Tag Archive for: Grindavík

Tyrkjabyrgi

Gengið var suður fyrir Eldvörpin, yfir mosagróna hleðslu, inn á Brauðstíginn og áfram áleiðis eftir Reykjaveginum til suðvesturs. Af honum var stefnan síðan tekin að Tyrkjabyrgjunum í vesturkrika Sundvörðuhrauns.
Eldvorp-222Gömul gata liggur reyndar frá Árnastíg frá Húsatóttum og þaðan inn í krikann. Frá honum liggur stuttur stígur að byrgjunum. Er komið var að þeim fyrir nokkrum árum var mosinn næstum óhreyfður. Nú hefur myndast góður hringstígur um byrginn, sem segir nokkuð um áhugann. Erfitt er að koma auga á þau vegna þess hversu vel þau hafa samlagast landslaginu. Þrjú byrgi eru í röð utan við kverkina, en eitt hlaðið inni í henni. Hlaðið skjól er aðeins utar og síðan smá hleðsla. Sunnan og ofan við krikan er eitt byrgi og hringlaga geymsla eða varðturn. Utar með kantinum eru tvö byrgi. Norðan þeirra er hlaðin refagildra. Gengið var yfir hraunið vestur frá byrgjunum. Þar er slétt hraun, sem auðvelt var að fylga upp í Eldvörpin til baka – bakatil við þau.
EittMargir hafa sótt Selatanga heim, eina þekktustu verstöð Reykjanesskagans fyrrum. Færri vita að svipaðar minjar má finna nokkrum öðrum stöðum í nágrenni Grindavíkur, s.s. mikla þurrkgarða, -byrgi og ekki síst – fískgeymslur. Vegna þess hversu fáir vita af öðrum mannvirkjum hafa þau að mestu fengið að vera í friði og því varðveist nokkuð vel. Mannvirkin á Selatöngum hafa látið á sjá í seinni tíð af tveimur ástæðum; ágangi sjávar annars vegar og manna hins vegar. Sjórinn hefur nú tekið til sín öll elstu mannvirkin og er á góðri leið með að hirða það sem eftir er. Mannfólkið hefur ekki látið sér nægja að berja minjanar augum heldur hefur það þurft að príla upp á sumar þeirra svo þær hafa orðið fyrir skemmdum.
Á  þurrkgarðana var flattur fiskurinn lagður og hann þurrkaður. Einnig hausar og annað er nýta mátti af fiskinum. Auk garða má á nokkrum stöðum sjá þurrkbyrgi, sem fiskurinn hefur verið geymdur í milli þurrkálagninga. Slík byrgi má bæði sjá í Strýthólahrauni á Þórkötlustaðanesi, vestan Húsatófta, við Nótarhól austan Ísólfsskála svo og á Selatöngum. Einnig austan við Herdísarvík.
Þegar bátar komu úr róðri var aflinn færður á skiptivöll, þar sem skipt var í hluti. [Einn slíkan óskemmdan má enn sjá neðan við Klöpp í Þórkötlustaðahverfi]. Því næst var gert að, á skiptivellinum ef aðstæður þar leyfðu, annars á öðrum hentugum stað. Í Grindavík mun vísast hafa verið gert að á skiptivelli. Á vetrarvertíð, þegar ekki var þerrisvon, var fiskurinn lagður í kös, eða kasaður sem kallað var. Það var gert eftir sérstökum reglum.

Uppdráttur

Fiskurinn var lagður þannig í kösina, að dálkurinn sneri niður, svo að blóð sem síga kynni úr honum færi síður í hinn helminginn; fiskurinn var kýttur, en það var gert með því móti að beygja hann saman í hnakkann, svo að fiskurinn fyrir framan dálk myndaði ¼ úr hring. Næsta lag var svo sett ofan á það, sem fyrir var, þannig að hnakkinn af þeim fiski læki móts við gotraufina á þeim, sem undir var, og með sama hætti koll af kolli. Helzt þurfti kösin að vera á sléttum halla, svo að ekki sæti vatn í henni. Að lokum myndaðist hringur og komu sporðar allra neðstu fiskanna saman. Kösin stóð misjafnlega lengi, stundum svo vikum skipti, þar sem sjaldnast viðraði vel fyrr en undir vor. Í frosti skemmdist kasarfiskurinn ekki að ráði, en ef skiptist á vætutíð og frost vildi hann vera maltur, jafnvel 

grútmaltur.
Eldvorp-225Þegar komið var fram á vor og veður fór batnandi, var fiskurinn tekinn úr kösinni og byrjað að þurrka hann. Fyrst var hann þveginn og himnudreginn, en síðan breiddur á garða, möl eða grjótghryggi, og var roðinu snúið niður á daginn en upp á nóttunni. Á meðan á þurrkuninni stóð, var fiskinum snúið hvað eftir annað, en er hann þótti orðinn hæfilega þurr, var honum hlaðið í stakka og þeir fergðir, svo að sléttaðist úr fiskinum. Þegar þurrkur var, var fiskurinn síðan breiddur úr stökkunum, uns hann var orðinn sprekaður, en þá þótti loks fært að vigta hann og flytja.
Nokkur tími gat jafnan liðið frá því fiskur var fullþurrkaður og þar til hægt var að flytja hann, og reið þá á miklu í stórum verstöðvum, þar sem Byrgimargir gerðu út, að ekki ruglaðist fiskurinn. Af þeim sökum höfðu menn sérstök fiskmerki, og umsvifamiklir aðilar höfðu sérstakt brennimark.
Og þá er komið að megininntaki þessarar umfjöllunar. Á meðan fiskurinn beið flutnings, var hann tíðast geymdur í fiskbyrgjum. Þau voru hlaðin úr grjóti, strýtu- eða stróklaga, en þannig var best að verja fiskinn gegn vætu. Á sumum jörðum í Grindavík munu einnig hafa verið sérstök fiskgeymsluhús, en ekki er ljóst hvernig þau voru byggð. Frá 17. öld eru heimildir um slík hús frá Hópi, sem voru í eigu Skálholtsstaðar. Þá var hús á Þórkötlustöðum, sem gekk undir nafninu “staðarhúsið”, og var það sýnilega fiskgeymsluhús í eigu Skálholtsstóls. Hugmyndir eru uppi um að einu fiskgeymsluhúsin, sem varðveist hafa í Grindavík, megi finna undir rótum Sundvörðuhrauns, svonefnd “Tyrkjabyrgi”. Fleiri slík byrgi má finna í upplandi bæjarins, ósnert með öllu. Staðsetning kemur vel heim og saman við heimildir þess efnis að annar aðalútflutningsstaður Grindvíkinga um tíma var frá Básendum. Fiskgeymslur voru staðsettar í hverfum Grindavíkur meðan miðstöð útflutningsverslunarinnar var þar, en færðist síðan út fyrir þau þeg
ar verslunin færðist að Básendum er verslunin færðist frá Grindavík árið 1639.  Þær geymslur, sem sjá má í Sundvörðuhrauni og við Eldvörp eru mjög nálægt gömlu þjóðleiðinni milli Grindavíkur og Hafna, sem lá áfram um Ósa og út á hinn gamla verslunarstað Þórshöfn og loks að Básendum. Einnig 

leifar hinna mörgu fiskgeymslubyrgja ofan Húsatófta. Ákjósanlegt hefur verið að hafa geymslurnar miðsvæðis, hvort sem þær voru frá bæjum á norðanverðum Skaganum, t.d. nálægt Stafnesi, eða frá Grindavíkurbæjunum á sunnanverðu því aldrei var hægt að vita fyrirfram hvort Þjóðverjar eða Englendingar fengju vorhafnir á hvorum staðnum hvert árið. Reglan var sú að sú áhöfn er fyrst kæmi að höfn að vori héldi henni um sumarið (fyrstur kemur – fyrstur fær).
eldvorp-223Ekkert fiskgeymsluhús hefur varðsveist í Grindavík, en fiskgeymsluhúsin í Sundvörðuhrauni og við Eldvörp hafa varðveist með ágætum. Ástæðan er tvíþætt; annars vegar eru þau yngri og auk þess hafa þau gleymst eftir að notkun þeirra lauk um 1800 eða skömmu eftir Básendaflóðið mikla 1799. Það var ekki fyrr en síðla á 19. öld að byrgin í Sundvörðuhrauni fundust á ný og Eldvarpabyrgin fundust ekki fyrr en árið 2006.
Öll geymslubyrgin í Sundvörðuhrauni og við Eldvörp eru svo til að sömu stærð, hvort sem varðar breidd, lengd eða hæð. Þau eru gisin til að loft gæti leikið um varningin, sléttar þunnr hellur voru lagðar yfir sem þak svo auðveldara væri að koma fyrir og fjarlægja varninginn og auk þess voru settar upp hlaðnar refagildrur í nágrenninu ef vargurinn skyldi ásælast matvöruna í byrgjunum. Vakt hefur verið við báða staðina. Ummerki um varðmannskjól eru í Sundvörðuhrauni og einnig við Eldvörp. Þar eru mannvistarleifar í hellum á tveimur stöðum, örskammt frá geymslunum.
Allnokkur umgangur hefur verið um Sundvörðubyrgin í seinni tíð, en engin um Eldvarpabyrgin. Þau gætu því verið kærkomin Byrgirannsóknar-vettvangur þeirra fornleifafræðinga er áhuga fengju á viðfangsefninu (sem reyndar gæti orðið einhver bið á m.v. núverandi áherslur minjavörslunnar í landinu).
Auðvitað er ávallt „leiðinlegt“ að svipta hulunni af jafn dulúðlegum stöðum og Sundvörðubyrgin hafa verið um langa tíð. Þau hafa hingað til ýmist verið talin felustaður útilegumanna eða flóttamannabúðir fyrir Grindvíkinga er þyrftu að flýja undan „Tyrkunum“ í skyndi, minnunga komu þeirra til þorpsins í júnímánuði 1627 er tólft þorpsbúar voru dregnir til skips og aðrir þrír limlestir. Til varnaðar má segja að enn hafi ályktun þessi ekki verið fullsönnuð því vísindaleg fornleifarannsókn hefur enn ekki farið fram á mannvistarleifunum – hvað svo sem tefur. Ástæðulaust er því að draga úr „sannleiksgildi“ annarra mögulegra ályktana um tilurð og notkun byrgjanna í Sundvörðuhrauni og Eldvörpum.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 1 mín.

 

Eldvörp

Fiskbyrgi í Eldvörpum.

 

Dollan

Farið var í Dolluna, sem er rétt við gamla Grindavíkurveginn, við bílastæðið á Gíghæð. Dollan opnaðist er þakið féll niður undan vörubíl þegar verið var að vinna við nýja veginn, en þá var svæðið þarna notað sem athafnasvæði verktakans. Opið er vestan til í svæðinu. Dýptin á fast er um tvær mannhæðir og hallar síðan undir á alla vegu. Þarna hefur Grindavíkurbær komið fyrir góðum stiga fyrir ferðafólk enda var ástæða til að gera hellinn aðgengilegan svona ofurnálægt vegi. Fyrst þurfti þó að hreinsa upp drasl, sem safnast hafði neðan við opið.

Dollan

Dollan.

Þegar haldið er inn í hellinn til vesturs opnast undrið. Hellirinn er kannski ekki með víðustu, hæstu eða lengstu hellum landsins, en í heild uppfyllir hann hins vegar öll skilyrði til að geta flokkast góður hellir.
Dollan er í heildina um 130 metra hraunhellir – rás, er myndaðist er hraunskelin hrundi undan vegavinnutækinu. Hellirinn er í raun dæmigerður fyrir fjöldann af slíkum hraunhellum á Reykjanesskaganum. Stærstir eru þeir í Klofningum, neðan Grindarskarða, ofan Stakkavíkurfjalls, í Bláfjöllum og í Kistufelli í Brennisteinsfjöllum. Nokkrir fleiri hellar eru við Gíghæð, s.s. Kubburinn, Hnappurinn, Hestshellir og Arnarseturshellir. Dátahellir er skammt norðan búðanna í Gíghæð. Þar fannst beinagrind að dáta á sjöunda áratugnum að talið var, er orðið hafði úti allmörgum árum fyrr.

Dollan

Í Dollunni.

Vesturhluti Dollunnar er um 80 metra lönd rás sem stækkar í stóra og myndarlega hvelfingu eftir að innar er komið. Rásin er lægst og síðan þrengst fremst, en hækkar og víkkar snarlega. Þá lækkar loftið á ný, en hækkar síðan er opnast inn í allstóra hvelfingu. Botninn er hrjúfur, en í neðri hutanum sést vel hvernig síðusta deig hraunárinnar hefur staðnæmst og storknað. Í lofti má sjá sepa er myndast í hitanum, gljáa á veggjum og lítil hraunstrá, ef vel er að gáð.
Hellirinn er opinn öllu áhugasömu fólki með góð ljós. Næg bílastæði eru til staðar. Nú standa yfir úrbætur á bílastæðinu og mun það verða orðið „formlegt“ og afsaltlagt innan skamms tíma. Leiðin að hellinum er greið og hentar öllum aldurshópum.

Gíghæð

Vegavinnubyrgi á Gíghæð.

Á Gíghæð, gegnt Dollunni (handan vegarins), má sjá nokkur hús vegavinnumanna frá því að Grindavíkurvegurinn var lagður á árunum 1913 – 1918. Vegavinnubúðirnar hafa verið með ca. 500 m millibili frá Stapanum til Grindavíkur, einkum í gegnum hraunin. Hestshellir, sem er þar í leiðinni, hefur verið nýttur. Þá má enn sjá nokkur heilleg hús og húsaþyrpingar. Arnarseturshraunið rann árið 1226 (-1240). Mörg hraun, stór og smá, eru ofan og utan við byggðina í Grindavík. Annars eru hraunin ofan við Grindavík og við Svartsengi ca. 2400 ára. (Kunnugir eru fljótir að koma auga á aldur hrauna ef þurfa þykir).

