Tag Archive for: Hafnarfjörður

Krýsuvík

Í Morgunblaðinu 2012 var viðtal við Ómar Smára Ármannsson um jarðrask það er fylgdi borunarframkvæmdum HS-orku á Reykjanesskaganum þar sem hvorki væri tekið tillit til umhverfissjónarmiða né minjaverndar.

Brennisteinsvinnsla

Brennisteinsnám á Reykjanesskaganum – fyrirliggjandi fornleifaskráning.

Viðtalið er að mörgu leyti merkilegt, ekki síst í ljósi þess að síðan það var tekið fyrir 13 árum hefur HS-orka hafið borun í Krýsuvík þar sem fyrirtækið byrjaði á því á fyrsta degi að eyðileggja fornar minjar, fyrrum brennisteinsnámuhús Krýsuvíkurbónda frá því á 18. öld, þrátt fyrir að athygli jarðfræðings fyrirtækisins hafði skömmu áður verið vakin á tóftunum, standandi á vettvangi. Auk þess hafði viðmælandi fornleifaskráð allar brennisteinsminjar á Reykjanesskaganum, án þess þó að HS-orka hefði sýnt þeirri fyrirliggjandi vinnu hinn minnsta áhuga.
Bæjarstjórn Hafnarfjarðar hafði gefið leyfi til framkvæmdanna án þess að krefjast eðlilega áður fornleifaskráningar á svæðinu sem verður að teljast verulega ámælisvert. Ekki er vitað hvort sú sérstaka stofnun Fornleifavernd ríkisins hafi æmt hið minnsta eða skræmt vegna alls þessa. Og hvers vegna eiga verktaktar að fá að ákveða hversu mikið jarðsrask vegna einstakra framkvæmda verður hverju sinni? Hafa ber í huga að fæstar ákvarðanir þeirra hafa hingað til verða að teljast vitsmunalegar, enda, að því er virðist, einungis byggðar á eigin hagsmunum.

Minnka mætti rask með minni borteigum

Ómar Smári

Ómar Smári Ármannsson Krýsuvík.

„Þetta snýst ekki um hvort það eigi að virkja eða ekki heldur að það verði gert þannig að menn geti verið sáttir við framkvæmdirnar,“ segir Ómar
Smári Ármannsson um fyrirhugaðar jarðhitaboranir á Reykjanesskaganum. Hann segir augljóst að við nýlegar og eldri virkjunarframkvæmdir á Suðurnesjum og víðar hafi ekki verið vandað nægilega vel til verka, hægt hefði verið að hafa borstæðin eða borteigana undir jarðborana mun minni, leggja vegi og pípur og reisa virkjanamannvirki þannig að minna beri á þeim í landslaginu.

Sogin

Sogadalur – efra borplanið.

Ómar Smári er vel þekktur fyrir áhuga sinn á náttúru og minjum Reykjanesskagans, einkum í tengslum við ferðahópinn Ferlir en einnig vegna þess að hann er aðstoðaryfirlögregluþjónn á höfuðborgarsvæðinu. Morgunblaðið fór í vikunni með Ómari um þrjú svæði á Suðurnesjum; að Trölladyngju og Sogum, Eldvörpum og Krýsuvík. Á öllum þessum svæðum, og raunar víðar á Suðurnesjum, stendur til að virkja jarðhita og svæðin raðast öll í nýtingarflokk samkvæmt rammaáætlun um vernd og nýtingu náttúrusvæða.

Sogadalur

Sogadalur – neðra borplanið.

Við Trölladyngju eru tvær nýlegar tilraunaborholur HS orku. Önnur þeirra og sú nýrri (frá 2006) er uppi í hlíð, við gönguleiðina að Sogunum sem er vinsælt útivistarsvæði og rómað fyrir náttúrufegurð. Þar var gert borplan sem Ómar og blaðamaður mældu að væri 45×70 metrar að stærð eða rúmlega 3.000 fermetrar. Það sem upp úr stendur af borholunni sjálfri – en hún reyndist reyndar ónothæf – er ekki nema 2,5×5 metrar.

Ómar Smári fylgdist með framkvæmdunum á sínum tíma og hann segir ljóst að planið hefði mátt vera mun minna, í það minnsta helmingi minna, ef viljinn hefði verið fyrir hendi. Hægt hefði verið að leggja plan undir borinn en síðan flytja aðföng að honum eftir því sem þurfti.

Sogadalur

Sogadalur – hér má sjá óskráða selið ofarlega t.v. sem naumlega slapp við vegslóðann og efra borplanið neðst t.h.

Rafstöðina hefði mátt hafa annars staðar og leggja raflínu meðfram veginum. Pípur hefði mátt hafa á neðra borplaninu og flytja þær upp eftir og varahlutir og vinnuskúra hefði sömuleiðis mátt hafa þar. Þess í stað hefði jarðýta gert ljótt sár í hlíðina og síðan hefði hundruðum tonna af möl verið ekið á staðinn til að útbúa óþarflega stórt borplan.
Hafa yrði í huga að jafnvel þótt borholan hefði virkað væri endingartími jarðhitavirkjana ekki nema 50-60 ár. Illgerlegt eða ómögulegt væri að fjarlægja ummerki um holuna að þeim tíma liðnum. Þá minnir hann á að rökin með virkjunum séu gjarnan þau að þær skapi atvinnu. „En það fá ekki færri vinnu við að virkja þótt borstæðið sé lítið,“ segir hann.

Sést yfir fornminjar

Sogadalur

Sogadalur – seltóft skammt frá vegarlagningunni upp á efra borplanið.

Ómar Smári tekur fram að hann er ekki andvígur því að auðlindirnar séu nýttar. Vinnubrögðin við borholurnar við Trölladyngju og víðar séu á hinn bóginn þannig að þau hljóti að draga úr stuðningi við virkjanir.
„Hér sjá menn bara eyðileggingu og hugsa: Verður þetta allt svona?“ Hann bendir einnig á að tilviljun ein hafi ráðið því að vegurinn sem liggur upp að borstæðinu hafi ekki farið yfir gamalt sel en tóftir þess kúra í hlíðinni. Raunar hafi vegurinn verið lagður án gilds framkvæmdaleyfis þá og þegar hann var
lagður. Leyfið fékkst eftir á og þá hjá viðeigandi sveitarfélagi. Sjaldan eru allar tóftir skráðar.

Krýsuvík

Krýsuvík neðan Baðstofu – fornleifar 2024.

Það gildir t.d. um tóftir í Krýsuvík sem að óbreyttu muni fara undir borplan, þar séu auðsjáanlega fornminjar sem hvergi hafi verið skráðar eða rannsakaðar. Aðspurður segir Ómar Smári að með tillögu HS orku vegna borunar í Krýsuvík hafi fylgt fornleifaskráning. „Í skýrslunni eru þessar tóftir ekki tilgreindar og það eru ekki nógu góð vinnubrögð.“
Þriðja svæðið sem farið var um var Eldvörp en þar vill HS Orka bæta við fimm borteigum, þar af tveimur sem eru á skilgreindu iðnaðarsvæði. Einn borteigur er þar fyrir, ríflega 3.100 fermetrar auk um 1.200 fermetra svæðis meðfram veginum sem var raskað.

Eldvörp

Eldvörp.

Ómar Smári segir að í Eldvörpunum verði að fara sérstaklega varlega enda sé svæðið ríkt af fegurð og sögu en um leið afar viðkvæmt. Ástundi menn sömu vinnubrögð og hingað til lítist honum hins vegar ekki á blikuna.

Ætla að fara varlega

Eldvörp

Eldvörp – borholuplan. Ekkert af nefndum borholuplönum á Reykjanesskaganum hafa komið framkvæmdaraðilum til góða úr því sem komið er.

Ásbjörn Blöndal, forstöðumaður þróunarsviðs HS Orku, segir að við Eldvörp standi til að fara eins varlega og framast sé unnt. Til standi að beita skáborun og bora í um 1.000-1.200 metra frá teigunum, miðað við lóðlínu, sem sé það mesta sem hægt sé að gera í jarðlögum sem þessum.
En hvað þá með stærð borteiganna? Ásbjörn segir að undanfarin ár og áratugi hafi menn reynt að taka sem minnst svæði undir borteiga. „Það er fyrst og fremst verktakinn sem ákvarðar hvað hann þarf til að hann geti unnið verkið sómasamlega. Það hefur allt kapp verið lagt á að hafa umfangið eins lítið og
kostur er.“

Eldvörp

Eldvörp – nýtt og nánast óþarfa borstæði.

Nokkuð frá Eldvörpunum er annar og mun stærri borteigur, um 6.000 fermetrar að stærð, samkvæmt lauslegri mælingu. Á honum eru tvær niðurdælingarholur fyrir Svartsengi og Ásbjörn segir að það hafi verið sú stærð sem þurfti fyrir tvær holur. Þá tekur Ásbjörn fram að HS Orka vinni náið með Grindavíkurbæ að undirbúningi framkvæmda við Eldvörp. Svæðið sé hverfisverndað og ekki verði hróflað við gígunum, enda séu þeir friðaðir. Teigarnir verði að mestu við núverandi veg og pípur og annað lagðar meðfram honum.

Eldvörp

Eldvörp – borplan. Hvenær skyldi „hraunhellur/hraungrýti verða lagðar þarna yfir? Hvers vegna ekki að minnka borteigana svo eftirkostnaðurinn verði minni en ella, af fenginni reynslu.

Meðal þess sem hefur verið rætt um að gera er að leggja hraunhellur/hraungrýti yfir þá borteiga sem ekki nýtast, þ.e. ef holurnar gefa ekki af sér orku. Þá megi nánast afmá ummerki um rask, líkt og hafi verið gert við hús Bláa lónsins. Slíkt sé ekki hægt að gera við vinnsluholur því þær þurfi að hreinsa reglulega með bortæki.
Deiliskipulagstillaga að framkvæmdum í Eldvörpum er nú til meðferðar hjá Grindavíkurbæ.

Óskráðar fornminjar

Ómar Smári bendir á að tilviljun ein hafi ráðið því að vegurinn sem liggur upp að efra borstæðinu við Trölladyngju hafi ekki verið lagður yfir gamalt sel en tóftir þess kúra í hlíðinni.

Krýsuvík

Krýsuvík – borsvæðið á upphafsdögum þess. Hér er búið að afmá fornminjar, bæði vegna ástæðu og án líklegra eftirmála.

Raunar hafi vegurinn verið lagður án gilds framkvæmdaleyfis. [Bæjarstjórn Voga gaf út leyfið, en þegar bent var á að umráðasvæðið væri innan marka Grindavíkur gaf bæjarstjórn Grindavík út afturvirkt framkvæmdarleyfi án nokkurrar umhugsunar.] Þessar fornminjar hafi raunar hvergi verið skráðar. Hið sama eigi við um tóftir í Krýsuvík sem að óbreyttu muni fara undir borplan. Þar séu auðsjáanlega fornminjar sem hvergi hafi verið skráðar eða rannsakaðar. Aðspurður segir Ómar Smári að með tillögu HS orku vegna borunar í Krýsuvík hafi fylgt fornleifaskráning sem unnin var af Fornleifavernd ríkisins. „Í skýrslunni eru þessar tóftir ekki tilgreindar og það eru ekki nógu góð vinnubrögð,“ segir Ómar Smári.

Krýsuvík

Krýsuvík. Grænavatn t.v. og Gestsstaðavatn t.h.

Þá mætti auðveldlega hafa borplanið á öðrum stað, aðeins nokkrum tugum metra frá séu ónýt útihús sem mætti rífa og nota svæðið sem borplan.“

Heimild:
-Morgunblaðið, 105. tbl. 05.05.2012, Minnka mætti rask með minni borteig – Óskráðar fornminjar, texti: Rúnar Pálmason, bls. 12-14.

Sogasel

Selin í og við Sogagíg, Sogalækur og vegslóðinn upp að efra borstæðinu. – Uppdráttur ÓSÁ.

Kaldársel

Við affall Kaldár í Kaldárbotnum er skilti; „Kaldárssel í 100 ár (1925-2025)„. Á því er eftirfarandi upplýsingar:

Kaldársel

Kaldársel – skilti.

„Sumarbúðirnar í Kaldárseli eiga sér fallega sögu sem spannar rúma öld. Eftir messu í Bessastaðakirkju á annan hvítasunnudag 1921 var haldinn KFUM-fundur þar sem stofnaður var sumarbústaðarsjóður. Félagsmenn úr Hafnarfirði lögðu þá fram 100 krónur í sjóðinn og tveir ungir piltar bættu við 5 krónum hvor. Eftir þetta tóku fleiri félagar þátt og ákváðu að hittast mánaðarlega til bæna og framlag til sjóðsins.

Kaldárssel

Kaldársel – unnið við stækkun fyrsta skálans 1945.

Árið 1925 hafði sjóðurinn vaxið í nær 400 krónur og þá hófust framkvæmdir. Hafnarfjarðarbær gaf félaginu leyfi til að nota svæðið í kringum gamla Kaldárselið með skilyrði um að það yrði eingöngu fyrir starfsemi KFUM. Hafist var handa við að ryðja veg frá kirkjugarðinum fyrir ofan Hafnarfjörð upp að hraunhálsi vestan við selið og flytja þannig byggingarefni á svæðið með hjálp velviljaðra eigenda flutningabíla.

Frá enda vegarins þurfti að bera efnið um 1,5 km leið yfir hálsinn að byggingarstaðnum. Sjálfboðaliðar komu saman í hvassviðri og rigningu seint í maí og kláruðu verkið af miklum dugnaði.

Kaldársel

Kaldársel á fyrstu starfsárum sumarbúðanna Selið sést h.m. við skálann, þá komið með yfirbyggt ris.

Skálinn var vígður 25. júní 1925. Hann var þá 14 álnir á lengd og 10 á breidd, með svefn- og borðsal, eldhúsi og litlu herbergi. Skáladyrnar snéru í suður að Kaldá sem hverfur svo ofan í hraunið. Við skálann var reist fánastöng þar sem íslenski fáninn blakti þegar fólk var í Selinu.

Tuttugu árum síðar var byggt við skálann vestan megin og hann tvöfaldaður að stærð. Vinsældir sumarbúðanna jukust í sífellu og var því aftur hafist handa við stækkun skálans sem lauk árið 1967.

Kaldársel

Kaldársel – Börn að leik í Kaldá.

Enn var ekkert rafmagn á staðnum á þessum árum en búið var að skipta út gömlu kolaeldavélinni sem áður sá skálanum fyrir hita, í stað hennar var komin gasvél og heitt vatn frá olíuhtun. Allt í allt var þrisvar sinnum farið í stækkun á Kaldárseli og aðbúnaður bættur í takt við auknar kröfur samtímans. Ný stór viðbygging var vígð sunnudaginn 24. júni 1990. Sama ár var fengin díselvél sem sá skálanum loks fyrir rafmagni og hita.

Í heila öld hafa börn átt þess kost að dvelja í sumarbúðunum í Kaldárseli, þar sem þau hafa fengið tækifæri til að auðga andann og leika sér.

Kaldársel

Kaldárssel 2025.

Náttúran í kring með hrauni, árfarvegi, hellum og fjöllum, hefur alltaf verið órjúfanlegur hluti af dagskránni. Áhersla hefur verið lögð á jákvæð samskipti og kristnifræðslu. Frá árinu 2017 hefur Vinasetrið verið hluti af starfinu en það er helgardvöl fyrir börn sem þurfa séstakan stuðning. Þar hefur verið unnið út frá þeirri hugsjón að hvert barn sé einstakt og eigi skilið kærleika og umhyggju líkt og hefur einnig verið leiðarljós í starfi sumarbúðanna í Kaldárseli.“

Hafnfirðingar hafa jafnan notið þess að koma að Kaldárseli, en viðmót staðarhaldara hefur því miður breyst til hins verra síðustu árin. Það skýrir líklega staðsetningu skiltisins að hluta, þ.e. við affall Kaldár en ekki í nánd við sjálft Kaldársel.

Kaldársel

Kaldárssel – skilti.

Gerði

„Skammt sunnan við álverið í Straumsvík stendur lítið bárujárnshús sem nefnist Gerði, fyrrum hjáleiga frá Þorbjarnarstöðum í Hraunum. Húsið er nú í eigu starfsmannafélags álversins í Straumsvík en var áður sumarhús Ragnars Péturssonar kaupfélagsstjóra í Hafnarfirði og fjölskyldu hans.

Gerði

Gerði var í byggð frá 1900-1930.

Meðan Gerði var enn bújörð bjuggu þar m.a. Guðjón Jónsson frá Setbergi og Stefanía kona hans, ásamt tveimur sonum sínum og fóstursyni. Gerði fór í eyði líkt og fleiri jarðir í Hraunum um 1930. Milli Gerðis og Þorbjarnarstaða eru merkar ferskvatnstjarnir sem bera nöfn eins Þorbjarnarstaðavatnagarðar, Gerðistjörn, Brunntjörn og Stakatjörn.

Gerði

Gerði – túnakort 1919.

Árið 1901 bjuggu 7 manns í (Hraun) Gerði. „Gerði og Péturskot voru hjáleigur frá Þorbjarnastöðum. Guðjón Jónsson frá Setbergi reisti Gerði skömmu fyrir aldarmótin 1900.
Bárujárnshúsið í Gerði (starfsmannafélagshúsið) stendur nú þar sem bærinn var. Um var að ræða þrætu[sumar]bústað. Eigandinn lenti í þeirri aðstöðu að fá, án þess að fá nokkru um það ráðið,
heilt álver ofan í náttúrudýrðina. Álfélagið gerði samkomulag við eigandann og fékk bústaðinn í því ástandi sem hann var og færði starfsmannafélaginu til endurbóta. Þá var þar einungis
norðvesturhorn núverandi húss, en síðar var bætt við það litlu húsi við suðausturhlutann. Starfsmannafélag Álfélagsins endurgerði húsið af fórnfýsi um 1990 og bætti þá við forstofu og salerni að austanverðu.

GerðiGamlar þjóðleiðir liggja suður í Almenning frá Hraunabæjunum og hér verður greint frá einni þeirra sem nefnist Gerðisstígur. Upptök hans eru í heimatúni Gerðis. Leiðin liggur upp með Brunanum, sem margir kalla Kapelluhraun. Hann fer í suðaustur í áttina að Efri hellum og seljunum Gjáseli og Fornaseli. Þegar þangað er komið ar er hægt að halda áfram og fylgja Hrauntungustíg og Ketilstíg alla leið til Krýsuvíkur. Þar er líka hægt að taka stefnuna í vestur að Straumsseli, upp og suður í hæðina fyrir ofan sem nefnist Hafurbjarnarholt eða í hina, norður að Ásfjalli og Hafnarfirði.

Upphaf Gerðisstígs er á Litla-bala neðan bæjarhólsins, við tóft gömlu gripahúsanna. Leiðin liggur í gegnum hlaðið gerði, sem var varnargarður heimatúnsins.

Gerðisstígur

Gerðisstígur – varða við Hólaskarð.

