Tag Archive for: Grindavík

Húshólmastígur

Gengið frá frá hálsinum ofan við Latfjall, norðvestur yfir Tófubruna. Sést móta fyrir gamla veginum (Hlínarveginum) skammt sunnar. Ofar eru fallegir, litskrúðgir klepra- og gjallgígar. Þeir eru hluti gígaraðar, sem liggur autan með austanverðum Vesturhálsi (Núpshlíðarhálsi).

Stóri-Hamradalur

Stóri-Hamradalur.

Ögmundarhraun mun hafa komið úr gígaröðinni, sem nær alllangt til norðurs. Eftir stutta áframhaldandi göngu var komið að háum misgengisveggjum Stóra Hamradals undir hálsinum. Undir veggnum, sunnarlega, er gömul hlaðin rétt. Jón Guðmundsson frá Ísólfsskála sagði að hún hafi jafnan verið notuð við rúningar.
Ögmundarhraun er neðan við Latfjall. Hraunið er runnið frá norðurhluta gígaraðar austan Núpshlíðarhálsi og hefur meginhraunflóðið fallið Latsfjalls og Krýsuvíkur-Mælifells og allt suður í sjó og langleiðina austur undir Krýsuvíkurbergs. Vesturhluti þess er af öðrum uppruna en austurhlutinn. Hraunið er rakið til gígaraðar austan í hálsinum, alla leið í sjó fram og langleiðina austur að Krýsuvíkurbergi. Líklega rann þetta hraun á 11. öld eða svipuðum tíma og Kapelluhraunið gegnt Ísal og a.m.k. einn bær og önnur mannvirki grófust undir því.

Húshólmi

Skálatóft í Húshólma í Gömlu-Krýsuvík.

Bæjarrústirnar í Húshólma eru að hluta þaktar hrauni en þar sér líka fyrir túngörðum, sem enda undir hrauni. Efst í Húshólmanum er eldri hraunbreiða frá gígaröð suðaustan Mælifells. Óbrennishólmi er norðvestan Húshólma. Þar sjást leifar grjóthleðslu, sem er að mestu undir hrauni, auk tveggja hruninna fjárborga. Selatangar, sem voru mikil útgerðarstöð eins og rústir mannabústaða og fiskbyrgja gefa til kynna, eru í vestanverðu Ögmundarhrauni.

Ögmundarhraun

Hraunkarl í Ögmundarhrauni.

Sögulegur tími á Íslandi nær frá landnámsöld til okkar daga, þ.e.a.s. í yfir 1100 ár. Ein meiri háttar goshrina hefur átt sér stað á Reykjanesskaganum á þeim tíma. Þeirri hrinu má skipta í þrjú aðalgos.
Það elsta eru: Bláfjallaeldar. Það hófst um árið 950 og stóð fram yfir árið 1000 í þessu gosi myndaðist feiknarmikið hraun.
Miðgosið er nefnt Krýsuvíkureldar. Aðalgos þeirra var árið 1151 en minniháttar gos varð 1188. Í því fyrra opnaðist um 25 km löng gosspunga og rann hraunið til sjávar bæði sunnan og norðan megin á Reykjanesskaganum. Að sunnan heitir hraunið Ögmundarhraun en að norðan Kapelluhraun. Þá tók af stórbýlið Krísuvík sem stóð niður á sjávarbakka. Hraunið rann allt um kring kirkjuna á staðnum.

Eldey

Eldey.

Þriðja gosið voru svonefndir Reykjaneseldar sem urðu á árabilinu 1210 til 1240. Það gos var yst á skaganum og hluti umbrotanna var í sjó. Þá reis upp eyja sem heitir Eldey í fárra sjómílna fjarlægð frá stöndinni.
Aðalgosið var árið 1226 við Reykjanestána, að mestu í sjó. Mikil aska kom upp og dreifðist hún undan suðvestanvindi yfir Reykjanesskagann. Sést öskulagið víða greinilega í jarðvegssniðum. Í kjölfarið jókst mjög jarðvegseyðing á Reykjanesskaga.
Flest hraunin á Reykjanesskaga hafa runnið fyrir landnámstíð. Þó geta annálar þess nokkrum sinnum, að eldur hafi verið uppi í Trölladyngjum, svo sem 1151, 1188, 1340, 1360, 1389-90 og 1510. Um gosið 1340 segir Gísli biskup Oddsson, að þá „spjó Trölladyngja úr sér allt til hafs við sjávarsveit þá, er kölluð er Selvogur”. Margir hafa dregið í efa, að þetta geti verið rétt, því að hraun úr Trölladyngju hafi ekki getað runnið niður í Selvog, þar sem há fjöll sé á milli.

Trölladyngja

Trölladyngja.

Þessir menn hafa rígbundið sig við örnefnin Trölladyngju og Selvog, eins og þau eru nú notuð, en gá ekki að því, að þau voru yfirgripsmeiri forðum. Þá var allur Vesturháls nefndur Trölladyngja, en „í Selvogi” mun hafa verið kölluð ströndin þaðan og vestur að Selatöngum. Þetta var upphaflega eitt landnám.

Þórir haustmyrkur nam þetta svæði allt, setti Hegg son sinn niður í Vogi (sem nú kallast Selvogur), en bjó sjálfur í Krýsuvík. Bær hans mun hafa staðið þar sem nú heitir Húshólmi niðri undir Hælsvík. Þennan bæ tók Ögmundarhraun af þegar það rann fram, og í óbrennishólmanum Húshólma má enn sjá veggi og bæjarrústir koma fram undan hrauninu. Er það full sönnun þess, að hraunið hafi runnið eftir landnámstíð og tekið þarna af bæ, sem oft er nefndur „gamla Krýsuvík”.

Húshólmi

Kirkjulág.

Í hólmanum er á einum stað nefnd Kirkjulág og bendir til þess að þarna hafi verið kirkja. Þar er og glöggur garður um 900 fet á lengd. Eftir þetta hraunflóð halda menn að bærinn hafi verið fluttur upp til fjallanna, þar sem hann stóð síðan og kallaðist Krýsuvík.
Talið er að Ögmundarhraun sé komið úr nær 100 eldgígum hjá suðurendanum á Núpshlíðarhálsi. Bæði Jónas Hallgrímsson og Þorvaldur Thoroddsen hafa komizt að þeirri niðurstöðu, að hraun þetta hafi runnið 1340. Er því hér um að ræða sama hraunið sem Gísli biskup Oddsson segir að „runnið hafi til hafs við sjávarsveit þá, er kallast Selvogur”. Verður þá allt auðskilið. Selvogsnafnið hefir náð yfir alla ströndina í landnámi Þóris haustmyrkurs.

Ögmundardys

Jón Guðmundsson frá Skála við Ögmundardys.

Þekkt er sagan af Ögmundi, viðskipti hans við bónda og gatnagerð um hraunið. Dys hans má sjá við austurjarðar þess.

Efni m.a. af:
http://hs.is/frettaveitan/greinar.asp?grein=360

Ögmundarhraun

Ögmundarhraun – loftmynd.

Selatangar

„Beinteinn var maður nefndur suður í Krýsuvík, bjó hann að Arnarfelli.

Selatangar

Selatangar – sjóbúð.

Eitthvert sinn var hann að smíða skip við sjó frammi, þar sem heitir á Selatöngum. Hafðist hann þar við í verskála. Þar hafði hann alltaf hjá sér hlaðna byssu. Hannn lét einatt loga ljós í skálanum þegar kveldaði.

Eitt kvöld, er hann hefur kveikt í skálanum, heyrir hann allt í einu mjög mikinn brest og skarkala í skáladyrum. Lítur hann þangað og sér þá að ógurlegt skrímsli treður sér inn úr dyrunum; það hafði brotið tréð úr þeim, hafði dyraumbúninginn á herðunum og tróð sér svo áfram. En þröngt varð um það á milli grjótveggjanna.
Það var eins og maður neðan en mjög ófreskjulegt eða dýrslegt ofan. Beinteinn var harðfær maður og alleinbeittur. Hann þrífur því byssu sína, lætur sér ekki bilt við verða og hleypir af á ófreskjuna. Henni bregður hvergi og treður sér því meir áfram. Beinteinn hleður aftur byssuna og hleypir af. Þá stansar þetta en ekkert sér á því. Enda var það allt að sjá hulið skeljarögg utan.

Selatangar

Á Selatöngum.

Beinteinn var í silfurhnepptri millifatapeysu. Hann man nú allt í einu að hann hefir heyrt sagt að þótt engin kúla vinni á skeljastakk skrímsla þá geri þó silfurhnappar það. Slítur hann því hnappana af peysunni sinni, hleður byssuna og hefur á fyrir högl eða kúlu og skýtur enn á skrímslið. Þá tók það snarpt viðbragð, reif sig út
og hvarf til sævar. En Beinteinn hljóp út. Þá fyrst greip hann hræðsla. Tók hann til fóta og hægði eigi á sprettinum fyrr en heima við bæ, óður af hræðslu og nærri sprunginn af mæði og sagði söguna. Að morgni sáust aðgerðir skrímslisins en sjálft var það með öllu horfið.“

-SIGFÚS IV 39

Selatangar

Á Selatöngum.

Selatangar

„Tómas hét maður, er eitt sinn kom að Krýsuvík og baðst þar gistingar en honum var úthýst.

Arnarfell

Bærinn Arnarfell undir Arnarfelli í Krýsuvík.

Fór Tómas þá þaðan, en varð úti á Selatanga. Tómas gekk aftur og var draugurinn jafnan nefndur Tanga-Tómas. Margir urðu fyrir aðsókn hans en einkum Beinteinn úr Hraunum suður, enda var hann oft við selaskot á tanganum.
Stundum skaut Beinteinn silfurhnöppum á drauginn en það hreif ekkert. Aftur fældist hann í svipinn, þá er skotið var á hann lambaspörðum. Oft fylgdi draugurinn Beinteini heim og varð honum helzt til friðar að láta konu sína sofa fyrir framan sig, því að þá komst draugurinn ekki að honum. Einhverju sinni var draugurinn kominn inn í bæinn á undan Beinteini. Hann krossaði fyrir dyrnar, eins og þá var siður til, til þess að varna draugnum að komast inn, en þetta varð til þess í þetta skipti að draugurinn komst ekki út. Hann var með gustmesta móti um nóttina og var stundum bjart í baðstofunni af eldglæringum.“

-ÓLAFUR DAVÍÐSSON I 315

Selatangar

Selatangar – sjóbúð.

Varnarsvæði

Í Þjóðviljanum 1982 eru „Fróðleiksmolar um varnarsvæðin„:

Varnarsvæði

Varnarsvæði Keflavíkurflugvallar – fylgir Tilkynningu frá ríkisstjórninni 21. maí 1942.

„Í umræðu manna undanfarnar vikur hafa „varnarsvæðin“ svokölluðu verið ofarlega á baugi, og menn hafa spurt sig hversu víðáttumikil þessi svæði væru og hvaða reglur gildu um þau.

Við fórum því á stúfana og kynntum okkur málin og hér kemur árangurinn.

