Landnám.
Byggð hefur hafist í Vatnsleysustrandarhreppi strax við landnám.
Landnám Ingólfs.
Í Landnámu segir frá Steinunni hinni gömlu er var frændkona Ingólfs Arnarsonar landnámsmanns. Hún var hinn fyrsta vetur með Ingólfi. Ingólfur ,,bauð að gefa henni Rosmhvalanes allt fyrir utan Hvassahraun, en hún gaf fyrir heklu flekkótta” (ermalaus kápa með hettu) ,,og vildi kaup kalla”. Menn ætla að Steinunn gamla hafi reist bæ sinn á Stóra-Hólmi í Leiru (líklega fyrsta verstöð á Suðurnesjum). Steinunn gaf frænda sínum og fóstra, Eyvindi af landi sínu ,,milli Kvíguvogabjarga og Hvassahrauns” og telst því sérstakt landnám. Land þetta hefur trúlega náð frá fjöru til fjalls, til móts við landnám Molda-Gnúps í Grindavík og Þóris haustmyrkurs í Krýsuvík. Land Eyvindar var því Vatnsleysustrandarhreppur eins og hann er í dag. Ekki hélst Eyvindi lengi á landinu því það ásældist Hrolleifur Einarsson sem bjó á Heiðarbæ í Þingvallasveit. Hann skoraði á Eyvind að selja sér landið, en ganga á hólm við sig ella. Bauð þá Eyvindur jarðaskipti og varð það úr. Hrolleifur bjó síðan í Kvíguvogum og er þar heygður. Kvíguvogar kallast nú einungis Vogar og Kvíguvogabjörg, Vogastapi eða oft aðeins Stapi.
Eftir landnám.
Vatnsleysuströnd – kort.
Eftir landnám fara litlar sögur af Vatnsleysuströndinni. Hér á eftir er samtínigur af því helsta.
– Í Sturlungu er getið Björns Jónssonar bónda í Kvíguvogum vegna þess að Helgi bróðir hans féll úr liði Þorleifs í Görðum í Bæjarbardaga.
– Vatnsleysustrandarhreppur er nefndur í landamerkjalögum 1270.
– 1592 er dómur kveðinn upp á Vatnsleysu af Gísla lögmanni Þórðarsyni, um það að Guðmundur nokkur Einarsson skuli fluttur á sveit sína vestur á Skarðsströnd.
– Í hafnatali Resens er Vatnsleysuvík talin höfn á 16. öld en þess getið að þangað sé engin sigling.
Vatnsleysa – örnefni; ÓSÁ.
– 1602 er einokunin hófst var útgefið konungsbréf sem tilkynnir að þýskum kaupmönnum sé leyft að sigla á hafnirnar Vatnsleysuvík og Straum þetta sumar til þess að innheimta skuldir sínar.
– Á 17. öld er getið um mann sem hafði á sér höfðingjabrag, það var stórbóndinn í Vogum, Einar Oddsson lögréttumaður 1639-1684. Einar gerðist handgenginn Bessastaðamönnum, sérstaklega Tómasi Nikulássyni fógeta sem aðrir Íslendingar hötuðu. Tómas gerir Einar að umboðsmanni sínum 1663, veturlangt. (Staðgengill landfógeta).
Hallgrímur Pétursson orti um Einar:
Fiskurinn hefir þig feitan gert,
Sem færður er upp með togum,
En þóttú digur um svírann sért,
Samt ertu Einar í Vogum.
Sogasel í Sogaselsgíg.
– 1699 bjó á hjáleigu frá Brunnastöðum bláfátækur bóndi sem Hólmfastur Guðmundsson hét. Á þessum tíma máttu Vatnsleysustrandarmenn eingöngu versla í Hafnarfirði. Kaupmaður þar hét Knútur Storm. Ekki vildi kaupmaður kaupa allan fisk Hólmfasts og henti úr 3 löngum og 10 ýsum. Ekki mátti Hólmfastur við þessu, hann fer því til Keflavíkur með úrkastið og að auki 2 knippi af hertum sundmögum og selur kaupmanni. Þetta frétti Knútur Storm og stefndi Hólmfasti til Kálfatjarnarþings og kærði hann fyrir óleyfilega verslun. Hólmfastur var dæmdur í þunga sekt en hann átti ekki neitt nema lekan bát sem kaupmaður neitaði að taka upp í sekt. Hólmfastur var því dæmdur til að kaghýðast, en því jafnframt skotið til konungs hvort hann ætti ekki líka að fara á Brimarhólm fyrir þennan mikla glæp.
