Tag Archive for: Hafnarfjörður

Krýsuvíkurheiði

Jafnan, þegar heyra má spurninguna um hvaðan örnefnið Krýsuvík (Krísuvík) sé upprunnið, verður jafnan fátt um svör. Getgátur eru leiddar fram, en fáar áreiðanlegar. En hver er þá merkingin Krýsuvík og hvar er örnefnið Gullbringu að finna í sýslunni, sem hún dregur nafn sitt af?

Húshólmi

Húshólmi – hin gamla Krýsuvík – uppdráttur ÓSÁ.

Við þessari spurningu svarar Svavar Sigmundsson hjá Örnefnastofnun Íslands með eftirfarandi hætti: „Alexander Jóhannesson skrifaði 1929: Über den Namen Krísuvík. Mitteilungen der Islandfreunde XVII:36-37. Ásgeir Blöndal er ekki trúaður á það sem A.J. heldur fram að nafnið sé dregið af nafni konu, sbr. fhþ. Crisa, heldur sé það tengt lögun víkurinnar og í ætt við krús (3) og krúsa; af germ. *kreu-s- ‘beygja’ og hann skrifar það Krýsuvík (Íslensk orðasifjabók, 512). Önnur Krísuvík er í landi Þorsteinsstaða í Grýtubakkahr. í S-Þing. en þar er engin Gullbringa. Ég hef skrifað eitthvað um Gullbringu á Vísindavefnum 13.3. 2002. Annað man ég ekki að nefna, en ég aðhyllist frekar skýringu Ásgeirs Blöndals en Alexanders.“

Húshólmi

Skálatóft í Húshólma í Gömlu-Krýsuvík.

Ef skoðaðar eru gamlar orðabækur og orðatiltæki kemur í ljós að „krýs“ táknar einfaldlega grunn skora í ask, sbr. grunn vík. Þar mun og fyrrum, að öllum líkindum, hafa verið grunn vík neðan við þar sem nú eru tóftir „Gömlu Krýsuvíkur“, þaktar hrauni, en tóftir hinna gömlu bæjarhúsa standa þar enn, órannsakaðar að mestu.

Gullbringa

Gullbringa.

Aðrir hafa velt fyrir sér langsóttari skýringum sbr. vangaveltum Alexanders Jóhannessonar frá 1929 og jafnvel lýsingar Skugga (Jochums). Eins og fram kemur hjá Svavari þá áætlar Ásgeir Blöndal nafnið út frá lögun víkurinnar og nafnið sé í ætt við krús og krúsa (Íslensk orðasifjabók) og er það í ætt við aðrar fornar orðskýringar. Jarðfræðiathuganir á svæðinu benda til að þarna hafi fyrrum verið vík inn í landið, enda gamlir sjávarhamrar langtum ofar.

Bringur

Bringur í Mosfellssveit.

Áður en hraunið rann 1151 og fyllti víkina hefur landslagið litið öðruvísu út. Þarna hefur væntanlega verið góð landtaka undir hömrunum, gróið í kring þar sem nú standa Húshólmi og Óbrinnishólmi skammt vestar, upp úr. Stutt hefur verið í fiskimið og nægur fugl í björgum. Beit hefur og verið væn, bæði fjær og í fjöru, og nægt vatn í brunnum. Þarna hefur verið, og er reyndar enn, mjög skýlt í norðanátt og austanáttin, rigningaráttin, er ekki til vansa.

Krýsuvík

Grein Árna Óla um Krýsuvík í Lesbók Morgunblaðsins 1932.

Gullbringunafnið er til a.m.k. á tveimur stöðum í sýslunni, og það er einnig til í Kjósasýslu, sbr. Bringur eða Gullbringur norðaustan undir Grímarsfelli, efst í Mosfellsdal. Sumir telja Gullbringunafnið komið frá lágreistu keililaga sandfelli (Gullbringu) austan Kleifarvatns, en aðrir segja það vera á hlíðinni allri austan þess, „enda glói hún sem gull er kvöldsólin fellur á hana handan Hádegishnúks (Miðdegishnúks) [á Sveifluhálsi]. Þeir, sem komið hafa að austan snemmmorguns, með morgunsólina að baki, sjá þvert á móti Sveifluhálsinn gullglóandi við þær aðstæður. Sennilega getur allt landslag á Reykjanesskganum fallið undir framangreinda skilgreiningu því kvöldsólin, og reyndar morgunsólin líka, lita jafnan umhverfið gylltum litum undir þeirra síðustu morgna og kvölds þegar aðstæður haga þannig til. Raunverulegrar (upprunalegrar) nafngiftar er því sennilega að finna annars staðar á landssvæðinu og í öðru en sólargyllingunni, enda endurspeglast hún í sömu lögmálum sínum um allt land, óháð stað eða tilteknu svæði.

Á Vísindavef Háskóla Íslands má lesa eftirfarandi:
„Hvort er réttara að skrifa Krýsuvík eða Krísuvík? Báðar útgáfur af þessu orði koma fyrir í fræðiritum og bókum.

Húshólmi

Neðan við gamla Krýsuvíkurberg í Ögmundarhrauni.

Í Landnámu (Íslensk fornrit I:392 og víðar) og fornbréfum er nafnið ritað Krýsuvík. Uppruni þess er óviss. Alexander Jóhannesson taldi að forliður nafnsins gæti verið Crisa, fornháþýskt kvenmannsnafn (Über den Namen Krýsuvík. Mittelungen der Islandfreunde 1929, bls. 36-37). Líklegra er þó að nafnið sé dregið af germanskri rót sem merkir ‘beygja’ og hafi vísað til lögunar víkurinnar (Ásgeir Blöndal Magnússon, Íslensk orðsifjabók, bls. 510 og 512)“.

Krýsuvík eða Krísuvík?
Engin vík heitir nú Krýsuvík þar sem Ögmundarhraun rann yfir bæinn Gömlu-Krýsuvík og út í víkina fyrrum. Næsta vík austan við er nefnd Hælsvík en ekki er vitað hversu gamalt það nafn er eða hvort hún var hluti Krýsuvíkur.

Miðað við elsta rithátt nafnsins í Landnámu þykir mér því réttara að skrifa Krýsuvík. Þjóðsagan um Krýsu eða Krýsi og Herdísi í Þjóðsögum Jóns Árnasonar (2. útg. I:459-461) er vafalítið til orðin út frá nöfnum víkanna.“ Öll tilvitnuð forn skrif fyrrum voru „krysuvik“.

Reyndar er til ein mjög líkleg skýring á nafngiftinni. Í dönsku er til orðið „krys“, sem merkti „grunn skora“, s.s. í ask. Orðið þýddi og „grunn“, t.a.m. grunn vík“, sem Krýsuvík var fyrrum. Fólk hefur gjarnan ruglað saman orðunum „krís“ og „krýs“. Hið fyrrnefna stendur fyrir deilur eða ástand, en hið síðarnefnda fyrir vog eða skoru í ask.

Heimildir m.a.:
-Örnefnastofnun – http://www.ornefni.is/d_skoda.php
-Orðabók M&M.
-Orðsifjabókin.
-https://www.visindavefur.is/svar.php?id=6532

Skilaboðavarða

Skilaboðavarða millum Krýsuvíkur og Herdísarvíkur.

Krýsuvíkurberg

Bergsendi eða Bergsendar eru algeng örnefni í sjávarbjörgum. Nöfnin skýra sig jafnan sjálf.
Endimörk Krýsuvíkurbjargs (-bergs) heita „Bergsendi“ eystri og vestari. Frá Bergsenda eystri að Eystri-Læk á Strandarbergi heitir bergið „Krýsuvíkurbjarg“. Vestan Strandarbergs að Bergsenda vestari, stundum nefndir Ytri-Bergsendar, var það nefnd „Krýsuvíkurberg“. „Ytri“ og „Innri“ voru algeng viðmið á vestanverðum Reykjanesskaga fyrrum. Ytra þýddi nyrðra og Innra syðra.

Bergsendi

Bergsendi innri (eystri)- útsýni til vesturs.

Í Örnefnalýsingu sem Þorsteinn Bjarnason frá Háholti safnaði og skráði um Krýsuvík er m.a. fjallað um örnefni í og við Krýsuvíkurbjarg (-berg).
„Nöfn í Krýsuvíkurbergi eru þessi: Austast er Strandaberg, vestan Bergsenda eystri, þar átti Strandakirkja ítak til eggjatekju og fuglaveiða. Vestan við það er Kotaberg, þar áttu hjábýli Krýsuvíkur rétt á eggjatekju og fugla. Þar næst er Heimaberg, þar átti höfuðbólið fugla- og eggjatekju. Neðan undir Heimabergi er Skriða. Austan við hana er Ræningjastígur (nú horfinn).

Bergsendi

Bergsendi vestari.

Vestasta hornið á berginu heitir Bergsendi vestari. Vestan við Bergsenda er Hælsvík. Fyrir Krýsuvíkurlandi eru þessi rekapláss: Skriðurekar, Bergsendarekar og Miðrekar.“ Þorsteinn nefnir bergið allt „Krýsivíkurberg“.

Í Örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar, lögregluvarðstjóra í Hafnarfirði, sem Svanur Pálsson afritaði 2004 eftir eintaki, sem varðveitt er á Bókasafni Hafnarfjarðar, er fjallað um Krýsuvíkurberg og Krýsuvíkurbjarg. Aðalheildarmaður Gísla var Ólafur Þorvaldsson og Krýsuvíkurbræður, synir Guðmundar í Krýsuvík, aðallega tveir; voru fluttir til Hafnarfjarðar, annar bjó á Holtsgötu ?, en hinn í Þorgeirstúni. Unnið á milli 1960–70. Lýsingin er frá austri til vesturs:

Krýsuvíkurberg

Krýsuvíkurberg – Heiðnaberg (Heinaberg).

„Þá var ekkert örnefni fyrr en komið var að Bergsenda eystri eða Gjánni eystri. Hér tekur svo við Krýsuvíkurbjarg það liggur milli Gjárinnar eystri og Gjárinnar vestri og er þar á margt örnefna. Strandarberg er austasti hluti þess og nær frá Bergsenda að Læk á Bergi. Þá tekur við Krýsuvíkurberg. Þá er Básinn og þá Vondasig og þar ofar Berghólar. Þá er komið á Skriðuás og þá er Skriða mikill gosöskustapi. Austan Skriðuáss er Kotaberg að Vondasigi.

Heiðnaberg

Heiðnaberg – loftmynd.

Framan í Skriðu er Ræningjastígur og er gengur með varúð niður í fjöru. Þar sem Skriða snýr við vesturátt er neðarlega á móbergshellunni svo nefnd Hermannshilla. Upp Ræningjastíg áttu Tyrkir að hafa komist 1627 er þeir rændu hér við land. Lundapallur er hér vestan í Skriðu. Hann er einnig kallaður Lundatorfa. Skriðunef tala menn um að hér hafi verið nefnt. Einstigið liggur hér niður skriðurnar niður á Hermannshillu, sem er hér niður undir fjöru, en þó verður að síga af henni niður í fjöruna. Vestan Skriðu tekur við Heiðnaberg eða Heinaberg og nær allt að Fitjalæk, sem hér fellur niður og fram af berginu, og nefnist hér Mígandagróf og Fossinn Mígandi. Kirkjufjara er undir Heinabergi, en þar fyrir vestan tekur við Betstæðingafjara og nær allt vestur að Hæl, Bergsenda vestri eða Gjánni vestri. Af Hælnum hefur víkin hér fyrir framan fengið nafn allt frá Skriðu vestur að Selatöngum og nefnist því Hælsvík.“

Krýsuvíkurberg

Krýsuvíkurberg – Skriða.

Í Örnefnalýsingu Ara Gíslasonar fyrir Krýsuvík er jafnframt getið um Bergsenda:
„Þar sem Krýsuvíkurberg endar, heitir Eystri-Bergsendi og Vestri-Bergsendi. Hluti Krýsuvíkurbergs, vestarlega, heitir Skriða. Mun það vera eini staðurinn í berginu, sem einhvers móbergs gætir, en vestanvert við hæð þessa er basaltlag eitt eða fleiri. Efst í bjargbrúninni skagar basaltið lengra fram en móbergið, svo að loftsig er alla leið í urðina þar fyrir neðan. Austast í berginu er Strandarberg; þar átti Strandarkirkja ítak. Þá er Kotaberg; það áttu til afnota þeir, sem bjuggu í hjáleigunum.

Krýsuvíkurbjarg

Krýsuvíkurbjarg (-berg) – kort.

Svo er Heimaberg; þar er Skriðan fyrrnefnda upp af. Rekarnir þar fram af voru svo nefndir Bergsendarekar, Miðrekar og Skriðurekar. Í berginu var hilla sú, sem nefnd er Lundapallur; þar uppi á brún heitir Lundatorfa. Nýipallur er nafn í berginu. Þá er í Kotaberginu Plankanef. Undir berginu eru tvö áberandi lón, er heita Eystra-Selalón og Vestra-Selalón. Framan í Skriðunni er Ræningjastígur. Hans er getið í þjóðsögum. Stígur þessi er gangur einn, sem myndazt hefur í móbergið og liggur skáhallt niður í flæðarmál af brúninni. Var hann fær til skamms tíma, en nú mun hrunið svo úr honum, að hann sé tæplega fær. Við Hælsvíkina er svo Hæll, sem hún dregur nafn af, og Hermannsstígur í bergið.“

Krýsuvíkurberg

Krýsuvíkurberg – Ræningjastígur.

