Tag Archive for: Hafnarfjörður

Hvaleyrarsel

Gönguleiðin um og í kringum Hvaleyrarvatn er tiltölulega greiðfær. Lagt er af stað frá bifreiðastæðinu syðst á Vatnshlíðinni, ofan brekkunnar norðan við Hvaleyrarvatn, gengið veginn niður að vatninu og inn á göngustíg til vinstri er liggur austan og sunnan þess. Þá er athafnasvæði Skógræktar Hafnarfjarðar og Húshöfði á vinstri hönd. Framundan er skáli Gildis-skáta, en sunnanvert við vatnið, hægra megin við stíginn, eru tóttir af seli, Hvaleyrarseli.

Hvaleyrarvatn

Hvaleyrarvatn – minjar (ÓSÁ).

Um Hvaleyrarsel segir eftirfarandi í samantekt Gísla Sigurðssonar um Líf og þjóðhætti í Hafnarfirði: “Selstöð átti Hvaleyri við Hvaleyrarvatn og þar höfðu bændurnir haft í seli frá fornu fari. Sér enn tættur seljanna við sunnanvert vatnið. Þau hjón Jón [Magnússon] og Þórunn [Sigurðardóttir (bjó á Hvaleyri 1866-1868 og í Gestshúsum1869-1973] héldu uppteknum hætti Hvaleyrarbænda og höfðu í seli á sumrum við Hvaleyrarvatn. Höfðu þau þar jafnan selsstúlku og smala.

Hvaleyrarvatn

Hvaleyrarvatn.

Annaðist selstúlkan mjaltir á málum og matargerð úr mjólkinni auk matargerðar fyrir þau og þjónustubrögð. En smalinn hélt fé í haga og annaðist heimflutning selsafurða. Nú bar svo til kvöld nokkurt, að er smalinn kemur á stöðul, lætur selstúlkan ekki sjá sig. Smalinn kvíar því ánum einn. Gengur síðan heim í sel að skyggnast eftir stúlkunni og finnur hana hvergi. Gengur því heiman frá seli og niður að vatni og vestur með því. Ekki hafði hann lengi gengið, er hann finnur stúlkuna rétt við vatnsbakkann heldur illa útlítandi. Var hún rifin á hol, eins og eftir óargadýr og traðk mikið þar í kring eftir hringmyndaða hófa stóra. Þóttist smalinn vita hvað valdið hafði dauða selstúlkunnar, því sögur hafði hann heyrt um að nykur væri í Hvaleyrarvatni og væri annað árið þar og hitt í Urriðakotsvatni. Smalinn varð flemtri sleginn og tók á rás heim til bæjar á Hvaleyri. Var brugðið við skjótt og lík selstúlkunnar sótt og það jarðsett að Görðum. Uppfrá þessu lögðust niður selfarir við Hvaleyrarvatn. En oft mátti sjá grábleikan hest á beit í Seljahrauninu eftir þetta. þau urðu endalok nykursins, að hann fraus í hel frostaveturinn mikla 1918”.

Hvaleyrarvatn

Stekkur á Selshöfða.

Auðvelt er að finna gömul sel á hraunsvæðum með því að svipast um eftir kennileitum. Þau voru oft við brunna, ár eða læki – og í nágrenninu er yfirleitt að finna kví, stekk, nátthaga og/eða náttskjól, auk graslendis umhverfis.

Hvaleyrarvatn

Hvaleyrarvatn um 1960 – Skátalundur nýbbyggður. Mynd ÓKG.

Við stærri sel smá sjá grjótgarða og jafnvel fjárhella. Selshúsin voru yfirleitt tvískipt, annars vegar vistarvera og geymsla og hins vegar eldhús. Allnokkur sel eru í nágrenni Hafnarfjarðar, s.s. Fornasel, Gjásel, Straumssel, Óttarstaðarsel, Lónakotssel og vestar Hvassahraunssel, Knarrarnessel og Brunnastaðasel, auk seljanna í Sogagýg og á Selsvöllum, en þar voru sel frá bæjum í Grindavík. Í Þrengslunum sunnan Selsvalla er Hraunssel frá Hrauni við Grindavík. Í nágrenninu eru auk þess nokkrar fallegar fjárborgir, s.s. Hólmsborg, Þorbjarnarstaðarfjárborg, Óttarstaðarfjárborg og Staðarborg í Vogum.

Hvaleyrarvatn

Stekkur í Seldal.

Þegar komið er við vesturenda Hvaleyrarvatns er beygt suður götuslóða, sem þar er, í átt að Seldal. Á hægri hönd er Selhraun. Þegar horft er til norðvesturs má sjá hraunhól í lægðarsvæði, en í hólnum er op til vesturs. Þar var tófugreni s.l. sumar.

Hvaleyrarvatn

Tjaldað við vesturenda Hvaleyrarvatns fyrrum. Mynd; EJ.

Götuslóðanum er fylgt upp vesturöxlina á Selhöfða (á vinstri hönd) og Seldalurinn á milli hans og Stórhöfða blasir við. Vel má sjá hversu landið hefur blásið burt, en Skógrækt Hafnarfjarðar hefur plantað talsverðu af trjám með vegslóðanum inn dalinn. Úr Stórhöfða kom Stórhöfðahraun vestan og sunnan við höfðann. Þegar komið er upp á Langholtsásinn er Miðhöfði í austur og Fremstihöfði í suðaustur. Gengið er beint áfram, út af veginum, niður ásinn að sunnanverðu og áfram með hraunkantinum framundan að Kaldárseli. Á leiðinni er fallegur hraunskúti undir klettavegg á vinstri hönd. Áður en komið er að Kaldárseli er gengið að farvegi Kaldár þar sem hún sést hverfa niður í hraunið, en áin er u.þ.b. 1100 metra löng í venjulegu árferði frá upptökum sínum í Kaldárbotnum, vatnsbóli Hafnfirðinga. Í þurrkatíð styttist hún til muna.

Hvaleyrarsel

Hvaleyrarsel – uppdráttur ÓSÁ.

Talið er að áin renni neðanjarðar þaðan sem hún hverfur niður í hraunið og komi undan Hvaleyrarhrauni í Hraunsvík austan Straumsvíkur. Hæðarmismunur á yfirborði Kaldárbotna og grunnvatnsins vestan við Kaldárhnúk er sem næst 20 m. Orsök þessa mismunar er misgengi er liggur eftir undirhlíðum og noðrur um Búrfell. Það hefur hindrað grunnvatnsstreymið, lokað leið þess vestur og þvingað vatnið upp á yfirborðið. Þegar langvarandi úrkoma hefur verið kemur vatnið líka upp á yfirborðið í Helgadal austan undir misgenginu, en eftir langvarandi þurrkatímabil hverfur Kaldá sjálf stundum alveg. Í Helgadal er talið að byggð hafi verið fyrrum.

Lambagjá

Vatnsleiðsluundirhleðsla yfir Lambagjá.

Þegar komið er að veginum er rétt að fylgja honum framhjá fjárréttinni og beygja þá til vinstri eftir gamla veginum að brekkunni. Áður en komið er að henni er beygt út af veginum til hægri, eftir Lambagjá. Gjáin er friðlýst. Í gjánni er komið að mikilli fyrirhleðslu þvert yfir hana. Þetta er hleðsla undir vatnsleiðslu, sem þarna lá áður fyrr. Fara þarf upp með hleðslunni, niður aftur hinum megin og fylgja gjánni. Á leiðinni er farið undir haft og upp hinum megin. Þegar komið er í enda þess hluta gjárinnar þarf að ganga upp úr henni, en enn ein sigdældin er handan hennar. Síðar verður fjallað um hella austar í hrauninu, en niðri í einum þeirra má auðveldlega sjá kristaltært bergvatnið við jaðar misgengisins, sem getið var um.

Hvaleyrarvatn

Sumarhús í Vatnshlíð um 1960.

Í austri má sjá Búrfell, Húsfell í suðaustri og Helgafell (338 m. yfir sjó) í suðri. Á milli fellanna eru Valahnjúkar.
Þegar þarna er komið er beygt til norðurs og gengið austur fyrir Klifsholtið með Smyrlabúðarhrauni. Þá er komið inn á gömlu Selvogsgötuna er var þjóðleiðin á milli Selvogs og Hafnarfjarðar. Hún er u.þ.b. 10 klst ganga frá upphafi til enda. Erfiðasti hluti leiðarinnar, en jafnframt sá fallegasti, er um Grindarskörðin (Kerlingaskarð). Um hana verður fjallað síðar.
Selvogsgötunni er fylgt til norðurs, með hraunkantinum, framhjá Smyrlabúð og niður að Hvatshelli og Ketshelli (Kershelli). Hlíðin framundan á hægri hönd heitir Setbergshlíð.

Hvatshellir

Hvatshellir – uppdráttur ÓSÁ.

Op Hvatshellis er í jarðfalli þegar halla fer undan og útsýni er yfir að hesthúsabyggðinni austan við Húshöfða. Fallega hlaðin varða stendur á barminum. Neðar má sjá graslendi er bendir til fjárhalds og þar í hraunhól er hellir (Ketshellir). Hann var notaður sem fjárból frá Setbergi meðan fjárbúskapur var rekinn þar og útbeit mest stundið. Ganga má í gegnum hellinn. Hleðslur er beggja vegna en auðveldlega er hægt að ganga þar í gegn ljóslaus. Hvatshellir er mun stærri. Á vetrum hanga bæði grýlukerti úr lofti og standa á gólfi hans. Í ljósadýrt getur verið mjög fallegt þar að líta.

