Tag Archive for: Hafnarfjörður

Brunntorfuhellir

Kristbjörg Ágústsdóttir skrifaði um skógræktina í Brunntorfum (Brundtorfum/Brunatorfum) í Skógræktarritið árið 2012 undir fyrirsögninni „Hraunið“ – falin skógræktarperla í hrauninu sunnan Hafnarfjarðar„:

Brunntorfur

Í Brunntorfum.

„Um miðbik síðustu aldar hófu fjórir menn að gróðursetja tré í hrjóstrugu hrauni suður af Hafnarfirði. Skógrækt ríkisins átti landið en taldi ekki miklar líkur á því að þar gæti risið skógur. Í dag er þarna stór og mikill sjálfbær skógur, sambland náttúrulegs gróðurs og gróðursettra trjáa. Þetta svæði kallar fjölskylda höfundar „Hraunið“ og þangað hafa þrjár kynslóðir lagt reglulega leið sína til að gróðursetja, bera á, hlúa að, njóta og upplifa. Í þessari yfirlitsgrein er ætlunin að segja frá tilurð svæðisins og landnámsmönnunum fjórum og kynna svæði sem fleiri og fleiri eru að uppgötva. Greinin er byggð á BS ritgerð minni úr Umhverfisskipulagi frá Landbúnaðarháskóla Íslands árið 2006.
Í upphafi 6. áratugarins féll hluti jarðarinnar Straums, um 2000 ha, til Skógræktar ríkisins. Var það Bjarni Bjarnason, skólastjóri Héraðsskólans á Laugarvatni, sem gaf landið. Straumur var landstór jörð og þar hafði verið fjárbúskapur til margra ára. Landið var því mikið beitt, hrjóstrugt og ófrjótt og kallaði það á friðun og gróðursetningu. Svæðið, sem kallast Almenningur og er sunnan við Kapelluhraun í Hafnarfirði, var það fyrsta sem Skógræktin eignaðist nálægt höfuðborginni og var hafist handa við að girða af um 200 ha árið 1953.
Með nýjum skógræktarlögum, sem tóku gildi 1955, var skógræktarstjóra heimilt að leigja land til einstaklinga, félaga eða stofnana innan girðinga Skógræktar ríkisins, gegn því að leigutakar gróðursettu barrskóg í landið.

Björn Þorsteinsson

Björn Þorsteinsson í Brunntorfum.

Þessi leigusvæði voru með erfðafestu og gerðir voru sérstakir samningar um þau. Þetta voru kallaðar landnemaspildur og fengu landnemar allar plöntur gefins en ekki mátti byggja á landinu.
Þrátt fyrir að svæðið í Straumi væri ókræsilegt til gróðursetningar voru fjórir félagar sem gerðu samning við skógræktina um leigu á landi. Þeir fengu hver 10 ha svæði í suðvestur hluta girðingarinnar. Þessir menn voru: Björn Þorsteinsson (1918–1986), Broddi Jóhannesson (1916–1994), Marteinn Björnsson (1913-1999) og Þorbjörn Sigurgeirsson (1917–1988). Það sem þessir menn áttu sameiginlegt, auk þess að vera tengdir fjölskylduböndum, voru hugsjónir þeirra, eldmóður og áhugi á náttúrunni. En hverjir voru þessir menn?

Upphafsmenn skógræktar í „Hrauninu“

Brunntorfuhellir

Brunntorfuhellir (Brundtorfuskjól).

Björn Þorsteinsson fæddist á Þjótanda í Villingaholtshreppi. Hann ólst upp á Hellu og í Selsundi undir Heklurótum. Hann var prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands en hafði áður kennt bæði við Menntaskólann við Hamrahlíð og Gagnfræðaskóla Vesturbæjar. Margar bækur og greinar liggja eftir hann, meðal annars Íslandssaga til okkar daga sem kom út eftir andlát hans. Vorið 1985 hlaut hann viðurkenningu fyrir ræktunarstörf sín í „Hrauninu“ frá Samtökum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu fyrir merkilegt framlag til umhverfismála á höfuðborgarsvæðinu. Björn lést árið 1986, 68 ára gamall.

Fornasel

Fornasel.

Broddi Jóhannesson fæddist í Litladalskoti í Lýtingsstaðahreppi í Skagafirði. Hann lauk doktorsprófi í sálarfræði í München 1940 og fór þá að kenna við Kennaraskólann, en þar tók hann við skólastjórastöðu árið 1962.

Broddi Jóhannesson

Broddi Jóhannesson.

Árið 1971 varð skólinn að Kennaraháskóla Íslands og var Broddi rektor hans til ársins 1975. Broddi setti sitt mark á þróun kennaramenntunar á Íslandi með hugsjónum sínum og dug. Hann var mikill náttúruunnandi og náttúruverndarsinni löngu áður en talað var um menn sem slíka. Broddi lést árið 1994, 78 ára gamall.
Marteinn Björnsson fæddist að Orrastöðum í Torfalækjarhreppi í Austur-Húnavatnssýslu. Hann lauk prófi í verkfræði við Danmarks Tekniske Højskole árið 1944 og vann sem verkfræðingur hjá Bæjarverkfræðingnum í Reykjavík og Almenna byggingafélaginu meðal annars en einnig var hann með sjálfstæðan rekstur.

Þorbjörn Sigurgeirsson

Þorbjörn Sigurgeirsson.

Lengst af starfaði Marteinn sem byggingafulltrúi Suðurlands með aðsetur á Selfossi (1958–83). Marteinn lést árið 1999, 86 ára gamall.

Þorbjörn Sigurgeirsson fæddist að Orrastöðum í Torfalækjarhreppi í Austur-Húnavatnssýslu. Hann var doktor í eðlisfræði og frumkvöðull greinarinnar á Íslandi. Hann var meðal annars forstöðumaður Eðlisfræðistofnunar frá upphafi hennar árið 1958 til ársins 1966. Þorbjörn starfaði fyrst og fremst sem tilraunaeðlisfræðingur og jarðeðlisfræðingur og varð þjóðkunnur fyrir hraunkælingu við eldgos í Heimaey árið 1973. Þorbjörn lést árið 1988, 70 ára gamall.

Í upphafi höfðu menn ekki mikla trú á að hægt væri að rækta skóg í „Hrauninu“.

Þorbjarnastaðaborg

Þorbjarnastaðaborg.

Það var í raun tilraunastarfsemi hjá Hákoni Bjarnasyni skógræktarstjóra að láta þá félaga hafa landið til að sjá hvort það væri hægt. Á Hákon að hafa sagt við Björn eitt sinn að þetta hafi gengið betur en hann hafði búist við þar sem hann hafði talið landið vera allt of þurrt. Þrátt fyrir að búið væri að girða svæðið var ekki friður fyrir sauðfé, þarna voru frekar og heimavanar kindur sem fóru í gegnum allar girðingar. Suðurhluti girðingarinnar var að auki lélegur, þoldi illa snjó og var til vandræða. Girðinguna var reynt að laga á hverju vori og dró þá aðeins úr ágangi sauðfjár, nægjanlega til að í ljós kæmu ýmis fjölgresi sem ekki höfðu sést áður.

Gróðursetning og trjátegundir í „Hrauninu“

Fornaselsvarða

Fornaselsvarða.

Aðkoma Kristins Skæringssonar að „Hrauninu“ var tengd starfi hans hjá Skógrækt ríkisins, fyrst sem starfsmaður í plöntuafgreiðslu og síðar sem skógarvörður Suðvesturlands. Kristinn fylgdist með þeim félögum við skógræktarstörfin og gaf þeim ráðleggingar. Það var aðallega stafafura sem var gróðursett, enda landið rýrt og hentaði fyrir furuna, en einnig voru gerðar tilraunir með margar aðrar tegundir. Plönturnar voru til reiðu hjá Skógræktinni svo lengi sem þeir tóku við. Mikið var gróðursett í upphafi og þétt en ekki mikið klippt frá þar sem verið var að hugsa um skjólið.

Hellishólsskjól

Hellishólsskjól.

Eftir að Marteinn hóf störf á Suðurlandi árið 1958 og flutti á Selfoss fékk hann svæði fyrir austan og lagði áherslu á ræktun þess. Broddi gróðursetti heilmikið í „Hrauninu“ en fékk síðar land á Silfrastöðum í Skagafirði þar sem hann gróðursetti. Það voru því Björn og Þorbjörn sem sinntu „Hrauninu“ langmest. Þeir gengust upp í þessu og hrifu fólk með sér. Einn af þeim sem hreifst með var Arngrímur Ísberg og fékk hann úthlutað svæði við hlið Marteins árið 1980.
Í gegnum árin gengu félagarnir um svæðið og báru á áburð en einnig voru gerðar tilraunir með lífrænan heimilisúrgang. Auk þessa var gróðursett lúpína í leirflög til að undirbúa jarðveg betur. Þessi vinna bar þann árangur að allskonar gróður fór að spretta sem enginn vissi að væri til staðar eins og blágresi og fleiri blómategundir.

Hellishólshellir

Hellishólsskúti.

Félagarnir reyndu að gróðursetja Bæjarstaðabirki en einhverra hluta vegna gekk það ekki, það þreifst illa og lognaðist út af. Það var ekki fyrr en upp úr 1980, þegar girðingin varð loks fjárheld, að náttúrulega birkið tók aðeins við sér þegar kindin, eða ókindin eins og „Hraunverjar“ kölluðu hana, fór og eftir árið 1990 tók það virkilega við sér. Einirinn tók einnig við sér og reis upp og burknar sýndu sig í hellisskútum.
Stafafura er ríkjandi tegund í „Hrauninu“ en einnig má þar finna sitkagreni, rauðgreni, broddfuru, lindifuru (alpa-afbrigði), alaskaelri og þöll en ekki í miklum mæli. Mikið var reynt við lerki en því virtist ekki líka vel vistin, hvorki rússalerki né síberíulerki. Þar er einnig að finna tvo silfurreyni og töluvert af ilmreyni en hjónin Arngrímur og Bergljót týndu reyniber, dreifðu yfir birkikjarr og létu svo fuglana um afganginn. Í viðtali orðaði Arngrímur afraksturinn á þann hátt að: „þegar maður lítur yfir þessi ár sem við höfum verið þarna þá finnst mér að ávöxturinn hafi verið meiri og betri en maður bjóst við“.

Mörk svæðisins

Fornasel

Vatnsból í Fornaseli.

„Hraunið“ afmarkast af landamerkjum sem gerð voru fyrst á korti 1955 og svo endurgerð á korti 1989 og þá hnitsett. Alls er svæðið um 55 hektarar og er innan vatnsverndarsvæðis Hafnarfj arðar, að hluta til innan grannsvæðis (vatnsvernd II) og að hinum hluta innan fjarsvæðis (vatnsvernd III).
Frá Krýsuvíkurvegi liggur slóði inn á svæðið sem greinist í tvennt. Þetta er einbreiður, grófur malarslóði og er á köflum aðeins jeppafær. Ekki eru nein bílastæði en við enda slóðanna er breikkun þar sem hægt er að snúa við bíl. Girðing er umhverfis hluta svæðisins sem er orðin mjög léleg og liggur niðri á köflum. Með því að fjarlægja girðinguna og opna svæðið væri auðveldara fyrir fólk að fara þar um og njóta þessarar leyndu náttúruperlu. Stigi er yfir girðingu á einum stað en hann er orðinn fúinn og hættulegur.

Gjásel

Gjásel.

Tvær þekktar minjar eru í „Hrauninu“. Fyrst skal nefna fallega hlaðna fjárborg sem er heilleg, en hún varð fyrir skemmdum í jarðskjálftanum 1968 sem átti upptök sín í Krýsuvík. Fjárborgin nefnist Þorbjarnarstaðarborg og var hlaðin af börnum Þorbjarnarstaðahjóna um aldamótin 1900. Tóftir eru af seli sem talið er að hafi tilheyrt Þorbjarnarstöðum, nefnt Fornasel. Við Fornasel er stórt vatnsból nánast í miðju tóftanna en þær eru af húsi og eldhúsi nokkru fjær. Sumarið 2002 gróf Bjarni Einarsson fornleifafræðingur í tóftirnar og kom í ljós að þær virtust vera frá því um 1400–1500. Það var Umhverfis- og útivistarfélag Hafnarfjarðar sem stóð að þessari rannsókn.

Marteinn Björnsson

Marteinn Björnsson.

Rétt utan við skógræktarsvæðið eru tóftir af Gjáseli. Töluvert er af vörðum á svæðinu og eru þær ýmist leiðarvörður eða landamerkjavörður.

Nokkuð er um gönguleiðir á svæðinu og hafa Loftmyndir ehf. gefið út göngukorti af Reykjanesi. Hluti gönguleiðanna eru gamlar þjóðleiðir til Hafnarfjarðar, til dæmis Hrauntungustígur. Aðrar gönguleiðir eru til að mynda Gerðarstígur sem liggur frá Straumsvík upp í Gjásel og Straumselsstígur samsíða en vestar, frá Straumsvík að Straumsseli.
Á síðustu árum hefur Sigurgeir Þorbjörnsson, sonur Þorbjörns Sigurgeirssonar, verið duglegur við að marka stíga innan svæðisins ásamt fjölskyldu sinni. Einnig er byrjað að hnitsetja stígana og er vilji til að útbúa skilti sem sýna gönguleiðir og segja frá sögu svæðisins, tilurð þess og minjum.

Gránuskúti

Gránuskúti við Gjásel.

Framsýni landnámsmannanna var mikil og ber að þakka þeim öllum fyrir dugnað þeirra og þrautseigju. „Hraunið“ er arfleið þeirra til komandi kynslóða.“

Sjá meira um skógrækt í Brunntorfum HÉR.

Heimild:
-Skógræktarritið 2012, 2. tbl., Skógræktarfélag Íslands; Kristbjörg Ágústsdóttir, „Hraunið“ – falin skógræktarperla í hrauninu sunnan Hafnarfjarðar, bls. 8-13.
http://www.skog.is/wp-content/uploads/2019/03/Rit2012-2-lr.pdf

Brunntorfuhellir

Í Brunntorfuhelli. Örnefnalýsing fyrir Þorbjarnarstaði: „Uppi á hólnum er Hellishólsker. Hér nokkru sunnar er Fjárborgin á tungu út úr brunanum. Hún stendur enn, og er innanmál hennar um 7 m. Suður og upp frá brunanum eru Brundtorfur. Þar var hrútum hleypt til ánna forðum daga. Þar voru Brundtorfuvörður og Brundtorfuhellir. Einnig var þetta svæði kallað Brunntorfur, Brunntorfuvörður og Brunntorfuhellir. Hér vestnorðvestur var Gjásel, sel frá Þorbjarnarstöðum, stóð á Gjáselshæð. Rétt hjá selinu var vatnsstæði. Frá selinu lá Gjáselsstígur, en hann er nú óglöggur mjög. Upp frá Hrauntungukjafti eru hólar, sem nefnast Skyggnirar. Þar um liggur Hrauntungustígurinn og er ekki vel greinilegur. Þá er Fornasel, sel frá Þorbjarnarstöðum. Má enn sjá, að þrjár hafa verið þarna vistarverur. Selið stendur á Fornaselshæð. Rétt við Selið er vatnsstæði, nokkuð niðurgrafið. Norðan undir hæðinni eru rústir eftir kvíar. Suður og upp frá selinu var Gránuskúti eða Gránuhellir.“ [Hér ruglað saman Fornaseli annars vegar og Gjáseli hins vegar, þ.e. hið síðarnefnda er nefnt „Fornasel“. Við það er nefndur Gránuskúti. – ÓSÁ]

Brunntorfur

Í Þjóðviljanum helgina 23.-24. ágúst 1980 var viðtal við Björn Þorsteinsson undir fyrirsögninni „Landvinningar á Reykjanesi“ um unaðsreiti og löglausan sauðfjárbúskap:

Fornasel

Hér reyndar um Fornasel ofan við Brunntorfur að ræða.

