Tag Archive for: Krýsuvík

Arnarfell
Gengið var upp bröttustu hlið Arnarfells – svona í æfingarskyni.

Arnarfell

Arnarfell í Krýsuvík.

Arnarfell í Krýsuvík er 198 m yfir sjó (um 100 metra hátt). Bæjarfell, næsta fell að vestan er svolítið hærra, eða 218 m.y.s.
Arnarfellin eru nokkur á landinu öllu. Frægasta Arnarfellið, hingað til a.m.k., er sennilega það, sem stendur við Þingvallarvatn.
Fellið er eitt þeirra er ber dýraheiti, s.s. Geitafell, Grísafell, Hafursfell, Hestfjall, Hrútafjöll, Rjúpnafell og Sauðafell. Vitað er um a.m.k. sjö önnur örnefni á Reykjanesskaganum er borið hafa Arnarnafnið, s.s. Arnarnýpa og Arnarvatn á Sveifluhálsi, Arnarsetrið ofan við Grindavík, Arnarklettur við Snorrastaðatjarnir, Arnarhreiður í Ögmundarhrauni, Arnarklettur í Vatnsleysuvík og Arnstapi í Arnstapahrauni (Afstapahrauni).

Arnarfell

Arnarfell.

Arnarfell er með lögulegri fjöllum eða fellum á skaganum. Eystri nýpan á fellinu, grasi gróin, er fornt arnarhreiður. Vestari nýpan hýsir Eiríksvörðu. Sunnan undir fellinu eru tóftir gamla Arnarfellsbæjarins þar sem m.a. Beinteinn Stefánsson bjó ásamt fjölskyldu sinni. Beinteinn var hagleikssmiður og smíðaði m.a. núverandi Krýsuvíkurkirkju árið 1857, þótt hún hafi nokkrum sinnum verið endurbyggð síðan. Fræg er og sagan af viðureign Beinsteins við Tanga-Tómas, drauginn á Selatöngum. Beinteinn slapp frá honum við illan leik og þurfti að fara fótgangandi berfættur yfir hraunið á leið sinni heim að Arnarfelli. Þar lá hann rúmfastur nokkra dagana á eftir.

Arnarfell

Arnarfell – brunnur.

Auk tófta bæjarins má sjá móta fyrir vörslugarði Krýsuvíkurlandsins austan og sunnan við túngarðinn og nær hann til vesturs upp í hlíðar Bæjarfalls, skammt sunnan við fjárhelli, sem þar er. Hlaðin brú er yfir Vestari-Læk og skammt suðvestar er heilleg Arnarfellsréttin. Vörður liggja frá bænum niður á Trygghólana og þaðan niður að Heiðnabergi, framhjá tóftum hins gamla Krýsuvíkusels og bæjarins Eyri, sem stóð þar á fyrrverandi árbakka Eystri-Lækjar, sem nú hefur breytt um farveg. Tóftir sjö bæja eru á Krýsuvíkurtorfunni auk sjö annarra utan hennar, ásamt tilheyrandi mannvirkjum og minjum.

Arnarfellstjörn

Arnarfellsvatn.

Suðaustan við bæinn er Arnarfellsvatn (Bleiksmýrartjörn). Bleiksmýrin er austan fellsins, en hún var ræst út um miðja 20. öld. Á vatnið sækja allflestir sjófuglarnir í Krýsuvíkurbjargi og má oft sá flokka fugla fljúga fram og til baka milli bergsins og vatnsins. Vatnið er einnig áningarstaður fargesta, s.s. helsingja, á leið til Grænlands og Kanada. Tóftir eru vestan við vatnið, en við það eru grasi grónir balar. Að vatninu liggja gamlar þjóðleiðir yfir Krýsuvíkurheiði, enda var vatnið mikilvægur áningarstaður skreiðarflutningamanna á leið þeirra frá verstöðvunum við Suðurströnd Reykjanessins og sveitanna fyrir austan. Gömul varða er t.d. við eina götuna norðvestan við vatnið, skammt undan fellinu. Hlaðið byrgi, sennilega eftir refaskyttu, er rétt suðvestan við vörðuna.

Arnarfell

Flaggað á Arnarfellsvörðu.

Mikið er af mófugli á heiðinni undan Arnarfelli, auk þess sem hrafninn verpir í norðanverðu fellinu.
Í suðurhlíðum fellsins eru tóftir útihúsanna frá bænum. Sú efsta er ekki langt frá vestari toppi fellsins. Á honum trjónir Eiríksvarða. Hún var hlaðin eftir að séra Eiríkur frá Vogsósum, prestur í Krýsuvík, mætti Tyrkjum þeim, er komið höfðu upp Ræningarstíg í Heiðnabergi um miðjan júnímánuð 1627, vegið að tveimur stúlkum í Krýsuvíkurseli ofan við bergið og haldið síðan hiklaust áfram á eftir smala, sem varð var við þá, áleiðis að bæjunum undir Krýsuvíkurfellunum. Eiríkur mælti svo um að Tyrkirnir skyldu vega hvorn annan og gerðu þeir það. Þeir voru síðan dysjaðir í Ræningjadys undir Ræningjahól, sunnan við kirkjuna. Sagan segir að séra Eiríki hafi haft á orði að ef ekki hefði verið sunnudagur og hann ekki í prestsklæðum hefði hann og mælt svo fyrir að Tyrkirnir ætu hvorn annan lifandi.

Arnarfell

Krýsuvíkurkirkja – horft af Arnarfelli.

Í kirkjugarðinum við Krýsuvíkurkirkju er m.a. grafinn hinn ástsæli málari og lögreglumaður Sveinn Björnsson. Hann var einn þeirra manna í seinni tíð er kunni að meta Krýsuvíkursvæðið að verðleikum, enda birtist það oftlega í myndum hans.
Norðan við Arnarfell er hlaðinn stekkur og nafnfrægur skúti upp í norðausturhlíðum þess. Nú er ætlunin að taka Hollywoodkvikmynd við Arnarfell. Líkja á eftir stríðsátökum á eyjunni Iwo Jima í Kyrrahafi. Grafa á sprengigíga allt að 16 m í þvermál með tilheyrandi raski. Svíða á eina hlið fjallsins svo það virðist rjúkandi rúst á eftir.

Krýsuvík

Krýsuvík – uppdráttur ÓSÁ.

Ekki er vitað til þess að heilstæð fornleifaskráning hafi farið fram í Krýsuvík. Skráning, sem fram fór árið 1998, verður að teljast ófullnægjandi. Samt virðist Fornleifavernd ríkisins þess umkominn að geta gefið örugga umsögn án tillits til hugsanlegrar minjaeyðingar á svæðinu. Umhverfisstofnun virðist geta gefið heimild til gróðureyðingar og umhverfisröskunar við Arnarfell þrátt fyrir að stofnunina virðist skorta lagaákvæði því til stuðnings. Landgræðsla ríkisins virðist geta af léttúð talið sig geta lagfært hugsanlegar gróðurskemmdir og landsspjöll á a.m.k. 5 árum. Leitað hefur verið að skynsamlegum rökum í umræddum umsögnum, en þær enn ekki fundist.
Bæjarsjóður Hafnarfjarðar fær greiðslu fyrir afnot af svæðinu og umhverfisspjöllin, skv. upplýsingum frá starfsmanni bæjarins. Spurningin er; hvaða áhrif mun það hafa á skynsamlega ákvörðunartöku bæjarfulltrúa?

Arnarfell

Arnarfell – tilgáta.

Krýsuvík, sem heilstæð eining; umhverfi, náttúra, menning, saga og veðurfar, er í rauninni einstök náttúruperla. Það vita a.m.k. þeir, sem því hafa kynnst. Kyrrsetufólkið, með fullri virðingu fyrir því, kemur aldrei til með að geta kynnst neinu í líkingu við það. Samt virðist það vera fólkið, sem ráðskast á með framtíð þessa dýrmæta svæðis.
Stefán Stefánsson, leiðsögumaður, mælti svo fyrir um að ösku hans skyldi dreift yfir Kleifarvatn að honum látnum. Sú ákvörðun var tekin vegna hrifningar hans á Krýsuvíkursvæðinu. Öskunni var dreift af Ytri-Höfða, sem síðan þá hefur hafnan verið nefndur „Stefánshöfði“.
Gangan tók 12 mín. Frábært veður.

Stefánshöfði

Ytri-Stapi; Stefánshöfði.

Krýsuvík

Krýsuvík, oft einnig ritað Krísuvík en Krýsuvík virðist vera eldra, er fornt höfuðból sunnan við Kleifarvatn sem lagðist í eyði á síðustu öld og er nú í eigu Hafnarfjarðarbæjar.
Krysuvik-381Krýsuvík er ein fegursta náttúruperla Íslands. Þar er stórbrotið landslag sem mótað er af umbrotum og jarðeldum, og er það vel fallið til útivistar og náttúruskoðunar. Áhugavert er að skoða sprengigíginn Grænavatn, leirhverina við Seltún og Kleifarvatn. Og síðast en ekki síst Krýsuvíkurbjarg sem er fuglabjarg niðri við ströndina, þar verpa um 57.000 sjófuglapör aðallega rita og svartfugl. Þar verpir einnig nokkuð af fýl, toppskarfi og silfurmáfi. Í Krýsuvík er mikið um gamlar gönguleiðir sem áhugavert er að skoða. 

Jarðhitasvæði Krýsuvíkur
Helstu hverasvæði Krýsuvíkur eru Seltún, Hverahvammur, Hverhlíð, Austurengjar, suðurhluti Kleifarvatns og Sveifla undir Hettutindi. Þar má sjá gufustróka sem stíga til himins og sjóðandi leirhveri má sjá í Seltúni og Hverahvammar sem skarta grænum, gulum og rauðleitum litum sem skipta um svipmót eftir veðrinu.
Krýsuvíkursvæðið nær yfir jarðhitasvæðin á Austurengjum, Krýsuvík, í Köldunámum, Trölladyngju og við Sandfell og eru hverasvæðin mjög ólík.

Grænavatn

Grænavatn.

