Eftirfarandi er byggt á efni í kennslustund í Fornleifafræði; „Fornleifar og ferðaþjónusta„.
Menningarlandslag er tiltölulega nýtt hugtak hér á landi, en hefur verið notað um allnokkurt skeið víða erlendis. Nú virðist vera aukin vakning á þessu sviði, sem lýsir sér í nokkurs konar framþróun á sviði ferðaþjónustunnar. Þegar fjallað er um hugtakið er venjulega átt við heilstæð svæði og þá menningararfleið, sem þau hafa upp á að bjóða. Þannig getur heilstætt búsetulandslag tiltekins svæði verið sérstaklega verðmætt vegna heildarmyndarinnar. Hér á landi er vitundin um að nota minjar fyrir ferðamenn að vakna. Einstakar minjar hafa haft aðdráttarafl, s.s. Snorralaug, munir á byggðasöfnum, gripir í kjallara Skálholtskirkju eða á Þjóðminjasafni. Núú er t.d. verið að ræða um að nýta uppgraftasvæði sem og einstakar minjar á tilteknum svæðum í víðara samhengi.
Ýmsir alþjóðasáttmálar gera ráð fyrir verndun „líffræðilegrar fjölbreytni“ og eiga þar ekki síst við menningarlegan fjölbreytileika. Ferðalög fólks hafa verið að aukast og eiga enn eftir að aukast ef að líkum lætur. Allnokkrar rannsóknir hafa farið farið fram um vilja og áhuga ferðamanna og gefa sumar hverjar til kynna aukna viðleytni, eða ósk, um betra og greiðara aðgengi að fornminjastöðum, sem hingað til hafa verið óaðgengilegar almenningi. Mikill munur er t.d. á því hvernig stjórn slíkra mála er háttað í Skotlandi og hér á landi. Um það verður m.a. fjallað hér á eftir.
Í tímaritinu „Journal of Tourism studies“ er t.a.m. grein um menningararf og arfleifða ferðamennsku, minjagarða og svæði, sem skipulögð eru sérstaklega fyrir ferðamenn, þar sem þeir geta skoðað fornar minjar og tengt þær bæði sögu svæðisins sem og sinni eigin vitund. Á vettvangi ferðamála er hér um nýbreytni að ræða, en virðist vekja allnokkra athygli.
UNEP (UNITEP Network Program) gaf nýlega út skýrslu um menningarlegan fjölbreytileika (Tourism Biodiversity). Í henni kemur t.d. fram þörf mannsins til að skilja sjálfan sig í sögulegu samhengi við tilteknar sýnilegar minjar eða skilning á minjum ákveðinna svæða. Mikilvægt er að svæði skilgreini sérstöðu sína út frá minjum og sögu þess. Hér er í raun um grundvallaratriði að ræða. Á íslenskan mælikvarða mætti heimfæra þetta upp á að bæjaryfirvöld í Vogum ættu að einblína á útvegsminjar, sem eru fjölmargar með strönd bæjarfélagsins, og hinum fjölmörgu óröskuðu selsminjunum upp í heiðinni er undirstrika tiltekinn þá hefðbundinna atvinnu- og búskaparhátta í 1000 ár. Stundum þarf að byggja upp „aðdráttarafl“ til að tengja ferðamenn sögunni.
Íslendingar voru seinir til að framkvæma skipulega fornleifaskráningu, sem í rauninni er einn grundvallarþáttur í sjálfstæði þjóðar. „Tourism Manangement“ er enn eitt tímaritið er fjallað hefur um arfleifðarferðamennsku (heritage tourism) og „iðnaðarfornleifar“ fyrir ferðamenn. Með því er átt við fornleifar í tvennum skilningi; bæði sem slíka og einnig sem veigamikinn hluta að ferðamannaiðnaðinum. Svo virðist að hvarvetna sé fyrir hendi ákveðin þörf mannsins til að „tengja“ sig því viðfangsefni, sem hann tekur fyrir eða er þátttakandi í hverju sinni – á hverjum stað. Einn þáttur þess er að „tengja“ hann við viðfangsefnið á staðnum; hvernig sér hann „mótívið“ með hliðsjón af eigin sögu – eigin samtíma?