„Reykjanesskaginn hefur jafnan búið yfir mestu aðdráttarafli allra héraða á Íslandi. Björn Þorsteinsson prófessor hefur um áratugaskeið stundað skógrækt í Straumsheiðinni ásamt nokkrum öðrum áhugamönnum um landgræðslu. Þar heitir í Straumsseli. Björn telur Reykjanesskagann vera hið mesta gósenland vegna margvíslegra landkosta og vill friða hann fyrir sauðfé og láta úthluta fólki þar ræktunarlöndum. Við áttum samtal við Björn fyrir skemmstu og þar útlistaði hann sjónarmið sín.
— Já, Reykjanesskaginn hefur jafnan búið yfir mestu aðdráttarafli allra héraða á Íslandi. — Eftir rækilega rannsókn á landkostum sló fyrsti landnámsmaðurinn tjöldum til frambúðar í Reykjavík. Þar var mikið undirlendi, varp- og akureyjar, þar var hægt að rækta bygg og brugga, góð fiskimið, laxár, veiðivötn, selalátur, hvalreki og geirfuglabyggðir skammt undan og fuglabjörg, góðar hafnir, heitar laugar og talsverður reki. Auk þess var beitiland sem aldrei brást á Reykjanesskaga.

Björn Þorsteinsson

Björn Þorsteinsson í Brunntorfum.

Skaginn var skógi vaxinn og þar gekk sauðfé sjálfala frá upphafi vega uns Herdísarvíkur-Surtla féll fyrir hundum og mönnum árið 1952 að mig minnir, sællar minningar. Hvergi var öllum þessum gæðum hlaðið jafn ríkulega á eitt hérað og af því býr þar nú nálega helmingur þjóðarinnar. Skaginn var síðar nefndur Gullbringusýsla, en það mun afbökun. Dönsku umboðsmennirnir hafa kallað Bessastaðaumboðið: Den guld indbringende syssel.
Menn sóttu hingað á Inn- og Suðurnes frá upphafi vega, keyptu sér land eða hótuðu hernaði fengju þeir ekki jarðnæði. Eyvindur í Kvíguvogum hrökklaðist t.d. til Heiðarbæjar undan Hrolleifi Einarssyni Ölvissonar barnakarls. Hér urðu menn að bindast samtökum, stofna til þinghalds og stjórngæslu til þess að verjast hvers konar ágangi. Upphafs allsherjarríkis mun að leita á Þingnesi við Elliðavatn.

Fornasel

Þetta er vatnsstæðið í Fornaseli.

Blm.: Voru ekki útvegsbændur á Reykjanesskaga einhverjir ríkustu menn landsins hér fyrrum?
— Jú, fiskimiðin hafa verið svo stórgjöful við Reykjanes að þar hafa jafnan verið einhverjar bestu verstöðvar landsins. Allt frá því á 15. öld hafa stórveldi glímt um Reykjanesskaga. Ég vil einnig bæta því við að jarðhitinn á Reykjanesskaga er ómældur og lítið nýttur enn. Garðbæingar ættu að vita að laug var í Hliðstúni, en hefur aðeins komið upp síðustu aldir á blásandi fjöru. Volgra var norðan til við Arnarnesi undan Gvendarbrunni, en á Reykjanesskaga heitir fersk uppspretta Gvendarbrunnur. Um skagann liggja mörk skaparans milli austurs og vesturs. Þar skiptir hann veröldinni með eldsprungu sem er nú einna virkust norður í Gjástykki.
Brunntorfur—Skaginn er í rauninni ein af tilraunastöðvum skaparans í landasmíð. Þar æfir hann tilvonandi arkitekta sköpunarverksins áður en hann felur þeim stærri verkefni annars staðar í geimnum.
Þar er hvert náttúruundur öðru meira. Eitt er Kleifarvatn, ævintýravatn, sem menn nýta ekki til neinnar hlítar af því að í því er flóð og fjara, en láðst hefur að binda vatnsborðið. Það er auðgert með um 4 km skurði, en að honum gerðum opnast ómældir möguleikar til fiskræktar og annarrar ræktunar, búsetu og siglinga.
Blm.: Nú er Reykjanesskagi í vitund margra heldur hrjóstrugur. Ert þú á annarri skoðun?
— Já, skaginn er í raun mjög frjósamur, en gróðri var eytt þar gegndarlaust á 19. öld. Eftir 1820 hefur engin stórplága geisað hér landi og sveitirnar yfirfylltust af fólki. Þá flýði það hrönnum til verstöðva og á Vatnsleysuströnd komst fólksfjöldinn upp í um 650 manns árið 1870. Þá var gróðri skagans eytt svo að hann hefur staðið rúinn og eyddur eftir. Ég tel að mikill orkusparnaður yrði að því að veita ræktunarfúsu fólki landspildur á skaganum gegn ræktunarskyldu. Á þann hátt væri hægt að breyta skaganum í sígrænan gróðurreit á 10-15 árum. Fólk við Faxaflóa þarf ekki að æða norður í Aðaldal til þess að tjalda á hrauni. Skaginn er mjög fagur og fjölbreyttur og sökum orkukreppu er brýnt að Faxaflóaþjóðin kynnist því að þar eru dásemdir tilverunnar engu minni enn annars staðar á landinu.

Blm.: — Og því vilt sem sagt friða Reykjanesskaga fyrir sauðfé?
— Já, með því og að úthluta fólki þar ræktunarlöndum vinnst þrennt: Fólki hættir að leiðast, orkuvandinn leysist því að menn losna við að flýja austur á Hérað eða til sólarlanda sér til afþreyingar og nytjaskógar og unaðsreitir munu prýða Reykjanesskagann. Síðast en ekki síst er óhemjukostnaði við girðingar létt af ræktunarmönnum.

Hraunin

Hraunin ofan Straumsvíkur.

Blm.: Hafið þið Straumsheiðingjar orðið fyrir tjóni af völdum sauðfjár í landi ykkar?
— Við erum líklega búnir að planta um hundrað þúsund trjáplöntum síðan við byrjuðum og þó að girðingin sé tvöföld, bæði gaddavír og vírnet, er tjónið ómælt. Það þarf ekki nema eina kind að brjótast inn til að valda miklum skaða. Ísland var og er eignarréttarins land. Hingað komu menn til þess að eignast land og hér voru engir frumbyggjar fyrir, —landið var numið til séreignar, en með því er ekki sagt að eignarrétturinn sé svo heilagur að leggja þurfi í auðn hans vegna heil héröð. Ég tel að eigendur sauðfjár eigi að gæta eigna sinna í heldum girðingum. Þeir eiga að vera ábyrgir fyrir tjóni sem rollurnar valda hjá öðrum. — Það þættu skrýtin lög í landi ef innbrotsþjófar gætu afsakað gerðir sínar með því að læsingar væru ekki nægilega traustar. Hér hafa hirðingjasjónarmið ríkt um aldir og sauðfé verið friðheilagt enda hefur gróðurlendi eyðst  jafnt og þétt eins og hjá öðrum hirðingjum. Mál er að linni og gróðurinn verði friðhelgur.

Hraunin

Hraunin ofan Straumsvíkur.

Blm.: Hvað er til ráða? Hvernig á að breyta alda gamalli hefð?
— Í lögum er og hefur verið um aldir ákvæði um ítölu, ítölu búfjár í haga. — Ítala er ákvörðun eða öllu heldur áætlun um það hve margt búfé hver og einn megi hafa í sameiginlegu beitilandi. Ítala er leyfður fjöldi búfjár frá hverjum nytjanda beitar í sameiginlegt land. Nú mun um þriðjungi fullorðins sauðfjár ofaukið í haga hér á landi. Þennan bústofn verður að skera niður. Enginn, hvorki stétt manna né einstaklingur á minnsta rétt á því að eyða lífríki landsins, leggja gróðurlendi í auðn. Ítöluákvæðinu var framfylgt allstrangt oft á tíðum fram á öld véltækni og fóðurbætis, en eftir það hefur allt gengið úr skorðum. Vistfræðingar okkar eiga að vita nú orðið nákvæmlega hvað hektari gróðurlendis ber af búfé, og auðvitað þolir landið misjafnlega mikið eftir aðstæðum og gróðurfari. Þeir eiga að stjórna ítölu í landið undir forystu landgræðslustjóra með aðstoð stjórnvalda. Allt annað er stjórnleysi eða anarkismi. Útgerðarmenn verða að leggja skipum sínum af því að vernda þarf fiskistofna. Á sama hátt verða bændur að takmarka búsmala sinn af því að vernda þarf gróðurlendi. Landeyðing er höfuðglæpur og íslenskur sauðfjárbúskapur er víða vélvædd rányrkja.

Brunntorfur

Fjárskjólið í Brunntorfum.

Líttu á Grafninginn og uppsveitir Rangárvalla- og Árnessýslu, svo að dæmi séu tekin. Ég veit að núverandi landgræðslustjóri, Sveinn Runólfsson, hefur beitt ítöluákvæðum til þess að draga úr ofbeit á einstökum svæðum en gróðurlendur eru samt á undanhaldi og því má alls ekki una. Menn hafa verið að amast við sumarbústöðum borgarbúa á ýmsum forsendum en þeim fylgir gróður, sauðfjárbúskap og auðn.
Ingvi Þorsteinsson sagði í Þjóðviljanum fyrir hálfum mánuði að Grænland væri ekki ofbeitt enda fallþungi dilka þar meiri en hér. Þetta stafar ekki af framsýni bænda þar í sveitum, heldur af því að þeir setja enn á guð og gaddinn og horfalla árlega, gjörfelldu 1968 og rollubúskapurinn hangir þar á horriminni. Þeir eru litlir ræktunarmenn, en hér er heyöflunin vélvædd og þar með er haldið lífi í hundruðum þúsunda sauðfjár á vetrum og þeim sleppt á úthagann þessa fáu mánuði, sem hér er þíð jörð.
Ef náttúran fær að vera í friði ríkir oftast einhvers konar jafnvægi innan hennar. Nútímabúskapur hefur rofið þetta jafnvægi hjá okkur. Hér eru milljarðar greiddir í verðbætur til bænda til þess að þeir geti eytt landinu, en aðrir milljarðar eru greiddir í landgræðslusjóð. — Þessi háttur skipulagsmála var eitt sinn kenndur við Bakkabræður.
Stórsektir þarf að leggja við landeyðingu — í stað þess að nú er hún verðlaunuð.

Fornasel

Í Fornaseli (Brunnseli?).

Blm.: Þú minntist eitt sinn á það við mig að stofna þyrfti landvinningafélag til þess að herja á auðnirnar, endurheimta þær í ríki gróðursins. Hefurðu gert eitthvað í þeim málum.
— Ég er orðinn ónýtur í öllu félagsstarfi. Hins vegar þykir mér tímabært að gera menningarbyltingu á Íslandi. Hér verða menn að hverfa frá hirðingjamenningu og taka upp ræktunarmenningu. Þeir verða að hætta að trúa á heilaga sauði, og hver maður verður að vera ábyrgur fyrir eigum sínum og þar með sauðkindum, sem valda mér og öðrum óbætanlegu tjóni. Hirðingjar hafa ávallt skilið eftir sig sviðið land, hvort sem þeir búa austur í Mongólíu, suður í Arabíu eða norður á Íslandi.
Blm.: Eiga þá sauðfjáreigendur að girða af sauði sína?
Björn: Í ræktunarlöndum í grennd við þéttbýli á sauðfé ekki að líðast. Það er ómannlegt að leggja þá byrði á ræktunarmenn að girða af hvern skika vegna þess að nokkrir sauðfjárdýrkendur hafa það sér til dundurs að halda skemmdarvörgum til beitar í löndum þeirra. Allir sem vilja rækta land eiga að geta fengið erfðafestuskika að kostnaðarlausu gegn ræktunarskyldu á friðuðu landi. Erfðafestan á að falla úr gildi og landið að ganga aftur til fyrri eiganda, ef ræktunarskyldunni er ekki fullnægt.
Blm.: Þetta hljómar vel, en ríki og bæjarfélög eiga fæst mikið land til slíkra hluta.
Björn: Ef menn nýta ekki landið, eins og t.a.m. Reykjanesskagann, á ríkið að gera slík svæði upptæk til handa þeim, sem eru fúsir til þess að rækta þau. — Hér hefur ræktunarmálum verið mjög litið sinnt. Engin fræðsla er um þau mál innan hefðbundins skólakerfis. Eitt hið fyrsta sem gera þarf er að fræða fólk um það, hvernig hægt er að rækta landið. Ég get best borið um það sjálfur, að vanþekking mín á ræktunarmálum hefur verið mér dýr. —

Fornasel

„Brunnurinn“ (vatnsstæðið) í Fornaseli (Brunnseli?).

Ræktunarfræðsla þarf að verða kjörsvið í öllum skólum. Þar á fólk að geta fræðst um undirstöðuatriði í garðrækt, ylrækt, trjárækt og skipulagningu garða og gróðursvæða, og margt annað kæmi til álita, ef mannafli og fræðslu væri til.
Hér er garðyrkjuskóli og útskrifar ágætlega menntað fólk, en þetta ágæta fólk fær mér vitanlega enga þjálfun í því að miðla öðrum af þekkingu sinni, kenna fræði sín. Þekking á lífríkinu í kringum okkur er hverjum manni dýrmætt veganesti. Fræðsla í margs konar náttúrufræðum hlýtur að vaxa í framtíðinni. Ræktunarfræðsla er mikið og vanrækt mál. — Það er ekki á okkar færi að fjalla um það sem skyldi. Menningarbylting verður að vera mjög róttæk ef hún á að standa undir nafni. – G.Fr

Rétt er að geta þess að sel það er fjallað er um í greininni er ekki Straumssel, heldur Fornasel ofan við Brunntorfur (sjá m.a. mynd af vatnsstæðinu við Fornasel, sem sagt er að sé við Straumssel). Fornasel er ofan við Gjásel (þessum seljum er stundum ruglað saman í skrifum), en það hefur einnig verið nefnt „Brunnsel“, sbr. „Brunntorfur“. Straumssel er mun vestar, í svonefnum Almenningum. – aths. ÓSÁ.

Heimild:
-Þjóðviljinn – 191.-192. tölublað (23.08.1980); Viðtal við Björn Þorsteinsson um unaðsreiti og löglausan sauðfjárbúskap á Reykjanesi, bls. 12-13.

Brunntorfur

Í Brunntorfum.

Gjár

Ómar Smári Ármannsson skrifaði um „Kaldársel og nágrenni“ í Fjarðarpóstinn árið 2002:

Kaldársel og nágrenni

Kaldársel

Kaldársel og nágrenni – uppdráttur ÓSÁ.

„Gamli bærinn í Kaldárseli stóð á túnblettinum, sem núverandi hús stendur á, þ.e. á móts við miðju þess er snýr að árbakkanum.

Kaldársel

Kaldársel – Teikning Daniels Bruun frá lokum 19. aldar. Inn á teikninguna er felld inn líkleg upphaflegu selshúsin áður en bætt við þau til búsetu.

Áður tilheyrði landið Garðakirkju og hafði hún þar í seli fram til ársins 1836. Frá árinu 1873 hafði Hvaleyri þar leigusel. Sel Garða voru flest í Selgjá vestan Búrfellsgjár. Enn sjást þar tóttir selja með hraunbarminum beggja vegna, einkum að sunnanverðu, svo og fallegir fjárhellar, bæði í gjánni og efst í Urriðavatnshrauni. Hafnarfjarðarbær keypti árið 1912 allmikinn hluta af Garðakirkjulandi og Kaldársel þar með.

Heimildir frá 1703
Elsta heimild um Kaldársel er í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1703. Þar segir að Hvaleyri eigi selstöð þar sem heitir Hvaleyrarsel suður af Hvaleyrarvatni í Selshöfða, auk selstöðvar í Kaldárseli. Aðrir munu ekki hafa nýtt það sel. Þegar Hvaleyrarbóndi hætti selförum að Kaldárseli lagðist selstöð þar niður með öllu, annað hvort 1865 eða 1866.

