Tag Archive for: Hafnarfjörður

Þorbjarnarstaðir

Í Fjarðarpóstinum 1989 er fjallað um „Þorbjarnarstaði í Hraunum“ og spurninguna um hvort þeir skyldu friðaðir:

Þorbjarnarstaðir

Þorbjarnarstaðir – uppdráttur.

„Skipulagsnefnd hefur rætt um friðunarmál í nágrenni Hafnarfjarðar. Að sögn Jóhannesar Kjarval skipulagsstjóra hefur hann lagt til, að Þorbjarnarstaðir og næsta nágrenni verði sett á fornleifaskrá.
Kristján Eldjárn, fyrrverandi forseti, kannaði og skráði rústirnar að Þorbjarnarstöðum á árunum 1976 til 1980. Hann lagði til að réttast væri að friðlýsa þær minjar í einu lagi, eða áskilja sér rétt til að hafa hönd í bagga, ef eitthvað ætti að gera þar. Kristján sagði að þarna væri heilleg mynd, upplögð til að nota í eins konar sýnikennslu. Þó ekki sé langt síðan þarna var búið eru minjarnar ekki síður dæmigerðar fyrir byggðina hér um slóðir.
Þorbjarnarstaða er getið í fógetareikningum frá árunum 1547 til 1548.

Þorbjarnastaðir

Þorbjarnarstaðir – flugmynd.

Um býlið hefur Kristján Eldjárn skrifað: „Þorbjarnarstaðir, nú í landi Hafnarfjarðar. Rétt fyrir ofan Straum eru rústir eyðibæjarins Þorbjarnarstaða, sem fór í eyði. Þetta hefur verið dæmigert Hraunbýli, tún ræktað á hraununum, allt með holum skvompum og túngarður umhverfis, allur hlaðinn úr hraungrjóti. Hann stendur að miklu leyti enn, en utan um hann er svo einfaldur og lágur garður úr steinum, sem teknir hafa verið úr gamla garðinum og haft sem undirlag undir gaddavírsgirðingu. Þetta er merkilegt að sjá. Á eina hlið er ágætlega hlaðin og skrítin rétt.

Þorbjarnarstaðir

Þorbjarnarstaðir – uppdráttur ÓSÁ.

Bæjarrústir eru snyrtilegar og grónar, en svolítill kofi stendur enn uppi. Heim að bænum er ágætar traðir, þótt þær standi ekki í fullri hæð nú. Eitthvað kann að vera af rústum útihúsa á túninu, en a.m.k. eitt fjárhús hefur verið sambyggt bænum; það er með jötum eins og öll gömul fjárhús hér á Reykjanesi.“

Ekki er að sjá í gögnunum að framangreindum vilja hafi verið fylgt eftir skv. orðanna hljóðan.

Sögulegar heimildir um Þorbjarnarstaði

Þorbjarnastaðarétt

Þorbjarnastaðarétt.

1703: Jarðardýrleiki óviss, konungseign, samkvæmt Jarðabók Árna Magnússonar og Páls VídalínsIII, 164.
1847: 12 1/2 hdr., bændaeign, samkvæmt Jarðatali Johnsen, 110.
1395 er minnst á eyðijörðina Þorbjarnarstaði í skrá um kvikfé og leigumála á jarðeignumViðeyjarklausturs og telja útgefendur DI það var þessa jörð. DI III, 598.
1547-48 er jarðarinnar getið í fógetareikningum. DI XII, 114.Hjáleiga 1703: Lambhagi (sjá GK-167).
Landkostir 1919: Tún 1,4 teigar, allt slétt og hólótt, garðar 500 m2.

Þorbjarnarstaðir

Þorbjarnarstaðir – túnakort 1919.

1703: „Skóg hefur jörðin átt, en nú má það valla kalla nema rifhrís, það hefur hún so bjarglegamikið, að það er bæði brúkað til kolgjörðar og eldiviðar, og so til að fæða peníng á í heyskorti. Aldrei ljá það búendur til annara, og eru þetta þau skógarpláts, sem almenníngar eru kölluð.Torfrista og stúnga í lakasta máta og ekki bjargleg. Fjörugrasatekja nægileg fyrir heimilissmenn. Berjalestur hefur til forna verið til gagns af einiberjum, nú eru þau mestanpart eyðilögð. Rekavonnæsta því engin. Sölvafjara nokkur má vera en brúkast ekki. Hrognkelsafjara nokkur og stundumað gagni. Skelfiskfjara naumlega til beitu. Heimræði er árið um kríng og lendíng góð, en leið til að setja skip mjög ill og erfið; þó gánga skip ábúenda eftir hentugleikum árið um kring. Item hafa hjer bátar frá Bessastaðamönnum gengið til forna, og verið kallaðir kóngsskip, þó ekki stærri en tveggja manna far, og fleiri en eitt í senn um vertíð. Hafa bændur hýst þá, er bátnum róið hafa og ekkert fyrir þegið nema soðningarkaup af hásetum. En þetta hefur ekki verið í næstu þrjú ár. Inntökuskip hafa hjer aldrei gengið önnur en þessi í næstu fimtíi ár. Engjar eru öngvar.“ JÁM III,166.

Þorbjarnarstaðir

Þorbjarnarstaðir – brunnur.

Þess má geta að Ísal sóttist eftir því á áratugi síðustu aldar við Hafnarfjarðabæ að fá að kaupa jörðina Þorbjarnarstaði. Þá stóð fyrir dyrum möguleg stækkun álversins til suðurs og þar með tilheyrandi færslu Reykjanesbrautarinnar. Magnús Gunnarsson, bæjarstjóri, lagði tilboðið fram á bæjarstjórnarfundi, án nokkurs fyrirvara.

Þorbjarnarstaðir

Þorbjarnnarstaðir – flugmynd.

Þegar fulltrúi FERLIRs, sem þá var jafnframt fulltrúi Alþýðuflokksins, óskaði eftir nánari skilgreiningu á mörkum þess, sem um ræddi, varð fátt um svör. Hann óskaði þá eftir að málinu yrði frestað til næsta fundar. Það var samþykkt.
Á þeim næsta fundi lagi Magnús fram uppdrátt að mörkum þess lands, sem bærinn ætlaði að selja. Fulltrúi FERLIRs lagði þá til að bærinn myndi, ef sölunni yrði, halda eftir heimatúni Þorbjarnarstaða innan garða, enda væru innan þeirra ómetanlegar mannvistarleifar til framtíðar litið. Auk þess lagði hann til að Byggðasafni Hafnarfjarðar yrði falin forsjá svæðisins með í huga mögulega endurbyggingu þessa síðasta torfbæjar innan núverandi lögsagnarumdæmis. Bæjarstjórnin féllst á tillöguna. Af framangreindri ástæðu á Hafnarfjarðarbær í dag Þorbjarnarstaði í Hraunum – innan túngarða. Eignin er þó ekki talin til bæjarins í gildandi aðalskipulagi, einhverra hluta vegna!?

Þorbjarnarstaðir

Þorbjarnarstaðir – heimastekkurinn (síðar rétt).

Í umsögn Umhverfisstofnunar við aðalskipulag Hafnarfjarðar 2013-2025 þann 11. ágúst 2020 segir m.a.:
„Umhverfisstofnun bendir á að hraunin, sem tillagan nær til, kallast Hrútargjárdyngja og Kapelluhraun falla undir lið 2. mgr. 61. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd.
Í 61, gr. laganna er kveðið á um sérstaka vernd þeirra vistkerfa og jarðminja sem taldar eru upp í 1. mgr. og 2. mgr. greinarinnar. Skv. 3. mgr. ber að forðast röskun þeirra náttúrfyrirbæra sem undir greinina falla, ema brýna nauðsyn ber til og ljóst að aðrir kostir séu ekki fyrir hendi…
Umhverfisstofnun bendir á að innan svæðis sem er á náttúruminjaskrá og nefnist Straumsvík og er númer 12 sem aðrar náttúrminjar. Svæðinu er lýst á eftirfarandi hátt: „Fjörur, strendr svo og tjarnir með fersku og ísöltu vatni við innanverða Straumsvík, frá urtartjörn vestan Straums suður fyrir Þorbjarnarstaði að athafnasvæði Ísal.“ Náttúruverndargildi svæðisins eru tjarnir með einstæði, lífsskilyrðum og allmiklu fuglalífi.“

Engan sérstakan fróðleik er að finna á vef Umhverfisstofnunar um Þorbjarnarstaði og nágrenni sbr. framangreinda friðlýsingu á fornleifaskrá. Byggðasafn Hafnarfjarðar virðist ekki, hingað til a.m.k., hafa sýnt tilþrif í þá átt…

Heimild:
-Fjarðarpósturinn, 27. tbl. 21.09.1989, Þorbjarnarstaðir friðaðir, bls. 3.
-Fornleifaskráning vegna tvöfuldunar Reykjanesbrautar frá Hvassahrauni að Krýsuvíkurvegi, Reykjavík 2020.
-https://www.researchgate.net/publication/347489182_Fornleifaskraning_vegna_tvofoldunar_Reykjanesbrautar_41_fra_Hvassahrauni_ad_Krysuvikurvegi_II
-https://fornleif.is/wp-content/uploads/2020/10/FS803-20151_Fornleifaskr%C3%A1ning-vegna-tv%C3%B6f%C3%B6ldunar-Reykjanesbrautar-41-fr%C3%A1-Hvassahrauni-a%C3%B0-Kr%C3%BDsuv%C3%ADkurvegi.pdf

Þorbjarnastaðir

Þorbjarnarstaðir – tilgáta ÓSÁ.

Krýsuvík

Ólafur Þorvaldsson skrifaði um „Krýsuvíkurkirkju“ í Lögberg-Heimskringlu árið 1962:

Ólafur Þorvaldsson„Þegar þess var farið á leit við mig, að ég skrifaði fyrir þetta blað nokkuð um Krýsuvíkurkirkju, varð mér fyrst ljóst, hve lítið það er, sem ég veit í þessu efni, — en menn fara stundum enn þá í geitarhús að leita ullar. Ég er því smeykur um, að svipað hafi hent vin minn, þegar hann villtist til mín með þetta efni.
Og nú detta mér í hug sem oftar, þegar svipað stendur á sem hér, hendingar í einu kvæði Fornólfs, þar sem hann segir: „Þótt einhver verði ýtingin, er óviss lendingin“.
Ég er því miður illa að mér í sögu kirkna á Íslandi frá fornu og nýju, uppruna þeirra, endurbyggingu eða tilfærslu, og allt þar á milli. Það mun mála sannast, að erfitt mun vera að rekja sögu margra kirkna okkar frá fyrstu tíð, þótt sjálfsagt mætti fá úr mörgu skorið í því efni, en til þessa hefur mig skort hvort tveggja, tíma og tækifæri.
Eftir öllum líkum mun óhætt að segja, að kirkja hafi verið í Krýsuvík úrfallalítið í átta til níu aldir. Ég held, að Krýsuvíkurkirkja sé ein af þeim kirkjum, að erfitt sé að rekja sögu hennar í það minnsta fyrstu aldirnar, svo öruggt samhengi fengist í þá sögu.

Húshólmi

Húshólmi – Kirkjulágar; meint kirkjutóft vinstra megin.

Ég skal aðeins nefna eitt, upphaf þeirrar sögu. Ég held að margur myndi hnjóta um það spursmál, hvar fyrsta kirkja Krýsuvíkur hafi verið reist, hvenær og hver hana lét gera. Við þessum spurningum höfum við hvergi getað fengið fullnægjandi svar. Síðar kem ég lítillega að þessu óráðna spursmáli, ef rúm leyfir.
Lesendur þessa blaðs munu litlu nær um Krýsuvíkurkirkju af formálanum einum. Þess vegna skal nú sagt hér það helsta, sem ég veit og man um nefnda kirkju, og er því bezt að byrja á byrjuninni.

Landnám

Landnám Þóris haustmyrkurs.

Í Landnámabók Ara Þorgilssonar segir svo: „Þórir haustmyrkur nam Selvog og Krýsuvík.“ Einar Arnórsson prófessor telur líklegt, að Þórir haustmyrkur hafi komið nokkuð seint út. Fyrir þessu færir hann þau helst rök, að „Súgandi“, þriðji maður frá Þóri, ætti að vera uppi um 1000.

Landnám Þóris er því að nokkru í Gullbringusýslu, en þau sýslumörk komu löngu síðra. Líklegt má telja, að kirkja hafi ekki löngu eftir kristnitöku verið byggð í Krýsuvík. Yfir hinu mun hvíla algjör óvissa, svo sem fyrr er á minnst, hvar og af hverjum sú kirkja var byggð.
Elsta heimild, sem mér er kunn um kirkju í Krýsuvík er, að um 1200 er hennar getið í kirknaskrá Páls biskups. Kirkjan er talin Maríukirkja, og á heimaland allt ásamt Herdísarvík og níu mæla lands á Þorkötlustöðum auk ítaka.

Krýsuvík

Krýsuvík 1810.

Eftir það, er Krýsuvíkurkirkju getið í ýmsum máldögum allt fram undir 1600. Flestir máldagarnir fjalla um eignir kirkjunnar fastar og lausar, ítök o. fl. og ber víðast fátt þar á milli utan þá orðalag. Á tíma þeim, sem máldagarnir ná yfir, hefur lausafé kirkjunnar ekki ávallt verið það sama, munir gengið úr sér, og stundum aðrir komið í þeirra stað. Lifandi peningi fækkað, þar til horfinn var með öllu, og má segja, að svo hafi farið um flesta muni kirkjunnar.
Til að sýna megin efni í lestra máldaganna tek ég upp kafla úr máldaga Gísla biskups Jónssonar fré 1577 (í F. XV. 3, bls. 641). Þar segir:… „Ennfremur 6 kýr og 5 ásauðar kúgildi, (þ. e. 30 ær). Einnig þrjá hesta og eitt hross (þ.e. hryssa). Innan kirkju tvenn messuklæði alfær og kantara kápu eina. Einnig tvenn altarisklæði. Ein brún. Einn kaleik, þrjár klukkur, koparstiku með þremur pípum. Glóðker. Einn ampli. Paxspjald . Vatnsklukka. Kirkjustokkur, Þrjár merkur vax. Bækur nokkrar. — Innanstokks tvær skálar, tvo spæni, tvö trog, hægindi, hvíluvoðir og áklæði.“

Krýsuvíkurkirkja

Innansmíð Krýsurvíkurkirkju – teiknað árið 1810.

Allt bendir til, að Krýsuvíkurkirkja hafi aldrei rík verið að lausafé. Hitt mun heldur mega telja, að fram eftir öldum hafi hún eftir öllum bréfum að dæma mátt heita allvel á vegi í föstum eignum, þar sem hún hefur átt allt land sóknarinnar, byggt og óbyggt, og meira þó, þar eð hún átti einnig Herdísarvíkina, beztu verstöð í Selvogi, landríka vildisjörð, og lágu lönd saman. Auk þessa ýms ítök. Hitt er ljóst bæði af íslenzkum heimildum svo og ferðabókum erlendra, sem um landið reistu og til Krýsuvíkur fóru sem flestir munu hafa gert til athugunar á jarðhita og brennisteini, að meðal sóknarmanna hafi þar oftar ríkt fátækt en auður, jafnvel svo að til landauðnar dró á tímabili. Ég skal nefna hér eitt dæmi þessu til stuðnings.
Árið 1553—54 telur Marteinn biskup „kirkju þar góða, — en enginn bær er þá í sókninni“. Eitthvað hefur þetta ömurlega hlutskipti þessa byggðarlags varað, því að með bréfi 27. sept. 1563 leggur Páll Stígsson hirðstjóri í samráði við Gísla Jónsson biskup í Skálholti niður sóknarkirkju Krýsuvík og leggist hún og eitt kot, sem þar er hjá, til Strandarkirkju í Selvogi. Þó skal í Krýsuvík standa lítið húskorn Guðs vegna og þess heimilisfólks, sem þar kann að vera sjúkt eða gamallt. Og herra Gísli skyldi nokkur kúgildi til leggja, svo að Guðs orðs þénari mætti þar hvíld nætursakir hafa, þá hann þar kæmi eða þyrfti þar að koma Guðlegrar hjarðar að vitja.“

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja 1810.

Krýsuvíkurkirkja virðist þó standa eftir sem áður. Árni Magnússon telur hana útkirkju frá Strönd. Svo er og í kirkjuskrá 1748, og enn í prestakallaskipunarlögum frá 1880.
Með prestakallalögum 1907 er Krýsuvíkursókn lögð til Staðarprestakalls í Grindavík. Loks er með stjórnarráðsbréfi 21. okt. 1929 Krýsuvíkurkirkja lögð niður og sóknin sameinuð Grindavík (Stjt. 1929 B. 305).
Með þessari síðustu ráðstöfun mætti ætla, að lokið væri sögu Krýsuvíkurkirkju hinnar fornu. Þó má segja enn sem fyrr, að kirkjan stendur eftir sem áður, — en mennirnir viðurkenndu hana ekki lengur. — Ég fæ ekki betur séð en við þetta yfirgefna hús, sem einu sinni var guði vígt, hafi komið fram hinn sami ,,huldi verndar kraftur“, sem Jónas kveður um í Gunnarshólma, um „hólmann, þar sem Gunnar snéri aftur“, við að forða því frá að afmást með öllu svo enginn sæi þess lengur stað.

KrýsuvíkÞað má segja, að frá 1563—1929 hafi Krýsuvíkursókn verið í útlegð eða í 366 ár. Í 344 ár var hún á vist hjá Strandarkirkju í Árnessýslu og í tuttugu og tvö ár hjá Staðarkirkju í Grindavík, þ.e. frá 1907—1929. Það ár er kirkja lögð niður í Krýsuvík. Eftir það eiga Krýsvíkingar kirkjusókn til Grindavíkur. Löng kirkjuganga það.
KrýsuvíkÁrið 1929, þegar kirkjan er lögð niður, eru þrjár fjölskyldur í sókninni, ein mannmörg, tvær miðlungi stórar. Þá mun hafa verið búið að ákveða vegarlagningu um Krýsuvík, ef hún hefur ekki þegar verið hafin. Og vegurinn kom. Með veginum kom fólkið og nokkrar framkvædir, þótt eitthvað af þeim hafi farið nokkuð á annan veg en skyldi, — en þetta kemur í hendi, sagði karlinn. Vegurinn var kominn um eina samfellda stóra gróðursvæðið í hinni miklu hraunbreiðu Reykjanesskagas. Land með mikla möguleika í jörð og á allmikil hlunnindi við sjó, þótt enginn vilji nýta í dag.

Krýsuvík

Krýsuvík – Suðurtúnið.

Svo fóru gömlu Krýsvíkingarnir alfarnir. Flestir fóru þeir eftir hinum aldagömlu slóðum, sem þeir höfðu farið margir alla ævina, aðrir skemur. Svo kom nýtt fólk eftir nýja veginum, sumir til búsetu, aðrir sem farfuglar. Það var því enn komið fólk í hina fornu Krýsuvíkursókn, — en „kirkja fyrirfannst engin á staðnum“, en til staðar mun hann ekki hafa verið, sá sem fyrir kúgildunum hefur séð, — en síðustu prestar þar voru það ekki.

Magnús Ólafsson

Magnús Ólafsson – síðasti ábúandinn í Krýsuvík.

Eftir að síðasti ábúandinn var fluttur veikur burt frá Krýsuvík og átti þangað ekki afturkvæmt, var lokið allri umhirðu um hina fornu kirkju, er hann hafði búið í mörg síðustu árin þar. Það beið heldur ekki lengi, þar til þar fyrirfannst hvorki gluggar né hurð. Hurðarleysið kom sér líka betur fyrir þá hjörð, sem þá tók að sækja þetta forna guðshús. Þar inni fann skjól í hrakviðrum fjöldi nautgripa og hesta, er þarna voru til hagagöngu á sumrin. Flestir, sem þarna voru kunnugir, töldu víst, að um þetta forna vanhirta hús færi þá og þá sömu leiðina, sem önnur hús staðarins, hryndi í rúst eða fyki burt. Nei, hin forna, yfirgefna kirkja fauk hvorki né hrundi. Hún stóð af sér öll stórviðri og alla „hverakippi“. Hún bara beið, beið eftir sveini, er leysti hana úr böndum. Og sveinninn kom. Fyrir hans tilverknað stendur í dag á hlaði hinnar fornu stórjarðar fegurra hús heldur en þar hefur áður staðið og bíður nú þess að vígjast í kirkju eða kapellu Krýsuvíkursóknar. Vonandi bíður þess húss aldrei önnur eins niðurlæging sem hinnar síðustu kirkju staðarins.

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja – legsteinn Árna Gíslasonar, sýslumanns.

Áður er þess getið í grein þessari, að óvíst væri hvar hin fyrsta Krýsuvíkurkirkja hafi staðið. Þótt allt þar um sé í mikilli óvissu enn sem komið er en sem ég veit að á eftir að skýrast áður en langt um líður, þá tel ég, að ekki sé hægt að skrifa svo um Krýsuvík og kirkju þar, að gengið sé með öllu fram hjá hinni aldagömlu sögu, að sú Krýsuvík, sem við þekkjum í dag hafi ekki í upphafi byggðarinnar verið þar sem nú er.

Til fróðleiks skal ég tilfæra hér í sem stytztu máli það helzta, sem vísinda og fræðimenn hafa um þetta efni skrifað.

Húshólmi

Húshólmi – skáli.

Eggert Ólafsson segir í ferðabók sinni um jarðelda í Trölladyngju: „Að minnsta kosti er það víst, að Krýsvíkingar kunna að segja frá ægilegum jarðeldi, er brann í fjöllum þessum í fornöld.

Ögmundarhraun

Ögmundarhraun – kort.

Eldflóðið féll í sjó niður og eyddi nokkrum bæjum á því svæði, sem nú heitir Ögmundarhraun. Meðal þeirra var kirkjustaður, sem Hólmastaður hét, og sjást þar enn minjar kirkjugarðsins og húsatóftanna“. Hér er vitanlega átt við þann stað, sem nú heitir Húshólmi. Hólmastaðar hef ég hvergi heyrt getið utan í bók Eggerts. Fullvíst má telja, að þetta nafn hafi til orðið eftir að hraunið hólmaði þennan blett af.
Þorvaldur Thoroddsen segir í ferðabók sinni I. bls. 186, um rústirnar í Húshólma: „Ein sú lengsta er 49 fet, en breidd hennar sést ei fyrir hrauni“.

Húshólmi

Húshólmi – meintur grafreitur.

Og enn segir hann: „Þessar tóttir, sem hraunið hefur runnið yfir, eru full sönnun fyrir því, að það hefur myndast síðan land byggðist, þótt hvergi finnist þess getið í sögum eða annálum“. Einnig getur Þorvaldur Thoroddsen um alllanga garða, sem sjáist þar enn. Þorvaldur Thoroddsen segir um Ögmundarhraun, að Jónas Hallgrímsson hafi gizkað á, að það hafi runnið kringum 1340, „án þess þó að færa heimildir fyrir því“.
Brynjólfur Jónsson frá Minna-Núpi skrifar í Árbók Hins ísl. fornleifafélags 1903 um Húshólma og fornminjar þar. Getur hann þa r garða og húsarústa á svipaðan hátt og Þorvaldur Thoroddsen. Í grein sinni kemst Brynjólfur þannig að orði á einum stað:

Húshólmi

Húshólmi og Gamla-Krýsuvík.

„Krýsuvík hefur til forna staðið niður undir sjó fyrir vestan endann á Krýsuvíkurbergi. Nafnið Krýsuvík bendir til þess“. Brynjólfur er sá eini af þessum þremur fræðimönnum, sem minnist á og telur víst, að Krýsuvík hafi verið upphaflega þar sem nú er Húshólmi. Það sem einkum styður þá kenningu, að Krýsuvíkin hafi í upphafi staðið við sjó, er aðallega þetta:

Krýsuvík

Krýsuvík – strandlínan fyrrum; tilgáta.

Nafn byggðarinnar — Krýsuvík eins og Brynjólfur Jónsson bendir á, því að lítt hugsanlegt er, hafi byggðin staðið frá landnámi þar sem nú er að hún hefði þá fengið þetta nafn því að þar er ekki um neina vík að ræða, ekki einasta að byggðin sé það nærri Kleifarvatni, að nafnið gæti þaðan verið komið. Í öðru lagi eru það hinar miklu húsarústir og önnur verksummerki í Húshólma með nöfnum svo sem Kirkjuflöt og Kirkjulág. Nöfn þessi benda til, að þar hafi kirkja verið en aldrei mun getið nema einnar kirkju í Krýsuvík.
Rúmsins vegna verð ég að láta staðar numið hér, en um þetta má nánar lesa í bókinni „Harðsporar“ frá 1951, bls. 109.
Vel veit ég, að í framangreindar frásagnir vantar vísindalegar sannanir og er það rétt svo langt sem það nær og þá er að afla þeirra. — Í Húshólma munu svo merkilegar fornminjar vera, að óvíst er hverju þær við rannsókn gætu aukið við hinar fornu sögu okkar. Þegar hér er komið lestri má vera, að einhverjum detti í hug þessi spurning: Hvað kemur þessi týnda byggð ef til hefur verið Krýsuvíkurkirkju við? Hér ber allt að einum brunni. Um þetta vantar aðeins órækar sannanir.
Eggert Ólafsson hafði engar sannanir þá hann skrifaði orð þau, sem að framan getur. En líkurnar hafa honum sýnst svo ljósar, að þar væri ekki um efamál að ræða.

Húshólmi

Húshólmi – einn hinna fornu garða.

Hafi fyrsta byggð Krýsuvíkur verið niður við sjó svo sem hin aldna saga hermir og minjar þar benda til, hefur vitanlega ekki liðið langur tími þar til þar hafi kirkja risið. Svo stór hefur Krýsuvíkurkirkja aldrei þurft að vera, að efni til hennar hafi skort, þar eð reka fjörur eru miklar og rekasælar, svo sem við vestasta hluta Krýsuvíkurbergs allt til Selatanga vestur.

Húshólmi

Húshólmi – kirkjugarður?

Skal nú vikið nokkrum orðum aftur til ársins 1200. Þá er sem fyrr segir Krýsuvíkurkirkju getið í kirknaskrá Páls biskups, og þar þess getið að kirkjan sé Maríukirkja svo og landaeigna hennar. Hér hefur þess ekki þótt þurfa við að tilgreina nánar hvar kirkjan væri staðsett, því vitanlega hefur það verið svo sem nafn hennar bendir til í Krýsuvík, og þá var engin nauðsyn að geta þess, hvar sú Krýsuvík væri vegna þess, að aldrei hefur verið nema ein byggð með því nafni, — en hvar var sú Krýsuvík, sem Páll biskup minnist á um árið 1200? Þessari gömlu og nýju spurningu er enn þá ósvarað, en við verðum að vona, að svarið komi von bráðar.

Húshólmi

Húshólmastígur um Ögmundarhraun.

Ef það væri nú svo, að Ögmundarhraun hafi runnið kringum 1340 svo sem Jónas Hallgrímsson gizkar á, er ekkert líklegra en að fólkið sem flýði eldana hafi leitað áður en eldurinn lokaði leiðum upp í landið inn milli fjallanna, þar sem eldar sem þá brunnu náðu því ekki. Vegarlengdin var ekki nema röskur stundargangur. Þetta land var þess heimaland, sjálfsagt fyrr nytjað á margan hátt. Þar var búsmali þess hagvanur, heyskaparlíkur meiri og betri, svörður til eldsneytis í mýrum og ef til vill fleira, sem nú er ekki gott að segja um.
Til endurbyggingar húsatimbur á víðáttumiklum rekafjörum, — en dálítið lengra til dráttar. Hafi þetta svona verið þá hefur fólkið flutt með sér nafn þeirrar byggðar, sem það af illri nauðsyn varð að yfirgefa og þá von bráðar komið sér upp kirkju, sem hefur verið Krýsuvíkurkirkja jafnt sem áður.

Krýsuvíkurkirkja

Þótt erfitt sé að fullyrða, hvar fyrsta kirkja þeirra fyrstu Krýsvíkinga hafi staðið, mun aftur á móti óhætt að telja fullvíst, að margar síðustu aldirnar hafi kirkja þeirra staðið þar sem hún stóð fram á þessa öld, — og stendur í rauninni enn.

Eggert Sigfússon

Eggert Sigfússon á Fongötu vestan Vogsósa.

Þeim mun nú óðum fækka, sem við messugerð voru hjá séra Eggert Sigfússyni presti Selvogsþinga, þá hann messaði í Krýsuvíkurkirkju, því eins og fyrr segir þá var Krýsuvíkurkirkja útkirkja frá Strönd til 1907. Sá er þetta skrifar var við eina guðsþjónustu í Krýsuvík hjá séra Eggert 1901. Margt var vel um séra Eggert þótt alleinkennilegur þætti í ýmsu. Ágætur ræðumaður var hann talinn á tækifærisræður, enda var hann gáfaður lærdómsmaður.
Aftur á móti voru flestar kirkjuræður hans mjög stuttar og var sem hohum lægi mikið á við flest verk í kirkju og viðurkenndi þetta sjálfur svo sem þetta dæmi sýnir. Eitt sinn þá hann kom úr kirkju í Krýsuvík segir hann strax þegar hann kom í bæinn: „Nú gerði ég það gott, nú hafði ég faðirvorið í einu andartaki.“

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja.

Margt mætti um séra Eggert segja og allt gott sérdeilis sem mann. Hann var vammlaus maður og heiðarlegur fram í fingurgóma. Hann var einn þeirra, sem samtíðin misskildi, þótt þar væru undantekningar. Á öðrum vettvangi gefst mér ef til vill tækifæri til að segja nánar frá þessum sérkennilega manni.

Ég ætla, að ég hafi verið við síðasta prestsverk, sem framkvæmt var í Krýsuvíkurkirkju, það um árið 1917. Þá var jarðsunginn þar síðasti maður í Krýsuvíkurkirkjugarði, og var ég einn af líkmönnunum. Verkið framkvæmdi sóknarpresturinn séra Brynjólfur Magnússon frá Stað.
Þessi síðasta Krýsuvíkurkirkja, sem hér um ræðir, mun að öllum líkindum vera fyrsta kirkja þar, er byggð er af timbri einu saman. Þessi kirkja var byggð 1857. Síðan er hennar getið í mörgum prófastavísitasíum og ávallt nefnd „timburhús“.

Krýsuvík

Krýsuvík 1920.

Í biskupsvísitasíu árið 1875 er Krýsuvíkurkirkju lýst all nákvæmlega. Þar kvartar biskup yfir, að ekki hafi þá verið gert við galla þá, sem á kirkjunni hafi verið við síðustu vísitasíu hans. Sér í lagi er það ytri klæðning á þaki, sem sé orðin léleg og þurfi endurnýjunar við.

Brynjólfur Magnússon

Brynjólfur Magnússon.

Hvenær viðgerð sú, er Pétur biskup hvetur til 1875 hefur fram farið hefur mér ekki auðnast að grafa upp, en á síðasta fjórðungi síðustu aldar hefur það verið gert. Þótt mér hafi ekki tekizt að finna reikninga yfir kirkjusmíðar 1857 má fullvíst telja að þar hafi aðalsmiður verið Benteinn Stefánsson bóndi að Arnarfelli í Krýsuvík og má heita skemmtileg tilviljun, að dóttursonur hans Sigurbent varð til þess að gera nú upp hina gömlu kirkju af nákvæmni og hagleik, sem þeim frændum mun báðum hafa verið í blóð borið. Með endurnýjun þessa rösklega hundrað ára gamla húss, sem lengst af var kirkja, hefst nýr kapítuli í sögu kirkjunnar í Krýsuvík, sem verður ekki sagður hér. Í þeim kapítula hlýtur ávallt að gnæfa hæst nafn þess manns, sem af svo mikilli höfðingslund og óeigingirni og þó í algerri kyrrþey hefur látið gera þetta hús eins og það er í dag, ásamt umbótum á kirkjugarðinum, algeriega fyrir fé úr eigin vasa. Maður þessi er Björn Jóhannesson fyrrverandi bæjarfulltrúi í Hafnarfirði. Þá mun heldur ekki gleymast nafn þess, sem verkið leysti af hendi, þjóðhagans Sigurbents Gíslasonar í Hafnarfirði. Verk það, sem þessir tveir menn hafa innt af hendi í Krýsuvík á síðustu árum, lofar báða þessa meistara.

Björn Jóhannesson

Björn Jóhannesson.

Ég hygg, að með húsi því í Krýsuvík, sem nú hefur verið þar endurbyggt og innan skamms mun albúið til vígslu á ný til guðsþjónustuhalds, hafi Björn Jóhannesson unnið það lofsverða verk, sem fá dæmi munu finnast fyrir hér á landi í seinni tíð, — og trúað gæti ég að „Fáir muni eftir leika“, og mætti þó gjarnan verða hrakspá.
Að lokum skal hér getið þeirra presta, sem kunnugt er um að þjónað hafi Krýsuvík og setið þar meðan sérstakt prestakall var, en talið er að prestur hafi verið þar allt til 1641. Prestarnir voru þessir: Kálfur Jónsson 1375, Þórarinn Felixson 1447, Guðmundur Steinsson 1525, Björn Ólafsson um 1528 til um 1580, Tómas Björnsson 1586 til um 1602, Bjarni Gíslason 1603, Gísli Bjarnason 1606, Eiríkur Stefánsson 1609.
Eftir að Krýsuvíkursókn var lögð til Strandar í Selvogi þjónuðu þar ýmsir prestar og munu margir enn kannast við nöfn margra þeirra. Má þar til nefna Eirík Magnússon hinn fróða, Jón Vestmann og síðast Eggert Sigfússon. Allir sátu þessir að Vogshúsum. Af síðari tíma prestum, er þjónuðu Krýsuvík um lengri eða skemmri tíma, má nefna Odd Gíslason að Stað í Grindavík, Kristján Eldjárn Þórarinsson að Stað, Ólaf Ólafsson að Vogshúsum síðar fríkirkjuprestur í Reykjavík, og Hafnarfirði og síðast Brynjólf Magnússon að Stað, er síðastur vann prestsverk í Krýsuvík.“ – (Tekið saman í janúar 1961 – Ólafur Þorvaldsson).

Sjá einnig hér frásögn Ólafs Þorvaldssonar um Krýsuvíkurkirkju að fornu og nýju í Alþýðublaði Hafnarfjarðar – jólablað 1961.

Heimild:
Lögberg-Heimskringla, 45. tbl. 22.11.1962, Krýsuvíkurkirkja, Ólafur Þorvaldsson, bls. 4 og 7
Lögberg-Heimskringa, 46. tbl. 29.11.1962, Krýsuvíkurkirkja, Ólafur Þorvalddson, bls. 1, 2 og 7.

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja 1964.

Hraunhóll

Í Náttúrufræðingnum 1975 fjallar Jón Jónsson, jarðfræðingur, um „Sandfellsklofagíga og Hraunhól efst í Kapelluhrauni undir Vatnsskarði“. Margir telja Kapelluhraun runna úr Hraunhól, en svo var ekki, enda hraunið úr honum um 5500 ára gamalt, en Kapelluhraunið (Nýjahraun/Bruninn) rann árið 1151. Hraunhóll var einn fegursti gjallgígurinn á gjörvöllum Reykjanesskaganum, en hefur nú verið gjörspillt af námuvinnslu.

Hraunhóll
Jón Jónsson

„Eins og áður er sagt, hef ur hraunið runnið upp að eldri gíg, sem ber nafnið Hraunhóll. Þetta var stór og reglulegur gígur, einn hinn fegursti á öllum Reykjanesskaga, hlaðinn upp úr gjalli og hraunkleprum. Aðalgígurinn var um 250 m í þvermál, en inni í honum var lítill en alldjúpur hraungígur, vafalaust myndaður á lokastigi gossins. Skarð er í gíginn austan megin og þar hefur Sandfellsklofahraun runnið inn í hann eins og áður segir og myndað þar lítinn hraunpoll, sem orðið hefur að sléttu helluhrauni.
Nú er Hraunhóll svipur hjá sjón frá því sem áður var. Hann hefur orðið þeim að bráð, er rauðmalarnám stunda og hefur verið leikinn svo grátt, að nú er rúst ein. Hann var um árabil ein aðalnáman á þessu svæði og er nú svo komið, að búið er að grafa langt niður fyrir hraunin, sem upp að honum hafa runnið. Við það kemur í ljós, að hann hefur verið líklega vart minna en 40 m hár, áður en hraun tók að renna upp að honum.
Sýnið, sem áður er getið um, var tekið austan megin í gígnum, þar sem Sandfellsklofahraun rann inn í hann.

Kapelluhraun

Kapelluhraun (rauðlitað).

Annað sýni var tekið norðan í hólnum, og hugði ég fyrst, að hraunið sem þar hefur lagst upp að Hraunhól, væri Kapelluhraun, en nú hefur komið í ljós, að svo er ekki. Þar má sjá, að um 25—30 cm þykkt jarðvegslag hefur verið komið utan á gíginn, þegar hraun eyddi þeim gróðri, er þar var fyrir. Gróðurleifarnar eru mosi og einhver kvistgróður og því væntanlega ekki ósvipað þeim gróðri, er þarna var fyrir, áður en maðurinn fór ránshendi um Hraunhól. Kolaða kvisti og sprota mátti tína úr jarðvegslaginu, en ekki var það meira en svo, að margra klukkustunda verk var það að fá nægilega mikið efni (um 20 g) í eina aldursákvörðun. Hvað þetta varðar, er sama að segja um bæði sýnin, sem tekin voru við Hraunhól. Sýnið, sem tekið var norðan í hólnum reyndist 2690 ± 60 C14 ára. Enn er ekki fullkomlega ljóst, hvaðan það hraun er komið, sem eyddi gróðrinum norðan í hólnum. Eins og ég nefndi áður hugði ég fyrst að það væri Kapelluhraun en að því slepptu Sandfellsklofahraun. Nú er hins vegar svo mikill munur aldurs þessara gróðurleifa, að dr. Ingrid U. Olsson telur, að ekki geti verið um samtímamyndun að ræða. Verður því spurningunni um, hvaða gos hafi verið að verki, þegar gróðurinn norðan í Hraunhól eyddist, ekki svarað að svo stöddu.

Hraunhóll

Hraunhóll og nágrenni.

Það er hins vegar ljóst, að gíghólar, sem hlaðnir eru úr nær eintómu gjalli, gróa ekki sérlega fljótt og er sjálfsagt ein meginorsök þess sú, að allt vatn hripar þar strax niður. Af þessu leiðir, að Hraunhóll hlýtur að hafa verið orðinn nokkuð gamall, þegar þessi hraun runnu upp að honum. Mætti því ætla, að hann væri vart yngri en 3500 ára gamall. Hraunið, sem úr honum hefur komið, er ólívín basalt hraun með töluverðu a£ 3—5 mm stórum ólívínkristöllum og eins feltspatdílum, sem ósjaldan eru 4—5 mm.
HraunhóllAnnað, sem einkennir þetta hraun eru hnyðlingar, flestallir af sömu gerð og fundist hafa á Reykjanesskaga og víðar, en fundist hefur þar hnyðlingur með aðra samsetningu líka. Verður það ekki nánar rakið hér. Eins og getið var um í upphafi þessarar greinar eru Sandfellsklofagígir á sprungu með þá venjulegu stefnu norðaustur-suðvestur, svo er og um Hraunhól og má vel sjá þar að sprungan, sem hann er á, hefur opnast frá því að gosið varð og er ekki ástæða til að efast um, að sú gliðnun sé enn í gangi, þó hægt fari miðað við mannlegt æviskeið. Sama fyrirbæri má og sjá m.a. í Óbrinnishólum (Jónsson 1972) og raunar á fleiri stöðum á Reykjanesskaga. Er þá óneitanlega ekki fráleitt að spyrja: Hve mikla gliðnun þarf til þess að þarna gjósi á ný?

Hraunhóll

Hraunhóll.

Aðeins um 300 m suðvestur af Hraunhól er annar gígur, sem næstum hefur færst í kaf, þegar Sandfellsklofahraun rann. Ekki veit ég nafn á þessum gíg, enda var hann svo lítið áberandi, að litlar líkur eru á, að honum hafi nokkru sinni verið nafn gefið og líklega fáir veitt því athygli, að um eldgíg væri að ræða. Frekar en ekkert mætti í bili nefna hann Litla-Hraunhól. Ber það nafn þá vitni um ámóta hugmyndaauðgi og vel flest cnnur örnefni á Reykjanesskaga og orsakar ekki áhalla hvað það snertir.

Kapelluhraun

Kapelluhraun og nágrenni – örnefni og gamlar leiðir (ÓSÁ).

Einnig Litli-Hraunhóll hefur verið grátt leikinn af nútíma vinnutækni og þar vægast sagt ljótur umgangur, en því miður er alltof víða pottur brotinn hvað þetta snertir á voru landi. Ekki sést nú neitt af því hrauni, sem úr Litla-Hraunhól hefur runnið, fremur en því, sem rann úr Hraunhól sjálfum, en sýni mátti ná úr gígnum. Kemur þá í ljós, að hraunið er að heita má eins úr báðum þessum gígum. Það er og snarlíkt eldra Óbrinnishólahrauni og Búrfellshrauni. Vott af gróðurleifum má sjá undir gjallinu í Litla-Hraunhól og sýnist jarðvegslagið þar vera mjög ámóta og í Hraunhól, en ekki hefur reynst mögulegt að ná nothæfu sýni úr LitlaHraunhól. Af ofangreindum ástæðum tel ég þó langlíklegast, að gosið hafi samtímis á þessum stöðum.
Varðandi aldursákvörðunina hér að framan skal þess getið, að hún er meðaltal af tveim, þar sem við aðra er notaður helmingunartími 5570 ár en við hina 5730 ár.“

Heimild:
-Náttúrufræðingurinn, 2. tbl. 01.03.1975, Sandfellsklofagígir og Hraunhóll, Jón Jónsson, bls. 188-191.

Hraunhóll

Hraunhóll – námuvinnsla og sóðaskapur.

Hvaleyrartjörn

Litli Ratleikur Hafnarfjarðar er ætlaður sem hvatning til útiveru í og við byggðina í Hafnarfirði.
Litli Ratleikur 2021 hefur 15 nýja áhugaverða staði sem m.a. vekja athygli á sögunni. Leikurinn er samvinnuverkefni Fjarðarfrétta og Hafnarfjarðarbæjar. Guðni Gíslason lagði leikinn. Hann er á vefsíðu Fjarðarfrétta og er aðgengilegur hvenær sem er.
Þú ræður hvernig þú nýtir þér leikinn, textinn og myndirnar eiga að hjálpa þér að finna staðina og finna má fróðleikstexta um staðinn og jafnvel umhverfi hans.