Vegavinnubúðirnar á Gíghæð eru sennilega frá því um 1916, en byrjað var á Grindavíkurveginum 1913 og þá á Stapa. Sjá má ummerki eftir vegavinnumennina á u.þ.b. 500 metra millibili frá gatnamótunum. Líklegt má telja að þeir hafi reist nýjar búðir að jafnaði ár hvert. Njarðvíkursel við Seltjörn (Selvatn) hefur að öllum líkindum verið nýtt, sjá má götu og búðir skammt sunnar, skammt vestan við Hestshelli má sjá hús sem og á Gíghæð.

Grindavíkurvegur

Hús við Grindavíkurveginn.

Sunnan hæðarinnar er stígur og hús nálægt honum. Síðustu búðirnar 1918 voru við Hesthúsbrekkuna skammt fyrir ofan Grindavík. Um er að ræða skemmtileg og heilleg mannvirki um ákveðið verklag og mikilvægan þátt í samgöngusögunni, sem ástæða er til að varðveita. Fjarlægja þarf girðingu, sem hindrar aðgang að svæðinu, en jafnframt að ganga þannif grá því að gestir feti tiltekna slóð að svæðinu til að minnka líkur á skemmdum. Til marks um nauðsyn þessa má benda á að þegar FERLIR kom fyrst að búðunum fyrir u.þ.b. sex árum var mosinn í „þorpsgötunni“ algerlega ósnortinn. Nú er hann vel troðinn. Fólk hefur almennt gengið vel um svæðið, en þó hefur mátt sjá þar umbúðir utan af ýmsu góðgæti er gestir hafa fleygt frá sér – um leið og þeir hafa notið innihaldsins. Hver er jú sjálfum sér næstur í þessum efnum, eins og konan á virkjanasvæðinu sagði fyrir stuttu. Reynt hefur verið að fjarlægja það jafnóðum, en best væri að fólk, sem skoðar svæðið, láti ógert að fleygja þarna rusli frá sér (jafnvel þótt enginn sjái til), enda sýnir það með því þessum merkilegu minjum áanna ákveðna óvirðingu. Og það viljum við ekki – eða er það?
Frábært veður.

Heimild m.a.:
-Hraunhellar á Íslandi – Björn Hróarsson (1990).

Dollan

Í Dollunni.

Á fundi Borgarstjórnar í dag [17.11.2009] var samþykkt samhljóða að undirbúa vinnu um Eldfjallagarð á Reykjanesi. Tillagan kom frá Framsóknarflokki, Sjálfstæðsflokki og VG, að því er segir í tilkynningu.
EldfjallagarðurFram kemur í greinagerð að garðurinn sé hugmynd að samnefnara fyrir sérstöðu Reykjanesskagans sem geti tengt saman hinar fjölbreyttu auðlindir svæðisins og markað stefnu um nýtingu og verndun hans með hagsmuni heildarinnar og framtíðarinnar að leiðarljósi.
Þá segir að staðsetning Reykjanesskagans í nágrenni alþjóðaflugvallar og höfuðborgarsvæðisins og spá um aukinn fjölda ferðamanna, ýti undir væntingar til Eldfjallagarðs. Samstillt átak sveitarfélaga um Eldfjallagarð sé forsenda framgangs þessarar hugmyndar.
Einnig 
kemur fram að megin ávinningur af verkefninu eigi að skila sér til ferðaþjónustunnar og í útivistarmöguleikum fyrir íbúa höfuðborgarsvæðisins.
Þá er lagt til að stjórn Reykjanesfólkvangs haldi utan um verkefnið og settur verði á laggirnar sérstakur stýrihópur um Eldfjallagarð á Reykjanesi, sem fundar reglulega með ráðgjöfum. Sjá fréttina á mbl.is.

Eldvörp

Í Eldvörpum.


Húshólmi

Gengið var um Ögmundarstíg, sem reyndar Hlínarvegur hefur verið lagður yfir, framhjá Ögmundardys, niður með Latsfjalli og um stíg suðaustur inn í Ögmundarhraun, áleiðis að Óbrennishólma, en þangað var ferðinni heitið. Staldrað var við í Óbrennishólma, kíkt á garðinn, sem hraunið (1151) stöðvaðist við, óskilgreinda tóft og fjárborgina fornu.

Brúnavörður

Brúnavörður.

Þá var haldið um stíg yfir hraunlænu yfir á annan forgengilegri að Brúnavörðum. Frá þeim var stefnan tekin að Húshólma. Að hluta til er sá stígur flóraður eftir handrbragð sonar Krýsuvíkur-Gvendar o.fl. frá því um miðja 19. öld. Minjarnar í Húshólma; Kirkjulág, Kirkjuflöt og víðar voru skoðaðar og ályktaðaðar. Þá voru hinir fornu garðar í hólmanum skoðaðir. Að endiningu var stígurinn ofan við ströndina fetaður austur fyrir hraunkantinn og þaðan gengið að upphafsstað.
Í þjóðsögunni um Ögmundarstíg, sem Brynjúlfur Jónsson frá Minna-Núpi tók saman um aldarmótin 1900 segir m.a.:
„Krýsuvík var fyrst byggð niður við sjó fyrir utan Krýsuvíkurberg en lagðist svo af að eldur kom upp í fjöllunum þar norður frá og runnu hraunkvíslar hér og þar fram milli hálsanna. Hin austasta var einna mest. Smalamaður frá Krýsuvík var kippkorn frá bænum með féð. Hann sá glóandi hraunleðjuna brjótast með feikna hraða ofan úr skarðinu upp frá bænum og fleygjast út yfir láglendið. Hann sá sér enga von til undankomu og beið með fjárhópinn þess er að höndum kæmi og fól sig guði; því hefir þetta skeð í kristni. Eldflóðið fór allt í kringum hann og sakaði hvorki hann né féð nema eina á. Það heitir síðan Óbrennishólmi er hann var.

Húshólmi

Fjárborg í Húshólma.

Hraunið hljóp um allt láglendið og fram í sjó en túnið í Krýsuvík stóð óskaddað og bærinn. En nálega var ófært þangað þegar hraunið var storknað. Þá var bærinn fluttur þangað sem Krýsuvík er nú, það er ofar og austnorðar. Þegar eldgangurinn var afstaðinn og hraunin storknuð, fóru menn að leggja veg til Grindavíkur yfir þau og urðu öll rudd að þessu austasta fráteknu. Það var svo stórgert og hart að það var óvinnandi og varð ekki veginum komið á.
Ögmundur var berserkur. Er hann sagður hafa lagt veginn yfir hraunið en verið drepinn að verki loknu. Grjóthrúga er þar við götuna sem kallað er leiði Ögmundar. Vegurinn gegnum hraunið er djúpur og mjór og víða brotinn eða höggvinn gegnum stór hraunstykki en víða þrepóttur í botninn sem hin gamla staka segir:

Eru í hrauni Ögmundar
ótal margir þröskuldar,
fáka meiða fæturnar
og fyrir oss brjóta skeifurnar.

Húshólmi

Húshólmastígur um Ögmundarhraun.

Síðan hefir hraunið heitið Ögmundarhraun. Þar sem áður var bærinn Krýsuvík, heitir nú Húshólmi. Þar er vatnsskortur oftast. Litlar menjar kvað sjást þar af tóftum, en þó nokkrar.“
Stefnan var tekin á Ögmundarstíg í Ögmundarhrauni. Ætlunin var að skoða dys Ögmundar og halda síðan um Ögmundarhraun. Gamla gatan sést grópuð í harða hraunhelluna skammt austan hraunkantsins. Þá er Ögmundarstígur hinn forni nú einungis greinilegur á stuttum kafla við austurjaðar hraunsins. Hann liggur þar í vinkilbeygju og er dysin í beygjunni. Miðja vegu á Hlínarvegi má, ef vel er að gáð, sjá hinn gamla stíg grópaða í klöppina. Ofaníburður vegarins hefur fokið á brott og gamli stígurinn komið í ljós á nokkurra metra kafla. Jón Guðmundsson frá Ísólfsskála, einn þeirra er tók þátt í lagningu Hlínarvegar, sagði reyndar í viðtali við FERLIR að þeir hefðu lagt veginn ofan á Ögmundarstíg og ef yfirborð hans væri fjarlægt mætti vel greina stíginn þar sem hann var víða svo djúpt grópaður í klöppina að gengið hafði verið niður úr henni. Þess vegna hafi framangreind vísa verið kveðin.

Húshólmi

Brúnavörðustígur.

Gengið var frá Ísólfsskálavegi til suðurs austan við Latfjall. Grábrúnn refur fylgdist með göngufólkinu, en hann hafði þó meiri áhuga á fílnum í fjallinu.
Gengið er yfir úfið mosahraun og inn á stíg er liggur áfram til suðausturs austan við Latstöglin. Þar er stutt hraunhaft, sem fara þarf yfir á stíg, og þá blasir Óbrennishólmi við. Gengið var til austurs norðan hólmans, að hinu forna garðlagi, sem þar er og hraunið hafði runnið að árið 1151.
Á hæð í sunnanverðum hólmanum er nokkuð stór fjárborg (8-9 m að innanmáli). Líklegra er þó að þarna hafi verið virki þeirra er fyrst námu land við hina fornu Krýsuvík. Enn sést vel móta fyrir hringnum. Erfitt er að mynda hringinn vegna afstöðu hans á hólnum, auk þess sem hann er orðinn að mestu jarðlægur. Skammt austan hennar, nær hraunkantinum, er önnur minni fjárborg. Einnig gæti þarna hafa verið um topphlaðið hús að ræða að forni fyrirmynd. Sunnan tóttarinnar er rétt eða gerði inni í hraunkraga. Hlaðið er framan við kragann, en þær hleðslur virðast vera nýrri en t.d. fjárborgirnar. Efst í hólmanum norðaustanverðum (fara þarf yfir mosahraun á kafla) er hlaðinn garður, sem hraunið hefur stöðvast við. Vel sést móta fyrir hleðslunum á nokkrum stöðum.
Garðurinn endar í króg skammt neðar. Þar gæti einnig hafa verið fjárbyrgi og að neðsta hleðslan sé hluti þess.
Vestan við stóru fjárborgina liggur gróinn og nokkuð jarðlægur garður undan hraunkantinum, upp með dragi og áfram upp í hólmann. Hér virðist vera um mjög fornan garð að ræða. Hann eyðist nokkru ofar, en þó má enn sjá móta fyrir honum ofan við miðjan hólmann, en þá hefur hann breytt lítillega um stefnu skammt, neðan við eldri hraunkant í miðjum hólmanum. Garðurinn virðist vera með samskonar lagi og garðarnir í Húshólma.

Ögmundarstígur

Ögmundarstígur.

Ögmundarhraun, sem umlykur Óbrennishólma, kom úr gígaröðum austan í Vesturhálsi (Núpshlíðarhálsi). Það hefur runnið til suðurs á milli Latfjalls og Krýsuvíkur-Mælifells – allt niður í sjó – og gjörbreytt ströndinni. Hefur hraunið runnið yfir bæ, eða bæi, og önnur mannvirki sem þarna voru. Óbrennishólmi og Húshólmi hafa þá væntanlega staðið hátt í landinu, en hraunið runnið með hlíðum og lægðum. Eldra hraunið inni í Óbrennishólma og Húshólma hefu runnið áður en Ögmundarhraun rann. Virðist það hafa komið úr gígaröð suðaustur af Krýsuvíkur-Mælifelli. Jón Jónsson, jarðfræðingur, sagði einn gíginn þar, einn þann merkilegasta hér á landi, en sá hefur nú að mestu verið eyðilagður vegna efnistöku.
Sagnir eru til um að á þessu svæði hafi verið blómleg byggð áður en Ögmundarhraun rann um 1150. Ströndin hafi verið lík og nú er á Selatöngum, neðan við Húshólma og við Skála. Þar hafi verið góð lending og kjörstaða, bæði til lands og sjávar.
Brynjúlfur lýsir Húshólma í grein er birtist í Árbók hins ísl. fornleifafélags 1903: “Krýsuvík hefir til forna staðið niðurundir sjó fyrir vestan endann á Krýsuvíkurbjargi. Nafnið Krýsuvík bendir á það. Engum hefir dottið í hug að kenna bæinn við vík, ef hann hefði fyrst verið settur þar sem hann er nú. En þar sem hann stóð fyrst hefir þetta átt við og svo hefir nafnið haldist er hann var fluttur. Hraunflóð það, sem á sínum stað er nefnt Ögmundarhraun, hefir eyðilagt hinn forna bæ. Sjást þess glögg merki. Þá er hraunflóðið er komið ofan fyrir hálsana, breiðir það sig um undirlendið vestur að Ísólfsskála, sem nú er austasti bær í Grindavík. Er þar hvergi auður blettur nema aðeins tveir hólmar austantil í hrauninu. Heitir hinn vestari Óbrennishólmi. Hann er kippkorn frá sjó, austantil niðurundir múla þeim í hálsinum, sem Núpshlíð heitir. Eystri hólminn heitir Húshólmi. Hann er niður við sjó skammt fyrir vestan bergið. Er hraunkvíslin fyrir austan hann tiltölulega mjó. En runnið hefir hún fram í sjó fyrir austan hann, og það hefir aðalflóðið einnig gjört fyrir vestan hann, hafa svo runnið saman í fjörunni fyrir framan hann, og sést sjávarkamburinn innanvið hraunið á nokkrum parti neðst í hólmanum. Að ofanverðu er hólminn hærri. Þar virðist hafa verið hæð, sem hraunið hefir flotið fram á og klofnað um. Svo lækkar hann allt í einu, en breikkar þó um leið austur á við, en að vestan gengur hraunið þar heldur inn í hann. Þar undir hraunjarðrinum kemur forn túngarður, er liggur kringum allstórt svæði, en hverfur aftur í hraunið niðurfrá eigi langt frá vesturenda sjávarkambsins, sem nú var getið.

Óbrennishólmi

Garðar í Óbrennishólma.