Einnig er hægt að nálgast stíginn frá Þorbjarnarstöðum, sem er vestan við tjarnirnar. Þá er gengið suðaustur fyrir tjarnirnar og inn á stíginn við Hólana. Þar sem stígurinn liggur utan heimatúnsins á móts við Alfarleiðina gekk hann undir heitinu Kirkjustígur. Þegar Hraunafólk sótti messur í sóknarkirkju sinni að Görðum á Álftanesi var sveigt til norðurs inn á Alfaraleiðina á þessum stað og henni fylgt yfir Brunann framhjá Kapellunni sem Kappelluhraun er nefnt eftir. Þaðan lá leiðin að Hvaleyri, um Hafnarfjörð og út í Garðahverfi.

Alfaraleiðin

Alfaraleiðin.

Það er ekki ætlunin að halda til kirkju í þetta sinn. Stígnum er fylgt þvert yfir Alfaraleiðina þar sem hún liggur frá Kapelluhrauni um Brunaskarð vestra. Þegar komið er framhjá Alfaraleiðinni liggur Gerðisstígur á hraunhrygg austanvert við Hólana, sem eru áberandi hraunhæðir á hægri hönd. Stígurinn var auðkenndur að mestu fyrir nokkrum árum með stikum sem merktar eru Byggðasafni Hafnarfjarðar. Þær hafa eitthvað týnt tölunni en þar sem þær eru ennþá vísa þær veginn. Austan Gerðisstígs stendur myndarleg varða sem vísar á slóðann þar sem hann liggur um Hólaskarð milli vesturbrúnar Brunans og Hólanna. Hér var stígurinn jafnan nefndur Hólaskarðsstígur.

Gerðisstígur

Gerðisstígur um Selhraun.

Framundan er Seljahraun, þunn hraunþekja sem var farartálmi áður en Seljahraunsstígur var ruddur í gegnum apalhraunið í firndinni.

Seljatún nefndist lítil gróin flöt norðan Seljahrauns og sunnan Brunans. Þetta tún er að hluta til að hverfa en þó má sjá hvar hlaðið gerði er enn til staðar þó það sé fallið að mestu. Þetta gerði nefnist Stekkatún. Þegar komið er yfir Seljahraun blasti áður fyrr við augum áberandi kennileiti, Þorbjarnarstaðarauðimelur. Hann er horfinn með öllu en þar sem hann var áður er ófrágengin rauðamelsnáma. Rauðamel var mokað upp á vörubílspalla á sjötta og sjöunda áratug 20. aldar og efnið notað í gatnagerð og til að fylla í húsgrunna víðsvegar í Hafnarfirði. Rauðimelur gekk stundum undir heitinu Rauðhólar á sínum tíma, eða jafnvel Þorbjarnarstaða-Rauðhólar til aðgreiningar frá öðrum slíkum í nágrenninu.

Gerðisstígur

Neðri-Hellar.

Rétt norðan Rauðamels eru Neðri-Hellar, einnig nefndir Litlu-Hellar. Skammt norðan melsins er lág klettaþyrping þar sem nefnast Rauðamelsklettar syðri og Rauðamelsklettar nyrðri, oftast nefndir einu nafni Rauðamelsklettar. Vestur frá Rauðamelsklettum taka við lágar brekkur, Ennin. Stígur liggur til suðurs frá námunni eða melnum um Gráhelluhraun eftir gamalli ruddri slóð að Efri-Hellum. Norðaustan melsins er Réttargjá, sprunga sem snýr nánast suður og norður. Þar var hlaðið fyrir svo að sauðfé héldist þar þegar vetrarbeit var enn stunduð á þessum slóðum um miðja 19. öldina. Botninn í gjánni er mjög gróinn.

Gerðisstígur

Réttargjá.

Skammt austan við Réttargjá, alveg í Brunabrúninni þar sem æfingasvæði Skotíþróttafélags Hafnarfjarðar er núna, er Þorbjarnarstaðarétt. Þessi rétt var líka nefnd Vorréttin þar sem hún var einkum notuð á vorin. Enn eitt nafnið á réttinni er Rauðamelsrétt, þó hún sé spottakorn frá melnum. Þetta er fallega hlaðin hraunrétt í skjólgóðum krika sem myndast hefur við Brunabrúnina.

Ógreinilegur stígur sem er að gróa upp og hverfa liggur frá Vorréttinni að Efri-Hellum. Þar er áberandi hraunklettur í Brunabrúninni sem vísar á hellana.

Vorréttin

Vorréttin/Rauðamelsrétt.

Stígurinn er nú nefndur Efrihellnastígur en hann tekur enda við fjárhellana sem eru vestan við áðurnefndan hraunklett, sem minnir á stórar hellur úr fjarska. Féð hefur gegnið inn í annan hellinn frá suðri, en hinn úr norðurátt. Hellarnir eru ekki manngengir en smalinn hefur getað skriðið inn í þá og farið í gegn ef því var að skipta. Hellarnir eru á svæði sem gæti verið hluti af Búrfellshrauni.

Efri-hellar

Efri-Hellar.

Nokkrir einkennandi og áberandi stapar standa upp úr Brunanum á þessum slóðum. Haunið skiptir um nafn við þessa stapa og nefnist Brenna, þar sem brunatungan sunnan Efri-Hella gegnur til vesturs. Neðst í Brennunni er Brennuhóll, hraunstapi sem mikið ber á. Guðmundur Bergsveinsson í Eyðikoti, hjáleigu frá Óttarsstöðum, sótti sér kvarnarsteina í Brennuna og bar þá heim á bakinu. Setti hann mosa á bakið til að hlífa því, er hann bar hellugrjótið heim í Eyðikot.

Efri-Hellar

Efri-Hellar; hraunkarl.

Leiðin liggur áfram til suðvesturs í áttina að vörðu sem vísar á gott haglendi. Þessari slóð er fylgt þar til komið er að lágum hraunhrygg sem nefnist Kolbeinshæð með Kolbeinshæðarvörðu. Hraunið á milli Rauðamels og Kolbeinshæðar nefnist Gráhelluhraun. Það er vel gróið umhverfis Kolbeinshæð og sunnan í henni vestanverðri er Kolbeinshæðarskjól, forn smalaskúti. Það mótar enn fyrir hleðslum framan við skútann og áður mun hafa verið reft yfir hann en nú er þekjan fallin. Það er eingöngu einn fúinn trjádrumbur sem minnir á þá tíð er setið var yfir sauðum við Kolbeinshæð.

Austanvert í hæðinni er Kolbeinshæðarhellir, en Kolbeinshæðarstígur er óglöggur þar sem hann liggur til suðurs um skarð í áttina að Laufhöfðahrauni. Kjarrið er þéttara umhverfis Laufhöfðann og í vesturbrún hraunsins er Kápuhellir ofan við Katlanna. Þar norðan og neðan við er Jónshöfði og frá honum liggur Fornaselsstígur útfrá Straumsselsstíg um Laufhöfðahraun að Gjáseli og Fornaseli.

Kolbeinshæðarskjól

Kolbeinshæðarskjól.

Þessi sel tilheyrðu Þorbjarnarstöðum og trúlega einnig Lambhaga. Nyrðra selið, Gjásel er utan skógræktargirðingar en Fornasel innan girðingar. Í hvoru seli fyrir sig hafa verið þrjár vistarverur og nærri þeim eru niðurgrafin vatnsból í selhæðunum. Vatnsbólið í Gjáseli er lítið og slæmt enda þornar það upp bæði að vetri og sumri, Fornaselsbrunnurinn er stærri og betri. Í slakka eða jarðfalli norðan Gjásels er forn kví og upp frá selinu er Gránuskúti, eða Gránuhellir. Þegar horft er í suðvestur blasir við Litlaholt, sem liggur á milli Straumssels og Hafurbjarnarholts, en svo nefnist hæðin sem hæst rís og þekkist á því að þar er steyptur landmælingastólpi, en áður var þar landamerkjavarða, Hafurbjarnarholtsvarða.

Fornasel

Fornasel – tilgáta.

Þegar horft er í vesturátt frá Gjáseli blasir Straumsselsvarða við efst í Straumselshöfðum. Það er ágæt ganga vestur í Straumssel og þaðan áfram í Óttarsstaðasel og best að taka stefnuna á selvörðurnar sem sjást víða að. Einnig er hægt að halda til baka og fylgja t.d. Straumsselsstíg til norðurs að Tobbuklettum og áfram að Þorbjarnarstöðum og Gerðinu.

Þriðji kosturinn er að halda áleiðis að Hrauntungukjafti og freista þess að rekast á Hrauntungustíg, eða það litla sem eftir er af honum, því hann hefur að mestu verið eyðilagður eftir að Skógrækt Ríkisins leyfði efnistöku á þessum slóðum.

Þorbjarnastaðaborg

Þorbjarnarstaðaborg.

Efsta lag Brunans hefur verið skafið ofan af og eftir stendur víðáttumikið námasvæði sem er eins og svöðusár í Brunanum. Þeir sem kjósa að ganga Hrauntungustíg í áttina að Krýsuvíkurvegi ættu fyrst að skoða Fjárborgina sem er fallega hlaðin tvískipt borg úr hraunhellum. Það voru börn bóndans á Þorbjarnarstöðum sem hlóðu fjárborgina á seinni hluta 19. aldar. Hún hefur sennilega ekki verið notuð nema í stuttan tíma, allavega er ekki jafn gróið umhverfis hana og aðrar sambærilegar fjárborgir. Þegar búið er að grandskoða fjárborgina er stefnan tekin eftir vegslóða í áttina að Krýsuvíkurvegi. Það er líka hægt að halda til baka og fylgja slóðinni í gegnum Hrauntunguna norðan skógræktargirðingarinnar og athafnasvæðis rallýkrossmanna. Hrauntungan er vel gróin myndarlegum birkitrjám, víðikjarri og einnig þar sem hún liggur á milli Efri og Neðri skolta hrauntungukjafts. Hrauntungustígur liggur annarsvegar í áttina að Hamranesi, um Helludal og Ásflatir að bænum Ási sem stóð undir Ásfjalli, og hinsvegar framhjá Fornaseli til Krýsuvíkur og Grindavíkur.“

Heimild:https://www.hraunavinir.net © Jónatan Garðarsson 2009

Straumssel

Straumssel – tilgáta.

Hafnafjörður

Í Morgunblaðinu 1983 er fjallað um Hafnarfjörð í tilefni af 75 ára kaupstaðarafmæli bæjarins:

Hafnarfjörður„Hafnarfjarðarkaupstaður er 75 ára í dag, miðvikudaginn 1. júní, og af því tilefni stendur yfir sérstök afmælisvika í bænum. Á þessum tímamótum verða hér rifjaðir upp ýmsir þættir er varða sögu Hafnarfjarðar og birtar nokkrar gamlar myndir.
Byggð við Hafnarfjörð á sér langa sögu, en Hafnarfjarðar er fyrst getið í skráðum heimildum um 1400. Fiskafurðir verða þá aðalútflutningsvara landsmanna í stað landbúnaðarafurða. Skreið verður eftirsóttasta útflutningsvara Íslendinga í stað vaðmáls.
HafnarfjörðurSökum legu sinnar og ágætra hafnarskilyrða frá náttúrunnar hendi, varð Hafnarfjörður ein helzta verzlunar- og fiskveiðihöfn landsins. Í upphafi 15. aldar hófu Englendingar fiskveiðar og verzlun hér við land. Höfðu þeir aðsetur í Hafnarfirði. Hann var önnur helzta verzlunarhöfn Englendinga hér á landi fram yfir 1480. Enskir og þýzkir kaupmenn háðu harða samkeppni um beztu verzlunarstaðina upp úr 1470, og greina heimildir frá ófriði milli þeirra í Hafnarfirði. Um 1480 höfðu kaupmenn frá Hamborg hrakið Englendinga frá Hafnarfirði, og var hann aðalhöfn þeirra hér á landi á ofanverðri 15. öld og alla 16. öld.
HafnarfjörðurEngrar íslenzkrar hafnar er jafnoft getið í erlendum heimildum á þessu tímabili og Hafnarfjarðar. Þegar einokunarverzluninni var komið á 1602, var verzlun Þjóðverja í Hafnarfirði úr sögunni. Á fyrri hluta einokunartímabilsins 1602—1787 var Hafnarfjörður helzti verzlunarstaður á landinu.
Upp úr 1700 tók Reykjavík að eflast á kostnað Hafnarfjarðar og um miðja öldina var Reykjavík orðin stærsti verzlunarstaðurinn við innanverðan Faxaflóa. Endahnúturinn var rekinn á þessa þróun, þegar Reykjavík hlaut kaupstaðarréttindi 1786 ásamt fimm öðrum verziunarstöðum, en Hafnarfjörður var ekki meðal þeirra. Hann var þó áfram löggiltur verzlunarstaður.

Hellisgerði

Minnisvarði um Bjarna Sívertsen í Hellisgerði.

Fyrsta tilraun til þilskipaútgerðar hér á landi var gerð frá Hafnarfirði á árunum 1753—59 á vegum Innréttinga Skúla Magnússonar og á árunum 1776—87 gerði konungsverzlunin út frá Hafnarfirði þilskip. Árið 1794 hóf Bjarni Sivertsen að verzla í Hafnarfirði, er hann keypti verzlunarhús konungsverzlunarinnar. Hann var brautryðjandi á sviði innlendrar verzlunar og útgerðar og kom mjög við sögu Hafnarfjarðar, unz hann lézt 1833, enda hefur hann verið kallaður faðir Hafnarfjarðar. Bjarni reisti skipasmíðastöð í Hafnarfirði og lét smíða þar þilskip. Hann stundaði umfangsmikla þilskipaútgerð frá Hafnarfirði fyrstu þrjá áratugi 19. aldar. Hann lét reisa á árunum 1803—1805 hús, er enn stendur og við hann er kennt. Það hefur verið endurreist í upphaflegri mynd. Stytta af Bjarna Sivertsen er í skrúðgarði Hafnfirðinga, Hellisgerði.
Alla 19. öld voru fiskveiðar aðalbjargræðisvegur Hafnfirðinga og voru þær fyrst og fremst stundaðar á opnum bátum.
ÞilskipUpp úr 1870 urðu þáttaskil í atvinnusögu Hafnarfjarðar er nokkrir Hafnfirðinga, einkum kaupmenn, fóru að kaupa þilskip frá útlöndum, sem voru mun stærri en þau, sem verzlanirnar i Hafnarfirði höfðu gert út að sumarlagi. Sjósókn var stunduð lengur á þessum stærri þilskipum en áður hafði verið venja, eða frá marz og fram í september. Um 1885 leystu þilskipin árabátana að mestu leyti af hólmi.
Hafnarfjörður var upphaflega hluti af Álftaneshreppi, sem náði yfir núverandi Bessastaðahrepp, Garðabæ og Hafnarfjörð.
HafnarfjörðurÁ ofanverðri 19. öld kom í ljós, að Hafnarfjörður hafði að ýmsu leyti sérstöðu í þessu sveitarfélagi, og olli mestu um það, að aðalatvinnuvegur Hafnfirðinga var fiskveiðar og fiskverkun, en íbúar annars staðar í Álftaneshreppi höfðu framfæri sitt aðallega af landbúnaði. Það hélzt nokkurn veginn í hendur, að þilskipaútgerð frá Hafnarfirði færðist í aukana upp úr 1870 og að hugmyndinni um kaupstaðarréttindi handa Hafnarfirði var fyrst hreyft opinberlega, en það var árið 1876. Hún náði ekki fram að ganga, en 1878 var Álftaneshreppi skipt í tvo hreppa, Bessastaðahrepp og Garðahrepp.
HafnarfjörðurHafnfirðingar lögðu þó ekki árar í bát og vöktu aftur máls á því 1890, að kauptúnið fengi kaupstaðarréttindi, en meirihluti hreppsbúa var því andvígur. Á árunum 1890—1900 lá málið í þagnargildi, enda fóru þá erfiðir timar í hönd, aflabrestur og fólksfækkun. En upp úr 1900 fór aftur að rofa til. Afli jókst og íbúum fjölgaði mikið. Það varð deginum ljósara, að það var töluvert óhagræði fyrir Hafnfirðinga að vera í sambýli við aðra hluta Garðahrepps. Fellt var á Aþingi 1903 og 1905 að veita Hafnarfirði kaupstaðarréttindi, en 1907 samþykkti Alþingi lög um kaupstaðarréttindi handa Hafnarfirði og gengur þau í gildi 1. júní 1908.
HafnarfjörðurFyrstu bæjarstjórnarkosningar í Hafnarfirði voru 1. júní 1908, og voru þá kosnir sjö bæjarfulltrúar: Guðmundur Helgason, Böðvar Böðvarsson, Sigurgeir Gíslason, Jón Gunnarsson, Kristinn Vigfússon, Sigfús Bergmann og Þórður Edílonsson. Bæjarfulltrúum var fjölgað í níu 1912 og í ellefu 1974. Alls hafa 76 manns átt sæti í bæjarstjórn Hafnarfjarðar að meðtöldum núverandi bæjarfulltrúum. Forseti bæjarstjórnar er nú Árni Grétar Finnsson. Auk hans eiga nú sæti í bæjarstjórn Hafnarfjarðar Andrea Þórðardóttir, Einar Þ. Mathiesen, Ellert Borgar Þorvaldsson, Guðmundur Árni Stefánsson, Haraldur Sigurðsson, Hörður Zóphaníasson, Markús Á. Einarsson, Rannveig Traustadóttir, Sólveig Ágústsdóttir og Vilhjálmur G. Skúlason.

Páll Einarsson

Páll Einarsson (1868-1954).

Fyrsti bæjarstjóri í Hafnarfirði var Páll Einarsson bæjarfógeti, en á árunum 1908—30 var bæjarfógetinn í Hafnarfirði jafnframt bæjarstjóri. Bæjarstjórar hafa verið 13 á þessu tímabili: Páll Einarsson 1908, Magnús Sigurðsson 1908, Jón Hermannsson 1908—09, Magnús Jónsson 1909—1930, Emil Jónsson 1930—1937, Guðmundur Gissurarson 1937—1938, Friðjón Skarphéðinsson 1938—1945, Eiríkur Pálsson 1945—1948, Helgi Hannesson 1949—1954, Stefán Gunnlaugsson 1954—1962, Hafsteinn Baldvinsson 1962—1966, Kristinn ó. Guðmundsson 1966—1979 og Einar I. Halldórsson frá 1979.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður 2024.

Í febrúar 1942 voru gerðar breytingar á starfssviði bæjarstjórnar. Þær voru fólgnar í því, að stofnað var bæjarráð. Bæjarráð er skipað þremur bæjarfulltrúum auk bæjarstjóra. Í upphafi voru bæjarráði falin störf þau, er nokkrar nefndir höfðu haft með höndum, en jafnframt er hlutverk þess að hafa ásamt bæjarstjóra með höndum framkvæmd á ákvörðunum bæjarstjórnar. Það hefur það sérstaka hlutverk að vera fjárhagsnefnd bæjarins og hefur eftirlit með fjárhagsstjórninni og undirbýr fjárhagsáætlun hverju sinni. Formaður bæjarráðs er Vilhjálmur G. Skúlason.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður 2024.

Þegar Hafnarfjörður fékk kaupstaðarréttindi 1908, voru íbúar í bænum 1.469. Mörg verkefni biðu fyrstu bæjarstjórnar árið 1908. Þá var stofnuð lögregla í bænum og slökkvilið árið eftir. Af verklegum framkvæmdum má nefna, að lögð var vatnsveita til bæjarins 1909 og vatnsleiðslur í götur bæjarins. Sama ár keypti bærinn rafstöðvar þær, sem Jóhannes J. Reykdal hafði komið á fót í Hafnarfirði 1904 og 1906, en sú fyrrnefnda var fyrsta almenningsrafveita hér á landi.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður 1954 – loftmynd.