Þjóðsagan segir að í “annað sinn komu Tyrkjar undir Krýsuvíkurberg og gengu upp þar sem síðan heitir Ræningjastígur. Þá var sel hjá Selöldu og fóru Tyrkjar þangað, drápu matseljuna, en eltu smalann heim að Krýsuvík.
Það var sunnudagur og var Eiríkur prestur að messa í Krýsuvíkurkirkju. Segja sumir að hann væri fyrir altarinu, en hitt mun sannara að hann væri í ræðustól er smalinn kom hlaupandi í kirkjuna og mælti hátt:
“Tyrkjar komu og drápu matseljuna og eltu mig hingað.”
Prestur mælti: “Viljið ekki lofa mér að ganga fram í dyrnar góðir menn?”
Menn játtu því. Eiríkur gengur fram í dyr og lítur út og sér Tyrkja koma á túninu. Hann mælti til þeirra:
“Farið nú ekki lengra! Drepið þarna hvur annan! Væri annar dagur eða ég öðruvís búinn, mundu þið éta hvur annan.”
Þar börðust þeir og drápust niður. Heitir þar síðan Orrustuhóll eða Ræningjahóll er þeir börðust, en Ræningjaþúfur þar þeir eru dysjaðir. Þar eftir hlóð Eiríkur vörðu á Arnarfelli og mælti fyrir henni sem hinni að meðan hún stæði skyldu Tyrkjar aldrei granda Krýsuvík.”

Ofan við Ræningjastíg, sem sjórinn hefur nú náð að brjóta niður, eru minjar Krýsuvíkursels.

Krýsuvíkurberg

Krýsuvíkurberg – Á Bergsenda vestari (ytri).

Niðurganga á Bergsendana hvoru megin er auðveld. Frá þeim, til beggja átta, er ágætt útsýni út og inn með berginu (bjarginu) í góðu veðri.

Krýsuvíkursel

Krýsuvíkursel við Selöldu.

Bergsendar eru einnig svo nefndir sitt hvoru megin við Staðarberg neðan Staðarhrauns vestan Grindavíkur.
Í Örnefnalýsingu sem séra Gísli Brynjólfsson skráði og eru í bók hans: Mannfólk mikilla sæva – Staðhverfingabók. Heimildir Gísla hafa verið frásagnir kunnugra manna og örnefnalýsing Staðar eftir Ara Gíslason, þótt ekki geti Gísli þess. Lýsing Ara er geymd á Örnefnastofnun og er einnig höfð hliðsjón af henni við gerð þessarar lýsingar. Heimildarmenn Ara voru: Gamalíel Jónsson, bóndi á Stað (d. 1964), Guðsteinn Einarsson, hreppstjóri í Grindavík og Þorsteinn Bjarnason frá Háholti.

Staðarberg

Staðarberg – Bergsendi ofan Ræningjaskers.

Í lýsingunni er getið um „Ræningjasker“ og tilnefnd þjóðsaga um Tyrki og komu þeirra að Staðarhverfi. Sagan er ekki ólík þeirri fyrri. Í báðum tilvikum koma prestar að lausn mála.
„Austast á Staðarbergi heitir Bergsendi. Fram af Staðarmölum er Ræningjasker, alltaf upp úr sjó. Þegar Tyrkir komu til Grindavíkur 1627, lentu þeir skipi sínu við Ræningjasker. Gekk þá Staðarprestur upp í Hæðirnar við Húsatóftir og hlóð þar þrjár vörður og mælti svo um að á meðan í þeim stæði steinn yfir steini, skyldi Grindavík ekki verða rænd. Hefur það orðið að áhrínsorðum, enda standa vörður þessar að nokkru enn. Heita þær Nónvörður og eru eyktarmark frá Húsatóftum.
Áður en Mölunum sleppir er Bergsendasker, klettanibbur, sem skaga úr stórgrýtinu fram í sjóinn.

Hróarsbásar

Í Hróarbásum.

Staðarbergið er álíka langt og Malirnar. Um það farast Geir Bachmann svo orð í sóknarlýsingu sinni: „Það er tæp 1/4 míla á lengd. Lágt er það og að öllu leyti ómerkilegt, því hvorki er í því varp né fuglatekja, og eigi er það svo vel, að undir því geti fest nokkurt tré, þó ekki sé það heldur standberg í sjó.“ (Landnám Ingólfs III, bls. 126). – Austast á Bergsendanum er gatklettur mikill, en ekki ber hann sérstakt nafn.

Krýsuvíkurbjarg

Krýsuvíkurbjarg (-berg fjær) – nafnlausi fossinn.

Þá taka við tvö vik inn í bjargið. Nefnast þau Sölvabásar og Hróabásar. (Ath.: Yfirleitt voru nöfnin á básum þessum höfð í fleirtölu, þótt í rauninni sé hvor um sig bara einn bás). Hróabásar eru við vestari bergsendann. Í þeim var flóruð vör og sjást hennar enn nokkur merki. Bendir það til þess að þarna hafi eitt sinn verið útræði, en um það eru engar skráðar heimildir – aðeins munnmæli. Í Sölvabásum áttu Húsatóftir sölvatekju.“

Sjá skemmtilegt Youtube-myndband frá Krýsuvíkurbergi HÉR.

Heimildir:
-Örnefnalýsing Þorsteins Bjarnasonar frá Háholti  um Krýsuvík.
-Örnefnalýsing Gísla Sigurðssonar um Krýsuvík.
-Örnefnalýsing Ara Gíslasonar fyrir Krýsuvík.
-Lýsing Gísla Brynjólfssonar fyrir Stað í Grindavík.

Mígandi

Mígandi í Krýsuvíkurbergi.

Lögreglan

Í Fjarðarfréttum 1969 er grein um aðstöðu lögreglunnar í Hafnarfirði undir fyrirsögninni; „105 kallar stöðina„. Greinin er ekki síst áhugaverð í ljósi þess að í yfirlitsritinu „Lögreglan á Íslandi“ er lítið sem ekkert fjallað um sögu og aðbúnað lögreglumanna annars staðar en í Reykjavík.

Lögregla
„Það var síðla kvölds í marz, að Fjarðarfréttir lögðu leið sína á lögreglustöðina við Suðurgötu. Erindið var að heilsa upp á lögregluþjónana, sem voru á kvöldvakt þetta kvöld og skyggnast inn í heim þeirra manna, sem eiga að halda uppi lögum og reglu í Hafnarfirði, Gullbringu- og Kjósarsýslu.
Það vildi okkur til happs, að lítið hafði rignt um daginn og Suðurgatan því tiltölulega greiðfær. Þegar við komum að lögreglustöðinni var okkur hugsað til þess, að ekki væri gott að vera bláókunnugur maður hér í Hafnarfirði og þurfa á lögregluaðstoð að halda, því einu upplýsingarnar, sem gefnar eru um staðsetningu lögreglustöðvarinnar eru í símaskránni og eru á þá leið að hún sé að Suðurgötu 8.

Varðstofan

Lögregla

Lögreglustöðin við Suðurgötu 8 í byggingu. Sýslumannshúsið h.m. Knattspyrnuleikur milli FH og Hauka á Sýslumannstúninu.

Við göngum inn eftir ganginum og förum inn um dyr til vinstri, inn á sjálfa lögregluvarðstofuna. Þar situr varðstjórinn við borð og er að tala í símann. Hinir lögregluþjónarnir á vaktinni eru í útkalli.
Skyndilega heyrist í talstöðinni:
105 kallar Stöðina. —
— Stöðin svarar —
— Ertu einn? —
— Oh. ah, nei. —
— Jæja, við komum þá inn. —

Lögregla

Knattspyrnuleika FH og Hauka enn í gangi á Sýslumannstúninu. Dvergasteinn lengst t.v., nýja lögreglustöðin og Sýslumannshúsið.

Hvað er að gerast? Það er von að spurt sé. Við erum í þann veginn að kynnast lélegustu aðstæðum, sem lögregla býr við í kaupstöðum landsins.
Samtalið milli lögregluþjónsins og varðstjórans er eitt dæmið um óviðunandi ástand í löggæzlumálum okkar Hafnfirðinga. Húsakynnin eru svo þröng, að allir, sem þurfa að leita til lögreglustöðvarinnar, og þeir eru ófáir, verða um leið áheyrendur, og stundum áhorfendur, að öllu því, sem fram fer. Þau mál, sem lögreglan fjallar um, eru oft þess eðlis, að óverjandi er, að hver og einn geti fylgst með einstökum þáttum þeirra.

Gísli sigurðsson

Gísli Sigurðsson fyrir framan lögreglustöðina.

En nú skulum við líta í kringum okkur. Varðstofan er lítið herbergi, um það bil 15 fermetrar, málning á veggjunum sennilega tíu ára gömul, og á þeim má lesa, sem í bók, sögu þeirra atburða, sem hér hafa gerzt undanfarinn áratug. Þetta herbergi er vinnustaður sextán lögregluþjóna og hérna er unnið allan sólarhringinn. Nokkrir lögregluþjónanna hafa dvalizt hér svo áratugum skiptir. Hérna er svarað í síma, skrifaðar skýrslur, sinnt talstöðvarviðskiptum, veitt úrlausn þeim, sem inn koma, geymsla fyrir óskilamuni, skjalageymsla, skrifuð dagbók um öll verkefni yfir hvern sólarhring, og svona mætti lengi telja. Til skamms tíma var þetta herbergi einnig kaffistofa lögregluþjónanna.

Fangelsi

Lögregla

Sveinn Björnsson, Jóhannes og Eddi í rannsóknarlögreglu Hafnarfjarðar.

Skoðum nú aðrar vistarverur í þessu húsi og lítum á það, sem fyrir augu ber. Í húsinu eru 6 fangaklefar, og auðvitað þarf engan fangavörð. Fangagæzla er eitt af störfum varðstjórans og manna hans. Við skulum ganga inn í einn klefann. Okkur verður þungt fyrir brjósti, loftræsting er engin. Rimlar eru fyrir gluggum, eins og venja er á slíkum stöðum, en svo „haganlega“ fyrir komið, að nær ógerningur er að hreinsa gluggakisturnar. Dyraumbúnaður er þannig, að hurðum er krækt aftur, og getur hvaða smábarn, sem villist inn í þessi húsakynni, opnað dyrnar meðan varðstjórinn sinnir e.t.v. símahringingu á varðstofunni. Fangar og lögreglumenn nota eitt og sama salernið, sem staðsett er í kompu undir stiga og allt hið óvistlegasta. Dæmi eru til þess, að gæzlufangar hafi þurft að dveljast í þessum fangaklefum yfir mánaðartíma. Eitt sinn var hérna fangi, sem var haldinn kynsjúkdómi, og að sjálfsögðu varð hann að nota sama salerni og samfangar hans ásamt lögregluþjónunum. Vonandi er slíkt einsdæmi á Íslandi á tuttugustu öld. Allir veggir hér eins og á varðstofunni bera ljóst vitni um að málning er bannorð, það er eins og veggirnir blygðist sín fyrir útlitið. Okkur léttir, er við yfirgefum fangaklefana.

Kaffistofa

Gísli Sigurðsson

Gísli Sigurðsson, lögregluþjónn, við störf á varðstofunni.

Næst komum við í kaffistofu lögregluþjónanna. Í þessu herbergi, sem er um það bil 7 m2, var rannsóknarlögreglan til húsa. Þegar skrifstofur bæjarfógeta fluttu í hið glæsilega húsnæði sitt, sem gjörbreytt hefur allri starfsaðstöðu embættisins, fékk rannsóknarlögreglan sæmilega aðstöðu annars staðar í húsinu. Rættist þá loksins langþráður draumur lögreglumannanna í Hafnarfirði. Þeir fengu þetta litla herbergi fyrir kaffistofu.
Settur var upp lítill vaskur og skápur, en þeir urðu þó að mála „stofuna“ sjálfir.

Talstöðin

Lögregla

Hér voru gamla Sýslumannshúsið og lögreglustöðin við Suðurgötu 8.

Við heyrum óm af samtali og skundum inn á varðstofuna. Eitt af mikilvægustu tækjum við nútíma löggæzlu er talstöðin, og hún er mikið notuð hér. Umdæmi lögreglunnar í Hafnarfirði nær allt frá Reykjanestá að Botnsá í Hvalfirði.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður á stríðsárunum. Sýslumannshúsið í bakgrunni, Drengurinn er Hörður Guðmundsson – Fred Harry Wharton.

Ætla má að lögreglustöðin geti haft samband við lögreglubíl hvar sem er á þessu svæði, en það er nú öðru nær. Dæmi eru til þess að lögreglan hefur orðið að leita til leigubílstjóra til þess að flytja skilaboð til lögreglustöðvarinnar. Þegar komið er suður fyrir Kúagerði má heita að sambandslaust sé við lögreglubíl, sem þar er á ferð. Ef árekstur verður í Mosfellssveit eða á Kjalarnesi rofna tengslin milli lögreglubíls og stöðvarinnar um það leyti sem farið er yfir Elliðaárnar. En leigubílstjórar í Hafnarfirði geta með góðu móti talað við „kollega“ sína á Kjalarnesi og í Keflavík. Hvers á Lögregla Hafnarfjarðar og íbúar umdæmisins að gjalda?

500.000 km

Lögreglan

Lögreglubíll lögreglunnar í Hafnarfirði 1972.

Bílar Hafnarfjarðarlögreglunnar eru kafli út af fyrir sig. Þeir eru tveir, annar af árgerð 1966 og í sæmilegu lagi, en hinn af árgerð 1964 og má heita ónýtur, enda hefur honum verið ekið yfir 500.000 km, og það að mestu á götum
Hafnarfjarðar.
Heimsókn okkar er senn lokið. Við ætlum ekki að fara mörgum orðum um atriði eins og þau, að allar skýrslur lögreglunnar eru skrifaðar á aflóga ritvélar frá skrifstofu bæjarfógeta og hvergi fæst aðstaða fyrir lögregluþjóna, til að halda við þeirri líkamlegu þjálfun, sem hverjum lögreglumanni er nauðsynleg.
Eðlilegt er, að fyrir hverja 500 íbúa í þéttbýli starfi einn lögregluþjónn, og ættu samkvæmt því að vera 18 lögregluþjónar í Hafnarfirði einum, fyrir utan þá, sem ráðnir eru á vegum Garðahrepps og sýslunnar. Mikil bót var að stofnun rannsóknarlögregluembættis hér í bæ, og hefur það komið skýrt í ljós, hvað bætt starfsaðstaða má sín mikils, en þó þyrfti að fjölga þar um a. m. k. einn mann, ef vel ætti að vera.

