem ferðamannastað að ferðamenn gætu farið í Bláa lónið og tekið þaðan rútu að Grindavík. Þaðan væri svo farið í hellaferðir, gönguferðir, ferðir með leiðsögumönnum eða eitthvað slíkt. Þá gæti Saltfisksetrið verið miðpunkturinn hér í Grindavík.“
Framtíðin er björt í ferðaþjónustunni á Reykjanesi segir Óskar að lokum. Með réttri og markvissri stjórn Ferðamálasamtakanna og ekki síst nánu samstarfi helstu aðila á svæðinu hefur kynningarstarf skilað miklu – og gæti enn bætt um betur.
„Það segir sig sjálft að einn stór bás frá Reykjanesi á Vest-Norden ferðakaupstefnunni hefur meiri áhrif en ef við værum hver í sínu horni. Það eru enn mikil sóknarfæri hjá okkur og má þar minnast á ferðir tengdar upplifun af ýmsu tagi líkt og jeppaferðir. Þar erum við að tala um allt öðruvísi kúnnahóp en hefur vanið komur sínar hingað til lands. Sem dæmi um möguleikana má nefna að franskur milljarðamæringur hefur leigt helli í nágrenni Grindavíkur til að halda upp á stórafmæli sitt.“
Á árinu verður enn bætt um betur í aðgengi um svæðið þegar Ósabotnavegur verður lagður milli Hafna og Stafness og þá verður kominn hringvegur um alla ferðamannastaði á nesinu. Einnig verður nýr áfangi endurnýjuðum Suðurstrandavegi frá Hrauni til Ísólfsskála tilbúinn í júni og Nesvegur frá Stað í Grindavík að orkuveri Reykjanesvirkjunar mun verða malbikaður [ef alþingismenn standa við orð sín]. „Grundvöllur þessara tækifæra er að stækka Reykjanesfólkvang og koma á samvinnu allra aðila í því sambandi. Við vonumst til að fá Hitaveitu Suðurnesja með okkur í það verkefni auk Landgræðslunnar sem þegar er byrjuð að vinna gott starf eftir að beitarhólf var girt við Krýsuvík.“
Það má með sanni segja að framtíðin sé björt í ferðamannaiðnaðinum á Reykjanesi þar sem þegar er rekin ein öflugasta ferðaþjónusta landsins. Nú er einmitt rétti tíminn því mikið liggur á að efla slíka starfsemi undir núverandi kringumstæðum. Hver veit nema þjónusta við ferðamenn verði hin nýja kjölfesta í atvinnulífinu suður með sjó er fram líða stundir.
Heimild:
-reykjanes.is
Reykjanesskagi.