Tóftir Hólmfastskots.
Síðan var Hólmfastur bundin við staur og húðstrýkur rækilega. Seinna kærði Láritz Gottrup lögmaður þetta fyrir konungi og enn seinna þeir Árni Magnússon og Páll Vídalín. Árni og Páll stóðu fyrir því að Hólmfastur fékk miskabætur nokkru síðar 20 ríkisdali frá Jóni Eyjólfssyni sýslumanni. Umdæmaverslunin var afnumin 1732.
– Í manntalinu 1703 er íbúafjöldi hreppsins 251. Fjórum árum seinna, 1707 gekk stóra bóla þá létust 106 manns eða rúmlega þriðjungur og er þess getið í annálum að einn dag voru 34 lík færð til greftrunar að Kálfatjörn.
Ekki hefur hreppurinn alltaf verið jafnstór því;
Með lögum 1596 voru Njarðvíkurnar sameinaðar Vatnsleysustrandarhreppi og náði hreppurinn þá að Vatnsnesklettum. 1889 urðu Njarðvíkurnar aðskildar og urðu sér hreppur.
Kirkjur.
Kálfatjarnarkirkja 1953.
Upphaflega voru þrjár kirkjur í hreppnum, hálfkirkjur í Kvíguvogum (Vogum) og á Vatnsleysu, en aðalkirkja á Kálfatjörn. Þeirra er getið í gömlum máldögum m.a. Vilkinsmáldaga. Hálfkirkjurnar hafa trúlegast lagast niður um siðaskipti. Sagnir eru um að aðalkirkjan hafi upphaflega staðið á Bakka en verið flutt að Kálfatjörn vegna sjávargangs. Kálfatjörn er nefnd Gamlatjörn í Vilkinsmáldaga sem mun vera hið forna nafn staðarins. Í kaþólskum sið var kirkjan á Kálfatjörn helguð Pétri postula. Á Kálfatjörn var torfkirkja fram til ársins 1824, þá var reist ný kirkja og var hún með torfveggjum en timburþaki og stóð hún í 20 ár eða til ársins 1844. Árið 1844 er svo byggð ný timburkirkja á Kálfatjörn, hún stóð aðeins í 20 ár og 1864 er enn byggð kirkja. Núverandi kirkja var byggð 1892-1893 og vígð árið 1893. Hún tekur 150 manns í sæti á báðum gólfum. 1935 er forkirkjan endurbyggð og settur nýr turn á kirkjuna. Prestssetur var á Kálfatjörn til 1907, er sóknin var lögð til Garða á Álftanesi. Árið 2002 var stofnað nýtt prestakall, Tjarnaprestakall, sem Kálfatjarnarsókn eru nú hluti af ásamt Ástjarnarsókn í Hafnarfirði.
Stefán Thorarensen.
Þekktastur presta á Kálfatjörn hefur líklegast verið séra Stefán Thorarensen. Hann var prestur á Kálfatjörn 1857-1886. Séra Stefán var sálmaskáld mikið og réð mest um útgáfu sálmabókarinnar 1871, í þeirri bók eru 95 sálmar eftir hann, frumsamdir og þýddir. Fyrir tilstuðlan séra Stefáns var komið á fót fyrsta barnaskólanum í hreppnum árið 1872. Seinasti prestur er bjó á Kálfatjörn var séra Árni Þorsteinsson 1886-1919.
Atvinnuhættir og viðurværi. Viðeyjarklaustur – landsetar konungs.