1 – Hellisgerði, Bjarni riddari

hellisgerði

Hellisgerði.

Skrúðgarðurinn Hellisgerði var vígður á Jónsmessu 1923. Málfundafélagið Magni, sem stofnað hafði verið þremur árum áður, hafði frumkvæði að gerð hann og annaðist hann rekstur hans um langt skeið. Hafði einn félaganna, Guðmundur Einarsson, framkvæmdastjóri í Dverg, hvatt til þess að sérkenni Hafnarfjarðarhrauns yrðu varðveitt og þótti Hellisgerði ákjósanlegur staður til að koma upp blóma- og skemmtigarði. Í skipulagsskrá segir að tilgangurinn væri þríþættur: 1. Að vera skemmtistaður, þar sem bæjarbúar eiga kost á að njóta ánægju og hvíldar í tómstundum sínum. 2. að vekja áhuga bæjarbúa á blóma- og trjárækt. 3. að geyma óraskaðar minjar um hið sérkennilega bæjarstæði Hafnarfjarðar, þegar mannvirki framtíðarinnar hafa máð þær út annars staðar í bænum.

Var skipað fimm manna garðráð sem stjórnaði starfseminni til 1977 er starfsemi Magna lagðist niður og hefur Hellisgerði síðan verið á ábyrgð garðyrkjustjóra Hafnarfjarðarbæjar.

Bjarni riddar.

Bjarni riddari í Hellisgerði.

Árið 1950 var afhjúpuð stytta af Bjarna riddara Sivertsen sem gerð var af hinum merka listamanni Ríkharði Jónssyni. Það voru útgerðarfélögin Hrafna-Flóki og Vífill sem gáfu 25 þúsund kr. í tilefni af 25 ára afmælis Magna. Stendur styttan vestarlega í garðinum, á stalli úr hraungrýti sem sótt í Selvog þar sem Bjarni hóf verslunarstörf sín.

Bjarni Sívertsen er talinn vera frumkvöðull í Hafnarfirði. Árið 1813 flutti hann um 500 plöntur frá Skotlandi og gróðursetti víðsvegar í Hafnarfirði.

Hellisgerði er um 1,4 ha af stærð og liggur milli Reykjavíkurvegar, Hellisgötu og Skúlaskeiðs.

Skammt frá styttunni eru tóftir lítils húss sem talið hafa upphaflega verið kamar en seinna notað sem verkfærageymsla Magna-manna.

Vert er að skoða tré ársins 2017 sem Skógræktarfélag Íslands útnefndi. Það er beyki, Fagus sylvatica.

2 – Einarsreitur

Einarsreitur

Einarsreitur,

Framan af í Hafnarfirði var saltfiskur einkum þurrkaður á mölunum við sjávarsíðuna eins og á Hamarskotsmöl og Langeyrarmölum en þegar útgerðin jókst og bærinn stækkaði þurfti að finna stærri og betri svæði fyrir fiskreitina.

Frá Einarsreit. Ljósm.: Óþekktur

Framan af 20. öldinni voru margir fiskreitir útbúnir í Hafnarfirði og þá einkum í hrauninu í útjaðri hans og urðu þeim hin mestu mannvirki. Það verk að brjóta Hafnarfjarðarhraunið undir fiskreiti var mikið og erfitt starf sem oftast var unnið í akkorðsvinnu. verkfærin voru járnkarl, haki, sleggja og fleygar auk hins svokallaða Hafnarfjarðarþrífótar sem var eins konar krani, píramídalagaður gálgi með blökk og handvindu sem fjórir menn gátu komist að samtímis og lyft þannig allþungu grjóti eða dregið á milli staða. Eins og sjá má á hleðslunum hér var grjótinu ekki hrúgað upp heldur lögðu menn metnað í hleðslurnar, jafnvel þótt um ákvæðisvinnu væri að ræða.

Einarsreitur

Einarsreitur – skilti…

Einar Þorgilsson útgerðarmaður lét úbúa saltfiskreiti þennan árið 1913 og var hann stækkaður nokkuð árið 1929 en þá lét Einar jafnframt reisa hér þurrkhús sem var þá eitt það fullkomnasta hér á landi.

Nú hefur mikil íbúðabyggð risið á svæðinu en fiskreitirmir eru friðaðir og þar má finna upplýsingaskilti. Aðrar minjar um starfsemi á svæðinu eru horfnar, m.a. braggar og stríðsminjar frá síðari heimsstyrjöldinni en braggarnir voru síðar notaðir undir fjölbreytta starfsemi.

3 – Mánastígur
Fjölmörg opin svæði eru í Hafnarfirði sem eru ómerkt og gönguleiðir að þeim alveg ómerktar. Þar leynast margar náttúruperlur, ekki síst í hraununum við Álfaskeið og Arnarhraun. Aðgengi að þeim er í raun ágætt og stígar í gegnum þau, en þessir stígar eru heldur hvergi merktir.

Stígur gengur í gegnum hraunið á milli Mánastígs og Klettahrauns.

Eitt þessara svæða liggur á milli Arnarhrauns, Álfaskeiðs og Klettahrauns og er ágætt aðgengi að hrauninu um stíg sem liggur í beinu framhaldi af Mánastíg, en við hann eru aðeins þrjú hús. Hann liggur í gegnum svæðið og inn á Klettahraun.

Þaðan er tilvalið að ganga yfir Smyrlahraunið yfir á Einarsreitinn þar sem finna má minjar um fiskþurrkun.

Hraunið sem er um 1,5 ha að stærð, er að mestu ósnortið og til almenningsafnota þó einhverjir lóðarhafar hafi fikrað sig inn á bæjarlandið með sínar lóðir. Þarna má njóta fjölbreytileika hraunsins og gaman að sjá hvernig trjáplöntur ná að nýta sér sprungur í hrauninu til að dafna. Ef vel er gáð má finna þar hleðslur.

4 – Reykdalsvirkjunin

Reykdalsvikjunin

Reykdalsvirkjunin.

Árið 2001 var stofnaður vinnuhópur til að undirbúa hvernig minnast mætti á eftirminnilegan hátt brautryðjandastarfs Jóhannesar J. Reykdals og 100 ára afmælis rafvæðingar í Hafnarfirði og á Íslandi.

Hópurinn tók sér vinnuheitið Reykdalsfélagið og að frumkvæði þess var ráðist í endurbyggingu Reykdalsvirkjunar, sem upphaflega var gangsett haustið 1906.

Endurbyggingin náði til endurgerðar miðlunarlóns, stíflu og aðveitustokks, auk þess sem byggt var nýtt glerhús sem hýsir hverfil og rafal undir brúnni á Lækjargötu.

Framkvæmdum við endurbygginguna lauk seint árið 2007 og var Reykdalsvirkjun formlega endurræst þann 18. janúar 2008.

Fyrsta almenningsrafveita á Íslandi tók til starfa í Hafnarfirði árið 1904. Rafstöðin var við Austurgötu og í eigu Jóhannesar Reykdal. Vegna mikillar eftirspurnar eftir raforku í bænum árið eftir, var ákveðið að reisa nýja og mun stærri rafstöð við Hörðuvelli. Jóhannes leigði landið af staðarhaldaranum á Görðum en auk stíflunnar lét hann reisa langan vatnsstokk og stöðvarhús með íbúð fyrir stöðvarstjórann og fjölskyldu hans. Hörðuvallahúsið er fyrsta rafstöðvarhús sem reist var á Íslandi.

Reykdalsvirkjunin

Reykdalsvirknunin.

Þessi nýja virkjun var tekin í notkun haustið 1906 og var gerð fyrir 37 kw en vegna vatnsleysis gat hún aldrei framleitt meira en 22 kw. Árið 1909 keypti Hafnarfjarðarbær báðar rafstöðvarnar af Jóhannesi og í kjölfarið var stofnuð Rafljósanefnd. Rafmagnssölunni var þannig háttað á þessum árum að einungis var hægt að fá rafmagn á svokölluðum ljósatíma en hann var frá því er skyggja tók og fram til miðnættis á tímabilinu 15. ágúst til 15. maí. Á öðrum tímum var ekkert rafmagn að fá.

Árið 1914 var vatnsstokkurinn frá stíflunni og niður að stöðvarhúsi orðinn svo lélegur að ákveðið var að stytta hann og rafljósastöðin færð úr íbúðarhúsinu í nýtt hús er stóð mun nær stíflunni.

Fljótlega var ljóst að þessar tvær rafstöðvar nægðu ekki til að veita þá raforku sem Hafnarfjarðarbær þurfti á að halda. Margar leiðir voru skoðaðar en að lokum var brugðið á það ráð að reisa dísilrafstöð við Strandgötu og var það fyrirtækið Nathan & Olsen sem átti og starfrækti þá stöð. Það var árið 1922 sem sú stöð tók til starfa og sá hún bænum vestan lækjar fyrir rafmagni en eldri stöðvarnar sáu um þann hluta bæjarsins sem var sunnan lækjar. Þetta fyrirkomulag stóð stutt því að árið 1923 var neðri rafstöðin lögð niður og þremur árum síðar var svo komið að Hörðuvallastöðin gat ekki lengur séð íbúum sunnan lækjar fyrir nægilegu rafmagni. Var hún þá einnig lögð niður og eftir það sá stöð Nathan Olsen öllum bænum fyrir raforku.

Stöðvarstjórar við Hörðuvallastöðina voru Jón Þórðarson (1906-1908), Þórður Einarsson (1908-1914) og Árni Sigurðsson (1914-1926).

Reykdalsstíflan

Afrakstur Reykdalsstíflunnar fyrrum.

Árið 1901 flutti ungur trésmiður til Hafnarfjarðar, Jóhannes J. Reykdal, en hann hafði þá nýlokið námi í iðn sinni í Danmörku. Til Hafnarfjarðar kom hann í þeim erindagjörðum að stofna hér trésmíðaverksmiðju en hann taldi að Hamarskotslækurinn væri ákjósanlegur aflgjafi fyrir vélar verksmiðjunnar. Í verksmiðju þessari, sem tók til starfa árið 1903, voru átta trésmíðavélar sem allar voru knúnar áfram af fallorku lækjarins. Það var þannig gert að 94 metra langur tréstokkur var reistur og í honum var vatninu veitt í vatnskassa sem áfastur var við húsið. Fallhæð vatnsins í kassanum var tæpir fjórir metrar og í honum var 11 kílóvatta hverfill. Frá hverflinum lá aðalöxullinn inn í kjallarann undir húsinu og þaðan lágu svo reimar upp í gegnum gólfið í tvær hreyfivélar sem aftur knúðu trésmíðavélaranar.

Reykdalsvirkjun

Reykdalsvirkjun endurgerð.

Í frétt Heimskringlu af stofnun verksmiðjunnar sagði meðal annars: „Lækurinn í Hafnarfirði er um aldir og áratugi búinn að renna út í fjarðarbotninn án þess að miðla nokkru af afli sínu mönnum til nytsemdar. Nú er mannshöfnin búin að beizla hann, og er það allrar virðingarvert. Vonandi, að ekki líði langar stundir þangað til hann vinnur fleiri þarfaverkin Hafnfirðingum til þarfa og sóma t.d. að lýsa upp hús og götur þar í bænum.“ Það var einmitt raunin, því árið 1904 keypti Jóhannes níu kílóvatta rafal frá Noregi og tengdi hann við ás nýs hverfils.
Í kjölfarið réð hann Halldór Guðmundsson rafmagnsfræðing, sem þá var nýkominn heim úr námi í Þýzkalandi, til að annast lagningu raflagnanna til húsa í nágrenninu og Árna Sigurðsson, sem síðar varð fyrsti rafvirki landsins, til að sjá um tengingu raflagnanna innanhúss. Í desember 1904 voru svo fyrstu rafljósin kveikt en þá var búið að leggja rafmagn í 16 hús auk fjögurra ljóskera í bænum. Á þess­um tíma bjuggu 1.079 manns í Hafnar­f­irði.

Meðal húsanna sem tengd voru má nefna Góðtemplarahúsið, barnaskólann, trésmíðaverkstæðið og íbúðarhús Jóhannesar Reykdals við Brekkugöötu.

Fljótlega kom upp sú staða að rafstöð þessi náði ekki að sinna þeirri eftirspurn sem myndaðist og var ráðist í að reisa aðra, mun stærri, rafstöð við Hörðuvelli sem tekin var í notkun árið 1906. Trésmíðaverkstæðið seldi Jóhannes tólf Hafnfirðingum árið 19111 en þeir mynduðu sameignarfélag um reksturinn undir nafninu Dvergur, trésmíðaverksmiðja og timburverzlun Hafnarfjarðar, Flygenring & Co. og starfaði hún um áratugaskeið í bænum.

5 – Reykdalsstíflan

Reykdal

Reykdal – minnisvarði.

Fyrsta almenningsrafveita á Íslandi var reist í Hafnarfirði árið 1904. Var það athafnamaðurinn Jóhannes Reykdal sem reisti hana og átti og stóð rafstöðin við Austurgötu.

Fljótlega dugði hún ekki til og reisti Jóhannes þá nýtt stöðvarhús á Hörðuvöllum og stíflu í Hamarskostslæk um 100 m ofar.

Stíflan hefur verið endurgerð á upprunalegum stað og stokkur byggður í stíl við upphaflega stokkinn.

Rafstöð til að minnst frumkvöðulsins var svo byggð undir Lækjargötubrúnni. Sú virkjun er í raun endurgerð Hörðuvalavirkjunar sem tekin var í notkun 1906.

Setbergsbærinn

Setbergsbærinn – tóftir.

6 – Setbergsbærinn gamli
Um aldir hefur verið búið á jörðinni Setbergi við Hafnarfjörð en elstu heimildir um jörðina eru frá árinu 1505. Bærinn stóð ofarlega í Setbergstúninu en túnið lá á móti suðvestri. Upp úr 1770 var bærinn teiknaður upp og var þá hinn reisulegasti enda sýslumannssetur. Minjar Setbergsbæjarins hafa verið friðlýstar.

Til eru sögur um bænahús eða kapellu við Setbergsbæinn og á hún að hafa staðið þar sem nú er „Galdraprestaþúfa“ skammt frá bæjarrústinni. Þar réð meðal annars ríkjum sr. Þorsteinn Björnsson (d. 1675) en eftir hann liggur kvæðasafnið „Noctes Setbergenes“ eða Setbergsnætur sem varðveitt er í Árnasafninu. Kvæðasafn þetta orti hann meðal annars til að „stytta sér hið leiða líf“ eins og hann orðaði það sjálfur. Þorsteinn þessi var, að talið er, rammgöldróttur og lagði hann svo á að ekki mætti hrófla við þessari þúfu án þess að illa færi.

Upplýsingaskilti hefur verið komið upp við rústina.

7 – Stekkjarhraun

Stekkjarhraun

Stekkjarhraun – stekkur.

Stekkjahraun var friðlýst árið 2009 en það liggur á milli Setbergshverfisins og Mosahlíðarinnar. Hraunið þar kom úr Búrfelli fyrir um 8.000 árum eins og stór hluti hraunsins í Hafnarfirði og í Garðabæ sem þekur um 18 km² svæði. Meðfram því liggur Lækjarbotnalækur.

Stekkjarhraun dregur nafn sitt af stekk eða stekkjum frá Hamarskoti og Görðum og má enn sjá leifar þeirra. Í bréfi frá 1670-80 segir, að Hamarskot og Garðar hafi haft þarna stekk.

Stekkjarhraun er í beinu framhaldi af Gráhelluhrauni og hefur hraunið runnið um þröngan farveg milli Setbergshlíðar og Mosahlíðar. Aðgengi að svæðinu er gott og er það því ákjósanlegt til fræðslu og útikennslu. Með friðlýsingunni er einnig verið að vernda votlendisbletti við Lækinn þar sem hann rennur með Stekkjarhrauni, en þar vaxa m.a. horblaðka og starir sem eru fágætar tegundir í þéttbýli.

Rétt hjá er vatnsból, nefnist Lambadrykkur. Vestan undir hrauninu eru hvammar tveir. Nefnast þeir Atkeldan nyrðri og Atkeldan syðri, en frá þeim rennur Atkeldnalækur. At til litunar var tekið á þessum stöðum.

8 – Skotbyrgi á Mógrafarhæð

Mógrafarhæð

Mógrafarhæð – skotbyrgi.

Mógrafarhæð nefnist öxlin sem gengur suðaustur frá hábungu Ásfjalls innan við byggðina í Áslandi 3, í áttina að Bláberjahrygg. Ekki er þó talið að mótekja hafi verið á þessu svæði.

Austarlega í hæðinni er skotbyrgi sem breskir hermenn hlóðu sumarið 1940. Þeir stóðu vaktina með riffla en þar var einnig gervifallbyssu úr gildum trjálurk sem leit út eins fallstykki úr lofti.

Einnig eru skotbyrgi undir Dagmálavörðunni. Þá eru leifar fimm annarra byrgja suðaustar í fjallinu.

Ógreinilegur troðningur er í gegnum lúpínuna frá Skógarási að skotbyrginu og frá skotbyrginu að vörðunni á Ásfjalli.

9 – Varðan á Ásfjalli

Ásfjall

Ásfjall – varðan og hleðslur umhverfis.

Ástjörn og Ásfjall var friðlýst sem fólkvangur árið 1996. Fólkvangurinn umlykur friðland Ástjarnar en Ástjörn og svæðið umhverfis hana var friðlýst árið 1978.

Ásfjallið var lengi sagt lægsta fjall á Íslandi. Það mun þó ekki vera alls kostar rétt því á Austurlandi mun þó finnast fjall sem mælist lægra.

Útsýni af fjallinu er gott og sérstaklega áhugavert fyrir áhugafólk um jarðfræði og sögu höfuðborgarsvæðisins.

Á Ásfjalli eru minjar um hersetu fyrr á öldinni, m.a. eru minjar frá hersetu Breta neðan við vörðuna.

Ásfjall er hæst 127 m.y.s. Það er í raun grágrýtishæð. Ásfjall og Ástjörn bera nafn af bænum Ási, sem stóð undir fjallinu. Fjallið er víðast hulið lausum jarðlögum, en allvel gróið mosa og lyngi. Efst á því er Dagmálavarðan, sem nú hefur verið endurhlaðin.

Dagmálavarðan var fyrst og fremst leiðarmerki á fiskimið, sbr.: „Með hvarfi vörðunnar á Ásfjalli hefði líka horfið eitt ágætt fiskimið. Í endurminningum Erlends Björnssonar á Breiðabólsstöðum kemur fram að Ásvörðuslóð er eitt að þeim miðum sem mest voru sótt fram á Sviði. Önnur mið á Sviðinu heita Sandhali, Marfló, Klettslóð, Bollaslóð og Riddararnir saman. Reyndar talar Erlendur um vörður í Ásfjalli og því virðast þær hafa verið fleiri um aldamótin 1900. En miðið Ásvörðuslóð er þegar Valahnjúkarnir eru um vörður á Ásfjalli.“ Til fróðleiks má nefna að nú er aðeins annar Riddarinn eftir og er hann á Helgafelli.

Ásfjall

Svona leit varðan út árið 2007 eftir að hún hafði verið skemmd.

Rótarýklúbbur Hafnarfjarðar reisti árið 1987 útsýnisskífu á fjallinu, rétt við vörðuna. Með útsýnisskífunni má þekkja fjöll og staði sem fyrir augum ber.

Friðlandið við Ástjörn er 28,5 ha að stærð og var friðlýst 1978. Vegna fuglaverndunar er óheimilt að fara um svæðið frá 1. maí til 15. júlí utan merktra stíga. Bærinn Ás stóð í brekku vestan undir Ásfjalli. Norður frá Ástjörn var býli, sem hét Stekkur. Þar mun hinn gamli stekkur frá Ási hafa verið. Þótt bærinn Ás hafi verið rifinn má enn sjá margar minjar húsa og annarra búsetuleifa.

Varðan á Ásfjalli var eyðilögð 2006 eða 2007 en var reist aftur með leiðsögn frá Byggðasafni Hafnarfjarðar. Mörgum þykir hún þá allt of flöt og ekki lík þeirri sem menn muna eftir fyrrum.

10 – Bleikisteinn

Bleiksteinn

Bleiksteinn.

Á Bleikisteinshálsi, efst á Hamranesi, er Bleikisteinn sem var markavarða jarðanna Hvaleyrar og Áss. Á honum er gróin fuglaþúfa, sem einhverju sinni hefur verið lítil varða á jarðfastri klöppinni.

Hamranesið er í dag að mestu útgrafið en þar var sprengt grjót til að nota við nýjustu hafnargarðana í Hafnarfjarðarhöfn. Útjaðrarnir eru þó eftir sem mynda nesið, og sjá má mikil björg, fagurlega skreytt skófum norðan vert í hálsinum.

Landmælingastólpi er við Bleikstein.

Í örnefnalýsingunni (AG) fyrir Ás segir: „Svo er hár hnúkur syðst á fjalli, sem heitir Vatnshlíðarhnúkur. Vestur af honum hallar fjallinu niður og myndar þar háls, sem nær niður á Hamranesið fyrrnefnda og heitir Bliksteinaháls eða Bleiksteinaháls. Á honum eru tveir steinar ljósir að lit, sem heita Bliksteinar. Þeir eru í hálsinum norðanverðum og eru á merkjum móti Hvaleyri.“

Ofar, á Bleikisteinshálsi, er markavarða í línu að Þormóðshöfða. Þessi varða er nokkrum metrum ofan við endimörk mikils jarðrasks utan í hálsinum.

12 – Krýsuvíkurvegurinn gamli

Krýsuvíkurvegur

Krýsuvíkurvegurinn gamli við Vellina.

„Hinn nýi vegur til Krýsuvíkur, sem nú er í smíðum, hefur vakið mikið umtal, og hefur fyrirtæki þetta að mestu sætt áfellisdómum. Er því einkum borið við, að vegagerð þessi verði vitleysislega dýr, en gagnið af henni óvíst.“ Þetta mátti lesa í ítarlegri grein Árna Óla í Lesbók Morgunblaðsins 21. júlí 1940.

Finna má ummerki gamla Krýsuvíkurvegarinn vestan við göngustíginn að undirgöngunum undir Reykjanesbraut á móts við Bónus. Þar má sjá upphlaðinn veginn með vönduðum hleðslum.

Krýsuvíkurvegur

Hér má sjá hvar vegurinn tengdist yfir á Hvaleyrarholtið. Nútímalegri vegamannvirki á Reykjanesbraut fjær.

Það skal getið að Reykjanesbrautin kom langt á eftir Krýsuvíkurveginum og leiðin út úr Hafnarfirði var um Suðurgötu og það sem nú heitir Suðurbraut.

Fjölmargir ganga fram hjá gamla Krýsuvíkurveginum sem enn hefur ekki verið merktur.

13 – Ljónagryfjan

Ljónagryfjan

Ljónagryfjan.

„Ljónagryfjan” svonefnda myndaðist þegar tekið var stórgrýti vegna hafnarframkvæmda við Suðurgarðinn i Hafnarfirði um 1950.

Fyllt hefur verið upp í gryfjuna og skemmtilegum leikvelli komið fyrir. Aðkoman að gryfjunni var fremst á myndinni.

Á áttunda áratugnum notaði Fiskimjölsverksmiðjan Lýsi & mjöl gryfjuna fyrir loðnuþró, en undir lok áratugsins notaði Hafnarfjarðarbær hana sem geymslu fyrir bílhræ í nokkurn tíma.

Töluvert var um að fólk næði sér í varahluti úr bílhræjunum um leið og það losaði sig við rusl að heiman í gryfjuna. Fyrir rest var gryfjan hreinsuð og síðar fylltu upp að hluta en í dag er þarna leikvöllur og fallegt umhverfi.

14 – Verslunarstaðurinn Fornubúðir

Fornubúðir

Fornubúðir og Slippurinn.

Hafnarfjörður var aðalhöfn Hansakaupmanna hér á landi á ofanverðri 15. öld og alla þá sextándu.

Verslunarbúðir Hansakaupmanna í Hafnarfirði voru á svoköllum Háagranda sem var ysti hluti Hvaleyrargranda. Þar höfðu þeir ríka þörf fyrir varanlegan húsakost enda fjölmennar áhafnir á skipum þeirra, jafnvel um 60 manns á hverju.

Fornubúðir voru á tanga sem náði all frá Hvaleyrarlóni og að þar sem nú er smábátabryggja.

Gísli Sigurðsson skrifaði um Fornubúðir og Hvaleyrartjörn í tímaritið Sögu árið 1963: hann, verzlunarstaðurinn við Hafnarfjörð á miðöldum. Hann er talinn hafa staðið á Hvaleyrargranda, sem líka er nefndur Hafnarfjarðargrandi eða Grandinn við Hafnarfjörð. Þarna er hann talinn hafa staðið, frá því sögur hófust um verzlun og siglingar til Hafnarfjarðar fram til ársins 1677, að verzlunarstaðurinn var fluttur norður yfir fjörðinn, í land Akurgerðis, hjáleigunnar hjá Görðum. Talið er, að færsla þessi hafi átt sér stað sérstaklega vegna þess, að þrengdist um hann af landbroti og sjávargangi.“

Hafnarfjarðarhöfn

Hafnarfjarðarhöfn fyrrum.

Þá segir hann einnig: „.. en það, sem tekur af öll tvímæli um legu verzlunarstaðarins, eru þó ummæli Skarðsár- og Setbergsannála um drukknun þeirra Bjarnastaðafeðga, Ásbjörns Jörinssonar og sona hans. Hann vildi ríða ósinn frá verzlunarstaðnum, e« ósinn var óreiður. Við þekkjum þetta Hafnfirðingar, sem munum ósinn milli Háagranda og óseyrar meðan hann var óheftur. Þá var hann hverjum hesti ófær, með an harðast var í honum útstreymið. Að öllu þessu athuguðu mun því mega f ullyrða, að Fornubúðir, verzlunarstaðurinn við Hafnarfjörð, hafi staðið á Háagranda innst á Grandanum við Hafnarfjörð.“

Hansakaupmenn

Minnismerki um Hansakaupmenn við Hafnarfjarðarhöfn.

Kirkjan sem Hansakaupmenn reistu á Háagranda að talið er 1533 var fyrsta lúterska kirkjan hér á landi og nokkuð vegleg timburkirkja með koparþaki. Að stofnun og byggingu kirkjunnar stóðu bæði kaupmenn og skipstjórar sem lögðu stund á Íslandssiglingar en þeir voru í trúarlegu bræðralagi sem bar nafnið „Die Islandfahrerbrüderschaft“. Var kirkjan notuð til 1603.

Þann 1. júlí 2003 afhjúpuðu forsetar Íslands og Þýskalands minnismerki á Óseyrarbryggju til minningar um fyrstu lúhersku kirkjuna sem reist var á Íslandi fyrir u.þ.b. 400 árum síðan. Það var þýski listamaðurinn Hartmut Wolf sem gerði listaverkið sem myndar táknrænan gotneskan boga úr íslensku grjóti.

15 – Dráttarbrautin

Dröfn

Dröfn- leifar dráttarbrautarinnar.

Skipasmíðastöðin Dröfn var stofnuð árið 1941 en árið 1944 var hafin bygging dráttarbrautarinnar sem tekin var í notkun 1946. Áður hafði helsta skipasmíði í Hafnarfirði verið í Skipasmíðastöð Haraldar Nyborg neðan við þar sem ráðhús bæjarins er núna. Hins vegar mun Bjarni riddari Sivertsen hafa haft sína merku skipasmíðastöð á þessum slóðum, í landi Ófriðarstaða, í upphafi 19. aldar.

Dröfn hf. var lýst gjaldþrota 1995 en síðar eignaðist Vélsmiðja Orms og Víglundar dráttarbrautina en hún hefur ekki verið notum um langt árabil.

Í húsi ofan við Strandgötuna, sem í daglegu tali nefnist Drafnarhúsið, var um langt skeið blómleg iðnaðarstarfsemi. á efri hæðinni rak Dröfn öflugt trésmíðaverkstæði en á neðri hæðinni var byggingarvöruverslun Drafnar. Í hliðarbyggingu, þar sem veitingastaðir eru í dag var járn- og vélaverkstæði sem þjónustaði að mestu skipasmíðina og viðgerðir á skipum. Vestan við dráttarbrautina standa enn smíðaverkstæði skipasmíðastöðvarinnar og nýrra hús sem hýsti minni báta og bátasmíði. Ofan við vélarhús dráttarbrautarinnar var gufuofn þar sem efniviður í trébáta var gufuhitað svo auðveldara væri að aðlaga það að formi bátanna.

Dráttarbrautin

Frá Dráttarbrautinni.

Í viðtali í Þjóðviljanum 1960 sagði hinn merki sögusafnari, Gísli Sigurðsson lögregluþjónn, að í Hafnarfirði væri aðallega hægt að fá mó á þremur stöðum í Hafnarfirði. Það var í Hamarskotsmýrinni meðfram læknum, Sjávarmýrinni, þar sem skipasmíðastöðin Dröfn var síðar en þar var mórinn 18 stungur að dýpt. Þegar dráttarbrautin var byggð þar var tveggja mannhæða rof niður á móhellu.

Heimild:
-https://ratleikur.fjardarfrettir.is/litli-ratleikur-hafnarfjardar/litli-ratleikur-2021/

Setbergsbærinn

Setbergsbærinn – tóftir.

Litli Ratleikur Hafnarfjarðar 2020

Litli Ratleikur Hafnarfjarðar er nýr ratleikur sem fór af stað í miðjum kórónafaraldri árið 2020 og er ætlaður til að hvetja fólk til að njóta útivistar um leið og það lærir um fróðlega staði í útjaðri bæjarins og í bænum sjálfum. Leikurinn er samvinnuverkefni Fjarðarfrétta og Hafnarfjarðarbæjar. Guðni Gíslason lagði leikinn.
Litli Ratleikur er frábrugðinn stóra Ratleik Hafnarfjarðar, engin ratleiksmerki eru á staðnum eða ratleikskort. Hann er einungis á vefnum og hægt er að stunda hann hvenær sem er.
Í Litla Ratleik 2020 eru 15 áhugaverðir staðir. Að þessu sinni:

1 – Útihús við Ástjörn

Ástjörn

Ástjörn – útihús.

S-A Ástjarnar, neðan við klapparhól sem vel sést frá göngustígnum eru rústir útihúss. Svona rústir og ummerki mannvistar er víða að finna í landi Hafnarfjarðar en opinber skráning þeirra er af skornum skammti og nær engar þeirra merktar. Flestar rústir sem enn er að finna eru ummerki um búskaparhætti fyrri alda. Líklegt er að þetta séu rústir útihúss sem tilheyrði bænum Ási sem stóð þarna skammt frá og var rifinn síðla á síðustu öld.

Greinilega má sjá hleðslurnar skammt frá göngustígnum. Hleðslurnar eru neðan við stóran klett við stíginn.

Ástjörn

Útihús við Ástjörn.

Markmiðið er að ganga í kringum Ástjörnina sem er rúmlega 3 km hringur frá bílastæðunum. Til viðbótar má ganga upp að útsýnisskífunni á Ásfjalli að norðanverðu, og ganga eftir öxlinni og koma niður á Skarð, þar sem finna má grjóthlaðinn stekk, og á göngustíginn í kringum Ástjörnina. Allt eru þetta ágætir stígar, misgóðir þó.

Ástjörn

Ástjörn.

Friðlandið við Ástjörn er 28,5 ha að stærð og var friðlýst 1978. Vegna fuglaverndunar er óheimilt að fara um svæðið frá 1. maí til 15. júlí utan merktra stíga. Bærinn Ás stóð í brekku vestan undir Ásfjalli. Norður frá Ástjörn var býli, sem hét Stekkur. Þar mun hinn gamli stekkur frá Ási hafa verið. Þótt bærinn Ás hafi verið rifinn má þar enn sjá margar minjar húsa og annarra búsetuleifa.

Ástjörnin er vogskorin uppistöðutjörn sem myndast hefur í kvos vestan undir Ásfjalli þegar Hellnahraun rann fyrir um 2000 árum og stíflaði afrennsli hennar til sjávar. Í tjörnina renna nokkrir smálækir og er yfirborðsrennslið breytilegt sem hefur þó lítil áhrif á vatnsborðið.

Lífríki tjarnarinnar er fjölbreytilegt og hér er kjörlendi margra fuglategunda því fæðuframboð í tjörninni er mikið. Sést hafa 44 tegundir fugla við tjörnina.

Tjörnin og nánasta umhverfi nýtur friðlýsingar vegna fjölskrúðugs fuglalífs og lífríkis. Þar sem Ásbærinn gamli stóð áður er nú trjáreitur frá því þar var skógræktarstöð og liggur göngustígurinn umhverfis vatnið þar í gegn.

Skammt vestan bæjarstæðisins milli Ásfjallsaxlar og Grísaness er Hádegiskarðið sem ferðalangar gengu um fyrrum er þeir fóru Stórhöfðastíg og Hrauntungustíg til Krýsuvíkur eða Grindavíkur.

Fólkvangurinn Ásfjall og umhverfi Ástjarnar var opnaður 10. maí 1997.

2 – Útsýnisskífa á Ásfjalli

Ásfjall

Ásfjall – útsýnisskífa.

Lengi var talið að Ásfjall væri lægsta fjall á Íslandi. Reyndar er lægra fjall á Austurlandi svo Ásfjall er þá a.m.k. næst lægsta fjall Íslands.

Á Ásfjalli er gott útsýni yfir fallegan fjörðinn og nágrenni og það nýttu sér hermenn á stríðsárunum. Enn má sjá merki eftir byrgi þeirra á fjallinu.

Rótarýklúbbur Hafnarfjarðar reisti árið 1987 útsýnisskífu á fjallinu, rétt við vörðuna sem þar er. Með útsýnisskífunni má þekkja fjöll og staði sem fyrir augum ber.

Markmiðið er að ganga upp á Ásfjallið til að upplifa fallegt útsýnið yfir Hafnarfjörð. Frá útsýnisskífunni má ganga eftir öxlinni til suðurs og koma niður á Skarð og á göngustíginn í kringum Ástjörnina. Slóðinn á fjallinu er greinilegur en grófur.

Friðlandið við Ástjörn er 28,5 ha að stærð og var friðlýst 1978. Vegna fuglaverndunar er óheimilt að fara um svæðið frá 1. maí til 15. júlí utan merktra stíga. Bærinn Ás stóð í brekku vestan undir Ásfjalli. Norður frá Ástjörn var býli, sem hét Stekkur. Þar mun hinn gamli stekkur frá Ási hafa verið. Þótt bærinn Ás hafi verið rifinn má enn sjá margar minjar húsa og annarra búsetuleifa.

Ásfjall

Ásfjallavarða árið 2007.

Varðan á Ásfjalli var eyðilögð snemma á öldinni en var reist aftur með leiðsögn frá Byggðasafni Hafnarfjarðar. Mörgum þykir hún þá allt of flöt og ekki lík þeirri sem menn muna eftir fyrrum.

Ásfjallavarða

Ásfjallavarða árið 2020 og ummerkin umleikis.

Útsýnisskífan á Ásfjalli átti sér langa sögu eins og segir í 50 ára afmælisriti Rótarýklúbbs Hafnarfjarðar. Þegar hún var komin á sinn stað voru fimmtán ár liðin frá því að fyrst var rætt um það í klúbbnum að hann ætti að beita sér fyrir því að koma upp útsýnisskífu á Ásfjalli. Málinu var hreyft öðru hvoru en úr framkvæmdum varð ekki fyrr en árið 1987 að forseti klúbbsins, Steingrímur Atlason, fékk nokkra vaska drengi í lið með sér og verkið var unnið.

Þessir félagar voru auk forsetans: Jón Bergsson, Sigurbjörn Kristinsson, Gísli Guðmundsson, Hjalti Jóhannsson, Einar Ágústsson og Gunnar Hjaltason. Lögðu þeir allir fram góð ráð, mikla vinnu og fagþekkingu án þess að ætlast til launa.

Loks stóðu 14 manns á Ásfjalli við vígslu skífunnar 26. júní 1987 og veðurguðir sáu um hressilega vatnsskírn því að regn bókstaflega hvolfdist úr loftinu.

Vígsluskálina hafði forseti í fórum sínum og þótti mönnum ekki vanþörf á. Þegar menn bergðu á veigunum reyndust þær vera íslensk mysa. Sló þá þögn á mannskapinn!

3 – Ósinn

Ósinn

Bekkur við Ósinn.

Ósinn er heiti á mannvirki sem tengist fráveitu Hafnarfjarðar. Í gegnum þetta mannvirki er skolpi dælt frá stórum hluta bæjarins út í pípu sem liggur undir Hvaleyrina og út í hreinsi- og dælustöð í Hraunavík en þaðan er öllu skolpi dælt langt á haf út eftir að það hefur verið grófhreinsað. Skolpdælistöðvar bæjarins hafa gjörbreytt áhrifum skolpsins við strendurnar frá því sem áður var.

Horft að miðlunartankinum sem hægt er að fara upp á.

Gott að leggja
Leggja má við enda Óseyrarbrautar þar sem hún sveigir til hægri við tanka Atlantsolíu.

Markmið
Markmiðið er að ganga stíginn við Hvaleyrarlónið, upplifa fegurð þess og láta sig dreyma um að sjá alla þá byggð sem var á Hvaleyrinni. Við enda stígsins er Ósinn og upp á mannvirkið eru tröppur sem leiðir gesti að útsýnisstað með bekkjum.

Bekkir leynast uppi á miðlunartankinum.

Fróðleikur
Lang stærstur hluti hafnarsvæðisins er á uppfyllingu og er svæðið sem Ósinn er á það nýjasta og stærsta.

Í 2. kafla Landnámu segir að þar hafi Flóki Vilgerðarson og Herjólfur, bóndi er honum fylgdi, komið að landi fyrir árið 870 og dvalið um stund. „Flókaklöppin“ efst á Hvaleyrarholti er með ýmsum áletrunum, sem sumir telja vera eftir áhöfnina.

4 – Minnisvarði um Hrafna-Flóka
Í Landnámu segir frá því er Hrafna Flóki, Flóki Vilgerðarson, kom til Hafnarfjarðar þar sem hann fann félaga sinn Herjólf, sem hafði orðið viðskila við hann á eftirbát í mynni Faxaflóa. Fann Flóki þar og rekinn hval við eyri og nefndi Hvaleyri.

Var Hrafna-Flóka reistur minnisvarði í vörðuformi hæst uppi á Hvaleyri og var hann vígður í lok Víkingahátíðar 13. júlí 1997. Varðan er úr norsku grjóti og er gjöf frá Norðmönnum til minnis um atburðinn.

Markmiðið er að ganga stíginn við Hvaleyrarlónið, upplifa fegurð þess og láta sig dreyma um að sjá alla þá byggð sem var á Hvaleyrinni. Einnig að kynnast sögunni um Hrafna-Flóka og jafnvel um þá fornu byggð sem var á Hvaleyrinni, Hvaleyri, Sveinskot, Hjörtskot, Hvaleyrarkot, Vesturkot og Halldórskot.

Hrafna-Flóki

Minnisvarða um Hrafna-Flóka á Hvaleyrarholti.

Í Landnámu segir frá því að Flóki hafi upphaflega haldið af stað frá Noregi vestur um haf til að leita lands sem fréttir höfðu borist af. Hann ætlaði að setjast þar að og þess vegna voru með í för fjölskylda hans og frændlið, auk búfénaðar. Af förunautum Flóka eru nefndir þeir Herjólfur, Þórólfur og Faxi. Flóki hafði með sér þrjá hrafna sem hann hafði blótað í Noregi og lét þá vísa sér leið til Íslands. Hann sleppti fyrst einum og flaug sá aftur um stafn í átt til Færeyja, sá næsti flaug í loft upp og aftur til skips en sá þriðji flaug fram um stafn í þá átt sem Flóki og félagar fundu landið. Þeir komu að Horni eystra, síðan sigldu þeir suður og vestur fyrir land og námu land í Vatnsfirði á Barðaströnd. Vatnsfjörður mun hafa verið fullur af fiski og nýbúarnir stunduðu veiðar svo stíft að ekkert varð úr heyskap og öðrum nauðsynlegum undirbúningi fyrir íslenskan vetur. Þess vegna drapst allt kvikféð um veturinn. Vorið var heldur kalt og þá gekk Flóki upp á fjall eitt hátt og sá fyrir norðan fjöllin fjörð, líklega Arnarfjörð, fullan af hafís. Því kölluðu þeir landið Ísland sem það hefur síðan heitið.

Flóki og fylgdarlið hans ákváðu að fara burt og héldu úr Vatnsfirði þegar langt var liðið á sumar. Þeir náðu ekki að sigla fyrir Reykjanes og urðu Flóki og Herjólfur viðskila í mynni Faxaflóa.

Flókaklöpp

Flókaklöpp á Hvaleyri..

Ýmsar minjar er að finna á Hvaleyrinni. Herjólfur kom að landi í Herjólfshöfn en Flóki hafði vetursetu í Borgarfirði. Næsta sumar kom Flóki í Hafnarfjörð og þar fundust þeir Herjólfur.

Menn hafa leitt að því getum að Herjólfshöfn sé Hvaleyrartjörn en hún var höfnin í Hafnarfirði sem fjörðurinn dregur nafn sitt af.

Í Landnámu segir enn fremur: Flóki Vilgerðarson hét víkingur mikill; hann bjóst af Rógalandi að leita Snjólands; þeir lágu í Smjörsundi. Hann fékk að blóti miklu og blótaði hrafna þrjá, þá er honum skyldu leið vísa, því að þá höfðu hafsiglingarmenn engir leiðarstein í þann tíma í Norðurlöndum. Þeir hlóðu þar varða, er blótið hafði verið og kölluðu Flókavarða; það er þar er mætist Hörðaland og Rogaland.

Samskonar varða er í Sveio sem liggur á mótum Hörðalands og Rogaland á vesturströnd Noregs. Varðan sem talin er að hafa verið upprunalega Flókavarðan, var rifin af ókunnum ástæðum á 19. öld. Ný varða var reist þar sem hin stóð og samskonar varða á Hvaleyri sem fyrr er nefnd.

5 – Útsýnisskífan á Hamrinum

Hamarinn

Litlu Ratleiksfrumkvöðlar við útsýnisskífuna á Hamrinum.