Um svipað leyti fór bæjarstjórn að huga að smíði hafskipabryggju, og var hún tekin í notkun í febrúar 1913. Það eð afkoma Hafnfirðinga og þar með bæjarfélagsins er að miklu leyti komin undir fiskveiðum og fiskverkun, hefur verið lögð áherzla á að reisa nauðsynleg hafnarmannvirki í Hafnarfirði og nú er þar nýtízkuleg og vel búin höfn.

Atvinnulíf Hafnarfjarðar hefur alla tíð byggzt fyrst og fremst á fiskveiðum og fiskverkun.

Hafnarfjörður

Hafnarfjarðarhöfn 1910.

Á árunum 1906—1929 stunduðu útlendir aðilar, Norðmenn, Hollendingar, Þjóðverjar og Bretar útgerð og fiskverkun í bænum, og gerðu þessir aðilar bæði út línuveiðara og togara. Fyrsti togarinn kom til landsins 1905, og hét hann „Coot“. Hann var gamall er hann var keyptur til landsins og var gerður út í Hafnarfirði til 1908. Árið 1915 var keyptur nýr togari og með þeim skipakaupum var lagður varanlegur grundvöllur að togaraútgerð og þar með að vexti og viðgangi bæjarins.

Hafnarfjörður

Hafnarfjarðarhöfn um 1930.

Stærsta útgerðar- og fiskvinnslufyrirtækið í Hafnarfirði er nú Bæjarútgerð Hafnarfjarðar, sem var stofnuð 1931.
Á síðustu árum hefur þeim fækkað hlutfallslega, sem vinna við útgerð og fiskvinnslu í Hafnarfirði. Aðrar atvinnugreinar, svo sem iðnaður, verzlun og þjónusta, hafa eflzt og dafnað. Elzta iðnfyrirtækið í Hafnarfirði er trésmiðjan Dvergur, sem var stofnuð 1911. Af öðrum gamalgrónum fyrirtækjum má nefna Raftækjaverksmiðjuna sem var stofnuð 1936. Hún framleiðir alls konar raftæki og er eina fyrirtækið sinnar tegundar á landinu.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður – loftmynd 1954.

Stærsta iðnfyrirtækið í Hafnarfirði er álverið í Straumsvík, sem tók til starfa 1969.
Samhliða auknum umsvifum í atvinnulífi bæjarins hefur íbúum fjölgað mikið og eru þeir nú um tólfþúsund og fimmhundruð. Sveitarfélögin hafa einnig tekið að sér á undanförnum árum aukin verkefni og þjónustu við borgarana. Af þessu hefur leitt að umsvif bæjarfélagsins hafa aukist og jafnhliða þessu hefur verið gert sérstakt átak í varanlegri gatnagerð, endurnýjun rafkerfis bæjarins, lagningu hitaveitu og fegrun bæjarins.
Hafnarfjörður var sérstakt kjördæmi á árunum 1931—59. Þingmenn Hafnarfjarðar voru Bjarni Snæbjörnsson 1931—1934 og 1937—1942, Emil Jónsson 1934-1937, 1942-1953 og 1956—1959, Ingólfur Flygenring 1953—1956 og Matthías A. Mathiesen 1959.“

Heimild:
-Morgunblaðið, 121. tbl 01.06.1983, Hafnarfjarðarkaupstaður 75 ára, bls. 16-17.

Hafnarfjarðarhöfn

Hafnarfjarðarhöfn 2023.

Hafnarfjörður

Á vefsíðunni „Glatkistan“ er m.a. fjallað um Hótel Björninn í Hafnarfirði, húsið sem hvarf af horni Reykjavíkurvegar og Vesturgötu.
Hótel Björninn [tónlistartengdur staður] (1928-50)

Hafnarfjörður

Strandgata/Vesturgata – Hótel Björninn með sínar glæsilegu yfirbyggðu svalir (1910/1970) og A.Hansen verzlunarhús fjær. Myndin sýnir hótelið og Hansenshús þar næst, Vesturgata 2 og 4. Til vinstri er verslun Jóns Mathíesens og í sama húsi er Sparisjóður Hafnarfjarðar, Strandgata 4, fyrir miðri mynd er bensín stöð, líklega BP. Í bakgrunni er Edinborgarhúsið.

„Hótel Björninn í Hafnarfirði var vinsæll skemmtistaður en dansleikir voru haldnir þar á tuttugu ára tímabili, frá því fyrir 1930 og líklega allt til 1950. Á stríðsárunum var reyndar talað um staðinn sem alræmda búllu.

Ágúst Flygenring kaupmaður í Hafnarfirði hafði látið byggja húsið árið 1906 og gekk það iðulega undir nafninu Flygenringhús framan af en það stóð á Vesturgötu 2, á horni Vesturgötu og Hafnarfjarðarvegar. Seint á þriðja áratugnum, líklega í kringum 1928 keypti Guðrún Eiríksdóttir hins vegar húsið en hún hafði þá rekið hótel á öðrum stað í Hafnarfirði, og breytti húsinu í hótel þar sem voru um átta gistiherbergi og salur sem tók um 160 manns.
Hótelið nefndi hún Björninn eftir fjallinu Þorbirni við Grindavík en Guðrún kom upphaflega frá Grindavík.

Hafnarfjörður

Hótel Björninn. Þetta hús lét August Flygenring byggja árið 1906. Þarna stóð áður eldra hús Christiansenshús sem August eignaðist rétt fyrir 1900, það brann í júlí 1906. Seinna hlaut húsið nafnið Hótel Björninn en á stríðsárunum voru haldnir þar dansleikir sem hinir erlendu hermenn sóttu stíft. Árið 1950 var nafni Hótelsins breytt í Hótel Þröstur. Síðar eignaðist Kaupfélagið húsið og rak þar verslun um nokkurt skeið. Árið 1970 þurfti það að víkja vegna gatnaframkvæmda við Reykjavíkurveg. 

Guðrún hóf strax að ráða tónlistarmenn og hljómsveitir af ýmsum stærðum og gerðum til að leika í húsinu – jafnvel erlenda tónlistarmenn og staðurinn varð strax mjög vinsæll í Hafnarfirði sem þá var auðvitað nokkuð fjarri glaumi Reykjavíkur, hins vegar sótti alltaf nokkuð af Reykvíkingum staðinn. Mjög algengt var að félagasamtök og klúbbar héldu dansleiki þar, s.s. árshátíðir og slíkt, og reyndar voru slík félög einnig stofnuð þar.

Ýmsir þekktir tónlistarmenn léku í húsinu og oft voru þetta hljómsveitir settar saman fyrir dansleiki þar og léku því undir nöfnum eins og Hljómsveit Bjarnarins eða í nafni skemmtiklúbba sem héldu dansleikina s.s. Hljómsveit Adlon/Adlon bandið, sem var einn þessara klúbba.

En hér má nefna staka tónlistarmenn eins og Jónatan Ólafsson, Stefán Þorleifsson, Svein Ólafsson, Árna Björnsson, Óskar Cortes, Magnús Randrup, Gunnar Jónsson, Pétur Bernburg og Vilhjálm Guðjónsson svo einhver íslensk nöfn séu nefnd en einnig má nefna ungverska sellóleikarann Vincent Farkas sem var með hljómsveit á Birninum um miðjan fjórða áratuginn.

Hafnarfjörður

Hótel Björninn.

Þess má svo og geta að um og eftir stríð var mun algengara að hljómsveitirnar sem ráðnar voru til að leika í húsinu væru einnig starfandi annars staðar og hér eru nefndar t.a.m. Blástakkatríóið, Swingbandið og Hljómsveit Árna Ísleifssonar í því samhengi.

Árið 1938 seldi Guðrún Hótel Björninn og Svava Jónsdóttir keypti húsið og rak staðinn um eins árs skeið áður en Ólafur Guðlaugsson keypti það en Ólafur hafði verið á Hótel Borg og þekkti því hótelrekstur býsna vel, hann átti eftir að reka Björninn til loka.

Hafnarfjörður

Hótel Björninn í breyttri mynd.

Á stríðsárunum komu Bretarnir til Íslands vorið 1940 og voru fyrirferðamiklir í Hafnarfirði, þeir nánast lögðu hótelið undir sig og um tíma fékk staðinn á sig fremur neikvæða mynd – kallaður Hongy tong af hermönnunum og þar þreifst alræmt sukk og svínarí. Norskir hermenn bættust í hópinn fljótlega en þegar bandaríski herinn tók við af Bretunum skánaði ástandið heilmikið.

Þegar ástandið var sem verst auglýsti Ólafur dansleiki sérstaklega ætlaða Íslendingum eingöngu og á þeim kvöldum var hermönnum meinaður aðgangur að Birninum.

Hótel Björninn

Hótel Björninn á Selfossi.

Hótel Björninn mun hafa starfað til ársins 1950, um tíma reyndar síðustu árin undir nafninu Hótel Þröstur en svo aftur undir Bjarnarnafninu í lokin, og þá var heldur farið að halla undan fæti í rekstrinum.

Kaupfélag Hafnarfjarðar keypti húsið og var með starfsemi í því um tíma en það var svo rifið árið 1970, þá hafði húsið verið minnkað einhvern tímann á sjöunda áratugnum – strýta eða turn með svokölluðu næpuþaki á öðrum gafli þess verið tekinn af til að rýmka fyrir Reykjavíkurveginum sem var þá alveg uppi við húsið, en sá hluti hússins hafði einmitt sett mestan svip á það. Þess má geta að húsið (í upprunalegri mynd) er fyrirmynd eins þeirra húsa sem byggð voru í nýjum miðbæ Selfoss löngu síðar.“

Heimild:
-https://glatkistan.com/2025/02/19/hotel-bjorninn-tonlistartengdur-stadur/

Selfoss

Miðbærinn á Selfossi.

Hvaleyri

Eftirfarandi upplýsingar um kletta og klifur í og við Hafnarfjörð er að finna í Örnefnalýsingu Guðlaugs Rúnars Guðmundssonar fyrir Hafnarfjörð árið 2004:

Guðlaugur Rúnar Guðmundsson

Guðlaugur Rúnar Guðmundsson.

Arnarnípa, uppmjór klettur í vesturenda Hæðarinnar í klifinu, Ljósaklifinu (G.B.).

Ágústarvörður (Augustarvörður) ofan Rauðhólsnefns og framan við Eyrarhraun. Sjá má vörðurlaga klett að baki Herjólfsgötu 34, þaðan markaðist Ágústarland Flygenrings suður í Sönghól (Gönguhól (hjáleiga, eftir 1903, Grútarstöðin) við Sönghóls-/Gönguhólsklif milli Herjólfsgötu 28 og Langeyrarbæjar. Lá fram í sjó. Herjólfsgata var brotin þar í gegn 1946-1947 (G.B.).

Balaklettur (-ar) er fram af túni býlisins bala í Garðahverfi. Á Balakletti er varða, Markavarða. Þaðan er sjónhending í vörðuna sem er rétt sunnan við Hrafnistu í Hafnarfirði.

Hafnarfjörður

Bingurinn.

Bingurinn var svæðið kallað frá Christensenshúsi suður að pakkhúsi sem brann 1906 (G.S.). Þarna er um að ræða neðsta hluta Reykjavíkurvegar nálægt því sem nú er eystri brún eystri akreinar og undir suðvesturhluta Vitans, hins verðandi bókasafns Hafnarfjarðar. Christensenshús stóð þar sem síðar reis Flygeringshús/Hótel Björninn/Hótel Þröstur/Veiðafæradeild Kaupsfélags Hafnarfjarðar. Það var Vesturgata 2 en veitingahúsið A. Hansen er Vesturgata 4. Bingsnafnið virðist tilkomið af því að þarna voru geymdar kolabirgðir dönsku varðskipanna (G.B.).

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður um 1900.

Blikalón I. Býli í Hraunum. Vorið 1966 samþykkti bæjarstjórn Hafnarfjarðar að nota heimild í 26. grin skipulagslaga nr. 19/1964 til að áskilja sér forkaupsrétt að öllum lóðum og fasteignum í Hafnarfirði vestan Krýsuvíkurvegar sem lagðar voru undir lögsagarumdæmi Hafnarfjarðar með lögum nr. 46/1964. Meðal þessara eigna voru jörðin Lónakot, jörðin Óttarsstaðir, þar með talið gamla býlið Óttarsstaðir II, Óttarsstaðagerði, Blikalón I og Glaumbær.
Húsið stóð niðri í lægðinni niður og vestur frá Sæbóli. Lægðin var alldjúp, næstum gjóta og hefur þar verið skjólsælt (G.B.).

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður – málverk frá því um 1900.

Brúarhraunsklettur var spölkorn norðan Hamrakotslækjar. Allstór klettastapi gekk fram úr hrauninu og náði nokkuð út í fjöruna fram undan Brúarhraunsbæjunum. Brúarhraunsklettur var eini kletturinn fyrir botni fjarðarins sjávarmegin götunnar. Gatan lá skammt fyrir ofan klettinn. Kletturinn var að mestu flatur að ofan og nokkuð gróinn, um 30 metra á lengd en um 10-12 metra á breidd. Endi hans mun hafa verið um 5-7 metrar á hæð og nokkuð þverhníptur. Hliðar hans lækkuðu þegar ofar dró þar sem fjaran beggja vegna hafði nokkurn halla.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður – ströndin neðan Hafnarborgar og Hafnarfjarðarbíós.

Þegar dönsku herskipin Hekla og Heimdallur voru hér við land um og fyrir síðustu aldamót var það oft að lúðrasveit þeirra kom í land, þar eð þau lágu oft langdvölum í Hafnarfirði með lúðra sína og bumbur og raðaði sér upp á Brúarhraunskletti og spilaði fyrir fólkið sem fyllti götuna fyrir ofan. Var Hafnfirðingum að þessu hin besta skemmtun. Að þessu leyti var Brúarhraunsklettur Austurvöllur Hafnfirðinga (Ólafur Þorvaldsson). Brúarhraunsklettur var þar undir sem nú (2002) er Pósthúsið og Símstöðin, gegnt Strandgötu 25-27 (G.B.).

Brúarklöppin var klöppin kölluð sem liggur undir Hafnarfjarðarbíói (G.S.). Brúarklöppin lá svolíti austar en Brúarhraunsklettur, örlitlu austar en móts við Gunnarssund. Þar var einmitt Hafnarfjarðarbíó, sem rifið var um 15. nóvember 2001. Bílastæði nú (2002) (G.B.).

Hafnarfjörður

Efstireitur við Ljósaklif.

Efstireitur var austan við Ljósaklif. Skreiðarskemmur voru reistar þar upp úr 1950 er skreiðaröld hófst að nýju. Hann tók við ofan Háareits, þ.e. nálægt því þar sem nú er vegur að húsunum Ljósklifi og Fagrahvammi. Hann var í raun tvískiptur og var eystri hluti hans, sá er meðfram vegi lá lægri en hinn hlutinn á bungunni þar vestur af. Vesturbrún reitsins má enn já að hluta, hlaðna á barmi lægðarinnar sem Ljósaklif stendur í og er þar lág. Víðast ein steinaröð eða tvær. Hvorugur reitanna náði alveg upp að Garðavegi (G.B.).

Hafnarfjörður

Engidalsnef.

Engidalsnef er hraunbrúnin við Engidal. Þegar vegurinn var lagður 1873 lá hann út af hrauninu um Engidalsnef, rétt á austurhorninu (G.S.).

Fiskaklettur. Krosssprunginn klettur vestur frá Gestshúsum í sjó fram. Allmikið dýpi var við klettinn og þar fiskaðist vel. Enn má sjá leifar af Fiskakletti við vöruskemmu Eimskipafélags Íslands (G.S.). Ólafur Þorvaldsson lýsir klettinum: „Fiskaklettur var hraundrangur, nokkurra metra hár, ekki mikill ummáls, en mjókkaði nokkuð, þegar til toppsins dró, sem var nokkuð klofinn.

Hafnarfjörður

Fiskaklettur.

Nokkuð var hann brimsorfinn á þeim hliðum, séð að sjó vissu, enda var hann oftast votur um fætur, og höfðu Ægisdætur endur fyrir löngu tekið að sér að sjá um þann sjóþvott. Í skjölum og sögnum síðari alda kemur Fiskaklettur oft við sögu. Þetta mun oftast vera vegna þess, að hann var endimark hinnar fornu verslunarlóðaar (Akurgerðislóðar) að vestan með sjó. Að austan voru takmörk þeirra lóðar Hamarskotslækur“.

Hafnarfjörður

Gunnarsbær, bær Gunnars Gunnarssonar.
„Gunnarsbær stóð þar sem húsið Gunnarssund 1 stendur stóð áður.

Fjósaklettur (Linnetsklettur, Fjósklettur) er nú niðurbrotinn, tyrfður og umhlaðinn brotahleðslusteini í hinu húslausa horni austan og ofan gatnamóta Strandgötu og Linnetsstígs, í raun krikinn vestan undir húsunum Strandgötu 17 og 17b en mun hafa náð nokkuð niður í stæði Strandgötunnar (G.B.). Fjósaklettur var einnig kallaður Linnetsklettur (G.S. og Ó.Þ.). Ólafur Þorvaldsson kallar klettinn Fjósklettt eða Linnetsklett og segir ennfremur: „Klettur þessi var austan við verslunarhús H.A.Linnets, og var hann ofan við götuna, þegar vestur eftir var farið. Hann gekk fram í götuna og var nokkur sveigur á henni fyrir klettinn. Þó var sýnilegt, að úr honum hafði verið rifið fyrir götunni, það eð hann var nokkuð þverhníptur fremst, en þó með smásyllum, og höfðu börn þar stundum bú sín og leikföng, sem að mestu voru steinar og skeljar úr fjörunni. Börnunum var þetta hættulaust, þótt við alfaraveg væri, vegna þess að umferðin var þeim ekki þá eins hættuleg á götum úti og síðar varð.

Hafnarfjörður

Gunnarssund 1 og nágrenni.

Linnetsklettur var sléttur að ofan og grasi gróinn. Ekki var hann mikils ummáls, þó hefðu sennilega getað staðið þar uppi í einu framt að hundrað manns. Við þá hlið klettsins, sem frá götunni sneri, hafði Linnet byggt fjós fyrir kýr sínar, sem oftast munu hafa verið tvær. Var fjósið byggt að nokkru inn í klettinn, og sáust því aðeins tveir útveggir, norðurhlið og suðurstafn. Torfþak var á fjósinu og tók ris þess upp fyrir yfirborð klettsins. Var það sniddutyrft og jafngróið, eins og kletturinn að ofan… Flestir ferðamenn sem um Fjörðinn fóru, einkum þeir, sem oft fóru um, svo sem þeir sem með skreiðarlestir fóru, könnuðust vel við þennan klett, sem þeir stundum nefndu „Þránd í götu“, svo oft rákust baggar hestanna í klettinn, sökum þess, hve gatan var mjó þarna vegna hleðslu, sem þarna var fyrir framan til varnar sjávargangi upp á götuna“ (Ó.Þ.).