Hveravirknin er samfelldust í Hveradölum og við Seltún með gufuhverum og leirhverum. Á þessum stað er mikið um brennisteinshveri og er hæsti hiti í borholum um 230°c en ekki hefur verið borað dýpra en 1200m.
Á Austurengjum er jarðhitinn aðallega á einni rák sem nær norður í Kleifarvatns. Á þessari hitarák eru sprengigígjar sem gosið hafa gjalli. Stærsti gígurinn er um 100 m í þvermál og er staðsettur norðaustur af Stóra-Lambafelli. Við Kleifarvatn er ein 600 m djúp borhola og þar er hæsti hitinn um 160°c.

Trölladyngja

Trölladyngja – háhitasvæði.

Hveravirknin í Trölladyngju er frekar dauf. Þar eru tveir hverir, gufur með brennisteini, hverasprengigígur og hitaskellur í Oddafelli. Á gossprungunum eru miklir gall- og sprengigígjar. Mesta jarðvegsbreytingin er í Sogum þar sem mikið af svæðinu eru ummyndað í klessuleir, þar eru líka miklir sprengigígjar allt frá fornöld og er ennþá í dag vatn í sumum. Tvær borholur eru í Trölladyngju, báðar um 260°c heitar ofarlega en önnur kólnar eftir því sem neðar er farið. Dýpri holan endar í 320°c á rúmlega tveggja km dýpi.

Uppruni nafnsins
krysuvik-282Sagt er frá í þjóðsögu að Krýsuvík sé nefnd eftir Krýs sem bjó í Krýsuvík. Hún átti í deilum um landmerki við nágrannakonu sína, Herdísi í Herdísarvík. Þær töldu sig báðar vera beittar órétti og ákváðu að skera úr í deilimáli sínu í eitt skipti fyrir öll. Þær komu saman um að leggja af stað frá bæjum sínum við sólarupprás og ákveða mörk landa sinna þar sem þær mættust. Þegar þær mættust síðan á Deildarhálsi taldi Krýs að Herdís hefði lagt fyrr af stað en samið var um. Þær tóku að biðja hvor annarri óbæna ásamt jörðum þeirra. Herdís lagði á Krýsuvík að allur silingur í Kleifarvatni skyldi verða að loðsilungi en Krýs mælti svo fyrir að ein eða fleiri skipshafnir skyldu drukkna í Herdísarvíkurtjörn. Þessi saga um landaþrætu kerlinganna hefur lifað meðal Krýsvíkinga í hinum ýmsu myndum.

Heimild:
-wikipedia.org

Krýsuvík

Krýsuvík – tóftir Hnausa.

 

https://ferlir.is/krysuvik-magnus-olafsson/h

ttps://ferlir.is/skokugil-krysuvikurv-gamli-hlinarvegur-meltunnuklif-ogmundarstigur/

Sveifluháls

Um miðjan dag þann 17. júní árið 2000 riðu miklir jarðskjálftar yfir Suðurland. FERLIR var þá á Sveifluhálsi. Segja má að þennan dag hafi hálsinn risið undir nafni.

Sveifluháls

Sveifluháls – gönguleiðin.

Nú, nákvæmlega fimm árum síðar, var ákveðið að ganga nær sömu leið og fyrrum, en nú frá Norðlingahálsi í stað Vatnsskarðs og eftir Sveifluhálsi til suðurs, að Arnarvatni. Frá því var gengið um Ketilsstíg til vesturs og Sveifluhálsi síðan fylgt til norðurs þeim megin. Helsta breytingin á hálsinum undanfarin ár eru hin fjölmörgu för eftir tofæruhjól, en þau sáust ekki á þessu svæði fyrir fimm árum.
Í snubbóttum kynningum segir að „Sveifluháls sé móbergshryggur (hæstur 395 m.y.s) í Reykjanesfjallgarðinum, vestan við Kleifarvatn. Sveifluháls fellur með bröttum hömrum niður að Kleifarvatni. Sunnan til í hálsinum að austanverðu er mikill jarðhiti. Er þar hverasvæði það sem kennt er við Krýsuvík. Hæstu tindar á hálsinum eru Hellutindar, Stapatindar og Miðdegishnúkur.“

Sveifluháls

Sveifluháls – ganga.

Gengið var með fyrrnefnda tinda á vinstri hönd og Norðlingaháls, Köldunámur og Folaldadali á þá hægri. Hofmannaflöt sást neðan undir vestanverðum Sveifluhálsinum, grasi gróin. Hálsinn er klofinn langleiðina með djúpum dölum á milli móbergshnúkanna. Óvíða er fallegra útsýni hér á landi en einmitt inn eftir þessum dölum. Vatn og vindar hafa sorfið hlíðarnar og fært basaltmola og móbergssandinn niður hlíðarnar þar sem hvorutveggja hefur myndað sléttbotna dalina. Þægilegt er að ganga inn á milli tindanna, þ.e.a.s. fyrir þá sem rata, en á einstaka stað þarf að hitta á þröng einstigi þar sem auðvelt er að fara um.

Sveifluháls

Sveifluháls – Ketilsstígur.

Haldið var yfir Ketilsstíg og upp að Arnarvatni, sem er sprengigígur líkt og Grænavatn. Á vinstri hönd var hæsti tindur Sveifluhálsins, Arnarnýpa. Framundan var Hetta og Hattur á vinstri hönd. Af þeim er útsýni niður að Fögruflatarhorni. Áður var gengið niður með Slögu og hálsinum fylgt um Bleikingsdal að Drumbi og Urðarfelli, haldið um Klettavelli niður að Krýsuvíkurmælifelli og beygt þar til austurs að Einbúa þar sem gangan endaði, en nú var Ketilsstíg fylgt til vesturs, sem fyrr sagði.
Krýsuvíkursvæðið nær yfir jarðhitasvæðin á Austurengjum, Krýsuvík, í Köldunámum, Trölladyngju, og við Sandfell í Vesturhálsi (Núpshlíðarhálsi). Sveifluháls og Vesturháls með Trölladyngju eru móbergshryggir, sem hafa orðið til við gos á sprungurein undir jökli.

Sveifluháls

Sveifluháls – Innri Folaldadalur.

Hálsarnir eru samsettir úr mörgum goseiningum. Nútímahraun þekja allt sléttlendi vestan við hálsana og á milli þeirra. Upptök þeirra eru í gossprungum beggja megin við og utan í Vesturhálsi og Trölladyngju. Gossprungur eru einnig austan í Sveifluhálsi og sprengigígar á öldunum vestan hans, en hraunmagn úr öllum er lítið. Gosvirknin hjaðnar þaðan til NA og verður af lægð þar sem Kleifarvatn er. Jarðmyndanir milli Sveifluháls og Austurengja eru eldri en vestur í hálsunum og á hraunasvæðunum. Efnismiklar móbergsmyndanir úr öðru eldstöðvakerfi eru austan við Kleifarvatn og öldurnar þar suður af.
Hveravirknin á ofannefndum fjórum jarðhitasvæðum er að ýmsu leyti ólík. Í rauninni eru móbergshryggirnir fleiri á svæðinu. Latur, Latstögl og Latfjall er einn þeirra, en jarfræðilega gæti hann áður hafa verið hluti af Vesturhálsi, en hraun aðskilið hann.

Sveifluháls

Sveifluháls – Ytri Folaldadalur.

Krýsuvíkursvæðið er stórt háhitasvæði með mörgum gufu- og leirhverum. Jarðhitavatnið er lítið salt og hefur hitinn mælst 230-260°C sem er mjög ákjósanlegur hiti til gufuframleiðslu. Jarðhitasvæðið er aðgengilegt ferðamönnum, einkum hverasvæðið við Seltún austan við Sveifluháls.
Þeir félagar Eggert Ólafsson og Bjarni Pálsson voru á ferð um Krýsuvík árið 1756 og var þá unnin brennisteinn í Krýsuvík, bæði við Seltún og í Baðstofu. Bændur höfðu í gegnum aldirnar grafið upp brennistein og selt ferðamönnum milliliðalaust. Árið 1753 var komið upp húsi í Krýsuvík til að vinna brennistein að undirlagi Skúla Magnússonar landfógeta og Bjarna Pálssonar landlæknis. Nokkur ágóði varð af brennisteinsvinnslunni.

Sveifluháls

Sveifluháls – Arnarvatn.

Árið 1858 keypti Bretinn Joseph William Bushby brennisteinsnámurnar í Krýsuvík. Kostnaðurinn varð þó of mikill og var bara unnin brennisteinn í tvö sumur eftir það. Eftir það tóku ýmsir námurnar á leigu en síðastur þeirra var Bretinn T. G. Paterson og bróðir hans W. G. S. Paterson sem tóku námurnar á leigu árið 1876. Þeir stofnuðu Brennisteinsfélag Krýsuvíkur en á þessum tíma var orðið lítið af brennisteini ofanjarðar þar sem auðvelt var að ná í hann. Bora þurfti því eftir brennisteininum. Árið 1880 er talið að allri námuvinnslu hafi verið lokið og sama ár var uppboð á ýmsum eigum félagsins. Vinnsla brennisteins í Krýsuvík stóð því yfir í hartnær tvær aldir. (Sveinn Þórðarson, 1998)

Sveifluháls

Á Sveifluhálsi.

Árið 1941 fékk Hafnarfjarðarbær afsal fyrir jörðinni Krýsuvík ásamt hitaréttindum. Sama ár voru boraðar þrjár tilraunaholur við sunnanvert Kleifarvatn. Ætlunin var að komast að því hvort þar mætti fá gufu til að framleiða rafmagn fyrir Hafnarfjarðarbæ. Það varð þó ekki raunin því ekki fékkst nægt vatn eða gufa úr holunum. Hafnfirðingar gáfust þó ekki upp og árin 1945 og 1946 var ráðist í nýjar boranir. Tilgangurinn var sem fyrr að fá gufu til að framleiða rafmagn en einnig að virkja jarðhitann til upphitunar gróður- og íbúðarhúsa á jörðinni. Í þetta skiptið gekk aðeins betur og fékkst meiri gufa en í borununum árið 1941. Gufan var nýtt til upphitunar í Krýsuvík en ekki var ráðist í gerð jarðgufustöðvar eins og staðið hafði til og streymdi því gufan út í loftið, engum til gagns.

Seltún

Krýsuvík – Seltún.

