Tag Archive for: Grindavík

Krísuvík

Í skýrslu Bjarna F. Einarssonar; „Krýsuvík – Fornleifar og umhverfi“, frá árinu 1998 segir m.a. frá fyrstu heimildum um Krýsuvík, auk þess sem skýrslunni fylgir skrá um einstakar fornleifar tilheyrandi svæðinu. Hér verður rifjaður upp sögulegi kafli skýrslunnar:

Fyrstu heimildir um Krýsuvík

Bjarni F. Einarsson

Bjarni F. Einarsson.

„Krýsuvíkur er fyrst getið í Landnámu, en þar stendur: „Þórir haustmyrkr nam Selvág ok Krýsuvík, en Heggr son hans bjó at Vági. Böðmóðr, annarr son hans, var faðir Þórarins, föður Súganda, föður Þorvarðar, föður Þórhildar, móður Sigurðar Þorgrímssonar. Molda-Gnúpssynir byggðu Grindavík, sem fyrr er ritat“. (Landnáma 1968:392).
At Vági er sennilega Vogur í Selvogi, sem síðar hét Vogshús og enn síðar Vogsósar. Um staðsetningu Vága eru þó talsverðar efasemdir (Guðni Jónsson 1936-40:14).
Í kirknaskrá Páls biskups Jónssonar, sem mun vera frá því um 1200, er kirkju í Krýsuvík getið (Í.F. Bd. XII, bls. 9).

Keflavík

Keflavík í Krýsuvík – einnig nefnd Kirkjufjara. Þangað átti Skálholtskirkja og síðar Strandarkirkja um tíma rekaítök undir berginu til forna og eftir siðaskiptin kirkjur á norðanverðum Reykjanesskaga, s.s. Viðey og Garðakirkja. Í Keflavík var jafnan nægt rekaviðs.

Árin 1234 og 1284 er Krýsuvík nefnd í máldaga Maríu kirkju og staðar í Viðey í sambandi við hvalreka. Þar stendur: „en sa maðr er byr j Krysvvik skal skylldr at festa hvalinn sva at eigi taki sør vt. oc gera orð til Viðeyiar fyri þriðiv.sol“. (Í.F. Bd. I, bls. 507).
Ábúandi átti sem sagt að sjá til þess að hval ræki ekki aftur út og gera Viðeyjarmönnum viðvart innan þriggja daga.
Elsti máldagi Maríukirkju í Krýsuvík er frá því um 1275. Sá máldagi er í stórum dráttum eins og máldagi frá 1307, en sá síðari þó fyllri.

Mölvíkurtjörn

Við Mölvíkurtjörn austan Herdísarvíkur. Þangað sótti Skálholtsstóll og Strandarkirkja löngum reka með vísan til fornra heimilda.

Í Rekaskrá Strandarkirkju frá um 1275 stendur: „skalhollt oc krijsevijk aa halfann allann reka under fuglberge vid strandar land. millum wogs oc hellis aa strendur land iiij vætter enn ef meire er þa aa skalhollt oc krijsvijk fiordung j øllum hual. Enn fyrer austann wog til vindass aa stadur j skaalhollte oc krijsevijk halfan tolftung i hual ef meire er enn iiij vætter. en ecke ellegar“. (Í. F. Bd. II, bls. 124-25).
Krýsuvíkur er síðan getið á mörgum stöðum í Fornbréfasafni og yfirleitt í sambandi við hvalreka, rekavið og grasnytjar. Hafa þessi hlunnindi því verið eftirsóknarverð frá ómunatíð (sjá nánar góða greinargerð um Krýsuvíkurkirkju í fornum heimildum í Sveinbjörn Rafnsson 1982).

Húshólmi

Húshólmi – uppdráttur Brynjúlfs Jónssonar.

Árið 1818 sendi séra Jón Vestmann (1769-1859), sem var prestur í Selvogi árin 1811-1842, bréf til hinnar konunglegu nefndar, Commissionen for oldsagers opbevaring, vegna fyrirspurna nefndarinnar um fornleifar í landinu. Í bréfinu tíundar Jón þær fornleifar sem hann þekkir og telur þess verðar að minnast á. Engar nefnir hann fornleifarnar í landi Krýsuvíkur sem nú er, en í Ögmundarhrauni segir hann svo frá fornleifum: „Hús-Hólmi nidur vid sióin í sama Hrauni; hefur þar verid mikil Bygd, ádur brann, sem sést af Húsa Tópta-Brotum, ad hvórium Hraunid géngid hefur, ad nordan –vestan -sunnan, – og næstum saman ad Austan-verdu; er þar 1t Tóptar-Form 12 Feta breidt, og 24 Feta Lángt, innan nidur fallinna Veggia Rústa; Húsid hefur snúid líkt og Kyrkiur vorar, meinast gamalt Goda-Hof; fundid hafa Menn þar nockud smávegis af Eyrtægi; þar er tvisett Túngards form med 20 fadma Milli-bili, hvar nú er Ling Mói; enn Graslendi innan ynnri Gards, austanverdt vid Hraunid“. (Frásögur um fornaldarleifar 1983:227).

Húsólmi

Uppdráttur af Húshólma frá fyrri tíð – (Haukur og Sigmundur).

Forsaga byggðar í Krýsuvík er að margra mati í hólmanum í Ögmundarhrauni sem getið er í svarbréfi Jóns prests hér að framan. Munu rústirnar þar gjarnan vera kallaðar Gamla Krýsuvík (Stefánsson 1967 (b)) eða Krýsuvík hin forna (Brynjólfur Jónsson 1903:48-50. Stefán Stefánsson (b) 1967:556. Haukur Jóhannesson og Sigmundur Einarsson 1988:84).
Athyglisvert er að Jón Vestmann segir ekki orð um þessi munnmæli í lýsingunni hér að ofan. Hann nefnir þau hins vegar í annarri lýsingu sinni árið 1840 og segir að; „Meina menn, að Krýsuvík hafi þar verið, áður hraunið hljóp þar yfir,… (Sýslu- og sóknarlýsingar 1979:214). Enn í dag sjást talsverðar rústir í Húshólma og Kirkjulágum þar skammt hjá.

Húshólmi

Húshólmi – garður – uppdráttur – (Haukur og Sigmundur).

Um aldur Ögmundarhrauns eru talsvert skiptar skoðanir. Elst er það talið geta verið frá öndverðri 11. öld. Byggist sú tilgáta á geislakolsgreiningum. Aðrir telja hraunið runnið seint á tímabilinu 1558-1563 Einnig hefur verið talið að hraunið hafi runnið 1340. Síðustu niðurstöðurnar benda til þess að hraunið hafi runnið árið 1151 (Jón Jónsson 1982:196. Sveinbjörn Rafnsson 1982:422. Haukur Jóhannesson og Sigmundur Einarsson 1988:71). Upptök hraunsins eru í Trölladyngju, nyrsta hluta Núpshlíðarháls.
Eins og áður hefur komið fram er elsta heimild um kirkju í Krýsuvík í kirknaskrá

Húshólmi

Húshólmi – meint kirkjutóft í Kirkjulág.

Páls biskups Jónssonar frá því um 1200 og nokkrum sinnum er kirkjunnar getið í 13. aldar heimildum. Ef Ögmundarhraun er rétt aldursgreint til ársins 1151 hljóta skrárnar að eiga við kirkju þá er stóð undir Bæjarfellinu, á núverandi stað. Þó hefur því verið haldið fram að kirkja hafi áfram staðið fram á 16. öld, úti í Ögmundarhrauni (Haukur Jóhannesson og Sigmundur Einarsson 1988:83-84).
Ekki eru rústirnar í Ögmundarhrauni þær einu sem kallaðar hafa verið Krýsuvík hin forna. Um Gestsstaði hefur einnig verið sagt að þeir hafi áður heitið Krýsuvík (Brynjólfur Jónsson 1903:50. Örnefnaskrá (a)).

Gestsstaðir

Gestsstaðir í Krýsuvík, skálatóft sunnan Gestsstaðavatns.

Elsta heimildin um Gestsstaði er Jarðarbók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns sem skráð var árið 1703. Þar segir: „Gestsstader skal hafa jörð heitið nálægt Krýsivík undir Móhálsum austanverðum, þar allnærri sem nú liggur almenníngsvegur. Sjer þar enn nú bæði fyrir túngarði og tóftum. En völlur er allur uppblásinn og kominn í mýri, mosa og hrjóstur, so ómögulegt er jörðina aftur að byggja. Þar með liggur hún aldeilis í Krýsivíkurlandi og kann ekki fyrir utan skaða Krýsivíkur landsnytjar að hafa. Hefur og so lánga tima í eyði legið, að engi veit til nær hún hafi bygð verið“. (1923-24:7).

Gestssaðir

Gestsstaðir – uppdráttur – ÓSÁ.

Um Gestsstaði segir Brynjólfur Jónsson svo: „Gestsstaðir heitir eyðibær, norðvestur frá Krýsuvík, þar sem hún er nú. Hann hefir staðið sunnanundir dálítilli hæð, sem gengur austur úr Sveifluhálsi. Sér þar enn fyrir tóftum, og hefir þar verið stórbýli á sínum tíma. Bæjartóftin er 10 fðm. löng frá austri til vesturs, hefir engan miðgafl, og mun hafa verið þiljuð sundur. Dyr sjást ógjörla, en á suðurhliðinni hafa þær verið, því hvorki eru þær á endunum né norðurhliðinni. Skamt austar er fjóstóft, 6 fðm löng, og heygarður eigi lítill. Túnið hefir og verið mikið og umgirt, en nú er það víða komið í sand af árennsli.

Gestsstaðir

Gestsstaðir – eystri tóftin og garður.

– Þau ummæli heyrði eg í Grindavík fyrir 40 árum, að Krýsuvík hefði í fyrstu heitið Gestsstaðir og staðið vestur við hálsinn. Nú þykist eg skilja sannleikann í þeim. Jörðin Gestsstaðir hefir verið eign Krýsuvíkurkirkju. Hefir bærinn og kirkjan því verið flutt í Gestsstaðaland eftir eldinn. En við það hafa Gestsstaðir verið sviftir nytjum, og meir og meir þrengt að þeim unz þeir lögðust í eyði“. (1903:50).

Húshólmi

Húshólmi – skálar. Hafa ber í huga að skv. lýsingunum skoðaði Bjarni einungis Húshólma „úr lofti“. Stundum skiptir samhengi hlutanna í nánd máli?

Tel ég munnmælin um Krýsuvík hina fornu í Ögmundarhrauni og við Gestsstaði vera seinni tíma útskýringar til að varpa einhverju ljósi á rústir sem voru mönnum annars með öllu óþekktar og óskiljanlegar. Benda má á að Svartadauða, sem geisaði árið 1402, hefur verið kennt um eyðingu margra óþekktra eyðibýla hér á landi, en aldrei hefur sambandið verið staðfest, öðru nær. Þau eyðibýli, sem rannsökuð hafa verið og heimildir eru til um að hafi farið í eyði vegna Svartadauða, eru öll mun eldri en plágan.

Krýsuvík

Krýsuvík – örnefnakort Ólafs Þorvaldssonar.

Túlkun Brynjólfs um eyðingu Gestsstaða er tilgáta en ekki staðreynd. Ekki er víst að neitt samband sé á milli eyðingar Gestsstaða og Krýsuvíkurbæjarins, heldur hafi staðreyndir skolað til og munnmæli og ímyndanir blandast saman svo úr varð þjóðsaga um Krýsuvík hina fornu. Hluti af þessum munnmælum er frásögn í Ferðabók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar frá 1772 um hraunflóð sem eyddi kirkjustað sem hét Hólmastaður, en það er elsta lýsingin á rústunum í Ögmundarhrauni. Átti það að hafa gerst tveimur öldum fyrir heimsókn þeirra Eggerts og Bjarna. Í þeirri frásögn er hvergi minnst á sambandið við Krýsuvík.

Húshólmi

Húshólmi – uppdráttur ÓSÁ.

Í dagbókum þeirra félaga frá 31. maí 1755 segir svo frá rústunum: „… taget bort Nogle bajer som her til forne har Staaet, og der i bland Eet Kirke Stæd som heed Holma Stadur med Kirken og alting, dog Seer man endnu paa Een liden plet der er bleven til overs lidet Stykke af (sem det meenes) Kirke gaarden og faae Stykker af Husevæggene“. (Í Sveinbjörn Rafnsson 1982:420).

Krýsuvík

Krýsuvíkurbærinn um 1789. Bæjarfellið rís yfir bænum og Vestarilækur liðast undir bæjarhólnum. Hér má gera sér einhverja grein fyrir kirkjugarðinum. Framarlega á myndinni, niður við lækinn, virðast vera kálgarðar. Á þessum slóðum er garðbrot í dag, sem gæti verið hluti af kálgarðinum. Á þessum slóðum fundust einnig rúst og stífla sem giskað er á að gætu verið leifar af brennisteinsstöðinni sem stóð við bæinn árin 1755-63. Kálgarðurinn gæti hafa verið settur niður við þær rústir. Horft til NNA. Myndin er úr bókinni Íslandsleiðangur Stanleys 1789. Ferðabók. Reykjavík 1979,
bls. 268.

Kannski hét jörðin í Ögmundarhrauni Hólmur í fyrstunni, síðan Hólmastaður þegar kirkja var reist á staðnum. Fornleifafræðirannsókn gæti skorið úr um þessi mál, en þangað til verður ekki hægt að segja hvað sé rétt og hvað ekki.

Árið 1563 er aðeins ein hjáleiga við Krýsuvík (Sveinbjörn Rafnsson 1982:421-22). Ekki er þess getið hver hún var.
Í manntali árið 1703 eru hjáleigurnar orðnar sex að tölu, en ekki er nafna þeirra getið (Manntal á Íslandi árið 1703:3). Í Jarðabók frá sama ári segir að hjáleigurnar séu fimm, en tvíbýli á einni þeirra, Nýjabæ. Hjáleigurnar voru Suður hjáleiga (Suðurkot), Norður-hjáleiga (Norðurkot), Nyie Bær, Litle Nyie Bær og Austur hús (Jarðabók 1923-24:4-7). Austurhús gæti verið við [Stóra] Nýjabæ, en þegar þar var tvíbýli voru húsin kölluð Austurbærinn og Vesturbærinn (Stefán Stefánsson 1967 (a)). Skúli Magnússon landfógeti segir að árið 1703 hafi hjáleigurnar verið sjö (Landnám Ingólfs 1935:109). Ekki er nafna þeirra getið.