Kaldársel

Gengið um Kaldársel og nágrenni.

Útlendir ferðamenn

Kaldársel

Teikning Daniels Bruun af baðstofunni í Kaldárseli 1882.

Í húsvitjunarbók Garðaprestakalls má sjá að árið 1867 er kominn ábúandi í Kaldársel. Hann hét Jón Jónsson, en hann var þar stutt. Eftir það lagðist búskapur niður um nokkur ár. Árið 1876 kom þangað Þorsteinn Þorsteinsson eða Þorsteinn í Selinu, eins og hann var jafnan nefndur. Enn er efst í Heiðmörkinni fallegur fjárhellir, Þorsteinshellir, sem lengi var talinn týndur. Þorsteinn var nokkuð sérkennilegur í háttum. A hans tíma voru í Kaldárseli nokkrar byggingar, matjurtagarður, sem lá frá bænum niður að ánni mót suðri og vörslugarður. Bæjarhús voru lítil en snoturlega byggð. Í því var baðstofa, búr, eldhús og bæjardyr.

Kaldársel

Kaldársel eftir uppdrætti Daniels Bruun – teikning ÓSÁ.

Tætturnar voru allar vel hlaðnar úr sléttum og þykkum hraunhellum, en hvergi mold eða torf á milli, svo sem venja var.
Jón Guðmundsson á Setbergi keypti húsin í Kaldárseli sem og kindur. Þau voru öll rifin, nema baðstofan, sem stóð uppi fram undir aldamót. Hún var einkum notuð sem sæluhús fyrir fjármenn Setbergsbænda, sem þá héldu fé sínu, einkum sauðum, víðs vegar þar í högum.

Einnig var gott fyrir Krýsvíkinga að hafa þarna afdrep á ferðum sínum. Haustleitarmenn Grindvíkinga leituðu alla leið að Kaldá og höfðu náttstað í Kaldárseli.

Kaldársel

Í tóftum Kaldársels 1934.

Þá var mikil umferð útlendra ferðamanna til Krýsuvíkur, einkum til að skoða hinar nýyfirgefnu brennisteinsnámur, sem þar voru. Þeir gistu margir í Kaldárseli. Baðstofan bar þess merki. Í sperrur og súð voru skorin ófá mannanöfn af ýmsum þjóðernum.
Að liðnum aldamótum 1900 var ekkert hús lengur í Kaldárseli. Ferðum útlendinga fækkaði, Krýsvíkingar týndu ört tölunni, fjallleitir Grindjána styttust og hið stóra Setbergsheimili tvístraðist. Og fénaðurinn hvarf úr högunum.

Síðasti bóndinn í Kaldárseli
Árin 1906-1908 fékk Kristmundur Þorláksson Kaldársel til afnota, síðar stórbóndi í Stakkavík. Hann kom upp smáheyhlöðu í Kaldárseli fyrir sínar 50 kindur með því að byggja yfir hina gömlu baðstofutótt, sem þá stóð enn ófallinn. Þá byggði hann þar lambahús. Ekki hafði hann not af gömlu tóttunum að öðru leyti en því að hann gat nýtt úr þeim hraunhellurnar, sem hann gerði af miklum dugnaði. Kristmundur lá við í Hafnarfirði, en fór fótgangandi um veturinn beitarhúsaveginn í Kaldársel í myrkri kvölds og morgna. Ærnar hafði hann við gömlu hellana, sem eru skammt norður af Selinu. Lömbin voru í húsi, en músin vildi leggjast á þau. Kristmundur flutti loks fé sitt í Hvassahraun þar sem honum bauðst vist. Hann var því síðasti bóndinn í Kaldárseli.

Kaldársel

Gengið um Kaldársel og nágrenni.

Letursteinar KFUM-K

Kaldársel

Kaldársel – einn letursteinanna.

Eins og sjá má á uppdrættinum er margt að skoða í nágrenni við Kaldársel. Vestan við Kaldá, fast við árbakkann, eru letursteinar frá upphafi veru KFUM  og K á staðnum. Efst á Borgarstandi er fjárborgin og undir honum að norðanverðu eru tóttir gamals stekkjar og fjárhýsisins. Enn norðar eru hleðslur í Nátthaganum. Austan hans eru fjárhellarnir og hleðslurnar í kringum op þeirra. í einum hellanna er hlaðinn garður eftir honum miðjum.

Stærsti hellirinn er sá syðsti. Í honum er gott rými. Vatnsleiðslan gamla er austan Kaldárselsvegar og er forvitnilegt að sjá hvar hún hefur komið yfir Lambagjá, en í gjánni er mikil hleðsla undir hana. Sú hleðsla mun hafa að nokkru leiti hafa verið tekin úr austari fjárborginni á Borgarstandi.

Kaldársel 1932

Kaldársel 1932. Tóftir selsins hægra megin.

Í Gjám enn norðar eru hellar, hleðslur og hellisop. Austan við gamla veginn að Kaldárseli má enn sjá elstu götuna til og frá selinu, klappaða í bergið. Enn vestar, austan Fremstahöfða, er hálfhlaðið hús, líkt því sem sjá má á gömlu ljósmyndum frá 1892, að gamla selið í Kaldárseli hefur litið út.
Eins og sjá má þarf ekki að ganga alla leið á Helgafell til að finna tilefni til gönguferða í kringum Kaldársel.“

Sjá meira um Kaldársel og  nágrenni m.a. HÉR, HÉR, HÉR, HÉR, HÉR, HÉR og HÉR.

Heimild:
-Fjarðarpósturinn – 42. tölublað (31.10.2002), Ómar Smári Ármannsson, Kaldársel og nágrenni, bls. 4.

Lambagjá

Hleðslur undir vatnsleiðsluna um Lambagjá.

Flensborg

Eftirfarandi ávarp Ingvars Gíslasonar, menntamálaráðherra, er hann flutti á afmælishátíð Flensborgarskóla, gat að lesa í Lesborg Morgunblaðsins árið 1982 undir fyrirsögninni „Fyrsti kennaraskóli landsins„:

Flensborgarskóli„Í dag er mikill hátíðisdagur í Flensborgarskóla. Liðin eru á þessu ári 100 ár frá stofnun hans, og þess er nú minnst á veglegan hátt við skólaslit. Flensborgarskóli er því með allra elstu skólum í landinu og á sér hina merkustu sögu.
Ég vil leyfa mér að benda áheyrendum á að kynna sér sögu Flensborgarskóla í 100 ár og persónusögu þeirra mikilhæfu manna, sem mestu hafa ráðið um störf skólans þetta tímabil. Það er menntandi út af fyrir sig að kynnast mönnum og málefnum tengdum Flensborgarskóla. Í ljós mun koma að áhrif skólans á þróun almennra skólamála í landinu og þjóðlífið að sínu leyti, eru mikil og eftirtektarverð.
FlensborgarskóliFlensborgarskóli skipar virðulegan sess í skólasögu Íslendinga og það svo, að sumt í starfi hans hefur skipt sköpum í sögu íslenskra skólamála. 100 ár eru að vísu langur tími, og margt hlýtur að gerast á heilli öld í þjóðarævi. En síðustu 100 ár skera sig úr öðrum öldum Íslandssögunnar vegna hinna miklu og öru breytinga sem orðið hafa á þjóðarhögum. Þetta á ekki síst við um skólamál.
Varla er hægt að segja að verulegar umræður um stofnun almennra skóla komi til fyrr en um og eftir miðja 19. öld, eða jafnvel síðar, og framkvæmdir í þeim efnum voru býsna hægfara lengi framan af. Eiginlegur vöxtur skólakerfisins gerist reyndar ekki fyrr en á þessari öld og þá á nokkrum síðustu áratugum öðrum fremur. Svo stutt er saga almennra skóla á Íslandi.
FlensborgFlensborgarskólinn ruddi nýjar brautir í skólamálum á sinni tíð ásamt Möðruvallaskóla, sem stofnaður var um svipað leyti á Norðurlandi. Þessir tveir skólar eru fyrstu gagnfræðaskólar landsins þar sem unglingum voru kenndar almennar námsgreinar eftir að barnafræðslu var lokið. Miðað við skólamenntunaraðstöðu í landinu á þeirri tíð var það ekkert lítilræði fyrir menn að stunda nám í Flensborg eða á Möðruvöllum, enda voru gagnfræðingar frá þessum skólum taldir til menntamanna og voru eftirsóttir til vandasamra starfa og félagsmálaforystu. Því var það að á fyrri hluta þessarar aldar mátti finna í hópi forystumanna í landinu fjölmarga Flensborgara. Þannig síuðust áhrifin frá skólanum víða um þjóðlífið. Og reyndin er sú að Flensborgarskólinn var lengst af kunnur sem merkur gagnfræðaskóli á gamla vísu, sem skólinn var að meginstefnu allt frá stofnun 1882 fram til þess að honum var breytt í fjölbrautaskóla árið 1975, samkvæmt sérstökum samningi við menntamálaráðuneytið. Reyndar hafði skólinn nokkru áður stofnað framhaldsdeildir og stefnt að því að búa nemendur undir stúdentspróf.

Flensborg

Stefán Júlíusson.

Fyrsti kennaraskóli landsins
En vafalaust er þó sá þáttur Flensborgarsögu merkastur og minnisstæðastur, að Flensborgarskólinn er fyrsti kennaraskóli á Íslandi. Á þessu vori eru 90 ár síðan Flensborgarskóli brautskráði fyrstu sérþjálfuðu kennarana á Íslandi samkvæmt sérstakri reglugerð um kennaranámskeið, sem skólanum hafði verið sett. Frá 1896—1908 starfaði föst kennaradeild við Flensborgarskóla, og hún var ekki lögð niður fyrr en Kennaraskóli íslands tók til starfa 1908. Eftir það gegndi Flensborgarskóli áfram aðalhlutverki sínu sem gagnfræðaskóli í Hafnarfirði, sem þó var sóttur af nemendum víða að af landinu og hafði algera sérstöðu áratugum saman ásamt Gagnfræðaskólanum á Akureyri, sem nú er menntaskóli.
Það er varla hægt að segja sögu Flensborgarskóla í færri orðum en ég hef gert, og mannanöfn hef ég ekki nefnt  í þessari frásögn. Því má þó ekki gleyma að þessi skóli var stofnaður af merkum mönnum, og honum hafa ætíð stjórnað mikilhæfir skólamenn, og hér hafa starfað ágætir kennarar mann fram af manni. Ég vil leyfa mér að þakka öllum — lifandi og látnum — sem unnið hafa Flensborgarskóla, og innt af hendi ágæt störf á þessu aldarskeiði. Nöfn þeirra eru geymd en ekki gleymd.

Þórarinn Böðvarsson

Þórarinn Böðvarsson.

Ekki má þó láta ógetið stofnenda skólans, sr. Þórarins Böðvarssonar í Görðum og konu hans, Þórunnar Jónsdóttur. Þau voru að vísu stórefnafólk, en við skulum minnast þess að þau létu stofna Flensborgarskóla sem einkaskóla og sjálfseignarstofnun og gáfu skólahús og allstóra bújörð með öllum húsum til skólahaldsins. Það er vandasamt nú að meta þessa gjöf til fjár þannig að nútímamenn skilji hvers virði hún var peningum, en engin smágjöf var þetta, heldur stórgjöf til menningarmála, sem varla á sinn líka. Einnig vil ég minnast fyrsta skólastjórans, Jóns Þórarinssonar, sem reyndar var sonur stofnenda, en Jón Þórarinsson var fyrir margra hluta sakir tímamótamaður í sögu íslenskra fræðslumála. Barátta hans á Alþingi og virk forganga hans fyrir kennaramenntun mun lengi halda minningu hans lifandi. Auk þess varð hann síðar æðsti embættismaður yfir almennum fræðslumálum í landinu og mikill áhrifamaður í þeim efnum.

Í fararbroddi enn í dag
Þannig getum við rakið sögu Flensborgarskóla og þeirra sem við hann hafa starfað og hljótum að sannfærast um að skólinn hefur verið farsæl stofnun og gegnt hlutverki sínum með ágætum alla tíð. Það er vissulega gott að eiga góða fortíð. Það hlýtur að vera skólanum styrkur og hvatning. En ég vil þó umfram allt minnast skólans eins og hann er í dag og þakka núverandi skólameistara og kennurum og nemendum fyrir það sem Flensborgarskóli er á líðandi stund. Skóli á að vera lifandi stofnun handa lifandi fólki. Og það veit ég að Flensborgarskólinn er.
Skólinn gerist e.t.v. gamall að stofni til, orðinn 100 ára, en hann er ekki rykfallinn og enginn safngripur. Flensborgarskólinn tekur þátt í framsæknu skólastarfi af lífi og sál og hefur tekið að sér ný hlutverk af áhuga og einurð. Miklar breytingar hafa verið að gerast í skólanum síðustu 10 ár, og það hefur einmitt komið í hlut núverandi skólameistara að fylgja þeim eftir. Flyt ég honum og samstarfsmönnum hans þakkir og árnaóaróskir.
Ég óska Flensborgarskóla innilega til hamingju með 100 ára afmælið.“

Stefán Júlíusson skrifaði um sögu Flensborgarskólans í jólablað Alþýðublaðs Hafnarfjarðar árið 1962:

„Þegar ég var að alast upp í Hafnarfirði, vitnuðu mörg örnefni í bænum um starfsemi erlendra manna á liðnum öldum. Þar var Hellyersstöð, Brydehús, Hansensbúð, Haddensbryggja, Linnetsstígur, Proppélóð. Sum þessara örnefna voru ný, önnur aldagömul, enda mátti svo heita, að Hafnarfjörður væri vettvangur erlendra kaupsýslu- og útgerðarmanna frá því um aldamótin 1400 og fram á þriðja tug þessarar aldar.

Flest þessi nöfn eru nú horfin, eða að hverfa. Enn hef ég þó ekki nefnt það útlenda heitið, sem einna oftast var á vörum fólks, og raunar var landskunnugt, en það er Flensborg. Og þetta heiti mun ekki hverfa úr sögunni, þótt önnur erlend nöfn týni nú óðum tölunni, því að gagnfræðaskólinn í bænum hefur nú borið þetta nafn í átta áratugi, og engar líkur eru fyrir því, að þar verði breyting á gerð. Enda er svo ráð fyrir gert í ráðuneytisbréfi frá árinu 1932, að skólinn skuli framvegis heita Flensborgarskóli, eins og hann hafði þá verið kallaður í hálfa öld.

Flensborg

Flensborgarhöfnin 1909.

