Hér á eftir eru nokkur atriði varðandi jarðmyndanir, hraun og jarðsyrpur á Reykjanesi.
-Jarðmyndanir:
Reykjanes – jarðfræði
Eldstöðvarkerfin á Reykjanesi eru fimm talsins og liggja frá norðaustri til suðvesturs. Á þeim hafa myndast gossprungur og gos hraun komið upp á nútíma (frá því fyrir 12-13 þús. árum). Áður var til grágrýtismyndunin úr fornum dyngjum, sem Rosmhvalanesið, Njarðvík, Stapinn, Löngubrekkur og Fagradalsfjall hvíla á.
-Jarðsyrpur:
Rosmhvalanesið er dæmi um fornar dyngjur á Reykjanesinu (eldri en 120 þús ára). Jökullinn hefur hefur sorfið klappir og mótað landið. Hann hopaði fyrir 12-13 þús. árum á Reykjanesi. Sjá má merki þess einnig á Lönguhlíðum, á Krýsurvíkurheiði í Fagradalsfjalli og ofan við Húsatóftir.
Sveifluháls.
Helstu fjöll og fjallgarðar verða til á síðasta jökulskeiði, áður en jökullinn hopaði, s.s. Austurháls (Sveifluháls), Vesturháls (Núpshlíðarháls), Keilir, Trölladyngja, hluti Fagradalsfjalls, Þorbjörn, Lágafell, Þórðarfell, Stapafell og Súlur.
Nútímahraun renna eftir að ís leysti. Verða þá sprungugos (apal- og helluhraun) þar sem má þekkja eldri og grónari hraunin, s.s. Katlahraun, Skógfelllahraun, Sundhnúkahraun, Hvassahraun, Helluhraunið eldra, Dyngnahraun, Stampahraunið eldra, Eldvarpahraunin eldri o.fl.
Skálafell á Reykjanesi.
Meginhluti skagans er þakin nútímahraunum, þ.e. hraunum er runnu eftir að jökul leysti (12-13 þúsund ára).
Nokkrar litlar dyngjur hafa gosið eftir síðasta kuldaskeið, s.s. Háleyjarbunga, Skálafell, Vatnsheiðagígar, Lágafell og Hraunsfell-Vatnsfell (pikrít).
Þrjár til fjórar stórar dyngjur hafa einnig gosið á nútíma, s.s. Sandfellshæð, Þráinsskjöldur og Hrútargjárdyngja. Þá má nefna heiðina há og Strandarheiði. Mikil gos er skilað hafa miklu hraunmagni. Þessi hraun, auk sprunguhraunanna, hafa fyllt duglega inn á milli móbergssfjallanna og myndað skagann smám saman.
Jarðfræðikort.
Sprunguhraun héldu áfram að renna á sögulegum tíma (um og í kringum 1000 (Kristnitökuhraun), 1151 (Ögmundarhraun), 1188 (Afstapahraun) og 1226 (Stampahraun yngra). Þetta voru aðallega apalhraun, en þó einnig helluhraun (Arnarseturshraun).
Gjár og sprungur (NA-SV) einkenna Reykjanesskaga. Misgengi má sjá víða, s.s. við Snorrastaðatjarnir. Einnig þversprungur og misgengi (NS), s.s. í Þorbirni.
Víða má sjá einstakar og fallegar hraunmyndanir, s.s. gjall- og klepragíga, dyngjur og móbergs- og bólstramyndanir.
–Jarðfræði, jarðasaga, jarðlagagerð og nokkur örnefni:
Jarðfræðikort.
Reykjanes-Langjökulssvæðið varð virkt fyrir um 7 milljónum ára þegar suðurhluti rekhryggjarins er lá um Snæfellsnesið dó út. Eldvirknin byrjaði nyrst en færði sig smám saman til suðurs og hlóð upp skagann.