„Varnarsvæði“, sem einnig eru nefnd „samningssvæði“ eru nú á 4 stöðum á landinu. Þetta eru svæði, sem á sínum tíma voru tekin eignarnámi af ríkinu og síðan afhent Varnarmáladeild utanríkisráðuneytisins til ráðstöfunar. Auk umræddra samningssvæða, sem varnarmáladeild hefur látið bandariska hernum í té, hefur hún að sögn Hannesar Guðmundssonar, ráðstöfunarrétt yfir umtalsverðu landi á Suðurnesjum, sem hún getur að sögn Hannesar ráðstafað til bandaríska hersins eða íslenskra aðila.

Varnarsvæði

Varnarsvæði ofan Grindavíkur – fylgir „Auglýsingu um landfræðileg mörk öryggis- og varnarsvæða“ nr. 964 27. ágúst 2021.

Að flatarmáli skiptast „samningssvæðin“ sem hér segir: Miðnesheiði (í landi Miðneshrepps, Gerðahrepps, Keflavíkurkaupstaðar og Njarðvíkurhrepps) 8.854,0 ha. Grindavík: 420 ha. Hvalfjörður: 47,0 ha. Straumnes (á leigu úr landi Horns): 113,7 ha. Allt þetta land var á sínum tíma tekið eignarnámi nema Straumneslandið, sem var tekið leigunámi úr landi jarðarinnar Horn. NATO er auk þess eigandi að bryggjunni i Hvalfirði og Loran-stöðinni á Sandi á Snæfellsnesi, en sú stöð er rekin af pósti og síma. Samtals eru því „samningssvæðin“ um það bil 9.450,0 hektarar, sem mun vera álíka mikið land og allt land Reykjavíkurborgar.

Auk þessa telur Varnarmáladeild utanríkisráðuneytisins sig hafa ráðstöfunarrétt yfir landsvæðum þeim, sem á kortinu eru merkt með ljósari rasta. Það er land, sem ríkið hefur keypt eða tekið eignarnámi.

Varnarsvæði

Varnarsvæði – Kort Zópaníasar Pálssonar skipulagsstjóra ríkisins af flugvallarsvæðinu við Keflavík frá 1971.

Spilda, sem merkt er nr. 1 á kortinu er úr landi Leiru, 277 ha. að stærð stærð og var keypt 1958. Spilda nr. 2 er úr landi Hafna, 1526 ha. og var keypt 1955. Spilda nr. 3 er jörðin Húsatóftir, sem ríkið keypti árið 1956, ca 2.500 ha. Á Húsatóftum hefur Varnarmáladeild leigt íslenskum aðilum aðstöðu til fiskiræktar. Spilda nr. 4 er úr landi Grindavíkur og Njarðvíkur. Þaðan hefur Varnarmáladeild leigt malarnám til hersins og annarra aðila. Spilda nr. 5 gengur undir nafninu „Broadstreet“, þar var eitt sitt útvarpsloftnet og skotæfingarsvæði. Spilda nr. 6 er úr landi Hóps við Grindavík og spilda nr. 7 er lóð, sem eitt sinn var undir einhvers konar fjarskiptastöð, en er ekki lengur „samningssvæði“. Svæði nr. 8 er jarðstöðin i Rockville og svæði nr. 9 er útvarps- og hlustunarstöðin við Hvalsnes í landi Sandgerðis, nr. 10 er meginsvæði vallarins og nr. 11 er 416 ha. svæði við Grindavík þar sem herinn hefur hlustunar- og fjarskiptabúnað.

Keflavíkurflugvöllur

Herstöðin á Miðnesheiði.

Lögsaga á „samningssvæðum“ fer eftir lögum nr. 33 frá 1954, þar sem segir að ráðherra, sá, sem fari með varnarmál skuli skipa lögreglustjóra á Keflavikurflugvelli er hafi á hendi dómarastörf, lögreglustjórn, innheimtu á sköttum og tollum til ríkissjóðs, og skal umdæmi hans miðast við samningssvæði þau á Reykjanesi, sem varnarsamningurinn frá 1951 tekur til og eru i eigu ríkisins.

Nú munu hátt í 1000 Íslendingar vinna fyrir herinn. Flestir þeirra búa i Keflavík eða Njarðvikum. Þó eru innan vallarsvæðisins a.m.k. þrjár íbúðarblokkir þar sem Íslendingar búa. Þeir greiða sveitastjórnargjöld til Njarðvikurhrepps. Mörkin á milli „samningssvæðanna“ og sveitarfélaganna í kring jafngilda þannig ekki mörkum á milli sveitarfélaga enda þótt lögsaga sé önnur innan þeirra en utan.

Varnarsvæði

Varnarsvæðið á Miðnesheiði – herforingjaráðskort.

Hannes Guðmundsson hjá varnarmáladeild tjáði okkur að enda þótt völlurinn væri ekki sjálfstætt sveitarfélag, þá hefði hann samstarf við nágrannasveitarfélögin, um ýmis málefni, og væri það þá Captain Smith, sem er „commander“ á vellinum, sem kæmi fram fyrir hönd hersins. Sem dæmi um slíka samvinnu má nefna sorpeyðingarstöðina á Suðurnesjum. Auk þeirra Íslendinga sem starfa eða búa á vellinum munu vera þar um 3.800 Bandaríkjamenn.

Varnarsvæði

Varnarsvæðið (dökki liturinn) ofan Grindavíkur. Líkt og sjá má takmarkar svæðið mjög möguleika á vöxt bæjarins.

Eins og sjá má á kortinu þrengja „varnarsvæðin“ allmikið að byggð, sérstaklega í Keflavík, Njarðvíkum og Grindavík. Þannig var orðið svo þrengt að Keflavík, að bærinn fékk úthlutað land við Helguvík og á Hólmsbergi til framtíðarbyggðar, en það land hafði áður tilheyrt Gerðahreppi og verið „samningssvæði“.

Í skýrslu um eignir bandaríska sjóhersins á Íslandi frá 1979 kemur fram að herinn metur land það sem hann hefur til afnota á Íslandi til 172.900 dollara og greiðir 21.000 dollara í leigu af landi. Í sömu skýrslu kemur fram, að herinn metur eignir sínar á vellinum til 232.660.381 dollara á þessum tíma.

Varnarsvæði

Varnarsvæðið á Miðnesheiði – einstök hverfi (campar).

Herinn á Keflavíkurflugvelli kaupir nú heitt vatn frá Hitaveitu Suðurnesja. Fer um rúmur helmingur af heitavatnsframleiðslunni þar inn á völlinn eða um 50 megawött. Rafmagn fær herinn einnig frá Rafmagnsveitum ríkisins.

Skolpfrárennsli vallarins rennur í einni leiðslu til sjávar í Njarðvíkum. Sorpeyðingarstöð Suðurnesja er rekin af sveitarfélögunum í sameiningu, og brennur hún jafnframt sorpi frá vellinum gegn endurgreiðslu. Þannig tengjast „samningssvæðin“ nágrannasveitarfélögunum með ýmsum hætti, og er augljóst að skipulagsmál á svæðinu snerta marga hagsmunaaðila.

Árið 1971 gaf skipulagsstjóri ríkisins út skýrslu um Aðalskipulag Keflavíkur, Njarðvíkur og Keflavíkurflugvallar fyrir 1967-’87. Samkvæmt skipulagstillögu þessari er gert ráð fyrir að framtíðarbyggð í Keflavík þokist til Helguvíkur og Hólmsbjargs. Í sama skipulagi er framtíðarhöfn fyrir svæði ætlaður staður í Njarðvíkum og er það að tillögu Hafnarmálastofnunarinnar.

Varnarsvæði

Varnarsvæði.

Í greinargerð með skipulaginu er einnig fjallað um hættu á mengun vatnsbóla af völdum olíu og segir að nauðsynlegt sé að „tekið verði tillit til hættu varðandi geymslu á olíu á skipulagssvæðinu. Enn fremur er æskilegt að til séu fleiri en eitt vatnsból, sem gripa mætti til ef óhapp verður á einu brunnsvæði“.

Í greinargerð þessari er einnig getið um að „hinar sérstæðu jökulrispuðu klappir við bjargbrún Hólmsbergs“ skuli friðaðar sem náttúruvætti.

Lýkur hér samantekt sundurlausra fróðleiksmola um
„varnarsvæðin“ á Suðurnesjum.“ -ólg.

VarnarsvæðiÍ Reglugerð nr. 293/2002 um umferð og dvöl manna á varnarsvæðum koma fram skilgreiningar á hugtökum innan varnarsvæðisins, sbr.:
„Í reglugerð þessari hafa eftirfarandi orð og hugtök merkingu sem hér segir:

Varnarsamningurinn: Varnarsamningur milli lýðveldisins Íslands og Bandaríkja Ameríku á grundvelli Norður-Atlantshafssamningsins frá 5. maí 1951 og viðbætir við hann um réttarstöðu liðs Bandaríkjanna og eignir þeirra frá 8. maí 1951 sem veitt var lagagildi með lögum nr. 110/1951.

Herstöð

Sendistöðin ofan Grindavíkur.

Varnarsvæði: Landsvæði það sem íslensk stjórnvöld hafa lagt til varna landsins og lýst hefur verið samningssvæði samkvæmt ákvæðum varnarsamningsins og utanríkisráðherra fer með yfirstjórn á, sbr. ákvæði laga nr. 106/1954 um yfirstjórn mála á varnarsvæðunum o.fl. og ákvæði 10. tölul. 14. gr. auglýsingar um staðfestingu forseta Íslands á reglugerð um Stjórnarráð Íslands, nr. 96/1969.

Varnarstöð: Varnarstöð Atlantshafsbandalagsins á Keflavíkurflugvelli, þ.e. svæði Flotastöðvar Bandaríkjanna innan öryggisgirðingar Atlantshafsbandalagsins auk þess hluta flugstöðvar sem er utan girðingar, samanber fylgiskjal með reglugerð þessari.

Herstöð

Herstöðin ofan Hrauns um 1960. Aflögð herstöð.

Varnarliðið: Liðsmenn í varnarstöð Atlantshafsbandalagsins á Keflavíkurflugvelli úr herliði Bandaríkjanna og starfslið sem herliðinu fylgir og er í þjónustu þess, enda hafi menn þessir hvorki ríkisfang né fasta búsetu á Íslandi, heldur dveljist þar vegna framkvæmdar varnarsamningsins, og skyldulið þeirra. Til varnarliðsins teljast einnig liðsmenn herafla annarra aðildarríkja Norður-Atlantshafssamningsins sem uppfylla sömu skilyrði.“

Broadstreet

Broadstreet 2023. Aflögð herstöð.

Í „Auglýsingu um landfræðileg mörk öryggis- og varnarsvæða“ nr. 964 27. ágúst 2021 segir m.a. um um landfræðileg mörk öryggis- og varnarsvæða:
Samkvæmt 2. mgr. 12. gr. varnarmálalaga nr. 34/2008 ber ráðherra að auglýsa landfræðileg mörk öryggis- og varnarsvæða.
Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laga nr. 176/2006 ber ráðherra að auglýsa ytri mörk og skiptingu öryggis- og varnarsvæðisins á Keflavíkurflugvelli í flugvallarsvæði og öryggissvæði.
Öryggissvæði eru á Keflavíkurflugvelli, Miðnesheiði, Bolafjalli, Gunnólfsvíkurfjalli, Stokknesi og í Helguvík. Varnarsvæði er í Grindavík. „

Heimildir:
-Þjóðviljinn, helgin 27.-28. mars 1982, Fróðleiksmolar um „varnarsvæðin“, bls. 12.
-Reglugerð 293/2002 um umferð og dvöl manna á varnarsvæðum.
-Nr. 964 27. ágúst 2021, Auglýsing um landfræðileg mörk öryggis- og varnarsvæða.