(Sagnir eru um að Hvatshellir sé ofar, austar og norðar í hrauninu, og hafi tapast, en hann var áður samkomustaðar félagsskaparins Hvatar, en félagsmeðlimir eru sagðir hafa málað nafn hans gylltum stöfum á hvelfingu eða gólf hellisins, sbr. grein Ólafs Þorvaldssonar í Árbók Hins íslenska fornleifafélags 1943-48).

Lokaáfanginn er skáhallt yfir hraunið til norðvesturs að Kaldárselsvegi. Sú leið er einnig tiltölulega greiðfær ef fylgt er grónum lægðum, sem þar liggja. Loks er hægt að ganga veginn að bifreiðastæðinu á Vatnshlíðinni.
Góða ferð.

Hvaleyrarvatn

Hvaleyrarvatn.

Kaldársel

Gengið var um Kaldársel.

Kaldársel

Kaldársel – fjárborg á Borgarstandi.

Skoðað var gamla sel- og bæjarstæðið ofan við bakka Kaldár og síðan haldið yfir að Borgarstandi þar sem fjárborgin, stekkurinn og fjárskjólin voru skoðuð. Til hliðsjónar var höfð lýsing Ólafs Þorvaldssonar á aðstæðum í Kaldárseli.
Lengi vel mátti sjá veggi tóftanna í Kaldárseli, allt þangað til fólk fór að sækja í þá reglulegt grjótið og nota í annað. Húsaskipanina mátti rekja greinilega fram eftir 20. öld. Vandlega hlaðnir vegginir voru þegjandi vitni þess, að þar hefði fólk haft aðstöðu og búið endur fyrir löngu, stundum við misjafnar aðstæður.

Kaldársel

Kaldársel – sumarbúðir.

Kaldársel á sér ekki langa sögu sem fastur bústaður og saga þess er svipaður öðrum sögum smábýla á þeim tíma.  Bærinn stóð sem næst á miðjum túnbletti, örfáa metra norðan Kaldár.
Árið 1929 kom út í Reykjavík lítil bók með þremur kvæðum eftir séra Friðrik Friðriksson. Kver þetta nefnist “Útilegumenn”, og heitir annað aðalkvæðið “Kaldársel”. Friðrik var síðasti landnámsmaðurinn í Kaldárseli þar sem fyrir eru nú sumarbúðir KFUMogK. Kvæðið er svona:

”Eitt sinn ég kom
að Kaldárseli,
eyðistað
í ógna hrauni,
gömlu býli
og bæjarrústum:
einmana tóttir
eftir stóðu.

Reikaði ég einn
um rústir þessar, ríkti þar yfir
ró og friður,
unaðskyrrð djúp
við elfu niðinn
svölum gaf sál
og sæla gleði.”

Kaldársel

Kaldársel – stekkur.

Elstu heimild um Kaldársel er líklega að finna í Jarðabók þeirra Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá árinu 1703. Þar segir í sambandi við lýsingu Garða á Álftanesi: “Selstöð á staðurinn þar sem heitir við Kaldá, þar eru bæði hagar og vatnsból gott”. Þetta telur Jarðabókin ein af hlunnindum Garðastaðar og er augljóst að staðurinn hafi átt landið, eða allt þar til Hafnarfjarðarbær kaupir það árið 1912. Garðar höfðu einnig um tíma selstöðu í Selgjá og jafnvel neðst í Búrfellsgjá. Ummerki þess má sjá enn í dag.
Þótt Kaldársel hafi um aldir verið eign Garðakirkju, ásamt miklu landflæmi til suðurs, austurs og norðurs frá Kaldárseli, er fátt heimilda um selfarir  Garðapresta við Kaldá.

Kaldársel

Kaldársel – fjárhellir.

Seltættur má finna í nágrenninu, s.s. í Helgadal. Hitt er vitað, að þar var haft í seli frá Hvaleyri á síðasta fjórðungi síðustu aldar (skrifað 1968), en leiguselstöð hlýtur það að hafa verið, þar eð elstu landamerki, sem vitað er um, liggja í a.m.k. eins km vegalengd vestur frá Kaldárseli. Meðan selfarir voru mikið tíðkaðar, urðu landlitlir bændur oft að fá leigt land eða skipta á hlunnindum undir sel sín hjá landríkari bændum, svo að einsdæmi hefði það ekki verið, þótt Hvaleyrarbóndinn leigði selstöð í Garðakirkjulandi.

Kaldársel

Kaldársel um 1930. Tóftir Kaldársels hægra megin við nýreist húsið.

Hvenær þessi selstöð hafi fyrst verið notuð frá Hvaleyri, er með öllu óljóst. Þegar litið er á bændatal Hvaleyrar um árið 1700 og það ástand, sem þar var í búskap manna, þegar jarðamat fór fram 1703, sést, að bændur hafa allir búið svo smátt, að varla er hugsanlegt, að selfarir hafi haft og síst svo langt í burtu sem í Kaldárseli, þar eð allgott selland og nóg vatn var helmingi nær Hvaleyri og auk þess í heimalandi, þar sem selstöðin var við Hvaleyrarvatn.

Kaldársel

Kaldársel – Gamla þjóðleiðin.

Vitað er að séra Markús Magnússon á Görðum lét byggja selstöðuna í Kaldárseli upp auk þess sem hann lét hlaða fyrir nálæg fjárskjól, hlaða fjárborgir o.fl. árið 1800 með það fyrir augum að viðhafa þar fjárhald allt árið um kring.
Það eina, sem nú er vitað með vissu um selfarir í Kaldárseli er að hjónin Jón Hjartarson og Þórunn Sigurðardóttir á Hvaleyri höfðu þar í seli. Jón keypti Hvaleyrina 1842. Hann mun hafa verið ríkasti bóndi, sem nokkru sinni hefur setið Hvaleyri. Jón dó árið 1866. Bjó Þórunn eftir það á Hvaleyri til 1873. Þegar Þórunn dvaldist í “Selinu” á sumrin, sem var þó ekki nema við og við, fór hún stundum með orf sitt og hrífu upp með Kaldá og sló þar á hólmum, það sem slægt var, einnig smámýrarbletti milli kvíslanna í Kaldárbotnum. Þegar Þórunn á Hvaleyri hætti selförum að Kaldárseli, lagðist selstöð þar niður með öllu, og má ætla, eftir því sem síðar kemur fram, að það hafi verið 1865 eða 1866.

Kaldársel

Húsin í Kaldárseli 1898 – Daniel Bruun.

Í húsvitjnarbók Garðaprestakalls sést, að ábúandi er kominn í Kaldársel árið 1867, og er svo að sjá sem það sé fyrsta árið, sem fólk sé þar til ársdvalar. Þessi ábúandi var Jón Jónsson, kona hans og tvö börn. Þau munu hafa verið þar tvö eða þrjú ár. Fátæk voru hjón þessi og bústofn þeirra mjög lítill. Hjálparstelpa var hjá þeim, Sigríður Jónsdóttir frá Setbergi. Hún skrifaði m.a. um dvöl sína í selinu sem og skráði raunsanna huldufólkssögu er þar átti að hafa gerst. Jón flutti síðan með fjölskyldu sína að Ási. Við brottförina lagðist búskapur niður í Kaldárseli í nokkur ár.
Árið 1867 er manntal tekið í Kaldárseli, og er það sennilega fyrsta árið, sem það er í byggð eftir brottför Jóns. Sá, sem þá er orðinn ábúandi, er Þorsteinn Þorsteinsson, upprunninn í Ölfusi. Þetta ár telur húsvitjunarbókin þar þrjár manneskjur í heimili, bóndann, ráðskonu og tökubarn. Árið eftir, 1877, eru þar fjórir í heimili og hefur þá bæst við vinnukona. Árið 1883 er Þorsteinn orðinn einn í Kaldárseli. Hann dó þar þremur árum seinna.

Steinhes

Kaldársel – Steinhes (Steinhús).

Þegar Þorsteinn fellur frá eru í Kaldárseli nokkrar byggingar og önnur mannvirki. Hús öll í Kaldárseli keypti Jón Guðmundsson bóndi að Setbergi svo og flestar kindurnar. Bæjarhús voru lítil en snoturlega byggð, og voru baðstofa, búr, eldhús og bæjardyr. Allar voru tætturnar vel hlaðnar úr sléttum, en nokkuð þykkum brunahellum og hvergio mold né torf á milli, svo sem venja var til um flestar byggingar þess tíma. – Danski höfuðsmaðurinn Daniel Bruun kom í Kaldársel árið 1897. Hann teiknaði upp húsakostinn og minjar í nágrenninu, auk þess sem hann tók ljósmyndir, sem birtust síðar í bók um ferðir hans. Lýsir Daniel allvel Kaldárseli og umhverfi þar. Hann segir m.a. um húsatætturnar, að „þær séu frábrugðnar flestum, ef ekki öllum þess konar byggingum hér á landi, þar sem þær séu byggðar úr grjóti einu saman“.

Kaldársel

Kaldársel um 1932. Tóftir Kaldársels uppfærðar  inn á ljósmyndina.

Aðalbústofn Þorsteins var sauðfé og eitt eða tvö hross, kú mun hann aldrei hafa haft þar. Að mestu mun Þorsteinn hafa haft fullorðna féð á útigangi, þar eð heyfengur var þar lítill. Fjárhús með jötu við annan vegg var norðvestan við bæjarhúsin, og mun hann hafa haft lömb sín þar. Fullorðna féð hafði hann við hella, sem voru skammt norður frá bænum, eða þá í fjárborginum uppi á Standinum, sem er nokkru nær. Önnur þeirra er nú horfin með öllu. Þá hafi hann fé sitt við helli í Heiðmörk, svonefndum Þorsteinshelli.
Þegar flytja átti Þorstein látinn til greftrunar að Görðum höfðu burðarmenn á orði, vegna þess hversu þungur hann var, að óþarfi væri að fara með karlfauskinn alla leið þangað og stungu upp á því að hola honum þess í stað niður einhvers staðar á leiðinni. Að Görðum varð hann þó færður að lokum og jarðsettur þar af séra Þórarni Böðvarssyni.

