Tag Archive for: Krýsuvík

Krýsuvík

Í Alþýðublaði Hafnarfjarðar 10. des. 1949 er fjallað um framkvæmdir í Krýsuvík, s.s. vegagerð, garðyrkjubú, kúabú og raforkuvinnslu. Þar segir m.a.:

krýsuvíkurvegur

Krýsuvíkurvegurinn.

“Þegar menn tóku að beita sér fyrir lagningu Suðurlandsbrautar um Kýsuvík til að fá snjóléttan vetrarveg milli Árnessýslu og Reykjavíkur, opnuðust möguleikar fyrir Hafnarfjörð, að færa sér í nyt auðsuppsprettur Krýsuvíkur.
Í Krýsuvík hefur verið byggð frá landnámstíð og allt fram á okkar daga. Samkvæmt manntali 1855 voru þá í Krýsuvíkursókn 12 býli með 72 manns, er þar höfðu sitt framfæri. Síðari hluta 19. aldar fækkaði svo þessum býlum ört, og byggð mun hafa lagst þar alveg af um 1935.

Krýsuvík

Krýsuvík.

Oft mun hafa verið vel búið í Krýsuvík, enda sauðland gott og ræktunarmöguleikar miklir. Hins vegar hafa erfiðar samgöngur, eða réttara sagt samgönguleysi, hafa valdið mestu um það, að byggðin lagðist niður. Með tilkomu hins nýja vegar var aftur þessari hindrun rutt úr vegi. Um fáa vegi á Íslandi mun hafa verið rifist meira. Og jafnvel eftir að vegagerðinni var að mestu lokið, s.sl. vetur, þegar vegurinn bjargaði mjólkurflutningunum um tveggja til þriggja mánaða skeið.

Krýsuvík

Vinnuskóladrengir við vinnu í fjósinu í Krýsuvík (HH).

Hafnfirðingar nutu góðs af vegarlagningu þessari á margan hátt. Í fyrsta lagi nutu þeir góðs af því, eins og Reykjavík, að hægt var að halda sambandi þessu opnu, þegar allir aðrir vegir austur voru lokaðir. Í öðru lagi nutu þeir, á erfiðum tímum, mikillar atvinnu við lagningu vegarins. Í þriðja lagi opnaði vegurinn þeim leiðina til Krýsuvíkur.
Næsta sporið var að eignast landið. Emil Jónsson bar fram á Alþingi 1935 frumvarp um eignarnám á þessu landi öllu, sem náði samþykki, þó ekki eins og upphaflega var ætlast, heldur var það nokkuð rýrt í meðferð þingsins, en Hafnarfjarðarbær eignaðist þó allt ræktarland milli Sveifluháls og Geitahlíðar, og milli Kleifarvatns og sjávar, sem er geysilegt landflæmi, fyrir lítið verð eða innan við 50 þús. kr. með rétti til að nytja allan jarðhita í landi jarðarinnar. Það má óhætt fullyrða, að þessi kaup, á jörð og hitaréttindum, eru einhver þau hagkvæmustu, sem Hafnarfjarðarbær hefir nokkurn tíma gert, miðað við allar aðstæður og miðað t.d. við verðið á jarðhitaréttindum þeim, sem Reykjavíkurbær hefir keypt í Mosfellssveit, og mikið lán að þessu skyldi vera lokið fyrir verðhækkun ófriðaráranna.

Krýsuvík

Krýsuvík – frá Vinnuskólanum.

Um leið og landið var keypt, var einnig frá því gengið, að það yrði innlimað í lögsagnaruymdæmi Hafnarfjarðar, svo að útsvör manna sem í Krýsuvík eiga heima, renna nú til Hafnarfjarðarbæjar, en ekki til Grindavíkurhrepps, en landið tilheyrði áður þeim hreppi.
Nú leið og beið, því ekki var hægt að hafast að, fyrr en vegurinn var fullgerður suður fyrir Kleifarvatn, en þá hófust líka framkvæmdir í stórum stíl. Árið 1945 og ’46 var allt landið girt. Um sama leyti var hafist handa um undirbúning gróðurhúsabygginga og húsbyggingar fyrir starfsfólk. Þessu verki var lokið um síðustu áramót eða uppúr þeim, og fyrstu gróðurhúsin voru tekin til notkunar í marsmánuði síðsatliðnum. Eru gróðurhús þessi um 600 fermetrar að flatarmáli. Í sumar hefir svo verið unnið að því að stækka þau, bæta við 1000 fermetrum. Garðyrkja á jarðhitasvæðum er talinn hinn arðvænlegasti rekstur hér á landi og er ekki vafi á að hún muni verða einn af hyrningarsteinunum undir búreksturinn í Krýsuvík.

Krýsuvík

Krýsuvík – Vinnuskólinn (HH).

Ráðgert er að stofna til búreksturs til mjólkurframleiðslu í Krýsuvík með ca. 100 mjólkandi kúm, til að byrja með. Síðar verði kúnum fjölgað fljótlega upp í 300, og meira síðar. Með 300 kúm í Krýsuvík, og þeirri mjólkurframleiðslu, sem nú er í bænum og næsta nágrenni hans má gera ráð fyrir að hægt verið að fullnægja mjólkurþörf bæjarins fyrst um sinn. Væri með því stigið mikið heillaspor fyrir bæjarbúa, að geta ávallt fengið nýja mjólk og góða, í stað þeirra, sem nú er flutt hingað um langan veg og vægast sagt er misjöfn að gæðum.

Krýsuvík

Vinna í gróðurhúsunum.

Framkvæmdir þessar hófust árið 1946. Jarðræktarframkvæmdir hafa verið fólgnar í skurðgrefti til að þurrka landið. Land hefir einnig verið brotið til ræktunar svo tugum hektara skiptir. Tveir votheysturnar byggðir. Fjós er í byggingu og sömuleiðis íbúðarhús fyrir bústjóra. Keyptar hafa verið vélar til jarðrækar, flutninga o.fl. Það sem vantar fyrst og fremst er íbúðarhús fyrir starfsfólk, að fullgera fjós og bústjórahús og kaupa gripi.
Bústjórinn var ráðinn fyrir þrem árum, Jens Hólmgeirsson, og hefir hann undirbúið framkvæmdir og stjórnað þeim. Er ekki vafi á að þegar búið tekur til starfa verður það í fremstu röð hvað fyrirkomulag og tækni snertir.
Kostnaður við framkvæmdir allar snertandi kúabúið, mun nú vera orðinn um 1 millj. kr., ræktunarkostnaður, byggingakostnaður og vélakaup, en þar af hafa vélar verið keyptar fyrir um 300 þús. kr. Bæjarútgerðin hefir greitt allan þenna kostnað.”

Vinnuskólin

Vinnuskólapiltar á leið í sundlaugagerð við Bleikhól. (HH)

Eins og kunnugt er varð aldrei af búrekstrinum í Krýsuvík. Bæði var það vegna þess að andstæð stjórnmálaöfl voru á móti honum og auk þess voru sett lög er skilyrti gerilseyðingu mjólkur til handa tilteknum leyfishöfum. Þar með varð framtíð kúabúsins í Krýsuvík dæmt til að mistakast. Fjósið hefur verið notað undir fé, svín og sem leiksvæði Vinnuskólabarnanna í Krýsuvík á sjöunda áratug 20. aldar.
Fjósbyggingin og súrheysturninn standa nú eftir sem minnismerki um háleita drauma og stjórnmálaleg umskipti.

Heimild:
-Alþýðublað Hafnarfjarðar 10. des. 1949.

Krýsuvík

Krýsuvík.

Krýsuvík

Í Lögbergi árið 1948 er viðtal við Jens Hólmgeirsson, framkvæmdastjóra, um fyrirhugað stórfellt landnám í Krýsuvík undir fyrirsögninni „Stórfellt landnám í Krýsuvík á vegum Hafnarfjarðarbæjar –
Lokið er byggingu eins íbúðarhúss og hafinn undirbúningur að túnrækt og byggingu gróðurskálans:

krysuvik-221„Í Krýsuvík á sunnanverðu Reykjanesi var áður allmikil byggð, sem lagðist með öllu niður fyrir nokkru. Þar eru mikil jarðhitasvæði og allgóð aðstaða til ræktunar bæði við jarðhita og án hans. Nú hefir Hafnarfjarðarbær hafið þar landnám að nýju. Er ætlunin að stunda þar bæði nautgriparækt til mjólkurframleiðslu og ræktun matjurta og grænmetis í upphituðum gróðurskálum. Framkvæmdastjóri garðræktarinnar þar hefir verið ráðinn óskar Sveinsson garðyrkjumaður, en Jens Hólmgeirsson mun sjá um stofnun og starfrækslu kúabúsins. Tíðindamaður blaðsins hefir átt tal við Jens Hólmgeirsson um þessi mál.

Heil kirkjusókn í eyði
— Var ekki allmikil byggð í Krýsuvík áður fyrr?
— Jú, Krýsuvík var stórbýli fyrr á öldum og höfuðból, og auk þess voru áður í Krýsuvíkurhverfinu 10—12 hjáleigur og smærri býli. Á þeim tíma var þarna all-fjölmennt og fram undir 1600 var prestur í Krýsuvík. Eftir það var Krýsuvíkurkirkja annexía frá Strönd í Selvogi, en síðar var kirkjunni þjónað frá Grindavík. Árið 1928 mun kirkjan hafa verið lögð niður, enda var þá aðeins fátt fólk eftir í sókninni. Munir og gripir kirkjunnar voru þá fluttir í Þjóðminjasafnið, en húsið, stendur ennþá. Árið 1901 eru taldar 42 sálir í Krýsuvíkursókn, og eru þá aðeins fimm bæir í byggð. Árið 1934 mun síðasti bóndinn hafa flutt úr byggðarlaginu. — Bjó hann í Nýjabæ og hafði verið þar bóndi um 40 ára skeið og komið upp 17 mannvænlegum börnum.

Bjó einn í kirkjunni
Byggð féll þó eigi niður í Krýsuvík fyrr en árið 1945. Síðasti íbúi Krýsuvíkur var Magnús Ólafsson. Hann kom 18 ára gamall sem vinnumaður til Árna sýslumanns Gíslasonar, sem flutti til Krýsuvíkur nokkru fyrir síðustu aldamót. Magnús ílentist svo í Krýsuvík, tók órjúfandi tryggð við staðinn og undi þar vel hag sínum, þótt aðrir flyttu brott. Síðustu árin bjó hann þar einn síns liðs með kindur sínar. Hafði hann íbúð í kirkjunni eftir að hún var lögð niður. 1945 veiktist Magnús, þá um eða yfir 70 ára að aldri, og var fluttur til Hafnarfjarðar. Með brottför hans var í bili lokið byggð í Krýsuvík.

Allgóðir landkostir og mikill jarðhiti
jens— En hvernig eru landkostir í Krýsuvík?
— Krýsuvíkurland má heita eina verulega gróðurlendið á Reykjanesskaga vestan línu, sem dregin er frá Hafnarfirði í Selvog. Samkvæmt mælingu Ásgeirs L. Jónssonar, ráðunauts, sem gerði ræktunarmælingar af landinu, er graslendi í Krýsuvík nálega 350 ha. að flatarmáli. Er þá ekki talið með gróðurlendi í hallandi hlíðardrögum, né heldur hálfgrónir melar, en það land skiptir vafalaust hundruðum ha. Verulegur hluti hins mælda graslendis er mýrar og hálfdeigjur. Sums staðar er undirlag þó mókennt, en annars staðar leirblandið. Þá er og jarðhiti allmikill í Krýsuvík, þar á meðal stór gufu hver, sem ýmsir telja einn hinn hrikalegasta gufuhver í heimi Hafnarfjarðarbær hefur nýtt landnám í Krýsuvík. Krýsuvíkurland er, sem kunnugt er, eign Hafnarfjarðarbæjar. Hefir stjórnin í huga að hefja þarna nýtt landnám. — Er einkum rætt um tvennt; í fyrsta lagi ræktun alls konar matjurta og grænmetis í gróðurskálum við jarðhita. í öðru lagi er áform að að stofna þar kúabú til mjólkurframleiðslu fyrir Hafnarfjörð, og hefir í því sambandi einkum verið rætt um framleiðslu barnamjólkur. Fleiri framkvæmdir munu og hafa komið til greina, en hér verður ekki um þær rætt.