Yfirborðbergið er grágrýti (dyngjuhraun), móberg og bólstraberg (Stapafell, Keilir) og nútímahraun, bæði frá því er ísa leysti fyrir 12-14 þús. árum (dyngjuhraun og sprunguhraun) og hraun frá sögulegum tíma. Forsögulegu hraunin eru runninn á nútíma, áður en landnáms hefst, en sögulegu hraunin eftir landnám. Stóru dyngjurnar eru Sandfellshæðin, Þráinsskjöldur og Hrútargjárdyngja (og jafnvel Strandarhæð), en auk þeirra eru nokkrar minni og eldri (pikrít-dyngjur), s.s. Háleyjarbunga, Skálafell, Vatnsheiðargígar, Hraunsfells-Vatnsfell og Lágafell.
Hellisheiði – efri hluti (jarðfræðikort Ísor).
Frá ísaldarlokum hafa komið upp um 42 km3 af hraunum að flatarmáli um 1100 km2 frá yfir 200 eldstöðvum í 4 (5 eða 6) eldstöðvakerfum. Megineldstöð er aðeins að finna í Henglinum.
Jarðskjálftarenna liggur eftir miðjum skaganum og markar líklega mót plantnanna. Þar sem hún sker eldstöðvakerfin eru háhitasvæðin.
Síðasta kuldaskeið (ísöld) hófst fyrir um 120.000 árum þegar um 20.000 ára hlýskeiði lauk. Móbergsstapar gefa þykkt jökulsins til kynna, þ.e.a.s. hæð hraunhettu þeirra yfir umhverfið.
Grindavíkurfjöllin hafa þau sérkenni að berg þeirra hefur öfuga segulstefnu miðað við þá sem er í dag. Aldur þeirra er um 40.000 ár (sjá Siglubergsháls hér á eftir).
Útbreiðsla hrauna frá 8. og 9. öld á Reykjanesskaga. Einnig eru sýnd hraun frá sögulegum
tíma (heimild: Kristján Sæmundsson o. fl. 2010).
Gosbeltin, sem marka skilin á milli skorpuflekanna eru 24-50 km breið. Eldvirknin innan þeirra er ekki jafn dreifð heldur raðast gosstöðvar og sprungur á nokkrar vel afmarkaðar reinar með mestri virkni um miðbikið. Eldstöðvakerfi skagans hliðrast til austurs. Stefna þeirra er NA-SV, en gosbeltið stefnir lítið eitt norðan við austur.
Margt bendir til að eldgos á Reykjanesskaga verði í hrinum eða lotum á um það vil 1000 ára fresti. Gos á sögulegum tíma urðu t.d. árið 1000 (Hellnahraun), 1151 (Ögmundarhraun, Astapahraun), 1188 (Mávahlíðarhraun), 1211 (Yngra Stampahraun) og 1226 (gígar utan við Reykjanesið).
-Einstök fjöll, fjallshryggir, gígar og hraun:
Valahnúkur.
Grágrýtismyndunin á Rosmhvalanesi og Stapanum svo og upp af Krýsuvíkurbjargi er 120-220 þúsund ára.
Valahnjúkur er úr móbergi, en alláberandi er brotaberg, bólstraberg og grágrýtisinnskot.
Bæjarfell/Vatnsfell eru úr bólstrabergi eins og Litlafell. Mynduð á svipuðum tíma og Valahnúkur.
Sýrfell er ú móbergstúffi og móbergsbrotabergi.
Miðaldarlagið (aska frá 1126) er leiðarlag á Reykjanesskaga upp í Hvalfjörð, Þingvallasveit og Ölfus. Kom líklega úr tveimur gígum, 2-3 km SV af Reykjanesi, sem náða hafa upp úr sjó og gosið surtseysku gosi. Nú eru þar 40-60 m háir hólar á um 20 m dýpi á sjávarhrygg.
Gígar í Yngra- Stampahrauni.
Eldra Stampahraunið er rúmlega 1500 ára. Gígaröðin er um 5 km að lengd og samanstendur af nokkrum allstórum gjallgígum og ótalsmáum kleprahrúgöldum. Einn gíganna ber þess glögg merki að hafa gosið í fjöruborði og þá hlaðist upp öskukeila en gosið breyst í hraungos líkt og með með mörg sprunguhraunanna á Reykjanesi.