Hamarinn, öðru nafni Hamarskotshamar, er eitt af staðareinkennum Hafnarfjarðar. Hann hefur fengið nafnið Austurhamar þar sem hann er hæstur og Vesturhamar, þar sem hann gekk í sjó fram.

Áður fyrr var þessi mikli klettur sem stendur fyrir miðjum fjarðarbotninum nefndur Hamarskotshamar eftir koti sem stóð þar sem Flensborgarskólinn er nú.

Sprengt var úr Vesturhamrinum 1941-1948 og var efnið úr honum notað við gerð Norðurgarðsins í Hafnarfjarðarhöfn. Eru enn ljót ummerki eftir þetta og sést vel frá Flensborgarskóla.

Á austurhamrinum er útsýnisskífa og í góðu skyggni má sjá allan fjallahringinn umhverfis Faxaflóa. Ath. að hádegi á skífunni er sýnt þegar sól er í hásuðri en þar sem við erum bæði um hálfum tíma vestan við tímabeltið auk þess að vera með sumartíma allt árið, er hádegi sýnt um einum og hálfum tíma of snemma á skífunni.

Hamarinn á sér bróður; Setbergshamar (Þórsbergshamar). Á þeim báðum eru jökulminjar, einkum þó á hinum fyrrnefnda. Af Hamrinum er hið ákjósanlegasta útsýni yfir miðhluta bæjarins sem og Hamarskotslækinn.

Hamarinn

Hamarinn.

Ofan Hamarsins eru Öldurnar og niður af Austurhamri er Brekkan með Brekkugötu og Suðurgötu. Svæðið neðan Vesturhamars kallaðist fyrrum einu nafni Undirhamar.

Elsta bergmyndun Hafnarfjarðar og undirstaðan sem allt annað hvílir á er grágrýti, sem er einkennisbergtegundin í Hamrinum. Ætla má að bergið geti verið yngra en 800 þúsund ára. Grágrýtið myndaðist úr hrauni frá eldstöðvum sem voru virkar á hlýskeiði ísaldar og eru yfirleitt komin úr dyngjum. Ekki er vitað úr hvaða eldstöð grágrýtið í Hafnarfirði og umhverfi þess er komið.

Hamarinn er góður staður til að setjast niður og horfa yfir bæinn.

Í klöppunum ofan á Hamrinum sjást jökulrispur, menjar ísaldarjökulsins.

Finna má ummerki á Vesturhamrinum eftir veru hersins í Hafnarfirði í síðari heimsstyrjöldinni.

Í Hamrinum eru sagðar búa álfaverur af „konungakyni”. Hamarinn var friðlýstur sem náttúruvætti árið 1984.

Austurgatan en samt er aldrei talað um austur í Hafnarfirði!

Markmiðið er að ganga á Hamarinn og upplifa hann og útsýnið þaðan. Útsýnisskífan gefur möguleika á að þekkja fjöllin og umhverfið í kring.

6 – Arnarklettur

Arnarklettur

Arnarklettur.

Arnarklettar standa ásamt Krummakletti og Gnípu í grónu hrauni sem markast af Klettahrauni, Arnarhrauni, Sunnuvegi og neðra Álfaskeiði. Jafnframt eru gerði og aðrar mannvistarminjar í kringum klettana. Arnarklettarnir voru tveir; Arnarklettur syðri og Arnarklettur nyrðri. Hlaðin gerði og aðrar mannvistarminjar eru í kringum klettana. Á öðrum Arnarklettanna sem stendur á óbyggðu svæði á horni Arnarhrauns og Álfaskeiðs er merki með nafni klettsins.

Á svæðinu eru hverfisverndarákvæði: „Hverfisvernd tekur til þess að þessum hraunmyndunum og minjum verði ekki raskað“.

Á síðustu tugum nítjándu aldar voru í Gullbringusýslu nokkrir þekktir varpstaðir arnarins, enda bera örnefnin þess merki, s.s. Arnarklettar utanvert við Balatún, Arnarnýpa á Sveifluhálsi, Arnarfell í Krýsuvík og Arnarþúfa í Ögmundarhrauni, auk tveggja Arnarkletta sunnan Stórhöfða og Helgafell í Garðakirkjulandi.

Markmiðið er að upplifa friðuðu hraunin, göngustígana austan og vestan Arnarhrauns. Stígarnir eru ekki merktir sérstaklega en ganga má m.a. inn á þá út úr endum Mánastígs, Þrastahrauns og víðar.

7 – Vindspil

Vindspil

Listaverkið Vindspil.

Listaverkið Vindspil frá árinu 2000 eftir Einar Má Guðvarðarson stendur á malarkambi við bílastæði við enda Langeyrarmala. Verkið heitir ekki aðeins Vindspil heldur er það vindspil og í vindi hljóma úr því fagrir bjölluhljómar. Einar Már bjó og hafði vinnustofu sína í bænum Ljósaklifi en það er bærinn sem er næst Herjólfsgötu. Hann var fæddur í Hafnarfirði 9. febrúar 1954. Hann lést 25. júní 2003.

Í Skerseyrarhrauni, á svæði sem er norð-vestasti hluti Hafnarfjarðar, og markast af Herjólfsgötu, Garðavegi og landamerkjum Hafnarfjarðar og Garðabæjar við Bala, eru fimm gömul bæjarstæði þar sem enn standa hús. Auk Ljósaklifs eru bæirnir Fagrihvammur (Litli bær), Brúsastaðir I og nýbýlið Brúsastaðir II og Sæból sem stendur nyrst. Á milli bæjanna liðast steinhlaðnar götur í hrauninu.

Stifnishólar

Stifnishólar við Brúsastaði.

Hraundranginn utan við bílastæðið nefnist Rauðsnef og hraundrangarnir framan við Brúsastaði nefnast Stifnishólar þar sem sagt er að draugur hafi verið kveðinn niður um aldamótin 1800. Þar sem Brúsastaðir standa stóð áður bærinn Litla-Langeyri.

Langeyri var ævaforn hjáleiga frá Görðum og stóð þar sem Herjólfsgata 30 var en stutt er síðan það hús var rifið og ný fjölbýlishús byggð á lóðinni.

Meðal örnefna við sjóinn eru Brúsastaðavör, Skerseyrarvör og Balavör sem segja okkur að útræði hafi verið þarna áður.

Vindurinn skellir skálunum saman og myndar fallega bjölluhljóma.

Ganga Strandstíginn og Langeyrarmalirnar út með ströndinni að Bala.

8 – Hlaðnar götur

Hlaðnar götur

Gömul hlaðin gata.

Lengst af voru í raun engir afmarkaðir vegir í Hafnarfirði, einungis götur og slóðar. Hús voru byggð þar sem hagkvæmt þótti í hrauninu og milli hraunklettanna mynduðust götur eða troðningar áður en eiginleg gatnagerð hófst. Víða má enn finna leyfar af fyrstu gatnagerðinni, þar sem götur voru einfaldlega hlaðnar upp af hraungrjóti og fylltar með grús og hraunbrotum.

Best er að finna dæmi um slíkar götur við Hjallabrautina, gegnt skátaheimilinu Hraunbyrgi, og að Klettagötu. Þar má sjá hversu hagalega menn hafa hlaðið mjóar götur til að aka fiski á vögnum á stakkstæðin.

Fyrsta eiginlega gatnagerðin var þegar vegur var lagður frá Sjónarhóli, yfir Flatahraun og inn í Engidal.

„Hafnarfjörður var löngum verzlunarstaður án þess að vera svo mikið sem þorp, og hingað lágu koppagötur úr ýmsum áttum yfir hraunin allt til ársins 1873. Að innan lágu Gömlufjarðargötur, troðningar frá túngarðshorni á Hraunsholti að Sjónarhóli, og þaðan niður um Háaklif hjá hliðinu á Hellisgerði. Þar stendur nú hálfbrotinn klettur, Svensensklettur. Kletturinn er kenndur við skipstjóra, Svensen, sem lengi sigldi upp Hafnarfjörð á vegum Knudtzons. Þangað gekk hann til þess að skyggnast til veðurs og gá til skipa. Þá var Kristinn Zimsen verzlunarstjóri hjá Knudtzon hér í Firðinum. Hann gekkst fyrir því, að vegur var lagður frá Sjónarhóli yfir Flatahraun inn í Engidal,” skrifaði Björn Guðmundsson sagnfræðingur 1962.

Markmiðið er að kynnast Hafnarfirði fyrri ára og láta sig dreyma um fólkið á ferðinni með fiskinn á vögnum efir hlöðnum götunum.

Allt umleikis eru grjóthlaðnir garðar og gerði er nýtt voru til heimilisbrúks fyrrum.

Víðistaðir

Víðistaðatún.

Tilvalið er að ganga til baka um Víðistaðatúnið þar sem bærinn Víðistaðir stóð og sláturhús sem margir muna eftir og stóð neðan við þar sem Víðistaðakirkja stendur núna.

Víðistaðatún er stórt opið svæði við Víðistaðakirkju og skátaheimili Hraunbúa. Þar er starfrækt tjaldsvæði frá miðjum maí fram í enda ágúst. Svæðið státar af fjölmörgum listaverkum sem tilvalið er að skoða og börn hafa gaman af að leika sér í. Einnig er þar aparóla, ærslabelgur og kastali sem staðsettur er í nálægð við grillhús. Hann hentar fyrir bæði leik- og grunnskólaaldur. Einnig er þar skógarlundur sem börn hafa gaman af að leika sér í sem og eini tennisvöllur Hafnfirðinga.

9 – Lækjarbotnar

Lækjarbotnar

Lækjarbotnar – stífla.

Lækurinn sem rennur í jaðri Stekkjarhrauns og framhjá Setbergsskóla kemur úr Lækjarbotnum í norðurjaðri Gráhelluhrauns (Lækjarbotnahrauns). Við upptökin eru steinhleðslur undan timburhúsi sem þar stóð um tíma á vatnsþró. Frá húsinu lá svo trépípa niður til bæjarins og var í raun fyrsta alvöru vatnsveita bæjarins frá um 1909. Sjá má vanræktar leifar hennar neðan við hleðslurnar. Skammt neðar er stíflumannvirki, steypt og hlaðið.

Stuttu ofar, í skógarjaðrinum má sjá hvar vatnið kemur undan hrauninu. Rennslið dugði þó ekki á sínum tíma til að anna vatnsþörf bæjarbúa og það varð til þess að árið 1916 fengu þeir Jóhannes Reykdal og Jón Ísleifsson verkfræðingur brjálæðislega hugmynd. Þar sem nægt vatn var í Kaldárbotnum, uppruna Kaldárinnar, var það áhugavert að koma því vatni til bæjarins. En það var löng leið og ekki á færi manna þá að leggja rör eða stokk alla þá leið auk þess sem það var yfir gjá og misgengi að fara. En hvað gera menn þá? Jú, hlaða úr grjóti og smíða tréstokk sem hleypti vatninu um 1,6 km leið yfir hraun og djúpa Lambagjána. Var vatninu sleppt inn á vatnasvæði Lækjarbotna og það var mikil spenna í bænum þegar beðið var eftir því hvort vatnið yfirleitt kæmi fram neðar í hrauninu. Voru margir efins um þessa aðferð, en vatnið kom í ljós um síðir og dugði vatnsveitan úr Kaldárbotnum allt til 1951 þegar ný vatnsleiðsla var lögð úr Kaldárbotnum í Hafnarfjörð.

Lækjarbotnar

Lækjarbotnar – leifar af vatnsleiðslunni.

Hluta af vatnsleiðslunni má enn sjá en mest af henni hefur nú verið eyðilögð.

Því miður grotna minjar um þessa vatnsveitu niður og lítið er gert til að varðveita þessa sögu úti í náttúrunni t.d. með endurgerð hluta stokksins og uppsetningu á fleiri fræðsluskiltum.

Austan við lækinn má finna götu sem liggur alla leið í Selvog en það er hin margkunna Selvogsgata.

Látið ekki hjá liggja að ganga inn í Gráhelluhraunið, þar er góður göngustígur og margt að sjá, ekki síst ef vikið er svolítið frá stígnum.

10 – Hvaleyrarsel

Hvaleyrarsel

Hvaleyrarsel.

Á odda sunnan við Hvaleyrarvatn, þar sem stígurinn skiptist í tvennt, eru tóftir Hvaleyrarsels. Má þar sjá þrjár tóftir og er ein þeirra stærst, eldhús vestast, búr og baðstofa austast. Stekkurinn er skammt vestan við eldhúsið.

Hvaleyrarsel

Hvaleyrarsel.

Þarna átti að hafa gerst hryllilegur atburður um 1880 er smali fann seljastúlku rifna á hol niður við vatnið. Var talið að nykurinn í vatninu hafi leikið stúlkuna svo illa. Um nykur þennan sagði sagan að hann væri annað hvert ár í Hvaleyrarvatni, en hitt árið í Urriðakotsvatni. Sást til hans oftar en einu sinni.

Hvaleyri hafði bæði í seli við Hvaleyrarvatn og um hríð í Kaldárseli.

Önnur selstaða er við Hvaleyrarvatn; Ássel. Það er skammt austan við Hvaleyrarsel, en landamerki Hvaleyrar og Áss lágu um vatnið. Jófríðarstaðir hafði um tíma selstöðu þar sem nú er Húshöfði. Þar við má sjá leifar beitarhúss og stekk selsins skammt norðar.

Ganga umhverfis Hvaleyrarvatn og um skemmtilega stíga í skóginum. Stígar í skóginum eru fjölmargir og vel þess virði að ganga um þá og upplifa raunverulega skógarstemmingu.

11 – Riddaralundur

Riddaralundur

Riddaralundur – setstaður gamalla Hafnarfjarðarskáta.

Frá upphafi skátastarfs á Íslandi var gjarnan farið í skátaútilegur í uppland Hafnarfjarðar og var Kaldársel mjög vinsælt og Helgadalur fyrir 1960. En síðar varð Hvaleyrarvatn áhugavert en þess ber að geta að um 1960 sást þar í umhverfinu varla nokkurt tré. St. Georgsgildið í Hafnarfirði, félag eldri skáta, var stofnað 22. maí 1963 og nýttu félagar þess umhverfi Hvaleyrarvatn til útivistar og útilegu. Fljótt kom áhugi á að byggja skála við vatnið og fékk félagið úthlutað lóð og var skálinn Skátalundur vígður 25. júní 1968.

Um svipað leyti kom skátasveitin Riddarar í Skátafélaginu Hraunbúum sér upp varðeldalaut sunnan við vatnið, á milli Ássels og Hvaleyrarsels. Settu þeir upp bekki í hring úr rafmagnsstaurum og útbjuggu eldstæði í miðjunni en sveitarforingjar þá voru þeir Ólafur Sigurðsson (Óli Sill) og Hermann Sigurðsson. Þarna var þetta undir brekku er hvergi neitt tré var að sjá en fallegur staður og skjólgóður til að sitja í kvöldsólinni.

Á Selfjalli ofan seljanna eru leifar stekks og fjárborgar. Sunnan þess, í norðanverðum Seldal, eru leifar sels.

Riddaralundur

Eldri skátar rifja upp gamla tíma í Riddaralautinni.

Ganga umhverfis Hvaleyrarvatn og stíga í skóginum tekur u.þ.b. 20-30 mínútur. Stígar í skóginum eru fjölmargir og mislangir en vel þess virði að ganga um þá og upplifa skógarstemmingu á hinum ólíku árstíðum.

12 – Ássel

Ássel

Ássel.

Flestir ganga greiðfæra stíginn í kringum Hvaleyrarvatn án þess að átta sig á því að þarna leynast minjar mannvistar frá fyrri öldum.

Sunnan við Hvaleyrarvatn, skammt frá skátaskálanum Skátalundi, undir Selhöfða, eru tóftir tveggja selja, Ássels og Hvaleyrarsels.

Niður undir landi skátanna, á grónum hól eru tóftir sels sem talið er að hafa verið frá bænum Ási sem stóð við Ástjörnina, undir Ásfjallinu. Þetta er sel frá því um 1900 er Jófríðarstaðir og Ás skiptu með sér aðstöðunni við norðaustanvert vatnið

Á Íslandi var seljabúskapur stundaður frá landnámi fram á 19. öld en var á undanhaldi ofanvert á 18. öld eða jafnvel fyrr. Í seljabúskap voru mjólkandi skepnur, aðallega ær en í einhverjum tilvikum kýr, reknar í sel snemma sumars og hafðar á beit þar yfir sumarmánuðina, frá 6. til 16. viku sumars. Samkvæmt ritheimildum var dæmigert að sel skiptust í þrjá hluta: íveruhús, búr og eldhús. Utandyra voru yfirleitt stekkir eða kvíar skammt frá, afgirt svæði þar sem hægt var að mjólka skepnurnar.

Selstöðurnar voru jafnan við vötn, ár, læki eða náttúrleg vatnsstæði.

Ganga umhverfis Hvaleyrarvatn og stíga í skóginum. Stígar í skóginum eru fjölmargir og vel þess virði að ganga um þá og upplifa skógarstemminguna.

13 – Beitarhús

Beitarhús

Beitarhús í Húshöfða.

Aðsetur Skógræktarfélags Hafnarfjarðar er á Húshöfða og skógurinn sem þar hefur verið myndaður nú kallaður Höfðaskógur.

Næst Kaldárselsvegi er þjónustubygging en suðvestar á svæðinu, á Beitarhúsahálsi, er skáli félagsins, skammt frá trjásýnilundi sem vígður var á 50 ára afmæli félagsins.

Sunnan skálans er nokkuð stór tóft (tótt) í hlíðinni. Það er rúst beitarhúss, Veturhúss, frá Jófríðarstöðum en Jófríðarstaðasel varð að beitarhúsi þegar selfarir lögðust af. Sjá má tóftir selsins skammt norðan við beitarhúsið.

Er talið að selið hafi síðast verið notað árið 1922 frá Ási.

Skammt fá tóftinni er útikennslustofa félagsins. Þetta er einfalt skýli með bekkjum inn á milli trjánna. Kennslustofan var útbúin að tilstuðlan hjónanna Harðar Zóphaníassonar og Ásthildar Ólafsdóttur sem gáfu félaginu peningagjöf á 60 ára afmæli þess í því skyni að efla áhuga skólabarna á skógrækt.

Allt umleikis eru fræðslustígar um hin ólíklegustu trjádæmi og plöntur.

Fleiri tóftir, m.a. af seli frá Jófríðarstöðum, eru á svæðinu, en þessi er þeirra stærst.

Ganga um skógarstíga og umhverfi Hvaleyrarvatns. Stígar í skóginum eru fjölmargir og vel þess virði að ganga um þá, skoða trjásýnisafnið, rósagarðinn og bara upplifa alvöru skógarstemmingu.

14 – Fuglstapaþúfa

Fuglastapaþúfa

Fuglastapaþúfa.

Fuglstapaþúfa er við Þúfubarð á Hvaleyrarholti en gatan er kennd við þúfuna.

Svæðið, sem hún er á, hefur verið látið óhreyft er segir nokkuð til um vægi þess í hugum fólks þegar hverfið var að byggjast upp. Ábúendur í nágrenninu fylgdust með því er farfuglarnir komu í holtið á vorin eða hópuðust saman við þúfuna á haustin á leið þeirra til baka.

Í deiliskipulagi er hverfisvernd skilgreind á svæði milli Kelduhvamms og Þúfubarðs, Fuglstapaþúfu sem skal vera opið og óraskað svæði. Þúfurnar voru á jökulsorfnum klöppum, syðri þúfa við Þúfubarð og nyrðri þúfan við olíutanka norðan Melabrautar.

„Innan hverfisverndar má hvorki raska landslagi né gróðri og eru allar framkvæmdir háðar framkvæmdaleyfi“.

Fuglstapaþúfa er landamerki milli Hvaleyrar og Ófriðarstaðalanda.

Þann 22. nóv. 1907 var ákveðið í 1. grein laga um bæjarstjórn Hafnarfjarðar að takmörk kaupstaðarins yrðu sem hér segir:

„Úr sjó Arnarklettar utanvert við Balatún [varða], sjónhending eftir takmörkum Hafnarfjarðarhrauns og Dysjamýrar, þar til kemur á hinn forna veg frá Görðum til Reykjavíkur [varða]. Eftir þeim vegi í Engidal [varða]. Þaðan eftir nyrðri brún Hafnarfjarðarhrauns, þar til kemur móts við austurhorn Hraunsholtstúns. Þaðan bein stefna yfir neðanverðan Kaplakrika í vörðu á háholtinu fyrir ofan Jófríðarstaði, þaðan yfir í Fuglastapaþúfu efri beina leið í sjó fram. Kaupstaðurinn skal skyldur til að setja nægilega mörg varanleg merki, er sýni greinilega takmörk landsins, og viðhalda þeim.“

Víða um bæinn eru óröskuð svæði eða svæði sem eiga sér sögu sem vert er að minnast og er Fuglstapaþúfa og ÓlaRunstúnið gott dæmi um slík svæði. Auða lóðin þar sem Fuglstapaþúfan er, var á sjöunda áratugnum vinsælt leiksvæði barna í hverfinu og þarna voru byggðir kofar og var þarna mikið líf. ÓlaRunstúnið var einnig gríðarlega vinsælt meðal barna í svæðinu sem léku þar fótbolta á sumrin og renndu sér á sleðum og skíðum á vetrum. Var vera barna á túninu ekki alltaf vinsæl því Ólafur Runólfsson heyjaði túnið og það jók ekki á sprettuna að strákar væru þar að hamast í fótbolta.

15 – Jófríðarstaðir

Jófríðarstaðir

Jófríðarstaðir.

Bærinn Jófríðarstaðir suður á Hamrinum hét áður Ófriðarstaðir, nefndur í heimildum frá 1595 sem sérstakur bær og var þá konungsjörð. Er talið að nafnið Ófriðarstaðir hafi komið til eftir bardaga milli enskra kaupmanna og Hansakaupmanna um yfirráð mikilvægrar verslunar í Hafnarfirði.

Árið 1816 er þetta land, allt sunnan frá Bruna (Hafnarfjarðarmegin við Straum) og allt vestur að Fiskakletti í Hafnarfirði komið í eigu Bjarna riddara Sívertsens.

Jófríðarstaðir

Jófríðarstaðir fyrrum – tilgáta.

Á árunum 1921 og 1922 keypti Kaþólska trúboðið á Íslandi jörðina Jófríðarstaði. Jófríðarstaðir voru ein af þeim fjórum bújörðum sem Hafnarfjarðarkaupstaður stóð á. Örnefnaskráning Hafnarfjarðar fyrrum var grundvölluð á jörðinni. Hinar voru Akurgerði, Hamarskot og Hvaleyri.

St. Jósefsskirkja, sem vígð var 3. júlí 1993, stendur rétt við efsta hluta Jófríðarstaða en töluvert graslendi er í kringum kirkjuna. Hugmyndir voru uppi fyrir all nokkrum árum að byggja á túninu en mikil andmæli íbúa urðu til þess að svo varð ekki – að sinni. Víðsýnt er frá Jófríðarstaðaholtinu.

Markmiðið er að njóta fallegra staða, útsýnisins yfir Hafnarfjörðin fyrrum, kynnast sögunni og hreyfa sig svolítið í leiðinni. Hafnarfjarðarbær leggur áherslu á góða heilsu bæjarbúa og gesta þeirra.

Heimild:
-https://ratleikur.fjardarfrettir.is/litli-ratleikur-hafnarfjardar/litli-ratleikur-2020/

Skólpstöðin

Óseyri – Skólpstöðin.

Hafnarfjörður

Í desembermánuði s.l. (2020) var haldin yfirlitssýning í Hafnarborg á verkum í eigu safnsins. Í raun segir eftirfarandi textaspjald allt sem segja þarf.

Hafnarfjörður

HÉR má sjá nokkur verkanna, sem voru á sýningunni að framangreindu tilefni.

Þorbjarnastaðir

Vegna tvöföldunar Reykjanesbrautar hafa verið gerðar a.m.k. þrjár yfirgripsmiklar skýrslur um fornleifaskráningar í nálægð við vegarstæðið.
Fyrsta skýrslan var gerð 2002 vegna fyrirhugaðrar tilfærslu á vegarstæði Reykjanesbrautar til suðurs á svæði sem nær frá því á móts við bæinn Ás í Hafnarfirði, suður fyrir kirkjugarðinn og að Lækjargötu.
Fyrir lá svæðisskráning fornleifa í Hafnarfirði frá árinu 1998. Náði svæðið sem kannað var yfir land fjögurra gamlla bújarða þ.e Setbergs, Ófriðarstaða (Jófríðarstaða), Hamarskots og Áss.
Önnur skýrslan, frá árinu 2000, var vegna tvöföldunar Reykjanesbrautar, byrjar í Keflavík á svæði sem náði frá hringtorgi við Leifsstöð og að Hafnarfjarðarbæ, og birtust niðurstöður hennar í skýrslu sem kom út vorið 2001.
Þriðja skýrslan, frá árinu 2020, var um kaflann frá Hvassahrauni að Krýsuvíkurvegi (Hvaleyri).

Hér á eftir eru dregnar út áhugaverðar upplýsingar um jarðir og fornleifar á kafla Reykjanesbrautar frá Keflavík í Hafnarfjörð. Hafa ber í huga að taka þarf sumt það, sem fram kemur í skýrslunum, með hæfilegum fyrirvara.

Fyrri rannsóknir
Fyrir utan uppgröft á kapellu í Kapelluhrauni árið 1950 hafa engar skipulegar fornleifarannsóknir verið gerðar á skráningarsvæðinu. Miklum heimildum um fornleifar var þó safnað um og eftir miðja 20. öld við skráningu örnefna en örnefnalýsingar eru til af öllu svæðinu. Þá skráði Þjóðminjasafn Íslands fornleifar í landi Hafnarfjarðarkaupstaðar á árunum 1987-90 og loks gerði Fornleifastofnun svæðisskráningu í Hafnarfirði 1998 og bættust þá allnokkrir staðir við fyrri skráningu, einkum staðir sem ekki eru sýnilegir á yfirborði. Þessar skráningar virðast nú óaðgengilegar.

Ófriðarstaðir – býli

Jarðarinnar er fyrst getið árið 1541. DI X, 598. 1563: Jörðin 10 hndr. DI Safn I, 131-2. 1804 var jörðin 9 hndr og 36 álnir og kaupir Bjarni Sívertssen þá jörðina. SS: Saga Hafnarfjarðar, 61. 1847: 12 1/3 hndr. Nafn jarðarinnar breyttist á 19. öld í Jófríðarstaði. Ekki er ljóst af hverju jörðin dregur nafn, gæti verið af bardaga sem þar hafi átt sér stað en SS telur nafnið stafa af því að þar hafi verið allra veðra von. Hannes Þorsteinsson telur að nafnið Jófríðarstaðir sem fyrst kemur fram árið 1868 hafi vrið leiðréttingartilraun en Ófriðarstaðir sé réttnefni. Árbók 1923, 31. Mörg smábýli voru stofnuð í landi Ófriðarstaða, þeim hluta þess sem firmað Jensen og Schmidt seldi Steingrími Jónssyni og Árna Hildibrandssyni árið 1848 og seinna fékk nafnið Hamar. Hafnarfj. keypti jörðina Hamar 1915. Samkvæmt sögu Hafnarfjarðar voru öll nýbýlin suðaustan við Hafnarfjarðarbotn öll byggð úr landi Ófriðarstaða [eða Hamars].

1703 voru engar engjar á jörðinni. Túnakort er ekki til.

„Ófriðastaðabær stóð í svolitlum slakka austur af Ófriðarstaðahól. Vestan bæjarins stóð Ófriðarstaðahúsið, eftir að þar var reist, og tvíbýli varð á jörðinni 1885.“ Kaþólska kirkjan stendur nú í Ófriðarstaðatúni, fast sunnan við gamla bæjarstæðið. Tvær tóftir útihúsa sjást enn vestast í túninu ásamt því að leifar túngarðs eru meðfram suðurjaðri að hluta.

Dagmálavarða – eyktarmark
„Norður undir Moshlíð, þar sem kirkjugarðurinn er nú, heita Öldur. Á Moshlíð stóð Dagmálavarða, nú rifin og ekki eftir af henni tangur né tetur.“ Uppi í Mosahlíð, um 100 m suður af kirkjugarðinum og um 25 m norður af fyrirhugaðri veglínu fyrirhugaðrar Ásbrautar, eru mikið signar og grónar leifar af vörðu. Er mögulegt að um sé að ræða leifar Dagmálavörðu.
Stórgrýtt melholt.
Er fremur lítið eftir af vörðunni og það litla sem eftir er er gróið og sigið saman.

Hamarskot – býli

Hamarskot

Hamarskot fyrrum – tilgáta.

Garðakirkjueign. Þetta er að einhverju leyti sama jörð og konungsjörðin Akurgerði sem seld var 1804, þá í eyði. Kaupstaðurinn í Hafnarfirði mun hafa byggst í landi Akurgerðis, en þar varð eigi aflað heys 1803 vegna þess að verslunarhúsin stóðu á slægjulandinu. 1553 er jörðin senilega nefnd í fógetareikningum. DI XII, 577, sbr. 795. 1579: Minnst á jörðina í sambandi við landamerkjadeilur H og Setbergs. 1703 er jarðadýrleiki óviss, Garðakirkjueign. 1847: „Prestur nefnir Flensborg, en þar eð verzlunarstaður þessi eigi sést að hafi grasnyt, sem virt varð til dýrleika 1803, hefir sýslumaður, líklega af góðum rökum, sleppt honum í skýrslu sinni. Af sömu ástæðu mun sýslumaður og hafa sleppt verzlunarstaðnum Hafnarfirði, sem A.M. segir að stadni á Akurgerði (fyrrum hjáleigu frá Görðum), og telur þar 60 al. 1sk. 1 kúg, en jb. 1803 segir, að þar verði eigi aflaðs heys, því eina slægjulandið sé þar sem verzlunarhúsið standi.“ JJ 1847, 92.
Jörðin keypt af hafn. árið 1912 að undanskildu Hamarskotstúni innan girðinar og Undirhamarkotstúnbletti.
1703 voru engar engjar á jörðinni. Túnakort ekki til. „Túni liggur í slakka ofan, norðan frá Hamrinum, sem gengið hefur undir nöfnunum Hamarskotshamar eða Hafnafjarðarhamar.“ Ö-Hamarskot, 1
„Hamarskotsbærinn stóð á Hamarskotstúni vesturlega, rétt ofan til við Hamarskotshól.“ Bærinn stóð á svipuðum slóðum og nú er norðurendi Brekkugötu.

Öldugata – leið

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður – örnefni (ÓSÁ).

„Austan við Hamarinn láu götutroðningar nafnlaustir upp á Öldur, þar voru melar og rofabörð suður eftir. Syðstu börðin nefndust Hvíldarbörð.“ Líklegt er að götutroðningar þessir hafi verið þar sem u.þ.b. þar sem Öldugatan liggur nú.

Hvíldarbarð – örnefni/áfangastaður
„Austan við Hamarinn láu götutroðningar nafnlaustir upp á Öldur, þar voru melar og rofabörð suður eftir. Syðstu börðin nefndust Hvíldarbörð.“Öldur nefnist það svæði þar sem kirkjugarður Hafnfirðinga er nú. Ekki er ljóst hvar hvíldarbörð munu nákvæmlega hafa verið, en þar sem þau voru á svipuðum slóðum og kirkjugarðurinn er nú. Í kringum miðja 20. öld upphófst talsverð matjurtagarðrækt á þessu svæði og sjást leifar hlaðinna garðveggja víða í kringum kirjugarðinn, sem og leifar kofabygginga er þeim tengdust.

Þjóðsaga – draugur
„Austan við Hamarinn láu götutroðningar nafnlaustir upp á Öldur, þar voru melar og rofabörð suður eftir. Syðstu börðin nefndust Hvíldarbörð. Fram undir 1910 hafðist við á Öldunum og í börðunum útburður. Var barn borið út í tjarnir neðan Setberg og færðist upp þangað.“ Öldur nefnist það svæði þar sem kirkjugarður Hafnfirðinga er nú.

Mosahlíðarvarða – landamerki
„Hér kom Selvogsgatan og lá inn á Mosahlíð, en þar var í eina tíð Mosahlíðarvarða, landamerki milli Hamarskots og Ófriðarstaða.“

Setberg – býli

Setberg

Setberg – túnakort 1918.

1505: „var þad setberg fyrir svnnan land vid hafnarfiord. ok þar med ij. kvgilldi edvr iij huortt ed uæri. iij uættir smiors vr holom. leigur fra haugatungu vppa .iij. ar. var þetta allz .x. vætter. sagdist grimr hafa likt þoruardi adr .xxxiiij. kugilldi. heyrdum vær þa aunguan aaskilnad þessara þratt greindra manna. helldr kom þeim alltt uel samann suo uær heyrdum.“ DI VII, 797. 1523: var Tómas Jónsson kvittaður af jörðinni Setbergi af Pétri og Halli Björnssonum. Þá voru landamerkin: „Vr midium kietheller og i stein [þan er stendur i fremsta tiorn ) hollte. vr honum og i Hellv þa er stendur i lambhaga. þadan og i [nedstu jardbru). so epter þui sem lækurinn af skier [j tungards endan. þadan i silungahellu. so þadan og i þufuna sem sudur a holltenu stendur. vr henne og i midian kietheller. hier ad auk a Garda stadur tolf hesta [Reidings ristu ) i setbergs lande. en opt nefnt setbergs budarstödu vid skipaklett i garda lande.“ DI IX, 146. 1658, selur Tómar Björnsson sr. Þorsteini Björnssyni 8 hndr. í Setbergi. 1664 setur Tómar Björnsson fógetanum 8 hndr í Setbergi. 1665 eignast Guðrún Björnsdóttir 8 hndr í Setbergi. Jarðabréf, 15. 16 hndr 1703. 1912 keypti Hafnarfjörður Setbergsland allt til Lækjarbotna. „Samkvæmt dómi frá 5. des 1924 eru landamerki milli Setbergs og þess hluta Garðakirkjulands, sem með lögum nr. 13, 1912 var selt Hafnarfjarðarkaupsstað, sem hér segir: „Úr neðstu jarðabrú í Kaplakrika eftir Kaplalæk í hraunjaðrinn beint vetur af þeim steað þeim, þar sem Kaplalæk er nú veitt úr eldri farveg sínum, rétt norðan við Baggalágar vestur af Setbergslandi, þaðan beina línu í stíflugarð rafstöðvartjarnarinnar, þá eftir garðinum og úr honum beint í markþúfu suður og uppi á holtinu þaðan í upptök lækjar þess, serm Hafnarfjarðarkaupstaður fær neyzluvatn sitt úr, þá i Gráhellu og þaðan í miðjan Ketshelli. …“ SS: Saga Hafnarfjarðar, 432nm. „Lönd jarðanna Þórbergs, Setbergs og Hlébergs, sem eru innan lögsagnarumdæmis Hafnarfjarðarkaupstaðar, mun Hafnarfjarfjarðarbær eignst innan tíu ára, sbr. samning við landeigendur, dagsettan í júlí 1980.“ ÁG: Saga Hafnarfjarðar 1908-1983 I, 122

Setberg

Upplýsingaskilti við Setbergsrústina.

„Setbergsbær stóð í Setbergstúni ofarlega nokkuð og lá túnið mót suðvestri.“ „U.þ.b. 20 m austan við hlöðu/fjós.“ Sjást rústir gamla Setbergsbæjarins enn. Um 1772 var bærinn á S teiknaður upp og þótti mjög reisulegur, enda sýslumannsbústaður. „Lágur bæjarhóll (0,3-1 m). Austurhlið = 47, vesturhlið = 43 m, norðurhlið = 19,4 m suðurhlið = 19,6 m. Í norðurhluta bæjarstæðisins hefur verið kartöflu/lkálgarður, einnig í suð-austurhlutanum. Kartöflugeymsla hefur verið byggð við vesturenda syðri garðsins. Þar suðruaf er um 2 m djúp hola 3×2 m að stærð. Veggir bæjarins voru ógreinilegir að frátöldum löngum vegg er la frá N-S u.þ.b. í miðjum hólnum. Örlítinn hæðarmismun má greina líkt og hryggi frá A-V vestan við þennan langvegg. Við SV horn bæjarstæðisins er rúnaður steinn um 100×50 cm að ofanmáli. Steinn þessi er þakin járnfleinum að ofan. Júlíus Lárusson segir að þegar hann gerði kartöflugeymsluna hafi mikið af járni komið upp og taldi hann víst að þarna hefði verið smiðja. Steinninn með járnnöglunum eða fleinunum er við sama enda rústanna og kartöflugeymslan.“

Keflavík – býli

Keflavík

Keflavík – túnakort 1919.

Ekkert fyrirsvar 1703, konungseign. „Og víst er að hingað hafa erlendir kaupmenn sótt um langan aldur, snemma á 16. öld er getið um Þjóðverja í Keflavík og einnig er vitað til, að hér hafi enskir verið á ferð. … Keflavíkurjarðarinnar er fyrst getið í jarðamatsbókum árið 1597 og er eiginleg ábúð hér því ekki gömul. … Enn fyrr höfðu Hrúðunes og Keflavík byggst úr landi Hólms. BG:Saga Keflavíkur 1766-1890, 11
1703: „Engjar öngvar“ JÁM III, 106 „Heimaland Keflavíkur er talið naumlega einn kýrvöllur og jörðin á úthaga í betra lagi, en engar engjar. Einnig fylgja henni nokkur hlunnindi …“ Á 18. öld stækkaði Jakobæus tún jarðarinnar um meira en helming. BG: Saga Keflavíkur 1766-1890, 11, 43

Rósuselstjarnir [Róselstjarnir] – sel

Rósel

Rósel.

„Svo er þar uppi í heiðinni Rósuselstjarnir og Keflavíkurborg,“ segir í örnefnaskrá AG „Um nafngift vatnanna er það helzt að segja að það felur í sér að þar hefur verið sel. Segir frá því í hinum óprentaða hluta Suðurnesjaannáls Sigurðar Sívertssen að Stóri-Hólmur í Leiru hafi haft þar í seli til forna líklega á 18. öld og fyrr. Mér vitanlega eru engar rústir sjáanlegar af kofum á staðnum en vera má að þær leynist innanum þúfur og steina sem þar eru á víð og dreif.
Rósuselsvötn eru vestur af Keflavík.“ segir í viðbótum við örnefnaskrá. Rósuselstjarnir eru vestan við Keflavík en austan við Reykjanesbraut. Norðaustan við tjarnirnar er þúst sem líkist mannvistarleifum. Þústin er 350-400 m austan Reykjanesbrautar en um 10 m norðaustan við tjarnirnar.
Við norðaustur horn tjarnanna er þýft en gróið svæði.
Á þessum stað er nokkuð þýft. Greina má mjög óljósar leifar tóftar/þústar sem er nærri alveg hrunin og sigin. Þústin sker sig ekki mikið úr umhverfinu en þó er lögun hennar of regluleg til að um náttúrumyndun sé að ræða.

Mótekja – mógrafir
Mór var tekinn við Rósuselsvötn, sjá 005, síðast í fyrra stríði segir í viðbótum við örnefnaskrá. Rósuselsvötn eru vestan við Keflavík.
Mjög þýft og rakt er umhverfis vötnin en ekki er hægt að koma auga á einn, ákveðin stað þar sem mógrafir hafa verið. Dældir eru hér og hvar en skýrar mógrafir eru ekki greinilegar.

Ytri-Njarðvík – býli

Ytri-Njarðvík

Ytri-Njarðvík – túnakort 1919.

1703: Jarðadýrleiki óviss, konungseign. JÁM III, 107. Hjáleigur 1703: Miðkot, Garðhús, Bolafótur og ein nafnlaus í byggð, en í eyði voru Svíri, Vindás og Hjallatún einnig Fitjakot en ekki er vitað hvort þar var hjáleiga. JÁM III, 107-111. Hjáleigur í byggð 1847: Höskuldarkot, Helgukot, Þórukot, Bolafótur og Narfakot. JJ, 89. 1767 var jörðin byggð kaupmanninum í Keflavík.
1703: „Túnin brýtur sjór að framanverðu so að í næstu seytján ár hefur tvisvar fyrir nauðsynja sakir orðið að færa.
Engjar eru öngvar.“ JÁM III, 108-109. 1919: Tún 2,93 teigar, garðar 1640m2.

Fitjakot – býli

Njarðvík

Njarðvík – Áki Grenz

1703: „Fitiakot, forn eyðijörð, og vita menn ekki hvað lengi í auðn legið hefur, eru þar lítil merki fornra girðinga, en almenn sögn að býli verið hafi. Liggur eyðijörð þessi á merkjum þeim að nú eigna sjer hvorutveggju Njarðvíkur ytri og innri. og gánga landamerki sem nú er kölluð, sjóndeiling yfir það sem þessi jörð skyldi átt hafa. Brúka hvorutveggju Njarðvíkur landið nú misgreiningarlaust og Narfakot ásamt þeim beitina. Halda menn að þessa jörð hafi mest í eyði lagt þjóðbraut almennileg yfir þessar Fitjar, sem uppetur grasnautn og haglendið alt, sem vegfarandi sveitarfólk, það er að norðan og austan sækir, næring sína í Hafnir, á Stafnes, Rosmhvalanes og Garð allan, og kunna ómögulega þessa áfangastaðar missa. Er og fyrir þessa grein jörðin aldeiliss óbyggjandi. Þar með brýtur sjór á landið að framanverðu stórkostlega ósa, og vatnsrás að ofanverðu með aur og grjóti gjörir stóran skaða.“
Í örnefnaskrá segir frá Fitjagranda sem er á landamerkjum Ytri- og Innri-Njarðvíkur, malarkambur fyrir botni Njarðvíkur. Merki lágu úr skerinu í Njarðvík og upp á Grænaás í vörðu sem þar var. Á þessum stað eru smátjarnir, Fitjar en lögun þeirra hefur breyst mikið á undanförnum árum. Engin merki sjást um býli nú en það hefur vísast legið norðan Fitjanna suðaustan við þar sem nú er steypustöð. Grýttur fjörukambur og sléttlendi þar upp af.

