Tag Archive for: Hafnarfjörður

Kaldársel

Hér verður drepið niður í skrif Ólafs Þorvaldssonar um „Sögu Kaldársels„. Þau birtust í bók hans „Áður en fífan fýkur„, sem gefin var út af Skuggsjá 1968:

Ólafur Þorvaldsson

Ólafur Þorvaldsson.

„Á þeim tíma, sem menn ferðuðust um landið á hinum frumstæðu farartækjum, svo sem eigin fótum eða á hestum, bar allvíða fyrir augu þeirra sitthvað, sem minnti þá á, að þar hefði einhvern tíma fólk hafst við eða haft nokkurn umgang lengur eða skemur. Víða gat að líta rústir og tóttabrot, misstæðileg eftir aldri og efni þeirra. Sums staðar var þyrping húsatótta, sem bentu til þess, að þar hefði bær verið, og oft mátti rekja húsaskipan greinilega. Allt voru þetta þegjandi vitni þess, að þar hefðu endur fyrir löngu menn að verki verið, sem byggðu úr íslensku efni að mestu.

Eftir framanskráðar hugleiðingar um hin fornu eyðibýli skal nú vikið að einu þeirra. Þetta býli er Kaldársel. Staður þessi hefur nokkuð komið við sögu síðustu áratugina, einkum Hafnarfjarðar.

Áður en fífan fýkur

Kápa bókarinnar „Áður en fífan fýkur“.

Ég held því, að ekki sé úr vegi að tína hér nokkuð til af því, sem vitað er um þennan stað áður en hinn nýi tími hélt þar innreið sína. Mun spora þess tíma getið síðar, og þá í þeirri tímaröð, sem þau hafa verið stigin.

Býli þetta á sér ekki langa sögu sem fastur bústaður, og ekki er saga þess á nokkurn hátt frábrugðin sögu svipaðra smábýla á þeim tíma, – en sögu á þetta býli samt – „sigurljóð og raunabögu“. En að Kaldársel eigi sér nokkra sögu, áður en nýi tíminn nemur þar land, mun ekki almenningi kunnugt, og fækkar nú óðum þeim, sem nokkuð vita þar um, umfram það sárafá, sem fært er í letur, þó á víð og dreif, ýmist prentað eða óprentað.

Kaldársel liggur í 6-7 km fjarlægð suðaustur frá Hafnarfirði. Staðurinn dregur nafn af lítilli á, sem rennur fast sunnan við hið forna tún. Bærinn stóð sem næst á miðjum túnbletti, örfá metra frá Kaldá.

Kaldársel

Kaldársel.

Áin rennur á mótum tveggja hrauna, hefur annað komið frá suðri, hitt úr Búrfelli, norðaustur af Kaldárseli. Það þarf ekki lengi að virða fyrir sér þessi hraun til að sjá, að ekki hafa þau úr sama eldgígnum komið, svo ólík er þau að flestu, hraunið sunnan Kaldár tilbreytingarlítið og snautt af gróðri, nema grámosa, allt til Óbrennishóla en kringum Kaldársel með margs konar gróðri. Gjár eru þar með vatni í botni og hraunmyndanir eru þar margvíslegar, og mætti helst líkja þeim við suma staði við Mývatn.

Kaldársel

Kaldársel – Gamla þjóðleiðin.

Árið 1929 kom út í Reykjavík lítil bók með þremur kvæðum eftir Friðrik Friðriksson. Hver þetta nefnist „Útilegumenn“ og heitir aðalkvæðið „Kaldársel„. Fyrsta erindið er svona:

Eitt sinn ég kom
að Kaldárseli,
eyðistað
í ógna hrauni, gömlu býli
og bæjarrústum:
Einmana tóttir eftir stóðu.

Næsta erindi var svona:

Reikaði ég einn
um rústir þessar, ríkti þar yfir
ró og friður,
unaðskyrrð djúp
við elfu niðinn
svölun gaf sál
og sæla gleði.

Selstöð í Kaldárseli

Kaldársel

Kaldársel – túnakort 1903.

Elstu heimild, sem ég hef séð um Kaldársel, er að finna í Jarðabók þeirra Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá árinu 1703. Þar segir í III. bindi, bls. 180, í sambandi við Garða á Álftanesi: „Selstöð á staðurinn þar sem heitir við Kaldá, þar eru bæði hagar og vatnsból gott“. Þetta telur Jarðabókin ein af hlunnindum Garðastaðar, án kvaða eða afgjalds, og því augljóst, að staðurinn hefur átt landið, og hefur sjálfsagt sá eignarréttur verið ævaforn, og eflaust hefur þar engin breyting á orðið, þar til Hafnarfjarðabær kaupir árið 1912 allmikinn hluta af Garðakirkjulandi, og er Kaldársel í þeim keypta hluta.

Þótt Kaldársel hafi um aldir verið eign Garðakirkju ásamt miklu landflæmi til suðurs, austurs og norðurs frá Kaldárseli, er með öllu óvíst, hvort Garðaprestar hafi nokkru sinni haft þangað selfarir. Þó er það engan veginn óhugsandi. Hitt er vitað, að þar var haft í seli frá Hvaleyri á síðasta fjórðungi síðustu aldar, sem leiguselstöð hlýtur það að hafa verið, þar að elstu landamerki, sem vitað er um, liggja í að minnsta kosti eins km vegalengd vestur frá Kaldárseli. Meðan selfarir voru mikið tíðkaðar, urðu landlitlir bændur oft að leigja land undir sel sín hjá landríkum bændum, svo að einsdæmi hefði það ekki verið, þótt Hvaleyrarbóndinn leigði selstöð í Garðakirkjulandi.

Kaldársel

Húsin í Kaldárseli – Daniel Bruun.

Hvenær þessi selstöð hafi fyrst verið notuð frá Hvaleyri, er með öllu óljóst. Þegar litið er á bændatal Hvaleyrar um árið 1700 og það ástand, sem var þar í búskap mann, þegar jarðamat fór fram, 1703, sést, að bændur þar hafa allir búið við sátt, og varla er hugsanlegt, að selfarir hafi haft og síst svo langt burtu sem í Kaldárseli, þar eð allgott selland og nóg vatn var fullkomlega helmingi nær Hvaleyri og auk þess í heimalandi, þar sem var selstöðin við Hvaleyrarvatn. – Í fyrrnefndri Jarðabók frá 1703 segir, að Hvaleyri eigi selstöð, þar sem heitir Hvaleyrarsel, og séu þar sæmilegir hagar og gott vatnsból. Vitað er, hvar þessi selstöð hefur verið, hennar sjást glöggar minjar enn í svonefndum Selhöfða suður af Hvaleyrarvatni; þar nálægt er einnig Seldalur og Selhraun.

Kaldársel

Kaldársel – uppdrættir og ljósmyndir Daniel Bruun.

Það eina, sem nú er vitað með vissu um selfarir í Kaldárseli, er að hjónin Jón Hjartarson (Hjörtsson var hann oftast nefndur) og Þórunn Sigurðardóttir höfðu þar í seli. Jón Hjartarson keypti Hvaleyrina ásamt öllum hjáleigum, sem voru sex, árið 1842. Jón mun vera ríkasti bóndi, sem nokkru sinni hefur setið á Hvaleyri. Þórunn, kona hans, var kvenkostur góður og skörungur mikill, og var hennar meir getið til allra búsforráða heldur en manns hennar, sem þó var hinn mætasti maður. Jón dó árið 1866. Bjó Þórunn eftir það á Hvaleyri til 1873, að einu ári undanteknu, en var þar þó það ár. Þórunn dó 1880.

Kaldárssel

Kaldárssel – ljósm: Daniel Bruun 1897.

Góðar heimildir tel ég mig hafa fyrir búskap þessara Hvaleyrishjóna, eftir að þau komu þangað. Foreldrar mínir þekktu þau allvel, einkum þó Þórunni, þar eð hún lifði mann sinn í fjórtán ár.

Þegar Þórunn dvaldist í „Selinu“ á sumrin, sem var þó ekki nema við og við, fór hún stundum með orf sitt og hrífu upp með Kaldá og sló þar í hólmum, þar sem slægt var, einnig smámýrarbletti milli kvíslanna í Kaldárbotnum. Hvert skipti sem hún gekk heim í „Selið“, bar hún með sér það, sem hún kom í svuntu sína af heyinu. Þessi sjaldgæfa vinnuaðferð Þórunnar lýsir hyggindum hennar og nýtni vinnuaflsins, svo sem verst mátti verða, og var talið einsdæmi, jafnvel þá.

Kaldárstígur

Kaldársel – Kúastígur.

Þegar Þórunn á Hvaleyri hætti selförum að Kaldárseli, lagðist selstöð þar niður með öllu, og má ætla, eftir því sem síðar kemur fram, að það hafi verið 1865 eða 1866.

Eftir því sem best verður vitað, hafa selfarir Þórunnar á Hvaleyri verið þær síðustu í Garðahreppi og líklega á öllum Reykjanesskaganum.

Kaldársel verður fastur bústaður

Kaldársel

Kaldársel – fjárhellar.

Í Húsvitjunarbók Garðaprestakalls sést, að ábúandi er kominn í Kaldársel árið 1867, og er svo að sjá sem það sé fyrsta árið, sem fólk sé þar til ársdvalar. Þessi ábúandi var Jón Jónsson, kona hans og tvö börn, eftir því sem fyrrnefnd húsvitjunarbók ber eðs ér. Þessa fólks er ekki aftur getið í Kaldárseli, þó mun Jón hafa verið þar tvö eða þrjú ár, þó varla nema tvö, eftir því sem sonur Jóns, Sigurjón, hefur sagt mér, en hann lifir enn.

Fátæk voru hjón þessi og bústofn þeirra mjög lítill. Óhægur var þeim búskapurinn og sáu þau brátt, að í Kaldárseli var þeim engin framtíð búin. Þau voru einyrkjar og höfðu engin tök á hjúahaldi sökum fátæktar, en unglingsstelpa var þeim lánuð við og við, húsfreyju til hjálpar, einkum þegar bóndi fór að heiman til matfanga. Þessi hjálparstelpa var Sigríður Jónsdóttir frá Setbergi, móðir Árna Helgasonar ræðismanns í Chicago. Efir hina skömmu dvöl Jóns í Kaldárseli fluttist hann að Ási í Garðahreppi í byggingu Vigfúsar Vigfússonar og Úlfhildar.

Við burtför Jóns frá Kaldárseli lagðist þar búskapur niður um nokkur ár.

Þorsteinn í Selinu

Kaldársel

Kaldársel – fjárborg á Standinum; ljósmynd Daniels Bruun.

Árið 1876 er manntal tekið í Kaldárseli, og er það sennilega fyrsta árið, sem það er í byggð eftir burtför áðurnefnds Jóns. Sá, sem þá er orðinn ábúandi Kaldársels, er Þorsteinn Þorsteinsson, upprunninn í Ölfusi. þetta ár telur húsvitjunarbók þar þrjár manneskjur í heimili, bóndann, ráðskonu og tökubarn. Árið eftir, 1877, eru þar fjórir í heimili, og hefur þá bæst við vinnukona.

Svo er að sjá, að manntal hafi ekki verið tekið í Kaldárseli frá 1877 fram til 1881. Það er þó vitað, að Þorsteinn var þar þau ár. Árin 1881 og 1882 eru fimm og sex manns í heimili hvort árið, þar á meðal vinnumaður og vinnukona, auk barns, sem er talið sveitarómagi, og vikadrengs. Árið 1883 virðist allmikil breyting hafa orðið á fólkshaldi Þorsteins, því að þá er hann orðinn einn í Kaldárseli.

Kaldársel

Teikning Daniel Bruun af Borgarstandi í Kaldárseli. Fjárborg efst og stekkur og fjárskjól undir að vestanverðu.

Sama er að segja um árið 1884. Árið eftir hefur nokkuð úr þessu raknað. Þá fer til Þorsteins stúlka úr Hafnarfirði, Sigríður Bjarnadóttir, og er hún hjá honum þegar hann deyr í Kaldárseli 14. júlí 1886, þá 67 ára. Þar með lauk búsetu í Kaldárseli.

Kaldársel

Kaldárssel – uppdráttur ÓSÁ.

Báðir hafa þessir fyrrnefndu búendur Kaldársels setið í byggingu Þórarins prófasts Böðvarssonar að Görðum á Álftanesi, þar eð hann hafði öll umráð yfir landi Garðakirkju, en í því lá Kaldársel, eins og fyrr er getið. Ekki hefur mér tekist að hafa upp á byggingarbréfum eða öðrum skriflegum leiguskilmálum, hafi þeir nokkrir verið. Í manntalinu 1867 er Jón, sem áður er nefndur, talinn þurrabúðarmaður, en Þorsteinn er aftur á móti nefndur bóndi.

Þegar Þorsteinn í Kaldárseli fellur frá eru þar nokkrar byggingar og önnur mannvirki, þar á meðal matjurtagarður ekki svo lítill, og lá frá bænum niður að ánni mót suðri, einnig vörslugarður af grjóti umhverfis túnið. Ætla verður, að mest af þessu, jafnvel allt, hafi verið verk Þorsteins, og styður það þá tilgátu, að öll hús eru seld á opinberu uppboði, haustið eftir dauða Þorsteins, ásamt gripum hans og öllum eftirlátnum munum.

Kaldársel

Kaldársel um 1932. Gamla selið (tilgáta) sett inn á ljósmyndia.

Hús öll í Kaldárseli keypti Jón Guðmundsson bóndi að Setbergi svo og flestar kindurnar. Bæjarhús voru lítil en snoturlega byggð, og voru baðstofa, búr, eldhús og bæjardyr. Allar voru tætturnar vel hlaðnar úr sléttum, en nokkuð þykkum brunahellum og hvergi mold né torf á milli, svo sem venja var til um flestar byggingar þess tíma.

Kaldársel

Uppdráttur af húsum í Kaldársseli í lok 19. aldar – Daniel Bruun.

– Danski höfuðsmaðurinn Daniel Bruun kom í Kaldársel árið 1897. Lýsir hann allvel Kaldárseli og umhverfi þar. Hann segir meðal annars um húsatætturnar, að þær séu frábrugðnar flestum, ef ekki öllum þess konar byggingum hér á landi, þar sem þær séu byggðar úr grjóti einu saman, en almennt sé annars staðar byggt úr grjóti og torfi eða mýrarhnaus, þar sem grjóts sé vant. Tættur þessar gætu staðið enn lítt eða ekki haggaðar, ef menn hefðu ekki skemmt þær með því að taka úr þeim grjót til einhverra nota. Þó stendur þar enn, eftir sem næst 90 ár, það mikið, að vel sést, hver húsaskipan þar var. tel ég illa farið, að tættur þessar skyldu ekki fá að standa óáreittar og þeim haldið við, ef steinar féllu úr hleðslu, efir því sem þörf gerðist.

Kaldársel

Teikning Daniels Bruun af baðstofunni í Kaldárseli 1897.

Aðalbústofn Þorsteins var sauðfé og eitt eða tvö hross, kú mun hann aldrei hafa haft þar. Að mestu mun Þorsteinn hafa haft fullorðna féð á útigangi, þar eða heyfengur var þar lítill. Fjárhús með jötu við annan vegg var norðvestan við bæjarhúsin, og mun hann hafa haft lömb sín þar. Fullorðna féð hafði hann við hella, sem voru skammt norðan frá bænum, eða þá í fjárborgum uppi á Standinum, sem er nokkru nær. Eitt sérkenni var á flestu fé Þorsteins, það var ferhyrnt, með fáum undantekningum. Fé þetta var oft nefnt horseigt.

Kaldársel

Kaldársel

Þorsteinn í Kaldárseli var alla tíð ókvæntur og barnlaus, bjó með bústýrum þau ár, sem hann var í Selinu, en þau munu hafa verið tíu. Áður var hann búinn að vera allmörg ár á Lækjarbotnum í Seltjarnarneshreppi og þá ýmist skrifaður bóndi eða vinnumaður. Þá bjó á Lækjarbotnum hinu eldri, sem stóðu suður með Selfjalli, og munu sjást þar enn bæjartóftir og fleiri mannvirki frá þeim tíma, ekkja, Hallbera að nafni, stórbrotin kona í meira lagi, en tröll í tryggðum og mannkostum, þar sem henni þótti við eiga. Þorsteinn mun hafa haldið fé þeirra mest á útigangi, það er litlar voru slægjur í Lækjarbotnum.

Þorsteinshellir

Í Þorsteinshelli.

Eggert G. Norðdahl á Hólmi hefur sagt mér, að efst í heiðmörk sé hellir, sem Þorsteinn hafi haft fé sitt við á vetrum, og er hellir sá eftir honum nefndur og heitir Þorsteinshellir. Viðbúið er, að fáir þekki nú helli þennan. Síðasta árið áður en Þorsteinn fór að Kaldárseli bjó hann í Hvammakoti, sem nú heitir Fífuhvammur.

Kaldársel - fjárhellar

Fjárskjól og heykuml við Kaldársel – uppdráttur ÓSÁ.

Með Þorsteini lagðist niður að fullu búskapur í Kaldárseli, en handverk sjást þar enn nokkur eftir hann, en of illa tel ég þau farin. Bráðlega voru öll hús rifin í Kaldárseli nema baðstofa ein, sem látin var standa uppi fram undir aldamót. Var hún á þeim árum einkum notuð sem sæluhús fyrir fjármenn Setbergsbænda, sem þá héldu fé sínu, einkum sauðum, víðs vegar þar í högunum. Einnig var gott fyrir krýsvíkinga, sem þá áttu aðalleið um Kaldársel, þegar til Hafnarfjarðar fóru, að hafa þarna nokkurt afdrep. Þarna lágu einnig haustleitarmenn Grindavíkurhrepps, sem þá leituðu alla leið að Kaldá og höfðu náttstað í Kaldárseli. Á þessum árum var mikill straumur erlendra ferðamann, aðallega enskra, til Krýsuvíkur. Voru það einkum hinar svo til nýyfirgefnu brennisteinsnámur þar, sem þessir ferðamenn voru að skoða. Við námurnar stóðu þá enn tvö stór og allvönduð hús frá þeirri starfsemi, og voru þau mikið notuð til gistingar af þessu fólki. Mjög bar baðstofan Í Kaldárseli merki þess, að þar hefðu margir komið, og mjög voru sperrur og súð skorin mannanöfnum, bæði fullum og skammstöfunum, og voru þar nöfn bæði innlendra manna og erlendra.

Kaldársel

Kaldársel – loftmynd.

Að liðnum aldamótum síðustu var svo komið, að ekkert hús stóð lengur í Kaldárseli, og flest gekk þar af sér.

Enn gerð tilraun til búskapar í Kaldárseli

Kaldársel

Kaldársel 1965. Tóftir selsins ( lambhúss Kristmundar) sjást enn suðaustan við húsið.

Árin 1906-1908 er enn gerð tilraun til búskapar í Kaldárseli. Maður sá, sem þá fékk Kaldársel til afnota, var ungur Hafnfirðingur, Kristmundur Þorláksson að nafni, síðar stórbóndi í Stakkavík í Selvogi.

Þegar Kristmundur fékk Kaldárselsland til nytja, átti hann víst framt að fimmtíu kindur, ungar og gamlar. Þennan fjárstofn hafði hann á fáum árum dregið saman og aflað fóðurs fyrir með fádæma dugnaði, án þess þó að niður væri sleppt nokkurri vinnu, þegar hún bauðst. Um sumarið vann hann að því að koma upp smáheyhlöðu með því að byggja yfir hin gömlu baðstofutótt, sem þá stóð enn ófallin.

