Tag Archive for: saga

Kaldársel

Gengið var um Kaldársel.

Kaldársel

Kaldársel – fjárborg á Borgarstandi.

Skoðað var gamla sel- og bæjarstæðið ofan við bakka Kaldár og síðan haldið yfir að Borgarstandi þar sem fjárborgin, stekkurinn og fjárskjólin voru skoðuð. Til hliðsjónar var höfð lýsing Ólafs Þorvaldssonar á aðstæðum í Kaldárseli.
Lengi vel mátti sjá veggi tóftanna í Kaldárseli, allt þangað til fólk fór að sækja í þá reglulegt grjótið og nota í annað. Húsaskipanina mátti rekja greinilega fram eftir 20. öld. Vandlega hlaðnir vegginir voru þegjandi vitni þess, að þar hefði fólk haft aðstöðu og búið endur fyrir löngu, stundum við misjafnar aðstæður.

Kaldársel

Kaldársel – sumarbúðir.

Kaldársel á sér ekki langa sögu sem fastur bústaður og saga þess er svipaður öðrum sögum smábýla á þeim tíma.  Bærinn stóð sem næst á miðjum túnbletti, örfáa metra norðan Kaldár.
Árið 1929 kom út í Reykjavík lítil bók með þremur kvæðum eftir séra Friðrik Friðriksson. Kver þetta nefnist “Útilegumenn”, og heitir annað aðalkvæðið “Kaldársel”. Friðrik var síðasti landnámsmaðurinn í Kaldárseli þar sem fyrir eru nú sumarbúðir KFUMogK. Kvæðið er svona:

”Eitt sinn ég kom
að Kaldárseli,
eyðistað
í ógna hrauni,
gömlu býli
og bæjarrústum:
einmana tóttir
eftir stóðu.

Reikaði ég einn
um rústir þessar, ríkti þar yfir
ró og friður,
unaðskyrrð djúp
við elfu niðinn
svölum gaf sál
og sæla gleði.”

Kaldársel

Kaldársel – stekkur.

Elstu heimild um Kaldársel er líklega að finna í Jarðabók þeirra Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá árinu 1703. Þar segir í sambandi við lýsingu Garða á Álftanesi: “Selstöð á staðurinn þar sem heitir við Kaldá, þar eru bæði hagar og vatnsból gott”. Þetta telur Jarðabókin ein af hlunnindum Garðastaðar og er augljóst að staðurinn hafi átt landið, eða allt þar til Hafnarfjarðarbær kaupir það árið 1912. Garðar höfðu einnig um tíma selstöðu í Selgjá og jafnvel neðst í Búrfellsgjá. Ummerki þess má sjá enn í dag.
Þótt Kaldársel hafi um aldir verið eign Garðakirkju, ásamt miklu landflæmi til suðurs, austurs og norðurs frá Kaldárseli, er fátt heimilda um selfarir  Garðapresta við Kaldá.

Kaldársel

Kaldársel – fjárhellir.

Seltættur má finna í nágrenninu, s.s. í Helgadal. Hitt er vitað, að þar var haft í seli frá Hvaleyri á síðasta fjórðungi síðustu aldar (skrifað 1968), en leiguselstöð hlýtur það að hafa verið, þar eð elstu landamerki, sem vitað er um, liggja í a.m.k. eins km vegalengd vestur frá Kaldárseli. Meðan selfarir voru mikið tíðkaðar, urðu landlitlir bændur oft að fá leigt land eða skipta á hlunnindum undir sel sín hjá landríkari bændum, svo að einsdæmi hefði það ekki verið, þótt Hvaleyrarbóndinn leigði selstöð í Garðakirkjulandi.

Kaldársel

Kaldársel um 1930. Tóftir Kaldársels hægra megin við nýreist húsið.

Hvenær þessi selstöð hafi fyrst verið notuð frá Hvaleyri, er með öllu óljóst. Þegar litið er á bændatal Hvaleyrar um árið 1700 og það ástand, sem þar var í búskap manna, þegar jarðamat fór fram 1703, sést, að bændur hafa allir búið svo smátt, að varla er hugsanlegt, að selfarir hafi haft og síst svo langt í burtu sem í Kaldárseli, þar eð allgott selland og nóg vatn var helmingi nær Hvaleyri og auk þess í heimalandi, þar sem selstöðin var við Hvaleyrarvatn.

Kaldársel

Kaldársel – Gamla þjóðleiðin.

Vitað er að séra Markús Magnússon á Görðum lét byggja selstöðuna í Kaldárseli upp auk þess sem hann lét hlaða fyrir nálæg fjárskjól, hlaða fjárborgir o.fl. árið 1800 með það fyrir augum að viðhafa þar fjárhald allt árið um kring.
Það eina, sem nú er vitað með vissu um selfarir í Kaldárseli er að hjónin Jón Hjartarson og Þórunn Sigurðardóttir á Hvaleyri höfðu þar í seli. Jón keypti Hvaleyrina 1842. Hann mun hafa verið ríkasti bóndi, sem nokkru sinni hefur setið Hvaleyri. Jón dó árið 1866. Bjó Þórunn eftir það á Hvaleyri til 1873. Þegar Þórunn dvaldist í “Selinu” á sumrin, sem var þó ekki nema við og við, fór hún stundum með orf sitt og hrífu upp með Kaldá og sló þar á hólmum, það sem slægt var, einnig smámýrarbletti milli kvíslanna í Kaldárbotnum. Þegar Þórunn á Hvaleyri hætti selförum að Kaldárseli, lagðist selstöð þar niður með öllu, og má ætla, eftir því sem síðar kemur fram, að það hafi verið 1865 eða 1866.

Kaldársel

Húsin í Kaldárseli 1898 – Daniel Bruun.

Í húsvitjnarbók Garðaprestakalls sést, að ábúandi er kominn í Kaldársel árið 1867, og er svo að sjá sem það sé fyrsta árið, sem fólk sé þar til ársdvalar. Þessi ábúandi var Jón Jónsson, kona hans og tvö börn. Þau munu hafa verið þar tvö eða þrjú ár. Fátæk voru hjón þessi og bústofn þeirra mjög lítill. Hjálparstelpa var hjá þeim, Sigríður Jónsdóttir frá Setbergi. Hún skrifaði m.a. um dvöl sína í selinu sem og skráði raunsanna huldufólkssögu er þar átti að hafa gerst. Jón flutti síðan með fjölskyldu sína að Ási. Við brottförina lagðist búskapur niður í Kaldárseli í nokkur ár.
Árið 1867 er manntal tekið í Kaldárseli, og er það sennilega fyrsta árið, sem það er í byggð eftir brottför Jóns. Sá, sem þá er orðinn ábúandi, er Þorsteinn Þorsteinsson, upprunninn í Ölfusi. Þetta ár telur húsvitjunarbókin þar þrjár manneskjur í heimili, bóndann, ráðskonu og tökubarn. Árið eftir, 1877, eru þar fjórir í heimili og hefur þá bæst við vinnukona. Árið 1883 er Þorsteinn orðinn einn í Kaldárseli. Hann dó þar þremur árum seinna.

Steinhes

Kaldársel – Steinhes (Steinhús).

Þegar Þorsteinn fellur frá eru í Kaldárseli nokkrar byggingar og önnur mannvirki. Hús öll í Kaldárseli keypti Jón Guðmundsson bóndi að Setbergi svo og flestar kindurnar. Bæjarhús voru lítil en snoturlega byggð, og voru baðstofa, búr, eldhús og bæjardyr. Allar voru tætturnar vel hlaðnar úr sléttum, en nokkuð þykkum brunahellum og hvergio mold né torf á milli, svo sem venja var til um flestar byggingar þess tíma. – Danski höfuðsmaðurinn Daniel Bruun kom í Kaldársel árið 1897. Hann teiknaði upp húsakostinn og minjar í nágrenninu, auk þess sem hann tók ljósmyndir, sem birtust síðar í bók um ferðir hans. Lýsir Daniel allvel Kaldárseli og umhverfi þar. Hann segir m.a. um húsatætturnar, að „þær séu frábrugðnar flestum, ef ekki öllum þess konar byggingum hér á landi, þar sem þær séu byggðar úr grjóti einu saman“.

Kaldársel

Kaldársel um 1932. Tóftir Kaldársels uppfærðar  inn á ljósmyndina.

Aðalbústofn Þorsteins var sauðfé og eitt eða tvö hross, kú mun hann aldrei hafa haft þar. Að mestu mun Þorsteinn hafa haft fullorðna féð á útigangi, þar eð heyfengur var þar lítill. Fjárhús með jötu við annan vegg var norðvestan við bæjarhúsin, og mun hann hafa haft lömb sín þar. Fullorðna féð hafði hann við hella, sem voru skammt norður frá bænum, eða þá í fjárborginum uppi á Standinum, sem er nokkru nær. Önnur þeirra er nú horfin með öllu. Þá hafi hann fé sitt við helli í Heiðmörk, svonefndum Þorsteinshelli.
Þegar flytja átti Þorstein látinn til greftrunar að Görðum höfðu burðarmenn á orði, vegna þess hversu þungur hann var, að óþarfi væri að fara með karlfauskinn alla leið þangað og stungu upp á því að hola honum þess í stað niður einhvers staðar á leiðinni. Að Görðum varð hann þó færður að lokum og jarðsettur þar af séra Þórarni Böðvarssyni.

Þorsteinshellir

Fjárskjól við Selgjá (Þorsteinshellir).

Árin 1906 til 1908 var enn gerð tilraun til búsetu í Kaldárseli. Kristmundur Þorláksson frá Stakkavík í Selvogi fékk það til afnota og hélt hann þar afskekktri útigangshjörð sinni til haga og gjafar. Beitahúsavegur Kristmundar var langur þar sem hann var búsettur í Hafnarfirði og árferði óvenjuslæmt. Hann ætlaði að hlaða hús norðvestan við Kaldársel, en mýs lögðust á féð um veturinn svo fjárhaldi þar varð sjálfhætt.

Kaldársel

Kaldársel – tilgáta ÓSÁ.

Jón Guðmundsson, bóndi á Setbergi, keypti síðan Kaldársel með það fyrir augum að hafa þarf athvarf fyrir smala og aðstöðu fyrir ferðamenn á ferðum þeirra um upplandið, en húsunum var lítt við haldið svo þau grotnuðu smám saman niður.

Árið 1925 byggði K.F.U.M. hús í Kaldárseli. Eftirfarandi frásögn um upphaf sumarbúða K.F.U.M í Kaldársel birtist í Bjarma árið 1967:

kaldarsel-990

Kaldársel – sumarbúðir.

„Að aflokinni messu á Bessastöðum á annan hvítasunnudag árið 1921, var haldinn stuttur K.F.U.M.-fundur þar í kirkjunni. Þá var stofnaður sjóður, sem hafa skyldi þann tilgang að koma upp sumarbúðum fyrir K.F.U.M. Það voru tveir félagar úr K.F.U.M. í Hafnarfirði, sem lögðu fram hundrað krónur. Seinna mynduðu nokkrir félagsmenn í Hafnarfirði og Reykjavík samtök um þetta mál. Var ákveðið að koma saman fyrsta föstudag hvers mánaðar, annan hvern mánuð í Reykjavík en hinn í Hafnarfirði. Fundir þessir voru bænafundir, þar sem beðið var fyrir málefninu, og að því loknu var lögð fram fórn til sjóðsins. Allt fór þetta fram í mestu kyrrþey. Vorið 1925 var sjóðurinn orðinn nær fjögur þúsund krónur. Var þá farið að hugsa til framkvæmda og lét bæjarstjórn Hafnarfjarðar félaginu í té eignarhald á túninu umhverfis eyðibýlið Kaldársel.