Ný lögreglustöð

Lögregla

Gamla sýslumannshúsið við Suðurgötu.

Hver hugsandi maður, sem kynnir sér starfsaðstöðu lögreglunnar, hlýtur að sjá, að hún er bæjarfélaginu og sýslunni ekki til sæmdar.

Lögregla

Ný lögreglustöð í Hafnarfirði við Flatahraun.

Margt má lagfæra nú þegar, en auðvitað er framtíðarlausn þessara mála aðeins ein, nýtt og veglegt húsnæði fyrir löggæzluna. Nú þegar er tímabært að skipa nefnd til að undirbúa byggingu slíks húss.
Við Hafnfirðingur eigum góðu lögregluliði á að skipa. Starf þeirra er erilsamt og oft hættulegt. Lágmarkskrafa þeirra til bæjarfélagsins er mannsæmandi starfsaðstaða.
Vafalaust mun okkar ágæti bæjarfógeti beita sér fyrir umbótum á þessu sviði, og mun þá væntanlega ekki standa á öðrum, sem til þarf að leita vegna lausnar þessa máls.“

Í Lesbók Morgunblaðsins 1951 segir Árni Óla frá „Fyrsta lögregluþjóninum í Hafnarfirði„:
lögregla„Það eru nú rúm 43 ár síðan (1908) að Hafnfirðingar komu á löggæslu hjá sjer, og fyrsti lögregluþjónninn þar er enn á lífi og við góða heilsu. Hann heitir Jón Einarsson, Hafnfirðingur í húð og hár, fæddur þar og hefur alið þar allan aldur sinn. Mun varla ofmælt að hvert mannsbarn í Hafnarfirði þekki hann, en fæstir munu nú minnast þess að hann var þar eitt sinn vörður laga og rjettar og gekk um göturnar í einkennisbúningi. Hitt er mönnum kunnara, að hann hefur verið verkstjóri í fjölda mörg ár. Hann á heima í „miðbænum“ í Hafnarfirði, Strandgötu 19, og hefur lengi átt þar heima. En þegar hann bygði húsið sitt var öðruvísi þar um að litast en nú. Þá sköguðu úfnir hraunklettar fram í dimma götuna, sem í rauninni var ekki, annað en sjávarkambur með möl og skeljasandi, en nú er þetta „fínasta“ gatan, sem til er á landinu, öll steinsteypt og uppljómuð af tindrandi „fluoresent“ ljósum, svo að þar ber hvergi skugga á og nóttin verður þar svo að segja að björtum degi. Hafnarfjörður hefur tekið stakkaskiftum síðan Jón var þar lögregluþjónn og átti í brösum við ofbeldisseggi og skúmaskotsmenn.

Hafnarfjörður 1910

Lögregluþjónar voru ráðnir í Hafnarfirði áður en staðurinn fengi nokkra lögreglusamþykt. Utanaðkomandi áhrif rjeðu því. Fram að þeim tíma hafði Hafnarfjörður verið friðsældarbær, þar sem menn gengu snemna til náða og fóru snemma á fætur. Reglusemi og nægjusemi mótaði líf manna, og Í bæjarbragur var allur með uðrum hætti en í Reykjavík. Þótt skamt væri á milli og íbúar Hafnarfjarðar orðnir um 1500, drógu þeir ekki dám að stórborginni Reykjavík, þar sem voru þá um 11.000 íbúa. En ástæðan til þess að Hafnfirðingar fengu sjer lögregluþjón var sú, að allmikil breyting hafði orðið þar á árið 1906, eins og nú skal sagt.
Hafnarfjörður
Lögregluþjónn var valinn Jón Einarsson, eins og fyr er sagt, en næturvörður Jón Hinriksson, er seinna varð kaupfjelagsstjóri í Vestmannaeyjum. Voru þeir báðir á besta aldri, hin mestu karlmenni og ljetu sjer ekki alt fyrir brjósti brenna. Þeir byrjuðu starf sitt í apríl og var verkum þannig skift með þeim, að annar fór á vörð kl. 9 á morgnana og var á ferli fram til kl. 3. Þá tók hinn við og var einn á verði til kl. 7, en síðan voru þeir báðir á verði á kvöldin og stundum alla nóttina fram til morguns, þegar mest var ónæðið af hinum útlendu sjómönnum.

Ekkert að gera endranær

Hafnarfjörður 1908

Hafnarfjörður 1908.

Jón Hinriksson sagði starfi sínu lausu um haustið og var þá Einar Ólafsson (tengdafaðir sjera Jakobs Jónssonar) ráðinn næturvörður.
„Um vorið var jeg orðinn svo leiður á þessu starfi, sem mjer fanst ekkert starf vera, að jeg fekk mig leyst an frá því. Þetta átti ekki við mig. Þegar ekkert var um að vera í bænum, fanst mjer jeg vera að slæpast og skammaðist mín fyrir þeim sem voru að vinna. Og það var hjer um bil aldrei neitt að gera nema þegar útlendingar voru með óspektir og drykkjulæti. Aðalstarfið á nóttunni var að líta eftir bátum, ef eitthvað var að veðri, líta eftir skepnum að þær flæddi ekki, hafa gætur á hvort nokkurs staðar yrði vart við eld og hafa gát á kolabyngunum, svo að eldsneytislausir menn hnupluðu ekki nokkrum kola molum. Á daginn var bókstaflega ekkert að gera.

Jón bergmann

Jón Sigurður Sigfússon Bergmann (1874-1927).

Jón Bergmann skáld varð lögregluþjónn þegar jeg hætti, en hélst ekki lengi því starfi. Og lögregluþjónar og næturverðir voru að koma og fara. Norðmenn hurfu líka, útgerð Friis féll niður sumarið eftir, og þá urðu aftur rólegir dagar í Hafnarfirði. Það var ekki fyr en eftir 1930 að komið var upp skýli til þess að stinga ölvuðum mönnum inn í.
Nú er orðin mikil breyting á þessu. Nú eru hjer 7 eða 8 lögregluþjónar, varðstöð opin allan sólarhringinn með síma og bílum til skyndiferða. Og nú er hjer komið fangahús og fangavörður. Hefur það verið sniðið svo við vöxt, að það getur oft tekið við mönnum frá Reykjavík, sem dæmdir hafa verið til fangelsisvistar. Þó er þetta fangahús ekki nema fyrir 6—8 menn. Það sýnir að Hafnfirðingar þurfa ekki mikið á því að halda, enda þótt hjer eigi heima rúmlega 5000 manna. Hafnarfjörður er enn friðsæll bær og Hafnfirðingar friðsamir og háttprúðir menn, eins og þeir hafa alltaf verið“. – Á.Ó.

Heimildir:
-Fjarðarfréttir, 1. árg. 07.04.1969, !105 kallar stöðina“, bls. 8 og 6.
-Lesbók Morgunblaðsins, 46. tbl. 01.12.1951, Fyrsti lögregluþjónn í Hafnarfirði – Árni Óla, bls. 572-575.

Hafnarfjörður

Vestari-Lækur

Í Krýsuvík eru tvær lækir; Vestari-Lækur (Vesturlækur/Krýsuvíkurlækur vestri/Fitjalækur) og Eystri-Lækur (Nýjabæjarlækur/Krýsuvíkurlækur/Eystrilækur). Sá fyrrnefndi á uppruna sinn í mýrinni sunnan við Gestsstaðavatn og sá síðarnefndi í Dýjakrókum ofan bæjarstæðis Stóra-Nýjabæjar. Krýsuvíkurtorfan hefur stundum verið nefnd „byggðin milli lækja“, en það getur ekki verið alls kostar rétt því sjálfur Krýsuvíkurbærinn, auk Suðurbæjar, Norðurbæjar og Snorrakots, eru vestan Vestari-Lækjar.

Eystri-Lækur

Eystri-Lækur, fossinn í „eðlilegu“ ástandi.

Báðir lækirnir steypast fram af Krýsuvíkurbergi, sá eystri austan Bergsenda eystri og sá vestari neðan Fitja undir Selöldu. Vestari-Lækur hefur náð að grafa sig niður í móbergið áður en hann fellur niður í fjöruna, en Eystri-Lækur hefur þurft að sætta sig við ýmist að falla ofan af skarpri hárri hraunbrúninni eða falla niður í sprungur ofan brúnarinnar, allt eftir því hvernig hún hefur þróast af sjóbarningnum neðanverðum eða áhrifum jarðskjálfta hverju sinni.

Krýsuvíkurbjarg

Krýsuvíkurbjarg – nafnlausi fossinn.

Eystri fossinn hafði ekki nafn fyrrum, en í seinni tíð hafa einstaka ferðamenn reynt að nefna hann „Krýsuvíkurfoss“, sem varla getur talist frumlegt örnefni. Lækurinn ofan bjargbrúnarinnar var áður einnig nefndur „Lækur á Bergi“. Vestari fossinn heitir Mígandi í örnefnaskrám.

Í örnefnalýsingu Ara Gíslasonar segir m.a. um lækina: „Vestan undir Strákum er Fitjatún. Hér upp af víkinni er svæði, sem nefnt er Hælsheiði. Þar um rennur Vestri-Lækurinn í víkina [Hælsvík] vestanverða eða vestan hennar, og þess má einnig geta hér, að við Hæl er svonefnt Heiðnaberg í bjarginu.
Vestur frá Litlahrauni [austan Bergsenda eystri] tekur við allmikil mýri, sem heitir Bleiksmýri. Um hana rennur Eystri-Lækur og rennur í sjó á austanverðu berginu.“

Eystri-Lækur

Eystri-Lækur, fossinn þegar hann fellur niður um ofanverðar sprungumyndanir.

Í örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar (aðalheildarmaður; Ólafur Þorvaldsson og Krýsuvíkurbræður synir Guðmundar í Krýsuvík, aðallega tveir; voru fluttir til Hafnarfjarðar, annar bjó á Holtsgötu ?, en hinn í Þorgeirstúni. Unnið á milli 1960–70) segir m.a. um lækina og fossana í Krýsuvík: „Að austan var Nýjabæjarlækur. Hann átti upptök sín spölkorn fyrir ofan túnið í Dýjakrókum. Þegar nokkuð var komið frá Nýjabæjartúni, nefndist Nýjabæjarlækur, Krýsuvíkurlækur eystri eða Eystrilækur. Nokkuð niður með honum er Austurlækjarvað, liggur þar gata yfir um lítið holt er nefnist Reiðholt, en gatan lá heim milli garða heim til Krýsuvíkurbæjar. Svæðið sunnan Vesturlækjar og Austurlækjar mætti með réttu nefnast Milli lækja.

Vestari-Lækur

Vestari-Lækur, ónefndur foss ofan Míganda. Fallegur berggangur í rauðamölskriðunni.

Hér vestur undan fellinu [Bæjarfelli] er svo nefnd Krýsuvíkurheiði eða Vesturheiði. Takmarkast að norðan af Hálsinum, en að sunnan af Krýsuvíkurlæk vestri eða Vesturlæk. Vesturlækur á uppruna sinn í mýrinni neðan undir Gestsstaðavatni. Vesturlækur rennur hér ofan af heiðinni í Vesturlækjarfossi, en þar fyrir neðan tekur hann nafnbreytingu, nefnist þá Fitjalækur.

Mígandi

Mígandi í Krýsuvíkurbergi.

Þegar haldið var vestur Bergið þá varð fyrst fyrir í sjónum Selasker og ofan við það Selalón. Vestar var komið að allmiklu viki eða vík, Keflavík. Þar var Keflavíkurkampur stórgrýttur, og þar voru Keflavíkurrekar. Þá var ekkert örnefni fyrr en komið var að Bergsenda eystri eða Gjánni eystri. Hér tekur svo við Krýsuvíkurbjarg það liggur milli Gjárinnar eystri og Gjárinnar vestri og er þar á margt örnefna. Strandarberg er austasti hluti þess og nær frá Bergsenda að Læk á Bergi. Þá tekur við Krýsuvíkurberg. Þá er Básinn og þá Vondasig og þar ofar Berghólar. Þá er komið á Skriðuás og þá er Skriða mikill gosöskustapi. Austan Skriðuáss er Kotaberg að Vondasigi.

Krýsuvíkurberg

Krýsuvíkurberg – hér fellur Mígandi fram af berginu í skoruna nær.

Framan í Skriðu er Ræningjastígur og er gengur með varúð niður í fjöru. Þar sem Skriða snýr við vesturátt er neðarlega á móbergshellunni svo nefnd Hermannshilla. Upp Ræningjastíg áttu Tyrkir að hafa komist 1627 er þeir rændu hér við land. Lundapallur er hér vestan í Skriðu. Hann er einnig kallaður Lundatorfa. Skriðunef tala menn um að hér hafi verið nefnt. Einstigið liggur hér niður skriðurnar niður á Hermannshillu, sem er hér niður undir fjöru, en þó verður að síga af henni niður í fjöruna. Vestan Skriðu tekur við Heiðnaberg eða Heinaberg og nær allt að Fitjalæk, sem hér fellur niður og fram af berginu, og nefnist hér Mígandagróf og Fossinn Mígandi. Kirkjufjara er er undir Hei[ð]nabergi, en þar fyrir vestan tekur við Betstæðingafjara og nær allt vestur að Hæl, Bergsenda vestri eða Gjánni vestri.“

Mígandagróf

Mígandagróf.

Nafngiftin „Mígandi“ er einnig til á litlum fossi í Hvalfirði, háum fossi norður af Dalvík, myndarlegum fossi í Vatnsdal Austur-Húnavatnssýslu (einnig nefndur Hjallafoss), á fossi austur af Bjarnanúp á Vestfjörðum og auk þess má finna örnefnið Mígandagróf ofan Lönguhlíða á Reykjanesskaganum.