Kaldársel

Kaldársel – tilgáta ÓSÁ.

Þegar hlaðan var komin undir þak, fór Kristmundur að öngla saman heyi í hana. Þennan heyfeng fékk hann víðs vegar í landi Garðakirkju, svo sem hann hafði leyfi fyrir, og mun hafa numið um 30 hestburðum. Þetta þurfti að endast 15-20 lömbum og einum hrút. Ærnar áttu að lofa að mestu á jörðinni, því að fjárland var þarna gott. Ekki hafði hann not gömlu tóttanna þar að öðrum en því, að í þeim var gnægð af góðu og sléttu helluhraungrýti, sem hann varð að nokkru að færa úr stað.

Kristmundur hélt fé sínu í Kaldárseli, en hafði búsetu í Hafnarfirði. Langur var því beitarhúsavegur hans, eða um 1 1/2 stundar gangur í sæmilegu færi. Í myrkri fór hann að morgni og í myrkri heim að kvöldi. Lömbin hafði Kristmundur í húsi og beitti ekkert framan af vetri, en ærnar hafði hann við hella þá hina gömlu, sem eru skammt norður af Selinu. – Brátt kom í ljós, að eitthvað háði nokkrum lömbunum, þau fóru ekki að, þegar gefið var á, en stóðu þess í stað lotin úti við veggi. Músin étur sig venjulega ofan í herðakamb lambanna, ogfái hún að vera óáreitt, étur hún sig stundum langt niður með bóg, og er þá sárið lítt læknanlegt.

Fremstihöfði

Hálfhlaðið fjárhús Kristmundar undir Fremstahöfða.

Allir þessir erfiðleikar, sem Kristmundi mættu þarna, áttu drjúgan þátt í því, að hann treysti sér ekki til að halda áfram búskap í Kaldárseli. Hann flutti fé sitt að Hvassahrauni, þar sem hann fékk vist. Þannig lauk búskap þessa síðasta bónda í Kaldárseli. Með honum gekk hinn gamli tími þar úr garði, alfarinn.

Nýi tíminn hefur innreið sína í Kaldársel

Lambagjá

Hleðsla undir vatnsstokkin í Lambagjá.

Um síðustu aldamót rann upp yfir Hafnarfjörð nýtt tímabil, tímabil nýrra atvinnutækja, nýrra framkvæmda, nýs lífs. Á sama tíma sem síðasta tilraun til búskapar í Kaldárseli beið algjöran ósigur, komu Hafnfirðingar upp hjá sér allstóru fyrirtæki eftir þess tíma framkvæmdum, fyrstu vatnsveitu, sem bærinn fékk. Á því tímabili keypti Hafnarfjarðarbær mikið af landi Garðakirkju, eða allt fjallland sunnan Selvogsvegar, þar á meðal Kaldársel, og hafði bærinn þar með tryggt sér nægjanlegt vatn til langrar framtíðar. Kaldá varð því fyrir valinu til úrbóta þeim vatnsskorti, sem orðinn var ærið ískyggilegur.

Kaldársel

Vatnsstokkurinn norðan Kaldár.

– Árið 1918 var ákveðið að leið vatn úr Kaldá, að vísu lítið brot af vatnsmagni árinnar, í ofanjarðar tréstokk allstórum, og sleppa vatninu lausu við suðurhorn Sléttuhlíðar. Stokkur þessi var rösklega 1 1/2 km að lengd. Eftir að vatninu var sleppt úr stokknum, átti það að finna sér leið neðanjarðar eftir hrauninu til Lækjarbotna, þar sem vatnsveitan var fyrir, og þar með auka vatnsmagn lækjarins, sem þá þyldi, að víðari rör væru sett í upptökuna. þetta bragð Hafnfirðinga lánaðist. vatnið skilaði sér á tilætlaðan stað, og nægjanlegt vatn varð um langt árabil. Var nú kyrrð um hríð í Kaldárseli, nema hvað vatnsstokkurinn krafðist viðhalds og umbóta.

Kaldársel

Kaldársel – fyrsti skáli K.F.U.M. Kaldársel sést aftan við húsið.

Næst lætur nýi tíminn bóla á sér í Kaldárseli árið 1925. Þá fá K. F. U. M. og K. í Reykjavík og Hafnarfirði leigumála fyrir gamla túninu og leyfi til að byggja þar hús. Hús þetta skyldi vera sumardvalarstaður barna úr þessum félögum nokkurn hluta sumars. Mest efni hússins varð að bera á bakinu fjórða hluta leiðarinnar frá Hafnarfirði.

Árin 1949 til 1953 var ráðist í að gera fullkomna og trygga vatnsleiðslu í neðanjarðarleiðslu frá Kaldá til Hafnarfjarðar. Árið 1955 var byggð lögrétt fyrir Hafnarfjarðarbæ, Garða- og Bessastaðahrepp í Kaldárseli.

Kaldárselsrétt

Kaldárselsrétt.

Þessi rétt kom í stað hinnar fornu Gjáréttar, sem lögð var niður fyrir rúmum 40 árum og þá flutt á óhentugan og vatnslausan stað í Gráhelluhrauni.

Niðurlagsorð

Kaldársel

Kaldársel og nágrenni – loftmynd.

Saga Kaldársel, sem hér er sögð, er hvorki löng né stórviðburðarík, en saga er það samt, og þótt ekki væri nema það fólk, sem nú nýtur þess, sem þessi staður hefur að miðla og mun gera um ófyrirsjáanlega framtíð, vissi hann nokkru betri deili en áður, tel ég tilgangi mínum náð og tíma minn við samantekningu þessa þáttar allvel greiddan.“

Heimild:
-Áður en fífan fýkur – Ólafur Þorvaldsson – 1968; Saga Kaldársels, bls. 119-139.

Kaldársel

Kaldársel – fjárborg á Borgarstandi.

 

 

Krýsuvík

Austan í Bæjarfellshálsi sunnanverðum er rétt; Krýsuvíkurétt. Réttin sú er augljós og hefur því veriðs kráð sem fornleif í opinberum skráningum. Skammt ofan við vestanverða réttina er húsatóft. Þessarar tóftar er hins vegar hvergi getið, hvorki í örnefnalýsingum fyrir Krýsuvík né fornleifaskráningum.

Krýsuvíkurrétt

Bæjarfellsrétt (Krýsuvíkurrétt) í Bæjarfellshálsi.

Í örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar segir m.a: „Krýsuvíkurbærinn stóð á svo nefndum Bæjarhól hallaði honum niður til suðurs og var þar Hlaðbrekkan. Suð-austan við bæinn stóð Kirkjan í Kirkjugarðinum. Hallaði hér einnig niður frá Kirkjunni, bæði sunnan við að framan og austan til bak við. Kirkjubrekkan. Krýsuvíkurtúnið var eiginlega allstórt. Vestan Krýsuvíkurtúngarðs framan í Bæjarhálsi eða Bæjarfellshálsi er Krýsuvíkurrétt, þar var rekið að á vorin.“

Krýsuvíkurrétt

Tóftin á Bæjarfellshálsi.

Þegar FERLIR var að skoða bæjarsvæðin rákust augu í forna tóft á Bæjarfellshálsi. Tóftin er grjóthlaðin, um 6.00×4.80m. Op er mót suðri. Yfir henni liggur mosi og lyng. Hleðslur eru greinilegar. Að sjá virðist hún vera mjög gömul.

Krýsuvík

Krýsuvík 1906 – herforingjaráðskort.

Í fyrstu mætti ætla að þarna hefði verið fjárborg, en lögun hennar sem og hleðsla í vesturenda benda til annarra nota. Þessarar fornleifar er hvorki getið í fornleifaskráningu fyrir Krýsuvík né fornleifaskráningu fyrir Suðurstrandarveg, sem á að liggja þarna skammt frá.

Tóftarinnar er, líkt og áður sagði, ekki getið í örnefnalýsingum fyrir Krýsuvík. Þar segir einungis: “Vestan Krýsuvíkurtúngarðs framan í Bæjarhálsi eða Bæjarfellshálsi er Krýsuvíkurrétt, þar var rekið að á vorin. Hér vestur undan fellinu er svo nefnd Krýsuvíkurheiði eða Vesturheiði.”
Tóft þessi er hins vegar allgreinileg. Telja verður því líklegt að á Krýsuvíkursvæðinu kunni enn að leynast ófáar fornleifar, sem ekki hafa verið skráðar.

Heimild:
-Krýsuvík – örnefnalýsing Gísla Sigurðssonar

Bæjarfellsrétt.

Krýsuvíkurrétt (Bæjarfellsrétt) í Krýsuvík. Tóftin er efst til vinstri.

Straumssel

Straumsselið er merkilegt – ekki síst í sögulegu samhengi Almennings. Það er einn merkilegasti fornminjastaðurinn í Almenningi. Þar í kring eru nú [2014] minjar sem ekki hafa verið skrásettar. Má þar nefna seltóftirnar sjálfar, sem eru nokkru ofan við bæjartóftir þær er nefndar eru til sögunnar hér á eftir (og sjást að ofan).

Straumssel

Straumssel. Tóftir af húsi skógarvarðarins efst til vinstri.

Straumssel var á sínum tíma ekki bara sel heldur lögbýli frá 1849 þegar Guðmundur Guðmundsson sem var konungsskipaður umsjónarmaður skógarhöggs settist þar að. Búið var í Straumsseli fram undir aldamótin 1900 þegar bæjarhúsin brunnu.

Straumssel

Straumssel – tilgáta.

Straumssel er með stærri seljum í Hraunum. Þar var ágætis húsakostur fyrir aldamótin 1900 eins og tóftirnar bera með sér. Guðmundur Guðmundsson sem keypti jörðina af Páli Árnasyni setti byggð í Straumsseli 1849, en hafði þá búið þar í tvö ár. Fyrsta árið  bjó hann í selinu ásamt föður sínum, Guðmundi Bjarnasyni, sem var oft nefndur KrýsuvíkurGvendur. Þeir bjuggu stutt í selinu því Guðmundur Bjarnason  andaðsti aldraður maður í Lambhaga vorið 1848 og Guðmundur sonur hans nokkrum árum seinna á Setbergi. Guðmundur Guðmundsson var settur skógarvörður í Almenningi og taldi auðveldast að sinna starfi sínu frá Straumsseli.

Straumssel

Straumssel.

Bjarni Einarsson leiguliði Guðmundar og ábúandi í Straumi klagaði búsetuna í selinu til yfirvalda þar sem honum þótti það skerðing á fornum rétti sínum. Guðmundur lofaði að fjölga ekki býlum í Straumslandi á meðan Bjarni byggi þar. Bjarni gekkst við sáttinni að því tilskildu að bygging hins gamla Straumssels væri sér með öllu óviðkomandi skyldu yfirvöld kæra.

straumssel-gardar

Byggt var vandað bæjarhús og var föst búseta  í Straumsseli í ein 40 ár með hléum enda vatnsstæði lélegt og erfið búsetuskilyrði. Meðal ábúenda í selinu voru hjónin Kolfinna Jónsdóttir og Sigurður Halldórsson sem bjuggu þar 1850-1860, er þau fluttu þau inn í Hafnarfjörð. Þessi hjón bjuggu síðan í Kolfinnubæ sem stóð þar sem Strandgata 41 er nú. Farnaðist þeim vel á þeim áratug sem þau bjuggu í Straumsseli þó kjörin hefðu verið kröpp. Sonur þeirra Bjarni fæddist í Straumsseli árið 1857. Talið er að síðast hafi verið búið í selinu 1890-1895. Jón Þorsteinsson bjó þar síðastur allra, en hann fórst þegar bærinn brann og eftir það var ekki byggt upp aftur í Straumsseli.

Á einum stað í Almenningi voru hugsanleg landamerki Ölfuss og Seltjarnarneshreppsins gamla, er varðan talin vera mjög merkileg, ef hún telst vera landamerkjavarða. Á ofanverðum Skorási er landamerkjavarða [-vörður] milli Hafnarfjarðar og Hvassahrauns, sem er þá líka merkjavarða á milli sveitarfélaganna Hafnarfjarðar og Vatnsleysustrandar. Telja ber að vörður hafi almennt mikið minjagildi – og sama gildir um hlaðna garða við selin.

Fornasels-, Gjáselsstígur.

Fornasels-, Gjáselsstígur.

Stundum er sagt að viðkomandi varða sé illa hlaðin, sennilega endurhlaðin eða nýleg varða. Um þetta má segja að ekki er hægt að bera saman þjóðleiðavörðurnar sem voru gerðar samkvæmt konungsskipun á seinni hluta 19. aldar og eru mjög vandaðar og nokkuð svipaðar að gerð.

Hafurbjarnarholt

Hafurbjarnarholt – varða.

Þessar vörður voru lögvörður og áttu að hafa ákveðið útlit og standa lengi. Vörðurnar í Almenningi eru af nokkrum tegundum og auðþekkjanlegar. Þær eru aldrei mjög vandaðar og alls ekki í líkingu við þjóðleiðavörðurnar. Lesa má þó úr vörðunum hvaða merkingu þær höfðu m.t.t. til tilgangs. Búlduleit varða sem er eins og heysáta, lítil eða stór, vísar nánast alltaf á fjárhelli, skúta eða fyrirhlaðið skjól. Uppmjóar vörður vísa á sel, eða staði þar sem hrís (eldiviður) var geymt. Lágar vörður sem eru bara nokkrir steinar vísa á innansveitar leiðir, t.d. leiðirnar í selin, í stekkina, réttirnar eða eitthvað ámóta.  Tveir steinar á þremur stöðum benda á gömul greni. Á nokkrum stöðum eru voldugri vörður, eins og við Straumsselsstíginn austari, en sá stígur var á sínum  tíma nytjaleið út frá Fornaselsstíg  og Gjásselstíg.

Straumssel

Straumssel – brunnurinn.

Landamerkjavörðurnar milli Hraunajarðanna eru oft með uppmjóum steini í toppinn eða einum stórum steini sem er miklu stærri en hinir sem mynda grunninn. Svo eru hleðslur sem líta út eins og vörður en eru í rauninni skotbyrgi sem notuð voru þegar legið var fyrir ref, því hann ógnaði mjög sauðfénu sem var á útibeit allt árið. Eina slíka má sjá við Straumsselstíginn (vestari) er liggur upp með vestanverðu Draughólshrauninu. Á þeirri leið er t.d. Straumsselsstígsskjólið.

Fornasel

Fornasel – tilgáta.

Selstígur sá, sem á seinni tímum hefur verið nefndur „Straumsselsstígur“ er í raun Fornaselsstígur og síðar Gjáarselsstígur, eins og fyrr sagði. Afleggjari af honum liggur upp í Straumssel ofan við Flár. Varða er á mótunum. Þessi selsstígur er allur innan fyrrum landamarka Þorbjarnarstaða.
Straumsselsstígurinn liggur hins vegar um Straumslandið vestan Draughólshrauns – beint í Straumsselið fyrrum. Hann er miklu mun greiðfærari en „tvíburabróður“ hans í austri. – og vel varðaður allt upp að „millumstíg“ Straumssels og Óttarsstaðasels.

Straumssel

Straumsselsvarðan.

 

Ketilsstígur

Gengið var um Ketilsstíg frá Seltúni, yfir Sveifluháls með norðanverðu Arnarvatni, niður Ketilinn, eftir Móhálsadal, austur fyrir Hrútafell, niður í Hrúthólma ofan við Mávahlíðar, austur fyrir Mávahlíðahnúka, um Sauðabrekkur vestan Hrútargjárdyngju og niður í Brunntorfur þar sem endað var við gamalt fjárskjól frá Þorbjarnastöðum.

Hrauntungustígur

Hrauntungustígur ofan Mosa.

Í leiðinni var komið við í hraunæð vestan Hrútargjár og kíkt á gömul bein, sem þar eru, litið á skjól í gíg ofan við Sauðabrekkur og skoðuð gömul refabyrgi ofan við Hafurbjarnarholt.
Seltúnið er talin vera gömul selstaða frá Krýsuvík. Einu minjarnar er lítil tóft á stórum grasbala sunnan við hverasvæðið. Hún gæti einnig verið minjar frá brennisteinsvinnslunni, sem þarna var stunduð um tvær aldir.
Þeir félagar Eggert og Bjarni voru á ferð um Krýsuvík árið 1756 og var þá unnin brennisteinn í Krýsuvík. Bændur höfðu í gegnum aldirnar grafið upp brennistein og selt ferðamönnum milliliðalaust.

Krýsuvík

Krýsuvík – tóftir brennisteinsnámsins í Hveradal frá því um 1755.

Árið 1753 var komið upp húsi í Krýsuvík til að vinna brennistein að undirlagi Skúla Magnússonar landfógeta og Bjarna Pálssonar landlæknis. Nokkur ágóði varð af brennisteinsvinnslunni. Árið 1858 keypti Bretinn Joseph William Bushby brennisteinsnámurnar í Krýsuvík. Kostnaðurinn varð þó of mikill og var bara unnin brennisteinn í tvö sumur eftir það. Eftir það tóku ýmsir námurnar á leigu en síðastur þeirra var Bretinn T. G. Paterson og bróðir hans W. G. S. Paterson sem tóku námurnar á leigu árið 1876. Þeir stofnuðu Brennisteinsfélag Krýsuvíkur en á þessum tíma var orðið lítið af brennisteini ofanjarðar þar sem auðvelt var að ná í hann. Bora þurfti því eftir brennisteininum.

Krýsuvík

Brennisteinsnámurnar ofan Seltúns í Krýsuvík um 1880.

Árið 1880 er talið að allri námuvinnslu hafi verið lokið og sama ár var uppboð á ýmsum eigum félagsins. Vinnsla brennisteins í Krýsuvík stóð því yfir í hartnær tvær aldir.
Einu minjar námuvinnslunnar, sem enn sjást, er hluti af einni stíflunni neðan þjóðvegarins.
Þegar komið er upp á Sveifluháls er Arnarvatn á vinstri hönd og Arnarnýpa á þá hægri. Fallegt útsýni er er norður eftir hálsinum. Ofan við Ketilinn er varða. Stígurinn liggur í sveigum niður bratta hlíðina, niður á slétt helluhraunið fyrir neðan og stefnir á Hrútafellið. Gatan er bæði bein og slétt. Norðan Hrútafellsins beygir gatan meira til austurs, áleiðis að Hrúthólma. Alla þá leið er hún vel greinileg. Norðan götunnar er fallegur eldgígur (Drekagígur – sagt er að drekinn hafi rutt úr sér hrauni á daginn, en flogið um og spúið eldi á nóttunni).

Hrúthólmi

Hrúthólmastígur – Hrúthólmi framundan.

Hrúthólmi er allgróinn. Mávahlíðar er norðvestan við hann og Mávahlíðahnúkur norðar. Ágætt útsýni er þarna yfir að Trölladyngju, Grænudyngju og Fíflvallafjalli. Ofar er Hrútargjárdyngja. Eitt af stærstu hraununum í kringum Hafnarfjörð er komið úr Hrútagjárdyngju. Upptök þess eru nyrst í Móhálsdal. Dyngjan er kennd við gjána við vesturjarðar hennar. Hraunið hefur að mestu runnið til norðurs og til sjávar og hefur myndað ströndina milli Vatnleysuvíkur og Straumsvíkur. Í daglegu tali gengur stærsti hluti hraunsins undir nafninu Almenningur. Öskulög í jarðvegi ofan á hrauninu benda til að hún hafi myndast fyrir 5000 árum.