Enn sem komið er hefur ekki orðið neitt úr framkvæmdum um nýtingu jarðhitans í Krýsuvík til rafmagnsframleiðslu og upphitunar en það er þó ekki ólíklegt að jarðhitinn á svæðinu verði nýttur í framtíðinni til upphitunar á höfuðborgarsvæðinu eða iðnaðarframleiðslu. Orkustofnun hefur einnig látið bora rannsóknarholur og gert víðtækar rannsóknir á svæðinu í gegnum tíðina.
Sem fyrr sagði er Sveifluhálsinn með tilkomumeiri göngusvæðum landsins. Framangreind leið er ein sú stórbrotnasta.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 22 mín.

Heimildir:
-Kristján Sæmundsson.
-Halldór Ármannsson og Sverrir Þórhallsson, 1996: Krýsuvík, Yfirlit um fyrri rannsóknir og nýtingarmöguleika ásamt tillögum um viðbótarrannsóknir. Orkustofnun, OS-96012/JHD-06 B. 25 bls.
-Sveinn Þórðarson, 1998: Auður úr iðrum jarðar. Í: Ásgeir Ásgeirsson (ritstj), Safn til Iðnsögu Íslendinga XII. bindi (ritröð). Reykjavík, Hið íslenzka bókmenntafélag, 656 bls.
-http://hot-springs.org/krysuvik.htm

Sveifluháls

Á Sveifluhálsi.

Arnarfell

„Í Arnarfelli skammt frá Krýsuvík var draugur sá er Arnarfellslabbi var nefndur.
Var hann svo kallaður Arnarfell-23af því að þeir er skyggnir voru gátu að líta strákhvelping með svartkollótta húfu staglaða með hvítu lopbandi koma ofan úr fellinu og á labbi þar umhverfis til og frá um Krýsuvíkurmýrar, en þar var almennur áfangastaður og lágu menn þar með lestir, flestir nálægt Arnarfelli.
Labbi gjörði ferðamönnum þar ýmsar glettingar. Svipti hann stundum tjaldi ofan af mönnum eða hann þeytti farangri þeirra út í allar áttir eða fældi burt hestana úr haganum og helti suma. Fór enginn maður þann veg eða lagðist þar í áfanga svo að hann hefði ekki heyrt Labba getið. Hann hafði og helt og lamað fé og færleika fyrir Krýsvíkingum og þótti þeim hann sér ærið amasamur í nágrenni, en gátu þó ekki að gjört. Smalamaður Krýsuvíkurbóndans hafði og orðið bráðdauður og var það eignað Labba.
Arnarfell-25Samkvæmt konunglegri tilskipun 1772 skar Björn sem aðrir bændur allt sitt sauðfé. Ætlaði hann nú að róa vetrarvertíðina og réði hann sér far suður í Garði. Býst hann nú í ákveðinn tíma með öðrum vermönnum; voru þeir nótt í Krýsuvík. Bóndi kenndi Björn þegar því þeir voru kunningjar.
„Mörg ár held ég nú liðin síðan þú hefur róið út Björn minn,“ segir bóndi; „get ég að sauðleysið valdi því að þú ferð nú að róa.“
„Rétt getur þú til,“ segir Björn, „sveltur sauðlaust bú. Ég hef ekki róið síðan ég fór að búa, enda hef ég nú orðið litla lyst til sjóróðra.“
„Kaup vilda ég eiga við þig,“ segir bóndi; „vilda ég biðja þig að fyrirkoma Arnarfellslabba, en ég býst til að taka við færunum þínum og róa þér svo hlut.“
Þeir sömdu nú þetta með sér; reri bóndi honum hlut um vetrinn og fiskaði vel, en Björn varð eftir í Krýsuvík. Fer hann nú að hitta Labba og er ekki sagt frá viðskiptum þeirra; hitt er ljóst að Björn kom Labba fyrir og varð aldrei framar vart við hann.“

Heimild:
-Þjóðsögur Jóns Árnasonar III, bls. 593.

Krýsuvíkurvegur

Krýsuvíkurvegur – Arnarfell framundan.

Krýsuvíkurkirkja

Timburkirkja á grunni torfkirkjunnar frá því á 12. öld í Krýsuvík var byggð 1857 og var hún sóknarkirkja allt fram undir 1910, en aflögð 1917.

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja fyrrum – tilgáta.

Fyrir altari var „fornfáleg altaristafla“. Kirkjuhúsið var í framhaldinu m.a. notuð til íbúðar frá 1929 uns hún var endurbyggð 1964 og endurvígð þann 31. maí það ár af biskupi landsins. Viðgerðir við kirkjuna hófust svo á ný 1986 og var kirkjan þá færð til upprunalegri gerðar. Hún brann til grunna aðfaranótt 2. janúar 2010, en var byggð að nýju skv. upphaflegu fyrirmyndinni og komið á kirkjustaðinn þann 10. okt. 2020.

Ný endurgerð Krýsuvíkurkirkja var vígð hvítasunnudaginn 5. júní s.l. Af því tilefni var gefinn út bæklingur um sögu endurbyggingarinnar, flutninginn á vettvang í Krýsuvík, afhendinu og kirkjuvígsluna. Í honum er m.a. að finna yfirlit um þátttakendur í endurreisninni, sbr. meðfylgjandi upplýsingamynd.

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja – altaristaflan borin til kirkja á vígsluathöfninni. (Ljósm. Árni Sæberg)

Krýsuvíkurkirkja brann til grunna aðfaranótt 2. janúar 2010 en kirkjan var byggð árið 1857, gerð upp og endurbyggð 1964 og síðar færð sem næst í upprunalegt horf með vinnu sem hófst 1986. Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi svo rúmlega tvítugan mann í eins árs fangelsi, skilorðsbundið til tveggja ára, fyrir að leggja eld að Krýsuvíkurkirkju.
Kirkjan stóð við hlið Krýsuvíkurbæjarins en það sem eftir var af honum var jafnað við jörðu með jarðýtu um 1960 ásamt fleiri minjum.

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja – kirkjugestir við vígsluna. (Ljósm. Árni Sæberg)

Þann 25. febrúar 1964 samþykkti bæjarstjórn Hafnarfjarðar að afhenda Krýsuvíkurkirkju ásamt kirkjugarði og öðrum mannvirkjum tilheyrandi staðnum Hafnarfjarðarsókn til fullrar eignar og varðveislu, ásamt landspildu umhverfis kirkjuna, samtals 7.096 m² að stærð.

Krýsuvíkurkirkja

Endurnýjað og uppfært upplýsingaskilti við Krýsuvíkurkirkju.

Áfallið varð mikið þegar gamla kirkjan í Krýsuvík var brennd í ársbyrjun 2010. Endurgerð hennar í framhaldinu, sem fór fram undir handleiðslu kennara og nemenda Iðnskólans í Hafnarfirði, síðar Tækniskólans, lauk áratug síðar. Þann 9. október 2020 var kirkjan flutt á grunn gömlu kirkjunnar í Krýsuvík. Formleg afhending fór fram á vettvangi 22. júní 2020. Þá var kirkjan afhent Þjóðminjasafni Íslands, eiganda kirkjunnar frá árinu 1857, sem síðan fól hana Hafnarfjarðarkirkju til varðveislu.

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja – Kristján Valur Ingólfsson, vígslubiskup, annaðist vígsluna. (Ljósm. Árni Sæberg)

Formleg vígslan tafðist hins vegar vegna heimsfaraldurs þar til s.l. hvítasunnudag, árið 2022. Fyrrum vígslubiskup í Skálholti, séra Kristján Valur Ingólfsson, annaðist vígsluna og flutti bæn að því tilefni.

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja – altaristaflan komin á sinn stað ásamt öðrum kirkjumunum.

Meðal annarra dagskrárliða voru innganga og upphenging altaristöflu Sveins Björnssonar, upphafsorð Jónatans Garðarssonar, formanns Vinafélags Krýsuvíkurkirkju, ritningarorð Hildar Ingvarsdóttur, skólameistara Tækniskólans, „Upp er risin Krýsuvíkurkirkja; ljóð ort og flutt af sr. Gunnþóri Ingasyni í tilefni af vígslu kirkjunnar og kirkjubæn sr. Jónínu Ólafsdóttur.

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja – Þorkell Marinósson, yfirsmiður.

Að lokaorðum Magnúsar Gunnarssonar, formanns sóknarnefndar Hafnarfjarðarkirkju, loknum var messuvíni dreypt á gröf Sveins Björnssonar utan við kirkjuna. En hvers mátti fyrrum sýslumaðurinn Árni Gíslason í Krýsuvík að gjalda? Hann var sýslumaður í Skaftafellssýslum 1852-1879 en bjó síðast í Krýsuvík 1880 til dauðadags 26. júní 1898. Hafði um tíma hæsta lausafjártíund allra búandi manna á Íslandi. Talinn dugandi embættismaður og vinsæll í héraði, einkennilegur í lund og háttum, gamansamur og hagmæltur. (Ísl. æviskrár I, bls. 44.). Hann var jarðsettur aftan við kirkjuna og er legsteinn hans þar enn í dag.

Hryssingslegt veður var í Krýsuvíkinni á vígsludaginn; suðaustan rigning og þokusúld – dæmigert. Hið jákvæða var að kirkjuhúsið hélt vatni og veitti skjól. Að vígslu lokinni var kirkjugestum boðið til stofu í Sveinssafni.

Hrafnkell Marinósson, kennari við Iðnskólann, átti ekki minnstan þátt í nýsmíðinni. Aðspurður eftir vígsluathöfnina í Krýsuvík hvað væri honum minnistæðast í tíu ára byggingarsögu kirkjunnar á lóð Iðnskólans í Hafnarfirði (síðar Tækniskólans) svaraði hann án umhugsunar: „Félagi, það er samvinna og trú“.

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja – Þátttakendur í endurreisn Krýsuvíkurkirkju.