Grænásvarða – varða/landamerki
„Merkin eru hér milli Njarðvíkanna úr miðju merkiskeri beint í vörðu á Grænás, sem heitir Grænásvarða. Nú er varða þessi horfin.“ segir í örnefnaskrá. Á Grænás hefur nú risið íbúðahverfi. Grænásvarðan hefur líklega verið um 200 m neðan við 3 blokkir sem standa á há-ásnum. Ásinn er í beina stefnu á sker úti á Njarðvík sem markaði landamerkin.
Vörðustæðið er um 180-190 m ofan við Njarðarbraut. Grýtt en gróið holt.

Stekkjarkot – býli

Njarðvík

Innri Njarðvík – Áki Grenz.

„Í Narfakotsseylu var Stekkjarkotsvör. … Þá er Stekkjarkotsáli, leysingarvatn. Stekkjarkot var rétt við veginn, en neðan við hann.“ segir í örnefnaskrá. „Við austurenda Fitjagranda er frárennsli úr tjörnum, sem eru ofan við grandann og nefnist það Stekkjarkotssíki og ber nafn af bænum Stekkjarkoti, sem stóð u.þ.b. þrettán hundrað metrum ofar og austar, skammt neðan við þjóðveginn. Þar var síðast búið fyrir þrjátíu og fjórum árum (1927), og eru þar nú bæjartættur og garðrústir eftir.“ segir í örnefnaskrá GF. Bærinn var um 110-120 m norðan við Njarðarbraut en um 350-400 m norðan við Reykjanesbraut. Á þessum stað er nú torfbær sem notaður er fyrir ferðamenn og í honum veitingarekstur. Bærinn er úr torfi og grjóti og var byggður á grunni þess eldra. Garðlag var umhverfis Stekkjarkotið og hefur það einnig verið byggt upp. Umhverfis bygginguna er sléttað gras að túngarðinum. Bærinn er lítill, með timburþili. Umhverfis hann er garðlag úr grjóti og torfi. Bærinn var mjög nýlega byggður upp.

Skjólgarður [Krossgarður] – fjárskýli

Stóri-krossgarður

Stóri-krossgarður.

„Beint upp af Njarðvíkum í suðaustur eru Löngubrekkur… Innst á Löngubrekkum heitir Löngubrekkuendi. Þar á er stór varða, beint upp af Skjólgarði. … StóriSkjólgarður er fyrr nefndur, uppi á hæð, hlaðinn í kross og er norðvestur af Löngubrekkum.“ segir í örnefnaskrá. Skjólgarður er á hæð sem er um 120 m sunnan við Reykjanesbraut og um 3,7-3,8 km vestan við afleggjarann að Grindavík. Tóftin sést frá Reykjanesbraut. Hún er um 300 m vestan við þar sem 1,5 m háir steyptir stöplar eru sitt hvoru megin Reykjanesbrautar (en þar liggur fremur ógreinilegur slóði til suðurs frá brautinni).
Hleðslurnar eru á hæð sem er greinileg frá Reykjanesbraut. Þær eru á grýttu holti sem er þó gróið mosa og grasi. „Stóri-Skjólgarður, grjóthlaðinn krossgarður rétt sunnan Suðurnesjavegar, suð-austur frá Innri-Njarðvík. … Garðinn hlóð Helgi Jónsson sterki er var húsmaður Þorkels lögréttumanns Jónssonar.“ Skjólgarðurinn er hlaðinn í kross og er úr stórgrýti. Hann er 15-16 m á hvorn veg. Á 2 stöðum hefur síðar, að því er virðist, verið hlaðið út frá honum eða hann hrunið. Um 3 m suðaustan við syðsta arminn er steyptur stöpull sem er 1,5 m á hæð.

Herminjar
Herminjar voru á hæð um 280-290 m norðan við Reykjanesbraut og beint norðan við GO-kart braut. Hæðin er um 120 m austan við Njarðvíkurveg. Hóllinn er nú nokkuð raskaður og gróður-lítill. Á honum og við hann voru braggar byggðir á hernámsárunum en öllum ummerkjum um þær leifar hefur verið rutt út. Hóllinn er nú fremur berangurslegur.
Sunnan í hólnum má sjá óljósar byggingaleifar en á honum sjálfum sjást engar leifar.

Stóru Vogar – býli

Stóru-Vogar

Stóru-Vogar – túnakort 1919.

Jarðadýrleiki óviss 1703. Snorrastaðir, forn eyðijörð lögð undir jörðina. 1367: Máldagi kirkjunnar í Kvíguvogm. DI III, 221; 1533: Erlendur lögmaður sló prest til blóðs í hálfkirkjui í Vogum. DI IX, 660. Hjáleigur 1703: Eyrarkot, Gata og Syðsta hjáleiga í byggð, í eyði voru Tjarnarkot, Valgarðshjáleiga, Garðhús, Móakot, Halakot og Krunakot. JÁM III, 119-121. Hjáleigur í byggð 1847 Eyrarkot, Tumakot, Suðurkot og Tjarnarkot. JJ, 90 Í örnefnaskrá Gísla Sigurðssonar segir eð upprunalega nafnið á bænum sé Kvíguvogar. Ö-Vogar, 7
1703: „Túnin líða skaða af sands og sjágarágángi, og gjörist að því ár frá ári meir og meir. Engjar eru öngvar.
Úthagarnir litlir sumar og vetur.“ JÁM III, 119 1919: Tún 2,3 teigar, garðar 1220m2.

Þrívörður – varða
„Austur og upp af Kolbeinsskor eru Þrívörður og þar hærra vörður, sem heita Strákar …“ segir í örnefnaskrá. Þrívörður eru þrjár vörður sunnan við Línuveginn. Syðsta varðan er um 100 m norðan við Stráka og um 720 m sunnan við Reykjanesbraut, en nyrsta varðan er 620 m frá henni. Klappir, grýtt svæði og mosaflákar.
Vörðurnar standa allar á lágum klettahæðum og eru 0,4-0,7 m á hæð.

Strákar – varða
„Austur og upp af Kolbeinsskor eru Þrívörður og þar hærra vörður, sem heita Strákar …“ „Þá koma Strákar eða Strákavörður sem eru þrjár og greinast í Austurvörðu, Miðvörðu og Syðstuvörðu.“ segir í örnefnaskrá „Fyrir ofan Þórusel göngum við fram á þrjár lítilfjörlegar vörður sem heita Strákar eða Strákavörður og liggja þær þvert á Hrafnsgjárbarminn með nokkurra metra millibili. Stendur sú efsta svo til á gjárbarminum. Sumir telja að sú Strákavarða heiti Leifur Þórður og að þar sé kominn landamerkjavarðan milli Voga og Brunnastaða, sem sögð er standa á Hrafnagjárbarmi.“ Strákar eru um 250 m sunnan við Línuveginn og um 720 m sunnan við Reykjanesbraut, á barmi Hrafnagjár. Aðeins eru 2 vörður af þremur mjög greinilegar. Vörðurnar standa á barmi Hrafnsgjár rétt vestan við Kúastíg þar sem hann fer niður í Hrafnsgjá. Þær standa á lágri klöpp en eru hrundar.

Þórusel – sel

Þórusel

Þórusel – heimasel.

„Suðaustur frá þessari fjárborg er svæði, sem nefnist Þórusel, þar eru Kúadalur og Kúastígur.“ segir í örnefnaskrá „Nokkurn spöl vestan við Viðaukahólana fyrrnefndu sjáum við nokkuð slétt svæði sem áður fyrr hefur verið grasi vaxið en er nú sundurskorið af stórum moldarflögum. Svæðið er rétt ofan við vegamótin niður í Voga og gæti heitið Þórusel.“ „Nafnið Þórusel kannast flestir eldri menn við en erfitt er að staðsetja það eftir heimildum. Vogamenn segja umrætt svæði neðan Reykjanesbrautar og rétt austan Vogaafleggjara heita Þórusel eins og fyrr er getið. Vísa er að Þóru nafnið er úr Vogum því gamlar sagnir eru til um Þórusker við Voga en á því átti að standa höfuðból með „átján hurðir á hjörum“. Engar rústir eru sjáanlegar á fyrrnefndu svæði þó grannt sé leitað. Ólíklega hefur verið selstaða svo nærri byggð.“

Þórusel

Þórusel – selsvarðan.

Eins og sést af ofangreindum frásögnum ber mönnum ekki saman um hvar Þórusel hafi verið. „Vogamenn“ segja það norðan Reykjanesbrautar og austan Vogaafleggjara. Þar er gróið hraun og enginn staður sérstaklega vænlegur fyrir sel, eins og umhverfið er nú. Beint sunnan gatnamóta Reykjanesbrautar og Vogaafleggjara er grasi gróinn blettur sem að nokkru hefur verið raskað. Er þetta sá staður sem margir telja að selið hafi verið. Engar leifar um selið er nú að sjá á þessum stað en þar er mjög grösugt og þýft. Svæðið er um 30 m sunnan (ofan) við Reykjanesbraut og kemur til með að hverfa undir mislæg gatnamót. Gróinn grasblettur upp af Reykjanesbraut. Umhverfis eru mosavaxin hraun.

Kúastígur – leið

Kúastígur

Kúastígur um Hrafnagjá.

„Suðaustur frá þessari fjárborg er svæði, sem nefnist Þórusel, þar eru Kúadalur og Kúastígur,“ segir í örnefnaskrá. „Besta niðurgangan í Hrafnsgjá á þessum slóðum er um Kúastíg ofan Vogaafleggjarans en við efstu Strákavörðuna liggur stígurinn niður í gjána.“ Hrafnagjá er um 700-800 m sunnan við Reykjanesbraut og sést slóðinn rétt norðan við gjána, ofan í hana og áfram til suðurs. Slóðinn er ofan í hraunið og sést á spotta við og sunnan Hrafnagjár, slóðinn er ekki greinanlegur við Reykjanesbraut.

Dailey Camp – herminjar

Camp Dailey

„Uppi á Stapahorninu, á milli Gamla-Keflavíkurvegarins og Reykjanesbrautarinnar, er slétt svæði en á því var reist herskálahverfi árið 1942 sem kallað var „Daily-camp“. Þar var sjúkrahús með fullkomnum skurðstofum og sjúkrarými fyrir 250 sjúklinga og var eina starfandi hersjúkrahúsið hér á landi í stríðslok. „Daily Camp“ brann til kaldra kola í óveðri í apríl árið 1946.“ Daily Camp var á sléttu svæði norðan Reykjanesbrautar og að Kálgarðshjalla. Á þessum slóðum liggur nú vegarslóði upp að Grímsfjalli. Á þessum stað er mikið sléttlendi. Svæðið er vaxið mosa og grasi. Vestan slóðans er sérstaklega slétt. Ekki eru ummerki hverfisins greinileg.

Stúlkavarða – varða

Stúlknavarða

Stúlknavarðan.

„Aðrir segja Tyrkjavörður vera ofan við Reykjanesbraut og skammt vestar. Þar eru tvær stórar vörður og önnur þeirra kölluð Stúlkuvarða og er sú með fangamarki og ártalinu 1777.“

Varða
Um 100 m norðan við Reykjanesbraut og um 1,7 km austan við afleggjara að Snorrastaðatjörnum og Háabjalla er varða. Hún stendur á hæð og er mjög myndarleg en nokkurn spöl suðvestan við hana er önnur minni. Vörðurnar standa á klettahæðum. Stærri varðan er ferhyrnd og um 1 m á hvern veg en 1,4 m á hæð. Hin varðan er mun minni og hruninn. Þetta er stærsta varðan í námunda við Reykjanesbraut. Stúlkuvarða er sögð við brautina á þessum slóðum en þetta er ekki sú varða þar sem fangamarkið 1777 á að vera krotað inn í Stúlkuvörðu.

Brunnastaðir – býli
Jarðadýrleiki óviss 1703, konungseign. 1703: Hjáleigur í byggð 1703 Halakot, Brunnastaðakot, Stöðlakot, Tangabúð, Skjaldarkot. Í eyði Traðakot, Vesturhús, Naustakot, Austurhús og Suðurhús. Hjáleigur í byggð 1847: Halakot, Suðurkot, Austurkot, Naustakot, Skjaldakot og Traðarkot. JJ, 90
1703: „Tún jarðarinnar spllast af sjáfar og sands ágángi meir og meir. Engjar eru öngvar. Útihagarnir um sumur í lakasta máta, um vetur nær enginn nema fjaran.“ JÁM III, 125. 1919:. Tún alls 5,9 teigar, garðar 2300m2.

Nyrðri-Fögrubrekkuvarða – varða
Um 400-500 m norðan við Reykjanesbraut, í næstum beina stefnu frá Kánabyrgi er mjög greinileg varða um 250 m norðan við girðingu sem á þessum slóðum girðir af heiðina norðan við Reykjanesbraut. Beggja vegna hæðarinnar eru grýttir dalir en hæðin er mynduð úr bylgjóttri klöpp sem að hluta er vaxin mosa. Varðan er um 1,5 m á hæð og steinarnir í henni eru vaxnir mosa. Hún er um 1 m í þvermál.

Syðri-Fögrubrekkuvarða – varða
Um 150-200 m norðan við Reykjanesbrautina og um 220 m er hæð og á henni nokkur steinadreif, líkt og um hrunda vörðu væri að ræða. Varðan sést ekki úr fjarlægð og er varla hægt að tala um steinahrúguna sem vörðu lengur. Ekki er annar staður líkegri fyrir Syðri-Fögrubrekkuvörðu. Umhverfis eru klappir og melar að mestu gróðurlaust en þar er þó nokkur mosagróður.

Kánabyrgi – áfangastaður

Kánabyrgi

Kánabyrgi.

„Kánabyrgi er klapparhóll skammt frá Freygerðardal. Á honum er varða en ekkert byrgi og muna elstu menn ekki eftir slíku þar. Alltaf var áð og er enn á þessum hól, þá gengið er til smölunar úr Brunnastaðahverfi,“ segir í örnefnaskrá.
Um 400 m sunnan við Reykjanesbraut og um 250 m austan við vegaslóða að línuvegi er hæð með hruninni vörðu, mun það vera Kánabyrgi.
Líklegt verður að teljast að þar sem vörðuleifarnar eru nú hafi áður verið byrgi og af því sé byrgis-heitið dregið. Á þessum stað má greina steinaraðir sem alveg eru huldar mosa og gróðri og eru því illgreinanlegar. Umhverfis skiptast á klappir og melar sem eru mosavaxin að nokkru leyti. Svo virðist sem þarna hafi verið kofi 2,5 X 3 m að stærð. Ekki er þó hægt að sjá nema utanmál kofans. Vestar á þessu svæði er hins vegar steinahrúga sem hlaðin hefur verið síðar. Steinahrúgan er mest 0,4 m á hæð en er hrunin.

Brunnastaðaselsstígur – leið
„Þegar farið var í selin frá Brunnastaða- og Hlöðuneshverfi og eins til smölunar var farið um einstigi eða klif á Klifgjá og líklega dregur gjáin nafn sitt af því. Klifið var á gjánni í stefnu frá Kánabyrgi á Gjásel en fyrir nokkrum árum hrundi úr gjárveggnum yfir einstigið svo nú þarf að ganga yfir gjána hægra megin við það. Rétt neðan og norðan Klofsins eru þrjú greni sem kölluð eru Selstígsgrenin.“ „Brunnastaðaselsstígur lá frá bæ í selið og þá líklega sami stígur og lýst var sem smalaleiðinni hér á undan …“ Engin merki um stíginn sjást frá Kánabyrgi en stígurinn lá í suður (SSV) frá Kánabyrgi. Af þessum sökum telst hann í lítilli hættu vegna breikkunar Reykjanesbrautar. Á þessum slóðum er hraunið nokkuð úfið en gróið mosa.

Hlöðunes – býli

Hlöðunes

Hlöðunes – túnakort 1919.

Jarðadýrleiki óviss 1703, konungseign. Hlöðuneskot eina hjáleigan 1703. Hjáleigur í byggð 1847 Narfakot og Hlöðuneskot. JJ, 90
1703: „Túnin brýtur sjór með sandi og grjóti æ meir og meir. Engjar eru öngvar. Úthagar litlir um sumar, nær öngvir um vetur nema fjaran.“ JÁM III, 129 1919: Tún 3,6 teigar, garðar 1500m2.

Hlöðunesselsstígur – leið
„Heiman úr Hlöðuneshverfi lá Hlöðunesselsstígur upp heiðina að Hlöðuseli, “ segir í örnefnaskrá.
Stígurinn lá frá Hlöðunesbæ og að selinu. Ekki er vitað nákvæmlega hvar hann lá í námunda við Reykjanesbraut og ekki eru merki hans greinileg við hana. Slóðinn hefur líklegast legið í námunda við þar sem Línuvegur liggur nú frá Reykjanesbraut til suðurs. Á þessu svæði er mosavaxið hraun.

Áslákstaðir stærri (ytri) – býli

Ásláksstaðir

Ásláksstaðir – túnakort 1919.

Jarðadýrleiki óviss 1703, konungseign. Atlagerði hjáleiga 1703. Ásláksstaðakot hjáleiga 1847.
1703: Túnunum segir bóndinn að spilli tjörn, sem þar liggur innan mitt í túninu og líka nokkur önnur tjörn minni, ogso innangarðs, líka gjörir sjáfarángur nokurt mein, þó ei til stórbaga á heimajörðiunni. Engjar eru öngvar. Útihagar um sumar og vetur í lakasta máta og nær öngvir nema fjaran.“ JÁM III, 131. 1919: Tún alls 1,84 teigar, garðar 1020m2.

Freygerðardalur – samgöngubót
„Austur af Fögrubrekkum og rétt ofan við Ásláksstaðaklofninga sem fyrr voru nefndir var jarðfall sem hét Freygerðardalur en það er nú komið undir Reykjanesbrautina. … Fé átti það til að koma sér í sjálfheldu í Freygerðardal og því voru hlaðnar tröppur í jarðfallið svo það kæmist upp af eigin rammleik.“ Freygerðardalur er nú kominn undir Reykjanesbraut en hann hefur verið vestan við Línuvegsafleggjarann en austan Fagradals. Engin ummerki sjást nú um dalinn eða tröppurnar.“Sagan segir að þar hafi stúkan Freygerður frá Hlöðuneshverfi borið barn sitt út og af því sé nafnið dregið.“

Knararnes stærra – býli

Knarrarnes

Knarrarnes – túnakort 1919.

Jarðadýrleiki óviss 1703, konungseign. 1703 eyðihjáleigan Helgahús.
1703: „Túnin fordjarfast árlega af sjáfarágángi og stöðutjörnum þeim, sem innan garðs liggja, og það so frekt, að gamlir menn minnast til þar hafi fóðrast x kýr og i griðúngur, og nú eru þau so spilt, að ekki fóðrast meir en áður er sagt. Þar með blæs upp árlega stórgrýti í túninu. Engjar eru öngvar. Útihagar nær öngvir sumar nje vetur utan fjaran.“ JÁM III, 135. 1919: Tún alls 3,1 teigar, garðar 1520m2.

Knarrarnesselsstígur – leið
„Heiman frá Knarrarneshliði lá Knarrarnesselsstígurinn upp alla Heiðina í Knarrarnessel,“ segir í örnefnaskrá „Rétt neðan og norðan Háhóla liggur Knarrarnesselsstígurinn yfir Hrafnagjánna en við hann þar að austanverðu stendur nokkuð áberandi strýtuhóll. Ekki er hægt að fylgja þessum selstíg með öðrum viðstöðulaust frá bæ og upp í sel því gatan er horfin að mestu leyti nema þar sem farið var yfir gjárnar.“ Slóðinn hefur verið um 1 km vestan við Þyrluvörðu og um 1 km austan við línuvegsafleggjarann. Ekki sjást merki um hann í námunda við Reykjanesbraut.
Leiðin hefur legið um 500-600 m austan við (stærri) Fögrudalsvörðu. Á þessu svæði skiptast á hraun-, grasflekkir og bersvæði.

Auðnar – býli

Auðnar

Auðnar – túnakort 1919.

Jarðadýrleki óviss, konungseign. Hjáleigur 1703 Auðnahjáleiga í byggð, í eyði voru Lönd og Hólmsteinshús og ein nafnlaus hjálega. Auðnakot hjáleiga 1847.
1703: „Túnin spillast af sandi og grjóti sem sjór og vindur ber á, líka er þar mein að grjóti því, sem jarðfast er í túninu.
Engjar eru öngvar.“ JÁM III, 138. 1919: Tún A og Höfða 6,5 teigar, garðar 4300m2.

Varða – landamerki
„Úr Þúfuhól þessum liggja mörkin beint eftir Vörðum upp Heiðina, milli Auðnaklofsins og Breiðagerðisskjólgarðs, spölkorn fyrir neðan Syðri-Keilisbróðir (Litla-Hrút), alla leið að landi Krýsuvíkur í Grundavíkurhreppi.“ segir í örnefnaskrá. Í Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi leiðir höfundur að því líkum að Auðnaklofningar séu það sama og Skrokkar. Sökum skorts á betri rökum var staðsetning hinna horfnu landamerkjavarða tekin á Skrokkum.

Þyrluvarða

Þyrluvarðan endurhlaðin.

Skrokkar er langur hólaklasi sem liggur norður-suður. Reykjanesbrautin gengur í gengum klasann um 900 m austan við Þyrluvörðu. Á þessum stað eru hæðir/hraunhryggir sem eru grýttir en vaxnir mosa og grasi um 100 m norðan við Reykjanesbraut. Hraunhryggurinn er mosagróinn mosa. Norðan Reykjanesbrautar eru nokkrir grónir toppar en engin greinileg merki um vörður sjást. Sunnan brautarinnar er á sama hrygg varða eða samtíningur úr grjóti sem sýnist nýlegur.

Markavörður – varða/landamerki
„Um Markavörður liggur landamerkjalínan milli Auðnahverfis og Breiðagerðis upp Heiðina …“ segir í örnefnaskrá. Ekki hefur tekist að staðsetja vörðuna.

Auðnaselsstígur – leið
„Þá liggur fyrir Klofgjá og blasir við Klifgjárbarmur og rétt þar fyrir ofan er Auðnasel og Höfðasel og Breiðagerðissel.
Til selja þessara lá aðeins einn stígur Auðnaselsstígur.“ segir í örnefnaskrá. Auðnaselsstígur lá skáhallt frá Auðnum til selsins og hefur þá vísast legið um Reykjanesbraut um 400-500 m austan við Þyrluvörðu og um 2 km vestan við þar sem Marteinsskáli sést frá Reykjanesbrautinni. Á þessu svæði er nokkuð gróið hraun en skrásetjari kom ekki auga á greinilegan stíg í námunda við Reykjanesbrautina.

Þórustaðir – býli

Þórustaðir

Þórustaðir – loftmynd.

Jarðadýrleiki óviss 1703, konungseign. Hjáleigur 1703 Norðurkot og Suðurhjáleiga í eyði. Norðurkot hjáleiga 1847 1703: „Túnin spillast af sjáfarágangi og föstu grjóti, sem árlega blæs upp. Engjar eru öngvar. útihagar í lakasta máta um sumar, nær öngvir um vetur.“ JÁM III, 141. 1919: Tún 4,8 teigar alls, garðar 2480m2.

Kálfatjörn – býli

Kálfatjörn

Kálfatjörn – túnakort 1919.

1703: Jarðadýrleki óviss. Kirkjustaður. Hjáleigur 1703: Naustakot, Móakot, Fjósakot og Borgarkot í byggð, í eyði voru Hólakot, Hátún og Árnahús. Hjáleigur 1847: Naustakot, Móakot, Hátún og Fjósakot. JJ, 91.
1703: „Túnin spillast af sjáfarágágni, og þó enn meir af vatnarásum, sem uppá bera leir til skemda. Engjar eru öngvar.
Úthagar lakir um sumar, nær öngvir um vetur nema fjaran.“ JÁM III, 143. 1919: Tún 7 teigar, garðar 1180m2.

Marteinsskáli – varða
„Suðaustur frá Þorsteinsskála, ekki alllangt frá steypta veginum, er vörðubrot á hól; þar heitir Marteinsskáli.“ segir í örnefnaskrá. 600-700 m frá Þorsteinsskála og um 1 km m vestan við Stærri-Hrafnhól sést vörðubrotið á Marteinsskála vel. Það er 200-300 m norðan við Reykjanesbraut. Varðan stendur á lágri klöpp. Umhverfis skiptast á lágar klappir, grýtt moldarflög og mosa- og lynggróður. Varðan er hálfhrunin. Hún er ferhyrnd og 0,75 m á hvern veg og um 0,6 m á hæð.

Flekkuvík – býli

Flekkuvík

Flekkuvík – túnakort 1919.

1703: Jarðadýrleiki óviss, Kálfatjarnarkirkjueign. 1703 eru hjálegur Sigurðarhjáleiga, Blíðheimur, Péturkot, Refshali og Úlfuhjáleiga. JÁM III, 148-149. Jörðin í eyði frá 1959. Vesturbær í eyði frá 1935, austurbær til 1959. GJ: Mannlíf og mannvirki, 343-347.
1703: „Túnunum spillir sjáfarágángur merkilega, iteml vatnsrásir með leirágángi af vatni af landi ofan til stórskaða.
Engjar eru öngvar. Útihagar lakir um sumar og enn þó minni um vetur.“ JÁM III, 147. 1919: Tún alls 4,7 teigar, garðar 2170m2.

Flekkuvíkurselsstígur – leið
„Flekkuvíkurselsstígur lá úr Traðarhliði og upp Heiðarlandið, sem var óskipt milli Bæjanna,“ segir í örnefnaskrá. Ekki er til nánari lýsing á legu stígsins en vísast hefur hann legið um/við Flekkuvíkurheiði og svo áleiðis í átt að Flekkuvíkurseli. Líklegt er að stígurinn hafi þá legið við Reykjanesbraut í námunda við Stóra-Hrafnshól. Ekki sést neinn fornlegur slóði í námunda við Reykjanesbrautina á þessum stað.

Vatnsleysa stærri – býli

Vatnsleysa

Vatnsleysa – túnakort 1919.

1703: Jarðadýrleiki óviss, konungseign. Hjáleigur 1703, í byggð Vatnsleysukot og tvær nafnlausar hjáleikur auk einnar nafnlausrar eyðihjáleigu. Eyðibýlið Akurgerði lagt undir Vatnsleysu á 16. – 17. öld. Heiðarland Vatnsleysubæja er víðaláttumikið, nær frá sjó til fjalla. Vesturbærinn í eyði og lagðist undir Austurbæinn og var rifinn um 1940. GJ: Mannlíf og mannvirki, 351
1703: „Túnum spillir nokkurn part vatnságángur f landi ofan og jarðfast grjót sem árlega blæs upp í túninu. Engjar eru öngvar. Úthagar lítilfjörlegir vetur og sumar.“ JÁM III, 153. 1919: Tún alls 7,3 ha, garðar 3800m2.

Akurgerði – býli
1703: „Akurgierde hefur til forna jörð verið næst Vatnsleysu fyrir innan, hefur í eyði legið lángt fram yfir hundrað ár, vita menn hverki dýrleika hennar nje afgjald hvað verið hafi, og eru landsnytjar allar lángt fyrir þeirra minni, sem nú lifa, lagðar til Stóru-Vatnsleysu, og þaðan brúkaðar frí. Túnin, sem verið hafa, eru af hrauni, vatnságángi og sjáfar aldeiliss eyðilögð, þar sem skortir þar vatn, so jörðin kann ómöglega aftur byggjast.“ „Upp af víkinni [Kúagerðisvík] vestanverðri eru grónir bakkar, sem ná upp að þjóðvegi og að hraunjaðrinum. Heita þeir Akurgerðisbakkar. Sagt er, að einu sinni væri búið þar, og hét þar Akurgerði.“ segir í örnefnaskrá ÞJ. „Austur af því taka við flatir og má sjá Garðlag gamalt og mun vera garður vestan við býli, sem talið er að hér hafi verið og nefnst Akurgerði.“ segir í örnefnaskrá.
Akurgerði var á svæði sem nú er afmarkað af fjörunni, Strandarvegi og vegarslóða sem liggur samsíða Reykjanesbraut, norðan hennar við Kúagerðisvík. Svæðið er tæpa 100 m norðan við Reykjanesbraut. Syðst á þessu svæði er grasi gróið og nokkuð hæðótt en ekki eru tóftir eða önnur mannvirki greinileg

Vatnaborg – vatnsból
„Upp af [Stekkhól] nokkuð fyrir ofan gamla þjóðveginn er hóll, sem heitir Grænhóll. Suður af honum er annar minni, sem heitir Efri-Grænhóll. Skammt þar fyrir ofan er slakki eða lægð. Þar á smábletti kemur upp vatn, og myndast þar oft vatnsból. Heitir það Vatnaborg og er rétt ofan steypta vegarins.“ segir í örnefnaskrá. Um 150 m ofan Reykjanesbrautar (sunnan) og um 170 m austan við Vatnsborgina sjálfa er vatnsbólið. Svo er að sjá á gróðri á þessum slóðum að vatnsbólið hafi verið stórt áður eða um 20 m í þvermál. Nú er hins vegar aðeins rakur mosagróður á þessu svæði nema á um 2 X 0,8 m svæði þar sem enn er vatn.

Kúagerði – áfangastaður

Kúagerði 1912

Í Kúagerði 1912.

„Upp af víkurbotninum [Kúagerðisvíkur] er nokkuð stór kvos inn í hraunið. Heitir það Kúagerði, forn áningarstaður, þar sem var dálítil tjörn, Kúagerðistjörn … Þegar lagður var hinn nýi, steypti vestur suður með sjónum, varð auðvitað að fara með hann yfir tjörnina, þrátt fyrir mótmæli, og eyðileggja þannig þennan forna og skemmtilega áningarstað, svo að hans sér naumast stað lengur.“ segir í örnefnaskrá. Leifar af Kúagerðistjörn sjást enn beggja vegna Reykjanesbrautar. Tjörnin var þó að mestu skemmd þegar Reykjanesbrautin var lögð og er svæðið beggja vegna hennar mjög raskað. Við Reykjanesbraut er skilti sem vísar til suðurs á staðinn. Í hrauninu beggja vegna Reykjanesbrautar eru vatnsstæði en svæðinu hefur verið raskað vegna vegagerðar og efnistöku. Engar tóftir eru greinilegar.

Kúagerðistroðningar – leið
„Upp frá Kúagerði liggja troðningar með Hraunbrúninni mætti nefna þá Kúagerðistroðninga því um þá var rekinn búsmalinn ofan úr Flekkuvíkurseli og jafnvel Rauðhólaseli.“ segir í örnefnaskrá. Um 70-80 m ofan við Kúagerði tekur hraunbrúnin við. Þar er nú greinilegur slóði en ekki sýnist hann mjög fornlegur. Umhverfis eru hraun sem mikið hefur verið raskað. Það er nokkuð úfið en mosagróið. Stígurinn liggur meðfram hrauninu til vesturs og beygir meðfram hraunjaðrinum til suðurs.

Vatnsbergsstekkur  [Vatnaborg] – stekkur

Vatnaborg

Vatnaborg – uppdráttur ÓSÁ.

Vatnsbergstekkur horft til norðurs „Sunnar [en Grænhólar] er Vatnsstæðið, Vatnsberg. Þar er Vatnsbergsrétt, en fyrrum var þarna Vatnsbergsstekkur,“ segir í örnefnaskrá. „Upp af honum nokkuð fyrir ofan gamla þjóðveginn er hóll, sem heitir Grænhóll. Suður af honum er annar minni, sem heitir Efri-Grænhóll. Skammt þar fyrir ofan er slakki eða lægð. Þar á smábletti kemur upp vatn, og myndast þar oft vatnsból. Heitir það Vatnaborg og er rétt ofan steypta vegarins.“ segir í örnefnaskrá „Sunnan við vatnsstæðið er lágur hóll með miklu grjóti og veggjabrotum og þar hefur verið stór fjárborg fyrrum, Vatnsborgin.“ Um 185-195 m sunnan við Reykjanesbraut og um 600-700 m vestan við Höskuldsvallaveg eru leifar Vatnsbergsstekks.
Hóllinn sem borgin stendur á er nokkuð hár. Hann er gróinn mosa og grasi. Umhverfis er þýft, mosa og lyngivaxið svæði með hraunhæðum inn á milli. „Borgin var hringlaga 10-12 m í þvermál og innan í grjóthringnum eru hleðslur. Líklega hefur verið þar stekkur eftir að Borgin sjálf lagðist af enda geta heimildir um Vatnsbergrétt og Vatnsbergsstekk …“ Fjárborgin er hlaðin úr allstóru grjóti. Hún er hlaðin í hring og er 10 m á annan veginn en 12 m á hinn. Á vesturvegg er op og frá því gengur hleðsla sem skiptir borginni í tvennt. Út frá þessari hleðslu eru svo hlaðin 3 hólf. Borgin er um 0,3 m á hæð og er hringhleðslan mjög gróin og hrunin. Hleðslurnar sem eru inn í borginni eru nýlegri og ekki eins hrundar.

Varða
„Vestur af Vatnaborg í svipaðri fjarlægð frá brautinni og vatnsstæðið stendur Efri-Grænhóll eða Litli-Grænhóll og á honum er breið, grasi gróin vörðuþúst.“ Um 320-330 m vestan við Vatnaborgina og í um 200 m fjarlægð frá Reykjanesbraut er Efri-Grænhóll eða Litli-Grænhóll. Efst á Litla-Grænhól eru nokkrir grjóthnullungar sem eru grónir mosa og grasi og eru því illgreinanlegir. Umhverfis er þýft svæði, vaxið mosa, grasi og lyngi. Inn á milli eru hraunhæðir. Ekki er hægt að tala um vörðu á þessum stað lengur.

Kúagerði – býli

Kúagerði

Kúagerði.

„Í Kúagerði fyrir sunnan Hvassahraun, má sjá vott þess, að þar hafi bæri verið fyrir löngu.“ segir Brynjúlfur Jónsson í grein árið 1902 „Sér þar til rústa innan til við sjávarkambinn, og nokkru vestar sést langur partur af niður sokknum grjótgarði og hverfur norðurendi hans í sjávarkambinn. Hefur sjórinn gengið þar á landið og brotið það upp. Þess skal getið að þetta stendur í engu samandi við rúst kot þessa, sem fyrir nokkrum áratugum var byggt í Kúagerði. Þar er hraunsnef á milli og þessarar rústa.“ segir Brynjúlfur ennfremur. Ekki sjást greinilegar garðleifar á þessum slóðum.

Kúagerði

Gerði við Kúagerði.

Fast sunnan við Reykjanesbraut og vestan við Kúagerðistjörn er hæð sem hugsanlega gæti verið leifar að garðlagi því sem rætt er um að ofan. Eins líklegt er að hæðin sé náttúruleg.
Garðurinn er grasi gróinn en í kring er gróið hraun. Hæðin liggur á um 50 m bili frá Reykjanesbraut til slóðans sem liggur samsíða brautinni að norðan. Norðan við slóðann sést svo í framhald sömu hæðar á um 15 m parti að fjörukambi.

Skjólgarður
Um 50 m norðan við vegarslóðann sem liggur samsíða Reykjanesbraut að norðan og um 60-90 m norðan við Reykjanesbraut er hleðsla á hól. Tóftin er um 200 m vestan við stóran, steyptan grunn, norðan Reykjanesbrautar. Hleðslan er nálægt því að vera á merkjum við Hvassahraun. Tóftin stendur á grasi vöxnum hraunhól. Hún er sporöskjulaga og liggur í hálfhring. Engin hleðsla er fyrir suðurhlið. Tóftin er um 9 m í þvermál. Hún er alveg hlaðin úr grjóti og er 1,4 m á hæð en um 1 m á breidd. Helst er á að giska að þetta mannvirki hafi verið einhvers konar skjólgarður.

Hvassahraun – býli

Hvassahraun

Hvassahraun – túnakort 1919.

1703: Jaðradýrleiki óviss, konungseign. Hjáleigur í byggð 1703, Þóroddskot og tvær nafnlausar. Hvassahraunskot hjáleiga 1847. JJ, 91
1703: „Engjar eru öngvar. Úthagar, sem áður voru sæmilegir, gánga mjög til þurðar, því hríssrifið eyðist.“ JÁM III, 156.
„Hvassahraunsbær stóð á klapparrana. Þar var oftast í fyrri daga tvíbýli, Austurbær og Vesturbær.“ segir í örnefnaskrá.
Nú stendur bárujárnsklædd timburbygging þar sem gamli bærinn var áður. Guðmundur Sigurðsson man eftir eldra húsi (forsköluðu) á nákvæmlega sama stað og það hús sem nú stendur og taldi að þar hefði Vesturbærinn í Hvassahrauni staðið um langa hríð.
Húsið sem nú stendur á þessum stað er með steyptum kjallara. Það er á hæð sem virðist að mestu náttúruleg enda túnið allt í hæðum. Víða sjást hleðslur í og við bæinn. Engar leifar um torfbyggingar hafa sést á þessum stað um áratugaskeið. Hóllinn er um 200 m norðan við Reykjanesbraut.
„Í Hvassahrauni 2, sem líka var grasbýli …“ Um 30 m suðaustan við er merkt hús inn á túnakort. Guðmundur Sigurðsson telur þetta vera það hús sem kallað var Austurbær eða Hvassahraun 2. Húsið hefur staðið um 200 m norðan við Reykjanesbraut. Húsið var nokkru suðaustar á sömu hæð. Þar er nú hlað.

Norðurkot – býlistóft
„Á hægri hönd við Sjávargötuna voru ýmis kot, einu nafni nefnd Hvassahraunskotin. Þar var Suðurkot og Suðurkotsgerði. Norðurkot með Norðurkotsgerði …“ segir í örnefnaskrá. Um 185-195 m norðan við Hvassahraunsbæinn var Norðurkot og sjást merki þess enn greinilega. Norðurkot er um 80-90 m norðaustan við Niðurkot og útihúsið norðaustan við kotið er um 5 m innan við túngarð. Tóftin er tæpum 400 m neðan við Reykjanesbraut. Norðurkot er á hæð og allt umhverfis er grasigróið tún, ræktað upp á hrauni. Túnið er allt í hæðum og dældum.
Tóftin snýr norðaustursuðvestur. Fast aftan austan við hana er önnur tóft sem snýr þvert á hana og eru þær nú samgrónar. Tóftin er 12,5 X 8 m að stærð. Enginn suðvesturveggur er á tóftinni. Hólfið er grjóthlaðið en gróið að utan. Mikið grjót hefur fallið inn í það. Norðvestan við bæinn er djúp dæld og hlaðið umhverfis hana. Suðvestan við bæinn má sjá óljósar leifar garðlags sem girt hefur af ræktaðan blett. Suðaustan við bæinn eru einnig nokkrar hleðslur garðlags sem girt hefur af tún.

Niðurkot – býlistóft

Hvassahraun

Hvassahraun – uppdráttur ÓSÁ.

„Á hægri hönd við Sjávargötuna voru ýmis kot, einu nafni nefnd Hvassahraunskotin. Þar var Suðurkot og Suðurkotsgerði. Norðurkot með Norðurkotsgerði, þá var Niðurkot og Niðurkotstún …“ segir í örnefnaskrá. Rúma 120 m norðvestan við bæ sjást enn leifar Niðurkots. Kotið er um 80 m suðvestan við Norðurkot og 300-350 m neðan við Reykjanesbraut. Tóftin er á grasi gróinni hraunhæð en allt umhverfis eru dældir og hæðir. Tóftin er einföld, um 7 m á lengd en 6 m á breidd. Enginn vesturveggur er fyrir tóftinni. Hún hefur verið hlaðin úr grjóti en er alveg gróin að utan. Hæð hleðslna er 1,3 m.

Þorvaldskot – býlistóft
„Á hægri hönd við Sjávargötuna voru ýmis kot, einu nafni nefnd Hvassahraunskotin. Þar var Suðurkot og Suðurkotsgerði. Norðurkot með Norðurkotsgerði, þá var Niðurkot og Niðurkotstún, líka Þorvaldskot og Þorvaldskotstún. Sjást þar alls staðar rústir.“ segir í örnefnaskrá. Samkvæmt lýsingu virðist Þorvaldskot hafa verið nyrsta kotið í túni Hvassahrauns, fremur nálægt sjó. Guðmundur Sigurðsson man ekki eftir þessu heiti en taldi að lýsingin gæti helst átt við tóftir um 300 m norðvestan við bæ. Þar er hringlaga túngarður og tóft í miðjunni. Tóftin er um rúmum 500 m norðan Reykjanesbrautar. Tóftin og garðlagið umhverfis eru á grasi grónu svæði fast ofan við fjöruborðið. Svæðið samanstendur af einni einfaldri tóft sem er um 16 X 6 m að stærð og er opin til norðurs og túngarði sem liggur umhverfis hana. Tóftin er hlaðinn úr grjóti en er mjög gróinn að utan. Grjóthleðslur eru byrjaðar að falla inn í tóftina og því er hún aðeins 3 X 9 m að innanmáli. Stærð túngarðsins að innan er 35 m X 24 m. Hleðslur tóftarinnar eru mest 1,5 m á hæð en túngarðurinn er 0,3 m á hæð. Tóftin var þaklaus undir það síðasta og var notuð í tengslum við sjósókn.

Kirkjuhóll – huldufólksbústað

Hvassahraun

Kirkjuhóll.

„Kirkjuhóll er í Norðurtúni og Kirkjuhólsflöt. Hóllinn er einnig nefndur Álfahóll, því að þar messaði huldufólkið,“ segir í örnefnaskrá. Skáhallt (suðaustur) af Norðurkoti er aflöng klöpp eða hóll sem liggur norðvestur-suðaustur og var nefndur Kirkjuhóll. Hóllinn er um 300 m norðan Reykjanesbrautar. Gróinn aflangur hraunhóll í túni (ræktuðu upp á hraunsvæði). Klöppin er mjög löng og í suðausturenda hennar er fjárréttin.

Rétt

Hvassahraun

Gerði við Hvassahraun.

Um 25 m norðaustan við Þjófagerði er gömul rétt sem hlaðin er upp við túngarðinn og er merkt inn á túnakort frá 1919. Réttin er um 130-140 m norðaustan við bæinn og rúmum 200 m norðan við Reykjanesbraut. Hún er byggð utan í klapparhól sem myndar vestur (norðvestur) hlið hennar. Allt umhverfis er gróið hraunlendi. Réttin samanstendur af einu hólfi. Vesturvegginn myndar klöppin og suðurvegginn myndar túngarðurinn. Aðrir veggir eru sérstaklega hlaðnir. Tóftin er að innanmáli 12-13 m á lengd en um 6 m á breidd. Hæð hleðslna er um 1 m og breidd er svipuð. Réttin er alveg grjóthlaðin.