Skilyrði til búskapar góð
— Hvernig telur þú skilyrði til búskapar þar?
— Þau má telja allgóð. Ræktanlegt land ætti að geta framfleytt um 300 kúm, án þess þó að nota að nokkru hugsanlega túnræktarmöguleika á melalandinu. Verulegur hluti af landi því, sem kortlagt hefir verið til ræktunar, verður að teljast fremur gott. Þá eru og sterkar líkur fyrir því, að hægt sé að fá geysimikinn jarðhita í Krýsuvík. Nú þegar mun mega staðhæfa, að hann sé nægur fyrir hendi til stórfelldrar gróðurskálaræktunar, súgþurrkunar á heyi og til hitunar íbúða þeirra, sem byggja verður vegna þeirrar starfsemi, sem að framan hefir verið greint frá.

Miklar framkvæmdir
krysuvik-903Svo sem áður er sagt, eru ekki til staðar í Krýsuvík eldri mannvirki, sem nothæf eru, hvorki húsakostur né ræktað land. Hér verður því um að ræða hreint landnám frá rótum. Fyrirhugaðar framkvæmdir munu því verða einhver hin stórfelldustu og myndarlegustu átök til nýs landnáms, sem ennþá hafa verið gerð á landi á einum stað og af einum aðila. Verður hér um að ræða algera nýbyggð á landssvæði, sem komið var í fullkomna auðn og var áður heil kirkjusókn að stærð.
Fyrstu framkvæmdirnar í ræktunarátt hóf Hafnarfjarðarbær fyrir nokkrum árum með því að girða landið. Mun girðingin vera um 27 km. að lengd og landið innan hennar um 2000—2500 ha. að flatarmáli. Var girðingunni lokið 1946. Sama ár var hafizt handa um skurðgröft til þurrkunar á væntanlegu ræktunarlandi. Alls hafa nú verið grafnir opnir skurðir, sem eru liðlega 5,3 km. að lengd og eru samtals yfir 23 þús. teningsmetrar að rúmmáli. Þá hefir og verið hafið nokkuð landbrot. Mun það nema nú nálægt 27 ha. að stærð, og er þar innifalinn meginhluti gömlu túnanna, en um ræktun og gróðurfar eru þau eðlilega litlu betri en úthaginn. Ekkert af þessu landi er þó fullunnið ennþá. Lokið byggingu eins íbúðarhúss og hafin bygging gróðurskála.
— En hvað er að segja um byggingarframkvæmdirnar?
— Eitt íbúðarhús hefir verið byggt og er það ca. 10×26 metrar að grunnstærð. Stendur það á melöldu -norðaustan við Gestsstaðavatn, en þar í grennd hefir gróðurskálunum verið valinn staður. Í húsinu eru tvær rúmgóðar fjölskylduíbúðir auk geymslurúms og einstakra herbergja fyrir starfsfólk. — Húsið er hitað með gufu. Hús þetta er einkum ætlað fyrir væntanlegt starfsfólk gróðurhúsanna. Má það nú heita nær því fullgert. Á s. l. sumri flutti Óskar Sveinsson garðyrkjumaður í húsið með fjölskyldu sína. Munu þá hafa verið liðin tæp tvö ár frá því að Magnús Ólafsson, einbúinn, sem ég minntist á hér að framan, flutti alfarinn úr Krýsuvík.

Krýsuvík

Fjósið í Krýsuvík.


Af öðrum byggingum má nefna skýli yfir 30 kw. dieselrafstöð, sem sett hefir verið upp. Einnig 60 rúmmetra steyptan vatnsgeymi og dæluhús við Gestsstaðavatn, en þar er neyzluvatnið tekið. Þá er hafin bygging tveggja gróðurskála um 600 fermetra að flatarmáli. Er það þriðjungur þeirra gróðurskála sem ráðgert hefir verið að byggja á næstunni. Var að því komið að steypa veggi gróðurhúsanna, þegar frostin hófust í desembermánuði s. l. Þá hefir verið lokið við vatnsleiðslu að íbúðarhúsinu, nokkrir vegarspottar lagðir og fleiri smærri framkvæmdir gerðar. Framkvæmdir á þessu ári Svo sem fyrr getur, hefir lítt eða ekki verið byrjað á þeim byggingum, sem væntanlegu kúabúi eru nauðsynlegar. Má þar til nefna, fjós, hlöðu, votheysgryfjur og íbúðir starfsfólks o. fl. Að sjálfsögðu er aðkallandi að ljúka verulegum hluta af þessum byggingum á yfirstandandi ári og því næsta. Takist það, má telja nokkra von til að mjólkurframleiðsla geti byrjað í Krýsuvík seint á árinu 1949. En svo sem kunnugt er, eru slíkar framkvæmdir bundnar fjárveitingarleyfi og allfrekar á erlent byggingarefni, en á því er nú mikill hörgull eins og allir vita. Verið er að vinna að þess um málum nú. En að þessu sinni verður ekkert um það sagt, hvernig afgreiðslu þeirra reiðir af. — Tíminn, 18. marz.“

Heimild:
-Lögberg. 20. maí 1948, bls. 7

Krýsuvík

Á leið til Krýsuvíkur. Vesturengjar framundan.

Krýsuvík

Mánudaginn 12. marzmánaðar var kveðinn upp dómur í máli bóndans á Litla-Nýjabæ í Krýsuvík; nr. 3/1906: Réttvísin gegn Sigurði Magnússyni.
Krysuvik-loftmynd-221„Dómur – Mál þetta var í héraði höfðað gegn ákærða, sem þá var bóndi í Litla-Nýjabæ í Krýsuvík, fyrir að hafa dregið óleyfilega undir si gull af kindum, er aðrir áttu, en hann rúði fyrir þá óbeðið, eins og alltítt er að bændur geri í Krýsuvík við kindur utansveitarmanna, er þar hittast órúnar.
Var málið dæmt í aukarétti Gullbringu- og Kjósarsýslu 25. okt. f. á. þannig, að refsing fyrir brot það, er ákærði áleizt sekur um og heimfært var af héraðsdómaranum undir 259. gr. alm. hegningarlaga, var látin niður falla, en ákærði dæmdur til að greiða kostnaðinn, er af málinu leiddi. En þessum dómi hefir stjórnarráðið skotið til yfirdómsins.
Það er sannað í málinu með játningu ákærða og öðrum skýrslum, að vorið 1904 rúði hann í Krýsuvíkurrétt meðal annara kinda svarta á tilheyrandi Halldóri bónda Halldórssyni á Setbergi, en skilaði ekki ullinni eigandanum, heldur tók hana til sín og hagnýtt sér hana. Ákærði hefir fært sér það til afsökunar, að hann hafi verið í óvissu um, hver kindina átti, vegna óglöggs eyrnamarks á henni. Ákærða var þó skýrt frá því í réttinni, hver eigandi kindarinnar væri, og hún var með réttu horna- og brennimarki þess manns, er hún var eignuð, og þar sem ákærði lét þó ullina saman við sína eigin ull, án þess að grenslast nokkuð eftir eiganda kindarinnar, verður að álíta, að hann hafi sviksamlega dregið sér hana.

Krýsuvíkurrétt

Krýsuvíkurrétt.

Það hefir verið borið í málinu, að ákærði hafi einnig dregið undir sig ull af 2 öðrum kindum, er hann hafi rúið, aðra vorið 1903, en hina vorið 1904, en ákærði hefir neitað því, að hafa rúið og tekið ull af kindum þessum, og hefir ekki fengist full lagasönnun til að hnekkja þessari neitun hans.
Þá er það og upplýst í málinu, að ákærði sumarið 1904 lagði inn í kaupstað miklu meiri ull en hann gat hafa fengið af kindum þeim, er hann átti sjálfur, og að vísu er sú skýring hans á þessu atviki harla ósennileg, að hann hafi fundið alla þá ull, um eða yfir 70 pd., í haganum sumarið 1903 og vorið 1904, sem innlegg hans nam meiru en ullinni af hans eigin kindum.
Hinsvegar sést það af málinu, að aðrir menn hafa fundið á sama hátt ull svo tugum punda skifti, einkum sumarið 1903, og virðist því ísjárvert að telja það sannað, að ákærði hafi verið óráðvandlega kominn að ullarinnleggi sínu eða nokkru af því.

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja.

Það verður þannig eigi álitið, að ákærði hafi gerst sekur i öðru refsingarverðu athæfi en ullartöku þeirri af kind Halldórs Halldórssonar, er fyr er nefnd, og er rétt að heimfæra það brot ákærða, eins og héraðsdómarinn hefir gert, undir 259. gr. alm. hegningarlaga, en þar sem ákæruvaldið hefir eigi viljað sleppa málsókn fyrir brotið, verður ákærði að sæta refsing fyrir það, er þykir hæfilega ákveðin 8 daga einfalt fangelsi. Ákærða ber að greiða allan kostnað, er leitt hefir af málinu, bæði í héraði og fyrir yfirrétti, þar með talin málflutningslaun sækjanda og verjanda fyrir yfirdóminum, er ákveðast 10 kr. til hvors þeirra.
Það vottast, að rekstur málsins í héraði hefir verið vitalaus og málsfærslan fyrir yfirdóminum lögmæt.
Því dæmist rétt vera:
Ákærði Sigurður Magnússon á að sæta 8 daga einföldu fangelsi, og greiða allan kostnað málsins, bæði í héraði og fyrir yfirdómi, þar með talin málflutningslaun skipaðs sækjanda og skipaðs verjanda við yfirdóminn, yfirréttarmálaflutningsmannanna Odds Gíslasonar og Guðm. Eggerz, 10 kr. til hvors þeirra. Dóminum að fullnægja með aðför að lögum.“

Heimild:
-Landsyfirréttardómar og hæstaréttardómar úr íslenskum málum, 7. árg 1909, bls. 212-214.

Kind

Kind virðir fyrir sér kvöldsólina.

Drumbdalastígur

Eftirfarandi er frásögn Gísla Sigurðssonar um leiðir í Krýsuvík. Hér lýsir hann Drumbdalastígnum og leiðum að honum frá Krýsuvík…

Bæjarfell

Bæjarfell.

“Við höfum verið við guðsþjónustu í Krýsuvíkurkirkju. Við höfum notið góðgerða á heimili kirkjuhaldarans. Við kveðjum þá alla með virktum. Komnir fram á hlað ráðum við ráðum okkar, því um tvær leiðir er um að ræða. Við tökum þá sem liggur austur úr túni, enda verðum við samferða Norðurkotsbóndanum. Við förum ofan traðanna og yfir Dalinn í Norðurkotstraðir og eftir þeim. Norðurkotsbóndinn fer heim til sín, en við höldum austur og innar með Bæjarfelli. Erum áður en langt um líður komin að garði er liggur ofan úr fellinu og út á Rauðhólsmýrina, er garður þessi átti að liggja norðan og ofan við Litla-Nýjabæ, en verkinu lauk þarna úti í mýrinni. Þegar komið er alveg norður fyrir fellið verður fyrir okkur steinn mikill og n okkrar rústir kringum hann. Hér er Hafliðastekkur, en hvenær sá Hafliði bjó hér og hafði hér stekk er ekki að vita. Héðan stefnum við svo norður og upp mýrina austan við Skugga og þar upp á hálsinn.

Krýsuvík

Krýsuvík – Arnarfell (t.v.) og Bæjarfell.

Við erum þá aftur stödd heima á hlaði í Krýsuvík. Og nú höldum við vestur um Dal í túninu og þar vestur úr Vesturtúngarðshliði og erum áður en varir komin á Alfaraleiðina gömlu, upp á Bæjarhálsi og höldum eins og leið liggur vestur yfir melana að Svartakletti, vestur frá honum norðan við Einbúa og þar upp á Hálsinn og erum þá komin að Stóra-Drumb.

Höldum svo norður um ofanverða Drumbsdali og yfir hálsinn hjá Litla-Drumb. Leið þessi nefnist Drumbsdalastígur. Þegar þangað kemur sveigir gatan nokkuð til norð-austurs og niður að læk. Þá er vert að staldra við. Ég var svo heppinn fyrir nokkru, að fá í hendurnar kort, sem út var gefið 1931 af Bókmenntafélaginu, eins og þar stendur “af Hinu íslenska bókmenntafélagi”.