Krýsuvík

Krýsuvíkurbærinn um 1789, séð frá NNA. Sennilega er Norðurkot neðst á myndinni t.v. Þar virðist vera hringlaga túngarður með nokkrum húsum fyrir innan. Arnarfellið sést t.v. og Bæjarfellið t.h. Myndin er úr sömu heimild og næsta mynd á undan.

Árið 1781 er eitt höfuðból í Krýsuvík og sjö hjáleigur. Segir í heimild frá þessum tíma að áður hafi verið tvíbýli í Krýsuvík. (Landnám Ingólfs 1935:109).
Í manntali frá árinu 1801 eru hjáleigurnar við Krúsuvík fjórar (fimm sé reiknað með tveimur á Stóra Nýjabæ). Þær eru Suður- og Norðurkot, Stóre Niebær 1. og 2. og Litle-Niebær. (Manntal 1978:320-21).
Nokkrum árum síðar, eða í manntali 1816 eru hjáleigurnar þær sömu og árið 1801. (Manntal 1953:375).
Árið 1840 eru hjáleigurnar orðnar sex talsins og allar nafngreindar. Þær eru Suður- og Norðurkot, Stóri- og Litli Nýibær, Lækur, og Vigdísarvellir. (Sýslu- og sóknalýsingar 1979:219). Sennilega var tvíbýli á Stóra Nýjabæ, sem gerir hjáleigurnar í raun sjö.

Krýsuvík

Fell – tóftir.

Í manntali frá árinu 1845 eru hjáleigurnar taldar upp sjö talsins. Þær eru Suður- og Norðurkot, Stóri Nýibær 1 og 2 Litli Nýibær, Vigdísarvellir og Bali. (Manntal 1982:346-47).
Í jarðartali Johnsens frá árinu 1847 eru hjáleigurnar einnig taldar vera sjö. Þær eru Suður- og Norðurkot, Stóri- og Litli Nýibær, Vigdísarvellir, Bali og Lækur. Lögbýlið Krýsuvík virðist vera tvíbýli. (Johnsen 1847:84). Ekki kemur fram hvort Stóri Nýibær hafi verið tvíbýli eða ekki. Af þessu má ráða að sumar hjáleigurnar hafa verið í ábúð meira og minna frá árinu 1703, jafnvel lengur. Aðrar koma og fara, en samtals verða þær aldrei fleiri en sjö talsins til ársins 1847.

Eyri

Eyri – bæjartóftir.

Sumar hjáleigur virðast vera svo stutt, eða seint, í ábúð að þeirra er ekki getið í jarðabókum né manntali. Þær eru Fitjar, Fell, Eyri (fór í eyði 1775. (Örnefndaskrá (b)), Arnarfell (sama og Fell?), Hafliðastekkur, Snorrakot, Snartakot(?) og Hnaus. Einhverjar þessara hjáleiga gátu verið tómthús, svo sem Snorrakot, Snartakot og Hnaus. Um önnur býli, sem vel gátu verið lögbýli, er nánast ekkert vitað, svo sem Gestsstaði og Kaldrana, en þau geta verið býsna forn.

Kaldrani

Kaldrani í Krýsuvík.

Um staðsetningu Fells og Eyrar er næsta lítið vitað. Get ég mér þess til að Eyri hafi verið sunnan í Selöldunni, og Fell rétt hjá Grænavatni (sé það ekki hið sama og Arnarfell). Um Snartakot, Snorrakot og Hnaus er vitað að þau stóðu í túni eða túnjaðri Krýsuvíkur.
Talið er að býlið Kaldrani hafi staðið skammt SV af Kleifarvatni og voru garðar sýnilegir þar um aldamótin síðustu. Segir Brynjólfur Jónsson svo frá staðháttum: „Sést þar 34 fpm. langur túngarðsspotti úr stórgrýti og lítil grasflöt fyrir ofan, suðaustan í sléttum melhól. Uppi á hólnum er dálítil dreif af hleðslugrjóti, sem virðist vera flutt þangað af mönnum. Gæti það verið leifar af bænum. Því garðspottinn sýnir það, að þar hafa menn búið á sínum tíma“. (1903:50).

Seltún

Seltún – minjar brennisteinsvinnslunnar.

Ekki fundust ummerki þau sem getið er hér að ofan við vettvangskönnun, nema ef átt sé við garðstúf. Ekki er það þó líklegt. Sennilega eru allar minjar um býlið komnar undir sand/vikur.
Árið 1753 var fyrsta brennisteinshreinsunarstöð landsins reist við námurnar í Krýsuvík (við Seltún?). Skömmu síðar, eða árið 1755, var stöðin flutt að Krýsuvíkurbænum og var þar a.m.k. til ársins 1763. (Landnám Ingólfs 1935:111). Hvar nákvæmlega þessi stöð stóð eftir flutninginn er ekki vitað í dag, en varla hefur hún verið mjög nálægt bæjarhúsunum sjálfum. Giska ég á að hún kynni að hafa staðið niður við lækinn þar sem stífla og rúst eru staðsett.

Seltún

Brennisteinsnámuvinnslusvæðið við Seltún.

Stöðin gæti fyrst hafa verið þar sem kallast Brennisteinshúsarústir (Örnefnaskrá (a)), eða Brennisteinshúsatættur (Örnefnaskrá (b)), framan við Seltúnið á Seltúnsbarði, sunnan Selgilsins. Öruggar minjar um stöðina fundust ekki við vettvangsathugun, en einu minjarnar sem fundust við Seltúnið, auk selsins, voru grunnur að einhverju húsi sem gæti hafa verið undir stöðvarhúsinu. Sá grunnur gæti þó verið mun yngri.

Fornleifarnar

Krýsuvík

Krýsuvík – uppdráttur Bjarna F. Einarssonar.

Engar fornleifarannsóknir hafa verið gerðar á fornleifum á könnunarsvæðinu, svo mér sé kunnugt um. Í Húshólma í Ögmundarhrauni hafa jarðlög verið könnuð af jarðfræðingum og fimm geislakols-aldursgreiningar verið gerðar þar og í næsta nágrenni. Fornleifarnar í hrauninu munu hafa verið teiknaðar upp af fornleifafræðingi, en þær teikningar ekki verið birtar. Niðurstöður geislakolsgreininganna voru að byggð hafi verið á staðnum á 11. öld. (Haukur Jóhannesson o.fl. 1988:79). Torfgarður í Húshólma var sömuleiðis kannaður af jarðfræðingum og því haldið fram að hann hafi verið eldri en landnámsgjóskan svokallaða, en hún féll árið 871 eða 872. (Sami 1988:83). Því bendir ýmislegt til þess að mjög fornar fornleifar sé að finna í Ögmundarhrauni, en hvernig þær tengjast fornleifum í Krýsuvík er ekki ljóst.

Krýsuvík

Krýsuvík seinni tíma – uppdráttur ÓSÁ.

Ekki hafa allar gamlar þjóðleiðir verið skráðar sérstaklega og stafar það af því að þegar engin ummerki um slíkar leiðir finnast er þeim sleppt. Dæmi um slíkar leiðir má sjá á korti í bók Guðrúnar Gísladóttur (1998, m.a. kort 14) og korti í grein Ólafs Þorvaldssonar (1949:86). Þessar leiðir voru t.d. Engjafjallsvegur, Austurengjavegur og vegur um Bleiksmýri, sunnan við Arnarfell og suður úr. Önnur leið lá norðan við Arnarfellið og austur úr. Ekki ber kortunum alveg saman um nákvæma legu þessara og annarra leiða, enda ekki víst að menn hafi í raun séð leiðirnar almennilega, þegar þeir settu þær inn á kort.

Brennisteinsámur eru ekki skráðar hér og er ástæðan fyrst og fremst sú að undirritaðan skortir þekkingu á að lesa námurnar út í landslaginu og bróðurpartur þeirra er utan við könnunarsvæðið.

Krýsuvík

Krýsuvík – tóftir brennisteinsnámsins í Hveradal.

En aftur má benda á Guðrúnu Gísladóttur og að auki skýrslu Ole Henchels í ferðabók Ólafs Olaviusar (1965). Í þeirri skýrslu er kort af námusvæðunum og virðast flest allar námurnar þar vera fyrir utan könnunarsvæðið.“

Krýsuvík

Krýsuvíkurkirkja.

Frá því að framangreind skýrsla varð gerð hefur mikið vatn runnið til sjávar…
Auðveldlega væri hægt að gera verulegar athugasemdir við framangreinda „fornleifaskráningu“, en það er ekki markmiðið með þessari fróðleiksupplýsingu.
Benda má þó á eitt að lokum – Krýsuvík er skrifað í texta með „ý“ en ekki „í“, enda má benda til fornra tilvitnaðra textaskrifa í meðfylgjandi lýsingum því til staðfestingar – sjá HÉR.

Arnarfell

Arnarfell – uppdráttur ÓSÁ.

 

 

Gíslavarða

Skammt fyrir austan Staðarberg í Grindavík er sker eitt hér um bil landfast sem heitir Ræningjasker.

Gíslavarða

Gíslavarða.

Nafnið á það að hafa fengið af því að einhvern tíma á 17. öld kom ræningjaskip að landi í Grindavík og lentu ræningjarnir í skerinu og gengu þaðan á land. Þá var prestur á Stað er Gísli var nefndur og var talinn fjölkunnugur. Þá er byggðarmenn urðu varir við ferð ræningjanna, fóru þeir sem skjótast á fund prests og sögðu honum tíðindin. Brá prestur skjótt við og fór á móti ræningjunum og stökkti þeim á flótta þó að sagan segir ekki með hverjum hætti. Hlóð hann síðan vörðu til minja um þennan atburð spölkorn fyrir ofan prestssetrið og lét svo um mælt að meðan nokkur steinn væri óhruninn í vörðunni, skyldu ræningjar ekki granda Grindavík. Varðan nefndist Gíslavarða.
Sú saga hefur jafnan fylgt vörðunni, sem af sumum er nefnd Tyrkjavarða, að henni megi ekki raska.

Rauðskinna I 44

Staðarhverfi

Staðarhverfi – uppdráttur – ÓSÁ.

Reykkjanes
Eftirfarandi frétt birtist á MBL.is fimmtudaginn 22. júlí 2004:
„Fjöldi smáskjálfta á Reykjanesi“.
Reykjanes

Jarðfræði Reykjaness.

Jarðskjálftahrinan við Fagradalsfjall á Reykjanesskaga heldur áfram. Eftir að hrinan náði hámarki í gær milli klukkan 14 og 16 minnkaði virknin fram til kl. 21 en þá jókst virknin aftur og náði hámarki á milli klukkan 2 og 3 í nótt. Á tímabilinu milli klukkan 1 og 4 í nótt mældust að jafnaði fleiri en 1 skjálfti á mínútu, að sögn Veðurstofunnar. Í morgun á milli klukkan 9 og 10 var virknin komin niður í 8 mælda skjálfta á klukkutíma, en eftir 10 virðist virknin vera að aukast aftur.“Við þetta má bæta að Fagradalsfjall er á einni af misgengisreinunum er ganga í gegnum Reykjanesskagann. Hver rein er virk í um 300 ár, en virknin liggur síðan niðri þess á milli.

Stampar

Stampagígaröðin.

Langar gígaraðir hafa myndast á reinunum, s.s. Stamparnir (4 gos), Eldvörpin, Sundhnúkarnir, Eldborgirnar, Vesturásagígaröðin, Brennisteinsfjöllin o.fl. Reinarnar eru að gliðna (um 1 cm að jafnaði á ári) og má t.d. sjá þess glögg merki í heiðinni ofan við Voga og einnig á Þingvöllum. Jörðin lyftist og hnígur. Gjárnar og misgengin bera þess einnig augljós merki. Misgengin má t.d. sjá þvert í gegnum Þorbjarnarfellið og á Hábjalla í Vogum, í sunnanverðu Helgafelli og víðar. Undirbergið (jarðskorpan) flýtur stöðugt niður í möttulinn á flekaskilum og verður að kviku, sem leitar á ný upp á yfirborðið. Möttulstrókur undir Vatnajökli heldur t.a.m. Íslandi á floti og viðheldur því. Þetta er lögmál jarðarinnar og gerist allt saman á lengri tíma en lifandi maður fær skynjað. Upphafið að sköpun alheimsins, eins og við þekkjum hann, er talið hafa átt sér stað með Miklahvelli fyrir 17 milljörðum ára. Síðan hefur þróunin haldið áfram og svo mun verða meðan tíminn verður til.

Fgaradalsfjall

Fagradalsfjall og nágrenni – örnefni skv. herforingjaráðskorti 1906.

Nyrst í Fagradalsfjalli er fallegur þverskorinn gígur. Víða í því eru ummerki eftir eldsumbrot og jarðskorpuhreyfingar. Stóri Hrútur og Kistufell er ágæt dæmi um umbrotin. Fjallið sjálft er geysilegur massi, sem mikla krafta þarf til að færa til. En þegar það gerist verða óneitanlega nokkur læti er vekja athygli, a.m.k. þeirra sem ekki hafa fengið tækifæri til að stíga ölduna. Umhverfis Fagradalsfjall eru fallegir eldgígar, s.s. Sundhnúkarnir og Vatnsheiðin, sem er gömul dyngja. Grindavík stendur t.d. á hrauni, sem kom upp úr þessum gígum fyrir nokkur þúsund árum. Þannig hefur mannfólkið hagnýtt sér þær hagstæðu aðstæður er sjóútrunnið hraunið hefur skapað með ströndum svæðisins. Fegurð þess er einstök (þá eru ekki talin með svæði, sem maðurinn hefur aflagað, t.d. með efnistöku); fallegir hraungígar, langar hrauntraðir, hellar og rásir, skjól fyrir gróður, dýr og menn, fjöll og dalir.

Fagradalsfjall

Gígurinn nyrst í Fagradalsfjalli.

Þrátt fyrir að einstaka hraun sé umfangsmikið, s.s. Skógfellshraun og Arnarseturshraun, að ekki sé talað um Sandfellshæðina (sem reyndar er dyngja) þá hafa flest gosin á svæðinu gefið af sér lítil og nett hraun – og fagra gíga.
Jarðskjálftar á svæðinu geta gefið þrennt til kynna; 1. bólgan hjaðnar og ekkert sérstakt gerist, 2. gliðnun verður með tilheyrandi lokaskjálfta eða 3. hraun rennur úr jörðu.
Hæfilegar áhyggjur af hugsanlegu gosi eru sjálfsagðar, en ólíklegt er að það raski byggð miðað við legu hæða á þessu svæði (færi þó eftir hvar það kæmi upp).

Fagridalur

Í Fagradal.