Þetta er mikilvægur, en oft vanmetin þáttur við frágang menningarverðmæta, s.s. uppgraftasvæða.
Angkor í Kambódíu (Indó-Kína) er gott dæmi um aðdráttarafl ferðamanna. Heillegar rústirnar eru arfleifð Kmer-heimsveldisins, höfuðborgar, sem blómstraði á 11. til 14. öld. Stór hluti þess komst nýlega á Heimsminjaskrána (1992). Svæðið er til marks um mikilvægi stjórnmálalegs stöðuleika þar sem ferðamenn eru annars vegar. Frakkar voru á svæðinu á fyrri hluta 20. aldra, grófu upp heilu borgirnar, skráðu og öfluðu heimilda og lögðu áherslu að vernda þennan merkilega en að því er virtist glataða menningararf. Á áttunda áratug 20. aldar braust út ófriður og svo virtist sem tilgangur hersherrana væri að eyðilegga minjarnar sem og að eyða bæði fróðleik og mögulegri leiðsögn um þær. Nærtæk sambærileg dæmi þekkjum við frá Írak og Afganistan. Eitt helsta vandamálið eftir ófriðin og uppbygginguna í kjölfarið var að fá leiðsögumenn með næga þekkingu til að fylgja ferðamönnum um svæðin.
UNESCO var falið það verkefni að vernda og endurvekja enduruppbyggingarstarfið eftir ófriðinn. Nú hefur svæðið verið gert aðgengilegt að nýju með mikilli aðsókn ferðamanna. Stýra hefur þurft aðgenginu, útbúa aðstöðu og gera aðrar nauðsynlegar ráðstafanir.
Mexico er annað dæmi. Þar eru nú mikil sýnileg arfleifð Inka og Maya. Eftir hinar miklu uppgötvanir þurfti til áhrif einstaklinga til að meta „skilyrt verðmætamat“ minjanna með hliðsjón af ferðamennsku. Stjórnvöld voru sofandi fyrir mikilvægi þeirra. Í kjölfarið fór fram umræða um það hvernig haga ætti fyrirkomulagi að aðgengi og rekstri einstakra minjasvæða, þ.e. með frjálsum framlögum, opinberum eða með gjaldtöku. Í dag er heildaryfirstjórnin opinber, en henni er stýr með gjaldtöku.
Eitt vandamál við varðveislu fornminja eru ófriður og stríð. Þegar Íraksstríðið braust út voru mikil menningarverðmæti flutt frá Írak til Bandaríkjanna. Þannig hefur þatta og verið í gegnum árþúsundin. Spurningin er hvort hægt er með sæmilegri sanngrini að áætla að sum verðmæti séu betur geymd um tíma annars staðar en á upprunastað en að eiga á hættu að eyðileggjast. Þessi spurning er þó einungis ein af mörgum við slíkar aðstæður. Til að samlíkja þessu við íslenskan veruleika má segja að Valþjófsstaðahurðin hefði sennilega ekki varðveist nema vegna þess að Danir fengu hana til varðveislu á sínum tíma. Síðar kom hún „heim“ ásamt þeim merkilegheitum er hana varðar.
Reynsla Hjaltlendinga af varðveislu og aðgengi til handa ferðamönnum gæti verið okkur Íslendingum góð fyrirmynd. Ágætt dæmi um slíkan stað er „Jarlshof“. Þar er um að ræða um 3000 ára minjar, þær elstu, og allt fram á 15. öld. Svæðið var umorpið sandi, en grafið upp og gengið frá því með það fyrir augum að það gæti orðið ferðamönnum áhugavert. Byggt var upp gott aðgengi, stígar gerðir, upplýsingar settar upp og upplýsingamiðstöð í „stíl“ reist. Í dag er staðurinn einstaklega áhugaverður þegar ferðamenn vilja skoða þróun og áþreifanlegar minjar svæðisins árþúsundir aftur í tímann, húsagerð, göng, stéttar og eintakar búsetuminjar fólksins, sem þar bjó og dó. Um er að ræða að hæuta til sýnileg arfleifð norrænna manna án þess þó að hana sé beinlínis hægt að tengja „víkingatímanum“. Tengsl minjanna er þó fyrst og fremst við norræna menn frá Noregi, en varla við Ísland, og þó – fjölmörg nöfn á svæðinu er beinlínis þau sömu og finna á á Íslandi. Forvitnilegt væri að skoða hvernig og með hvaða hætti norræn menning kom frá Noregi (og öðrum löndum Skandinavíu) í gegnum Skotland og skosku eyjarnar áleiðis til Íslands. Líklega hefur og of lítið verið gert úr þeim áhrifum í gegnum tíðina. Ástæðan er sennilega „of vísindalegt“ samfélag fornleifafræðinga hér á landi síðustu ár og áratug (þar sem samfélagið lítur ákv. takmörkuðum lögmálum fræðimanna).