Bæjarfell

Bæjarfell – tóft.

Þegar ég leit á þetta kort og tók að lesa örnefni og fleira, hvað er það þá sem ég rekst á? Ekkert minna en að leiðin sem við erum að fara um, þegar kemur norður fyrir Litla-Drumb. Hún nefnist S V E I F L A: Og þá höfum við fundið hvers vegna Austurhálsinn er kenndur við, en eins og þið vitið nefnist hann SVEIFLUHÁLS: Vil ég einnig minna á að hálsarnir hér eru á korti Ólafs Ólavíusar, kallaðir Móhálsar og leiðin hér, kirkjugatan frá Vigdísarvöllum er þar nefnd MÓHÁLSASTÍGUR. Einnig eru hálsarnir nefndir Núpshlíðarháls (Vesturháls) og Sveifluháls (Austurháls) eins og áður greinir.

Drumbdalastígur

Drumbdalastígur.

Við höldum svo niður af hálsinum að Kringlumýrarlæk og austur með honum að vaði yfir hann. En áður en við höldum áfram er ómaksins vert að koma við þar sem lækurinn fellur vestur af og niður. Þar fellur hann um móbergsklappir. Hefur hann, þó lítill sé, grafið gil í móbergið og skilið þar eftir sig þvílíkan skúlptúr að aðdáunarvert er. Brestur mig orð til að lýsa hvílíka fegurð þar er að finna. En sjón er sögu ríkari og komið þið með með og skoðið listaverk þessa litla lækjar.
Við höldum svo niður af Hálsinum í dalinn milli Móhálsanna og yfir að Vigdísarvöllum. Það er af Vigdísarvöllum að segja, að um aldir var þar selstöð frá Þorkötlustöðum í Grindavík. Var selstaðan látin í té fyrir skipsuppsátur á Þorkötlustöðum. 1834 segja kirkjubækur fyrst frá því, að þar sé ábúandi, leiguliði frá Krýsuvík. Bali aftur á móti er ekki byggður fyrr en 1845 og er í byggð fram til 1870. En Vigdísarvellir voru í byggð fram um aldamótin síðustu. Um æði margar gönguleiðir er að ræða frá Vigdísarvöllum.”

-Handrit Gísla Sigurðssonar – Landslag og leiðir – Útvarpið – Gönguleiðir út frá Krýsuvík.

Drumbdalastígur

Drumbdalastígur.

Refur

Ætlunin var að ganga frá Sýslusteini í Lyngskjöld og leita uppi greni, sem þar á að hafa verið.

Sýslusteinn

Sýslusteinn.

Á þeim slóðum átti svonefnt þrætugreni að vera, en það var nefnt svo vegna þess að hvorki Selvogsmenn né Grindvíkingar töldu grenið vera í þeirra landi. Heyrir það til undantekninga að bændur afneiti landi því oftar en ekki hafa þeir deilt um yfirráð á slíkum svæðum. Bréfaskrifti fóru á millum hreppsnefndanna vegna þessa þar sem ítrekaðar voru skyldur hvorrar fyrir sig að vinna grenið. Ástæðan var fyrst og fremst sú að grenið var á ystu mörkum sveitarfélaganna og langt að fara fyrir báða aðila, þó heldur lengra fyrir Grindvíkinga. Líklegt mátti því telja að Lyngskjaldargrenið hafi verið það greni er olli framangreindum deilum fyrrum, nefnt „Þrætugreni“. Hafa ber í huga að akvegur þarna var fyrst gerður um miðjan fimmta áratug síðustu aldar. Að sögn kunnugra er grenið við landamerkjavörðu á „Skildi“ og eiga hlaðin byrgi skyttu að vera nálægt greninu.

Lyngskjaldargreni-1

Ólafur Þorvaldsson, síðasti bóndinn í Herdísarvík, getur um Lyngskjaldargrenið í lýsingu sinni af Herdísarvík: „…Vestan Klifhæðar er geil af eldra hrauni með miklum lynggróðri, en vestan hennar samfelld brunabreiða, sem runnið hefur ofan af fjalli vestan Lyngskjaldar. Austarlega í þessari brunabreiðu, en ofan vegar, er stór, stakur hraungrýtissteinn, og er hér Sýslusteinn, auðþekktur sökum stærðar og einstæðingsskapar. Sýslusteinn er á mörkum milli Árnes- og Gullbringusýslu, og þá einnig merkjasteinn milii Herdísarvíkur og Krýsuvíkur. Úr Sýslusteini liggja sýslumerki yfir Lyngskjöld, sem er bunga í brún fjallsins, og hefur yngsta hraunið runnið ofan af fjallinu, austan hans og vestan. Gren er á Lyngskildi, austan marka, Lyngskjaldargren. Meiri gróður er í Lyngskildi en umhverfis hann, t. d. mikið um eini, og er oft á haustin gott þar til einiberja…“
Mosavaxið hraun liggur neðan, ofan og beggja vegna Lyngskjaldar. Hann er í eldra greiðfærara helluhrauni. Svæðið hallar snarlega upp á stall vestan Herdísarvíkurfjalls. Hallinn er lyng- og hrísvaxinn. Þegar upp á hann er komið tekur við fyrrnefnt tiltölulega slétt hellurhraun. Ofar eru rásir og í þeim nokkir litlir hellar. Stallurinn er kjörið grenjasvæði því alls staðar má sjá op á yfirborðsrásum.

Þrætugrenin

Hleðslur við Þrætugrenin.

Lyngskjaldargrenið (-grenin) er rétt fyrir ofan hallann, fremst á stallinum, vestast í honum. Lítil varða er ofan við brúnina og síðan má sjá hvert opið á greninu á fætur öðru. Þau eru öll merkt með tveimur steinum. A.m.k. tvö byrgi refaskyttu eru sitt hvoru megin við grenjasvæðið. Meginopið er í nokkurs konar „urð“ skammt suðaustan við efra byrgið. Innan við það var skít að sjá, en hvergi var fiður eða önnur nýleg ummerki eftir ref í eða við grenin. Talsvert var af rjúpu í nágrenninu, sem bendir fremur til þess að refur hafist ekki við í greninu um þessar mundir. Hnit voru tekin. Af afstöðunni má ætla að grenið sé nokkurn veginn á sýslumörkunum fyrrnefndu, en þó heldur innan Selvogslands ef eitthvað er.

Þrætugrenin

Eitt þrætugrenjanna.

Refur hefur löngum verið veiddur á Reykjanesskaga. Í frétt í Morgunblaðinu 1987 segir m.a. um tófuveiðar á Reykjanesskaganum: „Tófu fjölgar ört í Gullbringusýslu að sögn refaskyttu sem fréttaritari Morgunblaðsins hefur rætt við. Refaskytturnar hafa fellt um 70 tófur í vor, og virðast tófurnar vera um allt. Einar Þórðarson refaskytta í Vatnsleysustrandarhreppi segir til dæmis að tófurnar séu við bæjardyrnar hjá sér á Vatnsleysu. Tófur hafa verið felldar við Innri-Njarðvík, úti á Reykjanesi og víðar. Þá hafa tófur sést víða, t.d. innan Varnarliðs-stöðvarinnar á Keflavíkurflugvelli.
Einar Þórðarson og Lárus Kristmundsson refaskyttur í Vatnsleysustrandarhreppi hafa fellt 22 tófur í vor, sem er mesti fjöldi að minnsta kosti um langt skeið. Á síðasta ári felldu þeir 16 tófur alls. í vor fundu þeir tvöfalt greni í Hvassahrauni, það er að þar voru tvær læður í greninu. Á Vatnsleysuströnd hafa dauð lömb fundist við tófugreni.
MelrakkiÍsólfur Guðmundsson, bóndi í Ísólfsskála, refaskytta í Grindavíkurlandi, hefur fellt 17 tófur í vor. Hann skaut 3 tófuyrðlinga í einu skoti við tófugreni á Vatnsheiði. Í landi Hafnarfjarðar, Garðabæjar og Kópavogs að hluta hafa verið felldar 10 tófur úr 2 grenjum í vor að sögn Sigurðar Erlendssonar
refaskyttu. Hermann Ólafsson og Sveinbjörn Guðmundsson refaskyttur í Hafnahreppi hafa fellt samtals 20 tófur í vor, þar af eru 3 tófur er voru felldar í Njarðvíkurlandi.
Samtals hafa því 6 tófur verið felldar í ár, sem er svipaður fjöldi og á síðastliðnu ári. Að sögn Páls Hersteinssonar veiðistjóra voru felldar samtals 38 tófur í Gullbringusýslu árið 1985 og 31 árið 1984. Samkvæmt upplýsingum frá veiðistjóra var veiðin frá árinu 1975 eftirfarandi: Árið 1975 voru felldar 8 tófur í sýslunni, en árið 1976 voru þær 5, árið 1977 var engin tófa veidd, en þær urðu samtals 7 árið 1978, 1979 var engin tófa felld, en árið 1980 voru þær 2, árin 1981 og 1982 voru engar tófur veiddar í sýslunni en árið eftir hófst fjölgun, þá voru veiddar 11 tófur, árið eftir 31.“

Þrætugrenin

Skjól refskyttu við Þrætugrenin.

Og svolítill fróðleikur um tófuna: Talið er að tófan hafi sest að á Íslandi í lok ísaldar, fyrir um það bil 10 þúsund árum, en talið er að hún hafi komið hingað á hafís.
Fullvaxinn refur getur orðið tæpur metir á lengd, skrokkurinn ekki nema 56-60 cm. Og þyngdin getur orðið allt að 6 kg. Læðurnar eru yfirleitt léttari.
Til eru nokkur litarafbrigði af Íslenska heimskautarefnum en aðallitirnir eru mórautt og hvítt. Dýr af mórauðakyninu eru dökkbrún allt árið en geta verið með hvítan blett eða rák á bringu. Á sumum mórauðu dýrunum getur feldurinn orðið upplitaður á vorin, svo að hann sýnist ljósbrúnn eða grábrúnn. Dýr af hvíta afbrigðiðu eru aftur á móti grábrún á baki og ljósbrún á kvið á sumrin, en þau eru alhvít á vetrum. Mórauða afbrigðið er algengast á Íslandi þegar á heildina er litið. Trýni refsins er alltaf svart og eyrun upprétt. Refir ganga úr hárunum tvisvar á ári. Þeir skipta yfir í sumarfeldinn á tímabilinu frá miðjum maí til miðjan júní. Vetrarfeldur fullorðinna dýra vex út aftur í byrjun vetrar og er að vaxa eitthvað fram yfir áramót.

Þrætugreni

Skjól refaskyttu við Þrætugrenin.

Húsakynni tófunnar er kallað greni. Greni tófunnar eru margvísleg. Greni hennar eru víðast í stór-grýtisurðum neðarlega í fjallshlíðum eða í hraunrásum. Vitað er með vissu að mörg greni hafa verið notuð áratugum saman, þótt ekki sé það á hverju ári.
Tófan gýtur að jafnaði um miðjan maí eftir c/ 52 daga meðgöngu. Afkvæmi tófunnar kallast yrðlingar.
Meðal gotstærð íslensku tófunnar er 5-6 yrðlingar. Þeir fæðast blindir en augun opnast eftir 15 daga. Yrðlingarnir eru alveg háðir móðurmjólkinni fyrstu þrjár vikurnar en þá byrja þeir að éta kjöt. Læðan venur þá síðan af spena við 6-10 vikna aldur.
Báðir foreldrar hjálpast að við uppeldið. 

Vembla

Fyrstu þrjár vikurnar fer læðan lítið frá greninu og steggurinn sér að mestu einn um aðdrætti. Refaparið notar afmarkað heimasvæði sem það fer um í ætisleit og reynir að verja gegn öðrum refum. Heimasvæði sem varið er fyrir öðrum dýrum sömu tegundar er nefnt óðal. Bæði kynin merkja óðalið með þvagi á áberandi stöðum.
Yrðlingarnir taka smám saman að fara í stuttar og síðar lengri ferðir frá greninu. Þegar þeir eru orðnir um það bil tólf vikna gamlir, sem er venjulega snemma í ágúst, eru þeir oft farnir að dreifa sér og sofa á daginn í holum og glufum sem ekki teljast eiginleg greni. Næstu fjórar vikurnar eykst sjálfstæði þeirra og síðast er vitað til að refur hafi fært yrðlingum fæðu í lok ágúst þegar yrðlingarnir voru tæplega 14 vikna gamlir. Í byrjun september virðast þeir vera farnir að finna alla sína fæðu sjálfir.