Leið
Heimreiðin að Hvassahraunsbænum er enn á sama stað og hún var merkt inn á túnakort frá 1919. Gatan liggur vestur frá bænum og má sjá hleðslu undir veginum, nálægt bænum og um 200 m norðan við Reykjanesbraut. Vegurinn liggur yfir gróin tún. Hann er mest hlaðinn í um 0,3-0,4 m hæð. Hann er um 2,5 m á breidd.

Látur – býli
„Vestan Látra tók við Vesturhraun. Þar, er talið, að staðið hafi bær, sem lagðist af við hraunrennslið, nefndist Látur,“ segir í örnefnaskrá. Látur eru um 800 m vestan við Hvassahraun. Ekki sjást nein merki um bæjarstæði á þessum slóðum. Á svipuðum stað voru hlaðnar 3 tóftir og nokkrar vörður úr grjóti fyrir tökur á kvikmyndinni „Myrkrahöfðinginn“. Látur eru um 150 m norðan við Reykjanesbraut. Þröng vík með mörgum skerjum.

Markvarða – varða

Afstapavarða

Afstapavarða.

„…, þar næst er svo Fagravík sem er norður af Afstapavörðu sem er uppi á brunann um ofan við veginn.“ segir í örnefnaskrá. Á öðrum stað er sama varða nefnd Markvarða eða Fögruvíkurvarða. Að sögn Guðmundar Sigurðssonar voru öll þessi nöfn notuð um sömu vörðuna sem er 80 m sunnan Reykjanesbrautar. Upp af Fögruvík er enn lítill tjörn. Suður frá austanverðri víkinni er Afstapaþúfa sem er að mestu sunnan Reykjanesbrautar. Markvarðan var upp á háhól Afstapaþúfu. Afstapaþúfa er klettahæð fast ofan Reykjanesbrautar. Hæðartoppurinn er grasi vaxinn. Efst á Afstapaþúfu er varða sem þó virðist ekki mjög fornleg, e.t.v. hefur hún verið endurhlaðin. Varðan er um 0,6-0,7 m á hæð. Er nálægt því að vera um 1 m í þvermál.

Þvottagjá – þvottastaður
„Næst veginum er Helguhola. Þá er Þvottagjá og fjærst Ullargjá. Þar var þvegin ull.“ segir í örnefnaskrá. Um 20-30 m sunnan Reykjanesbrautar er Þvottagjá. Í raun er ekki um gjá að ræða heldur litla tjörn í hraunlendi. Um 5 m norðaustar er Helguhola sem er mun minni pollur. Báðar tjarnirnar sjást frá Reykjanesbraut. Tjörnin er í grónu hrauni. Engar mannvistaleifar eru nú merkjanlegar við tjörnina.

Ullargjá – þvottastað
„Næst veginum er Helguhola. Þá er Þvottagjá og fjærst Ullargjá. Þar var þvegin ull.“ segir í örnefnaskrá. Um 50 m suðvestan við Þvottatjörn er Ullargjá, í hvarfi frá Reykjanesbraut. Tjörnin er stærst tjarnanna þriggja og er hún í e.k. jarðsigi. Tjörnin er um 80 m sunnan Reykjanesbrautar. Tjörnin er í jarðsigi í hraunlendi en engar mannvistarleifar eru í námunda við hana.

Hjallhólaskúti – fjárskýli

Hjallhólaskúti

Hjallhólaskúti.

„Hellur eru suður og upp frá Tröðunum. Lítið eitt vestar eru Hjallhólar og Hjallhólaskúti þar í. Hann var fjárbyrgi,“ segir í örnefnaskrá. Hjallhóll er rétt suðaustan túns en fast neðan Reykjanesbrautar. Hóllinn er 210-220 m suðaustan við bæ. Frá Reykjanesbrautinni er opið í hellinn greinilegt enda hellirinn innan við 20 m norðan við Reykjanesbraut. Hraunhóll með jarðsigi. Gengið er ofan í dældina að sunnan og gefur þá að líta klettaveggi sem slúta inn og mynda þannig skjól. Hellar eða skjól eru bæði á austur- og vesturvegg. Austari hellirinn er líklega sá sem notaður hefur verið sem fjárskýli. Hann er um 10 m á lengd en 4-5 m á dýpt. Hellinum lokar að hluta náttúruleg upphækkun en ofan á hana hefur að hluta verið hlaðið 5-7 m langur veggur.

Virkið – fjárskýli

Virkishólar

Virkið í Virkishólum.

„Í suðaustur frá Skyggni eru þrír miklir klapparhólar, sem heita Virkishólar. Virkishóllinn vestasti er stærstur. MiðVirkishóllinn er minnstur, og þar austur af er Virkishóllinn austasti. Milli þeirra er hringlaga jarðfall í hraunið, tveggja metra djúpt og þrettán metra vítt. Þetta er Virkið. Þarna var hrútum hleypt til ánna um fengitímann.“ segir í örnefnaskrá. Virkið eru m 950 m suðaustur af Hvassfellsbænum en 330-340 m sunnan við Reykjanesbraut. Virkishólarnir eru þrír. Austasti og vestasti hóllinn standa nokkurn vegin hlið við hlið en á milli þeirra aðeins sunnar er miðhóllinn. Um 50 m sunnar (og eilítið vestar) en miðhóllinn er Virkið, sem er jarðsig.
Virkið er í grónu hraunlendi og er svæði þar sem jarðsig hefur orðið. Það er að mestu náttúrumyndun. Það er hringlaga og gengið hefur verið ofan í það að norðan. Þar, beggja vegna við innganginn, eru 6-8 m langar hleðslur í hvora átt og eru það einu mannaverkin sem sjást á þessum stað. Virkið er um 13 m í þvermál og hallast klettaveggir þess fram og mynda þannig skjól eða skúta. Norðvestarlega í Virkinu er að auki lítill skúti niður í jörðina.

Draugadalir – draugur
„Norðaustur af Virkishólum eru Draugadalir.“ segir í örnefnaskrá. Draugadalir er nefnt hraunsvæði norðan Reykjanesbrautar og um 1 km austan við Hvassahraunsbæ. Vegarslóði liggur norðan Reykjanesbrautar í landi Hvassahrauns og liggur hann um dalina um 200-300 m vestar en þar sem hann sameinast Reykjanesbraut. Á þessum stað er hægótt hraunlendi, klettadrangar og dalir. Mjög skuggsýnt var í dölunum og telur Guðmundur Sigurðsson örnefnið þaðan komið. Ekki kannaðist hann við neinar eiginlegar draugasögur tengdar dölunum.

Hvassahraunselsstígur – leið

Hvassahraunsselsstígur

Hvassahraunsselsstígur.

„Hvassahraunselsstígur liggur frá bænum og upp í selið og er nokkuð greinilegur á köflum þó svo að við göngum ekki að honum vísum við Reykjanesbrautina.“ Ekki sjást greinileg merki stígsins fyrr en alllangt ofan við Reykjanesbraut. Gatan hefur legið frá bænum á svipuðum stað og tröðin suðaustur frá bænum . Stígurinn lá frá Hvassahraunsbæ til suðausturs út túnið (við traðirnar). Síðan lá hann áfram til suðausturs um gróið hraunið sunnan Reykjanesbrautar og að selinu. Stígurinn er ekki greinanlegur í námunda við Reykjanesbraut.

Markavarða – varða
„Þá liggur lína um Skorás með Skorásvörðu. Þar norðan er Hólbrunnur, vatnsból í klöpp, sem heitir Hólbrunnshæð. Á henni er Hólsbrunnsvarða. Þá er Taglhæð með Taglhæðarvörðu. Þá er Markavarða rétt við þjóðveginn.“ segir í örnefnaskrá. Austurmerki Hvassahrauns eru um 2 km austan við bæinn. Markavarða var á merkjum þar sem land hækkar ofan Reykjanesbrautar. Neðan Reykjanesbrautar má sjá girðingastaura á merkjum en ofan vegarins eru þeir að mestu horfnir. Varðan hefur verið um 150-250 m sunnan við Reykjanesbraut. Gróið hraun ofan Reykjanesbrautar. Guðmundur Sigurðsson segir að þarna hafi staðið varða sem nú er hrunin. Ekki er vitað hversu skýr vörðubrotin eru nú og ekki fundust þau við leit.

Suðurkot – býli
„Á hægri hönd við Sjávargötuna voru ýmis kot, einu nafni nefnd Hvassahraunskotin. Þar var Suðurkot og Suðurkotsgerði.“ segir í örnefnaskrá. Ekki er vitað hvar Suðurkot var. Suðaustan við Hvassahraunsbæinn voru tún nefnd Suðurtún og því eðlilegt að álykta að á þeim slóðum hafi Suðurkot verið. Hins vegar ber að hafa í huga að Sjávargata er sögð liggja frá bænum (Hvassahrauni) og niður að sjó og Suðurkot er sagt austan hennar. Samkvæmt því ætti því Suðurkot að vera norðan bæjar! Ef svo hefur verið má vera að hringlaga garðlag sunnan Norðurkots (þar sem einu sinni var tóft inni í 160:088) gæti hafa kallast Suðurkot. Garðlagið sem enn sést er a.m.k. sunnar en önnur kot sem þekkt eru í túninu. Um þetta verður þó ekkert fullyrt. Grasi gróið hraunsvæði þar sem skiptast á hæðir og dældir.

Hvassahraunstraðir – traðir
„Hvassahraunstraðir lágu í suðuaustur frá bænum.“ segir í örnefnaskrá. Hvassahraunstraðir lágu frá bænum til suðausturs um húsaþyrpinguna (bæjarhólinn) og áfram til suðausturs til enda túnsins minna en 100 m norðan Reykjanesbrautar. Göturnar lágu um ræktuð tún á hraunsvæði. Varla má nú greina nokkrar leifar traðanna. Helst er að móti fyrir óljósum slóða í túni suðaustan við bæ.

Kvíadalur – kvíar
„Kvíadalur er einnig í Suðutúni og Hjallhólar. Í Kvíadal voru ærnar mjólkaðar …“ segir í örnefnaskrá. Örnefnið þekkist nú ekki lengur. Hjallhólar eru hins vegar þekktir og eru þeir rétt sunnan við túngarð en norðan Reykjanesbrautar. Kvíadalur gæti hugsanlega verið dæld eða dalur norðaustan við Hjallhóla. Engar mannvirkjaleifar er að finna neins staðar í Suðurtúni. Kvíarnar voru sennilega þar sem nú stendur rétt og braggi en ekkert verður um það fullyrt. Þetta svæði er 50-100 m norðan Reykjanesbrautar. Hraunsvæði.

Vatnsgata – leið

Hvassahraun

Vatnsgata.

„Vatnsgatan lá heima frá bæ suðvestur í Vatnsgjárnar sunnan þjóðvegarins.“ Einnig nefnd Suðurtraðir, segir í örnefnaskrá. Vatnsgatan lá frá Hvassahraunsbæ og að Vatnsgjám. Gatan hefur vísast fylgt bæjartröðinni innantúns en legið áfram til suðausturs. Engin merki um götuna eru nú greinanleg, hvorki í túni eða við Reykjanesbrautina en hún var lögð þvert á leiðina. Gatan hefur legið um gróið hraun, e.t.v. á kafla á svipuðum slóðum og vegur liggur nú í Hvassahraunslandi samsíða Reykjanesbraut.

Lónakot – býli

Lónakot

Lónakot – túnakort 1917.

1547-48 er jarðarinnar getið í fógetareikningum. DI XII, 114. 1703 er jarðadýrleiki óviss, konungseign. 1847: 10
hndr, þá á jörðin uppsátur í landi Óttarsstaða. Í eyði frá því um 1930. Árið 1966 áskildi Hafnarfjarðarbær sér forkaupsrétt á jörðinni Lónakoti. ÁG: Saga Hafnarfjarðar 1908-1983 I, 114
1703 voru engar engjar á jörðinni. 1917: Tún telst 0,9 teigar, slétt, garðar 500 m2.
1703: Jarðardýrleiki er óviss, konungseign, samkvæmt Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns III, 159.
1847: 10 hdr., bændaeign, samkvæmt Jarðatali Johnsen, 110.
Í eyði frá því um 1930. Árið 1966 áskildi Hafnarfjarðarbær sér forkaupsrétt á jörðinni Lónakoti. ÁG: Saga Hafnarfjarðar 1908-1983 I, 114.
1917: Tún telst 0,9 teigar, slétt, garðar 500 m2.
1703: „Selstöðu á jörðin í eigin landi, og eru hagar þar góðir, en þegar þurkur gengur, verður þar stórt mein að vatnsskorti. Skógur hefur til forna verið, og er það nú meira rifhrís, það brúkar jörðin til kolgjörðar og eldiviðar, og jafnvel til að fóðra nautpeníng um vetur. Torfrista og stúnga í lakasta máta, valla nýtandi. Lýngrif er nokkurt og brúkast til eldiviðar mestan part og stundum til að bjarga á sauðpeníngi i heyskorti. Fjörugrasatekja nægileg heimilissmönnum. Rekavon lítil.
Sölvafjara hjálpleg fyrir heimamenn. Hrognkelsafjara gagnleg fyrir heimamenn. Skelfiskfjara naumleg og erfiðisssöm til beitu. Heimræði má ekki kalla að hjer sje, því lendíng er engin nema við voveiflega sjáfarkletta, og þarf ábúandinn á næsta bæ, Ottastöðum, skipsuppsátur ár og dag, og hefur haft það frí í fimmtíi ár fyrir tvö tveggja manna för, hvenær sem ábúandinn á Lónakoti hefur viljað sumar og vetur. Inntökuskip hefur hann engin fyrir utan þessa báta og hafa ei heldur verið. Engjar eru öngvar. Utihagar bregðast mjög skjaldan á vetur.“ JÁM III, 160.

Lónakotsselstígur/Lónakotsvegur – leið

Alfaraleið

Alfaraleiðin við gatnamót Lónakotsselsstígs.

„Þegar haldið var suður úr suðurtúngarðsliði, var þar við Lónakotsselsstíginn, sem síðar varð Lónakotsvegur, alldjúp gjóta, sem nú er fyllt með grjóti, Yrðlingabyrgi. … Landamerkjalínan lá um Sjónarhólavörðu, sem er efst á Sjónarhólshæð, og þaðan áfram suður og yfir Högnabrekkur. Þar kom Lónakotsvegurinn á suðurveginn. En Lónakotsselsstígurinn lá áfram suður á alfaraleiðina, gömlu hestaslóðina á Suðurnes.“
Lónakotsselstígur lá frá Lónakoti að selinu. Stígurinn hefur legið rétt vestan við þar sem slóði liggur frá Reykjanesbraut að Lónakoti (húsi nokkru sunnar en Lónakotsbærinn var). Stígurinn hefur svo legið áfram til suðvesturs, gengið þvert á alfaraleiðina og suður til Lónakotssels. Merki hans má greina á köflum sem dæld eða grunnan slóða, t.d. á kafla sunnan Reykjanesbrautar nálægt línuveg. Slóðinn liggur yfir gróið hraun.

Óttarstaðir – býli

Óttarsstaðir

Óttarsstaðir – túnakort 1917.

1703 er jarðadýrleiki óviss, konungseign. 1847: 20 5/6 hndr, hjáleiga Óttarsstaðakot. Árið 1966 áskildi Hafnarfjarðarbær sér forkaupsrétt á jörðunum Óttarsstöðum og Óttarsstaðakoti. ÁG: Saga Hafnarfjarðar 1908-1983 I, 114
1917: Tún 4,7 teigar, garðar 2460 m2. Túnið hólótt og grýtt en þó mikið slétt og sléttað.
1847: 20 5/6 hdr., bændaeign, samkvæmt Jarðatali Johnsen, 110. Í neðanmálsgrein segir: „Þóað hvorki prestir né sýslumaður nefni hjáleiguna, er hún samt talin með, meðfram vegna ábúenda tölu sýslumanns, á öllum Óttarstöpum, enda var hún í byggð 1803.“
Hjáleiga 1703: Ónefnd.
Árið 1966 áskildi Hafnarfjarðarbær sér forkaupsrétt á jörðunum Óttarsstöðum og Óttarsstaðakoti. ÁG: Saga Hafnarfjarðar 1908-1983 I, 114.
1703: „Skóg til kolgjörðar og eldiviðar sækir ábúandi í almenníng betalíngslaust, hver sá eyddur er, sem skamt sýnist að bíða. Er þar ekkert á eður í jörðunni til eldíngar fyrir utan fjöruþáng, sem þar er enn nú nægilegt, og verður þá ábúandinn kol út að kaupa. Lýngrif kann þar nokkuð að brúkast, tíðkast ei nema til eldkveikju. Rekavon af trjám er hjer mjög litil, þó festifjara. Fisk brotinn af sér rekur á stundum, so heldur er gagn að. Sölvafjara nægir heimilissfólki, en er örðug að ná. Hrognkelsatekja í lónum þá út fjarar er hjer oft að góðu liði. Fjörugrös eru þar nægileg fyrir heimamenn. Bjöllur í fjörunni eru þar nógar, en brúkast ekki nema i stærstu viðlögum. Heimræði er þar árið um kríng. Lending í meðallagi. Þar gánga skip ábúanda og nú engin fleiri. Til forna hafa þar irmtökuskip gengið fyrir undirgil’t, kynni og enn nú eins að vera, ef fiskgengdin yxi.
Hjer gengur eitt kóngsskip, tveggja manna far, undirgiftarlaust; ljær ábúandi skipshöfninni húsrúm í bænum betalíngslaust af umboðsmanns hendi. (Soðningarkaup gefa Þeir sjálfir). Þetta kóngsskip hefur i mörg fyrirfarandi ár stundum hjer verið, stundum ekki, eftir því sem umboðsmanninum litist hefur. Engjar á jörðunni öngvar. Selstöðu á jörðin í almenníngi, eru þar hagar góðir, en vatnslaust í þerrasumrum. Aðra selstöðu á jörðin í Lónakotslandi, so sem á mót þeim skipsuppsátrum, er Lónakotsmenn kafa við Óttarstaði. Peníngur og stórgripir ferst hjer oft i gjám, ef ei er vandlega aðgætt, helst á vetur þá snjóar yfir liggja. Kirkjuvegur er hjer í lengra lagi.
Torfstúnga er so gott sem engin til heyja, þaks og húsa.“ JÁM III, 161.

Sigurðarhellir – hellir/ bústaður

Sigurðarskúti

Sigurðarskúti.

„Langt suður af þessu er klapparhæð, er hefnist Sigurðarhæð. Vestan í henni er hellisskúti, sem Sigurðarhellir heitir. Hleðsla mikil er við skútann og á einhver Sigurður að hafa haldið þar til í gamla daga, enda var alvanalegt, að flökkukarlar hefðust við í þessum hellum.“ Á Sigurðarhæð er varða en á hæðina er komið af merktum göngustíg sem liggur fram hjá Kúaréttinni. Enginn hellir eða hleðsla er vestan við hæðina en suðaustan hennar, í sömu lægð og Kúaréttin, er um 25 m löng hleðsla áður en farið er upp úr dældinni og upp á Sigurðarhæð. Á öðrum stað í dældinni (vestan í henni) má greina hrundar hleðslur í námunda við lítinn hellisskúta nokkuð hátt uppi í klettahlíðinni. Um 350 m norðan við Reykjanesbraut. Gróin dæld með klettaveggjum á báðar hliðar, norðvestar er klapparhæð (Sigurðarhæð). Varðan er um 0,8 m á hæð en um 1 m á hvern veg. Garðhleðslan áður en farið er upp úr dældinni er um 25 m á lengd en hleðsluleifar fyrir framan hellinn nokkuð ógreinilegar og vart meira en 3-4 m á lengd.

Kúarétt – rétt

Kúarétt

Kúarétt.

„Suðvestur af þessu er mikill klapparrani og hár. Suðaustan í honum er feiknamikið jarðfall. Fyrir endanum á því eru hleðslur miklar, sem nefnast Kúarétt. Þar mun hafa verið nátthagi fyrir kýr.“ segir í örnefnalýsingu. Vestan við Straum, og 210-240 m norðan við Reykjanesbraut er Kúaréttin. Réttin er í grösugri laut milli tveggja 10-15 m hárra klettaveggja að vestan og sunnan. Réttin er byggð upp við austurvegginn. Hún er um 10 m á lengd en mest um 6 m á breidd. Frá vesturenda hennar er einungis um metersbil upp að vestari klettaveggnum. Réttin er gerð úr tveimur hólfum en reyndar virðist það þriðja, sem er nokkru óljósara hafa verið sunnan þess. Réttin er um 1,5 m hæð. Norðvestar í jarðfallinu gengur hleðsla þvert á uppgönguleiðina upp úr því.

Skógargata – leið
„Svonefnd Skógargata lá frá Eyðikotshlíð upp að Óttarsstaðaseli. Þar sem hún lá yfir hæðirnar, var kallað Kotaklifur.“
„Skammt ofan við Kotaklifið er djúpt, sporöskjulaga jarðfall við götuna. Er það kallað Hlandkoppsgjörð. Þaðan liggur stígurinn um einstigi, og blasir þá við klapparhóll með þúfu á, nefndur Spói. Er þá komið upp að Reykjanesbraut. Frá Stóra-Nónhól vestur að Spóa eru kallaðir Nónhólar.“ segir í örnefnalýsingu. Skógargata lá fast vestan við vötnin sem eru vestan við afleggjarann að Straumi. Á þessum stað sjást leifar vegarins sem dæld í hraunið og má sjá slíkar leifar mestan part leiðarinnar. Mosavaxið sprunguhraun.

Stekkur

Jakobsstekkur

Jakobsstekkur.

„Norðan undir [Jakobsvörðuhæð] er eins og ævagamall stekkur eða rétt. Hæðin er suður af Klofa fyrrnefndum, við götuslóða, sem lá neðan frá Óttarsstöðum upp að fjárborg, sem er þarna miklu ofar.“ segir í örnefnalýsingu. Slóðinn að Kristrúnarborg hefur líklegast legið í námunda við Reykjanesbraut um 1 km austan við þar sem slóði liggur frá Reykjanesbraut og að Lónakoti (þar á móti slóði að Rauðamel). Mosagróið hraun. Allmikið rask hefur orðið vegna vegagerðar á þessum slóðum og eru því merki leiðarinnar ógreinileg í námunda við Reykjanesbraut.

Kotaklifsvarða – varða

Kotaklifsvarða

Kotaklifsvarða.

„Á háhæðinni á Kotaklifinu, við Skógagötuna, er Kotaklifsvarða.“ segir í örnefnalýsingu. Framhjá Kúaréttinni og áfram til norðvesturs er gönguleið sem merkt er með stikum. Ef gönguleiðinni er fylgt til norðvesturs er farið fram hjá Kotaklifsvörðu sem er 420-430 m norðan við Reykjanesbraut. Varðan stendur í mosagrónu hrauni. Hún er um 1,7-1,8 m á hæð og er mest um 1,5 m í þvermál. Hún mjókkar mjög mikið upp.

Goltravarða – varða
„Skammt ofan við Kotaklifið er djúpt, sporöskjulaga jarðfall við götuna. Er það kallað Hlandkoppsgjörð. Þaðan liggur stígurinn um einstigi, og blasir þá við klapparhóll með þúfu á, nefndur Spói. Er þá komið upp að Reykjanesbraut. Frá Stóra-Nónhól vestur að Spóa eru kallaðir Nónhólar. … Langt vestur af Stóra-Nónhól er hóll, sem heitri Goltrahóll. Á honum var Goltravarða, nú fallin.“ segir í örnefnalýsingu. Helst er talið að Goltrahóll sé fast ofan við Reykjanesbraut þar sem nokkrar hæðir eru um 660 m vestan Straums. Á þessum hæðum eru nokkrar vörður en þær eru fremur litlar og sýnast ekki geta verið fornar. Mosavaxnar klettahæðar.

Smalakofahæð – smalakofatóft

Smalaskáli

Smalaskáli.

Afleggjari liggur frá Reykjanesbraut í átt að Lónakoti. Beint á móti þessum afleggjara er á Reykjanesbraut annar slóði til suðurs. Ef honum er fylgt í suðurátt greinist hann í tvennt um 250-300 m frá Reykjanesbraut. Ef götunni sem þar liggur til austurs er fylgt í um 300 m má sjá Smalakofahæð svotil beint sunnan við slóðann, nálægt Rauðamel. Smalakofinn er um 300-400 m sunnan við Reykjanesbraut. Hæðinn er grýtt en gróin mosa. Nokkrar gjár eru ofan í hana. Smalakofinn er um 2 m á lengd en 1 m á breidd. Hann er um 0,4 m á hæð. Op er á smalakofann til norðurs.

Straumur – býli

Stramur

Straumur – túnakort 1919.

1547-48 er jarðarinnar getið í fógetareikningum. DI XII, 114. 1703 var jarðardýrleiki óviss, jörðin konungseign. Þá var eins eyðihjáleiga á jörðinni Lambhúsagerði. 1847: 12 1/2 hundr. Hafnarfjörður keypti hluta úr landi jarðarinnar árið 1947 og áskildi sér forkaupsrétt á öðrum hlutum hennar árið 1966. ÁG: Saga Hafnarfjarðar 1908-1983 I, 108, 115.
1703 eru engar engjar á jörðinni. 1919: Tún 1,4 teigar, allt slétt, garðar 560 m2. „Straumstúnið lá á hryggjum, hæðum og lægðum uppgrónum, og gætti jafnvel flóðs og fjöru í sumum lægðunum.“ Ö-Straumur, 3
„Straumsbærinn stóð á hraunhrygg lágum, þar sem nú stendur Straumshúsið.“ segir í örnefnaskrá. Gamli Straumsbærinn var einmitt þar sem steinsteypta húsið stendur nú í Straumi. Ekki er lengur búið í Straumi en húsið er nýtt sem listamannamiðstöð. Gamli bærinn sem stóð á þessum stað fram á þriðja áratug 20. aldar brann. Bærinn er um 170-180 m norðan við Reykjanesbraut. Ekki er merkjanlegur bæjarhóll á þessum stað. Þar stendur nú steinsteypt íbúðarhús og malarhlað allt í kring.
1703: Jarðardýrleiki óviss, konungseign, samkvæmt Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns III, 163.
1847: 12 1/2 hdr., bændaeign, samkvæmt Jarðatali Johnsen, 110.
1547-48 er jarðarinnar getið í fógetareikningum. DI XII, 114.
1491, 10.05: Rætt um deilur Hansakaupmanna og Englendinga. Hansakaupmenn ráku m.a. þá
ensku úr höfninni í Straumi. DI XVI, 449.; Sjá einnig sama bindi, 553.

Straumur

Straumur.

1501, 11.10: Jörðin Straumur út í Hraunum er í Besstaðakirkjusókn. DI VII, 586.
Eyðibýli 1703: Lambhúsgerði.
Hafnarfjörður keypti hluta úr landi jarðarinnar árið 1947 og áskildi sér forkaupsrétt á öðrum hlutum hennar árið 1966. ÁG: Saga Hafnarfjarðar 1908-1983 I, 108, 115.
1919: Tún 1,4 teigar, allt slétt, garðar 560 m2.
1703: „Selstöðu á jörðin þar sem heitir Straumssel, þar eru hagar slæmir, en oft mein að vatnsskorti þá þurkar gánga. Skóg til kolgjörðar og eldiviðartaks brúkar jörðin í almenníngum, líka er stundum hrís gefið nautpeníngi. Torfrista og stúnga í skárra lagi. Lýngrif getur jörðin ogso haft í almenníngum. Rekavon nær engin. Hrognkelsafjara nokkur. Skelfiskfjara hjálpleg til beitu. Heimræði er árið um kring og lendíng góð, og gánga skip ábúandans eftir hentugleikum. Inntökuskip eru hjer engin, en hafa þó áður verið og ábúandinn þegið undirgift af. Engjar eru öngvar.“ JÁM III, 164.

Lambhúsagerði – býli

Straumur

Óttarsstaðir/Straumur – örnefni og minjar. Uppdráttur ÓSÁ.

„Lambhusgierde forn eyðihjáleiga af Straumi, hefur í eyði legið fram yfir allra þeirra minni, sem nú eru, sýnist valla upp aftur byggjast kunni, þar fyrir að bóndinn á Straumi kann ekki af skaðlausu af sinni grasnautn so mikið af að leggja að bjarglegt verið, meðan hjáleigutúnin skyldi komast í rækt aftur.“ segir í jarðabók Árna og Páls.
„Suðvestan túnsins í Straumi er Gunnarsskarð, sem er raunveruleg hæð. Liggja reiðgötur þar um. Þar rétt hjá er nafnlaust skarð. Norðan við Gunnarsskarð er gömul útgræðsla, Lambhúsagerði. …
Gísli Sigurðsson segir, að seinna hafi þetta verið nefnt Markúsargerði, en heimildarmenn sr. Bjarna kölluðu það Markúsargerði.“ segir í örnefnalýsingu. „Skammt norðan við Straum vestan megin við veginn að Óttarsstöðum á móts við afleggjarann að Þýskubúð [er garðlag].“ Um 380-90 m sunnan við Reykjanesbrautina og 220 m suðaustan við íbúðarhúsið á Straumi eru leifar Lambhúsagerðis. Á þessum stað afmarkar garðlag gamla túnstæðið. Vegarslóði liggur til Straums og áfram til suðurs og liggur hann um 20 m austan við garðlagið. Til móts við Lambhúsgerði er afleggjari að Þýskubúð. Á þessum stað er hraunið grasi gróið milli hraunhæða. Túnið er hæðótt og aflíðandi.
„Nafnið er dregið af því, að Markús Gíslason frá Lambhaga ræktaði þarna þennan blett og flutti heyið í Hafnarfjörð; kunnur formaður í Hraunum. Gísli Guðjónsson kallar kotið ennþá Lambhúsgerði, svo að það nafn er ekki horfið.“ „Túngarðurinn er mikið hruninn og hefur líklega verið nokkuð lengri upphaflega. Nú er hann aðeins að hluta norðan og austan megin, en einnig eru stakar hleðslur, – e.t.v. leifar túngarðs uppi á hraunbungu sunnan megin og fylgja þær sprungu frá austri til vesturs. Garðurinn hefur verið hlaðinn úr mjög misstórum steinum og er op á honum vestantil um 2 m á breidd. Svo virðist sem tekið hafi verið grjót úr vesturgarðinum sunnanverðum um leið að hraunhólnum. Í vesturátt frá norðurgarðinum liggja garðleifar, mjög sokknar og mosavaxnar í beinu framhaldi til vesturs eða VSV upp að, etv. upp á klapparhól sem þar er. Staður þessi var kallaður Markúsargerði … Á þessum stað á að hafa staðið hjáleiga frá Straumi, = Lambagerði til forna.“ Garðurinn er um 2 m á breidd en 0,3 m á hæð. Samtals er hann um 135 m á lengd.

Túngarðar
„Straumstúngarðar voru ekki merkilegir, voru varla nema Norðurgarður og Vesturgarður. Garðar þessir voru lágir og einhlaðnir af hraungrýti.“ segir í örnefnalýsingu. „Túngarður. Um hæðin, hraun og tún, umhverfis tún Straumsbæjarins.“ Túngarða má víða sjá umhverfis tún í Straumi. Ekki er greinilegur suðurgarður en líklegt að en einhverjar garðleifar virðast vera að austan í fjöruborðinu en þær eru víðast hrundar. Greinilegastir eru þó norðurgarðurinn sem er um 90 m norðan við bæ og vesturgarður sem liggur meðfram vesturjaðri túns suður að vötnunum. Garðarnir liggja að mestu yfir gróið en hæðótt hraunsvæði. „Garðurinn fylgir fjörukambinum að vestanverðu, en þar er hann við víðast fallinn. Sumstaðar má sjá hlaðin innskot í garðinn, líklega bátauppsátur. Þar sem hann stendur enn má sjá fallega hlaðinn, um 1,5-1,7,m háan og 1,8 m breiðan garð. Garðinum sleppir niður við sjó að sunnan, þar sem lítill vogur skerts inn í landið, sunnan við Straumsbæina. Norðurgarðurinn er um 90 m norðan við bæinn og nær nú u.þ.b. frá veginum að Óttarsstöðum og austur að fjörunni. Vestan við veginn er sprunginn ílangur hryggur frá austri til vesturs, norðan túnsins. Þar má á stöku stað sjá fátæklegar hleðsluleifar báðum megin sprungunnar og gætu þetta verið leifar túngarðs. Vestan við túnið liggur svo garður með barmi djúprar lautar, við suðvesturhorn fyrrnefnds hryggs, og fylgir brekkubrún til suðausturs. Neðst í brekku u.þ.b. fyrir miðju vesturtúngarðinum er op um 2,5 m breitt og er grjóthrúga við suðurhlið þess, það er því engu líkara en op hafi verið rofið í garðinn a.m.k. hefur það verið stækkað enda óvenju breitt af hliði að vera. Garðurinn liggur svo sem leið liggur suður frá opinu, suður að litlum tjörnum, sem eru norðan við Steinbrú. Þar endar garðurinn og ekki fundust nein merki eftir garð austan vegarins, enda liggur víkin alveg að veginum skammt frá þar sem garðurinn endar.“
Norðurgarðurinn er nálægt því að vera um 90 m á lengd en sá vestari um 130-150 m. Þar sem garðurinn er greinilegastur er hann um 1,7 m á hæð en tæpir 2 m á breidd.

Gunnarsskarð – leið
„Suðvestan túnsins í Straumi er Gunnarsskarð, sem er raunveruleg hæð. Liggja reiðgötur þar um,“ segir í örnefnalýsingu. Um 150 m suðvestan við íbúðarhúsið á Straumi, rétt áður en komið er að tóftinni í Gunnarsskarði má sjá leifar reiðgatnanna um 170-180 m norðan Reykjanesbrautar. Göturnar liggja um grasi gróið svæði en umhverfis eru nokkrir klettar. Vegslóðinn er greinilegur á þessum stað en hann liggur til Gunnarsskarðs en verður ógreinilegri þegar komið er að tóftunum.

Skotbyrgi

Straumur

Straumur – skotbyrgi.

Tvö skotbyrgi eru norðvestan við Tjörnina sem er sunnan við Straumsbæ en norðan við Reykjanesbraut. Byrgin standa á hæð og eru um 10 m á milli þeirra. Byrgin eru 120-150 m norðan Reykjanesbrautar. Byrgin standa á mosagróinni hraunhæð. Byrgið sem hér er lýst er suðaustar. Það snýr norðaustur-suðvesturs og er um 4 m á lengd en 1,5-2 m á breidd. Enginn veggur er fyrir suðausturhlið byrgisins en norðvesturhlið þess er einnig nokkuð hrunin. Byrgið er mest um 0,8 m á hæð.

Brú – samgöngubót
„Steinbrú. Um 15 m suður og utan við túngarð, um 20 m vestur af aðkeyrslunni að bænum.“ segir í fornleifaskrá Þjms. Brúin hefur nú verið skemmd og sést varla fyrir grjóti sem rutt hefur verið yfir hana. Brúin var 160-170 m norðan Reykjanesbrautar. „Brúin liggur yfir dálitla grasi vaxna lægð, sem fyllist að vatni á flóði. Austan við brúna teygir sig langur, en lár sprunginn hraunhóll.“ „Brúin er um 5,8 m löng og 2,3 m breið. Mesta hæð hennar er um 0,85m. Brúin hallar örlítið til austurs, dálítið fram fyrir miðju hennar, þar sem henni hallar til vesturs. Brúin er þannig gerð að kantar eru hlaðnir út nokkuð stóru hraungrýti (0,23-0,5 m) og fyllt upp í á milli með tiltæku grjóti. Brúin er nú gróin að ofan en glittir þó í grjótið undir. Hún snýr nákvæmlega í A-V. Götuslóði liggur brá brúnni í átt að Fjárhússkarði [016] og veg til vesturs, en til norðurs milli hraunhóla í sprungu og til norðurs í átt að bænum. Breidd brúarinnar gæti bent til að hún hafi m.a. verið ætluð dráttarvélum eða vögnum en slíkt er útilokað vegna þrengsla vegna klapparhólanna að austan.“ Brúin var um 6 m að lengd en rúmir 2 m á breidd en erfitt er að greina hana nú þar sem grjót er yfir henni.

Straumsrétt – rétt
Straumsrétt
„Sunnan við Fjárhússkarðið er Straumsrétt.“ segir í örnefnalýsingu. Stekkurinn er enn greinilegur. Hann er um 30-40 m norðan við Reykjanesbraut og um 10 m austur af Tjörn. Einungis eru um 20-30 m á milli stekkjarins og fjárhúsanna. Stekkurinn stendur við tjörn og á grónu sprunguhrauni. Kortablað 1513 II/15, teikning s. 26.
„Stekkurinn skiptist í tvö svæði, þar sem syðri hlutinn er inni á milli lágra og misbrattra klappa um mannhæðar hárra. Milli klappanna þ.e. í stekknum er nokkuð sléttur vel grasigróinn botn. Ofan á klappirnar og á milli þeirra er hlaðinn garður og stendur hann sumstaðar í sem næst fullri hæð. Þar sem hleðslan er hæst er hún 1,3 m en 1,9 ef mælt er frá stekkjarbotni, þar sem hleðslan er ofan á lágri klöpp. Mesta lengd syðri hluta er um 12 m og mesta 13,65 m ytri og nyrðri hluta stekksins er sem næst ferningslaga innri stærð = 8x8m. Hleðslur fylgja klöppum. Sunnan megin og að hluta austan megin að öðru leiti eru hleðslur ofan á graslendi sem hallar til norðurs hleðslan er mikið hruninn, þó nær hún á tveim stöðum 0,75m hæð Br. 0,7-1m. Inngangur er uþb. á miðri norðurhlið.“ (fornleikfaskrá Þjms). Stekkurinn er að stórum hluta náttúrusmíð. Hann er myndaður úr tveimur hólfum. Norðvestara hólfið (það ytra) er hlaðið upp frá tjörninni en inn af því gengur svo annað hólf sem að miklu leyti er náttúrumyndað. Ytra hólfið er 7-8 X 8-9 m að stærð. Inn af því er svo hólf sem er um 11 m á lengd en 3,5 m á breidd vestast en 6 m austast. Þessu hólfi virðist hafa verið skipt upp með garði. Víða eru hleðslur ofan á klettaveggjunum. Inngangur er á miðri norðurhlið.

Fjárhústóft
Straumur
„Hér suðvestan túnsins er Fjárhússkarð og Fjárhúsið í Vatnagörðum.“ segir í örnefnalýsingu. Um 160 m suðvestan við Straumsbæinn, 10 m suðvestan við Straumsrétt og 5 m norðaustan við tjörnina eru hleðslur um 110-120 m norðan Reykjanesbrautar. Hleðslurnar eru í Fjárhússkarði, milli hraunklappa. Svæðið er grasi gróið. Kortablað 1513 II/15, teikning s. 27. „Grjót og torfhleðsla afmarkar langhliðar. Innanmál virðist hafa verið 4×15 m. Breidd hleðslu er um og yfir 1 m. Áberandi er hve austurhleðslan er nú hærri og betur varðveitt. Við suðurgafl er e.k. framlenging á austurhleðslu til suðurs og með fram gaflinum til vesturs. Í þessa hleðslu hefur verið sett gaddavírsgirðing. Girðing þessi fjarlægist síðan grunninn og stefnir skáhallt í NV. Undir vírinn hefur verið hlaðið grjóti .. Hér er líklega um að ræða fjárhússtæði ….“ (fornleifaskrá Þjms). Hleðslurnar eru 5-6 X 17 m að stærð. Þær mynda ferhyrndan grunn sem er opinn til suðvesturs og norðausturs. Hleðslur eru víða um 1 m á breidd en um 0,5 m á hæð.

Leið
Veghleðsla sést í hæðinni norðan við Lambhaga og að garðlaginu sem girðir svæðið af. Hleðslan sést greinilega í brekkunni en fjarar út þegar komið er að gerðinu. Er um 350 m sunnan við Reykjanesbraut. Vegurinn er greinilegastur milli hraunhæðarinnar norðan gerðisins og að gerðinu þar sem grasi gróið er. Kortablað 1513 II/15. „Hleðsla undir veg þar sem hann liggur niður hraunið brekkur ofan af … og niður að Markúsargerði [005]. Vegurinn er niðurgrafinn við Brekkubrún, en hlaðið undir hann neðst í brekkunni, þar sem hún er mjög brött. Hleðslan er um 9 m L. og 2,50 m br. Mesta hæð 0 0,9 m. Vegurinn virðist liggja inn í Markúsargerði, en hann verður óljós og hverfur áður en komið er að ræktaða túninu.“ (fornleifaskrá Þjms). Hleðslan er fremur ógreinileg en sést best þar sem virðist hafa verið hlaðið undir veginn. Slóðinn fjarar hins vegar út um leið of komið er niður á sléttlendi, áður en farið er inn í Markúsargerði.

Garðlag
„Garður liggur frá vestur opi Straumsvíkur í nánast beina stefnu 218°eða SV.“ Garðurinn er mestmegins greinanlegur sunnan við Reykjanesbraut girðir þar af flöt ofan brautar. „Nokkuð úfið hraun með grasblettum í lautum.“
Kortablað 1513 II/15. „Garðurinn er lágur, aðeins ein til tvær steinaraðir, þar sem land er slétt en hærri yfir ójöfnum.
Á stöku stað eru mjög fúnir staurar, svo að hér mun hafa verið vírgirðing. Garðurinn heldur beinni stefnu nema á stöku stað þar sem hann þræðir fyrir kletta. Stefnan er um 218°þar til um 50 m sunnan Reykjanesbrautar þar sem er rétt horn og stefnir garðurinn þaðan í 136°, þessari stefnu heldur garðurinn í um 155 m (N.b. stikað í hrauninu) eða suður fyrir dálitla klappahæð, þaðan stefnir hann beint í 86°og stefnir þá rétt utan í gamla þjóðveginn, norðan megin, þar sem hann liggur nyrst á þessu svæði. Þessi stefna helst þar til um 4 m norðan við gamla þjóðveginn um 5 m vestan við afleggjarann að Þorbjarnarstöðum. Þaðan er stefnan 44°og hverfur garðurinn undir Reykjanesbraut og stefnir þá á rauð-hvítaköflótta turna Álversins. Garðurinn mundar því strýtulaga svæði, vestur og suður frá Straumsvík. Það má telja næsta víst að þetta séu landamerki heimajarðarinnar Straums. Lengd garðshliðanna talið frá norðanverðri Straumsvík er því nálægt því að vera eftirfarandi A= 1150m. B= 155m. C= 870m. D=120m. Samtals 2295m.