Hrauntungustígur

Hrauntungustígur austan Hrútfells..

Gatan stefnir austur fyrir hnúkinn með stefnu á Sauðabrekkur. Á leiðinni var litið á hraunæðar vestan við Hrútagjá, en í henni eru gömul bein, m.a. stuttur, en mjög sver, leggur og stórt mjaðaspjald. Þá eru þarna rifbein og fleiri bein. Leggurinn var tekinn til handargangs til að reyna að greina af hvers konar „dýri“ beinin gætu hafa verið. Að mati Sigurðar Sigurðarsonar, dýralæknis á Keldum, virðist vera um bóglegg af hrossi (hryssu) að ræða. Annað hvort hefur hún orðið til þarna eða refaveiðimenn borið út hræ og þetta verið leifarnar af því.

Sauðabrekkugígar

Sauðabrekkugígar.

Ofan við Sauðabrekkugjár eru tvær gígaraðir. Í vestari röðinni er bæli í einum gígnum. Gólfið hefur verið sléttar, hellur lagðar innst í fletið og steinhella felld fyrir glugga. Þegar hún var fjarlægð birti verulega í skjólinu. Ekki er auðvelt að finna opið. Norðan við gígaröðina er nokkuð slétt helluhraun. Í því er lítil varða. Skammt norðan og vestan við hana eru tvö hlaðin byrgi fyrir refaskyttu. Byrgi þessi eru greinilega mjög gömul. Líklega er þarna um að ræða byrgi þau er getið er um og eiga að vera austur af Hafurbjarnarholti, svonefnd Stórholtsgreni, en Gamlaþúfa er þarna skammt vestar.

Hrauntungur

Hrauntunguskjól.

Gengið var áleiðis norður í Brunntorfur með viðkomu í fjárskjóli í skútum. Hlaðinn er tvískiptur gangur fyrir framan opin, en inni eru rúmgóð skjól.
Frábært veður – sól og blíða. Gangan tók 5 klst og 5 mín.

-Heimild um brennisteinsvinnsluna:
(Sveinn Þórðarson, 1998) af http://hot-springs.org/krysuvik.htm

Ketilsstígur

Ketilsstígur h.m.

Reykjanesbraut

Í „Fornleifaskráningu vegna tvöföldunar Reykjanesbrautar frá Hvassahrauni að Krýsuvíkurvegi“, Reykjavík 2020, er m.a. fjallað um minjar á jörðunum Lónakoti, Óttarsstöðum, Straumi, Þorbjarnarstöðum, Péturskoti, Stóra-Lambhaga og Litla-Lambhaga, auk Hvaleyrar. Hér verður vikið að nokkrum atriðum skráningarinnar.

Lónakot

Lónakot

Lónakot – túnakort 1917.

1703: Jarðardýrleiki er óviss, konungseign, samkvæmt Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns III, 159.
1847: 10 hdr., bændaeign, samkvæmt Jarðatali Johnsen, 110.
1547-48 er jarðarinnar getið í fógetareikningum. DI XII, 114.
Í eyði frá því um 1930. Árið 1966 áskildi Hafnarfjarðarbær sér forkaupsrétt á jörðinni Lónakoti.
1917: Tún telst 0,9 teigar, slétt, garðar 500 m2.
1703: „Selstöðu á jörðin í eigin landi, og eru hagar þar góðir, en þegar þurkur gengur, verður þar stórt mein að vatnsskorti. Skógur hefur til forna verið, og er það nú meira rifhrís, það brúkar jörðin til kolgjörðar og eldiviðar, og jafnvel til að fóðra nautpeníng um vetur.

Lónakot

Lónakot – uppdráttur ÓSÁ.

Torfrista og stúnga í lakasta máta, valla nýtandi. Lýngrif er nokkurt og brúkast til eldiviðar mestan part og stundum til að bjarga á sauðpeníngi i heyskorti. Fjörugrasatekja nægileg heimilissmönnum. Rekavon lítil.
Sölvafjara hjálpleg fyrir heimamenn. Hrognkelsafjara gagnleg fyrir heimamenn. Skelfiskfjara naumleg og erfiðisssöm til beitu. Heimræði má ekki kalla að hjer sje, því lendíng er engin nema við voveiflega sjáfarkletta, og þarf ábúandinn á næsta bæ, Ottastöðum, skipsuppsátur ár og dag, og hefur haft það frí í fimmtíi ár fyrir tvö tveggja manna för, hvenær sem ábúandinn á Lónakoti hefur viljað sumar og vetur. Inntökuskip hefur hann engin fyrir utan þessa báta og hafa ei heldur verið. Engjar eru öngvar. Utihagar bregðast mjög skjaldan á vetur.“ JÁM III, 160.

Óttarstaðir

Óttarsstaðir

Óttarstaðakot – túnakort 1919.

1703: Jarðardýrleiki óviss, konungseign, samkvæmt Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns III, 160.
1847: 20 5/6 hdr., bændaeign, samkvæmt Jarðatali Johnsen, 110. Í neðanmálsgrein segir: „Þó að hvorki prestir né sýslumaður nefni hjáleiguna, er hún samt talin með, meðfram vegna ábúenda tölu sýslumanns, á öllum Óttarstöpum, enda var hún í byggð 1803.“
Hjáleiga 1703: Ónefnd.

Straumur

Óttarsstaðir/Straumur – örnefni og minjar. Uppdráttur ÓSÁ.

1917: Tún 4,7 teigar, garðar 2460 m2. Túnið hólótt og grýtt en þó mikið slétt og sléttað.
1703: „Skóg til kolgjörðar og eldiviðar sækir ábúandi í almenníng betalíngslaust, hver sá eyddur er, sem skamt sýnist að bíða. Er þar ekkert á eður í jörðunni til eldíngar fyrir utan fjöruþáng, sem þar er enn nú nægilegt, og verður þá ábúandinn kol út að kaupa. Lýngrif kann þar nokkuð að brúkast, tíðkast ei nema til eldkveikju. Rekavon af trjám er hjer mjög litil, þó festifjara. Fisk brotinn af sér rekur á stundum, so heldur er gagn að. Sölvafjara nægir heimilissfólki, en er örðug að ná. Hrognkelsatekja í lónum þá út fjarar er hjer oft að góðu liði.

Óttarsstaðir

Óttarsstaðir – örnefni (ÓSÁ).

Fjörugrös eru þar nægileg fyrir heimamenn. Bjöllur í fjörunni eru þar nógar, en brúkast ekki nema i stærstu viðlögum. Heimræði er þar árið um kríng. Lending í meðallagi. Þar gánga skip ábúanda og nú engin fleiri. Til forna hafa þar irmtökuskip gengið fyrir undirgil’t, kynni og enn nú eins að vera, ef fiskgengdin yxi.
Hjer gengur eitt kóngsskip, tveggja manna far, undirgiftarlaust; ljær ábúandi skipshöfninni húsrúm í bænum betalíngslaust af umboðsmanns hendi. (Soðningarkaup gefa Þeir sjálfir). Þetta kóngsskip hefur i mörg fyrirfarandi ár stundum hjer verið, stundum ekki, eftir því sem umboðsmanninum litist hefur.

Straumur/Óttarrsstaðir

Straumur/Óttarsstaðir – uppdráttur ÓSÁ.

Engjar á jörðunni öngvar. Selstöðu á jörðin í almenníngi, eru þar hagar góðir, en vatnslaust í þerrasumrum. Aðra selstöðu á jörðin í Lónakotslandi, so sem á mót þeim skipsuppsátrum, er Lónakotsmenn kafa við Óttarstaði. Peníngur og stórgripir ferst hjer oft i gjám, ef ei er vandlega aðgætt, helst á vetur þá snjóar yfir liggja. Kirkjuvegur er hjer í lengra lagi.
Torfstúnga er so gott sem engin til heyja, þaks og húsa.“ JÁM III, 161.
Árið 1966 áskildi Hafnarfjarðarbær sér forkaupsrétt á jörðunum Óttarsstöðum og Óttarsstaðakoti. ÁG: Saga Hafnarfjarðar 1908-1983 I, 114.

Straumur

Straumur

Straumur – túnakort 1919.

1703: Jarðardýrleiki óviss, konungseign, samkvæmt Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns III, 163.
1847: 12 1/2 hdr., bændaeign, samkvæmt Jarðatali Johnsen, 110.
1547-48 er jarðarinnar getið í fógetareikningum. DI XII, 114.
1491, 10.05: Rætt um deilur Hansakaupmanna og Englendinga. Hansakaupmenn ráku m.a. þá ensku úr höfninni í Straumi. DI XVI, 449.; Sjá einnig sama bindi, 553.

Óttarsstaðir

Straumur og Óttarsstaðir – uppdráttur ÓSÁ.

1501, 11.10: Jörðin Straumur út í Hraunum er í Besstaðakirkjusókn. DI VII, 586.
Eyðibýli 1703: Lambhúsgerði.
1919: Tún 1,4 teigar, allt slétt, garðar 560 m2.
1703: „Selstöðu á jörðin þar sem heitir Straumssel, þar eru hagar slæmir, en oft mein að vatnsskorti þá þurkar gánga. Skóg til kolgjörðar og eldiviðartaks brúkar jörðin í almenníngum, líka er stundum hrís gefið nautpeníngi. Torfrista og stúnga í skárra lagi. Lýngrif getur jörðin ogso haft í almenníngum. Rekavon nær engin. Hrognkelsafjara nokkur. Skelfiskfjara hjálpleg til beitu.
Heimræði er árið um kring og lendíng góð, og gánga skip ábúandans eftir hentugleikum. Inntökuskip eru hjer engin, en hafa þó áður verið og ábúandinn þegið undirgift af. Engjar eru öngvar.“ JÁM III, 164.
Hafnarfjörður keypti hluta úr landi jarðarinnar árið 1947 og áskildi sér forkaupsrétt á öðrum hlutum hennar árið 1966. ÁG: Saga Hafnarfjarðar 1908-1983 I, 108, 115.

Þorbjarnarstaðir

Þorbjarnarstaðir

Þorbjarnarstaðir – túnakort 1919.

1703: Jarðardýrleiki óviss, konungseign, samkvæmt Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns III, 164.
1847: 12 1/2 hdr., bændaeign, samkvæmt Jarðatali Johnsen, 110.
1395 er minnst á eyðijörðina Þorbjarnarstaði í skrá um kvikfé og leigumála á jarðeignum Viðeyjarklausturs og telja útgefendur DI það var þessa jörð. DI III, 598.
1547-48 er jarðarinnar getið í fógetareikningum. DI XII, 114.

Hjáleiga 1703: Lambhagi.
1919: Tún 1,4 teigar, allt slétt og hólótt, garðar 500 m2.

Þorbjarnarstaðir

Þorbjarnarstaðir – uppdráttur ÓSÁ.

1703: „Skóg hefur jörðin átt, en nú má það valla kalla nema rifhrís, það hefu r hún so bjarglega mikið, að það er bæði brúkað til kolgjörðar og eldiviðar, og so til að fæða peníng á í heyskorti. Aldrei ljá það búendur til annara, og eru þetta þau skógarpláts, sem almenníngar eru kölluð.
Torfrista og stúnga í lakasta máta og ekki bjargleg. Fjörugrasatekja nægileg fyrir heimilissmenn. Berjalestur hefur til forna verið til gagns af einirberjum, nú eru þau mestanpart eyðilögð. Rekavon næsta því engin. Sölvafjara nokkur má vera en brúkast ekki. Hrognkelsafjara nokkur og stundum að gagni. Skelfiskfjara naumlega til beitu. Heimræði er árið um kríng og lendíng góð, en leib til að setja skip mjög ill og erfið; þó gánga skip ábúenda eftir hentugleikum árið um kríng. Item hafa hjer bátar frá Bessastaðamönnum gengið til forna, og verið kallaðir kóngsskip, þó ekki stærri en tveggja manna far, og fleiri en eitt í senn um vertið. Hafa bændur hýst þá, er bátnum róið hafa og ekkert fyrir þegið nema soðníngarkaup af hásetum. En þetta hefur ekki verið i næstu þrjú ár.
lnntökuskip hafa hjer aldrei gengið önnur en þessi i næstu fimtíi ár. Engjar eru öngvar.“ JÁM III, 166.

Péturskot

Péturskot

Péturskot – túnakort 1919.

„Litlu norðar var Péturskotsstígur. Hann lá yfir að Péturskoti, sem var þurrabúð í Þorbjarnarstaðalandi. Var það fyrst byggt fyrir aldamót af Pétri Péturssyni, Helgu konu hans og Signýju dóttur þeirra. Þarna var ofurlítið tún, og var túngarður umhverfis það,“ segir í örnefnaskrá. Bærinn er merkur fyrir rétt norðan við miðju túns á túnakort frá 1919. Þrjú hús voru á bæjarstæðinu samkvæmt túnakortinu og snéru stafnar bæjarins til VNV. Kjallari var líklega í húsinu. Lítið er eftir að gamla bænum á yfirborði þar sem mikið rask hefur orðið á svæðinu (á bænum og norðurhluta túnsins) vegna lagningar Reykjanesbrautar.

Péturskot

Péturskot – leifar kotsins.

Enn sjást þó rústir þar sem gamli bærinn stóð en enginn eiginlegur bæjarhóll er greinilegur. Péturskot er rétt sunnan við Reykjanesbraut. Túnið er komið í órækt og er smáþýft. Gróður er nokkur innan túnsins en utan þess er einkum grýtt hraunlendi þar sem gróður er nokkur, mest mosi.
Tún Péturskots er 75×75 m að stærð.
Péturskot kemur fyrst fram í manntali 1880 og kemur fram í manntölum til 1910 en er ekki getið í manntali 1920. Enginn eiginlegur bæjarhóll er greinilegur þar sem gamli bærinn stóð en þar sést þó mikið hleðslugrjót úr hraungrýti á svæði sem er 8×6 m að stærð.

Péturskot

Péturskot – útihús.

Rétt austan við bæjarstæðið var útihús merkt inn á túnakort frá 1919. Á þessum stað er grjóthlaðin L-laga hleðsla. Lagning Reykjanesbrautar árið 1965 umturnaði heimatúni Péturskots og er norðurhluti þess kominn undir veginn.
Enginn eiginlegur bæjarhóll er greinilegur en þar sem gamli bærinn stóð er mikið hraungrýti á svæði sem er 8×6 m að stærð (VNV-ASA).

Péturskot

Péturskot.

Á þessu svæði er óljós tóft og í henni má greina tvö hólf. Það er Tóftir Péturskots, horft til norðurs. Veggir eru grjóthlaðnir. Í hleðslunni má greina 1-3 umför af stæðilegu hraungrýti í bland við smágrýti, en víða eru hleðslur mjög aflagaðar. Veggir eru 0,3-0,6 m á hæð, og standa hæst til norðvesturs. Ekki er hægt að greina skýrt innra lag hólfsins þar sem veggir hafa hrunið inn í hólfið. Tóftin var betur varðveitt þegar Þjóðminjasafn Íslands skráði Péturskot um 1990.

Péturskot

Pétursspor.

Á túnakort frá 1919 er merkt útihús um 10 m austan við Péturskotsbæ. Þar sem útihúsið var má greina L-laga hleðslu. Hún er um 3,5 m á kant en 0,7 m há. Í hleðslunni eru 7 umför af stæðilegu hraungrýti. Hleðslan er í litlu innskoti í mosagrónum kletti sem er í austurhluta túnsins. Þéttur mosi er á efsta umfari hleðslunnar.

Péturskot

Péturshróf.

Pétursspor var stígur milli kotsins og Straumshólana og um Straumsrásirnar frá Straumstjörn,“ segir í örnefnaskrá. Nyrsti hluti leiðarinnar frá Péturskoti og fram í Straumshólmana var kallaður Péturspor. Hlaðnar brýr eru á leiðinni í Straumstjörn, um 170 m ASA við Straumsbæ og rúmum 70 m norðan við Reykjanesbraut.

Péturskot

Péturskot árið 2000.

Brýr liggja yfir fremur grunna tjörn og í grasivaxna hóla. Víða sést þó í bert grjót á hólmunum. Á þessum hluta eru þrjár brýr sem tilheyra Pétursspori. Samtals ná þær yfir svæði sem er 60×40 m að stærð.
Péturshróf var naust neðan Péturskots. „Milli lands þessara jarða [Þorbjarnarstaða, og Stóra-Lambhaga, og jarðarinnar Straums ræður merkjum bein lína frá sjó úr grjótbyrgi í Hólmanum. Pétursspor var stígur, sem lá heiman frá bæ niður á Straumshólana og um Straumsrásirnar frá Straumstjörn.

Péturskot

Péturskot – könnunarskurðir er gefa áttu til kynna aldur kotsins.

Stígur þessi lá fram á Pétursbyrgi svokallað. Þar var Byrgisvör eða Pétursbyrgisvör. Í vörina sér enn djúpar skorir eftir bátskilina,“ segir örnefnaskrá. Péturshróf er um 380 m NNV við bæ og rúmum 50 m norðan við Reykjanesbraut. Péturshróf er í Straumsvík, rétt sunnan við mosagróinn klettadranga.
Péturshróf er einföld tóft, 7,5×3,5 m að stærð og snýr hún norður-suður. Veggir eru grjóthlaðnir og nokkuð hlykkjóttir. Í hleðslum sjást mest 2-4 umför af stæðilegu hraungrýti í bland við smágrýti. Veggir eru 0,3-0,6 m á hæð, veglegastir að sunnan. Byrgið er breiðast til austurs en mjókkar aðeins eftir því sem vestar er farið. Byrgið er opið til austurs, að sjó.

Stóri-Lambhagi

Stóri-Lambhagi

Stóri-Lambhagi – túnakort 1919.

1703: Jarðardýrleiki óviss, hjáleiga frá Þorbjarnarstöðum, samkvæmt Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns III, 166.
1847: 4 1/6 hdr., bændaeign, samkvæmt Jarðatali Johnsen, 110.
1547-48 er jarðarinnar getið í fógetareikningum. DI XII, 114
1919: Rún 0,6 teigar, slétt að mestu af náttúrunnar hendi, garðar 550 m2.
1703: „Selstöðu brúkar jörðin ásamt Þorbjarnarstöðum þar sem heitir Gjásel, eru þar hagar góðir en vatn slæmt. Hríssrif hefur jörðin í Þorbjarnastaðarlandi þar sem heita almenníngar, er það haft til kolgjörðar og eldiviðar og til að fæða peníng í heyskorti.

Lambhagi

Lambhagi fyrir 1960.

Torfrista og stúnga er næsta því engin, og þarf ábúandinn til að fá með miklu erfiði. Fjörugrasatekja er til en brúkast ekki. Rekavon næsta því engin. Sölvafjara nokkur. Hrognkelsafjara gagnvænleg þegar vel árar. Skelfiskfjara valla til beitu. Heimræði er árið um kring, og lendíng í besta lagi, gánga skip ábúandans eftir hentugleikum; undir kóngsskipanafni hefur hjer áður oftastnær gengið bátur, tveggja manna far, og ábúandinti hýst áróðrarmenn og ekkert fyrir þegið nema soðningarkaup af þeim; næstliðið ár var það ekki.

Lambhagi

Tóftir Stóra-Lambhaga.