Þrætugreni

Hleðslur við Þrætugrenin.

 Um miðjan september taka fyrstu yrðlingarnir að yfirgefa óðal foreldranna. Steggir virðast fara fyrr en læður.
Fæðan fer eftir aðstæðum, ýmislegt sjórekið, hrognkelsi, kræklingur, fuglar, egg, hreindýrahræ, rjúpur, þangflugnapúpur, ber, hagamýs o.fl.
Fá dýr eiga sér eins margar nafngiftir og refurinn á Íslandi.
Önnur Íslensk heiti eru: Djangi, djanki, dýr, dratthali, fjallarefur, fjallrefur, gráfóta, heimskautarefur, holtaþór, lágfóta, melrakki, melkraki, rebbali, rebbi, refur, skaufhali, skolli, tófa, tæfa, vargur og vembla.
Refaveiðar hafa verið stundaðar á Íslandi frá upphafi landnáms og refaskinn notuð sem verslunarvara.. Um tíma var bændum gert skylt að stunda grenjaleit á jörðum sínum og afréttum á eigin kostnað, þótt veiðimönnum væri greitt fyrir veiðina.“
Til baka var gengið eftir torsóttri fjárgötu undir Lyngskildi.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín.

Heimild:
-Árbók Hins íslenska fornleifafélags, 1943-1948. Herdísarvík í Árnessýslu, eftir Ólaf Þorvaldsson, bls. 134.
-Morgunblaðið 14.07.1987, bls. 26.
-Villt spendýr, bls. 74-85.

Þrætugreni

Hleðslur við Þrætugrenin.

Krýsuvík

 Eftirfarandi kafli er úr bók Bjarna Sæmundssonar „Um láð og lög“, sem kom út árið 1942. Bjarni fæddist á Járngerðarstöðum í Grindavík 15. apríl 1867 og var skírður af sér Þorvaldi Böðvarssyni á Stað. Hann mundi eftir fólki frá uppvaxtarárum sínum í Grindavík, en síður eftir örnefnum og merkilegum minjum. Í þessum kafla lýsir hann ferð með föður sínum til Krýsuvíkur þegar hann var u.þ.b. 6 ára til að „sækja í sel“, en svo virðist sem Járngerðarstaðabændur hafi átt innangegnt í Krýsuvíkurland til slíkra nytja á sjöunda áratug 19. aldar, eða um það leyti er selstöður voru að leggjast af á þessu landssvæði:

Gamla gatan - nú eyðilögð með leyfi Fornleifaverndar ríkisins

„Til Grindavíkurhrepps heyrði í uppvexti mínum Krýsuvíkursókn, höfuðbólið Krýsuvík og nokkrar hjáleigur, sem nú eru allar, ásamt sjálfri heimajörðinni, í eyði. [Skv. sóknarlýsingu Jóns Vestmanns (1840) voru eftirfarandi bæir byggðir á þessum tíma; heimajörðin Kýsuvík, Suðurkot, Norðurkot, Lækur, Stóri-Nýibær, Litli-Nýibær og Vigdísarvellir]. Krýsvíkingar lifðu sem sveitamenn á landbúnaði (sauðfjárrækt) og með fram á fiskveiðum og fuglatekju í Krýsuvíkurbergi („Berginu“). Stundum tóku þeir kýr og kálfa af Grindvíkingum til hagabeitar á sumrin og hirtu smjörið og mjólkina (súrmjólk og sýrublöndu), sem Grindvíkingar svo sóttu til þeirra og spöruðu þeim þannig alla selmennsku, sem þá var að leggjast niður, en hafði áður verið tíð víða um Suðurkjálkann, eins og hin mörgu örnefni kennd við sel bera vitni um.
Eitt sumarið, er við áttum kýr í Krýsuvík, fór pabbi sem oftar „að sækja í sel“ (hann gerði það víst á hálfsmánaðar fresti), og fékk ég að fara með (likl. 6 ára). Þða var nú heldur en ekki tilhlakk. Við riðum hvor sínum hesti og höfðum einn undir áburði, heilankerum undir sýru eða súrmjólk. Vegurinn var alllangur (21 km) og ekki góður; milli lágra fella, yfir hálsa, hraun og leirgötur og hestarnir latir áburðarhestar, sem vanastir voru klyfjaganginum og þurftu 5 klst. til Krýsuvíkur, sem með léttri reið tekur frá Járngerðarstöðum 3 1/2 – 4 klst. 

Vestari lækur í Krýsuvík

Vegurinn liggur um fjalllendi, er nefnist í daglegutali Hálsar, eftir móbergshryggjum tveimur lágum. Austurhálsi /Sveifluhálsi) og Vesturhálsi (Núpshlíðarhálsi), sem áður voru sameiginlega nefndir Móhálsar.
Mér leiddist ekki ferðin, þótt seint gengi. Ég var kominn þarna inn á milli fellanna, sem ég þekkti orðið sæmilega, heiman að séð, og hafði gert ráð fyrir, að hefðu aðeins tvær hliðar og litu því eins út báðum megin frá. Var ég því illa svikinn, er ég sáð, að þau voru gjör-ólík og óþekkjanleg, séð frá hinni hliðinni, og ein af mínum barnahugmyndum um lögun fjalla beið herfilegt skipsbrot. Varð ég nú að heita á pabba til að hjálpa mér, ekki eingöngu, þegar um smá örnefni, svo sem hálsa, kletta, gjáarsprungur o.fl. var að ræða, heldur og um fjöllin og fellin, sem ég í fyrsta sinni sá frá „hinni hliðinni“. Hafði hann lítinn frið fyrir spurningum mínum, en það vildi svo vel til, að hann var sérlega örnefnafróður maður, sem á yngri árum hafði fengizt mikið við smalamennsku á þessum slóðum.
Mógröf í KrýsuvíkNú var orðið lítið um smalamennsku þarna suður, smalar fáir og örnefnin týnast því miður, þau sem ekki eru þegar fest á kort.
Við gistum í Krýsuvíkurhverfinu (Suðurkoti), og sá ég þar í fyrsta sinni á ævinni læk (vestasta „vatnsfallið“ á suðurströnd landsins) og smakkaði þar fyrst ósalt uppsprettuvatn. Einnig sá ég þar skrítna „steina“, dökk-mórauða á litinn, en mjög létta í sér, hlaðna upp í hrauk þar á hlaðinu. Það voru mókögglar! Mór þekkist tæplega út um Suðurkjálkann.“
Heimild:
-Bjarni Sæmundsson, Um láð og lög, Rvík 1942, bls.10-11Krýsuvíkurtorfan - uppdráttur.

Seltún

Eftirfarandi er úr grein um sögu brennisteinsvinnslu hér á landi eftir Ingvars Birgirs Friðleifssonar í Lesbók Morgunblaðsins árið 1997:
Krysuvikurnama-5„Þótt Íslendingar hefðu ekki mikil not af jarðhitanum, allavega ekki þegar átti að tíunda hann til skatts eins og í Jarðabókinni, hafði Danakóngur þeim mun meira gagn af brennisteini sem víða finnst á gufuhverasvæðum. Brennisteinn var snemma fluttur út frá Íslandi og varð er fram liðu stundir dýr verslunarvara. Svo virðist sem erkibiskup í Niðarósi hafi á 13. öld haft nokkurs konar einkarétt til að flytja eða kaupa brennistein frá Íslandi, en síðar náði kóngur réttinum undir sig. Ekki er vitað hvað mönnum erkibiskups gekk til að flytja út brennistein, því púðurgerð hófst ekki í Evrópu fyrr en eftir 1400. Lýður Björnsson, sagnfræðingur, hefur komið með þá athyglisverðu tilgátu að prestar hafi ef til vill kveikt í brennisteini í kirkjum sínum til að hrella sóknarbörnin, sýna þeim hvernig Vítislogar líta út og leyfa þeim „að finna lyktina“ (Lýður Björnsson, munnlegar upplýsingar 1995).
Á fyrri hluta 16. aldar keyptu Hamborgarar brennistein á Íslandi og varð Danakóngur að kaupa af þeim brennistein til púðurgerðar á krysuvikurnamur-4geypiverði. Árið 1561 forbauð kóngur Íslendingum að selja útlendingum brennistein, nema þeir hefðu sérstakt leyfisbréf. Eftir þetta lét danska stjórnin flytja út brennistein frá Íslandi út 16. öldina og var verslunin svo arðsöm framan af að kóngur hafði eitt sinn 6000 ríkisdala ábata af einum skipsfarmi. Þetta svaraði til 1500-2000 kýrverða sem jafngilda 150-200 milljónum króna í dag. Brennisteinsverslunin var þá helsti arður sem Danir höfðu af Íslandi.
Helstu brennisteinsnámurnar voru í Krýsuvík og Brennisteinsfjöllum á Suðvesturlandi og í Þingeyjarsýslu (Hlíðarnámur í Námafjalli, Fremrinámur, Kröflunámur og Þeystareykjanámur). Fróðlegt er að lesa um hvernig kóngsins mönnum tókst í skugga Stóradóms, sem þá var verið að lögfesta, að sölsa undir sig námuréttindi í Mývatnssveit vegna legorðsmála þar í sveit (sjá Ásverjasögu eftir Arnór Sigurjónsson, 1967).
Í byrjun 17. aldar hætti stjórnin sjálf að kaupa og flytja brennistein enda fór hann þá mjög að falla í verði í Evrópu. Var brennisteinsnámið því í minni metum á 17. og 18. öld og fengu þá ýmsir einkaleyfi til brennisteinsverslunar. Brennisteinsvinnsla var einn liður í Innréttingum Skúla Magnússonar, fógeta, en var lítt arðbær.“

Heimild:
-Ingvar Birgir Friðleifsson, Lesbók Morgunblaðsins 20. sept. 1997, bls. 10-13.

Brennisteinsvinnsla

Brennisteinsvinnsla Við Seltún.

Krýsuvík

Fyrir þá, sem eru lítið fyrir lestur, er ágætt að byrja á því að lesa niðurlag þessarar umfjöllunar. Við það gæti áhuginn á frekari lestri kviknað. Ekki eru hafðar myndir með textanum svo þær dragi ekki athyglina frá innihaldinu.

Þann 18. júní 1999 kvað Hæstiréttur Íslands upp dóm í máli Hafnarfjarðarbæjar gegn íslenska ríkinu. Efnislega krafa málsins fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur var að krefjast afsals fyrir landi því sem Hafnarfjarðarbær fékk vegna eignarnáms jarðarinnar Krýsuvík og Stóra-Nýjabæ sem og öllum hlunnindum sem jörðunum fylgja. Undanskilið er það land sem þegar hafði verið afsalað með afsalsbréfi til Hafnarfjarðar af ríkinu og var útgefið 20. febrúar 1941, en það land er nú innan lögsögu Hafnarfjarðar, þ.e. landið sunnan Kleifarvatns utan nefndra jarða.
Með lögum nr. 11/1936 var ríkinu heimilað að taka nefndar jarðir eignarnámi og skyldi afhenda sveitarfélaginu Hafnarfirði afnotarétt jarðanna þannig að það fengi þörf fyrir hita, ræktun og sumarbeit fullnægt. Gullbringusýslu skyldi afhenda lítt ræktanlegt beitiland jarðanna sem afréttarland fyrir sauðfé.
Með lögum nr. 101/1940 var kveðið svo á, að Gullbringusýsla skyldi fá lítt ræktanlegt beitiland jarðanna í samræmi við skiptagerð, sem gerð hafði verið á árinu 1939 samkvæmt fyrirmælum framangreindra laga, en Hafnarfjörðir skyldi fá jarðirnar að öðru leyti.
Hafnarfjörður taldi sig aðeins hafa fengið hluta þess landssvæðis sem hann hefði átt rétt á samkvæmt þessu. Talið var að megintilgangur laganna frá 1940 hefði verið sá að afla ríkinu lögformlegrar heimildar til að afsala Hafnarfirði beinum eignarrétti að því landsvæði, sem því hefði verið markað í skiptagerðinni. Framganga Hafnarfjarðar í tengslum við afsalsgerðina og eftirfarandi aðgerðarleysi þess um árabil gæfi ótvírætt tl kynna, að það hefði verið ásátt við að tilgangi laganna hefði á þeim tíma verið fullnægt. Var staðfest sú niðurstaða héraðsdóms að hafna kröfum Hafnarfjarðar gegn ríkinu.