Þorsteinshellir

Fjárskjól við Selgjá (Þorsteinshellir).

Árin 1906 til 1908 var enn gerð tilraun til búsetu í Kaldárseli. Kristmundur Þorláksson frá Stakkavík í Selvogi fékk það til afnota og hélt hann þar afskekktri útigangshjörð sinni til haga og gjafar. Beitahúsavegur Kristmundar var langur þar sem hann var búsettur í Hafnarfirði og árferði óvenjuslæmt. Hann ætlaði að hlaða hús norðvestan við Kaldársel, en mýs lögðust á féð um veturinn svo fjárhaldi þar varð sjálfhætt.

Kaldársel

Kaldársel – tilgáta ÓSÁ.

Jón Guðmundsson, bóndi á Setbergi, keypti síðan Kaldársel með það fyrir augum að hafa þarf athvarf fyrir smala og aðstöðu fyrir ferðamenn á ferðum þeirra um upplandið, en húsunum var lítt við haldið svo þau grotnuðu smám saman niður.

Árið 1925 byggði K.F.U.M. hús í Kaldárseli. Eftirfarandi frásögn um upphaf sumarbúða K.F.U.M í Kaldársel birtist í Bjarma árið 1967:

kaldarsel-990

Kaldársel – sumarbúðir.

„Að aflokinni messu á Bessastöðum á annan hvítasunnudag árið 1921, var haldinn stuttur K.F.U.M.-fundur þar í kirkjunni. Þá var stofnaður sjóður, sem hafa skyldi þann tilgang að koma upp sumarbúðum fyrir K.F.U.M. Það voru tveir félagar úr K.F.U.M. í Hafnarfirði, sem lögðu fram hundrað krónur. Seinna mynduðu nokkrir félagsmenn í Hafnarfirði og Reykjavík samtök um þetta mál. Var ákveðið að koma saman fyrsta föstudag hvers mánaðar, annan hvern mánuð í Reykjavík en hinn í Hafnarfirði. Fundir þessir voru bænafundir, þar sem beðið var fyrir málefninu, og að því loknu var lögð fram fórn til sjóðsins. Allt fór þetta fram í mestu kyrrþey. Vorið 1925 var sjóðurinn orðinn nær fjögur þúsund krónur. Var þá farið að hugsa til framkvæmda og lét bæjarstjórn Hafnarfjarðar félaginu í té eignarhald á túninu umhverfis eyðibýlið Kaldársel.

Þetta sama vor var hafizt handa um að byggja skálann. Minnast ýmsir þess enn í dag, er við hin erfiðustu skilyrði varð að bera efnivið allan yfir hraunhálsinn þaðan, sem bifreiðir komust lengst, og upp að Kaldárseli.

Kaldársel

Kaldársel – fyrsti skáli K.F.U.M. Sjá má tóftir selsins að baki hússins.

Um miðjan júní var unnt að vígja skálann. Var þá í honum svefnsalur með 24 rúmum, auk þess lítið herbergi og eldhús. Síðar var hann stækkaður um helming, með því að byggð var fyrir vestan skálann álma til norðurs. Nú fyrir fjórum árum var enn hafizt handa um stækkun skálans, og eru vonir til, að henni verði nokkurn veginn lokið í sumar.

Við framangreinda framkvæmd var það sem eftir var af tóftum selsins í Kaldárseli, sem stóð suðaustan við fyrsta hús K.F.U.M. fram á sjöunda áratug síðustu aldar, fjarlægt. Fáir vita í dag hvar selið stóð ofan við árbakkann.

Saga Kaldársels er hvorki löng né viðburðarrík, en saga er það nú samt.
Frábært veður.

Heimild m.a.:
-Ólafur Þorvaldsson – Áður en fífan fýkur – 1968.
-Jarðabók þeirra Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá árinu 1703 – III. bindi, bls. 180.
-Bjarmi 1967.

Kaldársel

Fjárskjól við Kaldársel.

Hafnarfjörður
Allir virðast alltaf velkomnir til Hafnarfjarðar, í landnám Ásbjarnar Özurarsonar, frænda Ingólfs Arnarssonar, fyrsta norræna landnámsmannsins hér á landi.
Í dag nær lögsagnarumdæmi Hafnarfjaðar yfir þéttbýlið við fjörðinn og 25 km suður fyrir það að háhita- og hverasvæðinu í Krýsuvík í umdæmi Grindavíkur og vestur fyrir Straumsvík. Saga bæjarins er samofin sögu verslunar á Íslandi. Á 15. öld kepptu Englendingar og Þjóðverjar um ítök í fiskveiðum og verslun í bænum og um tíma var bærinn kallaður þýskur „Hansabær“. Reistu þeir m.a. kirkju í bænum. Minnisvarða um hana má sjá sem steinboga við smábátabryggjuna.

Hafnarfjörður

Vitinn – merki Hafnarfjarðar.

Bjarni Síverstsen, sem stundum er nefndur faðir Hafnarfjarðar, settist að í bænum og hóf útgerð og verslun um síðustu aldamót. Í dag er sjávarútvegur, iðnaður og verslun auk vaxandi ferðaþjónustu helstu atvinnuvegir Hafnfirðinga.
Hafnarfjarðar er meðal annars getið við upphaf Íslandsbyggðar. Hingað kom t.d. Hrafna-Flóki á leið sinni að vestan á leið sinni aftur til Noregs, fyrr en nokkur norrænn maður hafði árætt að taka sér fasta búsetu hér á landi. Við það tækifæri rak eftirbát með fóstbróður hans, Herjólfi, frá skipi hans og rak inn í Herjólfshöfn þar sem nú er Hvaleyrarlónið (reyndar talsvert breytt). Fundu þeir dauðan hval og gott lægi. Nýttu þeir hvorutveggja, á ólíkan hátt þó. Síðari saga segir frá Kólumbusi þeim er sagður er hafa fundið Ameríku. Talið er að hann hafi komið við í Hafnarfirði óg fleiri höfnum (s.s. á Rifi) til að afla upplýsinga áður en hann hélt síðan árið 1492 í eina ferða sinna yfir Atlantshafið. Þá bjó okkar fólk þegar yfir vitneskja um land í vestri, en kaus Hafnarfjörð fram yfir það.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður.

Í landi Hafnfjarðar eru margar náttúruperlur, hér má sjá margbreytileika íslenskrar náttúru, hraunið, hitann, vötnin og tjarnirnar auk margs konar fugla- og plöntulíf og sumt bara ansi fágætt – en allt ágætt.

Hafnarfirðingar er stoltir af bænum sínum hvort heldur vísað er til hans sem menningarbæjarins, íþrótta- og útivistarbæjarins eða Vina-, Álfa-, Brandara- eða Víkingabæjarins. Íbúar bæjarins eru rúmlega 21. þúsund. Hafnarfjörður býður gestum sínum upp á að njóta margvíslegrar dægrardvalar og fjölbreyttrar þjónustu. Í nágrenninu eru fjölbreytt útivistarsvæði meðfjölmörgum sögulegum minjum og náttúrufyrirbærum, skemmtilegum gönguleiðum, hellum og reyndar eitthvað fyrir alla.

Heimildir:
-Saga Hafnarfjarðar 1908-1983, Ásgeir Guðmundsson. – Hafnarfirði : Skuggsjá, 1983-1984.

-ÓSÁ tók saman

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður – örnefni og gamlar leiðir.

https://ferlir.is/63791-2/https://ferlir.is/baer-i-byrjun-aldar-magnus-jonsson/

https://ferlir.is/as/https://ferlir.is/logsagnarumdaemi-hafnarfjardar-fra-1908/

Selalda

Selalda er ofan við Heiðnaberg, sem er hluti Krýsuvíkurbergs. Víkin framan við Heiðnaberg heitir Hælsvík. Hæðin að austanverðu heitir Rauðskriða. Undir henni, við Hælsvík, var Ræningjastígur, fær leið upp á bjargið. Hann er nú horfinn með öllu. Ræningjastígur er nefndur eftir ræningjum þeim er Eiríkur á Vogsósum, prestur í Krýsuvík, atti saman sunnan við Kirkjuna. Þar er nú Ræningjadys.

Eyri

Eyri – tóftir.

Tveir bæir voru undir Selöldu, Fitjar og Eyri. Eyri fór í eyði 1775 og Fitjar um 1867. Fitjar er sunnan Stráka og Eyri við uppþornaðan lækjarfarveg nokkru austar. Tóttirnar sjást enn vel á ofanverðum bakkanum. Sunnan við bæjartóttirnar eru tvær borgir. Sú efri er minni, en utan í þeirri neðri hefur verið gerður stekkur og jafnvel hús. Litlu austar eru tóttir sels, greinilega mjög gamlar. Talið er að þar hafi verið sel frá Krýsuvík, líkt og var á Selsvöllum um tíma, á Vigdísarvöllum, á Seltúni og í Húshólma.

Krýsuvíkursel

Krýsuvíkursel við Selöldu.

Af því segir þjóðsagan af ræningjunum, selsstúlkunum og smalanum er flúði upp að Krýsuvíkurbæjunum, kom að kirkjunni þar sem séra Eiríkur var við messu og móttökum hans við ræningjana. Enduðu þau með því að ræningjarnir drápu hvern annan að áeggjan séra Eiríks, sem sagði það guðsmildi að ekki væri sunnudagur því annars hefði hann mælt svo um að þeir ekki bara dræpu hvern annan, heldur og ætu. Ræningjadys sunnan Krýsuvíkurkirju er til marks um atburðinn.