Inntökuskip hafa hjer engin gengið nema skjaldan um hausttíma bátar nágranna fyrir góðvilja eður einhverja þóknan. Túnin fordjarfast árlega af sjáfaryfirgángi meir og meir.
Engjar eru öngvar. Útigángur um vetur bágur fyrir fjarlægð haganna, en fjaran er mest til beitar köfð.“ JÁM III, 167–168.
Árið 1966 áskildi Hafnarfjarðarbær sér forkaupsrétt á jörðunum Litla Lambhaga og Stóra-Lambhaga, og var tekið eignarnám í landi Lambhaga vegna hafnargerðar í Straumsvík. ÁG: Saga Hafnarfjarðar 1908-1983 I, 116.

Litli-Lambhagi

Litli-Lambhagi

Litli-Lambhagi – túnakort 1919.

„Litli-Lambhagi stóð í Litla-Lambhagatúni. Lá túngarður tvíhlaðinn með allri norðurhlið þess,“ segir í örnefnaskrá. Í fasteignamati frá 1917 segir: „Litli-Lambhagi: Hjáleiga frá Þorbjarnarst. […] Ekki virt til dýrleika […]. Hús á jörðinni fylgir eru: „Baðstofa 9×5 ál framdyr, Bæjardyr og eldhús, fjós fyrir 10 kú […]. Hús ábúenda eru: Heyhús, grjótveggir, járnþak. Geymsluhús, 3 fjárhús fyrir 120 fjár.“ Fjögur hús eru merkt innantúns á býlinu á túnakort frá 1919. Samkvæmt því var bærinn rétt norðan við mitt heimatúnið. Stafnar bæjarins sneru til suðvesturs.

Litli-Lambhagi

Litli-Lambhagi – eldhús.

Nokkuð rask hefur verið í og við gamla bæinn. Búið er að leggja veg að álverinu í Straumsvík yfir austurhluta þess. Samkvæmt heimasíðu Hraunavina var einnig reistur sumarbústaður fast norðan við bæjarhólinn fyrir miðja 20. öld (af bræðrunum Marinó og Kristni Guðmundssonum). Á heimasíðunni kemur einnig fram að þegar þeir reistu sumarbústaðinn hafi staðið grjóthlaðið eldhús á gamla bæjarstæðinu, sem hefur verið hluti gamla bæjarins. Lítil ummerki um bæjarhól sjást á Litla-Lambhaga og engin ummerki bæjarhúsa. Þau hafa líklega horfið vegna sumarbústaðarframkvæmda og/eða í vegframkvæmdir við álverið í Straumsvík.

Litli-Lambhagi

Litli-Lambhagi – bæjarhóllinn.

Gamli bærinn stóð rétt vestan við veg sem liggur að álverinu í Straumsvík. Hóllinn er umhverfis tún sem komið er í órækt. Túnið er smáhæðótt og mosi nokkur í sverði. Víða standa klettanibbur upp úr grasinu. Bæjarhólnum var mikið raskað þegar sumarbústaðurinn var byggður og ekki er útilokað að eitthvað grjót úr gamla bænum hafi verið endurnýtt í þá byggingu en frekari heimildir
skortir til þess að staðfesta það. Líklega leynist einhver mannvist undir sverði á þessum slóðum þrátt fyrir mikið rask.

Litli-Lambhagi

Litli-Lambhagi – Steinbogi.

Steinbogi var garður upp í Aukatún; „Upp í Aukatúni lá gangbraut hlaðin sem garður, nefndist Steinbogi,“ segir í örnefnaskrá.
Steinbogi eða hlaðin brú liggur yfir litla tjörn í Aukatúni, um 110 m sunnan við Litla-Lambhaga. Hleðslan liggur yfir tjörn eða deiglendi í grónu hrauni.
Hleðslan er um 5 m löng en 2 m breið. Hún snýr NNA-SSV. Hleðslan rís 0,4 m hærra en umhverfið og er grjóthlaðin en mikið gróin. Ekki sést í umför í hleðslunni þótt víða standi stæðilegt grjót upp úr gróðrinum.

Hvaleyri

Hvaleyri

Hvaleyri – herforingjaráðskort 1903.

1703: Jarðardýrleiki óviss, konungseign, samkvæmt Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns III, 168.
1847: 20 hdr., bændaeign, samkvæmt Jarðatali Johnsen, 110. Í neðanmálsgrein segir: „Þó jb. 1803 ein nefni 4 bygðar hjáleigur (Bindindi, Lönd, Lásastaði, og Ásgautstaði) og vorði þær allar til dýrleika, er þeim samt sleppt, bæði af presti og sýslumanni (sem nú líklega graslausum).“

Hvaleyri

Hvaleyri – örnefni.

Samkvæmt Hauksbók Landnámu sigldi Hrafna-Flóki í Hafnarfjörð og fann þar hval á eyri einni og kölluðu það Hvaleyri. Í Landnámu segir að Ásbjörn Özzurarson, bróðursonur Ingólfs, hafi numið land milli Hraunholtslækjar og Hvassahrauns og allt Álftanes og bjó hann á Skúlastöðum [sjá Garða]. ÍF I, 39, 394.
1284: Jarðarinnar getið í rekaskrá Viðeyjarklausturs (sjá jarðaítök hér neðar). DI II, 246.

Hvaleyri

Hvaleyri fyrrum. Varða til minningar um Flóka Valgarðsson, þess er elst er getið, í forgrunni. Hvaleyrarbæinn frá 1772 í bakgrunni.

Um 1300 er getið um Hvaleyri í sögn af Teiti bónda þar í jarteinasögu Þorláks helga. Biskupa sögur I, 386.
1343 er minnst á Hvaleyri í Gottskálksannál. Isandske Annaler, 352.
1395: Þá á Viðeyjaklaustur Hvaleyri og var leiga 4 hndr. DI III, 597.
1395: Jarðarinnar getið í skrá Viðeyjarklausturs m kvikfé og leigumála. DI III, 597.

Hvaleyri

Hvaleyri 1772 – Joseph Banks.

1448 [eða síðar]: „Vitnisburður Hafliða Gizurarsonar um landeign og landamerki Hvaleyrar við Hafnarfjörð […] kirkian aa hvaleyri ætti Þorlakstade og hravnvelle. hamranes ok grisanes ok allt firir svnnann vtann ok ofan ok vp vr hvaleyrar vatnni ok nordvr j kornstapa hravn. ok alltt vp med gotvnni firir svnnan ok vp yfer þormodz hofda nema litinn skog er lavgarnes kirkia aa vid landsydri j hvaleyrar hofda.“ DI IV, 751–752..

Hvaleyri

Hvaleyri.

1547-48 er jarðarinnar getið í fógetareikningum. DI XII, 114.
Hjáleiga 1703: Hvaleyrarkot. Enn fremur höfðu afbýlismenn heima við bæinn grasnyt. Bóndi jarðarinnar sá um að viðhalda þeim húsum sem þeir voru í.
Jarðaítök 1284: Viðeyjarklaustur á hálfan rekavið á jörðinni. Og skóg í hrauni út frá Hvaleyri. DI II, 246–277.
1703: „Selstöðu á jörðin þar sem heitir Hvaleyrarsel, þar eru hagar sæmilegir og vatnsból gott. Hrissrif nokkurt hefur jörðin í heimalandi og er það að mestu eytt. Item hefur hún hrisrif til eldiviðar í almenningum og svo til kolgjði’ðar. Torfrista og stúnga í lakasta máta nærri ónýt.
HafnarfjörðurLýngrif hefur jörðin nokkurt. Fjörugrasatekja nokkur. Rekavon nokkur. Hrognkelsafjara að nokkru gagnvænleg. Skelfiskfjara nægileg til beitu, liður ágáng af öðrum jörðum. Heimræði er árið um kríng og lending góð, og gánga skip ábúenda eftir hentugleikum. Til forna hefur hjer oft undir kóngsskipa nafni gengið eitt tveggja manna far, en síðan Lauridtz Hansson Siefing var á Bessastöðum Heidemanns vegna hefur það ekki verið. Inntökuskip hafa hjer stundum gengið ekki stærri en tveggja manna för, og hefur ábúandi þegið undirgift af, mætti og enn vera ef menn vildu. Túnin spillast af sandságángi. Engjar eru öngvar. Vatnsból er ilt og þrýtur bæði vetur og sumar.“ JÁM III, 169.

Stóravarða

Stóravarða 2023.

Stóravarða var landamerki Hvaleyrar og Lambhaga; „Þá liggur línan niður um Þórðarvík um Stóruvörðu, sem stóð á hraunbrúninni rétt þar sem
alfaraleið lá upp á Kapelluhraunið,“ segir í örnefnaskrá. Varðan var um 2 m á hæð og mjög stæðileg. Árið 1999 var gerður vegarslóði fast sunnan hennar og við þær framkvæmdir rak ýtumaður sig í vörðuna og hrundi hún við það. Í skráningu fornleifa vegna tvöföldunar Reykjanesbrautar frá 2001 segir að frumkvæði þjóðminjavarðar var hluti vörðunnar hins vegar hlaðinn upp aftur. Þær leifar eru langt utan heimatúns Hvaleyrarbæjar, um 2 km suðvestan við bæ og rúmum 40 m sunnan við Reykjanesbraut. Varðan er á grýtti hæð rétt norðan við malarvegslóða. Varðan er sæmilega hlaðin, 1,5 m á hvorn veg og um 1 m á hæð. Hún er grjóthlaðin og úr blöndu af stæðilegu hraungrýti og smágrýti. Efst á vörðunni eru smásteinar.

Alfaraleið

Í fornleifaskráningum hefur Alfaraleiðin  millum Þorbjarnarstaða og Gerðis (rauð) ekki verið skráð (einungis sögð „óljós“).

Niðurstaða fornleifaskráningarinnar í heild var; „Innan svæðisins voru skráðari 56 fornleifar á 43 minjastöðum. Allir staðirnir teljast til fornleifa og njóta verndar sem slíkir en minjagildi þeirra er misjafnt. Í skýrslunni var gerð tilraun til að leggja mat á gildi hvers minjastaðar og voru niðurstöðurnar þær að þrír minjastaðir hefðu mjög mikið gildi, átta mikið gildi, 15 staðir töldust hafa nokkurt minjagildi og 17 lítið. Rétt er að ítreka að algengara er að margar fornleifar/minjaeiningar falli undir þá staði sem flokkaðir voru með mikið eða mjög mikið minjagildi heldur en þá sem töldust hafa lítið minjagildi sem oftast eru stakar fornleifar fremur en þyrpingar.

Keflavíkurvegur

Hleðslur við gamla Suðurnesjaveginn gegnt Gerði ofan Péturskots.

Í skýrslunni er fjallað sérstaklega um þrjú minjasvæði vegna mikils gildi sem stakar minjar eða minjaheildir. Þó að mögulegt sé að komast hjá raski á nokkrum fjölda minja innan úttektarsvæðins er ljóst að mörgum minjum verði raskað að hluta eða öllu leyti að óbreyttu. Niðurstaðan er því að áhrif framkvæmda við breikkun Reykjanesbrautar á svæði frá Hvassahrauni að Krýsuvíkurvegi muni hafa neikvæð áhrif á fornminjar“.

Ljóst er að fórna þarf nokkrum fornleifum sögunnar millum framangreindra bæja við tvöföldun Reykjanesbrautar á kaflanum frá ofanverðu Lónakoti að ofanverðu Hvaleyri. Samt ert leitt til þess að vita hversu skráningaraðilar hafa haldið illa á málum með því að horfa framhjá augljósum fyrirliggjandi heimildum er kynnu að hafa gert verk þeirra miklu mun markvissara, ekki síst til lengri framtíðar litið.“

Þorbjarnarstaðir

Þorbjarnarstaðir – uppdráttur ÓSÁ.

Þegar framangreind skráning er skoðuð er ljóst að skráningaraðilinn hefur hvorutveggja haft takmarkaða þekkingu á viðfangsefninu og ekki reynt að afla sér augljóslegra fyrirliggjandi gagna er koma gætu að gagni. Þá er leitt til þess að vita að starfsfók Minjastofnunnar skuli ekki hafa dug í sér til að gera viðhlýtandi athugasemdir við augsýnilega endurteknar vanskapaðar fornleifaskráningar, sem til þess berast.

Heimild:
-Fornleifaskráning vegna tvöföldunar Reykjanesbrautar frá Hvassahrauni að Krýsuvíkurvegi, Reykjavík 2020.

Reykjanesbraut

Fyrirhugað vegastæði tvöföldunar Reykjanesbrautar ofan Straums.

 

Óttarsstaðaborgin

Í „Fornleifaskráningu vegna tvöföldunar Reykjanesbrautar og breyttar landnotkunar“ frá árinu 2020 má lesa eftirfarandi fróðleik um Hvaleyri, Straum, Jónsbúð, Þýskubúð, Óttarsstaði og Þorbjarnarstaði sem og Alfaraleiðina.
FornleifaskráningÁ forsíðu skýrslunnar er mynd; sögð vera af „vörðu og Sjónarhólsvarða er í bakgrunni“. Vörður þessar eru svonefndar „Ingveldar“, líkt og segir í örnefnalýsingum Ara Gíslasonar: „Tvær ævafornar vörður eru neðan Sjónarhóls. Þær heita Ingveldar, og neðan þeirra eru hraunhólar, sem heita Tindhólar. Þeir eru ofan við Vatnagarðana, sem fyrr voru nefndir.“ og Gísla Sigurðssonar: „Rétt norður af Sjónarhól eru tvær vörður, er hétu Ingveldur og stóðu á Ingveldarhæð. Ekki er vitað, hvernig á Ingveldarnafninu stendur. Vestur og niður af Ingveldi voru kallaðir Tindhólar. Austur af Ingveldi er Jakobsvörðuhæð og á henni Jakobsvarða.“
Athygli forsvarsmanna Byggðasafns Hafnarfjarðar hefur verið vakin á framangreindu.

Hvaleyri

Hvaleyri

Hvaleyri – herforingjaráðskort 1903.

Hvaleyri er elsta bújörðin í Hafnarfirði og elsta heimildin um jörðina er í Hausbók Landnámu, en Hrafna-Flóki Vilgerðarson á að hafa fundið þar rekinn hval á eyrinni og nefndi þá jörðina Hvaleyri.
Jörðin var í eigu Viðeyjarklausturs árið 1395 og var leigan til klaustursins 4hndr.
Árið 1448 er getið til um kirkju á Hvaleyri en svo er lítið fjallað um Hvaleyri þar til í byrjun 18. aldar.
Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá árinu 1703 var getið um hálfkirkju á Hvaleyri og að þar hafi verið þjónað þrisvar sinnum á ári, kirkjan var á þeim tíma hálfkirkja frá Görðum á Álftanesi og jörðin var konungseign. Í Jarðabókinni er að finna greinagóða lýsingu á Hvaleyri þar sem sagt er frá búsetuháttum, landgæðum og hjáleigum.

Hvaleyri

Hvaleyri 1772.

Ábúandi jarðarinnar árið 1703 var Ormur Jónsson, leigukúgildi eru þrjú, landskuld eitt hundrað og heimilismenn eru sex talsins. Túnin spilltust reglulega af sandgangi og engar voru engjar. Vatnsból var ekki gott og gat þrotið hvenær sem var árs. Á árunum 1754-1757 bjó enginn á Hvaleyri og er það sjálfsagt ein aðal ástæða þess að bæjarhús og tún spilltust. Árið 1815 er jörðin seld á uppboði og þar með fer hún úr konungseigu, kaupandi var Bjarni Sívertsen. Árið 1834 keypti Jón Illugason snikkari jörðina af dánarbúi Bjarna.

Hvaleyri

Hvaleyri – kort.

Jón Illugason seldi jörðina Jóni Hjartarsyni í Miðengi í Árnessýslu. Við andlát Jóns tók ekkja hans Þórunn Sveinsdóttir við Hvaleyri, árið 1868 gaf hún Sigríði Jónsdóttur frændkonu mans síns mestan hluta jarðarinnar. Sigríður giftist síðar Bjarna Steingrímssyni hreppstjóra á Hliði. Jörðin var seld síra Þórarni Böðvarssyni árið 1870. Síra Þórarinn og kona hans gáfu hluta af jörðinni til stofnunar alþýðu- og gagnfræðaskóla Flensborg í Hafnarfirði árið 1887.
Í Jarðabók frá árinu 1803 eru nefndar fjórar hjáleigur á Hvaleyri, það eru; Bindindi, Lönd, Lásastaðir og Ásgautsstaðir.

Í Sögu Hafnarfjarðar frá árinu 1933, segir m.a. að á Hvaleyri hafi verið kirkja í kaþólskum sið en eigi var kunnugt hvenær hún hafi verið reist fyrst. Þessi kirkja hefur verið graftarkirkja því enn sást fyrir kirkjugarði í túni heimajarðarinnar á Hvaleyri.

Hvaleyri

Hvaleyri 1942 – braggabyggð.

Hvaleyrarkirkju er fyrst getið 1444-1481 en hugsanlega gæti hún verið mun eldri. Aðeins eru varðveittar tvær lýsingar á Hvaleyrarkirkju og gripum hennar í þeirri eldri sem er frá árunum 1625-1634 var kirkjan sögð í fjórum stafgólfum sem þýðir að hún var á bilinu 5,7-6,8 m að lengd og 2,85-3,4 m að breidd.
Árið 1940 kom breski herinn til landsins og reisti kampa víða í Hafnarfirði, einn þeirra var við Hvaleyrartjörn og hét hann West end. Þar var herinn með skotbyrgi og loftvarnarbyssur. Á loftmyndum frá þessum tíma má vel sjá hversu umfangsmikil starfsemi þeirra var á Hvaleyri.

Vesturkot

Vesturkot, gamla klúbbhús Keilismanna, var brennt í árslok 1992.

Árið 1967 var golfklúbburinn Keilir stofnaður og sama sumar var golfvöllurinn á Hvaleyri opnaður og hefur starfað allar götur síðan. Íbúðarhúsið í Vesturkoti var gert að klúbbhúsi Golfklúbbsins strax í upphafi og var það til árisins 1992 þegar nýr golfskáli Keilismanna var tekin í notkun. Sama ár var leyfi fengið til að kveikja í klúbbhúsinu í Vesturkoti og slökkvilið Hafnarfjarðar nýtti sér það til æfingar. Í dag er ekkert eftir af þeim húsunum er stóðu í Vesturkoti.

Straumur

Straumur

Straumur – túnakort 1919.

Straumur er ein af svonefndum Hraunjörðum, en það eru þær jarðir sem eru innan staðarmarka Hafnarfjarðar suð-vestur af kaupstaðnum. Þessar jarðir voru í eigu Viðeyjarklausturs og urðu því konungsjarðir með siðaskiptunum 1550. Konungs-jarðirnar voru síðan seldar á árunum 1836-1839.
Jarðarinnar er getið í fógetareikningum frá 1547-1548 og þar segir: „Item met Ström j legeko. xij for. Landskyldt iij vetter fiske. ij lege vj förenger smör dt. oc ij landskyldt iij vetter diske dt. Thet er jc xxx fiske.“

Óttarsstaðir

Straumur og Óttarsstaðir – uppdráttur ÓSÁ.