Vesturengjar

Stefnan var tekin yfir Vesturengjar frá Seltúni í Krýsuvík og yfir á Austurengjar.
Í örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar fyrir Krýsuvík segir m.a. um Engjarnar norðan og ofan við Krýsuvíkurbæina: „Austur og upp frá Stóra-Nýjabæ lá AusturengjahverAusturengjagatan meðfram Dýjakrókum og vestan til við Tindhólsgil um Tindhólsbrekku sunnan undir Tindhól móbergshól nokkrum strýtum. Héðan lá leiðin um Öldurnar sunnanhalt við Austurengjahver, Engjahver eða Nýjahver eins og hann var kallaður 1924, er hann kom upp eftir jarðskjálfta í Krýsuvík. Þá tóku við Austurengjarnar, sem munu hafa tilheyrt Nýjabæjunum að mestu eða öllu. Þar voru Nýjabæjarengjar; Þrætustykki. Kringlumýrar tvær; Kringlumýrin efri og Kringlumýrin neðri og þá Seljamýri. Suður frá Engjunum var Litla-Fell. Hveralækurinn eða Austurengjalækur rann norðan mýranna með Litla-Lambafelli og niður milli þess og Stóra-Lambafells um Grófirnar og nefndist þá Grófarlækur.
Þegar Krýsuvíkurgatan kemur austur um Réttarholtið og reyndar alveg að heiman frá Krýsuvíkurbæ, nefnist hún Vesturengjavegur eða Austurengjahver-2Vesturengjastígur. Liggur hér áfram upp lágt holt milli þriggja tjarna lítilla, sem nefnast Augu. Þjóðvegurinn liggur nú milli tveggja. Hér litlu ofar og austar er komið að Grænavatni. Kring um það að norðan, vestan og sunnan eru Grænavatnsmelar. Að því liggja Grænavatnsbakkar klettastallar. Suður frá Grænavatni eru alldjúpir bollar, nefnast Stampar. Stóri Stampur og Litli Stampur grösugir og þar hafði fólk í Krýsuvíkurhverfi trú á að yxu lifgrös betri, en annarsstaðar. Á austurbakka Grænavatns er skarð, þar fellur inn lækur vatnslítill, nefnist Flóðalækur. Hann kemur úr Flóðunum, sem eru vestasti hluti Vesturengjasvæðisins, sem liggur milli Lambafellanna og Hálsins að norðan. Austasti hluti flóðanna nefnist Teitsflóð. Sunnan flóðanna upp undir holtinu og Lambafelli Litla voru engjasvæði, nefndust Teigarnir Álfsteigur neðri með holtinu, og Álfsteigur efri norðan í fellinu. Þá er Grófarteigur vestan Grófarlækjar.
En austan Grófarlækjar voru Gullteigur neðri og GuAusturengjahver-3llteigur efri og liggja vestan í Stóra-Lambafelli. En Grófarlækurinn fellur austur undir hlíðum fellsins. Af Grænavatnsmelnum liggur Vesturengjastígurinn upp nokkuð og austur. Þar er komið að svo kölluðum Vöðlum og lækur kemur ofan úr dölunum og nefnist Vaðlalækur og rennur niður í Flóðin. Þegar yfir Vaðlana kemur tekur við Vesturengjahæð með Vesturengjamóa eða Engjamóa og nær þetta svæði allt að Fúlapolli eða Leirpolli. Þá er komið í Seltún, Seltúnslækur skiptir Seltúni. Vestan við hann eru Seltúnsbörð. Á Seltúnslækjarbakka vestari stóð í eina tíð Námahúsið. Frá Fúlapolli rennur vatn lítill lækur, nefnist Svuntulækur. Neðarlega á engjunum tengist hann, rennur hann saman við Seltúnslæk. Myndast þarna engjateigur, sem nefnist Svunta. Neðan við þetta engjasvæði er Suðurkotsnes og Gvendarrimi. Austan við Seltúnslæk, sem einnig er kallaður Engjalækur, er Vesturengjalækur, er engi, er nefnist Flatengi og liggur niður með læknum. Þar neðst er svo Norðurkotsnes. Lengra niður með læknum er mikið land sem fer Vesturengjavegur -3 undir vatn þegar vex í Kleifarvatni, en kemur undan því er út fjarar, og var þarna oft gott slægjuland. Svæði þetta var nefnt Nýjaland. Að austan takmarkast það af Rifinu lágu sandrifi, sem þó fór ekki í kaf er flæddi. Við syðri hluta Rifsins var Refanes. Suður og upp frá Nýjalandi voru svo Hvammarnir, Stórihvammur með Laugina öðru nafni Hvammalaug og Hvammagil. Hér í hvamminum hafa skátar frá Hafnarfirði byggt sér Skátaskála. Hvammahryggur liggur ofan skálans. En sunnan við hann er Litla-Nýjabæjarhvammur. Seljarúst er þarna og talið, að sel hafi þarna verið í eina tíð frá Kaldrana, sem var eitt býli í Krýsuvíkurlandi. Selgil kemur ofan úr Selásum eða Selhæðum og Selgilslækur nefnist hann. Frá Stórahvammi liggur Hvammholt niður á Rifið.“
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín.

Heimild m.a.:
-Gísli Sigurðsson, örnefnalýsing fyrir Krýsuvík.

Austurengjar

Krýsuvík

Krýsuvík er landnámsjörð. Þar nam Þórir haustmyrkur land. Þá hefur búsetan verið vestar en nú er, eða þar sem kölluð er gamla Krýsuvík í og við Húshólma í Ögmundarhrauni.

Krýsuvík

Drengir úr Vinnuskólanum á göngu – HH.

Nokkrar bæjarrústir, garðar og borgir eru þar í hrauninu, á svæði sem hefur verið talið óbyggilegt eftir að hraunið færði byggðina í kaf um miðja 12. öld. Meginbyggðin var m.a. færð að sunnanverðu Kleifarvatni, upp undir Gestsstaðavatn og austur fyrir Bæjarfell þar sem hún var allt fram á miðja 20. öld.

Um skeið var Krýsuvík höfuðból með mörgum hjáleigum – heimildir segja allt að 14 um tíma á 19. öld. Jörðin fóstraði margan manninn og skilaði sf sér dugmiklum afkomendum. Nú er hins vegar lítið orðið eftir af fornri frægð höfuðbólsins, en eftir stendur heilstætt búsetulandslag er minnir á mannlífið og atvinnuhættina fyrrum – allt frá upphafi byggðar hér á landi (og jafnvel eldri). Eftir að búseta lagðist af í Krýsuvík hófust framkvæmdir við áætlanir er jafnan fóru út um þúfur. Undantekning er þó starfsemi Vinnukólans Í Hafnarfirði þar sem ungir drengir frá Hafnarfirði elfdu hug og hönd, líkt og segir í söngtexta HZ, sem jafnan var á vörum drengjanna. Textinn gæti og vel lýst afstöðu Krýsvíkinga fyrrum:

Krýsuvík

Krýsuvík.

„Vasklega að verki göngum
vinir með gleðisöngvum
karlmennskan lokkar löngum
lífsglaðan hug.
Ræktum og byggjum, bætum,
brosandi þrautum mætum,
vonleysi, þrefi og þrætum,
þeytum á bug….

Kempur í kappasveit,
í Krýsuvík vinnum heit,
að duga og treysta vort drenglyndi og þor.
Vorhugans verkin kalla
verkglaða drengi snjalla.
Sindrar um sali fjalla
sólskin og vor.“

Mörgum leikur forvitni að vita eitthvað um örnefnið „Krýsuvík“. Ýmsar getgátur hafa verið uppi um tilurð þess, s.s. að heitið tengist orðinu „kross“ eða þarna hefðu í fyrstu búið „krýsverjar“ eða „Krýsir“. Ef skoðaðar eru gamlar orðabækur og orðatiltæki kemur í ljós að „krýs“ táknar einfaldlega grunn skora í ask, sbr. grunn vík. Þar sem nú er hraun vestan við sunnanverðan Húshólma mun fyrrum, að öllum líkindum, hafa verið grunn vík – neðan við þar sem nú eru tóftir „Gömlu Krýsuvíkur“. Ásgeir Blöndal telur að nafnið hafi verið fengið út frá lögun víkurinnar og nafnið sé í ætt við krús og krúsa (Íslensk orðasifjabók) og er það í ætt við aðrar fornar orðskýringar. Orðið „krís“ er einnig til, en í öðru samhengi; vandi eða óáran.

Indíáninn

Indíáninn í Kleifarvatni.

Núverandi akvegur frá Hafnarfirði til Krýsuvíkur var lagður um 1944. Um svipað leyti var lagður vagnfær vegur frá Grindavík að Stóra-Nýjabæ í Krýsuvík. Áður fyrr lágu hestagötur á milli staðanna. Segja má að Krýsuvík hafi verið í þjóðleið því vermenn og  bændur að austan komu þar við á leið þeirra í verstöðvarnar og verslunarstaðina við Grindavík, á Suðurnesjum og á Ströndinni. Erlendir ferðamenn lögðu jafnan leið sína til Krýsuvíkur, ekki síst vegna hveranna, sem þar eru fjölmargir í nágrenninu. Þá sýndu þeir fjölbreytilegum búskaparháttum bænda nokkurn áhuga.
Gamlar leiðir frá Hafnarfirði lágu t.d. um Undirhlíðaveg og Dalaleið frá Kaldárseli og um Hrauntungustíg og Stórhöfðastíg frá Ási. Þrjár þessara leiða mættust í Ketilsstíg um Sveifluháls.
Þá lágu götur yfir hálsinn að Vigdísarvöllum, vestur að Seltöngum og áfram að Ísólfsskála og austur um Deildarháls að Herdísarvík. Allar þessar götur eru enn vel greinilegar og áhugaverðar til göngu.

Norðurkot

Norðurkot í Krýsuvík.

Minjar má enn sjá eftir alla bæi, sem heimildir eru um að hafi verið í Krýsuvík frá upphafi. Mjög litlar rannsóknir hafa farið fram á aldri minjanna og því lítið vitað um sögulegt samhengi byggðarinnar í heild. Elstu tóftirnar eru að öllum líkindum, sem fyrr sagði, í Húshólma. Þar eru leifar þriggja skála, kirkju- eða bænhúss, grafreits, fjárborgar og langra garða, sem benda til langtíma búsetu. Rannsókn hefur sýnt að landnámsöskulagið (frá árinu 871) er í pælunni í einum garðanna, sem þarna er enn og hraunið hlífði fyrir átta og hálfri öld. Bendir það til þess að minjarnar getið verið allt að því frá upphafi norræns landnáms hér á landi – eða jafnvel eldri. Minjar í nálægum óbrennishólma styrkir þá tilgátu, en þar er m.a. að finna leifar af virki, topphlöðnu húsi og görðum.