Það er naumast nema von, að ég velti því fyrir sér, hvers vegna Hafnfirðingar telja það sjálfsagt og eðlilegt, að framhaldsskóli þeirra ber þetta gamla, danska nafn. Eins mætti líka spyrja: Hvernig stendur á þessu nafni í bænum, og hvers vegna hefur það unnið sér slíkan þegnrétt í hugum bæjarbúa og landsmanna allra? Skólar á Íslandi bera yfirleitt ekki erlend nöfn, og fremur hefur verið hamlað gegn því á undanförnum áratugum, að opinberar stofnanir beri útlend heiti. Flensborgarar settu ávallt allmikinn svip á bæinn , þegar ég var að alast upp, og í fyrstu þótti mér þetta auðkennisheiti skólafólksins þar dálítið furðulegt. En þegar ég var sjálfur orðinn nemandi í skólanum, hefði ég ekki annað viljað kallast en Flensborgari, þótt við skólafélagarnir værum stundum kallaðir Flensarar í háðungarskyni, ef einhver þóttist eiga okkur grátt að gjalda.
Flensborg í Hafnarfirði dregur nafn sitt af jósku borginni Flensborg, en hún stendur sunnarlega á Jótlandi, í Slésvíkurhéraði, sem ásamt Holtsetalandi var löngum þrætuepli Dana og Þjóðverja. Nú eru landamærin rétt norðan við borgina, og mun hún vera nokkru stærri en Reykjavík. Frá þessari suðurjózku borg komu kaupmenn   til Hafnarfjarðar fyrir um það bil eitt hundrað og áttatíu árum og reistu sér síðar verslunarhús fyrir botni fjarðarins, þar sem hann gengur lengst inn í landið að sunnanverðu.
FlensborgEkki verður fyllilega séð af gögnum, hvaða ár þetta var, en líkur mæla með því, að þeir hafi byggt árið 1794. Tóku þeir lóðina á leigu af konungi. Var hinn nýi verslunarstaður kallaður eftir heimaborg þeirra, og festist nafnið fljótt við staðinn. Var þetta allmikið landsvæði, enda þurfti töluvert olnbogarými fyrir verslun á þeirri tíð. Seinna keypti verslunin svo landareignina.
í Flensborg var verslað til ársins 1875, og voru margir verslunarstjórar á þeim átta til níu áratugum, sem þar var verslað, ýmist danskir eða íslenskir. Afkomendur þeirra sumra urðu merkir menn í íslensku þjóðlífi. Má meðal þeirra nefna Thorgrímsen verslunarstjóra á Eyrarbakka og Morten Nansen skólastjóra í Reykjavík, sem báðir voru fæddir í Flensborg í Hafnarfirði. Gísli J. Johnsen stórkaupmaður mun vera afkomandi Flensborgarkaupmanna.
En árið 1876 urðu mikil þáttaskil í sögu Flensborgar. Það voru þessi þáttaskil, sem urðu því valdandi, að nafnið lifir til þessa dags og mun halda áfram að lifa um ókomin ár. Þá keypti íslenskur maður Flensborgareignina, ekki í því augnamiði að reka þar áfram verslun, heldur til þess að setja þar á stofn barnaskóla fyrir Garðaprestakall á Álftanesi. Þetta var harla merkilegt tiltæki af kaupandanum, í rauninni einstakt framtak, því að á þeirri tíð var enn næsta lítið hugsað fyrir alþýðumenntun og barnafræðslu með föstu sniði.
Sá, sem keypti Flensborgareignina í þessum tilgangi fyrir áttatíu og sex árum, var prófasturinn í Görðum, sr. Þórarinn Böðvarsson. Seljendur voru Knudtzonfeðgar, sem lengi höfðu verið athafnasamir kaupmenn í Hafnarfirði, enda var ætt þeirra kunn kaupsýsluætt í Danmörku. Ári síðar en kaupin voru gerð, stofnuðu þau prófastshjónin í Görðum skólasetur í Flensborg og gáfu til þess miklar eignir, svo skólinn gæti orðið sjálfseignarstofnun, er stæði sem mest á eigin fótum. Skólann stofnuðu þau til minningar um son sinn, Böðvar, er andaðist árið 1869, 19 ára gamall, þá nemandi í lærða skólanum í Reykjavík. Var Böðvar bráðefnilegur piltur, góður námsmaður og hvers manns hugljúfi. Gjafabréf þeirra prófastshjóna er á þessa leið:

Flensborg

Ómar Smári Ármannson, Inspector Scholae í Flensborg 1875-’76, með Páli Þorleifssyni, húsverði. Axel, Sigurður og Gunni Einars í bakgrunni.

„Síðan forsjóninni fyrir 8 árum síðan þóknaðist að svipta okkur hjónin okkar elskaða syni Böðvari, hefur það verið ósk okkar að heiðra minningu þessa okkar ógleymanlega sonar með því að gefa nokkurn hluta af eignum okkar til einhvers þess fyrirtækis, sem eflt gæti menntun og góða siði meðal almennings í föðurlandi okkar, og höfum við í þessum tilgangi afsalað og gefið til stofnunar alþýðuskóla þær fasteignir, er nú skal greina:

1. Húseign okkar í Flensborg í Hafnarfirði með þar tilheyrandi túni og annarri lóð, eins og hún er afsöluð með afsalsbréfi hins fyrra eiganda, stórkaupmanns P. C. Knudtzons, dags. 17. júlímán. f.á.
2. Eignarjörð okkar, heimajörðina Hvaleyri í Álftaneshreppi í Gullbringusýslu, 18.3 hndr. að dýrleika eftir nýju mati, með tilheyrandi húsum.

Um þessa gjöf lýsum við yfir þeim vilja okkar, að hún verði höfð til stofnunar alþýðuskóla, að þessi skóli verði fyrst og fremst barnaskóli fyrir Garðaprestakall á Álftanesi.

Flensborg

Stjórn Nemendafélags Flensborgarskóla 1975-’76. Þarna má sjá marga þjóðþekkta einstaklinga. Ómar Smári Ármannsson, í fremstu röð fyrir miðju, var annar Insperctor Scholea eftir stofnun Menntadeildar skólans. Ingvar Viktorsson var fulltrúi skólans.

-að hún verði höfð til stofnunar alþýðuskóla,
-að þessi skóli verði fyrst og fremst barnaskóli fyrir Garðaprestakall á Álftanesi.
-að hann þar næst, eftir því sem efni og kringumstæður leyfa, jafnframt verði almennur menntunarskóli, þar sem kostur sé á að afla sér þeirrar þekkingar, sem álíta má nauðsynleg hverjum alþýðumanni, er á að geta kallast vel að sér.

Flensborg

Inga Blandon, kennari, og Ólafur Þ. kristjánsson, skólastjóri. [ljósm: Guðm. Böðvars.]

Enn fremur er það vilji okkar, að skólinn og skólaeignirnar séu undir stjórn þriggja manna nefndar, er stiftsyfirvöldin yfir Íslandi skipi, en að stiftsyfirvöldin hafi yfirumsjón með skólanum og gæti þess, að efnum hans sé varið samkvæmt tilgangi gjafarinnar, svo og, að stiftsyfirvöldin eftir tillögum skólanefndarinnar setji reglugerð fyrir skólann um allt fyrirkomulag hans og stjórn. Fyrir því afsölum við hér með frá okkur og okkar erfingjum í hinu umrædda augnamiði ofannefnda húseign og jörð, og eru eignir þessar upp frá þessu fullkomlega heimilar til allra umráða og afnota handa slíkri skólastofnun, sem að ofan er um getið, en verða undir okkar umsjón þangað til skólanefnd hefur verið skipuð og hún getur tekið við umráðum yfir þeim; Görðum, 10. ágúst 1877 – Þórarinn Böðvarsson / Þórunn Jónsdóttir.“

FlensborgVerslunarhúsið í Flensborg, sem nú varð skóli, var mikil bygging og traustlega byggt. Það var reist upp úr 1812, en þá brann fyrsta verslunarhúsið í Flensborg. Byggingin var næstum 20 m löng og 9 m breið, með háu risi, sem sneitt var við báðar burstir. Byggingarlistin var dönsk, og má enn sjá mikil hús af þessari gerð frá valdadögum Dana á ýmsum stöðum hér á landi. Ekki þurfti að nota allt húsið til kennslu, enda hafði það bæði verið íbúð verslunarstjórans, skrifstofur og búð. Varð Flensborg nú um skeið sýslumannssetur, eða fram undir áratug, til ársins 1887. Barnaskólinn var til húsa í norðaustur-endanum, sýsluskrifstofan í hinum endanum, en sýslumaður bjó uppi.

Flensborg

Kristján Bersi Ólafsson, kennari og skólastjóri. [ljósm: Guðm. Böðvars.]

Vísir að fastri barnakennslu hafði komist á fót í Hafnarfirði nokkru áður, þótt mjór væri, svo að telja má, að í bænum hafi verið föst barnakennsla í um það bil 90 ár. Þorsteinn Egilsson cand. theol., sonur Sveinbjarnar Egilsson rektors og tengdasonur sr. Þórarins í Görðum, byrjaði að kenna börnum tveim árum áður en skólinn í Flensborg tók til starfa. Hann var einnig fyrsti kennari þar.

Áður en lengra er haldið, er rétt að gera hér grein fyrir því, hversu mikil sú gjöf var, sem prófastshjónin í Görðum gáfu til skólahaldsins. Húsið sjálft var metið á 10.000 kr., geymsluhús á 450 kr., þriggja dagslátta tún og kálgarðar á 750 kr. Heimajörðin á Hvaleyri, sem skyldi renna stoðunum undir skólahaldið, var metin á 2.200 kr. Nokkrum árum seinna bætti svo sr. Þórarinn við strandlengjunni með fram Flensborgarlóðinni, sem hann keypti í þeim tilgangi og metin var á 1000 kr.

Flensborg

Flensborgarskóli á Hamrinum í smíðum.

Auk þess gaf hann þá skólanum ágóða af óseldum eintökum af Lestrarbók handa alþýðu, sem hann hafði gefið út þjóðhátíðarárið 1874. Alþýðubókin var hið merkasta rit og vitnar mætavel um hug sr. Þórarins til alþýðumenntunar, áður en hann stofnaði skólann í Flensborg. Til marks um það, hve Alþýðubókin var mikill aufúsugestur á heimilum víða um land, má geta þess, að þegar skáldið Örn Arnarson var beðið að yrkja vígsluljóð, er nýja Flensborgarskólahúsið á Hamrinum var tekið í notkun haustið 1937, lét hann svo ummælt, er hann varð við þessum tilmælum, að sér væri ljúft að minnast útgefanda Alþýðubókarinnar. Ekki er nú vitað, hve mikið hefur runnið til skólans fyrir bókina, en gjöf þeirra prófastshjóna hefur alltaf numið allt að 15 þús. kr. Varla munu tök á því að umreikna þessa fjárhæð nákvæmlega í núgildandi peninga, en víst er, að gjöfin hefði skipt milljónum í dag, þótt ekki væri að öllu leyti reiknað með breyttum aðstæðum.

Flensborg

Halldór Ólafsson, kennari. [ljósm: Guðm. Böðvars]

Barnaskóli var í Flensborg í átján ár, eða til ársins 1895. En þremur árum eftir að skólinn tók til starfa, kom hinn nýstofnaði Bessastaðahreppur á fót hjá sér skóla þar úti á nesinu. Grímur skáld Thomsen á Bessastöðum mun hafa átt frumkvæðið að þessari skólastofnun. Var því fleygt, að hann hefði að öðrum þræði gert það til að skaprauna nágranna sínum, sr. Þórarni í Görðum, og draga frá skólanum í Flensborg. Hann hafði frá upphafi fengið nokkurn opinberan styrk, en nú hlaut skólinn úti á nesinu að fá hluta af honum. Þótt grunnt væri á því góða með þeim prófastinum í Görðum og skáldinu á Bessastöðum, og þeir eltu stundum grátt silfur saman, þarf þessi skólastofnun úti á nesinu ekki að hafa verið af þeim toga spunnin, því að óneitanlega var erfitt fyrir börn framan af nesi að sækja skóla inn í Hafnarfjörð.

Flensborg

Flensborg -Albert Anker 1896.

En hvort sem þessir úfar með þeim stórmennunum hafa valdið eða ekki, varð þessi skólastofnun úti á nesinu meðal annars til þess, að sr. Þórarinn tók að hyggja að skólanum í Flensborg á nýjan leik. Og þessi athugun leiddi til þess, að þau prófastshjónin í Görðum breyttu gjafabréfi sínu árið 1882 og stofnuðu gagnfræðaskólann í Flensborg. Þá bættu þau líka við gjöfina, eins og áður var rakið. Og nú gátu þau hjónin lagt skólanum til meira en hús, land og fé: Nú varð sonur þeirra, Jón, skólastjóri hins nýja gagnfræðaskóla. Hafði hann með námi erlendis beinlínis búið sig undir skólastjórnina. Það var einstætt á þeirri tíð.

Flensborg

Einar Bollason, kennari. [ljósm: Guðm. Böðvars.]

Sr. Þórarinn Böðvarsson var mikill umsýslu- og búmaður og kunni vel að sjá fótum sínum forráð á veraldlega vísu. Með því að láta Jón son sinn búa sig undir skólastjórn í Flensborg, sló hann tvær flugur í einu höggi: Hann sá syni sínum fyrir framtíðaratvinnu, og hann tryggði óskabarni sínu, skólanum í Flensborg, trausta og farsæla stjórn gegnum brim og boða í upphafi siglingar. Ekki þarf að fara í grafgötur um það, að hagsýni sr. Þórarins hefur ekki síður miðað að því, að skólastofnun þeirra hjóna færi ekki forgörðum, þótt þeirra missti við. Ekki hefur hann lagt sig minna fram um þetta, eftir að hann fann andann frá skáldinu á Bessastöðum og öðrum öfundarmönnum. Hann hefur treyst syni sínum vel til starfans, og þar reyndist hann sannspár og giftudrjúgur, því að Jón Þórarinsson hafði erft traustleika og raunhyggju föður síns í ríkum mæli. Auk þess var hann mikill skólamaður og frumkvöðull í þeim efnum, svo að engin ráð voru ráðin í skólamálum um hans daga nema hann kæmi þar til, enda varð hann fyrsti fræðslumálastjórinn árið 1908. Þeir feðgar mótuðu þannig í sameiningu starfsemi skólans í Flensborg á byrjunarskeiði hans, en sr. Þórarinn sat að sjálfsögðu í skólanefndinni til dauðadags árið 1895.

Flensborg

Jón Thor Haraldsson, kennari. [ljósm: Guðm. Böðvars.]

Miklar breytingar urðu í Flensborg, eftir að gagnfræðaskólinn var stofnaður þar árið 1882 og Jón Þórarinsson tekinn við skólastjórn. Húsið var stækkað með því að setja tvo kvisti þvert yfir það, og var það íbúð skólastjóra æ síðan, meðan húsið stóð. Þegar sýslumannssetrið var flutt þaðan árið 1887, var sett þar á stofn heimavist. Nokkru síðar var allmikill tómstundaskáli byggður norðan við húsið, þar sem skólapiltar iðkuðu leika og smíði, en seinna var bókasafn skólans, Skinfaxi, þar til húsa. Um skeið störfuðu þrír skólar í Flensborg, barnaskóli, gagnfræðaskóli og kennaraskóli. Kennaradeildin var sett á stofn tíu árum eftir að gagnfræðaskólinn tók til starfa. Var hún fyrst 6 vikna vornámskeið að gagnfræðaprófi loknu, en gagnfræðaskólinn var þá tveggja vetra skóli. En árið 1896 varð hún eins konar 3. bekkur og starfaði í 7 1/2 mánuð árlega. Þetta var fyrsti kennaraskóli á Íslandi, og eru því á þessu ári 70 ár liðin frá því að reglubundin kennsla undir kennarastarf hófst hér á landi. Þessi fyrsti kennaraskóli komst á fót fyrir áhuga, dugnað og framsýni Jóns Þórarinssonar skólastjóra. En ekki væri sanngjarnt að geta þar að engu samverkamanns hans, Jóhannesar Sigfússonar kennara í Flensborg, sem studdi hann með ráðum og dáð í þessum framkvæmdum, enda var hann hinn merkasti skólamaður.

Flensborg

Hallgrímur Hróðmarsson, kennari. [ljósm: Guðm. Böðvars.]

