Tag Archive for: fornleifar

Langihryggur

Leifar flugvéla frá stríðsárunum má sjá á 33 slysstöðum á Reykjanesskaganum, utan flugvalla. Bæði rákust flugvélarnar á fjöll og brotlentu vegna bilana eða voru skotnar niður. Síðastnefnda hópnum tilheyra leifar tveggja þýskra flugvéla sem hingað hafði verið flogið frá Noregi. Aðrar vélar tilheyrðu bandamönnum.

Fagradalsfjall

Fagradalsfjall – flugslys.

Í raun eru slysstaðirnir minjastaðir um þá er létust á vettvangi. Þess vegna ber að virða þá sem slíka.
Á öllum stöðunum má enn sjá ummerki, mismikil, rúmlega 80 árum eftir að atburðirnir gerðust. Af ljósmyndum, sem teknar voru á slysavettvangi, má yfirleitt sjá mikið brak, sem bæði vindur og vatn hefur síðan fært úr stað. Heillegir hlutir voru margir fjarlægðir skömmu eftir óhöppin, en mest hefur þó verið fjarlægt af ferðalöngum sem komið hafa og skoðað staðina á umliðnum árum. Ferðalangarnir hafa gjarnan tekið með sér hluti af staðnum til minningar um komu þeirra sjálfra á vettvang. Þeir hlutir hafa síðar smáms saman farið forgörðum enda til lítils yndis og engum til gagns í heimahúsum þar sem þeir hafa ekki verið í neinum tengslum eða samhengi við atvikin hverju sinni.

Kistufell

Hreyfillinn, sem fjarlægður var úr Kistufelli.

Leifar flugvélanna á vettvangi eru einu vísu staðfestingarnar hvar atburðurnir áttu sér stað. Þegar sérhver einn af hverjum 10 ferðalöngum taka með sér einn hlut er ljóst að ummerkin verða fljót að hverfa, eins og raunin hefur verið á. Horfnar leifar verða þeim sem á eftir koma hvorki til vitundar um staðsetninguna né staðfesting á því sem þar gerðist. Dæmi eru um að óheill hafi fylgt þeim, sem fjarlægt hafa hluti af vettvangi slysa.
Vettvangurinn – og allt sem á honum á að vera – er í rauninni, líkt og áður sagði, minningarummerki, bæði um atburðinn og þá sem þar annað hvort létu lífið eða, í sumum tilvikum björguðust. Það er því mikilvægt að fólk er þangað kemur láti alltaf allt þar óhreyft sem fyrr.

Bláfjöll

Gamla Grána – Brak á slysstað 1960.

Tvö stórtækari dæmi má nefna hér um hluti, sem fjarlægðir hafa verið af vettvangi flugslysa. Annað er hreyfill úr Bresku Gránu sem nauðlenti í Bláfjöllum 1945 og hitt er hreyfill úr Hudson-vél sem fórst í Kistufelli sama ár. Báða þessa hreyfla sótti Arngrímur Jónsson, flugstjóri, og félagar hans á slysavettvang og færðu að flugskýli á Tungubökkum í Mosfellssveit. Þar hafa hreyflarnir legið utan dyra undanfarin ár – engum til gagns.
Í slysaskráningaskýrslu hernámsliðsins hér á landi kemur m.a. fram að þann 6. febrúar 1945 hafi Avro Anson flugvél frá Konunglega breska flughernum hrapað eða nauðlent á svæðinu á milli Vífilsfells og Bolla.

Lönguhlíð

Brak við Kerlingagil.

Flugvélin var á leið frá Reykjavík til Hafnar í Hornafirði. Þrír voru í áhöfninni. Einn slasaðist alvarlega, en tveir minna. Þeir komust fótgangandi niður hlíðarnar, yfir þykkmosavaxið og úfið Rjúpnadalahraunið og alla leið að Rjúpnahæð, þar sem þeir gátu tilkynnt óhappið. Lýsing: „Stjörnuhreyfill sést vel á vettvangi sem og aðrar leifar, s.s. hluti hjólastells, gluggarammi, vélarhlutar o.fl. Nokkuð af þunnum spýtum voru á vettvangi og sást vel hvernig tréverkið hafði verið fest við járnhluta, en eins og kunnugt er var grind vélarinnar úr tré og klæðning að hluta úr striga.“ Ekki var síðar að sjá vélarhluta með merkjum eða númerum. Arngrímur og félagar tóku hinn stjörnuhreyfilinn og færðu, því miður, á fyrrnefndan stað.

Kastið

Kastið – gripur, sem hirtur var úr flugvélaflakinu.

Dæmi um ófarnað ferðalangs sem fjarlægði hlut af vettvangi má nefna sögu manns er heimsótti Kastið utan í Fagradalsfjalli þar sem skoðuð var flugvél sú er Andrews yfirhershöfðingi Evrópuherafla Bandaríkjamanna í Seinni heimstyrjöldinni. Um var að ræða mesta flugslys hér á landi á þeim tíma. Í einni ferðinni þangað vildi Ferðalangurinn ólmur taka með sér bráðinn álbút til minningar um þennan sögufræga atburð. Reynt var telja hann frá því þar sem bölvun hvíldi á hverjum þeim er það reyndi. Hann þráaðist við og ákvað að taka með sér hlut úr flugvélabrakinu. Á bakleiðinni uppgötvaðist að hann hafði týnt gleraugunum sínum, farsímanum og krítarkortinu, hlutum sem hvað mikilvægastir eru nútímamanninum. Hann ákvað að fara til baka og skila hlutnum, en gripirnir eru enn ófundnir. Ef hann ætlar að endurheimta þá þarf hann væntanlega að fara á Vörðufell í Selvogi og hlaða þar vörðu. Skv. þjóðsögunni á hann þá að endurheimta gripina – en það er nú önnur saga.
Framangreind dæmi vekja upp þá hugsun hvort ekki eigi að ríkja friðhelgi á vettvangi flugslysa hér á landi. Sú hlið, sem snýr að þessum málum, er og hefur verið í hálfgerðu lamasessi, a.m.k. hingað til…

Huldur

Brak úr flugvélinni í Huldum á Sveifluhálsi.

Minnisstæðir eru tveir atburðir er tengjast erlendum afkomendum þeirra er fórust í flugslysunum. Annars vegar var um að ræða fólk er vildi leita uppi torfinnanlegan slysstað í Núpshlíðarhálsi og hins vegar afkomendur þeirra er létust í flugslysinu í Sveifluhálsi oafn Ytri-Stapa.
Gat leiðbeint báðum hópunum á slysstaðina, en þá var þar fátt að sjá, en ummerki þó. Í síðarnefnda tilvikinu tók frumkvöðull hópsins fram hnapp, sem verið hafði á einkennisbúningi forvera hans, rétti mér hann og sagði: „This is the only remains we have of him“.
Við grófum hnappinn saman í jörð slysstaðarins – til minningar um þann og þá er þar fórst með félögum sínum – fyrir 82 árum…

Kastið

Á slysavettvangi í Kastinu.

Úlfarsfell

Nafn fellsins, Úlfarsfell, kemur fyrst fram í fornu skjali, Hítardalsbók frá 1367 og svo í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín. Líklegast má telja að nafnið sé komið frá mannanafninu Úlfar. Fellið er 296 metra hátt og er afar vinsælt til gönguferða en einnig nýtir svifdrekafólk sér fellið í sína iðju.

Úlfarsfell

Úlfarsfell – kort.

Grímur Norðdahl segir frá örnefnum í landi Úlfarsfells árið 2002: „Um jörðina Úlfarsfell: Ein elsta heimild um Úlfarsfell er Vilkinsmáldagi, en þar segir: „Þollaks kirkia ad Reykiumm a land ad Wlfarsfelli.“
Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns segir m.a. að Úlfarsfell hafi verið kirkjueign bóndajarðar Suður-Reykja, taldist hún 10 hundraða jörð og kostarýr.

Ein elsta heimild um Úlfarsfell er Vilkinsmáldagi, en þar segir: „Þollaks kirkia ad Reykiumm a land ad Wlfarsfelli.“
Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns segir m.a. að Úlfarsfell hafi verið kirkjueign bóndajarðar Suður-Reykja, taldist hún 10 hundraða jörð og kostarýr.

Í Örnefnalýsingu Ara Gíslaonar fyrir Lágafell sgeir m.a.: „Ofar eru Hvammar meðfram Úlfarsfelli, og Lágafellshamrar heita utan í því. Undir hömrunum er fjárhús eða beitarhús frá Lágafelli…

Lágafellshamrar

Lágafellshamrar – fjárhús.

Langholt er holtið nefnt, sem er norður af Hulduhólum. Mýrin, þar sem nú er risin byggð, heitir Sauðhúsmýri. Innar eru Lágafellsmýrar, og Norðurmýri er norðanvert við túnið á Lágafelli. Börð aðskilja Sauðhólsmýri frá Skarhólamýrinni. Ofar eru Hvammar meðfram Úlfarsfelli, og Lágafellshamrar heita utan í því. Beint á móti bæ og uppi eru tveir hnúkar, sem heita Litlihnúkur og Stórihnúkur.

Úlfarsfell

Úlfarsfell – hlaðið byrgi á Stórahnúk.

Byrgið er steinhlaðið úr grjóti sem er um 20-30 cm á lengd og 10-15 cm á breidd. Hæð veggja er um 60-65 cm, op í norðvestur, aðeins er hrunið í opið en samt vel greinilegt. Byrgið er hlaðið norðvestan í lítinn grjóthól ofan á klöpp, lítill gróður er á svæðinu. Austur og uppaf um 3 m frá er varða (258-63).

Í lýsingu Freyju Jónsdóttur í Dagur/Tíminn 1996 lýsir hún Úlfarsfelli. Þar getur hún um fjárhús frá bænum í Myrdal á Úlfarsfelli: „Neðan við Mýrdalsmýri er lítið fjárhús með heytóft“.

Úlfarsfelll

Úlfarsfell – fjárhús í Mýrdal.

Hvergi í Fornleifaskráningum vegna framkvæmda á og við Úlfarsfell, Fornleifaskráningum fyrir Mosfellsbæ eða Fornleifaskráningu fyrir Úlfarsfell er minnst á fjárhústóftina undir Lágafellshömrum, fjárhústóftina í Myrdal á Úlfarsfelli eða fjárborg á bökkum Úlfarsár í landi Úlfarsfells.

FERLIRsfélagar leituðu uppi og skoðu minjarnar árið 2025.

