Tag Archive for: Grindavík

Kleifarvatn

„Svo er talið, að Ögmundarhraun hafi runnið (eða brunnið, eins og Snorri goði mundi hafa orðað það) um miðja 14. öld.

Austurengjahver

Austurengjahver.

Um stað þann, sem nú er kallaður Húshólmi, þar sem er miklu eldra hraun undir gróðrinum en Ögmundarhraun er, hefur hraunstraumurinn klofnað. Hefur önnur álman runnið fyrir vestan hólma þennan, en hin fyrir austan hann og báðar beint í sæ út. Rétt austan við vestari hrauntunguna eru bæjarrústir nokkrar, og er auðsætt, að eitthvað af húsunum hefur orðið undir hraunstraumnum.

Húshólmi

Vísan á Húshólmastíg.

Er og almennt álitið, að þarna hafi bærinn Krýsuvík upphaflega staðið, enda lítt hugsanlegt, að bænum hafi verið valið víkurnafnið, ef hann hefði frá öndverðu verið þar, sem hann nú er, nálega hálfa fimm kílómetra frá sjó, enda ekki um neina vík neins staðar að ræða. Bæjarrústir þessar eru og enn þann dag í dag jafnan nefndar gamla Krýsuvík eða Krýsuvík hin forna. Suður og suðvestur af bæjarrústum þessum verður lægð nokkur í hraunstrauminn, og álíta sumir, að einmitt þar hafi víkin sjálf verið, sú er bærinn dró nafn sitt af rétt vestan við Húshólmann við Húshólmafjöruna. Kirkjuflöt heitir og rétt hjá rústunum.

Húshólmi

Húshólmi – minjar.

Ráðleggja mætti þeim, sem skoða vildu tóftarbrot þessi og vinna sé það á sem auðveldastan hátt, að fara í bifreið úr Grindavík austur fyrir Ögmundarhraun, (akstur eins og vegurinn er nú), ganga síðan suður með austurjarðri hraunsins, þar til komið er að stíg þeim, sem liggur yfir eystri hraunálmuna út í Húshólmann, þar til komið er að bæjarrústunum. Mun ganga þessi vara eina klukkustund, þótt ekki sé allrösklega farið.

Kleifarvatn

Kleifarvatn.

Svo sem mörgum er kunnugt liggur Kleifarvatn í klauf þeirri, sem verður millum Sveifluháls og Vatnshlíðarinnar, og þegar komið er sunnan við vatnið, virðist sem fjöll þessi nái saman við norðurenda vatnsins. Hyggja því sumir, að vatnið dragi nafn sitt af klofa þessum. Um háttsemi þessa stóra stöðuvatns og misvöxt þess hafa ýmsir mætir menn skrifað margt og mikið nú á síðari árum, og skal því ekki farið út í þá sálma hér, enda ekki leikmönnum hent að leggja þar orð í belg.

Víti

Víti.

Sá hluti af Krýsuvíkurengjunum, sem lægst liggur og næst vatninu að sunnan, heitir Nýjaland (hið inna og fremra). Misvöxtur vatnsins veldur því, að engjasvæði þessi liggja oft svo árum skiptir í senn undir ágangi Kleifarvatns, en mjór malarhryggur, sem gengur til vesturs frá norðurenda Hvammholtsins, skiptir Nýjalandinu í tvennt, hið innra og fremra, og kallast tangi sá Rif.

Nýjaland

Nýjaland.

Vestan við Fremralandið og við vesturenda Rifsins rennur lækur sá, er nefnist Ós inn á Innralandið og í vatnið sjálft. Á Ósinn upptök sín að mestu á Vesturengjunum og í Seltúnshverfunum, en smálindir koma þó í hann af Austurengi, úr Hvömmunum og Lambafellum.

Nýjaland

Nýjaland – tóft.

Svo er landslagi háttað, að Fremralandið var miklu lengur slægt en hið innra, og nam sá tími einatt nokkrum sumrum. Mátti í góðu grasári heyja um sex hundruð hestburði á hvoru Nýjalandi, þegar vatnið var svo þorrið, að unnt var að slá þau bæði.

Ekki er það fátítt, að stararstráin á Nýjalandi verði rúmlega álnarhá, því að oftast nær flæðir Ósinn yfir að vetrarengi, hvað sem vexti Kleifarvatns líður.

Kleifarvatn

Kleifarvatn – hverir.

Hverir eru í vatninu, og sjást reykir nokkrir leggja upp úr því í logni, en á vetrum eru þar jafnan vakir. Sjaldan leggur vatnið fyrir vetrarsólstöður.
Þegar lítið var í vatninu, var jafnan “farið með því”, þá er sækja þurfti til Hafnarfjarðar. Lá sú leið eftir allri vesturströnd vatnsins, milli þess og Sveifluháls, þar sem seinna var gerður akvegur. Er sá vegur greiðfærari miklu og talsvert skemmri en sá að fara Ketilsstíg og síðan “með hlíðunum”.

Á korti herforingjaráðsins er nafnið Ketilstígur sett fram með Sveifluhálsi að norðvestan, en það er ekki nákvæmt, því að Ketilsstígur heitir aðeins sá hluti þeirrar leiðar, sem liggur upp á Sveifluháls að Norðanverðu, og er stígur þessi innan í gömlum gíg, sem kallast Ketill.

Ketilsstígur

Ketilsstígur.

Austur og suðaustur af Arnarfelli er mýrarfláki, stór nokkuð, sem kallast Bleiksmýri, og var þar mikill áfangastaður á þeim tímum, sem þeir Árnesingar og Rangæingar fóru skreiðarferðir til verstöðvanna á Reykjanesskaga. Mátti einatt sjá marga tugi eða jafnvel nokkur hundruð hesta á Bleiksmýri í einu og fjöldi tjalda, þegar hæst stóðu lestaferðirnar. Mun og mörgum hestinum hafa þótt gott að koma í Bleiksmýri úr hagleysinu og vatnsskortinum á Reykjanesskaganum. Var og ekki óalgengt að menn lægju þar einn og tvo daga til þess að hestar þeirra fengju sem besta fylli sína, áður en lengra var haldið.

Víða í hraununum á Reykjanesskaga, eins og reyndar víðar á landi hér, getur að líta nokkuð djúpa götutroðninga í hraunhellunum eftir margra alda umferð. Má þar um segja: “Enn þá sjást í hellum hófaförin“.”

Ögmundarstígur

Ögmundarstígur.

Í Ögmundarhrauni mynduðust holur með þröskuldum á milli, og var hver hola um eitt fet í þvermál og hnédjúp hestum, og í rigningatíð stóðu holur þessar fullar af vatni. Fyrir nokkrum áratugum var gerð vegabót nokkur í Ögmundarhrauni, og holur þessar fylltar upp. Í gamalli og alþekktri vísu segir svo:
Eru í hrauni Ögmundar
ótal margir þröskuldar,
fáka meiða fæturna
og fyrir oss brjóta skeifurnar.

Fáni

Flaggað við Eiríksvörðu á Arnarfelli.

Það mun mega teljast hæpið hvort örnefnið Gullbringa sé sýnt á alveg réttum stað á korti herforingjaráðsins, þar sem það er sett á hæð eina, 308 metra háa, sunnarlega í Vatnshlíðinni. Þeir, sem kunnugir eru á þessum slóðum, hafa jafnan kallað Gullbringu lyngbrekku þá, sem er vestan í Vatnshlíðinni og nær niður undir austurströnd Kleifarvatns. Ýmsir telja, að sýslan dragi nafn sitt af þessari brekku. Mætti í því sambandi benda á það, að ekki eru þeir allir fyrirferðarmiklir staðirnir á Íslandi, sem heilar sýslur draga nafn sitt af.

Stóra-Eldborg

Stóra-Eldborg vestast undir Geitahlíð.

Þrjá til fjóra kílómetra austur frá bænum í Krýsuvík er Eldborgin, og svipar henni að mörgu leyti til nöfnu sinnar í Hnappadalssýslu – þeirrar, sem Hendersen gerði víðfræga með teikningu sinni. Skarð það, er verður millum Eldborgar og Geitahlíðar, heitir Deildarháls, og liggur alfaravegurinn yfir hann.
Dr. Þorvaldur Thoroddsen taldi gíginn í Eldborg vera 500 fet að ummáli að ofan og 105 á dýpt, en hæð fellsins telur hann 172 fet. Meinaði hann þar eflaust hæð Eldborgarinnar yfir jarðlendinu umhverfis hana, því að á korti herforingjaráðsins er hæð hennar yfir sjávarmáli talin 180 metrar.

Æsubúðir

Æsubúðir.

Efst í Geitahlíð er og gígur mikill, en hann er eldri en síðasta jökulöld, eins og reyndar hlíðin öll er. Barma gígs þessa ber hærra en aðra hluta Geitahlíðar, er heita Æsubúðir. Niður af Æsubúðum, en sunnan í Geitahlíð, verður hvammur sá, er kallast Hvítskeggshvammur eða Hvítskeifshvammur, og er til prentuð þjóðsaga um þessi örnefni, en eigi er sú sögn allsennileg.
Skammt fyrir austan Deildarháls og hvamm þennan eru Kerlingar (sagan um Krýs og Herdísi), Bálkahellir (lítt eða ekki kannaður), Gvendarhellir (bóndi í Krýsuvíkurhverfinu, Guðmundur að nafni, hýsti fé sitt í þessum helli þá er harðindi gengu, líklega á fyrri hluta 19. aldar), og Kerið á Keflavík (uppi á 6 metra háum hamri ofan við Keflavík er op, Kerið, niður í flæðamál).

Austurengjahver

Austurengjahver.

Leirhverin mikil í Krýsuvík, sá er myndaðist við sprengjugosið, er þar varð haustið 1924 og olli landskjálftum nokkrum víða um Surðurland, er þar, sem áður var vatnshver lítill og hét Austurengjahver. Virðist svo, að leirhverinn megi og vel halda sama nafninu. Fúlipollur er næstum á miðjum Vesturengjum, og er hann eitthvert stærsta hverastæðið, sem til er í Krýsuvík, virðist ekki þurfa að velkja það lengi fyrir sér, að endur fyrir löngu hafi þarna orðið sprengigos líkt því, er varð þá, er Austurnegjahver endurmagnaðist, haustið 1924. Auðsætt er, að hverinn er á hrörnunarskeiði. Ýms merki virðast og benda til þess, að Austurnegjahver muni ekki heldur verða neinn Ókólnir.

Arnarfellstjörn

Arnarfellstjörn.

Ekki skal hér rætt um breinnisteininn í Krýsuvík né þann í Brennisteinsfjöllunum, enda eru Brennisteinsfjöllin austan sýslumarkanna og því í Herdísarvíkurlandi.
Þess hefur orðið vart, að sumir menn halda, að örnefnið Víti sé hver, en svo er eigi. Víti er hraunfoss, sem fallið hefur vestur af hálendisbrún þeirri, sem verður norður af Geitahlíð, og er hraunfoss þessi sennilega á svipuðum aldri og Ögmundarhraun. Hann er nú storknaður fyrir löngu og allur gróinn þykkum grámosa.

Dysjar

Dysjar Herdísar, Krýsu og smalans í Kerlingadal.

Eiríksvarða á Arnarfelli er vel þekkt úr þjóðsögum, sem segja, að séra Eríkur Magnússon, hinn fjölkunnugi Vogsósaklerkur, hafi hlaðið hana og mælt svo um, að aldrei skyldu Tyrkir koma í Krýsuvík meðan varðan stæði uppi. Nú er varðan hrunin, næstum í grunn, en Bandaríkjamenn komu í Krýsuvík, þegar seta þeirra í landinu hófst.
Vestan í Geitahlíð og skammt fyrir neðan fjallsbrúnina sjálfa leggur jafnan á vetrum þykka fönn, langa en ekki breiða. Er fönn þessi sjaldan horfin með öllu fyrr en um Jónsmessu, og dregur hún nafn sitt af því.
Krýsuvík hefu lengi verið talin einhver mesta útigöngujörð fyrir sauðfé á landi hér, einkum þó þeirra jarða, sem ekki hafa fjörubeit, og ekki var það ótítt að sumt féð þar lærði aldrei átið.

Húshólmi

Húshólmi – einn hinna fornu garða.

Vægar jarðhræringar voru ekki sjaldgæfar í Krýsuvíkurhverfinu og voru þær kallaðar hverakippir þar.
Mótak er þar sums staðar í mýrunum, en ekki þykir mórinn þar góður til eldsneytis. Er hann allur mjög blandinn hveraleir, svo að af sumum kögglunum leggur brennisteinslyktina, þegar þeim er brennt.
Fremur þykir vera þokusamt í Þrýsuvík og lengi hefu verið við brugðið, hversu myrk þokan geti orðið þar. Er það haft eftir manni nokkrum, að eitt sinn hafi hann verið á ferð um Sveifluháls í svo miklu myrkviðri, að hann hafi séð þokuna sitja í olnbogabótinni á sér. Rigningasamt í meira lagi þykir og vera þar, svo einatt er þurrviðri í næstu byggðarlögum, þótt rigning sé í Krýsuvík.

-Úr sunnudagsblaði Tímans 2. júlí 1967 – Stefán Stefánsson.

Gullbringa

Gullbringa.

Krýsuvík

Stefán Stefánsson var kunnastur leiðsögumaður útlendra ferðamanna á landi hér. Hann gerþekkti landið af löngum ferðalögum á hestum hvert einasta sumar. Þó mun Krýsuvík hafa verið honum kærari en flestir aðrir staðir.

Stefánshöfði

Stefánshöfði – minningarskjöldur.

Við Kleifarvatn hefur skjöldur verið felldur í klett til minningar um hann og höfði, áður Innristapi, verið nefndur eftir honum. Á þeim stað var ösku hans dreift út á vatnið að fyrirlagi hans sjálfs. Grein þá, sem hér birtist, mun Stefán hafa ritað alllöngu áður en hann lést, og var það einn þátturinn í ræktarsemi hans við Krýsuvík.

Í embættisbókum Gullbringusýslu er landamerkjum Krýsuvíkur lýst þannig: “Maríukirkja í Krýsuvík í Gullbringusýslu á samkvæmt máldögum og öðrum skilríkjum heimaland allt, jörðina Herdísarvík í Árnessýsu og ítök, er síðar greina.
Landamerki Krýsuvíkur eru:

Selatangar

Dágon – nú horfinn.

Að vestan; sjónhending úr Dagon (Raufarkletti, sem er klettur við flæðamál á Selatöngum) í Trölladyngjufjallarætur að vestan, sem er útbrunnið eldfjall norðanvert í Vesturhálsi, þaðan bein stefna í Markhelluhól, háan steindrang við Búðarvatnsstæði.
Að norðan; úr Markhelluhól sjónhending norðanvert við Fjallið eina í Merrakkagil (Markrakkagil) í Undirhlíðum og þaðan sama sjónhending að vesturmörkum Herdísarvíkur eða sýslumörkum Gullbringu- og Árnessýslu.
A austan; samþykkt og þinglýst vesturmörk Herdísarvíkur, sjónhending úr Kóngsfelli, sem er lág, mosavaxin eldborg umhverfis djúpan gíg á hægri hönd við þjóðveginn úr Selvogi til Hafnarfjarðar, örskammt frá veginum í Seljabótanef, klett við sjó fram.
Að sunnan nær landið allt í sjó.”
Þessu næst eru talin ítök þau, sem kirkjan á loks “ítök, sem aðrir eiga í landi kirkjunnar.”

Arnarfellsrétt

Arnarfellsrétt í Krýsuvík.