Árið 1906 var byggt sérstakt skólahús á Flensborgarlóðinni, snertispöl norðan við gamla húsið. Þetta nýja skólahús var einlyft, 18 m langt og 9 m breitt; í því voru 3 kennslustofur, góður gangur og kennaraherbergi. Þetta hús entist skólanum í rúm 30 ár. Við þessa byggingu rýmkaðist mjög um heimavistina í gamla húsinu, svo að nú rúmaði hún 28 pilta, en áður komust þar fyrir helmingi færri. Eins og alkunnugt er, voru fyrstu almennu fræðslulögin sett hér á landi árið 1907. Ekkert sýnir betur gengi Flensborgarskólans um þessar mundir en það, að þegar kom til að framkvæma þessi lög (árið eftir), urðu kennarar frá Flensborg til að hafa þar á hendi forustuna. Skólastjórinn, Jón Þórarinsson, gekk inn í hið nýja embætti fræðslumálastjóra, og annar kennari þaðan, sr. Magnús Helgason, varð skólastjóri nýstofnaðs kennaraskóla í Reykjavík. Hann hafði komið að skólanum árið 1904, þegar Jóhannes Sigfússon varð yfirkennari við menntaskólann, en raunar hafði hann verið kennari þar fyrsta vetur gagnfræðaskólans, áður en hann gerðist prestur.
FlensborgÞriðji kennarinn í Flensborg, Ögmundur Sigurðsson, hefði vel mátt fá stöðu við kennaraskólann nýja, enda sótti hann um stöðu þar. Hann hafði gerst kennari í Flensborg árið 1896 og hafði jafnan á hendi æfingakennslu í kennaradeildinni, enda var hann óumdeilanlega í fremstu röð skólamanna landsins. En Ögmundur fékk ekki stöðu við kennaraskólann, hann varð skólastjóri í Flensborg. Vafalaust hefur það þótt of mikil blóðtaka fyrir Flensborg að missa alla þrjá aðalkennarana í einu, og má fara nærri um það, að Jóni Þórarinssyni hefur ekki getist að því. Ögmundur Sigurðsson var svo skólastjóri í Flensborg í 23 ár við mikinn og góðan orðstír. Í hans tíð, eða árið 1912, varð skólinn þriggja vetra skóli, og það var hann fram á síðasta áratug. Nú er hann fjögurra vetra skóli, eins og aðrir gagnfræðaskólar í kaupstöðum.
Lengi var það áhugamál skólastjóra og kennara í Flensborg, að nemendur með góðu gagnfræðaprófi þaðan hefðu rétt til að setjast í lærdómsdeild menntaskólans. Það varð þó aldrei. Til þess þurftu þeir viðbótarnám og að heyja inntökupróf í 4. bekk menntaskólans. Ýmsir nemendur úr Flensborg fóru þó þessa leið sama vor og þeir tóku  gagnfræðapróf þaðan. Nú hefur landsprófið leyst þennan vanda.

Flensborg

Þórarinn Andrewsson, kennari, með stærðfræðina á hreinu. [ljósm: Guðm. Böðvars.]

Ég var í Flensborg á árunum 1929—32. Þessi ár voru mikil breytinga- og umbrotaár í sögu skólans. Eftir fyrsta vetur minn í skólanum skemmdist gamla Flensborgarhúsið svo 1 eldi, að ekki þóttu tiltök að gera við það. Var þá rifið það, sem eftir stóð. Þá stóð eftir á sjávarbakkanum gamla skólahúsið frá 1906, lág bygging og hnípin, gisin og úr sér gengin á margan hátt, svo að gjörla mátti sjá endalokin. Samt varð hún að endast í sjö ár enn. Eftir brunann hætti Ögmundur Sigurðsson skólastjórn, sjötugur að aldri, og heimavistin lagðist að sjálfsögðu niður. Fullur hugur var í forráðamönnum skólans að fá ungan og ötulan skólastjóra til að taka við starfi hins kunna skólamanns. Það tókst líka. Sr. Sveinbjörn Högnason varð skólastjóri haustið 1930, þá rúmlega þrítugur. En hann var aðeins einn vetur. Sóknarbörn hans austur í Rangárþingi vildu ekki missa hann, og hvarf hann þá austur aftur. Hef ég varla séð meira eftir öðrum manni úr starfi. Þá tók Lárus Bjarnason við skólastjórn, en hann hafði komið að skólanum með sr. Sveinbirni. Stýrði hann skólanum í tíu ár.

Þorvaldur Jakobsson

sr. Þorvaldur Jakobsson.

Við gagnfræðingarnir, sem brautskráðumst frá Flensborg á hálfrar aldar afmæli skólans, árið 1932, höfðum því þrjá skólastjóra, og önnur kennaraskipti voru einnig mikil. Hellubjargið í kennaraliðinu á þessum umbrotaárum var sr. Þorvaldur Jakobsson, sem kenndi íslensku og stærðfræði, merkur ágætiskennari. Á þessum árum sagði heimskreppan til sín í skólahaldi sem öðru. Við vorum tuttugu og fjögur, sem hófum nám í 1. bekk, en aðeins tíu runnu skeiðið til enda, hin höfðu helst úr lestinni. Samt brautskráðumst við þrettán gagnfræðingar þetta vor; þrír höfðu bæst í hópinn á leiðinni. En aðalbreytingin var þó sú, að á þessum árum komu til framkvæmda ný lög um gagnfræðaskóla í landinu. Skyldu þeir kostaðir af opinberu fé í öllum kaupstöðum landsins.

Á þessum árum breyttist Flensborgarskólinn því úr sjálfseignarstofnun í ríkisskóla. Reglugerð fyrir ríkisskólann var einmitt sett árið 1932, á hálfrar aldar afmæli skólans, og setti ráðuneytið þá ný ákvæði um gjöf prófastshjónanna í Görðum, sem ekki þurfti lengur að standa undir skólanum í Flensborg.

Flensborg

Arnaldur Árnason, kennari, ábúðarfullur. [ljósm: Guðm. Böðvars.]

Þegar héraðs- og gagnfræðaskólar tóku að rísa upp víðs vegar um landið, varð Flensborgarskólinn að sjálfsögðu í æ ríkari mæli skóli fyrir Hafnarfjörð, en áður höfðu löngum sótt hann nemendur víðs vegar að, enda voru gagnfræðaskólar lengi aðeins tveir á landinu. Forráðamenn skólans vildu þó gera sitt til að halda við gamalli skipan, og þegar nýtt skólahús var reist á Hamrinum, var höfð í því heimavist. En tímarnir voru óumdeilanlega breyttir; heimavistin lagðist fljótlega niður. Bæjarbúum fjölgaði líka ört á þessum árum. Ekki kom til greina að byggja aftur upp á gamla staðnum niðri í fjörunni fyrir botni fjarðarins. Aukið athafnalíf og nýtt skipulag kaupstaðarins hlaut að krefjast Flensborgarlóðarinnar gömlu til annarra hluta. Nú stendur íshús Hafnarfjarðar þar, sem skólahúsið stóð, og Strandgata og Hvaleyrarbraut greinast þar, sem Flensborgartúnið var áður.

Flensborg

Bjarni Jónsson, kennari. [ljósm: Guðm. Böðvarsson].

Lárus Bjarnason var skólastjóri, þegar skólinn flutti í hina veglegu byggingu uppi á Hamrinum árið 1937. Hann var skólastjóri til ársins 1941 en þá tók Benedikt Tómasson skólayfirlæknir við skólastjórn. Var hann til ársins 1955, að núverandi skólastjóri, Ólafur Þ. Kristjánsson, tók við. Þannig hafa aðeins sex skólastjórar verið í Flensborg þau áttatíu ár, sem gagnfræðaskólinn hefur starfað; þar með talinn sr. Sveinbjörn Högnason, sem aðeins var eitt ár.

Nú kynni einhver að spyrja: Hvað varð þá um gjöf þeirra prófastshjóna í Görðum, þegar ekki var lengur grundvöllur fyrir sjálfseignarskólann Flensborg. Því er til að svara, að gjafasjóður sr. Þórarins og frú Þórunnar er enn til, og enn er hann í tengslum við skólann. En í reglugerðinni frá 1932, sem ég gat um fyrr, er þetta ákvæði: „Aldrei má verja fé sjóðsins til útgjalda, sem greiða skal lögum samkvæmt af opinberu fé.“ Þótt ákvæðið sé að sjálfsögðu réttmætt, er hlutverki sjóðsins þannig óneitanlega þröngur stakkur skorinn. Þó hafa nemendur skólans oft notið fjárframlaga úr sjóðnum á undanförnum árum, bæði til gagns og ánægju. Bæjarfógeti og bæjarstjóri í Hafnarfirði hafa á hendi stjórn sjóðsins, ásamt einum stjórnskipuðum fulltrúa, sem nú er skólastjórinn í Flensborg. Árið 1956 keypti Hafnarfjarðarbær eignarlendir sjóðsins með mjög hagstæðum kjörum. Og alla tíð hefur bærinn notið ríkulega gjafar þeirra prófastshjóna, og stendur Hafnarfjarðarkaupstaður því í ævarandi þakkar- og fjárhagsskuld við Flensborgarskólann. Gjafasjóðurinn er nú rúmar 2 milljónir króna.

Flensborg

Úr félagslífi Flensborgarskóla 1975-’76.  Tryggvi Harðarson, Daníel Hálfdánarson o.fl. fylgjast með félaga sínum Halldóri Árna Sveinssyni.

Af því, sem ég hef nú rakið, má það ljóst vera, að Flensborgarnafnið á gagnfræðaskólanum í Hafnarfirði er eins konar minnistákn um höfðingslund prófastshjónanna í Görðum og þann merka skóla, sem þau stofnuðu til minningar um son sinn. En jafnframt er í nafninu bundin minning um hinn soninn, sem svo farsællega stýrði skólanum fyrsta aldarfjórðunginn og gerði garðinn frægan. Þótt nafnið hljómi allútlenskulega, er það samt norrænt að uppruna.

Flensborg

Flensborgarskóli 2021.

Borgin á Jótlandi hét upprunalega Fleinsárborg, virkið við Fleinsá. Mannsnafnið Fleinn mun hafa verið til á Norðurlöndum í fornöld, í líkingu við nafnið Geir. En vel gat áin líka dregið nafn sitt af vopni, sem þar hefur týnst eða fundist. Fleinsárborg hefur síðan breyst í Flensborg, og Fleinsborg í Flensborg.
Ég get þessa hér í lokin til gamans fyrir þá, sem áhuga hafa á nafngiftum og nafnbreytingum. Mestu máli skiptir þó hitt, að í átta áratugi hefur í skjóli Flensborgarnafnsins gerst í Hafnarfirði hin merkasta saga, sem er snar þáttur af þjóðarsögunni sjálfri. Vonandi verður svo áfram um alla framtíð.
(Grein þessi er útvarpserindi, flutt s. l. sumar. Heimildir: Saga Hafnarfjarðar, Minningarrit Flensborgarskóla, skólaskýrslur o. fl. S.J.)“

Heimildir:
-Lesbók Morgunblaðsins – 23. tölublað (03.07.1982), Ingvar Gíslason, menntamálaráðherra; „Fyrsti kennaraskóli landsins“, bls. 2.
-Alþýðublað Hafnarfjarðar – Jólablað 1962 (15.12.1962), Stefán Júlíusson, Flensborg í Hafnarfirði, bls.8-10.

Flensborg

Flensborg.


Krýsuvík - uppdráttur

Árið 1989 ritaði Ólafur E. Einarsson eftirfarandi grein í Dagblaðið-Vísir undir fyrirsögninni „Höfuðbólið Krýsuvík og fjórtán hjáleigur þess„. Tveimur árum áður (7.  mars, bls. 4-6) hafði hann ritað grein í Lesbók Morgunblaðsins um sama efni. 

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja fyrir 1810 sett inn í nútímamynd af aðstæðum.

„Svo segir í fornum ritum að Grindavík eða Grindavíkursókn takmarkist að vestanverðu af Valahnúk á Reykjanesi, sem aðskilur bæði land og reka Hafna og Grindavíkur, en að austanverðu af Selatöngum, stuttum tanga í sjó fram vestan við Krýsuvíkurberg. Á Selatöngum er klettur nokkur, bergdrangur kallaður Dagon, sem er bæði landa- og rekamörk Grindavíkur og Krýsuvíkur að austanverðu. Þótt ofangreind landamerkjalýsing sé tekin úr riti síra Geirs Bachmanns frá 1840 veit ég ekki betur en að landamerki Grindavíkur að austanverðu séu þar sem jarðirnar Krýsuvík og Herdísarvík mætast, og þótt Hafnarfjarðarbær hafi á árunum um 1930 fest kaup á Krýsuvík tilheyrir hún landfræðilega Grindavík eftir sem áður.

Gestsstaðir

Gestsstaðir í Krýsuvík, sunnan Gestsstaðavatns – skáli.

Í embættisbókum Gullbringusýslu er landamerkjum Krýsuvíkur lýst þannig: „Maríukirkja í Krýsuvík í Gullbringusýslu á samkvæmt máldögum og öðrum skilríkjum heimaland allt, jörðina Herdísarvík í Árnessýslu og ítök, er síðar greina.
Landamerki Krýsuvíkur eru: 1. Að vestan: Sjónhending úr Dagon (Raufarkletti), sem er klettur við flæðarmál á Selatöngum í Trölladyngjufjallsrætur að vestan, sem er útbrunnið eldfjall norðanvert í Vesturhálsi, þaðan bein stefna í Markhelluhól, háan steindrang við Búðarvatnssvæði. 2. Að norðan: Úr Markhelluhól, sjónhending norðanvert við Fjallið eina, í Melrakkagil (Markrakkagil) í Undirhlíðum og þaðan sama sjónhending að vesturmörkum Herdísarvíkur, eða sýslumörkum Gullbringu- og Árnessýslu.

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja 1940 – Sigríður Hansen Guðmundsdóttir.

3. Að austan: Samþykkt og þinglýst vesturmörk Herdísarvíkur, sjónhending úr Kóngsfelli, sem er lág, mosavaxin eldborg umhverfis djúpan gíg, á hægri hönd við þjóðveginn úr Selvogi til Hamarfjarðar, örskammt frá veginum í Seljabótarnef, klett við sjó fram. 4. Að sunnan: nær landið allt að sjó.“

Ummál og takmörk
Þessu næst eru talin ítök þau sem kirkjan á og loks „ítök sem aðrir eiga í landi kirkjunnar“. Í jarðabók sinni geta þeir Árni Magnússon og Páll Vídalín þess að ágreiningur nokkur sé um landamerki milli Krýsuvíkur og ísólfsskála en ekki skýra þeir neitt frá því um hvað sá ágreiningur sé.
Krys-227Báðar þessar jarðir eru þá (1703) í eigu dómkirkjunnar í Skálholti. Í máldögum og öðrum skjölum, sem rituð eru löngu fyrir daga þeirra Páls og Árna, er svo sagt að hraundrangurinn eða kletturinn Dagon (Raufarklettur) sé landamerki og þá auðvitað fjörumerki millum jarða þessara. En hitt mun lengi hafa orkað tvímælis hvor af tveim brimsorfnum hraundröngum sem standa í flæðarmáli á Selatöngum, sé Dagon. Og enn eru eigi full 50 ár liðin (árið 1897) síðan þras varð. nokkurt og málaferii risu út af því hvor þessara tveggja kletta væri Dagon. Um þetta mál sýndist sitt hverjum og mun svo enn vera. Vísast um þetta mál í bækur GuUbringusýslu.

Selatangar

Selatangar – kort danska herforingjaráðsins.

Á korti herforingjaráðsins danska er Dagon sýndur mjög greinilega en hér þarf að hafa í huga – eins og raunar víða annars staðar – hversu öruggar heimildir þeirra mælingamannanna hafi verið. Bilið milli þeirra tveggja hraundranga eða fjöruræma, sem deilurnar hafa verið um, mun eigi lengra en það að meðalstóran hval getur fest þar.
Ummál Krýsuvíkurlandareignar er milli 60 og 70 km en flatarmálið eitthvað á þriðja hundrað ferkílómetrar. Segja má að takmörk þessa svæðis séu: Ögmundarhrauh að vestan, Sveifluháls að norðvestan, Kleifarvatn að norðan, gróðurlitlar hæðir og melásar að norðaustan og svo Geitahlíð, Eldborg og Krýsuvíkurhraun að austan en bjargið og hafið að sunnan.

Bergsendi

Eystri-Bergsendi – útsýni til vesturs.

Þessi óbrunna landspilda er nálega 6 km breið syðst, eða sem svarar allri lengd Krýsuvíkurbergs frá Ytri-Bergsenda til hins eystri, en mjókkar svo jafnt og þétt allt norður að Kleifarvatni og verður þar ekki breiðari en suðurendi vatnsins, 1-2 kflómetrar.
En frá bjargbrún og inn að Kleifarvatni eru um 9 kílómetrar. Geta mætti þess til að valllendið og mýrarnar á þessu svæði mundi vera um 19 ferkílómetrar.