Patterson

Sprengjuefnageymslur á Pattersonflugvelli.

Herstöð

Bandaríkjaher rak á árunum 1953-1968 herstöð (sendistöð) í dalverpi milli Fiskidalsfjalls og Húsafjalla ofan Hrauns í Grindavík. Herstöðinni tilheyrðu tvö hús; sendistöðin, sem og íverustaður starfsmanna og birgðageymsla, auk mannvirkis milli fjallanna skammt ofar. Allnokkur járnmöstur (29) voru umleikis stöðina, en þau sem og byggingarnar eru nú horfnar. Einungis grunnar húsanna og steinstöplafestingar eru til vitnis um tilvist herstöðvarinnar.

Herstöð

Herstöðin ofan Hrauns um 1960. FE

Í Morgunblaðið 28. des. 1995 er grein eftir Skarphéðinn Hinrik Einarsson undir fyrirsögninni „Ekki sem ég vil, heldur sem þú vilt“. Þar lýsir hann viðskilnaði Bandaríkjahers við fyrrum aðstöðu hans á Suðurnesjum og nágrenni, þ.á.m. í herstöðinni ofan Hrauns: „Umhverfismál hafa aldrei verið ofarlega á blaði hér á landi þegar Bandaríkjamenn hafa átt hlut að máli.
Það þarf að athuga mál í herstöðinni í Grindavík. Bandaríkjaher rak herstöð skammt frá Grindavík, austan Grindavíkur, í landi Hrauns. Þar hefur ekki verið hreinsað, og liggja þar ýmsir hlutir sem minna á þá stöð. Það eina sem hefur verið fjarlægt em möstur. Annað liggur þar.

Herstöð

Svæði herstöðvarinnar 2022. Leifar húsanna sjást efst á myndinni.

Landeigendurnir hafa verið friðaðir með peningum. Samningur hefur verið gerður við þá fram yfir aldamót, til ársins 2002 hef ég heyrt, og þeir fá fulla leigu fyrir það land, þó svo að starfrækslu mastranna hafí verið hætt 1968. Herinn og íslenska ríkisstjómin einfaldlega vilja ekki hreinsa það svæði af ótta við að þar gæti komi fram kröfur um háar bætur sökum hugsanlegrar mengunar, því að hvar sem Bandaríkjaher hefur verið í heiminum virðist hann hafa skilið eftir sig mengun.“…

Friðþór Eydal

Friðþór Eydal.

Eftirfarandi útdráttur er úr kaflanum „Fjarskipti varnarliðsins“ í óbirtu handriti um sögu bandaríska varnarliðsins á Íslandi 1951–2006 eftir Friðþór Eydal:

Bandaríski flugherinn byggði á upphafsárum varnarliðsins fjarskipti sín á margskiptu kerfi Bandaríkjahers sem komið hafði verið upp á stríðsárunum og náði vítt um heiminn.
Fjarskiptastöðin Broadstreed við Vogastapa á Reykjanesi var ein slíkra stöðva og þjónaði m.a. flugupplýsingakerfi og öðrum langdrægum fjarskiptum varnarliðsins ásamt móttökustöð
í Camp Garrity skammt norðan við vesturenda austur-vesturflugbrautar Keflavíkurflugvallar.

Herstöð

Leifar húsanna 2023.

Uppbygging langdræga sprengjuflugflotans (SAC) og tuga nýrra bækistöðva hans víða um heim krafðist þess að komið yrði upp nýju, sjálfstæðu fjarskiptakerfi og hófst uppsetning þess árið 1951. Hlaut það heitið U.S. Air Force Global Communications System – GLOBECOM – og byggði á neti öflugra fjarskiptastöðva um heim allan með fjölrásatengingum á helstu tíðnisviðum, þ. á m. langbylgju með háum loftnetsmöstrum sem hentuðu þó illa í námunda við flugvelli.

Grindavík

Grindavík – loftskeytastöðin.

Var nýrri GLOBECOM-sendistöð því valinn staður við rætur Þorbjarnarfells ofan við Grindavík. Smíði stöðvarinnar hófst árið 1953 og var hún tekin í notkun árið eftir. Stöðin samanstóð af sendistöðvarbyggingu, rafstöð og íbúðar- og skrifstofuskála ásamt stuttbylgjuloftnetum af ýmsum gerðum og tveimur, 183 m (600 feta) og 244 m (800 feta) háum, langbylgjumöstrum sem gnæfðu yfir stöðinni og sáust víða að. Jafnframt var tekin í notkun ný fjarskiptamiðstöð og símstöð á Keflavíkurflugvelli. Var sendistöðinni í Broadstreet breytt í móttökustöð fyrir GLOBECOM-kerfið árið 1955 (USAF Strategic Receiver Station). Við þetta kerfi bættist síðan langdrægt talstöðvarsamband við flugvélar.

Herstöð

Herstöðin ofan Hrauns – loftmynd 1957.

Bandaríkjamenn unnu um þessar mundir að þróun loftskeytakerfa sem byggðu á svonefndri háloftabylgjuspeglun (e. inonospheric forward scatter) og veðrahvolfsbylgjuspeglun (e.
tropospheric scatter) sem annars vegar nýttu stefnuvirkt endurvarp af frjálsum rafeindum í 70–90 km hæð í jónahvolfinu, og hins vegar hita- eða rakaskilum í 2–5 km hæð í
veðrahvolfinu. Þótti ljóst að beiting háloftabylgjuspeglunar á VHF-tíðni hentaði vel til stuðnings við önnur tíðnisvið á norðurslóðum, t.d. milli herstöðva á Grænlandi, Íslandi og Bretlandseyjum, þar sem truflanir á stuttbylgjusendingum voru algengar.

Fjarskiptatæki

Fjarskiptatæki hersins.

Tæknin byggði á sendingu mjórra geisla sem tvístruðust við árekstur við frjálsar rafeindir í jónahvolfinu og spegluðust m.a. í litlum mæli til jarðar í sömu stefnu og hittu fyrir móttökuloftnet. Var slíkri sendistöð valinn staður við rætur Húsafells og Fiskidalsfjalls við Hraunsvík austan Grindavíkur undir heitinu Grindavik Extension, og móttökustöð skammt sunnan flugbrautanna á Keflavíkurflugvelli sem hlaut nafnið Picnic.
Tækjabúnaður samanstóð af 30 kW sendi og rafstöð ásamt tveimur stórum hornlaga netspeglum (e. corner reflector) sem héngu á níu stálmöstrum í þremur misháum röðum.

Herstöð

Leifar stöðvarinnar ofan Hrauns.

Skammt frá stóðu lítil vélarhús og íbúðarhús stöðvarinnar og hátt mastur með örbylgjuloftneti til samskipta við fjarskiptamiðstöðina á Keflavíkurflugvelli. Mun það hafa verið fyrsta örbylgjusambandið sem komið var á hérlendis. Tæknimenn bjuggu í stöðinni og önnuðust viðhald og stillingu tækjabúnaðarins en samskonar búnaður var í móttökustöðinni á Keflavíkurflugvelli.
Í árslok 1955 var háloftabylgjuspeglunarsambandi einnig komið á við flugbækistöðina BW-8 í Syðra-Straumfirði á Grænlandi og frá stöðinni austan við Grindavík til Bretlands.

Herstöð

Jarðstrengur við herstöðina.

Langbylgju- og stuttbylgjusendarnir í Globecom-fjarskiptastöðinni í Grindavík voru þá nærri fullbúnir til notkunar en langbylgjustöðin sendi út með 50 þúsund watta styrk.
Fjarskiptakerfi flughersins var tekið til endurskoðunar á árunum 1956–1957. Tæknibreytingar með tilkomu stefnuvirkrar háloftabylgjuspeglunar gerðu það að verkum að minni þörf var á langbylgjusendingum, t.d. fyrir skeytasendingar loftvarnakerfisins. Var móttökustöðin Broadstreet á Vogastapa lögð niður og móttökustöðinni í Camp Garrity á Keflavíkurflugvelli breytt með litlum tilkostnaði til þess að geta einnig þjónað hlutverki hennar. Sendistöð fyrir fjarskipti við flugvélar og milli landa var áfram í stöðvunum við Grindavík og Hraunsvík og móttökustöðvunum Garrity og Picnic á flugvallarsvæðinu.

Stafnes

Ratsjárskermar utan við Stafnes. Tóftir bæjarins á Básendum t.h.

Þegar ráðist var í uppsetningu öflugs trópó-kerfis um Grænland til Íslands, sem fjármagnað var af Bandaríkjunum, og þaðan um Færeyjar til Bretlandseyja. Stóð NATO straum af kostnaði við þann hluta leiðarinnar og nefndi North Atlantic Radio System (NARS). Risu tvær fjarskiptastöðvar með gríðarstórum íhvolfum loftnetsskermum ásamt stöðvarhúsum skammt neðan við Gálgaklett nærri Básendum á Reykjanesi og í ratsjárstöðinni á Stokksnesi. Skermarnir risu veturinn 1961–1962 og var stöðin á Reykjanesi tekin í notkun í júní 1962.

Herstöð

Undistöður eldsneytistanks við herstöðina.

Rekstur fjarskiptakerfis varnarliðsins var á hendi 1971th Airways and Air Communications Service Squadron (1971 AACS) bandaríska flughersins til ársins 1961. Árið 1961 tók Bandaríkjafloti við rekstrinum undir heitinu U.S. Naval Communication Station, Iceland (NAVCOMMSTA Iceland). Verkefni liðsveita varnarliðsins voru þá nokkuð breytt og aukin áhersla á stuðning við vaxandi starfsemi flotans í stað sprengjuflugvéla flughersins. Þjónustan sem flotinn tók við fól í sér rekstur almennra og sértækra fjarskiptaviðskipta og viðhald tækja á fjölbreyttu sviði vegna flugumferðar.

Broadstreet

Broadstreet 2023.

Háloftabylgjukerfinu var lokað fljótlega eftir að trópó-kerfinu var komið á og starfsemi Grindavik Extension lögð niður. Voru loftnetin tekin niður árið 1966 og landinu skilað tveimur árum síðar.“
Sjá meira um herstöðvar við Grindavík HÉR.

Heimildir:
-Morgunblaðið 28. des. 1995, bls. 43, „Ekki sem ég vil, heldur sem þú vilt“, Skarphéðinn Hinrik Einarsson.
-Útdráttur er úr kaflanum „Fjarskipti varnarliðsins“ í óbirtu handriti um sögu bandaríska varnarliðsins á Íslandi 1951–2006 eftir Friðþór Eydal.

Herstöð

Leifar herstöðvarinnar ofan Hrauns 2023.