Sjá myndband um austanvert Krýsuvíkurberg HÉR.

Heimildir:
-Örnefnalýsing Ara Gíslasonar fyrir Krýsuvík.
-Örnefnalýsing Gísla Sigurðssonar fyrir Krýsuvík.

Krýsuvíkurberg

Krýsuvíkurberg – Eystri-lækur og fossinn nafnlausi á góðum degi.

Búrfellsgjá

Á Vísindavef HÍ var spurt: „Hvaðan kemur hraunið sem liggur yfir Hafnarfirði og að hluta til Garðabæ, og kom það allt úr sama gosi?“
Svarið var:

Búrfell

Búrfell.

„Fyrir um 8000 árum varð eldgos sem myndaði eldborgina Búrfell fyrir sunnan Hafnarfjörð og þaðan runnu í því gosi hraunin sem sýnd eru á meðfylgjandi korti. Í heild sinni nefnast þau Búrfellshraun, en eins og sést á kortinu bera ýmsir hlutar þess sérstök nöfn, svo sem Smyrlabúðarhraun, Gráhelluhraun, Lækjarbotnahraun, Urriðakotshraun, Hafnarfjarðarhraun, Garðahraun og Gálgahraun.

Búrfellshraun

Búrfellshraun – kort.

Guðmundur Kjartansson, jarðfræðingur, rannsakaði Búrfellshraun (1954) og lét aldursgreina það með geislakoli (1973), en síðan hafa ýmsir fjallað um það, nú síðast Árni Hjartarson 2009, og úr grein hans er kortið. Þar er Búrfell í suðausturhorninu, og frá því sýndir fjórir hraunstraumar sem Árni telur hafa runnið í gosinu í eftirfarandi aldursröð: •Fyrst rann taumur niður í Straumsvík – hann er nú grafinn undir yngri hraunum (Kapelluhraun) utan smáskækill sem stendur upp úr og nefnist Selhraun. Áætlaðar útlínur þessa hrauntaums eru sýndar með tökkuðum línum á kortinu.

Gráhella

Gráhella í Gráhelluhrauni.

•Næst rann taumurinn sem merktur er Gráhelluhraun til sjávar í Hafnarfirði.
•Þá þriðji taumur til sjávar milli Álftaness og Arnarness (Urriðakotshraun, Vífilsstaðahraun, Gálgahraun).
•Og loks hinn fjórði, smáskækill til suðurs frá Búrfelli.
Á kortinu eru taumarnir fjórir sýndir með misdökkum bleikum lit, Selhraun hið elsta dekkst en yngsti skækillinn ljósastur.

Búrfell

Búrfell – gígurinn.

Samkvæmt aldursgreiningunni rann Búrfellshraun snemma á nútíma (eftir að ísöld lauk), en háan aldur styður það einnig hve haggað hraunið er, skorið misgengjum.“

Heimildir og kort:
-Árni Hjartarson (2009). Búrfellshraun og Maríuhellar. Náttúrufræðingurinn 77 (3-4), bls. 93-100.
-Guðmundur Kjartansson (1954). Hraunin kring um Hafnarfjörð. Þjóðviljinn, jólablað, bls. 10-12.
-Guðmundur Kjartansson (1973). Aldur Búrfellshrauns við Hafnarfjörð. Náttúrufræðingurinn 42, bls. 159-183.

Búrfellsgjá

Búrfellsgjá.

Flórgoði

Gengið var um Húshöfða og Höfðaskóg þar sem Skógræktarfélag Hafnarfjarðar hefur aðstöðu á austanverðum Beitarhúsahálsi. Félagið hefur stundað þarna trjárækt frá 1956, fyrst á 32 ha landi við Húshöfða, en síðan hefur félagið aukið ræktunarsvæði sitt til muna í Höfðalandi.

Stekkur

Húshöfði – stekkur.

Góðir og greiðfærir stígar liggja um skóginn í hlíðinni og ef fólk vissi ekki betur mætti vel halda að verið væri að ganga um skóg einhvers staðar í útlandinu. Skógarþrestir höfðu hópað sig saman í kvöldkyrrðinni og fóru um loftin í stórum flokkum.
Hvaleyrarvatn er neðan við hlíðina. Það er í fallegri kvos sem er umlukin lágum hæðum á þrjá vegu. Að vestan er Vatnshlíð, austanvert stendur Húshöfði, Miðhöfði og Fremstihöfði og Selhöfði að sunnan. Vestan vatnsins er Selhraun sem lokar fyrir afrennsli þess úr kvosinni. Áður fyrr höfðu Ásbændur og Hvaleyrarbændur í seli við vatnið og sjást frá hlíðinni tóftir undir Selhöfða þar sem selstöðurnar munu hafa verið.

Selhöfði

Selhöfði – fjárborg.

Húshöfði dregur nafn sitt af gömlu beitarhúsi eða fyrrum selstöðu frá Jófríðarstöðum og eru tóftir þess enn sýnilegar í höfðanum. Við Vatnshlíðina vestan við Hvaleyrarvatn er skógræktarsvæði Hákonar Bjarnasonar skógræktarstjóra ríkisins sem átti þar sumarhús og lagði gjörva hönd á plóginn við ræktunarstörfin.
Á síðustu árum hefur Skógræktarfélagið lagt göngustíga um Höfðaskóg og komið upp trjásýnireit sem áhugavert er að skoða. Ganga kringum Hvaleyrarvatn er auðveld því göngustígur hefur einnig verið lagður umhverfis það. Að þessu sinni var fyrst gengið að hlöðnum stekk eða gerði norðvestan við skála Skógræktarfélagsins. Hann tengist sennilega notkun beitarhústófta austar á hálsinum. Þar er nokkuð stór beitarhústóft og önnur minni skammt norðvestar. Hún virðist nokkuð eldri og er mun jarðlægari. Ekki er ólíklegt að beitarhúsið, sem var brúkað frá Jófríðarstöðum, hafi verið byggt þar upp úr eldri selstöðu eftir að hún lagðist af.

Hvaleyrarvatn

Hvaleyrarvatn.

Skammt austar í hlíðinni er minningarlundur um Kristmundsbörn er munu hafa tengst upphafi skógrækar í Hafnarfirði. Skammt frá er Ólafslundur, til minningar um Ólaf Daníelsson, skógræktarmann.
Gengið var niður að vatninu og suður með því að austanverðu. Skammt sunnan við skála St. Georgs gildisskáta, sem stendur í miðri hlíð Kjóadalsháls, var komið að hálfgerðu nesi er skagar út í vatnið undir Selhöfða. Þar er komið að tóftarbrotum Ássels. Lúpínan er farin að teygja sig í selstöðuna. Einstaka blágresi reynir lyfta kolli sínum upp fyrir hanan til að ná í a.m.k. einhverja sólargeisla.

Hvaleyrarsel

Hvaleyrarsel.

Skammt utar með vatninu eru tóftir Hvaleyrarsels. Það mótar enn fyrir seltóftunum og auðvelt að glöggva sig á húsaskipan. Trjágróður er farin að þrengja að rústunum. Saga tengist selinu. Hún segir frá nykri, sem átti að vera í vatninu og láti seljamatsstúlku í selinu (sjá HÉR).

Seldalur

Tóft í Seldal.

Haldið var áfram suður með vatninu þangað til komið var upp á veginn áleiðis í Seldal. Sunnan hans er hlaðinn stekkur og fyrirhleðsla undir hraunbakka. Selhraunshóll, stakur klofinn hraunhóll, sést þaðan í vestri. Hóllinn er áberandi kennileiti og vegvísir þegar Stórhöfðastígur var fjölfarin alfaraleið milli Hafnarfjarðar og Krýsuvíkur á fyrri tíð. Í honum er tófugreni að sunnanverðu.
Fremur létt er að ganga upp í hlíðar Selhöfða eftir gamla akveginum og fæst þá góð sýn yfir svæðið. Suðvestan hans er svonefndur Seldalshálskofi, tvískipt tóft á hálsinum. Ekki eru neinar kunnar heimildir um hvaða hlutverki kofinn gegndi, en líklega hefur hann verið smalaskjól eða hluti selstöðunnar handan höfðans, s.s. stekkur. Hálsinn er þarna mjög vel gróinn, en mikil jarðvegseyðing allt um kring. Auðvelt er að ímynda sér að þarna hafi verið gróðursælt áður fyrr og því ekki ólíklegt að þar hafi verið útselstaða um tíma.

Miðhöfði

Haldið var á Selhöfða. Uppi á honum eru a.m.k. tvö mannvirki. Annað, það syðra og stærra hefur að öllum líkindum verið tvískiptur stekkur, rétt eða fjárborg, en hið nyrðra hefur líklega verið kví eða önnur afmörkun. Grjóthleðslurnar gefa útlitið glögglega til kynna, en sennilega hafa veggir verið tyrfðir, en þeir síðan horfið ásamt öðrum gróðri á höfðanum og grjótið þá fallið bæði út og inn í mannvirkið. Af Selhöfða er mjög gott útsýni yfir Seldal og Stórhöfða í suðaustri og Hvaleyrarvatn og Bleiksteinsháls í norðvestri. Einnig yfir að Undirhlíðum, Lönguhlíðum, Helgafelli, Búrfelli og Húsfelli í austri.

Stórhöfði

Stórhöfði.

Gengið var norður Selhöfða, um Kjóadalaháls og síðan yfir á Húshöfða. Þaðan var haldið til suðausturs að Miðhöfða. Bæði efst á Húshöfða og á honum suðvestanverðum eru vörður. Fuglaflokkurinn hélt för sinni áfram, fram og til baka yfir skóginum. Nánar um Höfðavörðurnar HÉR.
Frábært veður – sól og blíða. Gangan tók 59 mín.

Hvaleyrarsel

Hvaleyrarsel – uppdráttur ÓSÁ.

 

Helgadalur

Í Árbók Hins íslenska fornleifafélags árið 1908 skrifar Brynjúlfur Jónsson m.a. um Skúlatún og tóftir í Helgadal undir fyrirsögninni „Rannsóknir fornleifa sumarið 1907„:

Skúlatún
skulatun-221Í Árbók fornleifafélagsins 1903, bls. 33—34, hefi eg getið þess, að nafn Skúlastaða, — þar sem Ásbjörn landnámsmaður Özzurarson bjó, — sé nú týnt, og jafnframt, að eg hefði síðan heyrt sagt frá því, að hrauni umgirtur grasblettur uppi undir Lönguhlíð væri nefndur Skúlatún. Kom mér í hug að það væri stytt úr Skúlastaðatún; þar hefði bærinn verið og orðið undir hraunflóði, en túnið, eða nokkur hluti þess, hefði staðið upp úr hrauninu. Auðvitað gerði eg mér eigi háar vonir um að finna þar fornleifar, einkum eftir að eg hafði séð, að dr. Þorvaldur Thoroddsen hafði komið þar, á ferðinni um Reykjanesskagann, og álitið tvísýnt að þar hefði bær verið. Samt þótti mér ófróðlegt að sjá ekki þenna stað, og fór eg þangað í sumar.

Skúlatún

Skúlatún og Skúlatúnshraun. Helgafell fjær.

Landslagi er svo háttað, að hraunfláki mikill fyllir víðlenda dæld sunnan frá Lönguhlíð norður að ásahrygg þeim, er gengur frá Námahálsinum vestan við Kleyfarvatn (inn frá Krýsuvík) alt inn á milli Kaldársels og Helgafells. Allur er hraunflákinn sléttur ofan, vaxinn grámosa og eigi gamallegur útlits. Hann er hallalítill, og mun dældin, sem hann hefir fylt, hafa verið nokkuð djup með mishæðóttu láglendi, sem nú er ekki hægt að gera sér ákveðna hugmynd um. Ekkert sést af hinu forna yfirborði láglendisins, nema toppurinn á hæsta hólnum; hann stendur upp úr hraunbreiðunni hérumbil miðri.

Skílatún

Skúlatún norðanvert.

Það er Skúlatún. Eigi er hann raunar toppmyndaður, heldur flöt bunga nokkuð aflöng frá norðvestri til landsuðurs og er lengd hans nál. 110 fðm., en breidd nál. 60 faðm. Hæstur er hann í landsuður-endann og er þar bratt ofan. Næsthæsti staður á honum er norðvestantil. Suður þaðan er og bunga á honum. Á öllum þessum þrem stöðum er einkennilegt stórþýfi, ólíkt því þýfi sem að öðru leyti er á öllum hólnum, er fremur má kalla smátt. Gæti eg trúað, að stórþýfið á þessum þrem stöðum væri myndað úr byggingarleifum; en fullyrða skal það ekki. Og engan vott mannaverka gat eg séð þar neinstaðar. En yfirum vesturhorn hólsins var að sjá sem götutroðninga, er virtust ærið gamlir og höfðu ekkert framhald í hrauninu, hvorugu megin.

Hellnahraun

Jarðfræðikort ÍSOR. Eldra Hellnahraun er merkt SKÚ (Skúlatúnshraun/Stórabollahraun).

Sunnanmegin voru þeir dreifðari og óglöggvari, en norðanmegin þéttari og glöggvari. Hygg eg að þar hafi verið heimreið til bæjar, og mun hann hulinn hrauni norðvestan-undir hólnum. Hefir hann ef til vill staðið á lægra framhaldi af þessum hól, sem upprunalega hefir víst verið talsvert hár. Þó hefir túnið náð yfir hann allan. Því eigi gat eg betur séð, en að hann bæri merki gamallar ræktar. Alstaðar á honum er moldin mjög svartleit og þvöl, og víðast hvar vex töðugresi milli þúfnanna, loðnara en í vor var á útjörð annarstaðar. Þar á móti var i þúfnakollunum meiri og minni grámosi, og hér og hvar utanmeð var krækiberjalyng farið að færa sig upp eftir hólnum. Auðvitað eru nú þetta svo veikar líkur, að þær dyljast fyrir manni í fljótu bragði. En samt eru þær nógar fyrir mig til þess, að eg er ekki í efa um, að hér heflr verið bær og tún. Og þá virðist nafnið »Skúlatún«, gefa nægilega bendingu um, að þessi bær hafi einmitt verið Skúlastaðir.