Yngra Stampahraunið er frá 1211 og fyrsta gosið í Reykjaneseldum. Gígaröðin er um 4 km að lengd og endar í tveimur klepra- og gjallgígum, sem rísa um 20 m upp úr hrauninu. Gígar þessir nefnast Stampar og tekur hraunið nafn af þeim.
Haugshraun er kennt við gíginn Haug, sem stendur á vesturbarmi sigdals, sem nefnist Haugsvörðugjá. Prestastígurinn liggur m.a. um dalverpið.
Háleyjarbunga.
Skálafell og Háleyjabunga eru gamlar dyngjur (pikrít), eð aum 14.000 ára. Háleyjabungan er eldri en Skálafellið. Í toppi hennar er hringlaga, skjólgóður og snotur gígur.
Sandfellshæðin er dyngja. Úr henni er komið langmesta magn hrauna á utanverðum skaganum. Yngri hraunin hafa runnið yfir stóra hluta hennar. Gígurinn er um 450 m að þvermáli og rúmlega 20 m djúpur.
Klofningshraun og Berghraun eru frá um 1211. Komin að mestu leyti úr Rauðhól, sem er nyrst í hrauninu.
Eldvarpahraun – Blettahraun.
Eldvarpahraun er hluti Reykjaneseldanna. Aðal gígaröðin er um 8,5 km að lengd, en þó ekki samfelld. Í henni eru allstórir gjall- og klepragígir, oftast nokkrir saman, sem tengjast næstu fylkingu með röð smágíga. Sundvörðuhraun nefnist austasti hluti þess, eftir hraunstrýtu sem notuð var sem siglingamerki.
Eldvarpahraun.
Lambagjárhraun er smá hraunbleðlar í Eldvarpahrauni. Í því eru allmörg misgengi.
Eldvarpahraun eldra er um 2200 ára. Upptökin eru ókunn, en þó líklega í grennd við Eldvörpin.
Sundhnúkahraun er um 2400 ára. Norðaustur af Hagafelli er áberandi hnúkur, sem heitir Sundhnúkur (innsiglingamerki) og þaðan er nafnið komið af reyndar röð lítilla gíga. Skógfellavegurinn liggur meðfram hluta eldvarpanna. Hraunin eru dreifð víða um Grindavíkursvæðið og m.a. byggt upp Þórkötlustaðanesið og myndað þannig brimbrjót fyrir Grindavík.
Gengið um Rauðamel. Varða við Skipsstíg.
Hrólfsvíkurhraun er pikrít-hraun og líklega frá Vatnsheiði.
Húsafell og Fiskidalsfjall eru móbergsstapar, sem líklegast eru frá síðari hluta síðasta jökulsskeiðs. Undir þeim að sunnan eru miklar öskjudyngjur, sem gosið hafa á grunnsævi.
Rauðimelur er setmyndun, úr sandi og möl, sem teygir sig 2.5 km norðaustur frá Stapafelli. Setmyndun þessi er víða vel lagskipt og er 6-7 m þykk. Myndunin hvílir á jökulbergslagi,sem liggur ofan á grágrýti en um miðbik melsins kemur um 2 m þykkt jökulbergslag. Myndunin er að öllum líkindum sjávargrandi sem myndast hefur við rof á Stapafelli og Súlum. Grandinn er eldri en 40.000 ára og eftir því hvernig myndun jökulbergsins er túlkuð, jafnvel frá næstsíðasta jökulskeiði. Stapafellið er mun eldri en grandinn, senniega frá næstsíðasta eða snemma á síðasta jökulskeiði.
Þórðarfell.
Stapafellið og Súlur eru að mestu byggt upp úr bólstrabergi og öskulögum, en berglag, stuðlað og án bólstramyndana, finnst líka. Lag þetta má túlka sem innskot eða jafnvel hraunlag.