Kennileiti

Krys-225

Ýmis fell og hæðir rísa upp úr sléttlendi þessu, svo sem Lambafellin bæði sem aðskilja Vesturengi og Austurengi. Bæjarfeflið norðan við Krýsuvíkurbæinn og Arnarfell suður af bænum eru bæði móbergsfjöll. Nokkru sunnar er hálsdrag eitt er liggur austur af Fitjatúninu, eru þar vestastir móbergstindarnir Strákar, þá Selalda, Selhóll og Trygghólar austastir. – Það er talinn hádegisstaður frá Krýsuvík, þar sem mætast rætur eystri Trygghólsins og jafnsléttan austur af honum.

Krýsuvíkurberg

Krýsuvíkurberg – Skriða.

Suður af Selöldu og fremst á brún Krýsuvíkurbjargs er hæð sú er Skriða heitir. Mun þar vera hinn eini staður í berginu sem nokkurs móbergs gætir. En vestanvert við hæð þessa er basaltlag, eitt eða fleiri, efst í bjai^bníninni, skagar það lengra fram en móbergjð (af skiljanlegum ástæðum), svo að loftsig er aUa leið niður í urðina þar neðan undir. Er þar einn hinna fáu, fremur smáu staða á allri strandlengju Krýsuvíkur sem vænta má að nokkuð reki á fjörurnar. Framan í Skriðunni er Ræningjastígur (hans er getið í þjóðsögum J.Á. og e.t.v. víðar). Stígur þessi er gangur einn sem myndast hefur í móberginu og liggur skáhallt ofan af bjargbrún og niður í flæðarmál.
Ræningjastígur Krys-224hefur verið fær til skamms tírna en nú er sagt að svo mikið sé hrunið úr honum á einum stað að hann muni lítt fær eða ekki. Krýsuvík með hjáleigum sínum öllum hefur um langan aldur verið sérstök kirkjusókn og mun kirkja jafnari hafa haldist þar frá ómunatíð þar til nú fyrir fáeinum árum, nokkru fyrr en Hafnarfjarðarbær keypti Krýsuvíkurtorfuna, að kirkjan var lögð niður. Líklegt má telja að það hafi gerst í kaþólskum sið að Krýsuvíkurkirkja eignaðist jörðina Herdísarvík í Árnessýslu.

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja 1861-1970.

En eftir að kirkjan í Krýsuvík var lögð niður var ekkert því til fyrirstöðu að jarðirnar yrðu aðskildar eignir enda er nú svo komið. Herdísarvík hefur jafnan talist til Selvogshrepps og fólk þaðan átt kirkjusókn að Strandarkirkju. Sé Stóri-Nýibær talinn tvíbýlisjörð, eins og oftast mun verið hafa fram undir síðastiiðin aldamót, og því ennfremur trúað að einhvern tíma hafi verið byggð á Kaldrana, verða hjáleigur Krýsuvíkur 14 að tölu, þær sem menn vita nú um að byggðar hafi verið.

 

Heita þær svo: Stóir-Nýibær (austurbærinn), Stóri-Nýibær (vesturbærinn), Litli-Nýibær, Norðurkot, Suðurkot, Lækur, Snorrakot, Hnaus, Arnarfell, Fitjar, Gestsstaðir, Vigdísarstaðir, [B]Hali, Kaldrani.
Krys-223Óvíst er og jafnvel ekki óklegt að hjáleigur þessar hafi á nokkrum tíma yerið allar í byggð samtímis. Þeir Arni Magnússon og Páll lögmaður Vídalín nefna Norðurhjáleigu og Suðurhjáleigu og má telja vafalítíð að það séu sömu hjáleigurnar og nú kallast Norðurkot og Suðurkot. Einnig nefna þeir Austurhús og Vesturhús og er hugsanlegt að Austurhús hafi verið þar sem nú er Lækur, en engum getum skal að því leitt hér hvar Vesturhús hafi verið.
Heimajörðin sjálf og allar hjáleigurnar, nema Vigdísarvellir og Bali, eru í daglegu tali kallað Krýsuvíkurhverfi, en þessar tvær hjáleigur eru suðaustan undir Núpshlíðarhálsi, sem oft er nefndur Vesturháls, og skilur Sveifluháls þær frá Aðalhverfinu.

Krys-222

En þar um slóðir er Sveifluháls einatt kallaður Austurháls eða „Hálsinn“. í Jarðabók sinni telja þeir Árni Magnússon og Páll Vídalín að árið 1703 hafi 7 af hjáleigunum verið byggðar og er þá tvíbýli í Stóra-Nýjabæ. Þá geta þeir og þess, að Krýsuvíkin sé eign dómkirkjunnar í Skálholti og að kirkjan í Krýsuvík sé annexía frá Selvogsþingum. Telja þeir að 41 sála sé í söfnuðinum. En þess má geta hér að um miðbik 19. aldar voru um 70 manns í Krýsuvíkursókn. Ef treysta má því að þeim PáU og Árna hafi verið rétt skýrt frá sauðfjáreign þeirra Krýsvíkinganna, hefur hún verið næsta lítilfjörleg á slíkri afbragðs hagagöngujörð.
krys-221Hrossafjöldi er og af mjög skornum skammti en mjólkurkýr telja þeir vera 22. Sem hlunnindi telja þeir fuglatekju og eggver, einnig nefna þeir sölvafjöru og sé „sérhverjum hjáleigumanni takmarkað pláss til sölvatekju“. Þá geta þeir þess að á Selatöngum sé útræði fyrir hverfisbúa, „en lending þar þó merkilega slæm“. En þrátt fyrir þessa „merkilega slæmu“ lendingu mun þó útræði á Selatöngum hafa haldist fram um 1870, a.m.k. alltaf öðru hverju. Til er gömul þula þar sem taldir eru með nöfnum vermenn á Selatöngum og er þetta upphaf: „Tuttugu og þrjá Jóna telja má,“ o.s.frv. Þulan endar svona: „ Á Selatöngum sjóróðramenn, sjálfur guð annist þá“.

Gróður og nytjar

Krýsuvík

Krýsuvík 1936. Ljósm. Ásgeir L. Jónsson.

Ekki munu aðrar hjáleigur en þær sex sem hér eru fyrst taldar hafa átt rétt til fuglatekju í bjarginu og þó aðeins íþeim hluta þess sem kaUaður er Kotaberg. Er það miðhluti bjargsins, austan heimabergsins en vestan Strandarbergs. Þó leyfðist hverri hjáleigu ekki að taka fleiri egg en 150 pg ekki að veiða meir en 300 fugla (svartfugl, álku og lunda).

 

Ekki fylgdu heldur neinar engjar öðrum hjáleigum en þessum sex og hafði hver þeirra nokkrar skákir, ýmist á Vesturengjum eða Austurengjum.
Krys-199Á flestum þessara 6 býla mátti fóðra tvær kýr, hesta eftir þörfum og um sauðfjáreign munu engin ákvæði hafa verið né þótt þurfa. Þegar Nýjulöndin (hið innra og fremra) lágu ekki undir vatni úr Kleifarvatni áttu og þessar sex hjáleigur (en ekki aðrar) tilkall til heyskapar þar. Átti þar höfuðbólið helming en hver hjáleiga tólfta hluta. Á góðu grasári gat hver hjáleiga fengið í sinn hlut af hvoru Nýjalandi um 50 hestburði af nautgæfu heyi. Vigdísarvellir og Bali höfðu sínar eigin engjar og nærtækar. Er og um nokkuð langan veg og einkar torsóttan að sækja þaðan á Krýsuvíkurengjar. Langt mun nú síðan Gestsstaðir voru byggðir en vel má það vera að ábúandinn þar hafi átt útslægjur bæði í Rauðhólsmýri og Hveradölum.

Krys-198

Árni Magnússson getur þessarar hjáleigu í handriti þeirra Páls lögmanns, en lauslega nokkuð. Snorrakot og Hnaus hafa verið smábýli ein, eða næstum því tómthús. Hið svokallaða Snorrakotstún er aðeins horn af Norðurkotstúni og skilur smálækur einn túnin. Getur horn þetta vart gefið meira af sér en 3 til 4 töðukapla þegar best lætur. Á Arnarfelli mun hafa verið búið fram um eða fram yfir 1870 en túnið þar var jafnan slegið frá höfuðbólinu fram undir 1890 og þá er túnið í rækt. Var talið að það gæfi af sér eitt kýrfóður. Má og vel vera að ábúandi Arnarfells hafi fengið leyfi til að heyja eitthvað á mýrum þeim sem kringum fellið eru (Stekkjarmýri, Bleiksmýri og Kúabletti). Á Fitjum voru nokkuð stæðilegar bæjartóftir fram yfir síðustu aldamót, þar var og safngryfja sem óvíða sáust merki til annars staðar í hverfinu. Túnstæði er nokkuð vítt á Fitjum og útslægjur hefði mátt hafa þaðan á Efri-Fitjum, á Lundatorfu eða í Selbrekkum. Eigi var og heldur heybandsvegur þaðan á Trygghólamýrina.

Austurengjar

Minjar á Austurengjum.

Utan þessa svæðis, sem hér er nefnt, má telja til gróðurlendis hina svonefndu Klofhinga í Krýsuvíkurhrauni, þar er sauðfjárbeit góð. Þá er Fjárskjólshraun sunnan í Geitahlíð austarlega, og hólmarnir tveir í Ögmundarhrauni, þeir Húshólmi og Óbrennishólmi. Er á öUum þessum stöðum lynggróður og dálítið kjarr, sprottið upp úr gömlum hraunum. Þá eru hjáleigurnar tvær austan við Núpshlíðarháls, Vigdísarvellir og Bali, með túnstæðum sínum og mýrarskikum í nágrenninu, og svo að lokum „Dalirnir“ og valllendisflatirnar fyrir Kleifarvatn ásamt grasbrekkum nokkrum sem ganga þar upp í hlíðarnar.
Krys-197Strandlengja landareignarinnar frá Dagon á Selatöngum og austur í sýslumörk á Seljabót er 15-16 kílómetrar. Frá Dagon og á austurjaðar Ögmundarhrauns eru 5-6 km, er það óslitin hraunbreiða allt í sæ fram, að undantekinni Húshólmafjöru sem vart er lengri en 300-400 metrar.
Austan Ögmundarhrauns tekur við þverhnípt bjargið (Krýsuvíkurberg) og er það talið þrítugt eða fertugt að faðmatali. Ekki er ólíklegt að þessi áætlun um hæð bjargsins sé nokkuð rífleg, því á korti herforingjaráðsins eru sýndar tvær hæðarmælingar á bjargbrúninni og er önnur 33 en hin 36 metrar. Ef til vill gæti það átt við hér, það sem Páll Ólafsson kvað forðum: „Þeir ljúga báðir – held ég megi segja.“ Fyrir austan Eystri-Bergsenda tekur við Krýsuvíkurhraunið, allt austur á Seljabót, og þar fyrir austan Herdísarvíkurhraun. En þá er komið austur fyrir sýslumörk og skal því staðar numið í þá átt.“

Krýsuvík

Lækur í krýsuvík.

Krýsuvík

Snorrakot í Krýsuvík.

Krýsuvík

Norðurkot í Krýsuvík.

Heimild:
-Dagblaðið-Vísir, 31. júlí 1989, Ólafur E. Einarsson, Höfuðbólið Krýsuvík og fjórtán hjáleigur þess, bls. 18.
-Krýsuvík – uppdráttur ÓSÁ.

Grísanes

Gengið var um Dalinn norðan Hamraness. Í grónum krika í Hellishrauninu er gamalt fjárskjól, að öllum líkindum frá Ási. Hleðslur eru við opið, en hluti loftsins er fallið niður. Dalurinn er vel gróinn og líklega verið mikið nýttur á tímum sauðbúskaparins. Þarna gæti hafa verið skjól fyrir sauði, en fé var á þeim tímum jafnan látið ganga úti um vetur.

Hellishraunsfjárskjól

Hellishraunsfjárskjól.

Í örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar fyrir Ás segir m.a.: „Línan liggur af hálsinum yfir svonefnt Hellisdalshraun, sem liggur í Hellisdal, en austast, innst í hrauntungunni, er Hellirinn eða Hellishraunsskjól.  Hann var í eina tíð vel upp hlaðinn, en er nú saman hruninn. Neðan frá hrauntungunni eru svo Ásflatir.  En fram á þær syðst rennur Grófarlækur ofan úr Grófunum.“ Ás hafði í seli við Hvaleyrarvatn um tíma og má sjá selstóftina á bakkanum austan við vatnið, skammt norðaustan við tóftir Hvaleyrarselsins. Þá eru minjar selstöðunnar uppi á og við Selhöfða, neðan hans og sunnan vatnsins.

Hellishraunsfjárskjól

Hellishraunsfjárskjólið í dag, 2023.

Til baka var gengið eftir Stórhöfðastígnum, yfir Ásfjallsöxlina, áleiðis að Ási. Tóftir eru í norðanverðri öxlinni. Gengið var vestur með norðanverðu Grísanesi og yfir á Hvaleyrarhöfða, en þar munu áður hafa verið mörk strandarinnar á þessu svæði, áður en Hellnahraunin runnu. Undir austurbrún Hellnarhrauns er hlaðinn rétt og a.m.k. tvær tóftir skammt austan hennar. Í Örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar fyrir þetta svæði segir m.a.: „Það mun vera þetta svæði, flatir meðfram hrauninu, sem í skjali frá 1444 nefnist Hraunvellir, en nú nefnast þeir Grísanesflatir. Þá er hér klettatunga mikil, nefnist Grísanes, og norður [leiðrétt; suður] af því á holti er Grísanesfjárhús. Þar eru nú veggir einir uppistandandi. Hér vestur af undir hraunhól er hellisskúti, nefnist Grísanesskjól„.
Fjárskjólið í Dalnum hefur nú verið eyðilagt vegna mistaka starfsmanna Hafnarfjarðarbæjar.
Sjá meira HÉR og HÉR.

Grísanesfjárhús

Grísanesfjárhús.

Ásfjall

Eftirfarandi skrif Ólafs Þorvaldssonar um „Verndun fornminja – Ásvarða“ í Lesbók Morgunblaðsins árið 1948 um Ásvörðu ofan Hafnarfjarðar segir:

Ásvarða

Ásvarða – Hafnarfjörður.

„Skammt suður frá Hafnarfirði er hæð nokkur eða fell, sem Ásfjall heitir. Fjall þetta má að vísu telja til hinna smærri fjalla, þó tekur það yfir nærliggjandi holt og hæðir þar í grend. Þótt fjall þetta láti lítið yfir sjer, hefur það þó nokkra þýðingu, og var oftar umtalað en allar aðrar hæðir um þessar slóðir.

Asfjall

Ásfjall.