Helgadalur
helgadalur-221Helgadalur er skamt fyrir neðan Helgafell. Það er ofurlítil dalkvos, er þar gengur inn í austurenda Undirhlíða. Gengur melhóll norður úr hlíðinni, austanmegin við upptök Kaldár, myndar sá melhóll vesturhliðina á dalkvosinni. En að austan beygist hliðin lítið eitt að sér. Rústin er ofantil í miðri brekkunni. Það eru tvær tóftir, er hver gengur af enda annarar frá suðri til norðurs, eða því sem næst. Er hvor tóft nál. 10 faðm. löng og nál 2 faðm. breið út á veggjabrúnirnar; en þær eru raunar óglöggar víða. Dyr sjást á vesturhliðvegg suðurtóftarinnar við suðurgaflinn. Á norðurtóftinni sá ógjörla til dyra og sama er að segja um miðgaflinn.

Helgadalur

Helgadalur – tóftir.

Rústin er öll óglöggvari norðantil; sér að eins fyrir ummáli hennar. Þeim megin hefir verið húsaþyrping á hlaðinu. Eru þar útflettar rústir, sem ekki er hægt að greina hverja frá annari, né ákveða lögun þeirra húsa, sem þar hafa verið. Eg dró upp mynd af rústinni.
Hraunið, sem nú var getið, hefir breitt sig yfir alt láglendi norður og vestur frá enda Undirhlíða og nær til sjávar við Hafnarfjörð. Holtin ein standa upp úr. Er feykilegt landflæmi byrgt undir hraunflákum þeim. Er þar ærið rúm fyrir marga bæi. Og þar eð víst má telja að það hafl verið kostaland, þá hafa þar óefað verið allmargir bæir, sem nu eru hrauni huldir. Eigi verður sagt nær hraun þessi hafa brunnið, heldur en önnur hraunin á Reykjanesskaganum, er þó hafa brunnið eftir landnámstíð og eyðilagt meiri eða minni bygðir svo sem fornu Krýsuvík o. fl. (Sbr. Árb. fornl.- fél. 1903 bls. 43—44 og 47—50). Vegur Selvogsmanna til Hafnarfjarðarkaupstaðar, (Grindaskarðavegur) liggur um Helgadal hjá rústinni. Er eigi allskamt þaðan til Hafnarfjarðar.“

Garðaflatir
gardaflatir-223Í Gráskinnu hinni meiri lýsir Friðrik Bjarnason Garðaflötum. Hann segir að svo sé sagt “að Garðar og Garðakirkja hafi einu sinni verið á Garðaflötum, sem eru skammt fyrir innan Hafnarfjörð, en hafi veri flutt, þegar hraunið rann á. Sagan segir, að fólkið í Görðum hafi flúið undan hrauninu með ljós í hendi, en svo hafi verið um mælt, að kirkjuna skyldi reisa þar, sem ljósið slokknaði, en það var þar, sem nú er kirkjan og Garðastaður”.
Einnig segir: “Maður 
nokkur var eitt sinn við slátt á Garðaflötum. Þúfurnar, sem hann var að slá, sýndist honum líkjast leiðum í kirkjugarði.

Garðaflatir

Garðaflatir – minjar.

Ein þúfan var stærst, og hugsaði hann með sér, að gaman væri nú að vita, hver lægi undir þessu leiði. Syfjar hann þá bráðlega og getur ekki varist svefni. Hann dreymir, að maður tígulegur kemur til hans og segir: “Fyrst þig langar til að vita, hver hér liggur, hét sá Þórður og var prestur hér. Síðasta verk hans var að jarðsyngja sjö manneskjur”. Sú tilgáta fylgir sögunni, að þetta hafi verið í svartadauða. Ýmis merki má sjá, enn þann dag í dag, að byggð hafi verið á Garðaflötum; þar eru garðahleðslur miklar, og víða sjást húsarústir og sumar mjög stórar um sig. Hlaðinn brunnur kvað og hafa sést til skamms tíma”.
Auk sagnanna er vitað að Garðar höfðu í seli í og við Búrfellsgjá. Þá voru Garðavellir notaðir til skemmtana á meðan Gjáarréttin var og hét. Þær skemmtanir þóttu stundum keyra úr hófi fram og frá þeim er t.d. komið orðið “gjálífi”.
Engar rústir hafa sést á Garðaflötum um langan aldur. Þeirra er heldur ekki getið í örnefnalýsingu Garðabæjar. Og ekki er vitað til þess að nokkur núlifandi haft orð á að þar kynnu nokkrar slíkar að leynast.“

Heimildir:
-Árbók Hins íslenka forleifafélags, 23. árg. 1908, bls. 9-11.
-Gráskinna hin meiri.

Helgadalur

Tóftir í Helgadal (lengst til hægri).

Básendar

Björn Þorsteinsson skrifaði um „Básendaorustuna 1532“ í Faxa árið 1980. Skrifin voru fyrri hluti og aðdragandi af skrifum hans um Grindavíkurstríðið sama ár.

Björn Þorsteinsson„Þann 11. marz 1532 hélt allstórt kaupskip úr höfn í Hamborg. Þetta var rammbyggt skip og skipshöfnin, um 30 manns, alvopnuð byssum, sverðum, lásbogum og öxum. Undir þiljum voru fimm fallbyssur fólgnar, þungir hólkar með víðum hlaupum. Öll útgerð skipsins gaf til kynna, að þær stundir kæmu, þegar hauskúpumerkið væri dregið að hún og beinagrindin með rýtinginn og rommglasið á lofti hlykkjaðist á þöndu stórsegli yfir morðóðum sjóræningjum á stórum rosabullum með reifuð höfuð. En skipið hélt ekki venjulega leið sjóræningjasagna og víkinga, sigldi ekki í suður og vestur til þess að ræna gulli og gimsteinum nýfundinna landa, heldur hjó það bárur Norðursjávar og stefndi á leiðarstjörnu. En e.t.v. var gulls einnig að leita í þeirri átt, jafnvel öruggura gull, en þess, sem reyfarar greina frá. Hafið er vorúfið að þessu sinni, átt óstöðug og vindar snarpir. Áhöfn Hamborgarfarsins liggur auðsæilega allmikið á.
Vikum saman ann hún sér ekki hvíldar, en siglir og beitir ósleitilega, og skipið þokast norður og vestur yfir Atlantshaf. Vörður stendur stöðugt í körfunni á stórsiglunni og gefur nákvæma skýrslu um skipaferðir. En ekkert ber til tíðinda. Englendingar virðast liggja enn í heimahöfnum, þeir eru ekki lagðir í „sjóferðina löngu“ að þessu sinni, nema nokkrar skútur, sem eru komnar á miðin undan Færeyjum. E.t.v. ætla þær ekki lengra. Hansafarið siglir djúpt undan eyjunum, og skipstjórinn, Ludtkin Smith, kaupmaður í Hamborg fer sjálfur upp í stórsiglukörfuna og tekur mið, þegar þær hverfa í sæ.

Miðaldaskip

Skip Hansamanna á miðöldum.

Ludtkin Smith er maður um fertugt. Hann hafði nokkrum sinnum verið kaupmaður á Íslandsförum, en þetta er í fyrsta sinn, að hann er skipstjóri og foringi leiðangurs norður til eyjarinnar. Áður en hann lét úr höfn í Hamborg, hét hann ráðherra í borginni að vinna íslenzka höfn úr höndum Englendinga og drepa hvern þann, sem reyndi að hindra það áform sitt. Menn véfengdu ekki, að hann hefði fullan hug á því að standa við heitið, en hingað til höfðu Englendingar verið aðsópsmiklir á Íslandsmiðum og Þjóðverjum þungir í skauti.
Fyrir tæplega hálfri öld hafði frændi Ludtkins Smiths siglt þessa sömu leið og lent í Hafnarfirði á Íslandi kvöldið fyrir allrapostulamessu eða 1. maí. Við Straum, sunnan fjarðarins, lá skipið Vighe frá Lundúnum. Um nóttina vígbjóst skipshöfnin, létti akkerum og sigldi til Hafnarfjarðar. Í morgunsárið greiddu Englendingar aðför að Hansamönnum óviðbúnum, skutu nokkra til ólífis, en tóku skipið herskildi. Þeir ráku skipstjórann, Ludtkin Steen, og nokkra Þjóðverja með honum í skipsbátinn, en héldu 11 af áhöfninni um borð og sigldu með feng sinn til Írlands. Þar lentu þeir í Galway og seldu skipið, farm þess og fangana 11 nafngreindum Írum. Kröfum og kærum fyrir þetta Sjórán og mansal hafði ekki verið sinnt til þessa. Enn þá var veröldin lítið breytt og þrælamarkaðir á brezku eyjunum. Vopnabúnaður Hamborgarfarsins var því ekki ástæðulaus.

Miðaldaskip

Enskt miðaldaskip.

Árið 1511 höfðu Englendingar tekið Hamborgarfar við Ísland og farið með það og áhöfn þess til Húllar, en þaðan slapp skipstjórinn með miklum ævintýrum; hitt skipið tóku þeir í hafi.
Árið 1514 tóku þrjú ensk herskip Hamborgarfar í hafi á leið til Íslands, særðu skipstjórann og vörpuðu honum lifandi fyrir norð, og drápu nokkra af áhöfninni. Með skipið fóru þeir til Newcastle og héldu því í tvo mánuði. Að þeim tíma liðnum réðust Englendingar um borð í skipið, tóku stýrimann og hjuggu hann í stykki og vörpuðu þeim útbyrðis, einnig hálshjuggu þeir tvo háseta, en særðu 5 hættulega í ryskingum, sem urðu við ofbeldisverkin. Þannig voru 15 af áhöfn skipsins drepnir, þegar því var skilað að lokum með nokkrum hluta farmsins.

Rif

Rif á Snæfellsnesi.

Árið 1528 réðust 7 ensk skip á Hamborgarfar í höfninni að Rifi við Snæfellsnes, og tóku úr því öll vopn, byssur, púður og matvæli og meginhlutann af farmi þess. — Ári síðar réðst Englendingurinn Jón Willers frá Lynn á Hamborgarfar norður í Eyjafirði og sökkti því í hafið með 36 manna áhöfn.

Íslandskort 1590

Íslandskort 1590 -Abraham Ortelius.

Að lokum birtast hvítar jökulbungur yzt við sjóndeildarhring í norðri, og blásvört háfjöll teygja sig upp fyrir hafsbrún hvert af öðru. Ísland rís úr hafi í grárri vormorgunskímu, kaldranalegt en heillandi. Sjómenn töldu, að fjöll þess byggju yfir geigvænum töframætti, þau væru svo segulmögnuð, að þau soguðu skip upp að hafnlausum söndum og brytu þau í spón með því að draga að sér nagla úr byrðingum þeirra. Árlega fórust hér skip með ströndum fram, en samt sem áður hættu menn aldrei að sigla til Íslands, ef þá hafði einu sinni borið þangað. Í heimabyggðum þeirra lék það ekki á tveimur tungum, að Íslandsfarar yrðu fyrir gerningum; þar bjuggu seiðkonur í fjöllum.

Viðskipti

Teikning af fiskviðskiptunum fyrrum.

Hamborgarfarið hélt djúpt undan Vestmannaeyjum og stefndi fyrir Reykjanes. Nokkrar enskar duggur voru á leið inn til eyjanna, annars voru engin skip sjáanleg. Skipshöfnin hafði unnið kappsiglinguna til Íslands að þessu sinni og gat valið sér verzlunarhöfn samkvæmt því ákvæði íslenzkra laga, að sá á höfn, sem fyrstur lendir þar að vorinu. Á laugardagskvöldið fyrir páska hélt skipið að lokum inn á lónið að Básendum við Stafnes.
Höfnin að Básendum er langt og mjótt lón eða gjögur, sem skerst vestan í Romshvalanes innanvert. Siglingaleið inn á lónið er alllöng og tæp milli skerja, en fyrir innan er útfiri og þröng lega. Hér var því einu skipi gott að verjast.
Fyrir sunnan Básenda skerast svipaðir básar inn í nesið eins og Kerlingarbás, Kirkjuvogsbás og Blasíubás og Þórshöfn. Frá sumum þessum stöðum var dálítið útræði, og Básendar urðu verzlunarstaður Erglendinga á 15. öld, en Hamborgarar náðu höfninni sum árin seint á öldinni. Verzlunarbúðir voru norðan hafnarinnar, og þar lagði Ludtkin Smith skipi sínu við fjögur akkeri og lét binda landfestar eftir því sem menn kunnu bezt.

Hvalsnes

Hvalsnes – herforingjaráðskort frá 1908.

Daginn eftir voru heilagir páskar og guðsþjónustur í kirkjunni að Hvalsnesi og Kirkjuvogi, en menn Ludtkins Smiths unnu að því að skipa upp vörum og búa um skipið á legunni, en gerðu sér síðan glaðan dag. Þegar leið á daginn, sáu þeir, að skip kom af hafi og stefndi til Básenda. Þeir tygjuðust þegar til varnar, ef óvinir væru á ferð, en komumenn felldu segl og vörpuðu akkerum fyrir utan höfnina. Skömmu síðar var báti róið frá skipinu að Hamborgarfarinu, en á honum var enskur kaupmaður að nafni Thomas Haerlack, auk stýrimanns. Þeir Ludtkin tóku þeim félögum vel og glöddu þá með mat og góðum bjór. Þeir fréttu, að hér var komið skipið Anna frá Harwich í Englandi, um 120 lestir að stærð og með um 80 nanna áhöfn.

Básendar

Básendar.

Englendingar höfðu lagt úr höfn þann 15. marz og hreppt mjög hagstætt veður Þeir báðu leyfis, að mega leggjast á höfnina, en þeirri málaleitan tók Ludtkin Smith þunglega. Hann bað þá félaga að skila aftur til manna sinna, að þeim væri ráðlegast að leita sér annarrar hafnar, því að skip þeirra væri svo stórt, að nægur fiskur yrði ekki fáanlegur í bæði skipin að Básendum.