Selalda

Selalda – fjárhús.

Undir Strák á Selöldu eru fallega hlaðin fjárhús. Vestan við tóttir Fitja eru tóttir tveggja fjárhúsa og vestan þeirra er enn heilleg steinbrú yfir Vestarilæk.
Undir Krýsuvíkurbjargi, Hælsvík og lengra út með var löngum fiskisælt, en þar er engin lending. Lendingin hefur líklega verið í Hólmastað eða gömlu Krýsuvík í Húshólma, en eftir að Ögmundarhraun rann um 1150 tók hana af og gert var út frá Selatöngum. Krýsuvíkingar stunduðu einnig útróðra frá Herdísarvík um aldir – með hléum.

Fitjar-21

Fitjar.

Tugþúsundir sjófuglapara verpa í Krýsuvíkurbjargi, aðallega rita og svartfugl. Svo mikið fékkst af svartsfuglseggjum á vorin að þau voru flutt á mörgum hestum heim til bæjanna. Sömu sögu er að segja af bergfuglinum sem gaf af sér bæði fiður og kjöt.

-ÓSÁ tók saman.

Selalda

Krýsuvíkursel í Selöldu. Uppdráttur ÓSÁ.

Kaldársel

Út frá Kaldráseli eru margar greiðfærar og skemmtilegar gönguleiðir.

Kaldarsel-22

Kaldársel – fjárborg.

Til dæmis er hægt að leggja af stað frá húsi K.F.U.M. og K., ganga til suðurs að Kaldá, þar sem hún rennur neðan við húsið, og yfir göngubrú, sem þar er á henni. Kaldá rennur á mótum tveggja hrauna. Annað rann úr suðri, en hitt rann úr Búrfelli löngu fyrr, eða fyrir u.þ.b. 4700 árum, norðaustur af Kaldárseli.

Gjár

Gjárnar.

Gjárnar norðan Kaldársels eru mótaðar af því mikla hraunrennsli. Að sunnanverðu, á hægri hönd þegar farið er yfir, má enn sjá tótt á árbakkanum. Eftir stutta göngu að girðingu framundan er komið inn á hluta gömlu Krýsuvíkurleiðarinnar. Hún er augljós í Kaldárhrauninu og auðvelt að fylgja henni í átt að Kaldárselshnjúkum. Við hnjúkana greindist Krýsuvíkurvegurinn, annar lá upp fyrir Undirhlíðar, Dalaleiðin, og hinn út með Hlíðunum.

Kaldársel

Kaldársel – tilgáta ÓSÁ.

Gamli bærinn í Kaldárseli stóð á túnblettinum, sem núverandi hús stendur á, þ.e. á móts við miðju þess er snýr að árbakkanum. Útihúsin voru þar sem flaggstöngin er nú (árið 2011). Áður tilheyrði landið Garðakirkju og hafði hún þar í seli fram til ársins 1836. Frá árinu 1873 hafði Hvaleyri þar leigusel. Sel Garða og Álftnesinga voru flest í Selgjá vestan Búrfellsgjár; 11 (12) talsins.

Selgjá

Tóft í Selgjá.

Enn sjást þar tóttir selja með hraunbarminum beggja vegna, einkum að sunnanverðu, svo og fallegir fjárhellar, bæði í gjánni og efst í Urriðavatnshrauni.
Hafnarfjarðarbær keypti árið 1912 allmikinn hluta af Garðakirkjulandi, Kaldársel þar með.
Elsta heimild um Kaldársel er í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1703. Þar segir að Hvaleyri eigi selstöð þar sem heitir Hvaleyrarsel suður af Hvaleyrarvatni í Selshöfða, auk selstöðvar í Kaldárseli. Aðrir munu ekki hafa nýtt það sel. Þegar Hvaleyrarbóndi hætti selförum að Kaldárseli lagðist selstöð þar niður með öllu, annað hvort 1865 eða 1866.
Í húsvitjunarbók Garðaprestakalls má sjá að árið 1867 er kominn ábúandi í Kaldársel.
Kaldarsel-uppdrattur-VHann hét Jón Jónsson, en hann var þar stutt. Eftir það lagðist búskapur niður um nokkur ár. Árið 1876 kom þangað Þorsteinn Þorsteinsson eða Þorsteinn í Selinu, eins og hann var jafnan nefndur. Enn er efst í Heiðmörkinni fallegur fjárhellir, Þorsteinshellir, sem lengi var talinn týndur. Þorsteinn var nokkuð sérkennilegur í háttum. Á hans tíma voru í Kaldárseli nokkar byggingar, matjurtargarður [nú fremst ofan árinnar], sem lá frá bænum niður að ánni mót suðri og vörslugarður. Bæjarhús voru lítil en snoturlega byggð. Í því var baðstofa, búr, eldhús og bæjardyr. Tætturnar voru allar vel hlaðnar úr sléttum og þykkum hraunhellum, en hvergi mold eða torf á milli, svo sem venja var.
Jón Guðmundsson á Setbergi keypti húsin í Kaldárseli sem og kindur. Þau voru öll rifin, nema baðstofan, sem stóð uppi fram undir aldamót.
Hún Thorsteinshellirvar einkum notuð sem sæluhús fyrir fjármenn Setbergsbænda, sem þá heldu fé sínu, einkum sauðum, víðs vegar þar í högum. Einnig var gott fyrir Krýsvíkinga að hafa þarna afdrep á ferðum sínum. Haustleitarmenn Grindvíkinga leituðu alla leið að Kaldá og höfðu náttstað í Kaldárseli. Þá var mikil umferð útlendra ferðamanna til Krýsuvíkur, einkum til að skoða hinar nýyfirgefnu brennisteinsnámur, sem þar voru. Þeir gistu margir í Kaldárseli. Baðstofan bar þess merki. Í sperrur og súð voru skorin ófá mannanöfn af ýmsum þjóðernum.
Að liðnum aldamótum 1900 var ekkert hús lengur í Kaldárseli. Ferðum útlendinga fækkaði, Krýsvíkingar týndu ört tölunni, fjallleitir Grindjána styttust og hið stóra Setbergsheimili tvístraðist. Og fénaðurinn hvarf úr högunum.

Fremstihöfði

Hálfhlaðið fjárhús undir Fremstahöfða.

Árin 1906-1908 fékk Kristmundur Þorláksson Kaldársel til afnota, síðar stórbóndi í Stakkavík. Hann kom upp smáheyhlöðu í Kaldárseli fyrir sínar 50 kindur með því að byggja yfir hina gömlu baðstofutótt, sem þá stóð enn ófallinn. Þá byggði hann þar lambahús. Ekki hafði hann not af gömlu tóttunum að öðru leyti en því að hann gat nýtt úr þeim hraunhellurnar, sem hann gerði af miklum dugnaði.
Kristmundur lá við í Hafnarfirði, en fór fótgangandi um veturinn beitarhúsaveginn í Kaldársel í myrkri kvölds og morgna. Ærnar hafði hann við gömlu hellana, sem eru skammt norður af Selinu.

Kaldársel

Kaldársel – fjárhellar.

Lömbin voru í húsi, en músin vildi leggjast á þau. Kristmundur flutti loks fé sitt í Hvassahraun þar sem honum bauðst vist. Hann var því síðasti bóndinn í Kaldárseli.
Framundan eru Kaldárhnjúkar Syðri. Hlíðin á vinstri hönd og hraunið á þá hægri. Eftir stutta göngu er gengið framhjá Kúadal, en talið er að selssmalinn hafi rölt kvölds og morgna um þessa sömu götutroðninga með kýr úr og í haga. Vestan Kúadals taka Undirhlíðarnar við. Gengið er framhjá Kýrskarði og áfram útfyrir Múla á hægri hönd. Þar á horninu er hellisskúti er nefnist Árnahellir, kenndur við Árna Gíslason í Brekkubæ í Hafnarfirði.

Ingvar Gunnarsson

Minningarsteinn um Ingvar Gunnarsson.

Með Hlíðunum eru tré, sem plantað var af Skógræktarfélagi Hafnarfjarðar, sum fyrir áratugum síðan. Þar er minnisvarði um fyrsta formann Skógfræktarfélagsins, Ingvar Gunnarsson. Afturhlíðar Undirhlíða heita Bakhlíðar eða Gvendarselshæð. Þar er Gvendarsel vestan í hlíðinni. Sjást tóttir selsins og hlaðinn stekkur framan þess.

 

Gvendarsel.

Gvendarsel.

Framundan undir Hlíðunum, sem áður nefndust Gvendarselshlíðar, eru Kerin. Þau eru fallegir tvíburagígar. Hægt er að ganga upp í efri gíginn úr þeim neðri um gat á milli þeirra, en þar uppi er tilvalinn, skjólgóður áningastaður.
Kaldarsel-24Þegar FERLIR var nýlega á gangi um svæðið var ákveðið að staldra við og gaumgæfa það betur en fyrr. Komu þá í ljós tvírýma mannvirki og tvö stök hús skammt frá; sennilega eldhús og geymsla. Afstaða minjanna minnti á dæmigerða tímabundna selstöðu. Svo virðist sem svæði það er geymir fjárskjólshellana hafi verið notað sem slíkt. Gæti það hafa hugsanlega hafa verið í tíð Þorsteins, Krýsuvíkur-Gvendar eða Kristmundar frá Stakkavík. Hin ókláruðu hús austan undir Fremstahöfða gætu hafa tengst tímabundinni dvöl fjárbónda á nefndum stað.
Hvað sem öllum vangaveltum líður er þarna um að ræða sérstaklega ahugaverðan stað með hliðsjón af fyrri búskaparháttum á svæðinu.

-ÓSÁ tók saman.

Kaldársel

Kaldárssel – uppdráttur ÓSÁ.