Börn og fullorðnir töluðu um Ásfjall sem mesta berjaland í grennd Hafnarfjarðar, á sumrum, en sjómenn kringum sunnan verðan Faxaflóa, sem mið meira og minna allt árið. Á norður hæð f jallsins var ævaforn grjótvarða. Fram undir síðustu aldamót var hún ekki hærri en 4—5 álnir. Árið 1897 eða ’98 sjer heimafólk að Ási, sem stendur undir fjallinu, hvar maður er kominn að vörðunni, og hefst þar nokkuð að, með fyrirgangi miklum. Móðir mín, sem þá var orðin ekkja, en bjó enn að Ási, vildi vita hvað hinn aðkomni maður hygðist fyrir. Móðir mín, sem vissi hvaða þýðingu varðan hafði á þessum Stað, vildi koma í veg fyrir að hún yrði rifin niður, eða færð úr stað, ef það væri meining þessa aðkomumanns.
Saga Ásvörðu, eins og umrædd varða var allt af kölluð, er aldagömul saga, sennileg jafngömul sögu áraskipanna við Faxaflóa, eftir að skipin stækkuðu svo að mönnum óx svo fískur um hrygg, að þeir gátu gert skip sín svo úr vör, að viðlit var að fara á þeim til hinna djúpu fiskimiða. Þegar nú annað tveggja fisk þraut á grunnmiðum, eða hann kom ekki á þau þetta eða hitt árið og sjómenn fóru að leita út á djúpið, hafa þeir komist fljótt að því, að ekki var sama hvar eftir fiski var leitað. —
Þegar svo kom þar sem nægur fiskur var undir, var áríðandi að tína ekki þeim bletti aftur. Fóru menn þá að miða staðinn, og var það gert með því að horfa til lans taka einskonar lengdar- og breiddar-mæling, gert að eins með athugulum augum, því að annað sem til má nota var þá ekki fyrir hendi. Voru þá venjuleg fjöll og önnur kennileiti á landi notuð sem mið. Allt af urðu miðin að vera fjögur, tvö og tvö, sem báru saman í hvorri átt, samsvarandi lengdar og breiddar línunni.
Ásvarða
Venjulega voru há fjöll eða hlutar þeirra, sem hátt báru, höfð að yfirmiði, en aftur önnur, sem oft voru nær sjó og lægra, lágu, að undirmiði. Kölluðu svo menn þessa staði, sem þannig var búið að miða sig niður á, á sjónum, mið eða slóðir. Þannig varð Ásvörðuslóð til, mjög fisksælt mið á Suður-Sviði f Faxaflóa. Var Ásvarða undirmið en Valahnjúkur venjulega yfirmið. Á þetta fisksæla mið hafa margar kynslóðir sótt, og fært þaðan þjóðarbúinu mikla björg. Þessi góðu, gömlu fiskimið urðu því vinsæl, og umræður um þau oft fljettaðar inn í samtöl fólks þess er við sjóinn bjó. Nú mun tími gömlu fiskimiðanna að mestu liðinn, því ekki mun standa eins glöggt nú, hvar línu eða botnvörpu sje í sjóinn kastað frá borði, samanborið við það, þegar að eins um handfæri var að ræða á opnum skipum.

Ásvarða

Ásvarða.

Vík jeg nú aftur að manni þeim, sem kominn var að Ásvörðu 1897 eða ’98. Móður mín bað vinnumann fara og vita hvað hann \æri þar að aðhafast, og fór jeg með sem forvitinn krakki. Þegar að vörðunni kom, er þar fyrir stór og þrekinn maður, gengur hann móti okkur með miklu málæði og handapati, skildist okkur strax að hjer var kominn danskur maður.

Hafnarfjörður

Ásfjall – útsýni yfir Hafnarfjörð.

Mikið vildi maðurinn við okkur tala, en heldur gekk það samtal báglega, því hvorttveggja var, að við vorum ekki sterkir í dönskunni og jeg held hann þó enn linari í íslenskunni. Þó skildist manninum, sem með mjer var, að sá danski meinti að stækka þyrfti vörðuna, og helst vegna innsiglingar til Hafnarfjarðar. Meðan mennirnir voru að berjast við að gera sig skiljanlega hvor fyrir öðrum og bar þar stórum meira á orðaforða þess danska, fór jeg að forvitnast um húfu og jakka, eða flík þá sem var þeim danska í jakka stað. Þar eð heitt var í veðri hafði hann úr þeirri flík farið og lagt á stein allnærri, sá jeg þá að á húfunni stóð með gylltum bókstöfum „Heimdal“. Við hjeldum nú heim við svo búið og sá danski litlu seinna.

Ásfjall

Byrgi á Ásfjalli.

Nokkrum dögum síðar kemur stór hópur manna enn að vörðunni og voru þar komnir all-margir skipverja, bæði yfir- og undirmenn af danska eftirlitsskipinu Heimdalli, sem á þeim árum

var nokkuð hjer við land og var þá oft tíður gestur á Hafnarfírði. Menn þessir taka til og bera grjót að hinni gömlu vörðu og er hún á skömmum tíma orðin bæði há og gild. — Þessar tiltektir ljetu menn sjer vel líka, varðan sást bara betur utan af Sviði eftir en áður. Svo líða yfir fjörutíu ár, sem þessi varða stendur, öllum að meinlausu, en mörgum til gagns. — Varðan hefur máske lokið sínu dagsverki, sem ekki skipti dögum eða árum, heldur öldum. Þó er ekki lokið fyrir það skotið, að sjómenn leiti enn fisks á Ásvörðuslóð — en varðan gamla er horfin. Hún var afmáð sem kennileiti á fyrsta eða öðru hernámsári hjer, en þar sem hún var áður, er nú byrgisrúst, engum til gagns eða leiðbeiningar, en brún fjallsins til óprýði. —

Ásfjall

Á Ásfjalli.

Varðan var afmáð sem leiðarvísir, af útlendum höndum, sennilega í allt öðrum tilgangi, en þegar aðrar útlendar hendur stækkuðu hana — eða þá í algjöru tilgangsleysi. Heyrt hefi jeg það, að eldri sjómenn sakni vörðunnar, og telji sig einum fornvin fátækari við hvarf hennar, og þar hafi fallið, eða verið fellt gamalt minnismerki um oft harða cg frækilega baráttu þeirra manna, sem sóttu sjó á opnum áraskipum langt á haf út. Nú spyr jeg: Eru til lög, sem ætlað er að vernda þetta, eða önnur slík fornvirki og ef svo er, hverjum ber að sjá um framkvæmd þeirra laga?

Ásfjall

Svona leit varðan út árið 2007 eftir að hún hafði verið skemmd.

Kringum árið 1930 skrifaði þáverandi vitamálastjóri, Th. Krabbe, Guðmundi Jónssyni, bónda í Stóra-Nýjabæ í Krýsuvík og bað hann sjá um endurbyggingu á vörðu á Æsubúðum á Geitahlíð, gegn fullu gjaldi. Varða þessi var farin að falla af, bæði fyrir tímans tönn og jarðskjálftar flýtt þar fyrir. Þarna var ekki að ræða um innsiglingar- eða sundmerki — en við hana var oft miðað af sjó, sem gott fiskimið. Krabbe taldi að hún mætti þess vegna ekki falla í rúst. Á Ásvarða ekki sama rjett?

Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins, 21. tbl. 13.06.1948, Verndun fornminja, Ásvarða, Ólafur Þorvaldsson, bls. 296-297.

Ásfjall

Ásfjall – uppdráttur.

Ef svo er, vona jeg að vitamálastjóri sjái sjer fært að fá mann eða menn til að reisa Ásvörðu úr“ rúst, og um leið afmá tóft þá eða rúst, sem nú umlykur sæti hennar; hið forna, enda mundi grjót það sem í rústinni er, að mestu ganga upp í vörðuna.

Ásfjall

Ásfjall.

Gömlu fiskimiðin kringum landið eru að týnast, verði ekki bráðlega undið að því að bjarga því sem enn er hægt að bjarga, og virðist mjer að endurbygging Ásvörðu væri liður í þeirri viðleitni, og sjálfsögðu skyldu að reyna að vernda frá glötun nöfn á þessum fornu kennileitum, og þau sjálf þar sem þau eru á þeim stað, sem hægt er að koma því við, og þar með lengt lífið í fornum fiskimiðum, svo sem hjer um ræðir: Ásvörðuslóð.

Ásvarða

Útsýni af Ásfjalli.

Einhverjum finnst ef til vill, að hjer  hafi of mörgum orðum verið farið um gamla grjótvörðu. Jeg mundi ekki hafa tekið þetta efni til meðferðar, ef jeg teldi ekki að hér stæði sjérstaklega á, t.d. vörðu sem einhver hefði hrófað upp einhvers staðar í algjöru meiningarleysi. En Ásvörðu eða öðrum fornum merkjum hvar sem eru, sem minna á atvinnuhætti horfinna kynslóða, sem við eigum flest að þakka, höfum við ekki efni á að glata.“

Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins – 21. tölublað (13.06.1948) – Verndun fornminja – ÁSVARÐA -eftir  Ólaf Þorvaldsson, bls. 297-298.

Ásfjall

Varðan á Ásfjalli.

Húsfellsbruni

Ritstjóri Fjarðarfrétta – blaði allra Hafnfirðinga, skrifaði leiðara blaðsins þann 1. febrúar 2024 undir fyrirsögninni „Eldsumbrot og spádómar„:

Fjarðarfréttir„Eldsumbrotin á Reykjanesi hafa hrundið af stað margs konar áhyggjum fólks af því að hraun geti runnið að byggð á höfuðborgarsvæðinu. Er það skiljanlegt enda eru eldstöðvar allt í kringum okkur og við Hafnfirðingar höfum nokkrar innan okkar landamerkja.

Guðni Gíslason

Guðni Gíslason, ritstjóri.

En það kemur á óvart hvað sérfræðingarnir okkar eru yfirlýsingaglaðir, svo mjög að ætla mætti að þeir væru talsmenn verktaka í varnargarðagerð. En ekki ætla ég þeim annarlegar ástæður en finnst þó undarlegt hversu yfirlýsingarnar renna fram í samtölum við þá og jafnvel án þess að vísindaleg gögn styðji fullyrðingar eða að sérfræðingarnir færi góð rök fyrir máli sínu.

Húsfellsbruni

Húsfellsbruni – upptökin við Stóra-Kóngsfell (Kóngsfell). Ruglingur nafngiftarinnar er vegna þess að Kóngsfell er til ekki víðs fjarri, sem og Litla-Kóngsfell. Þá er „Kóngsfell“ sýnt á kortum fyrrum, en átti að vera „Konungsfell“. Eftir stendur nefnt „Stóra-Kóngsfell“. Örnefnaruglingur þessi hefur verið tilefni til landamerkjadeilna í gegnum tíðina.

En allir hljóta að vera sammála að mikilvægt er að stjórnir sveitarfélaganna séu meðvitaðar um mögulegar sviðsmyndir og geti með stuttum fyrirvara hrundið af stað vinnu við að verja innviði okkar sé þess kostur og þeir séu í raunverulegri hættu.

En grunnurinn að slíkri vinnu hlýtur að þurfa að koma frá sérfræðingum okkar, ekki úr fullyrðingum hvers og eins, heldur eftir sameiginlega niðurstöðu sérfræðinganna.
Nú síðast vorum við hrædd með fullyrðingum um kvikusöfnun undir Húsfellsbruna og þar sem við Hafnfirðingar skiptum Húsfellinu með Garðbæingum og Kópavogsbúum er þetta okkur nærtækt.

Húsfellsbruni

Húsfellsbruni.

Húsfellið er þó saklaust af þessum hraunum í Húsfellsbruna sem hafa átt uppruna sinn m.a. í Stóra-Kóngsfelli við Bláfjöll og vestan við Kóngsfellið en stærsti gígurinn er Eldborg rétt við veginn áður en komið er upp í skíðasvæðið. Ekkert þessara hrauna hefur runnið þar sem byggð er nú.

Vonandi halda sérfræðingarnir okkar ekki áfram að láta blaðamenn draga fram fram hjá þeim vanhugsaðar fullyrðingar til fyrirsagnaskrifa og huga meira að vísindunum og staðreyndum. Eldgosahættu þarf að taka alvarlega.“ – Guðni Gíslason ritstjóri

Heimild:
https://www.fjardarfrettir.is/fra-ritstjora/leidarinn-eldsumbrot-og-spadomar
-Fjarðarfréttir 1. febrúar 2024, leiðari; „Eldsumbrot og spádómar“. Guðni Gíslason,bls. 2.
Kóngsfellshraun

Helgadalur

Fornleifar í Skúlatúni og í Helgadal
heimildir og tillaga um rannsókn

Skúlatún

Skúlatún

Í Árbókinni 1908 fjallar Brynjúlfur Jónsson um „Rannsóknir fornleifa sumarið 1907„; annars vegar í Gullbringusýslu og hins vegar í Skúlatúni. Þar fjallar hann bæði um tóftir í Skúlatúni og í Helgadal. ÓSÁ tók saman.

„Í Árbók fornleifafélagsins 1903, bls. 33—34, hefi eg getið þess, að nafn Skúlastaða, — þar sem Ásbjörn landnámsmaður Özzurarson bjó, — sé nú týnt, og jafnframt, að eg hefði síðan heyrt sagt frá því, að hrauni umgirtur grasblettur uppi undir Lönguhlíð væri nefndur Skúlatún.

Helgadalur

Helgadalur

Kom mér í hug að það væri stytt úr Sculastatun; þar hefði bærinn verið og orðið undir hraunflóði, en túnið, eða nokkur hluti þess, hefði staðið upp úr hrauninu. Ásetti eg mér að nota fyrsta tækifæri til að koma á þenna stað. En í þeirri ferð, sem eg var þá í, var það um seinan, er eg heyrði Skúlatúns getið. Auðvitað gerði eg mér eigi háar vonir um að finna þar fornleifar, einkum eftir að eg hafði séð, að dr. Þorvaldur Thoroddsen hafði komið þar, á ferðinni um Reykjanesskagann, og álitið tvísýnt að þar hefði bær verið. Samt þótti mér ófróðlegt að sjá ekki þenna stað, og fór eg þangað í sumar.

Landslagi er svo háttað, að hraunfláki mikill fyllir víðlenda dæld sunnan frá Lönguhlíð norður að ásahrygg þeim, er gengur frá Námahálsinum vestan við Kleyfarvatn (inn frá Krýsuvík) alt inn á milli Kaldársels og Helgafells.

Helgadalur

Helgadalur.

Suðausturhliðin á ásahryggnum, sú er veit að Lönguhlið og hraunflákanum áðurnefnda, kallast Bakhlíðar [Gvendarselshæð], og eru þær lægri en Undirhlíðar, þar eð hraunflákinn er hærri en hraunin fyrir neðan ásahrygginn.

Helgadalur

Helgadalur.

Þaðan til Lönguhlíðar er þvervegur hraunflákans, og hygg eg hann hátt upp í mílu, en langvegurinn er frá Helgafelli og Grindaskarða hraunbálkinum út að botninum á Breiðdal, sem er fyrir norðan Kleifarvatn, og hygg eg hann yfir mílu. Allur er hraunflákinn sléttur ofan, vaxinn grámosa og eigi gamallegur útlits. Hann er hallalítill, og mun dældin, sem hann hefir fylt, hafa verið nokkuð djup með mishæðóttu láglendi, sem nú er ekki hægt að gera sér ákveðna hugmynd um. Ekkert sést af hinu forna yfirborði láglendisins, nema toppurinn á hæsta hólnum; hann stendur upp úr hraunbreiðunni hérumbil miðri. Það er Skúlatún. Eigi er hann raunar toppmyndaður, heldur flöt bunga nokkuð aflöng frá norðvestri til landsuðurs og er lengd hans nál. 110 fðm., en breidd nál. 60 faðm. Hæstur er hann í landsuður-endann og er þar bratt ofan. Næsthæsti staður á honum er norðvestantil. Suður þaðan er og bunga á honum.

Helgadalur

Helgadalur – tóftir.

Á öllum þessum þrem stöðum er einkennilegt stórþýfi, ólíkt því þýfi sem að öðru leyti er á öllum hólnum, er fremur má kalla smátt. Gæti eg trúað, að stórþýfið á þessum þrem stöðum væri myndað úr byggingarleifum; en fullyrða skal það ekki. Og engan vott mannaverka gat eg séð þar neinstaðar. En yfirum vesturhorn hólsins var að sjá sem götutroðninga, er virtust ærið gamlir og höfðu ekkert framhald í hrauninu, hvorugu megin. Sunnanmegin voru þeir dreifðari og óglöggvari, en norðanmegin þéttari og glöggvari. Hygg eg að þar hafi verið heimreið til bæjar, og mun hann hulinn hrauni norðvestan-undir hólnum. Hefir hann ef til vill staðið á lægra framhaldi af þessum hól, sem upprunalega hefir víst verið talsvert hár. Þó hefir túnið náð yfir hann allan. Því eigi gat eg betur séð, en að hann bæri merki gamallar ræktar.

Skílatún

Skúlatún norðanvert.