Í rauninni er framangrein niðurstaða mun merkilegri en í fyrstu mætti ætla.

Í dómi Hérðasdóms koma fram sögulegar staðreyndir er varða undanfara eignarnámsins. Á árinu 1935 flutti Emil Jónsson, þáverandi alþingismaður Hafnarfjarðarkaupstaðar, frumvarp til laga „um eignarheimild á nokkrum löndum og á afnotarétti landsvæða í Hafnarfirði, Garðahreppi og Grindarvíkurhreppi og um stækkun lögsagnarumdæmis Hafnarfjarðar“, eins og í yfirkskrift frumvarpsins segir. Frumvarpið varð að lögum nr. 11/1936. Í 4. tl. 1. gr. laganna er ríkisstjórninni veitt heimild til að taka eignarnámi jarðirnar Krýsuvík (í lögunum segir Krísuvík) og Stóra-Nýjabæ í Grindavíkurhreppi.

Í greinargerð sem frumvarpinu fylgdi segir, að á árinu 1933 hafi verið lögð fram 3 frumvörp, sem öll hafi hnigið til sömu áttar og miðast við það, að bæta úr brýnni og aðkallandi þörf Hafnarfjarðarkaupstaðar á ræktanlegu landi. Ástæður hafi í engu verulegu breyst frá þeim tíma. Áhugi fyrir aukinni ræktun sé mikill og almennur í Hafnarfirði, en landið sé lítið nærtækt, nema hraun sem sé óræktanlegt með öllu. Í niðurlagi greinargerðar með frumvarpinu segir svo: „Enn er það nýmæli í þessu fr., að Krísuvík í Grindavíkurhreppi og Stóri-Nýjibær verð tekinn með. Er það gert með tilliti til þess, að þar eru einu jarðhitasvæðin í nágrenni Hafnarfjarðar. Hafa kaupstaðarbúar mikinn hug á að tryggja sér þau og notfæra á ýmsa lund síðar. Jarðir þessar eru nú lausar út ábúð og í eyði, svo tíminn yrði aldrei betur valinn en einmitt nú.“

Í 1. mgr. 2. gr. laganna frá 1936 segir, að eignarnámsbætur til eiganda jarðanna Krýsuvíkur og Stóra-Nýjabæjar skulu metnar af gerðardómi þriggja manna og mælt fyrir um það, hverjir skuli skipa þá til setu í gerðardóminum.

Gerðardómurinn skilaði niðurstöðu, sem dagsett er 4. nóvember 1936. Þar er tekin afstaða til verðmætis ýmissa kosta og hlunninda jarðarinnar í 10 liðum og verður hér á eftir gerð grein fyrir niðurstöðu gerðardómsins um hvern einstakan þátt.

Í I. kafla er húsakostur jarðanna beggja verðmetinn og komist að þeirri niðurstöðu, að þar í liggi engin verðmæti.

Í II. kafla dómsins er fjallað um ræktað og ræktanlegt land og sá hluti landsins metinn á kr. 10.000, án þess að landsvæðið sé afmarkað með nokkrum hætti.

Í III. kafla gerðardómsins eru vötn og tjarnir jarðanna verðmetnar og komist að þeirri niðurstöðu að ekki sé þar eftir neinu að slægjast að undanskildu Kleifarvatni. Í niðurlagi kaflans segir svo um Kleifarvatn: „En vitanlega er með öllu ómögulegt að gera sér nokkra grein fyrir því, hversu mikið vatnið kynni að auka verðmæti landsins, en eitthvert tillit virðist þó verða að taka til þess, er heildarverð landsins er ákveðið.“

Í IV. kafla eru námuréttindi jarðarinnar verðmetin. Þar er einkum fjallað um möguleika á nýtingu brennisteinsnáma, en brennistein hafði áður verið unninn þar úr jörðu. Í niðurlagi kaflans segir: „Eftir því sem fyrir liggur, virðist því ekki unnt að meta námur þessar til neinnar verulegrar hækkunar á landi jarðanna. En vera má, að þær skipti einhverju máli í sambandi við iðnað þar á staðnum, vinnslu leirs eða annara efna. Námuréttindi í landinu teljum við því að meta mætti á kr. 2000-tvöþúsund-krónur.“

Næsti kafli varðar Krýsuvíkurbjarg. Þar er nýtingarmöguleikum lýst og komist að þeirri niðurstöðu, að bjargið sé nokkur þáttur í verði jarðanna, eins og það er orðað í dóminum. Matsverð þessa þáttar nam kr. 4.000.

Í VI. kafla er jarðhiti jarðanna metinn til verðs. Þar eru raktir ýmsir nýtingarkostir og komist að þeirri niðurstöðu, að verðmæti jarðhita á allri Krýsuvíkurtorfunni sé kr. 30.000.

Óræktanlegt land er metið til verðs í VII. kafla gerðardómsins og lýst kostum þess sem afréttarlands til sauðfjárbeitar. Svo virðist sem gerðardómsmenn sjái ekki að hafa megi önnur not af landinu en til beitar og verðmat gerðardómsins miðist við þau afnot. Í niðurlagi kaflans segir, að óræktanlegt eða lítt ræktanlegt land megi áætla 5.000 kr. virði.

Í VIII. og IX. kafla dómsins er greint frá ítökum, bæði umræddra jarða í annarra manna löndum og eins ítökum annarra í landi jarðanna tveggja, Krýsuvíkur og Stóra-Nýjabæjar. Í X. kafla eru önnur hlunnindi jarðanna metinn. Það var álit gerðardómsins að þeir hagsmunir, sem lýst er í þremur síðustu köflum hans, væru svo óverulegir, að þeir hefðu engin áhrif á heildarmatsverð jarðanna.

Heildarmatsverð jarðarinnar með gögnum öllum og gæðum nam þannig kr. 51.000.

Á fundi bæjarstjórnar Hafnarfjarðar, sem haldinn var 17. nóvember 1936 var fjallað um niðurstöðu gerðardómsins og möguleg kaup bæjarfélagsins á jörðunum tveimur. Lagt var til að bjóða ríkissjóði að kaupa helming hitaréttinda jarðanna, en gengi það ekki eftir myndi bæjarfélagið kaupa jarðirnar með öllum gögnum og gæðum fyrir matsverð. Þetta var kynnt í bréfi bæjarstjóra Hafnarfjarðar til þáverandi forsætisráðherra, sem dags. er 18. nóvember s.á. og áréttað í símskeyti 24. sama mánaðar. Tilmælum bæjarstjóra virðist hafa verið svarað með bréfi dags. 3. desember s.á. en það svarbréf liggur ekki fyrir en þetta má ráða af framlögðu bréfi bæjarstjóra til atvinnu- og samgöngumálaráðuneytisins dags. 10. desember s.á. Í því bréfi leggur bæjarstjóri til, að kaupverð jarðanna verði greitt með tilteknum hætti, sem þar er nánar lýst. Í niðurlagi bréfsins segir svo: „Ef upphæðin, mót von minni, skyldi reynast of lág, geri jeg ráð fyrir að hana mætti auka nokkuð. Þetta vænti jeg að hið háa ráðuneyti láti nægja til þess að eignarnámið geti farið fram.“

Íslenska ríkið eignaðist jarðirnar Krýsuvík og Stóra-Nýjabæ með afsali dags. 4. maí 1937. Í afsalinu kemur fram, að ríkissjóður hafi greitt eignarnámsþola (Einari Benediktssyni) „matsverð hinna eignarnumdu jarðeigna, sem með matsgjörð, framkvæmdri 4. nóvember 1936 samkvæmt ákvæðum niðurlags 2. gr. fyrgreindra laga, var ákveðið samtals kr. 51.000- fimmtíu og eitt þúsund kr, að frádregnum þeim kr. 2000.00- tvö þúsund-kr., sem téð námuréttindi eru metin í nefndri matsgjörð…..“ eins og þar segir.

Ekkert virðist síðan hafa verið hreyft við málinu þar til á árinu 1939 en þá var þeim mönnum, sem skipuðu gerðardóminn frá 1936, falið að ákveða landamerki milli ræktanlegs og óræktanlegs lands Krýsuvíkurtorfunnar, að beiðni þáverandi ríkisstjórnar, bæjarstjórans í Hafnarfirði og sýslumanns Gullbringusýslu. Hinn 1. maí 1939 var ákvörðun tekin á fundi gerðardómsmanna, sýslumanns Gullbringusýslu og bæjarstjórans í Hafnarfirði, um stærð ræktaðs og ræktanlegs land, sem tilheyra skyldi Hafnarfjarðarkaupstað og það afmarkað á sama kort og gerðardómurinn hafði áður notað. Fram kemur, að fulltrúar Gullbringusýslu og Hafnarfjarðarkaupstaðar hafi eftir atvikum fallist á ákvörðun gerðardómsmanna og undirrita þeir hana athugasemdalaust. Afmörkun landsvæðisins er sú sama og lýst er í kröfugerð stefnanda undir A lið.

Þáverandi sýslumaður Bergur Jónsson, f.h. Gullbringusýslu, fór þess á leit við atvinnu- og samgönguráðuneytið í bréfi dags. 6. júní 1939 að fá keypt til eignar þann hluta Krýsuvíkurtorfunnar, sem félli utan þess svæðis, sem Hafnarfjarðarkaupstað hafði verið ákvarðað fyrir kr. 5.000, sem svaraði til matsverðs. Með bréfi dags. 23. júní s.á. til sama ráðuneytis var þess óskað af hálfu bæjarstjórans í Hafnarfirði, Friðjóns Skarphéðinssonar, „að hið háa ráðuneyti gefi Hafnarfjarðarbæ afsal fyrir því landi jarðanna, sem gerðardómurinn hefur afmarkað, svo og öllum jarðhitanum“. Þessi tilmæli áréttaði bæjarstjórinn með bréfi dags. 29. september s.á.

Með lögum nr. 101/1940 er lögum nr. 11/1936 breytt. Í 1. mgr. 1. gr. laganna, sem raunar eru aðeins ein lagagrein, segir svo: „Jarðir þær, sem um getur í 4. tölul. 1. gr. skal afhenda Hafnarfjarðarkaupstað og Gullbringusýslu þannig, að sýslan fái í sinn hlut lítt ræktanlegt beitarland jarðanna til sumarbeitar fyrir sauðfé, samkvæmt skiptagerð, sem framkvæmt var af hinni þar til kjörnu matsnefnd, sbr. niðurlag þessarar greinar, 1. maí 1939, en Hafnarfjarðarkaupstaður fái jarðirnar að öðru leyti með öllum gögnum og hlunnindum, sem jörðunum fylgja og fylgja ber að undanteknum námuréttindum.“

Í greinargerð, sem fylgdi frumvarpi til þessara laga kemur fram, að eldri lögin frá 1936 hafi þótt svo óljós, að landbúnaðarráðherra hafi ekki talið sig geta framkvæmt landskiptin, samkvæmt tillögu matsnefndar (gerðardómsins). Af hálfu Emils Jónssonar, flutningsmanns frumvarpsins, kemur fram, að lagafrumvarpið sé lagt fram að ósk bæjarstjórans í Hafnarfirði, til að „taka fram skýrar en áður var það, sem ég tel, að samkomulag hafi verið um þegar lögin á sínum tíma voru sett.“ Með bréfi dags. 21. maí 1940 til atvinnumálaráðuneytisins ítrekaði Friðjón Skarphéðinsson, bæjarstjóri Hafnarfjarðar, fyrri tilmæli sín með vísan til þeirra tveggja bréfa, sem áður er getið. Þar er þess óskað að ráðuneytið „láti Hafnarfjarðarbæ í tje afsal fyrir Krísuvíkurlandi samkv. lögum nr. 11, 1. febr. 1936, og samkv. lögum um breytingu á þeim lögum frá síðasta Alþingi, sem væntanlega hafa þegar hlotið staðfestingu“, eins og í bréfi hans segir.