Næsta heimild um Straum er Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1703. Þar segir að jarðardýrleikinn sé óviss, að jörðin sé í konungseign og að ábúandi sé Hans Ólafsson. Kúgildin voru þrjú og landskuldin var 75 álnir.
Jörðin átti selstöð sem hét Straumsel, en þar voru hagar slæmir og vandræði af vatnsskorti þegar það voru þurrkar. Torfrista og stunga voru í skárra lagi, og jörðin notaði skóg í almenningi til kolagerðar og eldiviðar. Heimræði var allt árið í kring, lending góð og skip ábúendans réru eftir hentugleika. Lambhúsagerði er þá eyðihjáleiga á jörðinni, sem hafði verið í eyði eins lengi og menn muna, og var ekki talið líklegt að þar yrði búið aftur, vegna þess að bóndinn á Straumi gat ekki komið túninu þar í lag án þess að það komi niður á hans eigin túni.
Í jarðatali Johnsen frá 1847 er jörðin í bændaeign, dýrleikinn 12 ½, landskuldin 0.75, kúgildi tvö, einn ábúandi og er hann eigandi jarðarinnar.

Gvendarbrunnur

Gvendarbrunnur.

Samkvæmt Örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar eru landamerki fyrir jörðina Straum: Landamerki milli Straums og Óttarsstaða byrja við sjó á Vatnaskersklöpp yfir miðan Markhól og þaðan beint í Stóra-Nónhól frá Nónhól í Gvendarbrunn frá Gvendarbrunni í Mjósundsvörðu, frá Mjósundsvörðu í Klofaklett suður og upp af Steinhúsi.
Á Klofaklett er klappað Ótta Str og varða hlaðin hjá. Frá Klofakletti í Markastein, suður og upp af Eyjólfshól, á þennan Markastein er klappað Ótta Str. Frá þessum Markasteini sömu stefnu upp að Krísuvíkurlandi.

Tobbuklettar

Vestari Tobbuklettar.

Á hina hliðina milli Straums og Þorbjarnarstaða byrja landamerkin við sjó á Pjetursbyrgi á neðsta hólmanum, og þaðan beint í svonefnda Tóu, úr Tóu beint í Vestari-Tobbukletta yfir miðjum Jónshöfða og í vörðu vestarlega á há-Hafurbjarnarholtinu og þaðan beina stefnu mitt á milli Stóra-Steins og Fjárskjólskletts í vörðu á há-Fremstahöfða og þaðan hina sömu beinu stefnu þar til að Krýsuvíkurland tekur við (Undirritað i Straumi 31. Maí 1890).
Það er ekki mikið af sjáanlegum minjum sjáanlegar við bæjarstæði Straums, en það hefur orðið fyrir raski af seinni tíma framkvæmdum.
Þó er tún- og varnargarðurinn enn sjáanlegur við núverandi húsin á Straumi og hluti bæjarhólsins, en hann hefur verið rofinn af vegi og bílastæðum. Tæplega 200m sunnan við bæjarstæðið á Straumi er að finna Straumsrétt og fjárhús.
Norðan við Straum er að finna tvær þurrabúðir, Þýskubúð og Jónsbúð.

Þýskabúð

Þýskabúð

Tóft við Þýskubúð.

Þýskabúð var hjáleiga frá Straumi og dregur nafn sitt af því að þýskir kaupmenn munu hafa reist kaupbúðir á tanganum við Straumsvík og verslað þar á 14. og 15. öld. Engar minjar um þær búðir sjást þó á svæðinu.
Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum tók viðtal við Pál Hannesson, þáverandi eiganda Þýskubúða árið 1993 og þar segir: „Þýskubúð: Síðasti ábúandi Þýskubúðar hét Guðmundur (Björgúlfsson); hann átti allan Straum.

Þýskabúð

Þýskabúð 2022.

Húsið var byggt 1915? (1910?), síðar innréttað og lagfært.
Tjörvi nokkur Guðmundsson bjó í Þýskubúð 1911-1912 [Innskot í texta frá SÁM: Skv. Manntalsvef Þjóðskjalasafns bjó Guðmundur Tjörfi Guðmundsson í Þýskubúð miklu fyrr (m.t. 1890 og 1901; Leigandi í Straumi í mt. 1910). J.H.] Áður en Tjörvi var þarna byggði Björn, kallaður „þýski“ (Þýski Björn) [Þýskubúð]. Þjóðverjar versluðu [þarna] á 14. og 15. öld.

Þýskabúð

Þýskabúð.

Þær minjar sem sjást á yfirborði við Þýskubúð eru allar seinni tíma og eru í samhengi við steypta húsið sem enn stendur að hluta. Í kringum húsið er að finna ýmis garðlög og matjurtagarða, naust og útihús, sem og gerði og brunn.
Túngarðurinn er frekar illa farinn, en hann hefur einnig virkað sem varnargarður við sjóinn og er hann þar að mestu kaffærður í fjörugrýti.

Jónsbúð

Jónsbúð

Jónsbúð – túnakort 1919.

Jónsbúð er tæpum 200m norðan við Þýskubúð, sunnan við Jónsbúðartjörn, sem hefur verið vatnsból Jónsbúðar, og Markhól. Minjarnar við Jónsbúð eru mjög heillegar, en þær hafa nánast alveg sloppið við seinni tíma rask.
Árið 1999 gerði Fornleifafræðistofan, undir stjórn Bjarna F. Einarssonar, þrjár prufuholur í bæjartóftir Jónsbúðar og voru markmið rannsóknarinnar að freista þess að ná að aldursgreina tóftina og að sjá í hvað hólfin voru notuð. Ekki fundust nægileg gögn til aldursgreingar, en rannsóknin leiddi í ljó að vestur hólfið var fjós og þaðan var gengið inn í baðstofu, en algengt var að nota hita frá skepnum til þess að verma híbýli.

Jónsbúð

Jónsbúð.

Á túnakorti frá 1919 segir að kálgarðar séu 180m2 og að tún Jónsbúðar séu holótt og slétt, þau séu á klettanefi við sjó, vestur frá Jónsbúð og séu 0,2 teigar.
Jónsbúðar er ekki getið í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns, en vert er að minnast á að ekki er alltaf minnst á þurrabúðir jarða þó að enginn vafi sé á að þær hafi verið til staðar.
Í manntali frá 1910 er minnst á Jónsbúð sem þurrabúð í landi Straums, og þar bjó hann Gunnar Jónsson, sjómaður, Sigríður Hannesdóttir kona hans og Sigríður dóttir þeirra. Þau munu hafa flust til Jónsbúðar frá Meðalholti í Flóa 1882.

Jónsbúð

Jónsbúð – tilgáta ÓSÁ.

Í bókinni „Forðum gengin spor“ er tekið viðtal við Jón Magnússon í Skuld í Hafnarfirði og segir þar: „Síðan færum við okkur inn að Straumsvík en þar voru tvö kot, Jónsbúð og Þýskubúð. Þar voru Jón í Jónsbúð og Gunnar í Þýskubúð. Þessi kot voru búin að vera um tíma í eyði áður en þessir menn komu þangað. Þeir voru orðnir fullorðnir þegar þeir komu að þessum kotum og ég man eftir þeim en ég kynntist þeim mjög lítið. Þeir voru með nokkar kindur.“
Í skýrslu sinni veltir Bjarni því upp að Jón þessi í Jónsbúð gæti hafa verið síðasti íbúi Jónsbúðar en að búðin sé greinilega ekki kennd við hann. Hann segir einnig að líklegt sé að búðin hafi borið ýmiss nöfn í gegnum árin, stundum eftir ábúendum og stundum eitthvað annað, en dæmi um það eru vel þekkt. Hann segir einnig að Jónsbúð hafi ekki verið lengi í eyði áður en Jón byggði upp kotið, en algengt var að kot og smábýli hafi verið í eyði í smá tíma á milli íbúa.

Jónsbúð

Jónsbúð – tilgáta ÓSÁ.

Bæjarstæði Jónsbúðar er mjög heillegt, en bæjarrústirnar eru vel greinanlegar og matjurtagarðurinn áfastur þeim.
Rétt framan við bæjarrústirnar er vörslugarður en hann hefur verið til þess að beina búfénaðnum inn í fjósið. Fast NV við bæjarrústina er hjallur og túngarður umhverfis túnið. Útihús er áfast vestur hlið túngarðsins og er mögulega fjárhús, sbr. viðtalið við Jón Magnússon. Það er brunnur í Jónsbúðartjörn norðan við bæjarrústirnar og lághlaðin brú að honum, en vatnsstaða tjarnarinar stjórnast af sjávarföllum.

Óttarsstaðir

Óttarsstaðir

Óttarstaðakot – túnakort 1919.

Óttarsstaðir er ein af svonefndum Hraunjörðum, en það voru þær jarðir innan staðarmarka Hafnarfjarðar suð-vestur af kaupstaðnum. Í örnefnaskrá segir að á Óttarsstöðum var tvíbýli. Þau voru nefnd Efri-Óttarsstaðir eða Vesturbær og Neðri-Óttarsstaðir eða Austurbær. Bæirnir stóðu á bæjarhól nokkuð vestarlega í túninu. Vesturbærinn sem byggður var 1890 stendur enn.
Austurbærinn var rifinn fyrir aldamótin 1899-1900, en árið 1885 var byggt nýtt hús nokkru austar og neðar í túninu en hluti gömlu bæjartóftanna notað fyrir fjós og hlöðu.

Óttarsstaðir

Áttarsstaðir vestri.

Elstu heimildir um Óttarsstaði er Kaupbréf frá 9. september 1447, en þar segir að Einar Þorleifsson hafi keypt jarðir í Húnaþingi og selt jarðir á Vatnsleysuströnd til Viðeyjarklausturs og 10/100 í Óttarsstöðum.
Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1703 segir að jarðardýrleiki jarðarinnar sé óviss og að jörðin sé í eigu konungs. Þar voru kvaðir um mannslán um vertíð, kvikfénaður var fimm kýr og einn hestur. Þar var hægt að fóðra fimm kýr ef túnið var gott, en ekki ef það hafði verið í órækt og úr sér vaxið eins og það var á þeim tíma sem Jarðabókin var gerð.

Óttarsstaðir

Óttarsstaðavör.

Lendingin var í meðallagi og nýtt af ábúenda allt árið í kring. Jörðin átti selstöð í almenningi, en þar voru hagar góðir, en lítið um vatn í þurrka á sumrin.
Töluvert af skráðum minjum falla inná landsvæði Óttarsstaða, en fáar tengjast eiginlegum búskap.
Fjölmargar vörður eru innan landsvæðisins, bæði kenni- og eyktamörk, einnig eru þar stekkir, leiðir og fjárskýli.

Þorbjarnarstaðir

Þorbjarnastaðir

Þorbjarnarstaðir – tilgáta (ÓSÁ).

Þorbjarnarstaðir eru ein af jörðunum sem teljast til hinna svokölluðu Hraunjarða, en það eru þær jarðir sem eru innan staðarmarka Hafnarfjarðar suðvestur af kaupstaðnum.
Elstu heimildir sem til eru um Þorbjarnarstaði er frá 1395 í skrá um kvikfé og leigumála á jarðeignum Viðeyjarklausturs, en þá er jörðin í eyði, og í fógetareikningum frá 1547-48, þá er jörðin komin aftur í byggð og þar segir : „Jtem met Torbernestdom j legeko. Xij for. Landskyldt iiij vetter fiske. ij lege iij vether fiske dt. oc ij landskyldt iij vether fiske dt. summa iije tals.“

Þorbjarnarstaðir

Þorbjarnarstaðir – uppdráttur ÓSÁ.

Í jarðabók Árna Magnússonar frá 1703 segir að jarðardýrleikinn sé óviss og jörðin í eigu konungs.
Jörðin var þá með selstöð sem nefnist Gjásel, en þar voru hagar góðir en vatn slæmt. Einnig segir að túnrista og stunga var í lakara lagi og ekki nægileg, en fjörugrastekja sé góð og nægjanleg fyrir heimilismenn. Heimræði hafi verið árið í kring og lending góð, en þó mjög erfitt að setja skip upp, þó hafi skip ábúenda siglt eftir hentugleika allt árið í kring.
Byggð hefur verið nokkuð samfelld á Þorbjarnarstöðum frá 1703 til 1920, en samkvæmt manntölum bjuggu mest þar 19 manns árið 1703, en minnst bjuggu þar 3 manns 1920, að undanskildu árinu 1890 þegar enginn bjó þar samkvæmt manntölum.
Árið 1869 flyst Ólafur Jónsson að Þorbjarnarstöðum og bjó þar til 1881 og er segir Valgarður L. Jónson frá störfum Ólafs við umbætur á jörðinni í Íslendingaþáttum Tímans. Ólafur mun hafa grætt upp túnblettina og hlaðið varnargarð umhverfis túnið. Hann mun hafa mulið hraunið með sleggju og breitt mold yfir og fengið þannig hið fínasta tún í kringum bæinn.

Þorbjarnarstaðir

Þorbjarnarstaðir – túnakort 1919.

Samkvæmt túnakorti frá 1919 voru túnin á Þorbjarnarstöðum slétt og holótt 1,4 teigar og kálgarðar um 500m2, en kálgarðar Þorbjarnarstaða eru enn vel greinanlegir í dag.
Ætla má að þær tóftir og garðlög sem sjáanleg eru á Þorbjarnarstöðum í dag séu komin frá honum Ólafi, en búast má við að jörðin geymi enn eldri minjar þar sem jörðin hefur verið í byggð í hið minnsta frá 14. öld.
Minjarnar sem tengjast Þorbjarnarstöðum tengjast flestar búskapi á Þorbjarnarstöðum, þ.e. ýmsar útihúsatóftir, matjurtagarðar, gerði og garðlög.

Þorbjarnarstaðir

Þorbjarnarstaðir – brunnur í Brunntjörn.

Aðrar minjar sem tengjast Þorbjarnarstöðum er einnig að finna í hrauninu í kring um bæjarstæðið, þar má nefna Þorbjarnarstaðarétt, ýmsar vörður sem eru þá bæði kennimörk og eyktamörk. Norðaustan við bæjarstæðið er að finna steyptan grunn af sumarbústað sem var rifinn um það leiti sem álverið í Straumsvík var byggt. Tveir grunnar til viðbótar eru fast sunnan við Reykjanesbrautina.
Norðan við bæjarstæði og í landi Þorbjarnarstaða og fast sunnan við Reykjanesbrautina er að finna þurrabúðina Péturskot.

Péturskot

Péturskot – túnakort 1919.

Bæjarstæði Péturskots hefur þó orðið fyrir miklu raski vegna lagninu Reykjanesbrautarinnar. Um Péturskot segir í Örnefnaskrá „[…] Péturskoti, sem var þurrabúð í Þorbjarnarstaðalandi. Var það fyrst byggt fyrir aldamót af Pétri Péturssyni, Helgu konu hans og Signýju dóttur þeirra. Þarna var ofurlítið tún, og var túngarður umhverfis það. Háatún nefndist nokkur hluti túnsins sunnan bæjarins og ofan, oftast þá nefnt Fagrivöllur. Kotið var oft í spaugi nefnt Hosiló, en það festist aldrei við sem örnefni. Austan við túnið var matjurtagarður. Þar eru nú sumarbústaðir. Þessi garður tilheyrði Litla-Lambhaga, en einnig var kálgarður í Péturskotstúni“.

Alfaraleið

Alafarleið

Alfaraleiðin milli Hafnarfjarðar og Hvassahrauns.

Alfaraleiðin var áður skráð af Katrínu Gunnarsdóttur árið 2011 og er meginhluti sögulega yfirlitsins unninn úr þeirri skýrslu.
Alfaraleiðin er elsta kunna samgöngueiðin milli Suðurnesja og Innesja Reykjanesskagans. Um hana fóru allir skreiðar- og vöruflutningar.
Vermenn sem fóru um norðanverðan skagann fylgdu þessari götu á ferðum sínum í og úr verinu.

Alfaraleiðin

Alfaraleiðin.

Bændur og kaupmenn, ferðamenn og vinnuhjú fylgdu þessum fjölfarna götuslóða um aldir, eða allt þar til Gamlivegur, fyrsti vagnfæri Suðurnesjavegurinn var lagður um 1900. Þá lagðist Alfaraleiðin af. Allflestar vörður voru rifnar niður af vegagerðarmönnum og leiðin gleymdist smám saman. Hluti leiðarinnar hefur orðið nútímanum að bráð, farið undir golfvöll, lent undir Reykjanesbrautinni á stöku stað og horfið að hluta þegar mikil efnistaka átti sér stað í Kapelluhrauni á sjötta og sjöunda áratug 20. aldar.
Gatan sést ekki lengur í Kapelluhrauni því stórvirkar vinnuvélar hafa eytt þeirri merku vegaframkvæmd sem þarna var unnin fyrir margt löngu. Ekki er vitað hvenær gatan í gegnum Nýjahraun var rudd, en það hefur trúlega átt sér stað seint á 12. öld eða snemma á 13. öld.

Alfaraleið

Varða við Alfaraleið.

Nýjahraun rann í miklum eldsumbrotum sem áttu sér stað 1151 úr gígaröð í Undirhlíðum.
Alfaraleiðin liggur áfram í suðvestur yfir hæðir og hóla, ofan í sprungum og yfir slétt svæði í hrauninu. Leiðin var einungis skráð að sveitarfélagsmörkum Hafnarfjarðar og Voga, en hún heldur áfram mun lengra inn í hraunið.
Tuttugu og tvær vörður eru enn við leiðina, þrátt fyrir að þær hafi verið mun fleiri á meðan leiðin var í notkun.

Heimild:
-Fornleifaskráning vegna tvöföldunar Reykjanesbrautar og breyttar landnotkunar 2020.

Ingvaldar

Brá á Ingveldum 2010.

Hafnarfjörður

Á vefnum „Íslandskort.is“ má lesa eftirfarandi fróðleik um Björn Gunnlaugsson og Íslandskortagerð hans á árunum 1831-1843. Hér verður lögð áhersla á vinnu hans við kortlagninu Reykjanesskagans.

Björn Gunnlaugsson

Björn Gunnlaugsson – myndin er unnin af Sigurði Guðmundssyni málara.

Björn Gunnlaugsson (28. september 1788 – 17. mars 1876) var landmælingamaður og höfundur stjörnufræðirita. Hann starfaði þó mestan hluta ævinnar sem kennari, fyrst við Bessastaðaskóla, en fluttist með skólanum til Reykjavíkur og varð síðar yfirkennari.
Björn Gunnlaugsson er þekktastur fyrir uppdrátt sinn af Íslandi en hann ferðaðist um landið til mælinga sumurin 1831–1843, að frátöldu sumrinu 1836. Mælingar Björns urðu undirstaðan að Íslandskorti sem Hið íslenska bókmenntafélag gaf út árin 1844 og 1849. Mælingar Björns lögðu einnig grunninn að öðrum Íslandskortum næstu áratugina fram til þess að dönsk herforingjaráðskort tóku við á fyrstu árum tuttugustu aldar.

Gullbringa- og Kjósarsýsla med nokkrum parti af Árnesssýslu

Björn Gunnlaugsson

Uppdráttur Björns Gunnlaugssonar af Reykjanesskaga 1831, fyrsta útgáfa.

Þegar Björn Gunnlaugsson hóf landmælingar sínar á Íslandi var ákveðið að fjárveiting hans yrði aðeins til eins árs til að byrja með og bundin því skilyrði að hann byrjaði á Gullbringu- og Kjósarsýslu. Um áframhald verksins átti svo að fara eftir árangri fyrsta sumarsins.
Björn hófst strax handa um leið og hann fékk mælingatækin í hendurnar og tókst að ljúka mælingu Gullbringu- og Kjósarsýslu um sumarið 1831 þrátt fyrir ýmsa byrjunarörðugleika. Eftir að kortið var tilbúið sendi Björn það til Kaupmannahafnar.