Krýsuvík

Krýsuvíkursvæðið er eitt fallegasta og fjölbreytilegasta útivistarsvæði hér á landi. Margir útlendingar, sem fara þar í gegn á leið úr ferðum sínum á Gullfoss og Geysi, minnast þeirrar ferðar lengur, en flest annað sem bar fyrir augu þeirra um landið.

Eyri

Eyri – tóftir.

Boðið er upp á sérstakt, tilkomumikið og fjölbreytt landslag, hlaðið sögulegum minjum frá upphafi landnáms. Bæjarfell er nokkurs konar miðdepill þess. Út frá fellinu liggja allar leiðir, enda flestir Krýsuvíkurbæjanna á síðari öldum undir rótum þess. Ákjósanlegt er að staldra við á hæsta tindi fellsins, sem er einkar auðveldur uppgöngu, og virða fyrir sér svæðið allt í kring…

Norðurkot

Norðurkot í Krýsuvík 1892. Snorrakot t.h.

Austan Bæjarfells eru tóttir bæjanna Snorrakots, Norðurkots, Lækjar, Suðurkots og Krýsuvíkurbæjarins á hólnum við Krýsuvíkurkirkjuna.

Krýsuvík

Krýsuvík 1936 – Ásgeir L. Jónsson.

Honum var því miður rutt um koll um og eftir 1960. Enn má vel sjá húsaskipan og bæjarlag þeirra þriggja fyrstnefndu. Snorrakot liggur nyrst bæjanna, utan garðs. Heimagarðurinn er beint fyrir framan bæinn og fallegir torfgarðar út frá honum. Inni á túninu er stór tótt Norðurkots og þar hefur einnig verið garður framan við bæinn. Við heimtröðina að norðan er tótt alveg við hana og önnur upp í brekkunni skammt sunnar. Svipað bæjarlag hefur verið á Læk, en þar eru þó enn fleiri tóttir, sem vert er að skoða. Á Vestarilæk, sem liðast til suðurs á milli kirkjunnar og Lækjar var eitt sinn kornmylla. Vestan við lækinn er Ræningjadys við Ræningjahól og ofar á hólnum er gamli bæjarhóll Suðurkots. Þessa kennileita er getið í sögunni af Tyrkjunum og séra Eiríki Vogsósapresti. Norðan við Snorrakot var Litli-Nýibær og Stóri-Nýibær þaðan til austurs, handan þjóðvegarins. Enn má sjá bæjarhólinn í túninu.

Selalda

Fjárskjól undir Strák í Selöldu.

Sunnan undir brekku sunnan Gestsstaðavatns, neðan við Krýsuvíkurskóla, eru tóttir Gestsstaða, næstelsta bæjarins í Krýsuvík. Þær eru tvær. Önnur tóttin virðist hafa verið gripahús, en hin íbúðarhús. Austan utan í Sveifluhúsi skammt suðvestar er enn ein tóttin og virðist hún hafa verið hluti Gestsstaða. Frá hlíðinni ofan við bæjartóttirnar sést til sex vatna; Gestsstaðavatns næst í norðri og Kleifarvatns fjær, Grænavatns í austri, Augnanna sitt hvoru megin við þjóðveginn í suðaustri og Sefsins skammt sunnan af þeim. Tóttir bæjarins Fells er í hvammi í brekkunni sunnan Grænavatns og tóttir elsta bæjarins, Kaldrana er við suðvestanvert Kleifarvatn, rétt austan við þjóðveginn.

Krýsuvík

Krýsuvík – fjósið.

Gamla fjósið í Krýsuvík, norðan Grænavatns, stendur nú autt og yfirgefið, en áður var það tengt stórum draumum um mjólkandi rauðar kýr á básum. Bústjórahúsið norðan við Gestsstaðavatn varð síðar vinnustaður Sveins Björnssonar, málara, en er nú Sveinssafn að honum gengnum. Krýsuvíkursamtökin njóta góðs af stærri húsakosti, bæði í gamla húsinu og í því nýja sunnan við vatnið. Vinnuskólinn naut aðstöðu í Krýsuvík á síðari hluta sjötta áratugarins og fyrri hluta þess sjöunda, en þá undu ungir piltar frá Hafnarfirði sér þar vel sumarlangt.

Krýsuvík

Krýsuvík – Lækur.

Gróðurhúsin vestan við húsin voru þá í notkun og mikið um að vera. Piltarnir stunduðu vinnu á afkastahvetjandi launakerfi hálfan daginn, en voru í annan tíma við leiki og gönguferðir um nágrennið. Á kvöldin voru haldnar kvöldvökur og kvikmyndasýningar. Vinnan var m.a. fólgin í skúringum, hreingerningum, matargerð, borðlagningu, uppvaski, umhirðu húsa og nágrennis, girðingum, heyskap, rakstri, málningu, gróðursetningu og vegagerð. Nýjar reglugerðir gerðu síðar þessa mannbætandi og uppbyggjandi starfsemi Vinnuskólans því miður ómögulega í framkvæmd.

Arnarfell

Bærinn Arnarfell undir Arnarfelli í Krýsuvík.

Í hlíðum sunnanverðs Arnarfells eru tóttir Arnarfellsbæjarins. Suðvestan hennar er Arnarfellsréttin, hlaðin stór rétt í lægð í átt að Selöldu. Sunnan fellsins er Arnarfellsvatnið.

Talið er að Krýsuvíkurbændur hafi haft í seli, bæði til fjalla og fjöru. Krýsuvík hafði í seli um tíma á Vigdísarvöllum og á Seltúni í Hveradal, undir Hatti. Framan við Hveradal er timburþil, einu minjar gamla brennisteinsnámsins. Lækurinn var stíflaður á nokkrum stöðum upp að námunum og brennisteinninn skolaður í hólfunum.

Húshólmi

Húshólmi – skálar.

Einnig er gamalt sel sunnan undir austanverðri Selöldu. Þar eru líka tóttir bæjarins Eyri, rétt ofan við uppþornaðan lækjarfarveg, og tvö fjárskjól skammt sunnar. Annað er minna og virðist mun eldra en það stærra. Vestar eru svo tóttir bæjarins Fitja. Ofan við þær er heillegar hleðslur fjárhúss undir háum móbergsskletti á Strákum.

Krýsuvík

Krýsuvík – Hafliðastakkur norðan Bæjarfells. Uppdráttur: ÓSÁ.

Sunnan við Bæjarfell er hlaðin rétt og norðan við fellið er hlaðin stekkur, Hafliðastekkur. Austar í hlíðinni er stór tótt og enn austar gamall stekkur. Varnargarður liggur upp úr engjunum í miðja hlíð fellsins. Hefur hann bæði átt að varna því að fé færi inn á túnin og auk þess stýra vatnsstreyminu um engi og mýrar. Aðrir varnar- og vörslugarðar liggja frá Bæjarfelli, bæði norðan Norðurkots og beggja megin Lækjar að Arnarfelli. Annar langur garður liggur á milli sunnanverðs Bæjarfells í Arnarfell neðan við bæinn og upp í öxina austan hans. Eldri garður er innan við þann garð og virðist hafa legið á milli Bæjarfells og Arnarfells, skammt ofan við Suðurkot. Í vestanverðu Bæjarfelli er fjárhellir og hlaðið fyrir opið að hluta. Skátar notuðu hellir þennan oft til gistinga áður en skáli þeirra að Skýjaborgum kom til. Austan í Arnarfelli er hlaðinn stekkur og upp í því er Dísuhellir.

Kleifarvatn

Kleifarvatn.

Utar á Krýsuvíkurheiði er hlaðið hús, Jónsbúð. Skammt suðaustan þess, þar sem heiðin hallar til suðurs, er annað fallega hlaðið hús. Neðar, skammt ofan við austanvert bjargið er tótt utan í hraunhól í Litlahrauni og skammt sunnan við hann er hlaðið fyrir fjárskjól í skúta. Utan við Bergsenda er Krýsuvíkurhellir. Sést frá honum yfir að Skilaboðavörðu þar sem hún stendur hæst skammt austan og ofan við Keflavík. Endimörk Krýsuvíkurlands í suðaustri er í Seljabót. Í henni er hlaðið gerði. Uppi í Klofningum er Arngrímshellir, öðru nafni Gvendarhellir. Við hann gerðist þjóðsagan af Grákollu og Arngrími bónda. Fyrir framan fjárhellinn er tótt og inni í honum eru hleðslur.

Gvendarhellir

Í Gvendarhelli.

Skammt austan við hellinn er Bálkahellir, falleg hraunrás. Efst í jaðri Fjárskjólshrauns, neðan Geitahlíðar, er hlaðið hús, sem sést vel frá þjóðveginum skammt vestan Sýslusteins. Vestar, við gömlu leiðina upp Kerlingadal á leið um Deildarháls ofan Eldborgar, eru dysjar Herdísar og Krýsu, þeirrar er deildu um land og nytjar og getið er um í þjóðsögunni. Ofar Eldborgar er Hvítskeggshvammur þar sem sagt er að skipið Hvítskeggur hafi verið bundið við festar í bjarginu. Neðan Eldborgar, í formfallegri hraunrás, er gamla Krýsuvíkurréttin. Vegghamrar eru upp með vestanverðri Geitahlíð og innan þeirra eru Kálfadalir. Niður í syðri dalinn hefur runnið tilkomumikil hrauná. Norðanverður dalurinn er grasi gróin og svo er einnig nyrðri dalurinn. Norðan við Kálfadali er Gullbringa og gamla þjóðleiðin yfir Hvammahraun upp á Vatnshlíð og niður í Fagradal í Lönguhlíðum. Í hrauninu eru hellar, sem vert er að skoða.

Óbrennishólmi

Óbrennishólmi; fjárborg eða virki!?