Básendar

Básendar – festarhringur.

Hann benti þeim á, að allar hafnir við Ísland stæðu opnar hverjum sem vildi, og væru frjálsir verzlunarstaðir þeim, sem þangað kæmu fyrstir að vorinu. Samkvæmt þeirri hefð sagðist Ludtkin eiga einkarétt til Básendahafnar að þessu sinni, en þar að auki hefði hann heitið Hinriki nokkrum Berndes, kauppláss hjá sér í íslenzkri höfn, ef hann yrði á undan honum til landsins. Ludtkin Smith fór um það mörgum fögrum orðum, að hefðu Englendingar orðið fyrri til hafnar við Ísland að þessu sinni, þá hefði hann hvorki vænzt þess né krafizt af þeim, að þeir vikju úr höfninni fyrir sér, og nú ætlaðist hann til þess sama af Englendingum. Þeir Thomas Haerlack tóku vel boðskap Þjóðverja og kváðust ekki ætla að bíða boðanna, en sigla tafarlaust til Grindavíkur, þegar hann gengi í norður og byr gæfi. Síðan kvöddust þeir með virktum, og héldu. Englendingar út í skip sitt.

Básendar

Reykjanesskagi – kort.

Það var allt kyrrt og friðsamt við Básenda næstu nótt; enska skipið sýndi einungis ekki á sér neitt fararsnið. Á annan í páskum kom enn skip af hafi og stefndi til Básendahafnar. Þar biðu menn Ludtkins óþreyjufullir eftir því að sjá, hvers konar skip hér væri á ferð. Undir kvöld kom það að höfninni og varpaði þegar akkerum við hliðina á Önnu frá Harwich. Hér var komið frægt Íslandsfar, Thomas frá Húll í Englandi. Því hafði lengi verið haldið til Íslands og háð þar marga hildi. Frægasta afrek þess var að sökkva Hamborgarfari með allri áhöfn norður í Eyjafirði 1529. Að þessu sinni hafði skipstjórinn, Jón Willers, bundizt samtökum við Thomas Hamond, skipstjóra á önnu frá Harwich, og höfðu þeir lagt samtímis úr höfn í Lynn í Englandi, en dregið í sundur með þeim á leiðinni.

Básendar

Básendar – bærinn.

Skipið Thomas frá Húll var 60 lestir að stærð og með 52 manna áhöfn. Aðalfarmur beggja ensku skipanna var salt, og voru 24 lestir í Thomasi frá Húll. Hins vegar var þýzka skipið hlaðið drykkjarföngum, mjöli, malti, smjöri og hunangi. Hansafarið var kaupskip, hingað komið til þess að stunda verzlun, kaupa skreið í skiptum fyrir varning sinn. Ensku skipin voru hins vegar aðallega komin hingað norður til þess að stunda fiskveiðar og útgerð, en til þeirra hluta voru þeim nauðsynlegar bækistöðvar á landi. Af þeim sökum voru áhafnir enskra skipa miklu fjölmennari en þýzkra, því að Englendinga beið hér umfangsmeira starf en Þjóðverja.

Básendar

Báendar – tóftir bæjarins.

Englendingar voru flestir með smávöruslatta í skipum sínum til þess að geta drýgt eigin afla með verzlun við Íslendinga. Það var því ekki nema að nokkru leyti rétt hjá Ludtkin Smith, að næg skreið fengist ekki á Básendum í skipið Önnu frá Harwich, því að Englendingar ætluðu að draga fiskinn að mestu leyti sjálfir, og Básendar liggja vel við góðum miðum. Englendingar höfðu lagt svo snemma í „löngu sjóferðina“ að þessu sinni til þess að njóta síðari hluta vorvertíðarinnar við Suðurland. En þeir þurftu höfn til útgerðarinnar engu síður en til verzlunar, og nú lágu þeir fyrir framan höfnina, en fyrir innan lá eitt Hansaskip og bannaði þeim hafnarvist.

Básendar

Básendar – drónamynd.

Thomas Hamond, skipstjóri á Önnu frá Harwich, steig þegar í skipsbátinn, er Thomas frá Húll hafði varpað akkerum, og fór að hitta landa sína og félaga. Honum var vel tekið, og bundust Englendingar samtökum um að ráðast á Hamborgarfarið og ræna það. Þeir töldu sig hafa mikla yfirburði yfir Þjóðverja í skipum og mannafla, og ákváðu að drepa hvern þann, sem veitti þeim mótþróa, en hengja Ludtkin Smith á bugspjótinu. Einnig segir í þýzkri skýrslu um þetta mál, að Englendingar hafi boðið Íslendingum að koma til veizlu að Básendum, því að þar yrði Þjóðverjakjöt á borðum næsta dag.

Básendar

Básendar – minjar.

Inni á höfninni lágu Ludtkin Smith og félagar hans ekki aðgerðarlausir. Bróðir Ludtkins, Hans Smith, hafði legið að Básendum um veturinn og keypt skreið af mönnum. Hann var uppi við búðimar og tók á móti varningnum, sem skipað var á land. Nú fékk Ludtkin hann til þess að safna 80 manna liði Þjóðverja og Íslendinga og vera við öllu búinn án þess þó að láta mikið á liðsafnaðinum bera. Ludtkin vildi gjarnan að Englendingar gengju í gildru og honum gæfist kostur á að launa Jóni Willers fyrir margs konar hrellingar og ofbeldisverkin norður á Eyjafirði.

Básendar 1726

Básendahöfn og Keflavíkurhöfn 1726.

Snemma á þriðjudagsmorgun 2. apríl lét Thomas Hamond á skipinu Anna frá Harwich vinda upp segl og létta akkerum, en í stað þess að sigla suður með landi til Grindavíkur, eins og menn hans höfðu talað um, þá hélt hann inn á höfnina á Básendum. Þegar styrjaldir hefjast, er venjulega vant að fá úr því skorið, hver hleypti af fyrsta skotinu, og svo er hér. Ludtkin Smith ber það síðar, að Thomas Hamond hafi siglt inn á Básendahöfn þennan morgun í fögru veðri og fyrir hagstæðum byr og tekið formálalaust að skjóta á stjórnborðshliðina á skipi sínu með bogum, fallstykkjum og kastspjótum og eyðilagt stafn og skut á skipinu og allt að þeim hluta þess, sem nefnist búlki. Hins vegar segjast Englendingar hafa neyðzt til þess að leita hafnar að Básendum sökum óveðurs, en þar hafi Ludtkin Smith ráðizt á þá óvara með skothríð. Að öðru leyti ber enskum og þýzkum skýrslum sæmilega saman um atburðarásina.

Básendar

Frá Básendum.

Þótt Ludtkin hafi e.t.v. ekki hleypt af fyrsta skotinu, þá er það víst, að Anna frá Harwich hafi ekki siglt langt inn á Básendahöfn, þegar hann lét senda henni innihald fallstykkja sinna og skipshöfn hans hóf skothríð með öllum þeim vopnum, sem henni voru til tæk. Í þessari hrotu féll Thomas Hamond skipstjóri fyrir skoti, en kúlnahríð Þjóðverja var svo nærgöngul við lyftinguna aftan til á skipinu, að stýrimaðurinn hrökklaðist frá stjórnvölnum. Þá ætluðu skipverjar að kasta út akkeri til þess að forða árekstri, er skipið rak stjórnlaust, en Þjóðverjum tókst að höggva akkeriskaðalinn sundur fyrir þeim, svo að skipið rak suðaustur yfir lónið og strandaði. Í þessum svifum kom Thomas frá Húll fyrir fullum seglum og réðst með skothríð framan að Hansafarinu. Þeim tókst að slíta eina akkerisfesti, sem skip Ludtkins var fest með, en komu krókstjökum á bugspjótið og greiddu þar atlögu. Í þessu áhlaupi féllu tveir Þjóðverjar, varð annar fyrir skoti, en hinn rekinn í gegn, og margir særðust. Ludtkin tók það fangaráð að höggva bugspjótið af skipi sínu og losa sig þannig úr tengslum við enska skipið, en jafnframt hófu menn hans ofsalega skothríð að því.

Básendar

Básendar – loftmynd.

Sökum vigamóðs gætti Jón Willers ekki að því, hvað var að gerast, en skip hans rak suður yfir lónið. Maður nokkur hljóp þá til og ætlaði að varpa út akkeri, en var skotinn til bana, og sá næsti, sem reyndi féll óvígur. Skipið kenndi brátt grunns sunnan hafnarinnar, og skipaði Jón Willers mönnum sínum að róa út með akkeri í skipsbátnum og ná skipinu út á næsta flóði. Ludtkin beindi strax skothríð að skipsbátnum, svo að Englendingar gáfust upp við þá fyrirætlun, þegar einn af mönnum þeirra var fallinn og báturinn laskaður. Þar með voru bæði ensku skipin strönduð, annað innst á höfninni, en hitt sunnan hennar vestarlega á lóninu. Norðan til á höfninni lá Hamborgarfarið og beindi skothríð að skipi Jóns Willers, en á landi beið lið Hans Ludtkins albúið að taka á móti Englendingum, ef þeir reyndu að yfirgefa skipin.

Básendar

Festarkengur á Básendum.

Allan þriðjudaginn sátu Englendingar í herkví á skipum sínum og biðu flæðar á miðvikudagsnóttina, en þá ætlaði Jón Willers að gera nýja tilraun til þess að ná skipi sínu út, en tilraunin misheppnaðist. Vindur var norðlægur og skipið hrakti einungis lengra upp á grynningarnar. Hins vegar tókst áhöfninni á Önnu frá Harwich að ná skipinu út á flóðinu og leggja því við akkeri, og létu Þjóðverjar það afskiptalaust. Anna komst ekki úr höfninni nema með því að sigla rétt hjá Hamborgarfarinu, og Þjóðverjar vissu, að Englendingum þótti sú leið ekki greiðfær, eins og sakir stóðu. Öðru hverju kallaði Ludtkin til Englendinga að gefast upp skilyrðislaust, aðstaða þeirra væri vonlaus.

Básendar

Básendar – festarhringur.

Allar heimildir gefa til kynna, að Englendingar hafi verið nokkru liðfleiri en Þjóðverjar í þessari orustu, en hamingjan var þeim ekki hliðholl, og á miðvikudagsmorgun tilkynntu þeir Jón Willers og Robert Legge, er tekið hafði við stjórn á Önnu frá Harwich eftir fall Thomasar Hamonds skipstjóra, að þeir væru fúsir að koma til friðarsamninga.

Básendar

Básendar – bærinn.

Þegar þeir voru komnir um borð í Hansafarið, kúgaði Ludtkin Smith þá til þess að bjóða skipshöfnum sínum að láta öll vopn af hendi við Þjóðverja. Þessu var hlýtt, og voru vopnin flutt um borð í skip Ludtkins. Að því búnu skipaði hann mönnum sínum að fara um borð í skipið Thomas frá Húll og tæma það af öllu fémætu. Skipið stóð nú að mestu á burru um fjöru, svo að Þjóðverjum var greið leið að skipinu, en Englendingar snerust enn til varnar, þótt þeir hefðu fátt vopna. Ludtkin lét þá höggva gat á byrðinginn og menn sína ganga þá leið inn í skipið og ræna. Nú var ekki um annað að gera fyrir áhöfnina en flýja á land upp. Þar umkringdu Þjóðverjar þá og tóku tvo þeirra, sem þeir töldu sakbitnasta fyrir margs konar ofbeldisverk, m.a. fyrir að hafa átt drjúgan þátt í að sökkva Hamborgarfarinu norður á Eyjafirði árið 1529. Þessa menn lét Ludtkin hálshöggva, en misþyrmdi öðrum tveimur og skilja þá eftir klæðlausa, nær dauða en lífi. Meðan á þessu gekk, fékk skipið Anna frá Harwich að liggja í friði á höfninni við Básenda.

Básendar

Letursteinn við Básenda.

En nú kom röðin að því, meðan orustan stóð, að Ludtkin sendi sendiboða til Hafnarfjarðar og bað þýzka kaupmenn í firðinum að koma til Básenda og gera um deilur sínar og Roberts Legge og félaga hans. Þeir bregða við og koma til Básenda, en þar var Robert Legge neyddur til að skrifa undir skýrslu, sem Þjóðverjar sömdu um atburðina, en einnig urðu þeir að afhenda allan varning sinn úr skipinu og greiða 40 lestir skreiðar í skaðabætur.

Básendar

Kengur á Básendum.

Skreiðina afhenda þeir þann 16. maí, og fengu þeir þá að halda skipi sínu og töldust lausir allra mála fyrir þátttöku í orustunni að Básendum. Eftir það sigldu þeir burtu, en Erlendur lögmaður Þorvarðarson lét tylftardóm ganga um ,,skip það og góss, sem rak á land við Básenda í bardaga milli Ludtkins Smiths og Jóns Willers“ og dæmist það réttilega fallið undir konung.

Básendar

Básendar – merki um friðlýstar minjar.

Þar með voru þessir atburðir úr sögunni í bráð, en ýmsir aðrir áttu eftir að gerast. Seint í apríl kom skipið Thomas frá Lundúnum að Rifi á Snæfellsnesi, en þar lá fyrir Hamborgarfar á sama hátt og við Básenda. Englendingar gerðu út bát á fund skipstjórans á Hansaskipinu og báðu leyfis að mega koma inn á höfnina, en fengu synjun. Þá héldu Engiendingar til Grundarfjarðar og lágu þar í þrjár vikur og veiddu og verzluðu. Að þeim tíma liðnum kom þar skip frá Brimum ásamt Hamborgarfarinu, sem lá við Rif. Í þrjá eða fjóra daga lágu Hansaskipin á Grundarfirði og höfðust ekki að, en þann 20. maí lögðu þau að landi. Fjörutíu eða fimmtíu manns gengu af skipunum og héldu þangað, sem Englendingar voru með búðir sínar. Þjóðverjar réðust með alvæpni inn í búðirnar, brutu upp kistur kaupmanna og höfðu allt fémætt á braut með sér. Síðan fóru þeir um borð í enska skipið og tóku þaðan öll vopn og skotfæri.