Lágafellshamrar

Lágafellshamrar – fjárhústóft.

Fjárhústóftin frá Lágafelli undir Hömrunum er óvenju stór, hlaðin að hluta og að hluta til grafinn inn í brekku. Hún er nánast orðin jarðlæg en er samt sem áður vel greinileg.

Fjárhústóftin í Mýrdal á grónu svæði syðst í dalnum. Hún er vel greinanleg, snýr dyrum mót suðri og að baki hennar er hlaðin heytóft.

Úlfarsfell

Úlfarsfell – fjárborg.

Fjárborgin suðaustan bæjarins að Úlfarsfelli er ofan bakka Úlfarsár. Hún er hringlaga og að mestu byggð úr torfi. Í fjarlægð lítur hún út fyrir að vera gróinn hóll, en þegar nánar er að gáð fer ekki á milli mála að um fjárborg hefur þar verið um að ræða.

Heimild:
-Dagur/Tíminn, 195. tbl. 12.10.1996, Úlfarsfell, Freyja Jónsdóttir, bls. 11.
-Úlfarsfell. Grímur Norðdahl, Magnús Guðmundsson 2002 (2002).
-Ari Gíslason – Örnefnalýsing fyrir Lágafell.

Úlfarsfell

Úlfarsfell – fjárhústóft í Mýrdal.

Herdísarvíkrugata

Við Herdísarvíkurgötu  á Deildarhálsi, hina fornu leið milli Herdísavíkur vestan Selvogs og Krýsuvíkur, er skilti Náttúruverndarstofnunar og Minjastofunar Íslands. Á skiltinu má lesa eftirfarandi:

Herdísaríkurgata

Herdísarvíkurgata – skilti.

„Herdísarvíkurgata liggur milli bæjanna Herdísarvíkur og Krýsuvíkur. Hún er að einhverju leiti vörðuð og sést á nokkrum stöðum að hún er grafin í hraunið eftir fætur manna og hesta sem notað hafa götun[a] í gegnum tíðina. Leiðin hlykkjast í gegnum hraun og meðfram hlíðum fjalla og á einstaka stað er hún rofin vegna nútíma vegaframkvæmda. Gamlar götur finnast víða og lágu þær á milli bæja, kirkjustaða, verbúða, verslunarstaða eða landshluta.
Mikilvægt er að ganga ofan í förunum til að viðhalda þeim svo ekki grói yfir þau. Þessar götur og vörður eru friðaðar fornleifar.“

Kortið á skiltinu er af Herforingjaráðskortinu frá 1910. Vegur frá Hafnarfirði til Krýsuvíkur var lagður 1937 að Kleifarvatni. Árið 1945 var hann kominn í Krýsuvík og hringtengingu frá Hafnarfirði að Herdísarvík og áfram austur var lokið árið 1949. Árin 1946 og ’47 var síðan lagður akfær vegur milli Ölfus og Grindavíkur. Sá vegur hefur að nokkru leyti legið í farvegi þess vegar er hinn nýi Suðurstandarvegur var opnaður árið 2012.

Herdísarvíkurgata

Herdísarvíkurgata 1910 – Herforingaráðskort.

Kringlumýrarsel

Selsstöðunnar í Kringlumýri ofan Krýsuvíkur (Húshóma) í umdæmi Grindavíkru er hvergi getið í heimildum né í fornleifaskráningum af svæðinu. Hún var því vel frekari rannsóknarinnar virði, en FERLIRsfélagar fundu minjarnar fyrir u.þ.b. tveimur áratugum á ferð þeirra um svæðið.

Hettustígur

Hettustígur.

Hvort sem þarna hafi verið kúasel eða fjársel breytir í rauninni litlu um gildi fundarins því næsta öruggt má telja að selstaðan kunni verið mjög forn, mögulega frá hinum fornu bæjarleifum í Húshólma, hinni fornu Krýsuvík. Vegarlengdin þangað er um 6.5 km. Enn má rekja selstíginn frá hraunjarðri Ögmundarhrauns (rann 1151) ofan Krýsuvíkur-Mælifells í selstöðina. Þetta er sjöunda selstaðan, sem FERLIR hefur staðsett í landi Krýsuvíkur.

Genginn var stígur frá austanverðum Vigdísarvöllum upp í gegnum neðanverða Smérdali undir Hettu vestanverðri, svonefndur Hettustígur. Stígurinn liggur upp með læk uns hann greinist í tvennt, annars vegar í göngustíg og hins vegar í hestagötu skammt ofar. Göturnar sameinast í eina skammt ofar þar sem útsýni birtist yfir Innradal norðan Bleikingsdals austan Slögu. Bleikingsdalur er grösugur og skjólsæll dalur er lækur hríslast um hann miðjan.

Kringlumýri

Innridalur.

Hettustígurinn liggur áfram áleiðis upp með Hettu vestanverðri, en áður en hann liggur á brattann er slóði til suðurs, yfir lítinn læk Bleikingsdals ofanverðan. Slóðinn er kindargata. Hún liggur inn að Kringlumýri. Eftir að hafa klofað auðveldlega yfir lítinn læk og klöngrast léttilega upp á ofanverða mýrina var gangan auðveld inn að selstóftunum, sem hvíla ofan grafins lækjarfarvegs efst og austast á þurru grasigrónu svæði.

Kringlumýrarsel

Kringlumýrarsel.

Sestaðan er gróin sporöskulaga „bæjarhóll“. Í honum má greina óregluleg rými á a.m.k. þremur stöðum. Ekki er neinum vafa undirorpið að þarna eru mannvistarleifar, mjög fornar, mögulega þær elstu hér á landi. Greina má reglulegar grjóthleðslur í tóftunum. Miðað við umfang og hæð tóftasamstæðunnar virðist hún hafa verið notuð um allnokkrun tíma. Þegar staðið er við selið efst í Kringlumýrinni og horft til suðurs má sjá startjörn í fornum gíg fjærst, en allt svæðið neðanvert rís vel undir örnefninu því segja má að það sé nánast allt samfeld mýri. Af aðstæðum að dæma má telja líklegt að þarna hafi verið kúasel þar sem kýr og gjeldfé hafa verið haft í seli yfir sumartímann.

Kringlumýrarsel

Kringlumýrarsel.

Fyrir einhverja tilviljun hafði stunguskófla verið með í för. Hvernig er hægt að hemja áhugasamt fólk þegar „sérfræðingarnir“ hafa brugðist ítrekað? Á meðan þátttakendur snæddu nestið sitt undir grasi grónum bakkanum ofan við selið hafði einhverjum, öllum að óvörum, dottið í hug að grafa holu í tóftarhólinn. Í henni kom í ljós, að því er virtist, að landnámsöskulagið svonefnda liggur ofan á minjunum. Öðrum datt í hug að stinga niður þverskorinni mælistöng. Í ljós komu kolagnir. Það styrkir þá trú að þarna hafi fyrrum verið selstaða frá Húshólmabæjunum, enda liggur sama öskulagið þar yfir minjum, s.s. görðum, sem þar neðra er að finna. Ekki er ólíklegt að ætla að hér hafi verið um byggð kelta eða papa um nokkurra ára skeið, jafnvel áratuga, áður en norrænir menn festu ráð sitt hér á landi.
Þess var vel gætt að frágangur væri með þeim hætti að hvergi var ör að sjá á jörð.

Frábært veður. Gangan tók 2 kst og 2 mín.

Kringlumýrarsel

Kringlumýrarsel.

Reykjavík

Fúlutjarnarlækur í landnámi Ingólfs, síðar í umdæmi Seltjanarneshrepps og loks Reykjavíkurbæjar (reyndar um stund í umdæmi Reykjavíkurborgar frá 1908) var afrennsli frá Kirkjumýri og Kringlumýri og var farvegur hans að mestu leyti vestan við núverandi Kringlumýrabraut. Fúlutjarnarlækur var talinn illur yfirferðar í miklum rigningum og leysingum. Nafnið dregur hann af Fúlutjörn, sem var hálfgert sjávarlón ofan vestanverðan Kirkjusand. Lyktaði hún jafnan af rotnandi gróðri og var til lítils nýtanleg.

Reykjavík

Reykjavík – skipulag 1947.

Fúlatjörn, var sem fyrr segir, tjörn eða lón í norðaustanverðri Reykjavík, við sjávarborðið vestan við Kirkjusand, þar sem Borgartún og Kringlumýrarbraut mætast núna. Þegar Borgartún var fyrst lagt, lá það að hluta á brú yfir Fúlutjörn. Á meðan Kringlumýri var eiginleg mýri, þá rann lækur eða framræsluskurður úr henni og endaði norður í Fúlutjörn. Tvær aðrar brýr voru byggðar yfir Fúlutjarnarlæk fyrir og eftir aldamótin 1900; á Suðurlandsvegi og á Laugarnesvegi. Í öllum tilvikum var um að ræða steinhlaðnar brýr með trégólfi.

Reykjavík

Reykjavík – Fúlutjarnarlækur.

Svæðið sem hér er fjallað um nær yfir hluta af því landi sem á öldum áður tilheyrði jörðunum Rauðará og Lauganesi. Samkvæmt landamerkjalýsingu frá árinu 1883 lágu merki á milli þessara jarða eftir Fúlutjarnarlæk, frá sjó að upptökum hans við Ámundaborg, en samkvæmt eldri landamerkjalýsingum lágu merkin austar, þ.e.a.s. frá Ámundaborg sjónhendingu í stein á Kirkjusandi sem nefndur var Stúlknaklettur (Stúlkuklettur). Munnmæli segja að einhvern tíma hafi vanfær vinnukona í Laugarnesi horfið, en svo fundist við þennan stein ásamt tveimur stúlkubörnum. Hornmark Rauðararár, Reykjavíkur og Laugarness lá um Ámundaborg sem var fjárborg. Ámundaborg er löngu horfin en hefur verið þar sem býlið Lækjarhvammur var, nálægt því þar sem Lámúli 4 er nú ofan Suðurlandsbrautar og austan Kringlymýrarbrautar.

Reykjavík

Reykjavík 2024.

Fúlutjarnarlækur var afrennsli frá Kirkjumýri og Kringlumýri og var farvegur hans að mestu leyti vestan við núverandi Kringlumýrabraut. Fúlutjarnarlækur var talinn illur yfirferðar í miklum rigningum og leysingum. Fyllt var upp í Fúlutjörn og var því lokið um 1960. Fúlutjarnarlækur var settur í stokk árið 1957 og er því ekki sýnilegur lengur. Lækurinn var jafnframt nefndur Laugalækur sem afrennsli frá Þvottalaugunum og rann um Laugamýri (Laugardal), vestan við Laugarás. Laugalækur var settur í stokk árið 1949 og gata sem er á svipuðum slóðum nefnd eftir honum.