Alstaðar á honum er moldin mjög svartleit og þvöl, og víðasthvar vóx töðugresi milli þúfnanna, loðnara en í vor var á útjörð annarstaðar. Þar á móti var i þúfnakollunum meiri og minni grámosi, og hér og hvar utanmeð var krækiberjalyng farið að færa sig upp eftir hólnum. Auðvitað eru nú þetta svo veikar líkur, að þær dyljast fyrir manni í fljótu bragði. En samt eru þær nógar fyrir mig til þess, að eg er ekki í efa um, að hér hefir verið bær og tún. Og þá virðist nafnið »Skúlatún«, gefa nægilega bendingu um, að þessi bær hafi einmitt verið Skúlastaðir.“

Helgadalur

Tóftir í Helgadal. Vel sést móta fyrir skála v.m. á myndinni.

Þá fjallar Brynjúlfur um minjarnar í Helgadal:

„Í sama skiftið sem mér var bent á Skúlatún um leið, að skamt þaðan héti Helgadalur og skoðaði eg því þann stað, og reyndist þetta var þess getið sæist þar til rústa. Helgadalur er skamt fyrir neðan Helgafell. Það er ofurlítil dalkvos, er þar gengur inn í austurenda Undirhlíða. Gengur hóll norður úr hlíðinni, austanmegin við upptök Kaldár, myndar sá melhóll vesturhliðina á dalkvosinni.

Helgadalur

Helgadalur – tóft – skissa ÓSÁ.

En að austan beygist hliðin lítið eitt að sér. Hraunflóð hefir runnið ofan fyrir austan enda Undirhlíða, og er það framhald hraunflákans, sem nú var getið að lægi kringum Skúlatún. Það hefir breitt síg vítt út og runnið út með Undirhlíðum. Liggur það þvert fyrir neðan dalkvosina yfir að melhólnum og byrgir þannig fyrir hana. Þar hefir það sprungið og myndað gjáhamar, sem snýr móti dalbrekkunni og heldur inni vatni, sem þar kemur upp, svo af því verður ofurlítil tjörn. Rústin er ofantil í miðri brekkunni. Það eru tvær tóftir, er hver gengur af enda annarar frá suðri til norðurs, eða því sem næst. Er hvor tóft nál. 10 faðm. löng og nál 2 faðm. breið út á veggjabrúnirnar; en þær eru raunar óglöggar víða. Dyr sjást á vesturhlið-vegg suðurtóftarinnar við suðurgaflinn. Á norðurtóftinni sá ógjörla til dyra og sama er að segja um miðgaflinn. Rústin er öll óglöggvari norðantil; sér að eins fyrir ummáli hennar. Þeim megin hefir verið húsaþyrping á hlaðinu. Eru þar útflettar rústir, sem ekki er hægt að greina hverja frá annari, né ákveða lögun þeirra húsa, sem þar hafa verið. Eg dró upp mynd af rústinni.

Skúlatún

Skúlatún – Helgafell fjær.

Hraunið, sem nú var getið, hefir breitt sig yfir alt láglendi norður og vestur frá enda Undirhlíða og nær til sjávar við Hafnarfjörð. Holtin ein standa upp úr. Er feykilegt landflæmi byrgt undir hraunflákum þeim. Er þar ærið rúm fyrir marga bæi. Og þar eð víst má telja að það hafl verið kostaland, þá hafa þar óefað verið allmargir bæir, sem nu eru hrauni huldir. Eigi verður sagt nær hraun þessi hafa brunnið, heldur en önnur hraunin á Reykjanesskaganum, er þó hafa brunnið eftir landnámstíð og eyðilagt meiri eða minni bygðir svo sem fornu Krýsuvík o. fl. (sbr. Árb. fornl.-fél. 1903 bls. 43—44 og 47—50). Vegur Selvogsmanna til Hafnarfjarðarkaupstaðar, (Grindaskarðavegur) liggur um Helgadal hjá rústinni. Er eigi allskamt þaðan til Hafnarfjarðar.“

Í dag, árið 2011, mótar ekki fyrir húsum í Skúlatúni. Þar með er ekki sagt að þar kunni ekki að leynast hús, einkum austast í túninu. Í Helgadal sér fyrir 9 m löngum skála sem og þremur öðrum byggingum.

Skúlatún

Ungar í hreiðri í Skúlatúni.

Líklegt má telja að í dalnum hafi verið tímabundin búseta kúabúskapar yfir sumartímann allt frá fyrstu tíð búsetu hér á landi, líkt og sá má við sambærilegar aðstæður við Urriðavatn. Við uppgröft þar mætti eflaust finna þar skálann, fjós og jafnvel fleiri byggingar. Líklegt má telja að minjar við Rauðshelli tengist Helgadalstóftunum.

Lagt er til að kannað verði hvort mannvistarleifar leynist í Skúlatúni og að könnunarrannsókn fari fram á tóftunum í Helgadal með það að markmiði að leggja að heildstæðum fornleifauppgrefti á staðnum.

Helgadalur

Helgadalur – stekkur.

Ef niðurstaðan verður skv. væntingum ætti að verða auðvelt að ganga þannig frá mannvistarleifunum í Helgadal að áhugasamt göngufólk um sögu og menningu svæðisins eigi auðveldan aðgang að því.

Heimild:
-Árbók Hins íslenska fornleifafélags, 1908, Brynjúlfur Jónnsson; Rannsóknir fornleifa sumarið 1907 eftir Brynjúlf Jónsson. Í Gullbringusýslu. II Skúlatún, bls. 9-11.
-Þorvaldur Thoroddsen. Ferðabók I (ferð 1883). Kaupmannahöfn 1913.
-Þorvaldur Thoroddsen. Lýsing Íslands II. Kaupmannahöfn 1911.

Skúlatún

Skúlatún. Helgafell að handan.

Flókaklöpp

Eftirfarandi skrif um „Flókaklöppina“ á Hvaleyri er eftir Sveinbjörn Rafnsson og birtist í „Árbók Hins íslenska fornleifafélags„, 71. árg., 1974, bls. 75-93 – „Bergristur á Hvaleyri„:

Um fyrri rannsóknir Hvaleyrarrista.

Flókasteinn

Flókasteinn á Hvaleyri

Margir hafa ritað um og rannsakað Hvaleyrarristurnar og mun þess nú getið að nokkru. Jónas Hallgrímsson skáld mun líklega fyrstur manna hafa rannsakað steinana fornfræðilega í júní 1841. Frásögn Jónasar einkennist af sannri gleði uppgötvarans og kveðst hann hafa fundið „paa en af disse Blokke, den regelmæssigste og smukkeste, flere gamle Runer“, í skýrslu sinni til Finns Magnússonar. Þegar Jónas frétti fyrst af ristum þessum fór tvennum sögum af þeim; sögðu sumir þarna vera rúnir en sumir farmannanöfn.

Hvaleyri

Hvaleyri – Flókaklöpp og nágrenni.

Taldi Jónas farmannanöfnin höggvin með latínustöfum ofan í rúnateiknin á steininum með flestar risturnar, Slær hann þeirri hugdettu fram, þó með nokkrum hálfkæringi, að Hrafna-Flóki og skipshöfn hans hafi rist nöfn sín rúnaletri á steininn. Jónas virðist einkum hafa gert sér grillur út af þremur atriðum, öllum vandmeðförnum og villandi, þegar hann slær þessu fram.
Jónas virðist álíta að unnt sé að lesa með vissu úr fangamörkum steinsins eiginleg nöfn eigenda þeirra. Jónas hefur á veglegri teikningu af Flókasteini sínum sleppt ýmsu, bæði ártölum og skrauti, eins og hann getur um með þessum orðum: „De mange nyere Navne, som blot tjente til að vansire og forvirre Tegningen, er med Flid udeladte.“Nú víkur sögunni suður til Kaupmannahafnar.
Ljóst að Finnur hefur haldið Flókasteinshugmynd Jónasar að fleiri vinum sínum í Höfn. Hefur Thorsen skrifað á minnismiða hjá sér eftirfarandi: „En Sten siges at være fundet paa Isl. 1841 om landnám.“ Árni Helgason í Görðum er hinn næsti sem getur Hvaleyrarrista Segist hann í lýsingu sinni á Garðaprestakalli 1842 hafa skoðað þær; „mörg nöfn gat ég þar lesið, sem voru alþekkt nöfn danskra og þýzkra, og eru þessi nöfn líklega skrifuð þar af sjómönnum framandi þjóða, helzt meðan kaupstaðurinn var þeim megin við fjörðinn ; sumstaðar er hvað skrifað ofan í annað. Mögulegt er að þeir sem betur eru læsir geti þar fundið rúnir.“ Hér er orðrómurinn um farmannaristur kominn enn á ný enda skammt milli lýsinga. Líklegt er að beint eða óbeint samband sé milli lýsinga þeirra Árna og Jónasar. Magnús Grímsson var nemandi í Bessastaðaskóla árið 1845. Var þá þegar farinn að vakna með honum áhugi á forn- og þjóðfræði og „dirfist“ hann í februar sama ár til að skrifa Finni Magnússyni og spyrjast fyrir um rúnir. Var það upphaf nokkurra bréfaskipta.

Flókaklöpp

Flókaklöpp.

Síðar á sama ári skrifar Magnús Finni aftur og segir þar m. a.: „Á Hvaleyri við Hafnarfjörð er steinn mikill sem Jónas sál. kvað hafa skoðað. Á honum eru bandrúnir margar, og hef ég tíðum reynt mig á að lesa úr þeim.“ Enn segir Magnús: „sýnist mér ei ólíkt að hér væru nöfn Herjólfs og Þórólfs smjörs, sem getið er í Landn. 3. kap.
Kristian Kálund getur Hvaleyrar í drögum að staðsögulýsingu Íslands. Segir hann að þar séu á nokkrum flötum klöppum „endel latinske forbogstaver og árstallene 1628 og 1777, samt nogle binderuner og lignende.“ Segir Kálund að almennt sé haldið að verslunarmenn, sjómenn og aðrir, sem leið hafi átt þar hjá, hafi gert risturnar. Er Kálund hinn fyrsti sem talar berum orðum um og tilfærir á prenti ártöl á Hvaleyrarsteinum.

Flókaklöpp

Flókaklöpp – áletrun.

Sigurður Skúlason minnist á tvo fyrri rannsakendur, þá Jónas Hallgrímsson og Árna Helgason. Telur Sigurður réttilega tilgátur Jónasar um aldur og uppruna markanna á hæsta steininum mjög fjarri sanni. Þó hafi Jónas haft rétt fyrir sér í því að rúnateiknin séu eldri en bókstafirnir og ártölin á steininum. Fremur er Sigurði í nöp við notkun Árna Helgasonar á orðinu „nöfn“ um fangamörk á steininum. Rétt er í því sambandi að minnast þess að fangamörk voru áður fyrr notuð í stað nafnsundirskriftar, ekki síst af lítt læsum eða pennavönum mönnum, svo að orðalag séra Árna þarf ekki að vera mjög undarlegt. Þá telur Sigurður það „vafalaust“ að útlendingar, sjómenn og kaupsýslumenn, hafi gert sumar risturnar, en ekkert sé því til fyrirstöðu að íslendingar hafi gert einhverjar þeirra. Er þó sönnu nær að ekkert er vafalaust í þessu efni. Loks álítur Sigurður rétt að tímasetja risturnar til 17. og 18. aldar og ef til vill til 16. aldar.

Flókaklöpp

Flókaklöppin 2021.

Anders Bæksted ritar um Hvaleyrarristur í verk sitt um íslenskar rúnaristur. Fremur lítið er á lýsingu hans að græða þótt ágæt ritaskrá fylgi. Telur hann risturnar vera frá 17. og 18. öld. Með Jónasi Hallgrímssyni hefjast rannsóknir Hvaleyrarrista árið 1841. Áhuginn er þá einkum bundinn við teikn lík rúnum, að öðrum ristum er lítt hugað. Blendingur sagna úr samtíðinni, heit þjóðernisrómantísk trú á fornritin ásamt frjóu ímyndunarafli móta einkum viðhorfin fram eftir 19. öldinni. Með Kálund á síðari hluta aldarinnar er ártölunum á steinunum loks veitt nokkur athygli og striki slegið yfir fyrri grillur um risturnar. Þegar Sigurður Skúlason ritar lýsingu sína á Hvaleyrarsteinum beinist öll athyglin að ártölum ristanna, að öðrum ristum er lítt hugað. Sigurður álítur risturnar einkum frá 17. og 18. öld.

Flókaklöpp

Flókaklöpp – áletrun.

Ártöl steinanna eru hin mikilvægustu til tímasetningar á ristunum, ef þau eru ófölsuð. Helstu líkur til þess að ártölin séu frá þeim tíma sem þau nefna eru þrenns konar. Í fyrsta lagi er staðsetning ristanna á hæsta steininum. Þar eru teiknin og ártölin svo óreglulega staðsett að ekki eru líkur til að þau hafi verið sett á sama tíma. Óregluleg dreifing í rúmi bendir til óreglulegrar dreifingar í tíma; slíkt kemur heim við hin mismunandi ártöl og mælir þannig gegn fölsun. Í öðru lagi hafa menn á dögum Jónasar Hallgrímssonar (1841) ekki verið sammála um uppruna ristanna; yngsta ártalið á steinunum er 1781 og eru þá sextíu ár milli þess og sagnanna sem Jónas hefur, en það er nógur tími til þess að velkja munnlega sögu svo að mörg verði afbrigði hennar. Þá eru ýmis auðkenni ristanna, einkum þó að ártölin umlykja fangamörk sem eru gerðþróunarlega mismunandi en gerðir þeirra sýna nokkra fylgni við ártölin.

Flókaklöpp

Flókaklöpp – áletrun.

Það er kunn fornfræði að mismunandi gerðir hluta og teikna benda til mismunandi tíma (typologi). Hér á eftir verður drepið á nokkur atriði varðandi þróun marka og fangamarka á Íslandi og stöðu Hvaleyrarrista í þeirri þróun. Þróun íslenskra marka og fangamarka er menningarsögulegt efni sem að vissu leyti er tengt innsiglafræði og fornbréfafræði. Einnig er það tengt réttarsögu með fornum lagagreinum um mörk og einkunnir. Breytingar á gerð og notkun marka og fangamarka eru háðar víðtækum samfélagslegum breytingum og um efnið verður því ekki fjallað nema mjög yfirborðskennt í grein sem þessari. Áður en lengra er haldið er rétt að minnast ögn á nokkur orð og merkingar þeirra. Orðið fangamark má skýra með orðum Jóns Sigurðssonar þótt merking þess sé ef til vill nokkru víðtækari en hann segir: „Þesskonar mark, sem vottar um eign einstaks manns á hlutnum eða einræði yfir honum er kallað fángamark.“

Flókaklöpp

Flókaklöpp – áletrun.

Samanburðarefni við Hvaleyrarheimildina er sennilega mikið að vöxtum þótt enn sé það lítið rannsakað. Heimildin um þróun íslenskra fangamarka á Hvaleyri mun eiga sér margar hliðstæður til samanburðar á Íslandi. Þá hefur verið drepið á söfnun og skrif um mörk, fangamörk og búmerki á Íslandi og annars staðar. „Búmerki“ hafa sennilega borist til Íslands með fyrstu mannabyggð. Fornar lagagreinar benda til mikilvægi marka á Íslandi. Stuðst hefur verið við ritgerð Jóns Sigurðssonar „Um mark, fángamark (búmerki) á Íslandi“ og komist að þeirri niðurstöðu að hið takmarkaða fangamarkasafn á Hvaleyri komi vel heim og saman við frásögn Jóns af gerð fangamarka í innsiglum. Þá hefur þeirri tilgátu verið varpað fram að þverrandi notkun búmerkja standi í einhverju sambandi við vaxandi lestrar- og skriftarkunnáttu almennings og lagakröfur um skriflega jarðaleigusamninga í byrjun 18. aldar.

Heimild:
-Tímarit    Árbók Hins íslenzka fornleifafélags    71. árg., 1974, bls. 75-93 – Bergristur á Hvaleyri, höfundur Sveinbjörn Rafnsson (1944).
Hvaleyri