Mikil hraun hafa runnið um svæðið á sögulegum tíma. Má þar bæði nefna Krýsuvíkurhraun og Ögmundarhraun.
Í Ögmundarhrauni er Húshólmi. Í honum eru margar minjar og sumar þeirra mjög gamlar. Þar er t.d. hluti af stekk þegar komið er niður úr Húshólmastígnum og enn vestar er gömul fjárborg.

Húshólmi

Húshólmi – hin gamla Krýsuvík – uppdráttur ÓSÁ.

Sunnar er svo vörslugarður og grafreitur, tóttir af sjóbúð eða íveruhúsi og inni í hrauninu eru tóttir gömlu Krýsuvíkurkirkju og Gömlu-Krýsuvíkur. Þar rétt hjá eru leifar skála, sem hraunið hefur runnið allt í kringum. Ekki er óraunhæft að ætla að í Húshólma kunni að leynast minjar frá því fyrir norrænt landnám hér á landi. Austan undir Ögmundarhrauni er gömul rétt utan í hraunkantinum. Gamall stígur liggur suðvestur úr Húshólma, í átt að Brúnavörðum.
Í Óbrennishólma eru tvær fjárborgir, önnur stærri og eldri. Þar ofarlega í hólmanum er veggur, sem hraunið, er rann um 1150, hefur runnið að og stöðvast. Neðst í suðaustanverðum hólmanum er nýrri hleðsla í hraunjaðrinum. Enn vestar í hrauninu, sunnan Lats, er fallega hlaðið fyrir skúta, sem líklega hefur verið sæluhús eða skjól vegavinnumanna á sínum tíma. Enn vestar eru svo Selatangar, en mörk Krýsuvíkur teigja sig að Dágon, klettastandi, sem þar er niður við sjó. Fjölbreytni Selatanga og saga eru efni í sjálfstæða frásögn.

Ögmundardys

Ögmundardys austast við Ögmundarstíg.

Í austurjaðri Ögmundarhrauns, upp undir Mælifelli, er dys Ögmundar er segir frá í sögunni um þursinn er vildi giftast dóttir (Njarðvíkurbónda) Krýsuvíkurbónda. Gamli vegurinn liggur þaðan í gegnum hraunið, yfir að Latfjalli. Norðan þess er Stóri-Hamradalur. Undir vegg hans er gömul rúningsrétt.

Vigdísarvellir

Fjárskjól í Ögmundarhrauni.

Í gýgunum, sem Ögmundarhraun rann úr, er falleg hleðsla fyrir fjárhelli og ofar eru Vigdísarvellir undir Bæjarfelli í Núpshlíðarhálsi. Þar voru tveir bæir og má vel sjá tóttir þeirra beggja.

Bæjarfellsrétt.

Krýsuvíkurrétt (Bæjarfellsrétt) í Krýsuvík.

Frá Völlunum liggur Hettustígur austur yfir á Sveifluháls þar sem hann mætir Sveifluvegi frá Ketilsstíg og áfram niður að Gestsstöðum í Krýsuvík um Sveiflu. Drumbsdalavegur liggur yfir Bleikingsdal og áfram austur yfir sunnanverðan Sveifluháls við Drumb.

Drumbdalastígur

Drumbdalastígur.

Komið er yfir hálsinn skammt sunnan við Skugga, klettaborg austan Sveifluhálsar og síðan fylgt gömlu götunni beggja vegna þjóðvegarins að Bæjarfelli. Gatan sést enn vel, en vörðurnar við hana eru víðast hvar fallnar. Þó sést móta fyrir brú á götunni á einum stað sunnan vegarins. Skammt vestan við Borgarhól er enn ein fjárborgin.

Seltún

Seltún.

Falleg hverasvæði eru víða í Krýsuvíkurlandi. Má í því sambandi nefna hverasvæðið við Seltún, í Hveradal, upp undir Hettu og einnig svæðið vestan fjallið, á milli þess og Arnarvatns á Sveifluhálsi.

Austurengjahver

Austurengjahver.

Í austurjarðri Krýsuvíkur er fjölbreytt göngusvæði, s.s. að Austurengjahver, Lambafellin og yfir að Hverahlíð þar sem skáli Hraunbúa er sunnan við Kleifarvatn. Fjölbreytnin á ekki síður við um Sveifluhálsinn, sem er einka fjölbreytilegur. Ef ganga á hann allan frá Einbúa eða Borgarhól að Vatnsskarði tekur það um 6 klst, en það er líka vel þess virði á góðum degi.

Eins og sjá má er Krýsuvíkursvæðið hið fjölbreytilegasta til útivistar. Hægt að er að ganga bæði stuttar og langar leiðir og mjög auðvelt er fyrir alla að finna þar eitthvað við sitt hæfi.

-ÓSÁ tók saman.

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja.

Óttarsstaðir

Lagt var upp frá Straumi, en hann tilheyrir bæjunum í Hraunum. Þeir eru nú í landi Hafnarfjarðar, en höfðu tilheyrt Garðahreppi allt til ársins 1964 er bæjarfélögin höfðu makaskipti á löndum.

Straumur

Straumur 2024.

Bjarni Bjarnason, skólastjóri Barnaskóla Hafnarfjarðar, byggði Straumshúsið 1926. Ætlaði hann að reka þar stórbú. Árið 1948 keypti Hafnarfjarðarbær Straumsbúið og leigði það til ýmisskonar starfsemi. Á níunda áratug 20. aldar voru Straumshúsin gerð upp og hýsa nú listamiðstöð á vegum Hafnarfjarðarbæjar.

Óttarsstaðir

Óttarsstaðir eystri.

Í Hraunum bjuggu Hraunamenn á 12 býlum og kotum um aldamótin 1900. Neðan Reykjanesbrautar, Straumsmegin, eru auk þess Óttarstaðir eystri og Óttarstaðir vestri, Stóri Lambhagi og Lónakot vestar. Sunnan brautarinnar eru Þorbjarnarstaðir. Hjáleigur og þurrabúðir eru og þarna, s.s. Litli Lambhagi, Þýskubúð, Jónsbúð, Kolbeinskot, Óttarstaðagerði og Eyðikot að norðanverðu, en Gerði og Péturskot að sunnanvörðu.

Péturskot

Péturskot – leifar kotsins.

Péturskot var þar sem Reykjanesbrautin liggur nú við norðurkantinn á Fagravelli skammt austan við gatnamótin að Straumi. Norðan Straums eru nokkrir stígar s.s. Sjávargata og Jónsbúðarstígur, en sunnan hans er t.d. Straumsselsstígur er liggur upp með vesturgarði Þorbjarnastaða, yfir Alfaraleið út á Útnes og áfram upp í Straumssel. Umhverfis bæina eru heillegir grjótgarðar, auk fjárrétta, kvía, byrgja og nátthaga. Aðallega var gert út á fjárbúskap, en einnig voru þar einstakar kýr og nokkrir hestar. Hraunamenn gerðu mikið út á sjósókn og má sjá þar varir, þurrabúðir, vörslugarða og fiskreiti enn þann dag í dag. Búskapur lagðist af í Hraunum um 1930, en lengst var búið á Óttarstöðum vestri (1965). Straumsvík var mikill verslunarstaður frá árinu 1400 og fram yfir 1600 þegar þýskir og enskir kaupmenn gerðu út á landann.

Jónsbúð

Jónsbúð.

Gengið var að Norðurgarði. Garðurinn liggur niður að Straumsvör. Ofan hennar eru allnokkrar garðhleðslur, auk bátaskjóls. Þaðan var haldið að Þýskubúð og skoðað í kringum hana. Gamall hlaðinn brunnur er vestan við búðina. Garður liggur umhverfis búðina.

Tjörvagerði

Tjörvagerði.

Haldið var yfir í Tjörvagerði, sem var nátthagi. Þaðan er stutt yfir í Jónsbúð. Hlaðinn garður umlykur einnig þá búð. Jónsbúðartjörnin er norðan hennar. Jónsbúð er ágætt dæmi um búð er varð að bæ. Eftir að bóndinn hafði komið upp fyrsta “káinu”, þ.e. kotinu, fylgdu önnur á eftir í réttri röð; köttur, kindur, kú, kona og krakkar. Norðan við Jónsbúðartjörn er Markhóll, þríklofinn klettur. Í fjörunni mátti sjá mink við veiðar.

Straumur

Óttarsstaðir/Straumur – örnefni og minjar – uppdráttur ÓSÁ.

Gengið var með ströndinni yfir að Óttarstöðum eystri. Þar við eru allmargar tóttir, garðar og gerði. Suðaustan við húsið er brunnur og annar eldri vestan við það. Vestar er Óttarstaðir vestri. Þar eru einnig miklir garðar. Á milli og austan við bæina er gróinn hóll.

Óttarsstaðir

Óttarsstaðir-vestari.

Þar er talið að forn kapella eða kirkja hafi staðið.Gengið var yfir í Klofið, en þar er Óttarstaðaréttin, fallega hlaðin. Utan við hana eru nokkrar tóttir fjárhúsa. Ofan við Klofið er Miðmundarhæð og á henni Miðmundarvarða. Frá henni var haldið eftir stíg suður inn í hraunið uns komið var að Kotaklifsvörðu, hárri og áberandi vörðu vestan í Sigurðarhæð. Frá henni var haldið suðaustur að Kúaréttinni, sem er djúp gróin laut í hrauninu. Við enda hennar eru hlaðnir garðar. Háir veggir lautarinnar er svo til þverhníptir á kafla. Ofar eru miklar sprungur. Undir bakka efst á einum veggnum stóð einmana rjúpa og fylgdist með.

Þýskabúð

Þýskabúð.