NRTF-varnarstöðin

Naval Radio Transmitter Facility Grindavik“ er sendistöð bandaríska sjóhersins í Grindavík, sem N62 deildin er sögð halda utan um. Hún er virk á stuttbylgju og langbylgju undir kallmerkinu TFK á 37,5 kHz.

Grindavík

Grindavík – loftskeytastöðin.

NRTF Grindavík átti upphaflega við um tvo turna fyrir langbylgjuþjónustuna – vesturturninn sem var 243,8 metrar á hæð og austurturninn 182,9 metrar á hæð. Þeir voru þá hæstu manngerðu turnhlutar á Íslandi. Árið 1983 var austurturninum skipt út fyrir nýjan turn af sömu hæð. Í stað vesturturnsins kom nýtt 304,8 metra (1.000 fet) mastur, sem þá varð hæsta mannvirkið á Íslandi.

Áður en framangreindar endurbætur voru gerðar, um 1976, var stöðinni falið að reka 600 feta (180 m) loftnet sitt á mjög lágri tíðni, nokkurri lægri tíðni sem það hafði nokkru sinni áður verið starfrækt á. Það voru nokkrar áhyggjur af því að keyra styttra loftnet á svo lágri tíðni, en 800 feta (240 m) loftnetinu var þegar falið verkefni með hærri forgang. Þegar 600 feta (180 m) loftnetið og sendistöð þess voru stillt á æskilega tíðni og aflgjafa sendisins var aukið í tilskilið stig, bognaði stærsti spólinn í sendistöðinni og eyðilagðist.

Herstöð

Sendistöðin ofan Grindavíkur.

Takmarkaður fjöldi varaspóla var fáanlegur í veitukerfinu og var einni þeirra komið fyrir að nýju. Vandamálið var að lág tíðni og samsvarandi hátt viðbragð sem þarf til að enduróma loftnetið leiddi til óeðlilega hárrar spennu við úttak sendistöðvarinnar sem olli því að síðasti og stærsti póllinn bognaði innvortis og eyðilagðist. Lausnin á vandamálinu var að hanna og setja upp annan lokaspólu í sendistöðinni með innleiðni og línulegri lögun sem þurftitil að veita nauðsynlega viðbragð án myndunar ljósboga. HQ hófu nauðsynlegar aðgerðir til að útvega slíka spólu. Capt. Ralph L Spaulding, útskrifaður frá Naval Post Graduate School í fjarskiptaverkfræði, hannaði bráðabirgðaspólu með viðeigandi eiginleikum og áhöfnin í Grindavík smíðaði hana. Fullbúna spólan var um 6 fet á lengd og 2 fet í þvermál, með þurrum valhnetuviði sem notað var til að búa um spóluna. Fullbúinni spólu var komið fyrir á viðarstól í spóluhúsinu, tengda við upprunalegu spólukeðjuna og úttakstengi sendistöðvarinnar. Þetta fyrirkomulag virkaði vel.

Grindavík

Grindavík – loftskeytastöðin 1958.

NRTF Grindavík var 1999 sigurvegari Defence Information Systems Agency (DISA) Outstanding Transmission Facility Award (Category II), og var í öðru sæti í sama flokki árið 1997. Nýja hærra loftnetið og sendistöðin voru hannað af Donald W. Anderson, PE sem stjórnaði auk þess hönnunar- og byggingaráætlunum á meðan hann starfaði hjá Naval Facilities Engineering Command (NAVFAC), Atlantic. Lokahönnun stöðvarinnar fól í sér marga nýja og endurbætta hluti sem kröfðust samþættingar rafrænnar- og byggingarhönnunar, þar á meðal sendistöð með koparhlífðarhönnun og nýrri uppsetningaraðferð. Allur árangur í hönnuninni bætti til muna fyrri hönnun og hafði að hluta til áhrif á áðurnefnd verðlaun.

Grindavík

Grindavík – loftmynd 1954.

N62 deildinni er skipt í þrjár undirdeildir: N62A, Loftnetsviðhald; N62B, langbylgjubúnaður og ISABPS viðhald; og N62C, stuttbylgjubúnað og viðhald á aukabúnaði.

Í nóvember 2019 var formlega skipaður framkvæmdastjóri til að stýra stöðinni, sem fékk nafngiftina U.S. Naval Computer and Telecommunications Area Masters Station Atlantic Detachment Grindavík, Iceland (NCTAMS LANT DET GRINDAVIK IC).

Grindavík

Grindavík – loftmynd 1922.

Loftskeytastöðin sunnan Lágafells ofan Grindavíkur var sett á stofn skömmu eftir að Bandaríkjaher kom hingað til lands árið 1941. Aðstaðan hefur síðan gefið af sér arð til Félags Jángerðarstaðabænda, en svæðið verið undir stjórn bandaríska flotans. Óljóst er um fasteignaskattgreiðslur til Grindavíkurbæjar þau ár, sem stöðin hefur starfað.
Eflaust hafa verið skiptar skoðanir um staðsetningu stöðvarinnar á sínum tíma. Nú, u.þ.b. 80 árum síðar, er líklegt að deilur um tilvist hennar verði fyrirferðameiri en áður hefur verið því stöðin er á mikilvægu framtíðaríbúðauppbyggingarsvæði bæjarins. Um tíma stóðu grindvísk verkalðsfélög vörslu um stöðina er hún varð að tímabundnu bitbeini.

Grindavík

Grindavík – herforningjakortið 1903.

Eftir að Varnarmálastofnun Íslands tók til starfa árið 2008 varð eitt af meginhlutverkum hennar að sinna eftirliti með lofthelgi og flugumsjónarsvæði Íslands. Það gerir Varnarmálastofnun með rekstri ratsjárstöðvanna fjögurra í kringum landið sem Bandaríkin ráku áður, en íslenskir sérfræðingar hafa nú tekið við. Samhliða því hefur íslenska lofteftirlitskerfið nú verið tengt inn í ratsjárkerfi Evrópuhluta NATO. Þannig hefur Ísland færst nær meginlandi Evrópu í öryggismálum og er stefnt að því að Evrópukerfi NATO muni einnig tengjast loftvarnarkerfi Bandaríkjanna og Kanada.

Helghóll

Helghóll við Skipsstíg innan varnarsvæðisins.

Kögun hf. gerði samning um rekstur fjarskiptastöðvar Bandaríska flotans í Grindavík árið 2006. Fjarskiptastöð bandarískra flotans í Grindavík hefur verið rekin af flotanum frá því á sjöunda áratug síðustu aldar og verið mönnuð bandarískum hermönnum að langmestum hluta. Það varð hinsvegar ljóst fyrr í sumar að þessi stöð yrði rekin áfram hér á landi og var því reksturinn boðinn út. Fjarskiptastöðin í Grindavík er hluti af víðfeðmu neti samskonar stöðva sem saman mynda fjarskiptanet flotans og annast m.a. lágtíðnisamskipti við skip og kafbáta á hafi úti – allt suður til Azoreyja.

Skipsstígur

Skipsstígur ofan Grindavíkur liggur um athafnasvæði sendistöðvarinnar.

Kögun hf. hefur annast rekstur og viðhald íslenska loftvarnarkerfisins allt frá árinu 1997 þegar kerfið var formlega tekið í notkun. Fyrir þann tíma höfðu starfsmenn Kögunar unnið í Bandaríkjunum og á Íslandi við þróun og smíði kerfisins allt frá árinu 1989.
Loftskeytasvæðið er afgirt með hárri girðingu og vel fylgst með að óviðkomandi villist ekki inn fyrir hana. Viðvörunarmerki eru á girðingunni þessa efnis. Svæðið er ekki girt af að ástæðulausu því hættulegt er fyrir ókunnuga að fara um það vegna rafmagnsstrauma nálægt fjarskiptamöstrunum.

NRFT-varnarstöðin

NRTF-varnarstöðin ofan Grindavíkur – möstrin tvö.

Strangar umgengisreglur gilda þarna innvortis. FERLIRsfélagi fékk þó aðgang að svæðinu með það að markmiði að hnitsetja Skipsstíginn, sem liggur þvert um svæðið, auk þess að reyna að staðsetja Kirkjuhólinn, þjóðsagnakenndan álfhól innan þess. Sækja þurfti um leyfi með góðum fyrirvara, fá heimild og mæta hjá framangreindum jakkaklæddum hæstráðanda.

Sá varð reyndar bæði áhugasamur um verkefnið sem og félagsskapinn. Sýndi hann FERLIRsfélaganum upphaflegu „blueprint-inn“ af stöðinni, sem þar eru varðveitt, auk þess þeim hinum sama var leyft að fara frjálsum um svæðið með ákveðnum fyrirvörum umleikis áhættusvæðin nálægt möstrunum.
Landssvæðið, sem loftskeytastöðin er á, var fyrrum nefnt „Eldvörp“ og það ekki af ástæðulausu. Fjölmörg eldvörp voru þarna ofan Járngerðarstaða, en þau voru nánast öll jöfnuð við jörðu með tilkomu athafnarýmis loftskeytastöðvarinnar. Svo virðist um sem um gervigíga hafa verið að ræða.

Hafa ber í huga að fyrrihlutinn að þessum texta er „transleitaður“ af engelsku yfir á íslensku. Þar gæti einhverju „skipað að sköpluðu“.
Sjá meira um loftskeytastöðvar við Grindavík HÉR.

Heimildir:
-https://en.wikipedia.org/wiki/Naval_Radio_Transmitter_Facility_Grindavik
-Wikimedia Commons has media related to Grindavík transmission towers. References Donald W. Anderson, PE
-https://www.secnav.navy.mil/doni/Directives/05000%20General%20Management%20Security%20and%20Safety%20Services/05-400%20Organization%20and%20Functional%20Support%20Services/5400.2305.pdf[bare URL PDF]
-http://www.globalsecurity.org/military/facility/grindavik.htm
-https://ferlir.is/skipsstigur-um-loftskeytastodina-ofan-grindavikur/

Skipsstígur

Skipsstígur innan svæðis loftskeytastöðvarinnar.

Brennisteinsfjöll

Haldið var upp Kerlingarskarð frá sæluhúsinu við Bláfjallaveg, gengið suður með vestanverðum Draugahlíðum, inn í brennisteinsnámurnar í Brennisteinsfjöllum, og þær skoðaðar sem og tóftir búðanna. Litið var eftir hellisopum, sem spurnir hafa borist af, í suðaustanverðu Kistufelli og kíkt á flugvélaflak sunnan í fellinu. Þá var gengið upp í Kistufellsgíg og til norðurs austan Hvirfils. Ljósmyndari frá tímaritinu Útiveru var með í för til að festa landslag, minjar og fleira á filmu til birtingar með grein, sem mun birtast fljótlega í tímaritinu.

Kerlingarskarð

Búð námumanna undir Kerlingaskarði.