Einn aðal atvinnuvegur Íslendinga var um margar aldir landbúnaður, þó voru nokkur svæði á landinu sem fiskveiðar voru stundaðar jafnframt og er Faxaflóasvæðið eitt af þeim. Hrolleifur Einarsson sem hafði jarðaskipti við Eyvind landnámsmann hefur litist betur á búsetu við sjávarsíðuna og fiskfangið en grösugar sveitir Þingvallasveitar. Jarðnæði í Vatnsleysustrandarhreppi verður seint talið gott til ræktunar búfjár og má vera ljóst að alla tíð hafa menn stólað á sjóinn sér til lífsviðurværis.
Kálfatjörn – Bakki og Litlibær fjær.
Til að byrja með skiptast bændur í jarðeigendur og leiguliða þeirra. Þegar Viðeyjarklaustur var stofnað 1226 þurfti það auðvitað á tekjum að halda. Við stofnun þess voru því gefnar allar biskupstekjur milli Botnsár og Hafnarfjarðar en í framhaldi fara klaustursmenn svo að ásælast fleiri jarðir. Var svo komið að þegar Viðeyjarklaustur var lagt niður átti það allar jarðir í Vatnsleysustrandarhreppi nema Kálfatjörn, Bakka og Flekkuvík sem voru kirkjujarðir. Landskuld þurftu menn að greiða af jörðum sínum. Sem dæmi um hve mikil hún var er til skrá frá 1584, þá þurftu 15 jarðir á Ströndinni að greiða samtals 56 vættir fiska og 3 hndr. í fríðu. Klaustrið hefur jafnframt verið með mikla útgerð því það átti báta og skip sem það gerði út á Ströndinni og hafa bændur sjálfsagt verið skyldaðir til að leggja til menn á þá.
Flekkuvík.
Þegar klaustrið var lagt niður tekur sjálfur konungurinn (Bessastaðavaldið) við öllum eignum þess. Ekki reyndist Bessastaðavaldið bændum betur en klaustrið og hlóð á nýjum kvöðum. 1698 hafði landskuld hækkað um nær helming og var um 113 vættir fiska, þó höfðu jarðirnar ekki batnað neitt, sumar jafnvel skemmst af sandfoki og sjávargangi.
Nú áttu Bessastaðamenn ekki skipin lengur en tóku þau að helmingi til útgerðar (helmingaskip). Hvor aðili greiddi helming útgerðarkostnaðar og aflanum skipt jafnt á milli þeirra. Bændur voru svo skyldaðir til að leggja til mann á bátinn fyrir Bessastaði. Ein kvöðin var sú að skila tveimur hríshestum heim til Bessastaða eða Viðeyjar. Þá hvíldi sú kvöð á Hlöðunesbónda að ljá mann til Bessastaða ,, einn dag eða fleiri, þegar hússtörf eru þar og fæða manninn sjálfur”. Svo voru að auki kvaðir um flutninga, hestlán og hýsingu Bessastaðamanna.
Hólmurinn undir Stapa.
Frá upphafi hefur verið veitt á króka (handfæri) og þá beitt fjörumaðki, hrognkelsum, kræklingi og þorskhrognum. Bátarnir voru mestmegnis tveggjamannaför. Netaveiðar hefjast fyrst um 1882 og var í byrjun eitt net á hlut, (sexæringur með 8 net og 8 hluti). Um tíu árum síðar voru orðin 10 net á hlut. Frá upphafi fiskveiða hér við land og um margar aldir var allur fiskur þurrkaður (skreið) enn um 1820-1840 byrja menn að salta fisk hér við Faxaflóa. Talið er að 114 bátar hafi gengið á vertíð 1703 úr Brunnastaðahverfi og ekki færri í Vogum og Hólmi.
Gjásel í heiðinni.
Landbúnaður var alltaf stundaður jafnhliða sjósókn þó ræktað land væri lítið. Menn treystu mikið á beit í heiðinni og fjörunum og milda vetur. Allir bæir í hreppnum höfðu selstöðu og um alla Strandar og Vogaheiða eru rústir af gömlum seljum. Í jarðabókinni 1703 eru talir 18 bæir og 22 hjáleigur. Sauðfjáreignin í hreppnum er 698 kindur (38 kindur að meðaltali á jörð), hestar 67 og nautgripir 140. Trúlega hafa flest selin lagst af þegar skera þurfti niður allt fé í kjölfar fjárkláðans árið 1856. Síðast var haft í seli í Flekkuvíkursel 1870. Sauðum var haldið veturlangt upp í Kálffelli um aldamótin 1900. Um sel og selstöður í Vatnsleysustrandarhreppi má lesa nánar á síðunni.