Hafnarfjörður

Til vinstri í fjarska, er líklega Brúarhraun, næst Gunnarsbær, hann var rifinn fyrir allmörgum árum, þar er nú bílastæði. Í fjarska er líklega Hraunprýði, það var rifið, nú er þar bílastæði. Nær, fyrir miðri mynd, lágreist hús, það var Gunnarssund 4, rifið, á lóðinnin stendur nú tveggja hæða steypt hús. Annað hús frá hægri er hús sem fyrst var Miðsund 3 en er nú Austurgata 30. Það hús byggði Christian Olauvson Smith árið 1905 en hann kom til landsins á vegum Jóhannesar Reykdals til að setja upp vélar í nýja timburverksmiðju hans, við lækinn. Því næst er húsið Austurgata 32 , áður Miðsund 4, byggt 1906. 

Gataklettur var fram undan sundhöll Hafnarfjarðar, en er nú horfinn (Á.G.).

Gunnarssund lá upp í hraunið vestan við Ragnheiðarhól og lá í krókum upp í hraunið. Uppsátur skipa og báta (G.S.). Gunnar Gunnarsson hjó sundið upphaflega í hraunið til að draga þar upp báta sína um vetur. Sundið lá sunnan/austan Árnahúslóðar að Gunnarsbæ er stóð á næstu lóð fyrir ofan, beint upp af Strandgötu 29. Nafnið var síðan notað þegar farið var að gefa götum nöfn í Hafnarfirði. Sigurjón Gunnarsson segir svo um Gunnarssund: „Frá Strandgötunni og heim að bænum ruddi faðir minn braut það breiða að hægt var að setja sexæring þar upp á veturna, hvolfdi hann skipi sínu þar í suðri [sennilega sunnan undir bænum (G.B.] svo að það væri öruggt fyrir sjávargangi“ (G.S.).

Hafnarfjörður

Syðstavarða ofan Gjögurs.

Gjögur nefnist strandlengjan við Hvaleyrarhraun og kapelluhraun frá Arnarklettum vestur undir Lónakot (Á.G.). Í lýsingu G.S.. segir að Gjögrin taki við þar sem Litla-Sandvík endar. Alfaraleiðin eða suðurferðaleiðin lá frá túngarðshliðinu niður á Hveleyrarsand og lá lítið eitt ofan við Gjögrin. Þar var klapparhóll er leiðin lá um, nefndist Miðhóll og þar í Móðhola (G.S.). Í Móðlu var kveðinn niður draugur.

Heimastavarða var við gömlu leiðina við Gjögur í Hvaleyrarhrauni. Síðan kom Miðvarða og syðst Syðstavarða (G.S.).

Hótel Björninn rak Guðrún Eiríksdóttir á Vesturgötu 2 (G.S.). Þar var oft mikill gleðskapur hermanna á stríðsárunum.

Hafnarfjarðar

Hraunprýðishóll.

Hraunprýðishóll (Fríkirkjuhóll) var heitið á Fríkirkjuhól fram að því að Fríkirkjan reis 1913 (G.B.).

Hvíldarhóll (Hvíluhóll) var hraunhóll rétt við Kirkjuveginn (G.D.). Hann var einnig nefndur Hvíluhóll. Hann er fremsti hluti hólranans niður undan markavörðunni fram við Hrafnistu. Garðavegur var brotinn um hann framanverðan og liggur þar enn. Hóllinn dró nafn af því að þar hvíldi kirkjufók sig á göngunni milli Hafnarfjarðar og Garða frá því um aldamót er Garðavegur var lagður og til 1914 er Hafnarfjarðarkirkja var vígð. G.B. heyrði aldrei annað nafn en Hvíluhóll fyrr en 1999 er hann heyrði fyrst Hvíldarhólsnafnið nefnt. Lítið eitt var brotið af hólnum við húsflutning (->Sæból). (G.B.).

Hafnarfjörður

Fagrihvammur og Ljósaklif.

Jóhannshellir (->Kristínarhellir) var nálægt Vitanum, sami hellir og Kristínarhellir. Þar hafði Jóhann Baldvinsson fé sitt (G.S.).

Klofhóll var þar sem Gamla-Fjarðargata lá upp á hraunið við Engidalsnef og suður af honum, Stekkjarlaut, sem nú er afgirt (G.S.).

Ljósaklif (húsið) var reist af Benedikt Guðnasyni 1945-1946. Þar við var hænsnahús, fiskverkunarhús, bílaverkstæði, gallerí, allt sama húsið nema galleríið sem var verkstæðishúsið endurgert.

Hafnarfjörður

Hamarskotsmöl.

Marlaroddinn var vesturendi Hamarskotsmalar, austan við Lækjarósinn. Náði mislangt vestur eftir því hvar ósinn lá – eða var látinn liggja (G.B.).

Mölin (->Hamarskotsmöl) var svæðið sunnan Hamarskotslækjar kallað á svipuðum slóðum og Strandgatan er nú. Um hana segir Ólafur Þorvaldsson: „Þegar til Reykjavíkur var farið úr suðurfirðinum, lá leiðin svipað og Strandgatan er nú. Sunnan lækjarins var Mölin, og var enginn vegur lagður yfir hana, og var því ýmist farið um sýslumannstúnið, ef sæmilega þurrt var um, eða þá eftir Mölinni, allt sunnan frá bakaríi og nyrst á Malarenda, en þar var brú á læknum, rétt þar sunnan við, sem nú er lyfjabúð Hafnarfjarðar.

Hafnarfjörður

Rauðhólsnef.

Mölin var var laus og þung hestum og tók þeim víða í hófskegg. „Magnús Jónsson segir að þegar talað var um húsin á Mölinni að nefnt hafi verið að fara suður fyrir Möl, að vera niðri á Möl eða þvíumlíkt.“ „Síðan var Mölin oft kennd við helstu athafnamenn þar á hverjum tíma – Bergmannsmöl, Ólafsmöl og svo Einarsmöl þegar nálgaðist Moldarflötina og lækinn og Einar Þorgilsson flutti bækistöð sína á Óseyri“ (M.J.).

Ágústarklettur

Ágústarklettur ofan Langeyris.

Sjóhús við Rauðhólsnef, allstór risbyggður bárujárnsskúr til verkunar grásleppuhrogna, reistur á möl beint ofan Rauðhólsnefs um 1953. Rifinn fyrir 75 ára afmæli Hafnarfjarðar 1983 (G.B.).

Skipaklettur (Jaktaklettur) er nefndur í Jarðabók Árna og Páls: „Jörðin [Setberg] á ekki land til sjávar, en búðarstöðu á hún og skipsuppsátur í Garðastaðar landareign þar sem heitir Skipaklettur. Er þetta eiginlega í Akurgerðislandi, sem Hafnarfjarðarkaupstað tilheyrir. En þó er undirgiftin fyrir þetta skipsuppsátur betöluð og hefur betalast til staðarhaldarans í Görðum með xx álnum“.

Hafnarfjörður

Hvíldarhóll.

Bjarni Sívertsen lét árið 1805 grafa þurrkví inn í malarkambinn austan við Skipaklett (Jaktaklett) örskammt vestan við verslunarhúsin í Akurgerði (L.G.).
Ólafur Þorvaldsson þekkir einungis nafnið Jaktaklettur. „Jaktaklettur hefði eftir útliti og lögun mátt fremur nefnast hóll heldur en klettur, svo mikill var hann um sig. Hliðar hans, sem móti norðri og austri sneru, höfðu nokkurn aflíðanda, en suðurhlið, sem að sjó vissi, og vesturhlið voru ýmist þverhníptar eða stöllóttar. Norður- og austurhliðar Jaktakletts drógust nokkuð jafnt til efstu brúnar, og myndaðist þar hryggur til suðvesturs og norðausturs, og stóðu klappirnar þar víða upp úr.

Hafnarfjörður

„Sundklettur“, neðan Sundhallarinnar. Þar var hafnfirskum börnum kennt sund fyrr á árum.

Á efri árum Jaktakletts, ef svo mætti segja, ber að vísu ekki mið við sögu hans, þó skal þess getið, að á fyrstu árum, sem Ágúst Flygering kaupmaður og útgerðarmaður rak þá atvinnu í næsta nágrenni, lét hann reisa fánastöng uppi á Jaktakletti. Þaðan var skipum, innlendum og útlendum, heilsað og þau við burtför kvödd fánakveðju. Á sviðuðum tíma höfðu tveir eða fleiri Hafnafirðingar söltunar- og verkunarstöð sunnan undir klettinum, í pöllum hans og básum, fyrir hrognkelsiveiði sína, og versluðu þar meða afla sinn við sína viðskiptamenn.
Fremur mun fátítt, að klettar og önnur kennileiti á landi uppi séu kennd við skip, en svo er þó hér, Umræddur klettur er kennur við jaktir, þ.e. lítil fiskiskip seytjándu og átjándu aldarinnar (máske eitthvað lengur).

Hafnarfjörður

Gönguhóll.

Á fyrsta tug nítjánu aldarinnar mun fyrstu og að ég ætla einu þurrkvínni, sem byggð hefur verið hér á landi, hafa verið komið upp austan undir þessum umrædda kletti, og allar líkur benda til, að hún hafi verið fyrsta skipasmíðastöð landsins, sem svo getur kallast. Í þurrkví þessa munu, eftir því sem sögur herma, hafa verið teknar til viðgerðar fiskiskútur, sem þá gengu undir nafni jaktir. Sömuleiðir benda og allar líkur til þess, að þarna hafi verið byggðar tvær eða fleiri jaktir. Árið 1803 hafði Bjarni Sívertsen þá ánægju að sjá fyrstu jaktina fljóta fyrir landi.

Stifnishólar

Stifnishólar.

Stifnishólar eru beint framan Brúsastaða. Aðrir segja Stífnishóla vera kletta ofan bæjarins. Sama saga er sögð um Stíflishóla í landi Selskarðs við Skógtjörn. Vestan Stífnishóla eru hleðslur, sennilega vígis frá styrjaldarárunum, fremur en naust. Þar hvolfdi Þórður Eyjólfsson á Brúsastöðum kænu sinni á vetrum á 6. áratugnum en almennt var þetta álitið „vígi“ en fley Þórðar á þeim tíma smátt. Þarna var gerð leikmynd fyrir sjónvarp á 8. og 9. áratugnum er upp var tekinn þáttur um börn á stríðsárunum síðari. Nokkrar hleðslur allþykkar mátti sjá í klettaskorum vestan við Stífnishóla á eftirstríðsárunum. Ungmenni kotanna töldu þetta „vígi úr stríðinu“ er þá var nýlokið (G.B.). Stífnishólar eru krossprungnir klapparhólar beint framan af bænum. Þar var kveðinn niður draugur um aldamótin 1800 (G.S.).

Hafnarfjörður

Svendsensklettur neðan Reykjavíkurvegar 16.

Svendsensklettur stendur enn neðan Reykjavíkurvegar 16 (G.S.).

Sæból (áður Reykjavíkurvegur 12), flutt 1959-1951 á næstu lóð framan við eða nær sjó en Dalbær. Þar bjó Björn Bjarnason (f. 1907- d. 1998) með fjölskyldu sinni. Það hús á nú sonur hans Edvard Rafn (G.B.). Er hús þetta var flutt þurfti að brjóta nokkuð framan af Hvíluhól (Hvíldarhól) nokkuð framan við Markavörðuna við Hrafnistu til að húsið mætti flytja þar um veginn (Árni Gunnlaugsson 1984).

Heimild:
-Guðlaugur Rúnar Guðmundsson – Örnefnalýsing Hafnarfjarðar 2004.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður – loftmynd 1954.

Straumsvík

Í Náttúrufræðingnum árið 1998 fjallar Páll Imsland  „Um náttúruvár á Straumsvíkursvæðinu„.

Náttúrufræðingurinn 1998

Náttúrufræðingurinn 1998 – forsíða.

„Ekkert mat á umhverfisáhrifum mannvirkja eða framkvæmda var komið til þegar undirbúningur og bygging álvers við Straum átti sér stað á sjöunda áratug 20. aldar og þá var heldur ekki farið að huga í mikilli alvöru að mögulegum áhrifum náttúrunnar á byggingar eða starfsemi slíkra iðjuvera. Það má því segja að álverið sé við Straum þrátt fyrir að starfsemi þess beri í sér möguleikana á óheillavænlegum áhrifum á umhverfið og þó að þar lúri vár í náttúrunni sem gætu orðið starfseminni til óþurftar. Hér verður ekki fjallað um áhrif álversins á umhverfið heldur reynt að gefa einfalda mynd af því hvernig álverið er í sveit sett með tilliti til náttúruváa. Ekki hefur verið gerð sérstök og magnbundin úttekt á náttúruvám með beinni hliðsjón af mögulegum áhrifum þeirra á álverið, en sitthvað er vitað almenns eðlis um náttúru svæðisins, þær vár sem þar gætu komið upp og hver almenn áhrif þeirra yrðu.

Páll Imsland

Páll Imsland (f. 1943) lauk B.S.-prófi í jarðfræði frá Háskóla íslands 1973 og doktorsprófi frá sama skóla 1985. Páll hefur m.a. unnið að rannsóknum á jarðfræði Jan Mayen og náttúruvám. Páll er fyrrverandi ritstjóri Náttúrufræðingsins.

Þessi umfjöllun er á þeim almennu nótum. Á mjög einfaldan hátt má gefa várnar til kynna með því að lýsa staðsetningu álversins í landinu í ljósi náttúrufars þar: Álverið stendur á opinni ströndu sem liggur í fjölfarinni braut orkuríkra veðurkerfa skammt frá eldvirku landrekssvæði. Með öðrum orðum þýðir þetta að þarna megi vænta náttúruváa sem eiga sér orsakir í hafrænum, jarðlægum og veðurfarslegum ferlum eða í samspili þeirra. Þau jarðlægu öfl sem þarna eru virk tengjast flest landrekinu. Undir Reykjanesskaganum liggja mörkin milli þeirra tveggja jarðskorpufleka sem mynda jarðskorpu Norður-Atlantshafsins mestan hluta norðurhvels og jarðar, Evrasíuflekans og Norður-Ameríkuflekans, og þar verða flekarnir til við gliðnun og eldvirkni. Því eru sterk tengsl milli nokkurra þeirra ferla sem geta valdið ólíkunr vám á þessu svæði, og ef eitt þeirra fer að gera vart við sig má vænta þess að önnur fylgi í kjölfarið.
Skal nú vikið að hverri þessara náttúruváa og reynt að hafa Straumsvík í huga. Þær náttúruvár sem eru líklegastar til að gera verulegan usla á svæðinu eru: ofviðri, strandflóð, jarðskjálftar, sprungumyndun í yfirborði jarðar, eldvirkni, landsig og landbrot við ströndina. Yfirlit yfir náttúruvár á Straumsvíkursvæðinu er gefið á 1. mynd.

Ofviðri

Páll Imsland

1. mynd. Kortskissa af Suðvesturlandi sem sýnir helstu þætti náttúruhamfara á svœðinu og hvernig þeitn er fyrirkomið í jörð og andrúmslofti með tilliti til Straums. R stendur fyrir Reykjanes-, G fyrir Grindavíkur-, K fyrir Krýsuvíkur-, B fyrir Brennisteinsfjalla- og H fyrir Hengilssprungurein.

Óveður ganga undir ýmsum nöfnum, svo sem illviðri, ofviðri, aftakaveður, fárviðri o.fl. Hér verða einkum notuð orðin ofviðri og aftakaveður. Ofviðri einkennast af sterkum vindi, sem hér á landi er oftast samfara úrkomu. Venjulegast er að miða við 9 vindstig eða meira. Þá fer hlutum að verða hætt við foki og fólk á í erfiðleikum með að ráða sér úti við. Trausti Jónsson (1980 og 1981) hefur fjallað um ofviðri hér á landi. Hann skilgreinir ofviðri þannig að á fjórðungi veðurathugunarstöðva í landinu mælist 9 vindstig eða meira eða að á 10% stöðvanna mælist 10 vindstig eða meira. Mælist 10 vindstig eða meira á 45% stöðvanna kallast veðrið aftakaveður.
Áhrif af ofviðrum eru gífurlega margvísleg og því ógerlegt að tíunda þau öll. Það sem einkum getur orðið fyrir skakkaföllum í ofviðrum, ef við reynum að einfalda yfirlitið, eru fyrst og fremst lausir hlutir, sem vindurinn tekur og feykir, eða hlutir og byggingar sem lausir hlutir fjúka á og skemma. Sjaldgæfara er að heilar byggingar og aðrir fastir hlutir eða þungir fjúki, nema elli og viðhaldsleysi sé farið að setja mark sitt á þá. Þó er plötufok algengt hér á landi. Einkum eru það þakplötur sem vindur nær sér undir og losar og feykir síðan.

Foktjón

Foktjón.

Af slíku foki er tvöfaldur skaði algengur, þ.e.a.s. affoksskaðinn og síðan einnig áfoksskaði annars staðar. Þessu á yfirleitt að vera auðvelt að sjá við og gera ráðstafanir í tæka tíð ef eftirlit er haft með ástandi bygginga. Þar sem sjór gengur á land í óveðrum geta skakkaföllin magnast verulega. Einnig geta fylgt svona veðrum ýmis fyrirbæri sem valda skaða. Má þar t.d. nefna seltu af sjávardrifi, sem getur haft mikil áhrif á flutningsgetu raflína í lofti, og ísingu, sem á það til að sliga slíkar lagnir.
Hér á landi eru illviðri af þessu tagi svo algeng og geta komið svo skyndilega að engan veginn er ráðlegt að skilja eftir létta, lausa hluti óvarða utandyra, að minnsta kosti að vetri til.

Aftakaveður

Aftakaveður.

Samkvæmt samantekt Trausta Jónssonar (1981) voru ofviðri á Íslandi rúmlega 9 á ári að meðaltali á 68 ára tímabili, 1912-1980. Á sama tímabili voru aftakaveður um eitt og hálft á ári að jafnaði. Þessi veður eru langalgengust í NA-, S- og SV-áttum. Ekki liggur fyrir könnun á dreifingu þeirra eða áhrifum þeirra um landið, að öðru leyti en því að hvert veður nær gjarnan yfir stórt landsvæði, eins og fjöldi veðurathugunarstöðvanna í skilgreiningu þeirra gefur til kynna. Þau eru því alls ekki staðbundin fyrirbæri að jafnaði. Eins segja vindáttirnar sem veðrinu fylgja nokkuð um líkur á dreifingu áhrifanna, einkum varðandi sjávaráhrifin, flóð, landbrot og skaða í höfnum og á halfnarmannvirkjum.

Straumsvík

Straumsvíkursvæðið – álverið.

Veðuráhrif eru þó mjög gjarnan staðbundin, þar sem landslag stjórnar vindi á hverjum stað að verulegu leyti, og við slíkar aðstæður geta þung áhrif hitt fyrir ýmis svæði, jafnt við ströndu sem að fjallabaki. Ekki liggur fyrir skýrsla eða samantekt um áhrif ofviðra á Straumsvíkursvæðinu sjálfu, en sterkar S- og SV-áttir eru þar tíðar, einkum að vetrarlagi. Nátengd ofviðrum eru svonefnd strandflóð, sem fjallað er um hér á eftir.