Þorbjarnarstaðir – býli

Þorbjarnastaðir

Þorbjarnastaðir – túnakort 1919.

1395 er minnst á eyðijörðina Þorbjarnarstaði í skrá um kvikfé og leigumála á jarðeignum Viðeyjarklausturs og telja útgefendur DI það var þessa jörð. DI III, 598. 1547-48 er jarðarinnar getið í fógetareikningum. DI XII, 114. 1703 var jarðadýrleiki óviss og var jörðin konungseign, þá er Lambhagi hjáleiga frá Þorbjarnarstöðum en byggð af Bessastaðamönnum.. 1847: 12 1/2 hundr.
1703 eru engjar engar á jörðinni. 1919: Tún 1,4 teigar, allt slétt og hólótt, garðar 500 m2.
„Bærinn stóð í túninu því nær miðju, og sneru stafnar við suðvesturátt.“ segir í örnefnalýsingu. „(Bæjarhús) Bæjarstæði. Um 500 m sunnan vegar suður af Straumi.“ segir í fornleifaskrá Þjms. Bæjarhúsin á Þorbjarnarstöðum eru um 300 m sunnan við Reykjanesbraut. Götuslóði liggur til suðurs frá Reykjanesbraut á móts við afleggjarann að Straumi. Ef slóðanum er fylgt beygir hann til austurs og fljótlega liggur afleggjari af honum til suðurs, inn í tún á Þorbjarnarstöðum.
Bæjartóftin er greinileg og stendur nálega í túninu miðju.
Umhverfis túnið liggur tvíhlaðinn, grjótgarður. Túnið er ræktað á hraunlendi, það er ójafnt með lautum, gjótum og hæðum. Kortablað 1513 II&15, reikning bls. 37-38.

Þorbjarnastaðir

Þorbjarnastaðir.

Ferhyrndar afrúnaðar rústir þar sem greina má 4 e.t.v. 5 hús í sjálfum bæjarhólnum. Legar eftir langhlið er N-S. Bæjarstæðið stendur hæst í túninu, sem hallar mest til vesturs frá bæjarstæðinu. Vestan við rústirnar er afgyrtur blettur e.t.v. matjurtagarður. Stærð: L: Vesturhlið 18,5 m. L. Austurhlið 19,5 m. Br. Suðurhlið 12,5m. Br. Fyrir miðju 15,5 m. Br. Norðurhlið 11 m. h., 1-2 m. Bæjarstæðið/bæjarhóllinn er algróinn þó glittir í steinaröð meðfram allri austurhliðinni. Grjóthleðslur eru vel sjáanlegar í tveimur húsanna. … N-Naustan í Bæjarrústunum … Ferhyrnt hús í stefnu SV-NE. Um 45 m breiður og 150 m langur inngangur á NA hlið. Innanmál hússins hafa verið u.m.b.: L. 4,2m Br. 2,3m. Húsið hefur verið grafið niður í bæjarhólinn og veggir hlaðnir úr Hraungrýti. Ofan á grjóthleðslunni og þar með ofan á bæjarhólnum má greina 90-100 m breiða og 10-15 m háa garða úr torfi. Líklega leifar af þekjunni. Dýpt niðurgraftar/hæð veggja gæti hafa verið allt að [ólæsilegt] … ef miðað er við lægstu hæð á inngangi og hæst hæð á vegg við gafl, en gólf hússins er nú þakið hraungrýti en hallar nokkuð frá gafli að inngangi. Hæsta mælanlega hæð á vegg nú er 0,95 m. Vegghleðslan stendur að mestu leiti enn, nema við inngang. Veggir eru vel grónir en hraungrýtið á botni hússins er lítt grasi gróið. Með langhliðunum rétt við innganginn eru lagnir bekkir úr grjóti sjáanlegir. Um 30 cm á br. og 25 cm á hæð, e.t.v. undirstöður að jötum. … Norðanmegin í bæjarrústum … Ferhyrndur niðurgröftur, sem liggur frá´SA-NV, með opi til Nvesturs. Gólf hússin óvíst, þar sem grjót fyllir að mestu upp í niðurgröftinn. Allur er niðurgröfturinn mikið gróinn, en þó glittir í steina í vegghleðslum hér og þar í steina á botni. Um 50 cm breiðir og 10-20 cm háa torf bungur/garðar eru sjáanlegir meðfram NA langhlið og gafl. S-vestan megin við húsið er bæjarhóllinn mjög þýfður og þess vegna er ekki greinanlegur garður þar. Innanmál: 1,5-2,5. Innanmál inngangs: u.þ.b. 0,2-1,5m. Inngangur er illgreinanlegur vegna hruns og þýfis. Dýpt niðurgreftrar, eins og hann er nú er 25-60 cm.

Þorbjarnastaðir

Þorbjarnastaðir.

Hæðarmunur á túninu framan við inngang og hæstu veggjar hæðar við gafl er um 175 cm. … Norðvestan í bæjarrústum … Nær ferningslaga tóft, sem snýr u.þ.b. NA-SV, með inngangi á SV hlið, fast við SA hlið. Veggir eru hlaðnir úr hraungrýti, en hrunið hefur ofan af þeim. Þó er hleðslan, enn vel sjáanleg allstaðar. Veggurinn er nú hæstur í A horni um 90 cm, en lægstur við innganginn eða um 50 cm. Nokkuð hrun er á botni tóftarinnar, mest Nvestan megin, en grjótið er að mestu hulið grasi nú. Ytri brún veggjanna er vel sjáanleg, sérstaklega NV og Naustan megin þar sem einnig sést ytri brún grjóthleðslu. Naustan hleðslan er 110 cm br. Nvestan megin hefur hún líklega verið jafn breið, en mælist nú aðeins 70 cm, enda hrun meira þeim megin. Ytra mál: 5,75x450m. Innra mál: Br. (þ.e. frá NA-SV)=2,50m. L. (þ.e. frá NV-SA) = 2,8 m. … Vestan í bæjarhúsum … Um 10 m breið (N-S) og 7-8 m löng (A-V) tóft. Norðan megin við miðju tóftarinnar er lágur (undir 20 cm) og breiður garður [meira en 2 m] sem liggur frá´gafli að inngangi þ.e. A-V. Tóftin er öll opin til vesturs, svo þar hefur sennilega verið viðarþil þó engar leifar af því séu sjáanlegar. Í suðurhlið tóftarinnar er ferhyrndur viðurgröftur 2 m á br. 4 m á l. fylltur upp með hraungrýti gæti verið jarðhýsi. Við austurgafl, norðan við lága garðinn (vegginn) er um 1,5 m breiður bekkur, jafnhár fyrrnefndum garði. Öll er rústin mjög grasivaxinn, nema yfir niðurgreftrinum með hraungrýtinu – og sést ekkert grjót í veggjum, nema á einum stað við austurgafl, sunnan megin.“ (fornleifaskrá Þjms).
Bæjartóftin er allgreinileg og snýr norður-suður. Tóftin stendur á lágum bæjarhól. Hún er um 23 X 13 m að stærð og virðist hafa skipst í 5 hólf þó skilin milli tveggja þeirra séu ekki skýr. Húsið virðist byggt ofan í bæjarhólinn og hlaðið meðfram hólnum, jafnvel þar sem engin hólf eru. Fram snúa 2-3 hólf. Nyrst er lítið hólf (A=2,5 X 2,5 m að innanmáli) sem er alveg grjóthlaðið að innan en sunnan við það tekur við langt hólf sem virðist helst hafa verið skipt í tvennt með vegg sem nú er alveg hruninn og gróinn. Nyrðra hólfið sem veggurinn myndar (B) er um 2-2,5 m á breidd en 7 m á lengd. Syðra hólfið (C) (sem er einnig syðsta hólf bæjarins) er hinsvegar um 5 m á breidd og 7 m á lengd. Mikið grjót er í þessu hólfi sunnarlega. Ofan við (A) hólfið, á norðurhlið er lítið hólf (D) sem er um 3 m á lengd en 2 m á breidd og er nokkuð að grjóti inn í því. Á vesturhlið bæjarins (að baka til) er eitt hólf (E) hlaðið að innan og 4,5 X2,5 m að stærð. Op er á miðjum vesturvegg þessa hólfs og nokkuð af grjóti er á víð og dreif um hólfið.

Þorbjarnastaðir

Varða við Þorbjarnastaði.

1703: Jarðardýrleiki óviss, konungseign, samkvæmt Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns III, 164.
1847: 12 1/2 hdr., bændaeign, samkvæmt Jarðatali Johnsen, 110.
1395 er minnst á eyðijörðina Þorbjarnarstaði í skrá um kvikfé og leigumála á jarðeignum Viðeyjarklausturs og telja útgefendur DI það var þessa jörð. DI III, 598.
1547-48 er jarðarinnar getið í fógetareikningum. DI XII, 114.
Hjáleiga 1703: Lambhagi.
1919: Tún 1,4 teigar, allt slétt og hólótt, garðar 500 m2.
1703: „Skóg hefur jörðin átt, en nú má það valla kalla nema rifhrís, það hefu r hún so bjarglega mikið, að það er bæði brúkað til kolgjörðar og eldiviðar, og so til að fæða peníng á í heyskorti. Aldrei ljá það búendur til annara, og eru þetta þau skógarpláts, sem almenníngar eru kölluð. Torfrista og stúnga í lakasta máta og ekki bjargleg. Fjörugrasatekja nægileg fyrir heimilissmenn. Berjalestur hefur til forna verið til gagns af einirberjum, nú eru þau mestanpart eyðilögð. Rekavon næsta því engin. Sölvafjara nokkur má vera en brúkast ekki. Hrognkelsafjara nokkur og stundum að gagni. Skelfiskfjara naumlega til beitu. Heimræði er árið um kríng og lendíng góð, en leib til að setja skip mjög ill og erfið; þó gánga skip ábúenda eftir hentugleikum árið um kríng. Item hafa hjer bátar frá Bessastaðamönnum gengið til forna, og verið kallaðir kóngsskip, þó ekki stærri en tveggja manna far, og fleiri en eitt í senn um vertið. Hafa bændur hýst þá, er bátnum róið hafa og ekkert fyrir þegið nema soðníngarkaup af hásetum. En þetta hefur ekki verið i næstu þrjú ár. lnntökuskip hafa hjer aldrei gengið önnur en þessi i næstu fimtíi ár. Engjar eru öngvar.“ JÁM III, 166.

Lending
„Heimræði er árið um kring og lendíng góð, en leið til að setja skip mjög ill og erfið; þó gánga skip ábúenda eftir hentugleikum árið um kring. Item hafa hjer bátar frá Bessastaðamönnum gengið til forna, og verið kallaðir kóngsskip, þó ekki stærri en tveggja manna far, og fleiri en eitt í senn um vertíð. Hafa bændur hýst þá, er bátunum róið hafa og ekkert fyrir þegið nema soðníngarkaup af hásetum.“ segir í jarðabók Árna og Páls. Ekki er vitað hvar þessi lending var en líklegast er að hún hafi verið í námunda við Litla-Lambhaga t.d. þar sem áður var Hlöðuvík skammt suðaustan við bæjarstæði Litla-Lambhaga. Þar sem fjaran var hafa miklar framkvæmdir átt sér stað og var víkin í námunda við þar sem nú er Reykjanesbraut. Þorbjarnarstaðamenn munu hafa átt lendingu á svipuðum stað og Lambahagamenn, líklega í Hlöðuvík.

Tóft

Straumur

Tóft utan í Reykjanesbraut við Straum.

Tóft sést enn vel um 310-320 m norðan við Þorbjarnastaði og um 210 m suðsuðaustan við Straumsbæinn. Tóftin er að hluta undir Reykjanesbrautinni, þ.e. í norðurkanti brautarinnar. Tóftin er til móts við Péturskot og Fagravöll og ekki er ólíklegt að hún hafi verið innantúns áður en Reykjanesbrautin var lögð. Tóftin er í vegakanti Reykjanesbrautar, á hæð rétt ofan við Straumsvík. Kortablað 1513 II/15, teikning s. 27.
„Ferhyrnd grjóthleðsla, mikið hrunin, þó er vesturlangveggur nokkuð heillegur á kafla. Br. = 0,9m H (mesta hæð) = 1,2 m. Breidd að utan máli er 4,8m. Ef gert er ráð fyrir að allir veggir hafi verið 0,9 m breiðir, þá er innri breidd um 3 m. Vegna þess að hluti stekksins er undir vegakanti Reykjanesbrautar og einnig vegna hrauns, er erfitt að sjá nákvæmlega önnur mál. Innri lengd stekksins eins og hún sést nú er 8 m, en hann mun vera eitthvað lengri. Engan inngang er að sjá.“
(fornleifaskrá Þjms).
Tóftin er ferhyrnd en ekki alveg regluleg. Hún liggur skáhallt til norðvesturs-suðausturs, en norðvesturveggur hennar er nokkuð mishár og nær hæst í um 1,2 m. Ekki er hægt að greina inngang á tóftinni og ekki má nú greina nema eitt hólf en hluti tóftarinnar er undir Reykjanesbraut og því erfitt að segja nokkuð um upprunalega lögun. Nokkuð af grjóthruni er inn í tóftinni.

Túngarður

Þorbjarnastaðir

Þorbjarnastaðir – uppdráttur ÓSÁ.

„Túnið var umgirt túngörðum á alla vegu.“ segir í örnefnalýsingu. „Umhverfis tún [heimatún) Þorbjarnarstaða [er túngarður], fyrir utan garðinn nokkuð gróið hraun.“ segir í fornleifaskrá Þjms. Túngarður sést enn umhverfis tún á Þorbjarnarstöðum. Garðurinn er hlaðinn úr grjóti og er greinilegur allt umhverfis túnið. Garðurinn er minnst 210-220 m sunnan við Reykjanesbraut. Túngarðurinn er umhverfis tún sem hafa verið ræktuð á hrauni. Í túninu er mikið um hæðir og lautir og gengur garðurinn í miklum hlykkjum og hæðum að þessum sökum. „Túngarðurinn myndar óreglulegan hring … Að hluta hefur garðurinn verið færður út þannig að leifar tveggja garða er nú að sjá. Girðing hefur verið sett ofan á garðinn hefur verið sett ofan á garðinn og þá ytri garðinn þar sem garðarnir eru tveir. Þetta er gömul gaddavírsgirðing. Op er á gamla garðinum við traðirnar. Vegna hruns er ekki gott að sjá breidd opsins (100-150 cm). Breidd gamla garðsins er 120-150 cm og hæð þar sem hann er minnst hrinin er 140cm. Nýrri garðurinn er einhverskonar undirstaða undir gaddavírsgirðingu og er aðeins einföld eða stundum tvöföld steinaröð hæð = 50 cm.
Op er á yfir girðingin við bílatroðninginn að norðan verðu. Garðarnir eru u.þ.b. 500 m langir.“ (fornleifaskrá Þjms).
Túngarðurinn er óreglulegur. Hann er tvöfaldur á stórum parti og er bilið milli garðanna tveggja nokkuð mismunandi. Frá því að vera 1-2 metrar og upp í þó nokkra metra. Innri garðurinn er breiðari og ellilegri og er hann víða allt að 1,5 m á breidd. Garðarnir eru rofnir á nokkrum stöðum, t.d. þar sem bílsóði liggur inn á túnið. Á ytri garðinum er gömul vírgirðing. Garðarnir eru um 500 m að lengd.

Réttarstígur – leið
„Frá norðurhliði bæjarins lá svo Réttarstígur út í Réttarhliðið.“ segir í örnefnalýsingu. Réttarstígur var slóði sem lá í túninu um 100 m norður að Þorbjarnarstaðarétt sem er fast utan við túngarðinn. Leiðin hefur verið á svipuðu slóðum og bílslóði sem liggur nú inn í túnið, á bilinu 200-300 m sunnan við Reykjanesbraut. Ekki eru greinileg merki um stíginn í túninu sem er allt í lautum og hæðum.

Mosastígur – leið
„Í skrá Gísla Sigurðssonar segir: „Heiman frá bænum í suðvestur lá Mosastígur út í Mosaskarð, sem þar var á garðinum.“ Þessi örnefni kannast sr. Bjarni og heimildarmenn hans ekki við.“ segir í örnefnalýsingu. Ekki sést nú neinskonar stígur til suðvesturs frá bænum. Stígurinn hefur legið í gegnum túnið sem er gróið í hæðóttu hraunlendi.

Brú

Lambhagi

Lambhagi.

„Stífla/Brú, Steinbrú. Liggur milli fastalands og hólma í Straumsvík innarlega, um 10 m norðan við Reykjanesbraut,“ segir í fornleifaskrá Þjms. Steinbrúin er hluti af Pétursspori. Hún er um 15 m sunnan við Reykjanesbraut og norðaustan við tóft. Hleðslan er í Straumshólmum sem eru mosa- og grasivaxnir klettahólmar. Kortablað 1513 II/15. „Um 0,5 m hár 8 m l. og 2-1,5 m breiður grjótgarður milli lands og hólma. yfir hann er hægt að komast þurrum fótum, nema í stórstraumsflóði. Garðurinn er nú mjög grýttur og erfiður yfirferðar en líklega hefur verið tyrft ofan á hann svo að bæði menn og skepnur hafi átt auðvelt með að ganga í hólmann, því hann er vel grasi gróinn og góður til beitar. G.S. segir að vegir eða hleðslur sem þessi yfir tjarnir o.s.frv. hafi verið kallaðir steinbogar. Í Örnefnaskrá G.S. yfir Þorbjarnarstaði er talað um stíg út í Hólmana, sem kallaður var Pétursspor.“ (fornleifaskrá Þjms). Hleðslan er 7-8 m á lengd og um 1,5 m á breidd. Hæð hennar er 0,4-0,5 m.

Brunntjörn – brunnur

Þorbjarnastaðir

Brunnur í Brunntjörn.

„Frá traðarhliðinu lá Brunngatan út í Brunninn, sem var í Brunntjörninni.“ segir í örnefnalýsingu. Brunntjörn er beint austur af Þorbjarnarstaðabæ. Traðirnar liggja til austurs frá sundinu milli bæjar og útihúss og að túngarði en þaðan tekur Brunngatan við niður að tjörninni. Síðasti hluti Brunngötunnar gengur út í tjörnina og við enda hennar sést enn hringlaga hleðsla utan um „brunninn“. Brunnurinn er 310-320 m sunnan við Reykjanesbraut. Brunnurinn er úti í Brunntjörn en nokkuð grunnt er í og við hann. Brunnurinn er um 1,5 m í þvermál og nú mjög grunnur.

Straumsstígurinn – leið

Straumsselsstígur

Straumsselsstígur.

„Meðfram austurtúngarðinum lá Straumsstígurinn, og fylgjum við honum norður með garði.“ segir í örnefnalýsingu.
Straumsstígurinn er enn vel greinanlegur austan með túngarðinum. Hann lá frá Straumi, undir þar sem Reykjanesbrautin liggur nú meðfram túni á Þorbjarnarstöðum og áfram til suðurs. Stígurinn sést sem einskonar dæld í grasi vaxið hraunið austan túngarðs.
„Straumsselsstígur: Svo hét Straums- og Þorbj. st. gatan og aðallega þar sem gata þessi lá til seljanna,“ segir í skrá yfir örnefni og fiskimiðin í Álftaneshreppi hinum forna eftir Gísla Sigurðsson. Leiðin er merkt inn á herforingjaráðskort frá 1911. Þar má sjá að leiðin hefur legið frá Suðurnesjavegi og til norðurs og endað við Lónakot. Leiðin sést vel í landi Þorbjarnarstaða, suðvestan við Brunntjörn, um 290 m norðaustan við Þorbjarnarstaðabæ og rúmum 70 m sunnan við Reykjanesbraut. Leiðin er vörðuð. Gatan þræðir dældir og grónar lægðir á svæðinu og víða eru grónar klettahæðir í hrauninu á þessum slóðum.
Straumsseslstígur sést sem ein mosagróin gata. Leiðinni var fylgt á 80 m löngum kafla innan úttektarsvæðis sem rannsakað var vegna breikkunar Reykjanesbrautar 2020 en leiðin nær þó lengra til suðurs. Til norðurs hverfur hún undir Reykjanesbrautina. Ekki sér til götunnar norðan við brautina innan rannsóknarsvæðis. Þar sem gatan sést innan úttektarsvæðis er hún 0,5 m breið og liggur nálega norður-suður. Hér og þar stendur þó grjót upp úr mosanum á leiðinni.

Þorbjarnarstaðarétt – rétt

Þorbjarnastaðarétt

Þorbjarnastaðarétt.

„Við norðurtúngarðinn var Þorbjarnarstaðarétt, vel hlaðin rétt af grjóti. Þar var haustrétt fyrir Innhraunin eða AusturHraunabæi, þ.e. Litla- og Stóra-Lambhaga, Gerði, Þorbjarnarstaði og Péturskot.“ segir íörnefnalýsingu. Um 100 m norðan við bæjartóftina og fast norðan við túngarðinn þar sem hann fer yfir háar klappir stendur réttin enn. Réttin er fast vestan við bílslóðann sem liggur inn túngarðinn á Þorbjarnarstöðum og um 200 m sunnan við Reykjanesbraut.
Réttin er fast norðan við túngarðinn þar sem hann liggur ofan á Sölvhól sem er aflöng klöpp. Þessi klöpp er að hluta notuð í suðurvegg tóftarinnar. „Réttin er byggð norðan íhraunklöppum, og nýtast klappirnar þannig sem veggir. Þó er að mestu hlaðið hraungrýti ofan á klappirnar þ.e. hlaðnir veggir.

Þorbjarnastaðarétt

Þorbjarnastaðarétt.

Veggir eru mjög misþykkir, og eru þeir sumstaðar aðeins hlaðnir út einfaldri röð steina, en annarstaðar eru þeir allt að 2 m þykkir. Veggirnir eru hlaðnir úr meðalstóru (20-50 cm á kant) hraungrýti, og eru um 1,6 cm háir þar sem þeir standa hæst nú. Sumstaðar er nokkuð hraun, en hvergi svo mikið að ekki sé hægt að sjá staðsetningu þeirra vel. Nokkrar timburleifar eru í réttinni. Eru það [ólæsilegt]lega leifar af hliðargrindum við innganga en einnig eru hér nokkrar trönur, allt nokkuð fúið. Réttin myndar einn almenning og tvö minni hólf til sitthvors enda. Hún er um 33 m löng og 10 m breið þar sem hún er breiðust (Hér er því um frekar litla rétt að ræða, sennilega aðeins verið ætluð til brúks frá Þorbjarnarstöðum).“ (fornleifaskrá Þjms).
Réttartóftin er um 32 m að lengd en um 10 m á breidd. Hún samanstendur af 4 hólfum. Vestast er hólf sem er 10 X 10 m að utanmáli og ekki er lengur greinilegt op á því. Austan þess er stærsta hólf réttarinnar en það er 18 X 6 m að stærð og eru 3 op á því. Fyrst er að nefna op vestarlega á norðurhlið garðsins. Annað op er fremur norðarlega á austurvegg hólfsins. Í þriðja lagi er svo opið (enginn veggur) fyrir vesturhlið minna hólfs sem gengur út úr því áðurnefndu. Þetta hólf er 4 X 2,5 m að innanmáli. Fast austan þess er annað hólf en ekki er opið á milli. Þetta austasta hólf tóftarinnar er 2,5-3 m á breidd og 5 m á breidd. Réttin er byggð inn í hraunklappir sem eru sunnan í/við tóftina en þó er hlaðið allan hringinn. Veggir tóftarinnar eru misþykkir allt frá 0,4-0,5 til 2 m. Í tóftinni eru leifar af timbri.

Péturskotsstígur – leið
„Litlu norðar var Péturskotsstígur. Hann lá yfir að Péturskoti, sem var þurrabúð í Þorbjarnarstaðalandi.“ – „Norðan traðarveggsins nyrðri var í túninu Dalurinn nyrðri, smádalur, sem dýpkaði og endaði með hamravegg og hálfgerðum skúta. Kringum dalinn var Flötin nyrðri, lítil lægð í túninu. Hér um lá Lambhúsgatan eða Sjávargatan út gegnum Lambhúshliðið eða Sjávarhliðið.“ segir í örnefnalýsingu. Stígur lá frá bænum á Þorbjarnarstöðum og fram hjá Lambhúsinu, áfram til Péturskots og síðan til sjávar. Þessi stígur var því ýmist nefndur Lambhússtígur, Péturskotsstígur eða Sjávarstígur eftir því hvert til stóð að fara. Slóðinn sést í námunda við Fagravöll, neðan við Línuveg og að bæjarstæði Péturskots en hverfur þar undir Reykjanesbraut. Gatan liggur að mestu um gróið hraun. Víða má enn sjá dæld í gróið hraunið þar sem gatan hefur legið.

Péturskot – býli

Péturskot

Péturskot – túnakort 1919.

„Litlu norðar var Péturskotsstígur. Hann lá yfir að Péturskoti, sem var þurrabúð í Þorbjarnarstaðalandi. Var það fyrst byggt fyrir aldamót af Pétri Péturssyni, Helgu konu hans og Signýju dóttur þeirra. Þarna var ofurlítið tún, og var túngarður umhverfis það.“ segir í örnefnalýsingu. Péturskot er 220-230 m norðnorðaustan við Straumsbæ og 280-290 m suðsuðvestan við Þorbjarnarstaðabæ. Péturskot er fast sunnan Reykjanesbrautar og ganga austur og vesturtúngarðar bæjarins undir veginn. Ekki eru nú miklar leifar bæjarins eftir en þó má sjá rústir 5 m sunnan við Reykjanesbraut og 80-90 m austar en heimreiðin heim að Straumi.
Vesturhlið túngarðsins fer undir Reykjanesbraut um 26 m vestan við bæjarrústina og 50-60 m austan við afleggjarann að Straumi en austurhliðin fer undir Reykjanesbraut um 20 m austan við tóftina. Um 50 m austan við austari túngarðinn og rétt ofan við Reykjanesbraut eru tveir steyptir grunnar. Kotið er byggt í grónu hrauni. Túnið er í hæðum og lautum. „Garðurinn kemur undan Reykjanesbrautinni að austan og stefnir um 25-30 m í SA. Þar sem hann endar við inngagn. Inngangurinn er um 1,75m breiður og myndar hús/fjárhús nr 112 vesturhlið hans.
PéturskotVestan heldur garðurinn fyrst í SV og síðan vestur yfir nokkuð slétt eða ávalt tún og fylgir klöppunum. U.þ.b 80 m vestan við fjárhúsin sveigir garðurinn til norðurs niður dálitlar klappir en sveigir svo til NA og endar hann við langar klappir um 10 m suður af Reykjanesbraut. Garðurinn er gerður úr hraungrýti, en er mjög misjafnlega þykkur. Einna best hlaðinn er hann austan megin, frá Reykjanesbraut að inngangi. Hér er hann 1,2 m á hæð þar sem hann er hæstur og 1-1,3 m á breidd. Frá fjárhúsi og vestur og norður og niður klappirnar er garðurinn aðeins einföld og stundum tvöföld röð grjóts og mjög lágur (e.t.v. tekið grjót úr honum). Norðan við er hann aftur orðin breiður en hér er hann mjög mikið hruninn fyrir utan áðurnefnt fjárhús er í túninu hús hlaðið úr hraungrýti. Fleiri rústir gætu verið í túninu enn erfitt er að sjá þær vegna þess hve ójafnt þar er, sérstaklega norðanmegin. … Nokkuð gróin [fjárhús]rúst úr torfi og grjóti. Húsið er hlaðið Tóft (GK-166:027) horft til norðvesturs utan í lágar hraunklappir að vestanverðu og mynda þessar klappir hluta af SV gafli og NV langhlið. Mikið grjóthröngl er inni í rústinni norðanverðri og austan við NV langhlið. Veggir eru nú fremur lagir eða 0,5-1 m að undan skyldu SV horninu sem er nú um 1,5 m á hæð. Grjóthrönglið sýnir hrun en einnig gæti grjót hafa verið tekið úr rústinni, þar sem hún er lág. Innanmál hússins er L. 3,1m Br. 2,4m Br. veggja er 0,8-2m. Meðfram NV langhlið er hleðsla/brekkur, sennilega undirstaða fyrir jötu. H=0,5 Br. = 0,5. … Vegghleðslur [bæjarhúsanna] úr hraungrýti sem mynda tvö afmörkuð svæði. Nyrðra svæðið hér hallað A, hefur 4 veggi og er inngangur á NA hlið rétt norðan við miðjan vegg, og er breidd hans 0,5m. Syðra svæðið, hér hallað B, hefur aðeins 3 veggi þ.e. virðist hafaverið opið til Masturs. Öll er rústin mjög hrunin, og því ekki hægt að sjá mörk veggja allstaðar. Veggirnir hafa verið hlaðnir úr hraungrýti og múrað á milli. Í svæði A er niðurgrafinn kjallari með samskonar hleðslu. Í veggjum Br. 2m L. 4m. Breidd veggja þar sem hún sést nú er um 0,7 m. Ofan á vegg, rétt við innganginn á svæði A er á einum stað slétt múrhúð. Því verður að teljast líklegt að hér sé um að ræða undirstöður undir hús með kjallara.“ (fornleifaskrá Þjms).
Túngarðurinn er samtals um 215 m langur. Austur- og vesturhlutar hans enda til norðurs við Reykjanesbrautina og norðurhluti garðsins sést ekki lengur. 50-60 m eru á milli austur- og vesturhluta túngarðsins þar sem þeir hverfa undir Reykjanesbraut. Á milli þeirra eru leifar Péturskots en þær eru nú að miklu leyti skemmdar. Þar sést þó hvar húsin hafa staðið og er þar mikið að grjóti. Suðaustan í býlisstæðinu má sjá ferhyrnt hólf 4 X 3 m að stærð og opið til austurs. 3 m suðaustan við þetta hólf er veggur sem snýr austurs-vestur og hefur verið byggður upp við klettavegg sem liggur norður-suður. Ef austurhluta túngarðsins er fylgt til suðurs frá Reykjanesbraut er komið upp á fjárhús sem er við inngang á túngarði og myndar þannig sjálft hluta af garðinum. Tóftin er 7 X 5 m að stærð, grjóthlaðin að innan og op er á austurvegg hennar. Suðvestan við húsið virðist vera annað óskýrara hólf. Fast norðan Reykjanesbrautar er tóft sem hugsanlega gæti verið í samhengi við tóftir í Péturskoti.

Péturskot

Péturskot.

Bærinn er merkur fyrir rétt norðan við miðju túns á túnakort frá 1919. Þrjú hús voru á bæjarstæðinu samkvæmt túnakortinu og snéru stafnar bæjarins til VNV. Kjallari var líklega í húsinu. Lítið er eftir að gamla bænum á yfirborði þar sem mikið rask hefur orðið á svæðinu (á bænum og norðurhluta túnsins) vegna lagningar Reykjanesbrautar. Enn sjást þó rústir þar sem gamli bærinn stóð en enginn eiginlegur bæjarhóll er greinilegur. Péturskot er rétt sunnan við Reykjanesbraut. Túnið er komið í órækt og er smáþýft. Gróður er nokkur innan túnsins en utan þess er einkum grýtt hraunlendi þar sem gróður er nokkur, mest mosi.
Tún Péturskots er 75 x 75 m að stærð og eru fornleifar innan túnsins.
Gamla bænum á Péturskoti hefur verið umturnað vegna lagningu Reykjanesbrautar. Enginn eiginlegur bæjarhóll er greinilegur en þar sem gamli bærinn stóð er mikið hraungrýti á svæði sem er 8 x 6 m að stærð (VNV-ASA). Á þessu svæði er óljós tóft og í henni má greina tvö hólf. Hólf A er á austurhlið tóftarinnar. Það er Tóftir Péturskots, 3 x 1,5 m að innanmáli (VNV-ASA) og ekki er hlaðinn veggur á norðausturhlið þess. Hólf B er rétt vestan við hólf A. Það er 5,5 m á hvorn veg. Veggir eru grjóthlaðnir. Í hleðslunni má greina 1-3 umför af stæðilegu hraungrýti í bland við smágrýti, en víða eru hleðslur mjög aflagaðar. Veggir eru 0,3-0,6 m á hæð, og standa hæst til norðvesturs. Ekki er hægt að greina skýrt innra lag hólfsins þar sem veggir hafa hrunið inn í hólfið.

Péturskotsstígur – leið

Péturskot

Péturskotsstígur.

„Litlu norðar var Péturskotsstígur. Hann lá yfir að Péturskoti, sem var þurrabúð í Þorbjarnarstaðalandi […]. Norðan traðarveggsins nyrðri var í túninu Dalurinn nyrðri, smádalur, Yfirlitsmynd af minjastað. Útlínur tóftarinnar eru eins og þær sjást á loftmynd af svæðinu frá 1960, sem dýpkaði og endaði með hamravegg og hálfgerðum skúta. Kringum dalinn var Flötin nyrðri, lítil lægð í túninu. Hér um lá Lambhúsgatan eða Sjávargatan út gegnum Lambhúshliðið eða Sjávarhliðið,“ segir í örnefnaskrá. Stígur lá frá bænum á Þorbjarnarstöðum og fram hjá Lambhúsi, áfram til Péturskots og síðan til sjávar. Þessi stígur var því ýmist nefndur Lambhússtígur, Péturskotsstígur eða Sjávarstígur eftir því hvert til stóð að fara. Leiðin sést í námunda við Péturskot, um 250 m norðan við Þorbjarnarstaðabæ og um 80 m sunnan við Reykjanesbraut. Leiðin þræðir gróna mosaása, rétt norðan við gamla Keflavíkurveginn. Gatan sést á um 70 m löngum kafla, að sunnan hverfur hún undir gamla Keflavíkurveginn en til norðurs endar hún í austurhluta túnjaðars Péturskots, rétt norðan við útihús. Stígurinn sést vel á loftmynd af svæðinu frá 1960 og sést nú sem gróin gata, um 1 m breið og 0,2-0,3 m djúp. Víða stendur þó grjót upp úr grasinu á leiðinni og er hún nokkuð hlykkjótt, einkum á suðurhluta hennar.

Pétursspor – brú/leið
Pétursspor
„Pétursspor var stígur, sem lá heiman frá bæ niður á Straumshólana og um Straumsrásirnar frá Straumstjörn,“ segir í örnefnaskrá. Nyrsti hluti leiðarinnar frá Péturskoti og fram í Straumshólmana var kallaður Péturspor. Hlaðnar brýr eru á leiðinni í Straumstjörn, um 170 m ASA við Straumsbæ og rúmum 70 m norðan við Reykjanesbraut. Nyrðri hluti leiðarinnar nefnist Sporið en sá partur er utan þess svæðis sem var til rannsóknar vegna breikkunar Reykjanesbrautar 2020 og því ekki skoðaður sérstaklega.
Brýrnar liggja yfir fremur grunna tjörn og í grasivaxna hóla. Víða sést þó í bert grjót á hólmunum. Á þessum hluta eru þrjár brýr sem tilheyra Pétursspori. Samtals ná þær yfir svæði sem er 60 x 40 m að stærð og snýr austur-vestur en verður hverri brú gefið sérstakt númer í lýsingu þessari og byrjað á syðstu brúnni. Hún er er lítið gróin, um 6 m löng og 2 m að breidd og snýr NNASSV. Í hleðslunni má greina 2-3 umför af stóru hraungrýti í bland við smágrýti. Brúin er um 0,4-0,6 m á hæð. Þétt mosaþemba er á þeim hluta brúarinnar sem er næst landi. Brúin var áður skráð vegna breikkunar Reykjanesbrautar frá árinu 2000.

Sporið – brú/leið
„Annar stígur lá austur hólmana og nefndist Sporið.“ segir í örnefnalýsingu. Sporið var nefndur sá hluti leiðarinnar um hólmanna sem lá til austurs. Nyrsta brúin á þessari leið var um 150 m norðan við Reykjanesbraut og snýr norður-suður. Hleðslan brúar bil milli tveggja hólma í Straumsvík. Þurrt er á milli þessara hólma á fjöru og þá liggur hleðslan yfir fremur grunna og grýtta dæld. Hleðslan er 7-8 m að lengd og mest um 1 m á
breidd. Hæð hleðslunnar er 0,3 m.

Hraunhornsstígur – leið
„Úr Hjallatúni lá Hraunhornsstígur upp á Hraunhornið og suður á alfaraleið.“ segir í örnefnalýsingu. Stígurinn lá úr Hjallatúni sem er fast neðan/norðan við Reykjanesbraut og vestan við afleggjara að álveri og þaðan til suðausturs upp á hraunbrúnina, til vesturs hjá Gerði og þar suðaustan við sameinaðist vegurinn alfaraleiðinni. Stígurinn lá fast sunnan við vörðu sem enn sést 160-190 m sunnan Reykjanesbrautar og 95 m norðaustan við Gerði. Slóðinn var nálægt því þar sem bílslóði liggur nú til Gerðis uppi á Hraunhorninu. Lítt gróið hraun. Þar við stendur varða á hól og er hún bæði greinanleg frá Reykjanesbraut og Gerði.

Brú – leið
Pétursspor
„Stífla/Brú. Steinbrú. Milli hólma í Straumsvík.“ segir í fornleifaskrá Þjms. Brúin er 80 m norðan við Reykjanesbraut, liggur austur-vestur og tengir saman tvo hólma. Vestari hólminn sem brúin tengir saman er einnig tengdur með brú til suðurs. „Vík með grasigrónum hólmum og grýttum skerjum.“ „Um 3 m langur og 0,9 -1,5 m breiður (Breikkar til vesturs) garður milli 2 hólma í Straumsvík. Hleðslan hefur haldið sér nokkuð vel. Um þennan garð gildir það sama og um hina garðana milli hólmanna að líklegt verður að teljast að tyrft hafi verið ofan á þá, þó nú sé aðeins grjótið eftir. Mesta hæð garðsins nú er 0,9 m.“ (fornleifaskrá Þjms). Brúin er mun breiðari að vestan eða (1,5-1,7 m) en austan (um 1 m). Hún er um 1 m á hæð en 3 m á lengd.

Gerðisstígur – leið
„Nokkru sunnar má enn sjá Suðurnesjaveginn ofan af Brunanum niður af Hraunhorninu. En af honum lá Gerðisstígur heim að Gerði eða Gerðisbæ, sem stóð í hjalla í Gerðistúni.“ – „Úr [Brunaskarðinu] liggur alfaraleiðin vestur um Hraunin ofan eða sunnan garðs á Þorbjarnarstöðum. Þegar hér er komið, verður fyrir sígur, er liggur frá Gerðinu, nefnist Gerðisstígur. Liggur stígur þessi suður með vesturbrún Brunans. Skammt sunnar lá stígurinn um Hólsskarð milli Brunans og Hólanna, og var hann því allt eins nefndur Hólaskarðsstígur.“ segir í örnefnalýsingu. Gerðisstígur var stuttur. Hann lá með vesturbrún brunans rétt við þar sem vegaslóðinn liggur nú að Gerði. Stígurinn liggur yfir hraun sem að nokkru leyti hefur verið raskað. Rétt austan við veginn að Gerði má greina vegaslóða sem hefur verið gerður í hraunið. Slóði þessi er greinilegur langleiðina að Gerði.

Gerði – býli

Gerði

Gerði – túnakort 1919.

„Nokkru sunnar má enn sjá Suðurnesjaveginn ofan af Brunanaum niður af Hraunhorninu. En af honum lá Gerðisstígur heim að Gerði eða Gerðisbæ, sem stóð í hjalla í Gerðistúni.“ segir í örnefnalýsingu. Árið 1901 bjuggu 7 manns í (Hraun) Gerði. Gerðisbærinn stóð þar sem nú er sumarbústaður/fundahús álversins, 170-180 m sunnan við Reykjanesbraut. Gerði hefur staðið á myndarlegum, grónum hól sem ekki virðist mikið hafa verið skemmdur við gerð sumarbústaðarins. Um 30-40 m suðvestan við sumarbústaðinn, neðan hólsins, eru leifar að útihúsi.
Gerðisbærinn stóð upp á hól þar sem nú er sumarbústaður en útihús frá bænum sést enn neðan við hólinn. Gróið hraunsvæði. Tóftin sem enn sést er 9-10 m á breidd en erfitt er að áætla lengd hennar þar sem hún er byggð upp í/inn í hæð til suðurs. Hún hefur þó líklega verið um 7 m að lengd. Tóftin skiptist í tvö hólf sem bæði eru opin á norðurhlið. Austara hólfið er 5 X 3,5 m að innanmáli og er með op vestast á norðurhlið. Vestara hólfið hefur hins vegar engan vegg að norðan en hólfið er um 4 m á lengd en 2,5 m að breidd. Bæði eru hólfin grjóthlaðin að innan og er tóftin aðeins gróin að utan.

Gerðisvatnsból – vatnsból
„Niður undan Hjallanum voru Gerðisbalar, Stóri-Bali nær og Litli-Bali fjær. Norðan Balana var Gerðistjörn. Í henni var Gerðisvatnsból …“ segir í örnefnalýsingu. Gerðisvatnsból var í Gerðistjörn, beint niður af Gerðisbæ.
Tjörnin er umkringd grónu hrauni. Tjörnin er 100-150 m sunnan við Reykjanesbraut.