Reykjavík

Herforingjarráðskortið 1902 – örnefnaskrárlisti.

Í nýlegum fréttum Mbl.is og Rúv.is 26. júlí 2025 er fjallað um „horfna brú talin fundin undir Suðurlandsbraut“. Í báðum tilvikum er vitnað í vefmiðlilinn Sarpur.is. Þar segir m.a.: „Brúin var merkt inn á kort frá 1902 þar sem Laugavegur lá yfir Fúlutjarnarlæk, nú er þar Suðurlandsbraut. Líklega var þetta trébrú á steinhlöðnum stólpum. Fúlutjarnarlækur var settur í rör/stokk um og eftir 1957 og kallað þá Kringlumýrarholræsi, það er en í notkun og er það aðeins vestan við gömlu brúnna. Líklega hefur herinn breikkað brúnna en Suðurlandsbraut var eina af aðalleiðunum út úr bænum, en vestari búin á Elliðaánum var þá gerð úr steypu og brúin yfir eystri kvíslina var þá líka endurgerð með steypu 1941.

Í ljós kom sumarið 2025 við framkvæmdri Orkuveitunnar, mannvirki sem líklega er þessi brú.

Brúin var talinn horfinn, en líklega er hún það ekki, í ljós kom mannviki sem gæti verið hún, steinhlaðnir stólpar, undir steyptu brúargólfi, þar sjást um 5 raðir af tilhögnu grágrýti, líklega hefur það verið sótt í grjótnámuna á Rauðaárholti fyrir norðan Sjómannaskólann. Áður hefur líklega verið timburgólf á þessari brú. Seinna hefur brúin verið breikkuð til norðurs. Þá hafa stólparnir verið steyptir og líklega hefur þá verið steypt nýtt brúargólf. Austan við brúnna er mikið grjópúkk.

Reykjavík

Fúlutjarnarlæksbrú opinberuð 2025.

Líklegt er að bandaríski herinn hafi breikkað brúna til norðurs en Suðurlandsbraut var þá ein af aðalleiðunum út úr bænum.“

Undir brúnni eru fimm raðir af tilhöggnu grágrýti er bendir til að brúin hafi verið byggð öðru hvoru megin við aldamótin 1900.

Úr miðbæ Reykjavíkur og inn að Þvottalaugum eru rúmir 3 km. Sú leið var ekki hættulaus og gat orðið æði torsótt í svartamyrkri. Úr Lækjargötu lá leiðin upp Bankastræti. Á móts við Laugaveg 18 eða 20 beygðu þvottakonur niður í Skuggahverfi. Þær þræddu síðan strandlengjuna og reyndu að fylgja götutroðningum uppi á bakkanum fyrir ofan fjöruna.

Reykjavík

Reykjavík – brúin yfir Suðurlandsbraut á Fúlutjarnarlæk.

Þegar komið var að Fúlutjarnarlæk var snúið upp frá sjónum og yfir Kirkjumýri sem var blaut og keldótt. Fúlutjarnarlækur gat orðið erfiður farartálmi í votviðri. Þá breyttist lækurinn í stórfljót sem þvottakonur komust ekki yfir nema á fjöru.
Göngumóðir laugagestir komu örugglega gegnvotir til fótanna í áfangastað. Íslenskar alþýðukonur áttu fæstar vatnsstígvél fyrr en á fyrstu áratugum líðandi aldar.

Þvottalaugar

Þvottalaugarnar í Laugardal.

Á haustdögum árið 1885 var byrjað að leggja veg inn að Þvottalaugum, Laugaveginn. Fimm árum síðar var hann loks fullgerður. Eftir það fóru konur að nota heimasmíðuð farartæki til laugaferða. Þau voru af ýmsum gerðum og sum býsna frumleg.
Hjólbörur og litlir fjórhjólaðir vagnar voru algengastir. Kerrur sem konum var beitt fyrir í stað hesta komu til sögunnar í aldarlok. Á vetrum þegar snjór var á jörðu komu sleðar sér vel til laugaferða.

Þvottalaugar

Þvottalaugarnar um 1900.

Þá drógu drengir oft sleðana fyrir mæður sínar. Þvottakonur treystu þó varlega dragfærinu. Þegar þær höfðu unnið á óhreinum fatnaði var snjórinn stundum horfinn. Þess eru dæmi að konur og börn hafi borið sleða og annan farangur heim úr Þvottalaugunum. Í úrkomutíð óðu Reykvíkingar leðjuna á Laugaveginum í ökkla. Þá gat orðið illfært heim úr Laugunum með blautan þvott á frumstæðum hjólatíkum.

Fyrstu reglubundnar áætlunarferðirnar í Reykjavík inn að Þvottalaugunum hófust í júníbyrjun árið 1890. Þá var kominn vagnfær vegur heim að þvottahúsi Thorvaldsensfélagsins. Þetta voru fyrstu áætlunarferðir í Reykjavík enda höfðu aldrei fyrr verið aðstæður fyrir hestvagna í vegleysunum í bænum.
ÞvottalaugarVagninn var fjórhjólaður og gat tekið allt að átta menn í sæti. Einn eða tveir hestar drógu hann. Hestvagninn var ekki notaður til að flytja fólk inn í Laugar heldur þvott.
Laugapokar Reykvíkinga voru sóttir heim til þeirra sem bjuggu við akfæra vegi. Hinir urðu að koma þvottinum á ákveðinn móttökustað í bænum. Þvottakonur urðu enn sem fyrr að fara fótgangandi í Laugarnar. Þar gátu þær tekið óþreyttar til hendinni ef hestaflið létti laugapokaklyfjunum af þeim. Of fáir Reykvíkingar voru hins vegar reiðubúnir að greiða fyrir þjónustuna. Þessar fyrstu áætlunarferðir í bænum lögðust því fljótt niður.

þvottalugarHið íslenska kvenfélag var stofnað í Reykjavík árið 1894. Á öðru starfsári ákvað það að „létta af kvenfólki hinu þunga oki, laugaburðinum.“
Kvenfélagið hóf laugaferðir um miðjan maí árið 1895 undir fyrirsögninni „Laugaferðir“. Félagskonur hugðust þannig koma í veg fyrir að kynsystur þeirra væru notaðar sem áburðarklárar í Þvottalaugarnar. Í árslok höfðu rúmlega 600 pokar fullir af þvotti verið fluttir í Laugarnar. Réttu ári síðar neyddist Kvenfélagið til að leysa flutningafyrirtækið upp. Fjölmörg heimili í bænum gátu ekki pungað út aurum fyrir akstri á þvotti.

Sagan segir að þegar Anna kom inn í Þvottalaugar varð hún að standa úti við vinnuna. Bæjarbúar höfðu ekki hirt um að endurreisa þvottahúsið sem fauk árið 1857. Starfssystur Önnu höfðu mátt strita óvarðar fyrir veðri og vindum við þvottana í tæpa þrjá áratugi. Náttmyrkur var skollið á þegar hún lauk við þvottinn. Þá arkaði hún af stað heim með allt sitt hafurtask á bakinu.

Þvottalaugar

Þvottalaugarnar.

Anna hafði unnið sér til hita í Þvottalaugunum. Hún hefur sennilega ekki veitt því athygli að þíða hafði leyst frostið af hólmi. Þegar Anna kom að Fúlutjarnarlæk hugðist hún fara yfir hann á snjóbrú.
Lækurinn var hins vegar búinn að éta neðan úr henni í blotanum. Snjóbrúin brast undan Önnu og hún féll í lækinn.
Morguninn eftir fannst hún örend liggjandi á grúfu í Fúlutjarnarlæk. Balinn og blautur þvotturinn með öllum sínum þunga hvíldu á Önnu.

Reykjavík

Reykjavík – Fúlutjarnarlækur og brýrnar þrjár skv. Herforingjaráðskorti 1902.

Talið er líklegt að Fúlutjarnarbrýrnar þrjár; á Borgartúni, Laugarnesvegi og Suðurlandsbraut, hafi verið byggðar fljótlega eftir framangreint slys, ekki endilega vegna þess heldur ekki síður vegna vaxandi áhyggna af velferð fólks og stækkandi byggðar Reykjavíkur til austurs og aukinni ásókn fólks í Þvottalaugarnar…

Árið 1917 ákvað bæjarstjórn Reykjavíkur að hefja skipulagðar laugaferðir. Fjórir móttökustaðir víðsvegar um bæinn tóku á móti farangri Reykvíkinga í Þvottalaugarnar.
Laugakeyrslan hófst 16. júní en mest var flutt í september og október. Í árslok 1917 var búið að flytja 72 tonn í Þvottalaugarnar. Árið 1918 voru flutt rúm 161 tonn og árið eftir tæplega 178.

Reykjavík

Kamar fínna fólksins eftir aldamótin 1900. Alþýðan þurfti að lá sér nægja holu í fjöl.

Reykvíkingar sendu raunar fleira en þvott með hestvagninum. Hann var hlaðinn bölum, fötum, körfum, þvottabrettum og nokkrar þvottavindur slæddust jafnvel með. Á árunum 1918-1919 var mest flutt á vormánuðum en minnst í desember. Harðindaveturna 1918 og 1919 voru afurðir kamra bæjarbúa fluttar inn að laugunum í þeim til gangi að afþýða úrganginn og losa sig við hann í Laugalæk.

Á millistríðsárunum dró töluvert úr aðsókn í Þvottalaugarnar. Hún jókst þó aftur eftir að Ísland var hernumið í maímánuði árið 1940. Fjölmargar konur í Reykjavík tóku að sér þvotta fyrir hernámsliðið. Í árslok 1940 unnu um 200 konur í bænum við þvotta. Þá fengu þær greiddar 2 krónur fyrir þvott af einum hermanni.

Á vormánuðum árið 1928 ákvað bæjarstjórn Reykjavíkur að kaupa jarðbor og byrja rannsóknir á jarðhita í bæjarlandinu. Haglaborinn sem bærinn keypti var jafnan nefndur Gullborinn. Mastrið á bornum er þrífótur úr stálrörum, sex til sjö metra hár. Gullbornum fylgdu um 300 m af borstöngum en hann gat í raun borað helmingi dýpri holur.