Strandflóð

Strandflóð

2. mynd. Flest strandflóð hérlendis verða i svartasta skammdeginu. Vegna myrkurs og
veðurofsa er erfitt að mynda atburðina sjálfa. Afleiðingarnar er hins vegar auðveldara að
mynda. Strandflóðið 14. okt. 1977 var eitt hinna mestu á síðustu áratugum. Á Stokkseyri mátti sjá mikilfenglegar afleiðingar þess. Þar rak flóðið fjóra fiskibáta á land. Eins og myndin sýnir er einn þeirra alveg uppi á bryggju en hinir uppi á malarkambinum.
Fiskibátar þessir, Bakkavík, sem er uppi á bryggjunni, Hásteinn, Jósep Geir og Vigfús
Þórðarson voru um og yftr 50 tonn að burðargetu. Tveir þeir fyrsttöldu fóru aldrei á sjó
aftur.

Strandflóð eru flókin fyrirbæri sem eiga sér orsök í samspili landslags, áhrifa himintungla og hafrænna og veðurfarslegra ferla. Þær aðstæður sem helst þurfa að vera til staðar í landslaginu til þess að strandflóðahætta skapist eru flatlend og láglend strandsvæði. Gerð strandbergsins og þau rofform sem í því finnast, langt út fyrir fjöruborð, ásamt gerð og magni strandsets, hafa veruleg áhrif á framvindu strandflóða.
Strandflóða gætir mun meir þar sem beinar strendur eru fyrir opnu hafi en þar sem eyjar, sker og skerjagarðar verja ströndina eða þar sem vogar og víkur draga úr ölduhraða og stuðla að öldusveigju. Þá skiptir aðdýpi og grunnsævi fyrir ströndinni og ekki síst ölduaðdragandi (fetch) miklu máli um hæð strandflóða og sjávarmagn sem tekur þátt í flóðinu. Strendur fyrir opnu, víðáttumiklu úthafi verða mun verr fyrir barðinu á slíkum flóðum en strendur innhafa eða þar sem stutt er milli landa og mesti mögulegi ölduaðdragandi því stuttur.
Þau áhrif himintungla sem mestu máli skipta eru togkraftar sólar og tungls. Þannig gætir strandflóða því meir sem þau eiga sér stað nær stórstraumi og þeim mun stærri sem straumurinn er.

Grindavíkurbrim

Brim haföldunnar.

Hafræn og veðurfarsleg ferli, eins og stormur og ölduhæð, krappleiki öldunnar og hraði stormsins og fleira slíkt, eru afgerandi þættir. Í stuttu máli má segja að því meiri sem stormurinn er, því hraðar sem lægðin, sem hann fylgir, fer yfir og því hraðar sem hún dýpkar, þeim mun hærri og krappari verður aldan. För lægðarinnar yfir hafflötinn og lækkandi loftþrýstingi fylgir ris sjávarborðsins, sem verður þeim mun hærra sem loftþrýstingur lækkar meir. Þetta sjávarborðsris myndar bungu á yfirborði sjávar sem eltir lægðina, og mætti kalla hana sjávarskafl (storm surge). Eftir því sem sjávarskaflinn er hærri og meiri um sig, þeim mun meiri verða áhrif hans þegar hann berst upp að ströndu og þeim mun verri verða strandflóðin.

Grindavíkurbrim

Brot haföldunnar.

Veðurlag dægrin á undan lægðinni, sem sjávarskaflinn og flóðið fylgja, skiptir einnig máli, einkum þegar svo háttar til að veðrin valda áhlaðanda, upphleðslu sjávar við ströndina, þ.e.a.s. veðrin hafa blásið sjó að ströndinni svo hann stendur þar hærra en ella. Einnig getur eldra veður, nýlega gengið yfir, haft veruleg áhrif á ölduhæð og öldumynstur á sjónum.
Af þessu ætti að vera ljóst að strandflóðin eru margræð fyrirbæri og þar af leiðandi eru þau einnig æði misjöfn. Hér við land eru strandflóð tíð, enda djúpar, hraðfara lægðir algengar, einkum að vetri, og ölduaðdragandi hér almennt langur.

Grindavíkurbrim

Hafaldan.

Algengast er að lægðirnar komi úr suðvestri og strandflóðin hér fylgi suðvest-, suð- og suðaustlægum stormum. Tíðust eru þau við suður- og suð-vesturströndina. Þessar strendur eru í farvegi lægðanna og suðurströndin er auk þess flöt, lítt vogskorin og að mestu leyti óvarin af eyjum og skerjum.
Svo vill til að Reykjanesskagi ver sunnanverðan Faxaflóa fyrir áhrifum lægðanna, þannig að hinir stóru sjávarskaflar sunnan úr hafi berast þar sjaldan ótruflaðir að ströndu. Í vestlægri öldu er ölduaðdragandi í Faxaflóa tiltölulega stuttur vegna nálægðar Grænlands, og vestanáttir eru sjaldgæfastar allra stífra vindátta hér á landi. Seltjarnarnes og Álftanes verja hluta af sunnanverðum Faxaflóa fyrir norðvestlægum öldum, einkum Hafnarfjörð og Straumsvíkursvæðið. Af þessu leiðir að við sunnanverðan Faxaflóa gætir strandflóða yfirleitt mun minna en veðurfarsleg efni annars standa til.

Grindavíkurbrim

Hafaldan brotnar.

Ströndin við Straum er á svæði þar sem strandflóð eru almennt tíð, en hún er frá náttúrunnar hendi vel varin fyrir áhrifum þeirra, þótt hún sé fremur opin fyrir og ekki varin af skerjagarði.
Á síðustu 200 árum hafa hátt í 60 strandflóð orðið við Suðvesturland, sem í þessu tilviki er talið frá Dyrhólaey vestur um til Skipaskaga. Þetta þýðar að meðaltímalengd milli strandflóða á svæðinu er um 3,3 ár. Ekki gætir þó allra þessara flóða í Faxaflóa, þar eð þau eru að mestu leyti fylgifiskur suðaust-, suð- og suðvestlægra átta og Faxaflói, einkum að sunnanverðu, nýtur skjóls af Reykjanesskaga í þess konar flóðum, eins og áður kom fram. Strandflóðin eru fyrst og fremst vetrarfyrirbæri. (2. mynd).

Jarðskjálftar og sprungumyndun

Sprungumyndun

3. mynd. Við Grindavík,
nánar tiltekið við suður-
endann á annarri þeirra
sprungureina sem valdið
geta sprungum í yfirborði
jarðar á Straumsvíkur-
svœðinu. A myndinni er
horft til NA, sunnan frá sjó
upp til bæjarins. Sprungan
teygist í lítið eitt hliðruðum
sprungubútum alla leið inn
að bœnum. Sprungukerfið
heldur áfram inn undir
byggðina, kemur síðan í
ljós aftur norðan hennar og
teygist þaðan norður eftir
heiðunum og allt að
Straumi.

Það er ekki einfalt mál að gera grein fyrir jarðskjálftavirkni og áhrifum jarðskjálfta þannig að umfangið verði augljóst. Jarðskjálftar eru afar breytilegir að stærð og áhrif þeirra eru því mismunandi. Áhrifin eru ekki einungis misjöfn á upptakasvæðinu og eftir stærð skjálftanna heldur breytast þau líka með fjarlægð og það misjafnlega, í samræmi við byggingu jarðskorpunnar. Því er ekki unnt að gera neina einfalda grein fyrir áhrifum jarðskjálfta á tiltekin svæði, t.d. Straumsvíkursvæðið. Áhrifin fara eftir því hvar upptakasvæði skjálftanna eru, hversu stórir skjálftarnir eru og um hvers konar jarðlög þeir berast.
Þau upptakasvæði jarðskjálfta sem líklegust eru til að hafa áhrif á Straumsvíkursvæðinu eru flekaskil jarðskorpunnar undir Reykjanesskaga, allt austur undir Ölfus, og einnig vestasti hluti þvergengisbeltisins sem liggur um Suðurland. Jarðskjálftar á þessum svæðum hafa tilhneigingu til að koma í hrinum, sem standa vikum, mánuðum eða jafnvel árum saman, með hundruðum og oftast þúsundum einstakra skjálfta. Flestir eru þessir skjálftar svo litlir að þeir finnast ekki, mælast aðeins á jarðskjálftamælum, og hafa því lítil sem engin áhrif á yfirborði. Skjálftunum fækkar yfirleitt jafnt og þétt með stærð. Stærð skjálftanna er gefin í stigum á Richter-kvarða. Kvarðinn er lógariþmískur; þannig er skjálfti upp á 4 stig tíu sinnum öflugri en skjálfti upp á 3 stig o.s.frv. Kvarðinn gefur til kynna orkulosun í upptökum skjálftans en segir ekkert um áhrifm af skjálftanum á mismunandi stöðum. Til þess að lýsa áhrifum jarðskjálfta á tilgreindum stöðum er notaður annar kvarði, Mercalli-kvarðinn, sem er gjörólíkur og minnir meir á stigakvarðann sem notaður er um vindstyrk. Skjálftahrina gekk yfir Reykjanesskagann á ámnum 1971 og 1972 og var hún vel rannsökuð (F.W. Klein o.Il. 1973). Hún einkenndist af einstökum, tiltölulega lillum hrinum og minni virkni þeirra á milli. Í stærstu hrinunni, sem stóð í um 8 sólarhringa, mældust um 14.600 kippir. Skjálftahrina þessi, 1971-1972, varð á flekaskilunum undir Reykjanesskaga og mátti af skjálftunum kortleggja skilin í fyrsta sinn. Síðan hafa fleiri slíkar hrinur komið og er ein slík, að vísu flóknari, í gangi nú og hefur verið undanfarin ár austar á flekaskilunum, á Hengilssvæðinu.

Grindavík

Grindavík – jarðskjálftar í nóv. 2023.

Það er yfirleitt ekki fyrr en skjálftarnir ná 3-4 stigum á Richter-kvarða að verulega áþreifanlegra áhrifa af þeim fer að gæta á yfirborði. Það er hins vegar háð gerð og byggingu jarðskorpunnar, spennuástandi hennar og upptakadýpi skjálftanna hver og hve mikil áhrifin verða. Ef skjálftarnir verða stærri en þetta fer áhrifanna að gæta mun meir, og skjálfti af stærðinni 7 hefur venjulega áhrif svo tugum kílómetra skiptir út fyrir upptakasvæðið. Á plötuskilunum á Reykjanesskaga má vænta stærstu skjálfta í kringum 6 stig, stækkandi austur á bóginn (Páll Halldórsson 1992). líkir skjálftar gætu haft þó nokkuð mikil áhrif á Straumsvíkursvæðinu, en þó varla til mikils skaða.

Jarðskálfti

Þann 26. ágúst 1896 hófust á Suðurlandi einhverjir mestu jarðskjálftar, sem sögur fara af hér á landi. Fyrsti kippurinn var snarpastur í Rangárvallasýslu og í Eystri hrepp í Árnessýslu, þar sem fjölmargir bæir hrundu til grunna. Næsta morgun kom annar kippur og virtist hann hafa verið snarpastur í Hrunamannahreppi, en þar féllu nokkrir bæir. Að kvöldi 5. september kom enn mjög snarpur kippur, sem olli miklu tjóni í Holtum, Skeið og Flóa.

Stærstu skjálftar, sem menn búast við á Suðurlandsþvergengisbeltinu, gætu farið eitthvað yfir 7 stig á Richter-kvarða. Slíkur skjálfti sem ætti upptök vestast á svæðinu, t.d. í Ölfusi eða undir Hellisheiði, mundi að líkindum hafa veruleg áhrif víða vestanfjalls og valda þar þó nokkru tjóni.
Líkur eru fyrir því að auk skjáfta á þessum alþekktu skjálftabeltum, þar sem jarðskorpuflekar snertast, komi öðru hverju skjálftar sem eiga upptök sín utan skjálftabeltanna. Slíkir skjálftar kallast gjaman innflekaskjálftar, til aðgreiningar frá flekajaðraskjálftum. Þeir verða vegna þess að spennubreytingar verða í skorpunni innan flekanna sjálfra, fjarri flekajöðrum, sem afleiðing af spennulosun í jarðskjálftum hingað og þangað við flekaskilin. Þessar spennubreytingar geta leitt til skjálfta, sem eiga sér upptök innan flekans, og virðast slíkir skjálftar geta orðið allsterkir.

Jarðskjálfti

Þann 26. ágúst 1896 hófust á Suðurlandi einhverjir mestu jarðskjálftar, sem sögur fara af hér á landi. Fyrsti kippurinn var snarpastur í Rangárvallasýslu og í Eystri hrepp í Árnessýslu, þar sem fjölmargir bæir hrundu til grunna. Næsta morgun kom annar kippur og virtist hann hafa verið snarpastur í Hrunamannahreppi, en þar féllu nokkrir bæir. Að kvöldi 5. september kom enn mjög snarpur kippur, sem olli miklu tjóni í Holtum, Skeið og Flóa.
Fólk var komið í háttinn þegar skjálfti 7,5 á Richter reið yfir. Síðan um 1700 hafa 7 jarðskjálftar verið á Suðurlandi og hafa haft styrkleika >VIII (1706, 1734, 1752, 1784, 1789, 1896 og 1912).
Svipað er að segja um Rangárvelli. Þar hafa bæir örugglega fallið 12 sinnum, líklega 17 sinnum, og þar hafa að minnsta kosti 5 jarðskjálftar siðan 1700 haft styrkleika >VIII eða 1725, 1732, 1784, 1896 og 1912. Aðeins einu sinni er vitað með vissu, að jarðskjálftar samfara byrjun Heklugoss hafi orðið svo sterkir, að bæir hafa hrunið, en líklegt, að það hafi skeð tvisvar eða þrisvar sinnum.

Upplýsingar um slíka skjálfta eru nokkuð af skornum skammti og við þeim er ennþá aðeins eitt ráð tiltækt: að byggja vel og gera miklar kröfur um styrkleika viðkvæmra mannvirkja. Slfkir skjálftar eru tíðari nærri flekaskilum en fjær þeim og því má ekki útiloka slíka skjálfta á Straumsvíkursvæðinu. Áhrif þeirragætu orðið mikil.
Augljósustu ummerki eftir jarðskjálfta í landslagi eru sprungur og misgengi. Reykjanesskagi einkennist mjög af sprungnum berggrunni og eftir skaganum liggja nokkrar mjög áberandi, samsíða sprungureinar frá suðvestri til norðausturs og sjást þær glöggt á jarðfræðikortum (Kristján Sæmundsson og Sigmundur Einarssson 1980). Á þeim eiga landsrekshreyfingarnar sér fyrst og fremst stað og þær einkennast af þrem megingerðum sprungna: opnum gjám (verða til við gliðnunartilfærslu), misgengjum (verða til við lóðréttar tilfærslur) og gosgígaröðum (sem eru yfirborðsmyndir sprungna sem flytja bergkviku að neðan og upp til yfirborðs). Vestast þessara reina liggur Reykjanessprungureinin, sem nær utan af Reykjaneshrygg um Reykjanes og norðaustur eftir Strandarheiði og Elliðavatni og allt upp í Mosfellssveit (Páll Imsland 1985). Vesturhluti hennar lendir í sjó við Stóru-Vatnsleysu, en eystri hlutinn fylgir þurrlendinu áfram norðaustur á bóginn og stefnir á Straumsvík og Hafnarfjörð.
SprungurÚr sjó stefnir sprungureinin aftur á land á innanverðu Álftanesi fyrir mynni Hafnarfjarðar. Sums staðar er þessi rein mjög áberandi í landinu, einkum á hraununumsem runnið hafa eftir að ísaldarjökulinn leysti af landinu fyrir um 10.000 árum. Þó hafa yngstu hraunin sums staðar runnið yfir sprungurnar og hulið þær. Þannig háttar til við Straum. Sprungur eru þar ekki áberandi í landinu, enda þekja ung hraun svæðið. Sprungureinin liggur samt sem áður undir þessum ungu hraunum og einnig úti fyrir ströndinni, og hún er sá hluti svæðisins sem líklegast er að hreyfist í jarðskjálftum í framtíðinni. Telja má að áhrif af jarðskjálftum á svæðinu í framtíðinni geti einkum orðið í fyrsta lagi má vænta þess að barmar sprungna í berginu gjögti vegna bylgjuhreyfinga sem fara um berggrunninn frá skjálftum á og utan svæðisins. Þetta gjögt getur haft margvísleg minni háttar áhrif á berggrunninn jafnt sem byggingar og önnur mannvirki sem liggja yfir sprungur.

Sprungur

Sprungur í nágrenni Reykjavíkur. Uppdráttur Jóns Jónssonar, jarðfræðings.

Í öðru lagi má vænta þess að á sumum þessara sprungna, á nokkru dýpi, brotni jörðin á ný og hreyfing verði á sprunguflötunum. Þar hliðrast þá barmarnir til og gjár opnast eða lokast, ganga á mis í lóðrétta eða lárétta stefnu. Sambland einhverra eða allra þessara hreyfingarþátta getur einnig átt sér stað. Slíkar hreyfingar gætu einnig átt sér stað við myndun nýrra sprungna á svæðinu, sjá 3. mynd. Myndun nýrra sprungna og hreyfing gamalla eins og hér var lýst er líkleg til að rjúfa vegi, lagnir í jörð og línur í lofti. Hún getur einnig raskað byggingum eða brotið þær illilega.
Í þriðja lagi er ekki ástæðulaust að ætla að misgengishreyfingar á sprungum á sjávarbotni úti fyrir ströndinni geti valdið flóðöldum af þeirri gerð sem kallast tsunami (sjávarskriða), þótt við þekkjum ekki dæmi þess héðan, en aðstæður til slíks eru fyrir hendi á Straumsvíkursvæðinu.
Tíðni sprunguhreyfinga og sprungumyndunar á þessu svæði er óþekkt, eins og raunar víðast hvar. Eðli slíkra atburða er margrætt og litlar tilraunir hafa verið gerðar til að slá tölu á þá.

Eldvirkni og hraunrennsli

Jarðfræðikort

Jarðfræðikort ISOR af Reykjanesskaga (Jón Jónsson og Kristján Sæmundsson).

Eins og lesa má af jarðfræðikortum (Kristján Sæmundsson og Sigmundur Einarsson 1980) er Straumsvíkursvæðið allt á ungum hraunum sem runnið hafa eftir að ísöld lauk. Austan svæðisins eru móbergshálsar sem orðið hafa til í eldgosum undir jöklum ísaldar. Rétt norðan við svæðið taka við grágrýtisholt mynduð við hraunrennsli á síðustu hlýskeiðum ísaldar. Eldsumbrot hafa því ekki aðeins sett svip sinn á svæðið heldur myndað það allt. Eldvirknin sem hér á hlut að máli er svokölluð rekeldvirkni, en það þýðir að bergkvikan kemur upp á sprungum sem tengjast andrekshreyfingum jarðskorpunnar. Kvika þessi er í nær öllum tilvikum basaltkvika, yfirleitt þunnlljótandi og heit og hefur því litla tilhneigingu til sprenginga.

Eldgos

Eldgos á Reykjanesskaga 2024.