Hjaltlendingar (með stuðningi Historic Schotland-samtakanna) hafa byggt markvisst aðgengi og aðstöðu við menningarminjar á eyjunum – með góðum árangri. Á vettvangi einstakra minja eru undirstrikuð tengslin við arfleifð norrænna manna og fornleifarnar bæði kynntar sérstaklega og settar í víðara samhengi. Í septembermánuði er t.a.m. öllum landsmönnum gert að skoða minjarnar endurgjaldslaust í svonefnum „fornleifamánuði“. Historic Scotland-samtökin hafa yfir að ráða um 800 minjastöðum sem um 3 milljón ferðamanna heimsækja árlega. Þau telja að fræðslistarf þeirra sé eitt hið mikilvægasta í starfseminni.
Árlega koma á staðina um 76.000 skólabörn til að fræðast um eigin uppruna og menningu.
Disneyland er ágætt dæmi um ekta „fake“ frá upphafi. „Ef ætlunin er að gera tilkall til raunverulegs menningarsvæðis þarftu að eiga þér sögu“. Túlkun tákna sem og minja er mikilvæg hverju sinni sem og hverju svæði. Það er ekki öllum gefið að geta lesið úr landslaginu. Slíkt er á stundum „náttúrugáfa“, sem fáum er gefin. „Þeir sem það geta eru öfundsverðir“ segir einhvers staðar. „Ef þú ætlar að gera tilkall til svæðis þarftu að eiga þér sögu“. Hér virðist vera um beina tilvísun til Vogabúa að ræða, miðað við framangreind skrif.
Túlkun fornleifatákna er eitt af viðfangsefnum fornleifafræðinnar. Það að miðla þeim til annarra er ekki síður mikilvægt. „Hvert er jafnvægið milli sannleika og lygi“ spurði einhver einhvern tímann af gefnu tilefni. Hér er átt við upprunanlegar rústir annars vegar og endurgerðar hins vegar.
Mikilvægt er, vegna ólíkra sjónarmiða hinna ýmsu aðila, að leita jafnvægis því þeir, sem allt snýst um, eru jú þeir sem höfða á til – ferðarmennirnir. Sumir ferðamenn vilja bara sjá staði eða byggingar eins og þeir voru – endurgerða, og hafa engan áhuga á tóftum eða rústum, enda getur oft á tíðum verið kúnst að „lesa í landslagið“ þar sem fátt virðist bera fyrir augu.
Endurgerð minjasvæða hafa stundum verið til umræðu. Nýleg áform Íslendinga á framangeindu sviði er helst að finna í „landnámsskála Ingólfs“ í Aðalstræti, „klasaverkefni“ Eyjafjarðar að Gásum og „Minjagarðsverkefni“ að Reykholti frá því um aldarmótin 2000. Verkefnið er enn á fósturstigi, en forvitnilegt verður að fylgjast með hvernig hugmyndin kemur til með þróast og dafna. Eins og kunnugt er hefur farið fram verulegur uppgröftur í Reykholti í nokkur ár og hugmyndin er að byggja yfir þær fornleifauppgröftin þar, en ljóst er að það mun fela í sér mikla vinnu og verða æði kostnaðarsamt. (sjá www.snorrastofa.is).
Ljóst er að framtíðin er æði spennandi á framangreindum sviðum – en fjölmörg verkefni virðast enn óleyst miðað við eðlileg og sjálfsögð markmið.
Heimild m.a.:
-Anna Karlsdóttir, lektor í landafræði og ferðamálafræði, við HÍ – 2006.