Þvottalaugar

Þvottalaugarnar – Gullborinn.

Á árunum 1928-1942 var byrjað á 15 borholum í Þvottalaugunum og næsta nágrenni, m.a. við Lækjarhvamm. Af þeim var lokið við 14 holur. Boranir hófust 26. júní árið 1928 og var að mestu lokið 19. maí 1930. Rafmagnsveita Reykjavíkur stóð að þessum jarðborunum í Laugunum. Kanna átti möguleika á því að nota gufuna til þess að framleiða rafmagn. Það höfðu Ítalir gert með góðum árangri á jarðhitasvæði hjá Larderello nálægt Toskana.
Vatnið í borholunum við Þvottalaugarnar reyndist þó ekki nógu heitt til að nýta mætti gufuna til rafmagnsframleiðslu. Þá lagði Rafmagnsveita Reykjavíkur til að vatnið yrði notað til að hita hús.

Reykjavík

Reykjavík – þvottalaugarnar.

Hitaveita Þvottalauganna var lögð árið 1930. Aðalborholur borgarinnar voru í landi Lækjarhvamms, neðan við Lágmúla 4, gegnt umfjallaðri brú fjölmiðlanna fyrrum yfir Fúlutjarnarlæk.

Nauðsynlegt er að gera umfjallaðrar minjar sýnilegar borgarbúum og gestum þeirra er eiga gangandi leið um sunnanverða Suðurlandsbraut austan Kringlumýrarbrautar að viðbættu söguskýringarskilti á nefndum stað brúarinnar yfir Fúlutjarnarlækinn fyrrum. Allar minningar um tilurð borgar eru mikilvægar. Brúargerðin ber öll merki um búargerð fyrir og um aldamótin 1900.

Heimildir:
-https://is.wikipedia.org/wiki/F%C3%BAlatj%C3%B6rn
-https://ferlir.is/kirkjusandur-sagan/
-https://www.ruv.is/frettir/innlent/2025-07-26-horfin-bru-talin-fundin-undir-sudurlandsbraut-449507
-https://sarpur.is/Adfang.aspx?AdfangID=2463149

Reykjavík

Reykjavík – Þvottalaugar.

Reykjavík

Í Árbók Hins íslenska fornleifafélags árið 1994 skrifar Ragnar Edvardsson um „Fornleifar á Arnarhóli„:

Saga Arnarhóls

Ragnar Edvardsson

Ragnar Edvardsson.

„Í rituðum heimildum er Arnarhóls sjaldan getið. Elsta heimild þar sem jarðarinnar er getið er frá 16. öld og var Arnarhólsjörðin þá sjálfstæð eign, og átti hana Hrafn Guðmundsson bóndi í Engey. Árið 1534 gaf Hrafn síðan Viðeyjarklaustri jörðina. Árið 1642 var Arnarhóll eign konungs. Árið 1787 var stofnaður kaupstaður í Reykjavík og kaupstaðarlóðin mæld út. Í
skjalinu varðandi þetta kemur fram að konungur hefur ætlast til að Arnarhóllinn skuli leggjast við Reykjavíkurlóðina. Þetta fórst þó fyrir og Arnarhóll lenti fyrir utan lóðina. Upp kom deilumál og þurfti Reykjavík síðar meir að kaupa jörðina. Í febrúar 1835 var ýmsum bújörðum í nágrenninu þ.á m. Arnarhól bætt við bæjarlandið og hefur Arnarhóll síðan tilheyrt Reykjavík.

Arnarhóll

Málverk Aage Nielsen frá um 1960 af stiftamtmannshúsinu nálægt 1820 (sem fáum árum áður var tugthús) og næsta umhverfi. Í bakgrunni má sjá torfbæinn Arnarhól, sem rifinn var 1828 og einnig Arnarhólstraðir sem var þjóðleiðin til Reykjavíkur um aldir. Myndin er lífleg og skemmtileg en taka verður hana með fyrirvara. Athygli vekur hversu fjallgarðurinn í kringum Reykjavík er fjarri raunveruleikanum. Danski fáninn áberandi, enda Reykjavík nánast danskur bær á þessum tíma.

Arnarhóll þótti hið myndarlegasta býli þar til tugthús var reist syðst á Arnarhólstúninu á árunum 1759-64. Þá fór að halla undan fæti og hálfri öld síðar var bærinn orðinn mjög hrörlegur. Ástæðumar má rekja til þess að tekjur Arnarhóls voru lagðar til reksturs tugthússins og smám saman fengu einnig ýmsir embættismenn tugthússins jörðina til eigin afnota.
Fyrstu ábúendur Arnarhóls, sem getið er í heimildum, voru Tómas Bergsteinsson, fæddur 1652 og Guðrún Símonardóttir. Þau bjuggu þar árið 1703 ásamt bróður Tómasar, Jóni Bergsteinssyni. Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns stendur að Tómas hafi búið á hálfri jörðinni og Jón á hálfri. Heimilismenn hjá Tómasi voru sex og fimm hjá Jóni. Samkvæmt þessu hefur Arnarhólsbýlið verið tvíbýli. Auk þessara heimilismanna hafa 6 heimilismenn á Litla-Arnarhóli nytjað gögn Arnarhóls og að auki tveir tómthúsmenn og einn húsmaður, samtals ríflega 20 manns á hólnum 1703.

Arnarhóll

Sölvhóll – bærinn. Sambandshúsið í bakgrunni.

Í Jarðabókinni kemur ekkert fram um húsakynni en sitthvað annað kemur þar fram. Leigukúgildi voru tvö hjá Tómasi og Jóni árið 1703, eitt hjá hvorum bónda. Leigur voru borgaðar með smjöri til Bessastaða eða Viðeyjar. Ennfremur voru á jörðinni 4 kýr, 29 sauðkindur og 8 hross, en Arnarhólsbændur hafa lifað meira af sjó en landi.“ Hvorki voru engjar né úthagar. Frá bænum var róið árið um kring en rekavon var lítil og sömuleiðis fjörugrasatekja. Lending var góð undan hólnum og lentu kóngsskip þar stundum. Sjór gekk iðulega yfir tún og vatnsból þraut oft. Landskuldir býlisins voru greiddar með 3 vættum og 6 fjórðungum af fiski í kaupstað.

Arnarhóll

Arnarhóll – upplýsingaskilti.

Kvaðir Arnarhólsbænda voru ýmsar t.d. að flytja Bessastaðamenn til Viðeyjar og til baka hvenær sem þeim þóknaðist bæði á nóttu sem degi. Þessu til viðbótar komu tveir dagslættir í Viðey á ári, einn á hvorn bónda og skyldi bóndinn fæða sig sjálfur í þessum ferðum. Við til húsaviðgerðar áttu bændur að útvega sér sjálfir en torf og eldivið sóttu þeir í land Reykjavíkur.
Eins og áður hefur komið fram fengu embættismenn fangelsisins býlið til ábúðar sem launauppbót. Fyrir utan þessa embættismenn bjuggu ýmsar fjölskyldur á Arnarhóli uppfrá þessu, en þær stóðu oftast stutt við.

Síðasti ábúandinn á Arnarhóli var Sveinn Ólafsson. Þar bjó hann til ársins 1828. Hann var faðir Málfríðar sem þótti fríðust kvenna í Reykjavík um 1830.
Árið 1828 þótti Arnarhólsbýlið vera kaupstaðnum til mikillar óprýði. Það var Peter Fjelsted Hoppe stiftamtmaður sem stóð fyrir því að rífa býlið og þótt það gott framlag til fegrunar bæjarins.

Arnarhóll.

Sumarið 1930, séð yfir miðbæinn, Arnarhóll og styttan af Ingólfi Arnarsyni í forgrunni. Hverfisgata, Lækjartorg, Hafnarstræti, Kalkofnsvegur ofl. Verið að heyja á Arnarhóli.

Á þessum tíma var býlinu lýst sem kofaþyrpingu eða rústum, þannig að ekki hafa bæjarhúsin verið ásjáleg seinustu ár sem þau voru í notkun.
Oft var rætt um það í skipulagsnefnd Reykjavíkur hvort nota ætti Arnarhólinn sem byggingarlóð eða hvernig mætti nota svæðið. Ýmsar hugmyndir komu fram en síðan var ákveðið að stytta Ingólfs Arnarsonar landnámsmanns skyldi standa efst á hólnum.“
Haustið 1923 var hafist handa við að reisa stall undir styttuna og í febrúar 1924 var styttan síðan alhjúpuð að viðstöddu miklu fjölmenni. Styttuna gerði Einar Jónsson en Iðnaðarmannafélag Reykjavíkur sem stofnað var árið 1867, stóð fyrir framkvæmd verksins. Við framkvæmdirnar komu upp ýmsir gripir og var skrifað um það í blöðin hvort ekki ætti að rannsaka hólinn en ekkert var gert. Svo virðist sem staðsetning Arnarhólsbýlisins hafi verið algerlega gleymd um 1920, 92 árum eftir að það var rifið.

Fornleifarannsókn á Arnarhóli

Arnarhóll

Arnarhóll – fornleifauppgröftur.

Framkvæmdir á háhólnum hófust austantil og eftir u.þ.b. eins metra gröft rakst grafan í stein. Þegar hreinsað hafði verið frá var greinilegt að hér var komið niður á bæjarrústir. Við blasti að fornleifarannsókn yrði að gera og því voru framkvæmdir stöðvaðar á meðan að rannsókn fór fram. Allt rannsóknarsvæðið var u.þ.b. 10 x 16 metrar og var grafið frá júníbyrjun og fram í nóvember. Svæðinu var skipt í þrjú minni svæði, A, A1 og A2, og voru svæðin grafin jöfnum höndum.
Við uppgröftinn kom í Ijós að um tvö mannvirki var að ræða, hvort ofan á öðru. Það efra var lítið og hafði orðið fyrir miklu raski af völdum framkvæmdanna um 1924. Sennilegt þykir mér að það hafi verið rétt eða garður frá síðustu öld því engin merki um gólf sáust þar.
ArnarhóllSeinna mannvirkið var miklu stærra og náði yfir allt rannsóknarsvæðið. Fljótlega var greinilegt að þetta mannvirki var leifar torfbæjar sem staðið hafði á hólnum. Heimildir bentu til að hér væri Arnarhólsbýlið sjálft (4. mynd).