Gestsstaðir

Gestsstaðir í Krýsuvík, sunnan Gestsstaðavatns – skáli.

Leifar elsta bæjarins utan Húshólmasvæðisins eru taldar vera í svonefndum Kaldrana suðvestan við Kleifarvatn og tóftum Gestsstaða sunnan við Gestsstaðavatn. Allar eru þessar minjar friðlýstar.
Auk þess má sjá leifar eftirfarandi bæja: Krýsuvík (Austurb/Vesturb.), Hnaus/a, Stóra-Nýjabæjar (Austurb/Vesturb.), Litla-Nýjabæjar, Norðurkots, Suðurkots, Læks (Austurbæjarr?), Snorrakots, Arnarfells, Fitja (Efri- / Neðri-), Eyrar, Vigdísarvalla, Bala og Fells. Þá má enn sjá leifar selja þessara bæja, s.s. Kaldranasels undir Hvammahlíð, Krýsuvíkursels austan Selöldu, selstöðu í og við Sogaselsgíg, selstöðu á Vigdísarvöllum og selstöðu á Seltúni. Verminjar eru á Seltatöngum og í Húshólma (ofan við Hólmasund) og víða eru fjárskjól og beitarhús því Krýsuvík þótti góð sauðajörð og urðu bændur og búendur því mest að treysta á sauðfjárrækt, enda bera minjarnar þess glögg merki. Útbeit er ágæt, þótt engin væri fjörubeit, en féð þurfti nákvæmrar hirðingar og varð maður alltaf að fylgja því á vetrum. Segja má með nokkrum sanni að ábúendur hafi lagt mikið á sig til að halda lífi í fénu því á því lifði fólkið. Fjárskjól og -gerði tengd fjárbúskapnum má t.d. sjá í Bæjarfelli, í Klofningum, á Krýsuvíkurheiði, í Stóra-Lambafelli og á Borgarhálsi. Mógrafir eru í Rauðhólsmýri, undir Baðstofu og í Innralandi.

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja.

Krýsuvíkurkirkja er það kennileiti við bæjarhólinn í Krýsuvík, sem jafnan vekur hvað mesta athygli ferðalanga. „Elsta heimild um kirkju í Krýsuvík er, að um 1200 er hennar getið í kirknaskrá Páls biskups. Kirkjan er talin Maríukirkja, og á heimaland allt, ásamt Herdísarvík og níu mæla lands á Þorkötlustöðum, auk ítaka. Eftir það er Krýsuvíkurkirkju getið í ýmsum máldögum allt fram undir 1600. Flestir máldagarnir fjalla um eignir kirkjunnar fastar og lausar, ítök o.fl., og ber víðast fátt á milli, utan þá orðalag. Á tíma þeim, sem máldagarnir ná yfir, hefur lausafé kirkjunnar ekki ávallt verið það sama, munir gengið úr sér, og stundum aðrir komið í þeirra stað, lifandi peningi fækkað, þar til horfinn var með öllu, og segja má, að svo hafi farið um flesta muni kirkjunnar.
Allt bendir til, að Krýsuvíkurkirkja hafi aldrei rík verið af lausafé. Hitt mun helur mega telja, að fram eftir öldum hafi hún eftir öllum bréfum að dæma mátt teljast allveg á vegi stödd í föstum eignum, þar sem hún hefur átt allt land sóknarinnar, byggt og óbyggt, og meira þó, það er hún átti einnig Herdísarvíkina, bestu verstöð í Selvogi, landríka vildisjörð, og lágu lönd saman. Auk þessa ýmis ítök. Hitt er ljóst, bæði af íslenskum heimildum svo og ferðabókum erlendra, sem um landið reistu og til Krýsuvíkur fóru, flestir til athugunar jarðhita og brennisteini, að meðal sóknarmanna hafi þar oftar ríkt fátækt en auður, jafnvel svo, að til landauðnar dró á tímabili. Árið 1553-’54 telur Marteinn biskup “kirkju þar góða, – en enginn bær er þá í sókninni”. Með bréfi 27. sept. 1563 leggur Páll Stígsson hirðstjóri, í samráði við Gísla Jónsson biskup í Skálholti, niður sóknarkirkju í Krýsuvík, og leggist hún og eitt kot “sem þar er hjá”, til Strandarkirkju í Selvogi. Þó skal í Krýsuvík standa lítið húskorn, Guðs vegna og þess heimilisfólks, sem þar kann að vera sjúkt eða gamalt. “Og herra Gísli skyldi nokkur kúgildi til leggja, svo að Guðs orðs þénari mætti þar hvíld nætursakir hafa, þá hann þar kæmi eða þyrfti þar að koma guðlegrar hjarðar að vitja.” Krýsuvíkurkirkja virðist þó standa eftir sem áður. Í kirkjuskrá 1748 er kirkjan til, og enn í prestakallaskipunarlögum frá 1880 -og þá líklega einungis að nafninu til.
Núverandi timburkirkja var reist árið 1857, en lögð af sem sóknarkirkja 1929, notuð till íbúðar, endurbyggð og síðan endurvígð 1964. Hún tilheyrir nú Hafnarfjarðarprestakalli í Kjalarnesprófastsdæmi. Kirkjan er varðveitt af þjóðminjaverði. Þegar Krýsuvíkurbærinn, hið merka stórbýli um aldir, var orðinn svo hrörlegur á fyrri hluta 20. aldar að ekki var lengur hægt að hafast við í honum, flutti ábúandinn í kirkjuna. Hún var afhelguð og notuð sem bústaður um tíma. Þangað komu margir á ferðum sínum um Krýsuvík og nutu skjólsins þótt stundum væri vistin köld á vetrum. Ofn var þá í kirkjunni og var hann kyntur duglega, en kulnaði á milli.
Kirkjan er dæmi um einfalda sveitakirkju frá síðari hluta 19. aldar.
Krýsuvík er nú í eigu Hafnarfjarðarbæjar. Krýsuvík fór endanlega í eyði eftir 1950. Stórbýlið Krýsuvík hafði um tíma 14 hjáleigur, enda jarðgæði mikil áður en uppblástur tók að herja. Víða í Krýsuvík má sjá búsetuminjar, allt frá Selöldu í suðri að Kleifarvatni í norðri, Seljabót í austri og Selatöngum í vestri.
Sveinn Björnsson, listamaður og lögreglumaður, hafði vinnustofu í Krýsuvík. Þegar hann andaðist 28.04.1997, sjötíu og tveggja ára, var hann jarðaður í Krýsuvíkurkirkjugarði 9. maí. Þá hafði ekki verið jarðsett í garðinum síðan 1917.

Brennisteinsnám

Brennisteinsvinnslan í Seltúni.

Brennisteinn var unninn í Krýsuvík á 18. og 19. öld. Frægar eru ljósmyndir í ensku 19. aldar blaði er sýndu „arðvænlega“ vinnslu náttúruauðlinda á svæðinu. Á þeim sáust miklir hraukar brennisteins og allt virtist í fullum gangi. Tilgangurinn með myndunum var m.a. að selja enskum hlutabréf í námuvinnslufélaginu. Þeir félagar Eggert og Bjarni voru á ferð um Krýsuvík árið 1756 og var þá unninn brennisteinn í Krýsuvík. Til er uppdráttur af námuvinnslusvæðinu frá þessum tíma. Þau voru tvö; annars vegar í Baðstofu milli Hettu og Hatts og hins vegar við Seltún (Hveradal). Bændur höfðu í gegnum aldirnar grafið upp brennistein og selt ferðamönnum milliliðalaust. Þeir seldu síðan námuréttindin fyrir peninga og þótti þá í frásögu færandi. Upphæðin var þó lítil miðað við væntingar. Enn þann dag í dag má slá leifar brennisteinsnámsins í Krýsuvík, einkum við Seltún.

Ýmsar þjóðsögur og sagnir hafa spunnist í Krýsvík. Má þar nefna söguna um Herdísi og Krýsu. Dysjar þeirra má sjá í Kerlingardal undir Stóru-Eldborg. Þjóðsagan um Mókollu gerðist í Klofningum. Þar má sjá fjárhelli, fyrirhleðslur og hústóft. Tanga-Tómas var draugur á Selatöngum. Á Töngunum má sjá miklar verminjar frá fyrri öldum, einkum frá 19. öld. Séra Eiríkur á Vogsósum, prestur í Krýsuvík um tíma, mætti Tyrkjum utan við kirkjuna. Þeir eru grafir í Ræningjadys. Sagnir eru og um skímsli í Kleifarvatni. Sumir telja sig hafa séð það, jafnvel á síðari árum.

Hvað sem öðru líður geymir Krýsuvík heilstætt búsetulandslag fyrrum íbúa. Við bæina var t.a.m. garðar, matjurtargarður, brunnur eða vatnsstæði, fjárból, nátthagi, traðir og önnur mannanna verk. Í nágrenninu voru fjárskjól, gerði, borgir og beitarhús. Hlaðnar refagildrur má finna við greni, arnarhreiður og vörður við gamlar leiðir. Allt þarnast þetta varðveislu svo komandi kynslóðir fái tækifæri til að sjá og skilja betur aðbúnað og aðstæður þær er forveður þeirra lifðu við og dugðu til að bæta hag þeirra sem á eftir komu.

Heimildir m.a.:
-Ólafur Þorvaldsson.
-Árni Óla.
-Jarðabókin 1703.
-Hörður Zóhaníasson.

Krýsuvík

Krýsuvík – Vinnuskólinn.

Húshólmi

Í sunnudagsblaði Morgunblaðsins 1972 er umfjöllun með yfirskriftinni „Hvert munduð þér helzt halda í gönguferð á góðum sunnudegi?“ þar sem nokkrir valdir einstaklingar eru spurðir svara:

„Enga íþrótt — ef íþrótt skyldi kalla — er eins auðvelt að iðka og gönguferðir — og þær eru sannarlega ekki síður skemmtilegar að vetri en sumri. Til þeirra þarf engan útbúnað annan en hlý föt og góða skó en hollustan af þeim er ómæld. Læknar hafa um árabil hvatt menn til gönguferða, ekki einungis vegna þess, að þær eru hollar líkamanum í heild, heldur og vinna þær gegn hjartasjúkdómum, sem eru eins og allir vita, einn tíðasti sjúkdómur meðal siðmenntaðra þjóða.