Þetta sama vor var hafizt handa um að byggja skálann. Minnast ýmsir þess enn í dag, er við hin erfiðustu skilyrði varð að bera efnivið allan yfir hraunhálsinn þaðan, sem bifreiðir komust lengst, og upp að Kaldárseli.

Kaldársel

Kaldársel – fyrsti skáli K.F.U.M. Sjá má tóftir selsins að baki hússins.

Um miðjan júní var unnt að vígja skálann. Var þá í honum svefnsalur með 24 rúmum, auk þess lítið herbergi og eldhús. Síðar var hann stækkaður um helming, með því að byggð var fyrir vestan skálann álma til norðurs. Nú fyrir fjórum árum var enn hafizt handa um stækkun skálans, og eru vonir til, að henni verði nokkurn veginn lokið í sumar.

Við framangreinda framkvæmd var það sem eftir var af tóftum selsins í Kaldárseli, sem stóð suðaustan við fyrsta hús K.F.U.M. fram á sjöunda áratug síðustu aldar, fjarlægt. Fáir vita í dag hvar selið stóð ofan við árbakkann.

Saga Kaldársels er hvorki löng né viðburðarrík, en saga er það nú samt.
Frábært veður.

Heimild m.a.:
-Ólafur Þorvaldsson – Áður en fífan fýkur – 1968.
-Jarðabók þeirra Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá árinu 1703 – III. bindi, bls. 180.
-Bjarmi 1967.

Kaldársel

Fjárskjól við Kaldársel.

Rjúpnahæð

FERLIR var boðið í skoðunarferð um loftskeytastöðina á Rjúpnahæð. Stöðin, þakin möstrum, línum og lögnum, var reist af Bretum á hæðinni ofan og utan við höfuðborgina snemma í Seinni heimsstyrjöldinni.
Sjálf bækistöðin var hýst í Aðkoman að loftskeytastöðinnitveimur bröggum efst á hæðinni, milli tveggja mastra er enn standa. Bandaríkjamenn yfirtóku síðan bækistöðina. Þeir voru rifnir og nýtt hús byggt undir vaxandi og ómissandi starfsemi árið 1952. Það hús stendur enn og hýsir um þessar mundir allar kynslóðir senda, allt frá örfáum vöttum til nokkurra þúsunda. Á næstu mánuðum (þetta er ritað í okt. 2007) verða möstrin felld og húsið jafnað við jörðu. Svæðið er komið á framkvæmd deiliskipulags Kópavogs og þá og þegar að því kemur verður engu þyrmt – ef af líkum lætur. Nú þegar er byrjað að grafa fyrir og leggja götur á svæðinu.

Rjúpnahæð

Í loftskeytastöðinni á Rjúpnahæð.

Umsjónarmaður loftskeytastöðvarinnar, greinilega eldklár á sínu sviði, en fannst greinilega miður, líkt og áheyrendum, að rífa þyrfti hið veglega hús á hæðinni. Skipulagið gerir þar ráð fyrir tvöföldum nútímavegi (sem eflaust verður orðinn úreltur eftir hálfa öld), en með ofurlítilli hugsun og broti af skynsemi hefði auðveldlega verið hægt að gera það að miðstöð svæðisins; annað hvort sem safnhúsi eða einhverju öðru ekki síður merkilegu. En  gróðarhyggjan spyr ekki að slíku – lóðin mun vera verðmætari en húsræksnið, sem þó virðist bara í ágætu ástandi, enda vel vandað til verksins í upphafi.

Loftskeytastöðin á Rjúpnahæð

Vangaveltur koma óneitanlega upp um hvers vegna íbúar Kópavogs hafi ekkert lagt til málanna í þessum efnum. Kannski hafa þeir bara ekki skoðað málið nægilega vel eða velt væntanlegum afleiðingum fyrir sér – sem og möguleikum á nýtingu hússins.
Ætla má að einhver hafi tekið skyndiákvörðun um brotthvarf þessara minja í reykfylltu herbergi án sérstakrar umhugsunar.
Loftnetin utandyra virtust fleiri en eyjarnar á Breiðafirði og hólarnir í Vatnsdal. Víravirkin eru sum að sjálfsögðu orðin úrelt, en þau þjónuðu þó sínum tilgangi á meðan var. Það eitt ætti að kalla á svolítið viðstaldur. Mannsævin er stutt, en ávallt minninga virði. Það finnst a.m.k. afkomendunum. Þeim finnst og mikilvægt að halda í minningu þeirra, öðrum eftirlifandi til áminningar og eftirbreytni. Ákvarðanatakar í bæjarstjórn Kópavogsbæjar virðast allir tröllum gefnir í þeim efnum.
Með elstu minjum stöðvarinnarÞegar inn í sendistöðina var komið birtist fyrst íslenskt karlkyns; Spói. Hann tók fagnandi á móti hálfkvenkynssammyndinni Brá – ætlaði reyndar aldrei að láta af fagnaðarlátununum. Greyið var reynar að koma úr eistaaðgerð og því ekki til stórræðna líklegur.
Inni í sendistöðinni var óendanlega mikið af sendum og öðrum tækjum. Aðallega stuttbylgju og langbylgjusendar fyrir flugfjarskipti. Í kjallaranum voru síðan fm sendar fyrir x-ið og einhverjar fleiri stöðvar. Ekki var þera neitt útvarpstæki, bara símtól sem hægt var að tengja við suma sendana. Í rauninni eru þarna minjar um upphaf fjarskipta hér á landi. Fyrsti sendirinn, „serial no 1“, brann að vísu yfir á sínum tíma, en þarna er enn „serial no 2“, sem verður að teljast allnokkur safngripur. Síðan tekur hver safngripurinn við af örðum – í þróunarröðinni. Sum nöfnin er alkunn, en önnur ekki. Í ljós kom að þekking og reynsla íslenskra sérfræðinga dugðu vel til að betrumbæta sum tækin þeannig að þau dugðu betur en áður þekktist. Það er jú varðveislunnar virði. Ekki er vitað til þess að saga loftskeytastöðvarinnar hafi verið skráð – líklegra er lengra í söguna en eyðileggingu hennar.

Vatnsendahæð

Vatnsendahæð – langbylgjustöðin.

Fólk vill víst ekki hafa loftnetin þarna lengur, sem verður jú að teljast eðlilegt. Það verður víst að vera pláss fyrir fleiri blokkir eða einbýlishús í Kópavogi. Þó hefði ekki orðið fráfallssök þótt eitt ef elstu möstrunum hefði verið hlíft, sem minjamastri fyrir það sem var (hugsað fram í tímann).
Einkahlutafélag mun á næstunni hefja rekstur fjarskiptamastra á gamla varnarsvæðinu í nágrenni Grindavíkur samkvæmt upplýsingum blaðsins. „Í dag rekur félagið möstur við Rjúpnahæð í Kópavogi, en á því svæði stendur til að byggja og þurfa möstrin því að víkja. Þau möstur verða þó ekki flutt til Grindavíkur heldur munu Flugfjarskipti nota möstur sem bandaríski herinn skildi eftir við fjallið Þorbjörn. Möstrin á Rjúpnahæð verða tekin niður og gerður hefur verið samningur við Kópavogsbæ um frágang þess máls. Möstrin sem Flugfjarskipti hyggjast taka í notkun í námunda við Grindavík eru um 10-12 talsins, en þau verða notuð til fjarskipta við flugvélar á flugi í íslenska flugstjórnarsvæðinu yfir Norður-Atlantshafi.

Staðfesting á elsta "núlifandi" sendir stöðvarinnar

Í fyrra keypti Flugfjarskipti hluta jarðarinnar á Galtarstöðum í Flóahreppi og hugðust flytja möstrin sem standa á Rjúpnahæð þangað. Stjórn hreppsins hafnaði hins vegar beiðni Flugfjarskipta um að fá að reisa möstrin þar, en hæð þeirra átti að vara 18-36 metrar. Gert er ráð fyrir að flutningurinn frá Rjúpnahæð fari fram í áföngum á þessu ári og næsta, en möstrin á Rjúpnahæð verða í notkun þar til að fyrirtækið er endanlega flutt á nýjan stað. Kópavogsbær reiknar með að hægt verði að hefja byggingar af fullum krafti næsta sumar og að svæðið verði að mestu full byggt 2010-2011.“ Hið jákvæða í þessu öllu saman er að starfsemin færist til Grindavíkur, en hið neikvæða felst í niðurrifshugsjóninni.

Loftskeytastöðin

Loftskeytastöðin á Melunum.

Til frekari fróðleiks er rétt að rifja upp að loftskeytastöðin á Melunum tók til starfa 17. júní 1918. Þetta var neistasendistöð með krystalviðtækjum. Tvö 77 metra möstur voru reist fyrir loftnet. Loftskeytastöðin sendi út og tók á móti á morsi fyrsta áratuginn. Síðar annaðist hún einnig talskipti og veitti öllum skipum í námunda við Ísland ómetanlega þjónustu sem stórbætti öryggi sjófarenda.
Elsti sendirinn - sem væntanlega veðrur fargaðFrá örófi alda hafa menn reynt að finna aðferðir til að hafa samskipti við aðra. Sending reykmerkja og trumbusláttur eru meðal þeirra aðferða sem notaðar voru í upphafi en fjarskiptatækni nútímans byggist aftur á móti á eiginleikum rafmagns og rafsegulmagns. Gríðarlegar framfarir urðu í tæknimálum á 19. öld. Þá bjó t.d. Ampére til nálaritsíma og stuttu síðar smíðaði Morse nothæfan ritsímalykil og bjó til sérstakt stafróf. Árið 1876 talaði Bell í síma í fyrsta skipti og Marconi sendi fyrstu loftskeytin árið 1897.
Árið 1906 markar tímamót í fjarskiptasögu Íslendinga. Það ár var sæsímastrengur fyrir ritsíma lagður frá Skotlandi um Færeyjar til Íslands og kom hann á land á Seyðisfirði. Skeyta- og talsími var lagður frá Seyðisfirði um Akureyri og til Reykjavíkur og rauf hann einangrunina innanlands. Margir mótmæltu lagningu símans og töldu loftskeyti vænlegri kost en Hannesi Hafstein ráðherra tókst að sannfæra Alþingi um ágæti símans.

Pósthússtræti 3

Pósthússtræti 3 –
Barnaskóli, pósthús, símahús og lögreglutöð.
Í fyrstu hýsti húsið Barnaskóla Reykjavíkur (1883-1898) en þá var það tekið undir pósthús og stuttu síðar Landsíma Íslands. Árið 1931 var húsið tekið undir Lögreglustöð Reykjavíkur sem var hér til ársins 1965 þegar ný lögreglustöð var opnuð við Hlemm. Í kjallara hússins voru fangageymslur sem gengu undir nafninu „Steinninn“ eða „Grjótið.“

Það liðu þó mörg ár þar til allir landsmenn komust í símasamband en lagningu síma í sveitir lauk í kringum 1960 og voru þá enn margir símar á sömu línunni.