Björn Gunnlaugsson

Uppdráttur Björns Gunnlaugssonar af Reykjanesskaga 1831, önnur útgáfa.

Stjórn Bókmenntafélagsins leist vel á það og ákveðið var að styrkja Björn áfram. Við áframhald verksins þurfti Björn að fá kortið af Gullbringu- og Kjósarsýslu aftur vegna tengingar þess við síðari kort. Í stað þess að fá sent frumkortið fékk hann hins vegar í hendur handdregnar eftirmyndir þess. Ekki er vitað til annars en að kortin séu nákvæm eftirgerð af korti Björns. Ef litið er nánar á þau sést vel hvernig Björn hefur lagt sig fram um draga upp sem flest fjöll inn til landsins en þau höfðu strandmælingamenn alveg skilið eftir.

Uppdráttur Íslands

Björn Gunnlaugsson

Uppdráttur Íslands, 1. útg. eftir Björn Gunnlaugsson.

Þó að strandmælingarnar hefðu verið merkur áfangi var enn langt í land að komið væri viðunandi kort af landinu í heild, byggðum þess og óbyggðum. Strandkortin nægðu farmönnum en fyrir landsmenn komu þau að litlu gagni hvort sem litið var til almennrar þekkingar á landinu sjálfu eða til annarra nota. Eftir að strandmælingunum lauk varð ekki vart neinna tilburða til þess að hrinda verkinu lengra áleiðis.
Nú vildi svo vel til að til var Íslendingur er lokið hafði háskólaprófi í stærðfræði við mjög góðan orðstír og unnið um skeið að landmælingum erlendis. Hann hét Björn Gunnlaugsson, kennari við latínuskólann á Bessastöðum.

Björn Gunnlaugsson

Uppdráttur Íslands eftir Björn Gunnlaugsson á árunum 1849-1850.

Árið 1829 ritaði Björn stiftsyfirvöldum og mæltist til að Danir létu Íslendingum eftir landmælingaáhöld þau er notuð voru við strandmælingarnar. Í bréfinu segist hann oft vera beðinn um að mæla ýmislegt og þægilegt væri að hafa áhöldin við höndina. Þessari ósk Björns var ekki sinnt. Hið íslenska bókmenntafélag skarst þá í leikinn og ákvað eftir nokkuð hik árið 1831 að verja ákveðinni upphæð til mælinga á landinu öllu. Stiftamtmaður var beðinn um að hlutast til um það að mælingatækin og eftirmyndir strandkortanna yrðu látin af hendi og varð hann við því. Birni Gunnlaugssyni var falið verkið en fjárveitingin var aðeins til eins árs til að byrja með og bundin því skilyrði að mælingin hæfist í Gullbringu- og Kjósarsýslu. Um áframhald verksins skyldi svo fara eftir árangri fyrsta sumarsins.

Björn Gunnlaugsson

Uppdráttur Íslands – 1. hluti.

Björn hófst strax handa um leið og hann fékk mælingatækin í hendurnar og tókst að ljúka mælingu Gullbringu- og Kjósarsýslu um sumarið 1831 þrátt fyrir ýmsa byrjunarörðugleika. Eftir að kortið var tilbúið sendi Björn það til Kaupmannahafnar til þess að hægt yrði að gera myndamót af því. Stjórn Bókmenntafélagsins leist vel á kortið og ákveðið var að halda mælingunum áfram. Björn vann að verkinu árin 1831-1843 að sumrinu 1836 undanskildu. Hann mun hafa ferðast rúma 700 daga í mælingaleiðöngrum sínum. Árið 1836 rættist úr fjárhagsáhyggjum þeirra er stóðu að mælingunum er rentukammerið ákvað að veita Birni árlegan styrk.

Björn Gunnlaugsson

Uppdráttur Íslands, 2. hluti.

Í upphafi hafði áætlunin verið sú að mæla hverja sýslu fyrir sig og búa til sérkort af þeim en vegna mikils kostnaðar var hætt við það og ákveðið að búa til heildarkort af landinu á fjórum blöðum. Forstöðumanni landmælingadeildar herforingjaráðsins, Olaf Nikolas Olsen, var falið að sjá um útgáfu kortsins í Danmörku. Í hans hlut kom að taka við svæðakortum frá Birni, tengja þau saman og minnka þau síðan í rétta stærð. Vegna minnkunarinnar varð að fella niður fjölda örnefna sem Björn hafði tekið til, velja úr þeim og bæta inn nýjum nöfnum ef ástæða þótti til. Á kortinu stendur að það sé gefið út 1844 en það varð líklega ekki tilbúið fyrr en fjórum árum síðar.

Björn Gunnlaugsson

Uppdráttur Íslands, 3. hluti.

Kortið er gert í keiluofanvarpi, mælikvarðinn er 1:480.000 og lengdarbaugar miðaðir við Kaupmannahöfn. Nafnið stendur á suðausturkortinu en á titilblaði sem fylgir er það nokkuð stytt. Þar eru einnig skýringar á merkjum, stutt greinargerð um útgáfuna og frönsk þýðing.
Þegar Olsen fór að sjá fyrir endan á vinnunni við fjögurra blaða kortið byrjaði hann á öðru og handhægara Íslandskorti í helmingi minni mælikvarða. Kortið kom sennilega ekki út fyrr en 1850 þó á því standi útgáfuárið 1849. Mælikvarði er 1:960.000 og ofanvarp hið sama og á stærra kortinu. Uppdrátturinn er aðeins minnkuð eftirmynd stærra kortsins með færri nöfnum.

Björn Gunnlaugsson

Uppdráttur Íslands, 4. hluti.

Þó að sami maður hafi séð um eirstunguna á báðum kortunum er hinn minni lakar gerður. Þar veldur mestu um að Olsen hefur leitast við að taka upp það marga landslagsþætti frumgerðarinnar að öllu hættir til að renna saman. Nöfn eru líka oft með það smáu letri að erfitt er að lesa þau. En kortið kostaði hins vegar aðeins þriðjung af verði stóra kortsins. Útgáfa kortanna var mjög dýr, kostnaðurinn mun hafa numið tífaldri þeirri upphæð sem Bókmenntafélagið greiddi Birni Gunnlaugssyni í beinan ferðakostnað á tólf árum.

Björn Gunnlaugsson

Björn Gunnlaugsson – Reykjanesskagi.

Mæling og kortagerð Björns Gunnlaugssonar var mikið vísindalegt afrek. Í fyrsta skipti var fenginn sæmilegur uppdráttur af landinu öllu. Þó að eldri heildaruppdrættir, byggðir að nokkru leyti á mælingum, væru til voru þeir oft fjarska handahófskenndir og ónákvæmir. Björn studdist við strandkortin eins langt og þau náðu. Hann fór um allar byggðir landsins í mælingaleiðöngrum sínum en ferðaðist hins vegar lítið um óbyggðir. Um sum svæði varð hann að treysta frásögnum kunnugra. Miðhálendið hefur mætt afgangi en útlit þess er þó mikil framför frá fyrri kortum. Kortið var hið fyrsta sem menn gátu notað til þess að gera sér sæmilega grein fyrir staðsetningu byggða og útbreiðslu jökla, hrauna og fjallþyrpinga. Meiri háttar fljót voru rakin til upptaka og stöðuvötn mörkuð af meira raunsæi en áður.

Björn Gunnlaugsson

Uppdráttur Björns Gunnlaugssonar af miðlendi Skagans.

Kort Björns Gunnlaugssonar er ekki laust við villur en við öðru var ekki að búast miðað við að hann fór ekki um allt landið og vann verkið einn og aðstoðarlítið með frumstæðum tækjum. Við bágar aðstæður lagði Björn undirstöðu sem aðrir byggðu á uns skipulegar mælingar hófust upp úr aldamótum og þá í miklu stærra sniði.

Í Ísafold, föstudaginn 24. mars 1876, er fjallað um lát Björns Gunnlaugssonar og eftirmæli skrifuð:
„Björn bjó að Sviðholti meðan hann kenndi við Bessastaðaskóla og vann að „Uppdrætti Íslands„. Á því starfi byrjaði hann árið 1831, eptir tilmælum bókmenntafjelagsins, fyrst eingöngu á þess kostnað, en síðan styrkti stjórnin. Verkið var mikið og vandasamt, en launin lítil, og óhætt að fullyrða, að engin nema Björn hefði ekizt það á hendur fyrir svo lítið.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður – herforingjaráðsuppdráttur 1903.

Haun ferðaðist á sumrin, tók fyrir stærri eða minni kafla landsins, mældi þá í krók og kring og gjörði uppdrætti yfir, þegar hann var kominn heim og hafði tómstundir til, og hjelt því starfi fram þangað til sumarið 1843, að hann hafði yfirfarið landið, eins og hann segir í brjefi til bókmenntafjelagsdeildarinnar í Kaupmannahöfn, dagsettu f Sviðholti 10. febr. 1844: «Nú er eg þá loksins búinn að yfir fara allt landið, eins og kostur er á, þó sumstaðar sje ekki svo vel skoðað sem skyldi,; en það mundi kosta óþolandi tímalengd og peninga útlát fyrir fjelagið, að láta skoða hvert einstakt fjall, þar sem þau standa mjög þjett saman, álíkt og hús í stórum og þjettbyggðum borgum».
Landsuppdrættir þessir voru síðan steinprentaðir eins og kunnugt er, og hafa þeir flutt frægðarorð Bjarnar út um allan hinn menntaða heim. Í summar sem leið fjekk bókmenntafjelagið heiðurspening frá París fyrir þenna landsuppdrátt.“

Nágrenni Reykjavíkur og Hafnarfjarðar

Hafnarfjörður

Herforingjaráðskort; Hafnarfjörður og Álftannes 1903.

Á síðasta áratug 19. aldar varð dönskum yfirvöldum ljóst að þau kort sem til voru af Íslandi stæðust ekki þær kröfur sem gera þyrfti í samfélagi þess tíma. Bestu kort af Íslandi sem buðust voru í stórum dráttum byggð á strandmælingum danska sjóhersins sem fram fóru á árunum 1801-1818 annars vegar og hins vegar á kortum Björns Gunnlaugssonar sem byggð voru á fyrrnefndum strandmælingum og eigin mælingum Björns á árunum 1831-1843.
Á fjárlögum 1899 voru veittar 5000 krónur og skyldi hefja nýjar þríhyrninga- og strandmælingar á Reykjanesi.

Bessastaðir

Herfirngjaráðsuppdráttur 1908; Bessastaðir og Lambhús.

Árið 1900 var gefin út í Danmörku tilskipun um að sendur skyldi leiðangur til Íslands til að mæla hér grunnlínu og hnattstöðu. Síðan var ætlunin að mæla þríhyrninganet út frá nýju grunnlínunni. Hingað voru sendir danskir liðsforingjar og sumarið 1900 var unnin ýmis undirbúningsvinna. Árið 1902 höfðu fjárveitingar verið auknar svo að rétt þótti að hefjast handa. Byrjað var á Hornafirði og mælt vestur ströndina og um lágsveitir Suðurlands en uppsveitum og hálendi frestað.

Ás

Herforingjaráðsuppdráttur; Ás ofan Hafnarfjarðar.

Verkinu var svo haldið áfram tvö næstu árin en féll niður 1905 vegna fjárskorts og annarra anna hjá Landmælingadeild danska herforingjaráðsins (Generalstabens topografiske Afdeling) er tókst verkið á hendur. Eftir eins árs bið var þráðurinn tekinn upp að nýju enda bættist nú við fjárstyrkur úr ríkissjóði Dana. Á árunum 1906-1914 var unnið öll sumur, nema 1909, þegar ekkert var aðhafst. Var þá lokið byggðamælingum sunnanlands og mælt um Vesturland, norður og austur um Húnaflóa. Árangurinn var 117 kortblöð af þriðjungi landsins, suður- og vesturhluta, í mælikvarða 1:50.000 (auk nokkurra sérkorta af afmörkuðum svæðum). Þau eru gjarnan nefnd herforingjaráðskortin í höfuðið á þeim sem stóðu fyrir gerð þeirra.

Heimildir:
-https://is.wikipedia.org/wiki/Bj%C3%B6rn_Gunnlaugsson
-https://islandskort.is/map/126#?c=0&m=0&s=0&cv=0&r=0&xywh=32%2C710%2C15103%2C8277
-https://islandskort.is/map/599#?c=0&m=0&s=0&cv=1&r=0&xywh=780%2C3052%2C7177%2C3933
-https://islandskort.is/map/1135#?c=0&m=0&s=0&cv=0&r=0&xywh=1012%2C4663%2C3138%2C1327
-Íslandskort.is – sótt 27.04.2023.
-https://timarit.is/files/9289295
-Ísafold, föstudaginn 24. mars 1976, Björn Gunnlaugsson, bls. 1-2.

Herforingjaráðskort

Reykjanesskagi – samsett herforingjaráðskort.

Krísuvík

Í skýrslu Bjarna F. Einarssonar; „Krýsuvík – Fornleifar og umhverfi“, frá árinu 1998 segir m.a. frá fyrstu heimildum um Krýsuvík, auk þess sem skýrslunni fylgir skrá um einstakar fornleifar tilheyrandi svæðinu. Hér verður rifjaður upp sögulegi kafli skýrslunnar:

Fyrstu heimildir um Krýsuvík

Bjarni F. Einarsson

Bjarni F. Einarsson.

„Krýsuvíkur er fyrst getið í Landnámu, en þar stendur: „Þórir haustmyrkr nam Selvág ok Krýsuvík, en Heggr son hans bjó at Vági. Böðmóðr, annarr son hans, var faðir Þórarins, föður Súganda, föður Þorvarðar, föður Þórhildar, móður Sigurðar Þorgrímssonar. Molda-Gnúpssynir byggðu Grindavík, sem fyrr er ritat“. (Landnáma 1968:392).
At Vági er sennilega Vogur í Selvogi, sem síðar hét Vogshús og enn síðar Vogsósar. Um staðsetningu Vága eru þó talsverðar efasemdir (Guðni Jónsson 1936-40:14).
Í kirknaskrá Páls biskups Jónssonar, sem mun vera frá því um 1200, er kirkju í Krýsuvík getið (Í.F. Bd. XII, bls. 9).

Keflavík

Keflavík í Krýsuvík – einnig nefnd Kirkjufjara. Þangað átti Skálholtskirkja og síðar Strandarkirkja um tíma rekaítök undir berginu til forna og eftir siðaskiptin kirkjur á norðanverðum Reykjanesskaga, s.s. Viðey og Garðakirkja. Í Keflavík var jafnan nægt rekaviðs.

Árin 1234 og 1284 er Krýsuvík nefnd í máldaga Maríu kirkju og staðar í Viðey í sambandi við hvalreka. Þar stendur: „en sa maðr er byr j Krysvvik skal skylldr at festa hvalinn sva at eigi taki sør vt. oc gera orð til Viðeyiar fyri þriðiv.sol“. (Í.F. Bd. I, bls. 507).
Ábúandi átti sem sagt að sjá til þess að hval ræki ekki aftur út og gera Viðeyjarmönnum viðvart innan þriggja daga.
Elsti máldagi Maríukirkju í Krýsuvík er frá því um 1275. Sá máldagi er í stórum dráttum eins og máldagi frá 1307, en sá síðari þó fyllri.

Mölvíkurtjörn

Við Mölvíkurtjörn austan Herdísarvíkur. Þangað sótti Skálholtsstóll og Strandarkirkja löngum reka með vísan til fornra heimilda.

Í Rekaskrá Strandarkirkju frá um 1275 stendur: „skalhollt oc krijsevijk aa halfann allann reka under fuglberge vid strandar land. millum wogs oc hellis aa strendur land iiij vætter enn ef meire er þa aa skalhollt oc krijsvijk fiordung j øllum hual. Enn fyrer austann wog til vindass aa stadur j skaalhollte oc krijsevijk halfan tolftung i hual ef meire er enn iiij vætter. en ecke ellegar“. (Í. F. Bd. II, bls. 124-25).
Krýsuvíkur er síðan getið á mörgum stöðum í Fornbréfasafni og yfirleitt í sambandi við hvalreka, rekavið og grasnytjar. Hafa þessi hlunnindi því verið eftirsóknarverð frá ómunatíð (sjá nánar góða greinargerð um Krýsuvíkurkirkju í fornum heimildum í Sveinbjörn Rafnsson 1982).

Húshólmi

Húshólmi – uppdráttur Brynjúlfs Jónssonar.

Árið 1818 sendi séra Jón Vestmann (1769-1859), sem var prestur í Selvogi árin 1811-1842, bréf til hinnar konunglegu nefndar, Commissionen for oldsagers opbevaring, vegna fyrirspurna nefndarinnar um fornleifar í landinu. Í bréfinu tíundar Jón þær fornleifar sem hann þekkir og telur þess verðar að minnast á. Engar nefnir hann fornleifarnar í landi Krýsuvíkur sem nú er, en í Ögmundarhrauni segir hann svo frá fornleifum: „Hús-Hólmi nidur vid sióin í sama Hrauni; hefur þar verid mikil Bygd, ádur brann, sem sést af Húsa Tópta-Brotum, ad hvórium Hraunid géngid hefur, ad nordan –vestan -sunnan, – og næstum saman ad Austan-verdu; er þar 1t Tóptar-Form 12 Feta breidt, og 24 Feta Lángt, innan nidur fallinna Veggia Rústa; Húsid hefur snúid líkt og Kyrkiur vorar, meinast gamalt Goda-Hof; fundid hafa Menn þar nockud smávegis af Eyrtægi; þar er tvisett Túngards form med 20 fadma Milli-bili, hvar nú er Ling Mói; enn Graslendi innan ynnri Gards, austanverdt vid Hraunid“. (Frásögur um fornaldarleifar 1983:227).

Húsólmi

Uppdráttur af Húshólma frá fyrri tíð – (Haukur og Sigmundur).

Forsaga byggðar í Krýsuvík er að margra mati í hólmanum í Ögmundarhrauni sem getið er í svarbréfi Jóns prests hér að framan. Munu rústirnar þar gjarnan vera kallaðar Gamla Krýsuvík (Stefánsson 1967 (b)) eða Krýsuvík hin forna (Brynjólfur Jónsson 1903:48-50. Stefán Stefánsson (b) 1967:556. Haukur Jóhannesson og Sigmundur Einarsson 1988:84).
Athyglisvert er að Jón Vestmann segir ekki orð um þessi munnmæli í lýsingunni hér að ofan. Hann nefnir þau hins vegar í annarri lýsingu sinni árið 1840 og segir að; „Meina menn, að Krýsuvík hafi þar verið, áður hraunið hljóp þar yfir,… (Sýslu- og sóknarlýsingar 1979:214). Enn í dag sjást talsverðar rústir í Húshólma og Kirkjulágum þar skammt hjá.

Húshólmi

Húshólmi – garður – uppdráttur – (Haukur og Sigmundur).