Einkennandi fyrir hana eru þunn hraun sem ná mikilli útbreiðslu. Ekki hefur gosið á þessu svæði síðustu aldirnar.
Yngsta hraunið á Straumsvíkursvæðinu er venjulega kallað Kapelluhraun og er talið vera sama hraun og heitir í fornum heimildum Nýjahraun. Það rann skömmu eftir landnám. Nýlega hafa Sigmundur Einarsson o.fl. (1991) gert grein fyrir þessu hrauni. Kapelluhraun er hluti af hraunaklasa, sem þeir telja hafa runnið í hrinu sprungueldgosa, Krísuvíkureldum, sem stóðu á svæðinu líklegast í nokkra áratugi á 12. öld. Gossprungan, sem var virk í þessari hrinu, náði sunnan frá Latsfjalli við suðurenda Móhálsadals og norður á bóginn undir vesturhlíðum Undirhlíða, allt norður undir Helgafell. Hún er á Krýsuvíkursprungureininni, sem er næsta rein austan við Reykjanessprungureinina.

Helgafell

Austasti gígurinn á Ögmundarhraunsgígaröðinni 1151.

Hraun frá sprungunni runnu í þessum eldum í sjó beggja vegna á Reykjanesskaga, bæði við Krýsuvík hina fornu og Straum. Samkvæmt kolefnisaldursgreiningum rann Kapelluhraun á elleftu eða tólftu öld. Það er í góðu samræmi við hinar fornu heimildir um Nýjahraun. Nafnið Nýjahraun telja menn merki þess að hraunið hafi runnið eftir að menn komu til landsins og það er frá því fyrir árið 1343, því þá braut þar skip, eða eins og segir í Annál Flateyjarbókar (Storm 1888) við árið 1343: „…braut Katrínarsúðina við Nýjahraun…“

Hraunhóll

Hraunhóll undir Vatnsskarði. Upptök Kapelluhrauns.

Á þessu um það bil 850 ára gamla hrauni stendur álverið við Straum. Hraunið kom upp á gossprungu innan Krýsuvíkursprungureinarinnar en hefur runnið út úr henni til norðvesturs og inn yfir norðurhluta Reykjanessprungureinarinnar. Svo norðarlega á Reykjanesreininni hafa ekki komið upp nein eldgos svo vitað sé. Virkni hennar þar einkennist af tiltölulega grunnum jarðskjálftum og sprungumyndun. Það er því fyrst og fremst virkni á Krýsuvíkursprungureininni norðanverðri sem er líkleg til að ógna Straumsvíkursvæðinu með hraunrennsli.

Bollar

Bollagígar austan Lönguhlíðar.

Gosstöðvar eu líklegastar í Undirhlíðum eða vestanundir þeim. Eftir Krýsuvíkurelda á 13. öld hafa ekki komið upp hraun í nágrenni Straumsvíkursvæðisins. Landslagi er þannig háttað að hraun sem koma upp vestanundir Undirhlíðum eiga ekki annarra kosta völ en að renna út á hraunflákana til vesturs og norðurs og leita undan halla og þrýstingi frá kvikunni sem flæðir úr gígunum í átt til strandar, í átt að Straumsvík.

Straumslína

Straumslína frá Hamranesi.

Áður en að álverinu sjálfu kemur eru raflagnir, spennuvirki, þjóðvegur og fleira slíkt í rennslisleiðum hrauna; mannvirki sem skipta verulegu máli, bæði fyrir starfrækslu álversins og alla byggð sunnar á skaganum. Það er því ljóst að hraunflóðahætta er þarna til staðar, en ekkert er þekkt sem bendir til yfirvofandi hæltu. Náttúran á svæðinu hefur ekki sýnt nein þekkjanleg merki þess að þarna séu eldgos í uppsiglingu. Á hitt ber samt að líta að þetta er afkastamikið, virkt eldgosasvæði þar sem ekki hefur gosið í um 850 ár, og til eru vísbendingar um að virknin á Reykjanesskaganum gangi í hrinum með nokkurra alda aðgerðalitlum hléum. Hrinur þessar einkennast af jarðskjálftum, spmngumyndun og eldgosum.

Landsig og strandrof

Hvaleyri

Hvaleyrarfjara.

Ströndin á Suðvesturlandi er almennt að síga, en þó er á því viss óregla. Þetta er hægfara og lítið landsig, sem tengist annars vegar landrekshreyfingum og hins vegar eldvirkni svæðisins. Þessir tveir þættir vinna þannig: Höggunarhreyfingar landreksins valda því að stöku sinnum hrökkva til berggrunnsblokkir sem eru afmarkaðar af sprungum. Þær síga eða lyftast eftir atvikum og getur þá munað miklu, mörgum metrum, á hæðarstöðu þeirra fyrir og eftir. Skrið jarðskorpuflekanna burt frá landreksásnum stefnir þeim út á meira dýpi, í átt að kólnandi umhverfi, og hvort tveggja veldur örlitlu landsigi, millimetrabrotum á ári.

Reykjanesskagi - jarðfræði

Kort Jóns Jónssonar – Eldvirkni á nútíma.

Meginþáttur landsigsins er hins vegar jafnan talinn vera tengdur eldvirkninni. Því háttar þannig til að þegar bergkvikan berst upp á yfirborðið og hleðst þar upp sem hraun eða móbergsfjöll veldur hún auknu fargi á skorpuflekann. Uppbygging jarðlagastaflans hefur þannig tilhneigingu til að pressa flekana niður, þar eð þeir eru stinnir og á floti á seigfljótandi undirlagi. Nánar má lesa um orsakir þessar í áðurtilvitnaðri grein. Þessi síðasti þáttur gæti á Straumsvíkursvæðinu numið 1-3 mm á ári að jafnaði, eða um 2 cm á 10 árum, 20 cm á öld o.s.frv.
Af þessu sést að ekki er líklegt að landsig á Straumsvíkursvæðinu valdi miklum vandamálum. Hinu má samt ekki gleyma að landsigið hefur afleiðingar sem í samspili við sigið sjálft gætu aukið á áhrifin. Þessar afleiðingar eru aukin áhrif strandrofs. Þar sem ströndin sígur á sjórinn smám saman greiðari leið inn á landið og hefur meiri möguleika á að valda rofi og öðrum usla á strandsvæðinu. Engin töluleg gögn liggja fyrir um afköst strandrofs á svæðinu. Hin hljóða vá á ströndinni er greinilega til staðar á Straumsvíkursvæðinu, en í óþekktum mæli.“

Heimild:
-Náttúrufræðingurinn, 3.-4. tbl. 1998, Páll Imsland – Um náttúruvár á Straumsvíkursvæðinu, bls. 263-272.

Straumsvík

Straumsvík 1978 – loftmynd.

Smalaskáli

Sléttuhlíð og hluti Gráhelluhrauns tilheyrðu áður fyrr upplandi Hamarskots, sem var ein af hjáleigum kirkjustaðarins í Görðum.

Jón Magnússon

Jón Magnússon (1902-2002).

Sumarið 1945 fékk Jón Magnússon í Skuld og eiginkona hans Elín Björnsdóttir úthlutað land í Smalahvammi vestan við syðsta Klifsholt. Hann reisti þar bústað sinn sem hann nefndi Smalaskála og hóf mikið ræktunarstarf. Landið sem Jón fékk til afnota var nánast örfoka hvammur sem stendur nokkru sunnar og ofar í landinu en bústaðirnir í Sléttuhlíð. Í auglýsingu um Reykjanesfólkvang segir m.a. um mörkin: „Lína dregin.. á mörkum Garðahrepps og Hafnarfjarðar við Kershelli. Þaðan eftir þeim mörkum inn fyrir sumarbústaðahverfi í Sléttuhlíð á hæð er Klifsholt heitir…“.

Smalaskáli ber Jóni og fjölskyldu hans gott vitni og það er ljóst að hann og ættmenni hans eru með græna fingur, eins og frægt er. Nægir að nefna gróðrastöðina Skuld sem Jón stofnsetti árið 1952.

Elín Björnsdóttir

Elín Björnsdóttir (1903-1988).

Gróðrarstöðin útvegaði Hafnfirðingum og íbúum helstu nágranna byggðarlaga fjölbreyttan trjágróður um langt árabil og þar ræktaði Jón m.a. beinstofna birkitré sem sett hafa svip á garða um allan bæinn. Í trjálundinum í Smalahvammi er minningarsteinn um eiginkonu Jóns, Elínu, sem lést árið 1988. Jón lést árið 2002, á hundraðasta aldursári.

Í Morgunblaðiðinu árið 1986 var m.a. fjallað atorkusemi Jóns á 40 ára afmæli Skógræktarfélag Hafnarfjarðar og Garðabæjar undir fyrirsögninni „Að skila landinu betra í hendur afkomendanna“: „Skilyrði til skógræktar væru óvíða erfíðari en í nágrenni Hafnarfjarðar og Garðabæjar þar sem skiptust á blásnir melar og hrjóstug hraun. Mikið starf biðu því ræktunarmannanna en til marks um það hvað hægt væri að gera væri Smalaskáli Jóns í holtinu fyrir ofan Sléttuhlíð.

Magnús Magnússon

Magnús Magnússon í Skuld.

Upp af örfoka landi reis þar gróskumikill skógur, sem sýndi hvaða framtíð gat beðið holtanna í kring“. Jón minntist að þessu tilefni á áníðsluna, sem landið hefði orðið fyrir af illri nauðsyn vegna beitar um aldaraðir, hvernig skógurinn hefði verið höggvinn til kolagerðar og beittur miskunnarlaust uns svo var komið, að bældar kjarrleifar voru einar eftir á stöku stað. Hafði Jón ljóðperlur þjóðskáldanna á hraðbergi og sagði, að við skulduðum landinu fósturlaunin. Sjálfur hafi honum hefði ávallt fundist sem honum bæri skylda til að reyna að skila landinu betra í hendur komandi kynslóða.

Í Ársriti Skógræktarfélags Íslands árið 1981 er getið um Smalaskála Jóns í Skuld: „Einn öflugsti liðsmaður Skógræktarfélagsins frá upphafi var Jón Magnússon sem var ætíð kenndur við fæðingarheimili sitt Skuld í Hafnarfirði. Þáttur hans í starfseminni er svo margháttaður að ekki gefst rúm til að fjalla um það allt, en við hæfi er að nefna hér ræktunarstarf hans í Smalahvammi í Syðsta-Klifsholti. Þar hafði faðir hans stundum heyjað á sumrin en þegar Jón fékk landinu úthlutað 1945 fyrir sumarbústað var það ekki svipur hjá sjón.

Smalaskáli

Smalaskáli 1949.

Áður hafði landið verið sumar- og vetrarbithagi Kaldársels, en skammt frá hvamminum eru Kaldárselshellar sem voru vetrarskjól útigangssauða Garðhverfinga. Þar er einnig skálatóft fjársmala sem hvammurinn dregur nafn sitt af.
Landið var lítið annað en blásnir moldarflekkir, stórgrýtt holt og stöku rofabörð. Jón byrjaði á að stinga niður börðin, hlaða upp kanta til að mynda skjó, sá í landið og stöðva uppblástur. Hann gróðursetti skógarfuru sem lúsin fór illa með, einnig sitkagreni frá Kanada sem hann ræktaði sjálfur, rauðgreni, stafafurur, bergfurur og fjallaþin.

Smalaskáli

Smalaskáli 1949. Jón að dytta að bústaðnum.

Birkið sem var fyrir í landinu var orðið úrkynjað af margra ára áþján, ofbeit og illri meðferð. Það hefur varla náð sé enn, nema þau tré sem Jón klippti að mestu niður. Nú er Smalaskálahvammur gróskumikill skógarreitur sem ber Jóni og fjölskyldu hans gott vitni. Jón Magnússon fæddist í 20. september 1902 í gamla bænum Skuld í suðurhluta Hafnarfarðar, en þar í túninun setti hann seinna á laggirnar samnefnda gróðrastöð. Jón starfaði lengi sem vörubílstjóri og rak um tíma Áætlunarbíla Hafnarfjarðar ásamt bræðrum sínum og vinum, en hann helgaði sig að mestu gróðrastöðinni seinni hluta ævinnar. Jón var á meðal stofnenda Skógræktarfélags Hafnarfjarðar og stjórnarmaður frá upphafi og var gerður að heiðursfélaga á 40 ára afmæli félagsins 1986.“

Smalaskáli

Smalaskáli 1966.

Í Morgunblaðinu árið 1999 var viðtal við undir fyrirsögninni „Fékk áhuga á ræktun með móðurmjólkinni“. Í inngani segir að Jón Magnússon, sem gjarnan er kenndur við gróðrarstöðina, Skuld í Hafnarfírði, varð þekktur fyrir margt löngu fyrir að hafa ræktað fallegt birki. Skapti Hallgrímsson spjallaði við Jón, sem nú er orðinn 97 ára.

„Jón kveðst hafa byrjað að rækta birkihríslur um 1940 en áhugann hafi hann líklega fengið með móðurmjólkinni.
„Þetta gekk þokkalega. Ég var talinn vera með ágætt birki,“ segir Jón og er lítillátur þegar hann rifjar upp liðna tíma. Upphaflega var ræktunin einungis áhugamál hans en síðar aðalstarf.

Birki

Beinstofna birki.

„Ég var vörubílstjóri lengi vel og hafði þetta í hjáverkum í mörg ár, en svo óx þetta smátt og smátt og það endaði með því að ég hætti í akstrinum og sneri mér eingöngu að þessu.“
Og hann segist fyrst og fremst hafa haft áhuga á að rækta birki.
„Ég var líka með aspir og furu og greni en fyrst og fremst lagði ég áherslu á birkið. Mér þótti líka vænst um það því birkið var það íslenskasta af því öllu. Birkið átti sinn þátt í því að þjóðin gat lifað í landinu á hennar dimmustu dögum því það var sótt svo margt í birkið, til dæmis eldiviður og byggingarefni.“
Og Jón neitar því ekki að hafa verið talinn rækta betra birki en aðrir, þegar talið berst að því á nýjan leik.
„Já, mér tókst það, og ég lagði mig dálítið fram um það. Ég sá fljótlega að stundum var ekkert sameiginlegt nema nafnið; trén voru mjög breytileg og ég lagði mig fram um að fá þau sem fallegust. Með því að ala upp undan fallegum trjám; nota fræ af fallegustu plöntunum sem ég var með, tókst mér smám saman að fá sífellt fallegri tré.“

Aldrei fullkomlega ánægður

Birki

Birki.

En hvernig skyldu birkihríslur Jóns í Skuld hafa verið frábrugðnar öðrum?
Því svarar Jón þannig: „Þær voru beinni, þróttmeiri, laufmeiri og laufstærri; það var einhvern veginn annar blær á þeim. Birkið hjá mér þótti fallegri á allan hátt.“
Jón er 97 ára og segist aðspurður eiginlega nýhættur störfum í gróðrarstöðinni, sem er til húsa við Lynghvamm í Hafnarfirði.
„Stöðin er enn starfandi og nú er það dóttir mín, Guðrún Þóra, sem rekur hana og Gunnar [Hilmarsson], sonur hennar, sem er lærður garðyrkjumaður, starfar þar einnig. Ég hafði mikinn áhuga á þessu en hins vegar enga þekkingu. Ég lærði aldrei neitt í þessum fræðum.“
En hvers vegna hafði Jón svo mikinn áhuga á ræktuninni sem raun ber vitni?
„Ég hef líklega drukkið hann í mig með móðurmjólkinni,“ segir hann. „Mamma var mikið fyrir alla ræktun og fyrir að halda lífi í ýmsu. Og ég byrjaði snemma; innan við fermingu fór ég að hirða birkihríslur, smáanga, hérna uppi í Vatnshlíð og flutti heim í garðholu sem ég var með heimundir bæ. Þannig byrjaði þetta – og varð smátt og smátt meira.“
Jón MagnússonJón fæddist 20. september 1902 og er því nýorðinn 97 ára. „Ég fæddist í gömlum bæ sem hét Guðrúnarkot og það stóð hér um bil á sama stað og heimili mitt er núna. Svo byggði faðir minn timburhús 1906 til hliðar við gamla bæinn og hlaut það nafnið Skuld því það var byggt fyrir lánsfé og í skuld. Og ég hef kunnað vel við nafnið, er oft nefndur Jón í Skuld af öllum kunnugum og kann vel við það. Mér finnst engin minnkun að því.“
Hann segir ómögulegt að vita hversu mörgum birkihríslum hann hafi plantað um ævina; segir þær örugglega skipta þúsundum, bæði á svæðinu heima hjá sér og eins uppi í Ási þar sem hann keypti land. „Ég ræktaði líka þar vegna þess að ég hafði ekki orðið nóg land hér heima.“

Stofnaði ÁBH

Áætlunarbifreið

Áætlunarbíll – Hafnarfjörður var enginn svefnbær Reykjavíkur á fimmta áratug síðustu aldar heldur algjörlega sjálfbært samfélag en svo vel innan viðráðanlegra marka fyrir almenning í Reykjavík, að fólk hafði ráð á að skreppa suður í þennan fallega og vinalega bæ til að fara í Bæjarbíó eða Hafnarfjarðarbíó. Ellegar þá að eyða eftirmiðdagsstund þar syðra á helgidögum og borða nestið sitt í Hellisgerði.

Jón í Skuld starfaði lengi sem bílstjóri og hugaði að trjáræktinni í hjáverkum, eins og áður kom fram. „Ég var einn af eigendum ÁBH, Áætlunarbíla Hafnarfjarðar. Við vorum sex sem stofnuðum og áttum það félag og unnum að því í mörg ár. Ég vann í fimmtán til tuttugu ár sem bílstjóri, en hætti svo í akstrinum og sneri mér alfarið að þessu.“
Jón segir að áhugi fólks á trjám hafi vaknað í lok þriðja áratugar aldarinnar. „Um það leyti fór að vakna áhugi hjá almenningi á að fegra í kringum sig; að fegra lóðir sínar með trjám og blómum. Fram að þeim tíma var ákaflega dauft yfir öllum svoleiðis framkvæmdum. Fólk hafði lítinn áhuga og kannski lítil tækifæri til þess.“
Hann segir mjög lítið hafa verið um tré í görðum á þeim tíma, „en það var danskur kaupmaður sem hét Hansen hér í Vesturbænum í Hafnarfirði sem flutti inn tré. Það voru fyrstu trén sem voru hér í bænum og ég man að við gerðum okkur ferð til að skoða þessi tré.

Birki

Birki.

Þetta hefur sennilega verið reyniviður, fluttur frá Danmörku. Þegar fólk sá þessi tré vaxa upp kviknaði áhugi hjá ýmsum að fegra í kringum sig.“
En skyldi Jón í Skuld ánægður með hvemig til hefur tekist?
„Já, ég er það, en auðvitað mætti gera meira. Áhugi er alltaf heldur að aukast á ræktun og því að fegra í kringum sig. Fyrst var jafnvel hlegið að því þegar maður var að basla við þetta.
Segja má að Júlíus Víborg hafi verið brautryðjandi í trjárækt hér í bænum; hann hafði mikinn áhuga og við erfið skilyrði útbjó hann fallegan trjágarð við hús sitt í brekkunni, milli Strandgötu og Suðurgötu; við Illubrekku sem kölluð var. Hann fékk trén, sem hann byrjaði með, frá Guðbjörgu í Múlakoti. Það var reyniviður. Svo fundust litlir angar af trjám hérna suður í hrauni, í hraunsprungum, og Jón Bergsteinsson, bóndi á Hvaleyri, flutti þetta oft á vorin hingað inn í bæ fyrir ýmsa; við sáum hann oft með hríslur á öxlinni.
Þetta óx upp og hafði sáð sér í hraunsprungum, var þar í friði vegna þess að féð náði ekki í það og fyrir það gat það þróast þarna upp.“

Fór illa í mig að heyra um stríðið 1914

Sigurður Sigurðsson

Sigurður Sigurðsson (1841-1937).