Arnarvatn

Arnarvatn.

Margir hafa svo sem stundað gönguferðir án þess til þyrfti hvatningarorð lækna en enginn vafi er, að þær hafa orðið almennari á síðari árum eftir að fólk fór almennt að gera sér ljóst hvílíkir vágestir kransæðastífla og aðrir hjartakvillar er. Þannig hafa fjölmargir kynnzt umhverfi sínu á nýjan hátt, séð staði, sem voru þeim áður ókunnir og einnig séð gamalkunna staði nýjum augum.
Til gamans höfðum, við samband við nokkra menn og konur á höfuðborgarsvæðinu og báðum þau að segja okkur í fáum orðum, hvert þau mundu helzt halda í gönguferð á góðum sunnudegi, þegar þau ættu frí frá amstri og erfiði hversdagsins.

Hlíðar Heiðmerkur (Jónas Haralz, bankastjóri)
Jónas HaraldzVið sem búum í Reykjavík og nágrenni höfum þá einstöku aðstöðu að finna fagurt, tilkomumikið og marg breytilegt landslag eftir 10—15 mínútna akstursleið — og jafnvel- enn nœr bústöðum okkar. Þarna getum við verið algerlega út af fyrir okkur — er víða sem sjaldnast sést nokkur maður á vetrardegi. Við hjónin notum okkur þetta oft og eftirlætisstaður okkar er með hlíðunum í Heiðmerkurlandinu.

Á Helgafell eða fjörur (Halldóra Thoroddsen, skrifstofustjóri)
Það er vandi að velja á milli, því að margir skemmtilegir staðir eru í nágrenni Reykjavíkur og óþarfi að aka langt burt úr bænum til að finna fallegar gönguleiðir. Til dæmis er einkar gaman að ganga fyrir sunnan Heiðmörkina og Hafnarfjörð og minnist ég þá sérstaklega skemmtilegrar leiðar, sem Eysteinn Jónsson lýsti fyrir nokkrum áratugum, það er göngu ferð á Helgafell. Ég gekk einu sinni eftir hans fyrirsögn og er viss um að sú leið svíkur engan.
Halldóra Thoroddsen
Skemmtilegast finnst mér þó að ganga með sjó fram og þá er ekki langt að aka suður í Krýsuvík eða Grindavík — nú — svo standa fjörurnar á Stokkseyri og Eyrarbakka alltaf fyrir sínu. Þessum gönguferðum fylgir sá kostur, að maður þarf ekki að kjaga upp eða niður brekkur. Helzt mundi ég þó kjósa á góðviðrissunnudegi að setjastá hestbak og ríða inn með Esjunni og upp að Tröllafossi — það er mátuleg sunnudagsferð fyrir mann og hest.

Kaldársel (Gísli Sigurðsson, varðstjóri)
Ég hef haft þann sið frá þvi fyrir 1930 að ganga um nágrennið og upp úr 1950 fór ég að safna örnefnum hér í kring og hef verið að ganga á þessa staði. Það er því um margt að velja. Úr Reykjavík er til dæmis gott að ganga upp að Elliðavatni og Vatnsendavatni og þar um kring, m.a. i Heiðmörkinni. Svo ég tali nú ekki um að bregða sér í fjöllin í Mosfellssveitinni, þar er indælt að vera og horfa yfir sundin, eyjarnar og nesin.
Gísli SigurðssonÚr Garðahreppi er einfaldast að fara beint inn hjá Vífilsstöðum, inn á hálsana, inn með Vífilsstaðahlíð, inn í Grunnuvötn og inn á Hjalla.
Úr Kópavogi er sjálfsagt að ganga inn úr byggðinni, upp og umhverfis Vatnsenda hæð, inn í Selás, inn fyrir Geitháls, — ég tala nú ekki um að fara inn á Sandskeiðið og þar í kring.
Við Hafnfirðingar eigum ekki langt að fara, getum gengið umhverfis bæinn, um Urðarfosshraunið, Setbergshlíðina inn að Kaldárseli og kringum Helgafell, suður um Ásfjall og þar um kring. Þetta eru svona tveggja til þriggja tíma leiðir, sem er gott að ganga eftir hádegi. Þarna er víða ónumið land, sem er indælt til hvíldar og gönguferða. Mér finnst ekkert taka þeim fram.

Gamla Krýsuvík (Björn Steffensen, endurskoðandi)
Björn SteffesenFerðinni er heitið í Húshólma til þess að skoða tóftir „Gömlu Krýsuvíkur“: Ekið er sem leið liggur suður Reykjanesbraut þar til komið er suður fyrir Hvaleyrarholt að beygt er til vinstri, á Krýsuvíkurveg. Ekið um Kapelluhraun og austur jaðar Almennings, yfir Vatnsskarð að Kleifarvatni. Haldið áfram suður með vatninu; farið fram hjá hverasvæðinu við Ketilstíg og áfram fram hjá Grænavatni. Tæpum 1 kílómetra sunnar eru, til hægri handar, vegamót Grindavíkurvegar. Er ekið eftir honum gegjnum túnið í Krýsuvík og áfram, um 4 kilómetra í vestur, þá er komið að austurjaðri Ögmundarhrauns. Þá er Mælifell á hægri hönd.
Hér hefst gönguferðin og er þá fyrst farið niður með jaðri hraunsins. Auðvelt er að aka jeppa niður með hrauninu, en við förum þetta gangandi.
Þegar gengið hefur verið um 2 kílómetra niður með hraunjaðrinum verða fyrir tvö vörðubrot á hraunbrúninni. Hér liggur stígur upp á hraunið. Er þessum stíg fylgt yfir að hraunrima, sem er sem næst 1/2 kílómetri á breidd og er þá komið í Húshólma.
Húshólmi er gróin spilda, nokkrir tugir hektara að stærð, umlukt apalhrauni, nema við sjó er dálítil fjara.

Húshólmi

Skálatóft í Húshólma í Gömlu-Krýsuvík.

Haldið er vestur yfir Húshólmann og stefnt dálítið ská hallt í átt til sjávar. Þegar komið er að hraunbrúninni vestan við gróðurspilduna er stefna tekin suður með hrauninu unz fyrir verður gróið túngarðsbrot, sem liggur skáhallt út undan hrauninu. Er þetta brot af túngarði „Gömlu Krýsuvíkur“. Sunnan við túngarðsbrotið er gengið upp á hraunið og verða þá fyrir tóftirnar af húsum „Gömlu Krýsuvíkur“.
Hér gefur á að líta tóftir af bæjarhósum, sem hraun (Ögmundarhraun) hefur runnið allt í kringum og að nokkru yfir. Ég held að hvergi á Íslandi sé hægt að sjá þessu líkt, nema ef vera kynni í Reykjahlíð við Mývatn. Talið er að Ögmundarhraun hafi runnið um miðja 14. öld.
Munnmæli herma að hér hafi Krýsuvík upphaflega verið. Þetta mun að vísu aðeins vera tilgáta til að skýra nafn bœjarins, sem eftir hraunflóðið á að hafa verið fluttur á þann stað, þar sem hann nú er, um 4 kílómetra frá sjó og engin vík í landi jarðarinnar. Krýsuvík er nú í eyði, bæjarhús fallin, en lítil timburkirkja stendur.

Básendar

Básendar – festarhringur.

Orð fer af því hve nágrenni Reykjavíkur sé hrjóstrugt. Þar á móti kemur að kannski er hvergi á Íslandi jafn fjölbreytt náttúra. Auk þess eru hér á næstu grösum margvíslegar minjar frá liðnum öldum, sem gaman er að kynnast, svo sem seljatóftirnar í hrauntungunni milli Reykjanesbrautar og Krýsuvíkurvegar, sunnan Kapelluhrauns (Almenningur), festarjárnin digru á Básendum, sjóbúðatóftirnar og fiskbyrgin á Selatöngum, og fallegar fjárborgir á víð og dreif, svo að nokkuð sé nefnt. Er ómaksins vert fyrir þá, sem eiga ráð á bíl og eru rólfærir, að gefa þessu gaum.

Hlíðar Esjunnar (Áki Jakobsson, lögfræðingur)
Áki JakobssonÍ haust sem leið var tíðin rysjótt og fá tækifæri gáfust til þess að fara í gönguferð í þurru veðri.
Sunnudag einn hringdi til mín kunningi minn og spurði hvort ég væri ekki til í að koma í göngutúr. Ég játaði því með þökkum og fór í gönguskó og svo lögðum við af stað. Við ókum upp að Stardal og lögðum bílnum þar en lögðum land undir fót. Gengum við svo til vesturs frá Stardal meðfram undirhlíðum Esjunnar. Síðan sveigðum við til norðurs og stefndum að Móskarðshnúkum. Leiðin lá yfir allvíðlend an mýrarslakka, sem grafinn hefur verið í sundur með skurðum, sem virðist vera orðin árátta, þó að ekki eigi að fullrækta. Á leiðinni yfir mýrina, sem var mjög blaut eftir rigningarnar í sumar, og því ekki beint þægileg til göngu, rákumst við á mink, sem faldi sig i skurði. Þegar hann varð var mannaferða tók hann til fótanna og hafði sýnilega engan áhuga á að kynnast okkur frekar. Við veittum honum nokkra athygli og virtist augljóst, að þarna væri um hlaupagikk að ræða, nýsloppinn út, enda er þarna skammt frá eitt af hinum nýju minkabúum, sem stofnuð voru eftir að minkabannið var afnumið illu heilli. Við vorum ekki í neinum minkaveiðihugleiðingum og kvöddum hann því og héldum leið okkar. Stefndum við nú á vestasta Móskarðshnúkinn. Veður var bjart þessa stundina, þó ekki sól, en líparitið í hnúkunum gerði þetta að sólskinslandslagi og fjallasýnin var heillandi.

Móskarðshnúkar

Móskarðshnúkar.