Komið var niður á tvö bæjarhús og hellulögð bæjargöng, og snéri rústin í norður og suður. Sennilega hefur verið gengið inn í bæinn vestanmegin, á þeirri hlið sem snýr að miðbænum. Rústin sjálf var illa farin, bæði vegna þess að býlið hafði verið jafnað við jörðu árið 1828 og að framkvæmdirnar um 1924 höfðu skemmt rústasvæðið rnikið. Á þeim tíma var grunnurinn undir styttuna af Ingólfi grafinn beint í gegnum rústina og vinna við tröppur og hólinn sjálfan höfðu einnig farið illa með rústina. Á syðsta hluta rústarinnar, sem snýr að Hverfisgötunni, voru heillegustu mannvirkin. Á því svæði komu í ljós heillegir veggir og á milli þeirra gólf með hellulögn undir. Líklegt er að þetta séu bæjargöngin.

Arnarhóll

Arnarhóll – stuttan af Ingólfi og Arnarhólstraðir framar v.m.

Lítið er hægt að álykta um notkun mannvirkjanna því bæði er rústin mjög skemmd og eingöngu hluti rústarinnar var kannaður.
Margir gripir komu í ljós við uppgröftinn. Mest var af leirkerabrotum, glerbrotum og málmi. Í efstu jarðlögunum úði og grúði af gripum frá 17.- 20. öld. Ástæða þess að gripir frá ýmsum tímum finnast hver innan um annan er hve mikið rask hefur verið á hólnum. Því neðar sem dró fækkaði gripunum.
Mörg brot úr krítarpípum fundust og voru mörg þeirra skreytt. Flest voru þau frá því í kringum 1800. Erfitt er að tímasetja krítarpípubrotin nákvæmlega, þar sem sömu gerðir voru oft framleiddar lengi.
ArnarhóllSjö peningar fundust á hólnum og hægt var að greina fimrn þeirra. Tveir peninganna, frá árunum 1727 og 1734, fundust í gólflögum og gefur það hugmynd um aldur rústarinnar.
Einn rómverskur peningur fannst á hólnum, svo nefndur dupondius frá 260-290 e. Kr., sleginn af Árelianusi keisara.
Peningar Árelianusar komust ekki í umferð um allt rómverska heimsveldið og barst lítið sem ekkert af þeim til Norður-Evrópu. Þeir finnast því sjaldan við uppgröft í Norður-Evrópu og yfirleitt ekki stakir.

Arnarhóll

Arnarhóll – upplýsingaskilti um Arnarhólstraðir.

Peningar Árelianusar keisara frá 260-290 finnast t.d. afar sjaldan á Bretlandseyjum, en aftur á móti finnst þar mikið af peningum annarra keisara. Rómverski peningurinn fannst í rúst frá átjándu eða nítjándu öld, og kann að hafa verið komið þar fyrir meðan á uppgreftinum stóð.

Af öðrum gripum má nefna beltissylgjur, hnappa, myllur, netanálar, vaðsteina, brýni og ýmsa aðra smágripi. Einn vaðsteinninn sem fannst var með áletruninni 1790 og upphafstöfunum S.E.S. og A þar undir. Þá fannst á einum stað hrúga af netaflám. Margir gripanna voru svo illa farnir að ekki var hægt að greina þá.
Uppgröfturinn á Arnarhóli stóð í sex mánuði, frá júní og fram í nóvember. Eingöngu var grafið í efstu hlutum rústarinnar og það sem neðar liggur verður að bíða betri tíma.“

Heimild:
-Árbók Hins íslenska fornleifafélags, 01.01.1994, Fornleifar á Arnarhóli – Ragnar Edvardsson, bls. 17-27.

Arnarhóll

Hátíðahöld á Arnarhóli 17. júní árið 1948. (Ljósmynd: Sigurhans Vignir)

Móakot

Þrír bæir Þingvallasveitar voru neðan gamla Þingvallavegarins 1890, þ.e. Skálabrekka, Móakot og Heiðarbær. Ljóst er hvar bæjarstæði Skálabrekku og Heiðarbæjar voru fyrrum, en margt er hins vegar á huldu um bæjarstæði Móakots.

Móakot

Móakot – bæjartóftirnar.

Þegar FERLIRsfélagar reyndu að nálgast fyrrum bæjarstæðið komu þeir hvarvetna að lokuðum hliðum sumarbústaðaeigenda. Því var, líkt og fyrrum, ákveðið að feta bara yfir torærur og klofa yfir girðingar, með það fyrir augum að nálgast markmiðið. Það er reyndar alveg ótrúlegt hvernig einstakir sumarbústaðaeigendur geti útilokað almenning frá einstökum minjastöðum innan sveita, langt út fyrir umráðasvæði sín. Bara það eitt er verðugt umfjöllunarefni út af fyrir sig.

Móakot

Móakot – útihús.

Í „Örnefnaskráningu Guðmanns Björnssonar um Skálabrekku„, fæddur 13. nóvember 1909, segir: Guðmann fluttist að Skálabrekku árið 1941 frá Hagavík í Grafningi, ásamt konu sinni, Regínu Sveinbjarnardóttur, en hún ólst upp á Heiðarbæ, næsta bæ við Skálabrekku. Hafa þau átt þar heima síðan. Megnið af örnefnum jarðarinnar lærði Guðmann af Þorláki Björnssyni, sem bjó á Skálabrekku á undan þeim. Ennfremur mun Regína hafa þekkt mörg þeirra“.
Í örnefnalýsingunni segir um Móakot: „Nú verður haldið utast í landið neðan Þingvallavegar. Móakot var þar við Móakotsána undir Móakotsás. Móakot fór í eyði um 1865. Þarna undir Ásnum eru nokkrir sumarbústaðir. Þar er nú kominn mikill skógur. Þarna rétt hjá er vaðið í Ánni og Móakotsárfoss skammt fyrir ofan, fellur fram af 7 m háu bergi.“

Móakot

Móakot – útihús.

Í „Kortlagning eyðibyggðarinnar á Þingvöllum með flygildum og hitamyndavél“ Gunnars Grímssonar frá því mái 2020 segir:
„Heiðarbær, Skálabrekka og Móakot. Fjögur lögbýli eru ofan Almannagjár og á þeim er enn búið. Syðst er Heiðarbær, þar sem Hrolleifur Einarsson er sagður hafa búið og er landnám hans talið hafa náð frá Öxará og suður fyrir Heiðarbæ (Íslenzk fornrit I, bls. 391). Heiðarbær átti sel við Selbrúnir í hlíðunum norðan bæjarins („Heiðarbær 1“, e.d., bls. 2). Norðaustan Heiðarbæjar er Skálabrekka, þar sem Landnámabók getur þess að Ketilbjörn hinn gamli hafi reist sér skála á leið sinni til að nema land á Mosfelli í Grímsnesi (Íslenzk fornrit I, bls. 385).

Móakot

Móakotsárfoss.

Áin Móakotsá rennur sunnan Skálabrekku en hún er kennd við hjáleiguna Móakot, sem var í byggð á miðri 19. öld og fór í eyði um 1865 (Hjörtur Björnsson, 1937, bls. 165; „Skálabrekka 1“, e.d., bls. 4). Rústir eru sjáanlegar við árbakka Móakotsár, Skálabrekkumegin, nokkuð skammt frá Þingvallavatni (Jóhannes Sveinbjörnsson, munnleg heimild, febrúar 2020). Bæjarrúst Móakots var skráð ásamt útihúsum af nemendum í fornleifafræði við Háskóla Íslands árið 2004, í trjáreit austan Móakotsárfoss. Var það hluti af vettvangsnámskeiði sem var haldið í kjölfar svæðisskráningar fornleifa í Þingvallasveit þar um kring árið áður (Guðrún Alda Gísladóttir og Orri Vésteinsson, 2003).“

Heiðarbær

Tóftir Móakots í Þingvallasveit – nánast horfnar í skóg árið 2014.

Sá er þetta skrifar tók þátt í fornleifaskráningarverkefni HÍ undir forystu Guðmundar Ólafssonar árið 2014. Tilgangurinn var að teikna upp rústir Móakots. Síðan eru liðin 11 ár. Það verður að segjast eins og er að nákvæmlega ekkert hefur verið gert til að gera framangreindar minjar aðgengilegar almenningi, hvað þá að varðveita þær fyrir ágengri skógrækt. Í dag eru minjarnar ekki svipur hjá sjón, frá því sem var, auk þess sem nálægur sumarbústaður getur varla talist lengur svipur hjá sjón.

Heimildir:
-Skálabrekka, Guðmann Ólafsson á Skálabrekku skráði, snemma á árinu 1982.
-Kortlagning eyðibyggðarinnar á Þingvöllum með flygildum og hitamyndavél. Ritgerð til B.A.–prófs í fornleifafræði Gunnar Grímsson, 2020, bls 29.

Móakot

Móakot – bæjarminjarnar hornar í skóg 2025.

Elliðakot

Beðasléttur eru tegund ræktunarminja frá því um miðja 19. öld þar til um 1920 þegar vélvæðingin ryður sér til rúms á Íslandi, sbr. „beðslétta kv“, [skilgr.] Tún, sléttur með reglulegum beðum eða kúfum, [skýr.]

Guðmundur Ólafsson

Guðmundur Ólafsson (1825–1889).
Guðmundur kom 26 ára gamall frá námi í Danmörku, Svíþjóð og Noregi um miðja 19. öld. Þá ríkti hér á landi mikil tregða eða beinlínis andstaða gagnvart nýjum hugmyndum. Það mátti engu breyta.
„Þetta er í sjálfu sér áhugavert í ljósi þeirrar nýjungagirni sem ríkir á okkar dögum en samtími Guðmundar var afar íhaldssamur og hreint ekki móttækilegur fyrir þeim nýjungum sem hann vildi koma á. Framlag hans til ræktunarbóta og búnaðarfræðslu varð þó, þrátt fyrir þetta, mikilvægur hlekkur í framfaraátt í því staðnaða landeigendaveldi sem hér ríkti, fram yfir hans daga, eða allt fram undir aldamótin 1900.“
Guðmundur var við nám á árunum 1847–51 og var tvímælalaust meðal mest menntuðu manna sinnar tíðar hér á landi. Guðmundur var alþingismaður Borgfirðinga 1874–1880.

Árið 1874 kom Guðmundur Ólafsson frá Fitjum í Skorradal fram með þá hugmynd að menn ristu ofan af ósléttum túnum, mokuðu moldinni upp í beð og legðu þökurnar aftur yfir.
Hugmyndin á bak við þessar svokölluðu beðsléttur var að beðin eða kúfarnir kæmi í veg fyrir að pollar mynduðust í túninu og drægi þannig úr hættunni á svellkali.