Landssími Íslands var stofnaður sama ár og símtæknin kom til landsins, árið 1906, og var hann til húsa í gamla barnaskólanum í Reykjavík á horni Pósthússtrætis og Hafnarstrætis. Fyrsti yfirmaður Landssímans var Norðmaðurinn Olav Forberg sem hafði stjórnað lagningu símalína um landið. Fyrstu menntuðu íslensku símamennirnir voru símritarar sem höfðu verið í námi hjá Mikla norræna ritsímafélaginu í Kaupmannahöfn.
Eftirsóknarvert þótti að vinna við talsímann og sköpuðust með honum ný atvinnutækifæri fyrir karla og konur. Árið 1935 var síma- og póstþjónustan sett undir einn hatt en árið 1998 skildu leiðir á ný og Landssími Íslands hf. var stofnaður.
Fornfálegheit lofskeytastöðvarinnarLoftskeytastöð tók til starfa á Melunum í Reykjavík þann 17. júní 1918 í því húsi sem Fjarskiptasafnið er nú og kallaðist hún Reykjavík radíó. Sunnan- og norðanmegin hennar voru tvær 77 m háar loftnetsstangir. Fyrsta kallmerki stöðvarinnar var OXR en árið 1919 var Íslandi úthlutað kallmerkinu TF og bar stöðin síðan kallmerkið TFA. Upphaflega var loftskeytastöðin hugsuð sem varasamband til útlanda, viðbót við sæsímann, en aðalhlutverk hennar varð brátt þjónusta við skip og báta og var hún bylting fyrir öryggi þeirra.
Í fyrstu fóru öll fjarskipti við skip fram á morsi en talfjarskipti hófust árið 1930. Fyrsta íslenska fiskiskipið sem fékk loftskeytatæki var togarinn Egill Skallagrímsson, árið 1920.

Rjúpnahæð

Möstur loftskeytastöðvarinnar á Rjúpnahæð.

Tveimur árum síðar var fyrsti loftskeytamaðurinn ráðinn til starfa á íslenskt skip. Þegar skipum með loftskeytatæki fór að fjölga varð hörgull á mönnum sem gátu sinnt þessum störfum og var því efnt til námskeiðs fyrir unga menn sem vildu læra loftskeytafræði. Lauk fyrsti hópurinn námi árið 1923. Á hernámsárunum var Reykjavík radíó undir eftirliti hernámsliðsins. Þá voru loftskeytastöðvar reistar víða um land, t.a.m. á Rjúpnahæð og tvær við Grindavík.
Síminn hefur sinnt radíóþjónustu við flugvélar frá því í lok síðari heimsstyrjaldar. Þeirri þjónustu er sinnt í Gufunesi. Stöðinni á Rjúpnahæð hefur jafnan verið fjarstýrt þaðan.

Landsímahúsið við Austurvöll

Landsímahúsið við Austurvöll.

Árið 1963 fluttist öll starfsemi Reykjavík radíó í Gufunes sem er nú aðalstrandstöð fyrir skip auk þess að veita flugvélum fjarskiptaþjónustu.

Reykvíkingar voru fljótir að taka við sér og fá sér síma. Árið 1912 voru notendur í bænum alls 300 talsins, tíu árum síðar voru þeir nær 1100 og árið 1928 voru um 2400 símnotendur í Reykjavík. Þrátt fyrir að búið væri að byggja eina hæð ofan á gömlu símstöðina voru þrengslin orðin slík að ekkert pláss var fyrir fleiri skiptiborð og voru vinnuaðstæður mjög erfiðar. Ákveðið var að reisa nýtt hús fyrir starfsemi Símans og fékkst til þess lóð við Austurvöll.

Rjúpnahæð

Loftskeystastöðin á Rjúpnahæð – MWL.

Árið 1932 voru fyrstu sjálfvirku símstöðvarnar í Reykjavík og Hafnarfirði teknar í notkun. Þá gátu bæjarbúar hringt hver í annan án þess að fá samband í gegnum „miðstöð“ og hafa eflaust einhverjir saknað þess að þurfa ekki lengur að tala við stúlkurnar þar.
Sjálfvirkum stöðvum fjölgaði smám saman á landinu og árið 1976 voru allir þéttbýlisstaðir komnir með sjálfvirkan síma. Árið 1986 voru allir símar landsmanna tengdir sjálfvirkum stöðvum og fréttir sem menn heyrðu óvart í gegnum sveitasímana heyrðu sögunni til.
Símastaurar og línur sáust vart lengur í landslaginu þar sem farið var að plægja strengina í jörðu eða setja upp radíósambönd. (Vonandi mun slík þróun og verða v/jarðvarmavirkjanir hér á landi til lengri framtiðar litið).

Loftskeytamöstur á Rjúpnahæð

Lagning ljósleiðara um landið hófst árið 1985. Með honum jukust talgæði til muna en stafræn kerfi eru auk þess öruggari og hagkvæmari en fyrri kerfi. Flutningur annarra gagna en símtala varð mögulegur og var almenna gagnaflutningsnetið tekið í notkun ári síðar. Fyrstu stafrænu (digital) símstöðvarnar voru opnaðar árið 1984 og náði sú tækni til allra símstöðva ellefu árum síðar. Með stafrænu tækninni var unnt að bjóða upp á ýmsa sérþjónustu. Íslendingar eru fljótir að tileinka sér nýjungar og það átti svo sannarlega við um farsímana. NMT-kerfið hóf göngu sína árið 1986 og GSM-kerfið árið 1994. Árið 1998 var breiðbandið tekið í notkun og verður það notað fyrir margvíslegan gagnaflutning í framtíðinni, s.s. síma, sjónvarp, útvarp og tölvur. Það hefur verið kallað upplýsingahraðbraut framtíðarinnar.

Scotice

Fyrstadagsumslag frá árinu 1962.

Talsamband við útlönd á stuttbylgjum var opnað árið 1935 og voru um 250 samtöl afgreidd fyrsta mánuðinn. Gjaldið fyrir útlandasímtal þætti hátt í dag en það var þá 33 kr. fyrir þriggja mínútna símtal sem jafngilti því sem næst heilu ærverði. Til samanburðar má geta þess að áskrift að dagblaði kostaði á sama tíma 2-3 kr. á mánuði. Nýr sæsímastrengur, Scotice, milli Skotlands og Íslands var tekinn í notkun árið 1962 og olli hann enn einni byltingunni í samskiptum Íslendinga og annarra þjóða. Í tengslum við strenginn var komið upp telexþjónustu hér á landi og varð hún mjög vinsæl hjá fyrirtækjum og stofnunum. Ári síðar var Icecan-strengurinn, milli Íslands og Kanada, formlega tekinn í notkun.
Elsta braggahúsið var á millum mastrannaÁrið 1980 kom jarðstöðin Skyggnir til sögunnar og fóru þá samtöl til útlanda um gervihnött. Þá var fyrst hægt að hringja beint til annarra landa. Skyggnir sinnir enn hluta þjónustunnar og er einnig notaður sem varaleið en árið 1994 var nýr sæstrengur, Cantat-3, tekinn í notkun. Hann liggur þvert yfir Atlantshafið, frá Evrópu til Ameríku, en grein frá honum
tengist Íslandi. Um hann fer nú meirihluti símtala frá landinu til útlanda og mikill gagnaflutningur, s.s. Internetið.
Í deiliskipulagi fyrir Rjúpnahæð segir m.a.: „Í tillögunni er gert ráð fyrir nýju íbúðarsvæði vestast í Rjúpnahæð. Nánar tiltekið afmarkast deiliskipulagssvæðið af opnu svæði við fyrirhugaða Smalaholti til vesturs, skógræktarsvæði og golfvelli GKG til norðurs, fyrirhugaðri byggð við Austurkór, Auðnukór og Álmakór til austurs sveitarfélagsmörkum Kópavogs og Garðabæjar til suðurs. Áætlað er að á svæðinu rís 120 íbúðir í sérbýli og fjölbýli. Aðkoma er fyrirhugðu Ásakór um Austurkór.“
Svo mörg voru þau orð…
Beitarhústóft frá Fífuhvammi norðan í RjúpnahæðVið skoðun FERLIRs komu í ljós tóftir norðan við afmarkaða girðingu loftskeytastöðvarinnar. Í gögnum segir að „í norðurhlíðum Rjúpnahæðar ofan golfvallar eru menjar gamals sels. Selið var verndað með bæjarvernd í tengslum við framkvæmdir sem áætlaðar voru á svæðinu. Framkvæmdir þessar voru Landgræðsluskógrækt, lagning reiðstíga og gerð golfvallar.“
Ef grannt er skoðað er þarna um að ræða leifar beitarhúss, væntanlega frá Fífuhvammi. Fífuhvammslækur hefur áður runnið um dalverpið, sem nú hefur verið fylt upp. Ofan við bakka þess hefur nefnt sel að öllum líkindum verið. Erfitt verður að staðsetja það af nákvæmni úr því sem komið er, bæði vegna þess að trjám hefur verið plantað í neðanverða hlíðina auk þess sem verulegt rask hefur orðið neðan hennar vegna undangenginna framkvæmda.
Mannvirkin og söguleg tilvist þeirra mun að óbreyttu hverfa á næstu mánuðum. Reyndar er leitt til þess að vita því áhugafólk um söfnun minja frá stríðsárunum hefur lengi leitað eftir slíku húsnæði fyrir safn. Myndirnar hér að ofan voru teknar í okt 2007, en myndin að neðan ári síðar. Segja má að nú sé Snorrabúð stekkur.

Heimildir m.a.:
-http://siminn/saga_simans/+loftskeytast.is
-http://www.fjarskiptahandbokin.is/
-Kopavogur.is

Loftskeytastöðin haustið 2008

Grindavík

Sagan
Landnámabók greinir frá því að landnámsmenn hafi komið til Grindavíkur í kringum árið 934.

Grindavík

Grindavík – kort.

Landnámsmenn voru tveir. Þeir hétu Molda-Gnúpur Hrólfsson sem nam Grindavík og Þórir haustmyrkur Vígbjóðsson sem nam Selvog og Krýsuvík. En allt fram til 1946 náði Grindavíkurhreppur yfir tvær sóknir Staðarsókn og Krýsuvíkursókn. Synir Moldar-Gnúps settust að á þrem höfuðbólum sem hin 3 hverfi Grindavíkur heita eftir. Austast er Þórkötlustaðahverfi, þá Járngerðarstaðarhverfi, þar sem megin byggðin er í dag, en Staðarhverfi heitir vestast.
GrindavíkUpphaf kaupstaðarins sem nú stendur má rekja til þess að Einar Einarsson í Garðhúsum hóf verslun í húsi sem hann byggði árið 1897 í Járngerðarstaðarhverfi. 1939 var grafið skipalægi inn í Hópið og upp úr 1950 hófst alvöru hafnargerð. Grindavík fékk kaupstaðarréttindi 1974. Um aldamótin síðustu voru íbúar 357 talsins. Grindavík er öflugt sveitarfélag á suðurströnd Reykjanesskaga um 50 km frá Reykjavík. Íbúar voru 2.382 þann 1. desember sl., en eru nú um hálft þriðjaþúsund. Fallegt bæjarstæði við rætur Þorbjarnarfells, nálægð við gjöful fiskimið, ferðamannastaður og heilsulind eins og Bláalónið sem og öflugt íþróttastarf með ungu fólki, allt þetta hjálpast að við að skapa gott mannlíf í framsæknu bæjarfélagi. Nú höfum við bætt við menningu okkar hérna í Grindavík og reist Saltfisksetur Íslands í Grindavík þar höfum við eignast stórt og mikið menningarsetur sem notað verður í þágu Grindvíkinga jafnt sem Íslendinga.

Atvinnulífið

Grindavík

Grindavík 1924.