Þórðarfell er úr bólstrabergi, en gæti verið yngra en Stapafellið.
Lágafell er hæðarbunga úr móbergi. Gígurinn bendir til þess að jökull hafi gengið yfir það.
Þorbjörn.
Þorbjörn er hlaðið upp úr bólstrabergi og móbergsþurs með bólstrum og bólstrabrotum á víð og dreif. Í toppi fjallsins er mikill sigdalur og er vestari stallurinn (Þjófagjá) tugir metra á hæð. Utan á fjallinu er kápa úr jökulbergi og bendir hún ásamt misgengjunum til nokkurs aldurs, jafnvel frá næstsíðasta jökulskeiði.
Selháls, Hagafell og Svartengisfjall eru aðallega úr bólstrabergi, sem sést vel í Gálgaklettum. Þar er misgengisstallur sem klýfur fellið.
Stóra-Skógfell er úr bólstrabergi sf svipaðri gerð og Sandfell.
Sandfellshæð.
Lágafell er eldra en Sandfellshæð. Það er lítil og nett pikrít dyngja. Klifgjá, 6-8 m hátt misgengi, sem gengur upp í Þórðarfell, sker dyngjuna um þvert og þar sjást hraunlög hennar ágætlega og hversu ólívínríkt bergið er.
Vatnsheiði myndaðist snemma á nútíma. Þrjár samvaxnar pikrít-dyngjur eða pikrítdyngja með þrjá samvaxna gíga (svæðisgos). Nyrsti gígurinn er stærstur og hæstur og nær hringlaga, líklega um 200 m að þvermáli.
Illahraun rann um 1226. Það hefur runnið úr fimm gígum á um 200 m gígaröð. Nyrsti gígurinn er stærstur og í rauninni tvöfaldur. Fyrst hefur myndast allstór gígur, en þegar virknin minnkaði hefur myndast nýr gígur á vesturbarmi þess eldri.
Hrauntjörn í Arnarseturshrauni.
Arnarseturshraun rann um 1226. Hraunið er aðallega komið frá 400 m langri gígaröð um 500 m austan við grindavíkurveginn. Nyrstu og syðstu gígarnir hafa aðallega gosið hrauni, en á milli þeirra hlóðust upp gjallgígar, sem risið hafa um 25 m yfir hraunið, en nú hafa þeir verið að mestu brottnumdir. Hraunið er helluhraun næst gígunum, en frauðkennt og blöðrótt og brotnar gjarnan undan fæti. Í hrauninu er nokkrir allstóri hellar, s.s. Kubbur, Hnappur og Hestshellir.
Skála-Mælifell.
Dalhraun er allgamallt og hugsanlega úr gíg er stendur upp úr Sundhnúkahrauni.
Hrafnshlíð/Siglubergsháls er móbergsstapi, bólstraberg, móbergsþurs og túff, þakið grágrýti, sem komið er úr Bleikhól, áberandi gíg nyrst í fjallinu. Grágrýti þetta er öfugt segulmagnað og runnið á segulmund sem kennd er við Laschamp í Frakklandi. Fleiri slíkar basalthettur er á þessum slóðum, t.d. á Skála-Mælifelli, Hraunsels-Vatnsfellum og Bratthálsi. Aldur bergsins er um 42.000 ár. Fyrir rúmum 40.000 árum lá þunnur jökull yfir Grindavíkurfjöllunum sem teygði sig um 4 km vestur og norður frá norðurhorni Fagradalsfjalls.
Festarfjall og Hraunsvík.
Festarfjall og Lyngfell eru stapar sem rof sjávar hafa klofið í herðar niður og myndað hæstu sjávarhamra á Rekjanesi. Einnig sjást innviðir þess, m.a. berggangur.
Fagradalsfjall er dæmi um móbergsstapa á utanverðum skaganum. Neðst er bólstraberg, síðan túff og brotaberg og efst er myndarleg hraunhetta, sem komin er frá dyngjugíg nyrst í fjallinu.