Nokkuð austan Kúaréttar, sunnan Sigurðarhæðar, eru tvo hlaðinn byrgi, annað mjög heillegt. Upphaflega gætu þetta hafa verið þurrkbyrgi, en síðar byrgi refaskyttu, sem þaðan hefur ágætt útsýni til vesturs yfir lægðirnar í hrauninu norðan Brunntjarnar. Austan tjarnarinnar er hlaðin Straumsréttin.
Veður var frábært, lygnt, hlýtt og sólbjart. Gangan tók u.þ.b. klukkustund.
Gerður var uppdráttur af svæðinu.

Straumur/Óttarrsstaðir

Straumur/Óttarsstaðir – uppdráttur ÓSÁ.

Hafnarfjörður

Björn Þorsteinsson, sagnfræðingur, skrifaði í Alþýðublað Hafnarfjarðar (jólablað) árið 1965 um Hafnarfjörð fyrri tíma undir yfirskriftinni „Skyggnst um nágrennið„:

Flatahraun.
Árni MagnússonÚr Engidal liggur steypt bílabraut austur Flatahraun áleiðis til Keflavíkur. Hér hófst síðasta skeið íslenskrar vegagerðar, þegar byrjað var að steypa Keflavíkurveginn 1962.
Fram undan rís Setbergsholt, Mosahlíð og Ásfjall. Á hrauninu liggur vegurinn ýmist í Hafnarfirði eða Garðahreppi, því að mörkin milli þessara lögsagnarumdæma eru óregluleg hér um slóðir.
Kaplakriki nefnist fyrsta byggðin við veginn. Um einn km þaðan inni í hrauninu liggur algjörlega sjálfstæður vegur, tengir ekkert við ekkert. Hann er 7 m breiður, um 2 km á lengd, en hæð er ómæld. Vegur þessi átti að verða upphaf að hinni miklu ókomnu braut, sem tengja skal Reykjavík og Hafnarfjörð um aldir. Hann var lagður í atvinnubótavinnu árið 1918 og ætlaður jafnt járnbrautum sem bifreiðum. Menn voru stórhuga í þann tíð. Hér lágu fornar lestamannagötur til Hafnarfjarðar um Hörðuvelli neðan við Sólvang, en úr Kaplakrika um Vífilsstaði og á áningarstað á Kjóavöllum vestan Elliðavatns. Þetta var höfuðleið til Fjarðarins önnur en Gömlufjarðargötur.
Setbergshamar heita vestasti hluti Setbergsholts. Undir þeim er talsverð nýbyggð, og enda nöfn allra húsanna á -berg: Þórsberg,  Ásberg o.s.frv.

Setberg – Upphaf rafvæðingar á Íslandi.

Jóhannes reykdal

Jóhannes Reykdal.

Bærinn Setberg stendur nokkru innar á holtinu í miklum túnum.
Það er forn jörð. Kirkju- og konungsvald náði aldrei tangarhaldi á Setbergi, og er það merkilegt um fasteignir hér í sveit. Þar gerðu þeir Gísli Þorkelsson og Jóhannes Reykdal garðinn einkum frægan, en auk þeirra hafa sýslumenn og galdraprestur setið þar með sóma auk allra annarra. Þorsteinn prestur Björnsson sat á eignarjörð sinni Setbergi síðustu æviár sín (1661—’75). Hann var lærður vel á sinni tíð. Eftir hann liggur m. a. mikill kvæðabálkur á latínu: Noctes Setbergenses eða Setbergskar nætur — um undur náttúrunnar. Sonarsonur hans var Gísli Þorkelsson, sem ritaði Setbergsannál. — Jóhannes Jóhannesson Reykdal bjó á Setbergi 1909—31 og síðar til æviloka á Þórsbergi (d. 1946).

Reykdalsvirkjunin

Reykdalsvikjunin,

Árið 1903 reisti hann trésmíðaverksmiðjuna Dverg í Hafnarfirði, en það var fyrsta verksmiðjan, sem gekk fyrir vatnsafli hér á landi.
Árið 1904 virkjaði hann Hamarskotslæk, setti upp litla rafmagnsstöð til ljósa og aðra stærri 1907.
Það voru fyrstu rafmagnsstöðvarnar hér á landi. Þaðan fengu Hafnfirðingar „köldu ljósin“ — fyrstir Íslendinga. Sólvangur, elli- og hjúkrunarheimili Hafnfirðinga, stendur nokkru fyrir neðan veginn undan Setbergi. Sjávarhraun nefnist hraunið þar suður af milli Hörðuvalla, íþróttasvæðis Hafnfirðinga, og Setbergstjarna. Hér þrýtur steypta veginn á kafla, af því að hér eiga að koma tvílyftar krossgötur.
Trésmíðaverksmiðja og timburverslun Reykdals stendur neðan vegar við Hamarskotslækinn, sem kemur úr dalnum milli Setbergsholts og Mosahlíðar. Hann nefnist Þverlækur niður að vegi, en breytir þar um nafn.

Lækurinn

Lækurinn.

Dregur hann þar eftir heiti af Hamarskoti, sem stóð á Hamrinum, þar sem nú er Flensborgarskólinn. Hin forna virkjunarstífla Reykdals sést fyrir neðan verksmiðjuna.
Lækurinn er eitt merkasta vatnsfall í atvinnusögu Íslendinga, Atkeldur.

Úfið gróðursælt hraun, Stekkjarhraun, liggur suður dalinn, en undir því standa hús í skjólsælum hvömmum. Vestast í því  skammt frá vegi eru tveir litlir mýrarslakkar, Atkeldur. Þar var tekið at í gamla daga til litunar, en það er eðja, sem gefur svartan lit. Af þeim starfa er dregið orðtakið að vera ataður, óhreinn.

Kirkjugarður á Hvíldarbörðum, nunnur á Kvíholti og Ófriðarstaðir.

Jófríðarstaðir

Jófríðarstaðir fyrrum – tilgáta.

Frá brúnni á Hamarskotslæk liggur vegurinn upp brekku á svokallaðar Öldur. Þar er kirkjugarður Hafnfirðinga undir Mosahlíðinni, og hét þar áður Hvíldarbörð.
Hér verða krossgötur. Öldugata liggur ofan í Hafnarfjörð, en suður með kirkjugarðinum liggur Elliðavatnsvegur og af honum braut í sumarbústaðaland Hafnfirðinga, í Sléttuhlíð, og suður í Kaldárbotna og að Helgafelli.

Karmelklaustur

Klaustrið 1973.

Skammt fyrir sunnan kirkjugarðinn beygir Elliðavatnsvegur austur yfir Setbergsdalinn. Í Mosahlíðinni eru mikil alifugla- og svínabú.
Á Öldunum er aftur komið á steinsteyptan veg. Norðan hans er Kvíholt. Þar hafa hollenskar nunnur af Karmelitareglu verið kvíaðar inni, og er það eina klaustrið hér á landi, eins og kunnugt er.
Fyrsta evangelíska kirkjan á Íslandi var reist í Hafnarfirði 1536, og fyrsta kaþólska klaustrið eftir siðaskipti var reist hér og tekið formlega í notkun 1946.
Grænagróf og Grænugrófarlækur eru fyrir vestan Kvíholt. Lækurinn kemur úr Ásfjalli og fellur niður hjá Ásbúð syðst í fjörðinn og nefnist þá Ásbúðarlækur.
Hafnarfjörður 1770Jófríðarstaðir eru býli á Jófríðarstaðahæð næst fyrir utan Kvíholt. Jörðin hét að fornu Ófriðarstaðir (nafninu breytt 1875), og mun það nafn eiga rætur að rekja til einhvers ófriðar, sem hér geisaði fyrr á öldum, en hér var róstusamt á 15. og 16. öld.

Hvaleyri

Hvaleyri – gamli bærinn á mynd frá 2020.

Þá liggur bílabrautin sunnan undir Hvaleyrarholti, en þangað hefur kaupstaðurinn teygt byggð sína á síðustu árum. Sunnan vegar er Ásfjall með mælingavörðu á kolli. Undir því stendur bærinn Ás ofan við Ástjörn. Brautin liggur um tún Þorgeirsstaða sunnan við Hvaleyrarholt.

Þorgeirsstaðir

Þorgeirsstaðir.

Bærinn hét áður Þorláksstaðir, og fylgir því nafni sú sögn, að þar á holtinu hafi að fornu staðið kapella helguð heilögum Þorláki.

Þá liggur brautin yfir syðsta tagl Hvaleyrarholts, en þaðan blasir Reykjanesskaginn við.
„Flókastein“ nefnir Jónas Hallgrímsson bjarg nokkurt á túninu norður af Hvaleyrarbænum. Það er alsett áletrunum misjafnlega gömlum og þar á meðal rúnaletri, bandrúnum. Um rúnirnar segir Jónas, að hann viti ekki betur en þær séu nöfn á þeirri skipshöfn, sem víkingurinn Flóki hafði með sér, þegar hann heimsótti Ísland. Verið getur, að Herjólfur hafi ríslað sér við að rista þessar rúnir á steininn, meðan hann beið eftir skipinu,, sem hann sleit frá á skipsbátnum.

Engidalur — Hafnarfjörður.

Hamarskot

Hamarskot fyrrum – tilgáta.

Hafnarfjörður var fjölsóttasta verslunarhöfn hér á landi frá því um 1400 og fram á 18. öld. Lögsagnarumdæmi kaupstaðarins hefst á hraunbrúninni við Engidal. Þar sem borgin stendur voru áður bæirnir Akurgerði, Hamarskot, Ófriðarstaðir (Jófríðarstaðir) og Hvaleyri.

Jófríðarstaðir

Jófríðarstaðir fyrrum – tilgáta ÓSÁ.