Framfarir.
Vogar 1954.
Árið 1817 voru konungsjarðir í Gullbringusýslu seldar og urðu þá jarðir í hreppnum aftur bændaeign.
Árið 1817 var gefið eftir afgjald af 8-16 lesta skipum er Íslendingar keyptu erlendis og gerðu út. Hafskip sem væru höfð til fiskveiða skyldu fá verðlaun fyrir hverja lest. Þetta var til þess að þrjár skútur komu í hreppinn, tvær í Njarðvík, þeir Jón Daníelsson Vogum og Árni í Halakoti létu smíða þá þriðju. Vænkast þá hagur manna til muna enda fylgdu mörg góð afla ár í kjölfarið, best var árið 1829. Um miðja 19. öldina hafði tveggja manna förum fækkað mjög en fjölgað sexæringum og áttæringum.
Stóru-Vogsvör – loftmynd.
Árið 1870-74 var Lovísa, 45 rúmlesta þilskip, eign Egils Hallgrímssonar í Austurkoti, Vogum. “Það er talið að Lovísa sé fyrsta haffært þilskip í bændaeign sem kom hér til Faxaflóa.”
Árið 1890 eru 939 heimilisfastir menn í hreppnum og annað eins af vermönnum. Upp úr 1893 fer afli síðan mjög minnkandi og lengra verður að sækja á miðin. Nánar má lesa um sjósókn á Vatnsleysuströnd í lok 19. aldar í bókinni Þættir af Suðurnesjum e. Ágúst Guðmundsson frá Halakoti.
Stóru-Vogar 1950.
Húsakostur manna fer einnig batnandi á 19. öldinni. Árið 1865 byggir Guðmundur Ívarsson á Brunnastöðum fyrsta timburhúsið í hreppnum. Eftir að Jamestown strandaði í Höfnum 1881 með fullfermi af timbri voru byggð timburhús á flestum jörðum í hreppnum. En bætti um betur 1904 þegar rak inn í Vogavík timburskip frá Mandal í Noregi. Mörg íbúðarhús og útihús voru byggð úr því timbri. Gömlu torfbæirnir hurfu svo til við þetta.
Árið 1907 kaupa í félagi fjórir Vogamenn fyrsta vélbátinn í hreppinn , hann hét Von og fylgdu fleiri vélbátar í kjölfarið. Árið 1930 var byggð bryggja í Vogum, fiskverkunarhús og verbúð af Útgerðarfélagi Vatnsleysustrandar (samvinnufélag). Einnig lét félagið smíða tvo 22 tonna báta; Huginn og Muninn. 1935 eignast Vatnsleysustrandarhreppur bryggjuna og húsið. Eftir 1940 hefja rekstur fyrirtækin Valdimar h/f sem stundar útgerð og fiskverkun og Vogar h/f sem stundar útgerð, fiskverkun og frystingu. Tilkoma þessara fyrirtækja skipti sköpun fyrir þróun byggðalagsins næstu áratugina. Um 1930 er farin að myndast þéttbýliskjarni í Vogum. Síðan hefur verið hæg og nokkuð jöfn íbúafjölgun með auknum atvinnutækifærum og bættum samgöngum.
Í dag eru sex fiskvinnslufyrirtæki í hreppnum, flest frekar lítil, tvö fiskeldisfyrirtæki, stórt svínabú og hænsnabú, fjórar vélsmiðjur og bílaverstæði. Líklega sækir rúmur helmingur vinnandi íbúa hreppsins atvinnu út fyrir byggðalagið. Í hreppnum er grunnskóli með rúmlega 200 nemendur og leikskóli auk íþróttahúss.
1. des 2003 voru íbúar Vatnsleysustrandarhrepps 928.
Áhugaverðir staðir.
Stapinn – flugmynd.