Hraungos í eða í námunda við Fagradalsfjall myndi stefna til sjávar austan Grindavíkur (eða í versta falli áleiðis niður í Voga). Meiri áhyggjur þyrfti að hafa af því að birgðir verslana bæjarins myndu þrjóta þegar túrhestarnir kæmu í bæinn í löngum röðum með það fyrir augum að reyna að komast sem næst hraunstraumnum. Þá þurfa yfirvöld að vera snör í snúningum og setja upp alkunn varúðarskilti á völdum stöðum – „Ekki snetra“.
Rétt er að minna á að öll gos á Reykjanesi síðustu aldirnar hafa orðið úti fyrir ströndum þess.
FERLIR er búinn að skrá og mynda allar minjar nálægt Fagradalsfjalli svo til verða heimildir um það sem var – ef svo illa færi.
Frábært veður.

Fagradalsfjall

Stóri-Hrútur í Fagradalsfjalli. Nú er umhverfið þar breytt.

Krýsuvíkurberg

Farið var niður að Selöldu ofan Krýsuvíkurbergs. Bæjarstæðið sem og nálægar útihúsatóftir voru skoðaðar. Bærinn fór í eyði 1876 eftir hafa verið tiltölulega stutt í ábúð.

Selalda

Fitjar og Fitjatúnin undir Selöldu.

Ari Gíslason skrifaði örnefnalýsingu um svæðið eftir Þorsteini Bjarnasyni frá Háholti. Þar segir m.a.: „Sunnan Arnarfells tekur við Krýsuvíkurheiði og austarlega á henni eru tveir hólar, Trygghólar, en sunnan þeirra Trygghólamýri.

Selalda

Selalda – Strákar.

Suðvestur af Trygghólum er önnur hæð heldur hærri og nær sjó, upp af Hælsvíkinni fyrrnefndu, og heitir hún Selalda. Vestan í henni eru steinstrókar, sem heita Strákar. Vestan undir Strákum er Fitjatún. Hér upp af víkinni er svæði, sem nefnt er Hælsheiði. Þar um rennur Vestri-Lækurinn og í víkina vestanverða eða vestan hennar, og þess má einnig geta hér, að við Hæl er svonefnt Heiðnaberg í bjarginu.“

Selalda

Fitjar – bæjartóftir.

Fitja er ekki minnst í jarðabókinni 1703. Ekki heldur í manntalinu 1816 eða í sóknarlýsingu 1847. Svo virðist sem bærinn hafi einungis verið í byggð í 15-20 ár.

Í örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar fyrir Krýsuvík segir m.a.: „Arnarfelli hefur að nokkru verið lýst. Undir nyrðra horni þess hafði í fyrri tíð verið mikill áningarstaður skreiðarferðamanna. Þar er Áningarflöt, tjaldstæðið. Sunnan fellsins er Bleiksmýri og hlutar Austurlækurinn hana sundur.

Selalda

Jónsvarðan eystri.

Alllangt neðan við Arnarfellstjörn eru Trygghólar tveir, fram á Heiðinni. Trygghóll efri, og Trygghóll fremri. Framundan þeim er Trygghólsmýri. Þarna eru og Jónsvörður, Jónsvarðan vestri og Jónsvarðan eystri.
Hér framundan til vesturs er tvær öldur að sjá. Sú nyrðri heitir Selalda. Á henni er Selölduvarða. Fram undan Selöldu er Seljadalur. Vestur eftir honum er farvegur Seljalækur. Beggja megin lækjarfarvegsins eru nokkrar tættur Seljanna.“ Hér ruglar Gísli saman annars vegar selstöðunni, sem honum virðist vera ókunnug, og bæjartóftum Eyrar, sem eru beggja vegna uppþornaðs árfarvegar.

Krýsuvíkursel

Tóftir Krýsuvíkursels.

„En hér var haft í seli frá Krýsuvíkurbæjunum á fyrri tíð. Krýsuvíkursel voru það kölluð. Vestur af Selöldu eru móbergstindar, nefnast Strákar. Vestarlega í þeim hefur verið skúti, nefndist Strákahellir. Þarna hefur verið hlaðið myndarlegt fjárskýli og hefur í eina tíð verið reft yfir það og nefndist þá Strákafjárhús. Vestan við er melholt og niður undan því er einn Krýsuvíkurbærinn og nefndist Fitjar.

Selalda

Selalda – berggangur.

Kringum bæinn er Fitjatún og nyrst í því Fitjafjárhús. Vesturlækur rennur hér ofan af heiðinni í Vesturlækjarfossi, en þar fyrir neðan tekur hann nafnbreytingu, nefnist Fitjalækur. Rennur meðfram túninu og niður um Efri-Fitjar. Austur af læknum eru Fitjamóar og þar lengra austur Neðri-Fitjar. Seljabrekka blasir hér við upp undir Seljum. En Seljalækurinn hefur grafið sér farveg allt fram á berg. Fitjagata lá austur og inn um lægð norðan undir Strákum og er komið var að Selöldu, þá lá hún upp í Heiðina upp á fyrr nefndan Húsmel. Vestan við Fitjalækinn liggur nú Bílaslóðin allt niður á berg og vestur að hraunbrúninni. Austan og sunnan Austurlækjar er Bleiksmýrin. Fram af henni niður og austur allt að hrauninu liggur svo Krýsuvíkuheiðin eystri eða Austurheiðin. Fátt er hér örnefna.
Vestan Skriðu tekur við Heiðnaberg eða Heinaberg og nær allt að Fitjalæk, sem hér fellur niður og fram af berginu, og nefnist hér Mígandagróf og Fossinn Mígandi. Kirkjufjara er undir Heinabergi, en þar fyrir vestan tekur við Betstæðingafjara og nær allt vestur að Hæl, Bergsenda vestri eða Gjánni vestri. Af Hælnum hefur víkin hér fyrir framan fengið nafn allt frá Skriðu vestur að Selatöngum og nefnist því Hælsvík.“

Eyri

Eyri – uppdráttur ÓSÁ.

Eyri fór í eyði 1775. Bærinn hefur að öllum líkindum verið í ábúð stuttan tíma. Um hefur verið að ræða kotbúskap, sennilega byggðan upp úr Krýsuvíkurselinu þar skammt ofar. Tóftir selsins eru greinilega mjög gamlar, líklega frá því frá miðöldum og fyrr. Stekkur selsins er uppi í hlíðinni norðan þess. Hann finnst ekki í fornleifaskráningum. Augljóst er að svæðið hefur verið miklu mun grónara fyrrum en nú má sjá. Gata liggur upp frá Eyri til austurs, framhjá selinu og með Trygghólum áleiðis til Krýsuvíkur. Bærinn Eyri var byggður á lækjarbakka. Mjög líklega hefur Vestur- eða Austur-Lækur runnið fyrrum niður með Trygghólum, beygt þar til vesturs sunnan Selöldu og síðan til suðurs um Seldal niður á bergið. Augljóst er lækurinn sá hefur breytt um farveg, jafnvel oftar en tvisvar, því Fitjatúnið sem og allt undirlendi Selöldu er að þakka fyrrum árburði hans um aldir. Trúlega er þarna um Vestur-Læk að ræða.
Tækifærið var notað til að rissa upp bæjartóftirnar og meðfylgjandi mannvirki á Eyri sem og selstöðuna ofan hennar.

Fitjar

Fitjar.

Í „Fornleifaskrá Hafnarfjarðar XII – Krýsuvík, 2021, segir m.a: „Lítið er vitað um ábúð á Fitjum og mjög fáar heimildir til sem segja frá jörðinni, sem var
hjáleiga frá Krýsuvík. Árið 1867 var samt jörðin farin í eyði en í Þjóðólfi 27. febrúar 1867 var getið um dómsmál fyrir yfirdóminum þar sem þrír ábúendur í Krýsuvík sóttu gegn Gísla Jónssyni bónda á Býaskerjum árið 1866. Gísli á að hafa beitt fé sínu við Fitjar í óþökk ábúenda Krýsuvíkur og þar er ljóst að ekki var búið á Fitjum það árið. Eina manntalið þar sem Fitjar eru nefndar var gert árið 1850 og þá voru skráðir 7 þar til heimilis.“

Fitjar

Fitjar (Neðri-Fitjar) – útihús.

Þá segir í skráningunni: „Sömu sögu er að segja um tóftirnar við Neðri Fitjar, ekki er til mikið af heimildum um þann bæ. Í örnefnaskrá Gísla Sigurðssonar var sagt: „Vesturlækur rennur hér ofan af heiðinni í Vesturlækjarfossi, en þar fyrir neðan tekur hann nafnbreytingu, nefnist Fitjalækur. Rennur meðfram túninu og niður um Efri-Fitjar.

Austur af læknum eru Fitjamóar og þar lengra austur Neðri-Fitjar.“ Hér er um mislestur að ræða. Bærinn „Neðri-Fitjar“ hafa aldrei verið til. Fitjatúnið var nefnt Efri-Fitjar heima við bæ og Neðri-Fitjar nær berginu. Þar eru leifar útihúss við lækinn miðsvæðis.

Fitjar

Brú að Fitjum á Vestari-Læk.

Bjarni F. Einarsson leiddi að því líkum í skráningu hans, „Krýsuvík – Fornleifar og umhverfi 1998„, að tóftir [austan Selöldu] séu leifar bæjarins Eyri en í örnefnaskrá Þorsteins Bjarnasonar frá Háholti sagði að Eyri hafi verið innan við Hafnarberg og farið í eyði 1775. Þá hafa mögulegar seljarústir sem eru um 50m norðvestan við tóftirnar líklega verið einhverskonar forveri býlisins og gætu þær verið mjög gamlar, enda eru þær mjög fornlegar að sjá. Minjarnar við Eyri eru í stórhættu vegna landeyðingar en þær standa við uppþornaðan árfarveg og hressilega er farið að blása uppúr rofabörðunum, t.a.m. er eitt hólf horfið af aðaltóftinni í bæjarstæðinu.“ Reyndar eru tóftirnar í mjög lítilli hættu; bæði er svæðið að gróa upp auk þess sem nefndur lækjarfarvegur eru uppþornaður fyrir löngu.

Selalda

Strákar – fjárhús frá Fitjum.

Í „Fornleifaskráning í Grindavík, 2004“ segir um minjar á Fitjum: „Fitjatún hefur fyrr verið nefnt, vestur við lækinn, vestur af Selöldu. Þar eru stæðilegar bæjartóttir, mikið túnstæði, og þar voru leifar eftir safngryfju, sem er óvanalegt á þeim árum.“ segir í örnefnaskrá. Fitjatún er syðst við veginn sem liggur af Grindavíkurvegi að Krýsuvíkurbergi. Vegurinn sveigir þar til austurs yfir Vestri lækinn og liggur austur um túnið. Bæjartóftirnar eru austast í túninu, fast vestan við veginn. Túnið er ekki stórt en gróið og slétt. Umhverfis það eru blásnir, ógrónir melar. Austan við túnið rís Selaldan, hálfgróinn malarás, sem teygir sig til austurs. Svæðið allt er um 30X70 m að stærð og eru þar þrjár tóftir og túngarður.

Fitjar

Fitjar – útihús.

Þegar veginum er fylgt þar sem hann sveigir austur um túnið er fyrst komið að tveimur samliggjandi útihúsatóftum í norðausturhorni túnsins. Sú vestri er stæðilegri, um 6X5 m að stærð úr torfi og grjóti. Eystri tóftin er mjög sigin en mikið grjót er í henni. Hún er 8X4,5 m að stærð. Báðar hafa op á suðurvegg. Hleðsluhæð er um 0,6 m í vestari tóftinni en um 0,3 m í þeirri eystri.

Fitjar

Fitjar – bæjartóftir.

Um 50 m fyrir sunnan útihúsatóftirnar eru bæjartóftirnar, fast vestan vegarins. Þær eru mjög stæðilegar, allar hlaðnar úr torfi og grjóti. Hleðsluhæð er mest um 1 m og umför grjóts allt að fimm. Tóftirnar snúa mót vestri og eru þrjú op á þeirri hlið. Þær eru um 11X13 m og greinast í fimm hólf. Fast sunnan þeirra er gróin dæld, e.t.v. safngryfjan sem nefnd er í örnefnalýsingunni. Úr norðaustur- og suðausturhorni tóftanna liggja garðbrot til austurs, en rofna af veginum sem þarna liggur til suðurs. Hugsanlega hafa þau myndað hólf eða garð austan við bæinn. Siginn og gróinn grjóthlaðinn túngarður liggur frá bæjartóftunum norður að útihúsunum, um 50 m.“

Krýsuvíkursel

Krýsuvíkursel.

Um tóftirnar við Selhól austan Selöldur segir [Jarðabókin 1703]: „Selstöður tvær á jörðin, aðra til fjalls en aðra nálægt sjó, báðar merkilega góðar. Og mega þær nýta hjáleigumenn og bóndi“, segir í Jarðabók Árna og Páls.
Í örnefnaskrá er staðnum lýst svona: „[Strákar] eru vestast á Selöldu, en á Selöldu austarlega er Selhóll, og austastir eru Trygghólarnir.“ Fitjatún er syðst við veginn sem liggur af Grindavíkurvegi að Krýsuvíkurbergi. Vegurinn sveigir þar til austurs yfir Vestri lækinn og liggur austur um túnið. Austan við túnið rís Selalda, hálfgróinn malarás, sem teygir sig til austurs að Trygghólum, tveimur ógrónum melhólum.

Selalda

Selalda – Strákar.

Vestast á Selöldu eru Strákar, dökkir og úfnir hraundrangar sem sjást bera við himin frá Grindavíkurvegi. Sunnan við Selöldu er annar malarás nefndur Skriða og á milli þeirra er gróið lægðardrag. Í lægðardraginu, sunnan undir Selöldunni austanverðri, þar sem landið hækkar til austurs, eru seltóftir í þýfðu lægðardragi sem hækkar til austurs.“ Tóftirnar eru ógreinilegar, en þó mótar fyrir meginhúsi vestast, stakri tóft austar og annarri suðvestast.

Eyri

Eyri – bæjartóftir.

Í örnefnalýsingunni er seltóftunum og bæjartóftum Eyrar ruglað saman. Þar segir. „Tóftirnar eru fjórar og sést á milli þeirra allra. Sú nyrsta er alveg í rótum Selöldu, fast austan við stakan móbergsklett í hlíð hennar. Tóftin (A) er mjög gróin og sigin og er ekkert grjót í henni. Hún er um 5X3 m að stærð, og snýr í austur vestur. Op er á vesturvegg hennar.

Eyri

Eyri – bæjartóftir.