Þegar gengið er áleiðis upp í skarðið blasa Bollarnir við, nyrst Stóribolli, þá Miðbolli og síðan Syðstubollar (Þríbollar), en einu nafni nefnast þeir Grindarskarðshnúkar. Undir skarðinu er tóft frá tímum brennisteinsvinnslunnar. Þar hafa námumenn “umskipað” afurðunum og tekið með sér birgðir upp á námusvæðið. Tugir hesta voru í hverri lest og margir höfðu atvinnu af vinnslunni og flutningunum. Til stóð að strengja vír úr Grindarskarðshnúkum niður á slétt hraunið neðan skarðsins, vírnum var skipað á land í Hafnarfirði, en hann var það þungur að ekkert farartæki gat flutt hann upp fyrir skarðið. Vírinn lá því óhreyfður á hafnarbakkanum árum saman.

Spenastofuhellir

Í Spenastofuhelli.

Á uppleiðinni eru nokkrir stuttir hellar og stór hrauntröð úr Miðbolla. Fallegar hraunmyndanir eru í sumum hellanna. Efst í Kerlingarskarði er drykkjarsteinn. Hann var hálffullur af vatni. Sumar sagnir segja að drykkjarsteinarnir hafi átt að vera tveir þarna. Þegar betur var að gáð sást hvar önnur skál í móbergsklöpp var þar örfáum metrum ofar. Eftir að hafa hreinsað mold og möl upp úr skálinni kom í ljós hinn myndarlegasti drykkjarsteinn, greinilega mikið notaður í gegnum aldir. Sennilega hefur hann fyllst þegar ferðir lögðust að mestu af um götuna og enginn orðið til að halda honum við (hreinsa upp úr honum eins og drykkjarsteina er þörf). Nú er þessi stærri skál orðin tilbúin að nýju og vonandi fyllst hún fljótlega af vatni, vegfarendum til svölunar.

Kerlingarskarð

Drykkjarsteinn efst í Kerlingarskarði.

Ofan við skarðið var staðnæmst og dást að útsýninu. Ofan þess blasir Miðbolli við í norðri, Kóngsfellið og Bláfjöllin austar. Löngum hefur verið deilt um hvort sýslumörkin mættust í Kóngsfelli eða Stóra-Kóngsfelli við Drottningu undir Bláfjöllum. Sagt er að fjárkóngarnir að austan, sunnan, vestan og norðan hafi mæst í Kóngsfelli og ráðið ráðum sínum. En þar sem menn hafi ekki verið alveg vissir um hvaða fell var hið eina rétta Kóngsfell, enda öll keimlík aðkomu, hafi nöfnin færst yfir á hin. Litla-Kóngsfell er t.d. á mótum þriggja gatna og Kóngsfell er á mótum þriggja sýslna. Kannski þess vegna hefur línan einhvern tímann verið dregin í Stóra-Kóngsfell, svona til að hafa það með í hópnum.

Miðbolli er einn fallegasti eldgígur landsins. Neðar mátti sjá Litla Kóngsfell og sunnar Draugahlíðar. Í suðri voru nokkrir eldgígar.

Brennisteinsfjöll

Miðbolli (t.h.) og Kóngsfell.

Gengið var meðfram þeim og síðan til suðurs vestan Draugahlíða, framhjá útdauðu hverasvæði og síðan suður með miklu misgengi (sigdal), sem þarna liggur þvert í gegn ofan Draugahlíða. Hinn myndarlegi Draugahlíðagígur trjónaði stór og stoltlegur á baki þeim. Hvirfill stendur að vestanverðu, en hann er stærsta eldstöð Brennisteinsfjalla, frá því á síðasta jökulskeiði. Þegar komið var upp á hrygg sunnan gígins opnaðist fagurt útsýni yfir Brennisteinsfjöllin. Þessi fjallshryggur hefur verið eldvirkur fyrir og eftir landnám.

Brennisteinsfjöll

Brennisteinsfjöll.

Gengið var á ská niður gróna hlíð, niður að tóft af búðum brennisteinsnámumanna. Í henni má enn sjá bálkana beggja vegna sem og leifar pottofns. Tóftin stendur undir læk, sem kemur ofan úr hlíðinni. Reyndar var hann vatnslítill þetta sinnið. Tveir hálfleygir rjúpuungar leituðu að öruggara skjóli. Móðirin fylgdist lífsreynd með.

Brennisteinsfjöll

Tóft námumanna í Námuhvammi.

Neðar eru brennisteinsnámurnar. Þær eru í hraunhlíð. Sést vel hvernig grafið hafði verið inn í bakkann og brennisteinskjarninn eltur inn og niður í hraunið. Svæðið hefur að öllum líkindum verið miklu mun virkara á námutímanum. Götur liggja frá námusvæðinu út á stóra hrauka þar sem námumenn hafa losað sig við afkastið. Hlaðin tóft er í skjóli í hraunkvos og við hana ofn hlaðinn úr múrsteinum. Bakki hafði hrunið yfir ofninn, en með því að skafa lausan jarðveg ofan af kom efsti hluti hans í ljós.

Brennisteinsnámur

Brennisteinsnámur í Brennisteinsfjöllum – uppdráttur ÓSÁ.

Englendingar hófu þar brennisteinsnám í kringum 1880 fyrir atbeina Skotans W.C. Spence Paterson, sem kenndi á Möðruvöllum í tvo vetur og varð síðan ræðismaður í Hafnarfirði. Það þurfti að brjótast í gegnum 3-4 m þykka hraunskorpu til að komast að brennisteininum og flutningar voru erfiðir, þannig að þessi starfsemi varð ekki langvinn. Flutningaleiðin sjálfr er sögð hafa verið um Grindaskörð til Hafnarfjarðar.
Brennisteinn var fluttur út frá Íslandi allt frá 14. öld en hann var nauðsynlegur til púðurgerðar og því gat brennisteinsnám verið arðvænlegt. Konungur áttaði sig á þessu snemma og reyndi mikið að ná undir sig einkarétti á þessari verslun.
Á miðöldum var íslenski brennisteinninn notaður til hernaðar og var einkum eftirsóttur á 15. og 16. öld þegar farið var að nota byssupúður en brennisteinn var einmitt nauðsynlegur til púðurgerðar þar sem honum var blandað saman við saltpétur og kol. Brennisteinn var útflutningsvara frá 14. öld en segja má að blómatími brennisteinsverslunar hér á landi hafi verið á 15. og 16. öld.

Brennisteinsfjöll

Bræðsluofn í brennisteinsnámunum.

Nokkuð var um brennistein á Íslandi en svo virðist sem brennisteinsvinnsla hafi hafist snemma hér á landi en elsta heimild um brennisteinsnám er frá 1279. Mest er af brennisteini á norðausturhluta og suðvesturhluta landsins og er þar að finna stærstu námurnar, t.d. í Reykjahlíð í Mývatnssveit á Norðausturlandi en í Brennisteinsfjöllum og í Krísuvík á Suðvesturlandi.
Brennisteininn er að finna á háhitasvæðum og var hann grafinn úr jörðu. Niels Horrebow, erlendur ferðamaður á Íslandi á 18. öld, lýsti aðförunum við moksturinn svona:

Brennisteinsfjöll

Ofninn.

„Þegar heitt er í veðri þola menn ekki að vinna að brennisteinsgreftrinum á daginn. Þá er unnið á nóttunni, sem á sumrin er nægilega björt til þess. Menn þeir, sem að greftrinum eru, vefja vaðmálsdruslum um skó sína. því að annars myndu þeir brenna þegar í stað, en brennisteinninn er svo heitur, þegar hann kemur úr jörðinni að ekki er unnt að snerta á honum, en hann kólnar fljótt.“

Brennisteinninn, sem grafinn var upp hér á landi, innihélt um 14-22% óhreinindi og þurfti því að hreinsa hann. Fyrr á öldum var hann þó fluttur út óhreinsaður en árið 1753 var á vegum Innréttinganna reist hreinsunarverk í Krísuvík og árið 1762 á Húsavík. Samkvæmt skýrslu voru um 72,5 tonn af brennisteini frá Krísuvík flutt út á árunum 1755-1763 á vegum Innréttinganna sem fengið höfðu einkaleyfi til að vinna og hreinsa brennistein um 1752.

Brennisteinsfjöll

Gata í námunum.

Brennisteinninn var hreinsaður með vatni og lýsi og hann síðan bræddur í járnpotti sem yfirleitt var hitaður upp með mó. Gæta þurfti þess að hita pottinn ekki um of því þá gufaði brennisteinninn upp. Við bræðsluna flutu óhreinindi og lýsi, sem notað var við bræðsluna, ofan á brennisteininum, sem fleytt var af með járnspaða. Brennisteininum var síðan hellt ofan í eikarmót gegnum síu og honum síðan raðað ofan í tunnur til útflutnings.
Verslun með brennistein gat verið arðbær en svo virðist sem bæði kirkju- og konungsvald hafi áttað sig á þessu snemma enda reyndu þau mikið til að afla sér einkaréttar á verslun með brennistein. Landið varð snemma frægt fyrir þetta gula efni en í tilraunum Danakonunga fyrr á öldum til þess að veðsetja landið var talinn mikill kostur að landið væri ríkt af brennisteini.

Brennisteinsfjöll

Í brennisteinsnámunum.

Námusvæðið var rissað upp til varðveislu í Reykjanesskinnu til síðari tíma nota.
Þá var gengið til suðurs með Brennisteinsfjöllum og áleiðis upp í suðausturhlíðar Kistufells. Þar var að sjá mikið brak úr flugvél, sem brotlenti í hlíðinni. Mótorinn var neðar, en talsvert af hlutum á víð og dreif hingað og þangað. Um var að ræða Hudson l/251, tveggja hreyfla kafbátaleitarvél frá breska flughernum. Slysið varð í 27. mars árið 1945. Með vélinni fórust fimm menn. Af einhverri ástæðu varð ein FERLIRshúfan eftir þegar svæðið var yfirgefið. Hún kom hins vegar í leitirnar síðar þegar annar leiðangur heimsótti svæðið.

Brennisteinsfjöll

Brennisteinsfjöll – Kistufellsgígur.

Gengið var upp með sunnanverðu Kistufelli og að Kistufellsgíg (Kistugíg). Hann er einn stórkostlegasti gígur landsins. Háir hamraveggir eru umhverfis gíginn og nýrri hraun hefur runnið ofan í hann á tveimur stöðum. Lóuhreiður var á gjárbarminum og var fyrsti unginn að reyna að brjóta sér leið út. Móðirin hafði greinilega verpt öðru sinni þetta sumarið. Hálffleigur lóungi reyndi að flögra í felur, en stefndi fram af gígbarminum. Aðstaðan hlaut að hafa komið honum á óvart. Kistufellið er 602 m.y.s.

Kistufell

Kistufellstaumur.

Að minnsta kosti 12 hraun hafa runnið á Reykjanessskaga síðan land byggðist. Nýjasta er sennilega á 14. öld. Eftir að jökul leysti af skaganum fyrir um 12-15 þúsund árum hafa um 200 eldstöðvar á fjórum eldstöðvarkerum verið virkar á svæðinu og úr þeim runnið um 42 rúmkílómetrar af hrauni sem þekur yfir 1000 ferkílómetra landssvæði. Þar má finna helstu gerðir íslenskra eldstöðva eins og hraunskildir(dyngjur), gígaraðir, gígahópar og sprengigíga. Flest þessara einkenna má finna í Brennisteinsfjöllum.
Gengið var niður í gíginn og hann skoðaður neðanfrá. Þá sást vel hversu stórfengleg náttúrusmíð hann er. Gígurinn er sigdæld líkt og misgengisdalurinn austan Hvirfils. Norðan gígsins er stór og mikið hrauntröð er liggur til norðurs og beygir síðan til vesturs.