Annar garður kemur undan hraunjarðrinum nokkru neðar en hinn og stenfnir í suðaustur. Hann beygist suður á við og gengur gegnum hinn fyrri garð skammt fyrir ofan sjávarkambinn. Er þar hlið á hinum fyrra. Svo heldur þessi síðartaldi áfram að sjávarkambinum og hverfur þar. En þar sem gata sé rudd gegnum kambinn, líklega sjávargata; er eigi allbrimsamt og mun hafa verið útræði.
Fyrir neðan þennan síðartalda garð verður afhallandi brekka ofan að neðri hraunjarðrinum. Liggur þriðji garðurinn þar ofan frá neðra garðinum og neðra hraunjarðrinum og hverfur undir hann. Þannig sér hér á 4 aðskilfar girðingar, er allar hverfa að meiru eða minna leyti undir hraun. Engin tóft sést í neinni þessari girðingu, svo að, ef sín girðing hefir tilheyrt hverju býli, þá eru tóftir þeirra býla hrauni byrgðar. Vestur úr útsuður horni hólmans gengur graslág milli tveggja hraunjarða. Er hún eigi breiðari en svo, að eigi má ríða 2 hestum samsíða. Þegar samt er komið vestur í hraunið, kvíslast hún í tvær lágar. Þær heita kirkjulágar. Þar eru rústir. Verður fyrst fyrir tóft, sem snýr frá sutri til vesturs, nál. 4 fðm. Löng og 2 fðm. Breið. Dyr eru á vesturenda, jafnvíðar og tóftin sjálf. Mun þar hafa verið bil fyrir. Norðanmegin við þessa tóft, tæplega 2 fðm. Frá henni, er garður, sem beygist austur fyrir hana og hverfur þar undir hraunið, en að vestan endan hann í tóftarvegg. Er sú tóft fyrir fyrir dyrum hinnar, nálægt jafnstór henni og liggur frá norðri til suðurs. Dyr hennar hverfa undir hraunjarðarinn að sunnanverðu.

Latfjall

Latfjall – gengið í Óbrennishólma.

Vestan við hana dýpkar lágin að mun, en þar er ekki víðari en svari tóftarvídd. Sé það tóft, hefir þar líklega verið kjallari, en hleðslan er hrunin. Frá norðausturhorni þvertóftarinnar gengur garður eftir norðurláginni, fyrst beint í norður nál. 12 fðm., svo beint í vestur nær eins langt og hverfur svo í hraunið. Utanmeð þessum garði er svo sem gangrúm hraunlaust, og er það norðurkvísl Kirkjuláganna. Lútur út fyrir, að hér hafi hraunið sigið að með hægð frá báðum hliðum. Svo sem 40 fðm. Norðar í hrauninu er auður vesturhluti rústar, sem auðsjáanlega er bæjarrúst. Hefir hún verið þrískipt. Miðtóftin snýr frá norðri til suðurs og hefir dyr á suðurenda og aðrar á vesturveggnum, inn í vesturtóftina. Inn af miðtóftinni virðist og hús hafa verið, sem er hrauni hulið allt að kalla. Miðtóftin nál. 2 ½ fðm. Löng og 1 ½ fðm. víð. Vesturtóftin er jafnvíð og hin er löng, nfl. 2 ½ fðm., en nál. 5 fðm. á lengd. Hún er merkileg að því, aðmeð báðum veggjum, eftir henni endilangri, er 1 al. Breið set eða rúmstæði og markar glöggt fyrir veggjunum þar utanvið. Austasta tóftin er nær öll hrauni hulin. Þó sýnist sem útidyr hafi verið á henni fyrir austan útidyr miðtóftarinnar. Hvergi er hraunlaus blettur kirngum þessa rúst, og ekki verður komist að henni nema á hrauni.
Nafnið Kirkjulágar bendir á, að hér hafi kirkjustaðurinn Krýsuvík verið. Getur vel verið, að tóftin í syðri láginni, sem fyrst var talin, sé einmitt kirkjutóftin. Hefir heimabærinn þá víst verið þar líka. Rústin uppi í hrauninu er þó ekki eftir smákot. Hygg eg að heimabæir hafi verið tveir, Efribær og Fremribær, og kirkjan hafi verið hjá Fermri-bænum. Eftir afstöðu að dæma, hafa girðingarnar, sem fyr getur, eigi verið tún þessara bæja, heldur annara afbýla, sem þá eru hulin hrauni. Og hver veit hve mörg býli þar kunna að vera horfin?”

Húshólmi

Skáli í Húshólma.

Gengið var um stíg niður úr Óbrennishólma og Brúnunum síðan fylgt til suðausturs uns komið var að svonefndum Brúnavörðum. Þær eru tvær, mið af sjó, sennilega á Mælifell. Skammt ofan varðanna liggur handgerður stígur. Talið er að hann hafi verið gerður af syni Krýsuvíkur-Gvendar um miðja 19. öld ásamt nokkrum öðrum frá Krýsuvík. Þeir hafa byjað verkið við Kirkjulágar vestan við Húshólma og farið langleiðina að Brúnum, en þó ekki alla leið. Eitthvað hefur komið í veg fyrir að þeir kláruðu verkið. Stígurinn er fallega flóraður og greinilega vandað til verks. Líklegt má telja að þarna hafi átt að leggja stíg yfir á götuna undir Brúnunum og áfram yfir að Selatöngum, í stað stígs er stjórinn hafði tekið og lá rétt ofan við ströndina austan Húshólma, en hraunið þar er mjög erfitt yfirferðar.
Troðinn slóði liggur frá Brúnavörðum austur í hraunið og ef tekið er mið af vörðum og ummmerkjum má vel feta hann að stígsendanum. Á honum er gatan síðan greið í Húshólma.
Byrjað var á að skoða skálatóftirnar ofan við Kirkjulágar, síðan kirkjutóftina, garðana og mögulegan grafreit. Alls er um að ræða þrjár skálatóftir við Húshólma, auk kirkjutóftarinnar. Rifjuð var upp saga Húshólma jafnframt því sem reynt að gera sér í hugarlund hvernig umhorfs hafi verið þarna um það leiti er fólk settist þar að, við grunna vík – Krýsuvík, en krýsa er einmitt gamalt orð fyrir grunna skoru (í ask) eða vík.
Haldið var út úr hólmanum til austurs eftir strandstíg með útsýni yfir að Krýsuvíkurbjargi. Á leiðinni var rifjuð upp sagan af Tyrkjunum er komu þar að og héldu í átt að Krýsuvíkurkirkju, þar sem þeir mættu Eiríki galdrapresti frá Vogsósum og þar með örlögum sínum.
Í tölum talið var gangan tæpir 12 km. Gengið var í u.þ.b. þrjár klst, en leiðsögn og -lestur um svæðið tók nálægt tveimur klst.
Frábært veður.

Heimildir m.a.:
-Brynjúlfur Jónsson – Lýsing… (1902).
-Úr Árbók Hins ísl. fornleifafélags 1903 – Brynjúlfur Jónsson.

Húshólmi

Vegvísir Húshólma.

 

Grindavík

Fyrr á öldum var öðru vísi um að litast í Grindavík en nú má sjá.
Lögbýlin; Ísólfsskáli, Hraun, Þórkötlustaðir, Hóp, Járngerðarstaðir, Húsatóftir og Staður voru í dreif með hjáleigur sínar, tómthús og þurrabúðir umleikis. Vísir var orðinn Loftmynd af Járngerðarstaðasvæðinuað hverfamynduninni, sem nú þekkist. Allt frá því á 16. öld, og þó einkum þeirri 17., átti Skálholtsstóll mikil ítök á svæðinu öllu. Ekki var til það lögbýli, sem stóllinn átti ekki útræði frá með tilheyrandi mannvirkjum; verbúðum, fiskbyrgjum og fiskgeymsluhúsum. Sitthvort fiskgeymsluhúsin, svonefnd „staðarhús“ voru við Þórkötlustaði, við Hóp og ofan við Staðarvör neðan við Járngerðarstaði. Ekki er vitað hvar þau voru nákvæmlega, en Járngerðarstaðahúsið mun hafa verið ofan við Staðarvör, þar sem nú er langhúsið Kreppa. Í Þórkötlustaðahverfi er vitað um forna tóft, líklega langhús frá landnámstíð. Skammt vestan þess er álagasteinn, sem aldrei hefur mátt raska. Þar hjá gæti lausnin að „staðarhúsinu“ við Þórkötlustaði verið að finna (sjá HÉR og HÉR). Staðarhúsið á Hópi hefur væntanlega verið við Síkið, skammt ofan við Hópsvörina á Hópsnesi. Þar eru minjar, m.a. frá verbúðinni, og er ein tóftin þar sérstaklega vandlega hlaðin og heilleg.
Þegar rætt er um fornar tóftir í umdæmi Grindavíkur verður ekki hjá komist að geta um „Hoftóftina“ eða „Goðatóftina“ svonefndu í vestanverðri bæjarhólaþyrpingu gamla Hóps. (Sjá meira HÉR og HÉR). Þegar FERLIR leit þar við nýlega mátti sjá hrossastóð vera að naga fornleifarnar að utan. Skepnurnar voru þarna hafðar innan afmarkaðrar girðingar svo einungis nam tóftunum á bæjarhólnum. Þær gengu því augljóslega mjög nærri minjunum.
Í gildandi þjóðminjalögum segir m.a.: „Minjar 100 ára og eldri teljast til fornleifa, en heimilt er þó að friðlýsa yngri minjar, sbr. 11. gr..  Gömul tóft í Fornleifum má enginn, hvorki landeigandi, ábúandi né nokkur annar, spilla, granda né breyta, ekki heldur hylja þær, laga né aflaga né úr stað flytja nema með leyfi Fornleifaverndar ríkisins.“ Hér var hestaeigandinn greinilega, með beitinni, að ganga mjög nærri minjunum. En af fenginni reynslu mun Fornleifavernd ríkisins hvorki æmta né skræmta vegna þessa.
Fyrst um „Staðarhúsið“ ofan við Staðarvör í Járngerðarstaðahverfi. Í örnefnalýsingu fyrir Járngerðarstaði segir: „Næst austur af er Staðarvör. Þar var uppsátur Skálholtsskipa og síðar útgerðin. Þegar S.T. fékk lóð þarna og gróf niður í kálgarði sínum voru þar fyrir vaðsteinar og brýniskubbar o.fl. í axlardýpt“. Þá er bara spurningin: Hvar fékk Sæmundur Tómasson frá Járngerðarstöðum lóð ofan við Staðarvör?
Á 17. öld á Skálholtsstól Járngerðarstaði líkt og svo marga bæi á suðurströnd Reykjanesskagans. „Engum blöðum er um það að fletta, að Grindavíkurjarðir voru meðal verðmætustu jarðeigna Skálholtsstaðar, og mun vart ofsagt, að frá Grindavík hafi meiri tekjur runnið til biskupsstólsins en frá flestum byggðarlögum öðrum. Tekjur stólsins af jarðeignununum í Grindavík voru fyrst og fremst af útgerð og fengust með tvennum hætti: Annars vegar með útgerð eigin skipa og hins vegar með innheimtu landskulda, sem undantekningarlítið voru greiddar í fiski. Var þar um mikla fjármuni að ræða.“

Hraun gr

Í Sögu Grindavíkur segir: „Á sumum jörðum í Grindavík munu einnig hafa verið sérstök fiskgeymsluhús, en ekki er ljóst, hvernig þau voru byggð. Frá 17. öld eru heimildir um slíkt hús á Hópi. Það var í eigu Skálholtsstaðar, og sumarið 1670 tókst svo illa til, að mikill hluti fisks, sem þar var geymdur, spilltist af vatni og maðki. Þá var og hús á Þórkötlustöðum á 17. öld, sem gekk undir nafninu „staðarhús“, og var það sýnilega fiskgeymsluhús í eigi Skálholtsstaðar. Um 1700 átti stóllinn jafnframt verbúð á Hrauni þar sem hann réri á áttæringi. Hann fórst 8. mars árið 1700 og lagðist þá stólsútgerð frá Hrauni af um sinn. Búðin stóð ónotuð. Svipað var ástandi á Járngerðarstöðum. Árið 1703 gengu 8-9 stólsskip og eitt konungsskip frá Húsatóttum og voru það allt áttæringar.“ Ljóst er af heimildum að Skálholtsstóll hafði á þessum tíma a.m.k. eitt skip í útræði frá sérhverri jarðanna í Grindavík.
Tóft í „Skip Járngerðisstaðabænda reru jafnan úr vörunum tveim,“ segir einnig í Sögu Grindavíkur. Þar segir jafnframt að „skip Járngerðarstaðabænda reru úr Norðurvör og Suðurvör, en fyrir innan þær var þriðja vörin og hét Staðarvör. Þaðan réru skip Skálholtsstóls á meðan enn var úttræði á vegum stólsins í Grindavík. Dró vörin nafn af Skálholtsstað.“ Árið 1703 „gánga skip stólsins hjer venjulega iii eða iiii, og hafa þeir verbúðir fyrir sig, sem stóllinn uppbyggir, En soðningu kaupa skipverjar. Hafa þessi skip stólsins verið so um lángar stundir, en alt þar til í tíð Mag. Brynjólfs var gefin til heimabóndans undirgift undir þau skip, sem fleiri voru en tvö af stólsins hendi. Og hýsti heimabóndi þá skipshöfn. En í tíð Magn. Brynjólfs var uppbyggð önnur staðarins verbúð, sem síðan hefur viðhaldist, og engin undirgift verið frá stólnum lögð til bóndans (þeirra tíma íslenska). Átroðning líður jörðin mikinn af hestum þeirra manna, er róa stólsins skipum.“