Með afsali dags. 20. febrúar 1941 afsalaði landbúnaðarráðherra til Hafnarfjarðarkaupstaðar til eignar og umráða landsvæði því, sem nú er í eigu kaupstaðarins og er landamerkjum lýst með sama hætti og fram kemur í kröfugerð stefnanda undir A lið og áður er vikið að. Að auki er öllum hitaréttindum afsalað til kaupstaðarins á allri Krýsuvíkurtorfunni og aðstöðu til hagnýtingar þeirra. Í afsalinu kemur fram, að Hafnarfjarðarkaupstaður skuli hafa afnot af Kleifarvatni, svo og allan veiðirétt í vatninu, en óheimilt sé að setja girðingu meðfram vatninu, nema fyrir eigin landi. Þar segir ennfremur: „Öll námuréttindi eru undanskilin í afsali þessu og geymist eiganda þeirra óhindraður umferðar- og afnotaréttur af hinu afmarkaða svæði Hafnarfjarðarkaupstaðar, eftir þörfum.“ Þá er getið um það í afsalinu, að Hafnarfjarðarkaupstaður hafi greitt að fullu andvirði landsins kr. 44.000, að viðbættum áföllnum kostnaði kr. 6.813.10 og lýst nánar með hvaða hætti greiðslan var innt af hendi. Í upphafsorðum afsalsins segir svo: „Samkvæmt lögum nr. 101,14 maí 1940, sbr. lög nr. 11, 1. febrúar 1936, afsala ég hér með f.h. ríkissjóðs til bæjarstjórnar Hafnarfjarðar vegna Hafnarfjarðarkaupstaðar til eignar og umráða landi úr jörðunum Krísuvík og Stóra-Nýjabæ (Krísuvíkurtorfunni)…..“ Neðanmáls í afsalinu er ritað: Samþykkur f.h. Hafnafjarðarkaupstaðar þt. Rvk 24/2 ´41 Friðjón Skarphéðinsson. Undirritun hans er vottuð af tveimur vottum.

Með afsali dags. 29. september s.á. afsalaði landbúnaðarráðherra til Gullbringusýslu „öllu lítt ræktanlegu beitilandi jarðanna Krísuvíkur og Stóra-Nýjabæjar (Krísuvíkurtorfunnar) í Grindavíkurhreppi í Gullbringusýslu, til sumarbeitar fyrir sauðfé og er þá jafnframt undanskilið úr jörðum þessum það land, sem með afsalsbréfi ráðuneytisins, dags. 20. febrúar 1941, hefur verið afsalað Hafnarfjarðarkaupstað…“ Einnig er í afsalinu sölu hitaréttinda til Hafnarfjarðarkaupstaðar getið og afnotaréttar kaupstaðarins að Kleifarvatni. Þá kemur fram í afsalinu að andvirði landsins kr. 5.000 að viðbættum kostnaði kr. 961,86 sé að fullu greitt.

Á sjöunda áratug aldarinnar reis ágreiningur um norðurmörk Krýsuvíkurlands og suðurmörk Hafnarfjarðarbæjar, sem lauk með dómi landamerkjadóms Gullbringu- og Kjósarsýslu uppkveðnum 14. desember 1971 í máli nr. 329/1964. Sóknaraðilar málsins voru Jarðeignadeild ríkisins og Gullbringusýsla, en Hafnarfjarðarbær var varnarmegin. Í upphafi dómsins segir: „Sýslusjóður Gullbringusýslu er aðili að máli þessu sem eigandi beitiréttar á öllu útlandi Krísuvíkur, sem ekki er eign Hafnarfjarðarkaupstaðar, og hinn reglulegi dómari, þá Björn Sveinbjörnsson, settur sýslumaður, er oddviti sýslunefndar Gullbringusýslu. Hefur hann því vikið sæti…….“. Í dóminum er hvergi að finna vísbendingu um það, að Hafnarfjarðarbær hafi þá talið sig eiga tilkall til eignarréttar að landsvæði því, sem beitarréttur Gullbringusýslu nær til.

Á árinu 1981 óskaði þáverandi bæjarstjóri Hafnarfjarðarbæjar eftir upplýsingum hjá landbúnaðarráðuneytinu um eignarnám það, sem átt hafði sér stað á grundvelli laganna frá 1936 og 1940. Af gögnum málsins má ráða, að bæjarstjórn Hafnarfjarðar hafi allt frá árinu 1982 gert kröfu til eignarréttar yfir þeim hluta Krýsuvíkurlands, sem Gullbringusýslu var veitt beitarafnot af með afsalinu frá 29. september 1941.

Lögin nr. 11/1936 eins og þeim hafi verið breytt með lögum nr. 101/1940, voru skýr og afdráttarlaus. Hafnarfjörður og Gullbringusýsla áttu að skipta með sér Krýsuvíkurtorfunni.

Hafnarfjörður hefur nokkrum sinnum farið fram á það við landbúnaðarráðuneytið, að gengið yrði frá afsali til bæjarins fyrir jörðunum Krýsuvík og Stóra-Nýjabæ í heild sinni, eins og kveðið sé á um í lögunum frá 1936 og 1940, en án árangurs. Með bréfi dags. 1. september 1982 hafi bæjarstjórn Hafnarfjarðar komið á framfæri við ráðuneytið samþykkt sinni frá 18. maí 1982 um að skora á ráðuneytið að gefa út afsal fyrir jörðunum og sjá til þess að lögsagnarumdæmi kaupstaðarins yrði stækkað til samræmis við 4. gr. laga nr. 11/1936. Það bréf hafi verið ítrekað 18. nóvember 1983, en ráðuneytið látið hjá líða að svara erindinu. Bæjarstjóri stefnanda hafi ritað landbúnaðarráðherra bréf þann 10. september 1985 og enn óskað svars, sem fyrst hafi borist 18. nóvember 1986. Þar hafi kröfum bæjarstjórnar verið hafnað. Sama svar hafi borist við tveimur bréfum bæjarins frá 1996, þar sem kröfur bæjarins voru enn ítrekaðar og enn hafi sama afstaða borist með bréfi ráðuneytisins dags. 25. mars 1997.

Ríkið byggir á því, að allir málsaðilar hafi litið svo á, allt frá því að lögin frá 1940 komu til framkvæmda og fyrrgreind afsöl höfðu verið gefin út, að ríkissjóður væri eigandi að því lítt ræktanlega landi, sem Gullbringusýsla hafði afnot af til sumarbeitar. Það hafi verið sameiginlegur skilningur aðilanna að fullnægt hafi verið öllum skyldum ríkissjóðs, samkvæmt lögunum frá 1936 og 1940. með afsölunum tveimur. Stefnandi hafi engar kröfur sett fram í þessu sambandi, fyrr en rúmum 40 árum síðar. Líta verði til þess, hvernig umráðum og vörslum landsvæðanna hafi verið háttað sem og, hvernig huglæg afstaða málsaðila hafi verið, en hún sýni ótvírætt, að enginn þeirra hafi dregið í efa grunneignarrétt stefnda að deilulandinu með þeim takmörkunum sem falist hafi í afsölunum tveimur, en stefnandi og réttargæslustefndi eigi þar aðeins takmörkuð réttindi til afnota, annars vegar til sumarbeitar fyrir sauðfé og hins vegar hitaréttindi og takmörkuð réttindi yfir Kleifarvatni, auk umferðarréttar. Stefndi vísar í þessu sambandi til dóms landamerkjadóms Gullbringu- og Kjósarsýslu og Hafnarfjarðar í málinu nr. 329/1964: Jarðeignadeild ríkisins og sýslusjóður Gullbringusýslu gegn Hafnarfjarðarkaupstað. Í máli því hafi verið deilt um landamerki jarðar, aðliggjandi Krýsuvíkurtorfunni. Jarðeignadeild ríkisins hafi verið aðili að málinu, sem og sýslusjóður Gullbringusýslu, en hinn síðarnefndi sem eigandi beitarréttar á öllu útlandi Krýsuvíkur. Stefnandi hafi verið varnaraðili málsins. Í þessu máli hafi því aldrei verið haldið fram af hálfu stefnanda, að hann væri rétthafi að landi því, sem nú sé deilt um. Beri því almennt og eins og málið horfi nú við sömu aðilum að telja dóm þennan hafa sönnunargildi, sbr. 116. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Þá sé ljóst, að mati ríkisins, að Hafnarfjarðarkaupstaður hafi ekki greitt fyrir annað en hitaréttindi í Krýsuvíkurtorfunni og það land sem talist hafi ræktað og ræktanlegt í skiptagerðinni frá 1. maí 1939. Hafnarfjörður hafi alls greitt kr. 44.000 fyrir ræktaða og ræktanlega landið, jarðhitann og Krýsuvíkurbjarg, sem sé innan marka hins afsalaða lands, svo sem nánar sé tilgreint í afsalinu frá 20. febrúar 1941. Þrætulandið hafi aftur á móti verið afhent Gullbringusýslu til sumarbeitarafnota, sem greitt hafi fyrir, sem svaraði til matsverðs alls landsins, samkvæmt matsgerðinni frá 1936. Sú ráðstöfun hafi verið í samræmi við heimildarlög eignarnámsins.

Ríkið kveðst byggja á þeirri meginreglu kröfuréttar um fasteignakaup, að sú réttarlega þýðing sé lögð í útgáfu afsals, að eignarréttur sé óskilyrtur og að kaup hafi verið efnd m.a. með greiðslu umsamins kaupverðs. Með afsalinu til Hafnarfjarðar frá 1941 hafi því landi verið afsalað, sem afnotaréttur Gullbringusýslu náði ekki til og hafi Hafnarfjörður einungis greitt fyrir það land og þau réttindi, sem afsal hafi tilgreint, en á það hafi verið ritað samþykki af hálfu Hafnarfjarðar. Fyrirsvarsmenn Hafnarfjarðar hafi á þeim tíma ekki staðið í þeirri trú, að þeir væru að greiða fyrir land það, sem nú sé krafist afsals að, enda hafi Hafnarfjörður hvorki þá né síðar greitt fyrir umþrætt landsvæði.

Ríkið byggir á því, að réttur til útgáfu afsals fyrir því landsvæði, sem um sé deilt í málinu, sé fallinn niður sökum fyrningar samkvæmt lögum nr. 14/1905 um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda. Frá útgáfu afsals þann 20. febrúar 1941, uns mál þetta var höfðað þann 30. apríl 1998 hafi liðið rúm 57 ár og hugsanlegar kröfur Hafnarfjarðar á hendur ríkinu því löngu fyrndar, sbr. 4. gr. laga nr. 14/1905, jafnvel þótt miðað yrði við lengstan fyrningartíma, sem þau lög geri ráð fyrir. Ríkið byggir einnig á því að hugsanlegur kröfuréttur til útgáfu afsals á grundvelli laganna sjálfra frá 1940 sé fyrndur. Hafi falist í greiðslu Hafnarfjarðar árið 1941 andvirði lands sem ekki var gefið út afsal fyrir, sé réttur til afhendingar og/eða útgáfu afsals, samkvæmt þeim gerningi, löngu fallinn niður fyrir fyrningu.

Ríkið byggir einnig á því að krafa stefnanda sé niður fallin sökum tómlætis, enda hafi engir fyrirvarar gerðir af hálfu Hafnarfjarðar, er löglærður bæjarstjóri samþykkti afsalið fyrir hans hönd, fjórum dögum eftir útgáfu þess, en í því hafi verið vísað til laganna nr. 101/1940, auk skiptagerðarinnar frá 1939. Liðið hafi rúm 40 ár uns Hafnarfjörður lýsti annarri skoðun í bréfaskiptum sínum við landbúnaðarráðuneyti, en málið muni fyrst hafa komið til skoðunar hjá Hafnarfjarðarbæ á árinu 1981. Síðan hafi liðið 17 ár þar til mál þetta var höfðað.