Kapellan – bænhús
Kapella
„Landamerkjalínan liggur úr Þórðarvík suður og upp um Leynidali og síðan áfram upp austurbrún Brunans. Alfaraleiðin lá suðvestur eftir Brunanaum. Nær miðju var Kapellan, húsnefna hlaðin úr grjóti uppi á hól. Var hún 2 x 2 metrar að ummáli, og sneru dyr í vestur. Kapella þessi var helguð heilagri Barböru, sem var verndari ferðamanna og gegn hvers konar háska af eldsvoða.“ segir í örnefnalýsingu. Kapellan er um 40 m sunnan við Reykjanesbraut og álverið, nálega beint sunnan við álversskiltið. Kapellan er tæpum 600 m austan við vegaslóðann að álverinu. Öllu umhverfi kapellunnar hefur nú verið umturnað og rutt út. Hún stendur nú ein eftir óhreyfð á hæð í flatneskjunni. Kapellan er nálega 7 m að lengd en 4,5 m á breidd og er nú hlaðin í um 1,7 m hæð. Hún er rúmlega 2 m á lengd en tæpir 2 m á breidd að innanmáli.
Nánari lýsingu á henni er að finna í Árbók ferðafélags Íslands. Þar er kapellan kölluð grjótdys og þar segir að einn af mönnum Kristjáns skrifara hafi verið dysjaður þar. „Sóknarlýsingin segir aftur á móti, að upphlaðin grjóthrúga, sem nefnist „Kapellan“ – um það bil úti í miðju hrauni fast við veginn – sýni staðinn, þar sem dysjaðir séu Bessastaðamenn, sem drepnir hafi verið til hefnda fyrir Jón Arason. Íslenzkar þjóðsögur tala þó um þessa grjóthrúgu sem nokkurs konar kapellu, þar sem grafinn hafi verið einn af umboðsmönnunum á Bessastöðum, sem ráðizt hafi verið á og drepinn í hrauninu.“ „Kapellu-tóftin í Kapelluhrauni, þar sem sagt er að lík Kristjáns skrifara hafi verið násett stendur enn að mestu. Raunar er hún nokkuð hrunin utan, einkum vesturgaflinn, og eru dyrnar hrundar saman. Innan er tóftin að öðru leyti hér um bil heil. Er hún hlaðin úr smáum flötum hraunhellum. Hún er nálægt jöfn á lengd og breidd, ekki fullar 4 álnir. Þakið er dottið ofan í tóftina. Það mun hafa verið hlaðið saman í topp, einnig úr hraunhellum.“BJ 1902.

Kapella

Upplýsingaskilti Byggðasafnsins við kapelluna.

„Í þjóðsögum Jóns Árnasonar er stutt frásögn um Kapelluhraun og Kapelluna, og er henni lýst þannig: „Hún er að norðanverðu við veginn, hlaðin upp af hellugrjóti í lögun eins og borg. Dyrnar hafa snúið móti suðri, en nú eru þær fullar og mold og mosa. Kapellan er og hærri að norðan en sunnan. Sagt er, að í Kapellunni sé grafinn einn af umboðsmönnum þeim, sem áður voru á Bessastöðum. Var honum gert umsátur þarna í hrauninu, drepinn þar og grafinn“. „…
Hinn 21. maí 1950 var Kapellan rannsökuð eftir því sem kostur var á. … Þegar við hófum rannsóknina, var húsalag rústarinnar svo skýrt, að engum gat blandast hugum um, að þarna hefði staðið hús og ekkert annað. … einhver hefði rifið upp grjót innan úr tóftinni, enda þóttumst við sjá þess ótvíræð merki að tekið hefði verið mikið grjót við austurgafl, bæði stærri steinar, sem oltið höfðu úr veggjum, og smásteinar úr gólfi, og hafði þessu grjóti verið varpað yfir í vesturendann. Lá þar dyngja mikil, og sá ekki fyrir dyrum eða dyrakömpum að vestan. Einhver hefur þannig grafið niður með austurgafli og alveg niður á gólf eða jafnvel niður úr gólfi, … Við tíndum það sem eftir var af grjóti úr tóftinni, og kom þá lögun hennar skýrt fram.
Kapellutóftin snýr austur-vestur, þó ekki alveg eftir áttavita, heldur veit framstafninn ögn til suðvesturs. Hann er þó kallaður vesturhlið hér og aðrar hliðar eftir því. Tóftin er öll lögulega hlaðin úr hraunsteinum, og halda veggir sér furðu vel, einkum að innan. Lengdin er 2,40 m, breidd við vesturgafl 2,20 m, en við austurgafl 2,10, og má það í rauninni heita sama breidd austast og vestast. Hæð veggja að innan er 1,80 m við austurgafl, 1,20 í suðvesturhorni. Þar sem hægt er að mæla veggjaþykkt, er hún um 1 m. Á vesturgafli eru dyrnar, og eru dyrakampar meira hrundir en aðrir veggir, einkum þó syðri dyrakampur, en þó eru þeir mjög skýrir. Ekki grófum við alveg út að dyrum, og var það gert í því skyni, að auðveldara væri að koma rústinni í samt lag eftir rannsóknina. Inn úr dyrum hússins voru flatar hraunhellur í gólfi, enda einnig lítils háttar í suðausturhorni, og virðist svo sem allt hafi gólfið verið flórað, en hellur að miklu leyti rifnar upp, þegar gert var rask það, er að framan getur. Á gólfinu sást töluvert af rauðbleikri ösku og viðarkolabútar í, einkum neðst. Miklu meira bar þó á öskunni en kolamolum. Langmest var af öskunni í suðvesturhorni tóftarinnar. Í öskunni voru naglarnir og leirkerabrotin, sem talin verða hér á eftir, en þó strjálingur þessara hluta um gólfið allt. … Ekki virðist ástæða til að efa, að Barbörulíkneskið [sem fannst í tóftinni] sé frá kaþólskum tína. … Líkneskið sýnir þá, að húsrúst þessi mun vera síðan fyrir siðaskipti, því að óhugsandi virðist með öllu, að það hafi borizt í rústina á seinni öldum.“ KE, GG, Jóhann Briem og Jón Jónsson 1950.

Dysin – legstaður
„Sagnir voru um, að einn sveina Kristjáns skrifara, sem drepinn var á Kirkjubóli í Miðnesi, hafi verið dysjaður við Kapelluna. Var því þarna stundum kölluð Dysin eða Kapelludys.“ segir í örnefnalýsingu. Ekki hafa fundist neinar vísbendingar um legstað í eða við kapelluna sem er um 600 m austan við afleggjara að áveri og um 40 m sunnan við Reykjanesbraut. Öllu umhverfi kapellunnar hefur nú verið umturnað og rutt út. Hún stendur nú ein eftir óhreyfð á hæð í flatneskjunni. „Sóknarlýsingin segir aftur á móti, að upphlaðin grjóthrúga, sem nefnist „Kapellan“ – um það bil úti í miðju hrauni fast við veginn – sýni staðinn, þar sem dysjaðir séu Bessastaðamenn, sem drepnir hafi verið til hefnda fyrir Jón Arason. Íslenzkar þjóðsögur tala þó um þessa grjóthrúgu sem nokkurs konar kapellu, þar sem grafinn hafi verið einn af umboðsmönnunum á Bessastöðum, sem ráðizt hafi verið á og drepinn í hrauninu.“

Péturshróf
Péturshróf
„Milli lands þessara jarða [Þorbjarnarstaða og Stóra-Lambhaga] og jarðarinnar Straums ræður merkjum bein lína frá sjó úr grjótbyrgi í Hólmanum …“ „Pétursspor var stígur, sem lá heiman frá bæ niður á Straumshólana og um Straumsrásirnar frá Straumstjörn. Stígur þessi lá fram á Pétursbyrgi svokallað. Þar var Byrgisvör eða Pétursbyrgisvör. Í vörina sér enn djúpar skorir eftir bátskilina.“ segir örnefnaskrá. „Þarna [suðaustur frá bænum] er Péturskotsvör og Péturskotshróf. Þar mátti geyma einn bát.“ „Bátabyrgi. Innarlega í Straumsvík, vestan megin.“ Hægt var að taka báta upp í vörina á flóði. Á þessum stað er greinileg skora í Straumsvíkinni og upp af henni ferhyrnd, aflöng tóft. Tóftin er um 60 m norðan við Reykjanesbraut og um 50 m norðvestan við 007. Hleðslan og vörin eru í Straumsvík. Grasi gróið klettasvæði upp af vörinni. Kortablað 1513 II/15, teikning bls. 37. „Óreglulega lagað langt og mjótt byrgi hlaðið úr grjóti. Veggir eru nokkuð hlykkjóttir, en þeir standa nú lágt og varla hægt að sjá nokkuð hleðslulag á þeim. Byrgið er opið til austurs að vörinni og sjást þar engar hleðslur. Á flóði er sjaldan meira en 2 m frá vatnsborði vararinnar að inngangi byrgisins. Innanmál = L. 6,2 m Br. 2,2×3,4m.
Mjóst er byrgið í vesturenda. Á einum stað í suðurlangvegg nær hleðsluhæð 0,7 m en að jafnaði er hún um 0,5 m. Breidd veggja er 0,7-1,6m. Öll þessi mál eru á mikið hrundum hleðslum þannig að upphaflega mál byrgisins hafa verið allt önnur. Lágar grjóthleðslur eða ruðningar eru sin hvoru megin vararinnar þ.e. að sunnanog norðanverðu.“ Hleðslurnar mynda einfalda tóft sem snýr austur-vestur. Enginn veggur er fyrir austurhliðinni sem snýr niður að vörinni. Tóftin er um 10 m á lengd en 5 á breidd. Austan við hana er um 1 m breitt gróið svæði en þar austan við hallar niður að sjó. Þar eru nokkrir steinar að norðan og sunnan sem mynda n.k. garðlag beggja vegna við skoruna.

Lambhagi – býli
Litli-Lambhagi
1547-48 er jarðarinnar getið í fógetareikningum. DI XII, 114. 1703 er jörðin talin hjáleiga Þorbjarnarstaða, en byggð af Bessastaðamönnum. 1847: 4 1/6 hndr. Ekki til örnefnaskrá. Árið 1966 áskildi Hafnarfjarðarbær sér forkaupsrétt á jörðunum Litla Lambhaga og Stóra Lambhaga, og var tekið eignarnám í landi Lambhaga veggja hafnargerðar í Straumsvík. ÁG: Saga Hafnarfjarðar 1908-1983 I, 116
1703: „Túnið fordjarfast árlega af sjáfaryfirgángi meir og meir. Engjar eru öngvar.“ JÁM III, 168. 1919: Rún 0,6 teigar, slétt að mestu af náttúrunar hendi, garðar 550 m2.
1703: Jarðardýrleiki óviss, hjáleiga frá Þorbjarnarstöðum, samkvæmt Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns III, 166.
1847: 4 1/6 hdr., bændaeign, samkvæmt Jarðatali Johnsen, 110.
Árið 1966 áskildi Hafnarfjarðarbær sér forkaupsrétt á jörðunum Litla Lambhaga og Stóra Lambhaga, og var tekið eignarnám í landi Lambhaga vegna hafnargerðar í Straumsvík. ÁG: Saga Hafnarfjarðar 1908-1983 I, 116
1919: Rún 0,6 teigar, slétt að mestu af náttúrunnar hendi, garðar 550 m2.
1703: „Selstöðu brúkar jörðin ásamt Forbjarnarstöðum þar sem heitir GjáseJ, eru þar hagar góðir en vatn slæmt. Hríssrif hefur jörðin í Forbjarnastaðarlandi þar sem heita almenníngar, er það haft til kolgjörðar og eldiviðar og til að fæða peníng í heyskorti. Torfrista og stúnga er næsta því engin, og þarf ábúandinn til að fá með miklu erfiði. Fjörugrasatekja er til en brúkast ekki. Rekavon næsta því engin. Sölvafjara nokkur. Hrognkelsafjara gagnvænleg þegar vel árar. Skelfiskfjara valla til beitu. Heimræði er árið um kring, og lendíng í besta lagi, gánga skip ábúandans eftir hentugleikum; undir kóngsskipanafni hefur hjer áður oftastnær gengið bátur, tveggja manna far, og ábúandinti hýst áróðrarmenn og ekkert fyrir Þegið nema soðningarkaup af þeim; næstliðið ár var það ekki. Inntökuskip hafa hjer engin gengið nema skjaldan um hausttíma bátar nágranna fyrir góðvilja eður einhverja þóknan. Túnin fordjarfast árlega af sjáfaryfirgángi meir og meir.
Engjar eru öngvar. Útigángur um vetur bágur fyrir fjarlægð haganna, en fjaran er mest til beitar köfð.“ JÁM III, 167–168.

Litli-Lambhagi – býli

Litli-Lambhagi

Litli-Lambhagi – túnakort 1919.

„Litli-Lambhagi stóð í Litla-Lambhagatúni. Lá túngarður tvíhlaðinn með allri norðurhlið þess,“ segir í örnefnaskrá. Í fasteignamati frá 1917 segir: „Litli-Lambhagi: Hjáleiga frá Þorbjarnarst. […] Ekki virt til dýrleika […]. Hús á jörðinni fylgir eru: „Baðstofa 9 x 5 ál framdyr, Bæjardyr og eldhús, fjós fyrir 10 kú […]. Hús ábúenda eru: Heyhús, grjótveggir, járnþak.
Geymsluhús, 3 fjárhús fyrir 120 fjár.“ Fjögur hús eru merkt innantúns á býlinu á túnakort frá 1919. Samkvæmt því var bærinn rétt norðan við mitt heimatúnið. Stafnar bæjarins sneru til suðvesturs. Nokkuð rask hefur verið í og við gamla bæinn. Búið er að leggja veg að álverinu í Straumsvík yfir austurhluta þess. Samkvæmt heimasíðu Hraunavina var einnig reistur sumarbústaður fast norðan við bæjarhólinn fyrir miðja 20. öld (af bræðrunum Marinó og Kristni Guðmundssonum). Á heimasíðunni kemur einnig fram að þegar þeir reistu sumarbústaðinn hafi staðið grjóthlaðið eldhús á gamla bæjarstæðinu, sem hefur verið hluti gamla bæjarins. Lítil ummerki um bæjarhól sjást á Litla-Lambhaga og engin ummerki bæjarhúsa. Þau hafa líklega horfið vegna sumarbústaðarframkvæmda og/eða í vegframkvæmdir við álverið í Straumsvík.
Gamli bærinn stóð rétt vestan við veg sem liggur að álverinu í Straumsvík. Hóllinn er umhverfis tún sem komið er í órækt. Túnið er smáhæðótt og mosi nokkur í sverði. Víða standa klettanibbur upp úr grasinu. Fornleifar innan heimatúns Litla-Lambhaga eru skráðar undir nokkrum númerum: Yrðlingabyrgi, fiskibyrgi, fjárhús, kálgarður, útihús, stífla, kálgarður, fjárhús, túngarður, traðir og útihús og kálgarður.
Óljós ummerki sjást um bæjarhól milli rauðmálaðs sumarbústaðar og tjarnar. Hóllinn er 0,2-0,3 m á hæð og er a.m.k. 10 x 8 m að stærð. Hann snýr norður-suður. Mögulega hefur hóllinn náð aðeins lengra til vesturs áður. Hann er með skýrar brúnir til austurs og suður en mörk hans eru óskýr til annnarra átta. Hólnum var mikið raskað þegar sumarbústaðurinn var byggður og ekki er útilokað að eitthvað grjót úr gamla bænum hafi verið endurnýtt í þá byggingu en frekari heimildir skortir til þess að staðfesta það. Líklega leynist einhver mannvist undir sverði á þessum slóðum þrátt fyrir mikið rask.

Lambhagastígur – leið
„Hér [í Þórðarvík] kemur niður stígur, er sameinast alfaraleiðinni austan og ofan við Gjögur. Sveinn í Eyðikoti , fóstri Gústafs Brynjólfssonar, kallaði hann Lambhagastíg. (Gísli Sigurðsson kallar hann ranglega Ólafsstíg),“ segir í örnefnaskrá. Lambhagastígur lá nálægt bæjunum og þaðan til austurs þar til komið var í námunda við Gjögur sem er austan bæjanna. Þá sameinaðist Lambhagastígur Alfaraleiðinni. Leiðin var um 150 m ANA við álverið í Straumsvík og um 90 m norðan við Reykjanesbraut. Leiðin hefur að mestu legið innan framkvæmdasvæðis álversins í Straumsvík.
Engin merki leiðarinnar sjást á yfirborði en svæðinu hefur verið mikið umturnað; annars vegar vesturhlutanum vegna álversins í Straumsvík (b.1967) og hins vegar austurhlutanum vegna dælu- og hreinstöðvar (b. 2009).

Stóri-Lambhagi – býli

Stóri-Lambhagi

Stóri-Lambhagi – túnakort 1919.

„Á miðjum Stóra-Lambhagagranda stóð bærinn í Stóra-Lambhaga og stendur enn, þótt nú sé þar fjárhús með hlöðu.“ segir í örnefnalýsingu.
„Bæjarhús. Rétt sunnan við uppfyllinguna við höfnina í Straumsvík, austanmegin. Bærinn stendur á uppfyllingu rétt framan við fjörukambinn.
Vegurinn að Álverinu snertir austurhluta rústanna.“ segir í fornleifaskrá Þjms. 220-240 m norðaustan við Litla-Lambhaga og fast norðan við vegarslóða að álveri er bæjartóft. Tóftin er beint norðan við bílastæði álversmanna en nú er hún ekki á tanganum miðjum heldur í króknum við tangann. Tóftin stendur í krók sem myndast norðan við veg að álveri. Hún er vestan við afleggjara þar sem hægt er að snúa við. Kortablað 1513 II/15, teikning bls. 34.
Litli-Lambhagi
„Rústirnar skiptast í 3 hluta eða vistarverur. Nyrst er svæði, sem takmarkast af tveimur langveggjum, en hvorki eru leifar af stafni né gafli. Veggirnir eru mjög vel hlaðnir úr völdu grjóti og hefur verið múrað í glufur á stöku stað. Þykkt veggjanna er 0,75-0,9m. Lengd þess nyrsti 8,3m og þess syðri 8,1m Bjálkar standa upp á kannt veggja á milli, svo að gólf hefur sennilega verið úr tréfjölum. Innanmál þessa húss er 8×4 m. Hæsta veggjahæð mæld innan í húsi er nú 1,9m en norðan undir norðurvegg er landið nokkuð lægra og hæsta veggjahæð þar er 2,1m. Sunnan við þetta hús og samveggja er annar íverustaður. Suður langveggur þessa húss er nú aðeins einna hæðar, grasigróinn tvöföld steinhleðsla, en gafl er hlaðin úr grjóti og múraður að ofanverðu. Sama er að segja um stafninn, nema hvað ofan á grjótinu er steyptur veggur (h=0,5m), sem stendur enn að hluta og sést í endann á tré á þverskurði veggjarins – etv. til að binda steypuna. Inngangur er austan við miðju á suðurlanghlið, þannig að innangengt hefur verið í þetta hús úr húsinu sunnan við. Innanmál = 7,15×3,7m. Veggjaþykkt S. langhlið = 0,7-0,8m A-gafl = 0,35-0,45. V-stafn= 0,4-0,45. Breidd inngangs minni en 1,05. Sunnan við þetta hús [er] svæði sem afmarkast af langvegg til suðurs þar sem virðist hafa verið inngangur austan við miðju. Gaflinn er ógreinilegur hefur líklega verið torfveggur en er nú að miklu leiti undir vegakantinum. Gólfflötur þessa svæðis er nokkuð hærri en hlaðið vestan við húsin, en engar hleðslur er að sjá við stafn. Suðurlangveggur er úr torfi og grjóti og er hann um 0,4 m á hæð. Br. = 1,25-1,55m. Meintur inngangur á suðurhlið er minni en 0,8m. Innanmál = 6,8×3,3m (u.þ.b.). Framan og vestan við bærinn er nokkur halli í átt til sjávar áður en komið er að háum fjörukambinum. Líklega fylltist þessi lægt í stórstraums flóðum, því hefur verið búin til stakkur framan við bæinn og sést sumstaðar í þvera grjóthleðsluna nú, en stakkurinn er nokkuð illa farinn norðan til. Breidd þessa stalls miðað við stafn bæjarhúsanna er nú 1,3-5 m, breiðastur að neðanverðu. Hæsta hæð 1,2m.“ (fornleifaskrá Þjms).
Tóftin er mynduð úr hlöðnum og steyptum veggjum. Hún er um 8-9 m á lengd en 15-16 m á breidd. Hún samanstendur af þremur hólfum sem tengjast ekki heldur snúa öll að sjó. Beint fyrir neðan op hólfanna er fjaran. Aðeins er norðurveggur (norðvesturveggur) á miðhólfinu.

Útihús
Um 15 m sunnan við 001 er merkt útihús inn á túnakort frá 1919. Þar sem útihúsið stóð er nú malbikaður vegur að álveri.

Aukatúngarður – túngarður
„Hallinn lá út í Aukatún og þaðan út með vesturbrún Brunans fram hjá hesthúsinu á Aukatúni, að vesturtúngarði Aukatúns, sem var stuttur, aðeins ofan úr Brunanum niður að tjörn.“ segir í örnefnalýsingu. Ekki sjást nú greinilegar hleðslur Aukatúngarðs en hann lá í jaðri Aukatúns. Garðurinn hefur þá legið frá hraunbrúnni og til norðurs og líklega hefur Reykjanesbrautin og framkvæmdir við álver skemmt stórann hluta hans. Grasi gróið hraunlendi. Aukatúngarður var einnig nefndur Brunagarður samkvæmt heimildamanni.

Hesthús
„Upp í Aukatúni lá gangbraut hlaðin sem garður, nefndist Steinbogi. Aukatún var smátunga út frá Brunahrauninu. Það var grætt upp og notað sem túnblettur frá Stóra-lambhaga. Túnið var greiðfært, en ekki slétt. Á því stóð hesthús.“ segir í örnefnalýsingu. Fast sunnan undir Reykjanesbraut og norðan við smátjarnir í Aukatúni var hesthús. Hesthúsið var þar sem nú er suðurbrún Reykjanesbrautar. Reykjanesbraut hefur skemmt tóftina svo að nú má einungis greina hvar hún hefur verið.

Stekkur

Stekkur

Stekkur – túnakort 1918.

„Rétt norður af sumarbústað úti á tanga.“ Um 30 m norðan við sumarbústaðinn í Litla-Lambhaga og 130-150 m norðan við Reykjanesbraut er jarðsig sem hlaðið hefur verið upp í. Hleðslurnar eru á Stróka. „Vel gróinn hólmi eða nes.
Gjár eða jarðsig á nokkrum stöðum.“ Þarna hefur verið eins konar aðhald eða stekkur. „Hliðar stekksins eru að mestu afmarkaðar af klöppum sem eru í jaðri þess jarðsigs, sem stekkurinn er í. Þar sem vantar klappir eða þar sem glufur eru á milli þeirra er hlaðið grjóti. Stekkurinn er um 8 m langur og tæplega 9 m br. þar sem hann er breiðastur. Hleðslur eru í þokkalegu ástandi en eru þó sumstaðar að hverfa í gróðri. Inngangurinn hefur líklega verið í vestur, enda þó ekki sé hann greinilegur.“
Við deiliskráningu Reykjanesbrautar árið 2001 var grjóthlaðin og mikið hrunin tóft skráð um 320 m norðan við Þorbjarnarstaðarbæ og um 40 m SSA við Péturshrófl. Þegar staðurinn var aftur heimsóttur í tengslum við fyrirhugaða tvöföldun Reykjanebrautar 2020 var búið að leggja jarðstreng á þeim stað sem tóftin hafði verið og hafði henni alveg verið raskað af þeim sökum. Tóftin var fast norðan við vegkant Reykjanesbrautar. Til norðurs er Straumstjörn.
Engin merki tóftar sjást lengur á yfirborði vegna jarðstrengsframkvæmda. Tóftin sést vel á loftmynd af svæði frá 1960 og þar sést að hún var 19 x 5 m að stærð (NNA-SSV), líklega grjóthlaðin. Ekkert op er greinilegt á tóftinni á myndinni. Tóftinni var lýst svo árið 2001: „Tóftin er ferhyrnd en ekki alveg regluleg. Hún liggur skáhallt til norðvesturs-suðausturs, en norðvesturveggur hennar er nokkuð mishár og nær hæst í um 1,2 m. Ekki er hægt að greina inngang á tóftinni og ekki má nú greina nema eitt hólf en hluti tóftarinnar er undir Reykjanesbraut og því erfitt að segja nokkuð um upprunalega lögun. Nokkuð af grjóthruni er inn í tóftinni.“ Í skráningu Þjóðminjasafns árið 1988 er talað um að tóftin hafi verið stekkur.

Litli-Lambhagastígur – leið
„Hallinn lá út í Aukatún og þaðan út með vesturbrún Brunans fram hjá hesthúsinu á Aukatúni, að vesturtúngarði Aukatúns, sem var stuttur, aðeins ofan úr Brunanum niður að tjörn. Í skrá Gísla segir, að þarna hafi verið Vesturtúngarðshlið og þá komið á Litla-Lambhagastíg. Þetta nafn er hins vegar óþekkt, en gæti hugsanlega átt að vera Aukatúnshlið.“ segir í örnefnalýsingu. Greinilegar leifar götu sjást í Aukatúninu, nærri því beint suður af veginum að álverinu, sunnan Reykjanesbrautar. Slóðinn liggur sunnan undan Reykjanesbraut austan við stóran raflínustaur (þann vestasta í röð staura) og áfram að hraunbrúninni þar sem hann hverfur (eiginlega undir Línuveg). Slóðinn sést fast ofan Reykjanesbrautar þar sem grasi gróinn blettur er (Aukatún).

Austurtúngarður – túngarður
Litli-Lambhagi
„Austurtúngarðurinn lá úr Beinaviki upp á klettastall og suður eftir honum suður á brunann.“ segir í örnefnalýsingu.
Túngarðurinn lá um Ólafsskarð en hefur verið gereyðilagður við framkvæmdir í sambandi við álverið. Garðurinn hefur legið úr víkinni austan Litla-Lambhaga og yfir lóð álversins suðaustur til Reykjanesbrautar. Engar leifar um Austurgarðinn sjást nú.

Yrðlingabyrgið
„Upp á klettastallinum var Yrðlingabyrgið, sporöskjulaga og nokkuð hátt, með lágum dyrum. Um aldamótin síðustu hafði Guðjón Gíslason þarna yrðlinga í fóstri.“ segir í örnefnalýsingu. Talið er að Yrðlingabyrgið, Fiskibyrgið og fjárhúsin hafi verið nálægt þar sem vegurinn að álverinu er nú, austan sumarbústaðar í Litla-Lambhaga og 50-100 m norðan við Reykjanesbraut. Malbikuð gata frá Reykjanesbraut og að álveri.

Fiskibyrgið – herslubyrgi
„Þarna er líka Fiskibyrgið, þar sem fiskur var kasaður hér í eina tíð og síðan hertur.“ segir í örnefnalýsingu. Talið er að Yrðlingabyrgið, Fiskibyrgið og fjárhúsin hafi verið nálægt þar sem vegurinn að álverinu er nú, austan sumarbústaðar í Litla-Lambhaga og 50-100 m norðan við Reykjanesbraut. Malbikuð gata frá Reykjanesbraut og að álveri.

Ólafsstígur – leið
„Þarna er líka Fiskibyrgið, þar sem fiskur var kasaður hér í eina tíð og síðan hertur. Þarna uppi voru einnig tvö til þrjú fjárhús, og stóðu veggir þeirra til þessa. Sunnan við þau lá stígur austur. Gísli Sigurðsson segir, að hann hafi heitri Ólafsstígur, en það er rangt. Ólafsstígur liggur upp á hraunið hjá kálgörðunum í Litla-lambhaga.“ segir í örnefnalýsingu. Ólafsstígur lá skáhalt upp hraunið til suðausturs og var fram til 1999 nokkuð greinilegur sunnan Reykjanesbrautar, skammt austan við veginn að álverinu. Ekki eru greinileg merki um slóðann nú. Þar sem slóðinn lá næst Reykjanesbraut hefur hraunlendinu verið umturnað við framkvæmdir. Var áður gróið hraun.

Steinbogi – samgöngubót
Steinbogi
„Nokkru fyrir innan fyrrnefndan Steinboga mátti sjá marka fyrir öðrum Steinboga.“ segir í örnefnalýsingu. Ekki sjást nú greinileg merki annars steinboga. Norðan við tjörnina er Reykjanesbraut en sunnan við hana er línuvegur. Er vel hugsanlegt að Steinboginn hafi horfið þegar annar hvor vegurinn var lagður, a.m.k. er hann ekki greinanlegur nú. Gróið hraun en talsverðar framkvæmdir hafa átt sér stað í kring.

Túngarður
Í vesturjaðri Hjallatúns, beint norður undan Reykjanesbraut er garðlag í Straumsvík sem liggur til norðurs.
„Vík með grasigrónum hólmum og grýttum skerjum.45 m langur og 0,9-1,25 m breiður hlaðinn garður. Mesta hæð 0,4m. Mjög grunnt er þar sem þessi garður er hlaðinn. Það undarlega við þennan garð er að ætla mætti að hann væri óþarfur þar sem nokkru austar við hann eru klappir milli hólmanna sem eru hærri en garðurinn.“ (fornleifaskrá Þjms). Garðlagið sést beint norðan við Reykjanesbraut og liggur til norðurs í um 15 m. Þá er það rofið en sést á hólma/skeri norðar. Samtals liggur garðlagið á um 70 m svæði en er rofið á einum stað þannig að það er einungis um 50 m að lengd. Garðlagið er um 0,8-1,1 m á breidd og mest um 0,4 m á hæð. Fast vestan við norðurenda garðlagsins er lítil hleðsla til vesturs sem líkist brú.

Hjallatúnsfjárhús – fjárhús
„Syðst var Hjallatún. Gísli segir, að það hafi í eina tíð staðið Hjallatúnsfjárhús, en heimildarmenn sr. Bjarna mótmæla því og segja, að tvö fjárhús hafi staðið undir Brunanum, en ekkert inni í túni.“ segir í örnefnalýsingu. Hjallatún er fast neðan Reykjanesbrautar (brautin liggur í suðurharðri túnsins) en vestan vegarins að álverinu. Ekki sjást neinar leifar fjárhúss á þessum stað. Grasi vaxið hraunsvæði.

Hlöðuvík – hlaða
„Austan við bæinn [Litla-Lambhaga/Nýjakot] var Nýjakotstjörn og suður úr henni Hlöðuvík.“ segir í örnefnalýsingu.
Austan við Litla-Lambhaga er nú vegur að álveri og austan þess sléttuð lóð í kringum verksmiðjuna. Engin tjörn er nú á þessum slóðum. Sunnan við tjörnina sem áður var þar var svo Hlöðuvík en merki hennar sjást ekki lengur. Vel er hugsanlegt að hlaða sú sem víkin var kennd við hafi staðið í námunda við Hjallatún en um það verður ekkert fullyrt.
Þar sem víkin var er nú vegastæði (Reykjanesbraut og hugsanlega aðkeyrsla að álveri).

Hvaleyri – býli

Hvaleyri

Hvaleyri ofanverð.


Samkvæmt Hauksbók Landnámu sigldi Hrafna-Flóki í Hafnarfjörð og fann þar hval á eyri einni og kölluðu það Hvaleyri. Í Landnámu segir að Ásbjörn Özzurarson, bróðursonur Ingólfs, hafi numið land milli Hraunholtslækjar og Hvassahrauns og allt Álftanes og bjó hann á Skúlastöðum [sjá Garða]. ÍF I, 39, 394. Um 1300 er getið um Hvaleyri í sögn af Teiti bónda þar í jarteinasögu Þorláks helga. Biskupa sögur I, 386. 1343 er minnst á Hvaleyri í Gottskálksannál. Isandske Annaler, 352. 1365 segir af sandfjúki og sjávargangi á tún Hvaleyrar. Gísli Sigurðsson: Saga, 293. 1395: Þá á Viðeyjaklaustur Hvaleyri og var leiga 4 hndr. DI III, 597. 1448: „… kirkian aa hvaleyri ætti Þorlakstade og hravnvelle. hamranes ok grisanes ok alltt firir svnnann vtann ok ofan ok vp vr hvaleyrar vatnni ok nordvr j kornstapa hravn. ok alltt vp med gotvnni firir svnnan ok vp yfer þormodz hofda nema litinn skog er lavgarnes kirkia aa vid landsydri j hvaleyrar hofda.“ DI IV, 751. 1547-48 er jarðarinnar getið í fógetareikningum. DI XII, 114.

Hvaleyri

Hvaleyri – túnakort 1908.

1703 er jarðadýrleiiki óviss, konungsjörð. Skoðunarmenn frá 1751 sögðu sig hafa heyrt að á Hveleyri hefðu verið 10-12 hjáleigur til forna SS seg ritar sögu H þykir þetta ótrúleg saga. Á Árunum 1754-´57 bjó enginn á H, og má það vera ein ástaða þess að bæjarhús og tún spilltust. Árið 1815 keypti Bjarni Sívertsen jörðina af konungi. SS Saga Hafnarfjarðar, 36-37. 42. 1847: 20 hndr. Afbýli Hvaleyrar, Hjartarkot, Sveinskot, Tjarnarkot, Halldórskot, Vesturkot og Egilssonsgerði voru seld Hafnarfjarðarbæ árið 1912.
1703: Túnin spillast af sandságángi. Engjar eru öngvar.“ JÁM III, 169. Árið 1730 voru Hvaleyrartún stórskemmd af grasmaðki og einnig herjuðu sandfor og fugl á það. Mikill lausamosi var á túninu. Túnið hélt áfram að skemmast og árið 1751 varð að slá tveim vættum og einu kúgjaldi af afgjaldi jarðarinnar, hvort sem það hefir eingöngu verið landskemmdum að kenna. SS Saga Hafnarfjarðar, 35-36.
1847: 20 hdr., bændaeign, samkvæmt Jarðatali Johnsen, 110. Í neðanmálsgrein segir: „Þó jb. 1803 ein nefni 4 bygðar hjáleigur (Bindindi, Lönd, Lásastaði, og Ásgautstaði) og vorði þær allar til dýrleika, er þeim samt sleppt, bæði af presti og sýslumanni (sem nú líklega graslausum).“
Samkvæmt Hauksbók Landnámu sigldi Hrafna-Flóki í Hafnarfjörð og fann þar hval á eyri einni og kölluðu það Hvaleyri. Í Landnámu segir að Ásbjörn Özzurarson, bróðursonur Ingólfs, hafi numið land milli Hraunholtslækjar og Hvassahrauns og allt Álftanes og bjó hann á Skúlastöðum [sjá Garða]. ÍF I, 39, 394.
1284: Jarðarinnar getið í rekaskrá Viðeyjarklausturs (sjá jarðaítök hér neðar). DI II, 246.
Um 1300 er getið um Hvaleyri í sögn af Teiti bónda þar í jarteinasögu Þorláks helga. Biskupa sögur I, 386.
1343 er minnst á Hvaleyri í Gottskálksannál. Isandske Annaler, 352.
1395: Þá á Viðeyjaklaustur Hvaleyri og var leiga 4 hndr. DI III, 597.
1395: Jarðarinnar getið í skrá Viðeyjarklausturs m kvikfé og leigumála. DI III, 597.
1448 [eða síðar]: „Vitnisburður Hafliða Gizurarsonar um landeign og landamerki Hvaleyrar við Hafnarfjörð […] kirkian aa hvaleyri ætti Þorlakstade og hravnvelle. hamranes ok grisanes ok alltt firir svnnann vtann ok ofan ok vp vr hvaleyrar vatnni ok nordvr j kornstapa hravn. ok alltt vp med gotvnni firir svnnan ok vp yfer þormodz hofda nema litinn skog er lavgarnes kirkia aa vid landsydri j hvaleyrar hofda.“ DI IV, 751–752..
1547-48 er jarðarinnar getið í fógetareikningum. DI XII, 114.
Hjáleiga 1703: Hvaleyrarkot. Enn fremur höfðu afbýlismenn heima við bæinn grasnyt. Bóndi jarðarinnar sá um að viðhalda þeim húsum sem þeir voru í.
Jarðaítök 1284: Viðeyjarklaustur á hálfan rekavið á jörðinni. Og skóg í hrauni út frá Hvaleyri. DI II, 246–277.
1703: „Selstöðu á jörðin þar sem heitir Hvaleyrarsel, þar eru hagar sæmilegir og vatnsból gott. Hrissrif nokkurt hefur jörðin í heimalandi og er það að mestu eytt. Item hefur hún hrisrif til eldiviðar í almenningum og svo til kolgjði’ðar. Torfrista og stúnga í lakasta máta nærri ónýt.
Lýngrif hefur jörðin nokkurt. Fjörugrasatekja nokkur. Rekavon nokkur. Hrognkelsafjara að nokkru gagnvænleg. Skelfiskfjara nægileg til beitu, liður ágáng af öðrum jörðum. Heimræði er árið um kríng og lending góð, og gánga skip ábúenda eftir hentugleikum. Til forna hefur hjer oft undir kóngsskipa nafni gengið eitt tveggja manna far, en síðan Lauridtz Hansson Siefing var á Bessastöðum Heidemanns vegna hefur það ekki verið. Inntökuskip hafa hjer stundum gengið ekki stærri en tveggja manna för, og hefur ábúandi þegið undirgift af, mætti og enn vera ef menn vildu. Túnin spillast af sandságángi. Engjar eru öngvar. Vatnsból er ilt og þrýtur bæði vetur og sumar.“ JÁM III, 169.

Stóravarða – varða/landamerki
Stóravarða„Þá liggur línan niður um Þórðarvík um Stóruvörðu, sem stóð á hraunbrúninni rétt þar sem alfaraleið lá upp á Kapelluhraunið,“ segir í örnefnaskrá. Varðan var um 2 m á hæð og mjög stæðileg. Árið 1999 var gerður vegarslóði fast sunnan hennar og við þær framkvæmdir rak ýtumaður sig í vörðuna og hrundi hún við það. Í skráningu fornleifa vegna tvöföldunar Reykjanesbrautar frá 2001 segir að frumkvæði þjóðminjavarðar var hluti vörðunnar hins vegar hlaðinn upp aftur. Þær leifar eru langt utan heimatúns Hvaleyrarbæjar, um 2 km suðvestan við bæ og rúmum 40 m sunnan við Reykjanesbraut. Varðan er á grýtti hæð rétt norðan við malarvegslóða. Varðan er sæmilega hlaðin, 1,5 m á hvorn veg og um 1 m á hæð. Hún er grjóthlaðin og úr blöndu af stæðilegu hraungrýti og smágrýti. Efst á vörðunni eru smásteinar.
Þær vörðuleifar sem nú sjást eru um 1,5 m á hvern veg (en varðan er ferhyrnd) og hún er um 1,1 m á hæð.

Þorgeirsstaðir/Þorlákstún – býli

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður – kort 1908.

„Á há-Hvaleyrarholti, austan vegarins, er býlið Þorgeirsstaðir. Í gamla daga var þar nefnt Þorlákstún, gömul móabörð með þýfi og garðlögum.“ „Framan í því var staður nefndur fyrrum Þorláksstaðir. Þar eru sagnir um, að verið hafi kapella. Seinna nefndist hér Þorlákstún og þá Þorgeirstún og nú Þorgeirsstaðir.“ segir í örnefnalýsingu. Þorlákstún er nú klofið af Reykjanesbraut. Þorlákstún var sunnan við vestustu íbúðarhúsin sunnan Reykjanesbrautar. Sjálft býlið hefur horfið vegna íbúðarhúsabyggðar norðan Reykjanesbrautar. Grasi vaxið hraun og enn sjást leifar girðingarinnar sem girti túnið af. Íbúðarhús eru norðan túnsins.

Smiðjulaut – smiðja
„Tvö örnefni voru með Suðurnesjaveginum. Skammt vestur frá Rauðhól var Smiðjulaut og nokkru vestar skarð gegnum klappir miklar, nefndist Gíslaskarð. …“ segir í örnefnalýsingu. Reykjanesbraut var lögð yfir Smiðjulaut. Lautin var um 600 m norðaustur af afleggjara inn í verksmiðjuhverfið (-hella götur). Reykjanesbrautin er í norðurjaðri lautarinnar en eigin merki um smiðju eru nú greinanleg. Mosagróið hraun og þjóðvegur.

Ás – býli

Ás

Ás – túnakort 1918.

1703 er jörðin talin um 12 hndr og þar af væri hlutur konungs 8 hndr og 40 álnir. 1847: 12 hndr.
1703 voru engar engjar á jörðinni. 1918: Tún 2,8 teigar, þar af um helmingjur sléttaður, garðar 670 m2.

Ásstekkur – býli
„Línan móti Ási [miðað við Hvaleyri] er á þessa leið: Úr Fuglstapaþúfum
beina línu rétt fyrir sunnan Ásstekk …“ segir í örnefnalýsingu Hvaleyrar.
„Hér enn vestar var svo býli, þurrabúð, nefnist það Stekkurinn, Ásstekkur, Vindás og Vindásstekkur. Honum fylgdi Stekkstúnið umgirt Stekkstúnsgörðum, vesturtúngarður, suðurtúngarður, austurtúngarður og norðurtúngarður. Þar sem sama komu norður- og vesturtúngarður, var norðurhliðið. Þaðan lá Stekksgata niður að Brandsbæ og áfram niður til Fjarðar. Suðurhliðið var neðarlega á mótum vestur- og suðurtúngarðs. En Lindargatan lá heiman frá Stekksbæ austur um austurgarðshliðið austur að Lindinni. Brunngatan var löng frá Stekk og austur.“ segir í örnefnalýsingu Áss. Tæpa 200 m suðaustan við Reykjanesbraut og stutt austan við norðurenda Ásvatns eru tóftir útihúsa við Ásstekk.

Býlið sjálft er nú afmáð af yfirborði jarðar en þar sem það stóð er nú Lóuás 1.
Tóftirnar standa í þýfðri, grasi gróinni brekku sem er vestan í byggingasvæði Ás-hverfis. Á svæðinu er tóft (A) og leifar túngarðs auk þess sem svo virðist að leifar lítils kálgarðs (B)séu sunnarlega í túninu. Nyrst er tóft (A) sem saman stendur af tveimur ógreinilegum hólfum sem eru byggð inn í brekkuna. Tóftin er um 8-9 m á lengd en 4-5 m á lengd. Nyrðra hólfið er 3 X 1 m að stærð en það syðra er 2 X 1,5. Ekki er greinanlegur torfveggur fyrir vesturvegg nyrðra hólfsins. Tóftin er hlaðin að innan og nokkuð er hrunið af grjóti inn í hana og við hana. Frá nyrðri útvegg hennar gengur garður til vesturs sem er um 34 m langur. Garður þessi er um 0,8 m á hæð og eru hleðslur greinanlegar norðan í honum en hann er algróinn að sunnan. Neðst er hann rofinn um 2 m en sést svo aftur í 2-3 m en þá endar hann snögglega og hefur greinilega verið flattur út. Um 40 m sunnan við fyrrgreinda tóft er það sem helst líkist kartöflugarði (B). Hann er í brekkunni á svipuðum stað og hin tóftin. Garðurinn er um 13 X 9 m að stærð og 0,4 m á hæð. 25 m neðan við kálgarðinn má svo sjá leifar túngarðs (C). Garðurinn liggur til suðurs og er merkjanlegur á um 35 m parti. Hann er mjög útflattur. Um 20-25 m norðar virðist einnig mega sjá óljósar leifar þessa garðs og áfram til norðurs. Um 35 m suðsuðaustur af fyrstnefndu tóftinni er grænn blettur eða hæð þar sem grjót er á víð og dreif. Er vel hugsanlegt að þar hafi tóft verið, þá líklega bæjartóft. Fast norðvestan við tóftina eru nokkrir stórir steinar og við þá eru það sem virðist vera leifar af hreyfðum öskuhaug þar sem ýmsu ægði saman (s.s. beinum glerbrotum og líklega gjalli). Tóftin og túngarður eru merkt með hæl og áheftum miðja frá Þjms.