Grindavík er einn öflugasti útgerðarbær landsins með fjölda báta og togara og sterkum sjávarútvegsfyrirtækjum. Meðal stærstu fyrirtækjanna má telja Þorbjörn-Fiskanes hf, Stakkavík,Vísir og Samherji/Fiskimjöl og Lýsi. Grindavíkurhöfn hefur lengi verið í hópi þeirra 4 – 5 hafna sem mestum afla skila á land á hverju ári. Þótt Grindavík hafi lengst af byggt afkomu sína á sjávarútvegi hefur á síðustu árum orðið verulegur samdráttur í vinnu landverkafólks og það ýtt undir leit að nýjum atvinnutækifærum. Aukin vinna við þjónustu kom með byggingu glæsilegrar langlegudeildar í Víðihlíð, dvalarheimili aldraðra í Grindavík. Deildin tilheyrir Sjúkrastofnun Suðurnesja í Keflavík.

Saltfisksetur

Í Satfisksetri Íslands.

Þá varð mikill uppgangur í þjónustu við ferðamenn með uppbyggingunni við Bláalónið og tilkomu Saltfiskseturs Íslands í Grindavík. Þar er verið að byggja hótel og meðferðaraðstöðu við Lónið á nýjum stað þar sem baðgestir eru alveg öruggir og öll aðstaða verður eins og best verður á kosið. Nú er hótel við Bláalónið, veitingastaður og einnig fer þar fram vinnsla á heilsuvörum sem unnar eru úr efnum úr Lóninu. Í bænum er öll nauðsynleg þjónusta heilsugæsla, tannlæknir, verslanir, löggæsla, skrifstofa Sýslumanns.

Ferðamenn velkomnir 

Járngerðardys

Tómas Þorvaldsson við dys Járngerðar.

Undanfarin ár hefur ferðamönnum fjölgað verulega í Grindavík, en það er aðallega ört vaxandi þjónustu að þakka. Hér eru nokkur veitingahús, gistihús, hótel og tjaldstæði, ný útisundlaug með heitum pottum, heilsuræktarsal og gufubaði, verslanir, bankar, bílaleigur og öll nauðsynleg þjónusta. Margt er hægt að gera sér til afþreyingar. Hér er hestaleiga, silungsveiði, góður 13 holu golfvöllur í skemmtilegu umhverfi við sjóinn. Hægt er að fara í sjóstangaveiði eða útsýnissiglingu.

Grindavík

Grindarvík – Sólarvé.

Þá spyr fólk gjarnan eftir Sólarvéinu sem staðsett er milli íþróttahússins og Félagsheimilisins Festi. Það er heiðið listaverk tileinkað sólinni. Margar merktar gönguleiðir eru í nágrenni Grindavíkur fyrir þá sem hafa gaman af göngu í fallegu og stórbrotnu landslagi. Í klettunum meðfram ströndinni á Reykjanestá er mjög fjölbreytt fuglalíf. Þaðan er gott útsýni að Eldey, en þar er einmitt mesta súlubyggð í heimi. Einnig er margt að skoða með ströndinni og tilvalið að ganga fjörurnar út frá höfninni.

Bláa lónið

Bláa lónið.

Bláa Lónið, sem er aðeins 5 km. fyrir utan Grindavíkurbæ, er vinsælasti viðkomustaður ferðamanna á Íslandi, enda tilvalið að slaka á í ylvolgu lóninu en lækningamáttur þess hefur reynst vel á ýmsa húðkvilla. Saltfisksetur Íslands í Grindavík er tilvalið fyrir ferðamanninn að stoppa og kynna sér sögu saltfiskverkunnar í gegnum tíðina, er þetta eitt af þeim söfnum sem ferðamaðurinn getur ekki sleppt, þar kemst hann í nálægt við allt sem tengist verkunninni, lykt, hljóð og sjón.

Grindavík

Grindavík – Járngerðarstaðahverfi.

Grindavík er skammt frá Keflavík og í aðeins 50km. fjarlægð frá Reykjavík. Grindavík er tilvalinn staður að heimsækja hvort heldur sem menn vilja fjölbreytta afþreyingu, eða njóta þess að slaka á í skemmtilegu umhverfi.

Upplýsingaskrifstofa fyrir ferðafólk er rekin allt árið í Saltfisksetri Íslands í Grindavík.

Umdæmið nær frá Valahnúk í vestri að Seljabót í austri.

Virkið

Virki Jóhanns breiða.

Nokkrir atburðir
Grindavíkurstríðið 1532
Tyrkjaránið 1627
Bátasendaflóðið 1799
Skipsskaðar; Alnaby, Clam, Skúli fógeti
Byggðaþróun – Staðarhverfi – Þórkötlustaðahverfi – Járngerðarstaðahverfi

Sagnir.
TYRKJAR Í GRINDAVÍK
Það er alkunnugt að þegar Tyrkjar ræntu hér á landi 1627 gjörðu þeir landgöngu í Grindavík. Segja menn þeir hafi komið upp á Járngerðarstöðum og söfnuðust menn saman og gengu móti þeim og varð bardagi í fiskigörðunum fyrir ofan varirnar.

Ísólfsskáli

Ísólfsskáli.

Þá bjó karl gamall á Ísólfsskála. Hann átti stálpaðan son; rauða meri átti hann líka. Karlsson heyrði talað um að Tyrkjar væru í Grindavík. Hann bað föður sinn lofa sér að fara þangað til að sjá þá. Karl var tregur til þess, en sonurinn sókti fast eftir. Karl lét það þá eftir og setti hann á bak Rauðku og bað hann ríða hægt þangað til hann sæi Tyrkja og snúa þá aftur og flýta sér sem mest.

Hann fór nú og segir ekki af honum fyrr en hann sá Tyrkja þar sem þeir börðust við landsmenn. Þá stukku tveir strax og ætluðu að taka hann. Hann varð dauðhræddur, reið undan og barði á báða bóga, en Rauðka var ekki viljugri en svo að Tyrkjar voru alltaf í nánd við hana. Þó dróst svo austur á Hraunssand að þeir náðu henni ekki. Ofan til á miðjum sandi náðu báðir undir eins í taglið á henni, en hún sló aftur undan sér og setti sinn hóf fyrir brjóst hvorum Tyrkja svo þeir féllu niður dauðir, en

Grindavík

Grindavík – dys við Hraun.

Rauðka hljóp nú svo hart að karlssyni þótti nóg um og kom hann heill heim á Skála.
Leiði Tyrkjanna sést enn á Hraunssandi, hlaðið úr grjóti og lítið grasi vaxið ofan, næstum kringlótt, nálega einn faðm á hvurn veg. Slétt er fram á það því sandinum hallar, en undan brekkunni er það nálega tveggja feta hátt. Sumir kalla það Kapellu. Í bardaganum veitti landsmönnum miður. Særðu Tyrkjar suma, en tóku suma; þó féllu margir af Tyrkjum.

Þyrnir

Blóðþyrnir í Grindavík. Bakki fjær.

Helgi hét maður; hann barðist með kvíslarfæti og drap fimmtán Tyrkja, en var síðan tekinn. Hann var keyptur út löngu seinna og er sú sögn eftir honum höfð, að hann hafi drepið tvo eigendur sína, hvorn eftir annan, þá hann hlóð múrvegg, en þeir fundu að verkinu, og hafi hann hlaðið þeim í vegginn svo þeir fundust ekki og engan grunaði að Helgi hefði ollað hvarfi þeirra.
Engin dys sjást þar sem bardaginn var eða þar nálægt. En svo segja Grindvíkingar og fleiri að þar vaxi þyrnir síðan þar kom saman kristið blóð og heiðið, en það er raunar þistill, en ekki þyrnir.
(Jón Árnason)

ÞORKATLA OG JÁRNGERÐUR

Þórkötludys

Þórkötludys – Sigurður Gíslason á Hrauni við dysina.

Þorkatla bjó á Þorkötlustöðum í Grindavík, en Járngerður á Járngerðarstöðum. Báðar voru þær giftar. Einu sinni sem oftar voru karlarnir þeirra báðir á sjó. Nú gjörði mikið brim og héldu báðir til lands. Þorkötlu karl fekk gott lag á Þorkötlustaðasundi og komst af.

Þá varð Þorkatla fegin og mælti hún svo fyrir að á því sundi rétt förnu skyldi aldrei skip farast ef formann þess brysti hvorki hug né dug, og menn vita ekki til að þar hafi farizt skip á réttu sundi.
Það er að segja frá Járngerðar karli að hann drukknaði á Járngerðarstaðasundi. Þá varð Járngerður afar grimm og mælti svo um að þar skyldu síðan farast tuttugu skip á réttu sundi. Segja menn að nú sé fyrir víst nítján drukknuð, en þá er eitt eftir og má búast við að það farist þá og þá. Á götu þeirri sem til skips var gengin frá Járngerðarstöðum er leiði Járngerðar.
(Jón Árnason)

FESTARFJALL

Festarfjall

Festarfjall og Hraunsvík.

Austarlega í Grindavík, hér um bil miðja vegu milli bæjanna Hrauns og Ísólfsskála, er þverhnípt fell fram við sjóinn, sem heitir Festarfjall. Neðan undir felli þessu er hátt blágrýtisstandberg og ægisandur undir sem ganga má þurrum fótum með lágum sjó. Frá Hrauni blasir við í miðju berginu grá rák sem gengur þráðbeint upp í gegnum bergið og nefnist Festin.
Sagan segir að rák þessi sé silfurfesti sem tröllkona ein hafi einhvern tíma í fyrndinni hengt fram af berginu með þeim ummælum að þá er dóttir bóndans á Hrauni, sú sem bæri nafn hennar, gengi þar neðan undir þá skyldi festin detta niður og verða eign stúlkunnar. Því miður lét tröllkonan ekki nafns síns getið svo að ekki hefir verið auðvelt að láta heita eftir henni, enda hangir festin óhreyfð enn í dag.
(Ruðskinna)

SILFURGJÁ

Sifra

Silfurgjá.

Í utanverðri Grindavík eru margar hyldjúpar gjáarsprungur með vatni í sem á yfirborði er að mestu ósalt og flæðir og fjarar í þeim eins og í sjónum. Ein af þessum gjám heitir Silfurgjá, skammt fyrir ofan túngarðinn á Járngerðarstöðum. Í gjá þessari segir sagan, að fólgin sé kista full af silfurpeningum. Hafa allar tilraunir til þess að hefja þennan fjársjóð upp strandað á því að þá er menn hafa náð kistunni upp á gjáarbarminn, þá hefir mönnum sýnzt allt Járngerðarstaðaþorpið standa í björtu báli og hafa menn því jafnan sleppt kistunni aftur.

Síðasta tilraunin fór á þá leið að þeir slepptu ekki einungis kistunni heldur fylltu gjána upp með mold. Svo að nú er yfir kistunni grasi gróin brekka.
(Rauðskinna)

GAMLA KIRKJAN

Grindavíkurkirkja

Grindavíkurkirkja.

Gamla Kirkjan hefur fengið nýtt hlutverk með nýjum tímum. Hún var reist árið 1909 og var byggingarefnið fengið að mestum hluta til úr gömlu kirkjunni að Stað sem hafði staðið frá 1858. Kirkjan þjónaði Grindvíkingum allt til 1982, frá árinu 1988 hefur verið starfrækt barnaheimili í kirkjunni. Í næsta nágrenni kirkjunnar eru mörg sögufræg hús, s.s. Krosshús en þar skrifaði Halldór Laxnes Sölku Völku, læknisbústaður Sigvalda Kaldalóns, læknis og tónskálds, Garðhús heimili Einars G. Einarssonar athafnamanns og fyrsta kaupmanns Grindavíkur, en þessi þrjú hús voru miklar menningarmiðstöðvar fram undir miðja öldina.