Með vísan til þess, að lögsagnarumdæmi Hafnarfjarðarkaupstaðar hafi ekki verið breytt með lögum, varðandi landsvæðið umdeilda verði einnig að telja lögin frá 1936 og 1940 úr gildi fallin, þar sem þau hafi komið að fullu til framkvæmda í samræmi við tilgang þeirra. Í greinargerð með frumvarpi er varð að lögum nr. 40/1946 komi skýrt fram í fylgiskjali (bréfi bæjarstjóra Hafnarfjarðar) að einungis hafi verið um að ræða landið, sem Hafnarfirði hafi verið afsalað þann 20. febrúar 1941.

Verði litið svo á, að Hafnarfjörður hafi, samkvæmt lögum nr. 101/1940, átt lögvarinn eignarrétt að umþrættu landsvæði sé eignarhald ríkinu löngu helgað samkvæmt lögum nr. 46/1905 um hefð. Samkvæmt 1. gr. laganna megi vinna hefð á fasteign án tillits til þess, hvort hún hafi áður verið einstaks manns eign eða opinber eign. Ekki sé ágreiningur um það, að stefndi hafi haldið eignarráðum að umræddu landsvæði allt frá því að landið var tekið eignarnámi. Það hafi verið áréttað og óumdeilt í fyrrgreindu landamerkjamáli. Hafnarfjörður hafi ekki vefengt rétt ríkisins til eignarhaldsins í samræmi við 2. mgr. 4. gr. laga nr. 46/1905, fyrr en með málsókn þessari, en frá því að afsalið til Hafnarfjarðar frá 20. febrúar 1941 uns málið var höfðað hefur liðið tæplega þrefaldur hefðartími samkvæmt 2. gr. laganna og enn lengri tími sé miðað við framkvæmd eignarnámsins. Liðið hafi meira en 20 ára hefðartími sé miðað við rekstur og dóm í áðurnefndu landamerkjamáli.

Af þessum sökum beri að sýkna ríkið af öllum kröfum Hafnarfjarðar. Einnig beri að líta svo á, að það sé aðeins á færi löggjafans að hlutast til um aðra tilhögun eignarréttar yfir landssvæðinu, sbr. 40. gr. stjórnarskrár lýðveldisins, sbr. og meginreglu í 1. og 2. gr. laga nr. 58/1998 um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta.

Dómurinn lítur svo á, að við túlkun laganna verði líta til tilgangs þeirra. Ber þar fyrst að nefna, að skipan sú, sem komst á með afsali ríkisins til Hafnarfjarðar hinn 20. febrúar 1941, virðist hafa þjónaði þeim tilgangi, sem að var stefnt með lögunum frá 1936. Hafnarfjörður fékk allt ræktað og ræktanlegt land Krýsuvíkurtorfunnar til eignar, ásamt hitaréttindum alls hins eignarnumda landsvæðis. Í þessu sambandi má benda á bréf Friðjóns Skaphéðinssonar, þáverandi bæjarstjóra Hafnarfjarðarkaupstaðar til atvinnu- og samgönguráðuneytisins frá 23. júní 1939. Þar er þess óskað, „að hið háa ráðuneyti gefi Hafnarfjarðarbæ afsal fyrir því landi jarðanna, sem gerðardómurinn hefur afmarkað, svo og öllum jarðhitanum“, sjá bls 5 að framan. Einnig verður ekki fram hjá því litið, að sami Friðjón áritaði samþykki sitt á afsalið frá 20. febrúar 1941 án nokkurs fyrirvara. Til hins sama bendir langvarandi aðgerðarleysi Hafnarfjarðar.

Athyglisvert er að dómurinn lítur til áratuga aðgerðarleysis og tómlætis Hafnarfjarðar í garð Krýsuvíkurlands. Hafnarfjörður hafi í rauninni hvorki sýnt ræktarsemi við Krýsuvíkurlandið né reynt að nýta það síðustu áratugina.

Ríkið byggði einnig á því að krafa Hafnarfjarðar sé niður fallin sökum tómlætis, enda hafi engir fyrirvarar gerðir af hálfu Hafnarfjarðar er löglærður bæjarstjóri samþykkti afsalið fyrir hans hönd, fjórum dögum eftir útgáfu þess, en í því hafi verið vísað til laganna nr. 101/1940, auk skiptagerðarinnar frá 1939. Liðið hafi rúm 40 ár uns stefnandi lýsti annarri skoðun í bréfaskiptum sínum við landbúnaðarráðuneyti, en málið muni fyrst hafa komið til skoðunar hjá Hafnarfjarðarbæ á árinu 1981. Síðan hafi liðið 17 ár þar til mál þetta var höfðað.

Verði litið svo á, að Hafnarfjörður hafi, samkvæmt lögum nr. 101/1940, átt lögvarinn eignarrétt að umræddu landsvæði sé eignarhald ríkinu löngu helgað samkvæmt lögum nr. 46/1905 um hefð. Samkvæmt 1. gr. laganna megi vinna hefð á fasteign án tillits til þess, hvort hún hafi áður verið einstaks manns eign eða opinber eign.

Þegar horft er til fyrningar og tómlætis Hafnarfjarðarbæjar á nýtingu og uppgræðslu í Krýsuvík gæti Grindavíkurbær með réttu gert tilkall til landsvæðisins því útgerðarbærinn hefur langt umfram Hafnarfjörð annast uppgræðslu á svæðinu, auk þess sem bændur þar hafa nýtt landið öðrum fremur til sauðfjárbeitar og annarra hlunninda, s.s. rjúpnaveiði, útivist og heilsueflingar. Þá má með rökum sýna fram á eðlileg landfræðileg og söguleg tengsl Krýsuvíkursvæðisins við lögsagnarumdæmi Grindavíkur, bæði í fortíð og nútíð. Það ætti því ekki, á grundvelli framangreinds dóms og sömu raka, að vera því margt til fyrirstöðu að Grindavíkurbær geri tilkall til landsvæðisins, að huta eða í heild.

Rétt er að geta þess, með vísan til nútíma stjórnsýslu, að Krýsuvíkurland var afhent Hafnarfjarðarbæ á „silfurfati“ á sínum tíma. Einn maður, öðrum fremur, átti hluta að því. Og hver voru tengslin?

Guðmundur Emil Jónsson (f. 1902) var alþingismaður fyrir Hafnarfjörð 1934-’37, 1942-’53 og 1956-’59. Landskjörinn alþingismaður var hann 1937-’42, 1953-’56 og 1959 og alþingismaður Reykjaneskjördæmis 1959-´71. Hann var samgöngumálaráðherra 1947-’49, forsætis-, sjávarútvegs og samgöngmálaráðherra 1958-’59 sjávarútvegsmála- og félagsmálaráðherra 1959-’65 og utanríkisráðherra 1965-’71.
Emil var bæjarfulltrúi í Hafnarfirði 1930-’37 og bæjarstjóri í Hafnarfirði 1930-’62. Hann var formaður bæjarráðs 1942-’54 og formaður Krýsuvíkurnefndar 1938-’42 svo eitthvað sé nefnt.

Hvar eru nú alþingismenn Grindvíkinga? Ef hægt hefur verið að setja lög um séreignabreytinguna um 1940 ætti ekki að verða erfitt að setja lög um réttlætislagfæringu á heimfærslu landsins nú 65 árum síðar.
Alþingismenn eru jafnan ragir við að takast á við réttlætismál, einkum hagsmunatengd. Vonandi er þó til einhver slíkur – þótt ekki væri til annars en að hafa þor til að kynna sér málið.

Heimild m.a.:
-Hæstaréttardómur nr. 40/1999.
-Saga Hafnarfjarðar – III. bindi.

Krýsuvík

Krýsuvík – fjósið 2022.

Gestsstaðir

Gengið var frá útivistarsvæði skátanna austan undir Bæjarfelli að gömlu Krýsuvíkurrréttinni. Þaðan var haldið eftir gamalli götu í átt að Drumbsdalavegi.

Krýsuvíkurgata

Krýsuvíkurgata vestan Bæjarfells.

Gatan liggur fyrst norðan vegarins, fer síðan yfir hann þar sem varða er hlaðin norðan við veginn og liggur síðan áfram samhliða honum að sunnanverðu. Á einum stað má sjá hlaðið í moldarflag. Við götuna eru gamlar fallnar og hálffallnar vörður. Gengið var upp Sveifluhálsinn þar sem Drumbsdalavegur liggur upp hann og honum fylgt í lægð í hálsinn uns komið var að þeim stað austan Drumbs er sást yfir að gígum þeim er Ögmundarhraun rann úr, um Bleikingsdal og yfir að Vigdísarvöllum.

Gestsstaðir

Gestsstaðir – vestari tóftin (skáli).

Á hálsinum er lítil varða. Þar var snúið við og gengið eftir stíg norður með austanverðum Sveifluhálsi. Þar ofarlega hálsinum, í grónu dragi, er greinilega gömul tótt og hlaðið út frá henni. Tóttin virðist vera frá sama tíma og aðrar tóttir Gestsstaða, sem þarna eru nokkru norðar. Hún hefur þó hvergi verið skráð svo vitað sé. Sunnan undir hól, suðvestan Krýsuvíkurskóla, er löng tótt og skammt austar eru fleiri tóttir.

Gestsstaðir

Gestsstaðir sunnan Gestsstaðavatns – skáli.

Í tóttunum eru merki um friðlýstar minjar. Eftir að minjarnar höfðu verið skoðaðar var gengið til suðurs að Skugga, klettum austan undir sunnanverðum Sveifluhálsi. Frá honum var haldið yfir á Krýsuvíkurveginn og hann genginn að upphafsstað.
Frábært veður. Gangan tík 3 klst og 3. mín.

Krýsuvík

Krýsuvík – uppdráttur ÓSÁ.

Frá Skugga var gengið til austurs að Bæjarfelli og síðan austan með því norðanverðu. Þar var fyrst fyrir Hafliðastekkur og hleðslur undir stórum steini. Skammt austar er tótt uppi í hlíðinni og enn austar sést móta fyrir gömlum stekk. Frá honum var gengið yfir að Rauðhól og leitað réttar, sem þar átti að hafa verið skv. gamalli lýsingu. Ekkert sést nú móta fyrir réttinni, enda búið að leggja veginn utan í hólinn. Skoðað var brúarstæði á gömlu Krýsuvíkurleiðinni og skoðað hrossagaukshreiður, sem þar var undir gamla brúarstæðinu. Þá var litið á mógrafirnar sunnan vegarins. Þaðan var gengið var til suðurs að Snorrakoti, eftir vörslugarði þess til vesturs og beygt síðan til suðurs að Norðurkoti. Skammt norðan kotsins er tótt er liggur neðan við heimtröðina, sem þarna er greinileg. Í tóttum Norðurkots er merki um friðlýstar minjar. Þaðan var gengið að Læk og skoðaðar tóttir gamla bæjarins sem og tóttir austan þeirra. Á Vestarilæk, sem rennur vestan tóttanna, var fyrrum kornmylla. Gengið var yfir að Suðurkoti. Norðan utan í gömlum vörslugarði norðan nýrri garðs, sem liggur á milli Bæjarfells og Arnarfells, er gömul tótt.
Gangan endaði síðan á útivistarsvæði skrátanna eftir 3 klst og 11 mín ferð.
Frábært veður.

Gestsstaðir

Tóftir Gestsstaða.

Krýsuvík

 Brennisteinn var unninn í Krýsuvík um miðja 18. öld. Til er umsögn um námusvæðið og lýsing á ummerkjum þar stuttu síðar. Af þeim má sjá að á svæðinu ætti enn að móta fyrir tóftum af búðum námumanna. Ætlunin var að ganga um vinnslusvæðin og leita ummerkja.