– Vogastapi er gömul grágrýtisdyngja, hæst ber Grímshól 74m. Á Grímshól er útsýnisskífa og þaðan er gott útsýni yfir haf og land. Umhverfis Grímshól í um 70m hæð má sjá kraga úr lágbörðu stórgrýti.
– Misgengisstallar liggja um Vogastapa sunnanverðan og er Háibjalli þeirra mestur. Skammt þar suður af eru Snorrastaðatjarnir. Skoðunarverðar náttúruperlur.
– Þráinskjöldur heitir hraundyngja allmikil norðaustur af Fagradalsfjalli. Þráinskjaldarhraun hefur runnið fyrir 9-12þús. árum. Hraunið þekur heiðina og til sjávar allt frá Vatnsleysu að Vogastapa. Frá Vatnsleysuvík til Vogastapa má rekja fornan sjávarkamb í u.þ.b. 10 metra hæð frá núverandi sjávarstöðu.
– Miklar gjár og misgengi einkenna Strandar- og Vogaheiði, má þar helst nefna Hrafnagjá, Stóru-Aragjá og Klifgjá. Sigdæld er þar allnokkur.
– Fjölbreytt og skemmtilegt útivistarsvæði er við Höskuldarvelli. Vegur þangað liggur frá Reykjanesbraut skammt vestan Kúagerðis (merkur Keilir). Við Höskuldarvelli er mikið úrval stuttra gönguleiða. Má þá helst nefna göngu á Keilir 378m, Trölladyngju 379m eða Grænudyngju 402m. Lambafellsklofi er mikilfengleg gjá sem klífur Lambafellið. Gaman er að ganga eftir gjánni inn í fellið og síðan upp úr því. Í Soginu er mikil litadýrð sem langvarandi jarðhiti hefur gefið svæðinu. Þar liðast lítill lækur.
Selsvellir – tóftir.
– Selsvellir eru vel gróið tún vestan við Núpshlíðarháls. Fast upp við Selsvelli er stór og fallegur gígur sem Moshóll heitir. Meginhluti Afstapahrauns mun vera komið úr Moshól og öðrum gíg nokkru sunnar. Þar gaus á 14. öld.
– Almenningur heitir landsvæðið milli Afstapahrauns og Kapelluhrauns. Það hraun er komið úr Hrútagjárdyngju. Þetta svæði er að einhverju leiti í Vatnsleysustrandarhreppi. Í þessu hrauni rétt ofan við Reykjanesbraut og suður af Hvassahrauni eru nokkur allsérstök hraundríli á sléttlendi og heitir þar Strokkamelur. Hraundrílin draga líklega nafn sitt af lögun gíganna sem líta út eins og smjörstrokkar. Nýrri heimilir kalla gígana Hvassahraunsgíga.
Nánar má lesa um örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi í samnefndri bók Sesselju Guðmundsdóttur.
Sögur og sagnir.
Kvíguvogabjarg.
Nokkrar þjóðsögur tengjast Vogunum. Er þar fyrst að nefna söguna; Frá Marbendli er segir frá viðureign bóndans og marbendils og sækúnum er gengu á land. Það mun vera skýringartilraun á nafninu Kvíguvogar. Þekkt er sagan um Grím sem Grímshóll dregur nafn af. Grímur fór til sjóróðra suður, varð viðskila við samferðamenn sína á Stapanum og ókunnur maður falar hann til að róa hjá sér um vertíðina. Margar sögur eru til af Jón í Vogum (Jón Daníelsson), hann þótti vita lengra en nef hans náði og var mál manna að hann væri rammgöldróttur og gæti kvatt niður drauga.
Allar þessar sögur og fleiri má finna á vef bókasafns Reykjanesbæjar; www.bokasafn.rnb.is.
Stapadraugurinn.
Lífseig er sögnin um Stapadraugurinn svonefnda. Birtist hann snöggklæddur. Telja menn að þar fari Jón Úlfhildarson sem kenndur er við Grjótá í Reykjavík. Aðrir aðhyllast þá skoðun að Stapadraugurinn sé Kristján Sveinsson frá Keflavík, Stjáni blái. Margir telja sig hafa séð mann á ferðinni á Stapanum með höfuðið undir hendinni. Jón Dan rithöfundur frá Brunnastöðum hefur greint frá reimleikum á þessum slóðum í bókinni Atburðirnir á Stapa. Við hæfi er að enda þessa samantekt á lýsingu Jóns Dan á Stapadraugnum úr áðurnefndri bók.