Nokkir staðir áhugaverðir staðir
Staðahverfi, Stórabót, Eldvörp, Hópsnes, Selatangar, Húshólmi, Krýsuvík, Klofningar, Krýsuvíurberg, Selalda, Selsvellir, Baðsvellir Gálgaklettar, Hraunsandur og Festisfjall.

Heimildir:
-grindavik.is
-Saga Grindavíkur
-Tómas Þorvaldsson – ævisaga
-Milli Valahnúka og Seljabótar – Guðfinnur Einarsson
-https://ferlir.is/grindavik-svavar-arnason/

Grindavík

Grindavík – Þórkötlustaðir.

https://ferlir.is/grindavik-innsiglingin/https://ferlir.is/grindavikurvegir/

Vatnsleysuströnd

Landnám.
Byggð hefur hafist í Vatnsleysustrandarhreppi strax við landnám.

Landnám

Landnám Ingólfs.

Í Landnámu segir frá Steinunni hinni gömlu er var frændkona Ingólfs Arnarsonar landnámsmanns. Hún var hinn fyrsta vetur með Ingólfi. Ingólfur ,,bauð að gefa henni Rosmhvalanes allt fyrir utan Hvassahraun, en hún gaf fyrir heklu flekkótta” (ermalaus kápa með hettu) ,,og vildi kaup kalla”. Menn ætla að Steinunn gamla hafi reist bæ sinn á Stóra-Hólmi í Leiru (líklega fyrsta verstöð á Suðurnesjum). Steinunn gaf frænda sínum og fóstra, Eyvindi af landi sínu ,,milli Kvíguvogabjarga og Hvassahrauns” og telst því sérstakt landnám. Land þetta hefur trúlega náð frá fjöru til fjalls, til móts við landnám Molda-Gnúps í Grindavík og Þóris haustmyrkurs í Krýsuvík. Land Eyvindar var því Vatnsleysustrandarhreppur eins og hann er í dag. Ekki hélst Eyvindi lengi á landinu því það ásældist Hrolleifur Einarsson sem bjó á Heiðarbæ í Þingvallasveit. Hann skoraði á Eyvind að selja sér landið, en ganga á hólm við sig ella. Bauð þá Eyvindur jarðaskipti og varð það úr. Hrolleifur bjó síðan í Kvíguvogum og er þar heygður. Kvíguvogar kallast nú einungis Vogar og Kvíguvogabjörg, Vogastapi eða oft aðeins Stapi.

Eftir landnám.

Vatnsleysuströnd

Vatnsleysuströnd – kort.

Eftir landnám fara litlar sögur af Vatnsleysuströndinni. Hér á eftir er samtínigur af því helsta.
– Í Sturlungu er getið Björns Jónssonar bónda í Kvíguvogum vegna þess að Helgi bróðir hans féll úr liði Þorleifs í Görðum í Bæjarbardaga.
– Vatnsleysustrandarhreppur er nefndur í landamerkjalögum 1270.
– 1592 er dómur kveðinn upp á Vatnsleysu af Gísla lögmanni Þórðarsyni, um það að Guðmundur nokkur Einarsson skuli fluttur á sveit sína vestur á Skarðsströnd.
– Í hafnatali Resens er Vatnsleysuvík talin höfn á 16. öld en þess getið að þangað sé engin sigling.

Vatnsleysa

Vatnsleysa – örnefni; ÓSÁ.

– 1602 er einokunin hófst var útgefið konungsbréf sem tilkynnir að þýskum kaupmönnum sé leyft að sigla á hafnirnar Vatnsleysuvík og Straum þetta sumar til þess að innheimta skuldir sínar.
– Á 17. öld er getið um mann sem hafði á sér höfðingjabrag, það var stórbóndinn í Vogum, Einar Oddsson lögréttumaður 1639-1684. Einar gerðist handgenginn Bessastaðamönnum, sérstaklega Tómasi Nikulássyni fógeta sem aðrir Íslendingar hötuðu. Tómas gerir Einar að umboðsmanni sínum 1663, veturlangt. (Staðgengill landfógeta).
Hallgrímur Pétursson orti um Einar:
Fiskurinn hefir þig feitan gert,
Sem færður er upp með togum,
En þóttú digur um svírann sért,
Samt ertu Einar í Vogum.

Soagsel

Sogasel í Sogaselsgíg.

– 1699 bjó á hjáleigu frá Brunnastöðum bláfátækur bóndi sem Hólmfastur Guðmundsson hét. Á þessum tíma máttu Vatnsleysustrandarmenn eingöngu versla í Hafnarfirði. Kaupmaður þar hét Knútur Storm. Ekki vildi kaupmaður kaupa allan fisk Hólmfasts og henti úr 3 löngum og 10 ýsum. Ekki mátti Hólmfastur við þessu, hann fer því til Keflavíkur með úrkastið og að auki 2 knippi af hertum sundmögum og selur kaupmanni. Þetta frétti Knútur Storm og stefndi Hólmfasti til Kálfatjarnarþings og kærði hann fyrir óleyfilega verslun. Hólmfastur var dæmdur í þunga sekt en hann átti ekki neitt nema lekan bát sem kaupmaður neitaði að taka upp í sekt. Hólmfastur var því dæmdur til að kaghýðast, en því jafnframt skotið til konungs hvort hann ætti ekki líka að fara á Brimarhólm fyrir þennan mikla glæp.

Hólmfastskot

Tóftir Hólmfastskots.

Síðan var Hólmfastur bundin við staur og húðstrýkur rækilega. Seinna kærði Láritz Gottrup lögmaður þetta fyrir konungi og enn seinna þeir Árni Magnússon og Páll Vídalín. Árni og Páll stóðu fyrir því að Hólmfastur fékk miskabætur nokkru síðar 20 ríkisdali frá Jóni Eyjólfssyni sýslumanni. Umdæmaverslunin var afnumin 1732.
– Í manntalinu 1703 er íbúafjöldi hreppsins 251. Fjórum árum seinna, 1707 gekk stóra bóla þá létust 106 manns eða rúmlega þriðjungur og er þess getið í annálum að einn dag voru 34 lík færð til greftrunar að Kálfatjörn.
Ekki hefur hreppurinn alltaf verið jafnstór því;
Með lögum 1596 voru Njarðvíkurnar sameinaðar Vatnsleysustrandarhreppi og náði hreppurinn þá að Vatnsnesklettum. 1889 urðu Njarðvíkurnar aðskildar og urðu sér hreppur.

Kirkjur.

Kálfatjarnarkirkja

Kálfatjarnarkirkja 1953.

Upphaflega voru þrjár kirkjur í hreppnum, hálfkirkjur í Kvíguvogum (Vogum) og á Vatnsleysu, en aðalkirkja á Kálfatjörn. Þeirra er getið í gömlum máldögum m.a. Vilkinsmáldaga. Hálfkirkjurnar hafa trúlegast lagast niður um siðaskipti. Sagnir eru um að aðalkirkjan hafi upphaflega staðið á Bakka en verið flutt að Kálfatjörn vegna sjávargangs. Kálfatjörn er nefnd Gamlatjörn í Vilkinsmáldaga sem mun vera hið forna nafn staðarins. Í kaþólskum sið var kirkjan á Kálfatjörn helguð Pétri postula. Á Kálfatjörn var torfkirkja fram til ársins 1824, þá var reist ný kirkja og var hún með torfveggjum en timburþaki og stóð hún í 20 ár eða til ársins 1844. Árið 1844 er svo byggð ný timburkirkja á Kálfatjörn, hún stóð aðeins í 20 ár og 1864 er enn byggð kirkja. Núverandi kirkja var byggð 1892-1893 og vígð árið 1893. Hún tekur 150 manns í sæti á báðum gólfum. 1935 er forkirkjan endurbyggð og settur nýr turn á kirkjuna. Prestssetur var á Kálfatjörn til 1907, er sóknin var lögð til Garða á Álftanesi. Árið 2002 var stofnað nýtt prestakall, Tjarnaprestakall, sem Kálfatjarnarsókn eru nú hluti af ásamt Ástjarnarsókn í Hafnarfirði.

Stefán Thorarensen

Stefán Thorarensen.

Þekktastur presta á Kálfatjörn hefur líklegast verið séra Stefán Thorarensen. Hann var prestur á Kálfatjörn 1857-1886. Séra Stefán var sálmaskáld mikið og réð mest um útgáfu sálmabókarinnar 1871, í þeirri bók eru 95 sálmar eftir hann, frumsamdir og þýddir. Fyrir tilstuðlan séra Stefáns var komið á fót fyrsta barnaskólanum í hreppnum árið 1872. Seinasti prestur er bjó á Kálfatjörn var séra Árni Þorsteinsson 1886-1919.

Atvinnuhættir og viðurværi. Viðeyjarklaustur – landsetar konungs.
Einn aðal atvinnuvegur Íslendinga var um margar aldir landbúnaður, þó voru nokkur svæði á landinu sem fiskveiðar voru stundaðar jafnframt og er Faxaflóasvæðið eitt af þeim. Hrolleifur Einarsson sem hafði jarðaskipti við Eyvind landnámsmann hefur litist betur á búsetu við sjávarsíðuna og fiskfangið en grösugar sveitir Þingvallasveitar. Jarðnæði í Vatnsleysustrandarhreppi verður seint talið gott til ræktunar búfjár og má vera ljóst að alla tíð hafa menn stólað á sjóinn sér til lífsviðurværis.

Kálfatjörn

Kálfatjörn – Bakki og Litlibær fjær.

Til að byrja með skiptast bændur í jarðeigendur og leiguliða þeirra. Þegar Viðeyjarklaustur var stofnað 1226 þurfti það auðvitað á tekjum að halda. Við stofnun þess voru því gefnar allar biskupstekjur milli Botnsár og Hafnarfjarðar en í framhaldi fara klaustursmenn svo að ásælast fleiri jarðir. Var svo komið að þegar Viðeyjarklaustur var lagt niður átti það allar jarðir í Vatnsleysustrandarhreppi nema Kálfatjörn, Bakka og Flekkuvík sem voru kirkjujarðir. Landskuld þurftu menn að greiða af jörðum sínum. Sem dæmi um hve mikil hún var er til skrá frá 1584, þá þurftu 15 jarðir á Ströndinni að greiða samtals 56 vættir fiska og 3 hndr. í fríðu. Klaustrið hefur jafnframt verið með mikla útgerð því það átti báta og skip sem það gerði út á Ströndinni og hafa bændur sjálfsagt verið skyldaðir til að leggja til menn á þá.

Flekkuvík

Flekkuvík.

Þegar klaustrið var lagt niður tekur sjálfur konungurinn (Bessastaðavaldið) við öllum eignum þess. Ekki reyndist Bessastaðavaldið bændum betur en klaustrið og hlóð á nýjum kvöðum. 1698 hafði landskuld hækkað um nær helming og var um 113 vættir fiska, þó höfðu jarðirnar ekki batnað neitt, sumar jafnvel skemmst af sandfoki og sjávargangi.

Nú áttu Bessastaðamenn ekki skipin lengur en tóku þau að helmingi til útgerðar (helmingaskip). Hvor aðili greiddi helming útgerðarkostnaðar og aflanum skipt jafnt á milli þeirra. Bændur voru svo skyldaðir til að leggja til mann á bátinn fyrir Bessastaði. Ein kvöðin var sú að skila tveimur hríshestum heim til Bessastaða eða Viðeyjar. Þá hvíldi sú kvöð á Hlöðunesbónda að ljá mann til Bessastaða ,, einn dag eða fleiri, þegar hússtörf eru þar og fæða manninn sjálfur”. Svo voru að auki kvaðir um flutninga, hestlán og hýsingu Bessastaðamanna.