Loftmynd af námusvæðunum í Krýsuvík

Þegar aðalskipulag Hafnarfjarðar 2005-2025 – Krýsuvík, er skoðað má reka augun í eftirfarandi um Krýsuvíkursvæðið: „Um 1930 var erfitt að stunda búskap í kringum Hafnarfjörð, bæjarbúar voru sjálfum sér ekki nógir um neyslumjólk og beitiland vantaði fyrir sauðfé. Ekki fékkst aukið ræktarland úr Garðakirkjulandi og var þá farið að svipast um eftir öðrum jörðum nærri bænum. Krýsuvík þótti álitlegust og ritaði bæjarstjórn Hafnarfjarðar Einari Benediktssyni bréf í janúar 1933 og spurðist fyrir um hvort jarðeignir hans í Krýsuvík eða Herdísarvík væru fáanlegar til kaups. Tveimur árum síðar átti bærinn kost á að kaupa Krýsuvík fyrir 50.000 krónur og tók jörðina á leigu á fardögum 1935 til eins árs, með það í huga að kaupa hana síðan með gögnum og gæðum. Með lögum nr. 11, 1. febrúar 1936 var ríkissjóði heimilað að taka eignarnámi lönd í lögsagnarumdæmi Hafnarfjarðar og lönd sem liggja að Hafnarfirði. Eftir það upphófst mikið málaþras um væntanleg kaup bæjarins á jörðum Krýsuvíkur og Stóra-Nýjabæjar og afnotaréttinn. Gekk á þessu í nokkur ár þar til lögunum var breytt og tóku lög nr. 101, gildi 14. maí 1940. Þar sagði að Gullbringusýsla skyldi fá í sinn hlut lítt ræktanlegt beitiland jarðanna Krýsuvíkur og Stóra-Nýjabæjar til sumarbeitar fyrir sauðfé samkvæmt skiptagerð frá 1. maí 1939, en Hafnarfjarðarkaupstaður fengi jarðirnar að öðru leyti með öllum gögnum og hlunnindum, sem þeim fylgdu og fylgja bæri, að undanteknum námuréttindum. 

Minjakort í aðalskipulaginu 2005-2025 - rauðir deplar

Hinn 20. febrúar 1941 gaf Dóms- og kirkjumálaráðuneytið út afsal fyrir Krýsuvík til Hafnarfjarðar.
Árið 1935 var ákveðið að leggja Suðurlandsbraut um Krýsuvík til að fá snjóléttan vetrarveg milli Árnessýslu og Reykjavíkur. Árið 1945 var lagningu vegar fyrir Kleifarvatn lokið og árið eftir hófst borun eftir jarðhita í Krýsuvík.
Gróðurhús voru reist og tekin í notkun í mars 1949 ásamt húsi fyrir starfsfólk. Tveimur árum síðar hófst bygging bústjórahúss og 130 gripa fjóss sem aldrei var lokið því 1950 var framkvæmdafé á þrotum. Þá hafði ræst úr mjólkurskorti bæjarbúa með bættum samgöngum við Suðurland. Framkvæmdir hófust að nýju í Krýsuvík 1954 er 15 hektarar voru teknir í fulla ræktun. Keypt voru 100 gimbralömb og flest varð féð um 650 áður en þessum rekstri var hætt nokkrum árum síðar. Gróðrarstöðin og búskapurinn gengu ekki vel og illa hélst á starfsfólki. Var búrekstri af hálfu bæjarins hætt í Krýsuvík 1960. Eftir það voru húsin leigð til einstaklinga sem ráku þar ýmiskonar starfsemi, þar á meðal gróðurhús, svínabú og refabú svo fátt eitt sé talið.
Árið 1953 kom Hafnarfjarðarbær á fót vinnuskóla í Krýsuvík fyrir drengi á aldrinum 10-13 ára. Dvöldust um 40-50 drengir í Krýsuvík frá júníbyrjun til ágústloka, en komu heim til sín aðra hverja helgi. Bjuggu þeir í íbúðarhúsi því sem reist hafði verið fyrir starfsfólk gróðrarstöðvarinnar. Drengirnir stunduðu ýmis störf meðan á sumardvölinni stóð, fóru í leiki, stunduðu íþróttir og fóru í gönguferðir um nágrennið.

Við Seltún

Árið 1960 var tekið við drengjum frá 8-12 ára og dvölinni skipt upp í tvö fimm vikna holl. Voru rúmlega 50 piltar í hvoru holli og var nú meiri áhersla lögð á léttari störf og leiki ýmiskonar. Lauk þessari starfsemi árið 1964.
Bústjórahúsið var reist árið 1948 fyrir Jens Hólmgeirsson sem átti að stjórna kúabúinu í Krýsuvík. Hann flutti aldrei í húsið og aldrei kom til þess að kýr yrðu bundnar á bása í fjósinu. Árið 1952 sagði Jens stöðu sinni lausri og eftir það var húsið notað í stuttan tíma fyrir stjórnendur vinnuskólans í Krýsuvík. Árin liðu, húsið grotnaði niður og var mjög illa farið þegar Sveinn Björnsson listmálari fékk það til afnota 1974. Hann gerði húsið upp, flutti þangað málaratrönur, pensla, liti og húsbúnað og kom sér upp vistlegri vinnustofu. Sveinn hafði tekið þátt í að reisa þaksperrurnar á fjósinu í Krýsuvík á sínum tíma og þekkti því staðhætti. Þarna starfaði hann að list sinni þar til hann lést 1997.
Húsið ber þess merki að þar hefur listamaður verið að störfum. Sveinn skreytti loft, veggi og hurðir Í Baðstofuhússins og lagði tröppurnar litskrúðugum teppabútum. Nú kallast bláa húsið með rauða þakinu ekki lengur Bústjórahúsið heldur Sveinshús eftir listmálaranum og rannsóknarlögreglumanninum Sveini Björnssyni, sem sá til þess að húsið endaði ekki sem gapandi tóft, heldur öðlaðist virðulegan sess sem listasetur.“
Þá kemur kafli um fornleifar. Þar segir m.a.: „
Krýsuvík var heil kirkjusókn og eitt mesta höfuðból landsins með mörgum hjáleigum. Munnmæli herma að byggðin hafi upphaflega verið í Húshólma, óbrennishólma í sunnanverðu Ögmundarhrauni. Þar er mjög fornt bæjarstæði sem kallað er Hólmastaður í eldri heimildum. Hjáleigur voru að jafnaði fimm til átta talsins en í gömlum heimildum er getið um 13 býli. Á heimajörðinni voru Suðurkot, Norðurkot, Snorrakot, Stóri-Nýibær, Litli-Nýibær, Arnarfell og nýbýlið Lækur. Fjær voru kotin Vigdísarvellir, Bali, Fitjar og Fell. Kaldrani stóð við suðvesturenda Kleifarvatns og Gestsstaðir sunnan Krýsuvíkurskóla.
Krýsuvíkurkirkju er fyrst getið í kirkjuskrá Páls Jónssonar Skálholtsbiskups um 1200.
Minjaleifar undir BaðstofuMargt bendir til að kirkja hafi risið í Krýsuvík á fyrstu áratugum kristni, en núverandi kirkju byggði Beinteinn Stefánsson á Arnarfelli 1857. Þetta er lítið guðshús einfaldrar gerðar, án turns, og eina húsið sem enn stendur á bæjarhólnum. Kirkjan var aflögð sem helgidómur og rúin öllum verðmætum 1929. Eftir það notaði einbúinn Magnús Ólafsson, síðasti íbúi Krýsuvíkur, hana sem íbúðarhús til 1945. Endurbygging kirkjunnar hófst 1957 og var hún endurvígð 31. maí 1964 og færð Þjóðminjasafninu til eignar. Árið 1997 var Sveinn Björnsson listmálari jarðsettur í kirkjugarðinum en þá voru liðin 80 ár frá síðustu greftrun þar. Á vorin er haldin messa í kirkjunni og altaristafla eftir Svein hengd þar upp, en tekin niður við messu á haustin og færð til vetrarvistar í Hafnarfjarðarkirkju.
Í ítarlegri skýrslu Bjarna F. Einarssonar um fornleifar og umhverfi í Krýsuvík eru 22 minjar teknar út sem merkar fornleifar og/eða þær sem lagt er til að verði merktar og gerðar aðgengilegar fyrir ferðamenn.

Krýsuvík 1810

Minjunum er skipt upp í fjóra flokka eftir mikilvægi:
1 Meint staðsetning Kaldrana, túngarðsleifar eyðibýlis, friðlýstar árið 1930.*
2 Rústir, trúlega sel.****
3 Rúst, hugsanlega sel en mögulegt er að hér hafi staðið hjáleigan Fell.*
4 Stóri-Nýibær, bæjarhóll og ógreinilegar rústir.**
5 Litli-Nýibær, bæjarhóll og afar fallegur brunnur.***
6 Gestsstaðir. Fornt eyðibýli (11-12. öld). Friðlýst 1964.****
7 Garður, trúlega engjagarður gerður úr jarðvegi og torfi.**
8 Mógrafir.*
Tóft í Krýsuvík9 Krýsuvíkurhverfi, rústir Krýsuvíkurbæjarins ásamt hjáleigum í og við heimatúnið. Hér má sjá heillegt
bæjarstæði fyrri tíma, stóran bæjarhól með húsarústum, tröðum, túngörðum o.fl. Ein hjáleigan,
Norðurkot er friðlýst frá 1964. Auk þess var Krýsuvíkurkirkja tekin á fornleifaskrá 1964.****
10 Rétt og rústir. Réttin er gott dæmi um litla heimarétt.**
11 Rúst, stekkur og skúti.****
12 Arnarfell, eyðibýli.***
13 Rétt, hlaðin úr grjóti, vel farin og falleg.**
14 Fitjar, heillegar rústir eyðibýlis.****
15 Fjárhús.****
16 Rústir, trúlega sel.****
17 Eyðibýli, e.t.v. rústir hjáleigunnar Eyri er fór í eyði 1775.****
18 Rústir, trúlega skepnuhús.*
Krysuvik-22119 Sundavarða, sjómerki og rúst.***
20 Nátthagi, eini nátthaginn sem vitað er um í Krýsuvíkurlandi.***
21 Rúst, afar falllegt beitarhús, skúti að hluta.***
22 Rétt, gamla Krýsuvíkurréttin.**
**** = gull *** = silfur ** = brons * = aðrar minjar.“
Hér að framan er ekki minnst á sýnilegar tóftir á námusvæðunum í Baðstofu eða við Seltún. Hins vegar eru merktar inn fornleifar (sel) utan í vestanverðu Nýjalandi sunnan Kleifarvatns, en þar eru engar slíkar. Bæði var það vegna þess að svæðið flæddi reglulega þegar hækkaði í Kleifarvatni og auk þess skorti þar vatn í millum til þess að hægt væri að byggja þar selstöðu. Norðar eru tóftir, líklega af bænum Kaldrana, sem þar átti að hafa verið í fornöld.

Krysuvik-222

Aftur á móti er Kaldranasel ekki skráð í hinni „ítarlegri“ skýrslu. Ekki heldur útihúsa frá fornbýlinu Gestsstöðum, forna tóft suðaustan Stóra-Nýjabæjar, tóft á Bæjarfellshálsi og svo mætti lengi telja.
Við Seltún eru og leifar frá brennisteinsvinnslunni um miðja 18. öld. Ein tóftin er skammt suðvestan við aðalnámuvinnslusvæðið. Safnhaugurinn var þar sem nú er bifreiðastæði.
Við skoðun á nágrenni Baðstofu mátti sjá leifar gömlu námubúðanna. Þær eru nú að hluta komnar undir veg, sem lagður var upp í Baðstofu þegar borað var fyrir heitu vatni fyrir Krýsuvíkurhúsin árið 1954.
Þegar fyrrnefnt aðalskipulag Hafnarfjarðar 2005-2025 – Krýsuvík er skoðað má reka augun í fjölmargt um Krýsuvíkursvæðið, sem hér hefur verið rakið að hluta. En þar er líka fjölmargt ósagt. Spyrja mætti – og það með nokkrum sanni; hvers vegna er verið að leggja svona mikla vinnu í „rannsóknir“, „skráningar“ og miklar „skýrslugerðir“, sem væntanlega er ætlað að byggja marktækar ákvarðanir á, þegar svo augljóslega er kastað til höndunum?! Er með sæmilegu móti hægt að byggja heilt aðalskipulag tiltekins svæðis á slíkum gögnum?
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 1 mín.

Heimild m.a.:
-Aðalskipulag Hafnarfjarðar 2005-2025 – KRÝSUVÍK.Leifar brennisteinsvinnslunnar frá því á 19. öld