Stefndum við nú upp til fjallanna og ekki leið á löngu þar til við komum upp á veginn úr Kjósinni, sem liggur um Svínaskarð. Fylgdum við nú veginum til vesturs, þar til hann sveigir til suðurs við vestasta hnúkinn. Þá fórum við af veginum og stefndum upp á leið, upp á mjög einkennilega klettaborg, sem stendur upp úr skriðunum neðanvert í fjallinu. Nú gerði á okkur skyndilega rigningu og er ekki að orðlengja það, að við urðum holdvotir á nokkrum mínútum. Við létum þetta þó ekki aftra okkur og héldum áfram. Eg er nú ekki orðinn mikill fjallgöngumaður, en upp á klettaborgina komst ég þó. Þá bregður svo við, að það er eins og risahönd sópi burt rigningarskýjunum og við fáum sólskin. Við fengum alveg stórkostlega útsýn, einkum til Esjunnar, en þar blasir við auganu hæsti tindur hennar. Þessi fjallasýn var svo heillandi, að mér fannst við í henni einni fá ríkuleg laun fyrir erfiði okkar. Því hefur ekki einhver af málurum okkar sett þetta stórkostlega „motiv“ á léreft, varð mér á að hugsa. Það get ur nú verið að það hafi verið gert, þó að ég hafi ekki séð þá mynd.

Móskarðshnúkar

Móskarðshnúkar.

Sólskinið stóð ekki lengi. Þung rigningarský lögðust að á ný og aftur var komin hellirigning. Eftir þessa útsýn á hamraborgunum, gerði þetta að sól inni, fannst okkur ekki vera hægt að vænta nýrra ævintýra í þessari ferð og hröðuðum okkur nú niður og vildum komast úr rigningunni sem fyrst. Við fórum niður á veginn úr Kjósinni og fylgdum honum, en komum þá að girðingu, sem liggur meðfram veginum og beinir honum í aðra átt en við þurftum að komast.
Brugðum við nú á það ráð að fara yfir girðingu þessa, til þess að stytta okkur leið. En við höfðum ekki lengi gengið þegar við gengum fram á tvö heljarmikil naut. Við höfðum sem sagt lent í nautagirðingu. Við höfðum engan kjark til þess að fara að kljást við naut. Nautin höfðu ekki orðið vör við okkur, svo við læddumst til baka sömu leið og komum okkur út úr girðingunni. Við fórum svo krókinn af mestu þolinmæði og komum að bílnum aftur eftir röskra fjögurra tíma göngu. Við vor um að vísu holdvotir, en höfðum átt mjög skemmtilegan dag.

Yfir Sveifluháls (Bergþóra Sigurðardóttir, læknir)
Bergþóra SigurðardóttirSveifluháls eða Austurháls nefnist hæðardragið norðan Kleifarvatns og eru hæstu tindar hans tæpir 400 m á hæð. Er hann innan þess svæðis, sem Náttúruverndarnefnd Reykjavíkur og borgarráð leggja til að verði fólkvangur.
Reyndar kæmi sér vel fyrir okkur gönguglöð, að fá til fylgdar einhvern fótfúinn, sem sætti sig við að aka okkur í átt að Djúpavatni og biða okkar síðan í Krýsuvík. Gætum við þá gengið þvert yfir hálsinn, sem er þarna um 2,5 km á breidd. En ekkert er á móti því að ganga í hring og koma niður sömu megin. Við ókum Krýsuvíkurveg í átt að Kleifarvatni, en beygjum til hægri áður en við komum í Vatnsskarð, þar sem heitir Móhálsaleið. Ruðningsvegur liggur yfir hraunið með nyrðri hlíð Sveifluháls í átt að Djúpavatni. Þar er silungsveiði og snoturt veiðihús stendur við vatnið. Yfirgefum við farartækin, þar sem vegurinn sveigir að Djúpavatni.
Sveifluháls er móbergshryggur, sem hlaðizt hefur upp í sprungustefnu (SV—NA) á siðasta jökulskeiði. Hann er því lítið rofinn og landslag tilbreytingaríkt. Aðallitir landsins þarna eru rauðbrúnn litur móbergsins og grámi gamburmosans. Göngum við suður og upp á við yfir urð og grjót. Í maí sjást þarna í mosa og móabörðum bleikar breiður sem minna fákunnandi á lambagras, en þarna skartar vetrarblómið sínum fegursta skrúða. Er upp á hálsinn er komið er fallegt að sjá til norðurs yfir hraunið og Djúpavatn, en handan þess Grænadyngja og Trölladyngja. Í suðaustri sjást gufustrókar frá hverum milli Hatts og Hettu, en það eru hæstu hnúkarnir á hálsinum í suðri.

Grænavatn

Grænavatn.

Á miðjum hálsinum er tjörn, sem Arnarvatn nefnist. Við göngum vestan hennar í sendnu fjöruborðinu, en reiðvegurinn til Krýsuvíkur liggur austan megin. Móbergskambur skýlir okkur á aðra hönd, en handan hans tekur við flatlent mýrlendi og norðaustan þess gnæfir Arnarnípa 340 m á hæð. Er yfir mýrina kemur tekur við holt, en síðan fer að halla undan fæti og við sjáum suður á sjálft Atlantshafið. Lítið fell, Arnarfell, sunnan Krýsuvíkur er fallegt til að sjá. Við sjáum að Grænavatn er réttnefni, en það glitrar eins og smaragður séð frá hálsinum.
Við fikrum okkur svo niður gilið að hverasvæðinu, þar sem hitaveita Hafnarfjarðar hefur um árabil bullað út í loftið.
Þar sem Grænavatn var svona fallegt til að sjá, hyllumst við til að skoða það nánar. Er það rétt sunnan við akveginn. Grænavatn er dýpsti sprengigígur á landinu, 44 m á dýpt og á barmi þess getum við fundið hnyðlinga úr gabbró. Gestastaðavatn, vestan vegarins er einnig í gömlum sprengigíg, en aðeins 2,6 m á dýpt. Enn sunnar eru tvær smátjarnir eru Augu nefnast og myndaðar á sama máta. Liggur veg urinn milli Augnanna og ljúkum við þar göngu okkar.“

Heimild:
-Morgunblaðið-sunnudagsblað 26.11.1972, Hvert munduð þér helzt halda í gönguferð á góðum sunnudegi?, bls. 36-37.

Arnarfell

Arnarfell.

Svunta

Í örnefnalýsingu Ara Gíslasonar fyrir Krýsuvík segir um Krýsuvíkurveg: „Þegar kemur niður úr Seltúninu niður á láglendið, er leiðin til Krýsuvíkur um Vaðla.“.
Krysuvik Í örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar um sömu leið segir: „Þegar Krýsuvíkurgatan kemur austur um Réttarholtið og reyndar alveg að heiman frá Krýsuvíkurbæ, nefnist hún Vesturengjavegur eða Vesturengjastígur. Liggur hér áfram upp lágt holt milli þriggja tjarna lítilla, sem nefnast Augu. Þjóðvegurinn liggur nú milli tveggja.“
Ætlunin var að reyna að rekja Krýsuvíkurgötuna frá gamla Krýsuvíkurbænum að Ketilsstíg og rekja síðan Steinabrekkustíg til baka um Steinabrekkur. Við hann átti að vera Fagraskjól, fjárbirgi.
Þegar gluggað var nánar í fyrirliggjandi örnefnalýsingar með það fyrir augum að reyna að glöggva sig á framangreindum götum kom eftirfarandi í ljós:
Ari Gíslason: „Austan undir Hatti er hvammur sá, sem heitir Seltúnshvammur. Er komið niður í hann, þegar Ketilstígur er farinn, er síðar getur. Í hvamminum er Seltúnið. Þar eru nokkrir leirhverir, sumir dauðir, en í öðrum kraumar. Úr gili milli Hatts og Seltúns kemur Seltúnslækur, sem rennur um alldjúpt gil á jafnsléttu, Selgil. Þarna eru Seltúnshverir. Framan við Seltúnið eru Brennisteinshúsarústir. Eru þær á Seltúnsbarði, sem er sunnan gilsins. Þar höfðu enskir menn brennisteinstöku á 19. öld. Voru þeir líka í Brennisteinsfjöllum. Þegar kemur niður úr Seltúninu niður á láglendið, er leiðin til Krýsuvíkur um Vaðla.“
Og í örnefnalýsingu
Gísla Sigurðssonar: „Þegar Krýsuvíkurgatan kemur austur um Réttarholtið og reyndar alveg að heiman frá Krýsuvíkurbæ, nefnist hún Vesturengjavegur eða Vesturengjastígur. Liggur hér áfram upp lágt holt milli þriggja tjarna lítilla, sem nefnast Augu. Þjóðvegurinn liggur nú milli tveggja. Hér litlu ofar og austar er komið að Grænavatni. Kring um það að norðan, vestan og sunnan eru Grænavatnsmelar. Að því liggja Grænavatnsbakkar klettastallar. Suður frá Grænavatni eru alldjúpir bollar, nefnast Stampar. Stóri Stampur og Litli Stampur grösugir og þar hafði fólk í Krýsuvíkurhverfi trú á að yxu lifgrös betri, en annarsstaðar. Á austurbakka Grænavatns er skarð, þar fellur inn lækur vatnslítill, nefnist Flóðalækur. Hann kemur úr Flóðunum, sem eru vestasti hluti Vesturengjasvæðisins, sem liggur milli Lambafellanna og Hálsins að norðan. Austasti hluti flóðanna nefnist Teitsflóð. Sunnan flóðanna upp undir holtinu og Lambafelli Litla voru engjasvæði, nefndust Teigarnir Álfsteigur neðri með holtinu, og Álfsteigur efri norðan í fellinu. Þá er Grófarteigur vestan Grófarlækjar. En austan Grófarlækjar voru Gullteigur neðri og Gullteigur efri og liggja vestan í Stóra-Lambafelli. En Grófarlækurinn fellur austur undir hlíðum fellsins. Af Grænavatnsmelnum liggur 