Enn er grasnyt á Jófríðarstöðum og dálítill búskapur rekinn á Hvaleyrartorfunni, en borgin sækir fast inn á lönd hinna fornu jarða.
Þótt Hafnarfjörður væri fjölsóttur verslunarstaður og kaupmenn af ýmsum þjóðlöndum þreyttu þangað kappsiglingu á útmánuðum fyrr á öldum, þá lágu engir vegir til staðarins, aðeins koppagötur úr ýmsum áttum yfir hraunin, og þar reis ekki þorp fyrr en á 19. öld.

Árnasafn

Endurheimtar bækur Árna Magnússonar frá Danmörku.

Gömlufjarðargötur lágu frá Hraunsholti að Sjónarhóli, Reykjavíkurvegi 22. Það var fjölfarnasta lestamannaleiðin til fjarðarins.

Árnasafn flutt til skips.

Vorið 1720 silast lest suður hraunið til Hafnarfjarðar, 30 klyfjahestar með þung koffort þræddu Gömlufjarðargötuna frá Hraunsholti, álútir, varkárir, og fótvissir.

Hvaleyri

Hvaleyri 1772 – Joseph Banks.

Þröngir troðningar voru markaðir í hraunklöppina af óteljandi lestum, sem höfðu lötrað þennan stíg um aldir og flutt alls kyns varning. Að þessu sinni var flutningurinn mesta dýrmæti, sem lyft hafði verið til klakks á Norðurlöndum.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður 1834.

Lestin kom frá Skálholti, höfuðmenntasetri hins forna Íslands, og í koffortunum voru bækur, gulnað og velkt bókfell, elju- og snilldarverk íslenskra þúsunda. Þær eru safn Árna Magnússonar, og það á að flytjast til Kaupmannahafnar.
Í 8 aldir hafði verið unnið að þessum bókum um dreifðar byggðir Íslands, og nú áttu þær að auka og treysta frægð hins danska konungsveldis í höfuðborg ríkisins.
Þessi koffort eru eins og táknmynd um niðurlægingu Íslands þar sem hún silast áfram með bækur þess úr hinum forna menningarhöfuðstað til hins danska skips í Hafnarfirði„, segir Jón Helgason í Handritaspjalli.

Hafnarháskóli

Hafnarháskóli.

Lestin hefur þrætt stíginn ofan við Háaklif, sem nú nefnist Reykjavíkurvegur, þokast suður Malirnar og út á grandann hjá Óseyri. Þar skilaði hún auðæfunum á skipsfjöl.
Bækurnar voru afreksverk íslenskrar hámenningar, sem átti sér fótfima fararskjóta að forsendu.
Hesturinn hafði sigrast á öllum torfærum og firnindum Íslands og gert það að einni samfélags- og menningarheild. Hann hafði borið forna stjórnskipan um landið, á fótum hans hvíldi þinghaldið á Þingvelli við Öxará og forn sagnritun.

Hekla

Franski landfræðingurinn Alain Manesson Mallet skrifaði heimslýsingu sem kom út 1683, sama ár og Árni Magnússon fór til náms við háskólann í Kaupmannahöfn. Íslandi bregður fyrir á 14 kortum í bókinni. Hér er mynd úr heimslýsingunni, á henni sést Hekla gjósa.

Nú hafði hann flutt bækur Íslands yfir öll torleiði til strandar. Þær höfðu verið tíndar saman í rústum hins forna íslenska samfélags, og voru fluttar á nýjan áfangastað, en þar beið þeirra það hlutskipti að hefja sokkna þjóð úr niðurlægingu.
Árnasafn var og er sérstæð stofnun við Hafnarháskóla. Safnið var í raun og veru fyrsti háskóli Íslendinga. Þeir voru ómissandi fylgjunautar bóka sinna, og þær opnuðu þeim leið til nokkurra mannvirðinga og áhrifa hjá einvaldsstjórninni í hinum nýju heimkynnum og jafnvel aðgang að bakdyrum konungshallarinnar. Kringum hinar fornu bækur varð til nýlenda íslenskra menntamanna, og þaðan komu Íslendingum, sem heima sátu, talsmenn og leiðtogar.
Árnasafn varð höfuðstöð íslenskrar þjóðfrelsisbaráttu, þegar stundir liðu. Margir af helstu forystumönnum Íslands á 18. og 19. öld voru starfsmenn safnsins lengur eða skemur: Bjarni Pálsson, Eggert Ólafsson, Hannes Finnsson, Finnur Magnússon, Konráð Gíslason og Jón Sigurðsson. Jón var styrkþegi og starfsmaður Árnasafns frá 1835 til dauðadags 1879. Hvort sem hin framsækna sveit Íslendinga var kennd við Fjölni eða Félagsrit, þá var kjarni hennar tengdur stofnun Arna Magnússonar.
Þjóðfélagsbarátta okkar við Dani er til lykta leidd. Árnasafn hefur skilað miklu hlutverki bæði sem vísindastofnun og virki þjóðfrelsismanna. Leitun mun vera á stofnun, sem hefur verið jafnsamgróin þjóð sinni og þetta safn velktra skinnbóka og snjáðra pappírsblaða.

Árnasafn

Úr Árnasafni í Kaupmannahöfn.

Engin þjóð mun eiga neinni stofnun jafnmikið að þakka og við Íslendingar safninu hans Árna Magnússonar.“

Heimild:
-Alþýðublað Hafnarfjarðar.  Jólablað 1965 (24.12.1965), bls. 16-18.

Handrit

Endurheimt handritin útlistuð..

Ásfjall

Útsýnisskífan á Ásfjalli átti sér langa sögu eins og segir í 50 ára afmælisriti Rotaryklúbbsins. Þegar hún var komin á sinn stað og vígsluathöfn hafði farið fram 26. júní 1987 voru fimmtán ár liðin frá því að fyrst var rætt um það í klúbbnum að hann ætti að beita sér fyrir því að koma upp útsýnisskífu á Ásfjalli. Málinu var hreyft öðru hvoru en úr framkvæmdum varð ekki fyrr en þetta ár að forseti klúbbsins, Steingrímur Atlason, fékk nokkra vaska drengi í lið með sér og verkið var unnið.

Ásfjall

Frá vígslunni.

Frá vígslu á útsýnisskífunni á Ásfjalli. Þessir félagar voru auk forsetans: Jón Bergsson og Sigurbjörn Kristinsson, Gísli Guðmundsson, Hjalti Jóhannsson, Einar Ágústsson og Gunnar Hjaltason. Gunnar heitinn Ágústsson hafði einnig liðsinnt í þessum efnum. Lögðu þeir allir fram góð ráð, mikla vinnu og fagþekkingu án þess að ætlast til launa.

Útlagður kostnaður við verkið varð þó um 100 þúsund krónur og kom í hlut klúbbsins að greiða hann. Loks stóðu 14 manns á Ásfjalli við vígslu skífunnar 26. júní 1987.

Steingrímur Atlason

Steingrímur Atlason.

Forseti og Jón Bergsson röktu sögu framkvæmda og veðurguðir sáu um hressilega vatnsskírn því að regn bókstaflega hvolfdist úr loftinu.

Vígsluskálina hafði forseti í fórum sínum og þótti mönnum ekki vanþörf á. Þegar menn bergðu á veigunum reyndust þær vera íslensk mysa. Sló þá þögn á mannskapinn! – um stund.

Útsýnisskífan er efst á Ásfjalli, skammt austan við endurhlaðna vörðuna.

Heimild:
-http://gamli.rotary.is/rotaryklubbar/island/hafnarfjordur/verkefni/utsynisskifa/
-Ljósmyndir; Gísli Jónsson.

Ásfjall

Ásfjall – uppdráttur ÓSÁ.

Kristjánsdalir

Kofatóft úr torfi og grjóti undir Bollum, utan í Kristjánsdölum, við hraunkantinn milli Kerlingaskarðsvegar og Grindaskarðsvegar, hefur löngum vakið forvitni göngufólks, en fátt er vitað um tilurð hans og tilgang. Þorvaldur Thoroddsen getur kofans í skrifum sínum í Andvara árið 1884 í lýsingu sinni um „Ferðir á Suðurlandi sumarið 1883„:

Kristjánsdalir

Tóft ofan Kristjánsdala.

„Frá Kaldárseli fórum við fyrst Grindaskarðsveg upp að fjöllunum og síðan austur á við milli hrauns og hlíða um svo kallaða Kristjánsdali; þar er mjög grasgefið land, en ekkert vatn neinstaðar; þar höfðu lestamenn hesta sína, þeir er sóttu brennistein í Brennisteinsfjöll, og er þar dálítill kofi síðan. Dólerít er hjer ofan til í fjöllum, en móberg undir. Mjög illt var að klöngrast yfir hraunfossana, sem fallið hafa niður hjá Kóngsfelli, því bæði eru þeir breiðir og hraunið mjög umsnúið og erfitt yfirferðar.“

Kristjánsdalir

Tóft við vatnsstæði í Kristjánsdölum.

Þrátt fyrir framangreind orð Þorvaldar er ágætt vatnsstæði í Kristjánsdölum, skammt norðan Grindaskarðsvegar. Við það er nánast jarðlæg tóft, sem væntanlega hefur verið afdrep Selvogsmanna á leið þeirra millum Vogs og Fjarðar fyrrum. Þar höfðu rjúpnaskyttur úr Hafnarfirði afdrep undir það síðasta. Enn önnur tóftin, grunnur undir timburhús, tengd brennisteinsnáminu í Fjöllunum, er ofar og austar, upp undir Kerlingarskarði.

Heimild:
-Andvari – 1. tölublað 01.01.1884, „Ferðir á Suðurlandi sumarið 1883“; Þorvaldur Thoroddsen, bls. 30.

Kerlingarskarð

Búð námumanna undir Kerlingaskarði.