Hér er um beint rán að ræða, en nú voru nýir og miklu alvarlegri atburðir á döfinni. Til er staðfest afrit, en ódagsett, af bréfi þýzkra skipstjóra og kaupmanna í Hafnarfirði til ráðsins í Hamborg. Þar segir, að Englendingar í Grindavík hafi tekið fisk, sem Hansamenn höfðu keypt og greitt. Þjóðverjar segjast vilja, að ráðinu sé kunnugt, að þeir ætli að ná fiskinum með valdi og leggja líf og góss í sölurnar. Þeir æskja liðsstyrks og bjóða ráðinu hluta í herfanginu.“

Heimild:
-Faxi, 7. tbl. 01.12.1980, Básendaorustan 1532 – Björn Þorsteinsson, bls. 242-243 og 191.

Básendar

Básendar – uppdráttur ÓSÁ.

Krýsuvík

„Hvort er réttara að skrifa „Krýsuvík“ eða „Krísuvík„? Báðar útgáfur af þessu orði koma fyrir í fræðiritum og frásögnum.

Húshólmi

Húshólmi og Gamla-Krýsuvík.

Í Landnámu (Íslensk fornrit I:392 og víðar) og fornbréfum er nafnið ritað Krýsuvík. Uppruni þess er óviss. Alexander Jóhannesson taldi að forliður nafnsins gæti verið Crisa, fornháþýskt kvenmannsnafn (Über den Namen Krýsuvík. Mittelungen der Islandfreunde 1929, bls. 36-37). Líklegra er þó að nafnið sé dregið af germanskri rót sem merkir ‘beygja’ og hafi vísað til lögunar víkurinnar (Ásgeir Blöndal Magnússon, Íslensk orðsifjabók, bls. 510 og 512).

Dysjar

Dysjar Krýsu, Herdísar og smalans í Kerlingadal.

Engin vík heitir nú Krýsuvík þar sem Ögmundarhraun rann yfir bæinn Gömlu-Krýsuvík og í víkina. Næsta vík austan við er nefnd Hælsvík en ekki er vitað hversu gamalt það nafn er eða hvort hún var hluti Krýsuvíkur.

Krýsuvík

Krýsuvík – strandlínan fyrrum; tilgáta.

Miðað við elsta rithátt nafnsins í Landnámu þykir mér því réttara að skrifa Krýsuvík. Þjóðsagan um Krýsu eða Krýsi og Herdísi í Þjóðsögum Jóns Árnasonar (2. útg. I:459-461) er vafalítið til orðin út frá nöfnum víkanna. Þjóðsöguna má lesa með því að smella HÉR.“
Við þetta má bæta að danska orðið „krys“ merkir vík eða skora, sbr. skora í ask.

Heimildir:
-https://www.visindavefur.is/svar.php?id=6532
-Svavar Sigmundsson, fyrrv. forstöðumaður Örnefnastofnunar.

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja.

/https://ferlir.is/landid-og-framtidin-krysuvik/

Garðar

Gísli Sigurðsson skrifar um „Garða á Álftanesi“ í Alþýðublað Hafnarfjarðar 1972:

Gísli Sigurðsson

Gísli Sigurðsson.

„Lengi hefur það verið rnér undrunarefni, hve fáskrúðugar eru sagnir úr landnámi Ingólfs Arnarsonar hér við Faxaflóa. Segja þó bækur, að Ingólfur hafi verið frægastur allra landnámsmanna. Verður og ekki annað sagt um þá frændur, en þeir hafi frægir orðið: Þorsteinn sonur hans stofnar fyrstur til þinghalds og hurfu margir að því ráði með honum, Þorkell máni sonur Þorsteins var lögsögumaður og um hann hafa myndast næstum því helgisögur, og niðjar þeirra í karllegg voru allsherjargoðar og helguðu alþing á hverju ári. Séu nú sagnirnar héðan úr umhverfinu athugaðar, sjáum við, að mikið tóm blasir við okkur.
Hrafna-Flóki og þeir félagar koma við hér í Hafnarfirði, þegar þeir halda brott eftir misheppnaða tilraun til landnáms.

Landnám

Landnám Ingólfs.

Þá kemur Ingólfur Arnarson og nemur hér land og setur bústað sinn í Reykjavík. Gaf hann síðan land frændum sínum og vinum, er síðar komu. Um landnám næsta nágranna segir Landnámabók: Ásbjörn Össurarson, bróðurson Ingólfs, nam land milli Hraunsholtslækjar og Hvassahrauns, Álftanes allt, og bjó á Skúlastöðum. — Líklega hefur Ásbjörn komið hingað á árunum 890 til 900, en þá var hingað mest sigling.
Síðan líða um 300 ár, að því nær ekki er minnzt á þetta landssvæði. Þá segir svo í kirknatali Páls biskups, en það er tekið saman nálægt 1200: Þá er Hafnarfjörður og þá er Álftanes. Kirkja í Görðum og á Bessastöðum.

Garðar

Garðar og nágrenni.

Viðfangsefni mitt nú er að ræða lítilsháttar um annan þessara staða; Garða á Álftanesi.
Áður en lengra er haldið, skulum við staldra við frásögn Landnámuum Ásbjörn Össurarson. Landnám hans nær milli Hraunsholtslækjar og Hvassahrauns, það er yfir Álftaneshrepp hinn forna, það svæði, sem nú skiptist í Álftaneshrepp, Garðakauptún, Hafnarfjörð og Hraunin.
Ásbjörn bjó á Skúlastöðum, er sagt. En hvar voru Skúlastaðir? Af þeim fáu nöfnum, sem kunnug eru héðan úr nágrenninu frá fornri tíð, eru nokkur, sem enginn veit nú hvar eiga við. En það verður að teljast með einsdæmum, að nafnið á bústað landnámsmanns sé glatað.

Garðar

Garðar árið 1900.

En eru, þá nokkur líkindi til, að þann stað megi finna, sem Ásbjörn bjó á, Skúlastaði? Nokkuð sérstætt er nafnið. En það kemur á óvænt, því að hvergi verður Skúla-nafnið fundið meðal frænda Ingólfs eða afkomenda þeirra. Engum blöðum er um það að fletta, að býlið hefur verið einhvers staðar á svæðinu milli Hraunsholtslækjar og Hvassahrauns.

Garðar

Garðar. Nýibær framar.

Nokkuð öruggt er, að bústaðir landnámsmanna verða er fram líða stundir höfðingjasetur og flestir kirkjustaðir. Til þess að verða höfðingjasetur og kirkjustaður þurfti jörðin að vera allstór, ekki minni en 40 hundruð, segja mér fróðir menn. Hvar er þá þessa lands, þessa stóra staðar að leita hér í umhverfi okkar? Sunnan fjarðar er slíkan stað varla að finna. Ofanbæirnir koma naumast til greina, og þótt búsældarlegt hafi oft verið um Álftanes sjálft, þá stöldrum við varla við þar.

Bessastaðir

Bessastaðir.

Til dæmis eru Bessastaðir ekki nema 8 hundruð að fornu mati. Þá er ekki nema einn staður, sem nefna mætti stóran stað og þar sem síðar verður kirkjustaður með höfuðkirkju. Staður sá, sem mér finnst líklegastur til að hafa verið Skúlastaður og bústaður Ásbjarnar, er því Garðastaður. Héðan er fagurt að sjá til allra átta. Hér er gróðursæld og hér er gjöfull sjór fram undan. Í upphafi kristniboðs á Íslandi var þeim höfðingjum, er kirkjur reistu, lofað, að þeir skyldu hafa svo mikil mannaforráð á himnum sem menn rúmuðust í kirkju þeirra. Varð því margur höfðinginn til þess að reisa kirkju á bæ sínum. Til þess að reisa slík hús sem kirkjur voru þurfti og nokkur efni. Þá þurfti kirkjueigandinn að halda prest, en slíkir prestar voru oft eins konar vinnumenn höfðingja.

Garðakirkja

Garðakirkja 1879.

En hafi nú nafnið Skúlastaðir horfið fyrir nafninu Garðar, hver var þá orsökin? Fróðir menn segja mér, að margt bendi til, að allmikil akuryrkja hafi verið stunduð hér um slóðir, um allt Álftanes, allt fram undir siðaskiptin um miðja 16. öld. Benda þar til nokkur örnefni, svo sem Akurgerði í Hafnarfirði, Akrar við Breiðabólstaði og Akurgerði þar í túni, Tröð, sem er bær á nesinu, og Sviðholt, en því er það nafn, að jörð var þar brennd eða sviðin undan sáningu. Þá er hér einnig víða að finna örnefni eins og Gerði og Garða. Þannig voru akrar varðir til forna, að kringum þá voru hlaðnir garðar, bæði til skjóls og til varnar ágangi fénaðar. Geta má þess til, að Ásbjörn og afkomendur hans hafi látið gera akra og haft akuryrkju ekki litla, garðar miklir hafi verið hlaðnir, og þannig hafi Skúlastaðanafnið grafizt undir görðum og hafi þá orðið til Garðar á Álftanesi. Og staðreynd er, að hér var um aldir stór staður og prestssetur.
Næst eftir að getið er um Garða i kirknatali Páls biskups, er þeirra minnzt í Sturlungu, þar sem segir, að 1264 hafi Gissur jarl riðið á Kjalarnes og gist að Einars bónda Ormssonar í Görðum. Var honum þar vel tekið og var hann þar nokkrar nætur.

Ísólfsskáli

Ísólfsskáli – Leitukvennabásar.

Þá er þess getið næst, að þrír menn í Grindavík bera vitni um reka Garðastaðar 1307: Garðastaður á reka bæði rekaviðar og hvalreka á fjörum austan við Ísólfsskála milli Rangjögurs og í Leitukvennabása. Þegar þetta gerðist, er hér þjónandi prestur séra Jón Þórðarson, en herra Haukur hafði þá sýslu.

Garðakirkja

Garðakirkja 1925.

Enn líður nokkur tími eða fram undir aldamótin 1400. Þá tekur nokkuð að rofa til. 1395 lætur Vilchin biskup í Skálholti gera máldaga flestra kirkna í Skálholtsbiskupsdæmi. Ég held að segja megi, að þá sé staðurinn i Görðum og kirkjan nokkuð vel sett að andlegum hlutum og veraldlegum.

Garðar

Garðakirkja 2022.

Er ekki úr vegi að taka hér upp þetta ágæta plagg, máldaga Garðakirkju. „Péturskirkja í Görðum á Álftanesi á heimaland allt, Hausastaði, Selskarð, Hlið, Bakka, Dysjar, Hraunsholt, Hjallaland, afrétt í Múlatúni. 18 kýr, 30 ásauða, 7 naut tvævetur, 6 naut veturgömul, 2 arðuryxn. 6 hross roskin, 16 hundruð í metfé. 10 sáld niður færð. 6 manna messuklæði, utan einn corporale brestur, og að auki 2 höklar lausir, annar með skínandi klæði, en annar með hvítt fustan. 3 kantarakápur, 2 altarisdúkar búnir. 6 altarisklæði og eitt skínandi af þeim. 2 dúkar stangaðir. 2 fordúkar. Skrínklæði lítið. 3 sloppar. Smelltan kross og annan steindan fornan. Koparskrín gyllt. Huslker af silfri. Gylltan kross lítinn. Paxspjald steint. Brík yfir altari. Kertastikur 3 úr kopar. Járnstikur 2. Bakstursjárn vont. Item sæmiiegt Ampli. Klukkur 5. Kaleikar 3, 2 lestir og hinn þriðji forgylltur. Maríuskrift. Pétursskrift. Merki eitt. Sakrarium mundlaug. 1 stóll. 2 pallkoddar. Fornt klæði og skírnarsár. Tjöld vond um kór og dúklaus. 2 reflar vondir um framkjrkju. Glóðarker. Graduale per anni circulum. Lesbækur út 12 mánuði þar til pistlar og guðspjöll, per anni circulum með collectario. Liber Evangeliorum. Omilie Gregorii Actis Apostolorum. Apocalipsis. Passionarius Apostolorum et eliorum santcorum. Altarisbók, Psaltari. Söngbók de tempore frá páskum til adventu. Forn sequentiubók. Messufatakista ólæst. Eins og vænta mátti er hér um eitt bezta heimildargagn að ræða“.

Garðar

Garðar fyrrum.

Hér er í fyrsta skipti getið þeirra býla, er heyra staðnum til: Hausastaðir, Selskarð, Hlið, Bakki, Dysjar, Hraunsholt, Hjallaland og upprekstur í Múlatún. Til skýringar á Hjallalandi vil ég geta þess, að hér mun átt við svæði sunnan Grunnuvatna milli Sneiðinga innst á Vífilstaðahlíð og landamerkja Vatnsenda, skammt vestan til við fjárborgina góðu, Vatnsendaborg.

Vatnsendaborg

Vatnsendaborg.

Þá er vert að veita því athygli, að getið er um 2 arðuryxn gömul. Arðuryxn geta ekki verið annað en yxn, sem draga arð, plóg við akuryrkju. 10 sáld niður færð! Getur hér varla verið um annað að ræða en að sáð hafi verið korni úr 10 sáldum. Hér hefur þá verið nokkur akuryrkja á staðnum.
Og hvað um kirkjubúnaðinn? Er hann ekki sæmilegur? Myndum við ekki verða hýrir á svip, ef fyrir framan okkur lægju gripir þessir. En látum okkur nægja að sjá þá aðeins með innri sjónum.
Frá árinu 1477 er til ágrip af máldaga. Ber honum það sem hann nær algerlega saman við Wilchinsmáldaga. Þó er kirkjan orðin einu messuklæði fátækari.