Í „Leiðbeiningum“ Minjastofnunar Íslands um „Beðasléttur – Viðhald og varðveisla fornleifa“ frá árinu 2025 segir m.a.:
„Beðasléttur eða beðatún eru hluti af menningarlandslagi fyrri tíðar. Þessar minjar eru sýnishorn inn í fornar ræktunaraðferðir sem kynntar voru hér á landi um miðja 19. öld þegar námsmenn sneru aftur heim með nýja verkþekkingu í farteskinu, aðferð sem ætluð var til að efla og auðvelda fóðurframleiðslu. Um er að ræða mjög stutt tímabil í sögu túnræktar sem rennur sitt skeið með aukinni vélvæðingu um 1920. Markmið með beðasléttum var að fá slétt land til heyskapar og hindra að vatn sæti uppi á landinu en það getur valdið vetrarkali túngróðursins.
Fyrstu lýsingar á beðasléttugerð eru sennilega frá árinu 1874. Ásýnd þessara minja svipar mjög til annarra gerða minja, akurgerða, en þær eru mun eldri, eða frá miðöldum.

Aðferð við gerð beðasléttna
Grasvörðurinn var ristur ofan af jarðveginum, oftast með undirristuspaða og kastað til hvorrar hliðar. Jarðvegurinn á milli þeirra var plægður eða stunginn og borið í hann lífrænn áburður. Ávalir teigar voru mótaðir með rennum á milli og fyrir endanum á teigunum. Rennurnar tóku á móti vatninu sem kom af teigunum og veittu því burtu. Lengd, breidd og hæð teiga var mismunandi og fór þá helst eftir veðurfari svæðisins og hversu raklend jörðin var. Breidd teiganna var þó sjaldan meiri en svo að auðvelt væri að bera eða kasta torfþökunum til hvorrar hliðar.

Bjarni Guðmundsson

Bjarni Guðmundsson.

Teigar voru oftast látnir stefna undan halla landsins og þeir voru gjarnan nokkrir saman í syrpum/sléttu. Við jarðvinnsluna var yfirborð beðsins mótað ávalt/bungulaga og torfunum, sem ristar höfðu verið ofan af landinu, raðað yfir teiginn/beðið að nýju.“

Í Frey árið 2004 mátti lesa grein um „Beðasléttur – brot af búsetulandslagi“ eftir Bjarna Guðmundsson:
„Verktækni við ræktun túna hefur breyst mikið frá upphafi ræktunarbyltingarinnar. Langur vegur er frá handverkfærum til þeirrar öflugu verktækni sem nú tíðkast. Langstærstur hluti þeirra túna, sem í dag eru heyjuð, hafa verið unnin með vélum, flest á síðustu fimm áratugum eða svo. Minjar um eldri jarðrækt hafa víða verið máðar út. Nokkur dæmi má þó enn finna, ekki síst á eyðibýlum og hér og hvar heima við bæi, þar sem eldri túnsléttugerð hefur verið látin halda sér.

Beðasléttur

Óskot Mosfellsbæ – beðasléttur.

Einn er flokkur þessara minja sem hér og hvar má enn sjá en það eru beðasléttumar svonefndu er auka skyldu uppskeru túna og létta og flýta heyskap. Í snjóföl eftir léttan skafrenning sjást þær einna best, svo og í gróandanum. Þá koma regluleg beðin, sem einkenna þær, hvað gleggst í ljós; oft í brekkum og öðrum þurrlendishöllum nálægt bæjum.
En hvað er beðaslétta, vegna hvers voru þær gerðar og hvaðan er þessi verktækni hugsanlega komin? Orðið beðaslétta er ekki skráð í Íslenskri orðabók. Hins vegar er þar talað um beðatún sem tún þakið beðum líkt og í matjurtagarði (t.d. vegna handsléttunar).

Beðasléttur

Vilborgarkot – beðasléttur.

Þúfurnar voru „landsins forni fjandi” í yfirfærðri merkingu. Þær voru víðast einkenni þeirra litlu túna er til voru og þær takmörkuðu afköst við slátt og heyvinnu. Álitið er að bændur hafi fyrr á öldum haft áþekka aðferð við ræktun túna og akra, það er að pæla landið, og að það hafi fyrst verið eftir miðja 18. öld sem farið var að slétta tún og þá líklega eftir erlendum verkfyrirmyndum.
Þaksléttuaðferðin var algengasti hátturinn við túnasléttun lengi vel. Illa gekk að beita hestaplógi á gróinn íslenskan svörð; því varð oftast að rista ofan af áður en beita mátti jarðvinnsluverkfærum. Svipaðri jarðvinnslutækni munu bændur á Suðureyjum við Skotland m.a. hafa beitt.

Beðsléttur

Elliðakot – beðasléttur.

Guðmundur Ólafsson (1825-1889), jarðræktarmaður, löngum kenndur við Fitjar í Skorradal, skrifaði grein um þúfnasléttun sem birtist í ritinu tímaritinu Andvari árið 1874 (4). Þar lýsir hann, sennilega fyrstur manna opinberlega, beðasléttugerðinni án þess þó að nefna hana því nafni. Hann segir: „Til þess, að vatn geti ekki staðið á sléttunum, þurfa þær að vera í ávölum teigum, með rennum eður ræsum á milli. Teigarnir skulu vera því hærri og mjórri, sem jörðin er raklendari og liggur lægra, og eptir því, sem héraðið er rigningasamara. Fyrir endunum á teigunum skulu og vera rennur, eins og á milli þeirra. Bæði þessar rennur og þær, sem era á milli teiganna, eru til þess að taka á móti vatninu, sem kemur ofan af sjálfum teigunum, og því, er að þeim kann að koma annarstaðar frá.

Beðasléttur

Beðasléttur.

Meðal-teigsbreidd mundi vera 4-5 faðmar, að lengd 15-20 faðmar, en hæð 1 alin, það er að segja: teigurinn skal vera þetta hærri í miðjunni en í rennunum, sem eru í kríngum hana. Rennurnar skulu vera ávalar, eins og teigarnir, en ekki snarbrattir, lítur þá öll sléttan út eins og ávalar öldur í röð. Svo sem þegar var sagt, verður stærð og hæð teiganna að fara eptir landslagi og veðráttufari. Sé jörðin blautlend, og vatn renni af henni, þá þarf að leggja lokræsi í rennumar milli teiganna”…
Rök Guðmundar fyrir aðferðinni vom þau að losna við yfirborðsvatnið af ræktunarlandinu.

Beðasléttur

Bændaskólinn á Hvanneyri um 1937. Beðasléttur í brekku og áveituvatn fremst á
myndinni. Ljósm. Ólafur Magnússon.
Ásýnd beðasléttna í landslaginu minnir á ávalar öldur og helst má greina þær á túnum
eftir nýfallin snjó, léttan skafrenning eða við ljósaskipti sem dregur fram ávalt yfirborð
túnsins. 

„Vatnið er aðal-orsökin til þess, að jörðin þýfíst eður verður ójöfn. Menn sjá, að þar sem vatnið náir að standa annaðhvort á eður í jörðinni, þar kemur laut”, skrifar hann, og ennfremur „Það þarf nefnilega að slétta svo, að ekkert vatn geti staðnæmzt á sléttunni … Sléttur þurfa því að hafa þá lögun, að vatn geti hvorki staðið í þeim né á”. Guðmundur bendir á að þessi sléttunaraðferð sé seinvirk með þeim verkfærum og aðferðum sem þá tíðkuðust. Til sléttunarinnar þurfi hver bóndi að eiga áhöld sem hann tilgreinir og lýsir: „plógur, ristuspaði, akreka, pörnplógur, aurbrjótur og valti”.

Til þess að móta hinar ávölu öldur, beðin, var nauðsynlegt að flytja jarðveginn nokkuð til. Að vissu marki mátti gera það með plógnum eftir að grasrótin hafði verið rist ofan af landinu með því að „plægja það síðan um í teiga”.

Beðasléttur

Ólafsdalur – beðasléttur.

Guðmundur mælti með tvíplægingu hið minnsta og skrifaði í grein sinni: …,,því optar, sem hver teigur er plægður þannig, því hærri og brattari verður hann, eins og gefur að skilja … Ein plæging nægir ekki til að gjöra teigana nógu háfa og aflenda, eða til að gefa þeim þá lögun, er þeir eiga að hafa”. Að nokkurri vinnslu lokinni mátti síðan færa jarðveginn til með ak-rekunni, áhaldi sem síðar var þekkt undir nafninu hestareka. Breidd beðanna virðist hafa verið nokkuð mismunandi en 4 faðmar (um 7,5 m) sýnist hafa verið algeng breidd.

Beðasléttur

Beðasléttur.

Verkleg kennsla búnaðarskólanna íslensku snerist fyrstu árin (1880-1905) ekki síst um jarðrækt. Þar mun nemendum m.a. hafa verið kennt að búa til beðasléttur, og á skólajörðunum, t.d. Hvanneyri, má enn sjá allglöggar minjar um þær. Síðan beittu hinir brautskráðu búfræðingar kunnáttunni heima í sínum sveitum og verklagið breiddist út.
Hver sá sem slegið hefur gamla beðasléttu með nútíma sláttuvél kannast við að það er ekki skemmtilegt verk; ýmist ristir sláttuvélin í svörð niður eða skilur eftir óslegna mön, að ógleymdum veltingi dráttarvélarinnar.

Hestasláttuvél

Hestasláttuvél.

Skrifarann grunar að tilkoma hestasláttuvéla hafí á sínum tíma dregið úr vinsældum beðasléttnanna – að ekki hafi þótt eftirsóknarvert að slá beðasléttumar með þeim heldur. Fór enda svo að beðasléttugerðin lagðist að mestu af á fyrstu tveimur áratugum 20. aldarinnar.
Ef þú, ágæti lesandi, ræður yfir landi þar sem enn má sjá leifar gamalla beðasléttna skaltu halda yfír þeim hlífiskildi. Þær eru angi af menningarlandslagi fyrri tiðar, dæmi um nýja verkmenningu sem kynnt var til þess að efla og auðvelda fóðurframleiðslu búanna sem var lífsnauðsyn til þess að efla matbjörg þjóðarinnar þannig að hún gæti losað um vinnuafl til annarra starfa í verkaskiptu samfélagi – brotist fram til sjálfstæðis.“

Hestasláttuvél

Hestasláttuvél – framfarartæki þess tíma.