Hópstorfan

Í Sögu Grindavíkur segir og að „innan við Staðarvör tók við malarkambur, sem Staðarhúsakampur nefndist. Þar munu verbúðir Skálholtsstaðar hafa staðið á fyrri tíð. Þar fyrir innan var Svartiklettur.“ Svíri er utar (hrauntangi þar farið er á bryggjuna innan við eiðið). Engin ummerki um lendinguna eru nú greinanleg. Skálholtsbyggingarnar voru upp af fjörunni þar sem síðar stóð löng bygging, Kreppa. Undir austurenda hennar voru tóftirnar frá Skálholti.
Þegar horft er svolítið lengra upp í landið má sjá allnokkur mannvirki; hlaðna garða og húsatóftir á a.m.k. þremur stöðum. Að vísu hefur hluta svæðisins verið raskað með einhverjum misheppnuðum „nútíma“ hleðslumannvirkjum, en þrátt fyrir það má greina gamlar minjar frá þeim. Hlaðið hús er t.a.m. á hól syðst. Steypu hefur verið troðið í hleðslur í hluta tóftarinnar. Veggur er hlaðinn út frá dyrum. Þak hefur verið endurnýjað með því að setja járnbita, líklega úr strönduðu skipi, sem rafta, en það er nú fallið. Ofar eru garðarnir, tvíhlaðnir. Sumir þeirra hafa án efa verið herslugarðar og þá að öllum líkindum frá stólsútgerðinni. (Sjá meira HÉR). Á miðju svæðinu hefur verið reynt að búa til samkomusvæði með hleðslum, líkt og annað skammt norðar (handan húsaraðar), og endurbæta eldra hlaðið hús.
Garðarnir umhverfis virðast hins vegar fornir sem og hústóft vestan við þá. Þá er ljóst að tvær tóftir hafa verið Hop-21austan við garðana, en grjót tekið úr þeim í hið nýrra mannvirki. Allt hið „nýja“ mannvirki stangast án efa við þjóðminjalögin, hvort sem um er að ræða þau frá 2001 eða 1989. Jafnan hefur verið ákvæði í verndunarlögum fornra mannvirkja „að röskun varði við lög“.
Hvers vegna hefur þetta svæði í hjarta Grindavíkur ekki verið nýtt undir byggingar eða annað álitlegt? Svarið gæti falist í því að um eignarlóðir væri að ræða. Ef svo er þarf sveitarfélagið að ráða bráðan bug að því að koma svæðinu undir skipulagsheild, leggja fram tillögur um framtíðarnýtingu og framkvæma úrbætur, hvort sem um er að ræða varðveislu gamalla minja eða nýtingu þeirra með nýjum möguleikum. Gamla verslunar- og athafnahverfið ofan Varanna hefur verið í svo mikilli niðurnýðslu (utan Flagghússins) að skömm er af. Taka þarf til hendinni, endurnýja og endurgera gömlu húsin, s.s. Einarsbúðina landsþekktu, færa gömul hús í Grindavík inn á svæðið og byggja það ofanvert með sögulegt ívaf þess í huga. Allt um kring er sagan og minjar mannfólksins er skópu Grindavík í þeirri mynd, sem nú má þekkja. Án efa um bærinn líta öðru vísi út að nokkrum áratugum eða öldum liðnum og þá verður ekki verra að hafa upphafsmyndina til handa þeim er þá munu byggja bæinn.
Og þá að Hópi. „Austur af gömlu traðartóftinni neðan bæjar er Goðatóft, gamalt goðahús friðlýst, sem má ekki róta“, segir í örnefnalýsingu. Goðatóftin er friðlýst frá Goðatóftin friðlýsta við Hóp25.10.1930. Brynjúlfur Jónsson segir 1903 að „bærinn Hóp hafi upphaflega heitið Hof og að þar hafi verið goðahof“. Þar hafi verið „goðahús“ í heiðni og þess vegna megi aldrei taka það burtu, en samt megi breyta því og nota á hvern hátt sem hentar. „Hafa ábúendur fært sér þetta í nyt; „goðahúsið“ hefir til skamms tíma verið geymsluskemma, en nú er það haft fyrir fjós,“ segir Brynjúlfur. „Af þeim sökum“, segir Brynjúlfur, „megi aldrei rífa húsið, en hins vegar megi breyta því og ábúendur nýta það eins og best henti hverju sinni. Það hafa bændur hagnýtt sér og hafi húsið til skamms tíma verið notað sem skemma, en sé nú [1902] notað sem fjós“. Tóftin er einföld og snýr austur-vestur. Op er syðst á vesturhlið.
Í bréfi um byggingu jarða Skálholtsstóls í Grindavík frá 1563 er boðið að breyta bænhúskúgildum þeim sem voru á Hrauni, Þórkötlustöðum og Hópi í leigukúgildi. Gæti það verið vísbending um bænhús á Hópi. Engar vísbendingar eru um staðsetningu bænhússins, en heitið „Goðatóft“ bendir til upphaflegs notagildis tóftarinnar (sem hestarnir fyrrnefndu hafa verið að naga og traðka á).
Á Hópstúninu eru margar fornar minjar. Gerðatóft, útihús, er t.a.m. fast norðan við bæjarhólinn. Það er merkt á túnkort 1918. Uppdráttur af minjasvæðinuÞrátt fyrir að sléttað hefur verið yfir húsið má greinilega merkja útlínur þess. Það hefur verið 12×18 m að stærð og virðist hafa verið einfalt. Út frá vesturhlið má grein garðlag sem og út frá asuturhlið þess. Mun þetta vera gerðið sem húsið var kennt við. Sjá má móta fyrir gömlum bæjartóftum sunnan við núverandi hús. Útihúsatóft er þarna skammt vestar.
Túngarðsleifar sjást 50-60 m ofan við eystri bæ Hóps. Hægt er að greina hvar túngarðurinn hefur legið í vestur frá þessari girðingu, en þar hefur verið sléttað yfir hann. Garðurinn liggur í grasigrónu og sléttuðu túni. Hægt er þó að sjá hvar garðurinn hefur legið til vesturs frá girðingunni austan við Hópstún. Frá girðingunni er um 30 m kafli þar sem einungis er merkjanlegur hryggur þar sem garðurinn var. Þá verður garðurinn greinilegri og sést hann þaðan á um 36 m kafla til vesturs þar til rof er í hann og honum hefur alveg verið rutt á 22 m kafla. Hann birtist aftur þar vestan við á 40 m kafla áður en hann verður enn aftur ógreinilegur og úr honum sléttað. Þó sést hann óglöggt í 35 m til viðbótar sem hæð í túninu uns hann hverfur alveg. Hornsteinn í norðvesturhorni garðsins er enn merkjanlegur í sléttu túninu miklu vestar, en þær garðleifar sem enn sjást á yfirborði.
Ljóst er að íbúar og sveitarstjórnarfólk í Grindavík hefur í mörg áhugaverð horn að líta – ef viljinn er fyrir hendi.
Heimildir m.a.:
-Þjóðminjalög 2001.
-Saga Grindavíkur.
-Brynjúlfur Jónsson.

Bæjarhóll gamla Hóps

Omar

Fáir, ef nokkur núlifandi Grindvíkinga, þekkja sögu samfélagsins, þróun, landamerki og landsgæði bæjarins sem og umhverfi Reykjanesskagans betur en Ómar Smári Ármannsson, hvort sem um er að ræða örnefni, minjar og sögulega staði. Hann ólst upp, á sínum tíma, í gamla útvegsbændasamfélaginu, sem enn á sterkari rætur í grindvísku samfélagi, en marga grunar. Hann fékk þrátt fyrir það tækifæri til að upplifa samtíðina á eigin skinni, með öllum göllum þess og kostum.

-Ertu fæddur Grindvíkingur?

Ómar

Ómar Smári Ármannsson.

Já, ég fæddist í Grindavík, nánar tiltekið í Valhöll í Þórkötlustaðarhverfi og ólst þar upp fyrstu árin, en var síðan fluttur yfir í Járngerðarstaðahverfið. Í uppvextinum í Grindavík var sáð því fræi, sem náði að dafna til lífs.

-Ómar Smári hlýtur að hafa þótt sérstakt samsett nafn árið 1954. Hvernig er það til komið?
Móðir mín ákvað nafnið. Það fékk þó ekki samþykki fyrir því, enda óhefðbundið í þá daga. Það liðu þrjú ár þangað til hún ákvað að ganga með mig til prestsins í Prestshúsum í Grindavík til skírnar.
Presturinn, inni í dimmri stofunni, spurði móður mína hvað drengurinn ætti að heita. Hún svaraði; „Hvers vegna spyrðu hann sjálfan ekki af því.“
Presturinn leit á mig með lítilli tiltrú og spurði: „Hvað viltu heita drengur?“
Ég svaraði feiminn: „Ómar Smári“.
Presturinn virtist hikandi, fletti í skræðum sínum og sagði síðan: „Drengurinn getur ekki heitið Smári. Það er ættarnafn.“
Móðir mín svaraði: „Smári getur ekki verið ættarnafn.“
Presturinn: „Jú, Jakob Smári er með ættarnafn“.

Þórkötlustaðahverfi

Valhöll í Þórkötlustaðhverfi. Helgi Andersen fremst.

Móðir: „Maðurinn sá heitir kannski Jakob, en hann er sagður „í Smára“. Það getur varla talist ættarnafn. Afi og amma drengsins búa t.d. í Teigi og ekki er það ættarnafn“.
Presturinn: „Ég þarf að hringja suður. Getið þið hinkrað aðeins?“. Hann gekk síðan út úr dimmri stofunni og við sátum þarna eftir í sitt hvorum stólnum móti svörtum krossi yfir altarishillu með kertum á til hvorrar handar. Ég man að kertin voru án loga.
Eftir drjúga stund birtist prestur á ný í stofudyragættinni, leit á okkur mæðgin og upplýsti: „Þetta er í lagi. Smári er ekki ættarnafn.“
Alla tíð síðan hef ég heitið Ómar Smári. Engin athugasemd var gerð við fornafnið enda höfðu einn eða tveir áður verið skírðir því nafni. Í dag heita fjölmargir öðru nafninu eða jafnvel báðum án athugasemda. Maður þurfti snemma að takast á við þjóna hins opinbera.

-Þú lentir undir vörubíl fimm ára?

Tómas Þorvaldsson

Tómas Þorvaldsson.

Já, það er rétt. Ég lenti undir vörubíl og var varla hugað líf. Slysið var reyndar sjálfum mér að kenna. Eldri bróður mínum og mér datt í hug, í hádeginu einn hversdaginn, að laumast upp í vörubíl, sem faðir okkar ók, en hafði þá skilið eftir ofarlega í aflíðandi brekku á vegi fyrir framan húsið í Sætúni.
Eftir að hafa leikið okkur um stund í vörubílnum, þar sem bróðir minn var bílstjóri og ég farþegi, leit ég á hann og spurði: „Er þetta gírstöngin?“ Hann leit á mig um leið og ég snerti gírstöngina, sem hrökk úr gír. Þegar vörubíllinn byrjaði að renna undan hallanum varð ég verulega hræddur, opnaði farþegahurðina og stökk út. Ekki vildi betur til en svo að féll inn undir bílinn og varð undir hægra afturhjólinu. Bíllinn stöðvaðist sjálfkrafa í U-laga brekkunni skammt neðar.
Móðir mín kom hlaupandi út við óhljóðin, sem fylgdu í kjölfarið, og tók mig í fangið. Stuttu seinna bar þar að Tómas Þorvaldsson á drossíu, en hann var einn fárra, sem áttu slík farartæki í Grindavík á þeim tíma. Mér var skutlað í aftursætið og Tómas ók sem leið lá eftir holóttum Grindarvíkurveginum og bugðóttum Keflavíkurveginum til Reykjavíkur, allt þangað til komið var að Heilsuverndarstöðinni við Barónsstíg. Þar var ég borinn inn til hjúkrunar. Ég man eftir að hafa misst meðvitund a.m.k. nokkrum sinni á leiðinni.

-Hvernig gekk þér að ná þér eftir bílslysið?

Landsspítali

Landsspítalinn.

Á spítalanum var þetta erfitt. Þar sem ég lá í rúminu var annar fótleggurinn hengdur upp með línu. Í hinum enda hennar, við fótgaflinn, hékk lóð á krók. Þegar ég hreyfði mig féll lóðið af króknum, féll fótleggurinn niður og ég öskraði af kvölum. Hjúkrunarkonurnar brugðust jafnan vel við, hengdu fótlegginn upp á ný og lagfærðu lóðið. Þetta endurtók sig aftur og aftur, dag eftir dag, viku eftir viku, mánuð eftir mánuð. Loks kom að því að ég varð laus við fótakeflið og fékk tækifæri til að stíga fram úr rúminu. Eftir nokkrar sársaukafullar tilraunir gat ég stigið í fæturnar og jafnvel fetað mig út með rúmgaflinum og aftur til baka.
Eftir að hafa legið u.þ.b. hálft ár margbeinabrotinn á Landspítalanum og þegar heim var komið þurfti ég að læra að ganga upp á nýtt með aðstoð hækja. Eftir nokkra mánuði gat ég loks gengið óstuddur án þeirra stuðnings og fór fljótlega í framhaldi af því að ganga og hlaupa um holt og hæðir.

-Síðan flyst þú til Hafnarfjarðar.

Holtsgata

Holtsgatan.

Ég fluttist ekki til Hafnarfjarðar. Ég og við systkyninin, vorum flutt til Hafnarfjarðar. Foreldrarnir skyldu og ekki var um annað að ræða en við sex systkynin færum með henni til Hafnarfjarðar. Búslóðinni var komið fyrir á vörubíl. Inni í vörubílshúsinu voru móðir mín og tvö yngstu systkynin, eins og tveggja ára. Aftan á pallinum sátum við hin fjögur. Rykið var kæfandi.
Þegar við stöðvuðumst utan við framtíðarheimili okkar í kjallaranum við Holtsgötu var fólk þar saman komið, tilbúið til aðstoðar. Ég man eftir því ég gekk um þann mund eftir steyptum vegg á milli lóða okkar húss og nágrannanna, en féll og lenti illa á hausnum. Móðir mín kom hlaupandi, greip afkvæmið í fangið, enn einu sinni án þess að andvarpa, og bar það inn; setti kaldavermsl á stærðarinnar enniskúlu, lagði á dýnu. Þar sat hún svo klukkustundum saman og fylgdist með líðaninni, allt til þeirrar stundar að aðgátar væri ekki lengur þörf.

Grænakinn

Grænakinn.

Þótt húsnæðið væri lítið; eldhús, bað, stofa og svefnherbergi, auk geymslu, leið okkur, sjö manna fjölskyldunni vel þarna. Að vísu þurfti á stundum að hafa ráðdeild við útvegun matar, en ég man ekki eftir að hafa farið svangur að sofa. Á sumrin var kíkt í matjurtargarðana uppi í neðanverðu Ásfjalli þar sem hægt var að ná sér í rófu eða klifra yfir háan steinvegginn í kringum klaustrið, hlaupa að beðunum, kippa upp nokkrum gulrótum og síðan á harðahlaupum til baka til að komast yfir vegginn áður en nunnurnar náðu okkur. Það tókst jafnan.
Á öðrum tíma var hægt að nálgast skreið í hjöllunum, sem voru víðs vegar, betla ferskan fisk á höfninni og tína ber í Stekkjarhrauni á haustin. Umhverfið bauð upp á ýmsar bjargir í þá daga.