Um 80 m sunnan við tóftina er önnur tóft (B), bæjartóft og mun greinilegri. Hún er á norðurbarmi grjótgjár sem liggur í austur vestur og er líklega uppþornaður árfarvegur. Tóftin er um 10X7 m á stærð, snýr mót suðri og eru tvö op á þeirri hlið. Tóftin er hlaðin úr torfi og grjóti og greinist í þrjú hólf. Hleðslur eru signar og er hæð þeirra mest um 0,5 m. Um 8 m austan við tóftina er lítil hringlaga tóft eða dæld. Hún er um 2,5 m í þvermál og aðeins einn steinn sýnilegur í henni. Sumir vilja meina að þetta séu tóftir bæjar sem þarna var og nefndist Eyri.

Eyri

Eyri – uppdráttur ÓSÁ.

Um 50 m sunnan við tóft (B), á dálitlum hól sunnan við grjótgjánna er enn ein tóft (C). Hún er hringlaga um 4 m í þvermál, líklega fjárborg. Tóftin hefur verið grjóthlaðin en hleðslur eru nú alveg fallnar. Op hefur líklega verið til vesturs. Um 80 m suðvestan við tóft (C) er síðan tóftaþyrping (D). Tóftirnar eru þrjár og eru á háum hól og sjást því greinilega. Allar eru úr torfi og grjóti, signar og grónar, hleðsluhæð mest um 0,5 m. Sú nyrsta er tvískipt, um 8X5,5 m að stærð og snýr í norður suður. Op er á norðurhlið. Um 1 m fyrir sunnan tóftina er dæld, sem virðist vera manngerð.
Hún er um 9 m löng frá norðri til suðurs og um 0,6 m á dýpt. Eitthvað er af grjóti í börmum hennar, en engar greinilegar hleðslur. Um 1 m sunnan við dældina er síðan sporöskjulaga tóft, um 5X7 m að stærð. Op er á suðurvegg.“

Selalda

Selalda – berggangur.

Krýsuvíkurbjarg (-berg) er aðallega byggt upp af hraunlögum (grágrýti) og gjalllög Skriðunnar ljá berginu rauðan blæ. Skriðan og Selalda eru eldstöðvar sem gosið hafa í sjó og byggt upp eyjar úr gosmöl (virki og ösku) og hraunlögum. Grágrýtsihraunin hafa síðan tengt eyjar við fastalandið og kaffært þær að mestu. Strákar er ung móbergsmyndun vestan Selöldu. Hraunlögin í syllum Krýsuvíkurbergs eru sennilega komin frá Æsubúðum í Geitahlíð og eru frá síðasta hlýskeiði eða eldri en 120.000 ára. Vestari hluti Selöldu er móbergsmyndun, líkt og eystri hlutinn. Grágrýtisberggangar liggja um ölduna alla; dæmigerðir fyrir gos undir jökli.

Frábært veður. Gangan tók 1 klst. og 10 mín.

Heimildir:
-Örnefnalýsing Gísla Sigurðssonar fyrir Krýsuvík.
-Örnefnalýsing Ara Gíslasonar fyrir Krýsuvík (Þorsteinn Bjarnason frá Háholti).
-Fornleifaskrá Hafnarfjarðar XII, Krýsuvík – 2021.
-Fornleifaskráning í Grindavík, 3. áfangi – 2004.
-Krýsuvík – Fornleifar og umhverfi, Bjarni F. Einarsson, 1998.

Krýsuvíkurbjarg

Krýsuvíkurbjarg (-berg). Þar sem Eystri-Lækur rennur fram af berginu (bjarginu) skiptir bjargið (bergið) um nafn skv. örnefnalýsingum. Austan lækjarins heitir bergið „Krýsuvíkurbjarg“, en vestan hans heitir bjargið „Krýsuvíkurberg“.  Fossinn er nafnlaus, en mætti gjarnan heita „Skiptifoss“ eða „“Skiftifoss“.

Gálgaklettar

Gengið var um hraunin ofan Grindavíkur, þ.e. Illahraun, Arnarseturshraun, Skógfellshraun og Dalahraun. Síðastnefnda hraunið er um 3000 ára gamalt, en Arnarseturshraun er yngst, mun hafa runnið á sögulegum tíma, eða árið 1226.

Gyltustígur

Gyltustígur (t.h.).

Gangan hófst við vestanvert Þorbjarnarfell, við svonefndan Gyltustíg. Stígurinn er náttúruleg læna upp fellið vestast í því sunnanverðu. Annars er Þorbjarnarfell í daglegu tali nefnt Þorbjörn. Það er stakt móbergsfell (243 m.y.s). Af því er gott útsýn yfir mikinn hluta Reykjanessfjallgarðsins. Uppi á fellinu er gjá eða sprunga sem heitir Þjófagjá, að sögn eftir 15 þjófum sem höfðust við í gjánni og stálu fé Grindvíkinga. Sá misskilningur hefur komist á spjöld að á Þorbjarnarfelli hafi farist í flugslysi í síðari heimstyrjöldinni C. Andrews, yfirmaður alls herafla Bandaríkjamanna á Norður-Atlantshafssvæðinu, ásamt fleiri háttsettum foringjum.

Þorbjarnarfell

Þorbjarnarfell (Þorbjörn).

Brak úr vélinni er í Kastinu utan í Fagradalsfjalli. Aðeins einn maður komst lífs af úr þessu flugslysi og beið hann björgunar á annan sólarhring. Á fellinu hafði herinn hins vegar aðstöðu á styrjaldarárunum og má þar sjá leifar hennar, s.s. grunna, hleðslur, ofn og slóða.

Fyrrnefnd þjóðsaga segir að „skammt ofan við byggðina í Grindavík er fjall, sem heitir Þorbjarnarfell, oftast nefnt Þorbjörn.

Þjófagjá

Þjófagjá.

Í toppi þess er hamragjá sem heitir Þjófagjá. Er svo sagt að þar hafi einu sinni hafst við fimmtán þjófar sem lögðust á fé Grindvíkinga.
Eigi sáu byggðamenn færi á að vinna þá fyrr en bóndason frá Hópi tókst á hendur að svíkja þá. Hann fór til þeirra, sór þeim trúnaðareið og var með þeim um hríð. Hann varð þess vís að þeir fóru hvern laugardag í bað í laug þeirri sem er á Baðsvöllum, norðan undir fjallinu.

Einn gætti klæða þeirra meðan þeir voru í baðinu og gerðu þeir það til skiptis. Svo kom að þeir trúðu bóndasyni fyrir að geyma föt sín. Þá sneri hann um annarri skyrtuerminni og annarri brókarskálminni hjá þeim öllum og hljóp síðan sem fætur toguðu til bæja og sagði hvernig komið væri.

Þorbjarnarfell

Þorbjarnarfell – Baðsvellir nær.

Það fór eins og hann ætlaðist til: þjófunum varð tafsamt að komast í fötin og ekki fóru þeir í önnur föt en nærklæðin og eltu hann síðan en náðu honum ekki. Urðu þeir mjög sárfættir í grjótinu.

Nú þustu byggðamenn að þeim og gátu þeir ekki komist undan. Voru þeir allir teknir höndum og hengdir þar sem síðan heita Gálgaklettar. Bóndasonur varð ólánsmaður, en eigi er getið, hvað fyrir hann kom.“ Um vettvang sögunnar, þ.e. Baðsvelli og minjarnar á þeim, laugina og Gálgakletta, er fjallað í annarri FERLIRslýsingu.

Skipsstígur

Skipsstígur.

Gengið var vestur með suðurkanti Skipsstígshrauns yfir á Skipsstíg, hina gömlu þjóðleið milli Grindavíkur og Njarðvíkur. Þarna vestan við Lágafellið hefur stígurinn verið lagaður á um 300 metra kafla. Þetta hefur sennilega verið á fyrstu árum 20. aldar er gera átti stíginn vagnfæran. Svo er að sjá að hætt hafi verið við framkvæmdina, en framkvæmdir við gerð gamla Grindavíkurvegarins frá Stapanum, að Seltjörn, um Skógfellshraun og Arnarseturshraun, um Selháls og niður í Grindavík hófust árið 1913.
Við Skipsstíginn er Dýrfinnuhellir, hraunskúti með hleðslum fyrir. Sagan segir að þangað hafi samnefnd kona úr Grindavík flúið með börn sín eftir komu Tyrkjanna og dvalið þar um sinn.

Gíghæð

Vegavinnubúðir á Gíghæð.

Skipsstíg var fylgt spölkorn til norðurs, en síðan beygt af honum til austurs. Gengið var yfir Illahraun að Sýlingafelli (Svartsengisfelli). Hraunið er að vísu illt yfirferðar næst Þorbirni, en þegar komið er inn í það er auðvelt að komast í gegn. Vestan Grindavíkurvegarins var komið að hlöðnu hringlaga gerði, ein af mörgum minjum eftir vegagerðina forðum.

Tvö hlaðin hús eru í lægð handan vegarins. Inni í krika Svartsengis liggur stígur vegagerðarmanna inn á Arnarseturshraunið og áleiðis upp á Gíghæð, þar sem fyrir eru meginbúðir þeirra er enn sjást.  Svartsengi er talið hafa verið nefnt eftir hrútnum Svarti, sem þar mun hafa unað sér vel.

Arnarseturshraun

Hrauntjörn í Arnarseturshrauni.

Þegar komið var að Arnarsetri var genginn stígur austur yfir hraunið, að Stóra-Skógfelli. Þar var beygt til suðurs og Skógfellastígnum fylgt í gegnum Dalahraun að Eldborgunum og Sundhnúkunum. Stígurinn, sem er gömul þjóðleið milli Voga og Grindavíkur, er vel klappaður í bergið þar sem hann liggur á milli Skógfellanna. Sundhnúkarnir eru falleg gígaröð utan í Vatnsheiði, en þaðan mun meginhraunið, sem Grindavík stendur á, vera komið, um 2400 ára gamalt. Eldborgirnar eru enn ósnertar og sýna vel hvernig gos á sprungureinum hefur myndast, en þau eru allnokkur á Reykjanesskaganum.

Hagafell

Gálgaklettar í Hagafelli.

Gengið var upp með Hagafelli og að Gálgaklettum þeim, sem þjófarnir forðum eiga að hafa endað lífdaga sína. Haldið var niður eftir Selhálsi þar sem Hópsselið er undir hlíðinni og síðan gamla Grindavíkurveginum fylgt suður með austanverðu Þorbjarnarfelli um Klifhólahraun að upphafsstað. Suður hraunið liggur greinilega gömul gata áleiðis að Járngerðarstöðum, en bæirnir þar höfðu m.a. í seli á Baðsvöllum áður en selstaðan var færð upp á Selsvelli, auk þess sem aðrar nytjar hafa eflaust verið hafðar af völlunum fyrrum.

Heimild um Þorbjarnarfell:
-http://www.nat.is/travelguide/ahugav_st_thorbjarnarfell.htm
mÞjóðsagan er af:
-http://www.hs.is/fyrirtaekid/addragandi.asp

Grindavíkurvegur

Grindavíkurvegur – vegavinnubúðir á Gíghæð.

Hópsnes

Gengið var um Hópsnes, framhjá Siggu, ofan við Bólu, framhjá Hópsnesvita (sem heitir í raun Þórkötlustaðaviti því landamerkin eru í fjörlægan stein u.þ.b. 60 metrum vestan hans), um Þórkötlustaðanesið, um Strýthólahraun, framhjá Leiftrunarhól, ofan við Þórkötlustaðabótina, yfir Kónga, neðan Buðlungu, inn á Klappartúnið, upp á Sloka og að landamerkjum Hrauns nyrst í Slokahrauni. Róleg ganga um þessa leið tekur nálægt klukkustund, en nú var ætlunin að staldra við af og til og gefa flestu því merkilegasta á leiðinni sérstakan gaum – af mörgu er að taka.

Hóp

Hópnes – uppdráttur ÓSÁ.

Í bókinni “Frá Suðurnesjum – Frásagnir frá liðinni tíð”, lýsir Guðsteinn Einarsson örnefndum og staðháttum með strandlengju Grindavíkurumdæmis í skrifum sínum “Frá Valahnúk til Seljabótar”. Um þetta svæði segir hann m.a.:
“Um sundin á Járngerðarstöðum og Þórkötlustöðum er til gömul þjóðsaga, sem hér fer á eftir:
Í fyrndinni voru aðalhöfuðbólin í Grindavík, hvort við sitt sund; Járngerðarstaðir við samnefnt sund og Þórkötlustaðir við sitt sund. Ekki er getið nafna bændanna á höfðubólum þessum, en konurnar hétu, Járngerður á Járngerðarstöðum og Þórkatla á Þórkötlustöðum.

Hópsnes

Fiskgarðar á Hópsnesi.

Engir aukvisar munu bændunrir þó hafa verið, þó nafna þeirra sé ekki getið, því þeir höfðu mannaforráð, svo sem betri menn höfðu, og stjórnaði hvor sínum bát, af kappi miklu, þannig, að þeir fóru lengra og sátu lengur en fjöldinn.
Einhverju sinni, þegar flestir Grindvíkingar voru á sjó, bar það til, að sjó tók að brima, sem kallað var, þ.e. þegar aldann vex svo að hún fer að brotna yfir leiðina (sundin). Bátarnir höfðu fljótlega farið að leita lands og allir verið komnir í land þegar þeir heimabændurnir komu hvor að sínu sundi. Þá gerðist það, að bóndi Járngerðar fórst með allri áhöfn á Járngerðarstaðasundi, en bóndi Þórkötlu hafði komist klakklaust inn Þórkötlustaðasund.

Hópsnes

Sjóbúð á Hópsnesi.

Hitnað mun þeim frúnum hafa í hamsi við að bíða eftir afdrifum bænda sinna, því eftir að séð var, að maður Járngerðar hafði farist á Járngerðarstaðasundi, lagði hún það á, að á því sundi skyldu farast 20 bátar. Aftur á móti lagði Þórkatla þá, að á Þórkötlustaðasundi, réttförnu, skyldi enginn bátur farast.
Þetta þykir allt hafa orðið að áhrínsorðum, þannig að enginn bátur hefur farist á Þórkötlustaðasundi, en talið að 20 bátar hafi farist á Járnegrðarstaðasundi og enginn eftir að komið var í þá tölu.

Sigga

Sigga.