“Ég sagði Stapadraugur, en á Stapa gekk hann alltaf undir nafninu Stjúpi. Upphaflega var hann kallaður Strjúpi, en þar eð nokkur óhugnaður var í nafninu hafði það fljótlega breytzt í þetta vingjarnlega heiti, enda var iðulega talað um hann eins og einn af fjöldskyldunni, dálítið erfiðan og mislyndan frænda en sauðmeinlausan að flestu leyti.
Stapavegur.
Eini ljóðurinn á ráði hans voru hrekkirnir, en þeim ókosti varð ekki komizt hjá því það voru þeir sem héldu lífinu í draugsa. Oftar en einu sinni hafði Stapajón ávítað Stjúpa harðlega fyrir hrekkjabrögðin, og svo mikill drengur var draugsi að alltaf tók hann tillit til umvandana vinar síns og sat á strák sínum æði lengi á eftir. En enginn fær umbreytt þeirri nátturu sem guð gaf honum eins og Stapajón sagði, og alltaf sótti í sama horfið. Einu sinni keyrði úr hófi. Á vikutíma hafði hann hrætt vitglóruna úr þremur bílstjórum og sett bíla þeirra út af, ært tvær kerlingar sem voru farþegar í einum bílnum og sent tvo gangandi ferðalanga á hálshnútunum niður Skarð til Stapajóns. Alltaf með þeirri brellu að taka ofan hausinn, ýmist á veginum eða upp í bílnum þegar bílstjórinn hafði aumkað sig yfir lúinn ferðalang og tekið hann upp í. Stapajón sagði þetta atferli ekki annað en kurteisisvenju hjá Stjúpa, að sínu leyti eins og þegar heldri menn taka ofan hattinn í kveðjuskyni, en fólk virtist ekki kunna að meta hana. Það var Stjúpa sjálfum vel ljóst og var hrekkjabragðið honum þeim mun kærara.
Jæja. Eftir slysavikuna kröfðust blöðin í Reykjavík þess hástöfum að Stapajón, granni og náinn vinur Stjúpa, fengi hann ofan af þessum brellum. Og karl lét til leiðast og lýsti yfir því í Kvöldblaðinu að laugardaginn næsta mundi hann ganga á fund Stjúpa og atyrða hann duglega. Hvað karl gerði, enda brá svo við að í röskan hálfan mánuð á eftir varð enginn vegfarandi fyrir ónæði af hans völdum. Úr því fór þó að sækja í sama horfið, og þótti mönnum nóg um, þó ekki yrðu hrekkirnir eins tíðir og í slysavikunni miklu. Var þá mælzt til þess á opinberum vettvangi, nú í Dagmálablaðinu, að Stapajóni yrði falið að koma draugsa fyrir kattarnef í eitt skipti fyrir öll.
Rúnasteinninn á Flekkuleiði.
Við þessari málaleitan brást Stapajón hinn vesti. Koma fyrir kattarnef. Akkúrat. Jahá. Drepa nágranna sinn og vin með köldu blóði, draug sem aldrei hafði gert meira á hlut hans en það eitt að glettast við hann. Sálga kátum sveitunga sem var á sama andlega þroskastigi og tíu ára barn og hafði þar af leiðandi gaman af hrekkjum og ærslum. Ætti þá ekki að taka af lífi þá unglinga sem léku sér að því að brjóta glugga hjá nábúum, sliga allar girðingar og ríða húsum að nóttu til í því skyni að hræða fólk? Aldrei hafði Stjúpi styggt fé hans eins og margur bílstjórinn gerði, aldrei vaðið yfir túnið og bælt slægjuna, aldrei hrópað að honum kersknisyrðum og kallað hann Draugajón eða Vitlausajón eða Galdrajón eins og unglingarnir í Kyljuvík, aldrei stolizt undir kýr hans eða dregið sér lamb frá honum þó oft væri hart í búi hjá honum og hann hefði ekki málungi matar svo mánuðum skipti. Hafði Stjúpi nokkurn tíma ráðizt á mann og gert honum mein svo sannað yrði, nokkurn tíma drepið mann? Af hverju ætti þá að drepa hann? Af því fólk var hrætt þegar hann var upp á það allra kurteisasta og tók ofan fyrir því? Nei, nær væri að fræða fólk um lifnaðarhætti og venjur þessa skemmtilega huldufólks sem menningin var alveg að tortíma. Heldur en drepa það ætti að halda hlífiskildi yfir því og sjá til þess að það yki kyn sitt.