Slaga – berggangur.
Slaga er mynduð úr bólstrum og bólstrabrotum svo og hraunklessum og upp í þessar myndanir liggur gangur. Neðar við þær tekur við jökulriðið grágrýtislag, sem einnig nær undur Langahrygg og Fagradalsfjall.
Skála-Mælifell er móbergsfjall með rauðu gjalllagi undir hraunhettu á toppi fellsins.
Núpshlíðarháls er úr móbergi sem hefur myndast undir jökli í mörgum gosum, sem ekki hafa náð upp úr jöklinum. Meginþorri hans er frá síaðsta jökulskeiði, en í grunni hans geta verið eldri myndanir.
Latur, Latstögl og Latfjall eru röð móbergshnúka, aðallega móbergsbrotaberg.
Stærsti bólstri í heimi í Stapafelli.
Méltunnuklif er misgengisstallur rétt austan við Skála-Mælifell. Í klettanefi yst á því lesa upphleðslusögu svæðisins. Neðst er jökulrákað grágrýti, en ofan á það kemur þunnt jökulbergslag, því næst allþykk grágrýtislög (efra lagið er rispað af jökli) og ofan á þau nokkuð þykkt jökulbergslag sem hulið er móbergi.
Borgarhraun gæti hafa komið upp í gígum í sunnanverðu Fagradalsfjalli.
Höfðahraun er m.a. komið úr Höfðagígum og Moshólum, sem vegurinn liggur um. Hefur það runnið í sjó fram og myndað nokkra gervigíga og einnig er forn malarkambur í því rétt austan við Ísólfsskála.
Méltunnuklif.
Misgengið Méltunnuklif nær út í hraunið.
Það nær að Ögmundarhrauni. Þunnfljótandi hraunið hefur runnið út í grunna vík. Í stað hefðbundinna gervigíga úr gjalli mynduðust niðurföll, hraunborgir, hraunrásir, hellar, sappar (hraunsveppir) og holar súlur þegar heitt hraunið snöggkólnaði og breytti vatninu í háþrýsta gufu. Litluborgir, austan Helgafells, og jafnvel Dimmuborgir eru taldar hafa myndast á svipaðan hátt.
Ögmundarhraun rann um 1151. Hraunið rann frá Krýsuvíkureldum (1151-1188). Það þekur botn Móhálsadals sunna Djúpavatns, allt til sjávar. Inni í hrauninu eru Húshólmi og Óbrennishólmi í eldra hrauni, báðir með fornum minjum í frá upphafi landsnáms.
Nyrsti gígurinn í gígröð Ögmundarhrauns vestan Helgafells.
Krýsuvíkurbjarg er aðallega byggt upp af hraunlögum (grágrýti) og gjalllög Skriðunnar ljá berginu rauðan blæ. Skriðan og Selalda eru eldstöðvar sem gosið hafa í sjó og byggt upp eyjar úr gosmöl (virki og ösku) og hraunlögum. Grágrýtsihraunin hafa síðan tengt eyjar við fastalandið og kaffært þær að mestu. Strákar er ung móbergsmyndun vestan Selöldu. Hraunlögin í syllum Krýsuvíkurbergs eru sennilega komin frá Æsubúðum í Geitahlíð og eru frá síðasta hlýskeiði eða eldri en 120.000 ára.
Stóra-Eldborg.
Stóra-Eldborg er formfagur klepragígur, sem rís um 50 metra yfir umhverfið og er um 30 metra djúpur. Hraunin, sem runnu frá honum hafa myndað margar hrauntraðir.
Sveifluháls líkist Núpshlíðarhálsi, en er eldri og myndaður í fjölmörgum gosum, bæði á hlýskeiði- og kuldaskeiði. Upp úr honum ganga margir tindar, s.s. Hellutindar, sem er gosgangur. Sprengigígurinn Arnarvatn er upp á hálsinum þvert upp af Seltúninu, en þar er öflugt háhitasvæði.
Í Litluborgum.