Hólmur

Hólmurinn undir Stapa.

Frá upphafi hefur verið veitt á króka (handfæri) og þá beitt fjörumaðki, hrognkelsum, kræklingi og þorskhrognum. Bátarnir voru mestmegnis tveggjamannaför. Netaveiðar hefjast fyrst um 1882 og var í byrjun eitt net á hlut, (sexæringur með 8 net og 8 hluti). Um tíu árum síðar voru orðin 10 net á hlut. Frá upphafi fiskveiða hér við land og um margar aldir var allur fiskur þurrkaður (skreið) enn um 1820-1840 byrja menn að salta fisk hér við Faxaflóa. Talið er að 114 bátar hafi gengið á vertíð 1703 úr Brunnastaðahverfi og ekki færri í Vogum og Hólmi.

Gjásel

Gjásel í heiðinni.

Landbúnaður var alltaf stundaður jafnhliða sjósókn þó ræktað land væri lítið. Menn treystu mikið á beit í heiðinni og fjörunum og milda vetur. Allir bæir í hreppnum höfðu selstöðu og um alla Strandar og Vogaheiða eru rústir af gömlum seljum. Í jarðabókinni 1703 eru talir 18 bæir og 22 hjáleigur. Sauðfjáreignin í hreppnum er 698 kindur (38 kindur að meðaltali á jörð), hestar 67 og nautgripir 140. Trúlega hafa flest selin lagst af þegar skera þurfti niður allt fé í kjölfar fjárkláðans árið 1856. Síðast var haft í seli í Flekkuvíkursel 1870. Sauðum var haldið veturlangt upp í Kálffelli um aldamótin 1900. Um sel og selstöður í Vatnsleysustrandarhreppi má lesa nánar á síðunni.

Framfarir.

Vogar

Vogar 1954.

Árið 1817 voru konungsjarðir í Gullbringusýslu seldar og urðu þá jarðir í hreppnum aftur bændaeign.
Árið 1817 var gefið eftir afgjald af 8-16 lesta skipum er Íslendingar keyptu erlendis og gerðu út. Hafskip sem væru höfð til fiskveiða skyldu fá verðlaun fyrir hverja lest. Þetta var til þess að þrjár skútur komu í hreppinn, tvær í Njarðvík, þeir Jón Daníelsson Vogum og Árni í Halakoti létu smíða þá þriðju. Vænkast þá hagur manna til muna enda fylgdu mörg góð afla ár í kjölfarið, best var árið 1829. Um miðja 19. öldina hafði tveggja manna förum fækkað mjög en fjölgað sexæringum og áttæringum.

Stóru-Vogar

Stóru-Vogsvör – loftmynd.

Árið 1870-74 var Lovísa, 45 rúmlesta þilskip, eign Egils Hallgrímssonar í Austurkoti, Vogum. “Það er talið að Lovísa sé fyrsta haffært þilskip í bændaeign sem kom hér til Faxaflóa.”
Árið 1890 eru 939 heimilisfastir menn í hreppnum og annað eins af vermönnum. Upp úr 1893 fer afli síðan mjög minnkandi og lengra verður að sækja á miðin. Nánar má lesa um sjósókn á Vatnsleysuströnd í lok 19. aldar í bókinni Þættir af Suðurnesjum e. Ágúst Guðmundsson frá Halakoti.

Stóru-Vogar

Stóru-Vogar 1950.

Húsakostur manna fer einnig batnandi á 19. öldinni. Árið 1865 byggir Guðmundur Ívarsson á Brunnastöðum fyrsta timburhúsið í hreppnum. Eftir að Jamestown strandaði í Höfnum 1881 með fullfermi af timbri voru byggð timburhús á flestum jörðum í hreppnum. En bætti um betur 1904 þegar rak inn í Vogavík timburskip frá Mandal í Noregi. Mörg íbúðarhús og útihús voru byggð úr því timbri. Gömlu torfbæirnir hurfu svo til við þetta.
Árið 1907 kaupa í félagi fjórir Vogamenn fyrsta vélbátinn í hreppinn , hann hét Von og fylgdu fleiri vélbátar í kjölfarið. Árið 1930 var byggð bryggja í Vogum, fiskverkunarhús og verbúð af Útgerðarfélagi Vatnsleysustrandar (samvinnufélag). Einnig lét félagið smíða tvo 22 tonna báta; Huginn og Muninn. 1935 eignast Vatnsleysustrandarhreppur bryggjuna og húsið. Eftir 1940 hefja rekstur fyrirtækin Valdimar h/f sem stundar útgerð og fiskverkun og Vogar h/f sem stundar útgerð, fiskverkun og frystingu. Tilkoma þessara fyrirtækja skipti sköpun fyrir þróun byggðalagsins næstu áratugina. Um 1930 er farin að myndast þéttbýliskjarni í Vogum. Síðan hefur verið hæg og nokkuð jöfn íbúafjölgun með auknum atvinnutækifærum og bættum samgöngum.
Vogar
Í dag eru sex fiskvinnslufyrirtæki í hreppnum, flest frekar lítil, tvö fiskeldisfyrirtæki, stórt svínabú og hænsnabú, fjórar vélsmiðjur og bílaverstæði. Líklega sækir rúmur helmingur vinnandi íbúa hreppsins atvinnu út fyrir byggðalagið. Í hreppnum er grunnskóli með rúmlega 200 nemendur og leikskóli auk íþróttahúss.
1. des 2003 voru íbúar Vatnsleysustrandarhrepps 928.

Áhugaverðir staðir.

Stapinn

Stapinn – flugmynd.

– Vogastapi er gömul grágrýtisdyngja, hæst ber Grímshól 74m. Á Grímshól er útsýnisskífa og þaðan er gott útsýni yfir haf og land. Umhverfis Grímshól í um 70m hæð má sjá kraga úr lágbörðu stórgrýti.

– Misgengisstallar liggja um Vogastapa sunnanverðan og er Háibjalli þeirra mestur. Skammt þar suður af eru Snorrastaðatjarnir. Skoðunarverðar náttúruperlur.
– Þráinskjöldur heitir hraundyngja allmikil norðaustur af Fagradalsfjalli. Þráinskjaldarhraun hefur runnið fyrir 9-12þús. árum. Hraunið þekur heiðina og til sjávar allt frá Vatnsleysu að Vogastapa. Frá Vatnsleysuvík til Vogastapa má rekja fornan sjávarkamb í u.þ.b. 10 metra hæð frá núverandi sjávarstöðu.
– Miklar gjár og misgengi einkenna Strandar- og Vogaheiði, má þar helst nefna Hrafnagjá, Stóru-Aragjá og Klifgjá. Sigdæld er þar allnokkur.
– Fjölbreytt og skemmtilegt útivistarsvæði er við Höskuldarvelli. Vegur þangað liggur frá Reykjanesbraut skammt vestan Kúagerðis (merkur Keilir). Við Höskuldarvelli er mikið úrval stuttra gönguleiða. Má þá helst nefna göngu á Keilir 378m, Trölladyngju 379m eða Grænudyngju 402m. Lambafellsklofi er mikilfengleg gjá sem klífur Lambafellið. Gaman er að ganga eftir gjánni inn í fellið og síðan upp úr því. Í Soginu er mikil litadýrð sem langvarandi jarðhiti hefur gefið svæðinu. Þar liðast lítill lækur.

Selsvellir

Selsvellir – tóftir.

– Selsvellir eru vel gróið tún vestan við Núpshlíðarháls. Fast upp við Selsvelli er stór og fallegur gígur sem Moshóll heitir. Meginhluti Afstapahrauns mun vera komið úr Moshól og öðrum gíg nokkru sunnar. Þar gaus á 14. öld.
– Almenningur heitir landsvæðið milli Afstapahrauns og Kapelluhrauns. Það hraun er komið úr Hrútagjárdyngju. Þetta svæði er að einhverju leiti í Vatnsleysustrandarhreppi. Í þessu hrauni rétt ofan við Reykjanesbraut og suður af Hvassahrauni eru nokkur allsérstök hraundríli á sléttlendi og heitir þar Strokkamelur. Hraundrílin draga líklega nafn sitt af lögun gíganna sem líta út eins og smjörstrokkar. Nýrri heimilir kalla gígana Hvassahraunsgíga.
Nánar má lesa um örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi í samnefndri bók Sesselju Guðmundsdóttur.

Sögur og sagnir.

Vogastapi

Kvíguvogabjarg.

Nokkrar þjóðsögur tengjast Vogunum. Er þar fyrst að nefna söguna; Frá Marbendli er segir frá viðureign bóndans og marbendils og sækúnum er gengu á land. Það mun vera skýringartilraun á nafninu Kvíguvogar. Þekkt er sagan um Grím sem Grímshóll dregur nafn af. Grímur fór til sjóróðra suður, varð viðskila við samferðamenn sína á Stapanum og ókunnur maður falar hann til að róa hjá sér um vertíðina. Margar sögur eru til af Jón í Vogum (Jón Daníelsson), hann þótti vita lengra en nef hans náði og var mál manna að hann væri rammgöldróttur og gæti kvatt niður drauga.
Allar þessar sögur og fleiri má finna á vef bókasafns Reykjanesbæjar; www.bokasafn.rnb.is.

Stapadraugurinn

Stapadraugurinn.

Lífseig er sögnin um Stapadraugurinn svonefnda. Birtist hann snöggklæddur. Telja menn að þar fari Jón Úlfhildarson sem kenndur er við Grjótá í Reykjavík. Aðrir aðhyllast þá skoðun að Stapadraugurinn sé Kristján Sveinsson frá Keflavík, Stjáni blái. Margir telja sig hafa séð mann á ferðinni á Stapanum með höfuðið undir hendinni. Jón Dan rithöfundur frá Brunnastöðum hefur greint frá reimleikum á þessum slóðum í bókinni Atburðirnir á Stapa. Við hæfi er að enda þessa samantekt á lýsingu Jóns Dan á Stapadraugnum úr áðurnefndri bók.

“Ég sagði Stapadraugur, en á Stapa gekk hann alltaf undir nafninu Stjúpi. Upphaflega var hann kallaður Strjúpi, en þar eð nokkur óhugnaður var í nafninu hafði það fljótlega breytzt í þetta vingjarnlega heiti, enda var iðulega talað um hann eins og einn af fjöldskyldunni, dálítið erfiðan og mislyndan frænda en sauðmeinlausan að flestu leyti.

Stapagata

Stapavegur.