Fram af Sölvaklöppum (undan Hópsnesi) er skerstandur úti í sjónum; sá heitir Bóla. Sigga heitir stór og mikil varða, þarna uppi á kampinum; ekki veit ég önnur deili á henni, en hún var notuð sem mið af sjó. Þá koma Hópslátur; það eru klettarnir með malarbásum framan á Þórkötlustaðanesi. Austan við Hópslátur halda áfram svipaðir Klettaranar, sem heita Kotalátur. Mörkin milli þessara klettalátra eru landamörk milli Hóps og Þórkötlustaða. Fram af þessum látrum, beint fram af Nesinu, kemur nokkuð hundruð metra langur skerjatangi fram í sjó, er kallast Nestá; fer í kaf á flóðum, en upp úr á fjörum.

Þórkötlustaðanes

Þórkötlustaðanes – Þórshamar neðst og bryggjan efst.

Þarna á Nesinu varð hinn 18. janúar 1952 eitt hið hörmulegasta sjóslys, sem orðið hefir hér í Grindavík, þegar mb. Grindvíkingur fórst þar með allri áhöfn, fimm ungum og hraustum mönnum. Þá má segja, að þegar hin ótömdu náttúruöfl eru í sínum mestu hamförum, eins og var í þetta skipti, megi alltaf búast við slysum. En þarna fórst stærsti og besti báturinn, að talið var þá í Grindavík.

Gamalt máltæki segir, “að Guð fleyti jafnt grátitlingum sem gamalálftinni”. Og víst er um það, að náttúröflin virðast í öðru tilfellinu leggja sig fram um að bjarga öllu sem best, en í hinu að tortíma og eyðileggja.

Þórkötlustaðanes

Örnefni ofan bryggjunnar í Þórkötlustaðanesi – uppdráttur ÓSÁ.

Fyrir austan Kotalátur koma Austurbæjarlátur; þá Þórkötlustaðalátur. Sagnir eru um, að einhvers staðar á þessum látrum hafi skip strandað á árunum 1880-´90. Þetta hafði verið kútter og heitið Vega – verið með saltfram. Mannbjörg hafði orðið, en skipið brotnað. Sumarið 19?? í norðan kalda og sléttum sjó sigldi og þarna upp í nestána þrímastrað briggskip; var að koma til landsins með saltfarm. Það flaut upp í næsta flóði, barst undan kaldanum frá landi og losnaði þannig úr strandinu.

Sloki

Fiskgarðar á Sloka.

Austan við Látrin er Leiftrunarhóll. Frá honum liggja svo kölluð Rif austur og út á Þórkötlustaðavíkina.

Strýthóll

Efri Strýthóll.

Í fjörunni niður undan hólnum lenti enskur togari hinn 23. mars 1932. Skipshöfninni var komið í björgunarbát og út á hættulausan sjó. Heyrði ég sagt að varðskipið Ægir hefði náð þessum togara út með því að koma taug í togarann. Þarna nálægt Leiftrunarhól hafa þá tvö skip strandað, sem náðst hafa út aftur, en það eru líka einu skipin, sem vitað er um að grinfdavíkurfjörurnar hafi sleppt aftur.

Hópsnesviti

Hópsnesviti/Þórkötlustaðanesviti.

Innar undir Leiftrunarhól, víkurmegin, strandaði í maímánuði 1917, ensk skonnorta með saltfarm og eitthvað af síladartunnum. Sú hét Scheldon Abby. Áhöfnin komst í björgunarbáta, en skipið liðaðist í sundur næstu daga.
Innan Leiftrunarhóls koma næst Drítarklappir, þá Stekkjafjara og varirnar á Þórkötlustaðanesi. Þar var þriðja bryggjan (auk bryggjunnar neðan Hvirfla í Staðarhverfi og neðan Járngerðarstaða), byggð 1930. Allar þessar bryggjur, sín í hverju hverfi, má segja að hafi komið að miklum notum með því að losa menn við það hroðalega erfiði að bera allan aflann á bakinu upp úr fjörunni. Fyrir þá bættu aðstöðu hefir og eitthvað meiri afli komið á land, svo að þannig, bæði beint og óbeint, hefir fé það, sem í þær fór, fengist endurgreitt, þótt nú séu þær allar ónotaðar og einskis virði.

Þórkötlustaðanes

Lifrabræðslan.

Innan við varnirnar er klettur, sem heitir Draugur, þá Draugsklappir, Herdísarvík – upp af henni í kampinum eru hólar kallaðir Kóngar -, þá Miðmundarflöt og Syðri- og Heimri-Bót. Þarna í Bótinni er sögn um, að eftir miðja 19. öld hafi frönsk skúta strandað þar. Áhörnin gekk sjálf upp á hlaið á Einlandi, en skipstjórinn, sem gekk fremstur, féll í hlandforina framan við bæinn og var næstum drukknaður þar. Félagar hans brugðust skjótt við og björguðum honum í því er bóndinn á Einlandi, Hannes, birtist í dyragættinni.

Þórkötlustaðanes

Fiskgarðar á Kóngum.

Austan við Bótina, í klettunum niður af Þórkötlustaðabæjunum, er Buðlungavör. Meðan árabátarnir voru, var sú vör notuð, alltaf þegar fært þótti, en í öllu misjöfnu lent í Nesinu, sem kallað var, og áttu þeir Þórkötlustaðamenn því aflann eftir hverja vertíð á tveim stöðum. Þetta breyttist, þegar vélarnar komu í bátana (trillur). Eftir það var eingöngu lent í Nesinu.
Austan við Buðlunguvör koma Slokin; út af þeim samnefndur skerjatangi, sem gengur vestur og út í Þórkötlustaðavík, og er sundið inn í víkina á milli þessara tanga og þeirra, sem liggja út frá Leiftrunarhól og áður er getið.

Slok

Slok – fiskigarðar.

Þarna á Slokanum er álitið að eitt af stóru slysunum hafi orðið. Það var nóttina áður en mb. Aldan frá Vestmannaeyjum rak upp í Nesið að vestanverðu, að annan vélbát frá Vestmannaeyjum, Þuríði formann, sem einnig varð fyrir vélbilun í sama veðrinu, rak þar upp. En þr tóku höfuðskepnurnar öðru vís á hlutunum. Þegar fólk kom á fætur á Þórkötlustöðum, varð þar vart við óeðlilega mikið brak í fjörunni, og þótt allt væri mjög maskað niður, sást þó, að þarna hafði Þuríði formann rekið upp og hún farist með allri áhöfn.

Þórkötlustaðanes

Pétur Guðjónsson við Höfn í Þórkötlustaðanesi.

Næsta örnefni við Slokin er svo Markabás. Þar eru landamerki milli Þórkötlustaða og Hrauns.”
Þórkötlustaðaneshraunið kom ofan úr Vatnsheiði, en í henni eru þrír gígar. Falleg, stór og skjólgóð hrauntröð liggur eftir Nesinu. Í raun væri hún kjörin til útivistarnotkunar. Endur og gæsir verpa beggja vegna gjárinnar.

Pétur Guðjónsson, skipstjóri, sem uppalinn er í Höfn á Þórkötlustaðanesi, einu af þremur íbúðarhúsum, sem þar voru, hefur í annarri FERLIRslýsingu sagt frá mannlífi og minjum á Nesinu fyrir miðja 20. öldina. Við þá skoðun komu í ljós gömul mannvirki, bæði ofan við sjávarkambinn og ofar í Nesinu.

Strýthólahraun

Fiskbyrgi í Strýthólahrauni í Þórkötlustaðanesi.

Í Strýthólahrauni eru t.d. gömul þurrkbyrgi, lík þeim sem sjá má við Ísólfsskála og á Selatöngum. Ofar eru miklir þurrkgarðar líkt og í Herdísarvík, en þeir segja til um hina gömlu vinnusluaðferð fiskjarins er allt far þurrkað og hert. Fáir virðast vita af þurrkbyrgjunum í Strýthólahrauni og því hafa þau varðveist svo vel sem raun ber vitni.
Austan við Strýthólahraun má sjá tóftir og minjar í kringum Þórshamar, en útveggir hússins standa enn við Flæðitjörnina. Jóhann vitavörður bjó þar síðastur manna.

Þórkötlustaðanes

Innsiglingarvarða og Þórshöfn á Þórkötlustaðanesi.

Suðaustan við húsið er manngerður hóll. Hann virðist vera fjárborg eða tóft, miklu mun eldri en allar minjar umhverfis. Sunnan við húsið er heillegt fjárgerði og fjárhústóft. Suðvestan við það eru minjar hins eina skrautblómagarðs, er þá var til í umdæmi Grindavíkur. Eflaust hefur hann vakið mikið umtal og margar vangarveltur á þeim tíma er lífið snerist um þurrfisk og síðan saltfisk (undir steini).

Ofan bryggjunnar milli Kónga og Strýthóla eru mörg íshúsanna er komu við sögu seinni tíma útgerðar á Nesinu.

Þórkötlustaðanes

Ískofi á Þórkötlustaðanesi.

Klöpp er austastur Þórkötlustaðabæjannna. Bæjartóftin kúrir austan undir fjárhúsgafli Buðlungu. Beint vestan hennar má sjá austustu sjávargötuna í hverfinu, en þær voru þrjár talsins. Þarna fæddist m.a. Árni Guðmundsson, síðar bóndi í Teigi. Faðir hans, Guðmundur í Klöpp var formaður og þótti veðurglöggskyggn með afbrigðum og aflasæll. Klappartúnið er nú í eigu afkomenda hans í þriðju kynslóð þótt aðrir stelist stundum til að nýta það á óstundum. Brynjúlfur Jónsson frá Minna-Núpi mun hafa gist í Klöpp er hann var við sjósókn á yngri árum því hann ritaði m.a. Jóni Árnasyni dagsett bréf þaðan um söfnun og skráningu þjóðsagna, sem hann var iðinn við. (Hafa ber í huga hér gæti einnig verið um að ræða Klöpp í Selvogi, en Brynjúlfur var þó nokkrar vertíðir í Grindavík og dvaldist þar).

Þórkötlustaðir

Hraunkot.

Hraunkotið, sem er skammt norðar, var upphaflega þurrabúð frá Klöpp. Þannig var að bændur í hverfinu leyfðu vermönnum, sem hjá þeim réru og ílengdust, að byggja sér kofa eða kotbýli meðan ekki varð landskerðing. Þegar fram liðu stundir efldust kotin, kind kom og kýr, þá kona og loks krakki. Köttur og krafa um lánaðan landsskika fylgdu í kjölfarið. Allt var þetta látið meinlaust meðan miðaði.
Í Slokahrauni eru miklir þurrkgarðar og einstaka þurrkbyrgi frá löngum fyrri tíð. Hafa þau að mestu fengið að vera í friði, en eru nú verðmætar leifar hins liðna. Ofan við Markabás er Sögunarhóll. Þar söguðu men rekan og má sjá hlaðin hrauk við hólinn þar sem viðurinn var hafður.
Í Hraunkoti eru fallegar hleðslur heimtraðarinnar sem og fallegar og heillegar garðhleðslur. Frá Slokahrauni er fagurt útsýni yfir að Hraunsvík og Festarfjalli. Í fjörunni eru víða grágrýtishnyðlingar og annars sérstæðir gatasteinar. Hraunreipin neðan Klappar eru og einstaklega falleg.
Frábært veður.

Sloki

Sloki – uppdráttur ÓSÁ.

Grindavíkurvegur

Umhverfi Grindavíkurvegarins er miklu meira en bara hraun og gamburmosi eða fjöll og gufustrókar tilsýndar. Á leið um veginn, frá gatnamótum Reykjanesbrautar til Grindavíkur, er fjölmargt að sjá um aðdraganda hans – ef vel er að gáð.
Áður fyrr, reyndar um árþúsund, voru

Skógfellavegur

Skógfellastígur.

helstu samgönguæðar til Grindavíkur um Skógfellaveg frá Vogum, Skipsstíg og Árnastíg frá Njarðvíkum og Keflavík og Prestastíg frá Höfnum. Hafa ber í huga að sama gildir um Reykjanesbrautuna sem og alla aðra þjóðvegi landsins.
Skömmu eftir aldamótin 1900 var svo byrjað á því að gera Skipsstíginn vagnfæran frá Grindavík og með Lágafelli, en svo virðist sem horfið hafi verið frá því, en þess í stað ákveðið að ryðja nýja þjóðbraut frá Stapa milli Skógfellavegar og Skipsstígs. Líklega hafa þessar umbætur verið liður í atvinnubótavinnu hreppsins á þeim tíma. Uppgerði kafli Skipsstígsins vestan undir Lágafelli sést enn vel og er einstaklega fallegt mannvirki, sem ekki hefur verið raskað. Við hann er Dýrfinnuhellir. Segir sagan að í honum hafi dulist samnefnd kona með börn sín meðan „Tyrkirnir“ fóru með ófriði á hendur Grindvíkingum. Hellirinn er ekki auðfundinn, en hið sæmilegasta skjól fyrir veðrum og þáverandi illmennum.

Grindavíkurvegur

Grindavíkurvegur – vegavinnubyrgi á Gíghæð.

Enn má sjá skjól vegavinnumanna atvinnubótahlutans við Skipsstíginn, sbr. ofangreinda ljósmynd, sem tekin var úr því árið 2006.
Gamli Grindarvíkurvegurinn var lagður á árunum 1913 til 1918. Aðdraganda hans er m.a. getið í fundargerðum Grindavíkurhrepps þar sem skorað er á stjórnvöld að leggja akfæran veg til Grindavíkur í framhaldi af gerð þjóðvegarins til Keflavíkur um Stapa, samþykktum Alþingis um fjárveitingar til vegagerðarinnar, árlegum skýrslum vegavinnuverkstjórans, Sigurgeirs Gíslasonar, athugasemdum við reikningshaldið, svörum hans sem og úttektarnótur í Einarsbúð í Grindavík er hafa varðveist í höndum Erlings Einarssonar, þess sjaldgæfa varðveisluhaldara.

Grindavíkurvegur

Grindavíkurvegur – vegavinnubúðir á Gígæð.

Vegurinn var greiddur að hálfu úr ríkissjóði og að hálfu af Grindvíkingum. Grindvískir formenn samþykktu, flestir, að láta lifrina ganga upp í kostnaðinn þeim megin. Verkstjórinn við vegagerðina var nefndur Sigurgeir frá Hafnarfirði, reyndur vegagerðarmaður. Hann segir m.a. í skýrslu sinni 11. nóv. 1917 að vegurinn hafi alls verið 16 km og 120 m frá Vogastapa að verslunarhúsum við Járngerðarstaðavík í Grindavík. Við vinnuna voru 35-48 menn að jafnaði frá vori að hausti með 13-16 hesta. Til eru listar með nöfnum vegagerðarmannanna sem og hvað þeir fengu í þóknun fyrir verkið. Þá má vel sjá hvað tekið var út úr Einarsbúð til verksins. Vegna alls þess er hér bæði um merkilega sagnfræðilegar heimildir að ræða og ekki síst fornfræðilegar því minjarnar standa víða enn – óhreyfðar, vegna þess að þær hafa hingar til verið „ósýnilegar“ í hraununum.