Búrfell

Hjallur.

Átta ára byrjaði ég að bera út Morgunblaðið í nágrenninu. Síðan bættust við Tíminn og Alþýðublaðið. Blaðburðarpokinn gat stundum verið þungur fyrir lítinn gutta, einkum um helgar. Ég man alltaf eftir fyrstu útburðarferðinni. Daginn áður hafi mér verið fylgt um hverfið og bent á húsin, sem áttu að fá blöðin og fékk jafnframt í hendurnar útprentaðan lista yfir áskrifendur, en þegar á hólminn var komið reyndist þrautin þyngri. Þegar heim var komið bjóst ég því við kvörtunum frá einhverjum, sem ekki höfðu fengið blaðið, en það gerðist ekki. Smám saman lærðist þetta og gekk snurðulaust fyrir sig. Þetta verkefni krafðist þess að ég þurfti að vakna eldsnemma á morgnana og vera búinn að bera út áður en skólinn byrjaði. Helgarblöðin var hægt að bera út á laugardagskvöldum. Tvö aukablöð fylgdu hverjum pakka. Þau gat ég selt áhugasömum sem bónus.
Með blaðaútburðinum náðum við að kaupa okkur lítið sjónvarpstæki, National, og sjónvarpsloftnet á skorsteininn. Í sjónvarpinu gátum við, þegar vel viðraði, horft á kanasjónvarpið, s.s. Bonanza, Combat, Rowhide, Felix the cat og fleiri áhugaverða framhaldsþætti, reyndar í svart/hvítu.
Síðar fluttum við í risíbúð í Kinnunum. Þar voru herbergin þrjú, auk stofu, eldhúss og baðs. Þar rýmkaðist verulega um fjölskylduna um tíma. Ég held að móðir mín hafi þarna verið hve ánægðust.

-Þú varst í Vinnuskólanum í Krýsuvík. Segðu mér frá þeirri vist.

Krýsuvík

Krýsuvík – Vinnuskólinn (HH).

Barnmörgum fjölskyldum, einstæðum mæðrum og foreldrum, sem voru að glíma við veikindi, bauðst á árunum 1957-1963 að senda sveinbörn sín í Vinnuskólann, sem starfaði í tveimur hollum yfir sumarið, fjórar vikur í senn foreldrunum að kostnaðarlausu.
Ég var í Vinnuskólanum fjögur sumur, frá 8 ára aldri til 11 ára aldurs, og líkaði vel. Mæting var við Lækjarskólann. Farangurinn; stígvél og aukaföt, var venjulega í pappakassa spyrðan saman með snærisspotta.
Í hverjum hópi voru um 60 piltar hverju sinni. Þeir gistu í fimm herbergjum, mismunandi stórum, á fyrstu hæðinni í starfsmannahúsinu í Krýsuvík. Þar voru sturtur og þvottaaðstaða. Drengirnir sáu sjálfir um að þvo af sér fötin og strauja með rúmfjölum, sem þeir náðu í undir dýnunum í herbergiskojunum. Á efri hæðinni að hluta var aðstaða fyrir starfsfólkið, eldhús og matsalur. Í hinum hlutanum var íbúð bústjórans, sem annaðist m.a. gróðurhús, sem þar voru.

Krýsuvík

Drengir í Krýsuvík við sundlaugagerð sunnan Bleikhóls.

Dagurinn hófts venjulega á morgunkaffi í matsalnum; mjólk og matarkexi. Þar var drengjunum skipað til verka fram að hádegi, nema þeim sem gert var að vinna í eldhúsinu; þeir þurftu að vera þar fram yfir kvöldmat. Yfir hvern hóp var settur verkstjóri. Hans hlutverk var m.a. að meta framlag hvers og eins til tekna. Fyrsta sumarið gat hámarks dagsverkið orðið allt að ein króna en síðasta sumarið allt að fimm krónur – slík hafði verðbólgan verið. Vinnan fólst t.d. í að snyrta umhverfið, aðstoða bústjórann í gróðurhúsunum, moka skít út úr fjósinu, sem hafði verið notað sem fjárhús um hríð, grafa fyrir sundlaug vestan við Bleikhól, grafa skurði, hreinsa út úr húsi, sem hafði verið ætlað bústjóranum ofan við Gestsstaðavatn (síðar þekkt sem hús Sveins Björnssonar, listmálara), en það hafði verið notað sem hænsnahús um tíma, fjarlægja gamla hænsnakofann ofan við húsið o.s.frv.

Krýsuvík

Krýsuvík – Vinnuskólinn 2020.

Eftir hádegismat; bjúgu og uppstúf, fiskbúðing úr Oradós og bakaðar baunir, fisk og kartöflur og svoleiðis, var annað hvort farið í skipulagða gönguferð um fjöll og fyrnindi í nágrenninu þar sem áhersla var lögð á að drengirnir lærðu að lesa landið, s.s. upp á Hettu, upp að Arnarvatni, út að Vegghömrum eða að Kleifarvatni til veiða. Unnið var að kofabyggingum við lækjarfarveg innan við gróðurhúsin eða farið í leiki, s.s. rat- eða stríðsleiki. Í ratleikjunum þurfi að finna vísbendingar til að geta leyst tilteknar þrautir og í stríðsleikjunum var hópnum skipt í tvennt; riddara hvítu og rauðu rósarinnar, sem endaði yfirleitt með slagsmálum þar sem markmiðið var að slíta teygju af handlegg andstæðingsins. Í göngurnar var hver og einn útbúin með nesti; mjólk í flösku og brauðsneið.

Krýsuvík

Drengir úr Vinnuskólanum á göngu – HH.

Eftir að heim var komið gafst drengjunum tími til leikja, s.s. í tindátaleik, við lestur eða í fótboltakeppni milli herbergja.
Kvöldmaturinn var yfirleitt kjarnríkur, sem eldhúshópurinn hafði tekið að sér að fullgera. Hann sá einnig um að skræla kartöflur, leggja á borð og vaska upp. Eftir matinn var kvöldvaka. Þá sátu drengirnir í tvöfaldri röð á löngum ganginum framan við herbergin og horfðu á kvikmynd, sem varpað var frá sýningarvel á hvítt tjald við enda hans. Að því búnu voru sungin nokkur lög, s.s. „Lóan er komin“, „Sá ég spóa“ o.s.frv. Hörður Zóphaníasson, skátahöfðingi og einn af tilsjónarmönnunum, hafði samið sérstakan „Krýsuvíkursöng“, sem varð að nokkurs konar þjóðsöng Krýsuvíkurdrengjanna:

Hörður Zíophaníasson

Hörður Zóphaníasson.

„Vasklega að verki göngum
vinir með gleðisöngvum
karlmennskan lokkar löngum
lífsglaðan hug.
Kempur í kampasveit
í Krýsuvík vinnum heitt,
að duga og treysta vort drenglyndi og heit
Ræktum og byggjum, bætum,
brosandi þrautum mætum,
vorinu þrátt við þrætum,
þeytum á bug…“.
Eftir kvöldvökuna var kvöldkaffi; mjólk og kex. Að því loknu var gengið til náða. Stjórnandi mætti í hvert herbergi út af fyrir sig og í sameiningu var farið með „Faðirvorið“. Eftir það varð þögn, enda flestir orðnir dauðþreyttir að dagsverki loknu.
Stjórnendur Vinnuskólans var valið fólk úr hópi skólastjórnenda, kennara og skáta. Sérhver og allir voru þeir framúrskarandi fyrirmyndir ungum uppvaxandi drengjum.
Starfi Vinnuskólans varð sjálfkrafa hætt eftir 1963. Stjórnvöld höfðu þá samþykkt skilyrði í nýrri heilbrigðisreglugerð, sem ómögulegt var að uppfylla miðað við þáverandi aðstæður.

-Hvernig gekk þér í skóla?

Lækjarskóli

Lækjarskóli.

Ég byrjaði í sjöárabekk í Lækjarskóla. Var þar fram til áramóta, en var þá selfluttur upp í Öldutúnsskóla nýbyggðan. Ég man nú lítið frá tímanum í Lækjarskólanum, en því meira frá Öldutúnsskóla. Fyrsti kennarinn minn fyrstu árin þar var frú Sigurlaug, einstaklega þolinmóður og góður kennari. Hún sá líka til þess að við fengjum lýsispillurar okkar reglulega og mættum í ljós í leikfimihúsi Lækjarskóla.
Haukur Helgason var skjólastjóri, en hann annaðist okkur drengina líka yfir sumartímann í Krýsuvík.
Í ellefuárabekk skipti til hins verra; fékk nýjan karlkennara. Okkur lynti ekki hvor við annan. Það leið varla sá dagur að ég var ekki rekinn út úr kennslustund, sem mér þótti bara ágætt; fór heim, út að leika og mætti ekki í skólann næstu daga, eða allt þangað til Haukur kom heim og ræddi við móður mína. Þannig gekk þetta ítrekað um veturinn. Í tólfárabekk fékk ég nýútskráðan kennaranema, Sigrúnu Gísladóttur, síðar skólastjóri í Flataskóla. Hún náði einstaklega vel til nemenda sinna. Eftir veturinn varð ég hæstur í bekknum. Segja má, af þeirri reynslu að dæma, að kennarar geta skipt sköpum fyrir nemendur hverju sinni.

-Áramótabrennur spiluðu stóran þátt í uppeldi barna á þessum tíma?

Áramótabrenna

Áramótabrenna.

Í þá daga var mikil vinna sett í að safna efni í áramótabrennur á milli jóla og nýárs. Segja má að bera þurfti sig eftir sérhverri spýtu og koma henni á brennuna. Við krakkarnir vorum með brennu á bersvæði ofan við klaustrið. Brennan sú var jafnan sú stærsta í Hafnarfirði. Til að selflytja efnið þurftum við ýmist að draga það á höndum okkar í snjónum eða, sem okkur datt í hug, að hnupla líkvagninum í kirkjugarðinum á Öldum að kvöldlagi. Þetta var handvagn, járngrind, á tveimur loftfylltum hjólum. Á hann var hægt að hlaða talsverðu efni. Við skiluðum vagninum seint á virkum dögum, en reyndum að nýta hann þess mun betur um helgar. Það kom fyrir að eitthvað bilaði, grindin gaf sig eða loft fór úr dekki. Eftir það var erfiðara að nálgast vagninn um stund.
Illkvitnir reyndu stundum að kveikja í brennunni fyrir áramót svo við hreiðruðum þannig um okkur inni í henni miðri og notuðum það sem vaktarskjól. Þetta þætti nú ekki boðlegt í dag.

-Og úr Öldutúnsskóla var förinni heitið í Flensborgarskóla?

Flensborgarskóli

Flensborgarskóli.

Já, það voru mikil viðbrigði. Bekkjakerfið held ég að hafi bjargað miklu. Kennararnir sem og skólastjórinn, Ólafur Þ. kristjánsson og síðar sonur hans, Kristján Bersi, voru í einu orði sagt frábærir. Að vísu voru þeir hverjum öðrum ólíkari, en skemmtilegir karakterar hver um sig. Húsvörðurinn, Páll Þorleifsson, var þó máttarstólpurinn í skólastarfinu þótt fáir væru meðvitaðir um það svona dags daglega. Við Páll kynntumst ágætlega – mikill gæðakarl.
Þarna voru gæðakennarar eins og t.d. Egill Strange, sem kenndi handiðn. Eftir skamman tíma í bókbandi bauð hann mér að mæta bara hvernær sem ég vildi og gera það sem ég vildi. Bjarni Jónsson, myndlistarkennari, hafði sama hátt á. Hann sagði við mig að ef ég væri ekki í stuði til að teikna í myndlistartíma mætti ég mæta þegar betur stæði á. Sama var upp á matreiðsluborðinu hjá Hönnu Kjeld. Einar Bollason þótti strangur dönskukennari, en gæðablóð inn við beinið. Ingvar Viktorsson sagði brandara í enskukennslustundum og svona mætti lengi telja um allt ágætið.

Flensborg

Flensborg – stjórn nemendafélagsins, formenn klúbba og fulltrúi skólastjórnar, Ingvar Viktorsson.

Erfiðust var „Pikkólína“ ritvélakennari. Hún gat verið verulega ströng, enda nákvæm fingrasetninginn alvörumál, en hún átti líka sínar góðu stundir.
Eftir að hafa verið í ritstjórn skólablaðsins Draupnis, auk nokkurra annara, s.s. Líkþorns, ásamt Halldóri Árna Sveinssyni og fleirum, var ég í lok þriðja árs valin Inspektor Scolae, formaður Nemendafélagsins, til næsta árs, annar í röðinni frá upphafi. Á því ári voru fjölmargir klúbbar starfandi, skólaskemmtanir haldnar sem og árshátíðin að venju. Þegar enginn vildi taka að sér að verða stjórnandi árshátíðarinnar tók ég það hlutverk að mér ásamt öðru. Í lok skólaársins notuðum við ágóðan af starfseminni til að kaupa nýtt hágæða hljókerfi fyrir sal skólans og afhentum það með hátíðlegri athöfn. Félagsstarfið virtist ekki hafa komið niður á náminu því námsárangurinn var með ágætum.

-Hvað tók við að menntaskólaárunum loknum?

Draupnir

Draupnir.

Á menntaskólaárunum fjármagnaði ég námið með ýmiss konar vinnu; uppskipun úr togurum, verkamannavinnu hjá bænum (vann á loftpressu tvö sumur) og í fiskverkun. Áður en ég útskrifaðist sá ég auglýsingu um sumarstörf í lögreglunni í Reyjavík – sótti um og fékk ráðningu. Um haustið innritaðist ég í lögfræði við Háskóla Íslands. Sumarhýran entist til áramóta. Lögfræðin höfðaði heldur ekki til mín svo ég sótti aftur um sumarstarf í lögreglunni – og fékk. Þar var ég svo við störf næstu 45 árin.