Krýsuvíkurgötur

Vesturengjastígurinn upp nokkuð og austur. Þar er komið að svo kölluðum Vöðlum og lækur kemur ofan úr dölunum og nefnist Vaðlalækur og rennur niður í Flóðin. Þegar yfir Vaðlana kemur tekur við Vesturengjahæð með Vesturengjamóa eða Engjamóa og nær þetta svæði allt að Fúlapolli eða Leirpolli. Þá er komið í Seltún, Seltúnslækur skiptir Seltúni. Vestan við hann eru Seltúnsbörð. Á Seltúnslækjarbakka vestari stóð í eina tíð Námahúsið. Frá Fúlapolli rennur vatn lítill lækur, nefnist Svuntulækur. Neðarlega á engjunum tengist hann, rennur hann saman við Seltúnslæk. Myndast þarna engjateigur, sem nefnist Svunta. Neðan við þetta engjasvæði er Suðurkotsnes og Gvendarrimi. Austan við Seltúnslæk, sem einnig er kallaður Engjalækur, er Vesturengjalækur, er engi, er nefnist Flatengi og liggur niður með læknum.
SteinabrekkustígurÞar neðst er svo Norðurkotsnes. Lengra niður með læknum er mikið land sem fer undir vatn þegar vex í Kleifarvatni, en kemur undan því er út fjarar, og var þarna oft gott slægjuland. Svæði þetta var nefnt Nýjaland. Að austan takmarkast það af Rifinu lágu sandrifi, sem þó fór ekki í kaf er flæddi. Við syðri hluta Rifsins var Refanes. Suður og upp frá Nýjalandi voru svo Hvammarnir, Stórihvammur með Laugina öðru nafni Hvammalaug og Hvammagil. Hér í hvamminum hafa skátar frá Hafnarfirði byggt sér Skátaskála. Hvammahryggur liggur ofan skálans. En sunnan við hann er Litla-Nýjabæjarhvammur.
FagraskjólSeljarúst er þarna og talið, að sel hafi þarna verið í eina tíð frá Kaldrana, sem var eitt býli í Krýsuvíkurlandi. Selgil kemur ofan úr Selásum eða Selhæðum og Selgilslækur nefnist hann. Frá Stórahvammi liggur Hvammholt niður á Rifið. Eftir Rifinu liggur akvegur með vatninu, neðan Hvamma út á svo nefndan Geithöfða suður af honum og inn með vatninu.“
Í örnefnalýsingu Gísla fyrir Krýsuvík segir ennfremur um Steinabrekkur og Steinabrekkustíg: „Annar Hveradalalækur vestri kemur úr Hveradölum og rennur fram milli melanna. Lækur þessi er aðaluppistaðan í Krýsulæk vestri. Fram undan melnum vestan lækjarins munu hinir fornu Gestsstaðir hafa staðið, sér þar móta fyrir rústum tveggja bygginga.
GestsstaðirVestan þessa mela er lítill lækur og mætti nefna hann Gestsstaðalæk. Gestsstaðamói liggur fram undan rústunum, fram á mýrina. Vestur héðan frá læknum litla liggur stígur um Steinabrekkur og nefnist Steinabrekkustígur. Alllangt hér vestur með hálsinum er svo komið að móbergskletti, sem nefnist Skuggi mun vera gamalt fjárskjól. Uppi á Hálsinum er fjárbirgi, sem einhverntíma hefur verið reft yfir. Fagraskjól nefnist það. Nokkru vestar er komið að öðrum klettum nefnast Svörtuklettar. Niður undan þeim er komið á Alfaraleiðina frá Krýsuvík til Grindavíkur.
VesturengjavegurEn þarna eru líka Vegamót, því héðan liggur upp á hálsinn Drumbsdalastígur, sem var kirkjustígur Vigdísarvallamanna.“
Hérna er getið um Fagraskjól, fjárbirgi í austanverðum Sveifluhálsi.
Þegar komið var að Krýsuvíkurtorfunni var götunni fylgt áfram um Bæjarfellstaglið og áleiðis að Einbúa. Þar var götu fylgt undir Sveifluhálsi til norðurs, Steinabrekkustíg. Hann er augljós ofan við Skugga og áfram inn að Hveradalalæknum vestari. Fagraskjól fannst eftir svolitla leit. Á leiðinni var komið við í rústum Gestsstaða sem og útíhúsi frá bænum skammt frá, uppi í Sveifluhálsi. Hvorki sú tóft né Fagraskjól er getið í fornleifaskráningu fyrir Krýsuvíkursvæðið.

Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín.

Heimildir m.a.:
-Örnefnalýsing Ara Gíslasonar fyrir Krýsuvík.
-Örnefnalýsing Gísla Sigurðssonar fyrir Krýsuvík.

Kleifarvatn

Kleifarvatn.

Nýjaland

Enn og aftur var haldið inn á Krýsuvíkursvæðið í leit að seljatóftum, sem tilgreindar hafa verið í gömlum heimildum. Að þessu sinni var haldið í Hvamma undir Hverahlíð, en svæðið, sem er sunnan við Kleifarvatn, er á fyrirhuguðu virkjunarsvæði Hitaveitu Suðurnesja. Í örnefnalýsingum má ætla að Hvammahryggur hafi verið hæðargarðurinn austan við Hvamma, en öllu sennilegra er hann melhryggurinn vestan við þá. Hæðarhryggurinn austan við Hvammana hefur jafnan verið nefndur Ásar og ná þeir til suðurs utan (suðaustan) við Austur-Engjar.
Í raun var um tímamóta FERLIRsferð að ræða því hér birtist 1000. ferðalýsingin. Alls hafa verið farnar 1269 FERLIRsferðir frá upphafi svo aðrar óinnfærðar lýsingar bíða betri tíma.
StekkurÍ Hvömmum hefur vestari hlutinn einnig verið nefndur Nýjabæjarhvammur, en sá austari Selhvammur. Þar eru nú „hnakkageymslur“ hestamanna. Grasbalar þar hafa verið sléttaðir og litlum húsum komið þar fyrir. Hafi verið tóftir í hvamminum eru þær horfnar. Um hvamminn rennur Sellækur. Vestan við Nýjabæjarhvamm er Nýjaland sbr. eftirfarandi:
„Svo sem mörgum er kunnugt, liggur Kleifarvatn í klauf þeirri, sem verður millum Sveifluháls og Vatnshlíðarinnar, og þegar komið er sunnan að vatninu, virðist sem fjöll þessi nái saman, við norðurenda vatnsins. [Þar heitir Vatnsskarð.] Hyggja því sumir, að vatnið dragi nafn sitt af klofa þessum. Um háttsemi þessa stóra stöðuvatns og misvöxt þess hafa ýmsir mætir menn skrifað margt og mikið nú á síðari árum og skal því ekki farið út í þá sálma hér, enda ekki leikmönnum hent að leggja þar orð í belg.
Sá hluti af Krýsuvíkurveginum, sem lægst liggur og næst vatninu að sunnan, heitir Nýjaland (hið innra og fremra). Misvöxtur vatsnins veldur því, að engjasvæði þessi liggja oft svo árum skiptir í senn undir ágangi Kleifarvatns, en mjór malarhryggur, sem gengur til vesturs frá norðurenda Hvammholtsins, skiptir Nýjalandinu í tvennt, hið innra og frema, og kallast tangi sá Rif.

Gerði eða rétt ofan við Nýjaland

Vestan við fremralandið og við vesturenda Rifsins rennur lækur sá er nefnist Ós inn á Innralandið og í vatnið sjálft. Á Ósinn upptök sín að mestu á Vestur-Engjum og í Seltúnshverunum, en smálindir koma þó í hann að Austur-Engi, úr Hvömmunum og Lambafellum.
Svo er landslagi háttað, að Fremralandið er miklu lengur slægt en hið Innra og nemur sá tími einatt nokkrum sumrum og eins og áður er lauslega vikið að, má í góðu grasári heyja um 600 hestburði á hvoru Nýjalandi, þegar vatnið er svo þorrið, að unnt er að slá þau bæði. ekki er það fátítt að stararstráin á Nýjalandi verði rúmlega álnar há, því að oftast nær flæðir Ósinn yfir að vetrarlagi, hvað sem vexti Kleifarvatns líður.
Hverir eru í vatninu og sést hvar reyki nokkura leggur upp úr því í logni, en á vetrum eru þar jafnan vakir. Sjaldan leggur vatnið fyrir vetrarsólstöður.
„Þegar lítið er í vatninu“ var jafnan farið með því, þá er sækja þurfti til Hafnarfjarðar áður fyrr, liggur sú leið eftir allri vesturströnd vatnsins, milli þess og Sveifluháls. Var sá vegur greiðfærari miklu og talsvert skemmri en sá að fara Ketilsstíg og síðan „með hlíðum“, enda liggur bílvegurinn þar nú.“

Hugsanlegt sel í Nýjabæjarhvammi

Gengið var út með „Hvammahrygg“ og stefnan tekin upp á hálsinn er skilur undirlendið frá Austur-Engjunum austan og suðaustan Stóra-Lambafells. Þegar yfir hálsinn var komið er þar Seljamýrin eða Nýjabæjarengi, stundum nefnt Þrætuengi. Leitað var minja á svæðinu. Ekki fundust þar hús, en hleðsla allnokkur (ferhyrnd), sennilega leifar stekks, eru þar á hæð. Húsin hefðu þá átt að vera neðar og sunnar, en Austurengjalækurinn (Grófarlækurinn) hefur brotið allnokkuð af landinu. Líklegra má ætla að hús hefðu verið austar og við ferskvatnslæk, en hafi svo verið, munu moldir úr hlíðunum hafa fært þau í kaf. Þá má jafnvel áætla að engin varanleg hús hafi verið þarna því bæði er stutt til bæja (u.þ.b. 40 mín. gangur) og enn styttra yfir í selið á Seltúni (u.þ.b. 10 mín gangur). (Sjá meira HÉR).
Gengið var niður með Stóra-Lambafelli til norðurs og vesturs. Þegar niður var komið blasti þar við ferhyrnt gerði. Sennilega hefur það verið gerði eða rétt, torfhlaðið að hluta, frá 19. öld eða byrjun 20. aldar. Gerðið er við fjölfarna götu frá Vestur-Engjum inn í Hvammana.
Lóan og spóinn léku við hvern sinn fót.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 1 mín.
Ósinn (Seltúnslækur)