Kistufell

Hreyfillinn, sem fjarlægður var úr Kistufelli.

Skoðað var í hellaop suðaustan í Kistufelli og síðan haldið til norðurs milli Hvirfils og Draugahlíða. Þar á ás, ofan við brennisteinsmámasvæðið, er varða. Frá henni sést í aðra vörðu ofar á ásnum. Við hana er stórt vatnsstæði í gíg. Talsverð landeyðing er þarna efst, en þegar götu frá vörðunni er fylgt til norðurs má sjá hana greinilega liggja niður ásinn og áfram með vestanverðum hraunkantinum, milli hans og hlíðarinnar. Varða er við rætur ássins þeim megin og síðan tvær fallnar vörður við stíginn þar sem hann liggur áleiðis að sunnanverðum syðsta Syðstabolla.

Brennisteinsfjöll

Leið vestan Kerlingarhnúka að Kerlingarskarði.

Þar liggur gatan greinilega niður dalverpi með háum hamravegg á vinstri hönd og Bollann á þá hægri. Þetta er mjög falleg leið og auðfarin. Þegar halla fer niður á við beygir gatan til vinstri og síðan áleiðis niður mosahlíðina vestan undir Bollunum. Hér gæti hafa verið um aðra leið brennisteinsnámumanna að ræða, en hún er stysta og einnig sú greiðfærasta þangað, auk þess bæði áreiðanlegt og gott vatnsstæði er á leiðinni.
Frábært veður – sól og hiti. Gangan tók 6 klst og 6 mín.

Um brennistein:
http://www.idan.is/1000/01,01,02_brennisteinn.html

Kistufellsgígur

Kistufellsgígur.

ísólfs

Á Selatöngum var fyrrum verstöð og útræði mikið. Gengu þaðan m.a. biskupsskip frá Skálholti. Þar sér enn allmikið af gömlum búðartóftum og görðum, er fiskur og þorskhausar voru fyrrum hengdir á til herzlu.

Katlahraun

Í Katlahrauni – Sögunarkór.

Hjá Selatöngum eru hraunhellar margir, en flestir litlir. Var hlaðið fyrir opið á sumum þeirra til hálfs og notuðu sjómenn þá til ýmissa hluta. Í einum höfðu þeir kvörn sína og kölluðu þeir þann helli Mölunarkór, í öðrum söguðu þeir og kölluðu hann því Sögunarkór o.s.frv. Reki var mikill á Selatöngum og færðu sjómenn sér það í nyt; smíðuðu þeir ýmsa gripi úr rekaviðnum, þá er landlegur voru, en þær voru ekki ótíðar, því að brimasamt var þar og því sjaldan róið á stundum.

Selatangar

Selatangar – verbúð.

Á síðara hluta 19. aldar bjó í Stóra-Nýjabæ í Krýsuvík maður sá, er Einar hét. Hann átti mörg börn, og er saga þessi höfð eftir tveim sonum hans, Einari og Guðmundi. Einar, faðir þeirra, var allt að 30 vertíðum formaður á Selatöngum. Var í mæli, að reimt hefði verið á Selatöngum, og var draugsi sá í daglegu tali nefndur Tanga-Tómas. Hann gerði búðarmönnum ýmsar smáglettur, en var þó ekki mjög hamramur. Þá bjó á Arnarfelli í Krýsuvík maður sá, er Beinteinn hét. Var talið að Tómas væri einna fylgispakastur við hann. Var Beinteinn þessi fullhugi mikill, smiður góður og skytta og hræddist fátt. Var þetta orðtak hans: „Þá voru hendur fyrir á gamla Beinteini“.

Einu sinni varð Beinteinn heylítill, og flutti hann sig þá niður á Selatanga með fé sitt til fjörubeitar. Var hann þarna um tíma og hafðist við í sjóbúð, er notuð var á vetrum.

Seatangar

Gengið um Selatanga.

Kvöld eitt er Beinteinn kemur frá fénu, kveikir hann ljós og tekur tóbak og sker sér í nefið.
Tík ein fylgdi honum jafnan við féð og var hún inni hjá honum. Veit Beinteinn þá ekki fyrr en ljósið er slökkt og tíkinni hent framan í hann. Þreif hann þá byssuna og skaut út úr dyrunum. Sótti draugsi þá svo mjög að Beinteini að hann hélzt loks ekki við í sjóbúðinni og varð að hröklast út í illviðrið og fara heim til sín um nóttina. Hafði Beinteinn skaröxi í hendi og hvar sem gatan var þröng á leiðinni heim um nóttina, þá kom draugsi þar á móti honum og reyndi að hefta för hans, en undir morgun komst Beinteinn heim og var þá mjög þrekaður. Um viðskipti draugsa og Beinteins er ekki fleira kunnugt, svo að sögur fari af. Þess má geta, að þá er Beinteinn var spurður, hvað hann héldi, að um draugsa yrði, er sjóbúðin yrði rifin, þá svaraði hann: „Og hann fylgir staurunum, lagsi“.

Selatangar

Selatangar – fiskbyrgi.

Nokkru eftir þetta bar svo við, að tveir áður nefndir synir Einars bónda í Stóra-Nýjabæ fóru niður á Selatanga á jólaföstunni og hugðu að líta til kinda og ganga á reka; jafnframt ætluðu þeir að vita, hvort þeir sæju ekki dýr, því að annar þeirra var skytta góð.
Þeir komu síðla dags niður eftir og sáu ekkert markvert; fóru þeir inn í þá einu búð sem eftir var þar þá og ætluðu að liggja þar fram eftir nóttinni, en fara á fætur með birtu og ganga þá á fjöru og vita, hvort nokkuð hefði rekið um nóttina.

Selatangar

Selatangar – sjóbúð og fiskbyrgi.

Bálkar voru í búðinni fyrir fjögur rúm, hlaðnir úr grjóti, eins og venja var í öllum sjóbúðum og fjöl eða borð fyrir framan. Lögðust þeir í innri rúmbálkinn að vestanverðu og lágu þannig að Einar svaf við gaflhlaðið en Guðmundur andfætis. Þá er þeir höfðu lagzt niður, töluðu þeir saman dálitla stund og segir þá Guðmundur meðal annars:
„Skyldi þá Tómas vera hér nokkurs staðar?“
Kvað Einar það líklegt vera. Fella þeir svo talið og ætlað að sofna en er þeir hafa legið litla stund heyra þeir að ofan af ytra bálkinum við höfuð Guðmundar stekkur eitthvað. Var það líkast því sem stór hundur hefði stokkið niður á gólfið; voru þeir þó hundlausir er þeir komu þangað, og búðin lokuð. Segir þá annar bræðranna:

Selatangar

Tanga-Tómas á Selatöngum með FERLIRsfélögum.

„Þarna er hann þá núna“, en í sömu svipan er kastað tómu kvarteli sem hafði staðið á ytra bálkinum hinum megin, inn í gaflhlað beint yfir höfuð Einari. Sofnuðu þeir bræður ekki um nóttina, en fóru á fætur. Ekki lét draugsi neitt frekara til sín heyra. Eftir 1880 lagðist útræði niður frá Selatöngum. Um það leyti var seinasta sjóbúðin rifin, og hafa menn eigi hafzt þar við síðan.

Rauðskinna I 41

Fengið af:
http://bokasafn.rnb.is/default.asp?cat_id=233

Selatangar

Selatangar – uppdráttur

Húshólmi

Krýsuvík var fyrst byggð niður við sjó fyrir utan Krýsuvíkurberg en lagðist svo af að eldur kom upp í fjöllunum þar norður frá og runnu hraunkvíslar hér og þar fram milli hálsanna.

Ögmundarhraun

Ögmundarhraun – Latfjall fjær.

Hin austasta var einna mest. Smalamaður frá Krýsuvík var kippkorn frá bænum með féð. Hann sá glóandi hraunleðjuna brjótast með feikna hraða ofan úr skarðinu upp frá bænum og fleygjast út yfir láglendið. Hann sá sér enga von til undankomu og beið með fjárhópinn þess er að höndum kæmi og fól sig guði; því hefir þetta skeð í kristni. Eldflóðið fór allt í kringum hann og sakaði hvorki hann né féð nema eina á. Það heitir síðan Óbrennishólmi er hann var.

Hraunið hljóp um allt láglendið og fram í sjó en túnið í Krýsuvík stóð óskaddað og bærinn. En nálega var ófært þangað þegar hraunið var storknað. Þá var bærinn fluttur þangað sem Krýsuvík er nú, það er ofar og austnorðar. Þegar eldgangurinn var afstaðinn og hraunin storknuð, fóru menn að leggja veg til Grindavíkur yfir þau og urðu öll rudd að þessu austasta fráteknu. Það var svo stórgert og hart að það var óvinnandi og varð ekki veginum komið á.

Ögmundarstígur

Ögmundarstígur.

Ögmundur var berserkur. Er hann sagður hafa lagt veginn yfir hraunið en verið drepinn að verki loknu. Grjóthrúga er þar við götuna sem kallað er leiði Ögmundar. Vegurinn gegnum hraunið er djúpur og mjór og víða brotinn eða höggvinn gegnum stór hraunstykki en víða þrepóttur í botninn sem hin gamla staka segir:

Eru í hrauni Ögmundar
ótal margir þröskuldar,
fáka meiða fæturnar
og fyrir oss brjóta skeifurnar.

Síðan hefir hraunið heitið Ögmundarhraun. Þar sem áður var bærinn Krýsuvík, heitir nú Húshólmi. Þar er vatnsskortur oftast. Litlar menjar kvað sjást þar af tóftum, en þó nokkrar.

Fengið af:
-http://bokasafn.rnb.is/default.asp?cat_id=292

Ögmundardys

Ögmundardys austast við Ögmundarstíg.

Krísuvík

Í skýrslu Bjarna F. Einarssonar; „Krýsuvík – Fornleifar og umhverfi“, frá árinu 1998 segir m.a. frá fyrstu heimildum um Krýsuvík, auk þess sem skýrslunni fylgir skrá um einstakar fornleifar tilheyrandi svæðinu. Hér verður rifjaður upp sögulegi kafli skýrslunnar:

Fyrstu heimildir um Krýsuvík

Bjarni F. Einarsson

Bjarni F. Einarsson.

„Krýsuvíkur er fyrst getið í Landnámu, en þar stendur: „Þórir haustmyrkr nam Selvág ok Krýsuvík, en Heggr son hans bjó at Vági. Böðmóðr, annarr son hans, var faðir Þórarins, föður Súganda, föður Þorvarðar, föður Þórhildar, móður Sigurðar Þorgrímssonar. Molda-Gnúpssynir byggðu Grindavík, sem fyrr er ritat“. (Landnáma 1968:392).
At Vági er sennilega Vogur í Selvogi, sem síðar hét Vogshús og enn síðar Vogsósar. Um staðsetningu Vága eru þó talsverðar efasemdir (Guðni Jónsson 1936-40:14).
Í kirknaskrá Páls biskups Jónssonar, sem mun vera frá því um 1200, er kirkju í Krýsuvík getið (Í.F. Bd. XII, bls. 9).