-Hvernig var að starfa í lögreglunni í Reykjavík allan þennan tíma?
Fjölbreytilegt og krefjandi, en skemmtilegt. Samstarfsfélagarnir voru, án undantekninga, alveg stórkostlegir. Fyrstu árin starfaði ég á vöktum í almennu deild, héldum uppi eftirliti og brugðumst við útköllum. Þá tók við starf á vöktum í slysarannsóknardeild, sem sinnti árekstrum og umferðarslysum, auk rannsóknum á hvorutveggja.

Flensborg

Ómar Smári, Inspector Scholae 1975-’76, og Páll Þorleifsson, húsvörður Flensborgarskóla, ásamt nokkrum skólafélögum.

Eftir að hafa lokið námi við Lögregluskólann var mér boðið að annast kennslu við skólann samhliða lögreglustarfinu. Þannig kynntist ég verðandi lögreglumönnum um allt land til tólf ára.
Árið 1985 var með boðið að verða fulltrúi embættisins í stjórnunarnámi í skóla FBI í Bandaríkjunum, sá fyrsti af nokkrum frá Íslandi sem á eftir fylgdu í áranna rás. Í framhaldinu fylgdu ótal prófgráður og námskeið víðs vegar um Evrópu.

Ómar

Ómar ásamt félögum við útskrift.

Í áratuga starfi mínu sem lögreglumaður, þar af sem stjórnandi til langs tíma, hefur mér lærst að takast á við hin margvíslegustu vandamál, leggja til lausnir og fylgja þeim eftir í framkvæmd – eins og lesa má ef nafnið er „googlað“, t.d. á timarit.is. Þar má væntanlega uppgötva áhugaverðar fréttir af afrekum umferðardeildar, stofnun forvarnadeildar, aðgerðir gegn óáran unglingagengja í Breiðholti, umfjöllun um stofnun nágrannavörslu í einstökum hverfum í samvinnu við íbúana, rökstuðningi fyrir skiptum skoðunum um „Ökuferilsskrá“ á landsvísu með tilheyrandi punktakerfi að því markmiði að fækka umferðarslysum, yfirtöku lögregluembætta landsins á starfssemi Rannsóknarlögreglu ríkisins, stofnun rannsóknardeilda einstakra embætta, sameiningu og samhæfingu lögregluembættanna á höfuðborgarsvæðinu o.m.fl.

Lögreglan

B-vaktin 1975.

 Síðustu árin var ég yfirmaður rannsóknardeildar, stöðvarstjóri á Hverfisgötu, síðar í Kópavogi og í Hafnarfirði og loks umferðardeildar. Í framangreindum störfum fólust m.a. samstarf við hlutaðeigandi stjórnvöld; Vegagerðina, Umferðarráð (síðar Samgöngustofu), einstök sveitarfélög, foreldrafélög, skóla, hverfasamtök o.fl. aðila. Ég var t.d. gerður að heiðursfélaga nr. 900 í Sniglunum, Mótorhjólasamtökum lýðveldisins, eftir átök um stund og í framhaldinu ánægjulegt samstarf þar sembáðir aðilar sameinuðust um gild markmið.

-Þú varst nú nokkuð áberandi í fjölmiðlum um tíma?

Ómar

Ómar á ráðstefnu.

Samskipti við fjölmiðla hafa í gegnum tíðina verið stór hluti af störfum undirritaðs, hvort sem var á vettvangi atburða eða eftiráskýringum. Á löngum starfsferli bar ekki skugga þar á – svo orð sé á gerandi.
Eftir að forvarnardeildin var stofnuð þótti öðrum stjórnendum þægilegt að geta vísað spurningum blaða- eða fréttamann til okkar. Mín innkoma á þann vettvang kom því ekki til af engu. Mér fannst bæði sjálfsagt og eðlilegt að einhver svaraði fyrirspurnum f.h. embættisins. Hafa ber í huga að fyrirspyrjendur einstakra fjölmiðla voru jú einungis að reyna að sinna vinnunni sinni, þ.e. að upplýsa almenning um málavexti hverju sinni. Þetta samstarf reyndi á stundum á traust og skilning af beggja hálfu.

Lögreglan

Útskrift úr skóla FBI 1985.

Þótt mörgum hafi, í miðri orrahríðinni, þótt ágengni fjölmiðlanna full ágeng og óþægileg, var ég jafnan á annarri skoðun. Þeirra hlutverk er mikilvægt.
Ég átti jafnan mjög gott samstarf við aðra og var, að eigin mati, almennt vel liðinn í gegnum tíðina, bæði af vinum og öðrum, sem síðar, eftir nokkrar þrætur, urðu vinir, enda jafnan haft að leiðarljósi að koma með sanngjörnum hætti fram við aðra er unnið hafa til þess – svo þeir fengju að njóta sín af eigin verðleikum.
Ráðandi dómsmálaráðherrar voru ekki alltaf par hrifnir af „skýringum lögreglu“ á einstökum viðfangsefnum því stundum skaraðist heilbrigð skynsemi og pólitík í daglegri umfjöllun álitamála.
Ég var um tíma ritstjóri Lögreglublaðsins og formaður Félags yfirlögregluþjóna – ekki má gleyma því.

-Þú tókst sjálfur þátt í pólitísku starfi – varst frambjóðandi og bæjarfulltrúi Alþýðuflokksins í Hafnarfirði?

Hafnarjörður

Hafnarfjörður – pólitík

Já, það er rétt. Frumkvæðið var reyndar ekki mitt. Til mín leituðu fyrrum skólafélagar og kennari úr menntaskólanum í Flensborg, Ingvar Viktorsson, Guðmundur Árni Stefánsson og Tryggvi Harðarsson. Guðmundur Árni var þá orðinn potturinn og pannan í starfi Alþýðuflokksins í Hafnarfirði. Áður hafði Árni Gunnlaugsson boðið mér að vera ofarlega á framboðslista Óháðra borgara í bænum. Flokkur hans náði ágætum árangri. Málið var að Árni hafði stutt móður mína á erfiðleikaárum hennar og ég taldi mig eiga honum gjöld að gjalda – án sérstakra útgjalda. Þá höfðu fulltrúar Alþýðuflokksins, bæði í bæjarstjórn og í nefndum og ráðum, lagt sig fram við að styðja við bakið á öllum þeim er minna máttu sín í bæjarfélaginu. Hvernig var hægt að hafna slíkum beiðnum fyrrum skólafélaga og velgjörðarfólks er höfðu slík gjöfug markmið?

Ómar

Sigurlisti Alþýðuflokksins.

Saman unnum við hreinan meirihlutasigur fyrsta kjörtímabilið, en þurftum að styðjast við fulltrúa tveggja ágætra sjálfstæðismanna, Jóhanns og Ellerts Borgars, það síðara, eftir að hafa fellt meirihluta sjálfstæðismanna og alþýðubandalagsins.
Það var mikill uppgangur í bænum á þessum tíma.
Mér var á þeim tíma falið að veita formennsku nokkrum nefndum og ráðum, s.s. vímuvarnarnefnd, umferðarnefnd, félagsmálaráði, menningarmálanefnd sem og afmælisnefnd bæjarins. Þetta var lærdómsríkur tími. Lærdómurinn fólst m.a. í því að virða skoðanir allra þeirra er voru öndverðum meiði til jafns við eigin skoðanir.

-Heimildir herma að þú hafir verið stofnandi gönguhópsins FERLIRs, sem í dag heldur úti öflugri vefsíðu um sögu, minjar og jarðfræði Reykjanesskagans. Hver var tilgangurinn í upphafi?

FERLIR

FERLIR – húfa, sem þaulsetnir þátttakendur fengu sem viðurkenningarvott.

FERLIR stóð upphaflega fyrir FErðahóp Rannsóknardeildar Lögreglunnar Í Reykjavík. Áhugasamt lögreglufólk um útivist og hreyfingu í tilbreytingu frá hversdagsins önn, krefjandi rannsóknum og jafnvel kyrrsetu þeirra á millum, tók sig saman árið 1999 og ákvað að líta í kringum sig utan starfans – víttka sjóndeildarhringinn og kynnast betur sínu nærtækasta umhverfi. Reykjanesskaginn varð fyrir valinu, bæði vegna nálægðarinnar og ekki síður vegna lítils áhuga fólks almennt á því svæði (þótt undarlega megi teljast) þrátt fyrir fjölbreytileikann.
Eftir að þátttakendur höfðu kynnt sér og rannsakað gaumgæfilega margvíslegar heimildir, bæði gamlar og nýjar, skráðar og óskráðar, kom í ljós að Skaginn hafði upp á ótrúlega mikla fjölbreytni að bjóða; allt frá fornum minjum um búsetu frá upphafi norræns landsnáms til áþreifanlegrar atvinnuþróunarsögu frá fornöld til vorra tíma, þjóðsagnakennda staði, fornar þjóðleiðir, stórkostlega og síbreytilega náttúrufegurð, tímasetta jarðsögu, fjölbreytta flóru og fánu, sendnar strandir jafnt sem rísandi björg, magnþrungið brim, langa fjallgarða, formfögur fjöll, gróna dali, tifandi læki, fjölskrúðug jarðhitasvæði og svo mætti lengi telja.

Arnarfell

FERLIRsfélagar í herbúðunum Eastwoods við Arnarfell.

Til að gera langa sögu stutta er rétt að nefna að frá upphafi hafa verið farnar rúmlega 3000 gönguferðir um Reykjanesskagann, sem markast af hinu forna landnámi Ingólfs, vestan línu milli Hvalfjarðarbotns og Ölfusárárósa. Hópurinn, breytilegur frá einum tíma til annars, hefur notið leiðsagnar frábærs fólks á einstökum afmörkuðum svæðum. Því fólki verður seint fullþakkað fyrir móttökurnar. Árangurinn má sjá á vefsíðunni. Auk texta má sjá fjölda mynda og uppdrætti af yfir 400 minjasvæðum. Margt mjög áhugasamt fólk hefur verið með í ferðum. Sumt af því hafði áður skoðað og skráð upplýsingar á einstökum svæðum. Þátttaka þess hefur gert hópnum kleift að auka víðsýnið og fræðast um ýmislegt það, sem áður virtist óþekkt. Við leitir hefur hópurinn fundið áður óþekktar minjar og staðsett aðrar, sem heimildir voru um en virtust týndar. Alls staðar, þar sem bankað hefur verið að dyrum, hefur hópnum verið mjög vel tekið. Þátttakendur hafa einnig átt frábært samstarf við ágæta fulltrúa Hellarannsóknarfélagsins (Björn Hróarsson), Ferðamálafélags Grindavíkur (Erling Einarsson), kirkjuverði, skólastjórnendur, staðkunnugt heimafólk, innfædda leiðsögumenn og marga fleiri á ferðum sínum.

Ferlir

Ólafur, bæjarstjóri í Grindavík, í ferð með FERLIR á Háleyjum.

Sem dæmi má nefna að bæjarstjórinn í Grindavík, Ólafur Ólafsson, hefur verið áhugasamur um sitt umdæmi og mætt í margar ferðir er farnar hafa verið innan umdæmisins. Verður það að teljast einkar virðingarvert því talsverður tími hefur farið í ferðir um það víðfeðma umdæmi. Safnað hefur verið miklum fróðleik um Skagann, skráðir GPS-punktar á minjar, hella, skúta, sel, sögulega staði, flugvélaflök, vörður, fornar þjóðleiðir og annað er merkilegt hefur þótt. Þá hafa einstök minjasvæði, s.s. Gömlu Hafnir, Básendar,Húshólmi, Selatangar, Krýsuvík, Selalda, Strandarhæð, Kaldársel o.fl. staðir verið dregnir upp skv. lýsingum eldra fólks, en fróðleiksmiðlun þess verður seint metin að verðleikum. Viðtöl hafa og verið tekin við fólk, sem enn man hvaða minjar voru hvar, af hvaða tilefni og hvað var gert á hverjum stað.

Omar

Ómar við leiðsögn á Selatöngum.

Við lögðum upp með það frá upphafi að við myndum ekki borga neitt fyrir okkar framlag og ætluðumst ekki til þess, að sama skapi, að aðrir, sem við þurftum að leita til, krefðust ekki greiðslu fyrir viðvikið. Það hefur gengið eftir hingað til.
Áhugasamt fólk um Reykjanesið var jafnan boðið velkomið í hópinn, en í seinni tíð hefur áherslan verið lögð á að vinna úr þeim gögnum, frásögnum og ljósmyndum, sem safnast hafa í þessum fjölmörgu gönguferðum, með það fyrir augum að gera hvorutveggja aðgengilegt á vefsíðunni www.ferlir.is – eins og sjá má þeim er áhuga hafa…

-Þú stundaðir nám fornleifafræði í Háskólanum, kominn á fimmtugsaldurinn?

Háskóli Íslands

Háskóli Íslands.

Já, og útskrifaðist sem fornleifafræðingur eftir fjögur ár, samhliða lögreglustarfinu. Áhuginn kom ekki af engu, eins og fram kemur í svari við spurningunni um stofnun FERLIRs. BA-ritgerðin fjallaði um „Sel og selstöður vestan Esju“. Þar eru taldar upp rúmlega eitt hundrað slíkar, þ.e. vestan Esjunnar, en í dag, 2022, höfum við fundið og skrá um 400 á Reykjanesskaganum öllum – fyrrum landnámi Ingólfs. Þannig heldur námið áfram þrátt fyrir útskriftina.

Omar

Ómar – við útskrift í Háskóla Íslands.

Ég lauk námi í svæðaleiðsögn á vegum Símenntunar Suðurnesja á sama tíma og hef nýtt mér hana, m.a. með því að bjóða öllum áhugasömum Grindvíkingum til göngu um Húshólmasvæðið, elstu meintu byggð á Íslandi, í tilefni af afmæli bæjarins fyrir nokkrum árum – með ágætis þátttöku þeirra sömu. Þá lauk ég námi í Hagnýtri menningarmiðlun í Háskólanum og hef nýtt mér hana, m.a. til þess að koma á framfæri fróðleik við áhugasama um svæðið á vefsíðunni www.ferlir.is.
Síðar útskrifaðist ég sem svæðaleiðsögumaður frá Símenntun Suðurnesja með ágætum árangri.