Í jarðarbók sinni geta þeir Árni Magnússon og og Páll Vidalín þess, að ágreiningur nokkur sé um landamerki Krýsuvíkur og Ísólfsskála, en ekki skýra þeir neitt frá því, um hvað sá ágreiningur sé. Náðar þessar jarðir eru þá (1703) í eigu dómkirkjunar í Skálholti.
Í máldögum og öðrm skjölum þeirra Páls og Árna er svo sagt, að hraundrangurinn eða kletturinn Dagon (Raufarklettur) sé landamerki og auðvitað fjörumerki millum jarða þessara, en hitt mun lengi hafa orkað tvímælis, hvort af tveim brimsorfnum hraundröngum, sem standa í flæðamáli á Selatöngum, sé Dagon. Og eigi er langt síðan (árið 1897), að þras nokkurt varð og málaferli risu út af, hvor þessara tveggja kletta væri Dagon. Um þetta mál sýndist sitt hverjum. Vísast þetta mál í sýslubækur Gullbringuslýslu.

Selatangar

Selatangar – herforingjaráðskort frá 1903.

Á korti herforingjaráðsins danska, er Dagon sýndur mjög greinilega, en hér kemur til greina, eins og reyndar víða annars staðar, hversu öruggar heimildir þeirra mælingamanna hafi verið.
Bilið millum hinna tveggja hraundranga, eða föruræma sú, sem deilurnar hafa verið um, mun eigi lengri en það, að meðalstóran hval gæti fest þar.
Ummál Krýsuvíkurlandareignar, er um sextíu til sjötíu kílómetrar, en flatarmálið eitthvað á þriðja hundrað ferkílómetra. Er stórmikill hluti af þessu víða flæmi ýmist ber og nakin fjöll með smáa og strjála grasteyninga upp í ræturnar eða þá víðáttumiklar hraunbreiður, þar sem lítinn gróður er að finna annan en grámosa gnógan og svo lyng á stöku stað.

Krýsuvík

Minjar í Krýsuvíkurheiði.

Aðalgraslendið í landareigninni er í sjálfu Krýsuvíkurhverfinu og þar í nánd. Má segja, að takmörk þessa svæðis séu Ögmundarhraun að vestan, Sveifuháls að norðvestan, Kleifarvatn að norðan, gróðurlitlar hæðir og melar að norðaustan og svo Geitahlíð, Eldborg og Krýsuvíkurhraun að austan, en bjargið og hafið að sunnan. Þessi óbrunna landspilda er nálega sex kílómetra breið syðst – sem svarar allri lengd Krýsuvíkurbergs frá Ytri-Bergsenda til hins eystri, en mjókkar svo jafnt og þétt allt norður að Kleifarvatni og verður þar ekki breiðari en suðurendi vatnsins, einn til tveir kílómetrar.

Ýmis fell og hæðir rísa upp úr sléttlendi þessu, svo sem Lambafellin tvö, sem aðskilja Vesturengi og Austurengi.

Krýsuvík

Krýsuvík – Arnarfell (t.v.) og Bæjarfell.

Bæjarfellið er norðan við Krýsuvíkurbæina og Arnarfell, suður af bænum. Bæði þessi fjöll eru móbergsfjöll. Sunnar nokkur, er hálsdrag eitt austur af Fitatúni. Eru þar vestastir móbergstindarnir Strákar, þá Selalda, Selhóll (undir honum Krýsuvíkursel) og Trygghólar austastir. Suður af Selöldu er Skriða. Framan í henni er Ræningjastígur (hans er getið í Þjóðsögum J.Á og ef til vill víðar).

Krýsuvíkurberg

Krýsuvíkurberg – Ræningjastígur.

Stígur þessi er gangur einn, sem myndast hefur í móberginu og liggur skáhallt ofan af bjargbrún og niður í flæðamál. Ræningjastígur hefur verið fær til skamms tíma, er nú er sagt, að svo mikið sé hrunið úr honum á einum stað, að lítt muni hann fær eða ekki.
Hjáleigur tvær austan við Núpshlíðarháls voru Vigdísarvellir og Bali með túnstæði sín og mýrarskika í nágrenninu.
Krýsuvík, með hjáleigum sínum öllum, var um langan aldur sérstök kirkjusókn, og mun kirkja jafnan hafa haldist þar frá ómunatíð. Líklegt má telja, að það hafi gerst í kaþólskum sið, að Krýsuvíkurkirkja eignaðist jörðina Herdísarvík í Árnessýslu, en eftir að kirkjan í Krýsuvík var lögð niður, var ekkert því til fyrirstöðu að jarðirnar yrðu aðskildar eignir, enda er nú svo. – Herdísarvík hefur jafnan alist til Selvogshrepps og fólk þaðan átti kirkjusókn að Strandarkirkju.

Krýsuvík

Vestari-Lækur í Krýsuvík.

Sé Stóri-Nýibær talinn tvíbýlisjörð, eins og oftast mun hafa verið fram undir síðastliðin aldamót, og sé því ennfremur trúað, að nokkurn tíma hafi verið byggð á Kaldrana verða hjáleigur Krýsuvíkur fjórtán að tölu,þær sem menn vita nú um, að byggðar hafi verið og heita svo:
1. Stóri-Nýjabær (austurbærinn)
2. Stóri-Nýjabær (vesturbærinn)
3. Litli-Nýjabær
4. Norðurkot
5. Suðurkot
6. Lækur
7. Snorrakot
8. Hnaus
9. Arnarfell
10. Fitar
11. Geststaðir
12. Vigdísarvellir
13. Bali
14. Kaldrani
(Hér vantar Eyri (Efri-Fitar) og Fell):

Krýsuvík

Fell – tóftir.

Óvíst er og jafnvel ekki líklegt, að hjáleigur þessari hafi á nokkrum tíma verið allar í byggð samtímis. Þeir Árni Magnússon og Páll Vídalín nefna Norðurhjáleigu og Suðurhjáleigu, og má telja vafalítið, að það séu sömu hjáleigurnar sem seinna kölluðust Norðurkot og Suðurkot. Einnig nefna þeir Austurhús og Vesturhús og er hugsanlegt, að Austurhús hafi verið þar, sem nefnt var Lækur. En engum getum skal að því leitt hér, hvar Vesturhús hafi verið.

Krýsuvík

Krýsuvík – uppdráttur ÓSÁ.

Heimajörðin sjálf og allar hjáleigurnar, nema Vigdísarvellir og Bali, voru í daglegu tali kallað Krýsuvíkurhverfi, en þessar tvær hjáleigur voru suðaustan undir Núpshlíðarhálsi, sem oft er nefndur Vesturháls, og skilur Sveifluháls þær frá aðalhverfinu, en þar um slóðir var Sveifluháls einatt kallaður Austurháls, eða aðeins Hálsinn.

Arnarnýpa

Arnarnýpa á Sveifluhálsi.

Í jarðbók sinni telja þeir Árni Magnússon og Páll Vídalín, að árið 1703 hafi sjö af hjáleigunum verið byggðar og er þá tvíbýli í Stóra-Nýjabæ. Þá geta þeir og þess,að Krýsuvíkin sé eign dómkirkjunanr í Skálholti og að kirkjan í Krýsuvík sé annexía frá Selvogsþingum. Telja þeir, að 41 sála sé í söfnuðinum en þess má geta hér, að um miðbik 19. aldar var sjötíu manns í Krýsuvíkursókn. Ef treysta má því, að þeim Páli og Árna hafi verið rétt skýrt frá sauðfjáreign þeira Krýsvíkinga, þá hefur hún verið næsta lítilfjörleg á slíkri afbragðs hagagöngujörð. Hrossafjöldi er svo mjög af skornum skammti, en mjólkurkýr telja þeir vera tuttugu og tvær. Sem hlunnindi telja þeir fuglatekju og eggver, einng nefna þeir sölvafjöru og sé “sérhverjum hjáleigumanni takmarkað pláts til sölvatekju”.

Selatangar

Sjóbúð á Selatöngum.

Þá geta þeir þess, að á Selatöngum sé útræði fyrirhverfisbúa, en “lending þar þó merkilega slæm”. En þrátt fyrir þess “merkiega slæmu” lendingu, mun þó útræði á Selatöngum hafa haldist fram um 1870, að minnsta kosti alltaf öðru hverju (sjá Selatangar undir Fróðleikurí Skrár). Til er gömulþula, þar sem taldir eru meðnöfnum vermenn á Selatöngum og er þetta upphaf: “Tuttugu og þrjá Jóna telja má.” En endar svo: “Á Selatöngum sjóróðramenn, sjálfur guð annist þá.”
Á Selatöngum hafðist við hinn nafnkunni Tanga-draugur (Tanga—Tumi, sem talinn var hversdagslegur fremur einlítill, en þá er á hann rann jötunmóður, gat hann orðið svo fyrirferðamikill að hann “fyllti út í fjallaskörðin”, að því er Beinteini gamla á Arnarfelli sagðist frá.

Kleifarvatn

Kleifarvatn.

Ekki munu aðrar hjáleigur en þær sex, sem hér eru fyrstar, hafa átt rétt til fuglatekju í bjarginu, og þó aðeins í þeim hluta þess, sem kallaður er Kotaberg. Er það miðhlutibergsins austan heimabergisins, en vestan Strandarbergs. Þó leyfist hverri hjáleigu ekki að taka fleiri egg en hundrað og fimmtíu og ekki að veiða meir en þrjú hundruð fugla (svartfugl, álku og lunda).
Langt mun síðan Geststaðir hafa verið byggðir. Vigdísarvellir og Bali höfðu sínar eigin engjar. Snorrakot og Hnausar hafa verið smábýli ein eða næstum því tómthús. Hið svokallað Snorrakotstún er aðeins horn af Norðurkotstúni og skilur túnin smálækur einn.

Krýsuvík

Bærinn Arnarfell í Krýsuvík.

Í Arnarfelli mun hafa verið búið fram um eða fram yfir 1870, en túnið þar var jafnan slegið frá höfuðbólinu fram undir 1890. Á Fitum voru nokkur stæðilegar bæjartóftir fram yfir síðastliðin aldamót. Þar var og safngryfja, sem óvíða sást merki til annars staðar í hverfinu. Túnstæði er nokkuð víð á Fitum og útslægjur hefði mátt hafa þaðan á Efri-Fitum, Landatorfu eða í Selbrekkum. Eigi var og heldur heybandsvegur þaðan í Trygghólamýrina“. (Sjá leiðarlýsingu af FERLIRsferð um Arnarfellsvatn og Trygghólamýri í Krýsusvík).

Úr Sunnudagsblaði Tímans 25. júní 1967.

Kleifarvatn

Kleifarvatn.

krýsuvíkurvegur

„Hinn nýi vegur til Krýsuvíkur, sem nú er í smíðum, hefur vakið mikið umtal, og hefur fyrirtæki þetta að mestu sætt áfellisdómum. Er því einkum borið við, að vegagerð þessi verði vitleysislega dýr, en gagnið af henni óvíst.

Krýsuvík

Hellan við Kleifarvatn.

Hér á Íslandi er vegagerð svo dýr, að nauðsyn er á að hver vegarspotti komi sem flestum að notum. En með þessu vegi virðist sú stefna þverbortin, því að þessi dýri vegur liggur um óbyggðir einar. Á allri leiðinni frá Hafnarfirði og austur í Selvog – um 50 km. – er engin byggð nema Herdísarvík. Frá Selvogi og inn í Ölfus er svo 20 km. Alls verður þá þessi nýa Suðurlandsbraut rúmir 70 km, eða snöggum mun lengri heldur en leiðin yfir Hellisheiði. En þetta á að verða vetrarvegur þegar Hellisheiði er ófær. Sumir hafa ekki mikla trú á því, að það sé miklum mun snjóléttara þarna suður í fjöllunum heldur en á Hellisheiði, og verður reynslan að skera úr því hvort réttara reynist.

Kleifarvatn

Kleifarvatn – vegurinn undir Hellunni.

En hitt er öllum ljóst, að þetta verður dýrasta vegargerð hér á landi, þar sem ekki eru brýr á leiðinni. Í Vatnsskarðinu verður vegurinn að Keifarvatni lang dýrastur og örðugast að leggja hann. En þó voru örðuleikarnir ekkert á móts við það, sem tekur við, þegar farið er að leggja veginn meðfram vatninu að vestan.
Í fljótu bragði virðist svo sem vegurinn hefði átt að liggja fram með vatninu að austanverðu og þar hefði verið miklu auðveldara að gera hann. En fróðir menn sögðu, að þeim megin væri miklu meiri snjóþyngsli. Kyngdi þarna aðallega niður snjó í austan og norðaustan veðrum, þótt varla festi snjó vestan megin vatnsins. Þetta mun hafa ráið um það, að kosið var að leggja veginn vestan megin vatnsins.

Kleifarvatn

Hellan við Kleifarvatn.

Rétt innan við norðurlónið hefur verið reistur veitingaskáli, og það er fyrsta framkvæmdin í sambandi við Krýsuvíkurveginn. Þangað sækir fólk skemmtanir um helgar á sumrin, eða safnast þar saman til að skemmta sér. Þar við vatnsbotninn þrýtur hinn lagða veg. En þar eru tjöld í brekkunum, og hafast þar við vegavinnumenn þeir, sem vinna að því að halda veginum áfram suður með vatninu. Taka þarna þegar við klettar við vatnið og gangur ekki á öðru en sprengingum. Er klettunum rutt niður í vatnið og hafðir fyrir undirstöðu vegarins. Þetta er erfitt verk og seinlegt, því að það er svo sem ekki að það sé almennilegt grjót þarna. Ónei, það er öðru nær. Það er samryskja, sem hvorki er hægt að kljúfa né sprengja, höggva né handleika. Og svona er það alla leið suður fyrir Stapann syðri, hraun, móberg, móhella og sandsteinn hvað innan um annað.

Kleifarvatn

Kleifarvatn um Stapana.

Vegurinn á fyrst að liggja undir klettunum suður í vikið fyrir norðan Stapann innri. Þarf hann að vera hár yfir vatnsborð það, sem nú er, ef duga skal. Bæði er að vatnið getur hækkað mikið frá því sem nú er, og svo er öldugangur mikill þarna í sunnanveðrum og gengur brimlöðrið langt upp í kletta. En fallegt vegarstæði er þetta, og væri óneitanlega skemmtilegast ef vegurinn lægi alls staðar meðfram vatninu, undir klettunum, enda þótt hann yrði nokkuð krókóttur fyrir það, þar sem fara yrði kringum báða Stapana.

Kleifarvatn

Kleifarvatn.

Og alveg óvíst að þær beygjumar hefði orðið mikið lengri heldur en samanlagðar allar þær beygjur og krókar, sem verða á honum þegar kemur upp í brattan norðan við innri Stapann og þar áfram yfir mjög mishæðótt land fyrir ofan báða Stapana og suður á sand. Er það að vísu ekki nema 3 km. leið, en þarna er eitthvert hið argvítugasta vegarstæði, sem hugsast getur.

Víðast hvar er hliðhalli og verður að höggva veginn niður í móberg og móhellur, annars staðar verður að hlaða hann upp margra mannhæða háan, svo að hann verður tilsýndar þegar búið er að hlaða grjóti utan að honum, líkastur brimbrjóti eða hafnargarði. Efni í þessa miklu upphleðslu er vandfengið og mikið haft fyrir því. Sums staðar verður að brjóta niður klettaborgir sem verða fyrir, og á öðrum stöðum verður að lækka vegarstæðið með því að höggva hlið í gegn um móberg og móhelluhóla.

Krýsuvík

Krýsuvíkurhver.