Yki kyn sitt. Þetta var nú sprengja í meira lagi. Bréfin streymdu jafnt til Kvöldblaðsins og Dagmálablaðsins, þar sem því var hástöfum mótmælt að draugar fengju að auka kyn sitt. Þeim ætti hreinlega að útrýma, hverjum og einum einasta, sögðu sumir. Þá gróf Stapajón orð upp úr útlendri bók og hrópaði hástöfum (það er að segja með stóru letri í Kvöldblaðinu)
Genosíd! Genosíd!
Staðarborg.
Það þýðir víst þjóðarmorð, er það ekki? Hann spurði hvort nokkrum þætti sómi að því hvernig farið hefði verið með Indíána í Norður- og Suður-Ameríku eða Íslendinga í Grænlandi? Sér þætti ótrúlegt að nokkur maður heimtaði í alvöru að heilum þjóðflokki á Íslandi yrði útrýmt. Ekki vissi hann betur en Stjúpi og hans ættfeður hefðu alla tíð búið á Stapanum, og umferð manna og farartækja væri því hreinn átroðningur um óðal hans. Í sameiningu ættu hann og draugsi þessi lönd, og þyrfti hvorugur hinn að styggja væri yfirgangsstefnu ekki beitt.
Gvendarborg.
Aðgætinn bréfritari spurði þá hvort nokkur vissi til að draugar lifðu fjölskyldulífi? Hvort nokkur hætta væri á því að draugar ykju kyn sitt? Væru þeir ekki allir náttúrulausir, jafnt uppvakningar og afturgöngur, og yrðu þetta 100 til 120 ára gamlir og þar með búið? Stapajón fræddi spyrjanda á því að sagnir væru um barneignir drauga, og meðan mannleg náttúra væri söm við sig, og draugar hefðu mannlega náttúru eins og aðrir, væri slíkt hvergi nærri fráleitt. Og nefndi þá um leið, að þótt granni hans Stjúpi væri mikill einstaklingshyggjumaður eins og flestir draugar, hefði hann haft við orð að sér leiddist einlífið og hygði á ferð til Vestfjarða þar sem dáindisfríð skotta biði sín. Og hlakka ég til og vona sagði Stapajón, að Stjúpi og fjölskylda hans komi suður aftur og búi hér svo ég fái að sjá börn þeirra vaxa úr grasi og leika sér frjáls og glöð á slóðum forfeðra sinna.,,
-Samantekt Viktor Guðmundsson.
Heimildir.
Ágúst Guðmundsson Halakoti. Þættir af Suðurnesjum. Bókaútgáfan Edda Akureyri 1942.
Árni Óla. Strönd og Vogar. Bókaútgáfa Menningarsjóðs 1961.
Gísli Brynjólfsson. Byggðir Suðurnesja. Í Árbók Ferðafélags Íslands 1984.
Guðmundur B. Jónsson .Mannlíf og mannvirki í Vatnsleysustrandarhreppi. Útg. af höfundi 1987.
Jón Böðvarsson. Suður með sjó. Rótarýklúbbur Keflavíkur 1988.
Jón Dan. Atburðirnir á Stapa. Almenna Bókafélagið 1973.
Jón Jónsson. Um heiðar og hraun. Í Árbók Ferðafélags Ísland .1984.
Jón Jónsson. Jarðfræðikort af Reykjanesskaga 1978.
Sesselja Guðmundsdóttir. Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi. Lionsklúb. Keilir 1995.
www.bokasafn.rnb.is.
www.ferlir.is
Vegir á Vatnsleysuströnd – ÓSÁ.