Grindavíkurvegur

Grindavíkurvegur – vegavinnubúðir á Gígæð.

Vegurinn sést enn frá Vogastapa, niður í Selbrekkur (Sólbrekkur) og áfram austan við Seltjörn. Þá sést hann einnig á kafla vestan vegarins vestan Svartsengisfells (Sýlingafells) að Selhálsi og yfir hálsinn.
Meðfram veginum, frá Seltjörn að Grindavík, í Skógfellshrauni, Arnarseturshrauni, Illahrauni og Klifhólahrauni, eru fjölmargar minjar vegavinnuframkvæmdanna, þ.e. búðir og skjól vegavinnumanna. Búðirnar eru á nokkrum stöðum og hafa hlaðin hús á þeim verið svipuð að stærð. Ein ástæðan var sú að vegavinnumenn voru með fjögur þök í fórum sínum og færðu þau á milli búða.

Grindavíkurvegur

Grindavíkurvegur – vegavinnubúðir á Gíghæð.

Því miður varð svæðið meðfram Grindavíkurveginum mjög illa leikið þegar nýi vegurinn var lagður með stórvirkari tækjum. Ekki er ólíklegt að þá hafi margar minjar hreinlega verið eyðilagðar. Sýnilegar minjar enn þann dag í dag eru á u.þ.b. 500 metra millibili meðfram gamla veginum. Ef vegavinnumenn hafa sett að jafnaði upp búðir með því bili vantar nokkrar þeirra nyrst í Skógfellahrauni og Arnarseturshrauni þar sem jarðýtur hafa við umbótagerð farið um langt út fyrir vegstæðið. Helst er að sjá að búðir, sem reistar voru í skjóli við hraunhóla og hæðir eða í hrauntröðum hafi sloppið við eyðileggingu. Í dag hefði verið bæði gaman og fróðlegt að hafa allar búðirnar, en saman mynduðu þær heilstæðasta mynd frumstæðrar vegagerðar um og eftir aldamótin 1900 – þegar allt var enn unnið á höndum með aðstoð hesta.

Grindavíkurvegur

Grindavíkurvegur – búðir við Bláalónsveginn.

Þegar FERLIR fór í sína 395. ferð um Reykjanesið voru minjarnar við Grindavíkurveginn skoðaðar. Hér á eftir verða taldir upp staðir, sem skoðaðir voru á leiðinni frá Seltjörn að Járngerðarstaðahverfi í Grindavík, en áður höfðu verið skoðaðar minjar allt frá gömlu vegamótum Grindavíkurvegar og Keflavíkurvegar uppi á Stapanum. Þar mótar enn fyrir hleðslum vestan við gatnamótin, í sunnanverðri Njarðvíkurheiði og undir Selbrekkum (í skóginum).

Grindavíkurvegur

Grindavíkurvegur – Búðir í Hesthúsabrekku.

Við nýlega skoðun kom hins vegar í ljós að við gatnamót Keflavíkurvegar og Grindavíkurvegar og Vogastapa höfðu framkvæmdir, sem unnar voru þar á þessu ári (2006) og því síðasta, eyðilagt þessar minjar. Þó má enn sjá hluta af garðlagi er umlukið hefur búðir vegavinnumannanna.
1. Sunnan Seltjarnar (Selvatns) liggur vegur að Stapafelli. Á milli hans og tjarnarinnar er hlaðin rétt upp á hæð svo og gerði.

Njarðvíkursel

Njarðvíkursel.

Handan vegarins eru tóftir sels, Innra-Njarðvíkursels. Selstaðan var nýtt sem hluti af búðum vegavinnumanna um tíma.
2. Austan Grindavíkurvegar, nokkuð sunnan gatnamótanna að Seltjörn (Selvatni), er gömul rudd gata inn í hraunið. Lúpínubreiða er við vegabrúnina þar sem gatan byrjar. Hún liggur að búðum um 50 metrum inn í hrauninu. Þar eru hluti af hlöðnum húsum, skjól og rutt svæði fyrir tjaldbúðir. Skammt sunnan götunnar, nær veginum, er hlaðinn hringur, sennilega skjól fyrir tjöld.

Grindavíkurvegur

Grindavíkurvegur – búðir norðan Gíghæðar.

3. Skammt sunnar, á hægri hönd eru þrír hlaðnir skjólgarðar utan í hraunhól, u.þ.b. 30 metrum frá veginum.
4. Á vinstri hönd er stigi yfir girðingu, sem liggur samhliða Grindavíkurveginum. Stígur er frá stiganum, varðaður, að helli, sem nefndur hefur verið Hestshellir. Hlaðið er fyrir opið, en dyragat á. Inni í hellinum eru hleðslur. Hann liggur til vesturs, undir veginn, og er um 160 metra langur. Hellirinn var notaður sem skjól fyrir vegavinnumenn, en einnig mun hann hafa verið notaður sem skjól bruggerðarmanna um tíma.
5. Á hægri hönd, örskömmu sunnar, eru klettar um 10 metrum frá veginum. Utan í öðrum hólnum er hlaðið hús, heillegt. Inni í því er skúti.
6. Þegar komið er framhjá gatnamótum vegar að Arnarsetri er jarðfall vinstra megin vegar, rétt fyrir innan girðinguna. Norðan í því er Dátahellir. Í hellinum fundust bein og fataleifar, hnífur, beltissilgja o.fl. af bandarískum dáta, sem hvarf þarna í hrauninu. Beinagrindin fannst þarna fyrir innan stein, sem nemur við hellismunnann.
7. Skammt þar frá, sömu megin, einnig rétt fyrir innan girðinguna, er hlaðið hús, hesthús vegagerðarmanna, ofan í hraunrás. Stígur liggur frá því til suðurs og beygir síðan til austurs, að öðru hlöðnu, heillegu húsi, smiðju. Þá blasa við tvö önnur hlaðin hús, svo til heil. Annað var hesthús og hitt var læst verkfærageymsla. Austan við þau er rutt skeifulaga svæði. Það hefur annað  hvort, eða hvorutveggja, verið notað undir tjald eða til járninga. Þar má a.m.k. enn sjá steininn, sem notaður var til þeirra verka.
8. Handan vegarins er bílastæði. Í vesturjarðri þess er djúp hola, sem myndaðist er unnið var við nýja veginn. Í holunni er u.þ.b. 60 m langur hraunhellir; Dollan.

Grindavíkurvegur

Grindavíkurvegur – skjól sunnan Seltjarnar.

9. Í brekkunni á vinstri hönd eru hleðslur, sennilega skjól fyrir hesta.
10. Á hægri hönd, rétt áður en komið er að gatnamótum vegar að Bláa Lóninu, er stór hleðsla skammt frá veginum. Við hana er önnur hleðsla. Þarna gætu vegavinnumenn hafa hlaðið sér skjól, enda hleðslunar svipaðar hinum, en vitað er að menn, sem lögðu símann til Grindavíkur (strengurinn liggur þarna við) hafi nýtt sér þetta sem skjól.

Grindavíkurvegur

Grindavíkurvegur – skjól gegnt Svartsengi.

11. Þegar komið er framhjá gatnamótunum og aðeins upp á hæðina eru hlaðin hús, hálffallinn, innan við 10 metra frá veginum. Þó er þarna heill hlaðinn veggur og rutt svæði.
12. Hlaðinn hringur er skammt sunnar, hægra megin vegar, ca. 15 metrar frá vegi. Þetta er líkast til skjól.
13. Hlaðinn stallur er vinstra megin vegarins, ca. 10 mertum frá, rétt áður en komið er út úr hrauninu við slóðan að Svartsengisfelli.
14. Upp úr Svartsengi, þar sem grastungan nær lengst til norðurs, liggur stígur upp í hraunið og áfram í átt að búðunum vestan við Arnarsetrið. Hlaðið er í stíginn á nokkrum stöðum. Líklega er um að ræða stíg vegagerðarmanna þar sem farið var með vistir áður en vegurinn náði að Svartsengi, en byrjað var á honum að norðanverðu, á Stapanum. Þarna fyrir ofar við stíginn er klettur, nefndur September, en tekið var mið af honum þegar verkið var látið falla niður eitt haustið.

Grindavíkurvegur

Grindavíkurvegur – skjól sunnan Seltjarnar.

15. Rétt áður en komið er að Selhálsi er tótt í hlíðinni á vinstri hönd, innan við 10 metra frá veginum. Þetta er tótt Hópssels, en Hóp átti land þangað. Skammt þar sunnan af sést móta fyrir stekk í hlíðinni.
16. Hægra megin vegarins, vestan í Selhálsi, sést móta fyrir tótt í lægð. Líklega er um að ræða hluta af Hópsseli.
17. Á Baðsvöllum var sel frá Járngerðarstöðum. Tóttir selsins sjást í vesturjaðri hraunsins norðan Þorbjarnarfells. Einnig er tótt austar á völlunum, við vatnsstæði, sem þar er. Vegna ofbeitar var Baðsvallarselið flutt upp á Selsvelli, þar sem Grindarvíkurbæirnir höfðu lengi í seli, bæði austan á völlunum og suðvestan í þeim. Enn sést móta vel fyrir tóttum seljanna á S

elsvöllum.

Grindavíkurvegur

Grindavíkurvegur – vegavinnubúðir á Gíghæð.

18. Þegar komið er upp á Selháls (Dagmálaháls) sjást Gálgaklettar vel á vinstri hönd. Þar segir þjóðsagan að hreppsstjóri hafi hengt þjófa eftir að hafa fangað þá við laugar norðan Þorbjarnarfells.
19. Á hægri hönd er Þorbjarnarfell. Efst í því er Þjófagjá. Þar áttu þjófarnir 13 að hafa hafst við á milli þess að þeir herjuðu á bæina fyrir neðan. Uppi á fjallinu eru einnig stríðsminjar.
20. Brekkan, niður að bænum, kallast Hesthúsabrekka. Vinstra megin hennar, áður en komið er að vatnsgeyminum, eru hraunhólar. Þar höfðu vegagerðarmenn búðir sínar áður en vegagerðinni lauk. Skammt norðar er gígur þar sem þeir tóku efni í veginn.
21. Sunnan vatnsgeymisins er Gaujahellir, Jónshellir öðru nafni. Hann lá áður alla leið þangað sem félagsheimilið Festi er nú. Hellirinn er sagður hafa verið notaður sem brugghellir um tíma. Saga er af mönnum, sem lokuðust inni í hellinum í jarðskjálfta, en komust út.

Grindavíkurvegur

Grindavíkurvegur

Hellirinn er í einni af þremur gjám, sem lágu í gegnum Járngerðarstaðahverfið. Sú austasta heitir Stamphólsgjá. Í henni var Grindavíkurhellir, sögufrægur hellir í árdaga hraunhellafundanna hér á landi, en síðustu leifar hans fóru forgörðum með nýjasta hverfinu, sem nú rís í bænum. Hellinum hafði lítil virðing verið sýnd því við opið hafði verið kastað alls kyns rusli áður en endanlega var fyllt upp í það. Opið er nú undir einu vegarstæðinu, en frá því lá alllöng og greiðfær rás til suðausturs. FERLIR hefur að öllum líkindum farið síðustu förina um hellinn (árið 2006) áður en honum var lokað.

Eins og sjá er fjölmargt athyglisvert við Grindavíkurveginn, sem reyndar mjög fáir vita um. Ef skoða á þessa staði er mikilvægt að ganga vel um og minnug árdaga; að raska ekki minjunum. Þá má ekki skilja eftir rusl eins og fólk er svo gjarnt á að gera að stöðum sem það heimsækir. En að teknu tilliti til umhverfisins getur þetta allt breyst með skömmum fyrirvara – þegar fram líða stundir.

Skipsstígur - útsýni úr skjóli vegavinnumanna

Festarfjall

Hraunsvík og Festarfjall eru náttúruminjar í umdæmi Grindavíkur.

Festarfjall

Festarfjall og Hraunsvík.

Gengið var niður í Hraunsvík Undir Festi, eins og það er kallað, þ.e. að ganga Hraunssandinn (Ægissandinn) undir Festarfjalli (Festisfjalli) með Hraunsvíkinni. Einstigi er niður með berginu, en tiltölulega auðvelt er að komast niður (og reyndar upp aftur). Ofan fjörunnar, austan Hrólfsvíkur, er hátt berg og síðan Festarfjallið, sem sjórinn hefur nú sorfið til hálfs. Í gegnum fjallið gengur bergveggur og er hann sagður vera festi tröllskessu. Festarfjall er 190 metra hátt. Við austurenda þess er Lambastapi og síðan Ísólfsskáli. Ekki á að vera hægt að ganga þurrum fótum með ströndinni undir fellinu yfir að Ísólfsskála, en þó er til saga um að kona þar búandi hafi gert það a.m.k. einu sinni og þótti það mikið afrek.

Hraunsvík

Hraunsvík til vesturs.

Að þessu sinni var sjórinn svo til ládauður, en hann getur verið ansi viðskotaillur þarna niðri og fljótur að skella sér upp og bleyta óvænt í göngufólki. Dæmi eru um að hann hafi hellt sér yfir börn, sem hætt hafa sér of nærri, en enn er ekki vitað um að óhapp hafi hlotist af. Hár malarbakki er við sjávarmál og því varhugavert að hætta sér of nærri, enda Ægir óræðinn og jafnvel óvæginn á stundum. Þá þarf að gæta þess vel að fara ekki austur fyrir hlein, sem þar skagar út vestast undir Festarfjalli, í aðflæði. Þar undir Festarfjalli er m.a. stór hellir og annar minni. Í stærri hellinum verpir teista, hinn knái svarti fugl, tugum saman. Fýll og rita verpa utan í bjarginu. Ungarnir stóðu sperrtir á syllunum og biðu eftir að verða flugstórir.

Dúnknahellir

Duknahellir.

Vestar í berginu er m.a. Dunknahellir. Hann er nú að koma fram aftur eftir að sjórinn hafði fyllt hann af sandi og möl. Op er á honum uppi í berginu, en um það er ekki hægt að komast svo auðveldlega. Hins vegar er hægt að fara inn í hellinn undir bergið og er þá komið inn í sæmilega rúmgóðan og háan skúta. Opið er uppi undir lofti – mót austri.