Móhellan er ekki lambið að leika sér við. Hún virðist í fljótu bragði ósköp auðunnin þar sem hægt er að tálga hana með hníf og mylja hana undir fæti. En hún er ekki öll þar sem hún er séð. Þegar hún blotnar má hún heita óvinnandi. Það er svo sem sama hvaða verkfæri er þá beitt á hana. Það er eins og hún verði ólseig. Og þess vegna stendur móhellan í vegavinnumönnunum, þar sem grágrýti hefði ekki staðið þeim snúning.
Þannig er þá skilyrðin til vegarlagningar þarna, og er ekki að furða þótt hver meterinn verði dýr. Reynslan verður svo að skera úr um hvort þessi nýi vegur dugir, eða hvort vatnsflaumurinn, sem hlíðin kastar af sér stundum, verður þess eigi megnugur að sópa honum burt. Og hættulegur getur vegurinn orðið þegar svellbungu leggur yfir hann, eins og við má búast að verði á vetrum. En þá á þetta einmitt að vera aðalleiðin frá Reykjavík til Suðurlandsundirlendisins.

Kleifarvatn

Kleifarvatn.

Það er von að mörgum ofbjóði þessi dýra vegarlagning. Og það er hreint ekki von að mönnum geti skilist það, að samgönguerfiðleikar yfir “fjallið” á vetrum geti réttlætt það, að ráðist er í svo dýrt og tvísýnt fyrirtæki, sem þetta, allra helst þegar góður vetrarvegur er kominn yfir Mosfellsheiði og frá Þingvöllum niður í Grímsnes.
Með lögum var Krýsuvík tekin eignarnámi handa sýslunni og Hafnarfjarðarbæ. Hefur það verið á prjónunum að Hafnarfjörður kæmi sér þar upp kúabúi. En ekki mundi nú þetta nægja, að Hafnfirðingar kæmi sér þarna upp kúabúi. Það myndi seint geta borgað hinn dýra veg. Hvað gæti þá réttlætt það?
Þessi staður hefur ýmis skilyrði fram yfir flesta eða alla staði á landinu til þess að geta orðið merkilvægur í framtíðarsögu þjóðarinnar.

Krýsuvíkurvegur

Krýsuvíkurvegur – Arnarfell framundan.

Þarna er jarðhiti mikill og á allstóru svæði. Og þarna eru brennisteinsnámur. Syðst í Kleifarvatni eru hverir, og hita upp vatnið, en sandströnd á löngum kafla, og því tilvalinn baðstaður. Geisikraftur í stórum hver er ónotaður.

Að öllu athuguðu virðist þarna vera framúrskarandi baðstaður, og ekki ólíklegt aðmeð tíð og tíma verði þarna reist stórt gistihús fyrir baðgesti. Og enn fremur að þarna rísi upp heilsuhæli, sem keppt gæti við frægustu heilsuhæli á meginlandi álfunnar. Heilsuhæli með brennisteinsgufuböðum, og hveraleðjuböðum, þar sem þúsundir manna gæti fengið heilsubót.

Seltún

Krýsuvík – Seltún.

Og engin goðgá er það, að vera svo bjartsýnn, að spá því, að hróður þess berist um víða veröld og að þangað sæki fólk úr öllum álfum og öllum löndum hins menntaða heims. Þegar svo er komið, þá hefur Krýsuvíkurvegurinn ekki orðið of dýr, og hann þarf þá ekki að ná lengra heldur en til Krýsuvíkur. Og þá gleymist það sennilega brátt að hann átti upphaflega að vera vetrarvegur milli höfðuborgarinnar og Suðurlands.

Krýsuvík

Krýsuvíkurvegur 1961.

Þá sér maður koma þarna stórkostlega ræktun við jarðhita. Umhverfis hagana, þar sem kýr Hafnfirðinganna eru á beit, og framleiða mjólk á sama hátt og formæður þeirra gerðu fyrir þúsundum ára, standa raðir af gróðurhúsum þar sem framleiddir eru suðrænir ávextir. Og í görðum, sem hitaðir er með jarðhita, vaxa óteljandi nytjajurtir bæði til manneldis og annarra þarfa. Verksmiðjur rísa þar upp til að vinna brennistein og máske ýmsu efni úr skauti jarðar (t.d. helium) og aðrar, sem vinna áburð úr loftinu og nota til þess gufukraft úr jörðinni. Öll byggðin er upphituð með gufu og við hvert hús standa fagrir trjálundir, sem veita skjól í hretveðrum og stormum.
Þá verður fagurt og búsældarlegt um að litast í Krýsuvík.“

Úr Landið mitt er fagurt og frítt – Árni Óla – 1944.

Krysuvik-607

Austurengjahver.

Selatangar

Á Selatöngum eru minjar gamallar verstöðvar.

Selatangar

Selatangar – verkhús.

Núverandi minjar eru líkast til u.þ.b. tveggja alda gamlar. Þær hafa eflaust tekið breytingum allnokkrum frá því að verstöðin var fyrst notuð sem slík. Á Selatöngum má enn sjá greinilega tóftir tveggja búða (Vestari búð og Austari búð) auk þess sem sést móta fyrir útlínum þeirrar þriðju miðsvæðis. Þar eru og a.m.k. þrjú verkunarhús þar sem gert var fyrst að fiski, þurrkbyrgi, þurrkgarðar, þurrkreitir, brunnur, smiðja, skútar með fyrirhleðslum, hesthús, Nótarhellir (þar sem dregið var fyrir sel), Mölunarkór, Sögunarkór og Smíðahelli, auk gamalla gatna og hlaðinna refagildra. Vestan við Seltanga er hið merkilega náttúrufyrirbrigði “Ketillinn” í Katlahrauni og fjárskjól þeirra Vigdísarvallamanna.

Selatangar

Jón Guðmundsson við brunninn á Selatöngum.

Undirritaður gekk einn góðan sumardag árið 2002 um Selatanga með Jóni Guðmundssyni frá Ísólfsskála, sem hann man eftir minjunum eins og þær voru þegar hluti verstöðvarinnar var enn í notkun. Hann lá þar með föður sínum í Vestustu búðinni árið 1926 er Skálabóndi gerði enn út frá Töngunum. Jón minnist þess vel að reki var reiddur þaðan að Ísólfsskála eftir vestari Rekagötunni, sem mótar enn vel fyrir og liggur í gegnum Ketilinn og áleiðis heim að Skála. Leiðin er vörðuð að hluta, en víða sjást för eftir hófa og fætur liðinna alda í klöppinni. Austari Rekagatan liggur til norðurs vestan vestari Látra. Rekagötunar voru einnig nefndar Tangagötur og jafnvel Lestargötur, allt eftir notkun og tilgangi á hverjum tíma.
Tækifærið var notað og svæðið rissað upp eftir lýsingu Jóns. Fylgir það þessum skrifum. Sennilega er þetta eina kortið, sem dregið hefur verið upp af þessari verstöð, þeirri einu sem eftir er á Reykjanesi.

Selatangar

Selatangar – þurrkbyrgi.

Jón sýndi undirrituðum m.a. Smíðahellinn, Sögunarkórinn (Mölunarkórinn), Nótahellinn, hlöðnu refagildrurnar, brunninn, búðirnar, fiskvinnslubyrgin, þurrkbyrgin, þurrkgarðana, smiðjuna, skútana, lendinguna og Dágon (landamerkjastein Ísólfsskála og Krýsuvíkur, en verstöðin er að mestu
innan landamerkja síðarnefndu jarðarinnar). Á sléttri klöpp neðan við Dágon eru klappaðir stafirnir LM (landamerki). Þá benti hann á lendinguna, skiptivöllinn o.fl. Ljóst er að ströndin hefur tekið miklum stakkaskiptum á síðustu áratugum og þarf að meta aðstæður á staðnum með tilliti til þess. Sjórinn hefur nú að mestu brotið skiptivöllinn sem og Dágon . Einnig hefur hann brotið niður byrgi og búðir næst ströndinni. Til merkis um það hefur miðverkunarhúsið syðst á Töngunum látið mikið á sjá á skömmum tíma. Fyrir ári síðan var það að mestu heilt, en sjórinn hefur nú brotið niður suðurhlið þess.

Selatangar

Selatangar – sjóbúð.

Jón taldi almennan misskilning ríkja um hlaðna fjárbyrgið norðan við Ketilinn. Sumir telja það mjög fornt, en það hefði í rauninni verið hlaðið af föðurbræðrum hans frá Vigdísarvöllum skömmu eftir aldarmótin 1900 vegna þess að fé þeirra Vígdísarvallamanna hefði tíðum leitað í fjöruna og þeir þá átt í erfiðleikum með að reka það hina löngu leið til baka. Því hafi skútinn verið hafður þarna fénu til skjóls.
Verstöðin hefur sennilegast notuð þegar á miðöldum. Hraunið (Ögmundarhraun) er frá því um 1150, en það ár lagði það gamla Krýsuvíkurbæinn í Húshólma, sem er þar litlu austar, í eyði. Reru frá Selatöngum meðal annarra skip Skálholtsstóls, auk þess menn alls staðar af landinu lágu þar í veri. Síðast var róið 1884, en selveiðar voru stundaðar nokkur ár eftir það. Þó var oft lent síðar ef lending var ófær annars staðar meðan róið var á opnum skipum, s.s. frá Þórkötlustöðum, Hrauni og víða. Við Dágon eru landamerki Ísólfsskála og Krýsuvíkur.

Selatangar

Selatangar – verkhús.

Á Selatöngum sjást enn miklar rústir verbúða hlöðnum úr hraungrýti svo og rústir af fiskbyrgjum þar sem hertur fiskur var geymdur. Á görðunum, sem enn sjást, var einnig hertur fiskur þegar veður gaf. Sums staðar er hlaðið fyrir hraunhella og þeir notaðir sem sjóbúðir eða byrgi. Vestan við Selatanga er hellir sem hafður var til eldamennsku – mötuneyti þess tíma. Einnig má sjá þar refagildrur frá síðustu öld.

Á Selatöngum var afturgangan Tanga-Tómas svo hatröm að ekki þýddi að skjóta á hana silfurhnöppum sem yfirleitt dugðu helzt á drauga, en frekast dugðu lambaspörð. Auk Tanga-Tómasar eru margir aðrir draugar á ferli á Selatöngum og í nágrenni þeirra, einkum þegar skyggja tekur.

Selatangar

Selatangar- Tanga-Tómas með FERLIRSfélögum.

Í skýrslu um menningarminjar í Grindavíkurkaupstað segir m.a. um Selatanga:
1703: “Jörðin á í sínu landi, en þó allfjarri, skipsuppsátur og brúkar heimabóndinn það um vertíð fyrir sig og hjáleigumenn sína. Öngvar eru þar verbúðir aðrar. Og er þó lending merkilega slæm, heitir “plátsið” á Selatöngum”, segir í jarðabók Árna og Páls.
1756: “Selatangi við Krýsuvík er lítill, en vel fallinn til sjósóknar, en ströndin er klettótt og lending ill sakir brima”, segir í Ferðabók Eggerts og Bjarna.

Selatangar

Miðrekar.

“Þegar kemur vestur fyrir Miðrekana og landinu fer að sveigja til norðurs, taka við Seltangar…. Á Seltöngum var fyrrum mikil útróðrastöð og verstöð. Er þar enn allmikið af búðarústum og fiskigörðum til herslu á fiski.
Hér er mikið af hraunhellum, þótt flestir séu þeir litlir, voru þeir notaðir til ýmissa hluta og hlutu nöfn af. Nokkru eftir 1880 lagðist útræði hér niður að fullu og öllu”, segir í örnefnalýsingu Krýsuvíkur.

Selatangar

Selatangar – refagildra.

“Austan við Hraunnef [þar sem leiðin er hálfnuð út á Selatanga er]…. Veiðibjöllunef… Austan við Veiðibjöllunef kemur Mölvík… þar upp af Mölvík austan til heitir Katlahraun… Austast í Katlahrauni er Nótarhellir og gengur í sjó fram…. Fyrir austan Nótarhellir er sandfjara og síðan taka við Selatangar”, segir í örnefnaskrá Ísólfsskála.
“Nokkuð austan við bæinn á Ísólfsskála, sem svarar klukkutíma gang, gengur tangi fram í sjóinn. Hann heitir Selatangar”, segir í örnefnaskrá AG um Ísólfsskála.
Friðlýstar minjar: “Verbúðartóftir, fiskbyrgi, fiskigarðar og önnur gömul mannvirki í henni fornu verstöð á Selatöngum”.

Selatangar

Selatangar – austasta verbúðin.

Á Selatöngum var aldrei föst búseta, heldur einungis útver með nokkrum verbúðum. Þaðan var einkum útræði Krýsuvíkurmanna, en Krýsuvík fylgdu lengi nokkrar hjáleigur.
Til er gömul þula sem telur 73 (aðrir segja 82) menn við róðra í Krýsuvík. Ástæðan fyrir þeim kveðskap er sögð vera sú, að strákur einn hafði orðið mötustuttur í verinu….. Líklegt er að bæði Krýsuvíkurbændur og Vigdísarvallabændur hafi gengið til skips, en ekki haldið til í verinu.
Þótt aldrei væri stórt útver á Selatöngum eru þó þar talsverðar verminjar. Þaðan var seinast róið 1884, skv. upplýsingum á skilti við bifreiðastæðið. Heimildir eru þó um að þarna hafi verið útræði frá Skála 1913.

Selatangar

Gengið um Katlahraun og nágrenni.

Guðrún Ólafsdóttir lýsir rústunum svo í skýrslu frá 1993: “Þarna eru nú minjar um verbúðir, fiskbyrgi og garðhleðslur sem eru að mestu horfnar. Rústirnar eru margar og er hægt að telja þær upp undir 20, auk garðhleðslanna sem eru á hraunnefunum og eru nú að mestu horfnar. Á vestustu hraunnibbunni er verbúð og rústir, auk garðhleðsla. Á næstu nibbu austan við eru rústir sömuleiðis, en hraunnibban er aðgreind frá þeirri vestari af sandi. Hinar rústirnar eru svo á þriðju nibbunni sem myndar samfelldara og stærra svæði en hinar og þar eru líka flestar rústirnar. Austast á þessu svæði er önnur verbúðartóft og byrgi í líkingu við það sem er vestast.

Selatangar

Selatangar – Smíðahellir.

Utan í hraunflákanum að austan eru fyrirhleðslur við skúta sem virðast hafa verið notaðir af fé. Margar hleðslurnar hafa farið verulega illa í flóðum undanfarin ár. Verbúðartóftin vestari er undir hraunbrúninni og er mjög fallinn, þó má greina húsaskipan. Rústin er hlaðin úr grjóti og torfi en hraungrjót er meginbyggingarefnið, enda hefur skort torf í hraunhafinu sem umlykur Selatanga að sjó. Við rústina að norðan- og sunnanverðu eru byrgi sem þarf að varðveita. Allt í nágrenninu eru svo hlaðnar rústir sem þarf að huga að. Nokkur byrgi eru uppistandandi og vel farin og slaga þau uppí að vera mannhæðarhá…. Stórflóðin á undanförnum árum hafa farið illa með rústirnar. Rústirnar eru á hraunnibbum sem skaga út frá Ögmundarhrauni og utan í þeim”.

Selatangar

Fjárskjól í Katlahrauni.

“Á Selatöngum var allmikil útgerð frá Skálholti í eina tíð, en lagðist fyrst niður um tíma eftir Básendaflóðið 1799 og svo að fullu og öllu milli 1880 og 1890. Þarna eru byrgi og búðatættur, sem eru nú friðlýstar. Dágon var klettur á kampinum suður af vestustu sjóbúðinni á Selatöngum, en er nú hruninn… Skiptivöllur er smáhæð fyrir austan Dágon, grasivaxinn að ofan. Sjóbúðirnar standa austan undir Skiptivelli á hraunnefi”, segir í örnefnaskrá Ísólfsskála.

Selatangar

Fiskbyrgi á Selatöngum.