Vatnsendaborg

Vatnsendaborg.

Næst verður fyrir okkur fróðlegt bréf frá 1558 um viðskipti staðarins við hans Majestet konunginn og umboðsmann hans. Er það all-fróðlegt: Eg Knut Stensen, kongleg Majestetz Byfalingsmaður yfir allt Ísland, kennist með þessu mínu bréfi, að ég hef gjört svoddan jarðaskipti upp á konglig Majestetz vegna við síra Loft Narfason, kirkjunnar vegna í Görðum á Kongsnesi, að ég hef undir kongsins eign til Bessastaða tekið jörðina Hlið er liggur á Kóngsnesi, er þar í landskyld í málnytukúgildi og ein mjöltunna.

Vífilsstaðir

Vífilsstaðir – gamli bærinn.

En þar hefur hann fengið til kirkjunnar í Görðum Viðeyjarklaustursjörð, er heitir Vífilsstaðir í Bessastaðasókn. Tekst þar af landskylda og málnytukúgildi. Og fyrir mismun landskyldanna hefi ég lofað og tilskikkað fyrrnefndum síra Lofti eður Garðakirkju umboðsmanni eina tunnu mjöls á Bessastöðum, að hún takist þar árlega af kóngsins mjöli.
Skal það fylgja hvorri jörð, sem fylgt hefur að fornu og nýju. Skulu þessi jarðaskipti óbryggðanlega standa og vera hér á báðar síður, utan konglig Majestet þar öðruvísi umskipti á gjörir eða skykkan. Samþykkti þessi jarðaskipti herra Gísli Jónsson Superindentent yfir Skálholts stikti. Og til staðfestu og auðsýningar hér um, að svo í sannleika er sem hér fyrir skrifað stendur, þrykki ég mitt signet á þetta jarðaskiptabréf. Skrifað á Bessastöðum 4. dag júlí-mánaðar, Anno Domini 1558. Þá kemur neðan máls ekki ófróðleg klausa um viðskipti við Konglega Majestet og hans Byfalingsmenn. Þessa mjöltunnu hafa prestar í Görðum misst síðan í tíð höfuðsmanns Einvold Krus af óvild, inn féll milli hans og síra Jóns Krákssonar í Görðum.

Steinhes

Steinhes.

Að þetta ofanritað sé rigtug og orðrétt Copia eftir originalnum og höfuðsmannsins bréf vottum vér sem saman lásum og originalinn sjálfan með undirsettu innsigli höfuðsmannsins Knutz Steinssonar sáum og yfirskoðuðum að Görðum á Kóngsnesi 19. júní anno 1675.

Garðabær

Garðabær – mörk.

Það næsta, sem fyrir okkur verður varðandi Garðakirkju og Garðastað, er að finna í Visitasíubók hans herradóms Brynjólfs biskups Sveinssonar frá 19. sept. 1661 og fjallar um lögfesti á landamerkjum Garðastaðar: Landamerki Garðastaðar eftir lögfesti síra Þorkels eru þessi: Syðri Hraunbrún hjá Norðurhellum og svo suður eftir Smyrlabúðarhraunsjaðri í miðjan Kethelli og svo hraunið allt fram að Steinhesi, svo beint úr Steinhesinu og upp í Syðri-Kaldárbotna og allt Helgafell og í Strandartorfur og í Húsfell. Úr Húsfelli og í Hnífhól og úr Hnífhól og heim í Arnarbæli. Datum Bessastöðum 1661 Jónsmessudag sjálfan.

Jón Halldórsson og Jón Jónsson

Item lagði nú síra Þorkell Arngrímsson fram vitnisburðarbréf síra Einars Ólafssonar og Egils Ólafssonar og Egils Einarssonar með þeirra áþrykktum innsiglum, datum Snorrastöðum í Laugardal næstan eftir Maríu-messu á jólaföstu anno 1579, að Garðastaður ætti land að læknum fyrir sunnan Setberg, sem er sá lækur sem rennur milli Stekkatúns og Setbergs og allt land að þeim læk, er menn kalla Kaplalæk.

Hamarskot

Hamarskot fyrrum – tilgáta.

Og það Stekkatún, sem er sunnan við greindan læk, byggði síra Einar ætíð með Hamarskoti, og með sama hætti þeir sem enn fyrr bjuggu í Görðum en hann, og aldrei heyrði hann þar orðtak á að Setberg ætti nokkurt ítak í Hamarskotslandi eður neinstaðar í Garðalandi.
Þessu næst koma svo útdrættir gerðir af síra Árna Helgasyni.

Um Garðastað

Fiskaklettur

Fiskaklettur.

Kirkjan á einnig Hjallaland og afrétt í Múlatúni, bæði eftir vísitazíu og máldögum. Plagg þetta er frá 25.8.1780. Þá er vitnað til bréfs undirskrifaðs 1701, og er svo hljóðandi: Nú koma nokkrar afskriftir af máldögum Garðakirkju og þar á meðal eitt er kallast: Nýtt Registur 1583. Svo hljóðandi: Kirkjan í Görðum á Álftanesi á 20 kúgildi, einn hest. Þessar jarðir: Ás, Setberg, Vífilsstaði, Dysjar, Nýjabæ, Selskarð, Akurgerði, Hlið, Hamarskot, Bakka, Hausastaði, Pálshús, Oddshús, Hraunsholt.

Ás

Ás – gamli bærinn.

Hvernig Ás og Setberg er undan gengið veit ég ekki, né heldur hvar Oddshús hafa verið. Síðan koma skriftir um skóga og skógaítök og svo undirskriftir. Það fer eins fyrir mér og séra Árna. Ekkert veit ég um Ás utan það, að 1703 á konungur hluta jarðarinnar. En það held ég að ég viti um Setberg, að það sé ein sú jörð, sem slapp í gegnum netið, að hvorki lenti í eigu nokkurrar kirkju né í eigu Viðeyjarklausturs. Hún var alltaf bændaeign. Oddshús tel ég aftur á móti að hafi verið þar sem síðar var Oddakot. Oddakot var austast á eyju þeirri, sem nefnzt hefur Hliðsnes. Má þar enn sjá marka fyrir rústum kotsins. Til skamms tíma lifði hér í Hafnarfirði fólk, sem borið var og barnfætt Í Oddakoti.

Setberg

Gamli Setbergsbærinn.

Eftir að Árni biskup Helgason gerir á margvíslegan hátt hreint fyrir sínum dyrum og kirkjunnar í Görðum með upprifjunum og afskriftum af bréfum og máldögum staðarins, er hljótt um stund, eða allt þar til hingað kemur sá mæti klerkur Þórarinn Böðvarsson.

Akurgerði

Akurgerði fyrrum.

Hann hafði ekki lengi setið staðinn, er hann hóf að grannskoða, hvernig háttað væri um eignir Garðastaðar. 1871 fær hann settan rétt til að rannsaka, hve mikið land tilheyrði verzlunarlóðinni, lóð Akurgerðis, sem upphaflega var hjáleiga frá Görðum. En 1677 höfðu farið fram með vilja konungs makaskipti á hjáleigunni og jörð vestur í Kolbeinsstaðahreppi. Bjarni riddari Sivertsen hafði keypt jörðina af konungi, en Knudtzon stórkaupmaður keypti af dánarbúi Bjarna. Munu engin mörk hafa þar verið sett í milli. Vitnisburðir þeir, sem fengust við þessa athugun, eru gagnmerkir, en verða ekki upp teknir hér nú. Eftir að rannsókn hafði farið fram, var málið lagt í dóm — eða til sáttar. Sú sáttargjörð var svo birt árið 1880. Voru þá landamerki samin milli fyrrum hjáleigunnar Akurgerðis og Garðakirkjulands. Voru þau þessi: Fyrst: Klöpp undir brúnni yfir lækinn niðri í fjöru. Varða á svonefndum Ragnheiðarhól. Varða hjá bænum Hábæ í Hrauni. Varða ofanvert við Hólsbæina á Stakkstæði. Varða hjá Félagshúsinu, rétt við Fjarðarhelli. Varða hjá Veðurási. Varða á hól vestan Kristjánsbæjar, og þaðan beina línu í Fiskaklett.
HafnarfjörðurNokkra skýringu munu þessir staðir þurfa. Klöppin undir brúnni: Klöpp þessi liggur nú undir austurvegg Pósthússins í Hafnarfirði.
Ragnheiðarhóll: Þar er nú risið hús Olivers Steins. Hábær: Hann stóð þar sem nú eru Rafveituskrifstofur.

Hafnarfjörður

Varða við Vörðustíg.

Varða ofan Hólsbæjar var við húsið nr. 2 við Urðarstíg. Félagshúsið er nr. 7 við Hellisgötu. Veðurás eru húsin nr. 9 og 11 við Kirkjuveg. Varðan vestan Kristjánsbæjar: Við hana er Vörðustígurinn kenndur, og er hún eina merkið, sem enn stendur. Og Fiskaklettur stendur enn snoðinn nokkuð rétt við Vöruskemmu Eimskipafélags Íslands. Sú trú er nú kominn á þann klett, að ógæfumerki sé að hrófla við honum.
Eftir þetta verða litlar breytingar á högum Garðakirkjulands, eða allt þar til að Hafnarfjörður fær kaupstaðarréttindi 1. júní 1908. En þá og nokkru síðar verða miklar breytingar, sem er mjög langt mál og allflókið.
Að síðustu verður hér litið yfir landamerki þau, sem gerð voru á árunum kringum 1890.

Landamerki

Arnarbæli

Arnarbæli – varða ofan Grunnuvatna.

Merki á landi Garðakirkju á Álftanesi, samkv. máldögum og fornum skjölum.
1. Á móti Oddakoti í miðjan Ós þann, sem rennur úr Skógtjörn í sjó fram austan til við túngarðinn.

Hnoðraholt

Hnoðri á Hnoðraholti.

2. Úr Ósnum norður í Hól hjá Skógtjörn, og er þar hlaðin merkjavarða, þaðan í móti landi Skógtjarnar og Brekku í vörðu á hólnum hjá Núpsstíflum, þar er hlaðin merkjavarða.
3. Þaðan út í miðja Tjörn, Lambhúsatjörn, þá sem er milli Bessastaða og Gálgahrauns, og í miðjan tjarnarósinn í mynni Arnarnesslækjar, upp með læknum sunnanverðum upp í Stóra-Krók á sama læk og úr því keldudragi, sem þar er að sunnanverðu og beina stefnu yfir mýrina upp í Dýjakrók (3. sept. 1870) og þaðan í mitt Hnoðraholt, þaðan fyrir norðan Vetrarmýrina, beina línu suður í Arnarbæli, þaðan í austur-landsuður upp í Hnífhól, þaðan í austur-landsuður í mitt Húsfell. Úr miðju Húsfelli beint til suðurs í Efri-Strandartorfur, þaðan beint í suður í Markraka í Dauðadölum, þaðan til vesturs í Melrakkaskarð (Melrakkagil) í Undirhlíðum, þaðan til norðurs við lönd Hvaleyrar og Áss í Steinhús (Steinhes), sem er við Neðri-Kaldárbotna, þaðan móts við Ófriðarstaðaland vestanvert við Gráhelluhraun beina línu í svonefndan Moldarkrika, þá til norðurs í Vörðu á Hlíðarþúfum, þá sömu línu norður í Öxl á Mosahlíð, enn sömu línu í Vörðu á Kvíholti, loks sömu línu mitt á milli Gíslahúss og Bjarnabæjar í vörðu á miðjum Hamri við Hafnarfjarðarbotn, þaðan allt með Hafnarfirði norðanvert í Ós hinn áðurnefnda hjá Oddakoti.

Garðahverfi

Minnismerki um Hausastaðaskóla og Hausastaði.

lnnan framangreindra takmarka eru auk Garðastaðar þessar jarðir Garðakirkju: Selskarð, Hraunsholt, Hamarskot, Langeyri, Skerseyri, Bali, Dysjar, Bakki, Pálshús, Nýibær, Krókur, Ráðagerði, Hóll, Miðendi, Hlíð, Móakot, Hausastaðir og Hausastaðakot, sem allar hafa afmörkuð tún og rétt til að nota að tiltölu kirkjulandið utantúns til allra leiguliðanota, en ekkert útskipt land fyrir utan túnið, svo og þurrabúðir, sem eru eign kirkjunnar með kálgörðum og túnblettum og timburhúsum sömuleiðis.

Dyngjuhóll

Landamerkjavarða á Dyngjuhól sunnan Vífilsstaða.

Innan merkja er kirkjujörðin Vífilsstaðir, áður konungseign, á hún sérstaklega: tún og engi fyrir neðan Vífilsstaðavatn, hálfan Leirdal, allan Rjúpnadal, alla Vetrarmýri og mótak niður undan við Arnarneslæk, Maríuhelli og Svínahlíð fram í Sneiðinga.
Ennfremur eru innan merkjanna þessar jarðir:
1. Setberg: Eru merki þeirrar jarðar sem segir í landamerkjaskjali hennar.
2. Urriðakot: Eru merki þeirrar jarðar, sem segir í landamerkjaskjali hennar.
3. Hofstaðir: Sú jörð á sitt eigið tún, en ekkert land utantúns. Með hagbeit í kirkjulandinu fyrir fénað, sem túnið ber.
4. Hagakot: Þjóðeign, á sitt eigið tún, mýrarkorn neðan túns og mótak í barði og beit fyrir fénað þann, sem túnið og mýrin framfleytir.
5. Akurgerði: Túnlaus verzlunarlóð, merki ákveðin með samningi dags. 27. marz 1880 og þinglýst 17. júní sama ár. Þessi landamerki samþykkt af öllum hlutaðeigendum og síðan þinglýst á manntalsþingi í júní 1890.“

Heimild:
-Alþýðublað Hafnarfjarðar, 1. tbl. 10.01.1972, Garðar á Álftanesi, Gísli Sigurðsson, bls. 7, 13 og 14.

Garðar

Garðar.