Afi Jóns í Skuld, Sigurður Sigurðsson, varð líka mjög gamall og á heimili Jóns er til úrklippa úr Morgunblaðinu 16. apríl 1937, þar sem birt er viðtal við Sigurð. Hann var þá reyndar nýlátinn; elsti maður í Reykjavík, sem hefði orðið 96 ára á sumri komanda, eins og segir í blaðinu. Jón segist muna vel eftir afa sínum. „Hann var bóndi í Tungu í Grafningnum og lengi ferjumaður yfir Sogið.“
Sigurður afi Jóns er spurður í umræddu viðtali: Það er þá ekki að heyra, að þjer hlakkið til vorsins?
Og Sigurður svarar: „Nei – og aftur nei. Jeg hef eiginlega aldrei hlakkað til neins – og svo er nú af manni mesti barnaskapurinn. Þegar maður er orðinn þetta gamall!“
Og enn er hann spurður: En hvað fínst yður að þjer munið best úr yðar löngu æfí?
Og þá svarar Sigurður: „Ekki nokkurn skapaðan hrærandi hlut. Hvað ætti jeg svo sem að muna, þegar jeg man ekkert! Æfi mín hefur öll verið æfintýrasnauð.“

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður 1947 eða -48. Skuld var efst h.m.

Jón er því spurður, að síðustu, eins og afi hans forðum: hvað hann muni best frá langri ævi?
Hann er hugsi, segist varla vita hvað hann eigi að nefna. „Ég man auðvitað ýmislegt, en ekki er gott að segja hvað hæst ber,“ segir Jón en bætir svo við: „Ég man reyndar eftir því ennþá að fullorðinn maður hér í bænum sem hét Filipus bar út Ísafold og ég var niðri á götu þegar hann mætti þar einhverjum manni og þeir fara að tala saman og hann segir: „það er ljótt að frétta af stríðinu!“ Og ég man ennþá hvað það greip mig eitthvað illa og hrottalega að heyra minnst á stríð, því það var að skella á. Ég man ennþá hvar þeir voru þegar þeir mættust; niðri á Strandgötu. Þetta var 1914, í ágúst.“

Suðurgata 73

Suðurgata 73. Merkið Skuld er á húsinu. Það sem tengir þetta hús við Skuld er að Jón Magnússon sem var frá Skuld byggði þetta hús.

Í Dagblaðinu Vísi árið 1992 var viðtal við Jón undir fyrirsögninni, „89 ára unglingur í Gróðrastöðinni Skuld – Mér þykir vænt um birkið“: „Ég byrjaði á þessu 1953. Að sjálfsögðu var ræktunin smá í sniðum í upphafi en smám saman vatt hún upp á sig. Á þessum árum var ég líka í vörubílaakstri en hætti honum um 1970, enda fór þetta tvennt illa saman. Fljótt varð birkið fyrir valinu hjá mér. Mér þykir vænt um birkið.“
Sá sem þessi orð mælir er 89 ára unglingur, Jón Magnússon í Gróðarstöðinni Skuld í Hafnarfirði. Jón er að vísu hættur daglegri umsjón með rekstrinum – hefur leigt hann dóttur sinni, Guðrúnu Þóru.

Gamlir kunningjar

Ás

Ás – Skógrætarstöð Skuldar.

Gróðarstöðin Skuld lætur ekki mikið yfir sér en óhætt er að fullyrða að þar fari fram – og hafi farið fram – athyglisverð ræktun á birki. Jón tók ástfóstri við það og lagði sitt af mörkum til aö ná þeim árangri að birkið frá Skuld er afskaplega fallegt. „Við erum eins og bændurnir gagnvart búsmalanum – getum greint Skuldarbirkið frá öðru birki.
Gróðarstöðin er reyndar á tveimur stöðum í Hafnarfirði. Annars vegar í suðurbænum og hins vegar í landi Áss sem er austan við Keflavíkurveginn. Þegar Jón hóf starfsemina á sínum tíma var ekki skortur á landi en tímamir hafa breyst. Þar sem áður var uppeldisstöð fyrir ungar birkiplöntur standa hús og liggja vegir. Því fer sala á plöntum og hluti af ræktuninni fram við Lynghvamm en í landi Áss er einvörðungu plöntuuppeldi. Eins og svo oft áður var ekki ætlunin að hefja atvinnurekstur. Jón fékk land fyrir sumarbústað og sáði fyrir birki með það í huga að setja það niður við bústaðinn en með tíð og tíma var Skuld orðin að fyrirtæki.

Beinvaxið, þróttmikið og lauffallegt

Smalaskáli

„Smalaskálinn“ – listaverk Jóns á klapparholti ofan við bústaðinn.

Hvers vegna valdi Jón birkið?
„Á þessum tíma þekkti ég ekkert annað. Síðan höfum við að vísu farið í ræktun á öllum algengum trjátegundum en birkiö er og hefur verið stofninn í starfsemi Skuldar. Þetta hefur gengið þokkalega og ég fór fljótlega að hafa vit á að velja fræ af trjám sem mér fannst vera þess virði að tekin væra til frekari ræktunar.
Jón hallar sér fram á stafinn og leggur áherslu á orð sín. Hann segir að birkið sé auðvelt í ræktun, vindþolið og henti til dæmis vel í gerði. Þá sakar ekki að það ilmar vel fyrripart sumars. „Flestar plöntumar byrja tilveru sína hér heima en síðan förum við með þær í Ás. Auðvitað er þetta frekar erfitt að þurfaað vera á tveimur stöðum og stækkunarmöguleikar eru engir við Lynghvamminn.“

Smalaskáli

Smalaskáli – minningarsteinn um Elínu Björnsdóttur.

Kýrnar horfnar
Það var gaman að koma í Skuld. Kýrnar frá því í bamæsku, eru að vísu horfnar en í staðinn má sjá birki, víði og blóm. Þegar við stóðum á tröppimum og horfðum yfir gróðarstöðma var Jón inntur eftir því hvort ekki hefði verið gaman að helga líf sitt birkinu.
Unglingnum þótti spurningin ef til vill svolítið barnaleg en hann hugsaði sig um eitt andartak og sagði svo: „Hver og einn verður að hafa gaman af því sem hann fæst við hverju sinni. Ekki skiptir máli um hvaða starf er að ræða. Ég hafði gaman af mínu starfi. Það var mitt lán.“

Heimildir:
-Morgunblaðið, 246. tbl. 01.11.1986, Skógræktarfélag hafnarfjarðar og Garðabæjar 40 ára – „Að skila landinu betra í hendur afkomendanna“, bls. 18-19.
-Ársrit Skógræktarfélags Íslands, 1. tbl. 15.12.1981.
-Morgunblaðið, B 24.10.1999, Fékk áhuga á ræktun með móðurmjólkinni, bls. 18.
-Dagblaðið Vísir, 10.06.1992, Jón Magnússon, 89 ára unglingur í Gróðrastöðinni Skuld – Mér þykir vænt um birkið, bls. 32.

Smalaskáli

Smalaskáli 2025 – Gamli bústaðurinn var fluttur um set og sést h.m. við nýjan bústað.

Hafnarfjörður

Allir eru alltaf velkomnir til Hafnarfjarðar, í fyrrum landnám Ásbjarnar Özurarsonar, frænda Ingólfs Arnarssonar, hins fyrsta norræna landnámsmanns hér á landi.

Akurgerði

Akurgerði 1836 – Mayer.

Í árdögum náði núverandi bæjarsamfélag einungis skammt út frá Akurgerðisjörðinni (undir hraunkantinum neðan núverandi Byggðasafns) vegna þá skiljanlegrar undanlátssemi Garðaklerks. Umdæmið allt tilheyrði fyrum hinum forna Garðahreppi. Undir skjólgóðum hraunkantinum ofan fjarðarins fjölgaði hins vegar ört torf- og timburhreysum vinnandi aðkomufólks við Akurgerðisútgerðina og -verslun. Samansöfnuðurinn og stöðug fjölgun bústaða og húsa kallaði á stækkun „smábæjarlandsins“.

Fljótlega voru í framhaldinu gerðar kröfur um eignarnám með tilstuðlan Alþingis á landauðugustu jörðunum ofan við fjörðinn, s.s. Hvaleyri, Ófriðarstaði og Hamarskoti.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður – umdæmismörk 2024.

Til að gera langa staða stutta nær lögsagnarumdæmi Hafnarfjarðar í dag yfir allt þéttbýlið við fjörðinn og auk þess að handan í u.þ.b. 25 km suður fyrir það að háhita- og hverasvæðinu í Krýsuvík í umdæmi Grindavíkur, sem og um Hraunin vestur fyrir Straumsvík, allt að mörkum Lónakots og Hvassahrauns í vestri. Í austri liggja mörkin að Garðabæ, en þau hafa gjarnan verið umsemjanleg frá einum tíma til annars í gegnum tíðina – líkt og fyrrum.
Upphaflega saga bæjarins er í raun samofin sögu útgerðar og verslunar á Íslandi. Á 15. öld kepptu Englendingar og Þjóðverjar um ítök í fiskveiðum og verslun í bænum og um tíma var bærinn kallaður þýskur „Hansabær“. Reistu þeir m.a. kirkju í bænum. Minnisvarða um hana má sjá sem steinboga við smábátabryggjuna.

Hafnarfjörður

Vitinn – merki Hafnarfjarðar.

Bjarni Síverstsen, sem stundum er nefndur faðir Hafnarfjarðar, að eiginkonu hans ógleymdri, Rannveigu Filippusdóttur, að í bænum og hóf útgerð og verslun um síðustu aldamót. Í dag er minnkandi sjávarútvegur, iðnaður og verslun auk vaxandi ferðaþjónustu helstu atvinnuvegir Hafnfirðinga.
Hafnarfjarðar er meðal annars getið við upphaf Íslandsbyggðar. Hingað kom t.d. Hrafna-Flóki á leið sinni að vestan á bakaleið sinni aftur til Noregs, fyrr en nokkur norrænn maður hafði árætt að taka sér fasta búsetu hér á landi. Við það tækifæri rak eftirbát með fóstbróður hans, Herjólfi, frá skipi hans og rak inn í Herjólfshöfn þar sem nú er Hvaleyrarlónið (reyndar talsvert breytt). Fundu þeir dauðan hval og gott lægi. Nýttu þeir hvorutveggja, á ólíkan hátt þó. Síðari sagnir segja frá Kólumbusi þeim er sagður er hafa fundið Ameríku. Talið er að hann hafi komið við í Hafnarfirði og í fleiri höfnum (s.s. á Rifi) til að afla upplýsinga, áður en hann hélt síðan árið 1492 í eina ferða sinna yfir Atlantshafið. Þá bjó okkar fólk þegar yfir vitneskja um hið efirsótta land í vestri, en kaus Hafnarfjörð fram yfir það. Einstakir frumkvöðlar höfðu ákveðið að leita lengra umfram hið óráðna, með þeim árangri sem við nú þekkjum.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður.

Í landi Hafnarfjarðar eru margar náttúruperlur. Sjá má í þeim bæði fjölbreyti- og margbreytileika íslenskrar náttúru, hraunin, jarðhita, vötn, Lækinn, neðanjarðarárnar og tjarnirnar ofan Straumsvíkur, auk margs konar fugla- og plöntulífs – sem sumt er bara ansi fágætt – og allt með miklum ágætum.

Hafnarfirðingar er stoltir af bænum sínum hvort heldur vísað er til hans sem menningarbæjar, íþrótta- og útivistarbæjarins og/eða Vina-, Álfa-, Brandara- eða Víkingabæjarins.

Helst hefur skort á áhuga þeirra er ber skylda til að varðveita óðum hverfandi sögulegar minjar frumkvöðlanna er bæði skópu fyrrum annars hina ágætu ásýnd bæjarins og skyldu auk þess eftir sig þá huggulegu ásýnulegu arfleifð er við njótum enn í dag.

Hafnarfjörður

Hvaleyri – loftmynd 1954.

Ekki er við frumkvöðla Byggðasafnsins að sakast – fremur nánast meðvitundarlausa bæjarfulltrúa og áhugalaust verkafólk bæjarstjórnar. Horfa þarf gaumgæfulega til seinni tíma langrar vanræsku og mjög takmarkaðs áhuga þeirra er á eftir komu.
Þegar þetta er ritað eru Íbúar bæjarins rúmlega 21. þúsund. Hafnarfjörður býður gestum sínum upp á að njóta margvíslegrar dægrardvalar og fjölbreyttrar þjónustu. Í nágrenninu eru fjölbreytt útivistarsvæði með fjölmörgum sögulegum minjum og náttúrufyrirbærum, skemmtilegum gönguleiðum, hellum; reyndar eitthvað fyrir alla.
Seinni tíma fornleifaskráning í umdæminu jaðrar við vanrækslu – þótt ekki væri nema fyrir tvennt; rangrar skráningar sem og fjölmargar enn sem slíkar óskráðar fornleifar.

Heimildir:
-Saga Hafnarfjarðar 1908-1983, Ásgeir Guðmundsson. – Hafnarfirði : Skuggsjá, 1983-1984.

-ÓSÁ tók saman

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður – örnefni og gamlar leiðir.

https://ferlir.is/63791-2/https://ferlir.is/baer-i-byrjun-aldar-magnus-jonsson/

https://ferlir.is/as/https://ferlir.is/logsagnarumdaemi-hafnarfjardar-fra-1908/

Hafnarfjörður

Í Lesbók Morgunblaðsins 1995 fjallar Snorri Jónsson um „Atvinnusögu Hafnarfjarðar 1924-1926, Hellyerstímabilið„. Hér fjallar hann um tímabilið undir fyrirsögninni „Vinnubók týndist í kolabing„. Hellyersbræður voru enskir útgerðarmenn sem gerðu út frá Hull en ráku á tímabili umfangsmikla togaraútgerð og saltfiskverkun frá Hafnarfirði. Algengt var að þetta tímabil, 1924-1929, væri kennt við þá bræður í Hafnarfirði. Frásögn Gísla Sigurgeirssonar kemur þó miklu víðar við og gefur á gamansaman hátt hugmynd um aldaranda og daglegt líf í Firðinum á þessum tíma.

Hafnarfjörður

Tryggvi Ófeigsson (1896-1987). Tryggvi var svo með Imperíalist til ársins 1929. Það ár hættu Hellyersbræður allri útgerð og fiskvinnslu á Íslandi. Tryggvi gekk svo inn í útgerðarfélagið h/f Júpíter í Hafnarfirði sem stofnað var 26 júlí 1929, með Lofti Baldvinssyni og Þórarni Olgeirssyni, sem árið 1925 höfðu látið smíða skip fyrir sig í Beverley, það skip var Júpíter GK 161. Tryggvi varð svo skipstjóri á honum þegar Þórarinn Olgeirsson hætti skipstjórn þar árið 1929.

„Á vertíðinni 1925 barst óhemjumikill fiskur á land í Hafnarfirði. Það var því annasamt hjá okkur á þessari vertíð eins og árið áður og eins var mikið að gera við fiskverkunina í landi. Í stað kolaskipsins, sem strandaði, kom brátt annað, en það var ýmsum erfiðleikum bundið að losa kolin úr skipinu af því að fiskvertíðin var komin í fullan gang og togararnir nærri daglega inni.
Samningur okkar við Hellyer var samningur um ákvæðisvinnu. Hann tók til allrar vinnu við togarana og flutningaskipin að því undanteknu að losa úr þeim kolin. Sá togari, sem fyrstur kom frá Englandi í byrjun vertíðarinnar, var Imperialist. Hann var þá nýr og stærstur þeirra allra og kom með allar sínar lestir fullar af kolum. Eftir mikið bras, við aðstæður, sem ég hefi áður lýst, tókst okkur að koma öllum kolunum í land. Skipstjóri á Imperialist var sá landskunni dugnaðar- og aflamaður, Tryggvi Ófeigsson.
Skrifstjóri Hellyersbræðra, og sá sem sá um allar fjárgreiðslur fyrir þá, hét Allan, ævinlega nefndur Mr. Allan. Næst, er ég kom  með reikninga til hans, fékk ég þá alla greidda orðalaust, nema reikninginn fyrir að losa kolin úr Imperialist, hann fékk ég ekki greiddan. Segir Mr. Allan við mig að reikningurinn sé óheyrilega hár og hann geti ekki greitt hann og byrjar nú heldur betur að þusa.

Hafnarfjörður

Togarinn Imperialist.

„Það er svo sem auðséð,“ segir hann, „að þið ætlið að nota ykkur það að ekki er til neinn samningstaxti fyrir verkið eins og í fyrra þegar þið sömduð við Íslendinginn Zoéga. Nú finnst ykkur auðvitað tækifæri til að taka munninn nógu fullan. Svona eruð þið allir, Íslendingar. Það er ekki ofsögum af því sagt.“ Og áfram lét hann dæluna ganga.
Mér varð nær orðfall; maldaði þó eitthvað í móinn, en hugsaði því fleira. Satt að segja var þessi reikningur nokkuð handahófslegur. Ég mundi ekki hvernig þessi viðskipti við Geir H. Zoéga höfðu verið árið áður, en reikningurinn átti að vera sem næst kostnaðarverði. Samt reiddist ég ansi illa þessum ásökunum á mig og mína félaga og ekki síður viðhorfi hans til Íslendinga. Varð heldur fátt um kveðjur; ég rauk út og skellti hurðinni.

Reyndist svo hinn besti

Geir Zóega

Geir Zóega (1896-1985). Geir hóf fiskverkun í Hafnarfirði 1920 og þar var hann búsettur og þar gerðist athafnasaga hans næsta hálfan annan áratug. Hann keypti fiskverkunarstöð í Hafnarfirði, svonefnda Haddensstöð, og tók að verka fisk af
togurum. En þau reyndust mörgum erfið, eftirstríðsárin, þegar allur kostnaður, sem hækkað hafði á styrjaldarárunum, hélzt áfram hár en verðlag á fiski lækkaði.

Fór ég nú hið snarasta heim að leita í plöggum okkar frá árinu áður. Kom þá í ljós að það hafði kostað 15 aurum minna að skipa upp hverju tonni af kolum úr Imperialist en samkvæmt samningnum við Geir árið áður! Þetta var að vísu hrein tilviljun eins og í pottinn var búið. Verð ég nú heldur en ekki feginn þessari niðurstöðu, sest niður, glaður í sinni, og rita Mr. Allan langt og ítarlegt bréf um málið á ómengaðri íslensku. Í bréfinu segi ég að mér þyki leitt þegar okkur félögum, og íslendingum, séu borin á brýn rakalaus ósannindi og syívirðingar. Krafðist ég þess að reikningar fyrirtækisins frá í fyrra yrðu rannsakaðir, þótt þeir væru komnir til Hull, svo að hann gæti komist að hinu sanna. Þyrftum við þá ekki lengur að liggja undir dæmalausum ásökunum hans og svívirðingum. Fór ég með bréfið samdægurs til Péturs Jóhannessonar, sem þá var bókhaldari hjá Hellyer; tók hann að sér að þýða það fyrir Mr. Allan.
Árdegis næsta dag er sent eftir mér og ég beðinn um að koma upp á kontór til Mr. Allans. Var þá reikningurinn greiddur orðalaust. Öll þau ár, sem við höfðum viðskipti við Heilyersbræður eftir þetta, var aldrei minnst einu orði á nokkurn reikning, sem frá okkur kom, þótt um ósamningsbundna vinnu væri að ræða. Vann ég, með þessari tilviljun mætti kannski segja, fullt traust Mr. Allans, enda reyndist hann mér, þaðan í frá, í öllum viðskiptum, hinn besti maður.