“Á Selatöngum sjást byrgi og búðatættur, eldhús og önnur mannvirku, enda var þarna allmikil útgerð fyrir eina tíð…”, segir í Örnefnaskrá AG um Ísólfsskála.
Árið 1799 skemmdust nær öll mannvirki á reykjanesi er voru næst sjónum. Auk þess hefur sjórinn verið að naga smám saman af ströndinni í gegnum aldir. Ljóst er því að núverandi minjar á Selatöngum geta varla verið eldri en frá því um 1800. En þær eru eftir sem áður minnismerki um verstöð á Selatöngum um langan aldur og áþreifanlegur vitnisburður um sjósóknina fyrrum og horfna starfshætti.

ísólfs

Gengið um Selatanga.

Sjá má mikinn fróðleik um Selatanga í bæklingi Ferðamálafélags Grindavíkur – Seltangar, merkar minjar í umdæmi Grindavíkur.

ÓSÁ tók saman.

Selatangar

Selatangar – vel má sjá hversu erfitt útferið hefur verið utan við Tangana.

Reykjanes

Eftirfarandi grein, „Einhver einkennilegasti staður í nágrenni Reykjavíkur“, eftir V. St. birtist í Lesbók Morgunblaðsins 13. júní árið 1926. Efnið gæti að mörgu leyti átt við í dag, 97 árum síðar.

Stampar

Stampar – gígur.

“Fæstir Reykvíkingar þekkja hið eiginlega Reykjanes, þó undarlegt megi virðast. Er óhætt að fullyrða, að margir hafa dvalið hjér langvistum í höfuðstaðnum, án þes að vita, hvar á Reykjanesskaga hið einkennilega Reykjanes er; en það er skagatotan syðst og vestast á Reykjanesskaga, þar sem er vitinn mikli, þar sem Vigfús Grænlandsfari var vitavörður um langt skeið. En hann hrökklaðist þaðan í fyrra og er sagt að hann, eða einkum fjölskylda hans, hafi verið búin að fá nóg af þarvistinni, jarðskjálftunum og erfiðleikunum á Reykjanesinu.

Gunnuhver

Gunnuhver – hverasvæðið.

Á Reykjanesi er einhver einkennilegasta og stórfenglegasta náttúra, sem þekkist hér í nágrenni. Þar er land allt hrauni þakið, gígar margir og gróður lítill eða enginn. Þar eru þverhnýptir fuglaklettar í sjó fram. – Í sjávarhamrana eru hellrar miklir og merkilegir. Á felli einu bröttu stendur vitinn, hár og reisulegur, en úr umhverfinu rýkur, þegar kyrrt er veður, eins og það væri alelda.
Þar er litli Geysir. Hann gýs hátt með mikilli gufu, og hinn heljarmikli leirhver, Gunna, sem hefir verið spök um hríð, er er nú að rífa sig. Og þar eru jarðskjálftar svo tíðir, að heimafólk á vitavarðabústanum tekur eigi til þess, þó húsgögn leiki þar á reiðiskjálfi, og rúður skrölti í gluggum.

Grindavíkurvegir

Varðaðar leiðir til og frá Grindavík frá fyrstu tíð.

Frá Reykjanesi er rösk tveggja tíma ferð til byggða, hvort heldur er frið austur á bóginn til Grindavíkur, eða norður til Hafna.
Sjaldan er gestkvæmt á Reykjanesi, enda eigi að vænta að vetri til; en á sumrin væri það ætlandi, að margir Reykvíkingar kysu heldur að skussast með bifreið suður til Grindavíkur eða Hafnir og ganga síðan um hin einkennilegu hraun, 2-3 tíma ferð út á Reykjanes, heldur en gleypa hjér göturykið í Reykjavík um helgar og góna á náungann. Þeir, sem eru allra fótlatastir, geta fengið sér hesta, þar sem akveg þrýtur. En að því er lítill flýtisauki, því akvegurinn er ljelegur.

Reykjanes

Gamli vagnvegurinn frá Grindavík.

Margur farkostur hefir strandað á suðurströnd Reykjaness, og margur sjógarpur látið líf sitt í þeim ægilega brimgarði, þar sem öldur úthafsins skella á sundurtættum hraunhömrunum.
Í vetur sem leið druknuðu margir vaskir drengir í lendingunni í Grindavík. Það var á björtum sólskinsdegi; og gátu menn notið góðviðris og sleikt sólskinið hjér inni í Reykjavík, þó svona væri þar.
Skammt frá Járngerðarstaðahverfinu liggur nú togarinn Ása, fáar skipslengdir frá fjöruborði, Er búist við, að hún náist út, með stórstraum. Það er að segja, eftir því sem björgunarmenn segja. En Grindvíkingar voru lengi vel vantrúaðir á, að hægt væri að ná skipi á flot, sem hefði haft þar jafn náin kynni af ströndinni, eins og Ása.

Á rekafjöru frá Grindavík vestur að Reykjanesi, verður fyrir augum manns margskonar hrygðarsjón. En í því umhverfi, sem þar er, blandast hrygðin lotningu fyrir stórfenglegum náttúruöflunum.

Hvalreki

Hvalreki við Garðskaga.

Fyrir ströndinni er víða hár sjávarkampur, þar sem eigi hamrar ganga í sjó fram. En þeim, sem aldir eru upp við norðlenska firði, þykir hjer vera allmjög á annan veg, en þar er títt. Þar eru sjávarkambar úr smágrjóti og möl, svo greiðfærir, að hægt er að ríða þá í fleng, á hvötum, fótvissum hesti. En hjer er kamburinn margra metra hár úr stórgrýti, sem hestar geta vart fótað sig á, hvað þá heldur meira.

Slíkur er aflsmunur brimsins, er hefir verið að verki hjer og norður þar, enda er reynsla fyrir því, að sunnlenska brimið rótar björgum til, sem eru tugir tonna að þyngd.
Í túnfætinum á Staðarhverfi, skammt vestan við Járngerðarstaði, er skrokkur af enskum togara. Spölkorn þaðan, vestan, fórst færeyska skútan í hitteðfyrra, þar sem allir skipverjar týndust og ekki fannst örmul af, nema þóftubútur með nafni skútunnar og annað smábrak.

Reykjanes

Reykjanes – Karlinn.

Svona mætti víst lengi telja. Meðfram allri ströndinni liggur mikið vogrek, og mest er það unninn viður, og á því sennilega hver spýta sína sögu, í sambandi við slys og tjón. Þar er á hverju strái allskonar skran; beyglaðar, ryðgaðar jártnplötur, dunkar, tunnur, skipskörfuræflar, og á löngu svæði er nú meðfram götuslóðinni við ströndina sáld af slöskutöppum. Einkennileg tilbreyting í viðurstyggð eyðileggingarinnar, sem lýsir sjer í öllu brakinu. Ósjálfrátt rennir maður huganum til íslensks sjávarútvegar, til þess, hve lífskjör og lífsbarátta er hörð, þar sem hver fjölskyldumaður á lífsuppeldi sitt og sinna að sækja yfir brimgarð sem þenna.
Skömmu áður en komið er út að Reykjanesvita, er farið fram hjá gígbungu einni, Háleyjarbungu. Er gígur þessi, (að sögn Þ.Th.), um 440 fet að þvermáli, og tæp 150 fet á dýpt.

Gunnuhver

Við Gunnuhver.

Þegar þangað kemur, blasa við reykir hverasvæðisins. Er vegurinn sæmilega greiðfær, sem eftri er, og er maður brátt kominn inn á hverasvæðið.
Til vinstri handar við götuna er Litli-Geysir. Hann gýs ört, og fer vatnsstrókurinn stundum 3 til 4 metra í loft upp. Hann gýs sjávarvatni, og er þó um 100 et yfir sjávarmál. Rjett við hann er leirhver einn mikill. Í honum vellur gráleit eðja og gýs upp úr skálinni, en sljákkar á milli, og er skálin eða gjótan þá þurr og allt með kyrrum kjörum stundarkorn, uns nýtt gos byrjar.

Reykjanes

Á Reykjanesi.

Spölkorn norðar er hin nafntogaða Gunna, einhver mesti og “helvítasti” leirhver á landinu, í orðsins upprunalegu merkingu, enda valdi hinn fjölkunnugi Eiríkur á Vogsósum Gunnu sem hentugast sáluhlið handa þeim, sem hann útbjó greiðan gang niður til þess neðsta.
Gunna er eigi ein samfelld hveraskál, heldur er það mikill leirpyttaklasi, sem ber þetta nafn. Er jörðin þar öll sundursoðin og logandi.
Sögusögn er um það, að um þessar slóðir sje einhvers staðar hin víðfræga jarðskjálftagjá Páls Torfasonar; en á því veit jeg eigi deili. En gjár eru þar svo margar, og jarðskjálftar sennilega óvíða tíðari í heiminum, svo mjög er eðlilegt, að velja slíkum merkisgrip þar samastað.

Reykjanesviti

Reykjanesviti á Valahnúk.

Gamli Reykjanesviti stóð á hinum svonefnda Valahnúki. Er það móbergshóll, eða öllu heldur leifar af hól, því ekki er nema endinn eftir, sem eigi á langt eftir ólifað á jarðfræðivísu, því sjávarbrimið er langt komið að eyða honum.

Uppi á ströndinni, skammt frá sjávarhamrabrúninni, var vitinn reistur, áttstrendur turn úr hraungrýti, segir Þ. Th., og loftsvalir yfir, en þar upp af voru ljóskerin, er Danir gáfu, og kostuðu 12 þús. kr.

Reykjanes

Reykjanes – hellir í Valahnúk.

En sífellt hrundi úr berginu, því um sjávarborð er bergið lint. Eru þar því hellar miklir og merkilegir, í bergið. Jarðgöng hafa þannig myndast gegnum einn hluta Valahnúks. Er afar einkennilegt um fjörum að standa niðri í stórgrýtinu framan við bergið, með hafrótið hvítfyssandi á aðra hönd, og gínandi hellisskúta á hina.

Valahnúkur

Valahnúkar og Valahnúkamöl.

Mávar verpa í berginu, og eru gæfir um þessar mundir.
Það þótti eigi tryggt að hafa vitann lengur á Valahnúki. – Bergið gat hrunið í sjó fram við einhvern jarðskjálftarkippinn; – Því var ráðist í það að byggja annan vita a Vatnsfelli. Er það hóll álíka að gerð og Valahnúkur, nema hvað han er heill, því hann stendur inni í landi. Heill er e.t.v. of mikið sagt, því þarna er helst allt sprungið, – þó hann sje hinn rammbyggilegasta smíði. Hann er 30 metra hár. Uppi undir ljóskeri er vitavarðarherbergi. Þar verður að vera vörður alla stund meðan ljós er á vitanum. Má get nærri, aðþað er eigi viðkunnalegt staða þegar jarðskjálfatr eru mjög tíðit og regnskúrir, að kúldrast þarna uppi í 30 metra háum turninum, þegar turninn dinglar eins og “reyr af vindi skekinn.”

Reykjanesviti

Reykjanesvitar.

Eins og nærri má geta, er hið ágætasta útsýni úr vitanum inn yfir Reykjanesskaga og langt á haf út.
Undir Vatnsfelli er vitavarðabústaðurinn. Þar er nú Ólafur Sveinsson vitavörður. Hann var ekki heima er við komum þangað fjórir umdaginn, Þjóðverjar tveir, málarinn Webepohl, Lubinski blaðamaður, Ragnar Ásgeirsson garðyrkjumaður og jeg.
Mikið höfðu útlendingarnir undrast öll náttúrufyrirbrigði, er fyrir augu vor bar; hefir Lubinski nýverið farið um Sahara, Túnis, Algier, Spán, Frakkland og víðar.

Aldrei kvaðst hann hafa komið á jafn undraverðan stað og þenna. En eitt var undrunarefni hans enn, og það var að finna þarna úti í auðninni, aðra eins framleiðslu við kaffiborðið og hjá konu vitavarðarins, og jafn skýran og frjálsmannlegan pilt og son vitavarðar, 13 ára gamlan, er fylgdi okkur um nágrennið.

Reykjanes

Reykjanes – gamlar leiðir (ÓSÁ).

Svona eru ekki unglingarnir í borgunum okkar á Þýskalandi, sagði hann, enda fá þeir annað uppeldi en hjer fæst í þessu mikilúðlega umhverfi.
Er við vorum að standa upp frá kaffiborðinu, heyrðust allt í einu drunur miklar svo undir tók, og á vetvangi ljek allt á reiðiskjáli. Útlendingarnir skimuðu og vissu ekki hvaðan á sig stóð veðrið, en við Ragnar þóttumst heimavanir og sögðum rjett sisona, að þetta væri ekki annað en jarðskjálfti, rjett eins og við hefðum pantað hann sem síðasta númer á skemmtiskránni.
Til allrar hamingju voru þeir ekki búnir að heyra um gjána hans Páls, annars hefðu þeir haldið, að nú hefði einhver dengt í hann grjóti þeim til skemmtunar.”

-Lesbók Morgunblaðsins 13. júní árið 1926 – eftir V.St.

Reykkjanes

Á Reykjanesi.

Grindavíkurvegur

Tómas Snorrason, útvegsbóndi í Grindavík, skrifaði eftirfarandi grein í sjómannablaðið Ægir árið 1929:

Staðhættir

Grindavík

Grindavík – innsigling í Hópið fyrrum.

„Grindavík er ysta byggð sunnan á Reykjanesinu. Það er í raun og veru þrjár víkur og sitt hverfi hjá hverri vík, auk þess nokkrar einstakar jarðir milli hverfa. Alls voru 26 grasbýli og 6 eða 7 þurrabúðir í sveitinni um 1890. Byggðin öll nær yfir ca. 14 km langa strandlengju; frá ystu byggð eru ca. 10 km út á Reykjanestá. Landrými sveitarinnar er allmikið og víðast mjög hrjóstrug hraun og blásin og ber eldfjöll. – Aðdýpi er all mikið, þó eru nokkur sker og boðar á öllum víkunum, þess vegna er brimasamt, þó aldrei landbrim í lendingum, nema flóðhátt sé.

Atvinnuvegir

Grindavík

Grindavík.

Frá landnámstíð hafa fiskveiðar og landbúnaður verið aðal atvinnuvegir hér, eins og allstaðar annars staðar á landinu, þar sem svipað er í sveit komið.
Frá því Grindavík byggðist og fram á miðja 19. öld var ein og sama veiðaðferð notuð, nfl. handfæri. Á vetrarvertíð munu mest hafa verið notuð 8 og 10 róin skip, en tveggja og fögurra manna för voru aðallega notuð þar fyrir utan. Oftast var stutt róið, öldum saman á sömu miðin, út á víkurnar eða stutt út fyrir þær.

Grindavík

Grindavík – sjóbúð.

Þar sem veiðistöðvar liggja fyrir opnu hafi, er eðlilega brimasamt í hafáttum og því aðallega gæftir þegar aflandsvindur er, það var því eðlilegt að menn hættu sér ekki langt frá landi, síst meðan eingöngu var treyst á árarnar, til að komast um sjóinn, en ekki í annað hús að venda, ef ekki náðist lending. Í fiskigöngum gengur fiskur hér venjulega inn í boða, það var því sjaldan þörf að sækja langt á vetrum. Það kemur oft fyrir á vetrum, að sjór verður albrima á mjög skömmum tíma, jafnvel þó logn eða hægviðri sé og útsjór vel fær, mun það m.fl. hafa valdið því að hvert hverfi sótti sín mið öldum saman, jafnvel þó betra fiskirí væri í öðrum hverfum. Á sumrin og síðari hluta vorvertíðar var stundum róið langt á ýmis mið, frá Krýsuvíkurbjargi og vestur á Reykjanesröst.

Hópsnes

Fiskgarðar á Hópsnesi.