Keflavík

Keflavík í Krýsuvík – einnig nefnd Kirkjufjara. Þangað átti Skálholtskirkja og síðar Strandarkirkja um tíma rekaítök undir berginu til forna og eftir siðaskiptin kirkjur á norðanverðum Reykjanesskaga, s.s. Viðey og Garðakirkja. Í Keflavík var jafnan nægt rekaviðs.

Árin 1234 og 1284 er Krýsuvík nefnd í máldaga Maríu kirkju og staðar í Viðey í sambandi við hvalreka. Þar stendur: „en sa maðr er byr j Krysvvik skal skylldr at festa hvalinn sva at eigi taki sør vt. oc gera orð til Viðeyiar fyri þriðiv.sol“. (Í.F. Bd. I, bls. 507).
Ábúandi átti sem sagt að sjá til þess að hval ræki ekki aftur út og gera Viðeyjarmönnum viðvart innan þriggja daga.
Elsti máldagi Maríukirkju í Krýsuvík er frá því um 1275. Sá máldagi er í stórum dráttum eins og máldagi frá 1307, en sá síðari þó fyllri.

Mölvíkurtjörn

Við Mölvíkurtjörn austan Herdísarvíkur. Þangað sótti Skálholtsstóll og Strandarkirkja löngum reka með vísan til fornra heimilda.

Í Rekaskrá Strandarkirkju frá um 1275 stendur: „skalhollt oc krijsevijk aa halfann allann reka under fuglberge vid strandar land. millum wogs oc hellis aa strendur land iiij vætter enn ef meire er þa aa skalhollt oc krijsvijk fiordung j øllum hual. Enn fyrer austann wog til vindass aa stadur j skaalhollte oc krijsevijk halfan tolftung i hual ef meire er enn iiij vætter. en ecke ellegar“. (Í. F. Bd. II, bls. 124-25).
Krýsuvíkur er síðan getið á mörgum stöðum í Fornbréfasafni og yfirleitt í sambandi við hvalreka, rekavið og grasnytjar. Hafa þessi hlunnindi því verið eftirsóknarverð frá ómunatíð (sjá nánar góða greinargerð um Krýsuvíkurkirkju í fornum heimildum í Sveinbjörn Rafnsson 1982).

Húshólmi

Húshólmi – uppdráttur Brynjúlfs Jónssonar.

Árið 1818 sendi séra Jón Vestmann (1769-1859), sem var prestur í Selvogi árin 1811-1842, bréf til hinnar konunglegu nefndar, Commissionen for oldsagers opbevaring, vegna fyrirspurna nefndarinnar um fornleifar í landinu. Í bréfinu tíundar Jón þær fornleifar sem hann þekkir og telur þess verðar að minnast á. Engar nefnir hann fornleifarnar í landi Krýsuvíkur sem nú er, en í Ögmundarhrauni segir hann svo frá fornleifum: „Hús-Hólmi nidur vid sióin í sama Hrauni; hefur þar verid mikil Bygd, ádur brann, sem sést af Húsa Tópta-Brotum, ad hvórium Hraunid géngid hefur, ad nordan –vestan -sunnan, – og næstum saman ad Austan-verdu; er þar 1t Tóptar-Form 12 Feta breidt, og 24 Feta Lángt, innan nidur fallinna Veggia Rústa; Húsid hefur snúid líkt og Kyrkiur vorar, meinast gamalt Goda-Hof; fundid hafa Menn þar nockud smávegis af Eyrtægi; þar er tvisett Túngards form med 20 fadma Milli-bili, hvar nú er Ling Mói; enn Graslendi innan ynnri Gards, austanverdt vid Hraunid“. (Frásögur um fornaldarleifar 1983:227).

Húsólmi

Uppdráttur af Húshólma frá fyrri tíð – (Haukur og Sigmundur).

Forsaga byggðar í Krýsuvík er að margra mati í hólmanum í Ögmundarhrauni sem getið er í svarbréfi Jóns prests hér að framan. Munu rústirnar þar gjarnan vera kallaðar Gamla Krýsuvík (Stefánsson 1967 (b)) eða Krýsuvík hin forna (Brynjólfur Jónsson 1903:48-50. Stefán Stefánsson (b) 1967:556. Haukur Jóhannesson og Sigmundur Einarsson 1988:84).
Athyglisvert er að Jón Vestmann segir ekki orð um þessi munnmæli í lýsingunni hér að ofan. Hann nefnir þau hins vegar í annarri lýsingu sinni árið 1840 og segir að; „Meina menn, að Krýsuvík hafi þar verið, áður hraunið hljóp þar yfir,… (Sýslu- og sóknarlýsingar 1979:214). Enn í dag sjást talsverðar rústir í Húshólma og Kirkjulágum þar skammt hjá.

Húshólmi

Húshólmi – garður – uppdráttur – (Haukur og Sigmundur).

Um aldur Ögmundarhrauns eru talsvert skiptar skoðanir. Elst er það talið geta verið frá öndverðri 11. öld. Byggist sú tilgáta á geislakolsgreiningum. Aðrir telja hraunið runnið seint á tímabilinu 1558-1563 Einnig hefur verið talið að hraunið hafi runnið 1340. Síðustu niðurstöðurnar benda til þess að hraunið hafi runnið árið 1151 (Jón Jónsson 1982:196. Sveinbjörn Rafnsson 1982:422. Haukur Jóhannesson og Sigmundur Einarsson 1988:71). Upptök hraunsins eru í Trölladyngju, nyrsta hluta Núpshlíðarháls.
Eins og áður hefur komið fram er elsta heimild um kirkju í Krýsuvík í kirknaskrá

Húshólmi

Húshólmi – meint kirkjutóft í Kirkjulág.

Páls biskups Jónssonar frá því um 1200 og nokkrum sinnum er kirkjunnar getið í 13. aldar heimildum. Ef Ögmundarhraun er rétt aldursgreint til ársins 1151 hljóta skrárnar að eiga við kirkju þá er stóð undir Bæjarfellinu, á núverandi stað. Þó hefur því verið haldið fram að kirkja hafi áfram staðið fram á 16. öld, úti í Ögmundarhrauni (Haukur Jóhannesson og Sigmundur Einarsson 1988:83-84).
Ekki eru rústirnar í Ögmundarhrauni þær einu sem kallaðar hafa verið Krýsuvík hin forna. Um Gestsstaði hefur einnig verið sagt að þeir hafi áður heitið Krýsuvík (Brynjólfur Jónsson 1903:50. Örnefnaskrá (a)).

Gestsstaðir

Gestsstaðir í Krýsuvík, skálatóft sunnan Gestsstaðavatns.

Elsta heimildin um Gestsstaði er Jarðarbók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns sem skráð var árið 1703. Þar segir: „Gestsstader skal hafa jörð heitið nálægt Krýsivík undir Móhálsum austanverðum, þar allnærri sem nú liggur almenníngsvegur. Sjer þar enn nú bæði fyrir túngarði og tóftum. En völlur er allur uppblásinn og kominn í mýri, mosa og hrjóstur, so ómögulegt er jörðina aftur að byggja. Þar með liggur hún aldeilis í Krýsivíkurlandi og kann ekki fyrir utan skaða Krýsivíkur landsnytjar að hafa. Hefur og so lánga tima í eyði legið, að engi veit til nær hún hafi bygð verið“. (1923-24:7).

Gestssaðir

Gestsstaðir – uppdráttur – ÓSÁ.

Um Gestsstaði segir Brynjólfur Jónsson svo: „Gestsstaðir heitir eyðibær, norðvestur frá Krýsuvík, þar sem hún er nú. Hann hefir staðið sunnanundir dálítilli hæð, sem gengur austur úr Sveifluhálsi. Sér þar enn fyrir tóftum, og hefir þar verið stórbýli á sínum tíma. Bæjartóftin er 10 fðm. löng frá austri til vesturs, hefir engan miðgafl, og mun hafa verið þiljuð sundur. Dyr sjást ógjörla, en á suðurhliðinni hafa þær verið, því hvorki eru þær á endunum né norðurhliðinni. Skamt austar er fjóstóft, 6 fðm löng, og heygarður eigi lítill. Túnið hefir og verið mikið og umgirt, en nú er það víða komið í sand af árennsli.

Gestsstaðir

Gestsstaðir – eystri tóftin og garður.

– Þau ummæli heyrði eg í Grindavík fyrir 40 árum, að Krýsuvík hefði í fyrstu heitið Gestsstaðir og staðið vestur við hálsinn. Nú þykist eg skilja sannleikann í þeim. Jörðin Gestsstaðir hefir verið eign Krýsuvíkurkirkju. Hefir bærinn og kirkjan því verið flutt í Gestsstaðaland eftir eldinn. En við það hafa Gestsstaðir verið sviftir nytjum, og meir og meir þrengt að þeim unz þeir lögðust í eyði“. (1903:50).

Húshólmi

Húshólmi – skálar. Hafa ber í huga að skv. lýsingunum skoðaði Bjarni einungis Húshólma „úr lofti“. Stundum skiptir samhengi hlutanna í nánd máli?

Tel ég munnmælin um Krýsuvík hina fornu í Ögmundarhrauni og við Gestsstaði vera seinni tíma útskýringar til að varpa einhverju ljósi á rústir sem voru mönnum annars með öllu óþekktar og óskiljanlegar. Benda má á að Svartadauða, sem geisaði árið 1402, hefur verið kennt um eyðingu margra óþekktra eyðibýla hér á landi, en aldrei hefur sambandið verið staðfest, öðru nær. Þau eyðibýli, sem rannsökuð hafa verið og heimildir eru til um að hafi farið í eyði vegna Svartadauða, eru öll mun eldri en plágan.

Krýsuvík

Krýsuvík – örnefnakort Ólafs Þorvaldssonar.

Túlkun Brynjólfs um eyðingu Gestsstaða er tilgáta en ekki staðreynd. Ekki er víst að neitt samband sé á milli eyðingar Gestsstaða og Krýsuvíkurbæjarins, heldur hafi staðreyndir skolað til og munnmæli og ímyndanir blandast saman svo úr varð þjóðsaga um Krýsuvík hina fornu. Hluti af þessum munnmælum er frásögn í Ferðabók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar frá 1772 um hraunflóð sem eyddi kirkjustað sem hét Hólmastaður, en það er elsta lýsingin á rústunum í Ögmundarhrauni. Átti það að hafa gerst tveimur öldum fyrir heimsókn þeirra Eggerts og Bjarna. Í þeirri frásögn er hvergi minnst á sambandið við Krýsuvík.

Húshólmi

Húshólmi – uppdráttur ÓSÁ.

Í dagbókum þeirra félaga frá 31. maí 1755 segir svo frá rústunum: „… taget bort Nogle bajer som her til forne har Staaet, og der i bland Eet Kirke Stæd som heed Holma Stadur med Kirken og alting, dog Seer man endnu paa Een liden plet der er bleven til overs lidet Stykke af (sem det meenes) Kirke gaarden og faae Stykker af Husevæggene“. (Í Sveinbjörn Rafnsson 1982:420).