-Grindavíkuruppdrættirnir, sögu og minjakort yfir þéttbýlissvæðin í Grindavík, voru að þínu frumkvæði?

Þórkötlustaðahverfi

Þórkötlustaðahverfi – uppdráttur ÓSÁ.

Við Óskar Sævarsson, þáverandi forstöðumaður Saltfiskseturs Grindavíkur, fengum menningarverðlaun bæjarins fyrir framtakið. Aðdragandinn var samstarf við Erling Einarsson, þáverandi formann Ferðamálafélags Grindavíkur. Í sameiningu gáfum við m.a. út fróðleiksrit um Selatanga og Húshólma við góðar undirtektir. Í framhaldinu ákvað ég að taka fyrir einstaka bæjarhluta, kalla til aldrað fólk, sem enn var lifandi og þekkti til hinnar deyjandi sögu minja og örnefna á svæðunum, og gera úr því uppdrætti er gætu nýst komandi kynslóðum. Gefnir voru út sjö updrættir og gerðir úr þeim jafnmörg söguskilti er enn standa uppi víðs vegar í Grindavík, áhugasömum til handa.
Ferðamálafélagið gaf síðan út rit með öllum uppdráttunum. Því miður hefur þessu samstarfi ekki verið fylgt eftir sem þyrfti – en uppdrættirnir tala enn þann í dag sínu máli um örnefni og minjar í Grindavík.

-Þú hefur skrifað texta inn í Ratleik Hafnarfjarðar undanfarin ár. Hvernig kom það til?

Ratleikur Hafnarfjarðar 2022

Ratleikur Hafnarfjarðar 2022.

Það var félagi minn, Guðni Gíslason, fyrrum ritstjóri Fjarðarpóstsins, nú ritstjóri Fjarðarfrétta, skátaforingi og forstöðumaður Hönnunarhússins, sem bað mig um texta við ratleikinn fyrir nokkrum árum. Leikur þessi er nú kominn á þrítugasta aldursskeiðið. Um er að ræða 27 tiltekna staði hverju sinni. Fjölmargir hafa bæði nýtt sér fróðleikinn sem og tilganginn með leiknum; að ganga um svæðið og leita uppi merkin, skrá þau á lausnarlista og skila síðan inn að leiðarlokum með von um verðlaun. Þetta er ókeypis lífsfullnægjandi leikur í hinu stórkostlega upplandi Hafnarfjarðar.

-Nú ert þú kominn á svokallaðan „eftirlaunaaldur“. Hvað finnst þér um það?

Lögregla

Lögregla – nokkur axlarmerki.

Ég var skyldaður, gildandi lögum samkvæmt, að fara á eftirlaun þegar 65 árunum var náð – eftir 45 ára starf að löggæslumálum. Í raun fylgdi þeirri skyldu engin réttindi önnur en þau að eiga rétt á takmörkuðum eftirlaunagreiðslum. Ef ég hefði verið í öðru starfi hefði komið til álita áframhaldandi starf, eða, hjá ríkinu, sjálfkrafa heimild til að mega starfa til sjötugs.
Það var svolítið sárt að þurfa að ganga út starfslokadaginn. Ég hafði hafnað kveðjusamkundu, þrátt fyrir mótbárur, með þeim orðum að engin hefði móttökuathöfnin verið er ég mætti á laugardagskvöldi til starfa fyrsta sinni.

Lögregan

Lögreglan – myndirn er tekin eftir handtöku þýsks bankaræningja, Lugmeyers, sem strokið hafði úr dómshúsi þar í landi og birst með fúlgur fjár á Íslandi.

Mitt mat er það eigi að afnema aldurstakmörk þegar kemur að starfslokum, sem og allar hömlur (skerðingar) er takmarka möguleika fólks á öllum aldri að sjá sér farborða. Mörkin má gjarnan nota til að meta áunnin réttindi, ef fólk vill nýta sér þau, en ef það óskar eftir áframhaldandi starfi, eða öðru sambærilegu, ætti það að verða samkomulag milli þess og vinnuveitandans. Í þessu starfsfólki felst mikil uppsöfnuð þekking og reynsla, sem nýtast mætti svo lengi sem umsættanlegt er – punktur og basta.

-Eitthvað að lokum?
Ég tel mig eiga Grindavík, þrátt fyrir allt, skuld að gjalda. Þar liggja jú ræturnar. Einstæð móðirin, með sex börnin sín, naut síðan aðstoðar hreppsins á miklum erfiðleikatímum í hennar lífi, sem nægði til þess að hún gat flutt þau í öruggara atvarf í Hafnarfirði og komið þeim öllum þar til manns. Þess vegna varð ég það sem ég er…

Grindavík

Grindavík – Þórkötlustaðir.

Sexæringur

Í grein í ritinu ÆGIR árið 1929, eða fyrir nákvæmlega 80 árum, má sjá hvernig útgerð báta var og hafði verið háttað í Grindavík allt til þess tíma. Síðan eru ekki liðin svo mörg ár, en þrátt fyrir það muna fáir núlifandi Grindvíkingar tímann fyrir hafnargerð (um 1930). Segja má að skrásetjari hafi verið að setja á blað tímamótasögu í grindvískum sjávarútvegi þá og þegar verið var að hverfa frá vinnubrögðum fornra útgerðarhátta til nútímavæðingar. Og enn eiga eftir að verða umtalsverðar breytingar á útvegssögu Grindvíkinga.

Áttæringur

„Það er ekki meining mín að rekja menningarsögu Grindavíkur með línum þessum, heldur í stórum dráttum benda á helstu breytingarnar, sem orðið hafa á síðari tímum. En til þess er þó óhjákvæmilegt, að fara nokkuð aftur í tímann til samanburðar.

Staðhættir
DregiðGrindavík er ysta bygð sunnan á Reykjanesi. Það eru í raun og veru þrjár víkur og sitt hverfi hjá hverri vík, auk þess nokkrar einstakar jarðir milli  hverfa. Alls voru 26 grasbýli og 6 eða 7 þurrabúðir í sveitinni um 1890. Bygðin öll nær yfir ca. 14 km langa strandlengju; frá ystu bygð eru ca. 10 km út á Reykjanestá. Landrými sveitarinnar er allmikið en víðast mjög hrjóstrugt, hraun og blásin og ber eldfjöll. – Aðdýpi er all mikið, þó eru nokkur sker og boðar á öllum víkunum, þess vegna er brimasamt, þó aldrei landbrim í leningum, nema flóðhátt sé.

Atvinnuvegir
GangspilFrá landnámstíð hafa fiskiveiðar og landbúnaður verið aðal atvinnuvegir hér, eins og alstaðar annarsstaðar á landinu, þar sem svipað er í sveit komið.
Frá því Grindavík bygðist og fram á miðja 19. öld var ein og sama veiðiaðferð notuð, nfl. handfæri. Á vetrarvertíð munu mest hafa verið notuð 8 og 10 róin skip, en tveggja og fjögra mannaför voru aðallega notuð þar fyrir utan. Oftast var stutt róið, öldum saman á sömu miðin, út á víkurnar eða stutt út fyrir þær.
Þar sem veiðistöðvar liggja fyrir opnu hafi, er eðlilega brimasamt í hafáttum og því aðallega gæftir þegar aflandsvindur er, það er því eðlilegt að menn hættu sér ekki langt frá landi, síst meðan eingöngu var treyst á árarnar, til að komast um sjóinn, en ekki í annað hús að venda, ef ekki náðist lending. Í fiskigöngum gengur fiskur hér venjulega inn í boða, það var því sjaldan þörf að sækja langt á vetrum.

Aðstoð

Það kemur oft fyrir á vetrum, að sjór verður albrima á mjög skömmum tíma, jafnvel þó logn eða hægviðri sé og útsjór vel fær, mun það m. fl. hafa valdið því að hvert hverfi sótti sín mið öldum saman, jafnvel þó betra fiskirí væri í öðrum hverfum. Á sumrin og síðari hluta vorvertíðar var stundum róið langt á ýms mið, frá Krýsuvíkurbjargi og vestur í Reykjanesröst. Lengst af var allur fiskur hertur hvort heldur vera skyldi verslunarvara eða til heimilisnota. Aflinn var vel hirtur, hausar hertir til matar, sundmagi, kútmagi og svo sömuleiðis, alt var þetta góð og gild verslunarvara innanlands, hryggir voru þurkaðir til eldsneytis og annar úrgangur hirtur til áburðar. Fiskur og hausar voru hertir á þar til gerðum grjótgörðum, sömu garðar fylgdu sömu jörðum eins og sömu tún eða sömu uppsátur.

Seilað

Um miðja 19. öld var fyrst komi með lóð (línu) hingað. Sá sem fyrstur varð til þess hjet Jón Guðmundsson, hann bjó lengi í þurrabúð, sem heitir Akrakot (fyrsta þurrabúðin í Járngerðarstaða-hverfi), en í daglegu tali kallað kofinn. Eftir að Jón fluttist þangað var hann alltaf kallaður Jón í Kofanum. Hann fjekk 2 strengi af línu (200 af lóð) inn á Vatnsleysuströnd og kom með þá um vor, þá var tregur fiskur á færi, en hann mokfiskaði á línuna. Það hefði mátt ætla að honum hefði verið þökkuð framtakssemin, en það varð öfugt. Þegar á land kom mættu honum ónot, hrakyrði og jafnvel haft í hótunum við hann, ef hann legði ekki þessa skaðlegu veiðiaðferð niður. Þó fór svo, að skömmu seinna fer það að tíðkast að nota lóðir á vorin, en stuttar voru þær, en það bætt upp með því að beita á sjó.

Lagt úr vör

Á vetrarvertíð mun lína hafa verið lítið notað fyrir 1880, en þá einkum notuð framan af vertíð og þegar útá leið. Línan var stutt í byrjun og stutt á milli öngla, um 100 önglar á streng og 5-6 strengir með áttæringum, en þær smálengdust, ár frá ári, einkum hjá yngri fornmönnunum. En þá var altaf beitt á sjó ef veður leyfði. Hér er ávalt byrjað að leggja línu á grunnmiðunum og lagt til djúps. Þegar búið var að leggja var róið á milli og farið að draga og beita grynnri helming línunnar, hann síðan lagður aftur á sama stað, síðan farið í hinn endann og honum gerð sömu skil, þannig koll af kolli þar til annað hvort var hlaðið, beita þrotin eða dagur kominn að kvöldi, ef veður leyfði. Þessi aðferð tíðkaðist fram um síðustu aldamót. –

Norðurvör

Það má segja að með 20. öldinni breyttist hér veiðiaðferðirnar. Þá er byrjað að nota net. Sá sem fyrstur lagði þau mun hafa verið Gísli s.al. Hermannsson á Hrauni. Hann lagði 3 net, en tapaði þeim, að mig minnir áður en hægt var að vitja um þau. Næstu vertíð fóru fleiri að reyna og heppnaðist betur. Upp frá því fara allir að koma sér upp netum, en lítill var netútvegurinn til að byrja með; margir byrjað með 6 netum með áttæringum, en þeim smá fjölgaði ár frá ári. Um líkt leyti, eða aðeins seinna, er hætt að beita á sjó, en línan lengd að sama skapi og hefur haldist áfram að lengjast til þessa.
GrindavíkÁrið 1925 var fyrst gerður út mótorbátur hér. Það var Gísli silfursmiður Gíslason í Reykjavík, sem kom með hann og gerði út í Staðarhverfinu. Það var dekkbátur þó lítill væri og gerði Gísli hann út í tvær vertíðir. Árið eftir voru settar vélar í tvö róðraskip í Járngerðarstaðahverfi. Árið eftir bættist eitt vélskip við, en í fyrra (1928) voru settar vjelar í níu róðraskip og þrjú voru ný smíðuð með sérstöku tilliti til þess að þau yrðu knúin vjelum, en ekki árum, en alt eru það opin skip (dekklaus). Á næstkomandi veertíð er gert ráð fyrir að alt verði vélskip. Það mun meiga telja sögulegan viðburð í Grindavík, að þar gangi ekkert róðararskip á vetrarvertíð.
Einhverjir kunna nú að spyrja: Hvernig stendur á að öll skip í Grindavík eru lítil og opin? Það er af því að skipin verður að setja á land eftir hvern róður, hvergi hægt að leggja þeim nema í Staðarhverfi, þar geta fáir bátar legið, en þar er útgerð minst. Skipin eru dregin á land með gangspili, en sett niður með handafli.
Um 80 lóðarstrengir munu fylgja hverju skipi og um 80 þorskanet.“

Heimild:
-Ægir 1929, bls. 43-44 – höfundur óþekktur.
Árabátur nútímans

Þorbjarnarfell

Eftirfarandi um ratsjárkampinn á Þorfjarnarfelli ofan Grindavíkur má lesa í bók Friðþórs Eydals „-Frá Heimstyrjöld til herverndar – Keflavíkurstöðin 1942-1950„:
camp-vail-5„Vegalagning upp á Þorbjörn hófst í byrjun október 1941. Þar voru að verki liðsmenn byggingarsveitar flughersins bandaríska, þeirra sömu og síðar starfaði við lagningu flugvallanna við Keflavík, og heimamenn í Grindavík sem ráðnir voru til verksins. Fjallið er snarbratt, myndað við gos undir jökli og mikill halli á veginum sem illfær er nema fjórhjóladrifnum bifreiðum. Ratsjárbúirnar nefndust Camp Vail eftirlitsmanni ratsjársveitarinnar, Reymond T. Vail, sem var fyrsti óbreytti bandaríski hermaðurinn sem lést hér á landi. Var þeim valinn staður í gígnum sem opinn er til norðurs en veitir dágott skjól fyrir öðrum áttum. Þar voru reistir 14 braggar og rafstöð en ratsjártækjunum var komið fyrir á toppi fjallsins vestan við gilið sem klýfur hann í tvennt. Hófst starfsemin 18. apríl 1942. Lá raflögn að ratsjárstöðinni sem komið var fyrir í bragga við hlið loftnetsvagnsins.
camp vail - braggarVegna legu sinnar sýndi ratsjárstöðin á Þorbirni allra stöðva best flugvélar í lágflugi á Faxaflóasvæðinu. Truflanir voru þó tíðar og stöðin nýttist ekki nema 60% vegna þess hve oft varð að fella loftnetið sökum veðurofsa.
Ný ratsjá af gerðinni SCR-271-EA var tekin í notkun á Þorbirni í maímánuði 1944. Var ratsjárturninum valinn staður á syllu skammt neðan við fjallstoppinn sunnanverðan þar sem nokkurt skjól gafst fyrir vindi. Nýja ratsjáin leysti af hólmi færanlegu ratsjána á fjallsbrúninni sem var orðin ein sú elsta í Bandaríkjaher.“

Camp Vail

Camp Vail.