Eftirfarandi frásögn er í ritinu “Frá Suðurnesjum – frásagnir frá liðinni tíð” eftir Guðstein Einarsson og ber hún heitið “Frá Valahnúk til Seljabótar”:
“Í kringum 1890 fannst þarna rekin á hvolfi frönsk fiskiskúta. Erfitt var að gera sér grein fyrir, hvort áhöfn hefði farist með skipi þessu. En með því að engan mann hafði rekið úr því, var frekar hallast að því, að skip þetta hafi verið yfirgefið, en skipshöfninni bjargað af öðru skipi, áður en það rak upp.

DunkshellirÍ þennan tíma var gert út frá Ísólfsskála. Þeir bræður, Hjálmar og Brandur Guðmundssynir frá Ísólfsskála, voru þar formenn, með sinn bátinn hvor. Dag nokkurn á vertíðinni voru þeir á sjó austur í Hælsvík. Þar var þá mikið af frönskum fiskiskútum. Ein skúta var þar, sem þeir veittu sérstaka athygli, vegna þess hve segl hennar voru mislit, líkast því sem þau væru bætt. Seinni part þessa dags gekk svo í hvassa s.a. átt með slyddubyl. Þeir bræður héldu til lands, þegar verðrið fór að versna. Um kvöldið eða nóttina gekk síðan í hvassa s.v. átt. Morguninn eftir, þegar þeir á Ísólfsskála komu niður að sjónum þar, tóku þeir eftir miklu rakaldi þar úti fyrir og eitthvað var í fjörunni. Það var þegar giskað á, að skip hefði strandað vestur á Hraunssandi eða þar í kring og var fljótlega sent af stað að líta eftir þessu.

Hraunsvík

Hraunsvík til austurs.

Á leiðinni frá Ísólfsskála og út að Hrauni er mikið af þverhníptum háum klettum meðfram sjónum og sums staðar illt að sjá greinilega niður í fjöruna, enda komust leitarmenn alla leið út að Hrauni, án þess að finna nokkuð. Frá Hrauni var svo snúið við aftur sömu leið og bættust þaðan menn við í leitina.

Þegar upp að Dunkshelli kom, fannst svo þetta strand, sem áður er getið. Og þeir Ísólfsskálamenn töldu sig þekkja þar aftur frönsku skútuna með bættu seglin, sem þeir sáu í Hælsvík deginum áður. Engan hefi ég hitt, sem kann nánar að segja frá strandi þessu, en nú hefir verið gert.

Dunkshellir

Horft upp um op á Dunkshelli.

Fyrir innan Dunkshelli byrjar Hraunssandur og er hann í boga fyrir botni Hraunsvíkurinnar, hátt berg rís alls staðar upp af Hraunssandi, og aðeins á einum stað er hægt að komast niður á sandinn, þar sem klettarnir eru lægstir. Alveg fyrir botni Hraunsvíkur, þegar ströndin byrjar að beygja út að austanverðu, rís Festarfjall upp af sandinum.
Í Festi eru Vestri-Nípa og Eystri-Nípa, sem eru mörk milli Hrauns og Ísólfsskála, og frá Eystri-Nípu heitir sandurinn Skálasandur. Munnmæli eru um að í skerjum, sem heita Selasker og eru fram undan Eystri-Nípu, hafi í fyrndinni verið festiboltar fyrir skip og að þarna hafi þá verið skipalega. En miklar breytingar hafa orðið á landslagi þarna, hafi það nokkru sinni verið, því yfirleitt á öllum sandinum er sjaldan svo kyrrt, að hægt sé að lenda þar.

Dunkshellir

Horft út um Dunkshelli.

Upp úr 1890 hafði frönsk fiskiskúta siglt upp á Hraunssand og orðið þar til. Það var í besta veðri, svo margir bátar úr Þórkötlustaðahverfinu voru á sjó. Eftir hádegi kom “fransari” siglandi á þær slóðir, sem bátarnir héldu sig helst á, og virtist vilja hafa tal af þeim, því hann sigldi að hverjum bátnum eftir annan, og þeir héldu það vera skipstjórann sem var með köll og bendingar, en enginn á bátunum skildi, hvað hann vildi. Eftir að hafa siglt þannig á milli bátanna nokkra stund tók hann stefnu beint upp á Hraunssand og þar í strand. Magnús Hafliðason bóndi á Hrauni segist muna það, að faðir sinn, Hafliði Magnússon, sem lengi bjó á Hrauni, hafi oft minnst þess franska skips eða siglingu þess, þennan dag. Hann hafði verið í landi um daginn, en bátarnir voru svo nærri landi, að fljótlega var tekið eftir því, þegar franska skipið fór að sigla á milli þeirra, hvers af öðrum.

Festarfjall

Festarfjall – sjávarhellir.

Það þótti strax eftirtektarvert, því venja var að þegar “fransari” sigldi að báti, sem oft hafði komið fyrir, þá var erindið að biðja þá fyrir bréf í póst, eða að hafa viðskipti. Sérstaklega höfðu þeir frönsku sóst eftir sjóvettlingum. Allt, sem þeir keyptu, var aðallega borgað í kexi. Einstaka sinnum var gefið í staupinu, svo karlarnir höfðu stundum komið góðglaðir í land, berhentir en með kex, og það þótti alltaf góð hlutabót. Þeir frönsku þurftu því að jafnaði ekki að sigla milli margra báta til að fá afgreiðslu.  Þess vegna var farið að veita siglingunni athygli, þegar svo skipið tók stefnu til lands. Beið heimafólk á Hrauni þess með eftirvæntingu, hvað skipið ætlaðist fyrir. En þegar svo að siglingin hvarf fyrir hamranefið, sem lengst skagar fram sunnan við Hraunssand, þar sem Dunkshellir er, var séð hvert stefndi.

Festarfjall

Festarfjall – sjávarhellir.

Hafliði fékk orð fyrir að vera léttur á sér og fljótur á fæti allt fram á elliár, en það hafði hann sagt, að aldrei muni hann hafa verið fljótari uppá Hraunssand en í þetta skipti. En þótt hann væri fljótur, var skipið strandað og landsjórinn búinn að setja það þversum í fjöruna. Öllu verðmæti hafði verið bjargað úr skipi þessu og það svo liðast sundur þarna í fjörunni.
Magnús Hafliðason segir og, að Hraunssandur sé oft á mikilli hreyfingu, þannig að sjórinn hreinsi stundum allan sand af einum staðnum og flytji á annan, svo klappirnar verði berar, þar sem sandurinn hverfur. Í einu slíku umróti segir hann að gríðarstórt akkeri hafi sést í klöppunum, en sandurinn hafi hulið það svo fljótt aftur, en ekki hafi unnist tími til að ná því, svo að það týndist aftur. En akkeri þetta telur hann víst að sé af þessu franska skipi.”

Festarfjall

„Festin“ í Festarfjalli neðst.

Í fjörunni vestan við Dunkshelli var dauðrekinn hvalur. Erfitt var að geta sér til um tegundina, en ólyktin gæti hafa sagt kunnugum eitthvað.
Myndanirnar í berginu og fjallinu eru tilkomumiklar; bólstarberg, setlög og þétt grágrýti í bland. Festarfjall dregur nafn sitt af grágrýtisganginum. Þessi gangur á að hafa verið gerður að silfurfesti tröllkerlingar í þjóðsögunni.
Austarlega í Grindavík, hér um bil miðja vegu milli bæjanna Hrauns og Ísólfsskála, er þverhnípt fell fram við sjóinn, sem heitir Festarfjall. Neðan undir felli þessu er hátt blágrýtisstandberg og ægisandur undir sem ganga má þurrum fótum með lágum sjó. Frá Hrauni blasir við í miðju berginu grá rák sem gengur þráðbeint upp í gegnum bergið og nefnist Festin.

Kristján Sæmundsson

Kristján Sæmundsson, jarðfræðingur, skoðar berggang undir Lyngfelli.

Sagan segir að rák þessi sé silfurfesti sem tröllkona ein hafi einhvern tíma í fyrndinni hengt fram af berginu með þeim ummælum að þá er dóttir bóndans á Hrauni, sú sem bæri nafn hennar, gengi þar neðan undir þá skyldi festin detta niður og verða eign stúlkunnar.

Því miður lét tröllkonan ekki nafns síns getið svo að ekki hefir verið auðvelt að láta heita eftir henni, enda hangir festin óhreyfð enn í dag.
Ofan við Hraunssandinn var á sjöunda og áttunda áratug tuttugustu aldar mikið malar- og sandnám (Ægissandur h/f). Enn má sjá þar ummerki eftir sílóin. Þaðan var vegur niður á Hraunssand, sem „peiloder“ var ekið um með aftanívagn. Hann var þannig gerður að hann gat mokað sandinum og mölinni upp í sig sjálfur. Óhemjumagn af efni var þannig fært upp úr fjörunni í námuna. Margir Grindjánar höfðu atvinnu af þessum malar- og sandflutningum, sem nú hafa lagst af.

Heimild um þjóðsöguna er í RAUÐSKINNU I 45 og grindavik.is.

Festarfjall

Sjávarhellir í Festarfjalli.

Arnarsetur

Gengið var um Arnarseturshraun undir leiðsögn Björns Hróarssonar, hellafræðings. Fyrst var farið í Dolluna, sem rétt við gamla Grindavíkurveginn við bílastæðið á Gíghæð.

Dollan

Dollan.

Dollan opnaðist er þakið féll niður undan vörubíl þegar verið var að vinna við nýja veginn, en þá var svæðið þarna notað sem athafnasvæði verktakans. Opið er svo til alveg vestan til í svæðinu. Dýptin á fast er um mannhæð og hallar undir á alla vegu. Þarna þyrfti að vera góður stigi fyrir ferðafólk því hellirinn er aðgengilegur svona nálægt vegi. Fyrst þyrfti þó að hreinsa upp drasl, sem safnast hefur neðan við opið. Björn skellti sér niður og skoðaði hellinn. Hann nær umm 30 metra upp á við til austurs og einnig til vesturs og uppfyllir því öll skilyrði til að geta flokkast sem góður hellir.

Næst var gengið áfram niður hraunið og hraunrásinni fylgt til vesturs. Eftir u.þ.b. 500 metra endar rásin og við tekur hellir. Hann liggur í hægri boga og endar eftir u.þ.b. 50 metra. Þar er stórt op í gólfinu og sést niður á neðri hæðina. Mannhæða hátt er niður. Eftir að haf rutt niður grjóti til að búa til lendingarpall var hoppað niður. Þar liggur víð og góð rás til austurs, undir gólfið sem áður var gengið.

Dollan

Í Dollunni.

Gólfið í rásinni er alveg hreint og slétt. Þessi hluti endaði eftir u.þ.b. 50 metra. Þar inni var bréfmiði á vegg, en letrið var ólæsilegt. Þó mátti greina dagsetningu og ártalið 1992. Þá var haldið til vesturs. Eftir um 30 metra var komið út í jarðfall. Úr því hélt rásin áfram um 20 metra uns komið var út úr henni á ný. Miðað við lýsingu á Hellinum Kubb gæti þetta vel verið hann. GPS-punktur af hellinum sýndi staðsetningu u.þ.b. 20 metrum norðar, en þrátt fyrir leit þar fannst ekkert op. Miðað við nýjan GPS-punkt, sem tekin var þar, gæti hér verið um misvísun að ræða. Um Kubb segir m.a. í lýsingu: “Kubbur er sennilega í sama hellakerfi og Dollan. Kubbur er á tveimur hæðum”.

Kubbur

Kubbur.

Annað op fannst skammt austan við þann stað, næstum mannhæða djúpt. Björn hoppaði þar ofan í. Þarna reyndist vera hellir í sömu stefnu og hinir hellarnir, u.þ.b. 30 metra langur. Þessi hellir hefur ekki verið nefndur, en fær hér vinnuheitið Naddur í merkingunni nálægur. Erfitt er að koma auga á holuna nema ganga svo til beint á hana.

Hnappur

Hnappur – opið.

Ekki lágu fyrir GPS-punkt á Hnapp, en um hann er til eftirfarandi lýsing: “Hann er með skemmtilegri hellum, sem hægt er að komast í. Hann er ekki mjög langur, en hefur upp á margt að bjóða. Inngangurinn er í gegnum þröngt gasútstreymisop. Strax þegar niður er komið er hægt að fara á efri eða neðri hæð. Efri hæðin lokast fljótt, en neðri hæðin liggur góðan spöl inn þar til komið er að hraunfossi. Fyrir innan fossinn lækkar gólfið verulega. Þá er maður staddur í miðjum hellinum í stórumsal. Út frá þessum sal liggja rásir í margar áttir og ein þeirra liggur í hring”. Fróðlegt væri að fá nánari staðsetningu eða leiðarlýsingu á Hnapp. (Síðar kom í ljós að Þorvaldur Örn, kennari í Vogum, hefði farið með félaga sínum Geirdal, í Arnarseturshraun og þá farið niður í Hnapp. Hefðu þeir m.a. rissað hellinn upp og nefnt hann Geirdal).

Hnappur

Í Hnappnum.

Haldið var upp að vegavinnubyrgjunum austan Grindavíkurvegar og áfram upp fyrir þau. Þar eru hellar í hraunrás. Rásin er fallin niður á tveimur stöðum og er efri hlutinn öllu lengri, eða um 50 metra langur. Hann endar í hafti, sem aðskilur hann og efsta hluta hinnar miklu hraunrásar úr Arnarsetursgígnum. Í heildina er þessi hallahluti um 100 metrar á lengd. Þeir fá vinnuheitið Gegnumgangur. Á bökkum rásarinnar eru margar stórar og fallegar hraunæðar.
Loks var gengið niður í Dátahelli. Hann nefnist svo vegna þess að í honum fannst beinagrind er talin er hafa verið af amerískum hermanni er týndist í hrauninu að vetrarlagi allmörgum árum áður. Við skoðun reyndist hellirinn vera um 40 metra langur.
Veður var frábært – bjart og hlýtt miðað við árstíma.

Allar staðsetningar voru samviskusamlega skráðar, en þegar heim var komið uppgötvaðist að blaðið með öllum tölunum hafði gleymst við Dátahelli.

UPDATE:

Arnarseturshellir

Arnarseturshellir.