Beðasléttur voru ekki óalgengar um tíma á Reykjanesskaganum, s.s. að Elliðakoti, Óskoti, Vilborgarkoti og Laugarnesi. Telja má að þær hafi verið mun víðar, en nútíma landbúnaðartæki hafi smám saman afmáð þær af yfirborði túna, einfaldlega vegna þess að þeirra tíma tilurð hentuðu ekki framförunum í landbúnaði, s.s. sléttun og framræðslu túnanna til auðveldunar vélvæðingunni.

Heimildir:
-Aðalskrá Þjóðhættir – Undirskrá Spurningaskrár – Svör Sent/Móttekið 30.6.1977.
-https://issuu.com/bjgudm/docs/hvanneyrar_pistlar_22_loka/s/17165427
-Leiðbeiningar Minjastofnun Íslands – Beðasléttur; Viðhald og varðveisla fornleifa, 2025.
-Freyr, 5. tbl. 01.06.2004, Beðasléttur – brot af búsetulandslagi, Bjarni Guðmundsson, bls. 4-5.

Beðasléttur

Á korti Samúels Eggertssonar af Laugarnesi  og Kirkjusandi 1910 eru merktar inn 4 beðasléttur. Beðaslétturnar voru suðvestur af bænum. Beðasléttur voru einnig oft nefndar teigasléttur, en þessi heiti voru höfð um tún sem gerð voru með sléttunaraðferð Guðmundar Ólafssonar búfræðings og alþingismanns. Beðasléttur voru gerðar þannig að rist var ofan af túninu, jarðvegurinn plægður upp í beð í því skyni að vatn sæti ekki í honum og þar sem þess var þörf voru gerð lokræsi milli beðanna til að veita því burt. Síðan voru torfurnar lagðar yfir beðin.

Fornminjar

Í Samvinnunni árið 1956 eru skrif Kristjáns Eldjárns þjóðminjavarðar í bók hans „Kuml og haugfé –  úr heiðnum sið á Íslandi„. Blaðið „grípur niður í þessari jólabók Norðra þar sem höfundur fjallar m.a. um álitamál fornleifafræðinnar“:

Kristján Eldjárn

Kristján Eldjárn (1916-1982).

„Öllum fornleifum fylgir sá kostur, að þær eru áþreifanlegar og ótvíræðar að vissu marki. Rituð heimild getur verið tilbúin eða ýkt, en sverð er sverð og spjót er spjót, hvorki meira né minna. Um sverð og spjót fornaldar er ekki til betri heimild en gripirnir sjálfir, sem varðveitzt hafa til þessa dags og fundizt við öruggar aðstæður.
Íslenzkar fornleifar úr heiðnum sið bregða skærara ljósi yfir tiltekin atriði í menningu fornmanna en hin bezta rituð heimild gæti gert. Þær sýna vopnaburð fornmanna, alvæpni þeirra, sverð, spjót, axir, örvar og skildi, hvernig allt þetta leit út og var smíðað. Á sama hátt sýna þær skartgripi karla og kvenna, skrautnælur margs konar, prjóna, bauga, festar og fleira, sem fólk bar á sér til skrauts og þarfa. Þær sýna list hins daglega umhverfis, í skartgripum og að nokkru leyti í hýbýlum, smekk og fegurðarskyn. Þær sýna verðmálminn, silfrið, hversu það var saman sett og með farið, vegið með smámetum á skálavogum. Þær sýna að nokkru dægrastyttingu manna, taflíþróttina.

Kristján Eldjárn

Kristján Eldjárn við uppgröft að Stöng í Þjórsárdal.

Þær sýna daglegan verkfærakost, þann sem ekki var smíðaður úr viðnámslitlu efni, jarðvinnslutæki, uppskeruáhöld, smíðatól, tóvinnutæki, jafnvel báta að nokkru leyti. Þær sýna samgöngutækið, hestinn altygjaðan, ójárnaðan á sumar, en bryddan á vetur, sömuleiðis járnaðan fót mannsins á ís eða hjarni. Loks veita þær glögga vitneskju um hina hinztu för, hversu búið var um lík dauðra og gengið frá kumlum þeirra.
Öll þessi atriði hafa verið gaumgæfð. Þegar þau koma saman, verður af býsna fjölbreytileg og skýr menningarmynd úr lífi hinna fyrstu kynslóða á Íslandi.
Það er því ómaksins vert að leggja rækt við fornleifarnar eins og hvern annan efnivið í íslenzka menningarsögu. En skylt er að hafa jafnan í huga, hve þröngum takmörkum þær eru háðar sem heimildir. Þótt sæmilega fjölbreytt sé, verður mynd fornleifanna af daglegu menningarumhverfi gloppótt sökum þess, að margir þættir þess voru gerðir af þeim efnum, sem tímans tönn vinnur á. Mörg verkfæri og annað, sem gert var af trjáviði einum, svo og klæðnaður manna, hefur að heita má horfið ummerkjalaust, og verður það skarð seint fyllt.

Fornminjar

Silfurnæla, kringlótt og kúpt, skreytt með upphleyptu mynstri sem er bönd er ganga undir og yfir hvert annað í hring út frá miðju. Nælunni fylgir brotin nál. Fannst við rannsókn á hestkumli hjá Mið Sandfelli.

Og manninn sjálfan að öðru en ytra menningargervi megna fornleifarnar ekki að sýna nema í mjög daufri birtu. Það er rétt, að með fornminjunum fylgja oft líkamlegar leifar fyrri manna, meira og minna heillegar beinagrindur. Þetta eru merkilegar heimildir um útlit og sköpulag fornmanna, og mu nú þær reynast drjúg uppspretta þekkingar um ætternislegan uppruna landnámsmanna.
En bæði fornleifar og mannfræðilegar leifar hafa lítið til mála að leggja um andlega menningu þeirra manna, sem þetta hafa eftir sig látið. Raunar er enginn smíðisgripur svo með öllu vesæll, að ekki sé einhver mannleg hugsun forsenda hans. En sú hugsun, sem dylst að baki hversdagslegs nauðsynjagrips, er hluti af verkmenningu smiðsins, en ekki andlegri menningu.
FornminjarFornminjarnar birta listasmekk og veita nokkra sýn til trúarsiða, einkum í sambandi við útför og legstað, en að öðru leyti er hugsunarlíf og andleg menning utan seilingar fornleifafræðinnar. Af þessu stafar það, að menningarmynd fornleifafræðinga af fjarlægum forsöguskeiðum hættir til að vera mjög einhæf. Fræðigreininni verður þó ekki gefið þetta að sök, meðan hún ætlar sér af í samræmi við þau takmörk, sem efniviðurinn setur henni.
Fornleifafræði víkingaaldar er ekki forsöguleg fornleifafræði í strangasta skilningi. Menningarmynd vora af Íslendingum 10. aldar þarf ekki að draga af fornleifum einvörðungu. Af sögum og kvæðum og lögbókum þekkjum vér andlega menningu þessa tíma eins vel og verkmenningu hans og list af fornleifum. Þegar öll kurl koma til grafar, er nú tiltækur ekki lítill forði þekkingar á andlegum og líkamlegum högum þjóðarinnar, þegar hún hóf vegferð sína í landinu.
FornminjarÞað er fyrsta skylda fornleifafræðinnar að draga öll gögn, sem hún ræður yfir, að sem heillegastri mynd af menningarbrag þess tímabils, sem hún fæst við hverju sinni. En hún getur ekki látið þar við sitja, heldur hlýtur hún að spyrja, hvers vegna hvað eina sé eins og það er, hverjar forsendur þess á fyrri skeiðum og hver afdrif þess. Hún reynir að rekja þróunarferil menningarinnar, og kemst þá óhjákvæmilega inn á svið sagnfræðinnar, enda keppir hún að sama aðalmarki. Hún reynir að leggja nokkuð til mála um rás viðburða, skapa sögu.

Fornminjar

Grafið í kumlið á Kaldárhöfða við Úlfljóstvatn. Kaldárhöfði er bær gegnt Dráttarhlíð austan við Sogið. Þar var einn bezti veiðistaður árinnar áður en   Steingrímsstöð var byggð.
Árið 1946 fannst eitt verðmætasta kuml úr heiðni (10. öld) hérlendis á hólmanum Torfnesi rétt hjá þessum veiðistað. Þarna voru grafin fullorðinn maður og barn í litlum báti. Meðal muna, sem voru lagðir í hauginn með þeim, var alvæpni og silungadorg. Þessi fundur er oftast kenndur við Úlfljótsvatn, þótt hólmurinn sé í landi Kaldárhöfða.
Skammt frá bænum er tótt vöruhúss Skálholtsstaðar við ferjustaðinn yfir Sogið. Ein þjóðsaga Jóns Árnasonar segir frá gíg ofarlega í Soginu, þaðan sem bitmýið við ána sé upprunnið.

En sú saga, sem sögð er eftir heimildum fornminja einum, er ófullkomin og öðruvísi ásýndar en sú, er styðst við ritaðar heimildir. Því verður þó að taka, þegar fengizt er við hin löngu forsögulegu skeið mannkyns, sem enginn ritaður stafur bregður birtu yfir. Þá verður að reyna að nota fornminjar til að rekja hina stærstu sögulegu drætti ásamt menningarsögulegri þróun.
Nú er tímabil það í ævi íslenzku þjóðarinnar, sem fengizt er við í þessari bók, ekki forsögulegt skeið. Um það eru ritaðar heimildir, hvenær landið fannst, hvenær þjóðin tók kristni, hvaðan landnámsmenn komu og hverjir voru helztu viðburðir hér á 10. öld. í samanburði við þessar heimildir eru fornleifar tímabilsins engin undirstaða undir sögu þjóðarinnar. En þær fylla þessar heimildir á sinn hátt og eru mikilsverður mælikvarði á gildi þeirra, geta eflt eða veikt traustið á áreiðanleik þeirra.
Kunnugt er af sögulegum heimildum, að írskir munkar fóru til Íslands ekki síðar en í lok 8. aldar, og slæðingur af þeim var hér á landi á seinni hluta 9. aldar.

Fornminjar

Grafið í kumlið á Torfnesi við Kaldárhöfða árið 1946. Fornleifafræðingar munu seint verða á ný svona töff í tauinu. Þarna var þó ærið tilefni til viðeigandi klæðnaðar!  Kumlið er sagt „Vestur af Vaðhól við Efra-Torfnes. Það er nú komið undir vatn nema lítill hólmi, þar sem það var hæst. Þar sem dysin var, er nú komið undir vatn“, segir í örnefnaskrá. 