Lengst af var allur fiskur hertur hvort heldur vera skyldi verslunarvara eða til heimilsnota. Aflinn var vel hirtur, hausar hertir til matar, sundmagi, kútmagi og svil sömuleiðis, allt var þetta góð og gild verslunarvara innanlands, hrygnir voru þurrkaðir til eldsneytis og annar úrgangur hirtur til áburðar. Fiskur og hausar voru hertir á þar til gerðum grjótgörðum, sömu garðar fygldu sömu jörðum eins og sömu tún eða sömu uppsátur.
Um miðja 19. öld var fyrst komið með lóð (línu) hingað. Sá sem fyrstur varð til þess hét Jón Guðmundsson, hann bjó lengi í þurrabúð, sem heitir Akrakot (fyrstu þurrabúðinni í Járngerðarstaðahverfi), en í daglegu tali kallað Kofinn. Hann fékk 2 strengi af línu inn á Vatnsleysuströnd og kom með þá um vor, þá var tregur fiskur á færi, en hann mokfiskaði á línuna.
ÞórkötlustaðanesÞað hefði mátt ætla að honum hafi verið þökkuð framtakssemin, en það varð öfugt farið. Þegar í land kom mættu honum ónot, hrakyrði og jafnvel haft í hótunum við hann, ef hann legði ekki þessa skaðlegu veiðiaðferð niður. Þó fór svo, að skömmu seinna fer það að tíðkast að nota lóðir á vorin, en stuttar voru þær. Þessi aðferð tíðkaðist fram um síðustu aldamót. – Það má segja að með 20. öldinni breyttist hér veiðiaðferðirnar. Þá var byrjað að nota net. Sá sem fyrstur lagði þau mun hafa verið Gísli sál. Hermannsson á Hrauni. Hann lagði 3 net, en tapaði þeim, að mig minnir, áður en hægt var að vitja um þau. Næstu vertíð fóru fleiri að reyna og heppnaðist betur. Upp frá því fara allir að koma sér upp netum, en lítill útvegurinn til að byrja með. Um líkt leyti, eða aðeins seinna, er hætt að beita á sjó, en línan lengd að sama skapi og hefur haldið áfram að lengjast til þessa.

Staðarhverfi

Bryggjan í Staðarhverfi.

Árið 1925 var fyrst gerður út mótorbátur hér. Það var Gísli silfursmiður Gíslason í Reykjavík, sem kom með hann og gerði hann (dekkbát) út í Staðarhverfinu. Gísli gerði hann út í tvær vertíðir. Árið eftir voru settar vélar í tvö róðraskip í Járngerðarstaðahverfi. Árið eftir bættist eitt vélskipið við, en í fyrra (1928) voru settar vélar í níu róðraskip og þrjú ný smíðuð með sérstöku tilliti til þess að þau yrðu knúin vélum, en ekki árum, en allt eru það opin skip (dekklaus). Á næstkomandi vertíð er gert ráð fyrir að allt verði vélskip. Það mun mega telja sögulegan viðburð í Grindavík, að þar gangi ekkert róðraskip á vetrarvertíð.
Einhverjir kunna nú að spyrja: Hvernig stendur á að öll skip í Grindavík eru lítil og opin? Það er af því að skipin verður að setja á land eftir hvern róður, hvergi hægt að leggja þeim nema í Staðarhverfi, þar geta fáir bátar legið, en þar er útgerð minnst og hefur um alllangt skeið fiskast minnst. Skipin eru dregin á land með gangspili, en sett niður af handafli.

Samgöngur

Skipsstígur

Skipsstígur.

Sökum hafnleysis hefur aldrei verið um samgöngur á sjó að ræða, er teljandi séu, þær urðu því að vera á landi. – Um nokkur ár síðast á 19. öldinni gekk lítill gufubátur (Oddur) milli Eyrarbakka og Grindavíkur á vorin öðru hvoru og sumrin, hann var eign Lefolisverlsunar og aðallega ætlaður til að draga kaupskipin út og inn á höfnina þar, en þess á milli var hann notaður til flutninga hafna á milli, þar sem verslunin hafði viðskipti. Að síðustu bar Oddur beinin hér, þ.e.a.s. strandaði.

Þó um eiginlega fjallvegi í venjulegri merkingu sé ekki hér að ræða sveita á milli, þá voru samgöngur mjög erfiðar og hættulegar í slæmri tíð á vetrardegi, enda var það stundum að slysi. Hvert sem farið var lá leiðin meira eða minna um ógreiðfær hraun, víða holótt og sprungin, sumstaðar lá örmjó gata yfir hyldjúpar gjár og var það ekki glæsilegt að vera þar á ferð er ekki sást til vegar fyrir snjó eða myrkri. Víðast voru djúpar götur, allvíða voru djúpar holur í götunum og stigu hestar ofan í þær, en á milli þeirra voru sumstaðar allt að hné há höft.

Skipsstígur

Skipsstígur – vagnvegur.

Hve fjölfarið hefur verið til verstöðvanna á Reykjanesskaganum sést best á hinum djúpu og mörgu götum og troðningum, jafnvel í hinum tiltölulega hörðu helluhraunum. Sennilega hafa fleiri en ég horft með undrun á götunar í helluhraununum, er þeir sáu þær í fyrsta sinn og fundist óskiljanlegt hvernig menn hafa getað farið svo nákvæmlega sömu slóð ára eftir ár að götur gætu myndast, þar sem ekkert er sjáanlegt að væri til leiðbeininga nema stefnan.

Samgöngubætur

Grindavíkurvegur

Grindavíkurvegur á Stapanum.

Það var ekki fyrr en eftir að akvegurinn var lagður milli Hafnarfjarðar og Keflavíkur að menn hér fóru almennt að vakna til meðvitundar um hve hagkvæmt það væri að fá akveg hingað. Tvö slys vildi til um sama leyti (tvo menn kól til örkumla), sem hvöttu menn til framkvæmda og voru óhrekjanleg sönnun fyrir nauðsyn á fullkomri vegabót, einkum voru slys þessi sterk meðmæli með vegi í augum þeirra, er um málið urðu að fjalla áður en til framkvæmda kæmi, en voru lítt kunnir staðháttum. Var nú farið að vinna að því að fá vegarálmu frá Keflavíkurveginum til Grindavíkur. Vegarstæðið var mælt og kostnaðaráætlun saman af Sigurgeiri Gíslasyni verkstjóra í Hafnarfirði, sem síðan hafði umsjón verksins á hendi. Helstu hvatamenn þess, að hrinda verkinu í framkvæmd, voru Einar G. Einarsson kaupmaður í Garðhúsum og síra Brynjólfur Magnússon á Stað.

Grindavíkurvegir

Ein búð vegagerðarmannanna við gamla Grindavíkurveginn á Gíghæð.

Hreppurinn tók að sér að greiða ¼ af kostnaðinum. Til þess að standast þá fjárframlög tókst helstu hvatamönnum fyrirtækisins að fá loforð flestra formanna og útvegseigenda um ½ hlut af hverjus skipi er út voru gerð á vetrarvertíð meðan verið væri að leggja veginn. Einstöku maður mun hafa verið tregur til að lofa ½ hlutnum og jafnvel neitað, þóttust tæplega hafa heimild til þess gagnvart hásetum sínum, en allir munu þó hafa látið hann, eða sem honum svaraði, áður en lyki. Þetta var hið mesta heillaráð og til heiðurs fyrri alla, er hlut áttu að máli. Með þessu komu þeir í veg fyrir að binda sveitinni erfiðar og dýrar skuldabyrðar, en sýndu um leið hve almenn samtök, því í litlu sveitafélagi sé, geta miklu til vegar komið. Sýslunefnd Gullbringusýslu lagði fram ¼ kostnaðar og Landssjóður helming kostnaðar, fyrir drengilega framgöngu þingmanna héraðsins og fleiri góðra manna, er það mál studdu.

Grindavíkurvegir

Varðaðar leiðir til og frá Grindavík frá fyrstu tíð.

Einn af merkari þingmönnum komst á þá eið að orði, að Grindavík hefði ekkert við veg að gera, því þar ætti enginn hest sem lið væri í. Þeim þingmanni hefur ekki komið til hugar, fremur en öðrum þá, að vegur mundi létta ferðalögum af hestum.
Á vegarlagningunni var byrjað vorið 1914 og lokið 1918. Alls mun framlag hreppsins hafa orðið rúmar 20 þúsund krónur, fór það langt fram úr áætlun sem vonlegt var, því áætlunin var gjörð áður en stríðið skall á, en verkið framkvæmt á stríðsárunum. Kauphækkunin, sem var aðalorsök þess hve vegurinn varð dýr, kom þó ekki beint hart niður á hreppsbúum, því fiskur hækkaði í verði fullkomlega í hlutfalli við hækkun vinnulauna.
Allar þessar fjórar vetrarvertíðir aflaðist vel, enda hafði ½ hluturinn þá líka borgað hreppstillagið að fullu, er vegurinn var kominn í Járngerðarstaðahverfið.“

-Úr Ægir 1929 – grein eftir Tómas Snorrason, útvegsbónda í Grindavík.

Grindavíkurvegir

Grindavíkurvegir – kort ÓSÁ.

Strýthólahraun

Gengið var um Strýthólahraun.
Strýthólahraun er ekki stórt, en geymir fjölda minja frá fyrrum Strýthólahraun - byrgiútgerðarháttum, líkt og Slokahraun skammt austar. Hraunið er suðaustasti hluti Þórkötlustaðanessins austan við Grindavík. Nesið, tangi út úr Hópsheiðinni, er allt hrauni þakið. Vel má sjá hvernig meginhraunstraumurinn hefur runnið undan hallanum til suðurs af heiðinni frá Sundhnúkagígaröðinni og út í sjó. Hraunáin hefur verið þung því hún hefu rutt afurð sinni til beggja átta og náð að mynda Nesið. Auðvelt er að ganga eftir hrauntröðinni miklu frá ofanverðu nesinu áleiðis að vitanum syðst á Nesinu. Heimildir segja að sumt bendi til, að hraun þetta sé að minnsta kosti að einhverju leyti runnið eftir landnámsöld (sbr. Árb. Fornl.fél. 1903, 47), en aldursgreining á því hefur gefið til kynna að það hafi runnið fyrir u.þ.b. 2400 árum (Jón Jónsson). Þetta er sama hraunið og myndaði hraunlendi það, sem Grindavíkur (Járngerðarstaðahverfið) stendur nú á. Hvorki er minnst á minjarnar í Strýthólahrauni í örnefnalýsingum né í fornleifaskráningum.
Byrgi í StýthólahrauniÍ örnefnalýsingum má lesa eftirfarandi um Þórkötlustaðanesið: „Í nesinu er viti, sem nefndur er Þorkötlustaðaviti. Austur af vitanum er hóll, sem heitir Leiftrunarhóll. Vestur af honum og austur af vitanum eru tveir hólar, sem heita Strýthólar. Milli þeirra og vitans er Tófuflatarhóll. Alllangt norður af vitanum er hár hraunhóll, sem heitir Gjáhóll. Suðaustur af vitanum er Stóra-Látraflöt, en Litla-Látraflöt er austar og liggur að Strýthólum. Þar austar er Leiftrunarhóllinn, og fram af honum er Stekkjarfjara. Við Leiftrunarhól er tangi, sem heitir Nestá. Upp af Stekkjarfjörunni er grasblettur nefndur Stekkjartún. Þá er komið að vík, sem heitir Drift, aðrir segja Dríli. Inn frá henni heita Þorkötlustaðavarir.“
Byrgi í StýthólahrauniÖnnur lýsing segir: „Vestan við vita sem er í nesinu og heitir Hópsviti er vatnsgjá niður við sjávarkampinn. Þar beint niður undan í flæðarmálinu er stór steinn. Hann heitir Markasteinn og skilur hann lönd Þórkötlustaða og Hóps. Í hann eru klöppuð tákn L.M. um landamerki. Suðaustur af vitanum er grasflöt niður við kampinn; Stóra-Látraflöt, að mestu komin undir kamp. Austur af vitanum er grasi vaxinn hóll, nokkuð stór með grasflöt norður af; Tófuflatarhóll. Þar var tófugreni fyrr á tímum. Niður undan honum austan til var Litla-Látraflöt. Hún er nú komin undir grjót úr kampinum.

Strýthóll

Strýthóll-ytri.

Austan við Tófuflatarhól eru Strýthólar. Vestri-Strýthóll með tveimur þúfum en Eystri-Strýthóll niður við kampinn. Útfiri er töluvert og heitir fjaran Látur. Selalátur var þar áður fyrr. Hóll var fram undan Tófuflatarhól; Þanghóll, en hann er nú kominn undir kampinn. Hann skipti reka. Fyrir vestan eru Kotalátur. Þar eiga Einland, Buðlunga og Klöpp reka. Austan Þanghóls eru Austurbæjarlátur). Austast í Nesinu að framanverðu er smátangi sem heitir Nestá.
Byrgi í StýthólahrauniNorður af Nestá er stór hóll á kampinum; Leiftrunarhóll. Norður af honum er Stekkatún sem nær að Flæðitjörn. Hún er ofan við sjávarkampinn. Niður undan og norðan Leiftrunarhóls er Stekkjarfjara. Látragötur eru slóðar úr vesturenda Stekkatúns fram í Látur. Við enda Stekkjarfjöru er klettur í fjöruborðinu og er sem sker um flóð. Hann heitir Driti.“ Hér er Dríli nefndur Driti, Þórkötlustaðaviti nefndur Hópsviti þótt hann standi í Þórkötlustaðalandi og Strýthólarnir orðnir tveir. Ætlunin var þó einungis að beina athyglinu að samnefndu hrauni.

Strýthólahraun

Strýthólahraun – byrgi.

Athyglisvert verður að telja að í hvorugri örnefnalýsingunni eru nefndar minjar í Strýthólahrauni. Þó má sjá þar örnefnið Látragötur, sem verða að teljast til minja. Þær götur má enn rekja frá norðanverðum hraunkantinum og með honum vestanverðum með stefnu á vitann.
Í austanverðu Strýthólahrauni eru minjar fleiri en 40 fiskbyrgja. Byrgin eru eldri en aðrar þær minjar útgerðar á Nesinu, sem sjá má ofan við bryggjuna austan við nefndar Flæðitjarnir, þar sem áður voru Þórkötlustaðavarir, enda vinnsla fiskjarins önnur áður fyrr. Tengdar minjar má þó sjá ofar á Nesinu, gegnt bryggjusvæðinu. Einnig skammt vestan við bryggjuna, en þar eru að öllum líkindum elstu mannvistarleifarnar á svæðinu, nú grónar og virðast náttúrlegar myndanir.
Uppdráttur af byrgjunum í StrýthólahrauniEn hvað um það – fiskbyrgin fjölmörgu í Strýthólahrauni eru með þeim merkustu sinnar tegundar hér á landi. Þau eru ekki óáþekk þeim er sjá má á Selatöngum, við Nótarhól hjá Ísólfsskála og í Slokahrauni. Þessi byrgi eru þó frábrugðin að því leyti að þau eru bæði mörg mun minni og miklu mun fleiri en annars staðar. Þau eru þó hlaðin með svipuðum hætti. Mörg eru heilleg, en önnur fallin að hluta. Elstu menn á svæðinu muna ekki eftir að hafa orðið varir við byrgin, enda hafa þau sennilega ekki verið í notkun um aldir og falla auk þess vel inn í hraunmyndanirnar svo erfitt er að koma auga á þær við fyrstu sýn.

Þórkötlustaðanes

Þórkötlustaðanes – örnefni.