Stekksgata – leið
„Hér enn vestar var svo býli, þurrabúð, nefnist það Stekkurinn, Ásstekkur, Vindás og Vindásstekkur. Honum fylgdi Stekkstúnið umgirt Stekkstúnsgörðum, vesturtúngarður, suðurtúngarður, austurtúngarður og norðurtúngarður. Þar sem saman komu norður- og vesturtúngarður, var norðurhliðið. Þaðan lá Stekksgata niður að Brandsbæ og áfram niður til Fjarðar. Suðurhliðið var neðarlega á mótum vestur- og suðurtúngarðs. En Lindargatan lá heiman frá Stekksbæ austur um austurgarðshliðið austur að Lindinni. Brunngatan var löng frá Stekk og austur.“ segir í örnefnalýsingu. Gatan lá frá Stekk og niður að Brandsbæ. Hún er ekki greinanleg nú en hnit voru tekin norðvestan við tóftina, við Ásbraut.

Ásgatan – leið

Ás

Ásgatan.

„Ásgatan lá frá Traðarhliðinu suður með austurgarði að Ási …“segir í örnefnalýsingu. Ásgatan lá frá Ási á svipuðum stað og enn er malargata. Gatan liggur að úr suðri Reykjanesbraut og er nú lokuð fyrir umferð. Frá Reykjanesbraut lá gatan áfram til norðurs niður að þeim stað þar sem nú er Jófríðarstaðavegur 15. Þar sem gamli slóðinn var er nú malarslóði ofan Reykjanesbrautar.

Stekkholt – stekkur
„Þar var nefnt Stekkholt, upp af Brandsbæ.“ segir í örnefnalýsingu. Um 80 m ofan við (suðsuðaustan) við Reykjanesbraut (sem stendur við Reykjanesbrautina) eru tóftir. Um 25 suður af Strandagötu, milli götunnar og Ástjarnar eru tvær tóftir á hæð. Hæðin liggur niður að mislægum gatnamótum. Tóftin sem er suðvestar er 25 m suðvestan við spennistöð. Fremur grýttur,mosavaxinn mói, sem hallar til vesturs.
Í brekkunni eru tvær tóftir. Sú sem er nær Reykjanesbrautinni (A) er tvöföld og nokkuð stærri. Nyrðra hólfið er 3 X 2,5 m að innanmáli en er jafnframt lægra. Inn í syðra hólfið er (1,5 X 0,75 m að innanmáli) hefur hins vegar fallið mikið af grjóthleðslunum. Op virðist hafa verið á það í suðausturhorni. 34 m norðan (NNV) við þessa tóft er ógreinilegt garðlag sem rekja má í um 35 m, alveg þangað til það hverfur undur Reykjanesbraut þar sem brúarhandrið er vegna mislægra gatnamóta. Garðlagið er um 2 m á breidd en 0,3 m á hæð. Um 30 m suðaustan við tóftina sem áður er lýst (A) er önnur tóft minni (B). Þessi tóft er um 25 m suðvestan við spennistöð sem stendur í brekkunni. Tóftin er einföld og er öll grjóthlaðin en nokkuð hrunin og er af þeim sökum full af grjóti. Tóftin er 5 X 3,5 m að utanmáli en 1 X 1,5 að innan. Op er vestast á suðurvegg.

Þórustaðastígur – leið

Þórustaðastígur

Þórustaðastígur.

„Þórustaðastígur er götuslóði frá Þórustöðum og að Vigdísarvöllum.“ Heiðarstígur er …“ líka nefndur Þórustaðastígur og liggur alla leið suður og upp til Núphlíðarháls og hann sameiginlegur Heiðarstígur fyrir alla Inn-Ströndina.“ segir í örnefnaskrá. Milli Kolagrafarholts og annars hóls sem er norðar er dæld sem er grasi gróin. Merki Þórustaðastígsins eru greinileg í dældinni. Göturnar lágu svo áfram yfir hraunið til suðurs. Ekki sjást skýr merki um Þórustíg við Reykjanesbrautina. Göturnar lágu yfir gróið hraun.

Alfararleið – leið

Alfaraleiðin

Alfaraleiðin.

„Um jörðina [Hvassahraun] hafa frá alda öðli legið ferðamannaleiðir til Suðurnesja. Má enn sjá þrjár brautir: Alfaraleið, troðninga hestalestanna, þjóðveginn, leið hestvagna og bifreiða, og nú síðast liggur um jörðina Reykjanesbrautin.“ segir í örnefnaskrá “ „Almenningavegurinn er elsta sjáanlega samgönguleiðin um hreppinn og liggur hún víðast hvar tiltölulega stutt frá byggðinni en þó yfirleitt ofan við Gamla-Keflavíkurveginn og innarlega í Hvassahraunslandi, einnig fyrir ofan Reykjanesbrautina. … Þetta nafn, Almenningsvegur, virðist helst (eða eingöngu) hafa verið notað af Voga- og Vatnsleysustrandarbúum því þar sem vegurinn liggur um Hvassahraunsland og innar var hann kallaður Alfaraleiðin.““Önnur gömul þjóðleið, eða sú sem liggur með sjónum milli Voga og Brunnastaðahverfis, var einnig kölluð Alfaraleið en ekki Almenningsvegur.“ segir í örnefnalýsingu Straums. „Þá liggur hér vestur um hraunið Alfaraleiðin í miklum djúpum lægðum, sem nefnast Draugadalir.“ segir í örnefnalýsingu Hvassahrauns.
Draugadalir eru að mestu í landi Hvassahrauns. Dalirnir eru norðan Reykjanesbrautar, þar sem vegurinn sem er samsíða Reykjanesbraut norðan hennar sameinast brautinni, austarlega í landi Hvassahrauns. Ekki er greinilegur slóði á þessum stað en Alfaraleiðin er vel merkjanleg víða í hrauninu, t.d. nálægt skógarreit í landi Þorbjarnarstaða. Gatan liggur um hraun. Almenningsvegurinn var einnig nefndur Alfararleið og lá frá Vogum og inn í Hafnarfjörð. Leiðin var vörðuð og enn má sjá nokkur vörðubrot á fyrsta hluta leiðarinnar frá Vogum auk þess sem einstaka vörður standa enn við leiðina. Gatan sjálf er víða greinileg sem dæld í gróið hraunið og kemur breikkun Reykjanesbrautar víða til með að eyða meira af götunni en þegar er skemmt.
Alfaraleið var skráð að hluta þegar tekið var út áhrifasvæði vegna tvöföldunar Reykjanesbrautar 2001. Leiðin var aftur skráð í tengslum við tvöföldun Reykjanesbrautar 2020 og aðeins sáust lítil ummerki um hana innan úttektarsvæðis, í landi Þorbjarnastaða, rétt sunnan við Kapellu. Í landi Þorbjarnastaða liggur leiðin á mjög grýttu svæði. Gróður er lítill, mosi að uppistöðu. Til suðurs liggur malarvegur og til norðurs er Reykjanesbraut.
Leiðin er fremur ógreinleg í landi Þorbjarnastaða. Ummerki um hana sáust þó rétt sunnan við Kapellu en þar liggur hún norðaustur-suðvestur á um 5 m kafla. Leiðin er gróin að hluta en mjög grýtt. Hún er um 1 m breið. Líklega er þetta gömul dæld sem leiðin liggur i gegnum en allt svæðið kringum kapelluna er gjörbreytt vegna framkvæmda við álverið og því lítilla ummerkja að vænta.

Rauðhólastígur – leið
„Austan úr Hraunum kemur annar stígur, heitir Rauðhólastígur eða Óttarsstaðaselsstígur. Hann lá upp á svokallaða Velli og var mikið farinn í smalamennskum.“ segir í örnefnaskrá Hvassahrauns. Stígar lágu saman í sveig við Lambafellshraun. Rauðhólastígur lá upp með hraunjaðrinum frá Kúagerði á svipuðum stað og vegarslóðinn að Keili er nú. Á þessum stað var vegarslóðinn um 200 m frá Reykjanesbraut, austar var hann nær en vestar fjær. Stígurinn náði upp í Rauðhólasel. Stígurinn er greinanlegur sem dæld í gróið hraunið á stöku stað.

Eiríksvegur – leið

Eiríksvegur

Eiríksvegur.

„Á þessum slóðum sjáum við annað sýnishorn af vegagerð fyrri tíma en það er Eiríksvegur og liggur vegarstæðið þráðbeint frá Akurgerðisbökkum en þeir eru neðan og vestan við Kúagerði og síðan áfram vestur yfir holt og hæðir.““Hér um [við Akurgerði] lá Almenningsgatan eða hestslóðin og héðan lá ein fyrsta tilraun til vegagerðar á landi hér, sem þó var aldrei notuð, kallast Eiríksvegur, því Eiríkur faðir Árna Kaupmanns og leikara í Reykjavík var verkstjóri. Vegurinn lá upp í Heiðina.“ segir í örnefnaskrá. Eiríksvegur lá frá þeim stað sem nefndur er Akurgerði.
Slóðinn var meðfram Steinkeravík/Kúagerðisvík og áfram til vesturs inn heiðina. Meðfram Kúagerðisvík liggur bílslóði samsíða Reykjanesbraut og endar hann í Strandavegi. Næstum fast frá slóða þessum má sjá leifar Eiríksvegar fast upp við fjörukambinn og svo til vesturs. Gatan er greinileg á grasi grónu svæði ofan við fjörukambinn en verður ógreinilegri þegar komið er út í meira hraunlendi norðvestar.
„Vegurinn er nefndur eftir verkstjóra vegagerðarmannanna sem hét Eiríkur Ásmundarson frá Grjótá í Reykjavík (1840-1893) … Eiríksvegur er 3-4 m breiður og í honum er mikið af grjóthnullungum. Ekkert farartæki hefur hingað til nýtt sér „samgöngubótina“ því vegargerðin dagaði uppi í Flekkuvíkurheiðinni einhvern tíman fyrir síðustu aldamót.
Almenningsvegurinn liggur svo til samsíða Eiríksvegi á þessum slóðum ýmist ofan eða neðan hans og á kafla liggja allir þrír vegirnir samsíða, Strandarvegurinn neðstur, síðan Almenningsvegurinn en Eiríksvegurinn efstur.“Gatan er var upphlaðin a.m.k. á kafla.

Skógfellavegur – leið

Skógfellavegur

Skógfellastígur.

„Í lægðinni fyrir ofan spennustöðina við Stapahornið og ofan við Reykjanesbrautina sjáum við fyrst móta fyrir Skógfellavegi sem var fyrrum þjóðleið til Grindavíkur.“ Lagðist af um 1920. Skógafellavegur er merktur með skilti um 20-30 m neðan Reykjanesbrautar. Skiltið er hins vegar norðaustan við slóðann sjálfan en það má sjá móta fyrir honum suðvestan við skiltið. Vegurinn liggur um gróið hraunið. „Í heimildum ber leiðin eftirfarandi nöfn: Skjógfellavegur, Skógfellsvegur, Vogavegur, Sandakravegur og Sandakradalsvegur.“

Lónakotsselstígur – leið

Lónakotsselsstígur

Við Lónakotsselsstíg.

„Þegar haldið var suður úr suðurtúngarðshliði, var þar við Lónakotsselsstíginn, sem síðar varð Lónakotsvegur, alldjúp gjóta, sem nú er fyllt með grjóti […]. En Lónakotsselsstígurinn lá áfram suður á alfaraleiðina, gömlu hestaslóðina á Suðurnes,“ segir í örnefnaskrá. Lónakotsselstígur lá frá Lónakoti að selinu. Stígurinn hefur legið rétt vestan við þar sem slóði liggur frá Reykjanesbraut að Lónakoti (húsi nokkru sunnar en Lónakotsbærinn var). Stígurinn hefur svo legið áfram til suðvesturs, gengið þvert á alfaraleiði og suður til Lónakotssels. Lónakotsselsstígur var um 1,3 km sunnan við Lónakotsbæ og rúmum 10 m sunnan við Reykjanesbraut. Leiðin lá yfir gróið hraun.
Engin merki um leiðina sáust innan þess svæðis sem tekið var út vegna tvöföldunar Reykjanesbrautar 2020 en því svæði hafði áður verið raskað vegna lagningu Reykjanesbrautar. Á loftmynd frá 2016 sést leiðin þó greinilega rétt sunnan við gamla Keflavíkurveginn.

Skógargata – leið

Skógargata

Hleðslur við Skógargötuna.

„Svonefnd Skógargata lá frá Eyðikotshlíð upp að Óttarsstaðaseli. Þar sem hún lá yfir hæðirnar, var kallað Kotaklifur,“ segir í örnefnaskrá og á öðrum stað í sömu skrá segir: „Skammt ofan við Kotaklifið er djúpt, sporöskjulaga jarðfall við götuna. Er það kallað Hlandkoppsgjörð. Þaðan liggur stígurinn um einstigi, og blasir þá við klapparhóll með þúfu á, nefndur Spói. Er þá komið upp að Reykjanesbraut. Frá Stóra-Nónhól vestur að Spóa eru kallaðir Nónhólar.“
Skógargata lá vestan við afleggjarann að Straumi, um 170 m austan við garðlag og rúmum 30 m norðan við Reykjanesbraut. Leiðin liggur gegnum grasigróið svæði vestan Brunntjarna, mosi er nokkur í sverði. Til norðurs eru grónir ásar áberandi.
Leiðin sést sem mosagróin 0,4-0,6 m breið gata og er á þessu svæði merkjanleg á um 80 m löngum kafla, neðarlega á grónum ás. Syðst liggur leiðin nálega austur-vestur á um 30 m löngum kafla uns hún sveigir til norðurs. Þaðan liggur leiðin á um 50 m til norðurs og hverfur því næst í gróður. Mögulega hefur gatan náð lengra til norðurs en það svæði er utan þess svæðis sem var til úttektar sumarið 2020 og var því ekki skoðað sérstaklega.

Suðurnesjavegurinn – leið

Keflavíkurvegur

Hleðslur við gamla Suðurnesjaveginn ofan Straums.

„Þar sem Reykjanesbrautin er var Suðurnesjavegurinn,“ segir í örnefnaskrá. Vegurinn er merktur inn á herforingjaráðskort frá 1911. Þar liggur hann að stórum hluta þar sem Reykjanesbraut liggur nú en liggur skammt sunnan við brautina við Litlu-Lambhagatún. Þaðan heldur leiðin áfram til Keflavíkur. Aðeins hluti vegarins var skráður (í landi Hvaleyrar) í tengslum við úttekt vegna breikkunar Reykjanesbrautar árið 2020. Leiðin þræddi gróið hraun.
Leiðinni var aðeins fylgt á þeim kafla sem er innan þess svæðis sem tekið var út vegna tvöföldunar Reykjanesbrautar 2020. Á þessum slóðum er leiðin annars vegar horfin undir Reykjanesbraut (á austurhluta skipulagssvæðis) en hins vegar (á vesturhluta svæðis) liggur gamli Keflavíkurvegurinn á sömu slóðum og gamla leiðin lá. Engin merki um gamla Suðurnesjaveginn sáust því á yfirborði vegna vegagerðar innan úttektarsvæðis.

Heimildir:
-Fornleifakönnun við Reykjanesbraut, Fornleifastofnun Íslands, Reykjavík 1998.
-Fornleifakönnun, Reykjanesbraut, Fornleifastofnun Íslands, Reykjavík 2001.
-Fornleifaskráning vegna tvöföldunar Reykjanesbrautar frá Hvassahrauni að Krýsuvíkurvegi, Fornleifastofnun Íslands, Reykjavík 2020.
-Fornleifaskráning í Hafnarfirði 1989, Þjóðminjasafn Íslands.
Suðurnesjavegur

Suðurnesjavegurinn ofan Lónakots.

Krýsuvík

Krýsuvík er ein fegursta náttúruperla Íslands og fjölbreytt litadýrð náttúrunnar á hverasvæðinu við Seltún hefur heillað margan ferðamanninn, auk listamanna. Stórbrotið landslag Krýsuvíkur er vel fallið til útivistar og náttúruskoðunar. Hér ber einna hæst sprengigíginn Grænavatn, leirhverina við Seltún og Kleifarvatn að ógleymdum Sveifluhálsi og síðast en ekki síst Krýsuvíkurbjarg, stórbrotinn útvörður svæðisins niður við ströndina. Margar gamlar gönguleiðir liggja út frá Krýsuvík, sem áhugavert er að huga nánar að.

Lifandi náttúra
HverKynngikraftur náttúrunnar blasir við augum í Krýsuvík. Höfuðskepnurnar eldur, vatn, loft og jörð hafa mótað umhverfið í aldanna rás. Gufustrókar stíga til himins, sjóðandi leirhverir leika taktfasta sinfóníu, hverahvammar skarta grænum, gulum og rauðleitum litum sem skipta um svipmót eftir veðrinu. Náttúruöflin eira engu í glímunni við gróðurinn, vatnsrof leikur stórt hlutverk þegar það rignir og ísa leysir. Vindurinn flettir þekjunni burtu og feykir jarðvegi á haf út þar sem öldur ólmast við klettaströnd og mola standbergið hvíldarlaust. Þetta er íslensk náttúra í öllu sínu veldi.

Litrík hverasvæði
BaðstofaHelstu hverasvæði Krýsuvíkur eru Seltún, Hverahvammur, Hverahlíð,  Austurengjar, suðurhluti Kleifarvatns og Sveifla undir Hettutindi, sem Sveifluháls heitir eftir. Við Seltún er Svunta og stór leirhver sem myndaðist þegar Drottningarhola sprakk haustið 1999. Fúlipollur er austan þjóðvegar og enn austar er Engjahver sem magnaðist við mikinn hverakipp 1924. Hann er líka nefndur Stórihver og svæðið umhverfis hann Austurengjahverir.

Land í mótun
Land í mótunVirka gosbeltið sem liggur eftir Reykjanesskaga er milli landreksflekanna sem kenndir eru við Evrópu og Ameríku. Elsti hlutinn eru Lönguhlíðarfjöll norðaustan Kleifarvatns sem sýna merki tveggja kuldaskeiða og tveggja hlýskeiða. Sveifluháls er móbergshryggur sem myndast hefur við gos undir íshellu á kuldaskeiði. Sunnan Krýsuvíkurhverfis milli Geitahlíðar og Sveifluháls eru nokkur lög af grágrýtishraunum, sum þakin jökulbergi, en efst ber mest á mó og mýrlendi. Jarðlögin sjást vel í Krýsuvíkurbergi. Rauðskriða á Krýsuvíkurheiði og Trygghólar eru leifar gamalla eldgíga sem hraun hafa runnið frá. Fyrir vestan og austan Krýsuvík eru yngri hraun, Litlahraun, Krýsuvíkurhraun og Ögmundarhraun sem eiga upptök sín í Brennisteinsfjöllum, gígum við Eldborgir sunnan Geitahlíðar og í gossprungum í Móhálsadal.

Sprengigígar kallast á
GrænavatnLandslag í Krýsuvík er mótað af umbrotum og jarðeldum. Grænavatn, Gestsstaðavatn og Augun eru sprengigígar sem myndast hafa við sprengigos á ýmsum tímum. Grænavatn er stærst um 46 m djúpt. Vatnið fær lit sinn af hveraþörungum og kristöllum sem draga grænan lit sólarinnar í sig. Gestsstaðavatn heitir eftir fornu býli sem fór í eyði á miðöldum. Beggja vegna þjóðvegarins eru lítil gígvötn sem kallast Augun.

Krýs og Herdís deila um landamerki
DysjarÞjóðsagan hermir að Krýsuvík sé nefnd eftir Krýs sem bjó í Krýsuvík. Hún átti í deilum um landamerki við grannkonu sína, Herdísi í Herdísarvík. Báðar töldu sig órétti beittar og ákváðu að skera úr í deilumáli sínu í eitt skipti fyrir öll. Sammæltust þær um að leggja af stað frá bæjum sínum við sólarupprás og ákveða mörk landa sinna  þar sem þær mættust. Þegar þær hittust á Deildarhálsi taldi Krýs að Herdís hefði lagt fyrr af stað en um var samið. Tóku þær að biðja hvor annarri óbæna ásamt jörðum þeirra. Herdís lagði það á Krýsuvík að allur silungur í Kleifarvatni skyldi verða að loðsilungi en Krýs mælti svo fyrir um að ein eða fleiri skipshafnir skyldu drukkna í Herdísarvíkurtjörn. Sagan um þessa landaþrætu kerlinganna hefur lifað meðal Krýsvíkinga í ýmsum myndum og sýnir kynngimagn Krýsuvíkur.

Fornminjar
TóftÍ landi Krýsuvíkur eru víða merkar fornleifar og búsetuminjar. Elstar eru Gestsstaðarústirnar, sennilega frá fyrri hluta miðalda. Mestar eru fornleifarnar í Krýsuvíkurhverfi undir Bæjarfelli þar sem höfuðbólið og flestar hjáleigurnar voru. Nútímavæðing hefur lítið komið við sögu og jörðin haldist nánast óbreytt frá fyrri tíð, en snemma á sjöunda áratugnum varð sögulegt slys á bæjarhólnum. Krýsuvíkurbærinn, sem stóð vestan kirkjunnar, var þá kominn að falli og voru stórvirkar vinnuvélar notaðar til að ryðja hólinn og slétta út minjar um þennan merka bæ. Neðan hólsins og allt í kringum hann eru gömlu túnin með túngörðum sínum ósnertum að mestu, tóftir gömlu kotanna og fleiri merkar fornminjar.

Dulúð regnsins
Það getur verið mjög votviðrasamt í Krýsuvík því þar gætir fyrst áhrifa frá lægðum sem nálgast landið úr suðvestri. Umhleypingar eru algengir með tilheyrandi úrkomu en í norð- og austlægum áttum má gera ráð fyrir þurrviðri í Krýsuvík. Þá skartar staðurinn sínu fegursta, en einnig getur dulúðin sem fylgir þokulofti og skýjuðu veðurfari búið yfir ólýsanlegri fegurð.

Einföld bændakirkja
KrýsuvíkurkirkjaKrýsuvíkurkirkju er fyrst getið í kirkjuskrá Páls Jónssonar Skálholtsbiskups um 1200. Margt bendir til að kirkja hafi risið í Krýsuvík á fyrstu áratugum kristni, en núverandi kirkju byggði Beinteinn Stefánsson á Arnarfelli 1857. Þetta er lítið guðshús einfaldrar gerðar, án turns, og eina húsið sem enn stendur á bæjarhólnum. Kirkjan var aflögð sem helgidómur og rúin öllum verðmætum 1929. Eftir það notaði einbúinn Magnús Ólafsson, síðasti íbúi Krýsuvíkur, hana sem íbúðarhús til 1945. Endurbygging kirkjunnar hófst 1957 og var hún endurvígð 31. maí 1964 og færð Þjóðminjasafninu til eignar. Árið 1997 var Sveinn Björnsson listmálari jarðsettur í kirkjugarðinum en þá voru liðin 80 ár frá síðustu greftrun þar. Á vorin er haldin messa í kirkjunni og altaristafla eftir Svein hengd þar upp, en tekin niður við messu á haustin og færð til vetrarvistar í Hafnarfjarðarkirkju.

Fuglalíf og eggjataka
KrýsuvíkurbjargUm 57.000 sjófuglapör verpa í Krýsuvíkurbergi, aðallega rita og svartfugl, sem skiptist í álkur, langvíur og stuttnefjur. Einnig verpir þar nokkuð af fýl, toppskarfi og silfurmáfi. Fyrrum var eggjataka mikil og máttu kotamenn taka tiltekið magn af fugli og eggjum úr berginu. Svo mikið fékkst af svartfuglseggjum á vorin að þau voru flutt á mörgum hestum heim til bæjanna. Sömu sögu var að segja af bergfuglinum sem gaf af sér kjöt og fiður. Á Krýsuvíkurheiði og í nágrenni Bæjarfells verpir mófugl, spói, heiðlóa, snjótittlingur og fleiri tegundir. Arnarfell og Arnarfellsstjörn eru kunn kennileiti á Krýsuvíkurheiði og á miðjum Sveifluhálsi eru Arnarvatn og Arnarnípa. Þessi nöfn vísa til þess að ernir hafi orpið á þessum stöðum í eina tíð.

Mannrækt í Krýsuvíkurskóla
KrýsuvíkurskóliUm miðjan áttunda áratuginn hófust miklar byggingaframkvæmdir á mel sunnan Gestsstaðavatns, en þar var ætlunin að reisa skóla fyrir unglinga sem þurftu á sérúrræðum að halda. Áður en byggingunni var lokið var fallið frá hugmyndinni og stóð húsið autt um margra ára skeið þar til Krýsuvíkursamtökin fengu það til afnota. Hafa þau rekið þar meðferðarheimili, uppeldis- og fræðslustofnun fyrir fíkniefnaneytendur.

Hnignandi gróður

Í Krýsuvík

Gróðri hefur farið mjög aftur í Krýsuvík á síðustu öldum. Talið er að jörðin hafi verið kjarri vaxin milli fjöru og fjalls af birkiskógi og víðikjarri, áður en Ögmundarhraun brann. Í jarðabók Páls Vídalín og Árna Magnússonar 1703 er sagt að skógur til kolagerðar nægi ábúendum. Skógurinn eyddist að mestu á harðindaskeiði sem gekk yfir landið í lok 19. aldar. Þá hófst landeyðing með miklum uppblæstri og vatnsrofi í landi Krýsuvíkur. Sauðfjár- og hrossabeit hafði einnig afdrifarík áhrif. Á Sveifluhálsi eru fáeinir grasbalar sem gefa til kynna að þar hafi verið mun grónara í eina tíð. Svæðið sunnan Kleifarvatns einkennist af miklu mýrlendi, slægjulandinu Vesturengjum og Austurengjum. Austan Arnarfells er Bleiksmýri og sunnan Trygghóla er Trygghólamýri.

Ritháttur Krýsuvíkur
TóftirÞegar gamlar sagnir frá Krýsuvík eru skoðaðar kemur glögglega fram að nafn víkurinnar er ætíð ritað með ý en ekki í eins og oft sést í seinni tíð. Örnefnið Krýsuvík er trúlega dregið af orðinu Crux sem merkir kross og hefur Krossvíkin hugsanlega verið við sjóinn nærri Húshólma í Ögmundarhrauni þar sem munnmæli herma að fyrsti bærinn hafi staðið. Mesta fuglabjarg Reykjaness Krýsuvíkurberg, mesta fuglabjarg Reykjaness, er um 7 km langt frá Bergendum við Keflavík í austri til Heiðnabergs vestan Hælsvíkur og 40 hektarar að flatarmáli. Bergið er um 50 m hátt á löngum kafla en Strandaberg, austasti hlutinn, er um 70 m hátt.
Rauðskriða er áberandi kennileiti á vesturhluta bergsins en neðan hennar var einstigið Ræningjastígur sem var eina gönguleiðin niður í fjöru. Meðan enn var farið á sölvafjöru var jafnan farið af sjó því bergið var ekki árennilegt öðrum en sigmönnum. Ræningjastígur var samt fær þeim sem treystu sér til að feta hann en nú er hann ófær með öllu.

Höfuðból og hjáleigur
KrýsuvíkurbjargKrýsuvík var heil kirkjusókn og eitt mesta höfuðból landsins með mörgum hjáleigum. Munnmæli herma að byggðin hafi upphaflega verið í Húshólma, óbrennishólma í austanverðu Ögmundarhrauni.  Þar er altént mjög fornt bæjarstæði sem kallað er Hólmastaður í eldri heimildum. Hjáleigur voru að jafnaði fimm til átta talsins en í gömlum heimildum er getið um 13 býli. Á heimajörðinni voru Suðurkot, Norðurkot, Snorrakot, Stóri-Nýibær, Litli-Nýibær, Arnarfell og nýbýlið Lækur. Fjær voru kotin Vigdísarvellir, Bali, Fitjar og Fell. Kaldrani stóð við suðvesturenda Kleifarvatns og Gestsstaðir sunnan Krýsuvíkurskóla.

Fiskisæld undir berginu
Sjósókn var alla tíð mikilvæg fyrir afkomu Krýsvíkinga. Undir Krýsuvíkurbergi, Hælsvík og lengra út með var löngum fiskisælt en þar er engin lending. Líklega hefur góð lending verið í Hólmastað eða gömlu Krýsuvík, en eftir að Ögmundarhraun rann tók hana af og eftir það var gert út frá Selatöngum. Biskupsskip frá Skálholti, skip útvegsbænda í Árnes- og Rangárþingum og sjávarbænda í Hraunum gengu frá Selatöngum með leyfi Krýsuvíkurbónda.  Krýsvíkingar stunduðu einnig útróðra frá Herdísarvík um aldir.

Kynlegt er Kleifarvatn
Krýsuvík 1810Kleifarvatn er 10 ferkílómetrar að flatarmáli og stærsta stöðuvatn á Reykjanesskaga. Það er á milli Sveifluháls í vestri og Vatnshlíðar í austri. Aðrennsli í vatnið er takmarkað og ekkert frárennsli er sjáanlegt ofanjarðar. Vatnsborðið fylgir grunnvatnsyfirborði svæðisins sem sveiflast um allt að 4 m á tugum ára. Félagar úr Stangveiðifélagi Hafnarfjarðar fluttu bleikjuseiði í Kleifarvatn um 1960 og dafnar fiskurinn bærilega í vatninu. Áður fyrr þóttust menn verða varir við kynjaveru líka stórum ormi í vatninu.

Sjá meira undir Krýsuvík – yfirlit HÉR og HÉR.

Heimild:
-visithafnarfjordur.is

Krýsuvík

Krýsuvík.

Stekkjarás

Leikskólar landsins eru bæði margir og fjölbreytilegir. Sjaldnast er þó samtímasaga þeirra skráð af sanngirni á samfélagsmiðlunum – þrátt fyrir mikilvægið. Hér verður þó fjallað um einn þeirra – af gefnu tilefni. Leikskólastarfið þar hefur vakið bæði eftirtekt og aðdáun víða.
Leikskólinn Stekkjarás í Hafnarfirði tók til starfa 8. september 2004. Skólinn er átta deilda og er í eigu Hafnarfjarðarbæjar, sem einnig sér um rekstur hans. Heildarstærð skólans er 1358 m² og leikrými 590 m². Leikskólinn er opinn alla virka daga fyrir utan skipulagsdaga og sumarlokanir. Væntingar starfsfólksins eru jafnan um að  hugmyndir þess um hið ágæta skólastarf leikskólans, sem og annar leikskóla, fái að njóta sín til framtíðar.
Leikskólinn opnar á morgnana kl. 7:30 og honum er að jafnaði lokað kl. 17:00. Starfsmannafjöldi miðast við fjölda barna og aldur þeirra. Við leikskólann er að minnsta kosti ein ungbarnadeild starfrækt og fleiri ef þess þarf. Á ungbarnadeildum eru börnin færri en á hinum deildunum. Aðrar deildir skólans eru aldursblandaðar.

Stekkjarás

Eitt barnanna í jólaratleiknum.

Á Stekkjarási er starfað eftir starfsaðferðum Reggio Emilia og endurspeglast sú uppeldissýn í öllu starfi skólans. Það sem einkennir Stekkjarás sérstaklega er m.a skapandi hugsun, notkun opins efniviðar í listsköpun, útinám, leikur, aldursblöndun, sérkennsla og sérstaklega gott foreldrasamstarf.

Í Stekkjarási hefur hvert barn hæfileika og getu – barnið lærir af samferða fullorðnum, öðrum börnum og umhverfinu.

Það er mikil ábyrgð og mikið samvinnuverkefni samfélagsins að ala upp börnin okkar. Þau eiga rétt á því að fá ögrandi verkefni sem efla getu þeirra til að takast á við lífið og menntun til framtíðar.
Börn eru klár og mikils megnug.

Leikskólinn Stekkjarás hefur nú að frumkvöðli leikstjórastjórans, Öldu Agnesar Sveinsdóttur, vegna breytingakvaða (Covid19), boðið börnum og foreldrum leikskólans upp á skemmtilegan jólaratleik í nágrenninu, með góðum stuðningi foreldrafélagsins.
Ratleikurinn felst í að ganga um Ásskóginn, neðan leikskólans, sem börnin þekkja svo vel, með ratleikjakortinu og finna með þeim falin jólasveinaspjöldin….

Stekkjarás

Ratleikurinn.

Krýsuvíkurkirkja

Ný glæsileg Krýsuvíkurkirkja er nú komin á grunn sinn á Krýsuvíkurtorfunni þar sem eins kirkja var upphaflega byggð þar 1957.

Var kirkjan hífð á sinn stað rétt yfir kl. 11 laugardaginn 10. okt. 2020 í blíðskaparveðri og gekk hífingin eins og í sögu. Stóran krana þurfti til að hífa kirkjuna sem er 6,8 tonn að þyngd.

Krýsuvíkurkirkja

Flutningur á nýju kirkjunni gekk vel undir öruggri lögreglufylgd.

Þegar kirkjan var komin á sinn stað ávarpaði Jónatan Garðarsson, formaður Vinafélags Krýsuvíkurkirkju viðstadda og sr. Gunnþór Ingason var með stutta helgistund.

Ný Krýsuvíkurkirkja, sem verið hefur í smíðum um tíu ára skeið hjá nemendum trésmíðadeildar Tækniskólans í Hafnarfirði, var í vikunni hífð af jörðu og sett á dráttarvagn.

Kirkjan var síðan flutt með dráttarbifreið frá Hafnarfirði til Krýsuvíkur daginn áður en hún var híft á stæði gömlu kirkjunnar norðan Ræningjahóls.

Fyrri kirkja í Krýsuvík var byggð árið 1857 en brann til kaldra kola í eldsvoða af völdum íkveikju 2. janúar 2010. Strax í kjölfarið kom fram áhugi meðal stjórnenda Iðnskólans í Hafnarfirði, sem þá var, á að smíði nýrrar kirkju yrði verkefni trésmíðanema skólans. Hljómgrunnur var fyrir slíku og þar með komst málið á hreyfingu milli stjórnenda skólans og kirkjunnar fólks.

Nákvæmum fyrirmyndum hefur verið fylgt við smíði kirkjunnar, en starfsmenn Þjóðminjasafnsins tóku þá gömlu út mjög nákvæmlega árið 2003; mældu, mynduðu og skráðu. Hafa þær upplýsingar í raun gert þessa vandasömu smíði gerlega, en hún hefur tekið rúman áratug.

Kirkjan stóð við hlið Krýsuvíkurbæjarins en það sem eftir var af honum var jafnað við jörðu með jarðýtu um 1960 ásamt fleiri minjum.

Þann 25. febrúar 1964 samþykkti bæjarstjórn Hafnarfjarðar að afhenda Krýsuvíkurkirkju ásamt kirkjugarði og öðrum mannvirkjum tilheyrandi staðnum Hafnarfjarðarsókn til fullrar eignar og varðveislu, ásamt landspildu umhverfis kirkjuna, samtals 7.096 m² að stærð.

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja híft á gamla kirkjustæðið.

Kirkjan, sem byggð var 1857 af Beinteini Stefánssyni smið, hafði þá verið í mjög lélegu ástandi, var þá endurbyggð og friðuð.

Hún var sóknarkirkja allt fram undir 1910 en aflögð 1917. Hún var notuð m.a. til íbúðar frá 1929.

Engir gamlir kirkjumunir hafa varðveist og innanstokksmunir af nýlegri og einfaldari gerð. Mjög var farið að sjá á kirkjunni um 1980, rúður brotnar og bárujárn ryðgað í gegn. Skátar í Skátafélaginu Hraunbúum, sem voru með mótssvæði sitt undir hlíðum Bæjarfells, gerðu við helstu skemmdir, lokuðu húsinu og máluðu kirkjuna en Þjóðminjasafn greiddi fyrir efni. Þá var svæðið allt girt af en áður hafði fé gengið frítt um kirkjugarðinn.

Krýsuvíkurkirkja

Nýja kirkjan komin á gamla kirkjustæðið.

Viðamiklar viðgerðir hófust svo 1986 og var kirkjan færð til upprunalegri gerðar. Var kirkjan vinsæll áningarstaður og fleiri þúsund komu í kirkjuna árlega og skrifuðu í gestabók sem þar var.

Stofnað var Vinafélag Krýsuvíkurkirkju árið 2010 með það að markmiði að byggja nýja kirkju í upprunalegri mynd en góðar teikningar voru til af kirkjunni. Þjóðminjasafnið gaf Vinafélaginu tryggingabætur fyrir kirkjuna til að kosta efni í endurbygginguna.

Byggingarfulltrúi samþykkti 11. ágúst sl. byggingarleyfi fyrir kirkjuna og Ríkiseignir, fyrir hönd ríkissjóðs, hafa óskað eftir að gefa aftur lóð Krýsuvíkurkirkju til Hafnarfjarðarkaupstaðar, 7.097 m² lóð.

Hafnarfjarðarkaupstaður mun gera lóðarleigusamning við Hafnarfjarðarkirkju um lóð umhverfis kirkjuna sambærilegan og gerður er við aðrar kirkjur þar sem sveitarfélag er eigandi.

Eftirfarandi helgistund undir handleiðslu séra Gunnþórs Þ. Ingasonar fór fram við Krýsuvíkurkirkju eftir að hún hafði verið hífð á grunn gömlu kirkjunnar:

Signing og bæn: „Í nafni Guðs, föður og sonar og heilags Anda, Amen. Himneski faðir, ver þínu húsi, nýsmíðaðri Krýsuvíkurkirkju í Anda þínum og verndarkrafti í Jésú nafni. Amen.“

Gunnþór Ingason

Séra Gunnþór Þ. Ingason í Krýsuvík.

Guðspjall: Matt; 5.1-10. Forn ísrk/keltnesk trúarjátning frá 7. öld: Um það bil 670 e. Kr. hóf ísrskur biskup að nafni Tírechán söfnun heimilda og frásagna af heilögum patreki í bók sína Collectanea (samsafn). Þar segir hann frá því að Patrekur hittir fyrir tvær dætur konungsins í Tara (hákonungs Íra) við uppsprettulind. Önnur þeirra spyr Patrek um Guð kristinna manna. Sem svar setur Tírechán fram eftirfarandi trúarskilgreiningu/trúarjátningu fyrir munn Patreks. Ekkert er vitað hvaðan hún er komin en hún ber augljós merki þess að hafa verið viðhöfð í liturgíunni, helgisiðum ískrar kristni:  „Guð er Guð allra manna, Guð himins og jarðar, Guð sjávar og fljóta. Guð sólar og tungls. Guð allra himneskra vera. Guð hárra fjalla, Guð lágra dala. Guð er himnum ofar og hann er í himninum og hann er undir himnunum. Himinn, jörð og haf og allt í þeim er honum bústaður. Hann andar á allt og feur öllu líf og er þó öllu ofar og undir öllu. Hann tendrar loga sólar, hann glæðir ljós nætur og stjarna. Uppsprettur býr hann til á þurru landi og eyjar í sjó. Og hann lætur stjörnur þjóna æðri ljósum. Hann á sér son sem á sér eilífð með honum og er líkur honum í hverri grein. Og hvorki er snonurinn yngri föðurnum né faðirinn eldri syninum og andi heilagur andar í þeim.
Faðir og Sonur og Heilagur Andi eru óaðskiljanlegir.“ [þýð. Gunnþór Þ. Ingason.]

Krýsuvíkurkirkja

Verkinu lokið.

Bæn: „Himneski faðir. Þökk fyrir nýsmíðaða Krýsuvíkurkirkju og að hún skuli vera komin á sitt helga kirkjustæði í Krýsuvík. Þökk fyrir hve vel hefur tekist að smíða hana og færa hana hingað og koma henni uðð á kirkjuhólinn á sinn rétta stað, þar sem fyrri kirkjur í Krýsuvík hafa löngum staðið. Þökk fyrir alla þá er komu að verkunum sem til þessa hefur leitt, Vinafélagi kirkjunnar sem hefur staðið fyrir þeim verkum, og Iðnskólanna og Tækniskólann, er sáu um kirkjusmíðina meðs ínu góða starfsliði, og aðra að auki sem liðsinnt hafa. Og nú biðjum við þig um að vernda kirkjuna, bægja hættum frá henni, blessa vígslu hennar og vernda og blessa kirkjuna á komanda tíð sem helgað Guðshús, sem verndað er og varðveitt af umhyggju og elsku þinni. Og blessa þú helgihald endurreistrar Krýsuvíkurkirkju og gildi hennar og vægi fyrir kristni og þjóðmenningu hér á landi og kristni í heimi í Jesú nafni. Faðir vor“…

Krýsuvíkurkirkja

Ný Krýsuvíkurkirkja kominn á systravettvang.

Keltnesk blessu:
Djúpur friður berist þér í bylgjuflæði,
friður í streymandi andblænum,
friður frá jarðarkyrrð,
friður frá skínandi himinsstjörnum,
djúpur friður frá friðarsyninum góða.
Blessun Guðs gefist þér og reynist.

Framangreind athöfn styrkir vantrúaða í þeirri vissu að „Guð“ er í eðli sínu myndlíking. Uppspretta hins eiginlega „guðs“ er að finna í náttúrunni; allt umleikis – frá upphafi lífs til loka þess. Allt líf dafnar og hrærist í henni og hún er óumflýjanlegur hluti af tilverunni. Krýsuvíkurkirkja verður í framtíðinni tákn staðfestu þess…

Hér má sjá nokkrar myndir af endurbyggingu Krýsuvíkurkirkju s.l. tíu ár sem og flutningi hennar á á gamla kirkjustæðið.

Heimildir m.a.:
-https://www.mbl.is/frettir/innlent/2020/10/08/krysuvikurkirkju_lyft_a_vorubilspall/ – 08.10.2020.
-https://www.fjardarfrettir.is/frettir/ny-krysuvikurkirkja-komin-i-krysuvik

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja hífð á gamla kirkjustæðið.

Tag Archive for: Hafnarfjörður