Krýsuvík

Krýsuvíkurbærinn um 1789. Bæjarfellið rís yfir bænum og Vestarilækur liðast undir bæjarhólnum. Hér má gera sér einhverja grein fyrir kirkjugarðinum. Framarlega á myndinni, niður við lækinn, virðast vera kálgarðar. Á þessum slóðum er garðbrot í dag, sem gæti verið hluti af kálgarðinum. Á þessum slóðum fundust einnig rúst og stífla sem giskað er á að gætu verið leifar af brennisteinsstöðinni sem stóð við bæinn árin 1755-63. Kálgarðurinn gæti hafa verið settur niður við þær rústir. Horft til NNA. Myndin er úr bókinni Íslandsleiðangur Stanleys 1789. Ferðabók. Reykjavík 1979,
bls. 268.

Kannski hét jörðin í Ögmundarhrauni Hólmur í fyrstunni, síðan Hólmastaður þegar kirkja var reist á staðnum. Fornleifafræðirannsókn gæti skorið úr um þessi mál, en þangað til verður ekki hægt að segja hvað sé rétt og hvað ekki.

Árið 1563 er aðeins ein hjáleiga við Krýsuvík (Sveinbjörn Rafnsson 1982:421-22). Ekki er þess getið hver hún var.
Í manntali árið 1703 eru hjáleigurnar orðnar sex að tölu, en ekki er nafna þeirra getið (Manntal á Íslandi árið 1703:3). Í Jarðabók frá sama ári segir að hjáleigurnar séu fimm, en tvíbýli á einni þeirra, Nýjabæ. Hjáleigurnar voru Suður hjáleiga (Suðurkot), Norður-hjáleiga (Norðurkot), Nyie Bær, Litle Nyie Bær og Austur hús (Jarðabók 1923-24:4-7). Austurhús gæti verið við [Stóra] Nýjabæ, en þegar þar var tvíbýli voru húsin kölluð Austurbærinn og Vesturbærinn (Stefán Stefánsson 1967 (a)). Skúli Magnússon landfógeti segir að árið 1703 hafi hjáleigurnar verið sjö (Landnám Ingólfs 1935:109). Ekki er nafna þeirra getið.

Krýsuvík

Krýsuvíkurbærinn um 1789, séð frá NNA. Sennilega er Norðurkot neðst á myndinni t.v. Þar virðist vera hringlaga túngarður með nokkrum húsum fyrir innan. Arnarfellið sést t.v. og Bæjarfellið t.h. Myndin er úr sömu heimild og næsta mynd á undan.

Árið 1781 er eitt höfuðból í Krýsuvík og sjö hjáleigur. Segir í heimild frá þessum tíma að áður hafi verið tvíbýli í Krýsuvík. (Landnám Ingólfs 1935:109).
Í manntali frá árinu 1801 eru hjáleigurnar við Krúsuvík fjórar (fimm sé reiknað með tveimur á Stóra Nýjabæ). Þær eru Suður- og Norðurkot, Stóre Niebær 1. og 2. og Litle-Niebær. (Manntal 1978:320-21).
Nokkrum árum síðar, eða í manntali 1816 eru hjáleigurnar þær sömu og árið 1801. (Manntal 1953:375).
Árið 1840 eru hjáleigurnar orðnar sex talsins og allar nafngreindar. Þær eru Suður- og Norðurkot, Stóri- og Litli Nýibær, Lækur, og Vigdísarvellir. (Sýslu- og sóknalýsingar 1979:219). Sennilega var tvíbýli á Stóra Nýjabæ, sem gerir hjáleigurnar í raun sjö.

Krýsuvík

Fell – tóftir.

Í manntali frá árinu 1845 eru hjáleigurnar taldar upp sjö talsins. Þær eru Suður- og Norðurkot, Stóri Nýibær 1 og 2 Litli Nýibær, Vigdísarvellir og Bali. (Manntal 1982:346-47).
Í jarðartali Johnsens frá árinu 1847 eru hjáleigurnar einnig taldar vera sjö. Þær eru Suður- og Norðurkot, Stóri- og Litli Nýibær, Vigdísarvellir, Bali og Lækur. Lögbýlið Krýsuvík virðist vera tvíbýli. (Johnsen 1847:84). Ekki kemur fram hvort Stóri Nýibær hafi verið tvíbýli eða ekki. Af þessu má ráða að sumar hjáleigurnar hafa verið í ábúð meira og minna frá árinu 1703, jafnvel lengur. Aðrar koma og fara, en samtals verða þær aldrei fleiri en sjö talsins til ársins 1847.

Eyri

Eyri – bæjartóftir.

Sumar hjáleigur virðast vera svo stutt, eða seint, í ábúð að þeirra er ekki getið í jarðabókum né manntali. Þær eru Fitjar, Fell, Eyri (fór í eyði 1775. (Örnefndaskrá (b)), Arnarfell (sama og Fell?), Hafliðastekkur, Snorrakot, Snartakot(?) og Hnaus. Einhverjar þessara hjáleiga gátu verið tómthús, svo sem Snorrakot, Snartakot og Hnaus. Um önnur býli, sem vel gátu verið lögbýli, er nánast ekkert vitað, svo sem Gestsstaði og Kaldrana, en þau geta verið býsna forn.

Kaldrani

Kaldrani í Krýsuvík.

Um staðsetningu Fells og Eyrar er næsta lítið vitað. Get ég mér þess til að Eyri hafi verið sunnan í Selöldunni, og Fell rétt hjá Grænavatni (sé það ekki hið sama og Arnarfell). Um Snartakot, Snorrakot og Hnaus er vitað að þau stóðu í túni eða túnjaðri Krýsuvíkur.
Talið er að býlið Kaldrani hafi staðið skammt SV af Kleifarvatni og voru garðar sýnilegir þar um aldamótin síðustu. Segir Brynjólfur Jónsson svo frá staðháttum: „Sést þar 34 fpm. langur túngarðsspotti úr stórgrýti og lítil grasflöt fyrir ofan, suðaustan í sléttum melhól. Uppi á hólnum er dálítil dreif af hleðslugrjóti, sem virðist vera flutt þangað af mönnum. Gæti það verið leifar af bænum. Því garðspottinn sýnir það, að þar hafa menn búið á sínum tíma“. (1903:50).

Seltún

Seltún – minjar brennisteinsvinnslunnar.

Ekki fundust ummerki þau sem getið er hér að ofan við vettvangskönnun, nema ef átt sé við garðstúf. Ekki er það þó líklegt. Sennilega eru allar minjar um býlið komnar undir sand/vikur.
Árið 1753 var fyrsta brennisteinshreinsunarstöð landsins reist við námurnar í Krýsuvík (við Seltún?). Skömmu síðar, eða árið 1755, var stöðin flutt að Krýsuvíkurbænum og var þar a.m.k. til ársins 1763. (Landnám Ingólfs 1935:111). Hvar nákvæmlega þessi stöð stóð eftir flutninginn er ekki vitað í dag, en varla hefur hún verið mjög nálægt bæjarhúsunum sjálfum. Giska ég á að hún kynni að hafa staðið niður við lækinn þar sem stífla og rúst eru staðsett.

Seltún

Brennisteinsnámuvinnslusvæðið við Seltún.

Stöðin gæti fyrst hafa verið þar sem kallast Brennisteinshúsarústir (Örnefnaskrá (a)), eða Brennisteinshúsatættur (Örnefnaskrá (b)), framan við Seltúnið á Seltúnsbarði, sunnan Selgilsins. Öruggar minjar um stöðina fundust ekki við vettvangsathugun, en einu minjarnar sem fundust við Seltúnið, auk selsins, voru grunnur að einhverju húsi sem gæti hafa verið undir stöðvarhúsinu. Sá grunnur gæti þó verið mun yngri.

Fornleifarnar

Krýsuvík

Krýsuvík – uppdráttur Bjarna F. Einarssonar.

Engar fornleifarannsóknir hafa verið gerðar á fornleifum á könnunarsvæðinu, svo mér sé kunnugt um. Í Húshólma í Ögmundarhrauni hafa jarðlög verið könnuð af jarðfræðingum og fimm geislakols-aldursgreiningar verið gerðar þar og í næsta nágrenni. Fornleifarnar í hrauninu munu hafa verið teiknaðar upp af fornleifafræðingi, en þær teikningar ekki verið birtar. Niðurstöður geislakolsgreininganna voru að byggð hafi verið á staðnum á 11. öld. (Haukur Jóhannesson o.fl. 1988:79). Torfgarður í Húshólma var sömuleiðis kannaður af jarðfræðingum og því haldið fram að hann hafi verið eldri en landnámsgjóskan svokallaða, en hún féll árið 871 eða 872. (Sami 1988:83). Því bendir ýmislegt til þess að mjög fornar fornleifar sé að finna í Ögmundarhrauni, en hvernig þær tengjast fornleifum í Krýsuvík er ekki ljóst.

Krýsuvík

Krýsuvík seinni tíma – uppdráttur ÓSÁ.

Ekki hafa allar gamlar þjóðleiðir verið skráðar sérstaklega og stafar það af því að þegar engin ummerki um slíkar leiðir finnast er þeim sleppt. Dæmi um slíkar leiðir má sjá á korti í bók Guðrúnar Gísladóttur (1998, m.a. kort 14) og korti í grein Ólafs Þorvaldssonar (1949:86). Þessar leiðir voru t.d. Engjafjallsvegur, Austurengjavegur og vegur um Bleiksmýri, sunnan við Arnarfell og suður úr. Önnur leið lá norðan við Arnarfellið og austur úr. Ekki ber kortunum alveg saman um nákvæma legu þessara og annarra leiða, enda ekki víst að menn hafi í raun séð leiðirnar almennilega, þegar þeir settu þær inn á kort.

Brennisteinsámur eru ekki skráðar hér og er ástæðan fyrst og fremst sú að undirritaðan skortir þekkingu á að lesa námurnar út í landslaginu og bróðurpartur þeirra er utan við könnunarsvæðið.

Krýsuvík

Krýsuvík – tóftir brennisteinsnámsins í Hveradal.

En aftur má benda á Guðrúnu Gísladóttur og að auki skýrslu Ole Henchels í ferðabók Ólafs Olaviusar (1965). Í þeirri skýrslu er kort af námusvæðunum og virðast flest allar námurnar þar vera fyrir utan könnunarsvæðið.“

Krýsuvík

Krýsuvíkurkirkja.

Frá því að framangreind skýrsla varð gerð hefur mikið vatn runnið til sjávar…
Auðveldlega væri hægt að gera verulegar athugasemdir við framangreinda „fornleifaskráningu“, en það er ekki markmiðið með þessari fróðleiksupplýsingu.
Benda má þó á eitt að lokum – Krýsuvík er skrifað í texta með „ý“ en ekki „í“, enda má benda til fornra tilvitnaðra textaskrifa í meðfylgjandi lýsingum því til staðfestingar – sjá HÉR.

Arnarfell

Arnarfell – uppdráttur ÓSÁ.