Flest byrgin eru á hraunhólum og bera því við himinn. Sum eru hringlaga hlaðin á meðan önnur eru ferningar. Sumsstaðar eru dyr, annars staðar bil. Hæstu byrgin eru um 1 m á hæð og þau stærstu u.þ.b. 60 cm á breidd og 240 á lengd. Staðsetningin virðist augljós; byrgin eru austast úfnu hrauninu þar sem auðvelt hefur verið að ná í byggingarefni, en austar er tiltölulega slétt gróðurlendi, sem sennilega hefur gróið upp vegna fiskflutninganna í byrgin.
Byrgin í Strýthólahrauni eru ekki fiskgeymsluhús líkt og sjá má í Sundvörðuhrauni eða við Eldvörp og telja má líklegt að hafi verið með „Staðarhúsið“ svonefnda við Þórkötlustaði. Þrjú slík hús má sjá á Selatöngum, þó ekki nákvæmlega sömu gerðar. Byrgin hafa verið þurrkvinnslustaðir ofan og utan við varirnar.
Byrgin eru í raun „hraunhraukar“, sem snjó hefur gjarnan fyrst leyst af þegar sólin skein á vetrarvertíðum.
Byrgi í StrýthólahrauniRekaviðarár, en gnægð rekaviðs má enn sjá þarna innan við sjávarkampinn, hafa líklega verið lagðar yfir „hraukana“ og þannig hafa þurrkmöguleikarnir verið margfaldaðir. Ferskvatn er í tjörn við hraunkantinn þar sem gætir flóðs og fjöru. Að forþurrkun lokinni hefur verið mögulegt að taka fiskinn saman með tiltölulega skjótum hætti og koma honum fyrir í byrgjunum, sem varði hann fyrir regni, uns veður gaf aftur færi á áframhaldandi þurrkun milli róðra.
Byrgin í Strýthólahrauni hafa fengið að vera í friði fyrir forvitnum. Mikil aðsókn hefur hins vegar verið í verminjarnar á Strýthólahraun - minjar Selatöngum, svo mikil að sumar liggja undir skemmdum. Gangan að þeim tekur u.þ.b. 12 mín. um lausasand, en gangan að minjunum í Strýthólahrauni tekur u.þ.b. 2 mín. um grónar hraungötur.
Reykjanesskaginn hefur upp á óteljandi menningarverðmæti að bjóða. FERLIR hefur hins vegar í seinni tíð verið að velta fyrir sér tvennu – að fenginni reynslu: Sveitarstjórnarfólk, kjörið og eiginlega ábyrgt forsvarsfólk íbúanna (eigandanna) virðist áhugalaust um þessi tilteknu verðmæti (með örfáum undantekningum þó) og auk þess virðast afkomendurnir (eigendurnir) ekki minna áhugalausir um hið sama – hin áþreifanlegu og sýnilegu tengsl þeirra við upprunann. Hið fáa, sem sýnir einhvern áhuga, sýnir minjunum (verðmætunum) annað hvort virðingu eða hins algert virðingarleysi. Áhugasama fólkið er því beðið að gæta tillitssemi, láta byrgin óhreyfð og í guðanna bænum; EKKI henda rusli á annars ósnert svæðið!

Strýthólahraun

Fiskibyrgi í Strýthólahrauni.

Hinir ráðnu opinberu aðilar, s.s. Fornleifavernd ríkisins og Þjóðminjasafnið undir „meðvitaðri“ stjórn menntamálaráðuneytisins, virðast algerlega áhugalausir gagnvart þjóðargersemum sem þessum. Hvers ber þá að vænta af öðrum!
Útvegsminjarnar í Strýthólahrauni við Grindavík eru í rauninni einn verðmætasti ósnerti minjastaður sinnar tegundar á landinu – og jafnvel þótt víða væri leitað. Þar eru ekki eiginlegar verbúðarminjar útstöðvar, enda nálægðin við Hraun og Þórkötlustaðabæina of lítil til þess.

Þórkötlustaðanes

Örnefni ofan bryggjunnar í Þórkötlustaðanesi – uppdráttur ÓSÁ.

Hins vegar mun Skálholtsstóll hafa gert þarna út skip á miðöldum – og jafnvel lengur. Minjar því tengdu gætu leynst í manngerðum grónum hól norðan Strýthólahrauns.
Tækifærið var notað og minjasvæðið rissað upp og myndað.
Frábært veður. Gangan tók 21 mín.

Strýthólahraun

Fiskbyrgi í Strýthólahrauni.

 

Slok

Slokahraun er angi af Sundhnúkahrauni sem rann úr gígaröð ofan Grindavíkur . Önnur nafngreind hraun í sama gosi eru Blettahraun og Klifhólahraun.
Slokanafninu hefur jafnan verið gefinn sá hluti hraunsins, sem rann Slokitil suðausturs niður sunnanverða Hópsheiðina og í sjó fram austan Þórkötlustaða.  Sundvörðugígagosið er talið hafa myndast fyrir um 2400 árum, eða hálfu fyrr en fyrstu lndnámsmennirnir voru að tygja sig til landsins. Þá myndaðist Þórkötlustaðaneið sem og hafnarlagið umhverfis Hópið. Í dag er Slokahraunið mosavaxið með graslænum á millum. Neðst í því eru miklir fiskgarðar frá útgerðinni fyrr á öldum, svonefndir Hraungarðar frá Hrauni og Slokagarðar frá Þórkötlustöðum. Þessara garða er ekki getið í örnefnaskrám.

Slokahraun

Slokahraun – fiskgarðar.

Í örnefnalýsingu Lofts Jónssonar fyrir svæðið segir m.a.: „Austast á merkjum móti Hrauni, niður við sjóinn, er bás inn í klettana, og heitir hann Markabás. Utar er tangi fram í sjóinn, sem heitir Slok, og upp af honum er hraunspildan nefnd Slokahraun. Upp af Markabás er hóll milli bæjanna, Markhóll. Er hann upphlaðinn þar á hryggnum, sem nefndur er Leiti.“ Vestur frá Markabás eru smáhvilftir og kvosir með sjó, sem heita einu nafni Básar. Ná þeir vestur að svonefndri Stóruklöpp. Vestan hennar er aðallendingin, sem nefnd er Buðlungavör. Sunnan þessara boða og víkin öll er nefnd Þorkötlustaðabót, en Þorkötlustaðasund er sunnan boðanna.
SlokiKlofi út í Svalbarða skiptir reka og þangfjöru á milli Buðlungu og Þórkötlustaða. Fyrir ofan Buðlunguvör er slétt klöpp kölluð Skiptivöllur. Þaravaxin klöpp vestan og utan við vörina er kölluð Þangklöpp. Austan við vörina er Stóraklöpp og þar fram af er Vararsker. Það kemur upp á stórstreymisfjöru. Norðaustan við vörina er túnið í Buðlungu og kallað Buðlungudalur. Í suðvesturhorni þess er sundvarða og átti hún að bera í þríhyrnu á svonefndri Brunnskák þegar róið var inn sundið.

SlokiAustur af Stóruklöpp eru básar; Vestastibás, Þvottabás, Miðbás og Malarbás. Síðan taka við Slok og er austast Slokatá. Slokin draga nafn af áberandi soghljóði, sérstaklega undir austanátt.
Vestan Slokatáarinnar er Lágafjara og síðan Vestrimölin og þar ofan kampsins er Klapparmói. Eystrimöl er neðan við kampinn að austan, ofan við Slokatá. Upp af Slokatánni ofan kampsins eru Hrossbeinalágar, nú komnar að mestu undir kampinn. Austan á Slokunum er bás sem heitir Markabás. Hann skiptir löndum og reka á milli Hrauns og Þórkötlustaða. Upp af honum ofan kamps er hraunhóll með grasþúfu í toppinn. Hann heitir Markhóll.
SlokiRandeiðarstígur er gata á milli Hrauns og Þórkötlustaða og var hann farinn áður fyrr er aðalumferðargatan lá fyrir neðan Þórkötlustaði og var þar komið á Eyrargötuna. Eystraleiti (í daglegu tali nefnt Leiti) er smábunga á milli bæjanna. Vestraleiti er aftur önnur bunga í vestur þar sem skiptast lönd Þórkötlustaða og Hóps. Vestan undir há-Leiti er Kúakrókur, nú tún.
Ofan við byggðina er geil í hraunið og byrjar þar gamli vegurinn frá Þórkötlustöðum til Voga og Hafnarfjarðar. Þar heitir Leynir (Þórkötlustaðaleynir til aðgreiningar frá Hraunsleyni) og nær hann inn á móts við Vatnsheiði. Gatan liggur samhliða hraunrima. Efst í Leyninum og austan við götuna er grasivaxinn hóll með hraunklöppum umhverfis og heitir hann Grenhóll. Norð-norðvestan við Grenhól við götuna er skjólsamt fyrir sauðfé og heitir þar Skítastaður.

Sloki

Sloki – uppdráttur ÓSÁ.

Slokahraun rann í mjórri ræmu til suðsuðausturs frá gígunum sunnan Sundhnúks, milli Vatnsheiðar og Hópsheiðar. Getið er um Slok í tveimur örnefnaskrám Þórkötlustaða í Grindavík:  „Utar er tangi fram í sjóinn, sem heitir Slok, og upp af honum er hraunspildan nefnd Slokahraun“ og „síðan taka við Slok og er austast Slokatá. Slokin draga nafn af áberandi soghljóði, sérstaklega undir austanátt.“ Innfæddir Grindvíkingar austanverðir þekkja hljóðið. Þegar aldan skellur undir hraunhellunni slokrar í henni svo um munar.

Slokahraun

Slokahraun – minjar; uppdráttur ÓSÁ.

Að austanverðu eru mörk hraunsins við ströndina við vesturtúngarðinn á Hrauni. Garðurinn liggur uppi á hraunbrúninni, sem nú er gróin að innanverðu. Sigurður Gíslason, bóndi á Hrauni, sagði hraunið, séð frá bænum, jafnan hafa verið nefnt Hraunið. Um það hefðu legið þrjár götur fyrrum, áður en akvegirnir voru lagðir yfir það, fyrst með ströndinni og síðar um Tíðarhliðið á norðvestanverðum túngarðinum. Enn mótar fyrir síðarnefnda veginum, bæði innan garðs og utan. Hann lá yfir að Hvammi og þar áfram til vesturs. Sjást leifar hans bæði austan við Hvamm og vestan við Efra-Land. Um hinar göturnar þrjár verður nánar fjallað um hér á eftir. Þeirra er hvorki getið í örnefnalýsingum né fornleifaskráningarskýrslum.

Í Sögu Grindavíkur segir að Slokin séu “austan við Buðlungavör; út af þeim samnefndur skerjatangi, sem gengur vestur og út í Þórkötlustaðavík, og er sundið inn í víkina á milli þessara tanga og þeirra, sem liggja út frá Leiftrunarhól [á Þórkötlustaðanesi].

Sloki

Slokahraun – örnefni.

Þarna á Slokunum er álitið að eitt af stóru slysunum hafi orðið. Það var nóttina áður en mb. Aldan frá Vestmannaeyjum rak upp í Nesið að vestanverðu… að annan vélbát frá Vestamannaeyjum, Þuríði formann, sem einnig varð fyrir vélarbilun í sama veðrinu, rak þar upp. En þar tóku höfuðskepnurnar öðru vísi á hlutunum. Þegar fólk kom á fætur á Þórkötlustöðum, varð það vart við óeðlilega mikið brak í fjörunni, og þótt allt væri mjög maskað niður, sást þó, að þarna hafði Þuríði formann rekið upp og hún farizt með allri áhöfn.

Þórkötlustaðahverfi

Þórkötlustaðahverfi. Slokahraun er h.m. fyrir miðri mynd.

Hinn 8. desember 1923 gerðist það í austan veðri og snjókomu, að þýskur togari strandaði einhvers staðar hjá Grindavík, að því er skipstjórinn hélt. Togarinn losnaði sjálfur fljótlega úr strandinu, en hafi laskazt svo mikið, að hann fór fljótlega að síga niður og sökk svo eftir lítinn tíma. Áhöfnin komst í björgunarbátinn og hélt síðan undan sjó og vindi, þar til þá allt í einu bar að landi og upp í stórgrýtiskamp. Mennirnir komust allir ómeiddir í land…
Skiptar eru skoðanir manna um, hvar togari þessi hafi strandað, en Þórkötlustaðamenn töldu, að eftir strand þetta hafi komið festa á veiðarfæri þeirra, sem ekki hafði verið þar áður, á leirbotni skammt út af víkinni, og veiðarfærin oft ryðlituð, er þau komu upp. Því er gizkað á, að togarinn hafi lent annaðhvort á Slokunum eða nálægt Leiftrunarhól, þ.e. öðru hvoru megin við Þórkötlustaðavíkina.”

Þórkötlustaðagata

Þórkötlustaðagata.

Vertíðir settu löngum svip á atvinnulífið í Grindavík. Tvær verbúðir voru um tíma í Þórkötlustaðalandi, ein á Ísólfsskála og fleiri í Járngerðarstaðalandi. Hraunsmenn gerðu út á Þórkötlustaðanesi og gengu á milli. Þá var Eyrargatan jafnan farin, en hún lá með ströndinni, í gegnum Slokahraun framhjá Sögunarhól og eftir fjörunni neðan við Klöpp, Buðlungu og Þórkötlustaði. Ströndin var þá sandfjara líkt og enn má sjá að hluta innst í Bótinni. Sandurinn náði dágóðan spöl út. Þar voru góðar lendingar fyrrnefndra bæja. Vestan Þórkötlustaða, þar sem nú er Sólbakki, kom gatan upp á bakkann við bæ, sem hét Skarð og þar var. Síðan liðaðist hún ofan strandarinnar, yfir Kónga og að naustunum vestan þeirra. Eyrargatan sést enn í hrauninu innan landamerkja Þórkötlustaðahverfis. Austar hefur sjórinn kastað grjóti yfir hana, auk þess sem vegur var lagður að hluta til yfir hana. Nánar er sagt frá Eyrargötunni annars staðar á vefsíðunni.

Hrauntúnsgata

Hrauntúnsgata.

Önnur gatan hét Hrauntúnsgata. Hún lá upp frá austanverðri hraunbrúninni, í gegnum túngarðinn á Hrauni og svo til beina stefnu yfir það til vesturs, að Hraunkoti, sem var austast bæja (kota) í Þórkötlustaðahverfi. Stór gróinn hraunklettur er norðan götunnar skammt frá Hraunstúngarðinum. Þessi gata sést enn mjög vel, enda gróin. Sigurður sagði það varla geta talist undarlegt því þessa götu hefðu vermennirnir gengið til baka með fiskinn á bakinu. Áburðurinn hafi því verið ágætur og nyti gatan góðs af því enn í dag.
Þriðja gatan, sem enn sést, er Þórkötlustaðagata. Hún liggur, líkt og Hrauntúnsgatan, í gegnum hlaðinn túngarðinn á Hrauni, um hlið þar sem sem garðurinn myndar 90° horn. Gatan, sem er sú nyrsta þeirra þriggja, liggur nú um gróið hraunið, en hinar fyrrnefndu liggja enn um úfið mosavaxið apalhraunið. Lítill hraunhóll er norðan götunnar.
Frá Slokahraunhonum beygir gatan lítillega í átt að norðurtúngarðshorni Hraunkots. Þar lá hún samhliða garðinum með svo til beina stefnu á Þórkötlustaði. Enn sést móta fyrir honum á sléttuðu túninu sem þar tekur nú við.
Þegar bátar komu úr róðri var aflinn færður á skiptivöll, þar sem skipt var í hluti. [Einn slíkan má enn sjá neðan við Klöpp]. Því næst var gert að, á skiptivellinum ef aðstæður þar leyfðu, annars á öðrum hentugum stað. Í Grindavík mun víðast hafa verið gert að á skiptivelli. Á vetrarvertíð, þegar ekki var þerrisvon, var fiskurinn lagður í kös, eða kasaður sem kallað var. Það var gert eftir sérstökum reglum. Fiskurinn var lagður þannig í kösina, að dálkurinn sneri niður, svo að blóð sem síga kynni úr honum færi síður í hinn helminginn; fiskurinn var kýttur, en það var gert með því móti að beygja hann saman í hnakkann, svo að fiskurinn fyrir framan dálk myndaði ¼ úr hring.