Fyrir 50–60 menn eins og dvöldu í búðunum þurfti a.m.k. 5 íbúðarbragga, auk liðsforingjabraggans, en liðsforningarnir voru að jafnaði 3 í Camp Vail og bjuggu sér í sínum bragga. Birgðir hafa verið geymdar í rafstöð, mötuneyti, stjórnstöð og e.t.v. í litla bragganum í miðjunni, hafi hann ekki verið dælustöð.
thorbjorn-9991Staðsetning vatnstankanna nærri akvegum ofan við búðirnar beggja megin bendir til þess að vatn hafi verið flutt til búðanna á tankbílum sem var ekki óalgengt í litlum herbúðum hér á landi. Gamlir Grindvíkingar gætu munað eftir því ef borhola fyrir vatn hefur verið gerð á fjallinu og eins hvað varð um braggana eftir stríð, þ.e. hvort einhver heimamaður hafi keypt þá af sölunefndinni eða Grindvíkingar komið að niðurrifinu.“

Camp Vail

Camp Vail.

Samkvæmt síðari tíma upplýsingum var starfsemi ratsjárstöðvarinnar á Þorbirni hætt í stríðslok og ratsjártækin fjarlægð. Ríkissjóður keypti búnað og mannvirki herliðsins í styrjaldarlok og var Sölunefnd setuliðseigna falið að endurselja þau landsmönnum og annast endurbætur á landi sem herliðið hafði til umráða. Sölunefndin tók við 13 bröggum á Þorbirni og seldi eða lét rífa þá en braginn sem hýsti tækjabúnað eldri ratsjárinnar á fjallstoppnum mun hafa fokið og eyðilagst.

Heimild:
-Frá Heimstyrjöld til herverndar – Keflavíkurstöðin 1942-1950, Friðþór Eydal, bls. 206.

Grindavík

Grindavík séð af Þorbjarnarfelli (Þorbirni).

 

Lönguhlíðar

Samkvæmt upplýsingum Eggerts Nordahls eru flugvélapartarnir neðan við Kerlingargil af Douglas Dakota, ekki Hudson.
KarlinnÍ fyrri umfjöllunni um framangreint flugslys og staðsetningu á flakinu kom m.a. fram eftirfarandi: „Eftir að hafa gengið brúnir Lönguhlíðar sunnan við Kerlingargil kom í ljós að flugvélinni hafði verið flogið í hlíðina eins og fram kemur í framangreindri lýsingu. Undir hlíðinni er brak úr vélinni, s.s. pústgrein frá mótor og ýmislegt annað. Ofan þess eru smásteinóttar skriður, sem hafa verið að hylja brakið smám saman síðustu 65 árin (skrifað 2009). Ekki er útilokað að hluti braksins kunni að vera ofar á brúninni.“
Í skýrslu ameríska hersins frá 11. júní 1944 segir: „An Icelandic sheepherder reported a crashed in a lava bed about 8 miles southeast of Hafnarfj0rdur. The plane was idendified as the RAF C-47, missing since 7 March, 1944.“
KerlingargilTil að kanna með þann möguleika að hluti af brakinu kynni að vera ofan brúnar Lönguhlíðar var ákveðið að kanna það. Gengið var upp Kerlingargilið. Snjór var enn í botni þess á köflum. Karlinn, stakur móbergsstandur, glotti utan í sunnanverðu Lönguhlíðarhorninu. Þegar upp var komið var vent til hægri og stefnan tekin með ofanverðri brúninni. Fljótlega kom í ljós varða á stórum steini, að því er virtist án tilgangs (síðar kom í ljós hvers vegna hún var hlaðin nákvæmlega á þessum stað).
Gangan var hin fróðlegasta – a.m.k. í jarðfræðilegu tilliti. Ofan brúnarinnar stallast landið alllangt upp á við. Sunnar er gildrag, sem skáfletur hluta hlíðarinnar frá bergstallinum er myndar Lönguhlíðar. Þessi fremsti hluti hlíðarinnar á þessum kafla mun að öllum líkindum einhvern tíma í framtíðinni skríða fram úr henni, falla niður og móta landslagið neðanvert. Það mun væntanlega gerast þegar gríðarstór hvylft ofan hennar, Mígandagróf, mun fyllast af vatni eftir snjóþungan vetur og skríða fram á hliðarbrúnina. 

Mígandagróf

Vatnið mun fara fram af henni beggja vegna skorningsins og smám saman ýta honum fram og niður á við því allt leitar jú jafnvægis í náttúrunni þegar fram líða stundir. En þetta kemur flugvélaflakinu reyndar við.
Samt sem áður er nauðsynlegt að staldra örlítið við bergstand norðnorðvestan við Mígandagrófina ofanverða. Í henni eru hin myndarlegustu tröllaskegg er um getur á Reykjanesskaganum, er undan skilin eru þau er finna má í framanverðum Klofningum.
Dagbók
Í stuttu máli má segja að leitin ofan Lönguhlíðabrúna skilaði engum öðrum árangri en þeim að fullyrða mátti að þar væri ekkert brak úr framangreindri Dakotaflugvél að finna.
Á leiðinni niður Kerlingargil rákust þátttakendur á sérkennilega steinmyndun norðan í gilinu. Í fyrstu mátti ætla að Ægir hefði leikið sér að því að móta fyrirbærið, en þegar hríðarbylur skall skyndilega á úr heiðskírum himninum var augljóst að þarna hafði Veðurguðinn verið að verki með vatn og vind að vopni.
Þegar niður var komið og hvorki hafði sést tangur né tetur af flugvélinni fyrrnefndu var ákveðið að hringja í vin, eins og sagt er í nýmóðis fjölmiðlaspurningarleikjum.
Ólafur Kr. Guðmundsson (f. 29.03.1930) sagðist aðspurður hafa komið á slysavettvang nokkrum Brakvikum eftir að tilkynnt hafði verið um fundinn. Hann hefði þá líklega verið 13 ára að aldri. Vettvangurinn væri honum þó enn í fersku minni – svona eins og hægt væri hjá 79 ára gömlum manni.
Ólafur sagði að tilkynningin um fund braksins hefði þótt stórmerkileg á þeim tíma. Frímann Þórðarson og Finnbogi Ingólfsson hefðu komið að því þar sem þeir voru í refaleit undir Lönguhlíð. Þetta hefði líklega verið einhvern tíma um vorið. Guðni Oddsson í Hafnarfirði og fleiri hefðu þá þegar farið á bifhjólum á vettvang. Grunur hafði síðar verið um (þótt ekki megi segja frá því) að þeir hafi hirt ýmislegt á vettvangi, sem þar hefði átt að liggja kyrrt, eins og síðar kemur fram.
SlysstaðurinnFljótlega hefðu Ameríkanar haldið á vettvang með leiðsögn Íslendinga.
Ólafur sagði að hann og félagar hans hefðu farið fótgangandi frá Hafnarfirði. Þeir hefðu gengið um Kaldársel og upp með Gvendarselshæð. Frá henni hefðu þeir gengið svo til beint með stefnu á Kerlingargil sunnan Gullkistugjár.
Þegar hann hafi komið á vettvang hefðu bifreiðavarahlutir, kerti og platínur, legið um allt, alveg yfir í Kerlingargilið. Annar hreyfillinn hefði verið uppi í skriðu undir brúninni á Lönguhlíð sunnan við Kerlingargilið. Flugvélaskrokkurinn hafði runnið hálfa leið niður skriðuna og var þar niðri í þremur pörtum; stélhlutinn efst, þá miðhlutinn og stjórnklefinn neðst. Ekki virtist hafa kvinkað í vélinni. Lengi á eftir hefði fólk verið að fara á staðinn til að hirða ýmislegt, sem þar var. Stærstu hlutarnir hefðu síðar verið dregnir niður til Hafnarfjarðar af járnsmiðum úr bænum og flestallt, sem var að finna í gilinu og ofan við það hefði horfið smám saman.
VarðaÍ spjalli við Ólaf bar ýmislegt fleira á góma, sem nýtt verður síðar á vefsíðunni.
Ólafur gat þess m.a. að eftir morðið á Gunnari leigubílsstjóra Tryggvasyni 18. janúar 1968 hefði komið í leitirnar skammbyssa sunnan með sjó er tengst hafði framangreindu flugslysi. Byssa þessi hefði lengi vel verið í vörslu lögreglunnar í Hafnarfirði og væri sennilega enn.
Eftir viðtalið við Ólaf virtist ljóst að Dakota flugvélin frá 7. mars 1944 hefði lent undir Lönguhlíðarbrúninni rétt sunnan við Kerlingargilið – enda er brakið úr vélinni að langmestu leiti þar neðan við, 65 árum síðar.
BrakVarðan framangreinda ofan Lönguhlíðarbrúnar, skammt sunnan við Kerlingargilið, virðist hafa haft þann tilgang að benda á slysstaðinn umrædda.
Þegar FERLIR fór aftur á vettvang virtist augljóst hvar flugvélin hafði lent á hlíðinni. Þar voru ýmsir smáhlutir, s.s. glerbrot, rör, taubútar, smábrak, spýtur og tengi, auk þéttilista og gúmmíkanta; allt hlutir, sem ekki gátu hafa fokið þangað allir á sama blettinn. Ofan við staðinn í hlíðinni var ekkert brak að finna, en talsvert af braki var neðan við hann. Þar virðist því ljóst að flugvélin hafði rekist í hlíðina, eða verið flogið á hana, á þessum stað, staðnæmst og síðan runnið undan hallanum nokkurn spöl. Ummerki á stórum steini litlu neðar sýndi að hluti af flugvélinni hafði m.a. lent á honum.
BrakHnit voru tekin á vettvangi sem og ljósmyndir. Augljóst var að eldur hafði kviknað eftir slysið, en í mjög takmörkuðum hluta vélarinnar.
Brakið er í jaðrinum á skriðu sunnan við Kerlingargilið. Leit hafði verið gerð allt upp undir efstu brúnir sunnan gilsins, en þar var ekkert að finna. Leifar af nefndum hreyfli fundust ekki. Telja má mjög líklegt að mikið af brakinu, sem eftir varð hafi smám saman grafist í skriðuna því hún hefur greinilega ekkert gefið eftir við að mylja niður brúnirnar þrátt fyrir þetta óhapp.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 2 mín.

Heimild:
-Ólafur Kr. Guðmundsson, f. 29.03.1930.
-Slysaskýrslur ameríska hersins 1941-1945.

Douglas Dakota

Grindavík

Skjaldamerki Grindavíkur var tekið í notkun 1986 og er hannað af Kristínu Þorkelsdóttur. Samkvæmt ákvörðun bæjarstjórnar Grindavíkur var Auglýsingastofa Kristínar (AUK) falið það verkefni að draga upp tillögu að skjaldarmerki fyrir Grindavík.

SkjaldarmerkiNefnd var kjörin af hálfu bæjarstjórnarinnar til að vinna með auglýsingastofunni að þessari tillögugerð. Í nefndinni voru Eiríkur Alexanderson, Margrét Gísladóttir og Ólína Ragnarsdóttir.
Nefndin hélt nokkra fundi með Kristínu Þorkelsdóttur og fékk nokkrar tillögur að skjaldarmerki til umfjöllunar. Nefndin var sammála um að leggja til að skjaldarmerki Grindavíkur verði svartur geithafur með gul horn og rauðar klaufir á bláum og hvítum grunni.

Í greinargerð segir að hugmyndin að merkinu varð til hjá starfsfólki AUK við lestur kafla um Grindavík í bókinni Landið þitt, en þar segir m.a.:

„Í landnámabók segir að Molda-Gnúpur Hrólfsson og synir hans námu land í Grindavík. Þar segir svo: „Þeir voru fulltíða synir Molda-Gnúps, Björn og Gnúpur, Þorsteinn hrungnir og Þórður leggjaldi. Björn dreymdi um nótt, að bergbúi kæmi að honum og bauð að gera félag við hann, en hann þóttist játa því. Eftir það kom hafur til geita hans og tímgaðist þá svo skjótt fé hans, að hann varð skjótt vellauðugur, síðan var hann Hafur-Björn kallaður. Það sáu ófreskir menn, að landvættar allar fylgdu Hafur-Birni til þings, en þeim Þorsteini og Þórði til veiða og fiskjar.“

GrindavíkSvo sem ráða má af frásögn Landnámabókar hefur fólkið í þessari byggð frá öndverðu reist afkomu sína bæði á landbúnaði og fiskveiðum og hélst svo fram yfir miðjan 5. áratug þessarar aldar. Síðan hafa fiskveiðarnar og fiskvinnslan unnið á í atvinnulífinu en dregið hefur úr landbúnaði að sama skapi. Hann var þó umtalsverður fyrrum og er sagt frá því að árið 1779 fengu Grindvíkingar verðlaun frá Danakonungi fyrir garðyrkju og hlutu 14 bændur.“

Fram kemur að nefndin er þeirrar skoðunar að merkið sé ágætlega táknrænt fyrir þá byggð sem því er ætlað að þjóna og það mannlíf sem þar er lifað.

,,Blár litur hafsins í grunni með hvítum ölduföldum er sá grundvallarveruleiki, sem Grindavík byggist á, en hafurinn er tákn þeirrar frjósemi og búhygginda, sem skila Grindvíkingum til þroska og þróunar í fortíð, nútíð og framtíð. Þeir sem vilja, mega gjarnan láta hvítar rendurnar í grunni vísa til fyrri hluta nafnsins Grindavík. Merkið er fallegt og sterkt í formi og eftirminnilegt við fyrstu sýn, og í sparibúningi sínum í lit gleður það augað,“ segir í greinargerð nefndarinnar, frá 5. desember 1986.

Grindavík

Grindavík.