Eini ljóðurinn á ráði hans voru hrekkirnir, en þeim ókosti varð ekki komizt hjá því það voru þeir sem héldu lífinu í draugsa. Oftar en einu sinni hafði Stapajón ávítað Stjúpa harðlega fyrir hrekkjabrögðin, og svo mikill drengur var draugsi að alltaf tók hann tillit til umvandana vinar síns og sat á strák sínum æði lengi á eftir. En enginn fær umbreytt þeirri nátturu sem guð gaf honum eins og Stapajón sagði, og alltaf sótti í sama horfið. Einu sinni keyrði úr hófi. Á vikutíma hafði hann hrætt vitglóruna úr þremur bílstjórum og sett bíla þeirra út af, ært tvær kerlingar sem voru farþegar í einum bílnum og sent tvo gangandi ferðalanga á hálshnútunum niður Skarð til Stapajóns. Alltaf með þeirri brellu að taka ofan hausinn, ýmist á veginum eða upp í bílnum þegar bílstjórinn hafði aumkað sig yfir lúinn ferðalang og tekið hann upp í. Stapajón sagði þetta atferli ekki annað en kurteisisvenju hjá Stjúpa, að sínu leyti eins og þegar heldri menn taka ofan hattinn í kveðjuskyni, en fólk virtist ekki kunna að meta hana. Það var Stjúpa sjálfum vel ljóst og var hrekkjabragðið honum þeim mun kærara.
Jæja. Eftir slysavikuna kröfðust blöðin í Reykjavík þess hástöfum að Stapajón, granni og náinn vinur Stjúpa, fengi hann ofan af þessum brellum. Og karl lét til leiðast og lýsti yfir því í Kvöldblaðinu að laugardaginn næsta mundi hann ganga á fund Stjúpa og atyrða hann duglega. Hvað karl gerði, enda brá svo við að í röskan hálfan mánuð á eftir varð enginn vegfarandi fyrir ónæði af hans völdum. Úr því fór þó að sækja í sama horfið, og þótti mönnum nóg um, þó ekki yrðu hrekkirnir eins tíðir og í slysavikunni miklu. Var þá mælzt til þess á opinberum vettvangi, nú í Dagmálablaðinu, að Stapajóni yrði falið að koma draugsa fyrir kattarnef í eitt skipti fyrir öll.

Flekkuleiði

Rúnasteinninn á Flekkuleiði.

Við þessari málaleitan brást Stapajón hinn vesti. Koma fyrir kattarnef. Akkúrat. Jahá. Drepa nágranna sinn og vin með köldu blóði, draug sem aldrei hafði gert meira á hlut hans en það eitt að glettast við hann. Sálga kátum sveitunga sem var á sama andlega þroskastigi og tíu ára barn og hafði þar af leiðandi gaman af hrekkjum og ærslum. Ætti þá ekki að taka af lífi þá unglinga sem léku sér að því að brjóta glugga hjá nábúum, sliga allar girðingar og ríða húsum að nóttu til í því skyni að hræða fólk? Aldrei hafði Stjúpi styggt fé hans eins og margur bílstjórinn gerði, aldrei vaðið yfir túnið og bælt slægjuna, aldrei hrópað að honum kersknisyrðum og kallað hann Draugajón eða Vitlausajón eða Galdrajón eins og unglingarnir í Kyljuvík, aldrei stolizt undir kýr hans eða dregið sér lamb frá honum þó oft væri hart í búi hjá honum og hann hefði ekki málungi matar svo mánuðum skipti. Hafði Stjúpi nokkurn tíma ráðizt á mann og gert honum mein svo sannað yrði, nokkurn tíma drepið mann? Af hverju ætti þá að drepa hann? Af því fólk var hrætt þegar hann var upp á það allra kurteisasta og tók ofan fyrir því? Nei, nær væri að fræða fólk um lifnaðarhætti og venjur þessa skemmtilega huldufólks sem menningin var alveg að tortíma. Heldur en drepa það ætti að halda hlífiskildi yfir því og sjá til þess að það yki kyn sitt.
Yki kyn sitt. Þetta var nú sprengja í meira lagi. Bréfin streymdu jafnt til Kvöldblaðsins og Dagmálablaðsins, þar sem því var hástöfum mótmælt að draugar fengju að auka kyn sitt. Þeim ætti hreinlega að útrýma, hverjum og einum einasta, sögðu sumir. Þá gróf Stapajón orð upp úr útlendri bók og hrópaði hástöfum (það er að segja með stóru letri í Kvöldblaðinu)
Genosíd! Genosíd!

Staðarborg

Staðarborg.

Það þýðir víst þjóðarmorð, er það ekki? Hann spurði hvort nokkrum þætti sómi að því hvernig farið hefði verið með Indíána í Norður- og Suður-Ameríku eða Íslendinga í Grænlandi? Sér þætti ótrúlegt að nokkur maður heimtaði í alvöru að heilum þjóðflokki á Íslandi yrði útrýmt. Ekki vissi hann betur en Stjúpi og hans ættfeður hefðu alla tíð búið á Stapanum, og umferð manna og farartækja væri því hreinn átroðningur um óðal hans. Í sameiningu ættu hann og draugsi þessi lönd, og þyrfti hvorugur hinn að styggja væri yfirgangsstefnu ekki beitt.

Gvendarborg

Gvendarborg.

Aðgætinn bréfritari spurði þá hvort nokkur vissi til að draugar lifðu fjölskyldulífi? Hvort nokkur hætta væri á því að draugar ykju kyn sitt? Væru þeir ekki allir náttúrulausir, jafnt uppvakningar og afturgöngur, og yrðu þetta 100 til 120 ára gamlir og þar með búið? Stapajón fræddi spyrjanda á því að sagnir væru um barneignir drauga, og meðan mannleg náttúra væri söm við sig, og draugar hefðu mannlega náttúru eins og aðrir, væri slíkt hvergi nærri fráleitt. Og nefndi þá um leið, að þótt granni hans Stjúpi væri mikill einstaklingshyggjumaður eins og flestir draugar, hefði hann haft við orð að sér leiddist einlífið og hygði á ferð til Vestfjarða þar sem dáindisfríð skotta biði sín. Og hlakka ég til og vona sagði Stapajón, að Stjúpi og fjölskylda hans komi suður aftur og búi hér svo ég fái að sjá börn þeirra vaxa úr grasi og leika sér frjáls og glöð á slóðum forfeðra sinna.,,

-Samantekt Viktor Guðmundsson.

Heimildir.
Ágúst Guðmundsson Halakoti. Þættir af Suðurnesjum. Bókaútgáfan Edda Akureyri 1942.
Árni Óla. Strönd og Vogar. Bókaútgáfa Menningarsjóðs 1961.
Gísli Brynjólfsson. Byggðir Suðurnesja. Í Árbók Ferðafélags Íslands 1984.
Guðmundur B. Jónsson .Mannlíf og mannvirki í Vatnsleysustrandarhreppi. Útg. af höfundi 1987.
Jón Böðvarsson. Suður með sjó. Rótarýklúbbur Keflavíkur 1988.
Jón Dan. Atburðirnir á Stapa. Almenna Bókafélagið 1973.
Jón Jónsson. Um heiðar og hraun. Í Árbók Ferðafélags Ísland .1984.
Jón Jónsson. Jarðfræðikort af Reykjanesskaga 1978.
Sesselja Guðmundsdóttir. Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi. Lionsklúb. Keilir 1995.
www.bokasafn.rnb.is.
www.ferlir.is

Vatnsleysuströnd

Vegir á Vatnsleysuströnd – ÓSÁ.

Listaverk

Í Velvakanda Morgunblaðsins 19. maí 2023 mátti lesa eftirfarandi undir fyrirsögninni „Tengingin við landið„:

Ingólfur Arnarsson

Stytta af Ingólfi Arnarssyni, fyrsta norræna landnámsmanninum, á Arnarhóli í Reykjavík.

„Það færist í vöxt að gert sé lítið úr sögu lands og þjóðar og þeim reynslubanka sem þjóðin hefur lagt inn í í 1.100 ár.

Eins og sambýlið við landið og náttúruna sé einskis virði og hægt væri að sækja sér alla þekkingu og félagsskap við landið á netinu.

Ef þjóðin forsómar söguna verðum við ekki lengur þjóð heldur ótengdur hópur sem byggir þessa veiðistöð meðan eitthvað er að hafa en gæti allt eins flutt eitthvað annað ef betra byðist.

Kannski þurfum við meiri kennslu í þjóðarsögu, frekar en leiðtogasögu, sem við höfum búið við, en hryggjarstykkið verður alltaf frásagnir af lífi forfeðranna og þeirra önn.
Það eru miklir flutningar fólks í veröldinni núna, vonandi þó ekki svo miklir að kallist þjóðflutningar þar sem innbyggjarar farast í þjóðarhafinu, en það má gæta sín að glata ekki arfleifðinni og gleyma því sem máli skiptir.
En meðan einhverjir geta, af eigin reynslu, vísað okkur á vaðið á ánni, og þulið örnefni, þá er öllu óhætt, – ef gestirnir í boðinu hlusta og muna“. – Sunnlendingur

Heimild:
-Morgunblaðið 19. maí 2023, „Tengingin við landið“, Velvakandi, bls. 17.

Listaverk

Listaverk við Sæbraut í Reykjavík.

Saurbær

Kjalarnesið er sagnaríkt. Margar minjar er þar að finna ef vel er að gáð sem og skírskotun til gamallar sögu og sagna fyrri tíðar.

Kjalarnes

Kjalarnes – kort.

Í Kjalnesingasögu segir t.d.. að Helgi bjóla hafi numið Kjalarnes og búið á Hofi. Hann átti Þórnýju, dóttur Ingólfs Arnarsonar, fyrsta landnámsmannsins. Synir þeirra hétu Þorgrímur og Arngrímur.

Örlygur hinn írski leitaði á náðir Helga bjólu að ráði frænda síns, Patreks biskups á Írlandi. Fékk Helgi honum bústað. Þar reisti Örlygur kirkju.
KjalarnesAndríður, Kolli og Esja koma síðar. Helgi tekur við þeim. Kolli sest að í Kollafirði. Örlygur var þá háaldraður og gaf upp land og bú fyrir Esju en upp frá því heitir þar að Esjubergi. Andríður var á hinn bóginn hjá Helga á Hofi hinn fyrsta vetur og sórust hann og synir Helga í fóstbræðralag. Helgi gefur honum síðan land undir bú, Brautarholt, og bað einnig til handa honum konu, Þuríðar, systur Þormóðs í Þormóðsdal. Þorgrímur, sonur Helga, fékk Arndísar á Skeggjastöðum og var því tvöfalt brúðkaup á Hofi.

Kjalarnes

Kjalarnes – norðurhluti (AMS-kort).

Þegar Helgi andast tekur Þorgrímur við búinu á Hofi og mannaforráðum (goðorði) en Arngrímur reisir sér bæ sem hann kallar Saurbæ. Synir hans eru þeir Helgi og Vakur en sonur Þorgríms heitir Þorsteinn. Þorgrímur er blótmaður mikill og reisir sér stórt hof. Sonur hans, Þorsteinn, er sagður „uppivöslumaður mikill“. Sonur Andríðs og Arndísar, Búi, er aðalpersóna sögunnar. Hann er sagður einrænn. Kolfinnur er kynntur til sögu. Hann býr í skjóli móður sinnar, Þorgerðar á Vatni, og er ekki eins og fólk er flest. Hann er kolbítur, beit steiktan börk af viði og gætti katla móður sinnar.

Kjalarnes

Kjalarnes – norðurhluti (AMS-kort).

Búi er í fóstri hjá Esju. Hann vill aldrei blóta og er loks dæmdur sekur skógarmaður á Kjalarnesþingi fyrir „rangan átrúnað“. Hann er með öðrum orðum brottrækur úr mannlegu samfélagi og réttdræpur. Ákæruefnið bendir til þess að hann sé kristinn eins og raunar kemur skýrt fram í sögulok.
Búi fer allra sinna ferða eins og ekkert hafi í skorist. Hann hefur hnýtt um sig slöngu sem er eina vopn hans. Fram kemur að kærleikar eru með honum og móður hans. Þeir Þorsteinn hyggjast taka hann af lífi og veita honum eitt sinn eftirför. En Esja kemur honum til bjargar.

Lauganýpa

Í Lauganýpu.

Yfir þá lýstur svo miklu myrkri að þeir sáu ekki handa sinna skil. Síðar drepur Búi Þorstein og ber eld í hofið sem brennur til kaldra kola. Esja fær honum bústað, herbergi með baði í helli nokkrum undir Laugargnípu í fjallinu ofan við Esjuberg, þ.e. Esju.