Slokahraun

Slokahraun – Slokagarðar.

Næsta lag var svo sett ofan á það, sem fyrir var, þannig að hnakkinn af þeim fiski læki móts við gotraufina á þeim, sem undir var, og með sama hætti koll af kolli. Helzt þurfti kösin að vera á sléttum halla, svo að ekki sæti vatn í henni. Að lokum myndaðist hringur og komu sporðar allra neðstu fiskanna saman. Kösin stóð misjafnlega lengi, stundum svo vikum skipti, þar sem sjaldnast viðraði vel fyrr en undir vor. Í frosti skemmdist kasarfiskurinn ekki að ráði, en ef skiptist á vætutíð og frost vildi hann vera maltur, jafnvel grútmaltur.

Þegar komið var fram á vor og veður fór batnandi, var fiskurinn tekinn úr kösinni og byrjað að þurrka hann. Fyrst var hann þveginn og himnudreginn, en síðan breiddur á garða, möl eða grjótghryggi, og var roðinu snúið niður á daginn en upp á nóttunni. Á meðan á þurrkuninni stóð, var fiskinum snúið hvað eftir annað, en er hann þótti orðinn hæfilega þurr, var honum hlaðið í stakka og þeir fergðir, svo að sléttaðist úr fiskinum.

Garðar

Þegar þurrkur var, var fiskurinn síðan breiddur úr stökkunum, uns hann var orðinn sprekaður, en þá þótti loks fært að vigta hann og flytja.
Nokkur tími gat jafnan liðið frá því fiskur var fullþurrkaður og þar til hægt var að flytja hann, og reið þá á miklu í stórum verstöðvum, þar sem margir gerðu út, að ekki ruglaðist fiskurinn. Af þeim sökum höfðu menn sérstök fiskmerki, og umsvifamiklir aðilar höfðu sérstakt brennimark.
Á meðan fiskurinn beið flutnings, var hann tíðast geymdur í fiskbyrgjum. Þau voru hlaðin úr grjóti, strýtu- eða stróklaga, en þannig var best að verja fiskinn gegn vætu. Á sumum jörðum í Grindavík munu einnig hafa verið sérstök fiskgeymsluhús, en ekki er ljóst hvernig þau voru byggð. Frá Markhóll17. öld eru heimildir um slík hús frá Hópi, sem voru í eigu Skálholtsstaðar. Þá var hús á Þórkötlustöðum, sem gekk undir nafninu “staðarhúsið”, og var það sýnilega fiskgeymsluhús í eigu Skálholtsstóls. Hugmyndir eru uppi um að einu fiskgeymsluhúsin, sem varðveist hafa í Grindavík, megi finna undir rótum Sundvörðuhrauns, svonefnd “tyrkjabyrgi”. Fleiri slík byrgi má finna í upplandi bæjarins, ósnert með öllu. Staðsetning kemur vel heim og saman við heimildir þess efnis að annar aðalútflutningsstaður Grindvíkinga um tíma var frá Básendum.

Sloki

Fiskgarðar í Slokahrauni – Slokagarðar.

Að sögn Sigurðar Gíslasonar eru greinast Leitin í Fremra-Leiti og Efra-Leiti. Hið síðarnefnda er þar sem akvegurinn fer yfir milli Hrauns og Þórkötlustaðahverfis, en hið fyrrnefnda er þar
sem Þórkötlustaðagatan fer yfir Slokahraunið.

Sloki

Slokahraun – Randeiðarstígur.

Garðanna í Slokahrauni er getið í „Fornleifaskráning í Grindavík 2. áfangi“ frá árinu 2002. Þar segir: „“Herslugarður“ – Slokahraun er á merkjum Þórkötlustaðahverfis og Hrauns, þar eru leifar fiskgarða. Ef gengið er austur með sjávarkampinum frá Þórkötlustöðum í átt að Hrauni er komið í Slokahraun fast austan við túngarðinn. Slokahraun er mosagróið apalhraun og liggja
landamerkin um mitt hraunið. Garðarnir eru hlaðnir úr hraungrýti og liggja þvers og kruss um hraunið án þess að mynda ákveðið munstur. Þeir eru mosagrónir en misvel standandi, hleðsluhæðin er milli 0,5-1 m. Umför eru allt að tíu. Garðarnir teygja sig allt austur fyrir Markhól, en eru þá í Hraunslandi. Svæðið er um 100×100 m.“
Fornleifanna í Slokahrauni er hnins vegar ekki getið í skráningunni „Fornleifar í Þórkötlustaðahverfi – verndarsvæði í byggð“ frá árinu 2018.

Frábært veður. Gangan tók 1. klst og 11 mín.

Heimildir m.a.:
-Sigurður Gíslason, bóndi á Hrauni.
-Örnefnaskrá Þórkötlustaða.
-Örnefnaskrá Hrauns.
-Saga Grindavíkur. J.Þ.Þ 1994.
-Sigurður Gíslason, bóndi á Hrauni.
-Örnefnaskrá Þórkötlustaða.
-Örnefnaskrá Hrauns.
-Saga Grindavíkur. J.Þ.Þ 1994.
-Fornleifaskráning í Grindavík 2. áfangi, Þóra Pétursdóttir, Reykjavík 2002.
-Fornleifar í Þórkötlustaðahverfi – verndarsvæði í byggð, Reykjavík 2018.

Sloki

Fiskgarðar á Sloka – Hraungarðar.

Grindavík

Jón Jónsson, jarðfræðingur, fjallaði í Náttúrufræðingnum 1974 um „Sundhnúkahraun við Grindavík„:

Jarðfræðikort

Jarðfræðikort af Reykjanesskaga – Jón Jónsson.

Á Reykjanesskaga er mikill fjöldi eldstöðva og hrauna. Mörg þeirra hafa ekki nafn, svo vitað sé. Vafalaust hafa ýms örnefni fallið í gleymsku hin síðari ár og önnur brenglazt. Hraun eru allt umhverfis Grindavík, þorpið stendur á hrauni og á beinlínis hrauni tilveru sína að þakka. Hraunin hafa orðið til á alllöngum tíma. Elst eru dyngjurnar, s.s. Sandfellshæð, Lágafell, Vatnsheiði, Lyngfell og Fagradalsfjall. Yngri eru úr stökum gígum, s.s. sunnan Þórðafells og Kálffell og loks eru þau yngstu úr gígaröðunum, s.s. Eldvarparhraunin, Illahraun og Sundhnúkahraun, sem margar hafa kaffært þau eldri. Hraunmyndanir þessar hafa orðið til í áralöngum goshrinatímabilum í gegnum aldirnar. T.d. er saga Grindavíkur gloppótt á 12. og 13. öld þegar ein goshrinan réð þar ríkjum.
Enn, nú á 21. öld, er ummyndun hraunanna í gangi ofan Grindavíkur, í og við Fagradalsfjall, sbr. rangnefnið Fagradalshraun.

Sundhnúkur og Sundhnúkagígaröðin

Sundhnúkahraun

Grindavík ofanverð.

Gígaröð sú, sem Sundhnúkahraun er komið úr, byrjar suðvestan undir Hagafelli. Þar eru nokkrir gígir í röð, og er, eða öllu heldur var, einn þeirra mestur, því að nú hefur hann verið um langan tíma notaður sem náma fyrir rauðamöl, og er því farinn að láta á sjá. Þaðan liggur svo röð af smágígum upp suðvesturhlíðina á Hagafelli og eru þar snotrar hrauntraðir, sem sýna, að þarna hefur verið hraunfoss. Úr ofangreindum gígum er meginhluti þess hrauns kominn, sem á kortinu ber nafnið Klifhólahraun. Gígaröðin er svo lítt áberandi á kafla norðan undir Gálgaklettum, en þeir eru misgengi, sem stefnir eins og gígaröðin frá suðvestri til norðausturs. Hún er þar á kafla tvískipt og stefna hennar lítið eitt óregluleg, gígirnir smáir og hraunhellan, sem myndazt hefur kringum þá á sléttunni norðan við Gálgakletta, vafalaust þunn. Frá þessum gígum hefur hraun runnið í þrjár áttir, til austurs norðan við Gálgakletta, til suðvesturs eins og áður er nefnt og loks til norðvesturs og norðurs. Örmjór hraunfoss hefur fallið niður á Selháls, þar sem vegurinn liggur nú, en numið þar staðar.

Sundhnúkahraun

Sundhnúkahraun.

Hefur hraunið runnið þar út á jarðhitasvæði, sem virkt hefur verið, þegar hraunið rann og væntanlega nokkru eftir það. Verður vikið að því síðar. Allbreiður hraunfoss hefur svo fallið norður af fellinu og runnið út á forna gjallgígi, sem þar eru fyrir. Er vegurinn skorinn gegnum nyrzta hluta þessarar hrauntungu.
Nokkurn spöl norðaustur af Hagafelli verður gígaröðin öllu fyrirferðarmeiri. Rísa þar háir gígir og nefnist Sundhnúkur sá þeirra, er hæst ber. Frá þessari gígaþyrpingu hefur meginhraunfióð það, er til suðurs rann, komið.

Sundhnúkahraun

Sundhnúkahraun.

Það hefur fallið eftir dalnum, sem verður milli Vatnsheiðar, sem er dyngja, og Hagafells. Það hefur fyllt dalinn hlíða milli og fallið beint í sjó fram og myndar þar um 2 km langan og rúmlega 1 km breiðan tanga, Þórkötlustaðanes, en vestan undir honum er vík sú, er Grindavík heitir og hefur frá fyrstu tíð verið ein mesta verstöð þessa lands. Tilveru sína á víkin hrauninu að þakka, því að án þess væru þar engin hafnarskilyrði. Svo vikið sé að nafninu Sundhnúkur, hefur Ísleifur Jónsson, verkfræðingur, bent mér á, að nafnið muni vera komið af því, að hnúkurinn hafi verið notaður sem leiðarmerki fyrir siglingu inn sundið inn á höfnina í Grindavík.

Sundhnúkar

Sundhnúkagígaröðin.

Nokkru norðan við Sundhnúk verður skarð í gígaröðina á ný, en norðar tekur hún sig upp aftur og heldur eftir það beinu striki að heita má austur að Stóra-Skógfelli. Þessi kafli gígaraðarinnar er annar sá mesti hvað hraunrennsli snertir. Er ljóst, að hraunrennsli hefur að mestu verið bundið við ákveðna kafla gígaraðarinnar, og hefur hún því naumast verið virk öll nema rétt í byrjun gossins og sennilega um mjög stuttan tíma. Virðist þetta eiga almennt við um sprungugos (Jónsson 1970).

Sundhnúkur

Skúti við Sundhnúk.

Frá þessum kafla gígaraðarinnar — kannski væri réttara að kalla það gígaraðir — hafa hraunstraumar fallið til norðurs og austurs, auk þess sem þaðan hafa hraun runnið niður í áðurnefndan dal milli Hagafells og Vatnsheiðar saman við hraunin úr Sundhnúkagígunum. Mikill hraunstraumur hefur fallið til norðurs frá þessum gígum, runnið vestur með Svartsengisfelli að norðan, og þekur allstórt svæði vestur af því, langleiðina norður að Eldvörpum. Þar hverfur það undir Illahraun, sem því er yngra.

Gígur

Gígur sunnan Þórðarfells.

Hraunin úr Eldvörpum, Illahraun og hraun úr stórum nafnlausum gíg suðvestur af Þórðarfelli eru samtímamyndun, en ekki verða hér raktar sannanir fyrir því. Þessi hraunstraumur hefur fyllt skarðið milli Svartsengisfells og Stóra-Skógfells. Virðist hraunið þar mjög þykkt, enda er sýnilegt, að hver straumurinn hefur þar hlaðizt ofan á annan. Geta má þess, að þrjár gossprungur eru í Stóra-Skógfelli og stefna allar eins. Sjálft fellið er úr bólstrabergi.

Vatnsheiði

Vatnsheiði.

Til suðurs og suðausturs hefur hraunið náð lengst í mjóum tanga, sem liggur meðfram Vatnsheiðardyngjunni að austan. Mikill hraunfláki er milli ofangreindrar gígaraðar, Vatnsheiðar og Fagradalsfjalls. Ganga þau hraun undir nafninu Dalahraun (Bárðarson 1929), en aðeins lítill hluti þeirra er kominn úr því gosi, sem hér um ræðir. Það er hins vegar ljóst, að áður hefur gosið á sprungu, sem er lítið eitt til hliðar við Sundhnúkasprunguna. Sumt af þessum hraunum á rætur að rekja til hennar, nokkuð til Vatnsheiðardyngjunnar og enn nokkur hluti til fornra eldstöðva norðaustan undir Hrafnshlíð.

Kálffell

Í Kálffelli.

Loks má vel vera, að fleiri eldstöðvar séu faldar undir þessum hraunum. Það er greinilegt, að þarna hafa mörg gos átt sér stað frá því að ísöld lauk. Yngsta hraunið á þessu svæði er það, sem komið er úr Sundhnúkagígnum, en það þekur ekki stórt svæði þarna austan til og hefur víðast hvar ekki runnið langt til suðurs frá eldvörpunum. Það er því mun minna, en virðast kann við fyrstu sýn.
Í heild er gígaröðin um 8,5 km á lengd. Nokkru norðan við austurenda gíganna er Kálffell. Það eru gígahrúgöld, ekki sérlega stór, og hefur hraun frá þeim runnið norðvestur og norður. Þessi eldvörp eru eldri en Sundhnúkahraun.

Eldri gígaröð

Fagradalsfjall

Fagradalsfjall – þverskorinn gígur ofan Fagradals.

Engum efa er það bundið, að áður hefur gosið svo til á sömu sprungu. Gígir eru suðvestan í Hagafelli aðeins austan við Sundhnúkagígina, og stefnir sú gígaröð alveg eins og þeir.
Suðaustur af Stóra Skógfelli sér á stóran gjallgíg, sem opinn hefur verið til suðausturs. Hann er lítið eitt austan við Sundhnúkagígina og einmitt þar, sem sú gígaröð hreytir nokkuð um stefnu. Um 1,5 km austar er svo annar stór ösku- og gjallgígur og er gígaröðin fast við hann að norðan.

Rauðhóll

Rauðhóll í Sundhnúkahrauni.

Gígur [Rauðhóll] þessi er líka eldri. Báðir eru þeir að nokkru leyti færðir í kaf í yngri hraun. Hraunflákinn vestur af Fagradalsfjalli virðist að mestu leyti vera kominn úr þessari eldri gígaröð, en þó eru þar fleiri eldstöðvar. Hraunin á þessu svæði ganga undir nafninu Dalahraun. Hraun frá Vatnsheiðardyngjunni hafa og náð alllangt þarna austur, því að þau koma fram í bollum í yngri hraununum, þar sem þau hafa ekki náð að renna yfir. Eftir þessu að dæma eru bæði gosin á Sundhnúkasprungunum yngri en dyngjugosin, sem skópu Vatnsheiði og Fagradalsdyngju. Loks endar þessi eldri gígaröð í litlum gjall- og klepragígum utan í vesturhlíð Fagradalsdyngju nokkur hundruð metrum sunnar en austustu gígirnir í Sundhnúkaröndinni, sem áður er
getið.

Hvenœr rann hraunið?

Melhóll

Hrauntröð suðvestan Hagafells.

Þess er getið hér að framan, að hraunfoss frá gígnum vestan við Gálgakletta hafi fallið vestur, eða réttara norðvestur af Hagafelli. Blasir þessi hraunfoss við, þegar komið er suður yfir hraunið við vesturhornið á Svartsengisfelli. Þessi hraunspýja hefur runnið út á forna gjallhóla vestan undir fellinu. Þar er það mjög þunnt, og hefur það verið skorið sundur við rauðmalarnám og vegagerð. Kemur þá í ljós, að hólar þessir hafa verið grónir, þegar hraunið rann. Leifar þess gróðurs má nú finna sem viðarkol undir hrauninu. Þessar jurtaleifar hafa nú verið aldursákvarðaðar með C14-aðferð. Hefur dr. Ingrid U. Olsson á Rannsóknarstofnun Uppsalaháskóla gert það. Samkvæmt niðurstöðum af þeirri rannsókn eru jurtaleifarnar 2420 ± 100 C1 4 ára gamlar, talið frá árinu 1950, og hraunið hefur því runnið tæpum 500 árum fyrir upphaf okkar tímatals.