Norrænir menn settust að í landinu um 870, en landnám þeirra hófst þó fyrst að marki um 890, og byggðu þeir síðan landið allt á næstu áratugum. Landsmenn tóku kristni árið 1000. Ef mælikvarði fornleifafræðinnar er lagður á þessar niðurstöður, kemur þetta í ljós: Rómverskir peningar frá um 300 e. Kr., fundnir á Austfjörðum, vekja grun um, að Ísland hafi fundizt, líklega frá Englandi, löngu áður en fornir sagnaritarar vissu. Byggð varð þó engin. Írskra einsetumanna sér ekki stað í fornminjum, en það hnekkir engan veginn sögulegum heimildum um þá. Norðurlandamenn nema allt landið um 900. Aðeins í einu kumli hafa fundizt gripir, sem taldir mundu vera frá fyrri hluta 9. aldar eða um 850, ef þeir hefðu fundizt á Norðurlöndum. Það eru Berdalsnælurnar frá Skógum í Flókadal, í Ásubergsstíl.

Fornminjar

Tveir möttluskildir eða nisti fundnir á uppblásnum stað nálægt Skógum í Flókadal.

Þessi eina undantekning styrkir aðeins þá meginreglu, að íslenzkir forngripir sögualdar eru 10. aldar gripir, sumir þó ef til vill frá lokum 9. aldar (Borróstíl). Annars hafa þær forngripagerðir, sem auðkenna 9. öld á Norðurlöndum, aldrei fundizt hér. Nefna má til dæmis jafnarma nælur, ýmsar gerðir kúptra nælna, spjót eins og Rygh 517 og Rygh 518, margar gerðir sverða. Það er 10. aldar byggð, sem blasir við í íslenzkum forngripgripum, heiðin, norræn 10. aldar byggð og menning, sú sem löngum er kennd við víkinga eða víkingaöld.
Fornminjarnar staðfesta söguna: landið hefur byggzt norrænum mönnum nálægt aldamótunum 900.

Fornminjar

Kúpt næla, forn, að gerðinni Rygh 656, Smykker 56. Úr kumli í Syðri-Hofdölum, Viðvíkurhreppi.

Í aðeins einu fornmannskumli hefur fundizt hlutur af þeirri tegund, sem yfirleitt er talin frá 11. öld á Norðurlöndum. Það er kúpta nælan Rygh 656 úr kumlinu í Syðri-Hofdölum í Skagafirði. Þó er ekki loku fyrir skotið, að sú gerð hafi eitthvað verið farin að láta á sér brydda seint á 10. öld, og má því kuml þetta vera frá því fyrir 1000. En þótt svo væri ekki og þarna væri ein undantekning, sýna kumlin sem heild, að heiðnir grafsiðir hafa ekki haldizt hér fram á 11. öld að neinu ráði. Haugféð er frá 10. öld. Þannig kemur vitnisburður fornleifanna einnig ákjósanlega heim við hið sögulega ártal um lok heiðins siðar.

Fornminjar

Þríblaðanæla frá 10. öld með sérstæðum skrauthnút, fundin hjá Hóli í Hjaltastaðarþinghá í Norður-Múlasýslu en fundaraðstæður ókunnar. Mun þó úr kumli konu.

Af þessum samanburði sést, að fornleifafræði og sagnfræði fylla hvor aðra í smáatriðum, en ber algjörlega saman um aðalatriði, sem hvor um sig gæti borið sjálfstætt vitni um. Þótt ekki væru sögulegar heimildir, gætu fornleifarnar veitt örugga fræðslu um, að land þetta byggðist Norðurlandamönnum um 900 og hér bjó heiðin þjóð á 10. öld. Þegar nánar er eftir innt, gerist ógreiðara um svör, og verður þó einhvers í að leita.
Hér að framan hefur verið reynt að sýna, að íslenzkir grafsiðir stangist ekki við hina fornu arfsögn, að Íslendingar séu af Norðmönnum komnir. Er þá röðin komin að haugfé og öðrum forngripum heiðins tíma, þeim er á Íslandi hafa fundizt.

Fornminjar

Sverð, sem fannst í kumli manns og ungs drengs, hjá Kaldárhöfða. Hjölt og knappur eru úr bronsi og knappurinn með fimm tungum.

Sami svipur er á norrænni víkingaaldarmenningu, hvar sem hennar verður vart, enda er fjöldi íslenzkra forngripa af samnorrænum gerðum og hefðu getað fundizt hvar sem er á öllu svæði þessarar menningar. Aðrar forngripategundir eru aftur þannig, að þær virðast hafa verið algengastar í einhverju tilteknu landi en finnast þó oft utan þess. Enn eru svo aðrar, sem hægt er að marka þrengri bás.“

Heimild:
-Samvinnan, 12. tbl. 01.12.1956, Kuml og haugfé – úr heiðnum sið á Íslandi; Kristján Eldjárn, bls. 29-31.

Kaldárhöfði

Úlfljótsvatn – dys í landi Kaldárhöfða, við Torfunes. Fundarstaðurinn nú komin undir vatn.

Fornleifafræði

Virt breskt forlag gaf út rit Adolfs Friðrikssonar „Samspil fornleifa- og sagna“ árið 1994:

Adolf Friðriksson

Adolf Friðriksson.

„Avebury-forlagið í Englandi hefur sent frá sér ritið Sagas and popular Antiquarianism in Icelandic Archaeology. Höfundur þess er Adolf Friðriksson fornleifafræðingur. Bókin er afrakstur rannsókna hans á árunum 1988-1991, er hann var við nám við Fomleifafræðistofnun Lundúnaháskóla. Adolf hefur hlotið viðurkenningar erlendis vegna þessa verkefnis, þ.á m. frá breska utanríkisráðuneytinu, nefnd háskólarektora í Bretlandi og minningasjóði Gordon Childe.
Jafnframt veitti Vísindasjóður aðstoð við lokafrágang verksins og handritið að bókinni hlaut verðlaun Gjafar Jóns Sigurðssonar. Árið 1993 hlaut Adolf námsstyrk franskra stjórnvalda og er nú búsettur í París við nám og rannsóknir við École des Hautes Etudes.
Sagas and popular Antiquarianism in Icelandic Archaelogy fjallar um samspil fornsagna og fornleifa í íslenskri rannsóknarhefð.

Adolf Friðriksson

Sagas and popular Antiquarianism in Icelandic Archaeology – Adolf Friðriksson.

Á bókarkápu kemur fram að umhverfi íslenskrar fornleifafræði er óvenjulegt því búseta á Íslandi hófst ekki fyrr en á víkingaöld, og jafnframt að til eru bókmenntir frá miðöldum er segja sögu Íslendinga frá fyrstu tíð.
Í bókinni er upphaf fornleifarannsókna á Íslandi rakið til áhuga og aðdáunar á fombókmenntunum. Í árdaga fornleifafræði voru sögurnar vegvísar fræðimanna á markverða minjastaði og voru þær lengi taldar geta aukið skilning á minjum víkingaaldar. Frumkvöðlar fornleifarannsókna og sporgöngumenn þeirra rannsökuðu greftrunarstaði fornmanna, hofminjar og þingstaði og fundu gjarnan augljósa samsvörun á milli minja og sagna er þeir töldu staðfesta gildi sagnanna.
Þegar samspil sagna og minja er skoðað kemur m.a. í ljós að alþýðuskýringar sem finna má um flesta minjastaði, hafa leikið stórt hlutverk.
Alþýðuskýringar um minjar sem taldar em frá fornöld eru fyrst og fremst heimildir um áhuga manna og forvitni, en ekki traustar vísbendingar um uppruna minja. Þessar skýringar hafa hins vegar verið færðar í búning vísindalegrar rannsóknasagna sem hafa haft afgerandi áhrif á ályktanir rannsakenda um aldur og eðli minjanna.

Sagnfræði

Sagnfræði – Möðruvallabók.

Á síðustu árum og áratugum hefur mjög dregið úr áhrifum örnefna, alþýðuskýringa og Íslendingasagna í fornleifafræði, enda hafa fræðimenn meiri efasemdir um heimildagildi þeirra. Nýjar kynslóðir fornleifafræðinga hafa kosið að yfirgefa fræðihefðina og stunda „sjálfstæða“ fornleifafræði. Komið hafa fram kenningar þar sem reynt hefur verið að kollvarpa fyrri hugmyndum um upphaf byggðar og fornleifafræðingar hafa leitast við að finna rannsóknastaði utan sögusviðs mennta. Þessi viðhorf byggja ekki á skýrum röksemdum um gang eða ógang Íslendingasagna við fornleifar og víða megi finna yfirlýsingar fornleifafræðinga um þessi efni. Rannsóknarhefðin hefur verið yfirgefin án athugunar á eðli hennar og takmörkum.

Fornleifauppgröftur

Fornleifauppgröftur í Arnarfirði. Um er að ræða sjálfstæðan fornleifauppgröft þrátt fyrir ritheimildir.

Þrátt fyrir yfírlýsingar um gagnsleysi Íslendingasagna við fornleifarannsóknir má finna sterk áhrif þeirra í verkum hörðustu gagnrýnenda rannsóknarhefðarinnar. Mótsagnir af því tagi spilla mjög trúverðugleika niðurstaðna þeirra. Í ljósi þessa er mikilvægt að horfa um öxl og skoða eðli rannsóknarhefðarinnar, sögu rannsókna, og leggja mat á hugtök og aðferðir.
Bókin skiptist í sex kafla. Helstu einkenni íslenskrar fornleifafræði eru kynnt í inngangi. Í næstu fjórum köflum er fjallað um minjar um upphaf byggðar, trúarbrögð, þinghald og búsetu. Í lokakafla er rakin þróun fræðigreinarinnar í samhengi við breyttan tíðaranda og litið til framtíðar. Sagas and popular Antiquarianism in Icelandic Archaeology er 240 bls. að stærð og prýdd flölda mynda, korta og teikninga.“

Heimild:
-Morgunblaðið, 259. tbl. 12.11.1994, Samspil fornleifa og sagna – Adolf Friðriksson, bls. 21.

Kringlumýri

Kringlumýri ofan Krýsuvíkur – með elstu mannvistarleifum á Íslandi – líklega selstaða frá „Húshólmabæjunum“, fyrrum Krýsuvík eftir landnám. Minjarnar eru hvergi skráðar í ritheimildum.