Framundan er verkefni, þ.e. að fara og skoða framangreindan helli með skírskotun til sögunnar.

Heimild fengin af http://www.flensborg.is/sveinn/Skrar/handr/Kjalnesingas.htm

Esja

Esja.

Prestsvarða

Í heiðinni skammt fyrir ofan Leiru er mannhæðar há grjótvarða sem alltaf var nefnd Prestsvarða.

Prestsvarða

Prestsvarðan.

Sagt var, að síra Sigurður Sívertsen, sem prestur var á Útskálum fyrrum, hafi einhverju sinni verið þarna á ferð að vetrarlagi. Kom hann úr Keflavík og ætlaði heim til sín að Útskálum. Talið var að leiðin væri tveggja tíma gangur eða meira eftir þeim vegi sem þá var farinn. En við lestagang voru allar vegalengdir miðaðar á þeim tímum. Þegar prestur kom út á móts við miðja Leiru villtist hann af leið. Fannst honum líðan sín þannig að hann treystist ekki til þess að halda áfram ferðinni. Prestur tók það ráð að leggjast fyrir og vera kyrr alla nóttina. Nokkru síðar lét síra Sigurður hlaða upp vörðu á þessum stað. Var hún ferstrend eins og margar grjótvörður. En eitt var það, sem gerði hana frábrugðna öðrum vörðum. Á hlið þeirri sem að austri snéri var allstór flöt hella sem á var höggvið sálmavers.

Prestsvarða

Leturhellan við Prestsvörðuna.

Á hellunni virðist standa:
1876 21.JAN Í FRIDI LEGST ÉG
FYRIR Í FRIDI ER ÉG ÞVÍ ÞÚ
EINN DROTTINN ERT ÞAÐ SEM
LÆTUR MIG BÚA ÓHULTAN Í NÁÐUM.
Þetta vers er greinilega úr Davíðsálmi 4. kafla 9. vers: „Í friði leggst ég til hvíldar og sofna, því að þú, Drottinn, lætur mig búa óhultan í náðum.”

Rauðskinna II 295

Fengið af:
http://bokasafn.rnb.is/default.asp?cat_id=219

Prestsvarða

Við Prestsvörðu.

ísólfs

Á Selatöngum var fyrrum verstöð og útræði mikið. Gengu þaðan m.a. biskupsskip frá Skálholti. Þar sér enn allmikið af gömlum búðartóftum og görðum, er fiskur og þorskhausar voru fyrrum hengdir á til herzlu.

Katlahraun

Í Katlahrauni – Sögunarkór.

Hjá Selatöngum eru hraunhellar margir, en flestir litlir. Var hlaðið fyrir opið á sumum þeirra til hálfs og notuðu sjómenn þá til ýmissa hluta. Í einum höfðu þeir kvörn sína og kölluðu þeir þann helli Mölunarkór, í öðrum söguðu þeir og kölluðu hann því Sögunarkór o.s.frv. Reki var mikill á Selatöngum og færðu sjómenn sér það í nyt; smíðuðu þeir ýmsa gripi úr rekaviðnum, þá er landlegur voru, en þær voru ekki ótíðar, því að brimasamt var þar og því sjaldan róið á stundum.

Selatangar

Selatangar – verbúð.

Á síðara hluta 19. aldar bjó í Stóra-Nýjabæ í Krýsuvík maður sá, er Einar hét. Hann átti mörg börn, og er saga þessi höfð eftir tveim sonum hans, Einari og Guðmundi. Einar, faðir þeirra, var allt að 30 vertíðum formaður á Selatöngum. Var í mæli, að reimt hefði verið á Selatöngum, og var draugsi sá í daglegu tali nefndur Tanga-Tómas. Hann gerði búðarmönnum ýmsar smáglettur, en var þó ekki mjög hamramur. Þá bjó á Arnarfelli í Krýsuvík maður sá, er Beinteinn hét. Var talið að Tómas væri einna fylgispakastur við hann. Var Beinteinn þessi fullhugi mikill, smiður góður og skytta og hræddist fátt. Var þetta orðtak hans: „Þá voru hendur fyrir á gamla Beinteini“.

Einu sinni varð Beinteinn heylítill, og flutti hann sig þá niður á Selatanga með fé sitt til fjörubeitar. Var hann þarna um tíma og hafðist við í sjóbúð, er notuð var á vetrum.

Seatangar

Gengið um Selatanga.

Kvöld eitt er Beinteinn kemur frá fénu, kveikir hann ljós og tekur tóbak og sker sér í nefið.
Tík ein fylgdi honum jafnan við féð og var hún inni hjá honum. Veit Beinteinn þá ekki fyrr en ljósið er slökkt og tíkinni hent framan í hann. Þreif hann þá byssuna og skaut út úr dyrunum. Sótti draugsi þá svo mjög að Beinteini að hann hélzt loks ekki við í sjóbúðinni og varð að hröklast út í illviðrið og fara heim til sín um nóttina. Hafði Beinteinn skaröxi í hendi og hvar sem gatan var þröng á leiðinni heim um nóttina, þá kom draugsi þar á móti honum og reyndi að hefta för hans, en undir morgun komst Beinteinn heim og var þá mjög þrekaður. Um viðskipti draugsa og Beinteins er ekki fleira kunnugt, svo að sögur fari af. Þess má geta, að þá er Beinteinn var spurður, hvað hann héldi, að um draugsa yrði, er sjóbúðin yrði rifin, þá svaraði hann: „Og hann fylgir staurunum, lagsi“.

Selatangar

Selatangar – fiskbyrgi.

Nokkru eftir þetta bar svo við, að tveir áður nefndir synir Einars bónda í Stóra-Nýjabæ fóru niður á Selatanga á jólaföstunni og hugðu að líta til kinda og ganga á reka; jafnframt ætluðu þeir að vita, hvort þeir sæju ekki dýr, því að annar þeirra var skytta góð.
Þeir komu síðla dags niður eftir og sáu ekkert markvert; fóru þeir inn í þá einu búð sem eftir var þar þá og ætluðu að liggja þar fram eftir nóttinni, en fara á fætur með birtu og ganga þá á fjöru og vita, hvort nokkuð hefði rekið um nóttina.

Selatangar

Selatangar – sjóbúð og fiskbyrgi.

Bálkar voru í búðinni fyrir fjögur rúm, hlaðnir úr grjóti, eins og venja var í öllum sjóbúðum og fjöl eða borð fyrir framan. Lögðust þeir í innri rúmbálkinn að vestanverðu og lágu þannig að Einar svaf við gaflhlaðið en Guðmundur andfætis. Þá er þeir höfðu lagzt niður, töluðu þeir saman dálitla stund og segir þá Guðmundur meðal annars:
„Skyldi þá Tómas vera hér nokkurs staðar?“
Kvað Einar það líklegt vera. Fella þeir svo talið og ætlað að sofna en er þeir hafa legið litla stund heyra þeir að ofan af ytra bálkinum við höfuð Guðmundar stekkur eitthvað. Var það líkast því sem stór hundur hefði stokkið niður á gólfið; voru þeir þó hundlausir er þeir komu þangað, og búðin lokuð. Segir þá annar bræðranna:

Selatangar

Tanga-Tómas á Selatöngum með FERLIRsfélögum.

„Þarna er hann þá núna“, en í sömu svipan er kastað tómu kvarteli sem hafði staðið á ytra bálkinum hinum megin, inn í gaflhlað beint yfir höfuð Einari. Sofnuðu þeir bræður ekki um nóttina, en fóru á fætur. Ekki lét draugsi neitt frekara til sín heyra. Eftir 1880 lagðist útræði niður frá Selatöngum. Um það leyti var seinasta sjóbúðin rifin, og hafa menn eigi hafzt þar við síðan.

Rauðskinna I 41

Fengið af:
http://bokasafn.rnb.is/default.asp?cat_id=233

Selatangar

Selatangar – uppdráttur

Húshólmi

Krýsuvík var fyrst byggð niður við sjó fyrir utan Krýsuvíkurberg en lagðist svo af að eldur kom upp í fjöllunum þar norður frá og runnu hraunkvíslar hér og þar fram milli hálsanna.

Ögmundarhraun

Ögmundarhraun – Latfjall fjær.

Hin austasta var einna mest. Smalamaður frá Krýsuvík var kippkorn frá bænum með féð. Hann sá glóandi hraunleðjuna brjótast með feikna hraða ofan úr skarðinu upp frá bænum og fleygjast út yfir láglendið. Hann sá sér enga von til undankomu og beið með fjárhópinn þess er að höndum kæmi og fól sig guði; því hefir þetta skeð í kristni. Eldflóðið fór allt í kringum hann og sakaði hvorki hann né féð nema eina á. Það heitir síðan Óbrennishólmi er hann var.

Hraunið hljóp um allt láglendið og fram í sjó en túnið í Krýsuvík stóð óskaddað og bærinn. En nálega var ófært þangað þegar hraunið var storknað. Þá var bærinn fluttur þangað sem Krýsuvík er nú, það er ofar og austnorðar. Þegar eldgangurinn var afstaðinn og hraunin storknuð, fóru menn að leggja veg til Grindavíkur yfir þau og urðu öll rudd að þessu austasta fráteknu. Það var svo stórgert og hart að það var óvinnandi og varð ekki veginum komið á.

Ögmundarstígur

Ögmundarstígur.

Ögmundur var berserkur. Er hann sagður hafa lagt veginn yfir hraunið en verið drepinn að verki loknu. Grjóthrúga er þar við götuna sem kallað er leiði Ögmundar. Vegurinn gegnum hraunið er djúpur og mjór og víða brotinn eða höggvinn gegnum stór hraunstykki en víða þrepóttur í botninn sem hin gamla staka segir:

Eru í hrauni Ögmundar
ótal margir þröskuldar,
fáka meiða fæturnar
og fyrir oss brjóta skeifurnar.

Síðan hefir hraunið heitið Ögmundarhraun. Þar sem áður var bærinn Krýsuvík, heitir nú Húshólmi. Þar er vatnsskortur oftast. Litlar menjar kvað sjást þar af tóftum, en þó nokkrar.

Fengið af:
-http://bokasafn.rnb.is/default.asp?cat_id=292

Ögmundardys

Ögmundardys austast við Ögmundarstíg.

Gíslavarða

Skammt fyrir austan Staðarberg í Grindavík er sker eitt hér um bil landfast sem heitir Ræningjasker.

Gíslavarða

Gíslavarða.

Nafnið á það að hafa fengið af því að einhvern tíma á 17. öld kom ræningjaskip að landi í Grindavík og lentu ræningjarnir í skerinu og gengu þaðan á land. Þá var prestur á Stað er Gísli var nefndur og var talinn fjölkunnugur. Þá er byggðarmenn urðu varir við ferð ræningjanna, fóru þeir sem skjótast á fund prests og sögðu honum tíðindin. Brá prestur skjótt við og fór á móti ræningjunum og stökkti þeim á flótta þó að sagan segir ekki með hverjum hætti. Hlóð hann síðan vörðu til minja um þennan atburð spölkorn fyrir ofan prestssetrið og lét svo um mælt að meðan nokkur steinn væri óhruninn í vörðunni, skyldu ræningjar ekki granda Grindavík. Varðan nefndist Gíslavarða.
Sú saga hefur jafnan fylgt vörðunni, sem af sumum er nefnd Tyrkjavarða, að henni megi ekki raska.

Rauðskinna I 44

Staðarhverfi

Staðarhverfi – uppdráttur – ÓSÁ.