Um aldur Ögmundarhrauns eru talsvert skiptar skoðanir. Elst er það talið geta verið frá öndverðri 11. öld. Byggist sú tilgáta á geislakolsgreiningum. Aðrir telja hraunið runnið seint á tímabilinu 1558-1563 Einnig hefur verið talið að hraunið hafi runnið 1340. Síðustu niðurstöðurnar benda til þess að hraunið hafi runnið árið 1151 (Jón Jónsson 1982:196. Sveinbjörn Rafnsson 1982:422. Haukur Jóhannesson og Sigmundur Einarsson 1988:71). Upptök hraunsins eru í Trölladyngju, nyrsta hluta Núpshlíðarháls.
Eins og áður hefur komið fram er elsta heimild um kirkju í Krýsuvík í kirknaskrá

Húshólmi

Húshólmi – meint kirkjutóft í Kirkjulág.

Páls biskups Jónssonar frá því um 1200 og nokkrum sinnum er kirkjunnar getið í 13. aldar heimildum. Ef Ögmundarhraun er rétt aldursgreint til ársins 1151 hljóta skrárnar að eiga við kirkju þá er stóð undir Bæjarfellinu, á núverandi stað. Þó hefur því verið haldið fram að kirkja hafi áfram staðið fram á 16. öld, úti í Ögmundarhrauni (Haukur Jóhannesson og Sigmundur Einarsson 1988:83-84).
Ekki eru rústirnar í Ögmundarhrauni þær einu sem kallaðar hafa verið Krýsuvík hin forna. Um Gestsstaði hefur einnig verið sagt að þeir hafi áður heitið Krýsuvík (Brynjólfur Jónsson 1903:50. Örnefnaskrá (a)).

Gestsstaðir

Gestsstaðir í Krýsuvík, skálatóft sunnan Gestsstaðavatns.

Elsta heimildin um Gestsstaði er Jarðarbók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns sem skráð var árið 1703. Þar segir: „Gestsstader skal hafa jörð heitið nálægt Krýsivík undir Móhálsum austanverðum, þar allnærri sem nú liggur almenníngsvegur. Sjer þar enn nú bæði fyrir túngarði og tóftum. En völlur er allur uppblásinn og kominn í mýri, mosa og hrjóstur, so ómögulegt er jörðina aftur að byggja. Þar með liggur hún aldeilis í Krýsivíkurlandi og kann ekki fyrir utan skaða Krýsivíkur landsnytjar að hafa. Hefur og so lánga tima í eyði legið, að engi veit til nær hún hafi bygð verið“. (1923-24:7).

Gestssaðir

Gestsstaðir – uppdráttur – ÓSÁ.

Um Gestsstaði segir Brynjólfur Jónsson svo: „Gestsstaðir heitir eyðibær, norðvestur frá Krýsuvík, þar sem hún er nú. Hann hefir staðið sunnanundir dálítilli hæð, sem gengur austur úr Sveifluhálsi. Sér þar enn fyrir tóftum, og hefir þar verið stórbýli á sínum tíma. Bæjartóftin er 10 fðm. löng frá austri til vesturs, hefir engan miðgafl, og mun hafa verið þiljuð sundur. Dyr sjást ógjörla, en á suðurhliðinni hafa þær verið, því hvorki eru þær á endunum né norðurhliðinni. Skamt austar er fjóstóft, 6 fðm löng, og heygarður eigi lítill. Túnið hefir og verið mikið og umgirt, en nú er það víða komið í sand af árennsli.

Gestsstaðir

Gestsstaðir – eystri tóftin og garður.

– Þau ummæli heyrði eg í Grindavík fyrir 40 árum, að Krýsuvík hefði í fyrstu heitið Gestsstaðir og staðið vestur við hálsinn. Nú þykist eg skilja sannleikann í þeim. Jörðin Gestsstaðir hefir verið eign Krýsuvíkurkirkju. Hefir bærinn og kirkjan því verið flutt í Gestsstaðaland eftir eldinn. En við það hafa Gestsstaðir verið sviftir nytjum, og meir og meir þrengt að þeim unz þeir lögðust í eyði“. (1903:50).

Húshólmi

Húshólmi – skálar. Hafa ber í huga að skv. lýsingunum skoðaði Bjarni einungis Húshólma „úr lofti“. Stundum skiptir samhengi hlutanna í nánd máli?

Tel ég munnmælin um Krýsuvík hina fornu í Ögmundarhrauni og við Gestsstaði vera seinni tíma útskýringar til að varpa einhverju ljósi á rústir sem voru mönnum annars með öllu óþekktar og óskiljanlegar. Benda má á að Svartadauða, sem geisaði árið 1402, hefur verið kennt um eyðingu margra óþekktra eyðibýla hér á landi, en aldrei hefur sambandið verið staðfest, öðru nær. Þau eyðibýli, sem rannsökuð hafa verið og heimildir eru til um að hafi farið í eyði vegna Svartadauða, eru öll mun eldri en plágan.

Krýsuvík

Krýsuvík – örnefnakort Ólafs Þorvaldssonar.

Túlkun Brynjólfs um eyðingu Gestsstaða er tilgáta en ekki staðreynd. Ekki er víst að neitt samband sé á milli eyðingar Gestsstaða og Krýsuvíkurbæjarins, heldur hafi staðreyndir skolað til og munnmæli og ímyndanir blandast saman svo úr varð þjóðsaga um Krýsuvík hina fornu. Hluti af þessum munnmælum er frásögn í Ferðabók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar frá 1772 um hraunflóð sem eyddi kirkjustað sem hét Hólmastaður, en það er elsta lýsingin á rústunum í Ögmundarhrauni. Átti það að hafa gerst tveimur öldum fyrir heimsókn þeirra Eggerts og Bjarna. Í þeirri frásögn er hvergi minnst á sambandið við Krýsuvík.

Húshólmi

Húshólmi – uppdráttur ÓSÁ.

Í dagbókum þeirra félaga frá 31. maí 1755 segir svo frá rústunum: „… taget bort Nogle bajer som her til forne har Staaet, og der i bland Eet Kirke Stæd som heed Holma Stadur med Kirken og alting, dog Seer man endnu paa Een liden plet der er bleven til overs lidet Stykke af (sem det meenes) Kirke gaarden og faae Stykker af Husevæggene“. (Í Sveinbjörn Rafnsson 1982:420).

Krýsuvík

Krýsuvíkurbærinn um 1789. Bæjarfellið rís yfir bænum og Vestarilækur liðast undir bæjarhólnum. Hér má gera sér einhverja grein fyrir kirkjugarðinum. Framarlega á myndinni, niður við lækinn, virðast vera kálgarðar. Á þessum slóðum er garðbrot í dag, sem gæti verið hluti af kálgarðinum. Á þessum slóðum fundust einnig rúst og stífla sem giskað er á að gætu verið leifar af brennisteinsstöðinni sem stóð við bæinn árin 1755-63. Kálgarðurinn gæti hafa verið settur niður við þær rústir. Horft til NNA. Myndin er úr bókinni Íslandsleiðangur Stanleys 1789. Ferðabók. Reykjavík 1979,
bls. 268.

Kannski hét jörðin í Ögmundarhrauni Hólmur í fyrstunni, síðan Hólmastaður þegar kirkja var reist á staðnum. Fornleifafræðirannsókn gæti skorið úr um þessi mál, en þangað til verður ekki hægt að segja hvað sé rétt og hvað ekki.

Árið 1563 er aðeins ein hjáleiga við Krýsuvík (Sveinbjörn Rafnsson 1982:421-22). Ekki er þess getið hver hún var.
Í manntali árið 1703 eru hjáleigurnar orðnar sex að tölu, en ekki er nafna þeirra getið (Manntal á Íslandi árið 1703:3). Í Jarðabók frá sama ári segir að hjáleigurnar séu fimm, en tvíbýli á einni þeirra, Nýjabæ. Hjáleigurnar voru Suður hjáleiga (Suðurkot), Norður-hjáleiga (Norðurkot), Nyie Bær, Litle Nyie Bær og Austur hús (Jarðabók 1923-24:4-7). Austurhús gæti verið við [Stóra] Nýjabæ, en þegar þar var tvíbýli voru húsin kölluð Austurbærinn og Vesturbærinn (Stefán Stefánsson 1967 (a)). Skúli Magnússon landfógeti segir að árið 1703 hafi hjáleigurnar verið sjö (Landnám Ingólfs 1935:109). Ekki er nafna þeirra getið.

Krýsuvík

Krýsuvíkurbærinn um 1789, séð frá NNA. Sennilega er Norðurkot neðst á myndinni t.v. Þar virðist vera hringlaga túngarður með nokkrum húsum fyrir innan. Arnarfellið sést t.v. og Bæjarfellið t.h. Myndin er úr sömu heimild og næsta mynd á undan.

Árið 1781 er eitt höfuðból í Krýsuvík og sjö hjáleigur. Segir í heimild frá þessum tíma að áður hafi verið tvíbýli í Krýsuvík. (Landnám Ingólfs 1935:109).
Í manntali frá árinu 1801 eru hjáleigurnar við Krúsuvík fjórar (fimm sé reiknað með tveimur á Stóra Nýjabæ). Þær eru Suður- og Norðurkot, Stóre Niebær 1. og 2. og Litle-Niebær. (Manntal 1978:320-21).
Nokkrum árum síðar, eða í manntali 1816 eru hjáleigurnar þær sömu og árið 1801. (Manntal 1953:375).
Árið 1840 eru hjáleigurnar orðnar sex talsins og allar nafngreindar. Þær eru Suður- og Norðurkot, Stóri- og Litli Nýibær, Lækur, og Vigdísarvellir. (Sýslu- og sóknalýsingar 1979:219). Sennilega var tvíbýli á Stóra Nýjabæ, sem gerir hjáleigurnar í raun sjö.

Krýsuvík

Fell – tóftir.

Í manntali frá árinu 1845 eru hjáleigurnar taldar upp sjö talsins. Þær eru Suður- og Norðurkot, Stóri Nýibær 1 og 2 Litli Nýibær, Vigdísarvellir og Bali. (Manntal 1982:346-47).
Í jarðartali Johnsens frá árinu 1847 eru hjáleigurnar einnig taldar vera sjö. Þær eru Suður- og Norðurkot, Stóri- og Litli Nýibær, Vigdísarvellir, Bali og Lækur. Lögbýlið Krýsuvík virðist vera tvíbýli. (Johnsen 1847:84). Ekki kemur fram hvort Stóri Nýibær hafi verið tvíbýli eða ekki. Af þessu má ráða að sumar hjáleigurnar hafa verið í ábúð meira og minna frá árinu 1703, jafnvel lengur. Aðrar koma og fara, en samtals verða þær aldrei fleiri en sjö talsins til ársins 1847.

Eyri

Eyri – bæjartóftir.

Sumar hjáleigur virðast vera svo stutt, eða seint, í ábúð að þeirra er ekki getið í jarðabókum né manntali. Þær eru Fitjar, Fell, Eyri (fór í eyði 1775. (Örnefndaskrá (b)), Arnarfell (sama og Fell?), Hafliðastekkur, Snorrakot, Snartakot(?) og Hnaus. Einhverjar þessara hjáleiga gátu verið tómthús, svo sem Snorrakot, Snartakot og Hnaus. Um önnur býli, sem vel gátu verið lögbýli, er nánast ekkert vitað, svo sem Gestsstaði og Kaldrana, en þau geta verið býsna forn.

Kaldrani

Kaldrani í Krýsuvík.

Um staðsetningu Fells og Eyrar er næsta lítið vitað. Get ég mér þess til að Eyri hafi verið sunnan í Selöldunni, og Fell rétt hjá Grænavatni (sé það ekki hið sama og Arnarfell). Um Snartakot, Snorrakot og Hnaus er vitað að þau stóðu í túni eða túnjaðri Krýsuvíkur.
Talið er að býlið Kaldrani hafi staðið skammt SV af Kleifarvatni og voru garðar sýnilegir þar um aldamótin síðustu. Segir Brynjólfur Jónsson svo frá staðháttum: „Sést þar 34 fpm. langur túngarðsspotti úr stórgrýti og lítil grasflöt fyrir ofan, suðaustan í sléttum melhól. Uppi á hólnum er dálítil dreif af hleðslugrjóti, sem virðist vera flutt þangað af mönnum. Gæti það verið leifar af bænum. Því garðspottinn sýnir það, að þar hafa menn búið á sínum tíma“. (1903:50).

Seltún

Seltún – minjar brennisteinsvinnslunnar.

Ekki fundust ummerki þau sem getið er hér að ofan við vettvangskönnun, nema ef átt sé við garðstúf. Ekki er það þó líklegt. Sennilega eru allar minjar um býlið komnar undir sand/vikur.
Árið 1753 var fyrsta brennisteinshreinsunarstöð landsins reist við námurnar í Krýsuvík (við Seltún?). Skömmu síðar, eða árið 1755, var stöðin flutt að Krýsuvíkurbænum og var þar a.m.k. til ársins 1763. (Landnám Ingólfs 1935:111). Hvar nákvæmlega þessi stöð stóð eftir flutninginn er ekki vitað í dag, en varla hefur hún verið mjög nálægt bæjarhúsunum sjálfum. Giska ég á að hún kynni að hafa staðið niður við lækinn þar sem stífla og rúst eru staðsett.

Seltún

Brennisteinsnámuvinnslusvæðið við Seltún.

Stöðin gæti fyrst hafa verið þar sem kallast Brennisteinshúsarústir (Örnefnaskrá (a)), eða Brennisteinshúsatættur (Örnefnaskrá (b)), framan við Seltúnið á Seltúnsbarði, sunnan Selgilsins. Öruggar minjar um stöðina fundust ekki við vettvangsathugun, en einu minjarnar sem fundust við Seltúnið, auk selsins, voru grunnur að einhverju húsi sem gæti hafa verið undir stöðvarhúsinu. Sá grunnur gæti þó verið mun yngri.

Fornleifarnar

Krýsuvík

Krýsuvík – uppdráttur Bjarna F. Einarssonar.

Engar fornleifarannsóknir hafa verið gerðar á fornleifum á könnunarsvæðinu, svo mér sé kunnugt um. Í Húshólma í Ögmundarhrauni hafa jarðlög verið könnuð af jarðfræðingum og fimm geislakols-aldursgreiningar verið gerðar þar og í næsta nágrenni. Fornleifarnar í hrauninu munu hafa verið teiknaðar upp af fornleifafræðingi, en þær teikningar ekki verið birtar. Niðurstöður geislakolsgreininganna voru að byggð hafi verið á staðnum á 11. öld. (Haukur Jóhannesson o.fl. 1988:79). Torfgarður í Húshólma var sömuleiðis kannaður af jarðfræðingum og því haldið fram að hann hafi verið eldri en landnámsgjóskan svokallaða, en hún féll árið 871 eða 872. (Sami 1988:83). Því bendir ýmislegt til þess að mjög fornar fornleifar sé að finna í Ögmundarhrauni, en hvernig þær tengjast fornleifum í Krýsuvík er ekki ljóst.

Krýsuvík

Krýsuvík seinni tíma – uppdráttur ÓSÁ.

Ekki hafa allar gamlar þjóðleiðir verið skráðar sérstaklega og stafar það af því að þegar engin ummerki um slíkar leiðir finnast er þeim sleppt. Dæmi um slíkar leiðir má sjá á korti í bók Guðrúnar Gísladóttur (1998, m.a. kort 14) og korti í grein Ólafs Þorvaldssonar (1949:86). Þessar leiðir voru t.d. Engjafjallsvegur, Austurengjavegur og vegur um Bleiksmýri, sunnan við Arnarfell og suður úr. Önnur leið lá norðan við Arnarfellið og austur úr. Ekki ber kortunum alveg saman um nákvæma legu þessara og annarra leiða, enda ekki víst að menn hafi í raun séð leiðirnar almennilega, þegar þeir settu þær inn á kort.

Brennisteinsámur eru ekki skráðar hér og er ástæðan fyrst og fremst sú að undirritaðan skortir þekkingu á að lesa námurnar út í landslaginu og bróðurpartur þeirra er utan við könnunarsvæðið.

Krýsuvík

Krýsuvík – tóftir brennisteinsnámsins í Hveradal.

En aftur má benda á Guðrúnu Gísladóttur og að auki skýrslu Ole Henchels í ferðabók Ólafs Olaviusar (1965). Í þeirri skýrslu er kort af námusvæðunum og virðast flest allar námurnar þar vera fyrir utan könnunarsvæðið.“

Krýsuvík

Krýsuvíkurkirkja.

Frá því að framangreind skýrsla varð gerð hefur mikið vatn runnið til sjávar…
Auðveldlega væri hægt að gera verulegar athugasemdir við framangreinda „fornleifaskráningu“, en það er ekki markmiðið með þessari fróðleiksupplýsingu.
Benda má þó á eitt að lokum – Krýsuvík er skrifað í texta með „ý“ en ekki „í“, enda má benda til fornra tilvitnaðra textaskrifa í meðfylgjandi lýsingum því til staðfestingar – sjá HÉR.

Arnarfell

Arnarfell – uppdráttur ÓSÁ.

 

 

Krýsuvíkurberg

Farið var niður að Selöldu ofan Krýsuvíkurbergs. Bæjarstæðið sem og nálægar útihúsatóftir voru skoðaðar. Bærinn fór í eyði 1876 eftir hafa verið tiltölulega stutt í ábúð.

Selalda

Fitjar og Fitjatúnin undir Selöldu.

Ari Gíslason skrifaði örnefnalýsingu um svæðið eftir Þorsteini Bjarnasyni frá Háholti. Þar segir m.a.: „Sunnan Arnarfells tekur við Krýsuvíkurheiði og austarlega á henni eru tveir hólar, Trygghólar, en sunnan þeirra Trygghólamýri.

Selalda

Selalda – Strákar.

Suðvestur af Trygghólum er önnur hæð heldur hærri og nær sjó, upp af Hælsvíkinni fyrrnefndu, og heitir hún Selalda. Vestan í henni eru steinstrókar, sem heita Strákar. Vestan undir Strákum er Fitjatún. Hér upp af víkinni er svæði, sem nefnt er Hælsheiði. Þar um rennur Vestri-Lækurinn og í víkina vestanverða eða vestan hennar, og þess má einnig geta hér, að við Hæl er svonefnt Heiðnaberg í bjarginu.“

Selalda

Fitjar – bæjartóftir.

Fitja er ekki minnst í jarðabókinni 1703. Ekki heldur í manntalinu 1816 eða í sóknarlýsingu 1847. Svo virðist sem bærinn hafi einungis verið í byggð í 15-20 ár.

Í örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar fyrir Krýsuvík segir m.a.: „Arnarfelli hefur að nokkru verið lýst. Undir nyrðra horni þess hafði í fyrri tíð verið mikill áningarstaður skreiðarferðamanna. Þar er Áningarflöt, tjaldstæðið. Sunnan fellsins er Bleiksmýri og hlutar Austurlækurinn hana sundur.

Selalda

Jónsvarðan eystri.

Alllangt neðan við Arnarfellstjörn eru Trygghólar tveir, fram á Heiðinni. Trygghóll efri, og Trygghóll fremri. Framundan þeim er Trygghólsmýri. Þarna eru og Jónsvörður, Jónsvarðan vestri og Jónsvarðan eystri.
Hér framundan til vesturs er tvær öldur að sjá. Sú nyrðri heitir Selalda. Á henni er Selölduvarða. Fram undan Selöldu er Seljadalur. Vestur eftir honum er farvegur Seljalækur. Beggja megin lækjarfarvegsins eru nokkrar tættur Seljanna.“ Hér ruglar Gísli saman annars vegar selstöðunni, sem honum virðist vera ókunnug, og bæjartóftum Eyrar, sem eru beggja vegna uppþornaðs árfarvegar.