Farið var aftur í Arnarseturshraun og GPS-punktar endurteknir. Við það fannst hellir, er nefndur hefur verið Skjóli sem og Kubbur að öllum líkindum.
Farið er inn í Skjóla, sem er nokkuð norðan við Nadda, inn í hraunbólu. Inn úr henni liggja rásir bæði til norðurs og suðurs. Ýmislegt bendir til að þetta séu yfirborðsrásir, en þarna örskammt frá er allnokkurt jarðfall er bendir til að þar undir hafi runnið talsvert hraun. Skjóli var ekki kannaður að þessu sinni, einungis framan við rásirnar er liggja inn.
Á leiðinni til baka var aftur hugað að hraunhól, sem lítil varða stendur á, og skoðaður hafði verið daginn áður. Hóllinn er skammt vestan við Dolluna. Í honum eru tvö gasuppstreymisop. Eystra opið er þröngt, en liggur inn til norðurs og víttkar síðan og hallar niður á við. Þarna gæti vel verið um opið á Hnapp að ræða. Fötin gáfu ekki tækifæri til að elta rásina lengra niður að þessu sinni, en þarna er svolítið skrið til að byrja með.
Ferðin var notuð til að gera uppdrátt af svæðinu og merkja þar inn á alla hellana níu. Skilið var eftir autt pláss fyrir enn ófundna hella þarna.
Frábært veður.

Geirdalur

Geirdalur – uppdráttur.

Staður

FERLIR fer jafnan víðreist þegar lagt er af stað á annað borð. Að þessu sinni var ætlunin að skoða nánar meint bæjarstæði Kaldrana norðvestan Kleifarvatns, mögulegar leifar verslunarstaðar ofan Hvalvíkur austan Hrauns í Grindavík, fornan brunn á Brunnflötum ofan Þórkötlustaðarbótar, gamlar bæjarleifar hins þjóðsagnakennda Nýjabæjar ofan Staðar í Staðarhverfi sem og sagðar sjóbúðaleifar í Litlu-Sandvík.

Kaldrani

Kaldrani í Krýsuvík.

Ari Gíslason skráði örnefnalýsingu fyrir Krýsuvík. Þar segir m.a.: „Inn við Kleifarvatn er svokallaður Kaldrani. Þar eiga að vera leifar eftir bæ með þessu nafni. Er hans getið í þjóðsögum. Þar eru leifar af gömlum túngarði úr grjóti og lítil grasflöt fyrir ofan, utan í sléttum melhól.“

Í fornleifaskráningu Agnesar Stefánsdóttur 2008 um Krýsuvík og Trölladyngju má lesa eftirfarandi: „Matthías Þórðarson Þjóðminjavörður friðlýsti túngarðsleifar býlisins Kaldrana árið 1930 á grundvelli lýsingar Brynjúlfs Jónssonar (Rannsókn í Gullbringusýslu og Árnessýslu sumarið 1902“): Kaldrani er nefndur í þjóðsögum. Er sagt að hann hafi verið hjáleiga frá Krýsuvík og staðið inn við Kleyfarvatn. Og líka er sagt að þar hafi alt fólkið dáið af loðsilungsáti.

Kaldrani

Kaldrani í Krýsuvík.

Örnefnið: Kaldrani er til við vatnið. Sést þar 34 fðm. langur túngarðsspotti úr stórgrýti og lítil grasflöt fyrir ofan, suðaustan í sléttum melhól. Uppi á hólnum er dálítil dreif af hleðslugrjóti, sem virðist flutt þangað af mönnum. Gæti það hafa verið leifar af bænum. Því garðspottinn sýnir það, að þar hafa menn búið á sínum tíma.“

Í örnefnaskrám segir að bæjarins sé getið í þjóðsögum og segir sagan að fólkið á bænum hafi étið loðsilung úr Kleifarvatni sem var eitraður. Um það á þessi vísa að vera:

Liggur andvana
lýður í Kaldrana
Utan ein seta
er ei vildi eta

Kaldrani

Kaldrani – garður.

Suður af Kleifarvatni eru Hvammarnir, þar hafa skátar frá Hafnarfirði byggt skála. Hvammahryggur liggur ofan skálans. En sunnan við hann er Litla-Nýjabæjarhvammur. Seljarúst er þarna og talið, að sel hafi þarna verið í eina tíð frá Kaldrana, sem var eitt býli í Krýsuvíkurlandi. Samkvæmt heimasíðu gönguhópsins Ferlis eru minjar á þessum stað. Mögulegar tóftir fundust á tveimur stöðum í Hvamminum.

Í austur frá Krýsuvíkurvegi við suðurenda Kleifarvatns liggur vegslóði í átt að frístundabyggð sem þar er við endann á vatninu. 150 metrum NA við vegslóðann og 50 m neðan við Krýsuvíkurveg eru leifar túngarðs sem svarar nákvæmlega til lýsingar Brynjúlfs hér að ofan. Túngarðsbúturinn er tæplega 60 metra langur og liggur í sveig neðan við melhól. Friðlýsingarskilti er við norðurenda. Krýsuvíkurvegur fer yfir háhólinn vestan við garðinn.

Kaldrani

Kaldrani – hleðsla undir nýlega girðingu.

Vestan við veginn uppi í hlíðinni fundust leifar af öðrum garði, mun ógreinilegri. Sumsstaðar er einungis ein steinaröð eftir. Garður þessi liggur nærri þráðbeinn uþb. 80 metra langur í SA-NA meðfram veginum. Ef loftmyndin af svæðinu er skoðuð virðist garðurinn halda áfram í NA u.þ.b. 100 metra í viðbót og jafnvel sveigja í átt að veginum. Mögulega hafa þessir tveir garðar ofan og neðan vegar verið samtengdir í upphafi. [Þessi „garður“ eru reyndar leifar girðingar frá Krýsuvíkurbúinu frá því um miðja 20. öld öld; FERLIR].
Ef marka má sagnir um býlið um býlið Kaldrana og að túngarðurinn hafi legið umhverfis bæjarstæðið má telja líklegt að bæjarstæðið sjálft sé nú að mestu horfið undir veg. Upp við og neðan túngarðs er smávegis gróið svæði í dálítilli lægð, þar er nokkuð þýft og mögulega gætu leynst þar tóftir. Annars er svæðið milli garðanna mjög uppblásið.
Hvammarnir sem selið frá Kaldrana á að vera í er rúmlega 1 km. suðsuðaustur af túngarðinum. Það var ekki skoðað að þessu sinni og var ekki greinilegt á loftmynd.

Kaldrani

Kaldrani – minjaskrá.

Einu heimildirnar um bæ á þessum stað eru munnlegar þjóðsögur sem skráðar voru af Jóni Árnasyni (Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1862). Þjóðsagan, útgefin af Jóni Árnasyni. Túngarðurinn bendir hins vegar til þess að einhver fótur sé fyrir sögum um bæ á þessum stað og túngarðsleifar í brekkunni ofan vegar renna frekari stoðum undir það. Hér væri því um að ræða jafnvel elsta bæjarstæði á svæðinu og sem slíkt hefur það mikið rannsóknargildi. Ekki er ólíkegt að finna megi fleiri minjar á þessum stað. Sögusagnir um að sel frá bænum sé í Hvömmunum suður af Kleifarvatni þyrfti líka að kanna nánar.“

Öfuguggi
Bær er nefndur Kaldrani er lá nærri fjöllum; annar bær var þaðan býsna langt burtu og er eigi getið hvað hann hét, en nær var hann byggðum. Báðir þessir bæir höfðu silungsveiði í vatni nokkru allstóru er var á milli bæjanna. Eitt sinn heyrðu menn á þeim bænum sem ekki er nafngreindur að komið var upp á baðstofuglugga um kvöld og þetta kveðið:

„Mál er að gana,
[geislar flana.
[Liggur lífs andvana
lýðurinn á Kaldrana,
[utan sú eina seta,
sem ekki vildi eta.“

Eða svo:

„Mál er að gala
hauknum hálfvana.
Liggur allur lífs andvana
lýðurinn á Kaldrana.
Át af óvana,
át sér til bana.
Liggur allur lífs andvana
lýðurinn á Kaldrana.

Hvalvík

Hvalvík.

Kviknaði þá umræða af þessum hendingum; þóttu öllum þær undarlegar og lögðu ýmist til. En bóndi sagði að menn skyldu fara að morgni að Kaldrana og vita hvað þar væri tíðinda. Leið svo af nóttin, en að morgni komandi var farið að Kaldrana og fundust þar allir bæjarmenn dauðir nema barn eitt sem þar var í niðursetu. Þeir sem að komu sáu að heimamenn höfðu allir verið að matast því sumir sátu enn þótt dauðir væru með silungsfötin í knjám sér, en aðrir höfðu rokið um koll með silungsstykkin í höndunum. Húsfreyju fundu þeir dauða á eldhúsgólfinu; hafði hún fallið fram yfir pottinn og réðu menn af því að hún mundi hafa farið að borða úr pottinum þegar hún var búin að færa upp og skammta hinu fólkinu. Þessi atburður þótti öllum kynlegur því engir sáust áverkar á hinum dauðu. Var þá niðursetningurinn spurður hvernig þetta hefði orðið og sagði hann að fólkið hefði dáið þegar það fór að borða, en hann sagðist ekkert hafa viljað og ekki heldur borðað neitt af silungnum. Var silungurinn því næst aðgættur sem af var neytt, og sáu menn að það var öfuguggi, en ekki silungur; en öfuguggi hefur jafnan þótt drepvænt óæti.
Þorsteinn Bjarnason frá Háholti safnaði og skráði eftirfarandi: „Fyrir innan Miðdegishnúk er Kaldrani. Meðal manna lifir enn sú sögn, að heitið Kaldrani sé af býli, er þarna hafi verið. Nú sjást þess engin merki og hvergi finnst þess getið.“

Kapella

Kapellan ofan Hvalvíkur.

Um ofanverða Hvalsvík eða Efri-Hrólfsvík skráði Loftur Jónsson: „Upp af Efri-Hrólfsvík er grjóthrúga og kölluð Ræningjabæli. Þar gróf dr. Kristján Eldjárn þegar hann var þjóðminjavörður og taldi hann að þetta hafi verið enskur verslunarstaður.“ Þarna er Loftur að vísa í uppgröft þann er dr. Kristján o.fl. stunduðu ofan við Hrólfsvíkina á síðari hluta 20. aldar. Aðstæður eru allnokkuð breyttar frá því sem þá var. Búið er að fara með jarðýtur yfir svæðið með fyrirhugaðar túnsléttur í huga. Garðahróf á svæðinu gefa það skýrt til kynna. Ef verslunarstaður hefur verið ofan Hvalvíkur hefur ummerkjum um hann verið eytt, annað hvort með stórvirkum vinnuvélum eða freklegum ágangi sjávar, sem mulið hefur af ströndinni svo tugum metra skiptir á undanförnum öldum.

Brunnflatir

Brunnurinn á Brunnflötum.

Um Brunnflatir á Þorkötlustöðum eru til eftirfarandi heimildir: „Í fyrsta lagi viðtal við Guðmund Benediktsson; í öðru lagi frá feðgunum á Hópi í Grindavík; í þriðja lagi það sem Þorsteinn Bjarnason frá Háholti hefur skráð. Ari Gíslason skráði („Rétt norðan Kónga er flöt í hrauninu sem heitir Miðmundaflöt. Austur frá henni er Syðribót og Heimribót. Upp af þeim eru sandflatir nefndar Brunnflatir. Þá eru Miðmundaklettar, og milli þeirra og túns er Sandfjara. Niður af Brunnflötum var vatnsstæði, sem notað var til að vatna í skepnum“).

Loftur Jónsson skráði eftirfarandi um Þórkötlustaði: „Síðan tekur Þórkötlustaðabót við og skiptist hún í tvo hluta. Fyrst Syðribót og síðan Heimribót. Norðaustan við klapparana sem skiptir bótunum eru klappir í flæðarmálinu; Hundaklettar. Upp af Heimribót eru sandflatir nefndar Brunnflatir. Neðst á Brunnflötum við kampinn var grafinn brunnur þar sem skepnum var vatnað áður en brunnur var grafinn hjá Þórkötlustöðum.“

Rétt mun vera að nefndur brunnur hafi verið á Brunnflötum. Leifar hans, þ.e. hleðslum ofan hans, má sjá þar enn í dag.

Staður

Stekkur ofan Staðs.

Í „Örnefni í Staðarlandi“, sem séra Gísli Brynjólfsson skráði og eru á bls. 25-34 í bók hans: Mannfólk mikilla sæva – Staðhverfingabók, má lesa um „Nýjabæ“. Heimildir Gísla hafa verið frásagnir kunnugra manna og örnefnalýsing Staðar eftir Ara Gíslason. Lýsing Ara er geymd á Örnefnastofnun og er einnig höfð hliðsjón af henni við gerð þessarar lýsingar. Heimildarmenn Ara voru: Gamalíel Jónsson, bóndi á Stað (d. 1964), Guðsteinn Einarsson, hreppstjóri í Grindavík og Þorsteinn Bjarnason frá Háholti.

„Hæðin vestan og ofan við bæinn á Stað heitir Bringur. Bergskot var uppi á Bringnum, í norðvestur frá Stað (þ.e. bænum). Þar voru tveir bæir sambyggðir þegar Á.V. og S.V.G. mundu eftir. – Nýibær var utan við Bringinn, nálægt 100 m norður af Bergskoti.“
Skv. framanskráðu var nefndur Nýibær í núverandi vegstæði Reykjanesvegar. Ofan vegarins má hins vegar sjá stekk, gerði, rétt, fiskibyrgi, fiskigarða og fleira er hafa verið hluti slíkrar búskaparheildar.

Staður

Staður – gerði ofan bæjar.

Um Litlu-Sandvík segir: „Vestan við Klettinn er Sandvík. Niður í báðar víkurnar, Mölvík og Sandvík, er hægt að aka á bíl.- Skálholtsstaður átti fyrrum allan reka í Sandvík.“
Gísli Brynjólfsson segir, að í Sandvík sé „talið, að hafi verið verbúð, jafnvel tvær, fyrir eina tíð, enda má þetta kallast ein af fáum „byggilegum“ stöðum á þessum auðnarslóðum.“ (Staðhverfingabók, bls. 29). Hvorki S.V.G né Á.V. kannast við að hafa heyrt talað um byggð í Sandvík.

Þegar aðstæður í Litlu-Sandvík voru skoðaðar má ljóst vera að þar hafi fyrrum verið nauðhöfn. Að vísu hefur marinn barið ströndina óbirmilega í gegnum aldirnar svo í dag er þar fyrrum ólíku saman að jafna. Ef sjóbúðir hafa einhvern tíma verið ofan Litlu-Sandvíkur hefur Ægir annað hvort brotið þær undir sig fyrir löngu eða að minjar slíkra búða lumist undir ofanverðri sandorpinni ströndinni. Erfitt er um slíkt að spá…

Litla-Sandvík

Litla-Sandvík – mögulegar mannvistarleifar.