Bergsprungur

Þorbjarnarfell

Þorbjarnarfell (Þorbjörn).

Í hraunum kringum Grindavík er mikið um sprungur og gjár, en einkum eru þær áberandi í hinum eldri hraunum og í móbergsfjöllunum. Er Þorbjarnarfell ljósasta dæmið um það. í Sundhnúkahraununum ber lítið á sprungum yfirleitt og bendir það til, að fremur hægfara breytingar séu þar eða þá, og það virðist fullt eins líklegt, að þær séu bundnar ákveðnum tímabilum. Má telja sennilegt, að hreyfingar þessar eigi sér aðallega stað samfara jarðskjálftum.
Vestur af Svartsengisfelli má, ef vel er að gætt, sjá fyrir sprungum í þessu tiltölulega unga hrauni. Þær eru í beinu framhaldi af sprungum, er ganga í gegnum Þorbjarnarfell. Rétt við eina þeirra er jarðhitastaður sá, sem jafnan er kenndur við Svartsengi.

Ummyndun og jarðhiti

Svartsengi

Svartsengi.

Eins og áður var getið um, er jarðhiti í hrauninu vestur af Svartsengisfelli. Þar hefur mælzt yfir 60° hiti. Engum efa er bundið, að allstór hver hlýtur að vera þarna undir hrauninu, því líklegt má telja, að vart séu minna en 20—30 m niður á grunnvatnsborð á þessum stað. Við hagstæð veðurskilyrði, logn og nálægt 0° C má sjá gufur leggja upp úr hraununum víðs vegar á þessu svæði. Eru þær í áberandi beinum línum, sem sýnir, að þær eru bundnar við sprungur í berggrunni þeim, sem Sundhnúkahraun og önnur hraun hafa runnið yfir.

Heimild:
-Náttúrufræðingurinn 3.-4. tbl. 01.02.1974, Sundhnúkahraun við Grindavík, Jón Jónsson, bls. 145-153.

Grindavík

Gengið um Grindavík og nágrenni – í Sundvörðuhrauni.

Eldvörp

Gengið var suður fyrir Eldvörpin um Árnastíg, inn á Brauðstíginn og áfram áleiðis eftir honum til vesturs. Af honum var stefnan síðan tekin að Tyrkjabyrgjunum í suðvesturkrika Sundvörðuhrauns.

Á leið

Brauðstígurinn liggur  frá Árnastíg frá Húsatóttum og þaðan inn í krikann. Frá honum liggur stuttur stígur að byrgjunum. Er komið var að þeim fyrir nokkrum árum var mosinn næstum óhreyfður. Nú hefur myndast moldar hringstígur um byrginn, sem segir nokkuð um áhugann. Erfitt er að koma auga á þau úr fjarlægð vegna þess hversu vel þau hafa samlagast landslaginu. Þrjú byrgi eru í röð utan við kverkina, en eitt hlaðið inni í henni. Hlaðið skjól er aðeins utar og síðan smá hleðsla. Sunnan og ofan við krikan er eitt byrgi og hringlaga geymsla eða varðturn. Utar með kantinum eru tvö byrgi. Norðan þeirra er hlaðin refagildra. Gengið var yfir hraunið vestur frá byrgjunum. Þar er slétt hraun, sem auðvelt var að fylga upp í Eldvörpin til baka – bakatil við þau.

Tyrkjabyrgi

Í „Tyrkjabyrgjum“.

Margir hafa sótt Selatanga heim, eina þekktustu verstöð Reykjanesskagans fyrrum. Færri vita að svipaðar minjar má finna nokkrum öðrum stöðum í nágrenni Grindavíkur, s.s. mikla þurrkgarða, -byrgi og ekki síst – fískgeymslur. Vegna þess hversu fáir vita af öðrum mannvirkjum hafa þau að mestu fengið að vera í friði og því varðveist nokkuð vel. Mannvirkin á Selatöngum hafa látið á sjá í seinni tíð af tveimur ástæðum; ágangi sjávar annars vegar og manna hins vegar. Sjórinn hefur nú tekið til sín öll elstu mannvirkin og er á góðri leið með að hirða það sem eftir er. Mannfólkið hefur ekki látið sér nægja að berja minjanar augum heldur hefur það þurft að príla upp á sumar þeirra svo þær hafa orðið fyrir skemmdum.

Strýthólahraun

Fiskbyrgi í Strýthólahrauni – Uppdráttur ÓSÁ.

Á þurrkgarðana var flattur fiskurinn lagður og hann þurrkaður. Einnig hausar og annað er nýta mátti af fiskinum.

Strýthólahraun

Strýthólahraun – fiskbyrgi.

Auk garða má á nokkrum stöðum sjá þurrkbyrgi, sem fiskurinn hefur verið geymdur í milli þurrkálagninga. Slík byrgi má bæði sjá í Strýthólahrauni á Þórkötlustaðanesi, vestan Húsatófta, við Nótarhól austan Ísólfsskála svo og á Selatöngum. Einnig austan við Herdísarvík.
Þegar bátar komu úr róðri var aflinn færður á skiptivöll, þar sem skipt var í hluti. [Einn slíkan óskemmdan má enn sjá neðan við Klöpp í Þórkötlustaðahverfi]. Því næst var gert að, á skiptivellinum ef aðstæður þar leyfðu, annars á öðrum hentugum stað. Í Grindavík mun vísast hafa verið gert að á skiptivelli. Á vetrarvertíð, þegar ekki var þerrisvon, var fiskurinn lagður í kös, eða kasaður sem kallað var. Það var gert eftir

Tyrkjabyrgi

„Tyrkjabyrgin“ – uppdráttur ÓSÁ.

sérstökum reglum. Fiskurinn var lagður þannig í kösina, að dálkurinn sneri niður, svo að blóð sem síga kynni úr honum færi síður í hinn helminginn; fiskurinn var kýttur, en það var gert með því móti að beygja hann saman í hnakkann, svo að fiskurinn fyrir framan dálk myndaði ¼ úr hring. Næsta lag var svo sett ofan á það, sem fyrir var, þannig að hnakkinn af þeim fiski læki móts við gotraufina á þeim, sem undir var, og með sama hætti koll af kolli. Helzt þurfti kösin að vera á sléttum halla, svo að ekki sæti vatn í henni. Að lokum myndaðist hringur og komu sporðar allra neðstu fiskanna saman. Kösin stóð misjafnlega lengi, stundum svo vikum skipti, þar sem sjaldnast viðraði vel fyrr en undir vor. Í frosti skemmdist kasarfiskurinn ekki að ráði, en ef skiptist á vætutíð og frost vildi hann vera maltur, jafnvel grútmaltur.

Gengið

Þegar komið var fram á vor og veður fór batnandi, var fiskurinn tekinn úr kösinni og byrjað að þurrka hann. Fyrst var hann þveginn og himnudreginn, en síðan breiddur á garða, möl eða grjótghryggi, og var roðinu snúið niður á daginn en upp á nóttunni. Á meðan á þurrkuninni stóð, var fiskinum snúið hvað eftir annað, en er hann þótti orðinn hæfilega þurr, var honum hlaðið í stakka og þeir fergðir, svo að sléttaðist úr fiskinum. Þegar þurrkur var, var fiskurinn síðan breiddur úr stökkunum, uns hann var orðinn sprekaður, en þá þótti loks fært að vigta hann og flytja.

Selatangar

Selatangar – fiskbyrgi.

Nokkur tími gat jafnan liðið frá því fiskur var fullþurrkaður og þar til hægt var að flytja hann, og reið þá á miklu í stórum verstöðvum, þar sem margir gerðu út, að ekki ruglaðist fiskurinn. Af þeim sökum höfðu menn sérstök fiskmerki, og umsvifamiklir aðilar höfðu sérstakt brennimark.

Byrgi

Og þá er komið að megininntaki þessarar umfjöllunar. Á meðan fiskurinn beið flutnings, var hann tíðast geymdur í fiskbyrgjum. Þau voru hlaðin úr grjóti, strýtu- eða stróklaga, en þannig var best að verja fiskinn gegn vætu. Á sumum jörðum í Grindavík munu einnig hafa verið sérstök fiskgeymsluhús, en ekki er ljóst hvernig þau voru byggð. Frá 17. öld eru heimildir um slík hús frá Hópi, sem voru í eigu Skálholtsstaðar. Þá var hús á Þórkötlustöðum, sem gekk undir nafninu “staðarhúsið”, og var það sýnilega fiskgeymsluhús í eigu Skálholtsstóls. Hugmyndir eru uppi um að einu fiskgeymsluhúsin, sem varðveist hafa í Grindavík, megi finna undir rótum Sundvörðuhrauns, svonefnd “Tyrkjabyrgi”. Fleiri slík byrgi má finna í upplandi bæjarins, ósnert með öllu. Ranghugmyndir hafa verið uppi um byrgin, allt frá því að Þorvaldur Thorarensen skrifaði um þau á ofanverðri 19. öld. Margir fleiri hafa apað hugmyndirnar eftir.

Húsatóftir

Húsatóftir – fikibyrgi.

Staðsetning byrgjanna kemur vel heim og saman við heimildir þess efnis að annar aðalútflutningsstaður Grindvíkinga færðist um tíma að Básendum. Fiskgeymslur voru staðsettar í hverfum Grindavíkur meðan miðstöð útflutningsverslunarinnar var þar, en færðist síðan út fyrir þau þegar verslunin færðist að Básendum. Verslunin færðist frá Grindavík árið 1639.  Þær fiskgeymslur, sem sjá má í Sundvörðuhrauni og við Eldvörp eru mjög nálægt gömlu þjóðleiðinni milli Grindavíkur og Hafna, sem lá áfram um Ósa og út á hinn gamla verslunarstað Þórshöfn og loks að Básendum. Einnig má sjá dæmi um leifar hinna mörgu fiskgeymslubyrgja ofan Húsatófta. 

Gengið

Ákjósanlegt hefur verið að hafa geymslurnar miðsvæðis, hvort sem þær voru frá bæjum á norðanverðum Skaganum, t.d. nálægt Stafnesi, eða frá Grindavíkurbæjunum á sunnanverðu því aldrei var hægt að vita fyrirfram á þeim tíma hvort Þjóðverjar eða Englendingar fengju vorhafnir á hvorum staðnum hvert árið. Reglan var sú að sú áhöfn er fyrst kæmi að höfn að vori héldi henni um sumarið (fyrstur kemur – fyrstur fær).

Nótarhóll

Fiskbyrgi við Nótarhól.

Ekkert fiskgeymsluhús hefur varðsveist í Grindavík, en fiskgeymsluhúsin í Strýthólahrauni á Þórkötlustaðanesi, austan Nótarhóls við Ísólfsskála, á Seltaöngum og í Sundvörðuhrauni og við Eldvörp hafa varðveist með ágætum. Ástæðan gæti verið sú að þau hafi gleymst eftir að notkun þeirra lauk þegar aðstæður breyttust. Það var ekki fyrr en síðla á 19. öld að byrgin í Sundvörðuhrauni fundust á ný og Eldvarpabyrgin fundust ekki fyrr en árið 2006.

Nótarhóll

Nótarhóll – minjar (ÓSÁ.

Öll geymslubyrgin í Sundvörðuhrauni og við Eldvörp eru svo til með sömu lögun, hvort sem varðar breidd, lengd eða hæð. Þau eru gisin til að loft gæti leikið um innihaldið. Sléttar þunnar hraunhellur voru lagðar yfir sem þak svo auðveldara væri að koma fyrir og fjarlægja varninginn og auk þess voru settar upp hlaðnar refagildrur í nágrenninu ef vargurinn skyldi ásælast varninginn í byrgjunum.
Hlaðnar refagildrur eru  nálægt við öll fiskibyrgi í nágrenni Grindavíkur. Bendir það til þess að vargurinn hafi ásælst innihaldið. Það gildir einnig um „Tyrkjabyrgin“ í Sundvörðuhrauni.

Eldvörp

Eldvörp – hleðslur í helli.

Vakt hefur verið við báða staðina. Ummerki um varðmannskjól eru í Sundvörðuhrauni og einnig við Eldvörp. Þar eru mannvistarleifar í hellum á tveimur stöðum, örskammt Byrgifrá geymslunum.
Allnokkur umgangur hefur verið um Sundvörðubyrgin í seinni tíð, en engin um Eldvarpabyrgin. Þau gætu því verið kærkomin rannsóknarvettvangur þeirra fornleifafræðinga er áhuga fengju á viðfangsefninu (sem reyndar gæti orðið einhver bið á m.v. núverandi áherslur minjavörslunnar í landinu).
Önnur skýring er til á tilvist byrgjanna og alls ekki sú ólíklegasta. Hún er þessi: „Byrgin í Eldvarparhraunum eru fyrir „stuldfisk“.

Eldvörp

Óraskað byrgi í Eldvörpum.

Skálholtsbiskup átti nánast allt útræði á sunnanverðum Reykjanesskaganum frá því á 12. öld og fram á 16. öld. Eftir það eignuðust erlendir kaupmenn verslunina. Útvegsbændur í Grindavík líkt og annars staðar þurftu skv. laganna bókstaf að greiða Skálholti eða yfirvaldinu hverju sinni hluta af aflanum, sem annað hvort var fluttur að Skálholti eða seldur til útflutnings. Greindir útvegsbændur eða kotbændur hafa séð sér leik á borði, stolið undan hluta aflans og komið honum í þessar faldar geymslur í ofanverðum hraununum. Þurrkaður fiskurinn hefur síðan verið sóttur þangað ef nauðsyn bar til er sulturinn svarf að. Á einokunartímabilinu, frá 1602 til 1787, hvarf fiskur af Grindavíkurmiðum svo erfitt var um aðdrætti fyrir marga.

Tyrkjabyrgi-21

Þagnargildi hefur ríkt um geymslur þessar svo þær hafa alla tíð verið fáum kunnar.“ Sem sagt; „tyrkjabyrgin“ ku hafa verið með fyrstu skattaskjólum Íslendinga. Með því gæti aldur þeirra framlengst allt fram á 13. öld.
Auðvitað er ávallt „leiðinlegt“ að svipta hulunni af jafn dulúðlegum stöðum og Sundvörðubyrgin hafa verið um langa tíð. Þau hafa hingað til ýmist verið talin felustaður útilegumanna eða flóttamannabúðir fyrir Grindvíkinga er þyrftu að flýja undan „Tyrkunum“ í skyndi, minnunga komu þeirra til þorpsins í júnímánuði 1627 er tólft þorpsbúar voru dregnir til skips og aðrir þrír limlestir. Til varnaðar má segja að enn hafi ályktun þessi ekki verið fullsönnuð því vísindaleg fornleifarannsókn hefur enn ekki farið fram á mannvistarleifunum – hvað svo sem tefur.
Sjá meira um „Tyrkjabyrgin“ HÉR.

Eldvörp

Fiskbyrgin í Sundvörðuhrauni. Moldarstígur hefur myndast um minjarnar.

Ástæðulaust er að draga úr „sannleiksgildi“ annarra mögulegra ályktana um tilurð og notkun byrgjanna í Sundvörðuhrauni og Eldvörpum.
Frábært veður. Gangan tók 4 klst og 4 mín. Þátttakendur voru um 150.

Tyrjabyrgi

Eitt „Tyrkjabyrgjanna“.