Krýsuvíkursel

Tóftir Krýsuvíkursels.

„En hér var haft í seli frá Krýsuvíkurbæjunum á fyrri tíð. Krýsuvíkursel voru það kölluð. Vestur af Selöldu eru móbergstindar, nefnast Strákar. Vestarlega í þeim hefur verið skúti, nefndist Strákahellir. Þarna hefur verið hlaðið myndarlegt fjárskýli og hefur í eina tíð verið reft yfir það og nefndist þá Strákafjárhús. Vestan við er melholt og niður undan því er einn Krýsuvíkurbærinn og nefndist Fitjar.

Selalda

Selalda – berggangur.

Kringum bæinn er Fitjatún og nyrst í því Fitjafjárhús. Vesturlækur rennur hér ofan af heiðinni í Vesturlækjarfossi, en þar fyrir neðan tekur hann nafnbreytingu, nefnist Fitjalækur. Rennur meðfram túninu og niður um Efri-Fitjar. Austur af læknum eru Fitjamóar og þar lengra austur Neðri-Fitjar. Seljabrekka blasir hér við upp undir Seljum. En Seljalækurinn hefur grafið sér farveg allt fram á berg. Fitjagata lá austur og inn um lægð norðan undir Strákum og er komið var að Selöldu, þá lá hún upp í Heiðina upp á fyrr nefndan Húsmel. Vestan við Fitjalækinn liggur nú Bílaslóðin allt niður á berg og vestur að hraunbrúninni. Austan og sunnan Austurlækjar er Bleiksmýrin. Fram af henni niður og austur allt að hrauninu liggur svo Krýsuvíkuheiðin eystri eða Austurheiðin. Fátt er hér örnefna.
Vestan Skriðu tekur við Heiðnaberg eða Heinaberg og nær allt að Fitjalæk, sem hér fellur niður og fram af berginu, og nefnist hér Mígandagróf og Fossinn Mígandi. Kirkjufjara er undir Heinabergi, en þar fyrir vestan tekur við Betstæðingafjara og nær allt vestur að Hæl, Bergsenda vestri eða Gjánni vestri. Af Hælnum hefur víkin hér fyrir framan fengið nafn allt frá Skriðu vestur að Selatöngum og nefnist því Hælsvík.“

Eyri

Eyri – uppdráttur ÓSÁ.

Eyri fór í eyði 1775. Bærinn hefur að öllum líkindum verið í ábúð stuttan tíma. Um hefur verið að ræða kotbúskap, sennilega byggðan upp úr Krýsuvíkurselinu þar skammt ofar. Tóftir selsins eru greinilega mjög gamlar, líklega frá því frá miðöldum og fyrr. Stekkur selsins er uppi í hlíðinni norðan þess. Hann finnst ekki í fornleifaskráningum. Augljóst er að svæðið hefur verið miklu mun grónara fyrrum en nú má sjá. Gata liggur upp frá Eyri til austurs, framhjá selinu og með Trygghólum áleiðis til Krýsuvíkur. Bærinn Eyri var byggður á lækjarbakka. Mjög líklega hefur Vestur- eða Austur-Lækur runnið fyrrum niður með Trygghólum, beygt þar til vesturs sunnan Selöldu og síðan til suðurs um Seldal niður á bergið. Augljóst er lækurinn sá hefur breytt um farveg, jafnvel oftar en tvisvar, því Fitjatúnið sem og allt undirlendi Selöldu er að þakka fyrrum árburði hans um aldir. Trúlega er þarna um Vestur-Læk að ræða.
Tækifærið var notað til að rissa upp bæjartóftirnar og meðfylgjandi mannvirki á Eyri sem og selstöðuna ofan hennar.

Fitjar

Fitjar.

Í „Fornleifaskrá Hafnarfjarðar XII – Krýsuvík, 2021, segir m.a: „Lítið er vitað um ábúð á Fitjum og mjög fáar heimildir til sem segja frá jörðinni, sem var
hjáleiga frá Krýsuvík. Árið 1867 var samt jörðin farin í eyði en í Þjóðólfi 27. febrúar 1867 var getið um dómsmál fyrir yfirdóminum þar sem þrír ábúendur í Krýsuvík sóttu gegn Gísla Jónssyni bónda á Býaskerjum árið 1866. Gísli á að hafa beitt fé sínu við Fitjar í óþökk ábúenda Krýsuvíkur og þar er ljóst að ekki var búið á Fitjum það árið. Eina manntalið þar sem Fitjar eru nefndar var gert árið 1850 og þá voru skráðir 7 þar til heimilis.“

Fitjar

Fitjar (Neðri-Fitjar) – útihús.

Þá segir í skráningunni: „Sömu sögu er að segja um tóftirnar við Neðri Fitjar, ekki er til mikið af heimildum um þann bæ. Í örnefnaskrá Gísla Sigurðssonar var sagt: „Vesturlækur rennur hér ofan af heiðinni í Vesturlækjarfossi, en þar fyrir neðan tekur hann nafnbreytingu, nefnist Fitjalækur. Rennur meðfram túninu og niður um Efri-Fitjar.

Austur af læknum eru Fitjamóar og þar lengra austur Neðri-Fitjar.“ Hér er um mislestur að ræða. Bærinn „Neðri-Fitjar“ hafa aldrei verið til. Fitjatúnið var nefnt Efri-Fitjar heima við bæ og Neðri-Fitjar nær berginu. Þar eru leifar útihúss við lækinn miðsvæðis.

Fitjar

Brú að Fitjum á Vestari-Læk.

Bjarni F. Einarsson leiddi að því líkum í skráningu hans, „Krýsuvík – Fornleifar og umhverfi 1998„, að tóftir [austan Selöldu] séu leifar bæjarins Eyri en í örnefnaskrá Þorsteins Bjarnasonar frá Háholti sagði að Eyri hafi verið innan við Hafnarberg og farið í eyði 1775. Þá hafa mögulegar seljarústir sem eru um 50m norðvestan við tóftirnar líklega verið einhverskonar forveri býlisins og gætu þær verið mjög gamlar, enda eru þær mjög fornlegar að sjá. Minjarnar við Eyri eru í stórhættu vegna landeyðingar en þær standa við uppþornaðan árfarveg og hressilega er farið að blása uppúr rofabörðunum, t.a.m. er eitt hólf horfið af aðaltóftinni í bæjarstæðinu.“ Reyndar eru tóftirnar í mjög lítilli hættu; bæði er svæðið að gróa upp auk þess sem nefndur lækjarfarvegur eru uppþornaður fyrir löngu.

Selalda

Strákar – fjárhús frá Fitjum.

Í „Fornleifaskráning í Grindavík, 2004“ segir um minjar á Fitjum: „Fitjatún hefur fyrr verið nefnt, vestur við lækinn, vestur af Selöldu. Þar eru stæðilegar bæjartóttir, mikið túnstæði, og þar voru leifar eftir safngryfju, sem er óvanalegt á þeim árum.“ segir í örnefnaskrá. Fitjatún er syðst við veginn sem liggur af Grindavíkurvegi að Krýsuvíkurbergi. Vegurinn sveigir þar til austurs yfir Vestri lækinn og liggur austur um túnið. Bæjartóftirnar eru austast í túninu, fast vestan við veginn. Túnið er ekki stórt en gróið og slétt. Umhverfis það eru blásnir, ógrónir melar. Austan við túnið rís Selaldan, hálfgróinn malarás, sem teygir sig til austurs. Svæðið allt er um 30X70 m að stærð og eru þar þrjár tóftir og túngarður.

Fitjar

Fitjar – útihús.

Þegar veginum er fylgt þar sem hann sveigir austur um túnið er fyrst komið að tveimur samliggjandi útihúsatóftum í norðausturhorni túnsins. Sú vestri er stæðilegri, um 6X5 m að stærð úr torfi og grjóti. Eystri tóftin er mjög sigin en mikið grjót er í henni. Hún er 8X4,5 m að stærð. Báðar hafa op á suðurvegg. Hleðsluhæð er um 0,6 m í vestari tóftinni en um 0,3 m í þeirri eystri.

Fitjar

Fitjar – bæjartóftir.

Um 50 m fyrir sunnan útihúsatóftirnar eru bæjartóftirnar, fast vestan vegarins. Þær eru mjög stæðilegar, allar hlaðnar úr torfi og grjóti. Hleðsluhæð er mest um 1 m og umför grjóts allt að fimm. Tóftirnar snúa mót vestri og eru þrjú op á þeirri hlið. Þær eru um 11X13 m og greinast í fimm hólf. Fast sunnan þeirra er gróin dæld, e.t.v. safngryfjan sem nefnd er í örnefnalýsingunni. Úr norðaustur- og suðausturhorni tóftanna liggja garðbrot til austurs, en rofna af veginum sem þarna liggur til suðurs. Hugsanlega hafa þau myndað hólf eða garð austan við bæinn. Siginn og gróinn grjóthlaðinn túngarður liggur frá bæjartóftunum norður að útihúsunum, um 50 m.“

Krýsuvíkursel

Krýsuvíkursel.

Um tóftirnar við Selhól austan Selöldur segir [Jarðabókin 1703]: „Selstöður tvær á jörðin, aðra til fjalls en aðra nálægt sjó, báðar merkilega góðar. Og mega þær nýta hjáleigumenn og bóndi“, segir í Jarðabók Árna og Páls.
Í örnefnaskrá er staðnum lýst svona: „[Strákar] eru vestast á Selöldu, en á Selöldu austarlega er Selhóll, og austastir eru Trygghólarnir.“ Fitjatún er syðst við veginn sem liggur af Grindavíkurvegi að Krýsuvíkurbergi. Vegurinn sveigir þar til austurs yfir Vestri lækinn og liggur austur um túnið. Austan við túnið rís Selalda, hálfgróinn malarás, sem teygir sig til austurs að Trygghólum, tveimur ógrónum melhólum.

Selalda

Selalda – Strákar.

Vestast á Selöldu eru Strákar, dökkir og úfnir hraundrangar sem sjást bera við himin frá Grindavíkurvegi. Sunnan við Selöldu er annar malarás nefndur Skriða og á milli þeirra er gróið lægðardrag. Í lægðardraginu, sunnan undir Selöldunni austanverðri, þar sem landið hækkar til austurs, eru seltóftir í þýfðu lægðardragi sem hækkar til austurs.“ Tóftirnar eru ógreinilegar, en þó mótar fyrir meginhúsi vestast, stakri tóft austar og annarri suðvestast.

Eyri

Eyri – bæjartóftir.

Í örnefnalýsingunni er seltóftunum og bæjartóftum Eyrar ruglað saman. Þar segir. „Tóftirnar eru fjórar og sést á milli þeirra allra. Sú nyrsta er alveg í rótum Selöldu, fast austan við stakan móbergsklett í hlíð hennar. Tóftin (A) er mjög gróin og sigin og er ekkert grjót í henni. Hún er um 5X3 m að stærð, og snýr í austur vestur. Op er á vesturvegg hennar.

Eyri

Eyri – bæjartóftir.

Um 80 m sunnan við tóftina er önnur tóft (B), bæjartóft og mun greinilegri. Hún er á norðurbarmi grjótgjár sem liggur í austur vestur og er líklega uppþornaður árfarvegur. Tóftin er um 10X7 m á stærð, snýr mót suðri og eru tvö op á þeirri hlið. Tóftin er hlaðin úr torfi og grjóti og greinist í þrjú hólf. Hleðslur eru signar og er hæð þeirra mest um 0,5 m. Um 8 m austan við tóftina er lítil hringlaga tóft eða dæld. Hún er um 2,5 m í þvermál og aðeins einn steinn sýnilegur í henni. Sumir vilja meina að þetta séu tóftir bæjar sem þarna var og nefndist Eyri.

Eyri

Eyri – uppdráttur ÓSÁ.

Um 50 m sunnan við tóft (B), á dálitlum hól sunnan við grjótgjánna er enn ein tóft (C). Hún er hringlaga um 4 m í þvermál, líklega fjárborg. Tóftin hefur verið grjóthlaðin en hleðslur eru nú alveg fallnar. Op hefur líklega verið til vesturs. Um 80 m suðvestan við tóft (C) er síðan tóftaþyrping (D). Tóftirnar eru þrjár og eru á háum hól og sjást því greinilega. Allar eru úr torfi og grjóti, signar og grónar, hleðsluhæð mest um 0,5 m. Sú nyrsta er tvískipt, um 8X5,5 m að stærð og snýr í norður suður. Op er á norðurhlið. Um 1 m fyrir sunnan tóftina er dæld, sem virðist vera manngerð.
Hún er um 9 m löng frá norðri til suðurs og um 0,6 m á dýpt. Eitthvað er af grjóti í börmum hennar, en engar greinilegar hleðslur. Um 1 m sunnan við dældina er síðan sporöskjulaga tóft, um 5X7 m að stærð. Op er á suðurvegg.“

Selalda

Selalda – berggangur.

Krýsuvíkurbjarg (-berg) er aðallega byggt upp af hraunlögum (grágrýti) og gjalllög Skriðunnar ljá berginu rauðan blæ. Skriðan og Selalda eru eldstöðvar sem gosið hafa í sjó og byggt upp eyjar úr gosmöl (virki og ösku) og hraunlögum. Grágrýtsihraunin hafa síðan tengt eyjar við fastalandið og kaffært þær að mestu. Strákar er ung móbergsmyndun vestan Selöldu. Hraunlögin í syllum Krýsuvíkurbergs eru sennilega komin frá Æsubúðum í Geitahlíð og eru frá síðasta hlýskeiði eða eldri en 120.000 ára. Vestari hluti Selöldu er móbergsmyndun, líkt og eystri hlutinn. Grágrýtisberggangar liggja um ölduna alla; dæmigerðir fyrir gos undir jökli.

Frábært veður. Gangan tók 1 klst. og 10 mín.

Heimildir:
-Örnefnalýsing Gísla Sigurðssonar fyrir Krýsuvík.
-Örnefnalýsing Ara Gíslasonar fyrir Krýsuvík (Þorsteinn Bjarnason frá Háholti).
-Fornleifaskrá Hafnarfjarðar XII, Krýsuvík – 2021.
-Fornleifaskráning í Grindavík, 3. áfangi – 2004.
-Krýsuvík – Fornleifar og umhverfi, Bjarni F. Einarsson, 1998.

Krýsuvíkurbjarg

Krýsuvíkurbjarg (-berg). Þar sem Eystri-Lækur rennur fram af berginu (bjarginu) skiptir bjargið (bergið) um nafn skv. örnefnalýsingum. Austan lækjarins heitir bergið „Krýsuvíkurbjarg“, en vestan hans heitir bjargið „Krýsuvíkurberg“.  Fossinn er nafnlaus, en mætti gjarnan heita „Skiptifoss“ eða „“Skiftifoss“.

Hlíðarvatn

Gengið var um Selvogsgötu frá Bláfjallavegi, upp Kerlingarskarð og áfram niður Hlíðarveg, um Hlíðarskarð og niður að Hlíð við Hlíðarvatn.

Selvogsgata

Selvogsgata – Gísli Sigurðsson.

Skammt ofan Bláfjallavegar greinist Selvogsgatan. Annars vegar liggur hún áfram áleiðis upp að Kerlingarskarði og hins vegar til vinstri, áleiðis að Grindarskörðum. Síðarnefnda leiðin hefur lítið verið farin í seinni tíð, en þá leið var t.d. farið þegar burðarhestar voru með í för.
Á leiðinni upp í skarðið blasir Stóri bolli, Tvíbolli og Þríbolli við, en eru einu nafni nefndir Bollar eða Grindaskarðshnúkar. Beggja vegna götunnar eru hellisskútar. Einn þeirra er með einstaklega fallegu rósamynstri í lofti. Skammt austan hennar er stórt ílangt jarðfall, hrauntröð úr Miðbolla, en hann er einn fallegasti eldgígur landsins. Í rauninni eru þrír gígar í honum; sá stærsti efst, einn í honum norðanverðum og annar norðvestanvert í honum.
Ofarlega undir Kerlingarskarði eru tóftir af húsi brennisteinsnámumanna. Efst í því, vinstra megin þegar komið er upp, er drykkjarsteinn, skessuketill í móbergssteini. Hann hefur löngum komið til tals þegar fjallað er um þessa leið, enda stólaði fólk yfirleitt á vatnið í steini um á ferðum sínum. Í sumum frásögnum er talað um fleiri en einn drykkjarstein í skarðinu.

Kerlingarskarðsvegur

Kerlingarskarðsvegur – drykkjarsteinn.

Þegar komið er upp á brún sjást eldgígar á hægri hönd, Draugahlíðar framundan og Miðbolli og Kóngsfell á vinstri hönd. Utar má sjá Stóra-Kóngsfell og Drottningu, Stórkonugjá og Bláföllin. Reykjavegurinn kemur þarna inn á Selvogsgötuna. Þegar gengið er niður brekkuna mót suðri er komið að gömlu hliði á götunni. Nálægt því eru gatnamót. Selvogsgatan heldur áfram áleiðis niður að Litla-Kóngsfelli og síðan áfram til suðurs um Hvalskarð og Strandarhæð í Selvog.
Gata, sem liggur til hægri og nú er vel vörðuð, nefnist Hlíðarvegur og liggur að Hlíðarskarði ofan við Hlíð. Þessi gata hefur verið vinsæl gönguleið í seinni tíð. Hún er vel greiðfær, liggur niður með vestanverðum Hvalhnúk og Austurásum og er síðan tíðindalítið að skarðinu ofan við Hlíð. Stakkavíkurselsstígur kemur inn á götuna neðan Vesturása og miðja vegu að Hlíðarskarði er stór og falleg hraunbóla í hraunhól (hægra megin – lítil varða við opið). Skömmu áður en komið er að henni er ágætt skjól í lágum grónum hraunhól, kjörinn áningarstaður.

Selvogsgata

Selvogsgata – Ólafur Þorvaldsson.

Þegar komið er í Hlíðarskarð blasa við fallegar klettamyndanir og fallegt útsýni yfir Hlíðarvatn, Vogsósa og Selvog. Ágætt er að feta sig rólega niður skarðið og njóta útsýnisins og gróðursins í hlíðinni.
Tóftir eru undir Hlíðarskarði og ofan (norðan) og vestan við veiðihúsið undir skarðinu. „Hlíð var fyrr góðbýli og landnámsjörð í Selvogi. Var hún um aldaraðir eign Strandakirkju og er það enn. Bærinn stóð á Bæjarhól eða lágum hrygg, er lá fram í Hlíðarvatn. Tangi eða hólmi er út í vatninu fram undan bænum; Hjalltangi eða Hjallhólmi er hann nefndur. Þar á bærinn að hafa staðið upphaflega . Árið 1501 selur Grímur Pálsson Þorvarði Erlendssyni lögmanni Hlíð. Auk Bæjarhóls eru í túninu Kirkjuhóll eða Bænhúshóll, en þar á hafa staðið bænhús í katólskri tíð. Ofan við Malarinnar eru rústirnar, en þar segja fróðir menn og konur, að bærinn hafi staðið, eftir færslu úr Hjalltanga.“
Veður var frábært – sól og lygna. Gangan tók 3 klst og 33 mín.

Heimildir eru m.a. úr örnefnaskrá fyrir Ölfus; Orri Vésteinsson og Hildur Gestsdóttir.

Hlíðarskarð

Hlíðarskarð.