Hvinnska var fágæt

Kolaflutningur

Kolaflutningur.

Þegar Hellyerstogararnir komu hingað í fyrsta sinn var haft mjög strangt eftirlit með öllu sem í togurunum var. Vörður var látinn gæta verkamannanna, mjög stranglega, af ótta við að þeir stælu úr skipunum. Þegar frá leið varð þessarar gæslu lítið vart og að lokum varð enginn hennar var. Hygg ég að hvinnska hafi verið fátíð hér um þessar mundir og hafi hennar eitthvað gætt voru Bretarnir ekki síður aðgæsluverðir en Íslendingarnir, svo að ekki sé meira sagt.
Verkin urðu að ganga fljótt og vel, þess krafðist Hellyer og sömu kröfu gerðum við til okkar manna. Það var t.d. venja að kola togarana samtímis því að fiskurinn var losaður. Við kolunina unnu nær eingöngu sömu mennirnir og var sá háttur á hafður að flytja kolin í þá hlið togarans sem frá sneri bryggjunni.

Kolamokstur

Kolamokstur.

Var það gert á þann hátt að gríðarstór og þung renna var sett niður af bryggjunni og neðri enda hennar komið fyrir milli spils og brúar, stundum yfir keisinn ef mjög var lágsjávað.
Stundum voru kolin flutt eingöngu laus á bílum og hvolft í rennuna, en það var því aðeins gert að kolalúga væri milli brúar og spils, annars varð að flytja helminginn af þeim í pokum. Jón Þórarinsson á Norðurbraut 22 var oft forsvarsmaður við kolarennuna og við móttöku á kolunum niðri í skipinu. Oft var kolarennunni bölvað, enda var hún þung á þreyttum höndum, en Jón Þórarinsson sagði í mesta lagi „ansvítti;“ það var hans stærsta blótsyrði.

Þetta er nú meiri bíllinn!

Júpiter

Skipshöfn Tryggva Ófeigssonar á Júpiter.

Í boxunum, við að lempa kolin, voru ævinlega sömu mennirnir. Þau embætti höfðu Guðjón Jónsson frá Hellukoti, Karl Kristjánsson, Jón Þorleifsson, Erlendur Jóhannsson og Atli Guðmundsson. Allir voru þeir úrvalsmenn við þessa iðju og samviskusamir. Oft voru þeir spurðir hversu mörgum bílhlössum þeir kæmu í boxin. Á móti spurðu þeir hversu mörg bílhlöss væru á dekkinu. Eitt sinn sem oftar kemur Karl Kristjánsson með höfuðið upp að boxgatinu og spyr þann sem var að moka niður af dekkinu hversu mikið væri þar eftir af kolum. Honum er sagt að það sé rúmur bíll og ekki von á meiru. Lét hann það gott heita. Hinsvegar stóð þá svo á að búið var að moka á fimm bíla uppi í kolabing og var þeim öllum dembt ofan á dekkið: Er nú kolunum mokað í boxin og farið að hreinsa dekkið.
HafnarfjörðurSkyndilega kallar Karl upp og segist vera að koma, það sé allt orðið fullt niðri. Um leið og hann rekur höfuðið upp um boxgatið segir hann með undrun í röddinni:
„Þetta er nú meiri bíllinn!“
Var þetta haft að orðtaki eftir þetta ef eitthvað þótti keyra úr hófi:
Þetta er nú meiri bíllinn!
Stundum gat nú fokið í boxarana og fyrir kom að þeir sem skeleggasta höfðu skapsmunina kæmu upp úr boxunum með skófluna reidda að höfði þeim sem dyngt höfðu niður til þeirra meira af kolum en góðu hófí gegndi.

Saknaði vinar í stað
HafnarfjörðurÉg hafði þann hátt á að skrifa daglega niður vinnustundir fólksins þegar ég kom heim og helst uppi í rúmi á kvöldin. Tímana skrifaði ég eftir minni og var mér orðið þetta mjög tamt. Ég vissi og mundi hvar hver maður stóð við sitt verk, — hafði, með öðrum orðum, mynd af þessu öllu í huganum. Ég notaði litlar vasabækur í þessu skyni, innbundnar með stífum spjöldum. Halldór bróðir minn fékk þessar bækur venjulega til úrvinnslu að viku liðinni.
Það var einu sinni að kvöldi til, er ég var nýkominn heim úr vinnunni, að vélstjórinn á James Long bankaði uppá hjá mér og kvartaði yfir því að illa hefði verið lempað í boxunum. Maðurinn var úrillur og krafðist þess að meira yrði látið af kolum í skipið. Þetta kom mér dálítið á óvart og fannst mér kvörtunin ekki trúleg, en mér bar skylda til að athuga málið.
HafnarfjörðurFer ég nú niður á dekk, ásamt Englendingi nokkrum; og niður í boxin og er í hinu versta skapi. Í ljós kom að lempað hafði verið í boxin líkt og venjulega. Bið ég þó boxarana að reyna að troða tveimur bílhlössum í skipið til viðbótar og tókst þeim það með herkjum. Ég hafði skriðið eftir boxunum og lítið komist áfram þótt mjór væri. En viti menn! Þegar ég kem heim sakna ég heldur en ekki vinar í stað. Vinnubókin, með vikuvinnu allra verkamannanna, var horfin úr vasa minum. Þessa viku unnu hjá okkur daglega um eitt hundrað manns. Vinnubókin hafði greinilega þvælst upp úr vasanum þegar ég var að skríða eftir boxunum. Rýk ég nú aftur niður á bryggju og talá við vélstjórana og kyndarana og bið þá fyrir alla muni að hafa auga með bókinni þegar kolunum verði mokað á eldana.

Minnið nær óbrigðult

Hafnarfjörður

Saltfisksstæða.

Leist mér nú ekki á blikuna, bókin töpuð og fimm vinnudagar óskráðir á skýrslu og engin von til að togarinn kæmi aftur að bryggju fyrr en að hálfum mánuði liðnum, en vinnulaun yrði að greiða á tímabilinu. Leiðinlegt fannst mér og niðurlægjandi að ganga fyrir hvern mann og spyija um vinnu hans.
Ég sagði Jóni Einarssyni strax frá þessu óhappa atviki og við ákváðum að fara undir eins heim til pabba og ræða málið við hann og Halldór bróður. Kl. 10 um kvöldið bönkuðum við á dyrnar hjá pabba og settumst á ráðstefnu, allir fjórir. Úr hugum okkar reyndum við að framkalla myndir um atvik og atburði úr vinnunni þessa daga, hver dagur sér, hvert skip fyrir sig, tilvik og frávik hjá mannskapnum o.s.frv. Og í trausti þess að niðurstaðan yrði mjög nálægt því rétta fórum við að sofa um fimmleytið þessa eftirminnilegu nótt.

Hafnnarfjörður

Fiskvinnsluhús Hellyers.

Á venjulegum tíma var allt tilbúið. Halldór hafði skrifað vinnuskýrsluna, peningarnir komnir í umslögin og útborgun fór fram. Kom nú í ljós að minni okkar hafði reynst nær óbrigðult. Aðeins einn maður kvartaði og taldi sig vanta dag í launum sem auðvitað var strax leiðrétt. Vorum við nú í sjöunda himni eftir allar áhyggjurnar sem við höfðum haft út af þessu atviki.
Að liðnum hálfum mánuði kom James Long inn til hafnar. Kemur þá til mín vélstjórinn heldur en ekki hróðugur með bros á vör og réttir mér vinnubókina mína með velktum blöðum og dökkum af kolaryki. Ég þrýsti hönd hans í þakklætisskyni. Um kvöldið bárum við saman vinnubókina og kaupskrána og kom þá í ljós að þetta, sem áður er um getið, var eina villan sem teljandi var.

Mr. Orlando og Reiturinn

Vesturgata 32

Vesturgata 32 – Bungalow.

Owen Hellyer fór til Englands á útmánuðum árið 1925, en í staðinn kom bróðir hans, Orlando. Þeir höfðu látið byggja sér ljómandi skemmtilegt íbúðarhús, nú Vesturgata 32, sem í daglegu tali var nefnt Bungalow. Það hús eignaðist síðar Ásgeir Júlíusson teiknari og kona hans, Guðrún Guðmundsdóttir. Einnig létu þeir byggja stóran skála á mölinni norðan við Svendborgina. Þar var geymdur lager fyrir skipin og þar bjuggu enskir starfsmenn á þeirra vegum. Húsið Krosseyrarvegur 7 létu þeir líka byggja. Bjó þar einn af forstjórum þeirra, Tracy að nafni, en hann var hér ekki lengi, eitt eða tvö ár að mig minnir. Orlando var alúðlegur karl, kátur og fjörugur, enda varð okkur fljótlega vel til vina. Ákvarðanir hans þóttu þó ekki alltaf bera vott um mikla vitsmuni eða áunna reynslu.

Krosseyrarvegur 7

Krosseyrarvegur 7. Húsið er teiknað af Geir Zoega, fyrir útgerðarfyrirtækið Hellyers bros.

Hann bað okkur t.d. að gera fiskreit uppi á háhæðinni fyrir vestan Víðistaði, norðan vegarins. Var reitur þessi í daglegu tali nefndur Háireitur. Reitarstæðið var í alla staði mjög óheppilegt, aðskildir smáblettir, snepla, kölluðum við það, vegna landslagsins, enda var reiturinn hvorki fugl né fiskur.
Þegar Mr. Owen kom til baka varð honum að orði þegar hann sá reitinn:
„Hann hlýtur að hafa verið fullur, hann bróðir minn, þegar hann valdi þetta reitartogarana hingað, þeir eru einmitt akkúrat 30!“ Svo bætti hann við eftir stundarþögn:
„Svo eigum við 30 litla togara að auki.“

Uppáhald og æskuvinur

Kútter

Kútter.

Um þetta var ekki meira rætt, en það lá vel á karli og hann vildi spjalla og fór nú að segja mér ýmislegt frá sjálfum sér. Meðal annars sagði hann mér að faðir sinn hefði átt marga kúttera, áður en togaraöldin gekk í garð, og hefði síðasti kútterinn, sem faðir hans átti, heitið Othello. Othello þessi var hans mesta uppáhaldsskip. Það var með dammi í lestinni, þ.e. dálitlu rými þar sem sjór gekk út og inn, en þar var fiskur geymdur lifandi þar til menn tóku hann og stungu honum í soðpottinn. Othello var seldur til Hafnarfjarðar um síðustu aldamót. Pétur Thorsteinsson og Co. keypti skipið, en forstjóri þess fyrirtækis var Sigfús Bergmann. Dammurinn þótti ódrýgja lestarrýmið og að rúmu ári liðnu var skipið selt til Færeyja og annað keypt í staðinn sem hét Sléttanes og þótti hið mesta happaskip. Skipstjóri á Sléttanesi var Hrómundur Jósepsson, mikill dugnaðar- og aflamaður.

Hafnarfjörður

Samstarfsfólk hjá Hellyers – væntanlega verkakona og verkstjóri ásamt kúsk.

Á meðan Othelló var í Hafnarfirði kom Mr. Orlando til Íslands. Þá fór hann til Hafnarfjarðar og heimsótti Othello, uppáhaldið aðstæðum sem fyrir hendi væru. Svo var það eitt sinn, er við við höfðum lokið við að afgreiða Imperialist, að Mr. Allan kemur til okkar og segir að togari muni væntanlegur að nokkrum stundum liðnum; Spyr svo að venju: Hvað verðið þið lengi að afgreiða togarann? Ég svara eins og ég hafði gert að undanfömu: „Ég veit það ekki, Mr. Allan, ég veit það ekki.“ Verður hann þá öskuvondur, skælir sig allan, þykist herma eftir mér og segir hvað eftir annað á sinni bjöguðu íslensku:
„Évidhaike, évidhaike, évidhaik!“

Hafnarfjörður

Ari var einn af Hellyerstogurunum.

Rausar svo heilmikið út af þessari tregðu minni og aumingjaskap að geta ekki svarað einfaldri spurningu. Verður mér nú nóg boðið, rýk upp, einnig öskuvondur, helli mér yfir hann á mínu ensk-íslenska hrognamáli, sem hann réði þó vel í, og segi að lokum:
„Mr. Allan. Imperiaiist er að fara úr höfn, hvenær kemur hann inn fullur af fiski? Ég ætla að hafa fólk til reiðu þegar hann kemur“.
Það kom svolítið hik á Mr. Allan, svo segir hann:
„Hvernig á ég að geta sagt um það, það fer auðvitað eftir fískiríinu!“

Hafnarfjörður

Saltfiskvinnsla.

„Já, einmitt það,“ segi ég. „Ætli það sé ekki eitthvað svipað hjá okkur. Ætli það fari ekki eftir því hvað við fáúm marga menn til vinnu hversu langan tíma það tekur að afgreiða togarann, það vitum við sjaldnast fyrr stæði!“
Mr. Owen valdi annað reitarstæði og bað okkur að leggja þar reit, hvað við gerðum um sumarið og haustið 1925. Sá reitur var í daglegu tali nefndur Allansreitur eftir Mr. Allan, þess er áður hefur við sögu komið, stór og mikill reitur á ágætu landi norðan Kirkjuvegarins, upp af Skerseyri, þar sem nú er Hrafnista.

Áttu 60 togarar

Hafnarfjörður

Togarinn Ver var í eigu Hellyers.

Einu sinni, þetta vor, kallaði Mr. Orlando mig inn á skrifstofu sína. „Hvur fjandinn er nú á seyði,“ hugsaði ég, „líklega einhverjar aðfinnslur“.
Það var nú aldeilis ekki daglegur viðburður að vera beðinn um að tala við æðstu mennina. Þegar ég kem leggur Mr. Orlando fyrir mig þessa spurningu:
„Hvað haldið þér, Gísli, að hægt yrði að gera út marga togara héðan ef allir vinnufærir Hafnfirðingar, karlar og konur, ynnu við útgerðina?“
Ég var auðvitað óviðbúinn svona spurningu, varð undrandi á svip og vafðist tunga um tönn.
„Ég held ég geti ekki svarað þessu,“ stamaði ég, „til þess skortir mig þekkingu, enda hef ég ekkert um það hugsað.“
„Þetta er nú meira til gamans,“ segir hann, „mér datt bara í hug að slá þessu svona fram, ég bjóst nú ekki við að fá um þetta tæmandi svör frá þér.“
„Ég gæti ímyndað mér að hægt yrði að afgreiða héðan 30 togara ef allir Hafnfirðingar yrðu í þeirra þjónustu,“ segi ég, svona til að losna sem fyrst við þessa umræðu.

Flensborg

Flensborg og Óseyrarbæirnir. Hvaleyri í baksýn.

„Já,“ segir Orlando, „þá væri kannski mátulegt fyrir okkur að koma með alla stóru föður síns og æskuvin. Þá var Othello uppi í fjöru hjá Flensborg og þá var verið að hreinsa það og mála. Mr. Orlando sagðist hafa gengið í kringum skipið og strokið byrðinginn eins og vinarvanga.
„Af öllum sínum mörgu seglskipum þótti pabba vænst um þetta skip,“ sagði Mr. Orlando, „en það varð að víkja fyrir togurunum.
Þeir voru meiri aflaskip og miklu betri.“

Évidhaike!

Hafnarfjörður

Kolatogarinn Ýmir Gk 488.

Skipin komu og skipin fóru og skipin sigldu sinn veg. Um leið og þau lögðust við bryggjuna var kallað á okkur til vinnu, strax og reíjalaust, hvernig sem á stóð. Oft höfðum við nægan mannskap til að sinna þörfum þeirra, en stundum höfðum við það ekki.
Lögmálið um framboð og eftirspurn var ekki alltaf í jafnvægi. Því var oft erfitt að segja til um það hversu langan tíma myndi taka að afgreiða togara eða fragtskip. Það fór eftir aðstæðum, eftir því hvort við hefðum allan okkar vana mannskap, hvort við þyrftum að notast við óvaninga að einhverju leyti eða hvort fólk vantaði til að vinna verkin. Það mátti heita regla að um leið og skip var væntanlegt vorum við spurðir hversu langan tíma myndi taka að afgreiða það. Til þess lágu ýmsar orsakir.
HafnarfjörðurVið Jón Einarsson reyndum að svara þessum spurningum eftir bestu getu og í lengstu lög, en leitt þótti okkur að fá óþökk fyrir ef einhveiju skakkaði með uppgefinn tíma, alveg sama á hvorn veginn sem var. Út af þessu varð ég smám saman tregur til að segja nokkuð um þetta, vildi láta þá á skrifstofu Hellyers ákveða það sjálfa; þeir vissu þetta nokkurn veginn eins og við. Því tók ég upp þann hátt þegar Mr. Allan var sífellt að spyrja mig þessara tímaspurninga, að um þetta gæti ég ekkert sagt, — ég vissi það ekki, það færi allt eftir þeim en verkið er hafið. Þér skuluð því ekki spyrja mig slíkra spurninga eftirleiðis, Mr. Allan, ég svara þeim ekki.“
Rýk ég svo í fússi frá honum, en hann rigsar til sinnar skrifstofu og mælti ekki orð af vörum.

Sáttfýsn ofan á
HafnarfjörðurÁ næstu dögum mætti ég iðulega Mr. Allan en kasta ekki á hann kveðju eins og sjálfsögð kurteisi krafði. Ef eitthvað þurfti við hann að tala gerði Halldór bróðir minn það fyrir okkar hönd. Líður nú heil vika; við tölumst ekki við og heilsum ekki hvor öðrum.
Að rúmri viku liðinni er gert boð fyrir mig og ég beðinn að koma upp á skrifstofu. Þegar þangað kemur er Mr. Allan þar fyrir og biður mig að koma inn í innri skrifstofuna, sem var hans einkaskrifstofa. Réttir hann mér þá höndina og segir:
„Við skulum ekki láta svona lengur; við erum víst báðir stífir og stórir í lund, látum þetta vera gleymt sem okkur fór í milli.“
Hafnarfjörður„Ég skal samþykkja það,“ segi ég, „það er meira en velkomið.“
Ræddum við svo málin stutta stund og kvöddumst með mestu virktum.
Eftir þetta breyttist viðmót Englendinganna mjög til batnaðar. Þeir kröfðust þess ekki lengur að fá að vita nákvæmlega fyrirfram hversu langan tíma tæki að afgreiða skipin, heldur spurðu þess í stað: Hvenær eigum við að kalla á áhöfnina til skips? Hafið þér tímann bara nógu rúman svo að mannskapurinn þurfi ekki að bíða eftir brottför.
Aldrei lét Mr. Allan styggðaryrði falla í okkar garð eftir þetta.“

Framhald...

Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins, 9. tbl. 04.03.1995, Hellyerstímabilið – III hluti, Snorri Jónsson, Vinnubók týndist í kolabing, bls. 10-11.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður 1974 – loftmynd.